Færsluflokkur: Stjórnmál og samfélag

Jón Baldvin og hlerunarmálið

Jón Baldvin

Enn skrautlegri verður atburðarásin í hlerunarmálinu svokallaða sem snýr að Jóni Baldvin Hannibalssyni, fyrrum utanríkisráðherra og formanni Alþýðuflokksins. Jón Baldvin hefur nú staðfest sjálfur að hann lét ráðherra Sjálfstæðisflokksins í ríkisstjórn Sjálfstæðisflokks og Alþýðuflokks 1991-1995 ekki vita af þessu og væntanlega lét hann ekki heldur samherja sína innan Alþýðuflokksins vita af því heldur. Ef marka má Jón Sigurðsson, iðnaðar- og viðskiptaráðherra á þeim tíma, sem var nánasti samstarfsmaður Jóns Baldvins í formannstíð hans vissi hann ekki af þessu á þeim tíma sem þetta á að hafa gerst. Þetta er því að öllu leyti verulega flókið og undarlegt mál.

Skv. upplýsingum Jóns Baldvins í viðtali í dag stendur hann fullyrðingar sínar þess efnis að tæknimenntaður maður eigi að hafa sagt við sig að skrifborðssími hans í utanríkisráðuneytinu hafi verið hleraður. Hann segist í gær hafa fengið staðfestingu þessa eftir að hafa talað við fyrrum yfirmann í tæknideild Landssímans. Þetta er nokkuð kostulegt. Það skiptir nákvæmlega engu máli hvað gerist núna, heldur hvað gerðist og hvernig á þeim tíma sem upp á að hafa komist. Það er með algjörum ólíkindum að Jón Baldvin hafi ekki gert málið opinbert í utanríkisráðherratíð sinni og ekki heldur gert nánum samstarfsmönnum sínum á stjórnmálavettvangi grein fyrir því.

Jón Baldvin virðist velja morgunþátt Jóhanns Haukssonar sem vettvang uppljóstrana af svo stóru tagi. Í morgun var hann þar aftur að ræða þessi mál af krafti. Ég verð að segja það alveg eins og er fyrir mig að ég undrast framgöngu og talanda Jóns Baldvins. Hví var þetta ekki gert opinbert eða rannsakað fyrir þrettán árum? Við hvað á Jón Baldvin að hafa verið hræddur? Við erum ekki að tala um neinn undirmálsmann í íslenskum stjórnmálum. Jón Baldvin gekk frá tveimur ríkisstjórnum á sínum stjórnmálaferli, bæði ríkisstjórn Þorsteins Pálssonar árið 1988 og svo hljóp hann á brott frá Steingrími og Ólafi Ragnari árið 1991 er hann gekk til stjórnarsamstarfs með Davíð Oddssyni.

Ef marka má talsmáta Jóns Baldvins segir hann nú frá því að yfirmaðurinn hjá tæknideild Símans eigi að hafa tekið eftir ókunnugum manni í tengigrindarsal Landssímans sem hefði setið þar með hlustunartæki. Yfirmaðurinn eigi að hafa hlustað á þegar að maðurinn skrapp frá og þar hafi hann heyrt samtal Jóns Baldvins við háttsettan mann. Mér finnst þetta svo alvarlegt mál að viðkomandi maður á að koma fram og greina frá því sem hann vissi um og undir nafni auðvitað. Þetta er mjög alvarlegt mál. Það þarf nú allt að koma fram í þessum efnum. Mér finnst þetta vera svo alvarlegt mál í alla staði að öll atriði verði að koma fram. Það er ekki viðunandi að hafa málið svona.

Eftir stendur að Jón Baldvin sat á þessum upplýsingum með að hafa vitað af síminn eigi að hafa verið hleraður í heil 13 ár. Það er ótrúlega langur tími og með ólíkindum alveg hreint að hann hafi ekkert notað málið sér í hag, t.d. þegar að Alþýðuflokkurinn klofnaði og gekk í gegnum mörg siðferðishneykslismál. Það eru því margar spurningar sem eftir standa. Þeim verður að svara. Undarlegast af öllu er að Jón Baldvin hafi ekki greint neinum samstarfsmanni sínum frá þessu, t.d. ekki forsætisráðherranum og dómsmálaráðherranum. Þetta er svo gríðarlega stórt mál að það er engin heil brú í því að ekki hafi málið verið rætt í valdatíð þessarar ríkisstjórnar fyrir 13 árum.

Í gær gagnrýndi Davíð Oddsson, seðlabankastjóri, Jón Baldvin og framkomu hans síðustu daga, enda hefði hann ekki rætt málið innan ríkisstjórnarinnar. Það vekur enda athygli t.d. að Jón Baldvin nefndi þetta mál ekki í þrengingunum í kosningabaráttunni 1995 og ekki heldur eftir að Davíð sleit samstarfinu við Alþýðuflokkinn vorið 1995. Það eru því margar spurningar í málinu.

Það er ekki nóg fyrir Jón Baldvin að gefa í skyn að samstarfið hafi verið veikt, enda vita allir að hann íhugaði annað stjórnarmynstur í miðju þessu samstarfi. Það kemur fram í ævisögu Steingríms Hermannssonar. Það verður seint sagt að Jón Baldvin hafi verið neyddur til samstarfs við Davíð. Það var jú Jón Baldvin sjálfur sem tryggði að Davíð varð forsætisráðherra árið 1991.


Ólöf Nordal gefur kost á sér

Ólöf Nordal

Ólöf Nordal, framkvæmdastjóri á Egilsstöðum og formaður sjálfstæðiskvenfélagsins á Fljótsdalshéraði, hefur ákveðið að gefa kost á sér í annað sætið á framboðslista Sjálfstæðisflokksins í Norðausturkjördæmi. Það er mjög merkilegt að Ólöf gefi kost á sér, að mínu mati. Hún er fyrsti formaður kvenfélags flokksins fyrir austan og hefur verið mjög öflug í starfinu þar eftir að hún fluttist austur fyrir nokkrum árum.

Ólöf er eiginkona Tómasar Más Sigurðarsonar, forstjóra Fjarðaáls (Alcoa) og dóttir Jóhannesar Nordal, fyrrum seðlabankastjóra.  Það verður fróðlegt að sjá hvernig staða hennar verður í væntanlegu prófkjöri, en það mun væntanlega verða fyrir lok næsta mánaðar og verða samþykkt á kjördæmisþingi um helgina.

mbl.is Ólöf Nordal stefnir á 2. sætið
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Varnarsamkomulag undirritað í Washington

Geir H. Haarde og dr. Condoleezza Rice

Dr. Condoleezza Rice, utanríkisráðherra Bandaríkjanna, Geir H. Haarde, forsætisráðherra, og Valgerður Sverrisdóttir, utanríkisráðherra, hafa nú undirritað samkomulag Íslands og Bandaríkjanna um framtíðartilhögun varna Íslands. Með því er búið að ganga frá öllum lausum endum í þeim málum og ný framtíð tekur við í kjölfarið. Reyndar er hún þegar orðin staðreynd, enda er auðvitað herinn farinn af Miðnesheiði og langri sögu Bandaríkjahers á Íslandi því liðin undir lok. Ég hef ekkert farið leynt með það að mér fannst framkoma Bandaríkjastjórnar við okkur er einhliða var tilkynnt um endalok herstöðvarinnar í mars fyrir neðan allar hellur og ekki þeim til sóma.

Varnarsamningurinn var endaspil í stöðu sem við gátum ekki snúið okkur í vil. Það er bara eins og það er. Ég var ánægður með að heyra skoðun Davíðs Oddssonar, fyrrum forsætisráðherra, á þessu máli í fréttatímanum hjá Stöð 2 í kvöld. Við erum algjörlega sammála. Við áttum ekki að láta bjóða okkur neinn afgang heldur að berja hnefanum í borðið. Það má vel vera að við hefðum ekki fengið neitt betra með því en með því hefðum við getað sýnt okkar rétta andlit. Íslendingar eiga að vera menn til að geta af hörku verið eigin herrar og verið ófeimnir að láta til sín taka. Mér hefur fundist það vera því miður skilningsleysi fyrir okkar þarfir í forsetatíð George W. Bush og svo mikið er víst að ekki hefur verið hlustað neitt á okkar hlið. Þetta varð allavega erfiðara eftir að Davíð hætti.

Það er enginn vafi á því að sá sem ber ábyrgð á framkomunni við okkur er Donald Rumsfeld, varnarmálaráðherra Bandaríkjanna. Mér finnst hann eiga lítið skilið af virðingu úr okkar herbúðum og frekar dapurlegt er nú að sá maður sé enn á ráðherrastóli í Pentagon. Það færi vel á því að Bush léti hann gossa fyrir þingkosningarnar til að reyna að bjarga því sem bjargað verður hjá repúblikönum í erfiðri stöðu núna. Rumsfeld átti reyndar að gossa fannst mér sumarið 2004 þegar að fram komu upplýsingar og síðar sannanir um pyntingar stríðsfanga í Írak. Það var óverjandi mál og þá átti að láta ráðherrann fara. Ég ætla að vona að hann hrökklist frá fyrir lok forsetaferils Bush.

Valgerður Sverrisdóttir og dr. Condoleezza Rice

Mér skilst að Condi Rice ætli að koma til Íslands bráðlega í opinbera heimsókn. Það eru svo sannarlega gleðitíðindi, enda kominn tími til að hún komi hingað og kynni sér stöðu mála. Það hefði betur gerst meðan að viðræðurnar stóðu um varnarmálin. Vissulega eru málefni Íslands lítill dropi í úthafi alþjóðastjórnmála. En það hafa lengi verið vinatengsl með þjóðunum og þau eiga stjórnarherrar vestra að virða meira en gert hefur verið á síðustu þrem árunum. Mér fannst t.d. mjög vandræðalegt fyrir ráðherrana okkar þegar að Condi talaði um Írland en ekki Ísland á viðkvæmum punkti blaðamannafundar hennar og forsætisráðherrans. Allavega mín skoðun.

Ég hef alltaf verið talsmaður vestræns samstarfs, góðs samstarfs Íslands og Bandaríkjanna. Mér finnst það skipta almennt séð miklu máli. En það verður að vera samstarf útfrá gagnkvæmri virðingu, það getur ekki bara verið einhliða úr okkar átt, finnst mér. Það verður aldrei neitt úr neinu sem einhliða telst. Einhliða brot á tvíhliða varnarsamningi sem við urðum vitni að lögðu flein í þetta farsæla samstarf sem tekur tíma að laga. Það verður fróðlegt að fylgjast með samskiptum þjóðanna næstu árin, þann tíma sem George W. Bush á eftir á forsetastóli, en nú styttist óðum í forsetaskipti vestanhafs.

mbl.is Rice þekkist boð Valgerðar um að koma í heimsókn til Íslands
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Davíð undrast ummæli Jóns Baldvins

Davíð Oddsson

Davíð Oddsson, seðlabankastjóri og fyrrum forsætisráðherra, staðfesti í kvöldfréttum Stöðvar 2 að hann hafði enga vitneskju um það fyrr en nú að sími Jóns Baldvins Hannibalssonar í utanríkisráðuneytinu eigi að hafa verið hleraður. Fátt hefur meira verið rætt í gær og í dag en utanríkisráðherrann hleraði og síminn og ummæli hans um að hann hefði komist að því að hann væri hleraður snemma á tíunda áratugnum, í tíð ríkisstjórnar Sjálfstæðisflokks og Alþýðuflokks undir forsæti Davíðs. Áður hefur Þorsteinn Pálsson, ritstjóri Fréttablaðsins, er var þá dómsmálaráðherra, sagst ekki hafa vitað af þessu fyrr en eftir útvarpsviðtalið.

Eins og ég sagði í skrifum mínum hér fyrr í dag vekur verulega mikla athygli að Jón Baldvin skyldi ekki ræða þessi mál við samstarfsmenn sína í ríkisstjórn. Það að Jón Baldvin hafi talið þetta eðlilegt og viljað halda því fyrir sig kemur ekki heim og saman, hreint út sagt. Það vekur líka mikla athygli að Jón Baldvin skyldi ekki fyrr gera þetta opinbert, heldur tala um þetta á árinu 2006. Honum hefði verið í lófa lagið að gera eitthvað í málinu í utanríkisráðherratíð sinni, þegar að hann var einn valdamesti maður landsins. Mér finnst það alvarlegt mál að Jón Baldvin hafi þagað yfir þessu öll þessi ár og það hlýtur að vekja spurningar um hvort öll sagan sé sögð.

Mér finnst vanta verulega stóran bita í þetta púsluspil Jóns Baldvins satt best að segja. Þetta einhvernveginn kemur ekki heim og saman. Það er allavega enginn vafi lengur á því að Jón Baldvin tjáði sig ekki um þessi mál við samstarfsmenn sína í Sjálfstæðisflokknum innan Viðeyjarstjórnarinnar né heldur gerði hann þetta að umræðuefni í alþingiskosningunum 1995 þar sem að hann barðist fyrir pólitísku lífi sínu, eftir klofninginn innan Alþýðuflokksins, er Jóhanna Sigurðardóttir sótti af krafti gegn sínum gamla flokki og Jóni Baldvin. Uppljóstrun þessa hefði gerbreytt kosningabaráttunni þá. Þetta virðist fyrst nú vera rætt milli manna. Það er stórundarlegt hreint út sagt.

Spurning vaknar um það hvort að Jón Baldvin tjáði samstarfsmönnum sínum innan Alþýðuflokksins á ríkisstjórnarárunum um þessa vitneskju sína. Ég trúi því varla að Jón Baldvin hafi einn byrgt þetta innra með sér öll þessi ár. Hafi þetta fyrst verið rætt manna á milli á vinstrivængnum nú á síðustu dögum vekur það verulega stórar spurningar, mun stærri en nú blasa við. Undarlegt þykir mér að fjölmiðlamenn gangi ekki á eftir Jóni Baldvini með þær vangaveltur hvort Rússarnir hafi kannski hlerað hann, í ljósi þess að hann lagði frelsisbaráttu Eystrasaltsríkjanna mikið lið. Hann fór reyndar til Litháen á þeim tíma og lagði líf sitt í hættu fyrir málstaðinn.

Enn merkilegra er það að Davíð Oddsson segir að símar ráðamanna hafi verið skoðaðir með hugsanlegar hleranir í huga árlega og það af NATO og norsku öryggislögreglunni. Það vekur stórar spurningar. Ekkert nema spurningar vakna í þessum efnum eftir þessa uppljóstrun Jóns Baldvins. Það að hann hafi beðið með að tala um þetta í heil 13 ár er með hreinum ólíkindum. Enn verra er svo að Jón Baldvin ýjar að því að lögreglan hafi hlerað símann. Það eru frekar undarlegar dylgjur í sannleika sagt. En allar hliðar þessara mála verða að fara upp á borðið. Það er svo einfalt.


Mikhail Gorbachev kominn til landsins

Mikhail Gorbachev

Mikhail Gorbachev, fyrrum leiðtogi Sovétríkjanna, er nú kominn til landsins til að minnast tveggja áratuga afmælis leiðtogafundar stórveldanna sem haldinn var í Höfða í Reykjavík, 11. og 12. október 1986. Það er stórviðburður að Sovétleiðtoginn fyrrverandi komi til landsins og verður fróðlegt að heyra fyrirlestur hans á morgun í Háskólabíói, þar sem hann fer yfir áhrif fundarins á alþjóðastjórnmál. Það var athyglisvert að sjá viðtal Þóris Guðmundssonar, varafréttastjóra Stöðvar 2 við hann í kvöldfréttum fyrir stundu. Þar ítrekaði hann fyrri ummæli sín um að fundurinn hafi markað þáttaskil í viðræðum um takmörkun kjarnorkuvopna og við endalok kalda stríðsins.

Sagðist Gorbachev að þar hafi komið fram í fyrsta skipti í viðræðum sínum með Ronald Reagan að þeir gæti samið og rætt saman málin með sáttatóni. Þó ekki hafi verið undirritaðir samningar um alheimsfrið eða takmörku kjarnavopna hafi þessi fundur grundvöllur alls sem síðar gerðist í alþjóðastjórnmál, er mörkuðu þáttaskil í heimsmálunum. Kom fram það mat hans að þeir hefðu á fundinum sýnt hugrekki, visku og ábyrgð. Það var fróðlegt að heyra skoðun hans á alþjóðastjórnmálum, einkum í ljósi kjarnorkutilrauna stjórnvalda í Norður-Kóreu hina síðustu daga sem mikið hafa verið í fréttum. Það er greinilegt að hann telur blikur á lofti í þeim efnum.

Leiðtogafundurinn í Höfða haustið 1986 spilar veigamikinn sess í Íslandssögunni og er okkur öllum í minnum hafður sem upplifðu þessa tíma. Persónulega gleymi ég aldrei biðinni á sunnudeginum 12. október 1986, þegar að myndavél Sjónvarps einblíndi í nokkra klukkutíma á hurðarhúninn á Höfða. Fundinum seinkaði og flestir töldu heimssögulegan atburð framundan hér á Íslandi. Það voru vonbrigði þegar að fundinum lauk án samkomulags og margir dæmdu hann misheppnaðan. Þetta voru sögulegir tímar og mjög eftirminnilegir. Útsending Sjónvarpsins á þessum tíma var mjög vönduð, en Ingvi Hrafn Jónsson stóð vaktina með sínu liði á fréttastofu Sjónvarpsins alla helgina.

Í gær var góð umfjöllun um leiðtogafundinn í Kastljósi. Þar fórum við um Höfða undir leiðsögn Davíðs Oddssonar, seðlabankastjóra og fyrrum forsætisráðherra, en hann var borgarstjóri í Reykjavík þegar að fundurinn fór fram. Fundarstaðurinn var eins og fyrr segir Höfði, sem er móttökuhús Reykjavíkurborgar. Það var margt fróðlegt sem fram kom í spjallinu og áhugavert að heyra hlið Davíðs Oddssonar á þessum sögufræga leiðtogafundi Reagans og Gorbachevs, sem fram fór í litlu húsi í Reykjavík, er varð miðpunktur heimsins helgi eina fyrir tveim áratugum.

mbl.is Mikhaíl Gorbatsjov kominn til landsins
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Bæjarstjóraembættið á Akureyri

Kristján Þór Júlíusson

Ég hef fengið margar spurningar síðustu daga hvernig verði með bæjarstjóraembættið hér á Akureyri fari svo að Kristján Þór Júlíusson sigri væntanlegt prófkjör flokksins í kjördæminu. Það er erfitt að fullyrða eitthvað um það, fyrr en að loknu prófkjöri. Mér finnst þó felast í yfirlýsingu Kristjáns Þórs að sigri hann prófkjörið muni hann hætta sem bæjarstjóri og halda algjörlega í þingframboðið. Í raun liggur með þessu öllu fyrir endanlega að hann fer ekki aftur í bæjarmálaframboð og hefur sagt skilið við bæjarmálin í raun og veru. Það vissu það í raun allir bæjarbúar þegar í vor að hann yrði ekki bæjarstjóri allt kjörtímabilið og skil væru komin á hans langa bæjarstjóraferil.

Það er vissulega nokkur óvissa í loftinu með stöðuna eins og hún er nú. Mikilvægt er að henni verði eytt sem allra fyrst eða í síðasta lagi eftir prófkjörið, sem verður væntanlega fyrir lok næsta mánaðar. Það hefur aldrei farið okkur vel að ekki sé stöðugleiki yfir. Það hefur þó í mínum huga blasað við um langt skeið að hér yrðu þrír bæjarstjórar á kjörtímabilinu. Þegar er ljóst að Hermann Jón Tómasson, leiðtogi Samfylkingarinnar og formaður bæjarráðs, verður bæjarstjóri sumarið 2009 og verður bæjarstjóri því síðasta ár kjörtímabilsins. Það hefur varla þurft skynsaman stjórnmálaspekúlant til að sjá að Kristján Þór yrði vart formaður bæjarráðs eftir þá breytingu.

Við sjálfstæðismenn eigum samkvæmt meirihlutasamningi embætti bæjarstjórans í tæp þrjú ár enn. Það er okkar að taka ákvörðun um nýjan bæjarstjóra á Akureyri fari svo að Kristján Þór Júlíusson verði leiðtogi Sjálfstæðisflokksins í Norðausturkjördæmi að loknu prófkjöri. Það liggur fyrir eftir viðtal Ríkisútvarpsins við bæjarstjórann að hann muni ekki vera í forystu Akureyrarkaupstaðar áfram liggi fyrir að hann taki sæti á Alþingi. Það hlýtur því að vera með þeim hætti að hann hætti sem bæjarstjóri að loknu prófkjörinu sigri hann það, enda liggur þá fyrir að hann taki sæti á Alþingi.

Í öllu falli munum við skipa embætti bæjarstjórans á næstu þrem árum. Fari svo að pólitísk þáttaskil blasi við Kristjáni Þór á næstu vikum, sem reyndar þegar hafa gerst með þessu þingframboði, mun það verða leyst fljótlega. Við eigum nóg af hæfileikaríku og öflugu fólki sem getur tekið við bæjarstjóraembættinu á Akureyri í okkar umboði. Allt mun þetta því ráðast fljótlega, að mínu mati.


Sigrún Björk, Helgi Vilberg og ég

Læt hérmeð fylgja með mynd frá fulltrúaráðsfundinum á mánudag, sem kemur úr tíufréttum Sjónvarps á mánudagskvöldið. Þarna erum við; Sigrún Björk Jakobsdóttir, forseti bæjarstjórnar, Helgi Vilberg, ritstjóri Íslendings, og ég.

Jón Baldvin og hleraði síminn

Jón Baldvin

Um fátt er nú meira talað en utanríkisráðherrann hleraða og símann hans. Eins og fram kom í skrifum mínum hér í gær tel ég þetta stóralvarlegt mál og mikilvægt að það verði kannað nánar. Það er mjög undarlegt mál að svo virðist vera að forsætis- og dómsmálaráðherra á þeim tíma sem Jón Baldvin Hannibalsson komst að því að skrifstofusími hans í utanríkisráðuneytinu hafi verið hleraður hafi fyrst vitað af því í gær, rétt eins og aðrir landsmenn. Það er stóralvarlegt mál að Jón Baldvin hafi fyrst í gær talið nauðsynlegt að deila þessum upplýsingum með okkur öllum. Þetta er eitthvað sem hann átti að opinbera vitneskju sína um þá þegar og hann komst að þessu.

Ég verð að taka undir skoðanir vinar míns, Halldórs Blöndals, fyrrum forseta Alþingis og ráðherra, sem fram komu í góðu viðtali við hann og Steingrím J. Sigfússon, formann VG, í Kastljósi í gærkvöldi. Það er nú orðið ljóst að hvorugur af valdamestu mönnum sem áttu að vita um þetta mál frá upphafi vissu ekki af því fyrr en í gær. Ég botna því ekki í þessu fjölmiðlaútspili Jóns Baldvins og þessa tímasetningu nákvæmlega. Hefði hann ekki átt að tilkynna meðráðherrum um þessa stöðu mála og eða einfaldlega að gera stöðuna opinbera á blaðamannafundi á árinu 1993, ef honum hefði verið full alvara með að opna allar hliðar málsins. Það er greinilegt að ekki er öll sagan sögð nú, tel ég.

Allir vita að Jón Baldvin Hannibalsson var ekki í hávegum hafður hjá Rússum eftir að hann spilaði sögulegt hlutverk í því að viðurkenna sjálfstæði Eystrasaltsríkjanna árið 1991. Það varð upphafið að endalokum Sovétríkjanna táknrænt séð, enda vildu allar þjóðirnar standa á eigin fótum eftir að Eystrasaltsríkin komu undir sig fótunum. Voru það Rússarnir sem voru að hlera Jón Baldvin og fylgjast með honum? Stór spurning, en vart óeðlileg í stöðunni sem uppi er. Mér finnst margt vanta enn í þessa sögu eftir að hafa kynnt mér hana betur. Af hverju tilkynnir Jón Baldvin fyrst nú um hleraðan síma fyrir 15 árum? Hví gerði hann ekki samstarfsmönnum í ríkisstjórn grein fyrir þessu?

Fannst líka merkileg saga Halldórs Blöndals í Kastljósinu í gær um að samtal hans og Þorsteins Pálssonar, í forsætisráðherratíð Þorsteins, hafi verið hlerað og Magnús Skarphéðinsson hafi takið samtalið upp og það verið spilað. Þetta er eitt þessara mála sem virka með hreinum ólíkindum og vekja mann til umhugsunar um að opna allt upp á gátt. Það virðist fjarstæða að tala um aðeins eina hlið hlerana og leynistarfsemi sé þessi frásögn og öll hlið hennar rétt er meira þeim megin en bara þetta. Svo leiðist mér mjög einhliða blaður Steingríms J. um að sjálfstæðismenn vilji þegja málið í hel. Veit ekki betur en að Halldór hafi flutt ræðu um daginn og hvatt til þess að allt yrði t.d. opnað.

Finnst þetta undarlegt mál og það væri gott að heyra söguna alla af þessu máli. Mér finnst þetta hálfsögð saga sem heyrist frá utanríkisráðherranum hleraða. Hversvegna í ósköpunum varð þetta ekki að umfjöllunarefni á æðstu stöðum meðan að Jón Baldvin Hannibalsson var einn valdamesti stjórnmálamaður landsins fyrir rúmum áratug. Hví gerir hann þetta að fjölmiðlamáli nú þegar að hann er orðinn rólegheitamaður úti í sveit. Þetta er mjög undarlegt mál og mikil þörf á að allir þættir fari upp á borðið og það rannsakað til fulls. Það hefði átt að gera fyrir þessum 13 árum eiginlega þegar að Jón komst að því að hann var hleraður.

Mjög tvísýnar kosningar í Bandaríkjunum

Dennis Hastert

Það stefnir í mjög spennandi þingkosningar í Bandaríkjunum eftir mánuð. Staðan er slæm fyrir repúblikana. Það stefnir í að fulltrúadeildin sé töpuð nú, jafnvel öldungadeildin líka. Þetta verður harður slagur seinustu vikurnar. Foley-hneykslið hefur skaddað Repúblikanaflokkinn verulega. Flokkurinn sem hefur viljað telja landsmönnum trú um síðustu árin að hann sé táknmynd heiðarleika og virðingar í bandarískum stjórnmálum er skaddaður vegna siðferðishneykslismála og vandræðagangs. Fyrir ári hefði sá sem spáð hefði um að repúblikanar myndu missa yfirráðin í báðum þingdeildunum væntanlega verið talinn verulega galinn. Svo er ekki nú um stundir.

Það er ekki hægt að segja annað en að staða Dennis Hastert, forseta fulltrúadeildarinnar, sé verulega slæm. Hann svaf alltof lengi á verðinum í Foley-málinu og hlýtur að vera í verulega vandræðalegri stöðu gagnvart umbjóðendum sínum í Illinois þessar vikurnar. Pressan var mikil á hann um að segja af sér, en hann gerði það ekki og sneri vörn í sókn með stuðningi forsetans og lykilráðgjafa hans. Það blasir við öllum að titringur er á valdamestu stöðum í Washington þessar vikurnar með stöðuna eins og hún er. Bush, Bandaríkjaforseti, mun missa nær allt pólitískt vald sitt í raun og veru innanlands fari svo að önnur, eða jafnvel báðar þingdeildirnar tapist flokknum.

Ný skoðanakönnun sem birtist í dag sýnir vaxandi fylgi demókrata á nær öllum vígstöðvum. Fulltrúadeildin er töpuð í þeirri könnun fyrir repúblikana og öldungadeildin á ystu nöf. Meirihluti flokksins í báðum deildunum er veglegur nú. Til dæmis þurfa demókratar að bæta við sig rúmum 15 sætum í fulltrúadeildinni og 6 í öldungadeildinni til að snúa þeim við. Það virðist nú geta gerst, fari allt á versta veg. Enn er þó mánuður til stefnu og væntanlega mun Bush reyna að gera allt til að varna því að missa yfirráð þingsins. Fari svo verða seinustu tvö ár forsetaferilsins sem martröð fyrir hann, án valdsins sem fylgir yfirráðum þingdeildanna syrtir verulega í álinn.

Ég fylgdist fyrst af alvöru með þingkosningum vestanhafs árið 1994. Það voru sögulegar kosningar. Repúblikanar náðu þá yfirráðum í fulltrúadeildinni eftir áratuga minnihlutasetu þar og náði öldungadeildinni ennfremur á sitt vald. Það var á þeim árum sem að Clinton var veikastur á stormasömum valdaferli. Síðan hefur flokkurinn ráðið fulltrúadeildinni en öldungadeildin hefur rokkast á milli flokkanna, en repúblikanar hafa samfellt ráðið henni nú frá janúarmánuði 2003.

Það verður óneitanlega mjög spennandi að fylgjast með þessari pólitísku stöðu næstu vikurnar vestan hafs og hvort að repúblikanar ná að snúa vörn í sókn í þessari erfiðu stöðu. Það hlýtur að vera svo að repúblikanar búast við hinu versta en vona hið besta þessar vikur í kosningabaráttunni sem er hin erfiðasta sem þeir hafa háð til fjölda ára.

mbl.is Demókratar auka forskot sitt í aðdraganda þingkosninganna
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Mikhail Gorbachev kemur til Íslands

Mikhail Gorbachev

Í dag eru tveir áratugir liðnir frá því að Mikhail Gorbachev, þáv. leiðtogi Sovétríkjanna, kom til Íslands á leiðtogafund sinn með Ronald Reagan, þáv. forseta Bandaríkjanna. Á morgun kemur hann aftur hingað, nú til að minnast tveggja áratuga afmælis leiðtogafundarins. Mun hann dveljast hér nokkra daga. Á fimmtudag mun hann halda fyrirlestur í Háskólabíói um fundinn og áhrif hans á alþjóðastjórnmál. Sjálfur hefur Gorbachev sagt að leiðtogafundurinn í Höfða í Reykjavík í október 1986 hafi haft úrslitaáhrif um að kalda stríðinu lauk og hafi verið örlagaríkur fyrir samskipti Bandaríkjanna og Sovétríkjanna, sem liðu undir lok með kalda stríðinu í byrjun tíunda áratugarins.

Það verður fróðlegt að fylgjast með komu Gorbachev til landsins, heyra boðskap hans og skoðanir t.d. á alþjóðastjórnmálum í dag, í breyttum heimi. Það er jú fátt sem að minnir á stöðuna sem uppi var októberdagana fyrir tveim áratugum þegar að hann kom hér síðast. Staða Bandaríkjanna er vissulega jafn öflug en ekki er hægt að segja annað en að staðan í austurvegi sé gjörbreytt. Sovétríkin liðuðust upp og eftir stendur breyttur heimur. Það verður því fróðlegt að heyra í Sovétleiðtoganum fyrrverandi. Ronald Reagan veiktist nokkrum árum eftir leiðtogafundinn af Alzheimer-sjúkdómi og sagði aldrei sína sögu af fundinum fyllilega. Hann lést árið 2004.

Ég hef aldrei farið leynt með að ég tel Mikhail Gorbachev einn merkasta stjórnmálamann níunda áratugarins. Hann hafði lykilstöðu í því að ljúka kalda stríðinu, fella járntjaldið og kommúnismann og síðast en ekki síst breyta heimsmyndinni. Þetta voru örlagatímar á þessum árum. Hann skipar þar sama sess og Reagan, Margaret Thatcher og Jóhannes Páll II páfi, sem þrátt fyrir að spila ekki hlutverk í stjórnmálaheiminum varð áhrifamikill um gang mála á þessum tíma. Gorbachev hlaut friðarverðlaun Nóbels árið 1990 fyrir framlag sitt til friðar. Vissulega er hann ekki fullkominn friðarpostuli, frekar en margir, en hans hlutverk á þessum örlagaríku tímum er nær óumdeildur.

Um er að ræða því stóran viðburð að hann komi hingað og fylgst verður vel með fyrirlestri hans. Leiðtogafundurinn 1986 hafði mikla sögulega þýðingu og fróðlegt að heyra minningar Sovétleiðtogans fyrrverandi frá fundinum í þessari Íslandsför.


Sími Jóns Baldvins í utanríkisráðuneytinu hleraður

Jón Baldvin

Það eru mikil tíðindi að heyra af því að skrifstofusími Jóns Baldvins Hannibalssonar, fyrrum utanríkisráðherra og sendiherra, hafi verið hleraður í utanríkisráðuneytinu. Jón Baldvin var utanríkisráðherra á árunum 1988-1995 og mun hafa komist upp um það á árinu 1992 eða 1993 að svo hafi verið og þá fundist hlerunarbúnaður í símtækjum hans. Þetta kom fram í máli Jóns Baldvins í morgunþætti Jóhanns Haukssonar á Útvarpi Sögu í morgun. Það er að mínu mati stóralvarlegt mál að símar utanríkisráðherra, eins valdamesta stjórnmálamanns í stjórnkerfi landsins, hafi verið hleraðir og að það séu innan við 15 ár frá því að slíkt eigi að komast upp.

Mér finnst þetta eiginlega svo alvarlegt mál að það verður að kanna með einhverjum hætti. Það er eiginlega þörf á því að öll mál kalda stríðsins hvað varðar leynilegt pukur verði að öllu leyti fært upp á borðið og gert opinbert. Mér finnst allar hliðar þessara mála yfir höfuð orðin svo alvarleg og umhugsunarverð að annað kemur ekki til greina. Það er t.d. mjög undarlegt að sjá og heyra um þessar hleranir. Það eitt að sími utanríkisráðherra fyrir svo skömmum tíma sé hleraður vekur stórar spurningar. Hafi það verið gert þá má aðeins ímynda sér hvernig þetta var á árunum sem kalda stríðið stóð í hámarki og allir tortryggðu alla í nær öllum mögulegum efnum.

Mikið hefur verið talað um eftir vel skrifaða grein Þórs Whitehead í Þjóðmálum að hér hafi starfað leyniþjónusta á vegum Sjálfstæðisflokksins. Mér finnst það alvarlegar ásakanir, sé það haft í huga að á þessu langa tímabili hafa setið vinstristjórnir við völd, sumar hverjir í nokkur ár samfellt. Fleiri menn en sjálfstæðismenn hafa verið dómsmálaráðherrar. Það verður að skoða málin almennt með mun víðari hætti en bara svo að kenna það við einn flokk. Það er staðreynd t.d. að framsóknarmaður, Ólafur Jóhannesson, var dómsmálaráðherra samfellt í tæpan áratug á áttunda áratugnum, fleiri hafa þeir svo sannarlega verið en bara hann.

Nú er tími kominn til þess að allir þræðir komi fram um leynistarfsemi á Íslandi. Margar spurningar standa t.d. eftir um pukur í sovéska sendiráðinu sem hefur verið rætt víða og um tengsl íslenskra sósíalista við Sovétríkin. Þegar hefur komið fram að peningar frá Sovétríkjunum voru settir í dagblaða- og flokkstengda útgáfu á vegum sósíalista. Það er kominn tími til að allt fari upp á borðið. Það verður að gerast eigi síðar en núna. Mér finnst það mikilvægt að nú séu tímar kalda stríðsins og alls sem gerðist þá mögulega og ómögulega komi fram að fullu.

mbl.is Sími Jóns Baldvins hleraður
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Fyrri síða | Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband