Engin fyrirsögn

Al Gore ekki í forsetaframboð
Í gær tilkynnti Al Gore fyrrv. varaforseti Bandaríkjanna, að hann myndi ekki gefa kost á sér sem forsetaefni Demókrataflokksins árið 2004. Þessi ákvörðun hafði legið í loftinu og sagði ég frá þessu hér á bloggsíðunni á föstudaginn og spáði þar að hann færi ekki fram nú, þetta liggur nú endanlega fyrir. Margir höfðu spáð að þessi ákvörðun myndi ekki liggja fyrir fyrr en á næsta ári, en hann ákvað að tilkynna þetta í fréttaskýringaþættinum 60 mínútur á CBS. Í frétt á fréttavef CNN, er fjallað ítarlega um ákvörðun Gore. Með þessu galopnast forsetaslagurinn að hálfu Demókrata og eru margir nefndir sem líklegir frambjóðendur, t.d. John Kerry, Tom Daschle, Joe Lieberman, Dick Gephardt, Hillary Rodham Clinton og margir fleiri. Það er mitt mat að staða Bush forseta sé svo sterk eftir kosningasigurinn í nóvember, að enginn muni eiga neina raunhæfa möguleika á að sigra hann, ég tel að ástæða þess að Gore fer ekki fram sé sú að flokkurinn sé í sárum eftir tapið í þingkosningunum og telji að slagurinn sé þegar tapaður. En það verður gaman að fylgjast með þessu næstu árin.

Laugardagskvöld á ljúfum jólanótum
Óhætt er að fullyrða að þáttur Gísla Marteins á laugardagskvöld hafi verið sá besti það sem af er vetri. Þátturinn var á ljúfum jólanótum, enda aðeins nokkrir dagar til jóla, og góðir gestir komu í heimsókn og ljúf tónlist hljómaði. Aðalgestur þáttarins var Davíð Oddsson forsætisráðherra og formaður Sjálfstæðisflokksins. Var spjall þeirra á léttu nótunum, og var víða komið við. Vitanlega var rætt um pólitíkina, jólin og ritstörf forsætisráðherrans. Fyrir nokkrum vikum kom út smásagnabók hans, Stolið frá höfundi stafrófsins. Ég hef lesið bókina og hafði mjög gaman af, enda mikill unnandi hnyttinna og athyglisverðra smásagna. Fyrir jólin 1997, eða fyrir fimm árum, kom út metsölubók Davíðs, Nokkrir góðir dagar án Guðnýjar sem var virkilega góð. Heyrst hefur að von megi eiga á spennusögu frá forsætisráðherranum, verður án efa athyglisvert að lesa, hlakka til þess. Björgvin Halldórsson og Diddú komu svo einnig í létt spjall og tóku lagið. Björgvin söng gamalt og gott lag Jónasar og Jóns Múla, Undir Stórasteini sem er að finna á ballöðuplötu Björgvins, en kom upphaflega út á Íslandslögum 2 árið 1994. Diddú söng ljúft jólalag, til að koma öllum í jólaskapið. Rúsínan í pylsuendanum í þessum þætti var tenórinn Kristján Jóhannsson, eðal Akureyringur. Barst talið að því sem hann er að gera þessa dagana og t.d. að útgáfu plötu til minningar um Jóhann Konráðsson, föður Kristjáns. Á þeirri plötu eru lög með Jóhanni og er óhætt að segja að það sé verðugur minnisvarði um þennan einstaka alþýðusöngvara, nú um jólin verða tveir áratugir liðnir frá því að hann lést í Skotlandi. Að lokum söng Kristján eina aríu eins og honum einum er lagið. Það er óhætt að fullyrða að þessi þáttur hafi verið skemmtilegur og mjög gaman að honum.

Góð vettvangsgrein Björns
Undanfarna sex mánuði hefur Björn Bjarnason alþingismaður og leiðtogi borgarstjórnarflokks Sjálfstæðisflokksins, skrifað greinar á miðopnu Morgunblaðsins á laugardögum undir heitinu Vettvangur. Þar hefur hann tjáð sig um það sem jafnan ber hæst í pólitíkinni og þjóðlífinu almennt. Á laugardaginn skrifaði Björn um ráðleysi R-listans í málefnum Kárahnjúkavirkjunar og Landsvirkjunar. Vegna áforma um virkjun við Kárahnjúka er meira uppnám í Ráðhúsinu en jafnan áður, þó oft sé þar nóg af hasar innanborðs hjá bræðingslistanum. Það virðist nefnilega vera erfitt fyrir þetta bræðingsbandalag þriggja flokka að komast að einni skoðun á þessum málum. Á öðrum endanum er Framsóknarflokkurinn sem er í ríkisstjórnarsamstarfi og með Iðnaðarráðuneytið á sinni könnu, ef svo má sega. Á hinum endanum eru svo vinstri/grænir sem eins og endranær eru á móti öllum virkjunaráformum sama hvaða nafni þær nefnast. Á miðjunni er svo Samfylkingin ráðalaus yfir samstarfsflokkunum. Það er nú svo skondið með VG að ekki má einu sinni breyta Norðurorku, orkufyrirtæki Akureyrarbæjar í hlutafélag nema allt ætli vitlaust að verða og læti bæði í bæjarstjórn Akureyrar og á Alþingi, þó að margreynt sé að þar sé um að ræða hagstæðasta kostinn í stöðunni. Það er með græningjana að þeir eru á móti öllum framfaramálum, enda alræmdir þvergirðingar eins og landbúnaðarráðherrann sagði í frægri þingræðu. Á þá er alltaf hægt að stóla á - að vera á móti öllum helstu framfaramálum. Ég hvet alla áhugamenn um stjórnmál til að lesa grein Björns.

Engin fyrirsögn

Frábær spjallþáttur
Horfði í gærkvöldi á spjallþátt Jóns Ólafssonar tónlistarmanns, Af fingrum fram. Fyrir nokkrum vikum skrifaði ég um áhuga minn á þessum þáttum, enda bæði skemmtilegir og fræðandi, sannkölluð unun á að horfa. Enda kom ekki á óvart að þátturinn hlaut Edduna sem besti sjónvarpsþáttur ársins 2002. Þátturinn í gærkvöldi var sérstaklega áhugaverður. Gestur Jóns í gærkvöldi var kóngurinn sjálfur, Björgvin Halldórsson. Er óumdeilt að hann sé sá íslenskur tónlistarmaður sem hefur sungið flest lög inn á plötur og stendur einna fremst af núlifandi poppsöngvurum þjóðarinnar. Spjall þeirra var mjög áhugavert og fræðandi og gaman að fá brot af ferli hans á tæpum klukkutíma í bland við áhugaverðar poppsögur. Það var semsagt gaman að horfa á þáttinn, hiklaust einn besti þátturinn í seríunni til þessa. Í kvöld verður gaman að horfa á Sjónvarpið. Þá mun Gísli Marteinn taka á móti forsætisráðherranum, Diddú og stórsöngvara okkar Akureyringa, Kidda Konn. Þetta verður eflaust skemmtilegt laugardagskvöld - með Gísla og gestum hans.

Biðin eftir Soprano-fjölskyldunni
Eins og allir vinir mínir ættu að vita er ég forfallinn áhugamaður um hina frábæru framhaldsþætti um Tony Soprano og fjölskyldu hans og hef horft á alla þættina. Nú styttist hinsvegar í að fjórða serían verði sýnd í sjónvarpi allra landsmanna. Hin langa bið hefur verið gerð þolanlegri með því að endursýna þriðju seríuna seint á fimmtudagskvöldum nú fyrri hluta vetrar. Fljótlega á nýju ári er hinsvegar búist við nýrri seríu á skjáinn. Ýmsar sögusagnir hafa rambað hingað upp á klakann af nýjustu seríunni. Sumir segja að hún sé slöpp og þynnri en hinar fyrri en lokaþættirnir bæti það upp. Ég ætla allavega að vona að ekki fari fyrir félaga okkar Soprano eins og sálfræðingnum Frasier sem er orðinn ansi útþynntur. Sú var tíðin að ég var einn harðasti Frasier-aðdáandi ever, en ég verð að viðurkenna að það er farið að halla ansi mikið á félaga okkar í Seattle. Horfi núorðið á Six Feet Under og The Agency með miklum áhuga, en bíð spenntur eftir félaga Soprano og fagna því mjög komu hans og famelíunnar á skjáinn á nýju ári. Á meðan horfi ég á upptökur af 24, snilldarþætti sem sýndur var á Stöð 2 í sumar. Alveg brilljant-þættir!

Engin fyrirsögn

Moggagrein um styttingu hringvegarins
Í dag birtist í Morgunblaðinu grein mín um styttingu hringvegarins, milli Akureyrar og Reykjavíkur. Hún kemur í kjölfar þess að umræða vaknaði á Alþingi um hvernig mögulega væri hægt að stytta leiðina milli staðanna. Ráðherra svaraði að hægt væri að stytta leiðina um 19 kílómetra með því að gera tvær breytingar. Við í stjórn Varðar töldum nauðsynlegt að minna á raunhæfar hugmyndir Halldórs Blöndals um Norðurveg, sem myndi stytta leiðina um 85 kílómetra. Tillaga sem er bæði snjöll og skynsöm, sú sem mér hugnast best. Mér hefur lengi þótt að hún ætti að fara í framkvæmd og taka eigi þetta með trukk en ekki stytta leiðina um nokkra kílómetra. Með því að sneiða af ýmsar krókaleiðir er hægt að stytta leiðina svo um munar og það myndi skila sér í lægri flutningskostnaði og betri samgöngum. Það yrði mun fljótlegra að fara á milli staðanna og ekki síður þægilegra. Með því að fara eftir þessum tillögum myndi koma fram raunhæf stytting á leiðinni milli þessara stóru byggðakjarna. Okkur þótti rétt að minna á þessar tillögur og því ákvað ég að skrifa þessa grein og koma fram með afstöðu okkar og ekki síst opinbera skoðanir mínar í blaðinu. Ég skammast mín ekki fyrir að benda á þessar tillögur og mun tala máli þessarar tillögu hvar og hvenær sem er. Þessi Moggagrein er mitt framlag til að minna á þessar afburðagóðu tillögur.

Tvö ár frá uppgjöri - Gore ekki í framboð?
Í dag eru tvö ár liðin frá því að lengstu kosninganótt í Bandaríkjunum lauk. Tvö ár eru liðin frá því að Al Gore þáv. varaforseti og forsetaframbjóðandi Demókrataflokksins, ákvað að játa sig sigraðan fyrir George W. Bush forsetaframbjóðanda Repúblikanaflokksins eftir að hafa reynt í 37 daga að fá því hnekkt að Bush hefði unnið kosningasigur í Flórída-fylki í forsetakosningunum 7. nóvember 2000. Sá sigur tryggði honum setu í Hvíta húsinu. Svo jafnt var á með þeim að aðeins nokkur hundruð atkvæði í Flórída réðu því hvor vann kosningarnar. Gore vildi endurtelja öll atkvæðin en Bush vildi að úrslitin stæðu óbreytt. Dómur í Hæstarétti Bandaríkjanna, 12. desember 2000 tryggði Bush sigur í lagalegri baráttu um atkvæðin í Flórída, og með því voru öll tromp slegin úr höndum Gore. Allur heimurinn beið spenntur eftir lyktum þeirrar baráttu og að lokum ákvað Gore að una niðurstöðunum. Frá þeim tíma hefur frekar lítið borið á varaforsetanum fyrrverandi og allt frá þessum desemberdegi hefur sú saga lifað góðu lífi að hann myndi fara fram á ný gegn Bush forseta, árið 2004. Nú þykja hinsvegar líkurnar á því hafa minnkað. Mörgum demókrötum þykir að hann eigi að víkja til hliðar. John Kerry öldungardeildarþingmaður, hefur tilkynnt framboð sitt og nýtur hann greinilega mikils stuðnings flokksmanna. Er talið líklegt að Gore muni ekki fara fram og birtist frétt á bandarískum vefmiðlum þess efnis í gær. Ef svo fer er líklegast að Kerry mæti forsetanum í kosningaslagnum 2004. Er almennt talið að Gore muni tilkynna ákvörðun sína um framboð eður ei, snemma á næsta ári. Verður athyglisvert að sjá hvort hann hætti formlega afskiptum af stjórnmálum eða reyni á ný að berjast fyrir því að verða forseti landsins.

Engin fyrirsögn

Athyglisverðir og fræðandi þættir
Ég er mikill áhugamaður um Íslandssöguna og mannkynssöguna almennt. Það var því mjög gaman að setjast fyrir framan Sjónvarpið í kvöld og horfa á fyrsta þáttinn af átta í þáttaröð Hannesar Hólmsteins Gissurarsonar og Ólafs Þ. Harðarsonar um 20. öldina. Þar er um að ræða fræðandi þátt og fyrsti þátturinn var sannkallað augnakonfekt, veisla fyrir þá sem hafa áhuga á sagnfræði og sögunni almennt. Þáttur kvöldsins fjallaði um tímabilið frá 1901-1927. Það var gaman að sjá gamalt myndefni í bland við skemmtileg viðtöl við samtíðarmenn þess tíma sem um var fjallað. Alltaf er gaman að sjá slíka þætti, t.d. hafði ég mjög gaman af þáttum Jóns Ársæls Þórðarsonar á Stöð 2, árið 2000 um 20. öldina, en þeir hlutu Edduverðlaunin á sínum tíma, enda alveg meistaralega vel úr garði gerðir og áhugaverðir. Ég hlakka til að fylgjast með þáttum Hannesar og Ólafs næstu vikurnar, þeir lofa svo sannarlega góðu.

Klassamynd sem klikkar aldrei
Eftir að ég var búinn að horfa á þáttinn um 20. öldina horfði ég á eina gamla og góða úrvalsmynd. Citizen Kane er án vafa ein besta mynd kvikmyndasögunnar og hefur unnið sér mikinn sess. Hiklaust einn af hornsteinum kvikmyndasögunnar. Í myndinni er sagt frá ævi fjölmiðlakóngsins Charles Foster Kane, sú persóna var byggð á William Randolph Hearst. Þótt ótrúlegt megi virðast er Citizen Kane frumraun leikstjórans Orson Welles í kvikmyndagerð. Hann var aðeins 25 ára gamall þegar hann leikstýrði þessari mynd, skrifaði handritið og lék aðalhlutverkið. Það er hrein unun að horfa á þessa klassamynd sem verður betri við hvert áhorf. Einstök mynd sem allir verða að sjá, einhverntímann á ævinni.

Engin fyrirsögn

Gestabókin mín
Um þessar mundir eru 10 mánuðir liðnir frá því að ég opnaði heimasíðu á Netinu og tæpir tveir mánuðir frá því að þessi síða opnaði. Ég hef lengi haft mikinn áhuga á stjórnmálum og hef gaman af því að tjá skoðanir mínar og skrifa á þessar síður og það er mér mikið ánægjuefni að öðrum líka þessi skrif og heimsækja síðuna. Mér finnst því vel viðeigandi að opna gestabók þar sem þeir sem líta geta skrifað nokkrar línur. Ég hvet alla gesti síðunnar til að skrifa í gestabókina mína.

Elín Hirst ráðin fréttastjóri Sjónvarpsins
Í morgun var tilkynnt að Markús Örn Antonsson hefði ráðið Elínu Hirst í embætti fréttastjóra Sjónvarpsins. Sú ráðning kemur ekki á óvart, enda naut Elín stuðnings flestra fréttamanna hjá fréttastofu Sjónvarps, fráfarandi fréttastjóra og ýmissa yfirmanna innan RÚV. Í útvarpsráði hlaut hún hinsvegar minnihluta atkvæða, vegna þess að nokkrum flokkshestum í ráðinu hugnaðist ekki að hún hlyti starfið vegna þess að hún hefur verið orðuð við Sjálfstæðisflokkinn. Reynsla hennar og störf í fréttamennsku voru þar ekki metin að verðleikum. Hún hefur verið stjórnandi á þrem fréttastofum og á að baki langan fréttamannsferil. Það er gott að útvarpsstjóri lætur staðnað pólitískt ráð sem útvarpsráð er óneitanlega, ekki hafa áhrif á ákvörðun sína og ræður þann umsækjandann sem mesta reynsluna á að baki. Elín var að mínu mati sú rétta í þessa stöðu og ég fagna því að hún hafi nú hlotið starfið. Hún á eftir að standa sig vel sem fréttastjóri. Ég sendi henni mínar bestu hamingjuóskir, vona að henni farnist vel á stóli fréttastjóra.

Jarðgöng boðin út
Í dag var tilkynnt að samgönguráðherra hefði falið Vegagerðinni að bjóða út jarðgöng á Austurlandi og Norðurlandi nú í vetur. Útboðin verða í tvennu lagi, samkvæmt upplýsingum frá samgönguráðuneytinu. Útboðsgögn fyrir jarðgöng milli Reyðarfjarðar og Fáskrúðsfjarðar verða send til þeirra verktaka sem hafa verið valdir til þátttöku eftir forval í næstu viku. Þá sagði Sigríður Ingvarsdóttir alþingismaður, í svæðisfréttum Norðurlands í kvöld að vinna við gögn vegna jarðganga milli Siglufjarðar og Ólafsfjarðar væri langt komin og útboðsgögnin yrðu send verktökum í lok febrúar, eftir að tilboð í fyrri göngin hafa verið opnuð. Reiknað er með að vinna við jarðgöng milli Reyðarfjarðar og Fáskrúðsfjarðar geti hafist seint í apríl árið 2003, eftir yfirferð tilboða, samninga við verktaka og undirbúning á verkstað. Áætlað er að gangagröfturinn taki u.þ.b. eitt og hálft ár og að honum verði lokið fyrir árslok 2004. Gert er ráð fyrir að göngin verði síðan tilbúin um ári síðar, eða síðla árs 2005. Heildarkostnaður við verkið er áætlaður um 3, 8 milljarðar á núgildandi verðlagi. Þá er miðað við að vinna við gerð jarðganga milli Siglufjarðar og Ólafsfjarðar hefjist árið 2004, um svipað leyti og gangagreftri lýkur fyrir austan en áætlað er að göngin milli Siglufjarðar og Ólafsfjarðar verði tilbúin árið 2008 og að heildarkostnaður við þau verði um 6,8 milljarðar á núgildandi verðlagi. Ég fagna því að þetta sé komið á hreint og að það styttist óðum í göng um Héðinsfjörð, við sem búum hér við Eyjafjörð höfum beðið eftir þessum samgöngubótum í áratugi, gott er að þeirri bið lýkur á næstu árum.

Engin fyrirsögn

Eftirmálar prófkjörs - lokuð prófkjör
Miðstjórn Sjálfstæðisflokksins kom saman til fundar í Valhöll, höfuðstöðvum flokksins, í dag til að ræða eftirmála prófkjörs flokksins í Norðvesturkjördæmi og annmarka á kosningunni og framkvæmd þeirra. Vilhjálmur Egilsson alþingismaður, sem lenti í fimmta sæti prófkjörsins vildi að það yrði ógilt og miðstjórn úrskurðaði á þann hátt og tæki undir sjónarmið sín, vegna utankjörfundarkosningar á Akranesi og Grundarfirði. Niðurstaða miðstjórnar var sú að hún gæti ekki gripið inn í samhljóða og ágreiningslausar ákvarðanir kjörnefndar og stjórnar kjördæmisráðs Norðvesturkjördæmis og fulltrúaráða sjálfstæðisfélaganna í Húnavatnssýslu, í Skagafirði og á Akranesi vegna prófkjörsins 9. nóvember sl. Miðstjórnin segir að enginn vafi leiki á að verulegur misbrestur hafi verið á framkvæmd utankjörfundarkosningarinnar. Þó hafi ekki verið sannað á óyggjandi hátt að framkvæmdinni hafi verið beint gegn einum frambjóðenda fremur en öðrum, né fullyrt hvaða áhrif misbresturinn hafði á niðurstöðuna. Miðstjórnin taldi sér því ekki vera fært að taka fram fyrir hendurnar á kjördæmisráði flokksins í kjördæminu. Miðstjórnin tók í framhaldinu ákvarðanir sem miða að því að tryggja að slík mál komi ekki upp aftur. Miðstjórnin ákvað því að breyta prófkjörsreglum flokksins þannig að einungis félagsbundnir sjálfstæðismenn og þeir sem gerast félagar í síðasta lagi samhliða prófkjöri geti tekið þátt í prófkjöri. Þá mun kaflinn um utankjörfundarkosningu í prófkjörsreglum flokksins verða endurskoðaður til að tryggja mun betur en nú er að ekki sé unnt að mistúlka eða misskilja reglurnar um utankjörfundarkosningu. Jafnframt verði hverjum frambjóðanda veittur sjálfstæður kæruréttur til miðstjórnar vegna framkvæmdar prófkjörs. Ég er sammála ákvörðunum miðstjórnarinnar - mér þykir eðlilegast að flokksbundnir stuðningsmenn flokks, sama hvaða nafni hann nefnist velji sína frambjóðendur. Allt annað finnst mér orka tvímælis. Einnig þarf að tryggja að fyrir liggi skýrar reglur um prófkjör innan flokksins, það er mjög mikilvægt.

Kosning um fréttastjóra í útvarpsráði
Athyglisvert hefur verið að fylgjast með farsanum varðandi ráðningu fréttastjóra Sjónvarpsins. Nokkur tími er nú liðinn síðan staðan var auglýst og tilkynnt var hverjir hefðu sótt um starfið. Ljóst var nokkuð lengi að vissir flokkshestar í útvarpsráði ætluðu með öllum brögðum að reyna að koma í veg fyrir að hæfasti umsækjandinn fengi starfið. Það leikur enginn vafi á því að Elín Hirst er hæfust þeirra sem um starfið sóttu og ætti að öllu eðlilegu að fara eftir því en ekki flokkslitum. En svo einfalt virðist það ekki ætla að verða, enda blasir við að fulltrúar þriggja flokka í útvarpsráði hafi myndað bandalag til að styðja annan umsækjanda, og til að koma í veg fyrir að Elín verði ráðin. Þegar ljóst var hvert stefndi hætti Páll Benediktsson við að sækjast eftir starfinu, en hann þótti vinstriflokkunum ákjósanlegur til að koma í veg fyrir að Elín fengi starfið. Hefur verið með ólíkindum að fylgjast með þessum vinnubrögðum. Í dag var svo loks komið að því að kjósa í útvarpsráði um stöðuna og hlaut Sigríður Árnadóttir varafréttastjóri Útvarpsins fjögur atkvæði, en Elín þrjú atkvæði. Með þessu lítur pólitískt skipað útvarpsráð framhjá stjórnunarreynslu Elínar Hirst og fréttamannsstörfum hennar. Hún hefur verið stjórnandi á þrem fréttastofum og nýtur stuðnings fráfarandi fréttastjóra og ýmissa yfirmanna hjá stofnuninni. Þessi kosning staðfestir enn einu sinni að tími útvarpsráðs er liðinn og nauðsynlegt að stokka þessa stofnun alla upp. Í svona starf á að ráða útfrá hæfileikum umsækjenda en ekki flokkslitum. Sá hæfasti á að njóta sannmælis. Það er alveg greinilegt að hæfileikar og fyrri reynsla í þessum bransa séu látin lönd og leið við ráðningu í slík embætti sem hér um ræðir. Það er Markús Örn Antonsson útvarpsstjóri sem ræður fréttastjórann, væntanlega strax á morgun. Ég ætla að vona að hann velji hæfasta umsækjandann, þann sem meirihluti útvarpsráðs sniðgekk í dag.

Engin fyrirsögn

Góður pistill um hálfkaraða fjárhagsáætlun - ítarleg ræða
Í ítarlegum pistli á heimasíðu sinni tjáir Björn Bjarnason leiðtogi borgarstjórnarflokks Sjálfstæðisflokksins sig um fjárhagsáætlun Reykjavíkurborgar fyrir árið 2003, umræðu um það þegar borgarstjóri gaf í skyn á borgarstjórnarfundi að ekki væri útilokað að hún yrði í framboði við komandi þingkosningar (sem reyndist grín af hálfu hennar!) og svokallaðan bannlista ISG. Sérstaklega athyglisvert er að lesa fyrsta hluta pistilsins sem fjallar um fjárhagsáætlunina sem lögð var fram í pörtum en ekki sem heilstætt plagg við fyrstu umræðu venju samkvæmt. Eins og Björn bendir á vantar samstæðureikning borgarinnar, sem sýnir stöðu fyrirtækja í meirihlutaeign hennar eins og Orkuveitu Reykjavíkur. Borgarfulltrúar Sjálfstæðisflokksins lýstu allir sem einn yfir mikilli vantrú sinni á fjárhagsáætlun R-listans í ljósi þess að heildarmyndin er ekki til staðar, þetta er hálfkarað plagg sumsé. Ég tel einnig persónulega mjög einkennilegt að heyra þá röksemd ítrekað kynnta af borgarstjóra og meðreiðarsveinum að fyrst ríkið hafi nú selt bankana þá sé fullkomlega eðlilegt að ríkið noti þá peninga til að kaupa hlut borgarinnar í Landsvirkjun. Ég bendi á ítarlega ræðu Björns við fyrstu umræðu um fjárhagsáætlun Reykjavíkurborgar.

Rekstrarkostnaður forsetaembættins eykst gríðarlega
Fram kom í fréttum í dag að almennur rekstrarkostnaður forsetaembættisins hefði hækkað verulega frá árinu 1996 (er núverandi forseti tók við embætti) til ársins 2001. Fram kemur í DV í dag að miðað við fast verðlag 2001 og neysluverðsvísitölu, þá nemi aukningin í heild um 20%, en 44% miðað við verðlag hvers árs. Yfirstjórnin sjálf tekur þó til sín mun meiri aukningu, eða 40% miðað við fast verðlag 2001, en ríflega 68% miðað við verðlag hvers árs. Ekki hækka þó allir liðir við almennan rekstur embættisins og má geta þess að í fyrra lækkaði kostnaður vegna opinberra heimsókna t.d. um helming, eða úr 31,6 milljónum árið 2000 í 15,7 milljónir króna árið 2001. Ég hef aldrei farið leynt með skoðanir mínar á þessu embætti og tjáði þær t.d. í tveim pistlum sem birst hafa á þessu ári. Fyrri pistillinn birtist 1. ágúst 2002 á Innherjavef visir.is, en þann dag hafði núverandi forseti setið samfellt í sex ár á forsetastóli. Sá síðari birtist 14. október 2002 á heimasíðu Heimdallar. Minni á þessa pistla mína nú, þegar við blasir hvernig þróunin er á þessu embætti í forsetatíð núverandi forseta Íslands. Þessi þróun er mjög athyglisverð, svo ekki sé nú meira sagt.

Engin fyrirsögn

Norðurvegur - ályktun um styttingu hringvegarins
Í ljósi umræðunnar um styttingu hringvegarins seinustu daga, hefur stjórn Varðar, félags ungra sjálfstæðismanna á Akureyri, sent frá sér eftirfarandi ályktun:

Vörður, félag ungra sjálfstæðismanna á Akureyri, lýsir undrun sinni á þeim undirtektum sem fyrirspurn varaþingmanns Samfylkingarinnar, Örlygs Hnefils Jónssonar, hefur fengið í fjölmiðlum um 19 km styttingu hringvegarins. Vörður minnir á mun raunhæfari hugmyndir Halldórs Blöndals sem birtust í grein hans á Íslendingi, 10. febrúar 2002, um Norðurveg, sem styttir leiðina milli Akureyrar og Reykjavíkur um heila 85 km. Kostnaður af þeirri styttingu yrði um það bil 8.1 milljarður, þar af eru þegar inn á vegaáætlun 2,7 milljarðar vegna 30 km styttingu um Kaldadal. Ef gert er ráð fyrir álíka hlutfallslegum sparnaði af þeirri framkvæmd, myndu um 1900 milljónir sparast á ári, á móti 400 milljóna sparnaði fyrir 19 km styttingu. Þessar framkvæmdir myndu því borga sig upp á innan við 5 árum. Vörður lýsir yfir fullum stuðningi við tillögur Halldórs og bendir Örlygi á að kynna sér hana og styðja við hana sé honum stytting hringvegarins kappsmál.

Pottþétt laugardagskvöld með Gísla Marteini
Óhætt er að fullyrða að sjónvarpsþáttur Gísla Marteins Baldurssonar hafi vakið mikla lukku. Er hann algjörlega ómissandi og skemmtilegt að horfa á hann. Ég horfði í dag á upptöku af þætti gærdagsins og fannst nýjasti þátturinn vera alveg frábær. Aðalgestur Gísla var Jón Baldvin Hannibalsson sendiherra og fyrrv. utanríkisráðherra. Var spjall þeirra eins og vænta mátti mjög athyglisvert. Var rætt um samband Jóns Baldvins og föður hans, Hannibals Valdimarssonar fyrrv. ráðherra, sem var mjög stormasamt. Ennfremur var rætt um einkalíf hans og hjónaband við Bryndísi Schram en þau hafa verið gift í rúma fjóra áratugi. Ég er langt kominn í að lesa fyrra bindi ævisögu Jóns Baldvins og get fullyrt að sú bók er mjög athyglisverð og gaman að lesa hana og hvet ég alla til að kíkja á þá bók, hún svíkur engan og er mjög áhugaverð. Aðrir gestir Gísla voru Guðný Halldórsdóttir leikstjóri og Sigurður L. Hall meistarakokkur. Fyrir 16 árum var frumsýnd grínmyndin ódauðlega Stella í orlofi sem var gerð eftir handriti Guðnýjar. Sú mynd er orðin algjör klassi og horfi ég reglulega á hana, enda góðráð til að komast í gott skap, alltaf hægt að hlæja að henni. Nú er hinsvegar komið að framhaldi myndarinnar, Stella í framboði sem er leikstýrð af Guðnýju. Þar eru samankomnar sömu sögupersónurnar í fyrri myndinni og þau Edda Björgvins, Laddi og Gestur Einar í aðalhlutverkunum sem fyrr. Titillag myndarinnar; Manst´ ekki eftir mér með Stuðmönnum hefur slegið í gegn og hljómar oft í útvarpinu þessa dagana. Frábært lag, eitt besta lag Stuðmanna í fjölda ára. Hlakka til að sjá myndina í bíó rétt fyrir jólin. Þetta var því frábært laugardagskvöld með félaga mínum Gísla Marteini og gestum hans. Gísli er á góðri leið með þáttinn, svo mikið er alveg víst. Þátturinn er alveg ómissandi.

Engin fyrirsögn

SUS gagnrýnir vöxt ríkisútgjalda
Á stjórnarfundi Sambands ungra sjálfstæðismanna sl. miðvikudag, samþykkti stjórnin einróma eftirfarandi ályktun sem ég tek heilshugar undir.

Samband ungra sjálfstæðismanna gagnrýnir þann mikla vöxt sem orðið hefur á ríkisútgjöldum síðastliðin ár. Að teknu tilliti til verðlagsþróunar og fólksfjölgunar hafa ríkisútgjöldin hækkað um 20% á fimm árum eða um rúma fjörutíu milljarða króna. Í fjárlögum þeim sem nú liggja fyrir Alþingi er gert ráð fyrir enn meiri hækkun samneyslunnar meðan einkaneyslan dregst saman. Ungir sjálfstæðismenn mótmæla sérstaklega ákvörðun um skattahækkanir, bæði á tóbak og áfengi, sem ætlað er að mæta auknum útgjöldum í fyrirliggjandi fjárlagafrumvarpi. Vekur sérstaka eftirtekt að í meðförum Alþingis hefur útgjaldahlið fjárlagafrumvarpsins hækkað um fjóra milljarða og þrjúhundruð milljónir króna frá því sem frumvarp fjármálaráðherra gerði ráð fyrir. Það stingur í augun að meðal nýrra útgjalda er að finna ýmis ,,gæluverkefni" sem afar erfitt er að rökstyðja að efli almannahag. Þessi mikla hækkun ríkisútgjalda á síðustu árum er verulegt áhyggjuefni. Í reynd á hún aðallega rætur að rekja til gríðarlegrar aukningar framlaga til heilbrigðismála. Á því sviði virðist orðin regla að reksturinn fari langt fram úr fjárveitingum á hverju ári, sem þó eru með þeim ríflegustu sem þekkjast í víðri veröld samkvæmt samanburði OECD. Betri nýting fjármuna og hagkvæmari rekstur í heilbrigðisþjónustunni er að mati ungra sjálfstæðismanna eitt mikilvægasta verkefni stjórnmálanna og er ein af forsendum þess að stöðva megi linnulausa aukningu útgjalda ríkisins. Hvað önnur svið ríkisfjármálanna varðar hafa ungir sjálfstæðismenn ítrekað bent á leiðir til sparnaðar sem miða því að minnka opinber útgjöld verulega. Mikilvægt er að Alþingi Íslendinga, sem bæði hefur með höndum fjárveitingavaldið og vald til að skattleggja almenning, breyti áherslum sínum. Það er kominn tími til þess að þróunin verði í þá átt að útgjöld minnki og hinn almenni maður haldi eftir meiru af þeim verðmætum sem hann aflar.

Húmor Ingibjargar Sólrúnar
Í dag kom í ljós að Ingibjörg Sólrún Gísladóttir er ekki komin undir feldinn og hyggur ekki á að liggja undir honum næstu dagana til að hugsa betur um framboðsmálin. Hún sagðist í fréttum í dag aðeins hafa verið að grínast á borgarstjórnarfundi með að ekki væri útilokað að hún fari fram í komandi kosningum. Gott er að vita að borgarstjóri hefur góða kímnigáfu og hefur ekki í hyggju að svíkja loforð sín við þá borgarbúa sem treystu henni til forystu í maímánuði þrátt fyrir blákaldar staðreyndir um stjórnarfar R-listans.

Engin fyrirsögn

Borgarstjóri enn undir feldinum?
Fram kom á borgarstjórnarfundi í dag að ekki væri enn útséð með að Ingibjörg Sólrún Gísladóttir borgarstjóri, færi í þingframboð. Væntanlega þarf að blúnduleggja að fullu stíginn fyrir hana svo hún þori að stíga fram og gefa kost á sér. Ekki þorði hún í prófkjör til að láta reyna á stöðu sína hjá almenningi. Ingibjörg Sólrún er sumsé enn að íhuga að svíkja loforð við kjósendur í Reykjavík undir lok kosningabaráttunnar í vor. Sjálfstæðisflokkurinn mun óhræddur mæta kellu ef hún fer fram, enda einvalalið í forystu flokksins í Reykjavík, t.d. Björn Bjarnason. Í þann slag verður lagt af krafti og ekkert gefið eftir og eflaust minnt kjósendur á ummæli borgarstjórans í Kosningakastljósinu 24. maí sl, en þar sagði hún að hún myndi vera á stóli borgarstjóra allt kjörtímabilið ef henni yrði treyst fyrir völdunum áfram. Kjósendur í Reykjavík kusu ekki R-listann til valda heldur almennt persónuna Ingibjörgu Sólrúnu. Þetta var persónulegur sigur hennar en ekki bræðingsbandalagsins sem heildar. Ég tek því undir með Degi B. Eggertssyni borgarfulltrúa, sem sagði í Moggagrein í september að borgarstjóri væri með framboði að svíkja þá sem hana studdu til valda og ganga á bak orða sinna. Annars ræður auðvitað Ingibjörg hvað hún gerir. En auðvitað hefði verið heiðarlegra af henni að fara í opið prófkjör í nóvember (ef hún er enn að íhuga framboð) og láta reyna á stöðu sína, hefði verið meiri reisn yfir því. Hvort stígurinn verður nógu blúndulagður til að drottningunni þóknist að stíga á hann er ekki alveg endanlega ljóst. Það verður að bíða og sjá til.

Skotheldur Bond - frábær mynd
Ég fór um seinustu helgi að sjá nýjustu Bond-myndina; Die Another Day og hafði mjög gaman af. Skrifaði kvikmyndagagnrýni sem birtist á kvikmyndir.is og Menningarvef Akureyrar. James Bond - 007 - njósnari hennar hátignar, snýr aftur í þessari tuttugustu kvikmynd um hið eina sanna kvennagull. Hraðskreiðir bílar, stórhættuleg og seiðandi glæpakvendi, banvænir bardagasnillingar og forríkir glæpamenn eru auðvitað stór þáttur í hverri Bond-mynd og þessi mynd er ungin undantekning frá þeirri höfuðreglu. James Bond, þarf varla að kynna fyrir nokkru mannsbarni. Í fjóra áratugi hefur þessi lífseigi kvennabósi skemmt bíógestum um allan heim með hnyttnum tilsvörum og fáguðu skopskyni. Pierce Brosnan er hér í fjórða sinni í hlutverki njósnarans. Titillagið er jafnan hápunktur hverrar Bond-myndar. Að þessu sinni er það Madonna sem flytur aðallag myndarinnar. "I Guess I´ll Die Another Day" syngur Madonna í málmkenndu og ódæmigerðu lagi sem vinnur á við hverja hlustun, ekta popplag frá hinni óútreiknanlegu söngkonu. Semsagt, James Bond er hér í essinu sínu og hefur sjaldan verið í betra formi en í þessari afmælismynd þar sem haldið er upp á stórafmæli kvikmyndabálksins með mögnuðum tæknibrelluatriðum á glæsilegum tökustöðum. Ég hvet alla spennufíkla til að líta á njósnarann ódauðlega í þessari mögnuðu spennumynd sem ætti að vera áhugasöm fyrir alla þá sem vilja pottþéttan hasar og mögnuð brelluatriði. Þessi stórfenglega blanda af léttu gamni og harðri spennu klikkar aldrei. James Bond er skotheldur í öllu tilliti og er ómótstæðilegur fyrir mannkynið og verður það vonandi á hinu nýja árþúsundi.

Engin fyrirsögn

Undarleg umhyggjusemi Samfylkingarkvenna
Í pistli á heimasíðu Stefnis fjalla ég um greinaskrif forystukvenna í Samfylkingunni í Moggann seinasta föstudag þar sem þær lýsa áhyggjum sínum af stöðu kvenna í Sjálfstæðisflokknum og sögðu að störf þeirra væru einskis metin og troðið væri á konum innan flokksins í kjölfar prófkjörsins í Reykjavík. Er með hreinum ólíkindum að lesa þennan þvætting sem konurnar bjóða lesendum Morgunblaðsins og áhugamönnum um pólitík upp á. Konurnar í Samfylkingunni nota prófkjörsúrslitin í borginni þar sem þessir ungu og hressu framtíðarmenn innan flokksins náðu góðum árangri á kostnað kvenþingmanna sem olíu á eld sinn gegn Sjálfstæðisflokknum. Að baki þessum skrifum er engin umhyggja fólgin fyrir konum, hvorki þingkonunum sem fóru í prófkjörið né þeim Guðrúnu Ingu og Soffíu Kristínu sem fóru í slaginn sem fulltrúar ungra kvenna í flokknum. Ónei, þarna býr að baki ásetningur þeirra að valda ónæði og koma af stað deilum um niðurstöðu prófkjörsins og koma umræðum af stað um eftirmála prófkjörsins. Því fer víðsfjarri að konum hafi verið hafnað í Sjálfstæðisflokknum, hvað svo sem þessar konur reyna að blaðra þar um. Umhyggjusemi þeirra er byggð á því að reyna að valda sem mestri úlfúð og koma af stað sem mestum leiðindum, tilgangurinn er sá og enginn annar. Þetta hlýtur allt viti borið fólk að sjá.

Frábær jólavefur Júlla Júll
Fyrir þrem árum opnaði Júlíus Júlíusson þúsundþjalasmiður á Dalvík heimasíðu á Netinu um jól, jólahefðir og allt sem yfir höfuð tengist jólunum. Jólavefur Júlla hefur vakið verðskuldaða lukku og er bæði vinsæll og vel gerður í alla staði. Það komast allir í jólaskap við að fara á vefinn hans Júlla. Hann hefur seinustu árin opnað margar vefsíður um Dalvík og áhugamál sín og er driffjöðurin í að kynna staðinn og auka hróður hans um allt land, gott dæmi er snilldarhugmynd hans um fiskidaginn mikla sem vakti mikla lukku og athygli. Hann á mikinn heiður skilinn fyrir þetta frábæra framtak sem jólasíðan er. Hvet alla til að líta á þennan magnaða vef.

Engin fyrirsögn

Vinsældir Guðna Ágústssonar
Á sunnudaginn birtist skoðanakönnun Gallups þar sem farið var yfir hversu vinsælir ráðherrar Framsóknarflokksins eru nú á þessum tímapunkti. Er skemmst frá því að segja að Guðni Ágústsson landbúnaðarráðherra og varaformaður flokksins, er vinsælasti ráðherra hans. Ennfremur er ljóst að hann nýtur gríðarlegs stuðnings meðal kjósenda allra stjórnmálaflokka og er meira að segja vinsælli í sínum flokk en formaðurinn sjálfur. Seinustu árin hefur Guðni styrkst jafnt og þétt. Er nú svo komið að hann hefur greinilega slegið í gegn fyrir létta lund og skemmtileg tilsvör, hann er orðinn að einskonum farandskemmtikraft. Hann kyssir beljurnar í sveitinni, velur fallegustu kýrnar í samkeppni þar sem aðalverðlaunin eru Gateway-tölva, hann skemmtir á árshátíðum og þorrablótum, slær í gegn á hestamannamótum og fleira mætti nefna. Óborganlegt var hvernig Jóhannes Kristjánsson fór á kostum í hlutverki ráðherrans í seinasta áramótaskaupi, svo mjög að margir hlæja enn af atriðinu þar sem grín er gert af sölu ríkisjarðar til ónefnds flokksbróður hans. Jóhannes leikur ekki ráðherrann, hann hreinlega verður hann á kostulegan hátt. Er skemmst að minnast þess er Jóhannes lék Guðna í bráðfyndnum Maltauglýsingum að fólk hélt að þarna væri ráðherrann kominn og breyta þurfti þeim til að segja að þarna væri eftirherman en ekki ráðherrann sjálfur. Guðni er að mínu mati vinsæll einkum fyrir framkomu sína og létta lund frekar en verk á ráðherrastóli. Í dag skrifar einn af frelsispennunum, félagi minn á frelsi.is, Ágúst Flygenring, frábæran pistil um vinsældir ráðherrans og er vægast sagt undrandi á þeim. Hvet alla til að lesa þennan frábæra pistil Ágústs.

Sterk fjárhagsstaða Akureyrarbæjar
Frumvarp að fjárhagsáætlun Akureyrarbæjar fyrir árið 2003 var afgreitt í fyrri umræðu í bæjarstjórn nú síðdegis. Veltufjárhlutfall samstæðureiknings er 1,09 og eiginfjárhlutfall er 40%. Fjárhagsstaða bæjarins verður því að teljast afar sterk. Heildartekjur Akureyrarbæjar verða tæpir 7,9 milljarðar króna en heildargjöld rétt um 7,4 milljarðar skv. samstæðureikningi. Fjárhagsáætlun ársins 2003 gerir áfram ráð fyrir miklum fjárfestingum í grunngerð samfélagsins og er það í samræmi við málefnasamning meirihlutaflokkanna. Samkvæmt framkvæmdayfirliti Akureyrarbæjar eru framkvæmdir A-hluta rúmir 1,4 milljarðar. Þar af eru 220 milljónir vegna öldrunarþjónustu, rúmar 500 milljónir vegna fræðslu- og uppeldismála, 250 milljónir vegna menningarmála og 268 milljónir vegna æskulýðs- og íþróttamála. Í B-hluta eru 685 milljónir áætlaðar til framkvæmda og munar þar mestu um framkvæmdir á vegum Norðurorku fyrir tæpar 400 milljónir og Fráveitu Akureyrarbæjar fyrir rúmar 100 milljónir. Skatttekjur aðalsjóðs eru áætlaðar tæpir 3,5 milljarðar króna og framlag Jöfnunarsjóðs sveitarfélaga 360 milljónir. Aðrar tekjur Akureyrarbæjar eru rúmir 4 milljarðar skv. samstæðureikningi. Ljóst er að hemja verður útgjöld bæjarins, en á heildina litið er staða bæjarins mjög góð nú við upphaf kjörtímabilsins og meirihlutasamstarf Sjálfstæðisflokks og Framsóknarflokks sem gengið hefur mjög vel það sem af er.

Engin fyrirsögn

4 ungliðar á leiðinni á þing
Eins og margoft hefur komið fram náðu þrír einstaklingar úr ungliðahreyfingu Sjálfstæðisflokksins góðum árangri í prófkjörinu í borginni. Guðlaugur Þór Þórðarson, Sigurður Kári Kristjánsson og Birgir Ármannsson ættu að vera allir nokkuð öruggir um þingsæti á næsta kjörtímabili. Í þennan hóp bætist nú Bjarni Benediktsson lögfræðingur, sem verður í fimmta sæti á lista flokksins í Suðvesturkjördæmi, það ætti að vera nokkuð öruggt þingsæti. Það er því nokkuð ljóst að SUS mun eiga að minnsta kosti fjóra fulltrúa sína á þingi að loknum næstu kosningum, ef miðað er við kjörfylgið 1999. Bjarni verður SUS-ari megnið af næsta kjörtímabili og Siggi Kári allt tímabilið og verður enn fulltrúi ungliða á þingi við kosningarnar 2007. Mjög ánægjulegt að þingflokkurinn yngist upp með þessum hætti. Það er bæði nauðsynlegt flokknum og ungliðahreyfingunni að brú myndist á milli SUS og þingflokksins.

Tilhugalíf Jóns Baldvins
Ég keypti í dag Tilhugalíf fyrra bindi af ævisögu Jóns Baldvins Hannibalssonar sendiherra og fyrrv. utanríkisráðherra og formanns Alþýðuflokksins. Stjórnmálaferill hans og reyndar ævi hefur verið stormasöm og einkennst í senn af sætum sigrum og sárum vonbrigðum. Hann varð alþingismaður Alþýðuflokksins árið 1982, er Benedikt Gröndal fyrrv. forsætisráðherra og formaður flokksins, varð sendiherra. Hann sigraði í prófkjöri flokksins í Reykjavík fyrir þingkosningarnar 1983 og leiddi því flokkinn í höfuðborginni við þær kosningar. Hann bauð sig fram í formannskjöri á landsfundi flokksins árið 1984 og sigraði Kjartan Jóhannsson þáverandi formann flokksins. Alþýðuflokkurinn bætti við sig fylgi í þingkosningunum 1987 og í kjölfar þeirra varð JBH fjármálaráðherra. Í septembermánuði 1988 varð hann utanríkisráðherra og sat á þeim stóli í tæp 7 ár, til vorsins 1995. Hann lét af formennsku í flokknum árið 1996. Hann varð sendiherra í Washington haustið 1997 og hætti þarmeð öllum afskiptum af stjórnmálum. Nú þegar bókin er gefin út stendur Jón Baldvin á krossgötum - hann er að yfirgefa Bandaríkin eftir 5 ára starf þar og tekur við sendiherrastöðu í Finnlandi með aðsetur í Helsinki næstu árin. Verður athyglisvert að fylgjast með þessum fyrrum stríðsmanni á nýjum vettvangi og enn athyglisverðara verður að lesa ævisöguna. Ég hef mikinn áhuga á ævisögum stjórnmálamanna og því nokkuð ljóst að þessi bók verður athyglisverð lesning fyrir mig, og eflaust fræðandi að kynnast frekar ævi Jóns Baldvins.

Engin fyrirsögn

Sigurstranglegur framboðslisti - öflug forystusveit
Framboðslisti Sjálfstæðisflokksins í Norðausturkjördæmi er tilbúinn. Hann var lagður fram til samþykkis á kjördæmisþingi flokksins á Fosshótel KEA á Akureyri í dag. Skv. tillögu kjörnefndar voru þingmenn flokksins á þessum slóðum í forystunni;

1. Halldór Blöndal forseti Alþingis
2. Tómas Ingi Olrich menntamálaráðherra
3. Arnbjörg Sveinsdóttir alþingismaður
4. Sigríður Ingvarsdóttir alþingismaður

Fram kom breytingartillaga af hálfu nokkurra kjördæmisþingsfulltrúa um að Arnbjörg yrði í öðru sætinu en Tómas í því þriðja. Var því kosið á milli þeirra og fór kosningin á þá leið að ráðherrann vann öruggan sigur og hlaut nærri 2/3 greiddra atkvæða. Niðurstaðan er að mínu mati góð og öflugur listi sem boðinn er fram af hálfu flokksins. Sérstaklega ánægjulegt er að fjöldi ungliða er á listanum, sem er mikilvægt að mínu mati. Næsta markmið er að flokkurinn verði í fararbroddi í kjördæminu. 3 þingmenn ættu að vera öruggir ef miðað er við úrslit seinustu kosninga og lítið sem vantar upp á að fjórði maður vinnist. Það verður markmið okkar í kjördæminu að tryggja að það náist og Sigríður nái glæsilegri kosningu. Baráttan er hafin - stefnan er sett á góðan sigur í kjördæminu og að sjálfsögðu á landsvísu.

Frábær pistill Björns
Í pistli á heimasíðu sinni fer Björn Bjarnason alþingismaður og borgarfulltrúi, yfir það hvernig spekúlantar á vinstrivængnum hafa tjáð sig um úrslit prófkjörs Sjálfstæðisflokksins í Reykjavík um síðustu helgi. Ennfremur tjáir hann sig um þann flokk sem eitt sinn átti að vera breiðfylking vinstri manna. Ég er mjög sammála áliti Björns og tek undir með honum þegar hann segir:

"Í Reykjavík blasir við kjósendum Samfylkingar, að þeir, sem áður voru í Alþýðubandalaginu, hafa náð undirtökum á lista fylkingarinnar. Alþýðuflokksmönnum hefur einfaldlega verið úthýst fyrir utan Jóhönnu Sigurðardóttur, sem skilgreindi sjálfa sig vinstra megin við Alþýðuflokkinn og stofnaði Þjóðvaka á sínum tíma til að árétta það. Samfylkingin er enn í tilvistarkreppu. Fyrst var okkur sagt, að hún kæmist úr henni, þegar fylkingu hefði verið breytt í flokk. Síðan var okkur sagt, að fylking orðin að flokki yrði fullburða, þegar hún hefði eignast formann. Nú er okkur sagt, að fylking orðin að flokki með formann nái sér á strik, þegar hún hafi mótað sér stefnu!".

Mannvitsbrekkan á Fréttablaðinu
Alltaf er það jafn "ánægjulegt" að líta á blaðursíðu Þórarins Þórarinssonar "blaðamanns" á Fréttablaðinu þar sem hann blammerar í allar áttir á sama misheppnaða og ómálefnalega háttinn og venjulega. Það virðist vera sem honum sé sérstaklega illa við mig og skrif mín á Netinu, merkilegt nokk. Ég stóð í þeirri trú og geri enn að þau skrif séu ekki skyldulesning, þau séu lesin af fólki sem geri það af fúsum og frjálsum vilja. Þessu virðist ekki vera farið á þann hátt með Þórarin. Það virðist vera sem hann sogist ósjálfrátt á þær síður þar sem pistlar mínir birtast og hann verði að lesa þá. Þetta er afskaplega merkilegt og skemmtileg stúdía fyrir fagmenn að kanna þetta atferli mannsins. Svo virðist vera að þessi maður hugsi eins og 18 ára menntaskólastrákur á fylleríi eða svo virðist, það er svosem allt í lagi, hans problem. Ég minni bara á að skrif mín þarf enginn að lesa tilneyddur, þau eru ætluð þeim sem hafa á þeim áhuga og vilja kynna sér skoðanir mínar eða pælingar. Það er valkostur fyrir alla hvort þeir lesa þessi skrif hér eða pistla mína almennt. En það virðist ekki vera svo auðvelt með mannvitsbrekkuna sem matreiðir fréttir í blaðið sem enginn á. Merkilegt nokk.

Engin fyrirsögn

Framboðslistar kynntir - baráttan að hefjast
Á morgun verða framboðslistar Sjálfstæðisflokksins í þrem kjördæmum af sex fyrir komandi þingkosningar, lagðir fram á kjördæmisþingum. Það er í Suðvesturkjördæmi, Norðausturkjördæmi og Suðurkjördæmi. Með því hefst formlega kosningabarátta flokksins, þar sem markmiðið er að tryggja að flokkurinn verði áfram í forystu í landsmálunum og verði leiðandi pólitískt afl í öllum kjördæmunum sex. Það er mjög mikilvægt að flokkurinn gangi sem allra fyrst frá öllum lausum endum í framboðsmálum og geti einhent sér í mikilvægasta verkefnið, sigur í kosningunum í maímánuði. Eflaust er ekki langt í að báðir listarnir í Reykjavík liggi fyrir og líklegt að listinn í Norðvesturkjördæmi, liggi fyrir fljótlega eftir að miðstjórn hefur farið yfir mál í kjölfar prófkjörsins þar. Þetta ætti því allt að vera komið á fullt eftir hátíðirnar.

Loksins, loksins - mánudagsútgáfa Morgunblaðsins
Á næsta ári verður Morgunblaðið 90 ára gamalt. Það hefur löngum verið íhaldsamt, bæði þegar kemur að útgáfumálum og útliti sem lítið hefur breyst í áranna rás. Fyrir nokkrum vikum varð sú róttæka breyting á blaðinu að forsíða þess varð blönduð af erlendum og innlendum fréttum. Í rúm 30 voru einungis erlendar fréttir á forsíðunni og tímabært að stokka þetta upp og breyta til og lífga upp á forsíðuna. Nú, á afmælisári kemur þörf breyting í útgáfumálum blaðsins, síðasta vígið er fallið. Frá og með 6. janúar 2003 mun blaðið koma út alla daga, mánudagsútgáfa mun þá formlega hefjast. Þetta er stórt og þarft skref sem þarna er stigið. Ég tel það vera mikilvægt að flaggskip íslenskra prentmiðla komi út alla daga vikunnar og fagna því þessu mjög. Morgunblaðið er í mínum huga frábært blað og þarfur vettvangur sem ég vildi ekki vera án. Með þessari ákvörðun mun blaðið styrkjast enn meira en nú er. Ég tel að svo verði.

Skemmtileg helgi framundan
Eins og ég sagði frá á dögunum styttist óðum til jóla og því tími jólahlaðborðanna hafinn. Ég ætla að skella mér í kvöld í góðra vina hópi á jólahlaðborð og njóta góðra veitinga. Á morgun verður kjördæmisþing Sjálfstæðisflokksins á Fosshótel KEA og seinnipartinn á morgun ætla ég að skella mér í bíó og líta á nýjustu Bond-myndina ásamt félögum mínum og annaðkvöld er planið að vinahópurinn hittist. Það ætti því að vera skemmtileg helgi framundan og djammað allhressilega.

Engin fyrirsögn

Söguleg úrslit - athyglisverð fréttaskýring
Eins og við var að búast hafa spekingar frá vinstrivæng stjórnmálanna reynt að gera sem allra minnst úr helstu úrslitum prófkjörs Sjálfstæðisflokksins um síðustu helgi. Þar unnu 3 ungliðar glæsta sigri og tryggðu sér örugg þingsæti. Orð vinstrimanna breyta ekki því að um helgina varð kynslóðabylting innan flokksins í kjölfar prófkjörsins. Það hefur aldrei gerst fyrr í prófkjöri að þrír menn sem tilheyra ungliðahreyfingunum nái samtímis öruggu þingsæti, aldrei! Sigurður Kári hefur t.d. gríðarlega mikið fylgi meðal ungs fólks, eins og sannaðist í þessum slag og sama má segja um hina tvo. Ég skil vel að vinstrimenn geri lítið úr því að 29 ára gamall sjálfstæðismaður setjist á þing næsta vor, staðreyndirnar tala þó sínu máli. Þetta eru söguleg úrslit, fólk vildi endurnýjun og hleypir ungu mönnunum að. Þeir eru fulltrúar nýrrar kynslóðar sjálfstæðismanna í forystunni í Reykjavík, á því leikur enginn vafi og þingflokkurinn mun yngjast verulega upp vegna þessara úrslita. Sjálfstæðisflokkurinn berst fyrir því að fá 11-12 menn kjörna í borginni, það er mikilvægt að sterkar og öflugar þingkonur verða í baráttusætunum og markmiðið að koma allavega annarri þeirra að. Í gær birtist í DV athyglisverð fréttaskýring Ólafs Teits Guðnasonar um prófkjörið og úrslit þess, og ætti að vera athyglisverð fyrir alla áhugamenn um stjórnmál.

Ótrúleg veðurblíða - mánuður til jóla
Mikil veðurblíða hefur verið hér fyrir norðan seinustu dagana, vissulega rignt en er alveg snjólaust. Er ótrúlegt að mánuður sé til jóla ef marka má veðurfarið. Ef skammdegið væri ekki skollið á mætti helst álíta að vor væri, svo gott hefur veðrið verið. Um miðjan október snjóaði nokkuð hérna og var jafnvel álitið að veturinn yrði harður, en seinustu vikurnar hefur veðrið verið gott og ekki hægt að ímynda sér hvaða árstími er af veðurfarinu. Eins og fyrr segir er tæpur mánuður til jóla og því fer jólaundirbúningurinn að hefjast á fullu. Pólitíkin hefur verið ansi fyrirferðarmikil í skrifum mínum seinustu vikurnar, enda mikið verið um prófkjör og framboðslistar víðsvegar að komast á hreint. Nú má hinsvegar búast við að jólaannir taki við af pólitíkinni. Er þegar búinn að skrifa öll jólakort og sendi þau eftir ca. tvær vikur, er alltaf snemma í því. Einnig búinn að kaupa allar jólagjafirnar. Hreint óþolandi að gera þetta á síðustu stundu. Ég vona að veðrið verði jafngott áfram, enda ég lítið fyrir snjó. Vil helst hafa rauð jól og snjólaust yfir hátíðirnar. Ég mun skrifa einhverja pistla í desember en það má búast að þeir verði færri en aðra mánuði vegna annarra anna, þó mun ég alltaf koma fram með skoðanir mínar á málefnum dagsins í dag hér.

Engin fyrirsögn

Ungliðar í eldlínu stjórnmálanna
Nú styttist óðum í að framboðslistar Sjálfstæðisflokksins liggi fyrir í þrem kjördæmum af sex liggi fyrir, t.d. í Norðausturkjördæmi. Með því hefst formlega kosningabarátta Sjálfstæðisflokksins. Það sannaðist glögglega í prófkjöri flokksins í Reykjavík að ungu fólki er treyst fyrir áhrifum innan flokksins; meðal tíu efstu eru þrír frambærilegir menn sem hafa tekið virkan þátt í flokksstarfinu í fjölda ára. Það vantaði ungt og frambærilegt fólk í hringiðu stjórnmálanna. Nú hefur flokkurinn fengið í forystusveitina fulltrúa nýrrar kynslóðar; málefnalega menn sem eru trúir sannfæringu sinni. Það hefur verið mitt hjartans mál í aðdraganda þessara kosninga að ungt fólk fái sitt pláss á framboðslistum flokkanna. Einkum er mikilvægt að Sjálfstæðisflokkurinn treysti ungu fólki fyrir áhrifum. Ég fjalla um mikilvægi þess að ungliðarnir fái sitt pláss í pistli á heimasíðu flokksins, hér á Akureyri. Hvet alla áhugamenn um pólitík til að lesa hann.

Farsinn vegna Ástþórs
Með ólíkindum hefur verið að fylgjast með farsanum í kjölfar handtöku Ástþórs Magnússonar friðarpostula og fyrrv. forsetaframbjóðanda. Í tölvupósti sem leiddi til handtökunnar sagðist hann hafa rökstuddan grun um að ráðist yrði að flugvélum í millilandaflugi. Vitanlega var maðurinn tekinn til yfirheyrslu og lokaður inni, það er ekki óeðlilegt. Nú hefur honum verið sleppt og sýndarmennskan í manninum grasserar af sama kraftinum og áður. Hann kom í viðtal í Ísland í dag á Stöð 2 í kvöld. Þar tóku Guðrún Gunnarsdóttir og Snorri Már Skúlason hann í yfirheyrslu og ræddu mál hans. Sannaðist þar endanlega hversu veruleikafirrtur maðurinn er og snarbilaður. Hann segist hafa verið pólitískur fangi vegna skoðana sinna, það sjá flestir vonandi að það er fjarstæða. Ef hann hefði verið t.d. í Bandaríkjunum væri maðurinn enn á bak við lás og slá. Skoðanir hans á friðarmálunum byggjast á sýndarmennskunni einni, veit það með vissu eftir að hafa rætt þau persónulega við hann á kosningafundi árið 1996, en þá vann ég fyrir einn forsetaframbjóðandann og ræddi þessi mál við Ástþór. Þegar hann var kominn í þrot í málflutningi sínum öskraði hann á mig með svívirðingum og sagði að ég væri ruglaður og styddi hryðjuverk og mannréttindabrot. Þar sem ég hef alltaf verið mikill mannréttindasinni sleit ég þessu samtali með því að segja að hann væri ekki verður til setu á friðarstóli og hvað þá á forsetastóli. Ég hef því ekki mikla samúð með þessum manni og öfgarugli hans. Það hlaut að koma að því að hann gengi of langt. Hann er snarbilaður þessi maður.

Engin fyrirsögn

Leiðtogar í Kastljósinu - glæsileg útkoma
Í gærkvöldi voru Davíð Oddsson og Geir H. Haarde, gestir Jóhönnu Vigdísar Hjaltadóttur í Kastljósi RÚV. Þeir hlutu ótvíræða kosningu í prófkjöri Sjálfstæðisflokksins um helgina og munu leiða lista flokksins í borginni. Var gaman að horfa á viðtalið og ljóst að flokkurinn er í góðum höndum með þessa kraftmiklu forystumenn við stjórnvölinn. Í dag birtist pistill minn um prófkjörsúrslitin á heimasíðu Heimdallar. Þar ræði ég einkum um styrka stöðu forystunnar, kraftmikla innkomu ungliðanna og veika stöðu kvenframbjóðendanna. Við sem erum í ungliðahreyfingunni erum enn í sæluvímu yfir úrslitunum og ljóst að ungu fólki er treyst fyrir áhrifum innan flokksins, það er mikilvægasta niðurstaðan að mínu mati. Úrslitin munu hvetja ungt fólk til þátttöku í stjórnmálum, ég tel að á því leiki enginn vafi.

Árni Ragnar og Drífa í forystunni í Suðurkjördæmi
Flest bendir nú til þess að Árni Ragnar Árnason og Drífa Hjartardóttir muni verða í forystu Sjálfstæðisflokksins í hinu nýja Suðurkjördæmi. Í þriðja sætinu yrði Guðjón Hjörleifsson fyrrv. bæjarstjóri í Vestmannaeyjum. Í næstu sætum yrðu Kjartan Ólafsson alþingismaður, og Böðvar Jónsson bæjarfulltrúi í Reykjanesbæ. Með því yrði Kristján Pálsson settur út í kuldann og er ekki gert ráð fyrir honum í tillögum kjörnefndar. Listinn verður afgreiddur á kjördæmisþingi um helgina og því ekki ljóst hvort þetta verði endanleg niðurstaða. Árni Ragnar hefur barist hetjulega við veikindi seinustu árin og er kominn aftur til starfa á þingi, hann er mikill heiðursmaður og hefur setið lengst á þingi af þeim sem koma úr kjördæminu. Því kemur þetta svosem ekki á óvart, en ég er þeirrar skoðunar að Drífa hefði átt að leiða listann, enda hún eini sitjandi leiðtoginn í kjördæminu. Þetta ræðst hinsvegar allt um helgina.

Engin fyrirsögn

Forystan traust í sessi
Úrslit prófkjörs Sjálfstæðisflokksins í Reykjavík eru um margt athyglisverð. Þau eru mikill sigur fyrir ungliðahreyfingu flokksins, enda blasir nú við að þrír Heimdellingar setjist á þing. Ennfremur má finna í úrslitunum mikla traustsyfirlýsingu við forystu flokksins. Formaður og varaformaður Sjálfstæðisflokksins fá afgerandi kosningu í leiðtogasætin í borgarkjördæmunum. Það sem vekur mesta athygli er bæði útkoma ungliðanna og kvenframbjóðendanna í þessu prófkjöri. Davíð Oddsson forsætisráðherra og formaður Sjálfstæðisflokksins, er sterkur í sessi meðal flokksmanna sinna. Hann fær afgerandi stuðning í efsta sætið, og nýtur trausts flokksmanna sinna til að leiða flokkinn í komandi kosningum. Geir H. Haarde er ennfremur sterkur leiðtogi með afgerandi stuðning. Björn Bjarnason náði settu marki - þriðja sætinu, þriðja sinn í prófkjöri. Er alveg ljóst að hann vinnur þarna glæstan sigur. Að honum var sótt og hann heldur velli. Er mikilvægt að borgarbúar hafi nú traustan málsvara sinn, bæði á þingi og í borgarstjórn. Ljóst er af úrslitunum að flokksmenn treysta Birni til góðra verka. Ég studdi vin minn, Björn, af krafti í þessum slag og er því mjög glaður yfir sigri hans yfir þeim sem að honum sóttu.

Ungu mennirnir eru sigurvegararnir
Sigurvegarar prófkjörsins eru ungu mennirnir sem gáfu kost á sér og lögðu í þennan slag, þrátt fyrir að allir þingmennirnir 9 hafi ákveðið að gefa kost á sér til endurkjörs. Guðlaugur Þór Þórðarson, Sigurður Kári Kristjánsson og Birgir Ármannsson eru allir á leiðinni á þing. Það er mikið ánægjuefni að svo vel hafi gengið hjá þeim. Það hefur aldrei gerst fyrr að þrír ungliðar hafi náð í örugg þingsæti í prófkjöri, flokkurinn hefur oft verið íhaldssamur og litlu verið breytt, en skilaboðin eru skýr nú. Við sem erum í ungliðahreyfingunni gleðjumst mjög yfir þessum úrslitum. Þau eru augljós vitnisburður þess að fólk vildi endurnýjun og treysti ungu mönnunum fyrir því að fara í eldlínu stjórnmálanna.

Ég lagði mitt af mörkum
Ég skrifaði greinar í aðdraganda þessa prófkjörs og hvatti þá alla til að fara í framboð og studdi þá með krafti. Það er því ánægjulegt að sjá þessi úrslit. Þarna eru tveir fyrrum formenn SUS og fyrrum formaður Heimdallar á leiðinni á þing, menn sem njóta trausts flokksmanna á öllum aldri og hafa sannað að þeir eru trúir sinni sannfæringu og málefnalegir í hvívetna. Framtíðarmenn innan flokksins. Með þessum úrslitum verður sú endurnýjun sem nauðsynleg var. Áhyggjuefni er vissulega hversu illa konunum gekk. Þær hafa allar staðið sig gríðarlega vel á þingi og hafa unnið gott verk. Það er hinsvegar augljóslega skilaboð flokksmanna í Reykjavík að stokka upp þingmannahópinn og hleypa inn ferskum vindum, málsvörum ungra sjálfstæðismanna - fulltrúum nýrra tíma í íslenskri pólitík.

Næsta markmið - sigur í kosningunum
Framundan eru hinsvegar mikilvægar kosningar, og nauðsynlegt að allir flokksmenn haldi vöku sinni og kosningabaráttan verði markviss. Í komandi kosningabaráttu mun Sjálfstæðisflokkurinn stefna að því að halda þeirri stöðu sem hann hefur í landsmálunum. Ljóst er að til að ná því lykilmarkmiði að flokkurinn sé í fararbroddi í öllum kjördæmunum hafi hann alla burði. Þó þarf að vinna af krafti til að ná settu marki. Sigur vinnst ekki nema með því að leggja sig allan fram og berjast áfram. Sjálfstæðismenn munu þurfa að hafa fyrir því að halda sinni stöðu og nauðsynlegt að allir hægrimenn og framfarasinnar taki virkan þátt í þeirri baráttu og styðji Sjálfstæðisflokkinn og fulltrúa hans til góðra verka á komandi árum.

Engin fyrirsögn

Styttist í úrslitin - unga hugsjónamenn á þing
Í dag er seinni dagur prófkjörs Sjálfstæðisflokksins í Reykjavík. Kjörsókn virðist hafa verið mjög góð í gær og höfðu þá rúmlega 2.200 flokksmenn greitt atkvæði. Spennandi verður að fylgjast með því hversu margir kjósa samanlagt báða þessa daga. Von er á fyrstu tölum um sexleytið í kvöld og svo reglulega eftir það og úrslitin eiga að liggja fyrir um miðnættið. Verður athyglisvert að sjá hverjir muni verða í fararbroddi á framboðslistum flokksins í borgarkjördæmunum tveim. Það er mikilvægt að valið verði gott og frambærilegt fólk á listana og með því tryggt að sigur flokksins í borginni í vor verði glæsilegur. Ég skrifa í dag grein í Morgunblaðið til stuðnings félögum mínum úr SUS, þeim Sigurði Kára og Ingva Hrafni. Það er von mín að ungt fólk nái góðum árangri í þessum prófkjörsslag og tel rétt að styðja þá félaga mína sem ég bæði treysti og vil sjá í eldlínu stjórnmálanna á komandi árum.

Frábær grein Halldórs í Mogganum
Í gær skrifaði Halldór Blöndal forseti Alþingis, frábæra grein um dóminn yfir sjávarútvegsráðherranum í Héraðsdómi Reykjaness og pælir í málinu á skemmtilegan hátt. Ég hvet alla áhugamenn um stjórnmál til að lesa þessa grein Halldórs, það verður enginn svikinn af því að lesa hana. Allavega hafði ég mikið gaman af því að lesa hana. Halldór fer þarna á kostum.

« Fyrri síða | Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband