29.6.2003 | 22:06
Engin fyrirsögn
Bandaríska óskarsverðlaunaleikkonan Katharine Hepburn er látin, 96 ára að aldri. Hún lést í kvöld kl. 18:50 að íslenskum tíma á heimili sínu í Old Saybrook í Connecticut. Heilsu Hepburn hafði hrakað á undanförnum árum. Á rúmlega sextíu ára ferli sínum hlaut hún fjórum sinnum Óskarsverðlaun fyrir leik sinn í kvikmyndum og var tilnefnd til verðlaunanna 12 sinnum. Hefur enginn hlotið fleiri óskarsverðlaun fyrir leik, í sögu þeirra, öll hlaut hún þau sem leikkona í aðalhlutverki, einstakur árangur. Hún hlaut verðlaunin fyrir leik sinn í myndunum: Morning Glory 1933; Guess Who's Coming to Dinner 1967, The Lion in Winter 1968 og On Golden Pond 1981.
Hepburn fæddist inn í auðuga fjölskyldu á Nýja-Englandi sem var frjálsleg í hugsunarhætti. Sjálf var hún blátt áfram og hegðaði sér á óvenjulegan hátt. Hún klæddist þeim fötum sem henni þóttu þægileg og fór eigin leiðir, sannkölluð nútímakona, ímynd hennar í kvikmyndum síns tíma. Hún giftist aðeins einu sinni og hjónabandið stóð stutt. Sagt var að hún ætti í ástarsambandi við Howard Hughes og aðra þekkta menn en stóra ástin í lífi hennar var óskarsverðlaunaleikarinn Spencer Tracy. Þau léku saman í níu myndum og voru nánir vinir allt þar til hann lést árið 1967, skömmu eftir gerð seinustu myndar hans, þar sem þau voru saman í aðalhlutverkum. Fjallað er um ævi og leikferil Katharine Hepburn í grein á kvikmyndir.com.
Málefni RÚV - vandræði Tony Blair - þróun Netsins
Í sunnudagspistli vikunnar á stebbifr.com fjalla ég um málefni Ríkisútvarpsins og kem fram þeirri skoðun minni að tekið verði á rekstrarfyrirkomulagi stofnunarinnar og hún stokkuð upp til samræmis við nútímann, um vandræði Tony Blair forsætisráðherra Bretlands, sem kominn er í ógæfudal ef marka má skoðanakannanir um fylgi flokka og persónufylgi hans, og um þróun Netsins á seinustu árum - óumdeilt er að Netið hefur opnað mörg spennandi tækifæri til samskipta á milli fólks.
Breytt 18.9.2006 kl. 08:02 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
27.6.2003 | 15:42
Engin fyrirsögn
Í grein minni á frelsi.is fjalla ég um bandarísk stjórnmál. Athyglisvert hefur verið að fylgjast með stjórnmálum í Bandaríkjunum seinustu mánuði eins og venjulega reyndar. Hef í mörg ár fylgst vel með pólitíkinni vestan hafs. Eftir þingkosningarnar í nóvember varð ljóst að pólitísk staða George W. Bush forseta Bandaríkjanna, myndi styrkjast til mikilla muna og hlaut hann skýrt umboð til að koma sínum málum í framkvæmd. Repúblikanaflokkurinn vann sögulegan sigur og tryggði sér völdin í bæði fulltrúadeild og öldungadeild Bandaríkjaþings. Framundan eru forsetakosningar í Bandaríkjunum. Þegar eftir að úrslit urðu ljós í þingkosningunum urðu átakalínur skýrari fyrir forsetaslaginn. Ef meta ætti nú líkurnar á hverjir myndu slást um Hvíta húsið kjörtímabilið 2004-2008 er líklegast að það yrðu George W. Bush og Joe Lieberman. Annars getur allt gerst demókratamegin og gæti allt eins orðið að forsetaframbjóðandi þeirra yrði einn af þeim sem lítils fylgis nýtur núna. Það er þó alveg ljóst að það verður athyglisvert að fylgjast með forsetaslagnum sem þegar er hafinn og mun ná hámarki eftir flokksþing stóru flokkanna sumarið 2004 þar sem forsetaefnin verða formlega valin. Framundan eru því spennandi tímar í bandarískri pólitík næstu 18 mánuðina, eða allt til kjördags, 2. nóvember 2004.
Athyglisvert netviðtal við Birgi
10. maí sl. var Birgir Ármannsson, 35 ára lögfræðingur og fyrrverandi formaður Heimdallar, kjörinn til þingsetu fyrir Sjálfstæðisflokkinn, kjörtímabilið 2003-2007. Er þing kom saman í lok seinasta mánaðar var hann kjörinn 6. varaforseti Alþingis, auk þess sem hann situr í allsherjarnefnd, efnahags- og viðskiptanefnd og er formaður Íslandsdeildar Vestnorræna þingmannaráðsins. Hafsteinn Þór Hauksson og Ragnar Jónasson ræddu við Birgi í tilefni af því og er afrakstur þess spjalls athyglisvert viðtal, fyrsta netviðtalið á frelsi.is þar sem á næstunni verður rætt við þingmenn flokksins.
Breytt 18.9.2006 kl. 08:02 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
24.6.2003 | 23:42
Engin fyrirsögn
Í sunnudagspistli vikunnar á stebbifr.com fjalla ég um skemmtilega ferð mína til Færeyja, borgarpólitíkina sem er sífellt að verða meira spennandi, enda greinilegt eftir tiltekt Ingibjargar Sólrúnar í geymslunni og yfirlýsingar eins þingmanns Samfylkingarinnar að samstarf meirihlutaflokkanna í borginni stendur veikum fótum og spurning hversu lengi það endist enda sárindin milli manna greinileg, og um afsögn fyrsta kvenforsætisráðherra Finna, Anneli Jäätteenmäki, sem varð að víkja í seinustu viku af valdastóli eftir aðeins tveggja mánaða valdaferil.
Góðar greinar Atla Rafns um heilbrigðismál
Undanfarið hefur frændi minn, Atli Rafn Björnsson gjaldkeri Heimdallar, skrifað nokkuð um heilbrigðismál á frelsi.is, er um að ræða tvær mjög athyglisverðar greinar. Hvet alla til að lesa þessar tvær greinar hans, bæði þá fyrri og einnig hina seinni.
Breytt 18.9.2006 kl. 08:02 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
21.6.2003 | 22:59
Engin fyrirsögn
Fór í gærkvöldi í Ketilhúsið hér á Akureyri á tónleika þar sem Guðrún Gunnarsdóttir söngkona, söng vinsælustu lög Ellýjar Vilhjálms, dægurlagadrottningar Íslands. Gestasöngvari með Guðrúnu var Friðrik Ómar Hjörleifsson útvarpsmaðurinn góðkunni á Akureyri. Ásamt Guðrúnu og Friðriki Ómari kom fram hljómsveit en hana skipuðu: Eyþór Gunnarsson hljómsveitarstjórn og píanó. Sigurður Flosason saxafónn, klarinett, þverflauta og slagverk. Erik Qvick trommur og Birgir Bragason kontrabassi. Tónleikarnir hafa gengið fyrir fullu húsi í nokkra mánuði í Salnum í Kópavogi og því mjög gott að fá tónleikana norður. Sannkölluð upplifun að hlusta á Guðrúnu og þessa góðu dagskrá. Gaman af þessu!
Góð grein um Robert F. Kennedy
Má til með að mæla með stórgóðri grein félaga míns, Guðfinns Sigurvinssonar, sem birtist um daginn á vefritinu Deiglunni. Þar fjallar hann á mjög áhugaverðan hátt um ævi og feril Roberts F. Kennedy dómsmálaráðherra Bandaríkjanna og öldungadeildarþingmanns New York-ríkis. Mögnuð lesning, einkar fræðandi skrif.
Breytt 18.9.2006 kl. 08:02 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
18.6.2003 | 22:58
Engin fyrirsögn
Ég kom til landsins í dag eftir 5 daga ferð til Færeyja með góðum vinum og félögum. Ferðin var alveg virkilega skemmtileg og mun ég skrifa um hana fljótlega, allavega fer ég aðeins yfir þessa skemmtilegu daga úti, í næsta sunnudagspistli. Sl. sunnudag birtist á heimasíðunni venju samkvæmt sunnudagspistill minn, þrátt fyrir að ég væri erlendis. Í honum fjalla ég um varnarmálin og væntanlegar viðræður um framtíð varnarsamningsins, borgarpólitíkina sem er athyglisvert að fylgjast með þessa dagana - bresti á R-listanum sem verða sífellt sýnilegri og sárinda sem greinilega eru enn til staðar eftir að leiðtoga R-listans til níu ára var ýtt til hliðar, bandarísk stjórnmál þar sem baráttan fyrir næstu forsetakosningar er þegar hafin - fer yfir hverjir séu líklegastir til að slást um Hvíta húsið á næsta ári og tala að lokum stuttlega um þjóðhátíð en þjóðhátíðardagurinn, 17. júní var í gær.
Breytt 18.9.2006 kl. 08:02 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
12.6.2003 | 14:56
Engin fyrirsögn
Seinustu daga hef ég hafið á ný skrif um kvikmyndir á kvikmyndavefinn, kvikmyndir.is og fjalla þar um nýjustu myndirnar. Einnig birtast nú vikulega greinar eftir mig á kvikmyndavefnum 3bio.is þar sem ég skrifa um leikstjóra og fjalla um feril þeirra, bestu myndirnar þeirra og margt fleira. Í seinustu tveim greinum hef ég skrifað um Steven Spielberg og Woody Allen. Seinna í þessari viku birtist svo grein mín um meistarann Billy Wilder.
Ferðalag
Fer seinnipartinn í dag suður og á morgun held ég til útlanda með félögum mínum. Framundan skemmtileg ferð vonandi næstu vikuna, allavega gaman að fara eitthvað sér til upplyftingar. Á sunnudaginn birtist á stebbifr.com næsti sunnudagspistill þar sem ég fer yfir ýmis spennandi mál að vanda. Vil ég þakka góð viðbrögð við þessum pistlum og góð orð sem ég hef fengið í tölvupósti frá ýmsu fólki, bæði sem ég þekki vel og aðra sem ég hef ekki spjallað við áður. Bloggið verður ekki uppfært aftur fyrr en ég kem aftur til landsins undir lok næstu viku. Þar sem framundan er þjóðhátíðardagurinn 17. júní sendi ég ykkur bestu þjóðhátíðarkveðjur.
Breytt 18.9.2006 kl. 08:02 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
10.6.2003 | 22:54
Engin fyrirsögn
Var að horfa á Kastljósið áðan þar sem fjallað var um matvörubúðir og hvort þær ættu að vera opnar á helgidögum. Þarna voru Guðjón Karl Reynisson framkvæmdastjóri 10-11, Ögmundur Jónasson formaður BSRB og sr. Halldór Reynisson. Ástæða þess að þetta er rætt var að á hvítasunnudag opnuðu forsvarsmenn 10-11 búðina, en henni var brátt lokað af lögreglu. Er það mitt mat að leyfa eigi að hafa búðir opnar þessa daga, ef fólk vill vinna við afgreiðslustörf og fólk vill kaupa í matinn á þessum dögum, skal leyfa það. Persónulega gæti ég alveg lifað þó að búðir væru lokaðar, en skil vel að sumir vilji hafa þetta með þessum hætti. Þessi forræðishyggja að hafa sumar búðir opnar þessa daga en aðrar ekki er algerlega á eftir sinni samtíð. Enda sjá allir að bensínstöðvar mega selja matvörur á hátíðisdögum en stórmarkaðirnir ekki. Annaðhvort er að leyfa þetta alveg eða hafa allt lokað. Svo einfalt er það. Skondið var að sjá forræðishyggjumanninn Ögmund áðan, reyna að bera á móti þessu, og vilja halda áfram á sömu braut í stjórnmennskunni. Eitt sinn kommi, alltaf kommi greinilega. Allavega búðirnar eiga að vera opnar ef fólk vill vinna og kúnnarnir kaupa, svo einfalt er það í mínum huga. Burt með forræðishyggjuna!
Skemmtilegt Kastljós
Annars má ég til með að koma með stutt komment á Kastljósið. Alltaf jafn gaman af þessum þætti. Ber af dægurmálaþáttunum. Svo hefur verið frískað upp á þáttinn með nýju fólki. Þarna eru komin Sveinn Guðmarsson og Svanhildur Hólm Valsdóttir auk þeirra Kristjáns Kristjánssonar og Sigmars Guðmundssonar. Allavega líflegt og skemmtilegt og góð efnistök. Sérstaklega líst mér vel á að Svanhildur frænka mín leysi af hana Evu Maríu. Gott að fá hana á skjáinn!
Breytt 18.9.2006 kl. 08:02 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
8.6.2003 | 23:06
Engin fyrirsögn
Í sunnudagspistli vikunnar á stebbifr.com fjalla ég um þá óvissu sem upp er komin um varnir landsins, væntanlegar viðræður íslenskra og bandarískra stjórnvalda um framtíð varnarsamningsins við Bandaríkin, málefni Raufarhafnar þar sem við blasir að kreppa sé framundan á staðnum samhliða uppstokkun á rekstri Jökuls sem er stærsti vinnustaðurinn þar, slæma stöðu sveitarsjóðsins og að lokum fer ég yfir starf komandi mánaða innan SUS, stjórnarkjör og ég lýsi yfir stuðningi við Hafstein Þór Hauksson í formannskjöri í SUS í september. Að lokum vil ég þakka öllum þeim fjölmörgu sem hafa sent mér tölvupóst í kjölfar opnunar heimasíðunnar 1. júní sl. og jafnframt hafa skrifað í gestabókina. Það er mér mikils virði að finna fyrir þessum góðu óskum og ég þakka kærlega fyrir hlý orð og góðar kveðjur.
Skemmtilegt spjall á MSN
Fékk mér fyrir um mánuði MSN Messenger spjallkerfi í tölvuna mína. Hef síðan sett upp öll netföng á póstlistanum mínum og er farinn að spjalla við félagana í MSN oft á dag. Alveg virkilega skemmtilegt. Spjalla oft við félaga mína, þá Árna G., Skapta Örn, Kristinn Má, Hauk Þór, Dabba, Guffa, Gunnar Ragnar, Valda, Jón Hákon, Tomma, Geira og marga fleiri. Virkilega gaman af þessu!
Breytt 18.9.2006 kl. 08:02 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
5.6.2003 | 21:40
Engin fyrirsögn
Á fundi Davíðs Oddssonar, forsætisráðherra, og Halldórs Ásgrímssonar, utanríkisráðherra, með Elizabeth Jones, aðstoðarutanríkisráðherra Bandaríkjanna í Ráðherrabústaðnum í dag, var lagt fram bréf frá George W. Bush forseta Bandaríkjanna. Ekki hefur verið gert opinbert nákvæmlega um efni bréfsins. Fyrir lá áður en fundurinn hófst að hann væri talinn marka upphaf viðræðna um framtíð varnarsamningsins við Bandaríkin. Viðræður um varnarsamning Íslands og Bandaríkjanna vegna breyttra aðstæðna í heimsmálum hófust árið 1993. Í janúar 1994 var undirrituð bókun til tveggja ára um framkvæmd varnarsamstarfsins. Með henni var ákveðið að orrustuþotum varnarliðsins skyldi fækkað úr tólf í fjórar. Þá var ákveðið að leggja niður starfsemi hlustunarstöðvar og fjarskiptastöðvar. Árið 1996 var samþykkt ný bókun um framkvæmd varnarsamningsins til næstu fimm ára. Þrátt fyrir að bókunin hafi einungis átt að gilda til ársins 2001 hafa formlegar viðræður um endurnýjun bókunarinnar enn ekki hafist. Óformlegar þreifingar um framhald málsins hafa hins vegar átt sér stað milli embættismanna og stjórnmálamanna ríkjanna undanfarin misseri. Dvöl ráðherrans var stutt en hún hélt af landi brott í dag.
Framtíð varnarsamningsins
Fyrir lá að loknum fundi utanríkismálanefndar undir forsæti Sólveigar Pétursdóttur formanns nefndarinnar, seinnipartinn að Bandaríkjamenn hafi áhuga á að finna nýjar leiðir til að tryggja varnir Íslands. Sagði utanríkisráðherra að loknum fundinum að Íslendingar hafi jafnan talið nauðsynlegt að hafa hér loftvarnir. Það kæmi ekkert fram í bréfi forsetans sem benti til þess að þeir væru á öðru máli í þeim efnum. Sagði ráðherrann að íslensk stjórnvöld myndu svara bréfi forsetans fljótlega og segja þar vel frá því hvernig Íslendingar vilji fara í þær viðræður sem eru framundan væru um þessi mál. Það væri ljóst að málið væri viðkvæmt og alvarlegt og ekki ljóst um lyktir viðræðnanna. Sagði Halldór að Bandaríkjamenn vildu greinilega draga úr herstyrknum hér á landi. Ekki væri þó ljóst hver væri nákvæmur vilji þeirra. Það hefði verið talað um það að hér væru t.d. ekki loftvarnir og hefði verið vísað til þess að slíkar loftvarnir væru í Bandaríkjunum og Bretlandi eða annars staðar. Sagði utanríkisráðherra að það væri fullkomlega ljóst að það gæfi ekki sömu tryggingu og ef þessar varnir væru hér á landi. Framundan eru því athyglisverðar viðræður um framtíð varnarsamningsins. Mikilvægt er að tryggja varnir landsins á komandi árum, vonandi mun nást farsæl lending í þessu máli.
Breytt 18.9.2006 kl. 08:02 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
31.5.2003 | 22:44
Engin fyrirsögn
Í dag fer Björn Bjarnason dómsmálaráðherra, yfir sviðið í pólitíkinni í nýjasta pistlinum á heimasíðu sinni. Hann fjallar um þinghald seinustu daga og borgarmálin en í vikunni lét hann af störfum sem leiðtogi borgarstjórnarflokks Sjálfstæðisflokksins, enda sestur á ráðherrastól. Athyglisverð er greining hans á stöðu mála þar nú, enda brestirnir á R-listanum sífellt að verða greinilegri. Jafnframt birtist á vefnum fyrsta ræða hans sem dóms- og kirkjumálaráðherra. Hún var flutt í dag þegar hann opnaði sýningu um sögu Landhelgisgæslunnar, en það að hún sé opnuð um helgina er engin tilviljun enda sjómannadagurinn á morgun. Þegar ég las þessa ræðu sannfærðist ég enn betur um að réttur maður er kominn á réttan stað. Tel að Björn muni standa sig vel í þessu hlutverki eins og í öllu öðru.
Ljúfur þáttur hjá Gísla Marteini
Gaman var að horfa á þátt Gísla Marteins eins og venjulega á laugardagskvöldi. Líflegur og ferskur að vanda. Aðalgestur Gísla var Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir verðandi menntamálaráðherra. Alltaf gaman að hlusta á Þorgerði, enda geislar hún og verður virkilega gaman að sjá hana á ráðherrastóli. Veit ég af kynnum mínum af Þorgerði að hún er glæsilegur fulltrúi yngri kynslóðarinnar í flokknum og verður gaman að fylgjast með verkum hennar á ráðherrastóli. Koma ferskir vindar inn í forystusveit flokksins þegar hún verður komin í ríkisstjórn. Er hún hiklaust einn af framtíðarleiðtogum flokksins, tel mikilvægt að flokkurinn velji hana til forystu seinna meir. Aðrir gestir Gísla voru Þórhallur Gunnarsson annar umsjónarmanna hins magnaða morgunþáttar Stöðvar 2, Ísland í bítið, og Hreimur Örn Heimisson söngvari. Hljómsveit hans Land og Synir flutti lag í þættinum ásamt Á Móti Sól. Verður Gísli með þáttinn út næsta mánuð, en mætir síðan galvaskur eftir fríið að lokinni verslunarmannahelgi í ágúst. Besti sjónvarpsþátturinn í dag, alveg hiklaust!
Breytt 18.9.2006 kl. 08:02 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
30.5.2003 | 22:36
Engin fyrirsögn
Fastagestir á bloggsíðunni hafa eflaust tekið eftir umtalsverðum breytingum sem átt hafa sér stað á síðunni í dag. Pælingar Stebba halda áfram af sama krafti og fyrr og við blasir hressileg andslitslyfting á síðunni, frísklegra og betra útlit. Taldi tímabært að hressa upp á útlit bloggsíðunnar, enda engu þar verið breytt frá því hún opnaði um miðjan október í fyrra. Hef skrifað reglulega hér um stjórnmál, kvikmyndir og ýmislegt fleira sem ég tel mikilvægt að ræða um. Eins og titillinn segir að þá tel ég mér ekkert mannlegt óviðkomandi! Hef oft heyrt að þessi titill lýsi mér mjög vel, enda hef ég jafnan þótt ófeiminn við að hafa skoðanir á hlutunum og tjá þá. Hef talið að hér sé ekkert mannlegt óviðkomandi og það sést vonandi á skrifunum.
Hinsvegar er ég ófeiminn við að tjá álit mitt á stjórnmálamönnum og það ætti ekki að fara framhjá neinum sem hingað lítur inn hvaða skoðanir ég hef á málefnum samtímans, pólitíkin er jú almennt mannlífið sjálft. Pólitíkin er bæði heillandi og frískandi málaflokkur sem öllum kemur við, það hafa allir sínar skoðanir og segja sína meiningu. Það sést vel á öllum þeim fjölda bloggsíðna sem til eru að fólk er ófeimið við að segja frá skoðunum sínum og jafnvel persónulegum háttum á óhikaðan hátt. Vegir bloggsins eru nefnilega órannsakanlegir, akur sem hvergi nærri hefur verið plægður að fullu. Endalaust er hægt að finna nýja vinkla á bloggmenningunni. Það er mjög ánægjulegt að taka þátt í henni og tjá sig af krafti. Það er mér t.d. nauðsynlegt að tjá mig með þessum hætti. Held þessu áfram af fullum krafti nú og vona að lesendum síðunnar líki breytingarnar og telji þær gott framfaraspor.
Ný heimasíða væntanleg
Það var í febrúar 2002 sem ég opnaði vefsíðu á huga.is og var þar að finna pistla mína og ýmsa fróðleiksmola. Þessi vefsíða varð fljótt mjög vinsæl og margir sem litu á hana. Hef ég síðan uppfært hana mjög reglulega og unnið að því sífellt að bæta hana, þann tíma sem hún hefur verið í gangi. Útlitsbreytingar hafa verið mjög litlar og taldi ég orðið tímabært að stokka þetta upp og fá mér almennilega heimasíðu sem væri sérhönnuð fyrir mig og fá mér eigið lén fyrir eigin heimasíðu. Fyrir tæpum mánuði ákvað ég að drífa í þessu og fékk mér lén og samdi við gott fyrirtæki um hýsingu á síðunni. Taldi ég engan betri í það verk að hanna síðuna en vin minn og flokksfélaga Árna Gunnarsson. Er mjög ánægður með útkomuna, mun Árni verða þarna vefstjóri og uppfæra síðuna.
Á sunnudag, 1. júní mun síðan opna formlega með pistli frá mér. Hef ég ákveðið að skrifa þar vikulega pistla um fréttavikuna og það sem mér þykir markverðast úr tíðindum liðinnar viku - það sem ég vil tjá mig um. Jafnframt munu birtast þarna pistlar sem ég skrifa fyrir flokksvefsíðurnar, frelsi.is og islendingur.is. Vona ég að fólk fylgist með síðunni og hvet jafnframt alla til að senda mér póst og koma með álit á síðunni og ræða málin ef eitthvað er. Vil endilega heyra skoðanir annarra á síðunni og pistlaskrifunum. Fylgist vel með á stebbifr.com á næstu vikum og mánuðum!
Breytt 18.9.2006 kl. 08:02 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
29.5.2003 | 21:17
Engin fyrirsögn
Á fundi með ungum sjálfstæðismönnum í Garðabæ á þriðjudag tilkynnti Hafsteinn Þór Hauksson að hann gæfi kost á sér til formennsku í Sambandi ungra sjálfstæðismanna, en nýr formaður verður kjörinn á þingi SUS í september. Núverandi formaður, Ingvi Hrafn Óskarsson, hefur lýst því yfir að hann sækist ekki eftir endurkjöri. Hafsteinn Þór er 25 ára laganemi og varaformaður Sambands ungra sjálfstæðismanna. Hann hefur setið í stjórn og áður varastjórn SUS frá árinu 1997. Þá hefur hann gegnt embætti formanns Hugins, félags ungra sjálfstæðismanna í Garðabæ. Hafsteinn Þór lauk stúdentsprófi frá Verzlunarskóla Íslands árið 1998 og er að ljúka laganámi við Háskóla Íslands. "Starf SUS hefur á síðustu tveimur árum einkennst af kosningabaráttu, vegna sveitarstjórna- og alþingiskosninga. Mikilvægt er að nýta næstu tvö ár vel og leggja áherslu á að virkja ungt fólk til stjórnmálaþátttöku og kynna hugsjónir sjálfstæðismanna um aukið frelsi einstaklingsins og minni ríkisafskipti," segir Hafsteinn Þór um helstu verkefni sem eru framundan. "Í samstarfi við aðra stjórnmálaflokka komast stefnumál sjálfstæðismanna ekki alltaf til skila og er því mikilvægt að ungir sjálfstæðismenn sinni áfram því hlutverki að vera samviska flokksins."
Vilhjálmur Þ. leiðtogi borgarstjórnarflokks Sjálfstæðisflokksins
Á fundi borgarstjórnarflokks sjálfstæðismanna, sem haldinn var í Ráðhúsi Reykjavíkur í gær kl. 16.00 var ákveðið að Vilhjálmur Þ. Vilhjálmsson borgarfulltrúi taki við hlutverki leiðtoga borgarstjórnarflokksins af Birni Bjarnasyni, dóms- og kirkjumálaráðherra og borgarfulltrúa. Björn Bjarnason mun áfram sitja í borgarstjórn en segir sig úr borgarráði. Hanna Birna Kristjánsdóttir borgarfulltrúi, tekur sæti Björns í borgarráði. Vilhjálmur sem er formaður Sambands íslenskra sveitarfélaga hefur verið borgarfulltrúi Sjálfstæðisflokksins frá 1982. Hann á að baki margvísleg störf fyrir flokkinn í borgar- og landsmálum og á þetta embætti vel skilið.
Breytt 18.9.2006 kl. 08:02 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
28.5.2003 | 20:00
Engin fyrirsögn
Úrslit alþingiskosninganna 10. maí sl. voru um margt athyglisverð. Athyglisverðustu niðurstöður þeirra voru á þá leið að Sjálfstæðisflokkurinn hélt stöðu sinni sem stærsti og öflugasti flokkur landsins. Og það þrátt fyrir að hart hafi verið sótt að honum og einkum leiðtoga hans. Samfylkingin bætti við sig nokkrum prósentustigum en náði ekki því fylgi sem henni var spáð í upphafi ársins, fyrst eftir að fyrrverandi borgarstjóri varð talsmaður flokksins í kosningabaráttunni. Framsóknarflokkurinn vann varnarsigur og hélt velli þrátt fyrir að hafa tekið djúpa dýfu í skoðanakönnunum eftir áramótin og um tíma verið á góðri leið með að þurrkast út. Með markvissum auglýsingum og kraftmikilli kosningabaráttu náði flokkurinn nokkurnveginn sínu fylgi frá 1999. VG missti mann og fékk ekki það mikla fylgi sem honum var spáð um tíma á seinasta kjörtímabili í skoðanakönnunum. Frjálslyndir bættu við sig tveim þingmönnum og nokkrum prósentustigum, en náðu ekki öllu því mikla fylgi sem skoðanakannanir sýndu nokkrum vikum fyrir kosningnar. Mikilvægasta niðurstaða kosninganna var þó hiklaust sú að ríkisstjórn Sjálfstæðisflokks og Framsóknarflokks hélt velli með fimm þingmanna meirihluta. Stjórnin stóð semsagt af sér þá atlögu sem gerð var að henni.
Samfylkingin ætlaði að slá um sig fyrir kosningar og sótti Ingibjörgu Sólrúnu Gísladóttur borgarfulltrúa, í Ráðhúsið, gerði hana að forsætisráðherraefni flokksins til að framkvæma pólitísk kraftaverk þar. Augljós markmið Samfylkingarinnar í kosningabaráttunni voru einkum þrenn; að fella ríkisstjórnina, verða stærsti flokkur landsins og koma Ingibjörgu Sólrúnu inn á þing úr fimmta sætinu í Reykjavík norður. Ekkert af þessu gekk eftir. Flokkurinn fékk svipað fylgi og hann var í, í skoðanakönnunum í desember 2002 þegar Ingibjörg Sólrún fór í landsmálin. Innkoma hennar breytti því engu þegar á hólminn kom. Þrátt fyrir fylgisaukninguna stendur Ingibjörg Sólrún nú eftir sem varaþingmaður og óbreyttur borgarfulltrúi. Ekki beint það hlutskipti sem að var stefnt. Eftir kosningarnar kom svo Össur Skarphéðinsson fram á sjónarsviðið eftir að hafa verið týndur að mestu í kosningabaráttunni og eignaði sér fylgisaukninguna, t.d. í Reykjavík norður. Hann sagðist ekki ætla að víkja af formannsstóli á landsfundi flokksins í haust og hefði til setu á honum stuðning Ingibjargar. Eins og flestir vita er hún lagin við að skipta um skoðanir og spurning hversu lengi sú stuðningsyfirlýsing stendur. Nú þegar eru farnar að heyrast háværar raddir innan flokksins að Ingibjörg eigi að fá formannsstólinn og Össur eigi að víkja. Ingibjörg Sólrún Gísladóttir er valdalaus eftir þessar kosningar. Ekki getur hún farið aftur í borgarstjórastólinn og því aðeins mögulegt að fara í landsmálin ef hún ætlar að halda áfram í pólitík. Ekki verður séð hvernig það á að ganga eftir á næstu árum nema þá að hún verði gerð að forystumanneskju flokksins eða einhver þingmanna í hennar kjördæmi víki. Ekki verður henni henni bjargað nema með björgunaraðgerðum innan flokksins. Sem fyrr verður væntanlega send björgunarþyrla eftir henni.
Eftir kosningarnar hófu Davíð Oddsson og Halldór Ásgrímsson, viðræður um áframhaldandi samstarf stjórnarflokkanna. Urðu þær viðræður árangursríkar. Þann 23. þessa mánaðar, 13 dögum eftir alþingiskosningar, tók við fjórða ráðuneyti Davíðs Oddssonar forsætisráðherra. Seinustu átta ár hafa þessir flokkar unnið saman og samstarfið verið farsælt. Það hefur umfram allt einkennst af heiðarleika og trausti milli forystumanna flokkanna. Sama ráðuneytaskipan verður áfram í stjórninni. 15. september 2004 verður sú breyting að Davíð Oddsson hættir sem forsætisráðherra og við tekur Halldór Ásgrímsson. Sjálfstæðisflokkur fær þá í sinn hlut embætti utanríkis- og umhverfisráðherra. Verða þá sjálfstæðismenn með sjö ráðherra en framsóknarmenn fimm. Davíð hefur sem forsætisráðherra í 12 ár verið áberandi og Sjálfstæðisflokkurinn aldrei verið sterkari en undir hans forystu. Hann er ótvíræður leiðtogi okkar sjálfstæðismanna. Sjálfstæðisflokkurinn hefur verið leiðandi aðili í þessu samstarfi og verður það áfram með stærri þingflokk og fleiri ráðherra. Hinsvegar er ljóst að Halldór Ásgrímsson býr yfir gríðarlegri reynslu, sem þingmaður og ráðherra. Hann er starfsaldursforseti Alþingis og hefur setið rúman hálfan annan áratug á ráðherrastóli, 8 ár sem utanríkisráðherra og 8 ár sem sjávarútvegsráðherra. Hann er því hæfur til starfans. Það er þó óneitanlega undarleg tilfinning að Sjálfstæðisflokkurinn, stærsti flokkur landsins leiði ekki stjórnina allt kjörtímabilið.
Á þessu kjörtímabili verða miklar breytingar á ráðherrahóp Sjálfstæðisflokksins. Björn Bjarnason hefur nú tekið sæti í ríkisstjórn að nýju, nú sem dóms- og kirkjumálaráðherra. Björn er einn af reyndustu þingmönnum flokksins, sat sem menntamálaráðherra í sjö ár og hefur jafnframt verið leiðtogi flokksins í borgarstjórn. Það kom vel í ljós í prófkjörinu í borginni í fyrra að staða hans er sterk innan flokksins. Á gamlársdag mun Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir setjast í stól menntamálaráðherra og taka við af Tómasi Inga Olrich. Það eru mjög góð tíðindi að Þorgerður setjist í ríkisstjórn, enda er hún vinsæl innan flokksins og nýtur mikils trausts flokksmanna. Hún verður glæsilegur fulltrúi flokksins í þessu ráðuneyti. 15. september á næsta ári verður svo Sigríður Anna Þórðardóttir umhverfisráðherra. Hún hefur sem þingflokksformaður og formaður utanríkis- og menntamálanefndar sannað getu sína og á ráðherrastólinn fyllilega skilið. Sólveig Pétursdóttir hættir sem ráðherra en verður forseti Alþingis í stað Halldórs Blöndals á miðju kjörtímabili. Sú endurnýjun sem nú á sér stað, bæði með nýjum þingmönnum á borð við Birgi Ármannsson, Guðlaug Þór, Sigurð Kára og Bjarna Benediktsson og svo með skipan Þorgerðar Katrínar í stól menntamálaráðherra, felur í sér ákveðin kynslóðaskipti. Þau kynslóðaskipti vekja upp ákveðna tilhlökkun til framtíðarinnar. Það verður fróðlegt að fylgjast með framgangi þessa fólks og annarra ungra lofandi sjálfstæðismanna á komandi árum.
Breytt 18.9.2006 kl. 08:02 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
25.5.2003 | 22:15
Engin fyrirsögn
Á föstudag varð Björn Bjarnason dómsmálaráðherra í nýrri ríkisstjórn Davíðs Oddssonar rúmu ári eftir að hann lét af embætti menntamálaráðherra eftir að hafa setið á þeim stól í sjö ár, 1995-2002. Í athyglisverðum pistli á heimasíðu sinni rekur Björn aðdragandann að því að hann varð ráðherra á ný. Er mjög skemmtilegt að lesa pistilinn og kynnast atburðarásinni allt frá því á fimmtudagsmorgun er hann hitti formann flokksins að máli til kvöldsins er Davíð kom formlega með tillögur sínar að ráðherravali sem samþykktar voru samhljóða á þingflokksfundi í Valhöll. Eins og fyrr segir er rúmt ár frá því Björn lét af störfum sem ráðherra og varð leiðtogi borgarstjórnarflokks Sjálfstæðisflokksins. Á þessu ári hefur borgarstjórnarflokkurinn verið mjög öflugt afl í stjórnarandstöðu borgarinnar undir forystu hans og uppbyggingarstarfið sem mun enda með sigri sjálfstæðismanna í kosningunum 2006 hófst undir hans leiðsögn. Mikilvægt er að vanda vel valið á leiðtoga í stað Björns. Undarlegt er að heyra vinstrimenn bera saman ákvörðun Björns og það þegar Ingibjörg Sólrún Gísladóttir varaþingmaður og fyrrv. forsætisráðherraefni Samfylkingarinnar gekk á bak orða sinna um að fara ekki í þingframboð 2003 og sitja á borgarstjórastóli til 2006 á kosninganótt 2002. Fráleitt er að bera þetta saman, enda mun Björn sinna störfum sínum sem borgarfulltrúi áfram, því sem hann var kjörinn til samhliða setu í ríkisstjórn. Hann er ekki að svíkja borgarbúa á sama hátt og fyrrverandi borgarstjóri sem laug að borgarbúum svo eftir var tekið. Virðast vinstrimenn reyna allt til að bjarga ISG frá eigin örlögum. Seta Björns í borgarstjórn tekur mið af skyldum hans sem þingmanns og nú dómsmálaráðherra eins og þingmennskan hefur tekið mið af skyldum hans í borgarstjórn. Eins og fyrr segir var gaman að lesa pistilinn og jafnframt Vettvangsgrein ráðherrans á laugardag, þar sem hann fjallar um stjórnarmyndunina og söguleg tíðindi hennar. Vonandi mun Björn halda áfram skrifum sínum í Moggann á laugardögum, gaman að lesa þessar Vettvangsgreinar á laugardögum.
Tyrkir vinna Eurovision - frábær frammistaða Birgittu
Gaman var að horfa á söngvakeppnina í gærkvöldi. Uppúr stóð frábær frammistaða Birgittu Haukdal sem flutti framlag okkar Íslendinga óaðfinnanlega í Skonto-höllinni í Riga í Lettlandi og hóf keppnina, var fyrst á svið. Er ávallt erfitt að hefja leikinn, enda ávallt hætta á að margir hafi brugðið sér frá eða séu uppteknir við eitthvað stúss heima fyrir. Okkar manneskja var glæsileg og lagið komst vel til skila. Stigagjöfin var mjög spennandi, oft mjög óvænt og athyglisverð. Kom vel í ljós að nágrannaþjóðir launuðu vel frændsemina og kusu eftir hefðinni. T.d. var athyglisvert að fylgjast með stigagjöf Rússa sem voru trúir sínum nágrannaþjóðum. Stöllurnar í Tatu voru ekki eins stuðandi og margir héldu og voru óvenju lágstemmdar þegar þær fóru á svið. Tyrkir unnu keppnina með lagi sem minnti óneitanlega á Kiss Kiss með Holly Valance. Kom á óvænt að það lag og það sem kom frá Belgum skyldu keppa um hnossið að lokum, en Tatu stelpurnar urðu í þriðja sætinu. Verð ég að viðurkenna að ég taldi okkar lag eitt af fimm bestu lögunum í ár. Birgitta náði níunda sætinu, fékk 81 stig, rétt eins og lag Spánverja. Varð hún hærri en margir þeirra sem spáð hafði verið betra gengi, er ómögulegt að spá um úrslitin. Þau koma oftast nær verulega á óvart, t.d. nú og einnig seinustu tvö árin þegar Eystrasaltslöndin unnu keppnina. Getum við verið stolt af Birgittu. Hún gerði sitt besta og var glimrandi fín. Meira er ekki hægt að gera og árangurinn var mjög góður. Markmiðið var að lenda í topp tíu og það hafðist, sleppum við þarmeð við undankeppnina á næsta ári, förum beint í úrslitakeppnina. Það er mjög góður árangur. Skemmtilegt var að horfa á keppnina. Félagi Gísli Marteinn fór á kostum við að lýsa herlegheitunum. Gísli fær 12 stig fyrir góða skapið og keppnisandann. Koma soh!!
Breytt 18.9.2006 kl. 08:02 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
24.5.2003 | 16:01
Engin fyrirsögn
Í gær urðu ríkisstjórnarskipti á Bessastöðum. Síðari ríkisráðsfundur fráfarandi ríkisstjórnar hófst klukkan 11. Þar létu Páll Pétursson og Sólveig Pétursdóttir formlega af ráðherraembættum. Páll eftir 8 ára setu sem félagsmálaráðherra og Sólveig eftir 4 ár á stóli dómsmálaráðherra. Klukkan 13:30 hófst ríkisráðsfundur þar sem ný ríkisstjórn Sjálfstæðisflokks og Framsóknarflokks undir forsæti Davíðs Oddssonar tók við völdum. Er þetta fjórða ráðuneyti Davíðs í röð, en slíkt er einsdæmi á Íslandi, en Davíð hefur nú setið rúm 12 ár á stóli forsætisráðherra. Lengur en nokkur annar Íslendingur. Um miðjan septembermánuð á næsta ári mun hinsvegar Halldór Ásgrímsson taka við embætti forsætisráðherra af Davíð. Á fundinum tóku tveir nýjir ráðherrar sæti þeirra sem fyrr er getið. Björn Bjarnason fyrrv. menntamálaráðherra varð dómsmálaráðherra og Árni Magnússon varð félagsmálaráðherra. Eins og ég hef áður sagt frá munu frekari breytingar verða á ríkisstjórninni á næstu mánuðum. Á gamlársdag tekur Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir sæti sem menntamálaráðherra og Sigríður Anna Þórðardóttir verður umhverfisráðherra í september 2004. Jafnframt verður einn ráðherra Framsóknarflokksins að standa upp til að rýma fyrir sjöunda ráðherra Sjálfstæðisflokksins í september á næsta ári. Það eru því margar breytingar og jafnframt spennandi í vændum á ráðherraliðinu. Á mánudag kemur Alþingi Íslendinga saman í fyrsta skipti á nýju kjörtímabili.
Eurovision 2003 - stóra stundin í kvöld!
Stóra stundin er í kvöld hjá Birgittu okkar í Riga. Vona að henni gangi sem allra best, veit að hún mun gera sitt besta og verða okkur til sóma. Hvet alla til að lesa magnaða bloggsíðu félaganna Gísla Marteins og Loga Bergmanns sem lýsir vel stemmningunni hjá okkar fólki úti. Við vonum það besta með kvöldið.
3 ár á Innherjavefnum
Í dag eru 3 ár liðin frá því að ég skrifaði mitt fyrsta komment um stjórnmál á spjallvefinn Innherja á visir.is. Tíminn er fljótur að líða, hefur verið bæði lærdómsríkt og gaman að tjá sig þarna og heyra skoðanir annarra. Hef ég verið málsvari minna skoðana og ekki hikað við að verja það fólk sem ég treysti, t.d. í stjórnmálum. Hef ég oft heyrt að ég sé trúr mínum flokki þarna, vissulega er það rétt. Skammast ég mín ekki fyrir að verja mína stefnu og mitt fólk, rétt eins og aðrir gera þarna sýnist mér. Ætla ég að halda áfram að skrifa komment þarna eftir því sem mér finnst ástæða til að leggja orð í belg og tjá skoðanir mínar. Það er alltaf gaman að tjá skoðanir sínar á opinn vef og það undir nafni, tel réttast að standa og falla með skoðunum mínum og hef því í þessi þrjú ár notast við nafn mitt sem notandanafn.
Breytt 18.9.2006 kl. 08:02 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
23.5.2003 | 01:52
Engin fyrirsögn
Í gærkvöld varð ljóst að talsverðar breytingar verða á ríkisstjórninni á kjörtímabilinu. Björn Bjarnason verður dómsmálaráðherra og Árni Magnússon félagsmálaráðherra í dag þegar ný stjórn tekur við á Bessastöðum eftir hádegið. Á gamlársdag verður Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir menntamálaráðherra og 15. september 2004 verður Sigríður Anna Þórðardóttir umhverfisráðherra. Líst vel á að fá þessar konur inn. Tómas Ingi Olrich hefur setið á þingi í 12 ár og verið menntamálaráðherra í tæp tvö ár þegar hann lætur af embætti á gamlársdag. Að honum er mikil eftirsjá en ekkert óeðlilegt að hann stefni í aðrar áttir. Hann fær starf sem hentar vel hans menntun og bakgrunni. Halldór Blöndal hefur setið á þingi í 24 ár og verður áfram forseti Alþingis. Situr á þeim stól til hausts 2005 er Sólveig Pétursdóttir tekur við. Það blasir því við að kjarnakonan Arnbjörg Sveinsdóttir taki sæti á þingi á kjörtímabilinu. Björn Bjarnason mun í framhaldi af þessu hætta sem leiðtogi borgarstjórnarflokks Sjálfstæðisflokksins. Það fer ekki saman að vera dómsmálaráðherra og leiðtogi í borgarstjórnarflokknum. Verður spennandi að sjá hver tekur við leiðtogahlutverkinu. Fer ég ekki leynt með að ég tel Gísla Martein Baldursson vera framtíðarleiðtoga okkar í borgarstjórn. Framundan er spennandi kjörtímabil í íslenskri pólitík og athyglisverðar breytingar á ráðherraskipan.
Stefnuyfirlýsing ríkisstjórnarinnar
Í stefnuyfirlýsingu ríkisstjórnar Sjálfstæðisflokks og Framsóknarflokks, sem kynntur var í gær, er tekið mið af efnahagslegum stöðugleika, öflugu atvinnulífi og styrkri stjórn landsmála, sem við Íslendingar höfum orðið vitni að á undanförnum árum og leitt hefur af sér lengstu samfelldu kaupmáttaraukningu og hagsældar Íslandssögunnar. Markmið þeirrar ríkisstjórnar sem nú tekur við ætti að gleðja frjálslynda menn. Gerbreyting verður í skattamálum. Meðal annars er ráðgert að lækka tekjuskattsprósentu á einstaklinga um allt að 4%, fella niður eignarskatt, samræma og lækka erfðafjárskattog lækka virðisaukaskatt. Þá er fyrirhugað að auka möguleika almennings á skattfrjálsum viðbótalífeyrissparnaði. Ráðgert er að fylgja eftir heimild Alþingis um sölu á hlut ríkisins í Landssíma Íslands. Sala fyrirtækisins mun fara fram þegar markaðsaðstæður leyfa. Gert er ráð fyrir að í heilbrigðisþjónustunni verði hugað að því að nýta kosti ólíkra rekstrarforma og þjónustusamninga um einstaka þætti þar sem það á við til að tryggja ódýrustu og bestu þjónustu sem völ er á, en jafnframt að tryggja áfram jafnt aðgengi allra til að nota heilbrigðisþjónustu. Loks er fyrirhugað að byggja áfram á núverandi aflamarkskerfi með hóflegu veiðigjaldi við stjórn fiskveiða.
Breytt 18.9.2006 kl. 08:02 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
21.5.2003 | 22:58
Engin fyrirsögn
Í dag urðu stórtíðindi í stjórnmálunum. Það varð þá ljóst að forsætisráðherraferli Davíðs Oddssonar mun ljúka eftir 15 mánuði, í september 2004. Þann 15. september 2004 tekur Halldór Ásgrímsson utanríkisráðherra við embætti forsætisráðherra í ríkisstjórn Sjálfstæðisflokks og Framsóknarflokks sem verið er að mynda. Á þeim tímapunkti koma utanríkisráðuneytið og umhverfisráðuneytið í hlut Sjálfstæðisflokksins til viðbótar þeim ráðuneytum sem flokkurinn ræður nú yfir. Ekki verða breytingar á skiptingu ráðuneyta milli flokkanna núna. Davíð telur líklegast að hann sitji áfram í stjórn eftir september 2004, þá annaðhvort sem utanríkis- eða fjármálaráðherra. Að sögn Davíðs eru það einna helst sanngirnisrök sem mæli með því að þetta verði niðurstaðan. Flokkarnir hafi starfað saman í átta ár og séu að leggja á djúpið í róður til næstu fjögurra ára. Það sé ljóst að formaður Framsóknarflokksins hafi verið ráðherra i 16 ár, starfað í mörgum ráðuneytum, og hafi mikla reynslu. Nýr stjórnarsáttmáli Framsóknarflokks og Sjálfstæðisflokks var kynntur í þingflokkum síðdegis. Eftir langa fundi kom forsætisráðherra út með fréttirnar. Helsta niðurstaðan í stjórnarsáttmálanum er að sjávarútvegsmálin verða endurskoðuð, t.d. veiðiskylda, línutvöföldun tekin upp. Húsnæðislán verða hækkuð upp í 90% sem var eitt af kosningaloforðum framsóknarmanna. En framsóknarmenn þurftu að gefa eftir í skattamálum sem verða meira á nótum sjálfstæðismanna. Ný ríkisstjórn tekur við völdum á föstudag kl. 13:30. Nýjir ráðherrar verða valdir á morgun.
Breytt 18.9.2006 kl. 08:02 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
17.5.2003 | 22:57
Engin fyrirsögn
Á fimmtudag heimsótti Dr. Gerhard Sabathil, sendiherra ESB á Íslandi, Háskólann á Akureyri og flutti erindi þar sem hann fjallaði um sjávarútvegsstefnu ESB, stækkun sambandsins og samninga um stækkun EES. Í erindi sínu útilokaði Sabathil ekki að Íslendingar gætu fengið undanþágu í sjávarútvegsmálum, verði á annað borð gengið til viðræðna við sambandið um inngöngu Íslands. Um þessar mundir stendur yfir staðfestingarferli með þjóðaratkvæðagreiðslum í ríkjunum 10 sem stefna að því að ganga formlega í ESB 1. maí á næsta ári, en stjórnvöld þessara ríkja undirrituðu aðildarsamninga í Aþenu fyrr í vor. Ríkin sem hér um ræðir eru Eistland, Kýpur, Lettland, Litháen, Malta, Pólland, Slóvakía, Slóvenía, Tékkland og Ungverjaland. Flest þessara landa hafa veikan efnahag sem hefur gert inngöngu þeirra erfiðari, en þó koma menn auga á ýmis tækifæri við stækkunina m.a. í formi stærri markaða og meiri mannafla. Dr. Sabathil dró það fram í máli sínu, að lítil lönd hefðu hlutfallslega mikil áhrif innan Evrópusambandsins og reynslan sýndi að mikið tillit væri tekið til sérstöðu þeirra og benti í því sambandi á reynslu Slóveníu og Möltu. Hann kvaðst hafa skoðað sérstaklega hvaða ríki það væru sem hefðu fengið mestar undanþágur og sérsamninga í aðildarviðræðum og öfugt við það sem margir héldu, þá væru það fyrst og fremst litlu ríkin sem hefðu fengið undanþágur en ekki stærri ríkin. En áhrifin vegna fyrirhugaðrar stækkunnar sagði hann myndu koma fram á næstu árum. Á erindi sendiherrans mátti skilja að íslendingar gætu ekki útilokað viðræður við Evrópusambandið á þeim grundvelli að undanþágur vegna fiskveiðistjórnunar og sjávarauðlinda fengjust aldrei. Ekkert væri hægt að fullyrða um slíkt fyrr en samningaviðræður hefðu verið reyndar. Fór hann sérstaklega yfir samningaviðræður sambandsins við Möltu og taldi að íslendingar gætu haft þær til viðmiðunar, þar sem stjórnvöld á Möltu fóru fram á ýmsar varnalegar undanþágur frá reglum sambandsins og fengu þær samþykktar.
Undirstrikaði Sabathil í því sambandi að um varanlegar undanþágur væri að ræða enda hefðu aðildarsamningar þá stöðu að flokkast sem grunnnlög í ESB. Sendiherrann kom inn á yfirstandandi viðræður vegna stækkunar EES og þann hnút sem þeir samningar væru í vegna afstöðu Pólverja um að fá aukinn hluta innflutningskvótans í sinn hlut. Taldi hann aðspurður að trúlega væri lausn á því máli í sjónmáli, og vildi skipta vandanum upp í tvennt. Annars vegar stærð kvótans og sú hræðsla Pólverja við að lenda í hráefnisskorti fyrir fiskvinnslur sínar ef kvótinn kláraðist. Hins vegar væri það grundvallarspurningin um hvort hægt væri að mæta kröfu Pólverja um að fá sérstakan landskvóta, þ.e. að ákveðinn hluti kvótans yrði eyrnamerktur Póllandi. Sabathil taldi ólíklegt að það yrði látið eftir Pólverjum að fá landskvóta enda stangaðist slíkt á við grundvallarreglur ESB sem tollabandalags. Hins vegar taldi hann líklegt að við þessu yrði brugðist með þeim hætti að innflutningskvótar verði skilgreindir sem ársfjórðungskvótar, þannig meiri sveigjanleiki væri í kerfinu og minni hætta á að Pólverjar lentu í hráefnisskorti án þess að geta brugðist við því. Einnig taldi hann koma til greina að samþykktur yrði tiltekin neyðarréttur fyrir Pólverja, þannig að ef vinnslan þar í landi stæði frammi fyrir stöðvun vegna hráfefnisskorts myndu önnur ríki fallast á sérstakan tollfrjálsan neyðarinnflutningskvóta frá Íslandi og Noregi, án þess þó að slíkur neyðarkvóti gæfi fordæmi fyrir auknum kvóta almennt. Sendiherrann taldi ólíklegt að þessi mál myndu leysast fyrr en eftir þjóðaratkvæðagreiðsluna um ESB aðildina í Póllandi sem verður í byrjun júní, þar sem pólsk stjórnvöld vildu ógjarnan gefa eftir áður en farið væri í þá aðgerð. Hins vegar yrði að gagna frá þessum samningum strax eftir þá þjóðaratkvæðagreiðslu og áður en embættismannakerfið í ESB fer í sumarleyfi, ef takast ætti að koma málinu í sama staðfestingarferli hjá þjóðþingum aðildarríkja ESB og stækkunin sjálf fer í. Takist ekki að koma stækkun EES í sama staðfestingarferli og stækkun ESB, má búast við að EES samningurinn sé í uppnámi þar sem óvissa mun ríkja um hvernig hægt sé að framkvæma hann. Var þetta fróðlegur pistill en ansi einstrengingslegur eins og búast mátti sennilega við af kommissar ESB og málsvara þeirra.
Breytt 18.9.2006 kl. 08:02 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
14.5.2003 | 23:03
Engin fyrirsögn
Ríkisstjórn Sjálfstæðisflokks og Framsóknarflokks hélt velli í þingkosningunum 10. maí sl. Hefur hún fimm sæta meirihluta á þingi. Á þriðjudag hófust stjórnarmyndunarviðræður stjórnarflokkanna eftir að þingflokkarnir samþykktu að veita formönnum flokkanna umboð til að ræða endurnýjað samstarf. Sitja formenn og varaformenn flokkanna í viðræðunefnd um stjórnarmyndun. Undanfarna daga hefur gagnasöfnun farið fram og líklegt að vinnu við stjórnarsáttmála ljúki í byrjun næstu viku. Verður þá farið að ræða skiptingu ráðuneyta og lokafrágangi málsins. Skv. þessu munu æðstu stofnanir flokkanna ræða stjórnarmyndun um miðja næstu viku og ný stjórn taka við á miðvikudag eða fimmtudag í næstu viku. Líklegast er að Davíð Oddsson verði áfram forsætisráðherra í stjórninni. Um mitt kjörtímabilið er líklegt að hann hætti afskiptum af stjórnmálum og taki þá Halldór Ásgrímsson við embætti hans. Því blasir við að uppstokkun á ráðuneytum fari fram þá en ekki nú. Ef svo verður að Framsóknarflokkurinn fái embætti forsætisráðherra um mitt kjörtímabilið mun Sjálfstæðisflokkurinn fá bæði fjármála- og utanríkisráðuneyti þá og jafnframt sjö ráðherra af 12, svipaða skiptingu og var síðast þegar framsóknarmaður leiddi slíkt samstarf 1983-1987 þegar Steingrímur Hermannsson var forsætisráðherra. Eiginleg uppstokkun mun þá fara fram um mitt kjörtímabil en ekki núna, því verður engin teljandi breyting á ráðuneytaskipan fyrr en þá.
Breytt 18.9.2006 kl. 08:02 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
12.5.2003 | 19:51
Engin fyrirsögn
Í dag tók Kristján Þór Júlíusson bæjarstjóri, fyrstu skóflustunguna í Naustahverfi á Akureyri en Naustahverfi er nýtt hverfi fyrir ofan flugvöllinn og á að rísa á svæði frá suðurenda bæjarinns að Kjarnaskógi. Áætlað er að Naustahverfi byggist upp á 15 árum og áætlaður íbúafjöldi verður 6-8 þúsund manns í 2300-3000 íbúðum þegar það verður fullbyggt. Hverfið skiptist upp í tvö skólahverfi og eina kirkjusókn. Rammaskipulag Naustahverfis var unnið af Kanon arkitektum á árunum 1998-2000 á grunni verðlaunatillögu þeirra í hugmyndasamkeppni frá vorinu 1997. Höfuðmarkmiðið með nýja skipulaginu er að skapa nýtt hverfi í framhaldi af núverandi byggð, þar sem gott er að búa og starfa. Kjarnagata mun liggja í gegnum hverfið með íbúðum ásamt þjónustu, verslunum og stofnunum. Húsagerðir verða margvíslegar, með áherslu á sambyggð sérbýli, t.d. íbúðir sem hafa sérinnganga en eru sambyggð eða tengd með einhverjum hætti. Kanon arkitektar hafa unnið deiliskipulag 1. áfanga Naustahverfis út frá markmiðum rammaskipulagsins, en þar er gert ráð fyrir samtals 327 íbúðum ásamt grunnskóla og leikskóla. Í þeim áfanga sem nú er verið að hefja byggingaframkvæmdir í eru alls 158 íbúðir en búið er að úthluta lóðum fyrir 143 íbúðir. Gatnaframkvæmdir við næsta áfanga, þar sem fyrirhugaðar eru 169 íbúðir, hefjast á næstu dögum. Lóðum í þeim áfanga verður úthlutað fyrri hluta sumars og verða þær byggingarhæfar 1. nóvember n.k. Fyrsta byggingin sem ráðist var í í hinu nýja hverfi er fjögurra deilda leikskóli, sem tekinn verður í notkun 18. ágúst næstkomandi, áður en fyrstu íbúar hverfisins flytja inn. Þá mun nýr grunnskóli rísa við hlið leikskólans þegar íbúafjöldi hefur náð tilsettu marki. Í hverfinu verður einnig lögð áhersla á umferðaröryggi og góðar og öruggar gönguleiðir auk þess sem frá upphafi byggðar mun bærinn gróðursetja skjólbelti til að bæta búsetuumhverfi fyrir væntanlega íbúa.
Breytt 18.9.2006 kl. 08:02 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)