Engin fyrirsögn

AlþingiHeitast í umræðunni
Líkur eru á því að þingstörfum ljúki fyrir hvítasunnu og sumarfrí þingmanna geti því hafist um mánaðarmótin. Rúmur hálfur mánuður er liðinn frá því áætlað var að þinglok yrðu upphaflega. Deilt hefur verið á þingi seinustu daga um smábátafrumvarp sjávarútvegsráðherra. Samkvæmt tillögum sjávarútvegsnefndar verður sóknardagakerfinu lokað og skulu sóknardagabátar stunda veiðar með krókaaflamarki frá upphafi næsta fiskveiðiárs. Hart hefur verið deilt um frumvarpið en líkur eru þó á því að það verði að lögum fyrir þinglok. Deilt var á þingi í morgun um fjölmiðlalögin, en þau hafa ekki enn verið sent forseta Íslands til staðfestingar. Sagði forsætisráðherra í umræðu í morgun að lögin færu með venjulegum hætti til forsetaembættisins, yrði meðhöndlað eins og önnur lög, þau myndu ekki lúta öðrum lögmálum. Þingmenn stjórnarandstöðu ítrekuðu að mikilvægt væri að forseti fengi málið sem fyrst á sitt borð. Samkvæmt stjórnarskránni hefur forsætisráðherra allt að 14 daga til að afhenda forseta lög eftir samþykki á þingi. Taugaveiklun í stjórnarandstöðunni kemur mjög á óvart, þegar svo skýrt kemur fram að hér er ekkert óeðlilegt um að vera, og eðlilegt ferli í gangi varðandi staðfestingu forseta og hann fái lög í hendur innan þess tíma sem stjórnarskráin gerir ráð fyrir. Ennfremur í ljósi þess að forseti hefur ekki sjálfur gefið til kynna að hann velti því fyrir sér að neita að staðfesta lögin.

PersónuverndÞað er kunnara en frá þurfi að segja að undirskriftasöfnun andstæðinga fjölmiðlalaganna hefur verið mjög umdeild og margt flókið við hana sem þyrfti að kanna betur. Á skömmum tíma hefur þar verið safnað rúmlega 30.000 undirskriftum, bæði á netinu og með skriflegum undirskriftum. Mikill meirihluti hefur þó safnast á netinu. Merkilegt er að allir fjölmiðlar hafa fjallað lítið um bakgrunn þessarar söfnunar eða spurt einfaldra spurninga eða kannað hlutina beint. Engin gagnrýnin rannsókn virðist eiga sér þar stað á söfnuninni. Á þessu vefsvæði sem vísað er til er hægt með auðveldum hætti að skrá kennitölu fólks án sérstaks eftirlits og engan veginn er hægt að fylgjast með því hvort kennitala fólks hafi verið skráð að því forspurðu. Lítið mál er að fara í þjóðskrá í gegnum heimabanka sinn og fá kennitölur og skrá eftir það fólk inn. Það þarf kannski að kæra þessa undirskriftasöfnun til að fá slíkt fram með óyggjandi hætti. Fram kom í fjölmiðlum í dag að margir hafa leitað til Persónuverndar í ljósi þess að einstaklingar sem vildu skrá upplýsingar um sig á vefsíðuna, komust að því að nafn þeirra og kennitala hafði þegar verið skráð. Þetta er slæmt mál, sem þarf að kanna nánar og kæra nefnda söfnun ef framhald verður á slíkum vinnubrögðum. Þetta er algjörlega óviðunandi.

Ríkisútvarpið við EfstaleitiFram kom í fréttum í dag að Eftirlitsstofnun EFTA, væri nú að rannsaka hvort rekstur Ríkisútvarpsins standist samninginn um hið Evrópska efnahagssvæði. Í ítarlegri frétt í hádeginu á Bylgjunni kom fram að eftirlitsstofnun EFTA hafi nýlega tekið upp nýjar leiðbeinandi reglur um ríkisstyrki til opinberra ljósvakafjölmiðla í takti við samsvarandi reglur ESB frá árinu 2001. Samkvæmt þeim þarf að skilgreina almannaþjónustu fjölmiðilsins og þarf skilgreiningin að vera nákvæm og skýr. Þá þarf opinber fjölmiðill að starfa samkvæmt lögum. Ennfremur á opinbert fé sem rennur til opinbers fjölmiðils að vera bundið við almannahlutverk fjölmiðilsins. Eftirlitsstofnunin ætlar með athugun sinni að sjá til þess að opinberir styrkir verði ekki meiri en tilefni er til. Ástæða er til að fagna þessari rannsókn eftirlitsnefndarinnar, það er fyrir löngu orðin þörf á að kanna stöðu RÚV á markaðnum hér, í ljósi þess að afnotagjöldin fela í sér ólöglegan ríkisstyrk þar sem viðkomandi aðili er líka á auglýsingamarkaði.

HeimdallurSvona er frelsið í dag
Í pistli dagsins á frelsi.is fjallar Kári um frelsið. Orðrétt segir: "Þó að á undanförnum árum hafi náðst mikill árangur, með auknu frelsi, sem meðal annars hefur veitt okkur svigrúm til eigin ákvörðunartöku, án afskipta ríkisvaldsins, þá er þó en mjög langt í land í vissum málefnum. Einna helst er það stefna ríkisins hvað varðar vörur á borð við tóbak og áfengi. Sumir stjórnmálamenn telja það nefnilega í sínum verkahring að stýra neyslu fólks á þessum vörum. Forræðishyggjan hjá þessum stjórnmálamönnum fer langt útfyrir öll mörk, ekki ætla ég að taka fyrir neina ákveðna þingmenn í þessum máli en ljóst er að þeir koma bæði úr stjórnarandstöðu en einnig úr röðum stjórnarþingmanna. Efni þessara stuttu greinar er fremur að varpa fram ýmsum hugmyndum um þetta efni heldur en að agnúast út í einstaka óvita. Árum saman máttu íslendingar ekki framleiða eða neyta áfengis því að stjórnmálamenn höfðu einfaldlega bannað alla framleiðslu á öllum drykkjum sem innihélt alkahól 1914. Þessi lög ollu þó ekki almennri hugarfarsbreytingu almennings til áfengis, þvert á móti. Þeim sem höfðu áhuga á að eignast slíka bannvöru útveguðu sér hana þó að verðið hafi sennilega verið dálítið hærra en ella, ástandið varð þó ekki eins slæmt eins og þegar áfengisbann gekk í gildi í Bandaríkjunum, sem gerði mönnum á borð við Al Capone ríkan, á örskotsstundu."

BloggBloggið
Rúmt hálft ár er nú liðið síðan ég ákvað að efla bloggið með markvissum hætti, og hætta skrifum á spjallvefi að mestu og tjá mig hér í staðinn daglega og taka saman ítarlegar færslur um fréttir dagsins og fleiri þætti sem ég vildi fjalla um. Hef ég því hér næstum því daglega allt frá októbermánuði birt daglega helstu pælingar mínir, tengdar helstu fréttunum, greinaskrifum og því sem um er að vera sem ég tel viðeigandi að fjalla um. Breytti ég einnig forminu á blogginu, hafði fasta þætti hér á hverjum degi og fjallaði um það út frá því og bætti við myndum. Tel ég að það hafi gengið vel, teljarinn sýnir fram á að vel er fylgst með skrifunum og þau eru rædd víða. Markmiðið sem ég setti þegar ég ákvað að breyta blogginu og efla það, hefur því náðst og vel það. Hér hef ég daglega umfjöllun um helstu fréttirnar og greinar sem mér þykir vert að benda á. Með þessu hef ég fengið það fram að vefdagbókin hér er heimild um atburði í samfélaginu, einskonar atburðasamantekt. Hef ég engan sérstakan hug á að gera bloggið mjög persónulegt, nema að því leyti að tjá skoðanir mínar á stjórnmálum og samtímaviðburðum. Bloggið hér hefur lengst af verið mjög pólitísks eðlis og byggt á áhuga mínum á stjórnmálum og öðrum þáttum sem hér koma fyrir. Áfram verður haldið á sömu braut, þó eitthvað verði um breytingar á færslukerfinu í sumar, með hækkandi sól. En þeim sem vilja hafa samband bendi ég á netfangið mitt.

Dagurinn í dag
1883 Alexander III krýndur keisari Rússlands - sat á valdastóli allt til dauðadags árið 1894. Sonur hans, Nikulás (sem tók við af honum) og fjölskylda hans voru drepin í byltingunni 1917
1937 Golden Gate-brúin í San Francisco vígð - eitt af helstu táknum San Francisco borgar
1964 Jawaharlal Nehru fyrsti forsætisráðherra Indlands, deyr í Nýju Delhi, 74 ára að aldri - dóttir hans, Indira Gandhi, og dóttursonur, Rajiv Gandhi, urðu bæði forsætisráðherrar landsins
1983 Hús verslunarinnar vígt - var reist til að efla íslenska verslun og einingu samtaka þeirra
1999 Slobodan Milosevic og fleiri forystumenn Serbíu ákærðir fyrir stríðsglæpi í Haag - Milosevic missti völdin árið 2001 og var framseldur til Haag síðar sama ár og bíður dóms fyrir glæpi sína

Snjallyrði dagsins
The artist doesn't have time to listen to the critics. The ones who want to be writers read the reviews, the ones who want to write don't have the time to read reviews.
William Faulkner (1897-1962)

Engin fyrirsögn

SjálfstæðisflokkurinnHeitast í umræðunni
Sjálfstæðisflokkurinn fagnaði í gær 75 ára afmæli sínu við hátíðlega athöfn í Hótel Nordica. Davíð Oddsson forsætisráðherra og formaður Sjálfstæðisflokksins, flutti við það tilefni ítarlega hátíðarræðu. Þar sagði hann m.a. að keppikefli flokksins væri frelsi allra en ekki ekki frelsi fyrir fáa, stóra og sterka sem notuðu afl sitt og auð til að troða miskunnarlaust á öðrum. Fram kom í máli hans að framtíð þjóðarinnar væri björt og útlit væri fyrir góðæri að minnsta kosti til ársins 2010 ef vel væri haldið á. Sagði Davíð að sjálfstæðismenn vildu að þess yrði minnst sem góðæris sem gekk til allra en ekki fárra. Hann sagði að Ísland væri komið í allra fremstu röð en verkinu lyki aldrei. Sjálfstæðisflokkurinn hefði ætíð sagt og myndi ætíð segja, að í hans stefnu væri frelsið ætíð í fyrirrúmi. Fram kom í ræðu Davíðs að það væri sjálfstætt markmið í sjálfu sér að gera hvern mann sjálfstæðan með trú á framtíðina svo hann geti fengið að njóta alls þess sem aðrir þeir, sem betur mættu sín, nytu. Orðrétt sagði Davíð: "Ef Sjálfstæðisflokkurinn tryði ekki þessu, um leið og hann trúir á frelsið og kraft einstaklinganna, þá væri hann ekki samur flokkur, þá væri hann ekki fjöldaflokkur, þá væri hann ekki flokkur sem fólkið í þessu herbergi styður". Er ástæða til að taka undir þau orð.

Ítarlegt viðtal við Davíð Oddsson forsætisráðherra og formann Sjálfstæðisflokksins

BessastaðirForseti Íslands mun á næstu dögum fá í hendur lög um eignarhald á fjölmiðlum, sem þingið samþykkti í byrjun vikunnar. Í kjölfar þess mun koma í ljós hvort hann staðfestir þau eða synjar þeim um samþykki. Það hefur aldrei gerst í 60 ára sögu lýðveldisins að forseti gangi gegn vilja meirihluta þingsins, og myndi sú staða ef upp kæmi leiða til stjórnlagakreppu án fyrirsjáanlegra endaloka. Rúm 30.000 manns hafa nú skorað á forsetann að neita að skrifa undir lögin. Var þeim fjölda safnað í skriflegri söfnun og ennfremur á netinu, mikill meirihluti undirskriftanna kom til með síðarnefnda hættinum. Enginn vafi leikur á að slíkt fyrirkomulag er mjög umdeilt og vart við því að búast eftir stórundarlega framgöngu formanns Blaðamannafélags Íslands, að mark sé tekið á lista þar sem hver sem er getur skráð nöfn annars fólks. Formaðurinn hvatti alla til að reyna að fá sem flesta til að skrifa undir og jafnvel reyna að fá þá sem væru hlynntir til að gera það líka, semsagt beita öllum brögðum. Liggur við að blaðamenn sem svo koma fram missi allan trúverðugleika sinn sem von er, bendi ég á líflega umræðu blaðamanna á vef þeirra, þar sem tekist er á um þetta mál. Eftir stendur að forseti á að skrifa undir lögin og allar tiktúrur í þá átt að fara af þeirri braut sem mörkuð hefur verið mun leiða til harðvítugra pólitískra átaka sem forsetinn færi ósjálfrátt í sem þátttakandi. Reyndar hefur forsætisráðherra í ítarlegu viðtali við RÚV gefið sterklega í skyn að neitun forseta muni leiða til langra deilna, semsagt stjórnlagakreppu sem við höfum aldrei kynnst áður.

DalvíkTilkynnt var um það í gær að starfsfólki hjá kjúklingabúinu Íslandsfugli í Dalvíkurbyggð, alls um 30 manns, verði sagt upp störfum frá og með mánaðarmótum. Sundagarðar hf., sem eiga kjúklingafyrirtækið Matfugl hafa nú keypt allt hlutafé í Marvali ehf. sem rekur kjúklingabú Íslandsfugls og stefnir að breytingum á rekstrinum á Dalvík. Ár er liðið frá því Marval tók við rekstrinum af þrotabúi fyrirtækisins, en reksturinn hafði gengið brösuglega allt frá upphafi. Þessar breytingar hafa slæm áhrif á staðinn og þá sem þarna vinna, allt frá upphafi hefur mikil óvissa verið um reksturinn og endalausar breytingar á honum og eigendaskipti hafa haft slæm áhrif. Tek ég undir með Valdimar Bragasyni bæjarstjóra í Dalvíkurbyggð, að slæmt er að þessi rekstur hafi ekki gengið upp, enda voru miklar væntingar uppi um hann í upphafi þessarar tilraunar. Vona ég að áhrif þessa verði ekki eins slæm fyrir staðinn og nú lítur út fyrir.

María Margrét JóhannesdóttirSvona er frelsið í dag
Í pistli dagsins á frelsi.is fjallar Mæja um réttindi fólks almennt. Orðrétt segir: "Það virðist ekki skipta máli hvað rætt er um hverju sinni, í öllum málaflokkum er sífellt talað um rétt fólks til eins eða annars - til dæmis er því haldið fram að það sé réttur fólks að fá námið sitt greitt að fullu af samborgurum sínum, það sé réttur fólks að fá borgað fyrir að vera heima með nýfæddum börnum sínum í marga mánuði og það sé jafnvel réttur fólks að vera ráðið í starf fyrir það eitt að vera af réttu kyni. Umræðan er komin á villigötur því það þykir sjálfsagt að öðlast rétt á kostnað annarra. Slík umræða getur ekki verið af hinu góða. Réttindi eru óháð staðbundnum kringumstæðum, svo sem samfélagsgerð eða efnahag. Ayn Rand nefnir í bók sinni The Virtue of Selfishness: A New Concept of Egoism að það sé aðeins einn grundvallarréttur og það sé rétturinn til lífs. Rétturinn til lífs felur í sér athafnafrelsi, þ.e. frelsi til að þurfa ekki að sæta kúgun annarra. Einstaklingar hafa frelsi til að velja sér markmið og reyna að ná þeim fram og hegða sér í samræmi við eigin dómgreind. Réttur einstaklingsins hvílir þó ekki á herðum náungans nema að því leyti að menn verða að halda sér frá því að traðka á réttindum annarra. Réttur eins getur ekki brotið í bága við rétt annars." Bendi ennfremur á góðan pistil Kidda um hagvaxtarspána, sem birtist í gær. Hvet alla til að lesa þessa ítarlegu pistla.

Vef-ÞjóðviljinnPistlaskrif
Það er mjög freistandi að benda fólki enn einu sinni á skrif á Vef-Þjóðviljanum. Að mínu mati ber sú síða af öllum öðrum sem eru með dagleg skrif um þjóðmál, enda greinahöfundar þar með ferska sýn á þjóðmálin og málefni samtímans. Í dag er fjallað um skýrslu sem fréttastofa Stöðvar 2 pantaði vegna fréttaumfjöllunar um fjölmiðlafrumvarpið. Orðrétt segir: "En þegar skýrslan er lesin, í stað þess að líta aðeins á niðurstöðukaflann, má sjá að þessi samantekt höfundar skýrslunnar er hæpin í meira lagi og gefur alls ekki rétta mynd af þeim gögnum sem skýrslan hefur að geyma um umfjöllun fréttastofanna tveggja. Sem dæmi má nefna að í skýrslunni er sagt frá því hversu mikil umfjöllun fréttastofanna tveggja um fjölmiðlafrumvarpið hafi verið. Þar kemur fram að fréttastofa Stöðvar 2 fjallaði um frumvarpið 37 sinnum á tímabilinu sem rannsóknin náði til, 20. apríl til 7. maí, en fréttastofa Ríkissjónvarpsins aðeins 25 sinnum í aðalfréttatímanum og að auki 6 sinnum í seinni fréttatíma. Ef miðað er við þann fréttatíma sem langmest er horft á fjallaði Stöð 2 þess vegna nær 50% oftar um frumvarpið en Ríkissjónvarpið. Og jafnvel þótt seinni fréttatíma Ríkissjónvarpsins sé bætt við fjallaði Stöð 2 nær 20% oftar um frumvarpið." Grein, sem mælt er með að allir lesi.

Dagurinn í dag
1056 Fyrsti íslenski biskupinn, Ísleifur Gissurarson, var vígður biskup að Skálholti
1845 Jónas Hallgrímsson skáld og náttúrufræðingur, deyr í Kaupmannahöfn, 37 ára að aldri
1968 Hægri umferð tekin upp á Íslandi - vinstri umferð hafði áður verið í tæpa sex áratugi
1983 Fyrsta ríkisstjórn Steingríms Hermannssonar tekur við völdum - hún sat til ársins 1987
2002 Ingibjörg Sólrún Gísladóttir segist eftir kosningasigur R-lista ekki stefna á þingframboð í kosningunum 2003 - ákvað þó þingframboð síðar sama ár og varð að segja af sér í kjölfarið

Snjallyrði dagsins
A week is a long time in politics.
Harold Wilson forsætisráðherra Bretlands (1916-1995)

Að lokum skal bent á að allir formenn Sjálfstæðisflokksins hafa orðið forsætisráðherrar, ekki bara 6 af 7 eins og fram kom í Fréttablaðinu í gær. Fyrsti formaður flokksins, Jón Þorláksson, var forsætisráðherra, 1926-1927, en það var vissulega í tíð Íhaldsflokksins. En allir formenn flokksins hafa orðið forsætisráðherrar.

Engin fyrirsögn

SjálfstæðisflokkurinnSjálfstæðisflokkurinn 75 ára
Í dag eru 75 ár liðin frá stofnun Sjálfstæðisflokksins. 25. maí 1929 sameinuðust þingflokkar Íhaldsflokksins og Frjálslynda flokksins í Sjálfstæðisflokkinn. Við stofnun voru tvö mál tilgreind sem aðalstefnumál Sjálfstæðisflokksins. Hið fyrra var að vinna að því og undirbúa, að Ísland myndi taka að fullu í sínar hendur eigin mál, samhliða því að 25 ára samningstímabili sambandslaganna væri á enda. Hið seinna var að vinna í innanlandsmálum að víðsýnni og þjóðlegri umbótastefnu á grundvelli einstaklingsfrelsis og atvinnufrelsis með hagsmuni allra stétta að leiðarljósi. Með þessu voru markaðir tveir höfuðþættir sjálfstæðisstefnunnar: sjálfstæði þjóðarheildarinnar og sjálfstæði einstaklinganna. Sjálfstæðisflokkurinn hefur allt frá upphafi staðið vörð um einkaframtakið og hefur frelsi einstaklingsins og ábyrgð í ríkisfjármálum verið einkunnarorð Sjálfstæðisflokksins. Það hefur verið gæfa Sjálfstæðisflokksins að valist hafa til forystustarfa hæfir og frambærilegir menn, er hafa leitt flokkinn farsæla leið. Það er mikil ástæða til að fagna á þeim miklu tímamótum er flokkurinn fagnar 75 ára afmæli sínu. Forysta flokksins í landsmálum hefur verið traust og leitt til hagsældar og bættra lífskjara langt umfram það sem gerst hefur í nálægum löndum. Sjálfstæðisstefnan er nú rétt eins og 1929 sú stefna sem mun reynast íslensku þjóðinni farsælust.

75 ára afmæli - umfjöllun mín um afmæli flokksins

AlþingiEldhúsdagsumræður á Alþingi
Senn líður að lokum þingstarfa á vorþinginu, mörg hitamál hafa verið rædd í þingsölum á þessu starfstímabili og mikið tekist á um helstu málin. Í eldhúsdagsumræðum í gærkvöldi litu þingmenn allra flokka yfir sviðið og fóru yfir veturinn í stjórnmálunum og starfstíma þingsins. Stjórnarandstöðuþingmenn voru hvassir í orðavali og notuðu gífuryrði til að ráðast að stjórnarþingmönnum, má fullyrða að eldhúsdagsumræður hafi aldrei verið jafn hvassbeittar og nú. Fyrstur stjórnarþingmanna í umræðunni talaði Geir H. Haarde fjármálaráðherra. Í ræðu sinni sagði hann að ríkisstjórnarflokkarnir ynnu að lokafrágangi á tillögum um skattalækkanir og búast mætti við að þær yrðu kynntar á þingi á næstu dögum. Fram kom í ræðu hans að Ísland hefði að undanförnu fest sig í sessi sem fyrirmyndarríki á mörgum sviðum en það ástand og málþóf sem stjórnarandstaðan hefði haldið uppi vegna andstöðu sinnar við fjölmiðlafrumvarpið hefði sett mikinn blett á virðingu Alþingis bæði hér á landi og út á við. Tók Halldór Ásgrímsson utanríkisráðherra, undir að tillögur um skattalækkanir kæmu fram á næstunni í ræðu sinni. Ber að fagna því mjög að þetta baráttumál okkar ungra sjálfstæðismanna og eitt helsta kosningaloforð Sjálfstæðisflokksins í fyrra verði efnt nú á vorþinginu, enda var áríðandi að koma þessu máli á hreint fyrir sumarfrí þingmanna.

ReyðarfjörðurForystumönnum Vinstri grænna á þingi varð tíðrætt í ræðum sínum í eldhúsdagsumræðunni um þá miklu uppbyggingu sem nú á sér stað á öllum sviðum í Fjarðabyggð og um allt Austurland og birst hefur okkur í vönduðum fréttaskýringum Björns Malmquist fréttamanns á Egilsstöðum. En því fór hinsvegar víðsfjarri að þar væri heimamönnum og íbúum Austurlands og Norðausturkjördæmis samfagnað með góða stöðu mála og þá miklu framför sem orðið hefur. Þeir kepptust þess í stað við að níða niður allt það góða sem komið hefur með væntanlegum virkjunarframkvæmdum við Kárahnjúka með endalausu svartagallsrausi. Forystumaður VG í Reykjavík sá reyndar ástæðu til að hvetja fólk til að reisa álverinu og virkjuninni níðstangir sem víðast og herða á neikvæðum ummælum gegn framkvæmdunum og uppbyggingunni fyrir austan. Það er merkilegt að annar þingmaðurinn er málsvari kjördæmis Austfirðinga, en málflutningurinn kemur ekki á óvart. Hann hefur oft heyrst vel en undarlegt er að hert sé á honum þegar jákvæð staða mála blasir við. Einu lífslexíur vinstri grænna eru úr sér gengnar kommaþulur sem engir aðrir vilja kannast við í dag. Það er kannski spurning hvort ekki væri rétt fyrir þessa menn að horfa til nútímans og fagna því sem vel gengur í stað þess að níða það niður.

ÞingsalurFormaður Vinstri grænna fór mikinn í ræðu sinni í þingumræðunum, venju samkvæmt og fúkyrðin flugu í allar áttir. Hann vandaði stjórnarflokkunum ekki kveðjurnar og var auk þingflokksformanns sama flokks í ótrúlegu svartagallsrausi eins og fyrr er nefnt t.d. varðandi stöðu mála fyrir austan. Sagði formaðurinn að hér væri allt að fara fjandans til og sagði réttast að henda ríkisstjórninni á haugana sem fyrst. Var hann svo hvassur og uppstökkur að hann minnti einna helst á predikara í sértrúarsöfnuði að tala um myrkravættina sem allsstaðar væru. Gleymdi hann sér það mjög í formælingunum að er kom að lokum ræðunnar, gargaði hann sumarkveðju sína til landsmanna. Uppskar hann að vonum hlátur úr salnum, enda ekki furða að menn hlæji að því hversu illa maðurinn hefur stjórn á sér, hefur það reyndar birst oft að undanförnu. Eins og fram kom í ræðum fjármála- og utanríkisráðherra ríkir hér stöðugleiki á flestum sviðum. Samfellt hagvaxtarskeið hérlendis hefur komið til vegna ábyrgrar efnahagsstjórnar og uppbyggingar. Þeir sem andmæla framkvæmdum og uppbyggingu á Austurlandi með öllum kröftum eru hinsvegar ekki trúverðugir þegar kemur að því að gagnrýna stjórnvöld við það hvernig haldið er á stjórn landsmála að öðru leyti. Þar fara vinstri grænir framarlega og hafa alla tíð verið, en Samfylkingarmenn skiptu um skoðun eftir að fram hafði komið að meirihluti þjóðarinnar væri hlynntur framkvæmdunum, eins og kunnugt er.

ÞingsalurLög um eignarhald á fjölmiðlum er samþykkt voru á þingi í gær, var rauður þráður í gegnum allar ræður kvöldsins í eldhúsdagsumræðunum. Stjórnarandstæðingar fóru mikinn í að endurtaka alla frasana er heyrðust í þingumræðum seinustu vikna en stjórnarsinnar minntu á mikilvægi laganna. Halldór Ásgrímsson utanríkisráðherra, minntist á í ítarlegri ræðu sinni að stjórnarandstaðan hefði forðast það eins og heitan eldinn í umræðunum að koma sjálf með tillögur að lögum um eignarhaldið á fjölmiðlum og Samfylkingin vakið sérstaka athygli fyrir stefnuleysi sitt. Undir þessi ummæli tók Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir menntamálaráðherra, sem benti á mörg ummæli stjórnarandstöðunnar um málið frá fyrri tíð. Kristján Möller svaraði í ræðu sinni fyrir Samfylkinguna og sagði flokkinn hafa komið með margar tillögur um málið. Engar nefndi hann þó beint í ræðu sinni, enda eru þær allt annars eðlis en taka beint á sjálfu eignarhaldinu á fjölmiðlunum. Það blasir við öllum að Samfylkingin er bara flokkur sem eltir vindinn og dansar eins og vindhani eftir könnunum og hefur engar skoðanir nema taka púlsinn, sannfæringarnar eru engar og tillögurnar allar byggðar á vinsældamati. Það hefur sannast vel seinustu vikur.

ÞingsalurÍ ræðum sínum við eldhúsdagsumræðurnar fjölluðu bæði Geir H. Haarde fjármálaráðherra og Sigurður Kári Kristjánsson alþingismaður, um málskotsrétt forseta Íslands, og sögðu að það væri atlaga að þingræðinu og óeðlilegt inngrip hjá forseta í málefni þingsins, ef hann staðfesti ekki lög um eignarhald á fjölmiðlum. Ef hann færi þá leið myndi hann stíga af friðarstóli og valda stjórnlagakreppu án fyrirsjáanlegra endaloka. Sú umræða er nú uppi að hann eigi ekki að skrifa undir og hann meira að segja hvattur beint með útifundi við forsetaskrifstofuna við Sóleyjargötu í gærkvöldi. Fólk hlýtur að gera sér grein fyrir því að forseti er í erfiðri aðstöðu, en hann hefur í hendi sér hvort hann fer eftir vilja meirihluta þingsins eða fær það upp á móti sér með inngripum í störf þess. Það er mikið umhugsunarefni að almenningur telji forsetann eiga frekar að beita þessu valdi nú en t.d. í málum tengdum EES og gagnagrunni á heilbrigðissviði. En umræður gærkvöldsins voru líflegar og mörg orð féllu þar og beitt skoðanaskipti milli stjórnar og stjórnarandstöðu. Ég mun fjalla meira um umræðurnar í sunnudagspistli á heimasíðu minni um næstu helgi.

Dagurinn í dag
1787 Stjórnarskrárráðstefna haldin í Philadelphiu í Bandaríkjunum
1929 Sjálfstæðisflokkurinn stofnaður - Íhaldsflokkurinn og Frjálslyndi flokkurinn sameinast
1958 Steinn Steinarr, eitt merkasta ljóðskáld 20. aldarinnar, deyr í Reykjavík, 49 ára að aldri
1961 John F. Kennedy forseti Bandaríkjanna, kynnir geimferðaráætlun stjórnar sinnar
1997 Strom Thurmond verður sá þingmaður Bandaríkjanna er lengst hefur setið, þá alls í 47 ár og 10 mánuði - hann sat á þingi til janúarmánaðar 2003. Hann lést í júní 2003, þá aldargamall

Snjallyrði dagsins
Sjálfstæðisstefnan hafnar kreddum og kyrrstöðu niðurrifsafla og afturhaldsafla, í hvaða mynd sem þær birtast og hvaða nafni sem þær nefnast. Hún er umfram allt stefna markvissrar jákvæðrar þróunar til betri lífskjara og lífsfyllingar. Trúin á manninn er í öndvegi sjálfstæðisstefnunnar.
Davíð Oddsson forsætisráðherra og formaður Sjálfstæðisflokksins (Sjálfstæðisstefnan - 1981)

Engin fyrirsögn

AlþingiHeitast í umræðunni
Fjölmiðlafrumvarp ríkisstjórnarinnar var samþykkt á Alþingi, laust eftir hádegið í dag. Atkvæðagreiðslan fór fram með nafnakalli. Frumvarpið var samþykkt með 32 atkvæðum en 30 greiddu atkvæði gegn því, einn sat hjá. Breytingartillögur við frumvarpið voru samþykktar með 33 atkvæðum þingmanna Sjálfstæðisflokksins og Framsóknarflokksins gegn 24 atkvæðum þingmanna Samfylkingar og Frjálslynda flokksins. Sex þingmenn sátu hjá, þingmenn VG og Kristinn H. Gunnarsson, sem greiddi atkvæði gegn frumvarpinu. Jónína Bjartmarz alþingismaður Framsóknarflokks, sat hjá við atkvæðagreiðsluna. Aðrir þingmenn stjórnarflokkanna greiddu atkvæði með frumvarpinu. Nú þegar frumvarpið hefur verið samþykkt sem lög frá þinginu, fer málið á borð Ólafs Ragnars Grímssonar forseta Íslands, mun þá koma í ljós hvort hann noti 26. grein stjórnarskrárinnar og vísi málinu til þjóðarinnar eða samþykki lögin. Að mínu mati á forseti ekki að synja lögunum um samþykki, það á að vera þingsins að taka ákvarðanir um lagasetningar. Sú staða sem upp kæmi ef forseti neitar lögunum um samþykki mun verða erfið að öllu leyti fyrir stjórnkerfið og stjórnlagakreppa sem við höfum ekki kynnst í 60 ára sögu lýðveldisins skella á, með ófyrirsjáanlegum afleiðingum fyrir forsetaembættið og stjórnkerfið allt.

Paul MartinPaul Martin forsætisráðherra Kanada og leiðtogi Frjálslynda flokksins, tilkynnti í gær um þá ákvörðun sína að rjúfa þing og boða til þingkosninga í landinu, 28. júní nk. Gekk hann á fund Adrienne Clarkson landstjóra í Kanada í gær og tilkynnti um ákvörðun sína, fer Clarkson með vald Elísabetar Englandsdrottningar, í landinu. Kosningarnar fara fram tveim árum áður en kjörtímabil ríkisstjórnarinnar rennur út. Martin tók við embætti forsætisráðherra, 12. desember 2003 af Jean Chretien sem leitt hafði Frjálslynda flokkinn til sigurs í þrennum kosningum og setið á valdastóli í rúman áratug. Ástæður þess að Martin boðar til kosninga, er að hann vill eigið umboð til forystu, en ekki leiða þjóðina í umboði sem veitt var Chretien. Var Chretien lengi vel óskoraður leiðtogi frjálslyndra en á seinni árum höfðu óvinsældir hans aukist innan eigin flokks. Martin og Chretien háðu lengi valdastríð saman innan flokksins sem lauk því með að Chretien sparkaði honum úr stjórn sinni sumarið 2002. Chretien vék svo fyrir Martin í lok seinasta árs, en í millitíðinni var Martin utan stjórnar. Skv. skoðanakönnunum getur verið að Martin muni eiga við ramman reip að draga, óvinsældir flokksins hafa aukist á meðan hans persónulegu vinsældir haldast.

Ingibjörg Sólrún Gísladóttir varaþingmaðurÞað hefur ekki farið framhjá neinum að Ingibjörg Sólrún Gísladóttir borgarfulltrúi og fyrrverandi borgarstjóri, hefur setið á þingi seinustu vikur fyrir Guðrúnu Ögmundsdóttur. Er Ingibjörg eins og kunnugt er fyrsti varaþingmaður Samfylkingarinnar í Reykjavíkurkjördæmi norður. Jafnskjótt og farið var að ræða fjölmiðlamálið á þingi birtist Ingibjörg þar inni og eftirtektarvert að um leið og umræðunni lauk á laugardag hvarf hún og Guðrún mætti aftur til starfa. Er merkilegt að Ingibjörg Sólrún birtist þarna einvörðungu þegar mikilvægustu málin eru til umræðu og alltaf hverfur Guðrún af vettvangi til að hliðra til fyrir Ingibjörgu. Er engin furða sennilega að Samfylkingarfólk reyni að lappa upp á Ingibjörgu og koma henni í sviðsljósið. Hefur ásýnd hennar ryðgað nokkuð eftir að hún hrökklaðist af borgarstjórastóli vegna þingframboðs fyrir einu og hálfu ári og náði ekki kjöri í kosningunum. Hefur hún verið lítt sýnileg á pólitískum vettvangi síðan þá, ja nema ef vera skyldi innan Samfylkingarinnar, þar sem hún er nú varaformaður að baki Össurar Skarphéðinssonar, félaga síns og væntanlega keppinautar um formennsku flokksins á næsta ári.

ÞingsalurPistlaskrif
Að venju eru mögnuð skrif á Vef-Þjóðviljanum. Í dag fjallar pistlahöfundur á vefnum um fjölmiðlafrumvarpið og segir orðrétt svo: "Í dag verður margrætt frumvarp til breytinga á útvarpslögum og samkeppnislögum afgreitt á alþingi, væntanlega sem ný lög. Þá þurfa þingmenn að velja á milli annars vegar þess frumvarps og hins vegar óbreyttra laga. Þegar það frumvarp er skoðað, þá eru tvenns konar athugasemdir sem koma til greina - að mati Vefþjóðviljans - ef menn vilja finna að frumvarpinu. Í fyrsta lagi er hægt að vera á móti frumvarpinu af princip-ástæðum, það er að segja, menn geta sagt að þeir séu einfaldlega á móti samkeppnisreglum og hafni því frumvarpinu enda er það í eðli sínu frumvarp um sérstakar samkeppnisreglur á tilteknu sviði. Hinn kosturinn til að finna að frumvarpinu, er að segjast að vísu vera hlynntur samkeppnisreglum en vilji bara ekki akkúrat þessar samkeppnisreglur á fjölmiðlamarkaði. Vilji kannski ekki að eignarhlutur takmarkist við 35 % eign heldur eigi hann fremur að takmarkast við 25 %, eða kannski 40 %, og svo framvegis. Slík atriði verða hins vegar afgreidd með breytingartillögum." Hvet alla til að lesa þennan pistil á vefnum og önnur skrif andríkisfólks þar, alltaf gaman að líta á skrif þeirra.

SjálfstæðisflokkurinnÍ vikunni birtist á Íslendingi góður pistill eftir Gísla Aðalsteinsson, sem hann kallar Ákvarðanir um staðsetningu og rekstrarform opinberra stofnana. Orðrétt segir: "Ef stjórnvöld telja nauðsynlegt að ríkið veiti einhverja tiltekna þjónustu eða styðji við framleiðslu á einhverjum ákveðnum vörum þá ætti að bjóða þann rekstur út nema ef stjórnvöld geta sýnt fram á það með gildum rökum að það sé nauðsynlegt að þau sjái sjálf um þennan rekstur. Heppilegast væri að skilgreina í lögum við hvaða þröngu aðstæður er réttlætanlegt að ríkið standi sjálft í rekstri. Ef einhverjir aðilar vildu fá úr því skorið hvort að réttlæting stjórnvalda fyrir því að reka sjálf eitthvert ákveðið fyrirtæki sé nægjanleg þá ættu þeir að geta borið ákvörðunina undir dómstóla. Þegar ákvörðun er tekin um staðsetningu á fyrirtækjum þar sem nauðsynlegt er að ríkið sjái sjálft um reksturinn þá ætti að taka tillit til þess hvar hagkvæmast er að reka slíka þjónustu en ekki síður hvar er sanngjarnast að staðsetja slíka þjónustu með tilliti til þess að skattgreiðendur njóti með sem jöfnustum hætti ávinnings af nábýlinu við umrædd fyrirtæki." Hvet alla til að lesa þennan góða pistil.

Dagurinn í dag
1153 Malcolm IV verður konungur Skotlands - ríkti til dauðadags árið 1165
1626 Peter Minuit kaupir Manhattan eyjuna í New York - sem nú er stór hluti borgarinnar
1883 Brooklyn-brúin vígð formlega - tengir saman Manhattan og Brooklyn
1941 Hood, stærsta herskip heims, sekkur um 250 sjómílum vestur af Reykjanesi
1973 Einn fjölmennasti mótmælafundur aldarinnar í Reykjavík - 30.000 manns mótmæla formlega flotaíhlutun Breta vegna útfærslu fiskveiðilögsögu Íslendinga í 200 mílur, árið 1972

Snjallyrði dagsins
An eye for eye only ends up making the whole world blind.
Mahatma Gandhi (1869-1948)

Engin fyrirsögn

Felipe Spánarprins og eiginkona hans Leticia prinsessaHeitast í umræðunni
Konunglegt brúðkaup var á Spáni í gær þegar Felipe krónprins Spánar, gekk að eiga spænsku sjónvarpskonuna Leticiu Ortiz í dómkirkju Madridar. Það var Rouco kardínáli, erkibiskup Madridar, sem gaf þau saman. Felipe er 36 ára gamall, yngstur barna Juan Carlos Spánarkonungs og Sofíu Spánardrottningar. Systur hans eru eldri, en hann er eini sonur konungshjónanna og erfir ríkið, enda aðeins gert ráð fyrir karlkyns þjóðhöfðingja. Um er að ræða fyrsta konunglega brúðkaupið í Madrid í rúma öld, en konungshjónin giftust í Aþenu árið 1962, enda er drottningin grísk prinsessa, og systur prinsins giftust í Sevilla og Barcelona. Letizia prinsessa, er 31 árs gömul. Hún var þekkt fréttakona hjá spænska ríkissjónvarpinu þar til í haust er þau Felipe opinberuðu öllum að óvörum, trúlofun sína. Leticia er fráskilin og verður fyrsta fráskilda drottning seinni tíma, er Felipe tekur við völdum. Spænska þjóðkirkjan sættir sig við makavalið, enda giftist prinsessan áður borgaralega og tekur kirkjan slík hjónabönd ekki gild. Prinsessan var því heppin þar. Um er að ræða sögulegt brúðkaup, og þrátt fyrir rigningu í Madrid var athöfnin stórfengleg að öllu leyti.

Horst Köhler verðandi forseti ÞýskalandsHorst Köhler fyrrum yfirmaður Alþjóða gjaldeyrissjóðsins (International Monetary Fund), var í dag kjörinn forseti Þýskalands. Hann sigraði í kosningu á þýska þinginu háskólaprófessorinn Gesine Schwan, sem hefði orðið fyrsti kvenkyns forseti Þýskalands ef hún hefði náð kjöri. Köhler hlaut 604 atkvæði og var studdur til embættisins af kristilegum demókrötum og frjálslyndum demókrötum en Schwan hlaut 589 atkvæði og var studd af ríkisstjórnarflokkunum. Úrslitin eru því nokkuð áfall fyrir ríkisstjórn jafnaðarmanna og græningja undir forsæti Gerhard Schröder sem setið hefur við völd frá 1998, en hefur frá kosningunum 2002 veikst sífellt. Úrslitin eru að sama skapi mikið ánægjuefni fyrir hægriblokkina og forystumenn hennar, þau Edmund Stoiber og Angelu Merkel. Þó þýska forsetaembættið sé einungis táknræn tignarstaða, getur forsetinn haft áhrif á gang mála og er talið að Köhler muni í embætti þrýsta á efnahagsumbætur í landinu og ekki beint auðvelda vinstristjórninni lífið. Köhler tekur við embætti 1. júlí nk. af jafnaðarmanninum Johannes Rau sem setið hefur á forsetastóli frá 1999.

Stefán Friðrik StefánssonSunnudagspistillinn
Að þessu sinni fjalla ég um 75 ára afmæli Sjálfstæðisflokksins þann 25. maí nk., og fer samhliða því yfir nokkra þætti þess af hverju flokkurinn hefur allt frá stofnun verið stærsti flokkur landsins. Sjálfstæðisflokkurinn var stofnaður með samruna Íhaldsflokksins og Frjálslynda flokksins. Íhaldsflokkurinn sem stofnaður var 24. febrúar 1924 naut frá upphafi meira kjörfylgis en aðrir flokkar og varð undirstaðan að Sjálfstæðisflokknum. Jón Þorláksson var fyrsti og eini formaður flokksins og meðal annarra forystumanna hans voru Magnús Guðmundsson og Jón Magnússon. Jón var fyrsti forsætisráðherra Íslands og mikill forystumaður hægrimanna í landinu allt til andláts síns árið 1926, Jón Þorláksson tók þá við embætti forsætisráðherra og sat í tæpt ár, allt þar til vinstristjórnin tók við völdum eftir þingkosningarnar 1927, þrátt fyrir að Íhaldsflokkurinn hlyti þá 42,5% atkvæða. Frjálslyndi flokkurinn varð upphaflega til árið 1926 sem félag frjálslyndra manna og bauð fram sem flokkur í kosningunum 1927 og náði aðeins einum manni á þing, Sigurði Eggerz fyrrum ráðherra. Það var því rökrétt framhald að sameina flokkana. Fjölmiðlafrumvarp ríkisstjórnarinnar verður að öllum líkindum samþykkt á þingi eftir helgina og í tilefni að því fer ég yfir hvernig málið hefur verið seinustu vikuna og vík að málskotsrétti forsetans, en forseti hefur verið hvattur til að synja frumvarpinu um samþykki. Að lokum fjalla ég um væntanlegar forsetakosningar en framboðsfrestur rann út um helgina.

Björn BjarnasonPistill Björns
Björn fjallar í helgarpistli sínum um lögfræði, stjórnmál, fjölmiðla og málþóf. Orðrétt segir: "Umræður vegna álits umboðsmanns alþingis eru að verulegu leyti um lögfræðileg álitaefni, þar sem þessi þríhyrningur milli stjórnarmeirihluta, lögspekinga og stjórnarandstöðu birtist að nýju. Stjórnmálamenn verða einnig í þeim umræðum að huga að svigrúmi sínu, jafnvel þótt þeir séu í stjórnarandstöðu. Að nota ræðustól alþingis til að kenna varðstöðu um þetta svigrúm við valdhroka einkennist af mikilli skammsýni. Núna eru um tvær vikur, frá því að umboðsmaður alþingis birti álit sitt um skipan mína á hæstaréttardómara. Ég hef rætt málið á alþingi, fjallað um það hér á síðunni, birt ræður um það og rætt við fjölmiðla – alls staðar hef ég tekið fram, að ég muni skoða þetta álit af alvöru, engu að síður sé ég að jafnvel vandaðir blaðamenn slíta orð mín úr samhengi og telja mig hafa sýnt umboðsmanni óvirðingu! Ég skil ekki, hverjum blaðamenn eru að þjóna með þessu frekar en að ég skilji gildi daglegra frétta í DV um símtal Davíðs Oddssonar og Tryggva Gunnarssonar, umboðsmanns alþingis. Ég tel, að í hvorugu tilviki sé um sérstaka umhyggju fyrir embætti umboðsmanns að ræða."

Dagurinn í dag
1555 Páll páfi VI kjörinn páfi - sat á páfastóli í fjögur ár, lést 1559
1934 Bankaræningjarnir Clyde Barrow og Bonnie Parker drepin í Louisiana - þekkt útlagapar
1949 Lýðveldi formlega stofnað í Þýskalandi - endalok endurreisnar landsins eftir seinna stríð
1998 Friðarsamkomulag kennt við föstudaginn langa, samþykkt á N-Írlandi
2003 Fjórða ríkisstjórn Davíðs Oddssonar tók við völdum á Bessastöðum - Sjálfstæðisflokkur og Framsóknarflokkur vinna saman þriðja kjörtímabilið í röð, hafa starfað saman frá apríl 1995

Snjallyrði dagsins
In the future everyone will be world-famous for fifteen minutes.
Andy Warhol (1928-1987)

Að lokum bendi ég á vefinn Bowling for Truth

Engin fyrirsögn

BessastaðirHeitast í umræðunni
Framboðsfrestur til embættis forseta Íslenska lýðveldisins rann út á miðnætti. Þá höfðu þrír einstaklingar tilkynnt um framboð til embættisins: Ástþór Magnússon, Baldur Ágústsson og Ólafur Ragnar Grímsson núverandi forseti Íslands. Fjórði aðilinn er tilkynnt hafði um framboð, Snorri Ásmundsson, hætti við framboð sitt í vikunni. Farið var yfir framboðin á fundi í dómsmálaráðuneytinu í morgun og staðfest þar formlega að þessir þrír frambjóðendur hefðu skilað inn gildum fjölda meðmælenda til að vera kjörgengir. Forsetakosningar munu fara fram laugardaginn 26. júní nk. Lengi hef ég verið þeirrar skoðunar að forsetaembættið sé með öllu óþarft, minnti ég á þá afstöðu mína í tveim pistlum í febrúar sl, annarsvegar á frelsi.is og heimasíðu minni, samhliða umræðunni um heimastjórnarafmælið og ákvörðun forseta að vera í Aspen á þeim tímamótum í sögu þjóðarinnar. Að mínu mati á að leggja niður forsetaembættið, enda eru raunverulegar embættisskyldur forsetans einkum formlegs eðlis og gætu í raun verið í höndum forsætisráðherra eða forseta Alþingis. Að því sögðu tel ég rétt að taka afstöðu til forsetaefnanna núna. Ég tel á þessum tímapunkti, engan þeirra vera þess verðan að gegna þessu tilgangslausa embætti og mun skila auðu í kosningunum 26. júní, að öllu óbreyttu. Ég mun þar kjósa með því að þessi stóll sé óþarfur eins og komið er málum.

FréttablaðiðEngum hefur dulist seinustu vikur hvernig fréttamiðlum Norðurljósa hefur skefjalaust verið beitt í þeim tilgangi einum að hafa áhrif á almenningsálitið vegna eins máls, þess máls sem mest hefur verið rætt í samfélaginu. Eitt besta dæmi þessarar áróðursmennsku fjölmiðlanna birtist í Fréttablaðinu í morgun í skoðanakönnun þar sem stendur stórum stöfum á forsíðu: "Stjórnin aldrei óvinsælli". Er þar vísað til skoðanakönnunar sem Fréttablaðið mun hafa staðið fyrir á undanförnum dögum. Kemur þar fram að stjórnarflokkarnir njóta minna fylgis til samans en Samfylkingin ein. Þegar rýnt er í tölur um úrtak könnunarinnar og fleira því tengt kemur fram að 800 manns hafi verið í úrtakinu um fylgi flokkanna en 51,5% þeirra hafi tekið afstöðu. Semsagt hafi annarhver aðili í úrtakinu ekki gefið upp afstöðu sína, þarna er því byggt á skoðun 400 einstaklinga. Mjög merkilegt. En hvað varðar almennt niðurstöður kannana Fréttablaðsins, þá kemur ekkert á óvart með þær, enda hafa fjórir fjölmiðlar verið með mjög einhliða umfjöllun um þetta mál og allt að því áróður sem á ekkert skylt við málefnalega umfjöllun. Það sannast þarna hvernig þrjár fréttastofur undir einni stjórn hafa áhrif á almenningsálitið og geta komið skoðunum eigenda sinna á framfæri. Frjáls og óháð fjölmiðlun, sem þau hafa haft að leiðarljósi, hefur vikið á undanförnum vikum fyrir einkahagsmunum eigenda Norðurljósa og starfsmanna fyrirtækisins. Spyrja mætti, er það virkilega rétt og ásættanlegt? Nauðsyn laga um eignarhald fjölmiðla verður sífellt ljósara.

Vef-ÞjóðviljinnGreinaskrif
Að venju eru alltaf góð skrif í Vef-Þjóðviljanum. Í fyrradag fjalla þeir um nýlegan dóm Hæstaréttar í málverkafölsunarmálinu og flétta það við önnur mál og færir svo rök fyrir afhverju fjallað er svo um málið. Orðrétt segir: "Jú það er nú vegna þess að til er fólk sem telur að nýlega hafi verið sýnt fram á að dómsmálaráðherra hafi „brotið lög“ þar sem umboðsmanni alþingis þyki sem hann hefði átt að kanna tiltekið atriði - kunnáttu annarra umsækjenda á tilteknu réttarsviði og mat dómara hæstaréttar á henni - áður en hann skipaði mann í starf. Þetta álit umboðsmanns þykir einhverjum sýna að ráðherrann hafi hvorki meira né minna en „brotið lög“ en því fer hins vegar fjarri. Það væri engu fráleitara að heimta afsagnir héraðsdómaranna sem „dæmdu menn í fangelsi eftir ónothæfum gögnum“ en að æpa það að dómsmálaráðherra hafi „brotið lög“ við það að eftir á þyki umboðsmanni alþingis að henn hefði átt að ganga ýtarlegar úr skugga um tiltekið atriði. Í raun liggur nær að taka dómarana og ríkissaksóknara fyrir - þar er þó hæstaréttardómur sem liggur fyrir, hvað sem mönnum finnst um hann, en ekki aðeins álit eins manns eða einnar stjórnsýslunefndar. Og ef einhver heldur að skoðanir Vefþjóðviljans á gildi álita umboðsmanns alþingis tengist á nokkurn hátt nýlegum álitum hans, svo sem í "Falun Gong málinu" eða áliti hans um nýlega skipun hæstaréttardómara, þá er það misskilningur."

American IdolIdol
Vika er þangað til næsta poppstjarna Bandaríkjanna verður valin í símakosningu í American Idol. Í þættinum í gær voru aðeins eftir þrír þátttakendur: Diana DeGarmo, Fantasia Barrino og Jasmine Trias. Greinilegt er á öllu að gríðarlegur skóli er að taka þátt í þessari keppni, jafnast á við margra ára söngnám, enda reynir hálfsárs þátttaka í slíkum þáttum mjög á keppendur. Um þær þrjár sem sungu í gærkvöldi er hægt að segja að allar hafa bætt sig verulega á þessu tímabili. Stóðu sig allar vel í gærkvöldi, enda kemst enginn svona langt í slíkri keppni nema hafa eitthvað gott fram að færa. Það þótti sýnt frá upphafi að Jasmine myndi falla úr keppni og fór það svo. Þrátt fyrir góða frammistöðu stenst hún ekki hinum tveim snúninginn. Það verða því Diana og Fantasia sem keppa til úrslita að viku liðinni í Kodak leikhúsinu í Hollywood.

Dagurinn í dag
1133 Sæmundur fróði lést, 77 ára gamall - hann bjó í Odda á Rangárvöllum
1339 Mikill jarðskjálfti á Suðurlandi - eignatjón varð mikið og nokkrir létust í kjölfarið
1921 Fyrstu hljómsveitartónleikarnir haldnir hérlendis - tímamót í íslensku tónlistarlífi
1982 Sjálfstæðisflokkurinn endurheimtir meirihluta í borgarstjórn Reykjavíkur eftir fjögur ár í minnihluta - Davíð Oddsson varð borgarstjóri og sat til 1991 - misstu meirihlutann árið 1994
2004 Felipe krónprins Spánar, giftist sjónvarpskonunni Leticiu Ortiz í Madrid

Snjallyrði dagsins
Never tell people how to do things. Tell them what to do, and they will surprise you with their ingenuity.
George S. Patton hershöfðingi (1885-1945)

Engin fyrirsögn

Silvio Berlusconi og George W. Bush á leiðtogafundi sumarið 2003Heitast í umræðunni
Silvio Berlusconi forsætisráðherra Ítalíu, og George W. Bush forseti Bandaríkjanna, hittust á fundi í Hvíta húsinu í gær, til að ræða stöðu mála í Írak, nú þegar styttist í að bandalagsþjóðirnar, sem hafa stjórnað landinu frá apríl 2003, færi heimamönnum völdin þar. Að fundinum loknum lýsti Berlusconi því yfir að ítalskt herlið verði áfram í Írak eftir valdaskiptin 30. júní nk. og gagnrýndi jafnframt harðlega stjórnarandstöðuna á Ítalíu fyrir afstöðu sína til Íraksmálsins. Sakaði hann þá um að þjóna hagsmunum óvina lýðveldisins. Sagði hann að það væri skylda Ítalíu að taka þátt í ferlinu í átt að lýðræði í Írak og það væri heiður að taka þátt í því. Norðurbandalagið, sem er stuðningsflokkur Berlusconis í ríkisstjórn landsins, er setið hefur í tæp þrjú ár, hefur þegar lýst yfir efasemdum um að rétt sé að framlengja dvöl Ítala í Írak fram yfir valdaskiptin. Óróleiki heldur áfram í Írak, heittrúaðir sækja fram gegn bandalagshernum og úlfúð er í garð Bandaríkjamanna í landinu. Í gær réðust bandarískir hermenn og íraskir lögreglumenn inn í höfuðstöðvar Ahmed Chalabi félaga í framkvæmdaráði Íraks. Virðist hann nú fallinn í ónáð hjá Bandaríkjamönnum, en um tíma þótti hann líklegastur sem leiðtogi landsins eftir valdaskiptin. Í gær ávarpaði Bush forseti, fund repúblikana og ítrekaði að valdaskiptin færu fram 30. júní og óróleikinn í Írak breytti engu þar um.

AkureyriUndanfarna mánuði hafa átt sér stað viðræður milli bæjaryfirvalda á Akureyri og Hríseyjarhrepps, um sameiningu sveitarfélaganna. Samkomulag náðist í samstarfsnefnd um sameiningu sveitarfélaganna í byrjun vikunnar um fyrirkomulag sameiningar og mun verða kosið um að sameina sveitarfélögin samhliða forsetakosningum þann 26. júní nk. Fjallað var um málið á bæjarstjórnarfundi sl. þriðjudag og þar kom fram að allir listar sem náðu kjöri í bæjarstjórn við seinustu kosningar styðja sameininguna. Gert er ráð fyrir að sameiningin taki gildi 1. ágúst og að bæjarstjórn Akureyrar muni fara með stjórn hins sameinaða sveitarfélags fram að næstu sveitarstjórnarkosningum árið 2006. Það skref sem stigið verður með sameiningunni er tímabært og vonandi upphaf að lengra ferli sameiningar sveitarfélaga í firðinum. Í hugum flestra Eyfirðinga er svæðið allt að verða ein heild í hugum fólks hér, og ennfremur hætt að hugsa í gömlum hrepparíg um að þetta og eitt sé málefni eins svæðis og þetta komi afmörkuðum parti einungis við. Fólk er hætt að horfa til fortíðar, það horfir þess í stað fram á veginn og hugsar til framtíðar. Hef ég alla tíð verið mikill áhugamaður um sameiningu sveitarfélaga í firðinum og bendi á pistil minn um þetta efni, er birtist í febrúar sl.

AlþingiNú styttist óðum í sumarleyfi þingmanna og að venju er fjöldi mála til umræðu í þinginu og þau misgóð frumvörpin sem renna í gegn. Það er slæmt til þess að vita að þingmenn og forystumenn Sjálfstæðisflokksins hafi ekki haft kjark í sér til að nota tækifærið samhliða því að setja reglur um fjölmiðlamarkaðinn og reyna á það að koma í leið í gegnum þingið tillögum að breyttu rekstrarformi Ríkisútvarpsins. Það er greinilega ekki forgangsmál að hálfu forsætisráðherra og menntamálaráðherra að taka fyrir RÚV. Hefur reyndar komið oft í ljós að forsætisráðherrann vill ekki neinar breytingar sýnilegar á rekstri ríkisfjölmiðilsins og menntamálaráðherra er ekki áfjáð í þær heldur. Hef ég oft gagnrýnt harkalega þau bæði fyrir sofandaháttinn í þessum efnum, sérstaklega er slæmt að formaður flokksins beiti sér ekkert í því að stokka upp rekstur RÚV og er ég lítt sáttur við hvernig hann hefur hummað þetta fram af sér. Og svo eru það skattalækkanirnar, hvað varð um þær? Sofna þær kannski fram á haustið til að Framsóknarflokkurinn hirði heiðurinn af þeim? Ætlar flokkurinn ekki að berja skattatillögurnar í gegn fyrir vorið? Hvaða ládeyða er þetta með alvörumálin sem þarf að afgreiða?

Bjarki Már BaxterSvona er frelsið í dag
Í pistli dagsins á frelsinu fjallar Bjarki um málefni RÚV, tekur þar undir sjónarmið okkar Heiðrúnar er fram hafa komið á vefnum og bætist í stóran hóp okkar ungliða í SUS sem blöskrar aumingjaskapur ríkisstjórnarinnar og þá einkum ráðherra Sjálfstæðisflokksins þegar kemur að RÚV, en það virðist skorta allan vilja þar til að taka til hendinni og stokka upp reksturinn. Er mjög ámælisvert hvernig ráðherrar og forystumenn flokksins halda á þessum málum. Í pistlinum segir Bjarki orðrétt: "Afnotagjöld RÚV ætti í raun ekki að skilgreinda sem gjöld, heldur sem skatt fyrir þá sem eiga sjónvarpstæki, enda er skylda fyrir alla sem slíkt tæki eiga að inna gjöldin af hendi. Í umræðunni undanfarnar vikur, sem að mestu hefur snúist um fjölmiðlafrumvarpið svokallaða, hafa bæði Davíð Oddsson og Halldór Ásgrímsson gert því skóna að breyta þurfi afnotagjalda fyrirkomulaginu, en þeir hafa ekki enn skýrt nánar hvernig þær breytingar eigi að vera. Það verður að teljast mikið og stórt skref aftur á bak ef stofnunin verður sett á fjárlög. Það skiptir í raun engu máli hvernig skattar sem fara í rekstur RÚV eru innheimtir, þeir koma frá skattgreiðendum. Það eina sem hefst með því að afnema afnotagjöldin er að þá verða skattgreiðendur ónæmari fyrir því hversu mikill hluti af sköttum þeirra fer til RÚV." Góður pistill sem ég hvet alla til að lesa.

The Butterfly EffectKvikmyndaumfjöllun - The Butterfly Effect
Vönduð og vel leikin spennumynd með hörkugóðu handriti. Segir frá Evan er býr einn með mömmu sinni, en faðir hans er á geðveikrahæli. Í æsku lendir Evan ásamt vinum sínum, þeim Lenny, Keyleigh og Tommy, í erfiðri lífsreynslu sem hefur mikil áhrif á líf þeirra. Hann á mjög erfitt með að horfast í augu við ákveðna hluti og þjáist af minnisleysi. Evan kemst að því að hann býr yfir þeim eiginleika að geta farið aftur í tímann og getur með því haft áhrif á marga hluti í lífi sínu og vina sinna. Að því kemur þó að hann hafi ófyrirséð áhrif á þá hluti sem best væri að hrófla sem minnst við. Góð mynd sem skartar Ashton Kutcher í aðalhlutverki, hann birtist hér í óvenjulegu hlutverki. Hann hefur hingað til verið þekktastur fyrir gamansamar myndir og sýnir hér á sér nýjar hliðar sem leikari og stendur sig vel. Að auki eiga Jesse James, Eric Stoltz, Melora Walters og Amy Smart góðan leik í sínum hlutverkum. Handritið er gríðarvel unnið og skemmtilega útfært. Útkoman er góð spennumynd sem óhætt er að mæla með. Það lærist þó af þessari mynd að aldrei ætti að reyna að storka örlögunum um of. Hvet alla til að sjá The Butterfly Effect, mynd sem kemur á óvart og allir sannir kvikmyndaáhugamenn ættu að njóta.
stjörnugjöf

Dagurinn í dag
1991 Rajiv Gandhi fyrrum forsætisráðherra Indlands, myrtur í sprengjutilræði Tamíl tígra, á kosningaferðalagi í Tamil Nadu héraðinu - hann sat á forsætisráðherrastóli 1984-1989
1997 Þrír Íslendingar komust á tind Mount Everest, hæsta fjalls heims sem er 8.848 m. á hæð
2000 Björk Guðmundsdóttir valin besta leikkonan á kvikmyndahátíðinni í Cannes
2000 Óskarsverðlaunaleikarinn Sir John Gielgud deyr í London, 96 ára að aldri
2003 Davíð Oddsson tilkynnir að hann muni láta af embætti forsætisráðherra, þann 15. september 2004 - hann hefur setið á þeim stóli frá 1991 og var borgarstjóri í Reykjavík 1982-1991

Snjallyrði dagsins
My grandfather once told me that there are two kinds of people: those who work and those who take the credit. He told me to try to be in the first group; there was less competition there.
Indira Gandhi forsætisráðherra Indlands (1917-1984)

Engin fyrirsögn

Dufti kastað í Tony BlairHeitast í umræðunni
Það efast enginn um það lengur að pólitísk staða Tony Blair forsætisráðherra Bretlands, hefur veikst mjög að undanförnu. Fréttaflutningur seinustu daga af innanflokkserjum innan Verkamannaflokksins hefur staðfest að mikil undiralda er að myndast innan flokksins um að leiðtogaskipti verði að eiga sér stað fyrir kosningar. Það blasir hinsvegar við að eins og staðan er núna getur forsætisráðherrann ekki farið frá með góðu, það séu of mörg verk eftir óunnin eða í flækju til að hann geti farið frá völdum á þessum tímapunkti. Í athyglisverðu viðtali í Today Programme á BBC við John Major fyrrum forsætisráðherra Bretlands, tjáir hann sig um pólitíska stöðu Blairs og ástandið í Írak. Sagði hann útilokað að forsætisráðherrann myndi víkja sjálfviljugur á þessum tímapunkti, enda hafi hann ekki náð að ljúka mikilvægum málum til að tryggja arfleifð sína í embætti, en hann hefur setið á forsætisráðherrastóli í sjö ár, eða frá kosningasigrinum yfir Major og Íhaldsflokknum árið 1997. Í dag var breska þingið rýmt í kjölfar þess að maður á áhorfendabekkjum þingsins kastaði purpurarauðu dufti í Blair, lenti það aftan á forsætisráðherranum eins og sést á meðfylgjandi mynd. Öryggisverðir handtóku manninn og forseti þingsins, Michael Martin, sleit þingfundi. Mun atvikið leiða til uppstokkunar á öryggismálum í þinginu.

Manmohan Singh verðandi forsætisráðherra IndlandsMikill órói hefur verið innan indverska Kongressflokksins í kjölfar þess að Sonia Gandhi leiðtogi flokksins, tilkynnti um þá ákvörðun sína að sækjast ekki eftir embætti forsætisráðherra landsins. Á þingi var hún hvött af þingmönnum flokksins að endurskoða ákvörðun sína, en hún hefur nú tilkynnt að ákvörðun sín sé endanleg í stöðunni og hefur minnt á að hún hafi alla tíð aldrei viljað gegna opinberu embætti. Hefur Kongressflokkurinn, að tillögu frú Gandhi, tilnefnt Manmohan Singh til að taka við forsætisráðherraembættinu. Tók hann við stjórnarmyndunarumboði í dag frá Abdul Kalam forseta landsins. Singh er 71 árs gamall hagfræðingur frá Oxford-háskóla. Hann verður fyrsti forsætisráðherra landsins sem ekki er hindúi. Singh starfaði um tíma hjá Alþjóða gjaldeyrissjóðnum og var fjármálaráðherra Indlands í valdatíð Kongressflokksins 1991-1996. Hann hefur til margra áratuga verið náinn samstarfsmaður Gandhi hjónanna og hefur verið áhrifamikill innan flokksins eftir fráfall Rajivs árið 1991, og aðstoðað frú Gandhi í stefnumótun flokksins eftir að hún varð leiðtogi hans 1998. Þrátt fyrir að Sonia Gandhi verði ekki forsætisráðherra, leikur enginn vafi á að hún muni leiða landið bak við tjöldin. Singh og stjórn hans tekur við völdum á laugardag.

AlþingiÞriðja umræða um fjölmiðlafrumvarp ríkisstjórnarinnar hófst á Alþingi í morgun. Allsherjarnefnd Alþingis afgreiddi frumvarpið í gærkvöldi með þeim tveim breytingartillögum er kynntar voru á mánudag. Meirihluti nefndarinnar stendur heill að afgreiðslu málsins. Allt bendir því til þess að fjölmiðlafrumvarpið verði að lögum á næstu dögum. Öruggur meirihluti er fyrir því á þingi. Óljóst er hvort sama andrúmsloft verður uppi við þriðju umræðu en var í seinustu viku er önnur umræða fór fram. Þá beitti stjórnarandstaða sér með því að halda uppi málþófi og hver þeirra talaði vel á aðra klukkustund í minnsta lagi. Nú skiptast þingmenn stjórnar og stjórnarandstöðu á skoðunum á þingi, en við blasir að það styttist í afgreiðslu málsins. Við samþykkt málsins þar fara þau sem lög á borð forseta Íslands sem annað hvort samþykkir þau eða synjar þeim um samþykki sem leiðir til þjóðaratkvæðagreiðslu. Fróðlegt að sjá svo ályktun R-listans um frumvarpið, sem er hönnuð til að beina umræðunni frá fjármálaklúðri þeirra í aðrar áttir.

Helga Baldvinsdóttir BjargardóttirSvona er frelsið í dag
Í pistli dagsins á frelsinu fjallar Helga um störf jafnréttisnefndar Heimdallar sem nýlega var stofnuð. Orðrétt segir í pistlinum: "Í dag snýst jafnréttisbaráttan að miklu leyti um jöfnun milli ólíkra hópa samfélagsins. Hin svokölluðu jafnréttislög nr. 96 frá árinu 2000 heita í raun lög um jafna stöðu og jafnan rétt kvenna og karla og fela meðal annars í sér jöfnun milli þessara tveggja hópa samfélagsins. Samkvæmt 22. grein er meginreglan sú að hvers kyns mismunun eftir kynferði er óheimil. Þó eru á því tvær undantekningar: 1. Sérstakar tímabundnar aðgerðir sem ætlaðar eru til að bæta stöðu kvenna eða karla til að koma á jafnrétti og jafnri stöðu kynjanna ganga ekki gegn lögunum. 2. Sama á við ef nauðsynlegt telst að ráða annað kynið vegna hlutlægra þátta er tengjast starfinu. Þannig brýtur það ekki gegn lögunum að ráða karlkyns baðvörð í sturtuklefa karla í sundlaugum. Þá telst það ekki mismunun að taka sérstakt tillit til kvenna vegna þungunar og barnsburðar." Ennfremur kemur fram: "Nokkrir ungir Heimdellingar tóku sig saman í kjölfar þeirrar umræðu sem þá skapaðist og stofnuðu sérstaka Jafnréttisdeild Heimdallar. Deildin er sammála þeirri ályktun stjórnar Heimdallar að afnema beri jafnstöðulögin á þann hátt að þær greinar sem miða að því að tryggja jafnrétti færist til innan lagabálka, en hinum sem miða að jafnri stöðu kynjanna sé eytt." Góður pistill sem ég hvet alla til að lesa.

TroyKvikmyndaumfjöllun - Troy
Magnþrungin saga Tróju hefur lengi verið vinsælt umfjöllunarefni, Ílýonskviður Hómers er endalaus uppspretta vangaveltna og pælinga. Saga Tróju hefur nú verið færð í glæsilegan kvikmyndabúning af leikstjóranum Wolfgang Petersen sem á að baki meistaraverk á borð við Das Boot, In the Line of Fire og The Perfect Storm. Segir frá valdaátökum milli Grikkja og Trójumanna sem skapast er Paris, yngri sonur konungins af Tróju, hefur ástarsamband við Helenu hina fögru. Leiðir sambandið til þess að Grikkir vígbúast og ætla sér að taka yfir Tróju með góðu eða illu, en það er eini staðurinn sem þeir ráða ekki yfir í Eyjahafinu. Í fremstu víglínu Grikkja stendur hinn dularfulli Akkiles sem telst án vafa einn mesti bardagakappi fyrr og síðar. En það er ekkert sjálfgefið í átökum, eins og sannast hér. Gríðarlega sterk og vönduð mynd sem skartar glæsilegum bardagaatriðum sem ættu að heilla alla kvikmyndaunnendur. Leikurinn er virkilega góður: Brad Pitt hefur sjaldan verið betri en sem hinn einbeitti Akkiles, Orlando Bloom er glæsilegur sem Paris, Eric Bana mjög traustur í hlutverki Hector og Diane Kruger á sterka innkomu sem Helena hin fagra, ekki má svo gleyma Brian Cox sem er magnaður í hlutverki Agamemnon konungs. Allt fer saman til að skapa glæsilega mynd: leikur, tónlist, tæknibrellur, klipping og handritið renna vel saman. Eini mínusinn (ef mínus skyldi kalla) er lengdin, en hún hafði ekki mikil áhrif á mig. Helsti aðall myndarinnar er þó traust leikstjórn meistarans Petersen, sem enn og aftur sannar hversu snjall leikstjóri hann er. Undir hans stjórn verður Troy (Trója) ein mikilfenglegasta mynd ársins og ein helsta sumarmyndin þetta árið. Hvet alla til að líta á þessa í bíó.
stjörnugjöf

Dagurinn í dag
1536 Anne Boleyn, önnur eiginkona Henry VIII afhöfðuð, var dæmd til dauða fyrir framhjáhald
1950 Farþegaskipið Gullfoss kom til landsins - var notað í siglingum til landsins til 1973
1974 Valéry Giscard d'Estaing kjörinn forseti Frakklands - sat í embætti til ársins 1981
1990 Húsdýragarðurinn í Laugardal í Reykjavík, opnaður af Davíð Oddssyni þáv. borgarstjóra
1994 Jacqueline Bouvier Kennedy Onassis fyrrum forsetafrú Bandaríkjanna, deyr í New York, 64 ára gömul - fyrri eiginmaður hennar, John F. Kennedy, var forseti Bandaríkjanna 1961-1963

Snjallyrði dagsins
A man is a success if he gets up in the morning and gets to bed at night, and in between he does what he wants to do.
Bob Dylan

Engin fyrirsögn

AlþingiHeitast í umræðunni
Samkomulag náðist í gær milli ríkisstjórnarflokkanna um að gera tvær breytingar á fjölmiðlafrumvarpinu. Formenn stjórnarflokkanna: Davíð Oddsson forsætisráðherra, og Halldór Ásgrímsson utanríkisráðherra, sömdu sín á milli um breytingar sem voru síðar um daginn ræddar í þingflokkunum. Nú munu stjórnarliðar í allsherjarnefnd fara yfir og móta endanlegar tillögur í samræmi við samþykkt þingflokkanna. Breytingarnar snerta tvö atriði, engin breyting verður á því hvað markaðsráðandi fyrirtæki mega eiga. Annarsvegar er um að ræða breytingu á því að fyrirtæki mega eiga allt að 35% í því í stað 25% áður. Hinsvegar felst breytingin í því að núverandi útvarpsleyfum verði leyft að renna út, og engar breytingar verði fyrr en að tveim árum liðnum er lögin taka gildi. Að mínu mati eru þessar breytingar mjög til góða og gera það að verkum að hægt er að mínu mati að styðja flest sem í frumvarpinu stendur, það er mun heilsteyptara að þessu loknu. Enn er þó ekki tekið á málum RÚV, sem eru mikil vonbrigði og ég hef fjallað um áður og látið í ljósi skoðanir mínar á því. Í gær áttu forseti og forsætisráðherra saman langan fund á Bessastöðum, þar sem þeir ræddu þetta mál og fóru yfir fleti þess. Búist er við að þriðja umræða um frumvarpið hefjist seinnipart vikunnar og muni standa einhverja daga.

Jón Ólafsson og Ingibjörg SólrúnUndanfarna daga hefur verið deilt mjög um bréf sem Björn Bjarnason dómsmálaráðherra, las upp á þingfundi á laugardag að beiðni Ingibjargar Sólrúnar Gísladóttur varaþingmanns, sem nú situr tímabundið á þingi í veikindaforföllum eins þingmanns flokksins. Bréfið birti Björn svo í síðasta helgarpistli sínum. Tölvupósturinn var ritaður árið 2002 af Þresti Emilssyni sem var kosningastjóri Samfylkingarinnar í þingkosningunum 2003 og er nú fréttamaður á Fréttablaðinu. Bréfið var ritað Stefáni Jóni Hafstein formanni framkvæmdastjórnar Samfylkingarinnar og var einnig sent Birni. Í bréfinu kemur fram að Björgvin G. Sigurðsson, hafi upplýst bréfritara um að Jón Ólafsson, hafi veitt umtalsverðum fjármunum til Ingibjargar Sólrúnar Gísladóttur, sem þá var borgarstjóri R-listans. Er Ingibjörg hafnaði þessum skrifum og sagði þau rugl sagði Þröstur: "Mér finnst afar undarlegt að þetta komi upp núna þar sem bréfið er yfir þriggja ára gamalt, en mest er ég undrandi á viðbrögðum Ingibjargar Sólrúnar Gísladóttur - þau verður hún að hafa við sína samvisku - ef hún hefur þá einhverja." Nú tveim dögum síðar hefur Þröstur sagt allt efni bréfsins rugl og biðst afsökunar. Hvað gerðist á þessum tveim dögum?

Sonia GandhiSonia Gandhi leiðtogi Indverska Kongressflokksins, hefur tilkynnt að hún hafi hafnað því að taka sæti sem forsætisráðherra Indlands. Í kjölfar kosningasigurs flokksins í þingkosningunum í apríl og maí hafði verið talið öruggt að hún tæki við embættinu og fetaði með því í fótspor tengdamóður sinnar, Indiru Gandhi og eiginmanns síns, Rajiv Gandhi sem voru bæði forsætisráðherrar landsins. Þau féllu bæði fyrir morðingjahendi, er almennt talið að börn Soniu vilji ekki að hún taki við embættinu, enda myndu öfgamenn vilja hana feiga ef hún yrði forsætisráðherra, líkt og var með föður þeirra og ömmu. Það að hún er ekki indversk, heldur af ítölskum ættum hefur valdið óánægju í landinu og margir ekki getað hugsað sér hana sem æðsta valdamann þjóðarinnar. Ákvörðun frú Gandhi kom mjög óvænt. Allt þar til í dag þótti öruggt að hún tæki við embættinu og eru stuðningsmenn hennar flestir æfir, enda hafi þeir verið að kjósa hana til valda. Líklegast er nú talið að náinn pólitískur samstarfsmaður Rajiv Gandhi, Manmohan Singh, verði næsti forsætisráðherra Indlands.

Heiðrún Lind MarteinsdóttirSvona er frelsið í dag
Í pistli dagsins á frelsinu fjallar Heiðrún Lind um málefni RÚV. Á það vel við, nokkrum dögum eftir skrif mín um þetta mál, enda erum við alveg sammála um RÚV og viljum bæði að þar verði stokkað upp. Í pistlinum segir Heiðrún: "Á þingi því sem nú er að renna sitt skeið lá fyrir frumvarp um breytingar á rekstrarformi Ríkisútvarpsins. Greinarhöfundur finnur sig tilneyddan til að taka mál þetta upp vegna undrunar yfir því skilningsleysi sem hlutafélagavæðing RÚV hefur mætt á Alþingi. Þó flestir hafi áttað sig á mikilvægi samkeppni virðast enn einhverjir vaða í þeirri villu að ríkisútvarp skuli ekki lúta lögmálum markaðarins – án þess væri menning okkar Íslendinga fótum troðin af fyrirtækjum sem vilja færa okkur útvarps- og sjónvarpsefni sem fólk vill horfa eða hlusta á! En hvað er það við útvarpsrekstur sem fær stjórnmálamenn til að vilja niðurnjörva starfsemina með reglum, lögum, boðum og bönnum? Þeir sem fylgjandi eru reglusetningu hafa aðallega nefnt tvennt máli sínu til stuðnings. Í fyrsta lagi hefur verið bent á að úrvarpsrásir eru takmörkuð auðlind og fyrirhafnarmikið er að hefja starfsemi á þessu sviði. Í annan stað hefur það verið látið í veðri vaka að gæði og fjölbreytileiki væri ekki tryggt nema með fyrir tilstilli ríkisrekins fjölmiðils. Bæði þessi rök má hrekja og lagasetning til verndar Ríkisútvarpinu hefur án vafa mun fleiri slæma kosti en góða." Góður pistill sem ég hvet alla til að lesa.

John MajorBækur
Undanfarna daga hef ég verið að lesa ævisögu John Major fyrrum forsætisráðherra Bretlands og leiðtoga breska Íhaldsflokksins. Í bókinni fer Major yfir stjórnmálaferil sinn. Major var fyrst kjörinn á breska þingið fyrir Huntingdon hérað árið 1979. Í þeim kosningum vann flokkurinn sögulegan kosningasigur undir forystu Margaret Thatcher, og komst til valda eftir fimm ár í stjórnarandstöðu. Eftir þingkosningarnar 1983 varð hann aðstoðarráðherra í stjórnum frú Thatchers og forystumaður í þingflokknum. Í kjölfar kosninganna 1987 varð Major viðskiptaráðherra Bretlands. Árið 1989 varð Major utanríkisráðherra og tók skömmu fyrir lok þess árs við embætti fjármálaráðherra, og var þarmeð orðinn einn valdamesti ráðherra flokksins. Frú Thatcher neyddist til að víkja af valdastóli í nóvember 1990 eftir innbyrðis valdaerjur og gaf Major kost á sér í leiðtogaslag flokksins. Hann var kjörinn eftirmaður hennar í leiðtogakjöri þann 27. nóvember 1990. Hann tók við embætti sem forsætisráðherra Bretlands sólarhring síðar. Hann vann sigur í þingkosningunum 1992, þvert á allar spár. Árið 1995 réðst hann að andstæðingum sínum innan flokksins og efndi til leiðtogakjörs sem hann vann. Hann beið ósigur í þingkosningunum 1997 fyrir Verkamannaflokknum og vék þá jafnframt af leiðtogastóli flokksins, hafði þá setið á valdastóli tæp 7 ár. Hann lét af þingmennsku í kosningunum 2001. Hvet alla til að lesa þessa góðu bók.

Dagurinn í dag
1804 Napoleon Bonaparte skipaður keisari í Frakklandi af franska þinginu
1920 Jóhannes Páll II páfi fæðist - hann tók við páfatign 1978 og hafa aðeins þrír setið lengur
1933 Franklin Delano Roosevelt forseti Bandaríkjanna, undirritar New Deal samninginn
1985 Dagur ljóðsins haldinn hátíðlegur í fyrsta skipti að hálfu Rithöfundasambandsins
2000 Nýtt hafrannsóknaskip, Árni Friðriksson, kom til landsins - það var smíðað í Chile

Snjallyrði dagsins
If you haven't found something strange during the day, it hasn't been much of a day.
John A. Wheeler

Engin fyrirsögn

Davíð Oddsson forsætisráðherraHeitast í umræðunni
Viðtal fréttastofu Sjónvarps við Davíð Oddsson forsætisráðherra, á föstudagskvöld, hefur komið af stað miklum umræðum um hvort forseti Íslands sé vanhæfur til að neita fjölmiðlafrumvarpi ríkisstjórnarinnar um samþykki. Í dag ritar Davíð, ítarlega grein í Morgunblaðið, þar sem hann gerir grein fyrir sjónarmiðum sínum um mögulegt synjunarvald forseta Íslands. Þar kemur fram að hann telur að ekki sé stafur fyrir þeirri túlkun, sem stundum sé haldið fram, að sú staðreynd að forseti Íslands sé þjóðkjörinn hljóti að færa honum frekara vald en stjórnarskráin mælir fyrir um. Að hans mati leiki enginn vafi á því að ráðherra beri stjórnskipulega ábyrgð sé tillaga hans staðfest þar komi engin vanhæfissjónarmið til álita um forsetann. Skiptir þá engu þótt forseti hafi fyrr eða síðar tjáð sig um málið eða hvort málið snerti stöðu hans eða persónulega afkomu svo sem lög um afnám skattfrelsis forseta. Forsætisráðherra bendir á skiptar skoðanir fræðimanna um synjunarvald forseta. Ef sá skýringarkostur væri réttur að hann hefði slíkt vald vakni upp alvarlegar spurningar um vanhæfi forsetans. Orðrétt segir: "..og jafnvel þótt hinir virtustu sérfræðingar eftir góða athugun kæmust að hinni sérkennilegu niðurstöðu, að mínu mati, að hin nánu tengsl og þó hinir ríku hagsmunir sem liggja ótvírætt fyrir sköpuðu ekki vanhæfi að lögum, myndu þau eftir sem áður að öllu öðru leyti gera synjun forseta og ákvörðun hans að virða ekki vilja Alþingis afar tortryggilega svo ekki sé meira sagt. Því er óhætt að segja að vildu menn nú í fyrsta sinn láta reyna á og vekja hinn dauða bókstaf upp hefðu þeir valið sér til þess eitthvert óheppilegasta mál sem þeir gætu fundið.” Forseti og forsætisráðherra áttu saman klukkustundarlangan fund á Bessastöðum í morgun.

Indira Gandhi, Sonia Gandhi og Rajiv GandhiStjórnarmyndun á Indlandi lauk formlega í gær er Kongressflokkurinn og smærri vinstriflokkar náðu samkomulagi um stjórnarsáttmála samsteypustjórnar flokkanna. Sonia Gandhi verðandi forsætisráðherra, og ríkisstjórn hennar mun taka við völdum á miðvikudag. Úrslit þingkosninganna hafa vakið reiði meðal hindúa og strangtrúaðra í landinu, í ljósi þess að forsætisráðherrann verðandi er ekki af indverskum ættum, en eins og kunnugt er Sonia ítölsk og ekkja Rajiv Gandhi fyrrum forsætisráðherra. Talsmenn fyrrum stjórnarflokka á borð við Janata flokkinn hafa tilkynnt að þeir muni ekki vera viðstaddir embættistöku hinnar nýju stjórnar. Eini embættismaður fráfarandi stjórnar sem verður viðstaddur er Atal Behari Vajpayee fráfarandi forsætisráðherra. Vinstrisveiflan sem varð í kosningunum varð mun stærri en nokkurn hafði órað fyrir, samkvæmt lokatölum hlaut vinstriblokkin um 60 þingsætum meira en hægriblokkin og stjórnarflokkarnir töpuðu um 100 þingmönnum. Almennt er þó búist við að hveitibrauðsdagar nýju stjórnarinnar verði stuttir. En með stjórnarskiptum kemst Nehru-Gandhi ættin aftur til valda og þetta rótgróna ættarveldi tekur aftur við forystu í stjórnmálum landsins.

Ezzedine SalimEzzedine Salim forseti framkvæmdaráðs Íraks, lét lífið ásamt nokkrum öðrum mönnum, er bílsprengja sprakk fyrir utan höfuðstöðvar bandaríska hernámsliðsins í Bagdad í morgun. Áður óþekkt samtök, er nefna sig Arabíska andspyrnuhreyfingin, hafa lýst á hendur sér ábyrgð á sprengjuárásinni, kemur fram í yfirlýsingu frá samtökunum að þau muni halda ótrauð áfram heilögu stríði þar til bæði Palestína og Írak hafi verið frelsuð. Embættismenn út um allan heim hafa í morgun fordæmt harðlega drápið á Salim. Áætlað var að valdaskipti verði í Írak 30. júní nk. og muni þá heimamenn taka við stjórn landsins. Sama dag mun Bandaríkjastjórn jafnframt alla embættismenn einræðisstjórnar Baath-flokksins sem eru í varðhaldi þeirra, þ.á.m. Saddam Hussein fyrrum forseti landsins. Ekki er vitað með vissu hvort þessi tíðindi muni breyta einhverju um þá dagsetningu.

HeimdallurSvona er frelsið í dag
Í pistli dagsins á frelsinu fjallar Páll um vörugjöld og segir orðrétt: "Vörugjöld eru undarlegt fyrirbæri sem margir rugla eðlilega saman við tolla. Saman eru þessar tekjulindir ríkisins oft kallaðar aðflutningsgjöld ásamt öðrum sköttum og gjöldum reyndar þar sem innheimta þeirra fer fram í tolli við innflutning. Munurinn á tollum og vörugjöldum hins vegar er sá að vörugjöld eru líka innheimt af innlendri framleiðslu. Í flestum tilfellum er þó ekki um að ræða neina innlenda framleiðslu á þeim vörum sem bera vörugjöld og því verður þetta í raun að nokkurs konar tolli sem lagður er á vörur sem framleiddar eru erlendis og fluttar til landsins. Málið er hins vegar að innheimta má vörugjöld þrátt fyrir að vara sé flutt frá öðru landi innan evrópska efnahagssvæðisins þar sem samkvæmt lögum ætti að innheimta þau af innlendri framleiðslu þó hún sé ekki til staðar. Í flestum tilfellum mætti hins vegar ekki innheimta tolla samkvæmt EES samningnum þar sem þá væri verið að mismuna innlendum og erlendum varningi." Bendi ennfremur á umfjöllun um góða grein Benedikts Jóhannessonar. Að lokum er bent á nýjan bol SUS.

Vef-ÞjóðviljinnGreinaskrif
Í góðri grein á Vef-Þjóðviljanum í dag er fjallað um bréfið sem dómsmálaráðherra las upp á þingi á laugardag og fjallar um fjármál R-listans og Samfylkingarinnar. Orðrétt segir: "Samfylkingin fer núna í kringum eigin reglur um að birta allar fjárhæðir sem eru 500.000 krónur eða hærri með því að þiggja aðeins styrki sem eru innan við þá fjárhæð, til dæmis 499.999 krónur. En þrátt fyrir að í lögum væri kveðið á um að birta ætti allar upplýsingar um styrki þá væri engin leið að koma í veg fyrir það að þeir stjórnmálamenn eða stjórnmálaflokkar sem vilja leyna stuðningi láti styrkja aðra, til dæmis frambjóðanda til borgarstjóra. Þar sem bréfritari starfar nú á Fréttablaðinu ættu að vera hæg heimatökin fyrir blaðið að fletta ofan af þessu máli, en blaðið hefur sýnt fjármálum flokkanna talsverðan áhuga. Vefþjóðviljinn telur þó ólíklegt að því verði slegið upp á næstunni á forsíðu blaðsins að talsmaður Samfylkingarinnar, sem nú situr á þingi fyrir flokkinn, þiggi "umtalsverða fjármuni" frá fyrirtækjum eða fjársterkum einstaklingum." Virkilega góð grein sem ég hvet alla til að lesa, sem og vefinn dag hvern.

Dagurinn í dag
1724 Mývatnseldar hefjast - stóðu í alls 5 ár. Í þeim varð til gígurinn Víti í Kröflu
1814 Noregur fær stjórnarskrá - 17. maí hefur síðan verið þjóðhátíðardagur landsins
1841 Tómas Sæmundsson prestur, lést 33 ára gamall - hann var einn Fjölnismanna
1995 Jacques Chirac tekur við forsetaembætti í Frakklandi - var endurkjörinn árið 2002
1997 Alþingi samþykkir ný lögræðislög - sjálfræðisaldur hækkar úr 16 árum í 18

Snjallyrði dagsins
There is no monument dedicated to the memory of a committee.
Lester J. Pourciau

Engin fyrirsögn

JónsiHeitast í umræðunni
Úkraína bar sigur úr býtum í Söngvakeppni evrópskra sjónvarpsstöðva, en hún var haldin í 49. skipti í gærkvöldi í Istanbul í Tyrklandi. Framlag Úkraínu, Wild Dances, er sungið var af söngkonunni Ruslönu Lyzichko, hlaut 280 stig í atkvæðagreiðslunni. Serbar og Svartfellingar urðu í öðru sæti með 263 stig, Grikkir í því þriðja með 252 stig, Tyrkland varð í fjórða með 195 stig og í fimmta til sjötta sæti urðu Kýpur og Svíþjóð með 170. Önnur lög hlutu mun færri stig. Jónsi, Jón Jósep Snæbjörnsson, sem söng framlag Íslands, Heaven, lenti í 19. sæti með 16 stig alls. Jónsi fékk 5 stig frá Norðmönnum og Mónakó og 2 stig frá Dönum, Finnum og Rússum. Er þetta fjórði lakasti árangur okkar í keppninni, við urðum í neðsta sæti 1989 og 2001 og í 20. sæti árið 1997. Norðmenn fengu fæst stig þetta árið, aðeins 3, og Írar og Belgar fengu hvor um sig 7 stig. Jónsi stóð sig mjög vel með lagið, og var kraftmikill í flutningi sínum og eru Íslendingar ánægðir með flutning lagsins og stoltir af frammistöðu hans. Sjálfur hefur hann sagst vera mjög sáttur við útkomuna í viðtali við fjölmiðla í dag. Greinilegt var á stigagjöfinni að nágrannaþjóðir kusu hvor aðra og launuðu samherjum sínum, óháð lögunum sjálfum. Er greinilegt á öllu að breyta verði fyrirkomulagi við keppnina og stokka hana upp. 50. söngvakeppnin verður því haldin í Kiev í Úkraínu að ári.

Nr. 10Tony Blair forsætisráðherra Bretlands, er sífellt að verða valtari í sessi sem leiðtogi breska Verkamannaflokksins. Skv. heimildum sem fréttastofa BBC telur áreiðanlegar eru nokkrir af óbreyttum ráðherrum flokksins orðnir óþreyjufullir í biðinni eftir að forsætisráðherrann hætti afskiptum af stjórnmálum. Hefur verið opinbert leyndarmál í nokkur ár að Gordon Brown fjármálaráðherra, vilji taka við af Blair og telur hann nú tíma sinn kominn og vill hann taka við embættinu fyrir lok þessa kjörtímabils og leiða flokkinn í næstu þingkosningum. Blair hefur ekki farið leynt með að hann vilji klára tímabilið og leiða flokkinn í næstu kosningum og hætta fljótlega að því loknu. Það er þó orðið sífellt ólíklegra að svo fari og leiða menn líkum að því að hann muni hætta síðar á þessu ári, með haustinu sennilega. Þegar Blair varð leiðtogi flokksins árið 1994 í kjölfar andláts John Smith, sömdu þeir sín á milli um að Brown tæki við af Blair á vissum tímapunkti. Munu Brown og Blair hafa átt einkafund um málið í baksæti bíls Blairs fyrir nokkrum vikum. Óvíst er talið að leið Browns að leiðtogasætinu verði trygg og spá menn í að það verði hörð átök um það.

Tony Blair forsætisráðherraInn í þessar vangaveltur hafa í dag blandast niðurstöður nýrrar skoðanakönnunar er gerð var fyrir blaðið Sunday Times. Þar kemur fram að nærri helmingur landsmanna vilji að Blair láti af embætti fyrir næstu þingkosningar. Hafa ótrúleg umskipti orðið í persónulegu fylgi við forsætisráðherrann á rúmu ári, frá upphafi Íraksstríðsins. Við upphaf valdatíðar hans í maí 1997, hafði hann um 80% persónufylgi, nú eru innan við 30% landsmanna sem vilja hann beinlínis sem forsætisráðherra og styðja hann persónulega. Hvað gerist nú er stór spurning en greinilega er kominn flótti í þá þingmenn Verkamannaflokksins sem tæpastir voru inn á þing í seinustu kosningum og telja að nú verði að stokka upp til að flokkurinn eigi möguleika á sigri í næstu kosningum. Um er að ræða nákvæmlega eins stöðu og kom upp í breska Íhaldsflokknum árið 1990 er tók að fjara undan Margaret Thatcher þáverandi forsætisráðherra og leiðtoga flokksins. Það var þá skriða andstæðra afla í eigin flokki sem velti henni úr sessi. Sama virðist vera að byrja að gerast nú í Verkamannaflokknum, 14 árum síðar.

Stefán Friðrik StefánssonSunnudagspistillinn
Að þessu sinni fjalla ég um umræðu á Alþingi um fjölmiðlafrumvarp ríkisstjórnarinnar og vík að málþófi stjórnarandstöðunnar í annarri umræðu málsins og gífuryrðum formanns VG í garð forsætisráðherra og hvernig fréttamiðlum er beitt miskunnarlaust til að hygla eigendunum. Ennfremur fjalla ég um fjölmiðlasirkus forseta Íslands sem hefur birst almenningi í kjölfar þess að hann sneri heim frá Mexíkó og hætti á seinustu stundu við að mæta í konunglegt brúðkaup í Kaupmannahöfn. Forsetinn ákvað að morgni föstudags að fara ekki í brúðkaup krónprins Danmerkur og tilkynnt var formlega í fréttatilkynningu að vegna óvissu um hvenær Alþingi ljúki afgreiðslu mikilvægra mála hafi forsetinn ekki getað yfirgefið landið og farið í brúðkaupið. Var þessi ákvörðun forseta með öllu óskiljanleg í ljósi þess að fjölmiðlafrumvarp ríkisstjórnarinnar verður ekki að lögum á næstu dögum, enda var þá önnur umræða málsins enn í fullum gangi og langt í frá lokið og enn eftir þriðja umræðan. Um var að ræða fáránlega framkomu gagnvart dönsku konungsfjölskyldunni og íslensku þjóðinni í ljósi þess að forsetinn hafði áður tekið ákvörðun um að fara í brúðkaupið. Ekkert hafði gerst frá heimkomu forsetans til þess tíma í málefnum Alþingis sem réttlætti ákvörðun forsetans og rök hans fyrir henni voru ekki haldbærar, enda lítið mál fyrir forseta að fara með morgunvél til Danmerkur á föstudag og koma svo heim morguninn eftir. Hvort 26. grein stjórnarskrár er dauður bókstafur eins og forsetinn taldi árið 1977 mun ráðast á næstunni. Hvet alla til að líta á pistilinn.

Stefán Friðrik StefánssonPistill Björns
Í ítarlegum pistli á heimasíðu sinni fjallar Björn um mál málanna seinustu vikurnar: fjölmiðlafrumvarpið og öll þau mál sem því hafa tengst á svo mikinn hátt undanfarna daga. Einkum víkur hann að bréfi sem hann fékk í tölvupósti í maí 2002, skömmu fyrir borgarstjórnarkosningar og birtir í pistlinum og hann las upp á þingfundi í gær. Orðrétt segir hann um viðbrögðin eftir lestur þess á þingi: "Eftir að ég hafði lesið þetta bréf í þingsalnum, hrópaði Mörður Árnason, sem alltaf er með frammíköll, þegar ég tala: Stóra bomba! Ingibjörg Sólrún sagði, að nú hefði "skjalavörðurinn" talað og gaf til kynna, að bréfritari hefði ef til vill ekki verið með sjálfum sér og ég væri á barmi örvæntingar. Bryndís Hlöðversdóttir sagði bréfið endurspegla líðan mína. Kristján L. Möller taldi málið snerta Aflvaka og viðskipti með lén! Björgvin G. Sigurðsson bað um að fá að bera af sér sakir og sagðist ekkert vita um fjármál Reykjavíkurlistans! Fréttablaðið segir ekki frá þessu í sunnudagsblaði sínu, þótt greint sé þar frá ræðum, sem voru fluttar síðar þennan sama dag á þinginu. Ég hef ekki heyrt frá þessu sagt í öðrum miðlum Norðurljósa og ekki heldur í Ríkisútvarpinu. Um viðbrögð Samfylkingarfólksins á þingi er það að segja, að þau ræddu ekki efni málsins heldur leituðust við að drepa því á dreif."

Dagurinn í dag
1920 Benedikt XV páfi tilkynnir að Jóhanna af Örk hafi verið tekin í dýrlingatölu
1929 Óskarsverðlaunin afhent í fyrsta skipti í Los Angeles
1942 Fyrsta ríkisstjórn Ólafs Thors tekur við völdum. Hún sat í sjö mánuði. Á ferli sínum varð Ólafur alls fimm sinnum forsætisráðherra, oftar en nokkrir aðrir stjórnmálaleiðtogar
1952 Bandarísk flugvél fórst í norðanverðum Eyjafjallajökli og með henni fimm manns
1966 Karnabær opnaður í Reykjavík - verslunin hafði mikil áhrif á tískustrauma hérlendis

Snjallyrði dagsins
Wisdom is what's left after we've run out of personal opinions.
Cullen Hightower

Engin fyrirsögn

Ólafur Ragnar Grímsson forsetiHeitast í umræðunni
Ólafur Ragnar Grímsson forseti Íslands, var ekki viðstaddur konunglegt brúðkaup í Danmörku í gær, er Friðrik krónprins gekk að eiga Mary Donaldson. Klukkan 10 í gærmorgun sendi forsetaskrifstofan frá sér fréttatilkynningu þar sem kom fram að vegna óvissu um hvenær Alþingi ljúki afgreiðslu mikilvægra mála hafi forsetinn ekki getað yfirgefið landið og farið í brúðkaupið. Er þessi ákvörðun forseta með öllu óskiljanleg í ljósi þess að fjölmiðlafrumvarp ríkisstjórnarinnar verður ekki að lögum á næstu dögum, enda er önnur umræða enn í gangi um málið og þá mun sú þriðja taka við. Ekkert lát er á málþófi stjórnarandstöðunnar í málinu. Um er að ræða fáránlega framkomu gagnvart dönsku konungsfjölskyldunni og íslensku þjóðinni í ljósi þess að forsetinn hafði áður tekið ákvörðun um að fara í brúðkaupið. Ekkert hefur gerst sem réttlætir ákvörðun forsetans og rök hans fyrir ákvörðunni eru mjög léleg svo vægt sé til orða tekið. Lítið mál hefði verið fyrir forseta að fara með morgunvélinni í gær til Kaupmannahafnar og koma heim til landsins að morgni laugardags. Ómögulegt er svo sem að spá í hvað forseti er að hugsa þessa dagana, en öllum má vera ljóst að hann er að minna á sig með þessu dæmalausa útspili sínu og dómgreindarlausum ákvörðunum sem gætu leitt til stjórnlagakreppu ef hann undirritar ekki lög sem meirihluti þingsins muni samþykkja, þegar þau koma á hans borð.

Davíð Oddsson forsætisráðherraDavíð Oddsson forsætisráðherra, tjáði sig um atburði gærdagsins í ítarlegu viðtali við Jóhönnu Vigdísi Hjaltadóttur fréttamann Ríkissjónvarpsins. Kom þar fram sú skoðun hans að forseti Íslands geti ekki neitað að staðfesta fjölmiðlafrumvarpið. Ef einhver væri vanhæfur til að fjalla um málið sé það forsetinn sjálfur. Hann sagði ákvörðun forsetans að breyta ferðaáætlun sinni og mæta ekki í brúðkaup Danaprins óskiljanlega vitleysu. Sagði hann forseta ekkert hafa rætt við sig, utanríkisráðherraforseta Alþingis um þingstörfin. Sagði Davíð að forseti geti ekki gengið erinda eins auðhrings því hann væri forseti allrar þjóðarinnar. Orðrétt sagði hann: "Ef einhver er vanhæfur til þess að taka á þessu máli þá er það Ólafur Ragnar Grímsson. Forstjóri Norðurljósa er formaður stuðningsmannafélags Ólafs Ragnars Grímssonar. Það hefur komið fram í fjölmiðlum að fyrrverandi forstjóri Norðurljósa, sá sem seldi, hafi verið aðal fjárhagslegur stuðningsmaður forsetans. Það hefur komið fram að forsetinn bauð jafnan til kvöldverðar þegar Stöð 2 var að taka lán... Dóttir forsetans vinnur hjá Baugi. Þannig að ef að einhver er algerlega vanhæfur til slíkra hluta, þá er það forseti Íslands, Ólafur Ragnar Grímsson. Þannig að á hvorn veginn sem lögfræðitúlkunin liggur þá er algerlega ljóst að hann getur ekki synjað þessum lögum." Fróðlegt viðtal og Davíð óhræddur við að tjá skoðanir sínar, venju samkvæmt. Er ég sammála forsætisráðherranum í öllum meginatriðum í þessu máli. Bendi ennfremur öllum á að lesa grein Hrafnkels A. Jónssonar í Mogganum í gær.

AlþingiEins og fyrr segir hélt önnur umræða um fjölmiðlafrumvarpið áfram á þingi í gær. Þá flutti Steingrímur J. Sigfússon formaður Vinstri grænna seinni ræðu sína í annarri umræðunni. Hafði hann óskað að forsætisráðherra tæki þátt í umræðum um ræðu sína og svaraði spurningum sem hann kæmi fram með. Þegar fyrir lá að forsætisráðherra yrði ekki viðstaddur fór Steingrímur hörðum orðum um forsætisráðherrann og sagði orðrétt: "og það skal þá standa að Davíð Oddsson sé slík gunga og drusla að hann þori ekki að koma hér og eiga orðastað við mig." Þessi ómerkilegu ummæli Steingríms segja mikið um innræti hans og ómálefnalegheit í umræðunni. Þau eru ekki sæmandi manni í hans stöðu sem flokksleiðtoga, alþingismanns og stjórnmálamanns með rúmlega tveggja áratuga setu að baki á þjóðþinginu. Er lágmark að hann biðjist afsökunar á þessum gífuryrðum og skammist sín!

Friðrik krónprins Danmerkur og eiginkona hans, María krónprinsessaBrúðkaup í Kaupmannahöfn
Friðrik krónprins Danmerkur, kvæntist í gær hinni áströlsku Mary Donaldson, við hátíðlega athöfn í Frúarkirkju í Kaupmannahöfn. Þjóðhátíðarstemmning er í landinu vegna brúðkaupsins. 9 ár eru liðin frá seinasta konunglega brúðkaupi í Danmörku, en 1995 kvæntist Jóakim, yngri sonur Margrétar Danadrottningar, Alexöndru eiginkonu sinni. 37 ár eru liðin síðan Margrét kvæntist Hinrik greifa, en þau játuðust hvoru öðru þann 10. júní 1967. Friðrik prins er fæddur 26. maí 1968, en brúðurin er fædd árið 1972. Þau kynntust á bar í Sydney í Ástralíu, á Ólympíuleikunum árið 2000. Fór samband þeirra mjög leynt fyrst um sinn, en í febrúar 2002 staðfesti danska krúnan loks að Friðrik og Mary ættu í ástarsambandi. Snemma ársins 2003 fluttist Mary, sem er lögfræðingur að mennt, til Danmerkur, og hóf störf hjá dótturfyrirtæki Microsoft þar. 8 október 2003 var formlega tilkynnt um trúlofun þeirra og giftingu. Mary Donaldson er fyrsti Ástralinn sem giftist inn í evrópska konungsfjölskyldu og verður væntanlega fyrsta ástralska konan sem verður drottning í Evrópulandi. Var brúðkaupið mjög tilkomumikið. Fulltrúi Íslands við athöfnina var Dorrit Moussaieff forsetafrú, en eins og flestum er kunnugt sá forseti Íslands sér ekki fært að fljúga til Danmerkur. Um er að ræða gleðidag fyrir dönsku konungsfjölskylduna og ástæða er til að samfagna henni á þessum tímamótum.

Jónsi - HeavenIdol - Eurovision
Hálfur mánuður er þar til næsta poppstjarna Bandaríkjanna verður valin í símakosningu í American Idol. Aðeins eru eftir fjórir þátttakendur og í þættinum sem sýndur var í gærkvöldi tókust Diana, Fantasia, La Toya og Jasmine á um að komast í þriggja manna úrslitin eftir viku. Þær þrjár fyrstnefndu stóðu sig frábærlega og eiga allar skilið að vinna keppnina, en Jasmine er að slappast nokkuð finnst mér. Það kom því þónokkuð á óvart að bandaríska þjóðin skyldi senda La Toyu heim, enda var hún alveg mögnuð í túlkun sinni á lögunum sem hún flutti. Greinilegt að margir voru hissa á þessari niðurstöðu símakosningarinnar. Í kvöld er hinsvegar komið að stóru stundinni hjá Jónsa í Eurovision-keppninni í Istanbúl. Vona að honum gangi sem allra best með flutninginn á Heaven, veit að hann mun gera sitt besta og verða okkur til sóma. Við vonum það besta með kvöldið og að Ísland nái góðum árangri. Hvet alla til að lesa blogg Eurovision faranna.

Dagurinn í dag
1941 Alþingi samþykkir að fresta þingkosningum um allt að fjögur ár vegna hernámsins
1952 Fiskveiðilögsaga Íslendinga færð úr þremur sjómílum í fjórar - breytt næst sex árum síðar
1967 Fyrsta sjónvarpsleikritið, Jón gamli, eftir Matthías Johannessen ritstjóra, frumsýnt
1972 Geðtruflaður maður skýtur í bakið á George Wallace ríkisstjóra Alabama og forsetaframbjóðanda, á kosningafundi í Laurel í Maryland. Wallace lamaðist fyrir neðan mitti
1991 Edith Cresson verður fyrsti kvenforsætisráðherra Frakklands - sat í rúmt ár á þeim stóli

Snjallyrði dagsins
Forsetinn getur ekki verið að ganga erinda eins auðhrings. Hann er forseti allrar þjóðarinnar. Það gefur augaleið.
Davíð Oddsson forsætisráðherra (í kvöldfréttum Sjónvarpsins - 14. maí 2004)

Engin fyrirsögn

AlþingiHeitast í umræðunni
Enn heldur málþóf stjórnarandstöðunnar áfram á Alþingi. Eins og flestum er kunnugt er þingmönnum heimilt að tala eins lengi og þeim sýnist í annarri umræðu og nota þann rétt til að tefja málið. Eins og ég benti á í gær hafa þingmenn lesið uppúr bókum til að leggja áherslu á málflutning sinn, en ennfremur tölvupósta, greinaskrif, skýrslur og greinargerðir svo fátt eitt sé nefnt. Vart þarf að taka fram að fáir nenna að fylgjast með þessu málþófi og er þingsalurinn að mestu tómur allan daginn að frátöldum ræðumönnum, forseta þingsins og nokkrum stjórnarandstöðuþingmönnum. Athyglisvert er að minnst er talað um helsta hluta umræðunnar, eignarhald á fjölmiðlum og lítið kemur fram um beina stefnu stjórnarandstöðunnar í málinu. Halldór Blöndal forseti Alþingis, sem hefur fylgst með þingstörfum sem þingfréttamaður og síðar stjórnmálamaður allt frá árinu 1961, hefur sagst í viðtali aldrei hafa orðið vitni að öðru eins málþófi og því sem nú á sér stað á þingi, og eins miklum umræðum beint um fundarstjórn forseta. Ljóst varð í morgun að forseti Íslands færi ekki til Kaupmannahafnar í brúðkaup Danaprins í dag. Halldór Ásgrímsson sendi forsetanum tóninn í gær og sagði það skyldu hans að vera fulltrúi Íslands við athöfnina og hann hefði engum skyldum að gegna við þingumræðuna um málið. Pen en traust skilaboð, hvað gerist nú er ómögulegt að segja, enda slíkt ástand og nú er uppi sennilega aldrei komið fyrir fyrr.

Donald RumsfeldDonald Rumsfeld varnarmálaráðherra Bandaríkjanna, fór í gær í óvænta heimsókn til Íraks og heimsótti þar hernámsliðið í landinu. Hann átti fundi með æðstu yfirmönnum hersins og ávarpaði hermenn. Ennfremur heimsótti ráðherrann Abu Ghraib-fangelsið, sem hefur verið mikið í fréttum undanfarið vegna pyntinga hermanna á stríðsföngum þar. Fram kom í ræðu Rumsfelds að hermenn ættu ekki að láta gagnrýni raska ró sinni og skemma fyrir uppbyggingarstarfinu í landinu, en ekkert geti þó réttlætt þær pyntingar sem fram hefðu farið og tekið yrði á þeim sem hefðu gerst sekir um glæpi. Sagðist hann ekki lengur lesa blöðin. Þess í stað hefur hann að undanförnu lesið sögu þrælastríðsins í Bandaríkjunum, enda hafi Abraham Lincoln mátt þola harkalega gagnrýni sem forseti þá. Varaði hann hermennina í Bagdad við og sagði að þeir myndu lenda í erfiðleikum en til huggunar að sá dagur kæmi að þeir litu stoltir um öxl yfir verk sín í Írak. Á fundi með blaðamönnum sagðist hann ekki myndu víkja vegna málsins, afsögn hefði aldrei hvarflað að sér. Enn fleiri myndir birtast nú þessa dagana og málið heldur sífellt áfram að hlaða utan á sig og verða umfangsmeira.

Sonia GandhiVinstrisveiflan sem varð í indversku þingkosningunum hefur komið fólki um allan heim mjög á óvart. Flestum þótti öruggt að hægrisinnuð stjórn Vajpayee forsætisráðherra, myndi halda völdum. Ljóst er að stjórninni var hafnað þrátt fyrir góð verk seinustu 6 árin, efnahagsástandið er mun betra en við valdatöku forsætisráðherrans og horfurnar um margt mun betri. Líklegasta skýringin á úrslitunum og sigri Kongressflokksins, er innkoma nýrrar kynslóðar Gandhi-fjölskyldunnar í stjórnmálaþátttöku og persónuvinsældir leiðtogans. Börn Soniu Gandhi leiðtoga Kongressflokksins og hins látna eiginmanns hennar, Rajiv, Rahul og Priyanka, tóku virkan þátt í kosningabaráttunni og Rahul var í framboði og náði kjöri í hinu fornfræga kjördæmi föður síns og ömmu, Amethi. Eru þau almennt talin foringjaefni flokksins til framtíðar. Vinna er þegar hafin við stjórnarmyndun í landinu og hefur Sonia, heitið því að mynduð verði sterk stjórn. Flest bendir til þess að hún verði forsætisráðherra landsins og feti þarmeð í fótspor tengdamóður sinnar og eiginmanns, enda er hún óskoraður leiðtogi Kongressflokksins og sigurvegari kosninganna.

Stefán Friðrik StefánssonSvona er frelsið í dag
Í pistli á frelsinu í dag, fjalla ég um mál málanna í samfélaginu þessa dagana, fjölmiðlafrumvarpið. Fjalla stuttlega um atburði seinustu daga, t.d. málþóf stjórnarandstöðunnar og það hvort forseti Íslands beiti málskotsréttinum sem gert er ráð fyrir í 26. grein stjórnarskrárinnar. Meginefni pistilsins víkur þó að því að fyrst ríkisstjórnin setji reglur um eignarhald fjölmiðla að þá sé ótækt að taka ekki á málefnum RÚV. Í pistlinum segir orðrétt: "Mikla athygli hefur vakið að samhliða því að setja eigi leikreglur á fjölmiðlamarkaði með þessum lögum er ekki tekið á stöðu Ríkisútvarpsins og almennt fjölmiðlun af hálfu ríkisins. Ekkert mun breytast í því verði þetta frumvarp að lögum nú á vorþinginu. Það er ekki undrunarefni að t.d. flokksbundnir sjálfstæðismenn verði hugsi yfir umræðunni og þeim tillögum sem fram hafa komið í frumvarpinu til breytinga og beri fram spurninguna: Já, en hvað með RÚV?? Á virkilega ekkert að taka á þeirri stofnun og taka hana til endurskoðunar samhliða slíkum breytingum sem hér eru til umræðu? Framganga forystumanna Sjálfstæðisflokksins í málefnum RÚV að undanförnu, bæði fyrir og eftir að þetta frumvarp var lagt fram hafa valdið okkur ungu sjálfstæðisfólki miklum vonbrigðum. Bendi fólki á að lesa pistilinn.

Björn Bjarnason dómsmálaráðherraGreinaskrif
Í ítarlegum pistli á heimasíðu sinni bendir Björn Bjarnason dómsmálaráðherra, á nokkra punkta sem sýnishorn af því, hvað um sé rætt og þá einkum í DV, vegna umræðunnar um fjölmiðlafrumvarp ríkisstjórnarinnar. Orðrétt stendur þar: "Umræður um álit umboðsmanns fóru fram utan dagskrár á alþingi þriðjudaginn 11. maí að ósk Össurar Skarphéðinssonar. Þótti mér gott að fá tækifæri til að skýra mál mitt og afstöðu til álitaefna umboðsmanns fyrir þingheimi. Ingibjörg Sólrún Gísladóttir, varaþingmaður Samfylkingarinnar, tók til máls, en krafðist þess ekki, að ég segði af mér eins og hún gerði, þegar hún ræddi málið í þingi að mér fjarstöddum. Hún hefur kannski gefið sér tíma til að lesa álitið og séð, hve langt hún skaut yfir markið. Magnús Þór Hafsteinsson, þingflokksformaður Frjálslynda flokksins, lét ljós sitt ekki skína í umræðunum, en hann hafði einnig krafist afsagnar minnar, að mér fjarstöddum. Eins og kunnugt er lét Magnús Þór í ljós þá skoðun á spjallsíðu málverja, að það ætti að sprengja okkur Halldór Blöndal, forseta alþingis, í loft upp." Mörg fleiri atriði bendir hann á, t.d. fyrirsögnir úr DV hina seinustu daga. Hvet alla lesendur vefsins að líta á pistil Björns.

Dagurinn í dag
1943 Ólafur Ragnar Grímsson forseti Íslands, fæðist á Ísafirði - kjörinn forseti Íslands 1996
1998 Bandaríski söngvarinn og leikarinn Frank Sinatra deyr í Los Angeles, 82 ára að aldri
1998 Jóhanna Sigurðardóttir talaði samfellt í rúma fimm klukkutíma í umræðu á Alþingi
2000 Keizo Obuchi forsætisráðherra Japans, deyr, 62 ára að aldri - hann fékk heilablóðfall 1. apríl 2000 og var í dái á sjúkrahúsi í Tokyo í rúman mánuð. Obuchi kom til Íslands árið 1999
2004 Friðrik Danaprins, giftist hinni áströlsku Mary Donaldson, í Kaupmannahöfn

Snjallyrði dagsins
You can live to be a hundred if you give up all the things that make you want to live to be a hundred.
Woody Allen leikstjóri

Engin fyrirsögn

AlþingiHeitast í umræðunni
2. umræða um fjölmiðlafrumvarp ríkisstjórnarinnar hélt áfram á Alþingi í gærmorgun kl. 10:00 en fundi hafði áður verið frestað á fjórða tímanum um nóttina. Í allan gærdag var málþóf í þinginu af hálfu stjórnarandstæðinga, aðeins komust fimm þingmenn í ræðustól til að ræða um frumvarpið. Alþingismennirnir Mörður Árnason og Björgvin G. Sigurðsson eyddu t.d. megninu af sínum ræðutíma með að lesa upp úr bókum og ritum. Mörður las úr skáldsögu og ljóðabók Sr. Jóns Þorlákssonar frá Bægisá en Björgvin úr Frelsinu eftir John Stuart Mill. Undir kvöld fór Jóhann Ársælsson í pontu og eyddi þar tæpum klukkutíma að ræða um málefni ríkisstjórnarinnar og eyddi megninu af tímanum í að ræða skipan hæstaréttardómara fyrir tæpu ári síðan og málefni dómsmálaráðherra. Það er því ljóst að Samfylkingin er með öllu stefnulaus í málinu og talar út og suður, út í bláinn. Hefur í raun tekið marga hringi í kringum sjálft sig á skömmum tíma. Það ætti að blasa við öllum sem hlusta á umræðurnar frá upphafi til enda. Engin málefnaleg umræða er um málið sjálft, eignarhald á fjölmiðlum og aldrei kemur stefna flokksins til þess beint fram. Hér hef ég áður vikið að fréttaflutningi fréttamiðla Norðurljósa, ekkert hefur breyst í þeim efnum. Þeim hefur verið beitt í þessu máli í pólitískum tilgangi í því skyni að verja ákveðna hagsmuni. Frjáls og óháð fjölmiðlun, sem þau hafa haft að leiðarljósi, hefur vikið á undanförnum vikum fyrir einkahagsmunum eigenda Norðurljósa og starfsmanna fyrirtækisins. Spyrja mætti, er það virkilega rétt og ásættanlegt?

Ólafur Ragnar GrímssonÞegar fjölmiðlafrumvarpið verður orðið að lögum mun það verða verkefni Ólafs Ragnars Grímssonar forseta Íslands, að taka til þeirra afstöðu og annaðhvort staðfesta þau eða vísa til þjóðarinnar með þjóðaratkvæðagreiðslu. Í 26. grein stjórnarskrár lýðveldisins Íslands kemur fram að forsetinn geti neitað að staðfesta lög frá Alþingi. Hefur málskotsréttur forseta verið bitbein í 60 ára sögu forsetaembættisins og deilt um hvort hann sé virkur eður ei, en honum hefur aldrei verið beitt. Nú keppast andstæðingar fjölmiðlafrumvarpsins við að skora á forsetann að ganga gegn meirihluta þingsins ef það verður samþykkt þar á næstu dögum. Er reyndar svo langt gengið að hann sneri heim í gær til landsins frá Mexíkó í kastljósi fjölmiðla. Var áður fyrirhugað að forseti héldi þaðan til Kaupmannahafnar, þar sem forseti átti að vera viðstaddur brúðkaup Friðriks Danaprins á morgun, sem er afmælisdagur forsetans. Er væntanlega ljóst að með nærveru sinni er hann að senda þinginu skilaboð. Hann sagðist við komuna hafa skyldum að gegna. Neiti forseti að undirrita þessi lög sem samþykkt verða af meirihluta þingmanna er ljóst að komið er að tímamótum í sögu forsetaembættisins og reyndar ekki ólíklegt að sú stjórnlagakreppa sem þá kæmi upp myndi verða upphaf að endalokum embættis forseta Íslands. Allavega leiða þær til breytinga á þann hátt að taka hina úreldu 26. grein úr stjórnarskránni.

Sonia Gandhi og Atal Behari VajpayeeÞáttaskil hafa orðið í indverskum stjórnmálum seinasta mánuðinn. Er indversku þingkosningarnar hófust fyrir tæpum mánuði áttu flestir von á öruggum sigri Atal Behari Vajpayee forsætisráðherra, og stjórnar hans. Líklegt þótti að eyðimerkurganga Kongressflokksins, er leitt hafði landið í tæp 40 ár, og hafði verið utan stjórnar í tæpan áratug, myndi halda áfram. Ljóst er hinsvegar nú að flokkurinn hefur borið sigurorð af Vajpayee og stjórnarskipti framundan. Vajpayee og ríkisstjórnin hefur nú formlega viðurkennt ósigur sinn í kosningunum. Kongressflokkurinn hefur markvisst bætt við sig fylgi allan þann mánuð sem kosningarnar hafa staðið, en þar sem landið er stórt og mikið standa kosningar í tæpan mánuð og eru haldnar í alls fimm þrepum. Líklegast er nú að Sonia Gandhi leiðtogi Kongressflokksins, muni taka við valdataumunum og verða önnur konan til að vera forsætisráðherra landsins. Tveir áratugir verða liðnir í október frá því að tengdamóðir Soniu, Indira Gandhi var myrt. Hún hefur lengst allra verið forsætisráðherra landsins, 1966-77 og 1980-1984. Við af henni tók Rajiv Gandhi, sonur hennar og eiginmaður Soniu. Hann var forsætisráðherra 1984-1989, en var myrtur í sprengjutilræði þann 21. maí 1991, en hann var þá í kosningabaráttu í héraðinu Tamil Nadu. Þáttaskil eru nú framundan á Indlandi og verður fróðlegt að fylgjast með verkum frú Gandhi á forsætisráðherrastóli.

Eurovision söngvakeppninEurovision
Það hefur væntanlega ekki farið framhjá neinum að komið er að Eurovision-söngvakeppninni. Hún er að þessu sinni haldin í Istanbul í Tyrklandi, um er að ræða 49. skiptið sem keppnin fer fram. Hún er haldin að þessu sinni með öðru sniði en áður, er í tveim hlutum. Annarsvegar undanúrslitakeppni þar sem 22 þjóðir keppa um að komast í úrslitakeppni sem haldin er svo þrem dögum síðar. Þar keppa þau 14 lönd sem örugg eru áfram, 10 þeirra eru þau sem verða í 10 efstu sætum keppninnar og að auki eru fjögur stærstu löndin sem alltaf eru örugg inn, samkvæmt sérstöku samkomulagi. Undankeppnin fór fram fyrsta sinni í gærkvöldi. Þau 10 lönd sem komust áfram úr undanúrslitakeppninni að þessu sinni voru Serbía-Svartfjallaland, Malta, Holland, Albanía, Úkraína, Króatía, Bosnía-Hersegóvina, Makedónía, Grikkland og Kýpur. Ekki var greint frá stigafjölda þjóðanna eða hvar þau voru í röðinni sem 10 efstu. Athygli vakti að lag Dana komst ekki áfram, en almennt hafði verið gert ráð fyrir því. En vilji fólks komst þarna til skila og ekkert við því að segja. Framlag Íslands í keppninni að þessu sinni, er eins og allir vita, Heaven, flutt af Jónsa, söngvara hljómsveitarinnar Í svörtum fötum. Eurovision-hópurinn skrifar þessa dagana á skemmtilegt blogg og fjallar um það sem er að gerast þar.

Stanley KubrickLeikstjóraumfjöllun
Ég hef nú aftur hafið skrif um leikstjóra á kvikmyndir.com eftir smáhlé. Hef þar seinasta árið skrifað um 13 leikstjóra, feril þeirra og ævi. Í nýjasta pistlinum er fjallað um leikstjóraferil Stanley Kubrick. Hann fæddist í Bronx í New York 26. júlí 1928 og leikstýrði á ferli sínum mörgum af athyglisverðustu stórmyndum Hollywood á seinni hluta 20. aldarinnar. Nægir þar að nefna sem dæmi 2001: A Space Odyssey, A Clockwork Orange, Dr. Strangelove, Spartacus og The Shining. Stanley Kubrick lést 7. mars 1999 í Harpenden í Hertfordskíri í Englandi, aðeins fjórum dögum eftir að hann kláraði mynd sína, Eyes Wide Shut. Hvet alla til að lesa ítarlegan pistil minn um ævi og feril Kubricks. Framundan eru svo fleiri pistlar um þekkta leikstjóra úr kvikmyndasögunni, sem mörkuðu spor með meistaraverkum sínum.

Dagurinn í dag
1776 Gefin var út konungleg tilskipun um póstferðir á Íslandi
1888 Brasilía afnemur þrælahald með öllu - þáttaskil í mannréttindum þar
1894 Ásgeir Ásgeirsson forseti fæðist - var forseti 1952-1968. Ásgeir lést 15. september 1972
1966 Undirritaðir voru samningar um kaup ríkisins á Skaftafelli í Öræfum, varð þjóðgarður
1981 Jóhannesi Páli II páfa, sýnt banatilræði - hann slapp naumlega. Jóhannes Páll páfi hefur setið á páfastóli frá októbermánuði 1978. Aðeins þrír páfar hafa setið lengur en hann

Snjallyrði dagsins
A celebrity is a person who works hard all his life to become well known, then wears dark glasses to avoid being recognized.
Fred Allen grínisti

Hvet að lokum alla til að lesa Ríkisdagblaðið

Engin fyrirsögn

AlþingiHeitast í umræðunni
Önnur umræða um fjölmiðlafrumvarp ríkisstjórnarinnar hófst á Alþingi laust fyrir klukkan 15:00 í gær, að lokinni utandagskrárumræðu um skipan hæstaréttardómara í ágúst 2003 þar sem Björn Bjarnason dómsmálaráðherra, svaraði spurningum stjórnarandstöðuþingmanna um álit umboðsmanns Alþingis. Fór hann þar vel yfir sjónarmið sín og tjáði eigin skoðanir um ferli við skipan hæstaréttardómara. Umræður um fjölmiðlafrumvarpið stóðu í allan gærdag á þingi og allt fram á nótt og munu halda áfram í dag. Að lokinni ræðu Bjarna Benediktssonar formanns allsherjarnefndar, mælti Bryndís Hlöðversdóttir framsögumaður minnihluta nefndarinnar, fyrir áliti hans um fjölmiðlafrumvarpið. Í því kemur fram mat minnihlutans við breytingatillögum meirihluta nefndarinnar, helsta niðurstaðan er sú að minnihlutinn krefst þess að frumvarpinu verði vísað frá. Átti Bjarni í hörðum orðaskiptum að lokinni ræðu sinni við nokkra þingmenn, en yfir 20 þingmenn voru á mælendaskrá við upphaf umræðnanna og um miðnættið áttu enn 14 þeirra eftir að tala, þannig að umræðan mun standa allt til morguns. Umfjöllun um fjölmiðlafrumvarpið hefur skiljanlega yfirgnæft allt annað seinustu daga í fjölmiðlum. Fréttaflutningur fréttastöðva Norðurljósa hefur vakið sérstaka athygli, en einungis neikvæð umfjöllun er þar um frumvarpið og jaðrar hann vægast sagt við að vera mjög hlutdrægur. Það er mjög athyglisvert að fylgjast með fréttamiðlum fyrirtækisins. Nægir reyndar að skoða sérstaklega einhliða vef fyrirtækisins um þetta mál.

Saddam HusseinEins og flestum er kunnugt var Saddam Hussein fyrrum einræðisherra Íraks, handsamaður þann 13. desember sl. eftir margra mánaða leit að honum. Fannst hann í holu við bændabæ og veitti enga mótspyrnu við handtökuna. Frá þeim tíma hefur hann verið í varðhaldi Bandaríkjamanna með stöðu stríðsfanga. Tilkynnt var í gær að við valdaskiptin í landinu 1. júlí nk. muni bandaríski heraflinn í Írak, afhenda einræðisherrann fyrrverandi, íröskum stjórnvöldum. Á sama tíma verða um 100 áhrifa- og valdamenn í stjórn Husseins, t.d. Tariq Aziz og Ali Hasan Majid sem þekktur er sem Efnavopna-Ali, ennfremur afhendir stjórnvöldum í landinu. Ráðgert er að réttarhöld hefjist í upphafi ársins 2005, yfir Saddam og helstu samverkamönnum hans og þar verði þeir að svara til saka fyrir áratugalanga ógnarstjórn Baath-flokksins og Saddam verði að standa reikningsskil gjörða sinna í embætti, þau 24 ár sem hann var leiðtogi landsins. Salem Chalabi, sem hefur unnið að því að afla sönnunargagna gegn sakborningunum, hefur sagt að meðal refsinga sem þeir geti átt yfir höfði sér sé aftaka. Dómarar hafa verið skipaðir í íraska stríðsglæpadómstóllinn. Mikið ánægjuefni er að þessir stríðsglæpamenn allir saman þurfi að svara til saka fyrir verk sín og vonandi að þeir hljóti maklega refsingu.

Rauði kross ÍslandsÁ mánudag kynntu Halldór Ásgrímsson utanríkisráðherra og Úlfar Hauksson formaður Rauða Kross Íslands, íslenskaða útgáfu Genfarsamninganna. Er þetta í fyrsta skipti sem samningarnir koma út á íslensku og eru því merk tímamót. Kynningarathöfnin fór fram við Espihól í Eyjafirði og var þar mikill hópur fólks saman kominn til að fylgjast með kynningunni og heyra ræður ráðherra og fleiri um málið. Fyrsta eintak bókarinnar var afhent Þorsteini Gunnarssyni rektor Háskólans á Akureyri. Við sama tækifæri kynnti Þorsteinn mjög vel nýstofnaða Félagsvísinda- og lagadeild háskólans, en í undirbúningi er að hún muni leggja mikla áherslu á kennslu í mannréttindum og mannúðarlögum. Á vef Rauða Krossins fjallar Þórir Guðmundsson ítarlega um athöfnina og sögu samninganna og þar kemur orðrétt fram: "Genfarsamningarnir eru hornsteinn alþjóðlegra mannúðarlaga. Þeir hafa það hlutverk að draga úr eyðileggingaráhrifum stríðs og veita fórnarlömbum þess vernd. Í þeim kristallast hugmyndin um að jafnvel stríð sé takmörkunum háð. Samningarnir vernda þá sem ekki taka þátt í ófriði, eða hafa lagt niður vopn, og reisa skorður við því valdi sem stríðsaðilar geta beitt."

Hjörleifur PálssonSvona er frelsið í dag
Í dag birtist á frelsinu pistill eftir Hjölla og fjallar um nýlegan samning ríkisins við mjólkurbændur og gilda mun til næstu 8 ára. Orðrétt segir í pistli Hjölla: "Það er engum greiði gerður með núverandi kerfi. Neytendur eru að borga allt of hátt verð fyrir matvæli, gríðarlega miklu skattfé er sóað, og þrátt fyrir allt þetta þá eru kjör sjálfra bændanna ekkert til að hrópa húrra fyrir. Offjárfesting einkennir kerfið, of margir starfa í greininni og flest er gert til að koma í veg fyrir hagkvæmni. Er þar skemmst að minnast ummæla landbúnaðarráðherra fyrir eigi löngu síðan, sem var ekki hægt að skilja öðruvísi en að hann vildi byggja greinina á gamaldags kotbúskap, með mörgum, litlum, ótæknivæddum og óhagkvæmum búum. Íslendingar hafa áður umbreytt heilli atvinnugrein úr ríkisstyrktri og óhagkvæmri atvinnugrein yfir í frjálsa og hagkvæma grein, þar sem sjávarútvegurinn er. Það er engin ástæða til að ætla að hið sama geti ekki tekist með landbúnaðinn." Hvet alla til að líta á pistilinn, enda mjög vel fjallað um málið þarna. Að auki er á vefnum góð Moggagrein Atla Rafns um umræðuna um jafnréttismál.

LeadershipUmræða um fjölmiðlafrumvarpið - góð bók
Eins og fyrr er vikið að er mikil umræða þessa dagana um fjölmiðlafrumvarp ríkisstjórnarinnar, enda er það aðalmálið í stjórnmálaumræðunni á þinginu. Í gær var þetta að sjálfsögðu umræðuefni dægurmálaspjallþáttanna. Í Íslandi í dag mættust Bjarni Benediktsson formaður allsherjarnefndar, og Ingibjörg Sólrún Gísladóttir varaþingmaður. Þar fór Bjarni mjög málefnalega yfir málið af sinni hálfu og tjáði sínar skoðanir. Merkilegt er hinsvegar hversu Ingibjörg Sólrún tekur algjörlega undir sjónarmið forystumanna Norðurljósa og fjallar ekkert um efnisatriði sjálfs málsins. Ingibjörg virðist ekki geta tjáð sig um málið nema með sjónarmið Baugs að leiðarljósi. Reyndar eru merkileg ummæli hennar þess efnis hvort forystumenn fyrirtækja hafi sjálf óskað eftir aðlögunartíma um frumvarp um eignarhald. Reyndar kom vel fram í þessum þætti og eins Kastljósinu síðar um kvöldið er Bjarni mætti Bryndísi Hlöðversdóttur að Samfylkingin hefur enga stefnu í þessu máli nema hentistefnu og vill ekkert gera í þessu máli og horfir í sífellu allt annað en að aðalatriðunum, umræðunni beint um eignarhald á fjölmiðlum sem skýrslan víkur að. Er það í takt við allt annað í málflutningi þessa flokks og leiðir hugann að því hvaða hagsmuna flokkurinn hefur að gæta. En að öðru, er þessa dagana að lesa alveg frábæra bók, Leadership eftir Rudolph Giuliani fyrrum borgarstjóra í New York. Hvet alla til að lesa hana, eigi þeir tækifæri til þess.

Dagurinn í dag
1882 Konur fengu ótvíræðan en takmarkaðan kosningarétt til sveitarstjórna
1935 Golf var leikið í fyrsta skipti á Íslandi þegar sex holu golfvöllur var vígður í Laugardal
1937 George VI Englandskonungur krýndur - hann sat á valdastóli í sextán ár, 1936-1952
1949 Sovétríkin aflétta vega- og flugbanni til Berlínar, er gilt hafði í rúmt ár
1994 John Smith leiðtogi breska Verkamannaflokksins, deyr úr hjartaslagi í London, 55 ára að aldri - hann hafði leitt flokkinn í tvö ár. Eftirmaður hans varð Tony Blair og leiddi hann flokkinn til sigurs í þingkosningunum 1. maí 1997 og varð forsætisráðherra Bretlands

Snjallyrði dagsins
Hafa fyrirtækin beðið um þennan aðlögunartíma? Hefur starfsfólkið beðið um hann?
Ingibjörg Sólrún Gísladóttir varaþingmaður (í Íslandi í dag, 11. maí 2004 - um hvort fyrirtæki sem þurfi að stokka upp starfsemi sína vegna fjölmiðlafrumvarps ríkisstjórnarinnar hafi óskað eftir aðlögunartíma)

Engin fyrirsögn

Bush og RumsfeldHeitast í umræðunni
George W. Bush forseti Bandaríkjanna, sýndi afgerandi stuðning sinn við Donald Rumsfeld varnarmálaráðherra, í gær með því að heimsækja Pentagon, höfuðstöðvar bandaríska varnarmálaráðuneytisins, í gær ásamt Dick Cheney varaforseta, og Condoleezzu Rice þjóðaröryggisráðgjafa. Stuðningsyfirlýsing þeirra er allt að því nauðsynleg Rumsfeld á þessari stundu, enda hefur hann veikst mjög í sessi vegna pyntinga bandarískra hermanna í Írak á stríðsföngum. Stöðugt fleiri krefjast þess að hann víki, nú síðast málgagn Bandaríkjahers í leiðara. Sífellt birtast nýjar og alvarlegri myndir sem sýna pyntingarnar. Hefur forsetinn nú krafist að sjá það alvarlegasta sem til er, en enn hefur ekki verið birt opinberlega, til að hann geti áttað sig betur á stöðunni. Eftir að hafa séð þær tjáði hann ógeð sitt á vinnubrögðum hermanna í Abu Ghraib fangelsinu. Hann sagði að hinir seku myndu verða dregnir til ábyrgðar. Í skýrslu Rauða krossins, sem lekið hefur verið í fjölmiðla kemur fram að fangar hafi kerfisbundið verið beittir harðræði í nánast öllum fangabúðum Bandaríkjamanna og meðferðin flokkist í mörgum tilvikum undir pyntingar, það stangast á við orð Bandaríkjamanna sem segja um einangrað tilvik í Abu Ghraib að ræða.

AlþingiAllsherjarnefnd Alþingis samþykkti á ellefta tímanum í gærkvöld nefndarálit meirihluta nefndarinnar um fjölmiðlafrumvarp ríkisstjórnarinnar. Meirihluti nefndarinnar leggur nú til þrjár breytingar á frumvarpinu. Þær þess efnis að markaðsráðandi fyrirtæki megi eiga allt að 5% alls í ljósvakamiðlum, ákvæði um takmörkun á eignaraðild markaðsráðandi fyrirtækja mun nú aðeins eiga við um fyrirtæki eða samsteypur sem velti yfir tveimur miljörðum króna á ári og að lokum að gildistöku laganna er frestað um heil tvö ár, til 1. júní 2006, í stað þess að þau taki þegar gildi með tveggja ára aðlögunartíma. Þannig geti allir hlutaðeigandi haft góðan tíma til að búa sig undir gildistöku þeirra. Hart var tekist á um frumvarpið á útbýtingarfundi þingsins klukkan hálfellefu í gærkvöldi, þar sem nefndarálit meirihluta nefndarinnar var formlega kynnt. Voru þar snörp orðaskipti milli þingmanna stjórnarandstöðunnar og forseta þingsins. Á þingfundi í morgun tókust forsætisráðherra og formaður Samfylkingarinnar á um málið og fram kom að önnur umræða um fjölmiðlafrumvarpið myndi fara fram kl. 14.00 í dag. Þessar breytingatillögur eru spor í rétta átt, enn vekur athygli að ríkið sér ekki fært að taka á fjölmiðlun af hálfu ríkisins. Engin samstaða er um að taka alla fjölmiðlun undir sama hatt og setja leikreglur um alla fjölmiðlun. Það er miður.

MjólkÍ gær undirrituðu landbúnaðarráðherra og fjármálaráðherra, fyrir hönd ríkisstjórnarinnar, og Bændasamtök Íslands, samning um starfsskilyrði mjólkurframleiðslu er mun gilda í átta ár eða til 31. ágúst 2012. Eftir því sem fram kemur í samningnum munu mjólkurbændur fá rúma 28 milljarða úr ríkissjóði á þessum átta árum. Verðlagning mjólkur mun haldast óbreytt á samningstímanum, skv. þessu. Með þessu er gert ráð fyrir óbreyttri framleiðslustýringu við mjólkurframleiðslu en ákvörðun heildargreiðslumarks mjólkur mun byggja á neyslu innlendra mjólkurvara undanfarið ár. Þá er í samningnum óbreytt ákvæði um skiptingu heildargreiðslumarks mjólkur niður á lögbýli. Þessi samningur er með ólíkindum og einungis til þess ætlaður að standa vörð um úrelt landbúnaðarkerfi og gamla siði þar. Það eru mikil vonbrigði að Sjálfstæðisflokkurinn verji enn gamla framsóknarhagsmuni með þessum hætti og verður að teljast verulega ámælisvert að eina framtíðarsýnin í þessum geira sé byggð á fjarlægri fortíð sem mótuð var á seinustu öld. Það er með þessu aðeins haldið áfram sama veginn og engu breytt.

Ragnar JónassonSvona er frelsið í dag
Í dag birtist á frelsinu góður pistill eftir Ragnar og fjallar um frumvarp sem liggur nú fyrir Alþingi um meðferð opinberra mála. Í pistlinum víkur Ragnar aðallega að ákvæðum um símhleranir og fjallar um grundvallarreglur um friðhelgi einkalífs. Orðrétt kemur fram í pistlinum: "Það er að sjálfsögðu hlutverk ríkisvaldsins að tryggja öryggi borgaranna og geta símhleranir verið liður í því að sinna því hlutverki. Það er hins vegar einnig mikilvægt að hafa það í huga að ríkisvaldinu ber að haga málum með þeim hætti að friðhelgi borgaranna sé ekki skert frekar en nauðsynlegt er. En hvar á að draga mörkin? Sem fyrr segir getur það verið nauðsynlegt fyrir lögregluna að fá að taka upp símtöl og fylgjast með einstaklingum án þeirrar vitundar. Hér á landi hefur hins vegar verið fylgt þeirri eðlilegu reglu að slíkar ákvarðanir séu teknar af dómara, enda fela hleranir og tengdar aðgerðir að jafnaði í sér verulega skerðingu á þeim réttindum borgaranna sem snúa að friðhelgi einkalífsins. Þrátt fyrir að þær heimildir sem hið nýja frumvarp kveða á um séu bundnar skilyrðum verður samt sem áður að telja að þær feli í sér grundvallarbreytingar á núgildandi fyrirkomulagi, þ.e. gert er ráð fyrir þeim möguleika að hleranir og aðrar íþyngjandi aðgerðir gegn borgurunum geti hafist án þess að dómari hafi komið nálægt ákvörðuninni. Með slíkum breytingum er í raun verið að viðurkenna að meginreglan gildi ekki í öllum tilvikum og að við vissar kringumstæður sé hægt að sveigja hana til. Afar brýnt er að reynt sé að ná fram markmiðum lagafrumvarpsins með öðrum og vægari úrræðum heldur en að víkja með svo skýrum hætti frá meginreglunni."

Margaret ThatcherGreinaskrif
Í gær birtist á vef Sambands ungra sjálfstæðismanna, pistill sem ég skrifaði í tilefni þess að 25 ár voru liðin þann 4. maí sl. frá því að Margaret Thatcher varð forsætisráðherra Bretlands. Áður hafði pistillinn um Thatcher birst á heimasíðu minni. Þótti mér rétt í tilefni þessara tímamóta: aldarfjórðungsafmælis Thatcher-ismans og þeirra þáttaskila sem urðu við valdatöku hennar, að skrifa um ævi hennar og stjórnmálaferil. Margaret Thatcher er einstakur stjórnmálamaður og fyrirmynd okkar allra sem teljum okkur eiga hugsjónalegt heimili á frjálshyggjuvæng hægrihliðar stjórnmálanna. Hún var forsætisráðherra Bretlands í rúman áratug og vann sigur í þrennum þingkosningum, hún var eini forystumaður breskra stjórnmála sem náði slíkum áfanga á 20. öld og sat lengst á þeim tíma. Hún er án nokkurs vafa einn af fremstu leiðtogum hægrimanna á 20. öld, markaði mikinn sess í sögu aldarinnar. Kraftmikil verk hennar og hugsjónaleg forysta verða ávallt í minnum höfð. Bendi ég öllu stjórnmálaáhugafólki á að lesa ævisögur hennar sem gefnar voru út á tíunda áratugnum: The Downing Street Years og The Path to Power. Ennfremur er skyldulesning fyrir þá sem vilja kynna sér feril Thatcher að lesa bókina Statecraft: Strategies for a Changing World.

Dagurinn í dag
1921 Vökulögin samþykkt á þingi - höfðu gríðarleg áhrif til hins betra fyrir sjómenn
1955 Kópavogur fær kaupstaðarréttindi - þá bjuggu þar 3.000 manns en nú tæp 30.000
1971 The Daily Sketch, elsta dagblað Bretlands, stofnað 1909, kemur út hinsta sinni
1981 Reggae söngvarinn Bob Marley, deyr úr krabbameini, 36 ára að aldri
1985 50 knattspyrnuáhugamenn láta lífið er eldur kviknar á leik í Bradford á Englandi

Snjallyrði dagsins
Age is not a particularly interesting subject. Anyone can get old. All you have to do is live long enough.
Groucho Marx skemmtikraftur

Engin fyrirsögn

Tony Blair forsætisráðherraHeitast í umræðunni
Tony Blair forsætisráðherra Bretlands, baðst í gær opinberlega afsökunar á illri meðferð á íröskum stríðsföngum og pyntingum sem átt hafa sér stað þar af hálfu hernámsliðsins í Írak. Fylgir hann þar með í fótspor Bush Bandaríkjaforseta og Rumsfeld varnarmálaráðherra Bandaríkjanna, sem hafa tjáð sig um málið. Sagði Blair í yfirlýsingu sinni sem birtist á franskri sjónvarpsstöð að þeir sem hefðu staðið að baki pyntingunum myndu svara til saka fyrir afbrot sín. Blair sem staddur er í Frakklandi vegna hátíðarhalda í tilefni stríðslokanna 8. maí 1945, sagði ennfremur í viðtalinu að atvikin væru smánarblettur sem þyrfti að leiðrétta og refsa þeim seku. Ástandið heldur sífellt áfram að versna og fram koma æ ógeðfelldari upplýsingar um hvernig farið var með fangana. Birtar voru fleiri myndir í gær og ítarlegar lýsingar á framgöngu hermanna hafa komið fram í umfjöllun fréttastöðva og á vefsíðum. Rauði Krossinn og mannréttindasamtök víðsvegar um heim segja að Bandaríkjamenn hafi gerst sekir um gróf og alvarleg brot á Genfarsáttmálanum um meðferð stríðsfanga. Í 23. grein sáttmálans segir að ekki megi beita stríðsfanga líkamlegu né andlegu harðræði til þess að fá frá þeim upplýsingar. Stríðsföngum sem neita að svara spurningum má ekki ógna, ekki má heldur vanvirða þá eða svívirða með orðum og gerðum af neinu tagi. Fullyrða má að líklegt sé að ástandið muni versna á næstunni, enda virðast vera til enn grófari lýsingar á ástandinu og pyntingum. Staða Rumsfelds varnarmálaráðherra, heldur sífellt áfram að veikjast og eru valdamiklir repúblikanar farnir að tala um að hann verði að axla ábyrgð á afglöpum sínum.

Akhmad KadyrovAkhmad Kadyrov forseti Téténíu, var myrtur í gærmorgun, á hersýningu á íþróttaleikvangi í Grosní, höfuðborg landsins. Mikil sprenging varð á leikvanginum í upphafi hátíðahalda sem fóru fram á leikvanginum í tilefni stríðslokanna 1945 og sigri Sovétríkjanna á nasistum. Sprengjutilræðið sem banaði Kadyrov, varð fjórum öðrum að bana. Meðal annarra sem létust voru Taus Dazabralioff forsætisráðherra landsins og Valery Baranoff hershöfðingi og yfirmaður rússnesku hersveitanna í Téténíu. Tæplega 60 manns munu hafa særst í árásinni. Er talið nær öruggt að aðskilnaðarsinnar múslíma í Téténíu hafi framið ódæðið og mun rússneski herinn hafa handtekið fjölda manns í dag vegna tilræðisins. Téténskir aðskilnaðarsinnar hafa áður framið mannskæð sprengjutilræði og þá einkum við opinber hátíðahöld í Grosní, Moskvu og víðsvegar í Rússlandi. Morðið á forsetanum og helstu samverkamönnum hans í stjórnmálaheiminum í Téténíu eru án nokkurs vafa mikið áfall fyrir tilraunir Vladimirs Putín forseta, en hann hefur unnið að því á seinustu árum að reyna að koma á lögum og reglum í landinu og byggja það upp.

Ísland Á vef Heimssýnar birtist frétt um að Ísland sé í fimmta sæti yfir samkeppnishæfustu lönd og markaðssvæði heims. Þetta kemur fram í nýrri úttekt á vegum IMD viðskiptaskólans. Bandaríkin tróna á toppi listans. Um niðurstöðurnar segir orðrétt á vef Heimssýnar: "Löndin sem í fyrra voru í öðru og þriðja sæti yfir samkeppishæfustu ríki heims falla um nokkur sæti, Lúxemborg fór úr öðru sæti í það níunda og Finnland féll úr þriðja sæti í það áttunda. Ein helsta ástæðan fyrir því að Finnland fellur um nokkur sæti er aukin samkeppni frá Eistlandi þar sem laun eru lítill hluti þess sem Finnar fá í laun. Þrjú Norðurlandanna eru á lista yfir átta samkeppnishæfustu lönd, Ísland, Danmörk og Finnland en Svíþjóð er í ellefta sæti og Noregur því sautjánda. Sérstaka athygli vekur sú staðreynd að ekkert aðildarríki Evrópusambandsins er fyrir ofan Ísland á listanum þrátt fyrir að mikil áhersla hafi verið lögð á það að sambandið verði samkeppnishæfasta markaðssvæði heimsins innan sex ára. Eykur þetta enn á vangaveltur margra um það hvað Ísland hafi eiginlega að sækja í Evrópusambandið?" Góðar fréttir.

FrelsisdeildinSvona er frelsið í dag
Í dag birtist á frelsinu uppfærð staða í Frelsisdeildinni. Í umfjöllun um stöðu mála nú segir: "Talsverðar breytingar urðu á stöðu manna í Frelsisdeildinni. Bjarni Benediktsson skaut sér upp úr því tuttugasta í það tíunda. Verður það að teljast afar gott. Heildarstig deildarinnar aukast enn og hafa nú þingmenn aðeins eitt mínusstig að meðaltali. Á toppnum nær Sigurður Kári öðru sætinu af Guðlaugi Þór sem fellur niður í fimmta sæti. Sigurður er nú sex stigum á eftir Pétri H. Blöndal sem heldur toppsætinu. Birgir Ármannsson hefur blandað sér í toppbaráttuna og er í þriðja sæti með átta stig." Ennfremur kemur fram: "Baráttan á toppnum verður á milli Sigurðar Kára og Péturs H. Blöndal. Aðrir eru ólíklegir til þess að næla sér í toppsætið, þótt ekki sé hægt að útiloka neitt. Á næstu dögum verða afgreidd fjölmörg mál. Gæti þá skipt máli að mæta í atkvæðagreiðslur og kjósa rétt, það er með góðum málum og á móti vondum málum. Eitt stig er gefið fyrir að kjósa með góðu máli og einnig eitt stig fyrir að kjósa gegn vondu máli. Það að kjósa gegn fjölmiðlafrumvarpinu myndi þannig gefa eitt stig. Ólíklegt verður að teljast að þingmannamál þeirra Sigurðar og Péturs muni komast í gegn á þessu þingi. Þó er það ekki útilokað og ef Sigurði tækist til dæmis að koma einu sinna mála í gegn myndi hann saxa verulega á forskot Péturs. Ennfremur gætu góðar breytingatillögur skipt sköpum og breytt stöðunni. Ein góð breytingatillaga sem kemst í gegn getur gefið sex stig." Það verður spennandi að sjá hver vinnur Frelsisdeildina og fær farandbikar til varðveislu í eitt ár.

ESBGreinaskrif
Vef-Þjóðviljinn er eitt þeirra vefrita sem er ómissandi að líta á dag hvern, enda eru þar góð skrif um stjórnmál og helstu málefnin. Um helgina var þar virkilega góð grein sem fjallaði um væntanlega stjórnarskrá ESB, sem er á teikniborðinu. Bendi öllum á að líta á þau skrif. Í þeim segir orðrétt: "Nú, þegar ýmislegt bendir til að samkomulag náist, eru leiðtogar einstakra ríkja byrjaðir að færa það í tal að leggja þennan viðamikla og áríðandi samning undir þjóðaratkvæðagreiðslu. Það er nú ekki alveg í ósamræmi við lýðræðislega hugsun, að leyfa borgurum, sem stjórnarskráin á að ná til, að greiða um hana atkvæði. Það þóknast þó ekki endilega hinni póltísku elítu. Enda er alls óvíst að stjórnarskráin verði samþykkt í þeim löndum sem boðað hafa þjóðaratkvæðagreiðslu. Tony Blair, forsætisráðherra Breta, lýsti því yfir um daginn að haldin verði þjóðaratkvæðagreiðsla um málið í Bretlandi. En þar sem það hefur oft reynst þrautin þyngri að sannfæra almenning aðildarríkjanna um ágæti nýrra samninga ESB, hafa flest ríkin forðast þjóðaratkvæðagreiðslu sem heitan eldinn. Enda var Tony Blair gagnrýndur nokkuð fyrir ákvörðunina. Það varð síðan til þess að hann gaf í skyn að ef ekki fæst viðunandi niðurstaða, þ.e. samþykkt, nú þá verði bara einfaldlega kosið aftur. Ekkert nýtt í því þegar ESB á í hlut. Bæði Danir og Írar hafa kynnst því hvernig kosið er um sömu samningana eða lítið breytta, þar til ásættanleg niðurstaða fæst fyrir ESB-elítuna".

Dagurinn í dag
1940 Hernámsdagurinn - Bretar hernema Ísland. Mest voru um 25.000 breskir hermenn hérlendis - Bandaríkjamenn tóku ári síðar við hlutverki Breta og hafa varið landið allt frá því
1940 Sir Winston Churchill tekur við embætti sem forsætisráðherra Bretlands
1981 François Mitterrand kjörinn forseti Frakklands. Hann sigraði Valery Giscard d’Estaing sitjandi forseta, í kosningum. Mitterrand sat á forsetastóli í 14 ár, og lést í janúar 1996
1994 Nelson Mandela verður forseti S-Afríku - stjórn ANC tekur við völdum
2000 Haraldur Örn Ólafsson nær fyrstur Íslendinga á Norðurpólinn

Snjallyrði dagsins
If I have seen further it is by standing on the shoulders of giants.
Isaac Newton

Engin fyrirsögn

Ólafur Ragnar GrímssonHeitast í umræðunni
Ítarleg umfjöllun heldur áfram í Tímariti Morgunblaðsins í dag um átta ára forsetaferil Ólafs Ragnars Grímssonar. Í þessari seinni samantekt Árna Þórarinssonar er vikið að togstreitu sem hefur verið áberandi í umræðunni milli forsetaembættisins og stjórnkerfisins. Sérstaklega milli þess og bæði utanríkis- og forsætisráðuneytis. Þessi togstreita er samkvæmt umfjölluninni sögð opinbert leyndarmál sem enginn sé til í að undir nafni. Haft er eftir stuðningsmönnum forseta að utanríkisráðuneytinu mislíki viðleitni Ólafs Ragnars til að gera forsetaembættið sjálfstæðara en eftir gagnrýnendum hans að sú viðleitni eigi sér engar forsendur. Kemur fram í blaðinu að utanríkisráðuneytið hafi í fyrra gripið inn í og aflýst fundum sem forsetinn hefði skipulagt í Bandaríkjunum með framgangi forsetaskrifstofunnar og í gegnum persónuleg sambönd í Washington með bandarískum embættismönnum og þingmönnum. Mun forsetanum hafa verið settur stóllinn fyrir dyrnar. Er athyglisvert að lesa þessa umfjöllun. Einnig er vikið að pólitískum tengslum Ólafs bæði fyrir og eftir forsetakosningarnar 1996 við forystumenn á vinstrivæng stjórnmálanna. Hvet ég alla til að lesa þessa vönduðu umfjöllun. Sem fyrr stendur Mogginn sig vel í vandaðri blaðamennsku.

Björn Bjarnason dómsmálaráðherraÍ helgarpistli sínum að þessu sinni fjallar Björn ítarlega um álit umboðsmanns Alþingis um skipan hæstaréttardómara. Orðrétt segir hann: "Alltof djúpt er í árina tekið, þegar sagt er, að í því felist sú niðurstaða, að ég hafi gerst brotlegur við lög. Hitt er annað mál, að ég þarf auðvitað að grandskoða álitið og draga mínar ályktanir af því, en eins og sagði í bréfi umboðsmanns, sem ég vitnaði til í upphafi, snýr málið að því, hvort alþingi telji nauðsynlegt að breyta lögum vegna álitsins. Við heimkomu mína frá Washington varð ég þess var, að margir töldu greinilega, að gauragangur í fjölmiðlum og á alþingi vegna álits umboðsmanns hefði gengið lengra en góðu hófi gegndi. Ég hef ekki gefið mér tóm til að kynna mér til hlítar umfjöllun um þetta mál í fjölmiðlum eða á þingi og ætla því ekki að fara í rökræður um það á þeim forsendum. Ég var spurður af Morgunblaðinu, hvað ég segði um kröfu Ingibjargar Sólrúnar Gísladóttur og Magnúsar Þórs Hafsteinssonar á alþingi um að ég segði af mér. Í svarinu minnti ég, að Ingibjörg Sólrún hefði aldrei stutt mig til neinna pólitískra starfa og Magnús Þór hefði sagst vilja sprengja mig og Halldór Blöndal, forseta alþingis, í loft upp. Að þau notuðu þetta álit umboðsmanns sem enn nýja átyllu til að krefjast afsagnar minnar, kæmi mér ekki á óvart. Baugsmiðlarnir hafa einnig verið að ýta undir umræður um afsögn mína, sem er svo sem ekkert nýnæmi fyrir mig."

Stefán Friðrik StefánssonSunnudagspistillinn
Að þessu sinni fjalla ég um álit umboðsmanns Alþingis á skipan hæstaréttardómara í ágúst 2003 sem mikið hefur verið í umræðunni að undanförnu og aðför stjórnarandstæðinga að dómsmálaráðherra á þingi að honum fjarstöddum. Lengi má ræða almennt um lög um réttinn og hvernig haga skuli skipan dómara við réttinn. Staða þeirra mála er mjög skýr nú um stundir. Ráðherra hefur veitingarvaldið og ber engin skylda til að fara eftir áliti sitjandi dómara við réttinn. Það er sjálfsagt að taka umræðuna um hvort breyta eigi skipunarferli dómara og hvort önnur nálgun eigi að fara fram við mat á umsækjendum og vali á þeim sem skipaður er í embættið. Enginn vafi leikur hinsvegar á því hver staða mála er í dag, það er ráðherra sem hefur veitingarvaldið og tekur ákvörðunina. Á það bentu Dögg Pálsdóttir og Jón Steinar Gunnlaugsson í sjónvarpsviðtali í vikunni að úrskurður umboðsmannsins væri undarlegur í ljósi laga um réttinn.
Ennfremur fjalla ég um afhjúpun á Samfylkingunni í umræðu um bókhald stjórnmálaflokkanna í vikunni og hvernig varaformaður flokksins varð vandræðaleg í sjónvarpsþætti. Að lokum krefst ég þess að stjórnarflokkarnir efni sem fyrst loforð sín í skattamálum.

Naked GunGott laugardagskvöld
Eftir kvöldfréttirnar horfðum við á Laugardagskvöld með Gísla Marteini. Þátturinn snerist að þessu sinni að mestu um Eurovision sem verður um næstu helgi. Voru fín viðtöl þarna við fólk sem hafið farið út að Íslands hálfu í keppnina í þau 20 ár sem Ísland hefur verið þátttakandi. Svo fluttu Magnús Eiríksson, Sverrir Stormsker og Eyjólfur Kristjánsson höfundar Eurovision-laganna Gleðibankans, Sókrates og Nínu, lög sín í live-flutningi. Þessi þrjú lög bera að mínu mati af öllum öðrum lögum ásamt All out of Luck, laginu sem auðvitað átti að vinna keppnina árið 1999, en vegna slapps tónlistarsmekks austantjaldsþjóða vann Selma Björnsdóttir ekki þá, þrátt fyrir að vera með besta lagið. Horfðum svo á þátt þar sem lögin sem eru örugg á úrslitakvöldið voru spiluð, sum lög betri en önnur í þeim hópi. Spekingarnir gáfu okkar lagi í ár góða dóma. Eftir þáttinn horfðum við á kvikmyndina Speed, flotta spennumynd með Keanu Reeves, Dennis Hopper og Söndru Bullock, sem verður að mínu mati alltaf betri með árunum. Allavega alltaf frábær. Horfðum svo á hinar mögnuðu kvikmyndir Naked Gun 1 og 2, sem allir lifandi einstaklingar geta hlegið að.

Dagurinn í dag
1593 Skjaldarmerki með afhöfðuðum þorsk með kórónu tekið í notkun - notað til 1903
1855 Friðrik 7. Danakonungur gefur út tilskipun sem lögleiddi fullt prentfrelsi á Íslandi
1955 V-Þýskaland gengur formlega í NATÓ - tíu árum eftir lok seinni heimsstyrjaldarinnar
1974 Sverrir Hermannsson talar samfellt í rúma fimm tíma á þingi - met í lengd til 1998
1978 Aldo Moro fv. forsætisráðherra Ítalíu, finnst látinn - honum hafði verið rænt skömmu áður

Snjallyrði dagsins
Humor is also a way of saying something serious.
T.S. Eliot ljóðskáld

Engin fyrirsögn

Myers og Rumsfeld sverja eiðHeitast í umræðunni
Donald Rumsfeld varnarmálaráðherra Bandaríkjanna, kom í gær fyrir hermálanefnd öldungadeildar Bandaríkjaþings, ásamt Richard Myers yfirmanni bandaríska herráðsins. Í yfirheyrslunni, sem stóð í sex tíma, mun lengur en upphaflega var áætlað, baðst Rumsfeld, innilegrar afsökunar á illri meðferð bandarískra hermanna á íröskum föngum og pyntingum sem átt hafa sér stað þar. Varaði ráðherrann, þingmenn við því að það versta í sambandi við pyntingarnar ætti enn eftir að koma opinberlega í ljós. Fram hefur komið að einn þeirra sem situr í varðhaldi vegna málsins hafi sagt við yfirheyrslur að leyniþjónusta hersins hefði skipað herlögreglumönnum að gera föngunum lífið leitt til að auðveldara yrði að yfirheyra þá. Þingmenn demókrata réðust harkalega að ráðherranum í yfirheyrslunum, sérstaklega Edward Kennedy öldungadeildarþingmaður frá Massachusetts. Staða Rumsfelds er um margt mjög óljós. Engan veginn er víst að hann standi þetta mál af sér. Hann hefði átt að vera búinn að benda fyrr á þetta mál og biðjast afsökunar mun fyrr, enda orðin rúm vika frá opinberri birtingu fyrstu myndanna. Er framganga hans í málinu mjög ámælisverð. Afsökunarbeiðnin sem er sjálfsögð, kemur að mínu mati fullseint.

Vinir (Friends)Einn vinsælasti sjónvarpsþáttur seinasta áratugar, Vinir (Friends) leið undir lok í vikunni er lokaþátturinn var sýndur í Bandaríkjunum. Rúmlega 50 milljón manns horfðu á lokaþáttinn. Þættirnir um Vini hafa notið gífurlegra vinsælda frá því að fyrsti þátturinn var sendur út þann 22. september 1994. Þættirnir hafa á þessum áratug verið sýndir í um 100 löndum. Aðalleikarar þáttanna: Courtney Cox Arquette, Matthew Perry, Jennifer Aniston, David Schwimmer, Lisa Kudrow og Matt Le Blanc (sem voru öll nær óþekkt við upphaf sýninga þáttanna), fengu við lok framleiðslu þeirra, alls eina milljón dollara, um 73 milljónir íslenskra króna, fyrir hvern þátt. Mikil leynd ríkti yfir sögulokum þáttarins og t.d. voru mörg atriði lokaþáttarins tekin upp leynilega án áhorfenda í upptökusal og leikendur og aðrir sem unnu að gerð þáttanna voru látnir sverja þagnareið. Hef ég fylgst með þáttunum um Vini allt frá byrjun fyrir 10 árum og haft mjög gaman að þeim. Sýningar á tíundu og síðustu þáttaröðinni eru langt komnar hérlendis og stutt í að lokaþátturinn verði á dagskrá Stöðvar 2. Hægt verður um langa hríð að ylja sér við hinar góðu minningar um Vinina á DVD.

TogariGreinaskrif
Í athyglisverðum pistli á vefnum 200 mílur er fjallað um Nýja-Sjáland og stöðu mála þar í sjávarútvegi. Orðrétt segir í pistlinum: "Sjávarútvegur nýtur ríkisstyrkja víða um heim, sem hvetur til ofveiði, skekkir samkeppni á mörkuðum og verð til neytenda. Fyrir skömmu lögðu Nýsjálendingar fram tillögu á vettvangi Alþjóðaviðskiptastofnunarinnar (WTO) um algjört bann við ríkisstyrkjum í sjávarútvegi. Þeir nutu til þess stuðnings meðal annars frá Íslandi, Bandaríkjunum, Noregi, Chile og Perú. Hugmynd Nýsjálendinga er sú að bann við ríkisstyrkjum verði meginreglan, en á vettvangi WTO verði unnt að semja um undanþágur sem smám saman verði síðan undið ofan af. Ekki þurfti að koma á óvart að fjöldi ríkja mótmælti tillögunni harðlega. Fram kom í umfjöllun um tillöguna að ríkisstyrkir til sjávarútvegs í heiminum væru um 20 milljarðar dollara (um 1400 milljarðar íslenskra króna). Viðbrögð Evrópusambandsins, sem er stærsti markaður Íslendinga með sjávarafurðir, voru sérstaklega athyglisverð. Fulltrúar sambandsins sögðu tillögurnar grimmilegar og koma í veg fyrir ríkisstyrki til fátækari aðildarríkja þess. Samkvæmt reglum Evrópusambandsins eru ríkisstyrkir í atvinnurekstri almennt bannaðir. Í gegnum tíðina hefur Evrópusambandið hins vegar ekki litið á sjávarútveg sem alvöru atvinnugrein, heldur sem félagslegt og menningarlegt fyrirbæri. Viðbrögð þeirra við tillögum Nýsjálendinga eru til marks um viðhorfið." Hvet alla til að lesa allan pistilinn.

Ocean's ElevenSjónvarpsgláp - kvikmyndir
Eftir kvöldfréttirnar horfði ég á upptöku af Íslandi í dag. Reyni alltaf að sjá vikulegt spjall þeirra Ingva Hrafns og Stefáns Jóns. Fara þeir yfir fréttavikuna með ítarlegum hætti og óhræddir við að tjá skoðanir sínar. Horfði á Vini því næst. Alltaf gaman að þessum þáttum, en eins og fyrr er vikið að, styttist nú óðum í sögulokin hjá þeim. Horfði á Idolið því næst. George Huff datt út að þessu sinni. Var erfitt að velja á milli þessara fimm sem eftir voru, fannst þau öll standa sig með miklum ágætum. Sjónarsviptir af Huff, enda hress og fínn strákur sem lífgaði upp keppnina. Nú eru bara stelpurnar fjórar eftir og allar eru þær það hæfileikaríkar að eiga séns á sigrinum þetta árið. Eftir þáttinn horfðum við á hina mögnuðu Ocean's Eleven. Segir af fyrrum fanganum, Danny Ocean sem vill framkvæma hið fullkomna rán, ræna þrjú spilavíti í Las Vegas á sama kvöldinu. Til þess að takast ætlunarverk sitt safnar hann að sér fullkomnum hópi aðstoðarmanna og leggur í verkið. Frábær stjörnumprýdd mynd með George Clooney, Brad Pitt, Matt Damon, Andy Garcia og Juliu Roberts. Eftir hana var litið á netið, tók fyrir gestabókina mína á netinu og breytti þar aðgengi að henni, vegna tilvika sem flestum eru kunn. Hér eftir birtist þar ekkert nema ég samþykki þau skrif áður. Þetta var nauðsynlegt að gera eftir það sem á undan gekk, einfalt mál. Eftir að hafa stokkað upp gestabókina tók ég nettan og góðan vefrúnt yfir það helsta. Snorri minn góði félagi og vinur, hefur nú opnað fínan bloggvef. Hvet alla til að líta á skrifin hans.

Dagurinn í dag
1860 Kötlugos hófst - næst gaus 58 árum síðar, árið 1918. Ekki gosið frá þeim tíma
1894 Eimskipið Á. Ásgeirsson kom til landsins - fyrsta vélknúna skip í eigu Íslendinga
1945 Sex ára langri heimsstyrjöld lýkur - friði fagnað um allan heim með alheimsfriðardegi
1978 David Berkowitz játar að hafa myrt sex manns í New York sumarið 1977 - meðan hann lék lausum hala gekk hann undir nafninu Son of Sam. Var síðar dæmdur í sexfalt lífstíðarfangelsi
1984 Sovétríkin tilkynnir að það muni ekki taka þátt í Ólympíuleikum 1984 í Bandaríkjunum

Snjallyrði dagsins
Það er kraftaverki líkast að forvitnin skuli lifa af skólaskylduna.
Albert Einstein

Engin fyrirsögn

Donald Rumsfeld varnarmálaráðherraHeitast í umræðunni
Nýjar myndir af ofbeldi bandarískra hermanna gegn stríðsföngum í fangelsum í Írak, voru birtar í gær. Myndirnar eru mjög áþekkar þeim sem hafa birst, t.d. í fréttaskýringarþættinum 60 Minutes II. George W. Bush forseti Bandaríkjanna, mun fyrst hafa vitað af pyntingum á stríðsföngum í seinustu viku er þátturinn var sýndur og skammaði hann Donald Rumsfeld varnarmálaráðherra, fyrir það hvernig hann hafi tekið á málinu. Rumsfeld hefur viðurkennt að hann hafi vitað ýmislegt sem hann hafi ekki upplýst forsetann um og var hann ávíttur vegna vinnubragða sinna af forsetanum. Ráðherrann mun koma fyrir hermálanefnd öldungadeildarinnar í dag þar sem hann verður yfirheyrður opinberlega í rúmlega tvær klukkustundir. Enginn vafi leikur á því að ráðherrann verði látinn axla alla ábyrgð á því og taka á þeim misbresti sem orðið hefur. Ýmsir forystumenn demókrata hafa krafist afsagnar hans, t.d. John Kerry forsetaframbjóðandi flokksins, sem sagði í fréttaviðtali í gær að Rumsfeld hefði átt að hætta fyrir löngu og að pyntingahneykslið bætti ekki úr skák. Þá hafa háttsettir demókratar sagt að Rumsfeld hafi reynt að koma í veg fyrir að fréttir af misnotkuninni lækju út og ætti að segja af sér vegna þess. Hvort hann muni víkja er þó alls óvíst, en mun sennilegast velta á framgöngu hans frammi fyrir þingnefndinni. Forsetinn baðst í gær afsökunar á meðferðinni á föngunum. Var það löngu tímabært og mjög brýnt nú að tekið verði á málinu og þeir sóttir til saka sem að þessu stóðu.

SUSStjórn Sambands ungra sjálfstæðismanna fundaði í gærkvöld og fjallaði þar um fjölmiðlafrumvarp ríkisstjórnarinnar. Eftirfarandi ályktun var samþykkt á fundinum: "Stjórn sambands ungra sjálfstæðismanna telur fjölmiðlafrumvarp ríkisstjórnarinnar ekki vera rétt viðbrögð við þeirri stöðu sem ríkir á íslenskum fjölmiðlamarkaði. SUS harmar þó ómálefnalega gagnrýni og gífuryrði stjórnarandstöðunnar vegna málsins. Á undanförnum árum hefur veruleg samþjöppun á eignarhaldi íslenskra fjölmiðla átt sér stað og er nú meirihluti íslenskra ljósvakamiðla rekinn af sama aðila, sem auk þess er með mjög mikla markaðshlutdeild í smásöluverslun. Þessi staða er um margt óheppileg. Ungir sjálfstæðismenn telja þó ekki rétt að setja lög sem takmarka rétt einstaklinga og lögaðila til þess að eiga og reka fjölmiðla. Þess í stað verði lögmál frjáls markaðar látin ríkja á fjölmiðlamarkaði. Þá telur SUS að líkur séu til þess að með tækniframförum á komandi árum muni kostnaður við að reka ljósvakamiðla lækka og auðvelda aðgengi nýrra aðila á markaðinn. Þá hvetur Samband ungra sjálfstæðismanna til þess að ríkið dragi sig úr rekstri fjölmiðla með það fyrir augum að efla samkeppni og bæta starfsumhverfi fjölmiðla á Íslandi. Í krafti afnotagjalda RÚV, hallareksturs og ásóknar í auglýsingatekjur eru rekstrarskilyrði einkarekinna fjölmiða á Íslandi skert verulega." Skoðanir mínar á þessu máli persónulega hafa vel komið fram, ég tel rétt að setja reglur á fjölmiðlamarkaði. Þó er mikilvægt að breytingar verði gerðar á þessu frumvarpi, svo er mikilvægt að ganga nær RÚV.

ReykjavíkFram kom í gær að A-hluti borgarsjóðs Reykjavíkur hafi verið rekinn með 1,21 milljarðs króna halla á síðasta ári en í fjárhagsáætlun borgarinnar hafi verið gert ráð fyrir 119 milljóna króna halla á rekstrinum. Er alveg með ólíkindum orðið að fylgjast með hvernig R-listinn stjórnar fjármálum borgarbúa. Þessi útkoma segir allt sem segja þarf um stöðu mála. Merkilegt er að borgarstjóri (sem hefur ekki verið kjörinn af borgarbúum til trúnaðarstarfa af hálfu borgarinnar) er sýndur í könnun með fylgi 84% landsmanna til að leiða borgarmálaframboð að tveim árum liðnum á sama tíma og allt stefnir í kaldakol. Er viðeigandi að benda á orð Vilhjálms Þ. Vilhjálmssonar leiðtoga borgarstjórnarflokks Sjálfstæðisflokksins, á borgarstjórnarfundi í gær. Í ítarlegri ræðu sinni sagði hann orðrétt: "Það er öllum ljóst að R-listinn hefur lítil tök á fjármálum borgarinnar. Engar raunhæfar aðgerðir eru í gangi til að draga úr þeirri eyðsluþenslu sem hvarvetna blasir við, á sama tíma sem allar lykiltölur í reikningum borgarinnar sýna, svo ekki verður um villst, áframhaldandi verulega skuldasöfnun. Það eina raunverulega marktæka sem svokallaðar 3ja ára áætlanir sýna með réttu er skuldasöfnun á skuldasöfnun ofan."

Snorri StefánssonSvona er frelsið í dag
Í pistli dagsins á frelsinu fjallar Snorri um frelsið. Orðrétt segir hann: "Valdsmenn ættu því ef nærri lætur að geta beitt valdi sínu bæði til góðs eða ills. Oft yfirsést þó að það er annað að stjórna fólki en dauðum hlutum. Fólk bregst við breytingum. Á einum stað í The Theory of Moral Sentiments ræðir Smith um hvernig menn sem jafnvel eru góðum gáfum gæddir minnka lífsgæði annarra með hinum bestu fyrirætlunum. Oftar en ekki hrinda þessir uppljómuðu menn hugmyndum sínum um hvernig þjóðfélagið eigi að vera í framkvæmd án tillits til hagsmuna eða fyrirætlana annarra. Þeir setja sig ekki í spor annarra. Ennfremur líta hinir uppljómuðu menn þá framhjá þeirri staðreynd að mannlegu samfélagi má ekki stjórna eins og taflmönnum. Taflmenn má færa til og stilla upp að vild. Hreyfing taflmannanna stjórnast af hendi sem færir þá. Á taflborði samfélagsins er sérhver leikmaður háður eigin lögmálum um hreyfingar. Hann hreyfist ekki fyrir tilstuðlan vilja valdhafanna heldur vegna síns eigin vilja. Stjórnmálamennirnir ættu því að hafa sem minnst völd en einstaklingarnir sem mest um það að segja hvernig þeir haga sínu lífi. Að auki bendi ég á ítarlega umfjöllun um tvískinnung Samfylkingarinnar og fjármál borgarinnar sem eru vægast sagt í kaldakoli. Ennfremur bendi ég öllum á Ríkisdagblaðið sem kom út í vikunni. Las blaðið í gær er ég fór suður, mjög vandað og gott rit. Allir að lesa það! Bendi hér aftur á tengil um efni blaðsins sem ég vísaði á fyrr í vikunni. Þó ég sé búsettur á Akureyri eða einhverjir aðrir lesendur einnig utan Reykjavíkur er enginn vandi að lesa um efni ritsins á þessum tengli, beri menn sig eftir því.

Haukur Þór HaukssonMjög góð skrif
Haukur Þór fjallar vel á bloggvef sínum um skrautlegt lið fólks sem hátt gaular á ýmsum vefum þessa dagana. Orðrétt segir: "Það er reyndar þannig að það er svo auðvelt að sitja með bjórinn fyrir framan sjónvarpið og besservissera um það hvernig eigi að vinna heimsmeistaramótið í knattspyrnu en spila ekki leikina sjálfur. Það er á allra færi að gagnrýna aðra og tauta í hálsmálið en að standa í alvöru baráttunni, taka ábyrgð, stjórna og framkvæma - þar ber himin og haf á milli. Þá er grátbrosleg gagnrýnin sem sumt fólk heldur uppi um þá sem gegna trúnaðarstörfum fyrir unga Sjálfstæðismenn. Biturðin í greinaskrifum sumra ónefndra einstaklinga er svo svakaleg að maður finnur til með viðkomandi. Sumir þessara eru í flokknum en hafa tapað í kosningum oftar en góðu hófi gegnir og aðrir eru hreint ekki í flokknum - og baráttan er háð á bloggsíðum, eins áhrifaríkt og það kann að vera! Skilaboð Stóradóms til umræddra einstaklinga er að miklu betra er að standa fyrir máli sínu og koma því á framfæri á viðeigandi vettvangi heldur en að kvarta og kveina og gera í raun aldrei neitt í málunum."

Dagurinn í dag
1197 Lönguhlíðarbrenna - bæjarbruni að Skriðu í Hörgárdal. Þar létust sex manns
1940 Ríkisráð Íslands heldur sinn fyrsta fund - lagasetningar staðfestar hérlendis fyrsta sinni
1945 Þjóðverjar undirrita formlega algjöra uppgjöf - seinni heimsstyrjöldinni lokið þarmeð
1978 Jarðgöngin á Oddsskarði vígð formlega - mikil samgöngubót fyrir Austfirðinga
1995 Jacques Chirac kjörinn forseti Frakklands - tók við embætti af François Mitterrand

Snjallyrði dagsins
Öfgamaður er sá, sem getur ekki skipt um skoðun og vill ekki skipta um umræðuefni
Sir Winston Churchill forsætisráðherra Bretlands

« Fyrri síða | Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband