Færsluflokkur: Stjórnmál og samfélag

Áhugavert uppgjör Geirs Haarde við pólitíkina og lífsins áskoranir

Í góðra vina hópi sjálfstæðismanna á Akureyri hitti ég Geir H. Haarde, fyrrum forsætisráðherra og formann Sjálfstæðisflokksins, á aðventunni þar sem hann kynnti nýútkomna ævisögu sína og áritaði hana. Það var ánægjulegt að ná að hitta Geir og eiga samtal við hann um farinn veg og þau álitaefni sem fylgja uppgjöri við merka ævi hans og starf á ólíkum vettvangi. Sjálfan bókarlesturinn geymdi ég til jóla og naut þess að lesa mig í gegnum skrifin þar sem Geir hélt sjálfur um pennann og fór afar skilmerkilega gegnum æviskeið sitt.

Í gegnum lesturinn skín afar skært hversu mikill sómamaður Geir er. Það er mikill styrkleiki fyrir bókina að Geir skrifar hana sjálfur og hleypir lesandanum að innstu kviku sinni. Bókin einkennist af mikilli næmni, hlýju og einlægni í uppgjöri jafnt við sjálfan sig í blíðu og stríðu og samferðarmenn sína í ólíkum verkefnum á löngu æviskeiði. Í bókarbyrjun lýsir Geir æsku sinni og uppvexti, jafnt hlýjum minningum þar sem hann lýsir hverfinu sínu í vesturbænum og Reykjavík á miklu breytingaskeiði eftir stríð og um leið þeim ljúfsáru á fyrri hluta sjöunda áratugarins sem fylgja miklum ástvinamissi á viðkvæmum tíma þegar faðir hans og bróðir, og einnig afi hans og amma kveðja, þar sem barn fullorðnast og þarf að horfast í augu við breytta lífsumgjörð.

Bókin hefst á andláti afa Geirs, Steindórs bílakóngs, árið 1966 sem markaði mestu þáttaskilin þegar æskuheimilið í Sólvallagötu, þar sem fjölskyldan átti sinn mikla miðpunkt í lífi og starfi, líður undir lok og hann herðist sem einstaklingur áleiðis inn í unglingsárin og finnur sjálfan sig þroskast áleiðis í pólitískri þátttöku þar sem hann blómstrar í félagsstarfi þar sem allir kostir hans sem persónu skína svo ljúflega í gegn og gerði hann að forystumanni áleiðis til krefjandi verkefna í stjórnmálum. Þessum breytingum lýsir Geir af hlýju og einlægni og hlífir sér ekki. Það er áhugavert að sjá úr hversu heilsteyptum og mannlegum rótum Geir rís upp til afreka í verkum sínum innan Sjálfstæðisflokksins sem vel menntaður maður í sínu fagi yfir í formennsku í SUS, þingmennsku og ráðherrasetu.

Geir kemur inn á þing 1987 í miðjum átökum og uppgjöri Sjálfstæðisflokksins undir forystu Þorsteins Pálssonar við Albert Guðmundsson þegar hann hrökklast af ráðherrastóli og stofnar ný stjórnmálasamtök, Borgaraflokkinn, þar sem Albert fer inn á þing við sjöunda mann í eftirminnilegum pólitískum vendingum. Geir lýsir Albert afar vel enda áttu þeir náið samstarf þar sem hann var aðstoðarmaður bæði Alberts og Þorsteins í fjármálaráðuneytinu allt kjörtímabilið fyrir uppgjörið. Litlu munaði að Geir næði ekki inn á þing í þeim kosningum vegna fylgistapsins í Reykjavík en hann fór inn sem jöfnunarmaður. Það er áhugavert að lesa hvernig Geir gerir upp við tíma sinn sem aðstoðarmaður hjá þessum tveimur mönnum ólíkra kynslóða og starfshátta í pólitísku starfi.

Geir varð í kjölfarið einn af lykilmönnum í uppbyggingu Sjálfstæðisflokksins innan og utan ríkisstjórnar áleiðis í stórsigurinn mikla 1991 þegar 26 þingmenn náðu kjöri af hálfu flokksins - upphafið á átján ára stjórnarsetu flokksins þar sem Geir var fyrst þingflokksformaður í sjö ár og síðan ráðherra í rúman áratug; fyrst fjármálaráðherra í önnur sjö ár undir pólitískri forystu Davíðs Oddssonar og síðan formaður Sjálfstæðisflokksins og fyrst sem utanríkisráðherra um stund og síðan forsætisráðherra eftir að Halldór Ásgrímsson hrökklaðist úr pólitík við illan leik þegar Framsóknarflokkurinn réði ekki við hita og þunga forsætisráðuneytisins. Það skín í gegnum fyrri hluta forsætisráðherrafrásagnar Geirs hversu þreytt samstarfið við Framsókn var orðið.

Þessum vendingum lýsir Geir afar vel og færir lesandann beint inn í miðpunkt erfiðra ákvarðana og þeirra pólitísku áskorana sem fylgdu þessu blómlega skeiði í sögu flokksins sem kórónast í miklum kosningasigri Sjálfstæðisflokksins undir forystu Geirs 2007. En sigrum fylgja oft brátt sorgir og þungir straumar. Það mátti Geir svo sannarlega reyna þegar íslenska bankakerfið óx um einum of djarflega og sogaðist loks inn í alþjóðlegu fjármálakrísuna haustið 2008. Það var svo sannarlega lán þjóðarinnar að grandvar og heiðarlegur maður á borð við Geir sat við stýrið þegar pólitíska lognið umbreyttist í örlagaríkan öldudal. Geir átti sín fleygustu orð þegar ríkið tók innlendan hluta bankanna í fangið en lét erlend umsvif fyrir róða í sjónvarpsávarpi til þjóðarinnar sem lauk með eftirminnilegri kveðju - Guð blessi Ísland.

Líklega er þetta eftirminnilegasta ávarp íslensks þjóðarleiðtoga fyrr og síðar - augnablik sem greypt er í minni allra sem horfðu á Geir flytja þjóðinni váleg tíðindi í mildri umgjörð sem fylgdi einlægni og hlýju mannsins við stýrið á þjóðarskútunni. Það er enginn vafi á því að það var lán þjóðarinnar að Geir og samstarfsmenn hans innan og utan Stjórnarráðsins tóku fumlaust í stýrið og færðu þjóðinni neyðarlögin sem reyndust sterk haldreipi íslensku þjóðarinnar til uppbyggingar við breyttar aðstæður þar sem bankarnir störfuðu áfram, kortin virkuðu áfram og landið fór ekki í algjört frost. Það er afrek sem vert er að halda til haga og skiptu sköpum í Icesave-málinu síðar meir þegar þjóðin hafði sigur í frægu dómsmáli.

Þegar gert var upp við þennan tíma reyndust fjandmenn Geirs það eitt hafa á hann að hafa ekki haldið nógu marga ríkisstjórnarfundi. Geir fer afar vel yfir þessa miklu örlagatíma og það er í raun mikil upplifun að lesa af hversu mikilli einlægni hann fer yfir þessa örlagatíma þegar þjóðin lenti í öldudalnum og pólitískur óstöðugleiki bættist brátt í önnur krefjandi verkefni þegar stjórn Sjálfstæðisflokks og Samfylkingar brast eftir plottvendingar forystumanna á vinstrivængnum til að koma í raun bæði Geir og Ingibjörgu Sólrúnu frá. Þau veiktust bæði illa á þessum tímum þegar vinnuálagið varð bæði ómanneskjulegt og harðneskjulegt. Þeim svikráðum lýsir Geir með virðingarverðum hætti þar sem hann talar af miklum drengskap um umskiptin sem fylgdu heilsubrest og því að missa forsætið í ríkisstjórn, þegar hann gaf eftir formennskuna í Sjálfstæðisflokknum og hætti þátttöku í stjórnmálum.

Fjandmenn Geirs létu ekki þar við sitja heldur drógu hann einan úr hópi ráðherra á þessum örlagatímum og settu hann á sakamannabekk í frægu landsdómsmáli þar sem pólitisk undirmál og skítleg vinnubrögð höfðu betur gegn sanngjörnu mati í uppgjöri við bankahrunið. Pólitísk réttarhöld sem einkenndust af hefnd lítilla kalla við einn mann sem gerður var að blóraböggli, látinn standa reikningsskil af meintum brotum þegar alþjóðleg efnahagsleg krísa gekk yfir allan heiminn. Á meðan sluppu formaður hins stjórnarflokksins á tíma hrunsins og viðskiptaráðherrann við þetta uppgjör - þeim var komið í skjól af flokksfélögum sínum og vildarvinum í nýju stjórnarsamstarfi á þingi. Vægast sagt undarlegt "réttlæti" og skakkt uppgjör sem þarna var í spilunum og lítur æ verr út í sögubókum framtíðar. Allir veikleikar landsdóms opinberuðust í þessu ferli.

Eftir stóð í yfirferð málsins að rétt var haldið á málum á örlagastundu. Mun verr hefði getað farið. Undir forystu þeirra sem réðu málum var tekið skynsamlega á málum. Neyðarlögin og gjaldþrot bankanna var rétta leiðin úr þessum ógöngum. Auðvitað var skaði Íslands nokkur, en bæði tímasetning hrunsins reyndist heilladrjúg og aðferðin til lausnar krísunnar var sú rétta. Undarlegast við þennan skrípaleik allan, eins skrautlegur og hann reyndist, var skortur á miðlun upplýsinga til fjölmiðla, og svo þaðan til landsmanna allra. Aðeins var boðið upp á twitter-skrif úr réttarsal. Engu líkara var en réttarhöldin væru haldin um miðja 20. öld eða jafnvel nítjándu öld og aðeins hægt að skrifa fréttir í dagblöð morgundagsins.

Fornaldarbragurinn á landsdómi reyndist algjör. Skortur á miðlun upplýsinga, staðsetning pólitísku réttarhaldanna og yfirbragðið frá a-ö var til skammar. Geir gerir hressilega upp við þá sem hrærðu í þennan vonda kokteil; guðföður görugu vinstristjórnarinnar, Össur og Steingrím J. og fylgisveina þeirra á vondri leið. Hann fer fimlega yfir allt málið og hvernig það var lagt og sendir beittar pillur til þeirra sem hlóðu upp þennan misráðna pólitíska bálköst. Steingrímur J. fær mikla útreið og greinilegt að hefndarþorsti hans eftir að Geir vildi ekki starfa með honum að afloknum kosningum 2007 og í þjóðstjórn 2008 var ráðandi í hversu harkalega hann sótti að Geir þegar á reyndi.

Þarna átti að taka æruna af Geir Haarde en þegar málið var gert upp stóð ekkert eftir nema sýknudómur en klínt á hann vægum sökum um of fáa ríkisstjórnarfundi en honum ekki gerðar sakir fyrir það. Þetta voru pólitískar nornaveiðar af ógeðfelldri sort. Geir hefur eðlilega engu gleymt eftir þennan darraðardans og gerir upp við þá sem héldu um valdatauma í þessu vonda ferli. Geir varð í kjölfarið sendiherra Íslands í Washington og fulltrúi hjá Alþjóðabankanum.

Það var mikilvægt að Geir fengi uppreist æru eftir landsdómsmálið og fengi góð ár til annarra verka eftir að hann náði heilsu að nýju og hafði unnið úr landsdómsmálinu. Sá bókarkafli snart mig sennilega minnst en það er greinilegt að ný og krefjandi verkefni eftir sáran tíma þar sem hann var dreginn að ósekju á sakamannabekk var mikilvægt skeið fyrir Geir til að sýna styrkleika sína í orði og verki. Inn í söguna blandast góðar sögur sem krydda bókina, t.d. bankarán á fjarlægri slóð sem Geir lenti í fyrir tilviljun.

Ævisaga Geirs er heilsteypt og mikilvæg úttekt á merki æviskeiði forystumanns í félagsstörfum og pólitískri starfi á sinni tíð, manns sem hefur alltaf látið gott af sér leiða og skipt sköpum í því að taka farsælar ákvarðanir á krefjandi tímum jafnt í logni sem og stormi. Á þeim tímum þegar vandaðar ævisögur hafa verið að hopa í jólabókaflóðinu er afar dýrmætt að fá eina svo vandaða og heilsteypta rétt eins og viðfangsefnið hefur reynst í gegnum árin.

Þetta er algjör skyldulesning fyrir þá sem unna stjórnmálum og vilja heiðarlegt uppgjör við menn og málefni sem skipt hafa sköpum í íslenskri stjórnmálasögu. Geir sýnir með skrifum sínum hversu traustur hann reyndist í sinni pólitík og um leið einlægur í styrkleikum sínum sem persónu og landsföður á örlagatímum. Það hefur sýnt sig á ritdómum um bókina að hér er haldið fimlega á penna og í engu ýkt eða skreytt til góðs eða ills.

Þegar ég hitti Geir hér á Akureyri og hann áritaði bókina fyrir mig fann ég vel hversu sárt það var að við nytum ekki lengur forystu hans eftir hrun og hann fengi tækifæri til að stýra flokknum og þjóðinni áfram, fengi að fara frá við betri aðstæður hið minnsta. En ég tel að Guð hafi fylgt honum í gegnum allar áskoranir hans rétt eins og hann blessaði þjóðina í frægum orðum og mér fannst rétt að Geir áritaði bókina með þessum fleygu orðum hans sem hafa reynst svo heilladrjúg til lengri tíma litið.

Þetta er uppgjör sem bæði kveður að og reynist sanngjarnt í stóru sem smáu - stærsti styrkleiki bókarinnar og þeirri umgjörð sem fylgir viðfangsefninu.


Pólitískar vendingar með hækkandi sól

Sjálfstæðisflokkurinn er á leið í stjórnarandstöðu eftir ellefu og hálft ár samfleytt við stýrið á þjóðarskútunni - jafnlangur tími og Margaret Thatcher sat sem forsætisráðherra Bretlands. Rétt eins og hjá Thatcher hefur þessi tími einkennst af miklum áskorunum og erfiðum ákvörðunum á örlagatímum en um leið traustum myndugleik. Það var töff tími að stýra málum í því árferði sem verið hefur í gegnum veiruna, náttúruhamfarir og fjölda annarra áfalla á slíkum örlagatímum. Þetta hefur verið afar viðburðaríkur áratugur í stóru sem smáu.

Bjarni Benediktsson og aðrir ráðherrar Sjálfstæðisflokksins geta farið keikir frá borði eftir að hafa staðið vaktina með miklum sóma. Sjálfstæðisflokkurinn verður öflugt forystuafl í stjórnarandstöðu og bæði endurnýjar þar erindi sitt sem pólitískt hugsjónaafl og þéttir raðirnar í flokksstarfinu við breyttar aðstæður; fara í ræturnar og finna nýjan byr til forystu síðar meir. Það er verkefni sem verður gaman að taka þátt í með öflugum þingflokki og forystu flokksins sem verður kjörin á næsta landsfundi.

Það er öllum flokkum hollt að starfa í stjórnarandstöðu og fara í þá innri vinnu sem fylgir því að veita ríkisstjórn verðugt aðhald. Nýrri ríkisstjórn fylgja tímamót. Kristrún Frostadóttir verður yngsti forsætisráðherrann í íslenskri stjórnmálasögu, í fyrsta skiptið eru einungis konur formenn stjórnarflokka og mikill fjöldi nýrra ráðherra sitja við borðið. Um hrein stjórnarskipti er að ræða rétt eins og 2013 þegar aðeins nýjir ráðherrar tóku sæti í ríkisstjórn. Það var í fyrsta skiptið frá 1971 sem hrein stjórnarskipti urðu.

Stjórnarsáttmálinn og áherslur í honum vöktu eðlilega athygli mína og fleiri. Útgjöld allan hringinn - það á að gera margt og mikið fyrir fjölda fólks, kynningin virkaði eins og óskalisti fyrir jólasveinninn sem á allur að rætast í heild frekar en fullmótað og niðurnjörvað plan. Svolítið rýrt eftir þrjár vikur í stjórnarmyndunarviðræðum. Það vantaði í mörgu nákvæmar útfærslur og fjármögnun á óskalistanum. Það verður gaman að sjá hvernig staðið verður að því en líklega verður um týpískar skattahækkanir að ræða, skattlagningu á atvinnuvegi og þær stoðir sem standa undir hagvexti og samfélaginu í heild. Um ESB hefur aðeins náðst sú samstaða að vera ósammála, það gildir um fleiri mál ef að er gáð. Þrátt fyrir fögur fyrirheit valkyrjanna glittir í sprungur á skelinni.

Engu er líkara en hrært hafi verið í þessa jólaköku til þess að hún yrði til um jólin frekar en vanda meira til verka. Það hvarflar að manni að það hafi legið á að koma þessu á koppinn fyrir áramót svo Bjarni Benediktsson flytti ekki áramótaávarp. Að öllu gamni slepptu verður framhaldið mun áhugaverðara en þetta start. Hvernig gangi að koma þessum óskalista í framkvæmd. Í öllu falli er ljóst að Sjálfstæðisflokkurinn og aðrir flokkar í stjórnarandstöðunni munu veita verðugt aðhald og passa upp á þessa vetrarsólstöðustjórn.

Sjálfstæðisflokkurinn stendur á tímamótum í stjórnarandstöðu. Engu að síður stendur flokkurinn vel. Hann náði mun betri kosningu en kannanir gáfu lengst af til kynna, missti aðeins tvö þingsæti og er öflugt forystuafl í stjórnarandstöðu. Forysta flokksins er vel mönnuð. Að baki Bjarna eru einnig öflugar konur sem munu njóta sín í stjórnarandstöðu og finna kraft í komandi verkefni rétt eins og aðrir þingmenn flokksins munu eflast við að losna úr fjötrum í erfiðu samstarfi um langt skeið.

Með hækkandi sól mun Sjálfstæðisflokkurinn styrkjast enn meir til framtíðar - aldargamall flokkur sem hefur staðið vaktina með sóma bæði í forystu stjórnar og stjórnarandstöðu mun ekki eiga erfitt með að finna hugsjónum sínum farveg í baráttunni gegn valkyrjustjórninni.


mbl.is Beint: Ný ríkisstjórn tekin við völdum
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Að loknum alþingiskosningum

Það er ekki ofsögum sagt að miklar sviptingar hafi orðið í alþingiskosningunum um helgina - pólitískur jarðskjálfti þegar tveir vinstriflokkar, annar þeirra einn af gömlu rótgrónu fjórflokkunum á pólitíska ásnum, hrökkva upp af með tilþrifum og elsti flokkur landsins verður um leið aðeins svipur hjá sjón. Sjálfstæðisflokkurinn náði miklum varnarsigri miðað við allar kannanir lengst af baráttunnar og var í lokin aðeins rúmu prósentustigi frá því að halda stöðu sinni sem stærsti flokkur landsins og missti aðeins tvo þingmenn þegar margar kannanir höfðu gefið til kynna að hann gæti misst um eða yfir helming fylgisins. Gríðarleg endurnýjun verður í þinginu, helmingur þingsins eru nýliðar með afar ólíkan bakgrunn í pólitík og þjóðmálum.

Bjarni Benediktsson gerði rétt með því að rjúfa þingið og stokka upp spilin þegar erindi fráfarandi ríkisstjórnar hafði þrotið með svo áberandi hætti fyrir langa löngu. Sjálfstæðisflokkurinn tekur högg í úrslitunum en átti í fullum færum að bæta sinn hlut á góðum lokasprett baráttunnar og hefði mögulega náð enn betri árangri hefði baráttan verið örlítið lengri. Það var gott að finna kraftinn í grasrótinni þegar á reyndi og vondar kannanir hrúguðust upp að það væri svo fimlega hægt að snúa vörn í sókn. Það ræðst svo hvort Sjálfstæðisflokkurinn nær í stjórn eður ei, en hvernig sem það fer er uppbygging hafin með öflugum þingflokk sem lætur til sín taka í þinginu hvoru megin stjórnarþátttöku hann lendir, þó ég hefði viljað Jón og Brynjar inn, að ógleymdri Ingveldi sem hefði verið fersk viðbót í þingið.

Samfylkingin mældist í könnunum með allt að 32% fylgi þegar mest var en í lokin hafði það dregist verulega saman - tvöfaldast frá kosningum 2021. Vinstrivængurinn er þó brotinn. VG náði ekki að spyrna sér frá feigðarósi, átti ekki innistæðu til að endurnýja sig með nýjum andlitum í bland við ráðherrana sem vildu ekki sitja áfram í starfsstjórn. Það voru afdrifarík pólitísk mistök þegar VG hafnaði þeirri stjórnarsetu - Svandís fór í fýlu yfir því að ná ekki að slíta á undan Bjarna. Þá fór vatnið úr baðkarinu og ekki aftur snúið. Píratar höfðu hátt í stjórnarandstöðu og spiluðu djarft í orðum og pólitískri aðgerðarsemi en uppskáru ekki. Þeir höfðu misst pönkið og djúsinn. Feigð allra þriggja flokka, bæði rótgróins grundvallarflokks úr ranni harðra sósíalista, og nýju sossanna og pírataáhafnarinnar er þungt högg á vinstriarminn.

Viðreisn tókst að poppa sig upp í kjördæmiskjör um allt land. Þar bjó flokkurinn klárlega að víðtækri pólitískri reynslu Þorgerðar Katrínar sem þrátt fyrir að vera starfsaldursforseti þingsins er enn á besta pólitíska aldri og spriklandi hress. Henni tókst að finna nýjan þráð nú þrátt fyrir sín fyrri pólitísku áföll í hruninu og vonbrigðum í tveimur síðustu þingkosningum. Ný andlit hjálpuðu til við það en einnig um leið lánleysi annarra. Flokkur fólksins styrkir sig verulega með nýjum þingmönnum, bæði yngri og eldri undir röggsamri forystu Ingu. Það er hressandi að sjá Jónínu Óskarsdóttur, gamalreynda pólitíska kempu frá Ólafsfirði á fyrri tíð, koma aftur í miðpunkt stjórnmála sem andlit eldri borgara, hóps sem flokkurinn höfðaði til með miklum sóma. Inga var einbeitt, djörf og hress í baráttunni. Alþýðutaug hennar styrkleiki í stóru sem smáu. En nú þurfa verkin að tala - vandi fylgir jú vegsemd hverri fyrir Ingu.

Framsóknarflokkurinn fær sögulegt afhroð, sitt lægsta fylgi og um leið fámennan þingflokk sem er brotinn í ólgusjó í lokaspili fallinnar ríkisstjórnar. Flokkurinn þurrkast út á höfuðborgarsvæðinu og missir alla ráðherrana sem þar sitja á þingi fyrir borð og rýrnar verulega á landsbyggðinni. Þrátt fyrir þungt bylmingshögg flokksins lifir formaðurinn Sigurður Ingi annan dag og stendur þrátt fyrir allt eftir með pálmann í höndunum, hann varð eins og gamalt ljós með nýtt batterí í miðjum umræðuþætti þegar hann náði kjöri að nýju og mun stýra enduruppbyggingu flokksins fyrsta spölinn hið minnsta og fær fullan frið við það. Bíbí Ísaksen sú eina sem ógnar honum í þeirri uppbyggingu og er allt í einu orðin vonarstjarna flokksins. Halla Hrund er veikari en ella fyrst SIngi fór inn og skaddaðist í baráttunni, það er einfalt mál. En um leið var það varnarsigur fyrir flokkinn að halda bændakempunni Tóta inn á þingi.

Miðflokkurinn nær aftur svipuðum þingstyrk og slagkraft og hann fékk í þingkosningunum 2017. Sigmundur Davíð safnaði til sín fólki úr ólíkum áttum en einbeitt í því að láta til sín taka í pólitíkinni. Af nýju þingmönnunum finnst mér mest áhugavert að fylgjast með pólitískri endurkomu Siggu Andersen, vinkonu minnar, sem missti bæði ráðherrastól og þingsæti í kjölfarið í kröppum dansi innan Sjálfstæðisflokksins í veirutíðinni og dómarahasarnum, og Nönnu systur Sigmundar Davíðs sem hefur verið ein af sterkustu stoðum Simma í sinni pólitík. Snorri verður líka spriklandi hress í þinginu. Svo auðvitað vekur athygli í feigðarför VG að Lilja Rafney á endurkomu í þingið undir merkjum Flokks fólksins. Hún verður eina rótgróna rödd VG sem lifir blóðtökuna af með nýjan gulan fána í hendi.

Við sjálfstæðismenn í Norðaustur getum glaðst yfir því að Njáll Trausti náði góðu endurkjöri þrátt fyrir að sögulega höfum við alltaf verið veikari hér og gátum búist við þungum róðri í þessu árferði. Það var mikils virði að Njalli naut sinna góðu verka í þinginu þó óneitanlega væri það þungt högg að missa oddvitastólinn í kjördæminu. Jens Garðar kemur sterkur til leiks. Hann er hress og einbeittur í sinni pólitík. Við Jenni höfum átt samleið síðan í ungliðapólitíkinni og eigum sömu góðu ræturnar frá Eskifirði einnig sameiginlegar. Það er góður bakgrunnur fyrir landsbyggðarþingmann að eiga rætur við sjóinn. Jenni og Njalli eiga eftir að vera góð blanda saman í flokksstarfinu í kjördæminu, bæta hvorn annan upp með styrkleikum sínum.

Að lokinni snarpri og líflegri baráttu er komið að stóra örlagadansinum. Mynda þarf ríkisstjórn til að taka á fjölda brýnna verkefna, það gæti orðið líflegur tangó að fá þrjá til að dansa saman í gegnum dramað sem bíður - vinna úr pólitískum óskalista ólíkra flokka. Það er eitt að mynda stjórn og annað að hún lifi í pólitískum ólgusjó með færri flokka inn á þingi og mismunandi skoðanir þar sem þrjá þarf að borðinu svo þjóðarskútan fúnkeri í gegnum sjóferðina sem bíður.

Það verður áfram líf og fjör í pólitíkinni þó þjóðin hafi fellt sinn dóm og kosið nýtt þing - hvort sem við fáum kvennastjórn, stjórn með borgaralegum gildum eða þriðja kost, djarfari bræðing.


mbl.is Útiloka ekki Samfylkingu: Meiri samleið með Viðreisn
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Gert upp við úrslit kosninga á Akureyri

Blendnar tilfinningar fylgja úrslitum sveitarstjórnarkosninganna fyrir okkur sjálfstæðismenn. Víða nær Sjálfstæðisflokkurinn varnarsigrum og bæta við sig en á alltof mörgum stöðum dalar fylgið, af ýmsum ólíkum ástæðum. Áfram er Sjálfstæðisflokkurinn forystuafl í sveitarstjórnarmálum og verður lykilafl til framfara og uppbyggingar.

Hér á Akureyri missum við sjálfstæðismenn heil fimm prósentustig og þriðji maðurinn fer fyrir borð sem er þungur skellur. Í annað skiptið í sögu bæjarstjórnarkosninga hér hljótum við tvo menn kjörna, það eru heil 80 ár síðan það gerðist fyrst og þá klofnaði flokkurinn. Aðrir þættir ráða för að þessu sinni, innansveitarkrónika af ólíku tagi sem verður okkur erfið. Auk þess er öllum ljóst að samstarf allra framboða síðustu 20 mánuði kjörtímabilsins voru afdrifarík mistök einkum fyrir okkur sjálfstæðismenn eftir áratug í minnihluta.

Tólf ár eru síðan Sjálfstæðisflokkurinn á Akureyri hlaut aðeins einn mann kjörinn og 1220 atkvæði sem var harkalegur skellur sem langan tíma tók að yfirstíga. Það var lærdómsrík barátta og lexía fyrir okkur sem þreyjuðum þorrann og héldum áfram í flokksstarfinu við gjörólíkar aðstæður með einn mann í bæjarstjórn og ekki með nefndarmann í öllum nefndum. Þá var þetta röff flokksstarf en herti okkur fram á veginn. Það er kaldhæðnislegt en engu að síður heiðarlegt mat að félagsstarfið hafi aldrei verið gróskumeira og skemmtilegra en þá. Ég minn­ist tím­ans eft­ir tapið með hlýju, þar var sam­an komið fólk sem vildi reisa flokkinn við og efla bæði fé­lags­starfið og vina­bönd­in.

Kosningabaráttan 2014 var einstaklega upplífgandi og hressandi, við snerum til baka og bættum við okkur tveimur mönnum og fengum þrjá nýja bæjarfulltrúa, ólíka vissulega en mjög vinnusama og með víðtæka reynslu á ólíkum vettvangi. Við tókum slaginn gegn þrengingu Glerárgötu og bættum við okkur. Það var þó fjári súrt að við komumst ekki í meirihluta, pólitísk hrossakaup fyrir kosningar stóðu þrátt fyrir að við tvöfölduðum fylgið. Í kosningum 2018 urðum við of værukær og misstum fylgið eftir góðar kannanir, vonir um fjórða manninn. Í staðinn héldum við okkar fulltrúafjölda en misstum þrjú prósent.

Allar forsendur voru fyrir því að bæta við fylgið í bæjarstjórnarkosningum 2022, væntingar um að ná forystustöðu í bæjarmálunum og vonandi bæta við okkur prósentum og mönnum. Haustið 2020 skall hér á undarleg stemmning þegar öll framboð fóru í eina sæng og hófu samstarf. Það varð umdeilt í okkar röðum. Ég sem formaður Málfundafélagsins Sleipnis var fullur efasemda og tjáði þær á fundi fulltrúaráðs en ákvað samt sem áður að treysta mati bæjarfulltrúa. Það hafa reynst afdrifarík mistök enda varð þetta samstarf feigðarflan allavega fyrir okkur, þó vissulega hafi eitt og annað farið á betri veg. Ég sé eftir því að hafa ekki skrifað gegn þessu og styðja þetta þess í stað í og með gegnum þögnina.

Við sátum eftir með Svarta Pétur í fjölda mála. Skipulagsmálin reyndust okkur erfið, umdeild skipulagsmál þrengdu stöðu okkar í kosningabaráttunni og það reyndist algjört glapræði að hefja innheimtu bílastæðagjalda í miðbænum korteri fyrir kosningar á vafasömum forsendum, sem fældi frá okkur marga einkum eldra fólk. Eitt og annað hefur vel tekist í málaflokkum okkar sem við leiddum á þessum 20 mánuðum en neikvæða hliðin varð ofan á í almenningsumræðunni.

Það er þungt högg að sitja eftir með tvo menn í annað skiptið í sögu bæjarstjórnarkosninga á Akureyri, hið fyrsta í heil 80 ár og verður áskorun. Nú reynir á hvort við náum saman með L-lista og Framsóknarflokki, það eru allar forsendur til að það gæti orðið góður meirihluti ef rétt er að verki staðið og vel samið. Það eru þó vonbrigði að við munum ekki verða sterkasta aflið í slíkum meirihluta og við stöndum veikari en áður.

Engu að síður verðum við sjálfstæðismenn að læra af þessu fylgistapi, gera betur og vinna þannig að við náum betur til bæjarbúa. Það er verk að vinna bæði innan og utan flokksstarfsins næsta kjörtímabil.


mbl.is Lokatölur komnar á Akureyri
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Afgerandi umboð Boris - pólitískar áskoranir nýs leiðtoga

Boris Johnson fékk afgerandi umboð í leiðtogaslag breska Íhaldsflokksins, rúma tvo þriðju af atkvæðum almennra flokksmanna í baráttunni við Jeremy Hunt utanríkisráðherra. Sigur Boris var augljós frá upphafi - honum tókst jú fimlega að ná ráðandi stöðu í þingflokknum og reyndist eftirleikurinn auðveldur, enda búinn að vinna vel í baklandinu, stóð af sér bæði pólitíska storma og atlögu að einkalífinu án þess að blikna.

Húsbóndavaldið í Downingstræti 10 verður mikil áskorun fyrir Boris. Verkefnið að ljúka bæði við Brexit og ná tiltrú þjóðarinnar, sem Theresu May reyndist alveg ofviða eftir að hafa fipast veðmálið sitt mikla - mistekist að halda hreinum þingmeirihluta 2017, verður fjarri því auðvelt enda undir mikilli pressu bæði útávið og innávið. Harðir andstæðingar Boris hafa nú boðað röð afsagna ráðherra til að reyna veikja afgerandi umboð Boris og boðskap hans um hart Brexit. Valdatafl fylkinga heldur því áfram.

Boris hefur tiltrú almennra flokksmanna og byr í könnunum í farteskinu - getur því bæði hótað kosningum, sótt nýtt umboð út á akurinn, og beitt svipunni af krafti komist hann fimlega í gegnum sumarið og haustið. 100 fyrstu dagar nýs leiðtoga, hveitibrauðsdagarnir frægu, verða mælistika á styrk, kænsku og úthald Boris við verkefnið framundan og hversu öflugur hann reynist í þinginu. Þar er meirihlutinn bæði óljós og brothættur - bæði við að ná hörðu Brexit í gegn og ná ráðandi stöðu í erfiðu valdatafli.

Óumflýjanlegt er því að Boris verði að sækja sér nýtt umboð landsmanna en ekki sitja lengi í veikri þingstöðu sem reyndist Theresu May banvænn pólitískur kaleikur - leiðin fram að kosningum verður þó löng og ströng, enda munu þeir sem valdið misstu í flokknum við endalok May nú reyna að veikja umboð hans í bakvarðasveit þingsins og brýna hnífa sína.

Nú reynir því á Boris, hvort hann standi undir væntingum eða falli í sama pytt og forverinn. Næstu 100 dagar verða því ansi áhugaverð pólitísk refskák.


mbl.is Boris Johnson næsti forsætisráðherra
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Boris Johnson og Jeremy Hunt berjast um Downingstræti 10

Jeremy Hunt hafði naumlega betur í baráttunni við Michael Gove um sæti í einvíginu við Boris Johnson um lyklavöldin í Downingstræti 10 nú síðdegis - skvísaði sig áfram í kosningu meðal 130.000 félagsmanna með aðeins tveggja atkv. mun. Boris Johnson bætti litlu sem engu við milli umferða í dag - aðeins þrír þingmenn fóru yfir til hans. Plottið varð því greinilega ofan á - afgerandi staðfesting um örugg tök arkitekta Boris í öllu ferlinu bakvið tjöldin eins og komið var inn á í fyrri grein minni í dag.

Gavin Williamson, sem fimlega stýrði baklandi Theresu May í leiðtogaslagnum og sat við skör hennar sem meirihlutasvipa í þinginu og síðar sem varnarmálaráðherra þar til hann féll í ónáð í vor þegar Maísól May blóðroðnaði, stýrði af talnafimi og klókindum kosningabaráttu Boris í þingferlinu af miklu öryggi. Engin feilnóta var þar slegin - ferlið umferð af umferð var eins og listilega skrifuð, leikstýrð og leiktjaldahönnuð leiksýning frá upphafi til enda. Ferlið allt féll allt með Boris Johnson.

Blóðugt örlagafall Michael Gove í lokarimmu þingferlisins áberandi hönnuð og unnin bæði af persónulegri og pólitískri hefnd á lykilmómenti eftir fræga svikastungu gegn Boris Johnson. Þetta er eiginlega snilldar lokaspil í löngum og harðvítugum átökum. Gove fer afar sár af velli í þessu tapi og óvíst um hvert hann ber næst niður í pólitísku plotti til að halda velli. Gove tók stóran skell eftir svikin við Boris 2016, tekinn úr ráðherrasveitinni af May en fann glufu inn eftir að May mistókst að halda þingmeirihluta 2017 - þótti betra að hafa sverð hans á vísum stað. Nú þarf hann að hefja sömu endurreisn aftur.

Óvarlegt er að útiloka að Jeremy Hunt eigi séns í baráttunni um atkvæði í grasrótinni næstu vikurnar þó Boris Johnson hafi flesta þræði fimlega í höndum sér. Með honum fylgir mjög mikilvægur kjarnastuðningur - aftur á móti mistókst honum á eigin forsendum að tryggja sig í lokaslaginn langa. Boris hefur afgerandi stuðning í grasrótinni og útlit fyrir að hann vinni með yfirburðum. Maskína hans er vel smurð og til í átök næstu vikur - þingslagurinn sem áður var talinn vegatálmi á leiðinni varð glansferð hin mesta og vel skipulögð.

Fimm vikur er langur tími í pólitík - slagurinn á milli utanríkisráðherranna í valdatíð Theresu May um hver verði eftirmaður hennar verður þó miklu settlegri og rólegri með Jeremy Hunt sem keppinaut Boris Johnson en hefði orðið í sálfræðiþrillerstríði við Gove. Boris virðist því á sigurbraut - án stórra mistaka er nokkuð öruggt að hann verði næsti forsætisráðherra Bretlands og taki hið blóðuga kefli May í Brexit-málinu, hinn þunga pólitíska kaleik í fangið.


Boris með fullnaðartök í leiðtogakjöri Íhaldsflokksins

Boris Johnson gnæfir æ meir yfir leiðtogaslag Íhaldsflokksins eftir fjórðu umferð í kjörinu um næsta húsbónda í Downingstræti 10 í morgun - hefur nú hlotið meirihlutastuðning þingmanna, með tæp 100 atkvæði á næsta mann. Michael Gove komst nú uppfyrir Jeremy Hunt þó ekki muni nema tveimur atkvæðum. Í nokkrar vikur hefur blasað við að slagurinn um farmiðann við hlið Boris standi á milli Hunt og Gove. Fjórða umferðin boðar því engin stórtíðindi, enda var Sajid Javid ólíklegur til að komast framfyrir þá.

Eftir að Hunt mistókst að stinga félaga sína af í ráðherrahópnum í baráttunni um lykilstuðning andstæðra afla í flokknum til að stöðva Boris hefur maskínan í framboði hans hökt mjög og átt erfitt með að ráða við spunann til að efla stöðu Hunt og ná að smala á bakvið tjöldin svo ná megi nægilegu frumkvæði í baráttunni. Gove er rammklókur og hefur unnið fimlega við að fylkja liði Rory Stewart með sér. Þó hann nái nú öðru sætinu eru blikur á lofti um hvort hann nái stuðningsmönnum Sajid Javid nægilega í sitt lið.

Hunt-liðið reynir nú fyrir á lokasprettinum að vinna sér fylgi með því að vara við einvígi Boris Johnson og Michael Gove - sálfræðitryllinum á milli fjandvina sem eiga jú bæði pólitískra og persónulegra harma að hefna. Boris Johnson mun seint fyrirgefa svik Michael Gove sumarið 2016 í aðdraganda síðasta leiðtogakjörs þegar hann stakk Brexit-félaga sinn og skólabróður í bakið með kaldrifjuðum hætti með framboði sínu gegn honum. Boris hætti þá við hasarinn sem í uppsiglingu var - hefur þó síðan brýnt alla sína hnífa og safna liði í átökin sem nú standa, og það mjög fimlega í ráðandi stöðu.

Með þeirri stöðu hefur hann getað skipulagt hvaða egó lifa og deyja í átökunum. Hávær er orðrómurinn um að hann hafi lánað atkvæði til að velja úr hverjir detti út og á hvaða tímapunkti - mikið er skrafað um að slagurinn sé allur þaul- skipulagt pólitískt leikrit um hverjum best sé að mæta út á akrinum á meðal grasrótarinnar í flokknum. Boris Johnson vilji forðast sálfræði- stríð við Gove á þeim akri og frekar mæta Hunt í rólegri átökum sem betur sé við ráðið - vilji því losna við Gove nú síðdegis.

Úrslit lokaslagsins í þingflokknum munu svara þeirri spurningu hversu taktískt hafi verið unnið - bæði hversu nálægt stuðningi Theresu May í lokaumferðinni 2016 Boris fari (um 200 atkv.) og hversu hörð rimman verði næstu 30 daga í einvíginu. Þar vilji hann vera einn fulltrúi harðs Brexit og forðast óþarfa blóðugt sálfræðistríð með því að lána Hunt nokkur atkvæði.


Boris hálfnaður í mark - ráðherraslagur um sæti í einvíginu

Boris-rest

Tvennt hefur skýrst að lokinni þriðju umferð í leiðtogakjöri breska Íhaldsflokksins nú síðdegis - afmælisbarnið Boris Johnson hefur nú nærri hálfan þingflokkinn að baki sér og kominn ansi nálægt ráðandi stöðu í baráttunni, getur ráðið með taktískum hætti hverjum hann mætir, með 143 atkvæði, 90 fleiri en næsti maður, forveri hans á utanríkisráðherrastóli Jeremy Hunt, og skrautlegri vegferð Rory Stewart lýkur nú eftir óvænta sveiflu í annarri umferð. Greinilegt var að slátturinn á Stewart stuðaði æði marga og frammistaða hans í kappræðunum í gær gaf til kynna að nýliðinn á ráðherrabekknum væri of reynslulaus, með of umdeilda sýn fyrir grasrót flokksins og rembingurinn fældi líka.

Eins og ég spáði réttilega í gær var sótt fast að bæði Boris Johnson og Rory Stewart í umræðu- þættinum. Johnson stóð af sér atlöguna með stæl, greinilega undirbjó sig vel, hvorki gekk í gildrur né lét espa sig upp á meðan Stewart þótti rembingslegur með stellingum á sínum háa stól og þegar hann tók bindið af í umræðu meðframbjóðendanna. Bæði Hunt og Gove voru öryggið uppmálað - þeir eru nú líklegir til að berjast æ meir um bakland Stewarts sem missti 10 atkvæði milli umferðanna.

Sajid Javid hélt velli í þriðju umferðinni og bætti eflaust við sig taktískum stuðningi frá Boris- liðinu sem vildu losna við Stewart auk þess sem einhverjir úr baklandi nýliðans hafa orðið sannfærðir um að reynslumeiri kandidat þyrfti gegn Johnson. Baráttan um sæti í einvíginu er enn galopin milli Hunt og Gove. Báðir fóru þeir nú yfir 50 atkvæði en enn 90 atkvæðum á eftir risanum í slagnum. Nú reynir á hvert May-kjarninn hallar sér - May hefur átt gott samstarf við Jeremy Hunt og ekki ósennilegt að hann taki nú sveiflu þó óvarlegt sé að telja Gove af.

Stewart gæti nú orðið kingmaker í baráttunni um einvígið - sá sem hreppir stuðning hans fer langleiðina í lokaslaginn með Boris Johnson. Ekki má heldur gleyma Sajid Javid sem gæti átt enn stærri rullu í lokarimmunni um einvígið.

Á morgun ráðast úrslitin - þá verða tvær umferðir til að fá úr því skorið hverjir fara í lokaslaginn: einvígið í póstkosningu meðal almennra flokksmanna um lyklavöldin í Downingstræti 10.


Aukin spenna í einvíginu um Downingstræti 10

Aukin spenna hefur færst í leiðtogaslag breska Íhaldsflokksins eftir aðra umferðina í kjörinu nú síðdegis. Boris Johnson bætti við afgerandi forystu sína - með 80 atkvæði umfram næsta mann, utanríkisráðherrann Jeremy Hunt. Stóru tíðindin felast þó í því að nýliði á ráðherrabekk flokksins, Rory Stewart - sem að mörgu leyti er óskrifað blað og nýtt andlit í forystukapalnum, tekur átján atkvæða sveiflu milli umferða og er kominn í seilingafjarlægð frá reynsluboltunum í ráðherrasveitinni, Hunt og Gove. 

Baráttan um annað sætið, farmiðann í póstkjör meðal almennra flokksmanna við hlið Johnson, er galopin. Greinilegt er að vatnaskil hafa orðið síðustu daga - Theresa May og lykilsveit hennar í D10 styður Stewart. Stuðningsfirlýsing Lidingtons, varaskeifu May, við Stewart um helgina færði honum klárlega sveiflu auk þess sem hann kom líka best út í gloppóttri kappræðu um helgina auk Boris sem mætti reyndar ekki. Johnson er aftur á móti líklegur til að smala í sína sveit öllu stuðningsliði Dominic Raab sem datt út í dag.

Panikk í herbúðum Hunt hefur líka aukist eftir að honum mistókst þrátt fyrir kjarnastuðning að komast yfir fimmtíu atkvæða múrinn í fyrstu umferð. Enn tekst honum það ekki - segir ansi margt um í hvaða segl byrinn blæs. Hunt bætti við sig þremur og Gove fjórum. Það gerir lítið fyrir þá - allt í einu þurfa þeir nú að berjast við að halda sinni sveit saman í stað þess að líta fram á veginn. Sajid Javid skvísaði sig mjög naumlega í gegn og dettur líklega út næst og verður barist hart um atkvæði hans.

Annars er enginn af þeim fjórum óhultur og enn innistaða til mikilla breytinga. Kappræðurnar í kvöld hafa líklega nokkur áhrif - þá mætir risinn í slagnum til leiks og þarf þá að takast á við ráðherrana fjóra. Allir munu þeir reyna að ná höggi á hann og máta sig í einvígið með honum - verður áhugavert að sjá þann slag. Greinilegt er að kjarnastuðningurinn leitar til Stewart - þar hafa orðið vatnaskil í þá átt að Hunt eigi ekki séns í Boris og setja sitt pund undir á nýliðann.

Einvígi milli Boris Johnson og Rory Stewart yrði reyndar ansi leiftrandi enda mikill munur bæði á reynslu þeirra og veganesti fari svo að þeir taki slaginn saman á landsvísu í flokknum. Þó er margt á huldu um Stewart, hávær orðrómur um að hann hafi verið njósnari MI6. Pressan á honum vex við velgengnina og eflaust munu Hunt og Gove taka hann fyrir líka eigi þeir ekki að falla afturfyrir nýliða í goggunarröðinni.

Svo er reyndar stóra spurningamerkið hvort stuðningslið Johnsons fái einhverja til að kjósa taktískt til að halda frekar Javid í slagnum og reyni að veikja Stewart - velji með því að lokum hver fer í einvígið með honum.


Boris Johnson á sigurbraut

Boris Johnson stefnir hraðbyri að lyklavöldum í Downingstræti 10 eftir sannfærandi sigur í fyrstu umferð leiðtogakjörs Íhaldsflokksins í dag - hlaut 114 atkvæði, 70 atkvæðum meira en sá næsti og mun meiri stuðning en næstu tveir til samans. Mjög ólíklegt verður að teljast að nokkur geti stöðvað Boris úr þessu - hann hlaut meiri byr meðal þingmanna í fyrstu umferðinni en flestir spámenn áttu von á.

Baráttan í leiðtogaslagnum hefur að mestu staðið um það hver fari með Boris í kosningu meðal almennra flokksmanna - ráðherrarnir Jeremy Hunt og Michael Gove takast á um stuðning ráðandi afla í flokknum, þeirra sem treysta ekki Boris fyrir stýrinu á þjóðarskútunni í Brexit-málinu. Báðir urðu þeir þó fyrir áfalli - þrátt fyrir stuðning öflugra ráðherra fengu þeir vel innan við 50 atkvæði. Staðan er til vitnis um að þingmenn skynji æ betur að Boris einn geti rétt við hnignandi kúrs flokksins.

Einn lykilspámaður úr ranni May-kjarnans hafði spáð Boris 85-90 atkvæðum en Hunt 60-65 rétt fyrir kjörið. Úrslitin stuðuðu enda þá sem mest höfðu varað við Boris og vildu alvarlegri mann við stýrið. Vonbrigði þeirra sem veðjuðu frekar á Hunt en Johnson leyndu sér ekki, einkum ráðherranna Amber Rudd og Penny Mordaunt. Þrátt fyrir kannabisskandal Gove um helgina sló það ekki kappann út af laginu, hann fór nær 40 atkvæðum en flestir töldu. Hunt virðist ekki hafa grætt á hefðbundnum kjarnastuðningi. Dominic Raab hlaut ágætan byr en ekki nægan til að krafsa í bakland Boris.

Í næstu umferð þarf stuðning 33 þingmanna - þá falla minni spámenn líklega út. Sajid Javid, innanríkisráðherra, fékk mun minni stuðning en búist var við og ekki líklegur til að komast lengra líkt og Matt Hancock og Rory Stewart. Stóra spurningin er hvort þeir ná stuðningi til að haldast á floti úr átt þeirra þriggja sem duttu út í dag. Meðal þeirra var Andrea Leadsom sem varð önnur í leiðtogaslagnum við Theresu May 2016 en lagði ekki í póstkosninguna á móti henni þegar á reyndi - gulltryggði kjör hennar en stakk hana í bakið á lykilaugnabliki undir lokin. Hún fékk ekki byr nú - Boris studdi hana líka þá.

Sá eini sem getur sett Boris Johnson út af sporinu úr þessu virðist vera hann sjálfur - eigin yfirlýsingar og gjörðir í hita leiksins. Á einmitt það virðist May-kjarninn og andstæðingar hans innan flokksins stóla á þegar á hólminn kemur og slagurinn færist úr þingflokknum í bakland flokksins - kosningu meðal 130.000 félaga víða um landið. Þar eykst pressan og fjölmiðlar eiga meiri rullu í lokaslagnum í yfirheyrslum í beinni útsendingu.

Lengi vel vonaði sami kjarni að Boris Johnson yrði stöðvaður í þingflokknum og gæti ekki slegið um sig í grasrótinni. Þingmenn skynja æ betur að enginn á meiri og betri tækifæri til að rétta kúrsinn og eygja betri von á endurkjöri í kosningum en Boris. Hann nýtur sín vel meðal almennra flokksmanna - hefur mikla tiltrú í baklandinu. Mikið þarf til að stöðva siglingu hans að fullum völdum - ráðandi kjarninn á fá svör við velgengni hans.

Boris virðist eflast við hverja raun - sjóaður í slagnum, græðir á borgarstjórasetu sinni í London þar sem hann komst til valda á lykil- valdasvæði Verkamannaflokksins með mjög sannfærandi hætti og hefur styrkst í átökum í valdatíð Theresu May, einkum eftir afsögn úr utanríkisráðuneytinu á lykilaugnabliki. Og hefur undirbúið sókn sína að Downingstræti 10 af miklu öryggi - framkoma og tjáning fimlega þaulskipulögð.


Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband