10.1.2004 | 21:48
Engin fyrirsögn

Kaflaskipti urðu í leitinni að gereyðingarvopnum í Írak í dag þegar tilkynnt var að fundist hefðu efnavopn. Það voru Jónas Þorvaldsson og Adrian King sprengjusérfræðingar Landhelgisgæslunnar á vegum Íslensku friðargæslunnar í Írak, sem fundu sprengjukúlur skammt frá Basra sem innihalda eitrað sinnepsgas. Þetta eru fyrstu gjöreyðingarvopnin sem finnast í Írak frá falli Baath stjórnarinnar fyrir tæpu ári. Íslensku sprengjusérfræðingarnir fundu 36 120 mm kúlur í sprengjuvörpur grafnar í jörðu. Kúlurnar höfðu verið faldar í uppbyggingu við veg. Breskir sérfræðingar vinna nú að mun nánari efna- og aldursgreiningu sprengjukúlanna. Talið er að þær hafi legið grafnar í jörð í tæp 10 ár. Sprengjusérfræðingarnir fundu kúlurnar þegar þeir voru kallaðir á vettvang skammt frá Basra við ána Tígris til að gera óvirkar sprengjur sem þar voru sjáanlegar. Við frekari rannsókn fundust þessar sprengjukúlur og niðurstaðan um hvers eðlis þær væru liggja fyrir með fyrrgreindri niðurstöðu. Gjöreyðingarvopn: kjarnavopn, sýkla- og efnavopn Íraka var meginástæða sem gefin var fyrir innrás í Írak í mars 2003. Þau hafa ekki fundist fyrr en nú að tilvist þeirra er sönnuð af Íslendingum í Írak. Það hefur aldrei leikið vafi á að Írakar réðu yfir gereyðingarvopnum og ágætt að fá endanlega staðfestingu þess, líklegt er að brátt finnist mun fleiri slík vopn. Í viðtali við fjölmiðla í dag hefur Halldór Ásgrímsson utanríkisráðherra, hrósað sprengjusérfræðingunum og minnt á afstöðu ríkisstjórnarinnar til málsins frá upphafi. Mikilvægt er að þessi staðreynd blasir endanlega við með svo áberandi hætti.


Gaman var sem fyrr að horfa á Idol - stjörnuleit í gærkvöldi. Um var að ræða fimmta þátt úrslitanna í Smáralind. 4 þátttakendur voru eftir, en síðast var Tinna Marína send heim eftir kosningu. Lög kvöldsins voru valin af dómurum þáttarins. Gestadómari kvöldsins var hin geysivinsæla söngkona Birgitta Haukdal, sem hefur á seinustu árum heillað þjóðina með framkomu sinni og var fulltrúi okkar í Eurovision keppninni í fyrra. Tóku keppendurnir 4 ódauðleg lög. Ardís var með The Long and Winding Road, Karl með I still haven't found what I'm looking for, Anna Katrín með Don't Speak og Jón með Sorry Seems to be the Hardest Word. Allt flott lög. Strákarnir stóðu sig mjög vel, stelpurnar voru ekki eins góðar og venjulega. Anna og Ardís höfðu báðar átt betri daga. Anna hefur átt við veikindi að stríða og hefur ekki endanlega yfirstígið þau, því miður. Strákarnir glönsuðu í gegn. Kalli stóð algjörlega uppúr þetta kvöldið eins og síðast, fór hreinlega á kostum með flott U2 lag. Stelpurnar urðu neðstar í kosningunni. Kom það í hlut Ardísar Ólafar að halda heim. Fannst mér það rétt val hjá þjóðinni, þó erfitt væri að velja þann sem færi heim. Fjórða sætið í þessari keppni er ekki slæmur árangur, enda verða öll þessi fjögur stórstjörnur óháð endanlegri röð. Ardís mun toppa síðar og það eftirminnilega. Hægt er að líta á frammistöður þeirra og dæma af því. Framundan er úrslitakvöldið næsta föstudag, þrjú eru eftir og keppa um hver verði fyrsta Idol stjarna Íslendinga og fái plötusamning hjá Skífunni.
Eftir Idolið horfði ég á hina mögnuðu úrvalsmynd Oliver Stone, Born on the Fourth of July. Sérlega áhrifamikil og meistaralega leikin kvikmynd um ævi hermannsins Ron Kovics sem fór fullur af föðurlandsást og hetjudýrkun í Víetnamsstríðið en kom þaðan lamaður fyrir neðan mitti, bundinn við hjólastól. Brátt tóku hugmyndir hans um tilgang stríðsins að breytast, honum fannst hann hafa verið blekktur til þess að taka upp rangan málstað og fer að berjast með mótmælendum stríðsins en í bakgrunni eru þjóðfélagsbreytingar hippatímans. Eftirminnileg og kraftmikil ádeila og uppgjör Ron Kovics við Víetnamtímabilið og kannski ekki síst virðingarvottur við það fólk sem slapp lifandi úr stríðinu. Oliver Stone fékk óskarsverðlaunin fyrir magnaða og einkar djarfa leikstjórn sína, enda óvæginn og hispurslaus sem fyrr í túlkun sinni á Víetnamsstríðinu, enda var hann þar og horfði upp á nána vini sína deyja hvern af öðrum. Tom Cruise vann leiksigur í hlutverki Ron Kovic, hermannsins sem barðist gegn hinu eilífa óréttlæti stríðsmennskunnar, hann hefur aldrei leikið betur en í þessari kvikmynd, hann er alveg hreint frábær í persónusköpun sinni. Ekki má heldur gleyma Kyru Sedgwick, Willem Dafoe og Tom Berenger. Stórfengleg kvikmynd um mannraunir á ófriðartímum sem er ávallt viðeigandi. Mjög góð mynd.
Vefur dagsins
Bendi í dag á bloggið hennar Óskar, vinkonu minnar. Hún er alltaf jafnhress og dugleg við að tjá skoðanir sínar.
Snjallyrði dagsins
Dauðarefsing myndi virka mun betur ef henni væri beitt áður en að glæpurinn er framinn.
Woody Allen leikari og leikstjóri
Breytt 18.9.2006 kl. 08:02 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
9.1.2004 | 17:36
Engin fyrirsögn

Í gær boðaði Hannes Hólmsteinn Gissurarson til blaðamannafundar, þar sem hann svaraði ásökunum í hans garð um ritstuld í bókinni Halldór, fyrsta bindi ævisögu rithöfundarins Halldórs Kiljans Laxness. Sendi hann frá sér ítarlega greinargerð vegna málsins. Þar segir hann allt tal um ritstuld í bók sinni, algjörlega fráleitt. Hann segir að skýrt komi fram í eftirmála bókarinnar, að hann nýti sér efni úr minningarbókum Halldórs Laxness og ritum Peters Hallbergs, þótt hann breyti textum eftir þörfum eigin verks. Orðrétt sagði hann á blaðamannafundinum: "Ég gerði ekkert óheiðarlegt og framdi engan ritstuld. Ég stend við að þetta sé vönduð og góð bók" Hann sagði ennfremur að mikið væri af villum og rangfærslum í þeirri gagnrýni, sem hann hefði fengið á bókina. Orðrétt sagði hann ennfremur: "Það blasir við öllum lesendum bókar minnar, hvernig ég nýtti mér minningabækur Halldórs Kiljans Laxness og önnur skrif. Þegar ég taldi almennar lýsingar hans á aðstæðum, atvikum og einstaklingum á ævibrautinni eiga erindi til lesenda, færði ég frásögn hans í óbeina ræðu og úr fyrstu persónu (ég) í þriðju persónu (hann) og breytti henni jafnframt eftir þörfum textans. Stundum hagræddi ég frásögninni ekki mikið, stundum meira, allt eftir því hvað átti við. Þegar Halldór var hins vegar að segja frá eigin skoðunum eða sálarlífi, hafði ég orð hans sjálfs óbreytt með stafsetningu hans og auðkenndi þau. Ég tel þessa aðferð betri en þá að fylla blaðsíðurnar með löngum, beinum tilvitnunum. Það á að laga texta að þörfum verksins í stað þess að láta sér nægja að klippa og líma saman efnishlutana og setja utan um þá gæsalappir. Meginverkefnið var að reyna að nálgast Halldór, fylgja honum eftir á lífsleiðinni".
.jpg)


Í dag birtist á frelsinu pistill Snorra um sjávarútvegsmál. Orðrétt segir hann: "Á haustþingi voru lagðar fram margar breytingar á skattalögum. Sumar af óbreyttum þingmönnum en aðrar af fjármálaráðherra. Þær síðarnefndur hljóta að teljast líklegri til að vera samþykktar af Alþingi. Með ánægjulegri breytingum sem voru lagðar fram var sú sem felur í sér afnám sjómannafsláttar. Frumvarpið felur í sér afnám sjómannaafsláttar í jöfnum áföngum frá 1. febrúar 2005 til 1. janúar 2008. Með þessari breytingu fellur út það ójafnræði sem í afslættinum felst. Félög sjómanna hafa, svo sem vonlegt er, mótmælt þessari breytingu. Fæstir vilja missa spón úr aski sínum. Skattkerfi sem hyglir einstökum hópum er hins vegar ekki aðeins ósanngjarnt heldur einnig óhagkvæmt. Hinn almenni skattgreiðandi er því miður ekki látinn njóta góðs af þessari breytingu en sjálfsagt væri að lækka hinn almenna tekjuskatt sem nemur þeim tekjum sem bætast í ríkiskassann. Þrátt fyrir að upphæðirnar séu ekki stórvægilegar, sem hlutfall af heildarútgjöldum ríkissjóðs, væru þær betur komnar í vasa fólksins en ríkishítinni." Góður pistill, ég hef margoft lýst yfir því að sjómannaafsláttinn verða að fella niður, enda tímaskekkja og því erum við Snorri sammála í þessu eins og flestu öðru.

Í gærkvöldi var Hannes Hólmsteinn Gissurarson gestur í bæði Kastljósinu og Íslandi í dag. Í ítarlegum viðtölum svaraði Hannes lið fyrir lið þeim ásökunum sem bornar hafa verið á hann vegna útkomu fyrsta bindis ævisögu Halldórs Kiljans Laxness. Óhætt er að fullyrða að hann hafi átt auðvelt með það, enda hefur góðan málstað að verja. Sú aðför sem geisað hefur að honum hefur vakið athygli og ekki erfitt að verja góðan málstað. Einkum fór Hannes á kostum í Íslandi í dag þar sem hann hakkaði lið fyrir lið í sig óvægna gagnrýni Páls Baldvins Baldvinssonar á bókina fyrir jólin. Hlýtur sú spurning að vera ofarlega á baugi hvort gagnrýnandinn hafi einfaldlega lesið bókina, enda margar rangfærslur sem fram komu í gagnrýni hans. Í Kastljósinu fór Hannes ennfremur á kostum og tók gagnrýni á sig auðveldlega fyrir. Eftir þessi tvö ítarlegu viðtöl leikur enginn vafi lengur á að bók Hannesar var vel gerð og vönduð og að gagnrýni óvildarmanna hans missti algjörlega marks.

Horfði í gærkvöldi í enn eitt skiptið á magnaða spennumynd meistara Alfred Hitchcock, Frenzy. Næstsíðasta kvikmynd meistara spennunnar var gerð árið 1972 og var hún talsvert frábrugðin fyrri myndum hans og var að öllu leyti gerð í London. Segir frá sakleysingja sem er hundeltur af lögreglunni á meðan raunverulegi kvennamorðinginn, hrottalegur kyrkjari, heldur uppteknum hætti í London. Góður, svartur húmor, en heimilislíf aðal rannsóknarlögreglumannsins er t.a.m. hinn hreinasti unaður, í bland við öll illvirkin og einkar góða spennu. Myndataka og klippingar eru fyrsta flokks og leikurinn er ekki síðri, hér fara þau Jon Finch, Barry Foster, Barbara Leigh-Hunt, Anna Massey og Alec McCowen alveg hreint á kostum. Það sem eyðileggur eilítið fyrir því að myndin eldist ekki eins vel og ella hefur orðið er tíska tímabilsins. Að öllu öðru leyti er myndin stórfengleg. Mögnuð spennumynd.
Vefur dagsins
Í dag bendi ég á bloggvef Heiðrúnar Lindar Marteinsdóttur. Hressileg umfjöllun hjá henni á hverjum degi. Skemmtilegt blogg.
Snjallyrði dagsins
Stjórnmál eru list hins mögulega.
Otto van Bismarck
Breytt 18.9.2006 kl. 08:02 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
8.1.2004 | 23:30
Engin fyrirsögn
.jpg)
Um fátt hefur meira verið rætt í umræðunni seinustu vikur en Halldór, fyrsta bindi ævisögu dr. Hannesar Hólmsteins Gissurarsonar um Halldór Kiljan Laxness rithöfund og skáld. Fyrsta bindið nær yfir fyrstu 30 ár ævi Halldórs, 1902-1932. Seinustu vikur hafa margir aðilar sem í gegnum tíðina hefur verið í nöp við Hannes komið fram og sakað hann um ritstuld frá skáldinu í ævisögunni. Hefur geisað aðför að Hannesi úr ýmsum áttum. Í gær skrifaði Jakob F. Ásgeirsson rithöfundur, ítarlega grein í Viðskiptablaðið og fer þar yfir málið og fjallar um helstu hliðar þess. Orðrétt segir hann: "Virðist sem fjandmenn Hannesar hafa hvorki fundið ástæðu til árása á bókina vegna staðreyndavillna eða skorts á nærgætni við skáldið. Í örvæntingu sinni hengja þeir hatt sinn á heimildanotkun Hannesar. Úr skúmaskotum Háskóla Íslands spretta fram í dagsljósið fótnótufræðingar tveir, Helga Kress og Gauti Kristmannsson, og herja á Hannes í nafni fræða sinna. Þeim finnst ekki vera nógu margar fótnótur í bók hans! Fáar bækur í seinni tíð gera þó jafn rækilega grein fyrir heimildum sínum og bók Hannesar Hólmsteins. Tilvísanaskráin í bókinni er 44 blaðsíður með smáu letri sett í tvídálk (bls. 563-607). Alls eru fótnóturnar 1.627, eða tæplega 3 á hverja lesmálssíðu í bókinni. Þetta er með því mesta sem þekkist um tilvísanir í bókum af þessu tagi eftir virta fræðimenn og rithöfunda. Það nær því engri átt að saka Hannes um að fara dult með heimildir sínar." Lýsa skrif Jakobs málinu vel. Hef ég lesið bókina og kynnt mér hana vel. Er um að ræða eina vönduðustu ævisögu seinni ára hérlendis. Hún ber að öllu leyti vitni einkar vönduðum vinnubrögðum.



Fullt af góðu efni á frelsinu í dag. Birtist góður pistill eftir Ásgeir félaga minn þar sem hann fjallar um lýðræðið. Orðrétt segir hann: "Fylkingar frjálshyggjumanna, íhaldsmanna, miðjumanna og jafnaðarmanna hafa allar kennt sig við lýðræði. Þótt þjóðernissinnar og kommúnistar hafi einnig stundum viljað láta bendla sig lýðræði, tengja flestir nútímamenn lýðræði við andstöðu gegn þessum hreyfingum og í stjórnmálaumræðu síðustu áratuga fór lýðræði nánast að merkja alla jákvæða eiginleika sem stjórnskipan ríkja í Vestur-Evrópu og Norður-Ameríku hafði umfram stjórnskipan í kommúnistaríkjum og öðrum einræðisríkjum. Þrátt fyrir þennan óljósa og víða skilning á hugtakinu er kjarni lýðræðishugsjónarinnar sá að stjórnmál séu ekki fyrir fáeina útvalda heldur komi þau almenningi við og alþýða manna eigi að fá að hafa áhrif á pólitískar ákvarðanir. Yfirleitt er eðlilegt að tala um lýðræði þar sem öllum er frjálst að taka þátt í stjórnmálum og hafa áhrif." Góð grein sem allir verða að líta á. Að auki birtist ítarleg grein Jakobs F. Ásgeirssonar vegna gagnrýni á bók Hannesar Hólmsteins um Laxness. Ennfremur birtist smáumfjöllun um táknræna gjöf Eyjamanna í Eyverjum til Heimdallar og stuðningur við stefnu félagsins og ungra sjálfstæðismanna almennt við að einkavæða beri RÚV. Líst vel á þetta hjá Eyverjum og gleður mig, sem baráttumann fyrir fjölmiðlun án þátttöku ríkisins að sjá þetta.

Vegna fjölda áskorana hef ég ákveðið að koma mér upp póstlista á heimasíðu minni, stebbifr.com. Þar verður kynnt a.m.k. vikulega nýtt efni á vef mínum og bent á skrif mín á aðra vefi ef einhver eru þá vikuna og ennfremur gestapistla og fleira efni á vefnum. Upphaflega átti bara að vera um að ræða póstlisti fyrir þá sem ég þekki best eða vildu fá tilkynningu. Eftir að þetta spurðist út hafa margir haft samband og vilja fara á listann. Vil ég kanna hérmeð hvort fleiri hafi áhuga á því að fara á þennan póstlista. Ef svo er hvet ég viðkomandi til að senda tölvupóst til mín með upplýsingum um nafn og netfang þess sem um ræðir. Ég vil ennfremur þakka öllum þeim sem sent hafa skeyti seinustu daga með kveðjum vegna áramótapistilsins. Margir hafa lesið hann og sent kveðju, þakka öllum þeim sem höfðu samband fyrir kveðjuna.

Í vikunni opnaði kvikmyndir.com ítarlega myndbandahandbók á slóðinni myndbond.com. Þar eru aðgengilegir þeir dómar sem birst hafa á kvikmyndir.com á undanförnum árum, eða allt frá opnun, í desember 2000. Vefurinn er mjög vel uppbyggður og þar er fjöldi kvikmyndaáhugamanna að skrifa um kvikmyndir, frá öllum hliðum. Hef ég sérhæft mig þarna í að skrifa pistla um kvikmyndir og leikstjóra og tek að mér skrif á næstunni um helstu kvikmyndaverðlaun, t.d. Golden Globe og Óskarsverðlaunin sem einn aðalpistlahöfunda vefsins. Þessi nýjung sem myndbandahandbókin er, mun án nokkurs vafa verða kærkomin fyrir kvikmyndaunnendur sem líta á vefina.
Vefur dagsins
Bendi í dag á vef góðs félaga míns úr ungliðahreyfingunni, Bjarka Baxter. Hann er duglegur að tjá skoðanir sínar á vefnum á mönnum og málefnum. Góður vefur hjá honum.
Snjallyrði dagsins
Hádegisverðurinn er aldrei ókeypis.
Milton Friedman
Breytt 18.9.2006 kl. 08:02 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
7.1.2004 | 21:46
Engin fyrirsögn

Mijailo Mijailovic játaði við yfirheyrslur í gærkvöldi að hafa myrt Önnu Lindh utanríkisráðherra Svíþjóðar. Lindh varð fyrir árás hans í NK-verslunarmiðstöðinni í Stokkhólmi 10. september sl. og lést morguninn eftir af sárum sínum. Var hann handtekinn seinnipart septembermánaðar eftir mikla leit, en áður hafði rangur maður verið sakaður um verknaðinn. Kom fram í viðtali við Peter Althin lögmann Mijailovic, að ástæðan fyrir morðinu hafi ekki verið pólitísk heldur hafi verið um tilviljanakenndan verknað að ræða. Gert er ráð fyrir að formleg ákæra á hendur Mijailovic verði þingfest 12. janúar og réttarhöld yfir honum hefist 14. janúar. Sannanir lögreglu gegn honum þóttu orðnar mjög sannfærandi og líklegt að hann hafi játað til að hljóta mildari dóm. Svíum er létt, eftir að þessar fréttir bárust. Áður höfðu margir talið að morðgátan myndi ekki leysast og vísuðu til morðsins á Olof Palme forsætisráðherra, 1986. Thomas Bodströn dómsmálaráðherra landsins, sagði í dag að sænska þjóðin þyrfti á því að halda að þessu máli lyki með fullnægjandi hætti og játningin ætti að leiða til þess að Svíar sættu sig betur við niðurstöðu alls málsins. Verði Mijailovic fundinn sekur getur hann átt yfir höfði sér allt frá 10 ára til lífstíðarfangelsi.



Í dag birtist athyglisverður pistill Helgu um eftirlitsstofnun Manneldisráðs. Orðrétt segir hún: "Algengt er að fólk frýji sig ábyrgð af eigin lífstíl. Ef maður fitnar er það aldrei manni sjálfum að kenna. Sökudólgarnir geta verið býsna margir; lélegir einkaþjálfarar, skyndibitastaðir sem vara mann ekki við því að mikil neysla á hamborgurum og pizzum auki hættuna á aukakílóum, auglýsendur sem gera gosdrykki og annað sælgæti svo girnilegt og ómótstæðilegt, skólum fyrir að kenna ekki næringarfræði eða leiðinlegum kennurum fyrir að maður náði ekki að tileinka sér fræðin. Eins fáránlegur og þessi hugsunarháttur kann að virðast þá er hann alls ekki úr takti við pælinguna að baki hinu svokallaða Manneldisráði. Ráðið samanstendur af teymi sérfræðinga sem eiga að sjá um að ákveða og fræða Íslendinga um það hvernig þeir geti tileinkað sér holla og heilsusamlega lífshætti. Það skal gert í samræmi við fögur markmið stjórnmálamanna og að sjálfsögðu fyrir fé skattgreiðenda." Góð ádeila á Manneldisráð. Ennfremur birtist á frelsinu í dag kynning á bol okkar SUS-ara með mynd af Járnfrúnni framan á. Allir að kaupa hann!

Keypti um daginn disk Ómars Ragnarssonar, Ómar lands og þjóðar. Þar eru skemmtilegar svipmyndir Ómars Ragnarssonar af náttúru landsins. Í þrjá áratugi hefur Ómar verið einna helst þekktur fyrir að kynna landsmönnum gríðarlega fegurð landsins og fært okkur svipmyndir sem eru einstakar. Í gegnum þætti sína hefur hann miðlað einstakri sýn á landið og náttúru þess. Efnið er myndskreytt með fallegum lögum við texta Ómars. Meðal þeirra sem flytja lög eru Sigrún Hjálmtýsdóttir, Egill Ólafsson, Kristinn Sigmundsson, félagar úr Fóstbræðrum, Bubbi Morthens, Pálmi Gunnarsson, Helga Möller, Bjarni Arason, Ragnar Bjarnason, Berglind Björk Jónasdóttir, Ari Jónsson, Þórunn Lárusdóttir og Ómar sjálfur. Uppúr stendur fallegur texti Ómars við lagið Að sigla inn Eyjafjörðinn, en það syngur Raggi Bjarna meistaralega. Þar sem ég hef miklar taugar til fjarðarins er ljóst að þetta lag stendur uppúr. Magnað efni, skyldueign fyrir alla þá sem vilja kynnast bæði fallegum hliðum flóru landsins og góðri tónlist.

Þriðjudagskvöldinu var að mestu eytt í að horfa á magnaða stórmynd Steven Spielberg, Saving Private Ryan. Saga myndarinnar er sögð frá sjónarhóli lítillar bandarískrar hersveitar og hefst á landgöngunni á Omaha-ströndinni í Normandí á D-daginn, 6. júní 1944, þar sem um 2.400 bandarískir hermenn og 1.200 Þjóðverjar féllu, en gerist eftir það inni í landinu þar sem nokkrum mönnum hefur verið falið hættulegt sérverkefni. Kapteinn John Miller verður að fara með menn sína inn fyrir víglínuna til að hafa uppi á óbreyttum James Ryan. Skartar í aðalhlutverkum þeim Tom Hanks, Ed Burns, Matt Damon og Tom Sizemore. Einstök mynd sem telst hiklaust vera ein besta mynd 10. áratugarins en fékk engu að síður ekki óskarinn sem besta kvikmynd ársins. Er óskiljanlegt að þessi úrvalsmynd hafi ekki hlotið þau verðlaun. Mögnuð mynd, sem hefur enn sömu áhrif á mig nú og þegar ég sá hana fyrst í bíó fyrir fimm árum.
Vefur dagsins
Í dag bendi ég á skemmtilegan bloggvef Mæju, en þar fer skrifar um það sem hún hefur áhuga á að fjalla um. Skemmtilegur vefur.
Snjallyrði dagsins
Ég hef reynt að vera sanngjarn. Það fór mér illa.
Clint Eastwood leikari og leikstjóri.
Breytt 18.9.2006 kl. 08:02 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
6.1.2004 | 20:05
Engin fyrirsögn

Í dag voru birtar tölur í nýrri skoðanakönnun Gallups. Úrtakið í könnuninni var 4.000 manns og því um að ræða stærstu könnun Gallups á fylgi stjórnmálaflokkanna frá því fyrir seinustu alþingiskosningar, 10. maí 2003. Stuðningur við Sjálfstæðisflokkinn í könnuninni mældist 39%, sem er mjög svipað og kjörfylgi flokksins 1999. Framsóknarflokkurinn hlýtur 16%, fylgi Samfylkingarinnar mælist 28% svipað kjörfylginu 1999, flokkurinn nær ekki að halda 30% markinu sem stefnt var að eftir að turninn þeirra sveigðist skömmu eftir innkomu Ingibjargar Sólrúnar í varaþingmannsframboð. Fylgi Vinstrihreyfingarinnar - græns framboðs er um 14% og fylgi Frjálslynda flokksins mælist tæp 7%. Könnunin var gerð dagana 26. nóvember til 30. desember 2003. Samkvæmt þessari könnun hefur fylgi ríkisstjórnarinnar dalað að undanförnu og er nú 53%. Er ekki óeðlilegt að fylgi stjórnarinnar minnki eitthvað, enda blasir við að Framsóknarflokkurinn taki á árinu við forystu í henni. Má búast við sveiflum á fylgi stjórnarinnar vegna þess. Mikið ánægjuefni er að fylgi Sjálfstæðisflokksins sé á uppleið.



Í dag birtist pistill Bjarka um reykingar á frelsinu. Orðrétt segir hann: "Forsjárhyggja stjórnvalda er því miður á mörgum sviðum, en birtist hvað best þegar kemur að tóbaki og áfengi. Allt of lengi hafa stjórnvöld staðið beggja vegna borðsins í þessum málum með rekstri ÁTVR. Það væri eðlilegasta að ríkið hætti afskiptum sínum af sölu tóbaks og áfengis. Banni við auglýsingum væri aflétt og þeim sem reka verslanir, veitingahús og skemmtistaði verði í sjálfsvald sett hvort þeir leyfi reykingar á sínu stöðum eða ekki. Lögmál framboðs og eftirspurnar eiga að ráða för á þessum markaði eins og öðrum. Það er ekki hlutverk stjórnvalda að banna reykingar á skemmtistöðum, enda er það hverjum og einum í sjálfsvald sett hvort hann sækir slíka staði. Eðlilegra væri að hvetja þá sem reka slíka staði til að banna reykingar á sínum stöðum, enda er örugglega markaður fyrir reyklausan skemmtistað þegar 76% landsmanna reykja ekki." Í gær birtist á frelsinu svör frá Árna Magnússyni félagsmálaráðherra, við spurningum sem beint var til hans. Einnig er birt athyglisverð grein Erlings Þórs Tryggvasonar og svar ritstjóra vefsins.

Í gærkvöldi voru gestir Sigmundar Davíðs í Kastljósinu, Pétur Blöndal alþingismaður og Svanfríður Jónasdóttir fyrrverandi alþingismaður. Umræðuefnið var málefni sparisjóðanna, í kjölfar þess að tilkynnt var um kaup KB banka á SPRON. Svanfríður hefur mótmælt harðlega að fjallað verði um sölumálið og mál Sparisjóðsins í efnahags- og viðskiptanefnd undir forsæti Péturs sem er formaður nefndarinnar. Vill hún að hann víki sæti vegna tengsla sinna við málefni SPRON seinustu tvö ár. Hafa þau skipst á skotum á hvort annað í blaðaskrifum. Þau tókust hraustlega á í þættinum og rifust heldur betur. Greinilegt er að þau ná ekki saman um þetta mál. Pétur ætlar ekki að víkja sæti og málið verður rætt undir hans stjórn í nefndinni. Í þættinum var ennfremur dregið í Gettu betur í fyrstu umferð hvaða skólar mætast. Er augljóslega framundan hörð keppni næstu vikur og spennandi spurningakeppni. Hefur MR unnið keppnina nú seinustu 10 ár, og vonandi að eitthvert annað lið taki þetta í ár.

Hef nú lokið við að lesa þrjár ævisögur um jólin og framundan að lesa bókina um Jón Sigurðsson. Fékk tvær bækur af Halldóri í jólagjöf og skipti annarri þeirra milli jóla og nýárs og fékk mér í staðinn seinni bók Guðjóns Friðrikssonar um Jón forseta. Hlakka til að lesa hana, fyrri bókin var alveg mögnuð. Horfði seinnipart kvölds á meistaraverk Woody Allen, Manhattan. Manhattan er mjög eftirminnileg súrsæt rómantísk kómedía sem sýnir New York í svarthvítum tón, undir hljómar skemmtileg tónlist Gershwin bræðra. Í myndinni sem hlaut fjölda óskarstilnefninga og sló í gegn, fara þrjár leikkonur eftirminnilega á kostum auk Allens sjálfs, þær Meryl Streep, Diane Keaton og Mariel Hemingway. Telst Manhattan til bestu mynda leikstjórans, alveg hiklaust. Hvað er betra á fögru kvöldi en slíkt meistaraverk?
Vefur dagsins
Í dag bendi ég á góðan vef félaga míns, Friðbjörns Orra. Þar tjáir hann skoðanir sínar. Alltaf gaman að lesa skrif Orra.
Snjallyrði dagsins
Ríkidæmi er betra en fátækt, a.m.k. frá efnahagslegu sjónarmiði.
Woody Allen kvikmyndaleikstjóri.
Breytt 18.9.2006 kl. 08:02 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
5.1.2004 | 23:32
Engin fyrirsögn

Fram kom í fréttum í dag að stefnt er að sölu á sjávarútvegsfyrirtækjum Brims innan næstu tveggja vikna. Í viðtali við RÚV í dag sagði Magnús Gunnarsson stjórnarformaður Eimskips, að myndi ekki nást saman um sölu á þeim fyrirtækjum sem mynda Brim yrðu þau rekin áfram óbreytt. Brim mynda þrjú stór sjávarútvegsfyrirtæki: Útgerðarfélag Akureyringa, Haraldur Böðvarsson á Akranesi og Skagstreningur á Skagaströnd. Tilkynnt var í dag að viðræður um kaup Granda í samvinnu við stjórnendur HB á eigum Brims í Haraldi Böðvarssyni væru hafnar. Í dag hófust einnig formlegar viðræður um kaup KEA og fjárfestingarfélagsins Afls á ÚA. Afl er að mestu í eigu Þorsteins Vilhelmssonar, fyrrum útgerðarstjóra Samherja, en hann var einn aðaleigenda þess í tæpa tvo áratugi. Framundan eru viðræður við heimamenn á Skagaströnd um hugsanleg kaup þeirra á Skagstrendingi. Sagði Magnús í fréttum að 15-20 aðilar hafi óskað eftir viðræðum vegna kaupa á sjávarútvegsfyrirtækjunum. Enginn hafi sýnt áhuga á að eignast Brim í heilu lagi hinsvegar. Ég fagna því að skýrari mynd sé komin á þessi mál og vona að ÚA verði eftir þetta í eigu heimamanna.



Skömmu eftir áramótin birtist á vef Heimssýnar mjög góður áramótapistill þar sem ritstjórn vefsins fer yfir það sem þótti markverðast í Evrópumálunum á árinu 2003. Orðrétt í pistlinum segir: "Ef Ísland gengi í Evrópusambandið nú, miðað við núverandi stuðningskerfi ríkisins við landbúnaðinn, myndi það m.a. leiða til mikils samdráttar og tekjumissis fyrir greinina og afurðastöðvar. Það er því ljóst að staða íslensks landbúnaðar yrði verri innan Evrópusambandsins en utan þess. Flest bendir ennfremur til þess að Íslendingar haldi meira sjálfræði til mótunar eigin landbúnaðarstefnu utan sambandsins en innan þess. Þetta er meðal þess sem fram kom í skýrslu sem unnin var af nefnd á vegum utanríkisráðneytisins og birt var þann 9. desember sl." og ennfremur "Miklir efnahagserfiðleikar settu mark sitt á Evrópusambandið á árinu. Hagfræðileg kreppa skall á í nokkrum aðildarríkjum sambandsins vegna samdráttar í landsframleiðslu. Verðbólga jókst mjög í aðildarríkjum Evrópusambandsins á árinu og var að meðaltali tvöfalt meiri en á Íslandi á sama tíma. Vó hækkun matvælaverðs í aðildarríkjunum þungt í aukningu verðbólgunnar. Hagvöxtur var sáralítill og nánast enginn á evrusvæðinu. Atvinnuleysi jókst ennfremur verulega í aðildarríkjum Evrópusambandsins á árinu og fór stöðugt í aukana. Var atvinnuleysi margfalt meira að meðaltali í Evrópusambandinu en á Íslandi á árinu." Góður annáll.

Í Silfri Egils á laugardag var athyglisvert spjall um áramótaræður forseta og forsætisráðherra. Fóru Guðlaugur Þór, Helgi Hjörvar og Björn Ingi Hrafnsson yfir ræðurnar og sögðu sitt mat á þeim og því sem helst er í umræðunni þessa dagana, t.d. um fjölmiðla og gagnrýni forsætisráðherra á Baugsblöðin. Eins og venjulega fór Helgi offari í spekúlasjónunum og sjálfur sér líkur. Gulli Þór stóð sig vel við að tjá sínar skoðanir og ennfremur Björn Ingi sem virðist vera orðinn fastagestur hjá Agli. Bættist síðar Reynir Traustason í spjallið og ræddi fjölmiðlamálin. Á sunnudagskvöldinu ræddi Svanhildur við Þorgerði Katrínu Gunnarsdóttur menntamálaráðherra. Fóru þær yfir þau verkefni sem bíða Þorgerðar sem hefur nú tekið við embætti. Hæst í spjallinu bar umræða um RÚV, skólamál og tónlistarhús. Fróðlegt og gott spjall, hefði þó viljað að Þorgerður kæmi ákveðnar fram með breytingahugmyndir um RÚV.

Horfði í gær enn eitt skiptið á hina mögnuðu kvikmynd meistara Alfred Hitchcock, Rear Window. Í henni segir frá ljósmyndaranum L.B. Jeffries sem fótbrotnar í vinnuslysi og neyðist til að vera heima. Hans tómstundaiðja verður að nota sjónkíkinn sinn til að fylgjast með mannlífinu hjá nágrönnunum og uppgötvar sér brátt til skelfingar að einn þeirra hefur myrt eiginkonu sína og hulið spor sín svo vel að líkið mun ekki finnast nema hann leysi málið sjálfur. En þá vandast málin, hvernig getur hann sannfært aðra um að verknaðurinn hafi nokkru sinni átt sér stað? Sú eina sem virðist trúa honum er kærastan hans Lisa, en hann verður að fá liðsinni lögreglunnar áður en nágranninn kemst að því að hann hefur verið staðinn að verki. James Stewart vinnur einn af stærstu leiksigrum sínum í hlutverki ljósmyndarans, hann er á skjánum allan tímann. Grace Kelly er sannkallað augnayndi í hlutverki hinnar trygglyndu unnustu hans. Ennfremur á Thelma Ritter stórleik sem sjúkranuddarinn Stella. Einstök mynd, ávallt góð og stenst tímans tönn með miklum sóma.
Vefur dagsins
Í dag bendi ég á stórgóðan bloggvef vinar míns, Ásgeirs Jóhannessonar. Þar skrifar hann um áhugamál sín, einkum pólitík og bókmenntir. Skemmtilegar pælingar hjá kappanum.
Snjallyrði dagsins
Rasismi, líkt og önnur heildarhyggja, snýst um að fá meira en þú átt skilið.
Ayn Rand
Breytt 18.9.2006 kl. 08:02 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
4.1.2004 | 21:53
Engin fyrirsögn

Í hálfan annan áratug hefur umræðuþátturinn Kryddsíld á Stöð 2 verið vettvangur líflegrar umræðu um liðið ár, á gamlársdegi. Á því varð engin breyting nú. Gestir þáttarins eru venju samkvæmt leiðtogar stjórnmálaflokkanna. Hef ég horft á þessa þætti allt frá því að Elín Hirst fréttastjóri Ríkissjónvarpsins, byrjaði með hann á Stöð 2 1989. Ávallt er þar áhugaverð og skemmtileg stjórnmálaumræða, enda formenn flokkanna að ræða hitamálin. Í lok þáttarins að þessu sinni var Davíð spurður um fjölmiðla og álit hans á þeim. Fram kom í svari hans að hann taldi Baug sem á ráðandi hlut í Norðurljósum, DV og Fréttablaðinu, ekki geta farið sómasamlega með vald sitt í gegnum fjölmiðla á þeirra vegum. Sagði Davíð að hann hefði orðið vitni að því að á hverjum degi hefðu stjórnendur Baugs misnotað fjölmiðla sína, einkum Fréttablaðið. Hann taldi ekki eðlilegt hvernig eigendur blaðsins fjarstýrðu þeim. Vöktu ummæli Davíðs fram reiði og óánægju starfsmanna blaðanna og töldu þeir vegið að starfsheiðri sínum. Mættu fréttastjórar DV og Fréttablaðsins að kvöldi föstudags í viðtal í Íslandi í dag á Stöð 2 og vísuðu ummælum Davíðs á bug. Vart er svosem við öðru að búast. Ekki er líklegt að fréttastjórar þessara blaða taki undir ummæli forsætisráðherrans. Það vekur athygli að Stöð 2 fái til sín tvo fréttastjóra sem auðvitað verja heiður sinn og blaðsins fram í rauðan dauðann, en ekki leitast við að fá fram á móti þeim rödd sem er þeim ósammála. Það vekur athygli að miðlar Norðurljósa séu notaðir í svo barnalega umræðu, og vekur fleiri spurningar en umfjöllunin svaraði. Heyrst hefur á forystumönnum Baugs að þeir ætli að lögsækja forsætisráðherra fyrir að tjá skoðanir sínar og ganga þarmeð að málfrelsinu. Það er alveg greinilegt að þessi ummæli forsætisráðherrans og skoðanir hans stuða Baugsmenn, enda sjá þeir eflaust að margt er til í þessum orðum. Sannleiksgildi þeirra blasir við öllum sem fylgjast með.


Í fyrsta sunnudagspistli ársins 2004 fjalla ég um umræðu um eignarhald á fjölmiðlum í kjölfar áramótagreinar forsætisráðherra í Morgunblaðinu á gamlársdag og áramótaávarps hans, þar kom skýrt fram að hann vill setja reglur um eignarhald fjölmiðlafyrirtækja og telur frelsið sem sett var á misnotað. Minni ég í því samhengi á þá skoðun mína að nauðsynlegt sé að taka á eignaraðild á fjölmiðlamarkaði og setja reglur um þessi mál. Sú skoðun hefur áður komið fram á vefnum. Rétt er þó að taka fram að beðið er eftir mati nefndar menntamálaráðherra en hún mun skila af sér 1. mars nk. Í okkar veruleika blasir við að sami maður eigi ráðandi hluti í fjölmiðlasamsteypu sem inniheldur tvö dagblöð, fimm sjónvarpsstöðvar og fjórar útvarpsstöðvar. Þar eru reknar þrjár fréttastofur. Ég tel persónulega rétt að setja hámark í eign á fjölmiðlamarkaði. Það er öllum hollt að vera settar leikreglur. Ennfremur fjalla ég um titring sem orðið hefur hjá Baugi eftir að forsætisráðherra tjáði sig um Baugsblöðin í Kryddsíld Stöðvar 2 á gamlársdag.
Gaman var sem fyrr að horfa á Idol - stjörnuleit á föstudag. Um var að ræða fjórða þátt úrslitanna í Smáralind, þann fyrsta á árinu 2004. 5 þátttakendur voru eftir, en síðast var Helgi Rafn sendur heim eftir kosningu. Þema kvöldsins var kvikmynda- og söngleikjatónlist. Gestadómari kvöldsins var leik- og söngkonan Þórunn Lárusdóttir, sem leikið hefur í fjölda söngleikja. Tóku keppendurnir 5 ódauðleg lög. Ardís var með Footloose, Karl með Greased Lightning, Anna Katrín með Can You Feel The Love Tonight, Jón með Sounds of Silence og Tinna Marína með Against All Odds. Allt flott lög. Strákarnir stóðu sig mjög vel, stelpurnar voru ekki eins góðar og venjulega. Anna, Tinna og Ardís voru ekki alveg upp á sitt besta. Bæði var að þær völdu röng lög og ennfremur réðu ekki við tóntegundina. Strákarnir glönsuðu í gegn. Kalli stóð algjörlega uppúr þetta kvöldið, fór hreinlega á kostum. Stelpurnar urðu neðstar í kosningunni. Kom það í hlut Tinnu Marínu að halda heim. Fannst mér það rétt val hjá þjóðinni, enda hún ekki að standa sig vel þetta kvöldið, valdi vitlaust lag sem passaði henni alls ekki. Hægt er að líta á frammistöður þeirra og dæma af því. Framundan eru spennandi 4 manna úrslit föstudaginn 9. janúar 2004, og þá mun aftur fækka um einn í hópnum. Úrslit verða svo að kvöldi 16. janúar.
Vefur dagsins
Að þessu sinni bendi ég á vef Idol - stjörnuleitar, á Stöð 2. Óhætt er að fullyrða að þessir söngvaþættir sem byggðir eru upp eftir breskri og bandarískri fyrirmynd hafi slegið í gegn hérlendis og komið af stað ótrúlegu æði. Sér ekki fyrir endann á því. Vefur þáttarins er mjög góður.
Snjallyrði dagsins
Hver er sinnar gæfu smiður.
Appius Claudius Ceacus
Breytt 18.9.2006 kl. 08:02 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
2.1.2004 | 23:38
Engin fyrirsögn

Í áramótaávarpi sínu á gamlárskvöld sagði Davíð Oddsson forsætisráðherra, að baráttunni um frelsið væri ekki lokið og lyki aldrei, þótt hún hefði breyst breyst í áranna rás. Sagði Davíð að vandinn við að varðveita frelsið og efla það væri nú flóknari en nokkru sinni fyrr því nú væri ekki lengur við fjarlægan, óbilgjarnan, erlendan andstæðing að eiga, sem sameini þjóðina til átaka, heldur snéri baráttan inn á við. Sagði Davíð í ávarpinu að frelsið væri gagnlítið ef það væri aðeins fárra en ekki fjöldans. Ennfremur kom fram í máli hans að fyrir tæpri öld hefði íslenska þjóðin hefði fengið fyrsta stóra skammtinn af frelsinu: heimastjórnina, en eftir mánuð verður liðin öld frá þeim merka atburði. Orðrétt sagði Davíð: "Við gleðjumst saman yfir því, að skuldir ríkisins fara nú ört minnkandi og þar með vaxtabyrði þess. Þess vegna getum við sameiginlega varið meira fé til eftirsóknarverðra hluta, svo sem menntunar og heilbrigðisþjónustu án þess að þurfa að hækka skatta. Því hefur reyndar verið lofað að þetta kjörtímabil verði eitt mesta skattalækkunartímabilið. Við það verður auðvitað staðið. Það þýðir ekki að dregið verði úr þeirri þjónustu sem við erum sammála um að veita. Það þýðir hins vegar að stærri hluti þess hagvaxtar, sem fyrirsjáanlegur er, á að renna beint til fólksins í landinu án millilendingar í ríkissjóði. Því er með öðrum orðum trúað að fólk fari ekki endilega verr með fjármuni sína en þeir forystumenn sem það kýs á fjögurra ára fresti til að sinna löggjafarstörfum fyrir sína hönd. Í mínum huga er enginn vafi á að það traust er á gildum rökum reist." Var ánægjulegt að fá að heyra þessi orð hans um skattalækkanir. Að lokum minntist Davíð á að þetta væri í síðasta skipti sem hann ávarpaði þjóðina á gamlárskvöldi. Hefur hann þrettán ár í röð ávarpað þjóðina og setið lengur en nokkur annar á stóli forsætisráðherra.



Í góðum pistli á frelsinu í dag fjalla Kristinn og Snorri um áramótin og hvernig frelsið þróaðist á árinu. Orðrétt segja þeir: "Í upphafi ársins 2004 er vert að huga að þeim verkefnum sem eru framundan. Rétt er að auka frelsi einstaklinganna til orðs og æðis. Tekjuskatta á einstaklinga er brýnt að lækka og er ánægjulegt að heyra að breytingar á þá átt séu væntanlegar næstu misserin. Líf hátekjuskattsins var engu að síður framlengt. Var það miður enda leggst sá skattur á dugmikið fólk sem þarf á tekjunum að halda og veldur óhagræði við framkvæmd skattheimtu. Þá er rétt að huga að afnámi sjómannaafsláttarins. Fari það fram samhliða almennum skattalækkunum er líklegt að aðgerðin heppnist án þess að nokkur þurfi að vera ósáttur með sitt. Eignaskattar er rétt að afnema sem og erfðafjárskatt. Er ánægjulegt að sjá að vilji er fyrir því að lækka erfðafjárskatt. Stimpilgjöld þarf einnig að afnema sem og lækka virðisaukaskatt." Að lokum segja þeir: "Vonandi verður árið 2004 til þess að auka frelsi einstaklinganna. Svo sem upptalningin hér að ofan ber með sér eru verkefnin ærin. Einnig er framundan merkisafmæli eins af stærri áföngum sjálfstæðisbaráttu Íslendinga; 100 ára afmæli heimastjórnar. Þjóðfrelsis barátta Íslendinga var ekki síður barátta fyrir einstaklingsfrelsi. Fer vel á því að huga sérstaklega að frelsi einstaklingsins á þessum merkisafmæli." Góð grein hjá þeim, margt athyglisvert sem þarna kemur fram. Hvet alla til að lesa pistil þeirra.

Venju samkvæmt var horft á áramótaþættina af miklum áhuga. Í hádeginu á gamlársdag var áramótaþáttur Silfurs Egils. Þar komu margir góðir gestir og fóru yfir helstu atburði ársins. Horfði ég klukkan eitt á fréttir Sjónvarpsins en þar var ítarleg umfjöllun um ráðherraskiptin og gott viðtal við Þorgerði Katrínu Gunnarsdóttur menntamálaráðherra, þar sem hún fór yfir hvað hún teldi mikilvægast að gera á ráðherrastóli á næstu mánuðum. Um tvöleytið fór ég að horfa á Kryddsíld Stöðvar 2. Þar voru leiðtogar flokkanna gestir venju samkvæmt. Spjallið þar var mjög líflegt og skemmtilegt. Farið var yfir helstu fréttir ársins á innlendum vettvangi og eins og nærri má geta var mest rætt um kosningabaráttuna og úrslit kosninganna 10. maí sl. Klukkan þrjú skipti ég yfir á Aksjón og horfði á áramótaþátt stöðvarinnar, Gaffalbita. Þar tóku Hilda Jana, Óskar Þór og Þráinn á móti góðum gestum. Í lokin var rætt við bæjarstjóra og Óskar Pétursson, það var einkar skemmtilegt spjall, þar sem rætt var um pólitík og tónlist. Um kvöldið var horft á ávarp forsætisráðherra og annálana. Áramótaskaupið var mjög gott, margir góðir punktar. Þó ekki eins gott og seinustu tvö ár þó. Atriðið um litlu stúlkuna með yfirlýsingarnar stóð uppúr. Á nýársdag var horft á ávarp forsetans, gamlar og góðar kvikmyndir. Um kvöldið horfðum ég og fleiri á Opinberun Hannesar. Skemmtilegur húmor og góð mynd.

Á gamlársdag birtust á kvikmyndir.com listar yfir bestu kvikmyndir ársins af þeim sem skrifa á vefinn. Voru það ég, Guðjón Helgason, Jón Hákon Halldórsson, Hjörleifur Pálsson, Hallur Örn Jónsson og Sigurður Guðmundsson sem komum með álit okkar á hvaða myndir hefðu skarað fram úr á árinu. Á mínum topp 10 lista sem ég setti saman annan dag jóla voru eðalmyndir: The Lord of the Rings: Return of the King, Kill Bill: Vol. 1, The Pianist, Mystic River, Pirates of the Caribbean, Love Actually, Matrix Revolutions, The Hulk, X Men 2 og Chicago. Næstar komu: Adaptation, The Hours, Phone Booth, Matchstick Men, Identity, Dogville, Master and Commander: The Far Side of the World, About Schmidt, Catch Me If You Can og Sweet Sixteen. Hóf ég skrif á kvikmyndir.com á árinu. Mun ég auka þau skrif enn meira, mun skrifa bæði á næstunni um Golden Globe verðlaunin og Óskarsverðlaunin, helstu kvikmyndaverðlaun samtímans. Áfram munu birtast á vefnum ítarlegar leikstjóragreinar, er ég að vinna núna að tveim greinum sem birtast í þessum mánuði. Það er gott að vera hluti af góðum hópi á vefnum.
Vefur dagsins
Í dag bendi ég á Vef-Þjóðviljann. Þar eru skemmtileg skrif og á gamlársdag birtist þar skemmtilegt áramótauppgjör. Magnaður vefur.
Snjallyrði dagsins
Frelsið hefur reynst íslensku þjóðinni sá styrkur og aflgjafi, sem hún getur síst án verið. Vitneskja um þessa staðreynd á ekki að vera okkur fjarlægur fróðleikur, heldur verður hún að vera leiðavísir, sem við megum aldrei gleyma á allri okkar lífssögu.
Dr. Bjarni Benediktsson forsætisráðherra og formaður Sjálfstæðisflokksins (1908-1970)
Breytt 18.9.2006 kl. 08:02 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
31.12.2003 | 06:32
Engin fyrirsögn

Tómas Ingi Olrich lét af embætti sem menntamálaráðherra á ríkisráðsfundi á Bessastöðum, laust fyrir hádegið í dag. Hefur Tómas verið menntamálaráðherra frá 2. mars 2002, eða tæp 2 ár. Tómas hefur jafnframt beðist lausnar frá þingmennsku frá og með morgundeginum, 1. janúar 2004, eftir tæplega 13 ára setu á þingi, fyrir Norðurlandskjördæmi eystra og Norðausturkjördæmi. Tekur Arnbjörg Sveinsdóttir sæti hans á þingi. Á ráðherraferli sínum hefur Tómas Ingi unnið ötullega að styrkingu menntunar og framþróun hennar. Meðal þess sem gert hefur verið í hans tíð er þróunarskólaverkefni sex skóla til þróunar nýjunga í kennsluháttum, ný vefgátt - Menntagátt, bókasafnskerfi fyrir öll bókasöfn landsins, upplýsingakerfið Inna fyrir framhaldsskóla (stjórnunar- og upplýsingatæki fyrir kennara og skólastjórnendur), háhraðanet fyrir framhaldsskóla og símenntunarmiðstöðvar, sérstakt átak í uppbyggingu menntunar og menningar í upplýsingatækni á landsbyggðinni og stofnun framhaldsskóla á Snæfellsnesi og háskólasetur á Austurlandi. Framundan eru miklar breytingar hjá sjálfstæðismönnum í Norðausturkjördæmi á næstu árum, einkum og sér í lagi með brotthvarfi Tómasar Inga sem eins af okkar öflugustu forystumönnum. Hvernig það skarð verður fyllt mun tíminn einn leiða í ljós. Tómas Ingi hefur unnið af krafti fyrir okkar kjördæmi og víða sést hér afrakstur verka hans. Vil ég þakka persónulega Tómasi fyrir gott samstarf seinustu ár og óska honum og eiginkonu hans, Nínu Þórðardóttur, velgengni í störfum á nýjum vettvangi.


Árið 2003 er liðið í aldanna skaut. Að baki er eftirminnilegt ár fyrir margra hluta sakir. Þess verður í framtíðinni minnst t.d. sem hatramms kosningaárs þar sem öllum brögðum var beitt í kraftmikilli kosningabaráttu hérlendis, vegna mútumáls (sem deilt var um hvort hefði verið í alvöru eða hálfkæringi), kaupréttarsamninga, brúðkaups á Bessastöðum, eftirlaunafrumvarps, er Ingibjörg Sólrún varð varaþingmaður og óbreyttur borgarfulltrúi eftir að hafa fórnað borgarstjórastóli, endaloka valdaferils Saddams Husseins (sem eftir innrás bandamanna og 8 mánaða flótta var handtekinn), olíumálsins, er Schwarzenegger varð ríkisstjóri í Kaliforníu, staða Blairs veiktist, er hvalveiðar voru leyfðar að nýju, er R-listinn hækkaði gjaldskrá OR vegna hækkandi hita, öryrkjamála, línuívilnunar og þegar Jón í Skífunni seldi allt sitt hérlendis. Í tilefni áramótanna er tilefni til að líta yfir nokkra hápunkta ársins 2003. Vonandi verður árið 2004 jafn viðburðaríkt og spennandi fréttaár eins og árið 2003. Óska ég lesendum vefsins farsældar á nýju ári og þakka þeim fyrir að lesa pistla mína og líta á vefinn á liðnu ári.

Við áramót er litið yfir sviðið og spurt hver sé maður ársins, hver skaraði framúr og stendur hæst þegar nýtt ár tekur við. Það er enginn vafi í mínum huga að Davíð Oddsson forsætisráðherra, sé sá sem þann heiður eigi að hljóta að þessu sinni. Á þessu ári var reynt af óvönduðum aðilum að ráðast að mannorði hans og notað til þess málgögn auðhringa á fjölmiðlamarkaði. Stjórnmálaflokkur og forsætisráðherraefni hafði ekkert málefni annað í kosningabaráttunni en níða persónu hans og dylgja um starfsaðferðir hans með undarlegum hætti. Atlaga auðhrings og stjórnmálaflokks honum velviljuð að honum mistókst eftirminnilega í kjölfar kosninganna í maí. Stóð mestu að sjálfstæðismenn stóðu þétt saman og þjóðin treysti flokknum fyrir því að vera stærstum áfram í íslenskum stjórnmálum. Í kjölfarið færði Davíð fórn fyrir flokk sinn, að halda áfram samstarfi í ríkisstjórn og ákveða að víkja sjálfur af stóli forsætisráðherra, 15. september 2004. Davíð er án vafa maður ársins, hann er sá stjórnmálamaður sem bæði er elskaður og hataður, umdeildur og stendur í fararbroddi í stjórnmálum á Íslandi seinustu áratugi.

Í dag er áramótablær yfir frelsi.is. Þar birtist áramótauppgjör í borgarmálum og á landsvísu. Í góðum pistli fer Heiðrún Lind yfir árið í borgarmálum og fer yfir hvernig R-listinn hefur stjórnað borginni á þeim tíma. Orðrétt segir hún: "Eins og sjá má af pistli þessum, sem sannanlega hefði getað verið lengri, fögnuðum við Reykvíkingar nýju ári með óhóflegri skuldasöfnun og endum árið á sömu leið. Þetta er sorgleg þróun. Engum ætti að dyljast að tími er kominn til að pakka saman veikbyggðu R-listatjaldinu sem heftir framþróun í borginni og eykur skattbyrði Reykvíkinga með hverju nýju ári." Hvet alla til að líta á þennan góða pistil. Í tilefni áramóta tók ritnefnd vefsins saman áramótauppgjör frelsi.is fyrir árið 2003. Var virkilega gaman að vinna með Ragnari, Kristni, Snorra, Heiðrúnu og öðrum ritnefndarfulltrúum að þessu áramótauppgjöri. Er útkoman að mínu mati mjög skemmtileg. Vefurinn hefur eflst mjög á þessu ári, er það mikið ánægjuefni. Framundan er nú á nýju ári að efla og styrkja vef Sambands ungra sjálfstæðismanna. Mun ég stjórna honum og ennfremur hinum nýju SUS-fréttum. Hlakka ég til samstarfs við unga hægrimenn á árinu í gegnum þá vinnu. Ég mun leggja mig allan fram í þá vinnu.
Vefur dagsins
Ráðherraskipti urðu í dag í menntamálaráðuneytinu, eins og fyrr er getið. Í dag bendi ég því á vef menntamálaráðuneytisins. Þar eru fréttir og tilkynningar tengdar ráðuneytinu og æviágrip Þorgerðar Katrínar Gunnarsdóttur menntamálaráðherra
Snjallyrði dagsins
Nú árið er liðið í aldanna skaut,
og aldrei það kemur til baka,
nú gengin er sérhver þess gleði og þraut,
það gjörvallt er runnið á eilíðar braut,
en minning þess víst skal þó vaka.
Ó, gef þú oss, Drottinn, enn gleðilegt ár
og góðar og blessaðar tíðir.
Gef himneska dögg gegnum harmanna tár,
gef himneskan frið fyrir Lausnarans sár
og eilífan unað um síðir.
Valdimar Briem.
Breytt 18.9.2006 kl. 08:02 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
30.12.2003 | 21:19
Engin fyrirsögn

Samkvæmt skoðanakönnun eru þau George W. Bush forseti Bandaríkjanna, og Hillary Rodham Clinton, öldungadeildarþingmaður demókrata í New York og fyrrum forsetafrú, þær manneskjur sem flestir Bandaríkjamenn líta upp til og virða. Fram kemur að 29% segjast virða Bush mest en 16% Hillary Clinton. 7% nefndu þáttagerðarkonuna Opruh Winfrey, 6% Lauru Welch Bush forsetafrú og 4% þau Condoleezzu Rice þjóðaröryggisráðgjafa Bandaríkjastjórnar, Colin Powell utanríkisráðherra, og Jóhannes Pál páfa II. 3% aðspurðra nefndu Bill Clinton, fyrrverandi forseta Bandaríkjanna. Er ljóst af þessari könnun að bæði Bush og Clinton standa sterk meðal landsmanna og hægt að lesa út úr þessu góða stöðu forsetans, nú þegar kosningaár er framundan. Kosið verður 2. nóvember nk. og bendir flest til þess nú að Bush og Howard Dean muni takast á þá. Forkosningar hefjast brátt og það mun sennilega ráðast mjög fljótt hver leiðir demókrata í kosningunum. 9 frambjóðendur sækjast þar eftir útnefningunni og þeim mun fækka hratt þegar líður á febrúarmánuð. Framundan er spennandi kosningabarátta í Bandaríkjunum.



Í dag birtist pistill Mæju um ríkið og hjónaband. Kemur þar margt athyglisvert fram. Orðrétt segir hún: "Þegar athyglin beinist að réttindum minnihlutahópa snýst spurningin ekki um hvort ríkið eigi að leyfa þeim hitt eða þetta, heldur hvort það eigi yfir höfuð að skipta sér af slíkum málum. Hlutverk ríkisins er aðeins það að tryggja öryggi og réttindi fólks óháð kyni, kynhneigð o.s.frv. Árið 1996 samþykkti Alþingi lög um að staðfesta sambönd fólks af sama kyni. Staðfesting samvistar hefur, með vissum undantekningum, sömu réttaráhrif og stofnun hjúskapar. Í 4. grein laga nr. 87 frá árinu 1996 kemur fram að sýslumenn og löglærðir fulltrúar þeirra framkvæma staðfestingu á samvist. Vilji sjálfstæð kirkja eins og Fríkirkjan eða prestur staðfesta samvist tveggja einstaklinga af sama kyni þá yrði það ekki virt að lögum eins og önnur hjónabönd. Það er ekki hlutverk ríkisins að kveða á um að eingöngu tiltekin sambúðarform séu jafngild hjónabandi. Fólki ætti að vera frjálst að staðfesta samband sitt með gildum samningi sín á milli, hvort sem slíkur samningur er staðfestur af fulltrúum hins opinbera eða ekki."

Ítarlegur áramótaþáttur Kastljóss var í gærkvöldi. Þar litu Kristján, Sigmar og Svanhildur yfir fréttir ársins og voru með vandaða umfjöllun um árið 2003 sem brátt er á enda. Komu margir góðir gestir til að ræða atburði ársins, þau Björn Ingi Hrafnsson, Guðmundur Árni Stefánsson, Illugi Gunnarsson, Kolbrún Halldórsdóttir, Gunnar Smári Egilsson, Ásta Möller, Steingrímur Ólafsson og Sigurður G. Guðjónsson. Mest var rætt um hatramma kosningabaráttu fyrir alþingiskosningar og fjölmiðlun á árinu. Virkilega góður þáttur og lífleg skoðanaskipti sem þarna voru.
Vefur dagsins
Í dag bendi ég á myndaannál fréttavefs Morgunblaðsins þar sem eru nokkrar ógleymanlegar svipmyndir ársins 2003.
Snjallyrði dagsins
Oft eru flögð undir fögru skinni.
Eyrbyggja saga
Breytt 18.9.2006 kl. 08:02 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
29.12.2003 | 09:07
Engin fyrirsögn

Anna Lindh fyrrv. utanríkisráðherra Svíþjóðar, var myrt í septemberbyrjun. Var ráðist á hana með hnífi í verslunarmiðstöð í miðborg Stokkhólms og lést hún af sárum sínum. Var fráfall hennar einn sorglegasti atburður ársins á Norðurlöndum. Morðið á Önnu Lindh var bæði skelfileg aðför að lýðræðinu og áminning um að bæta öryggisgæslu stjórnmálamanna á Norðurlöndum. Fljótlega eftir morðið var Mijailo Mijailovic handtekinn, grunaður um morðið á utanríkisráðherranum. Um helgina var tilkynnt að réttarhöld yfir honum verða send beint í sjónvarpsstöðinni TV4 plus. Er þetta í fyrsta skipti sem útvarpað er beint frá sænskum réttarhöldum en aðeins hljóðið verður sent út þar sem bannað er samkvæmt lögum að taka myndir í sænskum réttarsölum. Réttarhöldin munu sennilega hefjast 14. eða 15. janúar 2004 og standa í rúma viku. Munu útsendingar frá réttarhöldunum verða daglega frá klukkan 9 til 16:30 skv. sænskum vefmiðlum og munu sérfræðingar verða í sjónvarpssal til að fjalla um það sem gerist. Þá verða birtar teikningar úr réttarsalnum og önnur myndskeið sem tengist réttarhaldinu. Mikilvægt að málið fái þann endi að morðingi utanríkisráðherrans fái viðeigandi dóm, en það verði ekki sami skugginn yfir Svíum og morðið á Olof Palme 1986.



Í seinasta sunnudagspistli ársins 2003 fjalla ég um jólahátíðina og fór yfir þær bækur sem ég hef litið í yfir hátíðirnar. Var venju samkvæmt eytt jólunum í jólaboð, bókalestur og kvikmyndagláp. Varla var kveikt á tölvunni hátíðardagana og tekin sér algjör hvíld frá skrifum, uppfærði ég ekki bloggið í tæpa viku. Skrifaði ég sunnudagspistilinn að morgni sunnudags áður en ég hélt á skíði í góða veðrinu. Semsagt að þá var jólum eytt í rólegheitum og afslöppun. Las nokkrar góðar bækur og á eftir að fara yfir fleiri. Í pistlinum fjalla ég ennfremur um ráðherraskipti sem verða í menntamálaráðuneytinu á gamlársdag, Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir tekur þá við embætti af Tómasi Inga Olrich sem hættir í stjórnmálum eftir að hafa verið menntamálaráðherra í tæp 2 ár og alþingismaður Sjálfstæðisflokksins í tæp 13 ár.

Meistari spennunnar, Sir Alfred Hitchcock fæddist í London, 13. ágúst 1899. Hann var sonur kaupmannshjóna í borginni. Alfred var alinn upp sem strangtrúaður kaþólikki og gekk í kaþólikkaskóla í æsku. Hann vann ásamt öðrum fjölskyldumeðlimum í verslun föður síns fram á unglingsár, en árið 1915 hóf hann störf hjá Henley Telegraph and Cable Company. Á þessum árum vaknaði áhugi hans á kvikmyndum og kvikmyndagerð; hann fór oft í bíó og var dyggur lesandi fagrita um kvikmyndagerð. Árið 1920 fékk hann vinnu hjá kvikmyndaveri í London sem aðstoðarmaður leikstjóra. Árið 1922 fékk hann fyrsta leikstjórnarverkefni sitt upp í hendurnar. Með því hófst magnaður leikstjóraferill hans sem stóð í 55 ár. Meðal eftirminnilegustu mynda hans eru Psycho, Strangers on a Train, North by Northwest, Rebecca, Vertigo og Rear Window, svo nokkrar séu nefndar. Sir Alfred Hitchcock lést í Los Angeles, 29. apríl 1980, áttræður að aldri. Ferill Hitchcocks er einstakur. Hann var einn fremsti kvikmyndagerðarmaður 20. aldar. Meistari spennumyndanna, sannkallaður snillingur í að ná fram því besta frá leikurum sínum og skapa ógleymanlegar stórmyndir. Ég fjalla um feril þessa einstaka kvikmyndagerðarmanns í jólaleikstjóraumfjöllun sem birtist annan dag jóla á kvikmyndir.com.

Um jólin birtust nokkrar greinar á frelsinu. Á aðfangadag birtist pistill Kristins um Reykjavík og miðbæinn, voru það skemmtilegir punktar hans. Annan dag jóla birtist stuttur pistill minn um ráðherraskiptin á gamlársdag. Í dag birtist hinsvegar á frelsinu pistill eftir Atla Rafn um fasteignamarkaðinn. Orðrétt segir hann: "Stuðningur ríkisins við fasteignakaupendur er tvíþættur eins og staðan er í dag. Annars vegar er um að ræða ríkisábyrgð á fasteignalánum og hins vegar vaxtabætur til fasteignakaupenda. Öll greiðum við fyrir þennan stuðning með hærri sköttum og vöxtum þar sem bæturnar eru bein millifærsla og ábyrgðin gerir lánshæfismat ríkisins lakara. Nú bendir allt til að Framsókn, með blessun Sjálfstæðisflokksins, auki stuðning ríkissins við fasteignakaupendur þar sem stefna ríkisstjórnarinnar er að hækka hámarksfjárhæð og hámarkslánshlutfall vegna fasteignakaupa á kjörtímabilinu."
Vefur dagsins
Í dag bendi ég öllum á vef Verslunarráðs Íslands. Þar er mikið af skemmtilegum fréttum og góðu efni.
Snjallyrði dagsins
Að kveldi skal dag lofa.
Hávamál
Breytt 18.9.2006 kl. 08:02 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
23.12.2003 | 23:58
Engin fyrirsögn

Í dag hef ég verið á fullu við að klára jólaundirbúninginn. Veðrið hér norðan heiða hefur verið gott síðasta sólarhringinn, hlýnaði verulega eftir smá kuldahroll. Sýnist á veðurspánum þó að það kólni á morgun, aðfangadag og því verði hvít jól allavega hér eða um mestallt land. Þetta ræðst allt. Fór í dag í búðir við að klára að kaupa það sem eftir er. Að mestu var ég þó búinn að því sem gera þurfti fyrir jólin í byrjun mánaðarins. Jólaundirbúningurinn hefst venju samkvæmt hjá okkur mánuði fyrir jól með laufabrauðsgerð. Um mánaðarmótin er húsið alveg skreytt og skrifað á jólakort. Að því loknu keyptar gjafir. Í gær var farið að kaupa jólamat og klára tvær gjafir sem ég vildi bæta við. Var gríðarlegur fjöldi að versla í gær og nóg um að vera. Hitti maður mikinn fjölda fólks sem maður þekkir og átti gott spjall. Fórum við nokkur á Greifann og fengum okkur að borða um kvöldið þegar allt var búið. Þetta var annasamur en góður dagur. Jólalegt er orðið hér í bænum og mikil jólastemmning. Næsta blogg verður mánudaginn 29. desember, eftir jóladagana. Ég vona að þið eigið öll góða og gleðilega jólahátíð.

Alltaf er jafnmikill kraftur á frelsinu, þar verður ekki farið í jólafrí, heldur skrifað af krafti alla jóladagana. Verð ég með pistil þar á öðrum degi jóla og fjalla um mál sem verður mikið í fréttum um áramótin. Í dag birtist hinsvegar á frelsinu, um sjávarútvegsmál, nánar tiltekið breytingar á fiskveiðistjórnun sem samþykkt voru nýlega. Orðrétt segir Snorri: "Með lögunum er áskilið að áður en aflaheimildum er skipt á grundvelli aflahlutdeildar skuli draga frá heildarafla áætlaðan afla sem ?ráðstafað" er til línuívilnunar. Með öðrum orðum gerir frumvarpið ráð fyrir því að tekið sé frá handhöfum aflahlutdeilda og fært til þeirra sem uppfylla sérstök skilyrði. Þetta er ekki ósvipað því að gefa út leyfi til leigubílaaksturs án endurgjalds fyrir ljóshært fólk á meðan aðrir þurfa að greiða fyrir slíkt leyfi. Lagabreytingin er þannig ósanngjörn. Þá stuðlar aukin sérgæska stjórnmálamanna að því að stoðir kerfisins verða veikari. Með hverju tonni sem stjórnmálamenn taka af handhöfum aflahlutdeilda verður staða þeirra ótryggari, skipulagning erfiðari og hvatinn til að standa sig minni. Þá er ljóst að gerðar breytingar munu leiða til þess að fiskurinn verður veiddur af aðilum sem ekki reka jafn hagkvæma útgerð og þeir sem fóru með aflaheimildirnar áður." Sammála Snorra félaga mínum, í þessu máli sem flestum öðrum.

Ein besta jólamynd allra tíma er hin sígilda kvikmynd George Seaton, Miracle on 34th Street. Segir frá því er gamall maður að nafni Kris Kringle, fer að vinna sem jólasveinn í stórmarkaði. Segist hann vera hinn eini sanni jólasveinn. Er hann þarmeð talinn galinn og hann verður að sanna hver hann er fyrir dómstólum. Einstaklega hugljúf mynd sem skartar Edmund Gwenn, Natalie Wood, Maureen O'Hara og Thelmu Ritter í aðalhlutverkum. Gwenn hlaut óskarinn 1947 fyrir magnaðan leik sinn í hlutverki hins hugljúfa manns. Þessi kemur alltaf í gott jólaskap, skylduáhorf að mínu mati á jólum. Myndin var endurgerð árið 1994. Þar voru Sir Richard Attenborough, Mara Wilson, Dylan McDermott og Elizabeth Perkins í aðalhlutverkum. Tókst vel upp, en stenst hinni eldri ekki snúning. Hún er alveg einstök. Bendi ennfremur á stuttan pistil minn um jólamyndirnar sem birtist í gær á kvikmyndir.com. Vonandi eigið þið góð bíójól og horfið á góðar myndir um jólin heima og í kvikmyndahúsum, nóg af úrvalsefni er í boði hjá sjónvarpsstöðvunum og kvikmyndahúsunum.
Vefur dagsins
Í dag bendi ég öllum á vef Þjóðkirkjunnar. Ég hyggst venju samkvæmt fara í jólamessu og vona að fleiri geri það. Það er nauðsynlegt að fara í messu á hátíð ljóss og friðar.
Snjallyrði dagsins
Hátíð fer að höndum ein
hana vér allir prýðum
lýðurinn tendri ljósin hrein
líður að tíðum
líður að helgum tíðum
Gerast mun nú brautin bein
bjart í geiminum víðum
ljómandi kerti á lágri grein
líður að tíðum
líður að helgum tíðum
Jóhannes úr Kötlum (jólasálmurinn Hátíð fer að höndum ein)
Breytt 18.9.2006 kl. 08:02 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
22.12.2003 | 19:24
Engin fyrirsögn

Í dag er ég 26 ára gamall. Árin líða orðið heldur betur hratt. Í dag hef ég fengið mörg símtöl frá vinum og kunningjum, góðar kveðjur á MSN, góðar óskir og gjafir frá þeim sem ég þekki og eru mér nákomnir. Það er alltaf gaman að finna fyrir góðum straumum og því að fólk muni eftir manni. Það er alltaf jafn ánægjulegt að finna fyrir því á degi sem þessum. Ég þakka öllum þeim sem mundu eftir deginum og góðum heillaóskum og kveðjum. Jafnframt þakka ég líka þeim sem sendu mér tölvupóst í tilefni dagsins. Jafnframt þakka ég þeim sem hafa litið við og komu í gær er ég hélt smá upp á daginn fyrir komuna og hugulsemina. Met ég mikils það að fólk hafi haft samband og rætt við mig í dag. Það var gaman að finna fyrir hlýjum kveðjum ykkar og því að þið skylduð muna eftir deginum.

Í gestapistli á heimasíðu minni í dag fjallar Björn Bjarnason dómsmálaráðherra, um málfrelsið og skinhelgi vinstrimanna þegar að því kemur. Orðrétt segir Björn í pistlinum: "Í ljósi þess hvernig nú er fullyrt af ýmsum, að ekkert sé sjálfsagðara og eðlilegra en Jón Ólafsson, kaupsýslumaður kenndur við Skífuna, skuli fara í meiðyrðamál við Davíð Oddsson, er skrýtið, að enginn rithöfundur gangi fram og telji þessa málshöfðun ganga of nærri málfrelsinu. Þvert á móti hlustaði ég að morgni laugardagsins 20. desember á tvo rithöfunda í þætti Þorfinns Ómarssonar á Rás 1, hljóðvarps ríkisins, bera blak af Jóni og hallmæla Davíð. Þar fóru þau Guðrún Helgadóttir, fyrrverandi þingmaður Alþýðubandalagsins, og Einar Kárason, einn af hvatamönnum þess, að Ingibjörg Sólrún Gísladóttir lét að sér kveða í borgar- og síðar að nýju landsmálapólitíkinni. Sérstaklega kom mér á óvart, að hlusta á Einar Kárason, því að í febrúar árið 1995 stóð hann að því með Thor Vilhjálmssyni og fleiri rithöfundum auk Lúðvíks Geirssonar, þáverandi formanns Blaðamannafélags Íslands og núverandi bæjarstjóra í Hafnarfirði, að stofna Málfrelsissjóð og rita undir ávarp, þar sem skorað var á alþingi að setja prentfrelsislöggjöf og ný meiðyrðalög. Var markmið hópsins að rýmka tjáningarfrelsið og milda meiðyrðalöggjöfina til að auðvelda fólki að segja skoðun sína á mönnum og málefnum." Mjög athyglisverður pistill hjá Birni.

Kvikmynd Frank Capra, It's a Wonderful Life er ein þekktasta fjölskyldumynd 20. aldarinnar, gleðigjafi fyrir alla heimsbyggðina allt frá frumsýningardegi. Mynd sem kemur manni ávallt í sannkallað jólaskap. Hér segir frá George Bailey sem eyðir ævi sinni í að fórna lífsdraumum sínum til að vinna í haginn fyrir bæinn sinn, Bedford Falls, og að lokum sér tækifæri sín renna í súginn. Myndin gerist á aðfangadag og horfir hann yfir ævi sína, komið er að tímamótum, hann er niðurbrotinn maður og til alls líklegur þegar jólahátíðin gengur í garð. Hann er orðinn þreyttur á því hvaða stefnu líf hans hefur tekið og gæti gripið til örþrifaráða. Til bjargar kemur verndarengill hans, Clarence, til að reyna að sýna honum fram að án hans hefði bærinn aldrei verið samur og að hann á marga að, fjölskyldu og fjölda vina. Hann sýnir honum lífið eins og það hefði verið ef hann hefði aldrei komið til og vonast til að með því verði hægt að snúa hlutunum við. James Stewart á stórleik í hlutverki George, ein besta leikframmistaða ferils síns. Ennfremur fara Donna Reed, Lionel Barrymore, Thomas Mitchell, Beulah Bondi, Henry Travers og Ward Bond á kostum. Tilnefnd til fimm óskarsverðlauna, þ.á m. sem mynd ársins, fyrir leikstjórn og leik Stewart. Ómótstæðilegt meistaraverk, sem á jafnt við árið 2003 og 1946. Sígildur boðskapurinn á alltaf við.
Vefur dagsins
Í dag eru 2 dagar til jóla og það styttist óðum í jólahátíðina. Bendi því öllum að líta í dag á Jólavef Júlla. Það ættu allir að komast í sannkallað jólaskap með því að líta þangað.
Snjallyrði dagsins
Til góðs vinar liggja gagnvegir
Hávamál
Breytt 18.9.2006 kl. 08:02 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
21.12.2003 | 23:16
Engin fyrirsögn

Ráðuneyti heimavarna í Bandaríkjunum jók í dag viðbúnaðarstig vegna hryðjuverkahættu í "hátt" vegna aukinnar hættu á árás af hálfu hryðjuverkasamtakanna al Qaeda, sem réðust á New York og Washington með hryðjuverkum 11. september 2001. Tom Ridge ráðherra heimavarna í Bandaríkjunum, sagði í dag á blaðamannafundi að trúverðugar upplýsingar hefðu borist um að árás væri áformuð yfir jólahátíðarnar. Kom fram að hann teldi að hættan á hryðjuverkum hefði sennilega ekki verið meiri frá því hryðjuverkaárásirnar voru gerðar 2001. Eftir þær var komið á fót nýju fimm lita kerfi fyrir viðbúnað við hugsanlegum árásum. Viðbúnaðarstigið hefur verið gult frá því í maí en áður var það appelsínugult eða "hátt". Rauður litur er hinsvegar neyðarástand. Tónninn í Ridge var greinilega sá að þetta væri ekki bara hefðbundin áhætta, hér væri um rauverulega hættu á ferðum og nauðsynlegt að fara að öllu með gát. Hann hvatti Bandaríkjamenn til að láta þessar fregnir ekki hafa áhrif á sig, heldur halda sínu striki og halda jólin eins og þeir venjulega gerðu.


Að þessu sinni fjalla ég um eignarhald á fjölmiðlum í kjölfar þess að menntamálaráðherra ákvað að skipa nefnd til að fjalla um hvort setja þurfi lög um það. Mikilvægt er að fjölmiðlar séu í dreifðri eignaraðild. Ég tel persónulega rétt að setja hámark í eign á fjölmiðlamarkaði. Það er öllum hollt að vera settar leikreglur. Það frjálsræði sem komið hefur verið á má ekki misnota. Ég tel að með lagasetningu um hámarkseignaraðild á fjölmiðlum sé tryggt að samkeppni verði fest í sessi á markaðnum. Samkeppni er ávallt af hinu góða, ekki fákeppni. Ennfremur fjalla ég um málfrelsi forsætisráðherra, í kjölfar þess að hann var kærður fyrir ummæli um Jón Ólafsson fyrrum athafnamann á Íslandi. Að lokum fjalla ég um jólahátíðina sem framundan er og sendi jólakveðju til lesenda vefsins.

Fór síðdegis í gær suður á jólateiti SUS. Í flugvélinni á leiðinni sat ég við hlið Tómasar Inga Olrich menntamálaráðherra, sem var á leið suður eftir að hafa undirritað ásamt Kristjáni Þór Júlíussyni bæjarstjóra, endurnýjaðan samstarfssamning ríkis og Akureyrarbæjar í menningarmálum fyrir árin 20042006. Fórum við yfir ýmis mál á leiðinni. Er suður var komið hitti ég nokkra vini og ræddum saman mörg mál. Jólateitið hófst kl. 20:00. Aðalgestur þar var Geir H. Haarde fjármálaráðherra. Var góður matur og fín stemmning allt kvöldið og gott spjallið. Yfir borðhaldinu var lesið úr tveim nýjum bókum. Jakob F. Ásgeirsson las úr bók sinni um Valtý Stefánsson ritstjóra, og Eggert Páll Ólason úr bókinni Kæfusögur. Geir flutti góða ræðu og fór yfir ýmis mál. Eftir gott borðhald á Apótekinu var haldið út á lífið og skemmt sér vel. Þetta var virkilega gott kvöld.
Vefur dagsins
Í dag eru þrír dagar til jóla og jólastemmningin að ná hámarki, nú þegar styttist í hátíð ljóss og friðar. Í dag bendi ég á hinn góða jólavef, jol.is. Góður og efnisríkur vefur.
Snjallyrði dagsins
Af reynslunni lærði ég, að enginn lærir neitt af reynslunni.
George Bernard Shaw
Breytt 18.9.2006 kl. 08:02 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
20.12.2003 | 07:21
Engin fyrirsögn

Moammar Gaddafi leiðtogi Líbýu, staðfesti í gær loks að land hans hafi reynt að þróa gereyðingarvopn. Jafnframt tilkynnti hann að Líbýa ætli að hætta öllum slíkum áætlunum án tafar. Það var Tony Blair forsætisráðherra Bretlands, sem upplýsti þetta í gærkvöldi. George W. Bush forseti Bandaríkjanna, sagði á blaðamannafundi í Hvíta húsinu í gærkvöld að Líbýa muni heimila vopnaeftirlitsmönnum að skoða öll vopnabúr í landinu. Kom fram í máli forsetans að þetta væri mjög þýðingarmikið skref í þá átt að koma í veg fyrir útbreiðslu gereyðingarvopna og berjast jafnframt gegn hryðjuverkastarfsemi í heiminum. Sagði hann að Líbýa væri með þessu á leið inn í samfélag annarra þjóða. Taldi forsetinn það vera nauðsynlegt að aðrir þjóðarleiðtogar fylgdu fordæmi Gaddafis. Er almennt talið að þessi ummæli hans hafi verið óbein viðvörun til leiðtoga Írans og Norður-Kóreu. Kom fram á blaðamannafundum leiðtoganna að Bretland og Bandaríkin hefðu átt í viðræðum við stjórnvöld í Líbýu í 9 mánuði. Sagði breski forsætisráðherrann að Líbýumenn hefðu haft samband við Breta í mars, skömmu eftir að deilan um Lockerbie-sprenginguna var leyst, og vildi kanna hvort hægt væri að leysa deiluna um gereyðingarvopn með sama hætti.

Gaman var sem fyrr að horfa á Idol - stjörnuleit í gærkvöldi. Um var að ræða þriðja þátt úrslitanna í Smáralind, þann seinasta fyrir jól. 6 þátttakendur voru eftir, en síðast var Rannveig send heim eftir kosningu. Þema kvöldsins var Stuðmenn og þeirra magnaða tónlist hljómaði. Gestadómari kvöldsins var Stuðmaðurinn Egill Ólafsson. Tóku keppendurnir 6 ódauðleg lög Stuðmanna. Helgi Rafn var með Bíólagið, Ardís með Strax í dag, Karl með Slá í gegn, Anna Katrín með Ofboðslega frægur, Jón með Fljúgðu og Tinna Marína með Betri tíð. Allt flott lög. Strákarnir stóðu sig ekki nógu vel, sérstaklega voru Helgi og Jón afar slappir. Stelpurnar hinsvegar glönsuðu. Anna Katrín og Ardís stóðu algjörlega uppúr þessum hóp þetta kvöldið. Þegar kom að því að tilkynna þrjá neðstu kom í ljós að það voru strákarnir sem lentu í því núna, þeir Kalli, Jón og Helgi Rafn. Kom það í hlut Helga Rafns að halda heim. Fannst mér það rétt val hjá þjóðinni, enda hann ekki alveg að gera þetta nógu vel. Hægt er að líta á frammistöður þeirra og dæma af því. Framundan eru spennandi 5 manna úrslit föstudaginn 2. janúar 2004, og þá mun aftur fækka um einn í hópnum.

Horfði í gærkvöld enn eitt skiptið á hina stórfenglegu kvikmynd Romans Polanski, The Pianist. Hér segir frá ótrúlegu lífshlaupi pólska píanóleikarans Wladyslaw Szpilman (Adrien Brody) og hvernig honum, með dyggri aðstoð pólsku andspyrnuhreyfingarinnar og ennfremur tilviljun og hreinni heppni tókst að leynast fyrir nasistunum meginhluta stríðsins 1939-1945. Myndin fjallar um hernám Póllands 1939 og hvernig nasistar fóru með Pólverja í stríðinu, niðurlægðu þá og sviptu þá öllum mannréttindum, fluttu í útrýmingarbúðirnar þar sem þeim var þrælað eins og skepnum og að lokum murkað úr þeim líftórunni. Átakanlegt er að horfa á mikilfengleika þessa verks og hversu vel þetta er fært í kvikmyndabúning. Roman Polanski hefur aldrei farið troðnar slóðir í kvikmyndagerð á sínum ferli og þótt mistækur, átt bæði ógleymanleg meistaraverk og miðlungsmyndir. Hér er hann hinsvegar kominn með mynd ferils síns, hefur augljóslega lagt allt sitt í verkið og uppsker ríkulega eftir því. Hann hlaut leikstjóraóskarinn fyrir sitt magnaða verk. Öll umgjörð myndarinnar er stórfengleg; tónlist, handrit, framleiðsla og klipping - allt í fyrsta flokks klassa. Einstök mynd, sem lætur engan ósnortinn.
Vefur dagsins
Í dag bendi ég öllum á hinn magnaða kvikmyndavef, filmsite.org. Þar eru upplýsingar um allt sem tengist kvikmyndum; listar yfir eftirminnilegustu kvikmyndaatriði sögunnar, bestu leikframmistöðurnar og listar yfir bestu kvikmyndir 20. aldarinnar svo nokkur dæmi séu nefnd. Fróðleiksnáma fyrir kvikmyndaáhugamenn.
Snjallyrði dagsins
Fasten your seat belts, it's going to be a bumpy night.
Margo Channing í All About Eve (1950)
Breytt 18.9.2006 kl. 08:02 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
19.12.2003 | 23:54
Engin fyrirsögn

Tómas Ingi Olrich menntamálaráðherra, skipaði í dag nefnd samkvæmt samþykkt ríkisstjórnarinnar á fundi í morgun, sem á að fjalla um hvort þörf sé á lagasetningu um eignarhald á fjölmiðlum. Í henni eiga sæti Karl Axelsson hæstaréttarlögmaður, Guðmundur Heiðar Frímannsson, deildarforseti Kennaradeildar Háskólans á Akureyri, Pétur Gunnarsson blaðamaður, og Davíð Þór Björgvinsson, lagaprófessor við Háskólann í Reykjavík. Nefndin á að skila greinargerð og tillögum til Þorgerðar Katrínar Gunnarsdóttur verðandi menntamálaráðherra, fyrir 1. mars nk. Verði niðurstaðan sú að lagasetning sé æskileg verður nefndinni falið að semja frumvarp um málið sem lagt yrði fram einhverntímann á árinu 2004. Mikil umræða hefur átt sér stað um eignarhald á fjölmiðlum, einkum eftir að Jón Ásgeir Jóhannesson einn aðaleigenda í Frétt ehf sem gefur út Fréttablaðið og DV, keypti meirihluta í Norðurljósum af Jóni Ólafssyni. Sagði forsætisráðherra í dag rétt að huga að því að kanna hvort setja eigi reglur um eignarhald fjölmiðla. Verður athyglisvert að fylgjast með því hvað nefnd menntamálaráðherra kemur til með að segja um þetta mál.



Í dag birtist á frelsinu athyglisverður pistill Hjölla um málefni reykingamanna eða umræðu um frelsi þeirra. Orðrétt segir hann: "Vissulega er ákveðin hætta sem fylgir því að reykja, bæði fyrir reykingamennina sjálfa og einnig nærstadda. En er réttlætanlegt að banna reykingar af þeim sökum? Staðreyndin er sú að það eru óteljandi hlutir í samfélaginu sem skapa hættu. Er t.d. réttlætanlegt að banna bíla, þar sem ákveðin hætta er á því að fólk slasist eða látist, hvort sem það er undir stýri sjálft eða bara nærstatt þegar slys á sér stað? Er ekki alveg eins réttlætanlegt að banna mönnum að sækja sjóinn, eða ferðast með flugvélum?" Að lokum segir hann: "Staðreyndin er sú að ef allt væri bannað sem getur valdið fólki skaða, færi fólk varla út fyrir hússins dyr. Þeir sem kalla sem hæst eftir boðum og bönnum gleyma hins vegar alltaf að taka með í reikninginn þann gríðarlega skaða sem sífelld skerðing á einstaklingsfrelsinu veldur fólki." Ennfremur er á frelsinu athyglisverð umfjöllun um viðtal við forsætisráðherra í tímaritinu Vísbendingu.

Horfði í gærkvöldi enn og aftur á hina mögnuðu kvikmynd Michael Mann, Heat. Án nokkurs vafa ein af allra bestu spennumyndum tíunda áratugarins þar sem óskarsverðlaunaleikararnir Al Pacino og Robert De Niro mætast og sýna magnaðan úrvalsleik. Ef einhver mynd verðskuldar lýsingarorðið frábær, þá er það þessi mynd. Hér segir af Neil McCauley (De Niro) en hann er eitursnjall atvinnuglæpamaður. Hann hefur ásamt mönnum sínum, Chris, Michael og Nate lagt á ráðin með nokkur afar kunnáttusamleg og hátæknileg rán víðsvegar um gervalla Los Angeles. Snilli þessara rána felst ekki síst í því að McCauley og menn hans skilja ekki eftir sig nein spor sem geta komið upp um þá og því síður sannað eitt né neitt. Vincent Hanna (Pacino) er rannsóknarlögreglumaður í rán- og morðdeild í L. A. Einkalíf hans er rjúkandi rúst enda kemst ekkert annað að í huga hans en starfið. En hann er ekki síður snjall en McCauley og með hjálp sinna manna og uppljóstrara í borginni tekst honum smám saman að þrengja netið í kringum glæpamennina. Áður en langt um líður verður ljóst að leiðir þessara ólíku manna eiga eftir að liggja saman svo um munar og þá verður ekki aftur snúið... Til uppgjörs hlýtur að koma, uppgjörs sem fáir munu lifa af. Skylduáhorf fyrir alla sem unna góðum spennumyndum og eru aðdáendur meistaranna tveggja!

Keypti um daginn nýjustu plötu strákanna í 200.000 naglbítum, Hjartagull. Á þessari plötu er að finna ný lög þeirra. Er þetta virkilega góð plata. Uppúr standa Hjartagull, Láttu mig vera og Sól gleypir sær. Mögnuð plata frá hinum norðlensku naglbítum sem verða alltaf betri og betri. Er að lesa þessa dagana Röddina eftir Arnald Indriðason, góð spennusaga eins og hinar fyrri bækur hans. Grafarþögn og Mýrin eru magnaðar bækur og Röddin ekki síðri. Er enginn vafi að Arnaldur er orðinn einn fremsti spennusagnahöfundur landsins. Sögurnar um Erlend lögreglumann eru einstakar perlur.
Vefur dagsins
Á hverjum degi er litið á Textavarpið, það er orðið órjúfanlegur hluti af deginum að fara þangað og líta á fréttir og fleira spennandi. Bendi í dag á Textavarpið á Netinu
Snjallyrði dagsins
Ég vildi ekki heyra hvað fólk segir um mig á bak. Ég yrði svo mikill á lofti.
Oscar Wilde
Breytt 18.9.2006 kl. 08:02 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
18.12.2003 | 23:59
Engin fyrirsögn

Í gær kom fram í fréttum að Jón Ólafsson fyrrum eigandi Norðurljósa, hafi ákveðið að stefna forsætisráðherra vegna ummæla sem hann viðhafði í fjölmiðlum fyrir nokkrum vikum. Þau féllu í kjölfar þess að upplýst var um kaupréttarsamning stjórnenda Kaupþings Búnaðarbanka við bankann. Í dómkröfu er þess krafist að tvenn ummæli verði dæmd dauð og ómerk. Annars vegar ummæli í viðtali í útvarpinu 21. nóvember og hinsvegar í Morgunblaðinu daginn eftir. Þar var í báðum tilvikum fjallað um fjármálaumsvif Jóns, meint skattsvik hans og aðgerðir íslenskra skattayfirvalda. Davíð sagði þar að kaupin á eignum Jóns sama dag sem tilkynnt var um að skattrannsókn um meint skattsvik hans væri lokið bæru þann brag að verið væri að kaupa og selja þýfi. Fer Jón fram á 3 milljóna króna skaðabætur vegna þessa. Davíð Oddsson forsætisráðherra segir að lítið sé eftir af málfrelsinu í landinu ef sér hafi verið óheimilt að viðhafa þau orð sem hann hafði um Jón. Tek ég undir þetta. Mikilvægt er að standa vörð um málfrelsi í landinu og finnst mér eðlilegt að stjórnmálamenn hafi skoðanir og geti tjáð þær. Ef marka má fordæmisgefandi dóma í svona málum er ólíklegt að málfrelsið verði skert til samræmis við það sem Jón vill.



Í pistli mínum á frelsinu í dag fjalla ég um handtökuna á Saddam Hussein og þau þáttaskil sem orðið hafa við þau í Írak. Eitt táknrænasta augnablik ársins 2003 var hiklaust þegar risastór stytta af Saddam Hussein var felld á Firdos-torgi í Bagdad, 9. apríl. Fyrr sama dag höfðu bandamenn náð borginni á sitt vald. Endi hafði verið bundinn á valdaferil Saddams sem ríkt hafði yfir Írak sem drottnari í hálfan þriðja áratug. Valdakerfi hans hrundi eins og spilaborg á nokkrum vikum í kjölfar innrásar bandamanna í marsmánuði. Ægivald hans á höfuðborginni Bagdad og íbúum hennar leið undir lok með dramatískum hætti í beinni útsendingu sjónvarpsstöðva er bandamenn felldu styttuna, táknrænt minnismerki um Saddam og Baath-flokkinn. Eins táknrænn og 9. apríl nokkru sinni var til að ljóst væri að valdaferill Husseins væri á enda, má eflaust telja 14. desember, ekki síður mikilvægan. Þá, eftir 8 mánaða flótta um landið eins og eldibrandur, var hinn illræmdi einræðisherra loks handsamaður. Fer ég yfir hvað taki við í íröskum stjórnmálum nú þegar forsetinn hefur verið handsamaður og hvað bíði hans, hvaða dóm hann fái fyrir voðaverki þá sem hann og stjórn hans stóð fyrir. Mikilvægt er að haldið verði í vegferð til frjáls Íraks og horft fram á veginn, nú þegar seinustu ummerki valdatíma Baath-flokksins hafa verið fjarlægð og valdamenn þess tíma komnir á bak við lás og slá eða dauðir. Mikilvægt er að þessum kafla sé lokið. Annar kafli getur þarmeð hafist, án þess að Saddam Hussein sé persóna í honum.

Fór í gærkvöld í bíó á forsýningu á kvikmyndinni The Lord of the Rings: The Return of the King. Er þetta án nokkurs vafa besta mynd Peters Jackson um Hringadróttinssögu. Með þessari mynd er sögu J.R.R. Tolkien um föruneyti hringsins lokið. Sagan heldur áfram þar sem frá var horfið í The Two Towers. Hérna birtast eftirminnilegustu bardagasenur í kvikmynd, baráttan við Mínas Tírith er svo undursamlega kvikmynduð að leitun er að betri bardagsenu í kvikmynd til þessa. Hér eru allir lausir endar fyrri myndanna bundnir saman. Útkoman er mynd sem stendur uppúr í kvikmyndagerð seinustu áratuga. Besta kvikmynd ársins 2003 - en jafnframt svo miklu meira en það. The Lord of the Rings: The Return of the King er besta kvikmynd sem ég hef séð í kvikmyndahúsi. Hún á ef eitthvað réttlæti er til í þessum heimi að hljóta óskarsverðlaun sem besta kvikmynd ársins. ROTK er ein besta kvikmynd sögu kvikmyndanna. Meistaraverk í úrvalsflokki. Þeir sem ekki sjá þessa í bíói munu sjá eftir því alla sína ævi. Meistarasmíð í kvikmyndagerð eins og þær gerast allra bestar.

Keypti í gær nýjustu Stuðmannaplötuna, Stuðmenn á Hlíðarenda. Er um að ræða góðan disk með fjölda góðra laga. Meðal þeirra eru Hef ég heyrt þetta áður, Ekki klúðra því, Meir'o'meira og sumarsmellurinn Halló, halló, halló. Hef ég lengi verið mikill aðdáandi Stuðmanna. Kvikmynd þeirra Með allt á hreinu er enn í dag mögnuð og ein af mínum uppáhaldsmyndum. Það er mynd sem hægt er að horfa á aftur og aftur án þess að leiðast. Ég hvet alla til að kaupa nýja diskinn. Vel gerður, Stuðmenn klikka aldrei.
Vefur dagsins
Bendi öllum í dag á ljóðavef sem helgaður er verkum Davíðs Stefánssonar frá Fagraskógi. Kveðskapur Davíðs verður ávallt sígildur. Met ég hann mikils, enda um að ræða eitt besta skáld 20. aldarinnar. Á vefnum eru nokkur ljóða Davíðs birt og umfjöllun um ævi hans.
Snjallyrði dagsins
Ég er friðlausi fuglinn,
sem fæddist með villtri þrá,
sem elskar heiðingjans himin
og hamrafjöllin blá.
Davíð Stefánsson skáld frá Fagraskógi (1895-1964)
Breytt 18.9.2006 kl. 08:02 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
17.12.2003 | 18:32
Engin fyrirsögn

Eins og fram hefur komið seinustu daga hefur stjórn Eimskips ákveðið að selja Brim, sjávarútvegsfyrirtæki sitt, annaðhvort í heilu lagi eða í hlutum. Í eigu Brims eru sjávarútvegsfyrirtækin Útgerðarfélag Akureyringa, Skagstrendingur og Haraldur Böðvarsson. Nú hefur Kaupfélag Eyfirðinga rætt við fjárfestingarfélagið Afl um að kaupa í félagi við það Útgerðarfélag Akureyringa. Aðaleigandi Afls er Þorsteinn Vilhelmsson, einn stofnenda Samherja árið 1983. Bróðir hans Kristján og frændi Þorsteinn Már eru stjórnendur Samherja enn í dag. Landsbankinn á stóran hlut í Afli. Eigið fé þess er metið á fjórða milljarð króna og á félagið t.d. hlutabréf í Granda. Fram hefur komið í fréttum að Andri Teitsson kaupfélagsstjóri KEA, hafi rætt við fulltrúa Landsbankans um hugsanleg kaup á ÚA. Stjórn Eimskipafélagsins hefur falið Landsbankanum að kanna möguleika á að selja Brim. Heimamenn á Akureyri, Akranesi og á Skagaströnd hafa lýst yfir miklum áhuga á að kaupa fyrirtækin á viðkomandi stað. Áhugi KEA beinist ekki að Brimi sem heild, heldur eingöngu að ÚA. Eigið fé KEA er rúmlega 2 miljarðar króna og því er nokkuð ljóst að félagið þarf að fá fleiri fjárfesta með sér til að fjármagna kaupin á Útgerðarfélagi Akureyringa. Fram hefur komið að sérfræðingur meti ÚA á 8-9 milljarða króna. Brim er skv. sama mati talið vera 18-20 milljarða króna virði. Landsbankinn á nokkuð stóran hlut í Afli en aðaleigandinn er Þorsteinn Vilhelmsson, sem er einn af stofnendum Samherja á Akureyri. Eigið fé Afls er á fjórða miljarð króna og á félagið m.a. hlutabréf í Granda.


Í dag skrifar Haukur Þór mjög góðan pistil um þá skoðun ungra sjálfstæðismanna til fjölda ára að heimila skuli sölu áfengis í matvöruverslunum. Hefur þetta verið lengi mikið baráttumál okkar eins og Haukur bendir á. Minnist hann á að vissulega séu ekki allir fylgjandi því en þeim fari fjölgandi sem eru þessarar skoðunar. Orðrétt segir Haukur: "Þegar Ríkið seldi allt annað áfengi en bjór þá var það gert á þeim rökum að ef Íslendingum yrði seldur bjór þá myndu þeir bara þamba hann eins og gos daginn út og daginn inn. Bjórinn væri drykkur hins illa. Húsmæður í vesturbænum myndu missa sig og skenkja bjór í saumaklúbbum, fermingum og barnaafmælum. Menn hættu almennt að vinna, börn yrðu vanhirt og fólk myndi hrasa um hvort annað í ölæði hversdagsins. Dómsdagsræðurnar fjölluðu semsagt um það hve íslenskt þjóðfélag færi á annan endann ef heimilt yrði að selja bjór. Eins og áður sagði þá var hann talinn drykkur hins illa, þó hinir útvöldu kynnu auðvitað með drykkinn að fara - flugmenn og flugfreyjur! En réttlætið sigraði að lokum, heimilað var að selja bjór og íslenskt þjóðfélag fór ekki á annan endann, líkt og bölsýnismennirnir höfðu fullyrt." Og að lokum segir hann: "Nú þegar alvarleg umræða er farin í gang um hvort heimila eigi sölu áfengis í matvöruverslunum þá setja margir mörkin við bjór og léttvín, þar verði víglínan dregin - annað komi ekki til mála. Sterku drykkina verði Ríkið ennþá að selja annars fari allt í bál og brand." Magnaður pistill!

Í kvöld fer ég í bíó og horfi á Lord of the Rings: Return of the King, seinasta hluta trílógíunnar um Hringadróttinssögu. Er ég mjög mikill aðdáandi myndanna og hef ávallt farið á forsýningar þeirra um miðjan desember, enda erfitt að bíða mikið lengur þegar maður er mikill kvikmyndaáhugamaður. Ákvað ég að horfa á báðar fyrri myndirnar í gærkvöld til að búa mig undir veisluna, að sjá seinustu myndina. Hef ég heyrt af mörgum að þetta sé besta myndin sem framundan er. Hringadróttinssaga eftir J.R.R. Tolkien er sennilega einhver rómaðasta skáldsaga allra tíma og hún er snilldarlega færð í glæsilegan kvikmyndabúning af Peter Jackson og útkoman jafnast á við það allra besta í kvikmyndagerð samtímans. Hringadróttinssaga gerist í Miðgarði þar sem allt úir og grúir af skrítnum verum sem margar hverjar búa yfir sínum eigin sérstæðu hæfileikum. Ferðalag Frodo og félaga hans hefur verið viðburðaríkt og á leið þeirra mætt þeim margar hættur og sífelldar áskoranir. Leikstjórn og öll umgjörð myndanna er í hæsta gæðaflokki og leikurinn er magnaður. Skrifa meira um þetta á morgun. Að lokum má ég þó til með að óska Samma systursyni mínum til hamingju með daginn, en hann er 12 ára í dag.

Horfði í gær á ruv.is á Kastljósþátt mánudagsins. Þar var forsætisráðherra gestur Sigmars og Kristjáns. Komst Davíð vel frá þættinum og átti ekki erfitt með að svara spurningum þeirra. Kom mér þó mjög á óvart hversu æstir þeir félagar voru í viðtalinu. En þetta var létt hjá forsætisráðherranum, enda vanur að fást við fjölmiðlamenn á löngum stjórnmálaferli. Í gærkvöldi ræddi Svansí við Davíð Þór Jónsson um gott grínefni. Í Íslandi í dag var flottur bíll prufukeyrður, flottir bílar sem Svali sýnir þarna á þriðjudögum.
Vefur dagsins
Í dag bendi ég öllum á huga.is, sem samkvæmt vefmælingum var mest heimsótti vefur seinasta mánaðar. Var það í fyrsta sinn sem mbl.is hefur ekki þann titil frá upphafi vefmælinga. Á huga er fjöldinn allur af góðu og spennandi efni.
Snjallyrði dagsins
Sá er munur á snillingum og heimskingjum, að snilldin er takmörkuð.
Th. Gablin
Breytt 18.9.2006 kl. 08:02 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
16.12.2003 | 22:24
Engin fyrirsögn

Tilkynnt var í dag að bandaríska leyniþjónustan CIA, myndi hafa yfirumsjón með því að yfirheyra Saddam Hussein fyrrum einræðisherra Íraks. Skv. fréttum CNN mun Donald Rumsfeld varnarmálaráðherra Bandaríkjanna, hafa tilkynnt að George J. Tenet forstjóri CIA, hefði fallist á að sjá um hver spyr Saddam spurninga, hvar og hvenær það verði. Fram kom í máli Rumsfelds að það hefði verið einföld og skjót ákvörðun að fela CIA málið. Hún hefði einungis tekið 3 mínútur og þar af hefðu 2 þeirra fyrstu farið í að drekka kaffi. Varnarmálaráðherrann útilokar ekki að bandarísku leyniþjónustunni verði falið að hafa Saddam í haldi. Hann vísaði á blaðamannafundi í dag alfarið á bug að Saddam hafi fengið ómannúðlega meðferð frá handtökunni um helgina. Hún hafi verið sanngjörn og mannúðleg. Hann viðurkenndi að það samræmdist ekki Genfarsáttmálanum að sýna myndir af stríðsföngum, en mikilvægt hefði verið að sýna Írökum og umheiminum öllum að forsetinn hefði náðst. Í dag tilkynnti Göran Persson forsætisráðherra Svíþjóðar, að Svíar væru tilbúnir til að vista forsetann fyrrverandi, fyrir og eftir dóminn. Almennt er talið að réttað verði yfir Saddam í Írak og hann geymdur þar. Ekki er útilokað að hann verði dæmdur til dauða eins og ég sagði í gær, en margir þjóðarleiðtogar og framkvæmdastjóri SÞ hafa hvatt til að svo verði ekki.



Í pistli dagsins á frelsinu fjallar Ragnar um hvort ekki sé tími til kominn að einkaaðilar taki við rekstri bókasafna og spyr af hverju sveitarfélög sjái um þennan rekstur. Orðrétt segir hann: "Hvers vegna er það í verkahring hins opinbera að leigja áhugasömum lesendum bækur er það of flókið verkefni fyrir einkaaðila? Er einkaaðilum bara treystandi til að leigja myndbandsspólur? Auðvitað er enginn eðlismunur á bókum og myndbandsspólum, eða annars konar afþreyingu og menningu. Við höfum hins vegar alist upp við það að einkaaðilar reka myndbandaleigur víðs vegar um landið en það hefur verið hlutverk sveitarfélaganna að reka bókasöfn. Bókasafnsrekstur er ekkert frábrugðinn öðrum rekstri og því hlýtur að vera kominn tími til þess að íhuga þann kost að hleypa einkaðilum að. Hugmyndin hefur raunar nú þegar verið reifuð í borgarstjórn, en í umræðum um menningarmál í fjárhagsáætlun borgarinnar í desember í fyrra ræddi Hanna Birna Kristjánsdóttir, borgarfulltrúi Sjálfstæðisflokksins um hugsanlegan einkarekstur bókasafna. Taldi hún rétt að skoða hvort nýir tímar kölluðu hugsanlega á nýja möguleika í rekstri bókasafna." Athyglisverð grein og margir góðir punktar og rétt að velta þessu meira fyrir sér. Ég tek undir með greinahöfundi og borgarfulltrúanum að kanna eigi vel þennan kost.

Í gestapistli á vefsíðunni fjallar Hjörtur J. Guðmundsson sagnfræðinemi, um evrópumál. Orðrétt segir hann: "Maður hefur nefnilega ósjaldan heyrt talsmenn (Evrópu)sambandsins skírskota til einhvers sem þeir kalla a good European (góður Evrópubúi). Á þetta er ævinlega minnzt þegar t.a.m. er rætt um þjóðaratkvæðagreiðslur sem hafa farið öðruvísi en Evrópusambandið hefur viljað. Við slík tækifæri eru íbúar viðkomandi ríkja ekki góðir Evrópubúar sem segja já og amen við öllu sem ákveðið er í Brussel, gagnrýnislaust. Ekki verður betur séð en að talsmenn Evrópusambandsins hér á landi trúi í blindni á hið yfirþjóðlega vald, Evrópusambandið. Þeir sjá ennfremur fyrir sér framtíðarríkið ESB-Ísland og lofa okkur Íslendingum gulli og grænum skógum ef við göngum í sambandið og afsölum okkur sjálfstæði okkar. Þeir gefa heldur ekkert fyrir augljósan lýðræðisskort innan Evrópusambandsins og gríðarlega miðstýringu. Línan frá Brussel er ávallt rétt í þeirra augum og að því er virðist algerlega yfir gagnrýni hafin. Brussel veit einfaldlega miklu betur hvað okkur er fyrir beztu en við sjálf að þeirra mati alveg eins og Moskva áður í augum margra kommúnista." Góður pistill hjá Hirti.

Horfði um daginn á eina gamla góða klassík. Marathon Man, kvikmynd leikstjórans John Schlesinger. Þessi einn af skemmtilegustu þrillerum áttunda áratugarins segir frá því hvernig ungur háskólanemi flækist inn í leynilegar aðgerðir er varða demantaflutninga og gamlan nasistaforingja í S-Ameríku, sem kemur úr felum þegar sending fer úrskeiðis. Námsmaðurinn flækist í málið vegna bróður síns og þegar hann veit orðið of mikið um starfsemi vondu kallana er hætt við að þeir reyni að þagga niður í hopum. Ofbeldisfullur og ljótur eltingarleikur á köflum en einkar spennandi, hraður og grípandi er á líður. Leikurinn er hreint stórgóður og þar standa fremstir þeir Dustin Hoffman, Roy Scheider og Sir Laurence Olivier sem fer á kostum í hlutverki nasistaforingjans Szell. Mögnuð mynd.
Vefur dagsins
Í dag bendi ég öllum á leitarvefinn Google. Lít ég ávallt á hann ef mig vantar að komast á vefi eða leita að einhverju á netinu. Alltaf góður vefur.
Snjallyrði dagsins
Of mikið af því góða getur verið dásamlegt.
Mae West
Breytt 18.9.2006 kl. 08:02 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)