Sæunn í framboð í Norðausturkjördæmi

Sæunn Stefánsdóttir

Í kjölfar ákvörðunar Dagnýjar Jónsdóttur um að hætta þingmennsku í vor blasir við að Sæunn Stefánsdóttir, alþingismaður og ritari Framsóknarflokksins, gefi kost á sér í þriðja sæti Framsóknarflokksins í Norðausturkjördæmi í komandi kosningum. Það er alveg greinilegt að Halldórsarmurinn í Framsóknarflokknum vill að Sæunn færi sig um set og fari í þriðja sætið, sem var sæti Dagnýjar Jónsdóttur í alþingiskosningunum 2003. Sæunn tók sæti á Alþingi þann 5. september sl. er Halldór Ásgrímsson, fyrrum forsætisráðherra og formaður Framsóknarflokksins, sagði af sér þingmennsku. Sæunn tók afgerandi afstöðu með Jóni Sigurðssyni í formannsslagnum í ágúst.

Sæunn er mjög tengd inn í valdakjarna flokksins og er traustur bandamaður Jóns Sigurðssonar, Valgerðar Sverrisdóttur og Jóns Kristjánssonar. Það má enda ekki gleyma því að Sæunn var aðstoðarmaður Jóns Kristjánssonar í heilbrigðisráðuneytinu. Það má því telja alveg gulltryggt að Sæunn hefur stuðning allra í senn til forystu. Þegar að nefnd eru öll nöfnin Valgerður, Jón, Dagný og Birkir Jón sem voru kjörnir þingmenn flokksins í Norðaustri blasa við bandamenn hennar innan flokksins. Ég held að það megi því telja nokkuð líklegt að hún verði í þriðja sætinu. Bandalag verður greinilega milli Birkis og Sæunnar um að skipa þessi tvö af þrem efstu sætunum með Valgerði.

Þarna mun Valgerður tryggja sér nýjan og öflugan ungan bandamenn í stað Dagnýjar og hún mun fylla skarð Jóns Kristjánssonar. Ekki er víst að öllum líki þetta bandalag en svona mun þetta verða. Það sjá allir sem vilja sjá sem líta raunhæft á málið. Það er greinilegt að Sæunni er falið að verða "Austfirðingurinn" á listanum að vori af Halldórsarminum gamla og góða sem er enn til þó að húsbóndi armsins sé nú orðinn rólegheitamaður heima hjá sér í Breiðholtinu. En það kæmi mér ekki á óvart þó að Halldór muni fara austur og tryggja að Sæunn verði sú sem fari inn með Valgerði og Birki. Þetta er allt fólk sem vann lengi fyrir hann í flokknum og hefur hans stuðning.

En margir spyrja eflaust um tengsl Sæunnar við Austfirði. Hún mun hafa búið á Seyðisfirði er hún var kornung. Það eru öll tengslin, en það sem vigtar meira fyrir hana er að vera í miðpunkti valdakjarnans. Auk alls þessa er hún ritari flokksins og stýrir öllu innra starfi hans. Ég held að við í kjördæminu getum því bókað það að Sæunn er á leið austur í sinni pólitík.

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband