Engin fyrirsögn

KennslaHeitast í umræðunni
Samninganefndir Kennarasambandsins og sveitarfélaganna náðu seinnipartinn í dag samkomulagi um nýjan kjarasamning grunnskólakennara, eftir að hafa setið á samningafundi í allan dag. Það kemur því ekki til þess að Gerðardómur úrskurði um laun kennara eða taki málið að sér, en við blasti að næðust ekki samningar fyrir 20. nóvember nk. kæmi til þess. Samningurinn gildir til maíloka 2008. Laun kennara munu hækka um 5,5 prósent strax og þeir fá 130.000 króna eingreiðslu. Að mati bæði sveitarfélaganna og kennaraforystunnar var betri kostur að semja með þessum hætti en láta málið fara í gerðardóm, ekki hefði verið lengra komist. Leggur kennaraforystan til að kennarar samþykki þennan samning og taki því sem þar er samið um. Formaður Kennarasambandsins sagði í fjölmiðlum í kvöld ljóst að það sem kennarar hafi í höndunum nú sé allt annað en það sem blasti við áður en farið var í verkfall.

Vissulega er rétt að þessi kjarasamningur sé gerður við erfiðar aðstæður, bæði með tilliti til lagasetningarinnar og þess að skipan Gerðardóms vofði yfir. Ánægjulegt er að samningar hafi nú náðst milli kennara og sveitarfélaganna og að skólastarf geti farið af stað að nýju með miklum krafti, þeim krafti sem nauðsynlegur er. Blasti við að skólastarfið væri komið í algjöra rúst og stefndi í óefni eftir að kennarar brugðust algjörlega hlutverki sínu sem fyrirmyndir nemenda með því að brjóta landslög og liggja heima hjá sér og þykjast vera veikir í byrjun vikunnar, sem var dæmi um algjört siðleysi. Er gott að niðurstaða hafi náðst fyrir skipan Gerðardóms og starf í skólunum geti farið af stað og að nemendur geti fengið þá menntun sem þeim ber. Að mínu mati snýst skólastarfið um að útvega sem bestu menntun til nemenda og að kennarar standi sig í starfi sínu og séu þær fyrirmyndur sem þeim ber! Ég tel að kennarar landsins eigi nokkuð verk framundan við að hitta nemendur sína og ávinna sér traust þeirra aftur eftir framkomu þeirra í vikubyrjun. Staða kennarans á jú að vera sú að kenna nemendum lífsreglurnar jafnt sem fagið.

F4-öryggisþoturDavíð Oddsson utanríkisráðherra, hitti seinnipartinn í gær Colin Powell fráfarandi utanríkisráðherra Bandaríkjanna, á fundi í utanríkisráðuneytinu í Washington DC. Fóru ráðherrarnir vel yfir stöðu varnarmálanna og komandi skref af hálfu ríkisstjórnar George W. Bush forseta, nú eftir að ljóst er að hann mun gegna embætti forseta Bandaríkjanna til janúar 2009, næstu fjögur árin. Nokkrir mánuðir eru síðan Davíð átti fund með forsetanum í Hvíta húsinu þar sem farið var yfir þessi mál. Sagði Davíð eftir fund sinn með Colin að það væri sitt mat að ríkin tvö hefðu færst nær samkomulagi um framtíð varnarstöðvarinnar í Keflavík. Sömdu ráðherrarnir um það að embættismenn ríkjanna myndu koma saman í janúar til að halda viðræðunum áfram en þá verður dr. Condoleezza Rice tekin við af Powell sem utanríkisráðherra, en Bush forseti tilkynnti í gær að hann hefði valið hana til að taka við embættinu.

Lýsti Davíð yfir ánægju sinni sérstaklega með val forsetans á henni, enda hefðu þau átt samskipti um varnarmálin og farið yfir oft, t.d. í gegnum síma og með bréfaskriftum. Davíð sagði að samskipti Íslands við utanríkisráðherra Bandaríkjanna hefðu jafnan verið sterk og hann myndi næst næst hitta ráðherrann á ráðherrafundi NATO í desember. Sagði Davíð í viðtölum að lykiltilgangur fundarins með Powell hefði verið að koma varnarmálunum í fastan farveg og eyða óvissu sem uppi hefði verið um framtíð F4 þotanna og varnarviðbúnaðar Bandaríkjanna á Keflavíkurvelli. Íslensk stjórnvöld hefðu ekki hreyft neinum andmælum við eðlilegri aðlögun varnarliðsins að breyttum aðstæðum, sem hafir frá lokum kalda stríðsins falið í sér verulegan samdrátt í búnaði og fækkun liðsmanna. Hins vegar hafi verið lögð rík áhersla á að á Íslandi þurfi að vera varnarviðbúnaður eins og í öllum bandalags- og nágrannaríkjum Íslands. Jafnframt sé ljóst að mikill vöxtur hafi orðið í farþegaflugi um Keflavíkurflugvöll sem valdi því að stjórnvöld séu reiðubúin að semja um það við Bandaríkjamenn hvernig Íslendingar geti tekið meiri þátt í kostnaði við rekstur hans.

Condoleezza Rice verðandi utanríkisráðherra BandaríkjannaEnginn vafi leikur á að það er mikill kostur fyrir Íslendinga í stöðu varnarmálanna að það er dr. Condoleezza Rice sem verður utanríkisráðherra Bandaríkjanna í stað Colin Powell. Condi þekkir mjög vel til stöðu allra mála okkar og er eins og fyrr segir vel málkunnug bæði forsætis- og utanríkisráðherra Íslands. Condi er sérfræðingur í málefnum NATO og varnarmálum almennt á seinustu áratugum og þekkir því vel til allra aðstæðna tengdum Keflavík og hefur margoft rætt við helstu forystumenn á vettvangi íslenskra stjórnmála og sérfræðinga innan NATO með varnarviðbúnað almennt í Evrópu. Enginn vafi er á því að hún hefur haft ráðandi stöðu í utanríkismálum Bandaríkjanna seinustu árin, þó ekki hafi hún fyrr orðið ráðherra. Hún er í raun nánasti samstarfsmaður forsetans á sviði utanríkismála.

Þegar Bush forseti, fór í framboð 1999, réði hann strax Condi til að fræða sig um helstu málefnin í utanríkispólitík almennt í heiminum. Segja má því með sanni að Condi hafi kennt honum allt það sem þurfti. Gárungarnir hafa sagt að þau séu svo náin í stefnumótun að þau séu eins og systkini. Eflaust er það rétt. Bush hefur treyst mjög mikið á dómgreind hennar og forystu í að taka ákvarðanir og ráðleggja sér í erfiðum málum. Það er alveg greinilegt. En eftir stendur að val hans á henni kemur ekki á óvart, þó svo að blað sé brotið í sögu Bandaríkjanna með útnefningu hennar. Hún mun verða valdamesta blökkukona í sögu landsins. Embætti utanríkisráðherra er gríðarlega valda- og áhrifamikið og stendur sem þriðja í valdaröðinni á eftir varaforseta og forseta fulltrúadeildarinnar. Óneitanlega er það skondið að það verður Bush sem fer í sögubækurnar fyrir það að velja fyrsta blökkumanninn og blökkukonuna í þessa sterku valdastöðu. Það verður óneitanlega ein af helstu arfleifðum forsetans að hafa gert það sem demókratar gerðu aldrei, þorðu því sennilega ekki, að koma blökkufólki til æðstu metorða í þessu lykilráðuneyti bandarískra stjórnmála.

Dagurinn í dag
1913 Fréttamyndir, hinar fyrstu íslensku, birtust í Morgunblaðinu. Voru dúkristur sem voru gerðar til skýringar á frétt um morð í Dúkskoti í Reykjavík, þar sem kona eitraði fyrir bróður sínum í mat hans
1940 Akureyrarkirkja, minningarkirkja sr. Matthíasar Jochumssonar heiðursborgara Akureyrar, vígð - hún var þá langstærsta guðshús landsins, rúmaði rúmlega 500 manns í sæti. Guðjón Samúelsson húsameistari ríkisins, teiknaði kirkjuna og réð umhverfi hennar, upp að henni liggja um 100 tröppur
1983 Mikligarður, stærsta verslun landsins á þeim tíma, opnuð í Reykjavík - verslunarrýmið var 4.700 fermetrar. Mikligarður sem var rekinn af SÍS fór á hausinn 1993 - þar er nú fjöldi minni verslana
1988 Linda Pétursdóttir, 18 ára menntaskólanemi frá Vopnafirði, var kjörin Ungfrú Heimur í London
2000 Þjóðþing Perú sviptir Alberto Fujimori embætti forseta landsins, eftir 10 ára setu á þeim stóli

Snjallyrði dagsins
Þið þekkið fold með blíðri brá,
og bláum tindi fjalla,
og svanahljómi, silungsá
og sælu blómi valla,
og bröttum fossi, björtum sjá
og breiðum jökulskalla.
Drjúpi hana blessun drottins á
um daga heimsins alla.
Jónas Hallgrímsson skáld (Íslandsminni)

Engin fyrirsögn

Matthías JochumssonHeitast í umræðunni
Fyrir nokkrum dögum tjáði ég á þessum vef skoðanir mínar á þingsályktunartillögu varaþingmanna Sjálfstæðisflokksins í Norðausturkjördæmi, þess efnis að skipta um þjóðsöng og taka upp nýjan. Kom þar fram algjör andstaða mín, undrun og hneykslan við þeirri tillögu. Eins og vel hefur komið fram bæði þá og oft áður er ég algjörlega andvígur öllum tillögum í þá átt að hrófla við Lofsöng, eftir heiðursborgara Akureyrarbæjar, sr. Matthías Jochumsson. Kom þessi skoðun vel fram hér á laugardag og í sunnudagspistli mínum um helgina. Mjög ánægjulegt var að ég fékk mikil viðbrögð við þessum skrifum og fjöldamarga tölvupósta. Öll voru þau á eina lund, þar kom fram ennfremur algjör andstaða við þessa tillögu og það sem fram kemur í mati þessara varaþingmanna. Ég fæ í fljótu bragði ekki séð hvernig þessi tillaga getur verið til vinsælda fallin allavega t.d. hér í heimabæ skáldsins, þar sem hann var prestur og varð heiðursborgari hans.

Þessi skoðun kom fram jafnt af minni hálfu sem áhugamanns um kveðskap Matthíasar, Akureyrings, og síðast en ekki síst sem formanns sjálfstæðisfélags í stærsta sveitarfélagi Norðausturkjördæmis. Það má vel vera að varaþingmennirnir hafi skoðanir og sannfæringu í þá átt að best sé að henda þjóðsöngnum til hliðar. Gott og blessað svosem með það. En það má þá alveg jafnljóst vera að hún verður ekki til vinsælda fallin hér í heimabæ skáldsins, sem er stærsti byggðakjarni kjördæmisins. Ég get fúslega viðurkennt að það kemur aldrei til greina af minni hálfu að styðja hugmyndir í þessa átt og mun berjast gegn þeim með öllu sem tiltækt er af minni hálfu, hvar sem þær koma og hvaðan sem þær koma. Það er alveg einfalt mál af minni hálfu. Þær raddir hafa heyrst í þessari þingsályktunartillögu og á fleiri stöðum að þjóðsöngurinn sé erfiður til söngs og ekki hentugur til að raula. Það má svosem alveg taka undir það, það er ögrun og það skemmtileg ögrun að ná því að syngja hann. Síðast þegar ég vissi var þessi söngur valinn til þess að hljóta sess sinn vegna þess að hann er fallegur og hann er tákn um virðingu. Það er lykilástæða þess að hann hefur verið táknmynd landsins eins lengi og raun ber vitni.

Condoleezza Rice verðandi utanríkisráðherra BandaríkjannaGeorge W. Bush forseti Bandaríkjanna, tilkynnti formlega á blaðamannafundi í Hvíta húsinu í dag að dr. Condoleezza Rice þjóðaröryggisráðgjafi Bandaríkjastjórnar, yrði eftirmaður Colin Powell í embætti utanríkisráðherra Bandaríkjanna. Skipan Condi í þessa valdamiklu áhrifastöðu í ríkisstjórn Bandaríkjanna er mjög söguleg. Condi Rice verður fyrsta blökkukonan sem sest í stól utanríkisráðherra Bandaríkjanna og er aðeins önnur konan í sögunni. Eins og ég sagði frá í gær var forveri Powell, Madeleine Albright, fyrsta konan sem gegndi embættinu og var seinni utanríkisráðherra Clinton-tímans, 1997-2001. Condi varð fimmtug fyrir nokkrum dögum, er fædd 14. nóvember 1954. Ekki er hægt að segja að val hennar komi á óvart. Condi er sérfræðingur í málefnum A-Evrópu, M-Austurlanda og Rússlands. Hún talar rússnesku, frönsku, kínversku, spænsku og ítölsku reiprennandi. Hún er mjög reynd í utanríkismálum og var ráðgjafi George H. W. Bush í forsetatíð hans, 1989-1993, í málefnum Sovétríkjanna og Rússlands og var áberandi í þeim málaflokki sérstaklega við lok kalda stríðsins í upphafi tíunda áratugarins. Samstarf hennar og forsetans hófst þó meðan hann var varaforseti 1981-1989 og Rice starfaði fyrir varnarmálaráðuneytið. Allt frá þeim tíma hefur samstarf Rice við Bush-fjölskylduna verið náið. Samvinna hennar og Bush eldri var reyndar svo náin að sá síðarnefndi kynnti Mikhail Gorbachev fyrir Rice á leiðtogafundi árið 1989 með orðunum: "This woman tells me everything I have to know about the Soviet Union". Hún varð aðalráðgjafi Bush yngri í utanríkismálum eftir að hann tilkynnti um forsetaframboð sitt árið 1999 og hefur frá sumrinu 1999 unnið sem lykilráðgjafi hans í málaflokknum. Eftir að hann var kjörinn forseti í nóvember 2000 tilkynnti Bush að hún yrði þjóðaröryggisráðgjafi, fyrst kvenna. Hún hefur verið í lykilhlutverki alla tíð síðan í forsetatíð Bush og áberandi í fjölmiðlum og verður nú forystumaður í utanríkismálapólitík Bandaríkjanna, topp diplómat landsins. Samvinna Condi og Bush forseta, er mjög náin og fer hún jafnan með forsetahjónunum í helgarferðir til Camp David í Maryland og í Crawford. Hún hefur aldrei gifst og á engin börn. Segja má um Condi að hún sé fagmanneskja á sínu sviði. Það er mikið gleðiefni að hún taki við þessu umfangsmikla ráðuneyti.

Jónas Hallgrímsson (1807-1845)Dagur íslenskrar tungu
Dagur íslenskrar tungu er haldinn í dag í níunda skipti. Það var árið 1996 sem ákveðið var að tileinka fæðingardag þjóðskáldsins Jónasar Hallgrímssonar frá Hrauni í Öxnadal, sem var fæddur 16. nóvember 1807, íslenskri tungu. Óhætt er að fullyrða að það hafi í senn verið bæði gott val og skynsamlegt. Jónas er í hugum flestra táknmynd fallegs íslensks máls og meistaralegrar túlkunar í kveðskap. Jónas er einn fárra manna sem hafa náð hæstum hæðum í túlkun íslensks máls í skáldskap sínum. Hann er að mínu mati einn mestu meistara íslenskrar bókmenntasögu. Val dagsins staðfesti því stöðu Jónasar í hugum bókmenntasögu okkar í sögu landsins. Björn Bjarnason ákvað sem menntamálaráðherra að dagur íslenskrar tungu skyldi koma til sögunnar og dagurinn var valinn af kostgæfni. Í þann áratug sem dagur íslenskrar tungu hefur verið haldinn hefur menntamálaráðuneytið beitt sér fyrir sérstöku átaki í þágu íslensks máls og helgað þennan dag rækt við það og veitt verðlaun í nafni Jónasar til að verðlauna þá sem hafa unnið að málrækt og gildi þess. Hefur það verið unnið í góðu samstarfi við stofnanir, fyrirtæki, skóla, einstaklinga og félagasamtök um allt land. Í dag var deginum fagnað sérstaklega með athöfn í Safnahúsinu á Ísafirði. Þá afhenti Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir menntamálaráðherra, Silju Aðalsteinsdóttur rithöfundi, verðlaun Jónasar Hallgrímssonar 2004. Í rökstuðningi ráðgjafarnefndar segir: "Silja hefur lengi sinnt íslenskri tungu og menningu af dugnaði, metnaði og alúð. Árið 1981 kom út eftir hana íslensk barnabókmenntasaga, sú eina sem skrifuð hefur verið hér á landi og mikið brautryðjendaverk, en þar er fjallað um íslenskar barnabækur 1780-1979. Silja vakti mikla athygli ungs fólks fyrir bók sína um Bubba árið 1990 en eitt merkasta rit hennar er án efa ævisaga Guðmundar Böðvarssonar, en fyrir þá bók hlaut hún Íslensku bókmenntaverðlaunin árið 1994." Silja er vel að verðlaununum komin. Nú sem fyrr á að vera lykilverkefni Íslendinga að standa vörð um mál sitt. Íslenskan á að vera okkar helsta stolt og helsti fjársjóður. Ef við glötum virðingunni fyrir málinu okkar glötum við sjálfsvirðingunni að mínu mati. Málrækt og varðveisla tungumálsins er mjög mikilvæg.

Dagurinn í dag
1907 Stytta af Jónasi Hallgrímssyni afhjúpuð í tilefni þess að 100 ár voru liðin frá fæðingu skáldsins. Styttan var eftir Einar Jónsson. Fyrst sett upp við Amtmannsstíg en síðar flutt í Hljómskálagarðinn
1946 Jarðneskar leifar Jónasar Hallgrímssonar skálds, voru lagðar í moldu í þjóðargrafreitnum á Þingvöllum, á afmælisdegi hans. Jarðneskar leifar Jónasar lágu í kirkjugarði í Danmörku frá 1845
1957 Nonnahús á Akureyri opnað sem safn er 100 ár voru liðin frá fæðingu Jóns Sveinssonar, Nonna. Fór ungur til útlanda til náms og kom tvisvar eftir það heim, 1894 og 1930. Hann lést 1945
1996 Dagur íslenskrar tungu var í fyrsta sinn haldinn hátíðlegur, efnt var til málræktarþings og verðlaun Jónasar Hallgrímssonar afhent fyrsta sinni, þau hlaut þá Vilborg Dagbjartsdóttir rithöfundur
2000 Bill Clinton forseti Bandaríkjanna, fór í opinbera heimsókn til Víetnam, fyrstur forseta landsins

Snjallyrði dagsins
Að sigla inn Eyjafjörðinn,
það er yndislegt um vor,
í björtu veðri er býr sig fugl
við bjarg og klettaskor

Er sólin heit í heiði
baðar haf og dali og fjöll.
Í háum hamraborgum
heilsa okkur þjóðfræg tröll

Um háreist hamraskörðin
hoppa lömb í frið og spekt.
Að sigla inn Eyjafjörðinn,
það er óviðjafnanlegt.
Ómar Ragnarsson sjónvarpsmaður (Að sigla inn Eyjafjörðinn)

Engin fyrirsögn

KennslaHeitast í umræðunni
Dagurinn í dag er svartur, svartur af siðferðisleysi kennara landsins. Tugum þúsunda grunnskólanemenda var snúið frá skólum sínum víða um land þegar þeir mættu þangað í morgun. Engar tilkynningar höfðu áður borist frá skólum eða fræðsluyfirvöldum um að skólahald félli víðast hvar niður, að hluta eða þá bara alveg. Mun hafa skapast hálfgert öngþveiti við suma skólana þegar foreldrar, einkum yngstu barnanna, biðu þar með börnum sínum eftir að fá úr því skorið hvort skólahald yrði eða ekki. Tilkynningar hafa borist af öllu landinu um lokaða eða hálf lamaða skóla, einkum frá nemendum sjálfum og foreldrum. Á þónokkrum stöðum í strjálbýlinu er skólahald með nokkurnveginn eðlilegum hætti, samkvæmt fréttum.

Það er að mínu mati alvarlegur atburður, vægast sagt ótrúlega heimskulegur svo ekki sé nú minnst á að hann er ólöglegur, að kennarar mæti ekki til vinnu eftir að lög hafi verið sett á kjaradeiluna og reynt að koma málum þeirra í það ferli að tryggja nemendum þá menntun sem þeim ber, enda hefur verið augljóst frá upphafi verkfalls að deiluaðilar eru gjörsamlega ófærir um að ná einhverjum grunni að lausn með góðu. Í fréttum hafa í dag borist fregnir af starfinu, ýmist er ekkert gert og krakkar sendir heim eða að nemendum hafi verið hleypt inn í stofur, en síðan hafi kennarar einfaldlega gengið út. Búið er að skipa gerðardóm til að fara yfir kaup og kjör kennara. Gerðardómur hefur ákveðinn tíma til að skila niðurstöðu sinni, og samkvæmt lögum ber kennurum að sinna sínu starfi þangað til sú niðurstaða liggur fyrir. Kennarar hafa nú greinilega hunsað landslög, og kastað siðferðiskennd sinni algjörlega fyrir róða með því að skrópa í skólum landsins í dag. Þeir hafa einnig greinilega kennt börnum um allt land þá lexíu sem þeim er æðst nú, að ef manni líka ekki landslög, þá er bara að finna sér leið til að komast hjá því að fara eftir þeim, t.d. með því að ljúga til um veikindi. Kannski kann einhverjum að finnast þetta fínt og flott. Í mínum orðabókum er svona kallað aumingjaskapur, get því miður ekki sagt annað um þessi vinnubrögð sumra kennara.

Colin Powell utanríkisráðherra BandaríkjannaColin Powell utanríkisráðherra Bandaríkjanna, sagði af sér embætti í dag. Hann tilkynnti um afsögn sína í yfirlýsingu sem Hvíta húsið gaf út síðdegis, og lagði fram formlega lausnarbeiðni sína á fundi með forsetanum á föstudag. Powell, sem er 67 ára gamall, hefur verið utanríkisráðherra allt frá valdatöku George W. Bush forseta Bandaríkjanna, í janúar 2001. Hann var lengi hershöfðingi í Bandaríkjaher og sat sem þjóðaröryggisráðgjafi undir lok forsetatíðar Ronald Reagan og var formaður herráðs Bandaríkjanna í forsetatíð George H. W. Bush 1989-1993, og var áberandi í fjölmiðlum sem forystumaður hernaðarátaka Bandamanna í Persaflóastríðinu 1991. Powell hefur verið litríkur og mjög farsæll í starfi sínu sem utanríkisráðherra undanfarin fjögur ár og verður eftirsjá af honum úr ríkisstjórn Bandaríkjanna og úr stjórnmálaheiminum, nú þegar hann víkur úr daglegri stjórnun Bandaríkjanna. Orðrómur hafði verið uppi allt frá sumrinu 2003 um að Powell hefði ekki hug á að sitja nema til loka kjörtímabilsins, hvort sem forsetinn hlyti endurkjör eður ei. Líklegust sem eftirmenn hans á ráðherrastóli eru Condoleezza Rice þjóðaröryggisráðgjafi forsetans, og John Danforth sendiherra Bandaríkjanna hjá Sameinuðu þjóðunum og fyrrum öldungadeildarþingmaður frá Missouri. Talið er líklegra að Condi Rice taki við embættinu. Verði hún skipuð í embættið mun hún verða fyrsta blökkukonan sem verður utanríkisráðherra og önnur konan í sögunni, en sú fyrri var Madeleine Albright sem var seinni utanríkisráðherra Clinton-tímans, 1997-2001. Í dag tilkynntu einnig Rod Paige menntamálaráðherra, Ann Veneman landbúnaðarráðherra, og Spencer Abraham orkumálaráðherra, um afsagnir sínar. Það blasir við að mikil uppstokkun verði því á stjórn forsetans.

JafnréttiRáðstefna í Borgum
Um helgina var haldin hér á Akureyri, ráðstefna um samfélagsþróun, jafnrétti og umhverfismál í Borgum, nývígðu rannsóknar- og nýsköpunarhúsi Háskólans á Akureyri. Fyrir okkur sem sitjum í jafnréttis- og fjölskyldunefnd Akureyrarbæjar eða höfum tekið þátt í störfum nefndarinnar var athyglisvert að kynna sér málefnin sem þar voru til umræðu og ræðumenn á ráðstefnunni fjölluðu um í athyglisverðum erindum sínum. Spurt var hver væri framtíð kvenna og karla í jaðarbyggðum Norðurskautssvæðisins. Sjónum var beint að mögulegum sóknarfærum fyrir konur í jaðarbyggðum, möguleika á jafnrétti í samfélagi þar sem kynjahallinn eykst ár frá ári og umhverfið er hrjóstrugt og fá atvinnutækifæri bjóðast. Ræðumenn komu frá ólíkum svæðum, héðan frá Íslandi, en einnig frá Finnlandi, Noregi, Grænlandi, Færeyjum og Kanada. Í fyrsta hlutanum var rætt t.d. um aðgengi kvenna til pólitískrar ákvarðanatöku og fluttu þar mjög athyglisverð erindi þær Inga Dóra G. Markussen frá Grænlandi, Björg Jacobsen frá Færeyjum og Anna Karlsdóttir. Í atvinnumálahlutanum voru svo fróðlegar ræður hjá Ingólfi V. Gíslasyni, Sigrid Skålnes frá Noregi, og Þóroddi Bjarnasyni. Í heildina var um mjög góða ráðstefnu að ræða og var ánægjulegt að heyra ólík sjónarmið um umræðuefnin og ræða þessi mál við þá sem tóku þátt í ráðstefnunni.

Umfjöllun um Edduverðlaunin 2004

Dagurinn í dag
1923 Þórbergur Þórðarson rithöfundur, hóf að rita bréf til Láru Ólafsdóttur á Akureyri - bréfin sem hann skrifaði henni urðu undirstaðan í bók hans, Bréf til Láru, sem varð mikið tímamótarit í sögu bókmenntanna og gerði Þórberg landsfrægan sem rithöfund - Þórbergur Þórðarson lést árið 1974
1969 Samtök frjálslyndra og vinstri manna, stofnuð - var stofnað sem sérframboð Hannibals Valdimarssonar og bauð fyrst fram í alþingiskosningunum 1971 og sat í ríkisstjórn 1971-1974. Eftir slit stjórnarinnar og brotthvarf Hannibals úr pólitík fjaraði fljótt undan flokknum - lagður niður 1979
1978 Mesta slys íslenskrar flugsögu varð þegar 197 manns fórust er þota sem var í eigu Flugleiða hf. hrapaði í lendingu á Colombo í Sri Lanka. 8 íslenskir flugliðar létu lífið en fimm komust lífs úr slysinu
1990 Borgarstjórn Reykjavíkur samþykkti að gefa afgreiðslutíma verslana í borginni alveg frjálsan
1999 Edduverðlaun, Íslensku kvikmynda- og sjónvarpsakademíunnar, voru afhent í fyrsta skipti. Mynd Guðnýjar Halldórsdóttur, Ungfrúin góða og húsið, byggð á sögu föður hennar, varð mjög sigursæl

Snjallyrði dagsins
Og andinn mig hreif upp á háfjallatind
og ég horfði sem örn yfir fold
og mín sál var lík í tærri, svalandi lind,
og ég sá ekki duft eða mold.

Mér þótti sem hefði ég gengið upp gil
fullt með grjótflug og hræfugla-ljóð,
fullt með þokur og töfrandi tröllheima-spil,
unz á tindinum hæsta ég stóð.

Mér þótti sem hefði ég þolað allt stríð,
allt, sem þola má skjálfandi reyr,
og mér fannst sem ég þekkti ekki háska né hríð,
og að hjarta mitt bifðist ei meir.
Matthías Jochumsson prestur og skáld á Akureyri (1835-1920) (Leiðsla)

Engin fyrirsögn

Stefán Friðrik StefánssonSunnudagspistillinn
Að þessu sinni fjalla ég um valdabaráttuna sem birst hefur glögglega í fjölmiðlum seinustu daga samhliða borgarstjóraskiptum og innri átökum við val á eftirmanni Þórólfs Árnasonar eftir að hann varð að segja af sér vegna olíumálsins. Fer ég yfir nokkur atriði þess hvernig þetta hefur birst almenningi með augljóslegum hætti. Lög voru sett af Alþingi á verkfall grunnskólakennara í gær og hefst skólahald aftur eftir helgina, fjalla ég um þá niðurstöðu og það sem við blasir eftir hið langa verkfall kennara. Eins og við er að búast vekur þessi ákvörðun litla hrifningu hjá kennaraforystunni. Skiljanlegt er vissulega að margir kennarar séu sárir og reiðir yfir því að höggvið sé á þann harða hnút, sem óneitanlega var kominn á deiluna, með þessum hætti. Það er engin launung á því að kennarar hafa eftir tveggja mánaða launabaráttu sína orðið fyrir fjárhagslegum skakkaföllum og barist af krafti fyrir bættum kjörum sínum.

Eins og komið var sögu voru þó Gerðardómslögin algjörlega óhjákvæmileg. Undarlegt er að kennarar í heild sinni beini gremjunni að ríkisstjórn og Alþingi. Nær væri fyrir þá að líta í eigin barm og á forystu sína. Enginn vafi er á því í mínum huga að alla tíð var borin von að ná samkomulagi í deilunni. Forysta kennara var algjörlega óhæf til samninga. Það var frekar sjónarmið allan tímann að keyra deiluna í verkfall og fara svo að ræða málin. Það er mat mitt að forysta kennara hafi aldrei verið hæf til að halda á málinu og verið algjörlega ómögulegt fyrir nokkurn mann að ná samkomulagi með góðu við þá. Það hafði blasað við í fleiri vikur að borin von var að eiga von á samkomulagi milli deiluaðila við óbreyttar aðstæður. Höggva varð á hnútinn. Það var gert og við blasir að deiluaðilar fái nú tækifæri til að landa málinu fyrir 20. nóvember. Vonandi verður það tækifæri notað. En fyrir mestu er að börnin geti nú haldið á ný til skóla og notið þeirrar menntunar sem þeim ber samkvæmt lögum. Nýlega lögðu tveir varaþingmenn fram þingsályktunartillögu um að skipta um þjóðsöng, ég tjái andstöðu mína við þá hugmynd í pistlinum. Að lokum fjalla ég um nýjustu ályktanir stjórnar Varðar: um stóriðju á Norðurlandi, áfengismál og sjómannaafsláttinn.

Björn Bjarnason dómsmálaráðherraBjörn Bjarnason sextugur
Björn Bjarnason dómsmálaráðherra, er sextugur í dag. Í tæpan áratug hefur Björn verið með eigin heimasíðu og þar tjáð skoðanir sínar og skrifað um pólitík og fleira, birt þar dagbók og ennfremur allar ræður og greinar sínar. Var Björn brautryðjandi í vefskrifum stjórnmálamanna á netinu og er fyrirmynd margra í netvinnslu og í því að skrifa á vefnum. Á vef hans er hægt að fylgjast með verkum og skrifum Björns allan feril hans sem ráðherra, þingmanns og borgarfulltrúa. Í kjölfar hans hafa margir stjórnmálamenn ákveðið að feta í fótspor Björns og nota sér þennan miðil til að vera í góðum tengslum við umbjóðendur sína. Það hefur alla tíð verið hvetjandi að fylgjast með störfum hans í gegnum vefinn og lesa skrif hans. Hef ég alla tíð borið mikla virðingu fyrir framlagi Björns til netmála, enda tala þau sínu máli og sýna styrka stöðu hans sem nútímastjórnmálamanns. Eins og hann hefur oft bent á er mikið verkefni að halda úti vef með reglulegum skrifum og krefst aga og því að verkefninu sé sinnt af alúð. Þessu hef ég kynnst eftir að ég opnaði þennan vef. Vil ég nota tækifærið og óska Birni og eiginkonu hans, Rut Ingólfsdóttur, innilega til hamingju með daginn og óska þeim alls góðs á komandi árum.

Davíð Oddsson utanríkisráðherraViðtal Gísla Marteins við Davíð Oddsson
Davíð Oddsson utanríkisráðherra og formaður Sjálfstæðisflokksins, var gestur Gísla Marteins Baldurssonar í spjallþætti hans, Laugardagskvöldi, í gærkvöldi í Ríkissjónvarpinu. Ræddi Davíð þar um veikindi sín seinustu mánuði, í senn bæði af hreinskilni og fullri einlægni. Var mjög athyglisvert að heyra hann tjá sig um lífsreynsluna að leggjast á sjúkrahús og þurfa að undirgangast læknismeðferð vegna veikinda. Kryddaði Davíð frásögnina af þessum atburði í lífi sínu með húmor, eins og hans er von og vísa. Það að Davíð geti gert húmor úr þessari lífsreynslu lýsir gríðarlega miklum styrk hans sem persónu. Það þarf óneitanlega kjark að tjá sig, hvað þá opinberlega, um eigin veikindi, með þeim hætti sem Davíð gerði í þessum þætti. Að mínu mati var þetta besti þáttur Gísla Marteins, frá því hann byrjaði með Laugardagskvöld fyrir tveim árum. Var því ánægjulegt að horfa á þáttinn og heyra frásögn Davíðs. Meðal annarra gesta í þættinum var söngkonan Ragnheiður Gröndal. Söng hún tvö lög af sinni alkunnu snilld. Segja má með sanni að Ragnheiður hafi skotist upp á stjörnuhimininn og sé ein af björtustu vonunum í íslenska tónlistarheiminum í dag.

Dagurinn í dag
1917 Lögræðislög voru staðfest - samkvæmt þeim urðu menn sjálfráða 16 ára og fjárráða 21 árs. Fjárræði var lækkað í 20 ár, 1967, og í 18 ár, 1979. Sjálfræðisaldur var svo hækkaður í 18 ár, 1998
1963 Eldgos hófst á hafsbotni suðvestur af Vestmannaeyjum. Þar sem áður var 130 metra dýpi kom upp eyja sem var nefnd Surtsey. Gosið stóð með hléum í þrjú og hálft ár, fram í júní 1967, og mun vera með lengri gosum frá upphafi Íslandsbyggðar. Surtsey var stærst 2,7 ferkílómetrar en hefur minnkað í tímanna rás, hún var hæst 174 metrar. Eldgosið í sjónum árið 1963 er alveg einstakt
1963 Ríkisstjórn Bjarna Benediktssonar tók við völdum - hún sat við völd í tæp sjö ár og var hluti af viðreisnarstjórn Sjálfstæðisflokks og Alþýðuflokks sem sat á árunum 1959-1971. Bjarni Benediktsson forsætisráðherra og formaður Sjálfstæðisflokksins, lést á Þingvöllum, 10. júlí 1970. Bjarni fæddist þann 30. apríl 1908. Á löngum ferli var Bjarni, borgarstjóri í Reykjavík, utanríkisráðherra, dómsmálaráðherra, menntamálaráðherra, iðnaðarráðherra og varð loks forsætisráðherra, Hann var formaður Sjálfstæðisflokksins í 9 ár, allt frá 1961 til dauðadags 1970. Var líka ritstjóri Morgunblaðsins
1983 Tómas Guðmundsson skáld, lést, 82 ára að aldri - hann var einna fyrstur skálda til að yrkja um Reykjavíkurlíf og mannlífsbraginn í borginni við sundin. Hann vakti mikla athygli með ljóðabók sinni Fögru veröld, sem kom út 1933. Tómas vakti mikla athygli með liprum og ljúfum skáldstíl sínum
1985 Hólmfríður Karlsdóttir, 22 ára fóstra úr Garðabæ, kjörin Ungfrú Heimur (Miss World) í London

Snjallyrði dagsins
Yasser Arafat is now dead. Damn, just when the peace process was going so well.

Arafat's wife was seen grieving today in the West Bank. She was also in the Citibank, the Mellon Bank, the Wells Fargo Bank.
Jay Leno spjallþáttastjórnandi

Engin fyrirsögn

Tony Blair og George W. BushHeitast í umræðunni
George W. Bush forseti Bandaríkjanna, og Tony Blair forsætisráðherra Bretlands, hittust á vinnufundi í Hvíta húsinu í Washington DC í gær. Er Blair fyrsti þjóðarleiðtoginn sem sækir Bush forseta, heim frá því að hann var endurkjörinn forseti Bandaríkjanna í kosningunum 2. nóvember sl. Í spjalli þeirra var að mestu leyti farið yfir Íraksmálið og málefni M-Austurlanda, en þáttaskil eru framundan þar í kjölfar andláts Yasser Arafat forseta Palestínu, sem lést á fimmtudag og var borinn til hinstu hvílu í Ramallah í gær að viðstöddum þúsundum syrgjandi Palestínumönnum sem kvöddu leiðtoga sinn til rúmlega fjögurra áratuga. Voru leiðtogarnir á einu máli um að dauði Arafats opnaði möguleika á friði milli Palestínu og Ísraels og vonarneisti hefði kviknað um að friðarferlið færi af stað að nýju. Sagði Bush forseti, að góður möguleiki væri á stofnun palestínsks ríkis og hann ætlaði að verja seinna kjörtímabili sínu í að eyða pólitískri inneign Bandaríkjanna í slíkt ríki. Það væri í þágu alls heimsins að frjálst ríki þróist í Palestínu.

Bush sagði ennfremur að til þess að friður kæmist á yrðu allir að vinna saman: Palestínumenn, Ísraelar og alþjóðasamfélagið. Tók Blair undir þetta mat og sagði að mikilvægt væri að stefna að því koma friðarferlinu af stað á nýjan leik og leysa úr ófriðnum á svæðinu. Er mikið ánægjuefni að heyra þessi ummæli leiðtoganna. Segja má með sanni að þetta sé mikilvægasta niðurstaða vel heppnaðs fundar Bush og Blair. Greinilegt er að samskipti Bandaríkjanna og Bretlands eru með hinu allra besta móti og gott trúnaðarsamband hefur skapast milli leiðtoganna. Er slíkt vissulega nauðsynlegt þegar Bandaríkin og Bretland eiga í hlut enda kraftmiklar þjóðir í forystu í heimsmálunum. Það er góðs viti að leiðtogar landanna eigi með sér gott samstarf. Er engu líkara nema svo gott sé á milli leiðtoganna að trúnaðarsamband þeirra sé jafnvel jafnnáið og var á milli Ronald Reagan sem forseta Bandaríkjanna, og Margaret Thatcher sem forsætisráðherra Bretlands, á níunda áratugnum.

Matthías JochumssonÞað hefur verið mat mitt og skoðun til fjölda ára að við Íslendingar eigum fallegasta þjóðsöng í heimi: Lofsöng eftir Sveinbjörn Sveinbjörnsson við undurfallegt ljóð sr. Matthíasar Jochumssonar, sem var prestur hér á Akureyri í einn og hálfan áratug, undir lok prestsferils síns. Eftir honum er nefnd kirkja okkar Akureyringa, minningarkirkja sálmaskáldsins og prestsins. Skammt frá stendur Sigurhæðir, þar bjó hann frá því húsið var byggt árið 1903 allt til dánardags árið 1920. Þannig er mál með vexti að ég er mikill unnandi kveðskapar Matthíasar og vann eitt sumar á Sigurhæðum, þar sem er minningarsafn um skáldið og prestinn okkar sem er enn þann dag í dag eitt virtasta skáld sem búið hefur í bænum. Þannig að ég þekki vel til skáldsins og verka hans. Að mínu mati er þjóðsöngurinn okkar tákn alls þess sem virðulegast er, tákn um virðingu okkar fyrir landinu og þeirri trú sem við flest aðhyllumst. Þegar ég var í kór var það bæði ögrun og skemmtun að syngja hann og kunna enn betur að meta lagið.

Ég er algjörlega á móti því að skipta um þjóðsöng. Tel það jafnast á við guðlast að tala um að henda honum og skipta um. Vissulega eigum við mörg falleg ættjarðarlög sem gaman er að syngja á tyllidögum og tignum stundum í sögu þjóðarinnar. En ekkert þeirra jafnast á við þjóðsönginn. Það er því bæði undrun og hneykslan sem vaknar í hugskoti mínu þegar ég heyri fréttir af því að varaþingmenn Sjálfstæðisflokksins í Norðausturkjördæmi, Sigríður Ingvarsdóttir og Hilmar Gunnlaugsson, sem sitja nú á þingi í fjarveru þingmanna okkar í kjördæminu, hafi ekkert þarfara að gera í störfum sínum og mikilvægara fram að færa þann skamma tíma sem þau sitja á þingi en að leggja til að skipta um þjóðsöng og taka upp nýjan. Ég er algjörlega ósammála mati þeirra í þingsályktunartillögu sem þau hafa lagt fram um þjóðsönginn og tengd málefni. Það er ekki nema von að spurt sé, er þetta það mikilvægasta sem þörf er á að fjalla um eða benda á, á stuttum tíma sínum á þingi? Ég vil halda í þjóðsönginn, svo einfalt er það. Því er þessi tillaga að mínu mati alveg út í hött!

Yasser Arafat (1929-2004)Yasser Arafat (1929-2004)
Yasser Arafat forseti Palestínu, lést á fimmtudag, eftir mikil veikindi. Flogið var með lík Arafats til Kaíró í Egyptalandi á fimmtudag. Þar var formleg jarðarför Arafats og viðhafnarkveðjuathöfn hans haldin í gær. Að því loknu var lík Arafats flutt til Ramallah. Mikil ringulreið skapaðist þegar þyrla lenti með kistu Arafats á Vesturbakkanum. Þúsundir manna ruddust að lendingarpallinum og öryggislögreglumenn skutu úr byssum upp í loftið til að reyna að dreifa mannfjöldanum. Greftrun Arafats var flýtt og í stað þess að kistan væri á viðhafnarbörum í nokkrar klukkustundir og hún væri jörðuð við sólsetur var hún grafin strax við höfuðstöðvar heimastjórnarinnar. Mikil sorg er á Vesturbakkanum vegna andláts Arafats, og hefur verið lýst yfir 40 daga þjóðarsorg. Arafat lætur eftir sig eiginkonu, Suhu Tawil, sem hann giftist árið 1990, og níu ára dóttur, Zöwhu Ammar. Suha hefur lengi verið umdeild meðal Palestínumanna. Hún er kristin og aðeins 41 árs gömul og því rúmum 30 árum yngri en Arafat.

Skarð Arafats í palestínskum stjórnmálum er bæði stórt og mjög vandfyllt. Hann hafði haft bæði tögl og hagldir í palestínsku heimastjórninni og í stjórnmálaheimi landsins í vel yfir fjóra áratugi. Enginn afgerandi og óumdeildur eftirmaður og leiðtogi er í sjónmáli og hætt er við að mikil valdabarátta skelli á, nú þegar kjósa þarf nýjan forseta í heimastjórninni. Mahmoud Abbas fyrrum forsætisráðherra Palestínu, hefur tekið við hlutverki Arafats sem leiðtogi PLO og Rawhi Fattouh hefur tekið við forsetaembætti palestínsku heimastjórnarinnar til bráðabirgða. Segja má með sanni að saga Yasser Arafat sé órjúfanlega samofin sögu palestínsku þjóðarinnar og frelsisbaráttu landsins seinustu áratugina. Hann hefur leitt baráttu landsins fyrir frelsi og sjálfstæði af krafti. Sú von er í brjósti allra að andlát Arafats megi verða til þess að auka líkur á friðarsamkomulagi á næstunni og tryggja megi frið í M-Austurlöndum. Vonandi er að nýjar og bjartar leiðir hafi opnast til nýs friðarferlis milli Ísraels og Palestínu. Arafat náði ekki að lifa þann dag að frjálst ríki Palestínu liti dagsins ljós. Vonandi mun þegnum hans auðnast að sjá slíkt ríki koma til sögunnar á næstu árum.

Yasser Arafat - pistill minn um ævi og feril leiðtoga Palestínumanna

Dagurinn í dag
1939 Þýska flutningaskipinu Parana var sökkt út af Patreksfirði. Áhöfnin yfirgaf skipið daginn eftir og var tekin til fanga af breska herskipinu Newcastle - var fyrsta skipið sem sökk hér í seinna stríðinu
1946 Vestmannaeyjaflugvöllur formlega tekinn í notkun - þá eitt mesta mannvirki sinnar tegundar
1963 Þriggja alda afmælis Árna Magnússonar handritasafnara, minnst - nýbygging við Háskóla Íslands nefnd eftir honum í tilefni dagsins. Þar eru geymd handrit Íslendinga, sem Danir afhentu okkur
1973 Samningur við Breta um lausn landhelgisdeilunnar (varðandi 50 mílur) var samþykktur á þingi
2002 Írak samþykkir að hlíta ályktun 1441 - ályktunin leiddi til þess að ráðist var í Írak í mars 2003

Snjallyrði dagsins
I tell you, first John Ashcroft retires, now Yasser Arafat dies. This has not been a good week for religious radicals.

Yasser Arafat died last night. And this time it looks pretty permanent. How many times did he die this week? Like five? Six? He was turning into Kenny on South Park.
Jay Leno spjallþáttastjórnandi

Engin fyrirsögn

StjórnarráðiðHeitast í umræðunni
Ríkisstjórnin samþykkti á fundi sínum í morgun að lagt yrði fram frumvarp á Alþingi um lausn á kennaradeilunni en verkfall hefur nú staðið, með stuttu hléi í byrjun mánaðarins, í tvo mánuði. Þing var kallað saman í morgun og þar mælti Halldór Ásgrímsson forsætisráðherra, formlega fyrir lagafrumvarpinu og fylgdi því úr hlaði. Samkvæmt frumvarpinu er verkfall kennara og aðrar aðgerðir óheimilar frá gildistöku laganna. Leysi deiluaðilar ekki málið fyrir 15. desember með kjarasamningi mun gerðardómur verða skipaður af Hæstarétti til að fjalla um kjaramál grunnskólakennara. Fram kom í ræðu forsætisráðherra að þetta sé hið eina mögulega í stöðunni, verkfall gangi ekki lengur við þau skilyrði að menn ræðist ekki við og enginn viðræðuflötur sé til staðar í málinu.

Meirihluti þingmanna samþykkti afbrigði svo taka megi málið á dagskrá strax og er stefnt að því að lögin verði að lögum á morgun og kennsla geti því hafist að nýju á mánudag. Eins og við er að búast vekur þetta litla hrifningu kennaraforystunnar sem mótmælir mjög harkalega í fjölmiðlum í dag þessari ákvörðun. Eins og ég hef persónulega áður sagt hér á vefnum leysir lagasetning á verkfallið engin vandamál. Um er að ræða algjört neyðarúrræði í stöðunni. Skólastarf er orðið lamað vegna verkfalls og ekkert því framundan í stöðunni. Alltaf er leiðinlegt að þurfa að klippa á málin með svona harkalegum hætti. Ég hef aldrei verið hlynntur því að leysa kjaraviðræður með lagasetningu og talið það aðeins vænlegt þegar allt er komið í óefni eða að allt stefni í þá átt. Það ástand er hiklaust komið upp í þessum málum. Hvað okkur varðar sem komum nálægt sveitarfélögunum er þetta engin óskaniðurstaða. Best hefði verið ef hægt hefði verið að semja, en því miður var staðan komin í þá átt að engin von var á farsælu samkomulagi og málamiðlun um kaup og kjör kennara.

Davíð Oddsson utanríkisráðherraDavíð Oddsson utanríkisráðherra og formaður Sjálfstæðisflokksins, flutti í gær á þingi sína fyrstu skýrslu um utanríkismál. Fór Davíð þar í ítarlegu máli yfir stöðu utanríkismála og það sem hæst ber í umræðunni varðandi málaflokkinn. Stór hluti fjallaði um stöðu mála í Afganistan og Írak. Kom fram í máli Davíðs að verið væri að kanna með hvaða hætti Ísland gæti tekið þátt í þjálfun íraskra öryggisveita á vegum NATO í Írak. Sagði hann ennfremur að þegar stjórn flugvallarins í Kabul, höfuðborg Afganistan, færist frá Íslendingum í hendur annars aðildarríkis NATO á næsta ári komi til greina að Ísland leggi í staðinn af mörkum liðsmenn til annarra friðargæsluverkefna í Afganistan. Davíð gat þess í ræðu sinni að Íslendingar hefðu lagt af mörkum til mannúðar- og endurreisnarstarfs í Írak. Sérfræðingar á vegum Íslensku friðargæslunnar hefðu unnið mikið starf við að eyða jarðsprengjum og öðrum sprengjum í suðurhluta Íraks. Davíð ítrekaði þá skoðun sína að íslensk stjórnvöld hefðu tekið rétta ákvörðun, þegar kom að mórölskum stuðningi við innrásina í Írak í mars 2003.

Hún hafi verið gerð til að framfylgja ályktunum öryggisráðs Sameinuðu þjóðanna sem Íraksstjórn hafði algjörlega virt að vettugi. Davíð sagði, að enginn geti með sanngirni haldið öðru fram en að íraska þjóðin sé betur sett nú en á valdatíma Saddam Hussein og öllum hlyti því að vera ljós þýðing þess að það takist að koma á lýðræði og stöðugleika í Írak. Hinn kosturinn væri ennfremur að berjast þyrfti gegn því að óstöðugleiki og öngþveiti nái yfirhöndinni í landinu með hrikalegum afleiðingum fyrir írösku þjóðina, Mið-Austurlönd og ekki síst fyrir baráttuna gegn hryðjuverkaöflunum. Sagði Davíð að átökin í Írak snúist um hvort komið verði á lýðræðislegri stjórnskipan þar. Að mati Davíð hafi meinfýsnishlakkandi úrtölumenn víða um heim einblínt á erfiðleikana og viðkomandi virðist telja deilur um aðdraganda innrásarinnar skipta meira máli en frelsi og framtíðarvonir Íraka. Urðu miklar umræður um ræðu Davíðs og farið ítarlega yfir utanríkismál sem var mjög áhugavert að fylgjast með fyrir þá sem áhuga hafa á málaflokknum.

Yasser Arafat (1929-2004)
Þáttaskil með láti Arafats
Yasser Arafat forseti Palestínu, jarðaður í Ramallah
Palestínumenn kveðja Yasser Arafat á Vesturbakkanum

EyjafjörðurÁlyktanir stjórnar Varðar
Stjórn Varðar, félags ungra sjálfstæðismanna á Akureyri, kom saman til fundar í gær undir minni stjórn. Eftirfarandi ályktanir voru samþykktar á fundinum:

Vörður, félag ungra sjálfstæðismanna á Akureyri, minnir á mikilvægi þess að stóriðja rísi á Norðurlandi á komandi árum. Mjög mikilvægt er að Norðlendingar standi saman sem ein heild í því að kynna kosti Norðurlands sem ákjósanlegrar staðsetningar fyrir stóriðju. Að mati Varðar kemur vart annað til greina en að stóriðjan muni rísa á Eyjafjarðarsvæðinu. Með væntanlegum jarðgöngum um Vaðlaheiði og til Siglufjarðar verður Norðurland eitt atvinnusvæði og mun Eyjafjörður verða miðpunktur þess. Á þeim forsendum er réttast að stóriðja rísi við miðjuna, við Dysnes í Eyjafirði, eins og lengi hefur verið gert ráð fyrir í umræðunni. Slíkt myndi að mati Varðar styrkja Norðurland sem heild og efla Eyjafjörð sem mótvægi við höfuðborgarsvæðið.

BjórVörður, félag ungra sjálfstæðismanna á Akureyri, vill árétta mikilvægi þess að einkaleyfissala ríkisins á áfengi verði afnumin. Að mati stjórnar félagsins er það tímaskekkja á tímum frjálsa viðskipta að ríkisvaldið skuli standa í vegi fyrir einkaaðilum með þessum hætti. Vörður telur mikilvægt að þingmeirihluti Sjálfstæðisflokks og Framsóknarflokks sameinist sem fyrst um lagafrumvarp þess efnis að selja léttvín og bjór í verslunum. Slíkt er að okkar mati mikilvægt skref til afnáms einokunarsölu ÁTVR á áfengi. Félagið telur einnig rétt að ríkisvaldið afnemi auglýsingabann á áfengi, enda er stórundarlegt á okkar tímum að ekki megi hérlendis auglýsa fullkomlega löglega vöru sem er framleidd á Íslandi. Að okkar mati er ennfremur rétt að lækka áfengiskaupaaldur í 18 ár, bindum við vonir við að frumvarp um lækkun áfengiskaupaaldurs verði samþykkt á þessum þingvetri, enda hefur myndast samstaða meðal þingmanna úr öllum stjórnmálaflokkum um þetta mikilvæga skref.

TogariVörður, félag ungra sjálfstæðismanna á Akureyri, mótmælir frestun afnáms sjómannaafsláttar. Félagið lýsir yfir furðu sinni á því að fjármálaráðherra skuli hafa gefið loforð fyrir því að ekki skuli leggja niður sjómannaafslátt á næstu fjórum árum, á gildistíma nýs kjarasamnings sjómanna. Félagið er alfarið á móti því að einni stétt sé hampað umfram aðrar með skattaívilnun af þessu tagi.

Jafnréttisráðstefna á Akureyri
Halldór Blöndal forseti Alþingis, í Japan

Dagurinn í dag
1967 Síðustu tíu íbúarnir fluttu úr Flatey á Skjálfanda - örfáum árum áður bjuggu þar 100 manns
1974 Þórbergur Þórðarson rithöfundur, lést, 85 ára að aldri - hann var talinn einn mesti stílsnillingur í íslenskum bókmenntum. Meðal helsta verka hans voru Bréf til Láru, Ofvitinn og Íslenskur aðall
1982 Pólska kommúnistastjórnin sleppir Lech Walesa leiðtoga verkalýðshreyfingarinnar Samstöðu, úr varðhaldi. Walesa varð helsti leiðtogi baráttunnar gegn kommúnistastjórninni, allt þar til hún féll með öðrum í A-Evrópu við lok kalda stríðsins. Walesa var kjörinn forseti Póllands 1990 og sat til 1995
1982 Yuri Andropov kjörinn formaður sovéska kommúnistaflokksins og nýr leiðtogi Sovétríkjanna
2001 Hersveitir Talíbana flýja Kabúl, höfuðborg Afganistan - Bandamenn ná yfirráðum í borginni

Snjallyrði dagsins
Unforgettable, that's what you are
Unforgettable though near or far
Like a song of love that clings to me
How the thought of you does things to me
Never before has someone been more

Unforgettable in every way
And forever more
That's how you'll stay,
That's why, darling, it's incredible
That someone so unforgettable
Thinks that I am unforgettable too
Irving Gordon (Unforgettable)

Engin fyrirsögn

Yasser Arafat (1929-2004)Yasser Arafat látinn
Yasser Arafat forseti Palestínu, er látinn, 75 ára að aldri. Hann lést á Clamart-hersjúkrahúsinu í París í nótt eftir mikil veikindi. Banamein hans var heilablóðfall. Hann var fluttur til Frakklands 29. október sl. og hafði heilsu hans hrakað ört seinustu dagana. Flogið verður með lík Arafats til Kaíró í Egyptalandi seinnipartinn í dag þar sem verður formleg jarðarför leiðtogans og viðhafnarkveðjuathöfn. Að því loknu verður lík Arafats flutt til Ramallah. Hann verður jarðsettur á morgun við höfuðstöðvar sínar á Vesturbakkanum. Palestínumenn hafa lýst yfir 40 daga þjóðarsorg. Arafat lætur eftir sig eiginkonu, Suha, og níu ára dóttur, Zöwhu Ammar. Skarð Arafats í palestínskum stjórnmálum er bæði stórt og mjög vandfyllt. Hann hafði haft bæði tögl og hagldir í palestínsku heimastjórninni og í stjórnmálaheimi landsins í vel yfir fjóra áratugi. Enginn afgerandi og óumdeildur eftirmaður og leiðtogi er í sjónmáli og hætt er við að mikil valdabarátta skelli á, nú þegar kjósa þarf nýjan forseta í heimastjórninni. Mahmoud Abbas fyrrum forsætisráðherra Palestínu, hefur tekið við hlutverki Arafats sem leiðtogi PLO og Rawhi Fattouh hefur tekið við forsetaembætti palestínsku heimastjórnarinnar til bráðabirgða. Bendir flest til þess að Abbas eða Ahmed Qurei núverandi forsætisráðherra, taki við hlutverki Arafats sem leiðtogi landsins í fyllingu tímans.

Segja má með sanni að saga Yasser Arafat sé órjúfanlega samofin sögu palestínsku þjóðarinnar og frelsisbaráttu landsins seinustu áratugina. Hann hefur leitt baráttu landsins fyrir frelsi og sjálfstæði í rúma fjóra áratugi. Hann var nefndur við fæðingu í ágúst 1929, Mohammed Jasser Abdul-Raouf Qudwa al-Husseini. Var sonur vefnaðarkaupmanns, af palestínskum og egypskum ættum, en móðir hans var frá Jerúsalem. Snemma varð Arafat baráttumaður fyrir frelsi heimalands síns. Hann var aðeins 16 ára gamall er hann byrjaði að smygla vopnum fyrir palestínska skæruliða sem áttu í höggi við vopnaða gyðinga og Breta í seinna stríðinu og fram að stofnun Ísraelsríkis 1948. Þá sneri Arafat aftur til Kaíró, stofnaði samtök palestínskra námsmanna, og lauk prófi í verkfræði. Frá Kaíró hélt Arafat til Kúveit og 1964 hélt hann til Jórdaníu til að stýra árásum al-Fatah, nýstofnaðra samtakanna sinna, á Ísrael. Sama ár voru Frelsissamtök Palestínu, PLO, stofnuð. Þau eru samtök ýmissa lykilhópa Palestínumanna. Eftir niðurlægjandi auðmýkjandi ósigur araba fyrir Ísraelum í sex daga stríðinu 1967 varð al-Fatah leiðandi forystuhreyfing Palestínumanna, og 1969 varð Arafat leiðtogi PLO og gegndi því embætti til dauðadags. Hussein Jórdaníukonungi þótti sér ógnað, honum hraus hugur við veldi Frelsissamtakanna, og hermenn hans hröktu þau burt eftir blóðbað. Frá Jórdaníu lá leið Arafats til Líbanon en 1982 var honum ekki lengur vært þar eftir mannskæða innrás Ísraela. Eftir það dvaldi hann í Túnis í nokkur ár.

Arafat kveður Ramallah í hinsta skiptiÁ árinu 1988 urðu mikil þáttaskil í stefnu og forystu Yasser Arafat sem eins helsta leiðtoga Palestínumanna. Þá lýsti hann því yfir að öll ríki ættu tilverurétt í Austurlöndum nær, t.d. Ísrael. Um var að mikla tímamótayfirlýsingu sem greiddi veginn fyrir friðarviðræðum. Bakslag kom í hugmyndir um friðarviðræður árið 1991, þegar Arafat lýsti yfir afdráttarlausum stuðningi við Saddam Hussein leiðtoga Íraks, í Persaflóastríðinu. Friðarferli hófst þó formlega, 30. október 1991 stóð Bandaríkjastjórn fyrir því að viðræður hófust formlega milli deiluaðila í Madrid á Spáni. Um var að ræða sögulega ráðstefnu þar sem margir erkifjendur í stjórnmálasögu svæðisins hittust í fyrsta skipti og ræddu saman málefnin frá víðu sjónarhorni og fóru yfir stöðuna. Leiddu þær til friðarviðræðnanna í Osló þar sem Ísrael og Palestína sömdu frið 1993.

13. september 1993 var Óslóarsamningurinn svonefndi undirritaður í Washington af Arafat og Yitzhak Rabin þáv. forsætisráðherra Ísraels. Ári síðar sneri Arafat aftur til Gaza og var ákaft fagnað, í lok þess árs fékk Arafat friðarverðlaun Nóbels ásamt Rabin og Shimon Peres þáv. utanríkisráðherra Ísraels. 20. janúar 1996 kusu Palestínumenn heimastjórn, Arafat var kjörinn forseti heimastjórnarinnar með 83% atkvæða og gegndi embættinu til dauðadags. Morðið á Rabin í nóvember 1995 leiddi til hnignunar friðarferlisins. Harðlínumenn á borð við Benjamin Netanyahu og Ariel Sharon komust til valda í Ísrael og ný uppreisn Palestínumanna, Intífada, braust út. Friðarferli Arafats og Rabins beið skipbrot. Árið 2001 umkringdi ísraelskt herlið höfuðstöðvar Arafats í Ramallah, sem er vestan Jórdanár, og þar var hann stofufangi þar til hann var fluttur helsjúkur á hersjúkrahús í París í lok seinasta mánaðar. Arafat lifði ekki að sjá draum sinn rætast að fullu, það var óneitanlega táknræn stund þegar hann kvaddi þjóð sína hinsta sinni með tár á hvarmi í dyrum þyrlu jórdanskra stjórnvalda sem flutti hann seinustu ferðina, fárveikan á sjúkrahús til að leita sér læknishjálpar. Hann kvaddi þegna sína þá með sama hætti og hann hafði stjórnað henni, með kraftmiklum hætti. Tímamót höfðu átt sér stað.

RáðhúsiðHeitast í umræðunni
Tilkynnt var á blaðamannafundi í Ráðhúsinu á sjöunda tímanum í gærkvöldi að Steinunn Valdís Óskarsdóttir borgarfulltrúi R-listans, tæki við embætti borgarstjóra í Reykjavík, þann 1. desember nk. Hún þekkir vel til borgarmálanna, enda setið sem borgarfulltrúi R-listans allt frá stofnun 1994 og verið í mörgum af helstu nefndum borgarinnar allan þann tíma. Við blasir að Steinunn Valdís verður fyrir valinu vegna þess að hún var sú eina af hinum 8 borgarfulltrúum R-lista sem samstaða náðist um til að klára þá 18 mánuði sem eftir eru til borgarstjórnarkosninga í lok maí 2006. Hún er umfram allt hin týpíska málamiðlun í þeirri stöðu sem upp var komin. Leiðtogar flokkanna í samstarfinu gátu ekki komið sér um einn þeirra í starfið og óháði borgarfulltrúinn var talinn of hallur undir einn flokkinn. Pólítískur dauðdagi fráfarandi borgarstjóra hefur verið R-listanum átakanlegur og erfiður og tekur nú við fyrir fulltrúa valdabandalagsins að vinna sig úr því ferli með þeim hætti sem þau telja best. Tekin er því sú ákvörðun að halda aftur á fyrri slóðir, pólitískur fulltrúi tekur við forystunni. Valin er til starfans eina manneskjan í hópnum sem samstaða næst um.

Valdaátök milli forystumannanna og krónprinsins óháða komu í veg fyrir að sterkustu pólitísku fulltrúarnir hlytu forystusessinn. Því kemur ólíklegasti aðilinn til sögunnar, sú manneskja sem hefur þó fylgt R-lista valdabræðingnum frá upphafi og getur aðeins ein verið samnefnari einhvers þess sem eftir er af trúnaði manna og flokka á milli í þessu samstarfi sem gengur nú aðeins út á völd: það að halda völdum og geta deilt þeim á milli sín meðan meirihlutinn er til staðar. Ég færi Steinunni Valdísi bestu óskir um gott gengi. Henni veitir ekki af góðum kveðjum og óskum allra stjórnmálaáhugamanna, nú þegar hún tekst á hendur það gríðarlega stóra verkefni að reyna að halda utan um þrjá ólíka flokka sem eiga ekkert sameiginlegt nema ásókn í völd og vegtyllur á vettvangi borgarmálanna. Það þarf kjark og þor í farteskinu til að halda í vegferð í þeim tilgangi að vinna fyrir slíkt afl sem forystumaður. Þessu hefur Þórólfur Árnason fráfarandi borgarstjóri, fengið að kynnast allt frá því hann kom til sögunnar sem embættismaður og framkvæmdastjóri án umboðs. Vonandi er að Steinunn verði opnari fyrir staðreyndum um borgarmálin en forverar hennar tveir, sem hafa reynt eftir fremsta megni að hylja augu sín með gleraugum með svörtu gleri til að þurfa ekki að horfa fram á veginn nema með þeim brag að afneita staðreyndum og tölum. Ef Steinunn Valdís ætlar að vera sönn í verki og höndla starf sitt af festu þarf hún að henda svartlituðu gleraugunum og viðurkenna vandann og horfast í augu við hann.

Þórólfur segir af sér - Steinunn Valdís verður borgarstjóri

Alberto Gonzales verðandi dómsmálaráðherra BandaríkjannaGeorge W. Bush forseti Bandaríkjanna, tilkynnti á blaðamannafundi í Hvíta húsinu í gærkvöldi að Alberto Gonzales tæki við embætti dómsmálaráðherra Bandaríkjanna af John Ashcroft. Mun Ashcroft láta af störfum um leið og þingið hefur samþykkt val forsetans á Gonzales sem eftirmanni sínum. Gonzales er 49 ára gamall og hefur verið einn af helstu lögfræðilegum ráðgjöfum Bush í forsetatíð hans seinustu fjögur árin. Áður var hann dómari við hæstarétt Texas fylkis og einn af helstu lagaspekingum í málum fylkisins. Hann er sonur fátækra innflytjenda og ef þingið samþykkir val forsetans verður Gonzales fyrsti spænskumælandi dómsmálaráðherra Bandaríkjanna. Hefð er fyrir því að æðstu embættismenn Bandaríkjanna séu yfirheyrðir fyrir þingnefnd áður en þeir eru skipaðir í embætti og verður öldungadeild Bandaríkjaþings að samþykkja bæði ráðherraefni, dómaraefni við Hæstarétt og þá sem tilnefndir eru sem forseti réttarins, áður en þeir geta tekið formlega við starfi. Slíkt vinnuferli getur tekið allt frá nokkrum dögum til nokkurra vikna ef ekki er samstaða um þá sem tilnefndir eru. Eins og ég sagði frá í gær eru framundan miklar ráðherrahrókeringar í stjórn Bush forseta. Líklegt er að á næstu dögum verði tilkynnt um hvort að Colin Powell utanríkisráðherra, og Donald Rumsfeld varnarmálaráðherra, láti af störfum og hverjir verði eftirmenn þeirra. Flest bendir til þess að þeir muni víkja við upphaf nýs kjörtímabils forsetans ásamt fleiri lykilráðherrum ríkisstjórnarinnar. Talið er að skipan ráðherra í öll helstu embætti ríkisstjórnarinnar og forystu landsins á næsta kjörtímabili muni liggja fyrir að mestu fyrir lok mánaðarins.

Dagurinn í dag
1907 Grímseyingar héldu fyrsta sinni upp á "þjóðhátíðardag" sinn - er fæðingardagur prófessors Willard Fiske, sem gaf t.d. fé til skólabyggingar þar. Minnismerki um hann vígt þennan dag 1998
1991 Áformum um að reisa álver á Keilisnesi var frestað um óákveðinn tíma - álverið reis aldrei
1992 Breska þjóðkirkjan leyfir konum að taka prestsvígslu - mikill áfangasigur fyrir breskar konur
1994 Guðmundur Árni Stefánsson sagði af sér embætti félagsmálaráðherra vegna hneykslismála. Hann var heilbrigðisráðherra 1993-1994 og hafði verið félagsmálaráðherra í nokkra mánuði er hann sagði af sér - var lengi bæjarstjóri í Hafnarfirði og talinn einn af krónprinsum íslenskra jafnaðarmanna
2004 Yasser Arafat forseti Palestínu, lést á hersjúkrahúsi í París, 75 ára að aldri. Hann hafði þá verið pólitískur leiðtogi Palestínumanna í rúmlega fjóra áratugi. Hann varð einn af forystumönnum PLO árið 1964 og leiðtogi þess árið 1969 og leiddi baráttu Palestínu fyrir sjálfstæði. Hann var kjörinn forseti landsins árið 1996 og hlaut friðarverðlaun Nóbels árið 1994 ásamt Yitzhak Rabin og Shimon Peres

Snjallyrði dagsins
Here's a brief update on Yasser Arafat, doctors say he has died but palestinian authority say he is expected to make a full recovery.

Calls are pouring in from leaders around the world to Mrs. Arafat. French President Jacques Chirac said he hopes for the best. British Prime Minister Tony Blair sent his regards. And VP Dick Cheney called to ask if Arafat had filled out a heart donor card.
Jay Leno spjallþáttastjórnandi

Engin fyrirsögn

Steinunn Valdís Óskarsdóttir verðandi borgarstjóriSteinunn Valdís Óskarsdóttir verður borgarstjóri
Tilkynnt var formlega á blaðamannafundi í Ráðhúsi Reykjavíkur í kvöld að Steinunn Valdís Óskarsdóttir borgarfulltrúi R-listans, tæki við embætti borgarstjóra í Reykjavík af Þórólfi Árnasyni fráfarandi borgarstjóra, 1. desember nk. Steinunn Valdís Óskarsdóttir verðandi borgarstjóri, hefur verið borgarfulltrúi R-listans allt frá stofnun hans árið 1994, var fyrst fulltrúi Kvennalista á listanum en síðar Samfylkingarinnar. Steinunn Valdís hefur verið formaður skipulagsnefndar borgarinnar frá 2002 og er varaformaður stjórnar Orkuveitu Reykjavíkur og situr ennfremur í samgöngunefnd, hverfisráði Laugardals og Hlíða, er í stjórn Sambands íslenskra sveitarfélaga, lánatryggingasjóðs kvenna og Skipulagssjóðs. Hún sat í stjórn Samtaka sveitarfélaga á höfuðborgarsvæðinu 1994-1999 og var formaður 1997-1999. Steinunn var formaður íþrótta og tómstundaráðs Reykjavíkurborgar 1994-2002 og formaður jafnréttisnefndar borgarinnar 1996-1998. Hún var í miðborgarstjórn 1998-2002 og sat í borgarráði 1998-2002. Steinunn Valdís Óskarsdóttir varð stúdent frá MS árið 1986 og varð B.A. í sagnfræði frá HÍ 1992. Hún var fulltrúi á launaskrifstofu fjármálaráðuneytisins 1986-1987, starfskona Rannsóknarstofu í kvennafræðum 1992, framkvæmdastjóri Hallveigarstaða 1994-1997 og starfaði á skrifstofu Kvenfélagasambands Íslands 1992-1994. Steinunn Valdís var formaður félags sagnfræðinema við HÍ 1989-1990 og sat í stúdentaráði HÍ 1990-1992 og var formaður Stúdentaráðs 1991-1992. Hún sat í áfrýjunar- og sáttanefnd HÍ 1990-1991 og í stjórn Félagsstofnunar stúdenta 1992-1994.

Ánægjulegt er að valdafarsa R-listans sé lokið, en það blasir við að Steinunn er valin vegna þess að hún var sú eina af borgarfulltrúunum 8 sem samstaða náðist um til að klára þessa 18 mánuði sem eftir eru til kosninga. Leiðtogar flokkanna gátu ekki unnt hvor öðrum þetta, Dagur er álitinn of mikið efni fyrir Samfylkinguna til að fá þetta og Anna, Björk og ISG koma ekki til greina. Eftir stendur Steinunn Valdís Óskarsdóttir, sem eina manneskjan sem samstaða gat náðst um. Ég tel það skynsamlegt að stjórnmálamaður verði borgarstjóri. Hef alltaf verið þeirrar skoðunar að réttast sé að kjörinn fulltrúi gegni embætti borgarstjóra eða bæjarstjóra og tel þetta rökrétt skref og réttara að manneskja með beint umboð frá kjósanda sé í svona stóru embætti. En það verður fróðlegt að fylgjast með borgarmálunum þann tíma sem lifir af kjörtímabilinu.

Engin fyrirsögn

RáðhúsiðHeitast í umræðunni
Líklegt er að valdabarátta sé framundan innan R-listans um að finna nýjan borgarstjóra, eftirmann Þórólfs Árnasonar fráfarandi borgarstjóra, sem sagði af sér embætti í gær vegna aðildar sinnar að olíusamráðinu, og mun láta af embætti þann 30. nóvember nk. Tillaga mun hafa verið lögð fram í gær á fundi innan borgarstjórnarflokks R-listans um að Dagur B. Eggertsson óháður borgarfulltrúi, yrði borgarstjóri. Hafa framsóknarmenn alfarið hafnað henni og munu ekki styðja hann til embættisins. Ekki kemur heldur til greina að fyrrum borgarstjóri eða leiðtogar flokkanna innan listans taki við embættinu. Er það mat framsóknarmanna að borgarstjórinn eigi ekki að koma úr hópi kjörinna borgarfulltrúa, kristallast þessi skoðun í ályktun stjórnar framsóknarfélags í Reykjavík norður í gærkvöldi. Í viðtali í gærkvöldi sagði Ingibjörg Sólrún Gísladóttir borgarfulltrúi, að ólíklegt væri að nýr borgarstjóri yrði utanaðkomandi aðili.

Fulltrúar innan R-listans tala því í margar áttir um það hver eigi að vera næsti borgarstjóri og taka við embættinu eftir þrjár vikur. Það virðist engin samstaða um næstu skref og það lítur þannig út að menn séu að reyna að kaupa sér frest með því að geyma borgarstjóraskiptin til mánaðarmóta. Eini borgarfulltrúinn sem mögulegt er að samstaða náist um er Steinunn Valdís Óskarsdóttir. Annars er fróðlegt að heyra það í yfirlýsingu fráfarandi borgarstjóra að hann hafi tekið sjálfur ákvörðun um að hætta. Enginn vafi leikur á að hann var neyddur til að segja af sér, eða hafði ekkert annað í stöðunni, enda hafði félagsfundur VG verið boðaður og þar blasti við að vantraust yrði samþykkt á hann af hálfu flokksins. Það er því einkennilegt að heyra hann tala um að þetta hafi verið sín ákvörðun, þegar við blasti að pólitískt bakland hans var brostið. Það þarf því varla að tala um afsögn hans sem hetjudáð, sé mið tekið af þeirri vonlausu stöðu sem hann var í. Hann gat á blaðamannafundi í gær ekki svarað því hvort hann telji sig hafa getað varið heiður sinn né hverjir standi að skoðanakönnunum sem gerðar voru um stöðu hans. Né heldur af hverju hann segir af sér núna, sé mið tekið af því að hann hafði sagt áður að það væri ekki á færi hans eins að ákveða framhaldið. Þetta er því allt eins fyndið og mögulegt má vera og orðatiktúrur sem enginn skilur í. En meirihlutinn greinilega hristist nú til og frá.

ISGAthyglisvert var að horfa á dægurmálaspjallþætti gærkvöldsins, en þar var Ingibjörg Sólrún Gísladóttir borgarfulltrúi og varaþingmaður, gestur. Hlægilegt var að heyra afsakanir hennar á stöðu mála. Hún er einmitt sú manneskja sem hefði hæglega getað komið í veg fyrir það í upphafi að fráfarandi borgarstjóri, tæki sæti hennar sem borgarstjóri 1. febrúar 2003. Þórólfur sagði henni á fundi áður en hann var formlega samþykktur sem borgarstjóraefni R-listans í desember 2002 að hann væri einn þeirra sem hefðu stöðu grunaðs manns í olíusamráðinu og hefði verið kvaddur til að bera vitni um málið hjá Samkeppnisstofnun. Ingibjörg mun hafa spurt hann hvort hann gæti varið sig, en einskis annars. Ekkert var spurt um fleiri tengda þætti eða leitað spurninga um stöðu hans í málinu. Ingibjörg sagði heldur engum öðrum borgarfulltrúa R-listans frá stöðu mála og hafði þetta og þessar pælingar milli sín og Þórólfs sem sitt prívat efni, þegar vitað var að umræða um málið og stöðu Þórólfs myndu hafa áhrif á stöðu mála, eins og síðar kom í ljós og hefur staðfest við afsögn hans núna eftir að lokaskýrslan var birt, sem sannar umfangsmikla aðild hans að samráðinu og ákvarðanaferli málsins.

Það að Ingibjörg kannaði ekki málið né heldur ræddi það við samherja sína, sýnir vel hversu þunnir þræðir tengja flokkana saman. Að auki var fróðlegt að heyra þá skoðun Ingibjargar að innan R-listans gætu allir talað saman og hreinlyndi væri milli fólks. Það er nú ekki annað hægt en að hlæja að þessu, svona sem áhorfandi að látunum innan R-listans og valdabröltsins seinustu tvö árin, en nú blasir við að leita þurfi að borgarstjóra í þriðja skipti á innan við tveim árum. Hreinlyndið er ekki meira en svo að menn tala í sínhvora áttina í fjölmiðlum og eru tilbúnir til að kippa fótunum undan hvor öðrum og geta ekki heldur unnt hvoru öðru að verða borgarstjóri í Reykjavík. Svo vöktu síðast en ekki síst athygli ummæli hennar þess efnis að borgarfulltrúi yrði borgarstjóri nú, þegar við blasir að engin samstaða er um næstu skref og ekkert sem blasir við nema þá það að slagsmál verði og harkaleg valdaátök um það milli flokka og meira að segja innan flokkanna sem mynda R-listann, um það hver muni taka við af Þórólfi.

Don Evans og John AshcroftJohn Ashcroft dómsmálaráðherra Bandaríkjanna, og Don Evans viðskiptaráðherra Bandaríkjanna, sögðu af sér ráðherraembættum sínum í gær. Þeir hafa setið í ríkisstjórn George W. Bush forseta Bandaríkjanna, allt frá því hann tók við embætti 20. janúar 2001. Ashcroft baðst lausnar frá embættinu í fimm síðna handskrifuðu bréfi til forsetans. Þar sagði hann að markmiðinu að tryggja öryggi Bandaríkjamanna gagnvart glæpum og hryðjuverkum hefði náðst en hann telji að dómsmálaráðuneytið þurfi að nýjum stjórnanda að halda. Ashcroft hefur átt við veikindi að stríða og veiktist snögglega í sumar og var gallblaðra hans fjarlægð vegna gallsteinakasts. Hefur Ashcroft verið mjög umdeildur vegna skoðana sinna og afstöðu til fjölda mála, allt frá því hann varð fyrst ráðherra. Evans sagði í afsagnarbréfi sínu að hann hafi komist að þeirri niðurstöðu að tímabært væri fyrir hann að snúa heim, en hann er frá Texas líkt og forsetinn og hefur verið náinn samstarfsmaður hans í fjölda ára. Bush forseti, sendi frá sér yfirlýsingu í gærkvöldi og þakkaði báðum ráðherrum störf sín. Líklegast er að Mercer Reynolds formaður fjáröflunarnefndar forsetaframboðs Bush, verði næsti viðskiptaráðherra, og Larry Thompson fyrrum aðstoðarmaður Ashcroft í dómsmálaráðuneytinu, verði eftirmaður hans. Verði Thompson dómsmálaráðherra mun hann verða fyrsti blökkumaðurinn til að taka við því embætti. Ashcroft og Evans munu láta af embætti er seinna kjörtímabil forsetans hefst í janúar. Búast má við að frekari ráðherrauppstokkanir séu framundan. Flest bendir til þess að Colin Powell utanríkisráðherra, og Donald Rumsfeld varnarmálaráðherra, biðjist lausnar frá störfum sínum á næstunni. Ólíklegt er talið að þeir verði ráðherrar á næsta kjörtímabili.

Dagurinn í dag
1949 Þjórsárbrú vígð - brúin þótti mikið samgöngumannvirki og marka þáttaskil í samgöngumálum
1967 Strákagöng voru formlega tekin í notkun - þau voru þá lengstu veggöngin, um 800 metrar. Göngin voru mikil samgöngubót, endu komust íbúar Siglufjarðar þá loks í vegasamband allt árið
1970 Charles De Gaulle fyrrum forseti Frakklands, lést á heimili sínu í Colombey-les-deux-Églises, 79 ára að aldri. De Gaulle var einn af helstu stjórnmálamönnum Frakka á 20. öld, og forystumaður landsins í seinna stríðinu. Hann var forsætisráðherra landsins 1958-1959 og loks forseti 1959-1969
1982 Leonid Brezhnev Sovétleiðtogi, deyr, 76 ára að aldri - hann hafði lengi átt við veikindi
1996 Sighvatur Björgvinsson kjörinn formaður Alþýðuflokksins í stað Jóns Baldvins Hannibalssonar. Sighvatur sigraði Guðmund Árna Stefánsson þáverandi varaformann flokksins, í formannskjörinu. Alþýðuflokkurinn varð hluti af nýjum flokki, Samfylkingunni, 2000. Flokkurinn er þó enn formlega til

Snjallyrði dagsins
Today, President Bush thanked those that worked the hardest for his reelection: Ralph Nader and Osama bin Laden.

Let me tell ya, you gotta feel bad for John Kerry. Just think he came this close to finally getting his own house.
Jay Leno spjallþáttastjórnandi

Engin fyrirsögn

Þórólfur Árnason fráfarandi borgarstjóriÞórólfur Árnason segir af sér
Þórólfur Árnason borgarstjóri í Reykjavík, tilkynnti á blaðamannafundi í Höfða, móttökuhúsi Reykjavíkurborgar, kl. 18:00 í kvöld að hann hefði ákveðið að biðjast lausnar frá embætti borgarstjóra. Hann sagði formlega af sér embættinu á fundi með borgarfulltrúum R-listans síðdegis í dag. Hann hættir störfum 30. nóvember. Ekki hefur verið tilkynnt um hver taki við embættinu af honum og gegni því það eina og hálfa ár sem er til kosninga, en sögusagnir seinnipartinn í dag á vefsíðum og fréttamiðlum Norðurljósa gefa til kynna að Dagur B. Eggertsson læknir, sem setið hefur sem óháður borgarfulltrúi R-listans frá 2002, taki við embættinu. Einnig hefur nafn Helgu Jónsdóttur borgarritara, verið nefnt. Ljóst var orðið að pólitískt bakland Þórólfs í embætti borgarstjóra var með öllu brostið og hann hefði ekki lengur pólitískan stuðning til setu í embætti. Félagsfundur vinstri grænna hafði verið boðaður í kvöld og blasti þar við að þar yrði samþykkt ályktun um að Þórólfur yrði að segja af sér. Umræða um aðild fráfarandi borgarstjóra að ólöglegu samráði olíufélaganna sem staðið hafði í tæpt eitt og hálft ár, frá því frumskýrsla Samkeppnisstofnunar, hefur vofað yfir störfum hans. Allt frá því lokaskýrsla Samkeppnisstofnunar var birt fyrir rúmri viku hafði hann riðað hratt til falls. Í skýrslunni komu fram sannanir um þátt hans í samsærinu og fjallað var um þátt Þórólfs á meira en hundrað stöðum í skýrslunni, og um störf hans sem markaðsstjóra ESSÓ í tæp fimm ár. Allt frá útgáfu skýrslunnar tók stuðningur við hann að dvína og lýkur þessu nú með þeim hætti sem við blasir. Hann víkur vegna málsins, hefur misst pólitískan stuðning til setu áfram og til framboðs í næstu kosningum. Nú þegar Þórólfur hefur tilkynnt afsögn, tekur við umræðan um hver taki við og verði þriðji borgarstjóri Reykjavíkur á kjörtímabilinu, en það er eitt og hálft ár til borgarstjórnarkosninga.

Engin fyrirsögn

RáðhúsiðHeitast í umræðunni
Öruggt má telja að örlög Þórólfs Árnasonar borgarstjóra, ráðist í síðasta lagi í kvöld á félagsfundi vinstri grænna. Svandís Svavarsdóttir formaður félags VG í borginni, hefur lýst yfir því að borgarstjóri verði að segja af sér og virðist sú skoðun vera útbreidd meðal flokksmanna í borginni. Deilt er þessa dagana um pólitískt framhald eftir að borgarstjórinn hefur látið af embætti. Sú hugmynd hefur verið nefnd að þrír borgarstjórar taki við af Þórólfi, fulltrúar allra flokkanna. Ekki er um að ræða nýja tillögu, enda var hún rædd í kaosinu sem myndaðist innan sama meirihluta fyrir 23 mánuðum þegar Ingibjörg Sólrún Gísladóttir missti allt niðrum sig og varð að hætta sem borgarstjóri. Er fyrirmynd að þessu kerfi skv. fréttum sótt til Norðurlandanna, og byggt á þeim rökum að þegar fleiri en einn flokkur stjórni sveitarfélagi sé slíkt ekki óeðlilegt. Tillagan gengi því út á það að einn borgarstjóri fari með yfirstjórn borgarinnar, annar stýri velferðarmálunum og sá þriðji hafi yfirstjórn með skipulags- og framkvæmdamálunum. Þetta er eflaust ekki svo galin hugmynd fyrir Reykjavíkurborg, enda er ekki annað hægt að sjá en að flokkabræðingurinn sem stjórni geti ekki orðið sameinast um neitt nema reyna að halda sameinuð í völdin. Borgarstjórinn riðar til falls og glatar sífellt trausti fleira fólks og engin samstaða er um framtíðarsýnina þegar hann fer frá. Ráðleysið og ósamlyndið sem einkennir forystu borgarstjórnarmeirihlutans er algjört. Engin stjórn virðist vera þar lengur á sínum innri málum, hvað þá er lengur heildarsýn yfir málefnin tengd borginni. Allur tími fólksins fer í að afgreiða framtíðina. Hlægilegt verður ef eina samstaðan um framtíðina fæst með því að hafa þrjá borgarstjóra. Þessi hugmynd er auðvitað bæði í senn hlægileg og súrrealísk. Það yrði enn til að kóróna ósamlyndið ef eina samstaðan yrði um flokksleiðtogana þrjá sem leiðtoga. Það myndi sannast að það yrði það eina sem fólk gæti sameinast um. Vægt til orða tekið er þetta gósentíð fyrir sjálfstæðismenn í borginni og óskastaða að fylgjast með þessu ósamlyndi og innbyrðis forystuleysi í sjálfum leiðtogamálunum, hver stjórni stærsta sveitarfélagi landsins. Valdakreppan innan meirihlutans er algjör. Allt er þetta mál mjög hlægilegt pólitískt. Olíuforstjórarnir og forystumenn R-listans í Reykjavík virðast vera þeir einu sem fela sig í olíumálinu. Er ekki annað hægt að segja en að þetta sé þó slæmt fyrir hinn almenna Reykvíking, sem þarf að gjalda fyrir stjórnleysi valdabræðingsins sem stjórnar borginni.

Kennsla92,3% grunnskólakennara höfnuðu í kosningu, miðlunartillögu þeirri sem Ásmundur Stefánsson ríkissáttasemjari, lagði fram í kjaradeilu kennara og Launanefndar sveitarfélaganna. 4984 kennarar höfðu kjörrétt, 4617 greiddu atkvæði eða 92,67%. 276 samþykktu tillöguna en 4293 höfnuðu henni. Niðurstaðan er því alveg skýr og enginn vafi á afstöðu kennara til málsins. Launanefnd sveitarfélaga samþykkti hinsvegar tillöguna. Verkfall grunnskólakennara hófst því að nýju í dag. Afar fátt glæsilegt er í stöðunni. Ekki verður séð að samningar muni nást að óbreyttu fyrir árslok. Mörk sveitarfélaganna til að semja hafa verið kynnt og þeim hefur verið hafnað. Kennarar hafa í kosningu hafnað svipuðu því og boðlegt er í stöðunni nú um stundir. Það er því frekar svart yfir stöðunni og vandséð hvernig eigi að leiða hana til lykta. Þar sem ég þekki vel til stöðu sveitarfélaga og málefna þeirra sé ég ekki margt og mikið í stöðunni framundan. Ég tel útilokað að ríkisstjórnin setji lög á þessa deilu. Sveitarfélögin og viðsemjendur þeirra verða að taka sinn tíma til að semja. Þetta er þeirra mál og það verður bara að sjá út hvað kemur út úr frekari viðræðum. Það er ljóst að kennarar telja rétt að halda nemendum í gíslingu og við það verður að sitja í stöðunni. Taka verður bara þann tíma sem þarf til að ná lendingu í þessu máli. Lagasetning er engin lausn í stöðunni.

Fall Berlínarmúrsins 198915 ár frá falli Berlínarmúrsins
15 ár eru í dag liðin frá falli Berlínarmúrsins. Má fullyrða að fall múrsins hafi verið eitt skýrasta tákn þess að kalda stríðið væri á enda og kommúnisminn í Evrópu væri að geispa golunni. Með falli múrsins birtust fyrstu skýru merki endaloka kommúnistastjórna um mið Evrópu. Nokkrum dögum eftir fall múrsins féll A-þýska kommúnistastjórnin og hinar fylgdu síðar ein af annarri. Endalok kommúnistastjórnanna urðu misjafnlega friðsamlegar í þessum löndum. Í A-Þýskalandi féll stjórnin með mjúkum hætti, en t.d. í Rúmeníu kom til valdaskipta með harkalegum hætti og aftöku á forsetahjónum landsins t.d. Múrinn var reistur árið 1961 til að koma í veg fyrir fólksflótta frá A-Þýskalandi til V-Berlínar og varð hann á þeim 28 árum sem hann stóð ein af allra helstu táknmyndum kalda stríðsins. Á þessum 28 árum og í kalda stríðinu voru rúmlega 1.000 A-Þjóðverjar drepnir á flótta til vesturs. 9. nóvember verður í sögubókunum ávallt dagur sem markar bæði sigur frelsis og lýðræðis í heiminum. Endalok Berlínarmúrsins markaði alheimsþáttaskil, fáum hefði órað fyrir að fall hans yrði með jafnrólegum hætti og raun bar vitni. Fólkið vann sigur gegn einræðisherrum og einræði með eftirminnilegum hætti þennan dag. Ég gleymi aldrei þessum degi og þáttaskilunum. Ég var 12 ára þegar þessi þáttaskil urðu. Svipmyndirnar af almenningi hamrandi með sleggjum og hömrum á múrnum gleymast aldrei. Eftirminnilegust er þó myndin af vinnuvélunum fella bita úr múrnum og þegar fólkið gekk yfir. Frelsið hafði náð til hinna þjáðu kommúnistaríkja. Þetta voru að mínu mati hin stærstu þáttaskil endaloka kommúnismans. Einræðið var drepið þetta októberkvöld í Berlín. Slíkt augnablik gleymist að sjálfsögðu aldrei.

Dagurinn í dag
1148 Ari fróði Þorgilsson sagnaritari, lést, 81 árs - hann ritaði Íslendingabók, merkt sagnfræðirit
1932 Gúttóslagurinn - átök urðu í Reykjavík þegar bæjarstjórnin hélt fund í Góðtemplarahúsinu og fjallaði um lækkun launa í atvinnubótavinnu. Útkoman varð eftirminnilegasta vinnudeila hérlendis
1960 John Fitzgerald Kennedy kjörinn forseti Bandaríkjanna. Hann vann nauman sigur á Richard Nixon varaforseta, einungis munaði 0,2% á þeim en munurinn í kjörmannasamkundunni varð meira afgerandi. Kennedy varð yngsti forseti landsins, aðeins 43 ára, og fyrsti kaþólikkinn sem settist á forsetastól - Kennedy var forseti í rúmlega 1000 daga, hann var myrtur í Texas í nóvember 1963
1988 George H. W. Bush kjörinn forseti Bandaríkjanna - hann vann yfirburðasigur á Michael Dukakis ríkisstjóra í Massachusetts. Bush hafði verið varaforseti Ronald Reagan í 8 ár. Bush varð fyrsti varaforseti landsins frá 1836 til að vinna forsetakosningar í Bandaríkjunum. Hann leiddi Bandamenn í gegnum Persaflóastríðið árið 1991. Bush forseti, tapaði í forsetakosningunum árið 1992, fyrir Bill Clinton. Sonur Bush forseta, George Walker Bush yngri, var kjörinn forseti Bandaríkjanna árið 2000
1989 Berlínarmúrinn fellur - stjórnvöld í A-Þýskalandi leyfa íbúum landsins að ferðast yfir til V-Þýskalands í fyrsta skipti í þau 28 ár sem múrinn hafði staðið. Þessi ákvörðun táknaði endalok múrsins og almenningur fór með sleggjur og hamra og byrjuðu að brjóta múrinn niður. Síðar var komið með stórvirkar vinnuvélar og múrinn, sem haldið hafði íbúum A-Þýskalands í gíslingu og örbirgð í fjölda ára, var loksins felldur. Atburðarásin leiddi til þess að A- og V-Þýskaland voru sameinuð 1990

Snjallyrði dagsins
There's already speculation that Hillary Clinton will be the nominee for the Democrats in 2008. Well, you have to admire the dedication of the Democratic party. They just lost an election, and they're already hard at work planning to lose the next one.

Al Gore is very sorry he didn't run. He was watching Kerry Wednesday night, and he said: That could have been my concession speech!
Bill Maher grínisti

Engin fyrirsögn

RáðhúsiðHeitast í umræðunni
Örlög Þórólfs Árnasonar borgarstjóra, munu að öllum líkindum ráðast á næstu dögum. Fyrir liggur að afstaða vinstri grænna hefur ekkert breyst eftir vörn borgarstjórans í fjölmiðlum seinustu daga. Sömu staðreyndir og áður lágu fyrir eru enn í fullu gildi, afsakanir Þórólfs hafa engu breytt nema sýna enn betur fram á vandræðaganginn í málflutningi hans og hvað varðar það ráðleysi sem einkennir forystu borgarstjórnarmeirihlutans sem enga stjórn hefur á sínum innri málum, hvað þá hefur lengur heildarsýn yfir borgarmálin. Allur tími borgarfulltrúanna þessa dagana fer í það að leita að eftirmanni Þórólfs eða semja sín á milli um næstu skref og hvernig reyna eigi með góðu að losa sig við hann. Vandinn felst í því að engin samstaða er um eftirmann né næstu skref. Þess vegna og aðeins á þeim forsendum situr Þórólfur enn sem borgarstjóri. Taka verður þó brátt af skarið. Sýnt er að vinstri grænir hafa félagsfund annað kvöld þar sem afstaða þeirra kemur endanlega fram. Um helgina hafa Halldór Ásgrímsson forsætisráðherra, og tveir þingmenn Samfylkingarinnar, Guðmundur Árni Stefánsson og Mörður Árnason, lýst yfir stuðningi við Þórólf. Í viðtali við fréttamann Sjónvarps talaði Mörður um að rétt væri að fyrirgefa borgarstjóranum hans þátt. Ber að skilja orð hans þannig að það eigi að fyrirgefa öllum þeim sem komu að samráðinu, eða bara sumum, það er að segja þeim sem sitja í nafni Samfylkingarinnar á valdastólum? Það er hlægilegt að fylgjast með ummælum Marðar og siðferðinu á Samfylkingarbænum. Ef sjálfstæðismaður hefði verið borgarstjóri og málið allt annars með sama brag, haldið þið þá að Mörður Árnason hefði komið í sjónvarp til að hvetja fólk til að fyrirgefa honum? Ekki er það líklegt. Hverslags siðferði er í Samfylkingunni spyr maður bara. Þetta er ótrúlegur tvískinnungur í Samfylkingunni. Við erum að tala um að borgarstjórinn í Reykjavík hafi verið beinn þátttakandi í einu stærsta fjársvikamáli sem átt hefur sér stað hérlendis. Sannar þetta mál og siðleysi þingmanna flokksins að þeir sem hrópa hæst um bætt siðferði á ýmsum stöðum, er greinilega alveg sama um siðferðið á eigin slóðum. Ekki er þetta trúverðugt. Samfylkingin afhjúpar sig með ummælum þessara þingmanna sinna. Málið á greinilega að humma fram af sér vegna þess að það tengist flokknum og fulltrúa hans á borgarstjórastóli. Þvílíkur aumingjaskapur.

OlíufélöginMikil umræða hefur verið um stöðu olíufélaganna og stjórnun þeirra allt frá því að skýrsla Samkeppnisstofnunar var kynnt fyrir rúmri viku. Er enginn vafi á því að mikil reiði er í samfélaginu almennt vegna málsins, enda afhjúpast í skýrslunni víðtæk og ótrúleg vinnubrögð af hálfu olíufélaganna um að taka vísvitandi þátt í samsæri gegn almenningi: samsæri sem var til þess að halda uppi bensínverði, ólöglegum vinnubrögðum samkvæmt samkeppnislögum. Nú hafa öll olíufélögin sem fjallað er um í skýrslunni, sent frá sér afsökunarbeiðni vegna samráðsins, hvert með sínum hætti þó. OLÍS varð fyrst til að senda frá sér yfirlýsingu seinnipartinn í gær og voru landsmenn í henni beðnir afsökunar á því sem miður hafi farið í starfsemi félagsins. Í yfirlýsingunni gerir félagið um leið alvarlegar athugasemdir við vinnubrögð Samkeppnisstofnunar og sakar starfsmenn stofnunarinnar um að þeir dragi vísvitandi rangar ályktanir. Afsökunarbeiðnin er því undarleg og á sama tíma ásakanir til þeirra sem uppljóstruðu um glæpinn sem um ræðir. Er ekki annað hægt að segja en að þessi afsökunarbeiðni líti því illa út. Olíufélagið birtir í morgun svo heilsíðuauglýsingu í dagblöðunum með afsökunarbeiðni og er annar tónn þar, engar ásakanir í aðrar áttir. Brosandi starfsfólk ESSO er þar áberandi og fyrirsögnin: Ný sjónarmið, til marks um breyttar áherslur. Í morgun sendi síðan Skeljungur frá sér yfirlýsingu þar sem bæði viðskiptavinir og starfsfólk Skeljungs eru beðin afsökunar á því sem miður fór vegna samráðsins. Segir þar að starfshættir fortíðarinnar heyri sögunni til. Það er því greinilegt að fyrirtækin eru að reyna að klóra í bakkann og fegra ímynd sína. Eftir stendur að þessi fyrirtæki eru rúin öllu trausti og eiga erfitt verkefni framundan við að reyna að hysja upp um sig buxurnar eftir þá glæpi gegn neytendum sem þau gerðust sek um.

AkureyriNiðurstöður íbúaþings á Akureyri
Eins og ég hef oft sagt frá hér á vefnum var haldið fjölmennt íbúaþing laugardaginn 18. september sl, undir heitinu Akureyri í öndvegi. Nú hafa niðurstöður þingsins verið birtar í ítarlegri greinargerð. Margt athyglisvert má lesa þar, meðal annars kemur þetta fram í ágripi helstu niðurstaðna: "Á þinginu kom glöggt fram að Akureyringum rennur til rifja hve mjög miðbænum hefur hnignað á undanförnum árum. Verslunum hefur fækkað og almennt þykir miðbærinn fremur óaðlaðandi, skuggsæll og vindasamur. Sú skoðun var ríkjandi að þessari þróun mætti snúa við með því að fjölga íbúðum í miðbænum og hafa þar matvöruverslun auk þess að gera hann grænni, skjólmeiri og litríkari. Þannig myndi þjónusta og mannlíf eflast og autt verslunar- og þjónustuhúsnæði fyllast á ný. Undanfarið hefur nokkur umræða spunnist á Akureyri um byggingu háhýsa. Á þinginu voru skiptar skoðanir um ásættanlega hæð húsa en þó voru þeir töluvert fleiri sem töldu rétt að fara varlega í það að raska einstakri bæjarmynd Akureyrar með miklu hærri húsum en þeim sem fyrir eru. Ljóst er að Akureyringar telja Oddeyrartanga fýsilegan kost fyrir bryggjuhverfi. Þannig myndi Strandgatan tengjast miðbænum frekar, ekki síst eftir að fyrirhugað Menningarhús verður risið." Ég hvet alla til að kynna sér tillögurnar sem koma fram á vef íbúaþingsins. Er greinilegt að þessi dagur í Íþróttahöllinni var mjög gagnlegur og tillögurnar koma vel að gagni er miðbærinn okkar verður mótaður til framtíðar.

Dagurinn í dag
1864 Abraham Lincoln endurkjörinn forseti Bandaríkjanna - hann var myrtur 15. apríl 1865
1987 Ólafur Ragnar Grímsson kjörinn formaður Alþýðubandalagsins - hann sigraði Sigrúnu Stefánsdóttur í formannskjöri. Hann hlaut 60% atkvæða í kosningunni. Ólafur var fjármálaráðherra 1988-1991. Hann var formaður Alþýðubandalagsins í 8 ár og varð svo forseti Íslands, árið 1996
1990 Mary Robinson kjörin forseti Írlands, fyrst kvenna - Robinson sat á forsetastóli til ársins 1997
2000 George W. Bush kjörinn forseti Bandaríkjanna - deilt var um sigur hans, enda munaði litlu á honum og keppinaut hans, Al Gore, í Flórída fylki. Gore óskaði Bush til hamingju með sigur en dró það til baka þegar ljóst varð hversu naumt var á milli þeirra í fylkinu. Munaði aðeins nokkur hundruð atkvæðum að lokum. Ljóst var orðið að sigurvegari fylkisins yrði forseti. Það naumt varð að úrslit fengust ekki strax og handtelja varð atkvæði í nokkrum sýslum fylkisins. Leiddi það til dómsmála til að fá fleiri atkvæði endurtalin. Að lokum fór svo að Hæstiréttur Bandaríkjanna staðfesti sigur forsetans í fylkinu og Gore viðurkenndi ósigur sinn um miðjan desember, 36 dögum eftir kjörið
2002 Öryggisráð Sameinuðu þjóðanna, samþykkir ályktun 1441, þess efnis að afvopna verði Írak og Saddam Hussein forseta landsins - ályktunin leiddi svo til þess að ráðist var inn í Írak í mars 2003

Snjallyrði dagsins
Þegar ég var ráðinn sem borgarstjóri, þá vissi ég ekkert um þetta samráð. Þó að ég hafi starfað að samráðinu, þá er nú ekki þar með sagt að ég hafi vitað af því. Sjáðu til, þetta var bara mín vinna og það er ekki það sama og starf. Þó maður vinni við eitthvað er ekki þar með sagt að maður viti við hvað maður starfar.
Sigurður Sigurjónsson leikari (í hlutverki borgarstjóra í bráðfyndnum þætti á laugardag)

Engin fyrirsögn

Stefán Friðrik StefánssonSunnudagspistillinn
Að þessu sinni fjalla ég um stöðu mála í borgarstjórn Reykjavíkur, nú þegar blasir við að Þórólfur Árnason borgarstjóri, riðar til falls pólitískt og berst af krafti fyrir starfi sínu í ljósi þess að ekki er lengur full eining um störf hans innan R-listans. Er ljóst í ljósi atburðarásarinnar í vikunni að úrslitastund málsins er framundan og uppgjör í sjónmáli vegna stöðu borgarstjórans. Ennfremur fjalla ég um skoðanakönnun um fylgi flokkanna í bæjarmálunum á Akureyri og fer yfir niðurstöður hennar og hvað könnunin segir til um stöðu meirihlutans og flokksins hér í bænum. Fylgi flokka í könnuninni var með þessum hætti: Sjálfstæðisflokkur hefur 32%, Framsóknarflokkur nýtur stuðnings 26,4%, Vinstrihreyfingin - grænt framboð hefur 16,8%, Samfylkingin er með 13,7% og Listi fólksins 11,2%. Eru þessar niðurstöður mjög athyglisverðar. Skv. þessu fengi Sjálfstæðisflokkurinn 4 fulltrúa kjörna, Framsóknarflokkur hefur 3, vinstri grænir 2 og Listi fólksins og Samfylking eru með 1. Eina breytingin frá sveitarstjórnarkosningunum 2002 er að Listi fólksins missir annan af bæjarfulltrúum sínum til vinstri grænna. Sjálfstæðisflokkur og Framsóknarflokkur, sem mynda meirihluta bæjarstjórnar, myndu samkvæmt þessu halda fulltrúafjölda sínum, 7 talsins, og meirihlutinn virðist öruggur í sessi. Í heild er þessi könnun góð fyrir meirihlutann og ljóst að hann stendur sem heild mjög vel. Sjálfstæðisflokkurinn fékk í kosningunum 2002, 35,8% atkvæða. Könnunin sýnir því örlítið minna fylgi en þá. Þessi könnun eflir okkur sjálfstæðismenn í bænum til að hefja sem fyrst undirbúning fyrir næstu kosningar. Þessi könnun veitir öllum sjálfstæðismönnum hér í bænum mikil sóknarfæri og sýnir okkur hvert eigi að stefna í næstu bæjarstjórnarkosningum og á hvaða hóp bæjarbúa er mikilvægast að leita til í því markmiði að kynna verk flokksins og stefna á sem markhóp fyrir næstu kosningar í starfi okkar. Ég mun vinna af krafti til að verja stöðu flokksins hér í næstu kosningum og stefni á að taka virkan þátt í þeirri kosningabaráttu.

Dagurinn í dag
1550 Jón Arason, síðasti kaþólski biskupinn á Hólum í Hjaltadal, og synir hans, Björn og Ari, voru hálshöggnir í Skálholti. Í kjölfarið var lúterstrú lögtekin á Hólum og kaþólsk trú var afnumin að fullu
1956 Dwight D. Eisenhower endurkjörinn forseti Bandaríkjanna - hann hlaut 58% atkvæða, sem var mesti sigur frambjóðanda í forsetakjöri í Bandaríkjunum frá kosningasigri Abraham Lincoln árið 1860. Adlai Stevenson ríkisstjóri í Illinois, var keppinautur Eisenhowers um forsetaembættið, líkt og 1952
1972 Richard Nixon endurkjörinn forseti Bandaríkjanna - hann vann yfirburðasigur á George McGovern. Nixon vann mesta sigur sem náðst hafði í sögu forsetakjörs í Bandaríkjunum fram að því, hann hlaut 61% atkvæða og 521 kjörmann af 538. McGovern tókst aðeins að vinna í tveim fylkjum
1984 Ronald Reagan endurkjörinn forseti Bandaríkjanna - hann sigraði Walter Mondale með yfirgnæfandi hætti. Reagan hlaut rúm 59% greiddra atkvæða og hlaut 525 kjörmenn af alls 538
2000 Hillary Rodham Clinton verður fyrsta forsetafrú í sögu Bandaríkjanna sem kosin er í opinbert embætti, hún náði þá kjöri sem öldungardeildarþingmaður New York-fylkis - Hillary var bæði þingmaður og forsetafrú í 17 daga, eða allt þar til eiginmaður hennar, Bill Clinton, lét af embætti

Snjallyrði dagsins
The rumor is that Hillary Clinton is running for president in 2008. And here's why people think that: Today she was in Ohio duck hunting. She even bought a camouflage pantsuit.
David Letterman spjallþáttastjórnandi

Engin fyrirsögn

George W. Bush forseti BandaríkjannaBush endurkjörinn - demókratar í sárum
Úrslit liggja nú formlega fyrir í bandarísku forsetakosningunum. Öll fylki landsins hafa sent frá sér staðfest úrslit atkvæða sem greidd voru á kjördag og endanlegar niðurstöður varðandi kjörmenn fylkjanna. Undir lokin voru aðeins Iowa og Nýja Mexíkó með óstaðfest heildarúrslit hvað varðar hvert kjörmenn þeirra færu. Niðurstöðurnar höfðu engin úrslitaáhrif á heildarúrslit kosninganna, enda hafði George W. Bush forseti Bandaríkjanna, tryggt sér forsetaembættið með sigrinum í Ohio. Forsetinn vann sigur í báðum fylkjunum og hefur hann því hlotið 286 kjörmenn, en John Kerry hlaut 252 kjörmenn. Kjörmannasamkundan mun koma saman í Washington þann 13. desember nk. og kjósa þar formlega forsetann áfram til setu í forsetaembættinu. Þegar talin hafa verið öll atkvæði á kjörfundi á þriðjudag hefur forsetinn hlotið 59.459.765 atkvæði eða 51%. Kerry hefur hinsvegar hlotið 55.949.407 atkvæði eða 48%. Er ekki hægt að segja annað en að sigur Bush sé glæsilegur, mun meira afgerandi en seinustu skoðanakannanir fyrir kjördag höfðu gefið til kynna. Hann er sá forseti í sögu Bandaríkjanna sem hefur hlotið flest atkvæði í forsetakosningum og 16 ár eru liðin síðan það gerðist síðast að forseti hlyti meira en helming greidda atkvæða. Jafnframt hefur það ekki gerst í rúm 70 ár að flokkur sitjandi forseta auki meirihluta sinn í báðum þingdeildum samhliða forsetakjöri. Sigur forsetans er því sögulegur, enda eru andstæðingar hans enn að sleikja sárin og sitja eftir með sárt ennið eftir þá útreið sem þeir fengu á þriðjudag. Mesta áfall demókrata fyrir utan að Kerry tókst ekki að fella forsetann af valdastóli var það að missa Tom Daschle leiðtoga flokksins í öldungadeildinni, af þingi. Fyrir liggur nú að eftirmaður hans á þeim stóli verði Harry Reid, sem var kjörinn á þriðjudag fjórða sinni sem öldungadeildarþingmaður fyrir Nevada-fylki. Nancy Pelosi verður áfram leiðtogi flokksins í fulltrúadeildinni. Hafa þau bæði leitað eftir samstarfi við forsetann í málefnum komandi ára. Við blasir að demókratar þurfa að byggja sig upp frá grunni, forystulega sem hugsjónalega séð í starfi sínu fyrir þingkosningar 2006 og svo forsetakjör 2008, til að eiga einhvern hinn minnsta möguleika á að ná einhverjum áhrifum í bandarískum stjórnmálum. Verður spennandi að fylgjast með bandarískri pólitík næstu fjögurra ára, á seinna kjörtímabili Bush forseta, og hvernig honum muni höndlast stjórn landsins eftir að hafa hlotið svo afgerandi umboð til áframhaldandi verka, sem úrslitin á þriðjudag voru fyrir hann.

Dr. Shirin EbadiDr. Shirin Ebadi heiðruð á ráðstefnu á Akureyri
Íranski mannréttindafrömuðurinn og nóbelsverðlaunahafinn dr. Shirin Ebadi tók í morgun við heiðursdoktorsnafnbót félagsvísinda- og lagadeildar Háskólans á Akureyri í upphafi ráðstefnu deildarinnar um mannréttindamál. Hún hófst klukkan 10 með því að Þorsteinn Gunnarsson rektor, flutti ávarp og setti ráðstefnuna formlega. Kristján Þór Júlíusson bæjarstjóri, flutti stutt ávarp að því loknu. Karlakór Akureyrar Geysir söng nokkur lög við upphaf ráðstefnunnar af sinni alkunnu snilld. Kl. 10:30 afhenti Mikael M. Karlsson forseti félagsvísinda- og lagadeildar Háskólans, dr. Shirin Ebadi handhafa friðarverðlauna Nóbels, heiðursdoktorsnafnbót fyrir hönd deildarinnar og skólans. Mannréttindalögfræðingurinn Shirin Ebadi hlaut friðarverðlaun Nóbels í fyrra fyrir þrotlausa baráttu sína fyrir mannréttindum í heimalandi sínu, Íran. Shirin er fædd í Íran 1947. Hún lauk lagaprófi frá Háskólanum í Tehran og var í hópi brautryðjanda úr röðum kvenna í dómarastétt. Hún var forseti borgardóms í Teheran 1975-1979 en eftir byltinguna í byrjun ársins 1979 var hún neydd til að segja af sér. Hún er löngu þekkt sem lögmaður og verjandi baráttufólks fyrir mannréttindum í Íran. Shirin Ebadi er talsmaður fyrir hófsöm sjónarmið í trúmálum og fylgir íslamskri endurskoðunarstefnu sem hún telur að geti vel átt samleið með mannréttindum og lýðræði. Hún er sérstakur talsmaður mannréttinda flóttafólks, kvenna og barna. Flutti hún gott ávarp við upphaf ráðstefnunnar og fór yfir mannréttindi kvenna og gildi þeirra í nútímasamfélagi í M-Austurlöndum. Var erindi hennar mjög fróðlegt og gott. Að því loknu hófst almenn dagskrá ráðstefnunnar. Guðmundur Alfreðsson forstöðumaður Mannréttindastofnunar Raouls Wallenberg í Lundi, talaði um fræðslu mannréttindamála, Margrét Heinreksdóttir lektor í lögfræði og þróunarfræðum við Háskólann á Akureyri, flutti erindi um mannréttindi kvenna í Kósóvó. Guðrún Guðmundsdóttir framkvæmdastjóri Mannréttindaskrifstofu Íslands, flutti erindi um viðskipti og mannréttindi. Að loknu matarhléi flutti Rachael Lorna Johnstone lektor í lögfræði við Háskólann á Akureyri, athyglisvert erindi um áhrif femínista á Sameinuðu þjóðirnar. Björg Thorarensen lagaprófessor, flutti erindi um mannréttindi og aðgerðir SÞ gegn hryðjuverkum. Garrett Barden prófessor emeritus frá Írska ríkisháskólanum í Cork um mannréttindi kynþátta. Þórdís Ingadóttir lögfræðingur hjá dómsmálaráðuneytinu um alþjóðlega glæpadómsstóla. Í lok ráðstefnunnar flutti Þór Vilhjálmsson fyrrum forseti Hæstaréttar og varaforseti Mannréttindadómstóls Evrópu, lokaorð. Ráðstefnan var mjög gagnleg og var gaman að sitja hana og fræðast um þessi mál.

Dagurinn í dag
1900 William McKinley endurkjörinn forseti Bandaríkjanna - var myrtur 6. sept. 1901 í New York
1968 Richard Nixon kjörinn forseti Bandaríkjanna - náði naumum sigri gegn Hubert Humphrey
1983 Þorsteinn Pálsson kjörinn formaður Sjálfstæðisflokksins í stað Geirs Hallgrímssonar sem gaf ekki kost á sér til endurkjörs. Þorsteinn var formaður flokksins í rúm sjö ár, tapaði fyrir Davíð Oddssyni í formannskjöri 1991. Var fjármálaráðherra 1985-1987, forsætisráðherra 1987-1988 og sjávarútvegs- og dómsmálaráðherra 1991-1999. Þorsteinn varð sendiherra í lok ferils síns árið 1999
1996 Bill Clinton endurkjörinn forseti Bandaríkjanna - sigraði Bob Dole með mjög afgerandi hætti
1999 Ástralir ákveða í kosningu að hafna sjálfstæði og vera áfram í konungssambandi við Bretland

Snjallyrði dagsins
Bush is sweeping through the South like a big wheel through a cotton field.
Dan Rather fréttastjóri CBS (sagt í kosningavöku CBS)

Engin fyrirsögn

Yasser ArafatHeitast í umræðunni
Heilsu Yasser Arafat forseta Palestínu, hefur hrakað mjög undanfarna daga, en vika er í dag liðin frá því að hann var fluttur frá Ramallah til Parísar á sjúkrahús til aðhlynningar. Fyrst eftir komu hans til Parísar var sá orðrómur á kreiki að heilsa hans hefði batnað og hann væri á öruggum batavegi. Sú mynd af stöðu mála virðist hafa verið tálsýn ein, enda blasir nú við að Arafat er haldinn ólæknanlegum blóðsjúkdómi og er fallinn í dauðadá á hersjúkrahúsinu í Clamart. Ísraelskir fjölmiðlar tilkynntu seinnipartinn í gær að Arafat væri í raun látinn og hefði verið úrskurðaður heiladauður á sjúkrahúsinu eftir að hafa sífellt hrakað allan daginn. Yfirlýsingin var dregin til baka af yfirlækni sjúkrahússins. Þó er ljóst að Arafat er nú læknisfræðilega séð látinn, nú snemma að morgni föstudags er sagt að honum sé haldið á lífi með öndunarvélum, skv. því sem Christiane Amanpour segir í fréttaskýringum sínum á vef CNN. Leila Shahid talsmaður leiðtogans, hefur vísað því algjörlega á bug að Arafat sé heiladauður og segir ástandið ekki vonlaust. Fáir leggja þó trúnað á það mat. Virðist nú það eitt standa í vegi þess að Arafat verði úrskurðaður látinn á sjúkrahúsinu að ákvörðun liggi fyrir um hvar hann verði jarðsettur. Fjölskylda Arafats og nánustu samstarfsmenn hans leggja mikla áherslu á að fyrst svona sé komið málum, verði efnd hinsta ósk Arafats um að hann verði grafinn í Jerúsalem þar sem hann sagði alla tíð að hann væri fæddur. Ríkisstjórn Ísraels hefur þráfaldlega hafnað öllum viræðum eða skoðanaskiptum um slíka tillögu. Ariel Sharon forsætisráðherra Ísraels, hefur þó samþykkt að þegar Arafat deyji verði leyft að jarða hann á Gaza-svæðinu, þá í grafreit Khan Younis flóttamannabúðanna. Þar hvíla faðir forsetans og fleiri forystumenn Palestínumanna. Skv. almennum sið múslíma skal jarðarför fara fram innan sólarhrings frá formlegu andláti og því geta læknar ekki úrskurðað leiðtogann látinn fyrr en ljóst verður hvar hann verður grafinn. Meðan þetta ástand stendur verður honum haldið á lífi. Arafat er 75 ára gamall, hann hefur verið pólitískur leiðtogi Palestínumanna í rúmlega 40 ár. Hann varð einn af forystumönnum Fatah árið 1964 og hefur setið sem leiðtogi PLO frá 1969 og leitt baráttu landsins fyrir sjálfstæði sínu. Hann var kjörinn forseti landsins fyrir áratug og hlaut friðarverðlaun Nóbels árið 1994 ásamt Yitzhak Rabin þáv. forsætisráðherra Ísraels, og Shimon Peres þáv. utanríkisráðherra Ísraels, vegna hins sögulega Oslóar-friðarsamnings 1993, sem batt tímabundið enda á átök ríkjanna. Í dag eru 9 ár liðin frá því að Rabin lést á sjúkrahúsi í Tel Aviv. Valdabaráttan er greinilega hafin af fullum krafti á bakvið tjöldin í Palestínu, nú þegar örlög Arafats virðast ráðin.

RáðhúsiðÞórólfur Árnason borgarstjóri, berst nú fyrir pólitískri framtíð sinni og starfinu. Ekki verður annað sagt en að sú barátta sé frekar vonlaus en hann berst á hæl og hnakka. Hann var í gærkvöldi gestur dægurmálaspjallþáttanna Kastljós og Ísland í dag og svaraði þar fyrir aðkomu sína að ólöglegu samráði olíufélaganna sem birtist landsmönnum með afgerandi hætti í skýrslu Samkeppnisstofnunar. Borgarstjórinn mætti fyrst í þriggja gráðu yfirheyrslu á Stöð 2 þar sem Jóhanna Vilhjálmsdóttir og Þórhallur Gunnarsson voru vel undirbúin og beindu mjög harkalegum spurningum að honum og voru óvægin í umfjöllun sinni. Mikla athygli vakti þegar borgarstjórinn, augljóslega undir miklu álagi, réðst að Jóhönnu og vændi hana um að ganga erinda föður síns, Vilhjálms Þ. Vilhjálmssonar borgarfulltrúa. Er athyglisvert að þetta komi frá einum af nánustu samverkamönnum forseta Íslands, sem fordæmdi suma fyrir að blanda börnum sínum í umræðuna um mál sín. Var þetta útspil borgarstjórans frekar aumingjalegt. Hann lék sama leikinn í Kastljósi og sagðist hafa tekið þátt í samráðinu en ekki haft dug og þor til að ganga út og víkja af þessari braut. Þessar afsakanir borgarstjórans eru frekar lítt sannfærandi og breyta engu í pólitískri stöðu hans, enda eru vinstri grænir í borginni staðráðnir í því að borgarstjórinn verði að fara frá. Hann nýtur ekki lengur meirihlutastuðnings í borgarstjórn. Örlög hans eru því ráðin. Á fundi R-listans á miðvikudagskvöld lá fyrir tillaga um að segja Þórólfi upp störfum og skipa Dag B. Eggertsson sem borgarstjóra. Þórólfur neitaði þar að segja af sér sjálfviljugur og fékk þann frest sem við blasir til að tjá sig um málin. Enginn vafi leikur þó á að borgarstjóraferli hans lýkur eftir helgina. Leit að eftirmanni stendur á fullum krafti, ekki er víst hvort samstaða verði um Dag. Ljóst er þó að vinstri grænir vilja klára málið á þriðjudagskvöld á fundi sínum. Liggi ekki niðurstaða þá fyrir muni samstarfinu slitið og leitað eftir samstarfi við sjálfstæðismenn. R-listinn logar því stafna á milli: borgarstjórinn er pólitískt búinn að vera en vill ekki fara sjálfviljugur frá, fólk treystir honum ekki lengur að fullu og farið að leita að eftirmanni. Á meðan er borgin eins og forystulaust rekald. Allt er í kaldakoli í forystumálum hennar, eins og blasir nú við. Hversu lengi veitir pólitísk forysta R-listans, Þórólfi Árnasyni, gálgafrest?

George W. Bush forseti BandaríkjannaGeorge W. Bush forseti Bandaríkjanna, hélt í gær sinn fyrsta blaðamannafund eftir að hann var endurkjörinn til setu á forsetastóli næsta kjörtímabilið. Fór hann þar yfir ýmis mál sem mikilvægt er að ræða. Jafnframt stjórnaði hann í gær sínum fyrsta ríkisstjórnarfundi í þrjá mánuði, en hann hefur seinustu vikur verið á ferð og flugi um landið vegna kosningabaráttunnar. Nú þegar hún er að baki getur hann loks einbeitt sér að störfum sínum í Washington DC. Umræða er þegar hafin um væntanlega ráðherra í nýrri stjórn forsetans eftir embættistökuna þann 20. janúar nk. Blasir við að John Ashcroft dómsmálaráðherra, Colin Powell utanríkisráðherra og Donald Rumsfeld varnarmálaráðherra, muni víkja úr ríkisstjórn og forsetinn takist nú á hendur það verkefni að velja eftirmenn þeirra á næstu dögum og vikum. Eftir blaðamannafundinn héldu forsetahjónin ásamt dætrum sínum, varaforsetahjónunum og foreldrum forsetans í langt helgarleyfi í Camp David, sumarbústað forsetaembættisins, í Maryland, til að ræða þessi mál og jafnframt slappa af eftir erfiða kosningabaráttu seinustu mánaða. Forsetahjónin vilja hvíla sig eftir erli baráttunnar og einkum vill forsetinn taka ákvörðun um málin í Camp David og hafa þar nánustu ráðgjafa með sér til að fara yfir stöðuna. Er líklegt að fyrir liggi fljótlega hverjir verði lykilráðherrar í stjórn forsetans á næsta kjörtímabili. Fyrir liggur að Condoleezza Rice taki við stóru ráðuneyti og mörg fleiri nöfn eru í umræðunni. Fyrir liggur einnig að áhrif forsetans verða mikil hvað varðar hæstarétt. Bendir allt til þess að hann muni skipa a.m.k. 2 dómara við réttinn á komandi kjörtímabili og ennfremur forseta við réttinn en fyrirsjáanlegt er að William Rehnquist forseti réttarins, láti af störfum innan skamms, enda kominn á níræðisaldur og hefur nýlega greinst með krabbamein. Hann hefur setið í réttinum frá 1972 og verið forseti hans frá 1986. Aðeins einn dómaranna, Clarence Thomas, er t.d. undir 65 ára aldri. Er almennt talið líklegt að hann verði forseti réttarins, fyrstur blökkumanna. Það er því margt spennandi framundan í bandarískri pólitík, þó kosningabaráttan sé að baki.

Úrslit forsetakosninganna 2004 - pistill SFS
Úrslit forsetakosninganna 2004 í máli og myndum

Dagurinn í dag
1848 Þjóðólfur, stjórnmála- og fréttablað, kom út fyrsta sinni - það kom út allt til ársloka árið 1911
1952 Dwight D. Eisenhower kjörinn forseti Bandaríkjanna - náði stórsigri gegn Adlai Stevenson
1992 Alþingi Íslendinga felldi tillögu um að efnt yrði til þjóðaratkvæðagreiðslu um aðild Íslands að Evrópska efnahagssvæðinu. Daginn áður voru Salome Þorkelsdóttur forseta þingsins, afhentar undirskriftir 34.378 kjósenda sem kröfðust þjóðaratkvæðis - forseti Íslands staðfesti samninginn
1994 Ronald Reagan fyrrum forseti Bandaríkjanna, tilkynnir opinberlega að hann hafi greinst með Alzheimer sjúkdóminn. Var þetta seinasta yfirlýsing hans og hann kom ekki oftar fram opinberlega. Reagan forseti, lést 5. júní 2004 og var kvaddur hinstu kveðju við viðhafnarútför í Washington DC.
1996 Skeiðarárhlaup hófst - var mesta hlaupið á 20. öld. Há flóðbylgja fór yfir Skeiðarársand með miklum jakaburði. Brúin yfir Gígjukvísl hvarf í vatnsflauminn og litlu munaði að Skeiðarárbrú færi öll

Snjallyrði dagsins
Do you hear that knocking...President Bush's re-election is at the door.
Dan Rather fréttastjóri CBS (sagt á kosningavöku CBS þegar Bush hafði hlotið 249 kjörmenn)

Engin fyrirsögn

George Walker Bush og Laura Welch Bush fagna sigri í forsetakosningunumBush forseti fagnar sigri - Kerry játar sig sigraðan
George W. Bush forseti Bandaríkjanna, ávarpaði bandarísku þjóðina í gærkvöldi og lýsti formlega yfir sigri í forsetakosningunum 2004, við mikinn fögnuð stuðningsmanna sinna sem fjölmenntu í sigurhátíð hans sem haldin var í Ronald Reagan-byggingunni í Washington. Áður en hann tók til máls ávarpaði Dick Cheney varaforseti, mannfjöldann og þakkaði þeim og öllum þeim sem hefðu stutt framboð þeirra fyrir stuðninginn og samfylgdina í gegnum kosningabaráttu seinustu mánaða. Sigurinn væri þeirra og það væri verkefni hans og forsetans að vinna af krafti fyrir alla landsmenn á komandi kjörtímabili. Forsetinn tók að því loknu til máls og var hylltur af mannfjöldanum. Hann sagði að sigurinn hefði verið sögulegur og það væri sér mikið ánægjuefni að landsmenn hefðu falið sér og flokki sínum umboð til áframhaldandi verka með svo kraftmiklum hætti sem kæmu fram í úrslitum til þing- og forsetakosninga. Forsetinn þakkaði John Kerry öldungadeildarþingmanni og forsetaframbjóðanda Demókrataflokksins, fyrir drengilega og góða baráttu seinustu mánuða, og sagði að stuðningsmenn hans gætu verið stoltir af starfi sínu og árangri. Hann þakkaði fjölskyldu sinni, eiginkonu sinni: Lauru Welch Bush, dætrunum Barböru og Jennu og foreldrum sínum, Barböru Pierce Bush og George H. W. Bush 41. forseta Bandaríkjanna, fyrir stuðning þeirra og ástúð. Að lokum færði hann Dick Cheney varaforseta, og fjölskyldu hans, auk alls stuðningsliðs og þeirra sem hefðu stutt sig, fyrir starfið í kosningabaráttunni og tryggðina í gegnum átökin tengd kosningunum. Sagði hann að Bandaríkjamenn hefðu kveðið upp sinn dóm og nú tæki við að vinna úr því sem kosningaúrslitin hefðu fært sér. Sagði hann að þjóð hefði ávallt varið sig og varið frelsi mannkyns. Hann væri í senn bæði stoltur af því leiða hana og vera falin sú ábyrgð af landsmönnum með kosningasigrinum. Bush forseti, sagði að tímabil vonar væri framundan fyrir alla heimsbyggðina, barist yrði af krafti gegn hryðjuverkum og glæpamönnum tengdum hryðjuverkasamtökum. Að lokum talaði forsetinn til þeirra sem kusu sig ekki og sagði mikilvægt að horfa fram á veginn, hann sagðist þurfa á stuðningi þeirra að halda og að hann myndi reyna allt til að vinna fyrir honum. Úrslit forsetakosninganna nú eru sérstaklega mikið ánægjuefni fyrir forsetann, því nú vinnur hann bæði kjörmannakosninguna og fær flest atkvæði og það rúmlega helming atkvæða. Er því um mikilvægan sálfræðilegan sigur að ræða fyrir forsetann og nánustu samstarfsmenn hans, sem geta nú einbeitt sér að næsta kjörtímabili og verkefnum sem framundan eru. Næsta verkefni forsetans verður að velja ráðherra í ríkisstjórn sína.

Sigurræða George Walker Bush forseta Bandaríkjanna
Helstu brot úr ræðum George Walker Bush og John Kerry
George W. Bush tekur við hamingjuóskum frá John Kerry
Forsetinn fagnar sigri - myndir frá kosningahátíðinni í Washington

John Kerry og Teresa Heinz KerryJohn Kerry öldungadeildarþingmaður og forsetaefni Demókrataflokksins, viðurkenndi ósigur sinn í forsetakosningunum í ræðu, sem hann flutti í Fanueil Hall í heimaborg sinni, Boston í Massachusetts í gærkvöldi. Sagði hann að úrslit kosninganna væru með þeim hætti að enginn möguleiki væri lengur á að demókratar ynnu sigur í þeim. Því væri rökrétt og réttast á þessari stundu að hlífa þjóðinni við lagadeilum sem engu myndu skila og gætu heldur ekki breytt kosningaúrslitunum svo neinu nemi. Hann sagðist hafa hringt í forsetann og óskað honum og fjölskyldu hans til hamingju með kosningasigurinn. Það væri nú mikilvægt að snúa bökum saman og vinna að því að efla stöðu Bandaríkjanna og sækja fram til forystu en ekki horfa til baka sundruð. Þjóðin ætti betra skilið en að horfa sundruð fram á veginn. Sagðist Kerry líta svo á að tækifærið væri framundan fyrir hvern þann sem sæti á forsetastóli að sækja fram og leiða þjóðina af krafti, fara yrði af braut klofnings og sundrungar og sameina þjóðina. Hann sagðist vonast til að forsetanum tækist að vinna gagn á næstu fjórum árum. Kerry taldi mikilvægt að óska honum alls hins besta í því stóra og mikla verkefni. Væri það von sín að sárin gætu byrjað að gróa samhliða úrslitunum. Kerry beið með úrslitum forsetakosninganna sinn fyrsta ósigur í tæpa tvo áratugi. Hann hefur setið í öldungadeild Bandaríkjaþings allt frá árinu 1984 fyrir Massachusetts og aldrei tapað í kosningu síðan. Hann sagðist myndu snúa til baka til starfa í þinginu og sitja út kjörtímabil sitt, sem lýkur árið 2008. Sagðist hann þakka þjóðinni fyrir tækifæri lífs síns; að hafa fengið að kynnast henni og högum hennar. Jafnframt væru engin orð til sem gætu þakkað nægilega af sinni hálfu og fjölskyldunnar þann mikla stuðning sem hann hefði notið meðal flokksmanna. Nú tækju ný verkefni við fyrir sig og fjölskyldu sína. Áður en Kerry ávarpaði stuðningsmenn sína í Boston í gær flutti varaforsetaefni hans, John Edwards ræðu og þakkaði Kerry fyrir að hafa valið sig til að vinna þetta verkefni með sér. Miklar tilfinningar voru í salnum þegar ræðan var flutt. Margir felldu tár og voru vonsviknir. Eiginkona Kerrys, sást fella tár og ennfremur dætur frambjóðandans, Vanessa og Alexandra, sem lögðu mikið í baráttuna og fylgdu föður sínum um allt landið. John Kerry var í senn bæði kraftmikill og virðulegur í ræðu sinni. Hann tók ósigrinum með mikilli sæmd og lauk kosningabaráttu sinni með virðingu fyrir þjóðinni að leiðarljósi. Það er virðingarvert hversu mikil reisn er yfir þessum lokum kosningabaráttu hans og flokks hans, mun meiri en var yfir kosningabaráttu Al Gore árið 2000.

Ræða John Kerry öldungadeildarþingmanns
Kerry kveður baráttuna með sæmd - myndir frá Boston

Þórólfur ÁrnasonHeitast í umræðunni
Engum blandast nú orðið hugur um að staða Þórólfs Árnasonar borgarstjóra í Reykjavík, er orðin svo veik að hann mun segja af sér embætti á næstu dögum. Er ljóst að umfang afskipta hans í þeim glæp sem ólöglegt samráð olíufyrirtækjanna er, mun leiða til þess að hann verður að víkja af vettvangi forystu borgarinnar, með einum hætti eða öðrum. Er öllum ljóst sem les skýrslu Samkeppnisstofnunar um olíufélögin að borgarstjórinn tók áberandi þátt í samsæri gegn almenningi, sem leiddi til þess að halda uppi bensínverði, ólöglegum vinnubrögðum samkvæmt samkeppnislögum. Fjallað er um þátt Þórólfs á meira en hundrað stöðum í skýrslunni, en hann starfaði sem markaðsstjóri ESSÓ í tæp fimm ár. Sífellt kemur meira fram í dagsljósið sem staðfestir þátt borgarstjóra í þessu máli, tölvupóstar og fundargerðir eru svo samhljóða í því að staðfesta þátttöku Þórólfs í málinu. Er svo komið að pólitísk forysta R-listans er farin að velja á milli þess að halda í Þórólf og að slíta samstarfinu og stokka málin upp með þeim hætti ella. Forysta vinstri grænna í borginni telur að borgarstjóri hafi ekki komið með fullnægjandi svör um þátttöku sína í málinu. Blasir við að meirihluti borgarstjórnar styður hann ekki lengur til verka. Á fundi með borgarfulltrúum R-listans í gærkvöldi var borgarstjóra gefinn skammur frestur til að færa betri rök fyrir máli sínu og fara betur yfir það. Blasir við að borgarstjóraferli hans ljúki bráðlega. Er þegar farið að tala um mögulega eftirmenn hans. Staðnæmast sumir við nafn Dags B. Eggertssonar læknis og borgarfulltrúa, sem kjörinn var í borgarstjórn sem óháður fulltrúi árið 2002. Er þegar komin fram tillaga um hann sem borgarstjóraefni og blasti lengstan hluta gærdagsins við á borði R-listans að Þórólfur segði af sér embætti í dag og Dagur tæki við embætti 10. nóvember nk. Samstaða gæti myndast um að hann kláraði kjörtímabilið, ef svo má segja. Ekki yrði aftur leitað út fyrir hópinn að borgarstjóraefni. Svo verður ekki í bili, mun Þórólfi verða gefinn lengri tími til að skýra mál sitt, allt fram í næstu viku jafnvel. Langlíklegast er þó að honum verði gert að víkja af borgarfulltrúum R-listans sem telja stöðu mála ekki viðunandi.

RáðhúsiðStaða Þórólfs og þátttaka hans í ólöglegu samráði hefur skaðað meirihlutann í borgarstjórn. Allt frá því hann tók við embætti og blandaðist í þetta mál, glæp gegn almennum borgurum í landinu og sannaðist að hann var þátttakandi í því hefur staða hans sífellt veikst og er nú svo orðið að hans staða er óverjanleg, hann riðar til falls með miklum hraði. Þórólfur er eins og allir vita, ekki kjörinn borgarfulltrúi og hefur ekki skýrt pólitískt umboð samstarfsmanna sinna sem málsvari þeirra. Það var stefna R-listans lengst af, að við stýrið væri sterkur pólitískur forystumaður. Innbyrðis valdabarátta varð þess valdandi að horfið var frá þeirri stefnu í fyrra, enda náðu borgarfulltrúar meirihlutans ekki að sameinast um einn úr sínum hópi, þegar forveri Þórólfs gekk á bak orða sinna og sveik samstarfsmenn sína með eftirminnilegum hætti. R-listinn, valdabandalag þriggja flokka, hefur allt frá aðkomu Þórólfs verið í raun forystulaust rekald. Ljóst var að Ingibjörg skildi við R-listann í sárum, þar hefur ríkt mikill glundroði og ekkert gagnkvæmt traust síðan, á milli fólks. Atburðarásin frá því að fyrrverandi borgarstjóri ákvað að bjóða sig fram til 5. sætis á framboðslista Samfylkingarinnar í Reykjavík, glundroðinn og illindin milli Samfylkingar, Framsóknarflokks og VG og ráðning ópólitísks borgarstjóra (framkvæmdastjóra) án pólitísks umboðs sýndi svo ekki verður um villst, að R-listinn er í raun úr sögunni sem sterkt pólitískt afl. Pólítískur dauðdagi borgarstjórans nýja og hæg aftaka hans sem slíks seinasta eina og hálfa árið hefur verið þeim átakanleg og blasir nú við að höggva eigi á hnútinn og skera æxlið í burtu. En mun R-listinn lifa af fall eins borgarstjórans enn og breytingarnar sem það leiðir til? Aðeins rúmt eitt og hálft ár lifir af kjörtímabilinu. Fram að því þurfa borgarbúar að búa við brothætta stjórn þriggja flokka, sem eiga ekkert sameiginlegt nema völdin sem þeir deila og hafa reynt að skipta á milli sín eftir að leiðtoganum framagjarna var ýtt til hliðar og ópólitískur aðili settur í hans stað. Nú þegar blasir við að hann sé að falla fyrir borð, er rétt að spyrja: hvað tekur nú við á hinni skipstjóralausu fleytu R-listans?

Dagurinn í dag
1942 Áhöfn Brúarfoss bjargaði 44 skipbrotsmönnum af enska skipinu Daleby, sem var sökkt
1956 Sovésk yfirvöld ráðast inn í Ungverjaland og fella stjórn landsins sem reynt hafði að færa stjórnarfar landsins í lýðræðisátt, sem var einum of mikið fyrir sovésk yfirvöld að sætta sig við
1980 Ronald Reagan ríkisstjóri í Kaliforníu, kjörinn forseti Bandaríkjanna. Hann var 69 ára er hann náði kjöri og því elstur þeirra sem kjörinn hafði verið á forsetastól í landinu. Hann sat í embætti í tvö kjörtímabil og varð einn af vinsælustu leiðtogum í sögu landsins. Reagan forseti, lést 5. júní 2004
1992 Bill Clinton kjörinn forseti Bandaríkjanna, með afgerandi hætti. Hann felldi George H. W. Bush sitjandi forseta, af valdastóli. Clinton forseti, sat í embætti í tvö kjörtímabil, eða allt til ársins 2001
1995 Yitzhak Rabin forsætisráðherra Ísraels, skotinn til bana á útifundi í Tel Aviv. Framlag hans til friðar í Mið Austurlöndum kostaði hann lífið, en öfgasinnaður maður skaut hann til að hefna fyrir friðarsamkomulagið við Palestínumenn. Þjóðarsorg ríkti í Ísrael vegna andláts forsætisráðherrans. Þjóðarleiðtogar um allan heim fylgdu Rabin til grafar - friðarferlið fór af sporinu eftir dauða Rabins

Snjallyrði dagsins
When we come together and work together, there is no limit to the greatness of America. I'm proud to lead such an amazing country and I'm proud to lead it forward.
George W. Bush forseti Bandaríkjanna (sigurræða forsetans)

Engin fyrirsögn

George Walker Bush 43. forseti BandaríkjannaGeorge Walker Bush endurkjörinn forseti
George Walker Bush var endurkjörinn forseti Bandaríkjanna í forsetakosningunum í gær. Hann bar sigurorð af John Kerry forsetaframbjóðanda Demókrataflokksins, í jöfnum og æsispennandi kosningaslag. Repúblikanar héldu meirihluta sínum, bæði í fulltrúa- og öldungadeild þingsins. Lengi vel dagsins beindust augu alls heimsins að Ohio og úrslitunum þar í forsetakjörinu. Áður var staðan þannig að Bush var kominn með 254 kjörmenn en Kerry 252. Eini möguleiki Kerrys til að vinna sigur í kosningunni var með því að hafa sigur í Ohio. Allt myndi því ráðast þar. Demókratar voru ekki reiðubúnir að viðurkenna að Kerry hefði tapað í Ohio. Klukkan hálfátta í morgun ávarpaði John Edwards varaforsetaefni Kerry, mannfjöldann í Boston, og tilkynnti að hann og Kerry myndu ekki viðurkenna ósigur fyrr en endanleg úrslit kæmu frá Ohio. Þegar leið að hádegi varð ljóst að vonir Kerry og Edwards voru byggðar á sandi og nær vonlaust var að ná sigri í Ohio. Þá voru ótalin í Ohio rúmlega 150.000 atkvæði og forskot forsetans var um 136.000 atkvæði. Útilokað var því að sigra kosningarnar, bæði þar og á landsvísu. Þegar þetta varð ljóst efndi Kerry til fundar með ráðgjöfum sínum til að ræða stöðuna. Ljóst var að neytendafrömuðurinn Ralph Nader hefði engin áhrif á úrslitin, honum var ekki leyft að fara í framboð í Ohio og munurinn var afgerandi í Flórída. Ósigur Kerry var því staðreynd og engar forsendur til málshöfðunar vegna úrslitanna. Að fundinum loknum hringdi Kerry í George W. Bush, viðurkenndi ósigur sinn í forsetakosningunum og óskaði forsetanum til hamingju. Var samtal þeirra stutt, stóð í tæpar þrjár mínútur. Er haft eftir talsmönnum Kerry-kosningaliðsins að Kerry hafi sagt Bush að hann hafi verið verðugur, harður og mjög heiðarlegur andstæðingur. Kerry mun ávarpa þjóðina klukkan 19:00 að íslenskum tíma og viðurkenna þar opinberlega að hann hefði beðið ósigur í kosningunum. Hefur forsetinn unnið sigur í 29 ríkjum: Alabama, Alaska, Arizona, Arkansas, Colorado, Flórída, Georgía, Idaho, Indiana, Kansas, Kentucky, Louisiana, Mississippi, Missouri, Montana, Nebraska, Nevada, N-Karólínu, N-Dakóta, Ohio, Oklahoma, S-Karólínu, S-Dakota, Tennessee, Texas, Utah, Virginíu, Vestur-Virginíu og Wyoming. Kerry vann í Kaliforníu, Connecticut, Delaware, Illinois, Maine, Maryland, Massachusetts, Minnesota, New Hampshire, New Jersey, New York, Oregon, Pennsylvaníu, Rhode Island, Vermont, Michigan, Washington, í Washington DC og Wisconsin. Úrslit eru enn óljós í Iowa og Nýju Mexíkó, en flest bendir til sigurs forsetans þar. Ef svo fer hefur forsetinn hlotið 286 kjörmenn, en Kerry 252. Er það einn naumasti munur í sögu bandarísku kjörmannasamkundunnar.

George W. Bush á kosninganóttGeorge Walker Bush forseti Bandaríkjanna, mun ávarpa þjóðina klukkan 20:00 í kvöld að íslenskum tíma og formlega lýsa yfir sigri í forsetakosningunum. Sigur hans er ótvíræður. Nú þegar talin hafa verið 99.6% greiddra atkvæða hefur Bush forseti, hlotið 58.704.164, eða 51%. Kerry hlaut 55.163.995 eða 48% greiddra atkvæða. Það er því ljóst að Bush hefur unnið sögulegan sigur. Það hefur ekki gerst í 16 ár, eða síðan faðir forsetans, George H. W. Bush vann sigur í forsetakosningunum 1988. Bill Clinton náði aldrei á ferli sínum slíkum árangri í kosningum að hljóta meira en helming greiddra atkvæða. Helgast það af því að þrjú forsetaefni voru þá í slagnum af krafti og atkvæðin jöfnuðust meira út, en hann vann meira afgerandi sigur í kjörmannasamkundunni 1992 og 1996. Um var að ræða mestu kjörsókn í bandarískum forsetakosningum frá árinu 1968, er Richard Nixon var kjörinn forseti Bandaríkjanna, í jöfnum slag hans og Hubert Humphrey um forsetastólinn. Úrslit forsetakosninganna nú eru sérstaklega mikið ánægjuefni fyrir forsetann, því nú vinnur hann bæði kjörmannakosninguna og fær flest atkvæði og það rúmlega helming atkvæða. Er því um mikilvægan sálfræðilegan sigur að ræða fyrir forsetann og nánustu samstarfsmenn hans, sem geta nú einbeitt sér að næsta kjörtímabili og verkefnum sem framundan eru, fyrst forsetinn hefur hlotið endurkjör til setu. Mun hann nú stokka upp hóp sinn og skipa í ríkisstjórn sína þá sem hann vill vinna með. Má búast við breytingum á mannaskipan í stjórninni og er helst nefnt að nýtt fólk taki við sem utanríkis- og varnarmálaráðherra. Annars mun Bush nú setjast yfir stöðuna og velja ríkisstjórn til setu. Bush forseti tekur á ný við embætti fimmtudaginn 20. janúar nk.

John KerryEr þetta í fyrsta skipti í tvo áratugi sem John Kerry bíður ósigur í kosningum. Hann var síðast kjörinn öldungadeildarþingmaður fyrir Massachusetts árið 2002 og rennur kjörtímabil hans því út árið 2008. Hann á því fjögur ár eftir af tímabilinu og verður fróðlegt að sjá hvort hann muni klára kjörtímabil sitt. Líklegt má þó telja að hann dragi sig þá í hlé úr stjórnmálum. Úrslit kosninganna eru gríðarlegt áfall fyrir demókrata, jafnt hvað varðar forsetakosningarnar sem og þingkosningarnar. Repúblikanar héldu meirihluta sínum, bæði í fulltrúa- og öldungadeild þingsins. Tom Daschle leiðtogi demókrata í öldungadeildinni, missti þingsæti sitt í hörðum kosningaslag í S-Dakóta og eru demókratar því leiðtogalausir nú í deildinni. Hann beið naumlega ósigur fyrir John Thune sem var valinn til framboðs þar af stuðningsmannasveit forsetans, til að losna við Daschle úr forystu demókrata. Tókst það og eru demókratar nú höfuðlaus her í öldungadeildinni, heillum horfnir. Demókratinn Barack Obama, vann mikinn kosningasigur í öldungadeildarkosningunum í Illinois. Hann verður eini svarti Bandaríkjamaðurinn í öldungadeildinni er hann tekur þar sæti. Kosið var um sæti Edwards í N-Karólínu og fór sætið til repúblikana. Sama gilti um Flórída, en Mel Martinez fyrrum ráðherra í stjórn Bush, vann sæti Bob Graham í öldungadeildinni frá demókrötum til repúblikana. Johnny Isakson vann sæti Zell Miller í Georgíu frá demókrötum til repúblikana, en á það skal bent að Miller var orðinn mjög repúblikamegin í þinginu undir lokin. Í heildina var því nóttin svört fyrir demókrata. Jafnvel enn dökkari en kosninganóttin 2002, og er þá mikið sagt. Demókrataflokkurinn er í algjörri pólitískri eyðimörk í Bandaríkjunum. Stefna forsetans fékk eindreginn meðbyr í kosningunum.


Kosningavefir 2004
CNN
BBC
CBS
NBC
ABC
Race 2004
Fréttablaðið
Morgunblaðið
Washington Post
Ítarleg kosningahandbók WP
Umfjöllun um kjörmannakosninguna
Saga forsetakosninga í Bandaríkjunum



Dagurinn í dag
1660 Kötlugos hófst með langvaranlegum jarðskjálfta og jökulhlaupi - eitt af stærstu Kötlugosunum
1964 Lyndon B. Johnson kjörinn forseti Bandaríkjanna - hann vann afgerandi sigur á Barry Goldwater. Hann hlaut 486 kjörmenn og vann stærsta sigur fram að þeim tíma - Johnson gaf ekki kost á sér í forsetakjöri 1968 vegna andstöðu við stefnu hans í Víetnamsstríðinu - Johnson lést 1973
1968 Alþýðubandalagið var formlega stofnað sem stjórnmálaflokkur - bauð síðast fram árið 1995
1976 Jimmy Carter kjörinn forseti Bandaríkjanna, í tvísýnum kosningum þar sem Gerald Ford sitjandi forseti, beið ósigur í kjörmannasamkundunni - Ford sat sem forseti allt frá afsögn Nixons
2004 George W. Bush endurkjörinn forseti Bandaríkjanna, í tvísýnni valdabaráttu þar sem nokkur fylki ráða úrslitum - John Kerry viðurkennir ósigur, eftir að hafa reynt að hnekkja úrslitum í Ohio

Snjallyrði dagsins
Leadership and learning are indispensable to each other.
John F. Kennedy forseti Bandaríkjanna


Engin fyrirsögn

Flest bendir til sigurs George W. Bush í forsetakosningunum
Flest bendir til þess að George Walker Bush hafi verið endurkjörinn forseti Bandaríkjanna í forsetakosningunum í gær. Nú klukkan níu að morgni er staðan þannig að Bush hefur hlotið 274 kjörmenn með væntanlegum sigri í Ohio og hafi því sigrað í kosningunum. Bush hefur hlotið 51% atkvæða á landsvísu en Kerry er með 48%. Repúblikanar héldu meirihluta sínum, bæði í fulltrúa- og öldungadeild þingsins. Tom Daschle leiðtogi demókrata í öldungadeildinni, missti þingsæti sitt naumlega í hörðum kosningaslag á móti John Thune í S-Dakóta. Eru demókratar því leiðtogalausir í deildinni.

Demókratar eru ekki reiðubúnir að viðurkenna að John Kerry forsetaefni þeirra, hafi beðið ósigur í Ohio. Ávarpaði John Edwards varaforsetaefni Kerrys, mannfjöldann í Boston klukkan hálfátta að íslenskum tíma, og tilkynnti að hann og Kerry myndu ekki viðurkenna ósigur fyrr en endanleg úrslit koma frá Ohio. Hvíta húsið svaraði til baka með þeim hætti að forsetinn hefði sigrað í fylkinu, enginn vafi léki á því. Gæti svo farið sem margir spáðu að lagaflækjur taki við og langvinn og hatrömm barátta um völdin, ef vandræði verður með staðfestingu talna þar. Er það þó alls óvíst. Sá möguleiki er einnig til staðar sem ég hafði spáð í pælingum mínum að Kerry vinni afganginn utan Ohio og hljóti 269 kjörmenn eins og forsetinn. Komi til þess skellur á stjórnarfarskreppa í landinu. Fer málið þá fyrir þingdeildirnar, en þar hafa repúblikanar meirihluta og Bush og Cheney hlytu kjör í embætti forseta og varaforseta. En eins og öllum er ljóst mun slíkt ferli verða þungt í vöfum og langvinnt.

Vann forsetinn sigur í Flórída sem lætin urðu um fyrir fjórum árum. Hefur Bush unnið kosningasigur utan Ohio og Flórída í Nevada, Alabama, Alaska, Arizona, Arkansas, Colorado, Flórída, Georgía, Idaho, Indiana, Kansas, Kentucky, Louisiana, Mississippi, Missouri, Montana, Nebraska, N-Karólínu, Norður-Dakóta, Ohio, Oklahoma, S-Karólínu, S-Dakota, Tennessee, Texas, Utah, Virginíu, Vestur-Virginíu og Wyoming. Kerry vann í Kaliforníu, Connecticut, Delaware, Illinois, Maine, Maryland, Massachusetts, New Hampshire, New Jersey, New York, Oregon, Pennsylvaníu, Rhode Island, Vermont, Minnesota, Michigan, Washington, og í Washington DC.

Staðan er því brothætt og ekki endanlega ljóst hvor frambjóðandinn hrósar endanlega sigri, þó staða Bush sé öllu vænlegri nú og stefni flest í að hann verði áfram forseti. En allt stefnir í að Ohio 2004 verði að Flórída 2000, eins ömurlegt og það hljómar. Ég hef vakað í alla nótt yfir úrslitunum og mun skrifa hér inn þegar og ef tilefni gefst til.

Engin fyrirsögn

George W. Bush og Laura Welch Bush á kosningafundi í Nýju Mexíkó að kvöldi mánudagsBush vs. Kerry > kjördagur
Bandarískir kjósendur ganga að kjörborðinu í dag og taka með því ákvörðun um það hvort George W. Bush forseti, eða John Kerry öldungadeildarþingmaður, muni sitja á forsetastóli í Bandaríkjunum á næsta kjörtímabili, 2005-2009. Jafnframt er kosið um fjölda þingsæta í fulltrúa- og öldungadeild Bandaríkjaþings. Kosningabaráttunni lauk formlega í nótt að íslenskum tíma. Báðir frambjóðendur fóru í helstu baráttufylki kosningabaráttunnar og ávörpuðu stuðningsmenn sína í síðasta skipti til að reyna að hafa áhrif á atkvæði almennings og ná þeim sem enn eru óákveðnir á sitt band. Bæði forsetaefnin notuðu einnig seinustu klukkustundir baráttunnar til að hvetja sitt fólk til að kjósa og minna þá á mikilvægi þess að hvert atkvæði skiptir máli. Allt bendir til metþátttöku í forsetakosningunum í dag. Gera verður ráð fyrir því að flestir kjósendur hafi nú tekið afstöðu til forsetaefnanna og stefnu þeirra. Ólíklegt er að kosningaræðurnar breyti miklu fyrir forsetaefnin eða hafi endanleg áhrif, nema þá að því marki að hvetja fólk til að mæta á kjörstað og taka afstöðu til málanna. Seinustu skoðanakannanir sem gerðar voru fyrir lok kosningabaráttunnar og birtust í gær sýna að baráttan er hnífjöfn. Bush forseti, hefur jafnan smáforskot en það er innan skekkjumarka og því getur í raun allt gerst. Það sannaðist árið 2000 að hvert atkvæði skiptir máli í jafnhörðum slag og þá var, ekki er slagurinn minni nú og baráttan hefur verið hörð og óvægin. Nú við lok hennar má fullyrða að enginn kosningaslagur í sögu Bandaríkjanna, hefur verið beittari og harkalegri. Repúblikanar eru sagðir hafa milljón sjálfboðaliða í því verkefni að hvetja fólk til að mæta á kjörstað til að kjósa Bush meðan demókratar hafa að minnsta kosti 250.000 sjálfboðaliða og fjölda starfsmanna í sama verkefni fyrir Kerry. Sjónir manna beinast nú á marklínunni að kjörmannamálunum sem munu ráða úrslitum að lokum, það eitt skiptir máli að sigra í ríkjunum og hala inn sem flestum kjörmönnum. Helst munu spekingar horfa til stöðunnar í Ohio, Flórída og Pennsylvaníu, en úrslitin þar munu að öllum líkindum ráða því hvort Bush nær endurkjöri á forsetastól eða hvort Kerry verði 44. forseti Bandaríkjanna. Ég hef fylgst ítarlega með þessum kosningum, meira en nokkrum öðrum forsetakosningum í Bandaríkjunum. Eins og lesendur vefsins hafa séð hallast ég frekar að Bush forseta, en andstæðingi hans. Forsetinn hefur þorað að taka ákvarðanir, hversu óvinsælar sem þær mögulega geta orðið og staðið við mat sitt á hverjum tíma. Það er dæmi um styrkan stjórnmálamann. Spurning er hvort Bandaríkjamenn meta verk Bush og forystu hans með þeim hætti sem rétt er þegar gengið er að kjörborðinu. Það er von mín að kjósendur í Bandaríkjunum veiti Bush endurkjör í þessum kosningum.

John Kerry og George W. BushEins og lög gera ráð fyrir lauk formlegri kosningabaráttu á miðnætti að staðartíma í fylkjunum. Báðir voru forsetaframbjóðendurnir þreyttir að sjá á leiðarlokum baráttunnar. Þeir voru báðir byrjaðir að missa röddina eftir mikið álag síðustu dagana. Bush forseti, ferðaðist á lokadegi kosningabaráttunnar um sex lykilfylki: Ohio, Wisconsin, Iowa, Michigan, Pennsylvaníu og að lokum Nýju-Mexíkó. Seint í gærkvöldi lauk hann kosningabaráttu sinni á heimaslóðum með stórum kosningafundi í miðborg Dallas í Texas, skammt frá þeim stað þar sem einn forvera hans, John F. Kennedy, var myrtur þann 22. nóvember 1963. Að því loknu hélt hann til Crawford í Texas og þar mun hann greiða atkvæði í dag. Að því loknu flýgur hann til Columbus í Ohio og mun hitta stuðningsmenn sína á fundi til að þakka fyrir góðan stuðning þeirra. Þaðan heldur forsetinn ásamt eiginkonu sinni, Lauru, og dætrum þeirra, Barböru og Jennu, til Washington. Forsetinn mun ásamt fjölskyldu sinni, foreldrum sínum, varaforsetahjónunum og nánustu ráðgjöfum fylgjast með kosningavökunni í Hvíta húsinu. Hann mun ávarpa þjóðina á kosningasamkomu stuðningsmanna sinna í Ronald Reagan-byggingunni, í Washington, þegar úrslit forsetakosninganna ráðast endanlega, í nótt eða undir morgun. Kerry ferðaðist á lokadegi baráttunnar um lykilfylkin Michigan, Wisconsin og Ohio. Hann lauk kosningabaráttu sinni með ræðu á fundi með stuðningsmönnum sínum í Bedford í Massachusetts, í nótt að íslenskum tíma. Hann hefur daginn í dag með því að greiða atkvæði í heimaborg sinni, Boston, og mun á kjördag ferðast um fylkið ásamt eiginkonu sinni, Teresu, og hitta stuðningsmenn. Hann mun fylgjast með kosningavökunni á heimili sínu í Boston ásamt fjölskyldu sinni, varaforsetaefni sínu og fjölskyldu hans og nánustu ráðgjöfum. Þegar úrslit liggja fyrir mun hann ávarpa kjósendur í miðborg Boston. Úrslitastundin er nú í sjónmáli. Verður fróðlegt að sjá hvert val Bandaríkjamanna verður. Þeirra er nú valið eftir langa og kraftmikla kosningabaráttu. Örlög forsetaefnanna eru nú í þeirra höndum.


Kosningavefir 2004
CNN
BBC
CBS
NBC
ABC
Race 2004
Fréttablaðið
Morgunblaðið
Washington Post
Ítarleg kosningahandbók WP
Umfjöllun um kjörmannakosninguna
Saga forsetakosninga í Bandaríkjunum

Kappræður forseta- og varaforsetaefnanna
Ítarleg umfjöllun um sögu kappræðna í Bandaríkjunum
Fyrstu kappræður Bush og Kerry - 30. september 2004
Aðrar kappræður Bush og Kerry - 8. október 2004
Þriðju kappræður Bush og Kerry - 13. október 2004
Kappræða Cheney og Edwards - 5. október 2004



Ráðhúsið í ReykjavíkHeitast í umræðunni
Sífellt betur verður ljóst að staða Þórólfs Árnasonar borgarstjóra í Reykjavík, veikist. Það er öllum ljóst sem lesa nýútkomna skýrslu Samkeppnisstofnunar að borgarstjórinn tók áberandi þátt í samsæri gegn almenningi, sem leiddi til þess að halda uppi bensínverði, ólöglegum vinnubrögðum samkvæmt samkeppnislögum. Fjallað er um þátt Þórólfs á meira en hundrað stöðum í skýrslunni en hann starfaði sem markaðsstjóri ESSÓ í tæp fimm ár. Á einum stað í skýrslunni kemur fram að hann hafi sagt í samtali við starfsmenn Samkeppnisstofnunar að honum hafi verið kunnugt um samhæfða hækkun álagningar. Þetta kemur einnig fram í tölvupóstum sem hann skrifaði árið 1996. Þórólfur situr á borgarstjórastóli í umboði borgarfulltrúa R-listans. Hann hefur aldrei verið kjörinn af borgarbúum til starfa í pólitík, né verið í framboði. Það eru því hinir kjörnu fulltrúar meirihlutans sem réðu hann til starfa fyrir tæpum tveim árum, sem treysta honum fyrir að sitja áfram á stóli borgarstjóra. Þeirra er ábyrgðin á störfum hans í kjölfar þess að svona er komið. Greinilegt er að sá stuðningur er farinn að dvína, sífellt fleiri sjá sér ekki lengur að verja hann, einkum á þeim forsendum að samráðið snýr t.d. að útboði á vegum borgarinnar sjálfrar. Fulltrúar Framsóknarflokksins og Samfylkingarinnar í R-listanum hafa varið borgarstjórann eftir að skýrslan var birt og ætla greinilega að verja hann pólitískt, jafnvel að fórna sér fyrir hann í næstu borgarstjórnarkosningum. Vinstri grænir sjá sér hinsvegar ekki lengur fært að verja að fullu borgarstjórann. Árni Þór Sigurðsson forseti borgarstjórnar, var í viðtali á Morgunvaktinni hjá RÚV í morgun og þar sér hann sér ekki fært að koma með traustsyfirlýsingu lengur við borgarstjóra og telur rétt að kanna allt málið varðandi aðkomu Þórólfs sem markaðsstjóri ESSO í útboðum tengdum borginni. Greina má mikla undiröldu í röðum vinstri grænna vegna málsins og er greinilegt að á þeim bænum er útilokað að Þórólfur verði frambjóðandi í þeirra nafni í borgarstjórnarkosningunum 2006, né muni þeir verja stöðu hans lengur með nokkrum hætti. Eins og sjá mátti á viðtali Evu Bergþóru Guðbergsdóttur á Stöð 2 í gærkvöldi við borgarstjórann getur hann ekki fært nein sannfærandi rök í málinu og er greinilega að tala gegn betri vitund. Það er greinilegt að hann berst nú fyrir stöðu sinni, enda hans staða að verða vonlaus.

Eldgos í Grímsvötnum 1998Eldgos hófst í Grímsvötnum í gærkvöldi. Er þetta í þriðja skipti á tæpum áratug sem gýs þar. 1996 og 1998 voru í bæði skiptin stór gos þar og leiddi gosið 1996 til stærsta hlaups í Skeiðará á 20. öld. Brúin yfir Gígjukvísl eyðilagðist þá og litlu munaði að hlaupið hrifi einnig með sér Skeiðarárbrú. Órói byrjaði í Grímsvötnum snemma í gærkvöldi, og á níunda tímanum hófst stöðug hrina mikilla jarðskjálfta. Hófst gosið af krafti á tíunda tímanum er gosrásins var orðin greið upp úr ísnum. Er gosið nú stærra að umfangi en það seinasta, árið 1998. Er gossvæðið norðan við það svæði sem gaus á 1998. Voru reyndar meiri jarðskjálfar sem fylgdu því. 13 metra gosmökkur stígur upp frá gossvæðinu og er hann samkvæmt fréttum vel sjáanlegur frá Egilsstöðum og Kárahnjúkum. Eldgosin í Grímsvötnum 1983 og 1998 áttu sér styttri aðdraganda heldur en nú. Ekki er hægt að miða við gosið 1996, sem er af allt annarri stærðargráðu en hin, enda mun umfangsmeira og stærra í sniðum. Er það mat sérfræðinga á borð við Pál Einarsson og Ragnar Stefánsson að hlaupið í Skeiðará um helgina hafi komið virkni af stað og leitt til gossins. Að mati Páls er um að ræða fyrsta skiptið sem vitað væri með vissu um að hlaup kæmi af stað gosi. Verður fróðlegt að fylgjast með fréttum af gosinu næstu daga.

Velheppnað kjördæmisþing Sjálfstæðisflokksins í Norðausturkjördæmi

Dagurinn í dag
1913 Morgunblaðið kom út í fyrsta skipti - í rúmlega 90 ára sögu sinni hefur blaðið verið kraftmikið
1948 Harry S. Truman endurkjörinn forseti Bandaríkjanna, þvert á allar kosningaspár - dagblaðið Chicago Daily Tribune var svo víst um ósigur forsetans og sigur keppinautar hans, Thomas Dewey, að það sló upp á forsíðu að hann myndi tapa kosningunum og varð blaðið að þjóðarathlægi fyrir vikið
1959 Háskólakennarinn Charles Van Doren viðurkennir í yfirheyrslum fyrir frammi þingnefnd að hafa tekið þátt í víðtæku hneyksli tengdum spurningaþáttunum 21 og að hafa fengið svör við spurningum
2000 Verslunarmiðstöðin Glerártorg á Akureyri opnuð - þar eru 20 verslanir í 9000 fm. húsnæði
2004 Bandarískir kjósendur velja á milli George W. Bush og John Kerry í æsispennandi forsetakjöri

Snjallyrði dagsins
I believe this nation wants steady, consistent, principled leadership. And that is why, with your help, we will win this election. The story of America is the story of expanding liberty, an ever-widening circle, constantly growing to reach further and include more. Our nation's founding commitment is still our deepest commitment: In our world, and here at home, we will extend the frontiers of freedom.
George W. Bush forseti Bandaríkjanna


Engin fyrirsögn

George W. Bush og Laura Welch Bush á kosningafundi í FlórídaBush vs. Kerry > 2 dagar
Skoðanakannanir í Bandaríkjunum sýna misvísandi mynd af stöðu mála, nú þegar aðeins tveir sólarhringar eru í kjördag í hinum æsispennandi forsetakosningum í landinu. Sumar kannanir sýna afgerandi forskot George W. Bush forseta Bandaríkjanna, en aðrar gefa í skyn að jafnræði sé með honum og John Kerry öldungadeildarþingmanni. Ljóst er þó að staða forsetans, í kapphlaupi hans og Kerry um völdin í landinu, þykir hafa styrkst mjög seinustu dagana. Ef marka má allar þær kannanir sem gerðar hafa verið um helgina, hefur forskot forsetans aukist eftir að arabíska sjónvarpsstöðin Al-Jazeera birti myndband með yfirlýsingu hryðjuverkamannsins Osama Bin Laden. Er það til marks um það vonandi að kjósendur láta ekki glæpamenn taka afstöðu fyrir sig með hótunum sínum. Einkar athyglisvert er að kynna sér nýjar skoðanakannanir um fylgi í fylkjunum. Það eitt skiptir máli nú hverjir vinna sigur í baráttufylkjunum og ná að hala inn kjörmönnum með sigri þar. Flest bendir til að úrslitin muni endanlega ráðast í kosningunum á þriðjudag í þeim fylkjum sem forsetaefnin beina mest sjónum sínum að og hafa gert undanfarnar vikur: Ohio, Flórída og Pennsylvaníu. Athyglisvert er að í nýjustu fylkiskönnunum kemur fram að tvö rótgróin demókratavígi, Hawaii og New Jersey, eru mjög óvænt að verða að baráttufylkjum í þessum kosningaslag. Bush forseti, er orðinn jafn Kerry í New Jersey og leiðir á Hawaii. Demókratar hafa jafnan haft yfirburðastöðu á þessum slóðum og þykja þetta mikil tíðindi. Al Gore vann yfirburðasigur í þessum fylkjum árið 2000. Þykir staða mála þarna nú til marks um það að Kerry hefur brothætt fylgi og er jafnvel veikur á sumum slóðum þar sem demókratar hafa ráðið ríkjum. Annað mikilvægt atriði í huga framboða forsetaefnanna að allir mæti á kjörstað og noti atkvæðisrétt sinn. Báðir frambjóðendurnir fluttu útvarpsávörp og hvöttu kjósendur til að taka afstöðu. Eru ræðurnar eitt af seinustu tækifærum þeirra til að ná beint til allra landsmanna með boðskap sinn. Það er eðlilegt að báðir frambjóðendur leggi áherslu á kjörsókn enda getur hún og hlutfall kjósenda í fylkjum haft gríðarleg áhrif á það hver verður forseti næstu fjögur árin.

John Kerry á kosningafundi í OhioForsetaframbjóðendur voru á ferð um miðvesturríkin í gær. Fókus þeirra verður á fylkin þar nú á seinustu metrum kosningabaráttunnar. Þar eru baráttufylkin, þar eru þeir sem ráða úrslitum um hver fær lyklavöld að Hvíta húsinu næstu fjögur árin. Bush forseti, hélt stærsta kosningafund gærdagsins í Orlando í Flórída í gærkvöldi. Þar ávarpaði hann stuðningsmenn sína og fór yfir áherslur sínar. Jafnframt ávarpaði Jeb Bush ríkisstjóri í Flórída, bróðir forsetans, viðstadda og hvatti þá til að fylkja sér um forsetann og baráttumál hans. Sagði forsetinn að allir vissu hvar áherslur hans væru og afstaða til helstu mála, en að keppinautur sinn væri jafnan á röngum stað á röngum tíma og skipti oft um áherslur í miðri á. "You don´t change directions in mid stream" sagði forsetinn og var vel fagnað. Leggur hann mikla áherslu á að hann sé stríðsforseti sem sameini þjóðina um markmið sín og hann sé kraftmikill leiðtogi. Á sama tíma í gærkvöldi var Kerry með fjöldafund í Warren í Ohio, þar sem hann hvatti fólk til að kjósa sig, hann myndi ráðast að hryðjuverkamönnum og glæpamönnum með viðeigandi hætti. Greinilegt er nú á öllu að frambjóðendur tala með þeim hætti að kjördagur er í sjónmáli, þeir nefna öryggismálin sem sérstakan punkt og nota hann til að ráðast að andstæðingnum og jafnframt minna á sjónarmið sín varðandi þau. Öryggis- og varnarmálin eru stærsta mál kosningabaráttunnar vestan hafs að þessu sinni, segja má að öll baráttan hafi snúist um þau og þó farið hafi verið yfir fleiri mál vissulega enda allar umræður og kosningafundir á þeim punkti að ræða utanríkismál og varnir landsins þeim tengd. Þau eru lykilmálið að þessu sinni, sem gæti orðið til að styrkja forsetann nú undir lokin. Stefnir allt í kraftmikinn lokapunkt í kosningabaráttunni í dag og á morgun, en kosningabaráttunni lýkur formlega annað kvöld. Í dag munu forsetaefnin sem fyrr beina sjónum sínum að lykilfylkjunum og ferðast um þau til að ná til kjósenda með boðskap sinn á lokasprettinum. Kerry verður á kosningaferðalagi um New Hampshire, New Jersey, Pennsylvaníu og Flórída. Forsetahjónin munu dvelja megnið af deginum í Flórída. Seinnipartinn halda þau til Ohio og hafa stóran fund þar. Allt er lagt í sölurnar á lokametrum baráttunnar.

SjálfstæðisflokkurinnSunnudagspistillinn
Að þessu sinni fjalla ég um kjördæmisþing okkar sjálfstæðismanna í Norðausturkjördæmi sem haldið var um helgina í Skjólbrekku í Mývatnssveit. Voru þar saman komnir fulltrúar sjálfstæðisfélaga allt frá Siglufirði austur á Djúpavog. Á kjördæmisþinginu fluttu þingmenn Sjálfstæðisflokksins í kjördæminu, þau Halldór Blöndal forseti Alþingis, og Arnbjörg Sveinsdóttir varaformaður þingflokksins, yfirgripsmiklar og ítarlegar ræður. Gunnar Ragnars var endurkjörinn til formennsku í kjördæmisráðinu. Auk hans munu sitja í stjórn næsta starfsárið þau Jónas Þór Jóhannsson, Guðmundur Skarphéðinsson, Jóhanna H. Ragnarsdóttir, Sigurjón Benediktsson, Maríanna Jóhannsdóttir og Árni Helgason. Var ég kjörinn til setu í varastjórn kjördæmisráðsins og mun því vera virkur í flokksstarfinu á vettvangi kjördæmisins á næstunni. Helgin á Mývatni var mjög gagnleg og góð, alltaf er gaman að hitta pólitíska samherja sína úr kjördæminu, sérstaklega Austfirðingana sem maður hittir of sjaldan til að ræða málin við. Á laugardagskvöldinu borðuðum við saman á Hótel Seli og áttum glaða og góða stund undir öruggri veislustjórn Björns Jónassonar frá Siglufirði. Heiðursgestir okkar voru þau Friðrik Sophusson forstjóri og fyrrum varaformaður Sjálfstæðisflokksins, og eiginkona hans, Sigríður Dúna Kristmundsdóttir dósent. Það er alltaf gaman að hittast og styrkja böndin og efna til kynna við nýtt fólk í flokksstarfinu. Á þinginu var góð og gagnleg umræða um orkumál og stóriðju hér á Norðurlandi, og flutti Friðrik ítarlega og góða ræðu um orkumálin á laugardeginum og voru gagnlegar pallborðsumræður um þessi mál. Forsetakosningar verða í Bandaríkjunum á þriðjudag. Fer ég yfir stöðu mála nú við lok kosningabaráttunnar og vík að yfirlýsingu hryðjuverkamannsins Osama bin Laden sem birtist heimsbyggðinni undir lok vikunnar til að minna á sig fyrir lok kosningabaráttunnar og hatursleg viðhorf sín til Bandaríkjamanna. Að lokum fjalla ég um málefni Þórólfs Árnasonar borgarstjóra, en fyrir liggur í skýrslu Samkeppnisstofnunar að hann var þátttakandi í ólöglegu samráði olíufélaganna. Þögnin vegna stöðu Þórólfs er æpandi og spurt hvað ætla pólitískir fulltrúar borgarstjórnarmeirihlutans að gera í málum borgarstjórans.

Dagurinn í dag
1955 Margrét prinsessa, tilkynnti formlega að hún muni ekki ganga að eiga heitmann sinn, Peter Townsend flotaforingja. Konungsfjölskyldan féllst ekki á ráðahag þeirra vegna þess að Peter var fráskilinn. Peter var alla tíð stóra ástin í lífi Margrétar og varð það henni þungt að geta ekki gifst honum nema að þurfa að fórna stöðu sinni innan fjölskyldunnar og í valdaröðinni. Hún giftist 1960 og eignaðist tvö börn síðar. Hún var alla tíð í ástarsorg vegna Peters og lauk hjónabandi hennar með skilnaði 1980. Margrét lést í febrúar 2002, en hún hafði seinustu árin átt við heilsuleysi að stríða
1984 Indira Gandhi forsætisráðherra Indlands, myrt af síkhum sem komist höfðu í lífvarðasveit hennar og skutu hana í garði fyrir utan embættisbústað hennar í Nýju Delhi. Indira var kraftmesti stjórnmálamaður Indlands í nokkra áratugi og leiddi Kongressflokkinn frá 1966 til dauðadags. Hún var forsætisráðherra landsins 1966-1977 og aftur frá 1980. Sonur hennar, Rajiv, tók við völdum í landinu nokkrum klukkutímum eftir lát móður sinnar. Óeirðir urðu um allt landið í kjölfar dauða hennar
1993 Ítalski leikstjórinn Federico Fellini lést í Róm, 73 ára að aldri - var meistari í kvikmyndagerð
1997 Breska fóstran, Louise Woodward, sakfelld fyrir að hafa valdið dauða barns sem hún passaði í Boston þegar hún var þar au-pair. Var orsök andláts barnsins sagt vera Shaken baby syndrome. Dómnum var síðar breytt í manndráp af gáleysi og Louise fékk að halda aftur heim til Englands
2003 Mahathir bin Mohamad lætur af embætti sem forsætisráðherra Malasíu eftir 22 ára valdaferil

Snjallyrði dagsins
Osama bin Laden put out a new video. The timing of this video has some people upset, three days before we vote. It looks like he's trying to influence the election. And I'll tell you, it's not going to work. Americans know Osama bin Laden does not pick our president. The Supreme Court does.
Bill Maher grínisti

« Fyrri síða | Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband