16.3.2005 | 18:34
Engin fyrirsögn

Eins og vel hefur komið fram í skrifum mínum seinustu daga er mikil reiði hér á Akureyri vegna þeirrar ákvörðunar Ríkiskaupa að semja við pólska skipasmíðastöð um endurbætur á varðskipunum Ægi og Tý. Er ekki óeðlilegt að svo sé. Með þessari ákvörðun er íslenskum skipa- og málmiðnaði sýnd mikil lítilsvirðing og um er að ræða áfall fyrir okkur hér í bænum. Þetta mál var rætt á fundi bæjarstjórnar í gær og farið yfir málið. Afstaða okkar hér á Akureyri er alveg skýr. Á fundinum kom fram þverpólitísk samstaða í málinu og mikill samhljómur allra bæjarfulltrúa um að tala gegn þessum vinnubrögðum Ríkiskaupa.
Kristján Þór Júlíusson bæjarstjóri, lagði fram ályktun í bæjarstjórn af hálfu hennar. Var hún samþykkt samhljóða, með atkvæðum 11 bæjarfulltrúa. Hún hljóðar svo: "Bæjarstjórn Akureyrar lýsir miklum vonbrigðum með þá ákvörðun Ríkiskaupa að ganga að tilboði pólskrar skipasmíðastöðvar í viðgerðir á varðskipunum Ægi og Tý. Með þessu verklagi er vegið að rótum íslensks iðnaðar, sem hlýtur að vekja furðu, ekki síst í ljósi þess að íslenskum stjórnvöldum er fullljóst að skipasmíðar hér á landi keppa á þessu sviði við ríkisstyrktan erlendan atvinnurekstur.
Tilboð Slippstöðvarinnar sýnir að íslenskur skipasmíðaiðnaður stenst erlend tilboð á þessu sviði án þess að tillit sé tekið til þess óbeina hagnaðar sem íslenskt samfélag hefur af því að verkið skuli unnið hér á landi. Að taka ekki tilboði Slippstöðvarinnar undir þessum kringumstæðum sýnir fyrst og fremst skort á vilja og metnaði til þess að hlú að þessari mikilvægu atvinnugrein í landinu. Bæjarstjórn Akureyrar skorar á fjármálaráðherra, dómsmálaráðherra og iðnaðarráðherra að beita sér fyrir því að ákvörðun Ríkiskaupa um að taka hinu pólska tilboði verði endurskoðuð og tryggja að viðgerðir á varðskipunum Ægi og Tý fari fram í íslenskum skipasmíðastöðvum." Þessi ályktun segir allt sem segja þarf um málið. Pólitísk samstaða er hér um að senda pólitískum forystumönnum þennan tón.
Á mánudag tjáði ég mig um málið á vef flokksins, hér í bænum. Ég tel rétt á þessum degi, eftir þessa afgerandi samþykkt bæjarstjórnar að birta hér að lokum niðurlag þessa pistils míns um þetta mál. Persónulegar pælingar af minni hálfu um stöðu mála. Fá orð vissulega - en þau segja það sem mikilvægt er! "Spurt er: hvað ætla ráðamenn að gera í stöðunni? Er verjandi að fara með verk á borð við þetta til Póllands og sýna íslenskum skipa- og málmiðnaði þá lítilsvirðingu sem felst í ákvörðun Ríkiskaupa. Það væri gott að fá svar við því og ekki síður útskýringar á hversvegna kontóristar taki ákvörðun á borð við þessa þegar ljóst er að munurinn á milli tilboðanna er það lítill að hann hverfur við kostnaðinn af því að koma skipunum til Póllands og halda uppi starfsfólki og tengdu liði á erlendri grundu. Stjórnmálamennirnir skulda okkur hér skýringar á þessum verknaði. Það er svo einfalt."

Í gærkvöldi fór Þorgerður Katrín yfir helstu atriði frumvarpsins í ítarlegu viðtali við Eyrúnu Magnúsdóttur og Sigurð G. Valgeirsson í Kastljósinu í gærkvöldi. Var hún stödd á Egilsstöðum, enda verið á ferð um Austurland um daginn og undirritað á Breiðdalsvík fyrr um daginn samning um samstarf ríkis og allra sveitarfélaga á Austurlandi um menningarmál og menningartengda ferðaþjónustu. En þetta frumvarp er mikilvægt, eins og fyrr segir, að hlutverk RÚV breytist. Rekstrarlegar forsendur verða loks meginstef. Ekki veitir nú af. Við höfum nýlega séð grunntölur RÚV. Þær eru ekki fagrar. Bendi ég á pistil minn um málefni RÚV í seinustu viku, þar fer ég yfir tölurnar og stöðu RÚV almennt. Óþarfi að tvítelja upp það efni sem þar stendur. Lesið það efni endilega. En í stuttu máli sagt: það er allt í kaldakoli rekstrarlega séð hjá RÚV og vantar að gera einhvern ábyrgan fyrir rekstrinum. Það verður að reka þetta eins og hvert annað fyrirtæki, ekki stofnun sem getur rekið sig áfram án tillits til rekstrartekna. Er mjög slæmt að menn fari einhverja málamiðlunarleið að hætti Framsóknar og endi í einhverju sameignarfélagsformi en fari ekki beint í hlutafélagaformið, sem er hið eina og réttasta í grunninum sem forsenda. En þetta er svona og það verður að vinna úr þeirri stöðu með þeim hætti sem best er. En þetta frumvarp er skref í áttina og því ber vissulega að fagna að RÚV þokist í átt til framtíðar. Eftir því hef ég lengi persónulega beðið og fagna því. En þetta er bara skref, það eru mörg eftir!

Silvio Berlusconi forsætisráðherra Ítalíu, lýsti því yfir í spjallþætti á ítalskri sjónvarpsstöð í gærkvöldi að ítölsk yfirvöld myndu brátt draga úr herstyrk sínum í Írak. Hefur hann í símtali við George W. Bush forseta Bandaríkjanna, sagt að hann vilji hefja brottflutning hermanna í september. Rúmlega 3.000 ítalskir hermenn eru nú í Írak. Er um að ræða nokkur þáttaskil en forsætisráðherrann hafði áður sagt að það væri ekki komin nein tímamörk á það hvernig Ítalir myndu draga úr herstyrk sínum í landinu. Berlusconi kom löndum sínum mjög á óvart með þessari yfirlýsingu og hefur nú slegið öll vopn úr höndum stjórnarandstöðunnar á Ítalíu, sem ætlaði sér að gera þetta mál að lykilmáli kosningabaráttunnar til þings í landinu síðar á árinu. Með þessu hefur Berlusconi tekið mál pólitískt úr umferð, enda ljóst að pólitísk samstaða er um grunn þess. Eitt sem hefur eflaust flýtt fyrir því að þessi ákvörðun sé kynnt er mál leyniþjónustumannsins sem féll í Bagdad nýlega, en Berlusconi hefur tjáð sig af krafti um það mál seinustu daga og verið áberandi í umræðunni vegna þess. En það verður fróðlegt að sjá hvernig kosningabaráttan fyrir ítölsku þingkosningarnar muni spilast í kjölfar þessa.

Eins og fram kom hér á vefnum á sunnudag blasir við að 23. apríl gengur ekki upp sem kjördagur um sameiningu sveitarfélaga. Það var loks staðfest í dag af Árna Magnússyni félagsmálaráðherra. Eins og fram kom í skrifum mínum um málið þá er aðeins rúmur mánuður til stefnu og blasir við að þurfi lengri tíma til að vinna málið og ekki síður kynna það fyrir kjósendum. Er talað um 8. október sem grunnkjördag um málið. Hinsvegar er sveitarfélögunum heimilt að vinna málið á eigin forsendum og láta kosningu fara fram fyrr. Eins og ég hef sagt tel ég 8. október ómögulegan kjördag, enda þá orðið mjög stutt í sveitarstjórnarkosningar og ljóst að ferli mála eftir slíka kosningu tekur sinn tíma og er þá kominn inn á þau tímamörk sem fylgja kosningaundirbúningi. Að mínu mati á því að kjósa í júní um málið, eða í síðasta lagi í júlí. Ekki tel ég vænlegt að láta kosningu fara fram síðar. En málið er komið loks í visst ferli og þessi mál taka brátt að skýrast enn frekar. En grunnur þessa alls er hvað kemur út úr vinnu nefndar um verkefna- og tekjuskiptingu ríkis og sveitarfélaga. Með henni sést hvort sameining er gerleg eða vænleg í stöðunni.

Vörður, félag ungra sjálfstæðismanna á Akureyri, efnir til sýningar á myndinni Fahrenhype 9/11 á skemmtistaðnum Dátanum, hér á Akureyri á morgun, fimmtudaginn 17. mars. Mun sýningin hefjast kl. 20:00. Kvikmyndin Fahrenheit 9/11 hefur notið mikilla vinsælda og mótað skoðanir margra á stríðinu í Írak. Þeir sem hafa séð Fahrenheit 9/11 spyrja sig hvort hún varpi raunverulegu ljósi á stríðið í Írak. Í Fahrenhype 9/11 er skýrt frá því hvernig Michael Moore fór fram með hálfsannleik og ósannsögli í umfjöllum um stríðið í myndinni Fahrenheit 9/11. Rætt er við marga sem komu fram í mynd Moore sem og marga áhrifamikla þátttakendur í bandarískum stjórnmálum. Helsta má nefna Zell Miller fyrrv. öldungardeildarþingmann demókrata frá Georgíufylki, Edward I. Koch fyrrv. borgarstjóra í New York, David Frum fyrrum ráðgjafa George W. Bush, og Dick Morris fyrrum pólitískan ráðgjafa Bill Clinton. Þetta er áhugaverð mynd og ég hvet alla Norðlendinga sem áhuga hafa á myndinni að mæta á staðinn og horfa á hana. Allir eru velkomnir!
Þetta hlýtur að vera ein besta skopmynd seinustu vikna. Óhætt að segja að ég hafi brosað mikið yfir þessari mynd, en hún hefur farið víða á netinu seinustu vikurnar. Skemmtilega saman sett og alveg frábær gamanmál þarna á ferð. Um að gera að setja hana hér inn og leyfa öðrum að njóta hennar. Þetta er sko húmor í góðu lagi. :)
Saga dagsins
1237 Gvendardagur - dánardagur Guðmundar góða Arasonar Hólabiskups - hann var biskup frá 1203
1940 Sænski rithöfundurinn Selma Lagerlöf lést, 81 árs að aldri - Selma varð bæði ein af virtustu og þekktustu rithöfundum Norðurlanda og hlaut bókmenntaverðlaun Nóbels, fyrst kvenna, árið 1909
1976 Harold Wilson forsætisráðherra Bretlands, segir af sér embætti og tilkynnir ennfremur að hann hætti formlega þátttöku í stjórnmálum. Kom tilkynning hans öllum að óvörum, aðeins fimm dögum eftir sextugsafmæli hans. Wilson hafði þá verið leiðtogi breska Verkamannaflokksins í 13 ár og var forsætisráðherra 1964-1970 og aftur frá 1974. Hann var sigursælasti leiðtogi breskra vinstrimanna á 20. öld, ásamt Tony Blair. Eftirmaður hans í embætti varð James Callaghan og var við völd í þrjú ár
1978 Aldo Moro leiðtoga kristilega demókrataflokksins og fyrrum forsætisráðherra Ítalíu, rænt af Red Brigade, hópi öfgasinnaðra vinstrimanna. Moro var forsætisráðherra Ítalíu 1963-1968 og 1974-1976. Moro var haldið föngnum af samtökunum í 55 daga, þar til þau drápu hann. Lík hans fannst í maí 1978
1983 Reykjavíkurborg keypti Viðey af íslenska ríkinu - endurbótum lauk þar formlega á árinu 1988
Snjallyrðið
Being prime minister is a lonely job... you cannot lead from the crowd.
Margaret Thatcher forsætisráðherra Bretlands (1925)
Breytt 18.9.2006 kl. 08:02 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
15.3.2005 | 19:16
Engin fyrirsögn

Miklar umræður urðu á Alþingi í gær um ráðningu nýs fréttastjóra á fréttastofu Útvarpsins. Var þar tekist á um stöðu málsins. Málshefjandi, Ögmundur Jónasson alþingismaður, krafðist þess að heyra sjónarmið Þorgerðar Katrínar Gunnarsdóttur menntamálaráðherra, um málið. Sagði hann að neyðarástand ríkti á Ríkisútvarpinu. Taldi hann að ráðning nýs fréttastjóra væri makalaus valdníðsla og sett fram til að vinna gegn hagsmunum RÚV. Í svari menntamálaráðherra kom fram að hægt væri að hafa misjafnar skoðanir á ráðningu fréttastjórans. En á móti kæmi að umræddur einstaklingur hefði verið talinn hæfur af framkvæmdastjóra fréttasviðs RÚV, hann hefði einn fengið atkvæði í útvarpsráði og útvarpsstjóri hefði því ráðið hann.
Kom fram það mat menntamálaráðherra að það væri umdeilt hvort pólitískir fulltrúar ættu að hafa áhrif á ráðningar starfsmanna á faglegum grundvelli, en með þeim hætti væri skipan mála í dag. Sagði Þorgerður Katrín að það væri að sínu mati vandséð að sjá hvaða úrræði útvarpsstjóri hefði haft önnur en skipa viðkomandi umsækjanda þegar einn umsækjandi hefði fengið atkvæði í útvarpsráði. Eins og Þorgerður benti réttilega á er stjórnarandstaðan í hentistefnuummælaleik. Stundum á að gera þetta svona, stundum hinsegin, allt eftir því hvernig vindar blésu í Samfylkingunni og félögum hennar í stjórnarandstöðunni. Best sást það á ummælum Marðar Árnasonar. Hann fann kerfinu allt til foráttu og sagði hentistefnu ríkja í ráðningarmálum hjá RÚV.
Á móti kemur að viðkomandi maður sat sjálfur í útvarpsráði í fjögur ár, 1999-2003, sem fulltrúi síns flokks. Hvernig vann hann? Gott dæmi er að árið 2002 þegar kom að ráðningu fréttastjóra Sjónvarpsins tafði hann endalaust afgreiðslu málsins því hann var í samningaviðræðum við Framsókn og VG um að mæla með kandidat gegn Elínu Hirst. Elín var sú eina sem yfirmaður fréttasviðs mælti með og hafði stuðning fréttamanna á Sjónvarpinu. Reyndi meirihlutinn fyrst að mæla með Páli Benediktssyni, en hann hætti við þegar sýnt var í hvaða farsa málið væri og þeir mæltu að lokum með Sigríði Árnadóttur. Útvarpsstjóri réð Elínu eftir kosningu í útvarpsráði í desember 2002. Mörður er kostulegur í þessum efnum, þegar menn rifja upp störf hans sjálfs í útvarpsráði. Vel kom fram í ræðu Sigurðar Kára Kristjánssonar að tími útvarpsráðs er liðinn og ráðningarfyrirkomulag hjá RÚV væri gengið sér til húðar og þörf væri á uppstokkun. Gátu stjórnarandstæðingar vart annað gert en tekið undir það. Enda blasir við að allt innra kerfi RÚV og skipulag er komið út í algjöra móa. Það sem helst stendur eftir í látum seinustu daga innan Ríkisútvarpsins er að útvarpsráð er barn síns tíma. Skipan mála með það er algjörlega úrelt.
Í þingumræðunni í gær tilkynnti menntamálaráðherra að samkomulag hefði loks náðst milli stjórnarflokkanna um breytingar á útvarpslögum. Mun frumvarp verða lagt formlega fram á þingi í dag. Þingflokkar stjórnarflokkanna og ríkisstjórnin hafa samþykkt frumvarpið. Frumvarp ráðherra gerir ráð fyrir þeim breytingum sem kynntar höfðu verið í fjölmiðlum að mestu. Mín viðbrögð á þessar tillögur, sem birtar hafa verið í fjölmiðlum og virðast hluti af væntanlegu frumvarpi menntamálaráðherra, eru þær að ég harma að menn stígi ekki skrefið til fulls og geri Ríkisútvarpið að hlutafélagi. Þessar tillögur eru hænufet í átt að þeim grunnbreytingum sem ég tel rökréttastar. Er slæmt að ekki hafi náðst samstaða um að ganga lengra. Uppstokkun mála hvað varðar útvarpsráð er sjálfsögð og eðlileg og ætti að hafa náðst í gegn fyrir lifandis löngu. Ekki líst mér á hugmyndir um nefskatt. Það er döpur útkoma og ekki spennandi, að neinu leyti. Málefni Rásar 2 er svo næsta mál. Vonandi fara menn réttar leiðir og selja hana. Rás 2 er algjör tímaskekkja. Mér finnst að menn opni nú vel á að hún verði seld. Er það mjög gott mál. En meira um frumvarpið á morgun.

Ársreikningurinn er settur fram samkvæmt reikningsskilum sveitarfélaga. Akureyrarkaupstaður og Hríseyjarhreppur sameinuðust á árinu og er nú gerður einn ársreikningur fyrir hið sameinaða sveitarfélag. Starfseminni er skipt upp í tvo hluta, A-hluta annars vegar og B-hluta hins vegar. Til A-hluta telst starfsemi sem að hluta eða öllu leyti er fjármögnuð með skatttekjum en í B-hluta eru fyrirtæki sem að hálfu eða meirihluta eru í eigu sveitarfélagsins og eru rekin sem fjárhagslega sjálfstæðar einingar. Eru þetta mjög jákvæð og góð tíðindi sem staðfestir að rekstur sveitarfélagsins er mjög góð og vel haldið á málum. Er þetta ánægjuleg niðurstaða, nú þegar rétt rúmlega ár er til sveitarstjórnarkosninga. Meirihlutaflokkarnir geta verið stoltir af stöðu mála. Í dag var svo tilkynnt um þá ákvörðun að gjaldskrá leikskóla verði einfölduð frá því sem nú er með því að hafa eitt gjald fyrir alla. Þetta mun verða gert með því t.d. að lækka almenna gjaldskrá leikskóla um 25% þannig að grunngjald fyrir dvalartímann lækki úr 2.846 kr. í 2.134 kr. Lagt er til að gjaldskrárbreytingin taki gildi í vor, eða þann 1. maí nk. Markmið bæjaryfirvalda með þessu er að koma til móts við stóran hóp barnafjölskyldna þannig að allir sitji við sama borð varðandi gjaldtöku óháð fjölskylduformi. Er þessi breyting í takt við það sem lagt hefur verið áherslu á að Akureyri sé fjölskylduvænn bær.

Ekki hefur ástandið batnað mikið hjá Ríkisútvarpinu seinustu daga. Enn er tekist mjög á um ráðningu nýs fréttastjóra Útvarpsins eins og fyrr hefur komið fram. Nýjast í málinu var að Markús Örn Antonsson útvarpsstjóri, tjáði sig um ráðninguna og tengd mál í ítarlegu viðtali við Eyrúnu Magnúsdóttur og Sigmar Guðmundsson í Kastljósi Ríkissjónvarpsins í gærkvöldi. Þar fór hann yfir ástæður þess að hann ákvað að ráða Auðun Georg Ólafsson í stöðu fréttastjóra og sín sjónarmið almennt. Mjög fór fyrir brjóstið á fréttamönnum við stofnunina hvernig útvarpsstjóri tjáði sig um fréttamenn stofnunarinnar og starfsreynslu þeirra. Í ályktun félags fréttamanna við stofnunina sem kynnt var eftir viðtalið var ítrekað vantraust á útvarpsstjóra. Segir þar að hann hafi fjallað um störf fréttamanna við stofnunina af fádæma vanvirðingu, sérstaklega þeirra sem lengst hefðu starfað. Er ennfremur lýst yfir því í ályktuninni sem samþykkt var einróma að fréttamenn myndu ekki starfa með nýjum fréttastjóra. Þau tíðkast greinilega breiðu spjótin í Efstaleitinu þessa dagana í húsakynnum þessa ríkisrekna fjölmiðilsnáttrisa.

Mikið hefur verið deilt um þá ákvörðun Ríkiskaupa um að semja við pólska skipasmíðastöð um endurbætur á varðskipunum Ægi og Tý. Óhætt er að fullyrða að þessi ákvörðun hafi orðið okkur Akureyringum mjög mikil vonbrigði, svo ekki sé nú meira sagt. Vekur mikla furðu og undrun að ekki hafi verið samið við Slippstöðina, hér á Akureyri, um breytingar og endurbætur á varðskipunum. Fer ég yfir málið í pistli á Íslendingi í gær. Þessi ákvörðun er með ólíkindum og hefur vakið hörð viðbrögð hér. Í gærkvöldi var bæjarmálafundur í Kaupangi og fórum við þar yfir ýmis mál, ræddum ársreikning sveitarfélagsins sem er til umræðu í bæjarstjórn og fleiri mál sem í umræðunni er. Ræddum við þetta mál ennfremur og er óhætt að segja að afstaða okkar sé mjög í takt við skrif mín í gær á vef okkar sjálfstæðismanna í bænum. Spurt er: hvað ætla ráðamenn að gera í stöðunni? Er verjandi að fara með verk á borð við þetta til Póllands og sýna íslenskum skipa- og málmiðnaði þá lítilsvirðingu sem felst í ákvörðun Ríkiskaupa? Það væri gott að fá svar við því. Stjórnmálamennirnir skulda okkur hér skýringar á þessum verknaði. Það er svo einfalt.

Seinustu tvö laugardagskvöld var Gísli Marteinn Baldursson í spjallþætti sínum með ítarlegt viðtal við hljómsveitina Stuðmenn. Fór hann ásamt þeim yfir tónlistarsögu hljómsveitarinnar og helstu punktana á 30 ára ferli hennar. Var mjög gaman að fylgjast með þessu og heyra frábær lög hljómsveitarinnar. Stuðmenn hafa lengi verið í miklu uppáhaldi hjá mér og er ein af bestu hljómsveitum landsins seinustu áratugina. Kvikmynd Stuðmanna og Grýlanna, Með allt á hreinu, er ein af mínum uppáhaldskvikmyndum og er óhætt að segja að sú mynd og lögin í henni hafi öðlast mikinn sess. Sérstaklega var merkilegt að hlusta á Björgvin Halldórsson leika á munnhörpu yfir lagi Stuðmanna, Strax í dag, í þættinum. Vissi ég reyndar ekki að hann hefði átt munnhörpuleikinn í þekktri útgáfu lagsins á Sýrlandsplötunni. Var þetta fínt spjall og áhugavert að fara yfir þessi 30 ár í sögu hljómsveitarinnar á skömmum tíma. Nú blasir við að Gísli Marteinn er að hætta með þáttinn, væntanlega í næsta mánuði. Mun hann brátt snúa sér að fullu að stjórnmálaþátttöku í borginni. Er það gott að heyra, þó vissulega verði sjónarsviptir af þætti hans.

Eins og fram kom hér á vefnum um daginn eru læti í bæjarmálunum, út með firði, út á Dalvík. Er deilt um að loka sveitaskólanum í Svarfaðardal. Við blasir að allar rekstrartölur réttlættu lokun skólans og er óverjandi í raun að hafa hann opinn áfram. Eftir rekstrartölunum verður að fara. Það er ómögulegt fyrir fólk að lifa á tilfinningalegum rökum í málinu. Svo virðist vera að margir berji höfðinu við steininn og neiti að horfast í augu við grunn málsins. Merkilegast er að sjá ólguna sem er innan Framsóknarflokksins í bæjarmálunum vegna lokunar skólans. Nú hefur Gunnhildur Gylfadóttir, einn bæjarfulltrúi flokksins, og einn varamaður hennar, sem sátu bæjarstjórnarfund um daginn er ákvörðunin var tekin, sagt sig frá trúnaðarstörfum sínum í bæjarmálunum. Er óneitanlega allskondið fyrir okkur sem fylgjumst með stjórnmálum í firðinum að fylgjast með klofningi Framsóknarflokksins í bæjarmálum á Dalvík. Flokkurinn hefur þar ríkt lengi sem stærsta aflið og verið ráðandi þar í forystu sveitarfélagsins. Nú hefur flokkskjarninn þar klofnað og væntanlega ólga framundan varðandi framboðsmál þar á næsta ári.
Saga dagsins
1905 Bæjarsíminn í Reykjavík var formlega opnaður með því að leikið var á fiðlu í símann. Þá höfðu 15 símar verið tengdir. Er Landssíminn var stofnaður, 1912, voru á fjórða hundrað talsímar í borginni
1978 Mikil sprenging varð í ratsjárflugvél frá varnarliðinu skömmu fyrir flugtak á Keflavíkurflugvelli
1983 Litlu munaði að farþegaþota frá Arnarflugi og herflugvél lentu í árekstri við Vestmannaeyjar
1994 Markús Örn Antonsson segir af sér embætti borgarstjóra í Reykjavík, eftir að hafa setið á stóli í tæplega 3 ár, eða frá því Davíð Oddsson lét af embætti - við borgarstjóraembætti tók Árni Sigfússon
2003 Samningar um álver Alcoa á Austurlandi formlega undirritaðir við hátíðlega athöfn á Reyðarfirði
Snjallyrðið
Be faithful in small things because it is in them that your strength lies.
Móðir Teresa (1910-1997)
Breytt 18.9.2006 kl. 08:02 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
13.3.2005 | 18:15
Engin fyrirsögn

Í sunnudagspistli í dag fjalla ég um þrjú fréttamál vikunnar:
- í fyrsta lagi fjalla ég um formannsslaginn í Samfylkingunni sem brátt fer á fullt. Frestur til framboðs í formannskjörið rann út í vikunni og varð þá ljóst að Össur Skarphéðinsson og Ingibjörg Sólrún Gísladóttir gáfu bæði kost á sér, eins og vitað var fyrir. Segja má að Ingibjörg Sólrún hafi formlega hafið kosningabaráttu sína fyrir formannskjörið um miðja vikuna. Hún opnaði kosningaskrifstofu og heimasíðu á netinu til að marka upphafið og sást vel á allri uppstillingu að um þaulskipulagt framboð er að ræða og vel undirbúið að nær öllu leyti. Tengslanet hennar er mjög öflugt og sjá allir sem líta á vef hennar að hvert skref er pælt til enda. Á miðvikudagskvöldið kom svo formannsefnið í sannkallað hásætisviðtal í Kastljósið. Fannst mér ansi merkilegt að fylgjast með því. Ingibjörg var þar í sama dressinu og á öllum framboðsmyndunum og búin að æfa út í hina ystu æsa alla frasana sem búið var að hanna fyrir hana. Þaulæfð, eins og hver annar bandarískur forsetaframbjóðandi í milljón dollara þaulskipulagðri kosningabaráttu.
- í öðru lagi fjalla ég um stöðuna í Ríkisútvarpinu í kjölfar þess að Markús Örn Antonsson útvarpsstjóri, réð Auðun Georg Ólafsson sem fréttastjóra Útvarpsins. Loft er lævi blandið í útvarpshúsinu við Efstaleiti eftir þessa ráðningu. Starfsmenn RÚV samþykktu í vikunni yfirlýsingar þess efnis að hvetja útvarpsstjóra til að hætta við ráðninguna og fréttamenn meira að segja lýstu yfir vantrausti á Markús Örn. Er um sögulega ákvörðun að ræða, enda aldrei gerst í 75 ára sögu Ríkisútvarpsins að starfsmenn lýsi yfir vantrausti eða efist á opinberum vettvangi með beinni yfirlýsingu um yfirmann sinn og verk hans. Það er erfitt að sjá hvernig báðir aðilar geta farið með sæmd frá málinu nema fréttastjóraefnið víki þá sjálfviljugur frá. Er erfitt að spá um framhald mála, en ég fer yfir nokkra punkta.
- í þriðja lagi fjalla ég um frumvarp þingmanna Sjálfstæðisflokksins, þess efnis að opinber birting og framlagning álagningar- og skattskráa landsmanna verði með öllu lögð af. Fagna ég að það komi fram, enda um að ræða mikið baráttumál sjálfstæðismanna til langs tíma, einkum okkar í ungliðahreyfingunni. Tjái ég mig í nokkrum setningum um þetta frumvarp og hvaða breytingar það boðar, verði það samþykkt.

Ljóst er orðið að ekki verður kosið um sameiningu sveitarfélaga í Eyjafirði á þeim tímapunkti sem upphaflega var kynntur, þann 23. apríl nk. Við blasir að ekki hefur enn náðst samkomulag um verkefna- og tekjuskiptingu ríkis og sveitarfélaga. Það er því alveg ljóst að forsendur fyrir kosningu á fyrrnefndum tíma eru brostnar. Menn eru fallnir á tíma að koma málum í gegn fyrir þann tíma. Rætt er um að kjósa um málin í júnímánuði. Ljóst er að það er sá tímapunktur sem helst hentar. Þessi mál verða að vera frágengin, kosningalega séð fyrir sumarlok, að mínu mati. Það er forsenda þess ef kanna á stöðu mála fyrir sveitarstjórnarkosningar á næsta ári. Einnig hefur heyrst að kosningu yrði frestað til haustsins og kjördagur þá snemma í október. Sú dagsetning er algjörlega óásættanleg að mínu mati, enda kosningar undir lok maí 2006. Það verður að liggja fyrir vel tímanlega hvernig sveitarfélög líta út fyrir þær kosningar, varðandi skipan á framboðslista og kosningamál almennt fyrir flokkana. Í gær var kynnt skoðanakönnun RHA fyrir RÚV um afstöðu fólks hér til sameiningarmála í firðinum. Meirihluti íbúa Akureyrar, Dalvíkurbyggðar, Ólafsfjarðar og Siglufjarðar eru hlynnt sameiningu en meirihluti íbúa í sveitahreppunum eru hinsvegar á móti sameiningu. Er þetta mjög í takt við það sem ég finn í stöðunni. En þessi könnun er merkileg, hvet fólk til að kynna sér hana betur.

Eins og ég sagði frá á föstudag var um helgina haldin hér í bænum sýningin Matur-inn 2005. Um er að ræða matar- og léttvínssýningu sem haldin var í húsnæði Verkmenntaskólans við Hringteig. Margir lögðu leið sína þangað í gær. Var ég einn þeirra og var sérstaklega gaman að fara þangað og gæða sér á bragðgóðum norðlenskum réttum í boði matvælaframleiðenda á svæðinu. Eins og nærri má geta svigna borðin undan kræsingum og stemmning mjög góð. Það var Kristján Þór Júlíusson bæjarstjóri, sem opnaði sýninguna formlega í gærmorgun. Er keppnin haldin samhliða landskeppni matreiðslumanna sem haldin er í bænum um helgina. Segja má að um sé að ræða svar Norðlendinga við matarhátíð svipaðs eðlis í Reykjavík og ber heitið Food and fun. Er allt mjög vel heppnað og tekst vel upp. Einn af umboðsmönnum bæjarins, Magga Blöndal útvarpskona, er kynnir hátíðarinnar og heldur utan um dagskrána af stakri snilld. Í dag verður aftur litið á sýninguna en þá munu þekktir einstaklingar úr bæjarlífinu keppa í matargerð og ennfremur veitt verðlaun í keppninni um matreiðslumann landsins.

Í gær opnaði sýning á verkum Erró (Guðmundar Guðmundssonar) hér í Listasafninu á Akureyri og mun hún standa í tvo mánuði, eða allt til 8. maí. Meginuppistaðan á sýningunni eru átta mjög stór málverk úr myndaröðinni Listasagan sem hann málaði í upphafi tíunda áratugarins. Ennfremur má sjá nánari innsýn í vinnuaðferðir og hugmyndaheim listmálarans með því að sjá fjögur önnur verk, þar sem hann einkum klippir saman myndir annarra þekktra listamanna frá ýmsum tímabilum 20 aldarinnar. Eins og jafnan fyrr fer Erró ótroðnar slóðir í listsköpun. Erró málar jafnan í þriðju persónu. Hann notar að mestu myndir sem hafa birst á öðrum vettvangi listarinnar sem meginþema og uppsprettu í efnivið sinn. Segja má að grunnpunkturinn í frásögn Erró sé að þar komi saman ólík myndbrot héðan og þaðan og með þeim komi ný tilvísun og skapar með því eigin sýn, og eigin frásögn á þau. Ég hvet alla til að líta á Listasafnið og kynna sér sýninguna og verk Errós. Ég hafði gaman að kynna mér verk Erró. Um er að ræða enn eina rósina í hnappagat Listasafnsins okkar, sem hefur markað sér kraftmikinn sess í menningarlíf bæjarins fyrir margt löngu.

Helgin hefur verið góð eins og sést á fyrrnefndum tveim punktum og margt skemmtilegt gert og afmælisveisla pabba í gærkvöldi var vel heppnuð og ánægjuleg. Áttum góða kvöldstund og mjög gaman að hitta ættingja yfir góðum veigum. En einn punktur skyggði á flest annað hér um helgina. Það eru óneitanlega nokkur vonbrigði, svo ekki sé nú meira sagt, að ekki hafi verið samið við Slippstöðina hér um breytingar og endurbætur á varðskipunum Tý og Ægi. Var tekið lægsta boði, sem kom frá Póllandi. Tilboð pólverjanna hljóðaði upp á 275 milljónir og var 13 milljónum króna lægra en tilboðið frá Slippstöðinni. Get ég ekki annað en tekið undir mat Guðmundar Tulinius forstjóra Slippstöðvarinnar, í fréttum RÚV um helgina þess efnis að um reiðarslag sé að ræða á grundvelli málsins. Eftir stendur að munurinn á tilboðunum var það lítill að hann mun ekki einu sinni ná að dekka þann kostnað sem fylgir því að flytja verkið úr landi. Þessi ákvörðun Ríkiskaupa er sláandi og vægast sagt slæm. Er um mikil vonbrigði fyrir okkur að ræða hér fyrir norðan og vekur þessi gjörningur óneitanlega mjög margar spurningar.
Saga dagsins
1964 Alþingi var afhent áskorun 60 kunnra Íslendinga, svonefndra sextíumenninga, þar sem skorað var á þingið að takmarka útsendingar Keflavíkursjónvarpsins við herstöðina. Sendistyrkurinn hafði þá nýlega verið aukinn. Óttuðust menningarpostularnir að bandarískt sjónvarp til allra landsmanna hefði alvarleg áhrif á þá og skaðaði mjög menningarlíf. Á þeim grundvelli var helst mótmælt. Við tilmælum þeirra var formlega orðið 3 árum síðar. Þá hafði íslensk sjónvarpsstöð á vegum ríkisins verið stofnuð
1974 Græna byltingin - skýrt var frá áætlunum borgarstjórnar um að skipuleggja opin svæði og gera göngustíga, hjólreiðabrautir og útivistarsvæði í Reykjavík. Græna byltingin var umfangsmesta átak Reykjavíkurborgar í umhverfismálum og var lykilmál á borgarstjóraferli Birgis Ísleifs Gunnarssonar
1977 Hreinn Halldórsson varð Evrópumeistari í kúluvarpi innanhúss - Hreinn varð þriðji Íslendingurinn sem vann til Evrópumeistaratitils í frjálsum íþróttum - Hreinn varð kjörinn íþróttamaður ársins 1977
1983 Samtök um kvennalista voru formlega stofnuð - náðu kjöri á þing í kosningunum 1983 og áttu fulltrúa á löggjafarþinginu allt til ársins 1999. Kvennalistinn varð partur af Samfylkingunni árið 2000
1996 Thomas Hamilton, 43 ára skoskur maður, myrðir 16 skólabörn og kennara þeirra í barnaskóla í smábænum Dunblane í Skotlandi - hann var ekki tengdur skólanum en trylltist eftir að hann var rekinn sem skátahöfðingi. Hamilton svipti sig lífi eftir árásina og því var málið aldrei upplýst að fullu
Snjallyrðið
Trust yourself. Create the kind of self that you will be happy to live with all your life. Make the most of yourself by fanning the tiny, inner sparks of possibility into flames of achievement.
Golda Meir forsætisráðherra Ísraels (1898-1978)
Breytt 18.9.2006 kl. 08:02 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
12.3.2005 | 20:27
Engin fyrirsögn

Lagt hefur nú verið fram á Alþingi frumvarp til laga um breytingu á lögum um tekju- og eignarskatt. Í frumvarpinu felst einkum að opinber birting og framlagning álagningar- og skattskráa landsmanna verði með öllu lögð af. Sigurður Kári Kristjánsson alþingismaður, er fyrsti flutningsmaður frumvarpsins en meðflutningsmenn hans að frumvarpinu eru fleiri þingmenn flokksins. Þau sem leggja málið fram með honum eru Arnbjörg Sveinsdóttir, Birgir Ármannsson, Bjarni Benediktsson, Drífa Hjartardóttir, Guðjón Hjörleifsson, Guðlaugur Þór Þórðarson, Guðmundur Hallvarðsson, Gunnar Birgisson, Pétur H. Blöndal og Sólveig Pétursdóttir. Frumvarpið var lagt fram á síðasta þingi en hlaut ekki afgreiðslu þá. Nú er það aftur lagt fram á þingi. Er það mikið ánægjuefni að þetta baráttumál sjálfstæðismanna komi fram og sé lagt á það áherslu á þingi.
Rökin að baki frumvarpinu eru nokkur en þau eru einna helst þau að telja verður að birting álagningar- og skattskráa samkvæmt ákvæðum núgildandi laga brjóti mjög gegn rétti einstaklinga til friðhelgis einkalífs. Fjárhagsmálefni einstaklinga eru án vafa meðal helstu persónuupplýsinga sem að mínu mati bæði er eðlilegt og sanngjarnt að leynt fari. Í greinargerð þingmannanna með frumvarpinu kemur fram að birting upplýsinga um tekjur einstaklinga sé mjög til þess fallin að grafa undan því trúnaðarsambandi sem viðgengist hafi á vinnumarkaði um launakjör í frjálsum vinnusamningum. Þar að auki er minnt á að með niðurfellingu kæruheimildar gjaldenda vegna skattákvörðunar þriðja manns hafi forsendur að baki framlagningu skattskráa einstaklinga brostið.
Ekki síður er þess getið að frumvarpið mun ekki fela í sér að neinu leyti að dregið verði úr þeim úrræðum sem skattyfirvöldum er veitt í núverandi löggjöf til að sinna virku skatteftirliti, bregðast við undanskotum frá skatti eða til að beita öðrum þeim heimildum sem núgildandi löggjöf kveður á um. Frumvarpið gerir ekki síst ráð fyrir því að núverandi eftirlit verði eftir sem áður í höndum skattyfirvalda. Verði frumvarpið að lögum ljúki hinsvegar einkaskattrannsóknum borgaranna hvers á öðrum. Landsfundur Sjálfstæðisflokksins hefur margoft ályktað um þetta mál og enginn vafi á því að það er stefna flokksins að þessar breytingar eigi sér stað. Það hefur verið baráttumál flokksins og ýmissa fylkinga innan hans að tekið sé á þessu máli. Það er því mjög ánægjulegt að þingmenn flokksins sameinist um að leggja frumvarpið fram og stokka stöðuna upp til samræmis við það sem stefna flokksins felur í sér. Að mínu mati eiga viðkomandi þingmenn mikið hrós fyrir að stíga þetta skref og vinna í takt við stefnu flokksins í þessum efnum. Sérstaklega hrósa ég þeim þó fyrir að leggja áherslu á þetta baráttumál ungra sjálfstæðismanna til fjölda ára.
Það hefur mjög lengi verið stefna Sambands ungra sjálfstæðismanna að þessi breyting verði gerð á. Það er eins og komið hefur fram í skrifum mínum algjörlega í ósamræmi við skoðanir mínar að allir landsmenn geti farið á skattstofur og kynnt sér hvað annað fólk borgar í skatta og verið að hnýsast með því í einkalíf fólks með þeim hætti. Hefur það alltaf verið skoðun mín að þetta eigi ekki að vera með þessum hætti og ekki eigi að birta álagningarskrárnar opinberlega. Þetta er því gleðiefni að frumvarpið sé komið fram og tekið verði á þessum málum. Í júlímánuði 2003 skoraði þáverandi stjórn, bæði SUS og Heimdallar, á þingmenn flokksins um að beita sér í málinu. Sendu þau öllum þingmönnum Sjálfstæðisflokksins bréf og hvatti þá til að standa að nauðsynlegum lagabreytingum til að tryggja að fjárhagsupplýsingar borgaranna verði framvegis ekki gerðar opinberar í álagningar- og skattskrám. Við þessu hafa þingmennirnir nú orðið, okkur ungliðum flokksins og almennum flokksmönnum til mikillar ánægju.
Hildur Vala Einarsdóttir var í gærkvöldi kjörin poppstjarna Íslands árið 2005 í æsispennandi úrslitakeppni í Idol-stjörnuleit í Vetrargarðinum í Smáralind. Keppti hún um sigurinn í keppninni við Aðalheiði Ólafsdóttur. 135.000 atkvæði bárust í þessari lokakosningu og var rafmagnað andrúmsloft er úrslitin voru tilkynnt. Báðar stóðu þær sig alveg frábærlega í þessum úrslitaþætti. Fóru þær á kostum og fluttu hvor um sig þrjú stórfengleg lög. Hildur Vala söng lögin The Boy who giggled so sweet, Líf og Án þín. Heiða söng lögin Ég veit þú kemur, Líf og Slappaðu af. Mátti varla á milli sjá hvor stóð sig betur. Tvær stórglæsilegar söngkonur og úrslitakvöldið jafnaðist á við stórfenglega tónleika með frábærum flytjendum. Að mínu mati var Hildur Vala allan tímann hinn sanni sigurvegari keppninnar. Hún kom, sá og sigraði. Ég held að það sé rétt það sem Bubbi Morthens sagði í gærkvöldi er úrslitin lágu fyrir að grunnurinn að því að Hildur Vala náði sigrinum og heillaði þjóðina sé að hún hafi sungið sig inn í hjörtu landsmanna með svipmikilli túlkun og næmu látbragði. Hildur Vala er hin sanna stjarna og vonandi gengur henni vel á framabrautinni, sem og öllum öðrum þátttakendum keppninnar þetta árið. Hér fyrir neðan má fylgjast með ferð Hildar Völu í gegnum keppnina, glæsilegar túlkanir á fallegum lögum.
Hildur Vala - poppstjarna Íslands 2005
Immortality
Dark end of the street
I Love the Nightlife
Á nýjum stað
Er hann birtist
Everything I do, I do it for you
It´s only a Papermoon
I Wish
You´ve got a friend in me
Heart of glass
Careless Whisper
The Boy who giggled so sweet
Án þín
Líf

Vægast sagt ískyggilegt ástand er komið upp hér við norðanvert landið. Hafís nálgast landið og er siglingaleiðin fyrir öllu Norðurlandi, allt frá Horni austur að Langanesinu, mjög varasöm vegna íssins. Hefur ástand mála ekki verið verra frá árinu 1979, sem var mjög kalt ár og mikið hafísaár. Ljóst er eftir könnunarflug Landhelgisgæslunnar í dag að staðan er dökk, enda stefnir allt í að norðlægar áttir verði í veðrinu næstu vikuna og því kalt í veðri. Mun slíkt veðurfar auðvitað leiða til þess að ísinn færist sífellt nær landi og jafnvel líklegt að hann taki að berast inn í fjörðinn. Þegar er hann kominn að Grímsey og eins og við má búast taka íbúar þar honum ekki fagnandi. Ef marka má fréttamyndir seinustu daga er ástandið dökkt og vonandi að veðurfarið breytist brátt svo ísinn fari fjær landi. Merkilegt er að lesa gamlar lýsingar af hafís við landið. Langafi minn, Stefán Jónasson skipstjóri og útgerðarmaður á Akureyri, sem lést árið 1982, þá 101 árs að aldri, skrifaði lengi dagbók. Er alltaf gaman að lesa lýsingar hans af hafís við landið á þeim árum þegar hann var skipstjóri. Á ég margar af bókunum og lít oft á. Hann sagði skemmtilega frá og er gaman að lesa lýsingar hans á þessu.

Að lokum er ekki hægt annað á þessum laugardegi, við vikulok, en að skrifa smá um kostulegt verðstríð í vikunni á lágvörumarkaðnum í verslunum. Mjólkin, sem hefur lengst af verið dagleg nauðsynjavara og oft nokkuð dýr, var meginhluta vikunnar annaðhvort seld í lágvöruverslunum á eina krónu eða hreinlega gefins. Fannst mér alveg kostulegt að fara í Nettó á fimmtudag og geta þar einfaldlega tekið þar fjórar einslítra umbúðir af mjólk ásamt fleiru á billegu verði og þurfa svo ekki að borga mjólkina við kassann. Þetta er eiginlega alveg ævintýralegt. Gosið var einnig hræbillegt, svo ekki sé nú talað um ávextina. En þetta með mjólkina var merkilegt og hefur sjaldan farið eins mikið af mjólk í verslunum. Verður fróðlegt að sjá hversu lengi þessi þróun heldur áfram. Eitthvað er nú tekið að róast yfir þessu og aftur farið að selja mjólkina. Þegar ég fór í verslun snemma í morgun var farið að selja hana aftur, en samt langt undir venjulegu verði. Þetta er alveg stórmerkilegt og reyndar verður fróðlegt að fylgjast með verðstríðinu næstu dagana.
Saga dagsins
1916 Alþýðusamband Íslands, ASÍ, var stofnað og þar með einnig Alþýðuflokkurinn. Fyrsti formaður Alþýðuflokksins og jafnframt fyrsti forseti ASÍ var Jón Baldvinsson - sögu Alþýðuflokksins lauk 2000 með formlegum hætti. Tengsl ASÍ og Alþýðuflokksins liðu að mestu undir lok á sjötta áratugnum
1945 Dagbókarhöfundurinn Anne Frank lést í Bergen-Belzen fangabúðunum, 15 ára að aldri. Henni og fjölskyldu hennar tókst í nokkur ár að leynast fyrir hersveitum nasista á heimili sínu í Amsterdam. Á meðan því stóð skrifaði Anne dagbók um það sem gerðist og lýsti lífi hennar og fjölskyldunnar til loka. Sagan var síðar gefin út og varð margverðlaunuð fyrir ritsnilli. Hún var færð í leikbúning og eftir henni gerð ógleymanleg kvikmynd af George Stevens 1959. Ein eftirminnilegasta saga aldarinnar
1965 Fyrsta íslenska bítlaplatan kom út - á plötunni voru tvö lög með Hljómum: Bláu augun þín og Fyrsti kossinn. Lögin urðu bæði mjög vinsæl og voru eftir Gunnar Þórðarson og við texta Ólafs Gauks
2001 Hverastrýtur á botni Eyjafjarðar voru friðlýstar, fyrstar náttúruminja hérlendis í hafi við landið
2003 Zoran Djindjic forsætisráðherra Serbíu, myrtur í Belgrad, fimmtugur að aldri. Djindjic var einn af allra vinsælustu stjórnmálamönnum í sögu Serbíu. Hann var lengi borgarstjóri í Belgrad og leiddi síðar forystu stjórnarandstöðunnar gegn Slobodan Milosevic, sem var felldur af valdastóli árið 2000. Hann studdi Vojislav Kostunica í forsetakjöri 2000 og varð þá forsætisráðherra Serbíu og sat til loka
Snjallyrðið
There is a fountain of youth: it is your mind, your talents, the creativity you bring to your life and the lives of people you love. When you learn to tap this source, you will truly have defeated age.
Sophia Loren leikkona (1934)
Breytt 18.9.2006 kl. 08:02 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
11.3.2005 | 17:08
Engin fyrirsögn
Það er óneitanlega undarlegt að fylgjast með stöðu mála hjá Ríkisútvarpinu þessa dagana og hnignun þessarar stofnunar, sem nú á sér stað. Starfsmenn, bæði almennt í húsinu, sem og fréttamenn hafa hvatt útvarpsstjóra til að draga ráðningu sína á fréttastjóra til baka og fréttamenn meira að segja gengið svo langt að lýsa yfir vantrausti á hann sem yfirmann. Er um sögulega ákvörðun að ræða, enda aldrei gerst í 75 ára sögu Ríkisútvarpsins að starfsmenn lýsi yfir vantrausti eða efist á opinberum vettvangi með beinni yfirlýsingu um yfirmann sinn og verk hans. Loft er því lævi blandið í Efstaleitinu og óveðurský hrannast upp yfir útvarpshúsinu óneitanlega. Það er erfitt að sjá hvernig báðir aðilar geta farið með sæmd frá málinu nema fréttastjóraefnið víki þá sjálfviljugur frá.
Ég var staddur á ráðstefnu í gær og ekki við útvarp nema snemma í gærmorgun. Mér fannst merkilegt að heyra af því eftir á að fréttamenn hefðu lagt niður störf í tíufréttum og ekki útvarpað fréttum. Ofan á allt var táknrænasta aðgerð gærdagsins það að eitt heilagasta djásn Ríkisútvarpsins, hádegisfréttirnar, hefðu verið tíu mínútna langar í stað hins klassíska tíma, 25 mínútur, frá 12:20 til 12:45. Það sem nú er að gerast hjá stofnuninni á sér engin fordæmi og það sem meira er að ólgan og lætin bakvið tjöldin vex sífellt meira. Um það er nú talað að starfsmenn gangi út og hætti störfum. Staðan er einfaldlega með þeim hætti að fréttastofan er að lamast og Ríkisútvarpið er í mestu krísu sem það hefur lent í á löngum ferli. Það blasir við.
Þetta ástand er dapurlegt í raun, enda eru fréttamiðlar ríkisins með þær fréttastofur sem njóta mests trausts. Sem merki um heiftina er að fréttamenn neituðu að eiga fund með nýjum fréttastjóra í gær. Fundur var boðaður en starfsmenn mættu einfaldlega ekki til fundar. Það finnst mér mjög langt gengið. Það er lágmark að leyfa viðkomandi að kynna sig og hvað hann vilji gera í stöðunni. En heiftin er svo mikil að það er himinn og haf milli starfsmanna og yfirstjórnar stofnunarinnar. Málið er allt í miklu óefni. Vonandi kemur ekki til þess að starfsmenn gangi á dyr og fréttaþjónusta stofnunarinnar stöðvist. Annars sást vel hversu hörð deilan er og átökin milli manna í Kastljósi í gærkvöldi þar sem Pétur Gunnarsson varamaður í útvarpsráði, og Jóhann Hauksson fyrrum yfirmaður Rásar 2, tókust á um ráðningu Auðuns Georgs. Hvöss orð flugu á milli og ásakanir um stöðuna. Ískalt er á milli aðila og ástandið mjög slæmt. Gekk Pétri greinilega illa að verja ákvörðun útvarpsráðs og Jóhann lét skotin dynja á honum vegna málsins. Segja má að neistarnir fljúgi á milli aðila.
Í dag birtist ítarlegur pistill minn um stöðu mála hjá Ríkisútvarpinu. Rek ég fréttastjóramálið og ólguna innanhúss. Ennfremur fer ég yfir rekstrartölur stofnunarinnar og framtíðarhorfur þar í ljósi væntanlegs frumvarps menntamálaráðherra um breytingar á útvarpslögum. Í pistlum mínum um málefni RÚV sem birst hafa víða seinustu ár hef ég vel kynnt afstöðu mína til málefna RÚV. Þeir sem hafa lesið þær hafa séð hvert hugur minn stefnir í þessum efnum. Ég vil ganga rösklega til verks og stokka upp RÚV í þá átt að ríkið verði ekki lengur þátttakandi í fjölmiðlarekstri. Ég vil að Ríkisútvarpið verði einkavætt. Á því leikur enginn vafi. Það er alveg rétt sem Pétur H. Blöndal sagði í umræðu á þingi í gær að á meðan ríkið rekur fjölmiðil verða pólitísk ítök þar inn að einhverju leyti. Þótti mér Pétur orða þetta vel, en við erum samherjar í þessum málum. En ég hvet alla til að lesa pistilinn og kynna sér skoðanir mínar á stöðu mála, hvað varðar þessa umdeildu ráðningu og rekstrarmálin hjá RÚV. Með því reifa ég margar vangaveltur í þeirri miklu óvissustöðu sem blasir við hinum 75 ára gamla staðnaða ríkisfjölmiðli, sem er á vissum krossgötum nú.

Að lokinni ræðu Jóns, flutti Eiríkur Tómasson lagaprófessor og formaður sérfræðinganefndar forsætisráðuneytisins, sem vinna mun með stjórnarskrárnefndinni, ávarp. Kynnti hann skoðanir sínar á fyrirhugaðri endurskoðun stjórnarskrár frá sjónarhóli fræðimannsins. Sérstaklega nefndi hann að mikilvægt væri að fara yfir stöðuna óhikað og nefndi sem dæmi að ekki væri hægt að útiloka það að taka 26. greinina til endurskoðunar. Talaði Eiríkur í rúman hálftíma og erindi hans því í senn bæði fróðlegt og gagnlegt. Ennfremur fluttu ræður á ráðstefnunni þau: Eivind Smith prófessor hjá UiO og forstöðumaður Institutt for offentlig ret, Kristrún Heimisdóttir lögfræðingur Samtaka iðnaðarins, Kári á Rógvi og Ágúst Þór Árnason prófessor. Var þetta fróðleg ráðstefna og gott að heyra þar góð erindi um stöðu mála. Þann 10. janúar sl. birtist á vef Heimdallar pistill minn um endurskoðun stjórnarskrár og tengd atriði. Fer ég þar yfir málið og skoðanir mínar. Hef ég tjáð mig nokkuð um málefni stjórnarskrárinnar frá látunum í fyrra um 26. greinina. Til fjölda ára hefur skort pólitískan kjark til að hrinda úr vör þessu ferli, opna málið og ræða málefni stjórnarskrár með opnum huga og ræða nauðsynlegar breytingar, sem verða að eiga sér stað í samræmi við nútímann, vinna að sjálfsagðri endurskoðun á stjórnarskrá. Um að gera að líta á pistilinn til að lesa þær pælingar og fara yfir skoðanir mínar á málinu.

Í dag er eitt ár liðið frá hryðjuverkaárásinni í Madrid á Spáni. Sprengjur í bakpokum sprungu í lest er hún var að koma inn á Atocha-lestarstöðina í miðborginni að morgni 11. mars 2004. Hún er ein mikilvægasta samgöngumiðstöð borgarinnar og tengir saman grannlestakerfi ríkisjárnbrautanna og jarðlestakerfið. Á þessum tíma er stöðin iðandi af fólki á leið til vinnu eða í skóla, úr grannbæjum og úr úthverfunum. Fleiri sprengjur sprungu svo í lestum á öðrum tveimur stöðvum á sömu lestaleiðinni, Santa Eugenia og El Pozo sem eru í úthverfum, austanmegin í borginni. Kannast ég vel við þessar lestarstöðvar frá því ég fór til Madrid fyrir þrem árum. Var því afskaplega sorglegt að heyra þessar fregnir. Tæplega 200 manns létu lífið í þessu hryðjuverki. Deilt var um það hverjir stæðu að baki því. Lengi vel fullyrtu spænsk yfirvöld að baskneska aðskilnaðar- og ógnarverkahreyfingin ETA væru þar að verki. Bakpokasprengjur og koparhvellhettur, tendraðar með boðum úr farsíma, báru þó ekki merki um handbragð ETA. Fljótt bárust böndin að íslömsku hryðjuverkasamtökunum Al Qaeda. Kom í ljós að þau stóðu þarna að baki. Leiddu deilur um fullyrðingar stjórnvalda um aðild ETA til þess að stjórn hægriflokkanna féll í þingkosningunum á Spáni sem haldnar voru um miðjan mars 2004.
Úrslitastundin rennur upp í Idol-stjörnuleit í Vetrargarðinum í Smáralind í kvöld. Þá keppa Hildur Vala og Heiða um titilinn poppstjarna Íslands 2005. Rúmt ár er nú liðið frá því að Karl Bjarni Guðmundsson vann titilinn poppstjarna Íslands, fyrstur allra. Fullyrða má að Hildur Vala og Heiða standi báðar vel að vígi við lok keppninnar. Þær eru óneitanlegar stórglæsilegar söngkonur. Þær hafa staðið sig vel alla keppnina og átt glæsilegar frammistöður í keppninni. Að mínu mati stendur þó Hildur Vala óneitanlega sterkar að vígi fyrir lokakvöldið. Hún hefur glansað í gegnum alla keppnina, aldrei stigið feilspor og er eftirminnilegust þeirra sem keppt hafa nú. Hildur Vala og Heiða syngja þrjú lög í kvöld. Heiða syngur lögin Ég veit þú kemur, eftir Gunnar Þórðarson, og Slappaðu af með Flowers. Hildur Vala mun syngja lögin The boy who giggled so sweet, sem Emilíana Torrini gerði vinsælt, og Án þín með Trúbrot. Báðar syngja þær einnig lagið Líf, við texta Stefáns Hilmarssonar, sem hann söng fyrir rúmum áratug og gerði vinsælt, en lagið er eftir Jón Ólafsson. Til að auðvelda sér valið fyrir kvöldið og til að hita upp fyrir úrslitastundina eru hér tenglar á fyrri frammistöður þeirra í keppninni.
Hildur Vala
Immortality
Dark end of the street
I Love the Nightlife
Á nýjum stað
Er hann birtist
Everything I do, I do it for you
It´s only a Papermoon
I Wish
You´ve got a friend in me
Heart of glass
Careless Whisper
The Boy who giggled so sweet
Án þín
Líf
Heiða
Dimmar rósir
Angel
Hot Stuff
Láttu mig vera
Himinn og jörð
Fame
Love
Stephanie says
You are the sunshine of my live
Living on a Prayer
Total eclipse of the heart
Ég veit þú kemur
Slappaðu af
Líf

Að síðustu tveir merkilegir punktar. Í fyrra lagi: það er góð helgi framundan hér í bænum og margt í boði. Meðal þess sem stendur þar hæst er óneitanlega matarsýningin MATUR-INN 2005 sem verður haldin á morgun og sunnudag í Verkmenntaskólanum. Um er að ræða matvæla- og léttvínssýningu þar sem norðlensk fyrirtæki kynna sig og sínar vörur. Matvælaframleiðsla og tengdar greinar eru mjög fjölbreyttar á Norðurlandi og er tilgangurinn auðvitað að kynna almenningi betur vörur þeirra. Mjög spennandi og mun ég líta á staðinn og kanna dæmið. Í seinna lagi má ég til með að skrifa um það að í gær gangsetti Kristján Þór Júlíusson bæjarstjóri, fyrsta þráðlausa stafræna sjónvarpsdreifikerfið á Norðurlandi, hér í bænum. Um er að ræða fyrirtækið Íslandsmiðil ehf. sem stendur að baki þessu dreifikerfi. Með þessu geta bæjarbúar hér notið sömu þjónustu og íbúar suðvesturhornsins í þessum efnum. Boðið er upp á lággjalda áskriftasjónvarp með hámarksmyndgæðum. Í boði eru 8 erlendar stöðvar. Mjög gott mál. Þetta er vænn og góður pakki. Já og svo er sýning á myndum Errós að byrja í Listasafninu. Lít á hana á morgun. Meira um hana hér um helgina. :)
Saga dagsins
1984 Guðlaugur Friðþórsson synti í land um 5 km þegar bátnum Hellisey frá Eyjum hvolfdi og sökk
1985 Mikhail Gorbachov tekur formlega við völdum í Sovétríkjunum - varð áhrifavaldur á söguna og lykilþátttakandi í endalokum kalda stríðsins og sögulegum samningum við Bandaríkin um eyðingu kjarnorkuvopna og langdrægra vopna. Hann hlaut svo friðarverðlaun Nóbels 1990 fyrir framlag sitt til þessara verkefna. Gorbachev einangraðist heima fyrir og sá ekki fyrir endalok Sovétríkjanna. Hann varð valdalaus við fall Sovét árið 1991 og hefur verið þögull þátttakandi í stjórnmálum alla tíð síðan
1990 Litháen lýsir yfir sjálfstæði sínu - leiddi til upphafsins að endalokum Sovétríkjanna. Löndin sem voru í ríkjasambandinu lýstu síðan öll yfir sjálfstæði sínu. Sovétríkin liðu formlega undir lok ári síðar
1996 John Howard tekur við embætti forsætisráðherra Ástralíu eftir kosningasigur hægrimanna - þá hafði Verkamannaflokkurinn leitt stjórn landsins samfellt í 13 ár - Howard varð 25. forsætisráðherra landsins og hefur setið í embætti síðan. Howard er einn af sigursælustu leiðtogum hægrimanna þar
2004 Hryðjuverkaárás í Madrid á Spáni - fjöldi bakpokasprengja sprungu í lestum í samgöngukerfi borgarinnar. Tæplega 200 manns létust í árásinni. Upphaflega var ETA, aðskilnaðarsamtök Baska, kennt um hryðjuverkin. Síðar kom í ljós að Al-Qaeda stóð þar að baki. Árásin var gerð fáum dögum fyrir þingkosningar í landinu. Stjórnvöld kenndu ETA um hryðjuverkin. Neituðu þau lengi að kanna aðra möguleika, t.d. þátttöku Al-Qaeda. Trúnaðarbrestur varð milli kjósenda og stjórnvalda og fór svo að hryðjuverkaöflunum tókst ætlunarverk sitt: að fella hægristjórn landsins í þingkosningunum
Snjallyrðið
What is success? I think it is a mixture of having a flair for the thing that you are doing; knowing that it is not enough, that you have got to have hard work and a certain sense of purpose.
Margaret Thatcher forsætisráðherra Bretlands (1925)
Breytt 18.9.2006 kl. 08:02 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
10.3.2005 | 21:38
Engin fyrirsögn
Óhætt er að fullyrða að mjög eldfimt ástand sé hjá Ríkisútvarpinu í kjölfar þess að Markús Örn Antonsson útvarpsstjóri, tilkynnti í gær um ráðningu Auðuns Georgs Ólafssonar í starf fréttastjóra Útvarpsins. Í dag samþykktu 93% starfsmanna Ríkisútvarpsins tillögu þess efnis að útvarpsstjóri ætti að draga ráðningu Auðuns formlega til baka. Áður hafði félag fréttamanna hjá Ríkisútvarpinu samþykkt að lýsa yfir vantrausti á Markús Örn og ákvörðun hans. Ljóst er allt logar stafna á milli hjá stofnuninni og mikill órói er þar vegna ráðningarferlisins og ákvörðunar útvarpsstjórans. Er vandséð hvernig muni geta gróið um heilt milli starfsmannanna og útvarpsstjóra að óbreyttu. Greinilegur trúnaðarbrestur hefur orðið milli starfsmanna og yfirstjórnar Ríkisútvarpsins.
Í gærkvöldi tilkynnti Jóhann Hauksson dagskrárstjóri Rásar 2 og yfirmaður svæðisstöðva RÚV, um uppsögn sína. Lét hann af störfum þegar í dag og tæmdi skrifstofu sína hér á Akureyri strax í gærkvöldi. Jóhann hefur unnið hjá Ríkisútvarpinu í tvo áratugi og var lengi fréttamaður RÚV í Reykjavík, síðar yfirmaður svæðisútvarps RÚV á Austurlandi og að lokum yfirmaður Rásar 2 með aðsetur hér á Akureyri. Jóhann var einn umsækjenda um stöðuna. Hefur hann sagt að Markús Örn hafi brugðist Ríkisútvarpinu með ráðningu nýs fréttastjóra. Er mikið áfall fyrir RÚV að missa Jóhann, en hann hefur verið einn öflugasti forystumaður Ríkisútvarpsins og staðið sig vel í störfum sínum hér á Akureyri. Þekki ég það vel héðan frá Akureyri hversu vel hann hefur staðið sig.
Er erfitt að spá um framhald mála hvað varðar útvarpsstjóra. Hann verður auðvitað að meta stöðu mála og taka afstöðu til mála í ljósi þess. Markús Örn hefur unnið hjá RÚV, með hléum, í tæpa fjóra áratugi. Fáir menn þekkja betur stofnunina og starfskipan mála þar. Ég tel að hann hljóti að íhuga stöðuna vel og meta hvað henti best með tilliti til þess. Er ég þó algjörlega andvígur því að hann segi af sér eins og stjórnarandstaðan hefur krafist. Hvað varðar stöðu nýs fréttastjóra er ljóst að hún er mjög veik og vandséð hvernig hann geti tekið við valdataumunum þar með krafti og orðið sá sterki fréttastjóri sem fréttastofan þarf á að halda til að halda stöðu sinni sem sú fréttastofa sem flestir landsmenn treysta á. Innri átök hjá RÚV staðfesta að brúin milli yfirmanns og starfsmanna er ekki til staðar og húsið logar eins og Róm forðum. Staðan er því að öllu leyti mjög veikluleg og erfið. Enginn efast um að Auðun Georg er hinn mætasti maður, en aðkoma hans að starfinu verður erfið og skal ósagt látið hvort hann geti í raun tekið við því. Við blasir hinsvegar að upplausn er innan stofnunarinnar vegna stöðu mála.
Eitt hefur þetta mál þó sýnt umfram allt annað: staða Ríkisútvarpsins er orðin veik. Það er mikilvægt: enn mikilvægara en nokkru sinni áður, að stokka þar upp stöðu mála. Við blasir fyrst og fremst að staða útvarpsráðs er veikari en nokkru sinni fyrr. Fullyrða má að fjarað hafi algjörlega undan því og mikilvægt að menn líti fram á veginn og stokki alveg upp stöðu þess og hlutverk. Það getur ekki gengið lengur að pólitískt skipað ráð með slíkt hlutverk sé þar til og fari yfir starfsumsóknir þar og meti beint. Þetta fyrirkomulag mála er fyrir lifandis löngu gengið sér til húðar og er orðið með öllu óverjandi. Tel ég einsýnt að stjórnmálamenn verði að setjast niður og taka á þessum málum af krafti. Slíta verður með afgerandi hætti tengslin á milli stjórnmála og rekstrarlegrar yfirstjórnar hjá þessu fjölmiðlafyrirtæki og taka rekstrarformið til endurskoðunar. Best verður það gert með því að hlutafélagavæða Ríkisútvarpið eða það sem enn betra er: með því að einkavæða það. Það er orðið mjög erfitt, allt að því óverjandi, einkum í ljósi nýjustu frétta, að réttlæta ríkisrekinn fjölmiðil í landinu með þeim hætti sem verið hefur seinustu áratugi.

Þorsteinn varð forsætisráðherra sumarið 1987, að loknum þingkosningum. Hann sat á þeim stóli í rúmt ár, til haustsins 1988, er slitnaði með miklum hvelli upp úr samstarfi stjórnarflokkanna. Þorsteinn leiddi starf stjórnarandstöðunnar á þingi út það kjörtímabil. Davíð Oddsson þáverandi varaformaður flokksins, gaf kost á sér til formennsku á landsfundi flokksins í mars 1991 og sigraði Þorstein í kosningunni, sem fram fór á þessum degi fyrir 14 árum. Þorsteinn hélt áfram í stjórnmálum og leiddi áfram lista flokksins í Suðurlandskjördæmi. Hann varð sjávarútvegs- dóms- og kirkjumálaráðherra í ríkisstjórn Davíðs síðar sama ár og sat samfellt í þessum ráðuneytum í átta ár. Það kom mörgum í opna skjöldu er Þorsteinn tilkynnti, á kjördæmisþingi flokksins í kjördæminu í október 1998, að hann myndi hætta þátttöku í stjórnmálum og ekki gefa kost á sér til þingsetu í alþingiskosningunum 1999. Hann lét af ráðherraembætti, á lokadaginn, 11. maí 1999, og tók skömmu síðar formlega við sendiherraembættinu. Þorsteinn er mjög hæfur maður og hefur nýlega verið valinn til setu í stjórnarskrárnefnd forsætisráðherra. Þótti mér það mjög rétt ákvörðun, enda efast enginn um hæfni Þorsteins í þessum málum. Verður mjög athyglisvert að sjá hvað Þorsteinn gerir eftir að hann hættir í utanríkisþjónustunni.

Dan Rather lét í gær af störfum sem fréttastjóri bandarísku sjónvarpsstöðvarinnar CBS. Hann las í gærkvöldi sinn síðasta kvöldfréttatíma. Í gær voru liðin 24 ár frá því að hann tók við sem fréttaþulur stöðvarinnar og fréttastjórnandi af hinum goðsagnakennda fréttahauk Walter Cronkite sem var andlit frétta CBS í marga áratugi. Staða Rathers veiktist mjög í kjölfar þess að hann birti umdeilda fréttaskýringu í fréttaþætti stöðvarinnar, 60 minutes, þar sem George W. Bush forseti Bandaríkjanna, var gagnrýndur og birt voru skjöl sem áttu að sanna að hann hefði verið rekinn með skömm úr þjóðvarðliði Texas. Kom síðar í ljós að umfjöllun Rathers var byggð á fölsuðum gögnum og skjölum. Telja má líklegt að þessi fréttaskýring hans hafi átt þátt í því að hann vék fyrr en ella úr fréttaþularstól stöðvarinnar. Miklar deilur hafa staðið um störf hans allt frá því. Var almennt talið að Rather hefði beðið allt of lengi með að biðjast afsökunar á mistökum sínum vegna fréttaskýringarinnar. Hann hefði mun fyrr átt að hafa séð að umfjöllunin væri röng og byggð á fölsuðum skjölum.
Dan Rather er frá Texas og er 73 ára að aldri. Hann hefur verið lykilstarfsmaður í fréttamennsku CBS-stöðvarinnar í rúm 40 ár. Hann hóf störf árið 1962 í fréttadeild CBS í Texas og varð fyrst landsfrægur þegar hann fjallaði um morðið á John F. Kennedy forseta Bandaríkjanna, í Dallas, 22. nóvember 1963. Hann var í fylgdarliði forsetans sem fréttamaður fyrir stöðina og stjórnaði umfjöllun stöðvarinnar frá Dallas þennan örlagaríka dag er forsetinn var ráðinn af dögum og því sem tók við er lík forsetans var flutt til Washington og Lyndon B. Johnson sór embættiseið í forsetaflugvélinni á Love flugvelli í Dallas. Eftir það var hann hækkaður í tign innan stöðvarinnar og fékk lykilstöðu þar. Hann var áberandi sem fréttamaður í málefnum Hvíta hússins sem senior reporter 1969-1977. Eftir það varð hann einn aðalfréttamanna við kvöldfréttir stöðvarinnar og varð aðalfréttaþulur 1981. Allt frá þeim tíma hefur hann leitt fréttastarf stöðvarinnar og verið andlit kvöldfréttanna. Rather mun eftir að hann hættir sem aðalfréttaþulur vinna áfram við fréttaskýringar hjá CBS.

Óhætt er að fullyrða að Tony Blair forsætisráðherra Bretlands, sé lentur í miklum forarpytti, við upphaf kosningabaráttunnar til breska þingsins. Bendir allt til, eins og ég hafði sagt frá í umfjöllun hér um seinustu helgi, að þingkosningar fari fram þann 5. maí nk. Blair er lentur í kröppum dansi vegna hins umdeilda frumvarps síns um aðgerðir gegn hryðjuverkum. Breytingatillögur sem lávarðadeildin hafði lagt til áður en málið verður afgreitt endanlega þar, voru felldar í neðri deild breska þingsins. Með því er ljóst að málið er allt strandað og semja þarf um áherslur í málinu og afstöðu allt frá grunni á nýjan leik. Staðan er því öll hin vandræðalegasta fyrir forsætisráðherrann. Hefur hann nú fallist á að breyta frumvarpinu með þeim hætti að dómarar verði að úrskurða endanlega um allar aðgerðir gegn meintum hryðjuverkamönnum. Með því breytist staðan á þann veg að innanríkisráðuneytið geti ekki eitt ákveðið þær eins og frumvarpið hafði áður falið í sér. Er mjög óvenjulegt að Blair verði að bíta odd af oflæti sínu en eins og máltækið segir kennir oft neyðin naktri konu að spinna. Þingkosningar eru handan við hornið og ætli Blair sér að halda völdum verður hann að leita sátta og fá málamiðlun til að lægja öldur. Hvort það tekst er svo næsta spurning í stöðunni.

Baráttudagur kvenna var í gær. Víða var haldið upp á þann dag í gær og mikil umræða um málefni kvenna í fjölmiðlum tengt því. Á þessu ári verða liðin 90 ár frá því að íslenskar konur hlutu kosningarétt. Í tilefni þessara tímamóta var afhjúpað í gær í sal efrideildar Alþingis, málverk af Ingibjörgu H. Bjarnason, sem var fyrsta konan sem tók sæti á löggjafarþinginu. Hún átti þar sæti 1922-1930 og sat fyrir svokallaðan Kvennalista og síðar Íhaldsflokkinn og Sjálfstæðisflokkinn. Málverkið sem er málað af Gunnlaugi Blöndal listmálara, var formlega afhjúpað af Ragnhildi Helgadóttur fyrrum menntamálaráðherra. Ragnhildur varð fyrsta konan sem hlaut kjör sem forseti þingdeildar löggjafarþingsins. Hún sat á þingi fyrir Sjálfstæðisflokkinn til fjölda ára og var menntamálaráðherra 1983-1985 og heilbrigðisráðherra 1985-1987. Við þessa athöfn var öllum konum sem setið hafa á þingi og enn eru á lífi boðið sérstaklega. Samtals hafa 56 konur tekið sæti sem aðalfulltrúar á þingi. 47 þeirra eru enn á lífi. Aðeins tvær konur hafa verið kjörnar sem forsetar Alþingis: Guðrún Helgadóttir og Salome Þorkelsdóttir. Lengsta þingsetu kvenna í sögu löggjafarþingsins á Jóhanna Sigurðardóttir, sem hefur setið þar samfellt í 27 ár. 10 konur hafa átt sæti í ríkisstjórn, frá árinu 1970.

Ákveðið hefur verið að halda opið íbúaþing hér í bænum þann 6. apríl nk. Er um að ræða stefnuþing þar sem verða til umræðu drög að skólastefnu Akureyrarbæjar. Mun íbúaþingið verða haldið í nýjum sal Brekkuskóla, sem nýlega var tekinn formlega í notkun. Skólanefnd Akureyrarbæjar boðar til þingsins alla íbúa bæjarins sem hafa áhuga á að kynna sér fyrirliggjandi drög að skólastefnunni, hafa áhuga á að taka þátt í umræðu um málin og hafa með því áhrif á endanlega gerð skólastefnunnar. Drög að skólastefnunni hafa nú formlega verið kynnt á vef Akureyrarbæjar og geta þeir sem áhuga hafa á málinu litið á drögin þar, mótað skoðanir sínar til málsins og undirbúið sig fyrir hið opna þing. Þessi vinna og drög eru áhugaverð og verður mjög gaman að taka þátt í þessu ferli. Ég ætla mér að mæta í Brekkuskóla, minn gamla skóla, eða ætti maður ekki að segja nýja útgáfu míns gamla skóla, þann 6. apríl og taka þátt í þessu starfi. Verður þetta áhugaverð vinna og gaman að heyra skoðanir annarra og fara yfir þessi mál á grundvelli þess sem fyrir liggur í málinu.
Saga dagsins
1934 Dregið var fyrsta sinni í Happdrætti Háskólans - síðan hefur HHÍ verið ein meginstoða skólans
1941 Togaranum Reykjaborg var sökkt norður af Skotlandi eftir árás þýsks kafbáts - alls 13 fórust
1944 Flugfélagið Loftleiðir hf. var formlega stofnað - tæpum 30 árum síðar, árið 1973, sameinaðist það Flugfélagi Íslands hf. undir nafninu Flugleiðir. 10. mars 2005 breyttist nafn Flugleiða í FL Group
1967 Þrjú timburhús, sem voru á horni Lækjargötu og Vonarstrætis í Reykjavík brunnu til grunna, og hús Iðnaðarbankans skemmdist mikið - um var að ræða einn af mestu eldsvoðum á Íslandi á 20. öld
1991 Davíð Oddsson borgarstjóri í Reykjavík og varaformaður Sjálfstæðisflokksins, kjörinn formaður Sjálfstæðisflokksins á landsfundi hans - Davíð bar sigurorð af Þorsteini Pálssyni þáverandi formanni, í kosningu á fundinum. Davíð hlaut 733 atkvæði en Þorsteinn, sem verið hafði formaður flokksins í rúm 7 ár, hlaut 651 atkvæði. Davíð tók við embætti forsætisráðherra landsins, 30. apríl sama ár, og sat á forsætisráðherrastóli landsins samfellt í 13 ár, eða allt til haustsins 2004, lengur en nokkur annar í sögu Stjórnarráðs Íslands. Davíð varð utanríkisráðherra við ráðherrahrókeringar í ríkisstjórninni 2004
Snjallyrðið
Anyone who stops learning is old, whether at twenty or eighty. Anyone who keeps learning stays young. The greatest thing in life is to keep your mind young.
Henry Ford bílaframleiðandi (1863-1947)
Faðir minn, Stefán Jónas Guðmundsson, er sextugur í dag. Innilega til hamingju með daginn, pabbi minn. Hafðu það gott í dag!
Breytt 18.9.2006 kl. 08:02 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
9.3.2005 | 20:49
Engin fyrirsögn
Markús Örn Antonsson útvarpsstjóri, gaf í dag út frá sér yfirlýsingu þar sem tilkynnt er að Auðun Georg Ólafsson markaðs- og sölustjóri, hefði verið ráðinn fréttastjóri Útvarps. Kom sú niðurstaða í kjölfar fundar útvarpsráðs í gær þar sem meirihluti útvarpsráðs mælti með Auðuni í stöðuna. Áður hafði félag fréttamanna og Blaðamannafélag Íslands sent frá sér yfirlýsingar þar sem niðurstöðu útvarpsráðs var mótmælt og útvarpsstjóri beðinn um að hafa fagleg sjónarmið í huga við ákvörðunartöku um nýjan fréttastjóra. Á fjórða tímanum í dag sendi útvarpsstjóri svo frá sér yfirlýsingu sína, eftir að hafa hugleitt málið í rúman sólarhring.
Óhætt er að fullyrða að ákvörðun útvarpsstjóra hafi vakið ólgu meðal fréttamanna á fréttastofu Útvarps. Mjög er deilt um hæfni Auðuns Georgs í stöðuna og ekki allir á eitt sáttir um að hann hafi verið ráðinn til starfans. Á það er bent réttilega að hann hefur langt í frá mesta starfsreynslu umsækjenda á sviði fréttamennsku. Hann vann í nokkur ár hjá fréttastofu Stöðvar 2 og Bylgjunnar, en hefur annars unnið mest á sviði rekstrarmála. Greinilegt er að sú reynsla er metin mun frekar en störf að fjölmiðlamálum, sem fyrirfram mætti búast við að yrði aðalhluti starfs nýs fréttastjóra. Það er vissulega stórundarlegt að fagleg reynsla hafi ekki meira að segja við lokaákvörðun.
Það er mitt mat, og þetta segi ég sem áhorfandi að fjölmiðlum á daglegum basis, að fréttastjóri sé faglegur stjórnandi fréttamennsku en ekki baunateljari, eins og mögulega má orða það. Ég er undrandi á þessari ákvörðun og er andvígur henni í öllum meginatriðum. Í mínum huga hefur alltaf skipt mestu að fréttastjóri á ríkisfjölmiðlunum hafi að baki langan feril að fréttamennsku og helst þá ef mögulegt er stjórnunarreynslu á slíku sviði. Margir umsækjendur uppfylltu frekar þau skilyrði en sá sem ráðinn var til starfans. Það sem ég vil fá fram og vonandi kemur upp í umræðu næstu daga er tvennt: Í fyrra lagi: eru menn að breyta eðli yfirmannsstöðu fréttamiðla RÚV? Í seinna lagi: skiptir engu máli hver fyrri störf umsækjenda á sviði fréttamennsku eru? Þetta er það sem stendur eftir og þeir punktar sem ég er að tala um og legg til áherslu í málinu.
Til þessa hafa verið ráðnir einstaklingar sem hafa unnið til fjölda ára hjá fjölmiðlum og jafnvel verið stjórnendur á öðrum miðlum, besta dæmið um það er Elín Hirst fréttastjóri Sjónvarps, sem var áður fréttastjóri Stöðvar 2 og Bylgjunnar og ennfremur DV, áður en hún var ráðin til starfa hjá RÚV árið 2002. Þessi niðurstaða mála er faglegt kjaftshögg framan í reynt fólk sem unnið hefur hjá stofnuninni til fjölda ára. Nægir þar að nefna Hjördísi Finnbogadóttur, Óðin Jónsson og Jóhann Hauksson. Að mínu mati varð minnihluti útvarpsráðs sér að athlægi í gær með því að kasta frá sér tækifærinu til að koma öðru nafni upp í pottinn svo útvarpsstjóri gæti unnið úr. Þeirra skömm er algjör í málinu og þeir hafa dæmt sig frá því. En eftir stendur þó grunnur málsins: þessi ákvörðun er með öllu óskiljanleg og staðfestist enn og aftur hvað útvarpsráð og allt skipulag mála hjá þessari stofnun er gjörsamlega orðið úrelt.

Viðbúið er að nú verði háværar raddir þess efnis að veita skuli Fischer íslenskan ríkisborgararétt. Það er merkilegt að fylgjast með umræðunni og finna misskilning fólks á stöðu málsins. Hef ég rætt við marga sem líta á þetta sem eitt og sama málið. Dvalarleyfisveitingin og ríkisborgararéttur eru tvö aðskilin mál, á því leikur enginn vafi. Um þetta tvennt verður að sækja um með aðskildum hætti og veiting dvalarleyfis er ekki sjálfkrafa ávísun á íslenskan ríkisborgararétt. Eins og flestallir vita stenst skákmeistarinn ekki skilyrði fyrir veitingu ríkisborgararéttar, enda verður skv. lögum viðkomandi að hafa búið hérlendis í fimm ár og hafa hreint sakavottorð. Því getur aðeins þingið samþykkt undanþágu fyrir Fischer. Ég hef margoft tjáð skoðanir mínar á þeim hluta málsins sem víkur að því hvort koma eigi til greina að þingið veiti Fischer ríkisborgararétt. Ég er því algjörlega andsnúinn og mun mótmæla því, ef til þess kæmi, með greinaskrifum. Ég er almennt séð ekki mjög hlynntur því að veita undanþágur frá lögum um ríkisborgararétt með þessum hætti. Það er bara svo einfalt, ég sé enga ástæðu til að veita manni sem ekki hefur komið hingað í 33 ár undanþágu.

Stjórn Varðar samþykkti eftirfarandi ályktanir á fundi sínum í gærkvöldi:
Vörður, félag ungra sjálfstæðismanna á Akureyri, lýsir yfir ánægju sinni með viljayfirlýsingu þá sem bæjarstjórinn á Akureyri, fjármálaráðherra, iðnaðarráðherra og borgarstjórinn í Reykjavík hafa undirritað um breytt eignarhald á Landsvirkjun. Er að mati félagsins jákvætt skref að ríkið leysi með þessu til sín eignarhluta sveitarfélaganna í fyrirtækinu. Fram hefur komið vilji til þess að í kjölfarið verði Landsvirkjun hlutafélagavædd. Vörður lýsir yfir stuðningi sínum við þær hugmyndir og hvetur til einkavæðingar á sviði orkuiðnaðar.
Vörður, félag ungra sjálfstæðismanna á Akureyri, telur hugmyndir um nýtingu Sjallareitsins mjög mikilvægar til að efla miðbæinn. Enginn vafi er á því að væntanlegar byggingatillögur, sem gera ráð fyrir tveggja hæða verslunar og bílageymsluhúsi og að auki þrem 14 hæða íbúðaturnum, muni efla hjarta bæjarins. Vörður hefur í fyrri ályktunum lýst yfir stuðningi við háhýsi í miðbænum og telur rétt að stefna að því að þétta byggð á miðbæjarsvæðinu. Félagið telur þessar hugmyndir mjög vænlegar og vel til þess fallnar að efla miðbæinn í samræmi við verkefnið Akureyri í öndvegi. Vill félagið ennfremur lýsa yfir ánægju með hversu margir tóku þátt í hugmyndasamkeppni samhliða fyrrnefndu verkefni en tæplega 140 tillögur bárust, víðsvegar að úr heiminum.

Ingibjörg Sólrún Gísladóttir borgarfulltrúi, tilkynnti formlega í dag um framboð sitt til formennsku Samfylkingarinnar og skilaði inn framboði til kjörstjórnar flokksins. Formannskjör í Samfylkingunni hefst formlega í næsta mánuði og kjörgengir eru allir flokksmenn. Kjörið fer fram í póstkosningu og verður tilkynnt um úrslit á landsfundi Samfylkingarinnar, sem verður haldinn 20. - 22. maí nk. Er þetta í annað skipti í sögu flokksins sem formannskjör fer fram í póstkosningu. Fyrsta skiptið var við stofnun flokksins árið 2000 þegar Össur Skarphéðinsson var kjörinn formaður og sigraði Tryggva Harðarson núverandi bæjarstjóra á Seyðisfirði. Kynnti Ingibjörg formlega um áherslur sínar í formannsslagnum og opnaði jafnframt kosningaskrifstofu og heimasíðu á netinu. Ljóst er að Ingibjörg leggur allt í slaginn og setur allt sitt undir. Er ljóst að stefna hennar er að leiða flokkinn í ríkisstjórn. Sagði hún reyndar í blaðaviðtali í janúarmánuði að það væri það sem eina sem flokkurinn ætti að stefna að: völd eða ekkert, voru hennar lykilorð þá. Hafa þau kjörorð annars alltaf fylgt henni. Þessi slagur er merkileg lífsreynsla fyrir Ingibjörgu, enda er þetta í fyrsta skipti sem hún þarf að heyja kosningabaráttu gegn pólitískum samherja sínum. Fer hún fram gegn Össuri, sitjandi formanni og pólitískum skoðanabróður og fjölskyldufélaga til fjölda ára. Verður fróðlegt að fylgjast með formannsslag svilanna.

Mjög athyglisvert var að heyra í gær af því að Evrópusambandið hefði í hyggju að stofna til jafnréttisstofu. Samkvæmt fréttatilkynningu ESB er ætlunin með henni að fylgjast með launamun kynjanna í aðildarlöndunum 25. Það er mat framkvæmdastjórnar ESB að launamunurinn sé stór þáttur í stöðnun efnahagslífsins, og stuðli að því jafnvel að konur eignist ekki börn. Mun það verða markmið væntanlegrar jafnréttisstofu að auka réttindi kvenna á vinnumarkaði almennt. Kemur fram að konur í ESB-löndunum fá að meðaltali 16% lægri laun en karlar í sömu vinnu. Það er ólíðandi á okkar tímum að kynin fái ekki sömu laun fyrir sambærileg störf. Ég hef kynnst því í störfum jafnréttis- og fjölskyldunefndar Akureyrarbæjar hversu mikilvægt er að horfa til framtíðar og vinna gegn þessum launamuni. Hef ég seinustu mánuði farið á margar ráðstefnur og kynnt mér stöðu málaflokksins. Það er gagnlegt að fræðast um jafnréttismálin. Sérstaklega vil ég færa Katrínu Björgu Ríkarðsdóttur jafnréttisráðgjafa bæjarins, miklar þakkir fyrir þær upplýsingar sem hún hefur tekið saman um þessi mál. Katrín hefur haldið vel á málum og verið mjög kraftmikil í sínu starfi og það er mjög gott að geta leitað til hennar með þær upplýsingar sem skipta máli.

Hefur verið mikið að gera hjá mér seinustu daga. Var langur fundur hjá mér á mánudagskvöldið og í gær var fundur seinnipartinn og svo tók við annar fundur í Kaupangi í gærkvöldi. Það er því ekki laust við að ég hafi verið nokkur þreyttur þegar loks var heim komið seint á ellefta tímanum í gærkvöldi. Ákvað ég að horfa á eina af mínum uppáhaldskvikmyndum. Kvikmyndin verður eilíf, ég tel það allavega. Þetta er það listform sem hefur sameinað kynslóðirnar í rúma öld og heillað þær, sagt sögur og mótað fólk verulega. Áhrifamáttur kvikmyndanna er gríðarlegur. Varla er hægt að vera annarrar skoðunar eftir að hafa séð ítölsku kvikmyndina Cinema Paradiso. Þetta heillandi meistaraverk hlaut óskarinn sem besta erlenda kvikmyndin árið 1989 og fær alla sem hana sjá til að njóta kvikmyndagerðalistarinnar og gerir okkur öll að ég tel betri og mannlegri - við gleymum okkur í hugarheimi kvikmyndanna meðan myndin stendur. Slíkur er kraftur hennar. Þessi mynd hefur alltaf heillað mig og tónlist meistara Ennio Morricone í myndinni er sérstaklega eftirminnileg, eins og öll hans verk. Uppúr stendur Love Theme sem er að mínu mati fallegasta kvikmyndastef 20. aldarinnar, hvorki meira né minna.
Segir frá frægum kvikmyndagerðarmanni sem snýr aftur til æskuslóða sinna á Sikiley eftir 30 ára fjarveru. Þar rifjast upp fyrir honum æskuárin og hvernig hann kynntist töfraheimi kvikmyndanna. Hann vingaðist í æsku við sýningarstjórann í bíóinu, Alfredo, og stelst í bíóið til að gleyma innri veikleikum og raunveruleika hins ytri heims. Hann tekur síðar við starfi þessa læriföður síns og fetar slóðina í átt að frægð með því að gerast kvikmyndagerðarmaður. Líf hans snýst því allt frá æskuárum um kvikmyndina, listformið og það að finna hinn rétta tón í að njóta kvikmyndarinnar, en það er viss list útaf fyrir sig. Giuseppe Tornatore skapar hér sannkallaðan gullmola, spinnur heillandi andrúmsloft og sprelllifandi persónur. Fylgst er með reisn og hnignun kvikmyndanna á hálfrar aldar tímabili, en sjónvarpið drap kvikmyndahúsið sem Salvatore naut í æsku. Þetta er mynd sem er unnin af næmleika og óblandinni lotningu fyrir listgreininni - hér er lífið svo sannarlega kvikmynd. Þú munt sjá lífið í öðru ljósi þegar myndinni lýkur. Ef þú ert ekki kvikmyndaunnandi fyrir verðurðu það að lokinni myndinni. Töfrar í sinni bestu mynd. Þessa verða allir sannir kvikmyndaunnendur að sjá!
Saga dagsins
1700 Góuþrælsveðrið - í þessu mikla aftakaveðri fórust alls 15 skip og með þeim alls 132 sjómenn
1950 Fyrstu tónleikar Sinfóníuhljómsveitar Íslands voru haldnir í Austurbæjarbíói í Reykjavík - þeim var stjórnað af Róbert Abraham Ottóssyni. 9. mars 1950 telst formlegur stofndagur hljómsveitarinnar
1961 Sr. Friðrik Friðriksson æskulýðsleiðtogi og stofnandi KFUM og KFUK, lést, 92 ára að aldri - hann var einn öflugasti kristniboðsleiðtogi landsins á 20. öld og stofnaði t.d. íþróttafélagið Val í Reykjavík
1973 Samþykkt í þjóðaratkvæðagreiðslu að N-Írland verði áfram partur af breska samveldinu - 57% kjósenda samþykktu tillöguna. Miklar deilur hafa alla tíð verið vegna stöðu mála og óeirðir allmiklar
1997 Flutningaskipið Dísarfell sökk um 100 sjómílur suðaustur af Hornafirði - skipverjar höfðust við í flotgöllum í tvær klukkustundir. Þyrla Landhelgisgæslunnar, TF-Líf, bjargaði 10 skipverjum en 2 létust
Snjallyrðið
Always vote for principle, though you may vote alone, and you may cherish the sweetest reflection that your vote is never lost.
John Quincy Adams forseti Bandaríkjanna (1767-1848)
Breytt 18.9.2006 kl. 08:02 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
8.3.2005 | 23:50
Engin fyrirsögn

Í gær fjallaði ég um þingumræðu um málefni Reykjavíkurflugvallar í Vatnsmýrinni. Það var athyglisvert að fylgjast með umræðunni og kynna sér skoðanir þingmanna almennt á málefnum vallarins. Ekki var verra að sjá meginlínurnar. Fyrir liggur að í öllum flokkum eru deildar meiningar um stöðu flugvallar í borginni og tekist á um hvort hann eigi að vera þar eða flytja eigi innanlandsflugið til Keflavíkur. Eins og margoft hefur komið fram af minni hálfu mun slíkur flutningur tákna endalok innanlandsflugsins með þeim hætti sem við þekkjum það. Að mínu mati er alveg út í hött að sætta sig við það að höfuðborg allra landsmanna, eins og hún hefur verið nefnd, færi þessa meginsamgöngulínu frá sér og í aðrar áttir. Með því er óhjákvæmilegt annað en að taka til endurskoðunar hlutverk höfuðborgarinnar. Það breytist í sjálfu sér ef samgöngulínan verður færð burt með þessum hætti. Það er alveg ljóst í mínum huga og hefur margoft komið fram af minni hálfu. Það var mjög gott hjá Halldóri Blöndal forseta Alþingis, að taka málið upp og fá um það umræðu. Fáir menn þekkja betur stöðu málsins og mikilvægi flugvallar á höfuðborgarsvæðinu en Halldór, sem samgönguráðherra landsins í 8 ár. Það var orðið tímabært að fá fram umræðu um stöðu málsins og fá fram grunnáherslur þingmanna til þess.
Ekki veitir af að taka stöðu málsins í umræðinu á þinginu og sjá með því í hvaða farvegi málið er og heyra skoðanir þingmanna. Eins og kom fram af minni hálfu í gær var fróðlegast að sjá einstrengingslegan og flóttalegan málflutning Helga Hjörvar varaborgarfulltrúa og alþingismanns. Lagði hann reyndar til þá absúrd tillögu að þeim 10 milljörðum króna, sem ríkið fengi fyrir að selja land sitt í Vatnsmýrinni undir byggingarland yrði varið til að styrkja byggð á landsbyggðinni. Sagði hann svona í hálfum hljóðum meðan hann stautaðist í gegnum blaðrið að þetta væri sett fram til að koma til móts við sjónarmið landsbyggðarinnar. Ekki tók ég þessum tillögum Helga alvarlega, leit frekar á þetta sem grín eða barnaskap. Það er einfalt af minni hálfu að afþakka þennan "rausnarskap" þingmanns Samfylkingarinnar og bendi honum á að hann getur átt þessa hugmynd einn. Vonandi kemur hún aldrei til framkvæmda. Það er þó líklegt að það gerðist ef hann kæmist í aðstöðu til á vettvangi landsmálanna. Hvað þá Ingibjörg Sólrún Gísladóttir borgarfulltrúi, sem þekkt er af skoðunum sínum í flugvallarmálinu, þó hún hafi nú lagst undir feld eins og jafnan fyrr og reynt að þaga eins mikið og hægt sé til að friða landsbyggðarmenn í flokknum sem styðja hana til áhrifa í flokki sínum. Það væri varla árangursvert hjá henni að flíka skoðunum sínum í þeim slag, ef hún á að bjarga sér úr pólitískri eyðimerkurgöngu sinni. Eins og fyrr segir gef ég lítið fyrir hugmynd Helga í þessum efnum og vona að hún verði hans einkablaður sem lengst. Standa á vörð um flugvöll í borginni, það er einfalt. Samgöngur landsbyggðar við höfuðborgarsvæði má ekki skerða, með þeim hætti sem sérvitrungar á borð við Helga halda fram að eigi að gera. Er ekki hægt annað fyrir landsbyggðarfólk en að hneykslast á Helga og sjónarmiðum hans í þessu máli.
Finnst mér undarlegt að útvarpsráð fari gegn áliti Boga Ágústssonar yfirmanns fréttasviðs. Hinsvegar kemur afstaða minnihluta útvarpsráðs mér enn meir á óvart. Einkum Samfylkingarinnar sem segist ekki taka þátt í pólitísku vafstri við ráðninguna. Samfylkingin tók sjálf þátt í pólitísku plotti árið 2002 til að reyna að koma í veg fyrir að Elín Hirst yrði fréttastjóri Ríkissjónvarpsins og stóð þar að meirihluta með Framsóknarflokki til að mæla með umsækjanda sem yfirmaður fréttasviðs mælti ekki með í stöðuna. Þannig var það nú. Fyrst reyndi þessi meirihluti að plögga Pál Benediktsson sem andstæðu við Elínu Hirst en enduðu svo á Sigríði Árnadóttur. En það er undarlegt að Samfylkingin mæli ekki með þeim umsækjanda sem þeir töldu þá hæfastan í stöðuna. Það er fáheyrt að útvarpsráðsmenn mæli ekki með umsækjenda í stöðu. Vinnuferlið er ekki nýtt. Samfylkingin er ekki nýtt afl í útvarpsráði. Samfylkingin hefur tekið þátt í svona ferli áður og stuðlað að pólitísku bandalagi í útvarpsráði gegn mati yfirmanns fréttasviðs. Þeir sem sitja í útvarpsráði hafa fullan rétt á tjáningu um það hvern þeir telja hæfastan og eiga að gera það. Það er rugl að sitja hjá eða benda ekki á þann hæfasta að mati ráðsins þegar kemur að þessu ferli. Samfylkingin er því ekki trúverðug í þessu máli og vinnubrögð hennar stórundarleg. Vel má vera að minnihlutinn sé ósáttur við val meirihlutans en þeim ber samt skylda til að tjá skoðun sína á því hver sé hæfastur umsækjenda og eigi að taka við stöðunni.

Eins og fram kom í skrifum mínum hér í síðasta mánuði hefur staða sænska jafnaðarmannaflokksins og pólitísk staða Göran Persson leiðtoga flokksins og forsætisráðherra landsins, veikst mjög að undanförnu. Fylgi ríkisstjórnarinnar, flokksins og persónuvinældir Persson hafa dalað nokkuð. Það var því honum mikið áhyggjuefni þegar fregnaðist að nærri 22% sænskra kjósenda gæti hugsað sér að kjósa flokk femínísta. Er jafnvel búist við því að Guðrún Schyman sem er þekkt kvenréttindakona í Svíþjóð stofni slíkan flokk sem færi fram í þingkosningum í landinu á næsta ári. Ef marka má hvert slíkur flokkur myndi sækja fylgi sitt einna helst blasir við að hann myndi taka mikið af Jafnaðarmannaflokknum og jafnaðarmenn verða fyrir miklu fylgistapi ofan á aðrar óvinsældir í könnunum. Það er því engin furða að Persson sé áhyggjufullur yfir stöðu mála og því hvað Schyman muni gera. Hún var fyrsta konan sem varð formaður flokks í Svíþjóð, vinstri flokksins, en hún sagði sig úr flokknum vegna þess að hann lagði ekki nægar áherslur á kvenréttindamál. Mun þessi flokkur berja skörð í helstu vinstriöflin í landinu og gæti því raskað valdahlutföllum og leitt til falls ríkisstjórnar Persson.

Tilkynnt var í dag að Bill Clinton fyrrum forseti Bandaríkjanna, þyrfti að gangast undir skurðaðgerð í vikunni. Er um að ræða frekar einfalda aðgerð sem felst í því að vökvi og örvefur verði fjarlægður úr brjósti hans. Er um að ræða staðlaða framhaldsaðgerð fyrir flesta þá sem gangast undir opna aðgerð á hjarta. Forsetinn mun þurfa að dvelja á spítala í 10 daga vegna aðgerðarinnar, en hyggst mæta til vinnu fljótlega að því loknu. Clinton gekkst undir flókna hjartaaðgerð þann 6. september 2004, skömmu eftir að hann var staddur í heimsókn hérlendis. Var um að ræða þrefalda hjáveituaðgerð sem þykir mjög flókin og erfið. Var hann fjarri sviðsljósinu í einn og hálfan mánuð. Hann birtist fyrst opinberlega undir lok október og tók þátt í kosningabaráttu John Kerry fyrir forsetakosningarnar í nóvember og fór með honum á nokkra framboðsfundi. Þótti forsetinn fyrrverandi vera slapplegur og magur, en óvenjubrattur eftir svo flókna aðgerð. Hann var svo viðstaddur opnun forsetabókasafns síns í Arkansas í nóvember og hefur seinustu vikurnar verið áberandi í forsvari söfnunar til styrktar fórnarlömbum hamfaranna í Asíu í desember sl., eins og ég sagði frá í gær hér á vefnum.

Eins og fram hefur komið í fréttum seinustu daga er skollið á mikið verðstríð í lágvöruverslunum landsins. Nær það til Bónus og Krónunnar. Er þar skipt ört um verð og rokkar það til og frá og verslanirnar eru fljótar að svara stöðu mála með því að lækka, hafi keppinauturinn hreyft við verðinu. Gott dæmi um ástandið í verðstríðinu er að mjólkurlítrinn er nú nánast gefinn. Þeir sem fara í lágvörubúðirnar geta keypt mjólkina allt frá 90 aurum upp í fjórar krónur. Það þarf vart að taka fram að um gjafverð er að ræða og hefur fólk verið duglegt að hamstra mjólkina. Annað gott dæmi er að 2 lítrar af kóki fæst í Bónus nú á 50 krónur, en verslanirnar hafa verið að takast á um verð á gosdrykkjum seinustu daga ennfremur. Heyrði ég hjá systur minni sem átti leið um Bónus hér á Akureyri seinnipartinn að þar hafi körfur verið upp til hópa stappaðar af mjólk og kóki og eflaust margir að versla gos fyrir fermingarveislurnar sem hefjast í næstu viku. Er merkilegt að heyra af þessu og sjá myndir af verslunarmátanum. En ætli mig gruni ekki að verðið á öðru muni hækka í staðinn. Neytendur þurfa að borga mismuninn að lokum, eða það blasir við. Varla gefa verslanirnar og eigendur þeirra meira en þær þurfa.

Óskarsverðlaunaleikkonan Teresa Wright lést á sunnudag, 86 ára að aldri, á sjúkrahúsi í New Haven í Connecticut. Hún hóf ung leikferil sinn sem sviðsleikkona í heimafylki sínu. Hennar fyrsta hlutverk í kvikmynd var í The Little Foxes árið 1941. Hún varð fræg um allan heim ári síðar, 1942, með túlkun sinni á Carol Beldon Miniver í Mrs. Miniver. Hún hlaut óskarsverðlaun sem leikkona í aukahlutverki fyrir góða frammistöðu í þeirri mynd. Með því var framtíð hennar ráðin. Á árunum í kjölfarið lék hún í meistaraverkum á borð við Shadow of a Doubt, The Best Years of Our Lives, The Trouble with Women og The Actress. Hún varð minna áberandi í leiklistinni á árunum eftir 1960 og dró sig nokkurnveginn í hlé. Hún hélt þó áfram að leika í mynd stöku sinnum. Lék hún langt fram á efri ár. Síðasta kvikmyndahlutverk hennar var í kvikmyndinni The Rainmaker árið 1997, þar sem hún fór á kostum í hlutverki Miss Birdie. Hún kom síðast fram opinberlega á óskarsverðlaunahátíðinni árið 2003 þegar óskarsverðlaunahafar fyrri ára voru heiðraðir. Teresa var eins og fyrr segir glæsileg leikkona. Með henni er fallin í valinn ein af þeim leikkonum sem settu mestan svip á gullaldarsögu Hollywood á fyrri hluta 20. aldar.
Saga dagsins
1700 Tugir fiskibáta fórust í gríðarlegu stormviðri við Reykjanesskaga - alls 136 manns drukknuðu
1843 Alþingi Íslendinga var formlega endurreist með tilskipun konungs - kom saman 1. júlí 1845
1868 Jón Thoroddsen sýslumaður og skáld lést, 49 ára að aldri - hann varð þekktur fyrir skáldsögur og kvæði. Jón ritaði fyrstu skáldsögu Íslendinga, Piltur og stúlka, sem þykir meistaraverk enn í dag
1975 Kvikmyndaleikstjórinn George Stevens lést, sjötugur að aldri - Stevens var einn af svipmestu kvikmyndaleikstjórum 20. aldarinnar í Bandaríkjunum og gerði margar af eftirminnilegustu myndum gullaldarsögu Hollywood. Stevens hlaut óskarsverðlaun fyrir leikstjórn sína í kvikmyndinni Giant 1956
1983 Ronald Reagan forseti Bandaríkjanna, kallar Sovétríkin veldi hins illa í víðfrægri ræðu í Flórída
Snjallyrðið
Music is the art which is most nigh to tears and memory.
Oscar Wilde rithöfundur (1854-1900)
Breytt 18.9.2006 kl. 08:02 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
7.3.2005 | 23:25
Engin fyrirsögn

Í sunnudagspistli mínum í gær fjallaði ég um stöðu og málefni Ríkisútvarpsins í ljósi umfjöllunar Morgunblaðsins. Þar kom margt mjög athyglisvert fram. Í skrifum mínum í gær ítrekaði ég skoðanir mínar og ennfremur mikilvægi þess að stokka stöðu mála þar upp. Kallaði ég eftir því að menn tækju á stöðu mála og kynnt væri hvað eigi að gera með málin þar. Fá hlutina á hreint. Til fjölda ára hefur verið reynt innan stjórnarflokkanna að landa þessu máli og knýja í gegn þær breytingar sem allir sjá að gera þarf. Eins og staðan er nú orðin sjá allir að þessar breytingar verða að eiga sér stað á næstu árum, það verður ekki umflúið. Í dag var loks tilkynnt um meginefni væntanlegs frumvarps sem Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir menntamálaráðherra, mun leggja fram til breytinga á útvarpslögum, og samstaða hefur náðst um í ríkisstjórn. Er þar gert ráð fyrir þeim breytingum sem eigi að gera. Hverjar eru þær breytingar, spyrja margir sig. Jú, rétt er að fara yfir það helsta í nokkrum orðum. Fyrsta breytingin, og ein sú helsta sem kynnt er, gerir ráð fyrir að Ríkisútvarpinu verði breytt í sameignarfélag. Þannig getur Ríkisútvarpið að mörgu leyti starfað sem hlutafélag, en fer samt ekki algjörlega inn á þá braut. Þessi staða mála er þó skýrt merki þess að ekki standi til að einkavæða Ríkisútvarpið, sem mér þykja mjög slæm tíðindi.
Eins og kom fram í dagblaðsviðtali við menntamálaráðherra í síðasta mánuði verða afnotagjöldin lögð niður. Mun það væntanlega gerast á árinu 2008 endanlega. Í stað þess verður tekinn upp nefskattur á alla einstaklinga, eldri en 18 ára. Viðkomandi nefskattur á hvern landsmann gæti numið 10.000 krónum. Til sögunnar myndi koma rekstrarstjórn í stað pólitísks útvarpsráðs. Markmiðið með breytingunum er að gera slíka rekstrarstjórn ábyrga fyrir stefnumótun fyrirtækisins og ekki síður fjárreiðum þess. Mun samkvæmt tillögunum verða bundinn endi á það að slík rekstrarstjórn vinni í dagskrármálum beint og ráðningu starfsmanna eins og nú er gert. Seinustu tvo áratugi, eða frá setningu útvarpslaga 1985 sem breyttu landslagi ljósvakamiðla, hefur útvarpsráð haft það hlutverk að fara yfir umsóknir í stöður hjá fyrirtækinu og hefur yfir dagskrármálum að segja. Sú skipan mála mun loks heyra sögunni til. Mín viðbrögð á þessar tillögur eru þær að ég harma að menn stígi ekki skrefið til fulls og geri Ríkisútvarpið að hlutafélagi. Þessar tillögur eru hænufet í átt að þeim grunnbreytingum sem ég tel rökréttastar. Er slæmt að ekki hafi náðst samstaða um að ganga lengra. Uppstokkun mála hvað varðar útvarpsráð er sjálfsögð og eðlileg og ætti að hafa náðst í gegn fyrir lifandis löngu. Ekki líst mér á hugmyndir um nefskatt. Það er döpur útkoma og ekki spennandi, að neinu leyti. Í mínum huga verða tillögurnar að ganga lengra. Það sem nú liggur fyrir ber allan brag málamiðlana ólíkra stefna og skoðana. Það er því ljóst að ég vil taka meira af skarið og ganga lengra. Það er nauðsynlegt eigi að taka málin verulega fyrir og vinna það af krafti. Það sem hér blasir við er ekki grundvöllur þeirra breytinga sem ég tala fyrir, nema að mjög takmörkuðu leyti.

Í upphafi landsþingsins mætti formaður flokksins, kvótakerfisandstæðingur allra tíma, sjálfur Guðjón Arnar Kristjánsson, og flutti langa ræðu. Það sem helst stóð eftir hana var að hann lofaði 20 göngum á landinu. Ekki sagði hann þó neitt um hvar þau ættu að vera né það sem meira skipti hvernig ætti að fjármagna þau. Að hlusta á Guðjón tala um þessi mál var eins og að lesa góða skáldsögu og átta sig svo á að seinasta kaflann vantaði. Það vantaði lausnirnar og hvernig hnýta ætti málið saman. Kostulegt alveg, en einhverjir munu hafa gleypt við þessu. En eftir stendur að það vantar lausnir á góða hugmynd. En já Frjálslyndi flokkurinn sem svo er nefndur er vinstriflokkur. Það er engin furða að fólk líti svo á. Allar helstu vinstriáherslur sögunnar eru komnar saman í velferðarmálakaflana og svo stendur flokkurinn á móti einkavæðingu og mikilvægum hægriáherslum í efnahagsmálum. Hann er meira að segja á móti hlutafélagavæðingu RÚV. En það er vart skrítið með formann hollvina RÚV í forystusveit. Það er sláandi að lesa stefnu flokksins í mörgum lykilmálaflokkum og skynja á hvaða kúrs hann er á siglingunni. Hann fer sífellt meir til vinstri. Það er ekki að undra að helstu hægrimenn flokksins séu nokkuð teknir að ókyrrast og hugleiða hvort þessi fleyta haldi vatni og vindum og sé traustverðug til lengdar á pólitískri vegferð. Guðjón Arnar gat enda ekki sannfært stjórnanda Kastljóss í gær um að hann væri málsvari hægrisinnaðs stjórnmálaafls. Það er engin furða, enda er þetta vinstriflokkur, þvert á það sem stefnt var að við stofnun.

Í dag fór fram á Alþingi utandagskrárumræða um málefni Reykjavíkurflugvallar. Halldór Blöndal forseti Alþingis og fyrrum samgönguráðherra, var málshefjandi. Sagðist Halldór í upphafi ræðu sinnar hafa séð í Morgunblaðinu um helgina að gert hafi verið samkomulag af borgarstjóra og samgönguráðherra um að í samgönguáætlun næstu ára verði tillaga um að samgönguyfirvöld loki norðaustur-suðvestur flugbrautinni á vellinum á þessu ári. Vildi hann heyra mat ráðherra á þessu og hvort hægt væri að reka völlinn með einni braut. Í svari sínu sagði Sturla Böðvarsson samgönguráðherra, að hann ætti mjög erfitt að sjá það fyrir að hægt sé að reka völlinn með einni braut, eins og borgarstjóri hefur t.d. ljáð máls á. Var fróðlegt að heyra umræður á þingi um málefni flugvallarins og skoðanir þingmanna. Flestir þingmenn studdu flugvöll í Vatnsmýrinni. Annars má sjá skýr skil á afstöðu höfuðborgarþingmanna og þeirra sem eru á landsbyggðinni. Það blasir alveg við og línurnar eru vel skýrar.
Einna harðast gegn vellinum talaði Helgi Hjörvar varaborgarfulltrúi og fyrrum forseti borgarstjórnar. Eins og allir vita er R-listinn mjög samhentur að mestu gegn vellinum, en framsóknarmenn þar hafa þó lengi haldið einhverjum röddum uppi með vellinum á þeim vettvangi. Greinilegt er á orðum Helga og ennfremur borgarstjóra hver afstaða Samfylkingarinnar í Reykjavík er. Annars hefur vakið mikla athygli að Ingibjörg Sólrún Gísladóttir borgarfulltrúi og verðandi alþingismaður, hefur þagað eins og mest hún getur um þessi mál. Það er svosem engin furða, því það yrði henni varla styrkur í formannskjöri Samfylkingarinnar og baráttu sinni þar fyrir æðsta sessi flokksins að opinbera störf sín að málefnum vallarins í borgarstjóratíð sinni og skoðanir um hann almennt. Það væri ráð fyrir einhverja að reyna að draga Ingibjörgu úr holu sinni í þessu máli og fá fram afstöðu hennar. En umræðan á þingi var góð og Halldór á hrós skilið fyrir að draga enn betur fram með henni skoðanir þingmanna á málinu öllu. Munurinn þeirra á milli á stöðu málsins kom vel í ljós í dag.

Sæmundur Pálsson hitti í dag skákmeistarann Bobby Fischer í fyrsta skipti í 33 ár. Segja má að fagnarfundir hafi orðið milli þeirra. Ef marka má fréttir af fundi þeirra og viðtal við Sæmund hefur Fischer látið mikið á sjá í varðhaldinu og hvorki látið klippa sig né raka til að mótmæla því að honum sé haldið í varðhaldi í Japan. Mun Sæmundur vart hafa þekkt Fischer, en þeir kynntust vel þegar Fischer kom hingað árið 1972 og Fischer var lífvörður hans og aðstoðarmaður hérlendis. Fleiri þáttaskil urðu í málinu í dag en Masako Suzuki lögmaður Fischers, fékk í dag formlega afhent íslenskt útlendingsvegabréf Fischers. Eins og fram hefur komið að ef rétt er að Fischer hafi verið handtekinn því hann hafi verið vegabréfalaus er ljóst að hann mun brátt verða frjáls ferða sinna, enda hlotið nú skilríki. Verður fróðlegt að fylgjast með næstu skrefum málsins og hvað gerist á morgun þegar lögmaðurinn fer með vegabréfið til yfirvalda. Fái Fischer að yfirgefa Japan er ljóst að honum er frjálst að halda til Íslands. Mun þá væntanlega reyna á það hvort Fischer ætli að setjast hér að eða ætli sér að dvelja annarsstaðar. Þá og ekki fyrr á að reyna á hver næstu skref af hálfu íslenskra yfirvalda verði.

Eins og ég sagði frá í síðasta mánuði ferðuðust George H. W. Bush og Bill Clinton fyrrum forsetar Bandaríkjanna, saman um flóðasvæðin í Asíu og kynntu sér stöðu mála þar. Eru þeir báðir verndarar alheimssöfnunar til styrktar fórnarlömbum flóðanna og sýndu forystu sína í málinu með því að fara um svæðin. Þótti mér mjög merkilegt að sjá í dag frétt á erlendum fréttavef um ferð þeirra. Lengi hafa gengið sögur um að kalt hafi verið milli forsetanna fyrrverandi. Eins og flestum er kunnugt felldi Clinton, Bush eldri, af forsetastóli í kosningunum 1992. Í seinni tíð hafa samskipti þeirra batnað og þeir ræðast við þegar þeir hittast. Þótti mér mjög merkilegt að sjá að á ferð sinni um helstu svæðin hafi aðeins verið eitt rúm og muni Clinton hafa gefið það eftir til Bush, sem er mun eldri. Clinton hafi því sofið á gólfinu fyrir Bush eldri. Þetta fannst mér mjög merkilegt að lesa um. Sýnir þetta eflaust betur en margt annað að samskiptin milli þeirra hafa skánað. Í fréttinni er skemmtileg frásögn af þessu atviki, höfð eftir úr viðtali við Bush í erlendu tímariti. Bendi ég fólki á að lesa þessa umfjöllun. Sést af þessu að jafnvel harkalegir pólitískir andstæðingar geta grafið stríðsöxina, unnið saman og sofið á gólfinu jafnvel til að búa í haginn fyrir hinn. :)

Um daginn heyrði ég skondna sögu frá vini mínum. Þannig var að fyrir nokkrum vikum var haldið þorrablót Íslendinga í London. Aðalræðumaður þar mun hafa verið samsæriskenningasmiðurinn Þráinn Bertelsson leikstjóri, sem er eins og flestir vita á heiðurslistamannalaunum ríkisins, þá væntanlega fyrir kvikmyndir sínar. Honum mun hafa mælst svo illa við það tækifæri að hann hélt ekki athygli matargesta og mun hafa haft á orði oftar en einu sinni að hann væri hissa á því, að hann hefði verið beðinn um að tala þarna úr því að allir aðrir viðstaddir virtust vilja tala á sama tíma! Við svo búið mun einn viðstaddra hafa látið í ljósi hug sinn til hans með því að taka hljóðnema hans úr sambandi. Fannst mér þessi saga skondin en um leið og ég heyrði hana varð mér hugsað til þess þegar viðkomandi maður kom hingað til Akureyrar fyrir jólin og las upp úr lönguvitleysu sinni og mæltist svo illa að hann fékk ekki athygli þeirra sem voru viðstaddir á staðnum. Lauk því með því að það gall í einum manni sem var að skoða bókina: hver er annars þessi Þráinn Bertelsson?
Saga dagsins
1902 Sögufélagið var stofnað - lykilmarkmið félagsins allt frá upphafi var að vinna að því að gefa út ítarlegt og nákvæmt heimildarrit um sögu íslensku þjóðarinnar, allt frá miðöldum til nútímasögunnar
1922 Ríkisstjórn undir forsæti Sigurðar Eggerz tók við völdum - stjórnin sat við völd í rúmlega tvö ár
1946 Leikkonan Joan Crawford hlaut óskarinn fyrir leik sinn í kvikmyndinni Mildred Pierce - hún var ein af svipmestu leikkonum gullaldarsögunnar í Hollywood og var mjög vinsæl fyrir táknræna túlkun á sterkum kvenpersónum. Hún lést árið 1977. Mikið var deilt um einkalíf leikkonunnar eftir að dóttir hennar, Christina Crawford, gaf út bók um ævi sína og lýsti móður sinni sem skapmikilli og bráðri og hefði beitt sig andlegu ofbeldi til fjölda ára. Sú saga var færð í kvikmyndabúning í myndinni Mommie Dearest árið 1981. Í myndinni fór leikkonan Faye Dunaway algjörlega á kostum í hlutverki hinnar goðsagnakenndu leikkonu og túlkaði skapgerðarbresti hennar og sjálfsdýrkun með snilldarhætti
1981 Dægurlagið Af litlum neista, með Pálma Gunnarssyni, sigrar í fyrstu söngvakeppni Sjónvarpsins
1996 Tímaritið Séð og heyrt hóf göngu sína - blaðið var allt frá stofnun umdeilt en vinsælt slúðurrit
Snjallyrðið
Humor is mankind's greatest blessing.
Mark Twain rithöfundur (1835-1910)
Breytt 18.9.2006 kl. 08:02 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
6.3.2005 | 18:42
Engin fyrirsögn

Í sunnudagspistli í dag fjalla ég um þrjú fréttamál vikunnar:
- í fyrsta lagi fjalla ég um málefni Ríkisútvarpsins í kjölfar athyglisverðrar umfjöllunar Morgunblaðsins um stöðu RÚV. Sú úttekt sannar svo ekki verður um villst að Ríkisútvarpið er á algjörum villigötum og taka verður rekstur þess til algjörrar endurskoðunar. Það hefur verið vitað til fjölda ára að rekstur Ríkisútvarpsins er glórulaus með öllu og að rekstrarform fyrirtækisins getur ekki gengið til lengdar. Þetta var endanlega staðfest að mínu mati í ítarlegri umfjöllun Morgunblaðsins, sem birt er í blaðinu í dag. Þar koma fram sláandi tölur og merkileg umfjöllun sem ég hvet alla til að kynna sér. Í stuttu máli sagt kemur þar fram að Ríkisútvarpið var síðast rekið með tekjuafgangi á árinu 1997 en frá því ári hafi samanlagður taprekstur verið þar og nemi ríflega 1400 milljónum króna. Í umfjöllun blaðsins kemur ennfremur fram að á undanförnum áratug, eða frá árinu 1995, hafi eigið fé stofnunarinnar farið úr 2,5 milljörðum króna niður í núllið, semsagt nánast ekki neitt. Sláandi alveg og því nauðsynlegt að fara vel yfir þetta dæmi í pistlinum í dag.
- í öðru lagi fjalla ég um samgöngumál. Að mestu leyti er þar beint sjónum að flugvellinum í Vatnsmýrinni. Fagna ég niðurstöðum starfshóps samgönguráðherra um samgöngumiðstöð á Vatnsmýrarsvæði í Reykjavík, sem skilaði tillögum í vikunni. Gera þær tillögur ráð fyrir að slík bygging muni rísa og er gert ráð fyrir að hún þjóni bæði flugi og langferðabifreiðum með góðum tengingum við almenningssamgöngukerfi höfuðborgarsvæðisins. Fagna ég þessu mjög, enda styrkir þessi niðurstaða mála undirstöður flugvallar í Vatnsmýrinni. Er um að ræða góð tíðindi fyrir okkur á landsbyggðinni. Ennfremur vík ég að fundi sem við sjálfstæðismenn áttum hér á Akureyri með samgönguráðherra á fimmtudag. Var þar góð og gagnleg umræða, t.d. um hálendisveg milli Akureyrar og Reykjavíkur. Fékk ráðherrann gott veganesti eftir fundinn, enda kom vel fram á fundinum afstaða fólks til þess framfaramáls í samgöngumálum.
- í þriðja lagi fjalla ég um góða stöðu mála hér á Akureyri. Vík ég að skipan sérstakra umboðsmanna Akureyrar sem er ætlað til að vekja athygli á því góða fólki sem sé eða hafi verið búsett í bænum og ekki síður að fagna miklum uppgangi í sveitarfélaginu á síðasta ári. Bæjarbúum fjölgar, sl. tvo mánuði hefur þeim fjölgað á annað hundrað manns, sem er mikið gleðiefni. Aldrei hefur verið hafist handa við fleiri byggingar í bænum á einu ári og var í fyrra og við bætist að fasteignaverð í bænum hefur hækkað nokkuð að undanförnu. Minnist ég einnig á góða niðurstöðu í hugmyndasamkeppninni í kjölfar íbúaþingsins og fleiri atriði. Allt gott að frétta héðan að norðan.

Í gestapistli á vef mínum fjallar Kristján Þór Júlíusson bæjarstjóri, um tengsl höfuðborgarsvæðisins og landsbyggðarinnar. Ítrekar hann mikilvægi þess að landsmenn allir eigi sem greiðastar samgöngur sín á milli. Ennfremur að góð sameiginleg sýn sé til þess hvernig menn vilja byggja landið og vilji haga samgöngum almennt. Er víkur að umræðunni um flugvöllinn í Vatnsmýrinni segir Kristján Þór: "Meðan Reykjavík er höfuðborg Íslands, miðstöð stjórnsýslu landsins, máttarstoð og miðstöð menningar, viðskiptalífs og samganga í landinu þá er m.a. sátt um það að ríkissjóður, hinn sameiginlegi sjóður allra landsmanna, hafi verið og sé nýttur til þess að kosta aðstöðu innanlandsflugsins í Reykjavík - að þessu leytinu til er höfuðborgin einnig annarra en Reykvíkinga." Síðar segir Kristján svo: "Niðurstaða mín er sú að ef þessi samgöngumiðstöð leggst af, þar sem hún er nú, þá sé nauðsynlegt að skilgreina að nýju verkefni og þjónustuhlutverk höfuðborgar Íslendinga. Að "skilgreina að nýju" er þó tæpast rétt að orði komist þar sem þetta verkefni hefur raunar aldrei verið unnið með skipulögðum hætti heldur hefur stjórnsýsla ríkisins fengið að þróast óheft í Reykjavík á forsendum kunningjasamfélagsins innan borgarmúranna.". Bendi gestum vefsins á að líta á pistil Kristjáns Þórs og kynna sér sjónarmið hans í þessum málum.

Eins og fram kom nýlega í blöðum mun Össur Skarphéðinsson hafa verið skammaður á einhverjum stöðum, á spjallvefum og bloggsíðum, fyrir að hafa breytt texta á heimasíðu sinni og eytt þar færslum ennfremur. Mun vera um að ræða skrif hans um brotthvarf Bryndísar af þingi og ráðningu á Bifröst og innáskiptingu ISG. Fór hann yfir stöðu mála á Bifröst eins og þar væri hver Samfylkingarmaðurinn af öðrum kominn og mátti lesa á milli línanna að ISG hefði verið "reddað" með innanflokkstilfærslum hjá stuðningsmannasveit sinni. Pistlinum var breytt og parturinn um Samfylkingarfólkið á Bifröst hvarf. Hinsvegar mun vera um að ræða hugmyndir svokallaðrar framtíðarnefndar undir forystu ISG í skólamálum. Össuri mun hafa orðið það á að hnýta í tillögur nefndarinnar og sagt þau feilskot í stefnumörkun. Pistillinn hafði verið settur inn eftir miðnætti en verið horfinn í býtið. Ekki skil ég í fólki að skammast þetta út í Össur blessaðan þó hann finni sína leið til tjáningar. Hann skrifar um málin á eigið vefsetur og er þarafleiðandi ritstjóri og ábyrgðarmaður þess sem þar fer fram. Það hlýtur að vera hans mál en ekki annarra hvað hann skrifar og vill segja með skrifum sínum. Skil ekki þetta fjaðrafok í þessu máli.

Ekki hefur mikið breyst í málum skákmeistarans Bobby Fischer seinustu daga. Hefur staðan frekar orðið dökkari ef eitthvað er. Fischer er í einangrun í fangelsinu og vinurinn sem hann hefur ekki séð í rúma þrjá áratugi og ferðaðist um hálfan hnöttinn til að líta hann augum fær ekki að sjá hann. För félaganna til Japans virðist hafa haft þau áhrif að Fischer fær hvorki að hitta nokkurn né tala við þá sem hann vill. Hann er í algjörri einangrun. Ekki bætir svo úr skák fyrir honum að fram hefur komið að bandarísk skattayfirvöld undirbúi málssókn á hendur honum vegna skattsvika. Greinilegt er að Bandaríkjamenn eru að verða leiðir á biðinni og grípi til þessara aðgerða til að fá hann framseldan til Bandaríkjanna. Hefur þetta leitt til þess að sendinefndin hefur sent beiðni til utanríkisráðuneytisins um að þeir beiti sér frekar eða þingið samþykki með flýtimeðferð ríkisborgararétt fyrir Fischer. Virðist það vera orðið það eina sem geti bjargað honum. Annars virðist málið vera í hörðum hnút og fátt gott framundan fyrir skákmeistarann. Eins og ég hef oft sagt er ég andvígur því að Fischer fái ríkisborgararétt og tel að ef dvalarleyfið dugi ekki verði við svo að búa.

Fróðlegt var að fylgjast með sunnudagsspjallþáttunum. Var merkilegt að sjá þau Dagnýju liðsmann og Eirík Bergmann í Sunnudagsþættinum á Skjá einum. Var á við marga brandara að sjá Dagnýju reyna að útskýra stórundarlega ESB-ályktun flokksþings Framsóknarflokksins. Eins og ég hef sagt var ályktunin hvorki fugl né fiskur og því ekki undarlegt að útskýringarnar verði eftir því. Var þetta enn ein öfugmælavísan sem berst úr framsóknarkotinu þessa dagana á stöðu mála þar. Alltaf lífleg og góð umræða í Sunnudagsþættinum. Hjá Agli bar hæst umræða um málefni Frjálslynda flokksins sem hafði landsþing sitt um helgina. Vinstrihliðin á þeim flokki varð sífellt greinilegri um helgina. Komu þeir Gunnar Örlygsson og Sigurður Ingi Jónsson til að ræða stöðu mála í þessum flokki. Fróðleg umræða, reyndar var skondnast að heyra af því að fréttamaðurinn fyrrverandi Magnús Þór Hafsteinsson sem endurkjörinn var varaformaður þessa ultra vinstriskotna smáflokks hafi neitað að láta sjá sig fyrst Sigurður Ingi væri þarna. Það er greinilegt að sumir treysta sér ekki í málefnalegar umræður við flokksfélaga sína.
Saga dagsins
1830 Eldgos hófst í sjó nærri Eldeyjarboða, skammt út af Reykjanesi, og stóð það í rúma 2 mánuði
1873 Ofsaveður gerði við suðausturströnd landsins og talið að 15 franskar fiskiskútur hafi þá farist
1905 Coot, fyrsti togari í eigu Íslendinga, kom til Hafnarfjarðar - togarinn var keyptur frá Skotlandi
1983 CDU (kristilegir demókratar) vinna sigur í þýsku þingkosningunum - Helmut Kohl sat áfram á kanslarastólnum, en hann hafði tekið við embættinu ári áður - Kohl var kanslari samfellt í 16 ár, eða allt til ársins 1998, er flokkurinn beið þá ósigur í þingkosningum. Kohl sat lengst í embættinu á 20. öld
1998 Frost mældist -34,7°C í Mývatnssveit - það var mesta frost sem hafði mælst hérlendis í 80 ár
Snjallyrðið
To wear your heart on your sleeve isn't a very good plan; you should wear it inside, where it functions best.
Margaret Thatcher forsætisráðherra Bretlands (1925)
Breytt 18.9.2006 kl. 08:02 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
5.3.2005 | 20:24
Engin fyrirsögn

Kosningabaráttan fyrir komandi þingkosningar í Bretlandi er hafin af fullum krafti, þó enn hafi ekki enn formlega verið boðað til kosninganna. Bendir þó flest til þess að þær muni fara fram þann 5. maí nk. Fyrir tæpum mánuði kynnti Tony Blair forsætisráðherra Bretlands og leiðtogi Verkamannaflokksins, kosningastefnuskrá flokksins og helstu atriðin sem flokkurinn mun leggja áherslu á í komandi kosningum. Var það fyrsta afdráttarlausa merki þess að kosningarnar fari fram á þessu ári. Kjörtímabilinu lýkur ekki fyrr en í maíbyrjun 2006, en flest bendir til að Blair muni boða til kosninga mun fyrr. Við upphaf flokksþingsins blasti merkilegt pólitískt landslag við forsætisráðherranum eftir mikil átök um forystu hans, innan flokks sem utan mánuðina á undan. Er óhætt að fullyrða að hann hafi aldrei verið veikari á ferli sínum.
Breski Íhaldsflokkurinn hefur þegar kynnt helstu kosningamál sín og stefnuskrá og hefur hafið markvissa kosningabaráttu nú þegar. Michael Howard hefur verið leiðtogi flokksins frá því að forvera hans, Iain Duncan Smith, var steypt af stóli í vantraustskjöri innan flokksins í októberlok 2003. Howard var einn í kjöri til embættisins og skapaðist samstaða um hann. Howard er mjög reyndur stjórnmálamaður. Hann hefur setið á breska þinginu frá 1983. Howard varð ráðherra í ríkisstjórn eftir valdauppstokkunina eftir brotthvarf Margaret Thatcher árið 1990. Sat Howard í stjórn John Major allan forsætisráðherraferil hans. Hann var atvinnumálaráðherra 1990-1992, umhverfisráðherra 1992-1993 og innanríkisráðherra 1993-1997. Eftir ósigur flokksins í kosningunum 1997 gaf Howard kost á sér í leiðtogakjöri flokksins er Major ákvað að hætta sem leiðtogi hans. Hann tapaði fyrir William Hague í kjörinu og varð minna áberandi í forystunni. Hann varð svo eins og fyrr segir loks afgerandi leiðtogi hans árið 2003 eftir mikil ógæfuár þar á undan í sögu flokksins.
Ef marka má skoðanakannanir hefur Verkamannaflokkurinn meira fylgi en Íhaldsflokkurinn. Seinustu vikur hefur bilið þó minnkað mjög og að óbreyttu stefnir í spennandi kosningar. Það hefur aldrei gerst í sögu Verkamannaflokksins að hann sitji við völd lengur en tvö kjörtímabil. Aðeins Margaret Thatcher hefur tekist að leiða breskan stjórnmálaflokk í gegnum þrennar kosningar í röð og sigra þær allar. Það er því ljóst að Blair stefnir að því að jafna met Thatcher og sækist eftir að ná að komast nálægt meti hennar sem þaulsætnasta forsætisráðherra landsins í seinni tíma stjórnmálasögu. Blair stendur eins og fyrr segir á krossgötum á ferli sínum. Aldrei hefur óánægja verið meiri með stjórn hans á landinu og flokknum en núna. Harkaleg valdabarátta stendur milli Blair og Gordon Brown bakvið tjöldin og óánægjan kraumar undir niðri. Er þar um að kenna að því er fjölmiðlar fullyrða svik þess fyrrnefnda á samkomulagi þeirra fyrir áratug um að hann drægi sig í hlé til að hleypa Brown í forsætisráðuneytið. Lengi hefur orðrómur verið á kreiki um að Brown hafi ekki gefið kost á sér í leiðtogakjöri Verkamannaflokksins 1994 en stutt Blair, vegna þess að þeir hefðu samið um að Blair yrði leiðtogi flokksins en myndi víkja úr stólnum fyrir Brown þegar hann hefði setið í 7-8 ár.
Eins og allir vita eru nú liðin 8 ár síðan Blair tók við völdum og Brown er orðinn langeygður í biðinni eftir stólnum og hefur viljað seinasta árið að valdaskiptunum kæmi, sem hefði verið lofað samkvæmt þessu. Var málið farið að skaða flokkinn, og sömdu þeir frið fyrir aukaþing flokksins í febrúar til að halda andlitinu út í frá og auka sigurlíkur flokksins. Munu þeir orðið vart talast við nema í gegnum talsmenn sína og starfsmenn í ráðuneytum. Er þeim þó báðum ljóst að slíðri þeir ekki sverðin muni flokkurinn eiga minni líkur á endurkjöri í kosningunum. Þeir séu því sammála um það að stuðla að endurkjöri flokksins en flokkspólitískir andstæðingar nái ekki að notfæra sér sundrungu milli þeirra og jafnvel vinna því kosningarnar. Það er einmitt þetta sem breskir stjórnmálaspekúlantar spá að sé líklegasta ástæða þess að Verkamannaflokkurinn gæti tapað: óeiningin verði þeim fjötur um fót. Ef marka má kannanir er staðan tvísýn og gæti því orðið naumt á mununum. Verður fróðlegt að sjá hvað muni gerast á næstunni í þessu máli, en það er ljóst að kosningar eru handan við hornið að flestra mati. Kjördagurinn verður eins og fyrr segir sennilega 5. maí, dagsetning sem er vart valin af tilviljun (05-05-05).
Enn einu sinni kom að úrslitastund í Idol-stjörnuleit í gærkvöldi. Þá voru þrír söngvarar eftir í keppninni: Hildur Vala, Davíð Smári og Heiða. Í gærkvöldi var þemað: Eighties, og því teknir nokkrir af ódauðlegustu smellum níunda áratugarins. Eighties-tímabilið í tónlist er ógleymanlegt og í huganum er það einna eftirminnilegast af seinustu áratugunum. Fötin eru vissulega út í hött frá þessu tímabili hreinlega en tónlistin lifir af krafti. Ógleymanleg lög, svo ekki sé nú meira sagt. Keppnin í gærkvöldi var óvenjujöfn og erfitt að láta einn fara, enda þau bestu í keppninni nú bara eftir þarna. Svo fór að Davíð Smári var sendur heim. Hann söng lögin Take on Me og Easy. Davíð fór illa að ráði sínu með vali á fyrra laginu en glansaði í hinu seinna. Hápunktur hans í keppninni er þó hiklaust flutningur hans á laginu Lítill drengur í Keflavíkurþemanu í byrjun febrúar. Davíð Smári stóð sig vel í keppninni og er að mörgu leyti stærsti sigurvegari hennar, enda hefði fáum órað fyrir í upphafi að hann næði svona langt. Í úrslitaþættinum í næstu viku munu því keppa þær Hildur Vala og Heiða. Eins og ég hef áður sagt ber Hildur Vala höfuð og herðar yfir allt í þessari keppni þetta árið og enginn vafi í mínum huga að hún er hinn eini sanni sigurvegari hennar. Í gærkvöldi fór hún á kostum með flutningi sínum á lögunum Heart of Glass og Careless Whisper.

Í gær birtist ítarlegur pistill minn á vef Heimdallar um þá umræðu sem verið hefur í kjölfar flokksþings Framsóknarflokksins, vegna stefnu hans og stöðu almennt í stjórnmálum. Ályktun flokksins um ESB varð hvorki fugl né fiskur, þrátt fyrir öfugmælavísu formanns hans að um tímamót væri að ræða. Ég fer yfir stöðu mála eftir flokksþingið og veika stöðu Framsóknar almennt. Merkilegt var að sjá svo í vikunni Siv Friðleifsdóttur fara í ræðustól á þingi og vega að Davíð Oddssyni utanríkisráðherra, vegna ummæla hans um stöðu mála eftir ályktun flokksins um ESB. Eitthvað var að heyra á Siv að óvissa væri á stöðu mála innan stjórnarsamstarfsins vegna ummæla Davíðs. Þau ummæli eru mjög óskiljanleg. Það væri nær að framsóknarmenn litu sér eilítið nær. Ef það var eitthvað sem gekk gegn stjórnarsáttmálanum og skapaði óvissu um stjórnarsamstarfið voru það vinnubrögð framsóknarmanna og framsetning þeirra fyrir flokksþingið í drögum þess. Stefna þessarar stjórnar er skýr í Evrópumálum og nægir þeim sem eru í vafa að líta á stjórnarsáttmálann sem samið var um að myndi gilda til næstu þingkosninga árið 2007. Það hefur ekkert gerst innan Framsóknarflokksins sem breytir stöðu mála! En já, þið lesið endilega pistilinn.

Eins og ég sagði frá fyrr í vikunni var mjög fróðlegt að sjá er ungt fólk var spurt í Íslandi í dag um ráðherra og þekkingu þeirra á stjórnmálamönnum. Í gærkvöldi var sýnt viðbót af þessu og spurt um þá ráðherra sem ekki var fjallað um þá. Niðurstöðurnar voru enn frekar sláandi að þessu sinni. Þekktu nær allir Björn Bjarnason dómsmálaráðherra, en margir vissu hvorki í hvaða flokki hann væri né hvaða embætti hann gegndi. Sumir héldu meira að segja að hann væri óbreyttur þingmaður. Nokkrir þekktu Geir H. Haarde fjármálaráðherra, en nokkrir töldu hann vera í Framsóknarflokknum. Nokkrir héldu að Árni M. Mathiesen sjávarútvegsráðherra, og Sturla Böðvarsson samgönguráðherra, væru olíuforstjórar. Ekki glæsilegur stimpill það á þeim blessuðum, hehe :) Kom mér nokkuð á óvart hversu fáir þekktu Þorgerði Katrínu Gunnarsdóttur menntamálaráðherra. Einn nefndi hana Guðrúnu Katrínu og hefur eitthvað ruglast á henni og fyrri eiginkonu Ólafs Ragnars, Forsetafrúnni, með stóru F-i. Frekar sláandi þekkingarleysi hjá unga fólkinu á stjórnmálamönnum almennt. Alveg kostulegt, hvet alla til að horfa á þessa klippu. En óneitanlega vekur þetta margar spurningar um hversu vel ungt fólk í dag er inní stjórnmálunum. Greinilegt að unga kynslóðin í dag horfir ekki á fréttir eða fréttatengt efni, en staldrar þess meira á PoppTíví og fleiri slíkum afþreyingarbásum á markaðnum. Frekar döpur staða mála að mínu mati.

Alla tíð hefur Akureyrarkirkja skipan stóran sess í mínu hjarta. Og eflaust okkar allra Akureyringa, sérstaklega okkar sem búum á Brekkunni og niðrá Eyri. Kirkjan okkar er nefnilega fallegasta táknmynd bæjarins okkar. Það er reyndar svo merkilegt að á sínum tíma munaði litlu að þröngsýni sumra bæjarbúa kæmi í veg fyrir að hún risi á þessum stað. Kirkjan stendur á glæsilegum stalli og gnæfir yfir miðbæinn. Að mínu mati er Akureyrarkirkja fallegasta kirkja landsins og ein glæsilegasta og tignarmesta bygging landsins. Byggingarstíll Guðjóns Samúelssonar var alla tíð glæsilegur og kristallast það vel í kirkjunni okkar hér á Akureyri. Nýlega sá ég þessa fallegu mynd sem tekin var frostnóttina um síðustu helgi er hrímþokan lá yfir bænum. Birti hana hér, skemmtileg sýn á kirkjuna okkar. Glæsilegt, í einu orði sagt.
Saga dagsins
1865 Möðruvallakirkja í Hörgárdal í Eyjafirði brann. Arngrímur lærði Gíslason listmálari, gerði mynd af brunanum og er sú sögulega mynd talin vera fyrsta teiknaða atburðamyndin, er gerð er af Íslendingi
1936 Bette Davis hlaut óskarinn fyrir leik sinn í kvikmyndinni Dangerous - Davis var ein af svipmestu leikkonum síns tíma og lék í mörgum ógleymanlegum myndum - hlaut verðlaunin aftur 2 árum síðar
1953 Josef Stalin leiðtogi Sovétríkjanna, deyr af völdum heilablóðfalls. Hann var þá 73 ára að aldri og hafði ríkt í Sovétríkjunum sem leiðtogi flokksins frá 1922 og landsins allt frá dauða Lenin árið 1924
1974 Yom Kippur-stríðinu lýkur með brottflutningi ísraelshers frá Vesturbakkanum við Súez-skurð
1997 Þýska flutningaskipið Vikartindur strandaði í vonskuveðri í Háfsfjöru, austan við Þjórsárós. Þyrla Landhelgisgæslunnar bjargaði 19 manna áhöfn skipsins. Varðskipsmaður fórst við björgunaraðgerðir
Snjallyrðið
Whatever you do may be insignificant, but it is very important that you do it.
Mahatma Gandhi frelsishetja Indverja (1869-1948)
Breytt 18.9.2006 kl. 08:02 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
4.3.2005 | 23:58
Engin fyrirsögn

Í dag er birt á fréttavefnum Vísi mjög vönduð umfjöllun um stefnu Garðabæjar í skóla- og menntamálum og þátt Ásdísar Höllu Bragadóttur bæjarstjóra í Garðabæ, í þeirri stefnu sem þar hefur verið mörkuð með mjög farsælum hætti. Í umfjölluninni kemur fram að þriðja hvert barn á leikskólaaldri í Garðabæ er í einkareknum leikskóla og árið 2006 þegar nýr skóli opnar í Sjálandshverfi muni þetta hlutfall hækka í annað hvert barn. Með verkum sínum í Garðabænum hefur Ásdís Halla horft til framtíðar í þessum málaflokki og ennfremur farið nýjar og markvissar leiðir og starfað vel eftir skoðunum og áherslum okkar SUS-ara í menntamálum. Er það ánægjulegt að kynna sér stöðu mála í sveitarfélaginu og öflugt starf hennar og annarra forystumanna flokksins þar. Ásdísi hefur tekist að umbylta skólakerfi bæjarins með glæsilegum hætti og stokka það upp og gera það að fyrirmyndarkerfi í íslenskum menntamálum: kerfi sem aðrir hafa hug á að taka upp og þróa í þá átt að fylgja frumkvæði sjálfstæðismanna þar.
Athygli hefur alla tíð vakið hversu hljóðlega þessi mikla breyting, eða ætti maður ekki miklu frekar að segja bylting, í skólamálum hefur gengið yfir. Er það eflaust til marks um hversu vel hún hefur gengið. Var mjög gaman að heyra Ásdísi kynna þessi mál vel á menntamálaráðstefnu okkar SUS-ara í Hafnarfirði í febrúar 2004. Yfirskrift ráðstefnunnar var: Breytt rekstrarform - betri menntun. Erindi á ráðstefnunni fluttu auk Ásdísar þau: Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir menntamálaráðherra, Árni Pétur Jónsson þáv. formaður skólanefndar Ísaksskóla, og Sigríður Ásthildur Andersen lögfræðingur Verslunarráðs Íslands. Var virkilega fróðlegt að fræðast um málin, enda vel haldið á málaflokknum í valdatíð okkar sjálfstæðismanna. Öll erindin á ráðstefnunni voru góð, verð ég þó að viðurkenna að Ásdís Halla vakti mesta athygli enda mætti hún í Thatcher bol okkar SUS-ara, eins og meðfylgjandi mynd frá þessum degi sýnir. Var við hæfi að halda þessa ráðstefnu í Hafnarfirðinum. Fyrir nokkrum árum horfði meirihlutinn þar undir forystu Sjálfstæðisflokksins til framtíðar og beitti sér fyrir athyglisverðum nýjungum og framförum á því sviði í anda okkar sjálfstæðismanna. Breyting varð á þeirri framþróun eftir seinustu sveitarstjórnarkosningar í Hafnarfirði, þar sem Samfylkingin drap allt frumkvæði og hugmyndir um breytt rekstrarform í skólamálum. Sem er svo skondið miðað við tillögur svokallaðrar framtíðarnefndar Samfylkingarinnar. Enda hefur heyrst að Lúðvík í Hafnarfirði sé ekki alltof sæll með þær. En Ásdís Halla á heiður skilið fyrir verk sín og forystu í Garðabæ í málaflokknum. Hvet alla til að lesa fréttaskýringuna um þessi mál.

Mikilvægt er að fá þennan mikilvæga samgöngukost í gegn, vinna að styttingu á leiðinni suður. Svo má auðvitað benda á að slíkur vegur mun auðvitað ekki einvörðungu nýtast Akureyringum og Eyfirðingum. Skagafjörður, Norð-Austurland og Austurland munu njóta góðs af þessum vegi. Til dæmis mun þetta verða aðalvegur Austfirðinga suður á bóginn, enda leiðir þessi stytting til þess að norðurleiðin mun verða umtalsvert styttri en suðurleiðin fyrir fólk sem býr á Austfjörðum. Þetta er því mjög skýrt. Þessi skilaboð fékk ráðherrann beint í æð svo um munaði. Það er ljóst að afgerandi stuðningur er hér við þá hugmynd. Kristján Þór Júlíusson bæjarstjóri, tók til máls og flutti ítarlega ræðu á fundinum. Kom fram í máli hans hvað við teljum mikilvægast að gera í samgöngumálum og leggjum við mikla áherslu á Norðurveg. Kom fram í máli bæjarstjóra að hann vilji að bærinn taki að sér rekstur Akureyrarflugvallar. Samgönguráðherra útilokaði ekki að gengið yrði til samninga við Akureyringa. Ráðherrann vill kanna möguleika á að lengja flugvöllinn um 500 metra. Bæjarstjóri sagðist vilja nota efnið sem fellur til úr væntanlegum Vaðlaheiðargöngum í tengslum við lengingu vallarins. Var þetta góður fundur og kom margt gott þar fram og ánægjulegt að fá tækifæri til að ræða málin við ráðherrann.

Undirbúningshópur sem Sturla Böðvarsson samgönguráðherra, skipaði til að fjalla um hvort mögulegt væri að koma á laggirnar samgöngumiðstöð á Vatnsmýrarsvæði í Reykjavík, hefur nú formlega skilað niðurstöðum sínum. Mælir starfshópurinn með því að ráðist verði í byggingu slíkrar samgöngumiðstöðvar sem muni þjóna bæði flugi og langferðabifreiðum með góðum tengingum við almenningssamgöngukerfi höfuðborgarsvæðisins. Í skýrslunni eru nefndir tveir staðir í Vatnsmýrinni sem komi til greina undir miðstöðina, annarsvegar þar sem Hótel Loftleiðir er nú staðsett og hinsvegar norðan við hótelið. Er ætlað að um einkaframkvæmd verði að ræða. Telur hópurinn engan vafa á að áhugi fjárfesta muni verða fyrir hendi, enda um að ræða byggingu sem mikill fjöldi fólks muni eiga leið um. Í skýrslu hópsins segir, að ákveði yfirvöld að byggð verði samgöngumiðstöð í Vatnsmýrinni sé lagt til að undirbúningur hennar verði sameiginlegt verkefni ríkis og borgarinnar. Ánægjulegt er að fara yfir niðurstöður starfshópsins. Þær styrkja undirstöður flugvallar í Vatnsmýrinni og eru því mjög góðar niðurstöður fyrir okkur á landsbyggðinni. Eins og vel hefur komið fram í skrifum mínum tel ég flugvöllinn lykilatriði í samgöngumálum landsmanna, meginæð okkar landsbyggðarfólks til höfuðborgarsvæðisins, svo ég lýsi yfir ánægju minni með niðurstöðurnar og hvet fólk til að líta á þær.

Eins og fram kom hér á vefnum í gær voru niðurstöður skoðanakönnunar Félagsvísindastofnunar Háskóla Íslands, okkur í Sjálfstæðisflokknum mikið gleðiefni. Flokkurinn mældist þar með tæplega 40% fylgi. Þegar rýnt er í könnunina kemur í ljós mjög merkileg niðurstaða að auki. Flokkurinn hefur langmest fylgi allra flokka á meðal ungs fólks. Í aldurshópnum 18-24 ára myndu 39,2% kjósa Sjálfstæðisflokkinn ef gengið yrði til kosninga nú en einungis 22,1% myndu kjósa VG sem er með næstmesta fylgið í þessum aldurshóp í könnuninni. Samkvæmt sömu könnun hyggjast 44% svarenda í aldurshópnum 25-34 kjósa Sjálfstæðisflokkinn en 32,4 segjast myndu kjósa Samfylkinguna sem kom næst á eftir Sjálfstæðisflokknum í aldurshópnum. Segja má að þessar tölur segi að við í SUS séum að vinna gott starf og ungt fólk sé að hallast meira í átt til flokksins og sjálfstæðisstefnunnar. Það er auðvitað okkur mjög mikið ánægjuefni. Á miðju kjörtímabili og það eftir 14 ára samfellda setu flokksins í ríkisstjórn er slík mæling og staða okkur í ungliðahreyfingunni mikill styrkleiki og kraftur til komandi verkefna á sviði stjórnmálanna. Á því leikur enginn vafi.

Bandaríska lífsstílsfrömuðinum Mörthu Stewart var sleppt úr fangelsi í dag. Hún hefur verið í varðhaldi í fangelsi í V-Virginíu frá byrjun októbermánaðar, vegna dóms sem hún hlaut vegna ólöglegra innherjaviðskipta og hlutabréfasvindls tengt því. Mun hún dvelja í stofufangelsi á heimili sínu í Bedford við New York næstu fimm mánuðina. Ákvað hún að afplána frekar dóminn en áfrýja. Bæði töldu lögmenn hennar ólíklegt að hún fengi vægari refsingu við dóm eftir áfrýjun og ennfremur vildi hún klára málið af, en áfrýjunarferlið hefði óneitanlega tekið langan tíma. Munu yfirvöld fylgjast með ferðum hennar þann tíma sem eftir af refsingunni er, með því að hún ber rafrænt ökklaband svo fylgjast megi með ferðum hennar og hvar hún sé stödd. Hún fer að vinna í þessum mánuði formlega, en mjög takmarkað. Hefur hún leyfi til að dveljast 48 tíma á viku utan heimilisins. Ef marka má opinbera framkomu hennar í dag hefur hún lítið breyst við vistina á bakvið rimlana, enda dvaldist hún á svokölluðu fyrirmyndarfangelsi, en ekki í almennu fangelsi.

Svo virðist vera sem að verkalýðshreyfingin sé farin að íhuga loks að stokka upp formið á 1. maí hátíðarhöldunum. Nú hefur miðstjórn Rafiðnaðarsambands Íslands samþykkt ályktun þess efnis að tímabært sé að verkalýðshreyfingin endurskoði hvernig staðið sé að dagskránni vegna verkalýðsdagsins. Telur miðstjórnin að kröfugangan sé barn síns tíma og fari fjarri að hún standi undir væntingum sem hinn almenni félagsmaður geri í nútímanum. Vill miðstjórn RSÍ að farið verði til nútímans með hátíðarhöldin og telja eldra fyrirkomulag ekki verkalýðshreyfingunni til framdráttar. Leggur miðstjórnin til að í stað núverandi hátíðarhalda sameinist stéttarfélögin um að halda fjölmenna fjölskylduhátíð í Laugardalnum. Vill ennfremur RSÍ að verkalýðshreyfingin sameinist um ásamt Samtökum atvinnulífsins að 1. maí verði aflagður sem fastur frídagur þann dag. Vill RSÍ að fríið verði fastsett á fyrsta föstudag í maí í stað þess fyrirkomulags sem nú er. Róttækar tillögur og góðar. Verður fróðlegt hvað ASÍ segir við þessum breytingarhugmyndum.
Saga dagsins
1213 Hrafn Sveinbjarnarson goðorðsmaður á Eyri (Hrafnseyri) við Arnarfjörð, var veginn, 47 ára að aldri. Hrafn var bæði annálaðasti læknir hér á þjóðveldisöld og einn af áhrifamestu mönnum landsins
1937 Bandaríski kvikmyndaleikstjórinn Frank Capra hlaut óskarsverðlaun fyrir leikstjórn sína í Mr. Deeds goes to Town - þetta var annar leikstjóraóskar Capra, en hann vann þrjá á glæsilegum ferli
1971 Uppstoppaður geirfugl, sá síðasti í heiminum, var sleginn Íslendingum á uppboði í London, en safnað hafði verið fyrir honum um land allt fyrir uppboðið. Fuglinn er nú á Náttúrufræðistofnuninni
1975 Breski leikarinn og leikstjórinn Charles Chaplin var aðlaður af Elísabetu Englandsdrottningu - Chaplin var þá loks heiðraður eftir að hafa verið sniðgenginn til fjölda ára. Hann lést á jóladag 1977
1987 Happaþrenna Happdrættis Háskólans kom á markað - fyrsta skafmiðahappdrættið hérlendis
Snjallyrðið
Communism doesn't work because people like to own stuff.
Frank Zappa tónlistarmaður (1940-1993)
Breytt 18.9.2006 kl. 08:02 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
3.3.2005 | 19:20
Engin fyrirsögn

Í dag var birt í Morgunblaðinu ný skoðanakönnun Félagsvísindastofnunar á fylgi flokkanna. Sú könnun sýnir merkilegt landslag í stjórnmálunum að mínu mati. Er reyndar mjög merkilegt að fara yfir þær tölur sem hún sýnir og stöðu mála almennt. Fylgi Sjálfstæðisflokksins mælist 39,3% (það var 33,7% í þingkosningunum 2003). Er þessi niðurstaða mjög ánægjuleg. Allar skoðanakannanir seinustu vikurnar hafa sýnt að fylgi Sjálfstæðisflokksins er á nokkurri uppleið og er flokkurinn aftur að mælast með styrkleika á við það sem kom upp úr kjörkössunum í alþingiskosningunum 1999, þegar flokkurinn vann einn sinn sögulegasta kosningasigur. Er enginn vafi á því í mínum huga að skattalækkanirnar og fundaferð okkar sjálfstæðismanna í upphafi ársins sé að skila okkur meira fylgi og sterkari fylgisstöðu. Við sjálfstæðismenn fundum vel á fundaferðinni að mikill meðbyr er með okkur og stefnu okkar. Gafst okkur þar gott færi á að fara yfir skattalækkunartillögurnar og jafnframt ræða við fólk um stöðu mála almennt heima í héraði hjá fólki. Þingmenn fóru um landið og var þeim dreift í önnur kjördæmi. Var það gott tækifæri fyrir þá til að kynna sig og kynnast aðstæðum fólks úti á landi. Skattamálin eru okkar lykiltromp og því ánægjulegt að kynna stöðu mála og efndir kosningaloforða okkar í skattamálunum.
Fróðlegt er að líta svo á hina flokkana. Samfylkingin tekur væna dýfu frá fyrri könnunum og mælist með 25,5%. Eflaust eru þær tölur þeim svilum Össuri og Ingibjörgu eitthvað umhugsunarefni meðan á formannsslag þeirra stendur í sviðsljósi fjölmiðlanna. Eflaust er það þó stefnan (eða kannski mun frekar stefnuleysið) og sá krappi dans sem þar er stiginn sem er ástæða stöðu mála hjá þeim í þessari könnun. VG bætir verulega við sig frá síðustu könnun og mælist nú með 16,5% (en flokkurinn fékk 8,8% í kosningunum). Slöpp staða Framsóknarflokksins staðfestist enn og aftur í könnuninni en flokkurinn mælist með 12,5% en fékk 18% í kosningunum 2003. Eins og staða mála er orðin er ljóst að Framsóknarflokkurinn er að hrynja fylgislega séð. Með þetta fylgi eða eitthvað í námunda, innan við 15%, fer hann vart í ríkisstjórn á komandi árum. Það er því engin furða að allt logi þar í illdeilum og valdaátökum, svo eftir er tekið. Hef ég annars lýst þessu öllu hér á seinustu dögum. Um að gera að skrolla niður og lesa eldri skrif, sem segja allt af minni hálfu um þetta mál. Frjálslyndi flokkurinn fær 5,8% atkvæða, og er sem fyrr undir kjörfylginu 2003. Segja má að sá flokkur sé að dansa á línu þess sem bjargvænlegt er, enda 5% mark til að ná jöfnunarsætum á þingi. En eitt enn segir þessi könnun stjórnmálaáhugamönnum. ESB-sinnar færast með þessu órafjarri þingmeirihluta. Eru engin teikn um að nokkur þingmeirihluti standi að aðild, það blasir við. Pólitískur stuðningur við aðild er, nú sem fyrr, órafjarri. Það er vissulega mikið ánægjuefni að sjá þessa könnun, í mörgu tilliti.

Bæjarfulltrúar Sjálfstæðisflokksins lögðu því fram tillögu um að leggja skólann niður en samstaða náðist ekki innan Framsóknarflokksins um framtíðina. Var tillagan samþykkt að lokum með 5 af 7 atkvæðum meirihlutans, en 4 greiddu atkvæði gegn, þar af tveir bæjarfulltrúar Framsóknar í meirihlutanum sem fyrr eru nefndir. Eftir krísuna í meirihlutanum undir lok seinasta árs var skipaður vinnuhópur til að vinna að málinu og niðurstöðu þess. Niðurstaða hans var afgerandi, ekki væri hagkvæmt að reka skólann. Verða skólarnir þrír sameinaðir í einn og skóladeild í Svarfaðardal lokað en sú á Árskógsströnd starfrækt áfram, en undir stjórn frá Dalvík. Grunnpunktur í þessu máli var að fólk þurfti að horfast í augu við staðreyndir um rekstur skólanna í Dalvíkurbyggð, en gat ekki lifað á tilfinningalegum rökum. Það voru engin rök nema tilfinningaleg lengur með skólarekstri í Svarfaðardal, svo einfalt var það. Eins og staða sveitarfélagsins var orðin eftir 8 ára valdaferil Framsóknar og vinstri manna 1994-2002 varð að gera eitthvað róttækt. Er sjálfstæðismenn fóru í meirihluta með Framsókn árið 2002 blasti við sviðin jörð. Skil ég mótmæli foreldra og nemenda í vikunni - það er alltaf erfitt að breyta því sem fyrir er og fólk hefur tryggt í hendi, en stundum er það nauðsynlegt. Komi til sameiningarkosninga hér í firðinum er grunnatriði þess að ég samþykki slíka sameiningu að sveitarfélögin reyni eftir fremsta megni að taka til í fjármálum sínum. Það gera Dalvíkingar núna og það er mikilvægt. Ég vil hrósa meirihlutanum út með firði fyrir það að taka af skarið þar.

Fjölmennasta íbúaþing í sögu landsins, Akureyri í öndvegi, var haldið hér á Akureyri í september 2004. Komu þar saman vel yfir þúsund manns, til að ræða málin, skiptast á hugmyndum og eiga góða stund saman og vinna af krafti að miklu framfaramáli: að móta hugmyndir til að efla hjarta okkar góða bæjar. Þar var spennandi starf unnið og gagnlegt, gaman var að móta miðbæinn okkar og framtíð okkar sem höfum fylgt Akureyri frá upphafi og viljum eyða ævinni hér og gera bæinn sem bestan fyrir samferðarmenn okkar og þau sem bæinn munu erfa í fyllingu tímans. Niðurstöður þingsins voru nýttar til að skilgreina forsendur í alþjóðlegri hugmyndasamkeppni. Í dag voru niðurstöður í því kynntar. Alls bárust um 140 tillögur víðsvegar úr heiminum í hugmyndasamkeppnina. Niðurstöður hennar verða formlega kynntar á sumardaginn fyrsta, undir lok næsta mánaðar. Þetta er mun meiri þátttaka en búist hefði verið við og á sér enga hliðstæðu hér á landi í sambærilegri keppni. Ljóst er að dómnefndin á mikið verk fyrir höndum. Í henni munu sitja Kristján Þór Júlíusson bæjarstjóri, Árni Ólafsson arkitekt, Hlín Sverrisdóttir skipulagsfræðingur og landslagsarkitekt, Pétur H. Ármannsson arkitekt og Þorvaldur Þorsteinsson listamaður og forseti Bandalags íslenskra listamanna. Verður mjög fróðlegt að fylgjast með framhaldi málsins og kynna sér niðurstöðurnar formlega í næsta mánuði.

Fróðlegt var að sjá Ísland í dag í gærkvöldi. Var sýnt frá því er umsjónarmaður þáttarins fór í Háskólann, framhaldsskóla og Kringluna og ræddi við ungt fólk. Voru þeim sýndar myndir af ráðherrum ríkisstjórnarinnar og áttu þau að giska á um hverja væri að ræða. Þekktu nær allir Davíð Oddsson utanríkisráðherra, og einn mundi ekki hvað hann gerði en hann væri þó yfirgaurinn! ;) Þó voru ekki allir vissir á hvaða starfi hann gegndi. Halldór Ásgrímsson forsætisráðherra, var frekar óþekktur íslenskri æsku og náðu ekki allir að nefna hann eða hvað hann gerði. Sumir héldu reyndar að Halldór væri í Sjálfstæðisflokknum! Þegar dregin var upp mynd af Valgerði Sverrisdóttur viðskiptaráðherra, tók ekki betra við. Verð ég að viðurkenna að ég tók mikið hláturskast þegar það gerðist að tveir rugluðust á henni og Sólveigu Pétursdóttur fyrrum dómsmálaráðherra, og margir héldu reyndar að Valgerður væri semsagt dómsmálaráðherra. Ein hélt að hún væri femínisti :) Alveg kostulegt. Það besta kom undir lokin er mynd af Árna Magnússyni félagsmálaráðherra, var dregin upp. Einn taldi að hér væri kominn Mörður Árnason og talaði hann um að Mörður væri sko framsóknarmaður! Alveg kostulegt, hvet alla til að horfa á þessa klippu. En óneitanlega vekur þetta margar spurningar um hversu vel ungt fólk í dag er inní stjórnmálunum. Frekar döpur staða mála að mínu mati.

Kristján Þór Júlíusson bæjarstjóri, tilnefndi í dag fimm einstaklinga sem svokallaða umboðsmenn Akureyrar fyrir árið 2005. Að þessu sinni urðu fyrir valinu: Svanhildur Hólm Valsdóttir, Sigmundur Ernir Rúnarsson, Jóhannes Jónsson, Margrét Blöndal og Vilhelm Anton Jónsson. Tilefnið með þessu er að mati bæjarins að vekja athygli á því góða fólki sem sé eða hafi verið búsett í bænum og eins að fagna miklum uppgangi í sveitarfélaginu á síðasta ári. Unnið hafi verið markvisst að markaðssetningu bæjarins á síðustu árum og marki skipun umboðsmannanna upphaf nýrrar herferðar þar sem verði meðal annars lögð áhersla á þann árangur sem náðst hafi og bjartar horfur fram undan. Í fréttatilkynningu bæjarins kemur fram að gott dæmi um vöxt bæjarins sé að í ársbyrjun 1998 hafi Akureyringar verið rétt rúmlega 15.000 en 28. febrúar sl. hafi þeir verið orðnir 16.541. Hafði þeim þá fjölgað um tæplega 100 frá 1. desember 2004, eða á tveggja mánaða tímabili. Það er nokkuð óvanalegt, og mikið gleðiefni. Svo er gaman að segja frá því að á síðasta ári var hafin smíði um 200 íbúða á Akureyri og þar af voru svo fullgerðar um 100 íbúðir alls. Aldrei hefur verið hafist handa við fleiri byggingar í bænum á einu ári og árið 2004. Árið 1997 voru 52 íbúðir fullgerðar. Ástandið hér er mjög gott - tölurnar tala sínu máli. Er það ekki annars? Held það nú.

Klukkan 20:00 í kvöld verður opinn fundur um samgöngumál á Hótel KEA sem Sjálfstæðisfélag Akureyrar stendur fyrir. Á fundinum mun Sturla Böðvarsson samgönguráðherra og leiðtogi Sjálfstæðisflokksins í Norðvesturkjördæmi, hafa framsögu. Um nóg er að tala þegar samgöngumál eru annarsvegar. Málefni Héðinsfjarðarganga, Norðurvegs og Vaðlaheiðarganga ber þar eflaust hæst. Mun verða að öllum líkindum mjög fróðleg og öflug umræða um samgöngumálin. Er mjög gott að fá Sturlu í heimsókn hingað og fá tækifæri til að ræða þessi mál almennt. Má búast við kraftmiklum og góðum fundi. Hvet alla Eyfirðinga til að líta á fundinn og ræða samgöngumálin við samgönguráðherrann.
Saga dagsins
1943 Leikkonan Greer Garson hlaut óskarsverðlaun fyrir leik sinn í kvikmyndinni Mrs. Miniver - hún hélt lengstu þakkarræðu í Óskarssögunni, 7 mínútna langa, er hún tók formlega við verðlaununum
1965 Kvikmyndin The Sound of Music var frumsýnd í Los Angeles - myndin sló öll aðsóknarmet og hlaut 5 óskarsverðlaun, t.d. sem besta kvikmynd ársins. Einn af vinsælustu söngleikjum aldarinnar
1991 Lögreglumenn í Los Angeles réðust á blökkumanninn Rodney King - leiddi til allmikilla óeirða
1997 Söngkonan Björk Guðmundsdóttir tók við tónlistarverðlaunum Norðurlandaráðs í Osló-borg
2003 Davíð Oddsson sagði í viðtali hjá RÚV að sér hefðu verið boðnar mútur af Baugi - ummælin lét Davíð falla í morgunþættinum Morgunvaktinni á Rás 1. Davíð var með þessu að svara fyrir harkalegar árásir Baugs, Fréttablaðsins og Samfylkingarinnar að honum í kosningabaráttunni til þings árið 2003
Snjallyrðið
If you always do what interests you, at least one person is pleased.
Katharine Hepburn leikkona (1907-2003)
Breytt 18.9.2006 kl. 08:02 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
2.3.2005 | 21:12
Engin fyrirsögn

Eins og ég sagði á vefnum hér í gær var ESB-ályktun flokksþings Framsóknarflokksins í raun hvorki fugl né fiskur. Ekkert nýtt kom þar fram, sem ekki hafði legið fyrir áður. Stuðningsmenn aðildar, með formann flokksins í fararbroddi, urðu að láta í minni pokann fyrir andstæðingum aðildar með áþreifanlegum hætti. ESB-kafli utanríkismálahluta ályktunarinnar varð sífellt bitlausari eftir því sem leið á flokksþingið og niðurstaðan varð órafjarri upphaflegum pælingum. Var óneitanlega skondið að fylgjast með þessu flokksþingi og hvernig þetta þynntist sífellt út. Segja má að sigurvegarar málsins hafi verið þeir sem töluðu hvað harðast gegn aðild allt þingið, þeir Guðni Ágústsson landbúnaðarráðherra og varaformaður flokksins, Steingrímur Hermannsson fyrrum forsætisráðherra og formaður flokksins, og Páll Pétursson fyrrum félagsmálaráðherra. Mjög skondið var að heyra Halldór Ásgrímsson forsætisráðherra, kalla þessa ályktun tímamót á flokksþinginu. Ómögulegt er að sjá hverslags tímamót hún boðar í stjórnmálum hérlendis. Engin breyting varð á málinu af hálfu flokksins, nema þá það að andstaðan við aðild innan hans varð mun skýrari en áður hefur verið.
Ánægjulegt var að heyra í dag ummæli Davíðs Oddssonar utanríkisráðherra, um útkomu ESB-hluta ályktana Framsóknar. Eins og við má búast segir hann engin tímamót í Evrópumálum. Það blasir enda við að það er rétt, engin ný ákvörðun var tekin í málinu á þessu flokksþingi. Engin stefnubreyting hefur orðið í stjórnarflokkunum né í ríkisstjórn. Sagði hann að sér vitanlega hefði ekkert nýtt hafi gerst, svo framarlega sem hann sjálfur væri enn læs. Þetta er alveg ljóst. Eins og allir vita, ef undan eru skildir nokkrir höfuðborgarframsóknarmenn í málefnanefndum flokksins fyrir flokksþingið, er málið ekki á dagskrá þessarar ríkisstjórnar. Stjórnarsáttmálinn, sem gilda mun að öllu óbreyttu til vorsins 2007 er þingkosningar eiga að fara fram, gerir ekki ráð fyrir aðildarviðræðum að Evrópusambandinu. Það væri því brot á stjórnarsáttmálanum að stefna lengra en það. Hvað gerist eftir 2007 er alls óvíst. Það blasir þó við að ekki er þingmeirihluti fyrir aðildarviðræðum, né stefnir í það ef skoðanakannanir verða að kosningaúrslitum. Ekki er hægt að sjá með afgerandi hætti hvernig þingmeirihluti gæti myndast um þessa stöðu mála. Hann er ekki til staðar. Málið er því statt þannig á íslensku stjórnmálasviði og innan Framsóknarflokksins að aðild er ekki raunverulegur möguleiki. Reyndar er alls óvíst hvort ESB verði kosningamál í þingkosningunum árið 2007. Vissir aðilar vildu gera ESB að kosningamáli árið 2003, en það var lítil sem engin umræða fyrir þær kosningar. Framsókn á eflaust í vændum mikil átök um þetta mál á komandi árum, enda er flokkurinn tvískiptur í afstöðu sinni til málsins. Kom þetta vel í ljós á flokksþinginu og kemur enn betur fram fyrir næstu kosningar ef Framsókn gerir ESB að kosningamáli næst.

Stefnt er að því að stofna nýtt embætti talsmanns neytenda, sem sinna á neytendamálum og vera opinber talsmaður málaflokksins. Í frumvarpinu um samkeppnislögin kemur m.a. fram á einum stað að það hafi verið samið með hliðsjón af tillögum starfshóps sem skipaður var á síðasta ári og gera átti tillögur um íslenskt viðskiptaumhverfis og skilaði tillögum sínum í ágúst 2004. Með frumvarpinu eru ennfremur breytingatillögur sem munu leiða af aðild okkar að EES-samningnum, sem samþykktur var í janúar 1993. Lagt er til í frumvarpi viðskiptaráðherra að Samkeppniseftirlitið fái skýrar lagaheimildir til þess að krefjast þess að fyrirtæki sem brotið hafa gegn ákvæðum samkeppnislaga breyti skipulagi sínu. Lögin munu taka gildi 1. júlí nk. og þá verða eldri stofnanir lagðar niður. Þetta frumvarp er mjög athyglisvert og fróðlegt, svo ekki sé meira sagt, að lesa það. Stofna á greinilega enn einn talsmann einhvers málaflokks og auka til muna aðkomu ríkisins beint að slíkum málum. Þetta er allt mjög kostulegt. Nær væri að minnka aðkomu ríkisins að þessum málum beint og leitast við að stokka stöðuna upp, frekar en að auka umfangið. Þetta er í takt við margt annað sem kemur frá þessum viðskiptaráðherra á starfstíma hennar í þessu ráðuneyti, seinustu fimm árin í ráðherratíð Valgerðar. Það væri óskandi að hún tæki sér meira tíma tíma í að vinna að því sem gerist í hennar kjördæmi.

Davíð Oddsson utanríkisráðherra, ræddi varnarmálin í símtali við Condoleezzu Rice utanríkisráðherra Bandaríkjanna, á mánudag. Kom fram í umræðum á þingi í dag að þau hefðu farið þar yfir framtíð varnarstöðvarinnar á Keflavíkurflugvelli og væntanlegar viðræður um hana. Ekkert hefur gerst í málinu eftir að forveri Condi, Colin Powell, lét af embætti í janúar. Tafðist málið vegna anna í bandaríska stjórnkerfinu. Nú er hinsvegar komið að því að viðræðurnar muni hefjast. Er stefnt að því að þau ræðist aftur við í næstu viku. Ekki þurfti Davíð að fræða ráðherrann um stöðu mála. Condi þekkir mjög vel til stöðu allra mála okkar. Hún er sérfræðingur í málefnum NATO og varnarmálum almennt á seinustu áratugum og þekkir því vel til allra aðstæðna tengdum Keflavík og hefur margoft rætt við helstu forystumenn á vettvangi íslenskra stjórnmála og sérfræðinga innan NATO með varnarviðbúnað almennt í Evrópu. Lykilatriði er að koma varnarmálunum í fastan farveg og eyða óvissu sem uppi hefur verið um framtíð F4 þotanna og varnarviðbúnaðar Bandaríkjanna á Keflavíkurvelli. Vonandi munu væntanlegar viðræður leiða til farsællar niðurstöðu.

Íslensk sendinefnd er nú komin til Japans, til að láta reyna á hvort japönsk stjórnvöld muni sleppa skákmeistaranum Bobby Fischer úr haldi. Mun brátt reyna á hvort ákvörðun íslenskra stjórnvalda um að veita honum landvistarleyfi komi honum að gagni. Sæmundur Pálsson, sem hefur verið vinur Fischers allt frá því að hann var hér á landi á heimsmeistaramótinu í skák í Reykjavík árið 1972, fór til Japans til að hitta hann og beita sér í málinu með fleirum. Í dag átti að heimsækja hann í varðhaldsbúðirnar þar sem hann er staddur. Babb kom skjótt í bátinn. Var Íslendingunum meinað að heimsækja hann og ræða við hann. Ljóst er að verða að það mun ekki vera áhlaupsverk að ná honum frá Japan, ef marka má tíðindi dagsins. Ef marka má fréttirnar í dag eru varðhaldsbúðirnar langt frá Tokyo þar sem Íslendingarnir búa. Það mun taka 5 tíma að fara þangað fram og aftur með lest og bíl. Skrifaði Sæmundur bréf til Fischer sem fangaverðirnir lásu og er fjarri því ljóst að Íslendingarnir hitti skákmeistarann á morgun. Er allt málið í óvissu og frekar dökkt yfir því. Óneitanlega eru sífellt minnkandi líkur á því að reyni á dvalarleyfið og Fischer fái að fara frá Japan, hingað til Íslands.
Í dag birtist góður pistill Steina á íhald.is. Þar fjallar hann um fyrirtæki í eigu ríkisins og þróun mála í því að stokka upp stöðu mála. Kemur þessi pistill hans í kjölfar skrifa minna þann 16. febrúar sl. á vefinn, þar sem ég fjallaði um eignarhlut ríkisins í hlutafélögum og einkahlutafélögum víðsvegar um landið. Birti ég þar langan lista með svari Geirs H. Haarde fjármálaráðherra, við fyrirspurn Sigurðar Kára Kristjánssonar alþingismanns. Sá listi hefur að ég veit komið mörgum á óvart og leitt til umræðu. Taldi ég rétt að skrifa um þessi mál og birti þessi skrif um miðjan febrúar. Vöktu þau nokkra athygli og fékk ég mörg komment á hann. Steini birtir nú pistil sem heldur áfram með umræðuna. Er það mjög nauðsynlegt og gott að lesa skrif hans um þetta. Hvet ég alla til að lesa pistil hans. Eins og vel hefur komið fram er það skoðun okkar beggja að það sé mjög brýnt hagsmunamál fyrir allan almenning að ríkið dragi sig í meira mæli út úr atvinnurekstri. Bendi á pistla okkar um þessi mál, mikilvægt að fólk kynni sér ennfremur svar ráðherra til Sigga Kára.

Horfði á bæjarstjórnarfund í gærkvöldi. Hann var öllu lengri en síðast, eða rétt rúmir tveir tímar. Gerði Ingimar Eydal varabæjarfulltrúi Framsóknarflokksins og formaður náttúruverndarnefndar bæjarins, grein fyrir stöðu náttúruverndarmála og voru fróðlegar umræður í kjölfarið. Bæjarstjóri gerði grein fyrir þriggja ára áætlun Akureyrarbæjar, 2006-2008. Var áætlunin eftir umræður samþykkt með 7 atkvæðum meirihlutans. Var ennfremur rætt um sorpmálin, en ljóst er að brátt þarf að fara að taka ákvarðanir um framtíðarsorpurðunarstað. Eftir fundinn horfði ég á úrvalsmynd Shekhar Kapur, Elizabeth. Myndin hefst árið 1554. England hefur lotið stjórn hinnar kaþólsku Maríu drottningar sem er hatrammur andstæðingur mótmælenda í landinu. Þar sem hún á sjálf engin börn og þar með engan erfingja að krúnunni óttast fylgismenn hennar að eftir hennar dag nái hálfsystir hennar, Elísabet sem er mótmælandatrúar, völdum. Þeir hvetja því Maríu til að ákæra Elísabetu um landráð og láta taka hana af lífi. Af aftökunni verður þó ekki og þegar María deyr er Elísabet krýnd drottning aðeins 25 ára, árið 1558.
Krýningu Elísabetar fylgja miklar pólitískar hreinsanir því ráðgjafar hennar, þar á meðal hinn slóttugi Sir Francis Walsingham, ráðleggja henni eindregið að koma upp um óvini sína innan ríkisstjórnarinnar og láta taka þá af lífi. Smám saman tekst Elísabetu síðan að útrýma öllum helstu andstæðingum sínum og að lokum er hún orðin svo trygg í sessi að enginn sem er á móti henni þorir að láta mótmæli sín í ljós. Þegar Elísabet kemur næst fyrir sjónir almennings eftir hreinsanirnar hefur hún umbreytt sér í hina goðsagnakenndu meydrottningu, óárennileg, ósnertanleg og ósigrandi. Hér smellur allt saman til að skapa ógleymanlega kvikmynd; góð leikstjórn, fínt handrit, afbragðsgóð tónlist, fallegir búningar og glæsilegar sviðsmyndir, en aðall hennar er leikurinn í henni. Cate Blanchett er afbragðsgóð í hlutverki drottningarinnar og átti að hljóta óskarsverðlaun fyrir leik sinn. Hún hlaut verðlaunin loks í vikunni fyrir stórleik í hlutverki leikkonunnar Katharine Hepburn í The Aviator. Mögnuð mynd, sem allir áhugamenn um sögu og bresku krúnuna verða að sjá.
Saga dagsins
1940 Þýsk herflugvél réðst að togaranum Skutli frá Ísafirði - fyrsta árásin að íslensku skipi í stríðinu
1956 Bandarísk herflutningavél með 17 manns innanborðs hrapaði í sjóinn við Reykjanes - allir fórust
1957 Heilsuverndarstöðin í Reykjavík vígð - tók 7 ár að byggja hana og var fyrsti hlutinn vígður 1953
1982 Bíóhöllin opnaði í Breiðholti - það rúmaði 1040 manns í sæti í sex sölum. Bíóhöllin þótti án vafa vera höll í kvikmyndamálum þá. Bygging hennar og opnun markaði þáttaskil í bíómálum hérlendis
2000 Augusto Pinochet fyrrum forseta Chile, var sleppt úr stofufangelsi í Bretlandi - Pinochet hafði verið haldið þar frá októbermánuði 1998, vegna afbrota sinna á valdatíma stjórnar sinnar, 1973-1990
Snjallyrðið
Life can only be understood backwards; but it must be lived forwards.
Søren Kierkegaard heimspekingur (1813-1855)
Breytt 18.9.2006 kl. 08:02 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
28.2.2005 | 18:57
Engin fyrirsögn

Kvikmyndin Million Dollar Baby var valin besta kvikmynd ársins 2004 á Óskarsverðlaunahátíðinni sem haldin var í Los Angeles í nótt í 77. skiptið. Myndin hlaut fern verðlaun, en helsti keppinautur hennar, kvikmyndin The Aviator í leikstjórn meistara Martin Scorsese, hlaut 5 verðlaun. Hefur það ekki gerst nokkuð lengi að sú kvikmynd sem hlýtur óskar sem besta kvikmynd ársins hljóti ekki flest verðlaun á óskarskvöldinu. Clint Eastwood hlaut óskarinn fyrir leikstjórn sína í Million Dollar Baby, en hann var ennfremur tilnefndur fyrir leik sinn í myndinni, en hann fór á kostum í hlutverki boxþjálfara og hefur sjaldan verið betri á leikaraferlinum. Vakti mikla athygli að Scorsese var sniðgenginn af akademíunni enn einu sinni, en hann hlaut fimmtu tilnefningu sína fyrir leikstjórn nú, og tapaði enn einu sinni. Það er fyrir löngu orðinn ljótur blettur á bandarísku kvikmyndaakademíunni hvernig hún hefur sniðgengið Scorsese og meistaraverk hans. Hélt ég fyrirfram að hann hlyti loks viðurkenningu fyrir sína svipmiklu mynd og mikið og glæsilegt framlag til kvikmyndaheimsins seinustu áratugina. Svo fór ekki. Má leiða að því líkum að hann fái aldrei þessi verðlaun. Hann náði ekki að hljóta þau t.d. fyrir meistaraverk á borð við Raging Bull og Goodfellas. Það er óneitanlega ansi dapurt hlutskipti fyrir mann sem hefur heillað kvikmyndaunnendur til fjölda ára og oft átt skilið þann heiður að hljóta þessi verðlaun. Hans ferli er auðvitað ekki lokið, en að mínu mati er til skammar fyrir akademíuna að hafa ekki notað þetta tækifæri til að heiðra hann fyrir þessa glæsilegu mynd.
Jamie Foxx hlaut mjög verðskuldað óskarinn sem leikari í aðalhlutverki fyrir glæsilega túlkun sína á konungi soul-tónlistarinnar, Ray Charles, í mynd um ævi hans. Foxx var stórfenglegur í hlutverkinu, eins og ég hef áður vikið að hér. Hann varð Ray í túlkun sinni, náði svipbrigðum hans og töktum með glæsibrag og vann mikinn leiksigur. Með sigri sínum varð Foxx þriðji blökkumaðurinn í sögu akademíunnar til að hljóta óskar fyrir karlleik í aðalhlutverki. Fyrstur til að hljóta þann heiður var Sidney Poitier árið 1963. Denzel Washington hlaut verðlaunin árið 2001. Hilary Swank hlaut óskarinn sem leikkona í aðalhlutverki fyrir stórfenglega túlkun sína á Maggie Fitzgerald í Million Dollar Baby. Var þetta í annað skiptið sem Swank hlaut óskar fyrir leik í aðalhlutverki. 5 ár eru liðin frá því að hún var heiðruð fyrir glæsilegan leik í Boys Don´t Cry. Þá, rétt eins og núna, sigraði hún leikkonuna Annette Bening. Hilary vann hug og hjörtu kvikmyndaunnenda fyrir ógleymanlega túlkun á sannkallaðri kjarnakonu í þessari mynd. Glæsileg leikkona sem hefur sannað sig svo um munar og verðskuldaði sigur í þessum flokki. Meistari Morgan Freeman hlaut loksins óskarinn, nú fyrir litríkan leik í Million Dollar Baby. Hafði hann verið tilnefndur þrisvar fyrir ógleymanlegar leikframmistöður. Það var svo sannarlega kominn tími til að þessi mikli meistari fengi verðlaunin. Cate Blanchett hlaut óskarinn sem leikkona i aukahlutverki. Fór hún á kostum í hlutverki óskarsverðlaunaleikkonunnar Katharine Hepburn, eftirminnilegustu og svipmestu leikkonu kvikmyndasögunnar, í The Aviator. Glæsileg túlkun hjá þessari frábæru leikkonu. Þetta var skemmtileg Óskarsverðlaunahátíð, og var margt af skemmtilegu efni í útsendingunni. Þessi hátíð er alltaf jafn skemmileg, þetta er uppskeruhátíð kvikmyndaheimsins og hún er ómissandi. Fastur punktur í tilverunni ár hvert!
Ég fer nánar yfir úrslitin á Óskarsverðlaunahátíðinni, hér neðar í færslunni og í ítarlegum pistli á kvikmyndavefnum kvikmyndir.com í dag.

Staða Ingibjargar eftir kosningarnar 2003 var ekki öfundsverð, afsalaði sér borgarstjóraembætti og hlutverki sameiningartákns þriggja flokka innan R-listans en sat eftir sem óbreyttur borgarfulltrúi og varaþingmaður. Varaformennska flokksins hjálpaði henni frá algjörri pólitísku eyðimerkurgöngu en greinilegt er að Ingibjörg taldi það hlutverk ekki ásættanlegt í stöðunni og sækir nú fram til formennsku. Kemur það svolítið óvænt að það sé Bryndís sem víkur úr stjórnmálum og auðveldar með því framagöngu Ingibjargar og ekki síst bindur enda á neyðarlega framgöngu hennar seinustu árin í pólitík. Ingibjörg hefur svamlað um lengi í pólitísku tómarúmi og vantað algjörlega stöðu og hlutverk. Með brotthvarfi Bryndísar hefur það breyst. Bryndís er að mínu mati klár og öflug kona, ein af fáum þingmönnum Samfylkingarinnar sem var heil og öflug í störfum sínum og maður gat treyst að væri heil í því sem hún var að segja. Hún hafði mikla sérfræðiþekkingu á málum sem marga þingmenn hans skorti og var mjög öflug í störfum sínum. Það eru alltof margir þarna sem dansa til og frá með undarlegum hætti, en hvað með það. Það er óneitanlega undarlegt að hún segi af sér þingmennsku á miðju kjörtímabili. En hún fær gott starf, sem færir henni væntanlega ný og spennandi tækifæri. Ég vona að henni farnist vel á nýjum vettvangi. Það verður fróðlegt að sjá hvernig Ingibjörgu gangi núna þegar pólitísku tómarúmi hennar er lokið, og hún hefur fastan pólitískan vettvang til starfa á.

Gamla brýnið Clint Eastwood var sigurvegari óskarsverðlaunahátíðarinnar í Los Angeles í nótt. Hann kom, sá og sigraði með stórfenglega kvikmynd sína, Million Dollar Baby. Með þessu komst hann einnig í sögubækur Óskarsins, en hann er elsti maðurinn sem vinnur leikstjóraóskarinn, 74 ára gamall. Eastwood var tilnefndur að þessu sinni í þriðja skiptið til leikstjóraverðlaunanna. Hann hlaut verðlaunin áður árið 1992 fyrir vestrann Unforgiven. Var ennfremur tilnefndur í fyrra fyrir stórbrotið meistaraverk sitt, Mystic River. Alla tíð sem ég hef fylgst með kvikmyndum og horft á kvikmyndir, bæði nýjar sem hinar eldri, meistaraverk kvikmyndasögunnar, hefur Clint verið í miklu uppáhaldi hjá mér. Hann er stórglæsilegur leikari, mjög kraftmikill og öflugur, og ekki síðri sem leikstjóri. Hann hefur oft farið á kostum í stórbrotnum meistaraverkum og gert sjálfur ógleymanlegar myndir. Persónulega tel ég leik hans í Million Dollar Baby hans bestu leikframmistöðu. Einnig er hann ógleymanlegur fyrir leik sinn í spagettívestrunum, túlkun sína í Dirty Harry-myndunum og síðast en ekki síst í In the Line of Fire. Síðastnefnda myndin hefur alltaf heillað mig mjög. Skrifaði ég um myndina um daginn, eftir að ég sá hana síðast. Það er vel við hæfi í kjölfar þessa sigurs kappans að horfa á fyrri meistaraverk hans og flotta leiksigra. Hver veit nema ég skrifi um þær myndir á næstunni. Stórkostlegur og svipmikill karakter sem á þennan heiður svo sannarlega skilið.

Fjórir frábærir leikarar hlutu óskarinn fyrir leik að þessu sinni. Veðjaði ég rétt í spá minni á það hverjir hlytu verðlaunin. Þótti mér þetta liggja mjög vel fyrir hverjir ynnu að þessu sinni. Áður hef ég minnst á stórfenglegan leiksigur Jamie Foxx í hlutverki meistara Ray Charles. Ómótstæðileg túlkun hjá kappanum. Hilary Swank var glæsileg í Million Dollar Baby og hitti í mark með túlkun sinni. Hélt ég lengi vel að það myndi vinna gegn henni að hafa unnið fyrir nokkrum árum sömu verðlaun. Sem betur fer varð svo ekki og hún hlaut verðlaunin mjög svo verðskuldað. Sérstaklega var ég ánægður með að meistari Morgan Freeman hlaut loksins verðlaunin. Hann hefur alla tíð verið einn af mínum uppáhaldsleikurum. Þótti mér vera kominn tími til að hans merka framlag til kvikmyndanna væri heiðrað með þessum hætti. Hann fór á kostum í litríkri túlkun á Eddie í Million Dollar Baby. Þetta var fjórða tilnefning Freeman. Hann var tilnefndur árið 1987 fyrir leik sinn í Street Smart, 1989 fyrir Driving Miss Daisy og árið 1994 fyrir The Shawshank Redemption. Nú var hans stund loksins komin. Einn besti leikari sinnar kynslóðar og einn fárra í bransanum sem gerir allt 100%. Svo hlaut Cate Blanchett loksins verðlaunin, en mér fannst alla tíð slæmt að hún vann ekki fyrir Elizabeth á sínum tíma. Glæsileg leikkona sem var stórfengleg í hlutverki Kate Hepburn í The Aviator

Flokksþingi framsóknarmanna lauk í gær. Áttu margir von á því að flokkurinn fetaði í Evrópuátt á flokksþinginu og voru uppi raddir um að flokkurinn myndi leggja áherslu á aðildarviðræður við ESB á næstu árum. Lengi vel stefndi í að samþykkt yrði orðalag í þá átt. Undir lokin hafði því verið breytt í að hugsanlega skyldi að því stefnt. Það sætti ólík sjónarmið og tillaga utanríkismálahópsins var svo samþykkt einróma. Þessi niðurstaða er mikil vonbrigði fyrir aðildarsinna innan flokksins og virðast þeir vera múlbundnir. Svo er merkilegast að sigurvegari helgarinnar er varaformaður flokksins. Nú virðist utanríkismálastefna flokksins og ESB-stefnan þar innanborðs vera mótuð af honum og fyrri forystumönnum flokksins. Staða mála er í raun óbreytt, þvert á tilraunir ESB-stuðningsmannanna í flokknum. Málið er ekki á dagskrá á kjörtímabilinu, eins og flokkurinn hafði samið um við stjórnarmyndun í maí 2003. Engu að síður blasir við vilji formannsins að gera ESB að kosningamáli í næstu kosningum og koma umræðunni af stað. Enginn vafi er á því að formaður flokksins hefur veikst mjög að undanförnu. Þetta flokksþing sannar það svo um munar. En eftir stendur hvort Halldór og hans stuðningsfólk leggur í þann dans að gera ESB að kosningamáli fyrir næstu kosningar og fá slíku stefnu í gegnum flokksstofnanirnar þá.

Gunnar Örlygsson alþingismaður, hefur nú gefið kost á sér til varaformennsku í Frjálslynda flokknum. Fer hann því fram til embættisins gegn Magnúsi Þór Hafsteinssyni fyrrum fréttamanni, sem gegnt hefur varaformennsku í flokknum í tvö ár. Það verður fróðlegt að fylgjast með slag þeirra um þetta embætti. Gunnar hefur verið mjög rísandi þingmaður að undanförnu. Komið með athyglisverð mál og lagt á mörg þeirra áherslu með athyglisverðum hætti. Magnús hefur verið nokkuð ólíkindatól í pólitík og kemur því varla á óvart að sótt sé að stöðu hans eftir það sem gengið hefur á. Gunnar sækir fram og lætur reyna á stöðu sína. Verður fróðlegt að sjá hvernig honum muni ganga í þessum slag.
Saga dagsins
1066 Westminster Abbey-dómkirkjan í London vígð formlega - eitt glæsilegasta mannvirki í London
1920 Þilskipið Valtýr fórst fyrir sunnan land og með því fórust þrjátíu menn. Valtýr var mikið aflaskip
1983 Alþingi samþykkir lög þess efnis að Ó, Guð vors lands, sé þjóðsöngur og sameign þjóðarinnar
1986 Olof Palme forsætisráðherra Svíþjóðar, myrtur á götuhorni í Stokkhólmi. Palme og eiginkona hans, Lisbeth, voru bæði skotin. Lést hann á leiðinni á sjúkrahús en Lisbeth slapp lifandi frá árásinni. Morðið var aldrei upplýst. Palme hafði þá verið einn af öflugustu stjórnmálamönnum Svía í fjöldamörg ár. Hann sat sem leiðtogi Jafnaðarmannaflokksins frá 1969 til dauðadags. Palme var forsætisráðherra 1969-1976 og aftur frá 1982 til dauðadags. Olof Palme var kraftmikill leiðtogi á alþjóðlegum vettvangi
2004 Kvikmyndin The Lord of the Rings: The Return of the King, sem var byggð á Hringadróttinssögu eftir J.R.R. Tolkien, hlaut alls 11 óskarsverðlaun - jafnaði hún með því eldri met Ben-Hur og Titanic
Snjallyrðið
Sólin brennir nóttina, og nóttin slökkvir dag;
þú ert athvarf mitt fyrir og eftir sólarlag.
Þú ert yndi mitt áður og eftir að dagur rís,
svölun í sumarsins eldi og sólbráð á vetrarins ís.
Svali á sumardögum og sólskin um vetrarnótt,
þögn í seiðandi solli og syngur, ef allt er hljótt.
Söngur í þöglum skógum og þögn í borganna dyn,
þú gafst mér jörðina og grasið og guð á himnum að vin.
Þú gafst mér skýin og fjöllin og guð til að styrkja mig.
Ég fann ei, hvað lífið var fagurt, fyrr en ég elskaði þig.
Ég fæddist til ljóssins og lífsins, er lærði ég að unna þér,
og ást mín fær ekki fölnað fyrr en með sjálfum mér.
Sigurður Nordal skáld og prófessor (1886-1974) (Ást)
Breytt 18.9.2006 kl. 08:02 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
27.2.2005 | 20:24
Engin fyrirsögn

Í sunnudagspistli í dag fjalla ég um þrjú fréttamál vikunnar:
- í fyrsta lagi fjalla ég um væringarnar í Framsóknarflokknum, sem hafa verið mjög áberandi í stjórnmálaumræðunni að undanförnu. Hefur þetta birst vel í aðdraganda flokksþings framsóknarmanna sem haldið var um helgina. Í flokknum virðist allt loga í illdeilum og lyktin af sundurlyndinu og hjaðningavígunum á bakvið tjöldin, sögusagnir um átök og valdaerjur, berast langar leiðir og barist virðist með ákveðnum hætti. Þetta fer ekki framhjá neinum sem fylgist með íslenskum stjórnmálum. Losarabragurinn á Framsóknarflokknum og pólitískri forystu flokksins er að verða mjög áberandi og svo virðist sem að þar sé hver höndin upp á móti annarri. Fulltrúar flokksins í fremstu víglínu skiptast núorðið á að koma fram með umsnúninga á ummælum og fullyrðingum af hálfu hvers annars. Sem dæmi er að ráðherrar þeirra virðast hættir að tala saman nema gegnum fjölmiðla, og þá með beinskeyttum hætti, svo eftir er tekið. Forystumenn flokksins tókust á um Evrópumálin fyrir opnum tjöldum á flokksþinginu um helgina. Fjalla ég um Evrópuumræðuna þar innbyrðis og titringinn sem kom fram er rætt var um hvort flokkurinn ætti að leggja til að Ísland myndi hefja aðildarviðræður við ESB.
- í öðru lagi fjalla ég um umræðuna um uppstokkun Stjórnarráðs Íslands, í kjölfar þess að Árni Magnússon félagsmálaráðherra, lagði fram tillögur sínar og hugmyndir í vikunni. Tek ég undir sumt sem Árni hefur lagt fram, en er ósammála sumu. Hef ég persónulega margoft tjáð mínar skoðanir á mikilvægri uppstokkun ráðuneyta og fækkun ráðherra. Nefni ég í pistlinum tvær hugmyndir mínar, sem ég vék að í útvarpsviðtali á Rás 2 í febrúar 2004, í miðri umræðunni um uppstokkun reglugerðar um Stjórnarráðið á margfrægum ríkisráðsfundi í byrjun þess mánaðar. Annars vegar að sameina dóms- og kirkjumálaráðuneyti, umhverfisráðuneyti, félagsmálaráðuneyti og samgönguráðuneyti í eitt ráðuneyti innanríkismála. Ennfremur yrðu með því byggðamál færð úr iðnaðarráðuneyti til þessa nýja ráðuneytis. Hinsvegar minni ég á tillögu um að sameina atvinnuvegaráðuneytin: landbúnaðarráðuneyti, sjávarútvegsráðuneyti og iðnaðar- og viðskiptaráðuneyti, í eitt. Hvet ég til þess að umræða fari fram um þessi mál og þetta verði stokkað upp eftir næstu kosningar.
- í þriðja lagi fjalla ég um velheppnaða Evrópureisu George W. Bush forseta Bandaríkjanna. Almennt er litið á þessa fyrstu Evrópureisu forsetans, eftir endurkjör hans í nóvember, sem mikla sigurför og niðurstaða hennar túlkuð sem mikill diplómatískur sigur fyrir hann og stefnu hans. Sögulegar sættir náðust milli Bush forseta og þjóðarleiðtoga í Evrópu í þessari ferð sem hann deildi við í Íraksmálinu og sterk tengsl hans og Putins Rússlandsforseta, komu vel í ljós. Segja má að ferðin hafi gengið vel og verið mikilvægur vitnisburður þess að leiðtogarnir horfa fram á veginn, til þeirra úrlausnarefna sem blasa við, og einblína ekki á fortíðina.

Jóhannes Páll páfi II kom öllum á óvart í dag með því að birtast opinberlega í fyrsta skipti eftir að hann gekkst undir aðgerð á fimmtudag. Þá varð að gera á honum barkaskurð til að hann gæti andað eðlilega og var komið fyrir barkaraufspípu til að auðvelda honum öndun. Jafnframt varð ljóst að hann gæti ekki talað næstu vikurnar meðan hann væri að jafna sig af læknismeðferðinni. Margar sögur höfðu gengið um ástand hans, fullyrt var að hann væri vel á sig kominn miðað við aðstæður og ennfremur að hann væri í lífshættu og alvarlega veikur. Er ekki hægt að segja annað en að ástand páfa sé óvenjulega gott miðað við allt sem á honum hefur dunið. Raddir um heilsufar hans og hvernig honum liði þögnuðu skyndilega er hann birtist í glugga sjúkrastofu sinnar og veifaði til fólks fyrir utan. Í fyrsta skipti á rúmlega 26 ára ferli hans sem páfa gat hann ekki flutt blessunarorð í sunnudagsbænum í dag. Páfa var ekið í hjólastól út að glugganum. Gerði hann krossmark og benti á háls sinn, sem merki um að hann gæti ekki talað. Þó er auðvitað ljóst að heilsfar hans er orðið mjög brothætt. Verður fróðlegt að fylgjast með heilsu hans á næstunni.

Athyglisvert var venju samkvæmt að horfa á dægurmálaþættina. Sunnudagsþátturinn á Skjá einum hófst með viðtali Katrínar Jakobsdóttur við Þorgerði Katrínu Gunnarsdóttur menntamálaráðherra. Ræddu þær um málefni skólastigsins og tillögur í þá átt að stytta framhaldsskólanám og stokka upp skólastigin. Vinna við það hefur staðið í ráðuneytinu í nokkur ár og tók Þorgerður við málinu af forvera sínum, Tómasi Inga Olrich sem skipaði nefnd um málið árið 2002. Fóru þær yfir málið í fróðlegu spjalli, gott að heyra Þorgerði skýra málið og fara yfir það í spjallinu. Því næst ræddi Illugi við Steingrím J. Sigfússon formann VG, um málefni Símans. Hann á lítinn hlut í fyrirtækinu, en var mjög virkur á seinasta aðalfundi þess og nýtti hlutinn vel við að bera upp tillögur. Var kostulegt að heyra skoðanir hans á málefnum Símans. Valgerður Sverrisdóttir viðskiptaráðherra, var gestur Óla Teits og Guðmundar. Fór hún yfir flokksþing framsóknarmanna. Greinilegt að það andar köldu frá henni í garð Kristins H. og hún sýndi hversu Evrópusinnuð hún er, en hún vill greinilega gera ESB að kosningamáli fyrir næstu kosningar. Valla er einn öflugasti talsmaður Halldórsarmsins í flokknum og hefur alla tíð verið og er ein helsta málpípa forsætisráðherrans í stefnumálum. Orð hennar verða að orðum Halldórs. Þannig er það bara. Hjá Agli var mjög fróðleg umræða um fasteignaverð þar sem Gunnar I. Birgisson fór yfir málin í kjölfar umræðu seinustu daga ásamt fleirum. Svo var athyglisvert að sjá umræðuna um trúmál þar sem Jón Valur Jensson og Sigurður Hólm Gunnarsson ræddu um kristinfræðikennslu í skólum.
Stórtíðindi eru að eiga sér stað í egypskum stjórnmálum. Í gær tilkynnti Hosni Mubarak forseti Egyptalands, hugmyndir sem leiða eiga til lýðræðisáttar þar. Boðaði hann þar beinar forsetakosningar og frjáls framboð. Það hefur verið þannig til fjölda ára að Mubarak hefur verið einn í kjöri til embættisins og ekki er frjálst að fara í mótframboð gegn honum. Mubarak hefur nú setið á forsetastóli í 24 ár, eða allt frá því að Anwar Sadat var myrtur í nóvember 1981. Hann var varaforseti þá en hefur verið kjörinn þrisvar: 1987,1993 og 1999. Kjörtímabil forseta Egyptalands er 6 ár. Flest bendir til þess að Mubarak, sem verður 77 ára í maí, ætli sér að gefa kost á sér að nýju. Einnig er líklegt að Mubarak ætli syni sínum, Gamal Mubarak að taka við embættinu og jafnvel sé honum ætlað að fara fram núna og forsetinn dragi sig því hlé. Efnt hefur verið til mótmæla í Egyptalandi seinustu ár gegn fyrirætlunum Mubaraks að gefa kost á sér enn einu sinni og það enn einu sinni að vera einn í kjöri. Eins og lögin eru núna er efnt til þjóðaratkvæðagreiðslu um einn forsetaframbjóðanda og þingið staðfestir kjörið. Þjóðarlýðræðisflokkur forsetans hefur haft meirihluta á þinginu frá 1970 og að óbreyttu hefur hann því forsetaembættið í hendi sér.

Það hefur verið merkilegt veður hér á Akureyri seinustu daga. Þoka hefur legið yfir bænum síðustu daga, sem sett hefur flugsamgöngur úr skorðum. Annað blasti þó við t.d. á föstudag í Hlíðarfjalli, þar var glaðasólskin meðan þokuteppi lá alveg yfir bænum. Stórmerkileg sjón alveg. Er Akureyringar vöknuðu að morgni laugardags blasti við athyglisverð sjón, sem ekki sést á hverjum degi og ég hef ekki séð fyrr hér í bænum. Um nóttina hafði þokan breyst í nokkurskonar hrímþoku. Tré bæjarins voru öll fagurhvít um morguninn og langt fram á daginn. Hrímþokan kallar til sín ísnálar sem þéttast á greinunum og eru mjög fagrar á að líta. Mögnuð sjón og ég bendi fólki á að skoða fallega myndasyrpu á vef bæjarins af ísnálunum og þessum stórmerkilega atburði. Sjón er sögu ríkari!
Saga dagsins
1638 Eldgos hófst í Vatnajökli - vötn á Austurlandi fylltust af flóði og báru mikinn vikur allt út á sjó
1928 Togarinn Jón forseti frá Reykjavík, fórst við Stafnes - 15 manns drukknuðu en 10 var bjargað
1941 Togarinn Gullfoss frá Reykjavík, fórst skammt frá Snæfellsnesi - 19 manns fórust með honum
1975 Samþykkt var að friðlýsa Hornstrandir, sem eru norðvestan Skorarheiðar í N-Ísafjarðarsýslu
1991 George H. W. Bush forseti Bandaríkjanna, lýsir því yfir að Kuwait hafi verið frelsað undan oki Íraka, eftir að þeir höfðu þá formlega viðurkennt ósigur sinn í stríðinu. Persaflóastríðið stóð í rúman mánuð. Saddam Hussein sat þó áfram á valdastóli í Írak, en hann var felldur af valdastóli í apríl 2003
Snjallyrðið
Langt fyrir utan ystu skóga
Árið sem að gullið fannst
Einn bjó smiður út í móa
Og hans dóttir sem þú manst.
Litla smáin lofið fáin
Lipurtáin gleðinnar
Ertu dáin út í bláinn?
Eins og þráin sem ég bar.
Halldór Kiljan Laxness skáld og rithöfundur (1902-1998) (Klementínudans)
Breytt 18.9.2006 kl. 08:02 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
26.2.2005 | 17:44
Engin fyrirsögn

Óskarsverðlaunin verða afhent í 77. skipti í Los Angeles á morgun. Óskarinn er helsta kvikmyndahátíð sögunnar, ein mesta uppskeruveisla kvikmyndabransans og þar koma helstu leikarar og kvikmyndagerðarmenn samtímans saman. Ég ætla á þessum laugardegi að pæla í verðlaununum og spá í úrslitin í nokkrum af helstu flokkunum, svona mér mest til gamans. Ég vona að aðrir hafi gaman af.
Kvikmynd ársins
The Aviator
Finding Neverland
Million Dollar Baby
Ray
Sideways
Allt eru þetta frábærar myndir, hver á sinn hátt. Ray er hrífandi mynd, sem skartar frábærum leik og undurfagurri tónlist meistara Ray Charles, sem var einn helsti tónlistarsnillingur síðustu aldar. Finding Neverland er grípandi og þétt mynd sem hrífur kvikmyndaáhugafólk upp úr skónum. Sideways er fágætur gullmoli sem jafnast á við gamalt og gott rauðvín, verður sífellt betri og er algjörlega ómótstæðileg. Million Dollar Baby er frábær að öllu leyti, vel leikin mynd og í senn bæði áhrifamikil og einkar átakanleg. The Aviator er svipmikil saga hins litríka Howards Hughes sem átti stór og háleit markmið og lét þau flest rætast með undraverðum hætti og náði mögnuðum hápunkti á ferli sínum, en féll svo í dimmustu dali hugans. Hér er slagurinn á milli Million Dollar Baby og The Aviator, erfitt um að spá hvor hljóti hnossið. Ég tel að The Aviator vinni verðlaunin.
Leikstjóri ársins
Clint Eastwood - Million Dollar Baby
Taylor Hackford - Ray
Mike Leigh - Vera Drake
Alexander Payne - Sideways
Martin Scorsese - The Aviator
Fimm leikstjórar sem færðu á hvíta tjaldið ógleymanlegar kvikmyndir á árinu 2004. Clint Eastwood er sá eini tilnefndra sem hefur hlotið verðlaunin, fyrir Unforgiven, árið 1992, og leikstýrði einni best heppnuðu kvikmynd ársins, rétt eins og í fyrra þegar hann var tilnefndur fyrir Mystic River. Mike Leigh á skilið tilnefningu fyrir frábær verk sín, en Vera Drake er svipmikil mynd sem hefur hitt beint í mark. Sideways er eiginlega sú mynd sem ég heillaðist mest af í hópi hinna tilnefndu þetta árið en möguleikar hennar og Payne eru litlir þegar kemur að meistaraverkum tveggja risa í leikstjórn. Það verða þeir Eastwood og meistari Martin Scorsese sem berjast um hnossið hér. Scorsese hlýtur hér fimmtu leikstjóratilnefningu sína. Hann hefur aldrei hlotið óskarinn. Er reyndar með ólíkindum að þessi snillingur hafi ekki hlotið gullna kallinn fyrir myndir eins og Raging Bull og Goodfellas. Það er fyrir löngu kominn tími til að heiðra hann og framlag hans til leiklistar í sögu kvikmyndanna. Ég vona að hann fái verðlaunin, en Eastwood er sterkur og gæti tekið þetta. Ég hallast að Scorsese, hans tími er að mínu mati fyrir löngu kominn.
Leikari í aðalhlutverki
Don Cheadle - Hotel Rwanda
Johnny Depp - Finding Neverland
Leonardo DiCaprio - The Aviator
Clint Eastwood - Million Dollar Baby
Jamie Foxx - Ray
Allir þeir leikarar sem eru tilnefndir fyrir leik í aðalhlutverki, stóðu sig glæsilega í hlutverkum sínum. Hver á sinn hátt lífguðu þeir upp á kvikmyndaheiminn með frammistöðu sinni. Enginn þeirra hefur hlotið verðlaunin áður. Clint Eastwood gæti komið á óvart og hlotið óskar fyrir litríkan leik í kvikmynd sinni, Million Dollar Baby, þar sem hann fór á kostum í hlutverki boxþjálfarans Frankie Dunn. Clint hefur sjaldan verið betri og gæti hlotið fyrsta óskar sinn fyrir leik. Leonardo DiCaprio var litríkur í hlutverki hins svipmikla Howards Hughes og á möguleika á að fara heim með gyllta styttu. Don Cheadle vinnur mikinn leiksigur í Hotel Rwanda, eftirminnilegri kvikmynd um sögulega atburði. Johnny Depp átti stórleik í Finding Neverland og færði litríkan karakter á hvíta tjaldið. En langlíklegast er þó að Jamie Foxx hljóti óskarinn fyrir meistaralega túlkun sína á konungi soul-tónlistarinnar, Ray Charles. Foxx verður hreinlega Ray í túlkun sinni og heillar áhorfendur, ja að minnsta kosti náði hann að heilla mig með leik sínum. Ég spái því að Jamie Foxx vinni óskarinn.
Leikkona í aðalhlutverki
Annette Bening - Being Julia
Catalina Sandino Moreno - Maria Full of Grace
Imelda Staunton - Vera Drake
Hilary Swank - Million Dollar Baby
Kate Winslet - Eternal Sunshine of the Spotless Mind
Fimm magnaðar leikkonur berjast um hnossið í þessum flokki. Aðeins Hilary Swank hefur hlotið áður óskarinn, hún hlaut verðlaunin 1999 fyrir Boys don´t Cry. Nú, rétt eins og þá, mætir hún í flokki tilnefndra, leikkonunni Annette Bening. Bening fór á kostum í American Beauty og tapaði þá fyrir Swank. Að þessu sinni er hópurinn ansi jafn. Það geislar af Annette Bening í hlutverki Juliu Lambert, glæsileg leikframmistaða. Kate Winslet var stórfengleg í Eternal Sunshine of the Spotless Mind. Imelda Staunton vinnur leiksigur ferils síns í Veru Drake. Hin óþekkta Catalina Sandino Moreno er sögð fara á kostum í Maria Full of Grace, sem er hennar fyrsta kvikmynd. Hilary Swank er frábær í hlutverki Maggie í Million Dollar Baby og vinnur hug og hjarta kvikmyndaaðdáenda. Þetta er slagur milli Winslet, Bening og Swank. Allar geta þær unnið. Það er spurning hvort akademían veitir Swank sigur, svo skömmu eftir þann seinasta í sama flokki. Í raun er tími Winslet og Bening kominn. Einhvernveginn hallast ég þó að því að Swank muni fá verðlaunin, enda mjög sterk í sínu hlutverki.
Leikari í aukahlutverki
Alan Alda - The Aviator
Thomas Haden Church - Sideways
Jamie Foxx - Collateral
Morgan Freeman - Million Dollar Baby
Clive Owen - Closer
Fimm glæsilegir leikarar í mjög flottum myndum. Allir verðskulda þeir heiður fyrir sitt verk. Jamie Foxx hlýtur sína aðra tilnefningu sama árið, aðeins Al Pacino hefur náð slíku afreki. Foxx var mjög öflugur í Collateral og heillaði mig með leik sínum. Clive Owen er stórfenglegur í hlutverki Larry í Closer og hitti beint í mark með túlkun sinni. Thomas Haden Church var alveg frábær sem Jack í Sideways og fékk allavega mig til að hlæja, mögnuð frammistaða. Alan Alda hefur oft verið sniðgenginn, t.d. var skandall að hann hlaut ekki tilnefningu fyrir leik sinn í Allen-myndinni Crimes and Misdemeanors árið 1989. Túlkun hans þá á hinum hrokafulla framleiðanda, Lester, var fyrsta flokks. Hann er svipmikill leikari, en hefur oft verið betri en í The Aviator, en er flottur sem þingmaðurinn Brewster. Eftir stendur leiksnillingurinn Morgan Freeman. Hann á að baki glæsilegan feril og hefur átt margar svipmiklar leikframmistöður. Ég spái því að hann vinni verðlaunin fyrir túlkun sína á Eddie í Million Dollar Baby. Það er svo sannarlega kominn tími til að þessi mikli meistari fái verðlaunin.
Leikkona í aukahlutverki
Cate Blanchett - The Aviator
Laura Linney - Kinsey
Virginia Madsen - Sideways
Sophie Okonedo - Hotel Rwanda
Natalie Portman - Closer
Fimm flottar leikkonur sem lýsa upp hvíta tjaldið með flottum leik í þessum myndum. Tilnefning Sophie Okonedo kom nokkuð á óvart, en hún mun vera mjög eftirminnileg í Hotel Rwanda. Virginia Madsen heillaði mig með tilþrifamiklum leik sínum í Sideways og skapaði karakter sem skiptir okkur máli. Virginia hefur aldrei verið betri á gloppóttum ferli sínum. Laura Linney er glæsileg leikkona og oft hitt í mark, hún gerir það enn einu sinni, hér fyrir túlkun sína á Clöru í Kinsey. Natalie Portman er vægast sagt stórfengleg í hlutverki Alice í Closer, mynd sem verður einhvernveginn hennar að nær öllu leyti. Stórkostleg túlkun í svipmikilli mynd. Cate Blanchett, sem átti að hljóta óskarinn 1998 fyrir Elizabeth, ræðst ekki á garðinn þar sem hann er lægstur og bregður sér í hlutverk óskarsverðlaunaleikkonunnar Katharine Hepburn, eftirminnilegustu og svipmestu leikkonu kvikmyndasögunnar. Blanchett leggur allt sitt í þetta stóra hlutverk og verður hreinlega Kate Hepburn. Ég spái því að Blanchett fái óskarinn, annað kemur vart til greina að mínu mati. Glæsileg túlkun!
Enn einu sinni kom að úrslitastund í Idol-stjörnuleit í gærkvöldi. Þá voru fjórir söngvarar eftir í keppninni: Hildur Vala, Davíð Smári, Heiða og Lísa. Í gærkvöldi var þemað: New York, enda höfðu söngvararnir fjórir farið nokkrum dögum áður til New York í eftirminnilega ferð. New York er mjög eftirminnileg borg, ég hef einu sinni komið þangað. Ferð til NY er mikil upplifun, svo vægt sé til orða tekið. Stórfengleg borg, rétt eins og Bandaríkin eru í heild sinni alveg frábær. Keppnin í gærkvöldi var óvenjujöfn og erfitt að láta einn fara, enda þau bestu í keppninni nú bara eftir. Svo fór að Lísa var send heim og féll því úr leik. Hún söng lögin As og Will you still love me tomorrow? Lísa er frábær karakter og góð söngkona. Ég hef þekkt Lísu nú tæpan áratug. Hún kemur frá Ólafsfirði og er algjör gullmoli. Leiðir okkar lágu saman í framhaldsskóla hér fyrir norðan og hefur okkar vinskapur haldist síðan. Hefur verið gaman að fylgjast með velgengni hennar í keppninni. Lísa á svo sannarlega skilið að njóta velgengni, enda hefur margt gengið á hjá henni og hún upplifað bæði skin og skúrir á æviskeiðinu sínu. Vonandi að henni gangi vel á söngbrautinni. Eftir eru semsagt þrjú í keppninni. Að mínu mati er Hildur Vala langbest af þeim sem eftir eru. Það er svo sannarlega stjarna fædd í henni. Hún vinnur vonandi keppnina.
Flokksþing framsóknarmanna heldur áfram. Virðast vera uppi átök innan raða framsóknarmanna um Evrópumálin. Eins og vel hefur komið fram hér lögðu framsóknarmenn til í drögum að ályktunum sínum að hefja aðildarviðræður að ESB á kjörtímabilinu. Heldur er það misráðið, enda er skýrt tekið fram í stjórnarsáttmálanum að ekki skuli hefja aðildarviðræður á þessu kjörtímabili. Er ágreiningur um Evrópumálin almennt og stöðu þeirra innan flokksins. Þetta hefur afhjúpast með afgerandi hætti á þinginu í dag. Er greinilegt að Halldór Ásgrímsson forsætisráðherra, og Guðni Ágústsson landbúnaðarráðherra, eru ekki sammála um hvaða leið skuli fara. Tókust þeir harkalega á, opinberlega, á þinginu í dag. Var formaðurinn tilbúinn að samþykkja ályktun sem gerði ráð fyrir því að vinna skyldi hefjast innan flokksins við að móta samningsmarkmið og undirbúning aðildarviðræðna. Guðni vill hinsvegar ekki að neitt verði fjallað um ESB í ályktunum og verði áhersla lögð að því á EES-samninginn. Fram hefur nú komið að Kjell Magne Bondevik forsætisráðherra Noregs, hafi hringt í Halldór til að ræða Evrópumálin við hann í kjölfar umræðunnar. Er það góður vitnisburður þess að vel er fylgst á Norðurlöndunum og innan ESB með því hvað muni koma frá framsóknarmönnum í þessum málum. Mikilvægt er að framsóknarmenn fari varlega í þessum málum.

Árni Magnússon félagsmálaráðherra, hefur lagt fram athyglisverðar tillögur á flokksþingi framsóknarmanna, sem víkja að fækkun ráðuneyta og uppstokkun Stjórnarráðsins. Hugmyndir Árna gera ráð fyrir að ráðuneytum fækki úr 13 í 6-8. Telur Árni að forsætisráðuneytið og utanríkisráðuneytið eigi að haldast óbreytt en önnur ráðuneyti verði með þessum hætti: innaríkisráðuneyti (sem færi með fjármál, framkvæmdir, dómsmál og fleiri verkefni), atvinnuvegaráðuneyti (þar sem færi saman iðnaður, viðskipti, landbúnaður, þjónusta, sjávarútvegur, ferðamál og annað sem viðkemur atvinnuvegum) velferðarráðuneyti (þar sem færi saman heilbrigðismál og félagsmál), og að lokum menntamálaráðuneyti (þar sem menntamál, menningarmál, íþróttir og annað tengt því kæmi saman). Ráðherrastólum mun því auðvitað fækka. Er það hugmynd Árna að taka með þessu breytta formi upp störf aðstoðarráðherra, og þá 2-3 í hverju ráðuneyti. Tek ég undir heilshugar með Árna að stokka þarf þessi mál og fækka má ráðuneytum og ráðherrastólum með markvissum hætti. Hef ég oft reifað hugmyndir um þetta, t.d. í sunnudagspistli mínum á heimasíðunni fyrir rúmu ári, 22. febrúar 2004. Bendi á þau skrif.

Kostulegt hefur verið að fylgjast með framgöngu Steinunnar Valdísar Óskarsdóttur borgarstjóra, hvað varðar málefni Reykjavíkurflugvallar. Talar hún fram og til baka og slær orðið úr og í. Nú er komið fram í málflutningi hennar að hún hafi, þegar hún talaði um aðlaga byggð við flugvöllinn í Vatnsmýrinni, verið að víkja að því að auðvitað færi völlurinn, en um langtímavinnubrögð sé að ræða. Það hefur því lítið breyst hjá henni í málinu. Hún er því enn sami flugvallarandstæðingurinn. Persónulega tel ég málefni flugvallarins eitt mikilvægasta umræðuefnið hér úti á landi. Án eðlilegra flugsamgangna við borgina getur staða hennar ekki haldist óbreytt í huga okkar allra. Málefni vallarins er ekki bara málefni Reykvíkinga, heldur okkar allra. Samgöngumiðstöð af þessu tagi skiptir okkur öll í landinu máli. Það er kostulegt að fylgjast með R-listanum sem flakkar í margar áttir en getur enga afgerandi afstöðu tekið í málunum, talað er út og suður. Þetta er alveg kostulegt.
Saga dagsins
1930 Stóra bomban - grein eftir Jónas Jónsson dómsmálaráðherra, birtist í Tímanum. Þar var greint frá ásökunum Helga Tómassonar yfirlæknis á Kleppi, um allslæma geðheilsu Jónasar. Miklar deilur fylgdu í kjölfarið sem leiddu til harðvítugra pólitískra átaka. Jónas var formaður Framsóknarflokksins 1934-1944 og sat sem dómsmálaráðherra 1927-1932. Jónas var mikill áhrifamaður í íslenskri pólitík
1952 Sir Winston Churchill forsætisráðherra Bretlands, lýsir því opinberlega yfir að Bretar hafi búið til eigin atómsprengju. Allmiklar deilur urðu vegna þessara frétta og hart tekist á um atómvæðinguna
1987 Íran-Contra hneykslismálið nær hámarki er bandarísk þingnefnd kemst að þeirri niðurstöðu að bandarísk stjórnvöld hafi gerst sek um vítaverð mistök vegna málsins. Málið setti mjög slæman blett á seinustu ár embættistíðar Ronald Reagan forseta, en deilt var alla tíð um beina aðild hans að því
1993 Íslömsk hryðjuverkasamtök koma fyrir bílasprengju í World Trade Center-byggingunni í New York. 6 fórust í sprengingunni og smávægilegar skemmdir urðu. World Trade Center-tvíburaturnum var grandað í hryðjuverkaárásum al-Qaida, þann 11. september 2001. Tæplega 3000 manns fórust þá
2000 18. Heklugosið á sögulegum tíma hófst - var spáð með 18 mínútna fyrirvara í kvöldfréttum RÚV
Snjallyrðið
Þótt þú langförull legðir
sérhvert land undir fót,
bera hugur og hjarta
samt þíns heimalands mót,
frænka eldfjalls og íshafs,
sifji árfoss og hvers,
dóttir langholts og lyngmós,
sonur landvers og skers.
Yfir heim eða himin
hvort sem hugar þín önd,
skreyta fossar og fjallshlíð
öll þín framtíðarlönd.
Fjarst í eilífðar útsæ
vakir eylendan þín:
nóttlaus voraldar veröld,
þar sem víðsýnið skín.
Stephan G. Stephansson klettafjallaskáld (1853-1927) (Þótt þú langförull legðir)
Breytt 18.9.2006 kl. 08:02 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
25.2.2005 | 20:09
Engin fyrirsögn

28. flokksþing Framsóknarflokksins hófst í dag. Í yfirlitsræðu sinni við upphaf flokksþingsins fór Halldór Ásgrímsson forsætisráðherra og formaður flokksins, yfir stöðu mála í stjórnmálunum og þau málefni sem hæst bera í umræðunni almennt. Lýsti hann yfir með afgerandi hætti að Síminn yrði seldur á þessu ári í heilu lagi, með grunnnetinu. Sagði Halldór að það væri rökréttasta skrefið, enda lægi fyrir heimild Alþingis og ennfremur bæði veigamikil rekstrarleg og pólitísk rök. Ennfremur vék forsætisráðherrann að málefnum Landsvirkjunar sem mikið hefur verið rætt um að undanförnu og greinilegur ágreiningur komið fram um málið innan raða flokksins. Sagði hann ekkert ákveðið um framtíð fyrirtækisins. Tilkynnti hann, að í samráði við iðnaðarráðherra, að sú ákvörðun hefði verið tekin að á vegum flokksins yrði skipuð sérstök nefnd sem myndi vinna að stefnumörkun í málinu og vinna að tillögum um að skipuleggja orkumálin til framtíðar. Á þeirri vinnu að ljúka fyrir miðstjórnarfund flokksins á næsta ári. Vék forsætisráðherra ennfremur að miklu hitamáli seinustu daga, drögum að ályktunum þingsins um utanríkismál þar sem kemur fram að flokkurinn eigi að stefna að aðildarviðræðum að ESB á kjörtímabilinu, sem gengur þvert á stjórnarsáttmálann og fyrri yfirlýsingar forystumanna Framsóknarflokksins.
Sagði hann að það væri sitt mat að það væri hvorki tímabært né skynsamlegt að fara út í aðildarviðræður við ESB á þessu kjörtímabili, eins og lagt er til í drögunum. Sagðist hann telja að ályktun flokksins um utanríkismál, sem liggur fyrir flokksþinginu sé gagnlegt vinnuplagg, en lagði áherslu á að ekki ætti að stefna að því að því að samþykkja drögin og yfirlýsingar um ESB óbreyttar á flokksþinginu. Er því ljóst að allir ráðherrar flokksins hafa lýst því yfir að málið sé ekki á dagskrá á kjörtímabilinu. Nokkuð sem blasir við, enda algjörlega í ósamræmi við stjórnarsáttmálann. Samkvæmt honum er málið ekki á dagskrá á þessu kjörtímabili. Sagði hann að drögin hefðu verið mótuð af 13 málefnahópum sem öllum félagsmönnum hefði gefist kostur á taka þátt í. Mörg hundruð skráningar hafi borist og margir hefðu lagt á sig mikla vinnu við að móta drögin. Sú vinna hefði farið fram með lýðræðislegum og opnum hætti. Ræddi Halldór ennfremur um skólamál og minntist á eitt mál úr nefndastarfinu, hugmynd um betri samtengingu mismunandi skólastiga, sem gerir ráð fyrir að gera síðasta ár leikskólans að skyldunámi. Er þetta nokkuð sem framsóknarmenn hafa þó ekki hafið umræðu um, enda lagði Sjálfstæðisflokkurinn svipaðar tillögur fram í borgarstjórnarkosningunum 2002, undir forystu Björns Bjarnasonar dómsmálaráðherra. Athygli vakti við upphaf flokksþingsins dagskrá hátíðardagskrár í morgun. Þar voru fjölþjóðlegir dansar og söngvar, þeirra eftirtektarverðastur var eflaust magadans þokkafullrar konu, sem skaut jafnréttissinnuðum konum þar skelk í bringu. Karlakór Reykjavíkur söng einnig nokkur lög af sinni miklu snilld. Stjórnandi kórsins er frændi minn, Friðrik S. Kristinsson. Erum við systkinabörn og berum við báðir nafn afa okkar, Friðriks Árnasonar fyrrum hreppsstjóra á Eskifirði.

Páfinn verður 85 ára í maí. Hann hefur nú setið á páfastól í tæp 27 ár, frá 16. október 1978. Sat hann lengst allra páfa á 20. öld og einungis tveir páfar hafa setið lengur en hann, þeir Pius IX og St. Peter. Pólverjinn Karol Wojtyla var fyrsti páfinn í 455 ár sem ekki var Ítali. Páfi hefur haldið fast við stefnu sína þrátt fyrir sífellt hrakandi heilsu. Enginn vafi er á að þrátt fyrir farsæla setu á páfastóli er páfinn umdeildur. Fylgismenn hans staðhæfa að hann hafi átt drjúgan þátt í endalokum kommúnismans með baráttu sinni fyrir frelsi og mannlegri reisn í Póllandi og öðrum A-Evrópuríkjum. Andstæðingar hans segja að páfi hafi hrakið milljónir manna úr kaþólsku kirkjunni með íhaldssemi. Hann sé andvígur því að konur gegni prestþjónustu, hann leggist gegn getnaðarvörnum, ástarsamböndum samkynhneigðra og því að prestar kvænist. Hann sé gamaldags fulltrúi og leggist gegn framþróun og sé andvígur mikilvægum mannréttindaatriðum. Stuðningsmenn hans segja að páfi sé kraftmikill málsvari mannréttinda og styðji "réttar" mannlegar áherslur, eins og þeir segja. Þrátt fyrir slæmt heilsufar hyggst Páfi sitja á stóli til dauðadags og vísar á bug að hann víki vegna heilsubrests. Það sé hans sannfæring að aðeins Guð geti bundið enda á það verkefni sitt að þjóna í embætti sínu kaþólsku fólki. Ef marka má stöðu mála má búast við að sífellt styttist í að kardinálarnir verði að velja eftirmann páfa, sem gæti leitt til mikilla valdaátaka.

George W. Bush forseti Bandaríkjanna, er nú kominn heim í Hvíta húsið í Washington, eftir fimm daga för sína um Evrópu. Almennt er litið á Evrópureisu forsetans sem mikla sigurför og niðurstaða hennar túlkuð sem mikill diplómatískur sigur fyrir hann og stefnu hans. Segja má að sögulegar sættir hafi náðst milli Bush forseta og þjóðarleiðtoga í Evrópu í þessari ferð og sáttatónninn var mjög áberandi þar sem hann fór. Hann átti notalegar umræður um stöðu heimsmálanna við Jacques Chirac forseta Frakklands, og Gerhard Schröder kanslara Þýskalands. Eitthvað sem hefði þótt nær óhugsandi fyrir tveim árum þegar hitinn var sem mestur í Íraksmálinu og samskipti landanna náðu frostmarki. Staðan er allt önnur nú. Forsetinn hefur samið frið við þessa lykilleiðtoga Evrópu. Einnig komu vel í ljós sterk tengsl hans og Vladimir Putin forseta Rússlands. Mjög merkilegt var ennfremur að sjá hversu mjög vinsamlegri samskipti leiðtogarnir almennt eiga. Segja má því að ferðin hafi gengið vel og verið mikilvægur vitnisburður þess að leiðtogarnir horfa fram á veginn, til þeirra úrlausnarefna sem blasa við, og einblína ekki á fortíðina. Eru enda næg verkefni framundan á vettvangi heimsmálanna. Uppbyggingin í Írak, friðarþróunin í Mið-Austurlöndum, staða mála í Íran og Líbanon og fleiri mál eru meðal þess sem blasir við að takast þarf á við.

4. janúar sl. var formlega skipuð nefnd af hálfu forsætisráðherra, sem í eiga sæti fulltrúar allra flokka á þingi, sem mun vinna að endurskoðun stjórnarskrárinnar. Stefnt er að því að vinna nefndarinnar taki ekki lengra tíma en tæp tvö ár og að frumvarp til breytinga á stjórnarskránni liggi fyrir ekki síðar en í árslok 2006. Nú hefur nefndin opnað heimasíðu, þar sem starf hennar og dagskrá funda hennar er kynnt með mjög ítarlegum og nákvæmum hætti. Er þar hægt að líta á fundargerðir nefndarinnar og það sem þar er rætt og farið yfir. Nefndin hefur nú haldið tvo fundi og er hægt að líta á dagskrá næsta fundar, 14. mars, og það sem gerst hefur í starfinu til þessa. Er mjög ánægjulegt að þessi vefur sé kominn til sögunnar og að almenningur geti tekið þátt í starfinu þarna, með því að beina erindum til nefndarinnar, líta á hvað hafi gerst þar og hvað sé framundan. Er löngu orðin þörf á að taka þessa vinnu, stokka upp stjórnarskrána og færa hana til nútímans, enda henni lítið verið breytt frá lýðveldisstofnun 1944. Nær engar breytingar hafa t.d. átt sér stað á köflunum sem fjalla um forsetaembættið, er mikilvægt að stokka þá upp. Hef ég kynnt mínar skoðanir á því hvað þurfi að stokka helst upp og færa í átt til nútímans. Fór ég yfir þau mál í ítarlegum pistli þann 10. janúar sl. á vef Heimdallar. Um að gera að líta á hann til að lesa þær pælingar og fara yfir skoðanir mínar á málinu.

Í dag birtist á íhald.is skrif mín um málefni Landsvirkjunar. Í pistli mínum fjalla ég að mestu leyti um ágreininginn sem kominn er upp, að því er virðist mjög áberandi, innan Framsóknarflokksins og R-listans um hvernig haga eigi framtíð fyrirtækisins, eftir að það er að öllu leyti komið í eigu ríkisins. Þetta er kostulegt mál og fróðlegt að fylgjast með því, og því ærin ástæða til að skrifa nokkra punkta um það með þessum hætti. Held ég að flestir séu að verða gáttaðir á framgöngu vinstri grænna í þessu máli. Maður er meira að segja að heyra það frá fólki á vinstri vængnum, sem er gáttað á yfirlýsingum fólks í þessum undarlega kommaflokki. Ef maður zoom-ar það sem hefur gerst er einfalt að segja hvað þau ætla að gera. Í einföldu máli sagt vilja vinstri grænir halda hlut borgarinnar í fyrirtækinu í gíslingu svo að ríkið geti ekki ráðstafað fyrirtækinu með vild eftir að borgin og Akureyrarbær eru farin út úr því. Alveg kostulegt mál. Í Framsókn er málið mjög undarlegs eðlis líka, en í VG er það á algjörum villigötum. Annars er R-listinn að verða mjög veiklulegur, það sést best á þessu máli hvernig pólitíkin er iðkuð þar. Þetta er eins og gatasigti sem hriplekur en hangir saman af gömlum vana. Einfalt mál. En já, lítið á pistilinn og kynnið ykkur þessi mál og skoðanir mínar á því, ef þið viljið fara meira yfir þetta.

Horfði í gærkvöldi á Ísland í dag samkvæmt venju. Þórhallur og Svansí eru að standa sig vel og eru með lífleg og góð efnistök. Í gærkvöldi var Árni Magnússon félagsmálaráðherra, gestur þeirra. Farið var yfir mörg mikilvæg mál, ánægjulegt var að heyra ummæli hans um ESB-málin. Þarf hann svosem varla að taka þetta fram, enda er stjórnarsáttmálinn alveg skýr og því ályktunardrög flokksins allundarleg. En engu að síður undarleg vinnubrögð hjá Framsókn í ESB-málum. Fór á fund kl. 20:00, sem gekk vel og var um margt rætt og farið yfir málin. Kom heim á ellefta tímanum. Horfði þá á úrvalsmyndina Jackie Brown. Myndin, sem byggð er á einni af sögum rithöfundarins Elmore Leonard, segir frá flugfreyjunni Jackie Brown sem drýgt hefur tekjurnar með því að smygla peningum inn í landið fyrir vopnasalann Ordell Robbie. Dag einn er hún staðin að verki á flugvellinum og handtekin. Þeir sem hafa málið á sinni könnu, lögreglumaðurinn Mark Dargus og vopnaeftirlitsmaðurinn Ray Nicolet, bjóða henni tvo kosti: Annað hvort hjálpar hún þeim að fletta ofan af Ordell eða hún fær langtíma gistingu á bak við rimlana.
Með aðstoð aðdáanda síns og hjálparhellu, Max Cherry, tekst Jackie að leggja fram tryggingu fyrir frelsi sínu, ákveðin í að velja þriðju leiðina út úr þessum vandræðum. Hún hefur engan áhuga á að fara í fangelsi og hún veit alveg nákvæmlega hvað verður um þá sem dirfast að svíkja Ordell. Hún tekur því þá ákvörðun að skjóta, bæði Ordell og hjálparkokkum hans, þeim Louis og Melanie, og lögreglunni, ref fyrir rass, etja þeim saman á slyngan hátt og stinga síðan sjálf undan með ávinninginn, hálfa milljón dollara í beinhörðum peningum! Stórkostleg mynd, sem vinnur á eftir því sem maður sér meira af henni. Leikstjórinn Quentin Tarantino sló í gegn með mynd sinni, Pulp Fiction árið 1994, og hefur unnið sér enn meiri frægð með Kill Bill-myndunum, nú í upphafi 21. aldarinnar. Myndin skartar úrvalshópi leikara í öllum hlutverkum, t.d. þeim Robert De Niro, Samuel L. Jackson og Michael Keaton. En senuþjófarnir eru Robert Forster í hlutverki Max Cherry og Pam Grier, sem fer alveg á kostum í hlutverki ferils síns, hinnar úrræðagóðu Jackie. En já, frábær spennumynd fyrir alla sanna kvikmyndaunnendur.

Ég verð að viðurkenna að ég tók vænt hláturskast þegar ég sá þessa kostulegu mynd, sem birtist hér að ofan, á erlendum fréttavef. Þarna eru George W. Bush forseti Bandaríkjanna, og Halldór Ásgrímsson forsætisráðherra, á leiðtogafundi NATO-ríkjanna í Brussel í vikunni. Er myndin er tekin hnippir Halldór í forsetann og vill eflaust tala við hann um alþjóðamálin. Einhvernveginn dettur mér í hug að það sem Halldór sé í þann mund að segja sé: Heyrðu Bush minn, manstu eftir mér? hehe :)
Saga dagsins
1920 Önnur ríkisstjórnin undir forsæti Jóns Magnússonar tók við völdum - stjórnin sat í rúm tvö ár
1956 Nikita Khrushchev leiðtogi sovéska kommúnistaflokksins, flutti sögulega ræðu í Moskvu. Með ræðunni afneitaði hann algjörlega einræðislegum vinnubrögðum Stalíns við stjórn landsins, en hann var leiðtogi flokksins frá 1922 til dauðadags 1953. Ræðan markaði mikil þáttaskil, enda höfðu bæði orð og gjörðir Stalíns verið sem æðstu lög í huga flokksins og stuðningsmanna hans í marga áratugi. Khrushchev var alla tíð umdeildur leiðtogi og var honum steypt af stóli í innbyrðis valdabaráttu 1964
1964 Skopteikning eftir Sigmund Jóhannsson frá Vestmannaeyjum, birtist í Morgunblaðinu í fyrsta skipti - síðan hefur Sigmund teiknað myndir í Moggann. Íslenska ríkið keypti skopmyndirnar 2004
1966 Bandaríska jazzsöngkonan Ella Fitzgerald kom til landsins og hélt tónleika í Reykjavík. Ella var ein fremsta jazzsöngkona sögunnar og talin hafa hljómbestu kvensöngrödd aldarinnar. Ella lést 1996
1990 Violeta Chamorro kjörin forseti Nicaragua - með því lauk 11 ára einræði sandinista í landinu
Snjallyrðið
Í daganna rás hef ég draumanna notið
um dáðríkast mark sem ég aldrei fæ hlotið.
Þeir yljuðu mér þó ef stóð ég í ströngu.
og stríðið mér léttu á ævinnar göngu.
Og eins er í vetrarins myrkasta veldi
að vorþráin sterk fer um hjarta mitt eldi.
Ég angan þess finn þó að úti sé myrkur,
þess yndi í fjarska er huganum styrkur.
Þótt ár hafi liðið og týnzt út í tómið,
þá tær vakir minning um fegursta blómið.
Því ennþá í ljóma þá vitjar mín vorið.
Það vekur og gleður og léttir mér sporið.
Helgi Seljan fyrrum alþingismaður (Vordraumur)
Breytt 18.9.2006 kl. 08:02 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
24.2.2005 | 19:26
Engin fyrirsögn

28. flokksþing Framsóknarflokksins hefst á morgun á Nordica Hotel. Nú hafa drög að ályktunum þingsins verið kynnt formlega á vef flokksins. Þar kemur mjög margt athyglisvert fram. Hef ég litið á þessi drög í dag og kynnt mér hvað framsóknarmenn vilja stefna að og ræða á þessu flokksþingi. Athyglisverðast að mínu mati og eflaust fleiri er að lagt er til í utanríkismálakaflanum að aðildarviðræður hefjist við Evrópusambandið á þessu kjörtímabili og að kosið verði um aðild að ESB í alþingiskosningunum árið 2011. Þetta er nokkur stefnubreyting af hálfu flokksins, hann hefur aldrei stigið þetta skref fyrr og svo er þetta skref algjörlega í ósamræmi við stjórnarsáttmálann. Er með ólíkindum að fylgjast með þessu dómgreindarleysi framsóknarmanna. En eins og fram hefur komið í fréttum í dag eru mjög skiptar skoðanir innan flokksins um þessa stöðu mála og þessi drög. Búast má við mjög beittum umræðum um þessi drög á flokksþinginu ef marka má viðbrögð ýmissa forystumanna flokksins. Meðal þeirra sem tjáð hefur sig með mest afgerandi hætti er Guðni Ágústsson landbúnaðarráðherra og varaformaður flokksins. Honum eru tillögurnar ekki að skapi og hann telur að ekkert knýji á slíkar umræður á þessum tímapunkti. Hefur Guðni jafnframt lýst yfir þeirri skoðun sinni að réttast sé að halda í fyrri stefnu og með því styrkja EES-samninginn.
Er ekki annað hægt en að taka undir þessi ummæli Guðna. Er ánægjulegt að ekki eru allir í Framsóknarflokknum tilbúnir til að kokgleypa Evrópusambandsdrauginn í einum munnbita þó að viss hluti flokksins telji það ginnkeyptan kost. Er greinilegt að þessi drög hafa borist víða, enda segir frá því í fréttum í dag að erlendar fréttastofur hafi leitað eftir þessum drögum til að kynna sér og heyra af þessum sinnaskiptum stjórnvalda. Þeir eru kostulegir spunameistararnir hans Halldórs, þeir virðast hafa það til að bera að tala svo víða og koma sér á svo marga staði að þeir tala í margar áttir. Enda varla óeðlilegt að forsætisráðherrann sé að verða eins og strengjabrúða í spunaneti. Þetta er kostulegt á að horfa. Einn helsti spunameistarinn er fréttamaðurinn fyrrverandi Steingrímur Ólafsson. Og hvað skyldi hann segja um þessa þróun mála? Jú, það sem vitað var fyrir að Halldór hafi ekki uppi neinar áætlanir um að hefja viðræður um aðild að ESB en ekki sé óeðlilegt að loka neinum dyrum og því ekki óviðeigandi að ræða þessi mál. Yfirlýsing Guðna og fleiri forystumanna flokksins er því ánægjuleg, enda sýnir hún ágreininginn innan flokksins í þessu máli, eins og mörgum öðrum. En hvað hefur eiginlega breyst frá því að Halldór allt að því skellti dyrunum á ESB í frægri ræðu hér á Akureyri í haust (skömmu áður en hann tók við forsætisráðherraembættinu). Hann sagði þar að fiskveiðistefna ESB væri í kreppu og að hún byggði á úreltum sjónarmiðum. Sagði hann að ómögulegt væri fyrir Íslendinga að sækja um aðild að sambandinu við núverandi aðstæður. Hvað hefur breyst hjá Halldóri og framsóknarmönnum? Af hverju er opnað á málið með svo afgerandi hætti nú, svo skömmu eftir ræðu Halldórs? Vonandi fáum við svörin við því á flokksþinginu um helgina.

Flestum er kunnugt um meginefni þess. Forsvarsmenn samtaka sjómanna neituðu upphaflega að sætta sig við stöðu mála og mættu því á bryggjuna á Akureyri í hádeginu þann 6. október 2004 þegar Sólbakur EA-7, kom til hafnar úr fyrstu veiðiferð sinni eftir þessa umdeildu samninga. Eftirleikinn þekkja flestir, en rétt er þó að rekja hann hér. Voru forystumenn sjómanna staðráðnir þá í því að koma í veg fyrir löndun úr skipinu og lögðu því bílum sínum á bryggjuna við skipshlið. Illa gekk að leysa málið og náðust samningar við sjómannaforystuna loks, eftir að lögregla hafði loks beitt sér gegn mönnunum sem stöðvuðu vinnslu á aflanum í skipinu. Vélstjórar fóru þó þessa leið og héldu fyrir dómstólana, eitthvað sem auðvitað allir aðilar áttu að gera ef þeir voru ósáttir við stöðuna. Er skiljanlegt nú af hverju sjómenn stóðu frekar við skipshlið og stöðvuðu vinnslu aflans, enda blasir niðurstaðan við. En það er auðvitað alltaf réttast að fara fyrir tilheyrandi dómstóla séu menn ósáttir. Menn geta ekki gripið lögin í eigin hendur. Lýsi ég yfir ánægju með að niðurstaða er komin í málið og þættir þess liggi vel fyrir. Þessi úrskurður Félagsdóms tekur af öll tvímæli um stöðuna.

George W. Bush forseti Bandaríkjanna, og Vladimir Putin forseti Rússlands, hittust á leiðtogafundi í Bratislava í Slóvakíu í dag. Var þetta fyrsti fundur þeirra eftir að Bush náði endurkjöri í forsetaembættið í nóvember 2004. Voru þeir um margt sammála. Kemur eflaust mest á óvart að þeir voru sammála um málefni Írans. Samþykktu þeir á fundinum að efla samvinnu Bandaríkjanna og Rússlands varðandi öryggi í kjarnorkumálum. Er með því ljóst að leiðtogarnir eru sammála um að Íranir eigi ekki að ráða yfir kjarnorkuvopnum. Leiðtogarnir voru sammála um að viðræðum um aðild Rússa að Alþjóða viðskiptastofnuninni yrði hraðað og hétu samvinnu í friðarumleitunum í Mið-Austurlöndum. Sýnir þetta vel samstöðuna meðal leiðtoga Evrópu og Bandaríkjanna almennt þessa dagana, hefur þetta sést vel í Evrópureisu forsetans. Mun Bush hafa rætt mjög opinskátt við Putin um lýðræðisþróunina í Rússlandi og lýst yfir áhyggjum sínum af stöðu mála. Það og lýðræðismál almennt er það sem helst aðskilur leiðtogana og afhjúpar muninn á þeim. Kom þetta eins og fyrr segir mjög í ljós í niðurstöðum þessa athyglisverða fundar þeirra. Hafa samskipti leiðtoganna alltaf verið vinsamleg og þeir skipst á heimboðum á heimili sín í Moskvu og Texas. Eitthvað sem hefði þótt óhugsandi í samskiptum leiðtoga þessara landa, fyrir 15-20 árum.

Óskarsverðlaunin verða afhent um helgina. Óvenjujafn slagur er í verðlaunaflokkunum að þessu sinni. Er nær útilokað að spá um suma flokkana, svo jöfn þykir keppnin og spennandi. Er þetta frábrugðið stöðunni í fyrra þegar seinasti hluti þríleiksins um Hringadróttinssögu Tolkiens, The Lord of the Rings: The Return of the King, sló í gegn og hlaut 11 óskarsverðlaun í 11 tilnefndum flokkum. Sigur myndarinnar var sögulegur og í fleiri flokkum var spennan í lágmarki. Þau féllu nær alveg eins og spáð var af helstu spekingum. Nú er ekkert víst um stöðuna. Ja, ef undan er skilinn einn flokkur. Talið er nær öruggt að leikarinn Jamie Foxx muni hljóta óskarinn fyrir leik aðalleikara í kvikmynd. Hann fer alveg á kostum í hlutverki söngvarans goðsagnakennda Ray Charles í kvikmyndinni Ray. Sá ég þessa mynd í suðurferð minni nýlega. Þetta er alveg frábær mynd. Foxx verður hreinlega Ray Charles í túlkun sinni. Þetta er að ég tel einn kraftmesti leiksigur ungs leikara til fjölda ára. Foxx hlýtur að fá þessi verðlaun. Hefur þetta verið staðfest með afgerandi hætti í því að veðmálafyrirtækið Ladbrokes, sem hefur spáð til um verðlaunin til fjölda ára, er hætt að taka veðmál um hvort Foxx fái verðlaunin. Svo öruggur er hann talinn. Undrast ég það ekki. Þetta er frábær mynd, frábær túlkun og í henni er frábær tónlist meistara Ray, sem var einn helsti tónlistarsnillingur síðustu aldar.

Lengi hef ég verið þeirrar skoðunar að embætti forseta Íslands sé óþarft og stokka þurfi það upp. Ítrekaði ég oft þessar skoðanir í deilunum um embættið í fyrra, bæði vegna fjölmiðlamálsins og ekki síður þegar forsetinn sýndi stjórnkerfinu þá vanvirðingu að fara á skíði er haldið var upp á aldarafmæli íslenskrar heimastjórnar. Þykir mér að embættið hafi farið útaf sporinu, enn meira í forsetatíð sitjandi forseta en áður. Hefur allt sem sagt hefur verið um embættið af mér og mörgum fleirum andstæðingum embættisins verið staðfest með afgerandi hætti, með stjórnunarstíl sitjandi forseta. Í dag birtist á vef Sambands ungra sjálfstæðismanna umfjöllun um þessi mál. Þar er góður pistill um þessi mál eftir vin minn, Einar Þorsteinsson nýkjörinn formann Týs, félags ungra sjálfstæðismanna í Kópavogi. Gladdi mig mjög að lesa þessa grein hans og finna hvað við erum sammála um þessi mál og eigum sameiginlegt þessa afstöðu á forsetaembættinu. Fer Einar á athyglisverðan hátt yfir allt málið og tjáir skoðanir sínar með ákveðnum hætti. Hvet ég alla til að lesa þennan góða pistil hans. Ennfremur vil ég óska Einari til hamingju með kjör hans í formannsembættið. Hlakka ég til að vinna með honum í ungliðastarfinu á komandi árum.

Athyglisvert var að horfa á Ísland í dag í gærkvöldi. Þar var Steinunn Valdís Óskarsdóttir borgarstjóri, gestur þeirra Svansíar og Þórhalls. Fór hún svo marga hringi og talaði í svo margar áttir um allt og ekki neitt til að þurfa ekki að svara neinu að með ólíkindum var á að horfa. R-listinn var löngum ólíkindatól en hann minnir í dag orðið á gatasigti sem hangir saman en hriplekur svo eftir er tekið. Kostulegt að sjá þetta viðtal. Horfði á Kastljósið, en þátturinn var tekinn upp austur á Egilsstöðum. Alltaf gaman að kynna sér stöðu mála þar og var gaman að fara þangað fyrir mánuði og fara yfir málin. Athyglisvert fannst mér að sjá vinstrisveifluna á þættinum og einhliða umfjöllun um mikilvægasta málefni Austfirðinga nú um stundir, álvers- og virkjunarmálin.
Að því loknu var horft á Gettu betur. Þar kepptu Menntaskólinn á Akureyri og Menntaskólinn á Egilsstöðum. Fór keppnin fram í íþróttahúsinu á Egilsstöðum. Var gaman að fylgjast með keppninni. Margar fínar spurningar og góð stemmning. Sérstaklega var gaman að sjá kynnismyndböndin um skólana. Júlli vinur minn, sem situr með mér í stjórn Varðar og er í skólanum, fór á kostum í sínu hlutverki í myndbandi MA. Ansi gaman af því. En já, MA vann sigur í keppninni, sem varð aldrei beint spennandi. En þetta var fín keppni. Eftir það fór ég niður í miðbæ og hitti nokkra vini á kaffihúsinu Bláu könnunni. Alltaf gaman að fara þangað og fá sér kakó og köku og njóta þess að fara á reyklaust kaffihús og ræða um mikilvæg málefni við góða vini.
Saga dagsins
1630 Skálholtsstaður brann til kaldra kola - allmikið af sögufrægum húsum og munum brunnu þar
1924 20 þingmenn stofnuðu Íhaldsflokkinn - flokkurinn var talsmaður minni ríkisumsvifa og vildi efla þátt einstaklingsins í fyrirtækjalífi. Flokkurinn varð önnur tveggja stoða Sjálfstæðisflokksins árið 1929
1924 Líkneskið af Ingólfi Arnarsyni eftir Einar Jónsson, var formlega afhjúpað á Arnarhóli í Reykjavík
1950 Ríkisstjórn Verkamannaflokksins undir forsæti Clement Attlee hélt velli í kosningum - stjórnin féll árið eftir og aftur var boðað til kosninga sem leiddi til þess að Íhaldsflokkurinn komst til valda
1981 Tilkynnt opinberlega að Karl prins af Wales og ríkisarfi Englands, giftist lafði Díönu Spencer í St. Pauls-dómkirkju þann 29. júlí - hjónaband þeirra var framan af hamingjuríkt og þau eignuðust tvo syni, William árið 1982 og Harry árið 1984. En hamingjan brast og tilkynnt var um skilnað þeirra árið 1992 og þau fengu lögskilnað árið 1996. Díana lést í bílslysi í París árið 1997. Tilkynnt var í febrúar 2005 að Karl myndi ganga að eiga Camillu Parker Bowles, við borgaralega athöfn þann 8. apríl 2005
Snjallyrðið
Ástum og eldi skírð
óskalönd birtast mér.
Hvílíka drottins dýrð
dauðlegur maður sér!
Allt ber hér hinn sama svip;
söm er hin gamla jörð.
Hægara skaltu skip,
skríða inn Eyjafjörð.
Allt það, sem augað sér,
æskunnar hörpu knýr,
syngur og segir mér
sögur og ævintýr.
Mild ertu, móðir jörð.
Margt hefur guð þér veitt.
Aldrei ég Eyjafjörð
elskaði nógu heitt.
Davíð Stefánsson skáld frá Fagraskógi (1895-1964) (Sigling inn Eyjafjörð)
Breytt 18.9.2006 kl. 08:02 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
23.2.2005 | 20:36
Engin fyrirsögn

Áfram MA í kvöld!!!
Breytt 18.9.2006 kl. 08:02 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)