Færsluflokkur: Stjórnmál og samfélag
4.10.2006 | 12:46
Spennandi kosningabarátta í Bandaríkjunum

Það stefnir í spennandi kosningar í Bandaríkjunum til öldunga- og fulltrúadeildar Bandaríkjaþings. Repúblikanar eiga í vök að verjast á mörgum vígstöðvum. Ofan á allt annað veikir það stöðu flokksins nú að einn þingmanna repúblikana í fulltrúadeildinni, Mark Foley, hrökklaðist frá þingsetu í kjölfar þess að fjölmiðlar birtu vafasama kynferðistengda tölvupósta og skilaboð sem hann hafði sent til unglingspilta sem vinna sem sendiboðar í þinghúsinu í Washington. Í kjölfar þess hafa raddir orðið háværar um að Dennis Hastert, forseti fulltrúadeildarinnar, víki. Hefur George W. Bush, forseti Bandaríkjanna, slegið skjaldborg um Hastert og um leið fordæmt Foley.
Kosningar verða í Bandaríkjunum eftir nákvæmlega mánuð. Þetta hneykslismál virðist í fljótu bragði geta skaðað flokkinn það mjög að hann missi fulltrúadeildina hið minnsta. Fari svo að Hastert hrökklast frá forsetaembættinu í fulltrúadeildinni fyrir kosningar mun það aðeins skaða flokkinn. Reyndar má með ólíkindum teljast að Hastert skuli ekki hafa brugðist fyrr við í tilfelli Foleys og farið nánar í saumana hvað varðar óásættanlega framkomu hans. Þetta allt eru erfiðar umræður fyrir repúblikana. Það eina sem þeir geta gert er að verja Hastert og reyna með því að vona að umræðan róist. Ekkert við þetta mál er þó gott og hæglega má fullyrða að jafnt verði í deildinni.

Staðan í öldungadeildinni er ekki heldur það sterk að öruggt geti talist miðað við umræðuna vestra þessa dagana. Mesta spennan ríkir væntanlega um þingsætið í Connecticut. Í forkosningum demókrata í fylkinu í ágústbyrjun varð Joe Lieberman, öldungadeildarþingmaður, undir í slag við hinn lítt þekkta Ned Lamont. Hann háði baráttuna gegn Lieberman á þeim grunni að þingmaðurinn væri stuðningsmaður Íraksstríðsins og hefði stutt Bush forseta á vettvangi þingsins. Lamont notaði óspart myndskeið frá ræðu forsetans í sameinuðum deildum þingsins snemma árs 2005 þar sem að Bush gekk til Lieberman og kyssti hann á kinnina. Lieberman tapaði kosningunum á Íraksstríðinu.
Staða hans er hinsvegar vænleg í væntanlegum kosningum í fylkinu, þar sem hann fer fram sem óháður frambjóðandi gegn Lamont. Lieberman hefur haft yfirhöndina í nær öllum skoðanakönnunum síðustu vikurnar og stefnir að óbreyttu því í sigur hans. Eins og staðan er t.d. nú hefur Lieberman forskot upp á 5-10%. Flestir forystumenn demókrata sem studdu Lieberman í forkosningunum styðja nú Lamont. Það yrði mikið áfall fyrir demókrata ef Lieberman tekst að halda þingsæti sínu nú sem óháður. Lieberman var varaforsetaefni Al Gore árið 2000 og gæti orðið þeim óþægur ljár í þúfu haldist hann áfram inni. Lieberman hefur setið á Bandaríkjaþingi frá árinu 1989.
En þetta verða spennandi kosningar. Það stefnir í átök á öllum vígstöðvum og verður sérstaklega athyglisvert að fylgjast með hversu illa þetta hneykslismál skaðar repúblikana í fulltrúadeildinni. Stóra spurning baráttunnar er þó hvort repúblikanar halda velli. Það verður sérstaklega athyglisvert að sjá hvernig fer með öldungadeildina. Ég mun á næstu vikum fara nánar yfir stöðuna vestra, eftir því sem styttist sífellt í kjördaginn.
3.10.2006 | 23:59
Sigríður Ingvarsdóttir gefur kost á sér
Sigríður Ingvarsdóttir, fyrrum alþingismaður, hefur nú tilkynnt formlega um framboð sitt í 2. - 3. sæti á framboðslista Sjálfstæðisflokksins í Norðausturkjördæmi í komandi kosningum. Sigríður sat á þingi 2001-2003, kom á þing við afsögn sr. Hjálmars Jónssonar, og var þingmaður Norðurlandskjördæmis vestra. Hún skipaði fjórða sætið á lista Sjálfstæðisflokksins í Norðausturkjördæmi í kosningunum 2003 og féll af þingi, enda hlaut flokkurinn aðeins tvo menn kjörna í kosningunum. Sigríður hefur verið fyrsti varamaður Sjálfstæðisflokksins í Norðausturkjördæmi frá afsögn Tómasar Inga Olrich af þingi við lok ársins 2003 og tekið nokkrum sinnum sæti á kjörtímabilinu.
Það er varla undrunarefni að Sigga vilji reyna á framboð og það áttu langflestir hér von á þessu framboði. Skiljanlegt er að hún vilji láta reyna á stöðu sína, verandi í þeirri stöðu sem hún hefur sem varaþingmaður og fyrrum þingmaður af hálfu flokksins. Nú styttist óðum í kjördæmisþing flokksins í Norðausturkjördæmi, en það verður haldið að Skjólbrekku helgina 14. - 15. október nk. Þar verður tekin afstaða til þess hvort prófkjör eða uppstilling fari fram við val á framboðslistanum. Fyrir liggur tillaga stjórnar kjördæmisráðs um að fram fari prófkjör fyrir lok nóvembermánaðar.
Telja má fullvíst að Kristján Þór Júlíusson, bæjarstjóri á Akureyri, tilkynni um leiðtogaframboð sitt í kjördæminu eigi síðar en á aðalfundi fulltrúaráðs sjálfstæðisfélaganna á Akureyri að kvöldi mánudagsins 9. október. Mikið er ennfremur spáð um á hvaða sæti Þorvaldur Ingvarsson, lækningaforstjóri FSA, sem skipaði sjötta sæti framboðslistans árið 2003, muni stefna, en lengi hefur hann talað um framboð sitt víðsvegar innan flokksins.
Það er alveg ljóst að margir bíða ákvörðunar þeirra tveggja um framboð. Það ræðst enda margt af því hvernig Akureyringar skipa sér í fylkingar, svo einfalt er nú það bara. Það stefnir í mjög spennandi prófkjör hér að mínu mati. Það verða mjög mikil átök um efstu sæti.
Stjórnmál og samfélag | Breytt 4.10.2006 kl. 00:51 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
3.10.2006 | 21:59
Slæm staða Framsóknarflokksins

Það vekur mikla athygli að sjá nýjustu könnun Gallups á fylgi stjórnmálaflokkanna. Staða Framsóknarflokksins batnar ekki í henni, svo vægt sé til orða tekið. Fylgi flokksins mælist nú 9% á landsvísu. Fylgi flokksins mælist mest hér í Norðausturkjördæmi. Þar er það 20%. Næstmest er það í Norðvesturkjördæmi en þar er mælingin upp á 16%. Í Suðurkjördæmi mælist Framsóknarflokkurinn með 14%. Það er því greinilegt að stærst mælist flokkurinn á landsbyggðinni. Á höfuðborgarsvæðinu myndi flokkurinn einfaldlega þurrkast út. Í Reykjavíkurkjördæmunum báðum er fylgið 5%. Verulega athygli vekur að minnst er fylgið í Suðvesturkjördæmi, aðeins 4%.
Ég verð að viðurkenna að ég varð nokkuð hissa á að sjá að fylgi Framsóknarflokksins er minnst í kjördæmi heilbrigðisráðherrans Sivjar Friðleifsdóttur, sem gaf kost á sér til formennsku flokksins í ágúst. Ekki er hægt að segja að staða formanns flokksins sé sterk þrátt fyrir það. Í Reykjavík norður, þar sem flest bendir til að hann fari fram að vori er flokkurinn prósentustigi stærri en í kraganum. Merkilegt er svo að sjá að í könnun um mælingu á ráðherrum styðja fleiri framsóknarmenn Geir H. Haarde, forsætisráðherra, Siv Friðleifsdóttur, og Guðna Ágústsson, varaformann Framsóknarflokksins en formann sinn. Þetta hlýtur að vera vandræðaleg útkoma.
Framsóknarflokkurinn á erfiðan vetur fyrir höndum. Þar munu örlög þessa aldna flokks ráðast. Staða hans virðist heilt yfir verulega döpur, en þó sterkust í landsbyggðarkjördæmunum. Í Norðaustri t.d. missir hann töluvert fylgi en heldur þó meiru en margir áttu von á. Í þéttbýlinu er aðeins sviðin jörð sem blasir við flokksforystunni. Í Suðurkjördæmi er staðan líka ekki beysin fyrir Guðna Ágústsson. Þetta verður vetur örlaganna fyrir Framsóknarflokkinn. Þar mun reyna á ráðherra flokksins og formanninn, sem flytur í dag jómfrúrræðu sína á Alþingi.
3.10.2006 | 16:19
Aðalfundur kjördæmasamtaka ungliða í NA

Aðalfundur kjördæmissamtaka ungra sjálfstæðismanna í Norðausturkjördæmi fór fram sl. laugardag í Kaupangi. Þar hittumst við og ræddum málefni kjördæmisins í aðdraganda kosninga og gengum endanlega frá öllum hliðum varðandi kjördæmasamtökin sem formlega var stofnað til á kjördæmisþingi í Norðausturkjördæmi að Skjólbrekku í september 2005. Með ræðu sem ég flutti þá kynnti ég stofnun samtakanna og jafnframt að það væri vilji okkar allra að vinna meira og betur saman, formenn allra félaga, stjórnarmenn í SUS og trúnaðarmenn ungliða í kjördæminu. Er þetta mikilvægt skref og nú höldum við í verkefnin, enda er kosningaveturinn hafinn.
Ég stýrði fundinum á laugardag og var í pontu nær samfellt í um tvo klukkutíma. Fyrir fundinum lágu lagatillögur sem voru unnar fyrir fundinn, en eftir var það verkefni að setja sambandinu lög. Var á fundinum kynnt tillaga stjórnarinnar og fór ég lið yfir lið yfir þau. Var það notaleg yfirferð og voru góðar umræður meðal fundarmanna um þessi mál. Finnst mér vera notalegur andi í þessum hópi. Við viljum vinna sameinuð að okkar málum og það er mikilvægt að efla samstöðuna vel. Þetta er besta leiðin til þess að okkar mati. Á fundinum voru umræður um starfið síðasta árið, hvað megi bæta og hvað sé framundan. Ekkert nema verkefni eru framundan og við erum tilbúin til verka.
Að fundi loknum fórum við og fengum okkur góðan kvöldverð og enduðum kvöldið með því að kynna okkur menningarlífið í bænum. Þetta var því virkilega góður dagur og okkur líst vel á verkefnin framundan. Líst mér vel á að stýra þessu verkefni með öðrum góðum félögum.
Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 18:44 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
3.10.2006 | 14:12
Kjartan Gunnarsson hættir sem framkvæmdastjóri Sjálfstæðisflokksins
Kjartan Gunnarsson tilkynnti á fundi miðstjórnar Sjálfstæðisflokksins fyrir stundu að hann hefði ákveðið að láta af embætti framkvæmdastjóra Sjálfstæðisflokksins. Kjartan hefur verið framkvæmdastjóri flokksins frá árinu 1980 og verið framkvæmdastjóri í tíð fjögurra formanna Sjálfstæðisflokksins: Geirs Hallgrímssonar, Þorsteins Pálssonar, Davíðs Oddssonar og Geirs H. Haarde. Við starfi hans mun taka Andri Óttarsson, lögfræðingur.
Þetta eru mikil þáttaskil fyrir Sjálfstæðisflokkinn. Persónulega vil ég þakka Kjartani Gunnarssyni fyrir óeigingjarnt og drenglynt starf fyrir Sjálfstæðisflokkinn í gegnum árin. Hann hefur verið öflugur forystumaður innra starfs flokksins og lagt mikið af mörkum fyrir Sjálfstæðisflokkinn síðustu áratugina. Um leið vil ég óska Andra til hamingju með starfið og vona að honum gangi vel.
Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 14:23 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
3.10.2006 | 09:32
Valgerður Bjarnadóttir í framboð
Valgerður Bjarnadóttir, viðskiptafræðingur, hefur ákveðið að gefa kost á sér í 3.- 5. sætið í prófkjöri Samfylkingarinnar í Reykjavík eftir rúman mánuð. Valgerður er dóttir Bjarna Benediktssonar, fyrrum forsætisráðherra, og eiginkonu hans Sigríðar Björnsdóttur, og því systir Björns Bjarnasonar, dómsmálaráðherra. Valgerður kvæntist árið 1970, Vilmundi Gylfasyni, sem varð einn af litríkustu stjórnmálamönnum á vinstrivæng íslenskra stjórnmála á seinni hluta 20. aldar. Valgerður fylgdi Vilmundi í hans pólitísku verkefnum með gríðarlegum krafti allt þar til yfir lauk með stofnun Bandalags jafnaðarmanna. Vilmundur lést í júní 1983, langt um aldur fram.
Vala er svo sannarlega öflug kjarnakona, það efast fáir um það. Ég kynntist henni fyrst sumarið 1996, þegar að hún var einn kosningastjóra forsetaframboðs Péturs Kr. Hafsteins. Ég studdi framboðið hér fyrir norðan og var að vinna fyrir það. Þá var Vala nýlega flutt aftur heim eftir áratugs vist erlendis, en hún flutti til Brussel eftir að Vilmundur dó. Vala er skarpgreind og öflug kona sem hefur alltaf verið í bakgrunni í stjórnmálaumræðunni. Hún er þó fædd og uppalin inn í íslensk stjórnmál, dóttir eins öflugasta stjórnmálahöfðingja okkar og var gift einum litríkasta leiðtoga stjórnmálanna, miklum hugsjóna- og baráttumanni í áraraðir.
Það eru að mínu mati gríðarlega mikil tíðindi að Vala ákveði sjálf að fara í framboð. Það er alveg ljóst að prófkjör Samfylkingarinnar í Reykjavík verður spennandi. Þar eru margir að berjast um svipuð sæti og stefnir í hörkuátök. Innkoma Valgerðar Bjarnadóttur í beina stjórnmálaþátttöku eru stórtíðindi, enda hefur hún í raun verið í stjórnmálum alla tíð en með óbeinum hætti. Það verður fróðlegt að sjá hvernig að henni muni ganga í þessum prófkjörsslag.
Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 10:06 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
2.10.2006 | 23:59
Góð staða í Norðaustri

Var að fara yfir greiningu á nýjustu mánaðarkönnun Gallups. Mikið gleðiefni að sjá þá könnun. Staðan í Norðausturkjördæmi er góð fyrir okkur sjálfstæðismenn. Þar mælumst við með 32%, Samfylking og VG með 23%, Framsókn með 20% og Frjálslyndir með 1%. Gott mál. Þetta myndi færa okkur fjóra menn væntanlega hér í Norðaustri að vori. Framsókn fékk fjóra árið 2003 með 32% fylgi. Við erum allavega langstærst í mælingu hér og gleðiefni að Samfylking er á pari við VG og aðeins örlitlu stærri en Framsókn á svæðinu. Það er greinilegt að Samfylkingin er í einhverri krísu hér, enda hafa þeir eflaust talið sig vera stærri en þetta samanborið við Framsókn.
Stjórnmál og samfélag | Breytt 3.10.2006 kl. 00:02 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
2.10.2006 | 17:29
Þingeyingar slá niður hugmyndir Ómars

Þegar að Ómar Ragnarsson kynnti hugmyndir sínar á blaðamannafundi fyrir nokkrum vikum um þjóðarsátt í málefnum Kárahnjúkavirkjunar talaði hann um að orku í álver á Reyðarfirði mætti fá með öðrum hætti en með virkjuninni við Kárahnjúka. Allt í einu var hann orðinn talsmaður þess að finna álverinu aðra möguleika til að fá orku. Það var eflaust eitt af síðustu hálmstráunum, enda getur hann varla verið trúverðugur nema tala um álverið sem veruleika. Meginandstaða hans liggur við virkjunina og þar hefur barátta hans legið að mestu. Nefndi hann aðspurður um málið með þessum hætti að orku í álverið mætti fá frá Norðausturlandi og talaði þar um Þeistareykja sem dæmi.
Ég sagði í skrifum hér þegar í síðustu viku þegar að Ómar nefndi þetta að um væri að ræða óraunveruleika. Þingeyingar vildu ekki að orka á sínu svæði færi í álver staðsett við Eyjafjörð og þaðan af síður vildu þeir orkuna alla leið austur til Reyðarfjarðar til að létta á stöðu mála þar. Enda verður það ekki svo. Þingeyingar biðu ekki lengi boðanna og slógu niður hugmyndir Ómars Ragnarssonar með afgerandi hætti nú um helgina. Stjórn og trúnaðarmannaráð Verkalýðsfélags Húsavíkur hefur sent frá sér yfirlýsingu þess efnis að vandi eins byggðarlags verði ekki leystur með því að velta honum yfir á annað landssvæði.
Þetta er eins kristalskýrt og það getur best orðið: orka Þingeyinga mun verða nýtt til atvinnuuppbyggingar þar. Í fréttum RÚV um helgina sagði stjórnarformaður Þeistareykja, sem er orkufyrirtæki Þingeyinganna, að háspennumannvirki austur á land yrði verulegt umhverfisslys og náttúruverndarsinnar á höfuðborgarsvæðinu ættu að líta sér nær. Þetta var nett skot til Ómars Ragnarssonar og allra þeirra sem gengu með honum í síðustu viku.
En já, ég vissi að Þingeyingar myndu ekki bíða lengi boðanna með að láta í sér heyra og minna á að afstaða þeirra er skýr hvað það varðar að orkan verður nýtt til uppbyggingar á því svæði. Svo mikið þekki ég Þingeyinga að ég veit að þetta er afstaða þeirra til málsins og hún er skiljanleg. Verð þó að segja eins og er að ég varð hissa á Ómari Ragnarssyni að halda að þessi tillaga hans félli í kramið meðal Norðanmanna.
Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 17:38 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
2.10.2006 | 14:41
Reffileg Jóhanna stýrir þingfundi
Jóhanna Sigurðardóttir hefur nú setið lengst allra þingmanna á Alþingi Íslendinga. Hún stýrði því fyrsta þingfundi við setningu 133. löggjafarþings löggjafarsamkundunnar. Jóhanna stýrði fundi með reffilegum og flottum hætti áðan, en ég fylgist með öðru auganu með þingsetningu sem nú stendur yfir í Alþingishúsinu. Jóhanna hefur verið, rétt eins og Halldór Ásgrímsson var áður og svo margir fleiri sem lengi hafa verið, reynslumikill forystumaður innan þings og verið litríkur stjórnmálamaður. Hún hefur setið samfleytt á þingi frá árinu 1978 og verið alla tíð mjög áberandi í þingstörfum og lagt sig alla í verkefni stjórnmálanna og verið hugsjónapólitíkus. Það er alltaf þörf á þeim.
Ég var svona að fara yfir það í huganum hvenær að mér fannst Jóhanna ná hápunkti sínum sem stjórnmálamaður. Það var sennilega þegar að henni tókst að sigra prófkjör Samfylkingarinnar í Reykjavík í janúar 1999. Einhvernveginn tókst henni það sem allir töldu ómögulegt eftir eiginlega misheppnaða stofnun Þjóðvaka og hið skaðlega tap fyrir Jóni Baldvin í formannskjöri Alþýðuflokksins árið 1994 að byggja sig upp að nýju sem forystukonu á vinstrivængnum. Með því tókst henni að sópa vinstrinu að baki sér. Hún gekk að nýju í Alþýðuflokkinn í aðdraganda prófkjörsins og lagði hann að fótum sér með alveg stórglæsilegum hætti. Það var hennar toppur. Það er mjög einfalt mál.
Jóhanna stóð sig mjög vel við stjórn fundarins og var reffileg sem ávallt. Hún flutti hugljúf minningarorð um Magnús H. Magnússon, fyrrum ráðherra, varaformann Alþýðuflokksins og bæjarstjóra í Vestmannaeyjum, sem lést í sumar. Magnús, sem var faðir Páls Magnússonar, útvarpsstjóra, var einn hinna litríku höfðingja Alþýðuflokksins og það var því táknrænt og flott að það skyldi verða Jóhanna, sem varð eftirmaður hans á varaformannsstóli Alþýðuflokksins árið 1984, sem flutti þessi minningarorð.
Ólafur Ragnar Grímsson flutti ræðu með sínum hætti við þingsetningu. Fannst ummæli hans um utanríkismál athyglisverð í ljósi þess úr hverju hann er gerður í stjórnmálum og þær skoðanir sem hann lét í veðri vaka á þingmannsárum sínum. Ég hef aldrei metið forseta Íslands utanríkispostula og ekki breytti þessi ræða þeim skoðunum. Mér fannst hann þó tala mjög virðulega um Halldór Ásgrímsson sem stjórnmálamann. Eins og Ólafur Ragnar og Jóhanna sögðu réttilega er Halldór einn risanna í stjórnmálasögu landsins, eftir langan ráðherraferil sinn, og hann mun hljóta þann sess.
Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 14:49 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
2.10.2006 | 12:48
Alþingi Íslendinga sett í dag

Alþingi Íslendinga verður sett nú eftir hádegið. Jóhanna Sigurðardóttir, starfsaldursforseti Alþingis, mun stýra fundi fram að kjöri forseta Alþingis. Sólveig Pétursdóttir mun þá taka kjöri sem þingforseti, en þetta verður síðasti þingvetur Sólveigar, en hún hefur ákveðið að gefa ekki kost á sér til endurkjörs. Síðdegis í dag verður svo fjárlagafrumvarp ríkisstjórnarinnar formlega kynnt, en Geir H. Haarde, forsætisráðherra, flytur svo stefnuræðu sína annaðkvöld og í kjölfarið verða umræður um hana í þingsal.
Þetta verður átakaþing, prófkjör flokkanna standa fyrir dyrum nú á næstu vikum. Öruggt má teljast að fjöldi þingmanna muni annaðhvort þurfa að berjast harðri baráttu fyrir sætum sínum við öfluga nýliða eða jafnvel falla í prófkjörunum. Það má allavega fullyrða að harðir prófkjörsslagir setji mark sitt á þingstörfin, en flest prófkjör flokkanna verða búin fyrir lok nóvembermánaðar. Þessi mánuður og sá næsti verða því mjög beittir í pólitík flokkanna, sérstaklega þeirra tveggja stærstu. Það má altént fullyrða að tíminn fram að jólum verði snarpur og spennandi.