Færsluflokkur: Stjórnmál og samfélag

Hneyksli skekja sænsku stjórnina

Maria Borelius

Það er óhætt að segja að fáir urðu undrandi þegar að Maria Borelius, viðskiptaráðherra Svíþjóðar, sagði af sér embætti í gær. Eins og ég skrifaði um í gærmorgun var hún flækt í hneykslismál sem voru bæði vandræðaleg og óverjandi fyrir sænsku ríkisstjórnina. Það var því óumflýjanlegt að hún myndi hrökklast frá völdum. Vandræði sænsku stjórnarinnar eru þó mun umfangsmeiri. Menningarmálaráðherrann sem er yfirmaður sænska ríkisútvarpsins hefur orðið uppvís að því að hafa ekki greitt afnotagjöld í 16 ár og má telja líklegt að staða hennar sé slæm líka. Eins og ég taldi upp í gær eru önnur hneykslismál í umræðunni, sem eru eiginlega með ólíkindum alveg.

Maria Borelius var aðeins viðskiptaráðherra í átta daga, sem hlýtur að teljast skemmsta ráðherraseta í sænskum stjórnmálum og þó víðar væri leitað. Það vekur bæði hneykslan og undrun að hún gæti fengið allt að eina milljón sænskra króna (rúmar 10 milljónir íslenskra) frá sænska ríkinu í bætur. Oftast nær hefur þessi regla ekki verið umdeild, en er það auðvitað í þessu tilfelli, enda var ráðherratíð Borelius engin rósaganga og ekki beint löng. Fræðilega séð er þetta möguleiki. Um fátt er nú meira talað í Svíþjóð en hvað muni gerast í þessu tilfelli, en svo mikið er víst að stjórn borgaralegu flokkanna má ekki alveg við fleiri hneykslum eftir brösuga upphafsviku.

Það mun hafa verið vinstrisinnaður bloggari sem kom upp um Borelius, gróf upp málin sem hún hafði í pokahorninu og opinberaði þau á vef sínum. Það er alveg ljóst að af öllum vandræðunum fyrstu viku þessarar ríkisstjórnar eru hneyksli Borelius alvarlegust, enda gjörsamlega óverjandi að öllu leyti fyrir borgaraflokkana og kom á viðkvæmasta mögulega tíma. Það má ræða mikið um pólitískt siðferði. Það er mjög merkilegt hversu mikið hefur verið um afsagnir sænskra ráðherra t.d. í gegnum tíðina. Það má kannski telja að pólitískt siðferði sé þar meira og eftirlit jafnframt strangara með því sem er rétt og rangt. Endalaust má ræða um þau mál.

En máttur bloggsins er orðinn óumdeilanlega mikill. Það leikur enginn vafi á því að krafturinn í bloggskrifum er mikill og ég held að þetta sé fyrsta alvöru dæmi þess að stjórnmálamaður hrökklast frá valdamiklu embætti vegna bloggskrifa um pólitískt hneyksli. Annars vitum við öll að bloggskrif eru máttug og þau skipta máli, það er mjög einfalt.

mbl.is Viðskiptaráðherra Svíþjóðar segir af sér eftir aðeins eina viku í starfi
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Prófkjör í Norðausturkjördæmi í nóvember

Sjálfstæðisflokkurinn

Samþykkt var á kjördæmisþingi Sjálfstæðisflokksins í Norðausturkjördæmi, sem haldið var um helgina að Skjólbrekku í Mývatnssveit, að halda prófkjör til að velja frambjóðendur á framboðslista flokksins í kjördæminu fyrir komandi alþingiskosningar að vori. Ákveðið er að prófkjör fari fram laugardaginn 25. nóvember og talning fari fram á Akureyri sunnudaginn 26. nóvember, enda tekur tíma að flytja öll kjörgögn til Akureyrar til talningar. Á fundinum var kjörin kjörnefnd til að halda utan um allt prófkjörsferlið, en mikil vinna er framundan í þeim efnum, og var Anna Þóra Baldursdóttir, lektor á Akureyri, kjörin formaður kjörnefndarinnar.

Á fundinum tilkynntu níu um framboð í væntanlegu prófkjöri. Frambjóðendur eru: Arnbjörg Sveinsdóttir, Björn Jónasson, Kristinn Pétursson, Kristján Þór Júlíusson, Ólöf Nordal, Sigríður Ingvarsdóttir, Sigurjón Benediktsson, Steinþór Þorsteinsson og Þorvaldur Ingvarsson. Arnbjörg, Kristján Þór og Þorvaldur gefa öll kost á sér í leiðtogasætið, en hinir stefna á neðri sæti. Samkomulag er um að binda allt að sex sæti í prófkjörinu. Búast má við að fleiri framboð gætu jafnvel borist en framboðsfrestur mun renna út þann 25. október nk, eða eftir tíu daga. Það stefnir því í spennandi prófkjör, en fólk frá öllum svæðum hefur tilkynnt um framboð.

Það eru viss tímamót fólgin í ákvörðun um prófkjör. Ekki hefur farið fram prófkjör við þingkosningar í norðurhluta Norðausturkjördæmis frá árinu 1987. Prófkjör fór fram í Austurlandskjördæmi árið 1999. Í aðdraganda kosninganna 2003 var rætt um valkostina og ákveðið þá að stilla upp, en þá voru fjórir þingmenn í kjördæmahlutunum gömlu og voru þeir í efstu sætum listans. Nú eru aðrir tímar. Halldór Blöndal, leiðtogi okkar, hefur ákveðið að hætta á þingi og við eigum bara einn þingmann sem ætlar í prófkjörið, en hún tók sæti á kjörtímabilinu, enda féll hún í kosningunum 2003. Það er eðlilegt og hið eina rétta að nú fái allir flokksmenn að velja listann. Það er gleðiefni. 

Á fundinum fór fram kjör í trúnaðarstöður. Var Guðmundur Skarphéðinsson endurkjörinn sem formaður kjördæmisráðsins. Var ég endurkjörinn til trúnaðarstarfa hjá kjördæmisráði flokksins í Norðausturkjördæmi og þakka ég það traust sem mér var sýnt með kjöri þriðja kjördæmisþingið í röð. Það eru spennandi tímar framundan og verður ánægjulegt að fylgjast með því sem gerist á næstu vikum í spennandi prófkjöri.

Ég verð ekki í kjöri í prófkjörinu svo að ég hef mjög frjálsar hendur á að skrifa um menn og málefni okkar hér á vefnum. Ég mun tjá skoðanir mínar mjög vel á því sem fram fer í þeim efnum á næstunni hér á vef mínum. Þetta verður lifandi vettvangur skrifa, eins og ávallt.

Kjördæmisþing um helgina

Sjálfstæðisflokkurinn

Um helgina verður kjördæmisþing okkar sjálfstæðismanna í Norðausturkjördæmi haldið að Skjólbrekku í Mývatnssveit. Þar mun verða tekin ákvörðun um hvort efnt verði til prófkjörs til vals á frambjóðendum flokksins eða stillt upp á lista. Fyrir fundinum liggur tillaga stjórnar kjördæmisráðsins um að fram muni fara prófkjör laugardaginn 25. nóvember nk. Á fundinum verður tekin nánari afstaða til þessara mála og gengið frá ákvörðun um alla hluti væntanlegs prófkjörs, enda má telja fullvíst að boðað verði til prófkjörs og sú afstaða njóti stuðnings meirihluta fundarmanna.

Gestir fundarins verða Geir H. Haarde, forsætisráðherra og formaður Sjálfstæðisflokksins, og Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir, menntamálaráðherra og varaformaður Sjálfstæðisflokksins. Á fundinum verður rætt um allar hliðar væntanlegra kosninga og farið yfir stöðu mála. Þegar liggur fyrir að þrír einstaklingar; Arnbjörg Sveinsdóttir, þingflokksformaður, Kristján Þór Júlíusson, bæjarstjóri á Akureyri, og Þorvaldur Ingvarsson lækningaforstjóri, gefi kost á sér til forystu á framboðslista flokksins, en Halldór Blöndal, núv. leiðtogi flokksins í kjördæminu, gefur ekki kost á sér.

Þetta verður væntanlega góð og hressileg helgi í hópi góðra vina fyrir austan í Mývatnssveit og verður ánægjulegt að fara þangað, ræða um verkefnin framundan og fara yfir skoðanir fólks á frambjóðendum og stöðu mála á þessum kosningavetri.

Erfið byrjun fyrir sænsku stjórnina

Fredrik Reinfeldt

Í gær var vika liðin frá því að ríkisstjórn borgaraflokkanna undir forsæti Fredrik Reinfeldt tók við völdum í Svíþjóð. Það verður þó seint sagt að óskabyrjun marki fyrstu viku valdaferils flokkanna, en hvert vandræðamálið hefur rekið annað síðustu dagana og sér ekki fyrir endann á vandræðaganginum. Mest hljóta að teljast nokkur vandræði Mariu Borelius, viðskiptaráðherra Svíþjóðar, en vist hennar í ráðuneytinu byrjaði fljótt á uppljóstrunum um að hún hefði greitt dagmæðrum laun á síðasta áratug án þess að gefa það upp til skatts. Baðst hún fyrirgefningar á því og sagðist forsætisráðherrann ætla að veita henni annað tækifæri til viðbótar við þetta.

Nú hefur að auki komist upp að viðskiptaráðherrann og Greger Larsson, eiginmaður hennar, eiga sveitasetur í Falsterbro í Svíþjóð sem skráð er á félag sem mun vera vistað í skattaskjólinu Jersey. Eins og það sé ekki nógu skaðlegt hefur að auki verið upplýst í sænskum fjölmiðlum í gær og í dag að þau hjón munu eiga íbúð í Cannes sem skráð er á mann að nafni Karl Larsson, en millinafn eiginmanns ráðherrans er Karl, greinilega til að fela eignir, eða látið er að því liggja í fjölmiðlum. Vandræðalegust varð þó uppákoman er Borelius sagðist ekki haft efni á öðru en greiða dagmæðrunum svart er upp komst að tekjur hjónanna voru þá um 16 milljónir sænskra króna.

Maria Borelius

Það má fullyrða að staða Mariu Borelius sé orðin svo veik að henni verði varla sætt mikið lengur, hneykslismálin séu orðin það mörg og erfið fyrir hana að hún standi þau ekki af sér. Forsætisráðherrann, sem sagðist veita henni eitt tækifæri, hefur sagt að nú muni lögmenn Hægriflokksins fara yfir mál ráðherrans og afla sér upplýsinga um þau og svo taka af skarið hvort henni sé sætt. Sænskir fjölmiðlar fjalla ekki um neitt annað en vandræðagang Borelius og fullyrða má að henni verði ekki sætt.

Að auki öllu þessu hefur verið upplýst að Cecilia Stegö Chilò, menntamálaráðherra, hafi ekki greitt afnotagjöld af sænska ríkisútvarpinu í heil 16 ár. Vart þarf að taka fram að Cecilia er æðsti yfirmaður sænska útvarpsins og því er þetta mjög pínlegt fyrir hana og stjórnina. Mun hún hafa leynt forsætisráðherranum þessu fyrir ráðherravalið. Einnig hefur komið í ljós að Maria Borelius hefur ekki greitt afnotagjöld eftir að hún flutti lögheimili sitt til Stokkhólms og annar ráðherra, Tobias Billström, hefur ekki greitt gjöldin heldur.

Fredrik Reinfeldt

Í ofanálag við allt fyrrnefnt hafa tveir ráðherrar viðurkennt að hafa reykt hass á árum áður og umhverfisráðherrann, Andreas Carlgren, er talinn ekki hafa greint rétt frá tekjum sínum til skattayfirvalda. Þetta er alveg ótrúleg staða og með ólíkindum hvernig þessir ráðherrar komust til forystustarfa. Ekki hefur mikil athugun allavega farið fram á þeim. Telja má fullvíst að Reinfeldt neyðist til að endurskoða tilvist nokkurra þeirra í ríkisstjórn.


mbl.is Fyrsta vikan var nýju sænsku ríkisstjórninni erfið
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Rólegt yfir stjórnarskrárnefndinni

Skjaldarmerki

Það styttist nú mjög í alþingiskosningar. Brátt mun ráðast hvort stjórnarskrárbreytingar verði að veruleika fyrir lok kjörtímabilsins. Um þessar mundir eru tvö ár liðin frá því að Halldór Ásgrímsson, fyrrv. forsætisráðherra, skipaði nefndina. Henni var sett það verkefni einkum að endurskoða fyrsta, annan og fimmta kafla stjórnarskrár. Í nefndinni eru; Jón Kristjánsson, formaður, Þorsteinn Pálsson, Bjarni Benediktsson, Birgir Ármannsson, Jónína Bjartmarz, Guðjón A. Kristjánsson, Össur Skarphéðinsson, Kristrún Heimisdóttir og Steingrímur J. Sigfússon. Geir H. Haarde og Ingibjörg Sólrún Gísladóttir voru í nefndinni við skipun hennar en sögðu sig úr henni árið 2005.

Það mun væntanlega ráðast fyrir lok þessa mánaðar hvort að fram komi frumvarp á þessu þingi um að breyta stjórnarskrá. Það var markmiðið, enda var sagt í skipunarbréfi að nefndin ætti að skila tillögum sínum fyrir árslok 2006, frumvarp liggja fyrir í ársbyrjun svo að það mætti verða að lögum fyrir kosningar, en stjórnarskrá er aðeins hægt að breyta með kosningum og staðfest af þingi fyrir og eftir kosningar. Það verður ekki annað sagt en að rólegt hafi verið yfir þessari stjórnarskrárnefnd. Það virðist lítil samstaða um hversu miklar breytingar eigi að verða og þá á hvaða þáttum. Mikið hefur verið deilt t.d. um 26. greinina, hvað varðar málskotsrétt forsetans.

Það er mikill skaði ef ekki næst samkomulag eða lagt verður fram frumvarp um einhverjar breytingar á stjórnarskránni á þessum þingvetri. Fyrir nokkrum vikum sagði Jón Kristjánsson, formaður nefndarinnar, að um gæti orðið að ræða litlar breytingar og nefndi í þeim efnum vissar tillögur. Þótti mér það frekar rýr breyting. Ég held að það liggi fyrir að engar megináherslubreytingar verða með samstöðu, það er frekar leitt að segja það, en svo er það. Æskilegast er vissulega að samstaða geti náðst um breytingar, en meginátök í stjórnmálum mega þó alls ekki koma í veg fyrir að fram komi einhverjar áþreifanlegar breytingar á stöðu mála.

Mér finnst það viss vonbrigði hversu rólegt hefur verið yfir þessari nefnd. Hún hefur haft tvö ár til verka og það virðast hverfandi líkur á að samkomulag náist um breytingar, í takt við það sem rætt var er nefndin var skipuð. Væntanlega verða næstu dagar örlagaríkir í þessari vinnu. Það verður fróðlegt að sjá hvort og þá hvaða breytingar muni koma fram við vinnulok nefndarinnar fyrir áramótin, enda blasir við að eigi tillögur að verða að veruleika verði þær brátt að koma fram, enda tíminn að verða af skornum skammti til verka.


Fundaherferð Péturs í prófkjörsslagnum

Pétur H. Blöndal

Á meðan að flestir prófkjörsframbjóðendur í Reykjavík eru að opna heimasíður og kosningaskrifstofur sínar til að kynna sig beitir Pétur H. Blöndal, alþingismaður, allt öðrum aðferðum. Í stað hins hefðbundna er Pétur með opna málefnafundi, fundaröð um frelsi og velferð í samfélaginu, til kynningar á sér og sínum stefnumálum í kosningabaráttunni. Mun Pétur stefna að sex fundum og þar verði tekið fyrir eitt mál á hverjum þeirra. Mun Pétur hafa valið sér fundarstjóra sem allir eiga það sameiginlegt að hafa gjörólíkar skoðanir á málum og hann. Meðal þeirra sem verða fundarstjórar eru m.a. Andri Snær Magnason, Guðrún Helgadóttir og Sigursteinn Másson.

Stefnt er að fundum um umhverfismál, málefni aldraðra, stöðu öryrkja, skattamál, Evrópumál og fjármagnskerfið. Munu fundirnir allir verða í Odda í Háskóla Íslands og sá fyrsti mun verða á morgun. Pétur beitti svipaðri taktík í prófkjörsslagnum árið 2002 og hélt þá fjóra fundi í Odda til að kynna sig og var þar frummælandi með einstaklingi á hverjum fundinum fyrir sig sem voru allir vinstrimenn. Þetta mæltist vel fyrir og Pétur náði góðum árangri í því prófkjöri. Ég var einmitt að hugsa um daginn hvernig Pétur myndi hafa baráttuna nú, enda hvergi séð hann vera með vef né skrifstofu.

Þetta verður fróðlegt með að fylgjast. Annars var Pétur með heimasíðu eitt sinn, en það var ekkert annað en prófkjörsvefur svosem fyrir síðustu kosningar, og merkilegt að sjá hvort hann opnar ekki vefinn aftur á lokavikum baráttunnar. Ef marka má auglýsingar síðustu daga stefnir Árni Johnsen að svipaðri fundaherferð í Suðurkjördæmi og hefur þar auglýst fjölda funda um allt kjördæmið fram að prófkjöri, en þeir verða þó ekki eins uppbyggðir og fundir Péturs í Odda.

Það er allavega ekki hægt að segja annað en að þetta sé barátta mjög frábrugðin því sem flestir aðrir gera á þessum tíma þegar að styttist í prófkjörsdaginn.


Skrautlegt hlerunarmál

Jón Baldvin

Sífellt skrautlegra verður hlerunarmálið sem kennt er við Jón Baldvin Hannibalsson. Í gærkvöldi var Jón Baldvin gestur Sigmars Guðmundssonar í Kastljósi. Þar var rætt um hlerunarmálið og tengdar hliðar þess. Þar fannst mér ráðherrann fyrrverandi tala um þessi mál enn merkilegar en áður, enda virðist manni þetta vera orðið svo kostulegt að líkist í raun ótrúverðugum reifara. Mér finnst sífellt vera að verða æsilegri atburðarásin öll. Mér finnst persónulega mjög ótrúlegt að einhver maður hafi setið og hlerað daginn út og inn þennan síma. Sé þetta rétt er það þó auðvitað mjög stórt mál og enn og aftur undrast maður af hverju þetta var ekki almenningi ljóst fyrr en nú.

Þögn Jóns Baldvins Hannibalssonar í þessum efnum í heil þrettán ár er æpandi í þessu máli. Það kemur engan veginn heim og saman að einn allra valdamesti maður landsins hafi ekki getað skýrt þjóðinni frá þessu máli, hafi það gerst á þeim tíma. Mér fannst Jón Baldvin alveg kostulegur er hann reyndi eiginlega mun frekar að lýsa Rúmeníu hins alræmda Ceausescu-tíma frekar en því Íslandi sem ég upplifði í upphafi tíunda áratugarins. Það er mjög undarlegt hafi maður sem hafði örlög ríkisstjórnarinnar í hendi, áður slitið tveim ríkisstjórnum, ekki bein í nefinu til að segja þjóðinni stöðu mála hafi hleranirnar gerst og hann komist að einhverju slíku. Hann hafði öll tækifæri til að segja frá þessu, en notaði þau ekki. Mér finnst það mjög alvarlegt mál og hlýtur að kasta rýrð á frásögn hans.

Fannst merkilegt að heyra viðtalið í Kastljósi við Magnús Skarphéðinsson, bróður Össurar Skarphéðinssonar, þingflokksformanns Samfylkingarinnar. Hann sagðist fyrir tilviljun hafa "dottið inn í" símtal milli Þorsteins Pálssonar, þáv. forsætisráðherra, og Halldórs Blöndals, alþingismanns. Þetta er merkileg uppgötvun. Það væri fróðlegt að heyra meira um það hvernig að Magnús datt inn í símtal milli forsætisráðherra og stjórnarþingmanns. Finnst margt undarlegt í þessum efnum. Fyrst og fremst þarf að færa öll mál upp á borðið, rannsaka þau og fara yfir. Þetta er að verða eins og einn stór reifari sem maður hefur lesið í jólabókaflóðinu.

Það merkilegasta er að þetta eru raunverulegir valdamenn sem segja frá og eiga að hafa lent í svona atburðarás. Það merkilegasta er að enginn sagði frá neinu og allt er hulið á bakvið þagnargler fortíðarinnar. Mér finnst það mjög ámælisvert, í sannleika sagt.


mbl.is Fullyrðir að Jón Baldvin hafi sætt hlerunum
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Gorbachev fer aftur í Höfða

Mikhail Gorbachev

Nú á þessu kvöldi eru tveir áratugir frá því að leiðtogafundinum sögufræga í Höfða lauk. Það var merkilegt að sjá Sovétleiðtogann fyrrverandi Mikhail Gorbachev aftur í Höfða á þessum degi, tveim áratugum eftir að leiðir hans og Reagans forseta skildu, og minnast með forystumönnum úr íslensku þjóðlífi þessa fundar. Þetta kvöld árið 1986 þótti vera kvöld vonbrigða, flestir töldu fundinn misheppnaðan og hans yrði minnst fyrir mistök við að ná samkomulagi. Það fór ekki svo. Þar voru stigin skref í áttina að frægu samkomulagi. Þetta var fundur árangurs í að ljúka kalda stríðinu og reka fleininn í kommúnistastjórnir í Austur-Evrópu.

Þetta var fundur árangurs við að ljúka sögulegum átökum sem stóðu í áratugi. Það er við hæfi að þessi friðarverðlaunahafi Nóbels komi hingað og minnist þessa árangurs nú. Það er líka mjög áhugavert að heyra skoðanir hans á þessum fundi og árangrinum sem náðist í þessari Íslandsför hans. Það varpar vissum skugga að enginn forystumaður vestanhafs frá skyldi koma hingað nú. Reagan forseti er látinn fyrir nokkrum árum, en var veikur í áraraðir þar áður, en það hefði verið vel til fundið að fá t.d. George Schultz, fyrrum utanríkisráðherra, hingað líka. Til að gera sögulega séð upp fundinn í Reykjavík, fundinn sem markaði þáttaskil.

mbl.is Mikhaíl Gorbatsjov heimsótti Höfða
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Merkilegar hugleiðingar Þórarins um VG

Þórarinn Hjartarson

Ég verð að viðurkenna að ég er ekki daglegur gestur á vefnum Múrinn. En ég leit þangað í gær og sá þar merkilega grein Þórarins Hjartarsonar um VG, flokk Steingríms J. Sigfússonar. Það var athyglisverð lesning. Eins og margir vita er Þórarinn sonur Hjartar E. Þórarinssonar, bróður Kristjáns Eldjárns, þriðja forseta lýðveldisins. Hjörtur, sem var bóndi á Tjörn og þekktur framsóknarmaður var mikill héraðshöfðingi í Svarfaðardal allt til dánardags árið 1996. Afkomendur hans hafa þótt vera mjög til vinstri. Allir sem þekkja til Þórarins vita að pólitík hans er mjög til vinstri. Hann hefur verið stoltur af þeirri stefnu og hann hefur óhikað haft skoðanir á þjóðmálum alla tíð.

Það er mjög merkilegt að sjá skrif Þórarins um VG. Þar er að finna hárbeitta gagnrýni á starfið innan VG og skipulag á ýmsum grunni. Greinilegt er að hann telur VG ekki nógu vinstrisinnað fyrir sinn smekk og finnur að ýmsu þar innbyrðis. Mikið hefur verið rætt og ritað um málefni VG og hvernig flokkurinn starfar. Það er mikið talað um að Steingrímur J. Sigfússon miðstýri flokknum sem eigin veldi að öllu leyti. Mikið hefur heyrst um inngrip hans í framboðsmálum fyrir kosningarnar 2003, t.d. í Norðvestur- og Suðvesturkjördæmi. Flestir muna t.d. eftir darraðardansinum sem varð um leiðtogastólinn í kraganum þar sem SJS beitti sér.

Það vekur mikla athygli að stjórn kjördæmisráðs VG í Suðurkjördæmi sæki leiðtogaframbjóðanda í Atla Gíslasyni, lögmanni. Það er nokkuð merkilegt að þeir vinstrimenn sem gagnrýndu innkomu Árna M. Mathiesen inn í þingframboð í Suðurkjördæmi þar sem hann fer í prófkjör finni ekki að því hvernig rauðum dregli er hent inn fyrir Atla. En þetta er eins og það er. Það stefnir að auki í merkilegt prófkjör hjá VG í þrem kjördæmum, þar sem sameiginleg kosning verður á lista í kraganum og borgarkjördæmunum. Það eru vissulega nokkuð nýir tímar í prófkjörssögu landsins að þar sé kosið í þrem kjördæmum, en borgin er vissulega eitt sveitarfélag.

Hér í Norðausturkjördæmi verður forval skilst manni, þar sem fólk getur gefið kost á sér og flokksmenn geta nefnt ný nöfn. Er á hólminn kemur er það mál kjörnefndar að stilla upp listanum til kjördæmisþings. Ég er svolítið hissa á Steingrími J. að hafa ekki prófkjör með því lagi og þar sé gefið færi á jafnmikilli spennu og einkennir t.d. nú framboðsmálin hjá okkur sjálfstæðismönnum og samfylkingarmönnum. En kannski er það ekkert undarlegt með hliðsjón af skrifum Þórarins. Það var fróðlegt að lesa hana og sjá hvernig að vinstrisinnaður hugsjónamaður lítur á flokkinn sinn.

Jón Gunnarsson í þingframboð

Jón Gunnarsson

Jón Gunnarsson, formaður fulltrúaráðs sjálfstæðisfélaganna í Kópavogi, hefur nú tilkynnt um þingframboð sitt í kraganum og býður sig fram í fjórða sætið. Hann stefnir því á sama sætið og Sigurrós Þorgrímsdóttir, alþingismaður og bæjarfulltrúi í Kópavogi, Ragnheiður Elín Árnadóttir, aðstoðarmaður Geirs H. Haarde, forsætisráðherra, og Bryndís Haraldsdóttir, varabæjarfulltrúi í Mosfellsbæ. Það stefnir því í hörkuspennandi slag um þetta sæti. Um þriðja sætið munu svo allavega berjast þau Ragnheiður Ríkharðsdóttir, bæjarstjóri í Mosfellsbæ, og Ármann Kr. Ólafsson, forseti bæjarstjórnar í Kópavogi.

Eins og vel hefur komið fram áður stefnir flest í að enginn fari fram gegn Þorgerði Katrínu Gunnarsdóttir, menntamálaráðherra, og Bjarna Benediktssyni, alþingismanni, sem hafa gefið kost á sér í fyrsta og annað sætið, en þau eru einu þingmenn Sjálfstæðisflokksins í Suðvesturkjördæmi kjörnir 2003 sem gefa kost á sér til endurkjörs. Sigurrós varð formlega alþingismaður í Suðvesturkjördæmi í maílok þegar að Gunnar I. Birgisson, bæjarstjóri í Kópavogi, sagði formlega af sér þingmennsku, en hún tók þó oft sæti á þingi á kjörtímabilinu, bæði við ársleyfi Gunnars og í fæðingarorlofi Þorgerðar Katrínar á þingvetrinum 2003.

Þetta verður því greinilega spennandi prófkjör um neðri sætin, þriðja til sjötta, að öllum líkindum. Það er þó mjög merkilegt að formaður fulltrúaráðsins í Kópavogi berjist við bæjarfulltrúa og þingmann úr Kópavogi um sama sætið. En það er fyrir öllu að spennandi prófkjör verði í kraganum og það er ljóst að nokkur spenna verður á kjördag, 11. nóvember nk.


mbl.is Jón Gunnarsson býður sig fram
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Fyrri síða | Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband