Engin fyrirsögn

Úrslit þingkosninganna 2003
Úrslit þingkosninganna liggja nú ljós fyrir. Niðurstaða þeirra er á þá leið að Framsóknarflokkurinn vinnur varnarsigur, Sjálfstæðisflokkurinn tapar fylgi eftir 12 ára stjórnarsetu en heldur sess sínum sem stærsti flokkur landsins, Samfylkingin vinnur á en ekki eins mikið og upphaflega var spáð, vinstri grænir dala og Frjálslyndir eflast og fá helmingi stærri þingflokk. Ætla að fara aðeins yfir úrslit kosninganna. Flokkurinn bætir við sig þeim ungu mönnum sem unnu prófkjörssigra í fyrra sem er mér mjög að skapi. Hinsvegar detta kraftmiklar þingkonur út sem er mjög miður. Mikil vonbrigði voru niðurstöður kosninganna hér í Norðausturkjördæmi, þar duttu því miður út þingkonur okkar, Abba og Sigga. Undir lok kosningabaráttunnar kom vel í ljós að við vorum að tapa verulegu fylgi til Framsóknarflokksins miðað við seinustu kannanir. Undir lok baráttunnar varð okkur ljóst að fólk vildi endurnýjun á listann, þær raddir komu ekki fyrr en á seinni stigum og listinn hafði verið ákveðinn. Framundan er algjör uppstokkun á forystusveit flokksins í mínu kjördæmi og að mínu mati algjörlega nýtt lið verður að taka við forystunni. Það er mitt mat að Kristján Þór Júlíusson ásamt yngra fólki eigi að taka við stjórn flokksins í kjördæminu á komandi árum. Persónulega mun ég leggja mitt af mörkum við þá uppstokkun. Gleðiefni var hinsvegar góð útkoma í Suðvesturkjördæmi þar sem við héldum okkar fimm mönnum og í Norðvestur þar sem Sturla stóð af sér mótvindinn. Niðurstaðan í borginni eru vonbrigði en þar erum við þó enn stærsti flokkurinn með 9 þingmenn samtals.

Halldór Ásgrímsson fékk góða kosningu í Reykjavík og fer inn við annan mann. Siv og Jónína fá góða kosningu. Sigurvegari kosninganna af hálfu Framsóknar er hinsvegar Valgerður Sverrisdóttir sem fer inn með þrjá með sér í sínu kjördæmi (þar á meðal yngsta þingmann landsins frá 1934, Birki Jón) og er klárlega orðin leiðtogakandidat í flokknum þegar Halldór hættir. Guðni kemur veikur út í sínu kjördæmi, en Valgerður trompar og ég tel líklegast að hún verði formaður flokksins á eftir Halldóri, hennar staða hefur styrkst gríðarlega. En Framsókn er klárlega með pálmann í höndunum þegar kemur að stjórnarmyndun. Ingibjörg Sólrún komst sem betur fer ekki inn á þing og mun ekki leiða næstu ríkisstjórn hvernig svo sem fer, hún er ekki lengur inn í myndinni sem forsætisráðherraefni. Hún getur á næstu árum einbeitt sér að einhverju öðru en forystustörfum í pólitík. Samfylkingin vann sigra í Suðurkjördæmi og í Reykjavík norður en tapar í Norðvestur og missa þar mann. Í Norðaustur komst Lára Stefánsdóttir ekki inn. Inn kemur ungt Samfylkingarfólk sem á framtíðina fyrir sér. Steingrímur J. og VG bíða skipbrot og missa dampinn. Tel líklegt að þessa flokks bíði að þurrkast út í næstu kosningum, hann missir flugið og tapar manni. Frjálslyndir Stækka þingflokkinn um helming og bæta við nýju fólki á þing. Guðjón fer inn við annan mann og Gunnar Örlygsson og Magnús Þór fara báðir inn. Athygli vekur að flokkurinn fær engan mann í borginni, semsagt fer dóttir stofnanda flokksins, Margrét, ekki inn á þing, sem hljóta að vera vonbrigði fyrir flokksmenn.

Niðurstaða: Stjórnin heldur velli og mun sitja áfram tel ég. Uppstokkun verður hinsvegar á ráðuneytum og tel ég ekki ólíklegt að formenn stjórnarflokkanna skipti kjörtímabilinu með sér í forsætinu. Ekki ólíklegt að mannaskipti verði. Annars fer stjórnarmyndun nú af stað og athyglisvert hvernig hún fer. Mitt mat er að stjórnin muni sitja áfram, hún heldur velli og flokkarnir eiga að halda áfram samstarfinu. Verð að lýsa yfir vonbrigðum mínum með að vinkonur mínar þær Lára Margrét, Ásta, Arnbjörg og Sigga nái ekki inn, að þeim er mikill sjónarsviptir á þingi. Þessar kjarnakonur stóðu sig vel á þingi og ég vona að þeim farnist vel á nýjum vettvangi. Framundan eru spennandi dagar í pólitíkinni við stjórnarmyndun.

Engin fyrirsögn

Skýrar línur - verum blátt áfram í dag
Kosningabaráttu við alþingiskosningarnar 2003 lauk í gærkvöldi með umræðum forystumanna þeirra flokka sem bjóða fram á landsvísu, í alþingishúsinu. Komið er að þeim tímapunkti að fólk gangi að kjörborðinu og velji fulltrúa sína á Alþingi Íslendinga næsta kjörtímabilið. Kaus í morgun í Oddeyrarskóla á Akureyri, þar er sól og blíða og góð stemmning í fólki. Í dag verður skorið úr um það hvort Sjálfstæðisflokkurinn verður áfram í forystu landsmála. Þau tæki sem sjálfstæðismenn hafa alltaf haldið fram að reynist best hafa skilað þjóðinni hagsæld án fordæma í Íslandssögunni. Frelsi einstaklingsins, ábyrgð í ríkisfjármálum og hófleg skattheimta hafa verið einkunnarorð Sjálfstæðisflokksins í þeim ríkisstjórnum sem flokkurinn hefur veitt forystu frá árinu 1991. Nú er sótt að Sjálfstæðisflokknum sem aldrei fyrr, þrátt fyrir árangurinn sem náðst hefur. Rökin gegn stjórn Sjálfstæðisflokksins byggjast á veikum grunni en það þýðir ekki að sjálfstæðismenn þurfi ekkert að óttast. Að Íslendingum steðjar sú ógn, að vinstristjórn komist til valda og glutri niður árangrinum og misnoti tækifærin sem eru til sóknar.

Sjálfstæðisflokkurinn hefur í hyggju að framkvæma eftirfarandi á næsta kjörtímabili; lækka tekjuskatt um 4%, afnema eignarskatta, lækka um helming virðisaukaskatt á matvæli, bækur, húshitun, rafmagnskostnað og öðru sem tilheyri lægri virðisaukaskattsþrepinu, hækka barnabætur um 2000 milljónir króna, lækka öll skattþrep erfðafjárskatts og auka skattfrelsi vegna viðbótar framlaga í lífeyrissparnað. Hingað til hafa sjálfstæðismenn ekki lofað beinum skattalækkunum fyrir kosningar en hafa þó lækkað þá samt. Um er að ræða bein loforð okkar sem við munum efna ef okkur verður falin stjórn á þjóðarskútunni næsta kjörtímabil. Eins og formaður flokksins sagði sjálfur í ræðu á landsfundi eru sjálfstæðismenn ekki aðeins umræðustjórnmálamenn heldur fyrst og fremst athafnastjórnmálamenn. Skattalækkunartillögur flokksins munu allar verða lögfestar í einu lagi á fyrsta haustþingi eftir kosningar. Þar munu dagsetningar verða nefndar um hvenær breytingarnar tækju gildi á kjörtímabilinu. Greinilegt er að lítill samhljómur er á milli leiðtoga stjórnarandstöðuflokkanna í kosningabaráttunni og hafa þau talað í margar áttir í þeim umræðuþáttum sem þau hafa verið saman í. Þau virðast eiga mjög fátt sameiginlegt. Talsmaður Samfylkingarinnar slær úr og í frá einum sjónvarpsþætti til annars og virðist að mörgu leyti endurspegla vel þann flokk sem hún er í. Ætti að nægja að líta á skattamálin í þeim efnum. Nú virðist fjölþrepa tekjuskatturinn fokinn út í veður og vind. Eins og fyrr segir er leiðtogaþrenning stjórnarandstöðunnar ekki traustvekjandi, en ljóst er að hún er sá kostur, sem kjósendur hafa gegn leiðtogum stjórnarflokkanna þegar velja skal forystu til næstu ára. Kostirnir í komandi kosningum eru mjög skýrir; viljum við áframhaldandi stöðugleika eða stjórnleysi að hætti vinstri manna í margra flokka stjórnum frá fyrri tíð. Svo einfalt er það!

Sjálfstæðisflokkurinn gengur til kosninga í dag stoltur af þeim árangri sem Íslendingar hafa náð og sannfærður um að ef áfram verður haldið á sömu braut bíði okkar allra enn frekari ávinningur. Miklar breytingar hafa orðið á íslensku þjóðfélagi á undanförnum árum. Þær hafa leitt til hagsældar og bættra lífskjara langt umfram það sem gerst hefur í nálægum löndum. Umgjörð atvinnulífsins er nú betri en áður, starfsskilyrði þess hagstæðari, skattar almennings og fyrirtækja lægri og svigrúm til athafna meira en áður. Tekist hefur að treysta forsendur velferðarkerfisins með öflugu atvinnulífi á grundvelli stöðugleika í efnahagsmálum. Saman höfum við náð árangri og getum verið bjartsýn á framtíð okkar og Íslands á komandi árum. Varðveitum stöðugleikann á komandi árum. Glutrum ekki árangri undanfarinna ára niður, sköpum ný tækifæri og farsæla framtíð til hagsbóta fyrir alla. Með því að kjósa Sjálfstæðisflokkinn og Davíð Oddsson áfram til forystu í landsmálunum stöndum við vörð um stöðugleikann. Ég hvet landsmenn til að vera blátt áfram í dag og kjósa Sjálfstæðisflokkinn á kjörstað. Framtíð þjóðarinnar er í okkar höndum, tryggjum að áfram verði haldið á braut farsældar í landinu okkar, landi tækifæranna. Áfram Ísland!

Engin fyrirsögn

Staðreyndir um skattamál
Athyglisvert hefur verið að fylgjast með umræðu um skattamál í kosningabaráttu seinustu mánaða og viknar. Þar hefur t.d. Samfylkingin hamrað á því að núverandi ríkisstjórnarflokkar séu flokkar skattahækkana og hafa með undarlegum hætti reynt að auglýsa sig sem flokka skattalækkana. Það sem eftir stendur er þó sú staðreynd að Sjálfstæðisflokkurinn hefur ekki hækkað skatta á þessu kjörtímabili, eins og Samfylkingin með stuðningi fréttamanna Stöðvar 2 hafa reynt að halda fram. Þeir sem reyna að koma því að í umræðunni að skattar hafi verið hækkaðir geta þó ekki bent á neinn skatt sem hefur hækkað, enda ljóst að í stjórnartíð Sjálfstæðisflokksins hafi skattar þvert á móti lækkað. Pólitískir andstæðingar Sjálfstæðisflokksins reyna eftir fremsta megni að slá ryki í augu fólks með ósannindum. Staðreyndir málsins eru þær að eignaskattur hefur verið lækkaður um helming og sérstakur eignaskattur verið lagður af. Fríeignamörk hafa verið hækkuð nokkuð. Sjálfstæðisflokkurinn stefnir að því að afnema eignaskatta algjörlega á næsta kjörtímabili ef hann verður við stýrið á þjóðarskútunni áfram. Á kjörtímabilinu hefur hátekjuskattur verið lækkaður úr 7% niður í 5% og viðmiðunarmörkin verið hækkuð nokkuð. Reyndar er hátekjuskattur rangnefni hið mesta á þessum skatt, enda lendir miðtekjufólk innan marka hans. Frá alþingiskosningunum 1999 hefur skattfrádráttur vegna viðbótarlífeyrissparnaðar aukist um helming, sem leiðir til langtímasparnaðar og á verulegan þátt í því að draga úr bæði verðbólgu og viðskiptahalla, sem um leið hefur dregið úr þenslu í efnahagslífinu. Húsaleigubætur hafa verið gerðar skattfrjálsar. Tekjuskattur verið lækkaður um 4%. En athyglisvert er að tekjuskatturinn var 32,8% þegar vinstri stjórn fór frá vorið 1991, en er nú tólf árum síðar 25,75%. Matarskatturinn var lækkaður úr 24,5% í 14% fyrir tæpum áratug og afnám tolla á grænmeti hafa skilað sér vel til neytenda. Þessar ráðstafanir hafa komið öllum verulega til góða.

Það er margsannað að skattbyrði er hérlendis með því lægsta sem gerist meðal aðildarríkja OECD. Komið hefur fram að skattbyrði fjölskyldu með tvö börn, þar sem annar makinn er heimavinnandi, er –3,2%, sem þýðir svo aftur á móti að fjölskyldan fær meira greitt til baka frá samfélaginu, en hún greiðir til þess með sköttum. Til samanburðar er skattbyrði sambærilegrar fjölskyldu í Danmörku 30,5%. Það er því ekki hægt að skilja málflutning stjórnarandstöðunnar um að skattar hafi hækkað hérlendis í valdatíð Sjálfstæðisflokksins og Davíðs Oddssonar. Það sem er þó athyglisverðast af öllu því sem átt hefur sér stað frá 1991 er sú staðreynd að kaupmáttur launa hefur hækkað um þriðjung frá árinu 1994 og verðbólga með því lægsta sem almennt gerist meðal vestrænna þjóða. Það er því öllum ljóst sem líta á málin og staðreyndirnar að almenningur hérlendis hefur notið ríkulega afraksturs af traustri efnahagsstjórnun hérlendis. Framundan eru meiri skattalækkanir ef réttir aðilar sitja að völdum næstu árin. En hverjir eru réttir aðilar mætti sjálfsagt spyrja sig. Að sjálfsögðu er það Sjálfstæðisflokkurinn sem hefur verið kjölfestan í stjórn landsins seinasta áratuginn. Sjálfstæðisflokkurinn er og hefur alla tíð verið flokkur skattalækkana. Ekki eru vinstri flokkarnir þekktir fyrir að lækka skatta, svo mikið er alveg víst. Það hefur verið stíll vinstri stjórna að þær endast ekki út heilt kjörtímabil, engin þeirra hefur setið fjögur ár samfleytt. Samnefnari þeirra hefur verið þrenn lykilatriði; há verðbólga, háir skattar og stórauknar skuldir ríkisins. Frá 1988-1991, á valdatíma síðustu vinstri stjórnar rýrnaði kaupmáttur launa landsmanna um rúm 10%. Fyrrverandi borgarstjóri er orðinn talsmaður Samfylkingarinnar og reynir nú með nýrri ímyndarhönnun að flýja misheppnaða valdasetu sína í Ráðhúsinu. Það sem einkenndi valdaferil hennar sem stóð í rúm átta ár voru skattahækkanir og veruleg aukning skulda. Þrátt fyrir fögur fyrirheit í upphafi um lækkun skulda borgarbúa er reyndin sú að skuldirnar hækkuðu um 1100% í valdatíð hennar. Reykvíkingar skulda mest allra í samanburði við nágrannasveitarfélögin. R-listinn hækkaði fasteignaskatta og útsvarsprósentu borgarinnar verulega. Öllu var þessu stjórnað af fyrrverandi borgarstjóra sem nú reynir að koma fram á sviðið sem fulltrúi nýrra tíma og leiðtogaefni þeirra gömlu flokka sem áður fyrr voru táknmynd glundroða í efnahagslífinu. Hún ætlar að reyna að flýja fortíð sína og komast til valda í landsmálunum með nýja glansmynd að leiðarljósi svo allir gleymi fyrri verkum hennar sem forystumanneskju í borgarstjórn. Það þýðir þó ekki, enda hefur hún sannað sitt innra eðli með setu sinni í valdastóli í borginni.

Á morgun hafa landsmenn skýrt val. Þar stendur baráttan á milli svikinna loforða, hærri skulda og verðbólgu að hætti vinstri manna og eða hagsældar og betri lífskjara á þeirri braut sem Sjálfstæðisflokkurinn hefur markað. Sjálfstæðisflokkurinn er sá flokkur sem treystir best fólkinu í landinu fyrir að taka eigin ákvarðanir; hann er táknmynd frelsis og þess að fólk móti eigin framtíð og hafi sitt svigrúm. Hann er flokkur skattalækkana. Staðreyndirnar segja allt sem segja þarf. Sjálfstæðisflokkurinn er rétti kosturinn, nú sem ávallt áður. Kjósum blátt áfram á laugardaginn - Áfram Ísland.

Engin fyrirsögn

Baráttukonur á þing
Snarpri kosningabaráttu er að ljúka. Komið er að þeim tímapunkti að fólk gangi að kjörborðinu og velji fulltrúa sína á Alþingi Íslendinga næsta kjörtímabilið. Sjálfstæðisflokkurinn gengur til komandi kosninga stoltur af þeim árangri sem Íslendingar hafa náð og sannfærður um að ef áfram verður haldið á sömu braut bíði okkar allra enn frekari ávinningur. Miklar breytingar hafa orðið á íslensku þjóðfélagi á undanförnum árum. Þær hafa leitt til hagsældar og bættra lífskjara langt umfram það sem gerst hefur í nálægum löndum. Umgjörð atvinnulífsins er nú betri en áður, starfsskilyrði þess hagstæðari, skattar almennings og fyrirtækja lægri og svigrúm til athafna meira en áður. Tekist hefur að treysta forsendur velferðarkerfisins með öflugu atvinnulífi á grundvelli stöðugleika í efnahagsmálum. Saman höfum við náð árangri og getum verið bjartsýn á framtíð okkar og Íslands á komandi árum. Varðveitum stöðugleikann á komandi árum. Glutrum ekki árangri undanfarinna ára niður, sköpum ný tækifæri og farsæla framtíð til hagsbóta fyrir alla. Ég hvet kjósendur í Norðausturkjördæmi til að kjósa Sjálfstæðisflokkinn og tryggja með því kjör Arnbjargar Sveinsdóttur og Sigríðar Ingvarsdóttur. Það er mikilvægt að þessar kjarnakonur í baráttusætunum nái kjöri í komandi kosningum. Þær hafa á kjörtímabilinu unnið af krafti að hag almennings í kjördæminu. Með því að kjósa Sjálfstæðisflokkinn til forystu í Norðausturkjördæmi á laugardag tryggjum við að þessar baráttukonur haldi áfram sínum góðu verkum.

Kjósum blátt áfram á laugardaginn. Áfram Ísland!

Engin fyrirsögn

Nú ríður á að taka þátt
Á síðustu dögum kosningabaráttunnar bendir ýmislegt til þess að Sjálfstæðisflokkurinn sé að treysta fylgi sitt á landsvísu. En hér í kjördæminu virðist ekki ganga eins vel ef miða á við kannanir. Það verður að taka kannanir með nokkrum fyrirvara, þær gefa til kynna stöðu mála þegar þær eru gerðar en eru ekki spár um niðurstöðu kosninga. Það er mikilvægt að hafa þessa staðreynd í huga dagana fram að kosningum. Það er enn möguleiki á því að hafa áhrif á úrslit þeirra. Kannanirnar mega ekki rugla fólk svo í ríminu að það líti svo á að það sé algerlega fyrirséð hver niðurstaðan verður Sjálfstæðimenn hafa litið svo á að Arnbjörg Sveinsdóttir alþingismaður væri trygg inn á þing. En nú virðist stefna í að það sé óvíst. Það er ekki orðum aukið að mikill sjónarsviptir væri að henni af alþingi en menn mega heldur ekki gleyma því að hún hefur lagt allt í sölurnar í þessari kosningabaráttu. Það kostar vinnu og fyrirhöfn að tryggja Sjálfstæðisflokknum góða útkomu úr þessum kosningum. Flokkurinn hefur verið forystuafl á Norðurlandi eystra og átt fyrsta þingmann kjördæmisins síðastliðin fjögur ár. Í nýju kjördæmi, Norðausturkjördæmi, er eðlilegt að flokkurinn verði forystuafl, leiði kjördæmið. En til þess að svo verði þarf að vinna vel, trúa því að sigurinn sé mögulegur en skilja um leið að það verður að hafa fyrir honum. Það er ekkert öruggt fyrr en kjörstað hefur verið lokað. Af hverju er svona mikilvægt að Sjálfstæðisflokkurinn fái gott gengi í þessum kosningum? Sjálfstæðisflokkurinn hefur farið með landstjórnina síðustu tólf árin og síðustu átta árin með framsóknarmönnum. Þessi ár hafa verið farsæl landi og lýð. Á þessari stundu er líka fyrirsjáanlegt að næstu fjögur til sex ár geta fært landi og lýð hagsæld sem gerir mögulegt að lækka skatta en á sama tíma að styrkja velferðarkerfið. Það er óvenjulegt að vera við lok kjörtímabils í svo góðri stöðu. Það er hægt að glutra henni niður til dæmis með því að leggja í glæfraför á borð við fyrningaleið í sjávarútvegi. Í þessu kjördæmi bæði viljum við og þurfum að leggja okkar af mörkum til þess að koma í veg fyrir það.

Staðreyndir um sjávarútvegsmál
Í kosningabaráttunni hefur undanfarna daga mikið verið rætt um sjávarútvegsmálin og greinilegt að á þessum málaflokki eru skiptar skoðanir. Umræða um stefnuna í þessum málaflokki hefur allt í einu fangað athygli fjölmiðla og almennings. Sennilega er ástæðan sú að Samfylkingin hefur rofið það samkomulag sem gert var í auðlindanefndinni á sínum tíma um að standa saman um auðlindagjaldið og önnur ástæða hlýtur að vera sú að Frjálslynda flokknum helst betur á fylgi en nokkur gerði ráð fyrir. Vinstri grænum hefur ekki tekist að ná athygli með stefnu sinni í þessum málaflokki. Stjórnarandstöðuflokkarnir tala mikið um breytingar á kvótakerfinu en tala að öðru leyti út og suður á einkar óábyrgan hátt. Í gærkvöldi var Ingibjörg Sólrún Gísladóttir gestur í spjallþættinum Tæpitungulaust. Þar sagðist hún ekki telja að það skipti máli hvort afskrifuð yrðu 5 eða 10% kvótans ár frá ári, eða bara eitthvað annað. Hún virkaði ekki sannfærandi þegar hún talaði um sjávarútvegsmál og greinilegt að bæði hún og hennar flokkur eru strönduð í þessu máli og bjóða upp á mjög óábyrga stefnu. Í morgun voru frambjóðendur frá stjórnarandstöðuflokkunum gestir í Íslandi í bítið. Voru þeir þar spurðir um afstöðu til þeirrar hugmyndir Samfylkingarinnar um að bjóða upp væntanlega 30.000 tonna aukningu í þorski. Þar töluðu þeir í margar áttir, eins og venjulega. Árni Steinar Jóhannsson sagðist vera ósammála þessu, það þyrfti byggðatengingu. Brynjar Sigurðsson sagðist ekki vilja tjá sig um það fyrr en eftir kosningar. Ellert Schram sagði að þetta væri leið markaðarins með göllum hans og kostum. Og þetta eru flokkarnir sem ætla að starfa saman í næstu ríkisstjórn, eftir því sem formaður Samfylkingarinnar hefur sagt að hann stefni að framar öllu öðru, komist hann í þá aðstöðu að ráða för við stjórnarmyndun.

Frá 1984 hafa Íslendinga stýrt sókn í fiskinn í sjónum með kvótakerfi sem gengur út á það að stjórnvöld ákveða leyfilegan heildarafla á hverju ári og hver útgerð fær síðan heimild til að veiða sama hlutfall afla og á árinu á undan. Þetta kerfi hefur tryggt skynsamlega sókn í fiskistofna á Íslandsmiðum og gert sjávarútvegsfyrirtækjunum kleift að haga rekstri sínum þannig að hann skilaði hagnaði. Tillögur frjálslyndra ganga út á sóknarmark, ákveða hve marga daga má sækja sjóinn á hverju ári. Ef hugmyndin er að gera þetta með gamla laginu þar sem öllum er heimilt að sækja sjóinn í td. 200 daga á ári þá er það einfaldlega ótækt. Það er reynsla af slíku kerfi og hún er vond. Tillögur Samfylkingarinnar ganga út á að fara svonefnda fyrningarleið. Þá er kvótakerfinu haldið óbreyttu nema að útgerðirnar þurfa að bjóða í kvótann á hverju ári og greiða afgjald til ríkisins. Þessi tillaga mun þýða erfiða tíma fyrir flest fyrirtæki í sjávarútvegi og sjávarbyggðirnar úti um land verða fljótlega á herljarþröm. Það virðist hafa tekist að koma þeirri hugmynd inn hjá stórum hluta þjóðarinnar að verið sé að gefa útgerðarmönnum tugi milljarða á hverju ári með því að ákveða kvótann. Það er fráleit skoðun. Til að koma í veg fyrir algera kollsteypu á sínum tíma ákváðu yfirvöld að setja umferðarreglur um kvótann. Umferðarreglur úthluta ekki bifreiðum til ökumanna, löggjöf um fiskveiðar úthlutar ekki kvóta. Útgerðarmenn hafa veiðireynslu og upphaflega fengu þeir kvóta á grundvelli hennar. Síðan hafa þeir keypt sinn kvóta af öðrum útgerðum. Hlutverk ríkisins er einungis að framfylgja umferðarreglunum um kvótann. Þeir sem halda því fram að ríkið færi útgerðarmönnum að gjöf milljarða eign í kvóta stunda stjórnmál öfundarinnar.

Frjálslyndi flokkurinn vill taka upp sóknarmarkskerfi í stað aflamarkskerfis. Sóknarmarkskerfi er óhagkvæmt og leiðir til sóunar verðmæta. Það stuðlar að offjárfestingu í skipum, tækjum og búnaði, eykur hættu á ofveiði fiskistofna. Það hefur í för með sér minni gæði afurða, eykur hættu á markaðir erlendis tapist, stuðlar að byggðaröskun, leiðir til brottkasts afla og mun stórskaða efnahag sjávarútvegsins og lífskjör fólks. Frjálslyndir vilja heimila öllum óheftar veiðar með handfærum á smábátum. Með ólíkindum er að framboð sem gerir út á slíkan boðskap mælist með eitthvað fylgi, enda er þetta atlaga að fiskveiðistjórnun á Íslandsmiðum. Afleiðingar stjórnlausra veiða eru margvíslegar; þær leiða til ofveiði fiskistofna, aflaheimildir þeirra smábáta sem fyrir eru verða verðlausar, smábátaútgerðum í landinu verður mismunað komist þessi tillaga til framkvæmda og veðhæfni smábátaútgerðarinnar hrynur og leiðir til gjaldþrots fyrirtækja og fjölskyldna. Frjálslyndi flokkurinn vill taka veiðiheimildir af flestum íslenskum fiskiskipum og láta þau fá sóknardaga í staðinn. Innan Samfylkingarinnar slær forystan úr og í þessum málum og talar um eitt í dag og annað á morgun. Þegar talað er um hversu mjög eigi að fyrna kvótann er talað um tölur allt uppí 10% og niður úr. Kristján L. Möller hefur þó talið sjálfan sig niður í 2,5%. Þeir fá að leika sér strákarnir meðan þeir eru fyrir norðan og láta sér detta margt í hug. En af og til tekur Ingibjörg Sólrún í þá. Hún tók af skarið í Fjarðabyggð, þegar hún sagði, að hæfilegt væri að taka 5-10% af kvótanum á ári og selja á uppboði. Síðan yrði kvótinn veðsettur til 5 ára í senn. Þeir félagarnir Einar Már og Kristján tala sem minnst um þetta hér í Norðausturkjördæmi. Þeim líst ekki á þetta. Þögn þeirra er mikil þegar stefnu Samfylkingarinnar í sjávarútvegsmálum ber á góma. En Ingibjörg hefur lagt línurnar með því sem hún sagði í sjónvarpsþætti í gær. Það á að fyrna kvótann a.m.k. um 5-10%, eða annars virtist henni ekkert umhugað um hversu mjög, það kæmi bara í ljós. Þvílíkur hráskinnaleikur hjá Samfylkingunni þegar rætt er um einn mikilvægasta málaflokk okkar sem hér búum. Fyrningartal Samfylkingarinnar myndi koma harkalega niður á íbúum á landsbyggðinni ef af yrði.

Varðveitum stöðugleikann í sjávarútvegsmálum með atkvæði okkar á laugardaginn. Kjósum Sjálfstæðisflokkinn – Áfram Ísland.

Engin fyrirsögn

Svigrúm til skattalækkana
"Sjálfstæðisflokkurinn hefur boðað frekari skattalækkanir. Það eru góð tíðindi að það skuli ekki aðeins unnt heldur er það blátt áfram nauðsynlegt til þess að viðhalda stöðugleika og sátt í þjóðfélaginu. Það liggur nú fyrir, að á næstu fjórum árum muni hagvöxturinn verða 12-13%. Það er bæði sjálfsagt og eðlilegt, að þjóðin fái sinn skerf af þessum ávinningi. Það getum við gert með því að lækka skattana. Þannig vex kaupmátturinn í landinu án þess að verðbólgunni sé hleypt lausri. Efstu menn á listum stjórnmálaflokkanna skiptust á skoðunum í Stöð 2 og Skjá 1 á sunnudag. Öll þrjú, Kristján L. Möller, Steingrímur J. Sigfússon og Valgerður Sverrisdóttir, voru með ónot út af þessum skattahækkunum. Töldu að ekki væri hægt að auka velferð í landinu með því að lækka skatta! Á tímabili leit meira segja svo út sem þau væru komin í stjórnarmyndunarviðræður um þetta stórmál sitt, að ekki mætti lækka tekjuskattinn um 4%! Það gefur tilefni til að rifja upp, að þegar síðasta vinstri stjórn skildi við 1991 voru staðgreiðsluskattarnir yfir 40%. Á síðasta kjörtímabili voru þeir lækkaðir niður í rúmlega 38%. Sjálfstæðisflokkurinn vill lækka þá enn um 4% eða niður í 34%. Og það er sjálfsagt mál að gera það. Við höfum ráð á því af því að vel hefur verið haldið um ríkisfjármálin og af því að það er vöxtur og viðgangur í öllum greinum þjóðfélagins."

Stórtónleikar í Höllinni
Á sunnudag kl. 16:00 verða haldnir í Íþróttahöllinni á Akureyri stórtónleikar þar sem koma fram meðal annarra Kristján Jóhannsson tenór og Kristinn Sigmundsson bassi. Tilefnið er að Sinfóníuhljómsveit Norðurlands er nú að ljúka sínu tíunda starfsári og á efnisskránni er Requiem (Sálumessa) eftir Giuseppe Verdi. Auk þeirra Kristjáns og Kristins syngja einsöng Björg Þórhallsdóttir sópran og Annamaria Chiuri mezzósópran. Í kórhlutverkinu eru þrír kórar: Kór Akureyrarkirkju, Kór Langholtskirkju í Reykjavík og Kammerkór Norðurlands. Stjórnandi á tónleikunum er Guðmundur Óli Gunnarsson, aðalhljómsveitarstjóri Sinfóníuhljómsveitar Norðurlands. Tónleikarnir eru samvinnuverkefni Sinfóníuhljómsveitar Norðurlands og Kirkjulistaviku í Akureyrarkirkju. Sinfóníuhljómsveit Norðurlands sem hélt sína fyrstu tónleika 24. október 1993 var stofnuð upp úr Kammerhljómsveit Akureyrar sem starfað hafði frá 1987. Hljómsveitin hefur aukið starfsemi sína hægt en örugglega með auknum fjárframlögum. Fyrir utan tónleikahald á Akureyri og í nágrannabyggðum hefur SN staðið fyrir skólatónleikum á svæðinu frá Húsavík vestur í Skagafjörð. Þetta tíunda starfsár hefur verið viðburðaríkt. Það hófst með tónleikaferð til Grænlands þar sem haldnir voru fernir skólatónleikar, einir tónleikar fyrir eldri borgara og tvennir stórir kvöldtónleikar. Tónleikarnir voru haldnir í samvinnu við Grænlendinga, bæði kóra, einleikara og tónskáld. Þetta framtak vakti mikla ánægju á Grænlandi og komu um 1500 áheyrendur á þessa tónleika. Síðan hefur hver viðburðurinn rekið annan með tónleikum í hverjum mánuði og má þar nefna tónleika með ýmsum einleikurum eins og Sigrúnu Eðvaldsdóttur, Aladár Rácz, Jóhanni Friðgeiri Valdimarssyni og Pál Barna Szabó.

Í desember voru aðventutónleikar að venju og á þeim léku með hljómsveitinni um 60 suzukinemendur víða að af landinu auk þess sem flutt var jólaævintýrið „Snjókarlinn“ . Síðustu fjögur árin hefur SN flutt ævintýri með sögumanni á aðventutónleikum og m.a. látið skrifa nýtt verk fyrir hljómsveitina í þessu skyni. Endurvaktir voru Vínartónleikar í janúar og í mars voru tónleikar með Sinfóníettu þar sem m.a. var frumfluttur nýr Víólukonsert eftir Óliver Kentish sem Guðmundur Kristmundsson víóluleikari lék með hljómsveitinni. Og nú er hápunktur þessa afmælisárs framundan með flutningi á Requiem eftir G. Verdi. Sálumessuna samdi Verdi á árunum 1869 til 1874 og var hún frumflutt í Markúsarkirkjunni í Mílanó 22. maí 1874 undir stjórn tónskáldsins. Tilurð sálumessunnar var dálítið óvenjuleg. Við andlát ítalska tónskáldsins Rossini vaknaði hugmynd um að fá helstu tónskáld Ítalíu til að semja sameiginlega sálumessu til minningar um hann. Verdi samdi þá þáttinn Libera me, en vegna fjárskorts og annarra erfiðleika varð aldrei af þessum minningartónleikum. Verdi sendi vini sínum Libera me þáttinn til skoðunar og lauk hann miklu lofsorði á tónsmíðina og hvatti Verdi til að fullgera sálumessu. Þetta stórbrotna verk var frumflutt hér á landi í Reykjavík 1968 undir stjórn dr. Róberts Abrahams Ottóssonar og nú er það flutt í fyrsta skipti á Norðurlandi með um 130 manna kór og 70 manna hljómsveit auk fjögurra einsöngvara. Það má segja að þetta sé margföld hátíð því það er okkur auðvitað sérstakt ánægjuefni að meðal einsöngvaranna eru tveir Akureyringar, þau Björg Þórhallsdóttir og Kristján Jóhannsson. Þá er það ekki síður hátíðarefni að Kristján Jóhannsson og Kristinn Sigmundsson syngja báðir á þessum tónleikum, en það er ekki oft sem tónlistarunnendum hér á landi gefst kostur á að hlýða á þessa glæsilegu söngvara á sömu tónleikunum. Kristján kemur líka færandi hendi, því það er fyrir milligöngu hans að ítalski mezzósópraninn Annamaria Chiuri verður með á þessum tónleikum.

Engin fyrirsögn

Áfram Ísland - kosningayfirlýsing Sjálfstæðisflokksins 2003
Sjálfstæðisflokkurinn gengur til komandi kosninga stoltur af þeim árangri sem Íslendingar hafa náð og sannfærður um að ef áfram verður haldið á sömu braut bíði okkar allra enn frekari ávinningur. Miklar breytingar hafa orðið á íslensku þjóðfélagi á undanförnum árum. Þær hafa leitt til hagsældar og bættra lífskjara langt umfram það sem gerst hefur í nálægum löndum. Umgjörð atvinnulífsins er nú betri en áður, starfsskilyrði þess hagstæðari, skattar almennings og fyrirtækja lægri og svigrúm til athafna meira en áður. Jafnframt hefur tekist að treysta forsendur velferðarkerfisins með öflugra atvinnulífi á grundvelli stöðugleika í efnahagsmálum. Þannig hefur verið lagður grunnur að betri kjörum aldraðra og öryrkja, jafnframt því sem framlög til heilbrigðismála, menntunar og rannsókna hafa verið aukin. Sameiginlega höfum við Íslendingar náð miklum árangri. Við getum verið bjartsýn á framtíð Íslands og ætlum að skipa því áfram í fremstu röð. Við verðum að gæta þess að glutra ekki niður því sem áunnist hefur heldur halda áfram að skapa ný tækifæri. Í alþingiskosningunum 10. maí leitum við sjálfstæðismenn eftir umboði þínu til að fá að þjóna landi okkar, landi tækifæranna, áfram.

Engin fyrirsögn

Vika til kosninga - spennandi barátta
Í dag er vika til alþingiskosninga á Íslandi. Seinustu daga hefur verið mikið líf verið í kosningabaráttunni hér í Norðausturkjördæmi og mikið um að vera. Á þriðjudag var skyrfundur með framhaldsskólanemum þar sem Tómas Ingi og Sigríður ræddu við nemendur og kynntu stefnu okkar og svöruðu þeim spurningum sem nemendur höfðu fram að færa, var sá fundur mjög gagnlegur. Á fimmtudagskvöld stóðum við ungir sjálfstæðismenn hér á Akureyri fyrir stjórnmálaumræðum á Kaffi Akureyri með ungum frambjóðendum, skoruðum þá á hólm. Mættu fulltrúar allra flokka nema Samfylkingarinnar til fundarins, þeir afboðuðu þátttöku sína. Voru þarna Hilmar Gunnlaugsson frá Sjálfstæðisflokknum, Brynjar S. Sigurðsson fyrir Frjálslynda flokkinn, Hlynur Hallsson fyrir VG, Birkir Jón Jónsson fyrir Framsókn og Halldór Brynjar Halldórsson frá Nýju afli. Var þessi fundur langur en gagnlegur og flestir sáttir við hann. Það að Samfylkingin hafi ekki sent fulltrúa af sinni hálfu á fundinn segir meira en mörg orð um unga frambjóðendur á lista þeirra hér. Í gær vorum við svo á fullu að vinna í utankjörfundarkosningunni, en við höfum rætt við nemendur héðan sem eru fyrir sunnan, sjómenn, fólk erlendis og marga fleiri. Framundan er lokaspretturinn, seinasta vikan og mikilvægt að vel verði unnið þá og tryggt að boðskapur okkar fólks nái til kjósenda áður en þeir taka ákvörðun um hverjum skal treysta fyrir stjórnartaumunum næstu 4 árin.

Engin fyrirsögn

Davíð forsætisráðherra í 12 ár
Í dag, 30. apríl, hefur Davíð Oddsson setið í embætti forsætisráðherra samfellt í 12 ár, lengur en nokkur annar Íslendingur. Hefur hann verið formaður Sjálfstæðisflokksins frá 10. mars 1991 er hann sigraði Þorstein Pálsson, þáverandi formann flokksins í formannskosningum á landsfundi. Sjálfstæðisflokkurinn hefur í rúm 70 ár verið í fararbroddi íslenskra stjórnmála. Það hefur verið gæfa hans að valist hafa til forystustarfa hæfir og frambærilegir menn. Margir ákváðu að styðja flokkinn á árum áður vegna forystuhæfileika t.d. Ólafs Thors og Bjarna Benediktssonar, og flokkurinn varð stórveldi í íslenskum stjórnmálum vegna forystu þeirra í flokknum. Þessir menn voru þekktir fyrir yfirburðaleiðtogahæfileika, mælsku sína og víðsýni í íslenskri pólitík. Nú, þegar Sjálfstæðisflokkurinn hefur samfellt setið í forystu ríkisstjórnar Íslands í 12 ár er von að spurt sé - hver er lykillinn að velgengni Sjálfstæðisflokksins í landsmálapólitík? Svarið er í mínum huga einfalt. Davíð Oddsson hefur með miklum leiðtogahæfileikum tryggt að flokkurinn er í forystu íslenskra stjórnmála. Hann hefur allt frá sigri sínum í borgarstjórnarkosningunum 1982 verið einn af helstu forystumönnum flokksins og verið í fararbroddi innan hans. Hann hóf stjórnmálaafskipti sín innan Sjálfstæðisflokksins við borgarstjórnarkosningarnar árið 1974 og náði kjöri og sat í borgarstjórn til ársins 1994. Hann var borgarstjóri í níu ár; 1982-1991. Í kjölfar sigurs síns í borginni 1990 gaf hann kost á sér í prófkjöri flokksins og sigraði með nokkrum yfirburðum.

Davíð varð formaður flokksins eins og fyrr segir í mars 1991. Hann varð forsætisráðherra 30. apríl í kjölfar þingkosninga sem Sjálfstæðisflokkurinn vann góðan sigur í. Frá þeim tíma hefur hann setið í forsæti ríkisstjórnar Íslands. Ef einhver stjórnmálamaður á seinustu áratugum hefur haft sjötta skilningarvitið í pólitík er það Davíð. Hann hefur með mælsku sinni, hressilegum skoðunum og forystuhæfileikum sínum tryggt forystu flokksins í landsmálunum. Undir hans leiðsögn hefur Sjálfstæðisflokkurinn aldrei verið sterkari. Staða Sjálfstæðisflokksins nú er mjög athyglisverð, pólitískt séð, enda er einsdæmi að einn flokkur stjórni landinu í jafnlangan tíma með sama leiðtoganum við stjórnvölinn. Davíð þorir að tjá skoðanir sínar og óhræddur við að tala tæpitungulaust. Í kosningunum eftir 10 daga verður kosið um hvert skuli stefna á næsta kjörtímabili. Hvort eigi að halda áfram á sömu braut til farsældar og verið hefur eða taka aðra stefnu beint í óvissuna. Það er mjög nauðsynlegt í mínum huga að haldið verði áfram á þeirri braut sem Sjálfstæðisflokkurinn hefur stýrt þjóðinni á seinustu þrem kjörtímabilum. Það þarf að vinna hörðum höndum til að tryggja að Sjálfstæðisflokkurinn verði leiðandi afl í landsmálunum og sé í forystu í öllum kjördæmum landsins. Ég treysti engum betur en Davíð til að stýra þjóðarskútunni og hvet landsmenn að tryggja að áfram verði haldið á réttri braut til farsældar, það er mikilvægt að varðveita stöðugleikann og vinstrimenn komist ekki í þá aðstöðu að glutra góðri stöðu landsmanna niður á sama hátt og fyrri vinstristjórnir hafa gert. Kjósum stöðugleikann í komandi kosningum. Áfram Ísland!

Engin fyrirsögn

Beint flug til Danmerkur hafið
Í gær hófst áætlunarflug milli Akureyrar og Kaupmannahafnar. Það var vissulega söguleg stund á Akureyrarflugvelli, þegar vél Grændlandsflugs lenti. Þar með hafði sá draumur ræst, að áætlunarflug yrði hafið til Evrópu. Vafalaust munu margir nýta sér það, enda verða menn að hafa það í huga, að framhaldið er undir því komið, að flugið standi undir sér. Skilyrði til að taka á móti erlendum ferðamönnum eru mjög góð hér fyrir norðan og á Norðausturlandi öllu. Á þessu landssvæði norðan Vatnajökuls eru margar skærustu perlurnar í íslenskri náttúru, enda hefur hringurinn um Mývatnssveit niður með Jökulsá hjá Dettifossi og Hljóðaklettum og þaðan í Ásbyrgi til Húsavíkur verið kallaður Demantshringurinn. Ferðaþjónustan er nú að skýrgreina aðra góða kosti, sem ferðamönnum bjóðast hér um Norður- og Austurland. Það er þýðingarmikið, að innviðir ferðaþjónustunnar hér á þessu svæði verði treystir, enda gefur það Geysis- og Gullfosshringnum ekkert eftir. Mikilvægt er að til komi nauðsynlegar vegabætur og stuðningur við að koma upp golfvöllum og bláu lóni og öðru því, sem ferðaþjónustan þarfnast til afþreyingar fyrir ferðamenn. Einstaklingar á þessu svæði hafa sýnt mikið frumkvæði og hugvit, sem þegar er farið að bera árangur. Ekki verður nógsamlega undirstrikað, hversu mikið fyrirtæki í ferðaþjónustu hér við Eyjafjörð og á Norðurlandi eiga undir því, að áætlunarflug Grænlandsflugs megi vel takast. Við höfum löngum átt góð samskipti við Grænlendinga hér á Akureyri. Nú er brýnt að þessu frumkvæði og framtaki verði fylgt eftir með því að allar hömlur á flugsamgöngum milli Grænlands og Íslands verði felldar niður. Það yrði báðum þjóðunum til hagsbóta og myndi efla samskipti og ferðaþjónustu í löndunum báðum til mikilla muna.

Samherji 20 ár í Eyjafirði
Í gær, 28. apríl, voru liðin 20 ár frá því frændurnir Kristján Vilhelmsson, Þorsteinn Már Baldvinsson og Þorsteinn Vilhelmsson keyptu meirihluta í útgerðarfyrirtækinu Samherja og fluttu það til Akureyrar. Það var stofnað í Grindavík árið 1972. Samherji hf. átti í upphafi einn ísfisktogara, Guðstein GK sem þeir frændur sigldu með til nýrrar heimahafnar. Togarinn lagðist að bryggju á Akureyri 1. maí 1983 og hlaut nafnið Akureyrin EA. Í kjölfarið var skipinu breytt mikið og það útbúið til flakafrystingar. Skipið leit í upphafi illa út, var bæði ryðgað og skítugt, þó búið væri að færa það nokkuð til betri vegar. Mörgum leist ekki vel á uppátækið hjá þeim frændum en fleiri höfðu fulla trú á þeim og sýndu þeim stuðning. Þeir voru fullir bjartsýni og fannst verkefnið í senn ögrandi og spennandi. Fyrirtækið hefur á þessum tuttugu árum vaxið og dafnað á ævintýralegan hátt. Ólíklegt er að þessir ungu og athafnasömu menn hafi þá gert sér í hugarlund þá fjölþættu starfsemi sem stórfyrirtækið Samherji stendur fyrir í dag. Þeir voru brautryðjendur í sjófrystingu, og hösluðu sér völl á því sviði með þvílíkum krafti, að umsvif Samherja skipta nú verulegu máli í útflutningstekjum okkar Íslendinga og eru snar þáttur í atvinnulífinu, einkum við Eyjafjörð, á Austurlandi og í Grindavík. Rekstrartekjur Samherja sl. ár voru rúmir 13 milljarðar kr. og hlutfall útflutnings af veltu var um 95%. Starfsmenn Samherja og dótturfyrirtækja þess eru um 800. Óska eigendum og starfsfólki fyrirtækisins til hamingju með afmælið.

Engin fyrirsögn

Kristján telur sjálfan sig niður!
Skemmtileg þankabrot á Íslendingi: "Málflutningur Kristjáns L. Möllers er lýsandi fyrir hvað hann stendur fyrir eða stendur ekki fyrir í pólitík. Stundum tekur hann sterkt til orða eins og sannfæring búi að baki. Sérstaklega var það áberandi, meðan langt var til kosninga og fólk hér fyrir norðan tók ekki svo mjög eftir því sem hann sagði. En nú er hann kominn innan um fólk og sannfæringin er ekki eins sterk og áður. Hann finnur sterka andstöðu á Siglufirði, hér við Eyjafjörð og í Fjarðabyggð við þá stefnu Samfylkingarinnar að taka 10% af aflaheimildunum eignanámi og bjóða upp á frjálsum markaði. Hann hefur verið minntur á, hvað þetta þýðir fyrir rækjuvinnsluna á Siglufirði og fyrir frystihúsin við Eyjafjörð og á Austurlandi. Þá byrjar hann strax að slá af eins og hann sé kominn á pólitískan uppboðsmarkað með öfugum formerkjum. Við erum reiðubúin til að tala um eitthvað minna en 10% af aflaheimildunum sagði hann í Aksjón á dögunum. Við erum tilbúin að ræða lægri tölu í Samfylkingunni. Eigum við að segja 2,5%? Það var eftirtektarvert, að í umræðuþættinum var hann fýldur yfir því, að landsfundur Sjálfstæðisflokksins skyldi samþykkja það í atkvæðagreiðslu, að línutvöföldun skyldi tekin upp. Það hefur ekki þekkst í hans flokki upp á síðkastið, að önnur rödd heyrist en röddin eina og aðrir mega ekki taka til máls nema til að mæra hana. Eins og Kristján gerði í Aksjón: "ég tek eftir því að sjálfstæðismenn og framsóknarmenn eru alveg rosalega fúlir og pirraðir yfir að það skuli vera mynd af þessari glæsilegu konu þarna..." og "hún er dregin þarna fram fyrir til þess að reyna að bjarga flokknum," segir hann."

Engin fyrirsögn

Skemmtileg barátta - rætt við kjósendur
Nóg hefur verið um að gerast í kosningabaráttunni hér í Norðausturkjördæmi í dag og seinustu daga og baráttan komin á lokasprettinn, enda aðeins hálfur mánuður til kosninganna. Í morgun var Halldór Blöndal leiðtogi okkar sjálfstæðismanna með fund á Hótel KEA með ferðaþjónustuaðilum (fjalla um hann hér neðar á síðunni). Var hann velheppnaður og skemmtilegur. Í gærkvöldi vorum við ungt sjálfstæðisfólk með opið hús á kosningaskrifstofunni fyrir unga kjósendur áður en við fórum á djammið. Voru þar skemmtilegar umræður um pólitíkina, munum við vera með svona opið hús hjá okkur á föstudagskvöldum fram að kosningum, kl. 21:00. Hvet alla til að mæta og taka með sér fólk. Eftir hádegi á laugardeginum fórum við sem erum í kosningabaráttu flokksins í kjördæminu á Glerártorg til að ræða við kjósendur og kynna stefnu okkar og verk flokksins á seinustu árum fyrir fólki. Frá kl. 14:00 stóð yfir menningarveisla KEA á Glerártorgi. Fullyrða má að aðsóknarmet hafi verið slegið og þetta því fjölmennasti viðburður þarna frá því opnað var árið 2000. Þarna voru allavega nokkur þúsund manns. Boðið var upp á góða dagskrá sem var að miklu leyti borin upp af ungu fólki og er ástæða til að fagna sérstaklega öflugu menningarstarfi unga fólksins hér á svæðinu. Leikfélög MA og VMA sýndu atriði úr velheppnuðum skólasýningum sínum. MA með brot úr hinum magnaða söngleik Chicago og VMA með brot úr Grease. Mjög góðar sýningar og skemmtileg tónlistaratriði hjá þeim, greinilega mikil gróska í menningarlífinu í skólunum ef marka má þessi góðu atriði. Hljómsveitin Douglas Wilson tók nokkur lög og er óhætt að segja að þar fari fín hljómsveit, Stebbi Jak söngvari þeirra er virkilega góður söngvari og tók hann t.d. lagið sem hann söng fyrir VMA í söngkeppni framhaldsskólanna, Elska þig enn.

Á meðan þessu stóð vorum við að ræða við kjósendur og voru þarna fulltrúar allavega fjögurra flokka að labba um og spjalla við fólk. Arnbjörg Sveinsdóttir, Tómas Ingi Olrich og Sigríður Ingvarsdóttir voru þarna ásamt fleiri frambjóðendum og okkur sem vinnum að framboðinu. Hitti ég t.d. hjón frá Hafnarfirði sem voru hér á ferðalagi og fórum við að ræða pólitíkina fyrir sunnan, en það er eitt traustasta vígi okkar og þá kom í ljós að þau bjuggu áður á Akureyri og ræddum við bæjarmál hér, pólitíkina á landsvísu, bæjarmál fyrir sunnan, Áslandsskólamálið og margt fleira. Mjög gaman af þessu. Einnig ræddi ég við stelpur úr MA sem vildu fá að ræða menntamál og fræddum við Sigríður þær um þau. Þetta var virkilega góður dagur og gaman að ræða við fólk og fylgjast með menningarveislunni á Glerártorgi. Voru margir sem þáðu kynningarbækling flokksins og tel ég að mörghundruð stykki af blaðinu hafi runnið þarna út. Þáðu flestir blaðið og ætluðu að kynna sér það. Margir óákveðnir kjósendur voru þarna og var gott að fræða þá um stöðu mála, margir spurðu um málin. Bæklingurinn er í góðri stærð og er fullur af staðreyndum og góðu efni. Sendi sérstakar kveðjur til mannsins sem ég ræddi við í Nettó seinnipartinn meðan ég var að versla, en hann labbaði til mín og sagðist verða að spjalla, enda hefði hann skrifað lengi á Innherjavefinn og rætt við mig þar. Vildi hann ræða við mig og höfðum við báðir gaman af þessu. Alltaf gaman að hitta fólk sem maður hefur spjallað við á Netinu, en aldrei hitt í eigin persónu. Alltaf miklu skemmtilegra að ræða saman augliti til auglitis.

Kristján Möller og Stórisandur
Í dag er Jón í Grófinni beinskeyttur að vanda á Íslendingi: "Á fundi í dag á Hótel KEA með fulltrúum ferðaþjónustunnar á Akureyri í dag lýsti Kristján L. Möller efasemdum sínum yfir styttingu leiðarinnar til Akureyrar um 81 km með því að leggja veg um Stórasand og þaðan í Borgarfjörð. Þetta er athyglisvert í ljósi þess að þessi þingmaður hefur þóst vera sérstakur talsmaður þess að lækka þurfi flutningskostnað, en auðvitað vita allir að eina raunhæfa leiðin til þess er að stytta vegalengdir. Stórisandsvegur myndi lækka flutningskostnað milli Akureyrar og Reykjavíkur um að minnsta kosti 15%. Stórisandsvegur er líka mjög mikils virði fyrir ferðaþjónustuna, verslun og menningarlíf á Akureyri. Engum þætti áhorfsmál að skjótast um helgi í bíl 3 tíma norður til að fara í leikhús eða á skíði eða til að lyfta sér upp í öðru umhverfi. Það lýsir satt að segja undarlegri þröngsýni ef þingmaður Norðlendinga er úrtölumaður þess að þegar í stað sé gengið í það að rannsaka vegarstæði, veðurfar, snjóalög og annað sem rannsaka þarf áður en Stórisandsvegur er lagður."

Engin fyrirsögn

Fjölmenni í vöfflukaffi á Kaffi Akureyri
Í gær, sumardaginn fyrsta, fögnuðum við stuðningsfólk Sjálfstæðisflokksins í Norðausturkjördæmi sumarkomu eins og allir Íslendingar með okkar hætti. Vorum við með sumarkaffi á Kaffi Akureyri og skemmtum okkur saman, hittumst og ræddum málin. Pólitíkin var eins og gefur að skilja mikið rædd og greinilegt að við erum komin í kosningagírinn og mikil stemmning hjá okkur. Bökuðu frambjóðendur vöfflur og þáði mikið fjölmenni vöfflur með sultu og rjóma. Var vel á þriðja hundrað manns sem leit á Kaffi Akureyri og mikið af ungu fólki sem spurði frambjóðendur mikið um t.d. menntamál. Var einnig greinilegt að fólk sem var á göngutúr um bæinn leit við með börnin sín og þetta því sannkölluð fjölskylduskemmtun á góðum sumardegi í miðbænum. Framundan er lokaspretturinn í baráttunni og framundan ýmsar uppákomur og skemmtanir sem fylgja kosningunum fyrir fólk á öllum aldri. Við sem tökum þátt í kosningabaráttunni í kjördæminu erum bjartsýn á gott gengi og vorum t.d. mjög ánægð með velheppnað vöfflukaffi og hlökkum til sumarsins og vonumst til að kjósendur hér líti yfir verk okkar fólks í gömlu kjördæmunum og sjái að það er traustsins vert eftir að hafa unnið að hag þessa svæðis og íbúanna hér. X-D

Þeir vilja komast létt út úr því!!!
Í dag fer Jón í Grófinni fer enn og aftur á kostum á Íslendingi: "Ýmsum sögum fer af skoðunum (eða skoðanaleysi) tvímenningannna Kristjáns L. Möllers og Einars Más Sigurðarsonar í kvótamálum. Í lengstu lög reyna þeir að komast hjá því að blanda sér í slíkar umræður eða svara út úr eins og Kristján L. Möller í Aksjón um daginn. Á sama tíma og þingmenn Samfylkingarinnar í öðrum kjördæmum kalla fiskveiðistjórnina "mesta ranglæti sögunnar" grípa þeir til tækni sinnar í umræðustjórnmálum og segja, að ekki eigi að taka stefnu Samfylkingarinnar of hátíðlega. Þess vegna sé óhætt að kjósa Samfylkinguna! Þessi ótti þeirra við eigin stefnu er ekki að ástæðulausu. Hún gengur einfaldlega út á að færa veiðiheimildirnar frá þeim, sem nú hafa þær, til annarra. Frá Eyjafirði og Austurlandi í aðra fjórðunga. Og skiljanlega varast þeir að víkja að þeim þætti fiskveiðistjórnunar sem lýtur að öryggi fiskverkafólks og gæðastjórnun. Það væri fróðlegt að þeir kæmu út úr pokanum og skýrðu, hvaða áhrif það hefur á atvinnuöryggi og byggð í Norðausturkjördæmi að taka 10% af fiskveiðiheimildum fyrirtækja eignarnámi og bjóða þær síðan út á leigumarkaði til fimm eða sex ára. Sérstaklega væri fróðlegt að fá skoðun Kristjáns L. Möllers á því, hvaða áhrif slík eignatilfærsla hefði á rækjuvinnsluna á Siglufirði. Hann vill telja sig vera sérstakan þingmann Siglfirðinga, svo að hann hlýtur að hafa áhyggjur af því, - eða hvað?"

Sumarkveðja
Óska lesendum síðunnar, vinum og kunningjum gleðilegs sumars og þakka fyrir góða vináttu í vetur og þeim sem ég hef kynnst í vetur fyrir skemmtileg kynni. Framundan er spennandi og gott sumar - vonandi eigum við samleið í sumar. Gleðilegt sumar !!

Engin fyrirsögn

Samherji hlýtur útflutningsverðlaun forseta Íslands
Í gær hlaut Samherji á Akureyri, útflutningsverðlaun forseta Íslands en verðlaunin voru afhent á forsetasetrinu að Bessastöðum. Verðlaunin eru veitt í viðurkenningarskyni fyrir markvert framlag til eflingar útflutningsverslunar og gjaldeyrisöflun íslensku þjóðarinnar. Þetta er í fimmtánda skiptið sem verðlaunin eru veitt og í úthlutunarnefndinni sitja fulltrúar frá embætti forseta Íslands, viðskipta- og hagfræðideild Háskóla Íslands, Landsnefnd alþjóða verslunarráðsins, Alþýðusambandi Íslands og frá Útflutningsráði, en Útflutningsráð ber ábyrgð á undirbúningi og kostnaði við verðlaunaveitinguna. Að þessu sinni sátu í nefndinni: Stefán L. Stefánsson, Ágúst Einarsson, Einar Benediktsson, Þórunn Sveinbjörnsdóttir og Páll Sigurjónsson. Samherji hlaut verðlaunin fyrir að hafa náð sérlega góðum árangri í veiðum, vinnslu og markaðssetningu á íslensku sjávarfangi, að því er kom fram í ávarpi Páls Sigurjónssonar formanns úthlutunarnefndar verðlaunanna, í tilefni verðlaunaveitingarinnar. „Fyrirtækið fer fremst í fylkingu íslenskra sjávarútvegsfyrirtækja og hefur vakið mikla athygli fyrir framsækinn og arðbæran rekstur. Kraftur og áræðni einkenna fyrirtækið, starfsmenn þess og stjórnendur,“ sagði Páll og bætti við: „Rekstrartekjur Samherja hf. á árinu 2002 námu rétt rúmum 13 milljörðum króna og rekstrarhagnaður félagsins var tæpur 1,9 milljarður króna, sem er mesti hagnaður í sögu félagsins. Velta skiptist nánast til helminga á milli útgerðar og vinnslu í landi og hlutfall útflutnings af veltu árið 2002 var um 95%. Starfsmenn félagsins í árslok voru 739 og starfsmenn dótturfélaga voru 60. Hluthafar í fyrirtækinu voru í árslok 2.323 og á stærsti einstaki aðilinn 17% hlut í félaginu. Samherji hf. er því stórfyrirtæki á íslenskan mælikvarða.“

Þorsteinn Már Baldvinsson forstjóri, tók við verðlaununum fyrir hönd fyrirtækisins og sagði í ræðu að þau væru viðurkenning til starfsfólks Samherja fyrir sérlega vel unnin störf á liðnum árum. „Umfjöllunin um það starf sem unnið er af starfsfólki Samherja er oft ósanngjörn. Okkur stjórnendum Samherja hefur að mínum dómi mistekist að koma því nægilega vel á framfæri við þjóðina hversu gott starf er unnið innan félagsins. Að því leyti hef ég sem stjórnandi brugðist og vil ég nota þetta tækifæri til að biðja starfsfólk mitt afsökunar á því,“ sagði Þorsteinn Már. Hann sagði fyrirtækið hafa lagt bæði mikinn kraft og metnað í samvinnu við önnur íslensk iðn- og hugbúnaðarfyrirtæki um að þróa búnað og vörur til útflutnings. „Sem dæmi um það sem er í gangi í dag má m.a. nefna samstarf við Marel um þróun vél- og hugbúnaðar sem annast beinatínslu með aðstoð röntgentækni; samstarf við Hampiðjuna um þróun á nýjum veiðafærum; samstarf við Nýherja og Marel um þróun framleiðsluhugbúnaðar; samstarf við Fiskvélar um þróun beinhreinsivélar, samstarf við Vaka-DNG um þróun laxateljara og samstarf við Skagann hf. um þróun búnaðar til vinnslu uppsjávarfisks.“ Ég óska Samherja og starfsfólki fyrirtækisins til hamingju með þessi verðlaun. Þau eru rós í hnappagat fyrirtækisins og viðurkenning á góðu starfi sem þar er unnið.

Engin fyrirsögn

Skattalækkunarloforð Samfylkingarinnar ekki hækkuð
Í inngangi fréttar RÚV í morgun sagði orðrétt: "Össur Skarphéðinsson formaður Samfylkingarinnar, þvertekur fyrir það að Samfylkingin ætli að hækka skattalækkunarloforð flokksins." Samfylkingin hefur nú uppgötvað að tillögur Sjálfstæðisflokksins séu "dýrari fyrir ríkið" en tillögur Samfylkingarinnar. Með öðrum orðum hefur Samfylkingin uppgötvað að sjálfstæðismenn muni lækka skatta á fólkið í landinu meira en Samfylkingin. Með þessu er í raun verið að segja að tillögur sjálfstæðismanna séu "ódýrari" fyrir fólkið. Nú lofar formaður Samfylkingarinnar því að hækka ekki skattalækkunarloforðin. Spyrja má hvort skortur Samfylkingarinnar á vilja til að lækka skatta á fólk muni í raun þýða þegar fram í sækir að Samfylkingin hækki skatta á fólk komist flokkurinn til valda. Fyrir borgarstjórnarkosningarnar 1994 lofaði Ingibjörg Sólrún Gísladóttir að hækka ekki skatta. Fjórum árum síðar lofaði R-listinn að lækka gjöld á borgarbúa en hækkaði svo útsvarið strax um haustið. Þegar Ingibjörg Sólrún var minnt á loforðin í sjónvarpsfréttum svaraði hún: "Þekkir þú einhver dæmi þess, að þeir sem eru að bjóða sig fram til kosninga lofi skattahækkunum? "

Vonandi fara ekki allir á hausinn!
Í dag hittir Jón í Grófinni naglann á höfuðið á Íslendingi: "Guðjón A. Kristjánsson hefur nú sett fram skilyrði fyrir því, að Frjálslyndi flokkurinn fari í ríkisstjórn. "Það verður erfitt að semja okkur út úr sjávarútvegsráðuneytinu. Fiskveiðistefnuna gefum við ekki eftir," segir hann og talar borginmannlega í Morgunblaðinu á páskadag. Síðan kemur flókin útlistun á því, hvað í því felst. Og á afleiðingunum: "Með því að taka mið af færeyska fiskveiðistjórnunarkerfinu er hægt að vinna sig út úr núverandi kvótakerfi með skipulögðum hætti," segir hann, "og það án þess að þeir sem fyrir eru í greininni hrökklist frá eða fari allir á hausinn..." o.s.frv. Og Guðjón A. lætur ekki við það sitja að lýsa stefnu sinni í sjávarútvegsmálum, eins og hann lætur yfirleitt duga, heldur vindur sér líka yfir í landbúnaðinn í viðtalinu. Þar segir hann, að "við í Frjálslynda flokknum teljum því að það þurfi að skoða þetta kerfi, út frá þeirri hugsun, sem ég hef hér lýst að framan, á næstu fjórum árum," segir hann. Og í beinu framhaldi samkvæmt frásögn Morgunblaðsins: "Hann leggur einnig áherslu á að nýtt kerfi verði ekki til þess að þeir sem fyrir eru í landbúnaði verði settir á hausinn." Það er ekki undarlegt, þótt einhverjum verði að orði: Guði sé lof að hann tekur ekki fleiri mál fyrir!"

Engin fyrirsögn

Sérviskumarkaður innan ESB
Í dag skrifar Jón í Grófinni um snúningshátt Samfylkingarinnar í Evrópumálunum á Íslending: "Hvergi kemur óhreinskilni Samfylkingarinnar jafnglöggt í ljós og í afstöðu sinni til Evrópusambandsins. Ekki vantaði stóryrðin fyrir nokkrum mánuðum. Efnt var til svokallaðra póstkosninga og síðan var því slegið upp, að innganga Íslands í Evrópusambandið yrði kosningamál Samfylkingarinnar. Svo fór Samfylkingin í fundaherferð um landiðog fékk slíkar undirtektir, að kosningamálinu hefur verið sópað undir teppið og talsmaðurinn er hlaupin í það skjólið, að Samfylkingin hafi hægt á sér af því að ekki sé búið að skilgreina samningsmarkmiðin! Á sama tíma og talsmaðurinn talar út og suður um Evrópusambandið, heyrist hin innri rödd Samfylkingarinnar af til frá minni spámönnum. Rannveig Guðmundsdóttir er innri röddin í landbúnaðarmálunum. Páskaboðskapur hennar var sá, að bændur myndu hafa það betra innan Evrópusambandsins en utan. - "Lítill sérviskumarkaður innan ESB gæti jafnvel nægt til að bæta upp það sem tapast á innanlandsmarkaði vegna opnunar," skrifar hún. Ekki er sú framtíðarsýn metnaðarfull, sem hún hefur fyrir íslenska bændur!"

Engin fyrirsögn

Rætt við kjósendur - skemmtilegur laugardagur á Glerártorgi
Í dag fóru frambjóðendur Sjálfstæðisflokksins í verslunarmiðstöðina Glerártorg á Akureyri og hittu kjósendur og dreifðu blöðum um stefnu flokksins í komandi kosningum. Var þetta mjög gaman og athyglisvert að ræða málin við fólk. Á Glerártorgi voru Halldór Blöndal, Tómas Ingi Olrich og aðrir frambjóðendur flokksins og forystumenn í baráttunni hér að kynna stefnu framboðsins og spjalla við kjósendur. Voru margir sem þáðu bækling flokksins og ætluðu að kynna sér hann og börnin voru hrifin af nælunum og fengu eina meðferðis. Þarna var líf og fjör, enda fólk að versla inn til páskanna og kom klyfjað páskaeggjum og öðru góðgæti úr Nettó. Það var virkilega gaman að vera þarna og spjalla við fólk, hitta marga sem maður þekkir og hefur ekki séð lengi. Fólk vildi ræða margt og var virkilega gaman að sjá hversu vel okkur var tekið. Nú er lokasprettur kosningabaráttunnar framundan og mikilvægt að ná til sem flestra kjósenda, framundan eru fleiri framboðsfundir og uppákomur vegna kosninganna. Til dæmis er framundan vöfflukaffi á Kaffi Akureyri á sumardaginn fyrsta, súpufundir og skyrfundur með framhaldsskólanemum sem lukkaðist víst mjög vel 1999. Það var því mjög gaman að fara á Glerártorg og labba um svæðið, ræða við fólkið og dreifa blaði með stefnu okkar og kynningu á verkum Sjálfstæðisflokksins á seinustu árum. Framundan er snarpur lokasprettur í baráttunni.

Coppola
Í leikstjórapistli þessarar viku fjalla ég um feril Francis Ford Coppola. Að venju er farið yfir bestu myndir hans og vel ég þær 10 bestu að mínu mati. Vil ég þakka þeim sem hafa sent mér komment um þessar greinar fyrir góð orð. Gaman að einhverjir hafa áhuga á að lesa þessar greinar. Hvet ég alla til að skrifa mér og koma með tillögur um hverja þeir vilja að ég skrifi um og eins ef einhverjar hugmyndir eru eða ef fólk vill koma með sitt álit á þessum skrifum.

hægri.is - frábær síða
Hvet alla til að líta á síðu félaga minna í ungliðahreyfingunni í Suðvesturkjördæmi, hægri.is. Frábær síða og skemmtileg. Gott efni og fínar myndir. Vona að þeim gangi sem best í baráttunni. Sendi góða strauma til kanzlarans og félaga minna fyrir sunnan

Gleðilega páska !!

Engin fyrirsögn

Dylgjur og rógburður í Borgarnesi
Fyrir rúmum tveim mánuðum hóf fyrrverandi borgarstjóri kosningabaráttu sína sem talsmaður Samfylkingarinnar með því að ráðast á forsætisráðherrann með rógburði og dylgjum. Var einkennilegt að forystumanneskja í pólitík mætti í landsmálin stefnulaus og greinilega full af persónulegu hatri í garð forsætisráðherrans. Greinilegt var þá að prímus mótor hennar í baráttunni myndi verða andstyggð hennar á Sjálfstæðisflokknum og leiðtoga hans. Málefnafátæktin var algjör. Engu líkara var en að borgarfulltrúinn sprytti fram í febrúar sem einhverskonar málsvari nokkurra fyrirtækja og eigenda þeirra. Henni var enda tíðrætt í ræðu sinni þá um að viss fyrirtæki hafi verið beitt ofsóknum af hálfu forsætisráðherrans og í því skyni hafi lögreglu og skattyfirvöldum verið beitt gegn þeim. Þessar ásakanir voru með öllu órökstuddar og settar fram sem einskonar gróusögur. Þessi gagnrýni hennar missti marks og hóf hún þá í örvæntingu sinni að ræða málefni kosningabaráttunnar og hefur síðan misst bæði fylgi og trúverðugleika enda hefur hún jafnan komið illa út úr málefnlegri umræðu, t.d. um skattamálin á Stöð 2 og RÚV fyrir rúmri viku, þar sem t.d. forsætis- og utanríkisráðherra fræddu hana um skattamálin. Því var ákveðið að dusta rykið af Gróu á Leiti og hún hélt aftur upp í Borgarnes og tók til við að breiða út dylgjurnar og róginn á ný. Eitthvað þurfti greinilega til bragðs að taka til að ráðast að forsætisráðherra og Sjálfstæðisflokknum. Það er með ólíkindum að forystumanneskja í pólitík sem vilji láta taka sig alvarlega mæti á vettvang landsmála með gróusögur sem helsta bakgrunn boðskaps síns. Það er helst að skilja á ræðum hennar í Borgarnesi að málefnaleg staða hennar sé mjög veik og þar séu engin málefni til að tala um. Það er kannski skiljanlegt ef litið er á stöðu mála. Það eru engar forsendur fyrir breytingum.

Borgarnesskandallinn hinn seinni (vonandi verða þeir ekki fleiri) er byggður á því mati talsmanns SamfylkingarinnarSjálfstæðisflokkurinn og formaður hans ráði hér lögum og lofum og misbeiti valdi sínu og ráðist að æðstu mönnum þjóðar og kirkjunnar ef þeir tala ekki máli þeirra. Ummæli talsmannsins eru í senn bæði ósvífin og lýsa persónu talsmannsins. Hún getur ekki á nokkurn hátt rökstudd mál sitt, enn og aftur er byggt á dylgjum, getsökum og rógi. Þegar fréttamenn biðja um rökstuðning er bara sagt; "Það sjá þetta allir". Síðan hvenær er talsmaður Samfylkingarinnar orðin samviska þjóðarinnar, hún er náttúrulega bara að breiða þessa þvælu út sér til framdráttar og til að reyna að skaða andstæðinga sína á ómerkilegan hátt. Er þetta kosningabarátta Samfylkingarinnar að hefja rógsherferð gegn forsætisráðherra og forðast það að ræða málin á málefnalegan hátt. Það mætti halda að svo væri. Sú barátta þeirra er lítt geðsleg og gott af forsætisráðherra að forðast að taka þátt í umræðu á þessu lága plani sem talsmaðurinn er á. Augljóst er að forsætisráðherraefni Samfylkingarinnar er pirruð þessa dagana og iðkar í raun alla þá lesti sem hún sér í annars ranni. Óskandi er að kosningabaráttan komist fljótlega á hærra plan og að talsmaður Samfylkingarinnar sjái að sér og fari að ræða málefni baráttunnar á ný. Jafnvel þó svo að hún hafi gengið sneypt frá þeirri umræðu um daginn er það vilji fólksins að baráttan verði málefnaleg og heiðarleg, ekki háð á svona lágu plani. Það er ekki vilji sjálfstæðismanna að færa kosningabaráttuna á þetta lága plan sem leiðtogaefni Samfylkingarinnar fór með hana á. Það er mikilvægt að okkar mati að umræðan verði málefnaleg og rætt verði á heiðarlegan hátt um stöðu þjóðarinnar nú. Sjálfstæðisflokkurinn mun nú sem ávallt áður taka þátt í heiðarlegri kosningabaráttu og er óhræddur við að ræða málefni baráttunnar, ólíkt Samfylkingunni og talsmanni þeirra.

Flutningar
Flutti í vikunni um set milli hverfa á Akureyri, flutti upp á Brekku. Mjög sáttur við mig á nýja staðnum, gott að vera í Þórunnarstrætinu. Bjó reyndar ofar í götunni (nr. 118) frá fæðingu 1977 til 1981 þegar fjölskyldan flutti upp í Norðurbyggð, er því kominn á gamlar slóðir í nr. 136. Er kominn í hringiðuna í bænum, stutt að labba niður í miðbæ og eins á Glerártorg. Þannig að þetta er stutt frá öllu og mjög miðsvæðis. Kjörinn staður til að fara í göngutúra um bæinn. Nú um páskana er gott að geta slappað af og notið lífsins, eftir helgina fer maður svo á fullt í kosningabaráttuna í kjördæminu. Rúmar þrjár vikur eru til kosninga og snarpur lokasprettur framundan.

Engin fyrirsögn

Vitlaust plagg!
Eins og menn vita er Kristján L. Möller maður eins máls og talar um þungaskatt og flutningskostnað hvar sem hann fer. Nú er þetta ekki annað en það sem þingmenn landsbyggðarinnar hafa gert svo áratugum skiptir að velta því fyrir sér og berjast fyrir því, að hægt sé að lækka flutningskostnaðinn. Þess vegna var hann á sínum tíma undanþeginn söluskatti, sem fór óskaplega í taugarnar á Alþýðuflokknum og sérstaklega Jóni Baldvin. Síðan var ákveðið að sérstakur afsláttur yrði veittur af þungaskatti, sem nýttist flutningabílum utan af landsbyggðinni. Þetta var kært fyrir Samkeppnisyfirvöldum sem kváðu upp þann úrskurð, að afslátturinn yrði afnuminn, sem óhjákvæmilegt var að fallast á. Á síðasta kjörtímabili hefur þungaskatturinn lækkað um 2%. Þessu til viðbótar hafa verið innleiddar nýjar reglur um hvíldartíma ökumanna samkvæmt reglum Evrópusambandsins sem leiddu til hækkunar flutningskostnaðar. Þar á móti hafa komið miklar vegaframkvæmdir og stytting leiða, sem auðvitað eru til lækkunar á flutningskostnaðinum. Á sameiginlega fundinum á Húsavík í vikunni, fór Kristján L. Möller enn að tala um þungaskattinn og sagði að Samfylkingin myndi sérstaklega beita sér fyrir lækkun hans úti á landi. Hafði hann plagg í höndunum meðan hann sagði þetta. Halldór Blöndal tók þá upp kosningastefnu Samfylkingarinnar eins og hún var samþykkt á vorþinginu og sagði: Þetta er ekki hér, - sýndu mér hvar þetta stendur, sagði hann og rétti Kristjáni plaggið. Kristján gat ekki fundið orðum sínum stað. Í kosningastefnu Samfylkingarinnar var ekkert um þungaskattinn að finna. Halldór veifaði þá kosningastefnu Samfylkingarinnar framan í fundarmenn og sagði: Það er ekkert um þungaskattinn hér. Kristján sagði þá: Þetta er vitlaust plagg!

Annar Borgarnesskandallinn
Í dag skrifar Jón í Grófinni á Íslending um mál málanna, þvæluna í talsmanni Samfylkingarinnar. Orðrétt segir hann: "Það er einkennilegt með þessi umræðustjórnmál Ingibjargar Sólrúnar, hún iðkar þau ævinlega sjálf eins og hún sakar andstæðinga sínum um að gera. Eftir fyrsta Borgarnesskandalann varð hún ber að ósannindum og dylgjum en þar gaf hún berlega í skyn að forsætisráðherrann hefði sigað lögreglunni á fyrirtæki sem honum væri illa við. Þegar hún var spurð um heimildir fyrir þessu varð fátt um svör, þetta reyndust bara dylgjur, getsakir og rógur. Nú varð annar Borgarnesskandallinn í gær. Þar sagði forsætisráðherraefni Samfylkingarinnar orðrétt: "Í krafti stærðar sinnar ræður Sjálfstæðisflokkurinn lögum og lofum í íslensku samfélagi. Því fylgir mikil ábyrgð sem forystan umgengst ekki af virðingu. Hún hamast á fólki sem ekki vill lúta þeirra pólitísku forsjá og valdi. Þannig hafa þeir alltaf hamast á forsetanum og biskupnum ef þessir æðstu menn þjóðar og kirkju tala ekki eins og forystunni er þóknanlegt, þeir neyta aflsmunar gagnvart fjölmiðlamönnum sem ekki eru eins og þeim finnst þeir eigi að vera - og ef fjölmiðlamenn þyrðu að segja frá værum við margs fróðari." Þetta eru ótrúlega ósvífin ummæli og því ekki óeðlilegt að fréttamenn hafi spurt ráðherraefnið um rök, á hverju byggðust staðhæfingarnar. Einu svörin sem fengust eins og fyrr voru þau að fjölmiðlamenn þyrðu ekki að tala, ekkert dæmi nefnt um hamaganginn. Enn og aftur sama aðferðin, dylgjur getsakir og rógur. Forsætisráðherrann orðaði það einu sinni opinberlega að hann væri ekki sammála biskupi um eitt tiltekið mál. Núverandi forseti hefur sjálfur átt frumkvæði að því að ræða um stjórnmál við opinber tilefni og þarf engum að koma á óvart að forsætisráðherra sé ekki sammála honum og láti þess getið. Fréttamenn hafa ekki haft í frammi hávaða vegna þess að forsætisráðherra hafi gert á þeirra hlut. Hver er hamagangurinn? Í þessari sömu ræðu setti Ingibjörg Sólrún fram þá skoðun að "pólitísku aðalatriði vorsins snérust um sýn á samfélagið, sýn á framtíð þess." Það er ástæða til að taka eftir því að innihaldið í sýn hennar á hin pólitísku aðalatriði er að ganga inn í hlutverk Gróu á Leiti, persónulegar dylgjur og rógur. Það eru umræðustjórnmál í lagi. Forsætisráðherraefnið talar eins og pirruð piparjónka sem iðkar alla þá lesti sem hún sér í annars ranni. Furðar nokkurn að Davíð Oddsson hafi ekki áhuga á að taka þátt í umræðustjórnmálunum? Má ég þá heldur biðja um átakastjórnmál og ákvarðanastjórnmál."

Engin fyrirsögn

Góðir fundir með Davíð og Geir - spennandi kosningabarátta - kosningavefur opnar
Í gær komu Davíð Oddsson forsætisráðherra og formaður Sjálfstæðisflokksins og Geir H. Haarde fjármálaráðherra, til Akureyrar og héldu fundi og heimsóttu vinnustaði og stofnanir í höfuðstað Norðurlands. Kl. 15:00 var fundur forsætisráðherra með ungu fólki á Kaffi Akureyri. Þar var hann með stutta framsögu og á eftir svaraði hann spurningum. Hann var spurður ítarlegra spurninga af ungum kjósendum og svaraði þeim greiðlega. Var fundurinn mjög skemmtilegur og fundargestir ánægðir með hann. Margir sátu fundinn miðað við tímasetninguna og salurinn þéttsetinn. Seinnipartinn fór fólk í sjálfstæðisfélögunum á Akureyri á Greifann og fengu sér kvöldverð með formanni og varaformanni flokksins áður en haldið var í Sjallann á stjórnmálafundinn. Var gaman að ræða málin yfir borðum og voru stjórnmál aðalumræðuefnið. Mikið fjölmenni var samankomið í Sjallanum og góð stemmning á fundinum. Hélt Davíð ítarlega ræðu og fór yfir málin í kosningabaráttunni sem senn nær hámarki og ræddi t.d. um stöðu þjóðarbúsins, sjávarútvegsmál og skattamál. Að ræðu hans lokinni flutti fjármálaráðherra góða ræðu. Að þeim loknum sátu Davíð og Geir fyrir svörum ásamt Tómasi Inga Olrich menntamálaráðherra og Arnbjörgu Sveinsdóttur alþingismanni sem skipa 2. og 3. sæti framboðslista flokksins í kjördæminu. Komu margar fyrirspurnir fram á fundinum, þ.á.m. bar ég fram tvær, um samræmd stúdentspróf og skattamál. Fundirnir tókust báðir vel upp og dagurinn skemmtilegur. Kosningavefur flokksins opnaði í gær og þar er að finna stefnu flokksins í kosningunum og upplýsingar um flokkinn og frambjóðendur hans. Við erum komin á fullt í okkar baráttu og stefnum við að því að áfram verði stöðugleiki og barist fyrir hag almennings. Stefna Sjálfstæðisflokksins er sú stefna sem kemur kjósendum best á næstu árum. Áfram Ísland - blátt áfram

Ingibjörg Sólrún hikstar á vinstri stjórn
Alltaf er Jón í Grófinni flottur á Íslendingi og skrifar nú um umræður forystumanna flokkanna á sunnudag. Orðrétt segir hann: "Í sjónvarpsumræðuþætti leiðtoga stjórnmálaflokkanna á sunnudag var m.a. talað um nýja Gallup-könnun, en samkvæmt henni fengi Sjálfstæðisflokkurinn 22 þingmenn og Framsóknarflokkurinn 8, en stjórnarandstaðan fengi 33 þingmenn. Eðlilega viku þeir að því bæði Davíð Oddsson og Halldór Ásgrímsson að samkvæmt þessari könnun væri eðlilegt að vinstri stjórn tæki við og tók Steingrímur J. Sigfússon undir það og var mjög afdráttarlaus í þeim efnum. Hins vegar stóð á Ingibjörgu Sólrúnu Gísladóttur og þó hefur Össur Skarphéðinsson skýrt frá því, að hana hafa einmitt dreymt um það að fá að leiða vinstri stjórn. Það er í samræmi við þau orð hennar, að hún sé ekki að bjóða sig fram til að framlengja daga Davíðs Oddssonar í stjórnarráðinu. Menn hafa spurt, hvernig standi á þessari tregðu. Það skyldi þó ekki vera, að hún hafi á ferðum sínum um landið fundið, að fólk treystir ekki vinstri stjórn. Efnahagsástandið er gott. Um það ber öllum tölum saman. Lífskjör hafa batnað og mest þeirra lægst launuðu. Atvinnuleysi hefur minnkað. Hvergi er meira varið til heilbrigðismála og hér og framlög til menningar- og skólamála hafa verið að hækka verulega á sama tíma og dregið hefur úr þeim hjá ýmsum grannþjóðum okkar. Á öllum þessum málasviðum berum við okkur einungis saman við þær þjóðir, sem best standa sig í veröldinni og höfum verið að færa okkur ofar í samanburðinum. Það er því eðlilegt að fólk hiki við, áður en það býður vinstri stjórn velkomna. Andstæðurnar í sjónvarpþættinum voru skýrar. Þeir Davíð Oddsson og Halldór Ásgrímsson náðu vel saman og settu mál sitt skýrt fram, þannig að enginn þarf að vera í vafa um, hvað þeir vilja og hvert þeir stefna. Kjarninn í málflutningi þeirra var sá, að þeir vilja halda áfram að byggja upp traust atvinnulíf og láta þjóðina fá sinn skerf af auknum þjóðartekjum. Hins vegar voru Ingibjörg Sólrún Gísladóttir, Guðjón A. Kristjánsson og Steingrímur J. Sigfússon. Ekki var mikill samhljómur í því, sem þau boðuðu nema helst það, að þau voru hrædd við lækka skattana. Heilsteypta atvinnustefnu var þar hvergi að finna."

« Fyrri síða | Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband