4.1.2005 | 21:51
Engin fyrirsögn

Athyglisvert hefur verið að fylgjast með borgarmálum í fjölmiðlum að undanförnu og stjórn R-listans á borginni er nú sem fyrr mjög umdeilanleg. Borgarfulltrúar Sjálfstæðisflokksins hafa að undanförnu vakið athygli á skattahækkunum og sviknum loforðum R-listans. Það var gert með enn markvissari hætti með auglýsingu í Morgunblaðinu í gær undir yfirskriftinni: "Jólagjöfin sem þú getur ekki skilað". Eins og fram hefur komið var eitt síðasta verk R-listans fyrir jólin að staðfesta verulegar skatta- og gjaldahækkanir á Reykvíkinga í fjárhagsáætlun fyrir árið 2005, þvert á þau loforð, sem forystufólk framboðsins t.d. Ingibjörg Sólrún Gísladóttir fyrrum leiðtogi listans og borgarstjóri 1994-2003, gáfu fyrir borgarstjórnarkosningarnar 25. maí 2002. Í auglýsingu borgarfulltrúanna eru tekin þrjú dæmi vegna hækkunar útsvars: fasteignaskatta, sorphirðugjalds og leikskólagjalds þar sem annað foreldri er í námi: í fyrsta lagi að hjón með 6 milljónir króna í árstekjur, sem búa í íbúð þar sem fasteignamat er 15 m.kr. greiða 25.772 kr. meira árið 2005 en þau gerðu árið 2004. Í öðru lagi að hjón með 3 milljónir króna í árstekjur, sem búa í íbúð þar sem fasteignamat er 15 milljónir króna og með barn á leikskóla, þar sem annað foreldri er í námi greiða 68.652 kr. meira árið 2005 en þau gerðu árið 2004. Í þriðja og síðasta lagi að hjón með 3 milljónir króna í árstekjur, sem búa í íbúð þar sem fasteignamat er 15 milljónir kr. og með 2 börn á leikskóla, þar sem annað foreldri er í námi greiða 109.065 kr. meira árið 2005 en þau gerðu árið 2004.
Þessi dæmi segja allt sem segja þarf um hvernig kosningaloforð R-listans hafa verið svikin og þarfnast varla frekari útskýringa við. Nægir að líta á blaðaviðtal við þáverandi leiðtoga framboðsins í maí 2002. Lengi vel neituðu forystumenn R-listans að viðurkenna skuldastöðu borgarinnar og slæma stöðu hennar. Nú ber annað við og allt í einu nú er feluleiknum að mestu hætt og spilin lögð á borðið. Enn er R-listinn þó í algjörri afneitun greinilega á vissum stigum málsins. Er mikilvægt að borgarfulltrúar Sjálfstæðisflokksins tjái sig með auglýsingunni og vekji Reykvíkinga til umhugsunar um fjármálastjórn R-listans. Viðbrögð borgarstjóra við auglýsingunni voru þau að fara með hefðbundnar rangfærslur og útúrsnúninga að hætti R-listans. Hélt hún því fram að auglýsingin væri villandi og fullyrti að önnur sveitarfélög á höfuðborgarsvæðinu væru að hækka sömu gjöld með sama hætti. Þetta er einfaldlega rangt. Til dæmis hefur útsvar ekki verið hækkað í Garðabæ og Seltjarnarnesi, en þar fara sjálfstæðismenn með hreinan meirihluta. Í Kópavogi nemur hækkun útsvars 0,09% en Reykjavíkurborg hækkar útsvarið hinsvegar um 0,33%. Svo einfalt er að ekkert sveitarfélag á Íslandi hefur hækkað útsvar jafn mikið frá árinu 1998 og Reykjavíkurborg. Það er eftirtektarvert að langstærsta og öflugasta sveitarfélag landsins sé að hækka skatta umfram önnur minni sveitarfélög. Þvert á móti ætti Reykjavík að geta rekið opinbera þjónustu með minni tilkostnaði en önnur sveitafélög fyrir tilstuðlan hagkvæmni sem hlýst af stærð sveitarfélagsins. Það er ekki hægt að vísa á önnur og minni sveitarfélög og reyna að finna þar réttlætingu fyrir fjármálaóstjórninni í Reykjavík. Meginástæðan fyrir skattahækkunum R-listans er einfaldlega léleg fjármálastjórn og stóraukin skuldasöfnun.

Í skipunarbréfi nefndarinnar kemur fram að endurskoðunin verði einkum bundin við fyrsta, annan og fimmta kafla stjórnarskrárinnar og þau ákvæði í öðrum köflum hennar sem tengjast sérstaklega ákvæðum þessara þriggja kafla. Stefnt skal að því að frumvarp til breytinga á stjórnarskrá liggi fyrir í síðasta lagi í byrjun ársins 2007 og verði samþykkt fyrir þingkosningar síðar sama ár. Báðum nefndum er ætlað að hefja störf hið fyrsta. Til fjölda ára hefur skort pólitískan kjark til að hrinda úr vör þessu ferli, opna málið og ræða málefni stjórnarskrár með opnum huga og ræða nauðsynlegar breytingar, sem verða að eiga sér stað í samræmi við nútímann, vinna að sjálfsagðri endurskoðun á stjórnarskrá. Mjög mikilvægt er að gera skýrt í eitt skipti fyrir öll hvert sé valdsvið forseta og eyða öllum vafaatriðum um embættið. Nú er loksins komið að hinni pólitísku forystu að taka af skarið í þessum efnum. Fagna ég því að það hafi verið gert með skipun nefndar af hálfu forsætisráðherra og ferlið sé því komið af stað. Eins og ég lýsti yfir hér í gær er mikilvægt að taka sérstaklega til opinnar umræðu málefni 26. greinarinnar: hvernig eigi að breyta henni og hvort forseti eigi áfram að hafa þann möguleika opinn að geta stöðvað af þingmál lýðræðislega kjörins þings. Mín skoðun liggur vel ljós fyrir, en nú er komið að því að taka umræðuna í samfélaginu. Mikilvægt er að sem flestir hafi skoðun á þessu máli. Svo þarf nefndin að taka á öllum vafaatriðum tengdum þessum málum, sem hefur verið deilt um að undanförnu.

Á gamlárskvöld flutti Markús Örn Antonsson útvarpsstjóri, áramótakveðju frá Ríkisútvarpinu. Að þessu sinni ávarpaði Markús þjóðina frá Skriðuklaustri í Fljótsdal á Austurlandi, en þar bjó Gunnar Gunnarsson skáld, í mörg ár og þar er nú safn til minningar um hann. Inn á milli atriða með Markúsi var fléttað tónlistaratriðum þar sem einsöngvarar, kórar og hljómsveit á Austurlandi fluttu tónlist eftir austfirsk tónskáld, t.d. Inga T. Lárusson, Björgvin Guðmundsson og Jón Þórarinsson. Seinustu ár hefur áramótakveðja Ríkisútvarpsins verið að þróast í þá átt að kynna tónlist og menningarlíf úti á landi og minna á þekktar perlur íslenskra tónskálda og textahöfunda seinustu aldar. Hófst þetta með þessum hætti fyrir tveim árum en þá flutti Markús Örn ávarp sitt héðan frá Akureyri og var ávarp hans tekið þá upp á Sigurhæðum, heimili sr. Matthíasar Jochumssonar, og Bjarkarstíg 6, sem var heimili Davíðs Stefánssonar frá Fagraskógi. Þar eru nú söfn til minningar um þá. Kórar og tónlistarhópar í bænum fluttu þá tónlist eftir ljóð þeirra. Í fyrra var dagskráin tekin upp á Ísafirði og lög Sigvalda Kaldalóns hljómuðu.
Er þetta vel til fundið og mikilvægt að leitað sé í þennan merka tónlistararf og kynnt lög og ljóð merkra Íslendinga, sem eru þjóðinni mjög kær. Eiginlega er það menningarleg skylda RÚV sem ríkisstofnunar að gera þetta, meira mætti gera af þessu ef stofnunin á að standa undir nafni sem slík. Nú var mjög ánægjulegt að heyra lög meistarans austfirska Inga T. Lárussonar, en óhætt er að fullyrða að fáum mönnum á seinustu öld hafi tekist betur að semja falleg og táknræn lög sem hittu beint í hjartastað með fegurð sinni. Lengi hef ég verið mikill aðdáandi laga Inga T. Amma mín, Sigurlín Kristmundsdóttir, sem bjó á Eskifirði í 50 ár og taldi sig alltaf Austfirðing, þó hún hafi reyndar verið fædd í Eyjafirði en flutt ung austur og búið svo í Eyjafirði seinustu 26 ár ævi sinnar, kenndi mér að meta lög Inga. Henni voru þau alltaf kær. Að hennar mati auðnaðist engum betur að semja frá hjartanu lög með tilfinningu, lög með sanna sál. Með árunum hef ég sífellt betur séð að þetta er rétt. Ingi T. Lárusson var einstakur snillingur, lagahöfundur af guðs náð. Þegar líða tók að ævilokum ömmu minnar lagði hún áherslu á það við mig að tryggja að við útför hennar hljómuðu þessi lög. Það tryggði ég og þegar hún var kvödd á Eskifirði við útför hennar þann 22. janúar 2000, hljómuðu þrjú af bestu lögum Inga að hennar mati: Átthagaljóð, Hríslan og lækurinn og Það er svo margt. Austfirska taugin var sterk og tónlistarsmekkurinn var ekki síðri hjá þessari merku kjarnakonu. Alla tíð hef ég metið Austurland mikils og þau bönd sem tengja mig þangað. Það var því mjög ánægjulegt að horfa á þetta ávarp og heyra þessi fallegu lög og þá kveðju sem útvarpsstjóri flutti að kvöldi gamlársdags.
Saga dagsins
1891 Konráð Gíslason málfræðingur, lést, 31 árs að aldri - hann var einn Fjölnismanna og var mikill brautryðjandi í íslenskri orðabókargerð. Flestir Fjölnismanna dóu ungir en höfðu þó söguleg áhrif
1917 Fyrsta ráðuneyti Jóns Magnússonar tók við völdum - Jón var forsætisráðh. til dauðadags 1926
1989 Stórbruni varð að Réttarhálsi 2 í Reykjavík þar sem Gúmmívinnustofan hf. og önnur fyrirtæki voru til húsa. Tjónið nam á fimmta hundrað milljónum króna og var hið mesta í sögu brunamála
1994 Samið var við Bandaríkjamenn um samdrátt í rekstri varnarliðsins - orrustuþotum af gerðinni F-15 fækkaði úr 12 í 4 og lokað var hlustunarstöð og miðunarstöð. Hermönnum fækkaði þá um alls 380
2004 Dr. Mikhail Saakashvili kjörinn forseti Georgíu - hafði gegnt embættinu frá nóvember 2003
Snjallyrðið
Man ég þig, mey,
er hin mæra sól
hátt í heiði blikar.
Man ég þig, er máni
að mararskauti
sígur silfurblár.
Hví hafa örlög
okkar beggja
skeiði þannig skipt?
Hví var mér ei leyft
lífi mínu
öllu með þér una?
Sólbjartar meyjar,
er ég síðan leit,
allar á þig minna.
Því geng ég einn
og óstuddur
að þeim dimmu dyrum.
Jónas Hallgrímsson skáld (1807-1845) (Söknuður)
Breytt 18.9.2006 kl. 08:02 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
3.1.2005 | 23:07
Engin fyrirsögn

Eins og fram kom í sunnudagspistli mínum í gær, lýsti Ragnar Sverrisson kaupmaður og einn forsvarsmanna Akureyrarframboðs, því yfir í áramótaþætti Aksjón á gamlársdag að Jóhannes Jónsson kaupmaður í Bónus, væri gjaldkeri framboðsins og lykilbakhjarl. Jóhannes sem sat úti í sal og fylgdist með hreyfði engum andmælum við þessu og því þótti um stórtíðindi að ræða. Einn umfangsmesti kaupmaður landsins virtist vera fjárhagslegur bakhjarl þessa framboðs og hafa lykilhlutverk í stofnun þess. Athygli vekur því að sjá í fréttum í kvöld haft eftir Jóhannesi að hann neiti orðum Ragnars í þessum þætti og vísi á bug að hann ætli sér eitthvert hlutverk innan framboðsins eða sé gjaldkeri þess. Segir Jóhannes að Ragnar hafi farið fram úr sjálfum sér og sagt eitthvað sem ekki standi til og sé ekki raunveruleiki mála. Undarlegt var því að hann skyldi þaga í áramótaþættinum þar sem hann sjálfur var gestur. Hann hefði átt að leiðrétta þetta strax þar. Hinsvegar var ekki að sjá á honum við þetta tilefni að hann væri á móti þessari hugmynd. Þetta er því allt mjög fróðlegt. Ekki virðist þetta vera vel útpælt hjá þessum aðilum, sennilega er þetta bara eitt trix til að hafa áhrif á flokkana. Hallast æ meir að því.
Skoðun mín á þessari pælingu Ragga og þeirra sem með honum eru að velta þessari hugmynd upp liggur vel fyrir og kom fram í pistlinum í gær. Að mínu mati eigum við sem tökum þátt í stjórnmálum að velja okkur flokka og berjast þar fyrir að fá okkar fólk inn á lista og í forystu. Þar er vettvangurinn til að láta að okkur kveða. Með prófkjöri getum við Akureyringar komið okkar fólki að og stutt það rétta leið til forystu. En sérstakt framboð Akureyringa til þings er fjarstæðukennd hugmynd að mínu mati. Hver yrði árangur þeirra sem jafnvel næðu inn á þing í nafni þess? Segjum að framboðið fengi tvo til fjóra menn, eitthvað á því bili. Hvert yrði hlutskipti þeirra, hvað mætti þeim eftir kosningabaráttu? Ég fullyrði það að það yrði aldrei nema stjórnarandstaða og vera meðhöndlaður sem fulltrúar í ætt við einhvern sértrúarsöfnuð sem enginn tæki mark á, jú hlustað væri á þá en vart meira. Við eigum að nota flokkana sem til staðar eru og fá okkar fólk inn, einfalt mál af minni hálfu. Í lokin vil ég segja að staða okkar Akureyringa er vissulega ótæk, eigum aðeins einn þingmann og okkar rödd þarf að heyrast af meiri krafti. Við brotthvarf Tómasar Inga Olrich af þingi og úr ríkisstjórn misstum við einn öflugasta talsmann Akureyrar í stjórnmálum. Skarð hans þarf að fylla með kraftmiklum einstaklingi í næstu kosningum. Úr þessu munum við sjálfstæðismenn bæta fyrir næstu þingkosningar og ekki vantar okkar kandidata til þingmennsku héðan, svo mikið er víst. En framboð Akureyringa utan flokka og sem sérframboð er eins og fyrr segir algjörlega fjarstæðukennt að mínu mati.

Eins og kom fram í áramótaávarpi forsætisráðherra að kvöldi gamlársdags er mikilvægt að fram fari umræða um stjórnskipan landsins af fullri víðsýni án tengsla við einstök deilumál. Það er komið að því að taka stjórnarskrána til endurskoðunar og velta upp nýjum þáttum og fá fram fjölbreytta umræðu um málin. Mikilvægt er að reyna að tryggja að sjónarmið sem flestra komist að við þessa vinnu og verði sýnileg. Þegar kosið verði um tillögurnar í næstu þingkosningum eftir tvö ár verði þá að baki ítarleg og gagnleg umræða um alla þætti málsins. Að mínu mati er mikilvægast að huga að 26. grein stjórnarskrárinnar. Það getur vart gengið lengur að sá skuggi sé yfir störfum Alþingis Íslendinga að einn maður geti með geðþóttavaldi stöðvað af mál sem meirihluti lýðræðislega kjörins þings til fjögurra ára, samþykkir með réttmætum hætti. 26. greinin sem lengi hefur verið umdeild, verður nú tekin væntanlega til ítarlegrar umræðu og sennilega rækilegrar endurskoðunar. Ég tel eðlilegast að þetta neitunarvald forseta verði numið brott en í staðinn jafnvel sett ákvæði um að viss hluti þingmanna geti farið fram á þjóðaratkvæðagreiðslur eða viss fjöldi landsmanna geti þrýst á slíkt. Það er mun eðlilegra en að einn maður sitji með það í skauti sínu að geta upp á sitt einsdæmi hindrað meirihluta þingsins í að sinna sínum störfum. Breytingin er því þörf og löngu tímabær. Mikilvægast er þó að þessi löngu tímabæra vinna við uppstokkun stjórnarskrár hefjist brátt.

Á gamlársdag birtust á kvikmyndir.com listar yfir bestu kvikmyndir ársins af þeim sem skrifa á vefinn. Voru það ég, Jón Hákon Halldórsson, María Margrét Jóhannsdóttir og Eggert Páll Ólason sem komum með álit okkar á hvaða myndir hefðu skarað fram úr á árinu. Á mínum topp 10 lista sem ég setti saman voru eftirtaldar eðalmyndir: Kill Bill: Vol. 2, Lost in Translation, Eternal Sunshine of the Spotless Mind, The Passion of the Christ, Touching the Void, Collateral, The Incredibles, Shrek 2, Ladder 49 og 21 Grams. Næstar komu: Monster, House of Sand and Fog, Cold Mountain, Spider-Man 2, The Village, Harry Potter and the Prisoner of Azkaban, American Splendor, The Last Samurai, Big Fish og The Manchurian Candidate. Enginn vafi er í mínum huga um að seinni hluti Kill Bill skari fram úr öðrum sem sýndar voru hér í bíó í fyrra. Er magnaður endir á flottu heildarverki, stórbrotnu meistaraverki Quentin Tarantino. Í báðum myndunum gengur allt upp kvikmyndalega séð: tónlist, handrit, kvikmyndataka og leikur, allt er í úrvalsflokki. Allt skapar þetta hið magnaða andrúmsloft. Flott bardagaatriði og frábær persónusköpun, einkum og sér í lagi hvað varðar persónur brúðarinnar og Bill. Mjög eftirminnilegir karakterar í túlkun Umu Thurman og David Carradine. Sannkölluð kvikmyndabomba. Skrifaði ég á árinu leikstjórapistla og fleira efni á kvikmyndavefinn en hef lítið tekið þar þátt á seinustu mánuðum. Brátt verður breyting þar á. Mun ég skrifa á næstunni um Golden Globe verðlaunin og Óskarsverðlaunin, helstu kvikmyndaverðlaun samtímans. Áfram munu birtast á vefnum ítarlegar leikstjóragreinar. Það er gott að vera hluti af góðum hópi á vefnum.
Saga dagsins
1597 Heklugos hófst með miklum eldgangi og jarðskjálftum - varð eitt stærsta Heklugos sögunnar
1888 Kristín Bjarnadóttir kaus fyrst kvenna til bæjarstjórnar í Reykjavík og varð fyrst kvenna til að notfæra sér kjörrétt til sveitarstjórna sem veittur var 1882. Kosningaréttur kvenna var lögfestur 1915
1925 Benito Mussolini tilkynnir að hann taki sér einræðisvald á Ítalíu - sat þar að völdum allt til 1943
1948 Þýskur togari bjargaði fjórum skipverjum sem hrakist höfðu í nær átta sólarhringa á hafi úti á vélbátnum Björgu eftir að vél bátsins bilaði - voru þeir orðnir kaldir og hraktir er þeim var bjargað
1990 Íslandsbanki hóf formlega starfsemi - bankinn var stofnaður með sameiningu Alþýðubankans, Verslunarbankans, Iðnaðarbankans og Útvegsbankans. Tók hann yfir mestöll fyrri viðskipti bankanna
Snjallyrðið
Hvað er nú tungan? - Ætli engin
orðin tóm séu lífsins forði.
Hún er list, sem logar af hreysti,
lifandi sál í greyptu stáli,
andans form í mjúkum myndum,
minnissaga farinna daga,
flaumar lífs, í farveg komnir
fleygrar aldar, er striki halda.
Tungan geymir í tímans straumi
trú og vonir landsins sona,
dauðastunur og dýpstu raunir,
darraðarljóð frá elztu þjóðum.
Heiftareim og ástarbríma,
örlagahljóm og refsidóma,
land og stund í lifandi myndum
ljóði vígðum - geymir í sjóði.
Sr. Matthías Jochumsson prestur og skáld (1835-1920) (Íslensk tunga)
Breytt 18.9.2006 kl. 08:02 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
2.1.2005 | 21:21
Engin fyrirsögn

Í upphafi ársins 2005 vil ég þakka lesendum þessa vefs samfylgdina í gegnum tíðina og jafnframt óska þeim farsæls og gleðilegs árs. Ennfremur vil ég færa þeim öllum kveðju sem ég hef kynnst í gegnum skrifin hér fyrir gagnleg skoðanaskipti og umræður um stjórnmál með einum eða öðrum hætti. Ég hef kynnst mörgum í gegnum skrifin og pólitíska þátttöku á liðnu ári og fyrir það þakka ég af heilum hug, samskipti við fólk um pólitík eða aðra þætti eru nú sem fyrr mjög mikilvæg og gagnleg þegar málefni samtímans eru rædd. Ég vil þakka öllum þeim sem litu á vefinn á liðnu ári fyrir að lesa pistla mína og hugleiðingar um hitamál samtímans. Árið sem að baki er var einkar viðburðaríkt og eftirminnilegt. Margir stórviðburðir áttu sér stað. Fyrir þá sem skrifa um málefni samtímans var nóg að fjalla um. Á seinasta ári ritaði ég um 100 pistla, vikulega birtust sunnudagspistlar um helstu fréttir hverrar viku og margir ítarlegir pistlar um fleiri málefni voru ritaðir og ég hélt úti þessum bloggvef með nær daglegri umfjöllun um helstu málefnin. Ég lít því yfir árið með gleði í huga. Margt gott gerðist á þessu merka ári, mörg ný tækifæri komu til sögunnar og mörg krefjandi verkefni eru að baki. Vonandi verður árið 2005 jafn viðburðaríkt og spennandi eins og hið liðna ár.

Í fyrsta sunnudagspistli ársins 2005 fjalla ég um áramótapistil minn sem birtist á gamlársdag og það sem í mínum huga stendur uppúr frá liðnu ári. Einnig fer ég yfir áramótauppgjör almennt. Á gamlársdag birtust t.d. venju samkvæmt áramótagreinar eftir forystumenn stjórnmálaflokkanna í Morgunblaðinu. Birtist ítarleg grein eftir Davíð Oddsson utanríkisráðherra og formann Sjálfstæðisflokksins, á miðopnu blaðsins. Eins og ávallt er gaman að lesa pólitískar hugleiðingar Davíðs. Að kvöldi gamlársdags ávarpaði Halldór Ásgrímsson forsætisráðherra, þjóðina frá Ráðherrabústaðnum við Tjarnargötu. Halldór kom mér skemmtilega á óvart í ávarpi sínu. Ávarp hans var gott og hann talaði um hluti sem skipta svo sannarlega máli. Sérstakan samhljóm fann ég með skoðunum mínum og hans um gildi fjölskyldunnar og mikilvægi hinna sönnu fjölskyldugilda. Fagna ég því að hann hafi ákveðið að setja af stað vinnu við að meta stöðu íslensku fjölskyldunnar. Ekkert á að skipta okkur meira máli en gildi fjölskyldunnar og mikilvægt er að halda vel utan um heilbrigt fjölskyldulíf og styrkja undirstöður hennar, með því styrkjum við allt sem okkur er og á ávallt að vera kærast. Án traustra fjölskyldugilda er lífið allt litlausara og verra. Halda verður vörð utan um þessi gildi af krafti. Ennfremur fjalla ég um umræðuna í Kryddsíld á gamlársdegi.
Kosið verður um sameiningu sveitarfélaga í Eyjafirði í apríl á þessu ári og stefnir allt í kosningu um sameiningu allra sveitarfélaganna 10 í eitt. Sjálfstæðisflokkurinn á Akureyri hefur markað sér þá stefnu að stuðlað verði að frekari sameiningu sveitarfélaga á svæðinu og okkur er því mikið ánægjuefni að fara yfir niðurstöður nýrrar skýrslu RHA, sem styrkir mjög undirstöður í sameiningarmálunum. Enginn vafi er á því í mínum huga og okkar sjálfstæðismanna, sérstaklega hér á Akureyri og í Dalvíkurbyggð, að fólk hér eigi að vinna sameinuð og taka höndum saman. Í samræmi við þetta var samþykkt á fundi bæjarráðs Akureyrar þann 30. desember sl. að leggja til að kosið verði 23. apríl um sameiningu Akureyrarbæjar við Siglufjörð og önnur sveitarfélög í Eyjafirði. Að lokum fjalla ég um umræðuna um sérstakt framboð Akureyringa til Alþingis í næstu þingkosningum eftir tvö ár. Athygli vakti að í áramótaþætti Aksjón lýsti Ragnar Sverrisson einn forsvarsmanna Akureyrarframboðs, því yfir að Jóhannes Jónsson kaupmaður í Bónus, væri gjaldkeri framboðsins og lykilbakhjarl. Jóhannes sem sat úti í sal og fylgdist með hreyfði engum andmælum við þessu og því um stórtíðindi að ræða. Einn umfangsmesti kaupmaður landsins virðist vera fjárhagslegur bakhjarl þessa framboðs og virðist vera í lykilhlutverki í stofnun þessa stjórnmálaafls sem að líkum lætur og ef marka má yfirlýsingar í fjölmiðlum er í pípunum. Fjalla ég um þetta og fleira í lok pistilsins.

Venju samkvæmt var horft á áramótaþættina af miklum áhuga. Í hádeginu á gamlársdag voru bæði áramótaþættir Sunnudagsþáttarins og Silfurs Egils, horfði ég á Egil en tók hinn upp. Báðir mjög áhugaverðir. Sérstaklega skondið að sjá Hallgrím Helgason ræða um þvælupistilinn sinn í Fréttablaðinu. Það er frjótt í höfðinu hans Hallgríms greinilega. Um tvöleytið fór ég að horfa á Kryddsíld Stöðvar 2. Þar voru leiðtogar flokkanna gestir venju samkvæmt. Spjallið þar var mjög líflegt og skemmtilegt. Farið var yfir helstu fréttir ársins á innlendum vettvangi og eins og nærri má geta var mest rætt um fjölmiðlamálið og náttúruhamfarirnar í Asíu. Klukkan þrjú hófst áramótaþátturinn á bæjarsjónvarpsstöðinni Aksjón, Gaffalbitar. Þar tóku Bjarni Hafþór, Hilda Jana, Sigrún og Þráinn á móti góðum gestum. Í lokin var rætt við bæjarstjóra og Ragnar Sverrisson kaupmann í JMJ, það var einkar skemmtilegt spjall, þar sem rætt var um pólitík af krafti. Einkum var þá vikið að umræðunni um Akureyrarframboð og þar lýsti Raggi því yfir að Jóhannes í Bónus væri einn bakhjarla framboðsins. Merkileg yfirlýsing. En já góður og ferskur þáttur. Reynir og Hjálmar áttu góð innslög með vísur sínar. Um kvöldið var horft á ávarp forsætisráðherra og annálana. Áramótaskaupið var mjög gott, margir góðir punktar. Með því betra seinustu árin. Bestu mómentin voru hiklaust þegar Davíð í eigin persónu kom allri þjóðinni á óvart og reis af skurðarborðinu hjá Saxa lækni (Davíð alltaf frábær), Alfreð í peningakasti siðblindra, rappatriðin tvö og síðast en ekki síst atriðin með Kristjáni. Mjög gott skaup og mikið hlegið. Eftir miðnættið var skotið upp flugeldum og farið svo út að skemmta sér langt fram á nótt. Á nýársdag var horft á gamlar og góðar kvikmyndir og slappað vel af. Var mjög góð helgi hér.

Kristján Þór Júlíusson bæjarstjóri, var í gær sæmdur riddarakrossi hinnar íslensku fálkaorðu fyrir störf í þágu sveitarstjórna og byggðamála. Óhætt er að fullyrða að Kristján verðskuldi þennan heiður, enda verið kraftmikill forystumaður á vettvangi sveitarstjórna í tæpa tvo áratugi sem bæjarstjóri á Dalvík, Ísafirði og Akureyri allt frá árinu 1986. Ég óska Stjána og Guðbjörgu innilega til hamingju.
Saga dagsins
1871 Stöðulögin - konungur staðfesti lög um stjórnunarlegu stöðu Íslands í konungssambandinu við Danmörku. Þar sagði að Ísland væri óaðskiljanlegur hluti Danaveldis með landsréttindum. Lögin féllu úr gildi með sambandslögunum 1918. Konungssambandi var slitið með stofnun lýðveldis árið 1944
1899 Kristilegt félag ungra manna, KFUM, var formlega stofnað í Reykjavík af sr. Friðriki Friðrikssyni
1931 Leikrit var flutt í fyrsta skipti í Ríkisútvarpinu - flutt var þá leikritið Jólanóttin eftir Henrik Ibsen
1986 Davíð Oddsson þáv. borgarstjóri, kveikti ljós á sex öndvegissúlum við borgarmörk Reykjavíkur. Kveikt var á súlunum í tilefni 200 ára afmælis Reykjavíkurborgar og logaði á þeim út allt afmælisárið
1999 Tónlistarsalurinn í Tónlistarhúsi Kópavogs vígður með tónleikum - hann hlaut nafnið Salurinn
Snjallyrðið
Hvað boðar nýárs blessuð sól?
Hún boðar náttúrunnar jól,
hún flytur líf og líknarráð,
hún ljómar heit af Drottins náð.
Sem Guðs son forðum gekk um kring,
hún gengur ársins fagra hring
og leggur smyrsl á lífsins sár
og læknar mein og þerrar tár.
Hann heyrir stormsins hörpuslátt,
hann heyrir barnsins andardrátt,
hann heyrir sínum himni frá
hvert hjartaslag þitt jörðu á.
Í almáttugri hendi hans
er hagur þessa kalda lands,
vor vagga, braut, vor byggð og gröf,
þótt búum við hin ystu höf.
Sr. Matthías Jochumsson prestur og skáld (1835-1920) (Hvað boðar nýárs blessuð sól?)
Breytt 18.9.2006 kl. 08:02 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
31.12.2004 | 10:58
Engin fyrirsögn

Árið 2004 líður senn í aldanna skaut. Að baki er eftirminnilegt ár fyrir margra hluta sakir. Þess verður í framtíðinni eflaust minnst sem ársins er forseti Íslands hafnaði í fyrsta skipti í lýðveldissögunni að staðfesta lagafrumvarp sem meirihluti þingmanna hafði samþykkt, Davíð Oddsson lét af embætti forsætisráðherra eftir 13 ára samfellda setu, George W. Bush var endurkjörinn forseti Bandaríkjanna, Yasser Arafat lést, haldið var upp á 100 ára afmæli heimastjórnar að fjarstöddum forseta Íslands sem var á skíðum í Aspen, deilt var um eignarhald á fjölmiðlum, Þórólfur Árnason varð að víkja sem borgarstjóri vegna hneykslismáls og Steinunn Valdís Óskarsdóttir tók við, 20% kjósenda skilaði auðu í forsetakosningum og sitjandi forseti hlaut atkvæði 42% kjósenda á kjörskrá, Halldór Ásgrímsson varð forsætisráðherra, rúmlega 100.000 manns fórust í náttúruhamförum í Asíu, tæplega 200 manns fórust í hryðjuverkaárás á Spáni, Saddam Hussein kom fyrir dómara, Alþingi samþykkti að lækka skatta, tekist var á um stjórnarskrána við undarlegar aðstæður, grunnskólakennarar fóru í langt verkfall og komið var á fót umdeildri Þjóðarhreyfingu svo fátt eitt sé nefnt. Að baki er svo sannarlega merkilegt ár. Í tilefni áramótanna er svo sannarlega tilefni til að líta yfir nokkra hápunkta ársins 2004.
Í ítarlegum pistli mínum, sennilega einum þeim lengsta og ítarlegasta sem ég hef ritað á löngum pistlaferli mínum, sem birtist í dag á vef Sambands ungra sjálfstæðismanna fer ég yfir árið með mínum hætti og það sem ég tel standa helst eftir þegar litið er yfir árið. Á innlendum vettvangi ber að sjálfsögðu hæst fjölmiðlamálið allt og ferill þess. Í pistlinum rek ég málið allt frá byrjun er nefnd um eignarhald á fjölmiðlum var skipuð í desember 2003 allt til þess að hætt var við fjölmiðlalögin sem samþykkt voru á Alþingi í maí 2004 og forseti Íslands synjaði um samþykki sitt og varð með því fyrsti forsetinn í lýðveldissögunni til að hafna lagafrumvarpi sem meirihluti þingmanna hafði samþykkt. Allt þetta mál var sögulegt og nauðsynlegt að fara yfir það ítarlega og rekja feril þess frá byrjun til enda. Þegar ég settist niður til að skrifa þennan pistil var þetta mál frá upphafi það sem ég taldi nauðsynlegt að rekja ítarlega og fara vel yfir. Vel má vera að frásögnin af þessu eina máli sé löng og yfirskyggi annað í pistlinum, en það er ómögulegt að ég tel að skrifa með krafti um árið 2004 stjórnmálalega séð hérlendis nema taka þetta vel fyrir. Erlendis stendur hæst án nokkurs vafa atburðir seinustu daga í Asíu, en nú hafa rúmlega 130.000 látist vegna náttúruhamfaranna þar á öðrum degi jóla. Þessar hörmungar yfirskyggja allt annað við árslok, hugur allra er hjá fólkinu í Asíu og þeirra sem hafa misst allt sitt og syrgja aðstandendur sína sem hafa farist í þessum hörmungum. Einnig stendur ofarlega að George W. Bush var endurkjörinn forseti Bandaríkjanna, eftir harðvítuga kosningabaráttu. Var mjög að honum sótt í kosningabaráttunni og margt reynt í þeirri orrahríð. Fylgdist ég mjög mikið með kosningaslagnum og fór til Washington í október, en við í utanríkismálanefnd SUS fórum þá ferð til að kynna okkur bandaríska pólitík og fara á sögufræga staði. Þar kynntumst við öll vel hörkunni sem var í baráttunni að þessu sinni. Hvað mig persónulega varðar var sú ferð hápunktur ársins og tókst hún mjög vel upp og var mjög gagnleg.

Við áramót er litið yfir sviðið og spurt hver sé maður ársins, hver skaraði framúr og stendur hæst þegar nýtt ár tekur við. Það er enginn vafi í mínum huga að Davíð Oddsson utanríkisráðherra, sé sá sem þann heiður eigi að hljóta að þessu sinni. Á þessu ári var sótt mjög harkalega að Davíð í fjölmiðlamálinu, sem stóð stóran hluta ársins og reyndi mjög á hann. Davíð stóð af sér árásir stjórnarandstöðunnar sem studdar voru af forseta Íslands sem breytti eðli embættis forseta Íslands til að reyna að þóknast forystumönnum stjórnarandstöðunnar og vissum forystumönnum stórfyrirtækjum, svo með ólíkindum var á að horfa. Eðli forsetaembættisins verður sennilega aldrei samt og er reyndar með ólíkindum að Davíð og þeir sem næst honum stóðu í stjórnarsamstarfinu hafi staðið af sér þá atlögu sem fjölmiðlar og forystumenn forsetaembættis og stjórnarandstöðu reyndu að kasta á þá til að reyna að fella stjórn landsins. Hún stóð allt af sér og hélt velli. Forystumenn samstarfsins störfuðu saman áfram af krafti þó hart væri að þeim sótt úr mörgum áttum.
Degi eftir að ríkisstjórnin hafði ákveðið að fella fjölmiðlalög úr gildi veiktist Davíð snögglega og var fluttur á spítala. Við rannsókn kom í ljós staðbundið æxli sem fjarlægt var í skurðaðgerð, varð hann að fara svo á ný í aðgerð í byrjun ágúst. Fréttir af veikindum Davíðs komu mjög óvænt enda hafði hann haft fullt starfsþrek og haft í mörgu að snúast samhliða umræðu um fjölmiðlamálið og var t.d. í viðtölum við fréttamenn vegna þess degi fyrir veikindi sín. Kom persónulegur styrkur Davíðs og fjölskyldu hans vel fram í þessum veikindum hans í sumar. Vegna þessara veikinda var pólitísk staða Davíðs að margra mati í óvissu. Hann sló á þá óvissu eins og honum einum var lagið með glæsilegri fjölmiðlaframkomu á heimili sínu um miðjan ágúst og tilkynnti að hann tæki við embætti utanríkisráðherra í ríkisstjórn ef honum entust kraftar til eftir veikindin. 15. september lét Davíð svo formlega af embætti forsætisráðherra, eins og um hafði verið samið þegar Sjálfstæðisflokkur og Framsóknarflokkur framlengdu samstarf sitt í ríkisstjórn vorið 2003. Hafði Davíð þá setið lengur í forsæti ríkisstjórnar Íslands en nokkur annar; frá 30. apríl 1991, eða í 13 ár, 4 mánuði og 16 daga. Davíð er án vafa maður ársins, hann er sá stjórnmálamaður sem bæði er elskaður og hataður, umdeildur og stendur í fararbroddi í stjórnmálum á Íslandi seinustu áratugi. Árið var hans, þrátt fyrir mótvind og að honum væri sótt og hann veiktist alvarlega stendur hann enn sem risi yfir íslenskum stjórnmálum í árslok, sterkur og öflugur.
Táknrænar svipmyndir ársins 2004 - áramótauppgjör 2004
Oft eru merkustu svipmyndir ársins og atburðir best tjáðar með táknrænum myndum sem einhvernveginn segja allt sem segja þarf um atburðinn. Ekki ætla ég að draga upp margar myndir af árinu, tel mig hafa gert upp árið allavega pólitískt með mínum hætti í löngum pistli sem ég vona að einhverjir hafi jafngaman af og ég hafði af að skrifa hann og gera upp atburði, sem standa merkast pólitískt. Tvær myndir eru að mínu mati lýsandi sem myndir ársins þegar það kveður. Tvær táknrænar myndir. Sú fyrri sýnir einn af kraftmestu leiðtogum Mið-Austurlanda, mann sem hafði ríkt yfir þjóð sinni og verið áberandi til margra áratuga kveðja hinstu kveðju, með táknrænum hætti. Hin seinni lýsir í hnotskurn því mikla afreki sem unnið var í mars með björgun Baldvins Þorsteinssonar, frá Akureyri, sem strandaði í Meðallandsfjöru. Neðar bendi ég á nokkra tengla þar sem farið er yfir 2004 með glæsilegum hætti, svo ómögulegt er að bæta um betur í myndum og máli.


Árið 2004 gert upp
Umfjöllun BBC um 2004
Árið 2004 í máli og myndum
Merkilegar svipmyndir frá árinu 2004
Farið í merkilegri tímalínu yfir merkilegt ár
Kostulegt áramótauppgjör Vef-Þjóðviljans
In memoriam - í minningu eftirminnilegs fólks
Dagurinn í dag
1791 Skólapiltar í Hólavallaskóla í Reykjavík héldu áramótabrennu, þá fyrstu sem fram fór hérlendis
1935 Vilhjálmur Þ. Gíslason síðar útvarpsstjóri, flutti annál ársins í fyrsta skipti í Ríkisútvarpinu að kvöldi gamlársdags. Hann flutti slíkt áramótaávarp til starfsloka hjá RÚV 1967. Allt frá starfslokum Vilhjálms hafa eftirmenn hans í embætti haldið þessari hefð að flytja ávarp að kvöldi gamlársdags
1956 Styrkir úr rithöfundasjóði Ríkisútvarpsins voru veittir í fyrsta skipti - þá voru heiðraðir þeir Snorri Hjartarson og Guðmundur Frímann. Margir helstu rithöfundar okkar hafa hlotið viðurkenningu
1964 Ólafur Thors fyrrum forsætisráðherra og formaður Sjálfstæðisflokksins, lést, 72 ára að aldri. Ólafur sat á Alþingi í 38 ár, allt frá 1926 til dauðadags. Hann var formaður Sjálfstæðisflokksins, lengst allra í sögu hans, eða í 27 ár, 1934-1961. Ólafur Thors myndaði ráðuneyti alls fimm sinnum á löngum stjórnmálaferli, oftar en aðrir. Ólafur var frábær ræðumaður og gleymist seint ræðusnilld hans
1999 Boris Yeltsin forseti Rússlands, segir af sér embætti í áramótaræðu á skrifstofu sinni í Kreml. Kom afsögn hans mjög óvænt, enda hafði verið talið að hann myndi sitja í embætti þar til kjörtímabili hans lyki í júní 2000. Eftirmaður hans í embætti varð Vladimir Putin forsætisráðherra. Var Putin svo kjörinn forseti í mars 2000 og endurkjörinn með yfirburðum í mars 2004 og situr í embætti til 2008
Snjallyrði dagsins
Nú árið er liðið í aldanna skaut
og aldrei það kemur til baka,
nú gengin er sérhver þess gleði og þraut,
það gjörvallt er runnið á eilífðar braut,
en minning þess víst skal þó vaka.
En hvers er að minnast? Og hvað er það þá,
sem helst skal í minningu geyma?
Nú allt er á fljúgandi ferð liðið hjá,
það flestallt er horfið í gleymskunnar sjá.
En miskunnsemd Guðs má ei gleyma.
Nú Guði sé lof fyrir gleðilegt ár
og góðar og frjósamar tíðir,
og Guði sé lof, því að grædd urðu sár,
og Guði sé lof, því að dögg urðu tár.
Allt breyttist í blessun um síðir.
Ó, gef þú oss, Drottinn, enn gleðilegt ár
og góðar og blessaðar tíðir.
Gef himneska dögg gegnum harmanna tár,
gef himneskan frið fyrir lausnarans sár
og eilífan unað um síðir.
Valdimar Briem (1848-1930) (Nú árið er liðið)
Ég sendi mínar bestu óskir um gleðilegt og farsælt ár til lesenda vefsins!
Breytt 18.9.2006 kl. 08:02 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
30.12.2004 | 21:35
Engin fyrirsögn

Staðfest hefur nú verið að rúmlega 120.000 manns hafi farist í náttúruhamförunum í Asíu. Óttast er nú að sú tala muni allt að tvöfaldast, vegna hættu á farsóttum. Talið er að aðeins í Indónesíu einni hafi allt að 100.000 manns látið lífið. Ömurlegar afleiðingar hamfaraflóðanna blasa alls staðar við í suðurhluta Asíu og skelfilegt er að sjá myndir af flóðunum sem hafa verið sýndar í fréttatímum seinustu daga. Öldurnar hrifsa þar með sér fólk og hluti eins og ekkert sé, rústa heilu bæjunum og þorpunum og eyðileggur líf fjölda fólks. Afleiðingarnar eru skelfilegar, mannfall er alveg gríðarlegt, milljónir manna hafa glatað lífsviðurværi sínu og heimili og standa eftir slyppir og snauðir, misst ættingja sína og allt annað sem það á. Nú þegar hafa rúm 80.000 lík fundist í Indónesíu, enn eru lík að reka á land og að finnast við strendur landsins og óttast er að mun fleiri séu látnir þar. Ljóst er eins og fyrr segir að ekki færri en 120.000 hafi látið lífið. Ekki hafa færri en 27.000 manns látist á Sri Lanka Tugmilljónir eiga því við sárt að binda við Indlandshaf og vofir þar hungursneyð og farsóttir yfir. Ljóst er að mun fleiri Svíar hafa farist en fyrst var talið, munu þeir vart vera færri en 1500, ef marka má yfirlýsingu Göran Persson forsætisráðherra Svíþjóðar. Deilt hefur verið á stjórnvöld í Svíþjóð fyrir að bregðast seint við stöðu mála. 10 Íslendinga er enn saknað.
Um heim allan er fólki brugðið vegna þessara hörmunga og um allan heim er safnað til styrktar þeim sem eiga um sárt að binda og til að styrkja hjálparstarf í landinu. Alls hafa nú rúmar 50 milljónir króna safnast í söfnun Rauða kross Íslands fyrir fórnarlömb hamfaranna. Aldrei hefur áður safnast svo há upphæð hér á landi til alþjóðlegs hjálparstarfs Rauða krossins á svo skömmum tíma. Nú hafa rúmlega 20.000 manns hringt í söfnunarsímann 907 2020 og gefið þannig eitt þúsund krónur. Er ástæða til að hvetja alla til að hringja í símann og gefa í söfnunina með þeim eða öðrum hætti. Bæjarráð Akureyrar samþykkti á fundi sínum í dag að leggja fram eina milljón króna til fjársöfnunarinnar. Athygli hefur vakið að ríkisstjórn Íslands hefur aðeins veitt vilyrði fyrir styrk til þessa máls að upphæð 5 milljónir. Að mínu mati þarf sú upphæð að verða mun hærri. Hefur það vakið undrun margra að ekki sé veitt hærri upphæð af hálfu Íslands í þetta mál. Eflaust mun hún verða hækkuð á næstu dögum og væntanlega verður tilkynnt um það fljótlega. Vart getur annað verið en að hærri upphæð verði veitt til þessa máls. Forsætisráðherra átti í dag samtöl við forsætisráðherra Svíþjóðar og Noregs vegna þessa máls. Vottaði hann með því persónulega samúð sína til forsætisráðherranna vegna þeirra Norðmanna og Svía sem látist hafa í Asíu og kom á framfæri samúðarkveðjum frá íslensku þjóðinni, ef marka má fréttatilkynningu frá forsætisráðuneytinu í dag. Skýrði Halldór forsætisráðherrunum frá því að hugur Íslendinga væri hjá frændum vorum á stundu sem þessari. Báru forsætisráðherrarnir þrír saman bækur sínar um ástandið á hamfaraslóðum. Ennfremur bauð forsætisráðherra fram aðstoð Íslendinga til hjálpar slösuðum Norðmönnum og Svíum frá Asíu og á heimaslóðir, eða á sjúkrahús á Íslandi.

Þorvaldur Ingvarsson læknir og formaður Sjálfstæðisfélags Akureyrar, ritar í dag áramótahugleiðingar á Íslending, vef sjálfstæðisfélaganna á Akureyri. Þar fer hann yfir pólitíkina og það sem uppúr stendur í lok ársins. Orðrétt segir Þorvaldur í athyglisverðum pistli: "Engar skýringar höfum við sjálfstæðimenn í grasrótinni fengið á því hvers vegna þurfti að setja (fjölmiðla)lög með þessum flýti né hvað olli því að ekki var tekið á málefnum Ríkisútvarpsins í frumvarpinu. Á þessu kunna að vera eðlilegar skýringar en þær hafa ekki náð eyrum okkar. Ekki lagaðist málið við það að forseti Íslands synjaði lögunum. Upphófst þá ferli sem var gjörsamlega óskiljanlegt. Skyndilega var allt það sem okkur hafði verið kennt um synjunarvald forsetans óljóst og menn lögðu mismunandi skilning í það atriði stjórnarskrárinnar. Ekki var hægt að túlka þetta á annan hátt en þann svo að mönnum hugnaðist ekki að leggja málið í dóm þjóðarinnar. Það er næsta öruggt að allt þetta á sér skýringar og að vafi getur leikið á öllum hlutum ef það hentar. Málið hefur þó fengið farsæla lausn (í bili a.m.k) með því að Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir menntamálaráðherra hefur skipað þverpólitíska nefnd um fjölmiðlalög. Við hljótum að gera þá kröfu til forseta lýðveldisins, ráðherra og þingmanna að þeir leysi sín persónulegu ágreinismál utan þings og utan opinberra starfa. Ef þeir treysta sér ekki til þess þá eiga þeir að víkja. Hitt er svo annað að framkoma stjórnarandstæðinga var með ólíkindum í þessu máli sem og öðrum og eina skýringin sem manni dettur í hug er málefnafátækt."
Ennfremur segir Þorvaldur: "Frjálsræði í viðskiptum og almennt í þjóðfélaginu hefur aukist og höft í viðskiptum heyra sögunni til. Einkavæðing ríkisfyrirtækja gekk hratt og vel fyrir sig og virðist þar hafa skipt sköpum að ríkisbankarnir voru báðir seldir. Sóknarfæri einkafyrirtækja hafa verið nýtt til hins ýtrasta og nú er svo komið að markaðurinn á Íslandi dugar ekki til, íslensk fyrirtæki eru farin að leita á erlenda markaði hvert á fætur öðru. Hagvöxtur er með ágætum, fjárlög ríkisins eru gerð upp ár eftir ár með afgangi og erlendar skuldir greiddar niður. Seinasta útspil hins frjálsa markaðar var vaxtarlækkun til íbúðarkaupanda sem gerir íbúðarlánasjóð í raun óþarfan. Aðeins spurning um tíma hvenær hans skeið rennur til enda. Atvinnuleysi er lítið, verðbólgan sömuleiðis. En samt svífur óróleiki yfir vötnunum sem birtist í málefnafátækt stjórnarandstöðunnar. Viku eftir viku storma þingmenn stjórnarandstæðunnar í ræðustól Alþingis og ausa auri í allar áttir ýmist vegna þess að ekki er rétt að lækka skatta núna heldur seinna, minntir á sín eigin kosningarloforð þá er dregið í land og sagt að það eigi að lækka skatta öðruvísi! Áfram er haldið og sá furðulegi málatilbúnaður er uppi að nú sé tími til kominn að draga í land í Írakstríðinu? Sú skoðun kann að vera eðlileg að Ísland hafi ekki átt að vera á lista hinna "staðföstu þjóða" en bakka nú þegar Íslendingar geta sjálfir lagt sitt að mörkum orkar tvímælis. Nú við áramót erum við enn minnt á hversu náttúruöflin geta leikið okkur grátt og hversu lítið maðurinn getur spyrnt við fótum þegar þau láta á sér kræla. Hér á ég við jarðskjálftana í Asíu og afleiðinga þeirra en þegar þetta er skrifað eru afleiðingar flóðanna að koma í ljós og virðast geigvænlegar. Hugur okkar verður hjá þeim sem eiga um sárt að binda vegna þessara náttúruhamfara nú um áramótin." Ég hvet alla til að lesa þennan athyglisverða pistil Þorvaldar.

Eiður Smári Guðjohnsen knattspyrnumaður hjá Chelsea, var í gær valinn íþróttamaður ársins 2004 í árlegu vali íþróttafréttamanna. Þórey Edda Elísdóttir varð í öðru sæti og Rúnar Alexandersson í því þriðja. Tilkynnt var um valið í hófi á Grand hótel, þar sem einnig var tilkynnt um val á íþróttafólki ársins í öllum greinum. Enginn vafi leikur á því að Eiður Smári verðskuldar mjög þennan titil. Hann náði hápunkti á sínum ferli á árinu. Hann er fyrsti knattspyrnumaðurinn sem hlýtur titilinn í 17 ár, eða frá því að faðir hans, Arnór Guðjohnsen hlaut þennan titil. Eiður átti mjög gott ár með Chelsea og mörk hans áttu þátt í því að liðið hafnaði í öðru sæti í ensku úrvalsdeildinni og að það komst í undanúrslit Meistaradeildarinnar. Hann var yfirburðamaður í íslenska landsliðinu og skoraði þrjú af fjórum mörkum liðsins í undankeppni EM. Eiður Smári verður fimmti knattspyrnumaðurinn sem hlýtur þennan titil en áður höfðu auk Arnórs og Eiðs hlotið titilinn þeir Ásgeir Sigurvinsson (tvisvar), Guðni Kjartansson og Jóhannes Eðvaldsson.
Eiður Smári gat ekki verið viðstaddur athöfnina í gær, en hann fékk ekki leyfi til heimfarar frá Jose Mourinho knattspyrnustjóra Chelsea, enda eru margir leikir í ensku deildinni þessa dagana og mikið álag á leikmönnum. Þetta var í fyrsta skipti frá 1984 sem íþróttamaður árins er ekki viðstaddur kjörið. Eiður og Arnór eru aðrir feðgarnir sem hljóta þessi verðlaun en áður höfðu þeir Vilhjálmur Einarsson og Einar Vilhjálmsson fengið þau, Vilhjálmur vann reyndar fimm sinnum og Einar þrisvar. Þórey Edda og Rúnar verðskulda svo sannarlega sínar viðurkenningar enda verið áberandi í íþrótt sinni á árinu og gekk vel á Ólympíuleikunum í Aþenu í haust. Mikla athygli vekur þó vissulega að Kristín Rós Hákonardóttir hljóti ekki verðlaunin eða sé ekki einu sinni meðal þriggja efstu. Náði hún toppnum á sínum ferli á árinu, setti hvert heimsmetið á eftir öðru á ólympíuleikum fatlaðra í haust og hefur hlotið alþjóðlegar viðurkenningar fyrir glæsilegan árangur sinn. Það vekur athygli og undrun að hennar framlag sé ekki meira metið þegar íþróttaárið er gert upp með þessum hætti. En eftir stendur að Eiður verðskuldar sigurinn, en fjarvera Kristínar frá topp þrjú listanum er alveg æpandi áberandi.
Dagurinn í dag
1887 Bríet Bjarnhéðinsdóttir, er þá var 31 árs gömul, flutti fyrirlestur í Góðtemplarahúsinu í Reykjavík um kjör og réttindi kvenna. Þetta var í fyrsta skipti sem kona hérlendis flutti opinberlega fyrirlestur. Bríet varð forystukona kvenréttindasinna og leiddi baráttu þeirra í nokkra áratugi
1935 Níu manns fórust er eldur kom upp á jólatrésskemmtun í samkomuhúsi ungmennafélagsins í Keflavík. Húsið brann allt á innan við klukkustund. Um 190 manns náði að komast naumlega út áður
1947 Michael Rúmeníukonungur, sagði af sér - konungdæmi var þar lagt niður og það varð lýðveldi
1958 Uppreisn stjórnarandstöðunnar á Kúbu styrkist og nær hámarki - andspyrnan færist sífellt nær borginni. Kommúnistar náðu yfirráðum í Havana á nýársdag og tóku við völdum. Fidel Castro varð forseti Kúbu og hefur setið á þeim stóli síðan og er orðinn einn þaulsetnasti leiðtogi sögunnar
1965 Ferdinand Marcos verður forseti Filippseyja - hann sat við völd í tæp 20 ár og stjórnaði þar með harðri hendi, eða þar til stjórn hans var felld í uppreisn almennings í landinu snemma árs 1986
Snjallyrði dagsins
Stóð ég úti í tungsljósi, stóð ég út við skóg,
stórir komu skarar, af álfum var þar nóg.
Blésu þeir á sönglúðra, og bar þá að mér fljótt,
og bjöllurnar gullu á heiðskírri nótt.
Hleyptu þeir á fannhvítum hestum yfir grund,
hornin jóa gullroðnu blika við lund,
eins og þegar álftir af ísa grárri spöng
fljúga suður heiði með fjaðraþyt og söng.
Heilsaði hún mér drottningin og hló að mér um leið,
hló að mér og hleypti hestinum á skeið.
Var það út af ástinni ungu, sem ég ber?
Eða var það feigðin, sem kallaði að mér?
Jónas Hallgrímsson (1807-1845) (Álfareiðin)
Breytt 18.9.2006 kl. 08:02 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
29.12.2004 | 20:59
Engin fyrirsögn

Seinustu daga hef ég verið að lesa Forsætisráðherrabókina, æviágrip ráðherra og forsætisráðherra Íslands í 100 ára sögu heimastjórnar á Íslandi, 1904-2004. Eru þar margir mjög áhugaverðir kaflar og fróðlegir til lestrar, áhugaverðir öllum þeim sem áhuga hafa á sagnfræðilegu efni: sögu landsins og þeirra sem gegnt hafa þessu valdamikla embætti. Hefst bókin á ítarlegum inngang eftir Ólaf Teit Guðnason ritstjóra bókarinnar. Davíð Oddsson utanríkisráðherra, ritar mjög áhugaverðan kafla um Hannes Hafstein, er hann leiftrandi af skemmtilegum upplýsingum og góðri frásögn um ævi þessa merka manns, sem fyrstur Íslendinga settist á ráðherrastól 1. febrúar 1904. Persónulega séð hafði ég mest gaman af lestri þessa kafla, en það er flestum mjög vel kunnugt að Davíð er leiftrandi og skemmtilegur penni. Kaflinn er því virkilega vel úr garði gerður. Kaflinn um Jón Magnússon eftir Sigurð Líndal fyrrum prófessor, er vel skrifaður og margt sem þar vekur athygli sagnfræðispekinga. Björn Bjarnason dómsmálaráðherra, skrifar um ævi Jóns Þorlákssonar og kemur margt mjög athyglisvert fram í skrifum Björns. Hvet ég annars alla til að lesa ítarlega ævisögu Jóns eftir Hannes Hólmstein, en Björn vitnar oft í hana í góðri grein sinni. Gunnar Helgi Kristinsson fer yfir ævi Tryggva Þórhallssonar, en hann var áhrifamikill stjórnmálamaður og átti þátt í einum umdeildasta atburði stjórnmálasögu aldarinnar, þingrofinu 1931 sem hafði mikil áhrif á atburði áranna sem á eftir fylgdu í stjórnmálasögunni og lengra ef út í það er farið.
Skrif Önnu Ólafsdóttur Björnsson um Ásgeir Ásgeirsson forseta, voru einnig mjög fróðleg. Mjög gagnlegt var að lesa ítarlegan kafla Tryggva Gíslasonar fyrrum skólameistara MA, um Hermann Jónasson, einn öflugasta stjórnmálamann aldarinnar, sem sat í embætti framanaf stríðsárunum og var áberandi í embættisverkum sínum. Jakob F. Ásgeirsson skrifaði mjög heilsteyptan og áhugaverðan kafla um Ólaf Thors, manninn sem leiddi Sjálfstæðisflokkinn í 27 ár og leiddi fleiri ríkisstjórnir í sögu landsins en nokkur annar, fimm talsins. Kaflinn er lifandi og heillandi, sem er vart óeðlilegt þegar sögð er saga jafnmerks manns og áhrifamikils á sögu landsins og samtíð sína og hann var. Ingólfur Margeirsson skrifar góðan kafla um Stefán Jóhann Stefánsson sem leiddi ríkisstjórn 1947-1949, fyrstur Alþýðuflokksmanna. Helgi Skúli Kjartansson ritar um Emil Jónsson sem var forsætisráðherra minnihlutastjórnar Alþýðuflokksins í tæpt ár, en mjög áhrifamikill í stjórnmálasögu viðreisnartímans og einn arkitekta hennar. Guðni Th. Jóhannesson skrifar um dr. Bjarna Benediktsson, þann mann sem ég tel að hafi haft mest áhrif á stjórnmálasögu 20. aldarinnar, manninn sem mótaði utanríkisstefnu landsins og var einn af helstu arkitektunum að viðreisn og síðast en ekki síst stefnu Sjálfstæðisflokksins í utanríkis- og varnarmálum á fyrstu árum flokksins á mótunarárum lýðveldisins. Bjarni var kraftmikill stjórnmálamaður og einkennist kaflinn vel af stöðu hans þegar öldin er gerð upp. Hann er vel skrifaður og áhugaverður eins og sá sem um er ritað. Birgir Ísleifur Gunnarsson skrifar um stjórnmálaferil og ævi Jóhanns Hafstein sem var áberandi í stjórnmálastörfum en þurfti að taka við forsætisráðherraembætti við erfiðar aðstæður: í skugga fráfalls Bjarna, sem lést langt um aldur fram. Jóhann sannaði á stuttum forsætisráðherraferli hversu heilsteyptur hann var og öflugur í sínum stjórnmálastörfum.
Dr. Hannes Hólmsteinn Gissurarson skrifar um Ólaf Jóhannesson sem var forsætisráðherra tvívegis á áttunda áratugnum og áberandi í stjórnmálalífi landsins um langt skeið og ennfremur sem helsti lagasérfræðingur landsins og prófessor í þeim fræðum. Fróðlegt er að lesa umfjöllun Hannesar um stormasama forsætisráðherratíð Ólafs í vinstristjórn 1978-1979, en það er jafnan mjög athyglisvert, fyrir okkur sem höfum lesið stjórnmálasöguna og þekkjum í okkar samtíð ekki nema stjórnmálalegan stöðugleika í seinni tíð, að lesa um lætin sem áttu sér stað innan þeirrar stjórnar Ólafs. Jónína Michaelsdóttir skrifar um Geir Hallgrímsson. Jafnan hefur mér þótt mikið til Geirs koma og lesið mér mikið til um feril hans og stjórnmálaverk. Ferill hans var lengst af sigursæll, hann var borgarstjóri samfellt í 13 ár og varð forsætisráðherra 1974, eftir glæstasta kosningasigur Sjálfstæðisflokksins. Eftir tvær kosningar 1978 gjörbreyttist staða Geirs og var ferill hans á næstu fimm árum ein sorgarsaga. Flokkurinn klofnaði vegna stjórnarmyndunar 1980 og óróleiki varð innan hans vegna þess. En Geir sannaði styrk sinn með því að landa málinu með því að sameina brotin við lok formannsferils síns 1983. Hinsvegar var mjög leitt að þingmenn Sjálfstæðisflokksins skyldu ekki bera gæfu til þess að kjósa Geir sem forsætisráðherra að loknum kosningunum, en taka þess í stað þann kost að hljóta fleiri ráðherrastóla til að sinna eigin metnaði. En það er það merkilegasta við arfleifð Geirs að hann skilaði flokknum heilum og vann verk sín af hógværð og heiðarleika og var heill í verkum sínum. Hann var heilsteyptur stjórnmálamaður sem hugsaði um hagsmuni heildarinnar umfram eigin hagsmuni og stöðu stjórnmálalega séð. Þeim sem vilja kynna sér ævi Geirs betur, bendi ég á rit Andvara 1994, en þá ritaði Davíð Oddsson, ítarlega grein um Geir og ævi hans.
Guðmundur Árni Stefánsson ritar athyglisverða grein um Benedikt Gröndal, sem setið hefur styst allra forsætisráðherra í embættinu, en var engu að síður mjög áberandi í stjórnmálastörfum sínum. Dregur Guðmundur Árni margt fróðlegt fram í umfjöllun sinni. Jón Ormur Halldórsson prófessor, skrifar mjög fróðlega og athyglisverða grein um dr. Gunnar Thoroddsen sem varð forsætisráðherra í lok stjórnmálaferils síns árið 1980, þá sjötugur að aldri. Hann varð þingmaður yngstur allra árið 1934, var borgarstjóri 1947-1959 og sat í nokkur ár sem fjármálaráðherra. Hann hætti afskiptum af stjórnmálum 1965 og varð sendiherra í Danmörku og gaf kost á sér til embættis forseta Íslands árið 1968, en tapaði fyrir dr. Kristjáni Eldjárn og varð hæstaréttardómari 1970. Hann stoppaði þar stutt, ákvað að taka á ný þátt í stjórnmálum sama ár eftir lát dr. Bjarna og fór á ný í innsta hring stjórnmála. Gunnar varð varaformaður flokksins eins og hann hafði verið áður og varð forsætisráðherra 1980 eftir umdeildustu stjórnarmyndun lýðveldissögunnar sem klauf Sjálfstæðisflokkinn. Hann sat í embætti þar til örfáum mánuðum fyrir lát sitt 1983. Einstakur maður, einstakur ferill, einstök umfjöllun um þennan merka mann í stjórnmálasögunni, rituð af þeim manni sem Gunnar valdi sem aðstoðarmann sinn í forsætisráðuneytinu. Sigurður Eyþórsson ritar um Steingrím Hermannsson og kemur þar margt mjög athyglisvert fram. Steinar J. Lúðvíksson skrifar um Þorstein Pálsson og kemur með fróðlega lýsingu á forsætisráðherratíð Þorsteins sem var stormasöm. Í bókarlok ritar Styrmir Gunnarsson svo fróðlega grein um Davíð Oddsson sem sat í embætti lengur en nokkur annar, rúm 13 ár og hafði mikil áhrif á stjórnmálasögu landsins.
Hef ég mikinn áhuga á stjórnmálum almennt og segja má því með sanni að þessi bók hafi heillað mig og fangað athygli mína mjög, enda paradís í orðsins fyllstu merkingu fyrir stjórnmálaáhugafólk. Ég hvet alla til að lesa bókina, ef þeir hafi ekki gert það nú þegar. Um er að ræða mjög merka bók, fróðlega samantekt á ævi þeirra sem setið hafa í forystu íslenskra stjórnmála við borðsendann á ríkisstjórnarborðinu, staðið í stafni stjórnarskútunnar og stjórnað för. Starf forsætisráðherra er stórt og mikið og reynir fljótt á stjórnmálamenn þegar þeir taka við embættinu, hvort þeir standi undir byrðinni og þeirri stjórnmálaforystu sem nauðsynleg er þeim sem tekur við því. Embættið er krefjandi og mikið fyrir hvern þann sem er áberandi í stjórnmálastörfum en jafnframt rétti vettvangurinn fyrir sannan leiðtoga til að reyna á hæfileika sína til forystu. Tel ég eftir lestur bókarinnar og að hafa lesið samantektina að flestir forsætisráðherrarnir hafi sinnt starfi sínu með miklum ágætum, sumir standa meira upp úr sögulega séð en aðrir, en það er eins og gengur vissulega. Margir kraftmiklir stjórnmálamenn ná aldrei svo langt að komast í þetta mikla embætti, en hafa engu að síður sannað kraft sinn sem stjórnmálamanns með verkum sínum á öðrum vettvangi. Um marga þeirra stjórnmálamanna sem hér er fjallað um, hafa verið ritaðar ævisögur í ítarlegra formi eða skrifað um þá í Andvara. Það er nauðsynlegt öllum sönnum stjórnmálaáhugamönnum að setjast niður, með þessa bók eða aðra og kynna sér ævi þessara stjórnmálaleiðtoga og jafnframt kynnast sögunni í návígi. Það er öllum hollt.

Einn vinsælasti söngleikur sögunnar, Óliver, eftir Lionel Bart, byggður á samnefndri skáldsögu Charles Dickens, var frumsýndur hjá Leikfélagi Akureyrar í gærkvöldi. Var ég viðstaddur frumsýninguna og hafði mjög gaman af. Söguna um Oliver Twist þekkja auðvitað allir, enda verk Dickens löngu orðið sígilt. Hún er allt í senn spennandi, falleg og átakanleg. Söngleikurinn hefur verið með vinsælustu söngleikjum heims frá því um 1960 þegar hann var frumsýndur og kvikmyndaútgáfan er löngu orðin sígild. Dickens samdi söguna um munaðarleysingjann Óliver um miðja 19. öldina og naut sagan þegar mikilla vinsælda. Þar birtast átök hins góða og illa og vakti Dickens sérstaklega athygli á kjörum þeirra sem minna mega sín. Persónurnar eru fjölbreyttar og litríkar og bófaforinginn Fagin er löngu kominn í hóp sígildra bókmenntapersóna. Í tilefni uppsetningar LA á Óliver endurútgaf JPV útgáfa sögu Dickens nú í haust.
Um er að ræða eina stærstu uppsetningu í sögu Leikfélagsins. Um 60 manns koma að sýningunni, t.d. fjöldi leikara og 15 manna hljómsveit Sinfóníuhljómsveitar Norðurlands. Þegar mest lætur eru 47 manns á sviðinu. Gísli Rúnar Jónsson leikari og leikstjóri, á heiðurinn af nýrri þýðingu söngleiksins en leikstjóri er Magnús Geir Þórðarson leikhússtjóri. Guðmundur Óli Gunnarsson er hljómsveitarstjóri og Sigurjón Jóhannsson hannar leikmynd og búninga. Í helstu hlutverkum eru Ólafur Egill Egilsson, Þórunn Erna Clausen, Jón Páll Eyjólfsson, Margrét Eir Hjartardóttir, Ólafur Rúnarsson, Esther Talía Casey, Skúli Gautason, Þorsteinn Bachmann og Saga Jónsdóttir. Óliver er leikinn af Gunnari Erni Steffensen, 10 ára dreng úr Eyjafirði. Alls taka 18 börn þátt í uppsetningunni og sex manna kór. Þetta er því mikil og öflug sýning. Ólafur Egill er að öllum ólöstuðum senuþjófur sýningarinnar og fer á kostum í hlutverki Fagin og glæðir persónuna miklu lífi. Gunnar Örn er frábær í hlutverki Ólivers og á stórleik. Óhætt er að hvetja alla Eyfirðinga og nærsveitamenn til að líta á sýninguna, enda við allra hæfi og einstaklega vel úr garði gerð. Þetta var góð kvöldstund í gamla góða leikhúsinu.
Dagurinn í dag
1984 Rajiv Gandhi og Kongress-flokkurinn vinnur mikinn sigur í indversku þingkosningunum, sem haldnar voru nokkrum vikum eftir að móðir hans, Indira Gandhi sem verið hafði forsætisráðherra nær samfellt í 20 ár, var myrt. Rajiv sat í embætti til ársins 1989, en féll fyrir morðingjahendi í maí 1991
1986 Harold Macmillan fyrrum forsætisráðherra Bretlands, lést, 92 ára að aldri - hann sat í embætti sem forsætisráðherra og leiðtogi breska Íhaldsflokksins 1957-1963 og hlaut viðurnefnið Super Mac og Mac the Knife í breskum stjórnmálum. Hann hætti afskiptum af stjórnmálum vegna heilsubrests 1963
1989 Vaclav Havel kjörinn forseti Tékkóslóvakíu - hann sat í embætti þar til landinu var skipt í tvennt árið 1993. Varð þá forseti Tékklands og sat í embætti í tvö 5 ára kjörtímabil og lét af embætti 2003
1992 Fernando Collor de Mellor forseti Brasilíu, segir af sér embætti vegna hneykslismála - Mellor var fyrsti lýðræðislega kjörni forseti landsins í 29 ár og sigraði naumlega í forsetakosningum árið 1990
1995 Ríkisstjórnin samþykkti að banna umsækjendum um opinberar stöður að njóta nafnleyndar
Snjallyrði dagsins
Máninn hátt á himni skín, hrímfölur og grár.
Líf og tími líður og liðið er nú ár.
Bregðum blysum á loft bleik þau lýsa um grund.
Glottir tungl og hrín við hrönn og hratt flýr stund.
Kyndla vora hefjum hátt, horfið kveðjum ár.
Dátt hér dansinn stígum dunar ísinn grár.
Bregðum blysum á loft bleik lýsa um grund.
Glottir tungl og hrín við hrönn og hratt flýr stund.
Komi hver sem koma vill! Komdu nýja ár.
Dönsum dátt á svelli, dunar ísinn blár.
Bregðum blysum á loft bleik lýsa um grund.
Glottir tungl og hrín við hrönn og hratt flýr stund.
Jón Ólafsson (Álfadans)
Breytt 18.9.2006 kl. 08:02 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
28.12.2004 | 21:05
Engin fyrirsögn

Viktor Yushchenko var kjörinn forseti Úkraínu, í forsetakosningunum í landinu á annan dag jóla. Talningu lauk í landinu í dag og varð þá ljóst að Yushchenko hlaut 51,9% atkvæða en Viktor Yanukovych forsætisráðherra, hlaut 44,1% atkvæða. Alls hlaut Yushchenko 2,2 milljónum fleiri atkvæði en Yanukovych. Miklar deilur hafa staðið vegna forsetakjörs í landinu seinustu vikur vegna kosninganna sem haldnar voru þar 21. nóvember sl. Yushchenko vann sigur í fyrri umferðinni í byrjun nóvember og var spáð sigri í seinni umferðinni. Útgönguspár gáfu þá til kynna um að hann myndi sigra með 7-8% mun. Raunin varð sú að Yanukovych vann nauman sigur og hlaut 2% meira eftir að talningu lauk. Stjórnarandstaðan sakaði forsætisráðherrann og stuðningsmenn hans um kosningasvik í austur- og norðurhéruðum landsins. Efndu stjórnarandstæðingar til fjöldamótmæla sem leiddu til þess að hæstiréttur tók málið fyrir og ógilti úrslit kosninganna og ákvað að endurtaka seinni umferðina. Sannað var enda að stórfelld kosningasvik áttu sér stað. Vestræn kosningaeftirlit höfðu t.d. sagt að kosningatölur hafi ekki passað við kjörskrár enda fleiri atkvæði en kjósendur sem greiddu atkvæði.
Yushchenko lýsti formlega yfir sigri í gærmorgun á útifundi með stuðningsmönnum sem hafa fylgt honum í gegnum þykkt og þunnt í baráttu seinustu vikna og mánaða. Sagði hann í sigurræðu sinni að um 14 ára skeið hafi Úkraína verið sjálfstætt ríki en nú væri hún loks frjálst ríki. Sigur sinn væri þó umfram allt sigur úkraínsku þjóðarinnar og landsins. Yanukovych neitar að viðurkenna ósigur sinn og sigur Yushchenko. Hann hefur lýst því yfir nú að hann muni leita til hæstaréttar Úkraínu til þess að fá úrslitunum hnekkt, eins og mótherji hans gerði eftir seinustu kosningar fyrir rúmum mánuði. Hefur forsætisráðherrann lagt fram á fimmta þúsund kvartana yfir því hvernig staðið var að talningu atkvæða. Er varla hægt að segja annað en að það sé skondið í ljósi þess að hann vann kosningar fyrir rúmum mánuði með kosningasvikum og neitaði að viðurkenna að illa hafi verið á haldið þar til ríkisstjórn Kuchma forseta, neyddist til að viðurkenna stöðu mála. Ljóst er að kosningarnar núna fóru vel fram, enda 12.000 erlendir embættismenn að fylgjast með og er það samdóma álit þeirra að þær hafi að mestu farið vel fram. Hins nýja forseta bíður mikið og stórt verkefni. Úkraínska þjóðin er klofin í afstöðu sinni til hans og stefnumála stjórnarandstöðunnar sem nú tekur við völdum. Efnahagur Úkraínu er sterkur en við blasir að fáeinir auðkýfingar hafi þar tögl og hagldir, sem studdu forsætisráðherrann og fráfarandi stjórn. Eitt af fyrstu verkefnum nýs forseta verður væntanlega að reyna að styrkja samskipti Úkraínu og Rússlands og sameina þjóðina að baki sér eftir mikil átök, enda hætt við því að íbúar austurhluta landsins fari fram á aukið sjálfstæði.

Óumdeilt er ef marka má fréttir að Indónesía og Sri Lanka hafi farið verst út úr hamförunum. Flóðbylgjur skullu þar eftir endilangri strandlengju landsins. Ekki hafa færri en 20.000 manns farist í hvoru landi. Ef marka má fréttir CNN af hamförunum misstu allt að milljón íbúa í hvoru af löndunum t.d. heimili sitt, austurströnd landsins varð sérstaklega mjög illa úti og ástand þar mjög dapurt. Hafa landsmenn ekki séð það verra þó þeir hafi átt í stríði og átökum í nokkra áratugi. Talið er að allt að 12.000 Indverjar hafi farist. Mikið var af ferðamönnum í Asíu um jólin og sérstaklega bendir margt til þess að margir norðurlandabúar hafi beðið þar bana. Um 1.500 Svía er enn saknað og ekki er vitað um afdrif 600 Norðmanna. Talið er að a.m.k. 700 erlendir ferðamenn séu meðal þeirra 60.000 sem þegar hefur verið staðfest að létust í hamförunum. Virðist vera að stór hluti þeirra komi frá Svíþjóð. Á blaðamannafundi í dag sagði Laila Freivalds utanríkisráðherra Svíþjóðar, að líklega hefðu ekki jafnmargir Svíar farist síðan farþegaskipið Estonia sökk haustið 1994 með þeim afleiðingum að 500 létust. 200 Finna og 16 Dana er enn saknað. Ekki hefur enn heyrst frá 12 Íslendingum sem voru staddir á þessum slóðum. Þessar hörmungar eru skelfilegar og setur mann hljóðan við þessi tíðindi sem þarna hafa átt sér stað. Hvet ég alla til að hringja í söfnunarsíma Rauða krossins, 907 2020, og láta með því renna 1000 krónur til hjálparstarfsins. Margt smátt gerir eitt stórt!

Á öðrum degi jóla fór ég í bíó og sá kvikmyndina, Í takt við tímann. Hún er sjálfstætt framhald vinsælustu og eftirminnilegustu kvikmyndar íslenskrar kvikmyndasögu, Með allt á hreinu. Hún sló öll aðsóknarmet og um 115.000 Íslendingar sáu hana í bíó, 1982 og 1983. Ágúst Guðmundsson leikstýrði myndinni og í aðalhlutverkum voru hljómsveitirnar Stuðmenn og Grýlurnar, sem börðust af krafti til að tryggja stöðu sína á ballmarkaðnum og beittu til þess öllum mögulegum brögðum. Nú, 22 árum síðar er Ágúst mættur aftur til sögunnar og færir okkur ásamt Stuðmönnum, sögu þeirra sem við fylgdumst með fyrir tveim áratugum og hvað á daga þeirra hafi drifið á þeim árum sem liðin hafa verið. Óhætt er að fullyrða að margt hafi breyst og líf söguhetjanna okkar tekið stakkaskiptum. Aðalsögupersónurnar eru nú sem áður söngvararnir Kristinn Styrkársson Proppé og Harpa Sjöfn Hermundardóttir, en örlögin réðu því að leiðir þeirra skildu á þjóðhátíð í Herjólfsdal.
Í upphafi myndarinnar eru Stuðmenn aðeins lítið tríó á hótelbar á Spáni, þó að hljómsveitarstjórinn Frímann eigi sér enn drauma um litríkan frama á tónlistarbrautinni. Stuðmenn vita líka að Ísland er land tækifæranna, þar sem nýsköpunarverkefnin bjóðast hvert sem litið er. Dúddi er löngu hættur að róta og leggur nú stund á öllu andlegri störf og virðist sá eini sem hefur slegið almennilega í gegn, ótrúlegt en satt. Merkilegar aðstæður verða til þess að leiðir Stinna og Hörpu liggja saman að nýju. En sjón er sögu ríkari. Egill Ólafsson, Ragnhildur Gísladóttir, Eggert Þorleifsson, Jakob Frímann Magnússon, Ásgeir Óskarsson, Tómas M. Tómasson og Þórður Árnason eru í aðalhlutverkum sem fyrr. Handritið er eftir Ágúst Guðmundsson, Eggert Þorleifsson og Stuðmenn. Öll höfum við beðið í fjölda ára eftir að sjá hvað hefur gerst hjá þessum kunningjum okkar, sem gerð voru okkur ódauðleg í fyrri myndinni. Við þessu fáum við svör í kvikmyndinni Í takt við tímann. Hafði ég gaman af myndinni, hef svo sem alla tíð verið mikill aðdáandi Stuðmanna og haft gaman af húmor þeirra í fyrri myndinni. Ómögulegt er þó að bera saman fyrri myndina og þessa. Sú fyrri er slíkt meistaraverk að það er bara þannig. En þeir sem fara á myndina til að hafa gaman af henni og búast ekki við mynd sem toppar þá fyrri munu skemmta sér vel. Allavega hlæja mikið, ég allavega hló mestallan tímann og hafði gaman af myndinni.
Dagurinn í dag
1832 John C. Calhoun verður fyrsti varaforseti Bandaríkjanna, sem segir af sér embætti í sögu þess
1871 Leikritið Nýársnóttin eftir Indriða Einarsson fyrst sýnt - varð opnunarverk Þjóðleikhússins 1950
1897 Leikritið Cyrano de Bergerac, frumsýnt í París - er eitt af frægustu leikverkum í sögu Frakklands
1908 Jarðskjálfti í Messina á Sikiley verður 75.000 manns að bana - skjálftinn í Messina varð einn af stærstu jarðskjálftum aldarinnar og telst hiklaust einn af fimm stærstu og mannskæðustu á öldinni
1967 Borgarspítalinn í Fossvogi var tekinn í notkun - hann varð hluti af Landsspítalanum árið 1999
Snjallyrði dagsins
Hvert örstutt spor var auðnuspor með þér,
hvert andartak er tafðir þú hjá mér
við sólskinsstund og sæludraumur hár,
minn sáttmáli við guð um þúsund ár.
Hvað jafnast á við andardráttinn þinn?
Hve öll sú gleði er fyrr naut hugur minn,
er orði hljómlaus utangátta og tóm,
hjá undrinu að heyra þennan róm,
Hjá undri því, að líta lítinn fót,
í litlum skóm, og vita að heimsins grjót,
svo hart og sárt er honum fjarri enn,
og heimsins ráð sem brugga vondir menn,
Já vita eitthvað anda hér á jörð,
er ofan standi minni þakkargjörð,
í stundareilífð eina sumarnótt.
Ó alheimsljós, ó mynd sem hverfur skjótt
Halldór Kiljan Laxness skáld (1902-1998) (Hvert örstutt spor)
Breytt 18.9.2006 kl. 08:02 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
27.12.2004 | 02:31
Engin fyrirsögn

Ég vona að lesendur vefsins hafi haft það gott yfir jólin og hafi notið hátíðarinnar. Jólin hjá mér voru mjög hefðbundin og að mestu mjög lík því sem hefur verið í gegnum árin. Eins og vel hefur komið fram í fréttum var stórhríð og gekk á með miklum snjóbyl á aðfangadag og jóladag hér norðanlands, og því var lítið ferðaveður þessa daga og mikil ófærð eftir því sem leið á, áður en veðrinu slotaði hér í gær. Þrátt fyrir þennan veðurofsa og kuldann í veðrinu var haldið í fastar hefðir aðfangadagsins hjá minni fjölskyldu. Á aðfangadag var þrátt fyrir leiðindaveður farið í kirkjugarðinn til að vitja leiða látinna ættingja og ástvina og farið á eftir í kaffi til ömmu minnar. Þetta er hefð sem hefur verið í minni föðurfjölskyldu til fjölda ára og er fastur partur af aðfangadeginum. Kuldatíð og vont veður geta ekki komið í veg fyrir að farið sé í kirkjugarðinn til að vitja leiða þeirra sem hafa kvatt þessa jarðvist, enda mikilvægt að helga þeim hluta af hugsunum sínum. Þetta hefur alla tíð verið mikilvægt hjá okkur í fjölskyldunni. Ég get ekki haldið gleðileg jól nema að hafa sinnt þessu.
Um kvöldið eftir að hafa borðan góðan mat og tekið upp pakka og lesið þau fjölmörgu jólakort sem mér bárust var farið í miðnæturmessu í Akureyrarkirkju, kirkjuna mína. Sr. Jóna Lísa Þorsteinsdóttir predikaði. Hymnodia, kammerkór Akureyrarkirkju, söng undir stjórn Eyþórs Inga Jónssonar organista. Ég hef ávallt farið í kirkju á jólum. Það er að mínu mati nauðsynlegt að fara í messu og eiga þar notalega stund. Aðfangadagskvöld og upphaf jólanætur er sú stund um jól sem ég tel helgasta. Því er réttast að fara í messu þá. Vetrarveðrið breytti ekki heldur þessari hefð og þrátt fyrir kuldann og vont veður mætti nokkur fjöldi í kirkjuna og átti þar góða stund. Eftir athöfnina var haldið heim í Þórunnarstræti og var þá færð um bæinn tekin nokkuð að þyngjast. Að morgni jóladags var að mestu orðið ófært í bænum eftir vont veður um nóttina. Ekki var þó mikill snjór í bænum, en veðurhæðin var mikil og það rak því í skafla og safnaðist í snjóakistur. Aflýsa þurfti hátíðarmessum í Akureyrarkirkju og Glerárkirkju á jóladag. Stórhríðinni slotaði eftir hádegið á jóladag og fallegt jólaveður tók loks við. Mokaðar voru þá helstu umferðargötur bæjarins. Þessa daga var því bara haft það rólegt, notið kyrrðar hátíðarinnar og slappað af.

Í síðasta sunnudagspistli ársins 2004 sem birtist á vef mínum í gær, annan dag jóla, fjallaði ég um jólahátíðina, hér á Akureyri, og fór ennfremur yfir þær bækur sem ég hef litið í yfir hátíðirnar. Hef ég gegnum tíðina haft mikla ánægju af lestri góðra bóka. Fékk ég fjölmargar góðar bækur í jólagjöf, bæði ævisögur og skáldsögur. Söluhæsta bókin fyrir þessi jól var Kleifarvatn, eftir meistara íslenskra spennusagna, Arnald Indriðason. Seldist hún í metupplagi en rúmlega 23.000 eintök höfðu selst af bókinni skömmu fyrir jól. Las ég bókina nokkru fyrir jól og varð heillaður af henni. Þetta er svo sannarlega spennusagnabók á heimsmælikvarða, að mínu mati er þetta besta bók Arnaldar. Ánægjulegt er að Arnaldur hefur nú loks hlotið tilnefningu til Íslensku bókmenntaverðlaunanna. Hefur hann verið sniðgenginn seinustu ár, þrátt fyrir hvert meistaraverkið á eftir öðru. Nú er loks komið að því að hann fái tilnefningu og vona ég að hann fái verðlaunin, enda hiklaust um að ræða skáldsögu ársins. Í jólagjöf fékk ég tvær stórar og miklar ævisögur nóbelsskáldsins Halldórs Kiljans Laxness. Eru bæði ritin einkar vönduð og vel úr garði gerð og mikil vinna greinilega verið lögð í þær.
Hannes Hólmsteinn Gissurarson og Halldór Guðmundsson eiga mikið hrós skilið fyrir góð efnistök og áhugaverð í bókum sínum um skáldið. Kiljan, bók Hannesar Hólmsteins, er virkilega skemmtileg lesning og var mjög gaman að sökkva sér í hana að morgni jóladags og lesa hana að mestu leyti á jóladeginum. Hannes dregur í umfjöllun sinni saman mikinn og góðan fróðleik um skáldið. Bókin er heilsteyptari og ítarlegri en fyrsta bókin, sem fjallaði um bernskuár skáldsins og mótunarár hans, en hún var vissulega einnig mjög vönduð og umfangsmikil. Er það helst vegna þess að fjallað er um mikil hitamál á ferli skáldsins og mikinn umbrotatíma stjórnmálalega sem Halldór tengdist og Hannes býr yfir umtalsverðri þekkingu á. Bókin spannar 16 ár, sem er vissulega ekki langt tímabil á tæplega aldaræviskeiði skáldsins, en þessi ár voru stór og mikil á ferli Laxness og er hrein unun að sitja og lesa bókina og fara yfir allan þann fróðleik sem Hannes hefur tekið saman. Þessi bók er óneitanlega paradís fyrir þá sem unna sögunni, verkum Laxness og vandaðri frásögn.
Allt rennur þetta ljúflega saman og fullyrði ég að þetta er ein vandaðasta, ítarlegasta og áhugaverðasta ævisaga sem ég hef lesið og bíð ég því mjög spenntur næstu jóla og útgáfu þriðja og seinasta hlutans sem mun fjalla um seinustu 50 æviár skáldsins, frægðarárin hans mestu, 1948-1998. Hef ég nú hafið lestur á riti Halldórs Guðmundssonar um skáldið. Er frásögn hans mjög skemmtileg og farið á heillandi hátt yfir æviferil Halldórs, hefur bókin hlotið verðskuldaða tilnefningu til íslensku bókmenntaverðlaunanna og mun að öllum líkindum hljóta verðlaunin í sínum flokki. Halldór hefur í gegnum tíðina stúderað mjög ritferil og ævi nafna síns og gerði um hann þrjá vandaða heimildarþætti fyrir Ríkissjónvarpið sem sýndir voru í kjölfar andláts skáldsins í febrúar 1998 og fór þar vel yfir æviferil hans. Er frásögn Halldórs mjög fróðleg og umfjöllun hans mjög áhugaverð. Í samanburði við rit Hannesar, er þó athyglisvert að Halldór fer mun hraðar yfir, skautar yfir mikilvæga þætti sem Hannes víkur að og tekur mjög ítarlega fyrir og tengjast óbeinni þátttöku Halldórs í stjórnmálum. Af því leiðir að bók Halldórs er mun minna pólitísks eðlis og fjallar meira um rithöfundinn Laxness og áhrif hans á íslenskt skáldsagnarlíf á 20. öld og áhrif hans hér innanlands á samtíð sína og komandi kynslóðir.
Eru báðar bækurnar mjög áhugaverðar og er óhætt að fullyrða að ég hafi orðið margs vísari um feril Laxness eftir að hafa lesið bók Hannesar og lesið hluta bókar Halldórs og held áfram að lesa hana af miklum áhuga. Framundan er lestur fleiri bóka sem ég fékk í gjöf og eru í senn bæði áhugaverðar og spennandi. Fyrsta ber að telja forsætisráðherrabókina, æviágrip ráðherra og forsætisráðherra Íslands í 100 ára sögu heimastjórnar á Íslandi, 1904-2004. Endar bókin á ítarlegum kafla Styrmis Gunnarssonar ritstjóra, um Davíð Oddsson forsætisráðherra, 1991-2004. Hef ég aðeins lesið þann kafla núna og hlakka til að kynna mér betur aðra hluta bókarinnar. Við tekur svo lestur á vandaðri bók Matthíasar Johannessen, Málsvörn og minningar. Fékk ég nokkrar skáldsögur í gjöf, t.d. Sakleysingjana eftir Ólaf Jóhann Ólafsson, Fólkið í kjallaranum eftir Auði Jónsdóttur, 11 mínútur eftir Paulo Coelho, Baróninn eftir Þórarinn Eldjárn, Bítlaávarpið eftir Einar Má Guðmundsson og Samkvæmisleikir eftir Braga Ólafsson. Ekki veit ég hvenær ég kemst yfir allar þessar bækur til fulls, en ljóst er að mikill lestur er framundan og áhugaverður. Nú um helstu jóladagana hef ég helgað mig lestri á ævisögunum um Halldór Laxness, en það er ljóst að góð bókajól verða á mínu heimili.
Dagurinn í dag
1977 Breski leikarinn Sir Charles Chaplin jarðsunginn í Sviss - hann lést á jóladag, 88 ára að aldri
1979 Sovétríkin ná völdum í Afganistan og stjórnvöldum landsins var steypt af stóli. Leiddi það til blóðugra átaka, hörmunga og borgarastyrjaldar sem stóðu í landinu í rúma tvo áratugi með hléum
1985 Lík bandaríska náttúrufræðingsins Dian Fossey, finnst í Rwanda. Dian sem var 53 ára, var myrt
1986 Snorri Hjartarson skáld og bókavörður, lést, áttræður að aldri. Snorri var eitt lisfengasta skáld landsins og hlaut bókmenntaverðlaun Norðurlandaráðs 1981, fyrir bókina Hauströkkrið yfir mér
1988 Fyrsta bílnúmerið í nýju fastnúmerakerfi landsins, HP 741, var sett á bifreið dómsmálaráðherra
Snjallyrði dagsins
Ef ég sé þig
- þá er það ímyndun
Ef ég heyri í þér
- þá er það draumur
Ef ég hugsa um þig
- verður það minning
Þú kveiktir í mér, en vaktir tilfinningatár,
er þú kvaddir mig á fögrum sumardegi.
Sársaukinn verður alltaf nístingssár
en minningin fylgir mér á dimmri nóttu sem björtum degi.
Stefán Friðrik Stefánsson (Minningin) 1999
Breytt 18.9.2006 kl. 08:02 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
23.12.2004 | 17:00
Engin fyrirsögn

Framundan er hátíðlegasti tími ársins, trúarhátíð kristinna manna um allan heim. Jólin eru í senn hátíð ljóss og friðar. Á slíkri hátíðarstundu hugsum við flest hlýlega til okkar nánustu og fjölskyldur hittast og eiga saman notalega stund. Skammdegið er lýst upp með fallegum ljósum og skreytingum í tilefni hátíðarinnar. Jólin eru kjörið tækifæri til að slappa af; lesa góðar bækur, borða góðan mat og njóta lífsins. Jólin eru ánægjulegasti tími ársins. En aðventan getur hinsvegar verið öllu þungbærari. Fæstir nýta því miður desembermánuð til þess að bíða og hugleiða raunverulegan anda jólanna, eins og hugtakið aðventa vísar til. Því miður getur streitan sem fylgir ansi oft jólaundirbúningnum verið gífurleg. Fólk gleymir sér í skreytingum, jólakortaskrifum, jólabakstri, gjafakaupum og búðarrápi, svo fátt eitt sé nefnt.
Í slíku andrúmslofti, sem getur skapast við þess háttar aðstæður, er mjög brýnt að minnast þeirra sem að þarfnast hjálpar okkar með. Mörgum finnst það spilla heilagleika jólanna hversu snemma verslanir taka að kynna jólin og auglýsingamennskan vegna þeirra hefst. Dæmi má nefna að það var upp úr miðjum októbermánuði sem jólavörur fóru að verða áberandi í verslunum í Reykjavík. Í byrjun desember taka síðan jólaseríur heimilanna að prýða glugga íbúðarhúsanna. Þetta er orðin nokkuð venjubundin þróun og eftirtektarverð. Mörgum finnst að jólin komi með þessu of snemma og heilagleiki þeirra verði minni en ella. Ég er ekki sammála því. Mér finnst ekki óeðlilegt að jólatíminn lengist og verði áberandi þegar í nóvember sem dæmi. Einnig þykir mér gott að skreyta snemma og njóta jólaskrautsins lengur en einungis örfáa daga. Ég man að á mínum bernskuárum var jafnan skreytt á mínu heimili tveim eða þrem dögum fyrir jól, mér þótti það alltof seint og skreyti nú alltaf í byrjun desember, enda þykir mér gott að njóta þess að hafa jólalegt allan desembermánuð og lýsa upp svartasta skammdegið.

Á aðventunni og jólunum er mikilvægt að minnast ástvina og ættingja sem hafa kvatt þessa jarðvist og helga þeim hluta af hugsunum sínum, hvort sem um er að ræða ástvini sem hafa kvatt á árinu eða á seinustu árum. Ég fer alltaf fyrir jólin í garðinn hér og hugsa um leiðin sem tengjast mér eða minni fjölskyldu. Þetta er eitthvað sem ég tel mikilvægt. Ég get ekki haldið gleðileg jól, nema að hafa sinnt þessu. Gleði í sálinni fæst með svo mörgu, mest að ég tel með að gefa af sér, bæði kærleika og góðan hug til annarra. Kærleikur er ekki mældur í peningum, hann er ómetanlegur. Fólk nær aldrei árangri í lífi sínu nema með því að hugsa um aðra á mikilvægum stundum, gefa af sér einhvern hluta af góðu hjartalagi í það minnsta. Ég hef oft farið eftir þessu og það á best við á jólunum, á heilögustu stund ársins.

Í dag hef ég verið á fullu við að klára jólaundirbúninginn. Jólalegt er orðið hér í bænum og mikil jólastemmning. Veðrið hér norðan heiða hefur verið svosem ágætt síðasta sólarhringinn. Ljóst er að það verða hvít jól. Það er þónokkur kuldahrollur og hefur snjóað seinustu daga. Sýnist á nýjustu veðurspánum að það verði kuldatíð næstu daga. Gæti reyndar orðið frekar slæmt, ef allt rætist. Það er því þess eðlis veðrið að best sé að vera inni og hafa það notalegt, í jólaboðum, eða þá að lesa jólabækurnar, borða góðan mat eða þá horfa á sjónvarpið. Fór í dag í búðir við að klára að kaupa það sem eftir er. Að mestu var ég þó búinn að því sem gera þurfti fyrir jólin í byrjun mánaðarins. Jólaundirbúningurinn hefst venju samkvæmt hjá okkur mánuði fyrir jól með laufabrauðsgerð. Um mánaðarmótin er húsið alveg skreytt og skrifað á jólakort. Að því loknu keyptar gjafir. Í gær var farið að kaupa jólamat og klára tvær gjafir sem ég vildi bæta við. Var gríðarlegur fjöldi að versla í gær og nóg um að vera. Hitti maður mikinn fjölda fólks sem maður þekkir og átti gott spjall. Fórum við nokkur í tilefni afmælis míns í gær á Greifann og fengum okkur að borða. Þetta var annasamur en góður dagur. Ekkert jafnast annars á við að fá sér að borða á Greifanum, frábær veitingastaður sem ég fer oftast á þegar ég fer út að borða hér.
Húmorinn
As you know, Time magazine has named President Bush 'Person of the Year' -- quite an honor. Although I'm not sure Bush understands it. Like he said today, he can't decide if he wants the free travel alarm clock or the tote bag.
You know who else was being considered -- this is absolutely true -- Michael Moore, guy who did 'Fahrenheit 9/11.' Michael Moore was also being considered Time's 'Person of the Year.' Unfortunately, he couldn't fit on the cover.
Jay Leno
President Bush got an early Christmas gift. This week, President Bush was chosen as 'Person of the Year' by Time magazine. Not only that, Martha Stewart was chosen as person of the year by Doing Time magazine.
Today's USA Today features an editorial by Secretary of Defense Donald Rumsfeld defending the war in Iraq. You can tell it was written by Rumsfeld because the opening line of the editorial is 'shut your pie hole and listen.
Conan O'Brien
President Bush said that he is standing by Rumsfeld. And you know what that means, he'll be gone in a week.
President Bush began making cuts in the federal budget. And to help out, the Bush twins are switching to Rite Aid vodka.
The international space station is running low on food. They asked Defense Secretary Donald Rumsfeld about this. And Rumsfeld said, you go to space with the food you've got, not the food you want.
David Letterman
Dagurinn í dag
1193 Þorlákur Þórhallsson biskup í Skálholti, lést, sextugur að aldri. Helgi Þorláks var lögtekin á Alþingi 29. júní 1198 og ári síðar var messudagur hans ákveðinn 23. desember. Önnur messa hans er á fæðingardegi Þorláks, 20. júlí. Jóhannes Páll páfi II, staðfesti helgi Þorláks, þann 14. janúar 1984
1905 Páll Ólafsson skáld, lést, 78 ára að aldri. Páll var meðal allra bestu alþýðuskálda Íslendinga. Meðal þekktustu ljóða Páls voru t.d. Sumarkveðja (Ó blessuð vertu sumarsól) og Sólskríkjan
1936 Lestur á jólakveðjum hófst á Þorláksmessu í Ríkisútvarpinu. Frá 1933 hafði lesturinn farið fram á aðfangadag, en hefur allt frá 1936 verið á Þorláksmessu. Ómissandi þáttur í jólaundirbúningnum er að hlusta á lestur jólakveðjanna, sem berast af öllu landinu og erlendis og skreyttar með jólalögum
1958 Ríkisstjórn Emils Jónssonar tók við völdum - hún var minnihlutastjórn Alþýðuflokksins og sat að völdum í tæpt ár. Var undanfari að viðreisnarstjórn Sjálfstæðisflokks og Alþýðuflokks sem sat í 12 ár
1968 Til mikilla átaka kom í Reykjavík milli lögreglu og fólks sem hafði mótmælt Víetnamsstríðinu
Snjallyrði dagsins
Heims um ból, helg eru jól,
signuð mær son Guðs ól,
frelsun mannanna, frelsisins lind,
frumglæði ljóssins, en gjörvöll mannkind
meinvill í myrkrunum lá.
Heimi í hátíð er ný,
himneskt ljós lýsir ský,
liggur í jötunni lávarður heims,
lifandi brunnur hins andlega seims,
konungur lífs vors og ljóss.
Heyra má himnum í frá
englasöng: "Allelújá".
Friður á jörðu því faðirinn er
fús þeim að líkna, sem tilreiðir sér
samastað syninum hjá.
Sveinbjörn Egilsson rektor (1791-1852) (Heims um ból)
Ég sendi mínar bestu óskir um gleðilega jólahátíð til lesenda vefsins!
Breytt 18.9.2006 kl. 08:02 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
22.12.2004 | 14:18
Engin fyrirsögn

Eyfirðingar virðast hafa vaxandi áhuga fyrir samstarfi og sameiningu sveitarfélaga við fjörðinn, ef marka má niðurstöður könnunar sem Rannsóknastofnun Háskólans á Akureyri hefur gert. Reikna má með því að það verði lagt í dóm kjósenda á næsta ári hvort rétt sé að sameina sveitarfélögin 10 við fjörðinn í eitt öflugt og kraftmikið sveitarfélag. Yrði slík sameining að veruleika yrði til eitt stærsta sveitarfélag landsins, með tæplega 22.000 íbúa. Líst mér mjög vel á niðurstöður rannsóknarstofnunar Háskólans, hef ég kynnt mér helstu atriði hennar og farið yfir. Hef ég alla tíð verið mjög hlynntur því að sveitarfélög í Eyjafirði myndu sameinast í eitt og verið þeirrar skoðunar í tæpan áratug að það væri skynsamasta skrefið að stefna að því. Hefur ferlið gengið mun hraðar fyrir sig en ég þorði í upphafi að vona og mikið gleðiefni ef kosið verður um sameiningu allra sveitarfélaganna strax á næsta ári og sameining í firðinum því jafnvel orðin að veruleika fyrir næstu sveitarstjórnarkosningar. Í júní samþykktu Akureyringar og Hríseyingar að sameinast. Er að mínu mati um að ræða fyrsta skrefið á þeirri vegferð að Eyjafjörður verði eitt sveitarfélag og mikilvægt að hefja ferlið með þeim hætti að Hrísey og Akureyri yrðu eitt sveitarfélag.
Í hugum flestra Eyfirðinga er svæðið allt að verða ein heild, og ennfremur hætt að hugsa í gömlum hrepparíg um að þetta og eitt sé málefni eins svæðis og þetta komi afmörkuðum parti einungis við. Ég finn það á fólki sem býr út með firði og ég hef þekkt til fjölda ára að sameining sveitarfélaga á sér sífellt fleiri stuðningsmenn en verið hefur. Andstaðan hefur verið mikil við sameiningu í vissum sveitarfélögum út með firði, en hlutirnir eru að breytast, sem betur fer. Fólk er hætt að horfa til fortíðar, það horfir þess í stað fram á veginn og hugsar til framtíðar. Það eitt skiptir okkur hér máli að styrkja Eyjafjörð sem mótvægi við höfuðborgarsvæðið og gera það ákjósanlegt að búa hér og efla svæðið sem sterka heild. Enginn vafi er á því í mínum huga að fólk hér eigi að vinna sameinuð og taka höndum saman. Það er mikilvægt, mjög svo. Sjálfstæðisflokkurinn á Akureyri hefur markað sér þá stefnu að stuðlað verði að frekari sameiningu sveitarfélaga á svæðinu og okkur er því mikið ánægjuefni að fara yfir niðurstöður skýrslu RHA og það sem þar kemur fram. Hugmyndir hafa vaknað um sameiningu Eyjafjarðarsvæðisins og Siglufjarðar með tilkomu Héðinsfjarðarganga á komandi árum og ennfremur að þetta verði allt eitt atvinnusvæði. Það er stefnt að því í byggðaáætlun ríkisstjórnarinnar að svo verði og göngin mikilvægur þáttur í því ferli að þetta verði að veruleika. Að mínu mati mun sá dagur renna upp innan næsta áratugar að öll þessi sveitarfélög á þessu svæði sameinist. Eins og fyrr segir er ánægjuefni að þetta ferli gangi svo vel og stefni jafnvel í að þetta náist í gegn fyrir næstu kosningar.

Í lok pistilsins segir svo: "Á síðu Samfylkingarinnar hér í bæ er sagt að Vörður sé yfirlýsingaglatt félag og sagt að það sé gjarnan aðferð þeirra sem sitji í minnihluta að láta rödd sína heyrast. Ekki get ég sett mig í spor þeirra í minnihlutanum eða séð hlutina frá þeirra sjónarhorni. En hitt er þó jafnljóst að á meðan ég leiði félag ungra sjálfstæðismanna í bænum eða tek þátt í pólitísku starfi hér mun ég hafa skoðanir á málum, tjá þær af krafti á eigin heimasíðum, flokksvefnum eða í fjölmiðlum almennt og leitast við að vera sýnilegur í því að vera málsvari ungliðafélagsins hér og vinna fyrir flokkinn af krafti. Ég og við sem sitjum í stjórn félagsins erum í þessu starfi af áhuga og viljum vera virk í að hafa skoðanir og sýnileg við að tjá þær. Það er grundvallarsjónarmið af minni hálfu. Það er mikilvægt að hafa kraftmikið pólitískt starf svo þeir sem áhuga hafi á pólitík geti valið skoðunum sínum og pólitískum hugsjónum farveg og eigi vettvang. Það er mitt starf að tryggja það hér, og ég fagna öllum þeim sem vilja taka þátt með mér og hafa skoðanir á hitamálunum og tjá þær alveg óhikað og af krafti. Með því að tjá skoðanir okkar af krafti getum við haft áhrif á samfélag okkar og þá fylkingu sem við erum í. Hjá okkur er starfið opið og öllum er velkomið að taka þátt og hafa skoðanir og rökræða málin. Það gildir jafnt við um hugmyndir um blokkarbyggingu á Baldurshagareitnum, sem öll önnur."

Í dag fagna ég 27 ára afmæli mínu. Árin líða orðið heldur betur hratt. Í dag hef ég fengið mörg símtöl frá vinum og kunningjum, góðar kveðjur á MSN, góðar óskir og gjafir frá þeim sem ég þekki og eru mér nákomnir. Um síðustu helgi hélt ég upp á afmælið og bauð til mín nokkrum vinum og ættingjum. Það er alltaf gaman að finna fyrir góðum straumum og því að fólk muni eftir manni. Það er alltaf jafn ánægjulegt að finna fyrir því á degi sem þessum. Ég þakka öllum þeim sem mundu eftir deginum og komu til skila góðum heillaóskum og kveðjum. Jafnframt þakka ég líka þeim sem sendu mér tölvupóst í tilefni dagsins. Ég met þetta allt mjög mikils, annars er aldrei nægilega hægt að þakka fyrir eða meta til fulls að ég tel sanna og góða vináttu, en ekki virðist mér skorta vinina ef marka má þessi viðbrögð. Það var notalegt að finna fyrir hlýjum kveðjum og því að svo margir skyldu muna eftir deginum.
bestu kveðjur
Stefán Friðrik Stefánsson
Húmorinn
Yesterday, I received a Christmas card from Donald Rumsfeld in the mail. Would have been nice if he had actually signed it!
David Letterman
Congratulations to President George Bush, Time magazine named him the Person of the Year. And, of course, when he heard the news he was stunned. Bush said: 'I don't even subscribe to Time magazine.' ... I still don't think Bush quite gets it. Today he was asking people, 'So where is Ed McMahon with my big check?
President Bush got man of the year and in a related story John Kerry got a free copy of Entertainment Weekly.
Now here is the latest on Social Security. It looks like Donald Rumsfeld is about to start collecting it.
Jay Leno
Dagurinn í dag
1897 Klukka var sett upp í turni Dómkirkjunnar í Reykjavík - hún telur enn stundirnar fyrir borgarbúa
1989 Einræðisstjórn kommúnistaleiðtogans Nicolae Ceausescu fellur í Rúmeníu. Ceausescu-hjónin reyndu að flýja höfuðborgina Búkarest þegar sýnt var að uppreisn almennings yrði ekki stöðvuð með valdi lengur, en þau voru handsömuð skömmu síðar. Þau voru tekin af lífi eftir réttarhöld á jóladag
1989 Brandenborgar-hliðið í Berlín, sem skildi að austur- og vesturhluta Berlínarborgar opnað fyrir almenningi að nýju, eftir tæplega þriggja áratuga hlé, í kjölfar falls Berlínarmúrsins sem stóð í 28 ár
1991 Rússneska þingið staðfestir að Rússland verði sjálfstætt ríki og hluti af samveldi sjálfstæðra ríkja frá 1. janúar 1992. Með þessu var formlega staðfest að Sovétríkin heyrðu sögunni til, flest ríki landsins höfðu þá lýst yfir sjálfstæði sínu og staðfest það. Mikhail Gorbachev forseti Sovétríkjanna, stóð eftir valdalaus sem þjóðhöfðingi án ríkis í raun og veru. Hann tilkynnti formlega um afsögn sína í ávarpi til þjóðarinnar á jóladag og batt með því enda á vangaveltur um hvað yrði um pólitíska stöðu sína eftir þessi sögulegu þáttaskil. Gorbachev, sem hlaut friðarverðlaun Nóbels 1990, hætti í pólitík
2000 Halldór Kiljan Laxness rithöfundur, valinn maður aldarinnar í aldamótakönnun Gallup. Í sömu könnun var frú Vigdís Finnbogadóttir fyrrum forseti Íslands, valin kona aldarinnar. Davíð Oddsson forsætisráðherra og formaður Sjálfstæðisflokksins, var hinsvegar valinn stjórnmálamaður aldarinnar
Snjallyrði dagsins
Ó helga nótt, þín stjarna blikar blíða,
Þá barnið Jesús fæddist hér á jörð.
Í dauða myrkrum daprar þjóðir stríða,
uns Drottinn birtist sinni barna hjörð.
Nú glæstar vonir gleðja hrjáðar þjóðir
því Guðlegt ljós af háum himni skín.
Föllum á kné.
nú fagna himins englar,
Frá barnsins jötu blessun streymir,
blítt og hljótt til þín.
Ó helga nótt, ó heilaga nótt.
Vort trúar ljós, það veginn okkur vísi,
hjá vöggu Hans við stöndum hrærð og klökk
Og kyrrlát stjarna kvöldsins öllum lýsi,
er koma vilja hér í bæn og þökk.
Nú konungurinn Kristur Drottinn fæddist
hann kallar oss í bróður bæn til sín.
Föllum á kné,
nú fagna himins englar,
hjá lágum stalli lífsins kyndill,
ljóma, fagurt skín.
Ó helga nótt, Ó heilaga nótt.
Sigurður Björnsson (Ó, helga nótt)
Breytt 18.9.2006 kl. 08:02 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
21.12.2004 | 21:45
Engin fyrirsögn

Sl. föstudag sendum við í stjórn Varðar frá okkur ályktun um undarlega þingsályktunartillögu nokkurra þingmanna Samfylkingarinnar þess efnis að leggja bönn við auglýsingum á óhollum matvörum í fjölmiðlum til kl. 21:00 á kvöldin. Hefur ályktun okkar hlotið nokkra umfjöllun í blöðum sem og útvarpi. Í gær ræddi ég ályktunina og tengd málefni við þá Þorgeir Ástvaldsson og Kristófer Helgason í síðdegisþætti Bylgjunnar, Reykjavík síðdegis. Vildu þeir kynna sér skoðanir mínar og okkar í Verði betur, en þeir höfðu á föstudag rætt við einn af flutningsmönnum tillögunnar, Ástu Ragnheiði Jóhannesdóttur alþingismann Samfylkingarinnar. Tjáði ég í spjallinu það sem við blasir að í þessari tillögu er um að ræða allverulega frelsisskerðingu. Lagði ég áherslu á þann punkt málsins að fólk verði sjálft að standa vörð um heilsu sína, það væri út í hött að ríkið geri það með svona lagarömmum eins og lagt sé til. Gekk viðtalið vel og fórum við ítarlega yfir þetta og höfðu þeir greinilega mikinn áhuga á að heyra afstöðu ungra sjálfstæðismanna hér á Akureyri til málsins.
Þótti mér ekki verra að geta bætt í umfjöllun mína þeim ummælum Stefáns Jóns Hafsteins borgarfulltrúa og formanns framkvæmdastjórnar Samfylkingarinnar, í Íslandi í dag hjá Svansí og Þórhalli á föstudag, að tillagan væri illa ígrunduð. Fróðleg ummæli sem vert er að halda vel til haga. Er ekki hægt annað en að gera gott grín að þessu rugli þingmannanna. Vissulega má ræða matarvenjur Íslendinga, en hversvegna á ríkið að rétta upp hendina til að hafa áhrif á þessi mál? Þetta er algjörlega út í hött og algjör tímaskekkja á okkar tímum. Ríkið á semsagt að hugsa og gera allt fyrir alla, jafnvel að hafa áhrif á matarvenjur fólks. Alveg kostulegt rugl. Frelsið er meira virði en svo að menn geti með góðu samþykkt svona forræðishyggju og vitleysu. Samhliða umfjöllun sinni voru þeir Þorgeir og Kristófer með viðhorfskönnun á heimasíðu Bylgjunnar og þar kom fram að 59% væru andvíg tillögu þingmannanna en 41% hlynnt henni. Verð ég að viðurkenna að þeir sem styðja þessa svartagallsvitleysu forsjárhyggjumanna á vinstrivængnum eru fleiri en ég átti von á, enda er þessi tillaga að mínu mati svo absúrd að það hálfa væri miklu meira en alveg nóg. En vissulega er þetta bara viðhorfskönnun og vart áreiðanleg sem vilji þjóðarinnar, en ég tel ólíklegt að svo margir séu í raun hlynntir þessari tillögu. En eftir stendur að flestir flokka tillögu þessara þingmanna sem óraunhæft tal. Hefur sést á viðbrögðum flestra að hún fær þau eftirmæli umfram allt.

Í sunnudagspistli mínum á heimasíðunni, 28. nóvember sl. fjallaði ég um flugvallarmálið og fór yfir mikilvæga punkta tengda því. Þar kom fram það mat mitt að málefni flugvallarins væru verkefni og úrlausnarefni allra landsmanna, ekki bara afmarkaðs hóps í höfuðborg landsins. Tek ég undir ummæli Kristjáns Þórs Júlíussonar bæjarstjóra, í fjölmiðlum í gær þess efnis að aðalatriði málsins sé ekki staðsetning flugvallarins, hvar nákvæmlega við borgina hann sé, heldur að samgöngur til og frá höfuðborginni verði jafn greiðar og þær eru í dag. Borgarstjóri hefur sagt seinustu daga að það sé ekki spurning um hvort, heldur aðeins hvenær, innanlandsflugið flytjist frá Reykjavík til Keflavíkur. Er hún þar greinilega bara að tala máli hluta umbjóðenda sinna. Eins og allir vita er Reykjavík höfuðborg Íslands alls og því vantar henni greinilega ýmsar pælingar í myndina svo hún smelli saman. Mikilvægt er að tryggja tengingu höfuðborgarinnar við aðra hluta landsins. Ef Reykjavík verður komin úr samgöngupunkti landsbyggðarinnar breytist að mínu mati hlutverk hennar, það er reyndar óhjákvæmilegt að við á landsbyggðinni lítum borgina öðrum augum ef tengsl okkar við hana samgöngulega séð verða verri en nú er. Þessu verður nýr borgarstjóri að gera sér sem fyrst fulla grein fyrir.

Um jólin er viðeigandi að horfa á góðar úrvalsmyndir og sérstaklega við hæfi að horfa á góðar myndir sem fjalla um boðskap jólanna. Tvær þeirra standa upp úr í mínum huga og hafa alla tíð gert. Fjalla ég um þær nú.
Kvikmynd Frank Capra, It's a Wonderful Life er ein þekktasta fjölskyldumynd 20. aldarinnar, gleðigjafi fyrir alla heimsbyggðina allt frá frumsýningardegi. Mynd sem kemur manni ávallt í sannkallað jólaskap. Hér segir frá George Bailey sem eyðir ævi sinni í að fórna lífsdraumum sínum til að vinna í haginn fyrir bæinn sinn, Bedford Falls, og að lokum sér tækifæri sín renna í súginn. Myndin gerist á aðfangadag og horfir hann yfir ævi sína, komið er að tímamótum, hann er niðurbrotinn maður og til alls líklegur þegar jólahátíðin gengur í garð. Hann er orðinn þreyttur á því hvaða stefnu líf hans hefur tekið og gæti gripið til örþrifaráða. Til bjargar kemur verndarengill hans, Clarence, til að reyna að sýna honum fram að án hans hefði bærinn aldrei verið samur og að hann á marga að, fjölskyldu og fjölda vina. Hann sýnir honum lífið eins og það hefði verið ef hann hefði aldrei komið til og vonast til að með því verði hægt að snúa hlutunum við. James Stewart á stórleik í hlutverki George, að mínu mati er þetta ein af bestu leikframmistöðum hans á glæsilegum ferli. Ennfremur fara Donna Reed, Lionel Barrymore, Thomas Mitchell, Beulah Bondi, Henry Travers og Ward Bond á kostum. Tilnefnd til fimm óskarsverðlauna, þ.á m. sem mynd ársins, fyrir leikstjórn og leik Stewart. Ómótstæðilegt meistaraverk, sem á jafnt við árið 2004 og 1946. Sígildur boðskapurinn á alltaf við.

Áhugavert efni
Einnota eða teflon - pistill Fjólu Margrétar Hrafnkelsdóttur
Öllu má nú nafn gefa! - pistill Kristrúnar Lindar Birgisdóttur
Steinunn Valdís og R-listinn í orðaleikjum - pistill Vef-Þjóðviljans
Umfjöllun um ævisögu Hannesar Hafstein - pistill Vef-Þjóðviljans
Morð í Fallujah og ástandið í Írak - pistill Gísla Freys Valdórssonar
Dagurinn í dag
1945 Ölfusárbrú við Selfoss var opnuð til umferðar - var þá langstærsta og mesta brú sem byggð hafði verið hérlendis. Hún er 134 metra löng og leysti af hólmi eldri brú sem tekin var í notkun 1891
1952 Kveikt var á 15 metra háu jólatré á Austurvelli í Reykjavík. Þetta var fyrsta tréð sem Oslóarbúar gáfu Reykvíkingum. Frá þessu hefur það verið árleg hefð að tré komi þaðan sem gjöf til Reykvíkinga
1958 Charles De Gaulle hershöfðingi, kjörinn með miklum meirihluta sem forseti Frakklands, og hlaut mun meiri pólitísk völd en forverar hans. De Gaulle sat í embætti allt til ársins 1969, og lést 1970
1988 Flugvél Pan Am-flugfélagsins, á leið frá London til New York, sprakk í loft upp yfir smábænum Lockerbie á Skotlandi. 258 létust, þarmeð taldir allir farþegar vélarinnar og fólk á jörðu niðri er vélin hrapaði til jarðar. Líbýskir menn grönduðu vélinni og voru þeir handteknir og sóttir til saka 2001
1999 Þingsályktun um framkvæmdir við Fljótsdalsvirkjun var samþykkt á Alþingi. Síðar var fallið frá þessum áformum, sem kennd voru við Eyjabakka og ákveðið að stefna frekar að Kárahnjúkavirkjun
Snjallyrði dagsins
Nóttin var sú ágæt ein,
í allri veröld ljósið skein,
það er nú heimsins þrautarmein
að þekkja hann ei sem bæri
Með vísnasöng ég vögguna þína hræri.
Í Betlehem var það barnið fætt,
sem best hefur andar sárin grætt,
svo hafa englar um það rætt
sem endurlausnarinn væri.
Með vísnasöng ég vögguna þína hræri.
Fjármenn hrepptu fögnuð þann,
þeir fundu bæði Guð og mann,
í lágan stall var lagður hann,
þó lausnari heimsins væri.
Með vísnasöng ég vögguna þína hræri.
Lofið og dýrð á himnum hátt
honum með englum syngjum brátt,
friður á jörðu og fengin sátt,
fagni því menn sem bæri.
Með vísnasöng ég vögguna þína hræri.
Sr. Einar Sigurðsson frá Heydölum (1538-1626) (Nóttin var sú ágæt ein)
Breytt 18.9.2006 kl. 08:02 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
20.12.2004 | 23:59
Engin fyrirsögn

Undanfarna daga hefur mikið verið rætt hérlendis sem um allan heim um þá ákvörðun íslenskra stjórnvalda að veita Bobby Fischer fyrrum heimsmeistara í skák, dvalarleyfi hérlendis. Íslensk stjórnvöld ætla ekki að fara að hvatningu bandarískra stjórnvalda um að draga boðið til baka. Á fundi Davíðs Oddssonar utanríkisráðherra, með sendiherra Bandaríkjanna á Íslandi í dag, tjáði ráðherra honum að Fischer nyti mikils álits hérlendis og Ísland væri með boði sínu einungis að bregðast við með vísun til sögulegra tengsla við skákmanninn. Forsenda þeirrar ákvörðunar að vísa beiðninni ekki á bug væri sú að bandarísk stjórnvöld hefðu ekki krafist framsals Fischers frá Japan. Sagði Davíð við sendiherrann að möguleg brot Fischers gegn viðskiptabanni á fyrrum Júgóslavíu væru fyrnd skv. íslenskum lögum. Davíð óttast ekki að sú ákvörðun munu hafa áhrif á samskipti þjóðanni, og segist jafnframt reiðubúinn að láta á það reyna með formlegum hætti, krefjist bandarísk stjórnvöld þess að fá Fischer framseldan.
Er þetta mál vitnisburður um það hversu öflugur stjórnmálamaður Davíð er. Hann tekur ákvörðun, hikar aldrei og fer með málið alla leið og vinnur af krafti fyrir framgangi þess, hvað sem mögulega getur gerst. Staða málsins er með þeim hætti að afstaða okkar til þess liggur fyrir og óþarfi að hika eitthvað í framgangi þess. Ekki er fyllilega víst hvort Fischer kemur hingað til lands. Honum er þó mikið í mun um að komast hingað sem fyrst. Hann hefur ákveðið að falla frá málsókn á hendur japönskum stjórnvöldum, en þó ekki fyrr en tryggt verður að þau heimili honum að fara til Íslands. Sæmundur Pálsson trúnaðarvinur Fischers til fjölda ára, hyggst fara til Japans til að fylgja Fischer til landsins. Mál Fischers kemur upp á sama tíma og viðræður standa yfir milli íslenskra og bandarískra stjórnvalda um áframhaldandi veru varnarliðsins hér á landi. Það hefur ekki gerst áður að Íslendingar veiti manni landvistarleyfi sem bandarísk yfirvöld álíta vera eftirlýstan glæpamann og verður fróðlegt að fylgjast með framhaldi þess. Hvort Fischer komi til landsins veltur fyrst og fremst á japönskum stjórnvöldum. Hvort skákmeistarinn komi eður ei, ætti að ráðast á næstu dögum.

Deilur spruttu svo endanlega upp þegar í ljós kom að hann hefði til þessa látið prenta undirskrift sína á bréfum til ættingja þeirra rúmlega 1000 hermanna sem hafa fallið í átökunum í Írak og Afganistan. Hefur hann nú heitið að undirrita hvert einasta bréf með eigin hendi framvegis. Er þetta ekki eina dæmi þess að hart sé að honum sótt. Athygli vakti að þegar hann fór til hermanna í Kuwait að þar var hann gagnrýndur harkalega af hermönnum. Fullyrtu þeir þar að þeir fengju ekki þau vopn í hendur sem dygðu gegn uppreisnarmönnum í Írak og fullyrtu að ekkert væri aðhafst í Washington til að finna leiðir til að minna hættuna af jarðsprengjum á vegum og vegaslóðum í landinu sem uppreisnarmenn hefðu komið fyrir til að granda hermönnum. Notuðu margir áhrifamenn í bandarískri pólitík pólitísku helgarspjallþættina til að ráðast að ráðherranum og tjá andstöðu sína við verk hans. Hefur andstaðan komið vel fram í skoðanakönnunum. Í nýrri könnun Gallups fyrir CNN kemur í ljós að 52% landsmanna vilja að hann víkji af ráðherrastóli. Er ljóst að staða hans hefur skaddast verulega á skömmum tíma og er talið líklegt að hann muni aðeins sitja skamman hluta kjörtímabilsins í embætti.

Nýlega keypti ég mér bók Ómars Ragnarssonar, Kárahnjúkavirkjun - með og á móti, þar sem hann fer yfir kosti og galla Kárahnjúkavirkjunar. Ómar er landsmönnum vel þekktur, hann hefur verið til fjölda ára ötull í öllum fjölmiðlum, mikill flugmaður og náttúruunnandi en þekktastur þó væntanlega sem sjónvarpsmaður. Enginn vafi leikur á því að náttúra landsins er honum mikils virði. Í gegnum verk hans hefur komið fram hversu mjög hann ann íslenskri náttúru og sögu hennar. Nægir að líta á Stikluþætti hans sem löngu eru orðnir klassískir og þætti hans á seinustu árum, Fólk og firnindi. Hefur hann seinustu fimm árin sinnt mjög því áhugamáli sínu að fá fram umræðu um virkjun á Austurlandi og álver við Reyðarfjörð.
Kynnti hann þessi mál í mynd sinni: Á meðan land byggist, árið 2002 og heldur nú þeirri umfjöllun áfram í bókinni. Er hún sett þannig upp að mál eru greind í opnur og á annarri blaðsíðunni er farið yfir jákvæða punkta málsins en á hinni neikvæða, báðar skoðanir koma vel fram.
Er þessi bók mjög fróðleg lesning og ætti að vera áhugaverð öllum þeim sem hafa kynnt sér málið, þekkja til náttúru landsins og Austfjarða. Lengi hefur mér verið annt um Austurland, enda á ættir mínar að rekja þangað og tel nauðsynlegt að standa vörð um mannlíf þar. Þó að við Ómar séum ósammála um þetta mál, met ég það að hann reyni af krafti að tjá báðar skoðanir með þessum hætti og fái fram umræðu um það. Það er nefnilega það nauðsynlega við þetta, að fá umræðu um kosti og galla framkvæmdarinnar og þess sem gera þarf til að styrkja og efla Austfirðina. Enginn vafi er á því að virkjun við Kárahnjúka og álver við Reyðarfjörð eru gríðarlegur áfangi fyrir þjóðina. Það stefnir í nýtt og öflugt hagvaxtarskeið, atvinnuástand mun styrkjast verulega, kaupmáttur aukast og tekjur þjóðarbús og landsmanna hækka. Mikill uppgangur hefur verið á öllum sviðum á Austurlandi. Fór ég austur í Fjarðabyggð í sumar og þótti mjög ánægjulegt að sjá hversu vel gengur þar núna og að finna fyrir þeim mikla krafti sem býr í fólki þar og öllum framkvæmdum sem í gangi eru. Framkvæmdirnar þar styrkja Norðausturkjördæmi í heild og efla Austurland og síðast en ekki síst mannlífið í Fjarðabyggð. Það er því rétt að taka umræðuna um málið, en eftir stendur að kostirnir við framkvæmdina yfirgnæfa alla mögulega galla sem tíndir eru fram í bók þessari. Er enginn vafi á því að virkjun á Austurlandi og virkjun í Reyðarfirði er kraftmikil byggðaframkvæmd sem mun styrkja stöðu mála í kjördæminu til framtíðar.
Húmorinn
In his speech last night President Bush said this nation should never settle for mediocrity. Then he let Dick Cheney finish the speech.
Bill Clinton was walking through Central Park this week and a crowd gathered and began to ask him questions. And some one interrupted and said 'You were an embarrassment to the office of commander and chief.' Clinton fought right back and said 'Honey can we save this till we get home.'
Jay Leno
How about that Bernard Kerik, former police commissioner who was gonna be the head of Homeland Security. You know I think he would be a great Homeland Security director. He's had three wives and two mistresses. I mean he's used to fighting terrorism.
David Letterman
The first lady has had her staff put up 41 Christmas trees. Or, as President Bush said, one for each state.
Conan O'Brien
At his annual physical last week, the president found out he has gained six pounds over the last year and he has pledged to loose the weight as soon as possible. So, finding Osama bin Laden gets pushed even further down the to-do list.
Tina Fey (Saturday Night Live)
It was reported that while at the White House Christmas party first daughter Barbara Bush smashed her head on the dance floor when a friend she was dancing with dipped her to low. That friend - Captain Morgan.
Amy Poehler
Áhugavert efni
Þrjú stórlestarslys R-listans - pistill Vef-Þjóðviljans
Þú ert plebbi! - pistill Kára Allanssonar á vef Heimdallar
Tyrkland skrefi nær í átt að aðild að ESB - pistill Camillu Óskar Hákonardóttur
Dagurinn í dag
1930 Ríkisútvarpið tók formlega til starfa - útvarpað var í upphafi þrjá tíma á kvöldin, en eftir því sem árin liðu lengdist útsendingartíminn og er nú útvarpað á Rás 1 frá 6:45 til 01:00 að nóttu. Árið 1966 hóf RÚV rekstur fyrstu sjónvarpsstöðvar landsins og 1983 var svo stofnuð önnur útvarpsrás, Rás 2. Fyrsti útvarpsstjórinn var Jónas Þorbergsson, en núv. útvarpsstjóri er Markús Örn Antonsson
1973 Aðskilnaðarsamtök Baska, ETA, ráða Luis Carrero Blanco forsætisráðherra Spánar, af dögum í sprengjutilræði í Madrid - almenn þjóðarsorg var á Spáni vegna andláts hins sjötuga forsætisráðherra
1974 Snjóflóð féllu á Neskaupstað og ollu stórtjóni á mannvirkjum. 12 manns fórust í snjóflóðinu, margir voru grafnir lifandi upp úr snjónum. Tvítugur piltur bjargaðist eftir rúmlega 20 klukkustundir
1975 Kröflueldar hófust með miklu eldgosi í Leirhnjúki - gosið stóð allt fram til febrúarmánaðar 1976
1983 Kvótakerfi á fiskveiðar var samþykkt á Alþingi - kerfið sem varð umdeilt tók gildi 1. janúar 1984
Snjallyrði dagsins
Framtíð okkar svo fallvölt er,
fortíð leit hjá sem blær
jólanóttin er nú og hér.
Nóttin heilög og kær.
Glæddu jólagleði í þínu hjarta
gleymdu sorg og þraut
vittu til að vandamálin hverfa á braut.
Glæddu jólagleði í þínu hjarta
gjöf, sem dýrmætust er.
Í kærleika að kunna að gefa af sjálfum sér.
Hér og nú hjartkær vinafjöld
hjá oss eru í kvöld sem fyrr.
Jólabarn við oss brosir rótt
björt er jólanótt, hljóð og kyrr.
Ómar Ragnarsson (Glæddu jólagleði í þínu hjarta)
Breytt 18.9.2006 kl. 08:02 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
19.12.2004 | 23:56
Engin fyrirsögn

Að þessu sinni fjalla ég um skipan nefndar sem vinna á að tillögum um endurskoðun á stjórnarskrá lýðveldisins Íslands. Er mikilvægt að nefnd vinni að þessu máli og fari yfir stöðu stjórnarskrárinnar og vinni að breytingum á henni í takt við tímann. Blasir við að margt í stjórnarskránni megi stokka upp og færa til betri vegar. Til fjölda ára hefur skort pólitískan kjark til að hrinda úr vör þessu ferli, opna málið og ræða málefni stjórnarskrár með opnum huga og ræða nauðsynlegar breytingar, sem verða að eiga sér stað í samræmi við nútímann, vinna að sjálfsagðri endurskoðun á stjórnarskrá. Fagna ég því að þessi vinna hefjist nú og ferlið sé komið af stað. Nauðsynlegt er nú því að taka umræðuna, stokka upp umdeildar greinar í stjórnarskránni, fá fram pólitíska og almenna umræðu um málin og fá fram vangaveltur nútímans til hinnar 60 ára gömlu stjórnarskrár og færa mikilvæg atriði til nútímans og breyta þeim sem þarf að stokka upp. Öll umræða um þessi mál á árinu hafa afhjúpað hversu 26. greinin er ófullkomin og mikilvægt að taka nú á öllum vafaatriðum tengda henni.
Halldór Ásgrímsson forsætisráðherra, og Sigmund Jóhannsson skopmyndateiknari, undirrituðu í Vestmannaeyjum í vikunni, samning um kaup ríkisins á öllum skopmyndum Sigmunds sem birst hafa á síðum Morgunblaðsins sl. 40 ár. Með því eignast ríkið allan rétt af þessum myndum og munu þær verða allar myndaðar og komið í tölvutækt form þar sem öll þjóðin getur haft aðgang að þeim. Komið hefur fram í fjölmiðlum að hugmyndin sé að varðveita frumritin að myndunum á sérstöku Sigmund-safni sem verði hluti af menningarhúsi sem rísa á í Vestmannaeyjum. Persónulega hef ég alla tíð borið mikla virðingu fyrir framlagi Sigmunds til þjóðmálaumræðunnar og oft skemmt mér vel yfir myndum hans. Hef ég jafnan keypt bækur sem gefnar hafa verið út með myndum hans og kynnt mér því vel feril hans og verk allt frá upphafi, og þótt mikið til koma. Hinsvegar vekur þessi samningur um kaup ríkisins á myndum hans upp margar spurningar og undrun margra, a.m.k. mína. Að lokum fjalla ég um þá ákvörðun íslenskra stjórnvalda að veita Bobby Fischer, fyrrum heimsmeistara í skák, landvistarleyfi á Íslandi. Lýsi ég yfir ánægju minni með þá ákvörðun að íslensk stjórnvöld styðji við bakið á Fischer og aðstoði hann við það að koma fótunum undir sig og líf sitt aftur, en líf hans hefur verið ein sorgarsaga á undanförnum áratug.

George W. Bush forseti Bandaríkjanna, hefur verið valinn maður ársins 2004 af tímaritinu TIME. Þetta er í annað skiptið sem forsetinn hlýtur nafnbótina. Hann var valinn maður ársins 2000, skömmu eftir að hafa unnið nauman sigur í umdeildum og sögulegum forsetakosningum í Bandaríkjunum. Í umsögn blaðsins segir að forsetinn hafi verið valinn vegna þess að honum tókst að ná endurkjöri með því að hljóta rúmlega helming greiddra atkvæða og að hafa náð að efla stöðu sína fyrir kosningarnar með afgerandi hætti og að ná til hins almenna landsmanna og með því styrkt leiðtogaímynd sína. TIME kemur út á morgun og verður þar ítarlegt viðtal við forsetann, föður hans og manninn á bakvið stjórnmálaferil forsetans, Karl Rove. Þar segir forsetinn að hann þakki sigur sinn helst utanríkismálastefnu sinni og þeim stríðum, sem hann hóf í Afganistan og Írak.
Í viðtali á CNN í dag sagði Jim Kelly ritstjóri blaðsins, að Bush forseti, væri áhrifamikill en jafnframt umdeildur maður í heimalandi sínu og um allan heim og það væri t.d. ein af ástæðum þess að hann hefði verið valinn sem maður ársins, öðru sinni. Hann hefði verið sá maður á árinu sem öll umræða hefði snúist um. Sigur hans hefði svo verið toppurinn á velheppnuðu ári af hans hálfu. Valið hefði því verið erfitt. Óhætt er að taka undir þetta mat. Bush er sá einstaklingur sem hefur verið mest í fréttum um allan heim á árinu, verið mest umdeildur, allt að því hataður og jafnt dýrkaður víða. Fáir ef nokkrir menn hafa vakið sterkari viðbrögð á seinustu áratugum, eða verið jafnumdeildir og beittari sem persónur. Þrátt fyrir að hafa vakið jafnsterk viðbrögð tókst óvildarmönnum hans ekki að fella hann, sem segir margt um stöðu hans. Time hefur sex sinnum áður tvívegis valið sama forsetann mann ársins. Áður hafa Harry Truman, Dwight D. Eisenhower, Richard Nixon, Ronald Reagan, Lyndon B. Johnson og Bill Clinton hlotið þessa nafnbót tvisvar. Franklin D. Roosevelt var kjörinn maður ársins alls þrisvar sinnum, einn forseta landsins.
Dagurinn í dag
1901 Tólf hús brunnu í miklum bruna á Akureyri og rúmlega fimmtíu manns urðu þá heimilislausir
1956 Lög um bann við hnefaleikum voru samþykkt á Alþingi - samkvæmt því var bönnuð öll keppni eða sýning á hnefaleikum hérlendis. Ólympískir hnefaleikar voru leyfðir að nýju á Íslandi árið 2001
1969 Aðild Íslands að EFTA, Fríverslunarsamtökum Evrópu, var samþykkt á Alþingi - tók gildi 1970
1984 Bretar og Kínverjar undirrita samkomulag þess efnis að Kína taki við stjórn Hong Kong af Bretum 1. júlí 1997 - valdaskiptin fóru fram eins og samið var um og með því lauk 150 ára stjórn Breta
2000 Hæstiréttur dæmdi að tekjuskerðing örorkubóta vegna tekna maka væri ólögleg - dómurinn sem var sögulegur, leiddi til þess að stjórnin breytti lögum um örorkugreiðslu og fyrirkomulag þeirra
Snjallyrði dagsins
Ljósadýrð loftin gyllir
lítið hús yndi fyllir
og hugurinn heimleiðis leitar því æ
man ég þá er hátíð var í bæ.
Ungan dreng ljósin laða
litla snót geislum baðar
Ég man það svo lengi sem lifað ég fæ
lífið þá er hátíð var í bæ.
Ólafur Gaukur Þórhallsson (Hátíð í bæ)
Breytt 18.9.2006 kl. 08:02 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
17.12.2004 | 13:12
Engin fyrirsögn

George W. Bush forseti Bandaríkjanna, undirritaði í dag nýtt leyniþjónustufrumvarp sem hefur verið samþykkt af bandaríska þinginu. Mun því vera ætlað að styrkja og efla leyniþjónustu landsins og koma í kjölfar frekari breytinga sem gerðar hafa verið á vörnum landsins í kjölfar hryðjuverkanna 11. september 2001 og vera framhald af fyrri lögum, t.d. The Patriot Act. Jafnframt hefur forsetinn nú kynnt að hugmyndir í þá átt að stokka upp heilbrigðiskerfi Bandaríkjanna og tryggingakerfið og sagt að það verði eitt helsta málefni næstu ára af hálfu stjórnar sinnar. Kynnti hann hugmyndir í þessa átt í kosningabaráttunni fyrr á árinu og var mjög rætt um það mál í baráttunni og var það eitt af helstu málunum sem hann og keppinautur hans í kosningunum, John Kerry, deildu um af krafti, í kappræðum og á kosningafundum. Búast má við að tillögur forsetans veki litla hrifningu í röðum demókrata og hafa nýr leiðtogi flokksins í öldungadeildinni, Harry Reid, og Hillary Rodham Clinton, helsti málsvari demókrataflokksins í heilbrigðismálum í öldungadeildinni, tjáð andstöðu við tillögur forsetans og stefnu hans.
Bush forseti, mun sverja embættiseið fyrir næsta kjörtímabil, fimmtudaginn 20. janúar nk. Bandaríska kjörmannasamkundan samþykkti formlega kjör hans til embættisins 13. desember sl. á fundi í þinghúsinu og munu deildir Bandaríkjaþings formlega staðfesta það val 6. janúar nk. Deilur hafa verið að undanförnu um úrslit kosninganna í Ohio-fylki og höfðu nokkrir frambjóðendur sem hlutu innan við prósent í fylkinu kært úrslit kosninganna og krafist endurtalningar í fylkinu, studdu demókratar þá kröfu en tóku ekki beint þátt í henni. Hæstiréttur fylkisins hafnaði þeim málaleitunum í gær og er því ljóst að fátt getur komið í veg fyrir að Bush fái þá 20 kjörmenn sem fylkið ræður yfir. Þegar hefur þeim formlega verið úthlutað og kosið í þeirra nafni svo litlar sem engar líkur eru á að hægt verði fyrir andstæðinga forsetans að hnekkja úrslitunum og þessari niðurstöðu að hann vann í Ohio. Munurinn er það mikill að ekki þarf endurtalningu skv. lögum og verða andstæðingar forsetans að sætta sig við úrslitin. Sigur forsetans í kosningunum, bæði á landsvísu og í kjörmannasamkundunni er staðreynd. Af 15 ráðherrum Bush láta 9 þeirra af störfum er seinna kjörtímabilið hefst. Skipað hefur verið í allar stöður nema öryggismálaráðuneytið, sem áður var ætlað Bernard Kerik. Er þetta mesta uppstokkun í ríkisstjórn Bandaríkjanna frá endurkjöri Richard Nixon 1972, en 9 ráðherra hans hættu þá eins og nú.

Fyrstu þættirnir sem sýndir voru í desember 1989 og janúar 1990 áttu einungis að verða prufuþættir, til að kanna hvort þeir myndu ná einhverjum vinsældum. Þeir slógu í gegn og eftir það var ákveðið að klára 24 þátta seríu fram á árið 1990 til að kanna hvort eftirspurn yrði eftir frekari þáttum um fjölskylduna. Söguna þekkja allir, þættirnir ganga enn og vinsældirnar hafa eins og fyrr segir ekkert dalað. Þátturinn hefur náð athygli almennings og verið miðpunktur í lífi fólks allan tímann og hafa á þessum eina og hálfa áratug eignast breiðan áhorfenda- og aðdáendahóp. Samningur um gerð þáttanna stendur til ársloka 2005. Verður þá tekin ákvörðun um frekari þáttagerð og bendir fátt til þess að hann hætti þá göngu sinni. Simpson-fjölskyldan varð til í kolli Matt Groening árið 1987 og vann hann hugmyndina ítarlega áður en framleiðsla hófst formlega. Groening hefur eins og vænta má auðgast mjög á gerð þáttanna og er enn í dag einn af aðalhandritshöfundum þeirra og yfirstjórnendum. Hef ég fylgst með þáttunum vel allt frá byrjun, óneitanlega er Simpson-fjölskyldan eitt af því sem mín kynslóð og þær sem á eftir hafa komið hafa alist upp við. Simpson-fjölskyldan er án vafa eitt af táknum tíunda áratugar 20. aldarinnar.

Ný stjórn Varðar kom saman til síns fyrsta fundar undir minni stjórn í gærkvöldi. Á fundinum skipti stjórnin með sér verkum og ræddi starf félagsins á komandi ári. Á fundinum voru samþykktar eftirfarandi ályktanir:
Vörður, félag ungra sjálfstæðismanna á Akureyri, lýsir yfir undrun sinni á þeirri forræðishyggju sem fram kemur í tillögu þingmanna Samfylkingarinnar um að leggja bönn við auglýsingum á óhollum matvörum í fjölmiðlum, sem lögð hefur verið fram á þingi. Leitt er að ávallt sé að forræðishyggja sé svo ofarlega í huga vinstrimanna. Alltaf þarf að hafa vit fyrir fólki, hvað það gerir í sínu einkalífi. Segja má með sanni að þarna sýni Samfylkingin loks sitt eina og rétta andlit. Um er að ræða allverulega frelsisskerðingu í frumvarpinu. Fólk verður að standa sjálft vörð um heilsu sína, það er út í hött að ríkið geri það með svona lagarömmum eins og lagt er til.
Vörður, félag ungra sjálfstæðismanna á Akureyri, lýsir yfir stuðningi sínum við byggingu 7 hæða íbúðarhúsnæðis á Baldurshagareitnum. Þó þykir félaginu leitt að hætt hafi verið hugmyndir um byggingu 12 hæða byggingar á reitnum. Fram hefur komið í fjölmiðlum mikill áhugi fólks á að búa á þessum stað. Ekki þarf að undrast það, stutt er í verslanir og miðbæinn. Um er að ræða hjarta bæjarins, fólk vill búa á þeim slóðum sé þess kostur. Félagið fagnar öllum þeim sem sjá sér hag í að koma fram með hugmyndir um uppbyggingu bæjarins, hversu djarfar sem þær geta talist.
Vörður, félag ungra sjálfstæðismanna á Akureyri, telur að gott aðgengi fyrir alla að byggingum þar sem fram fer þjónustustarfsemi, sé ein af grundvallarforsendum jafnréttis í íslensku samfélagi. Vörður telur að aldrei megi bregða út af þeim lögum og reglum sem um þetta gilda og hver sem verði uppvís að slíku við ákvarðanatöku eigi að sæta ábyrgð, enda sé slík ákvarðanataka ámælisverð.
Húmorinn
Bernard Kerik says he is sorry he'll not be able to be head of Homeland Security. He said with a wife and two mistresses he just doesn't have the time. He hired a nanny that may have been an illegal alien. He had a number of mistresses and may have had mob ties. That makes you feel secure! I mean, we can't even do a background check on the guy who is supposed to be in charge of background checks.
President Bush awarded the Medal of Freedom to former CIA director George Tenet. Remember the country went to war on his absolute guarantee that Iraq had weapons of mass destruction - a 'slam dunk.' Of course, it turned out that the information was completely wrong. And today Dan Rather asked 'Hey, where is my medal?'
One reason the Bernard Kerik nomination looked good is Democrats like Hillary Clinton praised him. Hillary thought he would do a good job. That's unusual -- Hillary looking the other way for a guy who's been fooling with his wife.
One of President Bush's daughters, Jenna, is going to teach at a public school in DC. She is going to probably teach English. In a related story, Dick Cheney's daughter is going to teach phys ed.
Jay Leno
Turns out Bernard Kerik had three wives, two mistresses and several girlfriends and every cent he earned was for Viagra.
David Letterman
Áhugavert efni
Óholl Samfylking - pistill Friðjóns R. Friðjónssonar
Einkaframtakið lifi - pistill Stefaníu Sigurðardóttur
Hvað varð um forgangsröðunina? - pistill Maríu Sigrúnar Hilmarsdóttur
Dagurinn í dag
1843 Bókin A Christmas Carol eftir Charles Dickens kom út í fyrsta skipti - ein þekktasta jólasagan
1982 Lee J. Strasberg lést, áttræður að aldri. Strasberg var fremsti leiklistarkennari Bandaríkjanna á 20. öld og kenndi mörgum af helstu leikurum landsins á öldinni, t.d. Marlon Brando, Robert DeNiro, Geraldine Page, Paul Newman, Al Pacino, Marilyn Monroe, Jane Fonda, James Dean, Dustin Hoffman og Jack Nicholson. Aðeins sjö sinnum lék hann sjálfur hlutverk í kvikmynd. Þeirra þekktast er án nokkurs vafa hlutverk mafíuhöfðingjans aldna, Hyman Roth, í The Godfather: Part II árið 1974
1989 Fyrsti þátturinn í teiknimyndaflokknum Simpson-fjölskyldan sýndur í bandarísku sjónvarpi. Þátturinn gengur enn, nú 15 árum síðar, og er orðinn einn lífseigasti framhaldsþáttur Bandaríkjanna
1998 Umdeilt frumvarp Ingibjargar Pálmadóttur um gagnagrunn á heilbrigðissviði var samþykkt á Alþingi með 37 atkvæðum gegn 20. Stjórnarandstæðingar sökuðu stjórnina um gerræði í málinu
2003 Kvikmyndin The Lord of the Rings: The Return of the King, sem var byggð á þriðja og seinasta hluta Hringadróttinssögu eftir J. R. R. Tolkien, frumsýnd í London - hlaut 11 óskarsverðlaun 2004
Morgundagurinn
1897 Fyrsta sýningin hjá Leikfélagi Reykjavíkur - sýndir voru þá á sviði Iðnó tveir danskir leikþættir
1958 Spámaðurinn, lífsspeki í ljóðum eftir Kahlil Gibran, kom út í íslenskri þýðingu eftir Gunnar Dal. Bókin hefur síðan verið gefin út 12 sinnum og hefur selst hérlendis í alls fjörutíu þúsund eintökum
1982 Kvikmyndin Með allt á hreinu, var frumsýnd. Ágúst Guðmundsson leikstýrði myndinni og í aðalhlutverkum voru hljómsveitirnar Stuðmenn og Grýlurnar. Myndin sló öll aðsóknarmet og um 115.000 Íslendingar sáu hana í bíó. Framhaldsmynd, Í takt við tímann, verður frumsýnd jólin 2004
1997 Frumvarp um að Skotland fái eigið þing og heimastjórn kynnt í Glasgow. Áður höfðu Skotar samþykkt heimastjórn í þjóðaratkvæðagreiðslu. Donald Dewar varð fyrsti forsætisráðherra landsins
1998 Eldgos hófst í Grímsvötnum í Vatnajökli, hið sextugasta síðan árið 1200, stóð það í rúma viku. Í upphafi náði mökkur frá eldstöðvunum upp í 10 kílómetra hæð og öskufalls varð vart norðanlands
Snjallyrði dagsins
Jólin, jólin alls staðar
með jólagleði og gjafirnar.
Börnin stóreyg standa hjá
og stara jólaljósin á.
Jólaklukka boðskap ber
um bjarta framtíð handa þér
og brátt á himni hækkar sól,
við höldum heilög jól.
Jóhanna G. Erlingsson (Jólin allsstaðar)
Breytt 18.9.2006 kl. 08:02 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
16.12.2004 | 19:27
Engin fyrirsögn

Utanríkisráðuneytið tilkynnti í gær að stjórnvöld hefðu ákveðið að veita Bobby Fischer fyrrum heimsmeistara í skák, dvalarleyfi hér á landi en hann hefur verið í gæsluvarðhaldi í Japan frá því um miðjan júlímánuð. Bandarísk yfirvöld hafa óskað eftir því að fá Fischer framseldan til Bandaríkjanna, en þar á hann yfir höfði sér allt að 10 ára fangelsi fyrir að hafa brotið viðskiptabann Bandaríkjanna gegn Júgóslavíu með því að tefla við Boris Spassky í Belgrad árið 1992. Síðan hefur Fischer verið á flótta og ekki farið til Bandaríkjanna. Í fréttatilkynningu frá utanríkisráðuneytinu í gær kom fram að þessi ákvörðun Davíðs Oddssonar utanríkisráðherra, verði staðfest af Útlendingastofnun fljótlega og að sendiráði Íslands í Japan verði gert að aðstoða Fischer við að komast hingað til lands, óski hann þess. Þau samtök sem hér hafa verið stofnuð til að hjálpa Fischer í baráttu sinni fyrir því að komast til landsins fögnuðu mjög niðurstöðu ráðherrans og Garðar Sverrisson formaður Öryrkjabandalagsins og einn talsmanna hópsins, sagði þetta marka söguleg þáttaskil og hrósaði hann Davíð mjög í Kastljósviðtali í gærkvöldi.
Lýsi ég yfir ánægju minni með þá ákvörðun að íslensk stjórnvöld styðji við bakið á Fischer og aðstoði hann við það að koma fótunum undir sig og líf sitt aftur, en líf hans hefur verið ein sorgarsaga á undanförnum áratug. Ef til þess kæmi að japönsk stjórnvöld féllust á að hleypa Fischer til Íslands, yrði hann fyrst að fella niður áfrýjunarmál fyrir japönskum rétti þar sem hann óskar þess meðal annars að fá stöðu sem flóttamaður í Japan. Fischer óskaði eftir hæli hér á landi í bréfi til utanríkisráðherra, fyrir um tveimur vikum. Bandarísk yfirvöld hafa óskað eftir því að fá Fischer framseldan til Bandaríkjanna en Japanar segja mögulegt að honum verði í staðinn vísað úr landi og sendur hingað. Venjan er hinsvegar sú að ef mönnum er vísað úr landi, þá er þeim vísað til þess lands sem þeir hafa ríkisfang í, en sem kunnugt er hefur Fischer afsalað sér bandarískum ríkisborgararétti. Utanríkisráðherra sagði við sendiherra Bandaríkjanna á fundi þeirra í gær að ákvörðunin hefði verið tekin af mannúðarástæðum og vegna þess að það væru að koma jól. Allir helstu fjölmiðlar heims hafa í dag fjallað um tilboð íslenskra stjórnvalda um dvalarleyfi til handa Fischer og er óhætt að fullyrða að ákvörðunin hafi náð athygli umheimsins.

Blunkett, sem er blindur, hefur í hyggju að halda áfram í stjórnmálum og mun sækjast eftir endurkjöri í kjördæmi sínu í næstu kosningum og situr áfram á þingi þó hann hafi misst ráðherrastólinn. Afsögn Blunketts kom eins og fyrr segir í kjölfar ásakana um að hann hefði beitt sér fyrir því að barnfóstra fyrrum ástkonu hans fengi landvistarleyfi með hraði. Að auki voru safaríkar fréttir af einkalífi Blunketts mjög áberandi á síðum breskra dagblaða, en ástkonan var gift og telur Blunkett sig vera föður tveggja ára sonar hennar og barns sem hún ber undir belti. Hefur hann höfðað faðernismál til að fá úr því skorið. Blunkett segist ekki hafa sagt af sér vegna máls barnfóstrunnar, enda hafi komið í ljós að ekkert væri hæft í ásökunum um að hann hefði gert eitthvað rangt í þeim efnum. Hinsvegar hefði hann séð að faðernismálið myndi skaða stjórnmálaferil hans, og því ákveðið að gefa embættið frekar upp á bátinn heldur en börnin tvö. Þykja þær skýringar vart trúverðugar og mun líklegra að forsætisráðherrann hafi ákveðið að sparka honum, enda enginn annar vænlegur kostur í stöðunni.
Húmorinn
The Bernard Kerik scandal is getting worse and worse. Since Kerik withdrew from his Homeland Security Director nomination it has been revealed that he has had a secret marriage, two mistresses and worked for a mafia-related company. As a result Kerik has been given a role on 'Desperate House Wives.
Conan O'Brien
President Bush had his annual physical over the weekend and Dick Cheney had his annual autopsy. The doctor told Bush his health was A-okay and Bush told him flat out 'Don't give me all the medical jargon. Give it to me in terms I can understand.
The Army gives free breast implants to our female soldiers. We don't have enough armor for our troops but we can give them breast implants. I say we make the implants out of kevlar so then they can be out on the front lines
The trade deficit swelled to an all time high of $55.5 billion. Do you know what our number one export is now? National Guard troops.
Jay Leno
This is the six-year anniversary of Bill Clinton's impeachment. I think we all know where we were when we heard that he was being impeached. And I know where he was -- he was at his desk in the oval office having sex.
David Letterman
Áhugavert efni
Um kaup ríkisins á myndum Sigmund - pistill Vef-Þjóðviljans
Ódýari lán fyrir húsnæðiskaupendur - pistill Péturs Árna Jónssonar
Uppáhaldsstjórnmálamaðurinn minn: Alain Madelin - pistill Sindra Guðjónssonar
Bobby Fischer boðið hæli á Íslandi
Yushchenko telur að úkraínsk stjórnvöld hafi reynt að drepa sig
Dagurinn í dag
1879 Ingibjörg Einarsdóttir, eiginkona Jóns Sigurðssonar forseta, lést í Kaupmannahöfn, 75 ára að aldri. Hún lést aðeins 9 dögum á eftir Jóni. Ingibjörg og Jón voru jarðsungin í Reykjavík 4. maí 1880
1916 Framsóknarflokkurinn var stofnaður - hann var frá upphafi tengdur búnaðarsamtökunum. Fyrsti formaður flokksins var Ólafur Briem, núv. formaður er Halldór Ásgrímsson forsætisráðherra
1942 Ríkisstjórn Björns Þórðarsonar, utanþingsstjórnin, tók við völdum - hún sat í tæplega tvö ár
1984 Mikhail Gorbachev síðar leiðtogi Sovétríkjanna, kemur til London og á viðræður við Margaret Thatcher forsætisráðherra Bretlands - viðræðurnar þóttu takast vel og urðu samskipti landanna betri
1989 Uppreisn stjórnarandstöðunnar í Rúmeníu hefst formlega - hún leiddi til falls stjórnar landsins
Snjallyrði dagsins
Ég man þau jólin, mild og góð
er mjallhvít jörð í ljóma stóð.
Stöfum stjörnum bláum,
frá himni háum
í fjarska kirkjuklukknahljóm.
Ég man þau jól, hinn milda frið
á mínum jólakortum bið
að ævinlega eignist þið
heiða daga, helgan jólafrið.
Stefán Jónsson alþingismaður og skáld (1923-1990) (Hvít jól)
Breytt 18.9.2006 kl. 08:02 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
15.12.2004 | 14:48
Engin fyrirsögn

Bæjarstjórn Akureyrar ákvað á fundi sínum í gær að hafna þeirri tillögu sem gerði ráð fyrir 12 hæða húsi á Baldurshagareitnum við Þórunnarstræti. Lagði Kristján Þór Júlíusson bæjarstjóri, fram tillögu þar sem bæjarstjórn vísar málinu aftur til umhverfisráðs með tilmælum um að það láti skipuleggja reitinn með það að markmiði að í stað 12 hæða byggingar verði frekar gert ráð fyrir 40 íbúða byggð, allt að 7 hæðum, á lóðinni við Baldurshaga. Seinustu mánuði hefur málefni Baldurshagareitsins verið eitt helsta umræðuefni í bæjarmálum hér. Á fundi bæjarstjórnar, 10. ágúst sl. samþykkti meirihluti bæjarfulltrúa að heimila verktaka að láta gera deiluskipulag á lóðinni, á fundi þann 5. október sl. samþykkti svo bæjarstjórn tillögu umhverfisráðs um breytingu á aðalskipulagi svæðisins umhverfis Baldurshaga sem gerði ráð fyrir að breyta óbyggðu svæði og almennu útivistarsvæði í íbúðarsvæði. Fór tillagan þá á borð Skipulagsstofnunar til athugunar. Hart hefur verið tekist á um málið. Í margra augum var um mikið tilfinningamál að ræða, hvort 12 hæða háhýsi ætti að rísa þar sem nú stendur lítið, gamalt íbúðarhús með nafninu Baldurshagi.
Eins og staða mála var orðin tel ég ákvörðun bæjarstjórnar hafa verið rétta. Það er og hefur alla tíð verið þó grunnatriði að minni hálfu í málinu að byggt skuli á þessum reit. Deila mátti hinsvegar um lögun þess húss sem á teikniborðinu var og hvort það hentaði inn í byggðamyndina í nánasta nágrenni, en óneitanlega stakk hugmyndin í stúf við annað í hverfinu og var þónokkuð áberandi. Tel ég mjög vænlegt ef samstaða getur náðst um að byggja annarskonar hús á þessum reit en fyrir lá. Tel ég rétt að kanna mjög vel þann möguleika sem samþykktur var á fundi bæjarstjórnar í gær, þ.e.a.s. að þarna rísi tveir sjö hæða turnar í stað 12 hæða byggingar, ef það má mögulega vera grunnur að góðri lausn. En eins og fyrr segir tel ég rétt að byggja íbúðir fyrir aldraða á þessum stað. Eins og fram hefur komið er mikill áhugi fyrir því að búa á þessum stað. Ekki þarf að undrast það, stutt er í verslanir og miðbæinn. Um er að ræða hjarta bæjarins, ekki þarf því að undrast að fólk vilji búa á þeim slóðum. Þetta er einfaldlega grunnur þess að fólk vill búa þarna, stutt er í þjónustu og tengda þætti. Þetta veit ég sjálfur, enda bý ég aðeins ofar í götunni. Það er að mínu mati hvergi betra að búa í bænum og þegar ég skipti um íbúð í byrjun árs 2003 var þetta nákvæmlega sá staður sem ég leitaði fyrst fyrir mér með íbúð. Hefur mér þótt athyglisvert í ferli alls málsins að fylgjast með því, einkum skoðanaskiptum kjörinna fulltrúa í bæjarstjórn og þeirra skoðanir á málinu. Enginn vafi leikur á að um mesta hitamál ársins í bæjarmálunum er að ræða og fróðlegt verður að fylgjast með ferli þess á nýju ári.

Fundur bæjarstjórnar í gær var mjög langur og ítarlegur. Fyrir fundinum lágu alls 18 mál og voru umræður ítarlegar um sum málin. Stóð fundurinn í rúma sex tíma. Horfði ég á hann í gærkvöldi á bæjarsjónvarpsstöðinni Aksjón. Eins og fyrr hefur komið fram hér er mjög notalegt að geta fylgst með fundum bæjarstjórnar með þessum hætti, en þurfa ekki að sitja fundinn í salnum í Ráðhúsinu til að heyra umræður og fylgjast með afgreiðslu mála og skoðanaskiptum kjörinna fulltrúa. Þessi þróun sem verið hefur varðandi fundina er mjög jákvæð. Finnst mér form þeirra hentugra með þeim hætti sem nú er. Í stað þess að farið sé yfir alla liði nefnda og ráða bæjarins og þeir afgreiddir eru rædd viss mál og hægt að fá fram beinskeyttari og efnisríkari umræðu. Segja má því að formið sé sjónvarpsvænna, ef betra er að orða það sem svo. Framsetningin er betri og formið hefur reynst að mestu mjög vel. Breytingar urðu annars á bæjarstjórn í gær, en Valgerður Hjördís Bjarnadóttir bæjarfulltrúi vinstri grænna, hefur ákveðið að taka sér tímabundið leyfi frá störfum. Mun Jón Erlendsson varamaður hennar, taka sæti flokksins í bæjarstjórn á nýju ári.
Húmorinn
I am sure you heard about President Bush's nominee for Secretary of Homeland Security, Bernard Kerik, has withdrawn his name because of nanny problems. But the New York Daily News says no no, they say he cheated on his wife, then he cheated on his mistress and then he cheated on his mistress with another women. Now Bush thinks secretly he may be a Democrat.
Jay Leno
President Bush has announced that our new Energy Secretary will be Sam Bodman. Boy I hope he can fill the charisma void left by Spencer Abraham.
Things are going very well for President Bush. He passed his physical. No word yet on his mental.
David Letterman
Áhugavert efni
Um símastrákinn Jóhann - pistill Vef-Þjóðviljans
Fastar í hring tilgátan - pistill Þorbjargar Helgu Vigfúsdóttur
Þjóðarhreyfing? Landráð? - pistill Davíðs Arnar Jónssonar
Efnavopna-Ali fyrstur fyrir dóm í Írak
Hneykslismálum tengdum Bernard Kerik fjölgar sífellt
Dagurinn í dag
1939 Kvikmyndin Gone with the wind frumsýnd í Atlanta í Georgíu-fylki. Hún varð ein af vinsælustu kvikmyndum 20. aldarinnar og hlaut 10 óskarsverðlaun árið 1940, t.d. sem besta kvikmynd ársins
1953 Fjórðungssjúkrahúsið á Akureyri tekið formlega í notkun, þar voru í upphafi rúm fyrir 120 sjúklinga - fyrsti yfirlæknir var Guðmundur Karl Pétursson en nú er Þorvaldur Ingvarsson yfirlæknir
1966 Walt Disney deyr, 65 ára að aldri, úr krabbameini. Disney náði heimsfrægð er hann skapaði margar af helstu teiknimyndapersónum sögunnar og hóf framleiðslu teiknimynda fyrir börn á fjórða áratugnum. Hlaut 26 óskarsverðlaun á ferli sínum og var tilnefndur 64 sinnum, oftar en allir aðrir
1993 John Major forsætisráðherra Bretlands, og Albert Reynolds forsætisráðherra Írlands, tilkynntu á blaðamannafundi í London að samkomulag hefði náðst um að hefja friðarviðræður á Norður Írlandi
2000 Samkeppnisráð tilkynnti í skýrslu að fyrirhugaður samruni Landsbankans og Búnaðarbankans myndi leiða til of mikillar samþjöppunar og markaðsráðandi stöðu. Hætt var við bankasamrunann
Snjallyrði dagsins
Það dimmir og hljóðnar í Davíðsborg,
í dvala sig strætin þagga.
Í bæn hlýtur svölun brotleg sál
frá brunni himneskra dagga.
Öll jörðin er sveipuð jólasnjó
og jatan er ungbarns vagga.
Og stjarna skín gegnum skýjahjúp
með skærum lýsandi bjarma.
Og inn í fjárhúsið birtan berst
og barnið réttir út arma,
en móðirin, sælasti svanni heims
hún sefur með bros um hvarma.
Og hjarðmaður birtist, um húsið allt
ber höfga reykelsisangan.
Í huga flytur hann himni þökk
og hjalar við reifarstrangann.
Svo gerir hann krossmark, krýpur fram
og kyssir barnið á vangann.
Kristján frá Djúpalæk skáld (1916-1994) (Hin fyrstu jól)
Breytt 18.9.2006 kl. 08:02 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
14.12.2004 | 18:29
Engin fyrirsögn

Ár er nú liðið frá því að Saddam Hussein fyrrum einræðisherra Íraks, var handsamaður í Írak, en hann hafði þá verið á flótta í rúmt hálft ár, eða frá því að veldi hans og Baath-flokksins féll eins og dómínó á nokkrum vikum. Hermenn hans vildu ekki fórna sér fyrir deyjandi einræðisstjórn og stjórn Saddams féll 9. apríl 2003. Við það urðu mikil þáttaskil, 24 ára alræðisstjórn eins manns lauk með táknrænum hætti. Enn táknrænni var þó 14. desember 2003, þegar formlega var tilkynnt að einræðisherrann hefði verið handsamaður kvöldið áður, eftir flótta á milli staða eins og rotta. Það voru í senn bæði miklar og ánægjulegar fréttir að heyra af handtöku Saddams fyrir réttu ári. Heimsbyggðin hafði lengi beðið eftir þessum táknrænu endalokum í málinu. Bandarískir hermenn fundu einræðisherrann fyrrverandi í holu við bændabæ, sem þakin hafði verið einangrunarplasti og teppi. Meira var veldi hans ekki orðið undir lokin.
Athygli vakti útlit Saddams, sem sýndur var í fjölmiðlum við læknisrannsókn eftir handtökuna. Þar voru tekin úr honum DNA sýni til að staðfesta að um hann væri að ræða. Var hann gríðarlega þreytulegur, fúlskeggjaður og allur kraftur úr honum. Minnti hann helst á gamlan mann sem sætti sig við örlög sín. Fram kom í máli Raymond Odierno hershöfðingja, að þegar skeggjaði maðurinn hafi verið dreginn upp úr holunni hafi hann verið mjög ringlaður. Næst birtist Saddam, 1. júlí sl. Þá kom hann fyrir dómara í fyrsta skipti. Var hann þar öllu vígreifari en í desember 2003, nokkuð ögrandi í framkomu sinni og sveiflaði vísifingri oft að honum til að leggja áherslu á orð sín. Sagði hann réttarhöldin vera sýndarmennsku í takt við farsa. Við réttarhöldin neitaði Saddam að viðurkenna að hafa ráðist inn í Kuwait í ágúst 1990 og spurði dómarann hvernig hann gæti sem Íraki, talað um innrás þegar vitað væri sem staðreynd að Kuwait væri að eilífu hluti af Írak. Sjónvarpsstöðvar um allan heim sýndu upptöku af þessum merka viðburði. Í 24 ár var Saddam Hussein meðhöndlaður sem Guð í Írak og hafði slíka stöðu að orð hans voru aldrei véfengd. Það hljóta að hafa verið viðbrigði fyrir slíkan mann að vera kominn í stöðu hins grunaða og þurfa loks að svara til saka fyrir þá glæpi sem hann fyrirskipaði og stóð fyrir á einræðisferli sínum. Formleg réttarhöld yfir Saddam hefjast í upphafi nýs árs. Er fyrir löngu kominn tími til að maðurinn svari til saka fyrir verk sín.

Er ekki hægt annað en að gera gott grín að þessu rugli þingmannanna. Vissulega má ræða matarvenjur Íslendinga, en hversvegna á ríkið að rétta upp hendina til að hafa áhrif á þessi mál? Þetta er algjörlega út í hött og algjör tímaskekkja á okkar tímum. Ríkið á semsagt að hugsa og gera allt fyrir alla, jafnvel að hafa áhrif á matarvenjur fólks. Alveg kostulegt rugl. Frelsið er meira virði en svo að menn geti með góðu samþykkt svona forræðishyggju og vitleysu. Í tillögu forræðishyggjumannanna á þingi stendur: "Alþingi ályktar að fela heilbrigðisráðherra að kanna grundvöll fyrir setningu reglna um takmörkun auglýsinga á matvöru sem inniheldur mikla fitu, sykur eða salt með það að markmiði að sporna við offitu, einkum meðal barna og ungmenna. Ráðherra leitist í þessu skyni m.a. við að ná samstöðu með framleiðendum, innflytjendum og auglýsendum um að þessar vörur verði ekki auglýstar í sjónvarpi fyrr en eftir klukkan níu á kvöldin." Um er að ræða allverulega frelsisskerðingu óneitanlega. Afhverju þarf Alþingi að fjalla um þetta og setja lög með þessum formerkjum? Fólk verður að standa sjálft vörð um heilsu sína, það er út í hött að ríkið geri það með svona lagarömmum eins og lagt er til.

10 dagar eru nú til jóla og flestir komnir í gott jólaskap, búnir að skreyta og eru að klára það sem klára þarf fyrir jólin: skrifa á kortin, kaupa gjafir handa ættingjum, baka og margt fleira sem fylgir hefðbundnum jólaundirbúningi. Ég hafði mjög gaman af að lesa gestapistil Guðrúnar Pétursdóttur forstöðumanns Sjávarútvegsstofnunar Háskóla Íslands, á vef Halldórs Halldórssonar bæjarstjóra Ísafjarðarbæjar, sem birtist þar fyrir nokkrum dögum. Þar skrifar Guðrún um jólin, jólahefðir og tengda þætti af stakri snilld. Hvet ég alla til að kynna sér skrif hennar. Þessi pistill fékk mig óneitanlega til að hugleiða boðskap jólanna og merkingu þeirra. Auðvitað á jólaundirbúningurinn og tengd atriði að vera vettvangur gleði og ánægju fyrir alla. Það er fátt verra til en að sökkva sér í stress og læti vegna jólanna. Nauðsynlegt er að njóta tímans og þess jákvæða sem hann færir okkur.
Í pistlinum segir Guðrún t.d.: "Allur undirbúningurinn í sínum föstu skorðum, þótt tíminn sé naumur og aðrar skyldur kalli. Allt þarf að vera gert eins og í fyrra, frá A til Ö. Piparkökurnar, ostakexið, laufabrauðið, þorláksmessuskatan, hangikjötið og marengskökurnar. Sem dæmi, og ég veit að þið hafið mörg svipaða sögu að segja, þá er ég vön að fara eftir hádegið á aðfangadag út í kirkjugarð með greinar og ljós á leiði afa og ömmu, eins og mamma gerði alltaf, og það er óhugsandi að breyta því." Tek ég heilshugar undir þetta. Á þessum tíma er mikilvægt að minnast þeirra ástvina sem hafa kvatt þessa jarðvist og helga þeim hluta af hugsunum sínum, hvort sem um er að ræða ástvini sem hafa kvatt á árinu eða á seinustu árum. Ég fer alltaf fyrir jólin í garðinn hér og hugsa um leiðin sem tengjast mér eða minni fjölskyldu. Þetta er eitthvað sem ég tel mikilvægt. Ég get ekki haldið gleðileg jól, nema að hafa sinnt þessu. Gleði í sálinni fæst með svo mörgu, mest að ég tel með að gefa af sér, bæði kærleika og góðan hug til annarra. Fólk nær aldrei árangri í lífi sínu nema með því að hugsa um aðra á mikilvægum stundum, gefa af sér einhvern hluta af góðu hjartalagi í það minnsta. Ég hef oft farið eftir þessu og það á best við á jólunum, á heilögustu stund ársins.
Bæjarmálafundur með jólaívafi
Í gærkvöldi komum við sjálfstæðismenn á Akureyri saman í Kaupangi til að ræða dagskrá bæjarstjórnarfundar og fara yfir mikilvæg málefni, en dagskrá fundarins í dag er þéttskipuð. Á fundinum var í bland við stórpólitísk mál slegið á létta strengi. Fengum við okkur kakó, jólaöl og kökur og röbbuðum saman á ljúfu nótunum yfir þessum góðu kræsingum. Var þetta góð kvöldstund og gagnleg. Ég vil sérstaklega þakka öllum sem þarna voru staddir fyrir notaleg skoðanaskipti um bæjarmálin og ekki síður gott spjall yfir kakóinu og brauðinu. Helga Ingólfsdóttir formaður Varnar, félags sjálfstæðiskvenna í bænum, sá um kakóið af sinni alkunnu snilld. Kærar þakkir til allra fyrir góða kvöldstund!
Áhugavert efni
Um forræðishyggju Samfylkingarinnar
Hugleiðingar um skattamál - pistill Elínar Gränz
Hvað er á seyði í Úkraínu - pistill Guðrúnar Ingu Ingólfsdóttur
Hugleiðingar um íslensku áfengislöggjöfina - pistill Egils Óskarssonar
Pælingar um mannréttindaskrifstofuna - pistill Hjartar J. Guðmundssonar
Dagurinn í dag
1877 Danakonungur staðfesti fyrstu lögin um tekjuskatt hér á landi - af eignatekjum varð að greiða 4% skatt en 1-4% af atvinnutekjum. Svonefndir bjargræðisvegir voru hinsvegar alveg undanþegnir
1910 Útgáfa Vísis hófst - Vísir var áberandi á blaðamarkaðnum til sameiningar við Dagblaðið 1981
1989 Fyrstu lýðræðislegu kosningarnar í Chile í tæp 20 ár, haldnar. Patricio Aylwin kjörinn forseti landsins. Hann tók við embætti af Augusto Pinochet sem ríkt hafði sem einræðisherra þar allt frá valdaráninu 1973. Pinochet var hinsvegar áfram áberandi í valdakerfinu, sem leiðtogi hersins til 1997
1995 Blóðugu borgarastríði lýkur formlega í Júgóslavíu með undirritun tímamótafriðarsamnings í París, kenndan við Dayton. Leiðtogar ríkjanna: Tudjman, Milosevic og Izetbegovic, skrifuðu undir
2003 Saddam Hussein fyrrum einræðisherra Íraks, handsamaður í holu við sveitabæ, skammt frá fæðingarbæ sínum, Tikrit. Hans hafði þá verið leitað í rúmt hálft ár, eftir að stjórn hans féll eftir innrás Bandamanna. Hussein bíður nú réttarhalds í Írak, þar sem hann svarar til saka fyrir glæpi sína
Snjallyrði dagsins
Sé horft út í geiminn
gegnum skýlausa nótt
sést að bilin milli stjarna
mynda stjörnur
og stjörnur bilin.
Stefán Hörður Grímsson skáld (1919-2002) (Stjörnur)
Breytt 18.9.2006 kl. 08:02 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
13.12.2004 | 23:56
Engin fyrirsögn

Bernard Kerik sem valinn hafði verið af George W. Bush forseta Bandaríkjanna, sem ráðherra heimavarnarmála í stað Tom Ridge, tilkynnti á laugardag að hann væri hættur við að taka við embættinu, aðeins tæpri viku eftir að hann hafði verið tilnefndur til starfans. Tók hann þessa ákvörðun eftir að flett var ofan af því að hann hafði farið á svig við bæði skatta- og innflytjendalög vegna ráðningar barnfóstru. Þykir um mikinn álitshnekki að ræða fyrir forsetann og nánustu samstarfsmenn hans og ekki síður Kerik sjálfan að svo hafi farið. Greinilegt er að ekki hefur verið nægilega könnuð fortíð hans og málefni tengd honum áður en valið var kynnt. Þarf forsetinn nú að hefja málið allt frá grunni og leita að nýju ráðherraefni. Kerik var lögreglustjóri í New York þegar hryðjuverkaárásirnar voru gerðar á World Trade Center 11. september 2001. Vann hann traust og virðingu þjóðarinnar með framgöngu sinni í embættinu í kjölfarið. Hafði hann að undanförnu starfað í Írak þar sem hann vann m.a. að því að endurskipuleggja lögreglusveitir. Kerik hefur gegnt herþjónustu, starfað í fíkniefnalögreglunni og er með svartabeltið í tae kwondo.
Kerik gaf út ævisögu sína fyrir nokkrum árum, lýsir hann þar uppvexti sínum í Newark í New Jersey. Þar kemur fram að foreldrar hans skildu þegar hann var 3 ára og móðir hans, sem var áfengissjúklingur og vændiskona, var myrt þegar hann var 4 ára. Er þetta ekki í fyrsta skipti sem ráðherraefni í Bandaríkjunum verður að víkja vegna málefna ólöglegra innflytjenda sem viðkomandi hafa í þjónustu sinni. Árið 1993 neyddist Zoë Baird til að hætta við að þiggja embætti dómsmálaráðherra í stjórn Bill Clinton, eftir að kom í ljós að hún hafði ólöglega innflytjendur frá Perú í vinnu sem fóstru og bílstjóra. Var málið tengt Baird nefnt Nannygate. Varð Janet Reno dómsmálaráðherra, í staðinn. Árið 2000 tilnefndi Bush forseti, Lindu Chavez sem vinnumálaráðherra. Varð hún að hætta við að þiggja embættið er í ljós kom að hún hafði í vinnu eldabusku sem var ólöglegur innflytjandi frá Guatemala og varð Elaine Chao ráðherra í stað hennar. Samskipti Bush forseta, og Rudy Giuliani fyrrum borgarstjóra í New York, voru sögð í fjölmiðlum hafa skaðast af málum Keriks, enda hafði Giuliani mælt með honum við forsetann. Bað hann forsetann formlega afsökunar á að hafa komið nafni hans í umræðuna og í samræðum við forsetann. Var fljótt brugðist við og héldu borgarstjórinn fyrrverandi og kona hans strax til Washington og fóru á góðgerðarjólatónleika í borginni í gærkvöldi með forsetahjónunum til að sýna fram á að samskipti þeirra væru enn traust og öflug, en Giuliani var mjög áberandi í kosningabaráttu forsetans og lagði honum mikið lið. Ljóst er að Giuliani á mikið undir því að halda góðum tengslum við forsetann, enda talið nánast öruggt að hann fari í forsetaframboð árið 2008.

Fyrrnefnd Kondór-áætlun var leynilegt samkomulag milli herstjórnanna í Argentínu, Bólivíu, Brasilíu, Chile, Paragvæ og Úrúgvæ. Í samkomulaginu fólst að ríkin hefðu með sér samvinnu í að leita elta uppi andstæðinga og losa sig við lík þeirra í öðrum löndum. Pinochet er nú formlega stefnt vegna mannrána og morða á að minnsta kosti 9 af þessum mönnum sem voru myrtir í valdatíð hans, en lík þeirra hafa aldrei fundist. Pinochet hefur hingað til tekist að komast hjá réttarhöldum vegna málanna, með því að segjast heilsuveill. Næst því komst hann þó þegar hann var hnepptur í stofufangelsi af breskum yfirvöldum er hann var staddur í Bretlandi haustið 1998. Munaði þá aðeins hársbreidd að hann þyrfti að svara til saka. Með því að þykjast vera (sagður vera það af læknum) langt leiddur af sjúkdómi var honum sleppt seint á árinu 1999. Frægt varð að Pinochet var keyrður í hjólastól í flugvélina á flugvelli í London. Er hann sneri aftur til Santiago, höfuðborgar Chile, labbaði hann niður landganginn og gekk óstuddur að bíl sem þar beið hans. Þetta var allt kostulegt á að horfa á sínum tíma og leitt að hann var ekki leiddur fyrir rétt þá. En nú er semsagt komið að því.

Í dag var tilkynnt um tilnefningar til Golden Globe verðlaunanna, sem verða afhent 16. janúar 2005, í 62. skiptið. Golden Globe eru verðlaun sem erlendir blaðamenn í Hollywood veita ár hvert og þykja gefa góðar vísbendingar um Óskarinn, sem er afhentur í febrúarlok. Kvikmyndin Sideways hlaut flestar tilnefningar, sjö alls, þrjár fyrir leik, fyrir leikstjórn, auk þess sem hún var tilnefnd sem besta grín- eða söngvamyndin. Leikarinn Jamie Foxx komst heldur betur á spjöld sögunnar þegar hann varð fyrstur allra leikara til að hljóta þrjár tilnefningar til verðlaunanna á sama árinu; tvær fyrir leik í kvikmyndunum Ray og Collateral og eina fyrir leik í sjónvarpsmyndinni Redemption. Kvikmyndin The Aviator, sem er ævisaga leikstjórans Howards Hughes, hlaut sex tilnefningar, t.d. sem besta dramatíska myndin, fyrir leik Leonardo DiCaprio og Cate Blanchett og einnig fyrir leikstjórn Martin Scorsese.
Aðrar myndir sem tilnefndar voru sem besta dramatíska myndin voru Closer, Finding Neverland, Hotel Rwanda, Kinsey og Million Dollar Baby. Auk Sideways voru eftirtaldar myndir tilnefndar sem besta gaman- eða söngvamyndin: Eternal Sunshine of the Spotless Mind, The Incredibles, The Phantom of the Opera og Ray (sem fjallar um ævi söngvarans Ray Charles sem lést í júní). Auk DiCaprio voru tilnefndir sem besti dramatíski leikarinn þeir Javier Berdem fyrir The Sea Inside, Don Cheadle í Hotel Rwanda, Johnny Depp í Finding Neverland og Liam Neeson í Kinsey. Tilnefndar sem leikkona í dramatískri mynd voru Scarlett Johansson fyrir A Love Song for Bobby Long, Nicole Kidman í Birth, Imelda Staunton í Vera Drake, Hilary Swank í Million Dollar Baby og Uma Thurman í Kill Bill - Vol. 2. Bendir flest til þess að verðlaunaafhendingin verði jafnari nú en fyrir ári en þá var þriðji og seinasti hluti Hringadróttinssögu áberandi sem sigurvegari. Verður fróðlegt að fylgjast með afhendingu Gullhnattarins eftir mánuð, en eins og venjulega mun ég fylgjast, sem allmikill kvikmyndaáhugamaður, vel með þessu.
Húmorinn
Former New York Police Commissioner Bernard Kerik, who was President Bush's nominee to be the next Homeland Security chief, abruptly withdrew his name from the nomination on Friday. So President Bush stubbornly insists on going back to his original choice: Superman!
Amy Poehler
John Kerry announced today that he will go to Iraq next month. I guess he heard they are having presidential elections
Jay Leno
Áhugavert efni
Helgarpistill Björns Bjarnasonar
Ef - pistill Arnljóts Bjarka Bergssonar
Er keisarinn ekki í fötum? - pistill Hauks Þórs Haukssonar
R-listinn stefnir í ranga átt - pistill Kristins Más Ársælssonar
Um bók Matthíasar Johannessen fv. ritstjóra - pistill Vef-Þjóðviljans
Scott Peterson dæmdur til dauða
Traian Basescu kjörinn forseti Rúmeníu
Bush leitar að nýjum öryggismálaráðherra
Fernando Poe fv. forsetaefni á Filippseyjum, látinn
Fróðleg umfjöllun um það hvernig heilinn meðtekur andlit
Dagurinn í dag
1922 Hannes Hafstein ráðherra, lést, 61 árs að aldri - hann var fyrsti ráðherra Íslands við upphaf heimastjórnar og tók við embætti 1. febrúar 1904 og sat til 1909 og var aftur ráðherra 1912-1914. Hann var áður sýslumaður á Ísafirði og einnig öflugt skáld og orti t.d. ljóðin Sprettur (Ég berst á fáki fráum) og Stormur. Minnisvarði um Hannes var afhjúpaður við Stjórnarráðshúsið í Reykjavík 1931
1947 Björgunarafrekið við Látrabjarg - 12 mönnum var bjargað við mjög erfiðar aðstæður af breska togaranum Dhoon, sem strandaði við bjargið. Óskar Gíslason gerði merka kvikmynd um þetta afrek
1981 Herstjórnin í Póllandi setti herlög í landinu og handtók flesta leiðtoga stjórnarandstöðunnar
1992 Orgel Hallgrímskirkju í Reykjavík var vígt - það er stærsta hljóðfæri á Íslandi: 17 metrar á hæð, vegur 25 tonn og í því eru 5.200 pípur. Kostnaður við smíði orgelsins nam tæpum 100 milljónum króna
2000 Al Gore varaforseti Bandaríkjanna, viðurkennir formlega ósigur sinn í forsetakosningunum 2000, fyrir George W. Bush ríkisstjóra í Texas. Deilt var um sigur Bush í 36 daga, enda munaði litlu á honum og Gore í Flórída fylki. Gore óskaði Bush til hamingju með sigur í upphafi en dró það til baka þegar ljóst varð hversu naumt var á milli þeirra í fylkinu. Munaði aðeins nokkur hundruð atkvæðum að lokum. Það naumt varð að úrslit fengust ekki strax og handtelja varð atkvæði í nokkrum sýslum fylkisins. Leiddi það til dómsmála til að fá fleiri atkvæði endurtalin. Gore fékk örlítið fleiri atkvæði á landsvísu í forsetakosningunum en tapaði hinsvegar í kjörmannasamkundunni. Að lokum fór svo að hæstiréttur staðfesti sigur forsetans í fylkinu og Gore viðurkenndi því ósigur sinn eftir lagaflækjurnar
Snjallyrði dagsins
Ég elska þig, stormur, sem geisar um grund
og gleðiþyt vekur í blaðstyrkum lund,
en gráfeysknu kvistina bugar og brýtur
og bjarkirnar treystir um leið og þú þýtur.
Þú skefur burt fannir af foldu og hól,
þú feykir burt skýjum frá ylbjartri sól,
og neistann upp blæs þú og bálar upp loga
og bryddir með glitskrúði úthöf og loga.
Þú þenur út seglin og byrðingin ber
og birtandi, andhreinn um jörðina fer;
þú loftilla, dáðlausa lognmollu hrekur
og lífsanda starfandi hvarvetna vekur.
Og þegar þú sigrandi um foldina fer,
þá finn ég að þrótturinn eflist í mér.
ég elska þig, kraftur, sem öldurnar reisir,
ég elska þig máttur, sem þokuna leysir.
Hannes Hafstein ráðherra (1861-1922) (Stormur)
Breytt 18.9.2006 kl. 08:02 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
12.12.2004 | 23:42
Engin fyrirsögn

Að þessu sinni fjalla ég um umræðuna um skattamálin við lok þinghalds, en Alþingi fór rausnarlegt 6 vikna jólaleyfi á föstudagskvöld. Áberandi er að sjá vinnubrögð stjórnarandstöðunnar í þinginu einkum hvað varðar skattalækkunartillögurnar og frumvarpið. Fer ég í pistlinum yfir kostuleg vandræði Samfylkingarinnar hvað varðar umræðuna um skattaloforðin 2003 og tal formannsins um símastrákinn margfræga. Um helgina upplýstu Samtök vöru og þjónustu að hafi verið Jóhann Ársælsson alþingismaður, sem hafi svarað spurningum samtakanna um breytingar á virðisaukaskattskerfinu í mars 2003 fyrir hönd Samfylkingarinnar. Jóhann Ársælsson sem hefur verið kynntur sem postuli af hálfu Samfylkingarinnar í sjávarútvegsmálum (eða allavega spilað sig mjög þannig) og einn helsti talsmaður flokksins í þeim stóra málaflokki og er leiðtogi Samfylkingarinnar í Norðvesturkjördæmi var því flokkaður sem símastrákur af formanni flokksins! Endar þetta með þeim hætti að einn leiðtoga flokksins á landsvísu er sá sem gaf svörin en ekki einhver símastrákur á kosningaskrifstofu eins og haldið hafði verið fram, augljóslega til að reyna að drepa málinu á dreif með þessum líka stórglæsilega hætti.
Málið springur allt framan í flokkinn þegar Samtökin einfaldlega sjá sóma sinn í því að gefa upp hver veitti svörin sem um er rætt. Auðvitað var þetta enginn símastrákur án umboðs og maður af götunni sem er spurður slíkra spurninga sem málsvari flokks. Jóhann var í mars 2003 varaformaður þingflokks Samfylkingarinnar og leiðtogi flokksins í einu af kjördæmunum 6 og því með status eins af talsmönnum flokksins auðvitað. Einfaldara getur það vart orðið. Enn er rætt um Íraksmálið í miðpunkti umræðu í þingsölum og tengd málefni. Fjalla ég í pistlinum um einn anga þess máls, söfnun hinnar svokölluðu Þjóðarhreyfingar og pistil sem ég skrifaði um það mál í vikunni og hefur víða verið til umræðu. Að lokum fjalla ég um auka aðalfund í Verði í gær. Flutti ég þar í upphafi skýrslu stjórnar og fór yfir þar í stuttu máli hvað gerst hefði hjá félaginu frá því að ég tók þar við formennsku í september og hvaða verkefni blöstu við á nýju ári. Á fundinum voru samþykktar lagabreytingar þess efnis að fjölga stjórnarmönnum í félaginu. Jafnframt var stjórnmálaályktun Varðar kynnt og hún rædd. Var ég endurkjörinn til formennsku í félaginu. Með mér í stjórn verða Bergur Þorri Benjamínsson, Henrik Cornelisson, Júlíus Kristjánsson, Sigurgeir Valsson, Sindri Alexandersson og Sindri Guðjónsson. Í varastjórn eru Atli Hafþórsson, Jóna Jónsdóttir og María H. Marinósdóttir. Í lok fundarins flutti Kristján Þór Júlíusson bæjarstjóri, ræðu, og fór yfir það sem helst er um að vera í bæjarmálunum hér á Akureyri og það sem gerst hefur að undanförnu í pólitíkinni. Að því loknu svaraði hann spurningum fundarmanna.
Dagurinn í dag
1904 Rafljós voru kveikt á Íslandi í fyrsta skipti - rafmagnið kom frá rafstöð sem var í Hafnarfirði
1987 Hótel Ísland var formlega tekið í notkun - var þá einn af stærstu veitingastöðum landsins
1998 Örn Arnarson varð Evrópumeistari í 200 metra baksundi - hann endurtók leikinn 1999 og 2000
2000 Hæstiréttur Bandaríkjanna kvað upp dóm í máli sem Al Gore varaforseti Bandaríkjanna, hafði höfðað til að reyna að fá atkvæði í Flórída-fylki endurtalin í kosningunum 7. nóvember 2000. Gore tapaði málinu og viðurkenndi formlega ósigur sinn í kosningum innan við sólarhring síðar. Gore fékk örlítið fleiri atkvæði á landsvísu í forsetakosningunum en tapaði hinsvegar í kjörmannasamkundunni
2003 Jean Chretien lætur af embætti sem forsætisráðherra Kanada - hann sat í embættinu í rúman áratug og vann sigur í þrem kosningum. Eftirmaður hans í embætti forsætisráðherra varð Paul Martin
Snjallyrði dagsins
Niðar foss í djúpum dal
dimmum fram úr hamrasal
þar sem bláu blómin dreyma -
heyrðu, daggardropi skær,
dvöl hjá blómi var þér kær
þegar gullnir geislar streyma -
svo er ástar yndisró,
öll þar gleðiveröld hló,
hvítir svanir syngja,
leikur bæði líf og sál,
leikur tunga, hjarta, rödd og mál,
allt er fagurt eins og stál,
álfaskarar ástarklukkum hringja
Benedikt Gröndal (1826-1907) (Sæla)
Breytt 18.9.2006 kl. 08:02 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)