Engin fyrirsögn

FlokkarnirHeitast í umræðunni
Undanfarna daga hefur mikið verið rætt um fjármál stjórnmálaflokkanna og hafa nokkrir þeirra hvatt aðra til að setja heildarlög eða reglur um þau. Hæst í þessum málum hin seinni ár hefur galað Samfylkingin og hafa þeir í tveim seinustu þingkosningum talað um að opinbera eigi öll fjárframlög til stjórnmálaflokka sem fara yfir 500.000 krónur. Sjálfstæðisflokkurinn hefur aftur á móti bent á að heiðarlegast væri að banna fyrirtækjum að styrkja stjórnmálaflokka. Samfylkingin er ekki mjög trúverðug og þrátt fyrir loforð í kosningunum 1999 og 2003 um að opinbera sjálfviljug öll fjárframlög og bókhald sitt hefur það ekki verið gert. Samfylkingin mun hafa sett sér þá reglu fyrir síðustu alþingiskosningar, að ekki skyldi gefið upp hver léti fé af hendi rakna til flokksins, nema þau fari yfir hálfa milljón króna. Í dag var það afhjúpað að flokkurinn hafi aðeins óskað eftir framlögum undir 500.000 krónum til fyrirtækja, sem þýðir auðvitað að þau eru undir mörkunum. Í Kastljósþætti í gærkvöld var Ingibjörg Sólrún Gísladóttir varaformaður flokksins, gestur. Þar spurði þáttarstjórnandi um þetta mál. Varaformaðurinn varð heldur föl í framan er farið var að tala um málið. Hún reyndi að draga tilvist þessa bréfs (beiðni af hálfu flokksins til fyrirtækjanna) í efa, en hún þagnaði snögglega er spyrill sagðist hafa séð bréfið og gæti staðfest innihald þess. Það lítur út fyrir að tal Samfylkingarinnar um opið bókhald sé sýndarmennska hin mesta. Flokkurinn vill setja reglur sem færir þeim svo möguleikann á að þeir þurfi ekki að gefa upp hverjir styrktaraðilar flokksins eru. En umsjónarmaður Kastljóss fær prik fyrir að feisa varaformanninn.

Björn Bjarnason dómsmálaráðherraÁ þriðjudag sendi umboðsmaður Alþingis frá sér álit vegna skipan hæstaréttardómara í ágúst 2003 er Björn Bjarnason dómsmálaráðherra, skipaði Ólaf Börk Þorvaldsson til setu í réttinum. Þar kemur fram að mati umboðsmanns að málsmeðferð dómsmálaráðherra við undirbúning að skipun í embættið hafi ekki fullnægt kröfum laga um dómstóla þess efnis að umsögn Hæstaréttar lægi fyrir um þá lögfræðilegu þekkingu sem ráðherra hafði ákveðið að leggja sérstaka áherslu á við val milli umsækjenda. Þessi úrskurður vekur athygli í ljósi þess að ráðherra tekur afstöðu til umsækjenda og velur úr þeirra hópi að fengnu áliti sitjandi hæstaréttardómara, honum ber þó hinsvegar engin skylda til að fara eftir því vali. Á það ber að líta að allir umsækjendur voru metnir hæfir til setu í réttinum og ráðherra tók afstöðu eftir eigin mati á umsækjendum. Hann valdi dómara með tilliti til þess hvaða eiginleikum dómari ætti að hafa til að geta styrkt réttinn. Færði ráðherra ítarleg og gild rök fyrir vali sínu. Álit umboðsmanns hnekkir ekki þeirri ákvörðun um skipan dómara sem fram fór, né heldur ástæður ráðherra fyrir vali þess sem var skipaður, né því mati ráðherra hver var hæfastur í stöðuna. Komið er fram með ábendingar varðandi túlkun á lögum, sem eðlilegt er. Lengi má ræða almennt um lög um réttinn. Það er því auðvitað fjarstæða að ráðherra víki vegna þessa máls, eins og tveir varaformenn sem göluðu á þingi í gær til að óska eftir fjölmiðlaathygli, óskuðu eftir.

AlþingiLjóst er að þinglok verða í þessum mánuði þegar mikilvæg þingmál hafa hlotið samþykki löggjafarsamkundunnar. Í seinustu kosningum lofuðu stjórnarflokkarnir skattalækkunum og annar þeirra tilgreindi tímamörk til að vinna eftir. Eftir því sem ég hef heyrt í vetur átti að bíða þess að samningar yrðu í höfn og helstu útlínur lægju fyrir að því leyti áður en loforðið yrði efnt. Mikilvægt er að tillögur stjórnarflokkanna í skattamálum og skattalækkanir verði lögfestar nú á vorþinginu. Ekki er eftir neinu að bíða með að ganga frá þessum málum og óskiljanlegt ef bíða á með að ganga frá hinni endanlegu afgreiðslu málsins. Það er algjörlega óviðunandi að framsóknarmenn ætli að tefja það að loforð um skattalækkanir verði efnt fyrir vorið til að hirða heiðurinn af því eftir forsætisráðherraskiptin, og ekki ásættanlegt! Mikilvægt er að afgreiða þessi mál endanlega fyrir vorið. Hvað okkur ungt hægrifólk varðar er ljóst að tímabært er að skattalækkanir komi til framkvæmda eins og lofað var og það sem fyrst. Nú reynir á hvort ráðherrar Sjálfstæðisflokksins og þingmenn hans hafa bein í nefinu til að þrýsta á um að loforð verði efnd. Ég vil endilega hvetja fjármálaráðherra til að sýna okkur hvers hann er megnugur. Oft var þörf, en nú er svo sannarlega nauðsyn!

HeimdallurSvona er frelsið í dag
Það er greinilegt að fleiri en ég vilja fá að sjá sem fyrst efndir kosningaloforða stjórnarflokkanna í skattamálum. Í pistli dagsins á frelsinu fjallar Erlingur Þór um mikilvægi þess að orð verði efnd. Orðrétt segir hann: "Í aðdraganda síðustu kosninga var, líkt og ávallt, kjósendum lofað öllu fögru, Samfylkingin auknum útgjöldum ríkisins á ýmsum sviðum og Vinstri-grænir því að ýmislegt í rekstri ríkisvaldsins yrði ókeypis, o.s.frv.. Sjálfstæðisflokkurinn tók þátt í þessu og tók að lofa og lofa, “við munum og við ætlum” voru algengustu orðin þá, en það loforð sem að greip margan var fagurt loforð um stórfelldar skattalækkarnir. Ég var einn af þeim. Mér þótti löngu tímabært að skattar myndu lækka hér á landi og mér þótti trúverðugleiki Sjálfstæðisflokksins það mikill að ég taldi það öruggt að ef þeir kæmust aftur til valda myndu þeir ekki valda mér vonbrigðum. Þannig að þið getið rétt ímyndað ykkur hve sárt það er að standa frammi fyrir fólki sem að ég fullyrti að kjósa ætti Sjálfstæðisflokkinn þar sem það væri eini flokkurinn sem að mark væri hægt að taka á í þessari djúpu laug af loforðum og reyna að útskýra hvers vegna sumir þeirra, það er skattarnir, hækkuðu eftir kosningar?" Mjög góð skrif og vert að taka undir hvert orð sem þar kemur fram.

Van HelsingMjög gott kvöld
Eftir kvöldfréttirnar var litið á Kastljósið þar sem Einar Oddur Kristjánsson alþingismaður, og Ingibjörg Sólrún Gísladóttir varaþingmaður, ræddu nokkur helstu hitamál stjórnmálanna hérlendis. Einar tók Ingibjörgu alveg í gegn í rökræðunum, þetta var greinilega ekki hennar dagur. Svansí sallaði hana svo endanlega niður þegar farið var að ræða um tvískinnung Samfylkingarinnar vegna fjárframlaga og bréfs flokksins til fyrirtækja. Gott mál. Eftir þáttinn fórum við á Bautann og fengum okkur að borða með Villa frænda og kærustunni hans, henni Helgu. Áttum magnað spjall og fengum okkur góðan mat. Eftir það var haldið á forsýningu á kvikmyndinni Van Helsing. Aldeilis stórfengleg mynd, sem heillaði okkur öll uppúr skónum. Hvet alla til að líta á hana í bíó á næstunni. Eftir myndina var litið á Kaffi Karólínu og fengið sér smáhressingu. Því hið allra besta kvöld.

Dagurinn í dag
1912 Stór jarðskjálfti varð á Suðurlandi - mikið eignatjón varð í skjálftanum
1954 Alfredo Stroessner rænir völdum í Paraguay - einræðisstjórn hans var felld 1989
1966 Ian Brady og ástkona hans Myra Hindley, sakfelld fyrir hin frægu Moors morð
1986 Hornsteinn lagður að húsi Seðlabankans af forseta Íslands - tekið í notkun í apríl 1987
1994 Elísabet Englandsdrottning og Mitterrand Frakklandsforseti vígja Ermarsundsgöngin

Snjallyrði dagsins
Þegar öllu er á botninn hvolft, þá fer allt einhvernveginn, þótt margur efist um það á tímabili.
Halldór Kiljan Laxness skáld

Engin fyrirsögn

Davíð Oddsson forsætisráðherraHeitast í umræðunni
Davíð Oddsson forsætisráðherra, flutti í gær ítarlega ræðu á aðalfundi Samtaka atvinnulífsins. Er þetta í síðasta sinn sem Davíð ávarpar aðalfund SA, í bili að minnsta kosti, en hann lætur af embætti forsætisráðherra eins og kunnugt er, 15. september nk. Orðrétt sagði Davíð í ræðunni: "Enginn efi er á því að EES-samningurinn hafði ýmis góð áhrif á íslenskt atvinnulíf. En það er sérstakt að hlýða á suma þá sem nú tala hvað mest um að EES samningurinn sé veikur og fullyrða gjarnan að þær efnahagsframfarir sem orðið hafa undanfarin áratug eigi allar upphaf sitt og endi í þeim samningum. Þessi skoðun er að mínu mati slík endaleysa að vart er á hana orðum eyðandi ef ekki væri fyrir þá sök að hún endurspeglar afstöðu sem ég tel mjög varhugaverða." Hann fjallaði einnig um fjölmiðlafrumvarpið í ræðunni og sagði, að það væri lagt fram af brýnni nauðsyn því ástandið á íslenska fjölmiðlamarkaðinum hefði verið orðið með öllu óviðunandi. Davíð sagði að fjölmiðlar væru ein meginstoð lýðræðisins í landinu og því mætti öllum vera ljóst að þær kröfur sem gerðar séu til fjölmiðla séu aðrar og meiri en gerðar séu til reksturs fyrirtækja almennt. Aðeins örfáar þjóðir myndu láta samþjöppun eins og hér hafi orðið afskiptalausa og þegar við bætist að aðaleigandi fjölmiðlaveldisins sé eitt umsvifamesta fyrirtæki landsins þá hljóti allir sem vilja varðveita frelsi og lýðræði í landinu að bregðast við. Athyglisverð ræða hjá Davíð, sem flestir ættu að lesa og kynna sér.

George W. Bush forsetiGeorge W. Bush forseti Bandaríkjanna, var í dag í viðtalsþætti á arabísku sjónvarpsstöðinni al-Hurra, til að reyna að endurheimta traust Arabaheimsins í kjölfar myndbirtinga í síðustu viku er sýndu pyntingar hernámsliðsins í Írak á stríðsföngum. Donald Rumsfeld varnarmálaráðherra Bandaríkjanna, hefur sagt að misþyrmingar á stríðsföngum með þeim hætti sem þarna hafi komið í ljós verði ekki liðnar. Hann hefur lofað að grípa til viðeigandi aðgerða gegn þeim sem brutu á föngunum í Abu Ghraib-fangelsinu. Sagt var frá því í gær í fréttum CNN að lykilyfirmenn í herlögreglu og leyniþjónustu hersins hafi ekki farið eftir gildandi lögum og reglum og því ekki komið í veg fyrir misþyrmingar á föngunum og þær hafi staðið á tímabilinu frá ágúst 2003 til febrúar 2004. Föngunum mun t.d. hafa verið hótað með 9 mm skammbyssum, köldu vatni hellt á þá, karlföngum hótað nauðgun, fangarnir barðir með kústskafti og stól, þeir svívirtir með fosfórljósi og hugsanlega kústskafti, hótað með herhundum, vírar festir við útlimi, fangar sakaðir um samkynhneigð og naktir fangar þvingaðir í vafasamar stellingar. Þetta mál er vægast sagt skelfilegt og mikilvægt að þeir sem brutu af sér verði refsað með viðeigandi hætti.

Margaret ThatcherEins og fram kom hér á blogginu í gær, voru liðin í gær 25 ár frá því að Margaret Thatcher tók við embætti sem forsætisráðherra Bretlands. Vék ég að þessum merku tímamótum í grein hér og ennfremur á heimasíðunni. Þessum tímamótum var fagnað í gærkvöldi í boði sem Breski Íhaldsflokkurinn hélt Thatcher. Þar voru fluttar margar ræður og verka hennar á forsætisráðherrastóli minnst. Michael Howard leiðtogi Íhaldsflokksins, flutti langa og ítarlega ræðu og sagði Thatcher einn merkasta leiðtoga hægrimanna á 20. öld og aðeins Sir Winston Churchill kæmist jafnfætis henni. Breskir hægrimenn gátu glaðst yfir fleiru en aldarfjórðungsafmæli Thatcher ismans í gær, enda birtist góð könnun í gær fyrir flokkinn, þar sem fram kemur að hann er stærsti flokkur landsins og að Howard er jafnvinsæll forsætisráðherranum. Það er vonandi stutt í að breskir íhaldsmenn nái aftur stjórn landsins.

Helga ÁrnadóttirSvona er frelsið í dag
Í pistli dagsins á frelsinu fjallar Helga um bandarísk stjórnmál. Í pistlinum segir: "Forsetaefni demókrata, John Kerry, hefur lýst því yfir að hann vilji stöðva ,,útflutning” bandarískra starfa. Með því er hann að vísa til þess að á síðustu áratugum hafa bandarísk fyrirtæki í auknum mæli flutt framleiðslustarfsemi sína til annarra landa í hagræðingarskyni. Það hefur óhjákvæmilega leitt til þess að sumir Bandaríkjamenn hafa misst vinnuna. John Kerry gleymir þó gjarnan að nefna að störf sem krefjast betur menntaðs vinnuafls hafa á sama tíma verið að færast í auknum mæli til Bandaríkjanna, jafnvel tvöfalt til þrefalt fleiri störf en flust hafa úr landinu. Það má vel færa rök fyrir því að stefna Kerrys í atvinnumálum sé á villigötum því jákvæð afleiðing þess að störf flytjist landa á milli er að þá nýta þjóðirnar það sem hagfræðingar kalla sína hlutfallslegu yfirburði. Hugtakið hlutfallslegir yfirburðir er notað til að lýsa því þegar þjóð getur framleitt vöru með minni tilkostnaði en önnur þjóð." Ríkisdagblaðið, tímarit gefið út af Heimdalli, félagi ungra sjálfstæðismanna í Reykjavík, kom út í gær og er í því fjöldi af góðu efni. Allir geta kynnt sér efnið með því að smella á fyrrnefndan tengil. Ennfremur bendi ég á netviðtal við Ástu Möller hjúkrunarfræðing, þar sem fjallað er um heilbrigðismál.

The MatrixFundur - kvikmynd
Eftir kvöldfréttirnar var litið á fréttirnar hjá Aksjón, var þar ítarleg umfjöllun um fréttir af Rekstrar- og viðskiptadeild Háskólans á Akureyri. Horfði á bæjarstjórnarfund á Aksjón, þar sem tekist var á um bæjarmálin. Mikið rætt um öldrunar- og jafnréttismál að þessu sinni, sérstaka athygli vakti sem fyrr undarleg framganga Oktavíu Jóhannesdóttur leiðtoga Samfylkingarinnar, í bæjarstjórn. Guðmundur Jóhannsson varabæjarfulltrúi, hélt góða ræðu um skipulagsmál. Oddur Helgi tók Oktavíu í kennslustund um siði í bæjarstjórn. Ágætisfundur, en alltaf jafnmerkilegt að fylgjast með umræðunum. Horfðum að útsendingunni lokinni á kvikmyndina The Matrix. Mögnuð mynd sem gerist einhvern tíma í framtíðinni og fjallar um tölvuséníið Neo sem lifir að því er virðist (og hann virðist halda) ósköp venjulegu og einkar viðburðasnauðu lífi. Það á hinsvegar eftir að breytast hressilega þegar hann fer skyndilega að heyra rödd innan úr höfðinu á sér sem gefur honum fyrirmæli um að flýja frá dularfullum svartklæddum mönnum sem koma á vinnustað hans. Ómætstæðilegt tæknibrellumeistaraverk. Kláraði landbúnaðargreinina að lokinni myndinni, styttist í að landbúnaðarrit SUS komi út.

Dagurinn í dag
1639 Brynjólfur Sveinsson var vígður Skálholtsbiskup - hafði mikil áhrif í embættistíð sinni
1945 Guðmundur Kamban rithöfundur, skotinn til bana af hermanni í Danmörku
1981 Bobby Sands deyr, 27 ára að aldri - hann hafði verið í hungurverkfalli í 66 daga
1998 GSM þjónusta Tals hefst - stækkaði ört á skömmum tíma. Varð hluti af Og Vodafone 2003
2000 Össur Skarphéðinsson kjörinn fyrsti formaður Samfylkingarinnar í póstkosningu

Snjallyrði dagsins
En því aðeins geta þjóðirnar til fulls þekkt sig sjálfar, að þær þekki einnig aðrar þjóðir, gefi nákvæman gaum að öllu lífi þeirra og framförum, og taki dæmi þeirra og reynslu sér til eftirdæmis og viðvörunar
Jón Sigurðsson forseti

Engin fyrirsögn

AlþingishúsiðHeitast í umræðunni
Davíð Oddsson forsætisráðherra, mælti á þingi í gær fyrir umdeildu fjölmiðlafrumvarpi ríkisstjórnarinnar. Til að koma málinu á dagskrá þurfti að greiða atkvæði um afbrigði, en frumvarpið kemur fram eftir að fresti til að setja ný mál á dagskrá rann út. Sú atkvæðagreiðsla fór 32-27, það hefur aldrei gerst í þingsögunni að neitað hefði verið um afbrigði. Í ræðu sinni sagði forsætisráðherra að því færi fjarri að tilraunir til að stemma stigu við samþjöppun eignarhalds á fjölmiðlum væru séríslenskt fyrirbæri; jafnvel þótt aðstæður í öðrum löndum ættu sér enga hliðstæðu við það sem hér á landi væri raunin. Sagði hann þróun á fjölmiðlamarkaði hérlendis hafa verið orðna óæskilega og tímabært að setja lög til að tryggja heilbrigðan fjölmiðlamarkað. Þar væri Ísland að feta í fótspor annarra lýðræðisríkja. Forsætisráðherra sagðist telja að þótt einhverjum núverandi flokka á Alþingi hefði fipast þegar út í alvöruna væri komið hefðu þeir allir á einhverju stigi verið því sammála að setja þyrfti reglur til að stemma stigu við slíkri samþjöppun eignarhalds á fjölmiðlamarkaði sem nú blasti við. Urðu ítarlegar umræður um frumvarp ríkisstjórnarinnar og stóðu þær fram á nótt. Kom fram í máli stjórnarandstöðuþingmanna að frumvarpið væri meingallað, óvandað og gæti kostað ríkissjóð milljarða í formi skaðabóta. Starfsfólk Norðurljósa mótmæltu frumvarpinu við þinghúsið, og sumir þeirra köstuðu banönum að þinghúsinu.

Ingibjörg Sólrún GísladóttirGuðrún ÖgmundsdóttirMikla athygli vakti í gærkvöldi er Ingibjörg Sólrún Gísladóttir varaþingmaður og borgarfulltrúi, tók sæti á þingi í fjarveru Guðrúnar Ögmundsdóttur. Var tilkynnt að vegna veikinda gæti Guðrún ekki sinnt þingstörfum á næstunni og eins og flestir vita er Ingibjörg fyrsti varamaður Samfylkingarinnar í Reykjavíkurkjördæmi norður. Hún náði ekki kjöri við alþingiskosningarnar fyrir tæpu ári, þann 10. maí 2003. Er þetta athyglisvert í ljósi þess að fyrr sama dag birtist grein Ingibjargar í Morgunblaðinu, þar sem hún fjallar um fjölmiðlamálið. Er þetta í þriðja sinn sem Guðrún víkur til að rýma fyrir Ingibjörgu á þingi frá kosningum. Er engin furða sennilega að Samfylkingarfólk reyni að lappa upp á Ingibjörgu og koma henni í sviðsljósið. Hefur ásýnd hennar ryðgað nokkuð eftir að hún hrökklaðist af borgarstjórastóli vegna þingframboðs fyrir einu og hálfu ári og náði ekki kjöri í kosningunum. Hefur hún verið lítt sýnileg á pólitískum vettvangi síðan þá, ja nema ef vera skyldi innan Samfylkingarinnar, þar sem hún er nú varaformaður að baki Össurar Skarphéðinssonar. Ingibjörg sem byggði varnarvirki fyrir nokkur fyrirtæki í Borgarnesræðum sínum, vitnar nú í þær fram og til baka og telur þær heilagan boðskap. Flestum öðrum þóttu þær ræður lykta af einhverju öðru en snilld.

Michael HowardKosningabarátta fyrir Evrópuþingkosningarnar 10. júní nk. er komin á fullt í Evrópusambandslöndunum. Greinilegt er að hart verður tekist á um sæti Breta á þinginu í þeim kosningaslag. Hefur Breski Íhaldsflokkurinn verið áberandi í umræðunni um Evrópumál að undanförnu í Bretlandi og sótti Michael Howard leiðtogi flokksins, hart að Tony Blair forsætisráðherra, vegna umræðu um þjóðaratkvæðqgreiðslu um stjórnarskrá ESB og ennfremur hefur hann gagnrýnt linkind Blairs forsætisráðherra í viðræðum Breta við sambandið um stjórnarskrána. Hefur Howard heitið því að binda enda á stjórn Evrópusambandsins yfir breskum fiskveiðum, nái flokkurinn góðri stöðu í Evrópukosningunum og næstu þingkosningum í Bretlandi. Skv. nýrri skoðanakönnun í Bretlandi nýtur Íhaldsflokkurinn meira fylgis en Verkamannaflokkurinn. Persónulegt fylgi Blair og Howard er jafnmikið, en það hefur ekki gerst í allri forsætisráðherratíð Blair að hann standi jafnfætis öðrum stjórnmálaleiðtoga.

Margaret ThatcherMargaret Thatcher
Í dag eru 25 ár liðin frá því Margaret Thatcher tók við embætti sem forsætisráðherra Bretlands. Daginn áður hafði Íhaldsflokkurinn unnið táknrænan sigur í þingkosningum og velt úr sessi ríkisstjórn Verkamannaflokksins sem James Callaghan veitti forsæti. Kjör hennar í embætti markaði mikil þáttaskil. Hún var fyrsti kvenforsætisráðherra Bretlands og hafði fjórum árum áður verið kjörin leiðtogi Íhaldsflokksins og steypt þar af stóli, Edward Heath fyrrum forsætisráðherra. Stjórnmálaferill hennar hófst árið 1951 er hún var frambjóðandi flokksins í Dartford. Hún náði ekki kjöri, en jók fylgi flokksins þar umtalsvert. 1959 var Thatcher kjörin á breska þingið fyrir Finchley hérað, sat hún á breska þinginu fyrir það kjördæmi allt þar til hún hætti þingmennsku árið 1992. Er Íhaldsflokkurinn komst til valda árið 1970 varð Thatcher menntamálaráðherra og leiddi hún í sinni ráðherratíð, uppstokkun í menntamálum og stóð fyrir miklum sparnaðaraðgerðum. Eftir þingkosningarnar 1974 misstu íhaldsmenn völdin og Heath missti leiðtogastólinn ári síðar eins og ég hef vikið að, og Thatcher tók við leiðtogahlutverkinu. Forsætisráðherraferill Margaret Thatcher markaðist af nýjum og ferskum tímum í breskum stjórnmálum. Stjórn hennar bætti stöðu bresks efnahagslífs gríðarlega, kom stjórn á útgjöld ríkissjóðs, minnkaði hlut ríkisins í efnahagslífinu og einkavæddi fjölda ríkisfyrirtækja. Thatcher lét af embætti 28. nóvember 1990 eftir rúmlega 11 ára valdaferil og sigur í þrennum þingkosningum, hún var eini forystumaður breskra stjórnmála sem náði slíkum áfanga á 20. öld og sat lengst á þeim tíma. Hún er án nokkurs vafa einn af fremstu leiðtogum hægrimanna á 20. öld, markaði mikinn sess í sögu aldarinnar.

Hafsteinn Þór HaukssonPistill Hafsteins
Á vef Sambands ungra sjálfstæðismanna birtist í gær pistill eftir Hafstein Þór Hauksson formann sambandsins. Þar fjallar hann fjölmiðlafrumvarpið og skattalækkanir sem vonandi verða samþykktar nú á vorþinginu. Orðrétt segir í pistlinum: "Auðvitað dylst engum sú herferð sem fjölmiðlar í eigu Baugs hafa haldið uppi gegn Sjálfstæðisflokknum. Sú herferð hefur reyndar ekki síst beinst að persónum forsætis- og dómsmálaráðherra. Þá liggur fyrir að hér á landi hefur orðið veruleg samþjöppun í eignarhaldi fjölmiðlanna. Við það bætist svo að stærsti eignaraðilinn að frjálsu fjölmiðlunum er með mjög mikla markaðshlutdeild í smásöluverslun. En vinnubrögð stjórnarandstöðunnar og hin sérstaka staða á íslenskum fjölmiðlamarkaði breyta þó ekki grundvallarhugmyndum mínum um að ríkisvaldið eigi að skipta sér sem allra minnst af atvinnulífinu." Hvet alla til að lesa pistilinn.

Dagurinn í dag
1880 Útför Jóns Sigurðssonar forseta, og konu hans fór fram í Reykjavík
1979 Margaret Thatcher verður forsætisráðherra Bretlands - hún sat í embætti til 1990
1980 Josip Broz Tito einræðisherra Júgóslavíu deyr - hann hafði setið á valdastóli í 35 ár
1986 Solveig Lára Guðmundsdóttir kjörin fyrst kvenna, prestur í almennum prestskosningum
2000 Ken Livingstone kjörinn borgarstjóri í London - söguleg úrslit og áfall fyrir ríkisstjórnina

Snjallyrði dagsins
Af ávöxtunum skuluð þér þekkja þá.
Halldór Blöndal forseti Alþingis (í umræðu á þingi - 3. maí 2004)

Engin fyrirsögn

Ariel SharonHeitast í umræðunni
Kosning fór í gær fram innan Likud flokksins, stjórnarflokksins í Ísrael um tillögur Ariel Sharon forsætisráðherra Ísraels og leiðtoga flokksins, um að leggja niður allar landtökubyggðir gyðinga á Gaza og fjórum litlum byggðum á Vesturbakkanum en samhliða því innlima stærstu landtökubyggðir gyðinga á Vesturbakka Jórdanar í Ísrael. Flokksmenn höfnuðu tillögu forsætisráðherrans með nokkuð afgerandi hætti. Tæplega 60% þeirra greiddu atkvæði gegn áætluninni en rúm 40% voru henni samþykk. Niðurstaðan er áfall fyrir forsætisráðherrann sem hafði sagt þetta kosningu um traustsyfirlýsingu við sig og stefnu sína. Einungis rúm 40% flokksmanna mættu á kjörstað og tóku afstöðu. Ariel Sharon hélt blaðamannafund er úrslitin lágu fyrir og þar kom fram að hann muni ekki biðjast lausnar þrátt fyrir úrslitin. Hann sagði greinilegt að meirihluti landsmanna styddi áætlanir sínar og á þær reyndi í næstu þingkosningum, í nýlegri könnun kom fram að tillögur hans njóta stuðnings þjóðarinnar. Hann muni því leggja tillöguna samt sem áður fyrir þingið þar sem meirihlutastuðningur er fyrir henni og ennfremur fara í hart við andstæð öfl sér í flokknum, sem leidd eru af Benjamin Netanyahu fjármálaráðherra og fyrrum forsætisráðherra. Einnig gæti hann auðvitað breytt afstöðu sinni til málsins og farið í aðra átt.

FramsóknElsa B. Friðfinnsdóttir formaður félags Íslenskra hjúkrunarfræðinga, og fyrrum bæjarfulltrúi á Akureyri og aðstoðarmaður heilbrigðisráðherra, skrifaði athyglisverða grein í Fréttablaðið í gær. Þar fjallar hún um fjölmiðlafrumvarpið og fjallar almennt um að Framsóknarflokkurinn geri hvað sem er sem þóknast Sjálfstæðisflokknum. Vísar hún þar til þess að formaður flokksins víki frá sannfæringu sinni til að ná í forsætisráðherrastól og fórni öllu því sem flokknum hentar best. Þessi ummæli hennar koma vissulega á óvart, enda er hún virk í starfi flokksins og er að auki gift einum þingmanni flokksins, Kristni H. Gunnarssyni fyrrum þingflokksformanni Framsóknarflokksins. Það er greinilegt að kuldi er á milli formanns flokksins og þeirra hjóna. Það blandast engum hugur um að valdabarátta kraumar þar undir. Það sjá allir að Kristinn er orðinn næsta áhrifalítill um gang mála innan flokksins eftir að hann tapaði kosningu um leiðtogastól flokksins í Norðvesturkjördæmi í nóvember 2002 og missti þingflokksformennskuna eftir þingkosningar í fyrra. Kristinn sem gekk í flokkinn árið 1999 eftir að Alþýðubandalagið á þingi leið undir lok, hefur vakið athygli innan Framsóknarflokksins fyrir að hafa oft gengið í skoðunum gegn því sem flokkurinn stendur fyrir og athyglisvert verður að sjá næstu skref hans innan flokksins.

AkureyrarbærÁhugahópur á Akureyri hefur safnað rúmlega 30 milljónum króna frá ýmsum fyrirtækjum til eflingar miðbæjarins á Akureyri. Peningarnir munu svo renna til stofnunar samtaka um framtíð og þróun miðbæjarins og er stefnt markvisst að því að halda alþjóðlega hönnunarsamkeppni, þar sem auglýst verður eftir tillögum um breytingar á miðbæjarskipulagi Akureyrar. Fagna ber þessu góða framtaki einkaaðila hér í bænum. Þess eru mjög fá dæmi að einkaaðilar reyni með þessum hætti að hafa áhrif á skipulag bæjarins. Mjög góð sátt er við bæjaryfirvöld um þetta mál og það verkefni sem vísað er til. Ragnar Sverrisson verslunarmaður í JMJ, hefur forgöngu um þetta átak og er talsmaður þess. Hefur hann lengi verið í forystu um það að efla miðbæ Akureyrar og fagna ber öllu því sem kemur fram sem leiðir til að bæta hann. Greinilegt er að verslun hafi dregist saman í miðbænum og dofnað yfir honum. Því er ég algjörlega sammála Ragnari og þeim sem með honum standa í þessu átaki um að stokka upp framtíðarskipulag miðbæjarins og koma að því að endurhanna allt skipulag hans.

Atli Rafn BjörnssonSvona er frelsið í dag
Atli Rafn fjallar í pistli dagsins á frelsinu um málefni RÚV. Er greinilegt að við Atli erum að gagnrýna ráðherra og óbreytt eignarform á RÚV með sama hætti. Orðrétt segir í pistlinum: "Það eru mikil vonbrigði að menntamálaráðherra taki undir að efla skuli ríkisrekstur. Sjálfstæðisflokkurinn hefur oft hreykt sér af því að vera flokkur minni ríkisafskipta og bendir gjarnan á einkavæðingar ríkisfyrirtækja því til stuðnings. Menntamálaráðherra virðist því miður ekki hafa skilning á því að það verður ekki til heilbrigður rekstrargrundvöllur á fjölmiðlamarkaði ef ríkisfyrritæki starfa þar á þann máta sem RÚV hefur gert í gegnum árin. Engin arðsemiskrafa er gerð til stofnunarinnar sem ítrekað er rekin með tapi sem er svo fjármagnað með sköttum fólksins í landinu. Ennfremur innheimtir stofnunin afnotagjöld sem tvívegis hafa verið hækkuð á þessu ári. Auk þess er RÚV atkvæðamikið á auglýsingamarkaði í harðri samkeppni við einkafyrirtæki. Það er staðreynd að rekstur fjölmiðlafyrirtækja í einkaeigu hefur nær undantekningalaust gengið mjög illa. Flest hafa þau orðið gjaldþrota eða verið keypt upp af stærri aðilum. Við slíkar aðstæður er í raun eðlilegt að eignarhald fyrirtækja innan greinarinnar safnist á fárra manna hendur enda aðeins pláss fyrir fáa aðila á markaðinum. Þetta rekstrarumhverfi hefur Sjálfstæðisflokkinn varið um langt skeið og virðist því miður vera ófáanlegur til að breyta." Virkilega góður pistill, sem ég hvet alla til að lesa.

Björn BjarnasonSkemmtilegt spjall - áhugaverður þáttur
Fór eftir kvöldfréttirnar út í kuldann, hefur verið kalt hérna fyrir norðan um helgina. Vonandi seinasta norðanhretið eða kuldakastið á þessu vetrarskeiði. Fór á kaffihúsið Bláu könnuna, hitti þar nokkra vini og áttum við gott spjall um helstu málin, líflegt og gott spjall yfir súkkulaðitertu og kakósopa. Virkilega gaman, enda hress og góður hópur. Erum við farin að gera þetta reglulega og er virkilega gaman að þessu. Jafnast ekkert á við gott spjall í góðra vina hópi. Hitti ég þarna til dæmis gamlan félaga frá Dalvík, sem ég hafði ekki lengi hitt. Rabbaði ég allnokkuð við hann, enda um margt að tala. Var fínt kvöld á kaffihúsinu. Kom heim rétt fyrir 10. Fór þá að horfa á ítarlegt viðtal Sigmundar Ernis við Björn Bjarnason dómsmálaráðherra. Var þar rætt um fjölmiðlafrumvarp og ýmislegt sem Björn hefur unnið að í dómsmálaráðuneytinu, á því ári sem hann hefur setið þar á ráðherrastóli. Kom Gunnar Eyjólfsson í þáttinn og var rætt um qi gong við hann, en Gunnar er einn aðalforystumanna þess hérlendis. Áhugaverður þáttur. Eftir þáttinn fór ég að vinna í ítarlegum pistli sem ég þarf að skila í vikunni og mun birtast í riti um landbúnaðarmál á vegum SUS.

Dagurinn í dag
1943 14 bandarískir hermenn fórust er flugvél fórst á Fagradalsfjalli á Reykjanesi, m.a. Frank M. Andrews yfirhershöfðingi Bandaríkjanna - eftirmaður hans þar varð Dwight D. Eisenhower
1970 Álver Íslenska álfélagsins hf. í Straumsvík vígt við hátíðlega athöfn
1979 Bundinn endi á 5 ára valdatíð vinstrimanna á Bretlandi. Íhaldsmenn vinna kosningasigur
1986 Flugvél grandað í hryðjuverki Tamíl Tígra á Sri Lanka - 21 lætur lífið
1986 Íslendingar taka í fyrsta skipti þátt í Eurovision - lagið Gleðibankinn lendir í 16. sæti

Snjallyrði dagsins
Maðurinn er hvorki góður né vondur. Hann fæðist með tilhneigingar og hæfileika.
Honoré De Balzac

Engin fyrirsögn

BessastaðirHeitast í umræðunni
Ítarleg umfjöllun er í Tímariti Morgunblaðsins í dag um átta ára forsetaferil Ólafs Ragnars Grímssonar. Er þar fjallað einkum um aðdragandann að forsetaframboði Ólafs við forsetakosningarnar 1996, er hann var kjörinn eftirmaður Vigdísar Finnbogadóttur, embættisferil hans og deilur um ýmis störf hans. Árni Þórarinsson blaðamaður á Mogganum tekur saman og er um fyrri hluta að ræða, hefur gríðarlega mikil vinna verið lögð í þessa umfjöllun og er farið víða yfir og margt nýtt kemur fram í viðtölum. Það sem er athyglisverðast í fyrri hlutanum er án nokkurs vafa sú uppljóstrun eins af forsvarsmönnum framboðsins, um að hugmyndin að framboði Ólafs Ragnars hafi verið pólitísk tilraun, sem myndi leiða til annarrar niðurstöðu en til var stofnað. Er Ólafur tilkynnti um framboð sitt, 28. mars 1996, reiknuðu hvorki hörðustu stuðningsmenn hans né andstæðingar með því að hann myndi ná kjöri til embættisins. Framboðið var því öðru fremur ætlað sem pólitískt baráttutæki fyrir hans hönd, sameiningarmálstaðar vinstri manna og áframhaldandi þátttöku hans í landsmálapólitík. Með því hafi hann ætlað að tryggja sig í sessi sem forystumann vinstri manna í þingkosningunum 1999 og leiða fyrstur manna, Samfylkingu vinstri manna sem var í burðarliðnum. Hvet ég alla til að lesa þessa vönduðu umfjöllun. Sem fyrr stendur Mogginn sig vel í vandaðri blaðamennsku.

Björn Bjarnason dómsmálaráðherraÍ helgarpistli sínum að þessu sinni fjallar Björn um 13 ára forsætisráðherraferil Davíðs Oddssonar, fjölmiðlafrumvarpið og samþykkt útlendingafrumvarps í vikunni. Mjög góðir punktar koma fram hjá Birni í umfjöllun um fjölmiðlamálið er hann fer yfir hvernig Samfylkingin hefur snúist í málinu á skömmum tíma, eins og hennar er von og vísa. Orðrétt segir í pistlinum um t.d. um samþykkt útlendingafrumvarpsins: Ég tel mikils virði, að alþingi samþykkti frumvarpið óbreytt. Orðalagi á einstökum greinum var breytt lítillega við meðferð í nefnd, eins og venjulegt er um mál, þótt þau séu ekki jafnmikið undir smásjánni og þetta. Við framkvæmd laganna mun best koma í ljós, hve fráleit gagnrýni á þau hefur verið. Lögin verða ekki til þess að þrengja að neinum, sem hefur allt sitt á hreinu. Þau auðvelda hins vegar yfirvöldum að grípa til ráðstafana gegn þeim, sem eru að stunda blekkingar, til dæmis með málamyndahjúskap. Að túlka lögin sem aðför að útlendingum eða ungu, ástföngnu fólki er til marks um málefnafátækt og viðleitni til að breiða yfir skortinn með því að höfða til tilfinninga." Góður pistill, venju samkvæmt.

Stefán Friðrik StefánssonSunnudagspistillinn
Að þessu sinni fjalla ég um umræður um frumvarp ríkisstjórnarinnar til laga um eignarhald fjölmiðla og vísa þar ennfremur til hringferða Samfylkingarinnar í þessum málum og greini frá afstöðu minni til ýmissa mála tengdu frumvarpinu. Fjölmiðill sem hið fjórða vald er nú sem ávallt fyrr gríðarlega mikilvægt afl og standa verður vörð um eðlilega fjölmiðlun og koma í veg fyrir fákeppni þar, að mínu mati. Sannfæring mín segir mér að taka verði á þessum málum og feta sömu slóð og nágrannaþjóðir okkar og hafa leikreglur á þessu sviði mjög skýrar. Það jákvæðasta við frumvarpið er að það leiðir til þess að mikilvæg uppstokkun getur farið fram á RÚV, en ég hef oft tjáð þá skoðun mína að sú stofnun sé með öllu óþörf og að afskipti ríkisins af fjölmiðlun sé með öllu óþörf. Fyrst þetta skref er tímabært er varla hægt að þverskallast lengur við því að hætta ríkisfjölmiðlun. Er mikilvægt að unnið verði nú af krafti að því að stokka upp rekstur RÚV og færa hann til framtíðar. Ennfremur fjalla ég um 13 ára forsætisráðherraferil Davíðs Oddssonar og undarleg skrif fjölmiðlamanns um hann í tilefni þessa afmælis. Að lokum fjalla ég um útlendingalögin, en þau voru samþykkt á Alþingi sl. föstudag.

Gísli MarteinnGott laugardagskvöld
Horfðum eftir fréttirnar á Laugardagskvöld með Gísla Marteini. Virkilega fínn þáttur núna hjá Gísla. Aðalgesturinn var Þorsteinn J. Vilhjálmsson sjónvarpsmaður. Ræddu þeir Gísli um fjölmiðlaferil Þorsteins sem hefur starfað bæði í útvarpi og sjónvarpi seinustu tvo áratugi, en er eflaust best þekktur fyrir að hafa um fjögurra ára skeið stjórnað þættinum Viltu vinna milljón? Ennfremur voru Halldóra Geirharðsdóttir leikkona og Viðar Eggertsson leikstjóri, gestir í þættinum. Fínt spjall. Gaman var að sjá gamla klippu þar sem var fjallað um leikverkið Ofvita sem Halldóra lék í árið 1979, en þar voru mörg fræg andlit. Litum á lokaþátt Spaugstofunnar þennan veturinn því næst. Litu nokkrir vinir í heimsókn og við fengum okkur pizzu og ræddum saman helstu málin. Eftir það var haldið út og litið á stemmninguna í bænum. Fínt kvöld.

Dagurinn í dag
1945 Sovétmenn hernema Berlín, tveim dögum eftir dauða Hitlers - stríðið að mestu á enda
1970 Búrfellsvirkjun, stærsta vatnsorkuver Íslendinga, vígt við hátíðlega athöfn
1972 Vinstrisinnaðir mótmælendur reyna að meina William Rogers utanríkisráðherra Bandaríkjanna, aðgang að Árnastofnun og Bessastöðum vegna Víetnamstríðsins
1992 Jón Baldvin Hannibalsson utanríkisráðherra, undirritar EES samninginn af hálfu Íslands, í Oporto í Portúgal - samningurinn var alls um 20.000 blaðsíður og tók hann gildi 1. janúar 1994
1997 18 ára valdatíð hægrimanna á Bretlandi lýkur - Tony Blair verður forsætisráðherra Bretlands eftir stórsigur Verkamannaflokksins í þingkosningum daginn áður

Snjallyrði dagsins
Líf, frelsi og eignir eru ekki afleiðingar lagasetningar, heldur eru lögin sett þeim til varnar.
Frederic Bastiat

Engin fyrirsögn

Davíð Oddsson forsætisráðherraHeitast í umræðunni
Í dag hefur Davíð Oddsson formaður Sjálfstæðisflokksins, setið í embætti forsætisráðherra samfellt í 13 ár, lengur en nokkur annar Íslendingur. Hefur hann verið formaður flokksins frá 10. mars 1991 er hann sigraði Þorstein Pálsson þáverandi formann flokksins, í formannskosningum á landsfundi. Davíð hefur með miklum leiðtogahæfileikum tryggt að flokkurinn er í forystu íslenskra stjórnmála. Hann hefur allt frá sigri sínum í borgarstjórnarkosningunum 1982 verið einn af helstu forystumönnum flokksins og verið í fararbroddi innan hans. Hann hóf stjórnmálaafskipti sín innan Sjálfstæðisflokksins við borgarstjórnarkosningarnar árið 1974 og náði kjöri og sat í borgarstjórn til ársins 1994. Hann var borgarstjóri í níu ár; 1982-1991. Í kjölfar sigurs síns í borginni 1990 gaf hann kost á sér í prófkjöri flokksins fyrir þingkosningar sama ár, og sigraði þar með nokkrum yfirburðum. Davíð varð formaður flokksins eins og fyrr segir í mars 1991. Hann varð forsætisráðherra 30. apríl í kjölfar þingkosninga sem Sjálfstæðisflokkurinn vann góðan sigur í. Síðan hefur hann setið í forsæti fjögurra ríkisstjórna, 1991-1995 með Alþýðuflokki og 1995-2004 með Framsóknarflokki. Á þessum tíma hafa 30 ráðherrar setið í stjórnum hans. Hann mun láta af embætti 15. september nk. eftir langan forsætisráðherraferil og verður athyglisvert að sjá hvað tekur þá við á pólitískum ferli Davíðs.

ÞingvellirMikið hefur verið deilt um það seinustu vikur hvort ríkið eða þjóðkirkjan eigi Þingvelli, þjóðgarð Íslendinga. Fyrir tæpri viku sagði forsætisráðherra, skýrt í sínum huga að ríkið ætti jörðina, en kirkjunnar menn hafa mótmælt því harðlega. Prestastefna Íslands lýsti í gær yfir fullum stuðningi við kirkjuráð sem á að gæta hagsmuna kirkjunnar á Þingvöllum og hvatti jafnframt ríkisvaldið til að koma að viðræðum við kirkjuna um kirkjueignir og prestsetur almennt. Í ályktun prestastefnu 2004 sem var samþykkt samhljóða segir að stefnan taki undir mótmæli kirkjuráðs um að Þingvellir séu taldir með ríkisjörðum þar sem kirkjan fari með eignarhald á Þingvöllum samkvæmt þinglýstum eignaheimildum. Flest bendir nú til að deila ríkis og kirkju um eignarhald á Þingvöllum fari fyrir dómstóla. Um það mun kirkjuþing taka ákvörðun í haust, verði málið ekki leyst fyrir þann tíma. Að mínu mati hefur Þingvellir alla tíð verið sameign Íslendinga, eign þjóðarinnar, almennings. Ég veit ekki hver annar getur átt þennan helga stað allra landsmanna. Ég undrast málflutning Þjóðkirkjunnar, og jafnframt hvernig hún kemur fram á öðrum sviðum þessa dagana.

AlþingiAlþingi samþykkti laust eftir hádegið, frumvarp Björns Bjarnasonar dómsmálaráðherra, um breytingar á útlendingalögunum. Var frumvarpið samþykkt með 31 atkvæði gegn 24 en allir viðstaddir þingmenn stjórnarandstöðunnar greiddu atkvæði gegn frumvarpinu.
Voru ítarlegar umræður um þetta mál á þingi í gær og í dag. Hefur verið athyglisvert að heyra túlkanir stjórnarandstöðuþingmanna á þessu frumvarpi. Gott dæmi eru tvær ræður sem ég sá í morgun, annarsvegar ræða Rannveigar Guðmundsdóttur er hún reyndi með útúrsnúningum að snúa út úr helstu greinum frumvarpsins og svo ennfremur ræða Guðrúnar Ögmundsdóttur sem sagði að ef lögin yrðu samþykkt yrði farið að spyrja hvaða hárspray konan notaði og tannkrem kallinn notaði, við yfirheyrslur. Dómsmálaráðherra hefur áður svarað svipuðum útúrsnúningi eins og frægt er. En ég tel mikilvægt að hér séu komin þessi lög í gegn og tel þau mikilvægan ramma utan um málefni innflytjenda hérlendis. Persónulega hef ég ekkert á móti innflytjendum, en tel þetta mikilvægt skref.

HeimdallurSvona er frelsið í dag
Í dag birtist á frelsinu góður pistill eftir Eggert Pál um jafnréttismál. Þar segir svo: "Alltaf þegar ég heyri af nýjum tilraunum feminasista til að koma á meira jafnrétti í samfélaginu með mismikilli valdbeitingu finn ég mig knúinn til skoða málin með gagnrýnum augum. Þessi augu sjá oft ófagra sjón. Í umræðum á Alþingi sagði flytjandi þessa nýja frumvarps: ” Þess sjást mörg dæmi á vinnumarkaðnum þar sem konur í þessum hörðu stórfyrirtækjum þurfa að gefast upp. Þær þola ekki þennan langa vinnutíma, þær standast ekki samkeppni við ungu strákana sem príla hraðar upp en þær af því að þær þurfa að fara heim að sinna börnum og búi.” Í athugarsemdum við frumvarpið segir m.a.: “Verk karla eru meita metin en verk kvenna” og “kvennastörf eru hvorki metin að félagslegum né fjárhagslegum verðleikum”. Að mínu mati er verið að gera konum meiri óleik en greiða með þessu frumvarpi. Að gera ráð fyrir að þær séu annars flokks verur sem geta ekki átt möguleika án þess að fá hjálp frá hinu opinbera finnst mér vera kynjafordómar. Frumvarpið minnir mig mjög á blindan uppistandara sem ég sá einusinni erlendis. Hann sagði frábærlega fyndnar sögur um gríðarlega fordóma sem hann hafði mætt í daglegu lífi, t.d. fólk sem vildi hringja fyrir hann, leiða hann yfir götur, segja honum hvar hann væri staddur og jafnvel hjálpa honum á salerninu! “Wait untill I ask for help!” sagði hann að lokum og bætti við: “I’m not a handycapped person, I’m just blind”. Ofurhjálpsemi meinar alltaf vel, en gerir illt verra. Mun þetta frumvarp leiða til meiri jafnréttis eða meiri fordóma?" Allir að lesa þennan fína pistil.

KASjónvarpsgláp - handbolti
Horfði á fréttatíma Stöðvar 2, var þar athyglisverð frétt um fund um fjölmiðlafrumvarpið, þar sem formaður nefndarinnar tjáði sig um fjölmiðla Norðurljósa og skýrsluna. Fór svo á handboltaleik, en KA sigraði Hauka með nokkrum mun. Mikill fjöldi fólks fór á leikinn til að styðja heimamenn. Nú er næsta skrefið að vinna á sunnudag í Hafnarfirði og taka þetta. Er heim kom horfði ég á upptöku af Kastljósinu þar sem Svansí ræddi við leiðtoga stjórnarandstöðunnar, mikla athygli vakti að enginn kom frá Samfylkingunni til að ræða þetta mál. Boði um að tala ásamt Steingrími J. og Guðjóni var hafnað. Stórmerkilegt, enda hefur enginn skortur verið á Samfylkingarþingmönnum í umræðunni um þetta, en nú virðist enginn tilkippilegur, vandræðalegt fyrir þennan stefnulausa flokk. Eftir það leit ég á upptöku af 60 mínútum, en það var margt athyglisvert í þeim þætti.

Dagurinn í dag
1945 Adolf Hitler sviptir sig lífi ásamt Evu Braun eiginkonu sinni - Hitler hafði tapað stríðinu
1973 Richard Nixon tekur ábyrgð á Watergate málinu en hafnar persónulegri aðild að því
1975 Víetnamstríðinu lýkur formlega er Saigon stjórnin tilkynnir uppgjöf sína fyrir Vietcong
1991 Davíð Oddsson verður forsætisráðherra er ríkisstjórn Sjálfstæðisflokks og Alþýðuflokks tekur við völdum - Davíð hefur setið síðan á forsætisráðherrastóli en fyrsta stjórnin sat til 1995
1993 Ein fremsta tennisstjarna heims, Monica Seles stungin í bakið - náði aldrei aftur fyrri stöðu

Snjallyrði dagsins
Hringamyndanir á sviði fjölmiðla ganga þannig þvert á nútíma hugsun á vettvangi lýðræðis. Þannig hefur í ýmsum lýðræðisríkjum eins og í Bandaríkjunum og Evrópu verið sett í lög margvísleg ákvæði sem koma í veg fyrir hringamyndanir, ákvæði sem koma í veg fyrir það að sömu aðilarnir geti haft ráðandi vald á dagblöðum, á sjónvarpsstöðvum og á útvarpsstöðvum. Engin slík lög eru til hér á Íslandi.
Ólafur Ragnar Grímsson forseti Íslands (um fjölmiðla - í umræðu á þingi í febrúar 1995)

Engin fyrirsögn

Dick Cheney og George W. BushHeitast í umræðunni
George W. Bush forseti Bandaríkjanna, og Dick Cheney varaforseti Bandaríkjanna, munu í dag bera vitni fyrir frammi rannsóknarnefnd Bandaríkjaþings sem rannsakaðar aðdraganda hryðjuverkaárásanna á Bandaríkin 11. september 2001, í Hvíta húsinu fyrir luktum tjöldum. Verður þetta eini vitnisburðurinn hjá nefndinni sem ekki verður tekinn upp eða sýndur opinberlega. Fyrr í þessum mánuði bar Dr. Condoleezza Rice þjóðaröryggisráðgjafi Bandaríkjastjórnar, vitni fyrir nefndinni. Í þessum mánuði var ennfremur gert opinbert, minnisblað sem Bush forseti, fékk mánuði fyrir árásirnar en þar komu fram upplýsingar um al Qaeda. Stjórnvöld í Hvíta húsinu hafa ávallt haldið því fram að þau hafi engar skýrar upplýsingar fengið um að al Qaeda hygðist ráðast á Bandaríkin. Deilt er um hvort og þá hvað Bandaríkjastjórn vissi um ógnina af hryðjuverkum al Qaeda, þegar hryðjuverkasamtökin létu til skarar skríða. Nefndin, sem skipuð er fimm demókrötum og fimm repúblikönum, mun biðja forsetann að gefa vísbendingar um hvað honum hafi verið sagt um hryðjuverkaógnina sumarið 2001 og til hvaða aðgerða hann hafi gripið á þeim 9 mánuðum sem hann sat á forsetastóli, fram að árásunum. Cheney hefur sem fyrrum varnarmálaráðherra landsins mikla þekkingu á utanríkismálum og hefur verið áhrifamikill í stjórn forsetans sem slíkur allt frá valdatöku Bush stjórnarinnar 20. janúar 2001.

Ariel SharonUm helgina verður kosið innan Likud flokksins í Ísrael um áætlun Ariel Sharon forsætisráðherra Ísraels, um að leggja niður allar landtökubyggðir gyðinga á Gaza og fjórum litlum byggðum á Vesturbakkanum en samhliða því innlima stærstu landtökubyggðir gyðinga á Vesturbakka Jórdanar í Ísrael. Bandaríkjastjórn hefur lýst yfir stuðningi við tillögurnar og hefur t.d. John Kerry forsetaframbjóðandi Demókrataflokksins í Bandaríkjunum, tekið undir þær ennfremur. Skv. skoðanakönnun sem birt var í gær er meirihluti liðsmanna flokksins á móti tillögum Sharons. Likud hefur alla tíð stutt landnám gyðinga á herteknu landi og er stefna flokksins þó mun harðskeyttari nú en var í stjórnartíð fyrri forsætisráðherra flokksins, Menachem Begin og Yitzhak Shamir. Sharon, sem alla tíð hefur verið umdeildur vegna harkalegrar stefnu sinnar í málefnum miðausturlanda hefur óhikað sagt að áætlun hans sé að drepa alla leiðtoga Palestínumanna, og nú þegar liggja tveir leiðtogar Hamas í valnum og ófriðurinn sjaldan meiri. Á meðan á öllu þessu stendur vofir hneykslismál yfir forsætisráðherranum og alls óvíst að hann muni ná að sitja út kjörtímabil sitt á valdastóli.

Davíð Þór Björgvinsson prófessorDavíð Þór Björgvinsson prófessor við Háskólann í Reykjavík, var kjörinn dómari við Mannréttindadómstól Evrópu á þingi Evrópuráðsins í Strassborg í gær. Hann mun taka þar sæti frá 25. september n.k. Hann mun taka sæti Gauks Jörundssonar dómara og fyrrum umboðsmanns Alþingis, sem lætur þá af störfum vegna aldurs. Tilnefndir voru af Íslands hálfu til setu í réttinum auk Davíðs, héraðsdómararnir Sigríður Ingvarsdóttir og Sigurður Tómas Magnússon. Laganefnd þings Evrópuráðsins lýsti alla frambjóðendur Íslands hæfa til setu í dómstólnum. Dómarar við réttinn eru kjörnir til sex ára í senn. Laganefnd þings Evrópuráðsins lýsti alla frambjóðendur Íslands hæfa til setu í dómstólnum. Davíð Þór var formaður fjölmiðlanefndar menntamálaráðherra, sem nýlega skilaði ítarlegri skýrslu. Almennt hefur verið lýst yfir mikilli ánægju með skýrsluna, sem gagnlegu riti um stöðu fjölmiðla nú.

HeimdallurSvona er frelsið í dag
Tveir góðir pistlar eru á frelsinu í dag. Annarsvegar ítarlegur pistill frá stjórn Heimdallar þar sem skrifum og gagnrýni á félagið er svarað. Orðrétt segir: "Þeir félagsmenn sem tekið hafa þátt í starfinu í vetur hafa getað haft áhrif á stefnu og störf félagsins. Hver með sínum hætti. Mikið hefur verið um að vera í vetur og góð málefnaleg umræða hefur farið fram um félagið, stefnu þess og starfsemi, á fundum þess. Hefur stjórn félagsins jafnan reynt að taka sem best mið af sjónarmiðum almennra félagsmanna og verður að telja miðað við viðbrögð þeirra að almenn ánægja ríki um starf stjórnar félagsins. Margrét og Þorbjörg eru hvattar til þess að láta af þessum skemmdarverkum, taka þátt í starfinu eða koma skilaboðum áleiðis til stjórnar félagins með öðrum hætti en áður hefur verið vikið að. Það er betra að byggja upp en brjóta niður. Ennfremur pistill eftir Jón Hákon þar sem hann leiðréttir rangfærslur þingmanns Samfylkingarinnar í blaðagrein. Þar segir: "Þegar menn gefa kost á sér til þess að gegna embættisverkum á hinu virðulega Alþingi verða þeir að passa sig á því að tapa sannleikanum ekki í yfirlýsingagleði sinni. Það á jafnt við um Björgvin G. Sigurðsson og aðra þingmenn. Kjósendur eiga það skilið."

The Thomas Crown AffairSjónvarpsgláp - kvikmyndir
Gærkvöldið var fínt. Horfði á báða fréttatímana venju samkvæmt. Leit svo á Kastljósið þar sem Svansí ræddi við Þorgerði Katrínu Gunnarsdóttur menntamálaráðherra, um fjölmiðlafrumvarpið. Var þetta gagnlegt og gott viðtal. Þorgerður útskýrði vel skoðanir sínar á þessu máli og niðurstöðum skýrslunnar og um væntanlegt frumvarp til laga um eignarhald á fjölmiðlum. Horfði því næst á Stöð 2, þar sem var matreiðsluþáttur Jóa Fel, en gestir hans að þessu sinni voru þeir félagar í 70 mínútum á PoppTíví: Auddi, Pétur Jóhann og Sveppi. Fór svo í tölvuna og ræddi smá um fjölmiðlafrumvarpið á spjallvef, við nokkra aðila. Voru að mestu málefnalegar og góðar umræður. Alltaf gaman að ræða málin á málefnalegum forsendum. Eftir það var horft á kvikmyndina The Thomas Crown Affair með Steve McQueen og Faye Dunaway í aðalhlutverkum. Stórfengleg mynd er fjallar um Thomas Crown, auðugan viðskiptajöfur sem fremur hið fullkomna bankarán, enda hver ætti að gruna hann um græsku? Er tryggingaspæjarinn Vicki Anderson, fer að kanna ránið, hitnar þó í kolunum. Flott mynd með heillandi leikurum. Hlaut óskarinn fyrir besta kvikmyndalagið 1968, The Windmills of Your Mind.

Dagurinn í dag
1106 Jón Ögmundsson var vígður sem fyrsti biskupinn að Hólum í Hjaltadal - hann lést 1121
1958 Söngleikurinn víðfrægi, My Fair Lady frumsýndur í London - var kvikmyndaður 1964
1986 Wallis Warfield Simpson hertogaynja af Windsor, jarðsungin við látlausa athöfn
1992 Fjöldaóeirðir í Los Angeles í kjölfar sýknudóms yfir þeim sem réðust að Rodney King
1994 Steingrímur Hermannsson skipaður seðlabankastjóri - sama dag baðst hann lausnar sem formaður Framsóknarflokksins og alþingismaður - Halldór Ásgrímsson tók við formennsku

Snjallyrði dagsins
Ef fortölur duga ekki til, herra forseti, þá er það skoðun okkar í Samfylkingunni að Samkeppnisstofnun eigi að fá í hendur þau tæki sem hún þarf til þess að skipa fyrir um breytingar, þar á meðal að skipta upp slíkum einokunarrisum ef hún telur þess þörf til þess að vernda hagsmuni neytenda.
Össur Skarphéðinsson formaður Samfylkingarinnar (um Baug - í umræðu á þingi 22. janúar 2002)

Engin fyrirsögn

AlþingiHeitast í umræðunni
Ítarleg umræða var í dag á þingi um skýrslu fjölmiðlanefndar menntamálaráðherra. Kynnti þar Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir menntamálaráðherra, skýrsluna í ítarlegri framsögu og fór yfir ýmsa þætti skýrslunnar og niðurstöðu hennar. Tjáði hún þar ítarlega afstöðu sína til niðurstaðnanna. Sagði hún samþjöppun í eignarhaldi fjölmiðla hvergi meiri en hér í hinum vestræna heimi. Ekki væri tilviljun að hvort sem litið sé til Evrópu eða Bandaríkjanna hafi menn talið nauðsynlegt að sporna gegn þróun af þessu tagi. Réðist hún óhikað að Samfylkingunni fyrir að skauta framhjá tilmælum Evrópuráðsins um eignarhald á fjölmiðlum þar sem þau henti ekki flokknum á þessum tímapunkti. Benti hún í máli sínu á umræður á þingi í febrúar 1995, þar sem núverandi forseti Íslands og þrír þingmenn Samfylkingarinnar tjáðu mikilvægi þess að setja lög um eignarhald fjölmiðla. Núverandi forseti var skorinorður í ræðu sinni og það ættu fáir að efast um afstöðu hans á þeim tímapunkti er þeir lesa ræðuna. Umræða á þingi í dag snerist ekki að mestu skýrsluna, heldur meira væntanlegt fjölmiðlafrumvarp forsætisráðherra sem verður rætt eftir helgina. Greinilegt er að stjórnarandstæðingar hafa tekið algjöra u-beygju í þessum málum frá febrúar 1995 þegar þáverandi höfuðforkólfar látinna stjórnmálaflokka vinstrisins möluðu sem hæst. Miðað við umfang umræðnanna í dag og átök milli stjórnar og stjórnarandstöðu má búast við heitum umræðum um sjálft frumvarpið.

FréttablaðiðÍ gær fjallaði ég um ótrúlegan fréttaflutning dagblaða Norðurljósa, allir þeir sem litið hafa á þessi blöð seinustu daga hafa tekið eftir einhliða og ómálefnalegri umfjöllun þeirra um fjölmiðlamálið. Sérstaka athygli vakti er blaðið framkvæmdi skoðanakönnun um fjölmiðlafrumvarpið, áður en það var opinberlega kynnt og skýrslan formlega orðin opinber. Með fullri virðingu fyrir almenningi, leyfi ég mér að efast um að allir landsmenn hafi verið búnir að kynna sér alla þætti málsins á sunnudagskvöld er könnunin var gerð, t.d. lesið frumvarpið. Það er lágmarkskrafa sem hægt er að gera til fjölmiðla að umfjöllun sé á málefnalegan hátt og fagleg. Það er með algjörum ólíkindum að sjá á hverjum degi hvernig fréttamiðlar Baugs, einkum dagblöðin eru notuð til að kynda upp einhliða umfjöllun um málefni ríkisstjórnarinnar og ráðist að fólki. Í dag birtist skoðanakönnun sem virðist hönnuð til að sýna almenningi að frumvarpið skaði stjórnarflokkana eða málstað þeirra sem eru kjörnir fulltrúar þeirra. Athyglisvert er að í umfjöllun um könnunina er hvergi birt hversu margir neituðu að svara eða hversu hátt svarhlutfallið var. Svo vekur enn meiri athygli að Frjálslyndi flokkurinn sem nær ekki 5% lágmarki til að fá jöfnunarmenn, fær þrjá þingmenn kjörna skv. könnuninni. Það fær ekki staðist, flokkur með þetta fylgi hefur 1 eða 2 í mesta lagi og þá kjördæmakjörna, fær enga jöfnunarmenn. Til að kóróna skítkastið er fréttastjóri blaðsins með eina rógsgreinina enn á baksíðu blaðsins. Hvet alla til að kynna sér þessi óvönduðu og ófagmannlegu vinnubrögð sem þessir lágkúrulegu fjölmiðlar beita dag hvern.

Ríkisútvarpið við EfstaleitiAð mínu mati er fyllilega eðlilegt að taka upp umræðu um breytt regluform á fjölmiðlun hér á landi. Það skal fúslega viðurkennt að ég hef ekki verið mjög hlynntur því að ríkið setti skorður á regluramma hérlendis á fjölmiðlarekstri en eftir að hafa fylgst með einhliða áróðursmennsku fréttamiðla Baugs seinustu daga er ég óðum að komast á aðra skoðun. Tel rétt að taka umræðuna um þetta og kanna alla þætti málsins. Að mínu mati er þó enn mikilvægara að huga að uppstokkun Ríkisútvarpsins. Er enginn vafi á því í mínum huga að einkavæða eigi stofnunina og ríkið að hætta fjölmiðlarekstri. Ljóst er nú að stjórnarflokkarnir eru orðnir samstiga um að leggja niður afnotagjöldin og taka upp breytt form á því sviði. Það er svosem hænuskref í rétta átt, en betur má ef duga skal. Breyta þarf rekstrarforminu og síðar stefna að sölu fyrirtækisins, ef vel á að vera og færa fjölmiðlun hér í rétta átt. Uppstokkun á RÚV er ekki bara mikilvæg, heldur tímabær.

HeimdallurSvona er frelsið í dag
Í pistli dagsins á frelsinu fjallar Kári Þór um íþrótta- og tómstundarekstur einkaaðila. Orðrétt segir: " þessu ári er áætlað að framlag borgarsjóðs, þ.e.a.s. skattpeningarnir okkar, verði 2,6 milljarðar til ÍTR en hækka svo að ári í 3 ma. Mér finnst þetta vera þremur milljörðum of mikið. Hversvegna megum við ekki ákveða sjálf hvaða áhugamál við viljum greiða fyrir? Til marks um þann litla hvata sem sveitarfélög hafa til þess að reka sundlaug er að í framtíðaráætlunum er búist við að aðsókn að sundlaugum muni standa í stað næstu fimm árin. Það er enginn hvati til staðar hjá Reykjavíkurborg til þess að auka aðsóknina að sundlaugunum vegna þess að þeir sjá sér engan hag í því. Einkarekstur á félagsmiðstöðvum er velþekktur í útlöndum t.d. í Bretlandi. Þar er það fátítt að hið opinbera reki starfsemi einsog félagsmiðstöðvar, vegna þess að þeir vita að einkarekstur er mun betri í alla staði. Það varð heldur en ekki meira upplit á hópi krakka sem komu frá Bretlandi seinasta sumar til þess að heimsækja Ísland þegar þeir heimsóttu félagsmiðstöð hér í Reykjavík. Munurinn var gífurlegur á allri aðstöðu. Mér finnst vinnumiðlunar starfssemi Hins hússins í samkeppni við einkaaðila vera algjör tímaskekkja og eigi ekki rétt á sér á 21. öldinni. Ég held að fáir andmæli því að einkaaðilar geti ekki rekið vinnumiðlun." Ennfremur bendi ég á ályktun stjórnar Heimdallar um fjölmiðlafrumvarp ríkisstjórnarinnar.

Íslenski draumurinnSjónvarpsgláp - kvikmyndir
Gærkvöldið var mjög gott. Horfði á báða fréttatímana venju samkvæmt. Leit á Kastljósið þar sem Halldór Ásgrímsson utanríkisráðherra, var gestur Kristjáns og Svansíar. Var þar rætt um fjölmiðlafrumvarp ríkisstjórnarinnar og farið yfir marga fleti þessa máls, t.d. skýrsluna og niðurstöður hennar. Horfði svo á bæjarfréttirnar á Aksjón, og svo endursýningu á bæjarstjórnarfundi sl. þriðjudags, en ég missti af frumsýningu af fundinum fyrir viku. Að því loknu var horft á tíufréttir. Fékk heimsókn rétt eftir 10, þá leit Gunni vinur minn, við í kaffispjall. Eftir að hann fór horfðum við á meistaraverkið The Sixth Sense. Myndin segir frá virtum barnasálfræðingi, Malcolm Crowe, sem hefur tekið að sér að hjálpa átta ára gömlum strák, Cole Sear, að vinna bug á ótta sínum, en hann er gæddur þeim yfirskilvitlega hæfileika að geta séð hina dauðu og talað við þá. Málið er Malcolm einkar hugleikið því nokkrum árum fyrr hafði hann glímt við svipaðan vanda sem annar drengur átti við að stríða, en mistekist með þeim afleiðingum að drengurinn framdi sjálfsmorð á heimili Malcolms sjálfs. En er allt sem sýnist...? Frábær mynd. Haley Joel Osment, Bruce Willis og Toni Collette fara á kostum í aðalhlutverkunum. Þessi mynd er alltaf pottþétt.

Dagurinn í dag
1237 Bardagi háður að Bæ í Borgarfirði - féllu meira en 30 manns í þessum stórbardaga
1819 Tukthúsið í Reykjavík gert að embættisbústað - þar er nú skrifstofa forsætisráðherra
1945 Benito Mussolini fyrrum einræðisherra Ítalíu, tekinn af lífi á flótta ásamt ástkonu sinni
1969 Charles De Gaulle forseti Frakklands, biðst lausnar eftir ósigur í þjóðaratkvæðagreiðslu
1986 Sovétstjórnin viðurkennir loks tilvist kjarnorkuslyss í Chernobyl

Snjallyrði dagsins
Í hádeginu notaði ég tækifærið og fékk mér kínverskt nudd, sem var afar gott. Stúlkan sem nuddaði mig kunni greinilega til verka.
Valgerður Sverrisdóttir viðskiptaráðherra, í umfjöllun um Kínaferðina á heimasíðu sinni

Engin fyrirsögn

AlþingiHeitast í umræðunni
Þingflokkar stjórnarflokkanna samþykktu frumvarp um eignarhald á fjölmiðlum í gær. Að fundum þingflokkanna loknum svöruðu leiðtogar stjórnarflokkanna, Davíð Oddsson forsætisráðherra, og Halldór Ásgrímsson utanríkisráðherra, spurningum fréttamanna og fjölluðu ítarlega um málefni fjölmiðla og það sem tengist frumvarpinu sem lagt verður formlega fram á þingi seinna í vikunni og rætt t.d. í umræðum á morgun í þinginu. Var svo ítarleg umfjöllun um málið í kvöldfréttum sjónvarpsstöðvanna. Athyglisvert hefur verið að fylgjast með einhliða umfjöllun fréttamiðla Norðurljósa á þessu, en það fyrirtæki rekur eins og flestir vita þrjár af fimm stærstu fréttastofum landsins. Lengst var gengið í umfjöllun DV, en ég sá það blað í blaðarekka í Nettó í gær er ég var að versla í matinn. Þar stóð með stríðsletri á forsíðu: "Gremja Davíðs bundin í lög". Ég ætla ekki einu sinni að ímynda mér hvernig umfjöllunin var á innsíðum blaðsins. Það ber allt að sama brunni í umfjöllun þessa sorprits, að mínu mati. Ef ekki er hægt að finna slúðurfréttir eru þær blásnar upp eða búnar til að mestu. Var umfjöllun Stöðvar 2 lítt faglegri en blaðaumfjallanir DV og Fréttablaðsins, en það er greinilegt að öll skrif þeirra blaða einkennast af panik og geðshræringu og ómálefnalegum árásum að stjórnmálamönnum. Gott dæmi var að sunnudagsskrif ritstjóra Fréttablaðsins, voru frá upphafi til enda langur og bitlítill ómálefnalegur óhróður um forsætisráðherrann.

Sjónvarpsrásir NorðurljósaEins og ég hef áður vikið að hér á vefnum hefur Hreinn Loftsson stjórnarformaður Baugs, sagt sig úr Sjálfstæðisflokknum, en það hafði legið í loftinu í rúmt ár að svo myndi fara, og voru engin stórtíðindi fyrir þá sem hafa fylgst með framgöngu Hreins almennt að undanförnu. Athyglisvert var að sjá viðtal fréttamanns Ríkissjónvarpsins í gærkvöldi við Hrein. Var með hreinum ólíkindum hvernig Hreinn talaði þar af algjörri vanstillingu og virkaði hann á mig í þessu viðtali eins og hann væri að brenna yfir um af heift og illsku í garð þeirra sem treystu honum fyrir formennsku í einkavæðingarnefnd alltof lengi. Hátt er fallið fyrir húsbóndann var eitt sinn sagt um manninn þegar hann féll af hestbaki, sama gæti átt við um Hrein Loftsson, sem kallar lýðræðislega kjörna ríkisstjórn landsins, ógnarstjórn og kallar forystumenn hennar einræðisherra. Er það undarlegt í ljósi þess að sitjandi forsætisráðherra samdi sjálfur um það fyrir tæpu ári að láta af embætti í haust og annaðhvort muni þá setjast í óbreytt ráðuneyti eða hætta í stjórnmálum. Meira að segja svarnir óvinir Davíðs hafa kallað það vindskot Hreins, skot út í loftið. Það sjá allir einstaklingar sem eitthvað fylgjast með að stjórnarformaður Baugs er orðinn ofurseldur eiganda fyrirtækisins og reynir að fylgja honum í blíðu og stríðu. Öll hans ummæli verða að skoðast í því ljósi.

Nelson Mandela og Thabo MbekiThabo Mbeki sór í morgun embættiseið sem forseti S-Afríku öðru sinni. Hann var endurkjörinn forseti landsins í kosningunum fyrir hálfum mánuði. Hlutu hann og Afríska þjóðarráðið, flokkur blökkumanna, meira en 2/3 atkvæða í bæði forseta- og þingkosningum. Tíu ár eru liðin um þessar mundir frá því að aðskilnaðarstefnan leið endanlega undir lok og blökkumenn fengu kosningarétt og fengu jöfn réttindi á við hvíta. Var Nelson Mandela kjörinn forseti S-Afríku í kosningunum 1994 og ANC hlaut þá um 65% atkvæða í þingkosningum. Mandela lét af embætti að loknu fimm ára kjörtímabili sínu árið 1999 og Mbeki var kjörinn eftirmaður hans sem leiðtogi flokksins og forseti landsins. Stjórn landsins stendur nú á vissum tímamótum, en margt gott hefur áunnist í takt við sívaxandi vandamál á öðrum sviðum: glæpir eru algengir þar, einn af hverjum níu landsmönnum er alnæmissmitaður, atvinnuleysi er nálægt 30% og misskipting auðs fer þar sívaxandi. Ávinningur felst í stöðugleika í efnahagslífi og minnkandi verðbólgu.

HeimdallurSvona er frelsið í dag
Í pistli dagsins á frelsinu heldur Jón Elvar Guðmundsson áfram skrifum í pistlaröð sinni, sem ber yfirskriftina 'Stjórnvöld gegn löggjafanum'. Orðrétt segir: "Lög um hlutafélög og einkahlutafélög á Íslandi er um margt mjög góð. Þannig eru þau nokkuð þjál og aðgengileg. Skráningarferli slíkra félaga hefur svo verið til sérstakrar fyrirmyndar og má þakka það starfsfólki hlutafélagaskrár sem áður heyrði undir hagstofu Íslands en hefur nýlega verði færð undir embætti ríkisskattstjóra af óljósum ástæðum. Framfaraspor var stigið í fyrra þegar lög nr. 52/2003 voru samþykkt á Alþingi. Í 8. gr. þeirra laga var kveðið á um heimild til þess að slíta einkahlutafélagi á einfaldan og fljótlegan hátt. Segja má að þar með hafi verið komið til móts við þarfir atvinnulífsins þar sem hlutirnir ganga hratt fyrir sig og taka örum breytingum. Sérstaklega er þessi breyting hagstæð fyrir erlenda aðila sem starfa hér á landi þar sem þeir geta, samkvæmt henni, hætt starfsemi hér og slitið félögum sínum á einfaldan og fljótlegan hátt. Þetta er eitt af því sem laðar að erlenda starfsemi, þ.e. rekstraraðilar vilja starfa í hagstæðu umhverfi og auðvitað verða þeir að geta hætt rekstri sínum án mikils tilkostnaðar í peningum eða tíma."

Íslenski draumurinnSjónvarpsgláp - kvikmyndir
Var þétt og gott sjónvarpskvöld á mínu heimili í gærkvöldi. Horfði á báða fréttatímana (þar sem fréttaumfjöllun um fjölmiðlafrumvarpið var mest áberandi) og á eftir því leit ég á Kastljósið þar sem Andrés Magnússon og Bjarni Harðarson voru gestir. Var þar sýnt í heilu lagi hið ótrúlega viðtal við Hrein Loftsson, sem fyrr er lýst betur. Horfði svo á upptöku af Íslandi í dag, en þar mættust Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir menntamálaráðherra, og Össur Skarphéðinsson, var þar gott spjall um frumvarpið og fjölmiðlaskýrsluna. Horfði því næst á vandaðan heimildarþátt um Gro Harlem Brundtland fyrrum forsætisráðherra Noregs og framkvæmdastjóra World Health Organization. Merk kona sem á að baki langan feril á vettvangi stjórnmálanna og hefur markað sess bæði þar og í störfum sínum hjá WHO. Eftir tíufréttirnar horfðum við á hina mögnuðu kvikmynd, Íslenska drauminn. Fjallar um draumóramanninn Tóta og ævintýri hans. Góð mynd með frábærum leikurum. Þórhallur Sverrisson fer á kostum í hlutverki Tóta, og svo eru Jón Gnarr og Gunnar Eyjólfsson flottir í sínum hlutverkum. Tónlistin í myndinni er algjör snilld. Ekta íslensk mynd!

Dagurinn í dag
1915 Gullfoss varð fyrst íslenskra skipa til að sigla til Ameríku, með íslenskum skipstjóra og íslenskri skipshöfn, allt frá dögum landafunda Leifs heppna Eiríkssonar í Bandaríkjunum
1944 Hátíðarljóð lýðveldisstofnunar valin - Hver á sér fegra föðurland og Land míns föður
1984 Umsátri við líbýska sendiráðið í London lýkur - 11 dögum eftir morðið á Yvonne Fletcher
1992 Betty Boothroyd kjörin forseti breska þingsins, fyrst kvenna í 700 ára sögu þess
1994 Fyrstu lýðræðislegu kosningarnar í S-Afríku - ANC og Nelson Mandela unnu stórsigur

Snjallyrði dagsins
Stærsti aðilinn að þessum fjölmiðlum (Norðurljós) lýsti því einhvers staðar yfir að hann hefði borgað þrjár milljónir í stjórnmálaflokka, og svo tók ég eftir því að Össur Skarphéðinsson, sagðist ekki hafa fengið krónu. Það verður nú gaman að vita hver hefur fengið peningana.
Davíð Oddsson forsætisráðherra

Engin fyrirsögn

Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir menntamálaráðherraHeitast í umræðunni
Eins og ég sagði frá í gær, náði ríkisstjórnin samkomulagi í gær um að leggja fram á þingi frumvarp til laga um eignarhald á fjölmiðlum. Var frumvarpið kynnt þingflokkum stjórnarflokkanna í dag og samþykktu báðir flokkar það á fundum sínum. Umræða verður um málið á þingi á miðvikudag. Fyrir liggur að þinglok verða ekki á upphaflegri dagsetningu þann 7. maí, eins og áður var ákveðið, heldur verði tekinn allur sá tími sem nauðsynlegt er til að ræða þetta mál. Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir menntamálaráðherra, var gestur Kristjáns Þorvaldssonar í spjallþættinum Sunnudagskaffi á Rás 2, í gær. Þar fór hún allítarlega yfir hvað felst í frumvarpinu og fjallaði um fjölmiðlaskýrsluna, í fyrsta skipti frá því hún var lögð fram. Undarlegt hefur verið að fylgjast með fréttaflutningi Fréttablaðsins um frumvarpið og beinlínis rangfærslur í fréttaflutningi. Athyglisvert var að sjá forsíðufrétt þar í gær með fyrirsögn að engin lausn væri í sjónmáli milli stjórnarflokkanna, þá þegar lá samkomulag fyrir milli flokkanna og var það eins og fyrr segir staðfest á ríkisstjórnarfundi í hádeginu í gær. Aldrei lá í loftinu að stjórnarslit yrðu vegna þessa máls, frá upphafi var ljóst að flokkarnir myndu fikra sig í samkomulagsátt og ná saman um endanlegt orðalag frumvarps. Hverjir ætli heimildarmenn Fréttablaðsins hafi verið, má leiða getum að því að Samfylkingarþingmenn hafi búið til fréttir til að skapa óróa eða leiða til þess. Engir nema þeir hafa verið svo örvæntingarfullir að búa til sögur um ósætti innan stjórnarinnar sem var ekki til staðar.

NorðurljósFleiri en fréttamenn Baugsblaðanna hafa misst sig í ómálefnaleg vinnubrögð í kjölfar fjölmiðlaskýrslunnar og frumvarp ríkisstjórnarinnar. Sl. sunnudag komu fyrstu viðbrögð frá Baugi, stærsta hluthafanum í Norðurljósum. Hreinn Loftsson stjórnarformaður Baugs, sagði í Fréttablaðinu þann dag: "Stjórnmál hér á landi bera sífellt meir keim af geðþóttaákvörðunum þar sem grundvallarreglur réttarríkisins eru brotnar í hverju málinu á fætur öðru." Hann taldi greinargerð fjölmiðlanefndarinnar "flausturslega unna, þar væri öllu réttu snúið á hvolf, í raun væri verið að vega að grundvelli frjálsra fjölmiðla í landinu." Að lokum sagði hann: "Nú þurfa frjálshuga menn að taka höndum saman og hleypa þessari ógnarstjórn frá." Er með hreinum ólíkindum er að stjórnarformaðurinn lýsi ástandinu hér með þeim hætti sem hann gerir og noti orðið ógnarstjórn! Þetta orð hefur almennt verið notað til að lýsa stjórnum einræðisherra eða þar sem hvorki er tjáningarfrelsi né frelsi til athafna. Hér er engin einræðisstjórn, hinsvegar réttkjörin ríkisstjórn fleiri en eins flokks og fullt lýðræði. Hreinn hefur nú stigið það skref að segja sig úr Sjálfstæðisflokknum. Eflaust er það rökrétt framhald þess að hann gekk Baugi á hönd í fyrra og hefur eflaust talið tímasetninguna nú hæfa vel þessu fjölmiðla-showi sínu. Að öðru leyti kemur þessi ákvörðun hans ekki á nokkurn hátt á óvart.

Viðtal fréttamanna við Davíð Oddsson í dag
Viðtal fréttamanna við Halldór Ásgrímsson í dag

Heinz Fischer og eiginkona hans, MargitHeinz Fischer var kjörinn forseti Austurríkis í gær. Hlaut hann rúm 52% atkvæða en Benita Ferrero-Waldner utanríkisráðherra, hlaut tæp 48%. Fischer var frambjóðandi Jafnaðarmannaflokksins en Ferrero-Waldner var fulltrúi Hægriflokks Wolfgangs Schüssel kanslara, og hefur setið sem utanríkisráðherra landsins í fimm ár. Þetta eru viss þáttaskil í sögu landsins, en nú eru 18 ár liðin síðan jafnaðarmaður var síðast forseti landsins. Seinustu tveir forsetar voru úr Hægriflokknum, Kurt Waldheim og Thomas Klestil, en Klestil lætur nú af embætti eftir 12 ára setu á forsetastóli. Fischer verðandi forseti, er 65 ára gamalreyndur þingmaður jafnaðarmanna, en talinn fremur litlaus. Hann hefur boðað velferð og félagslegt jafnrétti ásamt hlutleysi á alþjóðavettvangi, en hann er læknismenntaður og virtur fyrir störf sín á þeim vettvangi. Benita Ferrero-Waldner, sem hefði orðið fyrsti kvenforseti Austurríkis ef hún hefði náð kjöri, tilkynnti eftir að úrslit lágu fyrir að hún myndi sitja áfram sem utanríkisráðherra og halda áfram í stjórnmálum. Forsetaskipti verða í Austurríki þann 8. júlí.

Friðjón R. FriðjónssonSvona er frelsið í dag
Fyrr í mánuðinum skrifaði Friðjón ítarlegan pistil um frumvarp dómsmálaráðherra til breytinga á útlendingalögunum og um undirskriftasöfnun andstæðinga þess. Mikil umræða varð um þann pistil og nú rúmlega 10 dögum síðar skrifar hann annan pistil um málið. Í þeim pistli segir svo: "Það virðist vera, að fyrir suma sem stóðu að söfnuninni að hún snérist aldrei um neitt annað en að koma höggi á ríkisstjórnina og ráðherra dómsmála. Skítt með útlendinga og aðstandendur þeirra. Ákafi stjórnarandstæðinga í þessu máli hefur skemmt fyrir skynsamri umræðu um þetta frumvarp. Öllum staðhæfingum um að fólk beiti brögðum til að öðlast dvalarleyfi hér á landi hefur verið hafnað. En svo birtist forsíðugrein í DV sl. mánudag þar sem skýrt er frá því að ung kona hafi orðið fyrir árás fyrir að neita að taka þátt í að blekkja stjórnvöld. DV fer hamförum í því að gera allt sem dómsmálaráðherra gerir tortryggilegt og því er þetta stuðningur úr óvæntri átt." Að lokum segir Friðjón: "Víða á víðlendum vefsins hefur verið á það bent, undirrituðum og orðum hans til lasts að hann er vefstjóri dómsmálaráðuneytisins í fæðingarorlofi og skal það játað undir eins. Áhuginn á málaflokknum á sér hins vegar aðrar skýringar. Hann hefur meira með það að gera að eiginkona undirritaðs er erlend og fjölmargir í vinahóp einnig. Það fer því lítið fyrir óbeit á útlendingum, óbeitin beinist bara að heimskulegum og villandi málflutningi." Ennfremur eru á vefnum í dag góður pistill Snorra um samkeppnismál. Ennfremur bendi ég öllum á að lesa að auki athyglisvert erindi Heiðrúnar Lindar járnskvísu, um jafnréttismál.

Ásdís Halla BragadóttirNotalegur sunnudagur
Var virkilega góður sunnudagur hjá mér. Sól og sumarblíða, hitinn fór yfir 15 stig og ekki á betra kosið á þessum árstíma. Fór í góðan útivistartúr með vinum mínum eftir hádegið, en ég lauk við að mála í gær, var að taka í gegn heima smá og hef dundað mér í því um helgina. Fjölskyldan hittist seinnipartinn og borðaði saman grillmat og venju samkvæmt voru samræður í þeim félagsskap líflegar, að þessu sinni um fjölmiðlamál og margt fleira. Þetta er fjölskylda með skoðanir og langt í frá allir sammála, gaman að rökræða málin. Er heim kom um kvöldið, fór ég að horfa á fréttaskýringarþáttinn Í brennidepli, þar sem var athyglisverð umfjöllun t.d. um málefni Hríseyjar. Horfði svo á upptöku af Silfri Egils, þar sem fjölmiðlafrumvarpið og skýrslan var rædd. Biggi Ármanns stóð sig vel í því spjalli og ennfremur síðar um kvöldið í Kastljósinu. Svo kom til Egils, presturinn í Neskirkju sem notar predikunarstólinn til að bera út einhliða áróður um Íraksstríðið. Langt í frá viðeigandi. Manninum er fullfrjálst að hafa skoðanir á þessu, en hann getur komið þeim frá sér með þeim hætti sem flestir aðrir gera, t.d. á eigin vefum á Netinu á prívatvettvangi, en þarf ekki að nota embætti sitt og kirkju sem vettvang til þess. Bendi lesendum vefsins á skemmtilegar pælingar Stefáns Einars, félaga míns, um þetta mál. Horfði klukkan tíu á virkilega gott viðtal Sigmundar Ernis við Ásdísi Höllu Bragadóttur. Ásdís er einn af mínum uppáhaldsstjórnmálamönnum og er ég mjög ánægður með hennar verk í Garðabæ. Er að gera þar góða hluti! Eftir þáttinn fór ég á netið og spjallaði við vini á hinu magnaða MSN spjallkerfi.

Dagurinn í dag
1834 Tvö skip og fjórtán bátar fórust í ofsaveðri á Faxaflóa og með þeim 42 menn
1923 Albert Bretaprins giftist Elizabeth Bowes-Lyon - hann varð Englandskonungur 1936
1986 Kjarnorkuslys verður í Chernobyl í Úkraínu - það mesta í mannkynssögunni
1991 Sorpa, móttöku- og flökkunarstöð sorps í Gufunesi, var tekin formlega í notkun
1993 Niðursveiflu í efnahagsmálum á Englandi lýkur formlega, skv. efnahagstölum

Snjallyrði dagsins
Já, ég fullyrði algjörlega að ég er ekki að fara í þingframboð að ári, það er alveg ljóst.
Ingibjörg Sólrún Gísladóttir varaþingmaður og borgarfulltrúi (sagt aðfararnótt 26. maí 2002 eftir borgarstjórnarkosningar - Ingibjörg tilkynnti hinsvegar um þingframboð sitt fyrir Samfylkinguna 18. desember 2002, varð hún að víkja af borgarstjórastóli í Reykjavík í kjölfarið)

Engin fyrirsögn

StjórnarráðiðHeitast í umræðunni
Ríkisstjórnin kom saman til fundar klukkan hálftólf í dag til að ræða skýrslu fjölmiðlanefndar menntamálaráðherra. Í gær hittust leiðtogar stjórnarflokkanna og unnu að því að ná samkomulagi um endanlegt orðalag frumvarps um eignarhald á fjölmiðlum. Var sýnt í fréttum í gær myndir af því er utanríkisráðherra kom í Stjórnarráðið til fundahalda. Fundur ríkisstjórnar í dag, lauk um hálfeittleytið. Lá þá fyrir að niðurstaða hefði náðst í málinu og að frumvarpið væri til og yrði lagt fram á þingi eftir helgina. Gerir það ráð fyrir því að sami aðili megi ekki eiga bæði dagblað og ljósvakamiðil, ennfremur að markaðsráðandi fyrirtæki á öðru sviði megi ekki eiga fjölmiðil. Fjölmiðlaskýrslan er birt í dag á heimasíðu Helga Hjörvars alþingismanns. Er athyglisvert að sá þingmaður sjái ástæðu til að birta skýrsluna á sínum vef orðrétt og vísa á Word skjal með frumvarpinu. Kemur ekki á óvart að þetta gerist, sé mið tekið af störfum þingmannsins fyrsta ár hans á þingi, en hann hefur vakið sérstaka athygli fyrir dómgreindarleysi sitt. Var reyndar oft sagt að hann hefði lekið stefnuræðu forsætisráðherra í fyrra.

Kosningar á KýpurKýpur-Grikkir höfnuðu sameiningaráætlun Sameinuðu þjóðanna í gær með miklum mun en áætlunin gerði ráð fyrir sameiginlegu ríki Tyrkja og Grikkja á Kýpur, sögulegri sameiningu þjóðarbrotanna. Rúmlega 70% Kýpur-Grikkja voru andvíg áætluninni, en um 60% Kýpur-Tyrkja samþykktu hana. Það er því ljóst að einungis gríski hluti Kýpur muni ganga í Evrópusambandið 1. maí nk. en þann dag ganga alls 10 ný ríki í sambandið, þ.á.m. Kýpur. Eru þessi úrslit mikið áfall fyrir Sameinuðu þjóðirnar og Kofi Annan framkvæmdastjóra þeirra, enda beittu þau sér mjög í þessu máli. Þjóðarleiðtogar hafa gagnrýnt Grikki á Kýpur fyrir að hafa eyðilagt möguleikann á sögulegum sáttum þjóðarbrotanna. Þessi 30 ára deila hefur brennimerkt allt samfélagið á Kýpur og leitt að það breytist ekki og þessi sundrungarbragur verði áfram á landinu.

Stefán Friðrik StefánssonSunnudagspistillinn
Að þessu sinni fjalla ég einungis um eitt mál: skýrslu fjölmiðlanefndar menntamálaráðherra, og vík nokkuð ítarlega að niðurstöðum hennar. Jafnframt fer ég yfir væntanlegt frumvarp forsætisráðherra til laga um eignarhald á fjölmiðlum sem kynnt var á ríkisstjórnarfundi í vikunni og verður væntanlega lagt fram á þingi á næstu dögum og tjái mínar skoðanir á slíkri lagasetningu og þeim breytingum sem blasa við á íslenskum fjölmiðlamarkaði, verði frumvarpið að lögum. Fáum blandast hugur um að verði frumvarpið að lögum, leiði það til þess að rekstur Norðurljósa muni breytast umtalsvert og jafnframt leiða til þess að fyrirtækinu verði skipt upp. Í niðurstöðum sínum segir nefndin að Norðurljós beri ægishjálm yfir aðra aðila hvað rekstrarlegt umfang og veltu viðkomi. Vísað er t.d. til þess að velta Norðurljósa hafi verið hátt í tvöföld á við veltu Árvakurs, útgáfufélags Morgunblaðsins, og Ríkisútvarpsins. Fram kemur að Norðurljós séu á öllum þeim mörkuðum sem tilgreindir séu í efni skýrslunnar, ýmist sem annar stærsti á markaði eða með markaðsráðandi stöðu. Er þar vísað til níu sviða fjölmiðlunar: dagblöð, tímarit, útvarp, sjónvarp, dreifing og sýningarhald á kvikmyndum, útgáfa og dreifing myndbanda og diska, útgáfa og dreifing tónlistar, dreifing tölvuleikja og netmiðlun. Fram kemur í skýrslunni að önnur fjölmiðlafyrirtæki starfi hinsvegar á þremur eða færri sviðum fjölmiðlunar. Bendi öllum á að lesa pistilinn.

Gísli Marteinn BaldurssonSjónvarpskvöld - gott spjall
Horfðum eftir fréttirnar á Laugardagskvöld með Gísla Marteini. Góður þáttur, sérstaklega var áhugavert viðtal hans við Örn Clausen lögmann. Ræddu þeir um íþróttaferil hans um miðja seinustu öld og störf hans sem lögmanns. Ennfremur ræddi Gísli við Þórunni Sigurðardóttur og Þorvald Þorsteinsson. Eftir þáttinn fórum við upp í Víðilund í heimsókn til Kidda frænda, en hann er að fara á morgun til Frakklands með Kristjáni yngri. Vonandi er að hann hafi gott af ferðinni og njóti vorsins þar. Komum við hjá vinafólki og áttum þar gott spjall um málin og það sem um er að vera almennt. Er heim kom fórum við að horfa á vandaða mynd um feril Rudolph Giuliani fyrrum borgarstjóra í New York. James Woods leikur þar Giuliani óaðfinnanlega, athyglisverð mynd. Lagði lokahönd á sunnudagspistilinn eftir myndina.

Dagurinn í dag
1915 Hótel Reykjavík og ellefu önnur hús við Austurstræti, brunnu í miklum eldsvoða
1944 Fyrsta íslenska óperan, Í álögum, eftir Sigurð Þórðarson, var frumflutt í Iðnó
1991 Bifreið ekið í fyrsta skipti á Hvannadalshnjúk, hæsta tind landsins
1999 Haldið upp á Dag umhverfisins í fyrsta skipti - leiddi til meiri umræðna um málin
2002 Tveir bræður sýknaðir af morðinu á Damilola Taylor - málið fer aftur á byrjunarreit

Snjallyrði dagsins
Við höfum engar lausnir, enga sýn, en sendum borgarbúum reikninginn fyrir getuleysinu.
Helgi Hjörvar alþingismaður (um R-listann - 1997)

Engin fyrirsögn

Björn Bjarnason dómsmálaráðherraHeitast í umræðunni
Undanfarnar vikur hefur mikil umræða verið í samfélaginu um frumvarp dómsmálaráðherra um breytingar á útlendingalögunum. Hafa margir ritað um þetta mál og tjáð sínar skoðanir á því, stutt er síðan ég fjallaði um þetta mál á heimasíðu minni. Fyrir rúmri viku birtist á nokkrum vefritum, t.d. murinn.is, pistill eftir Þorleif Örn Arnarsson leikara, þar sem hann beinir spurningum til Björns Bjarnasonar dómsmálaráðherra, um frumvarpið. Björn hefur nú svarað skrifum Þorleifs á ítarlegan hátt á vef sínum. Í pistli Þorleifs segir svo: "Samkvæmt nýjum útlendingalögum sem lögð verða fyrir alþingi Íslendinga innan skamms þá eru mér og konunni minni settar reglur umfram þær reglur sem venjulega gilda um ástfangið fólk í nútímasamfélagi. Við megum til dæmis búa við það að lögreglan ryðjist inn til okkar án dómsúrskurðs og fari í gegnum undirfataskúffurnar okkar til þess að sanna eða afsanna að við séum í raun ástfangin og gift þess vegna. Það gæti nefnilega verið að hún væri bara að giftast mér til þess að hljóta landvistarleyfi á Íslandi. Við þurfum að sanna að við elskum hvort annað!" Þessu svaraði Björn svo: "Ég skil vel að þér lítist ekki vel á þá tilhugsun og ég vona að þú verðir feginn að heyra að í frumvarpinu er, þvert á við það sem þér virðist hafa verið sagt, ekki gert ráð fyrir að lögregla fái slíka heimild. Gert er ráð fyrir að heimildir til húsleitar komi aðeins til í undantekningartifellum, þegar rökstuddur grunur leikur á að um alvarleg brot sé að ræða og þá einungis að undangengnum dómsúrskurði. Sé tekið mið af þeim aðstæðum er þú lýsir eru áhyggjur þínar óþarfar". Hvet alla til að lesa skrif Þorleifs og svo í kjölfarið svar Björns.

AlþingiLíflegar umræður voru á Alþingi í gær um skýrslu fjölmiðlanefndar menntamálaráðherra og væntanlegt frumvarp forsætisráðherra um eignarhald á fjölmiðlum. Umræða hófst um málið með því að Össur Skarphéðinsson formaður Samfylkingarinnar, leitaði eftir því að forsætisráðherra útskýrði hvers vegna svo knýjandi væri nú, að setja fyrrnefnd lög um eignarhald á fjölmiðlum, og hvort það yrði afgreitt á yfirstandandi þingi og frumvarpið lagt fram fyrir þinglok í vor. Fram kom í svari forsætisráðherrans að fjölmiðlanefndin teldi að full þörf væri á lagasetningu. Sagði Davíð að frumvarp um málið myndi verða lagt fram á þingi innan skamms og stefnt að afgreiðslu þess fyrir sumarleyfi. Kom fram í máli forsætisráðherra að skýrslan hefði verið á borði ríkisstjórnarinnar í hálfan mánuð og það væri bæði sjálfsögð og viðtekin regla, að ríkisstjórn hefði mál innan sinna vébanda í það langan tíma áður en það væri sett út í opinbera umræðu. Orðrétt sagði forsætisráðherra um Samfylkinguna og málflutning flokksins. "Það sem hefur hins vegar komið mér á óvart, er að Samfylkingin, án þess að hafa séð málið og kynnt sér skýrslu upp á 180 síður, skuli bersýnilega leggjast gegn málinu fyrirfram. Ég að vísu hlustaði úr fjarlægð á stefnuræðu Samfylkingarinnar fyrir síðustu kosningar í Borgarnesi frá sjálfu forsætisráðherraefninu mikla. Og þar var auðvitað ákveðið að skipa sérstakan verndarhring í kringum þrjú fyrirtæki: fyrirtæki Jóns Ólafssonar, Baugs og Kaupþings. Þannig að það er ekkert sem kemur manni á óvart í viðhorfum Samfylkingarinnar". Búast má við líflegum umræðum um þetta mál á næstu vikum, enda stefnir flest í að frumvarpið verði aðalefni þingsins nú undir lok starfstíma þess.

Jón G. Hauksson ritstjóriGreinaskrif
Seinustu vikur hefur mikið verið deilt um skipan í embætti hæstaréttardómara í fyrra, í kjölfar úrskurðar kærunefndar jafnréttismála og talsvert skrifað um málið, bæði á vefsíður og í dagblöðunum. Hef ég skrifað tvo pistla um þetta á heimasíðunni og farið vel yfir málið. Í dag birtist góð grein eftir Hilmar Gunnlaugsson lögmann á Egilsstöðum, í Mogganum, þar sem hann fjallar um þetta mál og um þann sem skipaður var í embættið, hvet ég alla til að lesa þá grein mjög vel. Hilmar fer vel og ítarlega yfir málið og gerir grein fyrir afstöðu sinni til málsins. Jón G. Hauksson ritstjóri Frjálsrar verslunar, skrifaði ítarlega grein um þetta mál á vefinn heimur.is. Þar segir orðrétt: "En bar Birni að velja konu í starfið? Auðvitað ekki. Þá hefði átt að standa í auglýsingunni að karlar gætu ekki sótt um þetta dómarastarf við Hæstarétt því búið væri að ákveða að ráða konu svo þær yrðu þrjár af níu við réttinn - og að dómsmálaráðherra réði ekki í embættið heldur einhver nefnd jafnréttis úti í bæ. Björn gerði rétt. Honum bar að velja hæfustu manneskjuna samkvæmt sinni eigin sannfæringu – en ekki samkvæmt einhverju „pólitísku skírteini" Jafnréttisnefndar." Bendi öllum á að lesa þessar tvær greinar og fara yfir þessi sjónarmið málsins.

Lord of the Rings: The Fellowship of the RingSjónvarpskvöld - kvikmyndir
Höfðum það gott yfir sjónvarpinu í gærkvöld, fátt betra þegar gott er í sjónvarpinu og fínt efni á boðstólum. Horfðum venju samkvæmt á Vini klukkan átta, þeir klikka aldrei. Nú er lokasyrpan um Vinina rúmlega hálfnuð og styttist í sögulokin. Hef ég verið mikill aðdáandi þessara þátta allt frá byrjun 1994 og á eftir að sakna þeirra, rétt eins og mikill fjöldi fólks um allan heim sem hafa haldið tryggð við vinahópinn seinasta áratuginn. Ég á alla þættina þannig að það verður hægt að horfa á þá síðar meir og njóta þeirra. Um níu hófst American Idol og horfðum við á það venju samkvæmt. Blökkusöngkonurnar brilleruðu í þættinum meðan strákarnir áttu alveg skelfilegt kvöld. Það kom vægast sagt á óvart að þær Fantasia Barrino, Jennifer Hudson og La Toya London væru neðstar. Varð það hlutskipti Jennifer að halda heim, eins ótrúlegt og það hljómar. Fannst mér hún vera einn allra besti þátttakandinn þetta árið og reyndar syngja best ásamt Fantasiu. Það er greinilegt að eitthvað annað en söngurinn hefur áhrif á bandarískan almenning sem kýs og þarf að huga að því að benda fólki á að verið er að velja bestu röddina en ekki persónuna. Allavega vonandi að alvöru hæfileikafólk haldi ekki áfram að detta út í næsta þætti. Eftir þáttinn horfðum við á fyrsta hlutann af Hringadróttinssögu, hina mögnuðu The Lord of the Rings: The Fellowship of the Ring. Stórfenglegt kvikmyndastórvirki.

Dagurinn í dag
1914 Dauðadómur var kveðinn upp á Íslandi í síðasta sinn - dómnum var síðar breytt
1970 Mótmæli námsmanna í menntamálaráðuneytinu til að styðja kröfur námsmanna erl.
1977 Skákmaðurinn Vlastimil Hort setti heimsmet í fjöltefli á Seltjarnarnesi - tefldi við 550
1993 Sprengjutilræði Írska lýðveldishersins, IRA, í City hverfinu í London - 40 slösuðust
1996 Feðgarnir Arnór og Eiður Smári léku báðir í landsleik gegn Eistlandi - Ísland vann 3:0

Snjallyrði dagsins
Að skattleggja almenning í þágu tiltekins hóps er ekki aðstoð, heldur arðrán.
Benjamin Disraeli forsætisráðherra Bretlands (1804-1881)

Engin fyrirsögn

StjórnarráðiðHeitast í umræðunni
Um fátt var rætt meira í gær, sumardaginn fyrsta, en skýrslu nefndar menntamálaráðherra og væntanlegt frumvarp Davíðs Oddssonar forsætisráðherra, um eignarhald á fjölmiðlum. Efni skýrslu fjölmiðlanefndarinnar verður rætt á fundi ríkisstjórnarinnar á morgun. Ríkisstjórnarfundi sem fram átti að fara í morgun var frestað vegna óviðráðanlegra aðstæðna. Áður höfðu meginþættir skýrslunnar verið gerðir opinberir í ítarlegri frétt fréttastofu Ríkisútvarpsins í gærkvöldi. Skýrsla nefndar menntamálaráðherra er ítarleg og tekur á öllum hliðum málsins. Meðal atriða sem fjölmiðlanefndin leggur til er að hugað verði að því að setja beinar reglur um eignarhald og útbreiðslu fjölmiðla. Eins og flestum ætti að vera kunnugt er slíkt frumvarp þegar komið fram. Forsætisráðherra hefur eins og fyrr er sagt lagt fram í nafni ríkisstjórnarinnar frumvarp þessa efnis. Þar sem um er að ræða svokallað bandormsfrumvarp sem tekur til laga sem varða fleiri en eitt ráðuneyti, leggur forsætisráðherra það fram. Veruleg fákunnátta stjórnarandstöðunnar í reglum um mál af hálfu ríkisstjórnar almennt, hefur verið afhjúpuð í þessu máli, enda hafa stjórnarandstæðingar fullyrt hver á eftir öðrum í sjónvarpsviðtölum seinustu tvo sólarhringana að Davíð leggi frumvarpið fram vegna ýmissa ástæðna sem vinstrimenn telja svo upp af hentugleikum. Það væri þarfaverk ef stjórnarandstæðingar kynntu sér betur málin.

NorðurljósFjölmiðlanefndin segir í niðurstöðum sínum, að væri litið til aðstæðna á markaði hérlendis, væri ljóst að markmiðum beinna reglna um eignarhald væri ekki að fullu náð nema þær yrðu gerðar afturvirkar. Það þýðir einfaldlega að reglurnar yrðu að mæla fyrir um að núverandi uppbygging á íslenskum fjölmiðlamarkaði yrði brotin upp. Nefndin gerir ráð fyrir að öllum fyrirtækjum í bæði dagblaðaútgáfu og rekstri ljósvakafyrirtækja verði gert skylt að veita upplýsingar um eignarhald og að tilkynna verði breytingar á eignarhaldi þeirra. Jafnframt blasir við að Samkeppnisstofnun fái auknar heimildir til að koma í veg fyrir breytingar á eignarhaldi fjölmiðlafyrirtækja. Nefndin leggur ennfremur til að samkeppnisyfirvöld fái heimildir til að banna fyrirtækjum sem eiga í öðrum rekstri að eignast hlut i fjölmiðlafyrirtæki. Það kæmi þannig út að fyrirtæki í dagblaðaútgáfu eða fyrirtæki sem væri öflugt í útgáfu dagblaða, muni ekki fá leyfi til reksturs ljósvakamiðla, eða verði ekki gert kleift að stunda slíkan rekstur samhliða. Verður þetta ekki skilið á annan veg en þann, að slík lög myndu leiða til þess að eignarhald Norðurljósa á fjölmiðlum og fjölmiðlunarfyrirtækjum yrði brotið upp að mestu. Óhætt er að fullyrða að þetta mál verði aðalmál í íslenskum stjórnmálum næstu vikurnar.

Jafnréttisstefna AkureyrarbæjarNýrri jafnréttisstefnu Akureyrarbæjar var dreift á öll heimili í bænum á miðvikudag. Undanfarna mánuði hefur fjölskyldu- og jafnréttisnefnd bæjarins unnið að nýjum tillögum í jafnréttismálum og móta stefnu í þessum málaflokki til framtíðar. Jafnréttisstefnan takmarkast við jafnrétti kynjanna líkt og fyrri áætlanir bæjarins í jafnréttismálum og tekur mið af lögum um jafna stöðu og jafnan rétt kvenna og karla. Birtast þarna leiðir til framtíðar í þessum málum og fastmótuð stefna í takt við nútímann. Ný jafnréttisstefna bæjarins er um margt ólík þeim fyrri að því leyti að ekki er eingöngu um viljayfirlýsingar að ræða heldur er kveðið á um verkefni sem vinna á að, ákveðnir aðilar gerðir ábyrgir og tímamörk sett. Jafnréttisstefnan er unnin í svipuðum anda og fjölskyldustefna bæjarins og er henni ætlað að styðja þá ímynd að á Akureyri sé að finna öll lífsins gæði. Á vef bæjarins er að finna ítarlega umfjöllun um jafnréttisstefnuna.

Stefán Friðrik StefánssonSvona er frelsið í dag
Í dag fjalla ég í ítarlegum pistli um Evrópumál. 1. maí nk. verða þáttaskil í sögu Evrópusambandsins er 10 ný lönd verða formlega aðildarríki að sambandinu. Um er að ræða lönd í M-Evrópu og við Miðjarðarhafið. Þau lönd sem ganga í sambandið um mánaðarmótin eru: Tékkland, Kýpur, Eistland, Ungverjaland, Lettland, Litháen, Malta, Pólland, Slóvakía og Slóvenía. Áður hafa flest þessi lönd gengið í Atlantshafsbandalagið og eru vissulega söguleg tímamót að þessi gömlu einræðisríki kommúnismans séu komin í varnarbandalag annarra Evrópuþjóða og fari nú í Evrópusambandið. Fyrir eru í Evrópusambandinu alls 15 lönd: Austurríki, Belgía, Danmörk, Finnland, Frakkland, Þýskaland, Grikkland, Írland, Ítalía, Lúxemborg, Holland, Portúgal, Spánn, Svíþjóð og Bretland. Samhliða þessum breytingum er fyrirhugað að komi til sögunnar stjórnarskrá Evrópusambandsins. Stefnt er að því að samkomulag náist um stjórnarskrána um miðjan júní og hún taki gildi í kjölfar þess síðar á árinu. Flest bendir til þess að haldnar verði þjóðaratkvæðagreiðslur, um fyrirhugaða stjórnarskrá ESB, í flestum aðildarríkja sambandsins. Til þess að stjórnarskráin nái fram að ganga þurfa öll aðildarríki Evrópusambandsins að samþykkja hana, annaðhvort með samþykki þjóðþings eða í gegnum þjóðaratkvæði. Ljóst er því að ef eitt ríki hafnar stjórnarskránni, t.d. eitt af hinum stóru, leiði það til pólitísks uppnáms innan sambandsins og átaka. Fjalla ég sérstaklega um málefni Bretlands og atburðarásina sem leiddi til ákvörðunar um þjóðaratkvæði þar.

House of Sand and FogSumardagurinn fyrsti - kvikmyndir
Þá er sumarið loks komið. Áttum góða stund í gær, litum í heimsókn til ættingja, fórum í sund og litum í afmæli vinar míns og hittum þar fjölda vina. Grilluðum svo undir kvöld. Semsagt ekta rólegheitadagur. Spáin framundan er góð, sól og hiti í kortunum sem betur fer. Kominn tími til að fá sannkallað vorveður. Horfðum svo í gærkvöldi á kvikmyndina House of Sand and Fog. Í myndinni segir frá Kathy sem missir húsið sitt vegna vangoldinna skulda við yfirvöld. Málið virðist þó á einhverjum misskilningi byggt og reynir hvað hún getur til að endurheimta húsið. En á meðan hún stendur í því kaupir ofurstinn Massoud Amir Behrani húsið fyrir fjölskyldu sína. Upp úr því hefjast miklar deilur og inn í söguna blandast sálarkreppur allra aðalpersónanna. Gríðarlega vel leikin mynd, Ben Kingsley og Shohreh Aghdashloo voru tilnefnd til óskarsverðlauna fyrir stórleik sinn í hlutverkum Behrani hjónanna. Jennifer Connelly er svo gríðarlega sterk í hlutverki Kathy. Þessa mynd verða allir kvikmyndaunnendur að sjá. Tókum einnig eina gamla með og skemmtum okkur við að upplifa enn og aftur snilldina í hinni bráðskemmtilegu Naked Gun.

Dagurinn í dag
1902 Halldór Kiljan Laxness skáld og rithöfundur fæðist í Reykjavík - hann lést 8. febrúar 1998
1903 Sigfús Blöndal hóf söfnun í orðabók sína - gefin út 1920 og hefur komið út þrisvar síðan
1995 Önnur ríkisstjórn Davíðs Oddssonar tók við völdum - sat til loka kjörtímabilsins 1999
1997 Páll Skúlason prófessor í heimspekideild, kjörinn rektor Háskóla Íslands
2001 Fréttablaðið kom út í fyrsta skipti

Snjallyrði dagsins
Hvers vegna ekki að grípa gleðina undir eins. Hve oft er hamingjunni ekki spillt með undirbúningi, heimskulegum undirbúningi.
Jane Austen

Engin fyrirsögn

Davíð Oddsson forsætisráðherraHeitast í umræðunni
Davíð Oddsson forsætisráðherra, kynnti á fundi ríkisstjórnarinnar á þriðjudag, frumvarp til laga um eignarhald á fjölmiðlum. Á sama fundi kynnti Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir menntamálaráðherra, skýrslu nefndar um sama efni, eins og ég fjallaði um í gær. Ráðherrar Framsóknarflokksins, að undanskildum utanríkisráðherra, voru á fundinum að sjá skýrsluna í fyrsta skipti, allavega tveir ráðherrar Sjálfstæðisflokksins hafa unnið að málinu seinustu vikur. Drög að frumvarpi um eignarhald á fjölmiðlum mun samkvæmt fréttum í gær ganga nokkuð lengra en niðurstöður skýrslunnar gera ráð fyrir. Mun verða frekari umræða um þetta mál á næsta ríkisstjórnarfundi í fyrramálið, og ljóst að skýrslan mun verða gerð opinber að loknum þeim fundi. Tel ég rétt að tjá mig ekki um hugsanlegt efni skýrslunnar eða væntanlegt frumvarp um eignarhald fjölmiðla, fyrr en það hefur verið kynnt opinberlega. Undarlegt var að fylgjast með umræðu um þetta mál í gær. Þingmenn Samfylkingarinnar vilja að frumvarp ráðherra verði gert opinbert og skýrslan ennfremur, nú strax. Eins og fram hefur komið margoft, er um að ræða í báðum tilvikum vinnugögn af hálfu ríkisstjórnar á þessu stigi, óeðlilegt er að trúnaðargögn verði rædd af forystumönnum ríkisstjórnarinnar eða birt opinberlega, fyrr en um þau hafa verið rædd að fullu í ríkisstjórninni og tekin til þeirra afstaða á þeim vettvangi. Var nokkuð undarlegt að sjá fjölmiðlafólk leita eftir því margoft í gær að ráðherrar tjáðu sig um trúnaðargögn ríkisstjórnar. Nógur tími er til stefnu að fjalla um málið og enginn vafi á að litrík umræða verður á hinum pólitíska vettvangi, um frumvarpið og þær breytingar sem það mun gera ráð fyrir.

Díana prinsessa af Wales (1961-1997)Í fréttaskýringarþættinum 48 Hours á CBS í gærkvöldi, voru sýndar áður óbirtar myndir sem teknar voru af Díönu prinsessu af Wales, örfáum mínútum eftir að hún lenti í bílslysi í París, aðfararnótt 31. ágúst 1997, sem leiddi til dauða hennar. Myndirnar voru gerðar upptækar af frönsku lögreglunni eftir slysið, en þær voru teknar af paparazzi ljósmyndurum sem eltu prinsessuna og Dodi Al Fayed frá Ritz hótelinu. Samkomulag hafði verið gert um að myndirnar skyldu aldrei koma fyrir almenningssjónir eða verða birtar í dagblöðum eða sjónvarpi. Nú hefur CBS sjónvarpsstöðin, svikið það samkomulag sem almennt var talið að væri enn í gildi. Ennfremur voru birt í fyrrnefndum þætti áður óbirt gögn, t.d. krufningsskýrslur og trúnaðargögn frönsku lögreglunnar vegna rannsóknar á slysinu. Með hreinum ólíkindum er hversu lágkúruleg fréttamennska nútímans er orðin, miðað við þessi vinnubrögð. Ástæða þess að myndirnar eru birtar nú er ekki sýnileg, nema þá að reyna að hafa minningu prinsessunnar að féþúfu og reyna að ýfa upp sár nánustu aðstandenda hennar. Óhætt er að fullyrða að þessi myndbirting sé ekki viðeigandi og er full ástæða til að hneykslast á dómgreindarbresti þeirra sem taka ákvörðun um að birta opinberlega myndir sem þessar. 7 ár eru liðin frá láti prinsessunnar og tímabært að leyfa henni að hvíla í friði og hætta fjölmiðlafárinu.

FjölmiðlarÍslensku blaðamannaverðlaunin voru afhent í fyrsta skipti á Pressuballi blaðamanna í gærkvöldi, á Hótel Borg. Verðlaun voru afhent í þrem flokkum: fyrir blaðamann ársins, rannsóknarblaðamennsku og bestu fjölmiðlaumfjöllun. Agnes Bragadóttir blaðamaður á Morgunblaðinu, hlaut verðlaunin sem blaðamaður ársins, fyrir vandaða greinaflokka sína í fyrra, er hún fjallaði um baráttuna um Íslandsbanka og ennfremur um skattamál Jóns Ólafssonar. Báðar þessar umfjallanir voru gríðarlega vel gerðar og skemmtileg lesning. Agnes á að baki langan blaðamannsferil og er þekkt fyrir góð og traust vinnubrögð. Hún á því verðlaunin vel skilið. Brynhildur Ólafsdóttir fréttamaður á Stöð 2, hlaut verðlaun fyrir rannsóknarblaðamennsku ársins en hún fjallaði ítarlega í fyrrasumar um varnarmál og boðaða brottför hersins. Reynir Traustason fréttastjóri DV, hlaut verðlaun fyrir bestu umfjöllun ársins, en hann skrifaði ítarlegar greinar í fyrrasumar í Fréttablaðið um rannsókn Samkeppnisstofnunar á samráði olíufélaganna.

HeimdallurSvona er frelsið í dag
Í góðum pistli á frelsinu í dag fjallar Sassa um bílastæðamál í miðborg Reykjavíkur. Orðrétt segir: "Víða í Kaupmannahöfn eru ekki stöðumælar heldur er gjaldfrítt að leggja bíl sínum í slík stæði. Hver bíll er með límmiða innan á framrúðunni sem sýnir einhverskonar klukku. Þegar ökumaður leggur bíl sínum í þesskonar bílastæði stillir hann klukkuna samkvæmt því hvað klukkan er á þeim tíma. Á hverju svæði er svo leyfilegur hámarkstími og ef ökumaðurinn er lengur en sem nemur hámarkstímanum á því svæði sem hann lagði bílnum á þá má sekta hann. Starfsfólk verslana leggur ekki í slík bílastæði því það veit að það er hagur verslana að halda þessum stæðum lausum fyrir viðskiptavini. Með samskonar skipulagi gæti Laugavegurinn og vinsælustu svæðin í miðbænum boðið uppá nokkur gjaldfrí bílastæði. Til að njóta þeirra gæti fólk vanið komu sína á þeim tíma þegar sem minnst er að gera, því þessi bílastæði væru eflaust oft upptekin á háannatíma. Þá fær fólk líka betri þjónustu heldur en á háannatímum og allir ættu að hámarka hag sinn. Verslunarekendur fá viðskiptavini sem að öðrum kosti hefðu kannski valið verslunarmiðstöð og viðskiptin dreifast betur yfir daginn. Kúnninn er ánægður með að sleppa við að borga fyrir bílastæðið og vonandi líka ánægður með þá athygli sem hann fær frá kaupmanninum þegar fáir aðrir kúnnar er á ferð. Þá er líka hægt að einkavæða Bílastæðasjóð, en það er spurning hvaða vandamál það leysir og hvert er markmiðið?" Ennfremur er á frelsinu netviðtal við Guðjón Rúnarsson framkvæmdastjóra Samtaka banka og verðbréfafyrirtækja.

Kill Bill: Vol. 2Skemmtilegt kvikmyndakvöld
Eftir kvöldfréttirnar horfði ég á Kastljósið. Þar voru Guðni Ágústsson landbúnaðarráðherra, og Sigurður Jónsson framkvæmdastjóri Samtaka verslunar og þjónustu, að ræða ríkisvernd á sölu mjólkurafurða. Hlægilegt var að sjá ráðherrann reyna að verja gamalt og úrelt kerfi og sannaðist þarna enn betur að hann er ekki alveg í takt við nútímann. Sigurður kom með marga athyglisverða punkta í umræðuna, en Guðni reyndi venju samkvæmt að fara með umræðuna út á tún. Eftir stendur að gamalt og úrelt kerfi verður að víkja fyrir nútímavinnubrögðum. Eftir þáttinn horfðum við á meistaraverk Quentin Tarantino, Kill Bill: Vol. 1. Keypti hana á DVD í vikunni, enda um að ræða skyldueign fyrir alla sanna kvikmyndaunnendur. Allt gengur upp í myndinni: tónlist, kvikmyndataka og leikur skapa magnað andrúmsloft. Flott bardagaatriði, blóðið er ekki sparað í öllum limlestingunum. Uma Thurman er traust í aðalhlutverkinu. Sannkölluð kvikmyndabomba. Eftir að hafa horft á myndina var skellt sér á forsýningu á Kill Bill: Vol. 2, sem hófst 22:30. Biðin var löng eftir framhaldinu, en vel þess virði. Að mínu mati er framhaldsmyndin betri en sú fyrri. Alveg magnað var að horfa á þessar tvær sama kvöldið. Saman mynda þær gríðarlega sterka heild. Báðar myndirnar eru í fyrsta flokks klassa, hiklaust. Allir að skella sér í bíó!

Dagurinn í dag
1917 Jón Helgason vígður biskup yfir Íslandi - hann sat á biskupsstóli til 1937
1942 Bandaríkjaher tekur formlega við yfirstjórn alls heraflans á Íslandi af Bretum
1950 Íslandsklukkan eftir Halldór Kiljan Laxness frumsýnd í Þjóðleikhúsinu
1971 Francois 'Papa Doc' Duvalier, einræðisherra Haiti, deyr í Port-au-Prince
1994 Richard M. Nixon 37. forseti Bandaríkjanna, deyr í New York, 81 árs að aldri

Snjallyrði dagsins
Ó, blessuð vertu sumarsól,
er sveipar gulli dal og hól
og gyllir fjöllin himinhá
og heiðavötnin blá.
Nú fossar, lækir, unnir, ár
sér una við þitt gyllta hár.
Nú fellur heitur haddur þinn
á hvíta jökulkinn.
Páll Ólafsson

Gleðilegt sumar - kærar þakkir fyrir samveruna í vetur!

Engin fyrirsögn

Tony BlairHeitast í umræðunni
Tony Blair forsætisráðherra Bretlands, ávarpaði breska þingið á hádegi í gær. Þar tilkynnti forsætisráðherrann um ákvörðun ríkisstjórnar sinnar þess efnis að þjóðaratkvæðagreiðsla fari fram í landinu um nýja stjórnarskrá Evrópusambandsins. Einungis eru nokkrar vikur síðan Blair ljáði ekki máls á því að setja stjórnarskrána í þjóðaratkvæði og leitaði leiða til að sætta ólíkar skoðanir innan Verkamannaflokksins. Þrýstingurinn hefur jafnt og þétt aukist á forsætisráðherrann. Hefur hann seinustu mánuði notað þau rök sem forsendur afstöðu sinnar að fara ekki í þjóðaratkvæðagreiðslu að tilkoma hennar muni ekki hafa í för með sér neinar umtalsverðar breytingar á Evrópusambandinu. Til gærdagsins var hann eini þjóðarleiðtogi aðildarríkja sambandsins sem hafði þá skoðun að tilkoma stjórnarskrárinnar myndi ekki gerbreyta eðli þess. Seinustu vikur hefur hver þungaviktarráðherrann innan flokksins gengið í lið með þeim sem kröfðust þess að stjórnarskráin skyldi lögð í þjóðaratkvæði, þ.á.m. voru Jack Straw utanríkisráðherra, Gordon Brown fjármálaráðherra, David Blunkett innanríkisráðherra, og John Prescott aðstoðarforsætisráðherra. Eftir að ljóst var að afstaða Blairs hafði ekki meirihlutafylgi á þinginu, skipti hann um skoðun og tilkynnti fyrrnefnda ákvörðun á þingi í dag. Greinilegt er að hér er fyrsta merki þess að forsætisráðherrann sé ekki ráðandi um afgreiðslu mála í sjö ára valdatíð sinni.

Michael HowardÍ kjölfar fyrrnefndrar yfirlýsingar forsætisráðherrans voru umræður um þjóðaratkvæðagreiðslu og kom til hvassra orðaskipta milli forsætisráðherrans og Michael Howard leiðtoga breska Íhaldsflokksins. Gekk Howard óhikað eftir því að fá forsætisráðherrann til að tjá sig um af hverju hann hefði svo gjörsamlega kúvent í afstöðu sinni til málsins á örfáum vikum, enda hefði hann síðast sagt í útvarpsviðtali á BBC, 5. apríl sl. að ekki kæmi til þjóðaratkvæðagreiðslu. Blair og Howard sem hafa átt harkaleg orðaskipti í þinginu í vetur, eftir leiðtogaskiptin í Íhaldsflokknum í október 2003, skutu föstum skotum að hvor öðrum og lét Howard þau orð falla að forsætisráðherrann væri kominn á fulla ferð í bakkgírinn fram af hengifluginu. Blair vildi ekki tjá sig ítarlega um það hvenær kosið verði um stjórnarskrána. Almennt er talið að hún fari þó fram eftir næstu þingkosningar, líklegast er að þær verði í maí 2005, en kjörtímabilinu lýkur þó ekki fyrr en í fyrstu viku maímánuðar 2006. Hafa stjórnarandstæðingar á Englandi gagnrýnt að beðið verði svo lengi með að heyra álit Breta á stjórnarskránni, og segja ástæður þess þær að Blair þori ekki að leggja málið í dóm þjóðarinnar fyrr, af ótta við að bíða niðurlægjandi ósigur. Þjóðaratkvæðagreiðsla hefur aðeins einu sinni verið haldin í Bretlandi áður. Það var 1975 þegar kjósendur voru spurðir hvort Bretar ættu að vera áfram í Efnahagsbandalagi Evrópu, eins og ESB hét þá. Mikill meirihluti Breta var þá þeirrar skoðunar.

Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir menntamálaráðherraÞorgerður Katrín Gunnarsdóttir menntamálaráðherra, kynnti loks á ríkisstjórnarfundi í gærmorgun, skýrslu um eignarhald á fjölmiðlum sem nefnd á vegum ráðuneytisins samdi, fyrir öðrum ráðherrum stjórnarinnar. Skýrslan verður áfram til meðferðar í ríkisstjórninni og væntanlega rædd enn frekar á næsta fundi ríkisstjórnarinnar á föstudag. Í viðtölum í gær sagði Þorgerður Katrín enn vera nægan tíma til lagabreytinga á þessu sviði á yfirstandandi þingi. Skýrslan var afhent ráðherra í byrjun mánaðarins og hefur því verið á borði hennar í tæpar þrjár vikur. Hennar hefur verið beðið með allnokkurri eftirvæntingu, enda mun efni hennar skipta sköpum í umræðu um næstu skref varðandi eignarhald fjölmiðla. Nokkuð hefur lekið í fjölmiðla um efni skýrslunnar og hefur verið skýrt frá því t.d. að nefndin leggi ekki til að sett verði sérstök lög um eignarhald á fjölmiðlum en breyta megi lögum sem þegar eru í gildi, t.d. samkeppnislögum. Þá komi jafnframt til greina að stýra þróun mála í gegnum svokölluðu útvarps- eða sjónvarpsleyfi. Ráðherra sagði í dag að enn yrði bið á því að efni hennar yrði gert opinbert. Aðrir ráðherrar vilji fá lengri tíma til að kynna sér hana og fara yfir helstu niðurstöður. Ljóst er að mikil umræða verður um skýrsluna og niðurstöður hennar, þegar hún verður loks gerð opinber, enda um að ræða mikilvægt mál.

Sigrún Björk JakobsdóttirSvona er Íslendingur í dag
Í góðum pistli á Íslendingi, vef sjálfstæðisfélaganna á Akureyri fjallar Sigrún Björk Jakobsdóttir bæjarfulltrúi og formaður menningarnefndar bæjarins, um málefni væntanlegs leikskóla við Helgamagrastræti og umræður um hann í skólanefnd. Orðrétt segir: "Fulltrúar Samfylkingar hafa farið mikinn að undanförnu varðandi tillögu meirihluta skólanefndar á dögunum um að útboð skyldi viðhaft á rekstri væntanlegs leikskóla við Helgamagrastræti. Við hvað er Samfylkingarfólk hrætt? Er þetta eðlislæg íhaldssemi af þeirra hálfu, sem hefur sýnt sig í því að vera á móti öllum tillögum til nýjunga í rekstri sveitarfélagsins? Akureyri hefur einsett sér að vera í forystusveit sveitarfélaga. Þar undir fellur líka frumkvæði í nýjungum á sviði rekstrar sveitarfélagsins. Í tillögum atvinnumálanefndar frá 2003 er einmitt lagt til að gaumgæfilega verði athugað með möguleika á útvistun einstakra þjónustuþátta sem bærinn veitir. Hugmyndin með það að bjóða rekstur eins leikskóla út felur einmitt þetta í sér. Víða um heim má sjá þess merki að rekstrarumhverfi menntastofnanna er að breytast að það fari ekki endilega saman að einn og sami aðilinn kosti þjónustuna, veiti hana og hafi eftirlit með henni. Markmið með þessu útboði er að fá nýja sýn og nýjar áherslur í skólaumhverfið í bænum." Hvet alla til að lesa pistil Sigrúnar.

Grumpy Old MenSjónvarpsspjall - kvikmyndir
Eftir kvöldfréttirnar horfði ég á dægurmálaspjallþættina. Í Íslandi í dag ræddu Pétur Blöndal og Össur Skarphéðinsson, um nefndarskýrslu um eignarhald á fjölmiðlum og virðisaukaskatt á matvælum. Í Kastljósinu voru Georg Kr. Lárusson forstjóri Útlendingastofnunar og Andri Óttarsson lögfræðingur, gestir Sigmundar Davíðs Gunnlaugssonar. Umræðuefnið var umdeilt frumvarp dómsmálaráðherra um breytingar á útlendingalögum. Var víða farið yfir málið í spjallinu í þættinum og óhætt að fullyrða að Georg hafi komið mjög vel út úr þessu spjalli og farið nokkuð vel yfir sitt mál. Eftir þáttinn horfðum við á gamanmyndirnar Grumpy Old Men og Grumpier Old Men. Í þeim fara Jack Lemmon og Walter Matthau á kostum í hlutverkum tveggja æskuvina sem elska að hata hvorn annan. Passar vel að horfa á þessar tvær myndir sama kvöldið, á vel við. Ekki þarf að fara mörgum orðum um leiksnilli Lemmons og Matthau, þeir voru einstakir gleðigjafar í gamanmyndum á seinnihluta tuttugustu aldarinnar og gleymast ekki kvikmyndaaðdáendum. Á ég allar myndirnar sem þeir léku saman í og hefur alltaf fundist The Fortune Cookie og The Odd Couple bestar þeirra, sem þeir gerðu saman. Hér eiga þeir stjörnuleik ásamt Sophiu Loren og Ann Margret. Magnaðar myndir.

Dagurinn í dag
1800 Sex bátar farast í miklu norðanveðri út af Breiðafirði - 37 manns létust
1926 Elísabet II Englandsdrottning fæðist - hefur setið á valdastóli frá febrúar 1952
1965 Staðfest á þingi lög um útgáfu nafnskírteina til allra einstaklinga eldri en 12 ára
1971 Fyrstu handritin komu til landsins með Vædderen - seinustu handritin komu 1997
1994 Guildford fjórmenningarnir hreinsaðir af grun um aðild að sprengjuárás á N-Írlandi

Snjallyrði dagsins
Frelsi er móðir reglunnar, ekki dóttir hennar
Proudhon

Engin fyrirsögn

Old TraffordHeitast í umræðunni
Flest bendir til þess að lögreglan í Manchester á Englandi hafi í gær, komið í veg fyrir þaulskipulagt hryðjuverk, sem talið er að stuðningsmenn hryðjuverkasamtaka Osama Bin Laden, al Qaeda, hafi ætlað að framkvæma á knattspyrnuleik Manchester United og Liverpool í ensku úrvalsdeildinni sem verður á laugardag. Lögregla handtók í gær alls 10 manns í nokkrum handtökum í norður og miðhluta Englands. Mun vera um að ræða íraska Kúrda og fólk af norður-afrískum uppruna. Að öllum líkindum mun þetta fólk hafa haft í hyggju að sprengja sig í loft upp meðal áhorfenda á leikvangi Manchester United, Old Trafford (67.000 áhorfendur komast þar fyrir). Skv. breskum fréttavefum í dag munu hin handteknu þegar hafa keypt miða á leikinn og ætlað að dreifa sér um leikvanginn til að valda sem mestu manntjóni. Greinilegt er því að komið hefur verið í veg fyrir gríðarlegt blóðbað. Leikurinn verður sýndur í beinni útsendingu sjónvarpsstöðva um allan heim. Ekki er þó víst að allir hryðjuverkamannanna hefðu náð að sleppa í gegnum öryggisgæsluna, enda er þar oft leitað á fólki til að koma í veg fyrir að óæskilegir hlutir, t.d. áfengi eða barefli komist á leikvanginn. Mánuður er liðinn frá hryðjuverkunum á Spáni og greinilegt á þessum tveim málum að herða verður baráttuna gegn hryðjuverkum og berjast gegn hryðjuverkaöflum af fullum krafti. Ekki verður samið við hryðjuverkamenn!

Sonia GandhiÞingkosningar hefjast á Indlandi í dag. Í kosningunum nú eru rúmlega 670 milljón Indverja á kjörskrá. Kosningalögin á Indlandi eru margflókin, og kosningar þar löngum vakið athygli fyrir að vera tafsamar. Kosningarnar fara fram í fjórum áföngum og mun ekki ljúka formlega um allt land fyrr en eftir tæpan mánuð, mánudaginn 10. maí. Erfitt er að spá í pólitíska ástandið á Indlandi, raunverulega getur allt gerst og þarf lítið að breytast til að stjórnarandstaðan komist til valda. Um er að ræða tvo valdapóla sem berjast um völdin. Annarsvegar er Janata, flokkur Atal Behari Vajpayee forsætisráðherra, og hinsvegar Kongressflokkurinn sem lengi var leiðandi afl í pólitíska landslagi landsins og er nú undir forystu Soniu Gandhi. Sonia er ekkja Rajivs Gandhi sem var forsætisráðherra landsins 1984-1989. Rajiv var myrtur í sprengjutilræði þann 21. maí 1991, en hann var þá í kosningabaráttu í héraðinu Tamil Nadu. Móðir Rajivs var Indira Gandhi sem var forsætisráðherra landsins 1966-77 og 1980-1984, en hún var myrt þann 31. október 1984. Ný kynslóð Gandhi ættarinnar er í framboði nú, meðal frambjóðenda Kongress flokksins eru börn Rajivs og Soniu, Rahul og Priyanka. Er almennt talið að Priyanka sé framtíðarleiðtogi Kongressflokksins, hún þykir um margt minna á ömmu sína. Sonia Gandhi neitaði lengi vel að taka við forystu flokks eiginmanns síns eftir morðið á honum, en gaf loks kost á sér til stjórnmálastarfa árið 1998 og er nú leiðtogi Kongressflokksins.

George W. Bush forsetiGeorge W. Bush forseti Bandaríkjanna, hefur aukið forskot sitt á John Kerry forsetaframbjóðanda Demókrataflokksins. Þetta kemur fram í nýrri skoðanakönnun sem Gallup gerði um helgina fyrir CNN og USA Today. Kemur sú niðurstaða eflaust flestum stjórnmálaskýrendum nokkuð á óvart, enda var talið að fylgi forsetans hefði minnkað vegna fréttaflutnings af Íraksmálum og yfirheyrslum í bandaríska þinginu og ádeilum á ríkisstjórn forsetans þar, seinustu vikur. Samkvæmt þessari nýju könnun, nýtur Bush forseti nú fylgis 51% kjósenda en Kerry hefur 46%, er einungis er spurt um þá tvo. Þegar spurt er um fylgi við þá þrjá: Bush, Kerry og neytendafrömuðinn Ralph Nader sem er óháður frambjóðandi í kosningunum, mælist fylgi Bush 50%, Kerry 44% og Nader fékk þá 4%. Í svipaðri könnun sem gerð var í byrjun mánaðarins var ekki marktækur munur á frambjóðendunum, Bush hafði þá 48% og Kerry 45%. Aukin harka er að færast í kosningabaráttuna. Rúmt hálft ár er til kjördags, 2. nóvember nk. og greinilegt á öllu að frumundan er ein beittasta kosningabarátta seinni tíma vestanhafs. Væntanlega mun kosningabaráttan ná hámarki eftir flokksþing stóru flokkanna í sumar, þar sem línurnar verða lagðar og baráttan sett á fullt.

HeimdallurSvona er frelsið í dag
Í dag birtist á frelsinu ítarlegur pistill eftir Óla sem fjallar um Colin Powell utanríkisráðherra Bandaríkjanna. Í pistlinum segir svo: "Colin Powell utanríkisráðherra Bandaríkjanna hefur verið mikið í sviðsljósinu undanfarna daga í kjölfar frétta um að hann hafi lagst gegn innrás Bandaríkjamanna í Írak í fyrra. Fæstir vita þó að hann á að baki glæstan feril í hernum og hefur honum stundum verið líkt við Dwight D. Eisenhower (1890-1969) fyrverandi forseta Bandaríkjanna og eins sigursælasta hershöfðingja Bandaríkjahers. Frami Powell er ævintýri líkastur, hann ólst upp í fátækrahverfum New York-borgar og honum gekk framan af mjög illa í skóla. Hann lét þó mótlætið ekki buga sig og skráði sig í herinn og hóf að klífa metorðastiga hersins. Þegar Powell hætti í hernum fyrir aldurs sakir gegndi hann æðsta embætti hersins." Fer Óli vel yfir störf Powells í bandaríska hernum og aðdragandann að því að hann varð utanríkisráðherra í ríkisstjórn Bush Bandaríkjaforseta. Hvet alla til að lesa þennan fína pistil. Bendi ennfremur lesendum vefsins á góða Moggagrein Gunnars Ármannssonar og fjallar um kærunefnd jafnréttismála.

Bringing down the HouseGóðir þættir - kvikmynd
Var hið fínasta sjónvarpskvöld í gær. Eftir fréttatímana horfðum við á vandaðan heimildarþátt um ævi bresku skáldkonunnar George Eliot og síðar um kvöldið á lokaþátt eins lífseigasta þáttar hjá Ríkissjónvarpinu, Nýjasta tækni og vísindi. Hefur þátturinn verið á skjánum í rúm 30 ár og á þeim tíma hafa Örnólfur Thorlacius og Sigurður H. Richter, séð um hann, Sigurður einn seinustu 20 árin. Horfði ég stundum á þessa þætti og verður vissulega sjónarsviptir að þeim, enda oft margt athyglisvert þar sem fjallað var um. Eftir tíufréttirnar horfðum við á hina mögnuðu gamanmynd Bringing down the House með Steve Martin og Queen Latifah í aðalhlutverkum. Fjallar um lögfræðinginn Peter Sanderson sem ennþá er yfir sig ástfanginn af fyrrum konunni sinni Kate, og skilur ekkert í afhverju hún fór frá sér. Hann er ósköp einmana eftir skilnaðinn og ákveður til að reyna að koma lífi sínu á réttan kjöl að kynnast öðrum konum. Hann fer að spjalla við Charlene, á spjallrás á Netinu og hefur hug á að kynnast henni betur. Þegar á reynir er hinsvegar ljóst að Charlene hefur ekki alveg gefið upp réttar upplýsingar um sig og uppruna sinn og fortíð. Fyrr en varir hefur hún snúið lífi Peters alveg við. Í heildina er myndin hin besta skemmtun og ættu allir að geta hlegið að henni og átt notalega kvöldstund. Það var allavega þannig hjá okkur.

Dagurinn í dag
1602 Einokunarverslun Dana hófst á Íslandi - hún stóð í tæpar tvær aldir, lauk í árslok 1787
1950 Þjóðleikhúsið vígt - fyrstu verkin á fjalir leikhússins voru Nýársnótt og Íslandsklukkan
1972 11 íslenskir námsmenn réðust í sendiráð Íslands í Stokkhólmi og héldu því í tvær stundir
1999 Fjöldamorð í Columbine skólanum í Denver í Colorado-fylki - tveir nemendur skólans, Eric Harris og Dylan Klebold, drápu 13 manns í skothríð og frömdu að því loknu sjálfsvíg
2000 Þjóðmenningarhúsið við Hverfisgötu vígt við hátíðlega athöfn

Snjallyrði dagsins
Ríkið er goðsögnin mikla um að allir geti lifað á kostnað annarra.
Frederic Bastiat

Engin fyrirsögn

Tony BlairHeitast í umræðunni
Tony Blair forsætisráðherra Bretlands, mun væntanlega tilkynna á morgun að loknum ríkisstjórnarfundi, að breska þjóðin muni kjósa um væntanlega stjórnarskrá Evrópusambandsins. Er talið að Blair ávarpi þjóðina í hádeginu á morgun. Er um algjöra kúvendingu að ræða í málinu að hálfu forsætisráðherrans og Verkamannaflokksins, um er að ræða mestu stefnubreytingu flokksins í Evrópumálum, frá því hann komst til valda fyrir sjö árum. Forsætisráðherrann hefur margoft sagt að atkvæðagreiðsla um stjórnarskrána væri óþörf. Á flokksþingi Verkamannaflokksins í október sl. sagði hann: "There will not be a referendum". Í ítarlegu viðtali í þættinum Today Programme á BBC í byrjun mánaðarins sagði hann t.d. "Our policy has not changed and if there is any question of it changing I can assure you we will tell you". Talið er að Blair hafi í hyggju að hafa þjóðaratkvæðagreiðsluna eftir næstu þingkosningar, sem eiga að verða í síðasta lagi í maí 2006. Er almennt rætt um að þingkosningar verði þó fyrr, jafnvel eftir rúmt ár, vorið 2005. Um er að ræða hættuspil fyrir forsætisráðherrann. Hafni Bretar stjórnarskrá ESB, muni Blair neyðast til að fara frá. Hefur Michael Howard leiðtogi breska Íhaldsflokksins, hvatt forsætisráðherrann til að láta hræðsluna við afhroð í þjóðaratkvæðagreiðslu fyrir þingkosningar, ekki hafa áhrif á sig og leggja málið strax í dóm þjóðarinnar. Er óskiljanlegt að ekki sé hægt að kjósa strax t.d. í haust um málið.

Ivan GasparovicForsetakosningar fóru fram um helgina í Slóvakíu. Flestum að óvörum bar Ivan Gasparovic sigur úr býtum í kosningunum. Í fyrri umferð kosninganna hlaut Vladimir Meciar fyrrum forsætisráðherra Slóvakíu, rúman þriðjung atkvæða og var að flestum talinn líklegri um sigur. Var um táknrænan sigur að ræða fyrir Gasparovic. Í valdatíð Meciars, sem stóð í tæpan áratug, var Gasparovic náinn samverkamaður hans og var forseti þjóðþingsins um skeið. En þeim sinnaðist fyrir nokkrum árum og Gasparovic yfirgaf flokk Meciar. Flokkur Meciar missti völdin árið 1999 er hann tapaði í kosningum. Við völdum tók umbótasinnuð samsteypustjórn. Meciar sem bauð sig fram í forsetakosningunum 1999 í Slóvakíu tapaði þá fyrir sitjandi forseta, Rudolf Schuster, sem setið hefur frá 1994 á forsetastóli. Sigur Gasparovic var öruggari en nokkrum hefði órað fyrir, hann hlaut 59,9% atkvæða en Meciar tæplega 40,1%. Í fyrri umferðinni féll úr leik Eduard Kukan sem var frambjóðandi burðarflokks ríkisstjórnar landsins, hins kristilega demókrataflokks Mikula Dzurinda forsætisráðherra. Tímamót eru framundan fyrir Slóvakíu, eftir hálfan mánuð gengur landið formlega í Evrópusambandið, en í síðasta mánuði í NATÓ. Gasparovic tekur formlega við af Rudolf Schuster, þann 15. júní nk.

Jose Luis Rodriguez ZapateroEins og ég sagði frá í gær tilkynnti Jose Luis Rodriguez Zapatero forsætisráðherra Spánar, strax eftir embættistöku sína á laugardag að hann myndi þegar í stað óska eftir að spænskir hermenn héldu burt frá Írak. Munu þeir vera farnir frá landinu fyrir lok júnímánaðar í síðasta lagi. Hefur þessi ákvörðun vakið mikla athygli um allan heim, enda um að ræða algjört hugsunarleysi af hálfu spænskra stjórnvalda. Hefur Mariano Rajoy leiðtogi Þjóðarflokksins, gagnrýnt þessa ákvörðun harðlega og sagt hana veikja stöðu Spánar í samstarfi við önnur lönd. Tek ég undir það mat, er greinilega um frekar vanhugsaða ákvörðun að ræða, einkum í ljósi hryðjuverkanna á Spáni fyrir rúmum mánuði. Það er slæmt að sjá hvernig hryðjuverkamenn hafa áhrif á stjórnmál í vestrænum heimi eins og þarna virðist verða raunin. Um er að ræða vafasöm skilaboð spænskra stjórnvalda til hryðjuverkaaflanna. Hvernig eiga þau að taka þessu öðruvísi en sem sínum sigri? Það kemur þarna í ljós að vinnubrögð þeirra virka til að hafa áhrif á bæði kosningar og ákvarðanir stjórnmálamanna. Þau geta greinilega með því að skelfa almenning fengið fram þau viðbrögð sem henta þeim best.

HeimdallurSvona er frelsið í dag
Í dag birtist á frelsinu góður pistill Páls Jóhannessonar um olíugjald. Orðrétt segir í pistlinum: "Þungaskattur er orðinn úreltur og kerfið meingallað en þrátt fyrir að það hafi legið ljóst fyrir í þónokkurn tíma hefur ekki tekist að ná þessari breytingu úr þungaskattskerfi í olíugjald í gegnum þingið þar sem fáir ­hópar í þjóðfélaginu hafa talið vegið að sér vegna þess að þeir kunna að koma verr út úr hinu nýja skattkerfi í krónum talið. Það hefur hins vegar verið á kostnað hins almenna borgara og samfélagsins í heild. Það er alveg ljóst að þeir þingmenn sem kunna að vera á móti þessari kerfisbreytingu eru að gæta sérhagsmuna þar sem enginn getur haldið því fram að breytingin sé ekki af hinu góða. Þeir sem eru að „græða“ á þungaskattskerfinu eru í flestum tilfellum að gera það á kostnað hins almenna skattgreiðanda. Þeir eru í raun að „græða“ á ósanngjörnu kerfi sem samkeppnisyfirvöld eru m.a. búin að úrskurða að sé andstætt sam­keppnis­lögum."

ChicagoSjónvarpsgláp - kvikmyndir - spjall
Horfði á gott sjónvarpsviðtal Kristjáns Kristjánssonar í Kastljósi við Berglindi Ásgeirsdóttur aðstoðarforstjóra OECD. Berglind kemur alltaf vel fyrir, er þekkt fyrir að vera góð ímynd kvenna. Var fyrsta konan sem skipuð var ráðuneytisstjóri á Íslandi og hefur setið sem framkvæmdastjóri Norðurlandaráðs. Virkilega gott spjall og víða farið yfir. Eftir þáttinn horfðum við á óskarsverðlaunamyndina Chicago. Mögnuð kvikmynd sem hittir beint í mark. Fjallar um Roxie Hart, óttalega fáfróða Chicago-mær sem á þann draum heitastan að verða dans- og söngstjarna. Í kjölfar þess að hún skýtur til bana ástmann sinn sem hafði svikið loforð um að tryggja henni frægð og frama, endar hún í fangelsi. Þar er fyrir átrúnaðargoð hennar, Velma Kelly en hún var dæmd fyrir að drepa manninn sinn og systur sína er hún kom að þeim í rúminu. Til þess að sleppa við dauðadóminn leitar Roxie á náðir Billy Flynn sem er einn besti lögmaðurinn í Chicago, til að reyna að sleppa úr fangelsi. Eiginmaður Roxie, Amos Hart, reynir að safna nægu fé til að ráða Flynn og á meðan plotta þær stöllur um það hvernig þær geta eiginlega sloppið út úr fangelsinu. Leikararnir eiga allir stjörnuleik. Catherine Zeta-Jones hlaut óskarinn fyrir flotta túlkun sína á Velmu og Renée Zellweger, John C. Reilly og Queen Latifah eru glæsileg í litríkum hlutverkum. Sannkölluð eðalmynd sem ætti að koma öllum í gott skap. Eftir myndina fór ég á MSN og rabbaði við nokkra vini og vann í tölvunni að ýmsum málum.

Dagurinn í dag
1246 Haugsnessfundur - mannskæðasta orrusta hérlendis - 100 manns féllu
1917 Leikfélag Akureyrar stofnað - starfaði í upphafi sem áhugamannaleikfélag
1956 Rainier fursti af Mónakó og leikkonan Grace Kelly, ganga í hjónaband
1993 Sértrúarsöfnuður David Koresh í Waco í Texas, fyrirfer sér eftir mánaðarlangt umsátur FBI
1995 Bílsprengja grandar stjórnsýslubyggingunni í Oklahoma - tæplega 200 manns lætur lífið

Snjallyrði dagsins
Ég tel að hagsmunum kjósenda minna sé best borgið með því að tryggja frelsi þeirra.
Barry Goldwater

Engin fyrirsögn

Abdel Aziz RantissiHeitast í umræðunni
Abdel Aziz Rantissi sem kjörinn var leiðtogi Hamas-samtakanna, í kjölfar morðsins á Ahmed Yassin 22. mars sl, var myrtur í gærkvöldi í þyrluárás Ísraelshers á bíl hans á Gaza-svæðinu. Rantissi lést af sárum sínum örskömmu eftir að hann var fluttur á sjúkrahús. Alls létust þrír í árásinni, auk Rantissi létust sonur hans og lífvörður, alls særðust fimm manns. Legið hefur fyrir eftir morðið á Yassin, að ísraelsk yfirvöld hafi í hyggju að ráða niðurlögum allra helstu leiðtoga Palestínumanna. Rantissi var einn af stofnendum Hamas-samtakanna og frá upphafi einn af helstu forsvarsmönnum þeirra. Palestínumenn hafa hótað hefndum fyrir Rantissi og hefur morðið á honum verið fordæmt víða um heim í dag. Í samræmi við hefðir palestínumanna fer útför fram innan sólarhrings frá andláti viðkomandi. Þúsundir manna voru við útför hans í Gaza í morgun. Rantissi var 56 ára gamall er hann lést, var læknir að mennt. Fram hefur komið að Hamas hafi skipað nýjan leiðtoga, en nafn hans verður ekki gefið upp af ótta við að hann verði ennfremur ráðinn af dögum. Morðið á Rantissi gerir illt ástand enn verra og mun leiða til öldu árása milli þjóðarbrota. Það er greinilegt að staða mála á þessum slóðum minnir á suðupott.

Jose Luis Rodriguez ZapateroJose Luis Rodriguez Zapatero tók í gær við embætti forsætisráðherra Spánar við athöfn í Zarzuela-höll, setri Jóhanns Karls Spánarkonungs, skammt utan Madrid. Sósíalistaflokkur Zapatero sigraði í þingkosningunum á Spáni fyrir fimm vikum, sunnudaginn 14. mars, þremur dögum eftir sprengjutilræðið sem varð tæplega 200 manns að bana í Madrid. Sósíalistar náðu 164 mönnum á þing, í 350 manna neðrideild þingsins, og vantaði 12 þingmenn upp á að hljóta hreinan meirihluta. Var hann formlega kjörinn forsætisráðherra á spænska þinginu á föstudag, auk þess að hljóta atkvæði, kusu 19 manns úr sex flokkum hann til embættisins, þ.á.m. vinstrabandalag kommúnista og grænna, og þjóðernisflokkum úr héruðum Spánar. Það var slæmt að hryðjuverk íslamskra öfgamanna skyldu hafa áhrif á spænskan almenning og leiða til valdaskiptanna. Það er slæmt að sjá hvernig hryðjuverkamenn höfðu með þessu bein áhrif á stjórnmál í vestrænum heimi. Fyrir kosningar lofaði Zapatero að spænskir hermenn færu frá Írak og tilkynnti hann þegar eftir embættistöku sína, að það verði gert nú þegar. Það er með ólíkindum að spænskir vinstrimenn hlaupi frá hálfnuðu verki í Írak með skottið milli lappanna og verður þeim ekki til framdráttar.

Stefán Friðrik StefánssonSunnudagspistillinn
Að þessu sinni fjalla ég um umræðu seinustu daga um úrskurð kærunefndar jafnréttismála vegna skipunar hæstaréttardómara, jafnframt er vikið að umræðu um málið í spjallþáttum og á þingi þar sem stjórnarandstaðan var með máttlitlar upphrópanir að ráðherranum. Ennfremur skrifa ég um umdeilt frumvarp dómsmálaráðherra um breytingar á útlendingalögum og undirskriftasafnanir andstæðinga og stuðningsmanna þess. Í kjölfar þess að umræða um málið varð jafnáberandi og raun bar vitni, ákvað ég að lesa frumvarpið og kynna mér vel alla þætti þess og taka afstöðu til þess útfrá því. Tók ég þá afstöðu að ekkert í frumvarpinu væri það róttækt að það kallaði á að ég tæki afstöðu gegn því. Í frumvarpinu er að mínu mati gengið í sömu átt og verið hefur hjá nágrannaþjóðum okkar og langt í frá yfir strikið í þeim efnum. Samband ungra sjálfstæðismanna var eina ungliðahreyfing stjórnmálaflokka á landsvísu sem tók ekki afstöðu með undirskriftasöfnun andstæðinga frumvarpsins. Var ég mjög sáttur við þá ákvörðun, enda hefði ég ekki tekið afstöðu með þeirri undirskriftasöfnun eða stutt að SUS stæði að henni á nokkurn hátt. Að lokum fjalla ég um varnarmálin, í kjölfar spjalls forseta Bandaríkjanna og forsætisráðherra Íslands um málið í vikunni.

HulkGóð kvöldstund
Áttum gott kvöld í gær. Horfðum eftir kvöldmatinn á þátt Gísla Marteins og Spaugstofuna. Um níuleytið komu móðurbróðir minn, Helgi Seljan og Jóhanna, kona hans, í heimsókn til okkar. Alltaf gaman að hitta Helga og Hönnu, áttum við virkilega gott spjall. Þau voru hér fyrir norðan um helgina, verið var að skíra barnabarnabarn þeirra, en Jóhanna yngri, býr hér á Akureyri. Að sjálfsögðu var farið yfir pólitísk málefni ásamt fleiru í spjallinu. Eftir að þau fóru síðar um kvöldið, litum við á kvikmyndina Hulk. Skemmtilega óhefðbundin hasarmynd sem hittir beint í mark. Fjallar um vísindamanninn Bruce Banner sem í bræðisköstum sínum breytist í hinn græna og tröllvaxna Hulk. Sagan er byggð á verkum Stan Lee sem bjó til teiknimyndapersónuna. Vel leikin og skemmtileg mynd sem er virkilega gaman að horfa á. Eric Bana, Jennifer Connelly, Nick Nolte og Sam Elliott eru flott í aðalhlutverkunum. Áferð myndarinnar er skemmtileg og græni liturinn notaður á mjög áhugaverðan hátt. Klippingar og öll framsetning Hulk er í alla staði lík teiknimyndasögum. Flott mynd.

Dagurinn í dag
1872 Jarðskjálftar ollu stórtjóni á Húsavík - stærstu skjálfarnir voru milli 6 og 7 á Richter
1944 Hermann Jónasson kjörinn formaður Framsóknarflokksins - sat á þeim stóli til ársins 1962
1955 Nóbelsverðlaunahafinn Albert Einstein deyr í New Jersey, 76 ára að aldri
1966 The Sound of Music hlaut óskarinn sem besta kvikmynd ársins 1965
1997 Kona verður í fyrsta skipti deildarforseti í Háskóla Íslands - Helga Kress

Snjallyrði dagsins
The most beautiful thing we can experience is the mysterious. It is the source of all true art and science.
Albert Einstein

Engin fyrirsögn

Tony Blair og George W. BushHeitast í umræðunni
Tony Blair forsætisráðherra Bretlands, og George W. Bush forseti Bandaríkjanna, hittust á fundi í Hvíta húsinu í gær og áttu ítarlegar viðræður um málefni Íraks. Að fundinum loknum ræddu þeir við blaðamenn í Rósagarði Hvíta hússins. Fór vel á með leiðtogunum og greinilegt að sá orðrómur sem gengið hafði, þess efnis að stirt væri þeirra á milli, á ekki við rök að styðjast. Fram kom í málflutningi þeirra að Bandaríkjamenn og Bretar muni hvergi hvika í málefnum Íraks. Landið muni verða sjálfstætt og frjálst á ný. Forsetinn sagði að möguleikar í stöðunni væru tveir, annars vegar lýðræði, hinsvegar harðstjórn og ógnarstjórn eins og var í valdatíð Saddams Husseins og Baath-flokksins. Skýrt kom fram í málflutningi þeirra að valdaskipti verði í Írak 30. júní nk. og heimamenn taki þá við stjórn landsins. Áfram verði þó bandalagsher í landinu, til að aðstoða nýrri ríkisstjórn leiðina til lýðræðis. Báðir bentu á það lykilhlutverk sem Sameinuðu þjóðirnar hefðu að gegna í Írak og Blair kallaði sérstaklega eftir nýrri ályktun Sameinuðu þjóðanna um valdaskiptin í Írak er að þeim kæmi. Mikilvægt er að ljúka því verki sem hafið var í Írak með falli stjórnar Baath og Saddams og færa landið í lýðræðisátt.

Björn Bjarnason dómsmálaráðherraÁ þingi fór fram í gær utandagskrárumræða að beiðni Jóhönnu Sigurðardóttur um skipan hæstaréttardómara í fyrra, í kjölfar úrskurðar kærunefndar jafnréttismála í seinustu viku. Þar var Björn Bjarnason dómsmálaráðherra, sakaður um lögbrot, valdhroka, forneskju og hraksmánarleg viðhorf til jafnréttis og mannréttinda. Var með hreinum ólíkindum að fylgjast með þeim umræðum sem fram fóru og þeim gegndarlausu og merkingarlitlu upphrópunum sem hin vanmáttuga stjórnarandstaða hafði í frammi. Sérstaklega kom það þó ekki á óvart að sjá hvernig Jóhanna sneri út úr almennum stjórnskipunarlögum og lagabókstöfum í umræðunni. Er slíkt ekki nýtt og þingmenn reyndar orðnir vanir að sjá slík hráslagavinnubrögð hjá henni. Athygli vakti er þingmaður Frjálslynda flokksins sem nýlega afplánaði fangelsisdóm fyrir brot á fiskveiðilögum líkti saman athæfi sínu og úrskurði kærunefndarinnar sem hefur verið langt í frá óskeikul, eins og dæmin sanna. Er ruglið í þingmanninum líklega einsdæmi í umræðum og er þá margt sem að baki er í sögu þingsins. Ekkert kom nýtt fram í þessari umræðu annað en máttlitlar upphrópanir frá stjórnarandstöðunni. Björn fer vel yfir þetta mál allt í pistli á heimasíðu sinni í dag.

Hafsteinn Þór Hauksson formaður SUSStarfið framundan
Hafsteinn Þór Hauksson formaður SUS, skrifar fróðlegan pistil á vef SUS um starfið framundan hjá Sambandi ungra sjálfstæðismanna. Fjallar hann þar um komandi útgáfu SUS í kjölfar ráðstefnu um landbúnaðarmál sem haldin verður í dag. Orðrétt segir þar: "Landbúnaðarritið mun verða þriðja smáritið sem ný stjórn SUS gefur frá sér en áður hefur SUS gefið út Bláa kverið, sem dreift var til þingmanna. Bláa kverið innihélt samantekt á ályktunum síðasta sambandsþings. Fyrir nokkrum vikum síðan gáfum við svo út smárit um menntamál sem innihélt erindi frá ráðstefnunni Breytt rekstrarform, betri menntun sem haldin var í Hafnarfirði. Annars er það að segja af útgáfustarfsemi að brátt mun nýtt tölublað Stefnis koma út en vinnsla blaðsins er á lokastigi. Á heimasíðunni okkar má svo nálgast um þrjátíu eldri Stefnisblöð sem skönnuð hafa verið inn og hvet ég unga sjálfstæðismenn til þess að kynna sér þau. Þau verða svo gerð ennþá aðgengilegri með stuttri samantekt á efni hvers blaðs fyrir sig svo auðveldara verði að nálgast efni sem áhugi er fyrir. SUS.is hefur tekið miklum breytingum síðustu mánuði og er sífellt að eflast. Auk aðgangsins að eldri Stefnisritum hefur til dæmis verið opnuð vefverslun og þingverði komið á fót. Enn mega þó lesendur búast við nýjungum sem ritstjórn vefsins vinnur hörðum höndum að." Hvet alla til að lesa pistil formannsins.

HidalgoSjónvarpsgláp - kvikmyndir
Átti gott símaspjall við mætan félaga snemma í gærkvöldi. Fórum við yfir ýmis mál. Skömmu áður hafði ég horft á Andrés Magnússon blaðamann, ræða fréttir vikunnar í spjalli við Elísabetu Jökulsdóttur skáldkonu, í Íslandi í dag. Var þar einna mest um málefni dómsmálaráðherra í kjölfar úrskurðar kærunefndar jafnréttismála. Athygli mína vakti er Þórhallur spurði hana hvort ráðherra hafi ekki bara einfaldlega haft málefnalegar forsendur fyrir vali sínu á hæstaréttardómara. Orðrétt sagði Elísabet þá eftir smáhik: "Það er ekki alltaf hægt að taka ákvarðanir útfrá málefnalegum forsendum". Merkilegt svar, hvernig ætli fólk taki þá ákvarðanir? Kannski segir þetta meira um vinstri græna en aðra. Eftir að hafa litið á fréttirnar fórum við í bíó og sáum kvikmyndina Hidalgo. Virkilega góð mynd, sem við höfðum bæði mjög gaman að. Omar Sharif er alltaf flottur. Er heim kom horfðum við á þrjár pottþéttar myndir sem seint klikka. Back to the Future, Back to the Future Part II og Back to the Future Part III. Alveg mögnuð trílógía, sem ég hef jafnmikið gaman af núna og á sínum tíma. Var orðið nokkuð um liðið frá því ég sá mynd 2 og magnað að sjá allar myndir í réttri röð, sama kvöldið.

Dagurinn í dag
1913 Járnbraut, sú fyrsta og eina hérlendis, tekin í notkun - notuð til ársins 1928
1939 Ríkisstjórn Hermanns Jónassonar, Þjóðstjórnin, tók við völdum - hún sat í þrjú ár
1961 Billy Wilder hlaut leikstjóraóskarinn fyrir hina stórfenglegu, The Apartment
1984 Lögreglukonan Yvonne Fletcher myrt í óeirðum við sendiráð Líbýu í London - leiddi til harkalegra deilna milli landanna sem voru loks leyst með heimsókn Tony Blair til Líbýu 2004
1994 Listasafn Kópavogs, Gerðarsafn, var opnað - kennt við Gerði Helgadóttur myndhöggvara

Snjallyrði dagsins
Verðbólga er ekkert annað en ein tegund skattlagningar.
Milton Friedman

Engin fyrirsögn

Davíð Oddsson forsætisráðherraHeitast í umræðunni
George W. Bush forseti Bandaríkjanna, hringdi í Davíð Oddsson forsætisráðherra, í gær og áttu þeir langt samtal og ræddu m.a. um varnir Íslands, Írak og baráttuna gegn hryðjuverkum. Eins og fram hefur komið á þessum vef er Davíð nú staddur í New York og hringdi forsetinn í Davíð í ljósi þess að hann væri staddur í Bandaríkjunum og hann teldi nauðsynlegt að fara yfir mikilvæg málefni. Davíð ávarpaði í gær aðalfund Íslensk-ameríska verslunarráðsins. Í ræðu sinni sagðist Davíð bjartsýnn á að varnarmál Íslands leystust farsællega með viðræðum við Bandaríkjamenn. Íslendingar gætu hins vegar ekki sætt sig við að sú endurskoðun sem nú stendur yfir leiði til þess að á Íslandi verði ekki lengur neinar varnarsveitir. Íslendingar væru reiðubúnir að ræða allar hliðar varnarsamstarfsins en hins vegar verði ekki til staðar áhugi ef varnarsamstarfið standi ekki undir mikilvægustu skuldbindingunni. Seinasta árið hef ég skrifað mikið um varnarmálin á vefum mínum, sl. sumar skrifaði ég t.d. nokkra ítarlega pistla um þetta mál á heimasíðu minni í sunnudagspistlunum. Bendi ég öllum þeim sem vilja fylgjast með skrifum mínum allt frá upphafi þess að óvissa um framtíð varnarliðsins kæmi upp, að lesa þau skrif. Í viðtölum í dag hefur forsætisráðherra fjallað ítarlega um samtal sitt við Bush forseta, og það jákvæða skref að forsetinn hafi rætt þessi mál við hann. Gott er að vita að forsetinn hafi ennfremur lagt áherslu á að niðurstaða fengist í málið sem Íslendingar myndu sætta sig við.

Ariel Sharon og George W. BushAriel Sharon forsætisráðherra Ísraels, kom í opinbera heimsókn til Bandaríkjanna í vikunni og átti ítarlegar viðræður við George W. Bush forseta Bandaríkjanna. Á fundinum samþykkti forsetinn, áætlun Sharons um að innlima nokkrar helstu landtökubyggðir gyðinga á Vesturbakka Jórdanar í Ísrael. Sharon fékk auk þess samþykki forsetans við áætlun Bush forseta, við áætlun um að innlima hertekin svæði Palestínumanna á Vesturbakkanum gegn því að flytja rúmlega 7000 ísraelska landtökumenn frá Gaza-svæðinu. Á blaðamannafundi Bush og Sharon í Hvíta húsinu, lýsti forsetinn sig sammála þeirri stefnu Ísraela að neita palestínskum flóttamönnum sem reknir voru úr landi við stofnun Ísraels að snúa heim. Um er að ræða allverulega stefnubreytingu að hálfu Bandaríkjastjórnar í þessu máli. Fram til þessa hefur ríkisstjórn Bandaríkjanna álitið að landtökubyggðir gyðinga á herteknu landi séu algjört brot á alþjóðalögum. Þessi ákvörðun forsetans kemur allverulega á óvart, og er greinilega innlegg í kosningabaráttuna fyrir komandi forsetakosningar. Það er með ólíkindum að forsetinn breyti stefnu sinni til að þóknast Sharon og hans stórhættulegu stefnu í þessum málum. Búast má við að ástandið í M-Austurlöndum versni til muna í kjölfar þessara tíðinda.

RÚVHálfur mánuður er nú liðinn frá því að nefnd menntamálaráðherra um eignarhald á fjölmiðlum, lauk formlega störfum og skilaði skýrslu sinni til ráðherrans. Hefur hún skv. fréttum seinustu daga legið á borði ráðherrans yfir páskana og hefur ekki enn verið kynnt formlega í ríkisstjórninni. Er líklegt að á fundi ríkisstjórnarinnar í dag verði skýrslan og niðurstöður nefndarinnar formlega kynntar. Þegar hefur þó lekið í fjölmiðla því sem sagt er megininntak skýrslunnar. Skýrslan mun vera mjög umfangsmikil, hátt í 200 síður. Þar er ítarleg greining á fjölmiðlamarkaðnum og lagt mat á stöðu t.d. Ríkisútvarpsins. Í áliti nefndarinnar mun koma fram skv. fréttum Viðskiptablaðsins í dag að til að stuðla að fjölbreytni á fjölmiðlamarkaði þurfi að efla RÚV, huga að því að sett verði sérákvæði um fjölmiðla í samkeppnislög, sem gætu sett fyrirtækjum í óskyldum rekstri skorður við því að þau eignist fjölmiðlafyrirtæki, eða að stýra málum í gegnum útsendingarleyfi sem eru tímabundin. Endurnýjun þeirra fengist þá hugsanlega ekki nema að uppfylltum vissum skilyrðum. Ef efni skýrslunnar verður það sem hér er sagt er um nóg að fjalla um efni hennar þegar hún liggur fyrir. Mun ég taka efni hennar fyrir ítarlega í sunnudagspistli og hér þegar efni hennar hefur formlega verið kynnt. Verður þar einkum vikið að þeim niðurstöðum sem nefndin virðist komast að í tengslum við RÚV.

Friðjón R. FriðjónssonSvona er frelsið í dag
Í ítarlegum pistli sínum fjallar Friðjón um frumvarp dómsmálaráðherra til breytinga á útlendingalögum og segir orðrétt: "Því er haldið fram að frumvarpið brjóti að einhverju leyti gegn þessu ákvæði stjórnarskrárinnar, en eins og áður hefur komið fram þá er víða í lögum og stjórnarskrá þar sem kveðið er sérstaklega á um réttindi og skyldur íslenskra ríkisborgara og ríkisborgara ýmissa erlendra ríkja. Það er glórulaust að halda því fram að öll þessi lög og stjórnarskráin sjálf stangist á við þetta ákvæði stjórnarskrárinnar. Því er haldið fram að með breytingu á aldursákvæði sem forsendu dvalarleyfis á grundvelli hjúskapar sé brotið gegn jafnræðisreglu stjórnarskrárinnar, af því að hjúskaparaldur hér á landi sé 18 ár. Það getur ekki verið rétt túlkun. Það er ekki verið að meina fólki að giftast. Útlendingur á aldursbilinu 18 til 24 ára giftur íslendingi, getur eftir sem áður óskað eftir dvalarleyfi á öðrum forsendum. Það sem aðallega breytist er að hann verður að sýna fram á tryggt húsnæði og trygga framfærslu." Í pistlinum tekur hann fyrir sjö atriði sem bent er á í tengslum við vef þeirra sem safnað hafa undirskriftum gegn frumvarpinu og tekur þau fyrir. Í lok pistilsins segir svo: "Að lokum vil ég hvetja alla til að lesa greinargerðina sem fylgir frumvarpinu og svo jafnvel að kynna sér þær umræður sem urðu á þingi við framlagningu þess áður en skrifað er undir." Ástæða er til að taka undir þau orð. Ennfremur bendi ég lesendum vefsins á góða ályktun stjórnar Heimdallar um jafnréttismál og ítarlegan pistil Maríu um frelsishugsjónina.

Sunset BoulevardKaffihúsaspjall - kvikmyndir
Fór eftir kvöldfréttirnar í gærkvöldi á kaffihúsið Bláu könnuna, hitti þar nokkra vini og áttum við gott spjall um helstu málin, líflegt og gott spjall yfir súkkulaðitertu og kakósopa. Virkilega gaman, enda hress og góður hópur. Erum við farin að gera þetta reglulega og er virkilega gaman að þessu. Jafnast ekkert á við gott spjall í góðra vina hópi. Er heim kom horfðum við á stórmynd Billy Wilder, Sunset Boulevard. Er hún ein af mínum uppáhaldsmyndum, alltaf klassísk. Mögnuð svört kómedía um leikkonuna Normu Desmond sem muna má sinn fífil fegurri frá tímum þöglu myndanna þegar hún var nafli alheimsins í bransanum. Nú er hún aðeins skugginn af sjálfri sér, alein og bitur og lifir í blekkingu um forna frægð sem er ekki lengur til staðar. Þegar hún kynnist ungum handritshöfundi sér hún í hillingum að hennar tími geti komið aftur, en er allt sem sýnist hjá leikkonunni? Endalaust er hægt að velta fyrir sér meistaraverkinu Sunset Boulevard sem á eldfiman hátt fjallar um skuggahliðar kvikmyndabransans og það á opinskáan hátt. MGM mógúllinn Louis B. Mayer var sár yfir hversu óvæginn Wilder var í umfjöllun sinni, en þarna birtist einkar óvægin úttekt á bransanum og kostir og gallar Hollywood glyssins koma vel í ljós. Einnig hvernig frægðin getur gert fólk áhrifamikið og allt að því vitfirrt með tímanum. Hlaut óskarinn fyrir handritið og Wilder var tilnefndur fyrir leikstjórn sína. Gloria Swanson sem átti stórleik í hlutverki Normu Desmond var tilnefnd fyrir leik sinn en þurfti að lúta í lægra haldi fyrir Judy Holliday í Born Yesterday. Er almennt talið hneyksli hið mesta að Swanson hlaut ekki verðlaunin fyrir frammistöðu sína. Swanson var aldrei betri á ferli sínum en einmitt í þessari mynd. Geislar í hlutverki Normu. Stórfengleg kvikmynd, sem allir verða að sjá.

Dagurinn í dag
1915 Gullfoss, fyrsta skip Eimskips kom til Reykjavíkur - fyrsta millilandaskip landsmanna
1940 Margrét Þórhildur fæðist - varð krónprinsessa Danmerkur 1947 og Danadrottning 1972
1953 Britannia, snekkja Elísabetar drottningar vígð formlega - var notuð til ársins 1997
1964 Dómur fellur í máli lestarræninganna í Bretlandi - lestarránið var hið mesta á öldinni
1991 Óskarsverðlaunaleikstjórinn Sir David Lean deyr í London, 83 ára að aldri

Dagurinn í gær
1785 Skálholtsskóli formlega lagður niður samkvæmt konungsúrskurði
1803 Reykjavík gerð að sérstöku lögsagnarumdæmi - Rasmus Frydensberg verður bæjarfógeti
1930 Vigdís Finnbogadóttir fjórði forseti Íslenska lýðveldisins, fæðist í Reykjavík
1971 George C. Scott hlaut óskarinn fyrir magnþrungna túlkun sína á George S. Patton
1989 96 manns týndu lífi er þeir tróðust undir á fótboltaleikvanginum í Hillsborough

Snjallyrði dagsins
Það sem reynist mér erfiðast að skilja er skattakerfið.
Albert Einstein

« Fyrri síða | Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband