Kristján Þór og Þorvaldur í leiðtogaframboð?

Kristján Þór Júlíusson Þorvaldur Ingvarsson

Telja má öruggt að á mánudag í síðasta lagi ráðist hvað þeir Kristján Þór Júlíusson, bæjarstjóri á Akureyri, og Þorvaldur Ingvarsson, lækningaforstjóri FSA, ætlast fyrir í framboðsmálum sínum. Flest bendir þó til að þeir muni takast á í væntanlegu prófkjöri Sjálfstæðisflokksins í Norðausturkjördæmi, sem væntanlega verður haldið laugardaginn 25. nóvember nk. Eftir viku verður haldið kjördæmisþing Sjálfstæðisflokksins hér í Norðausturkjördæmi og þar verður tekin afstaða til þess hvort haldið verði prófkjör eða stillt upp á lista. Tillaga stjórnar kjördæmisráðsins er að fram fari prófkjör. Óhætt er þó að segja að Akureyringar í flokksstarfinu bíði eftir ákvörðun Kristjáns Þórs og Þorvaldar. 

Ákvörðun þeirra mun hafa áhrif á prófkjörið, sést þess vel merki í því að beðið er eftir hvað þeir hyggjast fyrir. Nú þegar hafa enda aðeins þrír tilkynnt formlega um framboð. Arnbjörg Sveinsdóttir, þingflokksformaður, hefur tilkynnt um leiðtogaframboð, og Kristinn Pétursson og Sigríður Ingvarsdóttir, fyrrum þingmenn, hafa tilkynnt um framboð í 2. - 3. sætið. Öruggt má teljast að bæði Kristján Þór og Þorvaldur fari í prófkjörið. Nær alla tíð frá afsögn Tómasar Inga Olrich árið 2003 hefur verið rætt um að Kristján Þór færi í landsmálin við þessar kosningar og sá orðrómur var mikill fyrir síðustu bæjarstjórnarkosningar þegar að fréttamenn gengu nærri honum með svör.

Það leikur enginn vafi í huga fólks hér að Kristján Þór fari í leiðtogaslaginn. Vangavelturnar snúast meira um Þorvald. Hann var í sjötta sæti framboðslista flokksins í Norðausturkjördæmi í síðustu kosningum og hefur verið formaður Sjálfstæðisfélags Akureyrar frá haustinu 2003, þegar að Helgi Vilberg, ritstjóri Íslendings, lét af formennsku félagsins. Þorvaldur hefur verið að þreifa fyrir sér með sín framboðsmál og eftir því sem sagan segir vill hann reyna á leiðtogasætið sjálft, enda sé það laust. Þorvaldur sagðist í sumar í viðtali við Akureyrarblaðið Vikudag stefna á 1. - 3. sætið. Spurningin nú er sú hvort hann fari beint í leiðtogaframboð eða stefni á neðri mörkin.

Það má búast við spennandi átökum fari svo að Þorvaldur Ingvarsson bætist í fyrirfram planaðan leiðtogaslag Arnbjargar Sveinsdóttur og Kristjáns Þórs Júlíussonar. Flest bendir til að þeir tilkynni um framboð sín og fyrirætlanir sínar fyrir mánudagskvöldið í síðasta lagi. Það kvöld verður aðalfundur fulltrúaráðs sjálfstæðisfélaganna á Akureyri haldinn í Kaupangi og má telja öruggt að eigi síðar en þá verði staða mála ljós með þeirra framboðsmál. Fari svo að þetta verði þriggja til fjögurra manna leiðtogaslagur má eiga von á miklu fjöri næstu vikurnar.

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband