Engin fyrirsögn

SjónHeitast í umræðunni
Tilkynnt var formlega í Helsinki í morgun að rithöfundurinn Sjón, Sigurjón Birgir Sigurðsson, myndi að þessu sinni hljóta bókmenntaverðlaun Norðurlandaráðs, fyrir bók sína Skugga-Baldur. Í umsögn dómnefndar, þar sem þetta val er tilkynnt, segir að Skugga-Baldur dansi á línunni milli bundins og óbundins máls. Í skáldsögunni séu í bland íslenskar þjóðsögur, rómantísk frásagnarlist og töfrandi saga tvinnuð saman í vandaða heildarmynd og tekist á við siðferðisleg og mannleg vandamál. Skugga-Baldur er fimmta skáldsagan sem Sjón ritar. Sjón er sjötti Íslendingurinn sem hlýtur bókmenntaverðlaun Norðurlandaráðs. Ólafur Jóhann Sigurðsson hlaut þau fyrstur Íslendinga, árið 1976, fyrir bækur sínar, Að laufferjum og Að brunnum. 1981 hlaut Snorri Hjartarson verðlaunin fyrir bók sína, Hauströkkrið yfir mér. 1988 hlaut Thor Vilhjálmsson þau fyrir skáldsögu sína, Grámosinn glóir. Fjórum árum síðar, 1992, hlaut Fríða Á. Sigurðardóttir bókmenntaverðlaunin fyrir bók sína, Meðan nóttin líður. 10 ár eru liðin frá því að Íslendingur hlaut verðlaunin síðast, 1995 hlaut Einar Már Guðmundsson þau fyrir skáldsögu sína, Englar alheimsins.

Sjón er elsti sonur Sigurðar Geirdal fyrrum bæjarstjóra í Kópavogi, en hann lést fyrir nokkrum mánuðum. Sjón hefur verið lengi mjög virkur í íslensku bókmenntalífi og gefið út eins og fyrr segir fimm skáldsögur og ennfremur fjölmargar ljóðabækur og að auki skrifað leikrit og smásögur. Hann hóf feril sinn sem ljóðskáld á unglingsárum, hann var aðeins 16 ára gamall er fyrsta bók hans, Sýnir, kom út árið 1978. Hann hefur til fjölda ára verið áberandi í lista- og menningarlífi. Hann var einn af stofnendum súrrealistahópsins Medúsu, hefur tekið þátt í myndlistasýningum, tónlistaviðburðum og menningarhátíðum. Hann stofnaði ásamt vinahópi sínum útgáfufélagið Smekkleysu árið 1987. Hann samdi texta fyrir Sykurmolana, sem í voru fjöldi vina hans og samstarfsmanna til fjölda ára og söng eitt lag með hljómsveitinni, smellinn Luftgítar. Hann hefur unnið til fjölda ára með aðalsöngkonu Sykurmolanna, Björk Guðmundsdóttur. Hefur hann samið marga af hennar frægustu textum og tónverkum. Þau sömdu t.d. saman tónlistina í Dancer in the Dark, kvikmynd danska leikstjórans Lars Von Trier árið 2000, en Björk lék aðalhlutverkið í myndinni. Sjón og Björk voru tilnefnd til óskarsverðlauna árið 2001, fyrir eitt af aðallögunum í myndinni, I´ve Seen It All. Saman sömdu Sjón og Björk ennfremur lagið Oceania, en Björk söng það á opnunarhátíð Olympíuleikanna í september 2004, og sló lagið í gegn. Sjón fær í viðurkenningarskyni fyrir að hljóta verðlaunin 350.000 danskar krónur í verðlaun, sem nema 3,8 milljónum íslenskra króna. Verðlaunin verða afhent á þingi Norðurlandaráðs, sem haldið verður hér á Íslandi, í októbermánuði. Ég óska Sjón innilega til hamingju með þessi verðlaun. Hann á þau svo sannarlega skilið.

Elísabet EnglandsdrottningTilkynnt var í gærkvöldi að Elísabet Englandsdrottning, og Filippus hertogi af Edinborg, myndu ekki verða viðstödd brúðkaup sonar síns, Karls prins af Wales, og unnustu hans, Camillu Parker Bowles, þann 8. apríl nk. Um er að ræða sögulega ákvörðun, enda hefur það ekki gerst í 142 ár að breskur konungur eða drottning á lífi hafi ekki verið viðstödd brúðkaup barna sinna. Svo virðist vera sem að drottningin telji ekki henta sér eða brúðhjónunum að vera viðstödd giftinguna, sem mun verða mjög lágstemmd og að mestu fjölskylduathöfn, fyrir brúðhjónin og börn þeirra. Bendir margt til þess að brúðkaupið ætli að verða einn allsherjar skrípaleikur fyrir konungsfjölskylduna. Blasir við margir sérfræðingar um bresku krúnuna telja að þessi ákvörðun sé lítilsvirðing við brúðhjónin og mjög táknræn að öllu leyti. Hvert áfallið rekur annað við undirbúning þessa brúðkaups og tala sérfræðingar um mjög áberandi PR-mistök, sem eigi fáa sína líka á seinni árum, þó saga konungsfjölskyldunnar seinustu 15 árin sé næstum því ein samfelld sorgarsaga.

Gott dæmi um það er að í upphafi átti athöfnin að fara fram í viðhafnarsal í Windsor-kastala. Þótti það merki um að athöfnin ætti að fá vissan viðhafnarbrag, þó auðvitað væri um borgaralega giftingu að ræða. Var fyrst því gert ráð fyrir að drottningin mætti og flestallir í nánustu fjölskyldu brúðhjónanna. En þá kom babb í bátinn. Í ljós kom að lög heimiluðu ekki að athöfnin færi fram utan skrifstofu borgardómara. Því breyttist allt planið og formlegheitin við athöfnina minnkuðu enn. Ljóst er að drottningin taldi ekki viðeigandi að vera viðstödd slíka athöfn í ráðhúsinu. Mun drottningin og hertoginn af Edinborg hinsvegar verða viðstödd athöfn eftir giftinguna í Windsor-kastala, þar sem brúðhjónin hljóta kirkjulega blessun. En þetta þykja mikil þáttaskil að þjóðhöfðingi Englands sé ekki viðstödd giftingu ríkisarfans. Þótti staða mála lítið breytast við fyrrnefndar yfirlýsingar krúnunnar í dag um takmarkaða þátttöku drottningar í athöfninni. Mikið er að auki deilt um lögmæti þess að ríkisarfinn og væntanlegur verndari kirkjunnar giftist með borgaralegum hætti, en lagaspekingar hafa nú sagt að það standist lög. Í heildina þykir þó öll staða mála og málefni tengd athöfninni hið mesta klúður og niðurlæging fyrir brúðhjónin.

Punktar dagsins
Hillary Rodham ClintonDr. Condoleezza Rice

Samkvæmt nýrri skoðanakönnun í Bandaríkjunum telja rúmlega 60% kjósenda í landinu að Bandaríkin séu tilbúin fyrir kvenforseta. Stuðningur við konu í embættið hefur aldrei mælst meiri, í sambærilegum könnunum á seinustu árum. Sögðu 81% aðspurðra einnig að þeir gætu hugsað sér að kjósa konu í embættið. Þetta eru ansi merkilegar niðurstöður og hljóta að vera ánægjuefni fyrir bandarískar konur í stjórnmálum. Það hefur aldrei gerst í sögu landsins að kona hafi verið forsetaefni stóru flokkanna: Repúblikanaflokksins og Demókrataflokksins. Aðeins hefur einu sinni gerst að kona hafi verið varaforsetaefni í kosningum: árið 1984 var Geraldine Ferraro varaforsetaefni demókrata í forsetaframboði Walter Mondale. Framboð hennar hafði lítil áhrif. Mondale og Ferraro biðu sögulegan ósigur fyrir Ronald Reagan og George H. W. Bush. 53% demókrata telja að Hillary Rodham Clinton öldungadeildarþingmaður, ætti að fara í forsetaframboð 2008. 42% repúblikana vilja að dr. Condoleezza Rice utanríkisráðherra, gefi kost á sér í embættið og 33% nefndu Elizabeth Dole öldungadeildarþingmann. Ef marka má umræðuna núna er mikið rætt um möguleg forsetaframboð Hillary og Condi árið 2008 og líkurnar á því að þær fari fram þá. Það er alveg ljóst að kosningabarátta með þessum tveim kjarnakonum yrði mjög kraftmikil og yrði vægast sagt mjög lífleg, svo maður tali nú ekki um söguleg.

George W. Bush og Gerhard Schröder

Evrópuför George W. Bush forseta Bandaríkjanna, heldur áfram af krafti. Í gær var forsetinn á leiðtogafundi NATO í Brussel og átti þar ítarlegt spjall við þjóðarleiðtoga fjölda ríkja. Greina má mikinn sáttatón milli leiðtoganna núna og greinileg þáttaskil að eiga sér stað í samskiptum Bandaríkjanna og Evrópu. Samskiptin versnuðu til muna fyrir tveim árum vegna Íraksstríðsins og náðu t.d. samskipti Bandaríkjanna við Þýskaland og Frakkland algjöru frostmarki. Sáttaumleitanir hafa staðið seinustu mánuði, eftir endurkjör forsetans og ljóst að staðan hefur gjörbreyst. Í dag hélt forsetinn til Þýskalands í fyrstu opinberu heimsókn sína þangað í rúm þrjú ár. Átti hann viðræður við Gerhard Schröder kanslara Þýskalands, á fundi í Meinz. Fór vel á með þeim, eftir átök seinustu ára og greinilegt að stríðsöxin hefur verið grafin með áberandi hætti. Sögðust þeir sammála um framtíðarfyrirkomulag mála í Írak og stöðuna þar eftir kosningarnar nýlega. Eins og búist hafði verið við og ég hafði sagt frá hér á vefnum á mánudag ræddi leiðtogarnir að mestu um málefni Írans og stöðuna í málum Líbanons, einkum hvað víkur að Sýrlandi. Eins og við mátti búast mótmæltu margir för Bush til Þýskalands og voru nokkrar óeirðir á fundarstaðnum þar sem leiðtogarnir hittust. Greinilegt er að leiðtogarnir í Evrópu og Bandaríkjunum, sem tekist höfðu á, hafa samið frið og horfa samhentir til framtíðar. Því ber að fagna!

Tony Blair

Ef marka má nýjustu skoðanakönnunina á fylgi flokkanna í Bretlandi hefur dregið mjög saman með stærstu flokkunum, Verkamannaflokknum og Íhaldsflokknum. Staðfestir könnunin einnig sífellt minnkandi persónufylgi Tony Blair forsætisráðherra Bretlands. Könnunin, sem gerð var af ICM fyrir Guardian, sýnir mjög breytta stöðu frá sambærilegri könnun í desember. Þá hafði Verkamannaflokkurinn 7-8% forskot. Að þessu sinni er munurinn aðeins tæp 3%. 37% styðja Verkamannaflokkinn en 34% Íhaldsflokkinn. Frjálslyndir demókratar eru eins og áður í þriðja sætinu, og mælast með 21% fylgi. Þessi niðurstaða kemur mjög á óvart, enda er skipulagsþing Verkamannaflokksins nýlega lokið og þar var blásið til sóknar fyrir kosningarnar, sem væntanlega verða í maíbyrjun. Ljóst er af þessum tölum að Blair hefur ekki tekist að ná trausti kjósenda. Ljóst er að breskir kjósendur eru orðnir mjög þreyttir á Blair og forystu Verkamannaflokksins, sem nú hefur leitt landsstjórnina í tæpan áratug. Við blasir að forsætisráðherrann er orðinn mjög pólitískt skaddaður. Ef þessar tölur eru réttar blasir við að spenna verður í kosningabaráttunni og alls óvíst um útkomu þeirra.

Wonder Boys

Horfði í gærkvöldi á Ísland í dag þar sem alþingismennirnir Hjálmar Árnason og Helgi Hjörvar ræddu um málefni Landsvirkjunar. Blasir við að pólitískar deilur eru innan Framsóknarflokksins og R-listans um málið og tekist á um stöðu þess, eins og ég benti á í gær. Var athyglisvert að sjá skoðanaskipti þeirra. Horfði ennfremur á úrvalsmyndina Wonder Boys. Alveg frábær mynd sem segir frá rithöfundinum og prófessornum Grady Tripp. Hann þjáist í sögubyrjun af svæsinni ritstíflu og lifir í raun á fornri frægð þar sem 7 ár eru liðin frá útgáfu síðustu bókar hans. Útgefandi hans, hinn léttgeggjaði Terry Crabtree, hefur áhyggjur af þessu og boðar heimsókn sína til hans yfir helgi. Og þessi helgi á eftir að verða afdrifarík fyrir Grady og líf hans. Eiginkonan er farin frá honum, kona yfirmanns hans er ólétt eftir hann, nemandi sem leigir hjá honum girnist hann og annar nemandi hans er stelsjúkur snillingur sem efast um kynhneigð sína. Saman mynda þessar ólíku persónur einhvern kostulegasta hóp sem sést hefur saman á hvíta tjaldinu og áður en helgin er á enda hafa þær allar flækt sig í kostulegar aðstæður sem seint líða úr minni áhorfenda.

Snilldarlegt handrit með stórkostlegum leikurum og óaðfinnanlegri leikstjórn eru aðall þessarar mögnuðu myndar. Michael Douglas skilar hér einni af sínum bestu leikframmistöðum. Hann túlkar hinn seinheppna prófessor hreint meistaralega, hann hefur ekki verið betri síðan í óskarsverðlaunahlutverki sínu í Wall Street árið 1987 þar sem hann lék vægðarlausan verðbréfasala (sem minnir mig á að ég þarf að fara að líta á þá mynd aftur, enda orðið langt frá því ég sá hana síðast). Þetta er já mynd Douglas alveg í gegn og hann er alveg frábær í þessu hlutverki. Frances MacDormand er einnig stórfín í hlutverki Söru Gaskell og er óborganleg að vanda, enda frábær leikkona. Robert Downey Jr. er einnig fínn í hlutverki Crabtree og það sama má segja um Tobey Maguire í hlutverki James Leer (það er alveg brilliant móment þegar Leer fer yfir sjálfsmorð stjarnanna, hehe). Wonder Boys hlaut óskarinn árið 2000 fyrir frábært lag meistara Bob Dylan, Things Have Changed, magnað lag sem sest djúpt í sálina. En já: mögnuð kvikmynd sem skartar flottu handriti, stórgóðum leik, góðri tónlist og óaðfinnanlegri leikstjórn. Pottþétt skemmtun!

Saga dagsins
1927 Tónskáldið Sveinbjörn Sveinbjörnsson lést - hann bjó lengst af í Edinborg. Sveinbjörn samdi þjóðsöng Íslendinga, Lofsöng (Ó, Guð vors lands) er samið var við ljóð Matthíasar Jochumssonar
1940 Fyrsta teiknimynd Walt Disney, Pinocchio, var frumsýnd í Bandaríkjunum - myndin varð mjög vinsæl og markaði upphaf frægðarferils Disney og fyrirtækis hans í framleiðslu og gerð teiknimynda
1981 Uppreisn gerð á Spáni - valdarán uppreisnaraflanna stóð ekki nema í 22 klukkustundir og lauk með friðsamlegum hætti í kjölfar þess að Juan Carlos Spánarkonungur, tók afstöðu með stjórninni
1987 Konur urðu í fyrsta skipti fulltrúar á Búnaðarþingi, frá stofnun 1899 - tvær konur sátu þá þingið
2005 Rithöfundurinn Sjón, Sigurjón Birgir Sigurðsson, hlaut bókmenntaverðlaun Norðurlandaráðs fyrir skáldsögu sína, Skugga-Baldur. Sjón varð sjötti Íslendingurinn til að hljóta verðlaunin, frá 1976

Snjallyrðið
Would you know my name if I saw you in heaven?
Would it be the same if I saw you in heaven?
I must be strong and carry on,
Cause I know I don't belong
here in heaven.

Would you hold my hand if I saw you in heaven?
Would you help me stand if I saw you in heaven?
I'll find my way through night and day,
Cause I know I just can't stay
here in heaven.

Beyond the door there's peace I'm sure,
And I know there'll be no more
tears in heaven.
Eric Clapton tónlistarmaður (Tears In Heaven)


Engin fyrirsögn

Stefán BenediktssonHeitast í umræðunni
Í vönduðum þætti sínum, Einu sinni var, í gærkvöldi á Stöð 2 fór Eva María Jónsdóttir yfir skammlífa sögu Bandalags jafnaðarmanna, sem var stofnaður haustið 1982 og átti fjóra þingmenn á Alþingi kjörtímabilið 1983-1987. Flokkurinn var stofnaður af Vilmundi Gylfasyni, sem hafði verið flokksbundinn í Alþýðuflokknum til fjölda ára og fæðst inn í flokkinn, enda sonur Gylfa Þ. Gíslasonar fyrrum ráðherra og formanns flokksins. Vilmundur var kjörinn á þing fyrir Alþýðuflokkinn í þingkosningunum 1978 (er A-flokkarnir unnu mjög sögulegan sigur) og sat sem dóms- kirkjumála- og menntamálaráðherra í skammlífri minnihlutastjórn Alþýðuflokksins 1979-1980. Vilmundur hafði gefið kost á sér sem varaformaður flokksins á flokksþingi hans 1980 og 1982, en í bæði skiptin beðið lægri hlut fyrir Magnúsi H. Magnússyni. Ennfremur höfðu verið innbyrðis deilur um störf Vilmundar sem ritstjóra Alþýðublaðsins sumarið 1981. Flokknum var spáð góðu gengi í skoðanakönnunum og stefndi framan af í góðan sigur hans. Það breyttist þegar líða tók á árið 1983 og að kvöldi kjördags kom í ljós að flokkurinn hafði ekki unnið þann sigur sem að var stefnt. Niðurstaðan varð fjórir þingmenn. Vilmundur tók úrslitunum sem miklum ósigri fyrir sig og pólitískar hugsjónir sínar og ekki síður baráttumál. Hann svipti sig lífi í júnímánuði 1983.

Í þættinum í gærkvöldi fór Stefán Benediktsson arkitekt og fyrrum alþingismaður Bandalags jafnaðarmanna, yfir sögu flokksins í ítarlegu viðtali við Evu Maríu. Stefán tók mikinn þátt í uppbyggingu flokksins með Vilmundi og eiginkonu hans, Valgerði Bjarnadóttur, og fleiri stuðningsmönnum. Stefán skipaði þriðja sætið á lista flokksins í Reykjavík. Flokkurinn hlaut eins og fyrr segir fjóra þingmenn kjörna: tvo í Reykjavík og einn á Reykjanesi og Norðurlandi eystra. Við andlát Vilmundar tók Stefán sæti á þingi sem varamaður hans. Var áhugavert að heyra lýsingar hans á stöðu mála og því sem tók við eftir andlát Vilmundar. Flokkurinn, sem byggður hafði verið utan um persónu Vilmundar og stefnumál hans, varð forystulaus og allt logaði í deilum þegar kom að því að hluti flokksins sameinaðist á ný Alþýðuflokknum. Eitt það merkilegasta sem kom fram í þættinum var að sjóðir flokksins væru frystir í Landsbankanum og enginn gæti gert tilkall til þeirra. Það er reyndar merkilegt að sjóðirnir, sem byggjast af skattfé sem flokkurinn fékk vegna stöðu sinnar á þingi, gangi ekki aftur til ríkisins. Það væri eðlilegast að peningarnir færu þangað. Ennfremur fór Stefán yfir persónulegar árásir á hendur honum um fjármálamisferli, sem leiddi til þess að hann hætti þátttöku í stjórnmálum 1987 og fór ekki í framboð á ný. Þetta var áhugaverður þáttur og margt nýtt og merkilegt kom þarna fram. Segja má að saga BJ sé átakasaga umfram allt, saga flokks sem stóð og féll með stofnanda sínum og dó í raun með honum. Ég hef lesið pólitíska ævisögu Vilmundar, Löglegt en siðlaust. Það er merkileg lesning og þeim sem vilja kynna sér pólitískan feril Vilmundar bendi ég á að lesa þá bók.

Ráðhús ReykjavíkurFyrir helgi undirrituðu tveir ráðherrar ásamt bæjarstjóranum á Akureyri og borgarstjóranum í Reykjavík viljayfirlýsingu þess efnis að íslenska ríkið muni formlega leysa til sín eignarhluta sveitarfélaganna í Landsvirkjunar og fyrirtækið hlutafélagavætt í kjölfarið á komandi árum. Svo virðist vera sem að iðnaðarráðherra og borgarstjórinn í Reykjavík hafi skrifað undir þessa yfirlýsingu án þess að kanna til fulls bakland sitt í öllu málinu. Er ekki hægt að sjá betur en að algjört ósætti sé uppi bæði innan Framsóknarflokksins og R-listans með málið og stöðu þess. Ef marka má yfirlýsingar nokkurra þingmanna Framsóknar er engin samstaða um yfirlýsingar ráðherrans í málinu. Svo er ekki betur hægt að sjá en að hver höndin sé upp á móti annarri innan R-listans. Vinstri grænir ætla sér að gera allt til að stöðva málið, ef marka má yfirlýsingar formanns flokksins. Það blasir við að meirihlutinn í borgarstjórn er tvístraður í afstöðu sinni. Er ljóst að meirihluti er í borgarstjórn við þessar tillögur, þverpólitískur meirihluti.

Hinsvegar er ljóst að innan R-listans er engin samstaða. Ef marka má yfirlýsingar forystumanna vinstri grænna, bæði á þingi og í borgarmálum, er ljóst að meirihlutinn mun ekki standa af sér þær breytingar sem borgarstjórinn skrifaði undir að stefna að. Það er því afar merkilegt að á sama tíma tjáir Jón Erlendsson starfandi bæjarfulltrúi VG hér á Akureyri, stuðning sinn við þessar breytingar. En á vettvangi VG í borginni er staðan allt önnur. Við blasir að óbreyttu að afar ólíklegt að gerist eitthvað þar fyrr en eftir borgarstjórnarkosningarnar á næsta ári. R-listinn er margbrotinn og þetta mál ekki hið fyrsta eða eina á kjörtímabilinu sem staðfestir hversu R-listinn er tvístraður. Það er með ólíkindum að borgarstjóri hafi ekki kynnt sér betur bakland sitt áður en samkomulagið var undirritað og gert betur grein fyrir honum. Sama má eflaust segja um iðnaðarráðherrann. Í umræðum í þinginu í dag kom vel í ljós að átakalínur liggja víða í stjórnmálum vegna þessa máls, framfaramáls sem mun styrkja Landsvirkjun og efla. Pólitískur ágreiningur er afgerandi í meirihluta borgarstjórnar og verður fróðlegt hvernig unnið verður úr honum. Er alveg ljóst núna afhverju ekki var hægt að skrifa undir þessa yfirlýsingu í lok nóvember eins og að var stefnt fyrir starfslok þáverandi borgarstjóra. Bakland hans, sem var brostið áður, var ekki til staðar í þessu máli.

Punktar dagsins
Ómar Stefánsson, Sigurður Geirdal, Sigurbjörg Vilmundardóttir og Hansína Ásta Björgvinsdóttir

Átökin í Framsóknarflokknum í Kópavogi halda áfram. Fjallaði ég um þessi átök hér í gær. Þau liggja annars mjög vel fyrir og hafa birst í fjölmiðlum seinustu daga. Í dag tjáði Hansína Ásta Björgvinsdóttir bæjarstjóri í Kópavogi og leiðtogi flokksins í bæjarmálunum, sig um stöðu mála með mjög afgerandi hætti. Sagði hún að stofnun annars kvenfélags að hálfu flokksins væri bakslag í jafnréttisbaráttu í flokknum. Þessi ákvörðun kvennanna væri mjög líkleg til að kynda undir ófrið í bæjarstjórnarflokknum. Sagði hún ótækt að bæjarfulltrúar flokksins væru í því að stofna félög út um allar jarðir, án þess að láta flokksfélaga sína vita. Er þetta eflaust mjög afgerandi skot að hálfu bæjarstjórans í garð Sigurbjargar Vilmundardóttur bæjarfulltrúa, sem kjörin var formaður hins nýja kvenfélags um helgina. Er eins og fyrr hefur komið fram hér greinileg átök milli Sigurbjargar og Hansínu um stöðu mála og valdahlutföllin þar. Í dag kom svo í ljós að tilstand kvennanna, til að hljóta fulltrúa á flokksþing Framsóknar um helgina, var til lítils. Hið nýstofnaða félag fær ekki fulltrúa á flokksþingið, enda frestur til að fá fulltrúa þar inn liðinn fyrir tæpum mánuði. Málið er því sofnað í bili, hinsvegar er ljóst að það hefur afhjúpað átakalínur í flokknum, innanflokksátök í Kópavogi og á kjördæmavísu. Ekki er síður hægt að sjá erjur milli forystumanna á flokksvísu almennt um forystusess innan flokksins.

Bobby Fischer

Brátt mun reyna á það hvort skákmeistarinn Bobby Fischer muni koma til landsins í ljósi dvalarleyfis sem honum var veitt undir lok síðasta árs. Útlendingastofnun gaf í dag formlega út svonefnt útlendingavegabréf til handa Fischer. Mun Þórður Ægir Óskarsson sendiherra Íslands i Japan, koma því til yfirvalda í Japan og með því ætti að koma í ljós hvert framhald málsins verður. Eins og fram kom fyrir helgi samþykkti allsherjarnefnd að afgreiða ekki að svo stöddu beiðni Fischers um ríkisborgararétt. Reynir nú á hvort dvalarleyfisveitingin og bráðabirgðavegabréfið nægi skákmeistaranum til að koma til landsins. Fischer hefur nú dvalist í rúma 7 mánuði í innflytjendabúðum í Japan. Staða hans er mjög óljós eins og öllum er ljóst og fjarri því ljóst hvaða stefnu málið mun taka. Hafni japönsk yfirvöld þessu í stöðunni blasir við að mál Fischers er strandað. Tel ég rétt að hann komi til landsins og verði hér nokkurn tíma eigi að íhuga þann kost að veita honum ríkisborgararétt. Það er langt í frá sjálfgefið að hann eigi að hljóta það. Fái hann ekki að koma til landsins og vera hér einhvern tíma til að aðlagast landinu og stöðu mála hér, er alveg ljóst að ekki kemur til greina að veita honum ríkisborgararétt hér. Þetta er ljóst allavega að mínu mati.

Dennis Hastert

Í ferð minni til Bandaríkjanna í október keypti ég bókina Speaker: Lessons from Forty Years in Coaching and Politics. Þar er fjallað um feril Dennis Hastert forseta fulltrúadeildar Bandaríkjaþings og þingmanns Repúblikanaflokksins í deildinni frá Illinois. Þar fer Hastert yfir verk sín og þátttöku í stjórnmálum til fjölda ára. Hann var lengst af kennari, íþróttaþjálfari, fyrirtækjaeigandi og þátttakandi í viðskiptalífinu. Hann var kjörinn í fulltrúadeildina 1987. Hastert var lengi vel mjög lítt áberandi í stjórnmálastörfum sínum. Newt Gingrich forseti fulltrúadeildarinnar og einn helsti leiðtogi flokksins í kosningabaráttunni 1994, þar sem sigur vannst í fulltrúadeildinni og tákngervingur þess að repúblikanar komust aftur til valda og áhrifa þar, neyddist til að segja af sér forsetaembættinu vegna hneykslismála haustið 1998. Eftirmaður hans var skipaður Bob Livingston þingmaður flokksins frá Louisiana. Varð hann einnig að víkja vegna hneykslismála áður en hann náði að taka við embættinu formlega. Hastert var þá skipaður í embættið, öllum að óvörum. Hastert hefur lengi verið kallaður þögli risinn innan flokksins, vegna stöðu sinnar og lágstemmdrar framkomu. Var mjög ánægjulegt að kynna sér feril hans og stjórnmálaþátttöku með lestri bókarinnar.

Fight Club

Horfði í gærkvöldi á úrvalsmyndina Fight Club, mynd sem lengi hefur verið í miklum metum hjá mér og ég hef horft á mjög oft. Höfundur og leikstjóri þessarar mögnuðu og margslungnu kvikmyndar er David Fincher sem sló svo eftirminnilega í gegn með hinni frábæru Seven árið 1995 og síðan með myndinni The Game. Fight Club hefur verið lýst sem svartri kómedíu, en hún er einnig afar spennandi og inniheldur fléttu sem kemur verulega á óvart að lokum. Edward Norton leikur hinn stefnu- og rótlausa Jack sem þjáist af svefnleysi og leiðindum og beitir nokkuð óvenjulegum aðferðum til að vinna á þeim vandamálum. Dag einn, þegar Jack er á leiðinni heim til sín úr viðskiptaferð, hittir hann Tyler Durden í fyrsta sinn og það er óhætt að segja að þar með taki líf hans algjörum stakkaskiptum.

Tyler hefur sínar eigin skoðanir á lífinu og tilverunni og eru margar þeirra heldur frumlegar svo ekki sé meira sagt. Hann telur til dæmis að besta leiðin til að öðlast sterka karlímynd sé að berja aðra menn og vera sjálfur barinn í klessu. Þetta leiðir til þess að þeir Jack og Tyler ákveða að stofna leynilegan bardagaklúbb þar sem mönnum er velkomið að koma og lumbra duglega hver á öðrum. Ekki líður á löngu uns klúbburinn er orðinn umtalaður um alla borgina og brátt taka slíkir klúbbar að spretta upp um allt land. Það á hins vegar eftir að koma í ljós að hér býr annað og meira að baki en sýnist í fyrstu! Hér vinnur David Fincher aftur með leikaranum Brad Pitt sem fór á kostum í Seven. Bæði Norton og Pitt eru flottir í stórbrotinni mynd. Útkoman er vægast sagt frábær mynd fyrir alla kvikmyndaunnendur.

Saga dagsins
1903 Fríkirkjan í Reykjavík formlega vígð - í söfnuðinum voru á þeim tíma um fimm þúsund manns
1952 Bygginganefnd íslensks þjóðminjasafns afhenti Birni Ólafssyni menntamálaráðherra, formlega hús Þjóðminjasafns Íslands, sem byggt hafði verið við Suðurgötu, við fjölmenna vígsluathöfn hússins
1979 Menningarverðlaun Dagblaðsins afhent í fyrsta skipti - hafa verið veitt árlega alla tíð síðan, en í nafni DV (Dagblaðsins Vísis) allt frá árinu 1981, eða eftir formlega sameiningu þessara tveggja blaða
1980 Hæstiréttur kvað upp dóma í Guðmundar- og Geirfinnsmálum - sex sakborningar voru dæmdir í fangelsi, allt frá 1 ári upp í 17 ár. Flest þeirra sem dæmd voru hafa alltaf haldið fram sakleysi sínu
1991 Sigríður Snævarr lögfræðingur, afhenti trúnaðarbréf sitt sem sendiherra í Svíþjóð og varð með því fyrst íslenskra kvenna til að gegna slíku embætti í íslensku utanríkisþjónustunni í sögu landsins

Snjallyrðið
Bærinn stendur við botn á löngum firði
Bláir álar í sólskininu loga
Þó kann öðrum að þykja meira virði,
að þorskur og koli fylla alla voga.
Hvernig sem blæs, er fjörðurinn alltaf fagur.
Fáir heilluðu lengur gamla vini.
Hann skín, þegar ljómar á lofti heiður dagur
Hann leiftrar í stjarnanna dýrð og mánaskini.
Við borgarans augum blasa fjallatindar
brekkur og hlíðar vaxnar grænu lyngi.
Davíð Stefánsson skáld frá Fagraskógi (1895-1964) (Bærinn við fjörðinn)


Engin fyrirsögn

Hansína Ásta Björgvinsdóttir bæjarstjóri í KópavogiHeitast í umræðunni
Seinustu vikur hefur mikið verið skrifað og talað um innanflokksátökin innan Framsóknarflokksins í Kópavogi. Eins og flestir vita snúast þessar deilur fyrst og fremst um forystu flokksins í bænum eftir snögglegt fráfall Sigurðar Geirdal leiðtoga flokksins og bæjarstjóra sveitarfélagsins í 14 ár, en hann lést í nóvember. Við það myndaðist mikið tómarúm og valdabarátta. Fór svo að Hansína Ásta Björgvinsdóttir, önnur á lista Framsóknar í bænum, tók við leiðtogahlutverkinu og embætti bæjarstjóra og mun sitja á þeim stóli til 1. júní nk. er bæjarstjóraembættið færist skv. samningi eftir seinustu kosningar til Sjálfstæðisflokksins. Hefur ekki verið neitt leyndarmál að Páll Magnússon sóttist eftir stólnum og voru átök innan fulltrúaráðsins í bænum um hvort ætti að fá stólinn. Átök um Freyju, félag framsóknarkvenna í Kópavogi, hafa vakið athygli, ekki síður vegna þess að lykilleikendur í þeim átökum voru eiginkonur Páls og bróður hans, Árna Magnússonar félagsmálaráðherra. Ekki varð það heldur til að draga úr umræðu um það að Páll væri að styrkja sig fyrir sveitarstjórnarframboð og að Árni hefði áhuga á leiðtogastól Sivjar Friðleifsdóttur í Suðvesturkjördæmi og jafnvel að reyna fyrir sér í kosningu um valdamikið embætti á næsta flokksþingi.

Málefni kvenfélags framsóknarmanna í Kópavogi og valdabaráttan í sveitarstjórnarmálapólitíkinni þar tók nýja og athyglisverða stefnu um helgina. Þá var stofnað nýtt kvenfélag framsóknarkvenna í bænum, Brynja. Það merkilegasta við stofnfundinn er að leiðtoga flokksins í kjördæminu og ennfremur í bænum sjálfum, framsóknarkonununum Siv og Hansínu Ástu, var ekki boðið til fundarins og hann fór fram án þess að þeim hefði verið gert grein fyrir því. Er þetta vægast sagt stórundarleg staða sem blasir við þarna og greinilega mikill trúnaðarbrestur milli fólks og barátta bakvið tjöldin um völd og áhrif. Svo blasir hið merkilega við að heiðursgestur fundarins var Valgerður Sverrisdóttir iðnaðar- og viðskiptaráðherra. Fyrir Brynjukonum fara sömu konur og náðu stjórnarmeirihluta á fundinum í Freyju, sem dæmdur var ólöglegur. Helsti talsmaður félagsins er nú sem fyrr Aðalheiður Sigursveinsdóttir, eiginkona Páls Magnússonar. Formaður félagsins var hinsvegar kjörin Sigurbjörg Vilmundardóttir bæjarfulltrúi í Kópavogi, en hún tók sæti í bæjarstjórn við andlát Sigurðar Geirdal fyrrum bæjarstjóra. Hefur hún myndað bandalag greinilega með Páli um að sækjast eftir forystusætum á listanum næst og sækja fram gegn núverandi leiðtoga. Það er því greinilega mikil ólga að koma þarna fram í dagsljósið og allnokkur sundrung í bæjarmálapólitíkinni og eflaust er þessu allt ennfremur stefnt gegn Siv á kjördæmavísu. Nærvera Valgerðar á fundinum ýtir óneitanlega undir það að hér séu Magnússynir að koma sér áfram til áhrifa og hafi myndað bandalag með Valgerði til áhrifa, þegar að því kemur að Halldór muni láta af formennsku í Framsóknarflokknum. Allavega er ljóst að átakalínurnar í Framsókn liggja mjög víða.

George W. BushGeorge W. Bush forseti Bandaríkjanna, hefur nú hafið fimm daga för sína um Evrópu. Þessi för forsetans kemur í kjölfar vikulangrar ferðar Condoleezzu Rice utanríkisráðherra Bandaríkjanna, um Evrópu og Mið-Austurlönd. Sú ferð átti að vinna grundvöll undir sættir við Þýskaland og Frakkland eftir ósætti þeirra við Bandaríkin eftir Íraksstríðið og ennfremur styrkja stoðir friðarsamkomulagsins í Mið-Austurlöndum. Forsetinn hefur byggt á stefnu þeirri sem Rice kynnti í för sinni í byrjun mánaðarins í ræðum sínum í ferðinni, það sem af er. Hann hefur sagt að það sé sameiginlegt markmið Bandaríkjamanna og Evrópubúa að samkomulag náist um frið í Mið-Austurlöndum og að samskipti þjóðanna verði efld og styrkt til muna, til að vinna saman að þeim málum sem framundan séu. Í ferð sinni mun Bush forseti, hitta þjóðarleiðtoga Þýskalands, Frakklands, Ítalíu, Úkraínu og Rússlands. Hann mun á morgun verða viðstaddur leiðtogafund NATO í Brussel. Meðal þjóðarleiðtoga á þeim fundi er Halldór Ásgrímsson forsætisráðherra.

Í ræðu sinni í Brussel í dag talaði forsetinn með mjög svipuðum nótum og Condi gerði í ítarlegri ræðu sinni í París nýlega. Forsetinn sagði að Bandaríkin þyrftu á samstöðu heimsins að halda í þeim verkefnum sem væru framundan. Með því gaf hann auðvitað í skyn að sögulegra sátta væri þörf eftir átök seinustu ára: sættir væru nauðsynlegar til að tryggja frið og betri stöðu heimsins. Í ræðunni fór hann ítarlega yfir friðarviðræðurnar og sáttatóninn sem nú er kominn upp í Mið-Austurlöndum. Kom fram í ræðu hans að það væri sameiginlegt markmið Bandaríkjanna og Evrópu að tryggja að Palestína og Ísrael gætu lifað saman í sátt og samlyndi. Hann taldi að nú væri friður í sjónmáli og betri staða framundan og nýir tímar. Minntist forsetinn ennfremur á Rússland í ræðu sinni. Taldi hann stöðu mála þar langt í frá nógu góða og nauðsynlegt væri að hafa áhyggjur af lýðræðisþróuninni þar. Sagði hann mikilvægt að hvetja stjórnvöld í Moskvu að reyna að feta með mun öflugri hætti leiðina til lýðræðis. Í ræðunni skaut forsetinn ennfremur sem fyrr að stjórnvöldum í Íran. Taldi hann nauðsynlegt að stjórnvöld þar hættu með afgerandi hætti stuðningi við hryðjuverkamenn og hætti ennfremur við smíði kjarnavopna. Þá kom fram það mat hans að Sýrlandsstjórn verði að hætta hernámi Líbanons. Bush var því mjög ákveðinn í ræðu sinni og gaf með því tóninn með ákveðnum hætti um það sem koma mun fram í samræðum hans við þjóðarleiðtoga á næstu dögum í þessari för hans.

Punktar dagsins
ISG

Horfði í gærkvöldi á fréttaskýringaþáttinn Í brennidepli í Ríkissjónvarpinu. Alltaf vandaðir og vel gerðir þættir. Páll Benediktsson og hans fólk á hrós skilið fyrir áhugaverð efnistök og vandvirk vinnubrögð. Þessi þáttur er orðið eitt af helstu trompum Sjónvarpsins á síðustu árum. Meðal þess sem fjallað var um að þessu sinni eru átök svilanna Ingibjargar Sólrúnar Gísladóttur og Össurar Skarphéðinssonar um formannsembætti Samfylkingarinnar. Kom margt mjög merkilegt þar fram og farið yfir stöðu mála með áhugaverðum hætti. Voru merkilegar viðtalsklippur við formannsframbjóðendurna. Það merkilegasta sem þar kom fram voru ummæli Össurar þess efnis að þrýst hefði verið á hann að tryggja stöðu Ingibjargar fyrir seinustu kosningar, eftir að hún hrökklaðist af borgarstjórastóli vegna svika á gefnum loforðum. Þrýstu stuðningsmenn ISG því á Össur um að vinna að því að efstu menn í Reykjavíkurkjördæmunum, sem unnu sæti sín í prófkjöri, vikju fyrir Ingibjörgu á framboðslistunum. Vildi enginn víkja fyrir henni, skiljanlega eftir að hafa þurft að berjast í prófkjöri fyrir sætum sínum, meðan Ingibjörg engdist upp í vafa um hvað hún ætti að gera. Hikið varð henni reyndar mjög dýrkeypt að lokum, eins og allir vita. En góð samantekt og fróðleg, þeir sem fylgjast með þessum kattaslag vita þá eitthvað meira um þessa persónupólitík Samfylkingarinnar.

Naruhito, Aiko og Masako

Það hefur lengi þjakað Japani að Naruhito krónprins Japans, og eiginkona hans, Masako, hafa ekki eignast son til að erfa ríkið síðar meir. Eiga þau aðeins eina dóttur, Aiko, sem fæddist árið 2002. Vonuðust landsmenn og foreldrarnir að þau ættu von á syni, en þvert á vonirnar kom dóttirin til sögunnar. Samkvæmt lögum landsins geta aðeins karlmenn erft krúnuna. Að óbreyttu mun því stefna í óefni, enda er talið ósennilegt að krónprinshjónin geti eignast annað barn, enda eru þau tekin að eldast. Nú stefnir flest í að ríkisstjórn landsins ætli að bjarga málunum og tryggja eðlilegan framgang keisaraembættisins í komandi framtíð. Verður brátt í hennar nafni lagt fram lagafrumvarp fyrir þingið sem gerir ráð fyrir því að konur geti erft ríkið. Eins og flestir vita hefur enginn drengur fæðst í fjölskylduna síðan Naruhito fæddist á sjötta áratugnum. Þingið þarf að samþykkja þessar breytingar. Kannanir í Japan sýna að rúmlega 80% Japana vill breyta reglunum um keisaraembættið svo Aiko geti erft ríkið síðar meir. Hefur verið þrýstingur á krónprinshjónin til fjölda ára um að eignast son, en allt hefur komið fyrir ekki. Verði lögin samþykkt þurfa þau engar áhyggjur frekari að hafa og keisaraembættið er styrkt. En með þessu stefnir í að fyrsta konan taki við ríkinu.

Dan Rather

Óðum styttist í að fréttahaukurinn Dan Rather hætti störfum sem fréttastjórnandi CBS-sjónvarpsstöðvarinnar. Hann mun kveðja áhorfendur að kvöldi 9. mars. Eftirmaður hans hefur ekki verið formlega valinn en fyrst um sinn mun Bob Schieffer vera aðalfréttalesari stöðvarinnar í hans stað. 9. mars verða nákvæmlega 24 ár liðin frá því að Rather tók við embættinu af hinum goðsagnakennda fréttahauk Walter Cronkite sem var andlit frétta CBS í marga áratugi. Staða Rathers veiktist mjög í kjölfar þess að hann birti umdeilda fréttaskýringu um Bush forseta, og birti gögn máli sínu til stuðnings sem reyndust fölsuð. Telja má öruggt að þessi fréttaskýring hans hafi átt stóran þátt í því að hann vék fyrr en ella úr starfi. Rather sem er 73 ára að aldri, hefur verið lykilstarfsmaður í fréttamennsku CBS stöðvarinnar í rúm 40 ár. Hann var áberandi sem fréttamaður í málefnum Hvíta hússins sem senior reporter 1969-1977. Hann varð svo aðalfréttaþulur 1981. Rather mun eftir að hann hættir í næsta mánuði vinna áfram við fréttaskýringar hjá CBS. Efast er þó um að það verði mjög lengi.

The Remains of the Day

Horfði í gærkvöldi á bresku úrvalsmyndina The Remains of the Day. Myndin er byggð á samnefndri bók Ruth Prawer Jhabvala sem einnig skrifaði handritið en um framleiðslu og leikstjórn sá tvíeykið Merchant og Ivory, mennirnir sem stóðu að meistaraverkunum Howards End og A Room with a View en Ruth Prawer Jhabvala skrifaði ennfremur handritið að þeim myndum. Hér segir frá hinum trúfasta og húsbóndaholla bryta, James Stevens sem þjónar í sögubyrjun Bandaríkjamanninum Lewis á breska hefðarsetrinu Darlington Hall. Stevens varði mestum hluta ævi sinnar í þjónustu Darlington lávarðar, en hann hélt á heimili sínu marga alþjóðlega fundi árin 1936-1939 þar sem hann reyndi að hafa milligöngu um sættir þeirra þjóða sem deildu að lokum hart í seinni heimstyrjöldinni á árunum 1939-1945. Í byrjun myndarinnar er Darlington fallinn frá og Stevens eins og fyrr segir kominn undir stjórn nýs húsbónda. Honum er jafnframt orðið ljóst að trúmennska hans og hollusta ásamt blindri skyldurækni sinni, hefur kostað hann lífshamingjuna og hrakið á brott einu konuna sem bæði vildi eiga hann og þótti í raun vænt um hann.

Hann tekur sér ferð á hendur norður í land, þar sem hann hefur í hyggju að hitta þessa konu, en á meðan er rifjuð upp saga hans og starfsfólksins á Darlington Hall, en konan sem hann hyggst hitta er fröken Sally Kenton, en hún starfaði sem ráðskona á hefðarsetrinu undir stjórn hans á þeim tíma sem áður er lýst, þ.e.a.s. árunum fyrir seinni heimsstyrjöldina. Stevens varð þá ástfanginn af henni, en þorði ekki að segja henni hug sinn, en hún giftist öðrum manni. Hún hefur nú skilið við eiginmann sinn og hyggst Stevens reyna í seinasta sinn að vinna hug hennar. Hann vill ekki að það verði um seinan. En tekst honum að vinna ástir hennar... Frábær mynd. Handrit, tónlist, sviðsetningin og leikstjórnin er frábær, en aðall hennar er leikur aðalleikaranna. Sir Anthony Hopkins er frábær í hlutverki hins skyldurækna yfirþjóns á hefðarsetrinu og hefur hann sjaldan leikið betur. Emma Thompson er einnig stórkostleg í hlutverki ráðskonunnar fröken Kenton. Bæði voru tilnefnd til óskarsverðlaunanna. Semsagt; einstök kvikmynd sem ég mæli eindregið með að þeir kynni sér sem ekki hafa séð hana. Hún er meistaravel gerð og stórfenglega leikin af tveimur einstökum leiksnillingum.

Saga dagsins
1945 Dettifoss sökk norður af Írlandi. 15 manns fórust en 30 var bjargað. Þýski kafbáturinn U 1064 skaut skipið í kaf. Aðeins þremur mánuðum síðar játuðu Þjóðverjar sig sigraða í átökum stríðsins
1960 Fidel Castro leiðtogi Kúbu, ríkisvæðir öll fyrirtæki í landinu og segir það nauðsynlegt skref
1965 Blökkumannaleiðtoginn umdeildi, Malcolm X var myrtur, af íslömskum öfgatrúar-mönnum á fjöldafundi í New York. Malcolm var 39 ára gamall. Sagt var frá ævi hans í myndinni Malcolm X 1992
1972 Richard Nixon forseti Bandaríkjanna, kom í mjög sögulega heimsókn til Kína. Nixon varð fyrsti þjóðarleiðtogi Bandaríkjanna sem hélt í opinbera heimsókn til Kína frá valdatöku kommúnista 1949. Með þessu var blað brotið í samskiptum landanna og þíða komst á í samskiptum þeirra. Hann hitti í för sinni bæði Mao formann, og Zhou Enlai forsætisráðherra. För Nixons markaði mikil þáttaskil
2002 Breski leikarinn John Thaw lést úr krabbameini, sextugur að aldri - Thaw var einn helsti leikari Breta á 20. öld og hlaut fjölda viðurkenninga fyrir leik sinn. Thaw hlaut heiðursverðlaun Bafta 2001. Thaw mun verða lengi í minnum hafður fyrir meistaralega túlkun sína á lögregluforingjanum Morse

Snjallyrðið
Nú finn ég angan löngu bleikra blóma,
borgina hrundu sé við himin ljóma,
og heyri aftur fagra, forna hljóma,
finn um mig yl úr brjósti þínu streyma.

Ég man þig enn og mun þér aldrei gleyma.
Minning þín opnar gamla töfraheima.
Blessað sé nafn þitt bæði á himni og á jörðu.

Brosin þín mig að betri manni gjörðu
Brjóst þitt mér ennþá hvíld og gleði veldur.
Þú varst mitt blóm, mín borg, mín harpa og eldur.
Davíð Stefánsson skáld frá Fagraskógi (1895-1964) (Nú finn ég angan)


Engin fyrirsögn

Stefán Friðrik StefánssonSunnudagspistillinn
Í sunnudagspistli í dag fjalla ég um þrjú fréttamál vikunnar:

- í fyrsta lagi fjalla ég til dæmis um endurkomu Davíðs Oddssonar utanríkisráðherra, í þjóðmálaumræðuna, eftir leyfi erlendis. Í þann aldarfjórðung sem Davíð hefur verið lykilmaður í íslenskum stjórnmálum: í borgarstjórnar- og landsmálapólitík, hefur aldrei gerst að hann hafi verið jafnlengi fjarverandi miðpunkt stjórnmálaumræðunnar. 5 vikur án Davíðs Oddssonar í þjóðmálaumræðunni hefur ekki verið algeng sjón hjá okkur sem tilheyrum minni kynslóð sem höfum alla tíð fylgst með Davíð í eldlínu umræðunnar og sem lykilmanni í stjórnmálaheiminum hérlendis. Mörg stór mál biðu Davíðs við komuna til landsins. Eitt þeirra er umsókn Íslands í öryggisráð Sameinuðu þjóðanna. Tjáði Davíð sig um málið í vikunni og er ekki hægt annað en að lýsa yfir ánægju með þau ummæli hans, enda bendir flest til þess að málið sé farið út af sporinu. Meðal annarra mála sem sett hefur svip á vikuna eru málefni skákmeistarans Bobby Fischer sem var veitt dvalarleyfi í desember, sem nægði honum ekki í stöðunni og sótti því um íslenskan ríkisborgararétt. Mikil umræða varð um málið í allsherjarnefnd sem hafnaði erindi hans að svo stöddu í vikunni.

- í öðru lagi fjalla ég um málefni Landsvirkjunar, en mikil þáttaskil eru framundan hjá fyrirtækinu. Á fimmtudag undirrituðu iðnaðarráðherra, bæjarstjórinn á Akureyri og borgarstjórinn í Reykjavík viljayfirlýsingu þess efnis að íslenska ríkið muni formlega leysa til sín eignarhluta sveitarfélaganna í fyrirtækinu. Enn á eftir að ganga frá formlegri lausn málsins, en það er komið í umrætt ferli. Mikil tímamót felast í undirritun viljayfirlýsingarinnar og ánægjulegt að sveitarfélögin víki úr eigendahópnum. Í framhaldinu er stefnt að sameiningu Landsvirkjunar, RARIK og Orkubús Vestfjarða. Stefnt er að einu öflugu fyrirtæki að hálfu ríkisins í dreifingu, sölu og framleiðslu á raforku. Í kjölfarið verður það gert að hlutafélagi, eigi síðar en 2008. Eins og við mátti búast eru ekki allir sáttir við þessa lausn mála. Bendi ég á skoðanir vinstri grænna á því og andstöðu þeirra jafnan við breytingar á orkufyrirtækjum, sem sást best hér er Norðurorka var hlutafélagavædd 2002.

- í þriðja lagi fjalla ég um 10 ára afmæli heimasíðu Björns Bjarnasonar dómsmálaráðherra. Björn hefur verið brautryðjandi í vefskrifum íslenskra stjórnmálamanna á netinu og er fyrirmynd margra í netvinnslu og í því að skrifa á netinu almennt. Á vef hans er hægt að fylgjast með verkum og skrifum Björns allan feril hans sem ráðherra, þingmanns og borgarfulltrúa. Það hefur alla tíð verið hvetjandi að fylgjast með störfum hans í gegnum vefinn og lesa skrif hans. Framlag Björns til netmála er mikils virði og forysta hans skipt mjög miklu máli. Netskrif almennt eru mjög áhugaverð. Það er mjög gagnlegt að fylgjast með skoðunum fólks og kynnast áherslum þess í hitamálum í samfélaginu og fara yfir umfjöllun þeirra um málefnin. Slík miðlun upplýsinga skiptir mjög miklu og skapar mörg sóknarfæri fyrir fólk að geta tjáð skoðanir sínar. Þekki ég þetta vel, enda sjálfur þátttakandi í því að tjá mig á netinu.

Punktar dagsins
Hillary Rodham Clinton

Undanfarna daga hafa öldungadeildarþingmennirnir Hillary Rodham Clinton og John McCain verið á ferð í Bagdad, höfuðborg Íraks. Þar fara þau fyrir sendinefnd bandaríska þingsins til landsins. Hefur nefndin rætt við marga fulltrúa írakskra stjórnvalda: t.d. ráðherra bráðabirgðarstjórnar landsins, sem brátt mun víkja fyrir fulltrúum sigurvegara kosninganna, 30. janúar sl. Hillary hefur oft gagnrýnt harðlega stefnu Bandaríkjastjórnar í Írak og verið mjög áberandi í gagnrýni á því hvernig ríkisstjórn Bandaríkjanna hefur haldið á stöðu mála í landinu. Að undanförnu þykir staða Hillary hafa styrkst til muna innan Demókrataflokksins. Ef marka má nýlegar skoðanakannanir nýtur hún mests stuðnings þeirra sem nefnd hafa verið til sögunnar sem forsetaefni flokksins árið 2008. Eins og staðan er núna stendur hún því afgerandi með pálmann í höndunum hvað varðar stöðuna fyrir næsta forsetakjör sem vænlegasta leiðtogaefni flokksins. En rúm þrjú ár eru þar til flokksþing demókrata fyrir næstu forsetakosningar verður haldið, það er heil eilífð í stjórnmálum. Næsta verkefni hennar verður kosningabarátta fyrir þingkosningarnar í New York á næsta ári. Sigur þar og endurkjör í öldungadeildina er nauðsynlegt skref fyrir Hillary, ætli hún að láta frekar að sér kveða.

Göran Persson

Ef marka má skoðanakannanir í Svíþjóð hafa vinsældir forsætisráðherrans Göran Persson, Jafnaðarmannaflokksins og ríkisstjórnarinnar dalað nokkuð undanfarna mánuði. Ef t.d. er farið yfir tölur um persónuvinsældir forsætisráðherrans er ljóst að þær hafa minnkað um tæpan helming á seinustu tveim árum, eða frá sambærilegri könnun 2003. Fredrik Reinfeldt leiðtogi hægriflokksins Moderata, nýtur nú meiri persónufylgis en forsætisráðherrann. Þetta eru mikil tímamót, enda hefur það ekki gerst í næstum 14 ár að leiðtogi hægrimanna sé vinsælli en leiðtogi Jafnaðarmannaflokksins. Í upphafi forsætisráðherraferils hægrimannsins Carl Bildt 1991-1994, var hann vinsælasti stjórnmálamaður landsins. Við blasir að ein helsta ástæða þessa séu viðbrögð Perssons og stjórnarinnar við hamförunum í Asíu, en stjórnin var sökuð um að bregðast seint og illa við. Þrátt fyrir hnignandi gengi Persson er ólíklegt að hann hrökklist frá völdum fyrir þingkosningar á næsta ári. Ein helsta ástæða þess er að það vantar afgerandi eftirmann hans. Allt frá morðinu á krónprinsessu flokksins, Önnu Lindh, fyrir einu og hálfu ári, hefur vantað leiðtogaefni til framtíðar. Margir telja sig sjá þá vonarstjörnu sem vantar í Margot Wallström varaforseta ESB og fyrrum ráðherra. Hún hefur hinsvegar nú lýst því yfir að hún stefni ekki að þingframboði heima fyrir á næsta ári.

Bill Clinton og George H. W. Bush

George H. W. Bush og Bill Clinton fyrrum forsetar Bandaríkjanna, hafa undanfarna daga verið á ferð um hamfarasvæðin í Asíu, þar sem hinar skelfilegu náttúruhamfarir riðu yfir á öðrum degi jóla. Hafa þeir kynnt sér stöðu mála og björgunarstarfið sem hefur verið á þessum svæðum seinustu vikurnar og rætt við þjóðarleiðtoga í löndunum sem um ræðir. Þeir hafa farið um Taíland, Indónesíu og Sri Lanka og voru t.d. í gær í Aceh-héraði þar sem einna mesta eyðileggingin varð. Forsetarnir fyrrverandi voru valdir, af Rauða krossinum og alþjóðlegum hjálparsamtökum í samráði við George W. Bush forseta Bandaríkjanna, til að fara fyrir fjársöfnun til aðstoðar fórnarlömbum náttúruhamfaranna og eru þeir talsmenn átaksins á heimsvísu. Hafa þeir unnið vel að þessu verkefni og verið ötulir í störfum sínum, eins og sést hefur af framgöngu þeirra allt frá upphafi. Ferð þeirra um flóðasvæðin er mikilvægur þáttur í starfinu sem framundan er og uppbyggingunni sem blasir við á þessum svæðum. Eyðileggingin er algjör á flestum stöðum og ljóst að mikið verk er framundan.

All the King´s Men

Horfði í gærkvöldi á kvikmyndina All the King´s Men. Í henni er sögð saga stjórnmálamannsins Willie Stark sem rís upp úr litlum efnum, nemur lögfræði og gefur kost á sér til stjórnmálastarfa. Hann er kosinn sem leiðtogi í stéttarfélag og nær þannig að vekja á sér athygli með því að komast í sveitarstjórn svæðisins. Hann reynir því næst að komast í ríkisstjórastólinn og tekst það í annarri tilraun, en í þeirri fyrri höfðu valdamiklir menn barist gegn honum, en í seinna skiptið samdi hann við andstæð öfl til að hljóta stuðning. Með þessu opnar hinn heiðarlegi Willie veginn fyrir því að kaupa sér stuðning og kemst í óvandaðan félagsskap. Brátt kemur að því að samstarfsfólk ríkisstjórans heiðarlega fer að taka eftir því að hann er bæði orðinn óheiðarlegur og siðspilltur og hefur umturnast í argaþrasi stjórnmálanna. Að lokum verður hann andstæða alls þess sem hann stóð fyrir í stjórnmálum.

Virkilega góð mynd sem hlaut óskarinn sem besta kvikmyndin árið 1949. Ætti að henta öllu stjórnmálaáhugafólki. Skólabókardæmi um það hvernig stjórnmálamaður getur fallið í freistni, farið af leið og endað sem andstæða þess sem stefnt var að: óheiðarlegur og spilltur. Broderick Crawford fer á kostum í hlutverki Willies, sem var hlutverk ferils hans, en hann hlaut óskarsverðlaunin fyrir heilsteyptan leik, ennfremur Mercedes McCambridge sem stelur senunni í hlutverki Sadie, fjölmiðlafulltrúa og hjákonu Willies. John Ireland er svo eftirminnilegur ennfremur í lágstemmdu hlutverki sögumannsins Jack Burden, sem rekur upphaf, hátind og að lokum fall stjórnmálamannsins Willie Stark. Mjög sterk mynd sem lýsir með stórbrotnum hætti hvernig fólk getur farið út af sporinu með því að falla í freistni. Óviðjafnanleg mynd sem allir stjórnmálaáhugamenn verða að sjá, allavega einu sinni. Hún er lífslexía fyrir alla stjórnmálaáhugamenn.

Saga dagsins
1816 Óperan Rakarinn frá Sevilla, Il Barbiere di Siviglia, eftir Gioacchino Rossini, frumsýnd í Róm
1882 Kaupfélag Þingeyinga, fyrsta kaupfélag landsmanna, stofnað formlega að Þverá í Laxárdal. KÞ var alla tíð mjög áhrifamikið bæði í samvinnuhreyfingunni og bændahreyfingunni. Varð gjaldþrota 1999
1902 Samband íslenskra samvinnufélaga, SÍS, var stofnað að Ystafelli í Köldukinn. Það varð eitt af umfangsmestu fyrirtækjum landsins á 20. öld og ráðandi í atvinnulífi landsmanna til fjölda ára. Við lok níunda áratugarins tók að halla undan fæti og stefndi í gjaldþrot. Niðurstaðan varð sú að helsti lánardrottinn SÍS, Landsbanki Íslands, tók yfir allar eignir fyrirtækisins upp í skuldirnar til bankans. Með því mátti heita að starfsemi SÍS væri lokið. Það starfar þó enn í dag að litlu leyti hér á Akureyri
1911 Fiskifélag Íslands var formlega stofnað til að styðja og efla almennar framfarir í sjávarútveginum
1962 John Glenn varð fyrsti Bandaríkjamaðurinn til að fara út í geiminn - hann varð heimsfrægur í kjölfarið. Glenn varð síðar öldungadeildarþingmaður demókrata í Ohio, og sat í þinginu 1974-1999

Snjallyrðið
Eitt orð, eitt ljóð, eitt kvein frá kvaldri sál
er kveðja mín. Ég veit þú fyrirgefur.
En seinna gef ég minningunum mál,
á meðan allt á himni og jörðu sefur.
Þá flýg ég yfir djúpin draumablá,
í dimmum skógum sál mín spor þín rekur,
Þú gafst mér alla gleði sem ég á.
Þú gafst mér sorg, sem enginn frá mér tekur.

Svo kveð ég þig. En er þú minnist mín,
þá mundu, að ég þakka liðna daga.
Við framtíð mína fléttast örlög þín.
Að fótum þínum krýpur öll mín saga.
Og leggðu svo á höfin blá og breið.
Þó blási kalt og dagar verði að árum,
þá veit ég að þú villist rétta leið
og verður mín - í bæn, í söng og tárum.
Davíð Stefánsson skáld frá Fagraskógi (1895-1964) (Kveðja)


Engin fyrirsögn

Howard DeanLaugardagspælingin
Um síðustu helgi var Howard Dean fyrrum ríkisstjóri í Vermont, kjörinn formaður Demókrataflokksins. Tekur hann við embættinu af Terry McAuliffe, sem verið hefur formaður flokksins og yfirstjórnandi hans allt frá árinu 2001. Dean hlýtur starfið umfram allt vegna hæfileika sinna sem öflugur skipuleggjandi og kröftugur fjáröflunarmaður. Í kosningabaráttu sinni fyrir embættinu hét hann því að byggja upp flokkinn frá grunni. Sérstaklega vinna að því að endurskipuleggja flokksstarfið í mismunandi ríkjum Bandaríkjanna, hefja almenna og markvissa sókn gegn Repúblikanaflokknum og útskýra betur afstöðu og stefnumál Demókrataflokksins en tekist hafi til þessa í kosningum. Dean er einna best þekktur fyrir að hafa verið einn af forsetaframbjóðendum flokksins í fyrra, en hann beið lægri hlut fyrir John Kerry í forkosningunum.

Dean starfaði sem heimilislæknir áður en hann hóf þátttöku í stjórnmálum. Hann varð ríkisstjóri í Vermont árið 1991 og sat í embætti í 12 ár, eða til 2003. Dean fór mikinn í upphafi kosningabaráttunnar á síðasta ári fyrir forsetakosningarnar og náði t.d. að hljóta stuðning Al Gore fyrrum varaforseta, í desember 2003. Dean varð fyrstur til að tilkynna framboð í maí 2002. Hann naut mikils fylgis í skoðanakönnunum en tókst ekki að vinna neinar forkosningar demókrata, ef undan er skilinn sigur hans í heimafylkinu Vermont. Dean vann vel í aðdraganda forkosninganna í fyrra og tókst að safna metupphæð til framboðs síns að hálfu flokksins. Hann var talinn ósigrandi lengst af, eða allt fram að fyrstu forkosningunum í Iowa í janúar 2004. Eftir óvæntan stórsigur Kerrys í Iowa tók kosningabarátta hans mikinn kipp og tók hann afgerandi forystu í kosningaslagnum innan flokksins.

Dean þótti fremja pólitískt sjálfsmorð er hann ávarpaði stuðningsmenn í fylkinu. Þar öskraði hann í upptalningu þau ríki sem framundan væru á dagskránni og lét sem óður maður væri og virtist hafa litla stjórn á sér. Ræðan leiddi til þess að fjöldi fólks hætti stuðningi við hann. Eftir tapið í Iowa fjaraði hratt og örugglega undan Dean. Hann hætti við forsetaframboðið þann 19. febrúar 2004, en tilkynnti ekki stuðning við neinn annan frambjóðanda. Eins og aðrir í flokknum lagði Dean sitt að mörkum til stuðnings Kerry í forsetaslagnum, sem hann tapaði að lokum fyrir George W. Bush forseta Bandaríkjanna. Eftir tapið hóf Dean, sem hafði ekki lengur neinn vettvang til starfa innan flokksins eftir að hafa hætt sem ríkisstjóri fyrir forsetaframboð sitt, kosningabaráttu fyrir því að hljóta formannsembættið. Hann háði harða baráttu og mjög tvísýna um formannsstólinn lengst af, en tókst að lokum að tryggja sigur gegn kraftmiklum mótframbjóðendum. Hann var að lokum einn í kjöri og breið samstaða náðist um kjör hans í embættið og þá stefnu fyrir hönd flokksins sem hann boðaði.

Næg verkefni blasa við Dean í formannsembættinu næstu árin. Úrslit forseta- og þingkosninganna 2004 voru gríðarlegt áfall fyrir demókrata. Repúblikanar héldu meirihluta sínum, bæði í fulltrúa- og öldungadeild þingsins og Bush vann forsetakjörið með nokkuð afgerandi hætti og hlaut rúmlega 3% meira fylgi en Kerry. Tom Daschle leiðtogi demókrata í öldungadeildinni, missti þingsæti sitt og flokkurinn missti nokkur sæti í öldungadeildinni að auki. Sem fyrr varð flokkurinn undir í fulltrúadeildinni, sem repúblikanar hafa haft völdin í frá 1994. Demókrataflokkurinn er í algjörri pólitískri eyðimörk í Bandaríkjunum. Stefna forsetans fékk eindreginn meðbyr í kosningunum. Eftir þessar kosningar stóð Demókrataflokkurinn valdalaus og lamaður forystulega séð gegn öflugum forseta með meirihluta beggja þingdeilda að baki sér. Við blasir að demókratar þurfa að byggja sig upp frá grunni, forystulega sem hugsjónalega séð í starfi sínu fyrir þingkosningar 2006 og svo forsetakjör 2008. Það verður verkefni Dean að leiða þetta starf. Verður fróðlegt að sjá hvernig honum muni ganga í því verkefni.

Punktar dagsins
Sveitarfélög

Tveir mánuðir eru til áætlaðra kosninga um sameiningu sveitarfélaga, 23. apríl nk. Við blasir að ekki hefur enn náðst samkomulag um verkefna- og tekjuskiptingu ríkis og sveitarfélaga. Það er því vissulega allt í lausu lofti í þessum málum. Nefnd sem fjallað hefur um málið hefur fundað mjög stíft að undanförnu. Eins og vel hefur komið fram, allavega að hálfu okkar hér á Akureyri, teljum við sameiningarkosningarnar í uppnámi ef þessi mál liggja ekki fyrir og endanleg niðurstaða komin í málið sem hentar bæði aðilum ríkis og sveitarfélaga. Í mínum huga er ómögulegt að fara í slíka kosningu og sérstaklega að leggja til að sameining verði samþykkt séu þessir hlutar ósamdir og allt í óvissu tengt þeim. Þetta er stór hluti málsins og nær útilokað að fólk sjái hag í sameiningu ef þetta stóra mál stendur í sama farvegi og það er í núna.

Ef ekki kemur botn í málið fljótlega er ljóst að dagsetningin 23. apríl er vonlaus sem kjördagur um sameiningu. Verður samkomulag að liggja fyrir í næstu viku ef landa á þessu máli inn á planið með þessa dagsetningu. Heyrst hefur einnig að fari svo að samkomulag náist ekki að kosningu verði frestað til haustsins og kjördagur þá snemma í október. Sú dagsetning er reyndar alveg á mörkunum að mínu mati, enda eru sveitarstjórnarkosningar undir lok maí 2006 og það verður að liggja fyrir vel tímanlega hvernig sveitarfélög líta út fyrir þær kosningar, varðandi skipan á framboðslista og kosningamál almennt fyrir flokkana. Það væri því best fyrir alla aðila að lausn komist í málið í næstu viku og því verði lent með farsælum hætti, svo huga megi að þessum málum. Ef ekki semst bráðlega er mitt mat að vænlegast væri að salta málið framyfir sveitarstjórnarkosningar.

Davíð Oddsson utanríkisráðherra

Skondið atvik átti sér stað á Alþingi í vikunni, er Davíð Oddsson utanríkisráðherra, sneri aftur í þingið eftir rúmlega mánaðarleyfi erlendis. Kom hann til baka reffilegur, nýklipptur og vel greiddur og til í slaginn. Svaraði Davíð spurningum þingmanna og var greinilegt að stjórnarandstæðingar voru sérlega ánægðir með að fá Davíð aftur til að svara spurningum og taka forystuna á forystusviði stjórnmálanna á nýjan leik. Tæpt hálft ár er nú liðið frá því að hann lét af embætti forsætisráðherra, eftir rúmlega 13 ára samfellda setu. Mátti varla á milli sjá hvort hann væri utanríkisráðherra eða forsætisráðherra. Bæði þingmenn og hann sjálfur virtust hafa gleymt breytingunum sem átt hafa sér stað. Þingmenn vinstri grænna ávörpuðu hann sem hæstvirtan forsætisráðherra og Davíð sjálfur settist af gömlum vana í forsætisráðherrastólinn í þinginu. Svosem ekki undarlegt að maður sem setið hefur á sama stað í 13 ár ruglist á sætum. En þetta var allt mjög skondið og skemmtilegt. Það er greinilegt að í huga margra er Davíð enn forsætisráðherra landsmanna. Ekki undarlegt, miðað við yfirburðastöðu hans í íslenskum stjórnmálum.

Siv Friðleifsdóttir

Hlustaði á Talstöðina á mánudaginn. Þar var Siv Friðleifsdóttir alþingismaður og fyrrum ráðherra, í viðtali hjá Sigríði Dögg Auðunsdóttur og Sigurjóni M. Egilssyni í fréttahádegisþættinum. Var þar talað um stöðuna innan Framsóknarflokksins. Hún hefur síðastliðið hálft ár átt undir högg að sækja innan flokksins: missti ráðherrastól sinn og hefur þurft að horfa upp á innbyrðis átök í kjördæmi sínu, einkum í Kópavogi, sem beindust að stöðu hennar og nýs leiðtoga flokksins í bænum. Hún talaði af krafti og ekkert hik var á henni í þessu viðtali. Hef sjaldan heyrt Siv einbeittari. Hún ætlar að halda áfram af krafti í pólitík og sagðist ekkert myndu gefa eftir í átökum, ef til þeirra myndi koma um stöðu sína. Sjaldan hefur Siv verið eins ákveðin. Verður fróðlegt að fylgjast með stöðunni hjá Framsókn, sem virðist mjög eldfim og geta reyndar stefnt í margar áttir. Flokksþing Framsóknarflokksins verður um næstu helgi og spurningin sem helst er uppi er hvort um átakaþing verði að ræða þar. Það eru margar átakalínur í flokknum, hvort þær komi fram nú eða síðar verður að sjá til.

Útvarp

Talandi um Talstöðina. Þessi nýja talmálsstöð hefur farið ágætlega af stað. Þó er greinilegt á efnistökum og stjórnendum innanborðs að nokkur vinstrislagsíða er á stöðinni. Ef frá er talinn Ingvi Hrafn Jónsson virðist vinstribragurinn vera nær algjör. Fyrrum borgarfulltrúi Alþýðubandalagsins og núverandi formaður ungra vinstri grænna eru báðir á morgnana þarna með þætti og svona mætti lengi telja. Svo virðist Róbert Marshall hafa hætt við að fara á sjóinn og er með þátt þarna og virðist risinn aftur í fjölmiðlabransann eftir afglöp sín í starfi nýlega á Stöð 2. Skondið að fylgjast með endurkomu hans í þennan bransa. Svo virðist vera sem hann sé hæfari til að stjórna útvarpsþætti en sinna fréttamennsku. Mikill húmor í þessu öllu. En hvað með það. Það er alveg ágætt að hafa ekta talmálsstöð í gangi og vonandi endist þetta eitthvað betur hjá Baugsmiðlunum með talmálsstöðina nú en áður, þegar reynt var með Útvarp Sögu. Reyndar heyrum við hér úti á landi ekki talmálsstöðvarnar tvær nema í gegnum netið enn sem komið er. En spurning hvort það stendur eitthvað til bóta.

Saga dagsins
1960 Efnahagsráðstafanir viðreisnarstjórnarinnar voru samþykktar á Alþingi - þær fólust m.a. í 30% gengislækkun og auknu frelsi í útflutningi og innflutningi, m.a. á bílum. Afnám haftanna varð eitt merkasta verk viðreisnarstjórnarinnar, sem sat við völd allan sjöunda áratuginn og allt þar til 1971
1976 Íslendingar slitu stjórnmálasambandi við Breta vegna flotaíhlutanar þeirra innan 200 mílna fiskveiðilögsögunnar - þetta var í fyrsta skipti sem til stjórnmálaslita kom milli tveggja aðildarríkja Atlantshafsbandalagsins (NATO). Samband komst aftur á eftir rúma þrjá mánuði, er sættir náðust
1992 Kvikmynd Friðriks Þórs Friðrikssonar, Börn náttúrunnar, var tilnefnd til óskarsverðlauna sem besta erlenda kvikmyndin árið 1991 - hlaut ekki verðlaunin, en tilnefningin markaði mikil þáttaskil. Myndin skartaði Gísla Halldórssyni og Sigríði Hagalín í aðalhlutverkum, og fóru þau alveg á kostum
1997 Deng Xiaoping einn valdamesti leiðtogi kommúnistastjórnarinnar í Kína til fjölda ára, lést í Peking, 92 ára að aldri - Xiaoping var einn valdamesti leiðtogi hinnar vægðarlausu einræðisstjórnar
2000 Knattspyrnuhöllin í Reykjanesbæ vígð formlega - markaði þáttaskil fyrir íslenska knattspyrnu

Snjallyrðið
Ef ég sé fjöll í fjarlægð blána,
þá finn ég alltaf sömu þrána.
Á ljóðsins vængjum á loft ég fer,
og leita og skyggnist eftir þér.

Ég heyrði í svefni söng þinn hljóma.
Ég sá þig reika milli blóma.
Í bjarmadýrð þú birtist mér,
með brúðarkrans á höfði þér.

Þá lést þú sól á lönd mín skína
og lyftir undir vængi mína.
Svo hvarfst þú bak við fjarlæg fjöll
sem feykti blærinn hvítri mjöll.

En síðan reyni ég söngva þína
að seiða í hörpustrengi mína.
Í hljómum þeim á hjartað skjól
og heima bak við mána og sól.
Davíð Stefánsson skáld frá Fagraskógi (1895-1964) (Brúður söngvarans)


Engin fyrirsögn

Bobby FischerHeitast í umræðunni
Mikið hefur verið rætt á opinberum vettvangi um þá ákvörðun meirihluta allsherjarnefndar í gær, þess efnis að taka ekki fyrir að þessu sinni umsókn Bobby Fischer fyrrum heimsmeistara í skák, um íslenskan ríkisborgararétt. Sitt sýnist hverjum um málið og stöðu Fischers og hvort veita skuli honum ríkisborgararétt hérlendis. Ekkert er óeðlilegt við það, enda ólíkar skoðanir uppi um hvort Fischer eigi að koma hingað og ennfremur um það hvort sveigja eigi reglur um veitingu ríkisborgararéttar fyrir hann. Eins og ég hef oft bent á stenst Fischer ekki skilyrði fyrir veitingu ríkisborgararéttar, enda verður skv. lögum viðkomandi umsækjandi um ríkisborgararétt að hafa búið hérlendis í fimm ár og hafa hreint sakavottorð. Því getur aðeins þingið samþykkt undanþágu fyrir Fischer, og því er málið auðvitað komið í þetta margflókna ferli að þingnefnd tekur það fyrir áður en kæmi til beinnar umræðu í þinginu, ef þar væri umsókn og beiðni Fischers samþykkt. Ég er algjörlega andsnúinn því að skákmeistaranum verði veittur íslenskur ríkisborgararéttur með þessum hætti.

Minnti ég í gær á það mat mitt að ég væri ekki almennt hlynntur því að veita undanþágur frá lögum um ríkisborgararétt með þessum hætti. Mjög góð og gild rök þyrftu að vera fyrir hendi til að veita undanþágu. Það er eins og fram kom mitt mat að ómögulegt sé að afgreiða þetta mál sem einangraðan hlut, og án þess að skapa þá fordæmi í stöðunni. Er langbest að ítreka þessa skoðun. Verra er hinsvegar að verða vitni að því að þingmenn (og nefndarmenn í allsherjarnefnd) vita ekki um hvað málið snýst og tjá sig með stórundarlegum hætti um það. Gott dæmi um þetta sást í tíufréttum Ríkissjónvarpsins í gærkvöldi. Þar var mættur í viðtal Sigurjón Þórðarson alþingismaður Frjálslynda flokksins, sem á sæti í allsherjarnefnd. Þar kom hann fram með alveg stórmerkilegt sjónarhorn á þetta mál. Þar sagði hann að stjórnvöld hefðu látið undan þrýstingi Bandaríkjastjórnar og ekki staðið við orð sín gagnvart skákmeistaranum. Orðrétt sagði hann: "Ég vil einnig minna á að það var einnig ákvörðun utanríkisráðherra þjóðarinnar að bjóða þessum manni í heimsókn, en síðan þegar hann ætlar að mæta til landsins, að þá er bara skellt dyrunum á hann." Ótrúlegt er að nefndarmaður í allsherjarnefnd (sem ætti að þekkja allan grunn málsins) láti slík orð frá sér fara. Fischer var veitt dvalarleyfi, það boð stendur. Japönsk stjórnvöld hafa ekki leyft honum að fara hingað á þeim grunni og því sótti skákmeistarinn um ríkisborgararétt. Einfalt mál. Það sem var veitt, og er enn í fullu gildi, nægir honum ekki í stöðunni. Boð um landvistarleyfi hér jafngildir þó auðvitað ekki ríkisborgararétti. Þetta ættu allir með sæmilega greind að skilja. Þetta tvennt er ekki sama málið. Merkileg komment hjá þingmanni.

Siv FriðleifsdóttirSiv Friðleifsdóttir alþingismaður, hefur lagt fram á þingi, ásamt Jónínu Bjartmarz, Þuríði Backman og Ástu Ragnheiði Jóhannesdóttir, frumvarp til laga um að banna alfarið reykingar innanhúss á samkomustöðum, líka á veitingahúsum og börum. Verði lögin samþykkt muni þau koma til framkvæmda þann 1. maí 2006. Lagasetning í þessa veru hefur verið lengi í farvatninu í heilbrigðisráðuneytinu. Jón Kristjánsson heilbrigðisráðherra, hefur lengi haft hug á að leggja slíkt frumvarp fram, en ekki haft til þess fullan stuðning í ríkisstjórn og í þingflokkum stjórnarflokkanna. Leggja því þessar fjórar þingkonur frumvarpið fram í sínu nafni og taka við keflinu af ráðherranum og vinna að þessu baráttumáli hans. Ljóst er að mikil andstaða er við frumvarpið innan þingflokks Sjálfstæðisflokksins. Er reyndar andstaða líka innan Framsóknarflokksins við þetta frumvarp, sem er vart undarlegt, sé mið tekið af því að ráðherra leggur frumvarpið ekki fram.

Lagt er til að níunda grein laga um tóbaksvarnir orðist svo: Tóbaksreykingar eru óheimilar í þjónusturými stofnana, fyrirtækja og félagasamtaka, s.s. á veitinga- og skemmtistöðum og þar sem menningar- og félagsstarfsemi fer fram, þar með talið íþrótta- og tómstundastarf. Sama á við um þjónustusvæði utan húss séu þau undir föstu eða færanlegu þaki og meira en að hálfu leyti umlukin veggjum eða sambærilegum mannvirkjum. Nú, eins og allir vita sem þekkja mig eitthvað, reyki ég ekki og get því vart sett mig í spor reykingafólks vegna þessa máls. Hinsvegar tel ég þetta frumvarp ganga einum of langt og skil því vel það sjónarmið heilbrigðisráðherra að leggja ekki fram þetta frumvarp sem stjórnarfrumvarp, enda ólíklegt að það yrði samþykkt á þingi. Það er hinsvegar rétt að þessir þingmenn leggi málið fram og fái um það umræðu og skoðanir þingmanna til málsins komi fram. Hinsvegar tel ég mjög ólíklegt að það verði samþykkt og er satt best að segja ekki hlynntur frelsisskerðingu með þessum hætti. Hinsvegar sem einstaklingur sem reyki ekki hef ég skilning á þessum skoðunum, en tel málið ganga of langt. Það er langbest að láta staðina sjálfa ákveða þetta.

Punktar dagsins
Anders Fogh Rasmussen

Anders Fogh Rasmussen forsætisráðherra Danmerkur, gekk í morgun á fund Margrétar Þórhildar Danadrottningar, og kynnti henni nýskipaða ríkisstjórn sína. Stjórn Fogh hélt velli í dönsku þingkosningunum 8. febrúar sl. og hefur nú verið formlega endurmynduð eftir kosningarnar. Nokkrar breytingar og uppstokkun verða á stjórn landsins í kjölfar kosninganna. Bertil Haarder, sem setið hefur sem ráðherra málefna innflytjenda- og flóttamanna, verður mennta- og kirkjumálaráðherra í stað Tove Fergo sem féll í kosningunum. Rikke Hvilshøj tekur við málefnum innflytjenda og flóttamanna af Haarder. Þá verður Lars Barfoed fjölskyldu- og neytendamálaráðherra. Hann tekur við embætti af Henriette Kjær, sem varð að segja af sér ráðherraembættinu í kjölfar frétta af óreiðu í heimilisbókhaldi sínu og vangoldinna reikninga sem mikið var um fjallað. Ulla Tørnæs tekur við ráðuneyti þróunarmála. Connie Hedegaard umhverfisráðherra, verður jafnframt samstarfsráðherra Norðurlanda. Flemming Hansen sem sinnt hefur málefnum Norðurlandanna með samgöngumálunum verður áfram samgönguráðherra og tekur jafnframt að sér orkumálaráðuneytið. Það verða því ýmsar smávægilegar breytingar á stjórninni, en skipan helstu ráðherrastólanna verður óbreytt.

Karl Gústaf SvíakonungurSylvía Svíadrottning

Karl Gústaf XVI Svíakonungur og Silvía Svíadrottning, ferðuðust í dag um suðvesturströnd Taílands, á flóðasvæðunum þar sem mannskæðar náttúruhamfarir riðu yfir á öðrum degi jóla. Þar létust margir Norðurlandabúar, flestir þeirra sænskir ferðamenn í jólaleyfi. Náttúruhamfarirnar voru með ógnvænlegustu hamförum seinustu áratuga og létust rúmlega 200.000 manns lífið í þeim skelfilega atburði. Í ferð sinni hafa konungshjónin víða farið og kynnt sér stöðu mála. Er þetta framlag þeirra til að sýna samhug með þeim Svíum sem annaðhvort létust í hamförunum eða sluppu lifandi, og ennfremur minnast þeirra sem létust í hamförunum. Meðal þess sem þau hafa gert er að heimsækja miðstöð þar sem unnið er að því að smíða fiskibáta, en bátafloti Taílendinga varð mjög illa úti í hamförunum. Kynnti hann þar viljayfirlýsingu sem gerir ráð fyrir því að Svíar gefi Taílendingum 100 báta til veiða. Hafa sænsk fyrirtæki fjármagnað viðkomandi báta og gefið vilyrði fyrir fleirum. Hafa þau heimsótt ennfremur hjálparmiðstöðvar sem reistar voru til að aðstoða fólk og við þá vinnu sem fylgt hefur hamförunum.

The China Syndrome

Um áttaleytið í gærkvöldi fór ég á fund í Kaupangi. Fín kvöldstund og gott spjall við gott fólk um málin. Var fínasti fundur. Unnum á fullu í skipulagningu starfsins næstu vikurnar. Er margt spennandi framundan. Kom heim á ellefta tímanum. Horfði þá á kvikmyndina The China Syndrome. Vel gerð kvikmynd sem vann hug og hjörtu kvikmyndaaðdáenda árið 1979, og var ennfremur tilnefnd til sex óskarsverðlauna. Í henni er sagt frá tilraun yfirmanna kjarnorkuvers í Kaliforníu til að hylma yfir bilun í verinu en sjónvarpsfréttamenn komast brátt á snoðir um að eitthvað mikið sé að. Sérlega spennandi og vönduð dramatísk mynd í bland með stórkostlegum leik allra aðalleikaranna sem hittir beint og ákveðið í mark. Sérlega áhrifarík stórmynd sem er ekki einungis fagur velluboðskapur heldur raunsæ og ákveðin í allri túlkun og setur fram blákaldar staðreyndir um hörmungar sem myndu hljótast af (mögulega eða jafnvel) væntanlegu kjarnorkuslysi og af eyðileggingarmætti kjarnorkunnar og af vita vonlausu samsæri yfirmanna kjarnorkuversins að þegja málið í hel.

Hér fara þau öll á kostum óskarsverðlaunaleikarnir: Jack Lemmon, Jane Fonda og Michael Douglas. Lemmon er stórfenglegur í hlutverki hins samviskusama og úrræðagóða yfirmanns í kjarnorkuverinu. Stjörnuleikur hjá einum af bestu leikurum seinustu aldar. Glansar í erfiðu hlutverki. Ekki er Fonda síðri í hlutverki hinnar gallhörðu og einstaklega úrræðagóðu sjónvarpsfréttakonu, og vinnur hún sífellt betur á með hverri þraut. Eitt af bestu hlutverkum hennar. Douglas er sterkur í hlutverki hins traustlynda og vinnufúsa sjónvarpsupptökumanns. Það er semsagt úrvalsleikur sem ekki síst einkennir og mótar þessa úrvalsmynd. Þau eru öll mjög sannfærandi og gera það að verkum að myndin er sífellt spennandi og vel úr garði gerð. Lokamínúturnar eru mjög spennandi og eru með áhrifaríkustu lokamínútum í kvikmynd. Myndin fékk aukið vægi þegar alvöru kjarnorkuslys átti sér stað tæpri viku eftir frumsýningu myndarinnar, á Þriggja mílna eyju, og orsakaði að myndin setti sýningarmet yfir frumsýningavikuna, sem hélst allt þar til stjörnustríðsmyndin The Empire Strikes Back var frumsýnd, árið eftir. Sterk og öflug mynd, fyrir sanna kvikmyndaunnendur.

Búrfellsvirkjun

Eins og fram kom hér á vefnum í gær hafa iðnaðarráðherra, bæjarstjórinn á Akureyri og borgarstjóri undirritað viljayfirlýsingu um að ríkið leysi til sín eignarhluti Akureyrarbæjar og Reykjavíkurborgar í Landsvirkjun og í kjölfarið að fyrirtækið verði stokkað upp. Er gert ráð fyrir að það verði að hlutafélagi eigi síðar en árið 2008. Mjög ánægjuleg þróun sem ber að gleðjast með. Um er að ræða nauðsynlega uppstokkun hjá fyrirtækinu og ánægjulegt að sveitarfélögin víki úr fyrirtækinu. En það eru ekki allir ánægðir. Eins og við má búast er þingflokkur VG mjög ósáttur við stöðuna og telur hana ekki til framdráttar. Eru þetta sömu raddir og komu þegar að Norðurorka var gerð að hlutafélagi árið 2002 og í fleiri sambærilegum tilfellum. Þingflokkurinn mótmælir öllum áformum um frekari markaðs- og einkavæðingu almannaþjónustu á sviði orkuframleiðslu og orkudreifingar. Sami gamli kommatónninn á þessum bænum. Er þetta ekkert nýtt, en óneitanlega skondið. Ekki hægt að segja annað. Aftur til fortíðar, ætti að vera kosningaslagorð VG fyrir næstu kosningar.

Saga dagsins
1875 Eldgos hófst í Sveinagjá á Mývatnsöræfum - varð undanfari Öskjugoss rúmum mánuði síðar
1884 Mikið og öflugt snjóflóð féll á fjórtán íbúðarhús á Seyðisfirði - 24 íbúar bæjarins létu þá lífið
1929 Óskarsverðlaunin afhent formlega í fyrsta skipti - eru veitt árlega. Stærsta kvikmyndahátíðin
1959 Vitaskipið Hermóður fékk á sig brotsjó undan Reykjanesi og fórst með allri áhöfn, 12 manns
1979 Snjókoma í Sahara eyðimörkinni - í fyrsta skipti sem það gerðist á öldinni svo að vitað væri af

Snjallyrðið
Er vetrarnóttin hjúpar hauður
í húmsins dökka töfralín
og báran smá í hálfum hljóðum
við hamra þylur kvæðin sín.

Á vængjum draumasálir svífa
frá sorg er dagsins gleði fól
um óravegi ævintýra
fyrir austan mána og vestan sól.

Þótt örlög skilji okkar leiðir,
í örmum drauma hjörtun seiðir
ástin heit, sem fjötra allra brýtur,
aftur tendrast von, sem löngum kól.
Loftur Guðmundsson (Fyrir austan mána)


Engin fyrirsögn

LandsvirkjunHeitast í umræðunni
Valgerður Sverrisdóttir iðnaðarráðherra, Kristján Þór Júlíusson bæjarstjóri, og Steinunn Valdís Óskarsdóttir borgarstjóri, undirrituðu í dag, í Þjóðmenningarhúsinu, viljayfirlýsingu þess efnis að íslenska ríkið muni formlega leysa til sín eignarhluta Akureyrarbæjar og Reykjavíkurborgar í Landsvirkjun. Enn á eftir að semja um endanlegt verð fyrir fyrirtækið og málið er því ekki endanlega afgreitt, en undirrituð er viljayfirlýsing til að staðfesta áhuga á að setja málið í þetta ferli. Samningaviðræður hafa staðið lengi um þessa lausn mála og munaði litlu að skrifað yrði undir svipaða yfirlýsingu undir lok nóvembermánaðar í fyrra, skömmu fyrir starfslok Þórólfs Árnasonar í embætti borgarstjóra, en hann vék af þeim stól 1. desember sl. Hafði Þórólfur lengi unnið að málinu fyrir hönd borgarinnar og reynt var að ná samkomulaginu í gegn áður en hann léti af embætti. Það kemur því í hlut eftirmanns hans að undirrita viljayfirlýsinguna fyrir hönd borgarinnar. Mikil tímamót felast í undirritun viljayfirlýsingarinnar.

Er þetta mikið ánægjuefni að samstaða hafi náðst um þessa lausn mála. Þó er vissulega enn eftir að ganga frá málinu endanlega, en vonandi mun það ganga greiðlega fyrir sig. Er þetta stórt skref, þó vissulega sé það ekki endanlega komið í höfn. Er rétt að sveitarfélögin fari með formlegum hætti úr rekstri Landsvirkjunar. Er þetta gert í ljósi nýlegra raforkulaga, en þau fela í sér samkeppni í vinnslu og sölu á raforku. Reykjavíkurborg og Akureyrarbær eru eigendur öflugra orkufyrirtækja, Orkuveitu Reykjavíkur og Norðurorku, og því rétt að þau losi um eignarhlut sinn í Landsvirkjun. Framundan er nú að meta að fullu virði fyrirtækisins. Munu óháðir aðilar fara í það verkefni nú. Er því ekki endanlega ljóst hvert verðmæti eignarhluta sveitarfélaganna tveggja sé. Íslenska ríkið á helming fyrirtækisins, Reykjavíkurborg um 45% og Akureyrarbær rúm 5%. Ef marka má ársreikning fyrirtækisins fyrir árið 2003 er bókfært eigið fé þess rúmlega 40 milljarðar króna. Náist endanlegir samningar um þessa lausn mála munu greiðslur fyrir eignarhlutana renna beint til að mæta lfeyrisskuldbindingum sveitarfélaganna. Kemur fram í viljayfirlýsingunni að samningur þessa efnis skuli liggja fyrir eigi síðar en 30. september 2005. Stefnt er að því að þessar breytingar á eignarhaldinu muni ekki eiga sér stað síðar en undir lok ársins, eða fyrir 1. janúar 2006. Í framhaldinu stefnir ríkið að því að sameina Landsvirkjun, RARIK og Orkubú Vestfjarða. Stefnt er því að einu öflugu fyrirtæki að hálfu ríkisins í dreifingu, sölu og framleiðslu á raforku. Í kjölfar þess verði það gert að hlutafélagi, eigi síðar en á árinu 2008. Mikið ánægjuefni það.

Bobby FischerSamþykkt var á fundi allsherjarnefndar í morgun að afgreiða ekki að þessu sinni mál Bobby Fischer fyrrum heimsmeistara í skák. Eins og frægt varð undir lok síðasta árs ákváðu íslensk stjórnvöld að veita honum dvalarleyfi hér á landi en hann hefur verið í gæsluvarðhaldi í Japan frá því um miðjan júlímánuð 2004. Bandarísk yfirvöld hafa óskað eftir því að fá Fischer framseldan til Bandaríkjanna, en þar á hann yfir höfði sér allt að 10 ára fangelsi fyrir að hafa brotið viðskiptabann Bandaríkjanna gegn Júgóslavíu með því að tefla við Boris Spassky í Belgrad árið 1992. Síðan hefur Fischer verið á flótta og ekki farið til Bandaríkjanna. Í ársbyrjun, í kjölfar þess að japönsk yfirvöld tilkynntu að hann fengi ekki að koma hingað til lands nema að hann hlyti íslenskan ríkisborgararétt, skrifaði Fischer bréf til Alþingis og bað um hann formlega. Fischer stenst ekki skilyrði fyrir veitingu ríkisborgararéttar, enda verður skv. lögum viðkomandi að hafa búið hérlendis í fimm ár og hafa hreint sakavottorð. Því getur aðeins þingið samþykkt undanþágu fyrir Fischer.

Allsherjarnefnd hefur með þessari ákvörðun hindrað frekari framgang þess. Mun nú reyna á það hvort japönsk stjórnvöld taki mark á dvalarleyfi Fischers hingað til lands. Bjarni Benediktsson formaður allsherjarnefndar, mælti með því á fundinum í morgun að erindið yrði ekki afgreitt. Segir Bjarni að nefndin sé jákvæð fyrir veitingu ríkisborgararéttar, fái Fischer að koma til landsins. Með öðrum orðum, boltinn er hjá japönskum yfirvöldum. Leyfi þau honum ekki að koma hingað, er málið strandað. Tel ég þessa ákvörðun nefndarinnar, og mat formanns hennar, rétta. Lýsti ég yfir ánægju minni með þá ákvörðun að íslensk stjórnvöld styddu við bakið á Fischer. Ég er hinsvegar algjörlega andsnúinn því að honum verði veittur íslenskur ríkisborgararéttur með þeim hætti sem um er rætt. Ég er almennt séð ekki mjög hlynntur því að veita undanþágur frá lögum um ríkisborgararétt með þessum hætti. Fyrir eru mjög góðar reglur um veitingu hans og þurfa að vera mjög gild rök fyrir því að veita undanþágu. Ég sé ekki þörfina á að veita honum ríkisborgararétt umfram reglurnar sem fyrir hendi eru, en hann stenst þau ekki eins og fyrr er sagt. Er ómögulegt að mínu mati að afgreiða þetta sem einangraðan hlut, og án þess að skapa þá fordæmi fyrir fleiri að sækja um slíkt og fá ríkisborgararétt með sama hætti.

Punktar dagsins
Pétur H. Blöndal

Mikil umræða hefur verið seinustu daga um stöðu mála í Framsóknarflokknum í kjölfar þess að forysta flokksins samdi frið við Kristinn H. Gunnarsson þingmann flokksins, og hleypti honum að nýju í þingnefndir. Er almennt talið að samið hafi verið við hann til að tryggja frið á væntanlegu flokksþingi og formaður flokksins hafi viljað halda góðum stuðningi í formannskjöri. Hætta hafi verið á að flokksmenn úr Norðvesturkjördæmi myndu mæta vígreifir til þingsins og læti hefðu orðið þar vegna stöðu Kristins og getað leitt til þess að formaðurinn hefði verið endurkjörinn með mun minni stuðning þingfulltrúa en dæmi eru fyrir í sögu flokksins. Formenn Framsóknarflokksins hafa verið kjörnir nær einróma allt frá stofnun flokksins, ef frá er talið uppgjörið 1944 þegar Jónasi Jónssyni frá Hriflu, var velt af formannsstóli. Pétur H. Blöndal alþingismaður, tjáði sig um stöðu mála í Framsókn í morgunþættinum Ísland í bítið, í morgun á Stöð 2. Í vikulegu spjalli með Merði Árnasyni sagði Pétur að undarlegt væri að túlkað væri sem svo að Kristinn væri gerður að píslarvotti í málinu. Hann hefði unnið með honum í nefndum og hefði kynnst manninum og vinnubrögðum hans. Einbeitt ummæli sem segja meira en mörg orð um hvernig samkomulagið hefur verið orðið milli þeirra í efnahags- og viðskiptanefnd undir lokin.

Jón Karl Ólafsson og Ragnhildur Geirsdóttir

Tilkynnt var formlega í gær um breytingar á yfirmannasviði Flugleiða í kjölfar þess að Sigurður Helgason forstjóri, lætur af störfum þann 1. júní nk. eftir 20 ára setu á forstjórastóli fyrirtækisins. Stjórn Flugleiða hefur ráðið Ragnhildi Geirsdóttur framkvæmdastjóra hjá Icelandair, í starf forstjóra Flugleiða, og Jón Karl Ólafsson framkvæmdastjóra Flugfélags Íslands, sem forstjóra Icelandair. Það taka því tvö við störfum Sigurðar í sumar. Munu þau vinna með Sigurði þann tíma sem hann á eftir og taka svo formlega við í júníbyrjun. Mikið gleðiefni er að Ragnhildur fái þessa stöðu og verði yfirstjórnandi Flugleiða. Hún er aðeins 33 ára gömul og hefur átt skjótan frama. Hún hóf störf hjá Flugleiðum árið 1999. 2002 var hún skipuð forstöðumaður rekstrarstýringardeildar og framkvæmdastjóri rekstrarstýringarsviðs Icelandair í janúar 2003. Jón Karl hóf störf hjá Flugleiðum árið 1984, en hefur verið framkvæmdarstjóri Flugfélags Íslands frá árinu 1999. Þau eru kjörin til að taka við af Sigurði sem hefur unnið gott starf hjá fyrirtækinu.

Rene Russo og Clint Eastwood í In the Line of Fire

Horfði í gærkvöldi á kvikmyndina In the Line of Fire. Hörkugóð og vel leikin úrvalsmynd, frá árinu 1993, sem segir frá Frank Horrigan, sem er lífvörður forseta Bandaríkjanna. Hann er í sögubyrjun kominn á sjötugsaldurinn og hefur ótvírætt umfangsmikla reynslu í starfi sínu eftir tæplega þrjátíu og fimm ára starf í leyniþjónustunni sem lífvörður forsetans. Hefur hann í raun aldrei jafnað sig á því að hafa mistekist að vernda John F. Kennedy forseta Bandaríkjanna, sem myrtur var í Dallas í Texas, 22. nóvember 1963. En allt í einu hefur samband við hann maður sem hefur í hyggju að myrða yfirmann Franks, núverandi forseta Bandaríkjanna, sem er nú í hörðum kosningaslag um lyklavöldin í Hvíta húsinu og er undir í baráttunni er sagan hefst. Er Frank áttar sig á að honum er alvara leggur hann til atlögu gegn skaðvaldinum. En spurningin að lokum er óneitanlega tvíþætt: tekst Frank að bjarga lífi forsetans eða tekst tilræðismanninum að myrða hann og mistekst Frank rétt eins og í Texas hinn heita vetrarmorgun er JFK féll fyrir morðingjahendi.

Clint Eastwood fer á kostum í einu af hans allra bestu hlutverkum á ferlinum. Hann er frábær sem hinn einmana leyniþjónustumaður sem lifir kyrrlátu lífi, sinnir vinnu sinni en fær sér einn kaldan bjór og hlustar á og spilar jazz utan vinnutíma. John Malkovich hefur aldrei verið betri en hér í hlutverki tilræðismannsins, Mitch Leary. Hann er alveg stórfenglegur í túlkun sinni, meistaralega góður er hann tjáir hið brenglaða eðli Leary og hæfileika hans til að spinna hinn margflókna vef sem mun jafnvel duga honum til að drepa forsetann. Hann hlaut tilnefningu til óskarsverðlauna fyrir leik sinn, var það hreinn skandall að hann vann ekki verðlaunin. Rene Russo er flott í hlutverki lögreglukonunnar Lilly Raines, og Dylan McDermott á góða takta sem Al D'Andrea, vinnufélagi Franks. Hér gengur allt upp: frábær leikur, vandað handrit og meistaraleg leikstjórn (þjóðverjans Wolfgang Petersen). Rúsínan í pylsuendanum er svo hin frábæra tónlist meistara Ennio Morricone, sem klikkar ekki frekar en fyrri daginn. Semsagt: hörkugóð og ógleymanleg hasarmynd sem fær áhorfandann til að gleyma stað og stund og tryggir spennandi kvöldstund.

Davíð Oddsson utanríkisráðherra

Enn einu sinni var Íraksmálið rætt í þingsölum í dag. Miklu jákvæðari tónn var í umræðunni að þessu sinni, enda verið að ræða um kosningarnar í landinu þann 30. janúar sl. og þá lýðræðisþróun í landinu sem þær mörkuðu. Málshefjandi var Jónína Bjartmarz alþingismaður. Beindi hún nokkrum spurningum til Davíðs Oddssonar utanríkisráðherra, um stöðu mála í Írak. Í svörum sínum sagði Davíð að Íslendingar myndu taka virkan þátt í uppbyggingunni þar með öðrum þjóðum. Sagði Davíð í umræðunum að án innrásar í Írak hefðu aldrei komið til lýðræðislegar kosningar þar og engin lýðræðisþróun orðið. Er þetta rétt, enda trúa fáir því að í valdatíð einræðisstjórnar Saddams og Baath-flokksins hefði verið boðað til lýðræðislegra kosninga. Þetta bara blasir við. Án íhlutunar annarra þjóða væru einræðisöflin þar enn við völd. Þær fréttir komu annars í dag frá Írak að sjítar hlutu hreinan meirihluta á írakska þinginu og geta því stjórnað landinu einir, en þurfa samkomulag við aðra við val á þingforseta og í fleiri embætti. Blasir við að kosningarnar voru frjálsar og opnar, enda seint hægt að segja að beinn vilji Bandaríkjamanna hefði verið að sjítar ynnu þær.

Saga dagsins
1866 Kristján Jónsson Fjallaskáld, orti kvæðið Þorraþrælinn (sem hefst svo: Nú er frost á Fróni)
1906 Fyrsta fréttamyndin í íslensku blaði birtist í Ísafold - var teikning sem sýndi frá Friðrik VIII konung, ávarpa fólk í Amalienborg, 18 dögum áður. Fyrstu innlendu fréttamyndirnar birtust 1913
1947 Ingólfur Arnarson, fyrsti Nýsköpunartogarinn svokallaði (af meira en þrjátíu), kom til landsins
1969 Golda Meir leiðtogi ísraelska Verkamannaflokksins, verður fyrsti kvenforsætisráðherra Ísraels - Meir sat á forsætisráðherrastóli allt til ársins 1974, er hún hætti í stjórnmálum. Hún lést árið 1978
1990 Vaclav Havel forseti Tékkóslóvakíu, kom til landsins og sá leikrit sitt, Endurbygginguna, í Þjóðleikhúsinu - Havel var forseti Tékkóslóvakíu 1989-1992 og svo forseti Tékklands 1993-2003

Snjallyrðið
Sjá, dagar koma, ár og aldir líða,
og enginn stöðvar tímans þunga nið.
Í djúpi andans duldir kraftar bíða.
Hin dýpsta speki boðar líf og frið.
Í þúsund ár bjó þjóð við nyrstu voga.
Mót þrautum sínum gekk hún, djörf og sterk,
í hennar kirkjum helgar stjörnur loga,
og hennar líf er eilíft kraftaverk.
Davíð Stefánsson skáld frá Fagraskógi (1895-1964) (Sjá dagar koma)


Engin fyrirsögn

Davíð Oddsson utanríkisráðherraHeitast í umræðunni
Davíð Oddsson utanríkisráðherra og formaður Sjálfstæðisflokksins, er mættur til starfa að nýju eftir rúmlega mánaðarleyfi erlendis. Ekki er laust við að Davíðs hafi verið saknað, bæði af stjórnarsinnum og ekki síður stjórnarandstæðingum, í stjórnmálaumræðunni seinustu vikur. Sterk pólitísk staða hans kom nýlega vel fram í skoðanakönnun þar sem spurt var hvaða stjórnmálamanni þjóðin treysti best. Þar var Davíð á toppnum, þrátt fyrir að hafa verið fjarverandi úr umræðunni vikurnar áður en könnunin var gerð. Er gott að Davíð sé kominn aftur og taki af skarið í mikilvægum málum sem beðið hafa á hans borði seinustu vikur. Ekki síður er gott að heyra skoðanir hans á þessum málum. Meðal þessara mála er umsókn Íslands í öryggisráð Sameinuðu þjóðanna. Mikil og öflug umræða varð um málið í fjarveru Davíðs. Eins og flestum er kunnugt hefur Ísland ákveðið að sækjast eftir sæti í Öryggisráðinu árið 2009 og hefur hafið kosningabaráttu til að hljóta þar sæti. Alls eiga 15 ríki sæti í Öryggisráðinu, þar af eru fimm með fast sæti. Kosið verður um hin 10 sætin á allsherjarþingi Sameinuðu þjóðanna. Ísland mun keppa um laust sæti í ráðinu við Tyrkland og Austurríki. Hefur allt frá upphafi verið deilt mjög harkalega um þessa umsókn og sitt sýnist hverjum.

Hef ég alla tíð verið mjög andsnúinn þessari umsókn, eins og ég hef margoft ítrekað í skrifum mínum. Skrifaði ég ítarlegan pistil um málið síðast, þann 7. febrúar sl. og fór þá yfir umræðuna vikurnar á undan. Í pistlinum bar ég fram þá ósk að Davíð myndi beita sér í þá átt að hætta við þessa umsókn með formlegum hætti. Í gærkvöldi var Davíð í viðtali í fréttatíma Stöðvar 2. Þar var m.a. komið inn á öryggisráðsumsóknina. Þar talaði Davíð mjög með þeim hætti að allt væri í óvissu í málinu. Sagði hann að það yrðu möguleikar Íslands á að hljóta sæti í ráðinu metnir litlir yrði að meta stöðuna eftir því og jafnvel þá hætta kosningabaráttunni, sem þarf að heyja til að hljóta sætið. Fannst mér gott að heyra þessi ummæli Davíðs og viðbrögð hans í þessa átt. Tel ég mjög litlar líkur á að við myndum hljóta þetta sæti og hef heldur ekki séð þörfina á að fara út í þessa kosningabaráttu um sæti í ráðinu. Meirihluti þeirra mála sem tekinn er fyrir af Öryggisráði Sameinuðu þjóðanna eru málefni sem Íslendingar hafa hingað til lítið sem ekkert beitt sér í, því tel ég rétt að menn horfi í aðrar áttir. Ég vona að utanríkisráðherra og ríkisstjórnin taki þá ákvörðun brátt að hætta við þessa ákvörðun. Það er hið eina rétta sem á að gera. Er ég enn vissari en áður um að hætt verði við málið. Eins og fram kom í pistli mínum í byrjun mánaðarins er það mitt mat að utanríkisþjónustan sé orðin of dýr og rétt því að staldra við og íhuga betur bæði allt þetta mál og ekki síður utanríkisþjónustuna í heild sinni. En, það er ánægjuefni að Davíð sé kominn aftur. Svaraði hann mörgum spurningum á þingfundi í dag og fór yfir stöðuna í fjölda mála. Skartaði hann þar nýrri hárgreiðslu og leit vel út eftir fríið.

Kristinn H. GunnarssonSættir hafa nú náðst innan þingflokks Framsóknarflokksins milli forystu flokksins og Kristins H. Gunnarssonar, þingmanns flokksins í Norðvesturkjördæmi. Á fundi þingflokksins þann 28. september 2004 var ákveðið að Kristinn myndi ekki sitja í þingnefndum fyrir hönd flokksins. Hafði mikill ágreiningur verið milli Kristins og forystu flokksins og trúnaðarbrestur orðinn innan hópsins í garð Kristins. Áður en þingflokkurinn tók þessa ákvörðun hafði hann setið í fjórum nefndum fyrir flokkinn: verið formaður í iðnaðarnefnd og varaformaður í þrem nefndum: efnahags- og viðskiptanefnd, sjávarútvegsnefnd og samgöngunefnd. Sættirnar nú gera ráð fyrir því að Kristinn fari aftur í tvær nefndir. Hann verður aftur varaformaður sjávarútvegsnefndar og tekur einnig sæti sem varaformaður í umhverfisnefnd. Að auki mun hann fara í EFTA-þingmannanefndina. Engar aðrar breytingar verða á þessum tímapunkti. Nefndaskipan flokksins verður aftur tekin til endurskoðunar í haust er næsti þingvetur hefst.

Trúnaðarbresturinn milli Kristins og forystunnar hafði óneitanlega skaðað flokkinn, enda mjög fátítt að sitjandi þingmaður sé tekinn úr þingnefndum. Er það mjög stór hluti þingmennskunnar að sitja í nefndum og án þess verður þingmaðurinn auðvitað mjög utangarðs í starfinu í þinginu. Er ekki vafi á að Halldór Ásgrímsson forsætisráðherra og formaður flokksins, hefur viljað með sættum við Kristinn styrkja stöðu sína fyrir komandi flokksþing í lok mánaðarins og lægja öldurnar. Hafði komið upp mikil óánægja innan flokksfélaga í Norðvesturkjördæmi með þessa ákvörðun forystu þingflokksins í fyrra og ljóst að ólga var uppi. Sást þetta vel í síðustu viku er Halldór hélt fund á Ísafirði. Mikil óánægja kom þar fram með stöðu Kristins H. Eflaust telur Halldór rétt að semja við Kristinn og reyna að sætta ólík sjónarmið og styrkja flokkinn. Kristinn gekk í flokkinn fyrir sjö árum, en hann hafði áður verið alþingismaður Alþýðubandalagsins. Hann var þingflokksformaður Framsóknarflokksins, kjörtímabilið 1999-2003. Kristinn varð, allt frá því hann missti þingflokksformennsku hjá Framsókn sumarið 2003, einskonar sólóleikari innan flokksins. Það kom fáum á óvart að hann missti sess sinn eftir kosningar, en fáir bjuggust við að hann missti allar nefndasetur sínar. En það verður óneitanlega fróðlegt að fylgjast með stöðunni innan flokksins, í kjölfar þessara sáttaumleitana milli Kristins og forystunnar.

Punktar dagsins
Alþingi Íslendinga

Í dag birtist fyrsti pistill minn á vefritinu íhald.is. Þar ritar góður hópur fólks og er öflug ritstjórn þar, sem í eru vinir mínir: Þorsteinn Magnússon, Gísli Freyr Valdórsson og Sindri Guðjónsson (sem situr ásamt mér í stjórn Varðar). Mun ég koma til með að skrifa þar nokkrar línur þegar vel við á. Í fyrsta pistlinum rita ég um umfang ríkisins í eignarhlutum í hlutafélögum og einkahlutafélögum. Ég taldi nauðsynlegt að rita um þessi mál í kjölfar fyrirspurnar Sigurðar Kára Kristjánssonar alþingismanns, til Geirs H. Haarde fjármálaráðherra, nýlega um þessi mál. Óhætt er að fullyrða að svarið hafi komið á óvart og sé í senn bæði sláandi og ótrúlegt. Ríkið á eignarhlut í rétt um 200 hlutafélögum og einkahlutafélögum. Ríkissjóður átti í alls 24 fyrirtækjum 1. desember 2004. Ríkisstofnanir í A-hluta eiga frá 0,9 prósent til 100% í 29 fyrirtækjum. Fyrirtæki Byggðastofnunar eru alls 78 talsins og Nýsköpunarsjóður atvinnulífsins á alls 64. 11 fyrirtæki voru í eigu annarra ríkisfyrirtækja. Fer ég yfir þessi mál í pistlinum og tjái mínar skoðanir á því sem þurfi að gera. Hvet ég fjármálaráðherra og forystumenn flokksins til að taka á þessum málum með afgerandi hætti.

Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir menntamálaráðherra

Svo vel hittist á að ennfremur birtist í dag ítarlegur pistill minn um málefni Ríkisútvarpsins, á vef SUS. Þar fer ég yfir stöðu mála og þær breytingar sem nefndar hafa verið á stofnuninni í viðtölum seinustu daga af hálfu Þorgerðar Katrínar Gunnarsdóttur menntamálaráðherra. Eins og fram kemur í pistlinum skiptir máli að tekið verði á stöðu RÚV sem fyrst og málið leitt með afgerandi hætti til lykta, en ekki legið í vafa með stöðuna eins og nú virðist vera raunin. Eins og allir vita sem lesið hafa pistla mína um RÚV er þetta mál sem ég tel skipta mjög miklu máli, og skoðanir mínar mjög skýrar á stöðu RÚV. Einfalt er hvað þarf að gera: breyta þarf með afgerandi hætti rekstrarfyrirkomulagi stofnunarinnar. Þar liggur lausnin að því að stokka upp RÚV og koma þessari stofnun einhvern þann framtíðarveg sem mikilvægur er. Hlutafélagavæðing RÚV gæti verið eitt skref á langri leið, enda tel ég að enginn vafi leiki á að á endanum mun ríkið hætta að vera í samkeppni við einkastöðvar á fjölmiðlamarkaði. Sá dagur mun renna upp, vonandi fyrr en seinna, að skattgreiðendur í þessu landi haldi ekki úti náttrisa í samkeppni við einkaframtakið í fjölmiðlum.

James Stewart og Grace Kelly í Rear Window

Horfði í gærkvöldi á Rear Window, hið frábæra meistaraverk Sir Alfred Hitchcock, frá árinu 1954. Hitch var meistari spennumyndanna, sannkallaður snillingur í að ná fram því besta frá leikurum sínum og skapa ógleymanlegar stórmyndir. Þessi mynd er skólabókardæmi um það. Í Rear Window segir frá ljósmyndara sem fótbrotnaði í vinnuslysi, neyðist því til að vera heima og hefur lítið fyrir stafni og hundleiðist það, vægast sagt. Hans tómstundaiðja heima við verður að nota sjónkíkinn sinn til að fylgjast með mannlífinu hjá nágrönnunum. Uppgötvar hann sér brátt til mikillar skelfingar að einn þeirra hefur myrt eiginkonu sína og hefur hulið spor sín svo vel að líkið mun aldrei finnast nema hann leysi málið sjálfur. En þá vandast málin, hvernig getur hann sannfært aðra um að nágranninn hafi framið verknaðinn og að hann hafi nokkru sinni átt sér stað. Þær einu sem virðast trúa honum eru kærastan hans Lisa og sjúkranuddarinn Stella, en það er ekki nóg. Hann verður að fá liðsinni lögreglunnar áður en nágranninn kemst að því að hann hafi verið staðinn að verki, þá gæti allt verið orðið of seint.

Hér gengur bókstaflega allt upp til að skapa ómótstæðilegt og klassískt meistaraverk sem er eitt af bestu verkum meistara Hitchcock. Óskarsverðlaunaleikarinn James Stewart vinnur einn af stærstu leiksigrum ferils síns í hlutverki ljósmyndarans L.B. Jeffries og ber hann myndina hreinlega uppi, hann er á skjánum allan tímann. Er hreint út sagt frábært að fylgjast með þessum leikara sem er hiklaust einn af allra bestu leikurum tuttugustu aldarinnar í þessu stórfenglega hlutverki. Óskarsverðlaunaleikkonan Grace Kelly er sannkallað augnayndi í hlutverki Lisu Freemont, hinnar trygglyndu og vellauðugu unnustu Jeffries. Grace var sjaldan betri og flottari en hér á ferlinum. Ein besta gamanleikkona síðustu aldar, hin frábæra Thelma Ritter, fer á kostum í hlutverki sjúkranuddarans Stellu. Hnyttnir og góðir brandarar verða að gullmolum í meðförum hennar. Síðast en ekki síst er Raymond Burr flottur hér, en aldrei þessu vant leikur hann hér vonda kallinn, en hann var helst þekktur fyrir túlkun sína á lögfræðingnum Perry Mason. Þessa mynd verða allir sannir kvikmyndaunnendur að sjá. Það verður upphafið að góðum kynnum að sjá þessa.

Kristján Þór Júlíusson bæjarstjóri

Áður en ég leit á meistaraverk Hitchcock horfði ég á bæjarstjórnarfund og umræður þar um málin. Fundurinn var í styttra lagi, aðeins um 50 mínútur. Þar var þó gagnleg umræða. Samþykkt var að aflétta kaupskyldu og forkaupsrétti bæjarins af öllum félagslegum eignaríbúðum í bænum frá 15. september. Mikið var rætt um málefni Sjallareitsins, sem ég hef áður vikið hér að í þessari viku og þeim tillögum sem fyrir liggja um nýtingu reitsins og framtíðarplan hans. Var gott að heyra skoðanaskipti kjörinna fulltrúa um þessi mál. Var tillaga umhverfisráðs um reitinn samþykkt með öllum 11 atkvæðum í bæjarstjórn. Á fundinum samþykkti bæjarstjórn ennfremur eftirfarandi ályktun um málið, sem rétt er að taka undir.

"Bæjarstjórn Akureyrar vill af gefnu tilefni ítreka að hún stendur heilshugar að baki hugmyndasamkeppni Akureyrar í öndvegi og ekki stendur til að spilla fyrir forsendum keppninnar. Bæjarstjórn mun skoða vel þær tillögur keppenda sem bestar þykja og reyna að sjá til þess að uppbygging miðbæjarins verði í samræmi við þá heildarsýn sem ætla má að myndist í kjölfar keppninnar. Mikilvægt er að hafa í huga við umræðu um skipulagsmál á svokölluðum Sjallareit að áherslur hafa verið í mörg ár hjá bæjaryfirvöldum um að þétta þar byggð og þær hugmyndir sem nú eru uppi hafa verið í umræðu á vettvangi bæjarmála í rúmt ár. Fyrir liggur að vinna við deiliskipulag á þessum reit er enn á frumstigi og engra frekari ákvarðana að vænta í því fyrr en löngu eftir að úrslit hugmyndasamkeppninnar liggja fyrir."

Saga dagsins
1920 Fyrsta dómþing Hæstaréttar Íslands háð - þar með fengu Íslendingar í eigin hendur æðsta dómsvald í sínum málum. 9 dómarar sitja í Hæstarétti. Forseti réttarins er Markús Sigurbjörnsson
1959 Byltingarleiðtogi Kúbu, Fidel Castro, tekur formlega við völdum í landinu - hann hefur síðan verið forseti Kúbu og leiðtogi kommúnista þar. Castro er einn af þaulsetnustu þjóðarleiðtogunum
1959 Dauðarefsing var formlega afnumin í Bretlandi - síðasta aftakan í Bretlandi fór fram árið 1956
1981 Mikið fárviðri gekk yfir sunnan og vestanvert landið - vindur fór í rúmlega 62 metra á sekúndu
1995 Hornsteinn var lagður að nýju húsi Hæstaréttar, á 75 ára afmæli réttarins - nýtt dómhús, sem var reist við Lindargötu, var svo formlega tekið í notkun af forseta Íslands í septembermánuði 1996

Snjallyrðið
Vegir liggja til allra átta,
enginn ræður för;
hugur leitar hljóðra nátta,
er hlógu orð á vör,
og laufsins græna á garðsins trjám
og gleði þyts í blænum.
Þá voru hjörtun heit og ör
og hamingja í okkar bænum.

Vegir liggja til allra átta,
á þeim verða skil,
margra er þrautin þungra nátta
að þjást og finna til
og bíða þess að birti á ný
og bleikur morgunn rísi.
Nú strýkur blærinn staf og þil
stynjandi í garðsins hrísi.
Indriði G. Þorsteinsson rithöfundur (1926-2000) (Vegir liggja til allra átta)


Engin fyrirsögn

Rafik HaririHeitast í umræðunni
Rafik Hariri fyrrum forsætisráðherra Líbanons, var myrtur í sprengjutilræði í Beirút-borg í gær. Að minnsta kosti 12 aðrir létu lífið í sprengjuárásinni og yfir 100 særðust. Bíl með sprengju innbyrðis var ekið á bílalest Hariri með þessum afleiðingum. Á meðal þeirra sem særðust lífshættulega er Basil Fuleihan fyrrum viðskiptaráðherra Líbanons, en hann var náinn aðstoðarmaður Hariris. Eldur kviknaði í að minnsta kosti 20 bílum í þeirri miklu sprengingu sem varð er bíllinn keyrði á bílalestina. Atvikið átti sér stað utan við eitt frægasta hótel Beirút, St. George. Svo mikill var krafturinn í sprengingunni að svalir á hótelinu sprungu utan af því. Hefur morðið á Hariri leitt til upplausnar í landinu og mikils glundroða, sem gæti leitt til enn meiri tíðinda almennt á vettvangi stjórnmála í landinu. Hariri var viðskiptajöfur og milljarðamæringur sem sat á stóli forsætisráðherra Líbanons tvívegis, í fyrra skiptið 1992-1998 og á ný 2000-2004. Hann sagði af sér embætti í október í fyrra og fór þá í stjórnarandstöðu. Hafði hann skömmu fyrir andlát sitt tekið undir vaxandi kröfur í Líbanon, þess efnis að hersveitir Sýrlendinga verði kallaðar heim frá landinu.

Ástandið hefur lengi verið óstöðugt í Líbanon, einkum í höfuðborginni Beirút. Sprengjutilræði voru algeng í Beirút á meðan borgarastyrjöldinni stóð yfir, 1975-1990, en síðan henni lauk hafa þau verið öll fátíðari. Vaxandi spenna hefur verið milli stjórnar og stjórnarandstöðu í landinu seinustu árin og frá valdaskiptunum í október, er Hariri lét af embætti forsætisráðherra hefur hún aukist til muna. Ekki hefur slegið á spennuna í landinu að Sýrlendingar hafa í landinu 14.000 manna herlið og hafa haft nokkuð lengi öflugan varnarviðbúnað í því formi. Enginn vafi leikur á því að morðið á Hariri og sprengjuárásin sem grandaði honum hafi verið ætlað að auka óstöðugleikann í landinu og jafnvel koma á annarri blóðugri borgarastyrjöld. Mikil hætta er fyrir hendi að svo verði. Ástandið í Líbanon jaðrar við púðurtunnu og hefur verið til fjölda ára. Árás af þessu tagi og morð á áberandi stjórnmálamanni landsins gæti orðið að eldspýtu sem magnar upp mikið ófriðarbál. Athygli vekur vissulega að árásin sé gerð á sama tíma og alþjóðlegur þrýstingur eykst á Líbanon og Sýrland um að láta undan kröfum Ísraels í Mið-Austurlöndum. Árásina verður vissulega að skoða mjög vel í ljósi þeirra atburða. Með mikilvægustu pólitísku baráttumálum Hariri á ferli hans voru efnahagsleg uppbygging landsins, sjálfstæði og almenn hagsæld. Greinilegt er að umfang morðsins á Hariri sé með slíkum stærðarbrag að það sé ekki verk lítilla hópa eða samtaka. Hér standi að öllum líkindum að baki leyniþjónusta eða öflug valdasamtök með mikil umsvif. Vonandi er að morðið á Hariri trufli ekki væntanlegar þingkosningar í landinu, í maímánuði.

ReykjavíkurflugvöllurMikla athygli vakti fyrir nokkrum vikum þegar andstæðingur flugvallar í Vatnsmýrinni til fjölda ára, Steinunn Valdís Óskarsdóttir borgarstjóri og fyrrum formaður skipulagsnefndar borgarinnar, tjáði sig um málefni flugvallarins. Sagði hún þá að flugstarfsemi gæti verið heppileg áfram í Vatnsmýrinni en þó í minnkaðri mynd. Kom þar greinilega fram sáttatónn í stað þess einstrengingslega málflutnings sem hún hélt fram í desember, skömmu eftir að hún tók við embætti sem borgarstjóri. Virtist það vera mat hennar að hluti flugstarfseminnar geti verið áfram í Vatnsmýrinni og meginhluti innanlandsflugs eigi þar vettvang áfram með einni flugbraut. Þessi ummæli voru merkileg í ljósi afstöðu Steinunnar til fjölda ára, sem formaður í nefndinni og borgarfulltrúi.

En nú virðist sem að mikil átök séu innan R-listans um málið. Hefur það svosem lengi blasað við en er nú komið upp á yfirborðið með afgerandi hætti. Í viðtali í dag sagði Dagur B. Eggertsson borgarfulltrúi, og eftirmaður Steinunnar Valdísar sem formaður skipulagsnefndar borgarinnar, að stefna borgaryfirvalda um að Reykjavíkurflugvöllur fari úr borginni sé með öllu óbreytt, þó rétt sé að menn ræði rökin með og á móti vellinum, að hans mati. Þessar yfirlýsingar fara alveg í kross við yfirlýsingar Steinunnar og virðist vera sem að formannsembættinu í skipulagsnefnd í valdatíð R-listans fylgi andstaða við völlinn. Stýrihópur undir forystu Dags fer nú yfir málefni vallarins og ræðir heildarskipulag Vatnsmýrarinnar. Á næstu dögum mun verða birt formlega skýrsla nefndar sem Sturla Böðvarsson samgönguráðherra, skipaði til að fjalla um væntanlega samgöngumiðstöð í Vatnsmýrinni sem gera mun ráð fyrir innanlandsflugi í Reykjavík. Mikilvægt er að taka upp öfluga umræðu um völlinn og mikilvægi hans, eins og ég hef oft bent á er þetta lykilmál fyrir okkur á landsbyggðinni. Hef ég oft farið yfir málefni vallarins og bendi lesendum vefsins að líta á umfjöllun mína og skoðanir mínar á málinu sem birtust í tveim pistlum: 28. nóvember 2004 og 6. febrúar 2005.

Punktar dagsins
Whisky

Félag íslenskra stórkaupmanna gaf út yfirlýsingu í dag og kynnti það mat sitt að áfengisverð hér á landi sé það langhæsta í heiminum. Það sé á forsendum ofurskattlagningar áfengis, en ekki álagningar áfengisheildsala. Í tilkynningu frá félaginu kemur fram að 86% af verði flösku af sterku víni sem kosti tæpar 3.000 krónur renni í ríkissjóð í formi virðisaukaskatts og áfengisgjalds eða tæplega 2.600 krónur. Af flösku af léttu víni, sem kosti tæplega 1.000 krónur, fari tæplega 70% í ríkissjóð. Samgönguráðherra svaraði þessu með skýrslu í dag þar sem segir að hátt áfengisgjald skýri ekki eitt og sér hátt verð á léttvíni og bjór á íslenskum veitingahúsum, heldur sé um að kenna álagningu veitingamanna, sem sagt er að sé á bilinu 130-360%. Eftir stendur að áfengisgjaldið er stór hluti af málinu og með lækkun gjaldsins lækkar áfengið. Þessu getur ráðuneytið vart neitað.

Miklar breytingar verða að eiga sér stað almennt í áfengismálum hérlendis. Mikilvægt er að einkaleyfissala ríkisins á áfengi verði afnumin. Það er tímaskekkja á tímum frjálsra viðskipta að ríkisvaldið skuli standa í vegi fyrir einkaaðilum með þessum hætti. Er í senn nauðsynlegt og mikilvægt að þingmeirihluti Sjálfstæðisflokks og Framsóknarflokks sameinist sem fyrst um lagafrumvarp þess efnis að selja léttvín og bjór í verslunum. Slíkt er mikilvægt skref til afnáms einokunarsölu ÁTVR á áfengi. Að auki er rétt að ríkisvaldið afnemi auglýsingabann á áfengi, enda er stórundarlegt á okkar tímum að ekki megi hérlendis auglýsa fullkomlega löglega vöru sem er framleidd á Íslandi. Síðast en ekki síst er rétt að lækka áfengiskaupaaldur í 18 ár. Vonandi fer frumvarp slíks efnis í gegn sem fyrst. Eftir stendur að verð á áfengi hérlendis er alltof dýrt og stokka verður stöðu mála upp.

Kristján Þór Júlíusson tekur fyrstu skóflustunguna að fyrsta íbúðarhúsinu í Naustahverfi í maí 2003

Tæp tvö ár eru nú liðin síðan Kristján Þór Júlíusson bæjarstjóri, tók fyrstu skóflustunguna að fyrsta íbúðarhúsinu í Naustahverfi, nýjasta hverfi bæjarins. Síðan hefur hverfið byggst upp og fjöldi húsa risið þar. Áætlað hefur verið að Naustahverfi byggist upp á 15 árum og áætlaður íbúafjöldi verði þar 6-8.000 manns í 2300-3000 íbúðum þegar það verður orðið fullbyggt. Hverfið mun skiptast upp í tvö skólahverfi og eina kirkjusókn. Fyrsta byggingin sem ráðist var í, í hinu nýja hverfi, var glæsilegur fjögurra deilda leikskóli, Naustatjörn, sem tekinn var í notkun 18. ágúst 2003, áður en fyrstu íbúar hverfisins fluttu inn. Var ráðist í byggingu hans áður en tekin var fyrsta skóflustungan að íbúðarhúsi á svæðinu. Þetta var að öllum líkindum einsdæmi í byggingu íbúðarhverfa hérlendis. Nýr grunnskóli mun rísa við hlið leikskólans þegar íbúafjöldi hefur náð tilsettu marki. Í hverfinu hefur verið lögð áhersla á umferðaröryggi og góðar og öruggar gönguleiðir. Á fundi umhverfisráðs í síðustu viku var lögð fram tillaga umhverfisdeildar bæjarins til ráðsins að götuheitum í öðrum áfanga hverfisins. Lögð voru til eftirfarandi heiti og þau samþykkt: Brekatún, Ljómatún, Pílutún, Sokkatún, Sómatún, Sporatún og Þrumutún. Litrík og góð götunöfn í öflugt og nýtt hverfi bæjarins.

About Schmidt

Fór á bæjarmálafund í gærkvöldi, ræddum við þar bæjarmálin og fórum yfir stöðuna. Að loknum ítarlegum og góðum fundi var farið heim. Horfði á kvikmyndina About Schmidt. Kolsvört kómedía frá leikstjóranum Alexander Payne, sem hefur gert t.d. myndirnar Election og hina mögnuðu Sideways, sem er tilnefnd til fjölda óskarsverðlauna þetta árið. Í þessari kvikmynd, sem byggð er á skáldsögu Louis Begley, segir frá Warren R. Schmidt, ósköp hversdagslegum manni sem lendir á skömmum tíma í miklu mótlæti. Hann er að ljúka störfum sem tryggingasérfræðingur eftir margra ára starf, og satt best að segja ekkert hvað hann á að taka sér fyrir hendur. Helen, eiginkona hans til fjögurra áratuga fellur í kjölfarið skyndilega frá, og einkadóttirin Jeannie er að fara að gifta sig náunga að nafni Randall sem Warren líkar hreint ekki við. Orðinn einstæðingur án eiginkonu, starfs og fjölskyldu, heldur Schmidt í örvæntingarfulla leit að fyllingu í sviplaust líf sitt, enda sjálfstraust hans í molum. Hann ákveður að leggja af stað í leit að sjálfum sér á æskuslóðum sínum í Nebraska á húsbíl sem hann hafði keypt í þeim tilgangi á ferðast á um landið ásamt konunni sinni. Hann ákveður loks að halda til Denver og koma í veg fyrir að dóttir hans giftist Randall.

Framundan er spennandi atburðarás sem enginn verður svikinn af. Hér er á ferðinni alveg frábær kvikmynd sem skartar óskarsverðlaunahafanum Jack Nicholson í frábæru hlutverki. Hann birtist hér áhorfendum í nýju gervi; glottið er hvergi sjáanlegt og sjálfstraustið er víðsfjarri, hann leikur karakter sem er í rusli tilfinningalega séð. Nicholson á að baki mjög glæsilegan leikferil og hreint ógleymanlegar leikframmistöður. Fáir núlifandi leikarar eiga að baki eins glæsilegan feril. Hver man annars ekki eftir honum úr One Flew Over The Cuckoo´s Nest, Terms of Endearment, As Good As It Gets, Chinatown, Five Easy Pieces, The Shining, Prizzi´s Honour, Easy Rider og Heartburn svo aðeins séu nefndar örfáar af hans bestu myndum. Hann hlaut fyrir leik sinn í þessari mynd sína tólftu óskarsverðlaunatilnefningu og Golden Globe verðlaunin, og Óskarinn fyrir þrjár fyrstnefndu myndirnar. Enginn karlleikari hefur oftar verið tilnefndur til Óskarsverðlaunanna. Hann er einn af bestu leikurum samtímans. Ennfremur er Kathy Bates frábær í hlutverki Robertu. Hún var tilnefnd til óskarsverðlauna fyrir leik sinn. Sannkölluð eðalmynd sem vekur mann til umhugsunar og skilur þónokkuð eftir í undirmeðvitundinni.

Chris Rock

Óskarsverðlaunin verða afhent í Los Angeles, þann 27. febrúar nk. Ákveðið var í október að grínistinn Chris Rock yrði kynnir á hátíðinni að þessu sinni. Allt frá upphafi var deilt um það val, enda Rock þekktur fyrir nokkuð grófan húmor og að vera nokkuð ólíkindatól. Bandaríska kvikmyndaakademían og Gil Cates framleiðandi hátíðarinnar í sjónvarpi, voru gagnrýnd fyrir valið í haust og hafa þær raddir í raun aldrei þagnað. Allt varð þó vitlaust innan akademíunnar í gær er Rock sagði um helgina að athöfnin væri bara tískusýning og aðeins fyrir homma. Ef marka má fréttir mun hann hafa sagt: "Ég hef aldrei horft á Óskarinn. Ég meina, þetta er tískusýning" - "Hvaða gagnkynhneigði svarti karlmaður sest niður til að horfa á Óskarsverðlaunin? Bentu mér á einn slíkan!" - "Verðlaun fyrir listir eru andsk. heimskuleg". Meðlimir akademíunnar hafa hvatt til að Rock verði látinn fjúka og fundinn verði annar kynnir sem fyrst. Óttast hópur fólks að hann muni draga athöfnina á lágt plan með orðavali sínu og framkomu við afhendingu verðlaunanna. Að mínu mati á að láta Rock gossa, svona framkoma er fyrir neðan virðingu kvikmyndaakademíunnar og til skammar ef hann á að vera í hlutverki kynnis eftir það sem á undan er gengið. Fróðlegt verður að fylgjast með framkomu Rock á óskarsverðlaunahátíðinni, sem fram fer undir lok næstu viku.

Saga dagsins
1917 Kristín Ólafsdóttir lauk læknaprófi fyrst íslenskra kvenna og varð með því fyrsta konan sem lauk formlega embættisprófi frá Háskóla Íslands í sögu skólans. Markaði þetta því þáttaskil í sögu skólans
1923 Ingibjörg H. Bjarnason, fyrsta konan sem kjörin var á löggjafarþingið, tók fyrst sæti á þingi
1944 Bandaríska kvikmyndin Casablanca, sem skartaði þeim Humphrey Bogart og Ingrid Bergman í aðalhlutverkum, var frumsýnd í Tjarnarbíói - varð ein vinsælasta mynd aldarinnar og hlaut óskarinn
1952 George VI Englandskonungur, jarðsunginn í Westminster Abbey og borinn til hinstu hvílu í St. George kapellu í Windsor - eiginkona hans, Elizabeth Bowes-Lyon drottning, lifði eiginmann sinn í hálfa öld. Hún var titluð drottningamóðir frá láti konungs til dauðadags. Hún varð elst kóngafólks í sögu bresku krúnunnar, eða tæplega 102 ára gömul. Elísabet drottningamóðir lést 30. mars 2002
1956 Urho Kekkonen forsætisráðherra Finnlands, kjörinn forseti Finnlands - sat í embætti til 1981

Snjallyrðið
There are places I remember all my life,
Though some have changed,
Some forever, not for better,
Some have gone and some remain.

All these places had their moments
With lovers and friends I still can recall.
Some are dead and some are living.
In my life I've loved them all.

But of all these friends and lovers,
There is no one compares with you,
And these memories lose their meaning
When I think of love as something new.

Though I know I'll never lose affection
For people and things that went before,
I know I'll often stop and think about them,
In my life I'll love you more.
John Lennon tónlistarmaður (1940-1980) (In My Live)


Engin fyrirsögn

Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir menntamálaráðherraHeitast í umræðunni
Líflegar umræður urðu á Alþingi í dag um málefni Ríkisútvarpsins í kjölfar yfirlýsingar Þorgerðar Katrínar Gunnarsdóttur menntamálaráðherra, um helgina, þess efnis að afnotagjöld yrðu brátt afnumin. Eins og vel hefur komið fram liggur ekkert meira fyrir en einmitt þetta og hefur ráðherra nefnt sem dæmi um framtíðarfyrirkomulag að stofnunin fari á fjárlög eða settur verði á nefskattur. Hef ég lítinn áhuga á báðum þessum kostum og tel þá vart koma til greina og verð því að tjá andstöðu mína við þessar hugmyndir menntamálaráðherra og pælingar í þá átt, ef þær eru það eina sem í stöðunni er. Hef ég talað fyrir því að skylduáskrift yrði afnumin, en tel koma til greina að halda gjaldtöku áfram og þeir sem vilji hafa t.d. rásir Ríkisútvarpsins borgi beint fyrir þær ef þeir vilja njóta þessara fjölmiðla áfram. RÚV á að byggjast á lögmálum markaðarins eins og aðrir fjölmiðlar og innheimta gjöld fyrir miðla sína og byggja rekstur sinn upp á því hverjir vilja hafa viðkomandi miðla. Með öðrum orðum tel ég réttast og öllu vænlegri kost í stöðunni að RÚV komi upp afruglarakerfi og stokkað verði upp staða mála þarna og reksturinn byggist á innheimtu afnotagjalda en ekki skylduáskriftar. Það er því vel athugunarefni að haga afnotagjöldunum sem nú eru innheimt með þessum breytta hætti.

Eins og kom fram í dag í yfirlýsingum Halldórs Ásgrímssonar forsætisráðherra, hefur ekki endanlega verið ákveðið með hvaða hætti rekstur RÚV verði fjármagnaður þegar innheimtu afnotagjalda verði hætt. Menntamálaráðherra sem er erlendis hefur ekkert tjáð sig meira um málið og voru eins og fyrr segir átök um það á þingi í dag. Þingmenn stjórnarandstöðu deildu hart á ráðherrann vegna yfirlýsinga hennar og hvernig þær voru uppstilltar. Get ég tekið undir það að ekki er vænlegt að velta upp boltanum um þetta í þessu formi án þess að fyrir liggi hvernig málum verði hagað á komandi árum. Fyrir þarf að liggja fljótlega hvert samkomulag stjórnarflokkanna verði um framtíð Ríkisútvarpið. Það er algjörlega ótækt ástand að vafi leiki á stöðunni og hvað eigi að gera og hvað skuli lagt til í væntanlegu frumvarpi til útvarpslaga. Fyrir liggur að nefnd á vegum stjórnarflokkanna, sem skipuð var í maí 2004, hafi nú skilað tillögum um breytingar á rekstrarformi Ríkisútvarpsins. Ekki er vitað hver endanleg niðurstaða hennar er, en málið er til umræðu innan ríkisstjórnarinnar. Engin ákvörðun hefur því verið tekin um neitt, nema þá það sem fram hefur komið um helgina að afnotagjöldin heyri sögunni til. Í sunnudagspistli mínum í gær fór ég yfir þetta mál og ítrekaði skoðanir mínar um hvað eiga að gera í málum RÚV. Flestum ættu þær að vera orðnar vel kunnugar, enda hef ég skrifað fjölda greina um þessi mál og reynt að tjá mig af krafti um þetta mál. Að mínu mati skiptir máli að tekið verði á stöðu RÚV sem fyrst og málið leitt með afgerandi hætti til lykta, en ekki legið í vafa með stöðuna eins og nú virðist vera raunin. Einfalt er hvað þarf að gera: breyta þarf með afgerandi hætti rekstrarfyrirkomulagi stofnunarinnar.

Farid Ayar tilkynnir úrslitinÞingkosningar fóru fram eins og kunnugt er í Írak, þann 30. janúar sl. Voru þær sögulegar umfram allt að því leyti að þær voru fyrstu fjölflokkaþingkosningar í landinu í 51 ár, eða frá árinu 1954. Ánægjulegasta niðurstaðan við kosningarnar og ferli þeirra var óneitanlega að uppreisnarmönnum í Írak mistókst að koma í veg fyrir þær og þá lýðræðisþróun sem hún markaði. Kjörsókn varð um 60%, og varð því mun meiri en búist hafði verið við hjá bjartsýnustu mönnum. Ástæða er til að gleðjast með þá niðurstöðu umfram allt, að hægt var að halda kosningarnar eins og til hafði staðið, þrátt fyrir hótanir hryðjuverkaafla um að reyna að eyðileggja þær og lýðræðisstarfið í kringum þær með öllum tiltækum ráðum. Úrslit kosninganna voru formlega kynnt í gær og var það Farid Ayar talsmaður yfirvalda við kosningarnar, sem kynnti úrslitin formlega.

Kosningabandalag flokka sjíta hlaut flest atkvæði í kosningunum, eins og búist hafði verið við. Hlaut það rúmlega 4 milljónir atkvæða af um 8,5 milljónum atkvæða sem greidd voru en kjörsókn var alls 58,7%. Kosningabandalag flokka Kúrda hlaut næstflest atkvæði eða 2,175 milljón atkvæði og flokkur Iyad Allawi forsætisráðherra bráðabirgðastjórnar Íraks, hlaut 1,168 milljón atkvæði. Aðeins 3775 gild atkvæði voru greidd í Anbar-héraði, sem er hérað sunní-múslima, leiðtogar þeirra höfðu hvatt fólk til að sniðganga kosningarnar. Í Kúrdahéruðunum í norðurhluta Íraks greiddu 1,7 milljón manns atkvæði í kosningunum. Við blasir því að Sameinaða Íraksbandalagið, kosningabandalag sjíta, muni tilnefna nýjan forsætisráðherra, enda er bandalagið afgerandi sigurvegari kosninganna með nærri helming greiddra atkvæða og ráðandi stöðu. 275 þingsæti verða á írakska þinginu og samkvæmt útreikningum yfirvalda mun bandalag flokka sjíta hljóta rúm 130 sæti, flokkar Kúrda um 70 og flokkur Allawi um 40. Kúrdar eru nú komnir í oddaaðstöðu og munu sjítar væntanlega leita eftir samkomulagi við þá um stjórn landsins.

Punktar dagsins
Akureyri

Kraftmikil umræða hefur átt sér stað hér á Akureyri seinustu mánuði um skipulagsmál, ekki síst sem miðar að því markmiði að efla miðbæinn okkar, sem er óneitanlega hjarta okkar góða samfélags hér. Var mjög ánægjulegt að sjá hvernig nokkrir athafnamenn í bænum undir forystu Ragnars Sverrissonar kaupmanns í JMJ, tóku höndum saman í því markmiði að efla bæinn og stigu það skref að stofna með sér hóp og ákváðu að efna til íbúaþings um málið. Margar hugmyndir hafa vaknað um það hvernig byggja skuli upp miðbæinn og stokka hann upp. Verktakafyrirtækið SS Byggir áformar að reisa þrjá 16 hæða íbúðaturna á Sjallareitnum, við skemmtistaðinn Sjallann í miðbænum. Um er að ræða tveggja hæða verslunar- og bílageymsluhús að grunnfleti 8300 fermetrar.

Ofan á það munu svo koma þrír 14 hæða íbúðaturnar með 150-170 íbúðum. Byggingin gæti orðið allt að 47 metrar á hæð. Eins og fram hefur komið í fréttum njóta þessar hugmyndir stuðnings innan bæjarkerfisins. Umhverfisráð samþykkti á síðasta fundi sínum að taka jákvætt í þessar hugmyndir og telur þær falla vel að markmiðum Akureyrarbæjar um þéttingu byggðar á miðbæjarsvæðinu. Tek ég heilshugar undir það mat. Hef ég jafnan verið mjög hlynntur hugmyndum um háhýsi í miðbænum og tel þessar hugmyndir mjög vænlegar og vel til þess fallnar að efla miðbæinn í samræmi við verkefnið Akureyri í öndvegi. Tel ég að bygging þríburaturna í miðbæ Akureyrar muni skipta sköpum fyrir framtíð miðbæjarins.

Ray Charles

Bandaríski söngvarinn Ray Charles hlaut flest verðlaun á Grammy-tónlistarverðlaunahátíðinni í gær, eða alls átta. Charles var einn fremsti tónlistarmaður Bandaríkjanna og var konungur soul-tónlistarinnar. Hann lést í júní 2004. Meðal verðlauna sem hann hlaut var fyrir bestu plötu síðasta árs, Genius Loves Company, dúettaplötu, þar sem hann söng frábær lög með fjölda þekktra tónlistarmanna. Er þetta í annað skipti í sögu Grammy-verðlaunanna sem látinn tónlistarmaður vinnur verðlaunin fyrir plötu ársins. John Lennon hlaut verðlaunin skömmu eftir lát sitt fyrir plötu sína, Double Fantasy. Kvikmynd um ævi Charles hefur ekki síst aukið vinsældir hans að undanförnu, en myndin sem skartar leikaranum Jamie Foxx í hlutverki söngvarans hefur hlotið góða dóma. Meðal annarra helstu verðlaunahafa hátíðarinnar að þessu sinni voru jazz-söngkonan Norah Jones, blúspopparinn John Mayer og Alicia Keys. Hljómsveitin Green Day fékk verðlaun fyrir bestu rokkplötuna, American Idiot. Besta rokklag ársins var valið Vertigo með U2. Besta lag ársins 2004 í heildarflokki var lagið Here we go again með Ray Charles og Noruh Jones.

The Pianist

Var góð dagskrá í gærkvöldi í sjónvarpinu. Leit á seinni hlutann um Steinunni Truesdale, sem er í bandaríska hernum í Írak, 24 og Cold Case. Horfði svo á kvikmyndina The Pianist, meistaraverk frá leikstjóranum Roman Polanski. Er persónulegasta mynd hans á ferlinum og sú besta hingað til. Áður á hann að baki úrvalsmyndir á borð við Rosemary´s Baby og Chinatown. Hér fetar Polanski aðra slóð en áður á ferli sínum. Efni myndarinnar eru hörmungar seinni heimsstyrjaldarinnar. Sjálfur upplifði hann þessar hörmungar og litlu mátti reyndar muna að hann léti lífið í þeim hildarleik öllum. Hér segir frá ótrúlegu lífshlaupi pólska píanóleikarans Wladyslaw Szpilman og hvernig honum, með dyggri aðstoð pólsku andspyrnuhreyfingarinnar og ennfremur tilviljun og hreinni heppni, tókst að leynast fyrir nasistum meginhluta stríðsins, 1939-1945. Myndin fjallar um hernám Póllands 1939 og hvernig nasistar fóru með Pólverja í stríðinu, niðurlægðu þá og sviptu þá öllum mannréttindum, fluttu í útrýmingarbúðirnar þar sem þeim var þrælað eins og skepnum og að lokum murkað úr þeim líftórunni. Átakanlegt er að horfa á mikilfengleika þessa verks og hversu vel þetta er fært í kvikmyndabúning.

Polanski hefur aldrei farið troðnar slóðir í kvikmyndagerð á sínum ferli og þótt mistækur, átt bæði ógleymanleg meistaraverk og miðlungsmyndir. Hér er hann hinsvegar kominn með mynd ferils síns, hefur augljóslega lagt allt sitt í verkið og uppsker ríkulega eftir því. Öll umgjörð myndarinnar er stórfengleg; tónlist, handrit, framleiðsla og klipping - allt í fyrsta flokks klassa. Og langt er síðan nokkur leikari hefur unnið jafn eftirminnilegan leiksigur og sést í þessari mynd. Adrien Brody fékk óskarsverðlaunin fyrir magnaða túlkun sína í hlutverki Wladyslaw Szpilman. Þessi þrítugi New York-búi sem á að baki smáhlutverk í nokkrum myndum er orðin stórstjarna á einni nóttu. Hann er myndin The Pianist, hann skapar meistaraverkið og tryggir hversu vel útkoman heppnast. Myndin var tilnefnd til sjö óskarsverðlauna, þ.á.m. sem besta kvikmynd ársins. Hlaut þrjá óskara, fyrir leikara í aðalhlutverki, handrit byggt á áður útgefnu efni og hlaut Polanski leikstjóraóskarinn fyrir sitt glæsilega verk. Það er óhætt að mæla með þessari einstöku kvikmynd, að mínu mati besta kvikmynd ársins 2002. Mynd sem enginn sannur kvikmyndaáhugamaður má missa af.

Betri borg

Borgarstjórnarflokkur Sjálfstæðisflokksins opnaði á föstudag glæsilega heimasíðu. Á vefnum verður hægt að fylgjast með störfum og stefnu borgarfulltrúa Sjálfstæðisflokksins og birtar verða fréttir af borgarmálunum, greinar og pistlar og fréttir af öðrum vettvangi sem varða borgarmálin. Eins og fram kemur á vefnum verður þar lögð áhersla á að kynna eins vel og kostur er þau málefni sem eru til umfjöllunar á vettvangi borgarstjórnar og efla umræðuna um borgarmálin. Ritstjóri vefsins er Magnús Þór Gylfason framkvæmdastjóri borgarstjórnarflokks Sjálfstæðisflokksins. Gaman er að líta á vefinn og kynna sér efnið þar. Ljóst er að þessi vefur verður öflugur vettvangur okkar sjálfstæðismanna í borginni fyrir borgarstjórnarkosningar eftir rúmt ár.

Saga dagsins
1942 Bandalag starfsmanna ríkis og bæja, BSRB, stofnað - aðildarfélög bandalagsins eru nú á fjórða tug og félagsmenn eru um 20.000 talsins. Núv. formaður BSRB er Ögmundur Jónasson alþingismaður
1945 Herir Bandamanna varpa fjölda sprengja á þýsku borgina Dresden - fjöldi manna lét þá lífið
1989 Ayatollah Khomeini trúarlegur leiðtogi Írans, kveður upp dauðadóm yfir breska rithöfundinum Salman Rushdie vegna bókar hans, Söngvar Satans (Satanic Verses) - var í gildi allt til ársins 1998
1993 Tveggja ára gamall strákur, James Bulger, fannst látinn við lestarteina í Liverpool í Bretlandi - upptaka úr eftirlitsmyndavél í verslunarmiðstöð í Liverpool sýndi er tveir 10 ára gamlir drengir leiddu Bulger á milli sín og höfðu á brott. Málið vakti mikinn óhug og reiði um allan heim. Drengirnir, Jon Venables og Robert Thompson, voru sakfelldir fyrir morðið og sátu í fangelsi allt til ársins 2001, er áfrýjunarnefnd komst að þeirri umdeildu niðurstöðu að þeir væru ekki lengur hættulegir. Fengu þeir lausn úr varðhaldi og hlutu ný nöfn, þeim var haldið leyndum fyrir almenningi, vegna öryggis þeirra
1994 Björk Guðmundsdóttir söngkona, var valin besta alþjóðlega söngkonan og besti nýliðinn á Brit-tónlistarhátíðinni í Bretlandi. Björk hlaut söngkonuverðlaunin öðru sinni á Brit-hátíðinni árið 1998

Snjallyrðið
Smávinir fagrir, foldar skart,
fifill í haga rauð og blá
brekkusóley, við mættum margt
muna hvort öðru að segja frá.
Prýðið þér lengi landið það,
sem lifandi guð hefur fundið stað
ástarsælan, því ástin hans
allstaðar fyllir þarfir manns.

Faðir og vinur alls sem er!
annastu þennan græna reit;
blessaðu faðir blómin hér;
blessaðu þau í hverri sveit.
Vesalings sóley! sérðu mig.
Sofðu nú vært og byrgðu þig;
hægur er dúr á daggarnótt,
dreymi þig ljósið, sofðu rótt.
Jónas Hallgrímsson skáld (1807-1845) (Hulduljóð)


Engin fyrirsögn

Stefán Friðrik StefánssonSunnudagspistillinn
Í sunnudagspistli í dag fjalla ég um þrjú fréttamál vikunnar:

- í fyrsta lagi fjalla ég um yfirlýsingar Þorgerðar Katrínar Gunnarsdóttur menntamálaráðherra, um málefni Ríkisútvarpsins í fjölmiðlum um helgina þess efnis að afnotagjöld verði brátt afnumin og að fyrirtækið verði að fara í átt til framtíðar og stokka þurfi það upp. Fer ég yfir skoðanir mínar á RÚV og stöðu fyrirtækisins almennt. Eins og allir vita sem lesið hafa pistla mína um RÚV er þetta mál sem ég tel skipta mjög miklu máli. Óbreytt rekstrarfyrirkomulag RÚV er ekki fýsilegur kostur. Ég tel eðlilegt að leita leiða til að ná samkomulagi um breytingar á RÚV og því ekki viðeigandi að útiloka að gera RÚV að hlutafélagi, hinsvegar ætti öllum að vera ljóst að ég vil ganga mun lengra. Hlutafélagavæðing RÚV gæti verið eitt skref á langri leið, enda tel ég að enginn vafi leiki á að á endanum mun ríkið hætta að vera í samkeppni við einkastöðvar á fjölmiðlamarkaði.

- í öðru lagi fjalla ég um dönsku þingkosningarnar í vikunni. Við blasir þegar þessi úrslit eru gerð upp að sigur borgaraflokkanna er mikill og sérstaklega gott umboð sem Anders Fogh Rasmussen forsætisráðherra, og stjórn hans, fær til áframhaldandi verka á valdastóli. Verður fróðlegt að fylgjast með danskri pólitík næstu árin, eftir þennan mikla sigur dönsku borgaraflokkanna, aðrar kosningarnar í röð. Úrslit kosninganna voru mikið áfall fyrir jafnaðarmenn í Danmörku, sem máttu þola það áfall að verða aftur, nú eftir fjögur ár í stjórnarandstöðu, annar stærsti flokkur landsins.

- í þriðja lagi fjalla ég um umræðuna um Íraksmálið sem heldur enn áfram hér heima. Í vikunni fór Halldór Ásgrímsson forsætisráðherra, ítarlega yfir Íraksmálið og aðdraganda ákvörðunar um að veita Bandaríkjunum og tengdum þjóðum pólitískan stuðning í aðdraganda innrásarinnar í Írak í umfangsmiklu viðtali við fréttastofu Stöðvar 2 á miðvikudagskvöld. Var eflaust rétt af forsætisráðherra að veita viðtal og fara yfir málið og ræða það hreint út. Hinsvegar er óneitanlega undarlegur bragur á því og uppsetning þess hefur vakið athygli, eflaust fleiri en hjá mér.

Punktar dagsins
Arthur Miller

Bandaríska leikskáldið Arthur Miller lést á föstudag, 89 ára að aldri. Hann lést á heimili sínu í Connecticut og var banamein hans hjartaslag. Miller var einn fremsti rithöfundur síðustu aldar og öflugt leikskáld sem setti sterkan svip á bandarískt leikhúslíf á seinni hluta 20. aldar. Til merkis um það voru öll ljós slökkt í leikhúsum á Broadway í New York klukkan átta að kvöldi föstudags til heiðurs honum og minnast framlags hans til leiklistar í Bandaríkjunum. Hann naut mikillar alþýðuhylli. Eitt þekktasta verk hans var Sölumaður deyr. Í því gagnrýndi hann harkalega bandarískt auðvaldsþjóðfélag. Miller var sístarfandi allt til loka. Hann var mjög pólitískur í umfjöllunarefnum og ófeiminn við að fara eigin leiðir. Hann kvæntist árið 1956, leikkonunni Marilyn Monroe. Þau voru gift í fimm ár, eða allt til ársins 1961. Monroe lést árið eftir. Leikskáldið Harold Pinter, sagði um Miller að hans yrði minnst vegna skoðana sinna, hann hafi haft ríka samúð með alþýðu manna og verið reiðubúinn að láta til sín taka í baráttu fólks fyrir réttlæti, hvar sem er í heiminum.

Bafta

Bresku kvikmyndaverðlaunin, BAFTA, voru afhent í Odeon við Leicester Square í London í gærkvöldi. Valdís Óskarsdóttir hreppti verðlaunin fyrir klippingu sína á myndinni Eternal Sunshine of the Spotless Mind. Þetta er í fyrsta skipti sem Íslendingur hlýtur þessi verðlaun, æðstu kvikmyndaverðlaun Breta. Er þetta mikill heiður og eflaust ein helsta viðurkenning sem Íslendingi hefur hlotnast á sviði kvikmyndagerðar. The Aviator var valin besta kvikmyndin, Jamie Foxx var valinn besti karlleikarinn í aðalhlutverki fyrir leik sinn í kvikmyndinni Ray og Imelda Staunton var valin besta leikkonan í aðalhlutverki fyrir leik sinn í myndinni Vera Drake. Mike Leigh hlaut leikstjóraverðlaunin fyrir sömu mynd. Clive Owen var valinn besti leikari í aukahlutverki fyrir leik sinn í Closer, og Cate Blanchett hlaut verðlaunin sem besta leikkona í aukahlutverki fyrir leik sinn í The Aviator. Vera Drake fékk þrenn verðlaun en auk verðlauna fyrir besta leikstjórann og leikkonu í aðalhlutverki fékk myndin verðlaun fyrir búninga. Breski leikarinn Stephen Fry var kynnir á hátíðinni, venju samkvæmt.

Morgunblaðið

Íslensku blaðamannaverðlaunin voru afhent í gærkvöldi. Ítarleg fréttaskýring Árna Þórarinssonar í Morgunblaðinu í maí 2004 um átta ára forsetaferil Ólafs Ragnars Grímssonar hlaut aðalverðlaunin, blaðamannaverðlaun ársins. Kemur það ekki á óvart, enda fór Árni víða yfir og kom margt nýtt fram í viðtölum. Í skrifum Árna vék hann að embættisferli Ólafs og verkum hans á forsetastóli og fortíð hans áður en hann varð forseti Íslands sumarið 1996. Vék hann þar t.d. að togstreitu sem hefur verið áberandi í umræðunni milli forsetaembættisins og stjórnkerfisins. Einnig var vikið að pólitískum tengslum Ólafs fyrir og eftir forsetatíð hans. Er þar fjallað um aðdragandann að forsetaframboði Ólafs við forsetakosningarnar 1996, er hann var kjörinn eftirmaður Vigdísar Finnbogadóttur, embættisferil hans og deilur um ýmis störf hans. Voru þetta mjög vandaðar umfjallanir og var mjög gaman að lesa þær.

Meðal þess sem mest þótti um vert að kæmi fram var að hugmyndin að framboði Ólafs Ragnars hafi verið pólitísk tilraun, sem myndi leiða til annarrar niðurstöðu en til var stofnað. Er Ólafur tilkynnti um framboð sitt, 28. mars 1996, reiknuðu hvorki hörðustu stuðningsmenn hans né andstæðingar með því að hann myndi ná kjöri til embættisins. Framboðið var því öðru fremur ætlað sem pólitískt baráttutæki fyrir hans hönd, sameiningarmálstaðar vinstri manna og áframhaldandi þátttöku hans í landsmálapólitík. Með því hafi hann ætlað að tryggja sig í sessi sem forystumann vinstri manna í þingkosningunum 1999 og leiða fyrstur manna, Samfylkingu vinstri manna sem var í burðarliðnum. Bergljót Baldursdóttir á fréttastofu útvarpsins og Morgunvaktinni hlaut verðlaunin fyrir bestu umfjöllun ársins, er fjallaði um stöðu og velferð aldraðra. Kristinn Hrafnsson á DV hlaut verðlaunin fyrir rannsóknarblaðamennsku ársins, en umfjöllun hans um örlög íslensks drengs í fangelsi í Texas, þótti skara fram úr.

Undirritun álverssamnings á Reyðarfirði 2003

Mikil og ævintýraleg uppbygging á sér nú stað vegna álversframkvæmdanna við Reyðarfjörð. Fram kom í fréttum í dag að fyrirtækið Bechtel sem byggir álverið fyrir Alcoa á Reyðarfirði hefur í hyggju að ráða 1.500 - 1.600 manns í vinnu. Í blöðum í dag auglýsir Bechtel eftir 300 mönnum til sérhæfðra og almennra starfa. Eins og fram hefur komið í fréttum er sérhæft og almennt vinnuafl tæpast á lausu hér á landi í þeim mæli sem þarf við slíkar stórframkvæmdir. Það muni því flestir koma erlendis frá. Ég fór austur til Fjarðabyggðar undir lok janúar. Fannst mér mjög ánægjulegt að fara sérstaklega til Reyðarfjarðar og sjá hversu vel gengur þar núna og finna hversu mjög staðurinn hefur styrkst.

Saga dagsins
1693 Heklugos hófst - það stóð fram á haustið, olli miklu tjóni og jarðir lögðust í auðn á Suðurlandi
1942 18 breskir hermenn drukknuðu á Hrútafirði, þegar 2 prammar sukku - 6 mönnum var bjargað
1983 Loftsteinn féll í sjóinn austur af landinu - birti yfir víða um austanvert landið þegar steinninn þaut með miklum hraða um himinhvolfið. Þótti mjög tilkomumikil sjón, náðust merkar myndir af því
2001 Jarðskjálfti, að styrkleika um 6,6 á Richtersskala, skók El Salvador - rúmlega 400 manns létust
2002 Elísabet Englandsdrottning, veitir Rudolph Giuliani fv. borgarstjóra í New York, heiðursnafnbót

Snjallyrðið
Ég á það heima sem aldrei gleymist
né umbreyst fær,
við ölduhreiminn mig ávallt dreymir
um auðnir þær,
sem vindar geyma og vetrar snær,
þar vatnsföll streyma um dali tær.

Ó, fögru sveitir með fell og leiti
og fannagljá,
með svipinn hreina á öllu og einu
sem ann mín þrá.
Við minnstu steina grær minning smá
sem mun ei leynast né falla í dá.
Unnur Benediktsdóttir Bjarklind (Hulda) skáld (1881-1946) (Heima)


Engin fyrirsögn

ISGHeitast í umræðunni
Mikil umræða hefur átt sér stað á þingi seinustu daga um stöðu útflutnings- og samkeppnisgreina. Hefur verið merkilegt að fylgjast með þeim umræðum og heyra skoðanir þingmanna á þessum málum. Í umræðunni kom Ingibjörg Sólrún Gísladóttir varaþingmaður, í ræðustól og sagði þar mikilvægt að kanna kosti þess að Ísland gengi í myntbandalag Evrópu. Sagði hún að með upptöku Evrunnar væri betur hægt að koma í veg fyrir sveiflur í íslenska hagkerfinu. Ingibjörg hefur verið núna á þingi í nokkra daga og verið þar dugleg að minna á sig, eftir að hafa verið talsvert í skugga þjóðmálaumræðunnar, enda án hlutverks í stjórnmálum, eða því sem næst. Hún hefur verið í þeirri stöðu að vera aukaleikari í leikriti Samfylkingarinnar á þingi sem annarsstaðar og þurft að standa til hliðar. Hún hefur verið að reyna að breyta því seinustu dagana. Hefur verið kostulegt seinustu vikur annars að fylgjast með yfirlýsingakapphlaupi milli Ingibjargar Sólrúnar og Össurar Skarphéðinssonar formanns Samfylkingarinnar, í formannsslagnum í Samfylkingunni, sem nú er hafinn og mun standa vel á fjórða mánuð, eða fram að landsfundi seinnipartinn í maí.

Fara þessi kapphlaup nú sem mest fram á þingi og er stórmerkilegt að fylgjast með dramatískum tilburðum þeirra í ræðustól þingsins og kapphlaupinu um sem mestu yfirlýsingarnar og tjáningatúlkanir um málin. Staða Ingibjargar eftir þingkosningar 2003 var ekki öfundsverð, hún afsalaði sér borgarstjóraembætti og hlutverki sameiningartákns þriggja flokka innan R-listans en sat eftir sem óbreyttur borgarfulltrúi og varaþingmaður. Varaformennska flokksins hjálpaði henni frá algjörri pólitísku eyðimerkurgöngu en greinilegt er að Ingibjörg telur það hlutverk ekki ásættanlegt í stöðunni og sækir fram til formennsku. Þetta er barátta um völd og áhrif og ekkert er gefið eftir. Skiljanlegt er að Ingibjörg vilji leggja í þetta núna, svona áður en hún fuðrar endanlega upp pólitískt. Hefur rýrnað svo pólitískt á tæpu ári að með ólíkindum í raun er. Sést bara á allri fjölmiðlaumfjöllun með ISG að staða hennar er allt önnur en var lengi vel, skiljanlega. En hún hefur sjálf spilað svona úr sínum spilum. Hvort þeirra muni vinna verður óneitanlega merkilegt að fylgjast með, en eflaust verður þetta mikill kattaslagur, bæði eru að berjast fyrir pólitísku lífi sínu á komandi árum. Allt er lagt í sölurnar greinilega. Yfirlýsingar ISG um Evruna eru gott dæmi örvæntingarinnar í slagnum nú. Allt verður lagt í þetta, enda eru báðir þessir stjórnmálamenn að berjast fyrir pólitísku lífi sínu. Yfirlýsingar ISG um Evruna eru gott dæmi örvæntingarinnar í slagnum nú. Hvort sem mun vinna er ljóst að mikið uppgjör blasir við.

Tony BlairSvo virðist vera sem að kosningabaráttan fyrir þingkosningar í Bretlandi sé hafin á fullu, þó enn hafi ekki enn formlega verið boðað til kosninganna. Bendir flest til þess að þær muni fara fram þann 5. maí nk. Í dag kynnti Tony Blair forsætisráðherra Bretlands og leiðtogi Verkamannaflokksins, kosningastefnuskrá flokksins og helstu atriðin sem flokkurinn leggur áherslu á í komandi kosningum. Er það fyrsta afdráttarlausa merki þess að kosningarnar fari fram á þessu ári. Kjörtímabilinu lýkur ekki fyrr en í maíbyrjun 2006, en flest bendir til að Blair muni boða til kosninga mun fyrr, eins og fyrr segir jafnvel strax í maímánuði á þessu ári. Breski Íhaldsflokkurinn hefur þegar kynnt helstu kosningamál sín og stefnuskrá og hefur hafið markvissa kosningabaráttu nú þegar. Vofir yfir og hefur gert nokkuð lengi að kosið yrði á þessu ári, en nákvæm dagsetning verið mjög á reiki. Nú þykir flest stefna í þá átt að stutt sé í yfirlýsingu Blair um kjördag og baráttan hefjist af fullum krafti beint.

Ef marka má skoðanakannanir hefur Verkamannaflokkurinn mun meira fylgi en Íhaldsflokkurinn. Það hefur aldrei gerst í sögu Verkamannaflokksins að hann sitji við völd lengur en tvö kjörtímabil. Aðeins Margaret Thatcher hefur tekist að leiða breskan stjórnmálaflokk í gegnum þrennar kosningar í röð og sigra þær allar. Það er því ljóst að Blair stefnir að því að jafna met Thatcher og sækist eftir að ná að komast nálægt meti hennar sem þaulsætnasta forsætisráðherra landsins í seinni tíma stjórnmálasögu. Blair stendur vissulega á krossgötum, nú þegar hann ávarpar flokksmenn sína. Aldrei hefur óánægja verið meiri með stjórn hans á landinu og flokknum en núna. Harkaleg valdabarátta stendur milli hans og Gordon Brown bakvið tjöldin og óánægjan kraumar undir niðri. Engu að síður hefur flokkurinn sterka stöðu. Í ræðunni í dag markaði hann stefnu næstu ára, nái hann að vinna næstu kosningar og fjallaði hann þar að mestu um innanríkismál og velferðarmál sem aðalkosningamál. Með því hyggst hann reyna að beygja umræðunni frá utanríkismálunum og reyna að auka sigurlíkurnar enn meir. Kjördagurinn verður eins og fyrr segir sennilega 5. maí, dagsetning sem er vart valin af tilviljun (05-05-05).

Punktar dagsins
Camilla Parker Bowles og Karl Bretaprins

Við blasir að mörgum Bretum var brugðið er tilkynnt var opinberlega að Karl Bretaprins og Camilla Parker Bowles myndu giftast þann 8. apríl nk. Þó er ljóst að almenn ánægja sé með að þau gangi loks upp að altarinu. 2/3 hlutar bresku þjóðarinnar virðast styðja þá ákvörðun prinsins og Camillu að giftast. Fram kemur ennfremur í skoðanakönnun dagblaðsins Daily Telegraph að 47% aðspurðra telji að Camilla eigi ekki að hljóta neinn titil jafnvel þótt Karl taki við konungstign síðar meir. 40% eru sammála þeirri ákvörðun að hún fái prinsessutitil auk þess sem hún verði nefnd eiginkona konungsins en 7% aðspurðra finnst að hún eigi að verða drottning Englands. Það er því lítill stuðningur við að hún verði drottning og jafnvel andstaða við að hún hljóti titil sem eiginkona konungs ef að því kemur. Vekur það vissulega athygli að Bretar virðast styðja brúðkaupið en ekki að Camilla fái titil sem slík. Camilla verður við brúðkaupið titluð hertogaynjan af Cornwall og mun brúðkaupsathöfn þeirra verða borgaraleg og því mjög lágstemmd í uppbyggingu. Þarna spilar mjög inn í að bæði eru fráskilin og að fyrrum maður Camillu er enn á lífi. Fram kemur að auki í könnuninni að mikill meirihluti landsmanna vill frekar að Vilhjálmur prins, en faðir hans, taki við krúnunni af Elísabetu Englandsdrottningu, ömmu sinni.

Háskóli Íslands

Háskólalistinn fékk einn mann kjörinn í stúdentaráð í kosningunum sem fram fóru meðal nemenda í Háskólanum í gær og fyrradag. Listar Vöku og Röskvu hlutu hvor um sig fjóra menn. Með þessu er ljóst að meirihluti Vöku er fallinn í ráðinu og að Háskólalistinn sé kominn í oddaaðstöðu. Eru þetta vissulega nokkur tíðindi og þáttaskil að ekkert afl hljóti hreinan meirihluta í stúdentaráði Háskólans. Kosið var um helming sæta í ráðinu en 20 fulltrúar sitja alls í stúdentaráði. Með þessu er ljóst að Vaka og Röskva hafa bæði 9 fulltrúa og Háskólalistinn 2 fulltrúa, og með því komið í oddaaðstöðu milli þessara stóru fylkinga. Röskva hafði hreinan meirihluta í ráðinu samfleytt í 12 ár, 1990-2002, en Vaka síðan. Háskólalistinn fékk 414 atkvæði, eða 12,5%, Vaka 1542 atkvæði, eða 46,6%, Röskva 1253 atkvæði, eða 37,9%, Alþýðulistinn fékk 100 atkvæði, eða 3% og fær því engan mann inn. Ef marka má fréttir ætlar Háskólalistinn ekki að mynda meirihluta í ráðinu með annarri hvorri fylkingunni. Segjast þeir ekki ætla að vera í stjórnmálaleik eða færa umræðuna innan ráðsins á það plan. Það verður fróðlegt að sjá hvernig samkomulagið verður í stúdentaráði við þessar aðstæður.

Meet the Parents

Var á fundi í gærkvöldi og fór meginhluti kvöldsins í flokksstarfið. Er heim kom var ákveðið að horfa á góða gamanmynd. Leit á kvikmyndina Meet the Parents. Var ein af bestu gamanmyndum ársins 2000 og það er erfitt annað en að veltast um af hlátri, enda er hún alveg frábærlega fyndin. Hér segir af hjúkrunarfræðingnum Gaylord Focker (sem vill endilega láta kalla sig Greg, hehe). Hann hefur í hyggju að biðja unnustu sína, Pam Byrnes um að giftast sér. Þegar hún segir honum að faðir hennar ætlist til þess að verða spurður um hönd hennar ákveður hann að nota tækifærið er hann og Pam fara í helgarferð til foreldranna til að verða viðstödd giftingu systur hennar, til að biðja hann um samþykki föðurins, Jack Byrnes á ráðahagnum. En þegar á hólminn er komið breytast aðstæður verulega. Jack er vægast sagt lítið um Greg gefið og gerir sífellt lítið úr honum, starfi hans og eftirnafni hans! Auk þess dásamar hann fyrrum kærasta Pam og gerir Greg þannig enn erfiðar fyrir. Þar sem Greg er staðráðinn í að fá samþykki hans reynir hann að sýna sínar allra bestu hliðar til að komast í mjúkinn hjá föðurnum og móðurinni. Allar þær aðgerðir misheppnast herfilega (vægast sagt) og koma honum í sprenghlægilegar aðstæður.

Framundan er hræðilegasta helgin í lífi Gregs og ekki batnar ástandið er hann kemst að því að Jack er fyrrum CIA-leyniþjónustumaður sem lumar á lygamæli í kjallaranum, en það er bara byrjunin á ógleymanlegri helgi sem verður stöðugt verri og verri..... Myndin er endurgerð samnefndrar kvikmyndar frá 1992 þar sem Greg Glienna lék hlutverk tengdasonarins en hann er einn framleiðendum þessarar myndar. Meet the Parents var tilnefnd til Óskarsverðlaunanna 2000 fyrir besta kvikmyndalagið (A Fool in Love) en það er höfundurinn Randy Newman sem syngur það. Óskarsverðlaunaleikarinn Robert De Niro fer á kostum í hlutverki hins vægðarlausa fjölskylduföður og tengdapabba og túlkar hann frábærlega. De Niro er að sjálfsögðu einn besti leikari samtímans og á að baki bæði ógleymanlegar og vandaðar leikframmistöður, nægir þar að nefna klassamyndir á borð við Taxi Driver, The Deer Hunter, Mean Streets og Cape Fear. Ben Stiller skilar einnig góðri frammistöðu í hlutverki hins seinheppna tengdasonar sem reynir að þóknast tengdapabba. En semsagt; hin besta skemmtun fyrir alla, svo sannarlega hægt að hlæja að þessari. Framhald myndarinnar, Meet the Fockers er einmitt komin í bíó og er sýnd þar þessa dagana.

Eftir undirritun samninga

Akureyrarbær hefur samið við Nýherja um kaup og innleiðingu á SAP fjárhags- og mannauðslausn. Ríkiskaup hafði haft umsjón með útboði hugbúnaðarlausnar fyrir hönd Akureyrarbæjar en þar voru vegnir saman þættir verðs og gæða lausnar og hlaut SAP-lausn Nýherja hæstu einkunn. Í kjölfarið var ákveðið að ganga til samninga við Nýherja. Fulltrúar Akureyrarbæjar og Nýherja skrifuðu undir samninga um kaup Akureyrarbæjar á nýju fjárhags- og mannauðskerfi í gær. Akureyrarbær mun vera fyrsta íslenska sveitarfélagið sem tekur SAP í notkun en með þeirri ákvörðun hefur SAP styrkt stöðu sína sem ákjósanlegur kostur fyrir önnur sveitarfélög. Akureyri er miðstöð þjónustu og menningar utan höfuðborgarsvæðisins, langfjölmennasta sveitarfélagið með um 16.500 íbúa. Akureyrarbær hefur lagt áherslu á að auka skilvirkni í verkferlum og bæta þjónustu og upplýsingagjöf til íbúa og starfsmanna, t.d. með rafrænum notendaskilum. Starfsemi sveitarfélagsins er því mjög umfangsmikil en stefnt er að því að dreifa vinnslu og ábyrgð og þá reynir á að upplýsingakerfi bæjarins geti þjónað slíkum markmiðum.

Saga dagsins
1943 Dwight D. Eisenhower verður hershöfðingi bandamanna í Evrópu - Eisenhower var sigursæll hershöfðingi í stríðinu. Hann var kjörinn forseti Bandaríkjanna 1952 og sat á forsetastóli 1953-1961
1973 Sjöstjarnan fórst milli Færeyja og Íslands - 10 manns fórust í slysinu, fimm Íslendingar og fimm Færeyingar. Langafi minn, Stefán Jónasson útgerðarmaður á Akureyri, átti Sjöstjörnuna til fjölda ára
1975 Margaret Thatcher var kjörin leiðtogi breska Íhaldsflokksins, fyrst kvenna - Thatcher varð forsætisráðherra Bretlands í maí 1979 og sat á valdastóli innan flokksins og í ríkisstjórn allt til 1990
1979 Ayatollah Khomeini tekur formlega við völdum í Íran, eftir mjög harða baráttu um völdin við leifarnar af hernum og fylgismenn keisarans - Khomeini og fylgismenn hans ná þá völdum í Teheran
1990 Nelson Mandela sleppt úr varðhaldi eftir að hafa verið haldið föngnum í 27 ár - varð leiðtogi Afríska þjóðarráðsins 1991 og leiddi baráttu blökkumanna í kosningunum árið 1994 og varð forseti

Snjallyrðið
Krummi gamli er svartur,
og krummi er fuglinn minn.
Krunkið eru söngvar hans
um sólina og himininn.

Fegri tóna hann ekki á,
og aldrei mun hann fegri ná.
Í kuflinum svarta hann krunka má,
uns krummahjartað brestur,
krummahjartað kvalið af löngun brestur.
Davíð Stefánsson skáld frá Fagraskógi (1895-1964) (Krummi)


Engin fyrirsögn

Karl prins og Camilla Parker BowlesHeitast í umræðunni
Tilkynnt var með fréttatilkynningu frá Clarence House í morgun að Karl Bretaprins myndi ganga að eiga heitkonu sína, Camillu Parker Bowles, þann 8. apríl nk. Með þessu lýkur áralöngum vangaveltum um samband þeirra og eðli þess. Þrátt fyrir að prinsinn og Camilla gangi loks í hjónaband þýðir það þó ekki að hún verði Englandsdrottning eða taki stöðu sem slík, þegar og ef hann verður konungur Englands. Mun hún við brúðkaupið hljóta titilinn: hennar konunglega hátign, hertogaynjan af Cornwall. Verði hann konungur tekur hún prinsessutitil og hlýtur formlegan titil sem hennar konunglega hátign, eiginkona konungs (Princess Consort). Eflaust hefur þetta allt verið mikið samkomulagsatriði og tekið tíma að landa þessu máli endanlega. Fyrir liggur að kirkjuyfirvöld og foreldrar prinsins hafi samþykkt ráðahaginn, en með því skilyrði að Camilla hlyti aldrei drottningartign eða sömu stöðu og móðir prinsins. Stóð Elísabet Englandsdrottning, lengi í vegi þess að þau myndu giftast og tók aldrei í mál að hún hlyti stöðu drottningar. Var Filippus hertogi af Edinborg, faðir prinsins, ekki síður andsnúinn því að þau myndu giftast. Greinileg stefnubreyting hefur orðið hjá foreldrum hans og ljóst ennfremur að leiðtogar kirkjunnar og ríkisstjórnarinnar hafa lagt blessun sína yfir giftinguna.

Camilla og Karl eru bæði fráskilin. Þjóðhöfðingi Bretlands er verndari kirkjunnar og því málið mjög erfitt í vöfum fyrir hana að samþykkja ráðahaginn. Eins og flestir vita varð Edward VIII Englandskonungur, afabróðir Karls, að segja af sér krúnunni í desember 1936 vegna ástarsambands síns við Wallis Warfield Simpson. Ástæða þess var að hún var Bandaríkjakona og tvífráskilin í þokkabót. Samþykktu kirkjunnar yfirvöld og ríkisstjórnin ekki ráðahaginn, enda hafði Edward sagt að yrði hún ekki við hans hlið og drottning að auki á sama tíma, gæti hann ekki setið á valdastóli. Hann gæti ekki lifað án hennar. Svo fór að hann valdi frekar að segja af sér embætti og slíta tengslin við fjölskylduna en láta Wallis frá sér fara. Vildi bróðir hans ekkert meira af honum vita og lítið sem ekkert samband var milli Edwards og konungsfjölskyldunnar fyrr en leið að ævilokum hans í upphafi áttunda áratugarins. Karl fór nokkrum sinnum til Frakklands og hitti afabróður sinn og drottningin gerði einu sinni sérstaka ferð þangað í opinberri heimsókn rétt fyrir andlát hans til að hitta hann. Eðli sambands Karls og Camillu hefur lengi verið fjölmiðlamatur og umdeilt meðal Breta hvernig taka eigi því. Því er umfram allt kennt um að draumahjónaband Karls og Díönu prinsessu, leið undir lok. Þau giftust með miklum viðhafnarbrag 29. júlí 1981 og var það almennt kallað brúðkaup aldarinnar. Brestir komu fljótt í draumahjónabandið vegna þess að Karl og Camilla héldu áfram sambandi sínu. Karl og Díana skildu að borði og sæng árið 1992 og hlutu lögskilnað árið 1996. Díana prinsessa, lést í bílslysi 31. ágúst 1997. Í kjölfarið fóru Karl og Camilla að vera saman opinberlega og Camilla flutti til Karls árið 2002 í Clarence House. En nú er semsagt komið að því að þessar umdeildu turtildúfur gangi upp að altarinu.

Halldór Ásgrímsson forsætisráðherraHalldór Ásgrímsson forsætisráðherra, fór í gærkvöldi ítarlega yfir Íraksmálið og aðdraganda ákvörðunar um að veita Bandaríkjunum og tengdum þjóðum pólitískan stuðning í aðdraganda innrásarinnar í Írak í umfangsmiklu viðtali við fréttastofu Stöðvar 2. Var viðtalið, sem stóð í tæpar 20 mínútur, sýnt í heild sinni á Stöð 2 í gærkvöldi að loknum fréttatímanum. Ræddi Brynhildur Ólafsdóttir þar við forsætisráðherrann og fór lið fyrir lið yfir málið allt. Vakti athygli að hann ræddi við hana, enda er hún sambýliskona Róberts Marshall, sem varð að hætta í starfi vegna fréttar nýlega. Sagði forsætisráðherrann þar að Bandaríkjastjórn hefði sótt hart að íslenskum stjórnvöldum að leggja nafn sitt við innrásina og styðja hana með afgerandi hætti og það væri þess vegna sem nafn Íslands lenti þar þann 18. mars 2003. Halldór sagði að Bandaríkjamenn hefðu haft samband við íslensk stjórnvöld og beðið um pólitískan stuðning í málinu eins og gert hafði verið í mörgum öðrum málum. Ef Íslendingar hefðu neitað hefði það verið veruleg stefnubreyting af hálfu Íslands í öryggis- og varnarmálum. Viðurkenndi hann í viðtalinu að ákvörðunin um að fara á þennan lista hafi tengst hagsmunum Íslands í varnarsamningunum við Bandaríkin.

Er rétt af forsætisráðherra að veita viðtal og fara yfir málið og ræða það hreint út. Eflaust helgast þetta allt af pólitískri stöðu hans í augnablikinu. Hver skoðanakönnunin hefur birst af öðrum seinustu daga, sem sýnir að persónufylgi hans er í lágmarki og fylgi Framsóknarflokksins hefur minnkað verulega frá alþingiskosningunum 2003. Hann veitir viðtalið til að sækja fram og verjast gagnrýni almennt. Tel ég nær öruggt að hinir margþekktu spunameistarar forsætisráðherrans, fyrrum blaðamenn, í þjónustu hans hafi ráðlagt honum þessa leið í tjáningu og umfangi þess. Óhætt er að fullyrða að Halldór haldi allt öðruvísi á málum í embætti og í formennsku flokksins en Steingrímur Hermannsson, forveri hans á formannsstóli, gerði meðan hann gegndi síðast á sama tíma bæði formennsku í Framsóknarflokknum og forsætisráðherraembættinu, 1988-1991. Steingrímur hefur enda gagnrýnt Halldór svo eftir hefur verið tekið. Halldór svaraði til baka í fyrrnefndu viðtali og sagði með ólíkindum að fyrrum forsætisráðherra hafi tjáð sig með þeim hætti sem varð um pólitískar ákvarðanatökur. Hefur jafnan andað köldu milli þeirra, engin ný tíðindi í því. Vel eru þekktar snerrur þeirra seinustu ár þeirra saman á þingi, einkum um EES-málið. En ef marka má fréttir þegar þessi orð eru skrifuð er umræða hafin á þingi um málið. Þessi dauflega stjórnarandstaða hefur ekkert annað úr að moða greinilega. Eru tilþrif hennar í þessu máli auðvitað fyrir löngu orðin aðhlátursefni. En segja má annars að stjórnarandstaðan sé hætt að koma fólki á óvart í málefnafátækt sinni.

Punktar dagsins
Halldór Kiljan Laxness

Mjög athyglisvert var að heyra fréttir af því í gær að í tímaritinu Mannlífi, sem kemur út á morgun, sé umfjöllun um að FBI hefði til fjölda ára fylgst með Halldóri Kiljan Laxness rithöfundi. Segir í umfjöllun blaðsins að J. Edgar Hoover forstjóri FBI um árabil, hefði sjálfur fyrirskipað að kanna skyldi feril Laxness, tekjur sem hann hefði af sölu bóka í Bandaríkjunum og fylgjast með ferðum hans um árabil. Beiðni til Hoovers vegna Laxness mun hafa fundist í opinberu skjalasafni í Washington undir lok seinasta árs í athugunum um mikilvæg skjöl. Þar kemur fram að Halldór Laxness væri einna mest áberandi í íslenska kommúnistaflokknum og rannsaka þyrfti því hvort sá flokkur nyti fjárhagslegs stuðnings frá honum í gegnum bókatekjur í Bandaríkjunum. Fylgir sögunni að FBI hefði fylgst með Halldóri í rúmlega áratug. Málið hefur legið í þagnargildi allt til þessa dags. Lög sem sett voru í forsetatíð Bill Clinton um meðhöndlun leyndarskjala úr kalda stríðinu hafa létt leynd af mörgum málum og merkilegum skjölum, t.d. þessu. Fjallað var stuttlega um þetta mál í ævisögu Halldórs Guðmundssonar um Laxness, að ef til vill hefði verið fylgst með málum Halldórs af bandarískum yfirvöldum. Umfangið er hinsvegar meira en áður hafði verið talið óneitanlega.

Bruni í Grindavík

Fiskimjölsverksmiðjan Fiskimjöl og lýsi í Grindavík, sem er í eigu Samherja, brann til kaldra kola í gær. Eldur kviknaði í húsinu á fjórða tímanum í gær eftir að sprenging varð í katli við mjölþurrkara í verksmiðjunni. Er þó mest um vert að enginn slasaðist í þessum bruna. Tjónið er mikið og tilfinnanlegt. Ljóst er að vinnsluaðstaða og húsakynni fyrirtækisins eru ónýt og verði ekki notuð meira í vetur. Mikið ánægjuefni er þó að nokkur hluti tækjabúnaðar er óskemmdur. Árni M. Mathiesen sjávarútvegsráðherra, og Guðjón Hjörleifsson formaður sjávarútvegsnefndar Alþingis, fóru til Grindavíkur í dag og hittu forsvarsmenn fyrirtækisins að máli og kynntu sér stöðu mála. Tryggingamiðstöðin hefur nú sent frá sér afkomuviðvörun vegna brunans í fiskimjölsverksmiðjunni, enda eru eignirnar tryggðar hjá fyrirtækinu. Hafa matsmenn fyrirtækisins verið á staðnum í dag og kynnt sér stöðuna og metið hana. Ljóst er að bruninn er mikið áfall fyrir Grindavík, nú í byrjun vertíðar. Vonandi verður verksmiðjan endurreist en staða mála er nokkuð ótrygg vissulega.

As Good as it Gets

Vann í gærkvöldi að breytingum á uppsetningu vefsins. Er ekki um stórar breytingar að ræða svosem en bæði letur og bakgrunnslitur og fleira hefur breyst. Nauðsynlegt að stokka þetta aðeins upp. Aldrei að vita nema meiri breytingar verði síðar. Horfði ennfremur á kvikmyndina As Good as it Gets. Fjallar um rithöfundinn Melvin Udall, mann sem allir elska að hata. Hann er sérlega óforskammaður í háttum, með eindæmum ókurteis í tilsvörum og hefur yfirleitt allt á hornum sér. Eina manneskjan sem honum virðist líka sæmilega við er Carol Connelly, gengilbeinan á veitingahúsinu þar sem Melvin snæðir hádegisverðinn sinn, enda hefur hann margoft neyðst til að sitja á sér til að verða ekki vísað endanlega út af staðnum fyrir ókurteisi og frekju. Hann vill ekki að neinn annar en Carol þjóni sér til borðs. Í húsinu sem hann býr, búa m.a. nágranni hans, Simon, og hundurinn hans Verdell, Melvin til stöðugs ama, enda hikar hann ekki við að láta þá báða fá það óþvegið hvenær sem hann telur þörf á - sem er reyndar alltaf þegar færi gefst.

Þegar Simon lendir á sjúkrahúsi eftir líkamsárás, neyðist Melvin, fyrir kaldhæðni örlaganna, til að taka rakkann í fóstur og fyrr en varir taka hlutirnir óvænta stefnu, enda hefur Carol sitthvað til málanna að leggja. Sonur hennar, Spencer þarf á læknishjálp að halda vegna ofnæmissýkingar, og til að Carol geti unnið sem fyrr á veitingastaðnum við hornið, borgar Melvin allan lækniskostnað stráksins, og þá fyrst fara hlutirnir að breytast hjá Melvin. Hlutirnir taka óvænta og góða stefnu, bæði fyrir hann og alla í kringum hann... Hér er allt til að skapa hina ógleymanlegu stórmynd. Handritið er afbragð, leikstjórn James L. Brooks fagmannleg, myndatakan og tónlistin er hreinasta afbragð. En aðall þessarar óviðjafnanlegu myndar er stórleikur þeirra Jack Nicholson og Helen Hunt sem hlutu óskarsverðlaun fyrir leik sinn. Þetta er gæðamynd, fyndin og skemmtileg og sérlega vel leikin. Á alltaf vel við. Hef alltaf þótt Nicholson frábær leikari og á flestar af hans myndum og horfi reglulega á þær. En já frábær mynd, eitt af hans bestu hlutverkum á ferlinum.

Akureyri

Samkvæmt niðurstöðu skýrslu um áhrifasvæði höfuðborgarsvæðisins og helstu þéttbýlissvæða sem unnin var fyrir samgönguráðuneytið, Vegagerðina og Flugmálastjórn gætu 35% íbúa höfuðborgarsvæðisins hugsað sér að búa á Akureyri. Þessi niðurstaða er kynnt á vef Atvinnuþróunarfélag Eyjafjarðar. Í skýrslunni segir svo: "Íbúar höfuðborgarsvæðisins voru spurðir hvort þeir gætu hugsað sér að búa á Íslandi utan höfuðborgarsvæðisins. Af 421 svarendum sögðu 52,4% já, 47,6% nei og 4,3% tók ekki afstöðu. Þetta er ótrúlega hátt hlutfall að rúmlega helmingur íbúa höfuðborgarsvæðisins gætu hugsað sér að búa út á landi. Þessi áhugi er nokkuð jafn eftir aldri, fjölskyldugerð, menntun og tekjum. Þó má greina heldur meiri áhuga hjá yngri tekjulægri hópum." Ennfremur kemur svo fram í lokamatinu: "Þegar spurt var hvar íbúar höfuðborgarsvæðisins vildu búa kom greinilega í ljós að Akureyri er lang vinsælasti staðurinn, en 34% svarenda nefndu höfuðstað Norðurlands." Þetta eru mjög ánægjulegar niðurstöður og koma í kjölfar skýrslu IMG Gallup. Þar kom fram að 54,6% landsmanna fólks í atvinnuleit á höfuðborgarsvæðinu gat hugsað sér að flytja hingað norður.

Sjálfstæðisflokkurinn

Vörður, félag ungra sjálfstæðismanna á Akureyri, er 76 ára í dag. Félagið var stofnað þann 10. febrúar árið 1929, nokkrum mánuðum áður en Sjálfstæðisflokkurinn var formlega stofnaður, 25. maí 1929. Hef ég nú verið formaður félagsins í tæpt hálft ár. Saga félagsins er merk og hefur það alla tíð verið öflugur þáttur í starfi flokksins hér á Akureyri.

Saga dagsins
1840 Viktoría Englandsdrottning, kvænist Albert af Saxe-Coburg-Gotha. Hann hlaut titilinn prins, eiginmaður drottningar (Prince Consort). Þau voru gift allt til að hann lést árið 1861. Banamein prinsins var lömunarveiki. Syrgði hún mann sinn mjög og lifði í sorg í 40 ár. Hún var drottning allt til dauðadags árið 1901. Viktoría var drottning Englands í tæp 64 ár og ríkti lengur en nokkur annar
1938 Héðinn Valdimarsson rekinn úr Alþýðuflokknum - leiddi það til stofnunar Sósíalistaflokksins
1943 Orlofslög voru samþykkt á Alþingi - með þeim var tryggður einn frídagur fyrir hvern unninn mánuð. Allt frá samþykkt laganna hefur orlofstími landsmanna verið lengur um meira en helming
1944 Þrjár þýskar flugvélar vörpuðu sprengjum að olíuskipinu El Grillo sem lá á Seyðisfirði og sökk það. El Grillo var 10.000 tonna skip. Olía var í skipinu í fjöldamörg ár, en henni var dælt upp 1999
1954 Dwight D. Eisenhower forseti Bandaríkjanna, varar við hernaðaríhlutun Bandaríkjamanna í Víetnam. Í valdatíð eftirmanns hans, John F. Kennedy, var farið í stríð þar sem varð mjög langvinnt

Snjallyrðið
Víða eru vörður reistar
á vegum sögu þessa lands,
úr fornöldinni fljúga neistar
framtaksins og hraustleikans.

Rétt er vörður við að hressa,
veginn svo að rati þjóð,
og bindini í að binda þessa
björtu neista úr fornri glóð,
Grímur Thomsen skáld (1820-1896) (Vörður)


Engin fyrirsögn

Anders Fogh RasmussenHeitast í umræðunni
Ríkisstjórn Anders Fogh Rasmussen hélt velli í þingkosningunum í Danmörku í gær. Stjórnarflokkarnir og Danski þjóðarflokkurinn, sem hefur stutt stjórnina og varið hana falli, hlutu 95 þingsæti á danska þinginu en stjórnarandstöðuflokkarnir hlutu 80 sæti. Í ræðu sem forsætisráðherrann flutti á sigurfögnuði Venstre sagði hann að þrjú markmið sín fyrir kosningarnar hefðu öll náðst í kosningunum: stjórnin héldi velli, Venstre væri enn stærsti flokkurinn á danska þinginu og dönsku borgaraflokkunum hefði tekist að halda meirihlutanum og vinstriflokkunum frá stjórn landsins. Gladdist hann sérstaklega með að meirihlutinn hefði stækkað. Venstre hlaut 52 þingmenn, missti 4 frá kosningunum 2001. Konservative hlaut 19 og bætti við sig þrem. Dansk Folkeparti sem varið hefur stjórnina falli, eins og fyrr segir, hlaut 24 þingmenn og bætti við sig 2. Það er því ljóst að stjórnin hefur unnið merkilegan sigur. Eflaust eru það helstu gleðitíðindin fyrir forsætisráðherrann að Venstre er áfram stærsti flokkur landsins og heldur því velli sem öflugasta stjórnmálaaflið.

Það þótti sögulegt árið 2001 þegar Venstre tókst að verða stærsti flokkur landsins. Það var í fyrsta skipti í sögu danskra stjórnmála sem annar flokkur en Jafnaðarmannaflokkurinn varð stærsti flokkur landsins. Það hafði verið sess sem flokkurinn hafði alla tíð haft og lengst af drottnað yfir öllum öðrum í fylgi og leitt stjórn landsins lengst af, ef tekið er frá valdatímabil borgaraflokkanna 1982-1993 er Konservative var í ríkisstjórn með Venstre undir forsæti íhaldsmannsins Poul Schluter. Segja má að það hafi verið sálfræðilega mikill áfangi fyrir borgaraöflin að ná völdum síðast eftir langan valdaferil Poul Nyrup Rasmussen, sem var forsætisráðherra 1993-2001. Það munaði reyndar litlu að vinstristjórnin félli í kosningunum 1998. Það munaði þá aðeins 100 atkvæðum að hún dytti upp fyrir og að Uffe Elleman-Jensen, sem var utanríkisráðherra í hægristjórninni 1982-1993 og leiðtogi Venstre til fjölda ára, yrði forsætisráðherra. Atkvæði frá Færeyjum undir lok talningarinnar breyttu stöðu mála og stjórnin hélt velli. Uffe axlaði ábyrgð á tapinu og hætti sem leiðtogi flokksins. Það var þá sem Fogh tók við forystunni, en hann hafði verið náinn samstarfsmaður Uffe til fjölda ára innan flokksins. Það var því hann sem leiddi flokkinn á sigurbraut loks árið 2001 og að krötum var komið frá völdum og úr forystusessi í þinginu. Þau úrslit mörkuðu mikil þáttaskil og leiddu til sögulegra breytinga í dönskum stjórnmálum.

Mogens LykketoftÚrslit kosninganna voru svo sannarlega reiðarslag fyrir Mogens Lykketoft leiðtoga Jafnaðarmannaflokksins. Ekki aðeins mistókst flokknum að ná sessi sínum aftur sem stærsti flokkur landsins, heldur missti hann fylgi frá þingkosningunum 2001. Hlaut flokkurinn innan við 26% atkvæða og hlaut 47 þingmenn og missti 5. Það er óneitanlega sögulegt að Jafnaðarmannaflokkurinn er enn annar stærsti flokkur landsins en enn sögulegra að hann dali enn eftir fjögur ár í stjórnarandstöðu. Flokkast þessar niðurstöður sem mikill persónulegur ósigur fyrir Lykketoft, sem hafði lagt allt í sölurnar í kosningabaráttu seinustu vikna og unnið mjög af krafti við að reyna að byggja flokkinn upp eftir valdamissinn fyrir fjórum árum og reynt að stefna að sigri í kosningunum og því að leiða stjórnina næstu árin. Tilkynnti hann í ræðu á kosningavöku flokksins að hann myndi nú draga sig í hlé og biðjast lausnar frá leiðtogaembættinu og myndi því ekki leiða flokkinn í næstu kosningum. Ferli Lykketofts í dönskum stjórnmálum er nú væntanlega lokið.

Lykketoft sem er 62 ára gamall hefur verið til fjölda ára einn af lykilmönnum Jafnaðarmannaflokksins og var t.d. fjármála- og utanríkisráðherra í stjórnum Nyrups 1993-2001 og lykilmaður í starfi flokksins og stefnumótun til fjölda ára. Varð hann leiðtogi flokksins árið 2002 og þótti hann stinga Nyrup, vin sinn og samstarfsmann til fjölda ára, í bakið eftir langa samvinnu í pólitík. Nyrup vildi ekki hætta sem leiðtogi þá og hafði sýnt áhuga á því að leiða flokkinn aftur í næstu kosningum. Leiddi Lykketoft andspyrnu gegn honum, sem varð til þess að hann vék af þingi og sagði af sér leiðtogaembættinu og varð þingmaður Dana á Evrópuþinginu. Hann hefur víða komið við og starfað í innstu víglínu til fjölda ára. Það verður nú verkefni, væntanlega eins af yngri þingmönnum flokksins, að taka við keflinu og leiða flokkinn næstu árin og í komandi kosningum eftir fjögur ár. Stærstu sigurvegarar þessara kosninga í Danmörku voru hinsvegar róttækir vinstrimenn í Radikale Venstre. Flokkurinn tvöfaldaði fylgi sitt frá kosningunum 2001 og er ljóst að það er að mestu að þakka leiðtoga flokksins, Marianne Jelved. Verður fróðlegt að fylgjast með danskri pólitík næstu árin, eftir þennan sigur dönsku borgaraflokkanna.

Punktar dagsins
Alþingi

Þingmenn Frjálslynda flokksins hafa nú lagt fram þingsályktunartillögu á Alþingi, þess efnis að endurskoðaða skuli vinnureglur á þingi. Víkur þetta að klæðaburði þingmanna og ávarpsvenjum þeirra í ræðustóli. Samkvæmt fréttum vilja þeir að forsætisnefnd þingsins sé falið að vinna að endurskoðun mála og leggja tillögur þar að lútandi fram fyrir þinglok í vor. Sérstaklega vilja þeir með tillögum sínum gera kleift að alþingismenn klæðist alþýðlega í þingsal og sé frjálst að vera t.d. ekki í jakkafötum í þingsal og við þingstörf. Benda þeir sérstaklega á stöðu mála í danska þinginu sem fyrirmynd þess sem þeir vilji að taki við í íslenska þinginu. Vilja þeir halda því að kalla þingforseta í ræðustóli sérstaklega, með orðunum, hæstvirtur eða virðulegur forseti. Í staðinn detti út orðin hæstvirtur ráðherra og háttvirtur þingmaður. Er ég algjörlega ósammála þessari tillögu þingmanna Frjálslynda flokksins og undrast satt best að segja að þingmenn þessa flokks hafi ekkert þarfara að gera. Er það reyndar vel kunnugt að þingmenn þessa flokks hafa fá málefni til umræðu og úrvinnslu og því eflaust ekkert betra við tímann að gera. Ég tel viðeigandi að þingmenn séu vel klæddir í þingsal, karlmenn í jakkafötum og konur í drögtum eða öðrum fínum fötum. Finnst mér eðlilegt að þingmenn ávarpi hvor aðra með virðingu, einkum ráðherra.

John Kerry

Um helgina var John Kerry öldungadeildarþingmaður, í viðtali hjá nokkrum sjónvarpsstöðvum og fór þar yfir stöðuna frá bandarísku forsetakosningunum 2. nóvember, þar sem hann tapaði fyrir George W. Bush forseta. Sagði hann að hann hefði unnið kosningarnar hefði myndbandið með Osama bin Laden ekki komið til á lokasprettinum. Sagði hann semsagt að það hefði ráðið úrslitum um að Bush hélt velli og að almenningur studdi Bush og vildi ekki breytingar. Ansi eru þetta nú ódýrar skýringar hjá Kerry. Það hafði semsagt ekkert með hann að gera að honum var hafnað í kosningunum og demókrötum í raun í heild sinni. Greinilega ekki. Þetta eru alveg kostulegar lýsingar. Lengst af kosningabaráttunnar hafði Bush mjög gott forskot. Það var ekki fyrr en í kappræðunum seinustu vikurnar sem Kerry náði einhverri fótfestu og bætti við sig. Í raun var hann aldrei með markvisst forskot á Bush, en spennan var vissulega nokkur seinustu dagana. En útreið demókrata í forseta- og þingkosningunum segir allt um stöðu þeirra. Þeir fóru mjög flatt út úr kjördeginum almennt. Já, þetta er semsagt allt bin Laden að kenna, allt ólán demókrata. Ansi er þetta ódýrt hjá Kerry. En sennilega er betra að kenna öðrum en sjálfum sér um.

Murder on the Orient Express

Var rólegt kvöld í gær, mikið litið í tölvuna og rýnt í tölur vegna dönsku þingkosninganna og tók ég þátt í skondinni umræðu um kosningarnar á spjallvef einum. Leit ennfremur á kvikmyndina Murder on the Orient Express. Vönduð og vel gerð úrvalsmynd byggðri á þekktri skáldkonu Agöthu Christie, sem skartar fjölda heimsþekktra leikara í aðalhlutverkum. Hér er uppskriftin gefin að öllum Agatha Christie-spennusagnamyndunum sem fylgdu í kjölfarið, en allt frá því þetta meistaraverk kom út hafa verið gerðar fjöldi kvikmynda og framhaldsþátta byggðar á þekktum sögum Christie. Hér er valinn maður í hverju rúmi og myndar ógleymanlega kvikmynd. Hercule Poirot tekur sér á hendur ferð með Austurlandahraðlestinni árið 1935 eftir að hafa leyst mál og gengur ferðin vel þar til hana fennir inni í snjóskafli á leiðinni. Er uppgötvast að einn farþeganna hefur verið myrtur á hrottalegan hátt, hefur Poirot morðrannsókn sína og uppgötvar fljótt sér til mikillar skelfingar að allir farþegar lestarinnar tengdust hinum myrta í gegnum barnsrán í kringum 1910 sem kennt var við Daisy Armstrong-málið. Nú er hann í vanda staddur og áttar sig á að allir farþegarnir höfðu nægilega ástæðu og tilefni til að hafa myrt hinn látna. En hver er morðinginn?

Það er hrein unun að fylgjast með þessari stórfenglegu kvikmynd og fylgjast með úrvalsleikaranum Albert Finney í hlutverki Hercule Poirot og fylgjast með honum fást við þetta dularfulla og undarlega morðmál áður en hann hóar hinum grunuðu saman og bendir á hina seku. Stjarna í hverju hlutverki og leikstjóri myndarinnar, úrvalsleikstjórinn Sidney Lumet, stjórnar öllu saman með velviðeigandi blöndu af húmor og spennu. Að öllum ólöstuðum er stjarna myndarinnar fyrir utan Albert Finney, óskarsverðlaunaleikkonan Ingrid Bergman, sem fer hér á kostum í hlutverki Gretu, sænsks trúboða sem er farþegi í lestinni. Hún hlaut sinn þriðja og jafnframt síðasta óskar fyrir hreint magnaðan leik sinn í þessari mynd. Ennfremur má meðal leikarana nefna Lauren Bacall, Martin Balsam, Wendy Hiller, John Gielgud, Vanessu Redgrave, Sean Connery og Dame Wendy Hiller. Einnig eru hér leikararnir Anthony Perkins, Richard Widmark, Rachel Roberts, Jacqueline Bisset og Michael York. Sannkölluð stórmynd með úrvalsleikurum, vel leikstýrð og afar vel útfærð. Þeir sem hafa gaman af stórbrotnum sakamálamyndum með ekta bresku ívafi mega ekki missa af þessari. Sannkölluð klassamynd.

Ekkert er fallegra en Eyjafjörður

Allt frá 1. febrúar 2004 hef ég birt hér á þessum vef sögulega punkta hvers dags. Hef ég talið upp fimm atriði tengt sögu dagsins sem ég hef viljað benda á og hafa sem fylgihlut með annarri frásögn og umfjöllun. Hafa margir sent mér póst vegna þessa og bent mér á merkisatburði og ekki síður lýst bara ánægju sinni með þetta. Hef ég alltaf haft gaman af sögunni og því tilvalið að nota daglegar færslur hér til að safna saman nokkrum punktum tengt sögu dagsins sem um ræðir. Hef ég nú safnað atburðum hvers dags á ársbasis og á því orðið uppsafnaða umfjöllun um hvern dag inni í gagnasafninu. Það er því orðið lítið mál að setja þetta upp. Fyrst var þetta sett saman dag hvern eftir hendinni, en eftir því sem leið á setti ég saman fyrir hvern mánuð fyrir sig og gat því gengið að hverjum degi sem uppsettu. Þannig er þetta nú orðið með alla daga ársins. Er það sannfæring mín að þetta sé tilvalið með færslunni. Vil ég þakka þeim sem hafa sent komment á þennan lið og þakka þeim fyrir góðar kveðjur og ekki síður góðar hugmyndir að efni í þetta. Tilvalið er einnig að þakka þeim sem senda komment á annað efni hérna og fylgjast með því frá degi til dags hvað ég er að skrifa um.

Saga dagsins
1833 Baldvin Einarsson lögfræðingur, lést, 31 árs að aldri - Baldvin gaf út ársritið Ármann á Alþingi
1950 Öldungadeildarþingmaðurinn Joseph McCarthy sakar rúmlega 200 starfsmenn bandaríska utanríkisráðuneytisins um að vera kommúnistar - leiddi til mestu ofsókna almennt vegna pólitískra skoðana í sögu landsins. McCarthy sat í öldungadeild þingsins fyrir Wisconsin allt til dauðadags 1957
1982 Sjór flæddi um Pósthússtræti og Austurstræti - yfirborð sjávar var 5 m. hærra en venjulega
1984 Maður með lambhúshettu yfir höfði rændi um bjartan dag á fjórða hundrað þúsund krónum í útibúi Iðnaðarbankans í Breiðholtshverfi - málið þótti mjög dularfullt en bankaránið upplýstist aldrei
2003 Ingibjörg Sólrún Gísladóttir borgarfulltrúi og þáverandi forsætisráðherraefni Samfylkingarinnar (í kosningabaráttunni til Alþingis 2003) flutti fyrri kosningaræðu sína í Borgarnesi - markaði upphaf persónuskítkasts hennar og flokksins í baráttunni þar sem ráðist var að persónu Davíðs Oddssonar

Snjallyrðið
Sú rödd var svo fögur, svo hugljúf og hrein,
sem hljómaði til mín úr dálitlum runni.
Hún sat þar um nætur og söng þar á grein
svo sólfögur ljóð um svo margt sem ég unni,
og kvöld eftir kvöld hóf hún ástarljóð ein,
ó, ef að þú vissir hvað mikið hún kunni.

En fjarri er nú söngur þinn, sólskríkjan mín,
og sumur þíns vinar hin fegurstu liðin.
Hann langar svo oft heim á Þórsmörk til þín,
hann þráir svo ljóðin og vornæturfriðinn,
hann harmar í skógunum hrjósturlönd sín,
hann hlustar sem gestur á náttgalakliðinn.
Þorsteinn Erlingsson skáld (1858-1914) (Sólskríkjan)


Engin fyrirsögn

Halldór Ásgrímsson forsætisráðherraHeitast í umræðunni
Halldór Ásgrímsson forsætisráðherra, flutti í dag ítarlegt ávarp á viðskiptaþingi. Þar sagði hann að sínu mati væri einsýnt að bæði stimpilgjöld og álagning vörugjalda yrði tekin til endurskoðunar þegar frekara svigrúm til skattalækkana myndi skapast. Ennfremur kom fram í máli hans að mikilvægt væri að jafna aðstöðu íslenskra og erlendra fyrirtækja og eðlilegt væri að fara vandlega ofan í saumana á tilhögun skattlagningar á arði og söluhagnaði erlendra fyrirtækja sem stofna dótturfélög hér á landi. Fram kom það mat hans að staða landsins væri sterk. Verið væri að ráðast um þessar mundir í einhverjar stærstu framkvæmdir í sögu þjóðarinnar á sama tíma og uppgangur ríkti á flestum öðrum sviðum efnahagslífsins. Kom fram hjá honum að hann ætti sér þann draum, að í framtíðinni yrði Ísland þekkt um víða veröld sem alþjóðleg fjármálamiðstöð. Hér myndi starfa kraftmikil alþjóðleg fyrirtæki, sem hefðu kosið að eiga hér höfuðstöðvar vegna ákjósanlegra skilyrða af hálfu stjórnvalda. Í ræðunni sagði hann orðrétt: "Við stórlækkuðum skatta á fyrirtæki, þeir eru til sem voru andsnúnir því. Við stórlækkum nú skatta á einstaklinga og þeir eru svo sannarlega til sem eru andsnúnir því. Þeir verða því örugglega margir sem munu finna þessari framtíðarsýn allt til foráttu, en þeir um það".

Fór forsætisráðherrann ennfremur vel yfir málefni Símans. Sagði hann að veigamikil rök lægju til grundvallar þeirri ákvörðun að selja Símann í heilu lagi, langflest ríki Evrópu hefðu einkavætt fjarskiptafyrirtæki í eigu ríkisins og hvergi hefði grunnnet verið aðskilið þjónustu. Var ánægjulegt að heyra þessa yfirlýsingu hans og gott að hann talar skýrt og afdráttarlaust í þessum efnum. Það er af hinu góða, mjög svo. Kom fram í máli hans ennfremur að aðskilnaður grunnets myndi skapa aukna óvissu um söluna á fyrirtækinu og draga mjög úr verðmæti Símans. Þá þyrftu rekstraraðilar grunnnets sífellt að bregðast við og aðlagast aukinni vöruþróun og þjónustukröfum neytandans. Lagaumhverfið hér á landi, sem og annars staðar í Evrópu, gerði ráð fyrir samkeppni í rekstri grunnneta og sagði Halldór að þeir sem bæri saman hið nýja raforkuumhverfi, sem samkvæmt evrópskri löggjöf gerði ráð fyrir einkasölu við dreifingu, við rekstur grunnneta í fjarskiptageiranum, horfðu algerlega fram hjá þessu veigamikla atriði. Nú þegar ætti grunnnet Símans í samkeppni við fjarskiptanet annarra fjarskiptafyrirtækja, þar á meðal nefna Orkuveitu Reykjavíkur, Og fjarskipti og Fjarska. Spurði ráðherrann einfaldrar spurningar: hvort ríkið ætti að standa í samkeppni í rekstri fjarskiptaneta? Tæpast, sagði hann sem svar við því. Er ekki hægt annað en að lýsa ánægju með yfirlýsingar forsætisráðherra og því að söluferlið sé komið í þetta ferli og enginn vafi lengur á stöðu mála. Á sama tíma og forsætisráðherra flutti ræðu sína gagnrýndu þingmenn stjórnarandstöðunnar hann harkalega. Fróðlegt var að sjá varaþingmanninn Ingibjörgu Sólrúnu Gísladóttur segja að önnur fyrirtæki í fjarskiptarekstri myndu aldrei sætta sig við það grunnnetið yrði selt með Símanum. Óhætt er að segja að meiri eymdarbragurinn sé á þessari stjórnarandstöðu sem sást í þessum umræðum í dag.

Mahmoud Abbas og Ariel SharonMahmoud Abbas forseti Palestínu, og Ariel Sharon forsætisráðherra Ísraels, hittust í dag á leiðtogafundi í Sharm al Sheik í Egyptalandi. Með þeim sátu fundinn þeir Hosni Mubarak forseti Egyptalands, og Abdullah Jórdaníukonungur. Var þetta í fyrsta skiptið í rúm fjögur ár sem leiðtogar þessara tveggja landa hittast og ræða málin. Þáttaskil urðu í samskiptum þeirra eftir andlát Yasser Arafat fyrrum forseta Palestínu, í nóvember. Á fundinum lýstu Sharon og Abbas formlega yfir vopnahléi og hyggjast með því binda að fullu endi á átök seinustu fjögurra ára. Vopnahléið mun taka gildi nú þegar. Óhætt er því að segja að sögulegt skref hafi verið stigið í málefnum landanna. Gengur samkomulagið að mestu út á það sem Arafat hafnaði í samningum við Ísraelsmenn um vegvísinn margfræga fyrir nokkrum árum. Var það samkomulag sem Abbas hafði unnið að sem forsætisráðherra en Arafat neitaði að samþykkja. Leiddi það til þess að Abbas sagði af sér embætti forsætisráðherra.

Nú eru aðrir tímar. Abbas er orðinn forseti Palestínu og ræður för, bæði í palestínskum stjórnmálum eftir afgerandi kosningu í seinasta mánuði og hefur umboð almennings. Arafat er hinsvegar farinn til feðra sinna. Það er því komið að því að hin nýja forysta leiði málin til lykta með sínum brag, en án áhrifa Arafats og hans stjórnarhátta. Abbas sagðist í dag vænta þess að upp myndu nú renna nýir og breyttir tímar í samskiptum landanna og vonin væri til staðar. Greinilegt er að hann og Sharon geta talað saman og rætt ólík sjónarmið með samtvinnaðri hætti og hafa leitt málið að vissu leyti nú til lykta. Óvissa ríkir enn um viðbrögð herskárra hópa í Palestínu. Hafa þeir sagst ekki bundnir af samningum Abbas og stjórnar hans í Egyptalandi og fara eigin leiðir í því að berjast fyrir sjálfstæði sínu. En allavega er ljóst að friðarferlið er komið á sporið svo um munar. Hefur það ekki staðið sterkar að vígi í ein fimm ár, eða frá friðarviðræðunum í Camp David árið 2000. Þá reyndi Bill Clinton þáverandi forseti Bandaríkjanna, að leysa deiluna með fundahöldum milli Arafats og Ehud Barak þáverandi forsætisráðherra Ísraels. Mistókust þær vegna óbilgirni Arafats. Clinton hefur síðar margoft sagt að Arafat hafi sjálfur þar klúðrað tækifærinu að landa markvissu friðarsamkomulagi í valdatíð sinni. Eflaust er það rétt. En vonandi eru jákvæðir tímar framundan, í kjölfar þessa friðarsamkomulags.

Punktar dagsins
Anders Fogh Rasmussen kýs í morgun

Þingkosningar voru í Danmörku í dag. Eins og ég sagði hér í gær sýndu skoðanakannanir seinustu daga kosningabaráttunnar að saman hefði dregið með flokkunum og tvísýnna væri því en ella með niðurstöðurnar. Frambjóðendur og leiðtogar flokkanna fóru því með mun meiri krafti í baráttuna á lokasprettinum og lögðu allt í slaginn seinustu dagana til að ná til óákveðinna kjósenda sem gætu ráðið úrslitum um hvor valdablokkin myndi bera sigur úr býtum. Kosningabaráttan sem stóð í þrjár vikur þótti lengst af vera litlaus og leiðinleg. Kannanir um helgina breyttu því seinustu metrum slagsins og harkan varð meiri. Ennfremur þótti forsætisráðherrann Anders Fogh Rasmussen vera mun líflegra og kraftmeira leiðtogaefni en Mogens Lykketoft leiðtogi stjórnarandstöðunnar. Brá hann meira að segja á það ráð að raka af sér fornfálegt geithafursskegg sem var hans aðalsmerki til að lífga upp á ímynd sína og reyna að virka nútímalegri. Þótti hann einnig hafa farið í algjöra yfirhalningu, t.d. var hann farinn að ganga í leðurjakka og kominn með stælleg gleraugu. Greinilega farið í algjört extreme makeover. Þessi umskipti virðast hafa breytt litlu um stöðu hans. Ef marka má útgönguspár sem birtar voru seinnipartinn, heldur stjórnin velli og rúmlega það. Jafnaðarmenn undir forystu Lykketoft tapa fylgi. Ég mun fjalla ítarlega um úrslitin í Danmörku á morgun.

Dr. Condoleezza Rice

Eins og ég sagði frá á laugardag er Condoleezza Rice utanríkisráðherra Bandaríkjanna, á faraldsfæti um Evrópu og Mið-austurlönd þessa dagana, í fyrstu opinberu heimsókn sinni eftir að hún tók við embætti. Hefur hún því farið víða og rætt við marga forystumenn í stjórnmálaheiminum á nokkrum dögum. Í dag kom hún til Parísar, þar flutti hún fyrsta meiriháttar ávarp sitt um utanríkisstefnu Bandaríkjanna, eftir embættistöku sína. Eins og vel hefur komið fram leggur ríkisstjórn Bandaríkjanna nú aukna áherslu á að bæta samskipti sín við Evrópu, eftir átök um Íraksmálið seinustu tvö til þrjú árin. Segja má því vissulega að nýr kafli sé hafinn í samskiptunum Bandaríkjanna og Frakklands. Það að Rice flytji svo mikilvæga ræðu á sínum ferli og að hálfu bandarískra stjórnvalda staðfestir það mjög glögglega. Rice var mjög ákveðin er hún flutti ræðu sína í stjórnvísindaháskólanum í París seinnipartinn. Hún sagði að byggja þyrfti brýr milli Bandaríkjanna og Evrópuþjóða til að takast á við komandi stórmál í heiminum og nefndi sérstaklega uppbygginguna í Írak og friðarferlið í Miðausturlöndum. Nota þyrfti það einstaka tækifæri sem nú gæfist til að koma á friði og byggja upp í þessum tveim stórmálum í utanríkismálunum. Mikilvægt væri að hennar mati að Bandaríkjamenn og Frakkar græfu stríðsöxina og horfðu samhentir fram á veginn. Þessi boðskapur fór vel í franska ráðamenn.

Málverk af Dame Iris Murdoch

6 ár eru í dag liðin frá andláti skáldkonunnar Iris Murdoch. Eftir fund í gærkvöldi í Borgum ákvað ég að horfa á myndina Iris, sem fjallar um ævi hennar. Iris var án vafa ein af fremstu skáldkonum 20. aldarinnar. Myndin er byggð á bók eiginmanns hennar, John Bayley, Iris: A Memoir and Elegy for Iris, þar sem sagði frá ævi hennar. Iris og John voru um margt ólík, hún frjálslynd og óhrædd við að feta eigin leiðir en hann óframfærinn og lifði nokkurnveginn í eigin heimi. En einhvernveginn smullu þau saman og varði hjónaband þeirra í rúm fjörutíu ár. Iris Murdoch fæddist í Dublin 15. júlí 1919. Hún var einkabarn foreldra sinna og var alin upp í London. Hún fór í Froebel skólann og síðar Somerville háskólann í Oxford. Hún kenndi heimspeki við skóla í Oxford. Hún gaf út fyrstu bók sína (kynningu á heimspeki Sartre) árið 1953 og fyrstu skáldsaga hennar var gefin út 1954, Under the Net. Hún sló í gegn og á eftir fylgdu The Flight from The Enchanter, The Sandcastle and The Bell og The Sacred and Profane Love Machine, sem vann Whitbread-verðlaunin árið 1974. 1978 hlaut hún Booker-verðlaunin fyrir 19. skáldsögu sína, The Sea. Síðasta skáldsaga hennar, Jackson's Dilemma, kom út árið 1995. Árið 1956 giftist hún John Bayley, enskukennara við New College í Oxford, og síðar Warton prófessor í enskum bókmenntum við sama skóla. Hún hlaut CBE-verðlaunin 1976 og var öðluð (Dame) árið 1987.

Í upphafi er sagan rakin frá því að Iris kynnist John á sjötta áratugnum allt til þess tíma er hún er orðin gömul kona, illa haldin af Alzheimer-sjúkdómnum og John verður að hugsa um hana og styðja hana í gegnum sjúkdóminn og þverrandi heilsu seinustu árin. Aðall myndarinnar er stórleikur allra aðalleikaranna. Óskarsverðlaunaleikkonan Judi Dench á stjörnuleik í hlutverki Iris á efri árum og verður hreinlega hún með undraverðum hætti, maður fær það á tilfinninguna að hún sé Iris en sé ekki að leika hana, svo mögnuð er hún. Þetta er eitt af hennar bestu hlutverkum, ekki nokkur spurning. Kate Winslet túlkar hana unga og fer ekki síður á kostum og saman ná þessar tvær leikkonur að smella saman í túlkun sinni á skáldkonunni. Einnig er Hugh Bonneville góður í hlutverki John Bayley á yngri árum. Senuþjófurinn er þó hiklaust Jim Broadbent sem er stórfenglegur í hlutverki John Bayley á efri árum og á stórleik í erfiðu og einkar krefjandi hlutverki. Hann hlaut verðskuldað óskarsverðlaunin 2001 sem besti leikarinn í aukahluverki fyrir magnaða túlkun sína. Í heildina finnst mér myndin vera nokkuð þurr enda vantar að mínum mati stóran hluta í ævi skáldkonunnar og nokkra fyllingu í frásögnina. Leikurinn bætir það þó upp og ég mæli hiklaust með þessari mynd ef menn vilja sjá fágaða og vandaða kvikmynd um magnað lífshlaup merkrar konu sem markaði stór spor í bókmenntasögu síðustu aldar.

Selma Björnsdóttir

Tilkynnt var í dag að Selma Björnsdóttir myndi verða fulltrúi Íslands í Söngvakeppni evrópskra sjónvarpsstöðva í ár. Keppnin í ár verður sú fimmtugasta í röðinni og að þessu sinni verður hún haldin í Kiev í Úkraínu. Söngkonan Ruslana sigraði keppnina í fyrra með laginu Wild Dances. Selma er öllu vön þegar Eurovision viðkemur eins og við vitum öll. Hún var fulltrúi Íslands í keppninni í Jerúsalem í Ísrael í maí 1999. Með lagi sínu og Þorvaldar Bjarna Þorvaldssonar, All out of Luck, náði hún að lenda í öðru sæti. Lengi vel stigatalningarinnar var hún í fyrsta sæti og þótti mörgum súrt í broti að hún vann ekki keppnina þá. Eins og flestum er kunnugt náðu Íslendingar ekki að tryggja sér öruggt sæti úrslitakvöldið og því þarf Selma að fara í undankeppni til að komast á úrslitakvöldið. Það er því mikilvægasta baráttan framundan að tryggja sér farmiða á aðalkvöldið. Hefur komið fram að Þorvaldur semur einnig lagið í ár með Selmu og má því eiga von á góðu og fjörugu lagi. Við sem fylgdumst með keppninni fyrir sex árum, er Selma var hársbreidd frá sigri með frábært lag, vitum að hún á eftir að gera sitt besta að þessu sinni.

Saltkjöt og baunir - túkall !!!!

Eins og flestir ættu að vita er sprengidagurinn í dag. Þá er aldeilis við hæfi að borða saltkjöt, rófur, kartöflur og allt tilheyrandi eins og hægt er í sig að láta. Ekki má svo gleyma hinni rammíslensku og mettandi baunasúpu. Það er mikil átveisla þessa dagana, eins og hvert ár á þessum árstíma. Eins og ég sagði í gær er þetta allt í góðu, þetta er jú bara einu sinni á ári sem þessi matarveisla stendur. :)

Saga dagsins
1925 Halaveðrið - togararnir Leifur heppni og Robertson fórust í miklu norðan- og norðaustanveðri á Halamiðum og með þeim 68 manns. Í sama veðri fórst vélbátur með sex mönnum og fimm urðu úti
1980 Ríkisstjórn undir forsæti dr. Gunnars Thoroddsens tekur við völdum - myndun stjórnarinnar var umdeild, enda var Gunnar varaformaður Sjálfstæðisflokksins og flokksstofnanir lögðust gegn myndun hennar með ákveðnum hætti. Nokkrir þingmanna flokksins urðu ráðherrar auk Gunnars. Stjórnin var oft nálægt falli, en henni tókst að halda velli í rúm þrjú ár og sat allt til alþingiskosninga. Gunnar hætti formlega þátttöku í stjórnmálum við þingkosningar 1983. Hann lést úr krabbameini haustið 1983
1994 Martti Ahtisaari sendiherra Finnlands hjá SÞ, kjörinn forseti Finnlands - hann sigraði Elisabeth Rehn varnarmálaráðherra, naumlega í forsetakjörinu. Ahtisaari sat á forsetastóli í Finnlandi til 2000
1998 Halldór Kiljan Laxness rithöfundur og skáld, lést, 95 ára að aldri - Halldór fæddist 23. apríl 1902 í Reykjavík. Hann gaf út fyrstu skáldsögu sína, Barn náttúrunnar, árið 1919. Hann dvaldist langdvölum erlendis, en átti fast heimili að Gljúfrasteini í Mosfellssveit frá 1945. Halldór hlaut bókmenntaverðlaun Nóbels 1955, en hlaut margar aðrar viðurkenningar og verðlaun á löngum ferli. Eftir hann liggur mikill fjöldi skáldverka og rita af ýmsu tagi. Að Gljúfrasteini er nú safn til minningar um nóbelsskáldið
1999 Breska skáldkonan Dame Iris Murdoch lést á hjúkrunarheimili í Oxford, 79 ára að aldri - hún var ein fremsta skáldkona Breta á 20. öld. Eftir lát hennar skrifaði eiginmaður hennar, John Bayley, bók um ævi hennar og erfiða baráttu hennar við Alzheimer-sjúkdóminn seinustu árin. Fjallað var um ævi hennar í kvikmyndinni Iris árið 2001. Fór Dame Judi Dench alveg á kostum í hlutverki skáldkonunnar

Snjallyrðið
Og andinn mig hreif upp á háfjallatind
og ég horfði sem örn yfir fold
og mín sál var lík í tærri, svalandi lind,
og ég sá ekki duft eða mold.

Mér þótti sem hefði ég gengið upp gil
fullt með grjótflug og hræfugla-ljóð,
fullt með þokur og töfrandi tröllheimaspil,
unz á tindinum hæsta ég stóð.

Mér þótti sem hefði ég þolað allt stríð,
allt, sem þola má skjálfandi reyr,
og mér fannst sem ég þekkti ekki háska né hríð,
og að hjarta mitt bifðist ei meir.
Matthías Jochumsson prestur og skáld (1835-1920) (Leiðsla)


Engin fyrirsögn

Sigurður Kári KristjánssonHeitast í umræðunni
Sigurður Kári Kristjánsson alþingismaður, og 15 aðrir þingmenn Sjálfstæðisflokksins hafa lagt fram á Alþingi frumvarp til breytinga á útvarpslögum. Það snýst um það að sjónvarpsstöðvar megi sýna beint frá íþróttaviðburðum án þess að því þurfi að fylgja íslenskt tal eða texti á íslensku. Þetta gera þingmennirnir eftir að Samband ungra sjálfstæðismanna útbjó sérstaklega frumvarp um slíkar breytingar. Var það skrifað í tilefni af niðurstöðu útvarpsréttarnefndar í máli á hendur Íslenska sjónvarpsfélaginu. Nefndin hafði komist að þeirri stórundarlegu niðurstöðu að útsendingar á knattspyrnuleikjum í ensku úrvalsdeildinni með lýsingu á ensku væru ekki samrýmanleg útvarpslögum. Var því nauðsynlegt að við í stjórn SUS myndum bregðast við með nauðsynlegum hætti og fórum við því fram á við þingmenn flokksins að leggja slíkt frumvarp fram og við því hafa þeir nú orðið. Hafa allir þingmenn flokksins, utan ráðherra, lagt nafn sitt við frumvarpið og er Sigurður Kári fyrsti flutningsmaður þess. Er þetta mikið ánægjuefni og í raun mjög gleðilegt að þingmenn okkar bregðist svo vel við beiðni okkar og taki málið svo vel til greina og vinni að þessum nauðsynlegu breytingum. Gat ekki gengið að við það sæti að þessi úrskurður útvarpsréttarnefndar væri endanlegur.

Er greinilegt að Sjálfstæðisflokkurinn og þingmenn okkar munum ekki sætta okkur við þá forræðishyggju sem þarna kom fram. Við í stjórn SUS fögnum mjög þessari niðurstöðu mála. Mikilvægt er að fara að huga að frekari uppstokkun útvarpslaga og sérstaklega taka málefni RÚV í gegn. Það hefur verið vitað til fjölda ára að rekstur Ríkisútvarpsins er glórulaus með öllu og að rekstrarform fyrirtækisins getur ekki gengið til lengdar. Það blasir við þegar tölur úr rekstrinum eru skoðaðar að rekstrarhallinn er ekki viðunandi og breytinga þörf á rekstrarfyrirkomulaginu. Ríkisútvarpið í þeirri mynd sem það er í, í dag er tímaskekkja. Mjög mikilvægt er að breyta rekstrarfyrirkomulagi stofnunarinnar og stokka þar allverulega upp. Til þess hefur skort þingmeirihluta að koma nauðsynlegum breytingum, eða ætti maður að segja lágmarksbreytingum á RÚV til nútímans í gegnum þingið. Til fjölda ára hefur verið karpað um það hvort yfir höfuð eigi að leggja þær fram. Björn Bjarnason og Tómas Ingi Olrich lögðu báðir fram í menntamálaráðherratíð sinni, frumvarp til breytinga á útvarpslögum. Frumvarpið náði aldrei lengra en inn í þingflokkana, enda náðist ekki samstaða milli stjórnarflokkanna um málið. Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir menntamálaráðherra, hefur verið öllu rólegri í tíðinni og lítið gerst í hennar ráðherratíð, sem er mjög miður. Í mínum huga er enginn vafi á því að á endanum mun ríkið hætta þeirri vitleysu að vera í samkeppni við einkastöðvar á fjölmiðlamarkaði. Sá dagur mun renna upp, vonandi fyrr en seinna, að skattgreiðendur í þessu landi haldi ekki úti náttrisa í samkeppni við einkaframtakið í fjölmiðlum. Það á að vera hlutverk Sjálfstæðisflokksins og ráðherra og þingmanna flokksins að vinna að breytingum á rekstri RÚV. Einfalt mál í mínum huga. Annað er ekki viðunandi.

Anders Fogh RasmussenÞingkosningar verða í Danmörku á morgun. Stefndi lengst af í lítt spennandi kosningar og að hægriflokkarnir myndu auðveldlega halda meirihluta sínum og völdunum í kosningunum. Nýjustu kannanir hafa hinsvegar sýnt að það dregur saman með stjórn og stjórnarandstöðu. Skyndilega er það nú svo að þingkosningarnar verði jafnvel æsispennandi, þrátt fyrir allt. Kosningabaráttan hefur þrátt fyrir að vera snörp og mjög yfirgripsmikil, þótt litlaus og leiðinleg. Enda leit lengst út fyrir það að Anders Fogh Rasmussen þyrfti ekki að hafa neinar áhyggjur af stöðu mála og þyrfti ekki að óttast tvísýnan slag. Í ljósi þess og kannana sem bentu til þess boðaði hann til kosninga nokkrum mánuðum fyrir lok kjörtímabilsins. Eftir þingrofið fyrir nokkrum vikum hafa kannanir sýnt að nokkur munur hefur verið á fylkingunum. Nú ráða stjórnarflokkarnir tæplega 100 sætum á þjóðþinginu, stjórnarandstaðan hefur um 80. Meirihlutinn er því rúm 20 sæti alls. Alls eru 179 þingmenn á danska þinginu í Kaupmannahöfn. 175 eru kjörnir í Danmörku, 2 í Færeyjum og 2 á Grænlandi.

Í könnun sem birtar voru í gær og í morgun munar aðeins um 10 sætum milli fylkinganna. Í könnun gærdagsins hjá Jyllandsposten hefur stjórnin þar 93 þingmenn á móti 82. Í könnun Gallups sem gerð var fyrir Berlingske Tidende og birt var í morgun er munurinn enn minni. Samkvæmt henni fær stjórnin þá aðeins 90 þingsæti en stjórnarandstaðan 85. Þrátt fyrir að svo myndi fara heldur stjórnin völdum. En þetta staðfestir hinsvegar að nær allt getur gerst í stöðunni. Fram kemur í athyglisverðri fréttaskýringu Berlingske Tidende. Ljóst er að fylkingarnar búast við öllu, jafnvel að staðan breytist enn frekar á lokasprettinum. Hægriblokkin var fljót að skipta um taktík í slagnum og varaði í dag landsmenn sterklega við vinstristjórn undir forystu Mogens Lykketoft leiðtoga Jafnaðarmannaflokksins. Það eykur verulega á spennuna að á milli 500.000 - 700.000 kjósendur hafa enn ekki gert endanlega upp hug sinn fyrir kosningarnar. Óttast forsætisráðherrann mest skv. dönskum fréttum að margir stuðningsmenn ríkisstjórnarinnar telji Venstre svo öruggt um sigur, að þeir hyggist jafnvel greiða miðflokknum Radikale Venstre atkvæði sitt. Slíkt gæti þó leitt til vinstristjórnar. Ljóst er að staðan er æsispennandi og mjög merkileg kosninganótt framundan að óbreyttu.

Punktar dagsins
Sameinuðu þjóðirnar í New York

Í dag birtist á vef Heimdallar, pistill minn um utanríkismál. Vík ég þar sérstaklega að umsókn okkar í öryggisráðið og fjalla um mikilvægi þess að vinna að langtímastefnumörkun í utanríkismálum á vegum ráðuneytisins. Eins og flestum er kunnugt hefur Ísland ákveðið að sækjast eftir sæti í Öryggisráðinu árið 2009 og hefur hafið kosningabaráttu til að hljóta þar sæti. Alls eiga 15 ríki sæti í Öryggisráðinu, þar af eru fimm með fast sæti. Kosið er um hin 10 sætin á allsherjarþingi Sameinuðu þjóðanna. Ísland mun keppa um laust sæti í ráðinu við Tyrkland og Austurríki. Hefur þetta vakið miklar deilur og er alveg ljóst að ekki er samstaða innan Sjálfstæðisflokksins um málið og þessa aðildarumsókn í heild sinni. Athygli vakti á dögunum er Einar Oddur Kristjánsson alþingismaður og varaformaður fjárlaganefndar Alþingis, tjáði eindregna andstöðu sína við aðildarumsóknina. Segir hann kostnað við hana getað farið yfir einn milljarð króna þegar allt er talið með. Vill hann að Davíð Oddsson utanríkisráðherra, dragi umsóknina til baka. Fer ég vel yfir þetta og fjalla um skoðanir mínar til málsins og fleiri þátta sem nauðsynlegt er að ræða hvað varðar utanríkismálin. Eins og vel hefur komið fram er ég algjörlega andvígur umsókn okkar í öryggisráðið.

Halldór Ásgrímsson og Davíð Oddsson

Halldór Ásgrímsson forsætisráðherra, kom í heimsókn hingað til Akureyrar í morgun. Fór hann víða um bæinn í dag, hélt t.d. í Strýtu, Norðlenska, háskólann og Fjórðungssjúkrahúsið. Í hádeginu sat hann hádegisverðarboð bæjarstjórnar Akureyrar á Fiðlaranum. Er ánægjulegt að forsætisráðherra sæki Eyfirðinga heim og kynni sér stöðu mála hér og fari í fyrirtæki og ræði við fólk. Í dag var birt skoðanakönnun Fréttablaðsins um traust almennings til stjórnmálamanna. Sú könnun hlýtur að vera nokkuð umhugsunarefni fyrir Halldór. Halldór nýtur langminnsts trausts um þessar mundir, hann hefur svo að auki aðeins stuðning 3,8% aðspurðra er spurt er um hverjum fólk treysti mest. Davíð Oddsson utanríkisráðherra og formaður Sjálfstæðisflokksins, nýtur mests trausts almennings. Næstur kemur Steingrímur J. Sigfússon formaður VG. Davíð hefur mjög sterka stöðu, sem vekur óneitanlega nokkra athygli í ljósi þess að hann hefur verið lítið áberandi seinustu vikur, en hann hefur verið í fríi erlendis. Staðfestir þessi könnun vel hversu Davíð hefur öfluga stöðu meðal kjósenda. Í dag birtist einnig könnun um fylgi formennsframbjóðendanna í Samfylkingunni. Ingibjörg hefur þar 60% en Össur 40%. Sýnir þetta allt aðra stöðu en könnun Fréttablaðsins. Stefnir í spennandi formannsslag ef þetta er raunin.

JFK

Eitt áleitnasta hitamál bandarískrar stjórnmálasögu á 20. öld er óneitanlega morðið á John Fitzgerald Kennedy forseta Bandaríkjanna, í Dallas í Texas, föstudaginn 22. nóvember 1963. Hann hafði þá setið á forsetastóli í Bandaríkjunum í rúmlega 1000 daga. Að margra mati er sem spurningunni um hver myrti forsetann hafi ekki verið svarað með fullnægjandi hætti. Opinber rannsóknarnefnd komst að þeirri niðurstöðu að Lee Harvey Oswald hefði framið morðið og verið einn að verki en margir aðhyllast þá kenningu að árásarmennirnir hafi verið tveir og sumir segja allt að fjórir. Einnig hafa komið fram kenningar um að mafían, bandaríska leyniþjónustan, útsendarar erlendra ríkja eða jafnvel Lyndon B. Johnson forseti, hafi skipulagt ódæðið.

Um þetta mikla hitamál var fjallað í kvikmyndinni JFK árið 1991. Allt frá unglingsárum hafði Oliver Stone fylgst með miklum áhuga með rannsókninni á morðinu á Kennedy forseta. Hann ákvað því að gera mynd um rannsóknina og þær samsæriskenningar sem fóru um allan heiminn þess efnis að stjórnvöld hefðu átt þátt í morðinu og hann gerði myndina frá sjónarhorni Jim Garrison sem fór fremstur í fylkingu þeirra sem vildu að málið yrði kannað til fulls og allar samsæriskenningarnar kannaðar og málið galopnað. Myndin varð umdeild en mögnuð lýsing á þessu þekkta morðmáli. Er fátt meira viðeigandi fyrir stjórnmálaáhugamenn en að kynna sér þetta umdeilda sjónarhorn á morðið á einum kraftmesta stjórnmálamanni Bandaríkjanna á 20. öld, sem hvarf af sjónarsviðinu með vofeiflegum hætti fyrir rúmum fjórum áratugum.

Jón Ársæll Þórðarson og Steinunn Truesdale

Áður en ég horfði á JFK leit ég á vandaða sjónvarpsdagskrá kvöldsins. Var þar margt mjög gott í boði. Horfði fyrst á þátt Jóns Ársæls Þórðarsonar, Sjálfstætt fólk. Alltaf áhugaverðir og vandaðir þættir, einkum eru þeir svo sterkir því þeir fara svo nærri viðmælandanum. Við kynnumst flestum hliðum þess sem rætt er við og þess lífs sem viðkomandi lifir. Í gærkvöldi var sýnt frá ferð Jóns Ársæls til Írak. Steinunn Truesdale er eini Íslendingurinn í her Bandaríkjamanna í Írak. Sýnt var frá aðstæðum hennar í herfylkingu í Al Asad, Steinunn hefur verið í Írak frá því síðasta sumar og hefur verið heiðruð fyrir frammistöðu sína með Purpurahjartanu. Hefur hún verið í landgönguliðinu í fjögur ár. Var viðtalið við hana mjög áhugavert og mjög fræðandi að kynnast aðstæðum þarna og heyra lýsingar hennar á stöðu mála. Eftir þáttinn horfði ég á upptöku af heimildarmynd um Ragnar Jónsson atvinnurekanda og menningarfrömuð, sem kenndur var við Smára, (föður Jóns Óttars Ragnarssonar) sem sýnt var fyrr um kvöldið. Leit ég svo á spennumyndaflokkinn 24 eftir það. Frábærir þættir sem alltaf hitta beint í mark.

Bollur!!!!

Eins og flestir ættu að vita er bolludagurinn í dag. Þá er við hæfi að fá sér nokkrar vænur bollur með sultu, rjóma og vænum skammti af súkkulaði ofan á. Ég hef fengið mér alltof margar bollur í dag og um helgina og vona að þið hafið skellt í ykkur vænum slatta í dag af þessu mikla hnossgæti. Eflaust er í margra huga syndsamlegt að borða margar bollur, en það ætti að vera í góðu lagi. Þetta er jú bara einu sinni á ári. :)

Saga dagsins
1945 Leiðtogar bandamanna í seinni heimsstyrjöldinni: Franklin D. Roosevelt forseti Bandaríkjanna, Sir Winston Churchill forsætisráðherra Bretlands, og Josef Stalin leiðtogi Sovétríkjanna, hittast til að vinna að lokabaráttu stríðsins á leiðtogafundi við Svartahaf. Stríðinu lauk með uppgjöf Þjóðverja
1962 Bandaríska öldungadeildin samþykkir formlega tillögu John F. Kennedy forseta Bandaríkjanna, um að setja viðskiptabann á Kúbu, þrem árum eftir valdatöku Fidel Castro - bannið er enn í gildi
1971 Konur fá kosningarétt í Sviss - eitt síðasta landið í Evrópu til að veita konum almennan kjörrétt
1992 Maastricht-samkomulagið verður að veruleika - Evrópusambandið (EU) var formlega stofnað
1999 Hussein Jórdaníukonungur, lést í Amman úr krabbameini, 63 ára að aldri - hann hafði þá ríkt í Jórdaníu í tæp 47 ár, eða allt frá árinu 1952. Sonur hans, Abdullah, tók við krúnunni við fráfall hans

Snjallyrðið
Á hverjum degi mér verður hugsað til þín,
sem unnir sólinni björtu og brostir svo skær.
Mér var við gröf þína sagt að tíminn læknaði sár mín,
en það er ekki svo, minning þín er mér enn svo kær.

Eitt er þó víst, að þú hefðir ei viljað að ég þjáðist,
en það er nú svo, það er ekki hægt að gleyma.
Hjartað mitt er heilt í gegn og tært, lengi það þjáðist,
langur tími er liðinn, það er þó ekki hægt að gleyma.
Stefán Friðrik Stefánsson (Hjartalag)


Engin fyrirsögn

Stefán Friðrik StefánssonSunnudagspistillinn
Í sunnudagspistli í dag fjalla ég um þrjú fréttamál vikunnar:

- í fyrsta lagi fjalla ég um valdaátökin í Framsóknarflokknum og Samfylkingunni sem hafa yfirskyggt allt annað í vikunni í stjórnmálaumræðunni. Spunamennska hefur sett mjög svip sinn á stöðu mála innan beggja flokka í valdaátökunum og er merkilegt hvernig unnið er á bakvið tjöldin með þeim hætti. Halldór Ásgrímsson forsætisráðherra, hefur safnað að sér fjölda spunasérfræðinga úr fjölmiðlastétt til að tala fyrir sig sem víðast, atvinnumenn í fjölmiðlum og fagmenn í því að svara pólitískum árásum. Eitthvað virðist þeim bregðast bogalistin að gera forsætisráðherrann öflugan talsmann og kraftmikinn forystumann ef marka má skoðanakönnun Fréttablaðsins sem sýnir hann með lítið persónufylgi og að tiltrú landsmanna á honum er ekki mikil. Í Samfylkingunni er Ingibjörg Sólrún í sinni spunamennsku með sínum ráðgjöfum. Ekkert nýtt við það, brátt fara eflaust að birtast kannanir sem eru hannaðar til að feta leið Ingibjargar áfram úr því kviksyndi sem hún kom sér í eftir að hún hraktist úr borgarstjórastóli. En nú beinist spunamennskan ekki að andstæðingum í öðrum flokkum. Í fyrsta skipti á sínum ferli er Ingibjörg Sólrún í baráttu við samherja um völd og vegtyllur. Vinnubrögðin eru þó þau sömu og birtast með markvissum hætti í spunamennsku stuðningsmanna hennar í vikunni.

- í öðru lagi beini ég sjónum mínum að Norðurvegi. Eins og ég fjallaði um í gær er þar um mikilvægt mál að ræða, ekki bara fyrir okkur Akureyringa og Eyfirðinga, heldur alla sem eru á landsbyggðinni, einkum þá okkur í Norðausturkjördæmi. Fer ég yfir stöðu málsins og mikilvægi þess fyrir okkur hér og vík ekki síður að merkilegum ummælum samgönguráðherra um Norðurveg. Eins og flestum er kunnugt eru vinnubrögð ráðherrans alltaf kostuleg og vekja athygli. Nægir að nefna hvernig hann kom fram vegna málefna Héðinsfjarðarganga er þeim var frestað fyrir tveim árum. Mikilvægt er að samgönguráðherra hugsi málin aðeins víðar en fyrir Norðvesturkjördæmi, þar sem hugur hans virðist helst staddur. Það skiptir margt fleira máli en Staðarskáli og þjóðvegasjoppurnar á suðurleiðinni, eins og ég vík að.

- í þriðja lagi fjalla ég um flugvallarmálin. Þau tíðindi áttu sér stað í vikunni að Steinunn Valdís Óskarsdóttir borgarstjóri, tjáði sig um völlinn og sagði að flugstarfsemi gæti verið heppileg áfram í Vatnsmýrinni en þó í minnkaðri mynd. Kom þar greinilega fram sáttatónn í stað þess einstrengingslega málflutnings sem hún hélt fram eftir að hún tók við embætti. Eflaust hafa margir fleiri en bara ég kippst við að heyra þennan forna andstæðing vallarins tjá sig með þessum hætti. Sú var tíðin, ekki eru nema nokkrir mánuðir síðan, að Steinunn sagði að það væri ekki spurning um hvort heldur hvenær flugvöllurinn í Vatnsmýrinni færi. Er ekki annað hægt en að fagna því að borgarstjóri hafi áttað sig á mikilvægi vallarins.

Punktar dagsins
Peningabúnt

Eins og venjulega var gaman að horfa á sunnudagsspjallþættina og fylgjast með þjóðmálaumræðunni. Var gaman að horfa sérstaklega á Silfur Egils og horfa þar á Björn Inga Hrafnsson aðstoðarmann og spunameistara forsætisráðherra, og Sigmund Erni Rúnarsson fréttaritstjóra Fréttablaðsins, rífast um kannanir blaðsins og aðferðarfræðina á bakvið þær. Var ekki hægt annað að sjá en að Björn Ingi hefði gaman af að stríða Sigmundi örlítið vegna blaðsins, sem þolir greinilega ekki mjög vel gagnrýni vegna kannana sinna. Senuþjófurinn hjá Agli í dag var þó óneitanlega Jónína Benediktsdóttir athafnakona, sem tjáði sig af krafti eins og venjulega um málefni íslensks viðskiptalífs. Eins og hún bendir á og studdi með gögnum sem hún sýndi í þættinum liggja þræðirnir víða og margt tengt þessu sem þarf að ræða betur. Jónína tjáði sig af sannfæringarkrafti um málin og hefur greinilega kynnt sér stöðu mála mjög vel. Eins og flestir vita þekkir hún mjög vel til innri málefna Baugs og tengdra þátta. Var hún enda ófeimin að tjá sig um lykilmenn og skaut án þess að hika á stjórnmálamenn. Sérstaklega fannst mér frábær orð hennar um vinstrimenn og viðskiptalífið. Eitthvað fannst henni vanta brúna þar á milli í hugsun, sem ekki óeðlilegt er. En Jónína var öflug og vakti eflaust athygli margra með ummælum sínum og leiftrandi framkomu í þættinum.

Umferðarstofa

Mér, eins og sjálfsagt mörgum fleirum, hefur blöskrað nýleg auglýsingaherferð Umferðarstofu. Þar birtast mjög beittar auglýsingar sem eiga að fá fólk til að hugsa um umferðarmál og mikilvægi þess að koma í veg fyrir umferðarslys. Sérstaklega fer fyrir brjóstið á mér mjög grafísk auglýsing þar sem barn dettur fram af svölum. Nefna mætti fleiri auglýsingar, en þessi er sú sem hefur vakið hörðust viðbrögð. Finnst mér menn ganga alltof langt við að vekja umræðu um umferðarmál. Sjálfsagt er að fá fram umræðu og vekja fólk til lífs um þessi mál og tryggja umferðaröryggi. En þarna er alltof langt gengið. Verst finnst mér að sjá börn notuð í þessu skyni með þessum grófa hætti þar sem farið er langt yfir strikið. Er það ekki Umferðarstofu til framdráttar að auglýsa með þessum hætti og vonandi hugsa menn sinn gang í þessum málum, ekki veitir af. Umferðarstofa á að beita sér fyrir auglýsingum í takt við það sem hefur birst seinustu árin, mun frekar en feta sig á þessa braut. Mega auglýsingar um stórmál sem þarf að vekja fólk til umhugsunar um ekki ganga of langt og þurfa aðilar að passa sig, enda auðvelt að feta sig út af brautinni og misstíga sig hrapalega. Það gerist í þessu tilviki. Var mér mjög brugðið að gengið væri fram með svo harðskeyttum hætti í þessu máli. En vonandi fara menn í það ferli að vinna málið betur og umfram allt taka auglýsingarnar úr umferð.

(Viðbót - 7. febrúar 2005)
Tveim tímum eftir að þessi umfjöllun var skrifuð var formlega tilkynnt í fréttum að hætt yrði við þessa auglýsingaherferð. Ástæða er til að fagna því mjög, enda skotið langt yfir markið í henni.

Mystic River

Horfði í gærkvöld á kvikmyndina Mystic River, meistaraverk leikstjórans og leikarans Clint Eastwood. Er byggð á stórbrotinni sögu Dennis Lehane er fjallar í raun um mannlegt eðli og hversu lífið getur verið hverfult. Segir frá þrem æskuvinum í Boston í Massachusetts: Sean, Jimmy og Dave. Í sögubyrjun fylgjumst við með atburði í bernsku þeirra sem breytir lífi þeirra að eilífu. Þrem áratugum síðar liggja leiðir þeirra saman að nýju. Æskuvinirnir hafa vitað vel af hvor öðrum í gegnum tíðina en hafa lítið sem ekkert samband haft sín á milli. Það breytist sumardag einn er Katie Markum, dóttir Jimmys, finnst myrt í almenningsgarði. Leiðir æskufélaganna liggja saman á nýjan leik og fortíðin sækir þá alla heim. Endurfundirnir leiða til óvænts uppgjörs. Kraftmikil og vel gerð gæðamynd. Clint Eastwood fléttar saman magnað kvikmyndaverk, eina af bestu myndum ársins 2003. Myndin er sérstök að því leyti að grunnpunktur myndarinnar er sorgin og átök aðstandendanna við tilfinningar sínar á ólíkum sviðum. Það hefur jafnan verið mikil tilhneiging í Hollywood-myndum stóru kvikmyndaveranna að láta sem fórnarlömb og aðstandendur þeirra séu aukahlutur í frásögn í spennumyndum, þar sem rannsakað er morð og alvarlegur glæpur er meginhluti þess sem um er fjallað.

Er oft þannig að spennan snýst að mestu um samleik morðingjans og lögreglunnar. Hér er fetað í gagnstæða átt við strauminn sem fyrr er nefndur. Eastwood fer aðrar leiðir, sýnir áhorfandanum tilfinningaflækjur og innri átök persóna við aðstæðurnar. Við sjáum fjölskyldu stelpunnar sem myrt var og við kynnumst sorg þeirra og innri vangaveltum við að ná sér eftir slíkt áfall sem ástvinamissir er þegar sviplegt fráfall ber að höndum. Morðrannsóknin er ekki meginhlutinn af myndinni, heldur aðeins hliðarhluti frásagnarinnar um það sem gerist í kjölfar morðsins. Við kynnumst persónum vel og byggjum viss tengsl við þau. Í lokin er svo spennan keyrð áfram er við fáum að vita hvers eðlis er. Sean Penn hlaut Óskarinn fyrir magnaða túlkun sína á Jimmy Markum. Hann tjáir sorg föðurins og sannar tilfinningar af stakri snilld. Besta hlutverk hans á glæsilegum ferli, mögnuð túlkun á manni í örvilnan í kjölfar ástvinamissis. Tim Robbins hlaut einnig Óskarinn fyrir túlkun sína á Dave Boyle og tjáir hann sálarflækjur persónunnar með glæsilegum hætti. Marcia Gay Harden fer á kostum í hlutverki Celeste, eiginkonu Dave. Kevin Bacon og Laura Linney skila einnig góðum leikframmistöðum. Semsagt; kraftmikil, hjartnæm, vönduð og vel leikin úrvalsmynd fyrir sanna kvikmyndaunnendur.

James Bond

Til fjölda ára hef ég verið mikill aðdáandi kvikmyndanna um James Bond, njósnara hennar hátignar. Á ég allar 20 myndirnar sem gerðar hafa verið um hann og á mikið aukaefni um njósnarann og fjölda geisladiska með tónlist og hljóðefni úr myndunum. Ég er semsagt mikill áhugamaður um kvikmyndaseríuna og söguna á bakvið persónuna. Hver getur annars staðist það að horfa á þessar myndir, þær innihalda enda allt það besta sem prýða má góðar kvikmyndir. Þær eru hlaðnar spennandi og ótrúlega vel gerðum áhættuatriðum í bland við frábæran húmor, heillandi konur og glæpona sem svífast einskis til að ná fram markmiðum sínum. Það hefur því verið mjög ánægjulegt að fylgjast með þáttum Akureyringsins Helga Más Barðasonar á Rás 1, síðustu laugardaga, sem heita því ekta Bond-íska nafni, Í þjónustu hennar hátignar. Í þáttunum er fjallað um njósnarann og hvernig ímynd hans hefur þróast frá sjötta áratugnum og til nútímans og hvernig leikararnir sem hafa túlkað njósnarann hafa unnið úr efnivið karaktersins í gegnum tíðina. Frábærir þættir sem er mjög gaman að hlusta á. Mæli hiklaust með þeim, enn eru tveir þættir eftir.

Saga dagsins
1952 George VI Englandskonungur, deyr, í Sandringham House í Norfolk, 56 ára að aldri - hann var konungur Englands frá 1936. Dóttir hans, Elísabet prinsessa, tók við krúnunni og hefur ríkt alla tíð síðan þá. Eiginkona hans, Elizabeth Bowes-Lyon, lifði mann sinn í hálfa öld. Hún lést 30. mars 2002
1983 Stríðsglæpamaðurinn Klaus Barbie kemur til Frakklands til að fara fyrir rétt og svara til saka fyrir glæpi sína - var dæmdur í ævilangt fangelsi 1987 og lést í fangelsi í Lyon, 25. september 1991
1993 Leikstjórinn Joseph L. Mankiewicz lést, 84 ára að aldri - hlaut óskarsverðlaun fyrir leikstjórn sína í stórmyndunum A Letter to Three Wives og All About Eve. Einn fremsti handritshöfundurinn
1998 Vala Flosadóttir setti heimsmet í stangarstökkvi kvenna innanhúss á móti í Bielefeld í Þýskalandi og stökk 4,42 metra - Vala hlaut bronsverðlaun í stangarstökkvi á Ólympíuleikunum í Ástralíu 2000
1999 Steingrímur J. Sigfússon var kjörinn fyrsti formaður Vinstrihreyfingarinnar - græns framboðs, á stofnfundi flokksins á Akureyri. Flokkurinn hlaut 6 þingmenn í kosningum 1999 en 5 þingmenn 2003

Snjallyrðið
Eitt bros getur dimmu í dagsljós breytt,
sem dropi breytir veig heillar skálar.
Þel getur snúist við atorð eitt.
Aðgát skal höfð í nærveru sálar.
Svo oft leyndist strengur í brjósti, sem brast
við biturt andsvar, gefið án saka.
Hve iðrar margt líf eitt augnakast,
sem aldrei verður tekið til baka
Einar Benediktsson skáld (1864-1940) (Einræður Starkaðar)


Engin fyrirsögn

NorðurvegurLaugardagspælingin
Hlutafélagið Norðurvegur ehf. var formlega stofnað á Akureyri í gær. Tilgangur félagsins mun fyrst og fremst verða að vinna að því að lagður verði vegur úr Skagafirði um Stórasand, Arnarvatnsheiði og Kaldadal sem stytta mun leiðina milli Akureyrar og Reykjavíkur um rúmlega 80 kílómetra og leiða til mikilla þáttaskila í samgöngumálum Norðlendinga. Hef ég lengi verið mjög hlynntur því að þessi vegagerð komi til sögunnar. Stytting á borð við þá sem um er að ræða mun skipta sköpum varðandi vöxt og viðgang Akureyrar á komandi árum og skiptir okkur hér mjög miklu máli. Hlutafé er 11 milljónir króna og hefur stjórn heimild til að hækka það í 15 milljónir. Á stofnfundinum kom fram að kostnaður við slíkan veg gæti verið á bilinu 4,4 - 6,8 milljarðar króna.

Sé miðað við að 700 bílum yrði ekið eftir Norðurvegi daglega gæti stytting leiðarinnar sparað vel á annan milljarð króna á hverju ári. Stofnendur félagsins eru KEA, sem leggur fram 5 milljónir, Akureyrarbær leggur fram 3 milljónir, Hagar leggja fram 2 milljónir, Kjarnafæði leggur til hálfa milljón, Gúmmívinnslan 200 þúsund, og Brauðgerð Kr. Jónssonar, Norðlenska matborðið og Trésmiðjan Börkur eru með 100 þúsund krónur. Ennfremur hefur Norðurmjólk ákveðið formlega að taka þátt í stofnun félagsins. Hluthafar í félaginu eru því orðnir 9 talsins. Í stjórn félagsins voru kjörnir á fundinum þeir Andri Teitsson kaupfélagsstjóri KEA, sem formaður, og meðstjórnendur, þeir Eiður Gunnlaugsson og Jóhannes Jónsson.

Birgir Guðmundsson umdæmisstjóri Vegagerðarinnar á Akureyri, flutti erindi á stofnfundinum og fór yfir málið í heild sinni. Kynnti hann ennfremur þær hugmyndir sem verið hafa í umræðu almennt varðandi styttingu hringvegarins á þjóðvegi 1 milli Akureyrar og Reykjavíkur, m.a. um Svínavatn, sunnan Blönduóss og að fara sunnan Varmahlíðar í Skagafirði en um yrði að ræða um 19 kílómetra styttingu. Kostnaður er áætlaður 1,4 milljarðar króna en sparnaður við þessa styttingu gæti numið á annan milljarð króna á ári. Hápunktur leiðarinnar er á Stórasandi, 798 metrar, en um 15 kílómetrar af hálendisveginum yrðu í yfir 700 metra hæð. Til samanburðar má nefna að um Öxnadalsheiði er farið í 540 metra hæð og rúmlega 400 á Holtavörðuheiði. Á stofnfundinum flutti Halldór Blöndal forseti Alþingis og leiðtogi Sjálfstæðisflokksins í Norðausturkjördæmi, ræðu. Í febrúar 2002 flutti Halldór ítarlega ræðu ræðu um hugmyndir sínar og útskýrði þar alla þætti tillagna sinna á ítarlegan hátt. Var það Halldór sem kynnti málið fyrst opinberlega og segja má því að um sé að ræða mál sem hefur verið eitt hans helsta baráttumál pólitískt seinustu ár.

Sjálfstæðisflokkurinn í Norðausturkjördæmi lagði mikla áherslu á þessar tillögur í alþingiskosningunum 2003. Er enginn vafi á að mikilvægt er að ná fram sem mestri styttingu á leiðinni milli Akureyrar og Reykjavíkur. Það er nauðsynlegt að lækka flutningskostnað milli Akureyrar og Reykjavíkur og ekki síður milli Norðausturlands og Austfjarða til Reykjavíkur. Hér er um mikið forgangsmál að ræða fyrir okkur á landsbyggðinni og mikilvægt að hefjast handa og sameinast um að koma þessu í gegn sem fyrst. Við hér fyrir norðan fögnum því mjög að þetta hlutafélag hafi verið stofnað og umræða almennt um hálendisveg fari af stað og fólk tjái sig um það. Það er mjög til eflingar landsbyggðinni og okkar mikilvægustu þáttum að fá þennan mikilvæga samgöngukost í gegn. Svo má auðvitað benda á að slíkur vegur mun auðvitað ekki einvörðungu nýtast Akureyringum og Eyfirðingum. Skagafjörður, Norð-Austurland og Austurland munu njóta góðs af þessum vegi. Til dæmis mun þetta verða aðalvegur Austfirðinga suður á bóginn, enda leiðir þessi stytting til þess að norðurleiðin mun verða umtalsvert styttri en suðurleiðin fyrir fólk sem býr á Austfjörðum. Þetta er því svo sannarlega mikilvæg pæling.

Punktar dagsins
Halldór Ásgrímsson forsætisráðherra

Það blæs ekki byrlega fyrir Halldór Ásgrímsson forsætisráðherra, ef marka má niðurstöður skoðanakönnunar Fréttablaðsins sem birtar eru í dag. Þar kemur fram að tæplega 17% landsmanna telja að hann hafi staðið sig vel eða mjög vel sem forsætisráðherra. Um 48% fólks telur Halldór hafa staðið sig illa og 35% aðeins sæmilega. Vel kom fram í könnun í gær að Framsóknarflokkurinn er í nokkurri fylgislægð og greinilegt er að landsmönnum líkar ekkert alltof vel við forsætisráðherrann og verk hans. Hart hefur annars verið sótt að Halldóri á seinustu vikum og kemur þessi niðurstaða svosem vart á óvart, sé mið tekið af því. Er þetta óvenjuslæm útreið í persónufylgi hjá forsætisráðherra. Altént höfum við ekki séð slíkar tölur mjög lengi og t.d. hafði Davíð Oddsson sterka stöðu í embætti og mikinn stuðning, en ennfremur líka umdeildur vissulega. En staða Halldórs er mun veikari. Vissulega verður að taka tillit til þess að Halldór er formaður smáflokks skv. skoðanakönnunum og því hægt að búast við að formenn slíkra flokka njóti minna fylgis en forystumenn stærstu flokka landsins í embættinu. Verður fróðlegt að sjá hvernig Halldór svari þessari útkomu, eða öllu heldur spunasérfræðingarnir hans.

Condoleezza Rice og Gerhard Schröder

Dr. Condoleezza Rice utanríkisráðherra Bandaríkjanna, er nú á sínu fyrsta opinbera ferðalagi eftir að hún tók við embætti í síðustu viku. Fer hún um Evrópu og Mið-Austurlönd. Hóf hún ferðina í Bretlandi í gær og átti þar viðræður við Tony Blair forsætisráðherra, og Jack Straw utanríkisráðherra. Hélt hún því næst til Þýskalands og átti viðræður við Gerhard Schröder kanslara. Því næst mun Condi halda til Ítalíu, Frakklands, Belgíu, Lúxemborgar, Póllands og Tyrklands, auk þess sem hún mun halda á Vesturbakkann, þar sem stefnt er að því að bæta með því tengsl Palestínu og Ísraels en búast má við að friðarviðræður hefjist brátt milli þeirra. Er ljóst að Bandaríkjastjórn og utanríkisráðherrann stefna að því að bæta til muna samskipti Bandaríkjanna við mörg Evrópulönd, en þau hafa verið stirð seinustu ár. Mun Rice flytja sína fyrstu stórræðu sem utanríkisráðherra í Frakklandi á þriðjudag. George W. Bush forseti Bandaríkjanna, stefnir að því að fara í ferð til Evrópu seinnihluta febrúarmánaðar og er Evrópuhluti ferðar Rice ætluð umfram allt til að undirbúa hana. Rice notaði tækifærið eftir viðræður við Blair að lýsa því afdráttarlaust yfir að innrás í Íran væri ekki á dagskrá bandarískra stjórnvalda. Kom þó skýrt fram í yfirlýsingum hennar að mikilvægt væri að til staðar væri breið samstaða um að Íranar mættu ekki nota friðsamlega kjarnorkuáætlun sem yfirvarp tilrauna til að koma sér upp gjöreyðingarvopnum.

Bill Clinton og Hillary Rodham Clinton

Í ferð minni til Bandaríkjanna í október keypti ég bókina American Evita: Hillary Clinton's Path to Power. Þar er fjallað um feril Hillary Rodham Clinton öldungadeildarþingmanns í New York og fyrrum forsetafrúar Bandaríkjanna, bæði sem stjórnmálamanns og eiginkonu stjórnmálamanns. Ekki er síður beint sjónum að persónulegu hliðinni á manneskjunni. Þetta er mjög athyglisverð og vönduð bók. Hef ég verið að glugga í hana allt frá því ég kom heim og er lesturinn mjög áhugaverður. Reyndar er jafnvel erfitt fyrir áhugamenn um bandarísk stjórnmál að kortleggja Clinton-hjónin og persónur þeirra til fulls. Er í bókinni að finna mjög merkilegar lýsingar á þeirri krísu sem hjónaband þeirra gekk í gegnum vegna Lewinsky-málsins á tímabilinu 1998-1999, þegar almenn umræða um það var sem mest. Er mjög merkilegt reyndar að bera saman þessa bók og sjálfsævisögu Hillary, Living History. Báðar eru áhugaverðar en óneitanlega er meira krassandi í fyrrnefndu bókinni og fara þar yfir ýmsa hluti sem Hillary skautar allhressilega yfir, eins og t.d. framhjáhald hennar og eiginmannsins og stöðu tilvistar hjónabands þeirra í kjölfarið. Er merkilegt einnig að kynnast miklum skapköstum Hillary, sem eru allverulega til staðar. Semsagt; spennandi og áhugaverð bók um ævi tveggja stjórnmálamanna sem ætti að henta vel öllum alvöru stjórnmálaáhugamönnum.

Sjálfstæðisflokkurinn

Í gær stóð Sjálfstæðisfélag Akureyrar fyrir opnum fundi um umhverfismál á Hótel KEA. Þar fluttu Sigríður Anna Þórðardóttir umhverfisráðherra, og Eyjólfur Guðmundsson lektor við Háskólann á Akureyri, framsögu. Í ræðu sinni fór Sigga yfir það sem hún hefur gert í umhverfisráðuneytinu frá því að hún tók við embætti í september 2004. Umhverfisráðuneytið verður 15 ára gamalt í þessum mánuði og er hún fyrsti ráðherra Sjálfstæðisflokksins í ráðuneytinu. Var ræða hennar fróðleg og hún fór yfir marga mikilvæga málaflokka. Í erindi sínu fjallaði Eyjólfur um auðlindahagfræði og mikilvægi umræðunnar um umhverfismál almennt. Eftir framsögurnar báru fundarmenn fram spurningar og var víða farið yfir og spurt um mörg mikilvæg mál. Sigrún Björk stýrði fundi með glæsibrag. Fundurinn tókst mjög vel og urðu fundarmenn margs vísari um umhverfismálin.

Um kvöldið var þorrablót sjálfstæðisfélaganna á Akureyri svo haldið á Fiðlaranum. Var Sigga heiðursgestur okkar og Halldór Blöndal forseti Alþingis, var veislustjóri. Skemmtum við okkur mjög vel og áttum mjög góða kvöldstund saman. Arnbjörg Sveinsdóttir alþingismaður, var einnig gestur okkar á blótinu. Halldór fór á kostum eins og venjulega og flutti hverja vísuna og gamansöguna á eftir annarri. Haraldur Anton frændi var að vinna á Fiðlaranum í gærkvöldi. Halli verður tvítugur í vor og er alltaf jafn duglegur og stendur sig vel í þjónsnáminu. Við bræðrasynirnir áttum gott spjall í gærkvöldi. Stóð blótið fram á nótt og sungum við og skemmtum okkur vel undir stjórn Reynis Schiöth sem spilaði og stjórnaði söngnum af sinni alkunnu snilld. Þetta var því hið fínasta kvöld og ánægjulegt.

Saga dagsins
1967 Silfurhesturinn, bókmenntaverðlaun dagblaðanna, voru afhend í fyrsta skipti - skáldið Snorri Hjartarson hlaut þau þá. Verðlaunin voru veitt árlega allt til ársins 1974 er þau voru loks lögð niður
1968 Snjódýpt á Hornbjargsvita mældist rúmir 217 sentimetrar, en það var met hérlendis í snjódýpt
1974 Patriciu Hearst, barnabarni fjölmiðlakóngsins William Randolph Hearst, rænt af Symbionese Liberation Army - hún tók síðar þátt í nokkrum glæpaverkum SLA og þurfti að afplána fangelsisdóm
1988 Jóhann Hjartarson sigraði Viktor Kortsnoj í undankeppni einvígis um heimsmeistaratitilinn í skák
1989 Vátryggingafélag Íslands hf. - VÍS - formlega stofnað með sameiningu Brunabótafélags Íslands og Samvinnutryggingar. Hlutur fyrirtækisins á tryggingamarkaðnum er sameiningin tók gildi var 36%

Snjallyrðið
Enn birtist mér í draumi sem dýrlegt ævintýr,
hver dagur, sem ég lifði í návist þinni.
Svo morgunbjört og fögur í mínum huga býr
hver minning um vor sumarstuttu kynni.

Og ástarljóð til þín verður ævikveðja mín,
er innan stundar lýkur göngu minni
þá birtist mér í draumi sem dýrlegt ævintýr,
hver dagur, sem ég lifði í návist þinni.
Tómas Guðmundsson skáld (1901-1983) (Játning)


Engin fyrirsögn

Donald Rumsfeld varnarmálaráðherra BandaríkjannaHeitast í umræðunni
Donald Rumsfeld varnarmálaráðherra Bandaríkjanna, bauðst tvisvar til að segja af sér embætti er Abu-Ghraib málið var í sem mestum hámæli í fyrrasumar. Þetta kom fram í viðtali bandaríska spjallþáttastjórnandans Larry King við Rumsfeld, sem var sýnt á CNN í gærkvöldi. Í maílok og snemma í júní 2004 skrifaði Rumsfeld tvisvar afsagnarbréf og lagði fyrir George W. Bush forseta Bandaríkjanna. Í bæði skiptin hafnaði forsetinn afsögninni og sagði að Rumsfeld bæri skylda til að sitja áfram á ráðherrastóli og vinna að Íraksmálinu allt til enda. Er umræða um misþyrmingar bandarískra hermanna á íröskum föngum í Abu Ghraib-fangelsinu í Írak stóð sem hæst í fyrrasumar var mjög deilt um stöðu Rumsfelds og einkum tekist á um hvort honum væri sætt í embætti. Veiktist staða hans svo mjög að margir áttu von á að hann yrði að víkja af stóli fyrir forsetakosningar. Svo fór þó ekki og hann sat fram að þeim og var svo skipaður aftur í embættið formlega af forsetanum í byrjun desember 2004, sem kom mörgum að óvörum, eftir allt sem áður hafði gerst. Margir töldu öruggt að skipt yrði um varnarmálaráðherra.

Þrátt fyrir slæma stöðu Rumsfelds og átök tengd honum og embættisverkum hans og hvernig hann hélt á málum í Írak skaðaði það ekki forsetann og hann hlaut endurkjör í embætti. Rumsfeld er orðinn 72 ára gamall og er elsti maðurinn sem hefur setið á ráðherrastólnum, en jafnframt sá yngsti en hann var varnarmálaráðherra í forsetatíð Gerald Ford 1975-1977. Þótti framtíð hans ótrygg vegna þeirra tíðinda að bandarískir hermenn hefðu misþyrmt írökskum föngum í Abu Ghraib. Ekki hafði þó fyrr verið talið að Rumsfeld hefði stigið þetta skref og beinlínis boðist til að víkja, og það tvisvar á svo skömmum tíma. Brugðið var á það ráð frekar að taka Rumsfeld úr kastljósi fjölmiðlanna, með því tókst að einangra skaða málsins og í kjölfarið náði forsetinn endurkjöri í embætti. Greinilegt er að hlutskipti Rumsfeld mun áfram verða óbreytt, hið fyrsta að minnsta kosti. Verður þó að teljast eiginlega útilokað að Rumsfeld muni sitja á ráðherrastóli allt til 20. janúar 2009, er forsetinn lætur af embætti að loknu öðru kjörtímabili sínu. Þá verður Rumsfeld orðinn 77 ára gamall. Hlutverk Rumsfelds mun verða að stjórna áfram starfinu í Írak og væntanlegum aðgerðum vegna stríðsins gegn hryðjuverkum. Ljóst er að utanríkisstefna Bush breytist lítið en jafnvel að hún verði enn ákveðnari, nú þegar dr. Condoleezza Rice er orðin utanríkisráðherra Bandaríkjanna. Greinilegt er því að staða Rumsfeld er tryggari nú en lengi áður, hann kom mjög öflugur inn í stjórn árið 2001 en veiktist vegna Íraksmálsins en hefur náð á skömmum tíma að styrkja stöðu sína. Það að hann hafi svo öflugan stuðning forsetans eflir hans stöðu auðvitað mjög. Það að Rumsfeld hafi tvisvar í raun sagt af sér embætti en því verið hafnað beint af forsetanum, segir margt um sterka stöðu hans.

Alberto Gonzales dómsmálaráðherra BandaríkjannaAlberto Gonzales tók í gærkvöldi formlega við embætti dómsmálaráðherra Bandaríkjanna af John Ashcroft. Hann sór embættiseið í Hvíta húsinu og var það Dick Cheney varaforseti, sem stjórnaði athöfninni. Gonzales er 49 ára gamall og hefur verið einn af helstu lögfræðilegum ráðgjöfum Bush í forsetatíð hans seinustu fjögur árin. Áður var hann dómari við hæstarétt Texas fylkis og einn af helstu lagaspekingum í málum fylkisins. Hann er sonur fátækra innflytjenda og verður fyrsti spænskumælandi dómsmálaráðherra Bandaríkjanna. Gonzales verður 80. dómsmálaráðherra Bandaríkjanna. Hefð er fyrir því að æðstu embættismenn Bandaríkjanna séu yfirheyrðir fyrir þingnefnd áður en þeir eru skipaðir í embætti. Gonzales varð að svara mörgum erfiðum og flóknum spurningum er hann fór fyrir þingnefnd í janúar.

Þingið samþykkti eftir langar og flóknar umræður loks skipan hans. Hlaut hann 60 atkvæði en 36 greiddu atkvæði gegn honum. Er það einn naumasti munur í sögu kosningar um dómsmálaráðherraefni Bandaríkjanna. Er líklegt að hann verði álíka umdeildur og forveri hans í embætti. Ashcroft var alla tíð mjög umdeildur og deilt var mjög á verk hans, orð og ákvarðanir meðan hann gegndi embættinu. Flest ráðherraefni forsetans hafa nú verið samþykkt. Rice er tekin við sem utanríkisráðherra, Margaret Spellings er orðin menntamálaráðherra, Michael Leavitt er orðinn heilbrigðisráðherra, Mike Johanns er orðinn landbúnaðarráðherra, Samuel Bodman er tekinn við embætti sem orkumálaráðherra, og Jim Nicholson er orðinn ráðherra hermála. Eftir er að samþykkja skipan Michael Chertoff sem ráðherra heimavarnarmála, og Carlos Gutierrez sem ráðherra viðskiptamála. Er líklegt að skipan þeirra komist í gegn í næstu viku. Þá loks verður ríkisstjórn forsetans orðin fullskipuð eftir uppstokkunina í kjölfar forsetakosninganna. 9 ráðherrar í fyrri stjórn viku, sem er hið mesta frá því að Richard Nixon skipti út 9 ráðherrum eftir kosningasigur sinn árið 1972.

Punktar dagsins
Össur Skarphéðinsson (mynd af vef Sivjar Friðleifsdóttur)

Varla hafði ég fyrr sent inn punkta mína í gær og upphófst sú umræða að hálfu spekúlanta í stuðningsmannahópi Ingibjargar Sólrúnar um að niðurstaða skoðanakönnunar Fréttablaðsins leiddi til þess að Össur ætti að íhuga að draga sig til baka í formannsslag Samfylkingarinnar. Eins og flestir sjá er um spunamennsku að ræða að þekktum meiði úr innsta hring stuðningsmannasveitar ISG til að koma í veg fyrir að hún þurfi að fara í kosningu gegn samherja sínum. Hefur hún aldrei þurft að fara í slag beint um embætti eða stöðu innan eigin raða, fengið allt á silfurfati, þannig að þetta er auðvitað ný staða fyrir hana. Vissulega er staða Össurar eitthvað veikari en ánægjulegt er að sjá það á vef hans að hann ætlar ekki að láta deigan síga og heldur ótrauður áfram. Hann ætlar semsagt að tryggja okkur pólitískum áhugamönnum næg umræðuefni fram á vorið og spekúleringar um stöðu sína og ISG í slagnum. Össur er beittur á vef sínum og segir þar um könnunina: "Þessa nýju tegund könnuna sem Baugsveldin í fréttamiðlun hafa tekið upp kalla ég gisk. Prófessorinn, sem ekki var að hylja hvorn hann studdi á bak við fræðilegt yfirbragð sagði að yfirburðir Sólrúnar væru slíkir að stuðningsmenn hennar gætu nú hallað sér makindalega aftur því sigurinn væri nánast í höfn. Rifja ég nú upp orð Xin Tsui hershöfðingja og spekings frá Chang tímabilinu: Erfiðasti andstæðingurinn er sá sem oftast er talinn sigraður." Enginn bilbugur á Össuri greinilega.

Flokkarnir

Í dag birtist í Fréttablaðinu skoðanakönnun um fylgi stjórnmálaflokkanna. Ef marka má þessa könnun bætir Sjálfstæðisflokkurinn við sig þingmanni frá seinustu kosningum. Það má auðvitað ekki gleyma því að flokkurinn hefur verið í stjórn í 14 ár samfellt. Miðað við það má telja gengi flokksins með ólíkindum gott, enda þess engin fordæmi í íslenskri stjórnmálasögu að flokkur sé svo lengi samfellt í forystu ríkisstjórnar og fá fordæmi að flokkar sitji í stjórn samfellt eins og Sjálfstæðisflokkurinn að undanförnu. Staða Samfylkingarinnar rokkar til og frá og eru stóru flokkarnir nú jafnir. Auðvitað vildum við sjálfstæðismenn fá meira fylgi en þetta. Annars liggur fylgistap stjórnarmeirihlutans Framsóknar megin og eflaust eru menn þar farnir aldeilis að hugsa sinn gang. En það er auðvitað að óbreyttu langt í þingkosningar og margt getur gerst á þeim 27 mánuðum sem þangað til munu líða. Annars finnst mér þessi könnun ekki ósvipuð því og var sýnt í febrúar 2003 og allir töldu öll sund vera að lokast fyrir Framsóknarflokkinn og voru farnir að telja hann af. Reyndin varð sú að hann endaði í oddaaðstöðu og réði stjórnarmyndun.

The Contender

Horfði í gærkvöld á The Contender, vandaðan og vel gerðan pólitískan spennutrylli, eins og þeir gerast bestir. Þar er sögð sagan af því er Jackson Evans forseti Bandaríkjanna, tekur þá örlagaríku ákvörðun að tilnefna fyrstu konuna, öldungadeildarþingmanninn Laine Hanson, sem varaforsetaefni sitt er sitjandi varaforseti Bandaríkjanna fellur frá rétt fyrir lok seinna kjörtímabils forsetans. Hann sér í því tvenna möguleika, báða mjög góða fyrir sig og arfleifð sína. Hann yrði með því fyrsti forseti Bandaríkjanna til að útnefna konu sem varaforseta sinn og hann yrði með því öruggur partur af stjórnmálasögu sinnar samtíðar, einnig gæti hann tryggt ítök síns flokks áfram í Hvíta húsinu eftir forsetatíð sína, ef hún næði kjöri sem eftirmaður hans. Er val forsetans á henni hefur verið tilkynnt opinberlega koma fram gögn sem greina í smáatriðum frá afar frjálslegum kynferðislegum athöfnum hennar á yngri árum sínum og með því kemst allt í uppnám þar sem öldungadeild Bandaríkjaþings (sem þarf að staðfesta varaforsetaefni sitjandi forseta) telur slíkt vart hæfa tilvonandi varaforseta Bandaríkjanna.

Meðal þeirra sem ganga lengst fram í andúð sinni á vegtyllu hennar er repúblikaninn Shelly Runyon, en honum er mjög í nöp við hana og ekki síst fortíð hennar. Hann ákveður að reyna hvað sem hann getur til að spilla fyrir framavonum hennar. Við tekur óvæginn og vægðarlaus hráskinnaleikur sem getur tekið á sig allar myndir og það kemur að því að enginn er óhultur, hvorki varaforsetaefnið né sitjandi forseti og valdhafar í Hvíta húsinu. Hér smellur allt saman til að skapa hina einu sönnu pólitísku spennumynd. Leikstjórn Rod Lurie, handritið, tónlistin, kvikmyndatakan og leikurinn eru hreint afbragð. Joan Allen fer á kostum í hlutverki varaforsetaefnisins, var tilnefnd til óskarsverðlauna fyrir leik sinn. Sama má segja um Jeff Bridges sem er flottur í hlutverki forsetans. En senuþjófurinn er Gary Oldman sem er frábær í hlutverki klækjarefsins Runyon sem reynir ALLT til að koma fyrir skipan Hanson í embættið. Oldman hefur aldrei leikið betur á sínum magnaða ferli. Semsagt; kraftmikil, spennandi, vönduð, vel leikin og raunsæiskennd úrvalsmynd sem nefnir hlutina réttum nöfnum. Þeir sem hafa ekki séð hana og hafa áhuga á stjórnmálum, drífið endilega í því!

Sigríður Anna Þórðardóttir umhverfisráðherra

Klukkan 16:30 verður opinn fundur um umhverfismál á Hótel KEA sem Sjálfstæðisfélag Akureyrar stendur fyrir. Þar munu Sigríður Anna Þórðardóttir umhverfisráðherra, og Eyjólfur Guðmundsson lektor við Háskólann á Akureyri, hafa framsögu. Farið verður yfir umræðuna um sjálfbært Ísland. Hvernig miðar okkur í því verkefni? Er eitthvað til í umhverfisvænni stóriðju? Er hægt að nýta náttúruauðlindir á hagkvæman hátt? Þessar spurningar og margar fleiri munu eflaust koma upp. Fundarstjóri verður Sigrún Björk Jakobsdóttir bæjarfulltrúi. Í kvöld munu svo sjálfstæðisfélögin á Akureyri og í Eyjafirði hafa þorrablót sitt. Heiðursgestir okkar verða Sigga og eiginmaður hennar, sr. Jón Þorsteinsson. Veislustjóri verður Halldór Blöndal forseti Alþingis og leiðtogi Sjálfstæðisflokksins í Norðausturkjördæmi. Það er því framundan skemmtilegt síðdegi og góð skemmtun í kvöld í góðum félagsskap sjálfstæðisfólks.

Saga dagsins
1789 George Washington kjörinn fyrsti forseti Bandaríkjanna - Washington lést 14. desember 1799
1947 Ríkisstjórn undir forsæti Stefáns Jóhanns Stefánssonar tók við völdum - sat við völd í tæp 3 ár
1968 Fárviðri gekk yfir Vestfirði og var veðurofsinn mestur á Ísafjarðardjúpi. Heiðrún II frá Bolungarvík fórst með sex mönnum. Varðskipið Óðinn bjargaði átján manna áhöfn breska togarans Notts County sem strandaði við Snæfjallaströnd. Annar breskur togari, Ross Cleveland, sökk og fórust með honum alls nítján manns, en aðeins einn, Harry Eddom, fannst á lífi eftir hrakningar í tvo daga
1969 Yasser Arafat verður leiðtogi PLO (Palestine Liberation Organization). Arafat var kjörinn forseti heimastjórnar Palestínu 1996. Hann gegndi báðum embættum allt til dauðadags, 11. nóvember 2004
1969 Gamanleikkonan Thelma Ritter lést úr hjartaáfalli, 63 ára að aldri. Ritter var ein af virtustu gamanleikkonum Bandaríkjanna á 20. öld og verður alla tíð ógleymanleg fyrir leik sinn í t.d. A Letter to Three Wives, All About Eve og Rear Window. Tilnefnd til óskarsverðlauna 6 sinnum en vann ekki

Snjallyrðið
Þegar sumarið
finnur nístandi nál vetrarins
liðast þokan eftir dalnum
breyðandi gleymsku
yfir minningarnar sem þú aðeins sérð
og þú sérð aðeins,
seinasta augnablikið.

Augu þín,
sem sögðu mér meira en orðin
líta spyrjandi á mig.
En ég les ekki eins vel og ég gerði.
Samt les ég úr þeim,
ég les úr þeim,
seinasta augnablikið.
Bubbi Morthens (Seinasta augnablikið)


Engin fyrirsögn

George W. Bush og Dick CheneyHeitast í umræðunni
George W. Bush forseti Bandaríkjanna, flutti árlega stefnuræðu sína í nótt í báðum deildum Bandaríkjaþings. Aðalefni ræðunnar voru heilbrigðismálin, eins og flestir höfðu búist við. Mikið hafði verið rætt um þau mál í kosningabaráttunni í fyrra og almennt hafði verið talið í umræðu seinustu vikna, samhliða embættistöku forsetans, að hann myndi leggja fyrir þingið róttækar breytingar í málaflokknum. Kom það vel fram í ræðunni. Hyggst forsetinn gera róttækar breytingar á lífeyriskerfi landsins en hann sagði ellilífeyrissjóðina stefna að óbreyttu í þrot. Fór hann ítarlega yfir stefnu sína í málaflokknum og kom fram í ræðunni að hann vilji að yngra fólk á vinnumarkaði breyti hluta af skattfé sínu í fjárfestingarreikninga svo tryggja megi með bestum hætti að fólk fái eftirlaun þegar það hættir að vinna við eftirlaunaaldur. Reiknað hefur verið út að Bandaríkin muni fljótlega þurfa að láta meira fé af hendi rakna í almannatryggingasjóði landsins en ríkið fær almennt í skatttekjur sínar. Að óbreyttu muni slík þróun blasa við innan nokkurra ára, ef marka má ummæli forsetans. Vakti þessi boðskapur hörð viðbrögð og sá sögulegi atburður varð að nokkrir þingmenn púuðu á hann. Breytingar á lífeyriskerfinu munu leiða til harðvítugra pólitískra deilna og má búast við miklum átökum þegar um þeir verður rætt í þinginu á næstunni.

Hafa breytingar á lífeyriskerfinu í gegnum tíðina þótt viðkvæmt efni, en ljóst er að Bush leggur ótrauður í átök við demókrata í öldungadeildinni, sem hafa mótmælt harðlega en eru vængbrotnir eftir tvo slæma kosningaósigra í þingkosningunum 2002 og 2004. Forsetinn kom ennfremur vel inn á utanríkis- og varnarmálin, þá málaflokka sem mestan svip settu á fyrra kjörtímabil hans og ekki síður forsetakosningarnar í nóvember. Sagði hann að mikilvægt væri að berjast með sama krafti gegn hryðjuverkaöflum og ekki mætti sofna á verðinum. Atburðir seinustu ára ættu að vera bandaríkjamönnum hvatning til að fylgjast vel með stöðu mála. Vék forsetinn lítið að Íraksmálinu og talaði hann ekki um mögulegan brottflutning hersins frá landinu í kjölfar þingkosninganna 30. janúar sl. Sagði hann mikilvægt að haldið væri áfram á þeirri braut að stuðla að frelsi og lýðræðisþróun í Mið-austurlöndum. Vék forsetinn sérstaklega að því að mikilvægt væri að stuðla að friði milli Palestínu og Ísraels. Sagðist hann ætla að fara fram á 350 milljóna dala stuðning frá Bandaríkjaþingi til þess að styðja nýja stjórn Palestínumanna, undir forsæti Mahmoud Abbas. Væri það markmið sitt að tryggja að friður kæmist á og takmarkið að mynda tvö lýðræðisríki, Ísrael og Palestínu, hlið við hlið í sátt og samlyndi. Myndu Bandaríkjamenn leggja sitt að mörkum til að tryggja farsæla lausn. Vék forsetinn stuttlega að kosningum í Írak og Palestínu og tjáði ánægju sína með fyrirkomulag þeirra og niðurstöðu. Gagnrýndi hann harðlega Írana, Sýrlendinga og Norður-Kóreu, sem þykir til marks um mikla spennu í samskiptum við þessi lönd og gaf byr undir báða vængi orðrómi sem andstæðingar hans hafa magnað upp að hann hyggi á innrás í þessi lönd á kjörtímabilinu.

Jón Kristjánsson heilbrigðisráðherraÍ vönduðum fréttaskýringaþætti Sjónvarpsins, Í brennidepli, að kvöldi sunnudagsins 23. janúar var fjallað um málefni aldraðra. Fór Páll Benediktsson helst yfir hvernig staða fólks breyttist við það að þurfa að yfirgefa eigið heimili og fara inn á stofnun og njóta þar umönnunar. Margir telja það óneitanlega breyta lífi sínu og viðkomandi missi með því mikilvæga stjórn á eigin lífi og helstu daglegu athöfnum: fólk ráði ekki hvenær það fari í bað, hvenær borðaður sé matur og hvað sé í matinn og fleiri slíkir þættir. Var rætt við öldrunarsálfræðinga og sérfræðinga í málefnum aldraðra og ennfremur fólk sem dvelur á öldrunarstofnunum, í þessu tilfelli á Hrafnistu og Grund í Reykjavík. Var þetta mjög fróðleg samantekt og vakti eflaust marga til hugsunar um þessi mál. Það er einkum athyglisvert fyrir yngra fólk að kynna sér þessi mál frá þessum ólíku sjónarhornum. Fyrir okkur sem höfum átt ömmu eða afa á slíkri stofnun er lífsmynstrið þar vel kunnugt. Annars er aldrei í raun hægt að setja sig í spor fólks sem verður að fara frá heimili sínu og lúta lögmálum stórs heimilis á borð við öldrunarstofnanir.

Var samantektin því gagnleg og fræðandi til að fólk geti betur séð aðstæður fólks, þeirra sjónarmið og skoðanir fleiri á þessu. Í gær voru málefni aldraðra rædd á þingi. Þar kom fram í svari Jóns Kristjánssonar heilbrigðisráðherra, að nærri þúsund einstaklingar, sem dvelja á öldrunarstofnunum landsins, verða að deila herbergjum með öðrum að frátöldum þá fólki í sambúð. Eru þetta að mínu mati nokkuð sláandi tölur, ég þóttist vita að talan væri allhá miðað við að unnið væri að því að stokka þetta upp. En óhætt er að segja að ótrúlega margir verði að gera sér það að góðu á öldrunarstofnunum að deila herbergi með öðrum, er þetta alltof há tala. Kom þó fram í máli ráðherra að stefnt sé að því að sem flestir aldraðir á stofnunum muni hafa eigið herbergi og nauðsynlegt sé að fylgja þeirri stefnu fast eftir. Tek ég undir þetta mat Jóns. Er sérstaklega sláandi að sjá að í öldrunarstofnunum sem eru innan við 20 ára gömul sé slík staða uppi. Er þetta ótækt ástand. Tek ég undir það mat sem fram kom í þingumræðunni að banna eigi hreinlega með lögum að aldraðir þurfi að deila íbúð eða herbergi með öðrum en maka eða sambýlingi. Sagði ráðherra í svörum sínum að reynt sé eftir fremsta megni að vinna að því að þetta sé viðhaft, að allir hafi einstaklingsherbergi. Staða mála er engu að síður ómöguleg og vinna verður að meiri krafti að þessu.

Punktar dagsins
ISG

Ef marka má könnun Fréttablaðsins í dag mun Ingibjörg Sólrún Gísladóttir vinna Össur Skarphéðinsson með yfirburðum í formannskjöri Samfylkingarinnar í maí. Ef aðeins er tekið mið af flokksfólki styðja 77% framboð Ingibjargar en aðeins 21% framboð Össurar. Þessar tölur hljóta að vera nokkur vonbrigði fyrir Össur, eins og staða mála hefur verið. Er um mjög mikið áfall að ræða fyrir forsvarsmann stjórnarandstöðu sem verið hefur áberandi í virkri umræðu í samfélaginu og hlýtur að teljast viss áfellisdómur Samfylkingarmanna yfir leiðtoga sínum. Greinilegt er að það er á brattann að sækja fyrir hann í þessum slag og minnkandi líkur á að hann nái að veita Ingibjörgu öfluga mótspyrnu í þessum harða slag. En eflaust mun Össur reyna að gefa í og leggja allt sitt í slaginn. Annars vaknar óneitanlega sú spurning hvort þessi könnun sé sett fram til að sýna lítinn stuðning við Össur og fá hann til að draga framboð sitt til formennsku til baka, svo Ingibjörg yrði formaður án átaka. Eins og allir vita sem fylgjast með pólitík hefur Ingibjörg aldrei þurft að berjast um nein embætti eða vegtyllur við samherja sína og því er staðan henni framandi. En nú reynir á hvort Össur haldi fast við sitt, þrátt fyrir þessa könnun.

Fahrenhype

Mikið hefur verið deilt seinustu mánuði um kvikmynd Michael Moore, Fahrenheit 9/11. Þar fjallaði hann á mjög einhliða máta um Bush-stjórnina og verk hennar og tók staðreyndir úr samhengi og skeytti eigin mati og afstöðu til málanna inn á milli. Sumir aðilar kepptust við að kalla þetta heimildarmynd og töldu hana unna með markvissum og merkilegum hætti. Ég get ómögulega tekið undir það. Ég hef fylgst með kvikmyndum og kvikmyndagerð með miklum hætti í tæpa tvo áratugi og get ekki með nokkru móti kallað þessa mynd annað en áróðursmynd gerða útfrá einni skoðun, einu hugarfari og samansafni neikvæðra hliða úr einni átt. Heimildarmynd tel ég vera mynd sem gerð er frá mörgum áttum, rætt við ólíka aðila um efni og leitast við að taka fyrir mörg sjónarhorn á sama hlutnum. Allir sem sjá þessa mynd sjá fljótt að hér er aðeins eitt sjónarhorn á hlutina. Ég hefði mikinn áhuga á að vita hvað hefði gerst í Bandaríkjunum hefði Ann Coulter eða Rush Limbaugh ákveðið að gera heimildarmynd um John Kerry, herferil hans eða þingmannsferil í öldungadeildinni frá einni hlið fyrir seinustu kosningar.

Væntanlega hefðu þeir sem lofsyngja þessa mynd Moore fordæmt slíka mynd eða það sjónarhorn. Engum blandast hugur um að Moore og Ann Coulter eru umdeild vegna skoðana sinna og umfjöllunarefni þeirra og sjónarhorn á viðfangsefnið helgast af skoðunum þeirra. Moore lagði fram þetta einhliða sjónarhorn til að vega að forsetanum á kosningaári og vekur máls á einhliða áróðri til að ráðast að honum. Einhliða sýn á eitt mál getur seint talist heimildarmynd eða djúp sýn á viðfangsefni. Ég tel rétt að allir hafi rétt á að tjá sínar skoðanir og gera það með þeim hætti sem hentar best. Einum hentar að skrifa bækur, öðrum að gera kvikmynd, hinum að vera með pistlaskrif og svo framvegis. Óendanleg tjáningarform eru til. Þeim sem hafa áhuga á pólitík, hvet ég til að skoða kvikmyndina Fahrenhype 9/11. Þar er mynd Moore tekin í gegn og beint öðru sjónarhorni að henni og vinnslunni að henni. Hvet alla til að sjá hana, er bæði í bíó á næstunni og svo er hægt að kaupa hana á DVD á t.d. Amazon og fleiri vönduðum vefum.

Groundhog Day

Í gærkvöldi horfði ég á kvikmyndina Groundhog Day með Bill Murray. Átti hún vel við í gær, enda 2. febrúar vettvangur myndarinnar. Þann dag er alltaf mikið um að vera í smábænum Punxsutawney í Philadelphia. Þá er múrmeldýr dregið út úr holu snemma að morgni og með því er spáð fyrir um veðrið út veturinn og vorkomuna. Múrmeldýradagurinn hefur verið haldinn hátíðlegur í bænum í 118 ár. Groundhog Day fjallar um veðurfræðinginn Phil Connors. Hann er með nettum orðum sagt egóisti og algjör besservisser. Einn dag þarf hann að fara í vinnuleiðangur til að fylgjast með Múrmeldýrsdeginum. Þetta er fjórða skiptið sem að Phil fer í þennan leiðangur og er hann ekki í uppáhaldi hjá honum. Hann ætlar að drífa sig strax heim aftur seinna um daginn til að komast úr þessu skítaplássi, eins og hann telur það vera.

Þegar hann er búinn að taka upp athöfnina frægu drífur hann sig með starfsliðinu en þá kemur upp að það er orðið ófært. Þá verður hann að snúa aftur til smábæjarins og gistir þar um nóttina. Þegar hann vaknar þar næsta dag fattar hann að hann upplifir sama daginn aftur og aftur.... Er óhætt að fullyrða að hann lifi daginn oftar en góðu hófi gegni. Frábær mynd sem fellur vel allavega í minn kaldlynda húmor. Hef alltaf haft gaman af henni. Bill Murray fer á kostum í hlutverki Phil Connors. Andie MacDowell og Chris Elliot eru einnig alveg frábær. Handritshöfundar standa sig vel og fara vel með þessa frábæru hugmynd. Harold Ramis er einn af mínum uppáhalds grínmyndaleikstjórum og leikstýrir hann hér að venju mjög vel. Groundhog Day er hugljúf, bráðskemmtileg og fyndin mynd sem hentar alltaf vel.

Ragnheiður Gröndal

Horfði á Íslensku tónlistarverðlaunin áður en ég horfði á myndina. Leist vel á niðurstöðu þeirra. Vestfirski tónlistarmaðurinn Mugison kom, sá og sigraði á verðlaunaafhendingunni og hlaut alls fern verðlaun: fyrir bestu poppplötuna, besta lagið, Murr Murr, besta plötuumslagið og sem vinsælasti flytjandinn og var í síðastnefnda flokknum kosinn af lesendum vísir.is. Ragnheiður Gröndal hlaut tvenn verðlaun: var valin besta söngkona ársins og plata hennar var valin besta dægurlagaplata ársins. Reggíhljómsveitin Hjálmar hlaut verðlaun fyrir bestu rokkplötuna og að vera bjartasta vonin.

Páll Rósinkranz var valinn söngvari ársins en hljómsveitin Jagúar flytjandi ársins. Sammi í Jagúar var valinn flytjandi ársins í jazzflokki. Jagúar hlaut verðlaun fyrir bestu plötuna í jazzflokknum og Jagúar var valin flytjandi ársins í popp,- rokk- og dægurtónlistarflokki. Í flokknum ýmis tónlist vann Ellen Kristjánsdóttir íslensku tónlistarverðlaunin fyrir plötuna Sálmar, sem var mest selda plata síðasta árs. Helga Ingólfsdóttir hlaut heiðursverðlaunin fyrir æviframlag sitt til tónlistar. Helst var ég ósáttur við að lag Bubba, Fallegur dagur, var ekki valið lag ársins. Frábært lag, hiklaust eitt af því besta sem Bubbi hefur gert.

Saga dagsins
1937 Sérstök norðurljós, almennt nefnd Norðurljósahjálmur, sáust á lofti í Eyjafirði í fyrsta og eina skiptið á Íslandi á 20. öld. Þessu var lýst sem magnaðri birtu sem lýsti upp næturhúmið í allar áttir
1944 Hótel Ísland, sem þá var stærsta timburhús í Reykjavík, brann til kaldra kola - einn maður fórst
1959 Tónlistarmennirnir Buddy Holly og Ritchie Valens láta lífið í flugslysi í Clear Lake í Iowa - báðir voru þeir þá á hátindi ferils síns. Þeirra var minnst í ódauðlegu lagi Don McLean, American Pie, 1972
1975 Lagahöfundurinn og gítarleikarinn Gunnar Þórðarson, hlaut listamannalaun - hann varð fyrstur popptónlistarmanna til að hljóta slíkan heiður. Hefur almennt verið nefndur afi íslenska rokksins
1991 Eitt mesta fárviðri í manna minnum gekk yfir landið - eignatjón var alls á annan milljarð króna en engin alvarleg slys. Langbylgjumastur sem staðið hafði í rúm 60 ár á Vatnsendahæð fauk um koll

Snjallyrðið
Til eru fræ, sem fengu þennan dóm:
Að falla í jörð, en verða aldrei blóm.
Eins eru skip, sem aldrei landi ná,
og iðgræn lönd, er sökkva í djúpin blá,
og von sem hefur vængi sína misst,
og varir, sem að aldrei geta kysst,
og elskendur, sem aldrei geta mæst
og aldrei geta sumir draumar ræst.
Til eru ljóð, sem lifna og deyja í senn,
og lítil börn, sem aldrei verða menn.
Davíð Stefánsson skáld frá Fagraskógi (1895-1964) (Til eru fræ)


« Fyrri síða | Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband