Færsluflokkur: Stjórnmál og samfélag

Guðmundur Hallvarðsson gefur ekki kost á sér

Guðmundur Hallvarðsson

Guðmundur Hallvarðsson, alþingismaður, sendi í morgun út fréttatilkynningu þar sem fram kemur sú ákvörðun hans að gefa ekki kost á sér í alþingiskosningunum að vori. Guðmundur hefur setið á þingi frá árinu 1991, og því verið á Alþingi í fjögur kjörtímabil. Guðmundur hefur verið formaður samgöngunefndar Alþingis frá afsögn Árna Johnsen af þingi fyrir fimm árum. Guðmundur hefur allan sinn þingferil verið fulltrúi verkalýðsarms flokksins á þingi, en hann hefur í áratugi verið forystumaður innan Sjómannahreyfingarinnar og verið málsvari þeirra, t.d. innan Hrafnistu og í raun tók hann við af Pétri Sigurðssyni sem fulltrúi þeirra á lista flokksins í borginni.

Það verður fróðlegt að sjá hvort að á framboðslista flokksins í borgarkjördæmunum komi fulltrúi úr þeim kjarna til framboðs. Það stefnir í spennandi prófkjör, nú þegar hafa margir nýir frambjóðendur gefið kost á sér. Fyrir liggur að tveir af níu þingmönnum Sjálfstæðisflokksins í borginni hætta: Guðmundur og Sólveig Pétursdóttir, forseti Alþingis. Það verður því eflaust uppstokkun og telja má öruggt að mikil breyting verði. Ekki er langt í prófkjörið, en það verður eftir innan við fjórar vikur og framboðsfrestur rennur út í vikunni.

mbl.is Guðmundur Hallvarðsson hættir á þingi í vor
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Spennandi prófkjör í Suðurkjördæmi

Suðurkjördæmi

Sjálfstæðismenn í Suðurkjördæmi samþykktu á kjördæmisþingi í dag að halda prófkjör laugardaginn 11. nóvember nk. Það stefnir í spennandi prófkjör og það verður vettvangur mikilla átaka milli reyndra stjórnmálamanna með bæði langa pólitíska sögu og merkilega. Það er ljóst að leiðtogaslagurinn verður slagur Árnanna Johnsen og Mathiesen. Það vekur verulega athygli að Árni Johnsen gefi upp boltann með leiðtogaframboð eftir það sem á undan hefur gerst. Árni M. Mathiesen, fjármálaráðherra, er reyndur stjórnmálamaður og leggur mikið undir með því að færa sig um kjördæmi. Þetta verður því mjög harður slagur þarna milli manna.

Það markar prófkjörið að enginn afgerandi leiðtogi er á svæðinu. Árni Ragnar Árnason sem leiddi framboðslista flokksins árið 2003 lést ári síðar eftir erfið veikindi. Drífa Hjartardóttir tók við þeim skyldum eftir fráfall Árna Ragnars og í raun að mestu sinnt því á tímabilinu. Greinilegt er að Árni M. og Drífa virðast í nokkru bandalagi, en Drífa tilkynnti sama dag og Árni gaf upp boltann með leiðtogaframboð og tilfærslu úr kraganum þar yfir að hún vildi annað sætið og styddi Árna. Hún berst við Guðjón Hjörleifsson, Kjartan Ólafsson og Kristján Pálsson um annað sætið. Þeir tveir síðarnefndu vildu auk Drífu leiða listann árið 2003 en urðu undir fyrir Árna Ragnari í uppstillingu.

Um næstu sæti fyrir neðan berjast Gunnar Örlygsson, alþingismaður, Kári Sölmundarson, sölustjóri, Helga Þorbergsdóttir, varaþingmaður, Björk Guðjónsdóttir, forseti bæjarstjórnar Reykjanesbæjar, Halldóra Bergljót Jónsdóttir, bæjarfulltrúi á Höfn og Unnur Brá Konráðsdóttir, sveitarstjóri Rangárþingi eystra. Gunnar kemur inn nýr á svæðið, en hann er þó vissulega frá Njarðvík upphaflega og af frægri körfuboltaætt þar, en bróðir hans Teitur Örlygsson er landsfrægur körfuboltakappi í Njarðvíkunum. Gunnar leiddi Frjálslynda flokkinn í kraganum í kosningunum 2003 en sinnaðist við menn þar og skipti um flokk. Nú mun koma vel í ljós hver staða hans er innan síns nýja flokks.

Það verður fróðlegt að sjá hvaða kona nær sterkri stöðu. Þarna berjast mjög sterkar konur um að komast ofarlega á lista. Sérstaklega fagna ég framboði Unnar Brár, vinkonu minnar, en ég ætla rétt að vona að hún nái markmiði sínu með fimmta sætinu, enda þar um að ræða mikla kjarnakonu. En þetta er allavega nokkur kvennaslagur á svipuð sæti og spurning hvaða áhrif það hefur á stöðu kvenna varðandi að hljóta þessi sæti í slag við karlana, en það vekur athygli að þær sækja allar sem ein neðar en karlarnir öflugustu, utan Drífu auðvitað, sem hefur vissulega mun sterkari stöðu sem þingmaður allt frá árinu 1999 og kjördæmaleiðtogi stóran hluta þess tíma.

En þetta verður mest spennandi vegna slagsins um fyrsta sætið. Staða Árna M. Mathiesen hlýtur að teljast fyrirfram sterkari, en það verður hart barist og allt lagt í sölurnar. Það eitt að Árni Johnsen taki fram möguleikann á fyrsta sætinu skapar líflega kosningu og alvöru átök, en lengi vel stefndi í að Árni færi einn fram í fyrsta sætið. En þetta er mikill þingmannaslagur. Þarna eru sjö núverandi og fyrrverandi þingmenn að gefa kost á sér, þar af tveir sem færa sig úr Suðvesturkjördæmi. Ekki fá allir það sem þeir vilja og spennan verður um hverjir hellast úr lestinni og verða undir.

mbl.is Sjálfstæðismenn á Suðurlandi með prófkjör
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Hvað varð um Silfur Egils?

Egill Helgason

Pólitíkin er heit þessar haustvikurnar. Prófkjör framundan og mikið spáð og spekúlerað í stjórnmálunum. Það vekur athygli að auglýstur þáttur af Silfri Egils var ekki sýndur í hádeginu á tilsettum tíma á dagskrá Stöðvar 2. NFS er öll og því hlýtur þátturinn að verða á Stöð 2, eins og auglýst var. Í staðinn var sýnt hádegisviðtal við Sólveigu Pétursdóttur, forseta Alþingis, um þingstörf en Alþingi kemur saman á morgun. Á eftir tóku svo við Nágrannarnir áströlsku. Engin var því pólitíkin á auglýstum tíma og analíseringarnar um hana á þessum heita sunnudegi í stjórnmálum, þegar að fólk er út um allt að spá og spekúlera um stöðu mála. Hvað verður um Egil?

Dr. Guðfinna Bjarnadóttir í framboð

Guðfinna S. Bjarnadóttir

Dr. Guðfinna Bjarnadóttir, rektor Háskólans í Reykjavík, hefur ákveðið að gefa kost á sér í þriðja sætið í prófkjöri Sjálfstæðisflokksins í Reykjavík, sem fram fer í lok þessa mánaðar. Þetta eru vissulega stór tíðindi. Guðfinna á að baki langan og farsælan feril í menntamálum. Hún var ennfremur forstjóri LEAD Consulting í Bandaríkjunum 1991-1998 en hefur verið rektor HR frá stofnun árið 1998 og byggt skólann upp sem eina kraftmestu menningarstofnun í landinu. Það er fengur fyrir sjálfstæðismenn að fá slíka kjarnakonu til verka og að hún sýni áhuga á framboði.

Þegar að Sólveig Pétursdóttir, forseti Alþingis og fyrrum dómsmálaráðherra, tilkynnti að hún ætlaði að draga sig í hlé og gefa ekki kost á sér í prófkjörinu var mikið talað um að konur yrðu kannski ekki áberandi í prófkjörsslagnum. Það er ljóst að með framboði Guðfinnu og Daggar Pálsdóttur koma öflugar konur til verka og það verður því nóg af kvenkostum fyrir flokksmenn að velja úr á listann. Þegar hefur Ásta Möller, alþingismaður, sem tók sæti á þingi við brotthvarf Davíðs Oddssonar, gefið kost á sér í þriðja sætið.

Það stefnir í spennandi prófkjör í borginni og svo mikið er víst að úr góðum kostum verður að velja fyrir sjálfstæðismenn þegar gengið verður að kjörborði eftir fjórar vikur.

mbl.is Guðfinna S. Bjarnadóttir í framboð
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Illuga í forystusveit í Reykjavík!

Illugi Gunnarsson

Í dag opnar Illugi Gunnarsson, hagfræðingur, kosningaskrifstofu sína á Suðurlandsbraut vegna prófkjörs sjálfstæðismanna í borginni síðar í þessum mánuði. Það er mikill fengur fyrir flokkinn að Illugi hafi ákveðið að bjóða sig fram og það er mikilvægt að hann fái góða kosningu í þessu prófkjöri. Illugi Gunnarsson er vaxandi pólitísk stjarna að mínu mati. Það leikur enginn vafi á því í mínum huga að Illugi sé efnilegt þingmannsefni fyrir flokkinn í komandi þingkosningum.

Það er spennandi prófkjör framundan og mikilvægt að vel takist til með röðun á lista í Reykjavíkurkjördæmunum. Það er mikið af góðu fólki búið nú þegar að gefa kost á sér og í vikunni mun endanlega skýrast hversu margir bætast við hóp þingmannanna, en þegar er ljóst að Sólveig Pétursdóttir mun ekki fara fram og ekki er vitað með Guðmund Hallvarðsson. Það er ljóst að allar forsendur eru fyrir okkur sjálfstæðismenn að vel takist til.

Sérstaklega er mikilvægt að saman fari í forystu listanna reynsla og svo ferskleiki. Ég tel t.d. mikilvægt að Geir H. Haarde og Björn Bjarnason, ólíkir en traustir menn í forystu Sjálfstæðisflokksins, leiði listana. Á eftir þeim er mikilvægt að komi öflugir menn og sterkar kjarnakonur, einvalalið fólks með reynslu í stjórnmálum og jafnframt einstaklinga með nýja og ferska sýn.

Það er mikilvægt fyrir Sjálfstæðisflokkinn að Illugi verði ofarlega á öðrum listanum og því vil ég senda honum góðar kveðjur héðan frá Akureyri nú þegar að hann fer af stað með kosningaskrifstofuna. Ég kemst því miður ekki við opnunina en mun líta þangað á næstu dögum þegar að ég fer suður. En já, Illuga í forystusveitina. Þetta er í mínum huga mjög einfalt mál!

Herinn farinn

F4-þota

Þáttaskil hafa orðið á Miðnesheiði. Bandaríski herinn er farinn og nú blaktir aðeins íslenski fáninn í varnarstöðinni. Þetta voru lágstemmd þáttaskil en þau skipta verulega miklu máli. Síðustu bandarísku hermennirnir eru farnir og nú hefur sýslumannsembættið á Keflavíkurflugvelli tekið yfir alla gæslu á varnarsvæðinu. Nú taka reyndar við stórar ákvarðanir og nægt er af viðfangsefnum. Ákveða þarf framtíð svæðisins og nýtingu þess eftir að herinn er nú farinn. Það verður allavega í nægu að snúast þar. En þáttaskil eru þetta og við stöndum á krossgötum í kjölfar þessarar breytinga.

mbl.is Íslenski fáninn blaktir einn á varnarstöðinni
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Sögupistill - stjórnarmyndun Gunnars 1980

Gunnar Thoroddsen

Í ítarlegum sögupistli á vef SUS sem birtist í dag fjalla ég um sögulega stjórnarmyndun dr. Gunnars Thoroddsens, varaformanns Sjálfstæðisflokksins, árið 1980, eina hina eftirminnilegustu í lýðveldissögunni. Markaði hún hápunkt valdaátaka tveggja af öflugustu leiðtogum Sjálfstæðisflokksins í langri sögu hans, þeirra Gunnars og Geirs Hallgrímssonar. Stjórnarmynduninni var stýrt af varaformanninum Gunnari í trássi við allar helstu stofnanir flokksins.

Saga Sjálfstæðisflokksins verður aldrei rituð nema að nafn Gunnars verði þar ofarlega á blaði. Hann var einn af litríkustu og svipmestu pólitísku höfðingjum íslenskrar stjórnmálasögu. Gunnar starfaði innan flokksins af krafti allt frá unglingsárum til dauðadags, lengst af í forystusveit hans og með mikil völd. Örlögin höguðu því þó þannig að á gamals aldri klauf hann sig frá vilja æðstu forystu Sjálfstæðisflokksins og hélt á brott við sögulegustu stjórnarmyndun í sögu landsins.

Farið er yfir allan aðdragandann og ennfremur yfir litríkan stjórnmálaferil Gunnars, en pólitík hans var samofin pólitískri sögu Sjálfstæðisflokksins í yfir 50 ár og hann lagði ævistarf sitt í það að efla Sjálfstæðisflokkinn. Endalok ferilsins voru vissulega söguleg með einum mesta hvelli íslenskrar stjórnmálasögu.


Jospin ekki í framboð - Royal forsetaefni?

Lionel Jospin

Flest bendir til þess að Segolene Royal verði forsetaefni sósíalistaflokksins í Frakklandi, en forsetakjör fer fram í Frakklandi að vori. Í gær tilkynnti Lionel Jospin, fyrrum forsætisráðherra Frakklands, sem var forsetaefni sósíalista 1995 og 2002 að hann myndi ekki gefa kost á sér. Jospin tapaði naumlega fyrir Jacques Chirac í kosningunum 1995 en náði ekki í seinni umferðina árið 2002. Jospin var forsætisráðherra Frakklands 1997-2002 og deildi því völdum með keppinaut sínum í kosningunum 1995 í um fimm ár. Það var erfið valdasambúð. Jospin hætti í stjórnmálum eftir afhroðið árið 2002. Velt hafði verið því fyrir sér síðustu mánuði hvort hann færi aftur fram nú.

Draumadís vinstrimanna fyrir kosningar er hin 53 ára gamla Segolene Royal. Fyrir aðeins nokkrum árum hefði það þótt draumórar að halda að Royal hlyti nær afgerandi sess sem kandidat sósíalista til framboðs en svo hefur nú farið. Hún hefur ekki enn lýst yfir framboði en er með langsterkustu stöðuna þrátt fyrir það. Valdamikill armur flokksins vill hana ekki í framboð og hefur reynt allt sem þeir geta til að draga niður vinsældir hennar, en án árangurs. Ef marka má skoðanakannanir nú er hún einnig draumadís Frakka sem telja sig sjá ferskan vindblæ breytinga og uppstokkunar í Royal, og nýtur hún mikilla vinsælda meðal landsmanna.

Margir virðast vilja kvenforseta í Frakklandi og margir vinstrimenn telja hana einu von flokksins til sigurs og áhrifa að vori. Eiginmaður Royal er áhrifamaður í frönskum stjórnmálum, Francois Hollande, formaður Sósíalista, og hefur jafnvel heyrst að hann hafi áhuga á forsetaembættinu ennfremur. Margir vinstrimenn í andstæðingahópi Royal höfðu nefnt nafn Jospin sem þess eina sem gæti komið í veg fyrir sigur hennar í forvali sósíalista um útnefninguna í forsetakjörið sem fer fram á næstu dögum. Jospin sá að hann gæti aldrei unnið útnefningu og þaðan af síður kosningarnar. Frambjóðandi hans arms verður því Dominique Strauss-Kahn, fyrrum fjármálaráðherra, og hefur hann tilkynnt um framboð.

Segelene Royal og Nicolas Sarkozy

Flest bendir því til að Segolene Royal fái útnefningu sósíalistaflokksins og eigi góðan séns í forsetaembættið. Telja flestir að andstæðingur hennar þar verði Nicolas Sarkozy, innanríkisráðherra Frakklands, sem stendur langsterkast að vígi hægrimannanna í frönskum stjórnmálum. Ef marka má kannanir er Royal eini sósíalistinn sem geti farið í alvöru slag við Sarkozy. Það stefnir altént í spennandi kosningar að vori, bæði um þing og forseta í Frakklandi. Hægrimenn líta kvíðnir sérstaklega til þingkosninganna og óttast að það sama gerist og árið 1997 þegar að þeir misstu yfirráð yfir þinginu, reyndar mjög óvænt þá.

Sérstaklega virðist kosningabaráttan um forsetaembættið og það hver verði húsbóndi í Elysée-höll ætla að verða spennandi og mjög óvægin. Enn hefur Jacques Chirac ekki lýst því yfir hvað hann ætli að gera en flestir telja að hann muni hætta eftir tólf ára forsetaferil. Barátta um kandidata vinstri- og hægriblokkanna verður hörð. Hvorki Sarkozy og Royal eru óumdeild innan sinna raða en eru þeir kandidatar sem landsmenn vilja helst í slaginn.

Framundan eru áhugaverðir tímar í frönskum stjórnmálum. Sumir tala um Sarko-Sego tíma framundan í franskri pólitík. Það skal ósagt látið - en það verður mjög áhugavert að sjá hverjir muni berjast að lokum um hið valdamikla forsetaembætti í Frakklandi, áhrifaembætti í alþjóðastjórnmálum.

mbl.is Jospin sækist ekki eftir forsetaembættinu í Frakklandi
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

9 í prófkjöri Samfylkingarinnar í Norðaustri

Samfylking

9 einstaklingar gefa kost á sér í prófkjöri Samfylkingarinnar í Norðausturkjördæmi. Framboðsfrestur rann út á miðvikudag. Mun prófkjörið verða í póstkosningaformi.  Munu atkvæðaseðlar verða sendir út um miðjan október og mun síðasti skiladagur atkvæðaseðlanna miðast við 1. nóvember. Talið verður á Akureyri laugardaginn 4. nóvember, nákvæmlega ári eftir að prófkjör Samfylkingarinnar á Akureyri fór fram fyrir bæjarstjórnarkosningarnar á þessu ári. Fjórir gefa kost á sér í fyrsta sætið: Benedikt Sigurðarson, aðjúnkt við Háskólann á Akureyri, Kristján L. Möller, alþingismaður, Ragnheiður Jónsdóttir, lögfræðingur, og Örlygur Hnefill Jónsson, lögmaður.

Kristján og Benedikt gefa bara kost á sér í fyrsta sætið en þau Ragnheiður og Örlygur Hnefill gefa kost á sér í 1. - 3. sætið. Það má því gera ráð fyrir hörkuspennandi kosningu um leiðtogastólinn. Athygli vekur að enginn Austfirðingur gefur kost á sér í fyrsta sætið og þetta verður því slagur Norðlendinganna í kjördæmastarfinu um forystuna. Í annað sætið gefa hinsvegar kost á sér Einar Már Sigurðarson, alþingismaður, og Lára Stefánsdóttir, framkvæmdastjóri. Einar Már er eini Austfirðingurinn því í kjöri um fyrstu tvö sætin. Það má því telja líklegt að Austfirðingar standi allir vörð um stöðu hans. Það má þó telja ljóst að staða Láru er gríðarlega sterk.

Í þriðja sætið gefa kost á sér þau Jónína Rós Guðmundsdóttir, framhaldsskólakennari, Kristján Ægir Vilhjálmsson, nemi, og Sveinn Arnarson, lögfræðinemi. Jónína Rós er frá Egilsstöðum og því eini fulltrúi Austfirðinga í þriðja sætið. Það eru því bara tveir Austfirðingar í kjöri í prófkjörinu, sem hljóta að teljast mikil tíðindi, miðað við að Samfylkingin er næststærsti stjórnmálaflokkur landsins. Það að ekki vilji fleiri Austfirðingar fara fram eru tíðindi.

Önnur tíðindi eru að tveir ungliðar á Akureyri berjist um þriðja sætið. Þar er um að ræða tvo fyrrum formenn ungliða kratanna á Akureyri, sem greinilega eru í baráttuhug gegn hvor öðrum. Sveinn er reyndar Hafnfirðingur að uppruna og búið á Akureyri í aðeins ár en Kristján Ægir hefur þrátt fyrir ungan aldur starfað lengur að þeim málum hér en Sveinn. Þeirra slagur er allavega mjög merkilegur að mínu mati.

Kosningin verður bundin um þrjú efstu sætin, svo að það verður spennandi kapphlaup. Mér sýnist í fljótu bragði þetta verða spurning um hvort að Einar Már heldur velli og nær sínu sæti eða missir sína stöðu. Það yrðu svo sannarlega stórtíðindi ef enginn austfirskur samfylkingarmaður næði bindandi kosningu í eitt af þrem efstu sætum á lista flokksins.


Halldór sigrar Smára í æsispennandi kosningu

Halldor Halldórsson

Halldór Halldórsson, bæjarstjóri í Ísafjarðarbæ, sigraði Smára Geirsson, bæjarfulltrúa í Fjarðabyggð, mjög naumlega í kjöri um formennsku Sambands íslenskra sveitarfélaga á landsþingi þess hér á Akureyri í morgun. Tekur Halldór við formennskunni af Vilhjálmi Þ. Vilhjálmssyni, borgarstjóra, sem hefur gegnt formennskunni samfleytt í sextán ár.

Halldór hlaut 68 atkvæði en Smári hlaut 64 atkvæði. Naumara gat það varla orðið semsagt. Það er alveg greinilegt að gríðarlega sterk staða Sjálfstæðisflokksins í sveitarstjórnum um allt land hefur skipt sköpum í þessari kosningu. Þetta er reyndar í fyrsta skipti sem kosið er um formennskuna en uppstillingarnefnd hefur alltaf lagt fram tillögu sem hefur verið samþykkt.

Innilega til hamingju Halldór með formennskuna.


mbl.is Halldór Halldórsson kjörinn formaður Sambands íslenskra sveitarfélaga
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Fyrri síða | Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband