22.3.2004 | 21:26
Engin fyrirsögn

Í kjölfar blaðamannafundar forsetans á Bessastöðum þar sem hann tjáði sig um embættið og valdasvið forseta, hafa lagaspekingar enn einu sinni birst á sjónarsviðinu og umræðan hafin um hver séu raunveruleg völd forseta eða hvort hann sé valdalaus. Hefur Sigurður Líndal prófessor, tekið undir ummæli forsetans á blaðamannafundinum að forsetaembættið sé ekki valdalaust og hann hafi mikil áhrif með 26. grein stjórnarskrárinnar. Hefur Þór Vilhjálmsson fyrrum forseti Hæstaréttar, mótmælt þessu og sagt það ekki fara saman við þingræðishefðina að forseti noti 26. greinina til að skjóta málum til þjóðarinnar sem hafa verið samþykkt á þingi og hefur bent á að enginn forseti hefur viljað fara þessa leið í 60 ára sögu lýðveldis. Björn Bjarnason dómsmálaráðherra, fjallar um þetta í nýjasta pistli sínum. Þar segir hann: "Segist hann (Ólafur) hafa velt fyrir sér tveimur málum í ljósi þessa stjórnarskrárákvæðis og var annað þeirra lögheimild um Kárahnjúkavirkjun, en lögin voru samþykkt með aðeins 9 mótatkvæðum á Alþingi. Það hefði verið skýr atlaga að þingræðinu, ef forseti hefði neitað að rita undir þau lög – eins og raunar öll viðleitni af hans hálfu til að hindra framkvæmd á vilja Alþingis. Það er aðeins til að kynnast því, hve menn geta einangrast í fílabeinsturni við akademískar útlistanir og æfingar, að hlusta á rök þeirra, sem telja forseta Íslands heimilt að brjóta gegn þingræðinu og leitast við í nafni slíkra kenninga að draga embættið inn á grátt átakasvæði við þá, sem hafa skýrar valdheimildir samkvæmt stjórnarskránni." Tek ég undir þessi orð og tel reyndar kominn tíma til að stokka upp stjórnarskrárgreinar tengdar forsetaembættinu og skýra hvert umboð hans er.



Að þessu sinni fjalla ég um yfirlýsingar forseta Íslands á blaðamannafundi í vikunni þar sem hann lýsti yfir framboði sínu í komandi forsetakosningum og jafnframt það nýja form sem birtist landsmönnum í vikunni er forsetinn var gestur dægurmálaspjallþátta og þurfti að svara í yfirheyrslum þar fyrir verk sín í embætti og bregða sér í hlutverk hins harðskeytta stjórnmálamanns sem hann eitt sinn var. Það er engin hræsni þó sagt sé hreint út að ímynd forsetaembættisins hafi í raun sífellt farið niður á við hin seinustu ár og embættið orðið að hversdagslegu bitbeini. Kostnaður við forsetaembættið fer sífellt hækkandi og ekki bætir úr skák að forsetinn hefur gert embættið að hálfgerðum hégómleika þar sem hann er eins og haninn á haugnum ásamt sínum nánustu. Sá kóngabragur sem einkennt hefur embættið seinustu árin, hefur að mínu mati farið langt yfir öll mörk og í raun fengið fólk til að efast um að hér sá á ferð þjóðkjörinn fulltrúi. Ennfremur fjalla ég um þáttaskil í spænskum stjórnmálum og nýtt form á fundum bæjarstjórnar Akureyrar.

Á frelsinu í dag birtist góður pistill eftir Jón Elvar og fjallar um skattamál. Orðrétt segir: " stuttu máli ganga lögin út á það að almenningur getur beðið ríkisskattstjóra um bindandi álit. Í því felst að fyrir ríkisskattstjóra er lögð spurning um það hvernig tilteknar fyrirhugaðar ráðstafanir verða skattlagðar. Gefi ríkisskattstjóri upp álit sitt á málinu eru skattyfirvöld bundin við þá niðurstöðu svo lengi sem atvik eru eins og lýst var í beiðni og lög sem snerta málefnið breytast ekki. Þetta fyrirkomulag getur komið í veg fyrir vandamál sem skapast af óskýrum reglum. Með eðlilegu samspili skattyfirvalda og almennings er hægt að ákvarða skattalegar afleiðingar fyrirhugaðra athafna. Það er mikilvægt svo skattaðili geti ákveðið hvort fyrirhugaðar athafnir hans komi til með að borga sig eða ekki. Þetta lofsverða framtak löggjafans hefur hvorki fengið nægilega umfjöllun né verið haldið nægilega á lofti. Hins vegar er það svo að þetta nýmæli í lögum gerir allmiklar kröfur til skattyfirvalda þar sem viðbrögð þeirra ráða miklu um hvernig framkvæmdin verður." Ennfremur er fjallað á frelsinu um fund um utanríkismál í Valhöll á fimmtudag, þar sem gestur okkar verður Björn Bjarnason dómsmálaráðherra. Jafnframt verður sýnd myndin War Room er fjallar um kosningabaráttu Bill Clinton gegn George Bush eldri, árið 1992. Á sus.is er ítarleg umfjöllun um helstu þingmálin.

Helgin var létt og góð. Á laugardag var bara haft það rólegt og unnið að því að skrifa pistil og svona dunderí. Seinnipartinn vorum við boðin í mat til vinafólks og horft þar á Laugardagskvöld með Gísla Marteini og Spaugstofuna. Var hið besta kvöld. Í þætti Gísla var Eurovisionlagið 2004 frumflutt, lagið Heaven. Syngur Jónsi í hljómsveitinni Í svörtum fötum, það. Rólegt lag, ekta ballaða. Jónsi hefur að mínu mati aldrei sungið betur, kraftmikill söngur hjá honum. Vonandi að því gangi vel. Horfðum síðar um kvöldið á kvikmyndina Road to Perdition. Mögnuð glæpamynd í úrvalsflokki, sem ég hef skrifað gagnrýni um. Eftir það var farið út á lífið og litið á Vélsmiðjuna. Þar hitti ég margt af góðu fólki, hitti t.d. þar Siv Friðleifsdóttur ráðherra, sem þar var með vinafólki sínu og hafði verið á badmintonmóti í Eyjafirðinum um helgina. Ræddi aðeins við hana um nokkur mál. Þakkaði ég henni þar m.a. fyrir góð orð hennar í gestabókinni í haust. Í gær var afmæli í fjölskyldunni og skemmtilegt spjall þar, enda fólkið mitt út um allt í pólitíkinni og engin einstefna þar. Farið yfir helstu málin. Seinnipartinn fórum við út að borða á Greifanum, ég og vinur minn og á eftir í bíó. Um kvöldið horfði ég á upptöku af Silfri Egils þar sem Björn og Össur tókust á um helstu málin. Björn stóð sig vel þarna og hefur sjaldan verið betri og tók Össur alveg í gegn.
Dagurinn í dag
* 1924 Ríkisstjórn Jóns Magnússonar tók við völdum - var þriðja og seinasta stjórn hans
* 1960 Samþykkt á þingi að taka upp söluskatt - var breytt í virðisaukaskatt árið 1990
* 1965 Fyrsta háloftamyndin af Íslandi tekin úr veðurhnettinum Tiros IX í 728 km hæð
* 1972 Geirfugladrangur, vestur af Eldey, sökk í sæ - kemur nú aðeins úr sjó á fjöru
* 1983 Ronald Reagan forseti Bandaríkjanna, kynnir stjörnustríðsáætlun sína
Snjallyrði dagsins
A man of honor always pays his debts... and keeps his word
John Rooney í Road to Perdition
Breytt 18.9.2006 kl. 08:02 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
19.3.2004 | 19:49
Engin fyrirsögn

Ár er liðið í dag frá því að Bandamenn réðust inn í Írak. Aðfararnótt 19. mars 2003 rann út tveggja sólarhringa frestur sem Bandaríkjastjórn veitti Saddam Hussein og sonum hans, til að yfirgefa landið. Kl. 03:15 að íslenskum tíma þá nótt, flutti George W. Bush forseti Bandaríkjanna, sjónvarpsávarp frá forsetaskrifstofunni í Hvíta húsinu, til þjóðarinnar og heimsbyggðarinnar allrar. Þar tilkynnti hann að herför Bandaríkjanna og bandamanna gegn einræðisstjórn Saddam Hussein væri hafin. Fyrirskipaði hann árásir á valin skotmörk í upphafi sem höfðu það að markmiði að draga úr hernaðarmætti íraska hersins. Fram kom í ávarpinu að 35 ríki styddu afvopnun Íraks og lagði forsetinn áherslu á mikilvægi þeirra í baráttunni fyrir afvopnun landsins. Næstu daga á eftir hörðnuðu átökin og Bandamenn náðu á nokkrum dögum inn í landið og náðu fljótt að höfuðborginni Bagdad. 9. apríl 2003 náðu þeir völdum í borginni og stjórn Saddams var fallin. Það tók því innan við mánuð að koma einræðisherranum frá völdum. Var hann handsamaður 13. desember 2003: handtekinn í holu við bóndabæ, eftir flótta um allt landið. Synir hans, Uday og Qusay voru drepnir í júlí 2003. Saddam Hussein var ógn við nágranna sína, hann var Þrándur í Götu friðar í Miðausturlöndum. Það voru rétt skref stigin í fyrra í þessu máli og enginn saknar hans. Sennilega sæti hann þar enn ef samningaleiðin hefði verið farin.



Venju samkvæmt nóg af góðu efni á frelsinu. Í dag birtist góður pistill Kristins Más um fæðingarorlofið. Orðrétt segir: "Í framtíðinni mun kostnaðurinn vegna tekjuhárra einstaklinga í fæðingarorlofi aukast talsvert ef fram heldur sem horfir. Fæðingarorlofslögin fela í sér almenna kerfisbreytingu sem miðar að því að gera starfsmenn af báðum kynjum jafn dýra og þar með óhagkvæma. Tilgangurinn með starfsmönnum er að þeir séu hagkvæmir, vandvirkir og framleiði mikið. Orlofið gengur þvert á það markmið. Margir atvinnurekendur kynnu því að vilja skipta á starfsmönnum og vélum meira en þeir hafa gert hingað til að fá erlendar þjónustuveitur til að sinna ýmsum verkefnum. Orlofið verður til þess að atvinnulífið í heild verður óhagkvæmara." Að auki er pistill Páls Jóhannessonar um erfðafjárskatt. Ennfremur er umfjöllun um vefverslun SUS sem opnaði fyrir nokkrum vikum og margt fleira, t.d. væntanlegt þingmannaspjall með fjármálaráðherra í næstu viku.

Í gærkvöldi horfði ég á æsispennandi keppni Borgarholtsskóla og Menntaskólans í Reykjavík í Gettu betur. Varð heldur betur spennandi keppni, enda tókst Borghyltingum það sem alla hefur dreymt um frá 1992 í keppninni: að vinna MR! Menntaskólinn í Reykjavík hefur unnið keppnina í 11 ár samfleytt og verið ósigraðir, mörgum til ama. Það er lítill vafi á að allir þeir sem hafa reynt að fella MR veldið voru í sæluvímu í gærkvöldi við að fagna þáttaskilum í keppninni. Óska ég liði Borghyltinga til hamingju með glæsilegan árangur, en liðið skipa: Baldvin Már Baldvinsson, Björgólfur Guðni Guðbjörnsson og Steinþór Helgi Arnsteinsson. Í liði MR eru Atli Freyr Steinþórsson, Oddur Ástráðsson og Snæbjörn Guðmundsson. Tóku þeir ósigrinum drengilega og eru menn að meiri eftir sína framgöngu. Eftir þáttinn fór ég í heimsókn til góðra vina og þar var gott spjall um helstu málin, t.d. forsetann og fleira. Er heim kom fór ég að lesa bók sem ég tók á bókasafninu og fjallar um Watergate-málið.
Dagurinn í dag
* 1908 Kona tók í fyrsta skipti til máls á fundi borgarstjórnar - Bríet Bjarnhéðinsdóttir
* 1982 Argentínumenn reyna að taka völdin á Falklandseyjum - leiddi til langra stríðsátaka
* 1984 Sextán pólskar nunnur komu til landsins til að setjast að í Karmelklaustrinu í Hafnarfirði
* 1995 Við Skeiðsfoss í Fljótum í Skagafirði mældist snjódýpt 279 sentimetrar
* 2003 Innrás Bandamanna í Írak hefst - einræðisstjórn Saddams Husseins féll skömmu síðar
Snjallyrði dagsins
I don't believe a man can consider himself fully content until he has done all he can to be of service to his employer.
James Stevens í The Remains of the Day
Breytt 18.9.2006 kl. 08:02 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
17.3.2004 | 18:55
Engin fyrirsögn

Í gær var haldinn blaðamannafundur í Ráðhúsi Akureyrarbæjar þar sem Kristján Þór Júlíusson bæjarstjóri, Þóra Ákadóttir forseti bæjarstjórnar og Jakob Björnsson formaður bæjarráðs, kynntu nýtt verklag við bæjarstjórnarfundi í samræmi við breytta bæjarmálasamþykkt. Þessar breytingar fela einkum í sér að nefndir og embættismenn fá aukna heimild til að taka fullnaðarákvarðanir í ýmsum málum án staðfestingar bæjarstjórnar. Um málið segir svo á vef bæjarins: "Forsaga málsins er sú að árið 2003 var gerð breyting á 44. grein sveitarstjórnarlaga nr. 45/1998 sem miðaði að því að taka af vafa um heimildir sveitarstjórnar til að framselja vald sitt til nefnda og annarra aðila innan stjórnsýslunnar. Bæjarstjórn Akureyrar hefur fylgt þessum breytingum eftir með því að breyta bæjarmálasamþykkt sinni í grundvallaratriðum í þessa veru. Markmiðið með breytingunum er að auka hagræði og skilvirkni og hraða málsmeðferð í stjórnsýslunni, efla stefnumarkandi hlutverk bæjarstjórnar, gera fundi bæjarstjórnar skipulegri og umræður markvissari og færa starfshætti bæjarstjórnar og stjórnkerfis í átt til hins rafræna veruleika sem einkennir nútíma stjórnsýslu og samskipti. Afgreiðsluferill erinda til bæjarfélagsins verður einfaldari og afgreiðslutíminn styttri og þannig ætti þjónustan við íbúana að verða ennþá betri." Þessar breytingar eru mjög til hins góða og verður eflaust skemmtilegra að fylgjast með bæjarstjórnarfundum hér eftir.



Í dag er birt á frelsinu svar ritstjórnar vefsins við skrifum Andrésar Jónssonar formanns UJ, á vefnum pólitík.is. Í pistli ritstjórnar segir svo: "Andrés nokkur Jónsson skrifaði lítt áhugaverða grein á politík.is vefsíðu manna sem kenna sig við jafnaðarmennsku. Greinin einkennist af hefðubundnum útúrsnúningum og slagorðaglamri vinstrimanna. Vitnar Andrés í hinn alræmda sögufalsara og sósíalista Michael Moore til að freista þess að ljá orðum sínum vigt. Fjöldi vitleysa hjá Andrési er slíkur að það slagar í smárit að leiðrétta þær allar, látum þó pistil nægja." Er að þessu loknu farið yfir staðreyndavillur í ótrúlegri grein Andrésar þar sem hann snýr gjörsamlega út úr málflutningi í pistli Atla Rafns á vefnum um daginn. Í lok greinar ritstjórnarinnar segir svo: "Rétt er að ljúka þessari yfirferð yfir rökleysur Andrésar áður en greinin breytist í smárit. Hér hefur verið tæpt á örfáum af þeim rökleysum og staðhæfingarvillum sem fram komu í grein Andrésar. Þeir sem hafa áhuga á öðrum villum Andréar geta kynnt sér grein hans." Ennfremur birtist ályktun stjórnar Heimdallar um birtingu álagningarskráa. Tek ég heilshugar undir hana, og hef reyndar skrifað um þetta mál á vefsíðu minni. Bendi á pistil minn um þetta þann 3. ágúst 2003.

Eftir kvöldfréttirnar og dægurmálaþætti horfði ég á fréttir á Aksjón og bæjarstjórnarfund sem var fyrr um daginn. Hann var sögulegur mjög, enda sá fyrsti eftir nýju verklagi í samræmi við breytta bæjarmálasamþykkt. Markmiðið er margþætt, einkum að auka hagræði og skilvirkni og hraða málsmeðferð í stjórnsýslunni. Fyrsti fundurinn var um þriggja klukkustunda langur og víða farið yfir. Ítarleg umræða var um málefni leikskólans Klappa og leikskóla við Helgamagrastræti og ákvörðun meirihlutans tengd þeim. Ekki síður varð ítarleg umræða um skipulagsmál vegna Sjallareitsins. Venju samkvæmt keppa bæjarfulltrúar, Oktavía Jóhannesdóttir og Valgerður H. Bjarnadóttir, í því að koma með sem flesta útúrsnúninga og rakaleysur. Oddur Helgi Halldórsson sakaði meirihlutann um valdníðslu í málum Klappa. Með hreinum ólíkindum var að heyra hann flytja ræðu sína. Bæjarstjórnarfundurinn er eftir þessar breytingar mun sjónvarpsvænni og almenningur mun betur sjá og heyra hvaða mál eru í umræðunni hverju sinni. Þessi breyting er mjög til hins góða. Eftir fundinn fór ég í að lesa bókina góðu um Repúblikanaflokkinn sem fyrr er getið hér. Virkilega góð bók.
Dagurinn í dag
* 1917 Tíminn, blað Framsóknarflokksins, kom út í fyrsta skipti - hætti að koma út 1996
* 1953 Gary Cooper hlaut óskarinn fyrir leik sinn í kvikmyndinni High Noon
* 1987 Prestskosningar voru afnumdar með nýjum lögum um veitingu prestakalla
* 1988 Fyrsta glasabarnið fæddist hérlendis - tíu árum eftir það fyrsta á heimsvísu
* 2001 Kosið um framtíð flugvallar í Vatnsmýri - naumur sigur flugvallarandstæðinga
Snjallyrði dagsins
I'll be all around in the dark - I'll be everywhere. Wherever you can look - wherever there's a fight, so hungry people can eat, I'll be there. Wherever there's a cop beatin' up a guy, I'll be there. I'll be there in the way guys yell when they're mad. I'll be there in the way kids laugh when they're hungry and they know supper's ready, and when people are eatin' the stuff they raise and livin' in the houses they built - I'll be there, too.
Tom Joad í The Grapes of Wrath
Breytt 18.9.2006 kl. 08:02 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
16.3.2004 | 23:59
Engin fyrirsögn

Ólafur Ragnar Grímsson forseti Íslands, tilkynnti formlega á blaðamannafundi á Bessastöðum seinnipartinn í gær, að hann hefði tekið þá ákvörðun að gefa kost á sér til embættis forseta Íslenska lýðveldisins til næstu fjögurra ára, kjörtímabilið 2004-2008. Hann hefur setið á forsetastóli tvö kjörtímabil, frá 1. ágúst 1996. Forsetinn sagði að ákvörðun um framboð þriðja sinni til setu á forsetastóli væri ekki sjálfgefin en hann hefði tekið hana eftir mikla umhugsun. Fram kom á fundi forsetans með blaðamönnum skoðun forseta þess efnis að forsetinn taki virkari þátt en áður í umræðu um stöðu og framtíð þjóðarinnar. Boðar hann að fjölmiðlar muni hafa greiðari aðgang að embættinu. Hann telur eðlilegt að forseti svari fyrir sig þegar embættið sé gagnrýnt. Leggur Ólafur áherslu á, að verði hann endurkjörinn muni hann leggja áherslu á virkari þátt forsetans í opinberri umræðu um stöðu og framtíð þjóðarinnar og í kosningabaráttunni sem framundan væri yrði kærkomið tækifæri til að ræða um stöðu forsetaembættisins. Hann telur ekki rétt að forseti taki þátt í pólitískri umræðu. Undarlegt var að heyra yfirlýsingar forseta Íslands. Hann hefur eins og fyrr er vikið að setið í embætti í átta ár og því komin góð reynsla á störf hans. Undarlegt er ef hann hyggst ef hann nær endurkjöri, beita sér með öðrum hætti en verið hefur. Gott er að forseti hefur loks tekið af skarið með hvað hann hyggst fyrir. Tveir mánuðir eru eftir af framboðsfresti og hafa auk Ólafs, þeir Ástþór Magnússon og Snorri Ásmundsson kynnt framboð til embættis forseta Íslands. Forsetakosningar verða þann 26. júní nk.



Í dag fjallar Snorri um rök Mises gegn áætlunarbúskap, í góðum pistli á frelsinu. Orðrétt segir hann: "Áríð 1922 kom út rit Ludwigs von Mises Gemeinwirtschaft (sameignarstefnan). Í bókinni gagnrýndi Mises sameignarstefnuna sem þá var nokkuð vinsæl á Vesturlöndum. Beitti Mises fimm rökum gegn sameignarstefnunni sem öll koma fram í bókinni. Þegar Mises talar um sameignarskipulag á hann í raun við hvers konar skipulag sem ekki lýtur lögmálum markaðarins. Rökin eiga því við um ríkisfyrirtæki dagsins í dag eins og um altækan áætlunarbúskap af því tagi sem var um stutt skeið í Ráðstjórnarríkjnum." Nefnir Snorri fimm rök Mises og fjallar ítarlega um þær. Hafði gaman af að lesa þennan fína pistil. Ennfremur eru á frelsinu tvær góðar fréttir á frelsinu um ESB. Í þeirri fyrri er fjallað um þýðingar á lögum ESB og í þeirri seinni um ummæli formanns Samfylkingarinnar á þingi. Þar sagðist hann vera sannfærður um að hugsanleg aðild að Evrópusambandinu í dag auki fullveldi okkar Íslendinga. Þessi ummæli eru með eindæmum, en það ber að geta þess að formaður Samfylkingarinnar er þekktur fyrir flest annað en að vera marktækur.

Í Kastljósinu og Íslandi í dag tókust þingmenn Sjálfstæðisflokks og Samfylkingar á um utanríkismál í ljósi hryðjuverka á Spáni og sigurs sósíalista sem íslamskir öfgamenn færðu þeim í spænsku þingkosningunum. Sólveig P. og Einar K. stóðu sig vel og komu sínum skoðunum mjög vel að. Einkum fannst mér formaður utanríkismálanefndar svara vel fyrir sig í Íslandi í dag. Eftir dægurmálaþættina fór ég upp í Kaupang á bæjarmálafund. Þar voru bæjarmálin rædd ásamt bæjarstjóra og bæjarfulltrúum Sjálfstæðisflokksins. Nóg var um að ræða og hófst fundurinn á ræðu Laufeyjar Petreu Magnúsdóttur um skólamál. Laufey situr í skólanefnd af hálfu flokksins og er varabæjarfulltrúi. Helsta umræðuefni fundarins var málefni leikskólans Klappa. Foreldrar barna á leikskólanum fjölmenntu á fundinn og spurðu bæjarstjóra margra spurninga um framtíð hans og um leikskóla við Helgamagrastræti sem opna mun fyrri hluta árs 2006. Svaraði bæjarstjóri spurningum ítarlega og fór vel yfir leikskólamálin. Að því loknu var rætt um skipulagsmál og tillögur Deloitte um árangursmiðaða stefnumótun fyrir bæinn. Nóg um að vera í bæjarmálunum. Eftir að heim kom fór ég að lesa í bókinni Grand Old Party: A History of the Republicans. Skemmtileg lesning.
Dagurinn í dag
* 1237 Gvendardagur - dánardagur Guðmundar biskups góða Arasonar
* 1657 Miklir jarðskjálftar á Suðurlandi - hús féllu víða, einkum í Fljótshlíð
* 1942 Til átaka kom á götum Siglufjarðar milli heimamanna og breskra hermanna
* 1976 Harold Wilson tilkynnti afsögn sína sem forsætisráðherra Bretlands
* 1983 Reykjavíkurborg keypti Viðey af ríkinu - endurbótum þar lauk 1988
Snjallyrði dagsins
There ain't no man better than me.
Ruby Thewes í Cold Mountain
Breytt 18.9.2006 kl. 08:02 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
15.3.2004 | 23:59
Engin fyrirsögn

Stjórn Þjóðarflokksins féll óvænt í kosningunum á Spáni í gær. Sósíalistaflokkurinn vann kosningasigur, en náði ekki hreinum þingmeirihluta. Hann fékk tæp 43% atkvæða og 164 þingsæti, bætti við sig alls 39. Þjóðarflokkurinn tapaði 9 prósentustiga fylgi miðað við síðustu kosningar, fékk tæp 38% og 148 þingmenn, tapaði 35. Sósíalistaflokkinn vantaði 12 þingsæti upp á hreinan meirihluta á þingi þannig að hann verður að leita eftir samstarfi við smáflokka til að mynda ríkisstjórn. Jose Luis Rodriguez Zapatero leiðtogi sósíalista, verður því næsti forsætisráðherra Spánar. Sagði hann í sigurræðu sinni að forgangsverkefni sitt væri að berjast gegn öllum hryðjuverkum. Í síðustu fylgiskönnun fyrir kosningarnar hafði Þjóðarflokkurinn þónokkurt forskot á sósíalista. Það forskot hvarf eins og dögg fyrir sólu eftir hryðjuverkin í Madrid á fimmtudag. Það er greinilegt að hryðjuverk íslamskra öfgamanna hafa gjörbreytt pólitíska landslaginu á Spáni. Fyrir þann voðaverknað hafði ríkisstjórnin yfirburðastöðu. Það er slæmt að sjá hvernig hryðjuverkamenn hafa áhrif á stjórnmál í vestrænum heimi eins og þarna virðist verða raunin. Nú er framundan að herða baráttuna gegn hryðjuverkum með öllum tiltækum ráðum. Löngu var ljóst að forsætisráðherraferli José Maria Aznar myndi ljúka, enda var hann ekki í framboði. Hann hafði lofað 1996 að sitja hámark tvö kjörtímabil í embætti og hann stóð við það loforð. Nú bíður sósíalista harður raunveruleikinn, sigur þeirra mun verða þeim súrsætur.



Inger Anna fjallar á frelsinu í athyglisverðum pistli um fjölskyldustefnu Framsóknarflokksins. Sérstaklega vísar hún til loforða ráðherrans og flokks hans fyrir seinustu kosningar í málefnum dagmæðra. Fer hún yfir hvernig fjölskyldustefna flokksins hefur birst í störfum ráðherrans. Orðrétt segir hún: "Mér er því spurn, er fjölskyldustefna framsóknamanna, og þar af leiðandi Árna Magnússonar, sú að koma meiri hluta vinnuaflsins út af vinnumarkaðinum? Eða er verið að stuðla að fólksfækkun í landinu? Hver eru rökin fyrir þessu? Ekki hef ég sem foreldri heyrt neitt um það, mér voru ekki einu sinni kynnt þessi drög. Ég get alveg sagt að þetta snerti mig sem foreldri ekki síður en starfstétt dagmæðra sem á meiri virðingu skilið en þetta og vona ég að allir foreldrar sem og einstaklingar þjóðfélagsins, sjái sér fært um að styðja við bakið á þeim á tímum sem slíkum. Mál þetta má vel stöðvast í nefnd og verður vonandi aldrei samþykkt í því formi sem það stendur í dag."

Eftir kvöldfréttirnar í gærkvöld horfði ég á þátt Jóns Ársæls, Sjálfstætt fólk. Að þessu sinni voru gestir hans þeir Álftagerðisbræður frá Skagafirði: Gísli, Óskar, Pétur og Sigfús. Var virkilega skemmtilegur þáttur, enda magnaðir menn. Horfði svo á lokaþátt þáttaraðarinnar Líf og framtíðarsýn Íslendinga, þar sem voru mörg góð og athyglisverð viðtöl við þekkta Íslendinga. Að þessu loknu horfðum við á flotta kvikmynd Curtis Hanson, Wonder Boys. Segir frá rithöfundinum og prófessornum Grady Tripp. Hann þjáist í sögubyrjun af svæsinni ritstíflu og lifir í raun á fornri frægð þar sem 7 ár eru liðin frá útgáfu síðustu bókar hans. Útgefandi hans, hinn léttgeggjaði Terry Crabtree hefur áhyggjur af þessu og boðar heimsókn sína til hans yfir helgi. Og þessi helgi á eftir að verða afdrifarík fyrir Grady og líf hans. Eiginkona hans er farin frá honum, kona yfirmanns hans er ólétt eftir hann, nemandi sem leigir hjá honum girnist hann og annar nemandi hans er stelsjúkur snillingur. Saman mynda þessar ólíku persónur einhvern skemmtilegasta hóp sem sést hefur á hvíta tjaldinu og áður en helgin er á enda hafa þær allar flækt sig í kostulegar aðstæður sem seint líða úr minni áhorfenda. Snilldarlegt handrit með stórkostlegum leikurum og óaðfinnanlegri leikstjórn eru aðall þessarar mögnuðu og stórfenglegu myndar. Michael Douglas skilar hér einni af sínum bestu leikframmistöðum og átti að hljóta óskarsverðlaunatilnefningu fyrir stórleik sinn í þessari kvikmynd, hiklaust. Poppgoðið Bob Dylan hlaut hinsvegar óskarinn fyrir besta kvikmyndalag ársins 2000, hið magnaða "Things Have Changed". Pottþétt skemmtun fyrir alla sanna kvikmyndaáhugamenn. Alls ekki missa af þessari, þetta er snilld út í gegn!
Dagurinn í dag
* 1905 Bæjarsíminn í Reykjavík var formlega opnaður með því að leikið var á fiðlu í símann
* 1942 Bandarísk flugvél hrapaði í Vatnsmýrinni í Reykjavík - 8 menn fórust
* 1978 Sprenging varð í ratsjárflugvél frá varnarliðinu skömmu fyrir flugtak
* 1983 Litlu munaði að farþegaþota frá Arnarflugi og herflugvél lentu í árekstri
* 2003 Samningar um álver Alcoa á Austurlandi undirritaðir á Reyðarfirði
Snjallyrði dagsins
Did they teach you how to apologize at lawyer school? 'Cause you suck at it.
Erin Brockovich í Erin Brockovich
Breytt 18.9.2006 kl. 08:02 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
14.3.2004 | 19:22
Engin fyrirsögn

Tæplega 35 milljónir Spánverja ganga að kjörborðinu í dag í kosningum til þings Spánar. Kosningarnar eru haldnar við aðstæður án nokkurs fordæmis síðan lýðræði var endurreist árið 1977 á Spáni, í skugga tilræðis þar sem rúmlega 200 manns létust og yfir þúsund manns særðust. Reiði og óvissa ríkir á Spáni um niðurstöður kosninganna. Óljóst er hvort og þá hvaða áhrif hryðjuverkin hafa á úrslit þeirra. Seinustu skoðanakannanir, sem birtust fyrir hryðjuverkaárásirnar, gerðu ráð fyrir sigri Þjóðarflokksins, sem leitt hefur stjórn landsins frá árinu 1996, í kosningunum. José Maria Aznar forsætisráðherra, gefur ekki kost á sér til endurkjörs og lætur nú af embætti. Mariano Rajoy fyrrum innanríkisráðherra, leiðir Þjóðarflokkinn í þessum kosningum, en mótherji hans er Sósíalistaflokkurinn undir forystu José Luis Rodriguez Zapatero. Reyna sósíalistar nú að komast til valda eftir að hafa verið valdalausir í áratug. Fregnir um játningar Al Qaeda á myndbandsupptöku vofir yfir Spánverjum er þeir ganga að kjörborðinu. Rajoy minnti á, er hann kaus í morgun að mikilvægt væri að þegar fólk greiddi atkvæði minntist það verka Þjóðarflokksins í 8 ára valdatíð sinni og þess sem vel hefði verið gert. Kosningarnar á Spáni í dag munu skipta miklu máli og vonandi er að áframhaldandi forysta verði í spænskum stjórnmálum. 176 þingsæti þarf til að ná hreinum meirihluta á þingi.

Að þessu sinni fjalla ég um hryðjuverkaárásirnar á Spáni á fimmtudag þar sem rúmlega 200 manns létu lífið og velti fyrir mér hvort þær muni hafa áhrif á útkomu spænsku þingkosninganna í dag. Ennfremur bendi ég á mikilvægi þess að tillögur stjórnarflokkanna í skattamálum í kosningabaráttunni 2003 verði að lögum á vorþinginu. Ekki er eftir neinu að bíða með að ganga frá þessum málum og óskiljanlegt ef bíða á með að ganga frá hinni endanlegu afgreiðslu málsins. Í kosningabaráttunni fyrir alþingiskosningarnar 10. maí 2003, gáfu stjórnarflokkarnir afdráttarlaus loforð í skattamálum. Það blasir við að Sjálfstæðisflokkurinn hefur um nokkurn tíma viljað ganga hreint til verks í að efna þau loforð sem gefin voru í seinustu kosningum. Það er óviðunandi að framsóknarmenn ætli að tefja það að loforð um skattalækkanir verði efnt fyrir vorið og ekki ásættanlegt. Að lokum fjalla ég um góðar tillögur menntamálahóps Heimdallar sem afhentar voru menntamálaráðherra í vikunni í formi dagatals út árið 2004.

Eftir kvöldfréttirnar var venju samkvæmt horft á Laugardagskvöld með Gísla Marteini og Spaugstofuna. Að því loknu var horft á kvikmynd Baltasar Kormáks, Hafið. Hér er sagt frá útgerðarmanninum Þórði Ágústssyni sem hefur í gegnum árin ríkt yfir bæ sínum, hann er guðfaðir kaupstaðarins og rekur langstærsta fyrirtækið í bænum. Er myndin hefst er komið að kaflaskiptum í lífi hans, hann er orðinn gamall maður og heilsa hans farin að bila. Hann vill því hitta fjölskyldu sína og gera hreint fyrir sínum dyrum. Elsti sonurinn Haraldur rekur útgerðarfyrirtækið og á í miklum erfiðleikum á heimavelli, dóttirin Ragnheiður er misheppnaður kvikmyndaframleiðandi sem á ýmislegt óútkljáð við föður sinn, og eftirlæti gamla mannsins Ágúst er í námi erlendis en þorir ekki að segja gamla manninum frá því að hann er í tónlistarnámi en nemur ekki lengur viðskiptafræði, en Þórður vill að hann taki við rekstri fyrirtækisins af eldri bróðurnum. Inn í söguna blandast hin tannhvassa Kata hin aldna móðir Þórðar, Kristín sambýliskona Þórðar og móðursystir systkinanna, Áslaug hin bitra eiginkona Haraldar og María dóttir Kristínar. Framundan er eftirminnilegt uppgjör fjölskyldunnar í smábænum á norðurhjara - þar sem allt getur gerst. Hafið er án nokkurs vafa ein áhrifamesta og besta kvikmynd Íslendinga til fjölda ára. Meistaralega gerð á allan hátt. Úrvalsmynd eins og þær gerast bestar.
Dagurinn í dag
* 1911 Kristján Jónsson varð ráðherra Íslands - sat í embætti í sextán mánuði
* 1950 Ríkisstjórn Steingríms Steinþórssonar tók við völdum - sat í rúm þrjú ár
* 1969 Fiðlarinn á þakinu var frumsýndur í Þjóðleikhúsinu - sýnd samfellt í þrjú ár
* 1987 Þyrla Landhelgisgæslunnar bjargaði níu manna áhöfn Barðans við Dritvík
* 1994 Markús Örn Antonsson biðst lausnar sem borgarstjóri Reykjavíkur eftir þriggja ára setu
Snjallyrði dagsins
Whoever saves one life, saves the world entire.
Itzhak Stern í Schindler's List
Breytt 18.9.2006 kl. 08:02 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
12.3.2004 | 22:17
Engin fyrirsögn

Enn er alveg óljóst hvort það eru basknesku hryðjuverkasamtökin ETA eða íslamskir hryðjuverkamenn í al Qaeda sem standa á bak við hryðjuverkin á Spáni í gær. Tæplega 200 manns eru látnir eftir sprengjuárásir á þremur lestarstöðvum í Madrid en særðir eru vel á fimmta hundrað. Bakpokasprengjur og koparhvellhettur sem tendraðar voru með boðum úr farsíma bera ekki merki um handbragð ETA að sögn útvarpsstöðvar á Spáni. Hvellhettur í sprengjum sem lögregla fann og aftengdi voru úr kopar en ETA notar venjulega álhvellhettur. Líklegra er nú talið að al Qaeda hafi verið að verki en ETA, en rannsókn á tildrögum hryðjuverkanna er hafin. Tvær milljónir manna gengu um götur Madrid, höfuðborgar Spánar í dag, og mótmæltu með því hryðjuverkunum. Tugir þúsunda mótmæltu einnig í öðrum borgum á Spáni, en um er að ræða ein fjölmennustu mótmæli í sögu Spánar. José Maria Aznar forsætisráðherra og ríkisstjórnin öll, hvatti landsmenn til þess að streyma út á göturnar og taka þátt í að mótmæla hryðjuverkunum. Aznar, hét því í dag að finna þá sem ábyrgir væru fyrir þessu voðaverki. Spánverjar söfnuðust saman utan dyra á hádegi í dag, eða klukkan ellefu í morgun að íslenskum tíma, og viðhöfðu stundarþögn. Stjórnvöld höfðu hvatt fólk til að viðhafa mínútuþögn en margir íbúar höfuðborgarinnar stóðu kyrrir og þögulir í tíu mínútur í svölu votviðrinu. Að þagnarstundinni lokinni klöppuðu margir en það er spænsk hefð er fólk er hvatt hinsta sinni.



Drífa Hjartardóttir alþingismaður og formaður landbúnaðarnefndar Alþingis, skrifar gestapistil að þessu sinni á heimasíðu mína. Í pistlinum fjallar Drífa um sterka stöðu Sjálfstæðisflokksins í stjórnmálum hérlendis og ennfremur um þau málefni sem flokkurinn hefur unnið að seinasta áratuginn og hvað blasir við á komandi árum á þessu kjörtímabili. Orðrétt segir Drífa: "Um daginn vorum við þingmenn Sjálfstæðisflokksins, sem sæti eigum í Norðurlandaráði, á fundi með hægri flokkunum í Norðurlandaráði. Á þessum fundum ræddum við um stjórnmálin og bárum saman bækur okkar. Sjálfstæðisflokkurinn á Íslandi er stærsti hægri flokkurinn á Norðurlöndum og sá eini sem hefur verið samfellt í forystu í ríkisstjórn eins lengi og okkar flokkur. Slíkt er einsdæmi. En það er ekki ástæðulaust hve Sjálfstæðisflokkurinn hefur verið mikil kjölfesta í landsmálum, má þar m.a. þakka styrkri forystu Davíðs Oddssonar forsætisráðherra. Sjálfstæðisflokkurinn hefur frá upphafi verið sterkt og þróttmikið þjóðfélagsafl á Íslandi. Þessa sterku stöðu má að sjálfsögðu rekja til stefnu hans og hugsjóna og þess fólks sem hefur tekið þátt í störfum hans fyrr og síðar." Ég þakka Drífu fyrir góðan pistil um traustan flokk.

Í dag eru tveir góðir pistlar á frelsinu. Í þeim fyrri fjallar Atli Rafn um hringleikahús stjórnarandstöðunnar. Orðrétt segir hann: "Gagnrýni einstakra þingmanna úr stjórnarandstöðunni á boðaða stækkun hefur vakið nokkra athygli. Reyndar hefur hún á stórum köflum verið sorglega ómálefnaleg og jafnvel orðið nokkrum þeirra til minnkunnar, s.s. Helga Hjörvari. Hins vegar var merkilegt að hluti gagnrýni stjórnarandstöðunnar beindist að þeim aukna kostnaðar sem stækkuninni óhjákvæmilega fylgir. Þar kveður við alveg nýjan tón þar sem stjórnarandstaðan hefur hingað til ekki verið þekkt fyrir að halda aftur af sér við að auka útgjöld ríkisins á kostnað skattgreiðenda. Ef til vill eru skilaboð Heimdallar og annarra ungra sjálfstæðismanna sem ítrekað hafa gagnrýnt útgjaldaþennslu ríkisins að komast til skila." Að auki skrifar Bjarki góðan pistil um skipulagsmál í borginni. Fer hann þar vel yfir stöðu mála og ráðleysi R-listans í skipulagsmálum. Pistilinn endar Bjarki svo: "Margir hafa haldið því fram að metnaður nokkurra borgarfulltrúa R-listans fyrir hábrú sé til kominn vegna þess að R-listinn vilji reisa sér veglegt minnismerki frá valdatíð sinni í Reykjavík. Hvort það sé tilkomið af eðlilegum ótta R-listamanna við að tapa borginni í næstu kosningum eða einfaldlega þörf þeirra fyrir að skilja eftir sig minnismerki skal ósagt látið."
Dagurinn í dag
* 1916 Alþýðusamband Íslands (ASÍ) stofnað - fyrsti formaðurinn var Jón Baldvinsson
* 1921 Eldingu laust niður í vitann á Stórhöfða í Vestmannaeyjum
* 1965 Fyrsta íslenska bítlaplatan kom út - á henni voru lögin: Bláu augun þín og Fyrsti kossinn
* 2001 Hverastrýtur á botni Eyjafjarðar voru friðlýstar formlega - fyrst náttúruminja í sjó
* 2003 Zoran Djindjic forsætisráðherra Serbíu, myrtur í Belgrad
Snjallyrði dagsins
You don't think about getting old when you're young...you shouldn't.
Alvin Straight í The Straight Story
Breytt 18.9.2006 kl. 08:02 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
11.3.2004 | 23:20
Engin fyrirsögn

Minnst þrjár sprengjur í bakpokum sprungu í lest er hún var að koma inn á Atocha-lestarstöðina í miðborg Madrid á Spáni uppúr klukkan hálfátta að staðartíma í morgun. Þessi stöð er ein mikilvægasta samgöngumiðstöð borgarinnar og tengir m.a. saman grannlestakerfi ríkisjárnbrautanna og jarðlestakerfi borgarinnar. Á þessum tíma er stöðin iðandi af fólki á leið til vinnu eða í skóla, úr útborgum og grannbæjum. Aðrar tvær sprengjur sprungu í lestum á öðrum tveimur stöðvum á sömu lestaleiðinni. Þær heita Santa Eugenia og El Pozo og eru í úthverfum, austanmegin í borginni. Sjá mátti sundurtætta lestarvagna, lík og líkamsleifar í vögnunum, á pöllum eða teinum, særða og ósára streyma í skelfingu útúr lestunum. Algjört umferðaröngþveiti varð í borginni. Í fyrstu bárust böndin að basknesku aðskilnaðar- og ógnarverkahreyfingunni ETA. Innanríkisráðherra Spánar taldi t.a.m. engan vafa leika á því í yfirlýsingum í morgun. Ríkissaksóknari Spánar tók í sama streng. Ef ETA var að verki er þetta án vafa alversta ódæði samtakanna sem segjast berjast fyrir sjálfstæði Baskalands á Spáni og í Frakklandi. Þjóðarsorg ríkir á Spáni vegna hryðjuverkanna. Þingkosningar verða á Spáni á sunnudaginn og hefur kosningabaráttu formlega verið hætt. Íslenskir forystumenn hafa vottað spænsku þjóðinni samúð sína. Utanríkisráðherra hefur ásamt öðrum erlendum leiðtogum fordæmt þennan voðaverknað.



Í góðum pistli á frelsinu í dag fjallar Ósk um heilbrigða skynsemi og heilsuspillandi málfrelsi. Orðrétt segir hún: "Jörðin virðist hafa gleypt alla umræðu um málfrelssiskerðingu þá er lögfest var með 7. gr. laga nr. 6/2002 um tóbaksvarnir. Vill svo oft verða um vandræðaleg mál. Þó umræðan sé í lágmarki er engin ástæða til þess að leggja árar í bát. Nú er kominn tími til að þingmenn sjái að sér og endurskoði þessi klúðurslegu lög og væru þeir menn að meiru fyrir vikið." Að auki birtist góð Moggagrein Tobbu um málefni Orkuveitu Reykjavíkur, en hún situr í stjórn fyrirtækisins. Í greininni segir svo: "Tetra Ísland er gjaldþrota rekstrarlega og sú staða breytist ekki fyrr en að R-listinn tekur pólitíska ákvörðun um að annað hvort lýsa fyrirtækið gjaldþrota eða setja töluvert meira fjármagn inn í rekstur þess. Fimmtíu milljóna króna hlutafjáraukning Orkuveitunnar til Tetra Ísland dugir ekki til að reksturinn gangi upp. Fyrirtækið getur ekki staðið við gerða samninga um tvö ólík fjarskiptakerfi, greitt niður áhvílandi lán og greitt starfsmönnum laun til framtíðar nema að eigendur fyrirtækisins leggi fyrirtækinu til verulegar upphæðir, sem skipta hundruðum milljóna króna. Núverandi lánadrottnar þurfa að sjá ástæðu til að breyta lánum sínum í hlutafé til að réttlæta fjárfestingu sína áfram. Orkuveita Reykjavíkur hefur nú þegar lagt um 3500 milljónir til fjarskiptareksturs og þarf að ákveða hvort þeirri stefnu skuli haldið áfram eða hvort Tetra Ísland verði gjaldþrota. Látalæti Alfreðs Þorsteinssonar í fjölmiðlum stækkar vandamálið og þyrlar ryki í augu skattgreiðenda í Reykjavík."

Í gærkvöldi fórum við í Akureyrarkirkju, kirkjuna okkar, og áttum góða stund. Fórum á föstuvöku, en hún er partur af kirkjuviku sem nú stendur yfir í kirkjunni. Var þetta létt og góð kvöldstund. Ómar Ragnarsson fréttamaður, var ræðumaður á föstuvökunni að þessu sinni. Kór Akureyrarkirkju söng ásamt einsöngvurunum Sigrúnu Örnu Arngrímsdóttur og Þórhildi Örvarsdóttur. Stjórnandi var Björn Steinar Sólbergsson organisti. Í ræðu sinni fjallaði Ómar um trúarreynslu sína á yngri árum og kynni af kirkjustarfi. Var hann venju samkvæmt líflegur og sagði margar skemmtilegar gamansögur og hermdi eftir frægum mönnum sem hann hefur orðið samferða á lífsleiðinni. Góð ræða og víða farið yfir. Ennfremur fjallaði hann um ferð sína í fyrra til Eþíópíu og Mósambík, en hann gerði þátt um þá ferð sem sýndur verður í Sjónvarpinu um páskana. Eftir þessa ljúfu stund átti ég spjall við Ómar og fórum við yfir ýmsa hluti. Virkilega gaman að spjalla við hann, einkum þegar kom að virkjunarmálum og um fegurð Eyjafjarðar. Komum heim fimmtán mínútur yfir tíu. Var þá farið í að líta á spjallþáttinn Pressukvöld hjá RÚV. Að þessu sinni var Björn Bjarnason dómsmálaráðherra, gestur fréttamannanna. Var víða farið yfir og um margt rætt. Kom Björn mjög vel út úr þættinum. Eftir að hafa litið á þáttinn ræddi ég við nokkra vini á MSN um verkefnin framundan.
Dagurinn í dag
* 1941 Þýskur kafbátur gerði árás á línuveiðarann Fróða, rétt við Vestmannaeyjar - fimm fórust
* 1971 Lög um lán ríkissjóðs til vegagerðar og brúargerðar á Skeiðarársandi samþykkt
* 1984 Guðlaugur Friðþórsson synti í land um 5 km þegar vélbátnum Hellisey hvolfdi og sökk
* 1985 Mikhail Gorbachev tekur við völdum í Sovétríkjunum - varð valdalaus við fall SV 1991
* 1990 Litháen lýsir yfir sjálfstæði sínu - upphaf endaloka Sovétríkjanna, liðu undir lok ári síðar
Snjallyrði dagsins
After all... tomorrow is another day.
Scarlett O'Hara í Gone with the Wind
Breytt 18.9.2006 kl. 08:02 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
10.3.2004 | 23:37
Engin fyrirsögn

Dómari í Manassas í Virginíu í Bandaríkjunum dæmdi í gær John Allen Muhammad, til dauða fyrir að myrða 10 manns í Virginíu, Washington og Maryland haustið 2002. Muhammad hélt íbúum á svæðinu í greipum óttans um margra vikna skeið ásamt Lee Boyd Malvo, 18 ára gömlum samverkamanni sínum, með því að skjóta á fólk með veiðiriffli úr launsátri. Dómarinn, LeRoy F. Millette Jr. hafnaði ósk verjenda Muhammad um að þyrma lífi hans. Skipaði dómarinn svo fyrir að Mohammed skyldi líflátinn 14. október en áfrýjanir munu líklega breyta þeirri dagsetningu. Kviðdómur fann Muhammad, sem er 43 ára, sekan um morð að yfirlögðu ráði í október 2003, og mælti með því að hann yrði dæmdur til dauða fyrir morðið á Dean Harold Meyers við bensínstöð í Virginíu. Í dag var svo Malvo dæmdur í lífstíðarfangelsi fyrir þátt sinn í fjöldamorðunum. Malvo er átján ára og frá Jamaíku. Hann var dæmdur fyrir morð 14. október 2002 af yfirlögðu ráði á alríkislögreglukonunni Lindu Franklin fyrir utan verslun í Virginíu. Fyrsta morð þeirra Malvos og Muhammads var 2. október 2002 þegar þeir skutu 55 ára karlmann til bana fyrir utan stórmarkað í Maryland. Daginn eftir voru fimm manneskjur drepnar, þar af fjórar þeirra á tveggja klukkustunda bili. Gott er að þessu máli sé lokið og dómur fallinn. Morðingjarnir voru handsamaðir 24. október 2002, þann dag birtist bloggfærsla um það hér.



Halldór Blöndal forseti Alþingis og leiðtogi Sjálfstæðisflokksins í Norðausturkjördæmi, flutti fróðlega og góða ræðu á hátíðarráðstefnu í Kaupmannahöfn, 5. mars 2004. Þar fjallar hann um aldarafmæli heimastjórnar og þingræðis á Íslandi, en þann 1. febrúar 2004 voru 100 ár liðin frá þeim merku tímamótum. Ég birti ræðuna á vef mínum sem gestapistil en hún birtist fyrst á Íslendingi, vef okkar sjálfstæðismanna hér á Akureyri. Orðrétt segir Halldór: "Hinn 1. febrúar árið 1904. Sá dagur er tvíheilagur í hugum okkar Íslendinga. Þá fengum við fyrsta íslenska ráðherrann, Hannes Hafstein, og þá var þingræði komið á á Íslandi, aðeins þrem árum síðar en í Danmörku. Það sýnir hversu hratt hlutirnir gerðust eftir aldamótin 1900. Á Íslandi var vorhugur í mönnum. Vissulega höfðu mikil harðindi gengið yfir þjóðina og örbirgðin orðið svo mikil, að milli 15 og 20 þúsundir manna fluttu vestur um haf síðustu 30 árin, en Íslendingar voru um aldamótin innan við 80 þúsundir. En nú voru mörg teikn á lofti um að betri dagar væru í vændum. Verslunin hafði færst í hendur landsmanna sjálfra og í lok 19. aldar hafði fiskiskipastóllinn verið að eflast og styrkjast. 1904 tók Íslandsbanki til starfa, en hann kom með nýtt fjármagn inn í atvinnulífið, sem greiddi fyrir því að fyrstu togararnir voru keyptir til landsins, sem áttu eftir að umbylta íslensku efnahagslífi. Jarðvegurinn var því góður fyrir fyrsta íslenska ráðherrann, en um ráðherradóm Hannesar Hafsteins fórust Bjarna Benediktssyni forsætisráðherra svo orð, að með honum hefðu orðið "þáttaskil í sögu landsins, svo sem hinir bjartsýnustu höfðu búist við, og þótt þjóðin væri enn örsnauð var af meiri röskleika og glæsibrag af stað farið en nokkru sinni síðar hefur verið haldið"."

Heiðrún Lind fjallar á frelsinu í dag í góðum pistli um falskt frelsi Femínistafélagsins. Orðrétt segir hún: "Í 3. tbl. Veru á síðastliðnu ári var umfjöllun um staðalímyndahóp Femínistafélags Íslands. Sögðu femínistar m.a. „Við viljum frelsi, frelsi kvenna til að ráða sjálfar líkama sínum og eiga hann sjálfar, frelsi til þess að vera kynverur á okkar eigin forsendum, ekki á forsendum markaðarins eða kynlífsiðnaðarins, frelsi til að vera feitar, mjóar, málaðar, ómálaðar, með stór eða lítil brjóst, rakaðar eða órakaðar, frelsi til að velja og hafna því hvort við sjáum alsbera, lystarstolslega og barnunga kvenlíkama seljandi bíla og jafnvel í kynlífsathöfnum.” Já, þær vilja aldeilis frelsi til athafna þessir femínistar var það fyrsta sem undirritaðri kom til hugar. Það má fyllilega taka undir þessi orð málsvara femínista. Einstaklingar eiga að ráða líkama sínum og lífi sjálfir svo lengi sem það ekki skaði aðra. Við erum öll fær um að ákvarða hvað sé okkur fyrir bestu, hvað okkur þykir skemmtilegt og hvaða stefnu við kjósum að taka í lífinu." Líst vel á þessi skrif Heiðrúnar og hvet alla til að líta á.
Dagurinn í dag
* 1934 Dregið var í fyrsta skipti í Happdrætti Háskóla Íslands
* 1941 Togaranum Reykjaborg var sökkt norður af Skotlandi eftir árás þýsks kafbáts
* 1944 Flugfélagið Loftleiðir stofnað - árið 1973 sameinaðist það Flugfélagi Íslands
* 1967 Þrjú timburhús á horni Lækjargötu og Vonarstrætis brunnu til grunna
* 1991 Davíð Oddsson kjörinn formaður Sjálfstæðisflokksins
Snjallyrði dagsins
There's nothing tragic about being fifty. Not unless you're trying to be twenty-five.
Joe Gillis í Sunset Boulevard
Breytt 18.9.2006 kl. 08:02 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
9.3.2004 | 23:14
Engin fyrirsögn

16 manna áhöfn fjölveiðiskipsins Baldvins Þorsteinssonar EA-10, var bjargað eftir að skipið strandaði í Meðallandsfjöru suður af Kirkjubæjarklaustri um kl. 5 í morgun. Björgunarsveitir voru kallaðar til í nótt og bæði Landhelgisgæsla og varnarliðið sendu þyrlur á staðinn. Tilkynning barst frá skipinu rúmlega þrjú í nótt um að hann hefði flækt nótina í skrúfuna. Baldvin rak upp í fjöru eftir misheppnaða björgunartilraun skipverja á Bjarna Ólafssyni og strandaði um kl. 5 skammt austur af Skarðsfjöruvita í Meðallandsfjöru, suður af Kirkjubæjarklaustri. Ströndin þarna er sendin og aðgrunnt þannið að óhægt var um vik fyrir skip að athafna sig. Þyrla Landhelgisgæslunnar, TF-Líf, kom á staðinn rúmlega 6 og bjargaði öllum 16 skipverjunum á tæpri klukkustund. Baldvin Þorsteinsson sem er 1500 tonn hét áður Guðbjörg frá Ísafirði og hefur verið í eigu Samherja á Akureyri. Um 1800 lesta loðnufarmur er um borð í Baldvini. Sýndar voru einstakar myndir af björgun skipverjanna á Baldvini í kvöld í fréttatíma Sjónvarpsins. Ljóst verður að erfitt verður að bjarga skipinu af strandstað. Vegna slæms veðurs hefur verið hætt við tilraunir til að reyna að losa skipið af strandstað. Ekki viðrar vel til þess reyndar næstu daga, enda gert ráð fyrir sunnanáttum. Vantar efni í taug, sem tengja þarf á milli Baldvins og skipa sem koma til með að reyna að draga hann af strandstað. Hugsanlega verður að panta vír erlendis frá og þá gætu liðið nokkrir dagar þar til reynt verður að draga skipið. Um er að ræða mikið áfall fyrir Samherja og Akureyri í heild. Vonandi tekst að ná skipinu heilu af strandstað.



Í góðum pistli á frelsinu í dag fjallar Elín um framfarir í löggæslumálum, í kjölfar þess að dómsmálaráðherra styrkti sérsveit lögreglunnar. Orðrétt segir hún: "Það væri til bóta fyrir málefnalega umræðu í landinu ef að vinstri menn svifu til jarðar eins og eitt augnablik og áttuðu sig á bláköldum raunveruleikanum. Á íslandi eru glæpir, á Íslandi eru harðir undirheimar, ofbeldi og haldlagning á eiturlyfjum hefur aukist. Það er ekki endalaust hægt að horfa í hina áttina og láta sem landinn sé staddur í fallegri teiknimynd þar sem öll dýrin í skóginum eru vinir. Í síðustu viku kynnti Björn Bjarnason, dómsmálaráðherra, breytingar á skipulagi um sérsveit lögreglunnar sem er ætlað efla löggæsluna í landinu svo og öryggi borgaranna. Vinstri vængurinn var nú ekki lengi að taka við sér og að sjálfsögðu búin að finna þessu fína framtaki allt til foráttu. Rökin eru reyndar ekki sterkari en svo að þau tala mest megnis um að þetta sé skyndiákvörðun, þetta sé eyðsla, draumur Björns um her og leyniþjónustu. Sem sagt átta sig ekki á staðreyndum málsins sem meðal annars eru aukning á harðari glæpum hérlendis og aukin hætta af glæpastarfsemi og hryðjuverkum erlendis frá. Ekki eru ráð nema í tíma séu tekin og endurspeglar þessi aðgerð Björns, áhuga hans og reynslu af varnarmálum." Fróðleg og góð grein hjá Elínu, sem gaman var að lesa.

Fór seinnipartinn á Amtsbókasafnið og fékk nokkrar bækur þar að láni. Safnið er glæsilegt að loknum byggingarframkvæmdum og aðstaða allt önnur og betri. Við sem notum safnið mikið erum ánægð með útkomuna. Hitti góðan vin á safninu og við settumst niður þarna og ræddum ýmis mál. Gott spjall og víða farið yfir. Ætla að lesa á næstu dögum Statecraft: Strategies for a Changing World, eftir Margaret Thatcher, og ennfremur ævisögu John Major. Um kvöldið horfðum við á kvikmyndina Good Will Hunting. Hugljúf, raunsæ og vel gerð mynd þar sem sögð er sagan af hinum óútreiknanlega Will Hunting. Segja má að í honum blundi algjörar andstæður. Annarsvegar er hann heillandi persóna, gæddur snilligáfu, en hins vegar er hann upp á kant við allt og alla. Hann vinnur venjulega verkamannavinnu á milli þess sem hann slæst á kránni og lendir í útistöðum við lögregluna og einu kynnin sem hann hefur haft af framhaldsskólagöngu eru þau að hann hefur skúrað gólfin í háskóla heimabæjar síns. Þrátt fyrir það er hann ótrúlega vel að sér í sögu og getur einnig á augabragði leyst stærðfræðiþrautir sem vefjast jafnvel fyrir hámenntuðum prófessorum. En svo lendir þessi undarlegi ungi maður í enn einum slagsmálunum og nú er fyrirsjáanlegt að hann kemst ekki hjá fangelsisdómi. Eina vonin fyrir hann er að sálfræðingurinn Sean Maguire, sem dáist af óvenjulegum hæfileikum hans, geti komið honum til bjargar og hjálpað honum að komast á beinu brautina. En mun það takast? Robin Williams hlaut óskarinn sem besti leikari í aukahlutverki 1997 fyrir góða túlkun sína á hinum úrræðagóða sálfræðingi. Matt Damon og Minnie Driver eiga einnig stórleik. Damon og Ben Affleck hlutu óskarinn fyrir besta frumsamda handrit ársins, þeir sömdu það vegna þess að þeim bauðst ekkert ákjósanlegt handrit og fengu enga stóra sénsa í bransanum. Virkilega góð mynd sem á alltaf vel við.
Dagurinn í dag
* 1685 Góuþrælsveðrið - í þessu veðri fórust 132 menn á sjó og 6 urðu úti
* 1950 Fyrstu tónleikar Sinfóníuhljómsveitar Íslands voru haldnir í Austurbæjarbíói
* 1961 Sr. Friðrik Friðriksson æskulýðsleiðtogi lést, 92 ára að aldri
* 1973 Samþykkt í þjóðaratkvæðagreiðslu að N-Írland verði áfram partur af breska samveldinu
* 1997 Flutningaskipið Dísarfell sökk - öllum 10 skipverjum bjargað af þyrlusveit TF-Líf
Snjallyrði dagsins
Oh, that's silly. No woman could ever run for President. She'd have to admit she's over 35.
Mary Matthews í State of the Union
Breytt 18.9.2006 kl. 08:02 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
8.3.2004 | 20:04
Engin fyrirsögn

Eins og fram kom í sunnudagspistli mínum í gær hafa þrír þingmenn Sjálfstæðisflokks: Birgir Ármannsson, Pétur Blöndal og Sigurður Kári Kristjánsson, lagt fram á þingi frumvarp til laga um breytingar á útvarpslögum, lögum um Ríkisútvarpið og lögum um tekjuskatt og eignarskatt. Koma margar athyglisverðar tillögur um breytingar á rekstri RÚV þar fram. Verði frumvarpið samþykkt er gert ráð fyrir því að útvarpsráði verði skylt að bjóða út þá dagskrá sem það er ábyrgt fyrir. Gert er að auki loks ráð fyrir afnámi útvarpsgjalds, en lengi hefur verið um það deilt að almenningur skuli neyddur til að greiða fyrir ríkisrásirnar. Er fyrir löngu kominn tími til að binda endi á nauðungaráskrift að ríkismiðlunum. Greinilegt er þó að RÚV fólk lafir áfram í sama gamla farinu og vill halda stofnuninni algjörlega óbreyttri. Kom það vel fram í gærkvöldi í viðtali Kristjáns Kristjánssonar við Markús Örn Antonsson útvarpsstjóra, í Kastljósinu. Með hreinum ólíkindum var að horfa á útvarpsstjóra. Í fyrri hluta þáttarins sagði MÖA: "Ef ég á að benda stjórnvöldum á einhverja patentlausn á fjárhagsvandanum þá myndi ég segja við stjórnvöld, vinsamlegast hækkið afnotagjöldin um 450 krónur á mánuði, og þá er þessu bjargað". Er ég algjörlega ósammála Markúsi og er lítt ánægður með málflutning hans í þessum þætti. Er þá nokkuð vægt til orða tekið. Gott er að minna fólk á að RÚV er fjármagnað með sérstökum skatt sem heitir afnotagjald og er ekki gjald fyrir þjónustu heldur í raun skattur fyrir að eiga sjónvarpstæki. Það er ekki nema von að sú spurning vakni af hverju ríkið sé enn á fjölmiðlamarkaði í byrjun 21. aldarinnar. Hver er þörfin á því?



Í góðum pistli á frelsinu fjallar Hafrún um fáránleika forræðishyggjunnar. Hún segir orðrétt: "Flestir sem taka þátt í stjórnmálum hafa það að markmiði að láta gott að sér leiða; bæta kjör landsmanna og gera líf þeirra auðveldara. Þeir hafa skoðanir, eins og aðrir, um það hvað er rétt og hvað er rangt og hvernig þjóðfélagið á að vera. Stjórnmálamenn reyna að móta samfélagið eftir hugmyndum sínum með því að setja lög og reglugerðir. Oft vill það brenna við að stjórnmálamenn vilja setja lög og reglugerðir sem stjórna hegðun einstaklingana og þar með skerða frelsi þeirra. Stjórnmálamenn virðast oft telja sig betur til þess fallna til að segja fólki hvað sé gott og hollt fyrir það en fólkið sjálft." Ennfremur kemur fram: "Annað nærtækt dæmi er að ríkið hefur ákveðið að allir þegnar þjóðfélagsins sem eiga sjónvarp skuli borga afnotagjald af Ríkissjónvarpinu. Ef fólkið í landinu vill horfa á eitthvað af einkareknu sjónvarpsstöðvunum, eða nota sjónvarpstækið til að horfa á myndband, DVD eða jafnvel til tölvuleikjaiðkunar, skipar ríkið því að borga 2.528 krónur á mánuði. Það að fólk fái ekki að ráða sjálft hvernig það nýtir sjónvarpstækið sitt, af hvaða sjónvarpstöðum það borgar, er ótrúlega forræðishyggja sem er mér að öllu óskiljanleg."

Horfði í gærkvöldi á annan þáttinn í þáttaröðinni Líf og framtíðarsýn Íslendinga. Þar voru mörg góð og athyglisverð viðtöl við þekkta Íslendinga. Að því loknu horfðum við á gæðamyndina The Legend of Bagger Vance. Fjallar um Rannulph Junuh sem var eitt sinn hæfileikaríkur golfleikari frá Savannah í Georgíu, en lagðist í þunglyndi og áfengisdrykkju eftir fyrri heimsstyrjöldina. Árið 1931 kemur Adele Invergordon til sögunnar, en hún hafði eitt sinn verið ástfangin af Junuh. Hún hefur erft stóran golfvöll eftir föður sinn, en yfirvöld eru við það að taka hann eignarnámi vegna vangoldinna skatta. Í örvæntingarfullri tilraun sinni til að bjarga málunum tekst Adele að setja á laggirnar keppni á milli tveggja bestu golfleikara landsins, þeirra Bobby Jones og Walter Hagen. Heimamenn í Savannah sem standa að fjármögnun mótsins krefjast þess að a.m.k. einn heimamaður taki þátt í mótinu og fyrir valinu verður Junuh. Hann samþykkir tilboðið að lokum, en með semingi því hann gerir sér fulla grein fyrir að því að geta hans er aðeins skuggi af þeim hæfileikum sem að hann hafði áður fyrr. Fín mynd. Leikstjórn Robert Redford er einkar traust og einnig er handrit myndarinnar, tónlist Rachel Portman og kvikmyndatakan í fyrsta flokki. En það sem stendur uppúr er stórleikur aðalleikaranna. Matt Damon fer enn einu sinni á kostum og túlkar golfsnillinginn af stakri snilld. Einnig eru Will Smith og óskarsverðlaunaleikkonan Charlize Theron frábær í sínum hlutverkum. Síðast en ekki síst fer óskarsverðlaunaleikarinn Jack Lemmon á kostum í sínu síðasta kvikmyndahlutverki. Augnakonfekt fyrir alla sanna kvikmyndaunnendur!
Dagurinn í dag
* 1700 Tugir fiskibáta fórust í stormviðri við Reykjanesskaga - alls 136 drukknuðu
* 1843 Alþingi var endurreist með tilskipun konungs - kom saman þann 1. júlí 1845
* 1868 Jón Thoroddsen sýslumaður og skáld lést, 49 ára - þekktur fyrir skáldsögur og kvæði
* 1974 Charles De Gaulle millilandaflugvöllurinn vígður í París
* 1983 Ronald Reagan forseti Bandaríkjanna, kallar Sovétríkin veldi hins illa
Snjallyrði dagsins
What we do in life echoes in eternity.
Maximus í Gladiator
Breytt 18.9.2006 kl. 08:02 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
7.3.2004 | 19:24
Engin fyrirsögn

Þingkosningar voru í Grikklandi í dag. Skv. fyrstu tölum blasir við að stjórnarskipti verði í landinu og hægrimenn undir forystu Costas Karamanlis taki við stjórn í Grikklandi. Í kosningunum börðust stærstu flokkarnir, Pasok og New Democracy, um völdin. Hefur vinstriflokkurinn Pasok leitt stjórn landsins frá 1981 að undanskildu tímabilinu 1990-1993, er New Democracy leiddi stjórn landsins. Costas Simitis hefur verið forsætisráðherra landsins og leiðtogi flokksins frá andláti Andreas Papendreou stofnanda Pasok, árið 1996. Hann tilkynnti í janúar að hann myndi láta af embætti eftir þetta kjörtímabil. Samhliða því að tilkynna þá ákvörðun að hætta í stjórnmálum rauf Simitis þing og boðaði til kosninganna sem fram fóru í dag. George Papandreou utanríkisráðherra og sonur stofnanda flokksins, tók við stjórn Pasok og leiddi vinstrimenn í kosningunum. Þrátt fyrir að Papendreou sé vinsælasti stjórnmálamaður landsins tapaði flokkurinn kosningunum og hann verður leiðtogi stjórnarandstöðunnar. Hægribylgjan í Grikklandi kom ekki á óvart, en vaxandi óánægja var í landinu við stjórn vinstrimanna. Þáttaskil verða í grískum stjórnmálum því við þessi úrslit.


Í sunnudagspistli í dag fer ég víða yfir málefni vikunnar. Að þessu sinni fjalla ég um umræður um ákvörðun dómsmálaráðherra um að efla sérsveit lögreglunnar og þeim ómerkilegheitum sem komið hefur frá Samfylkingunni og einkum einum þingmanni flokksins vegna þess. Ennfremur fjalla ég um frumvarp þriggja þingmanna Sjálfstæðisflokksins um breytingar á rekstri RÚV og kosningabaráttu vegna bandarísku forsetakosninganna sem hafin er á milli George W. Bush og John Kerry. Að lokum bendi ég á mikilvægi málefnalegrar umræðu á netinu. Það er mikilvægt að þegar rætt er um stjórnmál (á netinu sem annarsstaðar) sé það gert á málefnalegan hátt. Á netinu er fjöldi spjallvefa. Á flestum þeirra vaða uppi nafnleysingjar sem ráðast að öðrum undir skjóli nafnleyndar og láta allt flakka til að níða aðra niður. Oft hef ég vikið að því að kanna þurfi hvar ábyrgð á þeim liggi og gera þurfi það skýrara. Er það mikilvægt til að stemma stigu við þeim aðilum þar sem telja sig búa í vernduðu umhverfi til að skítmennskast í umræðu um stjórnmál. Á því er svo sannarlega þörf.

Lína systir og fjölskylda komu í mat í gærkvöldi og var virkilega gaman að rabba saman og horfa á sjónvarpið eftir góðan mat. Var virkilega gott kvöld. Horfðum t.d. á stórmynd Shekhar Kapur, Elizabeth, en hún var á dagskrá Sjónvarps í gærkvöldi. Myndin hefst árið 1554. England hefur lotið stjórn hinnar kaþólsku Maríu drottningar sem er hatrammur andstæðingur mótmælenda í landinu. Þar sem hún á sjálf engin börn og þar með engan erfingja að krúnunni óttast fylgismenn hennar að eftir hennar dag nái hálfsystir hennar, Elísabet sem er mótmælandatrúar, völdum. Þeir hvetja því Maríu til að ákæra Elísabetu um landráð og láta taka hana af lífi. Af aftökunni verður þó ekki og þegar María deyr er Elísabet krýnd drottning aðeins 25 ára að aldri. Krýningu Elísabetar fylgja miklar pólitískar hreinsanir því ráðgjafar hennar, þar á meðal hinn slóttugi Sir Francis Walsingham, ráðleggja henni eindregið að koma upp um óvini sína innan ríkisstjórnarinnar og láta taka þá af lífi. Smám saman tekst Elísabetu síðan að útrýma öllum helstu andstæðingum sínum og að lokum er hún orðin svo trygg í sessi að enginn sem er á móti henni þorir að láta mótmæli sín í ljós. Þegar Elísabet kemur næst fyrir sjónir almennings eftir hreinsanirnar hefur hún umbreytt sér í hina goðsagnakenndu meydrottningu, óárennileg, ósnertanleg og ósigrandi. Hér smellur allt saman til að skapa ógleymanlega kvikmynd; góð leikstjórn, fínt handrit, afbragðsgóð tónlist, fallegir búningar og glæsilegar sviðsmyndir, en aðall hennar er leikurinn í henni. Cate Blanchett er afbragðsgóð í hlutverki drottningarinnar og sannar endanlega að hún er úrvalsleikkona. Meðal annarra leikara myndarinnar má minnast á Geoffrey Rush, Joseph Fiennes, Emily Mortimer Christopher Eccleston, Edward Hardwicke og óskarsverðlaunahafana Sir John Gielgud og Richard Attenborough lávarð. Mögnuð mynd.
Dagurinn í dag
* 1902 Sögufélagið var stofnað til þess að gefa út heimildarrit að sögu Íslands
* 1922 Ríkisstjórn Sigurðar Eggerz tók við völdum - sat í rúm tvö ár
* 1945 Joan Crawford hlaut óskarinn fyrir leik sinn í kvikmyndinni Mildred Pierce
* 1981 Lagið Af litlum neista hlaut flest atkvæði í fyrstu söngvakeppni Sjónvarpsins
* 1996 Séð og heyrt hóf göngu sína - umdeilt en vinsælt slúðurblað
Snjallyrði dagsins
In this world only the strong survive. The weak get crushed like insects.
Peter Helfgott í Shine
Breytt 18.9.2006 kl. 08:02 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
6.3.2004 | 23:57
Engin fyrirsögn

Ný húsakynni Amtsbókasafnsins á Akureyri og Héraðsskjalasafnsins voru tekin í notkun við hátíðlega athöfn seinnipartinn í dag. 17 ár eru nú liðin frá því að bæjarstjórn Akureyrar ákvað á hátíðarfundi í tilefni af 125 ára afmælis bæjarins, 29. ágúst 1987, að byggja við söfnin, sem hafa búið við nokkuð þröng húsakynni. Hafist var handa við bygginguna á árinu 2000 eftir teikningu Guðmundar Jónssonar arkitekts, en hann hafði áður unnið samkeppni um viðbyggingu við söfnin. Í ræðu sinni við þetta tilefni fjallaði Kristján Þór Júlíusson bæjarstjóri, um byggingarsögu safnsins og þessi merku tímamót. Í máli hans kom fram að 460 manns að meðaltali hefðu heimsótt safnið daglega á síðastliðnu ári. Það sýndi og sannaði að bæjarbúar notuðu safnið mikið. Í ræðunni sagði bæjarstjóri orðrétt: "Safnið er burðarbitinn í menningar- og menntabænum Akureyri". Nýbyggingin er um 1450 fermetrar að stærð, að hluta á þremur hæðum og er geymslukjallari undir húsinu. Kostnaður við bygginguna nam um 580 milljónum króna. Starfsfólk safnanna mun taka á móti bæjarbúum og gestum þeirra á sunnudag og sýna nýju húsakynnin. Um er að ræða mikinn og stóran áfanga. Nota ég mikið safnið, enda er þar virkilega góð þjónusta og mikið af vönduðum og góðum ritum. Þetta er mikill hátíðisdagur fyrir okkur Akureyringa.

Horfði í gærkvöldi enn einu sinni á meistaraverk Francis Ford Coppola, Apocalypse Now. Redux útgáfan var sýnd í Sjónvarpinu og magnað að horfa á hana. Verður alltaf sama magnaða klassamyndin, hefur elst mjög vel og er enn í dag gríðarlega áhrifarík en um leið myrk og raunveruleg í tjáningu sinni á Víetnamsstríðinu. Segir frá foringja í stríðinu, sem sendur er um langa leið til að hafa uppi á og drepa ofurstann Kurtz sem gerst hefur liðhlaupi og stjórnar eigin stríði frá afskekktu héraði. Martin Sheen, Robert Duvall og Marlon Brando fara á kostum í einni eftirminnilegustu kvikmynd áttunda áratugarins. Brando fékk metupphæð fyrir leik sinn í hlutverki ofurstans. Svo má ekki gleyma tónlist The Doors sem er notuð á magnaðan hátt. Er hiklaust metnaðarfyllsta og dýrasta mynd leikstjórans, hann vann að henni í rúm fimm ár og hefur sjálfur sagt að hún sé erfiðasta myndin sem hann hefur unnið að. Redux útgáfan er endanleg klippútgáfa hans á myndinni og mun ítarlegri í allri frásögninni. Allir sem kunna að meta meistaraverk ættu að hafa gaman af þessari gæðamynd.

Í vikunni birtist góð grein í Morgunblaðinu eftir Birgi Ármannsson alþingismann, í Morgunblaðinu, um varnarmál. Orðrétt segir hann: "Þegar af þessari ástæðu er ljóst að varnarsamstarf við ESB í stað núverandi samstarfs við Bandaríkin er harla fjarlægur möguleiki. Ekkert bendir til þess að Íslendingar verði aðilar að sambandinu á næstu árum og enginn stjórnmálaflokkur hér á landi hefur afdráttarlaust lýst yfir stefnu í þá veru. Samfylkingin hefur gengið lengst í þeim efnum, en þó ekki lengra en svo að segja að Íslendingar eigi að sækja um aðild til að sjá hvaða kostir séu í boði. Það eykur enn á óvissuna í þessum efnum að á þessari stundu er erfitt að segja fyrir um þróun varnarmálastefnu Evrópusambandsins. Fyrir liggur að sambandið hyggst auka vægi sitt í þessum málaflokki en verulegur áherslumunur hefur verið á milli einstakra aðildarríkja varðandi það hversu langt eigi að ganga í þeim efnum." Verulega áhugaverð grein hjá Birgi, sem allir stjórnmálaáhugamenn ættu að kynna sér.
Dagurinn í dag
* 1830 Eldgos hófst í sjó nærri Eldeyjarboða og stóð það í rúma tvo mánuði
* 1873 Ofsaveður við suðausturströnd landsins og talið að 15 franskar fiskiskútur hafi farist
* 1905 Coot, fyrsti togari í eigu Íslendinga, kom til Hafnarfjarðar
* 1983 CDU vinnur þýsku þingkosningarnar með yfirburðum - Helmut Kohl áfram kanslari
* 1998 Frost mældist -34,7°C í Mývatnssveit - það mesta hérlendis í rúm 80 ár
Snjallyrði dagsins
I hardly said a word to my wife until I said yes to a divorce.
Willard í Apocalypse Now
Breytt 18.9.2006 kl. 08:02 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
4.3.2004 | 17:32
Engin fyrirsögn

Kosningabaráttan fyrir forsetakosningarnar í Bandaríkjunum, 2. nóvember, er hafin. Á fundi í Los Angeles með stuðningsmönnum sínum sakaði George W. Bush forseti, keppinaut sinn, John Kerry um uppgjafahneigð í öryggismálum og úrræðaleysi í efnahagsmálum. Í dag hleypti forsetinn svo af stokkunum umfangsmikilli auglýsingaherferð í sjónvarpi, þar sem barátta forsetans fyrir endurkjöri hefst formlega, og ennfremur til að svara ásökunum Kerrys, um störf og stefnu hans. Verða auglýsingarnar sýndar í þeim 15 ríkjum, sem talin eru mikilvægust fyrir hann að sigra í, í forsetakosningunum. Þeir sem stjórna kosningabaráttu forsetans, hafa sagt í fjölmiðlum vestanhafs og á netmiðlum að auglýsingarnar muni ekki svara með beinum hætti árásum demókrata en muni leggja áherslu á að forsetinn sé sterkur og bjartsýnn leiðtogi. Framboðið mun hafa meira en 100 milljónir dala úr að spila. Næstu daga mun forsetinn vera í fjáröflunarferð í Californiu og Texas. Í auglýsingunum sjást t.d. myndir frá hryðjuverkaárásunum á Bandaríkin 11. september 2001 og myndir af Bush og Lauru konu hans, í Hvíta húsinu. Framundan verður löng og erfið kosningabarátta milli forsetans og Kerrys, sennilega ein hatrammasta kosningabarátta seinni tíma.



Í vikunni birtist á Íslendingi birtist í vikunni góður pistill eftir Gísla Aðalsteinsson, sem hann kallar Hagkvæmni og sanngirni. Orðrétt segir í pistlinum: "Það hafa verið gerðar tilraunir til þess að flytja stofnanir á vegum hins opinbera út á landsbyggðina. Mitt mat er að þær tilraunir hafi fyrst og fremst skilað okkur á landsbyggðinni neikvæðri umfjöllun. Betur hefur gengið þegar að ný starfsemi hefur verið komið á fót frá grunni. Ég er hins vegar ekki tilbúinn að leggja það til að við Akureyringar eigum að byggja framtíð okkar bæjarfélags á þeirri kröfu að ríkið eigi að útvega okkur störf hér í bænum. Það sem ég vil er að við fáum sömu tækifæri og önnur svæði á landinu þ.e. að leikvöllurinn verði jafnaður. Ég vil að stjórnvöld bjóði út þá starfsemi ríkisins sem er þess eðlis að ekki er beinlínis nauðsynlegt að ríkið sjái um reksturinn og þar sem ekki skiptir öllu máli hvar á landinu starfsemin er stödd. Þá höfum við sem hér búum jafna möguleika til þess að ná til okkar verkefnum á vegum hins opinbera og aðrir. Ekki bara það heldur getur ríkið einnig lækkað rekstrarkostnað sinn og gæti einhverjum þótt ástæða til. Þessi lausn er bæði hagkvæm og sanngjörn." Hvet alla til að lesa pistil Gísla og ennfremur góðan góðan pistil Stefáns Ottó á frelsinu í dag.

Eftir fréttir og dægurmálaþætti horfði ég á óskarsverðlaunamyndina The French Connection. Mögnuð spennumynd sem fjallar um harðsoðnu lögguna lögguna Popeye Doyle sem kemst ásamt félaga sínum á spor alþjóðlegra fíkniefnasmyglara í New York. Hraður lögreglureyfari sem er hlaðinn spennu allt frá upphafsatriðinu til enda myndarinnar, enda með einum hrikalegasta bílaeltingaleik kvikmyndasögunnar. Bæði það atriði og myndin eins og hún leggur sig hefur verið fyrirmynd allra helstu spennumynda sem gerðar hafa verið síðan. Gene Hackman sem fer á kostum í hlutverki Popeye Doyle fékk óskarsverðlaunin fyrir leik ferils síns. Er alveg ógleymanlegur í hlutverki hins grófa og ruddafengna lögreglumanns. Snilldarverk. Eftir myndina horfði á Pressukvöld, þar sem umhverfisráðherra var gestur og var ekki laust við að ráðherrann væri hálftaugatrekkt vegna ráðherrahrókeringanna. Eftir þáttinn átti ég nokkur símtöl og svo var litið í tölvuna og haldið áfram að skrifa leikstjórapistil.
Dagurinn í dag
* 1213 Hrafn Sveinbjarnarson goðorðsmaður á Eyri við Arnarfjörð, veginn
* 1936 Frank Capra hlaut óskarinn fyrir leikstjórn sína í Mr. Deeds goes to Town
* 1964 Fimm íslenskar hljómsveitir léku í Háskólabíói - fyrstu bítlatónleikarnir hérlendis
* 1971 Uppstoppaður geirfugl var sleginn Íslendingum á uppboði í London
* 1987 Happaþrenna Happdrættis Háskóla Íslands kom á markað
Snjallyrði dagsins
Well, it's a form of self-expression. Some people write books. Some people write music. I make speeches on street corners.
Leopold Dilg í The Talk of the Town
Breytt 18.9.2006 kl. 08:02 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
3.3.2004 | 18:01
Engin fyrirsögn

John Kerry öldungadeildarþingmaður frá Massachusetts, verður forsetaefni Demókrataflokksins í Bandaríkjunum í forsetakosningunum 2. nóvember nk. Þetta varð endanlega ljóst í nótt eftir að hann vann sigur í 9 af 10 ríkjum í forkosningum gærdagsins, á svonefndum Super Tuesday. John Edwards tókst ekki að vinna sigur í neinu af fylkjunum 10 og búist er við því að hann dragi framboð sitt til baka á blaðamannafundi seinna í dag. Bush forseti hringdi í Kerry í nótt og óskaði honum til hamingju. Framundan er harður kosningaslagur þeirra á milli. Kerry hefur nú unnið forkosningar í 27 ríkjum af 30. Í gær sigraði hann í Californiu, New York, Ohio, Massachusetts, Georgiu, Connecticut, Minnesota, Maryland og Rhode Island. Í Vermont hlaut Howard Dean flest atkvæði, þótt hann sé hættur við framboð sitt. Dean ríkisstjóri í Vermont í 11 ár, og sigur hans þar því engin stórtíðindi. Næsta verkefni Kerrys verður að velja sér varaforsetaefni í kosningunum. Margir demókratar telja Edwards kjörinn meðframbjóðanda hans. Eða eins og CNN segir: "Kannanir sýni að það falli kjósendum vel í geð, enda séu þeir að ýmsu leyti heppilegar andstæður. Annar Norðurríkjamaður, nokkuð hátíðlegur, farinn að reskjast og með reynslu af utanríkis- og hermálum. Hinn Suðurríkjamaður, alþýðlegur og fjörugur, nokkuð unglegur, sérfróður um efnahags- og félagsmál." Eini gallinn ku víst að þeim er ekki vel til vina og því ekki ólíklegt að Kerry hugleiði t.d. að fá Dick Gephardt þingmann frá Missouri og fyrrum forsetaframbjóðanda, Mary Landrieu öldungadeildarþingmann Louisiana og Robert Rubin sem var fjármálaráðherra í Clinton stjórninni, sem varaforsetaefni.



Þrjár góðar greinar eru á frelsinu í dag. Í þeim fyrsta fjallar Tobba um bandarísku forsetakosningarnar. Orðrétt segir: "En hver er John Kerry? Er bandaríska þjóðin búin að kynnast Kerry nægilega vel til að hann sé raunverulegur kostur gegn Bush sem hefur auglýsingaherferð sína á morgun, fimmtudag? John F. Kerry lítur út eins og forseti, ber sig eins og forseti og ber upphafsstafi forseta. Hann er af ríkum ættum líkt og núverandi forseti og hefur starfað sem réttarlögmaður og þingmaður. Kerry er hermaður og kaus meðal annar með innrásinni inn í Írak í þinginu. Hann hefur mjög langa reynslu á þingi en hefur ekki verið talinn hugmyndaríkur eða aðhaldssamur í útgjaldaaukningu ríkiskerfisins. Kerry hefur sterkar og ákveðnar skoðanir þegar kemur að heilbrigðiskerfinu og gagnrýnir harkalega að 44 milljónir Bandaríkjamanna skuli ekki hafa tryggingar. Hann er á móti dauðarefsingum og styður að fylkin skuli ákveða sjálf hvort samkynhneigðir geti giftst." Góð grein, mæli með henni við áhugafólk um bandaríska pólitík. Atli Rafn fjallar í sínum pistli um freistingar stjórnmálamanna og segir: "Alþingismenn mæla gjarnan fyrir og samþykkja lög sem eru íþyngjandi fyrir fólkið í landinu og skattgreiðendur. Undirrótin er gjarnan hagsmunagæsla fyrir ákveðinn þrýstihóp sem hefur óhjákvæmilega í för með sér að einum þjóðfélagshópi er gert hærra undir höfði en öðrum. Slíkt er freistandi fyrir þingmenn sem vilja þóknast sem flestum áður en kemur að næstu kosningum. Oftar en ekki er í þessum tilfellum betra heima setið en af stað farið þar sem ákjósanlegast er að stjórnmálamenn hafi sem minnst afskipti af fólki. Ef til vill er besta ráðið gagnvart afskiptasömum þingmönnum einfaldlega að gefa þeim ennþá meira frí en þeir fá núþegar." Að auki birtist góð moggagrein Ragnars.

Eftir að hafa horft á kvöldfréttirnar var litið á Kastljósið. Þar var landbúnaðarráðherra aðalgestur og venju samkvæmt vall vitleysan upp úr honum um landbúnaðarkerfið. Alveg með ólíkindum að hlusta á þennan mann. Horfði á fréttir á Aksjón og svo bæjarstjórnarfund, þar sem nokkur athyglisverð mál voru til umræðu. Eftir það horfði ég á hina mögnuðu óskarsverðlaunamynd All About Eve. Fjallar um Margo Channing virta leikkonu á Broadway. Einn daginn birtist Eve Harrington í búningsherberginu hennar og vill fá að tala við Margo, enda hefur hún fylgst með henni á öllum sýningum hennar. Eve og Margo kemur vel saman og ákveður Margo að bjóða Eve vinnu sem aðstoðarkona sín. Fljótlega fer Margo að gruna að Eve hafi ekki ráðið sig til að verða aðstoðarkona hennar heldur hafi aðrar hugmyndir um starf sitt, þ.e. að koma sjálfri sér á framfæri og koma sér á kaf í leiklistina. Óskarsverðlaunaleikkonan Bette Davis blómstrar í hlutverki hinnar ráðríku og einstöku leikkonu Margo Channing og vinnur þar einn af sínum allra stærstu leiksigrum á hvíta tjaldinu. Ekki er Anne Baxter mikið síðri í hlutverki hinnar framagjörnu Eve Harrington, sem ætlar sér greinilega að yfirtaka líf Margo og allt sem því fylgir. George Sanders hlaut óskarinn fyrir stórleik sinn í hlutverki Addison DeWitt, hins undirförula leikhúsgagnrýnanda. Án nokkurs vafa besta mynd meistarans Joseph L. Mankiewicz, en hann hlaut óskarinn fyrir leikstjórn sína. Hann stjórnar hinum einstaka hópi leikara sem fara hér á kostum á einstaklega góðan og eftirminnilegan hátt, og fyrir hið einstaka handrit sem margir hafa lofað gegnum tíðina, enda er það eitt af allra bestu kvikmyndahandritum sögunnar, sökum hinna hnyttnu og eftirminnilegu samtala sem þar fyrir koma. Hér er því á ferðinni einstök gullaldarklassík sem er ávallt viðeigandi. Passaði vel í lokin á góðum þriðjudegi.
Dagurinn í dag
* 1200 Bein Jóns Ögmundssonar biskups, voru tekin upp - Jónsmessa haldin í tilefni þess
* 1943 Greer Garson hlaut óskarinn - hélt lengstu þakkarræðu í Óskarssögunni, 7 mínútna langa
* 1991 Lögreglumenn í Los Angeles réðust á Rodney King - leiddi til mikilla óeirða í L.A.
* 1997 Björk Guðmundsdóttir tók við tónlistarverðlaunum Norðurlandaráðs í Osló
* 2003 Davíð Oddsson sagði í viðtali hjá RÚV að sér hefðu verið boðnar mútur af Baugi
Snjallyrði dagsins
Today, I consider myself the luckiest man on the face of the earth.
Lou Fehrig í The Pride of the Yankees
Breytt 18.9.2006 kl. 08:02 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
2.3.2004 | 18:10
Engin fyrirsögn

Jean-Bertrand Aristide forseti Haiti, sagði af sér embætti og fór úr landi á sunnudag til að forða landinu frá blóðbaði. Seinustu vikur hafði andstaða magnað við forsetann og stjórn hans og vofði yfir að stjórnarandstaðan myndi steypa Aristide af stóli, ef hann færi ekki frá sjálfviljugur. Blasti við að andstæð öfl forsetanum, undir forystu Guy Philippe myndi leggja undir sig höfuðborg landsins, Port-au-Prince. Boniface Alexandre forseti Hæstaréttar, tók tímabundið við forsetaembættinu. Stjórnarskrá landsins gerir ráð fyrir því að forseti Hæstaréttar sé staðgengill forseta. Við embættistöku Alexandre, las Yvon Neptune forsætisráðherra, yfirlýsingu frá Aristide, þar sem fram kom að hann hefði farið úr landi til að koma í veg fyrir blóðsúthellingar. Aristide reis upp gegn einræðisherranum Duvalier í lok níunda áratugarins og batt enda á áratuga valdakúgun Duvalier feðga. Hann varð þjóðhetja og tákn lýðræðis á Haiti er hann varð forseti árið 1991. Aristide hraktist frá völdum í valdaráni eftir nokkra mánuði en var settur í forsetaembætti á ný eftir innrás Bandaríkjanna í landið árið 1994. Hann var endurkjörinn forseti í kosningum árið 2000. Aristide hefur sagt að hann hafi verið þvingaður úr landi af Bandaríkjamönnum. Segir hann þetta hafa verið valdarán og sér verið rænt. Talsmaður Bandaríkjaforseta hefur vísað þessum ummælum forsetans fyrrverandi á bug. Haiti, sem fékk sjálfstæði frá Frökkum 1804, er fátækasta ríki Ameríku og daglaun flestra íbúanna eru innan við 100 krónur. Vonandi lagast staða mála þar við valdaskiptin.



Á frelsinu í dag eru tvær góðar greinar. Sú fyrri er eftir Sissý og fjallar hún þar um menntamál. Orðrétt segir hún: "Mikil menntun þjóðarinnar styrkir samkeppnisstöðu landsins og miklir almannahagsmunir fylgja kunnáttu hvers manns. Því hefur almenn sátt ríkt um það að menntun sé greidd úr sameiginlegum sjóðum til að tryggja öllum færi á góðri menntun. En einstaklingsbundnir hagsmunir mega ekki gleymast. Strax í dag get ég sótt um fjöldamörg störf og sett fram ákveðnar launakröfur. Menntað fólk er líklegra til að afla ágætis tekna. Er því ekki eðlilegra að námsmenn greiði stærri hlut af námi sínu sjálfir? Ýmsar leiðir er hægt að fara til að tryggja fjölbreytileika náms og að allir hafi jafnan aðgang að námi. Bankastofnanir keppast nú þegar við að bjóða námsmönnum hagstæð námslán. Skattar geta lækkað þannig að hvati manna til að mennta sig og standa sig vel í starfi aukist. Um leið og skattar eru lækkaðir er auðveldara fyrir hvern og einn að greiða niður námslánin." Í þeim seinni fjallar Mæja um málefni RÚV og segir: "Nú hefur hins vegar komið í ljós að Ríkisútvarpið hefur ekki tök á að kaupa meira íslenskt dagskrárefni það sem eftir er af árinu. Þetta er þó þrátt fyrir allt ákveðið fagnaðarefni fyrir skattgreiðendur, ekki vegna þess að innlend dagskrárgerð sé verri en annað efni, heldur vegna þess að þessi ákvörðun ber vott um sparsemi. Kvikmyndagerðarmenn hafa látið í ljós óánægju sína með ákvörðun Ríkisútvarpsins og segja þeir eini raunhæfi kosturinn til að fá verk sín birt og fjármögnuð sé með milligöngu RÚV. Þetta getur varla staðist því til dæmis hefur Skjár einn boðið upp á afar fjölbreytt og skemmtilegt íslenskt sjónvarpsefni frá fyrsta degi án endurgjalds, auk þess sem Stöð 2, Sýn og Popptívi bjóða einnig upp á fjölmarga innlenda þætti. "

Eftir kvöldfréttirnar í gærkvöldi var horft enn einu sinni á hina mögnuðu óskarsverðlaunamynd One Flew Over the Cuckoo's Nest. Gerð eftir góðri og sígildri skáldsögu Ken Kesey sem fjallar um uppreisnarmann að nafni Randle Patrick McMurphy sem fer yfir um á taugum og endar að lokum á geðveikraspítala og bindist þar miklum og órjúfandi böndum við félaga sína á staðnum. Þeir bindast samtökum um að gera yfirhjúkrunarkonunni skapstyggu Mildred Ratchett lífið illilega leitt en hún stjórnar staðnum með miklum og sannkölluðum heraga og hefur illan bifur á McMurphy og hefur því sérstakt eftirlit á honum og vinum hans, en ætli að hún muni ná að verjast árás sjúklinganna er þeir láta til skarar skríða? Jack Nicholson og Louise Fletcher fengu bæði óskarinn fyrir frábæra frammistöðu sína í aðalhlutverkunum. Einnig fara Brad Dourif, Christopher Lloyd, Danny DeVito og William Redfield virkilega á kostum í hlutverkum sínum. Leikstjórn Milos Forman toppar svo einstaka mynd. Ein besta mynd áttunda áratugarins. Þessi stórfenglega kvikmynd var sú fyrsta frá því It Happened One Night vann óskarinn 1934, til að vinna í helstu fimm flokkunum á óskarsverðlaunahátíð: fyrir bestu mynd, leikstjórn, leik í aðalhlutverkum og handrit. Eftir myndina horfði ég á endursýningu á Stöð 2 frá Óskarsverðlaunaafhendingunni, nóttina áður og venju samkvæmt er alltaf sviplaust að horfa á samantektina. Vantar alltaf eitthvað inn í samantektina sem varið er í. Að þessu sinni var gott atriði Will Farrell og Jack Black klippt út. Eftir þetta var litið í tölvuna, þurfti að skrifa grein og spjallaði í leiðinni við slatta af góðu fólki á MSN.
Dagurinn í dag
* 1940 Þýsk herflugvél réðst að Skutli frá Ísafirði - fyrsta árás að íslensku skipi í stríðinu
* 1956 Bandarísk herflugvél með 17 manns innanborðs hrapaði í sjóinn djúpt út af Reykjanesi
* 1957 Heilsuverndarstöðin í Reykjavík vígð - bygging hennar tók alls sjö ár
* 1982 Bíóhöllin opnar - rúmaði 1040 manns í sæti í sex sölum. Þótti mikil bylting í bíómálum
* 2000 Augusto Pinochet sleppt úr stofufangelsi í Bretlandi - hafði verið í varðhaldi frá 1998
Snjallyrði dagsins
The point is ladies and gentlemen that greed, for lack of a better word, is good. Greed is right. Greed works. Greed clarifies, cuts through and captures the essence of the evolutionary spirit. Greed, in all of it's forms - greed for life, for money, knowledge - has marked the upward surge of mankind and greed - you mark my words - will not only save Teldar Paper but that other malfunctioning corporation called the USA. Thank you.
Gordon Gekko í Wall Street
Breytt 18.9.2006 kl. 08:02 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
29.2.2004 | 21:29
Engin fyrirsögn

Óskarsverðlaunin verða afhent í Los Angeles í nótt í 76. skipti. Almennt er talið að The Lord of the Rings: The Return of the King muni sópa að sér verðlaunum. Hún er tilnefnd til alls 11 verðlauna. Bandarískur almenningur er þeirrar skoðunar, að hún eigi skilið að hljóta Óskarsverðlaun fyrir bestu kvikmynd ársins. Í könnun sjónvarpsstöðvarinnar ABC sögðu 42% að hún ætti að vinna. 16% þátttakenda nefndu Seabiscuit, 11% nefndu Mystic River, í kjölfarið komu Lost in Translation og Master and Commander. ABC hefur gert kannanir á borð við þessa undanfarin 8 ár en þá hefur engin mynd fengið afgerandi stuðning, heldur margar verið með svipað fylgi. Ég ákvað venju samkvæmt að spá fyrir um úrslitin. Þetta hef ég gert seinustu 10 árin og oft haft rétt fyrir mér, t.d. hef ég í 9 skipti spáð rétt um hvaða mynd hljóti óskarinn sem besta mynd ársins og aðeins einu sinni haft rangt fyrir mér, 1999 spáði ég að Saving Private Ryan myndi vinna, en hún tapaði fyrir hinni ofmetnu Shakespeare in Love. Þessu sinni spái ég að Hringadróttinssaga vinni fyrir bestu kvikmynd ársins og að leikverðlaunin fari til Sean Penn, Charlize Theron, Tim Robbins og Renée Zellweger. Ég tel ennfremur að Hringadróttinssaga verði sigurvegari kvöldsins með 7-9 verðlaun, hið minnsta. Í óskarsspá minni spái ég henni 9 styttum. Hugsanlega gæti hún náð að slá met myndarinnar Gigi frá 1958 sem vann 9 verðlaun og tilnefnd til 9. Allavega er enginn vafi er á að hún á eftir að sópa til sín óskurum. Framundan er spennandi kvöld. Venju samkvæmt verður vakað fram eftir nóttu og horft á verðlaunaafhendinguna.


Að þessu sinni fjalla ég um ráðherrahrókeringar sem verða í ríkisstjórninni í september, þá blasir við að forsætisráðherraskipti verða og uppstokkun í ráðherraliði beggja flokka og tilfærslur á ráðherrum samhliða því. Fer ég yfir stöðu mála nú þegar umræða um hrókeringarnar eru komnar í hámæli. Óháð því hvað Davíð Oddsson ákveður að gera í haust er hann lætur af embætti forsætisráðherra er alveg ljóst að vandinn í þessari uppstokkun er ekki okkar megin í Sjálfstæðisflokknum, heldur í Framsóknarflokknum þar sem verður raunverulegur slagur milli fólks. Hann er reyndar þegar hafinn af miklum látum með yfirlýsingum í vikunni í kjölfar fréttaskýringarþáttarins Í brennidepli, þar sem farið var yfir ráðherrakapal flokkanna. Ennfremur fjalla ég í sunnudagspistlinum um sterka stöðu frjálshyggjunnar í íslensku samfélagi seinustu árin og minnist á merkisafmæli ritsins "Uppreisn frjálshyggjunnar". Að lokum fjalla ég um opnun nýs vefs SUS sem opnaði á föstudag.

Horfði í gærkvöldi enn einu sinni á hið magnaða meistaraverk Martin Scorsese, Goodfellas. Það var árið 1990 sem Scorsese gerði þessa eftirminnilegustu og stórbrotnustu kvikmynd sína. Goodfellas er mögnuð mafíumynd sem er byggð á sannri sögu írsks-ítalsks bófa sem frá bernsku á sér þann draum heitastan að verða gangster. Og fyrr en varir er hann kominn í réttan félagsskap víðsjárverðra glæpamanna. Þar hefst þriggja áratuga tímabil auðgunarglæpa, manndrápa, peningaflóðs og ekki síst glæsilegs Hollywoodlífsstíls, sem endar að lokum með því að allir eru á varðbergi og hugsa um það eitt að bjarga eigin skinni. Meistari Scorsese segir söguna af einstökum mikilleik og ekki síst gráglettni, sóðaskapur innihaldsins kemur aðeins fram í örfáum sprungum sem bresta í rómantíska drauminn. Og ekki má gleyma sannkölluðum stórleik þeirra snillinga sem hér eru saman komnir og fara hreint á kostum, nægir þar að nefna þá Robert De Niro (sem vann hér með Scorsese í sjötta skiptið), Ray Liotta, Paul Sorvino og Joe Pesci sem hlaut óskarinn fyrir magnaðan leik sinn. Scorsese hlaut tilnefningu fyrir leikstjórn sína og myndin var einnig tilnefnd sem besta mynd ársins 1990. Eðalmynd, sem verður enn betri með hverju árinu. Snilld!
Dagurinn í dag
* 1884 Fjallkonan, blað Valdimars Ásmundssonar, kom út í fyrsta skipti
* 1940 Kvikmyndin Gone with the Wind hlýtur átta óskarsverðlaun - ein besta mynd aldarinnar
* 1968 Flóð í Ölfusá með jakaburði - einhver mestu flóð á Íslandi á 20. öld
* 1984 Pierre Trudeau tilkynnir afsögn sína sem forsætisráðherra Kanada, eftir 16 ára valdaferil
* 1992 Haldið upp á það að íbúar Reykjavíkur voru orðnir fleiri en 100.000 manns
Snjallyrði dagsins
Whenever I despair, I remember that the way of truth and love has always won. There may be tyrants and murderers, and for a time, they may seem invincible, but in the end, they always fail. Think of it: always.
Mahatma Gandhi í Gandhi
Breytt 18.9.2006 kl. 08:02 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
28.2.2004 | 19:35
Engin fyrirsögn

Davíð Oddsson forsætisráðherra er gestapenni helgarinnar á vefritinu Tíkinni sem ungar hægrisinnaðar konur halda úti. Þetta er í fyrsta skipti sem forsætisráðherra skrifar pistil á netið. Pistill Davíðs fjallar um eignarhald á fjölmiðlum. Orðrétt segir Davíð: "Því miður hefur tilkoma fyrirtækjamálgagna að undanförnu grafið undan trúverðugleika íslensks viðskiptalífs. Það þarf til dæmis engan sérstakan speking til að sjá hversu óheppilegt það er að viðskiptasamsteypa með umtalsverð ítök í íslensku viðskiptalífi er eigandi fjölmiðla. Hvað þá að fjölmiðlar í eigu hennar skuli vera í lykilstöðu á fjölmiðlamarkaði. Fjölmörg dæmi hafa verið nefnd á opinberum vettvangi hvernig fjölmiðlar í eigu Baugs hafa ítrekað verið staðnir að því að láta hagsmuni eigenda sinna ganga fyrir hagsmunum almennings. Nú nýverið bættist í þann haug enn eitt dæmið um vinnubrögð á þessum fjölmiðlum, sem hlýtur að auka á áhyggjur manna um hæfi eigendanna til að reka fjölmiðil. Hallur Hallsson, fyrrverandi fréttamaður, birti nýlega grein í Morgunblaðinu. Þar ræddi hann á skilmerkilegan hátt um hvernig Fréttablaðinu var beitt í pólitískum tilgangi eigenda þess. Meðal annars ræddi Hallur sérstaklega hvernig trúnaðarskjöl stjórnar Baugs bárust til ritstjóra Fréttablaðsins. Þögn forráðamanna fyrirtækisins um þetta mál og sú staðreynd að tveir af stjórnarmönnum fyrirtækisins sögðu sig úr stjórn vegna þessa hlýtur að vekja mikla athygli."


Fór suður með flugi um þrjúleytið í gær. Klukkan hálffimm var fundur í Valhöll í utanríkismálanefnd SUS þar sem farið var yfir ýmis mál. Á fundinum voru góðir gestir, sem hafa lengi fylgst með bandarískum stjórnmálum. Fræddu þeir okkur um forsetakosningarnar í Bandaríkjunum, og fóru yfir stöðuna og komu með þeirra mat á hvað kosningarnar munu snúast um. Á fundinum flutti ég erindi um málefni sendiráða og fór yfir marga þætti, einkum þó kostnað við rekstur þeirra og vék ennfremur að umsókn Íslendinga um sæti í Öryggisráði SÞ. Ástæða þess að ég tók saman erindi um þetta, er auðvitað sú að Sjálfstæðisflokkurinn mun taka við utanríkisráðuneytinu í haust. Að fundinum loknum fórum við í nefndinni niður í salinn í Valhöll, þar sem hófst kl. 17:30 hóf. Var þar sus.is opnuð að nýju og nýtt útlit vefsins formlega kynnt. Er ég þar í ritstjórn og hlakka til samstarfs við aðra sem vinna að verkefninu, en það er góður hópur sem þar er samankominn. Í hófinu átti ég góð samtöl við félaga innan SUS og ennfremur þau Birgi Ármannsson alþingismann og Ástu Möller, sem situr nú á þingi í fjarveru forsætisráðherra. Var þar farið yfir stjórnmálin og fleiri málefni að auki. Við Ásta ræddum mikið saman um heimasíður og pólitísk skrif á netinu, en hún hefur nú opnað opnað vef sinn á ný. Átti ég góða stund svo í gærkvöldi með félögum mínum, þeim Kristni Má og Snorra, og var um margt að ræða. Mikið um að vera hjá Heimdalli og gaman að fræðast um stöðu mála þar og svo er pólitíkin alltaf jafn skemmtilegt umræðuefni. Þetta var virkilega góð kvöldstund.

Fór í bíó í gærkvöldi með góðum vini. Fengum okkur hressingu í Smáralind og röbbuðum vel saman, skelltum okkur svo í Smárabíó og horfðum á kvikmyndina Gothika með óskarsverðlaunaleikkonunni Halle Berry í aðalhlutverki. Ekta spennutryllir, er segir frá geðlækninum Miröndu Grey. Hún vinnur á geðspítala við ummönnun sjúklinga sem eru mjög andlega vanheilir, er ennfremur eiginkona yfirmanns geðspítalans, Douglas Grey. Kvöld eitt er hún á leið heim til sín og lendir í bílslysi og undarlegri atburðarás. Er hún vaknar, þrem dögum síðar, er hún stödd á geðspítalanum, en þá ekki sem geðlæknirinn Miranda Grey, heldur sem sjúklingurinn og morðinginn Miranda Grey. Hún man í fyrstu lítið hvað gerðist, en smátt og smátt fer atburðarásin að skýrast. Ágætis spennutryllir, sem á virkilega góð augnablik og nær vissum hápunktum, þar sem áhorfandinn tekur andköf og tvö eða þrjú augnablik, slær hjartað helmingi hraðar en ella. Margt í handritinu er einkar gloppótt. Halle Berry stendur sig afbragðsvel í aðalhlutverkinu og á stóran þátt í að myndin nær ágætishæðum. Góð mynd fyrir þá sem hafa áhuga á ekta spennumyndum.
Dagurinn í dag
* 1066 Westminster Abbey dómkirkjan í London vígð
* 1920 Þilskipið Valtýr ferst fyrir sunnan land og með því 30 manns
* 1972 Sögulegri heimsókn Nixons Bandaríkjaforseta til Kína lýkur formlega
* 1983 Alþingi samþykkir að Ó, guð vors lands, sé þjóðsöngur og sameign þjóðarinnar
* 1986 Olof Palme forsætisráðherra Svíþjóðar, myrtur á götuhorni í Stokkhólmi
Snjallyrði dagsins
This is my moment.
Aurora Greenway í Terms of Endearment
Breytt 18.9.2006 kl. 08:02 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
27.2.2004 | 13:33
Engin fyrirsögn

Greinilegt er að valdaátök eru hafin innan Framsóknarflokksins, um það hvaða ráðherra flokksins skuli víkja við ráðherrahrókeringar í september. Í umræðuþættinum Í brennidepli, um seinustu helgi lét Guðjón Ólafur Jónsson varaþingmaður flokksins, þau orð falla að Siv Friðleifsdóttir umhverfisráðherra, eigi að víkja í haust, þegar flokkurinn missir sjötta stólinn, ráðuneyti Sivjar. Hann ítrekar þessa skoðun aftur í vikunni í grein á Hriflunni, vefriti innan flokksins. Siv svarar Guðjóni Ólafi harkalega á sínum vef og segir að hann hafi á síðustu dögum tvívegis vegið opinberlega að sér. Orðrétt segir Siv á heimasíðu sinni: "Það er því greinilegt að húskarlar eru komnir á kreik." Um fyrri ummæli Guðjóns, sagði Siv þann 22. febrúar: "Kl. 20 var fréttaskýringaþáttur Páls Benediktssonar, "Í brennidepli" í Ríkissjónvarpinu þar sem rætt var við framsóknar- og sjálfstæðismenn um komandi breytingar á ríkisstjórninni þann 15. sept. n.k. Eftir þáttinn hringdu nokkrir stuðningsmenn mínir í flokknum æfir vegna ummæla sem Guðjón Ólafur Jónsson lögmaður lét falla í þættinum. Sagði ég þeim að róa sig í bili, ekki tækju allir mark á öllu sem sagt væri í sjónvarpi." Valdaátökin innan flokksins, verða sífellt sýnilegri og greinilegt að stefnir í harðvítugan slag um hver fari í haust, allir ráðherrar ætla að halda áfram og Siv ætlar að berjast fyrir því að fá annað ráðuneyti þá, á kostnað annars ráðherra.



Í pistli dagsins fjallar Hjölli um landbúnaðarráðherrann. Orðrétt segir: "Guðni Ágústsson er mikið ólíkindatól. Hann er líklega einn fyndnasti stjórnmálamaður okkar tíma, og þreytist seint á að reyta af sér brandarana. Það sem gerir Guðna svona fyndinn er að honum tekst ávallt að segja eitthvað skondið, jafnvel þótt hann sé bara alls ekkert að djóka. Eins og til dæmis nú um daginn þegar hann fór hreinlega á kostum með ummælum sínum um kúabú landsins. Samkvæmt Guðna á mjólkurframleiðsla landsins að vera byggð upp á litlum fjölskyldubúum Aðkeypt vinnuafl, stærri bú og of mikil vélvæðing er hins vegar af hinu illa. Guðni tók þó skýrt fram að mjaltavélar væru af hinu góða. Hann var samt ekki alveg nógu skýr í máli sínu, og minntist t.d. ekkert á traktora. Vonandi sker hann þó fljótlega úr um það hvort traktorar séu góð eða vond tæki, og bindur þar með enda á þá miklu óvissu sem hefur vafalaust nagað marga landsmenn síðustu daga. Það væri einnig einkar fróðlegt að heyra frá Guðna, hvernig hann hefur komist að nákvæmlega þeirri niðurstöðu sem hann lýsti svo fjálglega. Allt frá byrjun síðustu aldar hafa orðið miklar framfarir í landbúnaði á Íslandi, líkt og annars staðar. Hvatinn að öllum þeim framförum hefur verið sá sami, nefnilega hagkvæmni." Góður pistill, sem hittir beint í mark.

Horfði í gærkvöldi á kvikmyndina From Here to Eternity. Áhrifarík óskarsverðlaunamynd sem lýsir herbúðalífi bandarískra hermanna á Hawaii, skömmu fyrir hina afdrifaríku árás Japana á Pearl Harbour 7. desember 1941, í seinni heimsstyrjöldinni. Hér er sögð saga boxara er kemur nýr á staðinn örfáum vikum fyrir árásina. Hann neitar að boxa fyrir herdeildina, sökum óhapps sem hann lenti í á fyrri herstöð og orsakaði það að hann var fluttur þaðan til Hawaii. Stórkostleg eðalmynd með ógleymanlegum leikurum og mörgum frægum og einstaklega vel gerðum atriðum, sem mikið hafa verið stæld, t.d. atriðið þegar Burt Lancaster og Deborah Kerr liggja í faðmlögum í fjörunni með blossandi brimið í kringum þau og ótal önnur. Leikurinn er eins og fyrr sagði hreinlega einstakur, þá má nefna einkum þau Montgomery Clift sem fer á kostum í hlutverki hermannsins Roberts L. Prewitt, Frank Sinatra í hlutverki hins síkáta Maggio og Donna Kerr í hlutverki unnustu Prewitts, en þau fengu óskarinn fyrir stórkostlega leikframmistöðu sína. Ekki má gleyma Burt Lancaster og Deborah Kerr í hlutverkum skötuhjúanna Wardens liðþjálfa og Karen Holmes, en þau léku sennilega ekki betur á ferli sínum en í þessari einstöku mynd, nema þá einna helst Lancaster í hinu eftirminnilega óskarsverðlaunahlutverki sínu í Elmer Gantry. Ekki má heldur gleyma þeim Ernest Borgnine, Jack Warden og Philip Ober. Allir þessir fjölbreyttu og stórkostlegu leikarar fara sannarlega á kostum undir einstaklega vandaðri óskarsverðlaunaleikstjórn Fred Zinnemann, en hann var þekktur fyrir það að ná fram einstaklega vönduðum leiktilburðum hjá þeim leikurum sem störfuðu undir hans stjórn. Sannarlega forvitnileg og virkilega vönduð klassík eftir skáldsögu James Jones. Ein af hinum einstöku klassamyndum
Dagurinn í dag
* 1638 Eldgos hófst í Vatnajökli
* 1928 Togarinn Jón forseti, fórst við Stafnes - 15 drukknuðu en 10 var bjargað
* 1941 Togarinn Gullfoss frá Reykjavík, fórst út af Snæfellsnesi - 19 fórust
* 1953 Barnaskólahúsið í Hnífsdal fauk af grunni og eyðilagðist í ofsaveðri
* 1975 Hornstrandir friðlýstar formlega
Snjallyrði dagsins
My name is Lester Burnham. This is my neighborhood; this is my street; this is my life. I am 42 years old; in less than a year I will be dead. Of course I don't know that yet, and in a way, I am dead already.
Lester Burnham í American Beauty
Breytt 18.9.2006 kl. 08:02 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
26.2.2004 | 22:37
Engin fyrirsögn

Flugvél Boris Trajkovski forseta Makedóníu, hrapaði í þoku og rigningu í Stolak-fjöllum í S-Bosníu í morgun. Forsetinn fórst með vélinni ásamt mörgum af starfsmönnum sínum. Hann var á leið á ráðstefnu í Mostar í Bosníu, með forsetavélinni, er slysið átti sér stað. Trajkovski var lögfræðingur að mennt. Hann var kosinn forseti Makedóníu 1999. Togstreita milli Makedóna sem tala slavneskt tungumál og íbúa sem ættaðir eru frá Albaníu setti mikinn svip á 5 ára forsetatíð hans. Trajkovski stjórnaði fundum þegar Atlantshafsbandalagið hafði forystu um friðarsamninga árið 2001 sem bundu enda á margra mánaða vopnaviðskipti sem hindruðu eðlilegt líf borgaranna. Hann hafði þá sakað Bandalagið árið 1999 um að sinna ekki um spennuna milli tungumálahópa í Makedóníu og vandamálum eftir að 300.000 Albanar flúðu þangað. Honum var þakkað að samningar tókust við albanska uppreisnarmenn, þannig að komið var í veg fyrir borgarastríð. Á Vesturlöndum naut Trajokovski álits sem kraftmikill leiðtogi með alþjóða yfirsýn og hæfileika til að hafa góð samskipti við erlenda stjórnarerindreka og stjórnmálamenn. Sérsvið hans á forsetastóli var viðskipta- og atvinnulöggjöf.



Á frelsinu í dag eru tveir stórgóðir pistlar. Helga Árnadóttir fjallar í pistli sínum um menntamál og segir svo: "Framkvæmdastjórn Evrópusambandsins birti nýverið lista yfir bestu háskóla heimsins, sem unninn var af rannsóknaraðilum í Shanghai. Listinn var nokkuð sláandi, þar sem í allir nema 15 af topp 50 háskólunum voru bandarískir. Einu evrópsku háskólarnir sem náðu inn á topp 10 voru Oxford og Cambridge, en engir aðrir evrópskir háskólar náðu hærra en í fertugasta sæti. Yfirburðir bandarískra háskóla virðast því vera að aukast á meðan þeir evrópsku standa í stað eða visna. Í Bandaríkjunum er að finna fyrirmyndina að háskólum sem eru í senn öflugar, sjálfstæðar og vel fjármagnaðar menntastofnanir, og evrópskir menntamenn og stjórnmálamenn brjóta því heilann yfir því hver sé leiðin til að ná þeirra stöðu." Í pistli sínum fjallar Kristinn Már um menningarmál og segir svo: "Frjálshyggjumenn líta svo á að ríkisvaldið skuli ekki neyða borgarana til þess að láta eigið fé af hendi til ráðstöfunar í þá menningu og listir sem stjórnmálamönnum og þrýstihópum þóknast. Ljóst má vera að hafi einstaklingar og fyrirtæki þessa lands raunverulegan áhuga á því að leggja sitt fé í þessi verkefni þá munu þau halda áfram að starfa og jafnvel vaxa sem aldrei fyrr með tilkomu samkeppni og þeirra kosta sem einkaframtakið augljóslega hefur fram yfir opinberan rekstur. Hafi borgararnir ekki áhuga á því að leggja fé sitt í þessa starfsemi og þá menningu sem hið opinbera ákveður að halda úti er ljóst að þeir hafa ekki raunverulegan áhuga á því sem ríkið neyðir þá til að fjármagna að svo stöddu."

Horfði í gærkvöldi á hina mögnuðu óskarsverðlaunamynd Patton. Stórkostleg óskarsverðlaunamynd sem er ein af allra bestu kvikmyndum áttunda áratugarins. Í henni er lýst á einkar mikilfenglegan og stórbrotinn hátt reisn og falli hershöfðingjans umdeilda George S. Patton, en hann var einn af allra snjöllustu herarkitektum seinni heimsstyrjaldarinnar og átti einna stærstan hlut að máli að sigur vannst á Nasistaríki Adolf Hitlers og veldi hans. Í myndinni er fylgst með herdeild hans og stórum sigrum allt frá innrásinni í Norður-Afríku, Sikiley og Ítalíu uns hann féll loks í ónáð fyrir augnabliksbræði. Stríðsmyndir gerast ekki mikið betri og verð ég að segja í fullri hreinskilni að mér finnst þessi mynd ein af þeim allra bestu þeirrar gerðar, bæði að gæðum, leik og ekki síst söguígildi sitt. Óskarsverðlaunaleikstjórn Franklins Schaffners er í engu ábótavant, hvort heldur sem um er að ræða miklar sögulegar stríðssenur eða þá mjög svipmiklar nærmyndir af hinni einstaklega litríku persónu hershöfðingjans sem George C. Scott túlkar á hreint einstaklega góðan hátt, en hann hlaut óskarinn fyrir leik sinn. Kvikmyndatakan er einnig mjög eftirminnileg og myndin öll, frá einu af allra sterkustu upphafsatriðum kvikmyndasögunnar, hinni einstaklega góðu sex mínútna einræðu hershöfðingjans, allt til loka ferils hans, er ein af allra eftirminnilegustu upplifunum kvikmyndasögunnar.

Eftir að hafa horft á stórmyndina Patton, var litið á Pressukvöld Ríkissjónvarpsins. Þar var Geir H. Haarde fjármálaráðherra og varaformaður Sjálfstæðisflokksins, gestur þriggja fréttamanna. Var víða farið í hálftímalöngu spjalli, en mest snerist umræðan um væntanlegar hrókeringar í ríkisstjórninni í september. Sagðist hann ætla að gefa kost á sér til formennsku flokksins ef Davíð Oddsson kýs að hætta sem formaður á næsta landsfundi. Hann sagðist ennfremur ekki útiloka að hafa áhuga á að taka við utanríkisráðuneytinu í haust. Geir sagði að það væri alls ekki sjálfgefið að hann ætti tilkall til formannssætisins. Þeir sem hefðu áhuga á að bjóða sig fram ættu að gera það og svo væri það flokksmanna að ákveða, hver hlyti embættið, ef það myndi losna. Eins og heyrst hefur á spjallþáttum seinustu daga, er ekkert fararsnið á Davíð Oddssyni úr stjórnmálum, og því allar svona spekúlasjónir ótímabærar að mínu mati.
Dagurinn í dag
* 1930 Stóra bomban - grein eftir Jónas Jónsson birtist í Tímanum og leiddi til mikilla deilna
* 1986 Ferdinand Marcos hrakinn frá völdum á Filippseyjum eftir 20 ára einræðisstjórn
* 1989 Íslenska landsliðið í handbolta sigraði í B-heimsmeistarakeppninni í París í Frakklandi
* 1993 Sprengjutilræði í World Trade Center í New York - turnunum var grandað árið 2001
* 2000 18. Heklugosið á sögulegum tíma hófst - því var spáð með 18 mínútna fyrirvara
Snjallyrði dagsins
Look, I don't teach you about teachin'. Don't teach me about ducks.
Sadie í A Letter to Three Wives
Breytt 18.9.2006 kl. 08:02 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)