Færsluflokkur: Stjórnmál og samfélag

Sæunn í framboð í Norðausturkjördæmi

Sæunn Stefánsdóttir

Í kjölfar ákvörðunar Dagnýjar Jónsdóttur um að hætta þingmennsku í vor blasir við að Sæunn Stefánsdóttir, alþingismaður og ritari Framsóknarflokksins, gefi kost á sér í þriðja sæti Framsóknarflokksins í Norðausturkjördæmi í komandi kosningum. Það er alveg greinilegt að Halldórsarmurinn í Framsóknarflokknum vill að Sæunn færi sig um set og fari í þriðja sætið, sem var sæti Dagnýjar Jónsdóttur í alþingiskosningunum 2003. Sæunn tók sæti á Alþingi þann 5. september sl. er Halldór Ásgrímsson, fyrrum forsætisráðherra og formaður Framsóknarflokksins, sagði af sér þingmennsku. Sæunn tók afgerandi afstöðu með Jóni Sigurðssyni í formannsslagnum í ágúst.

Sæunn er mjög tengd inn í valdakjarna flokksins og er traustur bandamaður Jóns Sigurðssonar, Valgerðar Sverrisdóttur og Jóns Kristjánssonar. Það má enda ekki gleyma því að Sæunn var aðstoðarmaður Jóns Kristjánssonar í heilbrigðisráðuneytinu. Það má því telja alveg gulltryggt að Sæunn hefur stuðning allra í senn til forystu. Þegar að nefnd eru öll nöfnin Valgerður, Jón, Dagný og Birkir Jón sem voru kjörnir þingmenn flokksins í Norðaustri blasa við bandamenn hennar innan flokksins. Ég held að það megi því telja nokkuð líklegt að hún verði í þriðja sætinu. Bandalag verður greinilega milli Birkis og Sæunnar um að skipa þessi tvö af þrem efstu sætunum með Valgerði.

Þarna mun Valgerður tryggja sér nýjan og öflugan ungan bandamenn í stað Dagnýjar og hún mun fylla skarð Jóns Kristjánssonar. Ekki er víst að öllum líki þetta bandalag en svona mun þetta verða. Það sjá allir sem vilja sjá sem líta raunhæft á málið. Það er greinilegt að Sæunni er falið að verða "Austfirðingurinn" á listanum að vori af Halldórsarminum gamla og góða sem er enn til þó að húsbóndi armsins sé nú orðinn rólegheitamaður heima hjá sér í Breiðholtinu. En það kæmi mér ekki á óvart þó að Halldór muni fara austur og tryggja að Sæunn verði sú sem fari inn með Valgerði og Birki. Þetta er allt fólk sem vann lengi fyrir hann í flokknum og hefur hans stuðning.

En margir spyrja eflaust um tengsl Sæunnar við Austfirði. Hún mun hafa búið á Seyðisfirði er hún var kornung. Það eru öll tengslin, en það sem vigtar meira fyrir hana er að vera í miðpunkti valdakjarnans. Auk alls þessa er hún ritari flokksins og stýrir öllu innra starfi hans. Ég held að við í kjördæminu getum því bókað það að Sæunn er á leið austur í sinni pólitík.

Dagný Jónsdóttir gefur ekki kost á sér

Dagný Jónsdóttir

Dagný Jónsdóttir, alþingismaður, ætlar ekki að gefa kost á sér í alþingiskosningunum að vori. Hún tilkynnti þetta á kjördæmisþingi Framsóknarflokksins í Norðausturkjördæmi, sem haldið er á Djúpavogi, í dag. Þetta teljast mikil tíðindi, enda hafði Dagný margoft lýst því yfir að hún ætlaði að fara aftur í framboð og bjuggust flestir við að hún myndi taka slaginn við Birki Jón Jónsson um annað sæti listans. Samkvæmt þessu er því orðið ljóst að báðir Austfirðingarnir innan Framsóknarflokksins í Norðaustri á þingi, Jón Kristjánsson og Dagný, verða ekki í kjöri að vori.

Dagný varð aðalstjarna Framsóknarflokksins í Norðausturkjördæmi í þingkosningunum 2003. Henni var falin mikil ábyrgð og mikið bar á henni í baráttunni. Framsóknarflokkurinn skreytti öll auglýsingaspjöld sín með henni og hún var sá frambjóðandi sem mest var auglýstur í kosningunum þá. Mun minna bar á Valgerði Sverrisdóttur og Jóni Kristjánssyni en Dagnýju. Hún var sett fram sem baráttukona í baráttusæti og var Dagný vissulega táknrænn sigurvegari kosninganna, en með þessari taktík tókst bæði að tryggja henni þingsæti og ekki síður Birki Jóni sem datt inn í lok talningar.

Dagný var dugleg í sinni stjórnmálabaráttu. Hún var þó aldrei hugsjónastjórnmálamaður. Ég hef oft velt fyrir mér hennar pólitík og vil halda þeim skoðunum fyrir mig. En dugleg var hún, það verður ekki af henni tekið og hún vann mikið í baráttunni fyrir sig og sinn flokk. Sögusagnir eru nú um að Sæunn Stefánsdóttir, eftirmaður Halldórs Ásgrímssonar á þingi, verði í þriðja sæti flokksins í kosningunum. Öllum er væntanlega ljóst nú að Birkir Jón verður í öðru sætinu, enda eini þingmaður flokksins í kjördæminu sem fram fer auk leiðtogans Valgerðar.

Það stefnir svo sannarlega í spennandi kosningar hér í Norðaustrinu að vori og spennandi að sjá hvort að ritarinn Sæunn kemst inn ef hún skipar þriðja sætið. Enn er svo þeirri spurningu ósvarað hvort að Jakob Björnsson, fyrrum bæjarstjóri á Akureyri, gefi ekki kost á sér og vilji komast á þingi. Skv. nýjustu könnun Gallups er Framsóknarflokkurinn með 20% fylgi í Norðausturkjördæmi og tvo þingmenn inni. Vissulega er það sögulega lítið fyrir Framsókn en þó mesta fylgið sem flokkurinn mælist með í kreppu sinni þessa mánuðina.

mbl.is Dagný Jónsdóttir býður sig ekki fram til þings
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Kristján Þór og Þorvaldur í leiðtogaframboð?

Kristján Þór Júlíusson Þorvaldur Ingvarsson

Telja má öruggt að á mánudag í síðasta lagi ráðist hvað þeir Kristján Þór Júlíusson, bæjarstjóri á Akureyri, og Þorvaldur Ingvarsson, lækningaforstjóri FSA, ætlast fyrir í framboðsmálum sínum. Flest bendir þó til að þeir muni takast á í væntanlegu prófkjöri Sjálfstæðisflokksins í Norðausturkjördæmi, sem væntanlega verður haldið laugardaginn 25. nóvember nk. Eftir viku verður haldið kjördæmisþing Sjálfstæðisflokksins hér í Norðausturkjördæmi og þar verður tekin afstaða til þess hvort haldið verði prófkjör eða stillt upp á lista. Tillaga stjórnar kjördæmisráðsins er að fram fari prófkjör. Óhætt er þó að segja að Akureyringar í flokksstarfinu bíði eftir ákvörðun Kristjáns Þórs og Þorvaldar. 

Ákvörðun þeirra mun hafa áhrif á prófkjörið, sést þess vel merki í því að beðið er eftir hvað þeir hyggjast fyrir. Nú þegar hafa enda aðeins þrír tilkynnt formlega um framboð. Arnbjörg Sveinsdóttir, þingflokksformaður, hefur tilkynnt um leiðtogaframboð, og Kristinn Pétursson og Sigríður Ingvarsdóttir, fyrrum þingmenn, hafa tilkynnt um framboð í 2. - 3. sætið. Öruggt má teljast að bæði Kristján Þór og Þorvaldur fari í prófkjörið. Nær alla tíð frá afsögn Tómasar Inga Olrich árið 2003 hefur verið rætt um að Kristján Þór færi í landsmálin við þessar kosningar og sá orðrómur var mikill fyrir síðustu bæjarstjórnarkosningar þegar að fréttamenn gengu nærri honum með svör.

Það leikur enginn vafi í huga fólks hér að Kristján Þór fari í leiðtogaslaginn. Vangavelturnar snúast meira um Þorvald. Hann var í sjötta sæti framboðslista flokksins í Norðausturkjördæmi í síðustu kosningum og hefur verið formaður Sjálfstæðisfélags Akureyrar frá haustinu 2003, þegar að Helgi Vilberg, ritstjóri Íslendings, lét af formennsku félagsins. Þorvaldur hefur verið að þreifa fyrir sér með sín framboðsmál og eftir því sem sagan segir vill hann reyna á leiðtogasætið sjálft, enda sé það laust. Þorvaldur sagðist í sumar í viðtali við Akureyrarblaðið Vikudag stefna á 1. - 3. sætið. Spurningin nú er sú hvort hann fari beint í leiðtogaframboð eða stefni á neðri mörkin.

Það má búast við spennandi átökum fari svo að Þorvaldur Ingvarsson bætist í fyrirfram planaðan leiðtogaslag Arnbjargar Sveinsdóttur og Kristjáns Þórs Júlíussonar. Flest bendir til að þeir tilkynni um framboð sín og fyrirætlanir sínar fyrir mánudagskvöldið í síðasta lagi. Það kvöld verður aðalfundur fulltrúaráðs sjálfstæðisfélaganna á Akureyri haldinn í Kaupangi og má telja öruggt að eigi síðar en þá verði staða mála ljós með þeirra framboðsmál. Fari svo að þetta verði þriggja til fjögurra manna leiðtogaslagur má eiga von á miklu fjöri næstu vikurnar.

19 gefa kost á sér í prófkjöri í Reykjavík

Sjálfstæðisflokkurinn

Það stefnir í mjög spennandi prófkjör hjá Sjálfstæðisflokknum í Reykjavík. 19 gáfu kost á sér í prófkjörinu, sem mun fara fram 27. og 28. október nk. Í síðasta prófkjöri fyrir þingkosningarnar 2003 gáfu kost á sér 17 einstaklingar.

Í kjöri í prófkjörinu verða:

Ásta Möller, alþingismaður
Birgir Ármannsson, alþingismaður
Björn Bjarnason, dóms- og kirkjumálaráðherra
Dögg Pálsdóttir, hæstaréttarlögmaður
Geir H. Haarde, forsætisráðherra
Grazyna M. Okuniewska, hjúkrunarfræðingur
Guðfinna S. Bjarnadóttir, rektor Háskólans í Reykjavík
Guðlaugur Þór Þórðarson, alþingismaður
Illugi Gunnarsson, hagfræðingur
Jóhann Páll Símonarson, sjómaður
Kolbrún Baldursdóttir, sálfræðingur
Marvin Ívarsson, byggingafræðingur
Pétur H. Blöndal, alþingismaður
Sigríður Andersen, lögfræðingur
Sigurður Kári Kristjánsson, alþingismaður
Steinn Kárason, umhverfishagfræðingur
Vilborg G. Hansen, landfræðingur
Vernharð Guðnason, slökkviliðsmaður
Þorbergur Aðalsteinsson, sölu- og markaðsstjóri

Ljóst er að um verður að ræða spennandi átök og fróðlegt að sjá hvernig niðurstaðan verður að kl. 18:00 að kvöldi 28. október þegar að fyrstu tölur verða birtar.

mbl.is Alls hafa 19 gefið kost á sér í prófkjör Sjálfstæðisflokksins í Reykjavík
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Ragnheiður Ríkharðsdóttir í þingframboð

RR

Ragnheiður Ríkharðsdóttir, bæjarstjóri í Mosfellsbæ, hefur nú tilkynnt formlega um framboð sitt í prófkjör Sjálfstæðisflokksins í Suðvesturkjördæmi. Stefnir hún á þriðja sætið í prófkjörinu. Ákvörðun Ragnheiðar um framboð kemur ekki að óvörum eftir að Sigríður Anna Þórðardóttir, fyrrum ráðherra, lýsti því yfir á miðvikudagskvöldið að hún ætlaði ekki að gefa kost á sér til endurkjörs. Sigríður Anna og Ragnheiður hafa verið í stjórnmálum í Mosfellsbæ og greinilegt að Ragnheiður vill fylla skarð Sigríðar Önnu. Ragnheiður verður ekki eini Mosfellingurinn í framboði því að Bryndís Haraldsdóttir, varabæjarfulltrúi í Mosfellsbæ, hefur tilkynnt um framboð sitt í 4. - 5. sætið.

Ragnheiður Ríkharðsdóttir hefur verið lengi í pólitísku starfi. Hún leiddi Sjálfstæðisflokkinn í Mosfellsbæ til glæsilegs sigurs vorið 2002 þar sem að Sjálfstæðisflokkurinn hlaut hreinan meirihluta atkvæða. Ragnheiði og sjálfstæðismönnum mistókst naumlega að halda meirihlutanum í kosningunum í vor, en mynduðu meirihluta með vinstri grænum. Samið var um að Ragnheiður yrði bæjarstjóri framan af kjörtímabilsins en svo tæki Haraldur Sverrisson við embættinu í síðasta lagi á miðju kjörtímabili. Mosfellsbær hefur styrkst í bæjarstjóratíð Ragnheiðar og ekki verður deilt um að Ragnheiður hefur verið öflugur og traustur leiðtogi flokksins í sveitarfélaginu.

Það stefnir í spennandi prófkjör í Suðvesturkjördæmi um neðri sætin. Greinilegt er að góð samstaða mun verða um Þorgerði Katrínu Gunnarsdóttur í fyrsta sætið og Bjarna Benediktsson í annað sætið, en þau eru einu kjörnu þingmenn flokksins í kraganum vorið 2003 sem fara fram aftur. Baráttan verður um þriðja til sjötta sætið. Skv. nýjustu skoðanakönnun Gallups mælist Sjálfstæðisflokkurinn með 49% fylgi í kraganum sem myndi færa honum sex þingsæti, en þingsætum kragans fjölgar úr 11 í 12 í kosningunum í vor.

mbl.is Ragnheiður Ríkharðsdóttir stefnir á 3ja sæti
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Skattar lækka í Svíþjóð - ráðherraval kynnt

Carl Bildt

Fredrik Reinfeldt, forsætisráðherra Svíþjóðar, var rétt í þessu að kynna skipan nýrrar ríkisstjórnar borgaralegu flokkanna í Svíþjóð, sem tekur við völdum nú fyrir hádegið, og helstu stefnuatriði hennar. Helstu tíðindi ráðherravalsins eru auðvitað þau að Carl Bildt, fyrrum forsætisráðherra Svíþjóðar, verður utanríkisráðherra Svíþjóðar. Það eru mjög mikil tíðindi og stórpólitísk að Bildt komi aftur í forystu sænskra stjórnmála og taki við utanríkisráðuneytinu af Jan Eliasson. Bildt var einn forvera Reinfeldt á leiðtogastóli Moderaterna, leiddi flokkinn 1986-1999 og var forsætisráðherra 1991-1994. Enginn vafi er á að endurkoma Bildt eflir stjórnina.

Carl Bildt varð að loknum forsætisráðherraferlinum farsæll diplómat og var t.d. sáttasemjari í deilunum við Balkanskaga. Flestir höfðu talið að Bildt myndi ekki taka sæti í stjórninni og það vakti því athygli er það spurðist út síðdegis í gær að hann yrði utanríkisráðherra í stjórn Reinfeldts. Allir leiðtogar borgaralegra fá valdamikil embætti í ríkisstjórninni. Lars Leijonborg, leiðtogi Þjóðarflokksins, mun verða menntamálaráðherra, Maud Olofsson, leiðtogi Miðflokksins, tekur við atvinnumálaráðuneytinu og Göran Hägglund, leiðtogi Kristilegra, verður félagsmálaráðherra. Anders Borg tekur við sem fjármálaráðherra.

Stærstu stefnutíðindi stjórnarinnar er vitaskuld að hún ætlar sér að lækka tekjuskatta í Svíþjóð um tæpa 40 milljarða sænskra króna á næsta ári. Það er í takt við stærsta kosningaloforð borgaralegu flokkanna og gleðiefni að sjá þessa áherslu verða að veruleika. Mér líst vel á ráðherraskipan stjórnarinnar og tel sérstaklega mikinn feng fyrir Reinfeldt að Carl Bildt verði utanríkisráðherra, enda mjög reyndur og traustur stjórnmálamaður sem á mikla pólitíska sögu í sænskum stjórnmálum.

Allar nýjustu sænsku fréttirnar eru á fréttavef Aftonbladet.

mbl.is Sænska stjórnin ætlar að lækka tekjuskatta; Bildt utanríkisráðherra
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Áfellisdómur yfir valdatíð R-listans

Ráðhús Reykjavíkur

Það er ekki hægt að segja annað en að úttekt KPMG á fjárhagsstöðu Reykjavíkurborgar í tólf ára valdatíð R-listans sé áfellisdómur yfir þessum valdabræðingi félagshyggjuaflanna. Þetta er frekar svört skýrsla og sýnir vel stöðu mála. Til fjölda ára deildu meirihluti R-listans og minnihlutinn um stöðu borgarinnar og reyndi R-listinn að verjast fimlega með allskonar kúnstum sem minntu helst á sirkusbrögð töframanna frekar en skynsamlega og ábyrga forystu meirihlutaafls í sveitarstjórn. En staðan er mjög skýr í þessari úttekt og þar sést án nokkurs vafa hvernig hlutirnir eru. Það sést svo best á tali minnihlutaflokkanna nú að þau eiga ekkert svar við þessari úttekt.

Það verður ekki betur séð en að mikið verkefni sé fyrir framan meirihluta Sjálfstæðisflokks og Framsóknarflokks við að laga stöðuna sem uppi er. Eru greinilega framundan stórtækar aðgerðir til að fara yfir alla fjármálastjórn borgarinnar og stokka hana upp. Það er þarfaverk eigi ekki illa að fara. Greinilegt er að R-listinn hefur velt vandanum á undan sér ár frá ári. Það er fátt gott sem ver þá stöðu eins og vel sést af tali fyrrum borgarstjóra og núverandi prófkjörsframbjóðanda Samfylkingarinnar í fréttum í gær. En vandinn liggur fyrir og hann dylst engum lengur. Það verður verkefni ábyrgra og traustra forystumanna í borginni að leysa þann vanda.

Fyrst og fremst blasir við að málflutningur Sjálfstæðisflokksins í borgarstjórn undanfarinn áratug hefur verið á rökum reistur. Stór hluti þeirrar gagnrýni var rétt eins og vel sést við lestur þessarar úttektar. En það er svosem enginn bættur með að benda á hvorn annan. Staðan liggur fyrir og hana þarf að leysa. En þetta er áfellisdómur yfir R-listanum sáluga og þeim sem ríktu á valdatíma hans. Þessi fortíðarvandi liggur nú fyrir. Það er mikilvægt til að geta horfst í augu við framtíðina.

mbl.is Brýnt að fara yfir fjármálastjórn Reykjavíkurborgar í heild
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Björn Bjarnason í 2. sætið

Björn Bjarnason

Það stefnir í spennandi prófkjör hjá sjálfstæðismönnum í Reykjavík. Ég tel mjög mikilvægt að Björn Bjarnason, dómsmálaráðherra, verði leiðtogi flokksins í öðru kjördæminu og verði því í 2. sæti í þessu prófkjöri. Ég hef alla tíð borið mikla virðingu fyrir yfirgripsmikilli þekkingu Björns á utanríkis- og varnarmálum og segja má með sanni að hann sé sá þingmanna Sjálfstæðisflokksins sem mest þekkir þann málaflokk. Það er mikilvægt að hans framlag verði áfram til staðar í forystusveit flokksins í Reykjavík.

Björn hefur verið fyrirmynd fyrir mig og fleiri í vefmálum. Hann byrjaði með heimasíðu fyrstur íslenskra stjórnmálamanna og hefur haldið henni úti með mikilli elju og vinnusemi allan þann tíma. Hann hefur þar tjáð af miklum krafti skoðanir sínar og skrifað um pólitík og fleiri þætti þjóðmálaumræðunnar, birt þar dagbók og ennfremur allar ræður og greinar sínar. Var Björn brautryðjandi í vefskrifum stjórnmálamanna á netinu og er fyrirmynd margra í netvinnslu og í því að skrifa á vefnum.

Framlag Björns í stjórnmálum og þá einkum forysta hans í netmálum hefur skipt mjög miklu máli. Ég tel eins og fyrr segir mikilvægt að hann fái kjör í annað sæti framboðslistans í Reykjavík og styð hann til þess. Hann mun um helgina opna kosningaskrifstofu sína og hefja baráttuna. Ég hef aldrei farið leynt með stuðning minn við hann og ég t.d. er honum eilíflega þakklátur fyrir að hafa á vef sínum tengil á heimasíðu mína. Það mun ég alla tíð meta mjög mikils og önnur tengsl.

Guðmundur og Róbert í þingframboð

Guðmundur Steingrímsson Róbert Marshall

Fjölmiðlamennirnir Guðmundur Steingrímsson og Róbert Marshall hafa nú gefið kost á sér í prófkjör Samfylkingarinnar í Suðvestur- og Suðurkjördæmi. Guðmundur, sem er sonur Steingríms Hermannssonar, fyrrum forsætisráðherra og formanns Framsóknarflokksins, var til fjölda ára virkur í stúdentapólitíkinni en lítið sinnt pólitík síðan. Stefnir hann nú á öruggt sæti í kraganum. Það stefnir í spennandi prófkjör hjá Samfylkingunni í kraganum, en þegar hafa 14 gefið kost á sér og stefnir í að hið minnsta 15 muni fara fram, ef marka má þá frétt að Jakob Frímann Magnússon, tónlistarmaður, fari fram þar ennfremur, en hann er nú varaþingmaður Samfylkingarinnar í borginni.

Róbert Marshall, sem stýrði fréttastöð 365-miðla NFS fram í andlátið, ræðst ekki á garðinn þar sem hann er lægstur og gefur kost á sér í 1. - 2. sætið í Suðurkjördæmi. Róbert er þó enginn nýgræðingur í pólitík, enda var hann formaður ungra alþýðubandalagsmanna hér fyrir áratug og var formaður ungliðahreyfingarinnar sem mynduð var úr flokksbrotunum í sameiningarferlinu sem síðar varð Ungir jafnaðarmenn. Róbert er því öllu vanur og heldur ótrauður í slaginn við þá þingmenn Jón Gunnarsson, Björgvin G. Sigurðsson og Lúðvík Bergvinsson. Hann heldur þarna til pólitískra átaka við fjölda reyndra stjórnmálamanna sem lengi hafa verið í stjórnmálum.

Sá sem fagnar minnst leiðtogaframboði Róberts er væntanlega Eyjamaðurinn Lúðvík, en heldur má telja ólíklegt eftir þetta að hann muni leiða lista flokksins í Suðurkjördæmi við þetta. Má telja mjög líklegt nú að sá sem gleðjist mest við framboð Róberts sé Árnesingurinn Björgvin G. sem mun hafa fullan stuðning Margrétar Frímannsdóttur í væntanlegum leiðtogaslag, en Björgvin hefur starfað í pólitík undir hennar forystu lengi og verið fóstraður til verka þar í hennar leiðtogatíð innan Alþýðubandalagsins í gamla daga.

En þarna verður hörkuslagur og má telja líklegt að naumt verði milli manna og líklegt að gríðarleg uppstokkun verði á forystusveit Samfylkingarinnar. Ofan á allt annað er merkilegt að sjá Guðmund kominn í slaginn, afkomanda framsóknarhöfðingjanna Steingríms og Hermanns, í framboði fyrir jafnaðarmannaflokk. Annars hafa rætur Guðmundar í stjórnmálum alltaf verið til vinstri og allir þekkja vinskap hans og Dags B. Eggertssonar, borgarfulltrúa, sem börðust saman fyrir Röskvu í stúdentapólitíkinni.

Verður Carl Bildt utanríkisráðherra Svíþjóðar?

Carl Bildt

Eins og fram kom hér fyrr í kvöld hefur Fredrik Reinfeldt verið kjörinn forsætisráðherra Svíþjóðar og hann mun tilkynna ráðherralista sinn á morgun. Nú berast fregnir af því á sænskum fréttavefum að Carl Bildt, fyrrum forsætisráðherra Svíþjóðar, muni verða utanríkisráðherra í ríkisstjórn borgaralegu flokkanna. Teljast þetta vissulega mikil tíðindi. Bildt var forsætisráðherra Svíþjóðar á árunum 1991-1994 og því síðasti forsætisráðherra hægrimanna í Svíþjóð á undan Reinfeldt. Mun hann hafa þegið utanríkisráðherrastólinn eftir miklar samningaviðræður. Bildt var eins og kunnugt er sáttasemjari við Balkanskaga eftir forsætisráðherraferilinn og þekktur fyrir sín diplómatastörf.

Fari svo að orðrómurinn sé réttur mun Carl Bildt taka við embættinu af Jan Eliasson, fyrrum forseta allsherjarþings Sameinuðu þjóðanna. Eliasson var skipaður utanríkisráðherra í apríl af Göran Persson, fráfarandi forsætisráðherra, í kjölfar þess að hann vék Lailu Freivalds úr embættinu. Eliasson þótti standa sig vel sem utanríkisráðherra, en fékk vissulega ekki langan tíma til verka. Eliasson var þekktur fyrir verk sín í alþjóðastjórnmálum og maður reynslu og þekkingar. Hann vann í utanríkisþjónustunni frá 1965 og var til fjölda ára ráðgjafi Olof Palme í forsætisráðherratíð hans. Hann var til fjölda ára sendiherra Svíþjóðar hjá SÞ og leiddi undir lokin allsherjarþingið.

Eliasson þótti standa sig mun betur en Freivalds sem þótti vera mistækur ráðherra og aldrei ná að höndla embættið, en hún tók við utanríkisráðuneytinu í kjölfar morðsins á Önnu Lindh haustið 2003. Greinilegt var að Persson valdi Eliasson til að reyna að snúa vörn í sókn fyrir jafnaðarmannaflokkinn í aðdraganda kosninganna. Hann var líka að veita utanríkispólitík flokksins meiri vigt en verið hafði allt frá því að hin vinsæla Anna Lindh hvarf af pólitísku sjónarsviði fyrir þrem árum. En það dugði ekki til. Ef marka má fréttir á sænsku fréttavefunum mun diplómatinn Jan Eliasson nú ætla sér að kenna við háskólann í Uppsölum í kjölfar þess að hann lætur af ráðherraembættinu.

Fari svo að Carl Bildt verði á morgun utanríkisráðherra Svíþjóðar verður fróðlegt að sjá hann aftur í fremstu víglínu sænskra stjórnmála. Hann var einn valdamesti stjórnmálamaður Svía um nokkurra ára skeið og leiddi ríkisstjórn landsins fyrir rúmum áratug. Endurkoma hans í forystu sænskra stjórnmála, nú sem forystumaður hins öfluga sænska utanríkisráðuneytis mun verða mjög athyglisverð og tryggja nýrri ríkisstjórn meiri þunga og vigt í alþjóðastjórnmálum vegna reynslu og þekkingar Carls Bildt.


mbl.is Carl Bildt sagður verða næsti utanríkisráðherra Svía
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Fyrri síða | Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband