15.12.2003 | 17:40
Engin fyrirsögn

Um allan heim hefur handtöku Saddams Husseins fyrrum einræðisherra Íraks, verið fagnað. Þau þáttaskil sem orðið hafa í Írak eru mjög táknræn. Flestum ætti nú að vera ljóst að skuggi Saddams er ekki lengur yfir landinu. Meiri óvissa er þó um örlög hans, hvort hann verði dæmdur til dauða í réttarhöldum fyrir glæpi sína eða hljóti mildari refsingu. Á blaðamannafundi í dag lagði George W. Bush forseti Bandaríkjanna, áherslu á að haldin yrðu réttarhöld yfir honum í Írak sem stæðust alþjóðlegar skuldbindingar. Þau munu samkvæmt ummælum hans vera haldin í samvinnu við Íraka. Sagði forsetinn mikilvægt að þjóðir heimsins tækju nú höndum saman til að byggja upp landið eftir ógnarstjórn Husseins. Abdel Aziz al-Hakim forseti framkvæmdaráðs Íraks, sagði í dag að Saddam Hussein gæti átt dauðadóm yfir höfði sér ef réttað yrði yfir honum fyrir íröskum dómstólum. Fram hefur komið að bráðbirgðastjórn Íraks vilji að Saddam verði dreginn fyrir sérstakan dómstól, sem settur var á fót í síðustu viku og er ætlað að rétta yfir fyrrverandi embættismönnum Íraka. Mun dómstóllinn uppfylla alþjóðleg skilyrði og orðrétt sagði Hakim: "Þar verða ráðgjafar, heimsþekktir einstaklingar sem geta verið viðstaddir, réttarhöldin verða fyrir opnum tjöldum og réttindi sakborninga til varnar verða virt,". Í dag hefur mikið verið fjallað í fjölmiðlum um leynistað Saddams sem hann var að lokum handsamaður á, og birtar af því mjög athyglisverðar lýsingar.



Mikið er af góðu efni á frelsinu í dag. Tvennt stendur uppúr: góð grein og viðtal við þingmann. Ingólfur Snorri skrifar góða grein um viðskiptamál. Hann fjallar um hvort skipta eigi upp bönkunum, aðskilja fjárfestingarbankastarfsemi frá viðskiptabankastarfsemi. Hann minnist á að þeir sem komið hafi fram með þessa tillögu hafi sagt að ef svo yrði væru komin skýrari skil í bankaþjónustu og minni líkur á hagsmunarárekstrum. Ingó telur að rökin fyrir skýrari skilum séu að óæskilegt upplýsingastreymi gæti orðið á milli deilda viðskiptabanka annars vegar og fjárfestingarbankahlutans hinsvegar. Orðrétt segir hann: "Erfitt er að sjá hver ávinningurinn yrði ef íslenskum bönkum yrði skipt upp, hvort heldur sé litið til viðskiptavina eða hluthafa. Eftir skiptinguna yrðu bankarnir smærri í sniðum og verr í stakk búnir til að þjónusta stærstu íslensku fyrirtækin. Lánshæfismat bankana myndi að öllum líkindum lækka sökum smæðar sem myndi leiða til verri lánskjara og hærri vaxta til viðskiptavina. Traust er einn mikilvægasti eiginleiki góðra banka, þetta vita bankamenn jafn vel og viðskiptavinir. Það er hagur banka að fjárfestingarbankastarfsemi og viðskiptabankastarfsemi fari vel saman, ríkið þarf ekki að skipa bönkunum fyrir með enn einu regluverkinu! Við eigum að treysta á frjálsan markað en ekki fáum misvitrum stjórnmálamönnum. Bendi ennfremur á gott netviðtal við Pétur Blöndal alþingismann, þar sem margt athyglisvert kemur fram.

Enn var fjallað um eftirlaunafrumvarpið í Silfri Egils í gær. Tókust þar á þau Björn Bjarnason dómsmálaráðherra og Margrét Frímannsdóttir alþingismaður. Þau rifust um málið fram og til baka og langt frá því að vera sammála. Náði Björn oft að hitta beint í mark og æsa Margréti með umræðunni um rifrildi innan Samfylkingarinnar og leiðindi þar innanborðs sem flestum eru sýnilegar. Í Kastljósinu klukkutíma síðar var Björn mættur og var gestur Kristjáns Kristjánssonar ásamt Ögmundi Jónassyni alþingismanni. Ræddu þeir fyrrnefnt frumvarp og ennfremur handtöku Saddams Husseins fyrrum forseta Íraks. Var Björn eins og flestir ánægðir með handtöku Husseins en greina mátti vonbrigði á Ögmundi. Er reyndar greinilegt að mestu kanahatararnir hérlendis og andstæðingar Bush eru grautfúlir með hin táknrænu endalok Íraksstríðsins. Framundan er nú uppbygging í landinu án þess að skuggi forsetans fyrrverandi sé yfir.
Eftir kvöldfréttir leit ég á sjónvarpið, var mjög góð dagskrá í því þetta kvöldið. Kl. átta var athyglisverður þáttur Hannesar Hólmsteins um Halldór Kiljan Laxness. Þar fór Hannes yfir ævi skáldsins og var þetta í senn fróðlegur og góður þáttur sem ég þarf að líta á aftur við tækifæri. Fyrsta bók hans um ævi Laxness kom út um jólin og lýsir árunum 1902-1932. Ætla ég að lesa hana um jólin, hinar tvær koma út fyrir næstu tvenn jól. Eftir þáttinn leit ég á Viltu vinna milljón, þar sem fjórir keppendur enduðu með 50.000 kall, rýr uppskera það. Rétt rúmlega 10 fórum við pabbi í bíó. Litum við á spennumyndina Master and Commander með Russell Crowe og Paul Bettany. Góð mynd og spennandi sem við feðgar höfðum gaman af. Er heim var komið leit ég á upptöku á tveim þáttum fyrr um kvöldið. Annarsvegar Sjálfstætt fólk með Jóni Ársæli þar sem gesturinn var Hannes Hólmsteinn og þáttur Sigmundar Ernis, en þar ræddi hann við Ómar Ragnarsson. Athyglisvert spjall þeirra. Að lokum leit ég á MSN og rabbaði um pólitík við fólk þar.
Vefur dagsins
Í dag bendi ég á vef þýska hægriflokksins Christlich Demokratische Union Deutschlands. Á vefnum er farið yfir stefnu flokksins, sögu og ennfremur greinar eftir leiðtoga flokksins Angelu Merkel. Mæli með vef CDU í dag.
Snjallyrði dagsins
Blindur er bóklaus maður.
Máltæki
Breytt 18.9.2006 kl. 08:02 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
14.12.2003 | 20:06
Engin fyrirsögn

8 mánuðir eru nú liðnir frá því að Saddam Hussein hrökklaðist frá völdum í Írak, í kjölfar innrásar herja Bandamanna í landið. Veldi hans og Baath-flokksins féll eins og dómínó á nokkrum vikum. Hermenn hans vildu ekki fórna sér fyrir deyjandi einræðisstjórn og stjórn Saddams féll 9. apríl 2003. Við það urðu mikil þáttaskil, 24 ára alræðisstjórn eins manns lauk með táknrænum hætti. Enn táknrænni er þó eflaust dagurinn í dag, 14. desember, þegar tilkynnt var að forsetinn fyrrverandi hefði verið handsamaður eftir 8 mánuði á flótta á milli staða eins og rotta. Fregnir af handtöku Saddams Husseins binda enda á óvissuna sem ríkti um afdrif hans. Seinnipart sumars voru synir hans, Uday og Qusay vegnir í árás að þeim. Forsetinn fyrrverandi var því eina ógnin í veginum fyrir því að tímabili hans lyki endanlega. Almenningi í Írak ætti nú að vera endanlega ljóst að tími Saddams er liðinn og kemur ekki aftur. Það voru í senn bæði miklar og ánægjulegar fréttir að heyra af handtöku Saddams. Heimsbyggðin hafði lengi beðið eftir þessum táknrænu endalokum í málinu. Nú verður forsetinn fyrrverandi færður fyrir dóm og réttað yfir honum vegna verka stjórnar hans, þau 24 ár sem hann var forseti Íraks. Framundan eru nýir tímar í Írak. Mikilvægt er að haldið verði í vegferð til frjáls Íraks og horft fram á veginn. Mikilvægt er að þessum kafla sé lokið. Annar kafli getur þarmeð hafist, án þess að Saddam Hussein sé persóna í þeim kafla.


Að þessu sinni fjalla ég um handtöku Saddams Husseins, sem náðist í dag eftir 8 mánaða leit að honum í kjölfar þess að honum og ógnarstjórn hans var steypt af stóli. Framundan er uppbygging í Írak án þess að skuggi hins fallna einræðisherra sé yfir landinu, verður hann dreginn fyrir dóm til að svara til saka fyrir verk sín. Ennfremur fjalla ég um umdeilt eftirlaunafrumvarp á þingi sem hart hefur verið tekist á um innan þings og jafnframt í samfélaginu og tek fyrir atburðarás málsins. Að lokum fjalla ég meira um eitt mála seinasta pistils, línuívilnun og viðbrögð sjómanna og útvegsmanna við frumvarpi um það og ennfremur áskorun þriggja bæjarstjóra til þingmanna Norðausturkjördæmis, þess efnis að styðja ekki frumvarpið. Tek ég heilshugar undir þá áskorun í pistlinum og vona að þingmenn kjördæmisins styðji ekki þetta frumvarp.

Fjörug dægurmálaumræða var í Silfri Egils hjá Agli Helgasyni í gær. Var rætt að mestu um eftirlaunafrumvarpið og farið yfir málið frá ýmsum hliðum. Gestir Egils í fyrsta hlutanum voru Svanfríður Jónasdóttir fyrrv. alþingismaður, Björn Ingi Hrafnsson aðstoðarmaður utanríkisráðherra, og Hlynur Hallsson varaþingmaður, sem þessa dagana situr á þingi. Var mesta rimman milli Svanfríðar og Björns, en mikið gekk á og meðan mest var um að vera töluðu öll fjögur í einu. Skoðanir voru eins og gefur að skilja skiptar á milli þeirra og engin samstaða í áherslum þeirra og sýn á þetta mikla hitamál. Í næsta hluta kom Jón Magnússon lögmaður, inn í spjallið og að lokum þeir Andrés Magnússon blaðamaður, og Sigurjón Magnús Egilsson fréttastjóri Fréttablaðsins. Semsagt mikill átakaþáttur og skipst hressilega á skoðunum, eins og við var að búast.
Vefur dagsins
Leit um daginn á vef sænska hægriflokksins, Moderata. Þar eru fréttir af starfi flokksins, ennfremur farið yfir stefnu hans og sögu. Nýlega tók nýr leiðtogi Fredrik Reinfeldt, við forystu í flokknum. Bendi því í dag á vef sænskra hægrimanna.
Snjallyrði dagsins
Það eru ekki allt vinir sem í eyrun hlæja.
Máltæki
Breytt 18.9.2006 kl. 08:02 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
13.12.2003 | 23:56
Engin fyrirsögn

Hart hefur verið deilt á þingi í dag vegna eftirlaunafrumvarpsins. Málið hefur seinustu daga verið til umræðu í allsherjarnefnd og skilaði hún niðurstöðum sínum í gær. Hafa stjórnarandstöðuflokkarnir nú flúið frá málinu eins og stefnulaus reköld, eftir að formenn flokkanna höfðu lagt blessun sína yfir frumvarpið sem fulltrúar þeirra í forsætisnefnd eru flutningsmenn að. Er reyndar merkilegt að þingmaður frjálslyndra sem var flutningsmaður frumvarpsins af hálfu síns flokks hefur sjálfur ákveðið að hætta við það stuðningi og gefur fyrir það loðin rök. Þingmaður Samfylkingarinnar heldur fast við sinn stuðning, en hefur það leitt til kergju innan verkalýðsarms flokksins sem vill ekki að neinn þingmaður hans greiði atkvæði með frumvarpinu. Skv. upplýsingum sem fram komu í ræðu Bjarna Benediktssonar formanns allsherjarnefndar, mun hækkun kostnaður vegna breytinga á lífeyrisskuldbindingu ríkissjóðs, ef eftirlaunafrumvarpið verður að lögum, vera allt frá 0% til 7%, samkvæmt útreikningum Talnakönnunar. Samkvæmt því getur kostnaður ríkissjóðs vaxið um allt að 440 miljónir, skv dýrasta möguleika en ekki neitt samkvæmt þeim ódýrasta. Fram hefur komið í fréttum að Talnakönnun hafi reiknað út dýrasta og ódýrasta möguleikann, allt eftir því hvenær menn myndu hefja töku lífeyris. Annarri umræðu málsins lauk á þingi seinnipartinn með samþykkt þess. Þriðja umræða verður á mánudag og því fer það í gegn þá. Muni stjórnarflokkarnir tryggja að málið nái í gegn. Útlit er fyrir að tveir flutningsmenn frumvarpsins greiði því ekki atkvæði sitt, Þuríður Backman og Sigurjón Þórðarson. Framsóknarmenn hafa ráðist af krafti að Samfylkingunni og hamra á að flokkurinn sé klofinn og létu svo um mælt á þingi í dag að kona úti í bæ hefði tekið þar völdin.


Gaman var sem fyrr að horfa á Idol - stjörnuleit í gærkvöldi. Um var að ræða annan þátt úrslitaþáttanna í Smáralind. 7 þátttakendur voru eftir, en síðast voru þær Sessý og Vala sendar heim eftir kosningu. Þema kvöldsins var diskótónlist og lagavalið því mjög hressilegt og gott. Gestadómari kvöldsins var Páll Óskar Hjálmtýsson diskókóngur. Hann hefur jafnan verið þekktur fyrir að fylgjast vel með diskótónlist og sungið mörg slík lög. Skemmst er frá því að segja að allir keppendurnir 7 stóðu sig með miklum sóma. Erfitt var að gera upp á milli þeirra. Persónulega fannst mér Ardís og Tinna Marína standa sig best. Enn erfiðara var þó að velja þann sem skyldi detta út. Þegar kom að því að tilkynna þrjá neðstu kom í ljós að það voru Anna Katrín, Tinna Marína og Rannveig. Kom það í hlut Rannveigar að halda heim. Fannst mér hún ekki standa sig verst og því undarlegt að hún skyldi send heim af þjóðinni. En svona er þetta. Hægt er að líta á frammistöður þeirra og dæma af því. Framundan er spennandi 6 manna úrslit næsta föstudag og þá mun aftur fækka um einn í hópnum.

Francis Ford Coppola fæddist í Detroit í Michigan í Bandaríkjunum, 7. apríl 1939. Hann ólst upp í úthverfi New York. Á hann að baki meistaraverk á borð við The Godfather: Part II, The Godfather, Apocalypse Now og The Conversation. Ferill Francis Ford Coppola hefur einkennst af jafnt miklum meistaraverkum sem verða órjúfanlegur hluti af kvikmyndasögu 20. aldarinnar og jafnframt myndum sem teljast í meðallagi góðar. Í heildina litið er hann einkar svipmikill kvikmyndagerðarmaður sem setti sterkan svip á kvikmyndasögu 20. aldarinnar. Ég fjalla um feril Francis Ford Coppola í nýjustu leikstjóraumfjöllun minni á kvikmyndir.com.
Vefur dagsins
Lít stundum á vef breska Íhaldsflokksins. Þar er athyglisverð umfjöllun um allt sem tengist flokknum, sögu hans og forystu. Mæli með að fólk líti á þennan góða vef.
Snjallyrði dagsins
Ég forðast freistingar, nema þær séu ómótstæðilegar.
Mae West leikkona
Breytt 18.9.2006 kl. 08:02 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
12.12.2003 | 23:22
Engin fyrirsögn

Gríðarleg viðbrögð hafa orðið í samfélaginu vegna frumvarps um eftirlaun æðstu embættismanna sem lagt var fram á þingi af gær. Verkalýðshreyfingin er algjörlega andsnúin frumvarpinu og segir að með því sé búið að setja kjaraviðræður í uppnám og krefst þess að frumvarpið verði dregið til baka. Forseta Alþingis voru afhent mótmæli á fjölmennum mótmælafundi sem efnt var til á Austurvelli í dag. Í morgun var boðað í skyndi til formannafundar Alþýðusambandsins þar sem ákveðið var að efna til mótmælafundarins síðdegis og endurskoða kröfugerðir vegna komandi kjarasamninga sem lagðar hafa verið fram. Stéttarfélög sem þegar hafa kynnt kröfur sínar hafa dregið þær til baka og boðuðum fundum með atvinnurekendum hefur jafnframt verið aflýst. Þá hafa fjölmörg stéttarfélög mótmælt frumvarpinu harðlega í dag. Nokkur hundruð manns komu saman á Austurvelli til að mótmæla frumvarpinu. Grétar Þorsteinsson forseti ASÍ, sagði í ræðu á fundinum að frumvarpið bæri þess merki að verið væri að semja um starfslok forsætisráðherra og einnig væri verið að stinga dúsu upp í stjórnarandstöðuna. Frumvarpið hefur valdið titringi innan Samfylkingarinnar og hóta forsvarsmenn launþega, sem í flokknum að fara úr honum, ef þingflokkur Samfylkingarinnar styður frumvarpið. Davíð Oddsson forsætisráðherra, segist ekki skilja mótmælin, enda sé ekki um háar beinar hækkanir að ræða. Þrír þingmenn hafa lýst beinni andstöðu við frumvarpið: Grétar Mar Jónsson, Kolbrún Halldórsdóttir og Ögmundur Jónasson.



Í dag lýkur greinaröð um vændi á Íslandi, á frelsi.is. Hafa í vikunni birst fjórar greinar um þetta, allar athyglisverðar og hafa vakið verðskuldaða athygli. Í dag fjallar María Margrét um skýrslu sem Sólveig Pétursdóttir lét gera um vændi í dómsmálaráðherratíð sinni. Orðrétt segir Mæja: "Skýrsla þessi markaði tímamót þar sem fram að þessu höfðu engar rannsóknir verið gerðar á þessu annars viðkvæma málefni. Fram að þessu hafði umræðan um vændi að miklu leyti byggst á þekkingarleysi fólks og fordómum. Slíks gætir þó víða enn. Því hefur m.a. verið haldið fram að vændi sé ofbeldi en vændi er ekki ofbeldi nema þvingun fari fram og að verið sé í raun að skerða réttindi einhvers. Kynlíf tveggja fullorðinna aðila, með fullu samþykki beggja, er ekki ofbeldi. Peningargreiðslur eru ekki ofbeldi. Reynt var, í þessari skýrslu, að komast að því hvort vændi væri stundað á Íslandi og í hvaða mynd vændi birtist." Ennfremur segir hún: "Eins og við mátti búast kom fram að vændi er, í einhverjum mæli, til staðar á Íslandi. Rannsóknin rennir einnig stoðum undir grunsemdir um að vændi eigi sér stað í tengslum við rekstur nektardansstaða, en líka í yngri aldurshópum sem eiga við fíkniefnavanda að etja og/eða búa við slæmar fjölskylduaðstæður. En það kom einnig í ljós að það er til fólk sem velur þessa atvinnugrein, til dæmis til að forðast að þurfa að taka lán og skuldsetja sig á meðan það er í námi. Við eigum ekki að taka þennan rétt til að velja af þeim."

Í gærkvöldi var rætt um eftirlaunafrumvarpið, mál dagsins, í dægurmálaþáttunum. Í Íslandi í dag, fékkst einungis einn flutningsmanna frumvarpsins til að mæta. Sigurjón Þórðarson ræddi málin við Ögmund Jónasson og tókust þeir hressilega á. Reyndar kom á óvart að Sigurjón var efins um afstöðu sína og ekki sannfærður, kom hik hans talsvert á óvart. Þórhallur stjórnaði spjallinu af röggsemi og baunaði kraftlega á báða þingmennina, en þó meira á Sigurjón sem var mjög beggja blands í spjallinu. Ekki greinilega ákveðinn í málinu. Í Kastljósinu birtist ítarlegt viðtal Jóhönnu Vigdísar Hjaltadóttur við forsætisráðherrann. Fór hann vel yfir allt málið og var viðtalið einkar athyglisvert. Eftir það ræddu stjórnendur þáttarins við Pétur Blöndal alþingismann, og Gylfa Arnbjörnsson framkvæmdastjóra ASÍ. Tókust þeir á af krafti og ekki beint sammála.

Keypti í gær nýja plötu Siggu Beinteins. Það er fyrsta sólóplatan hennar í ein 6 ár. Syngur hún þar góð lög, en gestasöngvarar eru Jónsi, Björgvin Halldórsson og Selma Björns. Bestu lög plötunnar eru: Ég vil snerta hjarta þitt, Þú, Ég bið þig og Ef til vill andartak. Öll eru þau góð en besta lagið er það seinastnefnda, flottur dúett hennar og Björgvins. Hef ég lengi verið aðdáandi Siggu Beinteins sem söngkonu, allt frá því Stjórnin var og hét og nú til seinni tíðar. Þetta er góð plata sem gaman er að hlusta á. Horfði í gærkvöldi á hina mögnuðu kvikmynd Billy Wilder, Sabrinu. Þetta er heillandi rómantísk gamanmynd frá árinu 1954. Skartar þríeykinu Humphrey Bogart, Audrey Hepburn og William Holden í aðalhlutverkum. Þau eiga stórleik í þessari mögnuðu mynd. Hepburn glansaði í hlutverki Sabrinu, var í raun aldrei meira heillandi á sínum ferli en einmitt í þessari mynd. Myndin er einna helst eftirminnileg vegna góðs handrits og skemmtilegra atriða og einnig setur góður samleikur leikaranna þriggja mark sitt á myndina. Átti í lok dags gott spjall á MSN við vini og kunningja um hin ýmsu mál, t.d. stjórnmál seinustu daga hér heima.
Vefur dagsins
Oft lít ég á vef Hvíta hússins. Þar birtast ræður Bandaríkjaforseta, umfjöllun um sögu bandaríska forsetaembættisins og fréttir af forsetanum og því sem hann gerir í starfi sínu. Fróðlegur og góður vefur.
Snjallyrði dagsins
Öruggasta leiðin til að ganga vel er að verða ástfangin af iðju sinni.
Systir Mary Lauretta
Breytt 18.9.2006 kl. 08:02 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
11.12.2003 | 20:12
Engin fyrirsögn

Í dag var lagt fram á þingi frumvarp um eftirlaun forseta, hæstaréttardómara, ráðherra og ennfremur um laun nefndaformanna og forystumanna flokka. Samkvæmt því mun eftirlaunaréttur forsætisráðherra styrkjast til jafns við embætti forseta Íslands, nefndaformenn Alþingis hækka í launum og það tekur ráðherra styttri tíma að ávinna sér fullan biðlaunarétt. Frumvarpið er lagt fram af þingmönnum úr öllum þingflokkum. Fyrsti flutningsmaður frumvarpsins er Halldór Blöndal forseti Alþingis. Meðflutningsmenn að frumvarpinu eru Jónína Bjartmarz, Guðmundur Árni Stefánsson, Þuríður Backman og Sigurjón Þórðarson. Halldór flutti framsöguræðu vegna frumvarpsins á þingi eftir hádegið. Í máli hans kom fram að mánaðarlaun formanna stjórnarandstöðuflokkanna muni hækka um 220.000 krónur og laun varaforseta Alþingis, formanna nefnda og þingflokka hækka um 22.000 krónur. Þingfararkaup þingmanna, er nú 437.700 krónur á mánuði.



Í dag heldur umfjöllun vikunnar um vændismál á frelsinu. Birtist þriðja greinin af fjórum um þetta efni í dag. Í pistli sínum fjallar Ósk um nýlega könnun IMG Gallup um afstöðu almennings til vændis og kynlífsþjónustu. Orðrétt segir Ósk: "Ein af grundvallarréttindum okkar ættu að vera réttindi til þess að haga lífi okkar eins og okkur langar til, svo lengi sem við völdum öðrum einstaklingum ekki skaða. Það er því ekki réttlætanlegt að skerða frelsi minnihlutahópa til athafna í krafti vilja meirihlutans, þegar athafnir þeirra eru ekki til þess fallnar að skaða samborgara þeirra á nokkurn hátt!". Ennfremur: "Réttur einstaklings til umráða yfir eigin líkama er honum svo eðlislægur og óvéfengjanlegur að boð og bönn geta ekki orðið til þess að hann afsali sér þessum réttindum aðgerðalaust. Ef einstaklingur kýs að selja aðgang að líkama sínum sem hann hefur umráð yfir þá kemur dauður lagabókstafur ekki í veg fyrir það. Ekki frekar en hægt er að koma í veg fyrir fóstureyðingar með því að banna þær. Slík bönn hafa undantekningalaust neðanjarðartilfærslu í för með sér." Að lokum segir Ósk: "Ef þessar niðurstöður gefa til kynna hvernig öll þjóðin hugsar um þessi mál, þá er sá mikilvægi grundvallarréttur hvers einstaklings til þess að haga lífi sínu eins og hann langar til, svo lengi sem hann veldur ekki öðrum skaða, að engu hafður. Þó meirihluti fólks vilji eitthvað þá er ekki samasemmerki á milli þess vilja og réttmæti þess sem viljað er. Minnihlutahópar eiga rétt þrátt fyrir að meirihluti fólks vilji brjóta gegn honum."

Í Íslandi í dag í gærkvöld voru borgarmál rædd. Gestir Þórhalls Gunnarssonar voru, Þórólfur Árnason borgarstjóri, Vilhjálmur Þ. Vilhjálmsson leiðtogi borgarstjórnarflokks Sjálfstæðisflokksins, og Ólafur F. Magnússon borgarfulltrúi F-listans. Umræðuefnið holræsaskatturinn margfrægi sem R-listinn kom á skömmu eftir valdatöku sína fyrir tæpum áratug. Þegar hann var settur á var sagt að hann yrði minnkaður eða felldur út þegar verkefni við hreinsun strandlengjunnar við borgina yrði lokið. Endurtók fyrrverandi borgarstjóri það í viðtali 1999. Var því lofað af R-listanum fyrir kosningarnar 2002. Það á hinsvegar ekki að gera nú, eftir því sem borgarstjóri segir. Ekki á því að standa við loforð fyrrum leiðtoga R-listans. Var hart tekist á í þættinum um þetta. Vilhjálmur hjó vel í borgarstjórann sem sat eftir eins og endurtekningarvél, eftir stendur að loforð standa ekki um niðurfellingu skattsins. Framkvæmdum er lokið en skattheimtan heldur engu að síður áfram, þvert á gefin loforð. Niðurstaðan sú að R-listinn svíkur þetta kosningaloforð sitt. Í Kastljósinu tókust Dagný og Ágúst Ólafur á um málefni Háskólans. Dagný buffaði Ágúst, en stóð samt eftir með allt niðrum sig. Einkennilegt svo ekki sé meira sagt. Hvort ætli það segi meira um sannfæringu Dagnýjar fyrir 10. maí 2003 eða slappleika Ágústs. Í Pressukvöldi í gærkvöldi sat Kári Stefánsson forstjóri, fyrir svörum. Kom margt athyglisvert þar fram.

Eftir að hafa horft á dægurmálaþættina ákvað ég að setja góða mynd í tækið. Horfði (sennilega í þúsundasta skiptið) á stórmynd leikstjórans Frank Capra, It Happened One Night. Í aðalhlutverkum í þessari mögnuðu mynd eru Claudette Colbert og Clark Gable. Segir í myndinni frá hinni ofdekruðu Ellie Andrews sem flýr undan ofríki föður síns sem vill ekki leyfa henni að giftast glaumgosa einum. Á leiðinni í rútu til New York kynnist hún útbrenndum blaðamanni Peter Warner. Þegar rútan bilar á leiðinni lenda þau í vandræðum enda hætta á að faðir hennar komist að því hvar hún er, blaðamaðurinn þekkir auðmannsdótturina og vonast til að þarna sé komið efni í stórfrétt sem kemur honum á sporið aftur í bransanum. Vandræðin hefjast þó fyrir alvöru er þau verða ástfangin á leiðinni til New York. Stórfengleg kvikmynd sem varð gríðarlega vinsæl og hlaut 5 óskarsverðlaun 1934, sem besta kvikmynd ársins, fyrir leik Gable og Colbert, fyrir leikstjórn Capra og handritið. Var It Happened One Night fyrsta kvikmyndin sem hlaut óskarinn í 5 stærstu flokkunum; kvikmynd, leikstjórn, bestu aðalleikarar og handrit. Aðeins tvær myndir hafa náð þeim árangri frá 1934, One Flew Over The Cuckoo's Nest 1975 og The Silence of the Lambs 1991. Eftir myndina fór ég að lesa nýjustu bók Einars Kárasonar, Storm. Virðist vera virkilega góð bók, allavega skemmtileg lesning. Átti svo gott spjall við vini mína á MSN í lok dags, en ég vakti fram á nótt við að klára grein og pistla.
Vefur dagsins
Alltaf þegar ég vil fræðast um kvikmyndir eða kynna mér betur ýmislegt um þær (reyndar veit ég talsvert um kvikmyndir) að þá fer á kvikmyndavefinn Internet Movie Database. Magnaður vefur, biblía kvikmyndaáhugamanna um allan heim. Ómissandi vefur!
Snjallyrði dagsins
Ég vitna oft í sjálfan mig. Það gerir mál mitt mergjaðra.
George Bernard Shaw skáld
Breytt 18.9.2006 kl. 08:02 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
10.12.2003 | 18:56
Engin fyrirsögn

Seinustu daga hefur mikið verið rætt um línuívilnun fyrir dagróðrabáta þá sem gera á að veruleika með frumvarpi því sem sjávarútvegsráðherra leggur brátt fram á þingi á næstu dögum. Mikil andstaða er með málið meðal sjómanna, útvegsmanna, farmanna- og fiskimanna og vélstjóra. Í dag sendi Heimdallur félag ungra sjálfstæðismanna frá sér ályktun þar sem tilkynnt er að félagið leggist eindregið gegn frumvarpinu. Eins og bent er á í ályktuninni eru með línuívilnun aflaheimildir færðar frá núverandi handhöfum til fámenns hóps manna. Tek ég heilshugar undir með Heimdalli er sagt er að tekjutilfærslur af þessu tagi séu ósanngjarnar og með öllu óréttmætar auk þess sem hringlandaháttur löggjafans hvað varðar lagaumhverfi sjávarútvegsfyrirtækja er með öllu ólíðandi. Heimdallur og SUS eru samstiga í þessu máli og fjallaði ég vel um þetta mál í seinasta pistli á vefsíðu minni og fór yfir atburðarás þessa máls og mínar skoðanir sem hafa aldrei farið á milli mála allt frá því meirihluti landsfundarfulltrúa samþykkti ályktun þess efnis að taka upp línuívilnun. Þetta er eitthvað sem ég get ekki stutt og er ósáttur með samþykkt þessa máls þar á þeim fundi. Mikil óánægja er hér í Eyjafirði vegna þessa máls. Nú hafa bæjarstjórarnir á Akureyri, í Dalvíkurbyggð og í Fjarðabyggð ásamt formönnum Einingar/Iðju, Sjómannafélags Eyjafjarðar og Afls starfsgreinafélags Austurlands, skorað á þingmenn Norðausturkjördæmis að hafna frumvarpi um línuívilnun. Vonandi verða þeir við þeirri ósk.


Í dag heldur áfram vændisgreinaröðin á frelsinu, birtist nú önnur greinin af fjórum um þessi mál. Í dag birtist pistill Helgu um þessi mál. Orðrétt segir hún í pistli sínum: "Til eru vændiskonur sem líta á vændi sem hverja aðra starfsgrein og þær hljóta nú að vera með þeim óhamingjusömustu. Líkamar geta ekki verið söluvara, vinstri femínistar segja það. Reyndar selja nuddarar líkama sinn og módel líka en líkamsbeiting þeirra felur að minnsta kosti ekki í sér kynlíf, þannig að kynlíf getur ekki verið söluvara. Fólk sem dirfist að vera með önnur siðferðisviðmið skal bara gjöra svo vel að dúsa bak við lás og slá. Slíkt verður ekki liðið í lýðræðisþjóðfélagi, hvað þá undir formerkjum atvinnufrelsis". Í lokin segir hún: "Hafa vinstrimenn velt því fyrir sér að möguleg afleiðing banns við kaupum á vændi geti falist í aukinni óhamingju þeirra sem það stunda. Eða skiptir það kannski engu máli úr því hórurnar eru hvort sem er allar óhamingjusamar?". Góð grein hjá Helgu, líst vel á þessa pistlaröð um vændi á frelsinu.

Í Íslandi í dag voru gestir Þórhalls Gunnarssonar, þeir Illugi Jökulsson ritstjóri DV og Róbert Marshall formaður Blaðamannafélags Íslands. Umræðuefnið að DV skyldi birta nafn og mynd grunaðs kynferðisafbrotamanns á Patreksfirði. Reyndi Illugi að réttlæta með rýrum rökum þennan verknað. Róbert tók Illuga alveg í gegn og eftir stóð að ritstjórinn var alveg á gati. Þeir geta ekki varið þetta eða komið með gild rök fyrir þessum vinnubrögðum nema þá að þetta sé eingöngu gert til að selja slappt blað. Í Kastljósinu ræddu Sigurður Þ. Ragnarsson og Haraldur Ólafsson um umdeildar framtíðarspár Sigurðar sem hefur fyrir Stöð 2 komið með jólaspána, rúmlega hálfum mánuði fyrir jól. Mælist þetta ekki vel fyrir meðal veðurfræðinga á veðurstofunni. Finnst mér þetta vel gert hjá Sigurði og sé ekkert að þessu. Bara um að gera að hann geri það sem hann vilji að ganni sínu. Þetta er mikið hobbý hans. Sá um kvöldið upptöku af Íslandi í bítið, gott viðtal við Ólöfu Einarsdóttur, móður Eiðs Smára og fyrrum eiginkonu Arnórs Guðjohnsen. Gaman að því. Skemmtilegt að heyra hennar hlið á fótboltaheiminum.

Eftir dægurmálaþættina horfði ég á næstsíðasta þáttinn af The Amazing Race. Eftir eru nú þrjú lið sem keppa um sigur í þættinum. Æsispennandi að sjá hvert þeirra muni vinna. Eftir það fór ég í afmælisboð til Siggu vinkonu minnar, sem fagnaði afmæli sínu í gær. Þar svignuðu borð undan krásum og létt og góð stemmning einkenndi kvöldið og gott spjall um ýmis mál. Eftir afmælisboðið hélt ég heim og horfði á kvikmynd Elia Kazan, Gentleman's Agreement. Gentleman's Agreement segir frá kunnum pistlahöfundi á virtu dagblaði í New York, sem ákveður að ráðast gegn fordómum gegn gyðingum. Hann þykist vera gyðingur til að geta skrifað um reynslu þeirra. Lendir hann í ýmsum ævintýrum á þessari vegferð. Myndin hlaut óskar fyrir leikstjórn Kazan, fyrir leik Celeste Holm og sem besta kvikmynd ársins 1947. Myndin varð gríðarlega vinsæl og þótti tímamótaverk, einkum vegna umfjöllunar um málefni gyðinga. Myndin markaði þáttaskil í kvikmyndaheiminum árið 1947. Góð mynd.
Vefur dagsins
Í dag bendi ég öllum á vef Dalvíkurbyggðar. Þar eru fréttir frá Dalvík, fundargerðir nefnda og upplýsingar um bæinn. Góður vefur.
Snjallyrði dagsins
Við lærum að elska með því að elska.
Dame Iris Murdoch skáldkona (1919-1999)
Breytt 18.9.2006 kl. 08:02 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
9.12.2003 | 04:43
Engin fyrirsögn

Eins og flestum er kunnugt hlaut Samherji hf. á Akureyri útflutningsverðlaun forseta Íslands í maímánuði. Var það á svipuðum tíma og fagnað var því að tveir áratugir voru frá því að núverandi eigendur keyptu fyrirtækið. Í tilefni þessa komu forsetahjónin, Ólafur Ragnar Grímsson og frú Dorrit Moussaieff, ásamt fulltrúum þeirra sem völdu fyrirtækið þegar kom að verðlaununum í heimsókn til Samherja í gær. Á móti gestunum tóku Þorsteinn Már Baldvinsson forstjóri Samherja, og Kristján Vilhelmsson útgerðarstjóri, ásamt hátt í 200 starfsmönnum Samherja á Akureyri og Dalvík. Eftir því sem fram kom í fréttum skoðuðu gestirnir vinnsluferlið í frystihúsinu á Dalvík. Telst frystihúsið á Dalvík eitt fullkomnasta frystihúsið í heiminum. Í pökkunarsal Samherja á Dalvík var móttaka í boði fyrirtækisins. Þar flutti Þorsteinn Már ávarp. Í því sagði hann t.d. að kosningabaráttan sl. vor hefði verði óvægin í garð þeirra sem störfuðu í sjávarútvegi og að síðan þá hefði fátt gott gerst fyrir greinina. Sagði hann að til stæði að skerða aflaheimildir þeirra sem litu á greinina sem eina heild, þ.e. veiðar, vinnslu og markaðsmál. Þá sagði hann að Íslendingar hefðu verið í forystu meðal sjávarútvegsþjóða heims á allra síðustu árum en því miður sýndist honum allt stefna í að Íslendingar væru að glata því forystuhlutverki. Að lokinni ræðu forseta var haldið til Akureyrar og Strýta heimsótt. Heimsókn forseta lauk síðdegis í gær.



Líf og fjör einkennir pólitíska umræðu á frelsinu þessa vikuna eins og ávallt áður. Í tilefni talsverðra umræðna seinustu vikur um kjölfar frumvarps á þingi hafa Ósk Óskarsdóttir, Heiðrún Lind Marteinsdóttir, Helga Baldvinsdóttir Bjargardóttir og María Margrét Jóhannsdóttir skrifað pistla um vændismál. Óhætt er að segja að skiptar skoðanir séu um reynsluna frá Svíþjóð, en það er eina landið sem hefur fetað þá slóð að banna kaup á vændi. Ungir sjálfstæðismenn hafa ritað greinar í Morgunblaðið og buðu upp á athyglisverðan fyrirlestur sænska mannfræðingsins Petru Östergren. Fyrsti pistillinn í vændispistlaflokknum er eftir Heiðrúnu Lind Marteinsdóttur og ber titilinn Hin ,,raunverulega sænska leið í vændismálum. Þar fjallar hún um eitt aðaldeilumálið í þessu, sem er hvort gera skuli kaup á vændi refsiverð í stað sölu, líkt og nú getur um í almennum hegningarlögum. Í gær birtist góður pistill Stefáns Einars, nafna míns, þar sem hann fer yfir borgarmálin. Ennfremur birtist nýlega ítarlegur pistill Tobbu um fjárhagsáætlun Reykjavíkurborgar fyrir árið 2004.

Heldur betur líflegt var yfir dægurmálaþáttum gærkvöldsins og fersk og góð umfjöllun. Í Íslandi í dag hjá Jóhönnu og Þórhalli, byrjaði kokkurinn Óli Gísli að kenna okkur að elda hina einu sönnu pörusteik, eins og þær gerast bestar. Engin jól eru án þess að elda svínabóg og mikilvægt að hafa hann á boðstólum yfir hátíðirnar. Ætla ég að bjóða góðum hópi í mat til mín að kvöldi annars dags jóla og bjóða upp á þetta lostæti. Eflaust einhverjir farnir að hlakka til þess. Siggi stormur kom með langtímaspána sem reyndar var fyrir aðfangadag (ótrúlegt en satt). Ef eitthvað verður að marka hana verða hvít jól hér norðan heiða og jólasnjór í massavís. Söng kvennakórinn Vox Feminae eitt ekta jólalag. Eftir kvöldfréttir var Brynjólfur Bjarnason forstjóri Landssímans, gestur þeirra og farið var yfir fjárdráttarmál aðalgjaldkerans í fyrirtækinu. Eftir ítarlega rannsókn er ljóst að hann hefur dregið sér rúmlega 260 milljónir króna. Skelfilegt mál, mikilvægt að stokka upp öll vinnubrögð þarna innanhúss. Í Kastljósinu voru heldur betur hressilegar umræður. Þorsteinn Már Baldvinsson forstjóri Samherja, og Kristinn H. Gunnarsson alþingismaður, ræddu um línuívilnun og voru ekki sammála eins og við mátti búast. Komu svo Garðar Sverrisson og Jónína Bjartmarz og ræddu öryrkjamálið. Var með ólíkindum að sjá hversu ókurteis Garðar var. Fór hann vel yfir strikið.

Eftir dægurmálaþættina horfði ég á þátt á Stöð 2 um ferð hljómsveitarinnar Írafár til Orlando en þar voru lögð drög að nýrri plötu hljómsveitarinnar Nýtt upphaf. Kom platan út fyrir skömmu og er þegar komin í gull, semsagt seld 5000 eintök. Athyglisverður þáttur og líflegur. Eftir hann horfði ég The Apartment, magnaða kvikmynd leikstjórans Billy Wilder. Eftirminnilegt gamandrama frá árinu 1960 sem sló í gegn. Hlaut fjölda óskarstilnefninga, hlaut verðlaunin sem besta mynd ársins, fyrir leikstjórn Wilders og handrit hans og I.A.L. Diamond. Jack Lemmon á stórleik í hlutverki hins skemmtilega einfeldnings C.C. Baxter, hiklaust ein besta frammistaða ferils hans. Einnig er Shirley MacLaine heillandi sem Fran Kubelik. Magnaður samleikur milli Lemmon og MacLaine. Eftir myndina fór ég að glugga í bókina Kæfusögur, en hana fékk ég lánaða á bókasafninu. Þetta er ný bók, kom út fyrir jólin og inniheldur margar skemmtilegar sögur. Gaman að kíkja á hana. Átti svo gott spjall við marga vini á MSN undir lok viðburðaríks og góðs dags.
Vefur dagsins
Í dag bendi ég öllum á að líta á vef dr. Hannesar Hólmsteins Gissurarsonar. Þar er að finna athyglisverð greinaskrif Hannesar, fræðandi efni úr kennslu hjá honum í stjórnmálafræði, athyglisverðar myndir og margt fleira. Litríkur maður - litríkur vefur.
Snjallyrði dagsins
Stjörnurnar, sem við sjáum
sindra um himininn,
eru gleðitár Guðs, sem hann felldi,
er hann grét í fyrsta sinn.
Davíð Stefánsson skáld frá Fagraskógi í Eyjafirði. (1895-1964)
Breytt 18.9.2006 kl. 08:02 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
7.12.2003 | 23:47
Engin fyrirsögn

Þingkosningar voru í Rússlandi í dag. Samstarfsflokkar Pútíns forseta virðast hafa unnið stórsigur í kosningunum ef marka má útgönguspár. Flokkurinn Sameinað Rússland sem Pútín lýsti yfir stuðningi við fær langmest fylgi. Endanlegar tölur liggja ekki fyrir en ljóst er að flokkurinn fær um 40% atkvæða. Flokkur öfgaþjóðernissinnans Zhírínovskí sem einnig styður Pútín, fær um 12%, og nýr flokkur, Rodina eða "Föðurlandið" fær um 9%. Flokkurinn bauð fram undir þjóðernissinnaðri og vinstrisinnaðri stefnuskrá og því er haldið fram að flokkurinn hafi verið stofnaður að undirlagi Pútíns forseta, til þess að reita fylgi af kommúnistum. Ennfremur vakti athygli að tveir frjálslyndir flokkar, Samtök hægriaflanna og Jabloko, fá innan við 5% fylgi hvor, sem tryggir þeim ekki þingsæti á landsvísu. Kommúnistaflokkurinn fær næstmest fylgi en töpuðu stórt, fá um 13%, en fengu næstum fjórðung atkvæða í þingkosningunum 1999. Kosið er um 450 þingsæti, helminginn í listakosningum og helminginn í einmenningskjördæmum. Samkvæmt kosningaspám er líklegt að flokkur Pútíns fái alls 223 sæti í Dúmunni. Líklegt er að flokkarnir sem styðja forsetann fái yfir 300 þingsæti og aukinn meirihluta á þingi eða yfir 2/3 þingsæta. Með því getur forsetinn látið samþykkja breytingar á stjórnarskrá Rússlands, t.d. þess efnis að forseti geti setið lengur en tvö kjörtímabil í embætti. Með því opnað möguleika á að Pútin geti setið lengur en til 2008. Forsetakosningar verða í Rússlandi í marsmánuði og er ljóst að staða forsetans er mjög sterk.


Að þessu sinni fjalla ég um öryrkjamálið sem hefur verið áberandi í fréttum seinustu vikuna og umræðu tengda samningi heilbrigðisráðherra og Öryrkjabandalagsins í mars og viðbrögðum við lokaafgreiðslu málsins á þingi í vikunni, tjái skoðanir mínar og SUS á línuívilnun á dagróðrabáta sem brátt verður að veruleika og fer yfir málið allt frá því að samþykkt var ályktun þess efnis á landsfundi Sjálfstæðisflokksins í marsmánuði 2003. Að lokum fjalla ég um borgarmálin en eymdarsvipurinn í borg skuldanna undir stjórn leiðtogalauss R-lista er að verða sífellt greinilegri. Er greinilegt orðið að R-listinn hefur enga stjórn á skuldasöfnuninni og ráðleysinu sem grasserað hefur í skjóli þess að meirihlutinn er leiðtogalaus eftir að fyrrverandi borgarstjóra var sparkað eftir að svíkja gefin loforð í kosningabaráttunni vorið 2002. Eftir stendur að borgin er á slæmri braut og mikilvægt að ábyrgari stjórnvöld ráði þar málum.

Jón Sigurðsson forseti, lést 7. desember 1879 í Kaupmannahöfn, 68 ára að aldri. Hann fæddist 17. júní 1811 að Hrafnseyri við Arnarfjörð. Tæplega 18 ára gamall fór Jón úr foreldrahúsum til Reykjavíkur, þar sem hann tók stúdentspróf með afburða lofi, en faðir hans hafði kennt honum þann skólalærdóm sem til þurfti. Í Reykjavík stundaði Jón verslunarstörf hjá föðurbróður sínum, Einari Jónssyni faktor, um hríð. Þar kynntist hann konuefni sínu, Ingibjörgu, dóttur Einars. Vorið 1830 gerist Jón skrifari hjá Steingrími biskupi Jónssyni í Laugarnesi og var hann í vist hjá honum í þrjú ár. Þremur árum síðar sigldi Jón til Kaupmannahafnar og innritaðist til náms í málfræði og sögu við háskólann þar. Það orð fór af Jóni í Kaupmannahöfn að hann væri hirðumaður mikill og nákvæmur um fjármál. Snemma varð hann greiðvikinn og bóngóður. Frá 1833-1845 bjó Jón Sigurðsson í Kaupmannahöfn við nám og störf. Allan þann tíma kom hann ekki til Íslands. Þetta var viðbúnaðartími undir það sem fram skyldi koma. En unnusta hans, Ingibjörg Einarsdóttir, sat heima í festum. Vorið 1845 hélt Jón áleiðis til Íslands til að sitja endurreist Alþingi fyrir Ísafjarðarsýslu og vitja heimahaganna fyrir vestan. Um haustið voru þau Ingibjörg svo gefin saman í hjónaband í Dómkirkjunni í Reykjavík. Þá var hann 34 ára en hún 41 árs. Hann var 10 sinnum kjörinn forseti þingsins, hefur enginn maður gegnt þeirri stöðu jafn lengi. Þátttaka hans á þjóðfundinum 1851 er vel þekkt. Fleyg urðu orð hans til danskra yfirvalda við tillögum þeirra - Vér mótmælum allir. Á þjóðfundinum tók Jón Sigurðsson endanlega forystu fyrir Íslendingum í baráttu þeirra fyrir auknum stjórnarfarslegum réttindum og hélt henni til æviloka.
Vefur dagsins
Vefsíða Björns Bjarnasonar kom til sögunnar, 18. janúar 1995. Hún hefur þróast í tímans rás og verið ánægjulegt að fylgjast með henni þann tíma. Björn var brautryðjandi í netskrifum stjórnmálamanna og hefur notað þennan vettvang af sama krafti og einkennir öll hans störf. Mæli með vef hans í dag.
Snjallyrði dagsins
Aldrei er það áhrifalaust á menn, sem fyrir augunum ber.
Jón Sigurðsson forseti (1811-1879)
Breytt 18.9.2006 kl. 08:02 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
6.12.2003 | 23:58
Engin fyrirsögn
Anfinn Kallsberg lögmaður Færeyja, afhenti seinnipart vikunnar, forseta lögþings Færeyja bréf þar sem hann biðst lausnar fyrir stjórn sína og boðar til lögþingskosninga 20. janúar nk. Ástæður þess að kosningar eru boðaðar eru að Høgni Hoydal skrifaði Kallsberg bréf fyrir hönd Þjóðveldisflokksins, þar sem segir að Fólkaflokkur Kallsbergs hafi ekki orðið við kröfu sem Þjóðveldisflokkurinn setti fram um að annaðhvort hreinsaði Kallsberg sig af ásökunum um fjármálamisferli, sem fram koma í nýrri bók, eða biðji færeysku þjóðina afsökunar. Er reyndar greinilegt að þjóðveldismenn standa að þessari bók og ýta upp máli sem lauk fyrir mörgum árum. Leiddi þetta allt til þess að flokkur Hoydals taldi sig ekki hafa lengur traust á Kallsberg sem lögmanni. Var það tillaga hans að nýr lögmaður yrði skipaður. Kallsberg brást við bréfinu með því að rjúfa þing og vísa fulltrúum Þjóðveldisflokksins úr landsstjórninni. Að færeysku landsstjórninni standa nú þrír flokkar, Fólkaflokkurinn og tveir smærri flokkar, Miðflokkurinn og Sjálfstýriflokkurinn. Hafa tveir síðastnefndu flokkarnir lýst yfir trausti á lögmanninn og störf hans. Þessi niðurstaða er áfall fyrir færeyska sjálfstæðissinna. Skoðanakannanir í Færeyjum sýna að þeir flokkar sem eru andsnúnir sjálfstæði Færeyja hafa meirihluta ef kosið yrði nú. Óskandi er að Færeyingar kjósi áfram Kallsberg og Fólkaflokkinn til forystu í færeyskum stjórnmálum og standi vörð um baráttu sína fyrir sjálfstæði.


Mögnuð stemmning var í gærkvöldi í Smáralindinni á fyrsta úrslitakvöldi í Idol - stjörnuleit og gaman að fylgjast með þessu. Fram að þessu hefur þetta verið spennandi að fylgjast með, en var enn skemmtilegra og meira gaman að horfa á. Nú er þetta í beinni útsendingu en áberandi hefur verið seinustu vikur að þetta hefur verið tekið upp fyrirfram en úrslitin sýnd hinsvegar beint. Nú er allt dæmið hinsvegar í beinni og verður alla föstudaga fram til 16. janúar er úrslitin verða kynnt formlega. Dómararnir Bubbi, Sigga og Þorvaldur stóðu sig með miklum sóma að vanda. Gestadómari verður framvegis í þáttunum í Smáralindinni. Fyrsti gestadómarinn var Björgvin Halldórsson. Hann þarf vart að kynna enda ein goðsagna íslenskrar tónlistarsögu 20. aldarinnar. Keppendurnir stóðu sig misvel, þótti flestallir komast vel frá sínu. Mér þóttu Anna Katrín, Ardís Ólöf; Karl og Rannveig standa sig áberandi best. Þau Jóhanna Vala og Helgi Rafn stóðu sig afleitlega og áttu bæði skilið að fá að taka pokann sinn. Óskiljanlegt er að Sessý var hinsvegar send heim, en hún átti góða frammistöðu er hún söng Vetrarsólina. Það var með ólíkindum að landsmenn hafi sent hana burt en ekki Helga Rafn sem átti mjög dapra frammistöðu. Verður gaman að fylgjast með þætti nr. 2 úr Smáralindinni eftir viku.

Eftir magnaðan þátt af Idol var haldið á vídeóleiguna og leigt sér spólu. Ákváðum við að taka hina mögnuðu Identity. Þetta er spennutryllir sem kemur verulega á óvart. Bæði traustur og grípandi þriller í senn. Edward (John Cusack) verður fyrir því óhappi að keyra á óvarinn vegfaranda á fáförnum vegi og vegna slæmrar færðar komast þau ekki á sjúkrahús. Eitt óhappið rekur annað, sem leiðir til þess að ferðalöngunum er nauðugur sá kostur að gista á ódýru vegahóteli, þar sem þau hitta aðra seinheppna ferðalanga, sem sitja þar fastir af ýmsum ástæðum. Í kjölfarið fer fjöldamorðingi á kreik og algerlega ómögulegt virðist vera að hafa hendur í hári hans. Hafin er gríðarlega spennandi atburðarás sem brátt snýst um líf eða dauða. Enginn er óhultur. Kvikmynd sem fangar athygli áhorfandans allt frá fyrstu mínútu og heldur henni óskiptri allt þar til yfir lýkur. Segja má að fyrri hlutinn einkennist af svörtum húmor, eftir það tekur spennan yfirhöndina. Endalokin eru algjörlega ófyrirsjáanleg, og erfitt um að spá hver fléttan er fyrr en í blálokin. Hvet alla til að sjá hana. Horfði á þessa góðu mynd í bíó í sumar með vinum mínum, Haffa og Hjölla. Það verður enginn svikinn af þessum magnaða þriller.
Vefur dagsins
Oft kemur fyrir að manni vantar í skyndi símanúmer einhvers þegar þarf að hringja í viðkomandi. Oftar en ekki leita ég þá á simaskra.is. Þar er auðvelt að finna númer þeirra sem ná þarf á. Góður vefur sem ég nota mikið.
Snjallyrði dagsins
Life's a box of chocolates, Forrest. You never know what you're gonna get.
Frú Gump (úr kvikmyndinni Forrest Gump, frá 1994)
Breytt 18.9.2006 kl. 08:02 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
5.12.2003 | 20:32
Engin fyrirsögn

Árni M. Mathiesen sjávarútvegsráðherra, mun á næstu dögum leggja fram á þingi, frumvarp um línuívilnun dagróðrabáta og ennfremur leggja fram breytingar á byggðakvóta. Samstaða er um frumvarpið innan þingflokks Sjálfstæðisflokksins. Áður hafði verið ákveðið að bíða með frumvarpið til næsta hausts en þingmeirihluti er á þingi fyrir línuívilnun nú þegar og í ljósi þess verður frumvarpið lagt fram nú. Samkvæmt frumvarpinu verður línuívilnun fyrir dagróðrabáta 16% í þorski, steinbít og ýsu. Þetta þýðir jafnframt að sá sem á 100 tonna þorskkvóta má veiða allt að 116 tonn. Línuívilnun í ýsu og steinbít kemur til framkvæmda 1. febrúar nk. en í þorskinum í byrjun næsta fiskveiðiárs þann 1. september. Frumvarpið var kynnt formlega í þingflokkum stjórnarflokkanna í dag og líklegt að því verði dreift í þingsölum á morgun. Fyrir lá að stjórnarþingmenn frá Vestfjörðum vildu ekki bíða næsta hausts og höfðu í hyggju að leggja fram frumvarp einir sínir liðs. Hefur samstaða nú náðst sem allir geta sæst á. Línuívilnun var samþykkt sem stefna á landsfundi Sjálfstæðisflokksins í mars sl. Greiddi ég þar atkvæði á móti þeirri tillögu Vestfirðinga, enda ekki hlynntur þessu máli. Hinsvegar samþykkti fundurinn þetta sem stefnu flokksins. Ávallt stóð til að efna þetta kosningaloforð en deilt var um tímasetningar. Niðurstaða málsins ætti að vera ánægjuefni fyrir alla þá sem studdu tillöguna á sínum tíma.



Alltaf er nóg um að vera á frelsinu. Í dag skrifar Atli Rafn pistil þar sem hann fer yfir það sem framundan er í starfi Heimdallar og ennfremur það sem gerst hefur síðastliðinn mánuð þar. Hann bendir að auki á ályktanir stjórnar félagsins að undanförnu. Er ánægjulegt hversu kraftmikið og öflugt starf er í Heimdalli nú og greinilegt að ekki er mikið mál fyrir þá sem vilja leggja lið þar að bætast í hópinn og taka virkan þátt í störfum í ungliðahreyfingunni. Gott mál. Ennfremur er á frelsinu birt umfjöllun um ræðu Vilhjálms Þ. Vilhjálmssonar leiðtoga borgarstjórnarflokksins, við fyrstu umræðu um fjárhagsáætlun borgarinnar. Að auki birtist ritstjórnargrein þar sem farið er yfir undarlega nýja útgjaldaliði, t.d. fjölgun á heiðurslistamönnum sem var nóg af fyrir.

Gaman er að fylgjast með Íslandi í bítið, morgunþætti Stöðvar 2 og Bylgjunnar milli 7 og 9 alla virka morgna. Þar koma góðir gestir og er áhugavert dægurmálaspjall í bland við ýmislegt léttmeti. Tekst stjórnendunum, Fjalari Sigurðarsyni og Ingu Lind Karlsdóttur, vel í umfjöllun um það sem hæst ber og eru með líflegan og góðan þátt. Hiklaust besti morgunþátturinn sem nú er í boði. Í gærkvöldi var margt um að vera í dægurmálaþáttunum. Í Íslandi í dag voru Einar Oddur Kristjánsson og Guðmundur Árni Stefánsson, gestir Þórhalls í Íslandi í dag. Það var kraftur í því spjalli og þeir ekki sammála eins og við mátti búast. Að mestu rætt um málefni öryrkja sem einna mest hefur verið rætt þessa vikuna almennt. Í Kastljósinu var tilkynnt um tilnefningar til Íslensku bókmenntaverðlaunanna 2003. Þar eru margar athyglisverðar bækur tilnefndar og nokkrar þeirra hef ég virkilega mikinn áhuga á að lesa. Fremst í flokki þeirra er ævisaga Halldórs Kiljans Laxness eftir dr. Hannes Hólmsteinn Gissurarson. Fyrsta bindið er um 600 síður og heitir Halldór og fjallar um tímabilið 1902-1932, rómantíska tímabil ævi hans eins og höfundurinn segir sjálfur. Ætla að lesa þessa bók Hannesar um jólin og hlakkar til að kynna mér þetta vel þá.

Við skelltum okkur í bíó í gærkvöldi. Það styttist til jóla og hvað er betra í jólastressinu en að njóta góðrar kvikmyndar í góðum félagsskap. Skemmtum við okkur konunglega og ákváðum að fara á hina ljúfu Love Actually. Í aðalhlutverki eru Hugh Grant, Liam Neeson, Emma Thompson, Alan Rickman, Keira Knightley og Rowan Atkinson. Semsagt topplið breskra leikara. Þessi góða ástarsaga fjallar um átta mjög ólík pör í London rétt fyrir jól, sem glíma við ýmis vandamál í ástarlífinu. Ástin er þemað í myndinni. Saga þessa ólíka fólks spinnst mjög skemmtilega saman í lok hennar. Mögnuð mynd sem ég mæli eindregið með. Eftir að heim kom átti ég gott spjall við nokkra vini. Margir vildu ræða pólitík og aðrir eitthvað allt annað. Einn þeirra vildi ræða við mig skrif á spjallvefum. Eins og margir vita hef ég dregið mig nú úr spjalli á opnum spjallvefum en fagna hinsvegar öllum þeim sem vilja ræða málin á MSN eða e-mail við mig beint. Því fagna ég ávallt að rabba við fólk á þann hátt, tel ég tíma mínum betur borgið með spjalli þar við fólk sem bæði er sammála og ósammála mér í pólitík en á öðrum stöðum. Það er reyndar svo komið að ég fylgist orðið mjög lítið með því sem fram fer á spjallvefum en hef gaman að líta þess í stað æ meir á vandaðar bloggsíður vina og þeirra sem gaman er að fylgjast með tjá sig um málefni samtímans.
Vefur dagsins
Í dag bendi ég öllum á hinn frábæra tónlistarvef, tonlist.is. Þar er hægt að hlusta á íslenska tónlist, sækja hana í gegnum áskrift í tölvuna og kaupa sér lög til að brenna á diska. Nota ég þessa þjónustu mikið og mæli með henni. Flottur vefur fyrir þá sem unna íslenskri tónlist.
Snjallyrði dagsins
Kannski er það höfuðeinkenni á farsælu fólki, að það stuðlar að hamingju annarra.
Páll Skúlason háskólarektor
Breytt 18.9.2006 kl. 08:02 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
4.12.2003 | 21:55
Engin fyrirsögn

Þingflokkar stjórnarflokkanna samþykktu í gærkvöld frumvarp heilbrigðisráðherra um tvöföldun grunnlífeyris yngstu öryrkjanna. Samkomulag ríkisstjórnarinnar og Öryrkjabandalagsins var handsalað í marsmánuði en verður nú endanlega að lögum. Staðið er að fullu við samkomulag það og þann ramma sem ráðherra var settur í ríkisstjórn. Er um að ræða kostnað upp á einn milljarð króna og verður málið endurskoðað um mitt næsta ár. Undarleg umræða hefur verið um þetta mál seinustu daga, eins og flestum ætti að vera kunnugt. Hefur verið undarlegt að fylgjast með gífuryrðum stjórnarandstöðu og Öryrkjabandalagsins vegna þessa máls, í ljósi þess að um er að ræða eitt mesta framfaraspor fyrir öryrkja í fjölda ára. Þetta hefur verið baráttumál þeirra til fjölda ára og því er mætt með þessum hætti. Eftir stendur að samið var um þetta og staðið við það. Ekki veit ég hvort heilbrigðisráðherra hefur persónulega lofað forystu öryrkja meiru en þessu. En eftir stendur að þetta var það sem rammi í ríkisstjórn gerði ráð fyrir og umboð var haft fyrir til að semja um. Svo einfalt telst það. Leitt er að forsvarsmenn öryrkja sólundi peningum skjólstæðinga sinna í dýra auglýsingamennsku í fjölmiðlum.



Í pistli dagsins á frelsinu fjallar Ósk um frumvarp sem fyrir liggur á Alþingi, þess efnis að einkaleyfi HHÍ á rekstri peningahappdrættis skuli framlengt um 15 ár. Eins og Ósk bendir á vekur furðu hversu mikil eining ríkir í þingflokki Sjálfstæðisflokksins um þetta mál. Einkaleyfi þetta mun gefa HHÍ talsvert samkeppnislegt forskot og gera öðrum aðilum enn erfiðara að keppa við happdrættið á jafnréttisgrundvelli. Orðrétt segir Ósk í pistlinum: "Niðurstaðan er sú að einokun ríkisins á ákveðnum markaði, sem réttilega ætti að vera frjáls er óafsakanleg, en hvorki þarf mögulegar vanefndir á EES-samningnum né brot á samkeppnislögum til þess að renna stoðum undir þá augljósu staðreynd. Fyrirkomulag þetta er vænlegt til tekjuöflunar með lögmætu ráni en alls ekki til vinnings fyrir skattgreiðendur og atvinnurekendur á happdrættismarkaðnum. Harmakvein um niðurfellingu einkaleyfisgjaldsins fellur algjörlega í skugga þess hróplega óréttlætis sem felst í einkaleyfinu sjálfu. Vaknið!". Góður pistill hjá Ósk. Er henni algjörlega sammála.

Í Kastljósinu í gærkvöld ræddu Guðjón Vilhelm Sigurðsson hnefaleikaþjálfari og Hjalti Már Björnsson læknir, um slys seinustu helgar í hnefaleikakeppni í Vestmannaeyjum. Varð spjall þeirra mjög athyglisvert og gott að heyra misjöfn sjónarmið þessa máls. Ég taldi rétt að leyfa ólympíska hnefaleika og fannst rétt af Alþingi að samþykkja frumvarp þess efnis í fyrra. Það er leitt að slys af því tagi sem varð í keppninni varð, en rétt er að minna á að vart er til sú keppnisíþrótt sem ekki getur leitt til slysa, gott dæmi eru boltaíþróttir og akstursíþróttir. Það er aldrei hættulaust að stunda íþróttir. Hinsvegar er rétt að fólk velji hvaða íþróttir það stundi. Forræðishyggja í þessum efnum kann aldrei góðri lukku að stýra. Hef skilning með þeim sem eru á móti þessu og hef aldrei persónulega líkað vel að fólk reyni að berja annað fólk og allra síst í keppnum, en það á hver að taka valið fyrir sig hvort hann vilji stunda þetta. Í Pressukvöldi sat Jón Kristjánsson heilbrigðisráðherra, fyrir svörum. Þar sóttu þrír fréttamenn fast að honum. Kom ráðherra vel að sjónarmiðum sínum og ríkisstjórnarinnar, t.d. vegna öryrkjamála.

Keypti í gær nýja hljómplötu Björgvins Halldórssonar. Þar eru skemmtilegir dúettar hans með yngri söngvurum. Virkilega góð plata, vönduð og skemmtileg. Sérstaklega finnast mér lögin Hjartasól, Nótt eftir dag og Ég veit að þú vakir, mjög góð. Hið fyrstnefnda er besta lag plötunnar, frábær dúett Björgvins og Leone Tinganelli. Undurljúft lag sem ég féll algjörlega fyrir. Horfði í gærkvöldi á Gosford Park, stórfenglega kvikmynd snillingsins Roberts Altman. Sögusviðið er breskt hefðarsetur á hinu herrans ári 1932, þar sem McCordle-fjölskyldan býður vinum og ættingjum til helgardvalar og skotveiða. Sagan snýst að mestu um húsbóndann á hefðarsetrinu, William McCordle. Í gegnum árin hefur William orðið fjárhagslegur bakhjarl margra skyldmenna sinna og vina. Eftir því sem helgin líður eru leyndarmál afhjúpuð og svo virðist sem allir gestirnir eigi eftir að gera upp sakir við William. Spurningin er bara hversu langt munu gestirnir ganga. Stórfengleg mynd á allan hátt. Skylduáhorf fyrir aðdáendur breskra úrvalsmynda. Er búinn með bækurnar um Jónas frá Hriflu, alveg magnaðar. Skelli mér næst í að lesa fyrra bindi ævisögu Stephans G.
Vefur dagsins
Eins og fyrr segir var Valgerður Sverrisdóttir viðskiptaráðherra valin Kona ársins af tímaritinu Nýju lífi í gær. Valgerður er með heimasíðu þar sem birtast pistlar hennar og dagbók þar sem hún fer yfir verk sín og það sem hún gerir í starfi sínu. Hvet alla til að líta á vef hennar í dag.
Snjallyrði dagsins
Það eina sem þarf að óttast, er óttinn sjálfur.
Franklin D. Roosevelt forseti Bandaríkjanna (1882-1945)
Breytt 18.9.2006 kl. 08:02 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
3.12.2003 | 21:41
Engin fyrirsögn

Meirihluti fjárlaganefndar leggur ekki fram neinar breytingartillögur við fjárlagafrumvarpið fyrir þriðju umræðu þess á morgun, sem telst mjög óvenjulegt. Með þessu er ljóst að ekki verður veitt viðbótarfé til stofnana sem hafa að undanförnu lýst yfir mikilli fjárþörf, t.d. Landsspítali háskólasjúkrahús og Háskóli Íslands. Fjárlaganefnd Alþingis lauk umfjöllun um fjárlögin á fundi sínum síðdegis í gær. Umfjöllun þeirra um frumvarpið er því lokið, þótt 3. umræða sé eftir og þetta nokkuð sem ekki hefur gerst til fjölda ára á þingi. Í fjölmiðlum hefur Einar Oddur Kristjánsson varaformaður fjárlaganefndar, sagt að tekjuhliðin hafi verið afgreidd við aðra umræðu til að flýta nokkuð fyrir og útgjaldahliðin liggi fyrir. Þegar rætt er um þær stofnanir sem lýsa yfir fjárþörf segir Einar í viðtali við RÚV að ýmis rök séu fyrir því að verja meira fé til Háskólans og telur líklegt að svo verði, en ekki eigi það við um heilbrigðiskerfið, miklum peningum sé veitt til þeirra mála. Ekki var rætt í fjárlaganefnd um mögulegt frumvarp félagsmálaráðherra um skerðingu á atvinnuleysisbótum fyrstu þrjá daga í atvinnuleysi. Ekki er reyndar víst hvort frumvarpið verði lagt fram en það hefur ollið deilum, einkum innan Framsóknarflokksins.


Í dag birtist á frelsinu ritstjórnargrein um eldsneytisskattinn margfræga sem Heimdallur og forystusveit SUS hefur tekið afstöðu gegn, enda um að ræða skattahækkun í kjölfar kosningabaráttunnar þar sem lofað var skattalækkunum. Í greininni segir orðrétt: "Skattahækkanir verða ekki góðar fyrir skattgreiðendur þó þeir fái smá fyrirvara. Ekki er heldur hægt að réttlæta skattahækkanir með vísan til þess að þær snúist um forsendur fjárlaga enda snýst gagnrýnin einmitt um forsendur fjárlaga. Heimdallur hyggst í vetur fylgjast vel með því hvaða þingmenn sýna í verki stuðning við aukið frelsi einstaklinganna og minni ríkisafskipti. Þá mun Heimdallur jafnframt greina lesendum Frelsi.is frá því hvaða þingmenn styðja skattahækkanir, aukin ríkisafskipti og takmarkanir á frelsi einstaklinga, svo dæmi séu tekin." Tek ég undir þessa umfjöllun. Ég hef farið yfir þetta mál í pistlum á vef mínum og afstaða mín ætti að vera öllum ljós, ég er alfarið á móti þessari skattahækkun.

Í gærkvöldi var líflegt spjall í dægurmálaspjallþáttunum. Í Ísland í dag komu lögreglumenn sem fyrr um daginn höfðu verið sakfelldir í héraðsdómi vegna handtöku sem þeir framkvæmdu í miðbæ Reykjavíkur og þótti óeðlileg. Áttu þeir athyglisvert spjall við Þórhall Gunnarsson. Í Kastljósinu var talsvert líf og fjör. Alþingismennirnir Einar Oddur Kristjánsson og Helgi Hjörvar mættu og ræddu mál öryrkja sem hafa verið mikið í fréttum eins og fyrr er nefnt. Kom margt fróðlegt fram í þættinum, vöktu yfirlýsingar Einars um málið athygli og gott að hann fór vel yfir þetta allt. Eftir stendur að öll gífuryrði ÖBÍ og stjórnarandstöðunnar eiga ekki við rök að styðjast. Allt sem samþykkt var í ríkisstjórn og ráðherra veitt umboð til að semja um hefur verið efnt. Svo einfalt er það.
Veikindi - afþreying
Hef verið veikur seinustu daga. Fékk sýkingu í hálsinn um seinustu helgi og leiddi það til þess að ég missti röddina. Fór ég á slysadeild síðastliðinn sunnudag og hitti þar lækni sem tók sýni vegna þessa og kannaði hann ástand mitt. Hef ég að mestu verið innandyra vegna þessa og var reyndar skipað af lækninum að vera heima við meðan sýkingin væri að minnka. Í kjölfar þess að sýkingin er farin mun ég hitta háls- nef og eyrnalækni og kanna það að fjarlæga hálskirtla mína sem eru komnir í frekar slæmt ástand. Hefur þetta háð mér mjög seinustu mánuði og er svo komið að við verður ekki unað. Verða kirtlarnir fjarlægðir fyrir jól eða snemma á nýju ári í síðasta lagi. Meðan ég hef verið heima við vegna veikindanna hef ég haft það rólegt, horft á kvikmyndir og lesið bækur og slappað af.
Vefur dagsins
Í dag bendi ég öllum að líta á kvikmyndavefinn kvikmyndir.is. Þar er skemmtileg umfjöllun um allt sem tengist kvikmyndum, umfjallanir kvikmyndaáhugamanna, trailerar og margt fleira. Magnaður vefur.
Snjallyrði dagsins
Minn staður er hér, þar sem Evrópa endar og auðnir hnattarins taka við.
Hannes Pétursson skáld
Breytt 18.9.2006 kl. 08:02 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
2.12.2003 | 23:58
Engin fyrirsögn

Halldór Ásgrímsson utanríkisráðherra, kom í opinbera heimsókn til Írans í gær, fyrstur íslenskra ráðamanna til að fara þangað frá valdatöku klerkastjórnarinnar 1979. Skömmu eftir komuna til landsins ræddi Halldór við Kamal Kharrazi utanríkisráðherra Írans, um samskipti Íslands og Írans, mannréttindamál, stöðu kvenna, afvopnunarmál, ástandið í Írak og Afganistan og deilurnar fyrir botni Miðjarðarhafs. Í spjalli þeirra á milli gerði Halldór grein fyrir ástæðu þess að íslensk stjórnvöld studdu ályktunartillögu um ástand mannréttinda í Íran á vettvangi Sameinuðu þjóðanna. Á fundi með Habi-bollah Bitaraf orkumálaráðherra, var svo rætt hugsanlegt samstarf ríkjanna við nýtingu jarðhita. Í för með ráðherra er viðskiptanefnd skipuð fulltrúum tíu íslenskra fyrirtækja þar á meðal Orkustofnunar, Sæplasts, Marels, Össurar og fleiri fyrirtækja. Í dag hitti Halldór Mohammad Khatami, forseta Írans og Mohammad Hojjati sjávarútvegsráðherra. Við forsetann ræddi hann um tvíhliða samskipti Íslands og Írans, mannréttindamál, réttindi kvenna, málefni Íraks og Afganistans, kjarnorkumál og margt fleira. Voru þeir ekki sammála að öllu leyti eins og við var að búast. Að sögn utanríkisráðherra er mikill áhugi í Íran á því að auka samskiptin við Ísland. Telur hann koma til greina að Íslendingar og Íranar hafi með sér samstarf um að fá aðild að Öryggisráði Sameinuðu þjóðanna.



Í dag birtist á frelsinu pistill minn um málefni RÚV. Nú hafa þrír þingmenn Sjálfstæðisflokks: Birgir Ármannsson, Pétur H. Blöndal og Sigurður Kári Kristjánsson, lagt fram á þingi frumvarp til laga um breytingu á útvarpslögum, lögum um Ríkisútvarpið og lögum um tekjuskatt og eignarskatt. Koma margar athyglisverðar tillögur um breytingar á rekstri RÚV þar fram og geri ég grein fyrir þeim. Er þar gert ráð fyrir stofnun hlutafélags um rekstur Ríkisútvarpsins, þann 1. júlí 2004. Hlutverk félagsins eigi að vera að annast þá starfsemi sem Ríkisútvarpið hafi haft með höndum. Frumvarpið gerir ráð fyrir að ríkissjóður leggi til allar eignir, réttindi, skuldir og skuldbindingar Ríkisútvarpsins til hlutafélagsins. Gert er ráð fyrir að þann 1. janúar 2005 taki Ríkisútvarpið hf. við rekstri og starfsemi Ríkisútvarpsins og skuli Ríkisútvarpið þá lagt niður. Í frumvarpinu er gert ráð fyrir að hlutafé ríkissjóðs í RÚV hf. skuli vera selt fyrir 1. janúar 2005. Er athyglisvert að lesa frumvarpið og kynna sér vel þær breytingar sem það gerir ráð fyrir. Það er gott að þessir þingmenn Sjálfstæðisflokksins leggi fram á þingi tillögur sínar til breytingar á stofnuninni. Ennfremur er í dag á frelsinu birt góð Moggagrein Helgu um vændisfrumvarpið.

Í gærkvöldi horfði ég á fróðlegan þátt í Sjónvarpinu um feril og ævi Ragnhildar Helgadóttur fyrrverandi ráðherra og alþingismanns Sjálfstæðisflokksins. Hún á að baki merkan feril í forystusveit íslenskra stjórnmála. Hún fæddist í Reykjavík 26. maí 1930. Hún lauk stúdentsprófi frá MR 1949 og lögfræðiprófi frá Háskóla Íslands 1958. Ragnhildur var kjörin á þing, aðeins 26 ára gömul árið 1956. Sat hún á þingi 1956-1963, en þá vék hún af þingi til að sinna heimili sínu. Kom aftur á þing 1971 og sat samfellt aftur til 1979. Hún varð forseti neðri deildar á þeim tíma og ennfremur varð hún fyrst kvenna árið 1975 til að setjast á forsetastól Norðurlandaráðs. Ragnhildur varð menntamálaráðherra 26. maí 1983, önnur kvenna til að gegna ráðherrastörfum hérlendis. Haustið 1985 varð hún heilbrigðis- og tryggingamálaráðherra. Á ráðherraferli sínum 1983-1987 kom hún í gegn mörgum framfaramálum, t.d. lengingu fæðingarorlofs og afnámi einokunar ríkisins á ljósvakamarkaði. Hún lét af þingmennsku árið 1991. Hún telst hiklaust til fremstu forystumanna Sjálfstæðisflokksins á áttunda og níunda áratug 20. aldar. Merk kona sem vann farsæl verk fyrir flokk sinn og þjóð.

Í dag bendi ég öllum á að líta á vef Heimssýnar, hreyfingar sjálfstæðissinna í Evrópumálum. Þar er lífleg umfjöllun um Evrópumálin, ferskar fréttir og góðar greinar um málin. Er skemmtilegt að fylgjast með þessum góða vef, lít ég á vefinn allavega daglega. Enda er margt þar í gangi og alltaf eitthvað nýtt. Er ég félagi í Heimssýn, enda alfarið á móti því að Íslendingar verði aðilar að ESB.
Snjallyrði dagsins
Til góðs vinar, liggja gagnvegir.
Hávamál
Breytt 18.9.2006 kl. 08:02 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
29.11.2003 | 17:48
Engin fyrirsögn

Norðurbryggja - menningar- og rannsóknarmiðstöð, var opnuð almenningi í Kaupmannahöfn í dag. Við Norðurbryggju munu ennfremur verða sendiskrifstofur Færeyja og Grænlands og sendiráð Íslands. Miðstöðin er staðsett í gömlu pakkhúsi frá árinu 1767, sem hefur verið gert upp til þess að hýsa starfsemi sem í því verður. Í tengslum við opnun Norðurbryggju var ráðstefna um norræn tungumál haldin. Norðurbryggja var opnuð formlega á fimmtudag. Viðstödd opnunina voru Margrét Þórhildur Danadrottning, Vigdís Finnbogadóttir formaður stjórnar menningarmiðstöðvarinnar og fyrrverandi forseti Íslands, Davíð Oddsson forsætisráðherra, Tómas Ingi Olrich menntamálaráðherra, Anfinn Kallsberg lögmaður Færeyja, Høgni Hoydal varalögmaður Færeyja, og Josef Motzfeldt varaformaður grænlensku landsstjórnarinnar. Sama dag undirrituðu Tómas Ingi, Høgni og Josef samstarfssamning um menningar-, mennta- og rannsóknarstarf. Markmiðið með samningnum er að miðla í auknum mæli þekkingu og reynslu á milli landanna og skapa grundvöll fyrir samstarfsverkefni sem þjóna sameiginlegum hagsmunum. Í gær var Vigdís Finnbogadóttir gerð að heiðursfélaga Dansk íslenska verslunarráðsins.


Í athyglisverðu netviðtali við Drífu Hjartardóttur á frelsinu í dag kemur fram að hún hefði fremur viljað gera samning við sauðfjárbændur undir merkjum frjálsra viðskipta. Er það mat hennar að aukin ríkisafskipti séu ekki rétta leiðin til að bjarga sauðfjárbændum. Orðrétt segir hún: "Vandi sauðfjárbænda og tekjumissir þeirra núna síðustu ár á sér ákveðnar skýringar. Of margir eru að framleiða fyrir of lítinn markað. Hvíta kjötið hefur skekkt samkeppnisstöðuna vegna þess að það hefur verið selt langt undir framleiðslukostnaði í tvö ár með lánsfé frá bönkunum. Slíkt er hægt að réttlæta í söluátaki um stuttan tíma. Gjaldþrot Goða og Ferskra afurða hafa einnig haft sitt að segja.

Í Íslandi í dag í gærkvöldi voru Hallur Hallsson og Stefán Jón Hafstein gestir Jóhönnu og Þórhalls, er farið var yfir fréttir vikunnar. Rætt var um kaupréttarsamningsmálið og málefni RÚV í kjölfar frumvarps þriggja þingmanna Sjálfstæðisflokksins þess efnis að einkavæða stofnunina. Var mikið rætt um málefni Spegilsins og það hvernig fréttamenn sem vinna við þann þátt hafa komið fram í fjölmiðlum. Var Hallur ekki sáttur við það og sagðist aldrei þrátt fyrir að hafa verið sakaður um ýmislegt í sinni tíð svarað slíku í fjölmiðlum. Hann hafi ekki fyrr en eftir að hafa hætt störfum við fjölmiðla rætt þau mál opinberlega, t.d. í blaðagreinum. Sömu umræðuefni voru aðalefni í Kastljósinu, en þar voru Siggi Kári, Margrét Sverrisdóttir og Guðmundur Steingrímsson, gestir Kristjáns og Svansíar. Skemmtilegt spjall og farið víða við að ræða málin. Skemmtilegast var þegar Siggi og Margrét (form. hollvinasamtaka RÚV) ræddu frumvarp um breytingar á RÚV.

Fór seinnipartinn til Hönnu systur þar sem var létt og góð stemmning og skemmtilegur hópur samankominn. Fengum við okkur að borða og röbbuðum vel saman málin. Eftir það var horft á Idol. Alltaf gaman að líta á þennan fína þátt. Nú er vika í að úrslitakeppnin byrji og var gaman að horfa á svona samantekt þess sem gerst hefur frá í september er þættirnir hófu göngu sína. Eftir þáttinn var skemmtilegt spjall um pólitík á fullu. Horfðum við saman á hina mögnuðu úrvalsmynd Með allt á hreinu. Hefur sú mynd lengi verið í miklu uppáhaldi hjá mér. Horfi reglulega á hana. Sannkölluð háklassík. Fór að því loknu heim, en horfði þá á stórmynd Wilders, Sunset Boulevard. Hiklaust eftirminnilegasta og beittasta mynd leikstjórans. Mögnuð svört kómedía um leikkonuna Normu Desmond sem muna má sinn fífil fegurri frá tímum þöglu myndanna þegar hún var nafli alheimsins í bransanum. Nú er hún aðeins skugginn af sjálfri sér, alein og bitur og lifir í blekkingu um forna frægð sem er ekki lengur til staðar. Þegar hún kynnist ungum handritshöfundi sér hún í hillingum að hennar tími geti komið aftur, en er allt sem sýnist hjá leikkonunni? Ein eftirminnilega kvikmynd seinustu aldar. Alltaf gaman að horfa á hana.
Vefur dagsins
Í dag bendi ég á vefsíðu Sivjar Friðleifsdóttur umhverfisráðherra. Daglega skrifar hún á vefinn hvað hún gerir í starfi og einkalífi. Ennfremur skreytir hún vefinn með myndum af því sem hún gerir og af fjölskyldu sinni. Litríkur og góður vefur stjórnmálamanns í fremstu víglínu stjórnmála.
Snjallyrði dagsins
Heimspeki er heilbrigð skynsemi í sparifötunum.
Óþekktur höfundur
Breytt 18.9.2006 kl. 08:02 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
28.11.2003 | 10:08
Engin fyrirsögn

Þakkargjörðadagurinn var í Bandaríkjunum í gær. Tilkynnt hafði verið að George W. Bush forseti Bandaríkjanna, myndi dvelja á búgarði sínum í Texas í gær og yfir helgina. Óvænt hélt hann í gærmorgun áleiðis til Íraks. Dvaldi forsetinn í rúmlega 2 klukkustundir á flugvellinum í Bagdad og snæddi kvöldmat með bandarískum hermönnum sem þar eru. Þetta er í fyrsta skipti sem forseti Bandaríkjanna heimsækir Írak, tilgangur heimsóknarinnar var að efla baráttuanda bandarískra hermanna. Skv. fréttum vissu aðeins fáir aðstoðarmenn Bush að þessi ferð væri á dagskrá. Blaðamenn sem meðferðis þurftu að skrifa undir samkomulag þess efnis að segja ekki frá henni fyrr en forsetinn væri farinn frá Írak. Forsetafrúin Laura, og foreldrar forsetans, Barbara og George Bush, eldri vissu ekki af för hans til Íraks fyrr en í gærmorgun. Bush var klæddur herjakka þegar hann birtist í herskálanum. Eftir að hafa verið hylltur af hermönnunum ávarpaði hann þá. Hann fór í röðina með hermönnum til að sækja sér mat og lét taka af sér mynd með kalkún á diski en kalkúnn er hefðbundinn þakkargjörðarréttur í Bandaríkjunum. Þetta var söguleg heimsókn, vissulega í anda heimsóknar George Bush eldri til hermanna í Saudi Arabíu á þakkargjörðardaginn 1990, skömmu fyrir upphaf Persaflóastríðsins.



Alltaf er mikið um að vera á frelsinu, skemmtilegir pistlar og fróðlegar fréttir. Í gær birtist þar góður pistill Helgu um málefni opinberra starfsmanna, sem var gaman að lesa. Segir hún að opinberir starfsmenn sem standi sig illa í vinnunni séu ekki reknir. Þrátt fyrir að þeir sýni af sér óstundvísi, óhlýðni við lög eða yfirmann, vankunnáttu í starfi, ósæmilega hegðun eða jafnvel mæta ölvaðir til vinnu. Ekki nema þá að yfirmaðurinn gangi í gegnum langt ferli og óþarfa skriffinsku. Segir hún að til að byrja með beri yfirmanni skylda til að reyna tala við starfsmanninn fyrst og reyna fá hann til að bæta um betur. Verði því ekki komið við skuli yfirmaðurinn senda skriflega áminningu. Eftir það eigi hinn opinberi starfsmaður lögbundinn rétt á að fá tækifæri til að bæta ráð sitt. Skemmtilegt ferli sem þarna kemur fram, tek undir með Helgu að þetta fyrirkomulag er stórundarlegt. Í dag birtist svo fínn pistill Steina þar sem hann fjallar um fiskveiðistjórnunarkerfið. Telur hann nauðsynlegt að gera bragarbót á lögum um fiskveiðistjórnun og fer vel yfir málið í pistlinum.

Mikið hefur verið af fréttaefni til að ræða um í dægurmálaspjallþáttum seinustu daga. Á miðvikudagskvöld ræddu Siggi Kári og Mörður Árnason um málefni RÚV og voru ekki alveg sammála um frumvarp þriggja sjálfstæðismanna um stofnunina sem nú liggur fyrir þinginu. Seinna sama kvöld var Ingibjörg Sólrún Gísladóttir gestur í Pressukvöldi RÚV. Þar var rætt um undarlega stöðu hennar sem varaformanns flokks sem hefur lýst yfir formannsframboði eftir tvö ár og ennfremur sem varaþingmanns í Reykjavík norður, en eins og allir vita náði hún ekki kjöri á þing í vor. Í gærkvöldi komu Pétur Blöndal og Jóhanna í Ísland í dag til að ræða umræðu dagsins á þinginu um laun stjórnenda fyrirtækja og ekki sammála í því máli eins og við mátti búast. Sýnt var frá hlægilegri ræðu landbúnaðarráðherra er hann tók við fyrsta eintaki Hundabókarinnar. Í morgun var Eiríkur Jónsson blaðamaður á DV, gestur Fjalars og Ingu Lindar í Íslandi í bítið. Farið var yfir fréttir vikunnar og barst talið að málum RÚV. Sagði hann að RÚV yrði ekki til í þessari mynd eftir 5-7 ár. Þetta er búið sagði hann um RÚV. Alltaf gott að eignast nýja bandamenn í baráttunni gegn ríkisfjölmiðlinum.

Í gærkvöldi horfði ég á hina ógleymanlegu kvikmynd Billy Wilder, Some Like It Hot. Það var árið 1959 sem Wilder og handritshöfundurinn I.A.L Diamond gerðu handritið að þessari mögnuðu mynd, sem telst ein eftirminnilegasta gamanmynd 20. aldarinnar. Hún var tilnefnd til óskarsverðlauna fyrir leikstjórn Wilder og handrit þeirra Diamond. Marilyn Monroe geislar sem fyrr í hlutverki Sugar Kane í myndinni. Jack Lemmon og Tony Curtis fara á kostum í hlutverkum Jerry og Joe, tveggja tónlistarmanna í San Francisco sem verða vitni að morði og reyna að sleppa undan mafíunni. Eina leiðin til þess að halda lífi og sleppa er sú að klæða sig í kvenmannsföt og þykjast vera í kvennahljómsveit. Framundan er kostuleg atburðarás sem erfitt er að lýsa með orðum. Sjón er sögu ríkari. Einstök gamanmynd, ein sú besta sinnar gerðar. Einstök skemmtun, hiklaust eitt af allra bestu verkum Billy Wilders. Eftir myndina hélt ég áfram að lesa um Jónas frá Hriflu, er langt kominn með annað bindið af þrem um þennan einn af eftirminnilegustu stjórnmálamönnum 20. aldarinnar. Mögnuð bók eftir Guðjón Friðriksson.

Í dag fagnar Huginn, félag ungra sjálfstæðismanna, í Garðabæ 30 ára afmæli sínu. Milli kl. 18.00 og 20.00 mun félagið bjóða velunnurum sínum til fagnaðar í húsi Sjálfstæðisfélagsins í Garðabæ að Garðatorgi 7. Því miður kemst ég ekki í afmælið. Vil ég senda öllum félögum mínum í félaginu bestu kveðjur og hamingjuóskir með þessi merku tímamót. Vona ég að félaginu gangi vel á komandi árum.
Vefur dagsins
Á hverjum degi lít ég á vef Steingríms Ólafssonar, Fréttir. Þar er hann með nýjustu fréttirnar af gangi mála í pólitík og fjölmiðlum t.d. og þær kjaftasögur sem ganga og erindi eiga á netið. Góður vefur.
Snjallyrði dagsins
Enginn er annars bróðir í leik.
Máltæki
Breytt 18.9.2006 kl. 08:02 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
26.11.2003 | 23:57
Engin fyrirsögn

Breska þingið var sett í dag við viðhöfn í þinghúsinu við Westminster. Samkvæmt venju flutti Elísabet Englandsdrottning, stefnuræðu ríkisstjórnarinnar. Það er gömul hefð að þjóðhöfðinginn flytji ræðu samda af forsætisráðherranum í þingbyrjun þar sem stefna ríkisstjórnarinnar er kynnt ítarlega. Þingsetningin fer öll fram eftir gömlum hefðum og venjum og hefur lítið breyst seinustu aldir. Í stefnuræðu ríkisstjórnarinnar kemur fram hvað ríkisstjórn Tony Blairs hyggst fyrir á næstu mánuðum. Eftir 6 og hálft ár við völd vekur athygli að enn er rætt um helstu stefnumál Verkamannaflokksins 1997 í stefnumótuninni. Þegar Michael Howard svaraði stefnuræðunni voru viðbrögð hans þessi: "Þeir eru á vegferð án hugmynda, peninga og eru að renna út á tíma. Eftir 6 og hálft ár hefur Blair misst tökin og stjórn hans vita ekki hver stefnan er. Hún er brunnin upp hugmyndalega séð, þetta vita þeir sjálfir best." Framundan er erfitt ár fyrir forsætisráðherrann.



Í dag birtust á frelsinu tveir mjög góðir pistlar. Sá fyrri er eftir félaga minn, Stefán Einar. Í pistli sínum fjallar hann um ýmsar athyglisverðar staðreyndir um Ísland í samanburði við aðrar þjóðir. Fátt finnst okkur Íslendingum nefnilega skemmtilegra en að bera okkur saman við aðrar þjóðir. Fjallar Stefán Einar ennfremur um bókina "The top 10 of everything 2004" sem hann las nýverið. Að hans mati gefur sú bók harðsoðnar og auðmeltar upplýsingar um allt milli himins og jarðar. Birti Stefán í pistlinum nokkrar mjög skemmtilegar staðreyndir sem þar koma fram. Hvetur hann alla til að lesa bókina. Mun ég lesa hana við tækifæri, enda forvitinn mjög um hana eftir þennan fína pistil. Í dag fjallar María Margrét í pistli sínum um erindi Petru Östergren nýlega, en hún kom hingað til lands til að fjalla um reynslu Svía af lagasetningu um vændi, en svipaðar hugmyndir og þar eru staðreynd koma fyrir í lagafrumvarpi þingkvenna úr öllum flokkum nema Sjálfstæðisflokknum, sem liggur fyrir þinginu. Að mati hennar er þörf á mun meiri umræðu og að gera fleiri rannsóknir áður en farið er í að innleiða lög sem geta haft hræðilegar afleiðingar. Tek ég undir með henni.

Eftir kvöldfréttirnar fór ég í það verkefni að setja upp ljós í íbúðinni við Þórunnarstræti. Hafði lengi staðið til að skipta út nokkrum ljósum og það var kominn tími á það. Fór fyrr um daginn í BYKO og keypti ljós. Ýmislegt dútl hefur staðið yfir á heimavelli seinustu daga við að fínisera. Eftir þetta fór ég á MSN og átti gott spjall við Kidda og Helgu, vantaði ekki umræðuefnin í það spjall. Að þessu loknu tók við kvikmyndagláp með tilheyrandi poppi og kóki. Horfði ég á hina sígildu stórmynd Elia Kazan, A Streetcar Named Desire. Mögnuð saga sem segir frá fegurðardísinni Blanche sem kemur í heimsókn til systur sinnar Stellu og mannsins hennar, Stanley. Smám saman komast þau að raun um að Blanche segir ekki alltaf satt. Hver er munurinn á sjálfsblekkingu og draumaveröld? Lánleysið blasir allsstaðar við og það eina sem hægt er að binda vonir við, eru þráin, girndin og ástin. Í aðalhlutverkunum voru Vivien Leigh, Kim Hunter, Karl Malden og nýstirnið Marlon Brando. Hann átti leiksigur í hlutverki Stanley og varð stórstjarna í kvikmyndaheiminum á einni nóttu. Vivien Leigh, Kim Hunter og Karl Malden fengu öll óskarinn fyrir leik sinn og Kazan var tilnefndur fyrir leikstjórn og Brando fyrir magnaðan leik sinn. Mögnuð mynd.

Eins og um hefur verið fjallað hér fyrir skömmu fór stjórn SUS í heimsókn á Alþingi um miðjan nóvember. Var það mjög skemmtilegt og tókst mjög vel upp og allir höfðu gaman af. Á sus.is eru nú komnar inn myndir úr heimsókninni. Lýsa þær vel þessari skemmtilegu og fræðandi heimsókn í löggjafarþingið. Hvet alla til að líta á myndirnar. Eftir ábendingar frá mömmu og fleirum ættingjum fór ég á góðan ljósmyndavef Helga Garðarssonar á Eskifirði. Þar eru myndir frá Eskifirði af heimafólki og frá staðnum. Mamma er frá Eskifirði og þarna fjöldi mynda af ættingjum. Þarna er mynd af Línu ömmu, en amma fæddist í Eyjafirði 1. október 1913 og fluttist austur árið 1923 og bjó til 1974 á Eskifirði. Það ár fluttist hún ásamt mömmu og fjölskyldu minni til Akureyrar (en pabbi er Akureyringur). Hún lést 17. janúar 2000. Einnig er þarna mynd af Friðriki afa. Svo rakst ég á skemmtilega mynd af mömmu, sem tekin var árið 1947, af henni þá ársgamalli. Skemmtilegar myndir, gaman að líta á þennan góða vef.
Vefur dagsins
Í dag bendi ég öllum á kvikmyndavefinn kvikmyndir.com. Þar er fersk kvikmyndagagnrýni, skrif um kvikmyndir frá ýmsum hliðum og margvíslegur fróðleikur. Reglulega skrifa ég þar umfjallanir um meistara kvikmyndasögunnar í leikstjórn.
Snjallyrði dagsins
Til sannrar þekkingar er gott hjartalag nauðsynlegt.
Sveinbjörn Egilsson rektor
Breytt 18.9.2006 kl. 08:02 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
25.11.2003 | 16:56
Engin fyrirsögn

Í gær var birt fjölmiðlakönnun Gallups, fyrir októbermánuð. Þar kemur margt athyglisvert fram. Helst vekur athygli að áhorf á kvöldfréttatíma Stöðvar 2 hefur minnkað verulega frá því hann var fluttur frá 18:30 til kl. 19:00. Á þeim tveim mánuðum sem liðnir eru frá breytingunum hefur áhorfið dregist saman mjög mikið. Persónulega fannst mér fyrra fyrirkomulag betra, alltsvo að fréttir Stöðvar 2 væru hálfsjö og svo væri hægt að horfa á hinar kl. sjö. Hjá mér er oftast horft á fréttir Sjónvarpsins en stundum er skipt á milli. Athygli vekur ennfremur í þessari könnun að lestur Fréttablaðsins hefur minnkað milli kannana, og Morgunblaðið sækir nokkuð á. Spaugstofan og Gísli Marteinn eru með langvinsælustu sjónvarpsþættina ef marka má könnunina, enda pottþéttir saman á laugardagskvöldum. Idol-stjörnuleit kemur svo sterkt inn með rúmlega 40% áhorf. En það vekur mesta athygli að Sirrý á Skjá einum hefur meira áhorf en fréttatími Stöðvar 2. Það er greinilegt að fréttir á Stöð mega muna sinn fífil fegurri.



Í gestapistli vikunnar á vefsíðunni skrifar Ragnar Jónasson varaformaður Heimdallar, um málefni Kvikmyndaeftirlits ríkisins. Ungir sjálfstæðismenn hafa lengi verið þeirrar skoðunar að leggja beri niður kvikmyndaeftirlit ríkisins og lagði menntamálaráðherra fram frumvarp þess efnis í fyrra. En hver urðu afdrif frumvarpsins spyr Ragnar í pistlinum? Hann minnir á að kvikmyndaskoðun lifi enn góðu lífi, vegna þess að frumvarp ráðherrans hafi ekki náð fram að ganga. Lítið hafi spurst til frumvarpsins síðan og því full ástæða að mati Ragnars til þess að hvetja ráðherrann til að leggja það fram aftur áður en hann lætur af störfum. Minnir hann á að ritskoðun sé ennþá ritskoðun. Mikilvægt sé að klára málið og leggja frumvarpið fram og leggja niður kvikmyndaskoðun í landinu, enda slík forsjárhyggja með öllu óþörf.

Í dag birtist á frelsinu athyglisverður pistill Atla frænda um mál málanna seinustu daga: kaupréttarsamninginn í Kaupþingi Búnaðarbanka og fleira sem því tengist. Einkum fjallar hann þó um það hvort setji eigi lög til að taka á slíkum málum. Segir hann að Heimdellingar hafi lengi barist fyrir þeirri skoðun sinni að ríkið eigi ekki að reka banka. Að hans mati væri fráleitt að halda því fram, sem nú heyrist, að þingmenn og pólitískir fylgismenn þeirra væru betur til þess fallnir að reka slík fyrirtæki en einkaaðilar. Að mati Atla er umræða um að breyta þurfi reglum um kaupréttarsamninga á villigötum. Það er að hans mati eðlilegt að stjórn fyrirtækis og hluthafar ráði hvernig launa eigi stjórnendum fyrirtækja. Er ég sammála Atla að mestu leyti. Mér þótti samningurinn um daginn siðlaus og gagnrýni hann harðlega en vil ekki sérstaklega setja reglur um þetta. Von mín er sú að menn hafi dómgreind til að vega og meta hlutina rétt, án þess að hafa lög yfir sér.

Líflegt spjall var í báðum dægurmálaspjallþáttum gærkvöldsins. Í Íslandi í dag hjá Jóhönnu og Þórhalli voru gestir þeirra, Einar Oddur Kristjánsson alþingismaður, og Ingibjörg Sólrún Gísladóttir varaþingmaður. Þau tókust þar á af talsverðum krafti á um kaupréttarsamningsmálin. Ekki voru þau alveg sammála eins og við var að búast. Gekk Einari vel að snúa upp á hana og koma sínum áherslum að meðan varaþingmaðurinn hjakkaði í sama hjólfarinu. Ekki var síður skemmtilegt að fylgjast með rimmu Jóns Steinars Gunnlaugssonar og Lúðvíks Bergvinssonar í Kastljósinu. Tókust þeir á um sama mál. Eins og við var að búast eru Samfylkingarmenn skjálfandi yfir því að forsætisráðherra hafi sömu mannréttindi og aðrir í landinu og hafi eigin skoðanir. Það er alltaf jafn undarlegt að sjá geðveikisleg viðbrögð þeirra þegar hann tjáir sig um málin. Í báðum þáttum náðu Einar Oddur og Jón Steinar lykilstöðu gegn Samfylkingartalsmönnum.
Vefur dagsins
Í dag bendi ég öllum sem hér koma í heimsókn á að líta á heimasíðu Sturlu Böðvarssonar samgönguráðherra. Þar birtast greinar hans og ennfremur fréttir úr starfi hans sem ráðherra og þingmanns í Norðvesturkjördæmi.
Snjallyrði dagsins
Sitt er hvað, gæfa eða gjörvuleiki.
Grettis saga
Breytt 18.9.2006 kl. 08:02 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
24.11.2003 | 18:52
Engin fyrirsögn

Fréttir af kaupréttarmálinu í Kaupþingi Búnaðarbanka er enn aðalfréttin hérlendis. Einnig er fjallað um málið erlendis. Breska blaðið Financial Times fjallar um kaupréttarmálið og úttekt Davíðs Oddssonar forsætisráðherra, á innistæðu hans úr bankanum. Segir blaðið frá því að úttektin og alda mótmæla hérlendis hafi leitt til þess að stjórnendur bankans hafi ákveðið að draga í land og hætt við kaupréttarsamninginn. Í dag kemur svo fram að Þórður Friðjónsson forstjóri Kauphallar Íslands, hafi óskað eftir því að farið verði yfir hvort munnlegur kaupréttarsamningur við forstjóra og stjórnendur bankans hafi verið tilkynningaskyldur til Kauphallarinnar er hann var gerður í sumar. Tel ég ákvörðun þeirra sem að samningnum komu hafa verið rétta. Þeir skynjuðu gríðarlega mikla óánægju viðskiptavina sinna og landsmanna almennt og tóku þá einu ákvörðun sem fær var í stöðunni. En hvort það dugar til að styrkja bankann mun svo aftur á móti ráðast.



Í dag fjallar Bjarki um frumvarp um styrktarsjóð námsmanna í athyglisverðum pistli. Fram kemur í skrifum hans að fyrir liggi á Alþingi fyrrnefnt frumvarp. Flutningsmenn þess séu framsóknarþingmennirnir Hjálmar Árnason, Dagný Jónsdóttir og Magnús Stefánsson. Það sé nú lagt fram þriðja sinni, en hafi ekki náð fram að ganga áður á þingi. Í 1. grein frumvarpsins sé fjallað um tilgang sjóðsins. Þar segi að sjóðnum væri ætlað að styrkja efnilega nemendur til náms í framhaldsskóla. Markmið sjóðsins er að mati Bjarka göfugt en þegar lesið sé í gegnum frumvarpið, sé auðvelt að komast að því að sjóðurinn eigi eftir að verða dýr í rekstri og margar aðrar einfaldari og ódýrari leiðir færar til að ná sama tilgangi, og það án beinna afskipta hins opinbera. Bendir Bjarki á margar athyglisverðar tillögur í þá átt. Á frelsinu er ennfremur birt yfirlýsing stjórnar Heimdallar í kjölfar ákvörðunar miðstjórnar um Heimdallarmál.

Í Silfri Egils í gær var Sverrir Hermannsson fyrsti gestur, en hann gaf í seinustu viku út ævisögu sína. Kjaftaði á honum hver tuska eins og venjulega. Var hann jafniðinn og fyrr við að gagnrýna forystu Sjálfstæðisflokksins nú og frjálshyggjumenn innan sama flokks. Er ekki hægt annað að heyra á honum en hann sé enn bitur út í fyrrum samstarfsmenn í þeim flokki. Sigurður Einarsson stjórnarformaður KB var ennfremur gestur Egils og spurði hann Sigurð margra athyglisverðra spurninga. Í Kastljósi rúmum hálftíma síðar var Sigurður ennfremur gestur. Þar tók Sigmar Guðmundsson hann í ítarlega yfirheyrslu og þjarmaði allverulega að honum svo stjórnarformaðurinn var farinn að svitna undir þungum spurningum Sigmars. Fær Sigmar prik hjá mér fyrir gott viðtal og að hafa tekið gest sinn traustum tökum. Fréttaskýringaþátturinn Í brennidepli var að þessu loknu. Þar var litið á Kárahnjúka þar sem framkvæmdir eru komnar á fullt, var skemmtilegt að kynna sér mannlífið þarna og aðstöðu þeirra sem þarna vinna. Fjallað var ennfremur um djarfa barna- og unglingatísku og búðarhnupl sem er mun algengara en ég hafði gert mér í hugarlund. Góður þáttur hjá Páli Benediktssyni, verst að þeir eru bara mánaðarlega á dagskrá.

Í gærkvöldi horfði ég í enn eitt skiptið á magnaða úrvalsmynd Woody Allen, Annie Hall. Hún er hiklaust þekktasta og eftirminnilegasta mynd leikstjórans. Er óhætt að segja að hún hafi verið tímamótaverk á ferli hans, einkum vegna þess að þrátt fyrir að í henni séu kómískir þættir má finna fyrir alvarlegum undirtón og í henni má finna skemmtilega sýn á nútímaástarsamband þess tíma. Kvikmyndin sló í gegn og vann til fjölda óskarsverðlauna sama ár, þ.á m. sem besta kvikmynd ársins, fyrir frábæran leik Diane Keaton á hinni kostulegu Annie, handrit Allens og Marshall Brickman og leikstjórn meistarans. Ennfremur var Allen tilnefndur fyrir leik sinn. Festi myndin Allen enn betur í sessi sem einn af áhrifamestu kvikmyndaleikstjórunum í bransanum. Hef alltaf haft gaman af þessari fínu mynd og horfi reglulega á hana. Eftir það fór ég að líta á bækur sem ég hef verið að lesa. Fór svo að lokum á Netið og átti gott spjall á MSN við marga vini. Líst vel á nefndapælingar okkar Kristins, en við erum að vinna að greinum um þetta og höfum nú dælt inn á frelsið nöfnum margra fáránlegustu nefndanna í kerfinu.
Vefur dagsins
Í dag bendi ég öllum á heimasíðu Einars Kristins Guðfinnssonar þingflokksformanns Sjálfstæðisflokksins. Hann hefur átt sæti á þingi frá 1991 og er á vef sínum með skemmtilega pistla og ýmislegt athyglisvert.
Snjallyrði dagsins
Að missa óvin er mikið tap.
Kristina drottning
Breytt 18.9.2006 kl. 08:02 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
23.11.2003 | 23:57
Engin fyrirsögn

Eduard Shevardnadze forseti Georgíu, sagði í dag af sér embætti í kjölfar öldu mótmæla í landinu eftir að ótrúverðug úrslit þingkosninga þann 2. nóvember sl, voru tilkynnt. Blasti við að stjórnarandstaðan hefði í raun náð völdum í landinu. Tilkynnt var seinnipartinn að Nino Burdzhanadze forseti þingsins yrði forseti þar til eftir forsetakosningar í landinu. Áætlað er að þær verði innan næstu 45 daga. Kom Ígor Ívanov utanríkisráðherra Rússlands, til Georgíu til að miðla málum og eftir fundi með bæði forsetanum og stjórnarandstöðuleiðtogum varð þetta niðurstaðan. Eduard Shevardnadze, sem er 75 ára að aldri, er þekktur stjórnmálamaður. Hann átti stóran þátt í að binda endi á kalda stríðið sem utanríkisráðherra Sovétríkjanna 1985-1990 í valdatíð Mikhail Gorbatsjov. Hann sagði af sér í desember 1990 í kjölfar þess að harðlínuöfl í landinu létu meira til sín taka. Eftir misheppnaða valdaránstilraun í Sovétríkjunum í ágúst 1991 varð hann aftur utanríkisráðherra og sat á þeim stóli þar til Sovét leið undir lok í desember 1991. Hann varð leiðtogi Georgíu 1992 og var forseti landsins frá 1995.


Að þessu sinni fjalla ég um siðlausa ákvörðun forystumanna Kaupþings Búnaðarbanka fólgin í kaupréttarsamningi við stjórnendur hans og fjalla um viðbrögð forystufólks ríkisstjórnarinnar í kjölfar hennar sem leiddu til þess að stjórnendur bankans drógu samninginn til baka, fjalla ennfremur um styrk Davíðs Oddssonar sem stjórnmálamanns í gegnum tíðina en hann á að baki þriggja áratuga langan og farsælan stjórnmálaferil. Að lokum fjalla ég um hvaða kostum sá þarf að vera búinn sem vill ná árangri í stjórnmálum, semsagt hver er að mínu mati listin að vera leiðtogi í stjórnmálum. Vil ég að lokum þakka góð viðbrögð við breytingum á bloggvefnum sem hafa verið seinustu vikur og bið þá sem nýlega eru farnir að líta á bloggið velkomna í hóp margra sem líta á vefinn. Ég sé á heimsóknartölum að margir nýjir áhorfendur eru komnir hingað.

Í gærkvöldi var athyglisvert spjall um pólitík í Silfrinu hjá Agli Helgasyni. Í upphafi komu t.d. Jakob F. Ásgeirsson og Gunnar Smári Egilsson og ræddu fréttir vikunnar. Bar þar auðvitað hæst mál málanna sem fyrr hefur verið nefnt á þessum vef og sýndist sitt hverjum eins og við var að búast. Helsta snerran var þó í seinni hlutanum þegar Gunnar Smári, Birgir Ármannsson og Helgi Hjörvar ræddu þessi mál. Var mikil orrahríð milli þeirra þingfélaga Birgis og Helga og deildar meiningar á þessu kaupréttarsamningsmáli. Fór reyndar svo að Helgi kom enn og aftur fram með skæting eins og hann er þekktur fyrir. Birgir svaraði honum vel og tæklaði vel hans málflutning. Gaman að fylgjast með Silfrinu á Stöð 2, fínn þáttur, nauðsynlegur fyrir stjórnmálaumræðuna.

Átti gott laugardagskvöld. Var boðinn í kvöldmat til góðra vina og þar voru líflegar umræður yfir góðum mat. Var þarna um að ræða ekta þríréttaða máltíð eins og við var að búast af þessum vinahjónum mínum. Endaði borðhaldið með virkilega góðum desert og skemmtilegt að upplýsa að umræðuefnið yfir honum var jólavenjur og jólahefðir, en eins og allir vita er mánuður til jóla. Horfðum við á sjónvarpið eftir matinn. Að sjálfsögðu var horft á Laugardagskvöld með félaga mínum, Gísla Marteini. Þar var létt spjall og gestir Hallgrímur Helgason, Hjálmar Hjálmarsson og Leoncie. Gaman af þessum þætti eins og venjulega. Á eftir var horft á Spaugstofuna og hlegið dátt, enda góður þáttur hjá þeim núna, 200. þátturinn, en þeir grínfélagar byrjuðu með skemmtiþátt sinn í janúar 1989 og verið saman síðan með hléum. Þegar leið á kvöldið (eftir gott spjall og hressilegt) var haldið út á lífið og skemmt sér vel.
Vefur dagsins
Í dag bendi ég öllum á fréttavef Reuters. Alveg magnaður fréttavefur fyrir þá sem fylgjast vel með fréttum líðandi stundar, jafnt á sunnudögum sem aðra daga.
Snjallyrði dagsins
You turn if you want to. The Lady's not for turning!
Margaret Thatcher forsætisráðherra Bretlands (1979-1990)
Breytt 18.9.2006 kl. 08:02 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
22.11.2003 | 08:14
Engin fyrirsögn

Í dag eru fjórir áratugir liðnir frá því að John F. Kennedy forseti Bandaríkjanna, féll fyrir morðingjahendi í Dallas í Texas. Hann hafði þá setið á forsetastóli í Bandaríkjunum í rúmlega 1000 daga. Þótt liðinn sé langur tími frá þessum atburðum eru þeir mörgum Bandaríkjamönnum enn í fersku minni og blandast þar saman sorg, söknuður og tilfinningin um að þjóðin hafi verið svipt ungum og kraftmiklum leiðtoga. Þá er að margra mati sem spurningunni um hver myrti forsetann hafi ekki verið svarað með fullnægjandi hætti. Opinber rannsóknarnefnd komst að þeirri niðurstöðu að Lee Harvey Oswald hefði framið morðið og verið einn að verki en margir aðhyllast þá kenningu að árásarmennirnir hafi verið tveir og sumir segja allt að fjórir. Einnig hafa komið fram kenningar um að mafían, bandaríska leyniþjónustan, útsendarar erlendra ríkja eða jafnvel Johnson forseti, hafi skipulagt ódæðið. Ólíklegt er að niðurstaða, sem allir sætta sig við, fáist nokkurn tíma en ekkert lát er á umfjöllun um morðið, bæði í bókum og fjölmiðlum þótt fjórir áratugir séu liðnir frá morðinu á forsetanum.



Í dag birtist á frelsinu ítarlegur pistill minn um stjórnmálaferil og ævi Johns Fitzgerald Kennedy, 35. forseta Bandaríkjanna, en eins og fyrr segir eru fjórir áratugir liðnir í dag frá því að hann var myrtur. Kennedy forseti, fæddist í Brookline í Massachusetts, þann 29. maí 1917, næstelstur í hópi 9 barna hjónanna Joseph og Rose Kennedy. Hann nam í Choate menntaskólanum og Harvard, fór að því loknu í herþjónustu í seinni heimsstyrjöldinni. Hann hóf þátttöku í stjórnmálum, 29 ára gamall árið 1946 er hann var kjörinn þingmaður í fulltrúadeild Bandaríkjaþings. 1952 var hann kjörinn til setu í öldungadeild þingsins fyrir Massachusetts. Árið 1960 var hann kjörinn forseti Bandaríkjanna, sigraði Richard M. Nixon naumlega í spennandi kosningum. Hann sat á forsetastóli í rúmlega 1000 daga, var myrtur 22. nóvember 1963 í Dallas í Texas, skömmu eftir að hann kom þangað en hann hafði dagana á undan verið á ferðalagi um fylkið. Kennedy forseti var jarðsettur í þjóðargrafreitnum í Arlington, 25. nóvember 1963.

Var athyglisvert viðtal við forsætisráðherra í kvöldfréttum Stöðvar 2 í gærkvöld um mál málanna í gær. Í gærkvöldi voru Gunnar Smári Egilsson ritstjóri og Andrés Magnússon blaðamaður, gestir Jóhönnu og Þórhalls. Aðalumræðuefnið frétt gærdagsins um Kaupþing Búnaðarbanka. Kom verulega á óvart að heyra Gunnar Smára allt að því verja þessa ákvörðun stjórnenda bankans sem um ræðir. Mér fannst undarlegt að fólk reyni að verja þetta, þetta er í senn bæði siðlaust og óverjandi enda hafa stjórnendur bankans dregið ákvörðunina til baka eftir framvindu málsins. Athyglisvert spjall þeirra á milli. Stuðmenn fluttu tvö hressileg lög í þættinum af nýjum diski þeirra, Stuðmenn á Hlíðarenda. Sumarsmellur þeirra, Halló, halló, halló.. var algjört dúndur og þessi fylgja vel á eftir á góðum diski. Er mikill aðdáandi Stuðmanna, alltaf magnað að fara á gott ball með þessari góðu hljómsveit.
Eftir fréttir og dægurmálaþætti hélt ég til vinkonu minnar í gott Idol partý, var gott spjall þar og farið yfir mörg hitamál vikunnar og horft auðvitað á Idol-stjörnuleit. Virkilega fínn og góður þáttur. Eftir þáttinn hélt ég heim og skellti mér í það verkefni að horfa á umdeilda stórmynd leikstjórans Oliver Stone, JFK. Allt frá unglingsárum hafði Oliver Stone fylgst með miklum áhuga með rannsókninni á morðinu á John F. Kennedy forseta Bandaríkjanna, 22. nóvember 1963. Hann ákvað að gera mynd um rannsóknina og þær samsæriskenningar sem fóru um allan heiminn þess efnis að stjórnvöld hefðu átt þátt í morðinu og hann gerði myndina frá sjónarhorni Jim Garrison sem fór fremstur í fylkingu þeirra sem vildu að málið yrði kannað til fulls og allar samsæriskenningarnar kannaðar og málið galopnað. Myndin varð umdeild en mögnuð lýsing á þessu þekkta morðmáli. Hef oft horft á myndina en ákvað í tilefni þess að fjórir áratugir eru liðnir frá morðinu að horfa á myndina.
Vefur dagsins
Bendi öllum í dag á að líta á vandaðan fréttavef New York Times. Ferskar og góðar fréttir þar alla daga.
Snjallyrði dagsins
Spyrjið ekki hvað land þitt geti gert fyrir þig, heldur hvað þú getur gert fyrir landið þitt.
John Fitzgerald Kennedy forseti Bandaríkjanna (1917-1963)
Breytt 18.9.2006 kl. 08:02 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)