2.2.2004 | 18:51
Engin fyrirsögn

Í gær var þess minnst að 100 ár voru liðin frá því að Hannes Hafstein tók við embætti ráðherra Íslands fyrstur manna. Jafnframt var öld liðin frá stofnun hins íslenska Stjórnarráðs. Af þessu tilefni kom ríkisráð Íslands saman til fundar í Ráðherrabústaðnum við Tjarnargötu og staðfesti nýja reglugerð um Stjórnarráð Íslands. Reglugerðin er meginréttarheimild um verkaskiptingu í stjórnarráðinu og þar með um skiptingu starfa milli ráðherra ríkisstjórnar Íslands. Þessi reglugerð miðar ekki að því að breyta verkaskiptingu milli ráðuneyta ríkisstjórnarinnar, einvörðungu er um að ræða uppfærslu á fyrri reglugerð frá árinu 1969. Löngu var orðið tímabært að færa reglugerðina til nútímans, enda margt breyst frá 1969. Það kom í verkahring handhafa forsetavalds að staðfesta þessar breytingar á fyrrnefndum ríkisráðsfundi í fjarveru forseta Íslands sem var erlendis á þessum hátíðisdegi í sögu landsmanna. Það vakti óneitanlega mikla athygli að þjóðhöfðingi Íslendinga sá sér ekki fært að vera hérlendis á þessum merku tímamótum sem 100 ára afmæli heimastjórnar og Stjórnarráðsins er óneitanlega. Þess í stað dvelst hann nú í skíðaferðalagi í Aspen í Bandaríkjunum.



Hátíðardagskrá fór fram í Þjóðmenningarhúsinu í gærkvöld í tilefni af aldarafmæli heimastjórnar á Íslandi og Stjórnarráðs Íslands. Athöfninni var sjónvarpað beint og var Gísli Marteinn kynnir. Hún hófst á því að Hildigunnur Halldórsdóttir fiðluleikari og Örn Magnússon píanóleikari fluttu fyrsta kafla sónötu eftir Sveinbjörn Sveinbjörnsson. Þá flutti Þórunn Erna Clausen leikkona og barnabarnabarn Hannesar Hafstein kvæðið Ástarjátningu til Íslands eftir langafa sinn, fyrsta ráðherrann. Að svo búnu flutti forsætisráðherra, hátíðarræðu sína. Rúnar Freyr Gíslason leikari, kvæðið Storm eftir Hannes Hafstein. Dagskránni lauk með einsöng Gunnars Guðbjörnssonar við undirleik Arnar Magnússonar. Þeir fluttu lögin, Sólskríkjuna, Sofðu unga ástin mín og Sjá dagar koma. Í hátíðarræðu sinni sagði Davíð Oddsson forsætisráðherra: "Við hrífumst af því nú, hve heimastjórnin hafði góð áhrif á lífsskilyrði og þróun íslensku þjóðarinnar. Fyrsta heimastjórnaröldin hefur verið byltingarkennd bót fyrir mannlíf í þessu landi. Nú er auðvitað ekki víst og reyndar harla ólíklegt að við hefðum farið á mis við alla þá framþróun, ef stjórnskipan okkar hefði ekki breyst til þess sem varð 1. febrúar 1904 og í framhaldi af því 1. desember 1918. En það má nú fullyrða með öruggri vissu að árangur okkar hefði ella ekki orðið svo glæsilegur og varanlegur sem raun varð á." Um fyrsta ráðherrann sagði forsætisráðherra: "Hann hafði fengið dönsku stjórnina til að bjóða Íslendingum heimastjórn. Um það segir dr. Bjarni Benediktsson forsætisráðherra: "Eins og þá horfði, hafði Hannes því unnið einn frækilegasta sigur, sem íslenskur stjórnmálamaður nokkru sinni hefur unnið." Þetta segir dr. Bjarni 3. desember 1961 og á þeim tíma sem síðan er hefur ekkert gerst, sem breytir þessu mati".

Ingó fjallar í góðum pistli á frelsinu í dag um Íbúðalánasjóð og samkeppni á lánamarkaði. Í pistlinum segir hann: "Í tíð Sjálfstæðisflokksins hefur verulega dregið úr umsvifum ríkisins í fjármálaþjónustu með einkavæðingu á ríkisbönkunum. Engu að síður er samkeppnissstaðan ennþá skökk á lánamarkaðnum en í krafti ríkisábyrgðar og lagasetningar nýtur Íbúðalánasjóður verulegs forskots. Sú staðreynd ein og sér að lán íbúðalánasjóðs eru tryggð með ríkisábyrgð heftir banka verulega til að keppa á sama markaði enda er lánshæfismat ríkissins betra en lánshæfismat banka. En eins og ríkisábyrgðin sé ekki nóg til að skekkja myndina þá þarf Íbúðalánasjóður ekki að framfylgja sömu reglum og önnur fjármálafyrirtæki um eiginfjárhlutfall og útlánaafskriftir. Rík krafa er gerð um að bankar framfylgi þessum reglum og er því undarlegt að stærsti íslenski lánveitandinn sé þeim undanskilinn." Ennfremur er í dag á frelsinu fjallað um athyglisverðan fund menningarmálahóps með Gísla Marteini Baldurssyni og Rúnari Frey Gíslasyni, fulltrúum Sjálfstæðisflokksins í menningarmálanefnd Reykjavíkurborgar.

Eftir að ég hafði skrifað tvo pistla, farið yfir fjölda tölvupósta og rætt við nokkra vini á MSN, horfðum við á úrvalsmyndina The Remains of the Day í gærkvöld. Myndin er byggð á samnefndri bók Ruth Prawer Jhabvala. Hér segir frá hinum trúfasta og húsbóndaholla bryta, James Stevens sem þjónar í sögubyrjun Bandaríkjamanninum Lewis á breska hefðarsetrinu Darlington Hall. Stevens varði mestum hluta ævi sinnar í þjónustu Darlington lávarðar, en hann hélt á heimili sínu marga alþjóðlega fundi árin 1936-1939 þar sem hann reyndi að hafa milligöngu um sættir þeirra þjóða sem deildu að lokum hart í seinni heimstyrjöldinni á árunum 1939-1945. Í byrjun myndarinnar er Darlington fallinn frá og Stevens eins og fyrr segir kominn undir stjórn nýs húsbónda. Honum er jafnframt orðið ljóst að trúmennska hans og hollusta ásamt blindri skyldurækni sinni, hefur kostað hann lífshamingjuna og hrakið á brott einu konuna sem vildi eiga hann. Hann tekur sér ferð á hendur norður í land, þar sem hann hefur í hyggju að hitta þessa konu. Hyggst hann reyna í seinasta sinn að vinna hug hennar. Hann vill ekki að það verði um seinan. En tekst honum að vinna ástir hennar? Meistaralega skrifuð og sviðsett saga. Sir Anthony Hopkins og Emma Thompson fara á kostum í aðalhlutverkunum í magnaðri mynd.
Dagurinn í dag
* 1988 Hjarta og lungu grædd í fyrsta Íslendinginn, Halldór Halldórsson
* 1990 Þjóðarsáttin - launþegar og atvinnurekendur undirrita tímamótasamkomulag
* 1990 Aðskilnaðarstefna stjórnvalda líður formlega undir lok í Suður Afríku
* 1998 Fréttavefurinn mbl.is opnaður - vinsælasti fréttavefur Íslands frá upphafi
Snjallyrði dagsins
We didn't need dialogue. We had faces!
Norma Desmond í Sunset Boulevard
Breytt 18.9.2006 kl. 08:02 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
31.1.2004 | 22:56
Engin fyrirsögn

Aðalfundur Varðar, fulltrúaráðs Sjálfstæðisflokksins í Reykjavík var haldinn í dag í Sunnusal Hótels Sögu. Í upphafi aðalfundarins flutti Davíð Oddsson forsætisráðherra, ávarp. Í máli hans kom fram að samruni á borð við samruna Fréttar og Íslenska útvarpsfélagsins í gær væri hvergi leyfður þar sem hann þekkti til. Hér væru hinsvegar engar slíkar reglur og að bíða þyrfti niðurstöðu nefndar menntamálaráðherra sem fjallaði um þessi mál áður en ákveðið væri með lagasetningu í þessum efnum. Davíð sagði ekki óeðlilegt að Alþingi og ríkisvald gripu inn í þessi mál en ekki væri tímabært að ræða með hvaða hætti það yrði. Samhliða aðalfundi Varðar var opinn fundur þar sem rætt var um hvort þörf væri á lögum um myndun og uppbrot hringa í viðskiptum. Meðal þeirra sem tók þátt í þeim fundi var Björn Bjarnason dómsmálaráðherra. Hann flutti athyglisverða ræðu og sagði í henni: "Stundum rjúkið þið upp til handa og fóta og ætlið að hreinsa til hjá ykkur. Og þið vitið hvernig á að hreinsa húsin ykkar, en þau verða ekki hrein þótt þið hreinsið eitt hornið í hólf og gólf. Ef þið hreinsið ekki allt húsið, verður hornið strax aftur kámugt. Það er enginn þrifnaður. En til að hreinsa allt húsið, þyrftuð þið að byrja á aganum. Göthe skilgreindi þetta vel þegar hann sagði að hætta yrði að líta á aga sem skerðingu á einstaklingsfrelsi. Agi gerir ykkur kleift að ná árangri, sem þið getið ekki náð án aga. Hann gerir ykkur kleift að ná árangri, án þess að móðga fólk - eða eins og hann sagði: Fullkomið frelsi fæst með því að hlýða öllum reglum.


Sjálfstæðisfélag Akureyrar stóð fyrir opnum stjórnmálafundi, kl. 14:00 í dag á Hótel KEA. Gestir fundarins voru Geir H. Haarde fjármálaráðherra og varaformaður Sjálfstæðisflokksins, og eiginkona hans, Inga Jóna Þórðardóttir fyrrum leiðtogi borgarstjórnarflokks Sjálfstæðisflokksins. Flutti Geir ítarlega framsögu í upphafi fundar og fór yfir ýmis hitamál samtímans í stjórnmálaheiminum. Einkum var farið yfir málefni kjördæmisins, skattamál og þau verk sem almennt við blasa ríkisstjórn landsins á kjörtímabilinu. Að lokinni framsöguræðu ráðherra var opnað fyrir fyrirspurnir úr sal. Komu margir fundarmenn fram með athyglisverðar spurningar og var víða farið yfir málefnin á tæplega tveggja klukkustunda löngum fundi. Fundarstjóri, Þorvaldur Ingvarsson formaður Sjálfstæðisfélags Akureyrar, stýrði fundinum af röggsemi. Alþingismenn kjördæmisins, Halldór Blöndal forseti Alþingis, og Arnbjörg Sveinsdóttir, voru bæði viðstödd fundinn og ennfremur Tómas Ingi Olrich fyrrverandi menntamálaráðherra, og þingmaður okkar Eyfirðinga í tæp 13 ár. Í lok fundar færði fundarstjóri Tómasi þakkir fyrir gott starf sitt í þágu kjósenda sinna á þingi og á ráðherrastóli. Í kvöld verður svo þorrablót okkar sjálfstæðismanna á Akureyri, og eru heiðursgestir á blótinu, þau Geir og Inga Jóna.

Seinnipartinn í gær héldum við til Dalvíkur, fórum í afmælisveislu góðs félaga útfrá sem ég hef lengi þekkt. Vorum þar langt fram á kvöld og átti ég gott spjall við vini og kunningja og var þetta virkilega gott samkvæmi og vel heppnað. Er inneftir var komið héldum við á vídeóleiguna í Undirhlíð en ég hafði pantað spólu til að horfa á. Er heim var komið horfðum við á hina mögnuðu ævintýramynd Pirates of the Caribbean. Litríkt ævintýri sem gerist á 17. öld þegar sjóræningjarnir skunduðu um Karíbahafið. Hér segir frá sjóræningjanum Jack Sparrow sem tekur höndum saman við Will Turner til að bjarga unnustu Wills, Elizabeth Swann dóttur ríkisstjórans, Weatherby Swann, og fjársjóði. Ætlun þeirra er að stöðva illar áætlanir óvinveittra sjóræningja undir forystu Barbossa. Mun þeim takast ætlunarverk sitt? Johnny Depp hefur sjaldan verið betri en í þessu hlutverki hins drykkfellda sjóræningja og á stórleik, smellpassar í þennan karakter og hlaut að launum tilnefningu til Óskarsverðlauna fyrir leik sinn. Sama má segja um óskarsverðlaunaleikarann Geoffrey Rush (Shine) sem er eftirminnilegur í hlutverki Barbossa (skemmtilega illkvittnislegur) og fer sem ávallt fyrr á kostum, frábær leikari. Orlando Bloom, Keira Knightley og Jonathan Pryce fara einnig vel með sitt. Góður hasar og magnaðar tæknibrellur eru einnig aðall myndarinnar. Pjúra skemmtun frá upphafi til enda og ætti að vera sannkallað augnakonfekt fyrir alla sanna kvikmyndaunnendur.
Vefur dagsins
Nýlega var vefur Stjórnarráðsins opnaður á ný eftir smávægilegar breytingar. Vefurinn var opnaður fyrst af forsætisráðherra í Þjóðarbókhlöðunni 22. mars 2001. Sú breyting hefur nú verið gerð að hvert ráðuneyti fær eigin slóð í undirvef Stjórnarráðsvefsins, en eftir sem áður er vefurinn rekinn sem ein heild allra ráðuneyta. Ómissandi vefur sem ég nota oft.
Snjallyrði dagsins
You talkin' to me?
Travis Bickle í Taxi Driver
Breytt 18.9.2006 kl. 08:02 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
30.1.2004 | 21:23
Engin fyrirsögn

Risi varð til á íslenskum fjölmiðlamarkaði í gærkvöld er fjölmiðlafyrirtækin Norðurljós og Frétt sameinuðust formlega. Tilkynnt var um þetta á blaðamannafundi í Smárabíóí í dag. Þrjú fyrirtæki verða rekin undir merkjum Norðurljósa frá og með 1. febrúar; Íslenska útvarpsfélagið, Frétt og Skífan. Norðurljós verður móðurfélag þessara fyrirtækja, sem verða rekin áfram í sitt hvoru lagi, en undir sameiginlegri stjórn í Norðurljósum. Fram kom á fyrrgreindum fundi að fyrirtækið hefði samið við alla lánardrottna og langtímaskuldir félagsins hefðu lækkað úr 7,5 miljarði króna, í 5,7. Hlutafé fyrirtækisins eftir sameininguna eru um 3 milljarðar króna. Stærsti hluthafinn í Norðurljósum er Baugur Group, sem á rúmlega 30%. Eignarhaldsfélagið Grjóti, er tengist Baugi, Feng og fleirum aðilum, á rúmlega 16%, eignarhaldsfélagið Fons á 11,6%, það félag tengist Pálma Haraldssyni. Hömlur er tengist Landsbankanum á 7,5%, og Kaldbakur 5,6% hlut. Aðrir hluthafar eiga tæp 18% til samans. Skarphéðinn Berg Steinarsson verður áfram stjórnarformaður Norðurljósa. Aðrir í stjórn fyrirtækisins eru Pálmi Haraldsson varaformaður, en aðrir stjórnarmenn eru Kristinn Bjarnason, Halldór Jóhannsson, og Gunnar Smári Egilsson. Sigurður G. Guðjónsson verður áfram forstjóri Norðurljósa. Gunnar Smári Egilsson verður áfram útgáfustjóri Fréttar og Ragnar Birgisson verður framkvæmdastjóri Skífunnar. Fyrirtækið rekur fimm sjónvarpsstöðvar, fimm útvarpsstöðvar og tvenn dagblöð. Skífan rekur hljómplötuútgáfu og verslanir í eigin nafni auk þess sem nú bætist við. Eftir sameininguna hafa verslanir á vegum Norðurljósa yfirburði í sölu geisladiska með tónlist og tölvuleikja hér á landi eða 80% hlutdeild. Þessi samruni er því tilkynningaskyldur til Samkeppnisstofnunar.



Í dag birtast á frelsinu góðir pistlar Atla Rafns og Kidda. Í sínum pistli fjallar Atli um RÚV og samkeppni á fjölmiðlamarkaði. Orðrétt segir hann: "Skynsamlegst væri að ríkið hætti fjölmiðlarekstri og gæfi einstaklingum raunverulegt svigrúm og tækifæri á að starfa á þessum markaði. Andstæðingar þessarar leiðar benda hins vegar gjarnan á að ekki sé rétt að ríkið hætti fjölmiðlarekstri því ríkið þurfi að tryggja aðgang allra landsmanna að þjónustunni og einnig að ríkinu beri að tryggja faglega og hlutlausa umræðu í landinu. Það er ekki stjórnmálamanna að ákveða hvaða þjónustu einstaklingarnir kjósa að kaupa, né heldur hvaða upplýsingar þeir velja gegnum fjölmiðla. Ríkið á ekki að ákveða hvað hver einstaklingur má eiga og hvað ekki. Slíkar takmarkanir myndu fremur endurspegla vilja stjórnmálamanna og embættismanna eftirlitsstofnanna en fólksins í landinu. Kiddi fjallar í sínum pistli um frelsi í menntamálum og segir orðrétt: "Lausnin er aukið frelsi kennara til þess að móta námið að þörfum hvers og eins nemenda. Aukinn fjölbreytileiki og brotthvarf frá ofuráherslu á kjarnafögin þrjú: ensku, íslensku og stærðfræði; og í kjölfarið viðurkenning á öðrum greindum, hugsunarháttum og hæfileikum. Aukin áhersla á sjálfstæða og gagnrýna hugsun í stað mötunar á staðreyndum. Frjáls hugsun kemur með auknu frelsi í menntamálum." Ennfremur birtist umfjöllun um góðan pistil Einars K. Guðfinnssonar þingflokksformanns.

Síðasta sunnudagskvöld var á dagskrá Sjónvarpsins, fréttaskýringarþátturinn Í brennidepli, í umsjón Páls Benediktssonar fréttamanns. Þátturinn er á dagskrá mánaðarlega og fjallað í hverjum þætti um þrjú mál. Missti ég af síðasta þætti á sunnudag vegna ýmissa anna og leit því á hann í gær á vef RÚV. Virkilega góður þáttur rétt eins og hinir tveir fyrri. Að þessu sinni var fjallað um umfang og eignir Bónusfjölskyldunnar, hugsanlegt eldgos í Kötlu sem jarðfræðingar telja að muni gjósa innan næstu fimm ára, og um bráðaofnæmi í börnum. Allt saman áhugavert efni, sérstaklega það fyrstnefnda en á einkar skemmtilegan hátt var almenningi sýnt umfang eigna Baugs Group og fóru þeir Páll og Jón G. Hauksson ritstjóri Frjálsrar Verslunar, vel yfir fyrirtækið og eignir þess. Í Kastljósi gærkvöldsins fóru Birgir Ármannsson alþingismaður, og Kristrún Heimisdóttir varaþingmaður, yfir breska pólitík. Mikið hefur verið rætt um hana í þessari viku vegna Hutton skýrslunnar og kosningar á þingi um skólagjaldahugmyndir Verkmannaflokksins, en litlu munaði að stjórnarmeirihlutinn félli í því máli. Skemmtilegt spjall var við Birgi og Kristrúnu, sem bæði hafa lengi fylgst með breskri pólitík.

Eftir Kastljósið hélt ég á fund, sem stóð fram eftir kvöldi. Er heim kom var skellt sér í að horfa á eina góða kvikmynd. Litum á hið indæla ítalska meistaraverk, La Vita e Bella. Hér segir af Guido Orefici, fátækum ungum manni sem hefur þann hæfileika að geta gert alla káta í kringum sig. Hann hittir draumadísina sína, Doru, oft og mörgum sinnum í gegnum eintómar tilviljanir en hún er trúlofuð hreint óþolandi leiðindaskarfi og á brátt að giftast honum. Honum tekst loks að vinna hjarta hennar og þau giftast. Þar með er farið yfir nokkur ár í lífi þeirra og næst er við sjáum þau hafa nokkur ár liðið og hafa þau þá eignast son sem er 6-7 ára. Þetta er undir lok seinni heimsstyrjaldarinnar, og þar sem Guido er gyðingur er hann sendur ásamt syni sínum í útrýmingarbúðir nasista og er konan hans einnig send þangað. Honum tekst að telja drengnum trú um að þetta sé allt saman leikur og ef þeir fái nógu mörg stig með því að taka þátt í leiknum fái þeir að launum alvöru skriðdreka. Honum tekst þetta upp alllengi, eða allt þar til að stríðinu lýkur. Meðan á þessu stendur verður hann að fela son sinn svo hann verði ekki líflátinn af nasistum á meðan hann heldur áfram að segja honum að þetta sé bara einn leikur. Þessi litla en stórbrotna perla er hiklaust ein besta kvikmyndin sem gerð var á árinu 1998, og hlaut verðskuldaðan heiður að launum. Ítalski grínistinn Roberto Benigni fer hér á kostum í hlutverki lífs síns, hann hlaut verðskuldað óskarinn fyrir leik sinn. Flestir ættu að geta notið boðskaparins sem hún boðar. Það er að lífið er tvímælalaust DÁSAMLEGT!!
Vefur dagsins
Kauphöll Íslands hf. er skipulegur verðbréfamarkaður þar sem opinber skráning verðbréfa fer fram, svo og viðskipti með þau. Þrjár tegundir verðbréfa eru skráðar; hlutabréf, skuldabréf og hlutdeildarskírteini verðbréfasjóða. Bendi í dag á frábæra heimasíðu Kauphallarinnar.
Snjallyrði dagsins
Here's looking at you, kid!
Rick Blaine í Casablanca
Breytt 18.9.2006 kl. 08:02 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
29.1.2004 | 23:56
Engin fyrirsögn

Eins og ég sagði frá í gær, birtist þá skýrsla Huttons lávarðar, um mál Dr. Davids Kelly sem lést í fyrrasumar og rannsókn á dauða hans og málum þeim tengdum. Í skýrslunni var skuldinni að mestu skellt á fréttaflutning BBC og forsætisráðherrann að mestu hreinsaður af þeim ásökunum sem á hann voru bornar. BBC baðst í dag formlega afsökunar vegna rangfærslna í fréttinni um Íraksskýrslu bresku stjórnarinnar í fyrra. Greg Dyke útvarpsstjóri BBC, sagði í dag af sér embætti, vegna þeirrar gagnrýni sem fram kom í skýrslunni um fréttaflutning BBC. Hreinsun hefur því orðið hjá BBC, en í gær tilkynnti stjórnarformaðurinn um afsögn sína. Í afsagnarbréfi sínu sagði Dyke að í öllu málinu hefði hann lagt áherslu á að verja ritstjórnarlegt sjálfstæði BBC og hafa almanna hagsmuni að leiðarljósi. Er Dyke tók við starfi sínu fyrir nokkrum árum var hann sakaður um að vera skósveinn Blairs. Eftir formlega afsögn Dyke barst Downingsstræti 10, skrifstofu forsætisráðherrans, afsökunarbeiðni frá BBC sem forsætisráðherrann féllst á. Framtíð BBC er óráðin að mestu, endurskoðun skipurits stofnunarinnar tekur nú við. Talið er líklegt að dregið verði verulega úr sjálfstæði stofnunarinnar. Mikil reiði er meðal starfsmanna og heyrst hafa raddir um að fleiri kunni að segja upp. Samkvæmt skoðanakönnun sem gerð var fyrir blaðið Evening Standard kom fram að 56% landsmanna telur ósanngjarnt að einungis BBC sé kennt um og 49% telja stjórnina hvítþvegna í skýrslunni. 70% landsmanna vilja óháða rannsókn á málinu.



Tveir hörkugóðir pistlar eru á frelsinu. Hjölli fjallar í pistli sínum um heilbrigðismál og segir orðrétt: "Ýmsir eru gjarnir á að halda því á lofti að ríkinu beri skylda til að veita öllum þegnum landsins bestu heilbrigðisþjónustu sem möguleg er. Með þessa yfirlýsingu að vopni heimta menn jafnan sífellt meiri pening til að leysa öll vandamál kerfisins, og bregðast ókvæða við öllum tilraunum til að skera niður kostnað. Ef það er eitthvað sem hægt er að læra af reynslunni, er það sú staðreynd að vandamál heilbrigðiskerfisins verða ekki leyst með endalaust meiri fjárútlátum. Hin gríðarlega peningaeyðsla, sem oft á tíðum virðist hálf stjórnlaus, er nefnilega sjálf stærsta vandamálið. Það væri mikil framför ef framangreindri yfirlýsingu væri breytt á þann veg að veita bæri sem besta þjónustu á sem hagkvæmastan hátt." Í pistli sínum fjallar Bjarki um menntamál og segir orðrétt: "Það er eðlilegt að þátttaka einstaklings við kostnað menntunnar sinnar aukist því lengra sem líður á námið. Þegar skyldumenntun lýkur, þ.e. að segja grunnskólaprófi, er áframhaldandi menntun einstaklings hans fjárfesting í auknum lífsgæðum og er eðlilegt að einstaklingurinn taki þátt í þeim kostnaði sjálfur. Menntamál eru alltaf á dagskrá og þurfa að vera í stöðugri endurskoðun. Til að stuðla að áframhaldandi sókn í menntamálum á Íslandi þarf að tryggja að einkaframtakinu sé tryggður rekstrargrundvöllur í lögum og að Háskóli Íslands fái að innheimta þau skólagjöld sem hann telur nauðsynleg til að tryggja nemendum góða kennslu og aðstöðu. Virkilega góðir pistlar og fróðlegir hjá þeim félögum.

Það var nóg af skemmtilegu dægurmálaspjalli í kvöldþáttum sjónvarpsstöðvanna í gærkvöldi. Í Íslandi í dag voru gestir Jóhönnu og Þórhalls eftir fréttirnar, alþingismennirnir Einar K. Guðfinnsson og Steingrímur J. Sigfússon. Umræðuefnið var Íraksstríðið og utandagskrárumræða stjórnarandstöðunnar á þingi í gær um hvort rétti hafi verið af Íslendingum að lýsa yfir mórölskum stuðningi við Bandamenn við innrásina í Írak. Þeir voru ekki beint sammála eins og við mátti búast og voru hvassar umræður um þetta mál. Í Kastljósinu á sama tíma ræddu þær Hanna Birna Kristjánsdóttir og Steinunn Valdís Óskarsdóttir skipulagsmál í borginni, en til stendur að breyta ásýnd Laugavegarins, skv. nýju skipulagi svæðisins sem kynnt var í vikunni. Í Pressukvöldi RÚV var gestur þriggja fréttamanna, Halldór Ásgrímsson utanríkisráðherra, og var rætt um Íraksmálið, málefni spítalanna og ráðherrahrókeringar framsóknarmanna sem verða í september nk.

Eftir fréttir og dægurmálaþættina var komið að góðu sjónvarpskvöldi. Horfðum við á meistaraverk Alan J. Pakula, All the President's Men. Hér er rakin sagan af því hvernig tveimur rannsóknarblaðamönnum á The Washington Post, Carl Bernstein og Bob Woodward, tókst að vekja þjóðarathygli á þætti nánustu aðstoðarmanna Nixons Bandaríkjaforseta í innbrotinu í Watergate-bygginguna, sem á endanum lyktaði með því að Richard Nixon sagði af sér embætti forseta Bandaríkjanna, fyrstur manna. Með afbrigðum velheppnuð frásögn, skemmtilega uppbyggð og frábærlega leikin af tveimur vinsælustu leikurum sinnar kynslóðar, þeim Robert Redford og Dustin Hoffman. Senuþjófurinn er þó Jason Robards sem fer á kostum í hlutverki ritstjóra Washington Post, Ben Bradlee. Hlaut hann óskarinn fyrir magnaðan leik sinn. Ein af allra bestu myndum hins mistæka Alan J. Pakula. Hún er ein af allra bestu myndum úr blaðamennskunni sem gerðar hafa verið. Allir þeir sem hafa gaman af skemmtilegum spennumyndum með sagnfræðilegu ívafi ættu að drífa í því að sjá þessa, hún er vel þess virði. Mögnuð mynd og virkilega vel leikin.
Vefur dagsins
Félagi minn og nafni, Stefán Einar Stefánsson, heldur úti góðri heimasíðu á Netinu, þar sem hann tjáir sig um málefni samtímans og fer yfir það sem mestu máli skiptir. Hvet alla til að líta á félaga Stefán Einar í dag á vefrúntinum.
Snjallyrði dagsins
I'lll make him an offer he can't refuse.
Don Vito Corleone í The Godfather
Breytt 18.9.2006 kl. 08:02 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
28.1.2004 | 23:57
Engin fyrirsögn

Í dag var birt formlega skýrsla Huttons lávarðar, um dauða breska vopnasérfræðingsins Dr. David Kelly í júlí. Í niðurstöðum hennar kemur fram hörð gagnrýni á fréttaflutning breska Ríkisútvarpsins, BBC. Tony Blair forsætisráðherra Bretlands, er að mestu hreinsaður af þeim ásökunum sem hann hafa verið bornar, með niðurstöðum skýrslunnar. Í henni kemur fram að fullyrðingar fréttamannsins Andrew Gilligan um að breska stjórnin hefði ýkt skýrslu sína um gereyðingarvopn Íraka hefðu verið með öllu tilefnislausar. Gavyn Davies stjórnarformaður BBC, tilkynnti í dag að hann myndi axla ábyrgð á fréttaflutningnum og niðurstöðum skýrslunnar með afsögn sinni. Hutton lávarði var falið að rannsaka dauða Kellys sem fannst látinn um miðjan júlí 2003, skömmu eftir að gert var opinbert að hann hefði verið heimildamaður fréttamannsins Andrew Gilligan um að breska stjórnin hefði ýkt skýrslu um meint gereyðingarvopn Íraka í september 2002. Í skýrslunni kom t.d. fram að Írakar gætu beitt gereyðingarvopnum með einungis þriggja stundarfjórðunga fyrirvara og sagði Gilligan að þetta hefði verið sett inn í skýrsluna þótt stjórnin hefði vitað að það væri rangt. Með niðurstöðu skýrslunnar stendur Blair eftir sem sigurvegari málsins og það mun ekki leiða til afsagnar hans eða stjórnar hans. Hann fór á þingfundi í Westminster í dag fram á afsökunarbeiðni þeirra sem hæst létu, eða þeir létu sig í friði ella, fyrst niðurstaðan væri ljós.



Alltaf nóg um að vera á frelsinu. Í dag hóf göngu sína ný og skemmtileg keppni á vefnum. Frelsisdeildin er keppni milli þingmanna Sjálfstæðisflokksins um titilinn Frelsari ársins. Orðrétt segir á vefnum: "Keppendur vinna sér inn stig með því að losa fólkið í landinu undan járnkló ríkisvaldsins. Þeir keppendur sem herða á taki járnklónnar tapa stigum. Sigurvegari keppninnar hlýtur farandbikar til varðveislu í eitt ár. Staðan í deildinni er vægast sagt neikvæð fyrir unnendur frelsis. Heildarstig deildarinnar eru neikvæð um 136 stig. Efsti maður deildarinnar, formaður þingflokks Sjálfstæðismanna, Einar K. Guðfinnsson er með 3 stig, í öðru sæti er Pétur H. Blöndal með 1 stig og Björn Bjarnason dóms- og kirkjumálaráðherra er með 0 stig. Aðrir þingmenn eru í mínus eða hafa ekki lagt fram nein mál. Er mál að þingmenn flokksins bretti nú upp ermarnar og stefni þjóðarskútunni í átt til frelsis." Líst alveg virkilega vel á þetta framtak félaga minna í Heimdalli og fagna því mjög. Nú er bara að vona að fleiri þingmenn líti í frelsisátt á næstu vikum, mánuðum og árum, þann tíma sem lifir af kjörtímabilinu.

Horfði í gærkvöldi enn einu sinni á hið magnaða meistaraverk Martin Scorsese, Goodfellas. Það var árið 1990 sem Scorsese gerði þessa eftirminnilegustu og stórbrotnustu kvikmynd sína. Goodfellas er mögnuð mafíumynd sem er byggð á sannri sögu írsks-ítalsks bófa sem frá bernsku á sér þann draum heitastan að verða gangster. Og fyrr en varir er hann kominn í réttan félagsskap víðsjárverðra glæpamanna. Þar hefst þriggja áratuga tímabil auðgunarglæpa, manndrápa, peningaflóðs og ekki síst glæsilegs Hollywoodlífsstíls, sem endar að lokum með því að allir eru á varðbergi og hugsa um það eitt að bjarga eigin skinni. Meistari Scorsese segir söguna af einstökum mikilleik og ekki síst gráglettni, sóðaskapur innihaldsins kemur aðeins fram í örfáum sprungum sem bresta í rómantíska drauminn. Og ekki má gleyma sannkölluðum stórleik þeirra snillinga sem hér eru saman komnir og fara hreint á kostum, nægir þar að nefna þá Robert De Niro (sem vann hér með Scorsese í sjötta skiptið), Ray Liotta, Paul Sorvino og Joe Pesci sem hlaut óskarinn fyrir magnaðan leik sinn. Scorsese hlaut tilnefningu fyrir leikstjórn sína og myndin var einnig tilnefnd sem besta mynd ársins 1990. Eðalmynd, sem verður enn betri með hverju árinu. Snilld!

Í dag birtist á vef Heimssýnar hluti sunnudagspistils míns af heimasíðunni. Þar er um að ræða fyrsta hlutann, sem fjallar um Samfylkinguna og sundurleitni hennar á mörgum sviðum. T.d. er nefnd þar forystukreppa, deilur vegna Evrópumála og faldar áherslur varaformanns flokksins fyrir kosningar sem koma nú í ljós í Pandóru boxinu sem nú hefur verið opnað almenningi. Þetta er annar pistill minn sem birtist á vefnum og langt í frá sá síðasti. Mun ég nú taka sæti í ritstjórn heimasíðu Heimssýnar og hef í hyggju að taka þátt í innra starfi þessarar mikilvægu hreyfingar okkar sjálfstæðissinna í Evrópumálum. Mikilvægt er að vinna af krafti af því að styrkja okkar góðu hreyfingu enn frekar og ég vil taka þátt í því verki.
Vefur dagsins
Nk. sunnudag, 1. febrúar, verður liðin öld frá því heimastjórn var komið á hérlendis. Davíð Oddsson forsætisráðherra, opnaði í vikunni glæsilegan vef til minningar um þetta mikla afmæli. Um helgina verður haldið formlega upp á þessi tímamót. Ég hvet alla til að líta á vefinn í dag.
Snjallyrði dagsins
Frankly, my dear, I don't give a damn!
Rhett Butler í Gone with the Wind
Breytt 18.9.2006 kl. 08:02 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
27.1.2004 | 23:55
Engin fyrirsögn

Tilnefningar til Óskarsverðlaunananna voru kynntar í dag. Verðlaunin verða nú afhent í 76. skipti, en á öðrum tíma, til þessa hafa þau verið afhend í marsmánuði, en framvegis verða þau seinasta sunnudag í febrúarmánuði. Óhætt er að fullyrða að mikið af óvæntum uppákomum hafi verið að þessu sinni við tilnefningarnar. Fáum kom á óvart að The Lord of the Rings: The Return of the King seinasti hluti Hringadróttinssögu, skyldi hljóta flestar tilnefningar eða alls 11. Mest á óvart komu hinsvegar tilnefningar til leikflokkanna, en þar voru margir þekktir leikarar sem kepptu um Golden Globe sniðgengnir. Kvikmyndin Master and Commander hlaut 10 tilnefningar sem kom flestum á óvart og ennfremur þótti undrunarefni að myndin Seabiscuit skyldi tilnefnd sem besta myndin, en Cold Mountain sniðgengin í þeim flokki og fyrir leik Nicole Kidman. Tilnefndar sem besta mynd ársins eru: LOTR: The Return of the King, Lost in Translation, Master and Commander, Mystic River og Seabiscuit. Tilnefndir sem leikstjóri ársins voru: Sofia Coppola, Clint Eastwood, Peter Jackson, Fernando Meirelles og Peter Weir.



Í dag birtist á frelsinu pistill Mæju. Orðrétt segir hún: "Í síðustu viku var ég, aldrei þessu vant, vöknuð snemma að horfa á Ísland í bítið. Þar heyrði ég þingmann Samfylkingarinnar, Katrínu Júlíusdóttur, segja að hún neitaði að horfa á málin út frá sjónarhóli einstaklingsins, eins og við Heimdellingar erum þekktir fyrir, heldur vildi hún aðeins tala út frá samfélaginu. Þetta raskaði ró minni þennan morguninn. Hvað fær fólk til að halda svona löguðu fram? Þessi málflutningur er algengur hjá vinstri- eða jafnaðarmönnum. Hjá þeim hefur samfélagið öðlast sjálfstæða tilveru án frjálsra einstaklinga. Með þessum rökstuðningi leyfa þér sér að skerða frelsi fólks og skeyta engu um þarfir þess til að haga lífi sínu eftir eigin höfði. Robert Nozick bendir einmitt á það í bók sinni Anarchy, State and Utopia að þegar manneskja er notuð með þessum hætti gleymist það að einstaklingar hafa ólíkar þarfir og lifa ólíku lífi og ennfremur minnir hann á að menn eiga jú bara eitt líf. Ef fólk vill búa við raunverulegt réttlæti er því nauðsynlegt að horfa á heiminn með augum einstaklingsins ekki samfélagsins. Það er ekki hægt að fórna hagsmunum einstaklinga í þágu heildarinnar nema til að vernda líf og eignir borgaranna. Þetta er grundvallarmunurinn á skoðunum mínum og Katrínar Júlíusdóttur. Hún virðist vera tilbúin til að fórna hagsmunum einstaklinganna undir yfirskini jöfnuðar í samfélaginu. En hvað hún er góð!"
Horfði í gærkvöldi á endursýningu á Golden Globe verðlaunahátíðinni á Stöð 2. Það versta við að horfa á endurtekningu stórverðlauna sem þessara er hversu illa er gengið á ræður verðlaunahafa og þær illa þýddar í miklum flýti. Einnig eru þær stundum klipptar svo úr verður bara partur af þeirri snilld sem fram kemur. Það er alltaf erfitt að klippa svona dagskrá, mér persónulega fannst að hefði mátt klippa meira af ræðum verðlaunahafa í sjónvarpi en kvikmyndum. Verst var farið með góða ræðu Michael Douglas sem hlaut Cesil B. DeMille verðlaunin. Senuþjófar kvöldsins í ræðum voru hinsvegar Bill Murray, Ricky Gervais, Al Pacino, Meryl Streep og Michael. Horfði á í nótt og hafði gaman af, en gott að horfa á samantektina, hafi maður séð hitt. Seinna um kvöldið sýndi Stöð 2, kvikmyndina On Golden Pond. Hafði ekki fyrr séð þessa kvikmynd, en lengi viljað sjá hana. Var þetta seinasta kvikmyndahlutverk leiksnillingsins Henry Fonda þar sem hann leikur á móti hinni stórfenglegu leikkonu Katharine Hepburn og dóttur sinni Jane Fonda. Þessi mynd er mjög sterk að öllu leyti, vel byggð upp og frábærlega leikin af leiksnillingunum Fonda og Hepburn, sem bæði hlutu óskarinn fyrir leik sinn, ennfremur fékk handrit myndarinnar óskarinn. Magnaður samleikur tveggja leiksnillinga - mynd sem allir verða að sjá.

Keypti mér um daginn diskinn með tónlistinni úr þriðju og seinustu mynd Hringadróttinssögu. Er mikill aðdáandi þessara mynda og á tónlistardiskana úr öllum myndunum. Titillag þessarar myndar er Into the West og er tilnefnt til Óskarsverðlaunanna sem kvikmyndalag ársins og hefur þegar hlotið Golden Globe. Mögnuð tónlist Howard Shore nýtur sín vel á þessari góðu plötu, falleg tónlist sem er órjúfanlegur hluti myndanna. Er enn að lesa Einar Ben en stendur til að lesa bók Ólafs Jóhannessonar fyrrum forsætisráðherra, Lög og réttur. Las hana fyrir nokkrum árum, en stefni að því að gera aftur núna.
Vefur dagsins
Tilnefningar til óskarsverðlaunanna voru kynntar í dag. Verðlaunin verða afhent í Los Angeles, 29. febrúar nk. Kynnir hátíðarinnar verður Billy Crystal. Í dag bendi ég á heimasíðu Óskarsverðlaunanna 2004.
Snjallyrði dagsins
Go ahead, make my day!
(Dirty) Harry Callahan í Sudden Impact
Breytt 18.9.2006 kl. 08:02 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
26.1.2004 | 20:50
Engin fyrirsögn

Golden Globe, kvikmynda- og sjónvarpsverðlaunin voru afhent í Los Angeles sl. nótt í 61. skiptið. Sigurvegari kvöldsins var The Lord of the Rings: The Return of the King. Var tilnefnd til fimm verðlauna en hlaut fern. Var valin besta dramatíska kvikmynd ársins og hlaut Peter Jackson leikstjóri myndarinnar, leikstjóraverðlaunin. Myndin hlaut ennfremur verðlaun fyrir eftirminnilega tónlist Howard Shore og besta kvikmyndalagið, Into The West, sungið af Annie Lennox. Kvikmyndin Lost in Translation var valin besta gaman/söngvamynd ársins, hlaut verðlaun fyrir besta handrit ársins og aðalleikara í gamanmynd, Bill Murray. Diane Keaton hlaut verðlaunin sem leikkona í gamanmynd fyrir leik sinn í Something's Gotta Give. Sean Penn var valinn besti leikarinn í dramatískri kvikmynd fyrir magnaðan leik sinn í Mystic River. Charlize Theron hlaut verðlaunin sem besta leikkonan í dramatískri kvikmynd fyrir leik sinn í Monster. Tim Robbins var valinn leikari í aukahlutverki fyrir Mystic River, og Renée Zellweger var valin leikkona í aukahlutverki fyrir Cold Mountain.



Að þessu sinni fjalla ég um hina sundurleitu Samfylkingu sem allsstaðar blasir við stjórnmálaáhugamönnum í umræðu um t.d. varnarmál og evrópumál seinasta árið, fyrir og eftir kosningarnar í fyrra, og nú hefur innri valdabarátta og sundurlyndi verið staðfest endanlega í athyglisverðri grein Birgis Hermannssonar. Ég tjái mig um kosningaslaginn í demókrataflokknum í Bandaríkjunum vegna komandi forsetakosninga þar sem hafa orðið miklar breytingar á fylgi frambjóðenda eftir að Howard Dean missti flugið og öskraði til stuðningsmanna sinna. Að lokum fjalla ég um dómgreindarbrest varaformanns Frjálslynda flokksins sem hefur sýnt sinn innri mann vel á spjallvefum seinustu daga og vakið athygli Morgunblaðsins og Stöðvar 2 með orðaflaumi sínum.

Í gestapistli á heimasíðunni fjallar Ásta Möller um Fréttablaðið og fylgir eftir umræðu um blaðið sem hún var þátttakandi í undir lok seinasta árs. Orðrétt segir Ásta: "Þessari umræðu var haldið áfram í öllum fjölmiðlum og þar hafa vefsíður og spjallsíður ekki verið undanskildar. (Reyndar eru skiptar skoðanir á því hvort vefmiðlar og spjallsíður teljist til fjölmiðla. Í erlendri grein sem ég las nýverið var því haldið fram að í Bandaríkjunum teldust vefmiðlar ekki til fjölmiðla (mass media) vegna þess að útbreiðsla netsins nær aðeins til hluta þjóðarinnar. Aðgengi og útbreiðsla netsins á Íslandi er hins vegar með þeim hætti að óhætt er að telja netmiðla til fjölmiðla). Margir sem hafa tekið þátt í umræðunni hafa haldið fram hlutleysi og sjálfstæði blaðamanna gagnvart eigendum sínum og fordæmt hugleiðingar í aðra veru." Góður pistill, hjá Ástu. Vil ennfremur þakka henni góð orð í minn garð í pistlinum.

Í góðum pistli Ragnars á frelsinu í dag fjallar hann um lög um tóbaksvarnir. Orðrétt segir hann: "Fyrir skömmu síðan var ég staddur í matvöruverslun og beið eftir að fá afgreiðslu. Á undan mér í röðinni var enskumælandi kona sem var ráðvillt á svip. Hún hafði greinilega verið nokkra stund inni í búðinni en ekki fundið það sem hún var að leita að. Að lokum gafst hún upp og fór að kassanum og spurði afgreiðslumanninn: "Im sorry, but dont you sell cigarettes here? Afgreiðslumaðurinn brosti. Þetta var greinilega ekki í fyrsta skipti sem hann hafði verið spurður að þessu. "Yes, we do. But in this country we have to hide them. Svo hlógu þau bæði. Maðurinn hélt áfram að afgreiða viðskiptavinina en konan fór út, með sígaretturnar og góða sögu til að segja vinum sínum af hinu furðulega landi Íslandi." Ennfremur birtist á frelsinu í dag pistill Erlings um skólagjöld í HÍ og umfjöllun um stjórnmálaskóla Sjálfstæðisflokksins sem framundan er.
Vefur dagsins
Í dag bendi ég á vef míns góða félaga, Kjartans Vídó Ólafssonar. Á vef sínum tjáir Kjartan skoðanir sínar og fer yfir málin með sínum hætti. Í gær fékk ég heiðurssess á vef hans og þakka honum kærlega fyrir skrif hans í minn garð og góð orð.
Snjallyrði dagsins
Það er betra fyrir mannkynið að leyfa manni að lifa eins og honum þykir gott en að kúga hvern mann til að lifa eins og öllum gott þykir.
John Stuart Mill
Breytt 18.9.2006 kl. 08:02 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
24.1.2004 | 17:00
Engin fyrirsögn

Davíð Oddsson forsætisráðherra, fjallaði á fjölmennum laugardagsfundi sjálfstæðismanna í Valhöll í morgun um varnarsamstarfið við Bandaríkin og sagði að Íslendingar myndu horfa til Bandaríkjanna til að tryggja öryggi þjóðarinnar. Sagði hann að viðræður um varnarsamstarf við bandaríkjamenn væru í viðkvæmri stöðu og málið langt í frá leyst. Sagði hann aðspurður að fundir með fulltrúum ríkisstjórnar Bandaríkjanna væru vart til þess fallnar að auka bjartsýni um farsæla lausn málsins. Frægt varð er Ingibjörg Sólrún Gísladóttir sagði á opnum fundi framtíðarnefndar Samfylkingarinnar í byrjun mánaðarins að Íslendingar ættu að skilgreina varnarhagsmuni sína í tengslum við varnarhagsmuni Evrópu og beina þannig sjónum sínum í ríkari mæli að Evrópu fremur en Bandaríkjunum. Sagði hún þar að Samfylkingin stæði nú andspænis því verkefni að móta nýja stefnu í öryggis- og varnarmálum í ljósi nýrra aðstæðna eftir að Bandaríkjamenn teldu ekki lengur þörf á þeim varnarviðbúnaði sem verið hefði í herstöðinni í Keflavík. Var með hreinum ólíkindum að sjá varaformann Samfylkingarinnar draga fram stefnuna í varnar- og Evrópumálum sem falin var fyrir seinustu kosningar. Kemur þarna staðfesting á fyrri ummælum flokksmanna dágóðu fyrir kosningar. Aðspurður um ummæli ISG sagði Davíð að það væri með ólíkindum að hlusta á þann málflutning sem væri eins og aftan úr grárri forneskju. Sagði Davíð að hann hefði getað ímyndað sér að finna ámóta ummæli í Þjóðviljanum fyrir um 15 til 20 árum. Benti hann á að í stefnu Samfylkingarinnar á vefnum væri ekkert fjallað um stefnu varðandi samstarf við Bandaríkin.


Horfði í gærkvöldi enn einu sinni á magnaða stórmynd Martin Scorsese, Raging Bull. Myndin var gerð árið 1980 og hefur staðist tímans tönn með eindæmum vel. Í henni er sögð saga boxarans Jake La Motta, en hann var fyrsti boxarinn sem náði að sigra Sugar Ray Robinson. Eftir það lá leiðin að heimsmeistaratitlinum og varð La Motta einn frægasti boxari 20. aldarinnar. Í myndinni er rakin saga hans á fimmta áratugnum, sem var gullaldartími kappans. Robert De Niro á sannkallaðan stjörnuleik í hlutverki La Motta og hefur aldrei verið betri. Hlaut óskarinn fyrir leik sinn. Kemur með frammistöðu lífs síns. Joe Pesci og Cathy Moriarty eru einnig alveg mögnuð í sínum hlutverkum. Kvikmyndatakan er mjög sérstök og flott, einkum í hinum eftirminnilegu boxatriðum. Myndin er í svarthvítu og gefur það henni sérstakan blæ. Leikstjórnin er alveg fullkomin og í raun undarlegt að Scorsese hafi ekki hlotið óskarinn fyrir hana á sínum tíma. Í heildina er Raging Bull ein besta kvikmynd áttunda áratugarins, sannkölluð tímamótamynd.

Var hið fínasta sjónvarpskvöld í gærkvöldi. Við vorum bara heima og horfðum á sjónvarpið í rólegheitum. Í ítarlegum Idol þætti var litið yfir ferðalag fyrstu íslensku Idol stjörnunnar, Karls Bjarna Guðmundssonar allt frá áheyrnarprófi á Hótel Loftleiðum í lok ágúst til lokakvöldsins í Smáralind, þann 16. janúar er hann vann keppnina. Fínn þáttur og farið vel yfir sögu þátttakandans í keppninni frá A-Ö. Að því loknu var litið á American Idol, nóg er af hæfileikalausum söngvurum en á milli þeirra leynist þó næsta stórstjarna bandarísks tónlistarheims. Leit svo á Raging Bull og átti svo gott spjall við vini á MSN og rabbaði pólitík og margt fleira.
Vefur dagsins
Á morgun verða Golden Globe verðlaunin afhent í Los Angeles í 61. skiptið. Bendi í dag á heimasíðu Golden Globe. Einnig er hægt að líta á tilnefningar til verðlaunanna.
Snjallyrði dagsins
Þegar ekki er nauðsynlegt að breyta, þá er nauðsynlegt að breyta ekki.
Falkland lávarður
Breytt 18.9.2006 kl. 08:02 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
23.1.2004 | 23:59
Engin fyrirsögn

1. maí nk. eru sjö ár frá því að Verkamannaflokkurinn vann sigur í þingkosningum í Bretlandi og komst til valda, þá eftir 18 ára valdaferil breska Íhaldsflokksins. Frá 1989 hefur Íhaldsflokkurinn ekki náð að komast yfir 40% markið í skoðanakönnunum í Bretlandi. Þáttaskil hafa hinsvegar orðið í breskum stjórnmálum eftir atburði vikunnar. Í nýrri skoðanakönnun Daily Telegraph mælist Íhaldsflokkurinn með 40% fylgi. Hefur flokkurinn rúmlega 5 prósentustiga forskot á Verkamannaflokkinn. Frjálslyndir demókratar hafa 19% fylgi. Með þessu hefur Michael Howard tekist það sem engum öðrum leiðtoga flokksins hefur tekist eftir valdaferil Margaret Thatcher, sem var forsætisráðherra Bretlands í rúm 11 ár. Staða Íhaldsflokksins hefur styrkst mjög eftir að leiðtogaskipti urðu í flokknum í október 2003 er Iain Duncan Smith var felldur af leiðtogastóli og Howard tók við af honum. Pólitísk staða Tony Blair forsætisráðherra, hefur veikst mjög seinasta ár vegna mála í kjölfar dauða Davids Kelly. Hutton nefndin sem skipuð var til að rannsaka það mál allt saman skilar niðurstöðu sinni á þriðjudag. Hefur Blair sagt að hann muni segja af sér ef úrskurður nefndarinnar verði sér í óhag. Þingkosningar verða í Bretlandi í síðasta lagi í maí 2006, en þá lýkur fimm ára kjörtímabili ríkisstjórnarinnar.



Í pistli Heiðrúnar Lindar á frelsinu í dag fjallar hún um niðurskurðarhugmyndir á Landsspítala háskólasjúkrahúsi sem hafa verið mikið í umræðunni seinustu daga. Orðrétt segir hún: "veltir greinahöfundur því fyrir sér hvernig það megi vera að sá forstjóri sem ráðinn er og aðrir embættismenn, skulu aldrei verða varir við yfirvofandi fjárhagsvanda fyrr en mál eru komin í óefni? Væri hér um að ræða fyrirtæki í einkageiranum má ætla að sá hinn sami yrði ekki langlífur í starfi, enda eiga eigendur heimtu á að vel sé haldið á fjármálum fyrirtækisins. Sem eigendur Landspítala-háskólasjúkrahúss, eiga skattgreiðendur að gera þá kröfu að fjármagni sem varið er til heilbrigðismála sé vel varið. Æ stækkandi útgjaldabagga skal ekki sólundað í embættismannafargan þar sem menn benda hver á annan til að firra sig ábyrgð. Vel má vera að heilbrigðisþjónustan kunni að vera orðin báknið eitt sem hætt er að lúta stjórn mannsins. Við slíkar aðstæður er þá fátt betra en að veita einkaframtakinu svigrúm til athafna og létta þannig á erfileikum sem ríkið fær ekki leyst úr." Góður pistill venju samkvæmt hjá Heiðrúnu, er mjög sammála skrifum hennar.

Horfði í gær enn einu sinni á magnað meistaraverk Martin Scorsese, Taxi Driver. Hiklaust ein mesta snilld sem sést hefur á hvíta tjaldinu. Ófögur en sannarlega óviðjafnanleg úttekt leikstjórans á einmanaleika og stórborgarfirringu New York. Sögð saga leigubílstjórans Travis Bickle sem vinnur á næturnar sökum svefnleysis og verður vitni að ógeðfelldu næturlífi borgarinnar með öllum sínum hryllingi. Hann er einfari í eðli sínu og á mjög erfitt með að blanda geði við annað fólk og er í raun kominn á ystu nöf. Hann kynnist Betsy sem er að vinna að forsetaframboði Charles Palantine. Þau eiga erfitt með að ná saman og slíta sambandinu. Er Travis kynnist Iris, hinni tólf ára vændiskonu brestur eitthvað innra með honum og hann tekur miklum stakkaskiptum og verður hann fullsaddur á allri spillingunni og ósómanum í kringum sig. Þessi fyrrum Víetnam-hermaður verður hrein tímasprengja er vopnast og beinist reiði hans loks að hórumangara stelpunnar. Robert De Niro fór á kostum í hlutverki leigubílstjórans. Sannkallaður stjörnuleikur, ein besta frammistaða De Niro og ein besta kvikmynd áttunda áratugarins. Mögnuð kvikmyndaupplifun.

Keypti í vikunni disk sem ég hafði lengi haft áhuga á að eignast. Keypti mér safndisk með 18 af bestu lögum poppgoðsins Bob Dylan. Þarna eru m.a. eilífir smellir á borð við Blowin' In The Wind, The Times They Are A-Changin, Mr. Tambourine Man, Like A Rolling Stone, Just Like A Woman, Knockin' On Heaven's Door, Shelter From The Storm og mörg fleiri. Skyldueign fyrir alla sanna tónlistaráhugamenn. Er þessa dagana að lesa á ný fyrsta bindi ævisögu Einars Ben, eftir Guðjón Friðriksson. Alveg mögnuð bók um einn merkasta Íslending sögunnar, mann sem setti sterkan svip á mannlíf síns tíma.
Vefur dagsins
Kíki á hverjum degi á íþróttavefinn gras.is. Þar er að finna vandaða fréttaumfjöllun um íþróttaviðburði og úrslit leikja. Bendi í dag á þennan fína íþróttavef.
Snjallyrði dagsins
Frelsisástin beinist að öðrum; valdafýsnin er sjálfselska.
William Hazlitt
Breytt 18.9.2006 kl. 08:02 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
22.1.2004 | 22:28
Engin fyrirsögn

Hæstiréttur sneri í dag við dómi héraðsdóms Norðurlands í leikhússtjóramálinu. Í dómsúrskurði héraðsdóms 14. júlí 2003 kom fram að við ráðningu í stöðu leikhússtjóra hjá Leikfélagi Akureyrar sumarið 2002 hefði verið brotið gegn lögum um jafna stöðu og jafnan rétt karla og kvenna. Í þeim dómi, dæmdi rétturinn Leikfélagið til að greiða Jafnréttisstofu vegna Hrafnhildar Hafberg, sem ekki fékk stöðu leikhússtjóra, tæplega eina miljón króna. Hæstiréttur sýknaði hinsvegar Leikfélagið að fullu af skaðabótakröfu vegna ráðningarinnar og taldi ráðninguna ekki brot á jafnréttislögum. Er dómur héraðsdóms féll sagði Valgerður Bjarnadóttir bæjarfulltrúi VG, af sér sem formaður leikhúsráðs og lét skömmu síðar af embætti sem framkvæmdastjóri Jafnréttisstofu, að ósk félagsmálaráðherra. Var ráðning Þorsteins Bachmanns í starfið, umdeild vegna stöðu Valgerðar og starfs hennar hjá Jafnréttisstofu. Kom mál þetta allt mjög illa fyrir Leikfélagið sem átti í miklum fjárhagserfiðleikum fyrir. Málaferli vegna ráðningar leikhússtjóra ásamt miklum peningalegum erfiðleikum hefur skekið LA seinustu tvö ár. Mikilvægt er að þessu máli sé nú lokið og hægt sé að horfa fram á veginn. Mikið ánægjuefni er að Akureyrarbær og Leikfélagið vinni sigur í þessu máli. Þorsteinn Bachmann leikhússtjóri, sagði upp störfum í dag, sama dag og dómur féll í þessu máli. Mun dómsmálið ekki tengjast uppsögn hans.



Í pistli dagsins á frelsinu fjalla ég um mikilvægi þess að ríkið fari af fjölmiðlamarkaði. Aldrei er of oft minnt á skoðanir okkar ungra sjálfstæðismanna og tækifærið til þess nú er menntamálaráðherra lýsir yfir þvert á móti skoðunum okkar að varðveita skuli úrelt fyrirkomulag á rekstri RÚV. Þeirri skoðun ráðherra erum við svo sannarlega algjörlega mótfallin og ítreka ég það í þessum pistli. Í pistlinum segir: "Skömmu eftir að Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir menntamálaráðherra, tók við embætti sínu um áramótin sagði hún að efla þyrfti RÚV og styrkja. Skoðanir menntamálaráðherra á hlutverki RÚV og mikilvægi þess fara ekki saman við þær skoðanir sem ungir sjálfstæðismenn hafa á RÚV. Afstaða ungra sjálfstæðismanna til fjölmiðlunar af hálfu ríkisins er alveg skýr. Í ályktun efnahags- og viðskiptanefndar SUS sem samþykkt var á þingi þess í Borgarnesi, 12. 14. september 2003 kemur skýrt fram vilji ungs hægrifólks til þess að hafinn verði undirbúningur þess að einkavæða RÚV og selja strax t.d. Rás 2. Það er okkur í SUS mikið kappsmál að gerðar verði róttækar breytingar á rekstri RÚV og það einkavætt. Ríkið á ekkert erindi á fjölmiðlamarkaði á 21. öld."

Horfði í gær enn einu sinni á kvikmyndina The Contender, sem er vandaður og vel gerður pólitískur spennutryllir eins og þeir gerast bestir. Hér er sögð sagan af því er Jackson Evans, forseti Bandaríkjanna, tekur þá örlagaríku ákvörðun að tilnefna fyrstu konuna, öldungadeildarþingmanninn Laine Hanson sem varaforsetaefni sitt er sitjandi varaforseti Bandaríkjanna fellur frá rétt fyrir lok seinna kjörtímabils forsetans. Hann sér í því tvenna möguleika, báða mjög góða fyrir hann og arfleifð sína. Hann yrði með því fyrsti forseti Bandaríkjanna til að útnefna konu sem varaforseta sinn og hann yrði með því öruggur partur af stjórnmálasögu sinnar samtíðar. Er val forsetans á henni hefur verið tilkynnt opinberlega koma fram gögn sem greina í smáatriðum frá afar frjálslegum kynferðislegum athöfnum hennar á yngri árum sínum og með því kemst allt í uppnám þar sem Öldungadeild Bandaríkjaþings (sem þarf að staðfesta varaforsetaefni sitjandi forseta) telur slíkt vart hæfa tilvonandi varaforseta Bandaríkjanna. Meðal þeirra sem ganga lengst fram í andúð sinni á vegtyllu hennar er repúblikaninn Shelly Runyon, en honum er mjög í nöp við hana og ekki síst fortíð hennar. Hann ákveður að reyna hvað sem hann getur til að spilla fyrir framavonum hennar. Hér smellur allt saman til að skapa hina einu sönnu pólitísku spennumynd. Jeff Bridges, Joan Allen og Gary Oldman fara á kostum í magnaðri mynd.

Meðal þeirra platna sem ég fékk í jólagjöf var magnaður diskur hljómsveitarinnar Mínus, sem ber hið frumlega nafn, Halldór Laxness. Var valin poppplata ársins 2003, átti þann heiður svo sannarlega skilið. Hrátt og gott rokk sem öllum ætti að líka vel við. Hef seinustu daga verið að lesa nokkrar bækur, t.d. árbækur áranna 1988-1995 sem ég keypti nýlega. Ítarlegar og mjög góðar. Svo kíki ég alltaf reglulega í bók Ólafs Teits og Gísla Marteins, Bók aldarinnar, sem kom út árið 1999. Þar birtist fróðleg samantekt yfir það sem bar hæst og lægst á 20. öldinni. Settu höfundar saman ýmsar tölulegar upplýsingar frá 20. öld, allt frá stigahæstu skákmönnum til hættulegustu vegarkafla landsins. Öllu er skemmtilega pakkað saman í athyglisverða bók. Mögnuð lesning.
Vefur dagsins
Alltaf er gaman af pólitískri umfjöllun á netinu. Lít ég oft á vefinn Politics Online, þar sem er lífleg umfjöllun um stjórnmál frá mörgum hliðum. Bendi í dag á þennan góða vef.
Snjallyrði dagsins
Þeirri hugmynd verður að hafna, að lögbrot séu sök þjóðfélagsins en ekki glæpamannanna.
Ronald Reagan forseti Bandaríkjanna (1911)
Breytt 18.9.2006 kl. 08:02 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
21.1.2004 | 17:30
Engin fyrirsögn

George W. Bush forseti Bandaríkjanna, hóf formlega kosningabaráttu sína fyrir forsetakosningarnar með stefnuræðu sinni á Bandaríkjaþingi í nótt. Þetta er síðasta stefnuræða forsetans á þessu kjörtímabili. Þar fór hann yfir t.d. innrásina í Íraka, heilbrigðismál, herferð gegn hryðjuverkum og viðskiptamál. Forsetinn sagði í ræðunni fall ríkisstjórnar Saddams Husseins mikið framfaraspor og staðhæfði ennfremur að festa í baráttunni við hryðjuverkamenn og stuðningsríki þeirra hefði þegar skilað margþættum árangri. Einkum hefði það sést er tekist hefði að sannfæra Moammar Gaddafi forseta Líbýu, um skynsemi þess að hætta við áform sín um að koma sér upp gjöreyðingarvopnum. Bush varaði landsmenn við því að sofna á verðinum, nauðsyn væri til að halda vöku sinni, enda óvinurinn ekki af baki dottinn. Hvatti hann í ræðunni þingið til að endursetja föðurlandslögin svonefndu, sem veita lögreglu og yfirvöldum öryggismála mikið vald en þrengja almenn réttindi manna. Þetta væri ill nauðsyn í baráttunni við hryðjuverkamenn. Í dag hélt Bush fundi með námsmönnum í Ohio og Arizona, og kynnti betur stefnu stjórnar sinnar. Forsetakosningar verða í Bandaríkjunum, 2. nóvember nk.



Í dag birtist góður pistill Helgu um R-listann. Orðrétt segir hún: "R-listinn hefur löngum verið talinn duglegur við að taka á vandamálum. Þegar nektardansstaðir ætluðu að tröllríða borginni með öllum sínum ósóma, var brugðið á það ráð að banna þá iðju sem einkadans nefnist. Ýmsir vildu meina að vændi væri einnig stundað á slíkum stöðum og var það notað sem rök fyrir banninu. Bannið hafði tilætluð áhrif því nektardansstaðirnir hurfu úr borginni. Sá möguleiki að vinna sér inn pening með því að fækka fötum hvarf einnig. Vændið hvarf þó ekki, þrátt fyrir að það færðist úr augsýn stjórnmálamannana. Nei, þeim R-listamönnum tókst ekki, öllum til mikillar undrunar, að útrýma vandamálinu. Í stað þess að sjá að sér og hverfa frá banninu ályktaði einhver nefnd sem kennd er við jafnrétti um hvernig best væri nú að útrýma vandamálinu á landsvísu. Var sú ályktun utan skilgreinds verksviðs nefndarinnar." Á frelsinu er margt annað efni í dag, t.d. pistill Steina um WTO og góð grein eftir Jón Elvar Guðmundsson.

Tilkynnt var á mánudag um tilnefningar til Bafta, bresku kvikmyndaverðlaunanna 2004. Kvikmyndirnar Cold Mountain og Lord of the Rings: The Return of the King hlutu flestar tilnefningar. Cold Mountain, sem gerist í bandaríska borgarastríðinu, hlaut tilnefningar í alls 13 flokkum, m.a. tilnefnd sem besta kvikmynd ársins og fyrir leik Jude Law og Renée Zellweger. Athygli vakti að aðalleikkonan Nicole Kidman hlaut ekki tilnefningu. ROTK hlaut 12 tilnefningar, m.a. fyrir leikstjórn og sem besta mynd ársins. Auk þessara tveggja mynda voru tilnefndar sem besta mynd: Big Fish, Lost in Translation og Master and Commander. Leikkonan Scarlett Johansson kom á óvart og hlaut tvær tilnefningar í flokknum besta leikkonan, bæði fyrir Lost in Translation og Girl with a Pearl Earring. Sama var með Sean Penn sem bæði var tilnefndur fyrir leik sinn í Mystic River og 21 Grams. Fyrir leikstjórn voru tilnefnd Peter Jackson, Tim Burton, Anthony Minghella, Sofia Coppola og Peter Weir. Mikla athygli vakti að fáir breskir leikarar voru tilnefndir þessu sinni. Á seinustu árum hefur Bafta fest sig í sessi sem ein af helstu kvikmyndahátíðum heims og er komin þar á svipaðan stall og Golden Globe og Óskarsverðlaunin og vilja oft gefa góða mynd um hvað gerist á Óskarnum. Tilnefningar til Óskarsins verða tilkynntar nk. þriðjudag. Bafta verðlaunin verða afhend 15. febrúar nk.

Í gærkvöldi horfði ég enn einu sinni á meistaraverk Sir Alfred Hitchcock, Psycho. Það var árið 1960 sem Hitch gerði þessa mögnuðu kvikmynd, eftir samnefndri bók Robert Bloch. Var lítil og ódýr í framleiðslu, en hreint meistaralega uppsett í spennu og hryllingi. Hér er sögð saga ungrar konu sem stelur peningafúlgu frá vinnuveitanda sínum og leggur á flótta með þá. En hún mætir skapara sínum þegar hún tekur þá örlagaríku ákvörðun að eyða nóttinni á hinu sögufræga Bates-móteli. Skartar einu eftirminnilegasta morðatriði kvikmyndasögunnar, hinu fræga sturtuatriði - þar sem varla sést blóðdropi en leikstjórinn beitir klippingum og áhrifstónlist til að ná fram hryllingnum. Fleiri atriði má telja upp, sem öll ná fram hámarksáhrifum með lágmarks blóðsúthellingum. Alfred Hitchcock kallaði sjálfur myndina lítinn og nettan brandara en fáum hefur tekist að útskýra þá lýsingu sómasamlega. Kvikmyndin stendur enn í dag fyrir sínu og meira en það. Meistaraverk!
Vefur dagsins
Breski Íhaldsflokkurinn er með góðan vef á netinu. Þar er hægt að kynnast betur stefnumálum flokksins og pólitískri sýn leiðtoga hans, Michael Howard. Bendi í dag á heimasíðu breska Íhaldsflokksins.
Snjallyrði dagsins
Ofstjórn er versti vargur allra lýða.
Davíð Stefánsson skáld frá Fagraskógi (1895-1964)
Breytt 18.9.2006 kl. 08:02 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
20.1.2004 | 16:56
Engin fyrirsögn

Fyrstu forkosningar demókrata vegna forsetakosninganna í nóvember, voru haldnar í Iowa í gær. Skoðanakannanir í Iowa seinustu daga höfðu sýnt að það sem áður hafði verið talið kapphlaup á milli Howard Dean og Dick Gephardt, varð skyndilega að sigurför John Kerry og John Edwards, sem bættu mjög við sig fylgi á lokasprettinum. Niðurstaðan varð að bandaríski öldungadeildarþingmaðurinn John Kerry sigraði forkosningarnar með afgerandi hætti. Eftir þessi úrslit er ekki ólíklegt að Howard Dean sem talinn var sigurstranglegastur frambjóðenda flokksins á landsvísu missi forystusætið í slagnum. Er greinilegt að spá mín sem ég setti fram í grein um miðjan desember í kjölfar handtöku Saddams Husseins, að afstaða Dean til Íraksstríðsins myndi hafa áhrif á stöðu hans í forkosningunum, hefur gengið eftir. Nú skyndilega er Dean kominn í varnarstöðu í forsetaslagnum meðan Kerry sækir að honum. Úrslitin í Iowa voru mikið reiðarslag fyrir Richard Gephardt fulltrúadeildarþingmann frá Missouri. Mun hann tilkynna formlega í dag brotthvarf sitt úr forsetaslagnum. Framundan er spennandi kosningaslagur í New Hampshire þar sem frambjóðendurnir hitta fyrir Joe Lieberman og Wesley Clark, sem tóku ekki þátt í Iowa. Kosningaslagur demókrata sem eitt sinn var talinn fyrirfram ráðinn, er allt í einu orðinn hnífjafn.



Á frelsinu í dag birtist góður pistill Tobbu um skipulagsmál í Reykjavík, eða öllu heldur skipulagsklúður meirihluta R-listans. Orðrétt segir Tobba í pistlinum: "Mörg hver alþjóðleg vörumerki sem einmitt mynda umhverfi fyrir mannlíf og ferðamenn. R-listinn rekur fyrir skattpeninga Reykvíkinga sérstakt fyrirtæki, Aflvaka, sem hefur það verkefni að styrkja miðbæinn og verslun í Reykjavík. En ekkert virkar, R-listinn hefur gefist upp. Nýjasta dæmið um áhugaleysi borgaryfirvalda á verslun í Reykjavík er að ekki skuli hafa fundist lóð við hæfi fyrir IKEA sem opnar nýja búð á þessu ári í Garðabæ. Reykvíkingar eiga það sameiginlegt að bera hag höfuðborgarinnar fyrir brjósti. Framtíð þessarar borgar er heldur ekki neitt einkamál stjórnmálamanna sem fara með tímabundin völd heldur skiptir framtíð Reykjavíkur bæði einstaklinga og fyrirtæki mjög miklu. Það er því komið að því að Reykvíkingar krefjist þess að hlustað sé á óskir þeirra frekar en að hlusta á lýðræðislega kjörna fulltrúar sína segja þeim hvað þeir geta eða geta ekki fengið." Ennfremur bendi ég á ályktun Heimdallar um tónlistarsjóð, DV grein Snorra og umfjöllun um jafnréttisnefnd borgarinnar.

Í gærkvöldi fór ég á bæjarmálafund í Kaupangi. Þar var farið yfir það sem er að gerast í bænum, kynning á bæjarmálum vegna bæjarstjórnarfundar í dag. Bæjarstjóri og bæjarfulltrúar fóru yfir helstu mál eftir áramótin. Að loknum ítarlegum umræðum um þau hélt Halldór Blöndal forseti Alþingis, ræðu. Fór Halldór yfir stöðu stjórnmála og málefni kjördæmisins, en hann og Arnbjörg Sveinsdóttir hafa seinustu vikur verið í fundaferð um kjördæmið. Að þessu loknu sat hann fyrir svörum og varð skemmtileg stjórnmálaumræða. Eftir fundinn var mikið rætt um málin meðal fundargesta yfir kaffisopa. Eftir fundinn hélt ég heim og horfði á úrvalsmyndina Seven með Brad Pitt og Morgan Freeman. Alltaf mögnuð mynd, hef haft mikinn áhuga á myndum Davids Finchers og tel hann með betri nútímaleikstjórum í dag.

Seinustu vikur hef ég tekið eftir að miklu fleiri líti á bloggið en áður, og margir nýjir aðilar farnir að koma í heimsókn hingað. Fagna ég því að fólk líti á bloggið og kynni sér skoðanir mínar og skrif um stjórnmál og mörg önnur áhugamál mín. Ég vil benda þeim sem þetta lesa að hafa samband við mig með einkapósti ef það vill ræða nánar skrifin hvort sem er á heimasíðunni eða bloggvef mínum. Ekkert mál er að senda mér prívatpóst með því að smella á tengla sem er að finna á báðum þeim vefum sem ég skrifa á reglulega. Fagna ég öllum skoðanaskiptum þar eða í gegnum MSN spjallkerfið. Jafnframt vil ég þakka þeim sem þegar hafa samband og ræða málin beint við mig og fara yfir skrif hér.
Vefur dagsins
Kvikmynd Sofiu Coppola, Lost in Translation verður frumsýnd hérlendis eftir nokkrar vikur. Í aðalhlutverki í henni eru Scarlett Johansson og Bill Murray, og þykja bæði sýna stjörnuleik. Hvet alla til að líta á heimasíðu myndarinnar.
Snjallyrði dagsins
Glæpur kapítalismans er ójöfn dreifing gæða, en glæpur sósíalismans er jöfn dreifing ömurleika.
Sir Winston Churchill forsætisráðherra Bretlands (1874-1965)
Breytt 18.9.2006 kl. 08:02 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
19.1.2004 | 17:52
Engin fyrirsögn

Mikið hefur seinustu daga verið rætt um hvort Pétur Blöndal alþingismaður, sé vanhæfur til formennsku í efnahags- og viðskiptanefnd, á meðan málefni SPRON verða rædd í nefndinni. Í dag tilkynnti Halldór Blöndal forseti Alþingis, að hann teldi enga ástæðu til athugasemda við setu og formennsku Péturs í nefndinni. Hann sé hæfur og vísar til laga þar um og bendir ennfremur á úrskurð Ólafs G. Einarssonar forseta Alþingis, árið 1995. Á fundi forsætisnefndar í morgun samþykkti meirihluti nefndarmanna álit forseta á máli Péturs. Minnihluti forsætisnefndar, fulltrúar stjórnarandstöðuflokkanna nefndarinnar, voru andsnúnir tillögu forseta, enda voru það fulltrúar þessara flokka sem upphaflega lögðu fram tillögu um vanhæfi Péturs. Í úrskurði stendur: "Hvorki í stjórnarskránni né þingskapalögum er að finna neinar reglur sem útiloka þingmann frá því að taka þátt í meðferð máls sem hann varðar sérstaklega ef undan er skilið ákvæði í 4. mgr. 64. grein þingskapalaga þar sem segir að enginn þingmaður megi greiða atkvæði með fjárveitingu til sjálfs sín. En þar með eru vanhæfisreglur á vettvangi löggjafarvaldsins tæmandi taldar og engum öðrum til að dreifa." Farið hefur verið fram á að Páll Hreinsson skili skýrslu fyrir lok vorþings um þessi mál.



Að þessu sinni fjalla ég um sölu Eimskips á sjávarútvegsfyrirtækjum sínum í nafni Brims í vikunni. Einkum tek ég fyrir söluna á Útgerðarfélagi Akureyringa og fer yfir sölumálið og þá framtíð sem blasir við okkur hér á Akureyri í kjölfar sölunnar. Verksmiðja ÚA á Akureyri er án nokkurs vafa ein sú fullkomnasta í fiskiðnaði hérlendis. Mikill auður er fólginn í starfsfólkinu hér á Akureyri og vinnslukerfinu hér. Það er gott að vita að nýir eigendur stefna að því að reka fyrirtækið með krafti og efla ef marka má yfirlýsingar þeirra. Enginn vafi er á því í mínum huga að nýir eigendur muni nýta vel þá þekkingu og reynslu sem hér eru fyrir hendi á Akureyri. Ennfremur fjalla ég um einn stjórnarandstöðuflokkinn sem hefur vakið athygli seinustu ár fyrir að vera stefnulaust rekald á stjórnmálavettvangi. Að lokum skrifa ég til fjölmargra lesenda vefsins og bendi þeim á að hafa samband ef þeir vilja ræða málin.

Í dag birtist á frelsinu góður pistill Óskar um jafnrétti. Orðrétt segir hún: "Menn leggja misjafna merkingu í hugtakið jafnrétti. Sá merkingarmunur virðist stjórnast af því hvar sá sem skilgreinir stendur í pólitík. Þeir sem eru til vinstri hafa túlkað hugtakið rýmra en ástæða er til og beitt svo jafnréttishugtakinu til að réttlæta forsjárhyggjuhugmyndir sínar. Nauðsynlegt er í þessu sambandi að árétta það að jafnaðarmerki er ekki á milli jafnréttis og hugtaka eins og jöfnuðs (það að e-u er jafnt skipt) og jafnstöðu (það að einhverjir hafi jafna stöðu). Ennfremur: "Hvers vegna þurfum við jafnréttisstofu sem starfar á grundvelli laga um jafna stöðu karla og kvenna og hefur það hlutverk að tryggja eftirfylgd með lögunum? Við þurfum ekki slíka stofnun, því jafnrétti verður ekki náð með íhlutun hins opinbera, til þess eins að jafna einhver hlutföll, heldur með hugarfarsbreytingu einstaklinga í samskiptum þeirra. Markmið og hlutverk jafnréttisstofu eru ekki með þeim hætti að starfsemi hennar geti verið skilvirk eða náð verulegum árangri. "

Helgin var virkilega góð og margt spennandi í gangi. Laugardagurinn var rólegur, að mestu eytt heima og í rólegheitum. Seinnipart laugardagsins horfði ég á Silfur Egils þar sem voru gestir Egils: Svanfríður, Siggi Kári og varaformaður Frjálslynda flokksins. Hrein unun var að sjá minn gamla góða kennara Svanfríði, salla varaformanninn niður í duftið og taka hann í kennslustund um sjávarútvegsmál almennt. Gott verk það. Um kvöldið horfði ég á þátt Gísla Marteins þar sem var gott viðtal hans við listamanninn Ólaf Elíasson. Spaugstofan var góð að vanda og tók fyrir mörg hitamál. Um kvöldið skellti ég mér í bíó á hina mögnuðu The Last Sumarai með Tom Cruise. Á laugardagskvöldinu var pólitísk útgáfa Popppunkts þar sem mér skilst að stjórnin hafi tekið andstöðuna í nefið. Sunnudagurinn hófst snemma með ferð upp í Hlíðarfjall, þar sem maður fór á bretti með góðum vinum. Eftir hádegið skrifaði ég sunnudagspistilinn og fór svo á Varðarfund seinnipartinn þar sem mörg hitamál voru rædd. Um kvöldið horfði ég á þátt Jóns Ársæls þar sem fjallað var um þátttakendur úrslitaþáttar Idol-stjörnuleitar, og viðtal Sigmundar Ernis við Hrafn Gunnlaugsson í Maður á mann. Eftir það horfði ég á Prizzi's Honor, magnaða mafíumynd Johns Huston. Að lokum leit ég á bæjarmálaplöggin, en bæjarmálafundur er í Kaupangi í kvöld.
Vefur dagsins
Ein besta mynd ársins 2003 var Mystic River, í leikstjórn gamla brýnisins Clint Eastwood. Hún er tilnefnd til fjölda Golden Globe verðlauna og verður án efa áberandi á næstu Óskarsverðlaunahátíð. Bendi í dag á heimasíðu myndarinnar.
Snjallyrði dagsins
Auðvaldskipulagið er eina efnahagsskipulagið, sem gert hefur þjóðir ríkar.
Benjamín H.J. Eiríksson
Breytt 18.9.2006 kl. 08:02 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
17.1.2004 | 15:47
Engin fyrirsögn

Sjálfstæðisflokkurinn og Vinstrihreyfingin - grænt framboð virðast vera að bæta við sig miklu fylgi, ef marka má nýja skoðanakönnun Viðskiptablaðsins sem gerð var í vikunni. Báðir flokkar bæta við sig miklu fylgi frá seinustu alþingiskosningum, 10. maí sl. Frjálslyndi flokkurinn virðist skv. könnuninni ekki vera að upplifa neina blómatíð og þurrkast út af þingi í einni svipan ef niðurstöður hennar verða að veruleika. Fylgi Samfylkingarinnar minnkar allverulega og er komið nokkuð vel undir þann 30% múr sem forystumenn flokksins hafa alloft miðað við fyrir og eftir innkomu borgarfulltrúa R-listans í forystusveit sína. Framsóknarflokkurinn missir fylgi ennfremur í könnuninni. 41 og hálft prósent landsmanna styðja Sjálfstæðisflokkinn samkvæmt könnuninni, hefur bætt við sig um 8 prósentustigum frá kosningunum. Fylgi Framsóknarflokksins mælist 13,8%, minnkar um tæp 4% frá kosningunum. Stjórnarflokkarnir bæta því við sig fjórum prósentustigum, stjórnarandstaðan veikist og eins og fyrr segir þurrkast einn stjórnarandstöðuflokkurinn út í könnuninni. Samfylkingin fengi 25,5% atkvæða sem er minna en flokkurinn fékk í kosningunum 1999, og tæplega 7% minna en í kosningunum í fyrra. 13,8% styður VG í könnuninni. Einungis 2,7% segjast styðja Frjálslynda flokkinn, sem er brotlending fyrir flokkinn miðað við seinustu kannanir.


Karl Bjarni Guðmundsson var krýndur poppstjarna Íslands á úrslitakvöldi Idol-stjörnuleitar í Smáralind í gærkvöldi. Gríðarleg stemmning var um allt land í gærkvöldi vegna úrslitaþáttar Idol. Má þó eflaust segja að stemmningin hafi náð hæstum hæðum í herbúðum stuðningsmanna Kalla Bjarna, Önnu Katrínar og Jóns Sigurðssonar sem kepptu til úrslita. Stuðningsmenn Kalla Bjarna fjölmenntu í Festi í Grindavík, stuðningsmenn Önnu Katrínar komu saman í Sjallanum á Akureyri og þeir sem studdu Jón í Nasa í Reykjavík. Í beinni útsendingu þáttarins var sýnt beint frá stemmningunni þar. Í upphafi úrslitaþáttarins tóku þau 9 sem komust í úrslitakeppnina í Smáralind saman lag Hljóma, Sveitapiltsins draumur. Keppni hófu upphaflega: Karl B. Guðmundsson, Jón Sigurðsson, Anna Katrín Guðbrandsdóttir, Ardís Ólöf Víkingsdóttir, Tinna Marína Jónsdóttir, Helgi Rafn Ingvarsson, Rannveig Káradóttir, Sesselja Magnúsdóttir og Jóhanna Vala Höskuldsdóttir. Í úrslitaþættinum sungu keppendurnir þrír tvö lög hvor. Fyrst sungu allir sama lagið, nýtt lag Stefáns Hilmarssonar og Jóns Ólafssonar. Í seinni umferðinni söng Anna Katrín lagið Imagine, Kalli Bjarni söng Mustang Sally og Jón lagið Words. Allir keppendur stóðu sig með miklum sóma. Það kemst enginn svona langt í keppni nema standa sig vel og hafa unnið fyrir tilverurétti sínum í lokaþættinum. Öll sönnuðu þau óhikað að þau eiga framtíðina fyrir sér í þessum bransa. Kalli Bjarni vann sigur í símakosningunni og á þann sigur vel skilið, stóð sig frábærlega alla keppnina. Hann sem sigurvegari keppninnar fær plötusamning hjá Skífunni. Hvet alla til að líta á frammistöður keppenda í lokaþættinum.

Keypti í vikunni geisladisk Akureyringsins Óskars Péturssonar (upphaflega er hann Skagfirðingur), Aldrei einn á ferð. Hafði ég lengi viljað eignast þennan disk, en ég hélt alltaf að ég fengi hann í jólagjöf frá einhverjum, en svo fór ekki. Fékk ég tvö eintök af diski Mínus, þannig að ég skipti öðrum og fékk mér Óskar. Plata hans var sú mest selda fyrir jólin, mér skilst að hún hafi selst í u.þ.b. 14.000 eintökum. Ekki kemur það á óvart, enda Óskar magnaður söngvari og lagavalið mjög gott. Hann fær til sín gestasöngvara, þau Diddú og Akureyringinn Jónsa. Bestu lögin eru hiklaust Nautabaninn, Þú gætir mín, Aldrei einn á ferð (íslensk þýðing á Liverpool laginu You'll Never Walk Alone), Augun þín blá (smellur Jóns Múla og Jónasar) og Hún hring minn ber. Magnaður diskur. Hef seinustu daga verið að lesa bækur sem ég keypti á Amazon: Governor Reagan: His Rise to Power, The Collected Speeches of Margaret Thatcher auk nýjustu útgáfu kvikmyndahandbókar Maltins.
Vefur dagsins
Kvikmyndin Something's Gotta Give með Jack Nicholson og Diane Keaton verður frumsýnd hérlendis eftir nokkrar vikur og hefur fengið góða dóma vestan hafs og eru báðir aðalleikararnir tilnefndir til Golden Globe verðlauna. Í dag bendi ég á heimasíðu myndarinnar.
Snjallyrði dagsins
Hver sá sem er tilbúinn að fórna frelsi fyrir frið, á hvorugt skilið.
Abraham Lincoln forseti Bandaríkjanna (1809-1865)
Breytt 18.9.2006 kl. 08:02 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
16.1.2004 | 17:53
Engin fyrirsögn

Í gær hætti Kaupfélag Eyfirðinga öllum viðskiptum við Landsbanka Íslands og færði innistæðu sína í bankanum yfir í Sparisjóð Norðlendinga. Það var táknræn stund að sjá í sjónvarpi, Andra Teitsson framkvæmdastjóra KEA, fara í Landsbankann og loka reikningi sínum í bankanum og taka út innistæðuna og fara svo á fund Jóns Björnssonar sparisjóðsstjóra, og stofna reikning þar í nafni KEA. Með þessu lauk rúmlega 100 ára viðskiptasögu KEA við Landsbankann. Eru það mikil tíðindi. Heyrst hefur að bæjarbúar séu farnir að hugsa sér til hreyfings með viðskipti sín við bankann í ljósi atburða seinustu daga. Vel er fjallað um þetta mál allt í leiðara Morgunblaðsins í dag, þar sem leiðarahöfundur fer vel yfir loforð Landsbankamanna í lok seinasta árs og svo efndir nú í byrjun hins nýja árs. Jafnframt er þar ítarleg umfjöllun um sölumálið. Er enginn vafi á því að atburðarás þessa máls og eftirmálar hafa rýrt mjög traust bæjarbúa á Landsbankanum. Hafa þeir orðið fyrir vonbrigðum með framkomu þeirra í ljósi ummæla stjórnarformanns bankans er bankinn fagnaði starfsafmæli sínu á Akureyri undir lok seinasta árs. Þau eru alveg innistæðulaus.



Í dag birtist á frelsinu ítarleg umfjöllun um hádegisverðarfund Heimdallar í gær. Ennfremur birtist hressilegur pistill Stefáns Ottó. Þar segir hann orðrétt: "Varasamt er að setja lög sem myndu t.d. banna vissa markaðshlutdeild þar sem fyrirtæki þurfa alls ekki að misnota stöðu sína þó hún sé góð. Það er ástæða fyrir því að fyrirtæki skara fram úr og hún er sú að þau hafa náð ákveðinni hagkvæmni í rekstri sem gerir þeim kleift að bjóða þjónustu umfram keppinauta sína. Vinstri menn skilgreina græðgi sem eitthvað slæmt, eins og maður ásælist eitthvað sem aðrir eiga. Eðlilegra er að líta á græðgi sem löngunina eftir fjárhagslegum ávinningi, gróða. Hvað er þá gróði? Vinstri menn skilgreina hann einnig sem eitthvað slæmt og vilja að menn beri "hóflegan ávinning úr bítum! En hvað er hóflegt, hver á að skilgreina það? Eigum við að refsa fólki fyrir að hagnast meira en hóflegt er? Fáránleikinn í þessu er augljós, auk þess sem slík lagasetning myndi skerða séreignarrétt fólks. Græðgi er góð!".
Í Íslandi í dag, í gærkvöld var rætt um það sem allir eru að ræða um, hvort sem er í heimahúsum, vinnustöðum eða annarsstaðar: Idolið. Úrslit eru í keppninni í kvöld og keppa þar Anna Katrín Guðbrandsdóttir, Jón Sigurðsson og Karl Bjarni Guðmundsson. Til að ræða um úrslitakvöldið komu Þorvaldur Bjarni Þorvaldsson formaður Idol dómnefndarinnar, Þórunn Lárusdóttir leik- og söngkona, og Jón Ólafsson tónlistarmaður. Í kvöld munu keppendurnir syngja tvö lög hvert. Annað þeirra er valið af þeim sjálfum en hitt syngja öll, það er nýtt lag eftir Stefán Hilmarsson og Jón Ólafsson. Anna Katrín mun syngja Lennonlagið Imagine, Kalli Bjarni syngja Commitmentsslagarann Mustang Sally og Jónsi Bee Gees smellinn Words. Framundan er spennandi úrslitakvöld. Hver verður fyrsti sigurvegarinn í Idol - Stjörnuleit?

Í gærkvöldi horfði ég á kvikmynd Sir Alfred Hitchcock, To Catch a Thief. Gerð árið 1955 og skartaði í aðalhlutverki Cary Grant og Grace Kelly, þetta var þriðja mynd hennar með leikstjóranum á rúmlega árstímabili. Að þessu sinni er spennumynd meistara spennunnar með gamansömu ívafi. Fjallar um dementarán á frönsku ríveríunni og tilraunir þekkts demantaræningja sem er saklaus til að reyna að finna hinn seka en hann er undir grun. Grace Kelly, fallegasta kona sögunnar, glansar í hlutverki Frances Stevens. Var hún aldrei meira heillandi á sínum ferli en í þessari mynd og engin spurning að hún slær út náttúrufegurð ríveríunnar. Leikstjórinn var heillaður af Kelly og harmaði mjög þegar hún tók þá ákvörðun um miðjan sjötta áratuginn að hætta kvikmyndaleik og giftast Rainier fursta af Mónakó, sem hún kynntist við tökur á myndinni. Allt til loka reyndi Hitchcock að fá Kelly aftur á hvíta tjaldið en án árangurs. Mögnuð úrvalsmynd sem stenst tímanst tönn, ávallt unun á að horfa.
Vefur dagsins
Kvikmyndin Cold Mountain hefur vakið mikla athygli seinustu vikur og almennt talað um að hún verði tilnefnd til óskarsverðlauna sem besta mynd ársins 2003. Í dag bendi ég á heimasíðu myndarinnar.
Snjallyrði dagsins
Hvernig er hægt að stjórna landi, þar sem völ er á 246 ostategundum?
Charles De Gaulle forseti Frakklands (1890-1970)
Breytt 18.9.2006 kl. 08:02 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
15.1.2004 | 12:46
Engin fyrirsögn

Mikið hefur verið rætt seinasta sólarhringinn á Akureyri um sölu Eimskips á Útgerðarfélagi Akureyringa. Fram hefur komið að Kristján Þór Júlíusson bæjarstjóri á Akureyri, og Valgerður Sverrisdóttir viðskiptaráðherra, hafa tjáð að þau óttist ekki að rekstur fyrirtækisins breytist við eigendaskiptin. Þingmenn kjördæmisins hafa ennfremur tjáð sig um söluna. Hafa nýir eigendur tjáð að þeir hyggji ekki á breytingar á fyrirtækinu og muni efla það. Sagði ráðherrann að hún hefði helst viljað að heimamenn keyptu fyrirtækið en segist hafa orð forsvarsmanna Tjalds fyrir því að ÚA verði áfram rekið á Akureyri. Kaupverðið vekur mikla athygli, enda almennt vitað að fyrirtækið er metið á mun minni pening en 9 milljarða. Þegar núverandi eigendur keyptu bankann sagði stjórnarformaður fyrirtækisins á fundi hér á Akureyri að þeir vildu taka þátt í uppbyggingu í bænum. Ef marka má vinnubrögð við söluna á ÚA hafa orð Björgólfs Guðmundssonar reynst innistæðulaus. Fyrirtækið er selt hærra verði en það er metið á, og kaupin fjármögnuð að miklu leyti með lánsfé í Landsbankanum. Það blasir því auðvitað við að ganga verði á eignir fyrirtækisins til að borga nýjum eigendum. Þetta er því allt frekar undarlegt allt saman og vekur mikla athygli þeirra sem fylgst hafa með ÚA til fjölda ára. Mér fannst bæjarstjóri lýsa vel stjórnarformanni Landsbankans er hann segir svo: "Hann kom þar af leiðandi fram hér í hálfgerðu hlutverki Hróa hattar. Hvaða skilaboð er verið að senda núna? Hvernig ætlar hann að vinna með heimamönnum að eflingu atvinnulífs á svæðinu? Núna skynja ég þetta miklu fremur þannig að fógetinn frá Nottingham sé sestur í stól Hróa hattar fremur en nokkurn tímann Björgólfur Guðmundsson."



Í dag birtist á frelsinu fyrsti pistill Elínar Gränz. Er hún boðin innilega velkomin í hóp okkar sem þar skrifum og tökum þátt í að tjá skoðanir okkar. Í sínum fyrsta pistli fjallar Elín um stjórnmálaástandið í Íran sem er mjög óstöðugt þessa dagana. Um þessar mundir eru 25 ár frá því að klerkastjórnin tók við völdum í landinu eftir að keisarastjórninni var steypt af stóli og langt síðan staðan þar hefur verið svo óstöðug eins og nú. Orðrétt segir Elín: "Konur og Írönsk ungmenni fyllast langþráðri von um aukið frelsi í kringum forsetakosningar landsins sem nú nálgast óðfluga. Frelsið sem menn sjá venjulega í órafjarlægð færist nær með hverjum deginum sem líður, eingöngu til þess að vonin verði að vonbrigðum eftir kosningarnar þegar raunveruleiki klerkastjórnarinnar tekur við. Aðalpersónurnar í þessu falska lýðræðisleikriti eru annarsvegar, forseti landsins Khatami, umbótasinni sem hefur barist fyrir auknu lýðræði með litlum árangri og hinsvegar, Khomeini sem er æðsti trúarleiðtogi landsins og vinnur markvisst gegn öllum lýðræðistilraunum Khatamis." Þessa grein verða allir að lesa. Í gær birtist svo góður pistill Hauks félaga míns, þar sem hann fjallar um mögulega lagasetningu á eignarhaldi á fjölmiðlum.

Íslensku tónlistarverðlaunin voru afhent í Þjóðleikhúsinu í gærkvöld. Færeyska söngkonan Eivør Pálsdóttir, söngkonan Ragnheiður Gröndal og Tómas R. Einarsson bassaleikari hlutu öll tvenn verðlaun við afhendinguna. Hljómsveitin Mínus hlaut verðlaun fyrir popphljómplötu ársins, Halldór Laxness, og ennfremur útrásarverðlaun Loftbrúarinnar. Poppstjarna ársins var valin Birgitta Haukdal söngkona Írafárs. Heiðursverðlaun Íslensku tónlistarverðlaunanna hlaut Jórunn Viðar tónskáld. Jazzplata ársins var plata Tómasar R. Einarssonar, Havana, jazzflytjandi ársins var valinn Björn Thoroddsen, lag ársins var lagið Ást með Ragnheiði Gröndal, Eivør Pálsdóttir var valin poppsöngkona ársins og flytjandi ársins og Stefán Hilmarsson poppsöngvari ársins. Ragnheiður Gröndal var valinn nýliði ársins. Myndband ársins átti Sigur Rós. Hljómplata ársins í flokknum ýmis tónlist var plata Guðrúnar Gunnarsdóttur, Óður til Ellýar. Sígild hljómplata ársins var valin Brandenborgarkonsertarnir með Kammersveit Reykjavíkur. Kynnar kvöldsins, Eva María Jónsdóttir og Gísli Marteinn Baldursson, fóru alveg á kostum við afhendinguna og áttu mörg góð atriði.

Eftir verðlaunaafhendinguna horfði ég á meistaraverk Sir Alfred Hitchcock, Notorious. Myndin gerist skömmu eftir lok seinni heimsstyrjaldarinnar. Ingrid Bergman leikur hér dóttur stríðsglæpamanns og leyniþjónustan, með Cary Grant í fararbroddi, notfærir sér hana til að koma upp um starfsemi nasista í Rio de Janeiro í Brasilíu. Til þess að það megi lánast verður hún að giftast höfuðpaurnum sem leikinn er af Claude Rains, en á meðan kviknar ástin á milli Bergman og Grant. Allt í senn, spennandi, gamansöm, dökk og rómantísk. Ástarsamband stórstjarnanna var eitt það innilegasta sem hafði sést fram að þeim tíma, enda lék leikstjórinn eftirminnilega á lagabókstafinn í afar langri kossasenu. Myndin er gerð af áhrifaríkum einfaldleik meistarans og meistaralega leikin af sannkölluðum leiksnillingum. Ein af gullaldarmeistaraverkum Hollywood á fimmta áratugnum. Þetta er ein af þeim myndum sem allir sannir kvikmyndaáhugamenn verða að sjá.
Vefur dagsins
Kvikmyndin The Last Samurai verður frumsýnd um helgina í kvikmyndahúsum hérlendis. Því þykir mér rétt að benda á heimasíðu myndarinnar. Hlakka til að sjá myndina um helgina.
Snjallyrði dagsins
Sjálfselskur maður er ekki sá sem lifir lífinu eftir eigin höfði heldur sá sem ætlast til að aðrir geri það.
Oscar Wilde
Breytt 18.9.2006 kl. 08:02 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
14.1.2004 | 15:33
Engin fyrirsögn

Í morgun hófust í Stokkhólmi réttarhöld yfir Mijailo Mijailovic sem hefur viðurkennt að hafa ráðist að Önnu Lindh utanríkisráðherra Svíþjóðar, með hnífi í NK-verslunarmiðstöðinni í Stokkhólmi 10. september 2003. Hún lést af sárum sínum um nóttina. Mijailovic vildi lengi vel ekki viðurkenna að hafa myrt ráðherrann, en gekkst við ábyrgð sinni skömmu fyrir árslok, að því er flestir telja til að fá mildari dóm. Saksóknari reynir að fá Mijailovic dæmdan fyrir morð að yfirlögðu ráði. Sakborningurinn neitar að hafa skipulagt árásina, segir hana hafa verið stundarbrjálæði. Komið hefur nú í ljós af myndum teknum í öryggismyndavélum að sakborningurinn elti ráðherrann í tæplega korter um verslunarmiðstöðina, áður en hann réðist að henni. Það hvort tekst að sanna að um morð að yfirlögðu ráði sé að ræða skiptir miklu máli. Enginn vafi leikur á að Mijailovic verður sakfelldur, en hann mun hljóta lífstíðarfangelsi ef morð af yfirlögðu ráði verður sannað á hann, en gæti ella sloppið með mun vægari dóm. Mun sakborningurinn bera vitni í dag. Útvarpað er frá réttarhöldunum.



Í dag birtist á frelsinu 2. pistill okkar Kidda um nefndirnar. Að þessu sinni förum við yfir hvert ráðuneyti, nefndir þess og hvað betur megi fara og birtum jafnframt heildarlista yfir allar nefndir ríkisvaldsins, sannkallað nefndafargan. Um menntamálaráðuneytið sem hefur langflestar nefndir á að skipa, rúmlega 260 segir svo: "Fjöldi nefndanna er óheyrilegur og sömuleiðis þau afskipti af daglegu lífi einstaklinganna sem þeim eru ætlað að skipuleggja eða framfylgja. Undirritaðir skilja mætavel ef Þorgerði Katrínu, nýskipuðum menntamálaráðherra, fallist hendur frammi fyrir þessu fargani sem í ráðuneyti hennar er að finna en vonast jafnframt til þess að hún taki til hendinni og sópi út bróðurpartnum. Augljóst er að fækka megi nefndum verulega. Það er margar nefndir sem hafa lítinn sem engan tilgang og gætu vel fallið undir verksvið annarra nefnda. Það hefur of lengi verið árátta að fjölga nefndum og blasir við að öll ráðuneyti hafi þanist út meira en góðu hafi gegnir. Mikilvægt er að taka til hendinni og stokka kerfið upp. Markaðurinn er bestur og á að vera vinsæll." Vonum við Kiddi að lestur nefndalistans sem telur rúmlega 850 misþarfar nefndir valdi ekki lesendum vefsins ónotum. Mikilvægt og þarft verk er að fjalla um þetta nefndafargan og höfum við Kiddi átt góða samvinnu um þetta verkefni. Bendi ennfremur á umfjöllun um óskiljanlega tillögu sjálfstæðismanna í borgarráði.

Mikið af áhugaverðu dægurmálaspjalli í dægurmálaþáttunum í gærkvöldi. Í Íslandi í dag ræddu alþingismennirnir Drífa Hjartardóttir varaformaður heilbrigðisnefndar Alþingis og Margrét Frímannsdóttir sem situr í nefndinni að hálfu Samfylkingarinnar, málefni starfsemi neyðarmóttöku vegna nauðgana í Fossvogi sem verður stokkað í kjölfar sparnaðarhugmynda. Var yfirlækni í 20% starfi sagt upp og breytingar verða á deildinni í hagræðingarskyni. Tókust þær hraustlega um málið. Í Kastljósinu voru gestir þau Pétur Blöndal og Elsa B. Friðfinnsdóttir formaður félags hjúkrunarfræðinga og fyrrum aðstoðarmaður heilbrigðisráðherra, og tókust á um sparnað í heilbrigðiskerfinu. Ekki voru þau sammála um hann eins og mátti búast við. Pétur fór sem fyrr á kostum í rökræðum en Elsa átti marga góða punkta. Skemmtilegar deilur um heilbrigðismál, góð umfjöllun á báðum stöðvum.

Í gærkvöldi horfði ég enn einu sinni á meistaraverk Elia Kazan, On the Waterfront. Segir frá spilltu verkalýðsfélagi hafnarverkamanna sem lendir í rannsókn yfirvalda. Til að forða félaginu frá skaða ráða verkalýðsleiðtogarnir einum verkamanninum, Joey Doyle, bana. Meðal þeirra sem standa að baki því er félagi hans, Terry Malloy. Verkalýðsleiðtoginn Johnny Friendly stendur að baki glæpaveldinu við höfnina og meðal samverkamanna hans er bróðir Terrys, Charley. Eftir morðið á Joey verður Terry hrifinn af systur hans, Edie, og fer Terry að fá samviskubit vegna þess sem gert var. Með hjálp hennar og sr. Barry bætir Terry fyrir mistök fortíðarinnar og leggur til atlögu við glæpaveldið við höfnina. Marlon Brando, Rod Steiger, Lee J. Cobb, Karl Malden og Eva Marie Saint fara á kostum í hlutverkum sínum. Stórfengleg mynd sem hlaut átta óskarsverðlaun árið 1954, þ.á m. sem besta kvikmynd ársins, fyrir leikstjórn Elia Kazan og magnaðan leik Brando og Saint. Ein af eftirminnilegustu kvikmyndum sjötta áratugarins, með bestu myndum Elia Kazan. Eldist virkilega vel og á boðskapurinn jafnt við árið 2004 og hann var fyrir hálfri öld, 1954, er myndin var gerð.
Vefur dagsins
Í dag bendi ég á heimasíðu nýjustu kvikmyndar leikstjórans Tim Burton, Big Fish. Hlakka til að sjá þessa mynd, enda mikill aðdáandi mynda leikstjórans.
Snjallyrði dagsins
Svartsýnn maður sér vanda í hverju tækifæri; bjartsýnn maður sér tækifæri í hverjum vanda.
Sir Winston Churchill forsætisráðherra Bretlands (1874-1965)
Breytt 18.9.2006 kl. 08:02 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
13.1.2004 | 23:54
Engin fyrirsögn

Borgarráðsfulltrúar Sjálfstæðisflokksins í Reykjavík lögðu fram á fundi borgarráðs í hádeginu í dag, tillögu þess efnis að Leikfélagi Reykjavíkur yrði veitt aukafjárveiting, 25 milljónir króna vegna leikársins sem nú stendur yfir og 8 milljónir króna ennfremur til að standa undir starfslokasamningum við eldri leikara og nokkra aðra starfsmenn. Í tilkynningu frá borgarstjórnarflokki Sjálfstæðisflokksins kemur fram að verkefnaskrá vetrarins í leikhúsinu sé í uppnámi, frumsýningu á Don Kíkóta, sem ráðgerð hafði verið um miðjan mars verið frestað og ekki víst að ný íslensk verk verði frumsýnd á Nýja sviðinu. Skv. Þórólfi Árnasyni borgarstjóra var tillögu sjálfstæðismanna til afgreiðslu frestað og sagði hann hana koma á óvart. Vilhjálmur Þ. Vilhjálmsson leiðtogi borgarstjórnarflokksins, segir í yfirlýsingu til fjölmiðla að borgarstjóri fari rangt með og segir einfaldlega að hann tali í hringi. Ég skil ekki þessa tillögu borgarstjórnarflokksins. Að mínu mati á að stokka upp starfsemi LR og margar hugmyndir uppi um þær breytingar sem mætti ræða nánar í borgarráði og eða borgarstjórn. Um slíkar tillögur eiga sjálfstæðismenn að sameinast.



Í dag birtist á frelsinu góður pistill Ragnars um bók Hannesar Hólmsteins og listamannalaun. Orðrétt segir hann: "Nú til dags virðast flestir þingmenn þeirrar skoðunar að rétt sé að nota fjármuni almennings til að styrkja listastarfsemi og treysta því ekki skattgreiðendum sjálfum til að greiða beint fyrir þær listgreinar og þá menningu sem þeir hafa áhuga á. Pétur H. Blöndal hefur þó í viðtali á Frelsi.is gagnrýnt listamannalaun og sagði m.a. að þau væru "hluti af þeirri menningarítroðslu sem einkennir t.d. Ríkisútvarpið, þ.e. að kenna og láta þjóðina skilja hvað er list." Í ljósi þess að þjóðfélagið hefur færst í frjálsræðisátt og sjónarmið frjálshyggjunnar hafa náð að ryðja sér til rúms í auknum mæli á undanförnum árum og áratugum hefði mátt ætla að enginn þingmaður hefði verið á sömu skoðun og Pétur H. Blöndal á æskuárum Halldórs Laxness. Eins og lesa má um í ævisögunni er því þó alls ekki þannig farið. Ennfremur segir Ragnar: "Þau sjónarmið sem ungir sjálfstæðismenn hafa lengi haldið á lofti samræmast því greinilega þeim sjónarmiðum sem flokkurinn var upphaflega reistur á. Í ljósi þeirra sjónarmiða sem ríkjandi eru í flokknum nú til dags er því ekki úr vegi að spyrja sömu spurningar og Jónas Hallgrímsson spurði á sínum tíma: "Höfum við gengið til góðs götuna fram eftir veg?" Ennfremur er á frelsinu birt ályktun stjórnar Heimdallar og umfjöllun um hádegisverðarfund Heimdallar sem verður á fimmtudag.

Hörkugott dægurmálaspjall var í gærkvöldi í Íslandi í dag og góð umfjöllun. Eftir kvöldfréttir voru gestir Jóhönnu og Þórhalls, Pétur Blöndal og Lúðvík Bergvinsson. Umræðuefnið eins og við var að búast tillaga þingmanna Samfylkingarinnar í efnahags- og viðskiptanefnd þess efnis að Pétur sé vanhæfur til að stýra umfjöllun nefndarinnar um kaup KB-banka á SPRON. Tókust þeir harkalega á í þættinum og rifust t.d. um túlkun á þingsköpum og úrskurði þáverandi forseta Alþingis á sambærilegu máli fyrir áratug. Töluðu þeir hver ofan í annan og harkaleg orðaskipti þeirra á milli. Í lok þáttarins komu Birgir Ármannsson alþingismaður, og Ásgeir Friðgeirsson varaþingmaður, um málefni fjölmiðla og hugsanlega lagasetningu á eignarhald fjölmiðla, en nefnd vinnur nú að tillögum til menntamálaráðherra um mögulega lagasetningu.

Horfði í gærkvöldi í enn eitt skiptið á lokahluta hinnar mögnuðu Guðföðurtrílógíu Francis Ford Coppola. Í lokahlutanum er Al Pacino sem fyrr í hlutverki fjölskylduföðurins Michael Corleone. Hann er nú á sjötugsaldri og einbeitir sér að tveim verkefnum: að frelsa fjölskyldu sína undan ofbeldi og glæpum, og að finna verðugan eftirmann. Sonur hans vill ekki verða eftirmaður föður síns og því verður hann að leita eftir öðrum í staðinn. Sá maður gæti orðið hinn skapmikli bróðursonur hans Vincent... en hann gæti líka verið sá sem myndi leggja allar áætlanir Michaels um heiðarleg viðskipti í rúst og hleypt upp nýrri öldu glæpa og ofbeldis. Francis Ford Coppola leikstýrir hér þeim Pacino, Andy Garcia, Diane Keaton, Taliu Shire, Sofiu Coppola og Eli Wallach og fleirum í þessari mynd sem setur punktinn við söguna af þessari ógleymanlegu mafíufjölskyldu í New York sem var í senn ofbeldishneigð og manneskjuleg. Takið sérstaklega eftir lokaatriðinu með Pacino, að mínu mati eitt besta leikatriði 20. aldarinnar.
Vefur dagsins
Í dag bendi ég á heimasíðu stórmyndarinnar The Lord of the Rings: The Return of the King. Besti hluti trílógíunnar um Hringadróttinssögu J.R.R. Tolkien og besta mynd ársins 2003.
Snjallyrði dagsins
Öll dýrin í skóginum eiga að vera vinir
Thorbjörn Egner
Breytt 18.9.2006 kl. 08:02 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
12.1.2004 | 23:56
Engin fyrirsögn

Hart var tekist á, á fundi efnahags og viðskiptanefndar Alþingis í morgun og stóðu umræður um hæfi Péturs Blöndals formanns nefndarinnar, á þriðju klukkustund. Þingmenn Samfylkingarinnar lögðu í upphafi fundarins fram tillögu um að Pétur væri vanhæfur til að leiða umræðu nefndarinnar um SPRON málið og bæri að víkja á meðan málið væri til afgreiðslu hjá nefndinni. Í tillögu fulltrúa flokksins var vísað til þess að Pétur hefði beina fjárhagslega hagsmuni af niðurstöðu málsins. Meirihluti efnahags- og viðskiptanefndar felldi tillöguna. Þá var borin upp tillaga þess að leita álits forsætisnefndar þingsins á því hvort tillaga Samfylkingarinnar væri þingleg, hæfi formannsins til að sitja og eða stýra fundum hvað snertir yfirvofandi sölu sparisjóðanna, almennt um hæfi þingmanna og formanna nefnda og afla upplýsinga um hæfisreglur í þjóðþingum nágrannalanda. Tillagan var samþykkt með átta atkvæðum gegn einu. Þessi tillaga Samfylkingarinnar er stórundarleg. Þingsköp gera ráð fyrir því að formaður sitji fundi nefndarinnar hvað sem á bjátar og álit forseta Alþingis á sambærilegu máli árið 1995 staðfestir það. Er ekki hægt að segja annað en tillaga Samfylkingarinnar litist af heift og skítmennsku. Spurning vaknar við þetta hvort þingmenn Samfylkingarinnar ætli að víkja af fundum þegar málefni kjördæma viðkomandi þingmanna í nefndum koma fyrir á fundum þeirra?



Í dag birtist fyrsti hluti umfjöllunar minnar og Kidda um nefndafargan ríkisvaldsins. Ákváðum við að taka fyrir þetta efni og fara vel yfir þetta allt saman í nokkrum pistlum. 1. pistillinn fjallar um málið almenns eðlis og yfirferð yfir kerfið og nefndir. Orðrétt segir: "Ríkisvaldið starfrækir um 853 nefndir, ráð og starfshópa (ef miðað er við skráningu á heimasíðum ráðuneytanna). Þegar undirritaðir spurðust fyrir um kostnað einstakra ráðuneyta vegna starfrækslu allra þessara nefnda kom í ljós að litlar sem engar upplýsingar liggja fyrir um þann kostnað. Ennfremur virðast ekki liggja fyrir ítarlegar upplýsingar um störf þessara nefnda, meðal annars um hvort þær séu allar starfandi eður ei. Þessi ótrúlegi fjöldi nefnda er enn ein sönnunin fyrir því að ríkisvaldið og afskipti þess hafa sífellda tilhneigingu til þess að aukast. Hin ýmsu verkefni sem ríkisvaldið ákveður að framkvæma virðast beinlínis kalla á umfjöllun í nefnd. Sérstaklega eru það þó vinstrimenn sem heimta að farið sé yfir málin í nefnd. Kemur það síst á óvart í ljósi oftrúar þeirra á skrifræði og tækniræði ríkisvaldsins sem og sífelldrar kröfu þeirra um svokallaða nútímalega og faglega málsmeðferð. Sú meðferð er síst eðlileg." Umfjöllunin heldur áfram á næstu dögum og við Kiddi munum fara ítarlega yfir allt þetta dæmi og eins og okkar er háttur ekki hika við að gagnrýna bæði okkar menn og framsóknarmenn í skrifum um hvert ráðuneyti fyrir sig í nefndadæminu.

Gærkvöldið fór í sjónvarpsgláp. Eftir kvöldfréttirnar leit ég á skemmtilegt spjall Kristjáns Kristjánssonar við Arnar Jónsson leikara, þar sem rætt var ítarlega um leiklistina og hálfrar aldar langan leikferil Arnars. Hefur hann leikið með hléum allt frá 10 ára aldri. Leiklistaráhugann hefur hann ekki langt að sækja, enda sonur Jóns Kristinssonar leiklistafrömuðar hér á Akureyri og hefur alla tíð verið áberandi í leiklistarlífi með sinn magnaða norðlenska framburð sem mikinn kost í sviðsleik. Seinnipart kvölds horfði ég á spjallþátt Sigmundar Ernis Rúnarssonar, Maður á mann. Gestur hans að þessu sinni var Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir menntamálaráðherra. Var víða farið í klukkustundarlöngu spjalli. Líst mér vel á þætti Sigmundar, farið er vel yfir líf og skoðanir viðmælandans og athyglisverð umfjöllun um gestinn. Kom margt fróðlegt fram í þættinum, sem var ennfremur kryddaður með skemmtilegu viðtali við Gunnar Eyjólfsson, föður Þorgerðar og vinkonu hennar, Þórunni Pálsdóttur. Allavega skemmtilegur klukkutími með Sigmundi og Þorgerði.

Eftir þáttinn leit ég á magnaða kvikmynd Woody Allen, Husbands and Wives. Myndin var frumsýnd árið 1992 í miðjum fjölmiðlalátum vegna sambúðarslita Allens og Miu Farrow, í kjölfar uppljóstrana um samband hans við fósturdóttur sína, Soon-Yi Previn, dóttur Farrow og André Previn. Fjallar myndin um tvenn hjón sem halda framhjá, sérstaka athygli vekur athyglisvert handritið og sú staðreynd að persóna Allens heldur framhjá eiginkonu sinni (Farrow) með yngri konu. Er þarna komin að mörgu leyti atburðarásin sem leiddi til endaloka sambands þeirra í raun og veru. Þarna fylgjast kvikmyndaunnendur semsagt með atburðarásinni á bakvið tjöldin í einkalífi parsins fræga meðan þau áttu sér stað eftir að myndin var gerð. Var þetta ekki í fyrsta skipti sem leikstjórinn sótti efni mynda sinna í sitt eigið einkalíf. Eins og flestir vita sjálfsagt er t.d. Annie Hall sjálfsævisöguleg úttekt á sambandi Allens og jafnframt sambandsleysi hans við leikkonuna Diane Keaton sem var ástkona hans á þeim tíma sem myndin var gerð, en Diane Keaton heitir einmitt Diane Hall. Mörg fleiri dæmi má nefna um að Allen noti sitt líf sem bakgrunn í handrit sín. Fjallar Allen ítarlega um sambandsslitin við Miu Farrow í sjálfsævisögu sinni The Unruly Life of Woody Allen sem er snilldarvel skrifuð og segir þar á athyglisverðan hátt frá þessu máli. Virkilega góð mynd, en mjög umdeild á sínum tíma.
Vefur dagsins
Í dag bendi ég á vef Ríkisútvarpsins sem vonandi verður á næstu árum einkavætt. Svo mikið er víst að löngu er kominn tími til.
Snjallyrði dagsins
Sannleikurinn stendur einn en vitleysan þarf stuðning hins opinbera.
Thomas Jefferson forseti Bandaríkjanna (1743-1826)
Breytt 18.9.2006 kl. 08:02 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
11.1.2004 | 23:58
Engin fyrirsögn

Bandaríska varnarmálaráðuneytið tilkynnti í gær að Saddam Hussein fyrrum forseti Íraks, skyldi verða skilgreindur sem stríðsfangi en ekki stríðsglæpamaður í varðhaldi. Alþjóðanefnd Rauða krossins segir að sú ákvörðun ráðuneytisins sé lagalega viðunandi þar sem hann hafi verið yfirmaður herja Íraks. Fram hefur komið í máli Nödu Dumani talsmanns Rauða krossins, að mikilvægt væri að bandaríska herstjórnin í Írak tryggði, að Saddam nyti þeirra réttinda sem Genfarsáttmálinn um meðferð stríðsfanga gerði almennt ráð fyrir. Hefur Dumani vísað sérstaklega til 18. greinar sáttmálans, þar sem segir að neiti stríðsfangi að svara spurningum sé ekki hægt að ógna honum, móðga hann eða beita hann líkamlegu eða andlegu harðræði til að reyna að fá hann til að svara. Nærri mánuður er liðinn frá því Saddam Hussein var handtekinn í Írak. Íraska framkvæmdaráðið tilkynnti á dögunum að hægt yrði að rétta yfir Saddam í júní í nýjum stríðsglæpadómstóli sem verið er að koma á fót. Hefur Bush Bandaríkjaforseti, sagt að rétt væri að hann hlyti hina endanlegu refsingu, semsagt dauðadóm. Er ekki ólíklegt að dómstóll í Írak myndi fella slíkan dóm, vissulega líklegra en ef réttað væri yfir honum annarsstaðar.


Að þessu sinni fjalla ég um umræðu seinustu vikna og ómálefnalega aðför vissra aðila að Hannesi Hólmsteini Gissurarsyni vegna útkomu fyrsta bindis hans um ævi nóbelsskáldsins Halldórs Kiljans Laxness og fer yfir málið að nokkru leyti og bendi á athyglisverð ummæli vinstrisinnaðs háskólakennara. Fjalla ennfremur um spjallvefina á Netinu en nú blasir við að reyna muni verulega á raunverulega ábyrgð stjórnenda þeirra á skrifum ómálefnalegra nafnleysingja sem nota vefina til að níða nafngreinda einstaklinga og koma með neikvæð skrif um aðila í skjóli nafnleyndarinnar, aldrei hefur reynt á fyrr en sennilega nú hver ber ábyrgð á orðum nafnleysingjanna. Að lokum fjalla ég um framtíðarsýn Samfylkingarinnar þar sem gamlar og faldar áherslur þeirra fyrir seinustu kosningar eru dregin fram að nýju þegar vel þykir henta.
Eftir að hafa horft á Silfrið og fréttir leit ég á Laugardagskvöld með Gísla Marteini. Þar var hann með brot af því besta frá liðnu ári og mikið af góðu efni sem þar var sýnt. Var gott ár í þættinum hjá Gísla og hann klárlega með einn vinsælasta sjónvarpsþáttinn nú um stundir. Horfði á Spaugstofuna að því loknu. Um níuleytið fór ég að horfa á meistaraverk Hitchcocks, Vertigo. Árið 1958 gerði Hitchcock þessa sína bæði flóknustu og margbrotnustu mynd. Vertigo er enn í dag umtöluð stórmynd. Fjallar um lögguna Scottie Ferguson sem vegna lofthræðslu gerist einkaspæjari eftir slys þar sem vinnufélagi hans lést. Skömmu síðar ræður gamall skólafélagi hans, Scottie, til að fylgjast með eiginkonu sinni Madeleine sem orðið hefur gagntekin af fortíð konu einnar í borginni fyrr á tímum. Scottie eltir hana um stræti San Francisco og flækist um leið í flókna en æsispennandi atburðarás. Einstök mynd þar sem James Stewart og Kim Novak fara á kostum. Magnþrungin tónlist Bernard Herrmann setur sterkan svip á svipmikla mynd. Mynd sem ávallt snertir innstu strengi manns. Þarf að horfa oft á hana til að komast endanlega til botns í margflókinni atburðarásinni. Þetta er skylduáhorf fyrir alla aðdáendur Hitchcocks.
Vefur dagsins
Í dag bendi ég á skemmtilegan bloggvef vinar míns, Gunnlaugs Jónssonar. Hann fer alltaf á kostum við að segja frá málefnum samtímans, og gerir það með sínum hætti. Skemmtilegt blogg.
Snjallyrði dagsins
Happdrætti eru skattur á þá sem kunna ekki að reikna.
Óþekktur höfundur
Breytt 18.9.2006 kl. 08:02 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)