Engin fyrirsögn

SUS þing - nýr formaður - stjórnarseta í SUS - Heimdallur
Í sunnudagspistli vikunnar á stebbifr.com, fjalla ég um þing Sambands ungra sjálfstæðismanna í Borgarnesi, helgina 12. – 14. september sl. Ég fer yfir það markverðasta sem gerðist á þinginu. Ennfremur fjalla ég um nýja forystu SUS en Hafsteinn Þór Hauksson var kjörinn formaður og Þorbjörg Helga Vigfúsdóttir varaformaður. Ég var kjörinn í stjórn SUS fyrir Norðausturkjördæmi og fjalla ég um mín markmið í starfinu í stjórninni. Mikilvægast þar er að mínu mati að efla vefsíðu SUS og félagsstarfið um allt land. Að lokum fjalla ég um stjórnarkjör í Heimdalli, félagi ungra sjálfstæðismanna í Reykjavík, sem framundan er.

Anna Lindh kvödd
Um helgina var Anna Lindh utanríkisráðherra Svíþjóðar, jarðsungin í Stokkhólmi. Var athöfnin einungis fyrir nánustu ættingja, pólitíska samherja og vini hennar. Á föstudag var minningarathöfn um hana í Ráðhúsinu í Stokkhólmi. Um 1.300 gestir voru viðstaddir athöfnina sem stóð í hálfa aðra klukkustund. Fluttar voru mjög hjartnæmar ræður um framlag hennar til stjórnmála, ekki bara í Svíþjóð heldur á alþjóðavísu. Meðal þeirra sem flutti ræðu var Göran Persson forsætisráðherra, sem kvaddi þarmeð einn sinn nánasta pólitíska samherja. Ræða hans sem snertir viðkvæma strengi, er skyldulesning fyrir alla þá sem vilja minnast eins af kraftmestu stjórnmálaleiðtogum Svíþjóðar seinustu áratugina.

Engin fyrirsögn

Leikstjóraumfjöllun - Elia Kazan
Í vikunni birtist leikstjóraumfjöllun á kvikmyndir.com um leikstjórann Elia Kazan. Elia Kazan fæddist 7. september 1909 í Constantinople í Grikklandi. Hann er einn af áhrifamestu leikstjórum Bandaríkjanna á 20. öld. Án vafa meistari í góðri kvikmyndagerð og náði einkar vel að ná fram því besta frá leikurum sínum og skapa ógleymanlegar stórmyndir. Fáir leikstjórar hafa í raun sett meira mark á bandaríska kvikmyndagerð og kvikmyndaveldið Hollywood. Þrátt fyrir allt er hann einn meistaranna í kvikmyndaheiminum, einn þeirra sem gerðu Hollywood að stórveldi.

Borgarnesræða Davíðs Oddssonar
Á föstudagskvöld ávarpaði Davíð Oddsson, formaður Sjálfstæðisflokksins og forsætisráðherra, gesti á þingi SUS í Borgarnesi, og sátu fjórir af sex ráðherrum flokksins fyrir svörum eftir það. Nokkur svör forsætisráðherra, við spurningum um grundvallarréttindi og skyldur íslenskra borgara, vekja sérstakan fögnuð. Í umræðum um skattamál sagðist Davíð, meðal annars, eiga von á því að hátekjuskattur yrði afnuminn á kjörtímabilinu. Davíð var einnig spurður hvort hann myndi styðja lagabreytingar sem fælu í sér að opinberri birtingu álagninga- og skattskráa yrði hætt. Davíð svaraði því til að hann teldi birtingu slíkra gagna bæði óþarfa og ónauðsynlega. Ungir sjálfstæðismenn hafa lengi barist fyrir slíkum lagabreytingum og voru þingmönnum send bréf í ágúst síðastliðnum og þeir hvattir til þess að gera sitt til að málið næði fram að ganga.

Ályktanir SUS komnar á netið
Þing Sambands ungra sjálfstæðismanna var eins og kunnugt er haldið í Borgarnesi um seinustu helgi. Yfirskrift þess var Frelsi til að velja. Fram kemur í stjórnmálaályktun þingsins að ungir sjálfstæðismenn trúa umfram allt á frelsi mannsins og mannsandans. Það er skoðun okkar að frjálst val einstaklinga sé grundvöllur viðvarandi hagsældar á Íslandi og forsenda efnahagslegra framfara. Ríkisvaldið eigi að lágmarka afskipti sín af einstaklingum og fyrirtækjum. Á þinginu var mótuð stefna ungliðahreyfingar Sjálfstæðisflokksins til næstu tveggja ára og hvet ég alla sem þetta lesa að kynna sér ályktanir þingsins.

Engin fyrirsögn

Hafsteinn Þór kjörinn formaður SUS
Hafsteinn Þór Hauksson var kjörinn formaður Sambands ungra sjálfstæðismanna á 37. þingi SUS á Borgarnesi á sunnudag. Hafsteinn Þór fékk 95 atkvæði af 122 gildum atkvæðum eða 78%, auð og ógild atkvæði voru 16, Hafsteinn var sá eini sem hafði opinberlega gefið kost á sér í embættið. Þorbjörg Helga Vigfúsdóttir var kjörin 1. varaformaður sambandsins, en hún hafði einnig ein gefið opinberlega kost á sér til þess embættis. Hafsteinn er fæddur 11. ágúst 1978 og býr í Garðabæ. Hann er sonur Hauks R. Haukssonar og Rannveigar K. Hafsteinsdóttur. Systkini Hafsteins eru Haukur Þór, fjármálaráðgjafi og varabæjarfulltrúi, og Guðný Kristín, tannsmiður. Kærasta Hafsteins er Hrefna Ástmarsdóttir, nemi í stjórnmálafræði. Ég óska Hafsteini félaga mínum og fjölskyldu hans, innilega til hamingju með kjörið.

Kjörinn í stjórn SUS
Ég hef á seinustu árum reynt af fremsta megni að tjá mig um hitamál samtímans og taka þátt af krafti í stjórnmálum. Á þingi SUS var ég kjörinn í stjórnina fyrir Norðausturkjördæmi. Ég mun í stjórninni verða málsvari aðildarfélaga ungliðanna fyrir kjördæmið og mun kappkosta að tala máli ungra sjálfstæðismanna hér. Ég er ávallt til umræðu um málin og þeir ungliðar í kjördæminu sem vilja ræða við mig um pólitík hvet ég til að senda mér tölvupóst eða hringja í mig. Framundan eru spennandi tímar hjá Sjálfstæðisflokknum og ég vil vinna af krafti fyrir kjördæmið í starfinu innan SUS.

Engin fyrirsögn

11. september minnst - morðið á Önnu Lindh
Í pistli á vefsíðu minni í dag, fjalla ég um árásirnar á New York og Washington, 11. september 2001, en í dag eru tvö ár liðin frá þeim. Fer ég yfir það sem gerst hefur í alþjóðamálum frá þeim tíma og hvernig staða George W. Bush forseta Bandaríkjanna, hefur breyst á þessum tíma. Ennfremur fjalla ég um sorglegt fráfall Önnu Lindh utanríkisráðherra Svíþjóðar, sem lést í nótt af sárum sínum, eftir að henni var ráðist með hnífi í verslunarmiðstöð í Stokkhólmi. Morðið á Önnu Lindh er sorgleg aðför að lýðræðinu og áminning um að bæta öryggisgæslu stjórnmálamanna á Norðurlöndum.

Tvö ár frá hryðjuverkum
Í dag, 11. september, er þess minnst að tvö eru liðin frá hryðjuverkaárásunum grimmdarlegu á New York og Washington sem kostuðu um þrjú þúsund manns lífið, árás sem er hiklaust með eftirminnilegustu augnablikum mannkynssögunnar. Víst er að fólk mun aldrei gleyma svipmyndunum af World Trade Center í rjúkandi rúst og svo hinni táknrænu sjón er tvíburaturnarnir hrundu til jarðar. Þetta eru svipmyndir sem eru greyptar í minni allra þeirra sem upplifðu þessar hörmungar á sinn hátt um allan heim. Allir þeir sem muna þennan dag muna glögglega hvar þeir voru staddir þegar þeir heyrðu fréttirnar af árásinni, á svipaðan hátt og fyrri kynslóðar minnast föstudagsins 22. nóvember 1963 þegar John Fitzgerald Kennedy forseti Bandaríkjanna, féll fyrir morðingjahendi í Dallas í Texas. Á þessum tveim árum hefur mannlífið í Bandaríkjunum verið að taka á sig sömu mynd og áður en andrúmsloftið verður aldrei samt eftir það mikla rothögg sem þessi árás var fyrir allt vestrænt samfélag og Bandaríkjamenn. Þjóðerniskennd hefur sennilega aldrei verið meiri en nú á þessum 24 mánuðum sem liðnir eru, og hetjanna sem létust í árásinni verður minnst um allan heim í dag.

Þjóðarsorg í Svíþjóð
Anna Lindh utanríkisráðherra Svíþjóðar, lést á Karólínska sjúkrahúsinu í Stokkhólmi í nótt af völdum innvortis blæðinga í kjölfar þess að ráðist var á hana með hnífi í verslunarmiðstöð í miðborg Stokkhólms í gær. Hún hlaut sár á bringu, handlegg og maga. Í kjölfar árásarinnar fór hún í aðgerð sem stóð fram eftir nóttu. Almenningur í Svíþjóð er felmtri sleginn vegna morðsins á Önnu Lindh, þjóðarsorg er í landinu. Morðið á henni minnir óneitanlega á morðið á Olof Palme, þáverandi forsætisráðherra Svíþjóðar, 28. febrúar 1986 en hann var skotinn til bana á götuhorni í miðborg Stokkhólms þar sem hann var að koma úr kvikmyndahúsi. Er ekki óeðlilegt að upp komi nú umræða þess efnis hvort sænskir stjórnmálamenn njóti nægrar verndar. Utanríkisráðherrann var í einkaerindum án lífvarða að versla þegar að henni var ráðist, og spurning hvort efla verður öryggisgæslu. Ákveðið hefur verið að fresta ekki kosningu um Evruna sem fram átti að fara um helgina, þrátt fyrir morðið á Önnu Lindh. Anna Lindh er harmdauði, það er sorglegt að ráðist sé að stjórnmálamanni á Norðurlöndum með svo skelfilegum hætti. Morðið á henni er aðför að lýðræðinu.

Engin fyrirsögn

Biðleikur í SF - staða flokkanna - SUS-framboð - Akureyrarvaka
Í sunnudagspistli vikunnar á stebbifr.com fjalla ég um valdabröltið innan Samfylkingarinnar – framundan er biðleikur innan flokksins eftir Ingibjörgu Sólrúnu Gísladóttur sem tilkynnti í vikunni um formannsframboð sitt eftir tvö ár, sem er einsdæmi í stjórnmálasögu landsins, um stöðu flokkanna nú síðsumars – tvær athyglisverðar skoðanakannanir um fylgi flokkanna hafa birst að undanförnu. Ég lýsi yfir framboði mínu til stjórnarsetu í SUS tímabilið 2003-2005 og tjái mig um hvaða sýn ég hef á næstu tvö ár innan ungliðahreyfingarinnar. Að lokum fjalla ég um Akureyrarvöku um helgina, menningarhátíð Akureyringa.

Aðalfundur Varðar - ný stjórn
Kl. 15:00 í gær hélt Vörður, félag ungra sjálfstæðismanna á Akureyri, aðalfund sinn. Fundurinn fór mjög vel fram og var fjörugur á köflum. Ég ritaði fundargerðina og Arnljótur Bjarki Bergsson var fundarstjóri. Laurent F. Somers fráfarandi formaður, flutti skýrslu stjórnar og Víðir Guðmundsson gjaldkeri, gerði grein fyrir fjármálum þess. Þá var komið að stjórnarkjöri. Guðmundur E. Erlendsson var sjálfkjörinn formaður Varðar. Kosning fór fram um stöðu varaformanns og gjaldkera. Víðir Guðmundsson og Birgir Tómasson gáfu kost á sér til varaformennsku, náði Víðir kjöri. Birgir var hinsvegar kjörinn gjaldkeri. Atli Hafþórsson var kjörinn ritari og Sigurgeir Valsson meðstjórnandi. Ég tilkynnti á fundinum þá ákvörðun mína að gefa ekki kost á mér til stjórnarkjörs að þessu sinni, framundan eru breytingar á mínum högum og því gott að breyta til. Framundan er vonandi kraftmikið starf innan flokksins hér í bænum í vetur. Framundan í þessum mánuði er SUS-þing, ég stefni að því að gefa kost á mér til setu í stjórn þess.

Gott spjall á málefnin.com
Í sumar hætti ég að mestu skrifum á Innherjavef visir.is og hóf að rita á nýjan spjallvef félaga míns, Stefáns Kristinssonar, malefnin.com sem opnaði seinnipart júnímánaðar 2003. Þar er samankominn mikill fjöldi fólks og skemmtilegt andrúmsloft - oftast nær. Þar tjái ég eins og venjulega skoðanir mínar undir gælunafni mínu frá æskuárum, stebbifr. Það nafn hef ég notað í netheimum seinustu árin í spjalli og er auðkenni á vefsíðum mínum. Það er alltaf gaman að tjá sig og gott einkum á þessum nýja spjallvef og þar er allt til fyrirmyndar, góð stjórn og góð tækni. Stefán félagi minn á heiður skilið fyrir gott verk.

Engin fyrirsögn

Uppsagnir á Stöð 2
Mikla athygli hefur vakið seinustu vikur uppsagnir hæfra frétta- og dagskrárgerðarmanna á Stöð 2. Þannig hefur t.d. Þorsteini J, Dóru Takefusa, Ólöfu Rún Skúladóttur, Margréti Stefánsdóttur og Huldu Gunnarsdóttur öllum verið sagt upp störfum. Undarleg var uppsögn t.d. Þorsteins, enda um að ræða einn kraftmesta sjónvarpsmann landsins og hafði stýrt með góðum árangri, þættinum Viltu vinna milljón í þrjú ár. Heyrst hefur að Jónas R. Jónsson taki við þættinum, ekki þykja mér það góð skipti. Í vikunni var svo þeim Árna Snævarr og Snorra Má Skúlasyni sagt upp störfum. Báðir eiga að baki langan starfsferil á stöðinni og stýrt góðum þáttum og verið áberandi í sjónvarpi. Árni var t.d. í fyrra valinn fréttamaður ársins. Það er greinilegt að vinnumórallinn á Stöð 2 er ekki beysinn þessa dagana, kalt stríð í loftinu milli eigenda og starfsmanna.

Akureyrarvaka 2003
Í dag eru liðin 141 ár frá því Akureyrarbær hlaut kaupstaðarréttindi. Í tilefni þess verður um helgina haldin Akureyrarvaka 2003, árleg menningarhátíð bæjarbúa. Hefst hún formlega í kvöld kl. 21:00 í Lystigarðinum með formlegri hátíðardagskrá. Þar mun Þóra Ákadóttir forseti bæjarstjórnar, flytja ávarp og í kjölfarið verður skemmtileg dagskrá í garðinum allt kvöldið: Garðveisla - gamanleikur í einum þætti, leikhúskórinn tekur lagið, leiðsögn um sýninguna 13+3 í garðinum og síðast en ekki síst skemmtilegt andrúmsloft auðvitað talsvert. Um helgina er svo menningarveisla sem fylgir í kjölfarið og framundan skemmtileg Akureyrarvaka - óður til Akureyskrar menningar.

Góður pistill Andrésar
Á miðvikudag flutti Andrés Magnússon magnaðan pistil í morgunsjónvarpi Stöðvar 2 og Bylgjunnar, Íslandi í bítið. Þar fjallar hann um ákvörðun Ingibjargar Sólrúnar Gísladóttur þess efnis að sækjast eftir formennsku í Samfylkingunni eftir tvö ár og strategíu hennar í þeirri pólitísku eyðimerkurgöngu sem bíður varaþingmannsins næstu fjögur árin. Tek ég undir með Andrési að mestu leyti og finnst hann orða vel stöðuna sem bíður formannsefnisins (þ.e.a.s. ef hún heldur áfram að stefna í þá átt) og verðandi varaformanns Samfylkingarinnar.

Engin fyrirsögn

Staða Ingibjargar - ákall eftir öðru formannsefni
Allt frá því Ingibjörg Sólrún Gísladóttir varð að velja á milli borgarstjórastóls og þingframboðs í desember 2002, hafa verið á lofti raddir þess efnis að hún yrði formaður Samfylkingarinnar á landsþingi flokksins í október 2003. Eftir að taka fimmta sætið á framboðslista flokksins í RN, varð hún jafnframt forsætisráðherraefni flokksins. Hún var andlit flokksins í allri kosningabaráttunni og stefnan var sett á þrennt: koma ISG á þing, gera Samfylkinguna að stærsta flokk landsins og fella ríkisstjórnina. Ekkert af þessu gekk eftir. ISG var valdalaus eftir kosningar og náði ekki kjöri á þing. Formaður flokksins tók skýrt fram eftir kosningar að hann færi fram til formennsku á ný á landsþinginu. Í sumar höfðu magnast raddir þess efnis að ISG ætti að fara í formannsframboð, þrátt fyrir yfirlýsingar hennar um stuðning við Össur fyrir og eftir kosningar. Um helgina var birt skoðanakönnun (gerð fyrripart sumars) þess efnis að rúmlega 87% flokksmanna vildu hana sem formann, en tæp 13% Össur. Hann sagðist þó ekki hætta við formannsframboð og Ingibjörg Sólrún tilkynnti í gær að hún myndi gefa út yfirlýsingu um stöðu sína í dag.

Biðleikur í Samfylkingunni - yfirlýsing um framboð eftir tvö ár
Óvissu um fyrirætlanir Ingibjargar Sólrúnar lauk í kvöld. Hún tilkynnti á sjöunda tímanum um ákvörðun sína. Í stað þess að koma með eina afgerandi ákvörðun, tilkynnti hún um tvær. Annarsvegar um framboð sitt til varaformennsku í flokknum á landsþingi í október, og hinsvegar að hún stefndi að framboði til formanns árið 2005. Framundan er biðleikur í flokknum. Ljóst er að Össur Skarphéðinsson hyggur á að sitja áfram sem formaður og býður sig fram í það, en Ingibjörg muni bíða til ársins 2005, eftir því að sækjast eftir formennsku. Staða Össurar sem formanns næstu tvö ár, ef hann verður endurkjörinn, er þó ekki beysin. Hann er eftir þetta aðeins í þeirri stöðu að leiða flokkinn í gegnum biðtíma eftir öðrum leiðtoga. Ingibjörg heldur til útlanda og ætlar í nám þar, enda mun ekki taka sæti á þingi á næstunni, eins og kunnugt er hafa þingmenn flokksins í RN neitað að standa upp fyrir henni. Í kvöld birtist ISG í spjallþáttum í sjónvarpi og átti í erfiðleikum með að svara spurningum um stöðu sína, enda fá dæmi þess að fólk tilkynni um framboð til embætta með tveggja ára fyrirvara. Vandræðagangurinn í kringum þetta valdabrölt er mjög sérstakt.

Engin fyrirsögn

Skipan hæstaréttardómara - þjónusta Landssímans - málefni SUS
Í sunnudagspistli vikunnar á stebbifr.com fjalla ég um ákvörðun Björns Bjarnasonar dómsmálaráðherra, að skipa Ólaf Börk Þorvaldsson sem hæstaréttardómara og velti fyrir mér málinu og því ferli sem viðhaft er við skipan dómara við réttinn og því hvernig nokkrir fjölmiðlar hafa snúið útúr málinu með athyglisverðum hætti, um Landssímann og þjónustu þess - mikilvægt er að selja fyrirtækið, fjalla ég um undarlega reynslu mína í vikunni og samskipti við þjónustukerfi fyrirtækisins. Að lokum fjalla ég um væntanlegt þing Sambands ungra sjálfstæðismanna í september og velti fyrir mér hvort ungir sjálfstæðismenn hafi áhrif á gang mála innan flokksins og bendi á stuðning minn við Hafstein Þór Hauksson í væntanlegu formannskjöri SUS.

Vonbrigði Gunnars Smára
Í dag ritar ritstjóri Fréttablaðsins, vikulega grein í blaðið. Í dag fjallar hann um skoðanakönnun blaðsins sem birt var í dag og sýnir Sjálfstæðisflokkinn í stórsókn. Gunnar Smári hélt, að Sjálfstæðisflokkurinn stæði svo illa meðal almennings, m.a. vegna umræðna um skipan í hæstarétt, að hann efndi til skoðanakönnunar á vegum blaðsins. Könnunin sýndi eins og fyrr segir hið gagnstæða. Þá tekur Gunnar Smári sig til og skrifar fréttaskýringu í blað sitt, þar sem hann getur ekki leynt vonbrigðum sínum, könnunin átti að fara á annan veg! Hann finnur það hinsvegar út, að Sjálfstæðisflokkurinn fái aukið fylgi, þrátt fyrir Sjálfstæðisflokkinn, vegna þess að stjórnarandstaðan sé svo léleg. Þarna skýtur Gunnar Smári sig illilega í fótinn - stjórnarandstaðan er mest hjá Fréttablaðinu og fréttastofu hljóðvarps ríkisins. Er könnunin áfellisdómur yfir starfi þessara fjölmiðla?

Góður pistill Björns
Í vikulegum pistli á vefsíðu sinni fjallar Björn Bjarnason um umfjöllun fjölmiðla um skipan hæstaréttardómara í vikunni og ennfremur um vefsíðu vinstrimanna og mál tengd henni og VG. Eins og venjulega hittir dómsmálaráðherra á góða punkta í skrifum sínum og á ekki erfitt með að hrella vinstrimenn, eins og dæmin sanna á spjallvefum Netsins.

Engin fyrirsögn

Áfangar í þágu góðrar stjórnsýslu
Í gær flutti Björn Bjarnason dómsmálaráðherra, ítarlega ræðu er hann setti formlega norræna ráðstefnu um stjórnsýslu sem haldin er á Selfossi. Þar fjallar hann um þróun þessara mála hérlendis og ýmis álitamál, sem vakna við framkvæmd laga á þessu sviði. Orðrétt segir ráðherra í ræðu sinni: "Það hefur komið í minn hlut og annarra undanfarin ár að starfa fyrstir ráðherra samkvæmt þessum nýju lögum og öðrum nýmælum til að tryggja vandaða málsmeðferð stjórnvalda. Hafa verið gefnar út handbækur og efnt til námskeiða til að auðvelda starfsmönnum stjórnsýslunnar að laga sig að hinu nýja starfsumhverfi. Ekki hefur verið pólitískur ágreiningur um þessar mikilvægu réttarbætur og ég tel, að almennt sé sú skoðun ráðandi, að framkvæmd þeirra hafi í stærstum dráttum tekist vel. Íslensk stjórnsýsla sé vönduð og stjórnvöld hafi lagt sig fram um að vinna markvisst að framkvæmd laganna."

Óráðsíða Alfreðs grasserar
Í gær greina fjölmiðlar frá því að Hjörleifur Kvaran hafi verið ráðinn lögmaður Orkuveitu Reykjavíkur og ennfremur að hann hafi beðist lausnar sem borgarlögmaður, en því starfi hefur hann sinnt í tæpan áratug. Í fréttinni kemur fram að hann hækki verulega í launum við þessar breytingar, laun borgarlögmanns eru um 600.000 krónur en laun lögmanns Orkuveitunnar verða rúmlega 850.000 krónur. Athygli vekur, svo ekki sé nú meira sagt að þetta er nýtt embætti í borgargeiranum. Til þessa tíma hefur borgarlögmaður sinnt málum OR. Það vekur athygli að í sömu viku og Alfreð Þorsteinsson formaður borgarráðs og OR (pólitískur forystumaður R-listans) kemur fram í fjölmiðlum og tilkynnir borgarbúum að nauðsynlegt sé að hækka gjaldskrá fyrirtækisins um allt að 6% í einu vetfangi vegna bágrar rekstrarstöðu þess, að þá séu kynntar hugmyndir um hvernig auka skuli útgjöld þess!

Árni farinn að blogga
Í vikunni opnaði vinur minn og vefstjóri á vefnum mínum, Árni Gunnarsson, bloggsíðu. Það er gaman að líta á vefinn og kynna sér skoðanir hans og pælingar. Hvet alla til að líta á vefinn hans Árna. Vona að honum gangi vel í skrifunum í vetur!

Engin fyrirsögn

Umdeild ráðning hæstaréttardómara
Mikið hefur verið fjallað í gær og í dag um ráðningu á hæstaréttardómara, en fyrir skömmu var auglýst laust til umsóknar sæti Haraldar Henrýssonar í Hæstarétti. 8 sóttu um embættið. Hæstiréttur taldi alla umsækjendur um embætti hæstaréttardómara hæfa. Í gær skipaði Björn Bjarnason dómsmálaráðherra, Ólaf Börk Þorvaldsson dómsstjóra á Selfossi, í embættið. Í fréttum Stöðvar 2 í gær kom fram óánægja nokkurra umsækjenda, þegar Stöð 2 gefur til kynna, að Ólafur Börkur standi höllum fæti vegna þess að hann sé með 2. einkunn á lagaprófi, þá sleppir fréttamaðurinn að geta þess, að fellt var úr lögum um Hæstarétt, sem gerði ráð fyrir, að dómarar hefðu 1. einkunn. Þá er þess að engu getið að Ólafur Börkur hefur meistarapróf í Evrópurétti frá því í fyrra. Hæstiréttur hefur það hlutverk að segja fyrir um hæfi umsækjenda en á ekki að raða þeim eða binda hendur ráðherra á neinn hátt, allar tilraunir réttarins til þess eru marklausar. Ráðherra hefur í dag tjáð sig ítarlega um málið og fyrir liggur vel hans hlið á því.

Íslendingar sigra Færeyinga
Íslenska landsliðið sigraði það færeyska, 2-1, í fimmta riðli undankeppni EM í knattspyrnu í kvöld í Þórshöfn í Færeyjum. Eiður Smári Guðjohnsen kom Íslendingum yfir á 5. mínútu leiksins, Rógvi Jacobsen jafnaði á 65. mínútu en Pétur Hafliði Marteinsson skoraði sigurmarkið á 71. mínútu. Með sigrinum skutust Íslendingar í toppsæti riðilsins, eru nú komnir með 12 stig, Þjóðverjar eru með 11 og Skotar í því þriðja með 8 stig. Íslendingar eiga tvo leiki eftir í riðlinum, báða á móti Þjóðverjum. Sigurinn var sætur, enda 3 stig sem koma þarna í pottinn, en framundan erfiðir leikir. Áfram Ísland - áfram strákar!

Ólöf 18 ára
Í dag er systurdóttir mín, Ólöf Kristín Jóhannesdóttir, 18 ára gömul. Óska henni innilega til hamingju með daginn - og það að vera loks orðin sjálfráða.

Engin fyrirsögn

Ríkisvaldið gæti verið miklu minna
Í hátt á þriðja áratug hefur Adam Smith stofnunin í Bretlandi verið leiðandi í baráttu hægrimanna fyrir aukinni einkavæðingu og einkaframkvæmd þar í landi og veitti stofnunin Margaret Thatcher fv. forsætisráðherra Bretlands, innblástur og leiðsögn í tíð hennar sem þjóðarleiðtoga og foringja hægrimanna í landinu. Dr. Eamonn Butler, framkvæmdastjóri stofnunarinnar, var staddur hér á landi fyrir skömmu, í boði Verslunarráðs Íslands og hélt hann meðal annars fyrirlestur á Grand Hotel Reykjavík. Í tilefni af komu hans lagði Jón Hákon Halldórsson ritstjóri frelsi.is, fyrir hann nokkrar spurningar og útkoman prýðisgott netviðtal á vef Heimdallar.

Einokunarfyrirtækið Orkuveita Reykjavíkur
Jón Hákon Halldórsson ritaði fyrir skömmu góða grein um málefni Orkuveitu Reykjavíkur og nýlegar verðhækkanir fyrirtækisins. Í grein sinni segir Jón Hákon: "Á samkeppnismarkaði er almenna reglan sú að þegar dregur úr spurn eftir vöru eða þjónustu sem tiltekin fyrirtæki bjóða fram þá lækki fyrirtæki verðskrár. Í þessu tilfelli er niðurstaðan þvert á eðlileg markaðslögmál og afleiðingin fyrir neytendur er sú að þeir geta ekki sparað í heimilisrekstrinum með því að draga úr notkun rafmagns og heits vatns. Ástæðan fyrir þessum undarlegu viðbrögðum við tekjurýrnun Orkuveitu Reykjavíkur, sem stjórnendur fyrirtækisins hafa tekið, er sú að það telst til einokunarfyrirtækja og hefur því óþægilegt tangarhald á neytendum. Við þurfum að hafa í huga að einokun opinberra fyrirtækja er í mörgum tilfellum síst skárri en einokun frjálsra fyrirtækja."

Valdimar Agnar kjörinn formaður Gjafa
Um síðustu helgi var haldinn aðalfundur í Gjafa, félagi ungra sjálfstæðismanna í Grundarfirði. Fundurinn var ágætlega sóttur og fór vel á með ungu sjálfstæðisfólki. Á dagskrá voru hefðbundin aðalfundarstörf þ.e. tekin fyrir skýrsla fráfarandi stjórnar, kjör nýrrar stjórnar, reikningar teknir fyrir, lagabreytingar og ályktanir. Kjörnir voru fulltrúar félagsins á 37. þing SUS sem haldið verður í Borgarnesi 12.-14. september næstkomandi. Félagi minn, Valdimar Agnar Valdimarsson var kjörinn formaður félagsins og með honum í stjórn Valdís Ásgeirsdóttir, Rósa Guðmundsdóttir, Þórarinn Kristjánsson, Runólfur Viðar Guðmundsson, Ragnar Smári Guðmundsson og Friðfinnur Níelsson.

Engin fyrirsögn

Valdabarátta - ESB og auðlindin - varnarmál - OR og hitinn
Í sunnudagspistli vikunnar á stebbifr.com fjalla ég um valdabaráttu á bakvið tjöldin innan Samfylkingarinnar - Ingibjörg Sólrún er að reyna að koma aftur undir sig fótunum í íslenskum stjórnmálum eftir að hún rann á rassinn í seinustu kosningabaráttu, nú beinast spjótin að Össuri. Henni tókst ekki að halda í borgarstjórastólinn og bjóða sig fram til þings, hún náði ekki kjöri á þing - skyldi hún, þvert á eigin orð, sækjast eftir formennsku í haust. Ennfremur fjalla ég um umræðuna um ESB og auðlindina í kjölfar erindis Franz Fischlers fyrir skemmstu þar sem greinilega kom fram að Íslendingar fá enga sérsamninga ef til aðildarviðræðna kemur, um varnarmálin í kjölfar þess að Bandaríkjamenn hættu við fyrri ákvörðun um að flytja þoturnar burt, og að lokum um hækkun á verðskrá OR að því er virðist vegna hitans í sumar ef marka má orð stjórnarformannsins. Að mínu mati ráða aðrar ástæður för.

Gísli Marteinn mættur á ný á skjáinn á laugardagskvöldi
Um helgina kom Gísli Marteinn Baldursson á skjáinn á ný eftir sumarleyfi með þátt sinn Laugardagskvöld með Gísla Marteini. Þátturinn er nú að hefja göngu sína annan veturinn en seinasta vetur var hann einn vinsælasti þátturinn í íslensku sjónvarpi og fékk metáhorf, rúmlega helmingur þjóðarinnar sagðist í áhorfskönnunum horfa á hann. Í fyrsta þættinum var aðalgesturinn sjálfur Hermann Gunnarsson, eða Hemmi Gunn eins og allir Íslendingar kalla hann. Hann hafði frá mörgu að segja eftir litríkan íþróttaferil og sem þáttastjórnandi í útvarpi og sjónvarpi, t.d. þegar talað var um vinsælan sjónvarpsþátt hans, Á tali með Hemma Gunn sem var í Sjónvarpinu samfellt í 10 ár, 1987-1997. Gaman var þegar Laddi kom í sjónvarpssal í gervi hinna ógleymanlegu Elsu Lund og Dengsa, sem voru með Hemma á skjánum í gamla daga. Aðrir gestir voru miðbæjarpresturinn Jóna Hrönn Bolladóttir og rapparinn Sölvi Blöndal sem tók lagið í lokin ásamt félögum sínum í Quarashi, sumarsmellinn Mess it Up. Gott að fá Gísla aftur á skjáinn. Framundan eru litrík laugardagskvöld í allan vetur.

Engin fyrirsögn

Leikstjóraumfjöllun - Frank Capra
Í nýjustu leikstjóraumfjöllun minni á kvikmyndir.com fjalla ég um feril meistarans Frank Capra. Hann fæddist í Bisacquino á Sikiley á Ítalíu, 18. maí 1897, en lést í La Quinta í Kaliforníu, 3. september 1991. Hann varð snemma mikill kvikmyndaaðdáandi og kynntist kvikmyndaheiminum að lokum sem handritshöfundur, kvikmyndaframleiðandi og varð einn af virtustu leikstjórum Bandaríkjanna á 20. öld. Ferill hans er einstakur, hann var meistari í góðri kvikmyndagerð á gullaldarárum Hollywood og sannkallaður snillingur í að ná fram því besta frá leikurum sínum og skapa ógleymanlegar stórmyndir. Á ferli sínum leikstýrði hann yfir 50 kvikmyndum og hlaut óskarinn fyrir leikstjórn þrisvar sinnum á fjórða áratugnum, á fjögurra ára tímabili, sem er einstæður árangur. Fáir leikstjórar hafa sett meira mark á bandaríska kvikmyndagerð - hann var einn af þeim sem gerði Hollywood að því kvikmyndastórveldi sem það er í dag. Sannkallaður meistari meistaranna í kvikmyndaheiminum.

Umfjöllun um ESB og ummæli Fischlers á frelsi.is
Seinustu daga hafa tvær góðar greinar birst á frelsi.is, vef Heimdallar. Á mánudag birtist grein Jóns Hákons Halldórssonar ritstjóra frelsi.is og stjórnarmanns í Heimdalli. Þar fjallar hann um ummæli Franz Fischler á fyrirlestri og fyrirspurnartíma í Háskólanum í Reykjavík fyrir skemmstu en hann kom til landsins á dögunum. Að mati Jóns Hákons er "mikilvægt að talsmenn Evrópusambandsins á Íslandi, hvar í flokki sem þeir standa, gæti raunsæis í umræðu um sambandið og mögulega kosti og galla við inngöngu Íslands í það." Í fréttum Ríkissjónvarpsins hafi verið gerð ítarleg grein fyrir máli Fischlers. Hann hafi sagt að gengju Íslendingar í sambandið, myndu þeir þurfa að semja um fiskveiðimál eins og annað. Ennfremur að útilokað væri að Íslendingar héldu fullum yfirráðum yfir 12 - 200 mílna landhelginni. Í dag ritar svo Heiðrún Lind Marteinsdóttir góða grein um sama fyrirlestur og gerir grein fyrir sinni sýn á þetta og skoðunum sínum. Skemmtilegar greinar, sem allir verða að lesa.

Engin fyrirsögn

Total Recall - borgarstjóri án umboðs
Eyþór Arnalds framkvæmdastjóri, ritar athyglisverða grein á vef Hafsteins Þórs Haukssonar í gær. Þar fjallar hann um borgarmálin í kjölfar olíumálsins og um borgarstjórann sem situr án umboðs borgarbúa eftir að borgarstjóraefni R-listans hætti sem borgarstjóri eftir innanbúðarátök innan valdabandalagsins. Hann tekur inn í dæmið kosningar þær sem framundan eru í Kaliforníu-fylki, þar sem kosið verður um framtíð ríkisstjórans á valdastóli eftir að hann brást kjósendum í fylkinu. Eyþór segir í greininni að byðist Reykvíkingum sama tækifæri yrði það kærkomið. Um væri að ræða Total Recall með skírskotun til þekktrar kvikmyndar ríkisstjóraframbjóðandans Arnold Schwarzenegger.

Ingibjörg Sólrún brýnir kutann
Í morgun flutti Andrés Magnússon blaðamaður, athyglisverðan pistil í Íslandi í bítið, morgunþætti Stöðvar 2 og Bylgjunnar. Þar fjallar hann um valdabröltið í Samfylkingunni og hringlandaháttinn sem einkennir allt andrúmsloftið þar og einkum og sér í lagi málefni Ingibjargar Sólrúnar Gísladóttur varaþingmanns. Eftir að hafa lofað formanni sínum stuðningi til setu er hún farin að gera sig líklega til að taka völdin í flokknum eftir að formaðurinn sagði 11. maí sl. á afgerandi hátt að hann ætlaði fram aftur og hefði til þess stuðning varaþingmannsins. Hefur hún að minnsta kosti þrisvar frá því henni var sparkað sem borgarstjóra lýst yfir stuðningi við hann. Ekki bætir svo úr skák að ISG svífur eins og hrægammur yfir þingsæti sinnar gömlu vinkonu Guðrúnar Ögmundsdóttur. Góður pistill hjá Andrési, hann er alltaf magnaður í pistlaskrifum.

Engin fyrirsögn

Hvalveiðar - pólitíkin í Kaliforníu - fjölmenni á Dalvík
Í sunnudagspistli vikunnar á stebbifr.com fjalla ég um ákvörðun sjávarútvegsráðherra þess efnis að hefja hvalveiðar við Íslandsstrendur - fagna þessari ákvörðun og fer yfir mál henni tengd, pólitíkina í Kaliforníu sem er mikið í fréttunum þessa dagana en í októbermánuði verður kosið um framtíð Gray Davis ríkisstjóra á valdastóli og hvort skipta eigi honum út - hefur leikarinn Arnold Schwarzenegger lýst yfir framboði sínu og bendir margt til þess að hann njóti mikils fylgis og hafa t.d. tvö þekkt vinstrisinnuð blöð panikerað vegna framboðs hans, og að lokum um fiskidaginn mikla sem haldinn var hátíðlegur á Dalvík um helgina í rjómablíðu (24 stiga hita!) - var dagurinn einstaklega vel heppnaður og komu allt að 22.000 manns til Dalvíkur til að heiðra sjávarútveginn og borða ljúffengar afurðir úr matarkistu hafsins.

Góð grein Ástu á hafsteinn.is
Ásta Möller fv. alþingismaður, skrifar athyglisverða grein á vef Hafsteins Þórs Haukssonar frambjóðanda til formannsembættis í SUS. Ásta segir í greininni að það sé að renna upp ljós fyrir samfylkingarfólki að því er varðar aðkomu einkaaðila að rekstri velferðarþjónustu í landinu. Hún segir að Samfylkingin hafi þurft að fara á fund til London til að átta sig á að félagshyggjufólk hefur tekið undir með sjálfstæðismönnum um víða veröld að leiðin til árangursríkari og hagkvæmari reksturs í velferðarþjónustu er aukið samstarf stjórnvalda við einkaaðila um rekstur þjónustunnar. Ásta Möller hefur undanfarin ár lagt mikla áherslu á umræðu um aukið hlutverk einkaaðila í rekstri heilbrigðiskerfisins og hefur þar barist fyrir svipuðum sjónarmiðum og ungir sjálfstæðismenn. Góð grein hjá Ástu.

Umfjöllun um hvalamálið
Má til með að benda á góða grein Arnljóts Bjarka Bergssonar um hvalamálið á vef Sjálfstæðisflokksins hér á Akureyri. Þar fjallar hann um ákvörðun sjávarútvegsráðherra og hvalamálið í heild sinni.

Engin fyrirsögn

Staða borgarstjóra - varnarmálin - þarft framtak
Í sunnudagspistli vikunnar fjalla ég ítarlega um stöðu Þórólfs Árnasonar borgarstjóra, vegna olíumálsins. Í vikunni skýrði hann frá sinni hlið málsins eftir að hafa svarað spurningum í borgarráði og tjáð sig um málið í fjölmiðlum, einnig kom fram að R-listinn heldur hlífðarskildi yfir honum allavega á þessu stigi málsins enda situr hann á stóli sínum í umboði borgarfulltrúa meirihlutans. Ennfremur fjalla ég um varnarmálin og þarft framtak stjórnar Heimdallar sem sendi í vikunni bréf til þingmanna Sjálfstæðisflokksins og minnti á afstöðu ungra sjálfstæðismanna þess efnis að ekki skuli birta álagningarskrár.

Góð grein Hjölla á frelsi.is
Fyrir skömmu ritaði Hjörleifur Pálsson formaður Hugins í Garðabæ, góða grein á frelsi.is. Þar skrifar hann um einkaframtakið, en hann er trúr sínum hugsjónum og tjáir skoðanir sínar vel í þessum skrifum. Meginuppistaðan í útgjöldum íslenska ríkisins, sem og flestra annarra ríkja, fer til heilbrigðis- og menntamála, og innan þessara málaflokka er þensla ríkisins líka mest. Þrátt fyrir að einkarekstur hafi náð að skjóta rótum innan þessara málaflokka á ákveðnum sviðum þá sér ríkið enn um meginhluta rekstursins. Þarna eru því mörg sóknarfæri og ljóst að til mikils er að vinna að nýta kosti einkareksturs betur. Hvet alla til að lesa þessa góðu grein Hjölla.

Engin fyrirsögn

Olíumálið - valdakreppa í borginni - málefni LA
Í sunnudagspistli vikunnar fjalla ég um niðurstöður frumskýrslu Samkeppnisstofnunar um starfsemi Olíufélaganna - fer yfir málið og tjái mig um niðurstöðurnar, fjalla um þátt borgarstjóra í málinu en hann hefur verið bendlaður við málið af fjölmiðlum - undrast á að hann geri ekki hreint fyrir sínum dyrum og tjái sig um sín afskipti af málinu ef einhver eru og fjalla um möguleg áhrif þessa máls á stöðu hans sem borgarstjóra í Reykjavík og hvort borgarfulltrúar R-listans muni taka ábyrgð á honum en hann situr á stóli borgarstjóra í þeirra umboði, og að lokum fjalla ég um málefni Leikfélags Akureyrar - en óvissu um starfsemi þess hefur verið eytt eftir að bæjarráð Akureyrar samþykkti í vikunni tillögur vinnuhóps um framtíð LA.


Leikstjóraumfjöllun á kvikmyndir.com - John Schlesinger
Í dag birtist þriðja leikstjóraumfjöllun mín á kvikmyndir.com. Í þessari leikstjóraumfjöllun hef ég tekið saman ítarlega umfjöllun um leikstjórann John Schlesinger og helstu verk hans. Á leikstjóraferli sínum setti Schlesinger mikið mark á kvikmyndasögu seinni hluta 20. aldarinnar, hann starfaði sem leikstjóri í útvarpi, sjónvarpi og í kvikmyndum og leikstýrði mörgum af eftirminnilegustu kvikmyndum síns tíma.

Engin fyrirsögn

Mál varnarliðsmannsins - lífróður Blair - ríkið og fjölmiðlar
Í sunnudagspistli vikunnar á stebbifr.com fjalla ég um málefni bandaríska varnarliðsmannsins - en mikið hefur verið rætt um þau í fréttum seinustu vikur og deilt um lögsögu í málinu og hvort réttað skyldi yfir honum fyrir íslenskum dómstólum eða bandarískum herdómstól, um pólitíska erfiðleika Tony Blair forsætisráðherra Bretlands - sem sífellt virðast vera að magnast og greinilegt að sjálfsmorð dr. David Kelly hefur orðið til að veikja til muna stöðu hans innan Verkamannaflokksins og sem leiðtoga bresku þjóðarinnar, og að lokum um ríkið og fjölmiðla - fjalla ég áfram um framtíð RÚV og velti fyrir mér þeirri spurningu hvort ríkið eigi yfir höfuð að reka fjölmiðla í upphafi 21. aldarinnar, tæpum 20 árum eftir að einokun ríkisins á ljósvakamarkaði leið undir lok.

Lögin hans Valda - minningardiskur um Valda frænda
10. júlí sl. hefði móðurbróðir minn, Þorvaldur Friðriksson á Eskifirði orðið áttræður. Þorvaldur eða Valdi eins og hann var reyndar ávallt kallaður var alla tíð mjög virkur í félagsmálum staðarins og einkum þeim þáttum sem tengdust tónlistinni. 13 ára gamall fór hann að leika á harmonikku og gerði það til æviloka, en hann lést í október 1996. Hann spilaði mjög oft á dansleikjum víða um Austurland, allt frá Álftafirði til Norðfjarðar. Hann var alltaf tilbúinn að leggja lið og draga fram nikkuna þegar á þurfti að halda, hvort sem var á böllum eða við önnur tækifæri. Valdi var einnig góður söngmaður, hann samdi fjölmörg lög, bæði dans- og sönglög og var í tilefni 80 ára afmælis hans gefinn út geisladiskur með lögum hans. Mikilvægt þótti að gefa út diskinn, bæði til að skemmta fólki með góðum lögum Valda og eins til að varðveita þau með þessum hætti. Ellert Borgar Þorvaldsson skólastjóri í Reykjavík og sonur Valda, syngur öll lögin á disknum. Diskurinn er þó fyrst og fremst gefinn út til að minnast heiðursmannsins Valda á Eskifirði.

Engin fyrirsögn

Sameining við Eyjafjörð - valdatafl í Bretlandi - samgöngumál
Í sunnudagspistli vikunnar á stebbifr.com fjalla ég um málefni Héðinsfjarðarganga, ennfremur um hugmyndir um sameiningu sveitarfélaga í Eyjafirði við Siglufjörð samhliða göngunum, valdatafl innan breska Verkamannaflokksins í kjölfar þess að flokkurinn tapar fylgi og forsætisráðherrann verður veikari sem forystumaður hans og að lokum um samgöngumál og framtíð í þeim efnum í kjölfar 5 ára afmælis Hvalfjarðarganganna í vikunni.

Leikstjóraumfjöllun á kvikmyndir.com - John Ford
Í vikunni birtist önnur leikstjóraumfjöllun mín á kvikmyndir.com. Í þessari leikstjóraumfjöllun hef ég tekið saman ítarlega umfjöllun um leikstjórann John Ford og helstu verk hans. Á ferli sínum leikstýrði hann yfir 130 kvikmyndum og hlaut óskarinn fyrir leikstjórn oftar en nokkur maður, fjórum sinnum. Fáir leikstjórar hafa sett meira mark á bandaríska kvikmyndagerð - hann var einn af þeim sem gerði Hollywood að því kvikmyndastórveldi sem það er í dag. Sannkallaður meistari meistaranna í kvikmyndaheiminum.

Engin fyrirsögn

Varnarmálin - biturð á vinstrivængnum - undrun og vonbrigði
Í sunnudagspistli vikunnar á stebbifr.com er fjallað á ítarlegan hátt um varnarmálin. Þar fer ég yfir nýjustu atburði í málinu, fréttir af einhliða ákvörðunum Bandaríkjamanna sem leiddu til þess að viðræður um varnarsamninginn hófust eftir að áhrifamenn beittu sér fyrir lausn málsins, viðbrögðum forsætisráðherra og ummælum hans í vikunni, óábyrgum og ómarkvissum málflutningi Samfylkingarinnar og spái í framtíð viðræðnanna og hvað taki við. Ennfremur fjalla ég um biturð á vinstrivæng íslenskra stjórnmála eftir úrslit þingkosninganna og lýsi að lokum yfir undrun minni og vonbrigðum vegna frestunar á Héðinsfjarðargöngum. Þessi ákvörðun er reiðarslag fyrir íbúa á mínu heimasvæði og íbúa Norðurlands almennt.

« Fyrri síða | Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband