Engin fyrirsögn

George W. Bush á kosningafundi í OhioBush vs. Kerry > 3 dagar
Rúmum þrem sólarhringum áður en bandarískir kjósendur ganga að kjörborðinu og ákveða hvort að George W. Bush eða John Kerry sitji á forsetastóli í Bandaríkjunum næsta kjörtímabilið, snerist kastljós bandarískra fjölmiðla að hryðjuverkamanninum Osama Bin Laden sem sneri úr skjóli sínu til að minna á sig og ávarpa beint bandarísku þjóðina á lokaspretti kosningabaráttunnar. Var þetta í fyrsta skipti í rúmt ár sem bin Laden birtist opinberlega í sjónvarpsupptöku hjá sjónvarpsstöðinni. Í gærkvöldi sýndi arabíska sjónvarpsstöðin Al-Jazeera nokkurra mínútna myndband þar sem bin Laden kom í fyrsta skipti með afdráttarlausu yfirlýsingu þess efnis að hann hefði staðið að hryðjuverkunum í Bandaríkjunum þann 11. september 2001. Sagðist hann reyndar geta útlistað bestu leiðina fyrir Bandaríkin til að "forðast annað Manhattan". Orðrétt sagði bin Laden: "Við ákváðum að eyðileggja háhýsi í Bandaríkjunum" og leit samstundis yfirvegaður og glottandi í linsu upptökuvélarinnar. Sagði hann að ríkisstjórn Bush væri ekki hótinu skárri en spilltar ríkisstjórnir í Arabalöndum. Bin Laden sagði að árásin á Bandaríkin hefði verið nauðsynleg til að endurheimta frelsi og kenna bandaríkjamönnum lexíu, hann hefði unnið að henni allt frá 1982. Sagði hann í ávarpinu að besta leiðin til að halda stöðunni góðri sé að reita ekki Araba til reiði. Má túlka skilaboð hryðjuverkaleiðtogans hiklaust sem óbeina stuðningsyfirlýsingu við Kerry og árás að Bush forseta. Frambjóðendurnir brugðust við yfirlýsingu hryðjuverkamannsins með ávörpum á ferðalögum sínum um Bandaríkin. Forsetinn var ákveðinn og yfirvegaður þegar hann flutti ávarp sitt á Toledo-flugvelli í Swanton í Ohio. Hann sagði orðrétt: "Let me make this very clear to the terrorists! Americans will not be intimidated or influenced by an enemy of our country. I'm sure Senator Kerry agrees with this." Sagðist hann treysta því að bandarískir kjósendur létu hótanir hryðjuverkamanns ekki hafa áhrif á dómgreind sína. Kerry flutti ávarp skömmu síðar á flugvellinum í West Palm Beach á Flórída og var ákveðinn í garð Bin Laden og sagði: "Let me just make it crystal clear, as Americans we are absolutely united in our determination to hunt down and destroy Osama bin Laden and the terrorists. They are barbarians. I will stop at absolutely nothing to hunt down, capture and kill the terrorists wherever they are and whatever it takes". Er ástæða til að taka undir orð beggja forsetaefnanna, vonandi er að kjósendur láti ekki hótanir glæpamanns hafa áhrif á sig, þegar tekið er afstöðu til frambjóðendanna.

John Kerry á kosningafundi í FlórídaFrambjóðendurnir voru báðir eins og fyrr segir staddir á flugvöllum þegar þeir tjáðu sig um myndbandið með bin Laden. Þeir voru í gær á fleygiferð um lykilfylki kosningabaráttunnar og notuðu stund milli stríða áður en haldið var í flug milli fylkjanna til að tjá sig í beinum útsendingum fréttastöðvanna um málið, sem varð óvænt í gær helsta fréttaskot dagsins í stað kosningafunda forsetaefnanna með stjörnum prýddum gestum og stuðningsmönnum í fylkjunum. Bush forseti, var með stærsta kosningafund gærdagsins í borginni Columbus í lykilfylkinu Ohio, og var Arnold Schwarzenegger ríkisstjóri í Kaliforníu, þar sérstakur gestur forsetahjónanna. Flutti ríkisstjórinn þar gott ávarp til stuðnings forsetanum og verkum hans og hvatti íbúa fylkisins og landsmenn alla til að fylkja sér um forsetann í kosningunum og standa vörð um verk stjórnar hans. Var ríkisstjóranum og forsetahjónunum ákaft fagnað þegar þau stigu á sviðið. Á sama tíma var Kerry með fjöldafund í Miami í Flórída ásamt Bill Clinton fyrrum forseta Bandaríkjanna. Var mikið um húrrahróp og gleði á fundinum er Kerry-hjónin og Clinton mættu á staðinn. Rokkgoðið Bruce Springsteen sem fylgt hefur Kerry seinustu daga á kosningaferðalagi hans, söng í Miami og hefur nú komið fram á alls fjórum stórfundum Kerrys. Umfangsmikill lokasprettur er framundan á næstu dögum hjá forsetaefnunum í kosningaferðalögum sínum um lykilfylkin nú þegar kosningabaráttunni er að ljúka og margir sem leggja lið. Til dæmis eru Caroline Kennedy Schlossberg og föðurbróðir hennar, Edward Kennedy öldungadeildarþingmaður, á ferð um Pennsylvaníu og New Jersey til styrktar Kerry og Al Gore og Alexandra, dóttir frambjóðandans, eru á Hawaii til að efla stöðu hans þar en Kerry hefur misst forystuna í könnunum í þessu gamalgróna vígi demókrata. Clinton-hjónin verða næstu þrjá daga á ferð um Nevada, Nýju-Mexíkó, fyrrum heimafylki sitt Arkansas, þar sem forsetinn fyrrverandi var ríkisstjóri til fjölda ára, og enda í New York á mánudag. Fyrir Bush forseta, eru foreldrar hans á ferð um Nýju-Mexíkó og Nevada, ennfremur er Rudolph Giuliani á ferðalagi um Pennsylvaníu og New Jersey. Varaforsetaefnin eru svo á fleygiferð um landið í baráttunni, Cheney hefur fókuserað á suðurríkin seinustu daga en Edwards á norðurríkin. Stefnir í gríðarlega spennandi lokametra í kosningabaráttunni. Í dag fókusera forsetaefnin á miðríkin. Kerry-hjónin verða á ferðalagi um Wisconsin, Iowa og Ohio. Forsetahjónin verða á faraldsfæti í Michigan, Wisconsin, Minnesota og halda í kvöld til Flórída. Samkvæmt nýjustu könnunum heldur forsetinn enn 2-4% forskoti á Kerry. Spennan magnast!

SjálfstæðisflokkurinnKjördæmisþing Sjálfstæðisflokksins í NA-kjördæmi
Aðalfundur kjördæmisráðs Sjálfstæðisflokksins verður haldinn að Skjólbrekku við Mývatn í dag og á morgun. Fundurinn hefst formlega kl. 13:30 með því að Gunnar Ragnars formaður kjördæmisráðsins, flytur skýrslu stjórnar fyrir liðið starfsár. Jafnframt verða reikningar lagðir fram og skýrðir. Að því loknu verða umræður um skýrsluna og reikninga kjördæmisráðs. Kl. 14:15 mun Halldór Blöndal forseti Alþingis og leiðtogi Sjálfstæðisflokksins í kjördæminu, ávarpa þingfulltrúa. Að ræðu hans lokinni mun Arnbjörg Sveinsdóttir alþingismaður og varaformaður þingflokksins, flytja ávarp. Að lokinni ræðu þingmanna kjördæmisins mun sérstakur gestur fundarins, Friðrik Sophusson forstjóri Landsvirkjunar, ávarpa kjördæmisráðið og ræða orkumál og orkunýtingu. Að loknu stuttu kaffihléi mun Bjarni Jónasson framkvæmdastjóri og varabæjarfulltrúi á Akureyri, stjórna pallborðsumræðum. Þar sitja fyrir svörum auk Friðriks og Arnbjargar, þau Kristján Þór Júlíusson bæjarstjóri, Friðfinnur Hermannsson bæjarfulltrúi á Húsavík, og Soffía Lárusdóttir forseti bæjarstjórnar á Héraði. Um fimmleytið verður fundi svo frestað. Þá munu þingfulltrúar halda í rútu að hveraböðunum í Bjarnarflagi. Um áttaleytið hefst svo kvöldverður fyrir fulltrúa í kjördæmisráði. Verður, ef ég þekki sjálfstæðismenn í kjördæminu rétt, mikil gleði þar og góð skemmtun. Fundahald heldur svo áfram að morgni sunnudags. Þar verða reikningar kjördæmisráðsins bornir upp til samþykktar. Að því loknu kynnir formaður uppstillingarnefndar tillögur nefndarinnar um stjórn og aðrar trúnaðarstöður, sem kjósa skal um. Fer því næst fram kosning í stjórn ráðsins, kjörnefndarmanna, fulltrúa í flokksráð, svo fátt eitt sé nefnt. Er gert ráð fyrir fundarlokum um hádegi á sunnudeginum. Ég mun sitja þingið, enda einn af formönnum aðildarfélaga í stærsta sveitarfélagi kjördæmisins. Verður ánægjulegt að fara í Mývatnssveit, hitta félaga sína í flokknum og skemmta sér vel saman þar.

Dagurinn í dag
1796 Dómkirkjan í Reykjavík var tekin formlega í notkun - er höfuðkirkja íslensku þjóðkirkjunnar
1934 Fyrri hluti skáldsögunnar Sjálfstætt fólk eftir Halldór Kiljan Laxness, kom út. Síðari hlutinn kom út árið eftir. Sjálfstætt fólk er meistaralega vel rituð bók - var valin bók 20. aldarinnar árið 1999
1973 Richard Nixon forseti Bandaríkjanna, rekur Elliot Richardson dómsmálaráðherra, og William Ruckelshaus aðstoðardómsmálaráðherra, úr embættum sínum því þeir höfðu neitað að reka Archibald Cox sérstakan saksóknara í Watergate-málinu, en hann hafði gengið nærri forsetanum með því að krefja hann um upptökur af leynifundum hans með helstu ráðgjöfum sínum. Nixon skipaði Robert Bork sem dómsmálaráðherra, og það var hann sem að lokum rak Cox. Framgangur rannsóknarinnar á hneykslismálinu var þó ekki stöðvuð og síðar komu í dómsmálum loks fram upptökurnar sem sönnuðu að forsetinn hafði fulla vitneskju, allt frá júní 1972 um innbrotið í Watergate bygginguna og tók þátt í yfirhylmingu málsins. Leiddi málið að lokum til afsagnar Nixons
1974 Muhammad Ali endurheimtir heimsmeistaratitilinn í boxi með því að veita George Foreman þáverandi heimsmeistara, þungt rothögg í heimsfrægum boxbardaga þeirra í Kinshasa í Zaire
1991 George H. W. Bush forseti Bandaríkjanna, setur friðarráðstefnu ríkjanna í M-Austurlöndum í Madrid með ræðu þar sem hann hvatti Araba og Ísraeli til að horfa til framtíðar en ekki fortíðar þegar þeir settust að samningaborðinu. Um var að ræða sögulega ráðstefnu þar sem margir erkifjendur í stjórnmálasögu svæðisins hittust í fyrsta skipti og ræddu saman málefnin frá víðu sjónarhorni og fóru yfir stöðuna. Leiddu þær til friðarviðræðnanna í Osló milli deiluaðila 1993

Snjallyrði dagsins
On the tape, bin Laden says that neither Kerry nor Bush can keep us safe. Boy, just what we need, another undecided voter.
Bill Maher grínisti

Engin fyrirsögn

George W. Bush á kosningafundi í PennsylvaníuBush vs. Kerry > 4 dagar
Samkvæmt nýjustu skoðanakönnunum í Bandaríkjunum hefur George W. Bush forseti Bandaríkjanna, náð á ný yfirhöndinni í jöfnum kosningaslag sínum og John Kerry öldungadeildarþingmanns, um bandaríska forsetaembættið, nú þegar fjórir dagar eru til forsetakosninga. Skv. könnun Gallups sem birt var í gær hefur Bush forseti, fimm prósentustiga forskot á Kerry á landsvísu meðal líklegra kjósenda. Hann hefur skv. henni styrkt stöðu sína í Flórída, Pennsylvaníu og Iowa, en staðan í Ohio er það jöfn að það er ómögulegt skv. könnuninni að sjá hvor hefur yfirhöndina þar. Fleiri kannanir staðfesta forskot forsetans en það er mismikið, allt frá 1% hjá Washington Post til 5% hjá Gallup og CBS. Orrahríðin milli forsetaefnanna heldur áfram af sama krafti og fyrr á lokasprettinum. Bush og Kerry hafa skotið óhikað að hvor öðrum vegna málefna Íraks og varna Bandaríkjanna og forsetinn svaraði Kerry af óvenju mikilli hörku á kosningafundum í Pennsylvaníu og Ohio. Lokasprettur kosningabaráttunnar líkist æ meir leðjuslag eftir því sem styttist í að kjördagur rennur upp. Frambjóðendur eru að mestu hættir að ræða kosningamálin og fjölmiðlar beina kastljósinu mun frekar að harkalegum orðaskiptum þeirra í stað þess að fjalla um málefnin og færa kosningabaráttuna á málefnalegra plan. Frambjóðendurnir kom fram með vel gerða frasa úr smiðju kosningaspekúlanta sinna og keppast um að ná sem bestu 15 sekúndna sviðsljósi fjölmiðla með ræðum á kosningafundum. Málefnaleg umræða hefur vart sést frá kappræðunum þrem og hafa frambjóðendurnir endurtekið aftur og aftur meginefni í málflutningi sínum þar í mismunandi útgáfum þó vissulega frá degi til dags, enda halda þeir ekki athyglinni nema koma með ný sjónarmið í frasana. Enn er rifist um sprengjuefnin í Írak og tengd efni og öllu beitt til að finna fleti á því. Gott dæmi er að forsetinn kallaði Kerry veikgeðja og óákveðinn og því ófæran um að sinna þjóðarskútunni, Kerry kallaði Dick Cheney varaforseta, þvælumálaráðherra landsins, í ræðu sinni í Ohio. Varaforsetinn svaraði um hæl með því að segja að Kerry væri ekki þekktur fyrir að hengja sig í smáatriði eins og staðreyndir. Það er því ekki hægt að segja annað en að kosningaslagurinn sé að verða ansi drullugur og báðir frambjóðendur komnir á kaf í leðjuslag sem ekki er embættinu sæmandi. Stefnir reyndar allt í að kosningabaráttan verði sú dýrasta í sögunni.

John Kerry á kosningafundi í OhioFrambjóðendur eru á fleygiferð um lykilfylkin nú á seinustu metrunum sem eftir eru af kosningabaráttunni og reyna að skreyta sig með stjörnufans undir lokin. Í gær kom Kerry fram á fjöldafundi í Columbus í Ohio með rokkgoðinu Bruce Springsteen sem er ötull stuðningsmaður hans. Þar tók goðið nokkur af bestu lögum ferils síns, t.d. Born in the USA og óskarsverðlaunalagið Streets of Philadelphia. Kynnti hann sig með titlinum Boss, eins og hann er þekktur fyrir, og kynnti forsetaefnið sem "The Boss to be" við mikinn fögnuð viðstaddra. Í gær sendi Caroline Kennedy Schlossberg út yfirlýsingu þar sem hún beinir því til forsetans að hann noti ekki nafn föður síns til að hreykja sér af, en forsetinn hafði í ræðu nefnt sig sem leiðtoga á erfiðum stundum og líkt sér við fyrri forseta, t.d. Kennedy. Er þetta til marks um hörkuna í slagnum, en Kennedy-fjölskyldan (og þá einkum Caroline) hefur lagt á sig mikla vinnu til stuðnings Kerry. Mikið er fjallað vestanhafs um nýjasta klúðrið í Flórída, en þar er allt á afturfótunum, eins og venjulega, segir sjálfsagt einhver. Í ljós hefur komið að þúsundir kjörseðla sem senda átti til fólks sem vildi greiða atkvæði utankjörfundar höfðu týnst í póstsendingu. Týndu kjörseðlarnir voru á leið með pósti til kjósenda í Broward sýslu, þar sem Al Gore fékk sína bestu kosningu árið 2000. Stórundarlegt mál vissulega. Svo hefur vakið athygli að Bush forseti, hefur lokað aðgang að kosningavef sínum fyrir fólki utan Bandaríkjanna. Er stórundarlegt í ljósi þeirrar tæknialdar sem við lifum á, að annar frambjóðandinn til valdamesta embættis heims loki vef sínum og þar með upplýsingaveitu um framboð sitt til embættisins fyrir fólki um allan heim vegna umræðu um of mikinn gestafjölda. Eru ekki vefsíður opnaðar til að fólk skoði þær? Stórundarlegt mál, svo ekki sé meira sagt. Baráttan er hörð nú undir lokin og stefnir allt í æsispennandi lokasprett. Í dag verða Kerry-hjónin á kosningaferðalagi vítt og breitt um Flórídafylki með Bill Clinton fyrrum forseta Bandaríkjanna, og enda daginn á kosningafundi í Wisconsin. Forsetahjónin verða á faraldsfæti í New Hampshire, New Jersey og munu þau enda daginn á fjöldafundi í Ohio ásamt Arnold Schwarzenegger ríkisstjóra í Kaliforníu. Styttist óðum í að formlegri kosningabaráttu ljúki, en á miðnætti á mánudagskvöld þarf henni að vera lokið formlega. Keppinautarnir um forsetaembættið eru því í kapphlaupi við tímann á lokasprettinum á ferð sinni um baráttufylkin. Klukkan tifar!

Yasser ArafatHeitast í umræðunni
Yasser Arafat forseti Palestínu, yfirgaf höfuðstöðvar sínar á Vesturbakkanum í Ramallah í morgun og hélt með þyrlu til Amman í Jórdaníu, ásamt eiginkonu sinni Suha, sem hafði komið til Ramallah í gær, en þau höfðu þá ekki hist í nokkur ár, en hún hefur búið í París seinustu ár. Frá Amman hélt Arafat svo áleiðis til Parísar í boði franskra stjórnvalda til að leita sér lækninga. Það var tilfinningaþrungin stund fyrir Arafat, jafnt og þjóð hans þegar forsetinn sté upp í þyrluna og horfði klökkum augum til fólksins sem hafði hópast saman til að kveðja leiðtoga sinn. Fáum blandast hugur um að ástand Arafats er alvarlegt og ekki víst hvort hann snúi aftur lífs eða liðinn. Þetta er í fyrsta skipti í rúmlega tvö og hálft ár sem Arafat, sem varð 75 ára í sumar, yfirgefur höfuðstöðvar sínar. Nauðsynlegt þótti að mati lækna að Arafat leitaði sér læknishjálpar í fjarlægu landi og farið væri með hann á spítala í vestrænni stórborg. Vonast er til að læknar í Frakklandi geti aðstoðað Arafat og komist að því hvað hrjáir hann. Samkvæmt fréttum í dag er talið nær öruggt að um blóðsjúkdóm sé að ræða, annaðhvort vægan sjúkdóm af því tagi eða hvítblæði sem í flestum tilvikum fyrir mann af þessum aldri er banvænt. Það var ekki fyrr en ísraelsk stjónvöld samþykktu að Arafat fengi að snúa aftur til síns heima, að lokinni meðferðinni sem Arafat ákvað að fara til Parísar. Staða hans er eins og öllum er ljós mjög brothætt. Í fjarveru hans mun Ahmed Qurie forsætisráðherra Palestínu og stjórn hans, hafa forsetavald. Litlar líkur eru á því að Arafat nái aftur þeirri stöðu að leiða pólitíska baráttu af þeim krafti sem áður einkenndu störf hans. Falli hann frá yrði Rouhi Fattouh forseti palestínska þingsins, forseti landsins. Enginn vafi er á því að tal og umræða um eftirmenn og pólitíska forystu er hafin, nú þegar leiðtoginn er farinn til Frakklands. Annað er óumflýjanlegt eins og staðan er orðin.

KennslaÁsmundur Stefánsson ríkissáttasemjari, tilkynnti á fundi með forystumönnum Kennarasambandsins og launanefndar sveitarfélaga í Karphúsinu, skömmu eftir miðnætti að hann hefði tekið þá ákvörðun að leggja fram miðlunartillögu í launadeilu aðilanna. Verkfalli grunnskólakennara hefur því verið frestað meðan greidd verða atkvæði um tillögu Ásmundar og hefst kennsla að nýju í grunnskólum landsins á mánudagsmorgun. Er mikið ánægjuefni að höggvið hefur verið á hnútinn, þó vissulega aðeins tímabundið sé. Verkfallið stóð í 39 daga og er eitt lengsta verkfall í sögu íslenskra skólamála, nokkrum dögum styttra reyndar en seinasta stórverkfall grunnskólakennara, árið 1995. Mun Ásmundur leggja tillöguna formlega fram á fundi með deiluaðilum í dag. Kosningu um miðlunartillöguna verður lokið mánudaginn 8. nóvember og atkvæði talin. Verði miðlunartillaga ríkissáttasemjara felld mun verkfall hefjast að nýju á miðnætti þriðjudaginn 9. nóvember nk. Nauðsynlegt var að höggva á þennan gríðarlega hnút sem kominn var á deiluna og stöðu mála, en ekkert hafði þokast í samkomulagsátt í fjölda vikna og allt orðið pikkfast og drungalegt á að líta. Er mikilvægt að sáttasemjari leggi fram tillögu byggða á sínu mati og hún fari til atkvæða. Ef hún verður felld mun verkfallið hefjast aftur, en ella er kominn samningur og starf í skólunum getur farið á fullt að nýju. Samhliða þessu er ljóst að vetrarfríi skólanna sem áttu að hefjast eftir helgina verður frestað, enda nauðsynlegt að nota tímann fram til 9. nóvember til kennslu.

Dagurinn í dag
1901 Leon Czolgosz, morðingi William McKinley forseta Bandaríkjanna, var tekinn af lífi í New York
1919 Alþýðublaðið kom út fyrsta sinni - var málgagn Alþýðuflokksins. Útgáfunni var hætt 1997
1975 36 ára valdaferli Francisco Franco á Spáni lýkur formlega - hann vék vegna mikilla veikinda sinna. Völdin fóru í hendur Juan Carlos og með því var konungsveldi aftur komið á, á Spáni. Nokkrum dögum eftir að tilkynnt var um þetta féll Franco í dauðadá og lést hann þann 20. nóvember 1975
1982 Lindy Chamberlain sakfelld í réttarhaldi í Ástralíu fyrir að hafa myrt barn sitt - hún bar við að dingó hefði numið það á brott. Fjórum árum eftir dóminn fundust nöguð föt barnsins sem staðfesti sögu móðurinnar. Eftir þessu fræga dómsmáli var gerð myndin A Cry in the Dark með Meryl Streep
2003 Iain Duncan Smith felldur af leiðtogastóli breska Íhaldsflokksins - hann beið ósigur í vantraustskosningu í þingflokknum og baðst formlega lausnar eftir það. Hann hafði setið á leiðtogastóli flokksins í rúm tvö ár og óánægja með störf hans sífellt aukist eftir því sem á leið

Snjallyrði dagsins
Hitti Ólaf Ragnar kl. 10. Hann er búinn að mála ljósritunarherbergi blátt á Sóleyjargötu og sagði mér í óspurðum tíðindum að hér eftir myndum við alltaf hittast þar, enda væri það hefð í Bretlandi að forsætisráðherra hitti alltaf drottninguna í Bláu stofunni í Buckingham höll. Ég held að hann sé að tapa sér. Hann talaði stanslaust um gildi menntunar fyrir æskuna og kennaraverkfallið. Að lokum gaf hann mér góð ráð sem hann lærði þegar hann glímdi sem fjármálaráðherra við BHMR í gamla daga. Hann er algjörlega að tapa sér.
Bráðfyndin dagbókarbrot forsætisráðherra (birt á Deiglunni)

Engin fyrirsögn

George W. Bush lyftir upp fjórum fingrum - four more years!Bush vs. Kerry > 5 dagar
Samkvæmt nýjustu skoðanakönnunum í Bandaríkjunum eru George W. Bush forseti Bandaríkjanna, og John Kerry öldungadeildarþingmaður, í jöfnum og tvísýnum slag um valdamesta embætti heims, nú á lokaspretti kosningabaráttunnar um forsetaembætti landsins. Stefnir allt í að úrslitin muni ráðast í aðeins 6-7 fylkjum þar sem staðan er svo jöfn að ómögulegt er að spá um það hvor frambjóðandinn hljóti kjörmenn þeirra. Ekki er marktækur munur á frambjóðendunum heldur á landsvísu þegar fimm sólarhringar eru í að kjörstaðir opni. Óttast helstu spekingar í Bandaríkjunum reyndar það mest af öllu að úrslitin verði jafnvel með þeim hætti að báðir frambjóðendur hljóti 269 kjörmenn og þeir endi í pattstöðu með jafntefli. Ef til þess kæmi að báðir frambjóðendur hefðu jafnmarga kjörmenn í kjörmannasamkundunni verður það hlutskipti fulltrúadeildarinnar að kjósa forsetann og öldungadeildarinnar að velja varaforsetann. Fáir efast um að repúblikanar hafa þar forystustöðu og yrði Bush því væntanlega kjörinn forseti ef til þessa ferlis kæmi. Hinsvegar er óvíst með valdahlutföll í öldungadeildinni og því gæti allt eins farið svo að Bush myndi þurfa að sætta sig við John Edwards varaforsetaefni Kerrys, sem varaforseta landsins. Ef til þess kæmi myndi skella á stjórnarfarsleg kreppa í landinu og viðeigandi átök í réttarsölum um lögmæti kosninga í fylkjum, enda ólíklegt að þessir tveir menn hefðu áhuga á nánu samstarfi. Líklegast er að slík málaferli myndu beinast að úrslitum í Flórída og Ohio, en nokkuð öruggt er að úrslit í þessum tveim fylkjum muni ráða úrslitum að lokum. Allir vita um áhrifamátt Flórída árið 2000, þegar Bush tryggði sér sigurinn endanlega með útkomu í dómssal Hæstaréttar í Washington. Eru margir hræddir um að slíkt endurtaki sig og eru vangaveltur manna með þeim hætti að staðan í Ohio gefi tilefni til þess að svo hnífjafnt sé að lagaflækjur muni einkenna niðurstöðu mála þar eftir kjördag. Orrahríðin milli forsetaefna flokkanna stóru í bandarískum stjórnmálum jafnast á við það sem gerðist í kosningunum 2000 og 1960 þegar allt stefndi í jafnan og tvísýnan lokasprett og ekki mátti á milli svo hvor stæði með pálmann í höndunum við marklínuna. Einkennist baráttan af því nú með viðeigandi persónuárásum og skítkasti.

John KerrySamhliða forsetakosningunum á þriðjudag verður kosið um fjölda sæta í fulltrúa- og öldungadeild Bandaríkjaþings, og um ríkisstjóra í nokkrum fylkjum. Er mismikil spenna hvað varðar þingkosningahlutann. Ólíklegt er að demókrötum takist að fella meirihluta repúblikana í fulltrúadeildinni, sem verið hefur við völd frá nóvember 1994 er demókratar og Bill Clinton þáverandi forseti, biðu táknrænan ósigur, enda höfðu demókratar haft meirihluta í deildinni í nokkra áratugi. Öllu meiri líkur eru á því að demókratar nái að fella nauman meirihluta repúblikana í öldungadeildinni. Repúblikanar náðu að fella meirihluta demókrata í deildinni í þingkosningunum 2002 og ná með því völdum í báðum deildum þings. Nokkrir þingmenn sækjast eftir endurkjöri og eru örlög þeirra misjafnlega örugg. Flestir eru taldir líklegir um að hljóta endurkjör en ljóst er þó að staða Tom Daschle leiðtoga demókrata í öldungadeildinni, er veikust. Hann er langt í frá öruggur um endurkjör í S-Dakóta þar sem hann á í höggi við John Thune sem var valinn til framboðs þar af stuðningsmannasveit forsetans, til að losna við Daschle úr forystu demókrata. Ljóst er að stefnt getur í spennandi kosninganótt hvað varðar nokkrar kosningar um öldungadeildarþingsætin, einkum í S-Dakóta. Þegar svo stutt er til forsetakosninga sem raun ber vitni er hvert skref frambjóðandanna vandlega skipulagt, allt frá framkomu við ræðumennsku til allra smáaatriða, hvert sé farið og hvað er sagt á kosningafundum. Best sést þetta í vali frambjóðenda á fötum. Algengast hefur þótt á undanförnum árum að hinn týpíski frambjóðandi sé í dökkbláum jakkafötum, hvítri skyrtu og með rautt eða blátt bindi. Er löng hefð fyrir þessari samsetningu. Blátt bendir til trausts yfirbragðs en rautt gefur í skyn djörfung og áræðni. Baráttan er hörð nú undir lokin og stefnir allt í æsispennandi lokasprett. Í dag verður Kerry á ferð um Ohio, Wisconsin og endar í kvöld í Flórída á kosningafundi. Forsetinn verður á faraldsfæti á sömu slóðum í dag og í gær, hann verður á ferð um lykilfylkin Pennsylvaníu, Ohio og Michigan. Allt er lagt í sölurnar nú undir lokin til að ná til kjósendanna í baráttufylkjunum.

Yasser ArafatHeitast í umræðunni
Yasser Arafat forseti Palestínu, hefur undanfarnar vikur legið á sjúkrabeði og vangaveltur höfðu aukist eftir því sem á leið hvers eðlis veikindi hans væru. Lengi vel neituðu talsmenn hans og nánustu samverkamenn í Ramallah að hann væri alvarlega veikur og nefndu að veikindi hans væru minniháttar og hann væri á batavegi. Málið tók nýja stefnu seinnipartinn í gær þegar Arafat hné niður í höfuðstöðvum sínum á Vesturbakkanum og missti meðvitund um tíma. Eftir það tjáðu talsmenn hans og forystumenn palestínskra stjórnmála sig loks af hreinskilni og viðurkennt var að veikindi forsetans væru slíks eðlis að heilsa hans væri mjög brothætt og liti illa út. Misvísandi fregnir hafa verið að undanförnu um hvers eðlis veikindi hans eru, lengst af var sagt að hann væri aðeins með flensu og eða gallstein, sem eru vel læknanlegir kvillar og ekki lífshættulegs eðlis. Þær sögusagnir að forsetinn væri haldinn banvænum sjúkdómi: líklegast krabbameini, blóðveiru eða lífshættulegri sýkingu fengu því byr undir báða vængi þegar fréttist að heilsu hans hefði hrakað snögglega. Læknar fengu leyfi til að koma í Ramallah og skoða forsetann í gærkvöldi og fylgjast náið með ástandi hans nú. Eiginkona Arafats, Suha, kom seinnipartinn í dag til Vesturbakkans, en hún býr í Frakklandi. Koma hennar til Ramallah staðfestir það að ástand Arafats er mjög brothætt. Arafat tók þátt í morgunbænum í höfuðstöðvum sínum og mun að sögn viðstaddra vera mjög veikburða og frekar illa haldinn. Lítill vafi leikur á að ástand hans er alvarlegt, það að talsmenn hans viðurkenni að fullu veikindi hans og útskýri þau með þeim hætti sem var í gær staðfestir þann grun að hann sé langt leiddur af ólæknanlegum sjúkdómi. Arafat er 75 ára gamall, hann hefur verið pólitískur leiðtogi Palestínumanna í tæplega 40 ár. Hann varð einn af forystumönnum PLO árið 1964 og hefur setið sem formaður þess frá 1969 og leitt baráttu landsins fyrir sjálfstæði sínu. Hann var kjörinn forseti landsins fyrir áratug og hlaut friðarverðlaun Nóbels árið 1994 ásamt Yitzhak Rabin þáv. forsætisráðherra Ísraels, sem féll fyrir morðingjahendi í nóvember 1995, og Shimon Peres þáv. utanríkisráðherra Ísraels, vegna hins sögulega Oslóar-friðarsamnings 1993, sem batt tímabundið enda á átök ríkjanna.

Arafat á sjúkrabeðiUndir kvöld var svo tilkynnt formlega að forsetinn yrði fluttur til Parísar og gengist þar undir rannsóknir vegna veikinda sinna. Jafnframt voru birtar myndir, sem sýna hann brosandi en greinilega mikið veikan. Það er engin furða að reynt var að fara með heilsu og ástand forsetans sem trúnaðarlegt leyndarmál innan veggja stjórnarbygginganna, eins lengi og mögulegt var. Stjórnmálaleg staða Palestínu og forystu landsins er með þeim hætti að fullyrða má að veikindi forsetans eða snögglegt andlát hans muni leiða til glundroða í stjórnmálalífi landsins og leiða til valdabaráttu án sjáanlegra endaloka. Líklegast er að nánustu samstarfsmenn forsetans, Ahmed Qurie, Mahmoud Abbas og Salim al-Zaanoun, standi sterkast að vígi sem mögulegir eftirmenn hans á forsetastóli. Allir eru þeir fulltrúar í stjórnmálasamtökum Arafats, Fatah, sem hefur leitt stjórn landsins undanfarin ár. Það er þó langt í frá sjálfgefið að aðrar fylkingar í palestínskri pólitík, t.d. hinar herskáu Hamas og Jihad, sætti sig við að forsetastóllinn færist sjálfkrafa til annarra aðila í samtökum Arafats. Samstaða hefur verið um að Arafat leiddi stjórn landsins og verður engin valdabarátta beint til staðar meðan hans nýtur við. Að Arafat látnum er hætt við að allt sjóði uppúr og erfitt verði að ná samstöðu um stjórn landsins og valdaröð þar. Það er því alls óvíst að næsti forseti landsins yrði úr Fatah. Greinilegt er á öllu málinu að staða Arafats sem leiðtoga landsins er sterk. Það að hann missi heilsuna snögglega eða hverfi af sjónarsviðinu vegna veikinda munu reyna verulega á þolrif stjórnmálanna í landi hans og hver framtíð þess verður. Það hefur löngum verið talinn veikleiki sterkra leiðtoga að dreifa ekki völdum og tryggja ekki stjórnmálalega forystu ef til breytinga kemur. Það má segja um Arafat, hann hefur aldrei hleypt neinum það nálægt sér að hann deili forystulegu sviðsljósi og kann það að leiða til afdrifaríkrar atburðarásar hverfi hann af sjónarsviðinu nú.

Og VodafoneÓhætt er að fullyrða að þau tíðindi hafi komið mjög á óvart í morgun að Og Vodafone hafi keypt 90% hlutabréfa í Norðurljósum og stefni að því að kaupa öll hlutabréf í fyrirtækinu á næstunni. Munu kaupin nema tæpum 4 milljörðum króna. Er um skipti milli hægri og vinstri handar Baugs að ræða, enda fyrirtækin bæði í eigu þeirrar viðskiptablokkar. Miklar skipulagsbreytingar fylgja samhliða þessu. Sigurður G. Guðjónsson sem verið hefur forstjóri Norðurljósa, allt frá uppgjörinu mikla milli Jóns Ólafssonar og Hreggviðs Jónssonar árið 2002, lætur nú af störfum og víkur á braut. Honum var ekki tryggður áframhaldandi sess hjá fyrirtækinu, sem hlýtur eflaust að verða mikið áfall fyrir þá sem stóðu næst honum í forsetabústaðnum og fleiri stöðum, t.d. í stjórnarandstöðunni í tengslum við fjölmiðlamálið fyrr á árinu og vörðu stöðu hans og fyrirtækisins í gegnum það. Samfylkingin hefur jú virkað eins og stjórnmálaarmur Norðurljósa að undanförnu. Gunnar Smári Egilsson stjórnarmaður í Norðurljósum og fráfarandi ritstjóri Fréttablaðsins, fær stöðuhækkun svo um munar og verður yfirmaður Norðurljósa í stað Sigurðar. Páll Magnússon aðalfréttaþulur Stöðvar 2 og yfirmaður dagskrársviðs þess, verður sjónvarpsstjóri Stöðvar 2, samhliða þessu. Auk Sigurðar víkja Marínó Guðmundsson fjármálastjóri, og Karl Garðarsson framkvæmdastjóri rekstrarsviðs og fyrrum fréttastjóri Stöðvar 2, á braut. Kári Jónasson tekur samhliða þessu við ritstjórastöðu Gunnars Smára hjá Fréttablaðinu á mánudag. Eru þessi kaup mjög athyglisverð í ljósi ummæla Skarphéðins Bergs Steinarssonar stjórnarformanns Norðurljósa og ennfremur Og Vodafone, um kaup Símans í Skjá einum, og undrun hans á því að símafyrirtæki keypti fjölmiðil. Hætt er við því að hann og hirðin í kringum sé að éta hattinn sinn með þessum kaupum og með því að henda fjármálastjóra forsetaframboðs sitjandi forseta Íslands út á guð og gaddinn. Spurt er nú einfaldrar spurningar: mun Samkeppnisstofnun heimila markaðsráðandi aðila á matvörumarkaði, sem á ráðandi eignarhald í fyrirtæki sem á stærsta dagblað landsins, stærstu sjónvarpsblokk landsins, stærstu útvarpsstöð landsins ásamt fleiru að eiga þetta allt saman?

Dagurinn í dag
1780 Reynistaðarbræður lögðu af stað úr Árnessýslu norður Kjöl við fimmta mann, með 180 kindur og 16 hesta - þeir fórust í aftakaveðri í Kjalhrauni. Almennar sögur segja að andi þeirra sé þar enn
1848 Dómkirkjan í Reykjavík var endurvígð eftir endurbætur - höfuðkirkja íslensku þjóðkirkjunnar
1886 Grover Cleveland forseti Bandaríkjanna, vígir frelsisstyttuna í New York - var gjöf Frakka
1962 Kúbudeilunni lýkur - John F. Kennedy forseti Bandaríkjanna, tilkynnir að hættuástand sé liðið hjá og að Sovétmenn hafi látið undan og hörfað frá Kúbu. Hættuástand var í málinu í 13 daga
1987 Spjallþátturinn Á tali hjá Hemma Gunn, var í fyrsta skipti á dagskrá Ríkissjónvarpsins - varð langvinsælasti spjallþáttur íslenskrar sjónvarpssögu og var á dagskrá Sjónvarpsins í tæpan áratug

Snjallyrði dagsins
There is no such thing as society. There are individual men and women, and there are families.
Margaret Thatcher forsætisráðherra Bretlands

Engin fyrirsögn

George W. BushBush vs. Kerry > 6 dagar
Harkalegar málefna- og persónuárásir milli George W. Bush og John Kerry, keppinautanna um forsetaembættið í Bandaríkjunum, einkennir kosningabaráttuna á lokasprettinum. Þegar aðeins 6 dagar eru í að kjósendur gangi að kjörborðinu er baráttan orðin að óvægnu og harkalegu áróðursstríði sem virðist sífellt taka neikvæðari ásýnd eftir því sem styttist í að henni ljúki, þótti mörgum nóg um fyrir. Frambjóðendurnir eru á fleygiferð um lykilfylki baráttunnar, 10-12 að tölu, þar sem meginátakalínur kosningaslagsins eru og verða allt til loka. Þar sem baráttan er jafnhörð í lykilfylkjunum sem raun ber vitni grípa frambjóðendur öll tækifæri til að ráðast að andstæðingnum og skoðunum hans og grípa á lofti til að hamra á sem tæki til sóknarfæra í slagnum. Er þetta gert með enn ákveðnari hætti en nokkru sinni fyrr, og er meira að segja algengara nú en á lokasprettinum 2000 þegar Bush og Al Gore kepptu um forsetaembættið. Flestallar skoðanakannanir sýna að Bush forseti, hafi nokkur prósentustig umfram keppinaut sinn á landsvísu. Óákveðnum hefur að sama skapi fækkað umtalsvert, voru fyrir rúmri viku um 18% en eru komnir niður í einungis 4%. Fólk er greinilega að taka endanlega afstöðu til frambjóðandanna nú og mynda sér skoðun á hvor frambjóðandinn sé vænlegri til að vinna að þeim stefnumálum sem viðkomandi telur rétt að koma í framkvæmd eða stefna að á næsta kjörtímabili. Athyglisverðast er að lítil teljanleg breyting verður prósentulega við það að óákveðnir taki afstöðu og verður því enn fróðlegra að sjá framvinduna næstu daga, eftir því sem fólk sem var mitt á milli í afstöðu til forsetaefnanna ákveður hvernig kjósa skuli á þriðjudaginn. Miklar pælingar eru um hvernig lokaslagnum verði hagað. Almennt er talið að ef forsetinn auki fylgi sitt væri hugsanlegt að sumir fylgismanna hans telji með öllu ónauðsynlegt að greiða atkvæði á kjördag. Að sama skapi gæti hinsvegar forskotið kynt undir mönnum Kerrys og leitt til þess að þeir skiluðu sér frekar á kjörstað en annars, til að koma afstöðu sinni til skila ef jafnt verður á metunum, eins og kannanir sýna fram á nú. Leiðir þetta hugann að stöðu minnihlutahópa, sem gætu jafnvel ráðið úrslitum ef jafnræði verður með forsetaefnunum. Meðal þeldökkra, lítt menntaðra og lágtekjufólks nýtur Kerry meira fylgis. Þetta vita demókratar og vinna að því með krafti að fá þetta fólk til að kjósa. En það hefur ekki alltaf gengið sem best gegnum tíðina. Greinilegt er hinsvegar á öllu að frambjóðendurnir berjast af krafti allt til enda og öllu er beitt í áróðursstríðinu.

John KerryÍ harkalegum auglýsingum sem birst hafa seinustu daga ræðst Kerry að forsetanum varðandi málefni Íraks og stöðu mála eftir stríðið þar tengt nýjustu fréttum og vangaveltum. Í ræðu í Wisconsin réðst forsetinn harkalega að Kerry og sagði að hann hefði ekkert annað fram að færa nema umkvartanir. Ekkert væri nýtt í málflutningi hans, engar hugmyndir né stefnumótun um hvernig stjórna skuli landinu með öðrum hætti en gert hefði verið. Kerry var á sömu slóðum í baráttunni í ræðu sinni í Nýju Mexíkó í gær. Það eina í boðskap hans þar var að Bush væri með öllu óhæfur leiðtogi, hefði brugðist skyldu sinni og mistekist að gæta öryggis Bandaríkjanna. Svo virðist vera sem meginefni baráttunnar hafi komið fram í kappræðunum og forsetaefnin endurtaka einungis það sama nú á lokasprettinum og þar kom fram, í mismunandi útgáfum frá degi til dags. Umræða um Hæstarétt er mikil, en við blasir að sá sem nær kjöri á þriðjudag muni skipa a.m.k. 2 dómara við réttinn á komandi kjörtímabili. Mikil umfjöllun er á fréttavefum um allan heim um kosningaslaginn og þá baráttu sem á sér stað nú seinustu dagana. Athygli mína vakti vangaveltur í tveim góðum fréttaskýringum um hvernig forsetaefnin myndu haga störfum sínum á kjörtímabilinu 2005-2009 ef þeir næðu kjöri. Í fréttaskýringunni um annað kjörtímabil forsetans er almennt búist við að hann myndi sigla lygnan sjó, enda líklegt að þingmeirihluti flokksins í báðum deildum muni haldast, einnig er vikið að athyglisverðum pælingum um ráðherrakapal Bush, en almennt er talið að lykilráðherrar stjórnar hans séu á útleið. Í fréttaskýringunni um kjörtímabil Kerry, kemur einkum fram að hann myndi eiga erfitt með að koma málum í gegn vegna þess að hann hefði ekki báðar deildir þingsins á bakvið sig ef hann næði kjöri. Í gær var svo á Stöð 2 vönduð og vel gerð fréttaskýring um meginlínur í stefnu í bandarískri pólitík. Kosningabaráttan heldur áfram í dag af sama krafti og fyrr. Í dag verður Kerry á ferð um Iowa, Minnesota og Ohio. Forsetinn verður á faraldsfæti um lykilfylkin í dag. Hann fór frá Hvíta húsinu í morgun og hélt til Pennsylvaníu. Hann fer þaðan til Ohio og mun ljúka deginum ásamt forsetafrúnni á kosningaferðalagi í Michigan. Kraftmikill kosningaslagur er í lykilfylkjunum eftir því sem styttist í úrslitadaginn stóra.

Kristján Þór Júlíusson bæjarstjóriHeitast í umræðunni
Kristján Þór Júlíusson bæjarstjóri, kynnti á fundi með Þorgerði Katrínu Gunnarsdóttur menntamálaráðherra, í gær, og með kennurum á Norðurlandi fyrr í vikunni, tillögur að nýrri lausn í kjaradeilu grunnskólakennara og sveitarfélaganna, en verkfall grunnskólakennara hefur nú staðið í tæpa 40 daga. Markmið hugmynda Kristjáns eru að einfalda allt vinnuferli að kjarasamningum kennara og stokka upp launakerfi þeirra og vinnutíma. Hún felur í sér 300 þúsund króna meðalgrunnlaun gegn því meginatriði að vinnutími kennara yrði einfaldaður. Lítið miðar í samningaviðræðum í Karphúsinu og kom ekkert út úr samningafundinum sem forsætisráðherra beitti sér fyrir að yrði haldinn í gær. Að óbreyttu er kjaradeilan í algjörum hnút. Því er mikilvægt að fram komi nýjar tillögur og af hinu góða að bæjarstjóri leggi fram nýjar tillögur og útfærslur sem hægt sé að ræða um. Viðbrögð kennaraforystunnar eru frekar fálegar að manni finnst, ekki fjarri því að læðist að fólki endanlega sá grunur að forystumenn þeirra hafi stefnt að verkfalli frá upphafi og njóti sín í stöðunni. Er að mínu mati mjög slæmt að deiluaðilar geti ekki rætt málin og að akkúrat enginn flötur sé til staðar í málinu eftir allan þennan tíma og að þetta langa verkfall stendur enn, eftir deilur og karp um krónutölur, prósentur og fleiri þætti til fleiri vikna. Hefur verkfallið staðið nú í svipaðan tíma og seinasta verkfall grunnskólakennara, árið 1995. Stefnir það að óbreyttu í að verða eitt lengsta verkfall kennara í sögu skólamála á Íslandi. Er því brýnt að leita leiða til að leysa málið og mikilvægt að menn setjist aftur að borðinu og fari helst ekki frá því eða úr Karphúsinu fyrr en niðurstöðu er náð, farsælli fyrir alla aðila og að nemendur fari á ný til skóla og hljóti þá menntun sem þeim á að tryggja samkvæmt lögum. Tillaga bæjarstjóra er góð og mikilvæg sem grundvöllur að farsælli lausn.

Viðtöl við bæjarstjóra
Kastljósið
Ísland í dag

José Manuel Durão BarrosoJosé Manuel Durão Barroso verðandi forseti framkvæmdastjórnar Evrópusambandsins og fyrrum forsætisráðherra Portúgals, tilkynnti í morgun að hann hefði dregið til baka tillögu sína um skipun 24 manna framkvæmdastjórnar sambandsins. Við hafði blasað að ekki var meirihluti við framkvæmdastjórnina í væntanlegri atkvæðagreiðslu um hana vegna andstöðu stórs hluta þingmanna á Evrópuþinginu við Rocco Buttiglione fulltrúa Ítala í framkvæmdastjórninni. Mun Barroso nú leita eftir samkomulagi um skipan nýrrar stjórnar og leggja hana fram til samþykktar þegar það lægi fyrir. Kjörtímabil fráfarandi framkvæmdastjórnar rennur út á mánudag. Mun hún starfa áfram sem starfandi framkvæmdastjórn þar til samkomulag hefur náðst um nýja skipan. Mun Romano Prodi fráfarandi forseti framkvæmdastjórnarinnar, því sitja áfram sem slíkur enn um sinn. Greiða átti atkvæði um tillögu Barroso og samkomulag hans við önnur ríki um fulltrúa í framkvæmdastjórnina í dag. Lá fyrir að andstaðan við Buttiglione var orðin slík að hún hefði fellt alla stjórnarheildina, en kosið er um allan pakkann í einu. Buttiglione, sem er kaþólskur og mjög strangtrúaður, hefur eindregnar skoðanir á kvenréttindum, samkynhneigðum og málefnum flóttamanna sem þykja ekki vera í takt við nútímann. Þótti hann tjá sig óvarlega um málefni kvenna og samkynhneigða eftir skipan sína og hafa eyðilagt mjög fyrir Barroso og öðrum tilnefndum í framkvæmdastjórnina. Það að hann yrði yfirmaður dómsmála hjá ESB gerði útslagið um að margir gátu ekki sætt sig við hann, vegna tjáninga hans á skoðunum um fyrrnefnd málefni.

SíminnÁlyktun stjórnar Varðar
Stjórn Varðar, félags ungra sjálfstæðismanna á Akureyri, kom saman til fundar í gær undir minni stjórn. Eftirfarandi ályktun var samþykkt á fundinum:

Vörður, félag ungra sjálfstæðismanna á Akureyri, telur mikilvægt að einkavæðingarnefnd hefji sem fyrst ferlið að sölu Símans og fyrirtækið verði einkavætt. Sérstaklega er mikilvægt að flýta ferlinu í ljósi kaupa Símans á ráðandi hlut í Skjá 1. Kaup ríkisfyrirtækis á ráðandi hlut í einkafyrirtæki með þeim hætti sem hér um ræðir stríðir að mati Varðar gegn þeirri hugmyndafræði sem Sjálfstæðisflokkurinn hefur starfað eftir og haft að leiðarljósi allt frá stofnun árið 1929. Vörður telur ennfremur rétt að minna á mikilvægi þess að ríkið dragi sig út úr rekstri fjölmiðla. Mikilvægt er að einkavæða Ríkisútvarpið. RÚV í þeirri mynd sem það er í, í dag er tímaskekkja. Það vinnur algjörlega gegn okkar hugsjónum að ríkisvaldið reki fjölmiðla fyrir skattpeningana okkar þegar einkaaðilar geta staðið í slíku. Það er engin þörf á því að ríkið standi í fjölmiðlarekstri í samkeppni við einkaaðila.

Umfjöllun um ályktun Varðar, félags ungra sjálfstæðismanna á Akureyri

Dagurinn í dag
1674 Sr. Hallgrímur Pétursson prestur og sálmaskáld, lést, sextugur að aldri, úr holdsveiki. Hann var eitt af helstu trúarskáldum Íslendinga. Passíusálmar hans hafa komið út rúmlega sextíu sinnum
1923 Borgaraflokkurinn, hinn fyrri, hlaut meirihluta í þingkosningum - stuðningsmenn hans skiptust ári síðar í Íhaldsflokkinn og Frjálslynda flokkinn, sem sameinaðist svo í Sjálfstæðisflokkinn 1929
1955 Sænska akademían tilkynnti að Halldór Kiljan Laxness hlyti bókmenntaverðlaun Nóbels
1994 Ísrael og Jórdanía sömdu um frið eftir 46 ára átök - leiðtogar þjóðanna, Yitzhak Rabin forsætisráðherra Ísraels, og Hussein konungur, undirrituðu samkomulagið fyrir hönd stjórna sinna - Yitzhak Rabin féll fyrir morðingjahendi í nóvember 1995 og Hussein lést úr krabbameini 1999
2002 Verkalýðsleiðtoginn Luiz Inácio Lula da Silva kjörinn forseti Brasilíu, fyrstur vinstrimanna

Snjallyrði dagsins
The campaign is getting heated up. It's really going crazy and as a matter of fact John Kerry shook up the whole campaign today. He introduced his own lesbian daughter.
Jay Leno spjallþáttastjórnandi

Engin fyrirsögn

Bill Clinton og John Kerry - verður Kerry alltaf í skugga Clintons?Bush vs. Kerry > 7 dagar
Viku fyrir bandarísku forsetakosningarnar hafa keppinautarnir um valdamesta embætti heims, George W. Bush og John Kerry dregið fram stórskotavopnin til að ráðast að hvor öðrum á lokasprettinum. Öllu er nú tjaldað til að heilla kjósendurna í lykilfylkjum baráttunnar, sem munu að lokum ráða úrslitum um það hvor frambjóðandinn hlýtur kjör til forsetaembættisins í næstu viku. Bill Clinton fyrrum forseti Bandaríkjanna, sneri á ný í sviðsljós fjölmiðlanna í gær, á kosningafundi með Kerry í Philadelphiu í Pennsylvaníu. Það var magur og fölur Clinton sem birtist á sviðinu í miðborginni þar og heilsaði fólki og flutti síðan ræðu til stuðnings framboðs Kerrys. Greinilegt er að veikindin hafa dregið úr mætti Clintons, en ræða hans varði aðeins í nokkrar mínútur en greinilegt var að hann naut sviðsljóssins og hann brosti sínu breiðasta og hóf ræðuna með þessum orðum: "If this isn't good for my heart, I don't know what is". Þurfti hann að hvíla sig smástund eftir ræðuna áður en hann fór í mannþvöguna og heilsaði stuðningsmönnum flokksins sem þar voru komnir saman. Er með ólíkindum reyndar hversu Clinton hefur náð krafti eftir þá umfangsmiklu aðgerð sem hann þurfti að fara í, en hann er staðráðinn í að veita Kerry lið, nú þegar úrslitastundin nálgast. Í ræðu sinni talaði Clinton aðallega um arfleifð stjórnar sinnar og mikilvægi þess að standa vörð um verk sín. Það var ekki fyrr en undir lokin sem hann beindi talinu að kosningunum í næstu viku og hvatti hann almenning til að koma landinu aftur á valdaheimskortið með valdaskiptum. Demókratar binda miklar vonir við að með því að Bill Clinton verði sýnilegur á lokasprettinum og ljái framboði Kerrys stuðnings, muni það skila sér í meira fylgi og kjörsókn meðal flokksmanna í lykilfylkjunum þar sem mjótt er á mununum og baráttan er mun harðari en annarsstaðar. Augljóst var reyndar á viðtölum við fólk í mannþvögunni í Philadelphiu að flestir voru í raun að koma til að sjá forsetann fyrrverandi og ræða við hann. Demókratar virðast reyndar sameinast um hið eina mikilvæga að þeirra mati, að koma Bush frá völdum. Það er ekki aðdáun eða virðing fyrir Kerry sem frambjóðanda eða stefnumálum hans sem þjappar þeim saman, heldur eitthvað annað eins og sífellt verður augljósara. Það sést sífellt betur að Kerry er gallaður frambjóðandi en aðrir þættir en kostir hans ráða úrslitum um að demókratar slá um hann skjaldborg.

Rudolph Giuliani og George W. BushSeinnipartinn í gær var Bush forseti, á kosningafundi í Davenport í Iowa með Rudolph Giuliani fyrrum borgarstjóra í New York. Var þeim ákaft fagnað er þeir birtust á sviðinu og ávörpuðu flokksmenn. Samkvæmt nýjustu skoðanakönnunum í fylkinu eru sífellt meiri líkur á að Bush vinni þar sigur og hljóti sjö kjörmenn þess. Bush tapaði naumlega í Iowa í forsetakosningunum 2000 fyrir Al Gore, munaði aðeins um 300.000 atkvæðum. Bush leggur mikla áherslu á að vinna þar og leggur jafnframt lykiláherslu á Pennsylvaníu, Ohio, Wisconsin, Missouri, Colorado og síðast en ekki síst Flórída. Þessi fylki telur hann mikilvægast að vinna og með sigri í þeim er annað fjögurra ára kjörtímabil tryggt. Nýjustu skoðanakannanir á landsvísu eru mjög misvísandi, en sýna flestar forskot forsetans á landsvísu. Í könnun Gallups fyrir CNN hefur forsetinn fimm prósentustiga forskot á keppinaut sinn, hefur 51% á móti 46% Kerrys. Í könnun ABC og Washington Post er John Kerry með prósentuforskot, hefur 49% gegn 48% forsetans. Reuter og Zogby mæla forsetann með 48% en Kerry með 45%. Í nýjustu könnuninni í Flórída er forsetinn kominn með marktækt forskot á keppinaut sinn, er ljóst að lokaslagurinn þar verður gríðarlega harður. Greinilegt er að sjónvarpsstöðvarnar íslensku ætla að vera með góða og vandaða umfjöllun um kosningaslaginn á lokasprettinum, eins og venjulega. Það er í eðli okkar Íslendinga að hafa mikinn áhuga á þessum kosningaslag og gott að fréttastofurnar mæta því með kraftmiklum hætti. Katrín Pálsdóttir hefur seinustu daga verið með góðar fréttaskýringar og viðtöl fyrir RÚV og er úti núna. Í gærkvöldi var Ingó Bjarni með ítarlega fréttaskýringu á Stöð 2 um kjörmannakerfið merkilega og flókna. Það veitir ekki af að fara vel yfir það fyrir þá sem ekki þekkja vel til. Ég man að í fyrstu kosningunum sem ég fylgdist með af áhuga, árið 1992, tók mig dágóðan tíma að ná öllum smáatriðunum tengt þessu gamalgróna kerfi og hafa allt á hreinu. Hvet alla til að kynna sér þetta. Kosningabaráttan heldur áfram í dag af sama krafti og fyrr. Í dag verður Kerry á ferð um Wisconsin, Nevada, Nýju Mexico og Iowa. Forsetinn verður á ferð um Wisconsin stóran hluta dagsins, fer svo til Missouri og endar í Washington, til að sinna embættisverkum í kvöld. Baráttan er geysihörð já á lokasprettinum.

Edmund Stoiber og dr. Angela MerkelHeitast í umræðunni
Tæp tvö ár eru til þingkosninga í Þýskalandi. Í seinustu þingkosningum, í september 2002, hélt vinstristjórnin í landinu, undir forsæti Gerhard Schröder naumlega völdum. Jafnaðarmannaflokkurinn missti mikið fylgi en stjórnin hélt vegna fylgisaukningar samstarfsflokksins, græningja. Munaði mjög litlu að kosningabandalag hægrimanna, undir forystu Edmund Stoiber forsætisráðherra Bæjaralands og leiðtoga CSU, næði völdum. Hefur stjórn Schröders allt frá því verið veik í sessi og staðið höllum fæti gegn öflugri stjórnarandstöðu í þinginu. Einn er galli hægrimannanna í þýskri pólitík. Þeir geta ekki með góðu sameinast um einn afgerandi leiðtoga fyrir næstu þingkosningar. Stefnir allt í að Stoiber og dr. Angela Merkel leiðtogi CDU (kristilegra demókrata) muni slást um hvort þeirra verði kanslaraefni hægriblokkarinnar (CDU/CSU) í þeim kosningum. Mörgum hefur þótt eðlilegt að Merkel leiddi baráttuna, enda hefur Stoiber fengið sitt tækifæri. dr. Angela Merkel fengi að taka slaginn og skora kanslarann á hólm. Margir sjá þýsku útgáfuna af Margaret Thatcher í henni og að hún verði leiðtogi hægrimanna í Evrópu með sama hætti og Thatcher náði sinni stöðu fyrir tæpum þrem áratugum. Merkel er töffari í þýskri pólitík og þykir í flestu andstæða hins íhaldssama Edmund Stoiber. Angela komst til áhrifa innan CDU á valdatíma Helmut Kohl og þykir almennt vera pólitísk fósturdóttir hans. Hún er fimmtug, tvífráskilin og barnlaus og því langt í frá lík hinum 63 ára forsætisráðherra Bæjaralands sem þykir vera ímynd hins heilbrigða fjölskyldulífs sem hinn harðgifti fjölskyldufaðir. Stoiber hefur hug á að reyna aftur að leggja í kanslarann og Merkel hefur hug á að verða fyrsti kvenkyns kanslari Þýskalands. Aðeins annað þeirra getur þó leitt hægriblokkina til valda. Tel ég persónulega rétt að Angela leiði næstu kosningabaráttu, hún hefur þann kraft og kjark sem þarf til að leggja hina máttlitlu vinstristjórn jafnaðarmanna og græningja að velli. Nauðsynlegt er að þau sameini krafta sína og verði bæði í forystu kosningabaráttunnar en Angela sem leiðtogi CDU leiði slaginn að þessu sinni. Ég hef lengi haft áhuga á þýskri pólitík og fylgist vel með þýskum netfréttum. Ég vil hvetja alla áhugamenn um þýska pólitík til að lesa ítarlega og vandaða fréttaskýringu Ásgeirs Sverrissonar um leiðtogamál hægrimanna í Þýskalandi í Mogganum í gær, þar sem farið er yfir málið og allar hliðar þess með góðum hætti.

ÍrakEitt af því sem deilt hefur verið um í kosningabaráttunni fyrir bandarísku forsetakosningarnar seinustu daga, er hvarf hátt í fjögur hundruð tonna af mjög öflugu sprengiefni úr vopnageymslu í Írak. Er það meðal annars hægt að nota til að koma af stað kjarnorkusprengju. Hefur John Kerry undanfarna daga gagnrýnt forsetann um að stefna hernámsliðinu í hættu með því að hafa ekki látið hafa gætur á geymslunni. Hefur Bush forseti, ekki enn svarað beint spurningum vegna málsins. Málið tók athyglisverða stefnu í gærkvöldi þegar hópur fréttamanna frá NBC sjónvarpsstöðinni greindi frá því að sprengiefnin sem hurfu hafi þegar verið horfin þegar Bandaríkjaher kom á staðinn í aprílmánuði 2003, eftir fall einræðisstjórnar Saddams Husseins. Einn fréttamannanna lýsti því í viðtali í gærkvöldi hvernig aðkoman hafi verið í apríl 2003 og enginn vafi væri á að vopnin hafi þá ekki verið til staðar og þegar verið horfin fyrir komu Bandaríkjamanna á staðinn. Fréttamenn og myndatökumenn NBC munu hafa fylgt 101. deild flughersins er hún kom að Al Qaqaa geymsluhúsnæðinu sem um er rætt og er staðsett fyrir sunnan höfuðborgina Bagdad. Þá hafi HMX og RDX-sprengiefnin, sem greint hefur verið frá að hafi horfið, þegar verið horfin. Hermennirnir hafi einungis fundið "venjuleg" sprengiefni á vettvangi. Kerry hefur ekki enn tjáð sig um málið, en hann hefur látið stór orð falla og verður eflaust að mæta þeim ef sannast að vopnin hafi ekki verið til staðar við komu hernámsliðsins til landsins. Ekki er víst hvort og þá hvaða áhrif umræða um þetta mál mun hafa á úrslit kosninganna í næstu viku.

Kristján Þór Júlíusson bæjarstjóri, kynnir hugmyndir að lausn kennaradeilunnar
Viðtal við Kristján Þór - rætt við hann um hugmyndir til lausnar kennaradeilunni
José Barroso ætlar ekki að gefa eftir og stokka upp skipan í framkvæmdastjórn ESB


Dagurinn í dag
1927 Gagnfræðaskólanum á Akureyri var veitt formlega leyfi til að útskrifa nemendur sem stúdenta - samhliða þeim breytingum var nafni skólans breytt og hét hann eftir það Menntaskólinn á Akureyri
1951 Winston Churchill komst aftur til valda í breskum stjórnmálum eftir nauman kosningasigur. Churchill sat áður sem forsætisráðherra Bretlands á stríðsárunum, 1940-1945, en leiddi flokk sinn í stjórnarandstöðu í sex ár. Churchill lét af embætti og hætti í pólitík 1955 - hann lést árið 1965
1965 Reykjanesbraut, milli Keflavíkur og Hafnarfjarðar, var formlega opnuð til umferðar - var fyrsti eiginlegi þjóðvegurinn sem var lagður bundnu slitlagi - fyrst í stað var vegatollur þar innheimtur
1986 Hallgrímskirkja í Reykjavík var vígð - hún var reist til minningar um sr. Hallgrím Pétursson
1995 20 manns fórust þegar snjóflóð féll úr Skollahvilft á byggðina á Flateyri við Önundarfjörð klukkan fjögur að nóttu. Strax eftir að flóðið féll tókst að bjarga sex mönnum á lífi og fjórum um hádegið. Hundruð manna tóku þátt í leit og björgun, en erfitt var að komast þangað vegna veðurs, einungis var fært þangað sjóleiðina. Aftakaveður var um allt land á þessum degi og verst á Vestfjörðum. Snjóflóðið á Flateyri er eitt mannskæðasta snjóflóð í sögu landsins. Þjóðarsorg var í landinu vegna þessara hörmulegu náttúruhamfara, t.d. fóru þáv. forseti og forsætisráðherra vestur til að hughreysta fólk sem átti um sárt að binda þar og voru viðstödd minningarathöfn á Ísafirði

Snjallyrði dagsins
We're learning more and more about potential first lady Teresa Heinz Kerry. She attacked Mrs. Bush and called her un-educated and inexperienced. Mrs. Kerry on the other hand is a very well educated woman. Did you know that? In fact she can say 'shove it' in five different languages. That is a record Mrs. Bush cannot outscore, she said. Yeb, that´s for sure.
Jay Leno spjallþáttastjórnandi

Engin fyrirsögn

George W. Bush og John KerryHeitast í umræðunni
Nú, þegar einungis 8 dagar eru til forsetakosninganna í Bandaríkjunum, ríkir enn mikil spenna um það hvort George W. Bush forseti Bandaríkjanna, eða John Kerry öldungadeildarþingmaður, muni halda um stjórnvölinn í þessu valdamesta ríki heims næstu fjögur árin. Þessi kosningabarátta hefur að mestu leyti snúist um öryggis- og varnarmál, einkum stríðið gegn hryðjuverkum og átökin í Írak og þá einkum spurninguna um það hvor frambjóðendanna sé vænlegri kostur til að vernda Bandaríkin fyrir hryðjuverkum á komandi árum. Má þó eflaust fullyrða að útkoma forsetakosninganna í næstu viku muni hafa meiri áhrif á innanríkismál í Bandaríkjunum en hvernig staðan verður í Írak á komandi árum. Ekki verður betur séð en að átakalínurnar í þessum langa og kraftmikla kosningaslag séu fleiri reyndar og um margt hefur verið tekist á af frambjóðendum í baráttu seinustu mánuða. Enginn deilir um að þeir hafa ólík lífsviðhorf að flestu leyti og áherslur á helstu málaflokkunum. Þeir hafa óneitanlega ólíka sýn í skatta- og atvinnumálum og boða mjög ólíka stefnu í heilbrigðismálum, t.a.m. takast þeir sérstaklega á um málefni sjúkratrygginga. Dauðarefsingar og fóstureyðingar eru ennfremur mál sem þeir hafa ólíkar skoðanir á. Kosningabaráttan er að taka á sig enn harkalegri og kraftmeiri mynd en verið hefur nú þegar seinasta vikan er hafin. Barist er sem fyrr í lykilfylkjunum sem ráða munu úrslitum. Frambjóðendurnir hafa verið á ferð og flugi um þessi fylki seinustu daga og nú á lokasprettinum er allt lagt í sölurnar. Bill Clinton fyrrum forseti Bandaríkjanna, mætir í dag í kosningaslaginn í Pennsylvaníu með Kerry, verður það í fyrsta skipti sem hann kemur fram opinberlega frá því hann gekkst undir hjartaaðgerð í byrjun september, skömmu eftir Íslandsheimsókn sína í ágúst. Auk þess verður Kerry í New Hampshire, Michigan og að lokum í Wisconsin. Í dag verður forsetinn staddur á ferðalagi um nokkur ríki, hann byrjar daginn í Texas, heldur svo ásamt forsetafrúnni til Colorado þar sem þau halda fjöldafund. Að því loknu fara þau til Iowa þar sem forsetinn verður með kosningafund með Rudolph Giuliani fyrrum borgarstjóra í New York. Enda forsetahjónin daginn í Wisconsin á fjöldafundi. Það verða eflaust þreyttir forsetaframbjóðendur sem fara að sofa í kvöld í sömu borg, Green Bay í Wisconsin. Vika eftir - já og slagurinn verður sífellt kraftmeiri, eftir því sem klukkan tifar meira.

KennslaHalldór Ásgrímsson forsætisráðherra, Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir menntamálaráðherra, og Geir H. Haarde fjármálaráðherra, áttu í morgun fund með Eiríki Jónssyni formanni Kennarasambands Íslands, og Birgi Birni Sigurjónssyni formanni samninganefndar sveitarfélanna. Að fundinum loknum kallaði forsætisráðherra, Ásmund Stefánsson ríkissáttasemjara, á sinn fund og var niðurstaða þeirra að boða skyldi fulltrúa kjaradeilunnar á fund á morgun. Verður fróðlegt að sjá hvað kemur út úr þessu, en auðvitað vona allir að samkomulag með eðlilegum launaviðmiðunum náist sem fyrst. Eins og ég fjallaði um í gær var Eiríkur gestur Illuga Gunnarssonar aðstoðarmanns utanríkisráðherra, í spjallþættinum Sunnudagsþátturinn á Skjá einum í gær. Kom fram í spjalli þeirra þar að Illugi telur að ummæli formannsins í Mogganum á föstudag séu þess eðlis að verkfall þeirra hljóti að vera ólöglegt. Sagði Illugi að óneitanlega hlyti 17. grein laga um kjarasamninga opinberra starfsmanna að vekja kennara til töluverðrar umhugsunar. Las Illugi upp ummælin, svohljóðandi: "Eina lausnin sem nú blasir við er að ríkisstjórnin komi að málinu með aukið fjármagn. Hún þarf að koma að þessum málum með því að viðurkenna að skiptingin milli ríkis og sveitarfélaga er röng og hefur verið það lengi?." Eins og Illugi benti réttilega á vakna grunsemdir um hvort verkfallið sé löglegt sé mið tekið af fyrrnefndri 17. grein sem segir að óheimilt sé að deiluaðilar krefjist þess að ríkið geri eitthvað, breyti hegðun sinni eða geri eitthvað sem því er ekki skylt að gera samkvæmt lögum. Gott hjá Illuga að vekja máls á þessu. Var mjög gott í heildina hvernig hann tók á kennaraformanninum. Í dag mátti heyra einn vinstrimanninn í þáttarstjórn gagnrýna á Útvarpi Sögu að aðstoðarmaður ráðherra sjái um slíkan þátt og hafi skoðanir. Er þetta með ólíkindum, síðan hvenær má pólitískt virkt fólk ekki hafa skoðanir og tjá þær, ef komið er fram undir þeim forsendum?

dr. Tom PalmerSkrif Tom Palmer um heimsóknina í Cato
Í ferð minni til Washington DC í byrjun mánaðarins fór ég ásamt öðrum í forystu SUS í Cato Institute við Massachusetts Avenue. Cato stofnunin hefur allt frá stofnun verið ötull málsvari lítilla ríkisafskipta af samfélaginu og frelsi einstaklingsins. Við komuna þangað tók á móti okkur einn af forystumönnum Cato, dr. Tom Palmer forstjóri stofnunarinnar og einn af helstu fyrirlesurum um frelsismálefni. Var mjög ánægjulegt að vera gestur hans þar og ræða við hann um málefni stofnunarinnar og þau málefni sem mestu skipta í Bandaríkjunum í dag. Spurðum við hann spurninga og hann svaraði af krafti. Voru þau skoðanaskipti mjög gagnleg. Vorum við hjá honum í tæpan klukkutíma og nutum við öll þessararar heimsóknar. Tom Palmer hefur í störfum sínum notið mikillar virðingar. Segja verður með sanni að hann er gríðarlega traustur fyrirlesari og málsvari frelsis. Var þetta hiklaust einn af hápunktum ferðarinnar að hitta Tom og ræða við hann um stjórnmál og fleiri málefni sem mestu skipta. Eftir heimkomuna skrifaði ég ítarlegan pistil um ferð okkar, t.d. heimsóknina í Cato. Sérstaklega þótti mér ánægjulegt að dr. Palmer fjallar um þennan pistil minn og heimsókn okkar til hans í Cato í góðri umfjöllun á vef sínum. Jafnframt fékk ég ítarlegan og einkar ánægjulegan tölvupóst frá honum þar sem hann víkur að ýmsum þáttum tengdum skrifunum en hann hefur mikið velt fyrir sér íslensku og oft vitnað í Íslendingasögurnar í fyrirlestrum sínum og er sannkallaður áhugamaður um allt sem tengist sögu landsins. Ræddum við þar málin meira og sendi ég honum slóðir á erlendar samantektir um vefi flokksins, ungliðahreyfingarinnar, stjórnarráðsins og fleira, sem gæti áhugavert talist. Er viðeigandi að þakka honum þessi góðu skrif og góðar móttökur.

I would like to thank dr. Palmer, for his generous hospitality and his warm regards to all of us that came to visit him on October 7h on behalf of SUS, and his kind remarks regarding Iceland. It is quite clear that we, here in Iceland, have a true admirer of Icelandic issues and Icelandic literature in dr. Tom Palmer.

Dagurinn í dag
1875 Fyrsta borgaralega hjónavígslan hér á landi fór fram í Vestmannaeyjum, með leyfi konungs
1937 Ljósafossstöðin var gangsett - með því jókst afl á svæði rafveitu RVK um rúm 13.000 hestöfl
1976 Elísabet Englandsdrottning opnaði formlega þjóðleikhús Bretlands, eftir mörg ár í byggingu
1993 Jean Chretien varð forsætisráðherra Kanada - hann sat á valdastóli allt til desember 2003
2002 Öldungadeildarþingmaðurinn Paul Wellstone frá Minnesota, ferst í flugslysi ásamt eiginkonu sinni Sheilu og dótturinni Marciu, í N-Minnesota á kosningaferðalagi. Hann var fyrst kjörinn í öldungadeildina árið 1990 og endurkjörinn 1996. Í kosningunum 11 dögum síðar var Walter Mondale fyrrum varaforseti Bandaríkjanna, frambjóðandi demókrata í stað hans. Hann tapaði kosningunum fyrir Norm Coleman sem vann sigur þrátt fyrir andlát Wellstone, skömmu fyrir kjördaginn

Snjallyrði dagsins
There are no great limits to growth because there are no limits of human intelligence, imagination, and wonder.
Ronald Reagan forseti Bandaríkjanna (1911-2004)

Engin fyrirsögn

Stefán Friðrik StefánssonSunnudagspistillinn
Að þessu sinni fjalla ég um kosningabaráttuna í Bandaríkjunum, en nú eru einungis 9 dagar, rúm vika, þar til bandarískir kjósendur ganga að kjörborðinu og velja á milli George W. Bush forseta Bandaríkjanna, og John Kerry öldungadeildarþingmanns. Jafnframt fjalla ég um þær forsetakosningar sem ég hef fylgst ítarlega með og ber þær saman við þá sem nú stendur og vík sérstaklega að því hvernig tölvuvæðingin og notkun Netsins hefur haft áhrif á kosningabaráttuna og þá taktík sem notuð er í slagnum. Margt hefur breyst á þeim 12 árum sem liðin eru frá hinum eftirminnilega kosningaslag Bush og Clinton 1992. Þá var Netið ekki orðinn sá mikli þáttur í samskiptum og samskiptatækni í kosningabaráttu sem nú er. Nú hafa forsetaframbjóðendur auðvitað vefsíður og eru með þær sem aðalmiðstöð baráttu sinnar og til að koma upplýsingum til almennings um stefnu sína og áherslur. Jafnframt hefur fréttamiðlun af baráttunni: kosningafundum, samkomum og flokksstarfinu sem tengist kosningum óneitanlega aukist með áberandi hætti. Netvæðingin hefur verið hröð seinasta áratuginn og engin kosningabarátta verður hér eftir háð án notkunar Netsins sem umfangsmikils fjölmiðils. 1992 var ekkert slíkt til staðar, helst var komið upplýsingum til almennings með viðtölum og fjöldafundum. Það er enn til staðar eins og sést í kosningabaráttunni nú og er hitt því hrein viðbót við umfangsmikla kosningabaráttu vestanhafs. Leiðir þetta til þess að frambjóðendurnir eru í enn meiri nálægð við almenning, kjósendur sína. Fréttamennska er ennfremur orðin harðari en var á þessum tíma og gengið mun nær frambjóðendum. Það er áþreifanlegasta breytingin í pólitískum slag vestanhafs. Verkfall kennara hefur staðið í rúman mánuð og horfir þunglega með lausn málsins eftir að uppúr slitnaði milli deiluaðila, fjalla ég um málið og undarleg ummæli menntamálaráðherra hér á Akureyri á föstudag. Borgir, rannsóknar- og nýsköpunarhús Háskólans á Akureyri var tekið í notkun á föstudag. Vík ég að mikilvægi skólans fyrir okkur á Norðurlandi. Að lokum fjalla ég stuttlega um viðbrögð við pistli um ferðina til Washington DC.

Egill HelgasonSunnudagsspjallþættirnir
Gaman var venju samkvæmt að horfa á sunnudagsspjallþætti sjónvarpsstöðvanna. Sunnudagsþátturinn á Skjá einum fer mjög vel af stað og þau Illugi og Katrín stjórna vel sínum þætti og koma með athyglisverðar hliðar á málin. Gaman var að sjá Illuga taka Eirík Jónsson formann Kennarasambandsins, á beinið og sauma að honum um málefni tengd verkfalli grunnskólakennara. Sannaðist þar vel að hann er ekkert annað en argasti kommúnisti og telur að ríkissjóður sé eins og vasinn á pabba gamla, endalaust fullur af peningum til útgjalda og að peningar vaxi á trjánum. Vel gert hjá Illuga. Ólafur Teitur og Guðmundur Steingrímsson eru kraftmiklir með spjallhornið sitt og með fína gesti. Var gaman að sjá Óla Teit taka Ingibjörgu Sólrúnu þar vel í gegn. Í Silfri Egils ræddu Stefán Jón Hafstein, Guðrún Pétursdóttir, Ásta Möller og Eiríkur Stefánsson málefni verkfallsins og voru dugleg að tjá sig og koma með skemmtileg horn á málið. Var fróðlegt að heyra sérstaklega skoðanir Ástu og Guðrúnar og Eiríkur kom oft með athyglisverð sjónarhorn. Össur Skarphéðinsson og Guðni Ágústsson tókust á um málin, einkum Skjá 1 og fjölmiðlamálið sem er Össuri tamt um að tala þegar hann reynir að rökstyðja þvæluna sína um trúnaðarrof sem er eitt af hlægilegum nýyrðum Samfylkingarinnar. Jón Baldvin Hannibalsson sendiherra, ræddi utanríkismál og fór víða yfir og barst talið m.a. að forsetakosningunum í Bandaríkjunum í næstu viku. Að lokum ræddi Egill við hinn fræga Nestor franskra fjölmiðla, Jacques Juillard, sem er einn virtasti blaðamaður Frakklands, höfundur bóka og dálkahöfundur í tímaritinu Le Nouvel Observateur, en honum eins og flestum Frökkum er ekki vel við Bush og hallast að Kerry. Mjög góðir þættir. Alltaf gaman af beittri þjóðmálaumræðu.

Dagurinn í dag
1970 Salvador Allende kjörinn forseti Chile - honum var steypt af stóli í valdaráni hersins 1973
1975 Kvennafrídagurinn - íslenskar konur tóku sér frí á degi Sameinuðu þjóðanna á alþjóðlegu kvennaári, til að sýna fram á mikilvægi starfa kvenna í þjóðfélaginu. Athafnalíf í landinu lamaðist að miklu leyti. Á Lækjartorgi í Reykjavík var haldinn fundur sem 25.000 manns sóttu, nær eingöngu konur. Fundurinn markaði upphaf jafnréttisbaráttu kvenna og leiddi til stofnunar Kvennalista 1982
1975 Sjónvarpsútsendingar í lit hófust hér á landi - deilur voru uppi um hvort ætti að taka upp litaútsendingar og var tekist á í þingsölum um hvort ætti að hafa litasjónvarp eða auka dagskrárgerð
2002 Lögregla handtók John Allen Muhammad og Lee Boyd Malvo - þeir héldu íbúum á Washington-svæðinu í greipum óttans um margra vikna skeið með því að skjóta á fólk með veiðiriffli úr launsátri. Þeir myrtu alls 10 manns í október 2002 og særðu nokkra. Muhammad var dæmdur til dauða fyrr á þessu ári og Malvo var dæmdur í lífstíðarfangelsi. Báðum dómunum var svo áfrýjað til Hæstaréttar
2003 Concorde flugvél fer í síðustu flugferðina - ákveðið hafði verið að hætta að fljúga með Concorde eftir hörmulegt slys á Charles De Gaulle flugvelli í París 25. júlí 2000 þar sem 113 létust

Snjallyrði dagsins
We need men who can dream of things that never were.
John F. Kennedy forseti Bandaríkjanna (1917-1963)

Engin fyrirsögn

Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir menntamálaráðherraHeitast í umræðunni
Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir menntamálaráðherra, var í gær viðstödd opnun rannsóknar- og nýsköpunarhúss Háskólans á Akureyri. Við komuna að húsinu höfðu grunnskólakennarar í verkfalli tekið sér stöðu með mótmælaspjöld til að minna á málstað sinn og vildu ræða við ráðherrann. Ræddi Þorgerður við kennarana nokkra stund og nefndi það þar að ef til vill mætti skoða hvort flytja ætti grunnskólana aftur yfir til ríkisins. Lýsti menntamálaráðherra þeirri skoðun sinni að kennarar væru ekki á háum launum. Þorgerður Katrín sýndi styrk sinn og kraft sem stjórnmálamanns með því að standa fyrir utan rannsóknarhúsið hér á Akureyri í kuldanum í gær og ræða málin við kennarana. Þetta er eitthvað sem ekki hefur mikið sést af hér, einhverjir hefðu kannski bara strunsað inn og ekki eytt tíma eða orku í að tala um samningaviðræður milli tveggja aðila sem tengjast ekki viðkomandi beint. Hún fær mörg prik fyrir það. Sjálfsagt er að ráðherra tjái sig með þeim hætti sem hún telur best. Ég er langt í frá sammála þeirri afstöðu hennar eða pælingu um að flytja skólana aftur til ríkisins. Þetta var sennilega meira sett fram sem pæling en eitthvað annað, um að flytja grunnskólana aftur til ríkisins. Það má vissulega hugleiða, en ég er alfarið á móti því að flytja þetta yfir. Er ekki undarlegt að þessi orð ráðherra hafi nú leitt til þess að Vilhjálmur Þ. Vilhjálmsson formaður Sambands íslenskra sveitarfélaga og leiðtogi borgarstjórnarflokks Sjálfstæðisflokksins, hafi hafi óskað eftir skýringum á orðum ráðherrans eftir helgi. Rétt er að hún útskýri þetta nánar og fari betur yfir í hvaða samhengi hún setti þetta fram. Jafnframt finnst mér undarlegt að ráðherra tjái sig beint um laun kennara, það er réttast að ráðherra og ríkið sitji hjá í þessu máli. Ekki kemur til greina að mínu mati að ríkið komið að málinu, nema þá kannski með því að miðla málum með þeim hætti sem forsætisráðherra hefur vikið að seinustu daga. Annars sá ég þessi orðaskipti tilsýndar í gær og dáist að ráðherranum að taka sinn tíma í ræða við fólkið. Það hefðu ekki allir gert. Hinsvegar eru skoðanir okkar á málinu greinilega eitthvað ólíkar.

John Kerry og George W. BushNú þegar 10 dagar eru eftir af kosningabaráttunni í Bandaríkjunum eru forsetaframbjóðendurnir George W. Bush og John Kerry á fleygiferð um landið til að hitta kjósendur. Kosningabaráttan hefur náð hámarki og öllu er beitt nú á lokasprettinum til að ná til kjósenda og frambjóðendur beita öllum kröftum sínum og hæfileikum til að reyna að heilla kjósendur í mikilvægustu fylkjum kosningabaráttunnar að þessu sinni. Samkvæmt nýjustu skoðanakönnunum hefur Bush forseti, forskot á keppinaut sinn. Er það allt frá 1% upp í 6%. Mest mælist forskotið í könnun Washington Post en minnst er það í könnunum Reuters/Zogby. Munurinn á frambjóðendunum er oftast innan skekkjumarka, en forskot forsetans er það naumt að ekki er hægt að slá því föstu að hann hafi yfirhöndina hvað varðar kjörmannasamkunduna sem allt snýst um. Ef marka má mælingar sem birtast á vefum eftir könnunum um allt land eru þeir svo til hnífjafnir og langt í frá öruggt um úrslit, þó staða forsetans sé ívið sterkari. Í gær var Kerry að reyna að höfða til kvenna með ræðum sínum í Wisconsin og Nevada. Á fjölmennum fundi í Wisconsin kynnti Caroline Kennedy Schlossberg einkadóttir John F. Kennedy fyrrum forseta Bandaríkjanna, Kerry og talaði mjög vel um verk hans og um hann sem persónu. Caroline er mikill stuðningsmaður Kerrys og hefur Kennedy-fjölskyldan lagt honum mikið lið í kosningabaráttunni. Á sama tíma var forsetinn staddur í Ohio og flutti þar kraftmikla ræðu og minnti á fimm atriði sem skilja hann að skoðanalega frá Kerry. Í dag var forsetinn staddur í Flórída og Kerry í Colorado og Nýju Mexíkó. Í ræðum sínum þar varð þeim tíðrætt um öryggismál og réðust þeir að hvorum öðrum af krafti. Frambjóðendurnir hafa mjög stranga dagskrá og lítið um frístundir, enda aðeins rúm vika í kjördag. Baráttan harðnar sífellt á lokasprettinum.

Rannsóknar- og nýsköpunarhús Háskólans á AkureyriRannsóknarhús HA tekið í notkun
Eins og fyrr segir var rannsóknar- og nýsköpunarhús Háskólans á Akureyri tekið formlega í notkun í gær. Viðstaddir vígsluna voru fimm ráðherrar, forseti Alþingis, bæjarstjóri og bæjarfulltrúar, auk þingmanna kjördæmisins. Tilkoma hússins og aðstöðunnar þar markar sannkallaða byltingu í húsnæðismálum skólans og markar mikil þáttaskil í sögu háskólans hér í bænum, sem hefur sífellt vaxið og dafnað, þá tæpa tvo áratugi sem hann hefur verið til. Lög um Háskólann á Akureyri voru sett af Alþingi 27. apríl 1988. Á þeim tíma voru tvær brautir starfandi við Háskólann; hjúkrunarfræðibraut og iðnrekstrarfræðibraut. Þá hafði verið ákveðið að taka upp kennslu í sjávarútvegsfræðum og matvælafræðum. Þegar skólinn opnaði árið 1987, eða fyrir 16 árum, voru 50 nemendur við skólann en þeir eru nú vel yfir 1000. Frá seinasta ári hafa 6 deildir verið þar að störfum og starfsmenn skólans eru rúmlega 130. Að mínu mati er uppbygging Háskólans á Akureyri einhver mikilvægasta og þarfasta byggðaaðgerð, sem gripið hefur verið til hérlendis á síðari árum. Alla tíð hefur ríkt mikil samstaða á gervöllu Norðurlandi um mikilvægi háskólanáms á Akureyri, skólinn er hornsteinn uppbyggingar hér á þessu svæði.

Dagurinn í dag
1956 Þúsundir ungverja mótmæla kommúnistastjórn landsins og krefjast almennra mannréttinda - stjórn landsins barði niður mótmælin með harðri hendi með beitingu valds nokkrum dögum síðar
1973 Richard Nixon samþykkir að afhenda dómstólum hljóðritanir á trúnaðarsamtölum úr forsetaskrifstofunni vegna Watergate-málsins. Hæstiréttur landsins hafði áður skipað honum að afhenda segulböndin. Aðeins var birtur hluti spólanna á þessum tímapunkti, höfða þurfti fleiri mál til að fá öll gögnin, birting þeirra sumarið 1974 leiddi í ljós að forsetinn hafði fulla vitneskju, allt frá júní 1972 á innbrotinu í Watergate bygginguna og tók þátt í yfirhylmingu málsins. Leiddi málið til afsagnar Nixons forseta, 9. ágúst 1974. Hann varð fyrstur af forsetum landsins til að segja af sér embætti
1976 Nýr flugvöllur við Sauðárkrók tekinn í notkun - var nefndur eftir Alexander Jóhannessyni rektor
2002 Téténskir uppreisnarmenn taka rúmlega 700 manns í gíslingu í þjóðleikhúsinu í Moskvu - gíslatökunni lauk tveim sólarhringum síðar þegar yfirvöld réðust inn í leikhúsið og sprautuðu gasi þar inn. Allir uppreisnarmennirnir voru drepnir í innrás hersins í húsið, auk þeirra létust um 120 gíslar
2003 George W. Bush forseti Bandaríkjanna, ávarpar ástralska þingið - neyddist til að gera hlé á ræðunni vegna hrópa frá þingmönnum græningja sem mótmæltu mjög, einkum vegna Íraksstríðsins

Snjallyrði dagsins
Yesterday is not ours to recover, but tomorrow is ours to win or to lose.
Lyndon B. Johnson forseti Bandaríkjanna (1908-1973)

Engin fyrirsögn

George W. Bush og John KerryHeitast í umræðunni
Einungis 11 dagar eru þar til bandarískir kjósendur verða að gera upp á milli þeirra George W. Bush og John Kerry. Í ræðum sínum í baráttufylkjunum í gær voru forsetaefnin að mestu leyti að fókusera sig á heilbrigðismál, og skiptust á skotum um málefni heilbrigðiskerfisins og hvað varðar stofnfrumurannsóknir, sem hafa mikið verið rædd í kosningabaráttunni. Í gær fór Kerry á veiðar í Ohio, til að reyna að auka fylgi sitt þar, einkum meðal veiðimanna og þeirra kjósenda sem eru íhaldssamir í félagsmálum. Forsetinn gerði grín að keppinaut sínum í kosningaræðu í Hershey í Pennsylvaníu. Orðrétt sagði hann: "He can run - he can even run in camouflage - but he cannot hide". Jafnframt fór hann þar yfir stefnu sína í heilbrigðismálum, á sömu stund var Kerry í ræðu í Columbus í Ohio að tjá sig um stefnu sína í sama málaflokki, einkum hvað varðar stofnfrumurannsóknir og lagði áherslu á að hann styddi heilshugar að þróa rannsóknir í þá átt. Var hann kynntur á fundinum af Dönu Reeve, ekkju leikarans Christopher Reeve, sem lést nýlega. Nú á lokasprettinum beinast sjónir allra að 8 fylkjum þar sem frambjóðendurnir eru annaðhvort jafnir eða munur milli þeirra mælist innan skekkjumarka. Ef kosningarnar verða eins jafnar og allt stefnir í á þessari stundu munu úrslitin í þessum fylkjum ráða úrslitum um það hvor þeirra verður forseti næstu fjögur árin. Frambjóðendurnir taka enga sénsa, þeir ferðast um þessi fylki og leitast eftir því að kynna sig og stefnu þeirra fyrir óákveðnum kjósendum þar. Kerry fókuserar í dag á kvennaatkvæðin en Bush á að draga fram andstæðurnar milli sín og keppinautarins hvað varðar varnarmál. Hvert atkvæði getur skipt máli ef jafn naumt verður á mununum í kosningunum og var í forsetakosningunum 2000. Forsetinn verður áfram í Pennsylvaniu framan af degi en mun síðar halda til baráttufylkjanna Ohio og Flórída. Á meðan verður Kerry á ferðalagi um Nevada og Colorado, en í báðum fylkjunum vann forsetinn sigur fyrir fjórum árum og forsetinn er með öruggt forskot þar núna, en Kerry þarf á sigri í þessum fylkjum að halda núna. Báðir verða þeir í lykilfylkinu Flórída um helgina. Kerry verður þar með fund með Al Gore, forsetaefni demókrata árið 2000, og Bush forseti, verður með fund með bróður sínum, Jeb Bush, sem er ríkisstjóri í fylkinu. Öflugur kosningaslagur heldur áfram af enn meiri krafti en fyrr.

KennslaUppúr slitnaði með samningsaðilum í launadeilu grunnskólakennara seinnipartinn í gær. Verkfall grunnskólakennara hefur nú staðið í tæpar fimm vikur, allt frá 20. september sl. Verður ekki boðað til nýs samningafundar fyrr en fimmtudaginn 4. nóvember, nema deiluaðilar ákveði annað. Ásmundur Stefánsson ríkissáttasemjari, lagði í gær fram málamiðlunartillögu í málinu. Skilaði hún ekki árangri og varð ekki til þess að menn tóku upp umræðu um efni hennar og unnu útfrá henni. Eru því að mati sáttasemjara ekki forsendur fyrir áframhaldandi viðræðum á þeim grunni eða neinum öðrum grunni því engar tillögur séu uppi í stöðunni. Er því ljóst að óbrúanlegt er á milli aðila og engin forsenda fyrir því að hafa samningafundi milli deiluaðila, meðan svona stendur á. Halldór Ásgrímsson forsætisráðherra, tilkynnti á ríkisstjórnarfundi í morgun að hann hefði boðað forystumenn launanefndar sveitarfélaga og kennara á sinn fund eftir helgina til viðræðna um málin. Þar ætlar hann að krefjast skýringa á því hversvegna slitnaði upp úr samningaviðræðunum. Jafnframt hefur forsætisráðherra tekið fram að ríkið muni ekki koma að deilunni, hvorki hvað varðar fjármagn né með tillögur beint. Tek ég undir með honum að viðræðuslitin séu mikil vonbrigði, enda var talið jafnvel að samningur væri að fæðast í Karphúsinu. Spurning er hversu langt verkfallið getur orðið áður en til tals kemur að setja lög á það. Ég hef ekki til þessa verið talsmaður þess að setja lög á verkföll, en skoða verður þann möguleika eins og aðra að ríkið höggvi á hnútinn með slíkri ákvörðun. Það mun þó enga vanda leysa vissulega. Hitt er svo annað mál að ekki er hægt að bjóða nemendum lengur upp á að menn talist ekki við og ekkert gerist í deilunni. Að mínu mati er þó ljóst að sveitarfélögin hafa teygt sig eins langt eftir lausn og mögulegt er í stöðunni. Hvert framhaldið verður, mun svo ráðast.

Holtasóley kosið þjóðarblóm Íslands
Rannsóknar- og nýsköpunarhús Háskólans á Akureyri tekið í notkun

AkureyriKönnun um stóriðju í Eyjafirði
Í skoðanakönnun sem Gallup gerði fyrir Atvinnuþróunarfélag Eyjafjarðar kemur fram að 62,6% íbúa á Akureyri og nágrenni eru mjög hlynnt uppbyggingu stóriðju í Eyjafirði. Samkvæmt könnuninni eru 26,3% andvíg stóriðju en 11,1% taka ekki beina afstöðu til málsins. Ef niðurstöðurnar eru skoðaðar eingöngu fyrir Akureyri er hlutfall þeirra sem eru fylgjandi stóriðju talsvert hærra, er þá orðið 66,1% en andvígum fækkar mjög, eða í 23,5% á meðan fjöldi þeirra sem taka ekki beina afstöðu helst nokkuð svipaður. Ef aðeins eru taldir með þeir sem taka afstöðu til málsins eru tæp 74% Akureyringa hlynnt uppbyggingu stóriðju í Eyjafirði en rúm 26% eru á móti því að stóriðja komi í fjörðinn. Þessi niðurstaða er mjög afdráttarlaus, hvort sem litið er með á afstöðu í firðinum almennt, eða bara þeirra sem búa hér í bænum. Fagna ég þessari niðurstöðu, enda hef ég ávallt verið mikill talsmaður stóriðju í Eyjafirði. Enginn vafi leikur á því að næsta álver verður reist á Norðurlandi, gert hefur verið ráð fyrir því til fjölda ára og enginn hefur reynt að bera á móti því að svo sé, gert er ráð fyrir slíku t.d. í byggðastefnu ríkisstjórnarinnar sem kynnt var fyrir nokkrum árum. Alla tíð hefur verið gert ráð fyrir að það álver yrði reist í Eyjafirði, eins og fyrrnefnd byggðaáætlun gerir augljóslega ráð fyrir að verði. Í mínum huga kemur ekki til greina að álver á Norðurlandi verði annarsstaðar en þar sem gert hefur ráð fyrir því að það verði, við Dysnes í Eyjafirði. Að því skal unnið, að því eiga sveitarstjórnarmenn í Eyjafirði að berjast fyrir.

Dagurinn í dag
1253 Flugumýrarbrenna - Sturlungar brenndu bæinn að Flugumýri í Skagafirði. Í brennunni fórust 25 manns. Gissur jarl Þorvaldsson komst naumlega undan í brennunni, með því að leynast í sýrukeri
1953 Smáríkið Laos fær fullt sjálfstæði frá Frakklandi - var undir stjórn Frakka allt frá árinu 1893
1957 Fyrstu hermenn Bandaríkjanna felldir í átökum í Víetnam - Víetnamsstríðið stóð allt til 1975
1962 Kúbudeilan hefst - bandarískur kafbátur tekur myndir af sovéskum kjarnorkueldflaugum á Kúbu (sem var hertekin af kommúnistanum Fidel Castro árið 1959). John F. Kennedy forseti Bandaríkjanna, ávarpar þjóðina og tilkynnir um ástand mála. Heimurinn var á barmi kjarnorkustyrjaldar milli stórveldanna í 13 daga - Sovétmenn létu loks undan og hörfuðu frá Kúbu til að forða deilum. Sú ákvörðun Nikita Khrushchev leiddi svo til þess að honum var steypt af stóli í Sovétríkjunum 1964
1964 Jean-Paul Sartre hlýtur bókmenntaverðlaun Nóbels - Sartre afþakkaði formlega verðlaunin

Snjallyrði dagsins
I usually make up my mind about a man in ten seconds; and I very rarely change it.
Margaret Thatcher forsætisráðherra Bretlands

Engin fyrirsögn

John Kerry og George W. BushHeitast í umræðunni
George W. Bush og John Kerry réðust harkalega að hvor öðrum vegna málefna Íraksmálsins og stríðsins gegn hryðjuverkum, í gær á kosningaferðalögum sínum um baráttufylkin í bandarísku forsetakosningunum í gær. Beittu þeir að mestu leyti sömu rökum gegn hvor öðrum og notuð voru í kappræðunum í Arizona í síðustu viku og bentu á stefnu sína og áherslur í öryggismálum. Þeir voru báðir staddir í lykilfylkinu Iowa í gær, og vinna báðir af krafti að því að ná 7 kjörmönnum fylkisins, en Bush tapaði naumlega fyrir Al Gore þar fyrir fjórum árum. Tilkynnt var í gær að Bill Clinton fyrrum forseti Bandaríkjanna, sem gekkst undir umfangsmikla hjartaaðgerð fyrir einum og hálfum mánuði, myndi á næstunni koma fram á fundum og halda kosningaræður til stuðnings Kerry. Er það von demókrata að framkoma Clintons með Kerry í lykilfylkjum á lokasprettinum muni auka fylgi hans. Stefnt er að því að þeir komi fram saman á kosningafundi í Pennsylvaníu á mánudag. Stóð til í upphafi að Clinton myndi vera áberandi í kosningabaráttu Kerrys, en minna varð af því en stefnt var að vegna veikinda hans. Til mótvægis við þetta hyggst forsetinn koma fram á kosningafundum eftir helgina með Arnold Schwarzenegger ríkisstjóra í Kaliforníu, og John McCain öldungadeildarþingmanni. Hvöss orðaskipti urðu milli kosningaforystu frambjóðendanna í gær eftir að Teresa Heinz Kerry sagðist í viðtali við USA Today, telja óvíst að Laura Bush forsetafrú, væri fyllilega hæf til starfa fyrir þjóðina, því hún hefði aldrei verið á vinnumarkaðnum, og vissi ekki hvort Laura hefði nokkurn tíma sinnt fullu starfi. Dró hún ummælin til baka síðar og sagðist ekki hafa gert sér grein fyrir því að forsetafrúin hefði starfað sem kennari og bókasafnsfræðingur til fjölda ára í Texas. Þótti vera um sjálfsmark að ræða hjá Teresu. Talsmaður forsetafrúarinnar sagði eðlilegt að afsökunarbeiðni væri komin frá Teresu, en athyglisvert væri að eiginkona demókrataframbjóðandans gerði sér ekki grein fyrir því að móðurhlutverkið væri fullt starf, fyrir utan annað sem þyrfti að sinna. Nú þegar 12 dagar eru til stefnu, munu frambjóðendurnir fókusera sig á atvinnu- og heilbrigðismál. Forsetinn verður í lykilfylkinu Pennsylvaníu sem hann tapaði í mjög naumlega 2000, en það hefur 21 kjörmann, á meðan Kerry verður í baráttufylkjunum Ohio og Minnesota. Harkan í kosningaslagnum eykst eftir því sem klukkan tifar.

Rocco ButtiglioneLíkur hafa nú aukist á því að Evrópuþingið muni fella nýja framkvæmdastjórn Evrópusambandsins sem á að taka við völdum um mánaðarmótin, en kjósa á um hana á næstu dögum. Samkvæmt nýjum fréttum hafa 200 vinstrimenn á þinginu
í hyggju að krefjast þess að José Manuel Durão Barroso verðandi forseti framkvæmdastjórnarinnar og fyrrum forsætisráðherra Portúgals, finni ítalska fulltrúanum Rocco Buttiglione eitthvað annað embætti innan framkvæmdastjórnarinnar en dómsmál. Að öðrum kosti muni þeir ekki ekki samþykkja hana í heild sinni. Kosningin er þannig að kosið er um allan hópinn í einu og mun því það að hafna einum, jafngilda því að verða að hafna öllum þeim sem eru í framboði til framkvæmdastjórnarinnar. Deilurnar má rekja til þess að Buttiglione, sem er kaþólskur og mjög strangtrúaður, hefur eindregnar skoðanir á kvenréttindum, samkynhneigðum og málefnum flóttamanna sem þykja ekki vera í takt við nútímann. Eiga margir þingmenn á Evrópuþinginu erfitt með að samþykkja Buttiglione þarna inn og allra síst sem fulltrúa í dómsmálin. Það hvernig hann hefur talað um samkynhneigða og konur, bæði fyrir og eftir að hann var útnefndur í framkvæmdastjórn ESB hefur valdið mikilli úlfúð og hatri margra í hans garð. Er staðan því þannig að annaðhvort verði honum fundinn annar staður í framkvæmdastjórninni eð hún verður öll felld í kosningu þingsins. Reynir Barroso að ná samkomulagi milli hópanna um aðra niðurstöðu málsins til að friða alla aðila. Tíminn er naumur, enda aðeins 10 dagar þar til valdaskipti eiga að fara fram innan framkvæmdastjórnar ESB og því ljóst að menn eru að falla á tíma, til að finna Buttiglione annað embætti eða þá að redda hópnum öllum fyrir kosninguna, enda er hann allur bundinn saman í kjörinu, þegar kemur að því að taka afstöðu til hans.

Ályktun stjórnar SUS vegna kaupa Símans á ráðandi hlut í Skjá einum
Fidel Castro dettur og meiðir sig á hendi og fæti - orðrómur um heilsufar hans

AkureyriÍbúum fjölgar á Akureyri
Samkvæmt tölum um búsetu sem Hagstofa Íslands hefur birt fjölgaði Akureyringum um 49 á fyrstu níu mánuðum ársins 2004. Fólkið sem hingað flytur kemur flest frá nágrannasveitarfélögunum en einnig frá útlöndum. Þeir sem flytjast á brott fara jafnan til annarra landssvæða, líklega höfuðborgarsvæðisins. Þrátt fyrir að íbúum bæjarins haldi áfram að fjölga jafnt og þétt, vekur nokkra athygli hversu mikil hreyfing er á fólki. Það sem af er þessu ári hafa alls 967 flutt til bæjarins en 918 flust á brott. Á móti kemur að tölurnar endurspegla ekki heildarfjölgun bæjarbúa, enda er í þessu ekki tekið tillit til fjölda þeirra sem fæðst hafa umfram þá sem hafa látist. Á árinu 2003 fjölgaði Akureyringum um 210 eða 1,31% en þá voru aðfluttir umfram brottflutta 69 allt árið. Á meðan íbúum hér fjölgar og bærinn styrkist, fækkar þeim í nágrannasveitarfélögum okkar, mest áberandi er þetta í Dalvíkurbyggð og á Ólafsfirði þar sem mikil fækkun er. Ánægjulegt er hversu styrk staða bæjarins er. Bæjarbúum fjölgar og fasteignaverð í bænum hefur hækkað nokkuð að undanförnu. Greinilegt er að mikið líf er á fasteignamarkaðnum hér og viðbúið að svo verði áfram á næstu mánuðum. Mjög ánægjuleg þróun, svo ekki sé meira sagt, hversu styrk staða bæjarins er.

Dagurinn í dag
1916 Pétur Ottesen, 28 ára bóndi, var kjörinn á þing fyrir Borgfirðinga - Pétur sat á þingi samfellt í 43 ár, er hann lét af þingmennsku 1959 hafði hann setið á þingi lengst allra sem þar hafa tekið sæti
1933 Þjóðaratkvæðagreiðsla fór fram um afnám bannlaganna - 15.866 greiddu atkvæði með afnámi en 11.625 greiddu atkvæði á móti því. Áfengisbann var svo formlega afnumið 1. febrúar 1935
1944 Ríkisstjórn Ólafs Thors, Nýsköpunarstjórnin, tók formlega við völdum - Sjálfstæðisflokkurinn, Sósíalistaflokkurinn og Alþýðuflokkurinn áttu aðild að henni. Hún sat að völdum í rúmlega þrjú ár. Meginmarkmið hennar var nýsköpun atvinnulífsins og uppbygging eftir seinni heimsstyrjöldina
1961 Bjarni Jónsson vígslubiskup og fv. forsetaframbjóðandi, varð fyrsti heiðursborgari í Reykjavík
1998 Útför Guðrúnar Katrínar Þorbergsdóttur forsetafrúar, fór fram frá Hallgrímskirkju í Reykjavík - þjóðhöfðingjar Norðurlandanna voru viðstaddir jarðarför forsetafrúarinnar. Karl Sigurbjörnsson biskup Íslands flutti hugljúfa minningarræðu um hana, en hann jarðsöng. Ríkisstjórn Íslands bar kistu hennar úr kirkju. Að afhöfninni lokinni var kista forsetafrúarinnar flutt í Fossvogskapellu þar sem bálför fór fram. Duftkeri forsetafrúarinnar var komið fyrir í Bessastaðakirkju skömmu eftir útförina

Snjallyrði dagsins
Forgive your enemies, but never forget their names.
John F. Kennedy forseti Bandaríkjanna (1917-1963)

Að lokum hvet ég alla til að fá sér nýjasta diskinn með Rammstein. Tær snilld þessi diskur, sérstaklega þá lögin Amerika og Mein Teil.

Engin fyrirsögn

Tveggja ára afmæli bloggvefsins
Í dag eru tvö ár liðin síðan ég hóf bloggskrif á netinu á þessum stað. Allt frá upphafi hafa hitamál samtímans, bæði á vettvangi innlendra og erlendra stjórnmála, verið umfjöllunarefni í skrifum mínum. Þennan vettvang hef ég notað til að tjá mínar skoðanir um helstu málin, fara yfir þau frá mörgum hliðum og vera með úttekt á því sem helst er fréttnæmt. Fyrir mér var bloggheimurinn frá upphafi einkar spennandi vettvangur til að tjá skoðanir mínar og hef ég uppfært bloggvefinn reglulega allan þennan tíma. Fyrir nákvæmlega ári, breytti ég uppsetningunni og bætti hana stórlega, til sögunnar kom þá sá flokkur sem hefur verið leiðandi í umfjöllunni síðan, sem ég nefndi Heitast í umræðunni. Þar tek ég fyrir heitustu málin að mínu mati sem ég vil fjalla um og skrifa um þau með mínum hætti. Jafnframt hef ég frá sama tíma notað vefinn til að koma með sögumola tengda deginum sem skrifað er á og jafnframt komið með snjallyrði í lokin. Allan tímann hef ég haft sanna ánægju af þessu. Myndi varla nenna þessu, nema sönn ástríða á umfjöllunarefnunum og hjartans áhugi á þjóðmálum væri fyrir hendi. Pælingarnar halda áfram af krafti.

bestu kveðjur og kærar þakkir fyrir samfylgdina
Stefán Friðrik Stefánsson


George W. Bush og John KerryHeitast í umræðunni
13 dögum áður en bandarískir kjósendur taka þá ákvörðun hver verði forseti Bandaríkjanna næsta kjörtímabilið, eru forsetaframbjóðendurnir á ferð og flugi um landið, einkum að hitta óákveðna kjósendur í þeim 8 fylkjum sem mesta baráttan verður um á lokasprettinum. Þar er fylgi þeirra svo jafnt að ógerlegt er að spá um hvor muni bera sigur úr býtum. Þessi fylki og úrslit í þeim munu ráða úrslitum um það hvort George W. Bush eða John Kerry hljóta lyklavöld í Hvíta húsinu eftir 20. janúar 2005. Mikil harka hefur færst í málflutning forsetaefnanna nú á lokasprettinum og er öllu tjaldað til. Bæði forsetaefnin voru á ferðalagi í Flórída í gær og þó fjarlægðin væri ekki mikil þeirra landfræðilega séð er fjarlægðin í boðskap þeirra gríðarleg. Gagnrýna forsetaframbjóðendurnir nú hvorn annan vegna skorts á bóluefni við inflúensu í Bandaríkjunum. Demókratar réðust að forsetanum í auglýsingu í gær. Á kosningafundi í Flórída í gær sagði Kerry að áætlanir Bush í heilbrigðismálum miðuðust við að hinn almenni borgari mætti ekki við því að veikjast. Bush svaraði keppinaut sínum með því að saka hann um að beita hræðsluáróðri. Forsögu málsins má rekja til þess að skortur á bóluefni í Bandaríkjunum myndaðist eftir að í ljós kom að allt bóluefni frá breskri verksmiðju bandaríska lyfjaframleiðandans Chiron var með öllu ónothæft. Chiron hefur jafnan séð Bandaríkjamönnum fyrir um helmingi alls flensubóluefnis. Á kosningafundi í St. Petersburg í Flórída í gær sagði forsetinn að stjórn hans myndi taka á málinu og allir sem vildu myndu fá sprautu. Með tilliti til sögunnar er Flórída mikilvægt fylki, allt stefnir í að úrslit þar hafi mikið um að segja líkt og fyrir fjórum árum hvor muni vinna kosningarnar. Kosning hófst þar í gær og er hún með rafrænum hætti. Ekki lofaði byrjunin góðu enda biluðu tölvur, kjörseðlar voru rangir og kjörstaðir reyndust of fáir. Ekki stefnir í betri stöðu mála í fylkinu og eru frambjóðendur reiðubúnir hinu versta og hafa ráðið tug lögfræðinga til að vinna fyrir sig í fylkinu að því að gæta hagsmuna sinna. Í dag heldur baráttan áfram. Forsetinn fer til Iowa, Minnesota og Wisconsin en Kerry verður í Iowa og Pennsylvaníu. Allt er lagt í sölurnar í baráttunni um atkvæði hins óákveðna kjósanda.

Alexander LukashenkoSamkvæmt því sem stjórnvöld í Hvíta-Rússlandi hafa tilkynnt virðast kjósendur þar hafa samþykkt í þjóðaratkvæðagreiðslu, að breyta stjórnarskránni með þeim hætti að forsetar geti setið lengur í embætti en í tvö kjörtímabil. Samkvæmt þessu er Alexander Lukashenko forseta landsins, heimilt að bjóða sig fram í þriðja sinn í forsetakosninunum árið 2006. Flest bendir til að maðkur sé í mysunni, hvað varðar atkvæðatölur. Stjórnvöld og kosningastjórnir á þeirra vegum fullyrða að tæp 80% landsmanna hafi samþykkt tillöguna og því það að veita forsetanum heimild til framboðs í þriðja sinn. Er líklegast að brögð hafi verið í tafli í kosningunni og fullyrða stjórnarandstæðingar að niðurstöðunum hafi verið hagrætt svo Lukashenko geti stjórnað landinu með einræðistilburðum áfram. Hann hefur ríkt í landinu í áratug, allt frá 1994, en nokkrum árum áður hafði landið hlotið sjálfstæði frá Sovétríkjunum. Er hann oft nefndur síðasti einræðisherrann í Evrópu. Athygli vakti að skömmu eftir að kjörstaðir lokuðu gat Lidiya Ermoshina formaður kjörstjórnar, fullyrt að sigur forsetans væri afgerandi og nefndi strax töluna um 80% eins og um væri að ræða fyrirfram ákveðna tölu. Hún gaf ekki upp heildaratkvæðatölur eða niðurstöður úr einstökum kjördæmum við það tækifæri. Er sorglegt að fylgjast með þessu einræði í landinu. Augljóst er að forsetinn ætlar sér að drottna áfram og beitir til þess kosningasvikum og bellibrögðum til að haldast áfram á valdastóli, þegar svo augljóst er að hann nýtur ekki trausts stórs hluta landsmanna til setu á valdastóli. Fulltrúar Öryggis-og samvinnustofnunar Evrópu hafa í áliti sínu um kosninguna tortryggt niðurstöðuna, enda kosningarnar verið haldnar í andrúmslofti ógnar, hótunum verið beitt, umræður verið kæfðar með öllu, og frjálsir fjölmiðlar ekkert svigrúm fengið. Fjöldamótmæli eru í landinu og andstaðan við forsetann verður sífellt sýnilegri.

Dr. Jeffrey WigandViðtal við dr. Jeffrey Wigand
Sl. sunnudagskvöld ræddi Sigmar Guðmundsson við dr. Jeffrey Wigand í Kastljósinu. Eins og öllum ætti að vera kunnugt var dr. Jeffrey Wigand rekinn úr starfi sínu sem vísindamaður hjá Brown & Williamson, einu af stærstu tóbaksfyrirtækjum Bandaríkjanna, fyrir áratug eftir að hafa reynt að benda yfirmönnum fyrirtækisins á hin heilsuspillandi áhrif tóbaksins. Hann sætti miklu harðræði frá fyrirtækinu eftir að þeim fór að gruna að hann myndi veita fjölmiðlum innanhússleyndarmál og upplýsingar sem gætu komið fyrirtækinu illa. Þeir skáru á allar greiðslur til hans, hann fékk líflátshótanir og það var njósnað um hann. Ákvað Jeffrey að leita til Lowell Bergman fréttastjórnanda hjá CBS og tala í kjölfarið við Mike Wallace fréttamann í 60 Minutes um málið. Í kjölfar þess var Wigand ákærður fyrir samningsrof og allt var tekið af honum: húsið og sjúkratrygging hinnar astmasjúku dóttur hans. Þar með voru góð ráð dýr fyrir Jeffrey. Vegna hótana fyrirtækisins í garð CBS var viðtalið aldrei sent út, en það varð upphaf skriðu sem leiddi til þess að tóbaksfyrirtækin urðu að viðurkenna skaðsemi reykinga og fengu yfir sig skaðabótamál reykingamanna um allan heim. Saga hans var sögð í kvikmyndinni The Insider og skartaði hún leikaranum Russell Crowe í hlutverki Wigands. Var um að ræða mjög athyglisvert viðtal og áhugavert á að horfa. Fróðlegt var að heyra lýsingar Wigands á þessu máli öllu, skoðunum hans á tóbaki og skaðsemi þess og síðast en ekki síst stöðu mála núna hvað varðar reykingar. Dr. Wigand kom hingað til lands til að flytja fyrirlestur um tóbaksmálefni og reykingar almennt. Hvet ég alla til að kynna sér þetta mál betur með því að horfa á kvikmyndina um málið, hafi þeir ekki séð hana nú þegar.

Dagurinn í dag
1728 Mikill eldur kom upp í Kaupmannahöfn - þar brann stór hluti bókasafns Árna Magnússonar
1905 Landsdómur stofnaður til að dæma í málum gegn ráðherrum fyrir brot á stjórnarathöfnum - allt frá stofnun dómsins hefur hann aldrei komið saman, enda ekki þótt neitt tilefni að svo skyldi vera
1968 Jacqueline Bouvier Kennedy fyrrum forsetafrú Bandaríkjanna, ekkja John F. Kennedy 35. forseta Bandaríkjanna, giftist milljarðamæringnum Aristotle Onassis í Grikklandi - brúðkaup þeirra olli mjög miklum deilum. Það var ástlaust að mestu, en entist til andláts Onassis 1975 - Jackie lést 1994
1973 Óperuhúsið í Sydney formlega tekið í notkun - ein glæsilegasta menningarbygging sögunnar
1989 Borgarleikhúsið í Reykjavík var vígt - það var 13 ár í byggingu og var um 10.000 fm. að stærð

Snjallyrði dagsins
I am extraordinarily patient, provided I get my own way in the end.
Margaret Thatcher forsætisráðherra Bretlands

Engin fyrirsögn

ISGHeitast í umræðunni
Það er ekki nýtt undir sólinni eða nýr veruleiki að menn tali í fleiri áttir en eina í Samfylkingunni. Það er erfitt fyrir meðal Jóninn í samfélaginu að fylgjast með hringleikahúsinu þeirra frá öllum hliðum og því nauðsynlegt að hafa bókhald yfir þessa margáttapólitík flokksins. Í ræðu á flokksstjórnarfundi Samfylkingarinnar um helgina deildi formaður flokksins á sjálfstæðismenn fyrir að notfæra sér verkfall grunnskólakennara til að benda á ný tækifæri og sjónarmið í rekstri grunnskóla, möguleika á einkarekstri. Vart var hægt að skilja formanninn betur en svo að hann væri á móti hugmyndum um einkarekstur í grunnskólakerfinu. Eins og ég benti á í sunnudagspistli mínum um helgina eru ummæli hans fróðleg í ljósi þess sem hann sagði á landsfundi flokksins fyrir tæpu ári um möguleika á einkarekstri í heilbrigðismálum. Þegar rýnt er í fréttir um þennan fund Samfylkingarinnar um helgina vakir athygli að formaður svokallaðrar framtíðarnefndar flokksins kom fram með hugmyndir starfshópa tengda honum. Athyglisvert er að sjá að skólamálahópur flokksins virðist með öllu fordómalaus gagnvart vangaveltum um einkarekstur grunnskóla og ganga jafnvel lengra í vangaveltum á því sviði en almennt hefur verið. Ekki verður betur séð en að hyldjúp Ólafsgjá sé á milli hugmynda skólamálasérfræðinganna og formanns flokksins. Og hver kynnti svo annars tillögurnar? Ingibjörg Sólrún Gísladóttir borgarfulltrúi og varaþingmaður. Og hvað skyldi hún sjálf hafa unnið sér til frægðar í þessum málaflokki spyr sig sjálfsagt einhver sem hefur nef fyrir stjórnmálum. Sem borgarstjóri í Reykjavik í tæpan áratug reyndi hún miskunnarlaust að murka lífið úr einkaskólunum í Reykjavík, t.d. Ísaksskóla. Sem þingmaður Kvennalistans var hún á móti einkarekstri af öllu tagi, sérstaklega í skólamálum. Hvernig fór Samfylkingin í Hafnarfirði með einkarekna skólann þegar hreinum meirihluta var náð í sveitarfélaginu? Þau drápu hann strax með einu pennastriki eftir að flokkurinn náði völdum í bænum. Samfylkingin á Akureyri var á móti einkarekstri á leikskóla við Helgamagrastræti fyrr á árinu. Eitt er að tala um málin og annað að sýna stefnu sína í verki. Samfylkingin hefur sýnt stefnu sína í skólamálum og hvað varðar einkarekstur á því sviði vel með verkum sínum, m.a. undir stjórn formanns svokallaðrar framtíðarnefndar. Hún er í hróplegu ósamræmi við það sem kom fram á þessum fundi. Spyrja má sig hvort svona fólk sé trúverðugt að einhverju leyti? Ég held ekki, það minnir á vellygna Bjarna, ja svona í besta falli.

George W. Bush og John KerryAðeins 14 dagar, hálfur mánuður, eru nú til forsetakosninganna í Bandaríkjunum. Forsetaefnin George W. Bush og John Kerry eru á lokaspretti kosningabaráttunnar á ferðalagi um landið, í baráttufylkjunum, til að ná til óákveðinna kjósenda sem munu ráða úrslitum um það hvor þeirra hljóta lyklavöld að Hvíta húsinu og verða valdamesti maður stjórnmálaheimsins á næstu fjórum árum. Bæði forsetaefnin voru í gær staddir í Flórída, lykilfylki, sem réði úrslitum um að Bush hlaut kjör til embættisins síðast. 27 kjörmenn fylkisins eru nú sem þá lykillinn að sigri í kosningunum, mikilvægur áfangi í hörðum kosningaslag. Barist er af hörku til að hljóta þá. Í gær lýsti svo Vladimir Putin forseti Rússlands, yfir óbeinum stuðningi við endurkjör Bush forseta. Sagði hann á blaðamannafundi í Moskvu í gær að markmið hryðjuverkamanna í Írak væri að koma í veg fyrir endurkjör Bush og myndu árásir þeirra líklega aukast til allra muna gegn öðrum vestrænum þjóðum ef Bush myndi tapa 2. nóvember. Innan rússneska stjórnkerfisins hugnast mönnum betur að eiga í samskiptum við Bush en mögulega að fá John Kerry til valda, en kalt er á milli hans og Putins. Samkvæmt nýjustu könnunum hefur Bush forseti, naumt forskot á keppinaut sinn. Í könnun Gallups fyrir CNN og USA Today, fengi forsetinn 49% atkvæða en Kerry 46%. Þegar aðeins er litið til þeirra sem segja líklegt að þeir fari á kjörstað eykst forskot Bush til muna. Hann fengi þá 52% atkvæða en Kerry er þá kominn niður í 44%. Niðurstöður Gallups eru áþekkar því sem birtist í nýjustu könnun Newsweek. Þar mælist forsetinn með 48% en Kerry með 46%. Meðal líklegra kjósenda mælist svo Bush með 50% en Kerry 44%. Keppni forsetaefnanna um atkvæði yngri kjósenda er ekki síður hörð. Samkvæmt nýjum könnunum hefur Bush bætt stórlega við sig fylgi meðal yngri kjósenda á kostnað Kerry, eru þeir þar orðnir hnífjafnir. Fylgissveiflan til forsetans er því greinileg, fylgi hans hefur aukist eftir seinni tvær kappræðurnar, í Missouri og Arizona. Hans staða er betri þegar haldið er af stað seinasta spölinn í lokasprettinum. Hvað gerist svo næstu 14 dagana er stóra spurningin. 14 dagar geta verið langur tími í pólitík.

Geir H. Haarde fjármálaráðherraÁnægjulegt var að sjá Geir H. Haarde fjármálaráðherra, taka Samfylkinguna til bæna á þingi í gær og ráðast að henni og hennar auma málflutningi á flestum sviðum þessa dagana. Ekki veitir af og ekki verra að sjá fjármálaráðherrann í þessum ham. Engum þarf þó að undra að hann taki sig til og ráðist harkalega að flokknum og málstað hans í málunum. Verið var að ræða þá athugasemd Katrínar Júlíusdóttur þar sem hún gagnrýndi harðlega að ekki hefði verið farið eftir jafnréttisáætlun þegar engin kona var skipuð í fjögurra manna framkvæmdanefnd um stofnanakerfi og rekstur verkefna ríkisins. Eru þessar kvartanir undarlegar þegar haft er í huga sérstaklega að fjármálaráðuneytið hefur staðið sig vel í að uppfylla jafnréttisáætlun. Er þessi málflutningur í takt við annað hjá stjórnarandstöðunni. Um þetta sagði ég um helgina í sunnudagspistlinum áðurnefnda: "Augljóst er t.d. að Samfylkingin er í þeirri erfiðu stöðu að þurfa að gagnrýna ríkisstjórn, og flokkana sem mynda hana, sem hefur tekist mjög vel upp í verkum sínum. Þegar litið er á allar rannsóknir og lista yfir hagtölur og kaupmáttaraukningu vestrænna ríkja og stöðu almennt meðal þjóðanna, er Ísland ofarlega á blaði. Staða mála er mjög góð. Ísland er í mjög góðri stöðu, svo vægt sé til orða tekið. Það eru því frekar fá sóknarfæri fyrir eyðimerkurflokkanna til vinstri, sem hamra sífellt á einhverjum undarlegum hliðum til að vekja á sér athygli. Það blasir því við að stærsti stjórnarandstöðuflokkurinn, sem er eins og flestir Samfylkingin, þarf því að koma sér upp einhverri sérstöðu og finna mál til að nota gegn stjórnarflokkunum. Það er frekar erfitt enda er staða mála í góðu lagi. Ekkert er af því tagi að illa standi fyrir þjóðina á þessu augnabliki. Það er afar fátt af skotfærum til á vinstribæjunum til að sækja að ríkisstjórninni og forystumönnum hennar. Það er óttalegt ströggl greinilega hjá Samfylkingunni að reyna að leita eftir einhverju að tala um." Geir fær hrós fyrir að svara þessum froðukennda málflutningi Samfylkingarinnar af hörku.

Stefán Friðrik StefánssonVangaveltur um fjárlög 2005
Í pistli mínum á vef SUS fjalla ég um fjárlagafrumvarp ríkisstjórnarinnar sem lagt var fram fyrr í mánuðinum. Þar segir: "Athyglisvert er að renna yfir frumvarpið, helstu tölur þess og tengda þætti á hinum ítarlega og vel uppsetta fjárlagavef, sem ég hvet alla til að skoða. Við fyrstu sýn er um gott frumvarp að ræða og góður tekjuafgangur fyrirsjáanlegur. Gagnrýna má hinsvegar ýmsa þætti. Fyrst skal þar telja að ekki er gert ráð fyrir sölu Símans þar. Ef marka má orð forystumanna stjórnarsamstarfsins, einkum Halldórs Ásgrímssonar forsætisráðherra, í stefnuræðu sinni mun söluferli fara í gang í vetur. Ég ítreka það að sala Símans verður að hefjast á þessum þingvetri. Ekki má tefja það mál. Skattalækkanir byrja loks að koma til framkvæmda. Þó er farið varlega af stað. Gagnrýna má harkalega hversu stutt skref eru stigin í upphafi eins og fyrr er vikið að. Eins og ég hef oft bent á er mikilvægt að hefja skattalækkanir af krafti, upphaf þeirra má finna þarna. Mikilvægt er að kominn er upp rammi að ferli málsins. Ljóst er á fjárlagafrumvarpi Geirs H. Haarde fjármálaráðherra, og ríkisstjórnarinnar, að vel hefur tekist til að hálfu stjórnarflokkanna við að stjórna landinu og sótt er fram af krafti til eflingar efnahagslífi landsins. Ríkisstjórn Sjálfstæðisflokks og Framsóknarflokks mun nú sem ávallt áður stýra af ábyrgð og festu í fjármálum landsmanna. Eins og ég hef vikið er mikilvægt að Síminn verði seldur sem fyrst, það er forgangsmál næsta vetrar að mínu mati. Áfram þarf að halda af krafti í einkavæðingu ríkisfyrirtækja. Mikill árangur hefur náðst í þeim efnum með sölu t.d. ríkisbankanna og Sementsverksmiðjunnar svo dæmi sé tekið. Það er fyrir löngu tímabært að þætti ríkisins í fyrirtækjarekstri eða samkeppni við einkaaðila ljúki. Með einkavæðingu er stuðlað að virkari samkeppni og aukinni framleiðni í efnahagslífinu, sem bætir svo auðvitað lífskjörin að sjálfsögðu."

Dagurinn í dag
1918 Spænska veikin barst til landsins með tveimur skipum, öðru frá Kaupmannahöfn en hinu frá New York. Í þessari skæðu inflúensu létust á nokkrum vikum vel á fimmta hundrað manns í Reykjavík
1965 Fyrsta plata hljómsveitar Ingimars Eydal kom út. Meðal laga á plötunni voru klassísk lög á borð við Vor í Vaglaskógi og Á sjó. Hljómsveitin starfaði með breytingum allt til andláts Ingimars 1993
1973 Richard Nixon forseti Bandaríkjanna, neitar að afhenda dómstólum hljóðritanir á trúnaðarsamtölum úr forsetaskrifstofunni vegna Watergate-málsins. Þessi ákvörðun leiddi til málaferla sem lauk fyrir hæstarétti þar sem forsetanum var skipað að afhenda hljóðritanirnar. Sú ákvörðun leiddi í ljós að forsetinn hafði fulla vitneskju, allt frá júní 1972 á innbrotinu í Watergate bygginguna og tók þátt í yfirhylmingu málsins. Leiddi málið til afsagnar forsetans, 9. ágúst 1974
1989 Guildford fjórmenningunum sleppt úr fangelsi, eftir að sannað var að þau voru saklaus um að hafa staðið á bakvið sprengjutilræði í Guildford 1975. Þau sátu inni saklaus í 15 ár, er talið eitt mesta hneykslið í réttarsögu Bretlands - saga málsins er sögð í kvikmyndinni In the Name of the Father
2003 Móðir Teresa gerð að dýrlingi af Jóhannesi Páli páfa II við hátíðlega athöfn - hún lést 1997

Snjallyrði dagsins
Þú velur mig svo aftur sem forsætisráðherraefni?
- Já, þegar ég er búinn að flytja ræðuna um beint lýðræði.
Fæ ég ekki að vera borgarstjóraefni aftur? Og án prófkjörs aftur?
- Jú, en ekki trufla mig, ég er undirbúa ræðuna mína um beint lýðræði.
Og ég vil fá að tilnefna nokkra vini mína á listann með mér. Og þeir mega ekki þurfa að fara í prófkjör.
- Nei, nei, róleg. Leyfðu mér að klára ræðuna mína, svo göngum við frá þessu.
Já og þinglistarnir, þú ætlar að passa uppstillinguna þar? Hún má ekki klúðrast í prófkjöri.
- Jájá, hvað er þetta, fær maður engan frið til að undirbúa ræðurnar sínar um lýðræði. Við göngum frá þessu á eftir sagði ég.
Ingibjörg og Össur ræða 'lýðræðið' í Samfylkingunni (pistill á Vef-Þjóðviljanum)

Engin fyrirsögn

Stefán Friðrik StefánssonSunnudagspistillinn
Að þessu sinni fjalla ég um fjalla ég um málefnafátækt vinstriflokkanna á pólitískri eyðimerkurgöngu sinni. Sérstaklega vík ég að formanni Samfylkingarinnar og kostulegri ræðu hans á flokkstjórnarfundi um helgina og því hvernig hann sveiflast til og frá skoðanalega séð. Ekki er síður tilefni til að víkja að stöðu varaformanns Samfylkingarinnar sem svamlar um þessa stundina í pólitísku tómarúmi. Rúmur hálfur mánuður er nú til forsetakosninganna í Bandaríkjunum og baráttan milli George W. Bush og John Kerry um forsetastólinn harðnar sífellt nú þegar lokasprettur kosningabaráttunnar er hafinn af fullum krafti að loknum kappræðunum, fer ég yfir stöðuna aðeins og vík að kjörmannamálunum margfrægu. Að lokum fjalla ég um nýlegar ályktanir stjórnar Varðar og vík stuttlega að vetrarstarfi félagsins sem bráðlega hefst. Mikilvægt er að vinan vel í vetur, efla t.d. hægrisinnuð skólafélög sem fyrir eru og stofna ný þar sem engin eru fyrir hendi. Sérstaklega mikilvægt er að stofna félag hægrisinnaðra í Háskólanum á Akureyri og er það verkefni framundan. Ennfremur mun félagið opna heimasíðu á næstunni og við blasir að efla þarf umræðu beint innan hópsins um bæjarmálin, með hliðsjón af því að styttist óðum í kosningar. Stefnt er því að því að stofna bæjarmálahóp Varðar, þar sem reglulega verður lífleg umræða um bæjarmálin, hvað sé að gerast og hvað sé framundan og þar munum við vinna með bæjarfulltrúum okkar og kjörnum fulltrúum á vettvangi flokksins á að kynna stefnu okkar og ræða næstu skref. Ég legg áherslu á að félagsmenn geti komið fram með rödd sína og við í hópnum getum verið nauðsynlegt mótvægi við kjörna fulltrúa og tjá skoðanir okkar sem þar koma fram á bæjarmálafundum flokksins fyrir hvern bæjarstjórnarfund. Það er og á ávallt að vera meginmarkmið okkar að efla Sjálfstæðisflokkinn til góðra verka og efla ungt fólk til þátttöku í stjórnmálum. Þannig styrkjum við flokkinn og undirstöður hans til framtíðar litið.

Egill HelgasonSunnudagsspjallþættirnir
Gaman var venju samkvæmt að horfa á sunnudagsspjallþætti sjónvarpsstöðvanna. Sunnudagsþátturinn á Skjá einum fer vel af stað og þau Illugi og Katrín stjórna vel sínum þætti og koma með athyglisverðar hliðar á málin. Ólafur Teitur og Guðmundur Steingrímsson eru kraftmiklir með spjallhornið sitt og með fína gesti. Verður fróðlegt að fylgjast með þessum þætti á næstu vikum. Silfrið hans Egils var mjög gott í dag. Í fyrsta hlutanum tókust Gísli Marteinn, Mikael Torfason, Dagur B. og Bjarni Harðarson á um hitamál samtímans. Hápunkti náðu umræðurnar þegar Bjarni tjáði skoðanir sínar á DV og sagði Mikael til syndanna. Góður punktur það. Í öðrum hlutanum voru Gísli Marteinn, Ingibjörg Sólrún og Siv Friðleifsdóttir gestir. Ingibjörg byrjaði á að segja Framsóknarflokkinn ömurlegan flokk við litla hylli Sivjar, en gremjan er greinilega enn mikil í Ingibjörgu eftir að hún missti borgarstjórastólinn. ISG reif atkvæði Samfylkingarinnar af flokknum með framgöngu sinni, sem er gleðiefni. Hún vill að Íslendingar taki við Keflavíkurflugvelli, sem kostar eflaust skattpeninga og ennfremur vill Reykjavíkurflugvöll burt sem gleður varla landsbyggðarfólk. Það að ýja að því að völlurinn fari fyrir 2016 er fatal í pólitík. Gísli og Siv tóku Ingibjörgu vel í gegn þegar talið barst að pólitísku tómarúmi hennar. Karl Th. og Hallgrímur Thorsteinsson ræddu um bandarísku forsetakosningarnar og sýnd voru brot úr athyglisverðri mynd um Karl Rove. Að lokum kom Kristinn R. og ræddi spænska pólitík og Zapatero sem setið hefur sem forsætisráðherra Spánar í hálft ár. Semsagt góðir þættir að venju. Alltaf gaman að horfa á vandaða þjóðmálaumræðu í hádeginu á sunnudegi.

Dagurinn í dag
1755 Kötlugos hófst með miklum jarðskjálftum, eldingum, stórdynkjum, skruðningum, þoku, þykku sandmistri og eldsgangi. Almennt er talið að þetta gos sé mesta öskugos á sögulegum tíma í Kötlu
1970 Anwar Sadat verður forseti Egyptalands - Sadat sat á valdastóli þar til hann var myrtur 1981
1979 Móðir Teresa hlýtur friðarverðlaun Nóbels fyrir ævistarf sitt að mannúðarmálum í heiminum
1989 Jarðskjálfti skekur San Francisco og veldur miklum skemmdum - mældist 7 Richter-stig
1998 Kista Guðrúnar Katrínar Þorbergsdóttur forsetafrúar, kom til Íslands. Stutt athöfn var á Keflavíkurflugvelli vegna þess. Karl Sigurbjörnsson biskup Íslands, minntist forsetafrúarinnar

Snjallyrði dagsins
Ljúfasta stundin
er löngu horfin
og liðið að hausti.
Skjálfa viðir,
en skipið fúnar
skorðað í nausti.

Og sorgin læðist
í svörtum slæðum
um sölnuð engi.
Blöðin hrynja
í bleikum skógum
á brostna strengi.

Löng er nóttin
og nístingsköld
við niðandi ósa.
Hjartað stinga
hélaðir þyrnar
heilagra rósa.
Davíð Stefánsson frá Fagraskógi (1895-1964) (Haustkveðja)

Engin fyrirsögn

John Kerry og George W. BushHeitast í umræðunni
17 dagar eru þar til Bandaríkjamenn ganga að kjörborðinu og kjósa um hvort John Kerry öldungadeildarþingmaður, eða George W. Bush forseti Bandaríkjanna, muni sitja á forsetastóli næstu fjögur árin, kjörtímabilið 2005-2009. Kappræðurnar eru að baki og frambjóðendurnir keppast því við að ferðast um landið og kynna sig og stefnu sína betur fyrir kjósendum. Einn af hverjum fimm kjósendum, tæp 20%, í Bandaríkjunum er óákveðinn um það hvern skuli kjósa, ef marka má kannanir. Núna þegar lokaspretturinn er hafinn beina frambjóðendur mest sjónum sínum að þeim fylkjum þar sem baráttan er jöfnust samkvæmt könnunum. 2000 vann Bush sigur í 30 ríkjum og hlaut 271 kjörmann. Má segja að baráttan núna standi mest um átta ríki núna, sem hafa um 100 kjörmenn. Sá sem nær þeim verður næsti húsráðandi í Hvíta húsinu. Um er að ræða Florída, Ohio, Pennsylvaniu, Wisconsin, Iowa, Nevada, New Hampshire og New Mexico. Skoðanakannanir sýna að í þessum fylkjum er annaðhvort munur milli þeirra innan skekkjumarka eða hnífjafnir. Eins og staðan er nú hefur Bush öruggt forskot í 26 ríkjum, en Kerry er öruggur í 16. Sem dæmi má nefna hafa bara Florída, Ohio og Pennsylvania 68 kjörmenn. Er almennt talið að sá sem taki tvö af þessum þrem muni hrósa sigri þann 2. nóvember. Eitt ljón gæti orðið á vegi Kerrys umfram annað. Neytendafrömuðurinn og sjálfstæði forsetaframbjóðandinn Ralph Nader gæti eyðilagt vonir hans um að ná kjöri. Nader hefur tekist að komast á kjörseðil í 30 ríkjum. Spurning er hvort versta martröð demókrata, Ralph Nader, hefur áhrif á úrslit kosninganna. Allavega er það eitt ljóst að æsispennandi lokasprettur er framundan í Bandaríkjunum.

Össur SkarphéðinssonÖssur Skarphéðinsson formaður Samfylkingarinnar, sakaði í dag Sjálfstæðisflokkinn um að nýta sér kennaraverkfallið til að ýta undir hugmyndir um einkavæðingu skólakerfisins, í ræðu sem hann flutti á flokkstjórnarfundi Samfylkingarinnar. Hann segir framámenn í sjálfstæðisflokknum nýta tækifærið til að setja fram kröfur um annað rekstrarform sem sé ekkert annað en krafa um einkavæðingu. Aðspurður nefndi hann sérstaklega Ara Edwald, framkvæmdastjóra Samtaka atvinnulífsins. Ekki þarf Össur að undrast að menn velti upp nýjum kostum, nýjum hugmyndum og nýrri framtíðarsýn í skólakerfinu, við þær aðstæður sem uppi eru í verkfalli grunnskólakennara. Hvernig má annað vera en að leitað sé nýrra leiða eða málin hugsuð með hliðsjón af raunveruleikanum. Reyndar var fyndið að formaðurinn þurfti að taka sérstaklega fram að hann væri ekki með ræðu sinni að skrifa upp á allar kröfur kennara, menn verði auðvitað að mætast á miðri leið í samningum. Það er þó gott að vita það að smá raunsæisglampi skín úr augum formannsins þó að öðru leyti einkennist málflutningur hans af örvæntingu. Hvaða tími en akkúrat núna er réttur til að ræða möguleikann á nýjum rekstri í skólamálum? Það er einmitt hárrétt að taka stöðuna nú og mikilvægt fyrir sveitarstjórnarmenn að fara yfir kostina. Mikilvægt er að fá fram meiri umræðu um möguleikann á einkarekstri í skólakerfi grunnskóla. Reyndar væri nær fyrir samninganefndirnar sem nú karpa um málin á meðan nemendur sitja heima að hefja umræðu um mat á hæfni og dugnaði hvers og eins kennara, sem er mun vænlegra til árangurs en karp um kennsluskyldu og frítíma.

Björn Bjarnason dómsmálaráðherraFundur með Birni
Björn Bjarnason dómsmálaráðherra og Þorsteinn Davíðsson aðstoðarmaður hans, voru í gærkvöldi gestir á fundi með stjórn Varðar og almennum félagsmönnum í Verði, félagi ungra sjálfstæðismanna á Akureyri, í Kaupangi. Á fundinum var notalegt spjall um stöðu mála í stjórnmálaheiminum, farið yfir heitustu málin í umræðunni og t.d. mikið rætt um bandarísku forsetakosningarnar. Félagsmenn voru duglegir að spyrja Björn um málin og hann svaraði þeim spurningum vel og ítarlega. Var gaman að ræða við hann og Þorstein og kvöldstundin því góð og gagnleg fyrir okkur hér. Fyrr um daginn hafði Björn opnað nýja varastöð fyrir Almannavarnir, Neyðarlínuna og Fjarskiptamiðstöð lögreglunnar á lögreglustöðinni hérna í bænum, en þar verður stjórnstöð sem þjónar landinu öllu. Einnig er þar vaktstöð siglinga og stjórnstöð leitar og björgunar auk þess sem stjórnstöð Almannavarnanefndar Eyjafjarðar verður þar að auki. Varastöðinni mun verða ætlað að taka við hlutverki stjórnstöðvarinnar í Skógarhlíð í Reykjavík ef hún af einhverjum ástæðum verður óvirk og eins verður hægt að reka stöðvarnar samhliða. Jafnframt opnaði Björn lögreglustöðina eftir gagngerar endurbætur. Er starfsaðstaða lögreglunnar mun betri nú en áður, lögreglustöð hefur verið hér við Þórunnarstræti frá því hún var vígð á afmælisdegi bæjarins, 29. ágúst 1968. Björn flutti ræðu við vígslu varastöðvarinnar í gær.

Dagurinn í dag
1890 Magnús Stephensen landshöfðingi, tók formlega í notkun síma sem lagður var á milli Reykjavíkur og Hafnarfjarðar - um var að ræða fyrstu málþráðarlagningu sem lögð var hérlendis
1902 Landakotsspítali í Reykjavík var formlega tekinn í notkun - var reistur af St. Jósepssystrum
1952 Írafossstöðin við Sog var vígð - um var að ræða eitt mesta mannvirki hérlendis til þess tíma
1978 Pólski kardinálinn Karol Józef Wojtyla kjörinn páfi - hann tók sér nafnið Jóhannes Páll páfi II. Hann hefur setið á páfastóli síðan, í 26 ár. Aðeins þrír hafa setið lengur á þeim stóli í sögunni
1984 Desmond Tutu hlýtur friðarverðlaun Nóbels fyrir baráttuna gegn aðskilnaðarstefnunni

Snjallyrði dagsins
Bærinn stendur við botn á löngum firði
Bláir álar í sólskininu loga
Þó kann öðrum að þykja meira virði,
að þorskur og koli fylla alla voga.
Hvernig sem blæs, er fjörðurinn alltaf fagur.
Fáir heilluðu lengur gamla vini.
Hann skín, þegar ljómar á lofti heiður dagur
Hann leiftrar í stjarnanna dýrð og mánaskini.
Við borgarans augum blasa fjallatindar
brekkur og hlíðar vaxnar grænu lyngi.
Davíð Stefánsson frá Fagraskógi (1895-1964) (Bærinn við fjörðinn)

Engin fyrirsögn

AlþingiHeitast í umræðunni
Fram kom í fréttum í gær að Síminn hefði aukið hlut sinn í Skjá einum. Hefur Síminn nú tryggt sér meirihluta í fyrirtækinu og ræður þar nú förinni með 50,4% eignahlutdeild í því. Eins og fram hefur komið áður er ég algjörlega andvígur því að ríkisfyrirtæki sé að eignast stóran hluta í fjölmiðlafyrirtæki og hvað þá að það sé komið með ráðandi hlut í rekstrinum. Stangast þessi kaup á við allar mínar pólitísku hugsjónir og er algjörlega ómögulegt að mínu mati að vera samþykkur þessum gjörðum meðan Síminn er í eigu ríkisins. Hefðu lög um eignarhald á fjölmiðlum verið sett í sumar eins og stefnt var að, en forseti Íslands í slagtogi við fjölmiðlarisa og stjórnarandstöðuna stöðvuðu af, hefðu þessi viðskipti verið ólögleg, enda er Síminn með markaðsráðandi stöðu á sínu sviði. En lögin eru ekki til staðar. Það er samt óneitanlega fyndið að heyra stjórnarandstöðuna sem hvað mest barðist gegn lögunum í sumar reyna nú að finna höggstað á stjórnarflokkunum vegna þessa máls. Þeir eiga erfitt með að tjá sig, enda er erfitt að sjá hvernig stjórnarandstöðuflokkarnir geti verið trúverðugir eftir að hafa reynt allt til að koma í veg fyrir að sett væru lög um eignarhald á fjölmiðlum almennt. Sífellt sést betur hversu lögin sem átti að setja í sumar voru nauðsynleg. Þau hefðu stöðvað þessar ákvarðanir stjórnar Símans sem er stjórnað af Rannveigu Rist og komið í veg fyrir þær. Hefðu tekið á þeim. Stjórnin er hinsvegar ekki að brjóta nein lög með þessum ákvörðunum enda fóru lögin sína leið. Það er hinsvegar mikilvægt að fara að vinna að því að setja slík lög með þeim hætti. Ennfremur er mikilvægt að selja Símann sem fyrst, enda er ég algjörlega mótfallinn þessum kaupum og því að markaðsráðandi fyrirtæki sé með þessa stöðu. Sérstaklega er ég svo mótfallinn því að ríkið sé í sjónvarpsrekstri. Það er algjörlega gegn mínum lífssjónarmiðum að ríkið bæti við sig fjölmiðlum og því mikilvægt að selja fyrirtækið og að auki setja lög um eignarhald á fjölmiðlafyrirtækjum. Alveg á hreinu!

Siv FriðleifsdóttirSiv Friðleifsdóttir alþingismaður og fyrrum umhverfisráðherra, hefur lagt fram á þingi athyglisvert frumvarp sem miðar að því að ráðherrar megi ekki samhliða ráðherradómi gegna stöðu þingmanns. Siv hafði áður lagt slíkt frumvarp fram skömmu áður en hún varð ráðherra, 1998-1999, og leggur sömu tillögur nú fram. Telur hún rétt að skilið sé betur á milli löggjafarvalds og framkvæmdavalds, í stjórnsýslu okkar, með þessum hætti. Sagði Siv í kynningu á frumvarpinu að kostir og gallir væru bæði við tillögurnar sem hún legði fram. Kostirnir að sínu mati myndu vega þyngra, en þeir fælust í minna ráðherraræði og auknu sjálfstæði þingsins. Gallarnir væru aukinn kostnaður, nema þingmönnum yrði fækkað samhliða, og aukið vægi stjórnarflokka sem skipa ríkisstjórn hverju sinni, nema gripið yrði til sértækra ráða til að styrkja stjórnarandstöðu til mótvægis vegna þessa. Er þetta frumvarp gott til að fá fram umræðu um þessi mál. Er ekki vanþörf á að fækka t.d. ráðuneytum að mínu mati. Það má gera með mörgum hætti. Nefndi ég í viðtali við Rás 2 í febrúar tvö dæmi um það. Önnur tillagan (og sú sem mér hugnast betur) er að dóms- og kirkjumálaráðuneyti, umhverfisráðuneyti, félagsmálaráðuneyti og samgönguráðuneyti verði sameinuð í eitt ráðuneyti innanríkismála. Ennfremur væru byggðamál færð úr iðnaðarráðuneyti til þessa nýja ráðuneytis. Önnur tillaga sem ég tel vænlega til að athuga er sameining atvinnuvegaráðuneytanna í eitt. Með því yrðu landbúnaðarráðuneyti, sjávarútvegsráðuneyti og iðnaðar- og viðskiptaráðuneyti sameinuð. Báðar þessar tillögur eru allrar athygli verðar og mikilvægt að tekin sé upp umræða um þetta. Verður fróðlegt að fylgjast með umræðunni á þingi um frumvarp Sivjar.

AkureyriÁlyktanir stjórnar Varðar
Stjórn Varðar, félags ungra sjálfstæðismanna á Akureyri, kom saman í gærkvöldi undir minni stjórn. Þar voru samþykktar þrjár ályktanir, svohljóðandi:

Vörður, félag ungra Sjálfstæðismanna á Akureyri, fagnar hugmyndum um byggingu á Baldurshagalóðinni. Félagið fagnar öllum þeim sem sjá sér hag í að koma fram með hugmyndir um uppbyggingu bæjarins sama hversu djarfar þær eru. Eins og áður hefur komið fram lýsir félagið yfir ánægju sinni með líflega umræðu um skipulagsmál í bænum eftir íbúaþingið í seinasta mánuði. Félagið vill sjá frekari uppbyggingu í kringum miðbæjarkjarnann, allt austan við Glerárgötu og norður að Tryggvabraut. Vörður telur að taka skuli allt Eyrarsvæðið og það skuli endurskipulagt sem nútíma íbúðarsvæði í bland við hús sem hafa menningarlegt gildi. Það er hiklaust stefna Varðar að byggja eigi upp blómlega byggð sem næst miðbæjarkjarnanum. Félagið horfir sérstaklega á lóð Eimskipafélagsins sem vænlegan kost til uppbyggingar á háhýsum og lítur svo á að leyfisveiting fyrir frystigeymslu muni seinka um of allri þróun á svæðinu, enda fara íbúar- og atvinnusvæði illa saman. Félagið telur að nauðsynlegt sé að færa atvinnustarfsemi af Eyrarsvæðinu í fyllingu tímans og finna því stað á vænlegri stöðum. Sérstaklega væri rétt að líta til Krossanessvæðisins. Vörður vill að bærinn verði enn kraftmeiri og öflugri höfuðstaður Norðurlands í fyllingu tímans og að innsigling fyrir skemmtiferðaskip verði sú fallegasta í heiminum, með háhýsi og menningarhús við sjávarsíðuna.

KennslaVörður, félag ungra sjálfstæðismanna á Akureyri, harmar að grunnskólakennarar hafi enn einu sinni valið þann kost að fara í verkfall og stefna með því framtíð grunnskólabarna í hættu, og halda þeim í gíslingu sinni eins og margoft áður. Telur félagið rétt að hvetja sveitarfélög til að íhuga breytt fyrirkomulag á rekstri í skólamálum. Mikilvægt er að fá fram meiri umræðu um möguleikann á einkarekstri í skólakerfi grunnskóla, slíkt myndi að mati félagsins stuðla að fjölbreyttara og litríkara skólastarfi. Vörður telur verkfallsvopnið vera úrelt tæki í kjarabaráttu. Verkfall bitnar nú sem fyrr á þeim sem síst skyldi. Verkföll eru leifar gamalla tíma úr úreltri kjarabaráttu og notkun þess setur í þessu tilfelli heila stétt á lægri stall. Sérstaklega telur félagið rétt að harma hörð viðbrögð kennaraforystunnar við jákvæðu og eðlilegu frumkvæði fyrirtækja að bjóða börnum starfsmanna sinna gæslu á vinnutíma sem er fráleitt að kalla verkfallsbrot. Vonlaust er fyrir sveitarfélögin að ganga að ítrustu kröfum kennaraforystunnar og fátt sem bendir til að svigrúm sé til þess. Er mikilvægt að samninganefndirnar líti á þann ramma sem mögulegur er til framkvæmda á þessu stigi málsins og semji um kjör kennara með raunhæfum hætti út frá því. Jafnframt væri eðlilegra að kennarar myndu taka skref í faglega átt í kjaradeilu sinni og hefja umræðu um mat á hæfni og dugnaði hvers og eins kennara. Slíkt er að mati Varðar mun vænlegra til árangurs en karp um kennsluskyldu og frítíma.

BessastaðirVörður, félag ungra sjálfstæðismanna á Akureyri, fagnar því að Pétur Blöndal alþingismaður, hafi lagt fram á Alþingi, frumvarp til laga um að leggja niður embætti forseta Íslands, árið 2008, við lok núgildandi kjörtímabils forsetans. Er nauðsynlegt að fá fram umræðu um embættið, hvernig það hefur breyst í öldugangi stjórnmálaheimsins á undanförnum mánuðum og hversu mjög það hefur skaddast. Tilkoma frumvarpsins er kærkomið tækifæri fyrir þá sem eru andsnúnir embættinu og vilja uppstokkun í stjórnkerfinu að stíga fram og tjá sig og hefja umræðuna og óska eftir skoðanaskiptum um embætti forseta Íslands. Raunverulegar embættisskyldur forsetans eru einkum formlegs eðlis og í raun gætu þau verið í höndum forsætisráðherra eða forseta Alþingis. Embætti forseta Íslands er með öllu ónauðsynlegt í lýðræðisríki og ekki síður gríðarlega kostnaðarsamt fyrir skattgreiðendur. Telur Vörður rétt að minna á þá afstöðu sem margoft hefur komið fram á þingum Sambands ungra sjálfstæðismanna að leggja skuli niður forsetaembættið og stokka upp stjórnkerfið. Vörður fagnar því að ungt hægrifólk hafi eignast jafntraustan og virkan samherja í þessu máli og Pétur Blöndal.

Umfjöllun um ályktanir Varðar, félags ungra sjálfstæðismanna á Akureyri

Dagurinn í dag
1964 Gert opinbert að Nikita Krushchev hafi ekki vikið sjálfviljugur af valdastóli, heldur hafi verið steypt af stóli af flokksfélögum sínum á bakvið tjöldin. Hann lifði í kyrrþey þau 7 ár sem hann lifði eftir það og kom ekki oftar fram opinberlega. Tilfærslurnar í Moskvu leiddu til harðra stefnubreytinga
1969 Víetnamstríðinu mótmælt harkalega um gjörvöll Bandaríkin í fjöldamótmælum almennings
1975 Fiskveiðilögsagan færð út í 200 sjómílur - hafsvæði innan lögsögunnar er 758 þúsund ferkílómetrar en 216 þúsund fyrir þessa ákvörðun, er 50 mílurnar voru. Deilum við Breta um lögsöguna lauk með samningum sumarið 1976. Frá þeim tíma hefur verið friður á miðunum
1979 Ríkisstjórn Benedikts Gröndal, minnihlutastjórn Alþýðuflokksins, tók við völdum. Stjórnin sat við völd í aðeins tæpa fjóra mánuði og er því skammlífasta ríkisstjórnin í sögu íslenskra stjórnmála
1998 Um sex þúsund Íslendingar héldu dagbók á degi dagbókarinnar. Meðal þeirra sem skrifaði dagbók um daginn sinn var Björn Bjarnason dómsmálaráðherra og þáverandi menntamálaráðherra

Snjallyrði dagsins
Loks eftir langan dag
lít ég þig, helga jörð.
Seiddur um sólarlag
sigli ég inn Eyjafjörð.

Ennþá á óskastund
opnaðist faðmur hans.
Berast um sólgyllt sund
söngvar og geisladans.
Davíð Stefánsson frá Fagraskógi (1895-1964) (Sigling inn Eyjafjörð)

Engin fyrirsögn

John Kerry og George W. BushHeitast í umræðunni
George W. Bush forseti Bandaríkjanna, og John Kerry öldungadeildarþingmaður, mættust í síðasta skipti til að ræða málefni kosningabaráttunnar í Bandaríkjunum í þriðju og seinustu kappræðum sínum í háskólanum í Tempe í Arizona í nótt. Kappræðurnar voru eins uppbyggðar og þær fyrstu, þann 30. september. Spyrill var Bob Schieffer fréttamaður á CBS. Kappræðurnar stóðu eins og hinar tvær í 90 mínútur og lauk með tveggja mínútna lokaorðum. Umræðuefni kvöldsins voru innanríkismál, allt frá efnahagsmálum til þjóðfélagsmálefna. Tókust forsetaefnin eins og áður harkalega á um ólíkar stefnur og aðferðir til að ná settu marki. Sem fyrr voru öryggismálin umdeildust sem lykilmál þessarar kosningabaráttu eins og hefur blasað við nokkurn tíma að yrði raunin. Athygli vakti þegar talið barst að samkynhneigð að Kerry ákvað að gera málefni dóttur Cheney varaforseta að umræðuefni, sem er í hæsta máta óeðlilegt og undarlegt til að slá pólitískar keilur. Lynne Cheney varaforsetafrú, réðist harkalega að Kerry eftir kappræðurnar vegna þessa og kallaði hann tækifærissinna og mannleysu. Bush og Kerry stóðu sig báðir vel í þessum lokahluta kappræðnanna. Að mínu mati var Bush kraftmeiri og öflugri og var betri. Hann benti á glufurnar í málstað Kerrys og réðist óhikað að honum og tók frumkvæðið alveg hiklaust. Það varð sífellt augljósara í kvöld að Kerry hefur enga framtíðarsýn nema gamla frasa og orðaleppa. Bush sýndi með því að rifja upp feril keppinautar síns í öldungadeildinni hvernig hann hefur tekið afstöðu til mikilvægra málefna áður fyrr. Munu niðurstöður nýrra skoðanakannana og spin-mennskan sem í gang fer nú hafa mikið um að segja hvernig slagurinn muni fara að lokum. Nú þegar kappræðurnar eru að baki, er seinasti hluti kosningabaráttunnar kominn af stað og segja má að seinustu stórtækifæri forsetaframbjóðendanna til að ná til kjósenda í sjónvarpi séu ekki lengur fyrir hendi. Á þeim 19 dögum sem eru til kjördags, þriðjudaginn 2. nóvember, munu frambjóðendur ferðast um landið og reyna að ná beint til kjósendanna til að biðla til þeirra um að kjósa sig. Verður fróðlegt að sjá hvernig lokahnykkurinn verði og hvort og þá hvaða sveiflur verði á fylgi forsetaframbjóðendanna.

Upptaka af þriðju kappræðum George W. Bush og John Kerry
Kappræður George W. Bush og John Kerry - endurrit af umræðunum
Hápunktar í þriðju kappræðum George W. Bush og John Kerry
Ummæli forsetaframbjóðendanna í þriðju kappræðum sínum
Umfjöllun um kappræður George W. Bush og John Kerry

DalvíkÓlga er í bæjarmálum í Dalvíkurbyggð þessa dagana, eins og fram hefur komið í fréttum Ríkisútvarpsins. Logar allt stafna í milli hjá Framsóknarflokknum, sem er stærsti flokkurinn í bæjarstjórninni og hefur 4 fulltrúa í bæjarstjórn af 9 og hefur verið í meirihluta bæjarstjórnar á Dalvík í áratug, frá 2002 í meirihlutasamstarfi með Sjálfstæðisflokknum. Deilurnar snúast um að meirihluti bæjarstjórnar hefur í hyggju að loka sveitaskólanum á Húsabakka í Svarfaðardal. Dalurinn og Árskógsströnd sameinuðust Dalvík í sveitarfélagið Dalvíkurbyggð árið 1998. Frá þeim tíma hafa skólar verið á öllum þremur stöðunum en seinustu ár hefur skólinn á Dalvík sífellt verið styrktur með hliðsjón af því að hagkvæmara sé að reka skóla þar. Nýleg úttekt á skólunum staðfestir svo ekki sé um villst að óhagkvæmt er að reka skóla í Svarfaðardal. Nú hefur það gerst að allt sýður upp úr í Framsóknarflokknum í Svarfaðardal og hefur fyrrum bæjarfulltrúi flokksins þaðan sagt sig úr flokknum og neitar að styðja lengur ákvarðanir flokksins. Það hefur gerst sem fáa óraði fyrir að myndi gerast. Framsóknarflokkurinn í Dalvíkurbyggð hefur klofnað. Grunnlína í þessu máli er að fólk þarf að horfast í augu við staðreyndir um rekstur skólanna í Dalvíkurbyggð, en getur ekki lifað á tilfinningalegum rökum. Það eru engin rök nema tilfinningaleg lengur með skólarekstri í Svarfaðardal, svo einfalt er það. Það er von mín að meirihlutinn í Dalvíkurbyggð láti ekki tilfinningaleg rök stjórna ferðinni í þessu máli heldur skynsemina, sem er augljós þegar litið er á tölur í þessu máli.

Washington DCPistill um Washingtonferðina
Í ítarlegum pistli á vef mínum fjalla ég um för mína til Washington í síðustu viku. Í pistlinum segir til dæmis svo: "Það er draumur hvers áhugamanns um stjórnmál og mannkynssöguna að fara til Washington DC, höfuðborgar Bandaríkjanna. Borgin er táknmynd fyrir stjórnmálasögu Bandaríkjanna og sögu heimsins. Þar hafa örlög heimsins jafnan ráðist, þar situr valdamesti maður heims á valdastóli og stjórnar öflugasta ríki samtímans. Það jafnast fátt á við að fara til Bandaríkjanna, og fyrir stjórnmálaáhugamann var auðvitað einstakt tækifæri að fara þangað innan við fjórum vikum fyrir forsetakosningar í landinu. Ég hafði lengi viljað fara til Washington, segja má að ég sem þyki vera frekar mikill áhugamaður um stjórnmál og söguna hafi lengi beðið færis á að heimsækja þessa borg borganna. Að mínu mati var Washington áður en ég lagði af stað þangað á miðvikudag fyrir viku, táknmynd alls þess sem ég stend fyrir í stjórnmálum: frelsisins í allri sinni mögulegu mynd í heiminum. Óhætt er að segja að borgin hafi staðið undir væntingum mínum og gott betur. Það var sannkölluð upplifun að fara þangað og þetta skynja allir þeir sem hafa farið til borgarinnar og munu skynja þegar þeir fara þangað fyrsta sinni. Bandaríkin hafa alltaf heillað mig og ég hafði farið þangað áður og kynnst öllum kostum þess, en Washington er perla landsins, þangað verða allir að fara að minnsta kosti einu sinni á ævigöngu sinni." Að því loknu fer ég yfir það helsta sem gert var í ferðinni, og hvað fyrir augu bar í þessari fyrstu ferð minni til Washington. Hvet ég alla til að lesa pistilinn sem vilja lesa meira um þessa ferð.

Dagurinn í dag
1863 Fjórir þingeyingar komu til Rio de Janeiro eftir þriggja mánaða ferð frá Akureyri, með viðkomu í Danmörku. Þetta var upphaf ferða til Brasilíu en þær leiddu til hinna frægu vesturferða til Kanada
1964 Blökkumannaleiðtoginn Dr. Martin Luther King hlýtur friðarverðlaun Nóbels fyrir mikilsvert framlag sitt til mannréttindabaráttu blökkumanna - Dr. King var myrtur í Tennessee árið 1968
1964 Nikita Khrushchev steypt af valdastóli í Sovétríkjunum - Leonid Brezhnev tók við völdum
1990 Tónskáldið Leonard Bernstein lést í New York, 72 ára að aldri. Hann var eitt frægasta tónskáld Bandaríkjanna á 20. öld og er einna þekktastur fyrir tónlist sína í söngleiknum West Side Story
1994 Yitzhak Rabin, Yasser Arafat og Shimon Peres hljóta friðarverðlaun Nóbels fyrir framlag sitt til friðarsamningsins í Mið-Austurlöndum árið 1993. Þótti söguleg stund þegar þeir tóku við verðlaununum 10. desember 1994. Rabin var myrtur tæpu ári síðar og leiddi morðið á honum til valdaglundroða í Ísrael sem varð að lokum til þess að friðarferlið fór að fullu út af sporinu

Snjallyrði dagsins
Þó fjúki í fornar slóðir
og fenni í gömul skjól
geta ekki fönnin og frostið
falið Álfahól.

Yfir hann skeflir aldrei
þó allt sé af gaddi hvítt,
því eldur brennur þar inni,
sem ísinn getur þítt.

Þar á ég höfði að halla,
þó hríðin byrgi sól,
fjúki í fornar slóðir
og fenni í gömul skjól.
Davíð Stefánsson frá Fagraskógi (1895-1964) (Álfahóll)

Engin fyrirsögn

John Kerry og George W. BushHeitast í umræðunni
George W. Bush forseti Bandaríkjanna, og John Kerry öldungadeildarþingmaður, munu mætast í þriðju og seinustu kappræðum sínum í háskólanum í Tempe í Arizona í nótt. Eru þessar kappræður jafnan taldar vera seinasta tækifæri frambjóðendanna að ná til hins óákveðna kjósanda með málflutning sinn og stefnu. Nú þegar aðeins 20 dagar eru til kosninga, innan við þrjár vikur, skiptir gríðarlega miklu máli fyrir frambjóðendurna að ná að tjá málflutning sinn af krafti og tilfinningu til að ná til fjöldans, einkum þeirra sem sitja við tækið og hafa ekki enn gert upp á milli hvorum þeirra eigi að treysta fyrir atkvæði sínu. Skoðanakannanir sýna að tæplega 15% kjósenda eru enn óákveðnir og hafa ekki gert upp hug sinn varðandi hvað skuli kjósa. Það er því eftir miklu að sækjast og nauðsynlegt að frambjóðendur leggi allt sitt í framkomu sína í kappræðunni í nótt, ætli þeir að vinna sigur í kosningunum. Samkvæmt könnunum sem birtar hafa verið seinustu daga hefur kosningabaráttan jafnast út og ýmist er Bush með smávægilegt forskot eða hann er jafn Kerry í fylgi. Í sjö nýjustu könnunum hefur Bush forystuna. Þó munar í þessum könnunum aðeins 1-5% á fylgi þeirra. Kappræðurnar á föstudag hafa styrkt Bush í sessi. Sókn Kerrys var þá stöðvuð en nú reynir á þrek frambjóðandanna á lokasprettinum. Hvað varðar kjörmannakosninguna sem skiptir í raun og veru ein máli í forsetakosningum í Bandaríkjunum, með tilliti til þess kerfis að kjörmenn fylkja kjósa í raun forsetann, er staða forsetans styrkari en samkvæmt könnunum. Eins og flestir vita ganga kosningarnar út á það að sigra fylkin og fá þarmeð alla kjörmenn þess á kjörmannasamkundunni 18. desember nk. þar sem forsetinn er í raun kjörinn endanlega. Frambjóðandi nær kjöri þegar hann hlýtur 270 kjörmenn. Bush forseti, hlaut 271 kjörmann í kosningunum 2000 en Al Gore hlaut þá 267, sem var naumasti munur í kjörmannasamkundunni í 220 ára sögu Bandaríkjanna. Í kappræðum kvöldsins verða eingöngu rædd innanríkismál og mest fókuserað á efnahagsmálin. Spyrill verður Bob Schieffer fréttamaður á CBS, og munu kappræðurnar verða með sama sniði og þær fyrstu sem voru í Flórída, 30. september og standa eins og hinar tvær fyrri, í 90 mínútur. Verður fróðlegt að sjá hvort kappræður kvöldsins breyta stöðu kosningabaráttunnar að einhverju leyti.

AlþjóðahúsFjallað hefur verið í fréttum undanfarna daga um það að erlendur starfsmaður Alþjóðahússins í Reykjavík, sem er rekið með opinberum peningum af hálfu ríkis og borgar, hafi hótað tveim mönnum, Ásgeiri Hannesi Eiríkssyni fyrrum alþingismanni, og Hirti J. Guðmundssyni stjórnarmanni í Heimssýn, líkamlegu ofbeldi og jafnvel dauða ef þeir hættu ekki að tjá sig málefni innflytjenda á Íslandi. Fengu þeir báðir send til sín hótunarbréf frá manninum þar sem kemur fram að þeir yrðu teknir í gegn og allir þeim tengdir ef þeir hættu ekki að tjá skoðanir sínar um innflytjendamálin. Bréfi til annars þeirra lauk t.d. með orðunum "Your days are numbered" sem er varla hægt að skilja nema á einn veg. Það er með öllu ótækt að fólk geti ekki tjáð skoðanir sínar opinberlega í fjölmiðlum án þess að fá sendar nafnlausar hótanir um ofbeldi og jafnvel dauða. Það að viðkomandi aðili sé svo starfandi hjá Alþjóðahúsinu, og getur því varla verið góð auglýsing fyrir það og málstað þess. Heyrst hefur á Einari Skúlasyni framkvæmdastjóra þess, að viðkomandi maður hafi verið settur í frí tímabundið, og mál hans séu til athugunar. Fátt kemur til greina að mínu mati en að víkja manninum úr starfi, allavega meðan lögreglurannsókn fer fram, sem stendur nú yfir. Að auki má benda á að viðkomandi aðili á sæti í stjórn Fjölmenningarráðs. Þetta er því allt frekar slæmt mál. Það er auðvitað mjög slæmt ef svo er komið að fólk leyfir ekki öðrum að hafa skoðanir án þess að hóta að vinna því mein eða ráðast að því með ómálefnalegum hætti. Það þarf að taka á svona málum, enda er málefnaleg umræða um innflytjendamál mjög mikilvæg, allavega að mínu mati.

Illugi GunnarssonSpjallþættirnir
Ég var ekki á landinu um seinustu helgi og missti því af dægurmálaspjallþáttum sunnudagsins, horfði á upptöku af þeim við heimkomuna. Þá hóf göngu sína nýr spjallþáttur á Skjá einum, Sunnudagsþátturinn. Þar eru umsjónarmenn ekki hlutlausir eins og oftast hefur verið, heldur málsvarar hægri- eða vinstristefnu og hika ekki við að krydda viðtölin með skoðunum sínum. Illugi Gunnarsson og Katrín Jakobsdóttir stjórna þættinum og stóðu sig vel í þeim fyrsta. Illugi ræddi við Jóhönnu Sigurðardóttur um fátækt og Katrín við Jónínu Bjartmarz um jafnréttismál. Bæði mjög innihaldsríkt og fróðlegt. Sérstaklega var gaman að horfa á Illuga taka Jóhönnu alveg í gegn í fátæktarumræðunni. Jóhanna hjakkast alltaf í sama farinu og neitar að horfa á tölulegar staðreyndir, enda gætu þær gert svartagallsrausið hennar bitlausara en ella. Það er leiðinlegt að horfa á fólk tala gegn betri vitund um mál sem það þekkir betur en svo að tala svo um það sem Jóhanna gerir. Enda var hún frekar brjóstumkennanleg í samræðunni við Illuga. Svo ræddu Ólafur Teitur og Guðmundur við Siggu Andersen og Ögmund. Gott spjall, Óli Teitur er þarna svo sannarlega á heimavelli. Fínn þáttur og beittur, lofar góðu! Egill er á sama tíma í hádeginu á sunnudögum með Silfrið sitt. Alltaf eitthvað um að vera hjá honum. Var gaman að sjá Pétur Blöndal taka Hallgrím Helgason og Gunnar Smára í gegn, en vitleysan vall sem fyrr upp úr Hallgrími. Er kostulegt að hlusta á fimbulfambið í honum og samsæriskenningarnar allar. Í lok þáttarins ræddi Egill við James C. Humes. Hann var ræðuritari fyrir fimm forseta Bandaríkjanna og er höfundur nokkurra af fleygustu setningum stjórnmálasögunnar. Hann kom til landsins í lok september til að flytja fyrirlestur á málþingi Samtaka um vestræna samvinnu og Varðbergs. Hann hefur t.d. ritað 28 fræðibækur um bandarísk stjórnmál, sögu og pólitíska þrætubókarlist. Snilld var að hlusta á hann herma eftir Nixon, Roosevelt og Churchill í viðtalinu. Náði þeim óaðfinnanlega. Mjög áhugavert viðtal, sem ég hvet alla til að sjá.

Dagurinn í dag
1792 Framkvæmdir hófust á forsetasetri við Pennsylvania Avenue í Washington - nefnt Hvíta húsið
1986 Leiðtogafundi Reagans og Gorbatsjovs lauk með litlum sýnilegum árangri. Almennt litið svo á nú að leiðtogafundurinn hérlendis hafi verið eitt þýðingarmesta skrefið að endalokum kalda stríðsins
1987 Kýr synti yfir Önundarfjörð, frá Flateyri að Kirkjubóli í Valþjófsdal. Leiða átti hana til slátrunar en hún reif sig lausa, lagði á flótta og lagði til sunds. Kýrin hét Harpa, en var kölluð svo Sæunn
1995 Margrét Frímannsdóttir sigraði Steingrím J. Sigfússon mjög naumlega í formannskjöri í Alþýðubandalaginu. Margrét hlaut 53,5% atkvæða. Flokkurinn varð hluti af Samfylkingunni 2000
2001 Aðalfundur Læknafélags Íslands staðfesti yfirlýsingu félagsins, Íslenskrar erfðagreiningar og Landlæknisembættisins um miðlægan gagnagrunn á heilbrigðissviði - endalok langra deilna um hann

Snjallyrði dagsins
You can run, but you cannot hide.
George W. Bush forseti Bandaríkjanna (sagt í öðrum kappræðum hans við John Kerry)

Engin fyrirsögn

AlþingiHeitast í umræðunni
3 mánuðum eftir að ríkisstjórnin samþykkti að draga fjölmiðlalögin til baka og skipa þverpólitíska nefnd um málefni tengd eignarhaldi á fjölmiðlum, hefur Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir menntamálaráðherra, nú formlega tilkynnt um stofnun hennar. Tilkynnt verður svo formlega um skipun hennar og nefndarmenn í henni fyrir vikulokin. Samþykkt var á fundi ríkisstjórnarinnar í morgun að í nefndinni myndu sitja sjö fulltrúar, í stað fimm eins og áður hafði verið ákveðið. Með þessu er því gert ráð fyrir að allir stjórnarandstöðuflokkarnir fái fulltrúa í henni. Áður var gert ráð fyrir að í henni yrðu tveir fulltrúar frá stjórnarflokkunum og tveir frá stjórnarandstöðunni en menntamálaráðherra myndi skipa fimmta nefndarmanninn, sem jafnframt yrði formaður hennar. Strax kom upp gagnrýni frá stjórnarandstöðunni um þá tilhögun mála og hefur ráðherra mætt því nú með þessari fjölgun í nefndinni um tvo, stjórnarandstaðan skipar þrjá fulltrúa en stjórnarflokkarnir skipa fjóra. Nú með þessari ákvörðun er þess vonandi að vænta að stjórnarandstaðan geti hætt að nöldra yfir framkvæmdahlið málsins og fari að ræða loksins það sem skiptir mestu máli og hefði átt að vera allan tímann: efnisatriði tengd eignarhaldi á fjölmiðlum. Ég tel nauðsynlegt að tryggja það að fram fari opinská umræða frá öllum hliðum um eignarhald á fjölmiðlum, og í framhaldinu geti menn sett sanngjarnan regluramma um eignarhaldið. Reyna mun nú á það hvort stjórnarandstaðan stendur við stóru orðin og kemur að starfinu í fjölmiðlanefndinni með opnum hug og vilja til að kynna skoðanir sínar á efninu. Ef þeim er alvara með að vinna málið frá grunni og taka umræðu um eignarhaldið og fjölmiðla frá víðu sjónarhorni eins og þau hafa predikað í efnisrýrri umfjöllun sinni um málið í sumar, kemur þá væntanlega fljótt í ljós í störfum þeirra í fjölmiðlanefndinni. Nú getur efnislega umræðan loksins hafist á vettvangi stjórnmálanna. Er það fagnaðarefni, hiklaust.

Kennarar afhenda bæjarstjóra ályktun sínaVerkfall grunnskólakennara hefur nú staðið í tæpan mánuð og bendir frekar fátt til þess að lausn sé í sjónmáli. Grunnskólakennarar hér á Akureyri afhentu í dag, Kristjáni Þór Júlíussyni bæjarstjóra, ályktun þar sem segir: "Baráttufundur Bandalags kennara á Norðurlandi eystra og Kennarasambands Norðurlands vestra skorar á sveitarstjórnarmenn á Norðurlandi að kynna sér kröfugerð Félags grunnskólakennara og beita áhrifum sínum til að Launanefnd sveitarfélaga gangi að kröfum kennara." Að þessu loknu ávarpaði bæjarstjóri fundarmenn og sagðist vonast til að deilan fengi farsælan endi hið fyrsta, eins og auðvitað allir vona. Eins og fyrr segir er deilan enn í nokkrum hnút og fátt gleðilegt sjáanlegt um næstu skref. Eins og ég hef áður bent á er vonlaust fyrir sveitarfélögin að ganga að ítrustu kröfum kennaraforystunnar og fátt sem bendir til að svigrúm sé til þess, þótt sveitarfélögin vildu gera svo vel við kennara sem kröfur þeirra segja til um. Er mikilvægt að ég tel að samninganefndirnar líti á þann ramma sem mögulegur er til framkvæmda á þessu stigi málsins og semji um kjör kennara með raunhæfum hætti. Á meðan á þessu þvargi milli samninganefnda stendur, sitja nemendur heima, hanga í tölvunni, horfa á sjónvarpið, eru í tölvuleikjum og margt fleira hangselsi, sem til er þegar ekkert er fyrir stafni. Það er ótækt að kennarar geti endalaust haldið nemendum í þessari gíslingu. Ánægjulegt var að heyra í gær af einkaskólanum sem Haraldur Ólafsson veðurfræðingur, hefur stofnað á heimili sínu. Þar kennir hann grunnskólabörnum samkvæmt aðalnámsskrá grunnskóla, einkum stærðfræði. Á annan tugur nemenda hefur mætt í kennslustundir til hans. Hrós dagsins hjá mér fer því til Haraldar fyrir að stíga skrefið og nota þekkingu sína til að miðla til nemenda meðan verkfallið stendur.

Sólbakur EA-7Sýslumaðurinn á Akureyri féllst í dag á þá beiðni útgerðarfélagsins Sólbaks að setja lögbann á aðgerðir sjómannasamtaka og verkalýðsfélaga sem stöðvað hafa að undanförnu löndun úr togaranum Sólbaki EA-7. Lögbannið tekur gildi þegar í stað, en útgerðarfélagið þarf að höfða mál til staðfestingar innan viku. Von er á Sólbaki hingað til hafnar á Akureyri í fyrramálið og ætti því að vera hægt að landa úr skipinu án allra vandræða þá, enda segjast sjómenn hlíta niðurstöðunni. Þetta mál kemur til, eins og allir vita sem fylgst hafa með vegna þess að forsvarsmenn sjómanna mættu á bryggjuna fyrir tæpri viku og reyndu að koma í veg fyrir löndun úr skipinu. Skipið er gert út af hálfu útgerðarfélagsins Sólbaks, sem er að fullu í eigu Brims. Félagið er ekki aðili að LÍÚ og sjómenn sem starfa í skipinu standa utan stéttarfélaga sjómanna. Eins og flestum er kunnugt er hér deilt um ráðningarsamninga sem gerður var við áhöfnina á dögunum. Að mínu mati er réttast að þetta mál fari fyrir dómstóla ef forysta sjómanna er ekki sátt við að ákvarðanir útgerðarmanna skipsins og sjómanna um borð. Aðrar aðferðir stangast á við mín sjónarmið í lífinu og þau lögmál sem eiga að gilda. Því er þetta lögbann að fullu skiljanlegt. Að mínu mati er talsverð ábyrgð fólgin í því að stöðva löndun skipsins og eðlilegt fyrir viðkomandi aðila að sækja rétt sinn ef þeir telja á honum brotið með einhverjum hætti. Dómstólar eiga að fjalla um málið og menn eiga að hætta leikrænum tilburðum til að vekja athygli á sér og reyna að stöðva fjölmennan vinnustað hér í bænum, annað er ekki eðlilegt. Svo eiga menn að fara eftir því sem dómarinn segir. Einfalt mál í mínum huga!

Alexander LukashenkoKjósendur í Hvíta-Rússlandi munu ganga að kjörborðinu á sunnudag og kjósa um það hvort að Alexander Lukashenko forseta landsins, skuli leyft að sækjast eftir því að sitja sitt þriðja kjörtímabil á forsetastóli. Lukashenko, sem setið hefur á valdastóli frá 20. júlí 1994, þykir mikill einangrunarsinni og hefur sætt mikilli gagnrýni um allan heim fyrir stjórnunarstíl sinn, einkum frá vestrænum ríkjum. Lukashenko, má samkvæmt stjórnarskrá landsins aðeins sitja tvö kjörtïmabil á forsetastóli. Rennur núgildandi kjörtímabil hans út vorið 2006, eftir rúmt eitt og hálft ár. Samþykki þjóðin umboð hans, má hann sitja annað sex ára kjörtímabil. Forseta landsins er heimilt samkvæmt stjórnarskrá að boða til þjóðaratkvæðagreiðslu um mál og hefur hann nú nýtt sér þann rétt með því að leggja fyrir þjóðina að umboð hans verð endurnýjað í þriðja sinn í forsetakosningunum 2006. Er fátt gott hægt að segja um Lukashenko, persónu hans eða forsetaferil í þessu landi. Hann er einræðisherra eins og þeir þekkjast af verstu gerðinni og vonandi að þjóðin muni í kosningunum á sunnudag þora að segja honum til syndanna með því að hafna því að veita honum leyfi til forsetaframboðs í kosningunum 2006. Það er kominn tími til að þessum einræðisherra af gömlu sortinni, sennilega þeim seinasta í Evrópu, verði komið frá völdum og besta tækifærið til þess er að banna honum að bjóða sig fram aftur og reyna að sveigja stjórnarskrá landsins að boðum sínum og bönnum.

Dagurinn í dag
1905 Verzlunarskóli Reykjavíkur, sem nú heitir Verzlunarskóli Íslands, tók formlega til starfa
1918 Eldfjallið Katla gaus eftir tæplega 60 ára hlé. Var kraftmikið gos, hið mesta á Íslandi á 20. öld
1962 Kvikmyndin 79 af stöðinni, byggð á skáldsögu Indriða G. Þorsteinssonar, var frumsýnd. Var fyrsta mynd okkar í fullri lengd og skartaði Gunnari Eyjólfssyni og Kristbjörgu Kjeld í aðalhlutverkum
1984 IRA reynir að ráða Margaret Thatcher forsætisráðherra Bretlands, og aðra forystumenn breska Íhaldsflokksins, af dögum í sprengjutilræði í hóteli í Brighton þar sem landsfundur Íhaldsflokksins var haldinn. Litlu munaði að Thatcher og eiginmaður hennar, Denis Thatcher, létu lífið í árásinni
1998 Guðrún Katrín Þorbergsdóttir forsetafrú, lést á sjúkrahúsi í Seattle í Bandaríkjunum, 64 ára að aldri. Guðrún Katrín varð forsetafrú 1996 og hafði mikið persónufylgi þann stutta tíma sem hún var við hlið forsetans á embættistíma hans, er almennt litið svo á að hún hafi haft mikil áhrif á það að hann hlaut kjör til embættisins. Guðrún Katrín greindist með hvítblæði 1997 og barðist hetjulegri baráttu gegn því uns yfir lauk. Við útförina voru viðstaddir allir þjóðhöfðingjar Norðurlandanna

Snjallyrði dagsins
In my dreams
I'll always see your soar
Above the sky
In my heart
There will always be a place
For you for all my life
I'll keep a part
Of you with me
And everywhere I am
There you'll be
Diane Warren (There You'll Be)

Engin fyrirsögn

Bandaríski fáninnFerð til Washington DC
Ég kom í dag aftur til landsins eftir tæplega vikuferð til Washington. Þar var kynnt sér kosningabaráttuna sem er á sínum lokaspretti þessar vikurnar og jafnframt litið á sögu borgarinnar og það mikilvægasta sem hún hefur upp á að bjóða. Var virkilega gaman að fara til borgarinnar. Ég get fullyrt að ég hafi heillast af henni. Það kom mér skemmtilega á óvart hversu lítið stress er í borginni eða ys og þys. Tíminn var nýttur vel og margt gert sér til gamans. Mun ég fara ítarlega yfir ferðina, það sem þar var gert og stöðu kosningaslagsins sem ég fylgdist auðvitað vel með í návígi í ferðinni, í pistli á heimasíðu minni á miðvikudag. Það var þreyttur en mjög ánægður hópur sem lagði af stað heim til Íslands frá Baltimore í nótt og kom heim í morgun aftur til landsins. Óhætt er að fullyrða að við höfum skemmt okkur vel og haft bæði gagn og gaman af för okkar til Washington. Mörg okkar voru að fara til borgarinnar í fyrsta skipti, sumir jafnvel að fara í fyrsta sinn til Vesturheims. Hef ég farið áður og þekki því vel til landsins og þess indæla andrúmsloft sem þar er. Alltaf er jafngaman að fara til Bandaríkjanna, en ég tel að engin utanlandsferð hjá mér hafi verið betur heppnuð né skemmtilegri en þessi. Að mínu mati var hápunktur ferðarinnar að sitja á efstu tröppunni að Lincoln Memorial og horfa yfir útsýnið þar yfir að Washington Monument og loka augunum. Það var unaður að opna þau aftur. Það er ekkert útsýni veglegra né fallegra en það sem blasir við frá því sjónarhorni. Engum manni hefur verið heldur reist veglegra minnismerki en Lincoln.

John Kerry og George W. BushHeitast í umræðunni
George W. Bush forseti Bandaríkjanna, og John Kerry öldungadeildarþingmaður, tókust harkalega á í öðrum kappræðum sínum í George Washington háskóla í St. Louis í Missouri-fylki á föstudagskvöld. Horfði ég á kappræðurnar á veitingastaðnum Primi á 19. stræti í Washington ásamt ungliðum í Repúblikanaflokknum og okkur í SUS sem vorum stödd í borginni á ferðalagi okkar þangað. Var sérstaklega ánægjulegt að fylgjast með umfjölluninni í öllum fjölmiðlaum vestanhafs fyrir og eftir kappræðurnar. Ekki síður var mjög gagnlegt að ræða stöðu mála, kosningarnar og næstu skref kosningabaráttunnar við félaga okkar í ungliðahreyfingu bandarískra repúblikana. Sérstaklega fannst mér gagnlegt að ræða við Söruh sem er forystumaður ungliðanna. Fróðlegt var að heyra þeirra sjónarmið á málunum og jafnframt að tjá sínar eigin. Í kappræðunum á föstudag tókust forsetaframbjóðendurnir á um ýmis mál, allt frá utanríkismálum, til heilbrigðis- og umhverfismála, svo fátt eitt sé nefnt. Íraksmálið var stórt umfjöllunarefni og fór tæplega helmingur debattsins í það efni. Umsjónarmaður kappræðnanna var fréttamaðurinn Charlie Gibson. Var formið mun frjálslegra þarna en í fyrstu kappræðunum. Frambjóðendurnir sátu á stól og gengu um sal þar sem voru nokkrir tugir valinna óákveðinna kjósenda sem bar fram spurningarnar. Enginn vafi var á að Bush stóð sig mun betur en í fyrstu kappræðunum og Kerry átti í vök að verjast vegna ferils síns í öldungadeildinni, en Bush réðist miskunnarlaust að hentistefnu hans nú miðað við fyrri afstöðu til mála. Kannanir sýna að jafntefli hafi verið niðurstaðan. Klárlega er þó ljóst að Bush sótti í sig veðrið og um það gátum við verið sammála á Primi á föstudagskvöldið. 22 dagar eru til kosninga, slagurinn harðnar sífellt og verður beittari með hverjum deginum. Seinustu kappræðurnar verða í Tempe-háskólanum í Arizona á miðvikudag. Í kjölfar þess tekur við lokahnykkur kosningabaráttunnar, seinustu 20 dagana.

Upptaka af öðrum kappræðum George W. Bush og John Kerry
Kappræður George W. Bush og John Kerry - endurrit af umræðunum
Umfjöllun um kappræður George W. Bush og John Kerry

BessastaðirÞað var mjög ánægjulegt að fá fréttir af því til Washington á fimmtudag að Pétur Blöndal alþingismaður, hefði lagt fram á þingi frumvarp til laga um að leggja niður embætti forseta Íslands, árið 2008, við lok núgildandi kjörtímabils forsetans. Ég var staddur fyrir utan Smithsonian safnið á fimmtudag þegar ég fékk þau skilaboð að Pétur hefði lagt fram þetta frumvarp, hafði ég reyndar heyrt af því að hann ásamt fleirum væru að vinna að þessu máli. Skoðun Péturs á forsetaembættinu hefur lengi verið ljós. Hefur hann með þessu skrefi stigið í sömu átt og við í Sambandi ungra sjálfstæðismanna. Er það mikið ánægjuefni. Skoðun mín persónulega hefur aldrei farið leynt. Ég hef afdráttarlaust verið þeirrar skoðunar í rúman áratug að forsetaembættið sé bæði óþarft og tákn liðinna tíma. Í pistli fyrr á þessu ári sagði ég orðrétt: "Er forsetaembættið nauðsynlegt á okkar dögum? Ég hef lengi verið þeirrar skoðunar að tími sé kominn til breytinga. Raunverulegar embættisskyldur forsetans eru einkum formlegs eðlis og í raun gætu þau verið í höndum forsætisráðherra eða forseta Alþingis. Embætti forseta Íslands er með öllu ónauðsynlegt í lýðræðisríki og ekki síður gríðarlega kostnaðarsamt fyrir skattgreiðendur." Ég fagna því að eiga jafntraustan og virkan samherja í þessu máli og Pétur. Verður athyglisvert að sjá hvernig frumvarp hans mun ganga fyrir þinginu og hvernig umræða um það verði. Er nauðsynlegt að fá fram umræðu um embættið, hvernig það hefur breyst í öldugangi stjórnmálaheimsins á undanförnum mánuðum og hversu mjög það hefur skaddast vegna þess og orðið enn óþarfara en hefur blasað við. Tilkoma frumvarpsins er kærkomið tækifæri fyrir þá sem eru andsnúnir embættinu og vilja uppstokkun í stjórnkerfinu að stíga fram og tjá sig og hefja umræðuna.

John HowardÉg var staddur í leigubíl á laugardag, á leið frá Arlington til hótelsins sem ég dvaldi á, er ég heyrði fyrst þær fréttir að John Howard forsætisráðherra Ástralíu, og hægristjórn hans, hefði haldið völdum í þingkosningunum í Ástralíu, sama dag. Var mjög ánægjulegt að heyra þessar fréttir. Lengi vel af árinu stefndi í að Howard og stjórn hans myndi bíða afhroð í kosningunum, en forsætisráðherranum tókst á seinustu vikum kosningabaráttunnar að snúa vörn í sókn. Fylgi ríkisstjórnarinnar tók mikla niðursveiflu eftir Íraksstríðið, en Howard og flokkur hans studdi innrásina í Írak með krafti og varði þá ákvörðun af krafti síðan, á meðan henni var mótmælt af almennum kjósendum. Howard hefur með þessu hlotið umboð til að leiða landið á næsta kjörtímabili, hið fjórða í röð. Hefur Howard gefið í skyn á seinustu dögum að hann hyggist láta af völdum fyrir lok ársins 2006 og víki þá af valdastóli. Howard á að baki glæsilegan stjórnmálaferil og tryggði sér sess í sögubókum með sigrinum, ef hann situr til 2006 mun hann verða sá stjórnmálamaður Ástrala sem lengst hefur setið á forsætisráðherrastóli. Það er gleðiefni að stjórnmálamaður sem þorði bæði að taka óvinsælar ákvarðanir og verja þær að því loknu, en ekki hlaupa í skjól pólitískt til að verjast, vinni svo glæsilegan og mikilvægan sigur. Hann er bæði mikilvægur fyrir hægrimenn um allan heim og ekki síður þá sem aðhyllast heiðarleg stjórnmál með sannfæringu að leiðarljósi.

Christopher Reeve látinn
Helgarpistill Björns Bjarnasonar dómsmálaráðherra
Samstarf í þágu aukins öryggis - ræða dómsmálaráðherra

Dagurinn í dag
1256 Þórður kakali Sighvatsson, lést í Noregi, 46 ára að aldri - Þórður var á sinni tíð, um miðja þrettándu öld, einn valdamesti maður á Íslandi. Bjó að Grund í Eyjafirði og var goðorðsmaður
1986 Leiðtogafundur risaveldanna í Höfða hófst - Ronald Reagan forseti Bandaríkjanna, og Mikhail Gorbachov leiðtogi Sovétríkjanna, ræddu um afvopnunarmál. Fundurinn varð sögulegur
1988 Guðrún Helgadóttir kjörin forseti Alþingis, fyrst kvenna í rúmlega 1000 ára sögu þess
2000 Donald Dewar leiðtogi heimastjórnar í Skotlandi, deyr af völdum heilablæðingar, 63 ára gamall
2001 Öldungadeild bandaríska þingsins samþykkir fræg Patriot Act-lög George W. Bush forseta

Snjallyrði dagsins
Ég er friðlausi fuglinn,
sem flýgur í norðurátt,
er syngjandi svanir líða
suður um heiðið blátt.

Ég er friðlausi fuglinn
sem finnur sinn villta þrótt.
Í hjartanu hálfu er dagur,
en hálfu kolsvört nótt.
Davíð Stefánsson frá Fagraskógi (1895-1964) (Friðlausi fuglinn)

Engin fyrirsögn

Bandaríski fáninnFarið til Washington - fylgst með kosningabaráttunni
Ég fer í dag til Washington ásamt öðrum þeim sem ásamt mér sitja í utanríkismálanefnd Sambands ungra sjálfstæðismanna. Ég hef undanfarnar vikur og mánuði skrifað mikið um kosningaslaginn í Bandaríkjunum: fjallað um áherslur frambjóðenda, baráttumálin og persónur þeirra sem eru í framboði til embættisins. Dagskrá ferðarinnar er mjög þétt, t.d. verður farið í kosningamiðstöðvar, þinghúsið á Capitol Hill, íslenska sendiráðið í borginni, Smithsonian safnið og margt fleira mætti nefna. Undirbúningur fyrir ferðina hefur staðið í marga mánuði og er áhugaverð ferð framundan fyrir okkur sem höfum til fjölda ára fylgst með bandarískum stjórnmálum. Það jafnast fátt á við að fara til Bandaríkjanna, og fyrir stjórnmálaáhugamann er auðvitað einstakt tækifæri að fara þangað innan við fjórum vikum fyrir forsetakosningar í landinu. Aðrar kappræður forsetaefnanna verða á föstudagskvöld, ég verð því staddur í Bandaríkjunum þegar aðrar kappræðurnar fara fram. Verður fróðlegt að fylgjast með þeim kappræðum í enn meira návígi en verið hefur þau 12 ár sem ég hef horft á kappræður bandarískra forsetaefna. Ég mun fjalla vel um ferð mína þegar heim verður komið og skrifa af krafti auðvitað um kosningaslaginn eftir heimkomuna fram að kjördegi, þriðjudaginn 2. nóvember.

« Fyrri síða | Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband