Færsluflokkur: Stjórnmál og samfélag
5.10.2006 | 19:55
Fredrik Reinfeldt tekur við völdum í Svíþjóð

Fredrik Reinfeldt var í dag kjörinn forsætisráðherra Svíþjóðar á sænska þinginu. 175 þingmenn kusu Reinfeldt en 169 þingmenn stjórnarandstöðunnar greiddu atkvæði gegn honum. Reinfeldt mun á morgun kynna ráðherralista sinn og flytja stefnuræðu sína í þinginu. Hann verður fjórði forsætisráðherra borgaralegra afla í sænskum stjórnmálum síðustu áratugina. Við embættistöku Reindeldts lýkur valdaferli Göran Persson, sem verið hefur forsætisráðherra í áratug, frá árinu 1996. Valdaferill sænskra jafnaðarmanna hefur staðið í áratugi, að undanskildum tveim tímabilum, 1976-1982 og 1991-1994.
Síðasti hægrimaðurinn sem var forsætisráðherra í Svíþjóð var Carl Bildt á árunum 1991-1994. Thorbjorn Fälldin og Ola Ullsten sátu við völd á árunum 1976-1982. Mikil þáttaskil verða með þessum valdaskiptum. Sænskir jafnaðarmenn hafa haft gríðarleg áhrif og lykilleiðtogar valdaskeiðs þeirra hafa verið gríðarlega valdamiklir. Tage Erlander var t.d. forsætisráðherra Svíþjóðar í 23 ár, 1946-1969 og Olof Palme var forsætisráðherra 1969-1976 og 1982-1986, er hann féll fyrir morðingjahendi í miðborg Stokkhólmar. Kratar voru lengi að fylla skarð hans. Eftirmenn Palmes, Ingvar Carlsson og Göran Persson, voru þó vissulega öflugir leiðtogar.
Sænsk pólitík hefur því lengi verið mjög vinstrilituð og áherslurnar vinstritengdar. Nú breytist það og aftur hefst valdaskeið borgaralegra afla í landinu. Þessar breytingar marka krossgötur fyrir sænska jafnaðarmannaflokkinn. Göran Persson mun hætta sem leiðtogi jafnaðarmanna í marsmánuði. Þar er enginn afdráttarlaus eftirmaður á leiðtogastóli til staðar. Mikið var talað eftir ósigurinn meðal jafnaðarmanna um að Margot Wallström yrði eftirmaður hans. Hún hefur nú með öllu aftekið að hún verði í kjöri. Helst er talað um Thomas Bodström, Carin Jämtin, Wönju Lundby-Wedin, Monu Sahlin, Leif Pagrotsky, og Pär Nuder sem leiðtogaefni nú.
En já, Reinfeldt er tekinn við. Valdaskeiði sænskra krata er lokið í bili og nú geta borgaralegu öflin tekið til við að efna sín kosningaloforð og stýra af krafti. Nú reynir á þau öfl hvernig að þeim muni ganga að vinna saman af þeim krafti sem lofað var.
![]() |
Reinfeldt kjörinn í embætti forsætisráðherra |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 20:04 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
5.10.2006 | 19:05
Undarleg fréttamennska

Það var mjög undarleg fréttamennska sem blasti við okkur áhorfendum kvöldfrétta Stöðvar 2 í gærkvöldi. Þar var fjallað um varnarumræðurnar á þingi. Það eina sem vísað var til í þessari frétt voru einhliða ummæli þriggja þingmanna Samfylkingarinnar. Glefsur komu úr ræðum Ingibjargar Sólrúnar Gísladóttur, formanns Samfylkingarinnar, Össurar Skarphéðinssonar, þingflokksformanns Samfylkingarinnar, og Þórunnar Sveinbjarnardóttur. Annað var það nú ekki. Það vekur mikla athygli að ekkert kom úr ræðu Geirs H. Haarde, forsætisráðherra, né heldur Björns Bjarnasonar, dómsmálaráðherra. Um var að ræða eitt sjónarhorn á öryggis- og varnarmálin.
Spurning vaknar við þetta við stöðu fréttastofu NFS þegar að svo einhliða og undarlegt sjónarhorn er sett á stöðu mála. Það er í sjálfu sér ekkert undarlegt að skoðun Samfylkingarinnar komi fram en það er stórundarlegt að ekki sé víðara sjónarhorn á hinar löngu og ítarlegu umræður í þinginu. Það vekur mikla athygli að Þóra Kristín Ásgeirsdóttir sé enn þingfréttamaður Stöðvar 2. Móðir hennar, Sigríður Jóhannesdóttir, fyrrum alþingismaður Alþýðubandalagsins og Samfylkingarinnar, er í prófkjörsframboði fyrir Samfylkinguna í Suðurkjördæmi. Undarlegt var að Þóra Kristín skyldi fjalla um framboðsmál sjálfstæðismanna í Suðurkjördæmi um síðustu helgi.
Mér finnst svona einhliða sjónarhorn vart boðlegt og það kastar rýrð á fréttastofuna sem trúverðuga. Það á að vera markmið þeirra sem segja fréttir að báðar hliðar komi fram og þeim sé gert jafnt skil og ekki hallað í aðra áttina. Það sem sást í fyrrnefndri frétt telst ekki eðlileg fréttamennska og vekur margar spurningar að mínu mati.
5.10.2006 | 16:30
Prófkjör eða uppstilling í Norðvestri?
Það stefnir í spennandi kjördæmisþing Sjálfstæðisflokksins í Norðvesturkjördæmi á Ísafirði um helgina. Stjórn kjördæmisráðs leggur ekki til eina tillögu um hvernig valið verði á lista. Það verður kosið á milli þess hvort fram fari prófkjör eða stillt verði upp á lista af kjörnefnd. Þetta verður því væntanlega átakaþing, enda eru kjörnir fulltrúar varla sammála um það hvora leiðina eigi að fara. Lengi hafði verið rætt um það að nær öruggt væri að stillt væri upp en eitthvað virðist það hafa breyst og stjórnin leggur ekki fram neina afgerandi tillögu. Fundarmenn fá því valdið í hendurnar. Það má telja að þetta verði því spennandi þinghald.
Þegar liggur fyrir að allir þingmenn Sjálfstæðisflokksins í Norðvesturkjördæmi fara fram. Í kosningunum 2003 hlutu Sturla Böðvarsson, Einar Kristinn Guðfinnsson og Einar Oddur Kristjánsson. Í næstu sætum á eftir urðu Guðjón Guðmundsson, Adolf H. Berndsen, Jóhanna Pálmadóttir og Birna Lárusdóttir. Í aðdraganda kosninganna var haldið umdeilt prófkjör í kjördæminu. Þar munaði rétt rúmlega 40 atkvæðum að sveiflur yrðu með þeim hætti að Sturla yrði undir fyrir Vilhjálmi Egilssyni, sem varð fimmti, og þeir hefðu sætaskipti. Vilhjálmur tók ekki sætið og umræða varð um brot á prófkjörsreglum vegna utankjörfundarkosningar.
Það verður fróðlegt að sjá hvernig verður með stöðu mála. Það er ljóst að flokkurinn á tvo ráðherra í kjördæminu. Sturla hefur verið samgönguráðherra frá 1999 og Einar Kristinn sjávarútvegsráðherra frá haustinu 2005. Báðir hljóta þeir að vilja leiða listann. Einar Oddur fer svo aftur fram. Auk þeirra hafa Borgar Þór Einarsson, formaður SUS, Bergþór Ólason, aðstoðarmaður Sturlu Böðvarssonar, og Birna Lárusdóttir, forseti bæjarstjórnar Ísafjarðarbæjar og varaþingmaður, tilkynnt um áhuga sinn á framboði. Það má því búast við spennandi prófkjöri verði sú ákvörðun ofan á. Það eru skýrar fylkingar þarna og spennan um hvaða leið verður ofan á við að velja listann.
Í kosningunum 2003 fékk Sjálfstæðisflokkurinn góða útkomu í Norðvesturkjördæmi. Það var eina kjördæmið þar sem flokkurinn annaðhvort hélt sinni stöðu nokkurnveginn og bætti örlitlu við sig. Það gerðist þrátt fyrir umdeilt og harðvítugt prófkjör sem skilaði fylkingamyndun og illindum. Nú er spennan enn í Norðvestri og verður fróðlegt að sjá hvaða leið verður ofan á um helgina.
![]() |
Kosið á milli tveggja kosta við uppstillingu á lista í NV-kjördæmi |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
5.10.2006 | 14:09
Umhverfisstefna í felulitunum

Fyrir nokkrum vikum kynntu Ingibjörg Sólrún Gísladóttir og félagar hennar svokallaða umhverfisstefnu, sem gerði ekki ráð fyrir nýjum stóriðjukostum næstu fimm árin. Þar var Kristján L. Möller reyndar með kökkinn í hálsinum við að tala sér þvert um geð, en hvað með það. Vandræðin voru ekki fullnumin þar, fjarri því. Kynningunni hafði varla lokið á blaðamannafundinum þegar að flokksfélagar Ingibjargar Sólrúnar sem eru í forystusveit Samfylkingarinnar um allt land voru komnir í fjölmiðla með grátstafinn í kverkarnar lafmóðir við að tilkynna nú kjósendum sínum að auðvitað yrði stóriðjukosturinn heima í héraði fyrstur á dagskrá. Þetta ætti ekki við það.
Það var með ólíkindum að horfa á þennan vandræðagang Samfylkingarinnar. Þau komu í fjölmiðla eitt af öðru: Örlygur Hnefill Jónsson, varaþingmaður á Húsavík, Hermann Jón Tómasson, formaður bæjarráðs á Akureyri, Jón Gunnarsson, alþingismaður í Reykjanesbæ, Anna Kristín Gunnarsdóttir alþingismaður í Skagafirði, og svona mætti lengi telja. Ekki fyrr hafði heldur kynningunni lokið en farið var að rifja upp afrek Samfylkingarinnar innan R-listans, t.d. í stjórn Orkuveitu Reykjavíkur þar sem farið var yfir fjölda virkjunarkosta og verkefna á vegum fyrirtækisins. Þessi umhverfisstefna fuðraði því hratt upp eins og flugeldur á hinu fallegasta gamlárskvöldi.
Í dag berast fréttir af því t.d. að skipulags- og byggingarnefnd sveitarfélagsins Skagafjarðar hefur samþykkt að í aðalskipulagi verði gert ráð fyrir og sýnd möguleg svæði til virkjunar Héraðsvatna, einkum við Villinganes og Skatastaði. Hverjir fara nú annars með völd í Skagafirði? Jú, það eru Samfylking og Framsóknarflokkur. Samfylking mun t.d. stýra fyrrnefndri bæjarnefnd sem samþykkti þetta. Það fer því ekki saman tal og ákvarðanir innan Samfylkingarinnar. Annars er þessi stefna greinilega vandræðabarn flokksins og virðist hvorki falla í kramið né vera sett fram að vilja og með áhuga flokksmanna. Það sést altént vel af öllum vinnubrögðunum.
Er annars rétt sem sagt er að umhverfisstefnan brjóstumkennanlega hafi verið samin af einum manni í starfi á flokkskontórnum? Heyrast hafa sögusagnir um að Dofri Hermannsson, varaborgarfulltrúi Samfylkingarinnar, hafi verið settur beinlínis í þetta verk að búa til stefnu um málið. Hann virðist hafa verið kallaður til verka til að reyna að muna hversu margir stóriðju- og virkjunarsinnar væru í Samfylkingunni. Þar sem ég starfa í flokki er fyrirbæri sem heitir landsfundur þar sem starfa málefnanefndir sem móta drög að ályktunum sem fara svo fyrir landsfundinn. Það er hið sanna lýðræði, ekki það að skipa einvald við alla stefnumótun.
Vandræði Samfylkingarinnar virðast sér fá mörk eiga þessar vikurnar. Þessi umhverfisstefna í felulitunum er eitt klúðrið. Á meðan að andstæðingar hlæja að henni eru forystumenn flokksins um hinar dreifðu byggðir að sverja hana af sér eins og erfðasyndina. Þessi fagurgalastefna flokkast því sem hver önnur mistök höfuðborgarmiðuðu forystunnar sem er að reyna að vera hip og kúl á kostnað landsbyggðarforystunnar. Skondið fyrirbæri þessi stefna í felulitunum.
Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 14:13 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
5.10.2006 | 00:35
Feilskot Frjálslyndra

Það er með ólíkindum að fylgjast með árás Sigurjóns Þórðarsonar, þingmanns Frjálslyndra, að Guðfinnu Bjarnadóttur, rektor Háskólans í Reykjavík, sem fram kom í kvöldfréttum Stöðvar 2 í kvöld. Þar var vitnað í skrif á heimasíðu þingmannsins þar sem hann fordæmir að Guðfinna hefði sent út tölvubréf til starfsmanna og nemenda skólans þar sem að hún tilkynnti um þingframboð sitt, áður en það var gert opinbert á blaðamannafundi um síðustu helgi. Mér finnst þetta í einu orði sagt feilskot hjá þingmanninum og í takt við allt annað sem frá frjálslyndum kemur þessar vikurnar. Þar virðist hvorki standa steinn yfir steini og ef marka má kannanir er flokkurinn á góðri leið með að þurrkast út.
Að mínu mati var algjörlega hárrétt hjá Guðfinnu að senda nemendum þetta tölvubréf og tilkynna þessa ákvörðun sína, enda sést með þessu að hún telur nemendurna samstarfsfólk sitt í skólanum og virðir þau það mikið að láta þau vita hvernig staða hennar er. Mér finnst þetta óttaleg lágkúra hjá þingmönnum frjálslyndra og kannski afhjúpar þetta allra mest vandræði þessa örflokks. Allavega fannst mér Guðfinna bregðast rétt við og gera þetta rétt og heiðarlega. Hún er að fjalla um framtíð sína í starfi, það kemur skólanum við og öll staða málsins á þessum tímapunkti er mál sem henni bar að kynna þeim sem í skólanum eru.
En annars kemur þessi lágkúra frjálslyndra mér ekki á óvart. Allir sem þekkja til vinnubragða og talsmáta þingmanna flokksins eru varla hissa. Það er svosem varla undrunarefni að liðsmenn stjórnarandstöðunnar fari á taugum við framboð Guðfinnu Bjarnadóttur, en þetta er slíkur fellibylur í vatnsglasi að annað eins hefur vart sést lengi.
4.10.2006 | 22:55
Sigríður Anna Þórðardóttir gefur ekki kost á sér
Sigríður Anna Þórðardóttir, alþingismaður og fyrrum ráðherra, tilkynnti á kjördæmisþingi Sjálfstæðisflokksins í Suðvesturkjördæmi í kvöld að hún myndi ekki gefa kost á sér til endurkjörs í komandi þingkosningum. Það eru nokkur tíðindi að Sigríður Anna hafi ákveðið að draga sig í hlé, en hún hefur verið öflug í forystusveit flokksins undanfarin 15 ár og gegnt mörgum trúnaðarstörfum. Hún var kjörin til setu á Alþingi Íslendinga árið 1991. Hún gegndi formennsku í menntamálanefnd Alþingis 1991-2002, utanríkismálanefnd 2002-2003 og umhverfisnefnd 2003-2004. Sigríður Anna var þingflokksformaður Sjálfstæðisflokksins 1998-2003.
Sigríður Anna Þórðardóttir er eini þingmaðurinn í sögu Sjálfstæðisflokksins sem gegnt hefur embætti umhverfisráðherra, en hún sat á ráðherrastóli 2004-2006. Hún var vinnusöm og dugleg sem ráðherra, eins og í öðrum verkum. Fannst mér hún standa sig betur en nokkur annar ráðherra málaflokksins til fjölda ára og hún leiddi fjölda mála innan ráðuneytisins af miklum krafti. Það segir mest um verk hennar að meira að segja stjórnarandstæðingar sáu eftir henni er hún hætti sem ráðherra. Það var okkur sjálfstæðismönnum mikil vonbrigði að hún skyldi ekki verða áfram ráðherra við uppstokkunina innan ríkisstjórnarinnar við afsögn Halldórs Ásgrímssonar í sumar.
Persónulega vil ég þakka Siggu öll verk hennar fyrir Sjálfstæðisflokkinn, nú við þessi þáttaskil hennar. Hún hefur verið duglegur félagi í flokksstarfinu og lagt sig alla fram í verkin fyrir hönd flokks og þjóðar á sínum stjórnmálaferli. Sérstaklega vil ég þakka allt sem hún hefur gert fyrir mig í minni pólitík, t.d. gestapistilinn góða sem ég bað hana að skrifa til okkar ungliðanna á sus.is fyrir um ári, og lagt af mörkum fyrir okkur flokksfélaga hér fyrir norðan, en hún hélt hér öflugan fund um umhverfismál í samráði við Sjálfstæðisfélag Akureyrar hér í sinni ráðherratíð og sýndi okkur hvers hún mat flokksstarfið hér á svæðinu.
Það er mikil eftirsjá af Siggu að mínu mati og við hæfi að henni sé þakkað fyrir sitt góða verk. Ég vil óska henni alls góðs á nýjum vettvangi, þegar að stjórnmálaferlinum lýkur.
![]() |
Sigríður Anna Þórðardóttir hyggst hætta á þingi |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Stjórnmál og samfélag | Breytt 5.10.2006 kl. 17:10 | Slóð | Facebook
4.10.2006 | 21:41
Jón staðfestir sögusagnir um borgarframboð

Mér skilst á því sem kemur fram á vef Steingríms Ólafssonar í kvöld að nú hafi Jón Sigurðsson iðnaðar- og viðskiptaráðherra, tilkynnt formlega um það sem allir vissu, þ.e. að hann ætli að gefa kost á sér í Reykjavík nú í komandi þingkosningum að vori. Allt frá afsögn Halldórs Ásgrímssonar og því er Jón Sigurðsson kom inn í ríkisstjórn hefur verið rætt um það sem næstum öruggan hlut að Jón færi fram í borginni og það var svo staðfest í raun þegar af honum sjálfum er fram kom að hann færi ekki gegn sitjandi kjördæmaleiðtogum flokksins í aðdraganda kosninganna við að stilla upp lista.
En það er svo hinsvegar staðreynd að ekki er beint um auðugan garð að gresja í borginni fyrir framsóknarmenn. Björn Ingi Hrafnsson komst naumlega inn í borgarstjórnarkosningunum í vor og skv. könnunum hefur flokkurinn aðeins 5% fylgi í báðum borgarkjördæmunum. Það er því ljóst að formaður flokksins er ekki öruggur um kjör í borginni skv. stöðunni á þessari stundu. Það verður verkefni hans að vinna að því að efla flokkinn á kosningavetrinum í borginni og víða um land. Staða Framsóknarflokksins er veikust í þéttbýlinu og þar er hann vart að mælast reyndar nú.
Í gærkvöldi flutti Jón Sigurðsson jómfrúrræðu sína á þingi. Það var vissulega mjög settleg viðhafnarræða, en ekki full af eldmóð eða baráttuhug svosem. Það var svolítið undarlegt að Jón skyldi ekki gefa meira upp um sínar skoðanir og áherslur í stjórnmálum. Hann þarf kynningar við, enda er hann ekki stjórnmálamaður frá fornu fari. Jón er ekki þekktur stjórnmálamaður og þarf að gefa meira upp um afstöðu sína í málum og kynna manninn á bakvið þennan einn valdamesta stjórnmálamann landsins. Það verður verkefni hans á þessum vetri, tel ég.
Þetta verður örlagavetur Framsóknar. Nái hann ekki að eflast undir forystu hins nýja formanns gæti svo farið að framtíðarfólk hans falli allt út og eftir standi lið fortíðar fyrrum forystu og þá er hann á leið í stjórnarandstöðu. Það blasir við að hann endar í því hlutskipti fái hann ekki yfir 10% sem hann hefur verið að mælast með undanfarnar vikur hjá Gallup.
Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 21:53 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (2)
4.10.2006 | 17:50
Merkileg umræða um varnarmál á þingi

Ég fylgdist áðan lauslega með umræðum um varnarmál á Alþingi. Þar flutti Geir H. Haarde, forsætisráðherra, munnlega skýrslu um niðurstöðu varnarviðræðnanna við Bandaríkin og fór yfir stöðu mála á þeim þáttaskilum að bandaríski herinn hélt héðan á brott um síðustu helgi. Það markaði endalok 66 ára hersetu á Íslandi og þar af lykilbreytingar á 55 ára gömlum varnarsamningi Íslands og Bandaríkjanna. Forsætisráðherra flutti ítarlega ræðu um málið og við tók umræða um stöðuna sem uppi er nú við þessi þáttaskil í varnarmálum landsins. Það var miklu fróðlegra að hlusta á umræðuna, en ég hafði búist við áður, þó að ég átti von á að þar kæmu fram ólíkar skoðanir.
Það fer ekki á milli mála hversu ólíkar meginlínur liggja í öryggis- og varnarmálum milli t.d. Samfylkingarinnar og Sjálfstæðisflokksins. Þær komu mjög áberandi fram bæði í umræðu um stefnuræðu forsætisráðherra í gærkvöldi og ekki síður í umræðunni á þingi í dag. Greinilegt er að Samfylkingin firrir sig allri ábyrgð á varnarmálum og spilar sig stikkfría. Þetta eru svosem engin stórtíðindi, en teljast þó stór í sögulegri merkingu sé litið til þess hvaðan að Samfylkingin er ættuð. Einu sinni áður en þetta allrahanda vinstritól var stofnað átti það að sækja rætur inn í gamla Alþýðuflokkinn. Utanríkispólisía Samfylkingarinnar á ekkert skylt við þær rætur. Svo mikið er víst.
Eitt sinn var það nú svo að lýðræðisflokkarnir íslensku studdu allir sem einn það sem vestrænar þjóðir voru að gera og voru með viss áþekk meginstef í utanríkismálum. Nú hefur það greinilega gerst að gamla Alþýðubandalagið hefur náð yfirhöndinni í Samfylkingunni í utanríkismálum. Það blasir við öllum sem horfa á þá stefnu sem frá þingmönnum flokksins kemur. Þar eru enda nú í forystusveit rauðsokkur og gamlir sófakommar. Ég hélt að ég myndi aldrei skrifa eða segja þetta en jæja hér læt ég flakka það: ég sakna áherslna og skoðana gömlu kratanna í utanríkismálum, einkum varnar- og öryggismálum. Þær skoðanir eru orðnar algjört eyland í því vinstrajukki sem Samfylkingin er. Þar eru áherslur og hjal gamaldags sossa í forgrunni og virðast vera ráðandi í stefnutali.
Þetta er merkileg niðurstaða umræðnanna í dag. En mér fannst forsætisráðherra komast vel að orði og fara vel yfir stöðu mála. En enginn hefur reyndar orðað Samfylkinguna og ráðleysi hennar betur en Davíð Oddsson. Hann var flottur á þingi fyrir tveim árum er hann kom í pontu og sagði að Samfylkingin væri eins og hver annar afturhaldskommatittsflokkur. Það er nú sem þá rannsóknarefni fyrir sagnfræðingana að greina hvað varð um kratana og áherslur þeirra í öryggis- og varnarmálum eftir að Alþýðuflokkurinn varð hornreka aumingi innan Samfylkingarinnar.
![]() |
Furðar sig á því að Samfylkingin firri sig ábyrgð á varnarmálum |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 18:06 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (2)
4.10.2006 | 15:47
Rudolph Giuliani myndi sigra Hillary Clinton

Skv. nýrri könnun NBC-sjónvarpsstöðvarinnar myndi Rudolph Giuliani, fyrrum borgarstjóri í New York, sigra Hillary Rodham Clinton, öldungadeildarþingmann í New York, í forsetakjöri í Bandaríkjunum, yrði kosið á milli þeirra. Vaxandi líkur eru á því í könnunum meðal flokksmanna stóru flokkanna í Bandaríkjunum að þau njóti mests fylgis þeirra. Telja má fullvíst að bæði muni gefa kost á sér. Það hefur verið rætt um framboð þeirra lengi og enginn yrði hissa þó að þau færu á fullt í forsetaframboð á næstu mánuðum. Fyrstu skref fjáröflunar undir merkjum annars vettvangs af hálfu þeirra er reyndar þegar hafinn.
Það eru enn tvö ár í forsetakosningar í Bandaríkjunum. Þær eiga að fara fram í nóvemberbyrjun 2008. Það er þó mikið verkefni að halda í forsetaframboð þar og krefst allt að eins og hálfs árs grunni við uppbyggingu maskínu til verka. Það má því gera ráð fyrir að línur um hverjir fari fram þar muni ráðast fyrir mitt næsta ár. Það vekur athygli að Giuliani hafi svo sterkt forskot á Hillary Rodham Clinton á þessum tímapunkti. Persónulega taldi ég að hún væri sterkari, enda hefur hann ekki verið sýnilegur mikið á stjórnmálavettvangi undanfarin ár. En það er greinilegt að hann nýtur mikils stuðnings vegna forystu sinnar í New York á örlagatímum í alþjóðamálum haustið 2001.
Flestir töldu að þau myndu takast á í öldungadeildarkjörinu í New York árið 2000, en Giuliani fór þá ekki fram vegna veikinda, en hann greindist með krabbamein árið 2000. Þess í stað hlaut Hillary auðvelda kosningu og þurfti ekki að há harðan slag. En nú stefnir mjög margt í að það verði þau sem takist á um forsetaembættið í Bandaríkjunum þegar að George W. Bush lætur af embætti. Það mun verða spennandi slagur, ef af verður. En fyrst taka við forkosningar stóru flokkanna. Það verða gríðarleg átök inni í báðum flokkum, enda er hvorugt þeirra með öllu óumdeild innan sinna raða.
![]() |
Giuliani vinsælli en Hillary Clinton |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
4.10.2006 | 13:24
Tilhugalíf stjórnarandstöðunnar
Nú er stjórnarandstaðan búin að líma sig saman á kosningavetri. Er það nokkur furða, að svo fari? Það er varla við öðru að búast. Skil þó ekki í andstöðunni að vera ekki í alvöru kosningabandalagi og gefa kjósendum þann skýra kost. Við það fækkar valkostum kjósenda. Skýrar línur eru svosem alltaf góðar. Það er greinilegt að Samfylkingin leggur ekki í að fara svo langt, verandi með svipað fylgi og VG í flestum skoðanakönnunum Gallups og vilji halda öllum hlutum opnum.
Annars finnst mér merkilegt að sjá í nýjustu fylgiskönnun Gallups, þá einkum hversu víða munar litlu á milli vinstriflokkanna tveggja á meðan að Frjálslyndir virðast vera að hrynja fyrir ætternisstapann. Er annars ekki fínt að fara yfir tölur í könnun Gallups og kanna hvernig staðan er:
Reykjavík norður: SF: 30% - VG: 23%
Reykjavík suður: SF: 24% - VG: 21%
Suðvesturkjördæmi: SF: 28% - VG: 17%
Norðvesturkjördæmi: SF: 18% - VG: 23%
Norðausturkjördæmi: SF: 23% - VG: 23%
Suðurkjördæmi: SF: 31% - VG: 14%
Þetta eru mjög merkilegar tölur. Það sem ég tók strax eftir við tölurnar er hversu lítill munur er á vinstriflokkunum í borgarkjördæmunum og það að VG er stærri í Norðvestri og flokkarnir séu jafnstórir í Norðaustri. Stærst er Samfylkingin í Suðurkjördæmi og þar mælist munurinn auðvitað mestur. En það er alveg greinilegt að VG hefur styrkst mjög víða og stendur á lykilstöðum ekki fjarri Samfylkingunni.
Sælir eru annars aumingjagóðir að muna eftir smælingjum eins og Frjálslyndum, sem mælast varla í könnunum.
![]() |
Sameiginlegar áherslur stjórnarandstöðunnar |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 13:52 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)