Færsluflokkur: Stjórnmál og samfélag

Spennandi leiðtogaslagur í Norðausturkjördæmi

Sjálfstæðisflokkurinn

Það liggur nú endanlega fyrir sem ég hafði spáð að Arnbjörg Sveinsdóttir, Kristján Þór Júlíusson og Þorvaldur Ingvarsson muni slást um leiðtogastól Sjálfstæðisflokksins í Norðausturkjördæmi í komandi kosningum. Það er reyndar ekki útilokað að bætist í þann slag, en síðustu daga hefur verið talað um að Sigurjón Benediktsson á Húsavík muni jafnvel gefa kost á sér í fyrsta sætið ennfremur, en væntanlega nefna þó fleiri sæti en hið fyrsta í þeim efnum. En það stefnir í mjög spennandi prófkjör. Það er enginn efi í mér og öðrum virkum flokksmönnum hér um að það verði prófkjör fyrir lok næsta mánaðar og verði samþykkt á kjördæmisþinginu að Skjólbrekku um helgina.

Ég fagna því að flokksmenn fái val um forystuna að þessu sinni. Það er nú kominn tími til að allir flokksmenn fái í hendurnar þann kost að velja sér sína forystu á framboðslistann. Það er líka sú forysta sem leiðir allt starf kjördæmisins næstu árin. Ég hafði sagt það í sumar á þessum vef að það yrði nú að vera prófkjör. Það er kominn tími til að hér verði saga prófkjörs mótuð. Eins og flestir vita hefur ekki verið prófkjör í norðurhluta kjördæmisins frá árinu 1987 þegar að Halldór Blöndal var kjörinn til leiðtogastarfa. Það er því mjög mikilvægt nú að við fáum öll að hafa skoðun á því hver eigi að leiða flokksstarfið og fara á þing að vori fyrir flokkinn. Það eflir flokkskjarnann mjög.

Ég spái mjög spennandi prófkjörsslag. Það er okkur öllum hollt að geta valið á milli frambærilegs fólks. Það styrkir flokkinn að geta tekið svona stuttan og snarpan slag. Að honum loknum sameinumst við fram til forystu í kjördæminu, heyjum góða og öfluga kosningabaráttu og berjumst til sigurs. Það eru spennandi tímar framundan í stjórnmálum í kjördæminu.


Mögnuð rimma Guðna og Össurar

Guðni Ágústsson Össur Skarphéðinsson

Það var stór dagur í stjórnmálunum í gær þegar að ákvarðanir ríkisstjórnarinnar til lækkunar matarverðs voru kynntar. Það var nokkuð magnþrungið að fylgjast með Guðna Ágústssyni, landbúnaðarráðherra, og Össuri Skarphéðinssyni, þingflokksformanni Samfylkingarinnar, ræða þessar fréttir dagsins í flottri hörkurimmu í Kastljósi í gærkvöldi. Guðni og Össur voru ekki fyllilega sammála, eins og við var að búast og tókust á af krafti um matarverðið, tollana og landbúnaðarmálin. Það var reyndar Guðni sem átti reyndar orð gærdagsins er hann sagði á blaðamannafundi ráðherranna í Ráðherrabústaðnum: "Það munu allir kokkar í eldhúsum Íslands gleðjast".

Ég hef aldrei farið leynt með þá skoðun mína að Guðni Ágústsson sé nokkur fornaldarmaður í íslenskum stjórnmálum. Hann er kannski síðasti framsóknarmaður gamla tímans í forystu Framsóknarflokksins. Þó að margir telji Jón Sigurðsson, formann Framsóknarflokksins, gamaldags stjórnmálamann er Guðni annað eintak. Hann er fulltrúi gömlu bændamenningarinnar og afkvæmi þeirra menningarheima innan Framsóknarflokksins. Það er óneitanlega oft skondið og skemmtilegt að heyra Guðna tala um stjórnmál frá sínu sjónarhorni. Hann er oft mjög orðheppinn og getur átt góða punkta í umræðuna. Ég er þó ekki alveg sammála honum í landbúnaðarmálunum.

Í þessari rimmu Guðna og Össurar heyrðum við tvær gjörólíkar hliðar á t.d. því hvernig koma eigi fram við landbúnaðinn. Guðni er talsmaður þess að slá upp verndarmúrum utan um allar hliðar landbúnaðarins. Það er mjög umdeild skoðun. Þessi niðurstaða stjórnarflokkanna sem kynnt er í gær er tímamótaniðurstaða, enda hefur Framsóknarflokkurinn aldrei fyrr ljáð máls fyrr á þeim meginbreytingum sem í yfirlýsingunni felast. Þetta er nokkuð í takt við það sem að Halldór Ásgrímsson sagði í kveðjuræðu sinni sem stjórnmálamaður í ágúst. Þetta er sú áhersla sem Halldór kynnti og Jón hefur fylgt eftir. Með vissum rammabreytingum fæst Guðni á þá skoðun.

Öll hljótum við að fagna þessari niðurstöðu. Hún boðar þáttaskil. Fyrst og fremst fylgdist ég ánægður með þessari rimmu Guðna og Össurar í sjónvarpssal. Það var rimma í kerskni og hressleika. Best af öllu fannst mér þó þegar að Guðni bauð Össuri með sér í sveitina til að kynna honum stöðu landbúnaðarins. Fyndið tilboð og fékk eflaust marga landsmenn til að hlæja. Það er óneitanlega fínt af landbúnaðarráðherranum að bjóða forystumönnum Samfylkingarinnar með sér í sveitasæluna. Mér skilst þó að slíkt hafi til þessa aðeins verið boðið leikskólabörnum í þéttbýlinu.

mbl.is SVÞ fagna ákvörðun ríkisstjórnarinnar
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Kristján Þór Júlíusson í leiðtogaframboð

Kristján Þór Júlíusson

Kristján Þór Júlíusson, bæjarstjóri, tilkynnti á fjölmennum aðalfundi fulltrúaráðs sjálfstæðisfélaganna hér á Akureyri í kvöld að hann sæktist eftir fyrsta sætinu á framboðslista Sjálfstæðisflokksins í Norðausturkjördæmi í komandi kosningum. Orðrómur hafði verið mikill síðustu mánuði að hann stefndi á þingframboð og varla vafi í huga flokksmanna hér á Akureyri að hann myndi fara fram, eftir að Halldór Blöndal, alþingismaður, tilkynnti formlega um að hann myndi draga sig í hlé að vori. Fyrr í dag gaf Þorvaldur Ingvarsson, lækningaforstjóri FSA, út yfirlýsingu um leiðtogaframboð sitt og í september tilkynnti Arnbjörg Sveinsdóttir, þingflokksformaður, um framboð sitt í fyrsta sætið.

Kristján Þór Júlíusson var bæjarstjóri á Dalvík 1986-1994, á Ísafirði 1994-1997 og hefur verið bæjarstjóri og leiðtogi Sjálfstæðisflokksins á Akureyri allt frá árinu 1998 og leitt flokkinn hér í bænum í þrennum kosningum. Kristján Þór hefur verið lengi virkur í stjórnmálum og unnið ötullega fyrir Sjálfstæðisflokkinn. Það kemur því engum að óvörum hér á þessum slóðum og væntanlega víðar, sem kynnst hafa Kristjáni Þór í flokksstarfinu að hann hafi áhuga á að sækja fram til forystu í Norðausturkjördæmi. Nú stefnir í spennandi prófkjör þar sem flokksmenn hafa góða valkosti til forystu. Kjördæmisþing mun formlega taka ákvörðun væntanlega um prófkjör um helgina.

Kristján Þór gaf kost á sér til varaformennsku á landsfundi Sjálfstæðisflokksins fyrir ári. Hann hlaut tæplega 40% atkvæða og beið því lægri hlut í snörpum varaformannsslag við Þorgerði Katrínu Gunnarsdóttur, menntamálaráðherra. Þá þegar varð orðrómurinn um þingframboðið sterkur og talið víst að landsmálin væru innan seilingar. Þetta er því rökrétt framhald þess sem nú hefur gerst. Í bæjarstjórnarkosningunum í vor gengu fjölmiðlamenn mjög nærri Kristjáni Þór með að fá svör um þingframboð og var um fátt meira talað í kosningabaráttunni en mögulegt landsmálaframboð bæjarstjórans.

Aðalfundur fulltrúaráðsins tókst mjög vel í alla staði. Þetta var góður og öflugur fundur, þar sem farið var yfir málin í aðdraganda kjördæmisþingsins um helgina og rædd staða mála á kjördæmavísu. Viðstödd fundinn voru allir leiðtogaframbjóðendurnir þrír og ávörpuðu Arnbjörg og Þorvaldur fundinn auk Kristjáns Þórs. Björn Magnússon var endurkjörinn formaður fulltrúaráðsins og engin breyting varð á skipan aðalmanna er kjörnir eru á aðalfundi. Ný lög fulltrúaráðsins voru samþykkt á fundinum, en þau hafa verið óbreytt frá árinu 1999.


mbl.is Kristján Þór Júlíusson sækist eftir fyrsta sæti í Norðausturkjördæmi
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Þorvaldur Ingvarsson í leiðtogaframboð

Þorvaldur Ingvarsson

Þorvaldur Ingvarsson, lækningaforstjóri FSA, sendi út fréttatilkynningu fyrir stundu þar sem hann tilkynnir að hann gefi kost á sér í fyrsta sæti á framboðslista Sjálfstæðisflokksins í Norðausturkjördæmi. Þorvaldur nam læknisfræði við Háskóla Íslands en hélt til framhaldsnáms í bæklunarlækningum í Svíþjóð og lauk doktorsprófi við Háskólann í Lundi. Hann hefur öðlast víðtæka reynslu innan heilbrigðisgeirans, starfað sem læknir og stundað jafnhliða því sérfræðistörf, kennslu og stjórnun. Hann hefur verið framkvæmdastjóri lækninga við Fjórðungssjúkrahúsið á Akureyri frá árinu 1998.

Þorvaldur Ingvarsson skipaði sjötta sæti framboðslista Sjálfstæðisflokksins í Norðausturkjördæmi í alþingiskosningunum 2003. Hann hefur verið formaður Sjálfstæðisfélags Akureyrar allt frá haustinu 2003 og setið í stjórn fulltrúaráðs sjálfstæðisfélaganna á Akureyri frá þeim tíma. Þorvaldur hefur lengi talað um þingframboð sitt og hefur nú ákveðið sig í þeim efnum. Þegar í sumar sagði hann í viðtali við blaðið Vikudag hér á Akureyri að hann myndi gefa kost á sér í efstu sæti og tiltók þá þegar 1. - 3. sætið.

Þessi framboðsyfirlýsing Þorvaldar Ingvarssonar hleypir lífi í framboðsmál okkar sjálfstæðismanna í kjördæminu. Búast má við að Kristján Þór Júlíusson, bæjarstjóri á Akureyri, muni síðar í dag tilkynna ennfremur um leiðtogaframboð sitt. Kjördæmisþing Sjálfstæðisflokksins í Norðausturkjördæmi verður haldið um næstu helgi og verður þá ákveðið hvernig skipan efstu sæta framboðslistans verður ákveðin. Tillaga stjórnar kjördæmisráðsins er að fram muni fara prófkjör.

Ég spáði því í færslu minni á vefnum á laugardag að bæði Þorvaldur og Kristján tilkynntu leiðtogaframboð í dag, mánudag, og það mun ganga eftir.

Matarverð lækkar

Mjólkurvörur

Geir H. Haarde, forsætisráðherra, og Jón Sigurðsson, viðskiptaráðherra, kynntu á blaðamannafundi í Ráðherrabústaðnum nú kl. 11:00 tillögur ríkisstjórnarinnar til lækkunar matarverðs. Þar eru mikil tíðindi að gerast svo sannarlega. Stefnt er að því að vörugjald af innlendri matvöru verði að fullu afnumið frá 1. mars nk. Sama dag mun virðisaukaskattur af matvælum, sem nú er 14%, verða 7% og sömuleiðis verður það 7% af þeim mat sem nú er í 24%. Ennfremur mun virðisaukaskattur af veitingaþjónustu sem nú er 24,5% lækka niður í 7%. Almennir innflutningstollar af kjötvöru mun lækka um allt að 40% samhliða þessu.

Um er að ræða mikil þáttaskil. Þetta er sannkallað gleðiefni fyrir alla neytendur. Þessar aðgerðir munu miðast við að færa almennt matarverð til jafns við meðalverð á matvörum sem gengur og gerist almennt hér á Norðurlöndunum. Þetta eru mjög góðar tillögur, sem eru öflugar og afgerandi. Á þeim var svo sannarlega þörf. Það var orðið vel ljóst að matarverð hér var alltof hátt og róttækra aðgerða var þörf. Við því var brugðist með vinnu stjórnarflokkanna sem lýkur með þessari farsælu niðurstöðu.

Skýrsla Hallgríms Snorrasonar, hagstofustjóra, í sumar markaði þáttaskil. Um var að ræða niðurstöður hans sem formanns matarverðsnefndarinnar, sem skipuð var af Halldóri Ásgrímssyni, fyrrum forsætisráðherra og formanni Framsóknarflokksins. Skýrslan var afgerandi og tók af skarið svo um munaði. Eftir það var ekki spurning um hvort heldur hvenær gripið yrði til róttækra aðgerða í þessum efnum.

mbl.is Virðisaukaskattur og tollar af matvælum lækka 1. mars
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Lokaorrusta Ómars austur í Hjalladal

Ómar Ragnarsson

Í kvöld horfði ég á fréttaskýringaþáttinn Kompás á Stöð 2. Hann var að þessu sinni algjörlega lagður undir Ómar Ragnarsson sem þessar vikurnar er á lokastigi síðustu orrustu sinnar til varnar Hjalladal austur á fjörðum. Þetta var vissulega nokkuð merkilegur þáttur, sem ég horfði á með nokkrum áhuga. Alla mína ævi hefur Ómar Ragnarsson spilað þar nokkuð merkilegan sess. Ég var smábarn þegar að ég átti eina mína fyrstu bernskuminningu. Það var er Hanna amma og Anton afi gáfu mér í jólagjöf plötu með barnalögum Ómars. Á fyrstu árum mínum spilaði platan stóran sess í huga mér og ég á hana reyndar enn, hún er þó niðri í kjallara núna, slitin og mjög úr sér gengin.

Ómar er á háum stalli í huga okkar flestra. Hann er vissulega goðsögn í lifanda lífi. Hann hefur með gríðarlega mikilli elju fært okkur minningar um landið okkar, minningar sem við metum mikils. Persónulega á ég gríðarlega mikið myndefni með Ómari. Við vorum minnt á fjársjóðinn sem hann hefur fært okkur öllum er um hann var gerður einn þáttur í röð þátta um sögu Sjónvarpsins nú í september. Á 40 árum Sjónvarpsins hefur Ómar verið í hlutverki íþróttafréttamanns, skemmtikrafts, íhuguls spyrils í mannlegum og heillandi viðtölum og fréttamanns sem kannað hefur landið og mannsálina í víðri merkingu þess orðs. Eftir stendur merk starfsævi sem allir virða.

Ómar á sennilega heiðurinn af einni stærstu stund íslenskrar sjónvarpssögu. Það var þegar að hann kynnti okkur fyrir Vestfirðingnum Gísla Gíslasyni á Uppsölum, alþýðumanni sem lifði sem á 19. öld væri en í raun var uppi á tækniáratugum 20. aldarinnar. Það var stór stund í íslensku sjónvarpi, að mínu mati sú stærsta. Hann færði okkur þennan mann heim í stofu og kynnti okkur fyrir honum, þó með nærgætni og tilfinningu. Ég horfði einmitt á þetta viðtal aftur um daginn, en ég á Stiklusafnið hér heima allt saman. Ég virði framlag Ómars í þessum efnum mikils og tel hann eiga heiður okkar allra skilið fyrir þau verk sín. Enginn hefur betur kynnt okkur fyrir svæðum, fjarlægum og fallegum.

Þrátt fyrir að ég beri virðingu fyrir Ómari fullyrði ég enn og aftur að barátta hans fyrir austan þessar vikurnar er vonlaus. Hún er töpuð. Lokaorrustan sem nú stendur, með Hálslón í myndun, er sár og erfið fyrir hann, enda ann hann landinu. Það hefur verið mín skoðun allt frá fyrsta degi að Ómar ætti að há þá baráttu með heiðarlegum og öflugum hætti. Það hafa allir vitað frá fyrsta degi að hann sýndi okkur myndefni úr Hjalladal að hann vildi ekki að Kárahnjúkavirkjun yrði að veruleika né heldur Fljótsdalsvirkjun. En það er hans réttur að hafa þá skoðun. Það voru hans stærstu mistök að segja sig ekki frá málinu sem fréttamaður í upphafi. Baráttuandi hans átti að njóta sín.

Þó að ég sé ósammála Ómari Ragnarssyni virði ég mikils framlag hans í skemmtana- og sjónvarpssögu landsins. Hún er okkur öllum ofarlega í huga. Það var mér lærdómur að kynnast hversu rík og sterk barátta hans er, hún kemur frá hjartanu hans. Þetta er barátta sem hann leggur allt í, peninga sína, vinnuþrek og allar stundir einkalífsins. Það er sárt að skynja að komið er að leiðarlokum. Þetta er töpuð lokaorrusta í erfiðum bardaga. En þrátt fyrir allt er Ómar eins og hann er. Hann er og verður eins og hann er. Þessi þáttur var vel gerður. Ég ætla ekki að amast út í einhliða frásögn eða það að Ómar og ég séum ósammála.

En þetta er bara svona. Eitt tap í einum bardaga þarf ekki að þýða endavík milli fólks, né heldur endatafl fyrir einstakling. Ómar rís yfir ágreininginn að svo mörgu leyti. Í mínum huga er Ómar maður hugsjóna sem berst sinni baráttu fyrir sínar skoðanir. Það er hans réttur og það ber að virða. Þó að skoðanir fari ekki saman er rétt að virða fólk hafi það skoðanir að láta þær í ljósi. Það átti Ómar Ragnarsson að gera frá fyrsta degi en ekki mæta í lokaorrustuna eina. Það voru hans mistök, sem enginn erfir held ég við hann í raun og veru.

Vandræði Ingibjargar Sólrúnar

ISG

Það var mjög athyglisvert að sjá Ingibjörgu Sólrúnu Gísladóttur í Silfri Egils nú eftir hádegið. Það er greinilegt að hún á í verulegum erfiðleikum með svokallaða umhverfisstefnu flokksins. Það er varla við öðru að búast með fulltrúa flokksins vælandi um að álver komi í þeirra byggðir á meðan að fyrir liggur stefna flokksforystunnar um að engin stóriðja komi til sögunnar á næstu fimm árum. Vandræðin á sér greinilega engin takmörk. Þetta er erfitt fyrir Ingibjörgu Sólrúnu og hún virðist varla vita hverju hún eigi að svara í þessum efnum. Þessi stefna fæddist andvana, hver tekur annars mark á svona umhverfisstefnu með lykilmenn um allt að minna á að nú vilji þeir fá álver til sín?

Það var greinileg fýla á bakvið brosin á sumum leiðtogum flokkanna í stjórnarandstöðunni þegar að samkomulag þeirra um samstarf var kynnt í vikunni. Stuðningur vinstri grænna við Halldór Halldórsson í formannskjöri á landsþingi Sambands íslenskra sveitarfélaga tryggði honum sigur í spennandi slag við Smára Geirsson, bæjarfulltrúa í Fjarðabyggð. Greinilegt er að vinstri grænum hugnaðist ekki að stóriðjusinnaður vinstrimaður innan úr Samfylkingunni yrði hafinn upp til vegs og virðingar með atkvæðum þeirra til öndvegis í Sambandi íslenskra sveitarfélaga. Það blasir við öllum að mikil fýla er meðal landsbyggðarmanna í Samfylkingunni með vinnubrögð vinstri grænna.

Það er frekar skondið að fullyrða að Samfylkingin sé heilt yfir andstæðingur stóriðju. Það er enda ekki þannig og því er þessi svokallaða umhverfisstefna hjómið eitt, að mínu mati. Mér fannst Kristrún Heimisdóttir, prófkjörsframbjóðandi Samfylkingarinnar í borginni, frekar vandræðaleg við að verja stöðuna innan flokksins í Silfrinu áðan. Það er ekki undrunarefni. Þar er hver höndin upp á móti annarri. Umhverfisstefnan hélt ekki vatni heila nótt, heldur varð úrvinda eins og skot. Tilraunir hennar við að verja afstöðu Samfylkingarinnar varðandi Kárahnjúkavirkjun á sínum tíma og önnur verkefni á vettvangi R-listans í borgarstjórn voru frekar máttlitlar, eins og við var að búast.

Það er alveg rétt sem að Egill Helgason sagði í Silfrinu áðan að Ingibjörg Sólrún hefur dalað mikið frá síðustu þingkosningum. Þá var hún vonarstjarna vinstrimanna eftir níu ára borgarstjóraferil og þrjá kosningasigra í Reykjavík. Staða hennar er allt önnur nú í upphafi þessa kosningavetrar. Það reynir nú á hvernig henni gengur. Hún stendur frammi fyrir erfiðu verkefni. Samfylkingin er að auki undarleg regnhlíf ólíks fólks í stjórnmálum. Umhverfisstefnan í felulitunum sýndi okkur vel þessar meginlínur á milli hægrikrata og verkalýðskomma sem þar eru saman komnir en eiga í grunninn ekki samleið. Það verður fróðlegt hvernig gengur með þennan hóp.

Meginlínur í því ráðast í prófkjörunum og hvernig listar flokksins raðast. Sérstaklega verður spennandi í borginni. Annars er mikið talað um að Ingibjörg Sólrún sé að sækja "sitt" fólk til framboðs og forystu og vilji skófla heilum slatta út af fólki, jafnvel þingmönnum sem eiga öflugt umboð að baki. Meðal þeirra er víst varaformaðurinn Ágúst Ólafur. Annars er það reyndar stórmerkilegt að sjálfur varaformaður Samfylkingarinnar hefur ekki sett markið enn á sæti og ekki virðast þeir sem koma inn úr armi Ingibjargar Sólrúnar, er sækja að þingmönnunum, ætla að hliðra til fyrir varaformanninum. Staða hans er varla alltof góð.

En þetta verður örlagavetur fyrir Ingibjörgu Sólrúnu. Nái hún ekki að halda Samfylkingunni hið minnsta í kjörfylginu 2003 og halda 20 þingmönnum er einsýnt hvernig fer. Þess vegna brosir hún vandræðalega til vinstri þessar vikurnar. Það er eini valkostur hennar til stjórnarforystu. Þetta blasir við.

Uppstilling í Norðvesturkjördæmi

Norðvesturkjördæmi

Kjördæmisráð Sjálfstæðisflokksins í Norðvesturkjördæmi samþykkti í dag á fundi sínum á Ísafirði uppstillingu á framboðslista sinn fyrir komandi þingkosningar. Það stefnir í að Norðvesturkjördæmi verði eina kjördæmið þar sem Sjálfstæðisflokkurinn stillir upp á lista, en enn á eftir að taka formlega ákvörðun í Norðausturkjördæmi, en þar verður kjördæmisþing um næstu helgi. Allir þingmenn flokksins í Norðvestri: Sturla Böðvarsson, Einar Kristinn Guðfinnsson og Einar Oddur Kristjánsson hafa lýst yfir framboði sínu.

Auk þeirra hafa Borgar Þór Einarsson, Bergþór Ólason og Birna Lárusdóttir lýst yfir framboði sínu. Það verður því nú verkefni uppstillingarnefndar að leggja fyrir kjördæmisþing tillögu sína að framboðslista. Í nóvember 2002 var haldið umdeilt prófkjör meðal sjálfstæðismanna í kjördæminu og kom til átaka vegna þess er Vilhjálmur Egilsson féll úr öruggu þingsæti. Bar hann við víðtækum brotum á prófkjörsreglum flokksins er beint hafði verið gegn sér. Það voru mikil átök sem fóru meðal annars fyrir miðstjórn með sögulegum hætti á sínum tíma.

mbl.is Stillt verður upp á lista Sjálfstæðisflokksins í Norðvesturkjördæmi
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Uppstokkun á þingi - vefir frambjóðenda

Alþingi

Dagarnir líða varla núna um þessar mundir án þess að við fáum fréttir af því að þingmenn séu að hætta eða að einhver maður eða kona úti í bæ vilji fara í prófkjör eða komast með öðrum hætti í mjúkan stól í steingráu húsi við Austurvöll. Þetta er merkilegur tími í stjórnmálum og svolítið gaman að upplifa þetta allt. Ég hef það mikinn áhuga á stjórnmálum að mér leiðist ekki svona árstími. Held reyndar að við séum að horfa upp á einhverja mestu uppstokkun á Alþingi í komandi kosningum. Mér telst til að 16 alþingismenn, kjörnir árið 2003 séu annaðhvort hættir eða að hætta. Svo munu einhverjir þingmenn fá reisupassann í prófkjöri væntanlega - verða hent út fyrir nýliða.

Það verður spenna í prófkjörunum um allt. Í gær voru birtir nafnalistar yfir frambjóðendur hjá Sjálfstæðisflokknum í Reykjavík og hjá Samfylkingunni í Suður- og Suðvesturkjördæmi. Í öllum prófkjörunum eru um 20 manns að gefa kost á sér. Það er gleðiefni að það er gott val í boði og nægir kostir fyrir kjósendur flokkanna er kemur að því að velja hverjir eigi að vera í forystusveit flokkanna fyrir þessar kosningar. Í samræmi við þennan áhuga eigum við von á miklu fleiri pólitískum heimasíðum býst ég við. Fólk fer varla orðið í prófkjör nú til dags nema að bjóða upp á eigin vettvang skoðana eða pælinga um stjórnmál, enda lágmark að þeir séu til staða fyrir kjósendur.

Í dag skoðaði ég nýjan og glæsilegan vef Ástu Möller, alþingismanns. Hún var í dag að opna kosningaskrifstofu sína í leiðinni. Finnst slagorðið hennar í prófkjörinu flott. Það er: Ásta - í ljósi reynslunnar. Þetta er flott slagorð. Það hefur flotta merkingu. Getur bæði þýtt að hana eigi að kjósa í ljósi reynslunnar síðast þegar að konur fengu skell. Þá féllu Ásta, Kata Fjeldsted og Lára Margrét úr öruggum sætum og duttu út í kosningunum 2003. Einnig getur það þýtt að hana eigi að kjósa vegna þess að hún er konan með reynsluna í prófkjörinu, eina konan í boði sem hefur átt sæti á Alþingi. Margir kostir. Allir góðir. Líst vel á þetta hjá Ástu.

Sigurður Kári opnaði í dag kosningaskrifstofu sína og vefsíðu framboðsins. Var að líta yfir hana nú í kvöld og líst virkilega vel á. Mér finnst Sigurður Kári hafa unnið vel á þingi og óska honum því að sjálfsögðu góðs. Ég skrifaði grein til stuðnings honum í síðasta prófkjöri og minnti vel þá reyndar á að ungu fólki yrði að treysta ofarlega. Það var gert. Gott yngra fólk flaug inn á þing og það á erindi að sjálfsögðu áfram. Siggi Kári er enn ungliði og þeirra fulltrúi. Það eru viss vonbrigði nú að ekki sé neinn í prófkjörinu undir þrítugu. Ég sakna þess að ungt og öflugt fólk skelli sér nýtt í slaginn, en það var mikið um það síðast og verður svosem ekki alltaf.

Í dag sá ég auglýsingar Guðfinnu S. Bjarnadóttur, rektors Háskólans í Reykjavík, í blöðunum. Hún fer af stað á morgun með skrifstofu og vef. Þar er þó kominn banner á vefinn fyrir formlega opnun. Líst vel á þá tóna sem Guðfinna setur sínu framboði. Þar er komin kona sem er reynslumikil á mörgum sviðum og býður sig fram sem öflugan valkost. Slagorðið hennar er líka virkilega flott og mér að skapi: Valfrelsi og skapandi umhverfi. Líst vel á alla tóna sem slegnir eru um meira frelsi og fagna því að hún nefni þetta orð. Það sýnir okkur vel hvert hún stefnir í sinni baráttu. Það verður að ég tel virkilega gaman að sjá stefnumálin hennar. Toppkona sem veit hvað hún syngur.

Illugi Gunnarsson, hagfræðingur, er kominn á flug. Það er virkilega gaman að líta á vefinn hans. Þetta er vefur lifandi skoðana og pælinga og vel uppfærður. Slagorðið er grípandi og gott: Ný verkefni - nýjar áherslur. Mér hefur alltaf líkað vel við Illuga og talið hann framtíðarmann í flokknum. Það er gaman að horfa á ávarpið hans Illuga á vefnum. Það er hárrétt sem hann segir að stjórnmál snúist svo mikið um að hlusta á aðra - skoðanir fólksins úti í bæ. Það á alltaf að vera svo að auðvelt sé að ná í stjórnmálamenn og fólk geti sent til þeirra skoðanir sínar og athugasemdir. Illugi slær allavega rétta tóna með vefnum og það er gaman að líta í heimsókn til Illuga.

Björn Bjarnason hefur breytt vefnum sínum og hefur breytt honum í lifandi prófkjörsvettvang í bland við sígildan vef skoðana og pælinga. Slagorðið hans er: Samstaða til sigurs. Flott slagorð. Björn hefur mikla reynslu að baki og þekkingu á lykilmálum í pólitík - hún er okkur nauðsynleg. Það var kostulegt að heyra undarlega stjórnmálaskýringu Steingríms Ólafssonar í Kastljósi í gær um Björn og Guðlaug Þór. Líkti hann þeim Guðlaugi og Birni við tölvu og ritvél og nefndi Björn greinilega sem ritvélina. Það mátti greinilega skilja orð hans með þeim hætti að Björn væri mjög gamaldags. Það er ljóst að hvorki hann né sessunautur hans í þættinum vilja veg Sjálfstæðisflokksins sem mestan.

Björn Bjarnason var fyrsti íslenski stjórnmálamaðurinn sem byrjaði með virka og lifandi heimasíðu þar sem birtust reglulega greinar um stjórnmál og málefni dagsins í dag. Hann hefur verið með vefsíðu í ellefu ár og alltaf verið þar hið minnsta með vikulegar greinar, síðustu árin hefur hann haldið dagbók þar. Þetta er því stórt safn skrifa um stjórnmál og þetta er eiginlega fjársjóður að lesa, enda er allt efnið auðvitað aðgengilegt með auðveldum og góðum hætti. Björn var því frumkvöðull í pólitík á netinu hérlendis.

Þegar að hann byrjaði með vef sinn voru margir að undrast það að Björn væri að leggja áherslu á þennan þátt sinnar stjórnmálaþátttöku. Þá þótti þetta ekki nógu kórrétt pólitík og það eru reyndar margir enn í pólitík svo virkilega gamaldags og úr öllum takti að varast netið með öllu og þora ekki að skrifa þar á hverjum degi um skoðanir sínar og pælingar. Á þessum grunni öllum er hlægilegt að heyra ummæli Steingríms Ólafssonar sem eru að mínu mati gjörsamlega út í hött að öllu leyti.

Sögupistill - Ragnhildur Helgadóttir

Ragnhildur Helgadóttir

Í sögupistli mínum sem birtist á vef SUS í dag fjalla ég um stjórnmálaferil Ragnhildar Helgadóttur. Hún var kjörin á þing fyrir Sjálfstæðisflokkinn, 25 ára gömul, árið 1956 og sat á þingi fyrir flokkinn um árabil. Hún varð önnur kvenna ráðherra í maí 1983 og var áberandi sem menntamála- og heilbrigðisráðherra. Undir hennar forystu var einokun ríkisins á ljósvakamarkaði hnekkt og samþykkt ný fæðingarorlofslöggjöf.

« Fyrri síða | Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband