25.2.2004 | 01:31
Engin fyrirsögn

Vladimir Putin forseti Rússlands, vék í gær forsætisráðherra landsins, Mikhail Kasyanov, úr embætti og leysti ríkisstjórn hans alla frá störfum. Nýrri bráðabirgðastjórn var jafnframt falið að móta umbótastefnu sem fylgt verður eftir forsetakosningarnar, þann 14. mars nk. Vladimir Putin er öruggur um að ná endurkjöri í þeim kosningum. Búist hafði verið við því að forsætisráðherrann og stjórn hans sætu fram yfir kosningar, en svo stokkuð upp spilin. Putin kom verulega á óvart með þessari ákvörðun sinni, Hann tilkynnti um hana í beinni sjónvarpsútsendingu. Forseti Rússlands hefur samkvæmt rússnesku stjórnarskránni rétt á leysa forsætisráðherrann og ríkisstjórnina frá störfum. Boris Yeltsin var frægur í sinni forsetatíð 1991-1999 fyrir að sparka forsætisráðherrum eftir hentugleikum og skipta út ráðherrum. Viktor Khristenko varaforsætisráðherra, tekur við stjórnartaumunum fram yfir forsetakosningar. Fram hefur komið í fréttum að rússnesk hlutabréf hafi lækkað snarlega í verði við aðgerðir forsetans. Ekki kom á óvart að forsætisráðherranum skyldi sparkað, en tímasetningin eins og fyrr segir vekur athygli. Var orðið á allra vitorði að forsetinn þyldi ekki Kasyanov forsætisráðherra. Fylgi forsetans hefur að undanförnu mælst í kringum 80% fyrir kosningar og því ljóst að hans staða er mjög vænleg í rússneskum stjórnmálum.



Í pistli á frelsinu í dag fjallar Kári um lagasetningu á haustþingi um að framlengja einkaleyfi Háskóla Íslands til reksturs peningahappdrættis. Orðrétt segir: "Finnst mér það mjög undarlegt að nú á okkar tímum sé ríkið enn að skipta sér af markaðnum. Samkvæmt frumvarpi ráðherra átti lenging einkaleyfisins að gilda til næstu 15 ára. Það gerist þótt skýrt sé tekið fram samkvæmt áliti Samkeppnisráðs frá árinu 2000, að markmið laganna gætu farið gegn markmiðum samkeppnislaga um samkeppni á frjálsum markaði og að einkaleyfið gæfi happdrætti HÍ samkeppnislegt forskot. Þá var líka bent á það að einkaleyfið gæti brotið í bága við samninginn um hið Evrópska efnahagssvæði. Samt sem áður sendi dómsmálaráðherra frá sér þetta frumvarp og kom málið með því til kasta þingsins, og fór meðal annars til umsagnar í allsherjarnefnd." Ennfremur segir: "Það er ekki að sjá að það séu margir í þingflokknum sem vilja að ríkið hætti afskiptum af happdrættismarkaðnum. Það að afnema einkaleyfi happdrættis HÍ, sem á síðasta ári gaf háskólanum rúman hálfan milljarð króna og þar af fóru 100 milljónir í svokallað einkaleyfisgjald sem rennur til ríkisins, stuðlar augljóslega að bættri samkeppni og bættum hag neytenda í landinu. Er það auk þess ekki betra fyrir HÍ að fá að halda eftir 100 milljónum sem annars hefðu farið í ríkissjóð?"

Horfði í gærkvöldi á eðalmyndina The Insider. Er hvorttveggja í senn ádeila á tóbaksiðnaðinn bandaríska og þá ekki síst fréttaflutninginn í Bandaríkjunum. Hér segir af Dr. Jeffrey Wigand, sem rekinn var úr starfi sínu sem vísindamaður hjá Brown & Williamson, einu af stærstu tóbaksfyrirtækjum Bandaríkjanna, eftir að hafa reynt að benda yfirmönnum fyrirtækisins á hin heilsuspillandi áhrif tóbaksins. Hann sætir miklu harðræði frá fyrirtækinu eftir að þeim fer að gruna að hann muni jafnvel veita fjölmiðlum innanhússleyndarmál og upplýsingar sem gætu komið fyrirtækinu illa. Þeir skera á allar greiðslur til hans, hann fær líflátshótanir og það er njósnað um hann. Á svipuðum tíma fær fréttastjórnandi hjá hinum virta fréttaskýringaþætti CBS, 60 mínútur, Lowell Bergman, send vísindaleg gögn frá nafnlausum sendanda sem virðast veita innsýn í tóbaksheiminn. Sækist hann eftir aðstoð Jeffrey til að rýna í málið fyrir sig. Framundan er spennandi atburðarás. Óviðjafnanleg á öllum sviðum, meistaraleg leikstjórn Michael Mann er fagmannleg, kvikmyndataka Dante Spinetti er afar góð og er gott dæmi um fagmannlega og um leið nýstárlega kvikmyndatöku. Handrit Eric Roth og Michael Mann er hreint afbragð og sýnir persónur myndarinnar á heilsteyptan hátt og sýnir fram á mannlega hluta málsins. Leikurinn er ennfremur magnaður. Russell Crowe og Al Pacino fara á kostum í aðalhlutverkunum. Christopher Plummer er ógleymanlegur í hlutverki fréttamannsins fjölhæfa Mike Wallace. Mynd fyrir alla þá sem unna kvikmyndum með sannan og heilsteyptan boðskap sem er settur fram á glæsilegan hátt og sannar hiklaust að hún er í rauninni táknmynd hins góða sem sigrast loks á hinu illa og gerspillta.
Dagurinn í dag
* 1920 Önnur ríkisstjórn Jóns Magnússonar tók við völdum - sat í rúm tvö ár
* 1956 Nikita Khrushchev afneitar vinnubrögðum Stalíns við stjórn Sovétríkjanna í frægri ræðu
* 1964 Teikning eftir Sigmund Jóhannsson birtist í fyrsta skipti í Morgunblaðinu
* 1966 Bandaríska söngkonan Ella Fitzgerald kom til landsins og hélt tónleika
* 1990 Violeta Chamarro kjörin forseti Nicaragua - sandínistar missa völdin eftir 11 ára einræði
Snjallyrði dagsins
There's only one proper way for a professional soldier to die: the last bullet of the last battle of the last war.
George S. Patton í Patton
Breytt 18.9.2006 kl. 08:02 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
24.2.2004 | 18:13
Engin fyrirsögn

George W. Bush forseti Bandaríkjanna, ávarpaði í gær ríkisstjóra Repúblikanaflokksins á fundi með þeim í Washington. Í ræðunni réðst hann á andstæðinga sína í Demókrataflokknum, sem sækjast eftir útnefningu flokksins vegna forsetakosninganna 2. nóvember nk. Sagði Bush í ræðunni að þeir væru talsmenn hærri skatta og hefðu ómarkvissa stefnu í baráttunni gegn hryðjuverkum. Um demókratana í framboði sagði forsetinn: "an interesting group with diverse opinions -- for tax cuts and against them; for NAFTA and against NAFTA; for the Patriot Act and against the Patriot Act; in favor of liberating Iraq and opposed to it." Einnig kom fram: "They now agree that the world is better off with Saddam [Hussein] out of power. They just didn't support removing Saddam from power. Maybe they were hoping he'd lose the next Iraqi election." Forsetinn sagði að andstæðingar sínir hefðu ekki mikið fram að færa til sigurs í stríðinu eða til að efla efnahagslífið. Hann sagði að það eina sem heyrðist úr herbúðum demókrata væri gamalkunnur biturleiki og reiði manna sem hafa tapað nokkrum kosningum í röð. Bush forseti hyggst hefja kosningabaráttu sína með öflugri auglýsingaherferð 4. mars nk, tveim dögum eftir ofurþriðjudaginn svokallaða.



Í dag birtist pistill Helgu Láru um skólagjöld og umræðu um þau seinustu vikur. Orðrétt segir hún: "Um síðustu áramót tók Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir við embætti menntamálaráðherra. Strax í upphafi sýndi hún það hugrekki að taka upp umræðu um skólagjöld í HÍ. Hún tjáði þá skoðun sína að gera þyrfti heildstæða úttekt á fjárhag háskólans og í kjölfarið mætti skoða möguleika á útfærslum á skólagjöldum. Hún lagði mikla áherslu á að Háskóli Íslands stæðist ítrustu kröfur um gæði háskólamenntunar. Þá væri það mikilvægt að hafa í huga að þegar og ef skólagjöld yrðu tekin upp hefðu þau ekki áhrif á jafnrétti fólks til náms. Það er gömul saga og ný að það sem er ókeypis er oft ekki metið sem skyldi. Í þessu sambandi er umhugsunarefni að brottfall nemenda úr Háskóla Íslands er mun meira en í háskólum sem krefjast skólagjalda. Er hugsanlegt að nemendur sem greiða skólagjöld taki nám sitt að einhverju marki alvarlegar, en þeir sem ekki þurfa að reiða fram fé til að stunda nám? Á það t.d. sinn þátt í að algengt er að um helmingur nemenda falla á 1. ári í mörgum deildum HÍ?" Góð skrif hjá Helgu Láru.

Eftir að hafa horft á það venjulega, fréttir, dægurmálaþætti og bæjarmálafréttirnar á Aksjón, fór ég í tölvuna að vinna að ræðu sem ég á að flytja um sendiráðin á fundi utanríkismálanefndar SUS á föstudag, en ég á sæti í henni og hef undanfarið fjallað mikið um málefni sendiráðanna á vettvangi SUS. Eftir góða törn við vinnslu ræðunnar fór ég að horfa á kvikmyndina The Royal Tenenbaums. Sennilega eiga fáar fjölskyldur við jafnmörg og fjölbreytt vandamál að stríða og Tennenbaum-fjölskyldan. Fjölskyldufaðirinn Royal var vægast sagt ótillitsamt foreldri og yfirgaf börnin sín þrjú áður en þau uxu úr grasi. Móðir þeirra ól þau upp til að verða að snillingum. Það tókst sæmilega en því miður hafði uppeldið, sérstaklega tillitsleysi Royals, þær aukaverkanir að öll eiga þau við einhvers konar taugavandamál að stríða. Raunar hefur hvert og eitt þeirra lokað sig af í eigin heimi strax frá unga aldri. Sagan gerist þegar börnin eru öll í kringum þrítugt. Royal hefur komist að því að konan hans ætlar kannski að giftast aftur og ákveður hann að reyna að stöðva það. Verður sú endurkoma kostuleg þar sem móttökurnar sem hann fær frá fjölskyldunni sem hefur ekki séð hann í mörg ár eru vægast sagt blendnar. Gene Hackman fer á kostum í hlutverki fjölskylduföðurins og ennfremur eiga Anjelica Huston, Ben Stiller, Owen Wilson, Danny Glover og Bill Murray góðan leik. Mögnuð gamanmynd.

Í gærkvöldi var rætt í Íslandi í dag mikið um greinargerð með nýjum hugmyndum um skipulag í miðborg Reykjavíkur, sem kynntar voru á fundi sem Skipulags- og byggingarsvið Reykjavíkur hélt. Ræddu Jóhanna og Þórhallur hugmyndir um skipulag miðborgarinnar við Margréti Harðardóttur arkitekt hjá Studio Granda, sem vann að útfærslu hugmyndanna, og Steinunni Valdísi Óskarsdóttur formann skipulagsnefndar. Í Kastljósinu ræddu Kristján og Sigmar við Sigurð Kára Kristjánsson alþingismann, og Karl Th. Birgisson, um forsetaembættið. Flest bendir nú til að forseti gefi kost á sér til endurkjörs og hann fái mótframboð frá tveim aðilum og því kosningar í vor. Þetta embætti verður sífellt tilgangslausara og reyndar svo lítilfjörlegt að forseti Íslands fer í frí þegar mikilvægu afmæli í sögu þjóðarinnar er fagnað.
Dagurinn í dag
* 1630 Skálholtsstaður brann til kaldra kola - mikið af verðmætum munum brunnu
* 1924 20 þingmenn stofnuðu Íhaldsflokkinn - önnur tveggja stoða Sjálfstæðisflokksins 1929
* 1924 Líkneskið af Ingólfi Arnarsyni eftir Einar Jónsson, á Arnarhóli í Reykjavík, afhjúpað
* 1981 Karl Bretaprins og lafði Díana Spencer, tilkynna um trúlofun sína - giftust síðar sama ár
* 1991 Minnisvarði um Sveinbjörn Egilsson rektor og skáld, afhjúpaður í Innri Njarðvík
Snjallyrði dagsins
Ernest Hemingway once wrote, "The world is a fine place and worth fighting for." I agree with the second part.
William Somerset í Seven
Breytt 18.9.2006 kl. 08:02 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
23.2.2004 | 21:50
Engin fyrirsögn

Davíð Oddsson forsætisráðherra og formaður Sjálfstæðisflokksins, færði að því rök í fréttaskýringaþættinum Í brennidepli, í gærkvöld, að hann fari jafnvel í dómsmálaráðuneytið í haust. Davíð sagðist í þættinum ekki vera búinn að ákveða hvað hann taki sér fyrir hendur í haust, hvort hann hætti í stjórnmálum eða ekki, en ráða mátti af svari hans að ólíklegt sé að hann sé á förum úr íslenskri pólitík. Kom fram að Davíð þætti spursmál hvort að formaður flokks vilji vera heima en ekki í utanríkisráðuneyti, þar sem menn þurfa að vera mjög mikið burtu. Hinsvegar er hefð fyrir því að flokksformenn þess flokks sem ekki hefur forsætisráðuneytið, séu utanríkisráðherrar. Það hafa þeir verið síðustu 16 ár. Halldór Ásgrímsson hefur verið formaður Framsóknarflokksins í 10 ár í vor, og utanríkisráðherra næstum allan þann tíma eða frá apríl 1995. Þar á undan var Jón Baldvin Hannibalsson utanríkisráðherra í tveimur ríkisstjórnum, jafnframt því að vera formaður Alþýðuflokksins, hann var utanríkisráðherra 1988-1995. Ljóst er að sárindi eru framundan innan Framsóknarflokksins, enda þarf þar að taka einn ráðherra út til að rýma fyrir að Halldór verði forsætisráðherra. Stefna allir ráðherrar flokksins á að halda áfram. Var velt upp mörgum möguleikum um hver færi þar út og ljóst að stefnir í gríðarleg átök milli ráðherra um stöðu þeirra innan stjórnarinnar.



Í dag birtist á frelsinu góður pistill Snorra um óræðar lýðræðishugmyndir. Orðrétt segir í pistlinum: "Það felst í lýðræðinu að fólkið ráði. Kosningar eru ætlaðar til þess að koma í veg fyrir að valdhafarnir geri mistök. Þegar þeir gera mistök má skipta. Það var ekki hugmynd þeirra sem börðust fyrir lýðræði að ríkið yrði allsráðandi og að kosningum væri ætlað að velja þá sem stjórnuðu daglegu lífi fólks. Það er í reynd ríkisræði." og ennfremur: "Raunverulegt lýðræði felur auðvitað í sér að fólkið ráði. Það er hið eina sanna lýðræði. Sjálfstæðisflokkurinn hefur staðið vörð um rétt fólks til að haga sínu lífi svo sem það kýs. samfylkingin hefur engann áhuga á því, í þeirra huga er kemst bara eitt að: ríkisræði." Ennfremur er á frelsinu ítarleg umfjöllun um málfund Heimdallar í Háskólanum í Reykjavík, sl. fimmtudagskvöld. Í umfjölluninni er farið vel yfir erindi Hannesar Hólmsteins Gissurarsonar, Jóns Steinars Gunnlaugssonar og Jónasar H. Haralz, um frjálshyggju. Fundurinn var haldinn eins og flestir vita í tilefni þess að 25 ár voru liðin frá útgáfu bókarinnar Uppreisn Frjálshyggjunnar, sem gefin var út af Kjartani Gunnarssyni.

Margt athyglisvert var hjá Agli í Silfrinu í gærkvöldi. Fyrst var rætt við Ásgeir Jónsson hagfræðing, um stöðu viðskiptamála og efnahagslífsins almennt, því næst um bandarísku forsetakosningarnar en slagurinn þar er verulega að harðna og að síðustu við Hannes Hólmstein Gissurarson og Jón Steinar Gunnlaugsson um frjálshyggju. Spjallið við Hannes og Jón var virkilega skemmtilegt og víða farið yfir og rætt um stjórnmál nútímans og áhrif frjálshyggju á stjórnmál hérlendis seinustu árin, einkum til góðs. Við blasir að gríðarlegar breytingar hafa orðið seinustu 13 árin í stjórnartíð Sjálfstæðisflokksins, til betri vegar og fóru þeir yfir það. Einkum fannst mér Jón Steinar útskýra vel hver framtíð frjálshyggju er, en við blasir að hún er björt og sífellt fleiri líta í þá átt að frelsi sé hverjum einstakling mikilvægast. Það á ekki að sætta sig við neitt annað. Í Kastljósinu ræddi Svansí við Ástþór Magnússon forsetaframbjóðanda, og stóð sig vel í að krefja hann svara um framboð sitt og ýmis helstu mál því tengt. Gott spjall þar og gengið hreint til verks eftir svörum. Eftir Kastljósið horfði á fréttaskýringaþáttinn Í brennidepli, þar sem fjallað var um hrókeringar í ríkisstjórninni, áhrif rafsegulsviðs á fólk og dósasöfnun í samfélaginu. Virkilega athyglisverður og vel gerður þáttur.

Eftir að hafa horft á dægurmálaþættina fórum við í bíó. Litum á nýjustu kvikmynd óskarsverðlaunaleikstjórans Anthony Minghella, Cold Mountain. Myndin sem tilnefnd er til alls sjö óskarsverðlauna, byggir á samnefndri skáldsögu bandaríska rithöfundarins Charles Frazier. Segir frá suðurríkjamanninum Inman sem ákveður að berjast í her suðurríkjamanna í þrælastríðinu. Heima í þorpinu Cold Mountain skilur hann eftir kærustu sína, Ödu Monroe. Kynni þeirra hafa verið einkar stutt en tilfinningar krauma innra með þeim. Þegar líður á stríðið og Inman hefur áttað sig á tilgangsleysi þess og þeirri villimennsku sem á sér stað í því leggur hann í langferð að finna sína heittelskuðu. Áferðarfalleg og einkar áhrifamikil úrvalsmynd, sem við höfðum gaman að. Jude Law og Nicole Kidman standa sig vel í hlutverkum elskendanna. Senuþjófurinn er þó hiklaust Renée Zellweger sem á stórleik í hlutverki hinnar ákveðnu Ruby. Er lítill vafi á að hún fær óskarinn fyrir leik sinn. Heilsteypt og góð kvikmynd, sem ætti að hæfa flestu kvikmyndaáhugafólki vel.
Dagurinn í dag
* 1927 Tónskáldið Sveinbjörn Sveinbjörnsson lést - hann samdi þjóðsöng Íslendinga
* 1940 Pinocchio, fyrsta teiknimynd Walt Disney, frumsýnd í Bandaríkjunum
* 1966 Aldo Moro myndar sína fyrstu ríkisstjórn á Ítalíu - hann var myrtur 1978
* 1981 Uppreisn gerð á Spáni - valdarán uppreisnaraflanna stóð ekki nema í 22 klukkustundir
* 1987 Konur í fyrsta skipti aðalfulltrúar á Búnaðarþingi - tvær konur sátu þá þingið
Snjallyrði dagsins
Good health is the most important thing. More than success, more than money, more than power.
Hyman Roth í The Godfather: Part II
Breytt 18.9.2006 kl. 08:02 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
22.2.2004 | 21:59
Engin fyrirsögn

Ralph Nader neytendafrömuður og forsetaframbjóðandi Græningjaflokksins í Bandaríkjunum árið 2000, tilkynnti í dag að hann myndi gefa kost á sér í forsetakosningunum 2. nóvember nk. Hann tilkynnti um framboð sitt í fréttaþættinum Meet the Press á NBC. Með þessu virti hann að vettugi beiðni demókrata um að halda sig utan við kapphlaupið í ár svo keppnin væri aðeins á milli frambjóðanda Demókrataflokksins og Bush forseta. Allt frá kosningunum 2000 hafa demókratar kennt Nader um að Al Gore tapaði fyrir Bush, því er líklegt að framboð hans nú veki ekki hrifningu þeirra. Nader fékk tæplega 3% atkvæða í forsetakosningunum 2000 og í nýlegri könnun kemur fram að 2/3 Bandaríkjamanna vilja ekki að Nader bjóði sig fram. Orðrétt sagði Nader í þættinum Meet the Press: "Báðir flokkarnir eru að falla á prófinu, repúblikanar með D mínus og demókratar með D plús. Það er kominn tími til að breyta jöfnunni“. Ljóst er að samkvæmt þessu að líkur forsetans á að halda velli aukast til muna. Líklegt er að demókratar reyni að grafa undan trúverðugleika Naders, til að ná til markhóps hans árið 2000, þess hóps sem hefði getað tryggt Gore sigur þá.


Að þessu sinni fjalla ég um málefni ráðuneyta og mögulega uppstokkun á þeim samhliða framtíðarbreytingum á Stjórnarráðinu, tel ég mikilvægt að hefjast handa við að finna leiðir til mikillar hagræðingar í rekstri ráðuneyta í Stjórnarráðinu. Mikilvægt er að mínu mati að ganga mun lengra en gert var í tillögum sem samþykktar voru á ríkisráðsfundi 1. febrúar sl. Fer ég yfir tvær leiðir til þess með breytingar á ráðuneytum, en aðra þeirra hefur SUS sérstaklega lagt áherslu á og samþykki ályktun um á SUS þingi í Borgarnesi 2003. Ég fer ennfremur yfir stöðu mála í kosningaslagnum í Bandaríkjunum, sem harðnar stöðugt, og að lokum fjalla ég um eitt helsta fjölmiðlamál seinustu viku, líkfundinn í Neskaupstað.

Hanna systir og fjölskylda komu í mat til okkar í gærkvöldi og áttum við virkilega góða stund og var mikið spjallað, virkilega gott kvöld. Horfðum á Laugardagskvöld með Gísla Marteini og Spaugstofuna. Eftir það litum við á magnaða kvikmynd Ron Howard, A Beautiful Mind. Í henni er rakin saga nóbelsverðlaunahafans og stærðfræðisnillingsins John Forbes Nash sem hlaut nóbelsverðlaunin í hagfræði árið 1994, eftir einstakan feril. Sagan hefst árið 1947 þar sem hann er við nám í Princeton. Strax er ljóst að hann er ekki eins og venjulegt fólk á að sér að vera, er bæði sérvitur og einkar ómannblendinn. Í náminu kynnist hann Charles Herman og er vinátta að því er virðist einstök og ósvikin. Eftir námið fær Nash prófessorsstöðu við virtan háskóla og svo virðist sem hann muni feta hinn beina og greiða veg, þegar hann kynnist nemanda sínum Aliciu og verður hrifinn af henni. Það breytist þó allt þegar í ljós kemur að stærðfræðisnillingurinn er geðklofi. Mögnuð úrvalsmynd á allan hátt, hlaut fern óskarsverðlaun, þ.á.m. sem besta kvikmynd ársins 2001. Russell Crowe fer á kostum í hlutverki stærðfræðisnillingsins og túlkar persónu hans og andlega erfiðleika óaðfinnanlega. Þetta er besta leikframmistaða hans að mínu mati. Jennifer Connelly sem er stórfengleg í hlutverki Aliciu Nash, vinnur sannkallaðan leiksigur og vann óskarinn fyrir leik sinn. Eðalmynd eins og þær gerast bestar.
Dagurinn í dag
* 1903 Fríkirkjan í Reykjavík vígð - í söfnuðinum voru þá um fimm þúsund manns
* 1952 Hús Þjóðminjasafns Íslands við Suðurgötu vígt við hátíðlega athöfn
* 1979 Menningarverðlaun DV afhent í fyrsta skipti - eru veitt árlega
* 1980 Hæstiréttur kvað upp dóma í Guðmundar- og Geirfinnsmálum
* 1991 Sigríður Snævarr verður fyrst íslenska kvenna sendiherra
Snjallyrði dagsins
Perhaps it is good to have a beautiful mind, but an even greater gift is to discover a beautiful heart.
John Nash í A Beautiful Mind
Breytt 18.9.2006 kl. 08:02 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
21.2.2004 | 23:49
Engin fyrirsögn

Ástþór Magnússon kynnti í dag formlega framboð sitt til embættis forseta Íslands og opnaði nýjan vef tengdan framboðinu. Á vefsíðunni kynnir Ástþór forsetasamning sem hann vill gera milli sín sem forseta og kjósenda sinna. Í forsetasamningnum eru meðal annars ákvæði um að ný lög skuli lögð fyrir forsetann á fundum ríkisráðs. Sé forsetinn staddur erlendis þegar halda þarf ríkisráðsfundi, muni hann leitast við að nota nútíma fjarfundartækni til þátttöku í viðkomandi fundi. Þá segir þar að forsetinn skuli stuðla að virku lýðræði á Íslandi og þjóðinni verði gefinn kostur á aukinni þátttöku með þróun á beinu lýðræði með nútíma tækni. Forsetinn skuli nota neitunarvaldið til að leggja umdeild mál fyrir þjóðina til úrskurðar telji hann að viðkomandi lagasetning sé á skjön við meirihlutavilja þjóðarinnar. Að mati Ástþórs snúast kosningarnar nú um hlutverk forseta Íslands sem boðbera friðar. Þetta er í þriðja sinn sem Ástþór býður sig fram til embættis forseta Íslands. Árið 1996 var hann í framboði ásamt núverandi forseta og þrem öðrum frambjóðendum í kosningum um eftirmann Vigdísar Finnbogadóttur. Árið 2000 bauð hann sig fram en náði ekki að safna tilskyldum fjölda meðmælenda. Ólafur Ragnar Grímsson hefur ekki enn tilkynnt hvort hann bjóði sig fram í þriðja skipti til forsetaembættis. Forsetakosningar eiga að fara fram 26. júní, ef fleiri en einn gefur kost á sér til embættisins.


Venju samkvæmt var litið á sjónvarpið í gærkvöldi. Horft á Idol og Af fingrum fram. Eftir það var horft á spennumyndina Red Dragon. Gerð eftir fyrstu bók rithöfundarins Thomas Harris um geðsjúklinginn og mannætuna dr. Hannibal Lecter. Hér er því um að ræða fyrsta kafla sögunnar um Lecter og atburðir hennar undanfari óskarsverðlaunamyndarinnar The Silence of the Lambs og Hannibal. Hér segir frá FBI-manninum Will Graham sem er sestur í helgan stein eftir að hafa eytt þrem árum í að fanga dr. Hannibal Lecter og koma honum á bak við lás og slá. Friðurinn er hinsvegar snarlega úti þegar hann er beðinn um aðstoða félaga sína hjá lögreglunni við að finna óhugnanlegan morðingja, Tannálfinn. Morðin eiga það öll sameiginlegt að hafa öll verið framin þegar tungl er fullt og því hafa þeir einungis þrjár vikur til að finna morðingjann áður en hann lætur til skarar skríða á ný. Will ákveður að leita til Hannibals í þeirri von að fá hjá honum aðstoð við að hafa upp á morðingjanum. Framundan er spennandi og athyglisverð leit lögreglumannsins að fjöldamorðingjanum. Þar getur allt gerst. Stórfengleg spennumynd sem hittir beint í mark og fangar athygli allra sannkallaðra spennufíkla. Þrátt fyrir góða takta stenst Red Dragon meistarastykkinu TSOTL ekki snúninginn, er þó miklu betri en Hannibal. Aðall myndarinnar er magnað handrit Ted Tally og frábær leikur sannkallaðra leiksnillinga. Sir Anthony Hopkins fer enn og aftur á kostum í hlutverki mannætunnar og geðlæknisins sem þrátt fyrir sturlun sína er fágaður fagurkeri. Hopkins hlaut óskarinn fyrir leik sinn í TSOTL og hefur mótað á magnaðan hátt einhverja eftirminnilegustu persónu spennumyndanna. Edward Norton á einnig stórleik í hlutverki Will Graham. Ennfremur eru þau Emily Watson, Harvey Keitel og Philip Seymour Hoffman frábær í hlutverkum sínum. Ómótstæðilegur spennutryllir.

Óskarsverðlaunin, kvikmyndaverðlaun bandarísku kvikmyndaakademíunnar, verða afhent í Los Angeles sunnudaginn 29. febrúar í 76. skipti. Eins og ég hef áður bent á hér, hefur kvikmyndir.com opnað í tilefni af afhendingu verðlaunanna, hinn sívinsæla óskarsvef sinn. Mun ég sjá þar um að setja inn efni og skrifa um verðlaunin, fyrir og eftir afhendingu þeirra. Þegar hefur þar birst ítarlegur pistill um tilnefningar til verðlaunanna, og samantekt um fróðleiksmola tengda verðlaununum. Ennfremur hafa verið settir þar inn listar yfir sigurvegara helstu flokka. Þar eru listar um sigurvegara í flokki bestu kvikmynda, leikstjóra, leikara, leikkonu, aukaleikara og aukaleikkonu. Á næstunni mun birtast meira efni á óskarsvefnum og t.d. bráðlega pistill þar sem ég spái í spilin fyrir hátíðina.
Dagurinn í dag
* 1599 Leikmannabiblía var gefin út á Hólum í Hjaltadal - aðeins tvö eintök til af henni
* 1895 Kvennablaðið kom út fyrsta sinni - ritstjóri var Bríet Bjarnhéðinsdóttir
* 1945 Dettifoss sökk norður af Íslandi - með því fórust alls 15 manns
* 1965 Blökkumannaleiðtoginn umdeildi, Malcolm X, myrtur í Harlem
* 1972 Söguleg heimsókn Richard Nixon forseta Bandaríkjanna, til Kína, hófst
Snjallyrði dagsins
We've met before, but something tells me you're going to remember me this time.
Lester Burnham í American Beauty
Breytt 18.9.2006 kl. 08:02 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
20.2.2004 | 23:50
Engin fyrirsögn

Mikið var rætt á Alþingi um málefni Palestínu og aðskilnaðarmúrinn þar. Alþingismenn fordæmdu allir ástandið í landinu og múrinn sem umlykja á palestínskar byggðir á Vesturbakkanum í löngum umræðum. Þingmenn vinstri grænna mæltu fyrir þingsályktunartillögu um að mótmæla byggingu múrsins við ísraelsk stjórnvöld og á alþjóðavettvangi. Tillaga tveggja þingmanna VG var í þremur liðum, fyrsti sá að þingið ályktaði að fela ríkisstjórn að mótmæla við ísraelsk stjórnvöld formlega og á alþjóðavettvangi. Með því krefjist Ísland þess að framkvæmdir við múrinn verði tafarlaust stöðvaðar og hann fjarlægður. Að auki árétti þingið stöðu sína til deilumála Ísraela og Palestínumanna og álykti að alþjóðlegt friðargæslulið verði sent á svæðið til verndar óbreyttum borgurum. Fram kom í máli utanríkisráðherra að íslensk stjórnvöld hefðu lengi talað fyrir réttindum Palestínumanna og að öryggi Ísraels yrði tryggt. Íslensk stjórnvöld hafa fordæmt múrinn, eins og aðrar þjóðir í Evrópu, enda sé hann á engan hátt í samræmi við alþjóðalög, eða vegvísi til friðar. Hvorugur deiluaðilinn fer reyndar eftir honum, eins og fram hefur komið í fréttum. Margir þingmenn tóku þátt í langri umræðu um múrinn og allir sammála í þessu máli. Gott er að þetta mál sé rætt á þingi, enda þessi múr sorglegur á allan hátt og honum ber að mótmæla á afgerandi hátt.



Venju samkvæmt er nóg af góðum pistlum á frelsinu í dag, alls eru þeir þrír. Sá fyrsti er eftir Erling og fjallar um sorgardaginn 1. september 2003 þegar eina einkarekna heilsugæsla landsins, Læknalind, var lokað. Orðrétt segir: "Hvað var það þá sem fór úrskeiðis? Var þetta einhver áminning um það að einkarekstur í heilbrigðisgeiranum sé ómögulegur? Nei, þetta var fyrst og fremst greinileg ummerki þess að einhverjar uppstokkunar væri þörf í heilbrigðiskerfinu. Ég spyr sjálfan mig hvers vegna hægt var að reka heilsugæslu án ríkisstyrkja í yfir ár, en heilsugæslur sem að greiddar eru niður af ríkinu og innheimta komugjald eru í vanda staddar? Ég leyfi mér að fullyrða að hefði Læknalind fengið þó ekki nema helming þess fjármagns sem að hinar heilsugæslunar fá, hefði reksturinn skilað hagnaði." Í pistli sínum fjallar Stefán Ottó um það sem ekki má, fínn pistill. Þar segir orðrétt: "Á Íslandi er bannað að tala um það opinberlega hver sé besta bjórtegundin eða hvaða sígarettur er best að reykja. Þetta er klárt brot á tjáningarfrelsi borgaranna. Ákveðin skoðanaskipti hafa verið bönnuð opinberlega. Aukin heldur er þetta ansi þungbært á þau fyrirtæki sem stunda innflutning og sölu á þessum efnum. Nú þurfa þau að fara í feluleik við lögin bara til að koma sínum skoðunum á framfæri. Þetta er hræðilegt ástand!" Að lokum birtist grein Vilhjálms Þ. Vilhjálmssonar, sem jafnframt birtist í Morgunblaðinu. Ber hún heitið "Leigubílstjóri ríkisins".

Í gærkvöldi fórum við til Dalvíkur á minningartónleika í Dalvíkurkirkju um mætan Dalvíking, Daníel Hilmarsson. Daníel sem hefði orðið fertugur 8. febrúar, lést í desember 2002 og var öllum mikill harmdauði. Aðstandendur Daníels ákváðu á síðasta ári að stofna minningarsjóð um hann sem ætlað væri að styrkja efnilega skíðamenn. Daníel var iðinn skíðamaður allt frá æskuárum og mikill afreksmaður á skíðum. Hann vann til fjölda verðlauna á glæsilegum ferli sínum og vann sér sess sem einn fremsti vetraríþróttamaður Íslendinga á seinustu öld. Það er vel við hæfi að settur sé á fót sjóður sem styrkir í hans nafni aðra á þeirri braut sem hann hélt sjálfur áður. Á tónleikunum komu fram t.d. Páll Rósinkranz ásamt hljómsveit, Þórarinn Hjartarson, Hundur í óskilum, Jón Ólafsson, Björn Ingi Hilmarsson (bróðir Daníels) og Helga Bryndís Magnúsdóttir, sem var unnusta hans. Eftir tónleikana hitti ég marga mæta félaga og voru málin rædd og ákveðið að láta ekki jafnlangt líða á milli næsta fundar okkar. Alltaf gaman að hitta góða vini og eiga gott spjall. Kvöldið var mjög gott og tónleikarnir tókust mjög vel upp. Minningin um mætan mann lifir.

Þegar heim kom aftur til Akureyrar var litið í tölvuna og ræddi ég við nokkra félaga fyrir sunnan um velheppnað málþing Heimdallar í Háskólanum í Reykjavík um frjálshyggju. Þar voru Jón Steinar Gunnlaugsson, Jónas H. Haralz og Hannes Hólmsteinn Gissurarson með erindi. Var Jónas heiðraður af félaginu fyrir verk sín í þágu frjálshyggjunnar. Tilefni málþingsins var að 25 ár voru liðin frá því bókin Uppreisn frjálshyggjunnar kom út. Bókin var gefin út árið 1979 af Kjartani Gunnarssyni framkvæmdastjóra Sjálfstæðisflokksins. Eftir þetta var litið á góða kvikmynd. Að þessu sinni var horft á Death on the Nile, sem er byggð á magnaðri spennusögu Agöthu Christie. Hercule Poirot fær það hlutskipti að leysa morðmál um borð í báti sem er á siglingu niður ána Níl. Hin myrta, auðug hefðarmær, átti sér marga óvildarmenn um borð og koma allir til greina. Tekst að leysa málið áður en siglingunni lýkur. Mögnuð mynd, og ennþá jafn heillandi. Skartar mögnuðum leikhóp, t.d. þeim Peter Ustinov, Bette Davis, Miu Farrow, Maggie Smith, David Niven og Angelu Lansbury. Góð mynd fyrir alla þá sem unna fínum spennumyndum.
Dagurinn í dag
* 1816 Ópera Rossini, Rakarinn frá Sevilla, frumsýnd í Róm
* 1882 Kaupfélag Þingeyinga, fyrsta kaupfélagið, stofnað formlega
* 1902 Samband Íslenskra samvinnufélaga, stofnað að Ystafelli í Köldukinn
* 1911 Fiskifélag Íslands stofnað formlega
* 1962 John Glenn verður fyrsti Ameríkumaðurinn til að fara út í geiminn
Snjallyrði dagsins
There never was, and there never will be, another like you.
Addison DeWitt í All About Eve
Breytt 18.9.2006 kl. 08:02 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
19.2.2004 | 22:55
Engin fyrirsögn

Aðalmálið í fjölmiðlum hérlendis seinustu vikuna hefur verið líkfundurinn í Neskaupstað. Miðvikudaginn 11. febrúar fannst í höfninni í Neskaupstað lík af karlmanni. Seinustu daga hefur verið mikill fréttaflutningur í öllum fjölmiðlum um þetta mál. Lengi vel var ekki vitað hver maðurinn væri eða hver hefði komið honum fyrir þar. Lengi vel var talið að um morð hefði verið að ræða. Síðdegis í gær var blaðamannafundur hjá Ríkislögreglustjóra, þar sem farið var yfir helstu þætti málsins sem þá lágu fyrir. Þar var upplýst að líkið væri af 27 ára gömlum manni frá Litháen. Lá það fyrir eftir fingrafararannsókn. Lá ennfremur fyrir að maðurinn hefði komið til landsins með flugi 2. febrúar. Samhliða var birt teiknuð mynd af líki mannsins. Af hálfu lögreglunnar sátu fundinn Inger Linda Jónsdóttir sýslumaður á Eskifirði, Arnar Jensson frá Ríkislögreglustjóra og Hörður Jóhannesson yfirlögregluþjónn í Reykjavík. Fram kom að milli 50 og 60 plasthylki hefðu fundist í líkinu með rúmlega 400 grömmum af amfetamíni. Ekki hefur verið staðfest að maðurinn hafi látist af völdum fíkniefnanna en ljóst er að a.m.k. eitt hylkjanna hafði sprungið í maga mannsins. Maðurinn gekk undir fleiri en einu nafni og var á skrá Interpol og þannig hægt að rekja uppruna hans.



Í pistli dagsins á frelsinu fjallar Bjarki um ályktun SUS-þings 2003 um fækkun ráðuneyta, og fléttar það saman við breytingu sem gerð var á Stjórnarráðinu, á ríkisráðsfundi 1. febrúar sl. Orðrétt segir Bjarki: "Það eru flestir stjórnmálaflokkar á Íslandi sammála um að einhverjar breytingar megi gera á verkaskiptingu ráðuneytanna en ólíklegt verður að þykja að pólitísk samstaða náist um slíkar breytingar innan stjórnarflokkanna á miðju kjörtímabili. Fyrir stuttu deildu Guðni Ágústsson og Össur Skarphéðinsson á þingi um landbúnaðarráðuneytið og voru viðbrögð Guðna nokkuð ofsafull þegar Össur lagði til að það yrði lagt niður og verkefni þess flutt til annarra ráðuneyta. Það er hætt við að viðbrögð fleiri ráðherra yrðu á sömu lund, enda felst mikil kjaraskerðing í því að missa ráðherraembætti og setjast aftur í óbreytt þingmannssæti. Núverandi skipan mála er hinsvegar úrelt og ætti nú þegar að hefjast handa við að finna leiðir til hagræðingar í rekstri ráðuneytanna, með það að markmiði að gera stjórnsýsluna einfaldari, hagkvæmari og fljótvirkari. Ljóst er að innan ríkiskerfisins eru margar stofnanir að gera sömu hluti, en á forræði mismunandi ráðuneyta. Slíkt leiðir til sóunar á fjármunum og mannauði, og verður að stöðva til hagsbótar fyrir íslenskt samfélag." Að auki er fjallað um ráðstefnu Heimdallar um frjálshyggju sem verður í kvöld.

Í dag, 19. febrúar 2004, eru tvö ár liðin frá því að ég opnaði heimasíðu á Netinu. Ég ákvað eftir mikla umhugsun að réttast væri að ég setti pistlana mína saman á einn stað, það væri athyglisvert að geyma þá alla á sama staðnum. Ég hef alla tíð haft mjög mikinn áhuga á stjórnmálum og pólitískri umræðu og fannst þá tilvalið að ég kæmi fram með mínar skoðanir og gerði það á minn hátt. Ég hef frá upphafi engan leynt að ég er flokksbundinn Sjálfstæðismaður og er málsvari hugsjóna þeirra sem flokkurinn hefur kennt sig við og er dyggur stuðningsmaður flokksins og forystumanna hans. Þegar ég tók þá ákvörðun að setja upp mína eigin síðu renndi ég eiginlega blint í sjóinn með það, ég vissi ekki hvaða viðtökur ég myndi fá og hvort fólk myndi yfir höfuð hafa áhuga á síðunni sem slíkri. Með teljara hefur verið hægt að fylgjast með gestakomum á vefina. Ég hef fengið marga tölvupósta þar sem fólk tjáir sig um síðuna og um sínar skoðanir, ég er ánægður með þessi viðbrögð, og þakka kærlega fyrir þau. Mín þátttaka í netskrifum er bara rétt að byrja.

Eftir að hafa horft á fréttir á Aksjón venju samkvæmt, var samkvæmt enn annarri venju horft á góða kvikmynd. Litum á hina mögnuðu mynd Spielbergs, Catch Me If You Can. Frábær mynd þar sem sögð er ótrúleg saga eins snjallasta svikahrapps sögunnar, Frank Abagnale Jr. Hann ólst upp við gott uppeldi foreldra sinna, Paulu og Franks. Við skilnað foreldra sinna tók hann að blekkja alla í kringum sig. Hann strauk að heiman og tókst með eintómum blekkingum að verða t.d. læknir og flugmaður, þrátt fyrir að hafa aldrei farið í nokkurt nám. Hann giftist meira að segja Brendu, dóttur saksókara, en Frank varð t.d. aðstoðarmaður hans. Í gegnum þetta allt er hann hundeltur um landið af alríkislögreglumanninum Carl Hanratty. Spennandi eltingaleikur lögreglumannsins á eftir hinum útsmogna Abagnale, tekur á sig margar myndir. Létt og skemmtileg kvikmynd frá Spielberg sem gerir hér mynd sem er gjörólík því sem hann hefur verið að fást við seinustu árin. Úr verður áhugaverð mynd sem allir ættu að hafa gaman af. Leonardo DiCaprio og Tom Hanks eru flottir í aðalhlutverkunum. Senuþjófurinn er þó óskarsverðlaunaleikarinn Christopher Walken sem á sannkallaðan stórleik í hlutverki Franks eldri og hlaut verðskuldaða óskarsverðlaunatilnefningu sem besti aukaleikarinn fyrir vikið. Góð afþreying.
Dagurinn í dag
* 1960 Tillögur viðreisnarstjórnarinnar samþykktar - fólust í gengislækkun og afnámi haftanna
* 1976 Íslendingar slitu stjórnmálasambandi við Breta vegna þorskastríðsins
* 1992 Kvikmyndin Börn náttúrunnar tilnefnd til óskarsverðlauna sem besta erlenda myndin
* 1997 Deng Xiaoping deyr í Peking - einn valdamesti leiðtogi vægðarlausrar einræðisstjórnar
* 2000 Knattspyrnuhöllin í Reykjanesbæ vígð formlega - bylting fyrir íslenska knattspyrnu
Snjallyrði dagsins
You'd think the rain would've cooled things down. All it did was make the heat wet.
Stella í Rear Window
Breytt 18.9.2006 kl. 08:02 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
18.2.2004 | 21:53
Engin fyrirsögn

Reiknað er með að íbúum Akureyrar fjölgi um 200 á ári í forsendum þriggja ára áætlunar Akureyrarbæjar um rekstur, fjármál og framkvæmdir á árunum 2005-2007 sem lögð var fram á fundi bæjarstjórnar í gær. Íbúum fjölgaði um 1,32% á árunum 2002-2003. Þeir eru nú tæplega 16.000 alls. Útsvarsprósenta er óbreytt milli ára eða 13.03% og hækkun fasteignamats er áætluð 5% og er þar tekið mið af þróun fasteignaverðs á Akureyri undanfarin misseri. Framkvæmdaáætlun áranna 2005-2007 gerir áfram ráð fyrir miklum fjárfestingum í grunngerð samfélagsins og er það í samræmi við málefnasamning meirihlutaflokkanna. Einkum er þar um að ræða nýjan leikskóla ásamt hönnun Naustaskóla og endurbætur á Brekkuskóla. Gert er ennfremur ráð fyrir byggingu menningarhúss ásamt því að uppbygging íþróttasvæða mun halda áfram í tengslum við væntanlegt landsmót UMFÍ, sem verður í bænum árið 2009. Um áætlunina segir á vef bæjarins: "Framkvæmdaáætlun áranna 2005 - 2007 gerir áfram ráð fyrir miklum fjárfestingum í grunngerð samfélagsins og er það í samræmi við málefnasamning meirihlutaflokkanna. Félagslegum íbúðum verðu fjölgað og má þar nefna 6 íbúðir fyrir fatlaða en heildar kostnaður vegna uppbyggingar á félagslegum leiguíbúðum er áætlaður um 150 millj. kr. Framkvæmdir Norðurorku munu halda áfram og miðast þær að því að tryggja bæjarfélaginu og nágrannasveitarfélögum nægjanlega orku til upphitunar húsnæðis."



Í pistli mínum á frelsinu í dag fjalla ég um menntamál og bendi fólki á að menntasóknin er löngu hafin. Fjalla ennfremur um ráðstefnu SUS um menntamál í Hafnarfirði 7. febrúar sl. Frjálsræði það sem Sjálfstæðisflokkurinn kom á í menntamálum með því að ýta undir starfsgrundvöll einkareknu háskólanna er síður en svo sjálfgefið. Það er síður en svo á stefnuskrá allra stjórnmálaflokka að auka svigrúm einstaklinga á þessu mikilvæga sviði. Það hefur sést vel í Reykjavík hvernig R-listinn hefur þrengt að einkareknum skólum, t.d. Ísaksskóla og Landakotsskóla. Fyrr hefur verið fjallað um hvernig Samfylkingin fór með einkarekna skólann í Hafnarfirði. Það starfsemi og þróunarstarf var barið niður með markvissum hætti. Hið sama yrði uppi á teningnum á öðrum skólastigum, ef vinstri flokkarnir fengju forystu í menntamálum. Þá yrði leitast við að hneppa allt og alla í fjötra ríkisafskipta og færa þessi mál til fortíðar. Það er því engin furða að flestir líti með undrunaraugum til brelluyfirlýsinga Samfylkingarinnar og hókus pókus fyrirheita þeirra, enda hefur sést vel “framsýni” þeirra í þessum málaflokki með verkum þeirra í borgarstjórn Reykjavíkur undir flaggi hins sundurslitna R-lista og meirihluta í Hafnarfirði. Það sem þar hefur gerst í menntamálum gefur ekki góð fyrirheit um þeirra framsýni í menntamálum. Framkvæmdir, þróun og nýjar og ferskar hugmyndir hafa verið mottó Sjálfstæðisflokksins í menntamálum og svo mun alltaf vera. Menntasóknin er löngu hafin og allt gengur vel á þeirri vegferð. Ráðstefna okkar SUS-ara í Hafnarfirði sannar það vel. Ennfremur eru á frelsinu, pistill eftir nýjan penna á vefnum, Pawel Bartoszek, og umfjöllun um frelsisdeildina.

Eftir að hafa horft á fréttir skelltum við okkur í bíó. Horfðum á gamanmyndina Something's Gotta Give með Diane Keaton og Jack Nicholson í aðalhlutverki. Fjallar um Harry Sanborn, 63 ára gamlan piparsvein. Áratugum saman hefur hann haldið sig við konur í yngri kantinum, en aldrei viljað festa ráð sitt. Hann er nýbúinn að kynnast hinni ungu Marin Barry, þegar þau ákveða að eyða helginni í villu móður Marin. Hlutirnir fara þó öðruvísi en þau ætluðu, þegar Erica Barry, móðir Marin, kemur óvænt heim, ásamt systur sinni Zoe, þegar Harry og Marin eru rétt búin að koma sér fyrir. Harry lendir svo í þeirri ógæfu að fá vægt hjartaáfall, og neyðist til að dvelja áfram í húsi Ericu á meðan hann er að jafna sig. Málin taka fljótlega að flækjast, og ekki bætir úr skák að læknir Harry, Julian, verður yfir sig hrifinn af Ericu. Frábær samleikur Nicholson og Keaton er aðall myndarinnar og er Diane tilnefnd til óskarsverðlauna fyrir leik sinn. Sannkölluð eðalskemmtun í bíó, ættu allir að hafa gaman af þessari. Eftir myndina fór ég heim og horfði á upptöku af bæjarstjórnarfundi þar sem mikið var rætt um þriggja ára áætlun, Melateigsmálið og skipulagsmál. Eftir fundinn horfði ég á endursýnt Kastljós og leit svo aðeins í tölvuna og átti símaspjall við nokkra aðila.
Dagurinn í dag
* 1875 Eldgos hófst í Sveinagjá á Mývatnsöræfum
* 1885 Snjóflóð féll á fjórtán íbúðarhús á Seyðisfirði - 24 létu lífið
* 1910 Tuttugu manns fórust í snjóflóði í Hnífsdal
* 1959 Vitaskipið Hermóður fórst undan Reykjanesi, með allri áhöfn, 12 manns
* 1979 Snjókoma í Sahara eyðimörkinni - í fyrsta sinn svo vitað sé á öldinni
Snjallyrði dagsins
I used to live like Robinson and Crusoe, shipwrecked among 8 million people but one day I saw a footprint in the sand and there you were.
C.C. Baxter í The Apartment
Breytt 18.9.2006 kl. 08:02 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
17.2.2004 | 23:00
Engin fyrirsögn

Einar Oddur Kristjánsson alþingismaður, vill að lög um veiðigjald sem eiga að taka gildi í haust verði afnumin því þau séu óréttlát. Á móti verði reynt að semja við útgerðina um afnám sjómannaafsláttar en frumvarp fjármálaráðherra um afnám sjómannafsláttarins hefur verið kynnt á þingi án þess að fyrir liggi stuðningur við að það verði að lögum. Fram hefur komið í viðtölum við Einar Odd að "menn verði að átta sig á að frumvarp fjármálaráðherra um afnám sjómannaafsláttarins hafi aðeins verið lagt fram til kynningar og umfjöllunar, hvorugur þingflokkur ríkisstjórnarinnar hafi gert neina samþykkt um að knýja það mál í gegn núna. Heldur ætli menn að átta sig á því hvernig taka megi á málum." Sjálfur gefur hann ekki upp hvort hann er hlynntur frumvarpinu eður ei. Veiðigjaldið á samkvæmt lögum að taka gildi í haust, Einar Oddur telur að framkvæmd þess eigi eftir að bitna á launþegum í sjávarútvegi sem sé rangt, hér séu vandamál að leysa þetta gæti verið ein leið. Einar Oddur gefur ekki upp hvort eða hve mikinn stuðning hann á við þessa hugmynd. Í mínum huga er mikilvægt að frumvarp um afnám sjómannaafsláttar nái fram að ganga, það er ekki vegna illkenndar í garð sjómanna. Það er mín skoðun að enginn eigi að vera undanskilinn skatti og svona á ekki að eiga sér stað í nútímanum. Ég er kominn af miklum sjómannaættum og tala ekki gegn sjómönnum, en tel rétt að breyta þessu og vona að samstaða náist um það.


Í pistli dagsins á frelsinu, fjallar Dóri um fjölmiðla og hvort þörf sé á lagasetningu um eignaraðild þeim tengdum. Orðrétt segir: "Hvað eiga Kveldúlfur, Hagkaup, Samband íslenskra samvinnufélaga og hinn svokallaði „kolkrabbi“ sameiginlegt? Jú, allt voru þetta fyrirtæki sem á sínum tíma náðu mikilli markaðshlutdeild á sínu sviði og voru talin njóta yfirburðastöðu gagnvart keppinautunum. Með reglulegu millibili hafa á Íslandi risið upp viðskiptablokkir sem virst hafa óhagganlegar, öllu ráða og allt eiga. Undantekningalaust hafa þær hins vegar þurft að víkja fyrir nýjum aðilum fyrr eða síðar. Þar þurfti hvorki að koma til lagasetning af hálfu ríkisins um eignarhald né vopnaðrar byltingar alþýðunnar. Val einstaklinga á frjálsum markaði sá til þess að breytingar urðu. Í dag er komin upp ný staða á íslenskum fjölmiðlamarkaði sem kallað hefur á mikla umræðu í þjóðfélaginu um hlutleysi og eignarhald fjölmiðla. Umræðan hefur stigmagnast og telja ýmsir stjórnmálamenn að nú sé lagasetningar þörf um eignarhald á fyrirtækjum í fjölmiðlarekstri." Góð grein og ítarleg.

Klukkan átta fór ég á bæjarmálafund í Kaupangi, þar sem helstu bæjarmálin voru rædd venju samkvæmt. Var gott spjall þar um helstu mál við bæjarstjóra og bæjarfulltrúa okkar sjálfstæðismanna. Eftir fundinn var haldið heim og horft á góða mynd. Litum á stórmyndina The Thin Red Line. Segir frá herflokki sem sendur er til eyjarinnar Guadalcanal til að berjast gegn Japönum og freista þess að stöðva sókn þeirra í Kyrrahafi í síðari heimsstyrjöldinni. Myndin er samt miklu meira en venjuleg stríðsmynd því hún segir á afar áhrifaríkan og beittan hátt frá því hvernig þessi blóðuga og mannskæða barátta gróf sig inn í vitund þeirra sem tóku þátt í henni, breytti þeim og markaði líf þeirra að eilífu. Í upphafi voru þessir hermenn að berjast fyrir fósturjörðina og málstaðinn en áður en varði snerist baráttan upp í örvæntingarfulla tilraun til að lifa af með öllum þeim afleiðingum sem slík barátta hefur á einstaklinginn. Með aðalhlutverkin fer stór hópur úrvalsleikara, má þar nefna þá Sean Penn, Woody Harrelson, Nick Nolte, George Clooney, Ben Chaplin, John Cusack og John C. Reilly. Stórfengleg mynd.

Dagurinn er hiklaust merkisdagur í sögu þeirra vefa sem ég sé um. Í dag leit 100 þúsundasti gesturinn hingað inn til mín. Þetta eru merk tímamót. Allt frá því nýja útgáfan af heimasíðunni opnaði í fyrrasumar hefur gestum fjölgað til mikilla muna og eru heimsóknir hingað og á heimasíðuna mælanlegar í hundruðum dag hvern. Þetta hefur frá upphafi gengið vel og ég ánægður með hvernig til hefur tekist. Hvet ég ennfremur alla til að senda mér línu í gegnum MSN, en þar spjalla ég við alla þá sem það vilja. Ef fólk vill ræða nánar einstök atriði pistlaskrifa eða eitthvað allt annað er þeim velkomið að senda mér póst og fara yfir málin. Er alltaf gaman að ræða við annað fólk um málefni samtímans. Áherslum mínum til mála er hægt að kynnast hér og á bloggvef mínum þar sem eru dagleg skrif. Ég þakka fyrir góðar viðtökur og vona að fólk fylgist vel með skrifum mínum. Ég leitast við að tjá skoðanir mínar af krafti gegnum þessi skrif.
Dagurinn í dag
* 1866 Kristján Jónsson Fjallaskáld, orti kvæðið Þorraþrælinn (Nú er frost á Fróni)
* 1906 Fyrsta fréttamyndin birtist í blaðinu Ísafold - var frá konungskomu
* 1947 Ingólfur Arnarson, fyrsti Nýsköpunartogarinn svokallaði, kom til landsins
* 1969 Golda Meir verður fyrsti kvenforsætisráðherra Ísraels
* 1990 Vaclav Havel kom til landsins og sá leikrit sitt, Endurbygginguna, í Þjóðleikhúsinu
Snjallyrði dagsins
The greatest trick the devil ever pulled was convincing the world he didn't exist.
Verbal Kint í The Usual Suspects
Breytt 18.9.2006 kl. 08:02 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
16.2.2004 | 22:10
Engin fyrirsögn

Kvikmyndin The Lord of the Rings: The Return of the King var valin besta kvikmynd ársins 2003 þegar bresku kvikmyndaverðlaunin, Bafta, voru afhent í London í gærkvöldi. Myndin hlaut áhorfendaverðlaun ársins og ennfremur fyrir besta handrit, kvikmyndatöku og tæknibrellur. Bill Murray og Scarlett Johansson, er léku aðalhlutverkin í kvikmynd Sofiu Coppola, Lost in Translation voru nokkuð óvænt valin besti leikarinn og leikkonan. Peter Weir var valinn besti leikstjórinn fyrir mynd sína Master and Commander: The Far Side of the World en sú mynd fékk alls fern verðlaun. Óvænt þótti að Peter Jackson hlaut ekki verðlaunin fyrir Hringadróttinssögu. Renée Zellweger var valin besta leikkona í aukahlutverki fyrir myndina Cold Mountain. Myndin fékk 13 tilnefningar en hlaut tvenn verðlaun. Bill Nighy var valinn besti leikari í aukahlutverki fyrir myndina Love Actually. Mikla athygli vakti fyrir kvikmyndahátíðina að fáir breskir leikarar voru tilnefndir þessu sinni. Á seinustu árum hefur Bafta fest sig í sessi sem ein af helstu kvikmyndahátíðum heims og er komin þar á svipaðan stall og Golden Globe og Óskarsverðlaunin og vilja oft gefa góða mynd um hvað gerist á Óskarnum. Óskarsverðlaunin verða afhend, sunnudaginn 29. febrúar nk. og verður athyglisvert að sjá hvort verðlaunin fara nærri Bafta í vali að þessu sinni.



Ósk fjallar í pistli um niðurstöður í skýrslu nefndar forsætisráðherra um efnahagsleg völd kvenna. Orðrétt segir: "Er það skynsamleg lausn (á því að konur hafi að jafnaði lægri laun en karlar) að vinna gegn því að konur velji eitt en karlar annað? Laða karlmenn að greinum þar sem konur eru í meirihluta, með því að notast t.d. við kynjakvóta, og velja þ.a.l. einstakling sem er af „heppilegra kyni“ í stað þess að meta hann út frá verðleikum sínum? Svarið er nei. Eðlilegra tilliti til einstaklinga verður ekki náð nema hugarfarsbreyting eigi sér stað meðal einstaklinga í samskiptum þeirra. Einstaklingar eiga að vera metnir út frá verðleikum sínum, ekki kyni." Ennfremur birtist pistill Páls Jóhannessonar um skattamál. Þar segir: "Töluvert hefur verið rætt um skattmat fjármálaráðuneytisins sem gefið var út í janúar síðastliðinn þar sem kveðið var á um hækkun á mati á bifreiðahlunnindum. Eðlilega var mikið rætt um þetta þar sem tíðkanlegt er að launþegar hafi ökutæki til umráða frá vinnuveitanda sínum sem telst hluti af launakjörum þeirra. Hugsanlega er þarna verið að ná inn sömu tekjum af „hátekjumönnum“ sem tapast við lækkun á „hátekjuskatti“ í þrepum sem nú stendur yfir. Menn þurfa þó aðeins að fara yfir 350 þúsund krónur í laun á mánuði til þess að greiða hátekjuskatt af því sem umfram þau mörk fer. Umrætt skattmat gengur út á að meta verðmæti þeirra hlunninda sem felast t.d. í að hafa umráð yfir ökutæki svo hægt sé að reikna tekjuskatt af þeirri fjárhæð. Í tilefni afmælis vefsins er þar í dag hægt að líta á gamlar myndir, gömul Gjallarhorn og söguvef Heimdallar.

Eftir kvöldfréttirnar horfði ég á þátt Jóns Ársæls. Gestir hans að þessu sinni voru félagarnir í hljómsveitinni Mínus. Góður þáttur, rétt eins og venjulega hjá Jóni. Eftir það var skipt yfir á RÚV og horft á heimildarmynd um Helga Hóseasson. Hafði séð myndina í bíó en horfði nú aftur á. Í dómi um myndina á sínum tíma sagði Hjörleifur Pálsson, félagi minn, á kvikmyndir.com: "Sagan af Helga byrjar á 7. áratug síðustu aldar þegar hann hóf að berjast fyrir því að skírn og ferming hans yrði afmáð úr opinberum bókum. Þetta reyndist Helga þrautin þyngri og þarna má segja að barátta hans við yfirvöld hafi byrjað og henni hefur ekki lokið ennþá, og mun væntanlega standa á meðan Helga endist þrek til. Oft hafa uppátæki Helga vakið athygli, til að mynda þegar hann gekk til altaris til þess eins að tilkynna það í votta viðurvist í guðshúsi að hann hefði rift skírnarsáttmála sínum við almættið. Einnig þegar hann kastaði skyri í alþingismenn og tjöru á stjórnarráðið. Hin síðari ár hefur hann helst stundað það að mótmæla hinum ýmsu hlutum, tengdum kristninni og yfirvöldum, með því að standa með mótmælaspjöld sín við vegakanta nálægt heimili sínu." Eftir þáttinn horfði ég á þáttinn Cold Case. Bafta verðlaunahátíðin var sýnd á RÚV frá hálfellefu. Mikill galli var að þetta var ekki í beinni útsendingu og því vissi maður hvernig þetta færi allt, sem var vægt til orða tekið lítt spennandi. Sjálf hátíðin var glæsileg venju samkvæmt.

Horfði í gærkvöldi enn einu sinni á magnaða kvikmynd Spike Jonze, Being John Malkovich. Sannkölluð snilldarmynd. Söguþráðurinn er með eindæmum geggjaður og best er að vita sem minnst um það hvernig sagan þróast áður en maður sér myndina því í þessu tilfelli er sko sjón sögu ríkari. Þó má upplýsa að myndin hefst þegar brúðugerðarmaður einn, Craig, uppgötvar dularfulla hurð á skrifstofu sinni. Þegar hann opnar hana og gengur inn kemur í ljós að hún leiðir beint inn í heilann á leikaranum John Malkovich. Craig ákveður þegar að gera sér féþúfu úr þessari merkilegu uppgötvun og tekur að selja almenningi aðgang að heilabúi leikarans! Myndin, sem er nota bene alfarið hugarfóstur leikstjórans Spike Jonze, og handritshöfundarins Charlie Kaufmans, skartar í aðalhlutverkum fjölda þekktra leikara, m.a. þeim John Cusack, Catherine Keener, Cameron Diaz (sem er nánast óþekkjanleg í hlutverki Lotte Schwartz, hún er allavega ekki á nokkurrn hátt lík þeirri skutlu sem lék Mary svo eftirminnilega í There´s Something About Mary), Mary Kay Place, auk þess sem titilpersónan (og úrvalsleikarinn) John Malkovich leikur sjálfan sig og botnar hann lítið í því sem er að gerast. Ógleymanleg og nett ruglandi kvikmynd.
Dagurinn í dag
* 1920 Fyrsta dómþing Hæstaréttar Íslands háð - með því hlutu Íslendingar æðsta dómsvald
* 1959 Dauðarefsing afnumin formlega í Bretlandi
* 1963 Bítlarnir ná á topp breska popplistans með smellinn Please, Please Me
* 1981 Mikið fárviðri gekk yfir sunnan og vestanvert landið - vindur fór í 62 metra á sekúndu
* 1995 Hornsteinn lagður að nýju húsi Hæstaréttar á 75 ára afmæli réttarins
Snjallyrði dagsins
When two people love each other, they come together - WHAM - like two taxis on Broadway
Stella í Rear Window
Breytt 18.9.2006 kl. 08:02 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
15.2.2004 | 23:49
Engin fyrirsögn

Í gær var 75 ára afmæli Varðar, félags ungra sjálfstæðismanna á Akureyri, fagnað formlega með málþingi í Kaupangi um búsetu og atvinnu á landsbyggðinni. Það kom í kjölfar kraftmikillar vinnuviku þar sem stefna félagsins í atvinnumálum var kynnt. Framsögumenn á málþinginu voru Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir menntamálaráðherra, Guðlaugur Þór Þórðarson alþingismaður og fyrrum formaður Varðar og Sambands ungra sjálfstæðismanna, Hafsteinn Þór Hauksson formaður Sambands ungra sjálfstæðismanna, Sigrún Björk Jakobsdóttir bæjarfulltrúi og formaður menningarmálanefndar Akureyrarbæjar, og Hilmar Ágústsson hjá viðskiptaþróun Brims. Voru erindi þeirra gagnleg og ekki síður fróðleg og skemmtileg. Í lok málþingsins var Halldór Blöndal forseti Alþingis, gerður að heiðursfélaga í Verði. Þá nafnbót á hann skilið. Hann var formaður Varðar 1964-1965, varð alþingismaður Sjálfstæðisflokksins í Norðurlandskjördæmi eystra 1979 og leiðtogi flokksins í kjördæminu er Lárus Jónsson hætti afskiptum af stjórnmálum 1984. Hann var samgönguráðherra 1991-1999 og landbúnaðarráðherra 1991-1995 og hefur verið forseti Alþingis frá 1999. Forysta hans og leiðsögn hefur verið okkur sjálfstæðismönnum hér farsæl og dýrmæt.


Að þessu sinni fjalla ég um málefni sveitarfélaga í Eyjafirði og velti fyrir mér sameiningarhugmyndum sem verið hafa í umræðunni um sameiningu allra sveitarfélaga í firðinum og bæjarstjórinn á Akureyri fjallaði um í viðtali við Morgunblaðið fyrir skömmu. Það eitt skiptir okkur hér máli að styrkja Eyjafjörð sem mótvægi við höfuðborgarsvæðið og gera það ákjósanlegt að búa hér og efla svæðið sem sterka heild. Enginn vafi er á því í mínum huga að fólk hér eigi að vinna sameinuð og taka höndum saman. Það er mikilvægt, mjög svo. Ennfremur fjalla ég um tvö merkisafmæli, sem snerta mig, hvor á sinn hátt: 75 ára afmæli Varðar, félags ungra sjálfstæðismanna á Akureyri, sem haldið var upp á í gær með málþingi og afmælisveislu í gærkvöldi og ennfremur 5 ára afmæli frelsi.is, vefrits Heimdallar, en ég hef skrifað á vefinn frá 2002 og er í ritnefnd hans.

Um helgina, föstudaginn 13. og laugardaginn 14. febrúar, var Ríkissjónvarpið með þemahelgi til heiðurs leikstjóranum Sir Alfred Hitchcock. Þær fimm myndir sem voru sýndar um helgina voru: Psycho, The Birds, Frenzy, Marnie og Topaz. Ég hef lengi verið mikill aðdáandi kvikmynda Hitchcocks og fagna því mjög þessari bíóveislu, meira mætti gera af því að sýna myndir hans. Ferill Hitchcocks er einstakur. Hann var einn fremsti kvikmyndagerðarmaður 20. aldar. Meistari spennumyndanna, sannkallaður snillingur í að ná fram því besta frá leikurum sínum og skapa ógleymanlegar stórmyndir. Á ferli sínum leikstýrði hann tæplega 70 kvikmyndum. Fáir leikstjórar hafa sett meira mark á kvikmyndagerð og sögu kvikmynda. Sannkallaður meistari meistaranna í kvikmyndaheiminum.
Dagurinn í dag
* 1917 Kristín Ólafsdóttir lauk læknaprófi fyrst íslenskra kvenna
* 1923 Ingibjörg H. Bjarnason tók sæti á Alþingi fyrst kvenna, sat á þingi í 8 ár
* 1939 Leikrit Lillian Hellman, Little Foxes frumsýnd á Broadway - síðar kvikmyndað
* 1944 Casablanca frumsýnd í Tjarnarbíói - ein frægasta kvikmynd 20. aldarinnar
* 1956 Urho Kekkonen kjörinn forseti Finnlands - var forseti til 1981
Snjallyrði dagsins
Louis, I think this is the beginning of a beautiful friendship.
Rick Blaine í Casablanca
Breytt 18.9.2006 kl. 08:02 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
13.2.2004 | 23:56
Engin fyrirsögn
Seinustu daga hefur mikið verið deilt um fyrirhugaða lýtaaðgerð á söngkonunni Ruth Reginalds, sem fram átti að fara í morgunþættinum Íslandi í bítíð á Stöð 2. Fylgjast átti með aðgerðum á söngkonunni og öllum breytingum sem á henni verða í þeim. Rafn Ragnarsson lýtalæknir, sem ætlaði að taka þátt í að breyta útliti söngkonunnar ákvað að viðhöfðu samráði við landlæknisembættið og formann Læknafélagsins, að hætta við aðgerðina. Aðstoðarlandlæknir hefur tilkynnt að ekki sé viðeigandi að gera slíka aðgerð í svo til beinni útsendingu sjónvarps. Áfram verður þó fylgst með útlitsbreytingum á Ruth Reginalds í morgunþættinum. Páll Magnússon framkvæmdastjóri dagskrársviðs Stöðvar 2, hefur sagt að í raun hafi ekkert annað breyst en það að þær aðgerðir eða aðgerð sem Rafn framkvæmir á Ruth Reginalds verði ekki myndaðar. Þetta verkefni haldi að öðru leyti áfram á fullu. Mín skoðun á svona lýtaaðgerðum er einföld. Það er ákvörðun viðkomandi hvað hann eða hún gerir við sinn líkama. Það er ekki mitt að ákveða. Vilji einhver breyta útliti sínu þá sá aðili um það. Hann eða hún á að hafa frelsi til að velja.



Vinnuvika Varðar heldur áfram af fullum krafti. Í dag birtist grein í Morgunblaðinu vegna vinnuvikunnar þar sem fjallað er um iðnaðar- og orkumál. Í greininni sem er eftir Sigurgeir Valsson og Birgi Örn Tómasson, stjórnarmenn Varðar, eru skoðanir félagsins í þessum málaflokki raktar mjög vel. Orðrétt segir í greininni: "Varðarmenn vilja að Byggðastofnun verði lögð niður og sveitarfélögunum verði treyst til að sjá um sig sjálf. Það þarf ekki stofnun til að segja fólki hvar það á að búa. Þegar vegir eru góðir, eins og verður að markmiðum samgönguáætlunar uppfylltum, og samskipti hraðvirk, á alnetinu, getur hver sem er nánast búið var sem er. Nóg hefur verið sagt um byggðamál og að vinda eigi ofan af byggðaþróun síðustu tveggja alda. Sé viljinn raunverulegur er kominn tími á að verkin tali. Móta átti fyrir nokkru byggðaáætlun um Eyjafjarðasvæðið, um slíka hluti hefur og mikið verið skrifað, Vörður vill framkvæmdir áður en síðasti Hríseyingurinn flytur til Reykjavíkur. Ísland á ekki að vera borgríki. Enda víðar búsældarlegt en á Seltjarnarnesi og í nágrenni þess." Á morgun verður í Kaupangi, ráðstefna um byggða- og atvinnumál, eins og fyrr hefur verið fjallað um á þessum vef. Þar verður kraftmikil og góð umræða um þessi brýnu mál, sem vinnuvikan er byggð utan um.

Í dag er mikið af góðu efni á frelsinu. Steini fjallar í pistli sínum um landbúnaðarmál og segir orðrétt: "Landbúnaðarkerfið kemur í veg fyrir eðlilega verðmyndun á markaði. Bændum eru gefin röng framleiðsluskilaboð með styrkjum og niðurgreiðslum í stað þess að láta eftirspurnina ráða framleiðslunni. Afleiðing þessa er offramleiðsla og óhagkvæm nýting framleiðsluþátta sem leiðir af sér bága afkomu greinarinnar. Mikið er rætt um hátt matvöruverð á íslandi og líta margir sperrtir í Evrópuátt. Evrópusambandsáhangendur telja iðulega fram þann kost af inngöngu að matvara sé þar á kostakjörum. Hægt er að lækka matvöruverð hér á landi með einföldum hætti: annars vegar með því að strika út öll innflutningshöft sem eru á erlendum matvörum og hins vegar með því að leggja niður landbúnaðarkerfið. Slík umbótastefna myndi skila sér í lægra matvöruverði, öllum landsmönnum til hagsbóta." Í pistli sínum fjallar Jón Elvar um skattamál og segir orðrétt: "Yfirvöld hafa löngum verið hugmyndarík þegar kemur að skattamálum. Hér á landi gildir regla um nokkurs konar alheims skattlagningu. Í því felst að tekjur og eignir íslenskra einstaklinga jafnt sem lögaðila eru skattskyldar á Íslandi óháð því hvar í heiminum teknanna er aflað og hvar eignir eru staðsettar." Ennfremur er fjallað um athyglisverða ráðstefnu Heimdallar sem verður 19. febrúar um frjálshyggjuna.

Horfði í gærkvöld í enn eitt skiptið á hina mögnuðu kvikmynd Ang Lee, Crouching Tiger, Hidden Dragon . Ævintýraleg mynd um tvær bardagahetjur í Kína fyrr á öldum sem eru á höttunum eftir stolnu sverði en í kjölfarið fylgja bardagasenur sem ögra náttúrulögmálum svo ekki sé meira sagt. Í alla staði vel gerð mynd með einstaklega skemmtilegum og vel útfærðum bardagaatriðum. Myndatakan er fyrsta flokks og söguþráðurinn er í senn heillandi og spennandi. Leikstjórinn Ang Lee fer hér á þjóðlegar kínverskar slóðir og blandar saman gríni, alvöru og kung fu bardögum á hreint magnaðan hátt. Þetta er mjög sterk mynd, eins og við er að búast frá Ang Lee og bardagatriðin eru alveg óaðfinnanleg, enda er hér vanur maður á ferð við stjórnvölinn. Leikararnir standa sig allir frábærlega, bæði í dramatískum atriðum og ekki síst í háskalegum bardögum. Heillandi og meistaralega gerð úrvalsmynd sem á að vera við allra hæfi. Eftir myndina fór ég að lesa áfram annað bindið um Einar Ben, er að lesa allar bækurnar aftur. Magnaðar bækur um hreint ótrúlegt lífshlaup manns.
Dagurinn í dag
* 1693 Heklugos hófst - stóð langt fram eftir því ári
* 1861 Abraham Lincoln verður forseti Bandaríkjanna
* 1942 Tveir prammar sukku á Hrútafirði - átján breskir hermenn drukknuðu
* 1972 Söngleikurinn Grease frumsýndur á Broadway - einn vinsælasti söngleikur aldarinnar
* 1983 Loftsteinn féll í sjóinn austur af landinu - birti í kvöldhúminu um austanvert landið
Snjallyrði dagsins
I do wish we could chat longer Clarice, but I'm having an old friend for dinner. Bye!
Dr. Hannibal Lecter í The Silence of the Lambs
Breytt 18.9.2006 kl. 08:02 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
12.2.2004 | 23:56
Engin fyrirsögn

Davíð Oddsson forsætisráðherra, sagði í ítarlegri ræðu á Viðskiptaþingi í gær, að of mikil samþjöppun í efnahagslífinu væri í hans huga óæskileg og dulbúin frelsisskerðing. Að hans mati hafi kostað mikil pólitísk átök að ná allgóðri samstöðu um að ríkið hætti að leika aðalhlutverkið á íslenskum markaði og sá árangur hefði ekki náðst ef ekki hefði komið til skilningur fólksins í landinu á mikilvægi þess máls. Sagðist Davíð vera sannfærður um að stuðningur við þessa stefnu myndi fljótt fjara út ef þess væri ekki gætt að jafnvægi ríki á markaðnum og ekki gíni of fáir yfir of miklu. Þá sagði Davíð að það væri beinlínis hættulegt, að fyrirtæki sem væri í markaðsráðandi stöðu, ætti jafnframt fjölmiðla. Orðrétt sagði hann: "Öflugir, traustir og heiðarlegir forustumenn í viðskiptalífi eru drifkraftur og velgjörðarmenn í frjálsum ríkjum og gera borgarana bjargálna. Þeir eiga að blasa við þegar fólkið horfir til fyrirmynda í efnahagsmálum en ekki fáeinir fjárplógsmenn ágjarnir, sem engu eira. Það er ekki sjálfgefið að við Íslendingar búum við lága skatta, jafnvægi í ríkisfjármálum, vaxandi kaupmátt og stöðugan hagvöxt. Það eru, því miður, sorglega mörg dæmi um hið gagnstæða víða um veröld, og ekki síst í okkar eigi sögu. Ákvörðun iðnaðar- og viðskiptaráðherra, um að skipa nefnd til að kanna þörf á sérstökum aðgerðum vegna hringamyndunar, var því bæði rétt og tímabær og skilar vonandi árangri,”.



Í dag birtist í Mogganum ítarleg grein okkar Atla Hafþórssonar ritara Varðar, um sjávarútvegsmál, vegna vinnuviku Varðar. Orðrétt segir þar: "Það virðist vera búið að koma þeirri pólitísku firru inn hjá mörgum að kvóti sé hin algera lausn á vanda byggðarlagana. Það hefur hins vegar komið í ljós að svo er ekki. Af hverju fjölgar ekki á stöðum þar sem kvóti hefur aukist? Kann það að vera að pólitískar ofsóknir á greinina séu stærsti vandinn? Hver vill vinna undir þeim hótunum vissra stjórnmálamanna að allt sem þeir hafi áorkað í gegnum tíðina verði tekið af þeim með einu pennastriki?". Gaman var að koma að þessari grein með Atla, hann hefur lengi fylgst vel með sjávarútveg, enda sjóhundur mikill og hefur starfað mikil til sjós og þekkir þennan málaflokk vel. Áttum virkilega gott samstarf vegna þessa pistils. Ennfremur birtist í dag á Íslendingi, grein okkar Sigurgeirs Valssonar um menningarmál. Þar segir orðrétt: "Það er að okkar mati mjög mikilvægt blómlegt menningarstarf fái að dafna sem mest. Æskilegt er að einstaklingar, fyrirtæki og hið opinbera sameinist um að tryggja að svo verði. Það er þó útgangspunktur í menningarlífi að frumkvæði og gróska í allri menningarstarfsemi liggi hjá einstaklingunum. Þeim er hvað best treystandi fyrir því að tryggja blómlegt menningarlíf." Í dag birtist svo á vefnum ítarleg stefna félagsins í sjávarútvegs- og menningarmálum.

Í pistli dagsins á frelsinu, fjallar Kristinn Már um frelsið vegna greinaskrifa á pólitík.is, vef ungra jafnaðarmanna. Orðrétt segir Kristinn: "Skilgreiningar á frelsi eru almennt neikvæðar. Frelsi samkvæmt neikvæðri skilgreiningu er frelsi til að gera eitthvað án þess að eiga á hættu að vera beittur ofbeldi eða kúgun af hálfu einhvers. Sem nefna má að ef ríkisvaldið myndi ákveða hvar hver og einn ætti að búa værum við svipt frelsinu til þess að ákvarða um eigin búsetu. Við njótum hins vegar þess frelsis, annað væri augljóslega hróplegt óréttlæti Oftast er talað um frelsi frá kúgun og ofbeldi og einnig frelsi til þess að gera þá hluti sem maður vill gera svo framarlega þeir felist ekki í því að kúga aðra menn með ofbeldi. Sumir, sérstaklega vinstrimenn, vilja skilgreina frelsið jákvætt. Jákvætt skilgreint frelsi er frelsi til einhvers. Til dæmis frelsi til menntaþjónustu, sem greitt er fyrir með fé annarra og safnað er saman með lögregluvaldi. Til þessa að einn verði frjáls þarf að neyða annann til að gera eitthvað. Menn eru samkvæmt þessu í raun ekki frjálsir nema þeir hafi ýmsa kosti og/eða gæði. Þannig vilja sumir meina að aukin þekking jafngildi auknu frelsi." Ennfremur eru á frelsinu umfjöllun um afmæli vefsins og um Viðskiptaþing.

Eftir kvöldfréttirnar var horft á kvikmyndina Easy Rider. Sígild og næstum sagnfræðileg gullaldarheimild um hippaheimspeki sjöunda áratugarins. Hér segir af blómabörnunum Billy og Wyatt sem leggja uppí ferð til að skoða gervalla Ameríku. Sú verður þeirra síðasta. Þeir verða loks fórnarlömb þess hugsunarháttar sem börðust á móti. Á leiðinni kynnast þeir fjölmörgum skrýtnum landanum, m.a. þeirra er George Hanson, en hann er lögfróður drykkjurútur sem ákveður að slást í för með þeim félögum. Hiklaust, ein af mest stefnumótandi myndum sjöunda áratugarins og jafnvel kvikmyndasögunnar, enda eru eftirlíkingarnar af henni orðnar óteljandi. Kostaði smáaura en halaði inn milljónum dollara og varð ein af vinsælustu kvikmyndum sjöunda áratugarins og hefur unnið sér merkan sess í kvikmyndasögunni. Dennis Hopper og Peter Fonda fara á kostum í hlutverkum ferðafélaganna og óskarsverðlaunaleikarinn Jack Nicholson er hreint ógleymanlegur í hlutverki George Hanson. Eftir myndina var horft á tíufréttir og Pressukvöld RÚV þar sem rætt var við Einar Kristinn Guðfinnsson þingflokksformann Sjálfstæðisflokksins. Gott viðtal við Einar og kom hann vel út úr þessu spjalli. Eftir það átti ég gott spjall við vini á MSN.
Dagurinn í dag
* 1918 Útgáfa Dags á Akureyri hófst. Varð að dagblaði árið 1985, en hætti að koma út 1997
* 1919 Konungsúrskurður gefinn út um skjaldarmerki Íslands - merkinu var breytt 1944
* 1940 Almenn hegningarlög sett - eru aðallagaboðið hérlendis á sviði refsiréttar
* 1991 Ísland viðurkennir formlega sjálfstæði Litháens í miðri sjálfstæðisbaráttu Litháa
* 1994 Málverkinu Ópinu eftir Edvard Munch, stolið í Osló
Snjallyrði dagsins
You have no call to get snippy with me; I'm just trying to do my job here.
Marge Gunderson í Fargo
Breytt 18.9.2006 kl. 08:02 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
11.2.2004 | 23:59
Engin fyrirsögn

John Kerry öldungadeildarþingmaður í Massachusetts, heldur áfram sigurgöngu sinni í forkosningum Demókrataflokksins. Fátt eða ekkert virðist geta komið í veg fyrir að hann verði forsetaframbjóðandi demókrata í forsetakosningunum, 2. nóvember nk. Kerry sigraði örugglega í forkosningum demókrata í Virginíu og Tennessee í gær, hefur hann nú unnið 12 af 14 forkosningum innan flokksins. Kerry hlaut 52% atkvæða í Virginíu og 41% í Tennessee. John Edwards öldungadeildarþingmaður N-Carolinu, varð annar í báðum ríkjunum og hlaut rúmlega fjórðung atkvæða í báðum. Wesley Clark varð þriðji í báðum ríkjunum. Virginía og Tennessee tilheyra Suðurríkjunum sem bæði Edwards og Clark höfðu áður talið sterkasta vígi sitt. Greinilegt er að úrslitin voru þeim mikil vonbrigði. Tilkynnir Clark formlega í dag væntanlega að hann dragi sig í hlé úr slagnum. Talið er líklegt að Edwards dragi sig ennfremur brátt í hlé og sækist eftir að verða varaforsetaefni Kerrys. Líklegast er nú talið að Edwards eða Dick Gephardt verði meðframbjóðandi Kerrys, ef hann nær útnefningunni sem flest bendir til. Líklegt má telja að forkosningar í Wisconsin, 17. febrúar nk. verði endastöð fleiri frambjóðenda. Hefur Howard Dean tilkynnt að hann íhugi vel næstu skref ef hann tapi þar og sama gildir um Edwards. Dean sem á tæpum mánuði hefur fallið í sessi tók ekki þátt í forkosningum þriðjudagsins. Samkvæmt könnunum sigrar Kerry í Wisconsin.



Vinnuvika Varðar heldur áfram af krafti. Metnaðarfull stefna félagsins í atvinnumálum er kynnt á Íslendingi. Í grein sem birtist í gær á vefnum fjallar Arnljótur Bjarki Bergsson um þjónustu. Í henni segir t.d. "Frjáls viðskipti eru góð viðskipti. Svo viðskipti geti gengið sem best fyrir sig þarf að takmarka inngrip óviðkomandi aðila. Því er mikilvægt að skattar og skyldur sem settar eru á menn séu í lágmarki. Gagnslaust er með öllu að binda fólk við pappírsvinnu og óþarfa útskýringar á athöfnum sínum. Eftirlitsstofnun Ríkisins má ekki verða að veruleika. Íslensku þjóðarbúi gagnast hvert starf, hvort sem það er unnið í stóriðnaði eða smáiðnaði. Smáiðnaði reynist oft fjötur um fót að glíma við skyldur um skýrsluskil. Hér eiga sprota fyrirtæki sem þrífast á menntuðu fólki að geta skotið upp kollinum." Ítarleg stefna félagsins í landbúnaðarmálum er birt á vefnum í dag.

Í gær birtist fyrsti pistill Kára vinar míns, á frelsinu. Er hann boðinn velkominn í hóp okkar sem þar skrifum. Í pistlinum skrifar hann um uppáhaldsstjórnmálamann minn Margaret Thatcher og fer yfir ævi hennar og feril. Í dag birtist pistill eftir Sössu um borgarmál. Þar segir hún: "Frá því Ingibjörg Sólrún Gísladóttir tók við borginni sýndi hún vilja sinn í verki með því að fjölga stöðumælum, hækka stöðmælagjald og sektir. Líklega er þetta besta leiðin til að fæla fólk frá miðbænum. Eitt er víst að við tælum ekki fólk í miðborgina með því að hækka stöðumælagjald og sektir. Það ódæðisverk sem Ingibjörg Sólrún vann í miðborg Reykjavíkur hefur haft sorglegar afleiðingar. Fjöldamörg verslunarpláss við Laugaveginn, Austustræti, Hafnarstræti og víða er tóm og enn fleiri að tæmast. Bílarnir sem liggja í rándýrum stæðunum eru flestir með glaðning undir rúðuþurrkunni sem bíður greiðandans/eigandans. Ástandið er alvarlegt. Bíltúr niður Laugaveginn og Bankastrætið, yfir Lækjargötuna og inn Austurstrætið minnir mig einna helst á kvöld eitt í maí mánuði 1986 þegar Íslendingar tóku fyrst þátt í Eurovision. Ekki hræða á vappi, varla róna að sjá!"

Fyrri hluta þriðjudagskvöldsins var eytt í sjónvarpsgláp. Horfði á upptöku af þætti Gísla Marteins og Spaugstofunnar, en vegna Reykjavíkurferðar missti ég af herlegheitunum. Gísli góður að vanda og Spaugstofan náði nýjum og áður óþekktum hæðum í vetur. Magnaður þáttur og gott ef maður var ekki farinn að segja "Af hverju hringdirðu ekki í mig?" að honum loknum. Brilljant menn þarna að verki. Svo var horft á kvikmyndina Hannibal með Anthony Hopkins og Julianne Moore. Í myndinni mætir geðlæknirinn og mannætan, dr. Hannibal Lecter, aftur fram á sjónarsviðið tíu árum eftir að hann slapp úr gæslu laganna varða í Bandaríkjunum og arkaði á ný út í hinn frjálsa heim. Nú lifir hann munaðarlífi í Flórens á Ítalíu og hefur hann betrumbætt mataræði sitt, enda er honum í mun að enda ekki ævi sína innilokaður í litlum, myrkum fangaklefa. Þó svo að hann hafi ekkert gert af sér undanfarin ár er hann enn álitinn einn hættulegasti maður veraldar og hefur alríkislögreglukonan Clarice Starling langt í frá gleymt honum. Mögnuð og vel leikinn spennutryllir. Ég ráðlegg fólki að sleppa poppinu yfir þessari!
Dagurinn í dag
* 1943 Dwight D. Eisenhower verður hershöfðingi bandamanna í Evrópu
* 1973 Sjöstjarnan fórst - langafi minn, Stefán Jónasson útgerðarmaður, átti skipið lengst af
* 1973 Kvikmyndin Brekkukotsannáll eftir skáldsögu Laxness, frumsýnd í sjónvarpi
* 1975 Margaret Thatcher kjörin leiðtogi breska Íhaldsflokksins, fyrst kvenna
* 1990 Nelson Mandela sleppt úr varðhaldi eftir að hafa verið haldið föngnum í fangelsi í 27 ár
Snjallyrði dagsins
It's a great thing when you realize you still have the ability to surprise yourself.
Lester Burnham í American Beauty
Breytt 18.9.2006 kl. 08:02 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
9.2.2004 | 22:58
Engin fyrirsögn

Fram hefur komið að ekki sé sátt milli stjórnarflokkanna um frumvarp fjármálaráðherra um afnám sjómannaafsláttar, frumvarp ráðherra var tekið af dagskrá Alþingis síðastliðinn mánudag, að kröfu Kristins H. Gunnarssonar sem verið hefur starfandi formaður sjávarútvegsnefndar. Hann hefur nú loks misst þann sess sinn, en ljóst er að afleitt er hvernig Vestfjarðaþingmenn misnota stöðu sína og koma í veg fyrir framfaramál, samanber sjómannaafsláttinn. Sjálfstæðisflokkurinn á formennsku í nefndinni, samkvæmt samkomulagi um nefndaskipan frá því eftir seinustu þingkosningar. Vegna veikinda sinna hefur Árni Ragnar Árnason ekki getað tekið sæti sem formaður nefndarinnar. Nýr formaður var kjörinn í gær, Guðjón Hjörleifsson alþingismaður og fyrrum bæjarstjóri í Vestmannaeyjum. Nokkur umdeild mál bíða umfjöllunar í nefndinni, og er ekki full sátt um þau milli stjórnarflokkanna. Framundan er að ganga frá dagafjölda í handfærakerfi smábáta. Kjarasamningar sjómanna verða eflaust til umræðu, einkum í tengslum við frumvarp fjármálaráðherra um afnám sjómannaafsláttar. Mikilvægt er að það frumvarp verði að lögum á þessu þingi og er leitt að það hafi verið tekið af dagskrá og vonandi leysist úr þeim hnút bráðlega, fyrst kominn er nýr formaður í nefndina. Mikilvægt er að koma böndum á Vestfirðingana og tryggja að framfaramál eins og með afnám sjómannaafsláttar nái í gegn.



Vörður, félag ungra sjálfstæðismanna á Akureyri, fagnar á morgun 75 ára afmæli sínu. Í tilefni afmælisins hefur stjórn Varðar ákveðið að hafa vinnuviku og minna með því á helstu málefni atvinnulífsins og efna til umræðu um þau á málþingi um næstu helgi í Kaupangi, höfuðstöðvum flokksins hér á Akureyri. Í vikunni munu birtast vegna afmælisins þrjár greinar í Morgunblaðinu og tvær aðrar að auki ennfremur á Íslendingi. Metnaðarfull stefna félagsins í atvinnumálum er kynnt ennfremur á vef okkar sjálfstæðismanna. Í grein sem birtist í dag í Morgunblaðinu fjalla Guðmundur Erlendsson og Víðir Guðmundsson um landbúnaðarmál. Í henni segir t.d. "Það er komin tími til að eyða ríkisframlögum, styrkjum og höftum úr landbúnaði, gera rekstur arðbæran, hagkvæman og frjálsan í krafti þess og opna dyrnar fyrir nútíð og framtíð í frumframleiðslugreinunum. Það þarf að skapa frelsi í vali fyrir neytendur án afskipta ríkisvaldsins. Það er með öllu ótækt að ríkið skuli meina aðgang annarra þjóða á íslenskan markað til þess eins að hlaupa undir bagga með einni stétt sem síkvartandi segist lepja dauðann úr skel en hleypur hlæjandi í bankann með ríkistékkann sinn á hverju ári." Ítarleg stefna félagsins í landbúnaðarmálum er birt á vefnum í dag.

Í pistli dagsins á frelsinu fjallar Óli um flutningsjöfnunarsjóð olíuvara. Orðrétt segir hann: "Flutningsjöfnun olíu hefur verið við lýði síðan um miðja síðustu öld og var henni komið á í skugga Marshall-aðstoðarinnar, þegar aðstæður voru með þeim hætti að nauðsynlegt þótti að niðurgreiða olíu til hinna dreifðu byggða og stuðla þannig að uppbyggingu atvinnufyrirtækja á landsbyggðinni. Í dag spyr maður sig þeirrar spurningar hvort sjóður þessi sé raunverulega nauðsynlegur og svarið er klárlega nei. Aðstæður í dag eru allt aðrar en þær voru árið 1950. Er það eðlilegt að bensínverð með niðurgreiðslu úr ríkissjóði sé það sama í Reykjavík og á Hveravöllum? Augljóslega ekki; þeir sem hafa einhverja þörf fyrir að ferðast um fjöll og firnindi geta greitt fyrir þá vöru sem þeir nota, það sem hún raunverulega kostar. Engum myndi til dæmis láta sér detta það í hug að krefja kaupmanninn í Hrauneyjum á Sprengisandi um að hann seldi sér mjólkurpottinn á sama verði og hann kostar í Bónus Holtagörðum." Ennfremur er fjallað um ráðstefnu SUS um menntamál sem var í Hafnarfirði á laugardag. Að auki er athyglisvert netviðtal við Einar Kristinn Guðfinnsson þingflokksformann.

Óskarsverðlaunin, kvikmyndaverðlaun bandarísku kvikmyndaakademíunnar, verða afhent í Los Angeles sunnudaginn 29. febrúar í 76. skipti. Tilnefningar til verðlaunanna voru kynntar 27. janúar af Frank Pierson forseta bandarísku kvikmyndaakademíunnar og leikkonunni Sigourney Weaver sem á sæti í akademíunni. Í tilefni af afhendingu verðlaunanna hefur kvikmyndir.com opnað hinn sívinsæla óskarsvef sinn. Mun ég sjá þar um að setja inn efni og skrifa um verðlaunin. Þegar hefur þar birst ítarlegur pistill um tilnefningar til verðlaunanna, og samantekt um fróðleiksmola tengda verðlaununum. Framundan er svo meira efni og brátt verður settur á vefinn ítarlegir listar yfir alla vinningshafa í helstu flokkum frá því verðlaunin voru fyrst afhent árið 1928.
Dagurinn í dag
* 1827 Kamsránið - peningum rænt á Kambi í Flóa, leiddi til umfangsmikilla réttarhalda
* 1833 Baldvin Einarsson lögfræðingur, lést 31 árs gamall - gaf út ársritið Ármann á Alþingi
* 1946 Togarinn Júlí frá Hafnarfirði fórst og með honum 30 manns
* 1982 Sjór flæddi um Pósthússtræti og Austurstræti snemma morguns
* 2003 Borgarnesræða ISG - upphaf persónuskítkasts Samfylkingarinnar í kosningabaráttu
Snjallyrði dagsins
What if this is as good as it gets?
Melvin Udall í As Good as it Gets
Breytt 18.9.2006 kl. 08:02 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
8.2.2004 | 23:58
Engin fyrirsögn

George W. Bush forseti Bandaríkjanna, varði ákvarðanir sínar í utanríkismálum í sjónvarpsviðtali á NBC í dag. Er þetta fyrsta sjónvarpsviðtalið sem birst hefur við forsetann í nokkur ár. Venja er að sitjandi forseti birtist í vikuspjallþættinum Meet the Press á NBC einu sinni á hverju kjörtímabili og var þetta viðtal tekið vegna þess. Sagði forsetinn m.a. að innrásin í írak hefði verið nauðsynleg; hann væri stríðsforseti og bandarískir kjósendur ættu fyrst og fremst að hugsa um hvernig Bandaríkin beittu valdi sínu í heiminum. Rætt var um nefnd þá sem forsetinn hefur skipað til að rannsaka aðdraganda innrásarinnar og þátt leyniþjónustunnar í henni. Um hana sagði Bush að bandarískir kjósendur fengju nægan tíma til að meta hvort það hefði verið rétt að ráðast á Írak og koma Saddam Hussein fyrrum einræðisherra Íraks, af valdastóli. Nefndin mun skila tillögum einhverntímann á árinu 2005. Í nefndinni eru bæði demókratar og repúblikanar og meðal nefndarmanna er John McCain öldungadeildarþingmaður, og mótframbjóðandi forsetans í forkosningum Repúblikanaflokksins fyrir forsetakosningarnar 2000.


Að þessu sinni fjalla ég um þann mikla úlfaþyt sem orðið hefur vegna ríkisráðsfundar sl. sunnudag í tilefni 100 ára afmælis heimastjórnar og undarlegar yfirlýsingar forseta Íslands í kjölfar hans. Minni ég á skoðanir mínar á málinu og forsetaembættinu almennt, en í síðustu viku birtist ítarlegur pistill á frelsi.is eftir mig líka um þetta mál. Ég fjalla um ráðstefnu SUS um menntamál sem var um helgina og minni ennfremur á að menntasókn er löngu hafin undir forystu Sjálfstæðisflokksins og hefur staðið núna í rúman áratug undir farsælli forystu menntamálaráðherra okkar allan þann tíma. Að lokum fer ég yfir undarlega lagasetningu um Sparisjóðina, sem vinnur algjörlega gegn mínum hugsjónum.
Fór að morgni laugardags með flugi til Reykjavíkur. Var ætlunin að fara á menntamálaráðstefnu SUS í Hafnarfirði. Yfirskrift ráðstefnunnar var: Breytt rekstrarform - betri menntun. Var virkilega fróðlegt að fræðast um þennan málaflokk. Í tæplega 13 ára valdatíð Sjálfstæðisflokksins í menntamálaráðuneytinu hefur vel verið unnið til eflingar menntamálum og sókn til framfara staðið í okkar valdatíð. Öll erindin á ráðstefnunni voru góð, verð ég þó að viðurkenna að Ásdís Halla Bragadóttir vakti mesta athygli enda mætti hún í Thatcher bol okkar SUS-ara. Með verkum sínum í Garðabænum hefur Ásdís horft til framtíðar í menntamálum og starfað vel eftir skoðunum okkar SUS-ara í menntamálum. Eftir ráðstefnuna var boðið upp á veitingar í boði Stefnis, félags ungra sjálfstæðismanna í Hafnarfirði. Eftir ráðstefnuna fór ég ásamt nokkrum vinum á kaffihús og spjalla. Um kvöldið fórum við Tommi félagi minn, í bíó og sáum hina mögnuðu Lost in Translation með Bill Murray og Scarlett Johansson. Eftir myndina var litið í bæinn.
Dagurinn í dag
* 1925 Halaveðrið - tveir togarar fórust á Halamiðum og með þeim 68 manns
* 1965 Konungur djassins, Louis Armstrong hélt þrenna tónleika á Íslandi
* 1980 Ríkisstjórn dr. Gunnars Thoroddsen tók við völdum. Hún sat í rúm þrjú ár
* 1994 Martti Ahtisaari kjörinn forseti Finnlands eftir nauman sigur á Elizabeth Rehn
* 1998 Nóbelsverðlaunaskáldið Halldór Kiljan Laxness lést, 95 ára að aldri
Snjallyrði dagsins
Do you spend time with your family? Good. Because a man that doesn't spend time with his family can never be a real man.
Don Vito Corleone í The Godfather
Breytt 18.9.2006 kl. 08:02 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
7.2.2004 | 05:17
Engin fyrirsögn

Frumvarp Valgerðar Sverrisdóttur viðskiptaráðherra, um sparisjóðina varð að lögum á fimmtudagskvöld. Mestallan fimmtudaginn hafði málið verið til umræðu í efnahags- og viðskiptanefnd þingsins á þrettán klukkustunda löngum fundi, og fékk flýtimeðferð í krafti þess að mikill meirihluti þingmanna studdi það. Pétur Blöndal formaður nefndarinnar, varðist einn þingmanna gegn hinum og barðist af krafti gegn frumvarpinu. Fram kom í umræðunum áður en frumvarpið varð samþykkt að henn teldi lagasetninguna ógna réttaríkinu og ríkisstjórnina ganga gegn eigin stefnu. Lögunum er eins og flestir vita ætlað að verða umgjörð þess að sparisjóðir landsins geti starfað áfram óáreittir í framtíðinni. Pétur skilaði einn minnihlutaáliti í nefndinni og taldi lagasetninguna ótrúlega, tilgangslausa, upp á að halda SPRON inni í sparisjóðakerfinu og stefna gegn löglegum samningi um sölu SPRON til KB banka. Frumvarpið var loks samþykkt með 43 atkvæðum gegn einu atkvæði Péturs. Tveir sjálfstæðismenn sátu hjá við afgreiðslu frumvarpsins, þeir Sigurður Kári Kristjánsson og Guðlaugur Þór Þórðarson, ennfremur þingmaður Samfylkingar, Helgi Hjörvar. Skoðun mín á þessu frumvarpi er alveg skýr. Það vinnur algjörlega gegn mínum hugsjónum og átti aldrei að leggja fram. Það er alveg með ólíkindum að stjórnarflokkarnir ríkisvæði Sparisjóðina og lítt geðslegur verknaður.

Sir David Lean fæddist í Croydon í Surrey-héraði í Bretlandi, 25. mars 1908. Hann lést í London, 16. apríl 1991. Lean hóf störf í kvikmyndaheiminum ungur og kom víða við á löngum ferli. Ferill David Lean stóð í rúm 60 ár og hann leikstýrði 18 kvikmyndum í fullri lengd á ferli sínum, sem bera vitni hæfileikum og meistaratöktum í kvikmyndagerð. Hin breska fagmennska er öflugt einkenni á helstu kvikmyndum hans. Hann var sannkallaður snillingur í að ná fram því besta frá leikurum sínum. Var þekktur fyrir sannkallaða fullkomnunaráráttu er kom að lokafrágangi mynda sinna og krafðist mikils af leikurum sínum. Eitt sinn sagði hann: "Leikarar geta verið óþolandi við vinnslu kvikmynda, en það er hrein unun að borða kvöldmat með þeim". David Lean lét eftir sig sannkallaðan fjársjóð í kvikmyndasögu 20. aldarinnar. Hann var einn meistara meistaranna í kvikmyndaheiminum. Meðal eftirminnilegustu mynda hans eru Lawrence of Arabia, The Bridge on the River Kwai, Brief Encounter, Doctor Zhivago og Summertime. Ég fjalla ítarlega um feril Lean í ítarlegri leikstjóraumfjöllun á kvikmyndir.com.

Eftir þetta venjulega í gærkvöldi, fréttir, Idol og þáttinn Af fingrum fram, horfðum við á góða kvikmynd. Að þessu sinni var litið á mynd sem bara annað okkar hafði séð áður og ég varð að sýna henni þessa eðalmynd. Litum á Scent of a Woman. Alltaf mögnuð mynd, sá hana fyrst í bíó 1992. Fjallar um Frank Slade, ofursta á eftirlaunum. Hann er blindur og vægast sagt erfitt að lynda við hann vegna mikilla skapsmuna. Nemandinn Charlie býðst til að líta til með honum á meðan ættingjar hans fara burt í frí yfir þakkargjörðahelgina. Honum vantar pening fyrir heimferð til Oregon um jólin og lítur á þetta sem tækifærið til að ná pening fyrir að hann telur auðvelt verk. Verður hinsvegar fjarri því auðvelt þegar ofurstinn ákveður að halda til New York og vill að Charlie komi með. Framundan er spennandi ferð þeirra félaga til New York. Al Pacino vann óskarinn fyrir stórleik í hlutverki ofurstans. Með hreinum ólíkindum að bandaríska kvikmyndaakademían veitti honum ekki óskarinn fyrir leik í Guðföðurmyndunum í hlutverki Michael Corleone, en hann fékk loks verðlaunin fyrir magnaða túlkun á lífsreyndum og geðstirðum ofursta sem hefur lifað tímana tvenna. Flott mynd, sem á enn vel við.
Dagurinn í dag
* 1962 Viðskiptabann sett af Bandaríkjunum á Kúbu
* 1971 Konur fá kosningarétt í Sviss
* 1974 Concorde þota lenti í fyrsta skipti á Keflavíkurflugvelli.
* 1992 Maastricht samkomulagið verður að veruleika og til verður Evrópusambandið (EU)
* 2000 Sagan af bláa hnettinum hlaut íslensku bókmenntaverðlaunin, fyrst barnabókmennta
Snjallyrði dagsins
My dear, life rarely gives us what we want at the moment we consider appropriate. Adventures do occur, but not punctually.
Frú Moore í A Passage to India
Breytt 18.9.2006 kl. 08:02 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
5.2.2004 | 18:03
Engin fyrirsögn

Forseti Íslands sendi frá sér fréttatilkynningu síðdegis í gær um mál seinustu daga og umræðu um þau. Yfirlýsingin verður vart túlkuð þannig en að mat forseta sé að forsætisráðuneytið hafi markvisst sniðgengið embætti forseta Íslands vegna hátíðarhalda í tilefni af aldarmæli heimastjórnar. Hann segir þar að tekin hafi verið upp önnur vinnubrögð við skipulagningu við þessa hátíð en aðrar fyrri. Er mat forseta skv. þessu að forsætisráðuneytið hafi ákveðið að undirbúa dagskrána án nokkurs samráðs við forsetaembættið. Segir orðrétt reyndar að undir lok seinasta árs hafi undirbúningur vegna hátíðahalda við aldarafmælið staðið mánuðum saman án þess að forsætisráðherra né starfsmenn afmælisins hafi rætt dagskrána beint við forseta. Forseti segir í yfirlýsingunni að hann hafi dregið þá ályktun að hvorki væri óskað eftir beinni framgöngu hans né sérstakri þátttöku í hátíðardagskrá á þessu ári vegna afmælisins. Ljóst er að samskipti forseta og forsætisráðherra eru ísköld eftir atburði seinustu daga. Það sem er athyglisverðast við yfirlýsingu forseta er greinileg afbrýðisemi hans yfir því að afmæli heimastjórnar og Stjórnarráðs Íslands hafi verið skipulögð af forsætisráðuneytinu án samráðs. Flestir vita að embætti forseta Íslands kemur ekki beint nálægt afmælinu, vegna þess að lýðveldi var stofnað 40 árum á eftir heimastjórn. Undarlegt er að forseti hafi ekki leitað með gremju sína fyrr á réttar slóðir, en frekar yfirgefið landið í fússi og haldið í frí. Þetta mál er allt hið einkennilegasta og sýnir reyndar vel persónu þess sem gegnir nú forsetaembættinu.



Í pistli dagsins á frelsinu fjalla ég um forsetaembættið og tjái mínar skoðanir á ríkisráðsfundamálinu og um embættið almennt. Í lok þessa pistils míns segir svo: "Spyrja má sjálfan sig einnar spurningar eftir að hafa farið yfir þetta mál. Er forsetaembættið nauðsynlegt á okkar dögum? Ég hef lengi verið þeirrar skoðunar að tími sé kominn til breytinga. Raunverulegar embættisskyldur forsetans eru einkum formlegs eðlis og í raun gætu þau verið í höndum forsætisráðherra eða forseta Alþingis. Embætti forseta Íslands er með öllu ónauðsynlegt í lýðræðisríki og ekki síður gríðarlega kostnaðarsamt fyrir skattgreiðendur. Á þingi SUS haustið 2003 var samþykkt ályktun þess efnis að leggja skuli niður embætti forseta Íslands. Embætti forseta Íslands er að mínu mati óþarft við núverandi aðstæður." Hef ég til fjölda ára verið þeirrar skoðunar að leggja skuli embættið niður. Þá skoðun tjáði ég fyrst að mig minnir í skólablaði árið 1993. Sú skoðun var tjáð löngu áður en nokkrum varð ljóst að núverandi forseti yrði kjörinn til þess embættis og því ekki tengt persónu hans. Ég þakka öllum þeim sem sendu mér tölvupóst í dag vegna pistilsins og gott spjall um þetta mál.

Málefni Sparisjóðanna voru aðalumræðuefni dægurmálaspjallþáttanna í gærkvöldi eins og við mátti búast. Í Kastljósinu voru þau Valgerður Sverrisdóttir viðskiptaráðherra, og Lúðvík Bergvinsson alþingismaður, gestir Svansíar. Voru þau ekki algjörlega sammála um ágæti frumvarps ríkisstjórnarinnar um Sparisjóðina, en þó sammála um að vernda skuli þá með lagasetningu. Í Íslandi í dag ræddu Jóhanna og Þórhallur við alþingismennina Einar Odd Kristjánsson og Jóhönnu Sigurðardóttur. Tókust þau talsvert meira á um málið. Eftir stendur að málið verður keyrt í gegnum þingið og verður að lögum á næsta sólarhring sjálfsagt við litla hrifningu margra. Í Pressukvöldi ræddu þrír fréttamenn við Steingrím J. Sigfússon formann VG, og fóru t.d. yfir eftirlaunafrumvarpið og deilu forseta og forsætisráðherra, seinustu daga.

Kláraði frelsispistilinn í gærkvöldi og átti gott spjall við góða vini á MSN. Að því loknu horfði ég enn einu sinni á hina mögnuðu kvikmynd Almost Famous. Segir frá William Miller, 15 ára gömlum strák sem hreinlega dýrkar rokktónlist og allt í kringum hana. Árið 1973 fær William það hið gullna tækifæri til að koma sér á framfæri, verkefni hjá tónlistarblaðinu Rolling Stone að fylgja hljómsveitinni Stillwater á tónleikaferðalagi vítt og breitt yfir Bandaríkin. Um leið þarf hann að eiga við móður sína, Elaine sem hreinlega er að kæfa hann með ofverndun sinni. Hann heldur sínu striki og fer með bandinu en það sem fylgir á eftir á ferðalaginu og einkum tvær persónur, gítarleikari hljómsveitarinnar Russell Hammond og grúppían Penny Lane eiga eftir að hafa umtalsverð áhrif á líf hans. Það er ekki aftur snúið fyrir William, hann er kominn á kaf í miðpunkti hinnar alvöru hippasveitar og verður þar vitni að ýmsu sem mótar hann varanlega. Það er hreinlega allt sem gengur upp í þessari mögnuðu kvikmynd. Það sem uppúr stendur þó er handrit Cameron Crowe og magnaður leikur, einkum Kate Hudson og Frances McDormand. Ekta poppmynd.
Dagurinn í dag
* 1967 Bókmenntaverðlaun blaðamanna afhent í fyrsta sinn. Snorri Hjartarson hlaut verðlaunin
* 1988 Jóhann Hjartarson sigraði Viktor Kortsnoj í undankeppni að heimsmeistaraeinvígi í skák
* 1989 Vátryggingafélag Íslands (VÍS) formlega stofnað
Snjallyrði dagsins
I'm the king of the world!
Jack Dawson í Titanic
Breytt 18.9.2006 kl. 08:02 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
4.2.2004 | 23:47
Engin fyrirsögn

John Kerry öldungadeildarþingmaður frá Massachusetts, sigraði í 5 ríkjum af þeim sjö þar sem demókratar efndu til forkosninga í gær vegna forsetakosninga síðar á árinu. John Edwards öldungadeildarþingmaður Norður-Karólínu, náði mikilvægum sigri í Suður-Karólínu, en Wesley Clark vann sigur í Oklahoma, vann nauman sigur á Edwards þar. Joe Lieberman náði ekki þeim árangri í forkosningunum sem hann sóttist eftir og tilkynnti er úrslit voru ljós í flestum ríkjum að hann drægi sig í hlé úr forsetaslag Demókrataflokksins. Hann var varaforsetaefni Al Gore árið 2000, og munaði litlu að framboð þeirra ynni sigur í kosningunum. Howard Dean sem fyrir rúmum mánuði var talinn ósigrandi í demókrataslagnum, hélt hinsvegar áfram leið sinni niðurávið eftir að hafa náð afleitum árangri í forkosningunum. Hann hefur hvergi náð að vinna það sem af er forkosningum flokksins, og blasir við að möguleikar hans á að ná tilnefningu flokksins minnka með hverri forkosningu. Hann hyggst halda áfram í forsetaslagnum, en flest bendir nú til að slagurinn standi í Suðurríkjunum milli Kerry og Edwards og reyndar þegar talað um að þessir tveir taki höndum saman og Edwards verði varaforsetaefni Kerry, ef hann nær útnefningunni, sem verður að teljast langlíklegast.



Nóg af góðu efni í dag á frelsisvefnum. Í góðum pistli fjallar Helga um reglugerðarfarganið á skemmtilegan hátt: "Hvernig ætli það sé að vera stjórnmálamaður? Að sitja á þingi og semja eða samþykkja lagafrumvörp, sem svo verða til þess að stjórna og stýra hegðun allra landsmanna. Stundum virðist sem stjórnmálamenn missi sig í viðleitni sinni til að láta gott af sér leiða og úr verður flóknara og óskilvirkara ástand í kringum aðstæður en ef þeir hefðu látið málin þróast í frjálsum samskiptum manna á milli. Löggjafinn teygir sig inn á sífellt fleiri svið mannlífs með æ fleiri lögum, reglum og reglugerðum. Oftar en ekki eru þær síst til bóta. Fyrir þá sem sjá inngöngu í Evrópusambandið enn í hyllingum er hollt að minnast þess að þar ríkir sá alstærsti reglugerðarfrumskógur sem um getur í mannkynssögunni. Íslendingar fara jafnvel ekki varhluta af þeim skógi þótt þeir standi utan við sambandið því okkur er skylt að taka upp ýmsar reglur vegna EES-samningsins." Ennfremur eru á vefnum umfjöllun um góða grein Benedikts Jóhannessonar á heimur.is og umfjöllun um kandidatsritgerð míns góða félaga, Hafsteins Þórs Haukssonar formanns SUS, sem hann varði á málstofu í Háskóla Íslands í dag. Óska ég honum til hamingju með góða frammistöðu.

Aðalumfjöllunarefni beggja dægurmálaþáttanna í gærkvöldi var forsetamálið, sem snýst eins og flestir vita um forseta í skíðafríi sem er afbrýðisamur vegna þess að hann fékk ekki að vita hvað gerðist meðan hann er í fríi. Á Stöð 2 ræddu Sigurður Líndal lagaprófessor og Svanur Kristjánsson prófessor, um þetta mál og voru ekki sammála, enda annar viðmælandinn einn helsti vinur forsetans en hinn einblínir á lögin og það sem réttara er. Í Sjónvarpinu voru Gulli Þór, Svanfríður og Guðjón Arnar gestir Svansíar og Kristjáns, og tókust á um það sama. Niðurstaðan eftir sem áður sú sama, forseti er í fríi þegar hann er í fríi. Svansí lofaði okkur að annað efni yrði í næsta þætti. Eins gott, enda þetta leiðinleg umræða um sama hlutinn aftur og aftur.

Eftir dægurmálaþættina horfði ég á fréttir á Aksjón og svo upptöku frá bæjarstjórnarfundi fyrr um daginn. Farið var yfir ýmis mál á fundinum og margar athyglisverðar umræður um helstu umfjöllunarefni í bæjarmálum. Eftir fundinn horfði ég á kvikmyndina About Schmidt með Jack Nicholson. Kolsvört kómedía byggð á skáldsögu Louis Begley, er segir frá Warren R. Schmidt, ósköp hversdagslegum manni sem lendir á skömmum tíma í miklu mótlæti. Hann er að ljúka störfum sem tryggingasérfræðingur eftir margra ára starf, og veit ekki hvað hann á að taka sér fyrir hendur. Eiginkona hans fellur skyndilega frá, og einkadóttirin er að fara að gifta sig manni sem Warren líkar ekki við. Orðinn einstæðingur heldur Schmidt í örvæntingarfulla leit að fyllingu í sviplaust líf sitt, enda sjálfstraust hans í molum. Hann ákveður að leggja af stað í leit að sjálfum sér á æskuslóðum sínum og heldur áleiðis til Denver í brúðkaup dóttur sinnar. Frábær kvikmynd sem skartar hinum magnaða Jack Nicholson í mögnuðu hlutverki. Hann birtist hér áhorfendum í nýju gervi; glottið er hvergi sjáanlegt og sjálfstraustið er víðsfjarri, hann leikur karakter sem er í rusli tilfinningalega séð. Sannkölluð eðalmynd sem vekur mann til umhugsunar og skilur þónokkuð eftir í undirmeðvitundinni.
Dagurinn í dag
* 1789 George Washington kjörinn fyrsti forseti Bandaríkjanna
* 1947 Ríkisstjórn Stefáns Jóhanns Stefánssonar tók við völdum og sat hún í tvö ár
* 1968 Fárviðri á Vestfjörðum. 25 manns fórust er tveir togarar fórust, einum tókst að bjarga.
* 1969 Yasser Arafat verður leiðtogi PLO (The Palestine Liberation Organization)
* 1974 Patriciu Hearst, barnabarni Randolphs Hearst, rænt af Symbionese Liberation Army
Snjallyrði dagsins
1970 Pontiac Firebird. The car I've always wanted and now I have it. I rule!
Lester Burnham í American Beauty
Breytt 18.9.2006 kl. 08:02 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
3.2.2004 | 23:57
Engin fyrirsögn

Um fátt hefur verið rætt meira í dag en ríkisráðsfundinn á sunnudag og eftirmála hans. Fram kom í gær að forseti Íslands var ekki látinn vita af fundinum, þótti honum það óviðeigandi þó hann væri í fríi erlendis og hefði við brottför afsalað sér forsetaskyldum formlega. Tjáði hann sig afdráttarlaust að því er virtist um málið og virtist mjög reiður. Í gærkvöldi tjáði Halldór Blöndal forseti Alþingis, sig ennfremur um málið í Kastljósi Ríkissjónvarpsins. Kom fram í viðtalinu að honum hefði þótt viðeigandi að forseti Íslands, hefði verið á landinu þegar haldið var upp á aldarafmæli heimastjórnar og tekið þátt í því sem þá var að gerast. Sagði Halldór að forseti hefði verið erlendis og því hefðu handhafar forsetavalds gegnt störfum hans á meðan og því stýrt ríkisráðsfundinum. Í morgun tjáði Davíð Oddsson forsætisráðherra, skoðun sína á þessu máli eftir ríkisstjórnarfund. Sagðist hann ekki skilja reiði forsetans. Sagði Davíð að forsetinn hafi sjálfur valið að vera erlendis og vegna þess að hann kaus að vera ekki viðstaddur hátíðarhöld 1. febrúar hafi varla verið ástæða fyrir hann að sækja 7 mínútna langan ríkisráðsfund. Þegar Davíð var spurður um viðbrögð sín vegna reiði forsetans sagði hann: "Þau eru ekki nein. Dálítið óskiljanleg, náttúrulega, en hann ákvað að vera í skíðafríi á þessum tíma og það er hans ákvörðun. Við hvern getur hann verið reiður?" Margt til í þessu, eins og ég fjallaði um í gær.



Á frelsinu í dag er fjallað um ráðstefnu SUS um menntamál í Hafnarfirði, 7. febrúar nk. Ennfremur birtist pistill Stefáns Ottó um vandamál Landsspítala Háskólasjúkrahúss. Orðrétt segir hann: "Það sem er mikilvægast að spyrja sig að í þessu samhengi er hvort ekki sé verið að gefa óþarflega mikið af lyfjum. Það eru ekki nægilega margir lyfjafræðingar hjá LSH til að búa til heildar meðferð fyrir flesta hvað þá alla sjúklinga. Það er mikilvægt að ekki sé verið að gefa fólki lyf sem það hefur ekki raunverulega þörf fyrir. Við núverandi rekstrarform spítalanna er fjármunum illa varið, það er lítið hagrætt í rekstri, framleiðsluþættir eru illa nýttir og stjórnun er ekki nógu markviss. Eðli málsins samkvæmt þar sem stjórnkerfi spítalans er tvískipt þannig að tveir menn eru í æðstu stöðum án þess að hafa nokkuð yfir hinum að segja. Þetta torveldar allt skipulag og gerir ákvarðanatöku ómarkvissa. Lausnin felst í auknum einkarekstri."

Klukkan 19.00 í gærkvöldi sneri Páll Magnússon aftur á skjáinn sem aðalfréttalesari Stöðvar 2, eftir rúmlega þriggja ára fjarveru. Páll sem á föstudag var ráðinn formlega framkvæmdastjóri dagskrársviðs Norðurljósa, mun nú taka við af Karli Garðarssyni sem aðalfréttalesari stöðvarinnar. Las hann fréttir stöðvarinnar í gær með nýjum fréttastjóra, Sigríði Árnadóttur. Verð að viðurkenna að fáir eru betri fréttalesarar en Páll, reyndar enginn karllesari betri í dag. Það verður gaman að sjá hann og Eddu saman á skjánum aftur. Allavega gott hjá Stöð 2 og gæti vel verið að hér eftir horfi maður á fagmannlegan lestur Páls á kvöldin. Í Kastljósinu var Halldór Blöndal forseti Alþingis, gestur Svansíar og Kristjáns. Rætt var um ríkisráðsfundinn á föstudag og Halldór eins og venjulega ófeiminn við að tjá sínar skoðanir. Gott viðtal við forseta vorn, gat ekki betur séð en að þau Svansí tækju smá snerru saman. Ennfremur var endurflutt símaviðtal við forseta Íslands, sem er ósáttur greinilega við sinn hlut í miðju fríi í Aspen. Í Íslandi í dag ræddu Hjörtur J. Guðmundsson og Guðrún Ögmundsdóttir, innflytjendamál og voru hvergi nærri sammála. Hefði mátt taka lengri tíma í þetta spjall.

Fór í gærkvöldi á bæjarmálafund í Kaupangi, þar sem bæjarmálin voru rædd við bæjarstjóra og bæjarfulltrúa flokksins. Bæjarmálafundir eru alltaf annaðhvert mánudagskvöld og kjörið tækifæri fyrir bæjarbúa til að heyra stöðu mála frá kjörnum fulltrúum flokksins. Áttum gott spjall um ýmis mál. Að fundi loknum hélt ég heim og við horfðum á kvikmyndina Thirteen Days. Pólitísk úrvalsmynd eins og þær gerast bestar, byggð á raunverulegum atburðum og fjallar um þrettán sögulega daga í októbermánuði 1962 er alheimurinn var á barmi kjarnorkustyrjaldar. Er bandarískur kafbátur tekur myndir af sovéskum kjarnorkueldflaugum á Kúbu ætlar allt um koll að keyra því þeim er beint að Bandaríkjunum. Kennedy forseti, er á báðum áttum um hvað eigi að gera í málinu en ákvörðunin um næstu aðgerðir er hans, enda er forseti Bandaríkjanna einn valdamesti maður heims. Líf milljóna jarðarbúa eru þannig sett á herðar forsetans og fylgjumst við gaumgæfilega með 13 magnþrungnum dögum í lífi John Fitzgerald Kennedy forseta, og ráðgjafa hans sem reyna að komast að þeirri niðurstöðu sem bjargar mannkyninu frá eilífri glötun.
Dagurinn í dag
* 1937 Norðurljósahjálmur sást á lofti í Eyjafirði í fyrsta og eina sinn á Íslandi á 20. öld
* 1944 Hótel Ísland, sem þá var stærsta timburhús í Reykjavík, brann til kaldra kola
* 1975 Gunnar Þórðarson hlaut listamannalaun, fyrstur popptónlistarmanna
* 1981 Síðasti torfbærinn í Reykjavík rifinn, hann stóð við Suðurgötu
* 1991 Eitt mesta fárviðri á 20. öld gekk yfir landið - vindhraði mældist 66 metrar á sekúndu
Snjallyrði dagsins
You know, we are sitting here, you and I, like a couple of regular fellas. You do what you do, and I do what I gotta do. And now that we've been face to face, if I'm there and I gotta put you away, I won't like it. But I tell you, if it's between you and some poor bastard whose wife you're gonna turn into a widow, brother, you are going down.
Vincent Hanna í Heat
Breytt 18.9.2006 kl. 08:02 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)