Engin fyrirsögn

Allt komið á fullt í kosningabaráttunni
Rúm vika er síðan aðalkosningaskrifstofa okkar sjálfstæðismanna í Norðausturkjördæmi opnaði. Hún er í Kaupangi við Mýrarveg og er opið þar milli kl. 9:00 og 19:00. Einnig hafa verið opnaðar skrifstofur á Egilsstöðum, Húsavík, Siglufirði og Ólafsfirði og munu fleiri bætast við eftir því sem styttist í kosningar. Það er alveg óhætt að segja að mikið fjör sé í baráttunni og nóg um að vera hjá okkur hinum virku flokksmönnum sem tökum þátt í baráttunni. Frambjóðendur eru á fleygiferð um kjördæmið og mjög margir hafa litið á kosningaskrifstofurnar og greinilegt að stemmningin er góð nú þegar styttist í kosningar. Á mánudag kemur Davíð Oddsson forsætisráðherra, til Akureyrar og heldur fund í Sjallanum um kvöldið, ásamt Geir H. Haarde fjármálaráðherra. Hvet ég allt sjálfstæðisfólk til að mæta á fundinn með formanni og varaformanni flokksins. Fyrr um daginn, býður forsætisráðherra ungu fólki að ræða kosningamálin við sig á Kaffi Akureyri milli kl. 15:00-17:00. Hvet unga fólkið að mæta og ræða málin við Davíð.

Mánuður til kosninga - spennandi barátta
Í dag birtist fyrsta grein mín á hinum nýja og stórglæsilega frelsisvef. Er ég þar að skrifa um kosningabaráttuna. Nú þegar mánuður er til alþingiskosninga er kosningabaráttan að ná hámarki og búast við snarpri og spennandi baráttu á seinustu vikunum, einkum seinustu 20 dögunum eftir páska. Nú eru kosningastefnuskrár stjórnmálaflokkanna komnar fram og er athyglisvert að kynna sér stefnur flokkanna í hinum ýmsu málum sem snerta kjósendur í landinu og fjölskyldur þeirra. Á fjölmennum landsfundi Sjálfstæðisflokksins kom fram að sjálfstæðismenn vildu á næsta kjörtímabili lækka tekjuskatt um 4%, afnema eignarskatta, lækka um helming virðisaukaskatt á matvæli, bækur, húshitun, rafmagnskostnað og öðru sem tilheyri lægri virðisaukaskattsþrepinu, hækka barnabætur um 2000 milljónir króna, lækka öll skattþrep erfðafjárskatts og auka skattfrelsi vegna viðbótar framlaga í lífeyrissparnað. Sjálfstæðismenn hafa hingað til ekki lofað beinum skattalækkunum fyrir kosningar en hafa þó lækkað þá samt. Um er að ræða bein loforð okkar sem við munum efna ef okkur verður falin stjórn á þjóðarskútunni næsta kjörtímabil. Eins og formaður flokksins sagði sjálfur í ræðu á landsfundi eru sjálfstæðismenn ekki aðeins umræðustjórnmálamenn heldur fyrst og fremst athafnastjórnmálamenn. Skattalækkunartillögur flokksins munu allar verða lögfestar í einu lagi á fyrsta haustþingi eftir kosningar. Þar munu dagsetningar verða nefndar um hvenær breytingarnar tækju gildi á kjörtímabilinu.

Um síðustu helgi var haldið vorþing Samfylkingarinnar og þar var boðið upp á setningarávarp formanns flokksins og stefnuræðu forsætisráðherraefnis flokksins. Vitaskuld er ekki um sömu manneskju að ræða. Í ræðunni sagðist formaðurinn gagnrýna þau "yfirboð" sem Sjálfstæðisflokkurinn hefði komið fram með á landsfundi sínum. Næst tók til máls fyrrverandi borgarstjóri og einkenndist ræða hennar af yfirboðum þeim sem formaður hennar hafði gagnrýnt svo mjög örfáum andartökum fyrr. Aldrei hefur leikið vafi á að "pópúlismi" er aðalsmerki jafnaðarmannaflokksins, þannig að ræða fyrrverandi borgarstjóra kom ekki svo mjög á óvart. Móttóið er; "Við ætlum að gera allt fyrir alla, en við segjum ekkert hvernig við förum að því fyrr en eftir kosningar". Þetta er sama mottó og fyrrverandi borgarstjóri hefur verið með í seinustu þrem kosningabaráttum í Reykjavíkurborg. Fyrir nokkrum vikum steig talsmaður Samfylkingarinnar fram og sagði að fjölga þyrfti mjög þrepum í tekjuskattskerfi landsmanna. Þó er ekki minnst orði á þetta í kosningastefnuskrá flokksins. Hún hefur eftir vorþing flokksins haldið áfram að nefna þessar tillögur og virðist halda fast í þær. Samfylkingin hefur ekki í hyggju að lækka jaðarskatta, þeim skal halda háum. Mjög athyglisvert er að það fer engan veginn saman við tillögur talsmannsins um fjölþrepa skattkerfi. Eins og reyndir menn hafa bent á fylgir fjölþrepa skattkerfinu að skattleysismörk verða að lækka. Nægir í þeim efnum að líta til Norðurlandanna. Virkar slíkt kerfi á þá leið að þrepunum verði breytt upp á við, með hækkun skatta á þá sem hafa millitekjur og þar yfir. Skyldi það vera það sem Samfylkingin vill? Eins og margir vita var fyrrverandi borgarstjóri þekkt fyrir eitthvað allt annað en að lækka skatta í valdatíð sinni í borginni. Því var lofað af R-listanum fyrir kosningarnar 1994 að hækka ekki skatta, allir þekkja hvernig efndirnar urðu. 1998 lofaði R-listinn að lækka gjöld á borgarbúa, útsvarið var hinsvegar hækkað um haustið.

Sl. þriðjudag voru formenn flokkanna (fyrirgefðu Össur, forystumenn) gestir í sjónvarpssal á Stöð 2. Voru þær umræður um margt athyglisverðar, einkum fyrir þær sakir að þar mættust forsætisráðherra og fyrrverandi borgarstjóri í fyrsta skipti fyrir þessar kosningar í umræðuþætti. Kom vel í ljós að það andaði köldu á milli þeirra, enda hefur fyrrverandi borgarstjóri allt að því útilokað samstarf við okkur sjálfstæðismenn. Þar virðist persónulegt hatur hennar í garð forsætisráðherra vera aðalástæðan. Greinilegt var að ekki voru heldur nein hlýlegheit milli fyrrverandi forystumanns Framsóknarflokksins í R-listanum í borgarstjórn og formanns Framsóknarflokksins, enda virðast þau vera í harðri baráttu um þingsæti í borginni og ekki ljóst hvort bæði sitja eftir með sárt ennið eða bara annað nái inn. Greinilegt var að lítill samhljómur er á milli leiðtoga stjórnarandstöðuflokkanna og töluðu í margar áttir og virðast eiga fátt sameiginlegt. Talsmaður Samfylkingarinnar slær úr og í frá einum sjónvarpsþætti til annars og virðist að mörgu leyti endurspegla vel þann flokk sem hún er í. Ætti að nægja að líta á skattamálin í þeim efnum. Nú virðist fjölþrepa tekjuskatturinn fokinn út í veður og vind og ekki var minnst einu orði á að hafa þungaskatt lægri á Akureyri en í Reykjavík eins og formaður hennar hefur sagt til að reyna að þóknast Kristjáni Möller leiðtoga Samfylkingarinnar í Norðausturkjördæmi. Væri athyglisvert að vita hvernig þeim félögum litist á þögn hennar um tillögur þeirra varðandi fjölþrepa þungaskatt. Eins og fyrr segir er leiðtogaþrenning stjórnarandstöðunnar ekki traustvekjandi, en ljóst er að hún er sá kostur, sem kjósendur hafa gegn leiðtogum stjórnarflokkanna þegar velja skal forystu til næstu ára. Kostirnir í komandi kosningum eru mjög skýrir; viljum við áframhaldandi stöðugleika eða stjórnleysi að hætti vinstri manna í þriggja flokka stjórnum frá fyrri tíð. Svo einfalt er það!

Engin fyrirsögn

Kvikmyndaskrif á 3bio.is
Fyrir viku opnaði nýr vefur um kvikmyndir, 3bio.is. Hef ég í mörg ár skrifað um kvikmyndir og hef á þeim mikinn áhuga. Var ég fenginn til að taka þátt í þessum nýja vef. Skrifa ég þar vikulegar leikstjóragreinar og stöku sinnum um kvikmyndir, kvikmyndagagnrýni. Þegar hafa birst tvær leikstjóragreinar. Þær fjalla um feril Sir David Lean og Oliver Stone.

Þorsteinn Vestfirðingur orðin skvísa
Svo einkennilegt er að nú hefur komist upp um fröken Femínskvísu sem skrifað hefur á Innherjavef visir.is seinustu vikurnar. Er svo merkilegt að á bakvið frökenina stendur fjandvinur minn og dyggur lesandi síðunnar, Þorsteinn á Ísafirði, en eins og flestir vita varð thornsteen hans bráðkvaddur fyrr á þessu ári. Síðan hefur hann reynt að komast aftur inn á spjallið með ýmsum hætti, en sá nýlega góða leið til þess að snúa aftur. Hann ákvað að bregða sér í gervi skvísunnar, gott er að vita nú hver er að baki þessu.

Hvað eru "strandveiðibyggðir"?
Enn fer Jón í Grófinni á kostum í Þönkum á Íslendingi. Hér eru nýjustu þankar hans: "Samfylkingin vill taka fiskveiðiheimildirnar bótalaust frá þeim sem róa, sjómönnum og fiskimönnum um land allt, undir því yfirskini að með því sé hún að þjóna réttlætinu. Kvótann á að bjóða til leigu um lengri eða skemmri tíma og greiða kvótaleiguna, þegar aflanum hefur verið landað. Þetta er ný skattlagning á landsbyggðina og merkileg framtíðarsýn hjá Samfylkingunni. Páfinn er Jóhann Ársælsson. En það er ekki nóg með, að Samfylkingin vilji þjóðnýta aflaheimildirnar bótalaust, heldur hugsar hún sér líka að semja reglur um það, hverjir megi leigja kvótann. Þannig hefur hún fundið upp þessa undarlegu kennisetningu, að það eigi “að tryggja rétt strandveiðibyggðanna til að nýta miðin við endurskoðun fiskveiðikerfisins”. Á mæltu máli þýðir þetta, að hún hugsar sér að færa veiðiheimildir frá Eyjafirði og Akureyri til annarra staða. Jóhann Ársælsson gerði mikið mál úr því á Alþingi að Kárahnjúkavirkjun og álverið við Reyðarfjörð leiddu til ójafnvægis í byggðamálum. Það sýndi glöggt tvískinnung Samfylkingarinnar í málefnum Austfirðinga. Þó keyrði um þverbak þegar Jóhann Ársælsson fór að telja eftir það sem gert hefur verið og það sem gera á hér á Akureyri. Á það hlustuðu Kristján L. Möller og Einar Már Sigurðarson og létu sér vel líka."

Þjóðin fái sinn skerf
"Tillögur Sjálfstæðismanna í skattamálum hafa vakið mikla athygli af því að þær koma á réttum tíma og ná til allra landsmanna. Gott efnahagsástand og mikill og öruggur hagvöxtur allt næsta kjörtímabil gerir þessar lækkanir mögulegar, en eðlilegt er að launafólk og þjóðin sjálf fái sinn skerf af batnandi afkomu þjóðarbúsins. Ekki bara ríkissjóður. Gagnvart heimilunum í landinu skiptir mestu máli í tillögum Sjálfstæðismanna, að virðisaukaskattur á matvæli, bækur rafmagnskostnað og húshitunverður lækkaður um helming niður í 7%. Tekjuskatturinn verður lækkaður um 4% og skattleysismörkin um rúmar 8 þús. kr. á mánuði. Barnabætur verða hækkaðar um 2 milljarða króna á næsta kjörtímabili. Eignaskattur verður afnuminn og skattfrelsi aukið vegna viðbótarframlaga í lífeyrissparnað og fleiramætti telja. Útreikningar DV, sem hafa verið staðfestir, sýna, að þeir sem hafa 104 þús. kr. tekjur eða meira í mánaðarlaun hagnast meira á því að skatthlutfallið verði lækkað um 4% og skattleysismörkin um rúm 8 þús. kr. á mánuði eins og Sjálfstæðisflokkurinn leggur til, en að látið sé við það sitja að lækka skattleysismörkin um 10 þús. kr. á mánuði eins og Samfylkingin vill. Ingibjörg Sólrún Gísladóttir og Jóhanna Sigurðardóttir hafa farið rangt með þessar tölur allar og áhrifin af þeim. Hér er ekki rúm til að rekja það, en vitaskuld er talnameðferð frambjóðenda Samfylkingarinnar kapítuli út af fyrir sig og mætti bera yfirskriftina: Betra er að veifa röngu tré en öngu!."

Engin fyrirsögn

Saddam Hussein felldur af valdastóli - endalok einræðis í Írak
Óhætt er að fullyrða að gærdagurinn hafi verið sögulegur í Írak. Þá lauk 24 ára stjórnartíð Saddams Hussein. Valdakerfi hans hrundi eins og spilaborg á nokkrum klukkutímum. Ægivald hans á höfuðborginni Bagdad og íbúum hennar leið undir lok með dramatískum hætti í beinni útsendingu sjónvarpsstöðva. Í gærmorgun varð ljóst að algjör upplausn væri í höfuðborginni og ringulreið og stjórnleysi einkenndi borgina. Írakar gripu tækifærið og hnupluðu varningi í stjórnleysinu. Eftir því sem leið á daginn varð ljóst að ægivald einræðisherrans var ekki lengur til staðar og hann ekki lengur við stjórn í borginni. Borgin var fallin í hendur Bandamanna. Ekki leið á löngu frá því að það var tilkynnt þar til að íbúar í Bagdad héldu út á götur og fögnuðu hermönnum Bandamanna, frelsurum sínum frá einræði og kúgun seinustu áratuga. Um þrjúleytið að íslenskum tíma hélt fólk að hinni risastóru styttu af einræðisherranum fyrrverandi við Firdos-torg í Bagdad og hóf að undirbúa að fella hana. Einn maður klifraði upp á hana með reipi og brá lykkju um styttuna. Aðrir réðust að fótstalli styttunnar með sleggjum en síðan var brynvörðu ökutæki bakkað að styttunni og vír brugðið um háls styttunnar. Bandarískir hermenn notuðu tækifærið á stund sigurs og settu bandaríska fánann yfir höfuð styttunnar. Með því varð einræðisherrann fallni endanlega niðurlægður og ljóst að valdasetu hans væri lokið. Að því loknu var írakski fáninn settur yfir hausinn. Hin sjö metra háa bronsstytta af Saddam Hussein var að því loknu felld af stalli. Hún var dregin niður með bandarískum herbíl og féll til jarðar með dramatískum hætti. Þegar styttan féll fögnuðu viðstaddir og hoppuðu á henni. Síðar var höfuðið brotið af og viðstaddir drógu það á eftir sér um torgið.

Með falli styttunnar hafa orðið tímamót í Írak og stríðinu þar. Hernaðarlegur máttur einræðisherrans og valdamúr hans hafa verið rofin. Allt er breytt. Saddam hefur verið afvopnaður, þegnar hans fagna falli hans og taka á móti frelsurum sínum fagnandi. Prísund þeirra er á enda, áratugar grimmdar og kúgunar stjórnar hans eru liðnir. Einræðisherranum voru gefnir 48 klukkustundir til að forða þjóð sinni frá átökum og víkja af valdastóli, hann hefði betur notfært sér tækifærið og reynt með því að forða sjálfum sér og þjóðinni frá þessum átökum. Hann hafnaði því og hefur tekið afleiðingunum. Hann verður handsamaður með einum eða öðrum hætti og látinn svara til saka fyrir verk sín. Ein mikilvægasta spurning alþjóðlegra öryggismála var lengi vel hvort nauðsynlegt væri að grípa til hernaðaraðgerða gegn Írak. Eftir 12 ára svikin loforð hlaut að koma að þessu. Hann hefði auðveldlega getað forðast þetta með því að vinna með og heimila vopnaeftirlit frekar en að verða sprengdur úr embætti. Það gekk ekki lengur að Saddam myndi drepa málum á dreif eða hafa alþjóðasamfélagið að fífli með öðrum hætti. Hann hefði með því að heimila vopnaeftirlitsmönnum að starfa fullkomlega óhindrað getað haldið völdum. Það var að lokum undir honum sjálfum komið hvort nauðsynlegt væri að ráðast á hann til þess að afvopna hann. Saddam Hussein hefur haft alþjóðasáttmála að engu og svikið gefin loforð. Það gleymdist oft í umræðunni um árás Bandaríkjanna á Írak, að Persaflóastríðinu lauk ekki með friðarsamningi, heldur vopnahléi. Við vopnahléið gekkst Saddam undir skilmála sem hann hefur undantekningalítið svikið. Það var ljóst orðið að hann hefði aldrei farið sjálfviljugur frá völdum og litlar líkur á að almenningur í Írak hefði getað steypt herstjórn hans af stóli. Til að stíga skrefið til fulls varð að koma utanaðkomandi aðstoð. Hvort Saddam er dauður eða einhversstaðar með líftóru skiptir úr þessu engu máli. Kúgun hans á þegnum Íraks hefur verið rofin. Hann hefur misst ægivald sitt. Einræðisherrann er fallinn!

Málefnasamningur meirihlutaflokkanna á Akureyri metinn
Unnið verður áfram að því að setja málefnasamning og stefnu meirihluta Sjálfstæðisflokks og Framsóknarflokks á Akureyri upp í svokallað samhæft árangursmat (balanced scorecard). Er þetta niðurstaða vinnuhóps sem samanstóð af fulltrúum frá Akureyrarbæ og Háskólanum á Akureyri. Í febrúar síðastliðnum fór af stað samstarfsverkefni um samhæft árangursmat milli rekstrar- og viðskiptadeildar Háskólans á Akureyri, stofnana og fyrirtækja á Akureyri og IM á Íslandi. Samstarfsverkefnið var hluti af námskeiðinu Stefnumótun II og er liður í að efla tengsl rekstrar- og viðskiptadeildar við atvinnulífið. Segja má að með þessu verkefni hafi verið brotið blað í samstarfi atvinnulífs við rekstrar- og viðskiptadeild og er þetta í fyrsta skipti sem aðilar úr atvinnulífinu taka þátt í námsmati í deildinni. Þátttakendur í verkefninu voru Búnaðarbankinn á Akureyri, Fjórðungssjúkrahúsið á Akureyri, Háskólinn á Akureyri og Akureyrarbær. Myndaðir voru verkefnahópar sem samanstóðu af fulltrúum frá þessum aðilum og nemendum á 3. ári í viðskiptafræði, en þeir voru starfsmenn hópanna. Að verkefninu komu einnig þrír kennarar auk ráðgjafa. Þriðjudaginn 8. apríl var haldin málstofa þar sem nemendur kynntu tillögur og niðurstöður úr verkefnavinnunni. Þeir sem að verkefnunum komu voru sammála um að þau hefðu verið skemmtileg og krefjandi, en umfram allt lærdómsrík fyrir alla sem að þeim komu. Voru þátttakendur af hálfu atvinnulífsins mjög áhugasamir um að vinna áfram með þær niðurstöður sem fengust. Helgi Gestsson, lektor við rekstrar- og viðskiptadeild hafði yfirumsjón með verkefninu og stjórnaði málstofunni. Eftir stendur að meirihlutaflokkarnir eiga gott samstarf og vel gengur að stjórna bænum eftir málefnasamningnum. Eins og ávallt áður mun okkar fólk efna sín loforð við kjósendur.

Engin fyrirsögn

Samkomulag undirritað um byggingu menningarhúss á Akureyri
Í gær undirrituðu Tómas Ingi Olrich, menntamálaráðherra og Kristján Þór Júlíusson bæjarstjóri á Akureyri, samkomulag um byggingu menningarhúss á Akureyri. Undirritunin fór fram á væntanlegum byggingarstað. Grundvöllur þessa samkomulags er ákvörðun ríkisstjórnar frá árinu 1999 (byggð á hugmynd þáv. menntamálaráðherra) um að veita stofnstyrki til uppbyggingar fimm menningarhúsa utan höfuðborgarsvæðisins með það að markmiði að bæta þar aðstöðu til menningar- og listastarfsemi. Á fundi ríkisstjórnar hinn 11. febrúar 2003 var ákveðið að veita einum milljarði kr. til byggingar menningarhúsa á Akureyri og í Vestmannaeyjum. Frá því ákvörðunin var tekin hefur verið unnið að undirbúningi samkomulags um byggingu menningarhúsanna í samvinnu við forsvarsmenn sveitarfélaganna. Nýlega var gengið frá undirritun samkomulags um byggingu menningarhúss í Vestmannaeyjum en ólokið er samningum við Ísafjörð, Sauðárkrók og Egilsstaði. Ráðgert er að menningarhúsið á Akureyri rísi á uppfyllingu við Torfunesbryggju og verði vettvangur menningarstarfsemi á Norðurlandi. Undirbúningur að byggingu menningarhússins er í höndum verkefnisstjórnar sem skipuð verður fulltrúum ríkisins og Akureyrarbæjar en byggingarframkvæmdir verða hins vegar á vegum sveitarfélagsins, sem jafnframt mun bera fulla ábyrgð á rekstri og viðhaldi menningarhússins. Er gert ráð fyrir að undirbúningur framkvæmda hefjist nú þegar og standa vonir til að framkvæmdir við byggingu hússins geti hafist um mitt ár 2004. Við þetta tækifæri var endurnýjaður samningur um samstarf ríkis og Akureyrarbæjar um menningarmál á Akureyri. Gildistími samningsins er til loka ársins. Samkvæmt samningnum er gert ráð fyrir að áfram verði rekið á Akureyri atvinnuleikhús, að Sinfóníuhljómsveit Norðurlands fái styrki til starfsemi sinnar og tryggðar verði fjárveitingar til Listasafns Akureyrar. Þetta er í þriðja sinn sem samningur um framlög ríkisins til menningarmála sem tengjast Akureyrarbæ er gerður. Fyrsti samningurinn var undirritaður á Akureyri 1996 og var hann síðan endurnýjaður árið 2000. Stefnt er að því að nýr menningarsamningur með breyttum áherslum taki gildi árið 2004.

Aðkomukonan í glugganum
Það er athyglisvert hvernig Samfylkingin stillir upp baráttu sinni hér í kjördæminu. Fyrrverandi borgarstjóri virðist allt í einu vera orðinn frambjóðandi á þessum slóðum. Þeir sem fylgjast með stjórnmálum vita, að Ingibjörg Sólrún Gísladóttir fyrrverandi borgarstjóri er hvorki í framboði hér né sýnt sig vera neinn sérstakan talsmann þess fólks sem hér lifir og starfar. Þvert á móti. Engu að síður sá forysta Samfylkingarinnar hér á Akureyri ástæðu til að stilla upp mynd af henni í glugga kosningaskrifstofunnar meðal frambjóðendanna í kjördæminu. Upphaflega var fyrrverandi borgarstjóra stillt upp númer eitt í gluggaröðinni og á hæla hennar fylgdi Kristján L. Möller en nú nýlega var myndum víxlað, Kristján L. Möller fluttur í fremri gluggann og Ingibjörgu í hans stað í þann seinni. Þegar Ingibjörg Sólrún, fyrrverandi borgarstjóri, tilkynnti framboð sitt í desember sl. kvaðst hún gera það til að vinna að hagsmunum borgarbúa. Hún hafði áður sem borgarstjóri oft sent landsbyggðarfólki kaldar kveðjur m.a. í umræðunni um flugvöllinn í Vatnsmýrinni. Reykjavíkurflugvöllur er landsbyggðarfólki mikilvægur en talsmaður Samfylkingarinnar ber ekki hag þess fólks fyrir brjósti í því hagsmunamáli frekar en öðrum. Þegar tilkynnt var um að 6,3 milljörðum króna yrði varið til að styrkja atvinnulíf landsins birtust talsmaður og formaður Samfylkingarinnar í fjölmiðlum og kvörtuðu yfir því hvernig fénu væri skipt milli svæða. Ekki töluðu þau máli landsbyggðarinnar í það skiptið. Enda eru þau í framboði í Reykjavík. Nýlega sagði talsmaðurinn að mikilvægt væri að næsti samgönguráðherra kæmi úr röðum þingmanna höfuðborgarsvæðisins. Hún treystir semsagt ekki landsbyggðarmönnum fyrir að fara með þann málaflokk. Kaldar kveðjur það. Aðkomukonan í glugganum er ekki kræsilegur kostur fyrir okkur hér í þessu kjördæmi.

Umræður stjórnmálamanna á Stöð 2 og RÚV
Athyglisvert var að horfa á umræður stjórnmálaleiðtoganna í gærkvöldi, bæði formannaumræðurnar á Stöð 2 og einvígi Halldórs Ásgrímssonar og Ingibjargar Sólrúnar Gísladóttur í Kastljósinu. Horfði ég á umræðurnar á Stöð 2 frá upphafi til enda. Var þetta misáhugavert, það komu vissir hápunktar í umræðunum, t.d. þegar Davíð Oddsson og Halldór Ásgrímsson tóku Ingibjörgu og Steingrím J. í kennslustund í skatta- og velferðarmálum. Sérstaklega var athyglisvert hvernig Davíð tók Ingibjörgu fyrir. Halldór hefur sjaldan eða aldrei verið betri en í gær, málefalegur og vel heima í öllum málum. Hann hefur verið í þessu í þrjá áratugi og þekking hans á öllum málaflokkum er augljós. Davíð Oddsson stóð sig mjög vel og nokkuð ljóst að andstæðingar hans sem töldu að hann myndi ekki mæta í þessar umræður hafa orðið fyrir vonbrigðum með hversu vel hann tók Ingibjörgu fyrir. Davíð talaði tæpitungulaust og var mjög málefnalegur. Guðjón Arnar virkaði ekki vel heima í málum og mætti halda að hann fókuseraði eingöngu á sjávarútvegsmálin, hann þarf að taka sjálfan sig í gegn. Ingibjörg Sólrún var afspyrnuslöpp, oft illa heima í málum og ekki með tölur og mál á hreinu. Hún virðist ekkert hafa í formenn stjórnarflokkanna að gera. Hún reið ekki feitum hesti frá þessum umræðum. Steingrímur J. kom ekki á óvart með tali sínu og skín forræðishyggjan og kommaþvælan í gegnum málflutning hans. Í Kastljósinu tók Halldór Ásgrímsson, Ingibjörgu Sólrúnu í kennslustund í skattamálum og átti mjög auðvelt með að leggja hana. Athyglisvert var að vissir vinstrimenn gáfu í skyn að Halldór þyrði ekki að mæta henni og hefði ekkert í hana að segja. Hann þarf ekki að vera hræddur, enda hefur hann miklu meiri þekkingu á málunum og á í engum erfiðleikum með að hafa hana. Það sást enn á Stöð 2 og RÚV, að ISG veit ekkert um hvað hún er að ræða, þegar skattamál eða utanríkismál eru annars vegar. Athyglisvert að sjá nöldursegg eins og hana vera tekna í kennslustund af sér reyndari mönnum í beinni.

Skattalækkanir Sjálfstæðisflokksins eru kjarabót fyrir alla
"Fyrir þessar kosningar leggur Sjálfstæðisflokkurinn til lækkun tekjuskatts um 4% sem felur í sér hækkun skattleysismarka um 8 þúsund krónur í tæpar 78 þúsund krónur á mánuði. Samfylkingin leggur til hækkun skattleysismarka í 80 þúsund krónur á mánuði en enga lækkun tekjuskattshlutfallsins. Sýnt hefur verið fram á að tillögur Sjálfstæðisflokksins gagnist betur en tillögur Samfylkingarinnar fyrir þá sem hafa rúmlega 100 þúsund krónur á mánuði í tekjur og skattatillögur flokkanna leiði til nánast sömu niðurstöðu fyrir þá sem hafa undir 100 þúsund krónum á mánuði í tekjur. Sjálfstæðisflokkurinn hefur ennfremur lagt til lækkun virðisaukaskatts á matvæli, bækur, húshitun og rafmagn, lækkun erfðafjárskatts, afnám eignarskatta o.fl., sem eru kjarabætur fyrir alla. Samfylkingin leggur til að skoðað verði að taka upp fjölþrepa skattkerfi. Þetta verður til þess að flækja skattkerfið, gera skatteftirlit erfiðara og veldur miklum eftirágreiðslum skatts. Ekki dugar að benda á að notast sé við slíkt kerfi í öðrum löndum, því hér eru aðstæður aðrar. Margir hafa sveiflukennd laun, svo sem sjómenn, og margfalt fleiri starfa fyrir fleiri en einn launagreiðanda en þekkist víðast annars staðar. Nefnd sem fjármálaráðherra skipaði og í sátu aðilar frá fjármálaráðuneyti og verkalýðshreyfingunni ásamt borgarhagfræðingi staðfesti gallana á fjölþrepa skattkerfi nú í vikunni. Í greinargerð nefndarinnar eru tekin dæmi um fjölþrepaskatt. Þar eru meðal annars skoðuð áhrif þess að taka upp 30% lægra þrep, líkt og talsmaður Samfylkingarinnar hefur nefnt. Ef skattleysismörk yrðu óbreytt frá því sem nú er þyrfti almenna þrepið að hækka um 8% í 46,6% fyrir tekjur yfir 150.000 krónur, sem þýddi að nær helmingur þess sem menn bættu við sig eftir 150.000 króna tekjur færi í skatt."

Samfylkingin slúðrar á ESB
Enn fer Jón í Grófinni á kostum í Þönkum á Íslendingi. Hér eru nýjustu þankar hans: "Síðustu misseri hefur Samfylkingin farið mikinn í Evrópumálum. Á því var hamrað, að þau væru hvergi á dagskrá nema hjá Samfylkingunni. Síðan var efnt til póstkosninga meðal flokksmanna Samfylkingarinnar. Framkvæmdin var að vísu vafasöm eins og framkvæmd kosninganna um Reykjavíkurflugvöll. Hvað um það. Niðurstaðan varð sú að það yrði gert að kosningamáli Samfylkingarinnar, að sótt yrðu um aðild að ESB. Síðan ferðuðust Ingibjörg Sólrún Gísladóttir og Ellert B. Schram um landið og Össur Skarphéðinsson fékk að vera með. Hvergi var undir það tekið, að stjórn fiskveiða yrði sett undir framkvæmdastjórnina í Brussel né að sjómenn og bændur skyldu lúta forsjá hennar. Í stefnuræðu sinni á dögunum reyndi Ingibjörg Sólrún samt sem áður að bera sig borginmannlega, þegar hún sagði: "Samfylkingin hefur mótað skýra afstöðu til Evrópusambandsaðildar, ein íslenskra stjórnmálaflokka." Síðan var hún spurð út í þessa setningu í Kastljósi og hvort þetta væri kosningamál. Þá kvað við annan tón. Það þarf að skilgreina samningsmarkmiðin að ESB, sagði hún og allt í einu var stefna Samfylkingarinnar orðin óljós. Eins og vél sem gengur ekki, af því að reimin er farin að slúðra. Annars verður að viðurkenna, að það sýnir heiðarleika hjá Ingibjörgu Sólrúnu Gísladóttur að hún skuli gera sér grein fyrir, hversu gagnlegur samningurinn um Evrópska efnahagssvæðið hefur orðið okkur Íslendingum í ljósi þess, að hún snerist gegn þeim á Alþingi og vildi vísa þeim frá. Ekki sýndi það mikla framsýni."

Engin fyrirsögn

Jafnrétti í reynd
Athyglisvert hefur verið að fylgjast með pólitískum andstæðingum Sjálfstæðisflokksins reyna að ala á þeirri þvælu að konur njóti ekki tækifæra til jafns við karlmenn til að komast í fremstu röð og vera í forystusveit flokksins. Þegar litið er yfir borgar- og bæjarfulltrúa stærstu sveitarfélaganna, þingmenn flokksins og forystusveit er þó ljóst að konum er treyst fyrir áhrifum. Þær njóta mikils trausts meðal flokksmanna og hafa sannað að þær standa undir því trausti. Í þingflokki Sjálfstæðisflokksins sitja 25 þingmenn, af þeim eru 9 konur. Í sveitarstjórnum eru konur oftast nær jafnmargar og karlmenn og sitja í virðingarstöðum þar og oft í forystu. Meðal helstu sigurvegara seinustu sveitarstjórnarkosninga voru tvær konur sem leiddu flokkinn til sigurs í heimabæ sínum; Ragnheiður Ríkharðsdóttir í Mosfellsbæ og Ásdís Halla Bragadóttir í Garðabæ. Þær eru glæsilegir fulltrúar flokksins í forystusveitinni. Oft vill það gleymast að tvær fyrstu konurnar sem settust í ríkisstjórn komu úr Sjálfstæðisflokknum; Auður Auðuns árið 1970 og Ragnhildur Helgadóttir árið 1983. Nú situr Sólveig Pétursdóttir í ríkisstjórn og er þar fulltrúi sjálfstæðiskvenna. Ekki er ólíklegt að fleiri konur verði í forystusveit í þingflokknum eftir kosningar, enda er formaður þingflokksins kona. Sigríður Anna Þórðardóttir hefur setið lengi á þingi og vaxið af störfum sínum þar. Á landsfundi Sjálfstæðisflokksins í seinasta mánuði sannaðist svo eftir var tekið að konum er treyst til forystustarfa innan flokksins. Þá voru sex konur kjörnar í miðstjórn flokksins af þeim 11 sem ná kjöri. Meðal sex efstu í kjörinu voru fimm konur. Sérstaklega vakti athygli góð útkoma Birnu Lárusdóttur bæjarfulltrúa flokksins í Ísafirði og Tinnu Traustadóttur ritara SUS og varaborgarfulltrúa. Birna hlaut nú, rétt eins og á landsfundinum 2001 flest atkvæði. Tinna varð önnur, sem kom ekki á óvart, enda hún vaxið mjög af störfum sínum innan ungliðahreyfingarinnar, í borgarmálum og sem talsmaður ungra kvenna innan flokksins. Góð útkoma þeirra er vitnisburður þess að konum er treyst og þær hafa sömu tækifæri og karlmenn sem sækjast eftir áhrifum.

Á föstudag var frelsi.is, vefur Heimdallar, opnaður á ný eftir gagngerar endurbætur. Hefur hann nú verið stokkaður upp. Efni á honum er þrískipt, þar eru fréttir úr ungliðastarfinu, greinar ungliða og tenglar á önnur sjónarmið sem birtast á öðrum vefmiðlum. Lengi var rætt um áður að konur ættu ekki tækifæri til að láta rödd sína heyrast innan Heimdallar. Það væri strákaklúbbur og stelpurnar fengju ekki að tjá sig. Sú klisja andstæðinga Heimdallar úr öðrum ungliðahreyfingum að félagið sé fjölmennur strákaklúbbur og konur aðeins í bakvarðasveitinni hefur verið afsönnuð með nýja vefnum. Þar eru hlutföll jöfn, stelpur og strákar eru jafnmörg í umsjónarhópi vefsins og tjá sig þar nú til jafns á við strákana. Það er mikilvægt að þetta sé með þessum hætti, enda blasir við að af 34 stjórnendum vefsins eru 16 stelpur og 16 strákar. Jafnara getur þetta ekki orðið, sjónarmið beggja kynja eiga greiða leið á vefinn nú. Það er mikilvægt að í framtíðinni verði Sjálfstæðisflokkurinn öflug hreyfing allra sem eru stuðningsmenn aukins einkaframtaks og þess að fólk hafi frelsi til að móta framtíð sína eftir eigin ákvörðunum. Þar eiga konur og karlar að eiga jafna möguleika til að komast til áhrifa til að leiða þá stefnu sem Sjálfstæðisflokkurinn hefur alla tíð staðið fyrir. Konur eiga óhikað að sækjast eftir áhrifum í pólitík til jafns við karlmenn. Með því fáum við jafnrétti í reynd. Í forystusveit Sjálfstæðisflokksins eru glæsilegir fulltrúar beggja kynja. Konur njóta þar sömu tækifæra og eiga hiklaust að sækja fram. Þær hafa stuðning til þess frá báðum hópunum.

Ingibjörg Sólrún hrósar stjórnarstefnunni
Enn fer Jón í Grófinni á kostum í Þönkum á Íslendingi í dag. Orðrétt segir hann: "Í Kastljósi í gær, sunnudagskvöld, sat Ingibjörg Sólrún Gísladóttir fyrir svörum. Það sem einkum vakti athygli var, hversu ríka áhersla hún lagði á gott efnhagsástand hér á landi og hversu bjart væri framundan. Kannski kom það skýrast fram, þegar hún var spurð, hvernig hún ætlaði að standa undir loforðum Samfylkingarinnar um lækkun skatta. Þá svaraði hún því til, að við sæjum fram á 11-12% hagvöxt á kjörtímabilinu og bætti því við að ekki þyrfti að draga úr útgjöldum á móti. Þetta sýndist ekki valda henni áhyggjum. Þvert á móti var hún með margvísleg ný útgjaldaáform á prjónunum, sem ekki þyrfti að hafa áhyggjur af. Hún virtist í sannleika sagt helst hafa áhyggjur af því, að hluti launa af rekstrarkostnaði fyrirtækja hefði hækkað úr 60% í 70%! Síðan var Ingibjörg Sólrún spurð að því, hvort hún vildi sjá einkarekstur í heilbrigðiskerfinu. Því tók hún víðs fjarri og heldur ekki í menntakerfinu, sagði hún. En bætti þó við: "Hins vegar sjáum við að einkastofnanir eigi að geta verið til í mennta- og heilbrigðiskerfinu!" Ekki var svo að heyra, að Ingibjörg Sólrún hefði áhuga á því að gera aðild Íslands að Evrópusambandinu að kosningamáli. Þó hefur það verið samþykkt af Samfylkingarfólki í póstkosningum. En hún sá einn ljóð á því ráði, nefnilega þann, að ekki væri búið að skilgreina samningsmarkmiðin. Þau þarf að skilgreina, sagði hún. Nema hvað!"

Engin fyrirsögn

Geir flottur hjá Gísla Marteini - undarleg umræða á visir.is
Virkilega gaman var að horfa á spjallþátt Gísla Marteins í gærkvöldi. Gestir hans í gærkvöldi voru Geir H. Haarde fjármálaráðherra, Guðjón Pedersen leikhússtjóri LR og Jóhanna Vigdís Arnardóttir leik- og söngkona. Skemmtilegt var spjallið milli Gísla og Guðjóns þegar talið barst að leikstörfum hans og einkum er rætt var um leikhópinn Svart og sykurlaust, sérstaklega var áhugavert að sjá glefsur úr verkum hópsins þar sem t.d. Kolbrún Halldórsdóttir alþingismaður, birtist í bíkíní og mjög léttklædd í nokkrum atriðum (löngu áður en hún varð forpokuð forsjárhyggjujúnka hjá VG). Guðjón flutti þekkt lag úr söngleiknum Cabaret í lok viðtalsins og hreinlega brilleraði. Hansa var frábær að venju og sagði skemmtilegar sögur af sér og spaugið var ekki langt undan enda hún þekkt fyrir létta lund sína. Söng hún gamla góða Edith Piaf-lagið La Vie en Rose eins og henni einni er lagið, syngur frönskuna alveg óaðfinnanlega. Seinasti gesturinn (aðalgesturinn) var Geir H. Haarde fjármálaráðherra og varaformaður Sjálfstæðisflokksins. Ræddi hann kosningabaráttuna framundan og sagðist hafa sannkallað gaman af ferðum um landið í aðdraganda kosninga og nefndi sérstaklega ferð með Halldóri Blöndal forseta Alþingis og þáverandi samgönguráðherra, til Grímseyjar fyrir seinustu kosningar, vorið 1999. Sagði hann t.d. frá góðri vísu sem varð til í ferðinni, en Geir slengdi fram fyrriparti sem Halldór botnaði meistaralega. Í lokin tóku Hansa og Geir saman lagið sívinsæla Something stupid sem feðginin Frank og Nancy Sinatra sungu á sjöunda áratug síðustu aldar og Nicole Kidman og Robbie Williams endurgerðu á ný í fyrra. Vel sungið hjá Hönsu og Geir sem nú er farinn á fullt í kosningabaráttuna.

Í dag er undarleg umræða á stjórnmálaspjallvef visir.is um þátt Gísla Marteins í gær. Þar er undrast mjög að Geir hafi mætt í þáttinn og að hann eigi harma að hefna gegn Gísla og fleirum, þ.á.m. er ég nafngreindur. Ástæðan á að vera aðdragandi borgarstjórnarkosninganna í fyrra þar sem sagt er að vissir aðilar hafi grafið undan Ingu Jónu Þórðardóttur eiginkonu Geirs, og hafi það leitt til þess að hún hafi þurft að víkja sem leiðtogi borgarstjórnarflokks Sjálfstæðisflokksins. Sagt er að ég, Hannes Hólmsteinn, fólk í Heimdalli (væntanlega átt við stjórnina) og Gísli Marteinn hafi stungið Ingu Jónu banasári í borgarmálum. Væntanlega er þarna vísað til umræðunnar sem varð til þess að Björn Bjarnason varð borgarstjóraefni sjálfstæðismanna í borginni og leiðtogi flokksins í borgarstjórn Reykjavíkur. Er með ólíkindum að lesa þessa þvælu sem borin er á borð þarna af óvildarfólki Sjálfstæðisflokksins og sett fram gegn okkur sem erum í flokknum og höfum tjáð okkur honum til stuðnings. Vil ég benda þeim sem skrifa slíka þvælu á að Ingu Jónu Þórðardóttur var ekki ýtt til hliðar úr leiðtogastólnum, hún tók sjálf ákvörðun um að hætta og sækjast ekki eftir honum. Hún ákvað að taka áttunda sætið á lista flokksins í fyrra og standa og falla með því. Það sæti vannst ekki og því hætti hún í borgarmálunum. Hún tók þátt í kosningabaráttu í fyrra sem frambjóðandi og nýtur góðrar stöðu innan flokksins. Það er fjarstæða að nokkur hafi unnið gegn persónu hennar markvisst. Margir flokksmenn vildu að Björn Bjarnason leiddi lista flokksins í fyrra, ég var vissulega þar á meðal en ég hef aldrei unnið gegn Ingu Jónu og eða ber kala til persónu hennar. Hún hefur alla tíð verið sannkölluð kjarnakona og unnið flokknum mikið gagn og hefði átt skilið að fá kjör í borgarstjórn í fyrra en það voru kjósendur sem tóku þá ákvörðun að vilja ekki krafta hennar í borgarstjórn, ekki sjálfstæðismenn. Geir H. Haarde hefur alla tíð verið farsæll stjórnmálamaður og ber ég mikið traust til hans og kaus hann t.a.m. í varaformannskjöri á landsfundi flokksins á dögunum. Þau hjón bæði eru gott og heiðarlegt fólk sem hafa unnið vel fyrir sinn flokk og kjósendur almennt. Ég vísa þeim óhróðri sem borinn var fram á spjallvef visir.is, algjörlega á bug.

Engin fyrirsögn

Þankar á Íslendingi - skemmtilegar pælingar
Í gamla Íslendingi, blaði sjálfstæðismanna á Akureyri sem kom út á árum áður var lengi dálkurinn Þankar sem margir skrifuðu í undir nafnleynd. Hann hefur nú verið endurvakinn á netútgáfu Íslendings. Fyrsti pistillinn birtist í gær og er svohljóðandi:

"Það er langt síðan ég hef sent Íslendingi línu, - ekki síðan vinur minn Jakob Ó. Pétursson hætti sem ritstjóri. En ástæðan fyrir því að ég sting niður penna núna er, að ég hitti gamlan vin minn og nafna niður í Hagkaupum. Honum var mikið niðri fyrir. "Ætlarðu að láta kjósa yfir okkur verðbólgustjórn?" spurði hann og bætti við: "Við þurfum á öllu að halda nema vinstri stjórn núna." Síðan rifjaði hann upp, að þegar hann fékk vörusendingu, teppastranga, í byrjun vikunnar, var búið að hækka verðið á föstudegi. Hann mátti ekki til þess hugsa að fá þetta ástand yfir sig á nýjan leik. En það er einmitt þetta sem fólk er að tala um og fólk óttast. Og ekki að ástæðulausu. Skoðanakannanir hafa verið mjög misvísandi og engan veginn tryggt, að ríkisstjórnin haldi velli. Að Sjálfstæðisflokkurinn og Framsóknarflokkurinn fái meirihluta á Alþingi. En Davíð Oddsson hefur lýst því yfir, að Sjálfstæðisflokkurinn fari ekki í þriggja flokka stjórn. Sporin hræða. Samfylkingin er mikill samtíningur flokksbrota, reikul í ráði auðvitað, en umfram allt vinstri sinnuð. Eða eins og Össur Skarphéðinsson sagði um Ingibjörgu Sólrúnu Gísladóttur: "Ég vísaði þá til ummæla sem hún hafði sjálf viðhaft opinberlega, þar sem hún sagði það skýrt, að hún sæktist ekki eftir því að verða forsætisráðherra í þessum kosningum en tók það hins vegar fram að hún vildi verða forsætisráðherra í vinstri stjórn einhvern tíma í framtíðinni." Þetta var í sjónvarpsþætti 30. desember, þar sem Össur sá ástæðu til að árétta, að ekki kæmi til greina að Ingibjörg Sólrún yrði forsætisráðherraefni Samfylkingarinnar í kosningunum nú í vor. Hann skyldi verða það sjálfur og það stóð í viku. Það kemur ekki á óvart, að Ingibjörg Sólrún Gísladóttir skuli sjá vinstri stjórn fyrir sér. Hún hefur alltaf verið vinstri sinnuð og Einar Karl Haraldsson, einn helsti ráðgjafi Samfylkingarinnar, er gamall ritstjóri Þjóðviljans eins og Össur Skarphéðinsson. Margrét Frímannsdóttir, Bryndís Hlöðversdóttir og Jóhann Ársælsson koma öll úr Alþýðubandalaginu, en á hinn bóginn fer lítið fyrir krötunum í forystusveit Samfylkingarinnar."

Siggi Kári leiðréttir fyrrverandi borgarstjóra
Í gær leiðrétti Sigurður Kári Kristjánsson frambjóðandi flokksins í RVK-norður, málflutning fyrrverandi borgarstjóri vegna OECD-skýrslunnar á heimasíðu flokksins. Orðrétt segir hann:

"Ingibjörg Sólrún Gísladóttir talsmaður Samfylkingarinnar, segir að ríkisstjórnin geti ekki sótt röksemdir fyrir skattastefnu sinni í nýútgefna skýrslu Efnahags- og framfarastofnunarinnar. Þar sé mælt með því að lækka jaðarskatta en ekki almenna skatta og undir það taki Samfylkingin." Með þessum orðum hófst frétt í Ríkisútvarpinu í gærkvöldi og ekki verður hjá því komist að leiðrétta þann misskilning sem þarna kemur fram. Í skýrslu Efnahags- og framfarastofnunarinnar, OECD, er skýrum orðum mælt með „frekari lækkun skatthlutfalla", bæði til að auka framboð vinnuafls og draga úr útgjöldum ríkisins. Það sem þarna er um að ræða er vitaskuld lækkun almenna skatthlutfallsins sem einstaklingar greiða, en það er einmitt sú stefna sem Sjálfstæðisflokkurinn setti fram á landsfundi sínum. Að halda því fram að svo sé ekki stafar annað hvort af vísvitandi rangfærslum eða misskilningi á hugtakanotkun. Ekki ætla ég að halda því fram að Ingibjörg Sólrún vilji vísvitandi fara rangt með svo hér hlýtur að vera um misskilning að ræða. Misskilningurinn getur stafað af því að menn skilji ekki fyllilega hvað átt er við með orðunum skatthlutfalli og jaðarskatti, en staðreyndin er sú að í þessu tilviki er um sama hlut að ræða. Jaðarskattur er sá skattur sem menn greiða af síðustu krónunni sem þeir afla, sem er einmitt skatthlutfallið, 38,5% í ár. Það sem OECD mælir með er að lækka þetta skatthlutfall, þ.e.a.s. almenna skattinn. Því má svo bæta við að þeir sem vilja lækka skatta þurfa ekki að sækja röksemdir í skýrslu OECD og hafa ekki byggt tillögur sínar um skattalækkun á því sem þar kemur fram þó vissulega styðji skýrslan þessar tillögur. Rökin með skattalækkunum eru ekki síst þau almennu sjónarmið að hið opinbera eigi að halda sköttum sem lægstum og leyfa þeim sem skapa verðmætin að halda sem stærstum hluta verðmætanna í eigin vasa. Um þetta er grundvallarágreiningur í stjórnmálum, en stefna Sjálfstæðisflokksins er og hefur verið að innheimta sem lægsta skatta þó stefna sumra annarra sé önnur, bæði í orði og verki."

Engin fyrirsögn

Kosningabarátta sjálfstæðismanna í Norðausturkjördæmi hafin
Í dag hófst formlega kosningabarátta Sjálfstæðisflokksins í Norðausturkjördæmi. Nú þegar 36 dagar eru til kosninga blasir við að baráttan í kjördæminu verði snörp og hressileg. Í hádeginu í dag stóð Stafnbúi, félag nemenda við auðlindadeild Háskólans á Akureyri, fyrir árlegum skyrfundi sínum í mötuneyti háskólans á Sólborg. Gestur fundarins var Tómas Ingi Olrich menntamálaráðherra. Fundurinn hófst klukkan 12:30 með stuttu ávarpi menntamálaráðherra þar sem hann fór yfir stöðu menntamála og einkum nefndi hann málefni Háskólans og menntastofnana í Norðausturkjördæmi og þann árangur sem náðst hefði í menntamálum í stjórnartíð Sjálfstæðisflokksins. Að ávarpi hans loknu báru nemendur og aðrir viðstaddir fram fyrirspurnir og svaraði ráðherra þeim greiðlega. Var fundurinn vel heppnaður og einkar gagnlegur. Kl. 17:00 var svo opnuð í Kaupangi við Mýrarveg á Akureyri, aðalkosningaskrifstofa Sjálfstæðisflokksins í Norðausturkjördæmi fyrir komandi alþingiskosningar. Opnaði Halldór Blöndal forseti Alþingis og leiðtogi flokksins í kjördæminu, kosningabaráttu flokksins, með ítarlegu og góðu ávarpi til flokksmanna sem viðstaddir voru opnun skrifstofunnar. Ennfremur flutti menntamálaráðherra gott ávarp og hvatti flokksfélagana til dáða í baráttunni. Ennfremur fluttu Bergur Guðmundsson og Guðmundur E. Erlendsson Stórasandsrímur við mikla hylli, enginn vafi er á þeir félagar munu slá í gegn með þessu. Mikill fjöldi var samankominn við opnun kosningaskrifstofu flokksins og þáðu léttar veitingar og ræddu málin, kosningabaráttuna framundan og stjórnmálastöðuna almennt nú þegar rúmur mánuður er til alþingiskosninga. og var ekki annað að heyra en sjálfstæðismenn sem viðstaddir voru séu bjartsýnir um baráttuna framundan. Málefnastaða okkar er góð og listinn er vel skipaður. Það er engin spurning í okkar huga um að baráttan muni verða drengileg af okkar hálfu. Kjörorð okkar sjálfstæðismanna við þingkosningarnar í Norðausturkjördæmi 2003 er Blátt áfram! Áfram á sömu braut.

Frelsi.is opnar á ný - glæsileg vefsíða ungra sjálfstæðismanna
Kl. 17:00 í dag (á sama tíma og aðalkosningaskrifstofa Sjálfstæðisflokksins í Norðausturkjördæmi opnaði formlega), opnaði Davíð Oddsson forsætisráðherra og formaður Sjálfstæðisflokksins, nýja Frelsisvefinn á fjölmennum fundi Heimdallar og SUS í Valhöll. 34 ungir sjálfstæðismenn, 16 stúlkur og 18 drengir, munu starfa við vefinn sem umsjónarmenn málefnaflokka en á vefnum eru níu undirsíður og er hver þeirra tengd umfjöllun um ákveðna málefnaflokka. Ritstjórar og ábyrgðarmenn vefsins verða Magnús Þór Gylfason formaður Heimdallar og Jón Hákon Halldórsson. Helga Árnadóttir og Ragnar Jónasson eru aðstoðarritstjórar vefsins. Vefurinn mun eftir breytingarnar verða þrískiptur. Þar verða sagðar fréttir úr stjórnmálunum, birtar greinar og pistlar ungra sjálfstæðismanna og tenglar á önnur sjónarmið sem birtast á öðrum vefmiðlum. Fram að kosningum verður vefurinn einnig kosningavefur ungra sjálfstæðismanna um allt land. Reynir Pálsson hönnuður hjá Nýjustu tísku og vísindum hannaði útlit vefsins og Hugsmiðjan sá um forritun en notast er við eplica vefumsjónarkerfið. Umsjónarmannahópurinn er skipaður af einvalaliði ungra sjálfstæðismanna. Í ritnefnd sem sjá um vefinn eru: Andrés Andrésson, Andri Óttarsson, Atli Rafn Björnsson, Ásgerður Ragnarsdóttir, Bjarney Sonja Ólafsdóttir, Bolli Thoroddsen, Friðjón R. Friðjónsson, Gísli Hauksson, Guðríður Sigurðardóttir, Guðrún Inga Ingólfsdóttir, Hafsteinn Þór Hauksson, Haukur Þór Hauksson, Helga Árnadóttir, Helga Baldvinsdóttir Bjargardóttir, Helga Lára Hauksdóttir, Hjörleifur Pálsson, Hrefna Ástmarsdóttir, Ingólfur Snorri Kristjánsson, Ingvi Hrafn Óskarsson, Jón Hákon Halldórsson, Kristinn Már Ársælsson, Magnús Þór Gylfason, Margrét Einarsdóttir, Margrét Leósdóttir, Ragnar Jónasson, Sesselja Sigurðardóttir, Sigurður Kári Kristjánsson, Sigþrúður Ármann, Snorri Stefánsson, Stefán Friðrik Stefánsson, Steinunn Vala Sigfúsdóttir, Svava Björk Hákonardóttir, Tinna Traustadóttir og Þorbjörg Helga Vigfúsdóttir. Að auki skrifa fjölmargrir aðrir ungir sjálfstæðismenn reglulega pistla á vefinn. Framundan er spennandi kosningabarátta og greinilegt að ungir sjálfstæðismenn hafa eignast nýjan og frábæran vettvang fyrir skoðanir sínar. Frelsi.is mætir til leiks sterkari en nokkru sinni fyrr.

Engin fyrirsögn

Athyglisverðar skoðanakannanir DV
Mjög athyglisvert hefur verið að fylgjast með tveim skoðanakönnunum DV í vikunni. Á þriðjudag birtist könnun á fylgi flokkanna á landsvísu en í dag var litið á stöðuna í borgarkjördæmunum tveim. Í fyrri könnuninni tapaði Samfylkingin verulegu fylgi frá könnun blaðsins í marsmánuði, einkum á höfuðborgarsvæðinu, meðan aðrir flokkar bæta við sig fylgi. Frjálslyndir bæta hlutfallslega langmestu við sig og ná í könnuninni 3 mönnum á þing. Sjálfstæðisflokkur bætir örlítið við sig fylgi. Fylgi flokkanna er í könnuninni afar svipað kjörfylginu fyrir fjórum árum. Núverandi ríkisstjórn stendur traustum fótum. Af þeim sem afstöðu tóku sögðust 15% kjósa Framsóknarflokkinn, 42,7% Sjálfstæðisflokk, 5,6% Frjálslynda, 27,1% Samfylkingu og 9,4% VG. Í könnuninni sem birtist í dag er fylgistap Samfylkingarinnar í borginni staðfest og ennfremur kemur fram veik staða Framsóknar í þessum kjördæmum. Samkvæmt henni, fær Framsókn ekki mann kjörinn í borginni og Halldór Ásgrímsson og Ingibjörg Sólrún Gísladóttir ná ekki kjöri. Sjálfstæðisflokkurinn fær 6 menn kjörna í norðurkjördæminu, samkvæmt könnuninni og 5 menn í suðurkjördæminu. Samfylkingin fengi fjóra menn í hvoru kjördæmi, Vinstrihreyfingin - grænt framboð er með einn mann í hvoru og Frjálslyndi flokkurinn kemur manni að í Reykjavík suður. Samtals sögðust 6,8% kjósenda í kjördæmunum báðum ætla að kjósa Framsóknarflokkinn, 45,5% Sjálfstæðisflokk, 29,2% Samfylkinguna, 8% Frjálslynda flokkinn og 9,7% VG. Þetta eru mjög athyglisverðar niðurstöður og ljóst að gangi þetta eftir muni leiðtogakreppa verða innan Framsóknar og Samfylkingarinnar, enda forystufólk þeirra ekki kjörin á þing.

Engin fyrirsögn

Góð skýrsla OECD um efnahag Íslendinga
Fram kemur í viðamikilli skýrslu frá Efnahags- og framfarastofnuninni OECD að miklar framfarir hafi orðið í efnahagsmálum Íslendinga á síðasta áratug. Tekist hafi á ótrúlega skömmum tíma að draga úr ójafnvægi og þenslu sem myndaðist við ofhitnum efnahagskerfisins og undirstriki það aukna aðlögunarhæfni hagkerfisins. Að auki hafi þetta tekist án þess að alvarlegur samdráttur kæmi í kjölfarið og nú virðist hægur bati framundan. Segir stofnunin að þennan árangur megi rekja til þeirra breytinga á efnahagsstefnu í átt til aukins stöðugleika og markaðsvæðingar á síðasta áratug. Stofnunin segir þó að ýmis þýðingarmikil verkefni séu framundan. Á næstu árum sé útlit fyrir aukna eftirspurn vegna álvers- og virkjanaframkvæmda og tilheyrandi opinberra framkvæmda. Stjórnvöld verði að grípa til viðeigandi ráðstafana í peningamálum því annars sé hætta á ofþenslu og miklum viðskiptahalla sem nú hafi tekist að vinna bug á. Þörf sé á aðhaldssamri peningamálastefnu þegar framkvæmdirnar eru í hámarki, einkum hvað varðar opinber útgjöld. Þá segir stofnunin að þótt ríkisútgjöld séu í mun betra horfi nú en áður sé enn rúm fyrir endurbætur til að nýta betur opinbert fjármagn. Er m.a. vísað til þess að sveitarfélög hafi fengið í hendur aukin verkefni en ekki tekist nægilega vel að standast kröfur um aukna þjónustu og launakröfur starfsmanna og ríkinu. OECD segir að byggðastefna ríkisins sé ekki nægilega gegnsæ og afskipti ríkisins af húsnæðiskerfinu séu óhagkvæm. Hvatt er til þess að einkavæðing fjarskiptafyrirtækja verði ekki slegið lengur á frest og flýta þurfi einkavæðingu raforkukerfisins. Þá segir stofnunin að aukin markaðsvæðing landbúnaðarkerfisins bæta hag neytenda og aðhaldssöm fiskveiðistefna muni greiða fyrir bættri nýtingu fiskistofna. Slíkar aðgerðir ásamt virkri stjórnun peningamála ættu að tryggja að lífsgæði á Íslandi verði áfram mikil í hlutfalli við önnur aðildarríki OECD. Með þessu sannast hversu vel Íslendingar standa og greinilegt að núverandi ríkisstjórn hefur haldið vel á málum.

Engin fyrirsögn

Glæsilegur sigur MA í söngkeppni FF
Um síðustu helgi var haldin hér á Akureyri, söngkeppni framhaldsskólanna. Anna Katrín Guðbrandsdóttir nemandi í Menntaskólanum á Akureyri, sigraði í keppninni. Hún söng Vísur Vatnsenda-Rósu, þjóðlagastefið sem Jón Ásgeirsson tónskáld gerði ódauðlegt, en hér var það í splunkunýrri útsetningu tveggja nemenda MA, Styrmis Haukssonar og Ólafs Hauks Árnasonar. Strengjasveit lék með Önnu Katrínu á sviði, Björk Óskarsdóttir, María Hrund Stefánsdóttir, Ragnheiður Korka Jónsdóttir og Tomasz Kolosowski. Í öðru sæti lenti Sigþór Árnason, nemandi í Fjölbrautaskóla Suðurlands á Selfossi, en hann hlaut jafnframt verðlaun fyrir bestu sviðsframkomuna, verðlaun sem veitt voru að lokinni SMS-kosningu áhorfenda. Í þriðja sæti var svo Elísabet Eyþórsdóttir úr Borgarholtsskóla. Dómnefndina skipuðu Birgitta Haukdal, Ólafur Páll Gunnarsson, Pálmi Gunnarsson og Gestur Einar Jónasson. Keppnin var í beinni útsendingu í Sjónvarpinu og á Rás 2 og var þetta mikil og góð skemmtun. Ég var fyrir sunnan um seinustu helgi og sá því ekki keppnina en horfði á hana á myndbandi í gær. Það var mjög ánægjulegt að heyra af sigri MA á heimavelli á sunnudeginum. Keppnin tókst mjög vel upp og var söngurinn bæði fjölbreyttur og hressilegur og var lagavalið gott hjá flytjendunum. Það var t.d. mat dómara að þetta væri ein allra fjörugasta og best heppnaða Söngkeppni FF frá upphafi. Um 2000 manns eru taldir hafa verið í Höllinni og skemmtu sér hið besta. Eins og áður hefur komið fram var umsjá þessarar miklu hátíðar og útsending hennar í höndum ungs fólks. Yfirstjórnin voru nemendur í og í tengslum við MA og starfsfólk nær eingöngu úr skólunum tveimur, MA og VMA. Starf þeirra er mikið og árangurinn glæsilegur vitnisburður um smekkvísi, listfengi, skipulag og stjórn og þeir eiga skilið heiður fyrir það.

Engin fyrirsögn

Landsfundur Sjálfstæðisflokksins
Um helgina, dagana 27. - 30. mars nk, verður haldinn í Laugardalshöll, 35. landsfundur Sjálfstæðisflokksins og ber hann yfirskriftina Áfram Ísland. Framundan eru skemmtilegir málefnafundir, kjördæmafundir, landsfundarhófið og allt þetta hefðbundna. Það er ljóst af dagskrá fundarins að nóg verður um að vera. Að sjálfsögðu held ég á landsfund og fer ég suður í dag með hádegisvélinni. Framundan er skemmtilegur landsfundur og verður gaman að hitta pólitíska samherja af öllu landinu í Höllinni. Á meðan ég verð fyrir sunnan verður þessi vefur ekki uppfærður. Mun fjalla ítarlega um landsfundinn hér eftir helgina.

Engin fyrirsögn

Skattaálögudrottningin Ingibjörg Sólrún
Um daginn birtist á Vef-Þjóðviljanum, enn einn magnaði pistillinn. Þar er fjallað um skattaumræðu fyrrverandi borgarstjóra, sem hún virðist reyna að snúa í einhverja undarlega átt. Orðrétt segir pistlahöfundur svo frá: "Ef taka má mið af stjórnmálaferli Ingibjargar Sólrúnar Gísladóttur þá mun hún aldrei setja sig úr færi að hækka skatta. Látlausar skattahækkanir hafa dunið á borgarbúum frá því hún varð borgarstjóri. Og hér er ekki aðeins átt við að skatttekjur borgarinnar hafi hækkað vegna aukinna tekna borgarbúa heldur hafa skatthlutföll einnig verið hækkuð. Þrátt fyrir mjög auknar tekjur borgarinnar mun skuldasöfnun í borgarstjóratíð Ingibjargar einnig gera það að verkum að ekki verður hlaupið að því að vinda ofan af skattahækkununum í náinni framtíð. Skattgreiðendur framtíðarinnar í Reykjavík eiga eftir að greiða tugi milljarða króna í ógreiddum reikningum Ingibjargar Sólrúnar. Miklar hækkanir á útsvari borgarbúa, sem er hluti tekjuskattsins, hafa svo átt sinn þátt í því að halda jaðaráhrifum skattkerfisins meiri en ef Ingibjörg hefði ekki stolið skattlækkunum ríkisstjórnarinnar með því að hækka útsvarið jafnharðan. En nú hefur Ingibjörg lýst því yfir að rétt sé að draga úr jaðaráhrifum skattkerfisins. Að vísu geta kjósendur gengið að því sem vísu að jaðaráhrifin verði aukin ráði hún nokkru um því hún lofaði einnig að stöðva skuldasöfnun borgarinnar og hækka ekki skatta þegar hún sóttist eftir stuðningi til að stjórna Reykjavíkurborg. Og það virðist einmitt felast í tillögu hennar um fjölþrepa skattkerfi að jaðaráhrifin verði meiri.

Skattatillögur sem fáir skilja
Samfylkingin hafði fjölþrepa skattkerfi einnig á stefnuskrá sinni fyrir síðustu kosningar ásamt því að hækka skatta á sjávarútveginn, bensín og húsaleigu ásamt öðrum fjármagnstekjum. Aldrei fékkst þó upp úr frambjóðendum Samfylkingarinnar fyrir síðust kosningar hvernig ætti að útfæra þessa þrepaskiptingu tekjuskattsins. Þegar gengið var á þáverandi forsætisráðherraefni hennar fengust þau svör að um allt að sjö þrep yrði að ræða en ekki hvernig þau skiptust eða hversu há þau yrðu. Nú hefur þessi margþvælda óljósa tillaga sumsé verið dregin á flot að nýju. Ef marka má málflutning Ingibjargar fylgja ekki frekari útskýringar nú en fyrir fjórum árum. Þetta er bara svona til að „skoða af alvöru“. Hvernig má það vera að þessi tillaga um fjölþrepaskattkerfi sem var á stefnuskrá Samfylkingarinnar fyrir fjórum árum og stefnir í að vera það aftur fyrir kosningarnar nú hefur enn ekki verið útfærð eða útskýrð? Hve há verða þessi fjölmörgu skattþrep, ef leyfist að spyrja? Ef þau verða sjö verða þau þá 35%, 40%, 45%, 50%, 70%, 80% og 90%? Eða hvað? Ekki ætlar Samfylkingin að bjóða fram aftur án þess að skýra hvað felst í þessari hótun? Og svo eru það jaðaráhrifin. Að því gefnu að öll þrep Samfylkingarinnar verði ekki lægri en 38% þá munu mestu jaðaráhrif skattkerfisins aukast við þrepaskiptinguna. Hæsti skattur í dag af viðbótarkrónu sem menn vinna sér inn er tæp 42% þegar reiknað er með hátekjuskatti og skattfrelsi greiðslu í lífeyrissjóð. Ef Ingibjörg hefði ekki hækkað útsvarið hvað eftir annað væri þetta vel undir 40%. Ef Samfylkingin ætlar að hafa hæsta þrepið í fjölþrepaskatti sínum 70% auk hátekjuskatts verða jaðaráhrifin allt að 72%. Það mun þýða að af hverjum 1.000 krónum sem menn vinna sér inn til viðbótar munu 720 fara í skatt." Flottur pistill.

Engin fyrirsögn

Góður fundur á Hótel KEA - opnun kosningaskrifstofu
Í gærkvöldi var á Hótel KEA, góður og fræðandi fundur um samgöngumál, undir yfirskriftinni Reykjavík - Akureyri 307 km. Þar fluttu þeir fóstbræður Halldór Blöndal forseti Alþingis, og Styrmir Gunnarsson ritstjóri Morgunblaðsins framsöguerindi um hugmyndir Halldórs um styttingu þjóðvegarins milli Reykjavíkur og Akureyrar. Þær hugmyndir kynnti hann ítarlega í góðri grein á Íslendingi, 10. febrúa 2002. Halldór færði í máli sínu fram helstu rök sín og studdi þau með ítarlegum útreikningum. Með styttingu vegarins taldi hann ýmsa möguleika opnast í ferðaþjónustu og leiða til lægri flutningskostnaðar sem myndi styrkja atvinnulíf á Norður- og Austurlandi. Styrmir taldi rök Halldórs haldlítil. Viðhorf Íslendinga hefðu breyst í tímans rás og ákveðinn hluti þjóðarinnar myndi ekki sætta sig við þá röskun sem fylgdi malbikuðum hálendisvegi. Æ fleiri landsmenn litu á sand og auðn hálendisins sem auðlind sem okkur bæri skylda til að vernda. Að loknum erindum spunnust fjörlegar umræður með þátttöku fundarmanna. Eftir að Halldór og Styrmir höfðu svarað fyrirspurnum fluttu þeir stutt lokaorð og mátti greina tilslakanir af beggja hálfu. Þeir ræddu málin á yfirvegaðan hátt og færðu báðir rök fyrir máli sínu og útkoman skemmtilegur fundur sem var fjölmennur. Kosningabarátta okkar sjálfstæðismanna fyrir komandi alþingiskosningar er að komast á fullt. 4. apríl nk. munu kosningaskrifstofur Sjálfstæðisflokksins í Norðausturkjördæmi, opna á Akureyri og Egilsstöðum. Þá verða tæpir 40 dagar til kosninga og verður kosningabarátta seinustu vikurnar eflaust snörp hér.

Egilsstaðir miðpunktur í eflingu byggðakjarna á Austurlandi
Í viðamikilli skýrslu sem kynnt var á málþingi um byggðamál á Akureyri um síðustu helgi, kom fram að Egilsstaðir væru einn af þremur miðpunktum í eflingu byggðakjarna á landsbyggðinni. Auðveldara aðgengi að námi, lægri flutningskostnaður, bættar samgöngur og betri fjarskipti eru talin lykilatriði í eflingu byggðar. Lagt er til að Háskólanum á Akureyri verði gert kleift að koma upp útibúi á Egilsstöðum. Skýrslan ber heitið „Fólk og fyrirtæki“ og fjallar um búsetu og starfsskilyrði á landsbyggðinni en hún var unnin af Byggðarannsóknastofnun Íslands við Háskólann á Akureyri og Hagfræðistofnun Háskóla Íslands. Í skýrslunni er lagt til að efldir verði þrír byggðakjarnar utan höfuðborgarsvæðisins: Vestfirðir, með Ísafjörð sem miðpunkt, Norðurland, með Akureyri sem miðpunkt, og Austurland, með Egilsstaði sem miðpunkt. Markmiðið sé að efla miðlæga byggðakjarna sem styrkt geti viðkomandi svæði í heild. Þannig ætti að miða fjárfestingar í innviðum við það að stækka áhrifasvæði ofangreindra byggðakjarna, svo jaðarbyggðir geti sótt þangað ýmsa sérhæfða framleiðsluþætti og þjónustu með auðveldum hætti. Tillögur í skýrslunni til eflingar byggðakjarnanna lúta að fjórum þáttum: Að auðvelda aðgengi að námi, draga úr flutningskostnaði, bæta samgöngur og bæta fjarskipti. Jafnframt er fjallað um marga fleiri þætti, svo sem þátttöku opinberra aðila í nýsköpunarstarfsemi og niðurfellingu námslána þeirra sem búsettir eru á landsbygðinni.

Efling menntunar á landsbyggðinni er talin þýðingarmikill þáttur. Nýir skólar sem séu settir á stofn á landsbyggðinni auki líkurnar á að unga kynslóðin fari í framhaldsnám og staldri lengur við í heimabyggð. Aukinn mannauður á landsbyggðinni verði einnig til þess að auka stærðarhagkvæmni fyrirtækja, sem eigi auðveldara með að ráða hæft fólk til starfa. Í skýrslunni er lagt til að Háskólanum á Akureyri verði gert kleift að koma upp öflugum útibúum á Egilsstöðum og Ísafirði þar sem hægt væri að taka a.m.k. fyrstu árin í fjölmennustu greinum háskólanáms, svo sem viðskiptafræði, lögfræði, heilbrigðisgreinum og kennaramenntun. Við lækkun flutningskostnaðar eru nefndar gegnsæjar niðurgreiðslur sem hefðu skýran kostnað í för með sér. Spurt er hvort leiðbeinandi reglur um viðskipti birgja og smásöluverslana sem Samkeppnisstofnun mótaði í lok ársins 2002 geti ekki einnig átt við um flutningastarfsemi. Við forgangsröðun framkvæmda í samgöngukerfinu er lagt til að litið sé sérstaklega til þess að hafa áhrif á stærð atvinnu- og þjónustusvæða. Með því að stækka atvinnu- og þjónustusvæði sé í raun verið að breyta atvinnu- og þjónustustigi þeirra byggðarlaga sem í hlut eiga. Hvað varðar fjarskipti er í skýrslunni talað um að stefnt skuli að aukinni fjartengingu byggðakjarnanna og lækkun kostnaðar. Æskilegt sé að ríkisstofnanir komi sér upp vefþjónustu þannig að einstaklingar og fyrirtæki þurfi síður að leita til höfuðborgarsvæðisins til þess að sinna erindum við þessar stofnanir.

Engin fyrirsögn

Óskarinn 2003 - farið yfir úrslitin
Í nótt voru Óskarsverðlaunin 2003 afhent í Los Angeles í 75. skipti. Eins og venjulega var athyglisvert og ekki síður skemmtilegt að fylgjast með herlegheitunum. Kvikmyndin Chicago var valin besta kvikmynd ársins 2002 og hlaut alls sex óskarsverðlaun. Eftirminnilegustu úrslit kvöldsins var hiklaust þegar hinn umdeildi Roman Polanski hlaut leikstjóraóskarinn fyrir The Pianist og svo vakti óneitanlega athygli að þau fjögur sem unnu leikaraóskarana fyrir magnaðar leikframmistöður sínar höfðu aldrei áður fengið verðlaunin. Ég ætla nú að fara yfir helstu flokkana og tjá mig örlítið um úrslitin.

Kvikmynd ársins
Það þótti mörgum borðliggjandi að Chicago myndi hljóta þann heiður að vera valin besta mynd síðasta árs og fór það svo. Hún keppti í þessum flokki við fjórar frábærar myndir; The Pianist, Gangs of New York, The Hours og The Lord of the Rings: The Two Towers. Þetta er í fyrsta skipti í 35 ár sem söngleikur hlýtur þessi verðlaun, síðasti söngleikur til að hljóta Óskarinn sem besta myndin var Oliver árið 1968, þetta eru því að mörgu leyti athyglisverð úrslit og aldrei að vita nema tími söngleikjanna sé að renna upp á ný. Það vekur athygli að Hringadróttinssögu er hafnað enn á ný, en óumdeilt er að þetta sé eitt magnaðasta kvikmyndaverk í sögu kvikmyndanna. Það er óskandi að akademían muni á næsta ári veita seinasta hluta trílógíunnar þessi verðlaun til að bæta upp fyrir þetta.

Leikstjóri
Óvæntustu úrslit kvöldsins voru hiklaust í þessum flokk. Óumdeilt er að The Pianist, kvikmynd leikstjórans Romans Polanski sé ein af allra bestu myndum ársins. Margir höfðu þó talið að leikstjórinn myndi ekki hljóta náð fyrir augum akademíunnar vegna mála sem ekki verða rakin hér en eru flestum kunn. Flestir höfðu veðjað á að Martin Scorsese eða Rob Marshall myndu hljóta Óskarinn í þessum flokki. Flestum að óvörum sigraði Roman Polanski í þessari kategóríu. Það er ánægjulegt að akademían lét ekki hin umdeildu mál tengd leikstjóranum hafa áhrif á sig við valið á sigurvegaranum. Polanski var heiðraður fyrir meistaraverk sitt og glæsilegan feril, en hann á að baki frábærar myndir á borð við Chinatown, Rosemary´s Baby, Tess, Frantic og Bitter Moon. Sigur hans var verðskuldaður, enda The Pianist sannkölluð úrvalsmynd. Það er gott að vita að farið sé eftir verkum leikstjóranna og gæðum þeirra. Margir höfðu veðjað eins og fyrr segir á Scorsese og Marshall. Scorsese vegna þess að hann hefur ekki hlotið verðlaunin fyrr, þrátt fyrir að hafa verið tilnefndur t.d. fyrir Raging Bull og Goodfellas. Marshall vegna þess að hann hlaut DGA-verðlaunin, en nú sannast að það er ekki algild regla að handhafi þeirra verðlauna hljóti leikstjóraóskarinn. En sigur Polanski er verðskuldaður, alveg hiklaust.

Leikari í aðalhlutverki
Adrien Brody hlaut Óskarinn í þessum flokk fyrir magnaða túlkun sína á Wladyslaw Szpilman í The Pianist. Margir höfðu veðjað á að valið stæði á milli Daniel Day-Lewis og Jack Nicholson sem fóru á kostum í sínum myndum og annar þeirra myndi hljóta Óskarinn, svo fór ekki. Brody uppskar ríkulega. Sigur hans var verðskuldaður, enda heldur hann uppi þessari frábæru mynd. Það verður athyglisvert að fylgjast með leikferli hans á næstu árum, þessi þrítugi New York-búi er hiklaust ein af stjörnum framtíðarinnar.

Leikkona í aðalhlutverki
Nicole Kidman stóð lengi í skugga fyrrum eiginmanns síns, Tom Cruise. Nú er hann í skugganum á henni. Seinustu tvö ár hefur hún farið á kostum í hverri stórmyndinni á fætur annarri. Nægir þar að nefna The Others, Moulin Rouge og Birthday Girl. Hlutverk Virginiu Woolf í The Hours er besta hlutverk Nicole á ferli hennar og hún hlaut verðskuldað Óskarinn fyrir leik sinn. Margir höfðu talið að í þessum flokk myndi valið standa á milli hennar og Renée Zellweger. Báðar voru góðar í sínum myndum. Sigur Kidman var verðskuldaður og er hún nú endanlega komin í hóp bestu leikkvennanna í Hollywood nútímans.

Leikari í aukahlutverki
Í þessari kategóríu voru fimm frábærir leikarar tilnefndir og var varla hægt að gera upp á milli þeirra. Persónulega fannst mér þrír þeirra standa uppúr; Paul Newman, Chris Cooper og Christopher Walken. Chris Cooper vann Óskarinn verðskuldað fyrir magnaða túlkun sína á John Laroche í Adaptation. Mikla athygli vakti þegar hann var ekki einu sinni tilnefndur fyrir frábæran leik sinn í American Beauty fyrir þrem árum. Nú var hans stund komin. Stórkostlegur leikari sem á þetta svo sannarlega skilið.

Leikkona í aukahlutverki
Catherine Zeta-Jones mætti á óskarsverðlaunahátíðina kasólétt og fór á kostum, t.d. þegar hún flutti ásamt Queen Latifah lagið I Move On úr Chicago. Í þessum flokk voru rétt eins og öllum hinum leikarakategóríunum fólk sem allt verðskuldaði að vinna. Fyrirfram var vitað að Zeta-Jones og Meryl Streep þættu líklegastar til að hljóta verðlaunin. Catharine var stórfengleg sem skassið Velma Kelly í Chicago og hlaut fyrir leik sinn t.d. BAFTA- og SAG-verðlaunin. Mest kom mér á óvart hversu vel hún syngur og dansar í myndinni. Sigur hennar þótti mér mjög verðskuldaður. Frábær leikkona.

Þetta var skemmtileg Óskarsverðlaunahátíð, og var margt af skemmtilegu efni í útsendingunni. Að mínu mati var hápunkturinn þegar óskarsverðlaunaleikkonan Olivia De Havilland kynnti 59 óskarsverðlaunaleikara seinustu 75 ára til sögunnar og var gaman að fylgjast með akademíunni heiðra þessa leikara sem markað hafa spor í kvikmyndasöguna. Peter O´Toole fór á kostum er hann tók við heiðursóskarnum, ræðan hans var ein sú allra besta í nótt, boðskapurinn í henni var góður og hann vann sennilega sinn mesta leiksigur þegar hann tók við þessari viðurkenningu. Það var löngu orðið tímabært að hann myndi fá óskarsstyttu en alltof oft hefur hann verið sniðgenginn. Það er ótrúlegt að þessi frábæri leikari hafi ekki hlotið leikaraóskar, þrátt fyrir að hafa átt stórleik í myndum eins og t.d. Lawrence of Arabia, The Ruling Class, Becket, Lion in Winter, Goodbye Mr. Chips, The Stunt Man og My Favorite Year. Einnig var mjög ánægjulegt að sjá Eminem hljóta óskarinn fyrir magnað lag sitt úr 8 Mile. Steve Martin fór algerlega á kostum sem kynnir kvöldsins, en þetta var annað skiptið sem hann er kynnir, fyrra skiptið var 2001. Hann mun án vafa vera í þessu hlutverki oftar. En eftir stendur að ekkert er öruggt þegar þessi verðlaun eru annars vegar og það geta alltaf óvæntustu hlutir gerst, það fór ekki allt eins og spáð var og hátíðin var meira spennandi nú en oft áður og á margan hátt jafnari en oft áður. Þessi hátíð er alltaf jafn skemmileg, þetta er uppskeruhátíð kvikmyndaheimsins og hún er ómissandi. Fastur punktur í tilverunni ár hvert!

Engin fyrirsögn

Óskarinn afhentur í nótt
Í nótt verða Óskarsverðlaunin afhent í Kodak Theatre í Los Angeles. Framundan er spennandi Óskarsverðlaunahátíð og gaman að sjá hvernig þetta fer allt saman. Hátíðin verður á lágstemmdum nótum að þessu sinni og glamúrinn lítill vegna stríðsátakanna fyrir botni Persaflóa. Aðeins hefur gerst þrisvar að verðlaunin séu færð til (1938, 1968 og 1981) og aldrei hefur þeim verið aflýst. Ákveðið hefur verið að afhenda verðlaunin á tilsettum tíma þrátt fyrir allt. Í flokki bestu kvikmynda keppa Chicago, The Pianist, The Hours, The Lord of the Rings: The Two Towers og Gangs of New York um hnossið. Allar eru þessar kvikmyndir góðar og verðskulda tilnefninguna. Chicago er mögnuð dans- og söngvamynd og virkilega vel leikin. Gangs of New York er vönduð og í heildina ágætis mynd. The Hours er magnað meistaraverk sem hittir beint í mark. LOTR: The Two Towers er snilldarlega færð í glæsilegan kvikmyndabúning af Peter Jackson og útkoman jafnast á við það allra besta í kvikmyndagerð samtímans. The Pianist er mögnuð úttekt á hernámi Póllands í seinni heimsstyrjöldinni og virkilega vel leikin. Slagurinn um bestu myndina mun sennilega vera á milli Chicago og The Hours, annars gæti The Pianist átt séns. Ég spái því að Chicago vinni verðlaunin. Um leikstjóraverðlaunin keppa Martin Scorsese, Rob Marshall, Stephen Daldry, Roman Polanski og Pedro Almodovar. Hér er slagurinn á milli Martin Scorsese, Rob Marshall og Stephen Daldry. Roman Polanski er sennilega of umdeildur til að eiga séns að mínu mati og Pedro Almodovar mun ekki hljóta verðlaunin. Ég tel tíma til kominn að meistari Martin Scorsese hljóti leikstjóraverðlaunin, enda á hann að baki magnaðan feril og hefur ekki hlotið verðlaunin þrátt fyrir að vera tilnefndur t.d. fyrir Raging Bull og Goodfellas. Annars gætu Rob Marshall og Stephen Daldry báðir átt góðan séns ef myndir þeirra sópa að sér verðlaunum. Vona að Scorsese fái Óskarinn.

Spennandi barátta um leikaraóskarana
Óhætt er að segja að spennandi barátta verði um hverjir hljóti leikaraóskarana. Í flokknum leikari í aðalhlutverki keppa Jack Nicholson, Daniel Day-Lewis, Adrien Brody, Nicolas Cage og Sir Michael Caine. Allir (nema Brody) hafa unnið Óskarinn. Nicolas Cage árið 1995 fyrir Leaving Las Vegas. Michael Caine árið 1986 fyrir Hannah and her Sisters og 1999 fyrir The Cider House Rules. Daniel Day-Lewis hlaut þau 1989 fyrir My Left Foot. Nicholson hefur þrisvar hlotið Óskar (þetta er tólfta tilnefning hans); 1975 fyrir One Flew Over The Cuckoo´s Nest, 1983 fyrir Terms of Endearment og 1997 fyrir As Good As It Gets. Hér er slagurinn líklegast á milli þeirra Day-Lewis og Jack Nicholson. Ég er nú ansi mikill aðdáandi Nicholson og hef alla tíð verið og vona að hann fái núna sinn fjórða óskar, aðeins Katharine Hepburn hefur hlotið svo marga. Það gæti verið að Akademían vilji verðlauna Day-Lewis sem var frábær í sinni rullu. Erfitt val, ég styð Jack. Í flokkinum leikkona í aðalhlutverki eru fimm magnaðar leikkonur að keppa um hnossið; Renée Zellweger, Nicole Kidman, Julianne Moore, Salma Hayek og Diane Lane. Engin þeirra hefur áður hlotið Óskar. Þetta verður barátta milli þeirra Kidman og Zellweger og er erfitt um að spá hvor muni vinna. Fer svolítið eftir því hvor myndin muni sópa að sér verðlaunum.

Í flokknum leikari í aukahlutverki eru fimm risar að keppa um gyllta kallinn; Paul Newman, Chris Cooper, Christopher Walken, Ed Harris og John C. Reilly. Erfitt er að gera upp á milli þessara fimm leikara sem allir eiga stórleik í sínum myndum. Newman er hér að hljóta sína tíundu tilnefningu og hlaut Óskarinn 1986 fyrir The Color of Money. Hann brillerar í sinni mynd. Walken hlaut Óskarinn 1978 fyrir Deer Hunter. Ekki er mögulegt að spá hver muni vinna verðlaunin, ég tel að slagurinn muni verða milli Newman, Cooper (sem er magnaður í Adaptation) og Walken. Finnst við hæfi að Newman hljóti verðlaunin og vona að hann fái þau, þó allt eins líklegt sé að einhver annar vinni. Þetta er galopin kategóría. Í flokkinum leikkona í aukahlutverki keppa þær stöllur Meryl Streep, Catherine Zeta-Jones, Julianne Moore, Kathy Bates og Queen Latifah. Allar fara á kostum í sínum myndum. Meryl Streep hlýtur þarna þrettándu tilnefningu sína (enginn hlotið fleiri) og vann verðlaunin 1979 fyrir Kramer vs. Kramer og 1982 fyrir Sophie´s Choice. Kathy Bates hlaut Óskarinn 1990 fyrir magnaðan leik sinn í Misery. Ég tel að slagurinn sé á milli Meryl Streep, Julianne Moore og Catherine Zeta-Jones. Ómögulegt að segja hvað Akademían geri í þessu. Líklegt að Zeta-Jones fái mörg atkvæði, hún er komin rúma átta mánuði á leið og hefur mikið fyrir því að mæta á staðinn og á mikið fylgi í kvikmyndaheiminum. Annars er skemmst að minnast þess þegar Annette Bening "American Beauty" mætti kasólétt á Óskarinn 2000 og tapaði (mörgum að óvörum) fyrir Hilary Swank. Kannski á Julianne Moore séns, aldrei að vita. Ég vona að Meryl Streep fái verðlaunin. Annars er þetta galopin flokkur. Spennandi kvöld er framundan.

Engin fyrirsögn

Lækkun skatta er staðreynd
Athyglisvert hefur verið að fylgjast með umræðu um skattamál seinustu vikurnar. Þar hefur Samfylkingin hamrað á því að núverandi ríkisstjórnarflokkar séu flokkar skattahækkana og hafa með undarlegum hætti reynt að auglýsa sig sem flokka skattalækkana. Það sem eftir stendur er þó sú staðreynd að Sjálfstæðisflokkurinn hefur ekki hækkað skatta á þessu kjörtímabili, eins og Samfylkingin með stuðningi fréttamanna Stöðvar 2 hafa haldið fram. Þeir sem reyna að koma því að í umræðunni að skattar hafi verið hækkaðir geta þó ekki bent á neinn skatt sem hefur hækkað, enda ljóst að í stjórnartíð Sjálfstæðisflokksins hafi skattar þvert á móti lækkað. Pólitískir andstæðingar Sjálfstæðisflokksins reyna eftir fremsta megni að slá ryki í augu fólks með ósannindum. Staðreyndir málsins eru þær að eignaskattur hefur verið lækkaður um helming og sérstakur eignaskattur verið lagður af. Fríeignamörk hafa verið hækkuð nokkuð. Sjálfstæðisflokkurinn stefnir að því að afnema eignaskatta algjörlega á næsta kjörtímabili ef hann verður við stýrið á þjóðarskútunni áfram. Á kjörtímabilinu hefur hátekjuskattur verið lækkaður úr 7% niður í 5% og viðmiðunarmörkin verið hækkuð nokkuð. Reyndar er hátekjuskattur rangnefni hið mesta á þessum skatt, enda lendir miðtekjufólk innan marka hans. Frá alþingiskosningunum 1999 hefur skattfrádráttur vegna viðbótarlífeyrissparnaðar aukist um helming, sem leiðir til langtímasparnaðar og á verulegan þátt í því að draga úr bæði verðbólgu og viðskiptahalla, sem um leið hefur dregið úr þenslu í efnahagslífinu. Húsaleigubætur hafa verið gerðar skattfrjálsar. Tekjuskattur verið lækkaður um 4%. En athyglisvert er að tekjuskatturinn var 32,8% þegar vinstri stjórn fór frá vorið 1991, en er nú tólf árum síðar 28,8%. Matarskatturinn var lækkaður úr 24,5% í 14% fyrir tæpum áratug og afnám tolla á grænmeti hafa skilað sér vel til neytenda. Þessar ráðstafanir hafa komið öllum verulega til góða. Það er margsannað að skattbyrði er hérlendis með því lægsta sem gerist meðal aðildarríkja OECD. Komið hefur fram að skattbyrði fjölskyldu með tvö börn, þar sem annar makinn er heimavinnandi, er –3,2%, sem þýðir svo aftur á móti að fjölskyldan fær meira greitt til baka frá samfélaginu, en hún greiðir til þess með sköttum. Til samanburðar er skattbyrði sambærilegrar fjölskyldu í Danmörku 30,5%. Það er því ekki hægt að skilja málflutning stjórnarandstöðunnar um að skattar hafi hækkað hérlendis í valdatíð Sjálfstæðisflokksins og Davíðs Oddssonar. Það sem er þó athyglisverðast af öllu því sem átt hefur sér stað frá 1991 er sú staðreynd að kaupmáttur launa hefur hækkað um þriðjung frá árinu 1994 og verðbólga með því lægsta sem almennt gerist meðal vestrænna þjóða. Það er því öllum ljóst sem líta á málin og staðreyndirnar að almenningur hérlendis hefur notið ríkulega afraksturs af traustri efnahagsstjórnun hérlendis. Framundan eru meiri skattalækkanir ef réttir aðilar sitja að völdum næstu árin.

Skýrt val í kosningunum í vor
En hverjir eru réttir aðilar mætti sjálfsagt spyrja sig. Að sjálfsögðu er það Sjálfstæðisflokkurinn sem hefur verið kjölfestan í stjórn landsins seinasta áratuginn. Sjálfstæðisflokkurinn er og hefur alla tíð verið flokkur skattalækkana. Ekki eru vinstri flokkarnir þekktir fyrir að lækka skatta, svo mikið er alveg víst. Það hefur verið stíll vinstri stjórna að þær endast ekki út heilt kjörtímabil, engin þeirra hefur setið fjögur ár samfleytt. Samnefnari þeirra hefur verið þrenn lykilatriði; há verðbólga, háir skattar og stórauknar skuldir ríkisins. Frá 1988-1991, á valdatíma síðustu vinstri stjórnar rýrnaði kaupmáttur launa landsmanna um rúm 10%. Fyrrverandi borgarstjóri er orðinn talsmaður Samfylkingarinnar og reynir nú með nýrri ímyndarhönnun að flýja misheppnaða valdasetu sína í Ráðhúsinu. Það sem einkenndi valdaferil hennar sem stóð í rúm átta ár voru skattahækkanir og veruleg aukning skulda. Þrátt fyrir fögur fyrirheit í upphafi um lækkun skulda borgarbúa er reyndin sú að skuldirnar hækkuðu um 1100% í valdatíð hennar. Reykvíkingar skulda mest allra í samanburði við nágrannasveitarfélögin. R-listinn hækkaði fasteignaskatta og útsvarsprósentu borgarinnar verulega. Öllu var þessu stjórnað af fyrrverandi borgarstjóra sem nú reynir að koma fram á sviðið sem fulltrúi nýrra tíma og leiðtogaefni þeirra gömlu flokka sem áður fyrr voru táknmynd glundroða í efnahagslífinu. Hún ætlar að reyna að flýja fortíð sína og komast til valda í landsmálunum með nýja glansmynd að leiðarljósi svo allir gleymi fyrri verkum hennar sem forystumanneskju í borgarstjórn. Það þýðir þó ekki, enda hefur hún sannað sitt innra eðli með setu sinni í valdastóli í borginni. 10. maí 2003 hafa landsmenn skýrt val. Þar stendur baráttan á milli svikinna loforða, hærri skulda og verðbólgu að hætti vinstri manna og eða hagsældar og betri lífskjara á þeirri braut sem Sjálfstæðisflokkurinn hefur markað. Sjálfstæðisflokkurinn er sá flokkur sem treystir mest fólkinu í landinu fyrir að taka eigin ákvarðanir; hann er táknmynd frelsis og þess að fólk móti eigin framtíð og hafi sitt svigrúm. Hann er flokkur skattalækkana. Staðreyndirnar segja allt sem segja þarf. Sjálfstæðisflokkurinn er rétti kosturinn, nú sem ávallt áður.

Engin fyrirsögn

Landsfundur í næstu viku
Í næstu viku, dagana 27. - 30. mars nk, verður haldinn í Laugardalshöll, 35. landsfundur Sjálfstæðisflokksins. Nú liggur formlega fyrir dagskrá fundarins. Að sjálfsögðu verður haldið á landsfund og fer ég suður á fimmtudag með hádegisvélinni. Framundan er skemmtilegur landsfundur og verður gaman að hitta pólitíska samherja af öllu landinu í Höllinni.

Ógnarstjórn Saddams að líða undir lok
Ógnarstjórn Saddams Hussein sem setið hefur að völdum frá árinu 1979, eða í 24 ár, er nú að líða undir lok. Það blasir við öllum að einræðisherra Íraks mun ekki halda velli mikið lengur eftir atburði seinustu daga. Hans valdaferli lýkur senn. Honum voru gefnir 48 klukkustundir til að forða þjóð sinni frá átökum og víkja af valdastóli. Hann hafnaði því og tekur nú afleiðingunum. Ein mikilvægasta spurning alþjóðlegra öryggismála var lengi vel hvort nauðsynlegt væri að grípa til hernaðaraðgerða gegn Írak. Eftir 12 ára svikin loforð hlaut að koma að þessu. Hann hefði auðveldlega getað forðast þetta með því að vinna með og heimila vopnaeftirlit frekar en að verða sprengdur úr embætti. Það gekk ekki lengur að Saddam myndi drepa málum á dreif eða hafa alþjóðasamfélagið að fífli með öðrum hætti. Hann hefði með því að heimila vopnaeftirlitsmönnum að starfa fullkomlega óhindrað getað haldið völdum. Það var að lokum undir honum sjálfum komið hvort nauðsynlegt væri að ráðast á hann til þess að afvopna hann. Saddam Hussein er einhver mesti óþokki sem í dag situr á valdastóli. Árið 1989 lét hann drepa 8000 Kúrda með "endurbættri" útgáfu af hinu sögufræga Zyklon-B gasi. Umfangsmiklar pyntingar hafa verið stundaðar á fólki "með rangar skoðanir" í landinu. Á ríkisstjórnarfundi hefur hann tekið upp á því að draga upp byssu og skjóta einn ráðherranna banaskoti til þess að leggja áherslu á mál sitt! Dæmi eru um að þeim sem hefur tekist að flýja landið hafi síðar frétt af og fengið í hendur myndbandsupptökur af limlestingum og nauðgunum á konum þeirra og dætrum. Skilaboðin að sjálfsögðu þau að komist einhver undan sé hann um leið að dæma fjölskyldu sína til þjáninga og dauða. Þetta eru aðeins nokkur dæmi um voðaverk Saddams, svo ekki sé minnst á tvær innrásir í nágrannaríkin, Íran og Kuwait. Vísindamenn sem sloppið hafa undan ógnarstjórninni hafa vitnað um ákafan ásetning Saddams Hussein um að koma sér upp kjarnorkuvopnum. Hann hefur notað hagnað af olíusölu, sem honum er skylt að nota í lyf og mat handa sveltandi fólkinu, til að reisa hallir og fjármagna ólögmætar hernaðaráætlanir sínar. Svona mætti auðvitað lengi áfram telja. Saddam Hussein hefur haft alþjóðasáttmála að engu og svikið gefin loforð. Það gleymdist oft í umræðunni um árás Bandaríkjanna á Írak, að Persaflóastríðinu lauk ekki með friðarsamningi, heldur vopnahléi. Við vopnahléið gekkst Saddam undir skilmála sem hann hefur undantekningalítið svikið. Það var ljóst orðið að hann hefði aldrei farið sjálfviljugur frá völdum og litlar líkur á að almenningur í Írak hefði getað steypt herstjórn hans af stóli. En nú er þessi ógnarstjórn loksins að líða undir lok. Heimildir: Frelsisgrein félaga míns, Hafsteins Þórs Haukssonar varaformanns SUS - des. 2002

Skrifað undir samninga vegna Vetraríþróttamiðstöðvar Íslands
Í vikunni undirrituðu Tómas Ingi Olrich menntamálaráðherra og Kristján Þór Júlíusson bæjarstjóri á Akureyri, samning um uppbyggingu Vetraríþróttamiðstöðvar Íslands á Akureyri. Athöfnin fór fram í flugstöðinni á Akureyrarvelli en með því var lögð áhersla á gildi Vetraríþróttamiðstöðvar Íslands fyrir alla þá sem eru á faraldsfæti og vilja njóta þess besta sem höfuðborg hins bjarta norðurs hefur upp á að bjóða. Bæjarstjóri lýsti mikilli ánægju með saminginn, þakkaði öllum þeim sem komu að undirbúningsvinnu og ítrekaði að samningurinn hefði mjög mikla þýðingu fyrir ferðamennsku á Norðurlandi öllu. Ráðherra og bæjarstjóri undirrituðu samninginn í stólum úr Fjarkanum, nýju stólalyftunni í Hlíðarfjalli. Gildistími samningsins er til ársloka 2008 og er tilgangur hans að styðja við uppbyggingu mannvirkja á vegum Vetraríþróttamiðstöðvar Íslands í því skyni að efla iðkun vetraríþrótta fyrir almenning og íþróttafólk. Menntamálaráðuneytið og Akureyrarbær standa sameiginlega straum af uppbyggingunni og nemur framlag ríkissjóðs 180 milljónum króna sem greiðist á næstu sex árum. Meðal verkefna sem ráðist verður í á næstu árum er uppsetning nýrrar lyftu í Strýtu og nýrrar togbrautar í Hjallabraut sem og nýrrar barnalyftu. Þá verður flóðlýsing aukin, aðbúnaður fyrir vetraríþróttir fatlaðra bættur, svo og aðstaða fyrir brettafólk og vélsleðamenn. Einnig verður aðstaða til vetraríþrótta í Kjarnaskógi bætt og tækjakostur í skautahöllinni aukinn. Þetta er mjög ánægjulegt skref sem stigið er með undirritun samninganna og styrkir stöðu bæjarins sem fremsti vetraríþróttabær landsins.

Engin fyrirsögn

Frelsun Íraks hafin - upphaf endaloka Saddams
Frestur Saddams Hussein forseta Íraks, sem forseti Bandaríkjanna veitti honum til að yfirgefa landið, rann út kl. 01:00 í nótt að íslenskum tíma. Rúmum tveim tímum síðar, eða kl. 03:15 að íslenskum tíma, flutti George W. Bush Bandaríkjaforseti, sjónvarpsávarp frá forsetaskrifstofunni í Hvíta húsinu, til þjóðarinnar og heimsbyggðarinnar allrar. Þar tilkynnti hann að herför Bandaríkjanna og bandamanna gegn einræðisstjórn Saddam Hussein væri hafin. Bush forseti, sagði að hann hefði fyrirskipað árásir á valin skotmörk í upphafi sem hefðu það að markmiði að draga úr hernaðarmætti íraska hersins. Hann sagði að 35 ríki styddu afvopnun Íraks og lagði áherslu á mikilvægi þeirra í baráttunni fyrir afvopnun landsins. Forsetinn sagði að bandarísk stjórnvöld hefðu engan áhuga á ítökum í Írak að stríði loknu, markmiðið væri að steypa stjórn landsins af stóli. Hann sagðist bera virðingu fyrir menningu írösku þjóðarinnar og trú hennar og sagði að allt yrði gert til þess að koma í veg fyrir mannfall í röðum óbreyttra borgara. Bush sagði að Saddam myndi nota óbreytta borgara sem mannlega skildi til að verja hersveitir sínar. „Saddam Hussein hefur staðsett hermenn og hergögn í íbúðahverfum og reynir með því að brúka óbreytta menn, konur og börn sem skildi fyrir hersveitir sínar, en það er síðasta grimmdarverk hans gegn þjóð sinni. Í þessu stríði standa Bandaríkin frammi fyrir óvini sem virðir í engu fyrir sáttmálum um framferði í stríði eða siðferðisreglum,” sagði forsetinn. Ávarpið varði í rúmar fjórar mínútur. „Þetta er upphafið af víðtækri og samræmdri baráttu," sagði forsetinn um fyrstu aðgerðir stríðsins á hendur Saddam. Hann sagði að stríðið við hinar erfiðu aðstæður sem ríktu í Írak gæti orðið langvinnara og torsóttara en margir héldu. Markmiðið væri að losa írösku þjóðina undan oki harðstjórnar og endurreisa landið með sameiningu írösku þjóðarinnar í stöðugu og frjálsu ríki en vegna þessa lyki skuldbindingum Bandaríkjanna gagnvart Írökum ekki á þeirri stundu er hernaðarsigur ynnist. "Nú þegar hernaður er hafinn er eina ráðið að beita afgerandi afli. Og ég fullvissa ykkur að þetta verður ekki stríð neinnar hálfvelgju og við sættum okkur við ekki neitt nema sigur. Hætturnar sem steðja að okkur og heimsbyggðinni allri verða yfirstignar. Við munum komast í gegnum þessa hættutíma og halda friðarstarfinu áfram. Við munum verja frelsi okkar. Og færa öðrum frelsi. Við munum ná yfirhöndinni." sagði forsetinn ennfremur.

Árásir á Írak harðna - ráðist gegn Saddam á landi, í lofti og á sjó
Í kvöld hörðnuðu átökin til muna. Í upphafi átakanna í nótt var aðeins skotið að völdum skotmörkum, mjög fáum. Um kvöldmatarleytið að íslenskum tíma hófust mun harkalegri aðgerðir gegn ógnarstjórn Saddams. Í kvöld flutti Tony Blair forsætisráðherra Bretlands, ávarp til bresku þjóðarinnar. Hann tilkynnti að breskir hermenn tækju nú virkan þátt í hernaðaraðgerðum í Írak með bandamönnum sínum. Forsætisráðherrann sagði að takmark bresku hersveitanna væri að koma Saddam frá völdum og gera upptæk gjöreyðingarvopn hans. Skv. mbl.is var ávarp hans tekið upp á myndband um miðjan dag eða áður en Blair hélt til leiðtogafundar Evrópusambandsins (ESB) í Brussel. Hann sagðist gera sér grein fyrir því að breska þjóðin væri klofin í afstöu sinni til herfararinnar, en kvaðst vona að þjóðin sameinaðist í bæn til bresku hersveitanna á Persaflóasvæðinu. Blair sagði að heimsbyggðinni stafaði ný hætta af lögleysu og ringulreið af hálfu harðstjórnarríkja á borð við Írak sem réðu yfir gjöreyðingarvopnum, eða hryðjuverkahópum. „Báðir aðilar hata lífnaðarhætti okkar, frelsi okkar og lýðræði," sagði Blair. Og bætti við að hann óttaðist það innst inni að öfl af þessu tagi myndu taka höndum saman og kalla hörmungar yfir bæði Bretland og alla heimsbyggðina ef ekkert væri að gert. Forsætisráðherrann sagði að sér væri ekki bara umhugað um Írak. „Við Bush Bandaríkjaforseti höfum skuldbundið okkur til að vinna að friði í Miðausturlöndum er grundvallast á öryggi Ísraelsríkis og lífvænlegu ríki Palestínumanna. Við munum leggja allt í sölurnar til að koma því í kring en slík áskorun krefst raðar og reglu og stöðugleika um heimsbyggðina. Einræðisherrar á borð við Saddam, hryðjuverkahópar eins og al-Qaeda ógna slíku ástandi. Þess vegna hef ég beðið hersveitir okkar að hefja hernað í kvöld. Hersveitir bandamanna virðast hafa hrundið fyrstu stórsókn landherja inn í Írak af stað fyrir nokkrum klukkustundum og bandarískar og breskar orrustu- og sprengjuflugvélar eru nú í árásarleiðangri inn yfir Írak frá flugmóðurskipum og landherstöðvum. Landher hóf stórsókn inn í Írak frá Kuwait um klukkan 17 að íslenskum tíma að undangengnum loftárásum á stöðvar Írakshers í suðurhluta landsins. Að sögn blaðamanna með hersveitunum var himininn ljósbjartur af sprengjublossum er flugskeyti skullu hvað eftir annað á íröskum skotmörkum. Um 10.000 manna herlið á brynvögnum, þar á meðal skriðdrekum, sótti inn yfir írösku landamærin frá Kuwait. Ítarlega er fjallað um stríðið á fréttavefjum CNN, BBC og mbl.is.

Engin fyrirsögn

Umfjöllun um stjórnarmyndanir
Nú þegar rúmir 50 dagar eru til kosninga, er kosningabaráttan að komast á fullt. Að loknum kosningum verður að mynda starfhæfa ríkisstjórn. Í gær birtist pistill minn um stjórnarmyndanir á frelsi.is. Það er forseti Íslands sem ákveður hverjum skuli falið stjórnarmyndunarumboð og hefur hann oft haft áhrif á gang mála. Núverandi stjórnarsamstarf Sjálfstæðisflokks og Framsóknarflokks hefur setið að völdum í tæp átta ár, frá 23. apríl 1995. Allan þann tíma hafa formenn flokkanna setið í stjórninni; Davíð Oddsson sem forsætisráðherra og Halldór Ásgrímsson sem utanríkisráðherra. Af öðrum ráðherrum í stjórninni 1995 er einungis Páll Pétursson eftir. Sjálfstæðisflokkur og Framsóknarflokkur hafa oft setið saman í stjórn, en aldrei jafnlengi samfleytt og nú, átta ár að loknu þessu kjörtímabili. Núverandi ríkisstjórn er fimmta tveggjaflokkastjórn Framsóknar og Sjálfstæðisflokks frá 1932 en að auki hafa flokkarnir átt saman aðild að ríkisstjórnum með þátttöku fleiri flokka. Það hefur ekki alltaf ráðið úrslitum hver vinnur kosningarnar en það hefur mikið að segja og hefur oft skipt sköpum. Einnig hefur mikið að segja hvort stjórnin heldur þingmeirihluta eða ekki, eða hvort vilji er fyrir áframhaldandi samstarfi ef meirihluti héldi, þetta getur ráðist af mörgum forsendum. Það eru margar og ólíkar forsendur sem ráða hvernig úr spilunum spilast - það verður athyglisvert að sjá hvernig þetta verður eftir komandi kosningar. Ljóst er að kosningabaráttan verður spennandi - ekki verður síður athyglisvert að fylgjast með stjórnarmyndun að kosningunum loknum. Verður áframhald á núverandi stjórnarsamstarfi? Er ný viðreisn í uppsiglingu? Eða jafnvel stjórn þeirra flokka sem setið hafa í stjórandstöðu? Ómögulegt er um að spá. Framundan er athyglisverð kosningabarátta fyrir alla þá sem áhuga hafa á stjórnmálum.

Þróun Netsins í almennri stjórnmálabaráttu
Í ítarlegum pistli á heimasíðu Sjálfstæðisflokksins á Akureyri á mánudag fjalla ég um þróun Netsins í almennri stjórnmálabaráttu á seinustu árum. Á árum áður var kosningabaráttan háð með blaðaskrifum og útgáfu blaða tengdum flokkunum til að koma boðskap þeirra sem best á framfæri. Flokksmálgögnin á dagblaðamarkaðnum voru mikilvægur þáttur í þeirri baráttu. Eftir því sem árin hafa liðið hefur tími flokksblaðanna runnið sitt skeið og baráttan því háð á öðrum forsendum en oft áður. Nú skiptir Netið miklu máli við öflun og miðlun upplýsinga í kosningabaráttu. Er mikilvægt að stjórnmálamenn og frambjóðendur komi boðskap sínum og stefnu framboða sinna á framfæri á sem kraftmestan hátt til skila til kjósenda sinna í gegnum skrif, einkum á Netinu og í blaðagreinum, sérstaklega í Morgunblaðinu. Í upphafi tíunda áratugar síðustu aldar var Internetið aðeins varafjarskiptaleið Bandaríkjahers og veraldarvefurinn var ekki kominn til sögunnar enn. Síðan hefur netvæðingin verið mjög ör og setur æ ríkari svip á samskipti manna. Við Íslendingar erum eins og flestum ætti að vera kunnugt í fremstu röð í þessum málum, en um 80% landsmanna á aldrinum 16-75 ára hafa nú aðgang að Netinu. Er því ljóst að mikilvægt er fyrir stjórnmálamenn að ná til þessa fólks í gegnum þennan gríðaröfluga miðil nútímans. Í dag keppast flokkarnir um að koma upplýsingum til skila á markvissan hátt og margir stjórnmálamenn hafa ákveðið að koma sér upp vefsíðu til að vera í góðu sambandi við kjósendur og koma skoðunum sínum þar á framfæri. Brautryðjandi í þessum efnum var Björn Bjarnason alþingismaður og fyrrv. menntamálaráðherra. Hann opnaði vefsíðu sína fyrir átta árum, í febrúar 1995 og hefur síðan skrifað vikulega pistla um stjórnmál og það sem hæst ber í þjóðfélaginu, birtir þar einnig allar blaðagreinar sínar og ræður og uppfærir þar reglulega dagbók sína. Er enginn vafi á því að hann er sá maður sem einna best hefur notfært sér þennan miðil og kynnt skoðanir sínar. Þar er hægt að fylgjast með verkum og skrifum Björns allan ráðherraferil hans 1995-2002 og seinasta árið sem leiðtoga borgarstjórnarflokks Sjálfstæðisflokksins. Í kjölfar hans hafa margir stjórnmálamenn ákveðið að nota sér þennan miðil til að vera í góðum tengslum við umbjóðendur sína.

Gagnvirkar upplýsingar - Íslendingur er mikilvægur fyrir okkur
Netvæðingin hefur auðveldað stjórnmálamönnum, stjórnmálaflokkum og stjórnvöldum almennt, að miðla upplýsingum til kjósenda. Slík miðlun upplýsinga skiptir mjög miklu í kosningabaráttu. Það er alveg ljóst að greið og gagnvirk samskipti eru lykilatriði í stjórnmálastarfi. Nýja upplýsingatæknin er betri en nokkur annar vettvangur til upplýsingamiðlunar að því leyti, að hún er gagnvirk. Hún gefur stjórnmálamönnum nýtt og einstakt tækifæri til að skiptast á skoðunum við kjósendur. Netið hefur gjörbreytt allri miðlun opinberra upplýsinga. Vefsíður Stjórnarráðsins, Alþingis, Hæstaréttar og sveitarfélaganna eru til mikillar fyrirmyndar. Einkum er ljóst að heimasíða Akureyrarbæjar nýtur mikillar hylli, en enginn þéttbýliskjarni á landinu getur státað af jafn vinsælli heimasíðu og Akureyrarbær, samkvæmt mælingum á heimsóknir á vefsíður. Í apríl 2001 var heimasíða Sjálfstæðisflokksins hér á Akureyri, islendingur.is, opnuð og hefur hún verið öflugur miðill okkar sjálfstæðismanna í bænum og þjónað flokksmönnum í öllu Norðausturkjördæmi og mun verða mikilvægur þáttur í baráttu okkar næstu vikurnar. Það er enginn vafi á því að islendingur.is er ein öflugasta vefsíða sjálfstæðismanna á landinu og þar eru nýjustu fréttinar úr flokksstarfinu, pistlar og greinar flokksmanna og allt sem máli skiptir fyrir okkur sem styðjum flokkinn. Sé Netið notað með markvissum og reglubundnum hætti, er hægt að skapa fjölmiðil sem vegur ekki síður þungt en hinir hefðbundnu miðlar. Íslenskir stjórnmálamenn og frambjóðendur á komandi árum eiga nýja og öfluga leið til að efla samband við umbjóðendur sína. Netið hefur opnað mörg spennandi tækifæri til samskipta á milli fólks og þau geta skipt sköpum í harðri baráttu þar sem mikilvægt er að hrífa fólk með sér og setja fram stefnu sína og skoðanir á markvissan og öflugan hátt.

« Fyrri síða | Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband