14.4.2004 | 06:14
Engin fyrirsögn

George W. Bush forseti Bandaríkjanna, flutti ræðu um stöðu mála í Írak og sat í kjölfar þess fyrir svörum á blaðamannafundi í Hvíta húsinu í nótt að íslenskum tíma. Kom fram í ræðunni að hann teldi verk bandarískra hersveita í Írak ekki lokið og sagði mikilvægt að koma á stöðugleika þar og leiða þjóðina seinustu skrefin í átt til lýðræðis. Sagði Bush að Bandaríkjamenn muni standa við fyrri loforð um að láta völdin í landinu í hendur heimamanna 1. júlí nk. Forsetinn sagði ennfremur að ríkisstjórn hans hafi skýra áætlun um hvernig taka skuli á málum í Írak, og mikilvægt væri að halda áfram á sömu braut til að tryggja virkt lýðræði í landinu og heiðarlega stjórnarhætti er heimamenn taka við forystu sinna mála. Er þetta í tólfta skiptið á kjörtímabilinu sem forsetinn heldur blaðamannafund í Hvíta húsinu, sem er mun lægri tala blaðamannafunda en hjá forverum hans á forsetastóli hin seinni ár. Líklegt er að blaðamannafundurinn sé haldinn til að skýra stefnu ríkisstjórnarinnar í málefnum Íraks og ennfremur til að forsetinn geti tjáð sig ítarlega um stöðuna í Írak. Mikilvægt er að forsetinn tjái sig um þessi mál og svari spurningum fréttamanna, til að tjá skoðanir sínar og stjórnarinnar.



Í dag birtist á frelsinu uppfærð staða í Frelsisdeildinni. Í umfjöllun um stöðu mála nú segir: "Pétur H. Blöndal hefur forystu nú þegar lokaspretturinn er að hefjast í Frelsisdeildinni. Hann leiðir nú með 11 stig en Guðlaugur Þór og Sigurður Kári koma næstir með sex og fimm stig. Einar Kristinn sem var í öðru sæti hefur nú fallið í það fjórða en hann hefur ekki bætt við sig stigi frá síðustu umferð. Nú hafa flest þau mál sem afgreidd verða á þessu þingi verið lögð fram og því snýr lokabaráttan aðallega að því að fá góðu málin samþykkt. Góðar breytingartillögur gætu þó reynst drjúgar." Ennfremur kemur fram: "Nokkrir þingmenn tóku sig saman og fluttu frumvarp um afnám opinberrar birtingar álagningarskráa. Þetta voru þau Sigurður Kári Kristjánsson, Birgir Ármannsson, Bjarni Benediktsson, Guðlaugur Þór Þórðarson, Gunnar Birgisson, Guðjón Hjörleifsson, Einar Oddur Kristjánsson, Arnbjörg Sveinsdóttir, Guðmundur Hallvarðsson, Sólveig Pétursdóttir, Pétur H. Blöndal, Drífa Hjartardóttir og Halldór Blöndal. Heimdallur hefur lengi barist fyrir afnámi slíkra birtinga og er frumvarpið því sérstakt ánægjuefni." Það verður spennandi að sjá hver vinnur Frelsisdeildina og fær farandbikar til varðveislu í eitt ár.

Í gær kvöddum við í fjölskyldunni hinstu kveðju okkar ástkæru Kristínu Jensdóttur, eða Stínu, eins og hún var ávallt kölluð. Hún lést 4. apríl sl. Stína var eiginkona ömmubróður míns, Kristjáns Stefánssonar. Var sól og blíða hér á Akureyri á útfarardegi hennar og kom mikill hópur fólks saman í Akureyrarkirkju til að kveðja Stínu. Sannaðist þar endanlega að þau hjón höfðu eignast gríðarlega stóran og fjölmennan vinahóp, þau voru gríðarlega trygglynd. Allt frá bernskuárum mínum hafa Kiddi og Stína verið mér mjög kær og verður seint hægt að þakka til fulls allt það góða sem þau hafa gert fyrir mig. Þau hafa alla tíð verið stoð og stytta og eru samverustundir fyrri ára mjög kærar í minningunni. Athöfnin var í senn látlaus en virðuleg. Tónlistin var vel valin, t.d. forspilið var Intermezzo úr óperunni Cavalleria Rusticana, var það vel í takt við tónlistaráhuga þeirra hjóna, en þau hafa alla tíð verið miklir óperuunnendur. Eftir athöfnina var erfidrykkja í safnaðarheimilinu og kom þar saman mikill fjöldi fólks. Gullý frænka, býr á Spáni og Kristján yngri í Frakklandi, og var virkilega gaman að hitta þau og fjölskyldur þeirra, yfir páskana, og ræða saman. Seinnipartinn hittumst við svo öll í Víðilundi og borðuðum saman. Á svona stundum sér maður best hvað fjölskylda getur verið samhent og sterk. Ekkert jafnast á við traust fjölskyldubönd. Í gær var ár liðið frá því ég flutti í íbúðina í Þórunnarstrætinu og um kvöldið bauð ég nokkrum vinum til mín og áttum við góða stund að loknum löngum degi.
Dagurinn í dag
1865 Abraham Lincoln 16. forseti Bandaríkjanna, myrtur í leikhúsi í Washington
1914 Farþegaskipið Titanic ferst í jómfrúrsiglingu sinni við Nýfundnaland - 1500 manns fórust
1963 Hrímfaxi, flugvél Flugfélags Íslands, fórst í Noregi - Anna Borg leikkona, lést í slysinu
1987 Flugstöð Leifs Eiríkssonar á Suðurnesjum, vígð að viðstöddum þrjú þúsund gestum
1992 Ráðhús Reykjavíkurborgar vígt við hátíðlega athöfn - það var fjögur ár í byggingu
Snjallyrði dagsins
Allt sem þér viljið, að aðrir menn gjöri yður, það skulið þér og þeim gjöra.
Jesús Kristur
Breytt 18.9.2006 kl. 08:02 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
13.4.2004 | 19:55
Engin fyrirsögn

Nýlega birtist á vefritinu deiglan.com, pistill eftir Svövu Björku Hákonardóttur fyrrum stjórnarmann í Heimdalli, þar sem hún fjallar um Samband ungra sjálfstæðismanna og það hvernig blasir við henni að vera ungliði í Sjálfstæðisflokknum. Orðrétt segir hún í þessum dæmalausa pistli sínum: "Er SUS orðið að stofnun í huga ungs fólks með kosningarétt - skýrir það ef til vill lök kosningaúrslit sjálfstæðisflokksins meðal ungs fólks undanfarið? Eru breytingar innan SUS nauðsyn - er eitt svitaband ekki nóg, þurfum við fleiri svitabönd? Eða jafnvel viðameiri uppstokkun en að svitabandið verði hinn nýji vasaklútur, hin nýja slaufa innan raða ungra sjálfstæðismanna?". Undarlegt er að þessi orð séu skrifuð af manneskju sem hefur verið virk í ungliðahreyfingunni eða þekkir eitthvað til þar. Hef ég persónulega starfað innan Sjálfstæðisflokksins í pólitískum störfum til fjölda ára, bæði í sveitarstjórnarmálum og svo á landsvísu, t.d. fyrir SUS og sit nú í stjórn þess. Á þeim tíma sem ég hef sýnt því áhuga að láta að mér kveða þar eða unnið af krafti að þessu áhugamáli hef ég kynnst fjölda fólks með sama áhuga og ég og vilja til að vinna að því að tjá skoðanir sínar. Það er langur vegur frá því að um lokaðan klúbb sé að ræða. Allir sem áhuga hafa og vilja til að taka þátt í pólitískum skoðanaskiptum eiga erindi í ungliðahreyfinguna, hún er opin öllum. Fjarri er að allir þar séu steyptir í eitt mót, séu bara menn í jakkafötum. Sjálfur tel ég mig vera virkan í ungliðahreyfingunni og seint verð ég þekktur fyrir að vera ímynd jakkafatamanns. Ungt fólk hefur sameinast þar um að vinna að framgangi sjálfstæðisstefnunnar og taka þátt í starfinu. Fyrir mig skiptir það eitt máli að berjast fyrir skoðunum mínum og taka þátt í því að tjá þær. Hvet ég alla þá sem áhuga hafa til að láta að sér kveða í flokknum að skella sér í starfið á fullu innan ungliðahreyfingarinnar. Allir sem áhuga hafa á pólitík, eiga þar sannkallað erindi.



Í ítarlegum pistli á frelsinu í dag svara ritstjórar vefsins, skrifum ritstjóra ungkratavefsins politik.is. Orðrétt segir í pistli Kidda og Snorra: "Hinn geðþekki ritstjóri politik.is hefur ritað nokkrar athugasemdir vegna fréttar sem birtist í vettvang hér á síðunni. Eins og oft vill verða með málflutning samfylkingarinnar er hann í senn skemmtilegur og efnislega rangur. Fyrst kýs Magnús að gera athugsemdir við það að enginn setji nafn sitt við fréttina. Sú athugasemd hans virðist engum tilgangi þjóna öðrum en þeim að gera greinina tortryggilega. Mörg af stærstu dagblöðum og tímaritum heimsins birta ekki greinar undir nafni. Það er alveg ljóst hver ber ábyrgð á þeim skrifum enda gilda um það sérstakar reglur. Hefði Magnús ekki misst stjórn á sér í öllum æðibunuganginum hefði hann kannað hverjir eru ábyrgðarmenn vefsins." Ennfremur er athyglisverð umfjöllun um skattadaginn í Bandaríkjunum, sem var sl. sunnudag.
Páskahelgin var virkilega góð og sannkölluð afslöppun og notið lífsins. Í gærkvöldi horfðum við á óskarsverðlaunamynd meistara David Lean, The Bridge on the River Kwai. Er óhætt að fullyrða að slíkt gæðabíó sé hinn fullkomni endir á góðri helgi. Brúin yfir Kwai-fljótið er ein besta mynd sjötta áratugarins. Segir frá breskum stríðsföngum í seinni heimsstyrjöldinni, sem er falið það verkefni af japönskum yfirboðurum að reisa brú yfir Kwai fljótið á Austur Indlandsskaganum. Verkinu er stjórnað af Nicholson ofursta, og unnið af ekta breskum metnaði. Svo vel tekst Bretunum verk sitt að þeir fá við gerð brúarinnar unnið traust Japananna. Það sem Bretarnir vita þó ekki er, að á meðan þeir vinna hörðum höndum við gerð brúarinnar, er unnið á öðrum stöðum að því að eyðileggja hana. Stórfengleg mynd sem skartar mögnuðum leik. Sir Alec Guinness var aldrei betri en í hlutverki Nicholsons. Ennfremur eiga William Holden, Sessue Hayakawa og Jack Hawkins stórleik. Myndin var tilnefnd til átta óskarsverðlauna, en hlaut alls sjö. Var valin besta mynd ársins, Guinness sem leikari í aðalhlutverki, kvikmyndatöku, kvikmyndaklippingu, tónlist og handrit. Sir David Lean hlaut óskarinn fyrir leikstjórn sína. Var ennfremur tilnefnd fyrir leik Hayakawa í hlutverki Saito ofursta. Mynd sem verður mörgum eftirminnileg vegna litríks leiks aðalleikaranna og ekki síst vegna titilstefsins, Colonel Bogey March, hins fræga blísturstefs sem hvert mannsbarn kunni á sínum tíma og kann reyndar enn, enda eitt eftirminnilegasta kvikmyndastef 20. aldarinnar. Eðalmynd.
Dagurinn í dag
1203 Guðmundur Arason, hinn góði, vígður Hólabiskup - hann sat í 34 ár
1844 Jón Sigurðsson kjörinn á þing - hann var lengi forseti þingsins og sat þar til 1879
1964 Sidney Poitier hlaut óskarsverðlaun fyrir leik í aðalhlutverki, fyrstur þeldökkra leikara
1972 Jóhannes Sveinsson Kjarval listmálari, lést 86 ára að aldri
1998 Allir bankastjórar Landsbankans sögðu af sér í kjölfar hneykslismáls
Snjallyrði dagsins
Allir vilja lifa lengi, en enginn verða gamall
Benjamin Franklin
Breytt 18.9.2006 kl. 08:02 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
13.4.2004 | 15:03
Engin fyrirsögn

Í dag kvöddum við í fjölskyldunni hinstu kveðju okkar ástkæru Kristínu Jensdóttur, eða Stínu, eins og hún var ávallt kölluð. Hún lést 4. apríl sl. Stína var eiginkona ömmubróður míns, Kristjáns Stefánssonar. Var sól og blíða hér á Akureyri á útfarardegi hennar og kom mikill hópur fólks saman í Akureyrarkirkju til að kveðja Stínu. Sannaðist þar endanlega að þau hjón höfðu eignast gríðarlega stóran og fjölmennan vinahóp, þau voru gríðarlega trygglynd.
Allt frá bernskuárum mínum hafa Kiddi og Stína verið mér mjög kær og verður seint hægt að þakka til fulls allt það góða sem þau hafa gert fyrir mig. Þau hafa alla tíð verið stoð og stytta og eru samverustundir fyrri ára mjög kærar í minningunni. Athöfnin var í senn látlaus en virðuleg. Tónlistin var vel valin, t.d. forspilið var Intermezzo úr óperunni Cavalleria Rusticana, var það vel í takt við tónlistaráhuga þeirra hjóna, en þau hafa alla tíð verið miklir óperuunnendur. Eftir athöfnina var erfidrykkja í safnaðarheimilinu og kom þar saman mikill fjöldi fólks. Gullý frænka, býr á Spáni og Kristján yngri í Frakklandi, og var virkilega gaman að hitta þau og fjölskyldur þeirra, yfir páskana, og ræða saman. Seinnipartinn hittumst við svo öll í Víðilundi og borðuðum saman.
Á svona stundum sér maður best hvað fjölskylda getur verið samhent og sterk. Ekkert jafnast á við traust fjölskyldubönd. Við leiðarlok kveðjum við Stínu með virðingu - hún var einstök að öllu leyti. Kiddi minn á erfiða tíma framundan við að horfast í augu við tilveruna án Stínu - þau voru eitt í öllu tilliti í hálfa öld. Ég dáðist að því hversu vel hann hugsaði um Stínu í veikindum sínum - en þrátt fyrir að hún væri illa haldin af Alzheimer-sjúkdómnum sinnti hann henni heima allt til þess síðasta er hún varð að leggjast inn á sjúkrahús nokkrum vikum fyrir lokin. Þá sá ég hversu sterk og öflugu ást getur verið. Kiddi dýrkaði Stínu meira en allt annað og ást þeirra var svo gríðarlega sterk. Kiddi sannaði fyrir mér þá betur en nokkru sinni áður hvað hann er sterkur persónuleiki.
Við styðjum hann áfram eftir þessi þáttaskil í ævi sinni. Minningin um einstaka konu mun lifa í huga okkar allra sem unnum henni.
Breytt 18.9.2006 kl. 08:02 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
12.4.2004 | 06:07
Engin fyrirsögn

Seinustu vikuna hefur mikið verið rætt í fjölmiðlum um úrskurð kærunefndar jafnréttismála í máli Hjördísar Bjarkar Hákonardóttur gegn ríkinu vegna ráðningar hæstaréttardómara. Inn í þá umræðu hafa blandast ummæli Björns Bjarnasonar dómsmálaráðherra, að jafnréttislögin séu barn síns tíma. Í fréttatíma Ríkissjónvarpsins í gærkvöldi tók Davíð Oddsson forsætisráðherra, undir ummæli Björns. Hann sagði í viðtali við fréttamann að greinilegt væri að kærunefnd jafnréttismála taki ekki mið af dómum Hæstaréttar sem hafi snúið niðurstöðu hennar. Þarna er forsætisráðherra að vísa til tveggja umdeildra mála sem fóru fyrir kærunefndina undanfarin ár. Annarsvegar í máli þar sem utanríkisráðherra, sem settur dómsmálaráðherra, skipaði sýslumann á Keflavíkurflugvelli árið 2001. Hinsvegar í máli Valgerðar Bjarnadóttur sem þáverandi formanns leikhúsráðs Leikfélags Akureyrar, við ráðningu leikhússtjóra á Akureyri. Hann sagði greinilegt að störf kærunefndarinnar tæku sífellt á sig undarlegri blæ. Athygli hefur vakið að kærunefndin segir í úrskurðinum að vegna þess að einungis tvær konur eigi sæti í Hæstarétti væri eðlilegt að Hjördís skyldi skipuð til setu í réttinum. Það er algjör tímaskekkja að skipað sé í stöður einvörðungu eftir kynjastaðli, en aðrir þættir komi ekki að við ákvörðun um skipun í stöður. Tek ég undir með forsætis- og dómsmálaráðherra að vinnubrögð kærunefndarinnar séu allundarleg.


Í góðum pistli sínum í dag á frelsinu, fjallar Atli Rafn um Evrópumálin í kjölfar þeirrar undarlegu ákvörðunar ungra framsóknarmanna í Reykjavíkurkjördæmi suður að skora á ríkisstjórnina að sækja um aðild að Evrópusambandinu. Orðrétt segir: "EES-samningurinn er eitt mesta framfara skref sem tekið hefur verið í íslenskum stjórnmálum síðari ára. Samningurinn tryggir íslenskum fyrirtækjum og einstaklingum aðgang að mörkuðum í Evrópu, en hann er þó ekki gallalaus. Hins vegar með aðild að ESB yrðu teknir upp á Íslandi allir verstu ókostir sambandsins. Fátt bendi til annars en að aðildin myndi leiða til aukinnar miðstýringar, hærri skatta og minni áhrifa einstaklinga á líf sitt hér á landi. Áskorun ungra framsóknarmanna í Reykjavíkurkjördæmi suður til ríkisstjórnarinnar að hún taki upp aðildarviðræður við ESB hið fyrsta er undarleg. Ungir framsóknarmenn geta að vild barist fyrir aðild Íslands að ESB, þótt sú skoðun sé hæpin. Hins vegar er barátta fyrir aðildarviðræðum kjánaleg. Ríkisstjórnin getur ekki „tekið upp“ aðildarviðræður bara til að athuga hversu margar undantekningar megi fá frá reglum ESB, eins og ungir framsóknarmenn virðist telja. Skýr og einbeittur vilji ríkisstjórnar til aðildar verður að fylgja máli, en hann er ekki fyrir hendi einmitt vegna annmarka á stefnu ESB í veigamiklum málum."
Dagurinn í dag
1540 Prentun Nýja testamentisins lauk - elsta íslenska bókin sem varðveist hefur
1919 Snjóflóð féll við Siglufjörð og sópaði með sér fjölda bygginga - 9 manns létust
1928 Alþingi samþykkti að Þingvellir við Öxará skyldu verða friðlýstur helgistaður Íslendinga
1945 Franklin Delano Roosevelt, 32. forseti Bandaríkjanna, deyr í Warm Springs í Georgíu-fylki
1961 Júrí Gagarín fer fyrstur manna út í geiminn - Gagarín lést í flugslysi árið 1968
Snjallyrði dagsins
Government, even in its best state, is but a necessary evil, and in its worst state, an intolerable one.
Thomas Paine
Breytt 18.9.2006 kl. 08:02 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
11.4.2004 | 21:51
Engin fyrirsögn

Umdeild kvikmynd Mel Gibson "The Passion of the Christ" sem fjallar um síðustu klukkustundirnar í lífi Jesú Krists, var frumsýnd hérlendis fyrir nokkrum vikum. Sá ég myndina skömmu eftir frumsýningu hennar og hafði hún nokkur áhrif á mig rétt eins og aðra sem hana hafa séð um allan heim. Myndin hefur vakið mikil og sterk viðbrögð kirkjunnar manna og trúarsamtaka af ýmsum toga. Það hafa einkum verið þrýstihópar gyðinga sem gagnrýnt hafa myndina og lýst yfir því að þeir óttist að hún ýti undir gyðingahatur vegna þess að í henni sé gefið í skyn að gyðingar hafi borið ábyrgð á dauða Krists. Myndin hefur slegið í gegn hérlendis, jafnt sem annarsstaðar í heiminum. Nú þegar hafa hátt í 20.000 Íslendingar séð hana. Sérstakt er við myndina að allt talað mál í henni er á arameísku, sem er tunga Hebrea, og ennfremur latínu, móðurmál Rómverja. Um er að ræða tungumál sem enginn talar lengur eða eru lítið útbreidd. Öll umgjörð myndarinnar er í hæsta gæðaflokki. Andrúmsloftið er magnað frá upphafi til enda og áhorfandinn kynnist vel þeirri þraut sem Kristur gekk í gegnum. Að mínu mati er nauðsynlegt að fólk sjái þessa mynd og fái raunsanna mynd af atburðum þeim sem leiddu til krossfestingar Krists á Golgata hæð fyrir tæplega 2000 árum. Hvet ég alla sem þetta lesa og ekki hafa séð myndina að fara og sjá hana. Vel viðeigandi er að fara nú á páskum, upprisuhátíð Krists.


Í sunnudagspistli mínum á páskum 2004, fjalla ég ítarlega um úrskurð kærunefndar jafnréttismála vegna ráðningar hæstaréttardómara í ágúst 2003, viðbrögð við ummælum dómsmálaráðherra um jafnréttislögin og undarleg vinnubrögð Femínistafélagsins til að vekja máls á skoðunum sínum. Sú forræðishyggja í jafnréttismálum sem Femínistafélagið hefur viljað standa vörð um, er vægast sagt óskiljanleg. Það er að mínu mati jafnréttisumræða á algjörum villigötum að ætla að stjórna öðru fólki og ganga að rétti annarra til að taka ákvarðanir fyrir sjálft sig um daglegar athafnir sínar. Það kemur ekki á óvart að Femínistar taki þann pól í hæðina að berjast gegn sjálfsögðum mannréttindum kvenna eða annarra að taka þátt í þeim keppnum sem viðkomandi vill taka þátt í og almennt vinna gegn því að fólk hafi frelsi til að velja fyrir sjálft sig. Ennfremur fjalla ég um málefni RÚV í ljósi þess að stjórn Sambands ungra sjálfstæðismanna samþykkti ályktun þar sem hækkun afnotagjalda er mótmælt. Að lokum skrifa ég um umdeilda kvikmynd Mel Gibson, The Passion of the Christ, í tilefni páskahátíðarinnar, en tæplega 20.000 Íslendingar hafa séð myndina.
Dagurinn í dag
1912 Samið við fiskverkakonur í Hafnarfirði eftir mánaðarverkfall - fyrsta verkfall ísl. kvenna
1946 Fyrstu jazztónleikarnir á Íslandi, voru haldnir í Gamla bíói í Reykjavík
1959 Rannveig Þorsteinsdóttir öðlaðist rétt til að flytja mál fyrir Hæstarétti, fyrst ísl. kvenna
1983 Sir Ben Kingsley hlaut óskarinn fyrir túlkun sína á frelsishetju Indverja, Mahatma Gandhi
1988 Sir Sean Connery hlaut óskarinn fyrir leik sinn í kvikmyndinni The Untouchables
Snjallyrði dagsins
Til sannrar þekkingar er gott hjartalag nauðsynlegt.
Sveinbjörn Egilsson
Ég sendi lesendum vefsins bestu óskir mínar um gleðilega páskahátíð!
Breytt 18.9.2006 kl. 08:02 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
10.4.2004 | 18:33
Engin fyrirsögn

Samkvæmt nýrri könnun Gallups njóta fréttastofur Ríkisútvarpsins mests trausts meðal landsmanna. Greinilegt er á útkomu þessarar könnunar að æsifréttamiðlarnir njóta mun minna trausts. Fréttastofur RÚV njóta trausts rúmlega 90% landsmanna og mælast með einkunnina 4,4 af 5 mögulegum. Morgunblaðið nýtur trausts 83% landsmanna og hefur 4,1 í einkunn. Næst kemur fréttastofa Stöðvar 2 og Bylgjunnar með 72% og 3,7. Neðst koma dagblöð Norðurljósa: Fréttablaðið með 59% og 3,5 í einkunn og loks DV með 17% og 2,2. Kemur það ekki á óvart að DV sé langneðst og gersamlega rúið trausti eftir það sem á undan hefur gengið í fréttamennsku þess snepils. Fjallaði ég um starfshætti DV í sunnudagspistli mínum 28. mars sl. og sagði þá orðrétt um blaðið: "Það er að verða daglegt brauð að á forsíðu DV séu myndir af fólki sem er undir grun fyrir hin ýmsu mál. Er þetta nær einvörðungu byggt á málum sem ekki hefur verið dæmt fyrir og því aðeins um að ræða málefni á rannsóknarstigi og því aðeins æsifréttamennska. Hefur blaðið oft lent á hálu svelli vegna slíkra mála og trúverðugleiki þess ekki talinn mikill, enda tel ég að svona blöð geti ekki gengið með góðu móti í landi á borð við okkar, þar sem allir þekkja alla og nálægðin er meiri en ella. Svona lágkúrufréttamennska eins og DV hefur reynt að gera fína og flotta á ekkert erindi hérlendis."


Höfum haft það rólegt og gott yfir hátíðirnar. Horfðum í gærkvöldi enn einu sinni á hið magnaða meistaraverk Curtis Hanson, L.A. Confidential. Er byggð á samnefndri skáldsögu metsöluhöfundarins James Ellroy og gerist í Los Angeles á fyrri hluta sjötta áratugarins. Út á við er þetta draumaborgin þar sem glæsileiki, frægð og auður er einkennandi fyrir alla þá sem í henni búa og enginn er maður með mönnum nema hann eigi eitthvað undir sér. En á bak við allt glysið leynist annar heimur með öllu alvarlegra andlit. Þetta er heimur þar sem spilling, svik og prettir eru daglegt brauð, heimur fólks sem er tilbúið að gera hvað sem er til að koma sér áfram og viðhalda ímynd sinni og stöðu í þessu yfirborðskennda efnishyggjusamfélagi, þar sem jafnvel lögreglan er flækt í spillingarvefinn meira en góðu hófi gegnir. En hlutirnir eru um það bil að fara að breytast. Hrottalegt fjöldamorð er framið inni á litlum veitingastað og í ljós kemur að einn hinna myrtu var lögreglumaður. Hvað hann var að gera þarna er félaga hans í lögreglunni, Bud White, hulin ráðgáta, enda bendir allt til þess að hann hafi verið flæktur í eitthvert glæpsamlegt atferli. Bud ákveður því að hefja rannsókn á málinu upp á eigin spýtur og kemst fljótlega að því að þar með er hann búinn að stinga sér út í lífshættulegt hyldýpi svika og morða þar sem enginn er óhultur. Um leið neyðist hann til að glíma við aðra félaga sína í lögreglunni sem gætu allt eins verið illa í málið flæktir. Það er því annaðhvort að hrökkva, eða stökkva í djúpu laugina... Hér smellur allt saman til að skapa hið ógleymanlega meistaraverk. Russell Crowe, Kevin Spacey, James Cromwell, Danny DeVito, Guy Pearce og Kim Basinger (sem hlaut óskarinn fyrir leik sinn) fara öll á kostum. Eðalmynd.
Dagurinn í dag
1886 Magnús Stephensen skipaður landshöfðingi - hann sat þar til heimastjórn tók við árið 1904
1940 Alþingi fól ríkisstjórn Íslands konungsvald eftir að Þjóðverjar hernámu Danmörk
1971 Ben Johnson og Cloris Leachman hlutu óskarinn fyrir leik sinn í The Last Picture Show
1979 Ólafslög samþykkt á þingi - þau voru kennd við Ólaf Jóhannesson forsætisráðherra
1998 Friðarsamningar kenndir við föstudaginn langa undirritaðir á N-Írlandi
Snjallyrði dagsins
Þeir vita það best, hvað vetur er, sem vorinu heitast unna.
Davíð Stefánsson skáld
Breytt 18.9.2006 kl. 08:02 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
9.4.2004 | 13:24
Engin fyrirsögn

Í dag er ár liðið frá því að endi var bundinn á 24 ára stjórnartíð Saddams Hussein. Valdakerfi hans hrundi eins og spilaborg í kjölfar innrásar Bandamanna í Írak í mars 2003. Ægivald hans á höfuðborginni Bagdad og íbúum hennar leið undir lok með dramatískum hætti í beinni útsendingu sjónvarpsstöðva. Ekki leið á löngu frá því að herir Bandamanna héldu inn í borgina, þar til spurðist út að ægivald einræðisherrans væri ekki lengur til staðar og hann flúinn. Í kjölfar þess héldu íbúar í Bagdad út á götur og fögnuðu þessum miklu þáttaskilum. Fólk tók að safnast saman á Firdos-torg þar sem stóð risastór stytta af einræðisherranum fallna. Hin sjö metra háa bronsstytta var felld af stalli, í beinni útsendingu fréttastöðva um allan heim, var það hin táknræn mynd endaloka einræðisstjórnarinnar. Hún var dregin niður með bandarískum herbíl og féll til jarðar með dramatískum hætti. Þegar styttan féll fögnuðu viðstaddir og hoppuðu á henni. Síðar var höfuðið brotið af og viðstaddir drógu það á eftir sér um torgið. Með falli styttunnar urðu tímamót í Írak og stríðinu þar. Einræði leið undir lok og hægt var að feta í átt til lýðræðis í landinu. Enginn saknar einræðisherrans sem náðist á flótta um Írak í desember 2003, og að því mun koma fljótlega að yfir honum verði réttað vegna verka hans og einræðistilburða.


Í dag birtist á frelsinu pistill eftir Kristinn Má um sjálfseignarréttinn. Þar segir svo: "Ástæðurnar fyrir því að þorri allra manna játar sjálfseignarréttinn en kýs gjarnan í almennum kosningum menn sem tilbúnir eru til að brjóta gegn honum eru ekki augljósar. Áhugavert væri að rannsaka þær sérstaklega. Vera kann að þar ráði íhaldssemi nokkru um. Ekki er útilokað að það sem áður hefur verið nefnt um að menn telji að ekki sé í raun verið að brjóta gegn sjálfseignarréttinum. Mörg vígorð eru notuð af vinstrimönnum gegn frjálshyggjunni. Meðal þeirra eru alþekktir frasar á borð við græðgi og trúarkreddur! Vitaskuld er ekkert hæft í slíkum upphrópunum. Virðingin fyrir sjálfseignarréttinum er ekki stefna græðgi eða valda heldur virðingar fyrir fólki. Baráttan fyrir frelsinu er laus við hroka og valdníðslu, hún er þvert á móti umbóta- og mannúðarstefna. Treystum fólki til þess að ákvarða um eigin hag og virðum rétt þeirra til að eiga sig sjálft."
Dagurinn í dag
1869 Kristján Jónsson Fjallaskáld lést, 26 ára - þekktasta kvæði hans er Yfir kaldan eyðisand
1962 Sophia Loren hlaut óskarinn fyrir leik sinn í kvikmyndinni Two Women
1979 Jane Fonda og Jon Voight hlutu óskarinn fyrir leik sinn í Coming Home
1984 Shirley MacLaine og Jack Nicholson hlutu óskarinn fyrir leik sinn í Terms of Endearment
2003 Einræðisstjórn Saddams Husseins fellur - risastytta af Saddam felld í Bagdad
Snjallyrði dagsins
Til eru tvenns konar menn í þessum heimi: sá sem fer á undan og gerir eitthvað og hinn sem kemur á eftir og gagnrýnir
Seneca
Breytt 18.9.2006 kl. 08:02 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
8.4.2004 | 17:42
Engin fyrirsögn

Dr. Condoleezza Rice þjóðaröryggisráðgjafi Bandaríkjastjórnar, bar vitni fyrir bandarískri þingnefnd í dag, sem rannsakar aðdraganda hryðjuverkaárásanna á Bandaríkin 11. september 2001. Kom fram í vitnisburði hennar að Bush forseti hefði gert sér grein fyrir hættunni, sem stafaði af hryðjuverkasamtökunum al-Qaeda um leið og hann tók við embætti forseta Bandaríkjanna, þann 20. janúar 2001. Sagði hún í vitnisburði sínum að það hefði verið fyrsta stóra stefnumörkun forsetans í embætti í þjóðaröryggismálum að grípa til aðgerða til að útrýma samtökunum. Ríkisstjórnin hefur sætt harðri gagnrýni að undanförnu fyrir að hafa vanmetið hættuna, sem bæði stafaði af al-Qaeda og Osama bin Laden. Orðrétt sagði dr. Rice: "Bush forseti gerði sér grein fyrir ógninni. Hann gerði okkur ljóst, að hann vildi ekki bregðast við árásum al-Qaeda einni af annarri og sagði mér að hann væri orðinn þreyttur á að 'drepa flugu' ". Yfirlýsing Rice er í öllum meginatriðum andstæð framburði Richard Clarke, sem áður stýrði aðgerðum forsetaembættisins gegn hryðjuverkastarfsemi. Clarke sagði sömu þingnefnd í vitnisburði fyrir hálfum mánuði að Bush hefði ekki talið al-Qaeda vera alvarlega ógnun við þjóðaröryggi Bandaríkjanna fyrr en eftir hryðjuverkaárásirnar.


Í dag birtist á frelsinu góður pistill eftir Snorra um jafnstöðulögin. Orðrétt segir: "Markmið laganna er að koma á og viðhalda jafnrétti og jöfnum tækifærum kvenna og karla og jafna þannig stöðu kynjanna á öllum sviðum samfélagsins svo sem segir í 1. gr laganna. Markmiðið er í eðli sínu mótsagnarkennt þar sem sitt er hvað jafnrétti og jafnstaða en hvort tveggja felst í markmiðslýsingunni. Þegar keppt er að einhverju hlutfalli er í mörgum tilvikum óhjákvæmilegt að hunsa jafnréttissjónarmið. Það getur ekki alltaf farið saman að allir skuli hafa jafnan rétt óháð kynferði og að jafna skuli hlutföll kynjanna, annað verður undan að láta. Jafnstöðumarkmið laganna eru því óeðlileg andstætt jafnréttismarkmiðinu. Það er ekki þar fyrir að hlutföll kynjanna geti ekki orðið jöfn. Sé jafnrétti við lýði er líklegra en hitt að hlutföllin muni smám saman jafnast út. Þegar lagt er af stað með jafnrétti vita allir að hverju þeir ganga, fólkið veit þá að það verður metið að verðleikum. Hver og einn ætti því að geta stefnt að sínum markmiðum óhikað, vitandi það að þegar til kemur mun viðkomandi vera metinn á grundvelli þess hver hann er en ekki þess hvers kyns hann er. Með þær upplýsingar í farteskinu ætti engin kona og engin karl að þurfa að hika við að stefna að því að ná sínum markmiðum." Allir að lesa þennan pistil. Ennfremur bendi ég á ályktun stjórnar Heimdallar um breytingar á sölu áfengis. Vert er að taka undir hvert orð í henni.
Dagurinn í dag
1571 Guðbrandur Þorláksson var vígður Hólabiskup - hann sat á þeim stóli í 56 ár
1703 Fyrsta manntalið í heiminum sem náði til heillar þjóðar var tekið á Íslandi
1973 Listmálarinn Pablo Picasso deyr á heimili sínu í Cannes við frönsku rívíeruna
1975 Ingrid Bergman hlaut óskarinn fyrir leik sinn í Murder on the Orient Express
1989 Jóhannes Jónsson kaupmaður, opnaði fyrstu Bónusverslunina við Skútuvog
Snjallyrði dagsins
Þú getur haft mig fyrir því, að frelsi er meira vert en lofthæðin í bænum.
Bjartur í Sumarhúsum (Sjálfstætt fólk eftir Halldór Kiljan Laxness)
Breytt 18.9.2006 kl. 08:02 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
7.4.2004 | 22:05
Engin fyrirsögn

Kærunefnd jafnréttismála skilaði niðurstöðu í gær í máli Hjördísar Hákonardóttur gegn ríkinu vegna ráðningar hæstaréttardómara. Niðurstaða nefndarinnar var að Björn Bjarnason dómsmálaráðherra, hefði brotið gegn lögum um jafna stöðu og jafnan rétt kvenna og karla með skipun í stöðuna. Beinir nefndin þeim tilmælum til dómsmálaráðherra að fundin verði viðunandi lausn á málinu. Ráðherra skipaði í ágúst í fyrra Ólaf Börk Þorvaldsson í embætti hæstaréttardómara. Varð sú skipun umdeild í lagastétt vegna þess að hvorugur þeirra sem Hæstiréttur taldi heppilegasta varð fyrir valinu. Umsækjendur voru átta: sex karlar og tvær konur. Fyrir lá að allir umsækjendur voru taldir hæfir til setu á dómarastóli. Rétturinn sagði þó í sérstakri umsögn að heppilegast væri að annar hvort Eiríkur Tómasson eða Ragnar H. Hall, yrðu fyrir valinu. Engum blandast hugur um að ráðherra hefur lokaorðið um hver hlýtur stöðuna, það er mat þess sem situr á ráðherrastóli hver eigi að hljóta sæti í réttinum. Finnst mér með hreinum ólíkindum að lesa úrskurð kærunefndar jafnréttismála, enda gerir hún lítið úr rétti ráðherra á hverjum tíma til að velja úr hópi umsækjenda. Það er óumdeilt að samkvæmt lögum á ráðherra lokaorð um skipan í þessa stöðu. Það er hann sem tekur ákvörðunina eftir að hafa fengið mat réttarins. Rétturinn á ekki lokaorðið. Einfalt mál. Með hreinum ólíkindum er að lesa skrif um þetta mál á vissum stöðum og lesa fákunnáttu sums fólks í þessum málum.



Í dag birtist ítarlegur pistill minn um utanríkismál og mikilvægi þess að stokka upp eyðslu utanríkisráðuneytisins. Í pistlinum segir svo: "Er löngu orðið tímabært að utanríkisráðherra hugaði að uppstokkun í utanríkisþjónustunni, enda hefur blasað við öllum að ráðuneytið hefur þanist út seinasta áratuginn, meira en góðu hófi gegnir. Í ríkisreikningi sem kynntur var sl. haust kom fram að utanríkisráðuneytið hefði eytt 5,5 milljörðum króna á árinu 2003. Óhætt er að fullyrða að þetta er gríðarleg útgjaldaaukning á nokkuð skömmum tíma. Telst hún 170% miðað við t.d. árið 1996, en vísitala neysluverðs hækkaði hinsvegar aðeins um 26% á sama tíma. Það ár námu útgjöld utanríkisráðuneytisins 2 milljörðum króna. Hafa útgjöldin því jafnt og þétt aukist, þó að á þessu tímabili hafi reikningsskilum af hálfu ríkisins verið breytt." Ennfremur: "Við blasir að tækifærið fyrir okkur sjálfstæðismenn til að hafa áhrif á gang mála í þessu ráðuneyti er framundan. Halldór Ásgrímsson mun láta af embætti utanríkisráðherra í haust, eftir að hafa setið þar í rúmlega 9 ár, eða frá 23. apríl 1995. Er mikilvægt að utanríkisráðherra úr hópi okkar sjálfstæðismanna muni vinna af krafti að því að skera niður og hagræða í rekstri sendiráða og taka til endurskoðunar umsókn um sæti í Öryggisráðinu. Annað er ekki viðunandi."

Horfðum í gærkvöldi á úrvalsmyndina A Civil Action. Byggð á frásögn af sönnu máli sem kom upp þegar átta fjölskyldur í smábæ einum í Bandaríkjunum misstu börn sín úr hvítblæði. Í ljós kom að orsök hvítblæðisins mátti e.t.v. rekja til þess að drykkjarvatni bæjarins hafði verið spillt og voru tvö stórfyrirtæki grunuð um verknaðinn. Það var hins vegar ljóst að möguleikarnir á að vinna málið voru hverfandi þar sem fyrirtækin höfðu efni á að ráða til sín bestu lögfræðinga Bandaríkjanna á meðan fjölskyldurnar höfðu nánast enga peninga á milli handanna til málarekstursins. Til að leita réttar síns leituðu fjölskyldurnar til lögfræðingsins Jans Schlichtmann sem hafði sérhæft sig í slíkum málarekstri, en hafði fram að þessu einbeitt sér að málum sem mátti semja um utan réttar. Jan leist í fyrstu ekkert á málið en ákvað að taka það að sér þegar hann hafði farið í gegnum þær vísbendingar sem fjölskyldurnar höfðu handbærar. En baráttan við lögfræðinga stórfyrirtækjanna átti eftir að verða erfiðari en jafnvel hann hafði grunað og brátt kom að því að hann neyddist til að velja milli þess að hætta við málssóknina eða eiga það á hættu að missa allt sitt. Frábær mynd með John Travolta, Robert Duvall, William H. Macy, Kathleen Quinlan, John Lithgow og James Gandolfini. Eftir myndina las ég í bókinni Guðfaðirinn, magnaðri skáldsögu Mario Puzo, sem varð uppistaðan að magnaðri kvikmyndatrílógíu Francis Ford Coppola.
Dagurinn í dag
1906 Ingvarsslysið - 20 manns fórust er þilskipið Ingvar strandaði við Viðey
1943 Laugarnesspítali í Reykjavík brann til grunna - var byggður árið 1898
1968 Formúlukappinn Jim Clark lætur lífið í slysi á Hockenheim-brautinni
1970 John Wayne hlaut óskarinn fyrir leik sinn í kvikmyndinni True Grit
1979 Fjögur systkini úr Vestmannaeyjum gengu í hjónaband - einsdæmi hérlendis
Snjallyrði dagsins
Aye, fight and you may die, run, and you'll live... at least a while. And dying in your beds, many years from now, would you be willin' to trade all of that from this day to that, for one chance, just one chance, to come back here and tell our enemies that they may take away our lives, but they'll never take our freeeedoooomm.
William Wallace í Braveheart
Breytt 18.9.2006 kl. 08:02 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
6.4.2004 | 19:02
Engin fyrirsögn

Halldór Ásgrímsson leit um öxl yfir níu ára tímabil á stóli utanríkisráðherra í ræðu á Alþingi er hann flutti þingmönnum skýrslu um utanríkismál. Lætur hann af embætti í september og tekur þá við sem forsætisráðherra. Urðu umræður um hana á þingi í mestallan dag. Sagði Halldór í ræðunni að stöðugleika og öryggi í heiminum væri ekki ógnað af stórveldi, heldur öfgamönnum sem engu eirði. Er það mat utanríkisráðherra að hert barátta gegn hryðjuverkaógn og illgjörðum hermdarverkamanna skipti sköpum. Fram kom í ræðunni að ríkisstjórnin hefði ákveðið á fundi sínum í morgun að auka framlög til þróunarmála úr 0,19% af vergri þjóðarframleiðslu í 0,35% á árunum 2008 til 2009. Sagði ráðherra að staða Íslands á alþjóðavettvangi hefði gjörbreyst á þeim 9 árum sem hann hafi verið í forystu fyrir mótun og framkvæmd íslenskrar utanríkisstefnu. Umsvif Íslendinga erlendis hafi tekið stakkaskiptum og mikill árangur orðið í viðskiptum. Sagði ráðherra ennfremur að starfshópur hefði verið skipaður til að skila tillögum um hagræðingu í utanríkisþjónustunni. Ætlunin er að ná fram sem mestri hagræðingu með tilfærslu starfsmanna og fjármuna innan ráðuneytis og sendiskrifstofa. Halldór sagði mikla samstöðu hafa ríkt milli stjórnarflokkanna og einnig sagði hann að breytingar á skipan ríkisstjórnarinnar myndu ekki hafa í för með sér breytingar á stjórnarsáttmálanum, utanríkisstefnan yrði óbreytt í grundvallaratriðum. Samstaða hafi verið mikil milli stjórnarflokkanna.



Í gær birtist góður pistill Helgu um álagningarskrár. Orðrétt segir: "Greint var frá því í Morgunblaðinu að þingmenn Sjálfstæðisflokks og Framsóknarflokks hyggist leggja fram frumvarp, sem mun leiða til þess að opinber birting álagningar- og skattskráa verði lögð af nái frumvarpið fram að ganga. Þetta eru ánægjuleg tíðindi, enda er birting álagningar- og skattskráa bæði óþörf og óeðlileg. Birtingin er gjarnan rökstudd með því að hún skapi aðhald gegn skattsvikum. Með því er átt við að fólk geti lagt leið sína á skrifstofu skattstjóra, flett í gegnum álagningarskrárnar, leitað upplýsinga um álagningu nágranna, vinnufélaga og annarra kunningja og látið vita ef það rekst á eitthvað grunsamlegt. Sú hugmynd er að mínu mati ekki geðfelld, og ennfremur óþörf þar sem reyndin er sú að sjaldgæft er að birtingin skili skattstjóra ábendingum um skattsvik. Ekki má gleyma að það er hlutverk skattstjóra og hans starfsfólks að tryggja að fólk telji rétt fram til skatts og grípa til aðgerða ef grunur vaknar um að svo sé ekki." Ennfremur eru á frelsinu pistlar eftir Pawel og Stefán Ottó. Að auki skal bent á góða umfjöllun um áfengisfrumvarpið.

Eftir að hafa horft á kvöldfréttirnar fór ég upp í Kaupang á bæjarmálafund þar sem helstu málefni bæjarins voru rædd við bæjarstjóra og bæjarfulltrúa. Er það alltaf gert annaðhvert mánudagskvöld, kvöldið fyrir bæjarstjórnarfund. Voru ýmis mál til umræðu, m.a. skipan í nefndir fyrir flokkinn. Mun ég nú taka sæti í nefnd fyrir bæinn að hálfu flokksins ásamt fleiri aðilum, samhliða breytingum á nefndaskipan. Var fundurinn gagnlegur og góður. Að honum loknum hélt ég heim og horfðum við á kvikmyndina Meet the Parents. Segir af hjúkrunarfræðingnum Gaylord Focker (sem vill endilega láta kalla sig Greg!). Hann hefur í hyggju að biðja unnustu sína, Pam Byrnes, um að giftast sér. Þegar hún segir honum að faðir hennar ætlist til þess að verða spurður um hönd hennar ákveður hann að nota tækifærið er hann og Pam fara í helgarferð til foreldranna til að verða viðstödd giftingu systur hennar, til að biðja hann um samþykki föðurins á ráðahagnum. En þegar á hólminn er komið breytast aðstæður verulega. Jack er vægast sagt lítið um Greg gefið og gerir sífellt lítið úr honum, starfi hans og eftirnafni hans! Auk þess dásamar hann fyrrum kærasta Pam og gerir Greg þannig enn erfiðar fyrir. Þar sem Greg er staðráðinn í að fá samþykki hans reynir hann að sýna sínar allra bestu hliðar til að komast í mjúkinn hjá föðurnum og móðurinni. Allar þær aðgerðir misheppnast herfilega (vægast sagt) og koma honum í sprenghlægilegar aðstæður. Framundan er hræðilegasta helgin í lífi Gregs og ekki batnar ástandið er hann kemst að því að Jack er fyrrum CIA-leyniþjónustumaður sem lumar á lygamæli í kjallaranum, en það er bara byrjunin á ógleymanlegri helgi sem verður stöðugt verri og verri.....Hin besta skemmtun, mjög góð gamanmynd.
Dagurinn í dag
1941 Lengsti þorskur veiddur við Ísland - mældist 181 sentimetri
1959 Sir David Niven hlaut óskarinn fyrir leik sinn í kvikmyndinni Seperate Tables
1968 Óeirðir um öll Bandaríkin í kjölfar morðsins á Dr. Martin Luther King
1996 Fyrsta apótekið opnar eftir að frelsi var veitt í lyfsölu - Apótek Suðurnesja
2000 Vatneyrardómurinn - Hæstiréttur dæmdi útgerð Vatneyrar fyrir veiðar án aflaheimilda
Dagurinn í gær
1940 Hægri umferð samþykkt á þingi - kom þó ekki til framkvæmda fyrr en 1968
1955 Sir Winston Churchill forsætisráðherra Bretlands, biðst lausnar og hættir í stjórnmálum
1971 Söngleikurinn Hárið var frumsýndur í Glaumbæ - aftur sýndur 1994 og 2004
1986 Flugslys varð í Ljósufjöllum á Snæfellsnesi - fimm fórust og tveir komust af
1994 Kurt Cobain söngvari hljómsveitarinnar Nirvana, sviptir sig lífi
Snjallyrði dagsins
Nothing is so permanent as a temporary government program.
Milton Friedman
Breytt 18.9.2006 kl. 08:02 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
4.4.2004 | 21:57
Engin fyrirsögn

Ummæli Jóhannesar Geirs Sigurgeirssonar stjórnarformanns Landsvirkjunar, í ræðu sinni á aðalfundi fyrirtækisins á föstudag, hafa dregið nokkurn dilk á eftir sér. Segir Guðmundur Gunnarsson formaður Rafiðnaðarsambandsins hann hafa hleypt blindri hörku í viðræður um endurnýjun kjarasamninga rafiðnaðarmanna. Náttúruverndarsamtök Íslands hafa sagt ummæli í ræðunni lágkúruleg og stjórnarmaður í fyrirtækinu sagt þau skaða ímynd þess. Hefur aðalfundur Félags íslenskra rafvirkja lýst undrun sinni á ummælum stjórnarformannsins um að ítalska verktakafyrirtækið Impregilo verði fyrir ósanngjörnum ásökunum og að Íslendingar séu hættulega nálægt því að gera strangari kröfur til útlendinga en sjálfra sín. Þessi ummæli segist félag rafvirkja ekki geta sætt sig við og segir þau einkennileg á sama tíma og í ljós komi að fyrirtækið hafi flutt til landsins hundruð manna sem ekki hafa tilskilin réttindi til vinnu á vinnuvélum. Auk þess hafi komið á daginn að vel á annað hundrað manna sem fyrirtækið hafi flutt hingað og sagt vera iðnaðarmenn hafa engin réttindi og ekkert starfsnám. Leiddi harkaleg gagnrýni til þess að Jóhannes baðst afsökunar á ummælum sínum. Samt sem áður eykst gagnrýni á Jóhannes vegna ummæla hans og fjölmiðlaathyglin ekki síður. Blasir við að staða stjórnarformannsins hefur veikst gríðarlega vegna þessa máls og með ólíkindum hvernig hann kemur fram á þessu stigi málsins með ummælum sínum.


Að þessu sinni fjalla ég um málefni Ríkisútvarpsins, en fáum blandast hugur um að breytinga er þörf á rekstrarfyrirkomulagi stofnunarinnar, fátt er þó gert til að horfast í augu við rekstrarhalla RÚV og bendi ég á mikilvægi þess að ríkið fari af fjölmiðlamarkaði. Ég tel rétt að útiloka ekki hlutafélagavæðingu RÚV, þó ég sé ekki sammála um að hún sé vænlegasta skrefið. Hún gæti þó verið eitt skref á langri leið, enda tel ég að enginn vafi leiki á að á endanum mun ríkið hætta þeirri vitleysu að vera í samkeppni við einkastöðvar á fjölmiðlamarkaði. Sá dagur mun renna upp, vonandi fyrr en seinna, að skattgreiðendur í þessu landi haldi ekki úti náttrisa í samkeppni við einkaframtakið í fjölmiðlum. Ennfremur fjalla ég um hringlandahátt Samfylkingarinnar í utanríkismálum og valdabaráttuna þar. Að lokum skrifa ég um þingsályktunartillögu sem lögð var fram í vikunni um hálendisveg sem stytta myndi leiðina milli Akureyrar og Reykjavíkur verulega.

Horfðum í gærkvöldi venju samkvæmt á spjallþátt Gísla Marteins og Spaugstofuna. Að því loknu var fylgst með Söngkeppni framhaldsskólanna. Lögin voru misgóð í keppninni. Flott lögin frá Akureyrarskólunum. Heimir frændi minn var flottur og söng vel fyrir VMA lagið Næturnar án þín. Fyrir MA sungu Andri Már Sigurðsson, Haukur Sigurðarson og Ævar Þór Benediktsson, lagið Stærri en allt, og áttu líflegasta atriðið. Sigruðu þeir SMS kosninguna. Menntaskólinn við Hamrahlíð vann keppnina. Sunna Ingólfsdóttir og Sigurlaug Gísladóttir sungu sigurlagið: Ég er svo græn. Heimir varð í öðru sæti og Menntaskólinn á Ísafirði í því þriðja. Fannst mér með ólíkindum að Heimir skyldi ekki vinna þetta. Eftir keppnina horfðum við á kvikmyndina Bruce Almighty. Fyndin gamanmynd sem segir frá sjónvarpsfréttamanninum Bruce Nolan og lífi hans. Fátt virðist ganga honum í haginn og kennir hann guði sjálfum um ófarir sínar. Það fer því þannig að Guð felur Bruce almættið sjálft og bendir honum á að gera betur. Kostuleg atburðarás tekur við. Góð mynd fyrir alla þá sem vilja eiga kvöldstund.
Dagurinn í dag
1897 Hið íslenska prentarafélag stofnað - elsta verkalýðsfélag landsins
1960 Kvikmyndin Ben-Hur hlýtur 11 óskarsverðlaun - engin mynd hlotið fleiri verðlaun
1968 Dr. Martin Luther King myrtur í Memphis í Tennessee-fylki, 39 ára að aldri
1979 Zulfikar Ali Bhutto fyrrum forsætisráðherra Pakistans, tekinn af lífi
1995 Ragnar Th. Sigurðsson og Ari Trausti Guðmundsson fyrstir Íslendinga á Norðurpólnum
Snjallyrði dagsins
Think to yourself that every day is your last. The art to which you do not look forward will come as a welcomed surprise.
Dr. Hannibal Lecter í Red Dragon
Breytt 18.9.2006 kl. 08:02 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
3.4.2004 | 16:00
Engin fyrirsögn

Óskarsverðlaunaleikarinn Marlon Brando er áttræður í dag. Hann á að baki einn litríkasta leikferil kvikmyndasögunnar og var ímynd töffarans í kvikmyndum um miðja 20. öldina, goðsögn í lifanda lífi, ein af skærustu stjörnum Hollywood á gullaldarárunum. Brando fæddist í Nebraska og kom frá vandræðaheimili, móðir hans var drykkfelld, en faðir hans kvensamur úr hófi fram. Brando var rekinn úr nokkrum skólum, þ.á.m. herskóla, áður en hann hélt til New York, til að leggja stund á leiklistarnám. Hann sló í gegn á leiksviði 1947, 23 ára, í hlutverki Stanley Kowalski í Sporvagninum Girnd eftir Tennessee Williams. Hann hlaut heimsfrægð fyrir leik sinn í kvikmyndaútgáfu Elia Kazan af A Streetcar Named Desire árið 1951. Í kjölfarið fylgdu stórmyndir á borð við Viva Zapata! og The Wild One. Brando hlaut óskarinn fyrir stórleik sinn í hlutverki Terry Malloy í On the Waterfront árið 1955. Meðal helstu mynda hans að auki eru Guys and Dolls, Sayonara, Mutiny on the Bounty, Bedtime Story og The Chase. Hann hlaut óskarsverðlaunin árið 1972 fyrir magnþrunginn leik á ættarhöfðingjanum Vito Corleone í The Godfather. Í stað þess að mæta á óskarshátíðina, og taka við verðlaununum, sendi hann stúlku í indíánabúningi, sem afþakkaði verðlaunin fyrir hönd Brandos, og húðskammaði forystusveit Hollywood fyrir að rægja bandaríska indíána í kvikmyndum sínum. Hann fékk metupphæð fyrir að leika vitfirrtan hershöfðingja í blálok Apocalypse Now árið 1979. Meðal annarra mynda hans hin seinni ár eru Superman, A Dry White Season og Don Juan De Marco. Seinasta kvikmyndahlutverk hans var í The Score árið 2001. Hin seinni ár hefur Brando lítið á sér bera og hatar fjölmiðlaathyglina, eins og frægt er. Hann er þrígiftur og á alls ellefu börn.


Horfðum í gærkvöldi á æsispennandi keppni í Gettu betur þar sem Verzló sigraði Borgarholtsskóla í æsispennandi keppni. Kominn tími til að MR veldið liði undir lok og kærkomið að fá annan sigurvegara í keppninni. Fórum í bíó eftir keppnina og horfðum á gamanmyndina Starsky & Hutch með Ben Stiller og Owen Wilson. Segir frá Starsky og Hutch, sem eru lögreglumenn í einni af stórborgum Bandaríkjanna. Báðir eru þeir til eilífra vandræða og er varðstjórinn þeirra, Doby, alveg við það að missa þolinmæðina. Starsky fer í einu og öllu eftir bókinni, og gengur fulllangt á meðan Hutch er andstæða hans, nokkuð villtur og kærulaus auk þess sem hann ber afar litla virðingu fyrir lögunum. Er þeim í hálfgerðu refsingarskyni skipað að vinna saman. Samstarfið gengur vel og eru þeir brátt komnir á hælana á glæpaforingjanum Reese Feldman. Myndin er byggð á samnefndum sjónvarpsþáttum sem voru upp á sitt besta á áttunda áratugnum. Fínasta gamanmynd sem allir ættu að geta hlegið að og átt hina bestu kvöldstund. Eftir myndina litum við til vina og áttum gott spjall, einkum og sér í lagi um pólitíkina og málefni vikunnar, sérstaklega hið gegndarlausa rugl með RÚV.

Einar Kristinn Guðfinnsson þingflokksformaður Sjálfstæðisflokksins, skrifaði nýlega góða grein um EES í Moggann, birtist hún ennfremur á heimasíðu hans. Í henni segir orðrétt: "Stundum hefur verið kvartað undan því að Evrópumálin séu ekki nægilega mikið á dagskrá. Hvernig sem því viðvíkur þá er það að minnsta kosti ljóst að þau mál eru á dagskrá núna. Við erum að taka ákvörðun um stækkun sjálfs EES. Sú ákvörðun er mjög stefnumótandi fyrir okkur og snertir sjálfan kjarna umræðunnar um stöðu okkar innan Evrópu. Það var þess vegna eftirtektarvert að um þessi mál myndaðist sátt á Alþingi. Allir stjórnmálaflokkar sem eiga sæti í utanríkisnefnd þingsins rituðu undir sameiginlegt jákvætt nefndarálit. Það er ólíkt því þegar EES samningurinn var til umfjöllunar á Alþingi fyrir um áratug. Þá treysti sér enginn þingmaður úr Framsóknarflokki, Alþýðubandalagi né Kvennalista – fyrirrennara Samfylkingar og Vinstri Grænna – til að styðja samninginn. Nú má því kannski segja; öðruvísi mér áður brá. Athyglisvert er það einnig að slíkt þótti ekki sæta tíðindum í fjölmiðlunum. Má þá væntanlega álykta að hið pólitíska dagskrárefni, Evrópuumræða, teljist ekki ýkja fréttnæmt." Hvet alla til að lesa greinina.
Dagurinn í dag
1882 Tilkynnt um stofnun skjalageymslu - upphafið að Þjóðskjalasafns Íslands
1975 Bobby Fischer missir heimsmeistaratitilinn í skák, vildi ekki keppa á forsendum FIDE
1978 Diane Keaton hlaut óskarinn fyrir túlkun sína á Annie Hall í kvikmynd Woody Allen
1984 Hundahald leyft að nýju í Reykjavík að uppfylltum mjög ströngum skilyrðum
2001 Grænmetisskýrslan birt - innflytjendur grænmetis og ávaxta sektaðir um 105 millj. króna
Snjallyrði dagsins
Þú sérð aldrei það sem hefur unnist, aðeins það sem eftir á að gera.
Marie Curie
Breytt 18.9.2006 kl. 08:02 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
2.4.2004 | 14:38
Engin fyrirsögn

Lögð var fram á þingi í dag, þingsályktunartillaga um hálendisveg milli Borgarfjarðar og Skagafjarðar. Myndi sú leið stytta veginn milli Reykjavíkur og Akureyrar um 42 kílómetra. Gert er ráð fyrir að framkvæmdirnar verði boðnar út, utan vegaáætlunar og að innheimt verði veggjöld. Áætlaður kostnaður við framkvæmdina er um 4,5 milljarðar króna. Fyrsti flutningsmaður tillögunnar er Halldór Blöndal forseti Alþingis. Leggur hann tillöguna fram ásamt þingmönnum úr Sjálfstæðisflokki, Framsóknarflokki og Samfylkingu. Gert er ráð fyrir að vegur verði lagður upp úr Borgarfirði um Hallmundarhraun, yfir Stórasand sunnan Blöndulóns niður í Norðurárdal. Hefur Halldór sagt að slíkur vegur myndi stytta leiðina til Akureyrar um 42 kílómetra og ef vegur yrði lagður um Kaldadal, eins og gert væri ráð fyrir á vegaáætlun, myndi leiðin styttast alls um rúma 80 kílómetra. Þessi tillaga hefur verið forgangsmál Halldórs í samgöngumálum hin seinni ár og vonandi verður þetta brátt að veruleika. Í febrúar 2002 flutti Halldór ítarlega ræðu um hugmyndir sínar og síðar sama ár skrifaði ég grein í Moggann um sama mál. Mikilvægt er að ná fram sem mestri styttingu á leiðinni milli Akureyrar og Reykjavíkur. Það er nauðsynlegt að lækka flutningskostnað milli Akureyrar og Reykjavíkur og ekki síður milli Norðausturlands og Austfjarða til Reykjavíkur. Hér er um mikið forgangsmál að ræða fyrir okkur á landsbyggðinni og mikilvægt að hefjast handa og sameinast um að koma þessu í gegn sem fyrst.



Tveir góðir pistlar á frelsinu í dag. Í þeim fyrri fjallar Helga um stórfurðulega menntasókn Samfylkingarinnar. Orðrétt segir hún: "Það jaðrar við menntasnobb að ætla skipa fólki í bása eftir því hvort það hefur lokið grunnskólamenntun eða frekari menntun. En að tala um að hlutfall hinna minna skólagenginna sé óviðunandi er hreinn og beinn menntahroki. Þó ekki verði efast um einlægan vilja Björgvins til góðra verka þá gerist hann sekur um að ofmeta menntun og prófgráður. Hvorki aukin menntun né prófgráður hafa gildi í sjálfu sér. Þar fyrir utan vanmetur Björgvin starfsreynslu og þá mikilvægu menntun sem fólk aflar sér úti á vinnumarkaðnum, en þess konar menntun fylgja engin prófskírteini. Þrátt fyrir að státa af háskólamenntun virðist Björgvin ekki skilja að ekki eru einhlít tengsl milli aukinnar menntunar þeirra, sem nú þegar sjá um að framleiða ákveðin gæði úti á vinnumarkaðnum, og aukinnar framleiðslu. Það sem helst aðgreinir hugsunarhátt vinstri og hægri manna í þessum málaflokki jafnt sem öðrum, er sú hugsun vinstri manna að hlutverk stjórnmálamanna felist í því að skipuleggja samfélagið út frá sínum hugdettum um betra samfélag." Í seinni pistlinum fjallar Bjarki um samræmd stúdentspróf og kemst vel að orði í endanum er hann segir: "Íslendingar eru prófaglaðir og skilst mér að mun meira sé prófað í íslenskum skólum en víða annarsstaðar. Það er því alveg ljóst að til að bæta við samræmdum stúdentsprófum þurfa að vera góð og gild rök og eins og framkvæmdin er á prófunum í ár, virðast sem rökin vanti." Hvet alla til að lesa þessa góðu pistla.

Fórum í gær í heimsókn til Hönnu ömmu, hún var að koma heim úr kóraferð til Suðurlands. Alltaf sama fjörið í ömmu, í fullu fjöri og enn í kór aldraðra, orðin 84 ára. Sannkölluð kjarnakona. Erum svo lík í áhugamálum og pælingum almennt að við eigum létt með að sameinast í vangaveltum um vinstrimenn og pólitík almennt. Sækjum bæði heitan stjórnmálaáhuga til langafa míns, Stefáns Jónassonar útgerðarmanns og bæjarfulltrúa. Sá gamli var mjög heitur í pólitíkinni. Fréttir Stöðvar 2 eru loks komnar á sinn gamla sess, klukkan hálfsjö, virkilega gott mál að geta horft á báða fréttatíma með góðu móti. Ætluðum að fara í bíó í gærkvöldi, en hættum við það og horfðum þess í stað á gullmolann Some Like It Hot í leikstjórn Billy Wilder. Það var árið 1959 sem Wilder og handritshöfundurinn I.A.L Diamond gerðu handritið að þessari mögnuðu mynd, sem telst ein eftirminnilegasta gamanmynd 20. aldarinnar. Hún var tilnefnd til óskarsverðlauna fyrir leikstjórn Wilder og handrit þeirra Diamond. Marilyn Monroe geislar sem fyrr í hlutverki Sugar Kane í myndinni. Jack Lemmon og Tony Curtis fara á kostum í hlutverkum Jerry og Joe, tveggja tónlistarmanna í San Francisco sem verða vitni að morði og reyna að sleppa undan mafíunni. Eina leiðin til þess að halda lífi og sleppa er sú að klæða sig í kvenmannsföt og þykjast vera í kvennahljómsveit. Framundan er kostuleg atburðarás sem erfitt er að lýsa með orðum. Sjón er sögu ríkari. Einstök gamanmynd, ein sú besta sinnar gerðar. Einstök skemmtun, hiklaust eitt af allra bestu verkum Billy Wilders.
Dagurinn í dag
1725 Eldgos hófst í nágrenni Heklu og fylgdu því allmiklir jarðskjálftar
1928 Jóhanna Magnúsdóttir fékk lyfsöluleyfi, fyrst íslenskra kvenna
1974 Jack Lemmon hlaut óskarinn fyrir leik sinn í kvikmyndinni Save the Tiger
1982 Argentína ræðst inn í Falklandseyjar - leiddi til innrásar Breta
1996 Rússneskur togari var tekinn við ólöglegar veiðar út af Reykjanesi
Snjallyrði dagsins
Eftir þrjú ár verður R-listinn búinn að vera 12 ár við völd í Reykjavík. Teljið þið að Ingibjörg Sólrún muni þá ganga fram fyrir skjöldu og segja að nú verði nauðsynlegt að fella R-listann, hann hafi verið 12 ár við völd? Haldið þið það? Ég held ekki.
Davíð Oddsson forsætisráðherra (í spjallþættinum Tæpitungulaust - 6. maí 2003)
Breytt 18.9.2006 kl. 08:02 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
31.3.2004 | 17:52
Engin fyrirsögn

Davíð Oddsson forsætisráðherra, flutti í dag góða ræðu á ráðstefnu um stjórnsýslulög. Þar sagði hann að ástæða kunni að vera til þess, samhliða því að úttekt verði gerð á framkvæmd stjórnsýslulaganna síðasta áratuginn, að kanna hvort ástæða sé til að koma nú upp sérstökum stjórnsýsludómstól til eftirlits með störfum stjórnvalda. Á þessu ári eru tíu ár liðin frá því ríkisstjórn Sjálfstæðisflokks og Alþýðuflokks undir forsæti Davíðs Oddssonar settu stjórnsýslulög, var ráðstefnan haldin í tilefni af því afmæli. Davíð sagði í ávarpi sínu að Íslendingar hafi sparað að koma sér upp sérstökum stjórnsýsludómstól til eftirlits með störfum stjórnvalda eins og tíðkist víða annars staðar. Af því leiði að almennu dómstólarnir þurfi ekki síður en stjórnsýslan sjálf að tileinka sér víðtæka þekkingu á þeim réttarreglum, sem um starfsemi hennar gilda. Davíð sagði að á sínum tíma hefði hann talið ástæðu til að kanna hvort þörf væri á stofnun sérstaks stjórnsýsludómstóls samhliða setningu stjórnsýslulaga en þá þótti slíkur dómstóll ekki vera í takt við þær réttarfarsbreytingar sem þá stóðu yfir. Davíð sagði einnig, almennt orðalag sumra ákvæða stjórnsýslulaganna hafi orðið til þess að bæði dómstólar og umboðsmaður Alþingis hafi ljáð þeim mun strangari merkingu en ætlunin var, eins og túlkun ákvæðanna um andmælarétt sé til vitnis um. Stjórnvöld séu síðan nauðbeygð að elta slík fordæmi og þannig verði til hringrás sem erfitt geti verið að losna út úr, nema með viðeigandi lagabreytingum.



Ósk vinkona mín, fer á kostum í pistli dagsins á frelsinu. Alveg mögnuð yfirferð um "frábærleika" fléttulista. Orðrétt segir Ósk: "Stuðningsmönnum frábærleika fléttulista er frjálst að fyrirskipa slíka starfshætti í sínum flokki. Slíkt virðist þó ekki nægja þeim, því þar með er aðeins trýnið á birningum unnið, að þeirra mati. Þetta má sjá á orðum Atla Gíslasonar því hann krefst þess að allir stjórnmálaflokkar verði skyldaðir til þess með lögum að viðhafa þetta skipulag við uppröðun á framboðslista. Þvílík frekja. Munurinn á vinstri og hægri í stjórnmálum birtist hér ljóslifandi fyrir augum okkar: vinstri vill afturför (jafnvel fara í hringi) og fjötra, hægri kýs framför og frelsi. Vinstrimenn vilja mæla hæfni fólks eftir kyni, hægrimenn meta verðleika. Hægrimenn vilja tryggja jafnan aðgang allra að sömu störfum þar sem allir hafa aðgang að sömu röð, vinstrimenn skipa fólki að raða sér í tvær einfaldar raðir eftir kyni. Hversu lengi þurfum við að bíða eftir því að lengra verði gengið? Verður bráðum hætt að tala um bágan hlut kvenna í stjórnmálum og farið að tala um að milli kvenna ríki innbyrðis ójafnrétti, þeim sé mismunað eftir hæð, aldri og klæðaburði?" Bravúr pistill.

Fór eftir kvöldfréttirnar í gærkvöldi á kaffihúsið Bláu könnuna, hitti þar nokkra vini og áttum við gott spjall um helstu málin, líflegt og gott spjall yfir súkkulaðitertu og kakósopa. Virkilega gaman, enda hress og góður hópur. Er heim kom fórum við að horfa á óskarsverðlaunamyndina Gladiator. Í henni er sögð magnþrungin saga hins mikla rómverska hershöfðingja Maximus, sem hefur í sögubyrjun enn einu sinni leitt heri sína til sigurs á vígvellinum og í þetta sinn unnið fullnaðarsigur, við mikla ánægju hins dauðvona keisara Markúsar Árelíusar, en hann lítur á Maximus sem soninn sem hann vildi öllu fremur en eignaðist aldrei. Í staðinn eignaðist hann Commodus, sem er spilltur og grimmur og vill völd meira en nokkuð annað og bíður þess að faðir hans fari að hrökkva upp af. Er Commodus áttar sig á að faðir hans ætlar að gera Maximus að arftaka sínum á keisarastóli til að reisa við lýðræðið þá drepur Commodus föður sinn og reynir ennfremur að drepa Maximus og fjölskyldu hans en hann sleppur naumlega undan morðhundum hans. Hann flýr heim en sér þá að Commodus hefur bæði myrt eiginkonu hans og einkason. Maximus sem er fullur af harmi og reiði hyggur á hefndir. Gríðarlega vel leikið epískt meistaraverk. Russell Crowe hlaut óskarinn fyrir stórfenglega túlkun sína á Maximus. Richard Harris, Oliver Reed og Joaquin Phoenix fara á kostum í sínum hlutverkum. Glæsileg mynd fyrir sanna kvikmyndaunnendur.
Dagurinn í dag
* 1863 Vilhelmína Lever kaus á Akureyri - fyrsta konan sem kaus til sveitarstjórna
* 1909 Björn Jónsson varð annar ráðherra Íslands - sat á ráðherrastóli í tvö ár
* 1967 Snjódýpt á Raufarhöfn mældist 205 sentimetrar - eflaust með eindæmum í þéttbýli
* 1979 Steingrímur Hermannsson kjörinn formaður Framsóknarflokksins á miðstjórnarfundi
* 1981 Robert De Niro hlaut óskarinn fyrir ógleymanlega túlkun á Jake La Motta í Raging Bull
Snjallyrði dagsins
You win, you win. You lose, you still win.
Joey La Motta í Raging Bull
Breytt 18.9.2006 kl. 08:02 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
30.3.2004 | 23:54
Engin fyrirsögn

Dr. Condoleezza Rice þjóðaröryggisráðgjafi Bandaríkjastjórnar, mun bera vitni eiðsvarin fyrir þingnefnd, sem rannsakar aðdraganda hryðjuverkaárásanna á Bandaríkin 11. september 2001. Ennfremur munu George W. Bush forseti Bandaríkjanna, og Dick Cheney varaforseti, boðist til að bera vitni fyrir nefndinni, en með því skilyrði að það verði ekki gert fyrir opnum tjöldum. Hvíta húsið hafði áður gefið til kynna að dr. Rice myndi ekki koma fyrir nefndina en mikill þrýstingur hefur verið á bandarísk stjórnvöld um að hún beri vitni vegna gagnrýni, sem komið hefur fram á viðbúnað Bandaríkjamanna við hugsanlegum hryðjuverkum. Richard Clarke fyrrum yfirmaður baráttunnar gegn hryðjuverkum, gagnrýndi í vitnisburði sínum fyrir frammi nefndinni og nýlegri bók sinni, ríkisstjórnina fyrir aðgerðarleysi í aðdraganda 11. september 2001, en embættismenn í Hvíta húsinu hafa ráðist harkalega að Clarke og saka hann um að vilja koma höggi á Bush og hleypa lífi í sölu bókar sinnar um efnið. Scott McClellan talsmaður Hvíta hússins, sagði við blaðamenn í dag að nefndin hefði fallist á að gefa skriflega yfirlýsingu um að hvorki vitnisburður Rice né Bush og Cheney, myndi raska stjórnarskrárbundnum ákvæðum um aðskilnað framkvæmda- og löggjafarvalds.



Í pistli dagsins fjallar Atli Rafn um mikilvægi þess að einkavæða sem fyrst Símann. Eins og fram kom fyrir nokkrum dögum er stefnt að sölu fyrirtækisins fyrir lok þessa árs. Orðrétt segir Atli Rafn: "Þær erfiðu markaðsaðstæður sem ollu því að fresta varð sölu Landsímans eru ekki lengur til staðar. Þvert á móti þá hefur ítrekað komið fram hjá greiningar- og markaðsaðilum að Kauphöllinni sárlega vanti fleiri góða kosti. Mikið fjármagn leitar nú fárra fjárfestingatækifæra og margir líta híru auga til Símans enda fyrirtækið öflugt. Sala á þessum tímapunkti mun því bæði styrkja Símann sem á í mikilli samkepnni við einkafyrirtæki og einnig Kauphöllina þar sem áhugasamir fjárfestar s.s. lífeyrissjóðir virðast nú tilbúnir til að kaup hlut í félaginu. Það sem mestu máli skiptir er hins vegar að einkavæðing stuðlar að bættum rekstri starfsmönnum og eigendum til hagsbóta, betri þjónustu fyrir viðskiptavini og skilar fjármagni í ríkiskassann. Það sjá allir sem vilja að ástæður tafa á sölu Símans liggja í skorti á pólitískum vilja. Í þessu máli sem og svo mörgum öðrum þá hefur heyrst að þrálát andstaða Framsóknarflokksins við söluna sé aðal orsökin." Góður pistill, hvet alla til að líta á hann. Ennfremur birtist ályktun stjórnar Heimdallar um nýframlagt frumvarp dómsmálaráðherra til breytinga á útlendingalögum.

Eftir fréttirnar horfði ég á viðtal Kristjáns og Svansíar við utanríkisráðherra. Var farið víða yfir í pólitíkinni: Íraksmálið, þingmálin, ráðherrakapal Framsóknar og forsetaembættið svo fáeint sé nefnt. Mesta athygli mína vakti að utanríkisráðherrann ljáði máls á að fella niður eða breyta verulega 26. grein stjórnarskrárinnar um heimild forseta til að synja lagafrumvörpum um samþykki. Gott að heyra það, en mínus vissulega að hann halda lífinu í þessu gagnslausa embætti. Eftir þáttinn horfðum við á kvikmyndina Traffic. Spannar fjórar sögur af fíkniefnavandanum mikla í Bandaríkjunum og Mexíkó. Allt magnaðar mannlýsingar að vönduðustu gerð. Það er í raun ekki hægt annað en að dást að Steven Soderbergh fyrir að hafa tekist á hendur þetta mikla verk að túlka á raunsæjan hátt afleiðingar og fylgifiska eiturlyfjanna. Leikaraliðið er glæsilegt, fremstur í flokki er Benicio Del Toro sem hlaut óskarinn fyrir túlkun sína á fíkniefnalöggu. Michael Douglas er einnig eftirminnilegur í hlutverki íhaldssams dómara, eiginkona hans Catharine Zeta-Jones, er ekki síðri í að túlka eiginkonu dópbaróns. Soderbergh hlaut óskarinn fyrir leikstjórn sína. Einstakt meistaraverk.
Dagurinn í dag
* 1816 Hið íslenska bókmenntafélag, stofnað til að viðhalda íslenskri tungu og bókaskrift
* 1949 Aðild Íslands að NATÓ samþykkt á Alþingi - óeirðir á Austurvelli vegna þess
* 1955 Marlon Brando hlýtur óskarinn fyrir túlkun sína á Terry Malloy í On the Waterfront
* 1981 Geðsjúkur maður reynir að myrða, Ronald Reagan forseta Bandaríkjanna
* 2002 Elísabet drottningarmóðir, andast í Royal Lodge í Windsor, 101 árs að aldri
Snjallyrði dagsins
Even the most sublime ideas sound ridiculous if heard too often.
Mario Ruoppolo í Il Postino
Breytt 18.9.2006 kl. 08:02 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
29.3.2004 | 21:31
Engin fyrirsögn

Frönsku stjórnarflokkarnir guldu afhroð í seinni umferð frönsku sveitarstjórnarkosninganna í gær. Eftir fyrri umferð var ljóst að vinstri flokkarnir myndu bera sigur úr býtum en enginn bjóst þó við jafnskýrri afstöðu kjósenda og er ljós nú. Sósíalistar og stuðningsflokkar þeirra hlutu helming atkvæða en hægriflokkur Chiracs Frakklandsforseta fékk aðeins 37% fylgi. Lýðfylkingin, lengst til hægri, fékk 13%. Sósíalistar unnu sigur í 20 af 22 héruðum í Frakklandi en alls var kosið til 26 héraðsstjórna. Niðurstöðurnar endurspegla óánægju kjósenda með umbætur stjórnarinnar í félags, velferðar- og heilbrigðismálum, vaxandi atvinnuleysi og staðnaðan efnahag. Ekki virðist afstaða stjórnvalda í Íraksdeilunni hafa hjálpað þeim mikið heldur. Frönsk blöð segja Chirac hafa verið auðmýktan og að hann geti ekki virt að vettugi vilja kjósenda. Öruggt er að þessi úrslit leiði til hrókeringar í ríkisstjórninni og jafnvel átt von á að Jean-Pierre Raffarin forsætisráðherra, verði settur af. Beðið er nú viðbragða Chirac forseta. Sigur sósíalista í sveitarstjórnarkosningunum hefur engin bein áhrif á meirihluta hægri- og miðjuflokkanna á þingi en úrslitin eru viðvörun til ríkisstjórnarinnar. Þing- og forsetakosningar verða eftir þrjú ár, árið 2007. Verði Raffarin settur af er líklegur eftirmaður hans innanríkisráðherrann Nicolas Sarkozy en það sem stendur í vegi fyrir því eru stirð samskipti hans og Chiracs og jafnframt áhugi Sarkozy á forsetaembættinu.


Colin Powell utanríkisráðherra Bandaríkjanna, mun stjórna athöfninni, sem markar tímamót í sögu NATO. Lönd innan Sovétríkjanna fyrrverandi eru orðin hluti af hernaðarbandalagi, sem stofnað var á sínum tíma, er hið kalda stríð var í algleymingi eftir seinni heimsstyrjöld, og ríki í Vestur- og Austur-Evrópu áttu í mikilli baráttu um yfirráð yfir álfunni.

Í dag eru tvær góðar greinar á frelsinu. Sú fyrri er eftir Heiðrúnu Lind og ber heitið Hvar er jafnréttið?, og fjallar þar um samnefnt málþing forsætisráðuneytisins um jafnréttismál, þann 17. mars sl. Orðrétt segir hún: "Samkvæmt lögum er jafn réttur kynjanna fyrir hendi – reyndar má segja að löggjafinn sé kominn fram úr sjálfum sér með því að setja konur á hærri stall enda segir í d-lið 1. gr. laga um jafna stöðu og jafnan rétt kvenna og karla nr. 96/2000 að markmiði laganna skuli náð með því að „bæta sérstaklega stöðu kvenna og auka möguleika þeirra í samfélaginu”. Þykir þetta nokkuð athyglivert enda er það meginmarkmið þessara sömu laga að veita einstaklingum jafna möguleika á að njóta eigin atorku og þroska hæfileika sína óháð kynferði. Var því velt upp á málþinginu hvert næsta skref væri sem stíga ætti í átt til jafns réttar kynjanna í hvívetna? Líkt og kom fram í erindi Láru V. Júlíusdóttur hrl. er sitt hvað jafnrétti og jafnrétti. Formæður höfðu uppi kröfur um kosningarétt kvenna og mæður börðust fyrir aukinni menntun kvenna. En þegar þessu hefur verið náð þarf að spyrja hverju konur í dag berjast fyrir? Má ekki segja að nú sé komið að konum sjálfum – í stað löggjafans – að stýra eigin fleyi? Ennfremur skrifar Kári fínan pistil þar sem hann heldur áfram að pæla í einkaleyfum í skjóli ríkisins. Í pistlinum segir svo: "HÍ hefur einnig einkaleyfi á útreikningum og sölu á almanökum og dagatölum. Háskólanum er skylt að gefa út árlega dagatöl fyrir Ísland og dreifa því til allra kaupstaða eins og það er orðað í lögunum. Einkalaðilar mega því ekki flytja inn sín dagatöl þótt að þau gætu verið ódýrari fyrir neytendur og mundu að sjálfsögðu stuðla að samkeppni milli framleiðanda. Reyndar mega einkaaðilar fá undanþágu á þessu einkaleyfi HÍ en verða að greiða fyrir það ákveðið gjald til ríkisins, sem dómsmálaráðherra ákveður eftir tillögum frá samkeppnisaðilanum; Háskóla Íslands."

Í gærkvöldi horfði ég á Silfrið, þar var athyglisverð umræða um fréttaflutning DV. Tóku sr. Halldór Reynisson og Ingólfur Margeirsson, Reyni Traustason fréttastjóra DV, aldeilis í gegn í þættinum og kenndu honum siðina og hvernig blaðamennska á að vera. Athygli vakti að Reynir gat ekki komið með gild rök fyrir því hversvegna blaðið er á þeirri ferð sem það er á. Ennfremur ræddi Egill við Steingrím Hermannsson fyrrum forsætisráðherra. Var farið yfir fjölda mála í athyglisverðu spjalli. Eftir fréttir horfði ég á fréttaskýringaþáttinn Í brennidepli, þar sem fjallað var um þrenn fróðleg mál. Leit svo á þáttinn Cold Case, venju samkvæmt. Horfðum svo á kvikmyndina Primary Colors með John Travolta og Emmu Thompson í aðalhlutverkum. Vel viðeigandi eftir að hafa séð heimildarmyndina The War Room í vikunni. Í kvikmyndinni er sögð sagan af forsetaframbjóðandanum Jack Stanton og hinni framagjörnu eiginkonu hans. Löstur hans er hinsvegar sá að hann er kvennaflagari hinn mesti, sem brátt kemur honum í koll í baráttu sinni fyrir forsetaembættinu. Ekki þarf að horfa lengi á báðar þessar myndir til að sjá að þau lýsa sömu kosningabaráttu, enda ætti flestum að vera ljóst að fyrirmyndin að Stanton er Clinton forseti og verið er að lýsa kosningabaráttunni 1992. Myndin sýnir á nokkuð snjallan hátt hvernig hægt er að koma manni í áhrifastöðu sem er bæði gegnumspilltur og vonlaus. Travolta er alveg hreint sláandi líkur Clinton forseta og er hér að sýna besta leik sinn síðan í Pulp Fiction. Sú sem stelur hinsvegar senunni er ótvírætt Kathy Bates, sem brilleraði í hlutverki Libby Holden, áróðursmeistara Stantons. Var mikil synd að hún hlaut ekki óskarinn fyrir sinn stórleik. Þetta er kvikmynd sem allir stjórnmálaáhugamenn ættu að hafa sannkallað gaman að.
Dagurinn í dag
* 1947 Heklugos hófst - voru þá 102 ár liðin frá því seinasta, gosið stóð í rúmt ár
* 1961 Tímamótafrumvarp um launajöfnuð kvenna og karla voru staðfest á Alþingi
* 1970 Henný Hermannsdóttir sigraði í keppninni Miss Young International í Japan
* 1982 Henry Fonda og Katharine Hepburn hlutu óskarinn fyrir stórleik í On Golden Pond
* 1988 Dustin Hoffman hlaut óskarinn fyrir magnaða túlkun á einhverfum manni í Rain Man
Snjallyrði dagsins
Good luck, and may fortune smile upon...most of you.
Lentulus Batiatus í Spartacus
Breytt 18.9.2006 kl. 08:02 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
28.3.2004 | 18:44
Engin fyrirsögn

José Maria Aznar fráfarandi forsætisráðherra Spánar skrifaði í vikunni ítarlega grein í The Wall Street Journal. Þar rekur hann aðgerðir stjórnvalda eftir hryðjuverkaárásina 11. mars og hrekur allar ásakanir um blekkingar og yfirhylmingu. Aznar bendir á að enginn sé óhultur fyrir hryðjuverkum, að nú sé ekki rétti tíminn til að gefa eftir í baráttunni gegn hryðjuverkum og gefa í skyn að hryðjuverkamenn geti náð fram vilja sínum með ódæðisverkum og hótunum. Hef ég fjallað um þetta mál í seinustu tveim sunnudagspistlum og tek því undir ummæli Aznar. Orðrétt segir hann í þessari vönduðu grein: "In the entire course of my political life, and especially during the eight years in which I have been prime minister, I have said that terrorism is not a local phenomenon, confined to particular areas or countries, to be confronted with domestic means alone. On the contrary, terrorism is a global phenomenon, one that crosses borders. And it gains in strength when we think that it is the problem of "others" and should be taken care of by "others." The debates that followed the Madrid attacks have been about whether they were carried out by ETA or al Qaeda. It is obviously essential to find out who was behind the attacks. But all terrorism carries the same threat; all terrorist attacks are infused with hatred for liberty, democracy and human dignity. They feed on each other."


Að þessu sinni fjalla ég um lágt plan fréttamennsku DV sem birtist almenningi í vikunni er birtar voru orðrétt í blaðinu yfirheyrsluskýrslur yfir sakborningum í svokölluðu líkfundarmáli og ennfremur hvernig Baugsfjölmiðlarnir brugðust við gagnrýni um málið og hvernig t.d. DV er komið á hált svell í umfjöllun um mál almennt. Í vikunni sá ég heimildarmyndina The War Room og fjalla í tilefni þess um forsetakosningar þá og nú í Bandaríkjunum. Margt hefur breyst á þeim 12 árum sem liðin eru frá hinum eftirminnilega kosningaslag Bush og Clinton 1992. Þá var Netið ekki orðinn sá mikli þáttur í kosningabaráttu sem nú er. Nú hafa forsetaframbjóðendur allir vefsíður og eru með þær sem aðalmiðstöð baráttu sinnar og til að koma upplýsingum til almennings um kosningabaráttuna og birta þar skrif eftir sig. Netvæðingin hefur verið hröð seinasta áratuginn og engin kosningabarátta háð á okkar tímum án notkunar Internetsins sem umfangsmikils fjölmiðils. 1992 var ekkert slíkt til staðar, helst var komið upplýsingum út með viðtölum og fjöldafundum. Það er enn til staðar eins og sést í kosningabaráttu nú og hitt því hrein viðbót við umfangsmikla kosningabaráttu vestan hafs. Leiðir þetta til þess að frambjóðendurnir eru í enn meiri nálægð við almenning, kjósendur sína. Fréttamennska er ennfremur orðin harðari en var á þessum tíma og gengið mun nær frambjóðendum. Að lokum skrifa ég um viðbrögð við pistli mínum um spjallvefi.

Horfði seinnipartinn í gær á Silfrið, þar sem var áhugavert spjall. Að loknum fréttum var að venju horft á Laugardagskvöld með Gísla Marteini og Spaugstofuna. Horfðum svo á óskarsverðlaunamynd Jonathan Demme, The Silence of the Lambs. Klassísk óskarverðlaunamynd sem segir frá Clarice Starling fulltrúaefna hjá FBI, sem fengin er til að hafa hendur í hári fjöldamorðingjans Buffalo Bill. Þarf hún að leita til mannætunnar og sálfræðingsins Dr. Hannibals Lecter, til að fá upplýsingar um hann. Á Clarice að meta það hvort hægt er að fá hann til að gefa einhverjar vísbendingar um glæpi Buffalo Bill. Sambandið sem myndast á milli þeirra er eitt það magnaðasta í kvikmynd seinni tíma og er þungamiðjan í myndinni. Þessi frábæra kvikmynd er byggð á metsölubók Thomas Harris og hlaut fimm óskarsverðlaun, þ.á.m. sem besta kvikmynd ársins 1991 og fyrir leik Anthony Hopkins og Jodie Foster. Bæði fara á kostum í mögnuðum hlutverkum. Eftir myndina var litið á næturlífið.
Dagurinn í dag
* 1875 Öskjugos hófst - talið eitt mesta öskugos sem orðið hefur á Íslandi
* 1909 Safnahúsið við Hverfisgötu vígt - þá og nú eitt glæsilegasta hús landsins
* 1956 Samþykkt á þingi að reka Varnarliðið úr landi - hætt við ákvörðunina í nóv. 1956
* 1977 Sir Peter Finch hlaut óskarinn fyrir leik sinn í Network - Finch lést í janúar 1977
* 1997 Frances McDormand hlaut óskarinn fyrir leik sinn í hinni mögnuðu Fargo
Snjallyrði dagsins
A census taker once tried to test me. I ate his liver with some fava beans and a nice chianti.
Dr. Hannibal Lecter í The Silence of the Lambs
Breytt 18.9.2006 kl. 08:02 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
26.3.2004 | 23:58
Engin fyrirsögn

Tony Blair forsætisráðherra Bretlands, kom til Trípólí í Líbýu í gær til að ræða við Moammar Gaddafi leiðtoga landsins, eftir áratugalanga einangrun þess. Fundarstaður leiðtoganna var tjald Gaddafi fyrir utan Trípólí. Er siður þar í landi að höfðingjar fundi í tjöldum og ráði ráðum sínum. Stóðu viðræður þeirra í rúmlega 90 mínútur. Ekki var annað hægt sjá en að vel færi á með leiðtogunum. Þeir tókust í hendur og vinsamlegt spjall í örfáar mínútur fyrir framan myndavélarnar fyrir og eftir fundinn í tjaldinu. Fundurinn markar þáttaskil og er skref í átt til þess að einangrun Vesturlanda á Líbýu líði undir lok. Sambúð Bretlands og Líbýu stórversnaði eftir að breska lögreglukonan, Yvonne Fletcher, féll fyrir skotum úr sendiráði Líbýu í London 1984 þegar efnt var til mótmæla gegn Gaddafi. Bretar slitu stjórnmálasambandi við landið í apríl 1984. Í desember 1988 sprakk bandarísk farþegaflugvél yfir Lockerbie í Skotlandi og 270 menn létu lífið. Árið 1991 sökuðu stjórnir Bretlands og Bandaríkjanna nafngreinda Líbýumenn um tilræðið en Líbýustjórn neitaði sekt þeirra. Réttað var yfir sakborningum í Haag eftir að þeir voru loks framseldir í apríl 1999. Voru þeir dæmdir til lífstíðarfangelsisvistar í Skotlandi á árinu 2001.



Nóg um að vera á frelsinu venju samkvæmt. Í dag birtist staða í Frelsisdeildinni og hafa miklar breytingar orðið á röð þingmannanna frá seinasta lista. Orðrétt segir á vefnum: "Pétur H. Blöndal skýst á toppinn og nær þriggja stiga forskoti á Einar K. sem fellur í annað sætið, þrátt fyrir að bæta við sig tveim stigum. Yngri þingmenn Sjálfstæðisflokksins bæta allir stöðu sína og áreiðanlegar heimildir segja að meira sé í pípunum. Birgir Ármannsson er hástökkvari vikunnar og stekkur upp um átta sæti. Eru þeir Sigurður Kári þá jafnir að stigum. Árni Mathiesen flutti tvö frumvörp sem fella niður greiðslur til ríkisins sem dugðu til að lyfta honum af botninum og fellur Einar Oddur á botninn þar með. Spennan magnast og getur allt gerst nú þegar lokabaráttan er að hefjast í frelsisdeildinni. Þessar miklu breytingar koma til vegna samþykktar á breytingu á lögum um erfðafjárskatt. Fær Geir Haarde stig fyrir að koma frumvarpinu í gegn enda lækkar það skatthlutfall af erfðafé. Þingmenn Sjálfstæðisflokksins í efnahags- og viðskiptanefnd fá allir stig fyrir að koma breytingatillögu í gegn sem lækkaði hlutfallið enn frekar. Þó ber að geta þess að með þessum breytingum gætu sumir þurft að greiða hærri fjárhæð í skatt af hlutafé. Er það miður og rétt að áminna í því sambandi að best hefði verið að fella niður skattinn með öllu." Gott mál að þingmenn safna stigum í deildinni. Ennfremur eru á vefnum góðir pistlar eftir Mæju, Ragnar og Hjölla. Og svo er að finna tvær ályktanir, önnur um fjárhættuspil og hin um skólagjöld.

Þurfti að fara suður í gær á fund seinnipartinn, að honum loknum hélt ég milli 6 og 7 á fund í áfengismálahópi Heimdallar í Valhöll þar sem rædd voru ýmis athyglisverð mál. Virkilega gaman að líta á blómlegt starf í Heimdalli og greinilegt að stjórn félagsins stendur sig vel og nóg er að gerast þar. Eftir þann fund fórum við niður í aðalsalinn þar sem var að hefjast myndbandakvöld hjá SUS og ennfremur umræða um forsetakosningarnar í Bandaríkjunum sem fram fara 2. nóvember. Sýnd var heimildarmyndin The War Room sem fjallar um kosningabaráttu Bill Clinton gegn George Bush eldri, þáverandi forseta Bandaríkjanna. Myndin var tilnefnd til óskarsverðlauna í flokki heimildarmynda árið 1993. Var myndin virkilega fróðleg og margir góðir punktar sem voru áhugaverðir fyrir þá sem fylgjast með bandarískri pólitík. Hef ég lengi haft verulegan áhuga á þessum málum og fannst þetta því mjög gagnlegt. Að myndinni lokinni fluttu Björn Bjarnason dómsmálaráðherra, og Friðjón Friðjónsson varaformaður SUS, erindi um stöðu mála fyrir kosningarnar og sátu fyrir svörum eftir það. Voru lífleg skoðanaskipti í Valhöll um komandi kosningaslag og t.d. sýndar auglýsingar sem eru í gangi í slagnum núna úti. Eftir fundinn átti ég gott spjall við góða vini. Virkilega gott kvöld.
Dagurinn í dag
* 1947 Knattspyrnusamband Íslands var stofnað - fjölmennasta íþróttasambandið innan ÍSÍ
* 1958 Sir Alec Guinness hlaut óskarinn fyrir stórleik sinn í The Bridge on the River Kwai
* 1973 Flugvélin Vor fórst norður af Langjökli - Björn Pálsson flugmaður, fórst með henni
* 1990 Jessica Tandy hlaut óskarinn fyrir leik sinn í kvikmyndinni Driving Miss Daisy
* 2000 Kevin Spacey hlaut óskarinn fyrir stórleik sinn í kvikmyndinni American Beauty
Snjallyrði dagsins
You look good, you are still young.
Moammar Gaddafi er hann heilsaði Tony Blair í Líbýu - 25. mars 2004
Breytt 18.9.2006 kl. 08:02 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
24.3.2004 | 23:58
Engin fyrirsögn

Þúsundir syrgjenda voru viðstaddir athöfn í Madrid í dag, til minningar um þá tæplega 200 sem týndu lífi í hryðjuverkaárásunum í borginni, 11. mars sl. Athöfninni var sjónvarpað beint og hún sýnd á risaskjám víða í höfuðborginni en alls sóttu fulltrúar meira en 50 ríkja athöfnina. Juan Carlos Spánarkonungur, fór fyrir tæplega 2.000 syrgjendum að Almudena dómkirkjunni. Leyniskyttur höfðu komið sér fyrir á nálægum húsþökum en öryggisgæsla hafði verið stóraukin, m.a. á báðum flugvöllum Madridar þar sem þjóðarleiðtogar komu til landsins, sem og á helstu leiðum til og frá borginni. Þúsundir söfnuðust saman á götum úti í annars hljóðri borg og horfðu á athöfnina á risaskjá á einu stærsta torgi borgarinnar, Puerta del Sol. Athöfnina sóttu forsætisráðherrar 14 ríkja og áttu þeir flestir fundi í dag með Jose Maria Aznar fráfarandi forsætisráðherra Spánar, og Jose Luis Rodriguez Zapatero verðandi forsætisráðherra. Þetta er í fyrsta sinn frá því lýðræði var endurreist eftir dauða Francisco Franco fyrir tæpum þrem áratugum, sem minningarathöfn á vegum spænska ríkisins, og ekki ætluð meðlimum konungsfjölskyldunnar, fer fram. Hefur verið gagnrýnt að minningarathöfnin fari fram í kaþólskri kirkju þar sem fórnarlömbin hafi ekki öll aðhyllst sömu trú. Spænskt samfélag er enn sem lamað eftir hryðjuverkin, hef ég fylgst með stöðu mála þar í gegnum frænku mína sem býr í Madrid. Mikil sorg er þar og reyndar enn þjóðarsorg og ljóst að það mun taka langan tíma fyrir Spánverja að yfirstíga þetta mikla áfall.



Í pistli mínum á frelsinu í dag fjalla ég um spjallvefina á Netinu. Fjalla ég þar einkum um nafnleyndina sem þar er stór þáttur af þessum vefum og einkum það að hún er oftast nær misnotuð í þeim tilgangi að vega að nafngreindu fólki í samfélaginu. Hef ég fylgst með spjallvefum í tæp fimm ár og því bæði verið virkur áhorfandi og beinn þátttakandi þar að. Hef ég á þessum tíma kynnst bæði góðu fólki sem vill tjá sig málefnalega hvort sem er undir nafnleynd eða undir nafni og hinsvegar öðru fólki sem misnotar nafnleyndina með allómerkilegum hætti. Hef ég óskað eftir málefnalegum umræðum og reynt eftir fremsta megni að sýna öllum sem þarna skrifa þá lágmarksvirðingu sem ég krefst að aðrir sýni mér. Eitt er að vera ósammála um málin en annað er að geta rætt málin með virðingu fyrir hvor öðrum og á málefnalegum forsendum. Því miður vill oft nokkuð mikið skorta á málefnalegar forsendur þessara spjallvefa og skítkast milli fólks vill oft ganga ansi langt. Þarf ég vart að benda daglegum áhorfendum þessara vefa á slíkt, enda hafa þeir sem eitthvað hafa fylgst með séð mörg dæmi slíks að fólk gangi alltof langt í skítkastinu undir nafnleynd. Nafnleyndin er misnotuð á nokkuð áberandi hátt og sumir geta ekki rætt málefnalega á þeim forsendum að vera nafnlausir. Svo einfalt er það. Jafn nauðsynleg og beinskeytt þjóðmálaumræða er á Netinu, er sorglegt að sjá suma notendur þessara vefa sem ráða ekki við ábyrgðina sem fylgir tjáningarforminu. Annað er að tjá sig undir nafni og taka fulla ábyrgð á skoðunum sínum og hinsvegar það að beina spjótum í allar áttir með níðskrif um annað fólk undir nafnleynd. Það á að vera sjálfsögð krafa að fólk með skoðanir tjái þær undir nafni eða leggi á þær áherslu með þeim hætti. Nafnleyndin vill oft verða skref til að vega að öðrum og sumir ganga of langt. Það er einfaldlega hámark aumingjaskaparins að níða skóinn af samborgurum sínum með ómálefnalegum hætti undir nafnleynd á þessum vefum og þarf að komast á hreint hvar ábyrgð á slíku liggur.

Tekið var því rólega í gærkvöldi og horft á góða mynd að loknum dægurmálaþáttunum. Litum við á gamanmyndina Jerry Maguire. Stórfengleg mynd frá leikstjóranum Cameron Crowe. Maguire starfar hjá stóru umboðsfyrirtæki og er sérfræðingur í öllu sem lýtur að því að búa til stjörnur úr efnilegum íþróttamönnum. Á nokkrum árum hefur hann náð miklum og góðum árangri í starfi sínu, enda hefur hann notað öll þau brögð sem menn þurfa að kunna ef þeir vilja ná langt í bransanum - þar á meðal þau sem geta vart kallast annað en óheiðarleg. Dag einn gerist eitthvað í kollinum á Jerry Maguire. Skyndilega fær hann svo heiftarlegt samviskubit yfir sýndarmennskunni og peningagræðginni sem einkennir starf hans að hann finnur sig tilneyddann til að skrifa skýrslu um málið þar sem hann leggur m.a. til að fyrirtæki hans skipti um stefnu í þessum málum. Skýrslan vekur óneitanlega mikla athygli hjá stjórnendum fyrirtækisins og öðrum starfsmönnum, en því miður ekki til góðs fyrir Jerry. Hann er rekinn, sumum samstarfsmönnum hans og keppinautum innan fyrirtækisins til nokkurrar ánægju þar sem þeir fá þá í sinn hlut umboð fyrir alla íþróttakappanna sem hann hafði á sínum snærum. Alla nema einn! Sá heitir Rod Tidwell og er hann annars flokks ruðningskappi sem hefur tröllatrú á að hann eigi skilið að verða stjarna á stjörnulaunum, en er að renna út á tíma. Góð og eftirminnileg kvikmynd í alla staði. Var tilnefnd til 5 óskarsverðlauna, þ.á.m. sem besta kvikmynd ársins 1996 og fyrir leik Tom Cruise í hlutverki aðalsöguhetjunnar. Cuba Gooding, Jr. hlaut óskarinn fyrir stórleik í hlutverki íþróttakappans Rod Tidwell. Ennfremur er óskarsverðlaunaleikkonan Renée Zellweger stórfengleg sem Dorothy Boyd.
Dagurinn í dag
* 1931 Fluglínutæki voru notuð í fyrsta sinn við björgunarstörf hér á landi
* 1948 Sir Laurence Olivier hlaut óskarinn fyrir leik sinn í kvikmyndinni Hamlet
* 1973 Kjarvalsstaðir, myndlistarhús Reykjavíkurborgar á Miklatúni, tekið í notkun
* 1987 Albert Guðmundsson sagði af sér ráðherraembætti vegna ásakana um skattamisferli
* 2002 Halle Berry hlaut aðalleikkonuóskarinn fyrir Monster's Ball, fyrst þeldökkra leikkvenna
Snjallyrði dagsins
No one should think themselves wiser than me!
Viktoría Englandsdrottning í Mrs. Brown
Breytt 18.9.2006 kl. 08:02 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
23.3.2004 | 22:59
Engin fyrirsögn

Dagblaðið DV birtir í dag játningu eins sakborninga í líkfundarmálinu á Neskaupstað í heild sinni upp úr lögregluskýrslum. Þar kemur fram að sakborningurinn hafi viljað koma Vaidas Jucevicius undir læknishendur en annar sakborninga sem einnig situr í varðhaldi, hafi verið því mótfallinn og samstarfsmenn hans í Litháens sem sáu um að smygla eiturlyfjunum til Íslands. Segir sakborningurinn í lögregluskýrslunni að rússnesk/litháisk mafía sem starfi hér á landi hafi staðið að fíkniefnaflutningnum. Fram kemur í blaðinu í dag að hægt hefði verið að bjargar Vaidas ef hann hefði komist undir læknishendur. Er lýst í smáatriðum í blaðinu því sem sakborningurinn veit um ástand mannsins og meðferðina á honum seinustu dagana sem hann lifði. Vakti birting þessara gagna í blaðinu mikla athygli, enda undarlegt að birta slík gögn á því stigi sem málið er á. Björn Bjarnason dómsmálaráðherra, sagði í viðtölum í dag að birting DV á skýrslunni og játningunni væri aðför að réttarkerfinu og grafalvarlegt mál. Kom fram í máli hans að hann harmi að blaðamennska á Íslandi sé komin á þetta stig. Fram kom hjá Boga Nilssyni ríkissaksóknara, að embættismönnum og verjendum sé óheimilt að afhenda fjölmiðlum gögn af þessu tagi. Ljóst sé að um þagnarskyldu- og trúnaðarbrot sé að ræða. Öðru máli kunni að gegna um sakborninginn sjálfan hafi hann gefið fjölmiðli upplýsingarnar. Hefur hann fyrirskipað rannsókn á málinu. Finnst mér þetta mál allt með ólíkindum og lýsa vel slöppu siðferði DV og þeirra sem þar eru í forsvari. Þetta er blaðamennska á mjög lágu plani.



Í dag birtist á frelsinu virkilega góður pistill Ástu Möller um heilbrigðismál. Orðrétt segir þar: "Hver hefur ekki staðið ráðalaus frammi fyrir líkamlegum einkennum eða sjúkleika hjá sjálfum sér eða einhverjum nákomnum og ekki vitað hvert ætti að snúa sér. Sumir hringja í ættingja eða vini úr heilbrigðisstéttum til að leita ráða. Aðrir hringja á bráðavakt Landspítala háskólasjúkrahúss, á Læknavaktina eða heilsugæslustöð til að fá viðtal hjá lækni. Erindið getur verið þess eðlis að jafnvel nægir einfalt svar eða fullvissa um að viðkomandi hefur brugðist rétt við. Stundum þarf hins vegar að bregðast skjótt við ef einkennin eru alvarleg. Í fæstum tilvikum er hins vegar augljóst hvert viðkomandi á að leita með erindi sitt. Um nokkurt skeið hef ég í ræðu og riti bent á kosti símatorgs um heilbrigðisþjónustu, heilsulínu, þar sem almenningur getur leitað ráða og upplýsinga um aðkallandi vanda og fær leiðbeiningar um hvert það á að leita innan kerfisins. Slík símaþjónusta hefur verið rekin í Bretlandi á vegum opinberra aðila frá árinu 1998 og tekur nú til alls landsins. Í Bretlandi, Svíþjóð og Kanada, þar sem slík símaráðgjöf er viðurkenndur hluti af heilbrigðisþjónustu, hafa rannsóknir bent til þess að í 40-50% tilvika geti fólk fengið úrlausn með símtali við heilbrigðisstarfsmann og þurfi ekki að leita lengra." Virkilega áhugaverð grein þar sem farið er yfir þetta mál mjög vel og sem fyrr er gaman að lesa skrif Ástu, sem þessa dagana situr á þingi í fjarveru Guðlaugs Þórs Þórðarsonar.

Í Kastljósinu í gærkvöldi mætti Árni Johnsen fyrrum alþingismaður, og ræddi um seinustu mánuði í lífi sínu og grein hans í Mogganum í dag. Áhugavert og gott viðtal. Eftir dægurmálaþættina horfðum við á kvikmyndina The Bone Collector. Fjallar um glæpasérfræðinginn Lyncoln Rhyme sem liggur nú algjörlega lamaður og hjálparvana eftir slys sem hann lenti í við rannsókn síðasta máls síns hjá lögreglunni. Hann er við það að gefast upp á lífinu sjálfu og hefur fengið loforð vinar síns, sem er læknir, um að hann hjálpi honum yfir móðuna miklu eftir örfáa daga. Á sama tíma rekst lögreglukonan Amelia Donaghy á illa farið lík manns inni í lestargöngum og uppgötvar á ummerkjunum, bæði á líkinu sjálfu og í kringum það, að hér er ekkert venjulegt mannslát á ferðinni. Svo fer að henni er skipað að fara til Lyncolns og sýna honum hvað hún fann í þeirri von að hann geti gefið lögreglunni einhverjar vísbendingar. Lyncoln fær fljótlega brennandi áhuga á málinu, tekur það að sér og krefst þess að hér eftir verði Amelia augu hans og eyru við rannsókn málsins og í stöðugu símasambandi við hann á meðan þau komast til botns í því. Í fyrstu er Ameliu ekkert sérlega vel við að taka þetta að sér, en verður auðvitað að gera það sem henni er sagt að gera. Þar með er hafin ein óvenjulegasta rannsókn sem sögur fara af á morðmáli sem á engan sinn líka! Þau Denzel Washington og Angelina Jolie fara hér bæði á kostum og skapa eftirminnilega karaktera eins og þau eru þekkt fyrir. Virkilega góð spennumynd. Eftir að hafa séð hana og tíufréttir fór ég að lesa í bókinni Complete Book of U.S. Presidents. Virkilega skemmtileg lesning.
Dagurinn í dag
* 1663 Ragnheiður biskupsdóttir lést - um hana var ortur sálmurinn Allt eins og blómstrið eina
* 1937 Sundhöllin í Reykjavík var vígð að viðstöddu fjölmenni - mikil framför fyrir sundfólk
* 1950 Olivia De Havilland hlaut óskarinn fyrir leik sinn í kvikmyndinni The Heiress
* 1998 Kvikmyndin Titanic, hlaut 11 óskarsverðlaun - vinsælasta mynd 20. aldarinnar
* 2003 Catherine Zeta-Jones hlaut óskarinn fyrir leik sinn í kvikmyndinni Chicago
Snjallyrði dagsins
Start the car I know a whoopie spot... where the gin is cold and the pianos hot. It's just a noisy hall, where there's a nightly brawl... And all that Jazz.
Velma Kelly í Chicago
Breytt 18.9.2006 kl. 08:02 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)