9.1.2003 | 15:08
Engin fyrirsögn
Í dag birtist á heimasíðu Heimdallar, ítarlegur pistill minn um stöðuna hjá R-listanum, aðdragandann að endalokum valdaferils Ingibjargar Sólrúnar, stöðuna í skoðanakönnunum og farsa þann sem snýst um forystu Samfylkingarinnar í komandi kosningum. Það er helst af þeim flokki að frétta að formaðurinn hefur brugðist við komu hins nýja háseta (ISG) á þann hátt að lýsa því yfir svo ekki varð um villst að hann væri enn skipstjóri á sinni fleytu. Hann ætlar ekki að gefa eftir sinn sess til hásetans. Á meðan ókyrrast undirmenn skipstjórans og vilja nýta krafta hásetans sem varð að taka pokann sinn á R-listafleytunni. Er rætt um að bæði verði við stjórnvölinn innan Samfylkingarinnar. Össur verði áfram formaður flokksins en Ingibjörg stjórni kosningabaráttunni og verði talsmaður hans. Óljóst er hver skal vera forystumaður þegar til stjórnarmyndunar kemur, ef svo illa vildi til að flokknum tækist að komast í oddaaðstöðu við myndun ríkisstjórnar. Þessi vandræðagangur innan Samfylkingarinnar vegna forystunnar er kostulegur, enda vitað mál að hjá flokk getur aðeins einn setið við stjórnvölinn. Það gengur ekki upp til lengdar að vera með tvo skipstjóra á sama skipinu samtímis. Fyrir liggur að Össur Skarphéðinsson er formaður flokksins og því augljóst að það verður hann sem leiðir flokkinn í baráttunni en ekki borgarfulltrúinn. Það er ótrúlegt að sjá hversu mjög ganga Ingibjargar í pólitíkinni er blúndulögð. Fyrst var henni stillt upp sem áttunda manni á R-listanum 1994 og hefði setið áfram á þingi ef sigur hefði ekki unnist. Í kosningunum 1998 og 2002 var samstaða um að hún fengi sætið án baráttu og henni úthlutað sínum sama sess. Nú á hún að verða forystumaður Samfylkingarinnar og sett skör hærra en formaðurinn án þess að hafa verið kjörin til þess. Já, það er margt skrýtið í henni veröld.
Félagsstarfið af stað á ný - Íslendingur kemur út
Í dag hefst félagsstarfið hjá okkur Sjálfstæðismönnum á Akureyri á ný eftir hátíðirnar. Í gær kom út málgagn flokksins, Íslendingur, þar sem er að finna ítarlegar greinar og ýmsan fróðleik. Milli kl. 17:00 og 19:00 verður opið hús í Kaupangi. Svo fer starfið fljótlega af stað á ný hjá Verði. Við sem sitjum í stjórn félagsins ætlum okkur að verða virk fram að kosningum. Ljóst er að kosningarnar í vor verða spennandi og mikilvægt að flokkurinn haldi vel á sínu. Stefnan er sett á að flokkurinn haldi þeirri stöðu sem hann hefur í landsmálunum. Ljóst er að til að ná því lykilmarkmiði að flokkurinn sé í fararbroddi í öllum kjördæmunum hafi hann alla burði. Þó þarf að vinna af krafti til að ná settu marki. Sigur vinnst ekki nema með því að leggja sig allan fram og berjast áfram. Sjálfstæðismenn munu þurfa að hafa fyrir því að halda sinni stöðu og nauðsynlegt að allir hægrimenn og framfarasinnar taki virkan þátt í þeirri baráttu og styðji Sjálfstæðisflokkinn og fulltrúa hans til góðra verka á komandi árum. Nú reynir á samstöðu sjálfstæðismanna - með samstöðu að leiðarljósi verður sigur flokksins staðreynd.
Breytt 18.9.2006 kl. 08:02 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
8.1.2003 | 03:35
Engin fyrirsögn
Það er ekki hægt að neita því að komandi kosningabarátta verður meira spennandi og óvægnari en jafnvel var áður talið. Í könnun DV kemur skýrt fram að Samfylkingin er að ganga frá samstarfsflokkum í borgarstjórn og þeir eru að fóta sig nú eftir að fráfarandi borgarstjóri sveik gefin loforð. Þessi skoðanakönnun er athyglisverð mæling á stöðunni núna og segir tvennt. Í fyrsta lagi að fylgi Framsóknarflokks og VG er í miklu lágmarki og það fylgi sem þeir missa fer yfir til Samfylkingarinnar. Spurningin er; fer það aftur til baka á flokkana eða verður þetta útkoma þeirra. Ef svo er blasir við að þeir munu báðir eiga í mikilli tilvistarkreppu á komandi árum og ekki líklegt að þeir verði aðilar að ríkisstjórn með þetta fylgi. Ég tel útilokað að þessir flokkar mælist svona lágt í kosningum. Í öðru lagi að það er mikið lausafylgi á landsbyggðinni og um það verður barist, það gæti ráðið úrslitum í þessum kosningum hvert það fer. Á landsbyggðinni verður framar öðru kosið um atvinnu- og samgöngumál. Í kosningabaráttunni í mínu kjördæmi munu virkjunarmál verða áberandi og verður eftir því leitað hvar flokkarnir standa í þeim málum. Styðja þeir atvinnuuppbyggingu á landsbyggðinni eða hvað? Það dugar ekkert hálfkák í þeirri kosningabaráttu og skýrra svara verður leitað. Við blasir semsagt að Samfylkingin er að bæta við sig fylgi á kostnað tveggja flokka, samstarfsflokka í borgarstjórn. Sjálfstæðisflokkurinn heldur velli eftir 12 ára stjórnarforystu. Ég minni á að Samfylkingin hefur náð hámarki og því spurningin hvenær fylgið leitar til baka í flokkana tvo. Ef það gerist ekki blasir við endalok þessara tveggja flokka. Íslenskir kjósendur eru vanafastir eins og fram kemur í lokaverkefni Einars Arnar Jónssonar og Birnu Óskar Hansdóttur í stjórnmálafræði HÍ. Framsókn er alltaf vanmetin og VG eflaust líka miðað við þessar tölur. Hvaðan munu þessir flokkar taka fylgi sitt á ný. Ekki frá Sjálfstæðisflokknum, svo mikið er víst.
R-listinn forystulaust rekald
Eftir þrjár vikur mun Ingibjörg Sólrún Gísladóttir láta af störfum sem borgarstjóri Reykjavíkurborgar eftir tæplega 9 ára setu á þeim stól. Aðdragandinn að endalokum valdaferils hennar í stóli borgarstjóra ætti að vera öllum kunnur eftir að landsmenn horfðu á pólitískan jarðskjálfta á R-listasprungusvæðinu fyrir og um jólin eftir að ISG ákvað að fara í þingframboð og ganga á bak orða sinna í borgarstjórnarkosningunum í fyrra. Samstarfsfólk hennar í meirihlutanum neyddu hana til að segja af sér eftir að hún hafði svikið þá opinberlega og gengið á bak orða sinna við þá. Síðan 1994 hefur verið staðið þannig að stjórn mála undir forystu R-listans í borgarstjórn, að borgarstjóri hefur verið úr hópi kjörinna borgarfulltrúa og haft skýrt pólitískt umboð samstarfsmanna sinna sem málsvari þeirra. Það hefur verið stefna þeirra að við stýrið sé sterkur pólitískur forystumaður. Við þessar aðstæður hefur R-listinn ákveðið að ráða fjármálamanninn Þórólf Árnason í stól borgarstjóra en hann er eins og öllum ætti að vera kunnugt ekki kjörinn borgarfulltrúi. Síðast þegar vinstri flokkarnir stóðu að sambærilegri ráðningu kjörtímabilið 1978-1982 gaf þessi skipan alls ekki góða raun. Innan borgarstjórnar var þá fullkomin óvissa um, hvar ábyrgð hvíldi í mikilvægum pólitískum álitaefnum. Erfiðar spurningar vöknuðu um valdmörk milli kjörinna fulltrúa og embættismanna. Í raun átti Reykjavíkurborg engan málsvara með ótvírætt umboð frá borgarbúum. Þessi staða blasir nú við öllum sem á málið líta. R-listinn, valdabandalag þriggja flokka er forystulaust rekald eftir að skipstjórinn sagði upp djobbinu og réði sig sem háseta á annað skip undir stjórn Össurar Skarphéðinssonar.
Ekkert gagnkvæmt traust - endalok R-listans
Í skoðanakönnun DV á mánudag kom skýrt fram að fylgi R-listans hefur minnkað verulega við það að skipstjórinn ræður sig á annað fley og yfirgefur fyrra plássið. Fylgi Sjálfstæðisflokkins eykst og er þeim spáð meirihluta atkvæða. Ráðning flokkanna þriggja sem mynda meirihluta borgarstjórnar á fyrrum forstjóra Tals í borgarstjórastólinn sýnir svo ekki verður um villst, að mikill glundroði ríkir í hópi borgarfulltrúa R-listans og ekkert gagnkvæmt traust er þeirra á milli. Það væri fróðlegt að vita hvort aldrei hafi komið til álita að aðrir borgarfulltrúar en Árni Þór Sigurðsson kæmi til álita í stól borgarstjóra, s.s. Stefán Jón Hafstein, Alfreð Þorsteinsson eða Steinunn Valdís Óskarsdóttir. Atburðarásin frá því að fráfarandi borgarstjóri ákvað að bjóða sig fram til fimmta sætis á framboðslista Samfylkingarinnar í Reykjavík, glundroðinn og illindin milli Samfylkingar, Framsóknarflokks og VG og ráðning ópólitísks borgarstjóra (framkvæmdastjóra) án pólitísks umboðs sýnir svo ekki verður um villst, að R-listinn er í raun úr sögunni sem sterkt pólitískt afl. Forseti borgarstjórnar hefur sagt að pólitísk stefnumótun verði alfarið í höndum kjörinna fulltrúa og borgarráðsliða en ekki borgarstjóra. Það er óhjákvæmilegt að krefjast þess af meirihluta borgarstjórnar að hann greini allavega borgarbúum frá því, hver verði málsvari Reykjavíkurborgar vegna póltískrar stefnumótunar eftir að núverandi borgarstjóri fer úr embætti eftir að hafa gengið á bak orða sinna og verið sparkað af stóli sínum sem ótvíræður pólitískur forystumaður meirihlutans.
Breytt 18.9.2006 kl. 08:02 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
7.1.2003 | 22:19
Engin fyrirsögn
Líkurnar á að Kárahnjúkavirkjun verði að veruleika aukast nú dag frá degi. Í dag kom fram í greinargerð nefndar sem eigendur Landsvirkjunar komu á laggirnar til að skila áliti um mat á arðsemi og fjárhagslegri áhættu Kárahnjúkavirkjunar, að yfirgnæfandi líkur væru taldar á að virkjunin verði arðsöm. Er það mat nefndarinnar að arðsemismat Landsvirkjunar sé vel rökstutt. Það er þeirra mat að það sé eigenda fyrirtækisins að ákveða hvort metin arðsemi Kárahnjúkavirkjunar sé fullnægjandi, að teknu tilliti til þeirrar áhættu sem felist í verkefninu og annarra þeirra þátta sem þeir telji mikilvæga. Eigendanefndin, sem skipuð er þremur mönnum, segir að hafa beri í huga að þótt í arðsemismati sé miðað við 25% eiginfjárhlutfall og veginn fjármagnskostnaður reiknaður út frá því, þá megi gera ráð fyrir að Kárahnjúkavirkjun verði í raun fjármögnuð að mestu eða öllu leyti með lánsfé. Í morgun samþykkti ríkisstjórnin tillögu iðnaðarráðherra um að leggja fyrir þingflokka stjórnarflokkanna og Alþingi, þegar þing kemur saman þann 21. janúar nk. frumvarp til laga um heimild til samninga um álverksmiðju í Reyðarfirði. Frumvarpið er að flestu leyti efnislega sambærilegt lögum um heimild til samninga um álverksmiðju á Grundartanga sem samþykkt var fyrir nokkrum árum. Ríkisstjórnin fjallaði einnig í morgun um greinargerð eigendanefndarinnar. Samninganefndir iðnaðarráðuneytis, Alcoa og Fjarðabyggðar hafa áritað samninga vegna byggingar og reksturs álverksmiðju í Reyðarfirði. Í frumvarpinu er leitað heimildar Alþingis til að undirrita fjárfestingar-, lóðar- og hafnarsamninga. Fyrir liggur að samningar verði undirritaðir í febrúar og málið verði þá formlega klárað. Það er því ljóst að það styttist óðum í að Kárahnjúkavirkjun verði að veruleika. Í komandi kosningum verður kosið í Norðausturkjördæmi um atvinnu- og samgöngumál framar öðru. Virkjunin skiptir íbúa kjördæmsins miklu máli og fyrir liggur að hún muni verða mikil lyftistöng fyrir kjördæmið og ekki síður landsmenn alla.
Staða Sjálfstæðisflokksins styrkist - Davíð traustur í sessi
Í dag birti DV skoðanakönnun um fylgi flokkanna í Reykjavík vegna komandi þingkosninga í annað skipti á tæpum mánuði. Föstudaginn 20. desember 2002 birtist skoðanakönnun sem leiddi til þess að framsóknarmenn og vinstri/grænir í borgarstjórn spörkuðu fráfarandi borgarstjóra af stóli gegn vilja hennar og neyddu hana til afsagnar. Í þeirri könnun kom fram að ISG myndi fella Halldór Ásgrímsson af þingi. Á þeirri könnun tóku Samfylkingarmenn mikið mark á og töluðu um upphafið að pólitískri sigurgöngu ISG. Í könnun dagsins í dag er ljóst að staða Sjálfstæðisflokksins í borginni hefur styrkst til muna eftir innkomu fráfarandi borgarstjóra og mælast þeir með sjö menn í norðurkjördæminu, þar sem tromp SF er í fimmta sætinu. Samkvæmt þessari könnun myndu hvorki ISG og HÁ ná kjöri. Reyndar er það svo að Samfylkingin tapar fylgi í borginni frá innkomu ISG. Samfylkingarmenn hljóta að taka sama mark á þessari könnun og þeirri fyrir þrem vikum, en ekki er ég viss um sama gleði sé með þessar tölur og þær sem birtust rétt fyrir jólin. Í dag birtist í Fréttablaðinu könnun um hvaða stjórnmálamönnum almenningur treystir best og vantreystir. Davíð Oddsson forsætisráðherra er sem fyrr umdeildur og trónir á toppum beggja listanna og er sá stjórnmálamaður sem þjóðin treystir best til forystu.
Breytt 18.9.2006 kl. 08:02 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
6.1.2003 | 10:59
Engin fyrirsögn
Í dag kemur Morgunblaðið í fyrsta sinn í 84 ár, út á mánudögum. Þáttaskil verða í íslenskum fjölmiðlaheimi þegar Mogginn hefur mánudagsútgáfu sína á nítugasta afmælisári sínu. Nú kemur blaðið út alla daga og stendur virkilega undir nafni sem dagblað. Ég sem áskrifandi blaðsins fagna þessum breytingum bæði á útgáfunni og forsíðunni í nóvember sem eru mjög til góða. Þau munu styrkja blaðið. Í dag birtist fyrsta greinin af fjórum eftir Agnesi Bragadóttur um valdataflið um Íslandsbanka fyrir nokkrum árum þar sem við sögu komu bæði þekktir kaupsýslumenn og stjórnmálamenn. Eru þetta mjög áhugaverð og fræðandi skrif og verður gaman að lesa næstu greinar, hlakka til að lesa t.d. um aðdragandann að sameiningu Íslandsbanka og FBA á morgun. Agnes fer á kostum í þessum greinaskrifum eins og jafnan áður, greinaflokkur hennar um fall SÍS er sérstaklega eftirminnilegur þeim sem lásu hann á sínum tíma (1993). Í mínum huga er fréttamennska Morgunblaðsins fyrsta flokks og ég kaupi ekki önnur dagblöð á íslenskum fjölmiðlamarkaði. Morgunblaðið er blað sem ég get ekki án verið.
Stórfurðuleg skoðanakönnun
Þar sem ég hvorki les Fréttablaðið né tek nokkurt mark á fréttamennsku þess eftir margar rangfærslur á síðasta ári tek ég skoðanakönnun þeirra í dag um fylgi flokkanna með mikilli varúð. Hef kynnt mér tölur úr þessari könnun á Netinu og sé þar að Samfylkingin og Sjálfstæðisflokkurinn standa jafnfætis í fyrsta sinn til þessa. Könnunin virðist unnin á mjög óvísindalegan hátt, það er greinilega ekki mikið vit á þessu blaði á nýjum kjördæmalögum. Þetta má helst sjá af því að flokki með 2% fylgi er spáð manni á þing, en allir sem eitthvert snefilsvit hafa á nýju lögunum vita að það dugir ekki fyrir þingmanni. Nú þarf flokkur að hljóta 8-10% í kjördæmi til að ná manni kjördæmakjörnum og 5% á landsvísu til að eiga möguleika á jöfnunarmönnum. Við bætist að margir taka ekki afstöðu í þessari könnun. Það mætti helst ímynda sér að skoðun eins til eða frá hefði breytt fylginu. Úrtakið er mjög lítið. Ég hef alltaf tekið mest mark á könnunum Gallups. Á gamlársdag birtist könnun þeirra um fylgi flokkanna þar sem á fjórða þúsund manna tóku þátt um allt land. Þar voru línurnar skýrar. Könnunin í dag er svosem ágæt en ég minni á að Samfylkingin hefur verið í fjölmiðladekri seinasta mánuðinn og því varla tíðindi að fylgið aukist eitthvað. Það sem vekur helst athygli mína (ef tölurnar eru réttar sem ég dreg í efa) er að Samfylkingin er að stúta samstarfsflokkum sínum í borgarstjórn með framboði fráfarandi borgarstjóra. Má vel vera að hér sé að skapast tveggja flokka kerfi að bandarískri og breskri hefð. Ég minni hinsvegar á að líkurnar á að Samfylkingin haldi fylgisaukningu á kostnað Framsóknar og VG eru ekki miklar og líklegt að þegar til alvöru kosningabaráttu kemur verði fylgi þeirra meira. Sjálfstæðisflokkurinn tapar ekki miklu fylgi í þessari könnun Fréttablaðsins. SF græðir þar á tapi hinna flokkanna, Frjálslyndir virðast alveg við það að drepast í upphafi kosningaárs en ég tel hinsvegar alveg út í hött að afskrifa Framsókn. Það hafa margir farið flatt á því. Það var alltaf ljóst að þessi kosningabarátta yrði lífleg eftir að ISG missti allt niður um sig í borgarmálunum og ákvað að ganga á bak orða sinna í kosningabaráttunni í fyrra. Ljóst er að henni er ekki stillt upp sem leiðtogaefni flokksins, þetta tók varaformaður flokksins síðast fram í Kastljósi RÚV í gær. Fólk sem kýs Samfylkinguna kýs Össur Skarphéðinsson og Margréti Frímannsdóttur til áhrifa. Sjálfstæðisflokkurinn mun heyja snarpa og kraftmikla kosningabaráttu og leggur verk sín í dóm kjósenda. Við sjálfstæðismenn hræðumst ekki þann dóm, enda nýtur flokkurinn og forystumenn hans mikils trausts meðal þjóðarinnar.
Breytt 18.9.2006 kl. 08:02 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
5.1.2003 | 14:50
Engin fyrirsögn
Repúblikanar hafa nú tekið formlega við völdum í öldungadeild Bandaríkjaþings af demókrötum eftir kosningasigur þeirra 5. nóvember sl. Það hafði ekki gerst frá 1934 að flokkur forseta Bandaríkjanna bætti við sig fylgi og þingsætum í báðum þingdeildum. Sigur Repúblikana í nóvember var því vissulega sögulegur. Það hefur ekki gerst í 50 ár að Repúblikanar séu við völd á sama tíma í Hvíta húsinu, fulltrúadeildinni og öldungadeildinni, ef undan eru skildir nokkrir mánuðir árið 2001, en flokkurinn missti meirihlutann í öldungadeildinni í júnímánuði 2001, þegar James Jeffords sagði sig úr Repúblikanaflokknum og varð óháður þingmaður og greiddi atkvæði með demókrötum. Eftir forsetakosningarnar 2000 var valdahlutfallið á þann hátt að báðir flokkar höfðu 50 þingmenn í öldungadeildinni, en Cheney varaforseti, hafði oddaatkvæðið. Við brotthvarf Jeffords úr Repúblikanaflokknum tóku demókratar við völdum í deildinni. Repúblikanar hafa hinsvegar haft meirihluta í fulltrúadeildinni frá 1994. Við þessar valdabreytingar verður Bill Frist leiðtogi meirihlutans í öldungadeildinni. Hann var kjörinn leiðtogi Repúblikana í desember í kjölfar þess að Trent Lott forveri hans, sagði af sér eftir að hafa látið umdeild ummæli falla í afmælisveislu Strom Thurmond, sem mátti skilja á þann veg að hann styddi aðskilnað svartra og hvíta í Bandaríkjunum. George W. Bush mun nú horfa fram á veginn og koma stefnumálum sínum í framkvæmd, eftir sigur flokksins í þingkosningum, til þess hefur hann nú öflugan stuðning. Hann er þegar farinn að undirbúa kosningaslaginn 2004, eins og marka mátti af því að hann lét fjármálaráðherrann og efnahagsráðgjafa sína fjúka fyrir skemmstu og valdi nýja menn í sinn innsta hring til að móta efnahagsstefnuna á komandi árum. Sigur Repúblikana í nóvember staðfestir sterka stöðu forsetans og fylgismanna hans í bandarískum stjórnmálum. Forsetakosningar eiga að fara fram í Bandaríkjunum 2. nóvember 2004. Athyglisvert verður að fylgjast með bandarískum stjórnmálum fram að því. En eftir stendur Bush með pálmann í höndunum. Á því leikur enginn vafi.
Áhugaverður þáttur um karlakórinn Geysi
Horfði í kvöld á þátt Egils Eðvarðssonar og Sigríðar Guðlaugsdóttur um tónleikaferð Karlakórsins Geysis á Akureyri til Norðurlanda fyrir hálfri öld, sumarið 1952. Í þættinum var talað við gamla kórfélaga og sýndar myndir sem Eðvarð Sigurgeirsson, faðir Egils, tók í ferðinni. Var þessi þáttur virkilega áhugaverður. Langafi minn, Stefán Jónasson skipstjóri, útgerðarmaður og bæjarfulltrúi á Akureyri var í kórnum í áratugi og fór ásamt ömmu, Gíslínu Friðriksdóttur í ferðina og sáust þau oft í myndum Eðvarðs sem sýndar voru í þættinum. Stebbi afi sem lést í janúar 1982, þá aldargamall, segir frá ferðinni í bók Erlings Davíðssonar, Aldnir hafa orðið, sem kom út árið 1973. Þar eru margar skemmtilegar frásagnir um ferðina og greinilegt að hún hefur verið honum mjög eftirminnileg, þó hann hafi vissulega farið til útlanda fyrir 1952. Margir sem fóru í kórferðina höfðu aldrei farið út fyrir landsteinana og því augljóst að þarna hefur verið um að ræða mikil upplifelsi. Margt myndefni er til frá löngum ferli Eðvarðs Sigurgeirssonar sem kvikmyndatökumanns, gott dæmi er mynd um björgun áhafnar flugvélarinnar Geysis árið 1950 og ýmsar mannlífsmyndir úr Eyjafirði, einkum frá Akureyri. Það er hlutverk nútímamanna á Akureyri og víðar að hlúa að þessum fjársjóði sem Eðvarð skildi eftir sig og Egill sonur hans á hrós skilið fyrir að hafa bjargað mörgum perlum úr safni föður síns. Sérstaklega er mikilvægt að Akureyrarbær taki sig til og búi þessum myndum þann sess sem þær eiga skilið og varðveiti þær sérstaklega. Það er mikilvægt að þessar lifandi myndir úr sögu Akureyrar verði varðveittar á viðunandi máta og fái sinn réttmæta sess.
Breytt 18.9.2006 kl. 08:02 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
4.1.2003 | 23:58
Engin fyrirsögn
Þegar þingmenn mæta aftur til starfa að loknu jólafríi verður kominn á þing nýr maður í þingflokk Sjálfstæðisflokksins, Adolf H. Berndsen. Hann mun taka sæti Vilhjálms Egilssonar á þingi. Ég harma að Vilhjálmur Egilsson hættir í stjórnmálum og lætur af þingmennsku. Það er mín skoðun að hann hefði átt að leiða framboðslista flokksins í kjördæminu við komandi kosningar, enda hefur hann staðið sig vel á þingi seinustu 12 árin og leitt t.d. efnahags- og viðskiptanefnd þingsins seinasta áratuginn. Í prófkjöri flokksins í nóvember mynduðu vissir aðilar blokk gegn Vilhjálmi og einsettu sér það að fella hann af þingi, það tókst með klækjum og brögðum. Það er skoðun mín að þetta prófkjör eigi að ógilda og endurtaka. Annað hugnast mér ekki, hef aldrei farið leynt með það, sagði það fyrst á vefsíðu minni í nóvember. Ég er sammála Vilhjálmi að pólitík er ekki upphaf lífsins og ekki heldur endalok þess. Það er margt annað til í lífinu sem vert er að lifa fyrir, lykilatriði er að eiga góða fjölskyldu og ættingja og síðast en ekki síst góða vini, það má aldrei vanmeta. Það er þó erfitt eflaust að víkja af þessum vettvangi eftir að hafa verið beittum brögðum á þann hátt sem var í tilfelli Vilhjálms. Hann er þó þeirrar gerðar að hann finnur sér annan vettvang til að starfa á. Það er von mín að kærumál hans verði ekki til lykta leitt nema fram fari ítarleg umræða á vettvangi kjördæmisráðs og flokksstjórna um prófkjörið og það verði ógilt þó VE verði ekki í framboði. Mér finnst ekkert annað boðlegt vera í sögunni. VE er ekki lengur þátttakandi í þessu máli en eftir stendur að brögð voru í tafli í prófkjörinu. Þetta mun allt ráðast á kjördæmisþingi í þessum mánuði, þar verða þessi mál til lykta leidd. Það er flokksmanna í þessu kjördæmi að ráða hver niðurstaðan verður, þetta er þeirra ákvörðun þegar á hólminn er komið.
Áramótaávarp bæjarstjóra
Á nýársdag flutti Kristján Þór Júlíusson bæjarstjóri, áramótaávarp til Akureyringa á sjónvarpsstöðinni Aksjón, hér á Akureyri. Þar ræðir hann um bæinn og stöðu hans, úrslit seinustu sveitarstjórnarkosninga þar sem Sjálfstæðisflokkurinn vann góðan sigur eftir fjögurra ára forystu flokksins í bæjarmálunum, fjölgun bæjarbúa og ýmislegt fleira. Gott ávarp hjá Kristjáni, hvet fólk til að lesa það.
Breytt 18.9.2006 kl. 08:02 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
3.1.2003 | 23:59
Engin fyrirsögn
Á gamlársdag birti RÚV skoðanakönnun Gallups á fylgi stjórnmálaflokkanna fyrir desember. Þar kom fram næstum sömu tölur og í nóvember og ljóst að innkoma ISG hafði lítið áhrif á fylgi síns flokks, enda hækkaði það aðeins um 0,1% milli mánaða. Sjálfstæðisflokkurinn er í könnuninni með 26 þingmenn, Samfylkingin hefur 21 og VG og Framsókn 8 þingmenn. Frjálslyndir ná sem fyrr engum manni inn, tapa sínum tveim. Samkvæmt þessum tölum er Sjálfstæðisflokkurinn með 10 í Reykjavík (5 í hvoru kjördæmi), 5 í Suðvesturkjördæmi, 4 í Norðvesturkjördæmi, 3 í Norðausturkjördæmi og 4 í Suðurkjördæmi. Samfylkingin er með 8 í Reykjavík (4 í hvoru kjördæmi), 5 í Suðvesturkjördæmi, 3 í Norðvestur- og Norðausturkjördæmi og 2 í Suðurkjördæmi. Framsóknarflokkur er með 1 í Reykjavík, engan í Suðvesturkjördæmi, 2 í Norðvestur- og Norðausturkjördæmi og 3 í Suðurkjördæmi. VG er með 2 í Reykjavík (1 í hvoru kjördæmi), 1 í Suðvestur- og Norðvesturkjördæmi, 2 í Norðausturkjördæmi og 1 í Suðurkjördæmi.
Sviptingar á þingi - þingmenn falla í könnuninni
Ef þessi könnun yrði úrslit komandi kosninga myndi Halldór Ásgrímsson utanríkisráðherra, ná kjöri í Reykjavík, en Siv Friðleifsdóttir umhverfisráðherra myndi falla af þingi. Einnig er ljóst að fleiri þingmenn falla skv. könnuninni. Meðal þeirra eru Jónína Bjartmarz, Lára Margrét Ragnarsdóttir, Ólafur Örn Haraldsson, Katrín Fjeldsted og Árni Steinar Jóhannsson. Þá myndi Ingibjörg Sólrún Gísladóttir fráfarandi borgarstjóri, ekki ná kjöri úr fimmta sæti í Reykjavík norður og virðist þurfa pólitískt kraftaverk til að það náist. Þá myndi fjöldi ungs fólks ná inn á þing ef þessar tölur myndu ganga eftir. Guðlaugur Þór Þórðarson, Sigurður Kári Kristjánsson, Birgir Ármannsson, Bjarni Benediktsson, Katrín Júlíusdóttir og Ágúst Ólafur Ágústsson eru samkvæmt þessu öll inni á þingi að loknum kosningum. Nú þegar ljóst er að ISG mun án pólitísks kraftaverks ekki ná kjöri er reynt að tryggja pólitíska framtíð hennar með því að einhverjir sem unnu sigur í prófkjöri flokksins í nóvember gefi eftir öruggt sæti til að hleypa henni að og koma í veg fyrir pólitískt sjálfsmorð borgarstjórans fráfarandi. Þegar liggur fyrir að Össur og Jóhanna gefa ekki eftir og því líklegast að ISG verði að leggja allt undir og standa og falla með úrslitunum.
Stefnan sett á fjóra í Norðausturkjördæmi
Samkvæmt þessari könnun hefur Sjálfstæðisflokkurinn þrjá þingmenn í Norðausturkjördæmi en vantar herslumuninn á að tryggja fjórða manni kjör. Í baráttusætinu er Sigríður Ingvarsdóttir 1. þingmaður Norðurlandskjördæmis vestra, hörkukona með öflugar skoðanir og traust. Með hana í fjórða sætinu er tryggt að á þing nái kraftmikil ung forystukona. Flokkurinn og stuðningsmenn hans hér í þessu kjördæmi munu leggja allt sitt af mörkum í komandi baráttu til að tryggja að Sigríður nái kjöri. Það er nú ljóst að aðeins vantar á það herslumuninn. Í forystu flokksins hér eru forseti Alþingis, menntamálaráðherra og tvær öflugar þingkonur. Sóknarfæri Sjálfstæðisflokksins eru mörg í komandi kosningabaráttu í kjördæminu. Í alþingiskosningunum 1999 bætti flokkurinn við sig fylgi í gömlu kjördæmunum og hefur styrkst mjög á þessum slóðum seinustu árin. Með markvissri kosningabaráttu ætti sjálfstæðismönnum að takast ætlunarverk sitt; að tryggja Sigríði Ingvarsdóttur glæsilegt kjör á komandi vori. Mikilvægt er að allir leggi hönd á plóginn og tryggi að flokkurinn nái settu marki. Með samhentu átaki mun 10. maí 2003 verða sannkallaður sigurdagur Sjálfstæðisflokksins. Spennandi kosningabarátta er framundan.
Breytt 18.9.2006 kl. 08:02 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
2.1.2003 | 22:32
Engin fyrirsögn
Í gær horfði ég eins og venjulega á ávarp forseta Íslands. þrátt fyrir að ekki fari mikið fyrir virðingu minni á þessum forseta. Að þessu sinni varð forsetanum tíðrætt um mikla fátækt og nefndi mörg dæmi til að sanna mál sitt og var engu líkara en að þarna væri kominn fulltrúi líknarsamtaka eða stjórnmálamaður í stjórnarandstöðu. Ég hélt eins og flestir að forsetinn væri hættur í stjórnmálum og léti öðrum eftir að fara með þessa málaflokka og sinna þeim. Ekki stóð á viðbrögðum; Arnbjörg Sveinsdóttir alþingismaður og formaður félagsmálanefndar Alþingis mótmælti í gær ummælum forseta og bað um að hann kæmi með tölulegar staðreyndir máli sínu til sönnunar enda hefði hún ekki orðið var við þessa miklu þróun sem forsetinn nefndi, í störfum sínum í félagsmálanefnd þingsins. Mér fannst eins og mörgum að þarna væri forsetinn að blanda sér í komandi kosningabaráttu og þessi ræða væri innlegg í hana, ekki er hægt að taka þessu öðruvísi í hreinskilni sagt. Það er eins og þessi maður ætli aldrei að átta sig á því að hann er ekki þátttakandi í stjórnmálum, enda valdalaus forseti.
Vindhani fer í enn einn hring
Hver var að segja að vindhanar færu ekki í hring við minnsta tilefni. Nú hefur Össur Skarphéðinsson bakkað með fyrri yfirlýsingar um að hann leiddi Samfylkinguna í komandi kosningum og væri forsætisráðherraefni, allavega segir hann nú þrem dögum eftir fyrri yfirlýsingar að mögulegt sé að borgarstjóranum sem sparkað var af valdastóli verði forystumaður flokksins. Hann útilokar semsagt ekkert. Það er með ólíkindum að fylgjast með þessum forystumanni jafnaðarmanna. Það er greinilega ekkert að marka hann, þetta er algjör trúður sem er greinilega í skemmtanabransanum fyrir sinn flokk.
Góðir tónleikar
Horfði í gærkvöldi á tónleika Sálarinnar hans Jóns míns og Sinfóníuhljómsveitar Íslands á Stöð 2. Þeir voru alveg frábærir. Á þessu ári eru fimmtán ár liðin frá því að hljómsveitin var stofnuð og á þeim tíma hefur hver smellurinn komið á fætur öðrum og sveitin markað sér sess sem ein af bestu ballsveitum landsins. Ein af mínum uppáhaldshljómsveitum og nafni minn Hilmarsson er einn af bestu söngvurum landsins. Bendi öllum á frábæra heimasíðu þeirra Sálarmanna.
Breytt 18.9.2006 kl. 08:02 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
31.12.2002 | 04:49
Engin fyrirsögn
Árið 2002 er að renna sitt skeið. Að baki er eftirminnilegt ár í stjórnmálunum og gott ár hjá mér persónulega. Ég mun minnast þessa árs með mikilli hlýju þegar fram líða stundir. Ég opnaði í febrúar heimasíðu sem hefur hlotið góðar viðtökur og margir heimsækja hana og líta á skrif mín, bæði þar og eins hér á bloggsíðunni sem ég opnaði í október. Ég þakka öllum þeim sem hafa litið á síðurnar, hafa sent mér póst og rætt málin fyrir tryggð við heimasíður mínar og þakka góðar kveðjur ykkar. Hef fengið mörg bréf og góðar ábendingar og kynnst fjölmörgum sem áhuga hafa á skrifum mínum og vilja ræða pólitík við mig. Þakka bæði ykkur og eins að sjálfsögðu öllum vinum mínum og kunningjum fyrir góða vináttu á árinu sem ég met mjög mikils. Vil einnig sérstaklega þakka fjölskyldu minni og nánustu ættingjum fyrir stuðninginn á árinu og ómetanlega tryggð við mig, ég væri ekkert án hlýhugs ykkar. Það er mér mikilvægt að eiga góða að. Framundan er kosningaár þar sem línurnar eru skýrar, valið snýst um áframhaldandi farsæla forystu Sjálfstæðisflokksins og hinsvegar óljósa framtíð og valdabrölt á vinstri vængnum. Ég treysti Íslendingum fyrir því að velja rétt - trygga forystu míns flokks og mun leggja allt mitt af mörkum í þeim slag sem framundan er. Í þeim kosningaslag verður ekkert gefið eftir og barist af miklum krafti. Ég óska ykkur öllum gleðilegs árs og farsældar á nýju ári, 2003. Ég þakka kærlega góða samfylgd á árinu sem senn líður. Vonandi eigum við samleið á nýju ári!
Maður ársins 2002
Við áramót er litið yfir sviðið og spurt hver sé maður ársins, hver skaraði framúr og stendur hæst þegar nýtt ár tekur við. Það er enginn vafi í mínum huga að Stefán Karl Stefánsson leikari, sé sá sem þann heiður eigi að hljóta. Á árinu stofnaði hann Regnbogabörn og hóf mjög óeigingjarna baráttu gegn því mikla böli sem einelti er. Hann hefur ferðast um landið og fræðir ungmennin í þessum málum. Hann er sá sem vagninn leiðir og er boðberi þessara strauma sem nú eru að myndast gegn einelti af öllu tagi. Hann á mikinn heiður skilið fyrir sitt framlag, það er því ánægjulegt að Stöð 2 og Bylgjan hafi valið hann sem mann ársins. Almenningur valdi mann ársins á Rás 2, Ingibjörgu Sólrúnu Gísladóttur fráfarandi borgarstjóra og sameiningartákn hins sundurskorna R-listans. Ég skil vel að ISG hafi verið ofarlega í hugum fólks eftir að hafa misst borgarstjórastólinn úr höndunum eftir ævintýralegt klúður, hún var mikið í fréttum og er öllum kunn. Vissulega er hún ein af manneskjum ársins eftir hráskinnaleikinn í kringum brotthvarf hennar úr stóli borgarstjóra. Eftir að hafa misst allt niður um sig verður hún maður ársins fyrir það, óskiljanlegt. Hefði haldið að afrek Stefáns Karls hefðu verið ofar í hugum fólks.
Breytt 18.9.2006 kl. 08:02 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
29.12.2002 | 19:54
Engin fyrirsögn
Tíðindin hafa gerst hratt í borgarmálunum í dag. Í dag varð ljóst að Ingibjörg Sólrún Gísladóttir myndi víkja af borgarstjórastóli og gera tillögu um nýtt borgarstjóraefni, Þórólf Árnason fyrrum forstjóra Tals. Í upphafi var ekki samstaða um þessa tillögu og menn vildu lengri tíma, en Framsókn studdi tillöguna frá upphafi. Þá stillti Framsóknarflokkurinn leiðtogum flokkanna upp við vegg og þeir voru nauðbeygðir til að samþykkja tillöguna. Það er því ljóst að Alfreð stjórnar R-listanum nú við brotthvarf borgarstjórans og er með þetta allt í höndum sér. Ingibjörg segir af sér embætti og víkur burt sár í bragði yfir því að vera beygð. Hún stekkur nú í óvissuna og hverfur af braut, situr áfram í borgarstjórn en er ekki lengur forystumaður borgarinnar. Framundan er brothætt stjórn þriggja flokka sem virðast ekki vera sammála um margt, enda margoft legið í loftinu að uppúr sjóði. Það má búast við spennandi tímum ef þetta verður það sem bíður borgarbúa næstu 40 mánuðina, þann tíma sem R-listinn hengur saman valdanna vegna. En nú tekur valdalaus embættismaður við af drottningunni. Á bakvið tjöldin stjórnar Alfreð, óvinsælasti stjórnmálamaður borgarkerfisins. Gaman verður að sjá hvort þetta hangi til 2006, ég leyfi mér að efast um það. Allir sjá að nýi borgarstjórinn er valdalaus með öllu.
Ekki öfundsvert hlutskipti
Allir sjá að hlutskipti forstjórans fyrrverandi verður ekki öfundsvert. Hann á að leiða þrjá ósamhenta flokka í borgarstjórn og tala máli þeirra sem framkvæmdastjóri rétt eins og Egill Skúli forðum. Völdin verða ekki á hans herðum, heldur leiðtoganna þriggja nú þegar borgarstjóranum sigursæla hefur verið sparkað í burtu. Hann verður enginn leiðtogi í þessu samstarfi, völdin verða hjá formanni borgarráðs. Það verður því spennandi hver fái þann stól, enda þar munu völdin liggja í samstarfinu. Sá sem fær þann stól verður í raun nýi leiðtoginn og eflaust munu margir sækja fast að því að setjast í þennan nýja leiðtogastól. Vonandi er að framkvæmdastjóra borgarinnar farnist betur við fjárhagsstjórnunina en forvera hans sem þverskallaðist við staðreyndum um fjárhag borgarinnar eins og frægt varð. Vonandi þarf ekki að rífast um grundvallartölur og almennar staðreyndir við bissnessmanninn.
Breytt 18.9.2006 kl. 08:02 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
28.12.2002 | 16:11
Engin fyrirsögn
Sannkölluð ögurstund er framundan hjá borgarstjórnarmeirihlutanum. Ljóst er af fréttum seinustu dagana að kreppa er þar innanborðs og engin samstaða lengur um borgarstjórann. Hún nýtur ekki lengur trausts meirihluta borgarstjórnar. Í kjölfar þess að hún tilkynnti um þingframboð sitt hafa samstarfsflokkar Samfylkingarinnar innan R-listans lýst því yfir að hún verði að víkja af borgarstjórastóli. Framsóknarflokkurinn hefur þó gengið lengst og vill að hún víki af borgarstjórastóli og ljá ekki máls á því að hún fari í leyfi og Kópavogsbúinn Helga Jónsdóttir yrði borgarstjóri. Þeir vilja skilyrðislaust að hún víki ef hún fari í þingframboð í vor. Ólgan innan Framsóknarflokksins vegna framboðs ISG hefur aukist jafnt og þétt seinustu vikuna og ljóst að þar munu menn ekki bakka með fyrri yfirlýsingar. Málið er því komið í harðan hnút, borgarstjóri ljær ekki máls á að segja af sér borgarstjóraembætti og framsóknarmenn vilja að hún fari. Um helgina munu örlög R-listans ráðast og ljóst að annaðhvort fer borgarstjóri sjálfviljug af stóli og nýr leiðtogi taki við eða nýr borgarstjórnarmeirihluti verði myndaður, væntanlega milli Framsóknarflokks og Sjálfstæðisflokks. Í gær settu Framsóknarmenn og vinstri grænir fram tilboð sitt til að leysa vandann innan R-listans. Það gerði ráð fyrir því að Árni Þór Sigurðsson tæki við starfi borgarstjóra þann 15. janúar 2003. Jafnframt yrði Steinunn Valdís Óskarsdóttir forseti borgarstjórnar og Alfreð Þorsteinsson formaður borgarráðs. Þessu boði hefur borgarstjóri hafnað. Ljóst virðist orðið að valdaferli núverandi borgarstjóra ljúki bráðlega. Aðeins er spurningin hvernig honum lýkur. 2. janúar er boðaður næsti borgarstjórnarfundur og það liggur í loftinu að þá verði málið útkljáð. Þetta mun því ráðast á næstu dögum.
Stella snýr aftur tvíefld
Fór í dag að sjá nýju myndina um Stellu, framhald Stellu í orlofi. Stella í framboði er virkilega góð mynd, fyndin og vel leikin. Edda Björgvins, Laddi og Gísli Rúnar snúa aftur í gömlu hlutverkin og fara á kostum. Það er óhætt að segja að þeir sem fara á myndina eigi í vændum góða skemmtun og væn hlátrasköll. Hvet alla til að sjá myndina
Breytt 18.9.2006 kl. 08:02 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
27.12.2002 | 19:22
Engin fyrirsögn
Seinustu dagana hefur ég haft það gott og borðað góðan mat og lesið þær bækur sem ég fékk í jólagjöf. Veðrið hefur verið mjög milt og gott og mikil friðsæld og gott að fara á milli og hitta ættingja og vini. Framundan eru áramótin og bendir flest til þess að áfram verði veðrið gott um áramótin og góð skilyrði verði til að skjóta flugeldum. Hef um jólin lesið Ísland í aldanna rás, Tilhugalíf, Stolið frá höfundi stafrófsins, Lovestar og ævisögu Stephans G, frábærar bækur.
Ómerkileg umræða á Innherjavefnum
Undanfarin þrjú ár hef ég tekið þátt í stjórnmálaspjallinu á Innherjavef visir.is og komið þar fram með skoðanir mínar á stjórnmálum og þjóðmálum almennt. Það er margt blaðrað um á Innherjavefnum og nóg af fólki þar sem nýtur nafnleyndarinnar í botn og reynir að höggva mann og annan með óábyrgu þvaðri og oft á tíðum ótrúlegu skítkasti. Innherjum er fátt heilagt og oft á tíðum verður þetta mjög ómerkilegt. Ég hef frá upphafi skrifað undir nafni þarna, fyrst sem stebbif og svo stebbifr, en sagði fyrst frá fullu nafni mínu í sumar. Ég vil ekki taka þátt í óábyrgu þvaðri og vil standa við allt sem ég segi og hika ekki við að koma fram í eigin persónu, taldi það réttast að standa við allt sem ég segi. Ég fæ oft skömm í hattinn fyrir að vera trúr flokknum og forystumönnum hans og finn að skoðanir mínar og skrif stinga marga, en ég finn æ oftar fyrir því að það er öfund í minn garð vegna stjórnmálaþátttöku minnar og því að ég er opinber persóna þarna, margir sem notfæra sér það til að traðka á persónu minni. Það snertir mig þó ekkert, enda nauðsynlegt að vera með harðan skráp og taka ekki mark á óábyrgum nöldrurum sem geta ekki einu sinnt haft stjórn á skapi sínu eða geði. Umræða seinustu daga er þó á þann hátt að ávallt þarf að draga persónu mína inn í spjallið og reynt að niðurlægja mig með allskonar þvaðri, oft er þetta óhemju leiðinlegt og ómerkilegt. Mér dettur ekki í hug að hætta skrifum þarna þrátt fyrir allt skítkastið.
Breytt 18.9.2006 kl. 08:02 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
24.12.2002 | 11:31
Engin fyrirsögn
Ég vil nota tækifærið og óska fjölskyldu minni, vinum og kunningjum gleðilegrar jólahátíðar. Ennfremur sendi ég flokksfélögum mínum í Sjálfstæðisflokknum um allt land góða kveðju og þakka fyrir gott samstarf á árinu. Ég met vináttu ykkar mjög mikils. Einnig vil ég þakka þeim sem hafa sent mér tölvupóst og skipst á skoðunum við mig vegna stjórnmálaskrifa minna og rætt við mig málin fyrir góð samskipti og ekki má gleyma þeim mikla fjölda fólks sem hafa sýnt heimasíðum mínum tryggð og eru dyggir lesendur þeirra. Ég er ykkur öllum mjög þakklátur. Hafið það sem best yfir hátíðirnar!
Breytt 18.9.2006 kl. 08:02 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
23.12.2002 | 12:32
Engin fyrirsögn
Ljóst er nú orðið að borgarstjóri nýtur ekki lengur stuðnings meirihluta borgarstjórnar til að gegna því embætti. Hún heldur fast við þingframboð og því augljóst að til uppgjörs mun koma innan R-listans. Borgarstjóri bauðst til að taka sér frí frá störfum í kosningabaráttunni og láta borgarritara eftir stjórn borgarinnar. Það er þó ljóst svo getur ekki verið, enda vilja framsóknarmenn ekki slíkt og vilja ekki veita borgarstjóra slíkt frí og ljóst að þeir vilja ráða nýjan til starfans og ISG láti jafnframt af störfum fljótlega á nýju ári. Það er ekki valkostur að hún sitji áfram í skjóli þeirra að óbreyttu. Borgarritari býr í Kópavogi og því augljóst að menn vilja hana ekki til starfans. Málið er í algjörum hnút og ljóst að annaðhvort muni borgarstjóri verða neydd til afsagnar í kjölfar vantrauststillögu eða hættir sjálfviljug. Framundan er jólahátíðin, trúarhátíð kristinna manna. Það er þó ljóst að ekki verður jólafríið langt í borgarstjórn og gefið mál að til harkalegs uppgjörs komi á næstu dögum innan R-listans. Andrúmsloftið er eldfimt í skugga jólanna, svo mikið er víst. Ég fer yfir málið allt í ítarlegum pistli á frelsi.is í dag.
Hátíð ljóss og friðar - jólakveðja á Íslendingi
Framundan er hátíðlegasti tími ársins, trúarhátíð kristinna manna um allan heim. Jólin eru í senn hátíð ljóss og friðar. Á slíkri hátíðarstundu hugsum við flest hlýlega til okkar nánustu og fjölskyldur hittast og eiga saman notalega stund. En aðventan getur hinsvegar verið öllu þungbærri. Fæstir nýta desembermánuð til þess að bíða og hugleiða raunverulegan anda jólanna, eins og hugtakið aðventa vísar til. Því miður getur streitan sem fylgir jólaundirbúningnum verið gífurleg. Fólk gleymir sér í skreytingum, jólakortaskrifum, jólabakstri og búðarrápi, svo eitthvað sé nefnt. Í slíku andrúmslofti, sem getur skapast við þess háttar aðstæður, er mjög brýnt að minnast þeirra sem að þarfnast hjálpar okkar með. Jólahátíðin er gleðitími okkar allra. Í dag birtast á Íslendingi, jólapælingar mínar, er jafnframt um að ræða jólakveðju mína til sjálfstæðismanna á Akureyri og í öllu Norðausturkjördæmi.
Breytt 18.9.2006 kl. 08:02 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
22.12.2002 | 22:32
Engin fyrirsögn
Í dag er ég 25 ára gamall, ótrúlegt en satt. Það sem árin líða, segi ég. Í dag hef ég fengið mörg símtöl frá vinum og kunningjum, góðar óskir og gjafir frá þeim sem ég þekki og eru mér nákomnir. Það er alltaf gaman að finna fyrir góðum straumum og því að fólk muni eftir manni. Það er alltaf jafn ánægjulegt að finna fyrir því á degi sem þessum. Ég þakka öllum þeim sem mundu eftir deginum og góðum heillaóskum og kveðjum. Öllum er auðvitað frjálst að senda mér kveðju eða ræða málin eins og áður með því að senda mér póst á netfangið mitt; stebbifr@simnet.is
Ingibjörgu Sólrúnu sparkað
Þáttaskil hafa nú orðið í borgarmálum. Eftir rúmlega átta ára setu á borgarstjórastóli er ljóst að valdaferli Ingibjargar Sólrúnar Gísladóttur lýkur á næstu dögum. Framsóknarflokkurinn í Reykjavík hefur samþykkt ályktun þess efnis að hún verði að víkja af borgarstjórastóli ef hún vilji fara inn á vettvang landsmálanna. Framsóknarflokkurinn styður hana ekki lengur til starfans og ljóst að meirihluti borgarstjórnar er ekki lengur á bakvið borgarstjóra í það embætti. Valgerður Sverrisdóttir sparar borgarstjóra ekki stóru orðin á heimasíðu sinni í dag og ljóst að Framsóknarflokkurinn heggur nú í hana af fullkomnu miskunnarleysi, ekkert er lengur sparað, höggin eru harkaleg. Framundan er annaðhvort nýr borgarstjóri að hálfu R-listans eða nýtt meirihlutasamstarf og upplausn R-listans. Það er ljóst að seinustu dagar ársins 2002 verða sögulegir í íslenskum stjórnmálum. Uppgjörið er nú handan við hornið, hvort það verður blóðugt eða gengur yfir með kurteislegu yfirbragði mun ráðast um sjálf jólin. Framtíð R-listans og pólitískur ferill Ingibjargar Sólrúnar eru nú í fullkominni óvissu. Eitt er þó ljóst; algjör trúnaðarbrestur hefur orðið milli meirihlutaflokkanna í borgarstjórn Reykjavíkur og engin samstaða um næstu aðgerðir.
Breytt 18.9.2006 kl. 08:02 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
21.12.2002 | 12:52
Engin fyrirsögn
Þáttaskil virðast hafa orðið hjá R-listanum með þeirri ákvörðun borgarstjóra að halda fast við fyrri yfirlýsingar um framboð og ætla jafnframt að sitja áfram sem borgarstjóri í óþökk meirihluta borgarstjórnar. Framsóknarflokkurinn í Reykjavík útilokar nú ekki nýjan meirihluta með Sjálfstæðisflokk í borgarstjórn, skv. heimildum fréttastofu Stöðvar 2 og Bylgjunnar. Nú þegar ljóst er að borgarstjóraferli Ingibjargar Sólrúnar Gísladóttur er að ljúka verður það hennar að velja á milli borgarstjórastóls eða þingframboðs, annað er ekki mögulegt, enda meirihluti borgarstjórnar á móti því að hún sitji áfram ef til framboðs kemur. Framsóknarflokkurinn hefur nú örlög Ingibjargar fullkomlega í hendi sér og þeirra að ákveða hvort henni verður sparkað eða þeir éta ofan í sig öll gífuryrðin. Ljóst er að mikil ólga er innan Framsóknarflokksins vegna skoðanakönnunar DV í gær og virðist hún hafa breytt öllu. Uppgjör í þessu máli verður á næstu dögum, enda gengur ekki að höfuðborg landsins sé stjórnlaus og stjórnarkreppa sé langvinnandi ástand. Þetta verður að leysa hratt og örugglega, annaðhvort með afsögn borgarstjóra eða nýjum borgarstjórnarmeirihluta. Sjálfstæðisflokkurinn hefur ávallt komið fram af ábyrgð við stjórn borgarinnar, bæði í meirihluta og minnihluta frá stofnun 1929 og mun ekki skorast undan því að tryggja farsæla stjórn borgarinnar ef til þess kemur að R-listinn splundrast.
eins og hver önnur langavitleysa - frábær grein Björns
Í Vettvangsgrein sinni í dag fer Björn Bjarnason yfir frétt liðinnar viku; sviptingarnar í R-listanum sem skeka undirstöður borgarstjórnarmeirihlutans allverulega. Jarðskjálftakippirnir magnast og spennan eykst. Nú þegar jólaundirbúningurinn er að verða búinn er sannkölluð unun að setjast niður með jólaölglas og piparkökur og lesa þessa frábæru grein Björns í Mogganum. Allir að lesa hana - algjört möst!
Breytt 18.9.2006 kl. 08:02 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
20.12.2002 | 20:15
Engin fyrirsögn
Halldór Ásgrímsson utanríkisráðherra og formaður Framsóknarflokksins, var ekki að tvínóna í Kastljósviðtali í kvöld. Það er alveg ljóst að Ingibjörg Sólrún Gísladóttir nýtur ekki lengur trausts hans eða borgarfulltrúa flokksins til að sitja sem borgarstjóri R-listans áfram. Með þessu er ljóst að meirihluti borgarfulltrúa styður ekki borgarstjóra lengur og ljóst að til harkalegs uppgjörs mun koma. Ingibjörg Sólrún mun þurfa að velja á milli þingframboðs og stóls borgarstjóra, þetta liggur nú einfaldlega ljóst fyrir og ekkert sem breytir því á nokkurn hátt. Hvað við tekur nú er augljóst. Annaðhvort verður sameinast um nýjan leiðtoga R-listans eða samstarfið springur í frumeindir. Líklegast er að seinni kosturinn verði ofan á og framundan nýr borgarstjórnarmeirihluti og þingframbjóðandum sem situr á stóli borgarstjóra verði sparkað. Það var reyndar gert í kvöld af utanríkisráðherra. Uppgjörið er framundan.
R-listinn riðar til falls
Ég fjalla um mál málanna í pólitíkinni hér heima í dag í ítarlegum pistli á heimasíðu Stefnis. Eins og öllum ætti að vera kunnugt hefur skapast mikil pólitísk ólga seinustu dagana í Reykjavík. Borgarstjórnarmeirihluti R-listans skelfur og nötrar vegna ákvörðunar Ingibjargar Sólrúnar Gísladóttur um að þiggja 5. sæti Samfylkingarinnar í Reykjavíkurkjördæmi norður. Framsóknarflokkur og VG hafa sett borgarstjóranum afarkosti og vilja að hún velji á milli borgarstjórastólsins og þingframboðsins. Forsaga þessa máls er öllum kunn, en nauðsynlegt er að fara yfir þessi mál, nú þegar málið er komið á hreint, hvað varðar ákvörðun borgarstjóra um að svíkjast undan merkjum og fara fram þrátt fyrir fyrri loforð. Það er ljóst að borgarbúar gengu að kjörborðinu sannfærðir um að borgarstjórinn sæti áfram á sínum stól ef meirihluti ynnist, þessu lofaði hún síðast í umræðuþætti kvöldið fyrir kosningar á afgerandi hátt, svo ekki varð um villst. Framsóknarflokkur, VG og Samfylking endurmynduðu fyrr á þessu ári hræðslubandalag sitt til að tryggja sömu völd og áhrif og verið hefur frá 1994, hlutur af þeim samningi að borgarstjóri yrði sameiningartákn listans og væri ekki fulltrúi flokks í áttunda sætinu, baráttusætinu. Hvað gerist næst er alls óvíst. Þó er ljóst að R-listi þessara þriggja flokka er í alvarlegri pólitískri kreppu og allt getur gerst nú þegar jólahátíðin er að ganga í garð. Athyglisvert verður að fylgjast með þessum farsa yfir jólahátíðina, fyrir okkur sem áhuga höfum á pólitík.
Breytt 18.9.2006 kl. 08:02 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
19.12.2002 | 16:33
Engin fyrirsögn
Í kjölfar þess að fyrir lá að Ingibjörg Sólrún Gísladóttir ætlaði sér í þingframboð fyrir Samfylkinguna varð ljóst að viðbrögð samherja hennar í R-listanum myndu vekja athygli, enda hún að fara í framboð gegn tveim samstarfsflokkum í borginni. Ekki stóð á viðbrögðum. Í morgun mátti heyra í formanni VG, utanríkis- og landbúnaðarráðherra og ýmsum þingmönnum sem voru mjög harðorðir í garð borgarstjóra og sögðu að hún væri að svíkjast undan merkjum og ganga á bak orða sinna. Í hádeginu boðuðu borgarfulltrúar Framsóknarflokks og VG til blaðamannafundar þar sem sameiginleg yfirlýsing þeirra vegna málsins var kynnt. Það kom skýrt fram að flokkarnir telja að borgarstjóri hafi brugðist trúnaði þeirra og nauðsynlegt væri að stokka upp samstarf R-listaflokkanna vegna þessara tíðinda. Ennfremur kom skýrt fram að borgarstjóri hefði með þessu tilkynnt að hún ætlaði að víkja sem borgarstjóri og var ljóst að flokkarnir kröfðust þess að hún myndi víkja. Þeim þykir eðlilegt að hún víki vegna þessa, enda augljóst að trúnaður í garð hennar er ekki lengur fyrir hendi. Verður athyglisvert að fylgjast með þessu máli næstu dagana og hvert stefna mun fram að jólum. Ljóst er að valdajafnvægið hefur raskast verulega innan bræðingsframboðsins og bæði R-listinn og borgarstjórinn riða til falls og óeiningin vex með hverri stundu. Þetta er eldfimt ástand sem minnir ansi mikið á máltakið um púðurtunnuna sem bíður þess að springa...
Íslendingur um áramótin
Um þessar mundir vinnum við sjálfstæðismenn hér á Akureyri að því að gefa út Íslending um áramótin. Síðast kom hann út sem blað fyrir sveitarstjórnarkosningarnar í vor. Frá árinu 2000 hefur Íslendingur komið út á Netinu, og er því vefriti okkar stýrt af Helga Vilberg af miklum myndugleika. Þar birtast skoðanir okkar og pælingar hverju sinni og fréttir af flokksstarfinu. Internetið hefur styrkst mjög seinustu árin og því þessi miðill okkur mikilvægur í aðdraganda þeirra kosninga sem í hönd fara. Jafnframt er mikilvægt að gefa út blað og minna á framboð okkar, skoðanir og stefnumál í aðdraganda þessa bardaga sem er auðvitað hafinn. Hann hófst með því að listi okkar var kynntur í lok nóvember, fyrstur allra í kjördæminu, hinu nýja Norðausturkjördæmi. Ég hlakka til að lesa blaðið, framundan eru spennandi kosningar þar sem við stefnum að því að halda okkar hlut og verja stöðu allra þingmanna okkar. Markmiðið er - fjóra á þing, alveg hiklaust!
Breytt 18.9.2006 kl. 08:02 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
18.12.2002 | 15:00
Engin fyrirsögn
Athyglisvert hefur verið að fylgjast með stjórnmálum í Bandaríkjunum seinustu vikurnar. Í nóvember gengu Bandaríkjamenn að kjörborðinu og Repúblikanaflokkurinn vann sögulegan kosningasigur í báðum þingdeildum. Demókratar sleikja sárin og eru farnir að huga að því hver muni mæta Bush forseta í næstu forsetakosningum og leiðtogi repúblikana í öldungadeildinni rær lífróður til að bjarga pólitískum ferli sínum. Framundan eru spennandi 24 mánuðir í bandarískri pólitík, að mínu mati. Ég fjalla um bandaríska pólitík og það sem við blasir í ítarlegum pistli á heimasíðu Heimdallar í dag. Hvet alla til að kíkja á þann boðskap.
Borgarstjóri í varaþingmannsframboð
Nú blasir við að Ingibjörg Sólrún Gísladóttir hafi loksins eftir mikið japl, fam og fuður fikrað sig í áttina að ákvörðun, þó svo að ekki séu öll kurl komin til grafar. Þau eru nefnilega ekki alveg að segja sömu söguna borgarstjórinn og formaðurinn í Samfylkingunni. Hún er enn að hugsa málið og ákvörðun liggur ekki enn fyrir, heldur bara hálfsagðar sögur. Hinsvegar er tilhlökkunarefni að borgarstjórinn fari í varaþingmannsframboð og verði í varamannasveitinni næstu fjögur árin. Nú er boltinn hjá borgarstjórnarflokki R-listans og þeirra að ákveða hvort að flokkarnir þrír vilji allir hafa þetta sameiningartákn áfram á friðarstóli. Kjósendur í Reykjavík kusu borgarstjórann í vor vegna yfirlýsinga hennar um að hún yrði um kyrrt og síðast fyrir nokkrum dögum var hún sömu skoðunar. Nú er söðlað um við sennilega lítinn stuðning samherja í R-listanum í öðrum flokkum. Sjálfstæðisflokkurinn mun mæta Ingibjörgu Sólrúnu ef hún tekur þessa ákvörðun. Í þeim slag verður ekkert gefið eftir og ekkert sparað. Það er alveg ljóst. Það var alltaf ljóst að þessar kosningar yrðu spennandi, nýjustu fréttir staðfesta að svo muni verða.
Breytt 18.9.2006 kl. 08:02 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
17.12.2002 | 23:24
Engin fyrirsögn
Nú þegar ljóst er að Al Gore (æ þið munið, sá sem sleikti konuna sína opinberlega) fer ekki í forsetaframboð, sýnist mér að ýmsir demókratar þurfi áfallahjálp áður en þeir velja nýjan forsetaframbjóðanda. Ljóst er að margir verða kallaðir en fáir útvaldir. Virðist slagurinn vera á milli Lieberman, Kerry og Gephardt. Annars er líklegt að Daschle fari fram líka. Það eru víst litlar líkur á að Hillary fari fram nú. Mitt í óförum demókrata seinustu vikurnar hefur Trent Lott leiðtogi Repúblikana í öldungadeildinni, komið sér í mikið klandur og rær nú lífróður til að bjarga pólitískum ferli sínum. Lott lét umdeild ummæli falla í afmælisveislu Strom Thurmond í byrjun mánaðarins og mátti skilja þau á þann veg að hann styddi aðskilnað svartra og hvíta í Bandaríkjunum. Vandræði Lotts jukust til mikilla muna um helgina þegar forystumenn innan flokksins, þ.á.m. Don Nickles næstáhrifamesti maðurinn í þingflokknum, létu í ljósi efasemdir um forystu hans. Áður hafði Bush forseti sagt á blaðamannafundi að ummæli Lotts endurspegluðu ekki skoðanir meirihluta þjóðarinnar. Lott var endurkjörinn leiðtogi flokksins í öldungadeildinni í nóvembermánuði, en nú hefur verið ákveðið að endurtaka atkvæðagreiðsluna þann 6. janúar nk. Lott rær því lífróður og reynir allt sem hann getur til að bjarga sér frá pólitískri hneisu. Líkurnar á því að Lott hrökklist frá aukast dag frá degi.
Styttist í jólin - einstök veðurblíða - Stuðmenn klikka aldrei
Nú er ég kominn í þetta líka sallafína jólaskap, enda bara vika til jóla. Var svo vitur að skrifa öll jólakort í lok nóvember og búinn að senda þau öllsömul og svo eru allar gjafirnar búnar nema ein, mjög sérstök gjöf handa sérstakri manneskju. Fer ekkert nánar út í það. Annars er veðrið hérna fyrir norðan alveg draumur og alveg snjólaust. Alveg eins og á sumardegi. Sá í gærkvöldi frétt í tíufréttum þar sem fjallað var um að iðnaðarmenn vinna hér utandyra í blíðunni eins og á sumardegi væri. Var rætt við Mugga frænda um þessi mál í fréttinni, enda er hann formaður félags byggingarmanna hér í firðinum. Ég hef upplifað desember hér í Eyjafirði í tvo áratugi og man aldei eftir öðru eins og vona að svona verði þetta um jólin, kannski væri ágætt að fá smá snjóföl á aðfangadag, en mér er svosem alveg sama. Það koma jól engu að síður. Fór í blíðunni í göngutúr í dag og kíkti á jólastemmninguna á Glerártorgi í dag og rabbaði við fjölda fólks þar, hitti alveg ótrúlegasta fólk, meira að segja kunningja að austan sem keyrði norður í veðurblíðunni til að versla. Fór í Pennann og keypti nýja Stuðmannadiskinn sem er alveg frábær, er kominn með þvílíka æðið fyrir nýja smellinum þeirra Stuðmanna. Horfði á tónleika þeirra í Sjónvarpinu á sunnudag og hafði mjög gaman af, enda algjört Stuðmannafan. Þeir klikka aldrei. Í dag eru víst tveir áratugir síðan klassamyndin Með allt á hreinu var frumsýnd. Í tilefni þess kemur hún út á DVD. Mynd sem er alltaf frábær, besta íslenska bíómyndin að mínu mati.
Breytt 18.9.2006 kl. 08:02 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)