Engin fyrirsögn

Davíð Oddsson forsætisráðherraHeitast í umræðunni
Aðalfrétt gærkvöldsins í fréttatímum var sú að um 60 lykilstarfsmenn í Kaupþingi-Búnaðarbanka hefðu gert samning við félagið um kaup á 23 miljónum hluta í bankanum. Forstjóri Kaupþings-Búnaðarbanka og starfandi stjórnarformaður keyptu hvor um sig um 6 milljónir hluta á genginu 156 á rúmlega 900 miljónir króna. Varð mörgum brugðið við þessi tíðindi. Valgerður Sverrisdóttir viðskiptaráðherra, sagðist í morgun vera undrandi á þeim samningum sem bankinn gerði við stjórnendur sína um kaup á hlutabréfum í bankanum. Hún hefur sagt að það að gera svona samning aftur í tímann og velja sér dag þegar gengi bréfanna er langt undir markaðsgengi sýni að þeir sem taki svona ákvarðanir séu ekki í tengslum við raunveruleikann. Eftir ríkisstjórnarfund í morgun tjáði forsætisráðherra sig um málið. Hann sagði í yfirlýsingu að stjórnendur bankans væru að koma skömm á frelsið með þessum samningi. Sagði Davíð þetta vera ögrun við fólkið í landinu og tilkynnti að hann myndi taka inneign sína í bankanum út. Mun ríkisstjórnin leita allra leiða til að koma í veg fyrir samninga af þessu tagi í framtíðinni. Tek ég undir með forsætisráðherra, þessi vinnubrögð eru óverjandi og á þessum vinnubrögðum verður að taka.

Bush og BlairÍ dag mun opinberri heimsókn Bush forseta til Bretlands ljúka formlega. Í gær héldu hann og Blair forsætisráðherra, blaðamannafund þar sem margt athyglisvert kom fram. Einnig áttu þeir einkafund í bústað forsætisráðherrans, Downingstræti 10. Margt fleira var á dagskrá gærdagsins. Forsetinn flaug frá London í morgun til Sedgefield. Kvaddi hann gestgjafa sína, drottninguna og hertogann við Buckinghamhöll. Sedgefield verður lokapunktur heimsóknarinnar. Það er kjördæmi Blairs forsætisráðherra. Er á dagskránni kynnisferð um bæinn, teboð á heimili Blair hjónanna í bænum og að lokum málsverður á krá í Sedgefield. Gríðarleg öryggisgæsla verður meðan á heimsókn forsetans til Sedgefield stendur. Leiðtogarnir munu kveðjast í Sedgefield að því loknu. Heimsókn forsetans til Bretlands lýkur seinnipartinn og að því loknu halda forsetahjónin til Bandaríkjanna. Söguleg heimsókn forsetans hefur verið aðalfréttaefni seinustu daga, enda ekki gerst fyrr að forseti Bandaríkjanna fari til Bretlands í konunglega heimsókn.

Kristján Þór Júlíusson bæjarstjóriÁ bæjarstjórnarfundi sl. þriðjudag var fjárlagafrumvarp Akureyrarbæjar ársins 2004 til fyrri umræðu. Tekjur bæjarins fyrir næsta rekstrarár eru áætlaðar rúmlega 8,8 milljarðar en rekstarútgjöld Akureyrarbæjar án fjármagnsliða hinsvegar 8 og hálfur milljarður. Skv. fjárhagsáætlunni taka fræðslu- og uppeldismál mest til sín eða alls 2,2 milljarða, félagsþjónustan hálfan milljarð og íþrótta- og tómstundamál tæplega hálfan milljarð. Seinni umræða um fjárlagafrumvarp bæjarins verður eftir tæpan mánuð, þann 16. desember. Kristján Þór Júlíusson bæjarstjóri, flutti ávarp á bæjarstjórnarfundi á þriðjudag og kynnti þar frumvarpið og fór yfir ýmis fleiri mál. Fram kom í hans máli að íbúum bæjarins hefði fjölgað um rúmlega 1000 á seinustu 5 árum, eða frá því hann tók við embætti bæjarstjóra, sumarið 1998. Að hans mati er staða bæjarins björt og óhætt að horfa jákvæð fram á veginn. Til marks um það fór Kristján í morgun suður með jólabjórinn til sendiherra okkar sunnan heiða, Sigmundar Ernis. Skemmtilegt þetta!

Ósk ÓskarsdóttirSvona er frelsið í dag
Í dag skrifar Ósk mjög góða grein á frelsið. Þar fjallar hún um afskiptasemi ríkisins í daglegt líf tengt helgidögum. Orðrétt segir hún: "Nú 18 árum seinna þá er ennþá einhver að reyna að stjórna því hvort ég sit eða stend, en nú er það á helgidögum kristinna manna. Hver er þessi forsjárhyggjufóstra minna seinni ára? Jú, ríkisvaldið. Flestir vita að á ákveðnum dögum ársins er velflest starfsemi óheimil, er þá um að ræða skemmtanir (s.s. dansleiki eða einkasamkvæmi) á opinberum veitingastöðum eða á öðrum stöðum sem almenningur hefur aðgang að. Hið sama gildir um opinberar sýningar og skemmtanir þar sem happdrætti, bingó eða önnur svipuð spil fara fram. Jafnframt eru markaðir og verslunarstarfsemi, svo og önnur viðskiptastarfsemi með öllu óheimil. Um bönn þessi greinir í lögum sem sett voru krafti kristinnar trúar, í boði ríkisins. Þau ólög eru efniviður þessa pistils, og bera heitið lög um helgidagafrið (nr. 32/1997)." Ósk með allt sitt á hreinu. Ennfremur birtist góð grein Maríu Margrétar um ályktun landssambands sjálfstæðiskvenna um vændi á dögunum. Hún er ekki sátt við hana og fer vel yfir málið í grein sinni.

Jóhanna og ÞórhallurDægurmálaspjall gærkvöldsins
Í gærkvöldi voru Pétur Blöndal og Steingrímur J. Sigfússon gestir Jóhönnu og Þórhalls. Í upphafi ræddu þau tíðindi dagsins um hlutabréfakaup stjórnenda í Kaupþingi-Búnaðarbanka. Fordæmdu báðir það og fóru vel yfir málið. Að því loknu ræddu þeir um fjölmiðlun í ljósi þess að Pétur hefur lagt fram á þingi ásamt fleirum frumvarp þess efnis að einkavæða skuli RÚV. Eins og við mátti búast voru þeir ekki sammála í þessu máli, enda vill Steingrímur sem minnstu greinilega breyta hjá RÚV. Sagði hann að ef það yrði selt yrði umfjöllun fábrotnari og hættara við einokun nokkurra aðila. Það er fjarstæða, enda benti Pétur á að umræða um stjórnmál og fleira blómstraði nú á Netinu. Nefndi hann sérstaklega að vefur á borð við frelsi.is væri öflugur vettvangur skoðana og ungt hægrifólk þar alveg óhrætt við að segja sína skoðun. Gott var að heyra þetta hrós Péturs um vefinn. Er ég alveg sammála honum um RÚV.

Mr. Deeds goes to TownKvikmyndir - bókalestur
Í gærkvöldi horfði ég á hina klassísku kvikmynd Frank Capra, Mr. Deeds goes to Town. Þar segir frá einfeldningnum Longfellow Deeds sem erfir öll auðæfi ríks frænda síns eftir dauða hans og neyðist til að skipta um lífsstíl á einu augabragði. Hann bjó í smábæ og lifði fábrotnu lífi en kynnist því fljótt þegar til stórborgarinnar kemur að það er enginn leikur að lifa með auðæfunum og hann verður skotmark óprúttinna aðila. Hann grípur til sinna ráða, útkoman óborganleg gamanmynd. Gary Cooper fór á kostum í hlutverki Deeds og var tilefndur til óskarsverðlauna fyrir leik sinn. Jean Arthur fer á kostum í hlutverki hinnar litríku Bebe Bennett. Frank Capra hlaut sinn annan leikstjóraóskar fyrir myndina og hún var ennfremur tilnefnd sem kvikmynd ársins. Að þessu loknu fór ég að lesa í ævisögu Jónasar frá Hriflu, mögnuð lesning um einstakan mann.

Vefur dagsins
Í dag bendi ég á fréttavef CBS. Þar eru góðar fréttir og öflug fréttaþjónusta. Sérstaka athygli vek ég á fréttaumfjöllun í tilefni þess að fjórir áratugir eru frá morðinu á Kennedy forseta.

Snjallyrði dagsins
Lífið er gáta. Lausnin er á öftustu síðu.
Storm Petersen

Engin fyrirsögn

Davíð Oddsson forsætisráðherraHeitast í umræðunni
Davíð Oddsson forsætisráðherra, sagði á Alþingi í gær að hann teldi alla stærstu banka landsins vera komna út á hála braut með afskiptum sínum og beinum inngripum í íslenskt atvinnulíf. Að hans mati væru bankarnir komnir langt út fyrir þau mörk sem þeir ættu að sinna og í raun út fyrir skyldur sínar gagnvart almenningi. Að mati forsætisráðherra ber bönkunum að halda sér að sínum verkefnum. Einkum var Davíð harðorður í garð Kaupþings - búnaðarbanka, sem hann sagði hafa tekið þátt í viðskiptabrellum í kringum eigendaskipti á Stöð 2 fyrir tæpri viku. Hann sagði að frumskilyrði væri að eignarhald á fjölmiðlum væri ljóst. Stundum væri látið í veðri vaka Kaupþing - búnaðarbanki ætti sjónvarpsstöðina en ennfremur látið í veðri vaka að tiltekinn nafngreindur einstaklingur í kaupsýslu ætti stöðina. Var það mat forsætisráðherra að bæði væri óboðlegt að slíkt ástand væri uppi og það að einn stærsti banki þjóðarinnar tæki þátt í slíkum viðskiptabrellum af þessu tagi.

Bush forseti og Elísabet EnglandsdrottningOpinber heimsókn Bush forseta, til Bretlands stendur nú sem hæst. Í dag hitti forsetinn Tony Blair forsætisráðherra Bretlands, á fundi í London, þar sem aðalumræðuefnið var framtíðarstaða mála í Írak, staða kjarnorkumála, fátækt í heiminum, alþjóðaviðskipti og ástandið í Norður Kóreu. Að fundinum loknum var haldinn ítarlegur blaðamannafundur leiðtoganna sem ég fylgdist með á fréttavef BBC. Í dag munu mótmæli friðarsinna og andstæðinga Bandaríkjanna ná hámarki. Samkvæmt fréttum frá London er reiknað með því að allt að 100.000 mótmælendur muni mótmæla Bush í ferð hans til Bretlands. Í gærkvöldi var haldinn formlegur kvöldverður í höllu drottningar og þar flutti forsetinn athyglisverða ræðu. Á morgun mun forsetinn heimsækja Sedgefield, kjördæmi forsætisráðherrans og að því loknu halda aftur til Bandaríkjanna.

Sigurður Kári KristjánssonLagt verður fram á Alþingi frumvarp um einkavæðingu Ríkisútvarpsins. Mun það koma úr herbúðum Sjálfstæðisflokksins. Ljóst er að í þingflokki Sjálfstæðisflokksins eru þingmenn sem vilja að RÚV verði einkavætt og leggja mikla áherslu á þá skoðun sína. Breytir engu um þó formaður flokksins hafi sagt á þingi að ekki komi til greina að einkavæða RÚV. Öllum er frjálst innan Sjálfstæðisflokksins að tjá sínar skoðanir og leggja áherslu á sín mál. Sigurður Kári Kristjánsson alþingismaður, sem er meðflutningsmaður að frumvarpinu með Pétri H. Blöndal, segir sviptingar á fjölmiðlamarkaðnum nú í raun engu breyta og tjáði sig um málið í ræðustól þingsins nú í hádeginu. Er ég hlynntur þessu frumvarpi og hef reyndar mikið tjáð mig um málefni RÚV og lagt áherslu á þessa hlið málsins.

Ragnar JónassonSvona er frelsið í dag
Í góðri grein á frelsinu fjallar Ragnar um RÚV mál í kjölfar RÚV-viku Heimdallar fyrir nokkrum vikum. Segir hann þar að til standi að stofna fleiri rásir á vegum Ríkisútvarpsins. Frá því hafi verið greint í fréttum að RÚV og verkfræðideild HÍ ætli að gera tilraunir með stafrænar útsendingar sjónvarps og útvarps á höfuðborgarsvæðinu. Liður í því væru útvarpssendingar á FM 87,7 þar sem klassískri tónlist verði aðallega útvarpað. Klassísk tónlist á vegum hins opinbera. Segir Ragnar að RÚV ætli ekki að láta þar við sitja, heldur hafi útvarpsstjóri sagt í fréttum RÚV frá hugmyndum um enn fleiri ríkissjónvarpsstöðvar, t.d. fyrir íþróttir, íslenskt barnaefni og fleira. Það harmar Ragnar enda þetta allt verkefni sem einkaaðilar geta sinnt og það mun betur en ríkið. Er ég alveg sammála orðum Ragnars. Það er tímaskekkja að ríkið reki fjölmiðla og enn meiri tímaskekkja að þeim eigi að fjölga með þessum hætti. Algjörlega óviðunandi. Ennfremur birtist á frelsinu, snubbótt svar formanns útvarpsráðs við spurningum og ennfremur sagt frá athyglisverðri grein um Evrópumál.

PressukvöldDægurmálaspjall gærkvöldsins
Í gærkvöldi var athyglisvert viðtal í Kastljósinu við Flosa Arnórsson stýrimann, sem sat eins og margir muna lengi ársins í fangelsi í Dubai fyrir vopnaeign. Kom margt fróðlegt fram í viðtali Sigmars við Flosa. Seinna um kvöldið var Sigurður G. Guðjónsson forstjóri Norðurljósa, gestur þriggja fréttamanna í Pressukvöldi Sjónvarpsins. Þar var hann spurður margra krefjandi spurninga um stöðu fyrirtækisins, eigendaskipti á því og mörgu fleiru sem hefur verið í umræðunni. Pressukvöld er góð viðbót við spjallþætti um það sem hæst ber á líðandi stundu. Mætti þátturinn þó vera lengri og ítarlegri en nú er.

Bonnie og ClydeKvikmyndir - pistlaskrif - MSN spjall
Í gærkvöldi horfði ég á hina klassísku kvikmynd Bonnie and Clyde með Faye Dunaway og Warren Beatty. Eru um 12 ár síðan ég sá þessa mynd fyrst og nokkur ár síðan ég keypti mér hana, horfi reglulega á hana. Ein af bestu kvikmyndum sjöunda áratugarins. Segir frá frægasta glæpapari seinustu aldar. Um hríð komust þau Bonnie og Clyde upp með að ræna hvern bankann á eftir öðrum. Leikstjórinn Arthur Penn er hér í sínu besta formi og er myndin skemmtilega hröð og grimm. Þó er hún merkilega fyndin í öllum óhugnaðinum. En hún er óvægin, aldrei höfðu afbrotamenn fengið aðra eins útreið og söguhetjurnar fengu í sögulok. Hreint sígild mynd sem verðskuldar einungis það besta, ég mæli eindregið með henni við þá sem ekki hafa séð hana. Eftir myndina fór ég að undirbúa pistil sem ég er að vinna að um JFK, en á laugardag eru fjórir áratugir frá því að hann var myrtur. Átti ég svo ennfremur gott spjall á MSN við vini.

Vefur dagsins
Í dag bendi ég öllum á fréttavef Morgunblaðsins, besta íslenska fréttavefinn. Þar eru á hverjum degi góðar og ferskar fréttir og kraftmikil umfjöllun um málefni dagsins í dag.

Snjallyrði dagsins
Við getum ekki unnið nein stórvirki, heldur eingöngu smáverk með mikilli ást.
Móðir Teresa (1910-1997)

Engin fyrirsögn

Bush forseti í LondonHeitast í umræðunni
George W. Bush forseti Bandaríkjanna, kom í gærkvöld í opinbera heimsókn til Bretlands, fyrstur bandarískra forseta til að koma þangað í konunglega heimsókn. Það var Woodrow Wilson forseti, sem síðast naut þess heiðurs að gista í konungshöllinni í heimsókn árið 1918, en hann sat á forsetastóli 1913-1921. Gríðarleg öryggisgæsla er í Lundúnum vegna heimsóknar Bush forseta. Búist er við talsverðum mótmælum í dag og næstu daga. Bush var boðinn formlega velkominn í morgun við hátíðlega athöfn í Buckinghamhöll af Elísabetu Englandsdrottningu og Filippus hertoga af Edinborg. Í dag ætlar hann m.a. að skoða konunglega listasafnið, ræða við ættingja fólks sem fórst í hryðjuverkaárásunum 11. september 2001 og hitta leiðtoga stjórnarandstöðuflokkanna í Bretlandi, Michael Howard og Charles Kennedy. Breska blaðið Daily Mirror greinir frá því í dag að þrátt fyrir miklar öryggisráðstafanir hafi einn af blaðamönnum þess fengið vinnu í Buckingham-höll sem þjónn með fölsuð meðmæli. Hafin er rannsókn til að kanna hvernig svo gat farið.

SUSÁ fundi ríkisstjórnarinnar í gær var samþykkt að leggja fyrir þingflokka ríkisstjórnarflokkanna frumvarp til breytinga á lögum um sjóntækjafræðinga. Mun breytingin ganga út á að heilbrigðisráðherra geti með setningu reglugerðar heimilað sjóntækjafræðingum að mæla sjón en til þessa hefur það einungis verið á sviði augnlækna. Þá er gert ráð fyrir því að fleirum en sjóntækjafræðingum verði heimilað að selja bæði gleraugu og linsur. Ungir sjálfstæðismenn hafa seinustu ár margoft ályktað um þetta mál og mjög ánægjulegt að sjá að ríkisstjórnin taki þetta skref til samræmis við ályktanir Sambands ungra sjálfstæðismanna. Síðast var ályktað um málið af okkar hálfu á þingi SUS í september.

Valgerður SverrisdóttirUtandagskrárumræða var á þingi í gær um afkomu bankanna. Málshefjandi var Álfheiður Ingadóttir varaþingmaður VG og sagði hún að einkavæðing bankanna hefði mistekist því hún hefði ekki skilað neytendum betri vöxtum eða þjónustu. Var Valgerður Sverrisdóttir viðskiptaráðherra til andsvara. Hún sagðist ekki undra að almenningur sypi hveljur yfir hagnaði bankanna en sameiginlegur hagnaður þeirra á fyrstu níu mánuðum ársins næmi tæpum 12 milljörðum króna. Sagðist hún telja að einkavæðingarferlið væri einhver best heppnaða aðgerð stjórnvalda í langan tíma. Ennfremur kom fram að teikn væru á lofti um að útlánaskriða væri að hefjast hjá bönkunum og í því sambandi verði menn að fara að öllu með gát.

Stefán Friðrik StefánssonSvona er frelsið í dag
Í dag birtist pistill minn um bruðl í utanríkisþjónustunni. Hafði ég lengi planlagt að skrifa um þetta efni, enda þarft að fjalla um þetta. Í ríkisreikningi sem kynntur var fyrir nokkrum vikum kom fram að utanríkisráðuneytið hefði eytt 5,5 milljörðum króna á síðasta ári. Óhætt er að fullyrða að þetta er gríðarleg útgjaldaaukning á nokkuð skömmum tíma. Telst hún 170% miðað við t.d. árið 1996, en vísitala neysluverðs hækkaði hinsvegar aðeins um 26% á sama tíma. Það ár námu útgjöld utanríkisráðuneytisins 2 milljörðum króna. Aukast útgjöldin því jafnt og þétt þó að á þessu tímabili hafi reikningsskilum verið breytt. Má ljóst vera að útgjaldaaukningin stafi að töluverðu leyti af því að sendiherrum og sendiráðum Íslands, hefur verið fjölgað. Eyðsla fjármuna skattpeninga með þeim hætti sem ríkisreikningur gefur til kynna er ekki verjandi. Taka verður til endurskoðunar og stokka upp utanríkisþjónustuna og leita leiða til að hagræða þar.

Oliver StoneLeikstjóraumfjöllun
Oliver Stone fæddist í New York, þann 15. september 1946. Á hann að baki meistaraverk á borð við Platoon, Born on the Fourth of July, JFK, Nixon og Wall Street. Myndir hans eru glöggur vitnisburður þess að hann hefur tekið á hitamálum á sinn hátt og ekki verið hræddur við að tjá skoðanir sínar gegnum myndir sínar. Myndir hans eru lýsingar hans á þessum hitamálum og hann hefur gert upp þau mál með sínum hætti. Ég fjalla um feril Oliver Stone í nýjustu leikstjóraumfjöllun minni á kvikmyndir.com.

Bókalestur - kvikmyndagláp
Kláraði í gær að lesa loks Grafarþögn eftir Arnald. Alveg hreint mögnuð bók sem vert er að mæla með við þá sem ekki hafa enn lesið. Hafði ég mjög gaman af henni, hörkuspennandi og góð út í gegn, rétt eins og Mýrin. Nú tekur við að lesa ævisögu Jónasar frá Hriflu eftir Guðjón Friðriksson. Las þær fyrir sjö eða átta árum, en nú verður þetta lesið á ný. Skrifaði pistil í gærkvöld fyrir frelsi.is, eftir það horfði ég á hina klassísku stórmynd, To Kill a Mockingbird með Gregory Peck. Þar fer hann á kostum í óskarsverðlaunahlutverki sínu. Magnað meistaraverk frá leikstjóranum Robert Mulligan.

BBCVefur dagsins
Í dag bendi ég öllum á fréttavef BBC. Þar eru ferskar fréttir og lífleg umfjöllun alla daga. Ómissandi vefur fyrir fréttafíkla.

Snjallyrði dagsins
Vits er þeim þörf sem víða ratar
Hávamál

Engin fyrirsögn

Schwarzenegger sver embættiseiðHeitast í umræðunni
Arnold Schwarzenegger tók í gærkvöldi við embætti ríkisstjóra Kaliforníu. Sex vikur eru nú liðnar frá því að hann var kjörinn ríkisstjóri í sögulegum kosningum og vann sigur á Gray Davis sitjandi ríkisstjóra. Eitt fyrsta embættisverk hans á stóli ríkisstjóra var efna eitt sitt helsta kosningaloforð. Hann á fyrir höndum erfitt verkefni við að bæta fjárhag Kaliforníufylkis og ennfremur styrkja undirstöður þess á margan hátt. Verkefnin eru næg og mikilvægt að Arnold taki vel til hendinni. Það er mikilvægt að hann vinni af krafti, mun í því reyna á skoðanir hans og sannfæringu í pólitík. Óskandi er að honum gangi vel og staða ríkisins batni til muna í valdatíð hans.

BaugurStarfsmenn skattrannsóknarstjóra sóttu bókhaldsgögn til Baugs í gær. Eftir því sem Hreinn Loftsson segir í fjölmiðlum veit hann ekki hvað verið sé að rannsaka. Beðið hafi verið um gögn úr bókhaldi félagsins frá árunum 1998-2002. Að sögn Skúla Eggerts Þórðarsonar skattrannsóknarstjóra, mun hafa staðið upphaflega til að sækja gögnin á föstudag, en hafi verið frestað vegna tíðinda um að Baugur ætlaði að skrifa undir stóran samning um helgina. Er rætt um að rannsóknin beinist einkum að Jóni Ásgeiri Jóhannessyni, aðaleiganda Baugs. Verður athyglisvert að fylgjast með framhaldi þessa máls en þessi tíðindi koma í kjölfar frétta um kaup Jóns á eignum Jóns Ólafssonar fyrir helgina.

George W. Bush forsetiÍ dag kemur George W. Bush forseti Bandaríkjanna, í opinbera heimsókn til Bretlands. Fram hefur komið að mati Scotland Yard að ekki hafi fyrr verið um jafnmikla öryggisgæslu í sögunni og þá sem verður í tengslum við komu forsetans. Heimsókn Bush er fyrsta heimsókn Bandaríkjaforseta til Lundúna í boði konungsdæmisins en forsetahjónin munu gista í Buckinghamhöll í boði Elísabetar Englandsdrottningar, þann tíma sem heimsókn þeirra til landsins stendur yfir. Búist er við miklum mótælum í Lundúnum vegna Íraksmálsins í tilefni af komu Bush forseta. Bush sagði í viðtali við David Frost um helgina að hann skildi áhyggjur þeirra Breta, sem voru andvígir því að gripið yrði til hernaðaraðgerða í Írak. Þeir hafi sinn rétt til mótmæla og að hafa skoðanir.

Kristinn Már ÁrsælssonGestapistillinn
Í gestapistli vikunnar á vefsíðunni skrifar Kristinn Már Ársælsson ritstjóri frelsi.is, um fyrsta ár sitt í Sjálfstæðisflokknum. Fyrir um 12 mánuðum var hann staddur í Oklahomafylki í Bandaríkjum Norður-Ameríku. Þar var hann að nema heimspeki við Ríkisháskólann í Oklahoma. Þegar hann kom heim sótti hann um í Sjálfstæðisflokknum. Þá kannaðist hann við einn mann í flokknum. Hann hafði áður en sótt var um inngöngu mestmegnis umgengist fólk sem hélt að honum sögum um að flokkurinn væri hinn allra spilltasti, og ungliðahreyfingin lokaður jakkafataklúbbur. Athyglisverður pistill og gott að fá ítarlegt sjónarhorn manns á flokknum sem hefur verið stuttan tíma í honum en verið í virkur í starfi þar allan þann tíma.

Haukur Þór HaukssonSvona er frelsið í dag
Í dag birtist góð grein Hauks Þórs á frelsinu um konungdæmi og hefðir því tengdar. Hann segir að áður fyrr hafi það verið "almennt viðurkennt” að konungar sóttu vald sitt til æðri máttarvalda. Í því sérstaka umboði hafi þeir ráðið ríkjum, sem háðu stríð og giftust hentugum valkostum í valdatafli konungsfjölskyldna. Hann segir að þjóðir vesturheims hafi sem betur fer tekið upp lýðræði þar sem landsmenn kjósi sér stjórn hins opinbera í frjálsum kosningum. Konungdæmið sé þar með fallið úr gildi. Hann spyr því af hverju sú staðreynd sé ekki viðurkennd? Í gær birtist grein Hjölla um fjölmiðlun í kjölfar hræringa á fjölmiðlamarkaði. Segir hann að í þeirri umræðu hafi ýmsir stuðningsmenn ríkisútvarpsins talið þörf á eflingu þess og meiri afskiptum ríkisins af hinum frjálsu fjölmiðlum. Sem eigi að tryggja frjálsan og óháðan fréttaflutning. Að hans mati sé ekkert þó fjær lagi ef menn vilji virkilega færa fjölmiðlun og fréttaflutning á Íslandi í tryggara horf. Tek ég undir skoðanir hans í þessum efnum og tel rétt eins og hann að stokka verði upp rekstur RÚV.

Jóhanna og ÞórhallurDægurmálaspjall gærkvöldsins
Í Kastljósi gærkvöldsins var ítarlegt viðtal (þétt yfirheyrsla) Svanhildar og Kristjáns við Halldór Ásgrímsson utanríkisráðherra þar sem rætt var um skýrslu hans í utanríkismálum og kynnt var á þingi fyrir tæpri viku. Ennfremur var hann spurður um vændisfrumvarpið sem til umræðu er á þingi og tvær framsóknarkonur eru flutningsmenn að. Vakti mikla athygli mína að hann ljáði máls á að styðja frumvarpið ef fram kæmu breytingar á því. Þykir mér mjög undarlegt að hann lýsi þeirri skoðun sinni á þessum tímapunkti. Þáttastjórnendur gengu mjög hart að Halldóri og stóðu sig vel. Í Íslandi í dag voru gestir Jóhönnu og Þórhalls, þær Sólveig Pétursdóttir og Jónína Bjartmarz og ræddu um vændisfrumvarpið. Ekki voru þær alveg sammála og fóru vel yfir málið. Sólveig stóð sig mjög vel í þessum þætti, kraftmikil.

Vefur dagsins
Í dag bendi ég öllum á að líta á hinn magnaða fréttavef CNN. Lít ég á þann góða fréttavef oft á hverjum degi. Vandaðar og góðar fréttir þar. Þeir sem vilja fylgjast vel með fréttunum eiga að líta í heimsókn á þennan góða vef. Hreint ómissandi!

Snjallyrði dagsins
Sumt fólk vill fá kampavín og kavíar þegar það á skilið gos og pylsur.
Dwight D. Eisenhower forseti Bandaríkjanna (1953-1961).

Engin fyrirsögn

Björn BjarnasonPistill Björns - heitast í umræðunni
Í pistli sínum fjallar Björn um sviptingar á fjölmiðlamarkaði seinustu vikurnar: t.d. eigendaskipti á DV, sölu Jóns Ólafssonar á eigum sínum, nýtt tímarit Moggans og það að útvarpsráð ræði tillögur um hlutverk fréttasviðs við ritstjórn fréttaskýringaþátta með vísan til umræðna um vinstri slagsíðu Spegilsins. Fer hann ítarlega yfir málefni tengd fjölmiðlum. Ræðir ennfremur um brotthvarf Jóns úr íslensku viðskiptalífi og ástæður þess og fer yfir hvort nauðsynlegt sé að binda í lög ákvæði um eignarhald á fjölmiðlum til að útiloka of mikla samþjöppun. Minnir hann á að varaformaður Samfylkingarinnar sjái ekki nauðsyn þess núna, úr því að Morgunblaðinu hafi verið skapað mótvægi á markaðnum! Hann telur réttast að eignarhald fjölmiðla liggi skýrt fyrir, enda megi ekki leika vafi á að eigendur þess séu með puttana í rekstrinum á óeðlilegan hátt. Ennfremur bendi ég á athyglisverða ræðu sem hann flutti í Hallgrímskirkju í morgun, á degi íslenskrar tungu.

Sverrir HermannssonVæntanleg á næstu vikum er ævisaga Sverris Hermannssonar fyrrv. ráðherra og bankastjóra. Ritar hann hana í samstarfi við Pálma Jónasson fréttamann. Í fjölmiðlum voru birtar í dag nokkur brot úr bókinni. Þar kemur fram athyglisverður kafli þar sem hann segir að hann hafi ráðið úrslitum um að Davíð Oddsson var kjörinn formaður Sjálfstæðisflokksins á landsfundi 10. mars 1991. Að eigin sögn hafi hann tryggt stuðning fjölmargra við Davíð með lygasögu um að Þorsteinn Pálsson hafi haft í hyggju að gera Vilhjálm Egilsson að varaformanni sínum ef hann yrði endurkjörinn. Athyglisvert er að Sverrir skýri frá þessu fyrst nú, 12 árum eftir landsfundinn en ekki fyrr. Að auki birtist umfjöllun um rimmu hans og Davíðs sem átti víst að vera hans helsti vildarmaður, fimm árum síðar (1996) og birtir það sem á að vera bréf frá Davíð til hans á þeim tíma. Verður athyglisvert að lesa þessa bók Sverris.

mbl.is - besti íslenski fréttavefurinnÍ dag kom út nýtt tímarit Morgunblaðsins. Var gaman að lesa það. Margt áhugavert og spennandi þar á ferð. Skemmtileg viðtöl og fræðandi efni. Sérstaka athygli mína vakti gott spjall við Ingibjörgu og Lilju Pálmadætur, kraftmiklar konur þar á ferð. Hlakka til að lesa þetta blað héðan í frá á sunnudögum, þetta er líflegt og gott blað, veglegt fylgirit með Mogganum.

Stefán Friðrik StefánssonSunnudagspistillinn
Að þessu sinni fjalla ég um sölu Jóns Ólafssonar á eignum sínum eftir 27 ára stormasaman feril í íslensku viðskiptalífi og fer yfir helstu áfangana á þeim ferli hans, ræði ennfremur um umræðu tengda eignarhaldi á fjölmiðlum, fjalla um umfjöllun tengda pistli mínum á frelsi.is og svara þeim skrifum sem fram komu á vef ungra jafnaðarmanna henni tengd, og að lokum um fræðandi og gagnlega vísindaferð borgarstjórnarflokks Sjálfstæðisflokksins um helgina þar sem borgarmálin voru kynnt á líflegan hátt.

Helgin - borgarferð
Hélt á föstudag til Reykjavíkur. Stuttur stjórnarfundur var í SUS kl. 16:45 og ýmis mál þar rædd. Að honum loknum var heimsókn stjórnarmanna SUS í Alþingishúsið þar sem Guðmundur Hallvarðsson alþingismaður, tók á móti okkur og fór með okkur um húsnæði þingsins. Sérstaklega var athyglisvert að skoða Skálann, nýbyggingu við þinghúsið. Fór síðast í þinghúsið fyrir tveim árum til að hitta þá einn þingmann Sjálfstæðisflokksins. Árið 1994 fór ég þangað fyrst en þá var opið hús í tilefni lýðveldisafmælisins. Að kvöldi föstudagsins var kvöldverður á Café Victor og eftir það fórum við góður hópur ungliða í stjórn SUS að kanna stemmninguna í bænum. Á Ölstofu Kormáks og Skjaldar, hitti ég þrjá menn sem ég ræddi við um skrif mín og pólitík almennt. Var það mjög fróðlegt og skemmtilegt spjall. Á laugardeginum hitti ég Helga frænda og eins og venjulega ræddum við pólitík. Eftir hádegið fór ég í vísindaferð Heimdallar og borgarstjórnarflokksins og í boð að því loknu í Valhöll þar sem pólitíkin var rædd af krafti, kynntist þar mörgu nýju fólki. Um kvöldið var svo ritnefndarfundur hjá frelsi.is og að því loknu fjör í bænum á dagskránni. Í dag var svo ýmislegt fleira athyglisvert um að vera.

Frelsi.isVefur dagsins
Í dag bendi ég öllum á að líta á söguvef Heimdallar. Þar er að finna margt fróðlegt og gott efni úr sögu flokksins og þessa stærsta ungliðafélags landsins.

Snjallyrði dagsins
Government does not tax to get the money it needs; government always finds a need for the money it gets.
Ronald Reagan forseti Bandaríkjanna (1981-1989).

Engin fyrirsögn

NorðurljósHeitast í umræðunni
Dagblaðið DV kom í dag út í fyrsta skipti undir stjórn nýrra eigenda. Þar er byrjað með krafti. Forsíðufrétt blaðsins í dag er á þá leið að Jón Ólafsson, meirihlutaeigandi Norðurljósa er að selja allar eignir sínar hérlendis og í dag muni nýir aðilar taka við stjórn Norðurljósa. Hljóta það að teljast stórtíðindi í íslensku viðskiptalífi. Á hluthafafundi í Norðurljósum sem haldinn verður í dag á að færa hlutafé í félaginu niður um 80%. Nýir hluthafar munu koma inn í rekstur félagsins. Fram hefur komið í fréttum í dag að hlutafé í Norðurljósum sé um 1,7 miljarðar en skuldir félagsins hinsvegar á sjötta miljarð. Kaupþing-Búnaðarbanki er stærsti lánardrottinn Norðurljósa og einn þeirra aðila sem koma nú að endurfjármögnun. Aðrir sem koma inn í reksturinn eru aðilar nátengdir Jóni Ásgeiri Jóhannessyni, ennfremur VÍS og Kári Stefánsson. Með þessum breytingum er ljóst að Jón Ásgeir og fjölskylda hans eru orðið mikið fjölmiðlaveldi, auk stórs eignarhluta í Norðurljósum er hann einn helstu eigenda Fréttar ehf. sem gefur út DV og Fréttablaðið.

HeimdallurDeilur í Heimdalli félagi ungra sjálfstæðismanna í Reykjavík, eru nú komnar á borð miðstjórnar Sjálfstæðisflokksins í kjölfar þess að frambjóðendur framboðs sem dró sig til baka í aðdraganda aðalfundar sem töldu sig beitta órétti, kærðu málið til miðstjórnar. Þau óska þar eftir því að miðstjórn flokksins úrskurði um lögmæti aðalfundarins. Undanfarnar vikur hafa frambjóðendur þessa framboðs notað hvert tækifæri til að ræða þessi mál í fjölmiðlum og látið ýmis gífuryrði því miður falla. Það er í raun þeirra eina skref í stöðunni að leita til miðstjórnar og athyglisvert að það hafi ekki verið gert fyrr. En málið er komið á þetta stig. Fyrir hálfum mánuði samþykkti stjórn SUS ályktun um málið. (Viðbót - Hana samþykktu allir stjórnarmenn nema tveir sem greiddu atkvæði á móti henni. - leiðr. frá fyrri færslu) Óskandi er að málið fái fljótt afgreiðslu miðstjórnar og stjórn félagsins fái í kjölfar þess vonandi frið til að starfa af krafti, eins og hún hefur gert þrátt fyrir leiðindi seinustu vikna.

Hart var deilt á þingi í gær um skýrslu utanríkisráðherra um utanríkismál sem kynnt var þingmönnum í gærmorgun. Guðlaugur Þór Þórðarson alþingismaður, átti þar snörp orðaskipti við Rannveigu Guðmundsdóttur og Ásgeir Friðgeirsson varaþingmann, um samstarf Bandaríkjanna og Íslands. Steingrímur J. fór svo mikinn í umfjöllun sinni um skýrslu ráðherrans. Þar talaði hann um málefni Afganistans og Íraks. Ennfremur var mikið rætt um umsókn Íslendinga að Öryggisráði Sameinuðu þjóðanna og sitt sýndist hverjum. Fyrir nokkrum dögum áttu forsætisráðherra og Mörður Árnason snörp orðaskipti vegna málefna safns Halldórs Laxness sem mun opna á næsta ári á Gljúfrasteini. Líf og fjör á þingi semsagt.

Stjórnarráðið14. nóvember
14. nóvember hefur í gegnum tíðina verið mjög sögulegur dagur. Ákvað ég að líta í bók Jónasar Ragnarssonar, Daga Íslands, og kynna mér betur sögu hans. Það var þennan dag árið 1917 sem lögræðislög voru staðfest. Skv. þeim urðu menn sjálfráða 16 ára og fjárráða 21 árs. Fjárræði var lækkað í 20 ár 1967 og að lokum í 18 ár 1979. Á þessum degi 1930 var Hitaveita Reykjavíkur, fyrsta hitaveitan hérlendis tekin í notkun. Boranir eftir heitu vatni hófust árið 1928. Þennan dag árið 1963 eða fyrir nákvæmlega fjórum áratugum hófst Surtseyjargosið. Eldgos hófst á hafsbotni suðvestur af Vestmannaeyjum. Þar sem áður var 130 metra dýpi kom upp eyja sem nefnd var Surtsey. Gosið stóð með hléum í þrjú og hálft ár, eitt lengsta gos Íslandssögunnar. Hún var stærst 2,7 ferkílómetrar en hefur í gegnum tíðina minnkað um nær helming. Sama dag árið 1963 tók ríkisstjórn dr. Bjarna Benediktssonar við völdum. Hún var hluti af viðreisnarstjórn Sjálfstæðis- og Alþýðuflokksins sem sat samfellt í 12 ár, 1959-1971. Bjarni og ráðuneyti hans sat við völd til andláts hans árið 1970. Þennan dag fyrir tveim áratugum lést Tómas Guðmundsson skáld.

frelsi.isSvona er frelsið í dag
Í dag skrifar Stefán Ottó Stefánsson, grein á frelsi.is um Samkeppnisstofnun og einokunarverslun. Fram kemur í grein hans að með stofnun Samkeppnisstofnunar hafi ríkið sýnt einlægan vilja til að skipta sér beint af frjálsum markaði hér í landi, berjast gegn svokölluðum markaðsbrestum, svo sem fákeppni og einokun. Samkeppnisstofnun hafi nú þegar beitt ýmis konar ofbeldi gegn fyrirtækjum, til að mynda innrásir í höfuðstöðvar og gert upptæk skjöl í eigu þeirra. Að mati Stefáns Ottós er óhætt að segja að þetta raski starfsemi fyrirtækja gríðarlega. Ennfremur bendir hann á að það sé tímabært að einkavæða ÁTVR. Hann segir að fullorðnir einstaklingar séu fullfærir um að versla sín á milli með hvers kyns vörur jafnvel áfengi. Tek ég heilshugar undir skrif hans.

Grein í Morgunblaðinu - stjórnmálastarf
Í dag birtist grein mín í Mogganum um landsfund Samfylkingarinnar og hægristefnuna sem þar var mótuð í heilbrigðismálum. Fer ég ítarlega yfir hvaðan sú stefnubreyting er sótt, enda vita allir að leitað er í smiðju Heimdallar og Ástu Möller sem verið hefur í forystu innan Sjálfstæðisflokksins í þessum málum. Um helgina stendur mikið til. Ég fer suður seinna í dag. Stjórnarfundur er í SUS um fimmleytið. Að honum loknum heldur stjórn SUS í heimsókn á Alþingi. Þar tekur á móti okkur Guðmundur Hallvarðsson alþingismaður. Á morgun er ritnefndarfundur hjá frelsi.is, vísindaferð borgarstjórnarflokks Sjálfstæðisflokksins og gleðskapur á Hverfisbarnum. Ennfremur verður litið í heimsókn til vina og kunningja. Þetta verður góð helgi.

SUSVefur dagsins
Í dag bendi ég á vef Heimis, félags ungra sjálfstæðismanna í Reykjanesbæ. Þar eru pistlar, fréttir úr starfinu og margt mjög athyglisvert. Formaður Heimis er frændi minn, Georg Brynjarsson.

Snjallyrði dagsins
Ólíkt háttvirtum þingmanni er ég ekki og verð aldrei fréttaskýrandi.
Davíð Oddsson forsætisráðherra (í svari til Marðar Árnasonar á Alþingi, 11. nóvember 2003).

Engin fyrirsögn

StjórnarráðiðHeitast í umræðunni
Í morgun flutti Halldór Ásgrímsson utanríkisráðherra, á þingi skýrslu sína um utanríkismál. Sagði ráðherrann í umræðu um málið að framboð Íslands til öryggisráðs Sameinuðu þjóðanna muni styrkja stöðu Íslands á alþjóðavettvangi og markaði mikil tímamót í íslenskri utanríkisstefnu. Umsókn til ráðsins var meginefni í skýrslunni. Markmið ráðherrans og ráðuneytis er framlag til varðveislu friðar og öryggis og annarra stefnumiða Sameinuðu þjóðanna. Ég er algjörlega mótfallinn þessu. Þetta mál var mikið rætt í störfum utanríkis- og varnarmálanefndar á SUS-þingi í Borgarnesi 12. - 14. september sl. Niðurstaðan var að við ályktuðum á þá leið að kostnaður við inngöngu í öryggisráðið væri svo mikill að það skorti rök fyrir þeim ávinning sem myndi hljótast af setu í ráðinu. Við teljum þetta því ekki rétt skref og erum á móti þessu.

Tómas Ingi og Kristján ÞórVerkefnisstjórn um byggingu menningarhúss á Akureyri leggur til að byggt verði 3500 fm. stórt menningarhús á Akureyri á uppfyllingunni sunnan Strandgötu og austan Glerárgötu. Í húsinu muni verða m.a. 500 manna tónlistarsalur auk fjölnotasalar sem nýtist við fjölbreytileg tækifæri. Verkefnisstjórnin var skipuð í kjölfar samkomulags menntamálaráðuneytisins og Akureyrarbæjar sem undirritað var 7. apríl sl. af menntamálaráðherra og bæjarstjóra, en þar var miðað við að kostnaður við verkið yrði 1200 milljónir króna sem skiptist þannig að Akureyrarbær beri 40% og ríkið 60%. Tillögur verkefnisstjórnarinnar voru kynntar bæjarráði Akureyrar og menntamálaráðherra í dag með greinargerð sem kallast Orkuver við Pollinn. Fram kemur í tilkynningu frá Akureyrarbæ að vinna verkefnisstjórnarinnar hafi ekki síst snúist um að fara yfir fyrri tillögur og hugmyndir og laga húsið að þeim ramma sem verkinu var settur.

Alþingi ÍslendingaÁ Alþingi hefur verið lagt fram nýtt frumvarp um réttindi og skyldur opinberra starfsmanna. Verði það samþykkt mun falla úr gildi sú skylda forstöðumanna hjá ríkisstofnunum að áminna starfsmann skriflega áður en honum er vikið úr starfi. Andmælaréttur verður ennfremur felldur niður. Fram kemur í greinargerðinni að markmiðið með lagabreytingunni verði að færa rekstur ríkisins nær almenna vinnumarkaðnum. Í sameiginlegri ályktun frá BSRB, BHM og KÍ kemur fram að frumvarpið feli í sér breytingar á grundvallarréttindum ríkisstarfsmanna hvað varðar starfsöryggi.

Heiðrún Lind MarteinsdóttirSvona er frelsið í dag
Á frelsinu í dag er góður pistill eftir Heiðrúnu Lind um aðgerðaleysi R-listans í málefnum ungs fólks í borginni. Fram kemur í pistli hennar að þegar fólk á aldrinum 20 – 30 ára sé spurt í aðdraganda kosninga hvaða málefni þau telji brýnust úrbóta hafi húsnæðis- og velferðarmál einna oftast orðið ofan á. Ungt fólk í Reykjavík væri engin undantekning og ætla mætti að velferð ungra barna þeirra og kaup á húsnæði séu þeim ofarlega í huga. Vert væri að skoða hvernig á þeim málum hefði verið tekið í tíð R-listans og hvort gefin loforð hafi verið efnd. Fer Heiðrún vel yfir loforð R-listans og efndir þeirra sem lítið hefur bólað á. Fram kemur að R-listi þriggja flokka hafi lítið gert í þessum málum. Niðurstaða hennar er að R-listinn skuli hafa það í huga að betra sé ólofað en illa efnt. Ástæða sé til að skipta um meirihluta í borgarstjórn Reykjavíkur.

Pressukvöld RÚVDægurmálaspjall gærkvöldsins
Í gærkvöldi voru Ásta Ragnheiður Jóhannesdóttir og Hjálmar Árnason gestir Jóhönnu og Þórhalls í Íslandi í dag. Umræðuefnið var starfslokasamningar við forystumenn í ríkisstofnunum. Tilefni þessa er skýrsla viðskipta- og félagsmálaráðherra um starfslok tveggja forstjóra Byggðastofnunar og hinsvegar forstöðukonu Jafnréttisstofu sem fékk önnur kjör við starfslok en hinir tveir. Rifust þau allharkalega um málið. Mitt mat er að viðkomandi aðilar eigi að fá jafnmikið og semja eftir kaupum og kjörum í þessu, það á jafnt yfir alla að ganga sama hvar þeir eru í ríkisstofnunum. Í Pressukvöldi RÚV var gestur þriggja fréttamanna Guðni Ágústsson landbúnaðarráðherra. Mér fannst mjög athyglisvert að ráðherrann svaraði vart þeim spurningum að honum var beint heldur sneri útúr þeim öllum með einkar undarlegum hætti. Svo merkilegt er við þennan stjórnmálamann að maður telur að hann sé alltaf að grínast. Það er enda svo að hann er eftirsóttari sem skemmtikraftur í sveitum landsins en sem ábyrgur stjórnmálamaður.

Bókalestur - MSN spjall
Í gærkvöldi hóf ég að lesa Grafarþögn eftir Arnald Indriðason og fór langleiðina með að klára hana, geri það í kvöld. Alveg mögnuð bók. Hef svo í hyggju eftir helgina að lesa Bettý eftir sama höfund, nýja bók hans. Var að glugga í gærkvöldi í bókina Samtíðarmenn frá 1993, alltaf gaman að lesa hana. Hef mikinn áhuga á nýju bókinni sem nýlega er komin í verslanir, tvö bindi þar sem hægt er að fræðast um ættir íslensks merkisfólks. Í gærkvöldi átti ég gott spjall á MSN við marga félaga, alltaf jafngaman að spjalla þar. Nýlega kom félagi minn, Stefán Einar inn á MSN og höfum við rætt þar ýmis mál. Alltaf gaman að rabba við hann.

Vefur dagsins
Í dag opnar á netinu nýr spjallvefur. Ber hann heitið alvaran.com. Eins og nafnið ber með sér er það málefnalegur spjallvefur þar sem rætt er af viti um málin og á alvarlegum nótum, ekkert IRQ dæmi semsagt. Líst vel á þennan vef, hann lofar góðu.

Snjallyrði dagsins
Það sem vantar í heiminum eru fleiri lítillátir snillingar. Við erum svo fáir eftir.
Oscar Levant

Engin fyrirsögn

Björn Bjarnason dómsmálaráðherraHeitast í umræðunni
Unnið er að því innan dómsmálaráðuneytisins að gera breytingar á umdæmaskipan við löggæslu og gera tillögur að breyttu innra starfi lögreglunnar. Björn Bjarnason dómsmálaráðherra hefur skipað starfshóp sem gera á tillögur í þessa átt. Tillögurnar eiga að miða að því að efla starfsemi lögreglu og sýslumanna og nýta fjármuni betur. Einnig er starfshópnum ætlað að móta löggæsluáætlun til næstu ára þar sem sett verði fram forgangsröð verkefna. Hefur ráðherrann unnið að þessu máli frá því hann tók við embætti í maímánuði og ræddi þetta mál á fundi með okkur í Verði, félagi ungra sjálfstæðismanna, fyrir nokkrum vikum. Skv. þessum hugmyndum er ekki ráðgert að fækka sýslumannsembættum. Það þykir mér vissulega slæmt, enda má eflaust hafa þau færri. En þetta er spor í rétta átt að breyta umdæmaskipan löggæslunnar

Michael HowardMichael Howard tók í seinustu viku við stjórn breska Íhaldsflokksins. Hann skipaði í byrjun vikunnar skuggaráðuneyti sitt og flokksins. Þar urðu miklar breytingar. Skipt var um formann flokksins. Theresu May var skipt út og tveir skipaðir í stað hennar, þeir Liam Fox og Lord Saatchi. Í dag var svo komið að fyrstu prófraun hins nýja leiðtoga hægrimanna. Fyrirspurnartími var í breska þinginu í dag og þar rifust Howard og Tony Blair forsætisráðherra Bretlands, harkalega. Það er óskandi að breskir hægrimenn styrki stöðu sína. Howard er mun sterkari stjórnmálamaður en Iain Duncan Smith og líklegra að hann nái betri stöðu en hann.

Þingmenn Samfylkingarinnar gerðu í dag harða hríð að landbúnaðarráðherra á þingi. Umræðuefnið var aðgerðir ríkisstjórnarinnar til hjálpar sauðfjárbændum sem þeir töldu lítið vit í. Sagði Jóhann Ársælsson að offramleiðsla kjöts væri ekki bara vandi sauðfjárbænda heldur í raun alls landbúnaðarins. Guðni Ágústsson landbúnaðarráðherra sagði að hann þyrfti ekki að sitja undir sendingum af þessu tagi frá sundurlyndri og ómerkilegri Samfylkingu. Bændur hefðu fagnað úrræðunum og við það sæti. Guðni er alltaf við sama heygarðshornið.

Vilhjálmur Þ. VilhjálmssonSvona er frelsið í dag
Á frelsinu í dag er athyglisvert netviðtal við Vilhjálm Þ. Vilhjálmsson leiðtoga borgarstjórnarflokks Sjálfstæðisflokksins. Hann er spurður hvort hann telji það best að ríkið, Reykjavíkurborg og Akureyrarbær hafi fullt eignarhald í Landsvirkjun eða hvort til greina komi að einkaaðilar eignist þar hlut. Svar hans er athyglisvert. Þar kemur eftirfarandi fram: "Að loknum framkvæmdum við Kárahnjúkavirkjun tel ég koma til álita breytt eignarhald á Landsvirkjun og að fyrirtækinu yrði breytt í hlutafélag. Þá má hugsa sér að inn komi hluthafar sem leita eftir langtímafjárfestingu sem skilaði hóflegri arðsemi en öruggri. Landsvirkjun gæti einnig verið álitlegur fjárfestingarkostur fyrir lífeyrissjóðina." Það er gott að leiðtogi borgarstjórnarflokksins sé á þessari skoðun. Ég er honum sammála um að eftir framkvæmdir við virkjun á Austurlandi sé þetta rétt skref. Framundan um helgina er vísindaferðin með borgarstjórnarflokknum. Ætla ég að fara í hana.

Atli Rafn BjörnssonGestapistillinn
Í gestapistli vikunnar á vefsíðunni skrifar Atli Rafn Björnsson formaður Heimdallar, um heilbrigðismál. Hann segir að ummæli formanns Samfylkingarinnar á landsfundi flokksins um markaðsvæðingu í heilbrigðiskerfinu hafi komið skemmtilega á óvart. Með þeim hafi hann í raun tekið undir stefnu Heimdallar og Sjálfstæðisflokksins í heilbrigðismálum. Slíkum stuðningi telur Atli að beri að fagna, enda þörfin fyrir endurskipulagningu á kerfinu mjög mikil. Það var Atla mikil vonbrigði þegar Framsóknarflokknum var fært heilbrigðisráðuneytið við stjórnarmyndun í vor, enn eitt kjörtímabilið en það hefur undanfarin 12 ár verið undir stjórn samstarfsflokka Sjálfstæðisflokksins. Góður pistill hjá Atla.


Guðlaugur Þór ÞórðarsonLitið á netið
Á Vef-Þjóðviljanum birtist nýlega góð grein þar sem fjallað er um þá vinnu sem nú stendur yfir innan Evrópusambandsins við að koma saman stjórnarskrá fyrir sambandið sem öll aðildarríkin geti sætt sig við. Sú vinna hefur þó síður en svo gengið vel og er nú komin langt út fyrir allar áætlanir sem upphaflega voru settar fram. Ekki þykir ráðamönnum innan Evrópusambandsins þær fréttir betri að meirihluti íbúa aðildarríkja sambandsins hefur ekki hugmynd um að verið sé að setja saman stjórnarskrá fyrir sambandið. Á Heimssýn er að finna virkilega góða grein eftir Guðlaug Þór Þórðarson alþingismann, um ferð hans nú nýlega á fund EFTA-þingmannanefndarinnar í Brussel. Segir hann þar frá þeim fundi og mörgu athyglisverðu sem þar kom fram.

Kvikmyndir - sjónvarpsgláp - bókalestur
Í gærkvöldi eftir fréttirnar fór ég í bíó og sá gamanmyndina Scary Movie 3, með vini mínum. Skemmtum við okkur vel. Þegar heim kom horfði ég á upptöku af Amazing Race og Lindley lögregluforingja, tveim þáttum sem voru fyrr um kvöldið á Stöð 2. Ekta breskur spennumyndaflokkur eins og þeir gerast bestir, þessir um Lindley. Eftir það leit ég í bókina Í hlutverki leiðtogans, sem er alveg mögnuð viðtalsbók eftir Ásdísi Höllu Bragadóttur bæjarstjóra í Garðabæ. Las þar tvo kafla. Er svo að byrja að lesa Grafarþögn eftir Arnald Indriðason. Ef hún er eins góð og Mýrin að þá er von á góðu!

SjálfstæðisflokkurinnVefur dagsins
Í dag bendi ég öllum á að líta á vefsíðu Sjálfstæðisflokksins. Þar er að finna upplýsingar um flokkinn og allt sem skiptir máli um hann.

Snjallyrði dagsins
Ég get ekki og vil ekki sníða samvisku mína að tískunni.
Lillian Hellman skáldkona

Engin fyrirsögn

Guðni er öruggari með sig nú en áðurHeitast í umræðunni
Umdeilt frumvarp landbúnaðarráðherra um breytingar á lax- og silungslögum sem heimila innflutning á lifandi laxfiskum var samþykkt á Alþingi í gær. 30 alþingismenn greiddu atkvæði með því en 25 voru á móti. Meirihluti landbúnaðarnefndar gerði alls 9 breytingartillögur við frumvarpið og voru 2 þeirra samþykktar við atkvæðagreiðslu. Deilt var hart á þingi um frumvarpið og efni þess allt til síðustu stundar. Einkum var rætt um bráðabirgðalögin sem sett voru í sumar og töldu stjórnarandstæðingar það vera vafasamt verk. Vildu þingmenn Samfylkingarinnar fá álit forseta Alþingis á aðdraganda þess máls.

Utanríkisráðuneytið eyddi 5,5 miljarði króna í fyrra. Um er að ræða gríðarlega útgjaldaaukningu á skömmum tíma, 170%
miðað við árið 1996 vísitala neysluverðs hækkaði um 26% á sama tíma. Námu útgjöld ráðuneytisins 2 milljörðum króna. Í ríkisreikningi kemur fram að útgjöldin jukust jafnt og þétt á þessu árabili þótt reikningsskilum væri breytt. Stafar útgjalda aukningin að einhverju leyti af því að sendiherrum og sendiráðum Íslands, hefur verið fjölgað. Stofnkostnaður við sendiráð Íslands í Japan var t.d. 700 miljónir króna, árlegur rekstarkostnaður þessa eina sendiráðs er 100 miljónir króna. Þrátt fyrir þetta hafa viðskipti við Japan minnkað. Er að vinna að grein um þetta mál, þetta er sjokkerandi.

Kostnaður ríkisins vegna starfsloka tveggja forstjóra Byggðastofnunar á árunum 2001 og 2002 nam tæpum 70 miljónum króna. Samkvæmt samningi sem forveri forstjórans hjá Byggðastofnun gerði fær hann 90% af fullum launum í lífeyri fyrir 15 ára starf. Þetta bruðl er með ólíkindum. Á þessu verður að taka. Stóralvarlegt mál! Byggðastofnun á að leggja niður og stokka allt upp þessu tengt.

Kristinn Már ÁrsælssonSvona er frelsið í dag
Í dag birtist á frelsinu athyglisverð grein eftir Kristinn Má. Er þetta grein í greinaflokki hans um vinstrivillur á landsfundum. Þegar hafa birst nokkrir pistlar um þetta og nú er komið að menningarmálunum. Nú bendir hann á þau tilvik í menningarmálaályktun flokksins þar sem forsjárhyggjan tók völdin og sjónarhorni frjálshyggjunnar varpað fyrir róða. Eins og sjá má á vef Heimdallar er mikið líf í starfinu þar. Nýlega var þingmannaspjall með Sigurði Kára og var þar mikið fjölmenni. Framundan í þessari viku er þingmannaspjall með Birgi Ármannssyni, vísindaferð með borgarstjórnarflokknum og gleðskapur á laugardagskvöld á Hverfisbarnum. Líf og fjör!

HeimdallurUndarleg skrif
Í gær vakti athygli mína grein Svövu Bjarkar Hákonardóttur um eftirmála aðalfundar Heimdallar. Þar ræðst hún að stjórn SUS vegna ályktunar um Heimdallarmál. Tel ég mikilvægt að tjá mig um þessi fáránlegu skrif Svövu sem lykta af sama meiði og annað blaður sem frá Deiglufólki kemur vegna þessa. Ég sat stjórnarfundinn þar sem þetta var samþykkt og fann engan klíkuanda þar. Almenn samstaða var um þessa ályktun, þar sem verið var að mótmæla afskiptum fulltrúaráðs flokksins í borginni á málefnum SUS-félags og þarmeð farið á okkar verksvið. Auðvitað var því mótmælt og hefði verið ef eitthvað annað félag ungliða hefði staðið í sömu sporum. Mér finnst leitt að lesa svona skrif, enda lykta þau af illmennsku og lágkúru og það er leitt að fólk nenni að standa í slíku. Svona nokkuð skemmtir aðeins skrattanum.

KastljósfólkiðDægurmálaspjall gærkvöldsins
Í gærkvöldi voru nýir ritstjórar DV, Illugi Jökulsson og Mikael Torfason, gestir Jóhönnu og Þórhalls. Þar ræddu þeir um framtíð blaðsins undir þeirra stjórn. Athygli mína vakti að Illugi vildi helst ekkert segja en Mikael var öllu djarfari. Hugsaði með mér að þarna væru komnir fréttamannsstjórnandinn varkári og skandalamaðurinn sem ætti svo að stjórna Séð og heyrt hlið blaðsins. Líst ekki á þetta form að blaði sem þetta á að vera, einskonar Séð og heyrt á hverjum degi. Í Kastljósinu var Steingrímur J. gestur Svansíar og Sigmars. Umræðuefnið var landsfundur VG og stefna flokksins að því loknu. Kjaftaði þarna hver tuska á formanninum sem sagði sig vera formann eina vinstriflokksins hérlendis hvorki meira né minna.

SUSVefur dagsins
Í dag bendi ég öllum á vef Sambands ungra sjálfstæðismanna. Þar eru fréttir úr starfi ungliða og upplýsingar um SUS og fleira athyglisvert er þar að finna.

Snjallyrði dagsins
Það er ekki hægt að segja að bók sé siðleg eða ósiðleg. Bækur eru vel eða illa skrifaðar. Það er allt og sumt.
Oscar Wilde rithöfundur

Engin fyrirsögn

Heitast í umræðunni
Illugi Jökulsson og Mikael Torfason hafa verið ráðnir ritstjórar DV. Jónas Kristjánsson fyrrum ritstjóri blaðsins, verður leiðarahöfundur þar. Illugi sem er eins og allir vita landsþekktur pistlahöfundur hefur ekki komið nálægt dagblaðaútgáfu í fjölda ára en var eitt sinn stjórnandi helgarblaðs DV. Mikael stýrði eitt sinn blaðinu Fókus. Ráðning þeirra er til marks um það að blaðið verður beitt og kraftmikið áskriftarblað og stimpill gulu pressunnar verður þar áberandi. Er áætlað að fyrsta blað DV eftir breytingar komi út í vikunni.

Ástandið í Georgíu er mjög slæmt, stjórnarandstæðingar í Georgíu ætla að halda áfram mótmælum og krefjast afsagnar Eduards Shevardnadse forseta. Stjórnarandstaðan sakar forsetann og stuðningsmenn hans um víðtækt svindl í kosningunum fyrir viku og krefjast þess að þær verði ógiltar. Yfirkjörstjórn hefur ógilt úrslit í um 10% kjördæma landsins og boðað nýjar kosningar þar 16. þessa mánaðar. Dagný Jónsdóttir alþingismaður, var í Georgíu við kosningaeftirlit í þessum kosningum og fjallar um þær á athyglisverðan hátt á vef sínum.

Air Greenland hefur ákveðið að hætta flugi milli Akureyrar og Kaupmannahafnar vegna harðnandi samkeppni. Áætlað er að síðasta flug félagsins frá Akureyri verði 1. desember n.k. Þetta er gríðarlegt áfall fyrir ferðaþjónustu á öllu Norðurlandi, enda voru miklar vonir bundnar við þessa nýjung. Það er slæmt að svo sé komið. Þjónusta var til fyrirmyndar og þetta góður kostur sem eftirsjá er að.

Svona er frelsið í dag
Í dag skrifar Atli Rafn góðan pistil um hækkun afnotagjalda nú nýlega um 5%. Erum við frændurnir á svipuðum slóðum í seinustu tveim pistlum á frelsinu, að fjalla um RÚV og ríkistengda fjölmiðlun. Eins og Atli bendir réttilega á er algjörlega óviðunandi að ríkisstjórn undir forystu Sjálfstæðisflokksins taki þessa ákvörðun þvert á þá stefnu sem mótuð hefur verið um að álögur á almenning skuli lækka. Afnotagjöldin sem ríkisútvarpið innheimtir kemur beint úr vösum almennings en báðir ríkisstjórnarflokkarnir lofuðu í kosningabaráttunni kjósendum umtalsverðum skattalækkunum á kjörtímabilinu. Í ljósi þeirra loforða eru umræddar hækkanir óviðunandi. Ríkisstjórninni ber að sýna aðhald í efnahagsmálum, sem á að fela í sér niðurskurð á útgjöldum ríkisins, en ekki hækkun skatta.

Dægurmálaspjall gærkvöldsins
Í Silfri Egils í gærkvöldi var Steingrímur J. Sigfússon formaður VG, aðalgesturinn. Þar var hann að tjá sig um landsfund VG og útkomu hans. Rætt var mikið um nýfeminíska ímynd flokksins, en tvær konur um þrítugt eru nú komnar í forystusveit hans. Sagði formaðurinn að nú væri VG orðin ímynd feminískra gilda. Ja, dámar ekki Gvend er Steingrímur frá Gunnarsstöðum orðinn ímynd femínisma í íslenskri pólitík. Best að fá sér te meðan maður meðtekur þessa nýju ímynd hans. Í Kastljósinu í gærkvöld ræddi Kristján Kristjánsson við hinn merka sjónvarpsmann Sir David Attenborough. Enginn maður hefur betur kynnt dýr og lífsskilyrði þeirra fyrir sjónvarpsáhorfendum en hann. Goðsögn í lifanda lífi, einstakur sjónvarpsmaður sem kann þá list betur en nokkur annar að segja frá á lifandi og ferskan hátt. Einstakur karakter, er mikill unnandi sjónvarpsþátta hans.

Sjónvarpsgláp - kvikmyndir
Í gærkvöld var horft á þetta týpíska á sunnudagskvöldi; 60 mínútur, Sjálfstætt fólk, milljónaþáttinn með Jónasi R. (sem passar vel í stól stjórnandans, þjálfaður sjónvarpsmaður og kann listina að skemmta betur en margir aðrir). Seinnipart kvöldsins ákváðum við Ólöf frænka að hittast og rabba málin. Horfðum við á kvikmyndir og ræddum ýmislegt spennandi. Er heim var komið tók við smáspjall á MSN, alveg magnað hvað er gaman að ræða pólitík og málin almennt á þessu einstaka spjallkerfi. Bravura!

Vefur dagsins
Í seinustu viku voru vefir tengdir Akureyrarbæ í vefhorni vikunnar. Þessa vikuna kynni ég hægrivefsíður af ýmsu tagi. Fyrst ber að benda á Íslending, vef Sjálfstæðisflokksins á Akureyri og Norðausturkjördæmi. Íslendingur er vefrit víðsýnnar, frjálslyndrar og þjóðlegrar framfarastefnu sem er ætlað að miðla upplýsingum og skýra sjónarmið sjálfstæðisfólks á Akureyri og í Norðausturkjördæmi. Lögð er áhersla á að kynna félagsstarf sjálfstæðisfélaganna, fulltrúaráðsins og kjördæmisráðsins.

Snjallyrði dagsins
Það er betra fyrir mannkynið að leyfa manni að lifa eins og honum þykir gott en að kúga hvern mann til að lifa eins og öllum gott þykir.
John Stuart Mill

Engin fyrirsögn

Heitast í umræðunni - pistill Björns
Katrín Jakobsdóttir var í dag kjörin varaformaður VG með 119 atkvæðum gegn 30 atkvæðum Steingríms Ólafssonar. Kynslóðaskipti verða í forystu íslenskra stjórnmálaflokka með kjöri Katrínar, enda hún aðeins 27 ára gömul og fyrsti fulltrúi Cocoa Puffs kynslóðarinnar í forystu stjórnmálaflokks á Íslandi. Steingrímur J. Sigfússon var endurkjörinn formaður flokksins, eins og við var að búast enda guðfaðir flokksins. Eftir fundinn reynir VG að sækja áberandi til vinstri, þar telja þau sóknarfæri sín gegn t.d. Samfylkingunni. Katrín er hinsvegar að segja það sama og Steingrímur, bara nýjar umbúðir en engar breytingar.

Undirrita á samninginn um aðlögun Evrópska efnahagssvæðisins að stækkun Evrópusambandsins í Liechtenstein á þriðjudag en í framhaldi af því þurfa þjóðþing allra Evrópuríkjanna að staðfesta samninginn. Í Aftenposten í gær koma fram efasemdir um að Frökkum og Spánverjum muni takast að staðfesta samninginn í tíma fyrir stækkun ESB 1. maí nk. Halldór Ásgrímsson utanríkisráðherra segir að menn hafi lagt ofurkapp á að ljúka þessu sem fyrst og lagt nótt við dag að undanförnu "því við höfum óttast að þetta gæti haft áhrif á staðfestingu samningsins.

Í pistli Björns á heimasíðu hans í dag fjallar hann um ráðherrafund sem hann sótti um Schengen-málefni í Brussel og fer yfir það sem um var að vera í bresku blöðunum í vikunni, en hann kom við í London á heimleiðinni.

Sunnudagspistillinn
Að þessu sinni fjalla ég um valdaátök á vinstrivæng íslenskra stjórnmála í kjölfar seinustu alþingiskosninga, fer yfir átakalínur í Samfylkingunni og VG, stöðuna innan R-listans í ljósi þess að forseti borgarstjórnar hvetur til þess að VG bjóði sem víðast fram í eigin nafni í næstu kosningum – blasir við að valdatogstreitan innan borgarstjórnarmeirihlutans sé orðin mikil og staða meirihlutans veikist sífellt í kjölfar innbyrðis erja. Ennfremur fjalla ég um breytingar á fjölmiðlamarkaði og sviptingar þar seinustu mánuði. Mikilvægt er að mínu mati að rætt sé um eignahald á fjölmiðlum og tryggt að ekki verði fákeppni á þessum markaði á komandi árum. Að mínu mati er traust og áreiðanleg fréttamennska samhliða markvissri samkeppni á þeim vettvangi mikilvæg.

Dægurmálaspjall gærkvöldsins
Í Silfri Egils í gær ræddu Birgir Guðmundsson, Júlíus Hafstein og Ögmundur Jónasson fréttir vikunnar við Egil. Ögmundi varð tíðrætt um stefnubreytingu Samfylkingarinnar í heilbrigðismálum. Skaut Júlíus vel á hann vegna þeirra mála. Ennfremur rætt um fjölmiðlun og breytingar á þeim slóðum seinustu vikur vegna breytinga á eignarhaldi DV. Auk þess var rætt stjórnmálastöðuna almennt og það sem helst hefur verið í fréttum. Alltaf vekur jafnmikla athygli hvað Birgir reynir að vera óháður í umfjöllun en er það aldrei. Það stendur Samfylkingin svo að segja á enninu á honum.

Bókalestur - kvikmyndir
Seinustu vikuna hef ég verið að lesa margar bækur. Á þriðjudag var Arnaldur Indriðason rithöfundur, gestur í Kastljósinu og ræddi fyrri bækur sínar og einnig þá nýjustu. Varð ég svolítið forvitinn eftir þetta góða viðtal Kristjáns Kristjánssonar við Arnald, enda hafði aldrei komið því í verk að lesa metsölubók hans, Mýrina. Fór ég niður í Amtsbókasafn á miðvikudag og fékk mér bókina. Hóf að lesa hana um kvöldið og svo góð var hún að ekki var hætt fyrr en hún hafði verið lesin í gegn þá um miðja nóttina. Mæli ég eindregið með þessari bók. Í gærkvöldi horfði ég á megamynd. Er mikill aðdáandi Hringadróttinssögu og horfði því á LOTR: The Two Towers. Alltaf mögnuð mynd.

Vefur dagsins
Að þessu sinni bendi ég á vefinn eyjafjörður.is. Tilgangur heimasíðunnar er að veita gagnlegar upplýsingar um ferðamál og afþreyingu í Eyjafirði. Margt skemmtilegt er þar að finna.

Snjallyrði dagsins
Við skulum ekki spyrja, hvað ríkið geti gert fyrir okkur, heldur hvað það hafi gert okkur.
David Friedman

Engin fyrirsögn

Heitast í umræðunni
Landsfundur VG er haldinn um helgina í Hveragerði. Í setningarræðu landsfundarins sagði Steingrímur J. Sigfússon formaður flokksins, að VG væri eini skýri valkostur vinstrimanna nú á dögum. Nefndi hann máli sínu til stuðnings leið Samfylkingarinnar til hægristefnu, t.d. í heilbrigðismálum. Má í raun segja að í ræðu sinni hafi formaðurinn ráðist harkalega að Samfylkingunni og forystufólki þess flokks. Greinilegt er að hann telur þau höfuðandstæðinga sína í pólitík. Leiðtogi VG innan R-listans telur réttast að flokkurinn bjóði fram sem víðast í eigin nafni í byggðakosningunum 2006. Brestirnir á R-listanum verða sífellt greinilegri. Enn geisa erjur á vinstrivæng íslenskra stjórnmála.

Enn eitt hneykslið skekur bresku konungsfjölskylduna. Nú hefur Karl bretaprins opinberlega neitað vissum sögusögnum um sig. Hæstiréttur Bretlands setti fjölmiðlabann á fréttina áður en hún var birt. Það varð þó ekki til að stöðva umræðu um það meðal almennings. Samkvæmt áreiðanlegum heimildum mun fyrrum bílstjóri Karls hafa sakað hann um að hafa nauðgað sér árið 1989, er vitni að málinu. Þessu máli hefur verið haldið niðri síðan þá, en Díana prinsessa tók vitnisburð bílstjórans og vitnisins upp, til að geta notað gegn konungsfjölskyldunni einhverntíma og er jafnvel talið að fyrrum þjónn hennar hafi gögn um þetta og noti gegn fjölskyldunni sennilega. Breska pressan er í essinu sínu þessa dagana.

DV varð gjaldþrota í vikunni eins og flestir vita. Á fimmtudag keypti Frétt ehf. útgáfufélag Fréttablaðsins þrotabú DV. Er ætlun þeirra að halda áfram útgáfu DV. Breytingar verða hinsvegar miklar á efnistökum blaðsins. Útgáfutími þess breytist frá því að vera hádegisblað í morgunblað í beinni samkeppni við Moggann á áskriftarmarkaði. Mun blaðið verða beittara, einskonar gul pressa að breskri fyrirmynd.

Svona er frelsið í dag
Í dag fjalla ég í pistli á frelsi.is um ríkið og fjölmiðla. Eins og flestum hefur verið kunnugt hefur ríkið verið í fjölmiðlarekstri seinustu sjö áratugina. Á þessu tímabili hefur ríkið rekið útvarps- og sjónvarpsstöðvar, seinustu tvo áratugi í samkeppni við einkaaðila eftir að einokun ríkisins á ljósvakamarkaði var afnumin. Seinustu árin hafa málefni Ríkisútvarpsins verið mikið í umræðunni og einkum verið rætt um af almenningi hvort breyta eigi rekstrarfyrirkomulagi stofnunarinnar. Sjálfstæðisflokkurinn hefur lengi verið þeirrar skoðunar að breyta þurfi rekstrarfyrirkomulaginu og hefur mikið verið rætt um að gera ætti Ríkisútvarpið að hlutafélagi og hafa forystumenn flokksins lengi talað fyrir þeirri hugmynd, við dræmar undirtektir t.d. Framsóknarflokksins. Rek ég hvaða breytingar eru nauðsynlegar, fjalla um RÚV viku Heimdallar, undarleg viðbrögð á vefsíðunni Maddömunni um hana og fjalla um mikilvægi þess að stofnuninni sé breytt.

Pólitíkin - kvikmyndir - gott spjall
Vegna þess að ég skrapp úr bænum í gær var ekkert blogg hér að finna í gær. Hafa vinir og ættingjar látið mig vita að þeim finnist leitt að ég skuli ekki hafa frætt þá um málin seinustu tvo sólarhringa. En jæja, best að segja hvað hefur gengið á. Á fimmtudagskvöldið fór ég á Hótel KEA á fund Frjálshyggjufélagsins. Þar fluttu Haukur Örn Birgisson og Gunnlaugur Jónsson góðar framsögur og skýrðu stefnu félagsins. Eftir það voru líflegar stjórnmálaumræður. Að fundi loknum hélt góður hópur á kaffihúsið Amour og var þar spjallað um stjórnmál og fleira. Að morgni föstudagsins fór ég til Dalvíkur á fund vegna bæjarmála þar. Var þetta seinasti fundurinn sem ég sit þar. Vona ég að Svansa og félagar mínir í forystu flokksins stýri málum vel og farsællega eins og ávallt og flokknum gangi vel þar í næstu kosningum. Að kvöldi föstudags fór ég í Idol partí, er að verða hefð á föstudagskvöldum. Var þar gætt sér á ljúffengum Dominos pizzum og bjór. Eftir þáttinn var magnað spjall um ýmis mál í gangi. Um miðnættið fór ég í bíó og sá hina mögnuðu The Matrix Revolutions, lokakafla Matrix trílógíunnar. Mögnuð mynd fyrir mig spennufíkilinn. Að þessu loknu fór ég út og skemmti mér með nokkrum vinum.

Vefur dagsins
Í dag bendi ég öllum á fréttavef Norðausturkjördæmis. Þar eru ítarlegar fréttir frá Akureyri, Eyjafirði og kjördæminu öllu. Góður fréttavefur.

Snjallyrði dagsins
Frelsi manna á ekki að vera bundið nema þar, sem öllu félaginu(þjóðinni) mætti verða skaði, að það gengi fram
Jón Sigurðsson forseti.

Engin fyrirsögn

Heitast í umræðunni
Enn er deilt um stækkun EES. Hefur undirritun þessa efnis tafist seinustu vikur vegna þess að Liechtenstein sá sér ekki fært að samþykkja samkomulagið á tilsettum tíma. Hefur málið verið í mikilli óvissu síðan. Samkvæmt utanríkisráðherra hyllir nú loks undir lok samningaferlisins og loksins hægt að skrifa undir, væntanlega um helgina. Mikilvægt er að landa málinu farsællega, enda aðild að EES okkur mikilvæg, stækkun er ekki síður mikilvæg okkur til að efla EES.

Ingimundur Sigurpálsson hefur beðist lausnar frá forstjórastarfi í Eimskip. Til stendur að hálfu nýrra eigenda að stokka upp fyrirtækið. Sameina Burðarás og Brim í eitt félag og hafa Eimskipafélagið óbreytt sem eina blokk, við það fækkar fyrirtækjum Eimskips um eitt. Sér Ingimundur sér ekki fært að stýra fyrirtækinu eftir breytingar og telur réttast að láta af störfum. Framundan eru væntanlega miklir breytingatímar hjá fyrirtækinu.

Michael Howard hefur tekið við sem leiðtogi breska Íhaldsflokksins. Framboðsfrestur í embættið rann út kl. 12 á hádegi og Howard var eini framjóðandinn í leiðtogastólinn. Hann var því sjálfkjörinn og hefur tekið við stjórn flokksins af Iain Duncan Smith. Er ljóst að við tekur mikið verkefni fyrir Howard. Vonandi er að hinn nýi leiðtogi nái að sameina flokkinn farsællega að baki sér.

Davíð Oddsson forsætisráðherra, ljær máls á því að breyta vissum þáttum stjórnarskrárinnar. Þetta sagði hann á þingi í gær. Um er að ræða breytingar á stjórnskipan og hlutverki forseta og ríkisstjórnar, hann telur ekki rétt að breyta stjórnarskránni umfangsmeira á þessum tímapunkti.

Svona er frelsið í dag
Í dag birtast pistlar á frelsi eftir kjarnakonurnar Maríu Margréti og Helgu Baldvins. María skrifar um ríkisstyrkta menningu. Fram kemur í grein hennar að ef ríkisstyrkir til menningarmála væru skornir niður væri hægt að skila tæplega 5,8 milljörðum króna aftur til skattgreiðenda. Þeir gætu þá veitt sér meira sem því nemur. Það myndi án efa gera fólki betur kleift að fara á þá listviðburði sem það hefur áhuga á. Eins og María bendir á er til fólk sem sé þeirrar skoðunar að ef ríkið styrkir ekki listir þá sé menningaruppeldi þjóðarinnar stefnt í voða. Þetta sé sorgleg afstaða í garð þjóðarinnar. Í pistli Helgu fjallar hún um persónufrelsi. Ber upp spurninguna Er persónufrelsi minna virði en viðskiptafrelsi? Að hennar mati er persónufrelsi ekki síður mikilvægt en viðskiptafrelsi. Frelsinu fylgi almennt mikil ábyrgð. Er sammála skrifum hennar. Mikilvægt að um þetta sé fjallað með þessum hætti.

Dægurmálaspjall gærkvöldsins
Í Íslandi í dag í gærkvöldi var ítarlegt viðtal við Ingimund Sigurpálsson fráfarandi forstjóra Eimskipafélags Íslands. Hann lætur senn af störfum eftir þriggja ára starf á forstjórastóli. Hann rakti ástæður þess að hann lætur af störfum og fyrirtækið undir hans stjórn og fyrirætlanir nýrra eigenda Eimskips í ítarlegu viðtali við Þórhall Gunnarsson. Í Kastljósinu var rætt um landssöfnun Sjónarhóls sem fram fer um helgina í beinni útsendingu Sjónvarpsins. Vonandi er að sú söfnun gangi vel, enda mikilvægt að styrkja vel við þetta verkefni. Í Pressukvöldi Sjónvarpsins síðar um kvöldið var Þórólfur Árnason borgarstjóri, yfirheyrður. Þar var eins og við mátti búast rætt um rannsókn lögreglu og samkeppnisyfirvalda á olíufélögunum og ennfremur um fjárhagsstöðu borgarinnar og stöðu hans innan R-listans. Spurðu fréttamennirnir borgarstjórann krefjandi spurninga, er gott að tekið er á þvælunni á honum með engum silkihönskum.

Vefur dagsins
Í dag bendi ég öllum á að líta á vef Útgerðarfélags Akureyringa. Útgerðarfélag Akureyringa er ein af meginstoðum Brims - sjávarútvegssviðs Eimskipafélags Íslands. Fyrirtækið er í hópi stærstu útgerðar- og fiskvinnslufyrirtækja landsins. Meginstarfsemi félagsins snýst um öflun, framleiðslu og sölu sjávarafurða. Byggir félagið á öllum sviðum starfseminnar á áratugalangri reynslu og hefur á að skipa sérhæfðu starfsfólki á öllum sviðum sjávarútvegs.

Snjallyrði dagsins
Sannleikurinn stendur einn en vitleysan þarf stuðning hins opinbera.
Thomas Jefferson forseti Bandaríkjanna (1801-1809)

Engin fyrirsögn

Heitast í umræðunni
Í gær var tilkynnt að DV væri gjaldþrota. Með því verða viss umskipti á fjölmiðlamarkaðnum hérlendis. Seinustu tvo áratugi hefur DV verið framarlega í dagblaðaheiminum hérlendis, en það var stofnað 1981 með sameiningu Dagblaðsins og Vísis. Líkur eru á að blaðið komi áfram út og hafa bæði Fréttablaðið og Morgunblaðið lýst yfir áhuga á útgáfu þess. Mikilvægt er að blöðum hérlendis fækki ekki. Markaðurinn má ekki við fákeppni!

Seinustu daga hefur mikið verið rætt um rjúpnafrumvarpið á þingi. Margir stjórnarþingmenn hafa svarað tillögu umhverfisráðherra um bann á rjúpnaveiðum í þrjú ár, með að leggja fram eigið frumvarp þar sem gengið er þvert á hennar tillögur. Fremst þar standa Dagný, Gunnar B. og Gulli Þór. Landbúnaðarráðherra hvetur menn til að samþykkja tillögu ráðherra. Ólíklegt er þó að svo verði og líklegt að meiri læti verði í þessu máli, einkum þegar þær verða teknar formlega fyrir á þinginu.

Helgi Seljan frændi minn, gekk víst út af landsfundi Samfylkingarinnar um helgina ásamt fleiri ungliðum sem höfðu borið upp tillögu um aðskilnað ríkis og kirkju, eftir að varaformaður flokksins (ISG) hafði lagt til að henni yrði vísað frá. Þung orð hafa fallið frá þeim félögum um lýðræðið sem er víst svo margrómað innan flokksins. Þeir eru eflaust sammála mér um að ekkert lýðræði ríki í flokki sem útnefnir forsætisráðherraefni án beins samþykkis flokksins.

Svona er frelsið í dag
Í dag birtist á frelsi.is pistill minn um lýðræðið í Samfylkingunni. Í setningarræðu sinni á landsfundi flokksins var formanninum svokallaða tíðrætt um að Samfylkingin væri lýðræðislegasti flokkur landsins. Hann sagði að vinnubrögð innan flokksins væru lýðræðislegri en hjá nokkurri annarri stjórnmálahreyfingu. Við nánari skoðun er erfitt að sjá lýðræðislegu vinnubrögðin. Nefni ég tvö dæmi, val á talsmanni og forsætisráðherraefni í byrjun ársins og vali á forystufólki flokksins á landsfundinum. Fátt ef nokkuð lýðræðislegt er við þau vinnubrögð. Eins og fyrr er ólga meðal ungliða flokksins vegna frávísunar á tillögu þeirra og fjallað um málið samhliða minni grein í dag á frelsinu. Ennfremur er birt ræða Sigga Kára á Norðurlandaráðsþingi á dögunum. Mjög athyglisvert, en þar ræðir hann t.d. um hvalveiðimál.

Dægurmálaspjall gærkvöldsins
Í dægurmálaþáttum í gærkvöldi var að mestu rætt um gjaldþrot DV. Um er að ræða mikið áfall fyrir allan fjölmiðlaheiminn, enda ekki vilji fyrir fákeppni þar. Á Stöð 2 ræddu Jóhanna og Þórhallur við Reyni Traustason, Sigurð Örn Jónsson og Hrafn Jökulsson um málið. Voru þeir sammála um að fréttastofum mætti ekki fækka né komast á minni samkeppni og sagði reyndar Hrafn að sorglegt væri að eitt sinn hefðu blöðin verið 6-7 en væru nú 3 og áhyggjuefni ef þeim fækkaði enn frekar. Í Kastljósinu ræddi Svansí við Jónas Kristjánsson ritstjóra DV 1981-2001 og Róbert Marshall fréttamann og formann Blaðamannafélagsins. Það sama kom út úr spjalli þeirra. Margt athyglisvert kom fram hjá Jónasi en fáir þekkja sögu DV betur en hann.

Pólitíkin - bókalestur - kvikmynd
Eftir dægurmálaþættina horfði ég á bæjarstjórnarfund á Aksjón. Þar flutti bæjarstjóri ítarlega og góða ræðu um Melateigsmálið og fjallaði þar ennfremur um kvótamálin í kjölfar úthlutanar á byggðakvóta til bæjarins. Oktavía Jóhannesdóttir bæjarfulltrúi Samfylkingarinnar, er alltaf við sama heygarðshornið og vekur sífellt meiri athygli fyrir útúrsnúninga sína, en það var vissulega athyglisvert að sjá hana stranda í Melateigsmálinu eftir að kom í ljós að hún greiddi atkvæði á aðra lund í svipuðu máli 1999. Meðan á bæjarstjórnarfundinum stóð vann ég í að klára pistil minn á frelsi.is fyrir daginn í dag, sendi hann eftir 10. Fór svo í að kíkja á bók sem ég er að lesa. Eftir það horfði ég á stórmyndina The Deer Hunter með Meryl Streep, Robert De Niro, John Savage og Christopher Walken (sem brillerar í óskarsverðlaunahlutverki). Magnaður endir á góðu kvöldi.

Vefur dagsins
Í dag bendi ég fólki á að líta á vefsíðu Norðurorku hf. á Akureyri. Tilgangur Norðurorku er vinnsla og nýting jarðhita, vatnsorku, vatns og hvers konar annarra auðlinda einnig dreifing og sala á orku, vatni og öðrum afurðum félagsins svo og hver önnur starfssemi sem nýtt getur rannsóknir, þekkingu eða búnað félagsins.

Snjallyrði dagsins
Það er góð regla að setja annað slagið spurningarmerki við hluti sem okkur finnast sjálfsagðir.
Bertrand Russell

Engin fyrirsögn

Heitast í umræðunni
Enn er Samfylkingin mál málanna í umfjöllun í fjölmiðlum. Nú vekur athygli að framtíðarnefnd Samfylkingarinnar sem setja átti upp fyrr á árinu til að verða hugmyndapottur flokksins svo varaþingmaður flokksins í Reykjavík norður hefði eitthvað að gera, hefur ekkert vægi. Á landsfundinum var ákveðið að formaður flokksins leiddi stefnuvinnu af hálfu flokksins. Það er því von að spurt sé hvað á framtíðarnefndin undir forystu ISG að gera?? Eflaust að vera silkihúfusamkunda.

Hart var deilt á þingi í gær um væntanlega sölu ríkisins á Landssímanum. Þar óð Steingrímur J. uppi eins og vitlaus maður væri og réðist harkalega að ríkisstjórninni. Einna helst var það Birkir Jón sem svaraði honum og stóð sig bara nokkuð vel í því verkefni. Davíð Oddsson tjáði sig stuttlega um málið. Auðvitað á að einkavæða símann, ríkið á ekki að standa í fyrirtækjarekstri, einkaaðilar eru fullfærir um það.

Ekkert verður af sameiningu Fréttablaðsins og DV eins og talað var um. Athyglisvert er að frettir.com hefur seinustu daga sagt sameiningu frágengna og allt eftir því. Það er það vel frágengið að slitnað er uppúr viðræðunum. Fleira er ekki í fréttum í dag...

Svona er frelsið í dag
Í dag skrifar Ósk Óskarsdóttir sinn fyrsta frelsispistil. Hún er boðin velkomin í hóp okkar frelsispenna. Í þessari fyrstu frelsisgrein sinni fjallar hún um forsetaembættið og allt bruðlið sem því tengist. Uppsetning hennar er góð og lífleg. Boðskapur okkar í þessu máli fer alveg saman, bæði erum við að tjá sömu skoðunina og SUS hefur samþykkt oft á þingum sínum, þ.e. að leggja skuli það niður. Embættið er tímaskekkja, algjörlega óþarft við núverandi aðstæður og alltof kostnaðarsamt fyrir skattborgara. Ennfremur er á frelsinu í dag fjallað um væntanlegan fund af hálfu Heimdallar þar sem fjallað er um hugmyndir í átt að færa áfengið í verslanir. Mjög gott, auðvitað á að leggja niður ÁTVR og selja áfengi í matvörubúðunum. Kominn tími til. Á vefnum er einnig bent á góða grein Sigríðar Á. Andersen á vef Verslunarráðs um ÁTVR.

Dægurmálaspjall gærkvöldsins
Í gærkvöldi var í Ísland í dag rætt um mannréttindamál í Kína og um þau mál rætt við þekkta sjónvarpskonu þarlendis sem nýverið gaf út bók um þetta og er hérlendis þessa dagana við að kynna bókina. Jóhanna átti gott spjall við hana og margt mjög athyglisvert kom fram í viðtalinu. Í Kastljósinu var gestur Kristjáns Kristjánssonar, Össur Skarphéðinsson hinn svokallaði formaður Samfylkingarinnar. Þar var rætt um landsfundinn um helgina og hægrisveifluna sem hann iðkar þessa dagana. Eins og við var að búast var mikið rætt um heilbrigðismálin, en hann sækir stíft í smiðju Ástu Möller þessa dagana. Þegar talið barst að lýðræðinu innan flokksins varð formaðurinn skömmustulegur er farið var að ræða um val á talsmanni og forsætisráðherraefni fyrr á árinu enda fátt lýðræðislegt við þær starfsaðferðir. Vildi Össur sem minnst svara spurningum Kristjáns um þetta mál og reyndi að eyða talinu, enda lýðræði í þessum flokki allskondið, svo ekki sé nú meira sagt....

Bókalestur - kvikmyndir
Í gærkvöldi eftir dægurmálaþættina hélt ég upp í Víðilund með pabba og Maríu til Hönnu ömmu í kaffi og spjall. Hún hafði fyrir margt löngu rætt um að ég ætti endilega að fá nokkrar bækur hjá henni til lestrar og fékk ég nokkrar. Meðal þeirra er Aldnir hafa orðið - annað bindi, gefið út 1973. Þar er ítarlegt viðtal við langafa minn Stefán Jónasson útgerðarmann og bæjarfulltrúa á Akureyri. Stebbi langafi var kjarnakall, náði 100 ára aldri og var hress og léttur alla tíð. Hefur löngum verið sagt að við séum líkir í skapi og háttum að mörgu leyti, gaman að því. Verður gaman að lesa þessa bók næstu daga. Eftir létt kaffispjall hélt ég heim, og horfði á kvikmyndina Good Will Hunting með Matt Damon og Robin Williams. Alltaf góð mynd.

Vefur dagsins
Í dag bendi ég öllum á að líta á vef Samherja á Akureyri. Samherji hf. hefur á að skipa hæfu og framtakssömu starfsfólki og stjórnendum, öflugum skipaflota, miklum aflaheimildum og fullkomnum verksmiðjum í landi. Með þetta í farteskinu hefur félagið ávallt verið í fararbroddi í sjávarútvegi, bæði á Íslandi og alþjóðlegum vettvangi. Fyrirtækið skiptir okkur Akureyringa miklu máli og hefur styrkt bæinn mjög.

Snjallyrði dagsins
Með því að vernda fólk fyrir afleiðingum flónsku sinnar fyllirðu heiminn af flónum.
Herbert Spencer

Engin fyrirsögn

Heitast í umræðunni
Mikið hefur verið rætt um það um helgina að Fréttablaðið og DV myndu jafnvel renna saman í eitt blað undir stjórn manna tengdum Fréttablaðinu. Ekki líst mér á þessa þróun ef svona fer, enda vont fyrir fjölmiðlamarkaðinn að slík fákeppni verði hér að aðeins verði tvö blöð gefin út. Frá upphafi hefur markaðurinn getað rúmað fleiri en tvö blöð og þetta því slæmt mál. Því fleiri fjölmiðlar því betra, það sem gerist ef svona fer er að fákeppnin eykst og það skal harmað. Annars eru örlög málsins ekki enn ljós.

Jón Kristjánsson heilbrigðisráðherra, réðist harkalega að heilbrigðismálastefnu Samfylkingarinnar á þingi í dag og gerði lítið úr henni. Sagði Jón að „þessi kanína, sem þeir voru að draga upp úr hatti um helgina" að markaðslögmálið ætti að leysa vandamál í heilbrigðisþjónustu væri ekki ný af nálinni, því einkarekstur og kaup ríkisins á heilbrigðisþjónustu væru til staðar. Eins og ég benti á um helgina að þá eru Samfylkingarmenn aðeins að taka upp stefnu sjálfstæðismanna í þessum málaflokki.

Ásmundur Stefánsson hefur tekið við embætti ríkissáttasemjara af Þóri Einarssyni. Vonandi er að honum gangi vel í komandi kjaraviðræðum að sætta ólík sjónarmið, með sama hætti og forveri hans.

Svona er frelsið í dag
Í dag skrifar Kristinn Már athyglisverða grein á frelsið um stjórnmálaályktun landsfundar Samfylkingarinnar. Bendir hann með svipuðum hætti og ég í sunnudagspistlinum í gær að verið er að sækja í smiðju sjálfstæðismanna t.d. í heilbrigðismálum. Það er ekkert nýtt eða frumlegt við ályktun Samfylkingarinnar í heilbrigðismálum. Bendir Kristinn á ályktun Sjálfstæðisflokksins í vor og því ljóst á samanburði að Samfylkingin er að fikra sig nær okkar stefnumálum. Þau sjá eins og er að sóknarfæri í stjórnmálum í dag eru hægramegin við miðju en ekki í afdankaðri vinstristefnu. Á frelsi.is er birt góð ályktun stjórnar Eyverja í Vestmannaeyjum, þar sem lýst er yfir stuðningi við sjálfstæðisbaráttu Færeyinga. Tek ég heilshugar undir hana. Að sjálfsögðu eiga Íslendingar að styðja Færeyinga í þeirra baráttu fyrir sjálfstæði frá Dönum.

Dægurmálaspjall gærkvöldsins
Í Silfri Egils í gær mætti Össur Skarphéðinsson sjálfendurkjörinn formaður Samfylkingarinnar, í spjall. Þar var mikið rætt um hvaða tök hinn svokallaði formaður (eins og skríbent á politik.is kallaði hann fyrir skömmu) hefði á flokknum. Sagðist hann vera formaður og með mikið fylgi innan hans. Nefndi hann sem dæmi að hann hefði barist gegn straumnum fyrir því að koma með byltingarkenndar hugmyndir í heilbrigðismálum fram og hefðu þær verið samþykktar. Benti þá Egill á að þetta væru hugmyndir Ástu Möller og sjálfstæðismanna og alþekktar þaðan. Eftir það var allur vindur úr formanninum, enda hann slíkur vindhani að þess eru fá takmörk að lýsa vitleysunni sem frá honum kemur. Gott dæmi er þó vissulega Evrópustefnan sem bakkað var frá vegna skoðanakannana. Ennfremur var athyglisvert viðtal við John Kay og sýnt frá ræðum Björgólfs og Styrmis frá landsfundi Sf. Egill fer ágætlega af stað, en hefur þó verið kraftmeiri finnst mér.

Sjónvarpsgláp - kvikmyndir
Eftir að hafa horft á fréttirnar og 60 mínútur horfði ég á þátt Jóns Ársæls. Gestur hans að þessu sinni söngkonan Ruth Reginalds og var spjallið við hana áhugavert, enda hefur hún kynnst ýmsu í gegnum tíðina. Horfði ég svo á fyrsta þáttinn af Viltu vinna milljón, en nú er Jónas R. Jónsson tekinn við stjórn þáttarins af Þorsteini J. Fannst mér Jónas byrja mjög vel og standa sig mjög vel. Er ég ekki frá því að hann sé mildari og hressari í þessu en Þorsteinn, jafnvel manneskjulegri. Eftir milljónaþáttinn var stillt yfir á Skjá einn og horft á spjallþátt Sigmundar Ernis. Hann ræddi þar maður á mann við Þorstein Má Baldvinsson forstjóra Samherja á Akureyri. Líflegt og gott spjall við Máa. Horfði ég svo á gamla klassíkerinn One Flew Over the Cuckoo´s Nest með Jack Nicholson. Alveg mögnuð mynd, Jack í essinu sínu þarna.

Vefur dagsins
Í seinustu viku benti ég vefi tengda því opinbera. Nú höldum við til Akureyrar og tökum fyrir vefi tengda bænum, fyrirtæki í bænum og fleira t.d. Fyrst bendi ég öllum til að líta á vef Akureyrarbæjar. Alveg magnaður vefur. Allt sem þú vilt vita um Akureyri og stjórnkerfi bæjarins er þar að finna.

Snjallyrði dagsins
Ríkið er goðsögnin mikla um að allir geti lifað á kostnað annarra.
Frederic Bastiat

Engin fyrirsögn

Heitast í umræðunni - pistill Björns
Björgólfur Guðmundsson stjórnarformaður Landsbankans, og Styrmir Gunnarsson ritstjóri Moggans, fluttu í dag ræður á málþingi á landsfundi Samfylkingarinnar. Þar kom fram að Björgólfi hefði lengi fundist að Eimskipafélagið hefði verið allt of stórt og hefði aldrei haft frumkvæði að nokkrum hlut. Hann sagði mikilvægt að rjúfa flókin eignatengsl í fyrirtækjum til að tryggja að stjórnendur þeirra hafi ekki annarra hagsmuna að gæta en fjárfestanna. Kom fram að félagið yrði að hafa skýr markmið og það væri ekki hægt að hlaupa á milli landshluta og bjarga þessu í dag og hinu á morgun. Styrmir talaði mikið um stórar viðskiptablokkir og starfsemi þeirra og sagði að þær mættu ekki verða of stórar. Verð ég að viðurkenna að margt athyglisvert kom fram í ræðum þeirra og eflaust voru þær hápunkturinn á líflausum landsfundi krata.

Í pistli sínum í dag á heimasíðunni, fjallar Björn um tvennt, 90 ára afmæli Morgunblaðsins sem er í dag og landsfund Samfylkingarinnar um helgina. Í fyrri hlutanum fer hann vel yfir sögu Moggans, tengsl föður hans og sín við blaðið í gegnum tíðina, er það mjög fróðleg umfjöllun um mbl. Fer hann svo vel yfir landsfund og kemur með marga góða punkta.

Sunnudagspistillinn
Að þessu sinni fjalla ég um landsfund Samfylkingarinnar sem haldinn var um helgina – að honum loknum blasir við að valdaátökin krauma undir og að flokkurinn telji sóknarfæri sín liggja til hægri með því að taka undir stefnumál Ástu Möller í heilbrigðismálum, bandarísku forsetakosningarnar 2004 – í dag er nákvæmlega ár þar til Bandaríkjamenn ganga að kjörborðinu og því rétt að spá aðeins í stöðuna enda ljóst að spennandi kosningaslagur taki við, og að lokum um söguna endalausu um átökin í Heimdalli – stjórn SUS ályktaði um málið í vikunni og tel ég rétt í ljósi umræðu seinustu vikna að tjá mig um málið hér og fara yfir þætti tengda því. Að lokum óska ég Birni Bjarnasyni til hamingju með að hafa hlotið Íslensku vefverðlaunin.

Dægurmálaspjall gærkvöldsins
Í gær hóf Silfur Egils á ný göngu sína í sjónvarpi. Nú á Stöð 2, en áður var þátturinn í fjögur ár á Skjá einum. Þátturinn verður nú tvískiptur, fyrri hlutinn á laugardögum en hinn á sunnudögum, báða daga kl. 18:00. Hér eftir verður laugardagsþátturinn til að fara yfir fréttir vikunnar en sunnudagsþátturinn inniheldur ítarlegri viðtöl. Í fyrsta þættinum fékk hann til sín Sigurð Kára, Reyni Traustason og Kristrúnu Heimisdóttur til að ræða fréttir vikunnar. Eins og við var að búast var mikið rætt um valdaátök í Samfylkingunni og greinilegt að Siggi Kári hitti beint í mark með að gera grín að hægrisnúningi flokksins og hitti þar beint á punkta Kristrúnar. Rætt var um vændisumræðuna og athyglisvert þar að heyra útúrsnúninga Kristrúnar á skoðunum Sigga Kára, greinilegt var að hún var nett pirruð með stöðu mála almennt innan flokksins. Að lokum kom Þorvaldur Gylfason í létt spjall. Gott er að fá Silfrið aftur á skjáinn. Það er aldrei of mikið af pólitískri umræðu í gangi.

Sjónvarpsgláp - kvikmyndir
Í gærkvöldi var venju samkvæmt horft á Gísla Martein og þátt hans. Þar var létt og gott spjall að venju. Gestir voru Felix Bergsson leikari, Örlygur Hálfdánarson bókaútgefandi og Ilmur Stefánsdóttir myndlistarkona. Skemmtileg tónlistaratriði voru, komu Ragnheiður Gröndal og Friðrik Ómar Hjörleifsson og sungu tvö lög. Gaman er að sjá hversu vel Frikka gengur í tónlistinni. Þekkjumst við vel frá því á Dalvík í denn og brölluðum reyndar margt saman. Hitti ég hann seinast á fiskideginum á Dalvík í ágúst og áttum við gott spjall. Frikki er alveg magnaður. Horfði ég svo á Spaugstofuna, þar voru mörg skemmtileg atriði. Nýyrðin meyfirðill og biðþæfingsskaft eru komin til að vera! Horfði svo á góðar kvikmyndir á dagskrá sjónvarpsstöðvanna, K-PAX með Kevin Spacey og Jeff Bridges og As Good as it Gets með Jack Nicholson og Helen Hunt. Alveg magnaðar myndir.

Vefur dagsins
Bendi ég gestum vefsins í dag að líta á vefinn rettarheimild.is. Um er að ræða heildstæða yfirlitssíðu yfir helstu lagagögn og réttarheimildir, s.s. lög og reglugerðir, dóma, stjórnvaldsúrskurði, alþjóðasamninga, niðurstöður alþjóðadómstóla og fleira. Á síðunni birtist meðal annars í fyrsta sinn heildarsafn gildandi reglugerða á netinu auk hundruða stjórnvaldsúrskurða og úrskurða Félagsdóms.

Snjallyrði dagsins
Hver sá undir þrítugu sem er ekki frjálslyndur vantar hjartað og hver sá yfir þrítugu sem er ekki íhaldsmaður vantar heilann.
Winston Churchill forsætisráðherra Bretlands (1940-1945; 1951-1955)

Engin fyrirsögn

Heitast í pólitíkinni
Michael Howard lýsti í gær yfir framboði sínu til embættis leiðtoga breska Íhaldsflokksins. Margir þeirra sem áður voru taldir líklegir til að gefa kost á sér hafa hætt við framboð, þ.á.m. Kenneth Clarke, David Davis, Michael Ancram og Michael Portillo. Er nú nær öruggt að Howard verði einn í kjöri og samstaða náist um að hann taki við forystu flokksins án slítandi átaka, sem myndu skaða flokkinn. Mikilvægt er að breskir hægrimenn sameinist og snúi sér að því lykilmarkmiði sínu að fella Blair og Verkamannaflokkinn.
Hart er deilt á þingi um vændisfrumvarp Kolbrúnar Halldórsdóttur. Konur í öllum flokkum nema Sjálfstæðisflokki virðast styðja það og því gengur málið þvert á línur stjórnar og stjórnarandstöðu. Ásta Möller kom með athyglisvert innlegg í málið í þingræðu í dag.

Landsfundur Samfylkingarinnar hefst í dag, og enn er óvissa með hvort Margrét Frímannsdóttir gefur kost á sér til formannsembættis í framkvæmdastjórn. Eru þó allar líkur á að svo verði og með því líklegt að hún nái kjöri, enda hún með víðtækan stuðning eftir störf í stjórnmálum til fjölda ára. Verður eflaust um að ræða átök milli alþekktra fylkingabrota innan flokksins sem berjast um völdin þar.

Svona er frelsið í dag
Í dag fjallar María Margrét í góðum pistli um húsafriðanamál. Hún veltir upp spurningunni: hversu langt á hið opinbera að ganga í því að skerða rétt eigenda húsa til þess að fara með eignir sínar eins og þeim gagnast best? Hún bendir á að menntamálaráðherra skipi í húsafriðunarnefnd. Í nefndina tilnefnir Arkitektafélag Íslands einn fulltrúa, Samband íslenskra sveitarfélaga einn og þrír fulltrúar fari þangað inn án tilnefningar. Það er þeirra að ákveða hvort viðkomandi hús hafi listrænt og menningarlegt gildi. Er það mat mitt og ennfremur Maríu Margrétar í greininni að ákvörðunarréttur um húsafriðun eigi að vera í höndum almennings ekki einhverrar silkihúfunefndar. RÚV-vikan heldur áfram af krafti. Í dag skrifar Ragnar athyglisverðan pistil um málið. Ennfremur var útvarpsstjóra í dag afhent formlega af Ragnari fyrir hönd stjórnar Heimdallar bréf þar sem útvarpsráði er sagt upp störfum. Það er enda með öllu óþarfi að pólitískt skipaðir fulltrúar séu að vasast með þessum hætti í fyrirtæki sem ætti auðvitað ekki að vera til. Ríkið af fjölmiðlamarkaði!

Dægurmálaspjall gærkvöldsins
Í Íslandi í dag, í gærkvöldi, voru kynnt úrslit í skoðanakönnun Plússins fyrir Stöð 2 um það hver eigi að vera forseti Íslands kjörtímabilið 2004-2008. Þau fimm sem voru í þeirri könnun voru Bryndís Schram, Davíð Oddsson, Ingibjörg Sólrún Gísladóttir, Jón Baldvin Hannibalsson og Ólafur Ragnar Grímsson. Úrslitin voru á þá leið að sitjandi forseti naut afgerandi stuðnings í könnuninni til forsetasetu áfram, annar var Davíð, svo komu hjónin Jón og Bryndís en neðst var Ingibjörg (sem kom reyndar á óvart). Um þessar niðurstöður ræddu Jóhanna og Þórhallur við Egil Helgason og Andrés Magnússon. Ennfremur ræddu þau um stöðu embættisins og fleira því tengt. Var það mjög skemmtilegt spjall. Í Kastljósinu var gestur Svansíar og Sigmars, Kristján Ragnarsson fráfarandi formaður LÍÚ, en hann lét í dag af störfum sem formaður eftir 33 ára setu á þeim stóli. Í rúma þrjá áratugi hefur Kristján verið andlit LÍÚ og útvegsmanna í fjölmiðlum og talsmaður þeirra sem formaður og framkvæmdastjóri, en hann lét af því starfi árið 2000. Í hans stað var í dag kjörinn á formannsstól Björgólfur Jóhannsson forstjóri Síldarvinnslunnar í Neskaupstað. Var þetta gott viðtal við Kristján sem nú hverfur úr kastljósi fjölmiðlanna eftir að hafa verið þar aðalpersóna til fjölda ára.

Kvikmyndir - bókalestur - MSN
Eftir að hafa horft á dægurmálaþættina fór ég í bíó og sá spennuþrillerinn The Rundown. Góð mynd með t.d. The Rock og óskarsverðlaunaleikaranum Christopher Walken. Þegar heim var komið fór ég að lesa fyrra bindi ævisögu um Ólaf Thors. Horfði ég svo á Sopranos, magnaður þáttur. Í gær var hörkuspenna í gangi og sjálfum Ralphie var stútað með eftirminnilegum hætti. Gaman að horfa á þessa flottu þætti aftur, þó svo um endursýningu sé að ræða. Beðið er með óþreyju eftir næstu seríu. Fór ég svo á MSN og átti gott spjall við marga félaga um hin ýmsu mál.

Vefur dagsins
Í dag bendi ég öllum á að líta á vef Hæstaréttar. Þar getur að líta dóma réttarins og ýmsar upplýsingar um sögu hans og fleira tengt dómsmálum.

Snjallyrði dagsins
Eitt bros getur dimmu í dagsljós breytt
Einar Benediktsson skáld. (Einræður Starkaðar)

Engin fyrirsögn

Heitast í pólitíkinni
Meirihluti þingmanna breska íhaldsflokksins lýsti í gær yfir vantrausti á Iain Duncan Smith, leiðtoga flokksins. Með þessu lýkur tveggja ára setu hans á leiðtogastóli flokksins. Samkvæmt flokkslögum kemur nú að því að kjósa nýjan leiðtoga flokksins, fráfarandi leiðtogi getur ekki tekið þátt í þeim slag. Allt bendir til þess að Michael Howard taki við forystu flokksins og samstaða geti náðst um hann án kosningar.

Innan Samfylkingarinnar eru læti framundan á því sem átti að vera klappfundur fyrir sjálfkjörinn formann og varaformann með rússneskum hætti án kosningar. Margrét Frímannsdóttir hefur í hyggju að leggja í Stefán Jón Hafstein í kosningu um formann framkvæmdastjórnar. Þar verður barist um stöðu valdaklíkanna innan flokksins, sá sem sigrar í þessu kjöri verður mótandi í öllu starfi hans næstu tvö árin.

Á stjórnarfundi í SUS í gærkvöldi var samþykkt ályktun þar sem vinnubrögð fulltrúaráðs flokksins í Reykjavík og afskipti af málefnum Heimdallar eru hörmuð og jafnframt lýst yfir fullum stuðningi við fráfarandi og núverandi stjórn Heimdallar. Áréttað er að hún fái sem fyrst fullan vinnufrið.

Suðurferð - fundur í ritnefnd og SUS stjórn
Fór suður seinnipartinn í gær til að fara á ritnefndarfund hjá frelsi.is og stjórnarfund SUS í Valhöll. Kom suður um sexleytið og var haldið þá beint á Café Victor á ritnefndarfund sem Snorri stýrði kröftuglega. Fórum við þar yfir ýmis mál og lögðum línurnar næstu vikurnar í umfjöllun á vefnum. Eftir þetta fórum við Snorri á Kaffibrennsluna í miðbænum og fengum okkur að borða. Að því loknu fórum við upp í Valhöll. Þar hófst stjórnarfundur í SUS klukkan átta. Var gaman að hitta aðra stjórnarmenn og ræða málin þarna. Fundurinn tók tvo og hálfan tíma. Voru miklar og líflegar umræður að hætti ungra hægrimanna á fundinum og samþykktar tvær ályktanir að hálfu stjórnarinnar. Eftir fundinn hélt góður hópur stjórnarmanna á Café Victor og þar voru málin rædd. Áttum við félagar og nafnar, ég og Stefán Einar gott spjall um ýmis mál, t.d. kirkjuna, forsetaembættið og málefni Heimdallar. Virkilega gaman. Hélt aftur norður í morgun snemma með flugi, er heim var komið hóf ég að semja pistil um stjórnarfundinn.

Gestapistillinn
Í dag birtist á vefsíðu minni þriðji gestapistillinn. Fyrir viku skrifaði Hafsteinn Þór Hauksson á vefinn. Í dag birtist gestapistill um bresk stjórnmál eftir Þorbjörgu Helgu Vigfúsdóttur varaformann SUS. Íhaldsflokkurinn í Bretlandi hefur verið í leiðtogaklemmu í um 8 ár. Þrír leiðtogar flokksins (John Major, William Hague og Iain Duncan Smith) hafa reynt að fylla fótspor Margaret Thatcher á seinustu 13 árum, eftir að 11 ára valdaferli hennar lauk í nóvember 1990. Í gær lauk enn einum kafla í sögu flokksins þegar Iain Duncan Smith missti stöðu sína sem leiðtogi flokksins eftir vantraustskosningu. Smith tapaði með naumum meirihluta en 90 þingmenn lýstu yfir vantrausti en 75 vildu hann áfram í leiðtogasætinu. Í pistlinum fer Tobba vel yfir það hvað nú taki við innan flokksins og hvar flokkurinn stendur nú.

Svona er frelsið í dag
Í dag skrifar Bjarki Már Baxter góðan pistil um fjárhættuspil og spilaviti. Fram kemur í grein Bjarka að umræðan um spilavíti og fjárhættuspil skjóti annað veifið upp kollinum og þá aðallega þegar lögregla gerir innrás inná slíka starfsemi. Síðast hafi verið ráðist til inngöngu í spilavíti sl. vetur og voru þar gerð upptæk tæki og áhöld til rekstur ólöglegs spilavítis. Umræðan væri oftast neikvæð og sjaldan talað um sóknarfæri í þessu sambandi. Hvet alla til að lesa pistil Bjarka. RÚV vikan heldur áfram á fullu og auglýsingar Heimdallar, hljóma nú ennfremur á Bylgjunni. Virkilega gott.

Vefur dagsins
Fjárlagafrumvarp ríkisstjórnar Davíðs Oddssonar var lagt fram á þingi 1. október sl. Hvet ég alla til að líta á vef frumvarpsins, fjarlog.is og kynna sér frumvarpið.

Snjallyrði dagsins
Ég uni illa böndum og illa í nokkurs höndum, er flýgur fjöðrum þöndum mín frelsisþráin heit.
Ólöf Sigurðardóttir skáldkona frá Hlöðum.

Engin fyrirsögn

Heitast í pólitíkinni
Eitthvað eru þeir hjá Ríkisútvarpinu að vakna uppúr ritskoðunarstandinu, enda var auglýsing Heimdallar lesin í hádeginu í dag. Sú auglýsing sem lesin var hljómaði á þessa leið: "Þessi auglýsing skekkir samkeppnisstöðu fjölmiðla. Einkavæðum Ríkisútvarpið. Heimdallur". Ekki er gott að sjá hvaða munur er á þessari auglýsingu og hinni sem hafnað var í gær. En það er þó gott að vita að stjórnendur þarna í Efstaleiti hafa látið af ritskoðuninni.

Í dag birtist ný skoðanakönnun DV. Þar kemur fram að Sjálfstæðisflokkurinn og Vinstrihreyfingin-grænt framboð hafa bætt við sig fylgi frá þingkosningunum í vor. Hinsvegar hafa Framsóknarflokkur, Samfylkingin og Frjálslyndi flokkurinn tapað nokkru fylgi.

Olíumálið heldur áfram að vinda upp á sig, fram kemur í dag að borgarstjóri hafi verið yfirheyrður vegna þess með stöðu grunaðs manns. Endurtekur borgarstjórinn í dag að hann hafi traust R-listans vegna málsins. Hversu lengi kjörnir fulltrúar R-listans sem bera ábyrgð á honum muni verja hann verður athyglisvert að fylgjast með.

Svona er frelsið í dag
Í dag skrifar Tobba góðan pistil þar sem hún fjallar um aðalfund samtaka Hollvinafélags Ríkisútvarpsins. Það er eingöngu sett á fót til að standa vörð um það að ríkið (ég og þú með okkar peningum) reki fjölmiðil. Er undarlegt að fólk leggi nafn sitt við slíkan boðskap og geti glaðst yfir því að verja í raun slík vinnubrögð að hálfu ríkisins. Spurning er hvort ekki sé kominn tími til að við andstæðingar ríkisaðildar á fjölmiðlamarkaði stofnum samtök undir nafninu, Ríkið af fjölmiðlamarkaði! Þessi hugmynd vaknar í mínu hugskoti við pælingar um RÚV og það úrelta rekstrarkerfi sem blómstrar þar í skjóli Framsóknarflokksins sem engu vill þarna breyta. Atli Rafn formaður Heimdallar, skrifar ennfremur pistil um starfsemi innan félagsins. Hún blómstrar nú mánuði eftir aðalfundinn og langt síðan svo blómlegt hefur verið. Gott mál - RÚV vikan heldur svo áfram, ég mun í næsta sunnudagspistli fara vel yfir þessi mál. Það verður mitt framlag til RÚV viku Heimdallar og hægrimanna almennt. Þetta er baráttumál okkar allra!

Dægurmálaspjall gærkvöldsins
Áfram var haldið á Stöð 2 að kynna þá sem urðu í efstu sætum í skoðanakönnun Plúsins fyrir stöðina. Í gær voru kynntir til leiks tveir aðrir í fimm manna hópinn sem kosið verður á milli. Það voru þau Davíð Oddsson forsætisráðherra, og Bryndís Schram sem þá voru kynnt til leiks. Á morgun verður tilkynnt nafn fimmta og seinasta aðilans, sem er sennilega sitjandi forseti. Í framhaldinu verður kosið á milli þeirra eins og fyrr segir. Ennfremur var rætt í Íslandi í dag um 90% húsnæðislánin sem Framsókn vill keyra í gegn. Um það ræddu þeir Hjálmar Árnason þingflokksformaður Framsóknarflokksins og Lúðvík Bergvinsson alþingismaður. Er ég algjörlega mótfallinn þessum hugmyndum og tek heilshugar undir ályktun SUS-stjórnar í vor. Í Kastljósinu var rætt um þann skelfilega sjúkdóm átröskun. Var sýnt ennfremur brot úr þætti um konu sem haldin er þessum sjúkdómi og sýndur var á mánudagskvöld. Skelfilegt alveg. Missti því miður af þættinum um daginn og horfi á hann í endursýningu. Mikilvægt er að berjast af krafti gegn þessum skelfilega sjúkdómi.

Sjónvarpsgláp - spjall - bækur
Eftir dægurmálaþættina horfði ég á The Amazing Race. Æsispennandi þáttur, magnað kapphlaup um heiminn. Af 12 liðum eru nú 6 eftir og duttu blökkukonurnar Monica og Sheree út í gær. Þetta verður spennandi á næstu vikum og fylgst vel með þessu. Eftir þáttinn átti ég nokkur símtöl vegna SUS-fundarins í dag, ég fer suður seinna í dag vegna hans og á ritnefndarfund hjá frelsi.is, þar sem línurnar í umfjöllun næstu vikna á vefnum verða lagðar. Að því loknu fór ég á bláu könnuna og hitti Helgu og Gylfa og röbbuðum við þar um pólitík almennt og ýmislegt fleira yfir kakó og tertusneið. Virkilega gott spjall. Að því loknu var haldið heim og klárað að lesa ævisögu Einars Ben, hef verið að lesa hana í þriðja sinni seinustu vikuna og haft gaman af. Nú verður tekið til við að lesa ævisögu Ólafs Thors forsætisráðherra.

Vefur dagsins
Í dag bendi ég öllum á að líta á menntagátt.is, vef Menntamálaráðuneytisins. Meginmarkmið menntamálaráðuneytisins með uppbyggingu Menntagáttar er að veita skólum greiðan aðgang að upplýsingum og þjónustu sem er aðgengileg á Netinu. Góður og gagnlegur vefur.

Snjallyrði dagsins
Þú frelsisást, sem fjötur engan ber, um fangans múr þinn ljómi bjartast skín.
Byron lávarður

« Fyrri síða | Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband