Færsluflokkur: Stjórnmál og samfélag
25.9.2006 | 13:10
Dagný og Birkir takast á um annað sætið

Fastlega er búist við að Dagný Jónsdóttir og Birkir Jón Jónsson, alþingismenn Framsóknarflokksins í Norðausturkjördæmi, muni berjast um að skipa annað sæti framboðslista flokksins í kosningunum að vori. Jón Kristjánsson, fyrrum heilbrigðis- og félagsmálaráðherra, sem setið hefur á þingi í yfir tvo áratugi, skipaði sætið í kosningunum 2003 en hefur ákveðið að gefa ekki kost á sér til endurkjörs í komandi kosningum. Í aðdraganda kosninganna 2003 átti Framsóknarflokkurinn aðeins tvo þingmenn í kjördæmahlutunum og tókust því þau Jón og Valgerður Sverrisdóttir á um fyrsta sætið á tvöföldu kjördæmisþingi á Hrafnagili í janúar 2003. Vann Valgerður þar nokkuð auðveldan sigur.
Í þriðja og fjórða sæti listans völdust þau Dagný og Birkir Jón. Þau voru þá formaður og varaformaður SUF og voru í augljósu bandalagi þá um að veljast saman í þau sæti sem þau sóttust eftir og náðu með stuðningi Valgerðar og Jóns að verjast áhlaupi Þórarins E. Sveinssonar, fyrrum forseta bæjarstjórnar á Akureyri, um að fá annað af sætunum. Varð hann þess í stað í fimmta sætinu. Nú blasir við að þau muni takast á um annað sætið við brotthvarf Jóns Kristjánssonar úr stjórnmálum. Dagný er augljós fulltrúi Austfirðinga í flokkskjarna framsóknarmanna í sæti Jóns en engum hefur blandast hugur um að Birkir Jón stefnir hærra og hefur verulegan áhuga á forystustörfum innan flokksins.
Það stefnir því í ungliðaslag meðal framsóknarmanna hér. Það kemur svosem ekki bara til vegna valdabaráttu þeirra á milli heldur einfaldlega þeirri staðreynd að Framsóknarflokkurinn á verulega undir högg að sækja í kjördæminu. Eins og staðan er núna eru einfaldlega tvö nokkuð örugg sæti eftir að sækjast í kjördæminu. Árið 2003 vann Framsóknarflokkurinn afgerandi sigur í kjördæminu og tókst að hljóta fjögur þingsæti. Öllum að óvörum felldi Birkir Jón Samfylkingarkonuna Láru Stefánsdóttur útaf þingi undir lok talningar í kosningunum. Nú þykir staða flokksins öllu óvissari, hér sem og í raun um allt land. Það fer því væntanlega svo að þau berjast um að færast upp.
Úrslit sveitarstjórnarkosninganna í vor voru t.d. gríðarlegt áfall fyrir framsóknarmenn hér á Akureyri sem hlutu aðeins einn bæjarfulltrúa kjörinn. Það var sögulegt botnskrap hjá Framsóknarflokknum á Akureyri og ótrúlegt áfall fyrir fyrrum forystuflokkinn í bæjarmálum Akureyringa um áratugaskeið. Það áfall varð einmitt tilfinnanlega mikið fyrir flokksmenn alla í kjördæminu, enda vita allir að sterk staða í kosningum í Norðausturkjördæmi ræðst mikið af hlutfalli flokkanna í kosningum meðal Akureyringa og Eyfirðinga, þar sem stór hluti íbúa kjördæmisins býr.
Það verður spennandi að sjá hvernig þetta fer hjá Framsókn hér að vori í Norðaustri og hversu miklu rýrari útkoman verður þá. Við öllum blasir að verulegt fylgistap verður hjá þeim nú hér og því skiljanlegt að slegist sé um þann stól sem öruggur telst.
Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 13:16 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
25.9.2006 | 12:23
Bjarni Ben sækist eftir öðru sætinu

Bjarni Benediktsson, alþingismaður, hefur ákveðið að gefa kost á sér í annað sætið á framboðslista Sjálfstæðisflokksins í kraganum. Það fer því ekki svo að hann taki slaginn við Þorgerði Katrínu Gunnarsdóttur, menntamálaráðherra, eins og margir höfðu velt fyrir sér. Má því telja nær öruggt að Þorgerður Katrín verði ein í kjöri um fyrsta sætið og fái góða kosningu í það. Kjördæmisþing sjálfstæðismanna í kraganum verður 4. október nk. í Valhöll. Verður spennandi að sjá hvort það verði prófkjör eða uppstilling þarna. Altént er ljóst að ekki verður harður slagur um fyrsta sætið.
Nú eru nýir frambjóðendur farnir að tilkynna sig í kraganum. Í gær gaf Ragnheiður Elín Árnadóttir, aðstoðarmaður Geirs H. Haarde, forsætisráðherra, allt frá því að hann varð fjármálaráðherra árið 1998, kost á sér í fjórða sæti framboðslistans. Enn er beðið eftir ákvörðun Sigríðar Önnu Þórðardóttur, fyrrum umhverfisráðherra og þingflokksformanns, sem setið hefur á þingi frá árinu 1991, Ragnheiðar Ríkharðsdóttur, bæjarstjóra í Mosfellsbæ, Ármanns Kr. Ólafssonar, forseta bæjarstjórnar í Kópavogi, Sigurrósar Þorgrímsdóttur, alþingismanns og Jóns Gunnarssonar, formanns fulltrúaráðs sjálfstæðisfélaganna í Kópavogi.
Búast má við spennandi framvindu mála í framboðsmálum sjálfstæðismanna í kraganum. Framundan er enda fjölgun þingsæta í kraganum, þar sem þingsætin verða 12 en ekki 11, enda færist þingsæti úr Norðvesturkjördæmi yfir í kragann. Á góðum degi gætu sjálfstæðismenn því hlotið 6 þingsæti í kjördæminu. Það er því eftir miklu að slægjast, enda aðeins þrír þingmenn eftir af þeim fimm sem Sjálfstæðisflokkurinn hlaut kjörna í alþingiskosningunum 2003.
![]() |
Sækist eftir öðru sæti |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 12:25 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
25.9.2006 | 10:49
Matarskattur lækkar verulega

Skv. fréttum Sjónvarpsins í gærkvöldi stefnir í verulega lækkun matarskattsins, sem settur var á árið 1987. Talað er um lækkun um allt að 10%, úr 14% niður í 4%. Það hefur blasað við allt eftir tillögur nefndar Hallgríms Snorrasonar, hagstofustjóra, að taka þyrfti afgerandi ákvarðanir um matarverð hérlendis og koma með raunhæfar tillögur að lækka það. Svo virðist nú hafa verið gerst. Skatturinn var settur á í tíð ríkisstjórnar Þorsteins Pálssonar árið 1987 og sprakk stjórn hans tæpu ári síðar þegar að Sjálfstæðisflokkurinn vildi fella skattinn niður, en Jón Baldvin Hannibalsson, þáv. fjármálaráðherra, sem vaðið hafði eld og brennistein fyrir skattinn, vildi halda honum.
Matarverð hér á landi er alltof hátt og mikilvægt að leita allra leiða til að lækka það. Þetta eru góðar tillögur í þeim efnum, ef rétt reynist sem fram kom hjá Sjónvarpinu í gærkvöldi. Búast má við að leiðtogar stjórnarflokkanna; þeir Geir H. Haarde, forsætisráðherra, og Jón Sigurðsson, viðskiptaráðherra, muni kynna tillögur til lækkunar matarverðs í dag eða á morgun. Það er mikilvægt að lækka matarskattinn með krafti og það deilir enginn um það að þetta er gott innlegg í þá átt. Það er kominn tími til að ríkisstjórn Sjálfstæðisflokks og Framsóknarflokks tryggi hér gott matarverð og ég held að þetta sé það mál sem brenni á langflestu fólki.
Vil annars hrósa Þórdísi Arnljótsdóttur fyrir fagmannlega og góða frétt um þessi mál í fréttatíma Sjónvarpsins í gærkvöldi. Svona á að gera þetta. Það var vönduð frétt og táknræn fyrir stöðu mála eftir lækkun skattsins, enda fór Þórdís í verslun 10-11 og tíndi þar í körfu ýmsar nauðsynjavörur í körfuna sína. Eftir að hafa borgað matvörurnar reiknaði hún út hversu mikið ódýrari matarkarfan myndi verða við lækkun matarskattsins. Góð fréttamennska þetta!
Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 10:53 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
24.9.2006 | 21:08
Vandað viðtal við Berglindi

Sunnudagskastljós Evu Maríu Jónsdóttur fer virkilega vel af stað. Horfði í kvöld á gott viðtal Evu Maríu við Berglindi Ásgeirsdóttur, sendiherra og fyrrum ráðuneytisstjóra og aðstoðarframkvæmdastjóra OECD. Berglind er virkilega heilsteypt og vönduð kona. Hún er nýlega flutt heim og viðtalið snerist mikið um það hvort að Berglind væri á leið í framboð á einhverjum vettvangi. Ætli að hún fari í forsetaframboð árið 2008? Stórt er spurt, það kæmi mér allavega ekki á óvart.
Ég hef alla tíð verið þeirrar skoðunar að ekki eigi að vera stjórnmálamaður á stóli forseta Íslands. Það fer best á því að forseti Íslands sé sameiningartákn. Stjórnmálamaður í miðjum klíðum harðrar stjórnmálabaráttu getur á okkar tímum ekki verið afgerandi sameiningartákn. Þetta höfum séð kristallast vel í forsetatíð Ólafs Ragnars Grímssonar sem aldrei hefur tekist að vera forseti allra landsmanna, heldur bara þess hóps sem studdi hann í forsetakosningunum 1996. Það er mjög einfalt mál og blasir við.
Í kosningunum 1996 kaus ég (og vann fyrir) Pétur Kr. Hafstein. Það er mikill sómamaður og hann hafði aldrei verið í stjórnmálum og var afgerandi kostur fyrir þá sem vildu að forseti Íslands væri sameiningartákn en ekki pólitískt aktíft bardagaembætti. Ég gæti mjög vel hugsað mér Berglindi Ásgeirsdóttur sem forseta. Ég vil eftir tólf ára forsetaferil Ólafs Ragnars Grímssonar fá þjóðhöfðingja sem aldrei hefur verið í stjórnmálum meir en nokkru sinni.
Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 21:09 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
24.9.2006 | 20:39
Góðir þættir um sögu Varnarliðsins
Var að enda við að horfa á fyrri hluta vandaðrar umfjöllunar Ingólfs Bjarna Sigfússonar um sögu Varnarliðsins hér á Íslandi. Í næstu viku er komið að endalokum varnarviðbúnaðar Bandaríkjanna á Íslandi, 55 árum eftir gildistöku tvíhliða varnarsamnings landanna. Það eru mörg áhugaverð viðtöl í þessum þætti og farið yfir söguna með merkilegum hætti. Virkilega gott sjónvarpsefni, enda sjaldan réttara að fara yfir þessa sögu en einmitt núna, þegar að þetta líður allt undir lok. Þetta er löng og merk saga og fyrir sagnfræðiáhugamann eins og mig er þetta virkilega áhugavert. Varnir Íslands og varnarviðbúnaður þess er mikilvægt mál og við stöndum á krossgötum óneitanlega nú.
Á þriðjudag á að kynna fyrir landsmönnum samkomulag Íslands og Bandaríkjanna um tilhögun mála eftir 1. október þegar að Varnarliðið líður undir lok. Á því leikur enginn vafi að heimsmyndin hefur breyst mikið á þeirri rúmlega hálfu öld sem bandarískt herlið hefur verið hérlendis. Hinsvegar er ógnin um hryðjuverk eða önnur voðaverk enn fyrir hendi og Keflavík er mikilvæg enn í dag vegna staðsetningar sinnar fyrir t.d. Bandaríkin. Íslendingar hafa í gegnum tíðina verið traustir bandamenn Bandaríkjamanna og oft lagt þeim lið í þeim málum sem þeir hafa veitt forystu á alþjóðavettvangi. Það hefur því verið sláandi að sjá ómerkilega framkomu Bandaríkjanna síðustu mánuði.
Í þessum þáttum verður greinilega farið yfir alla sögupunktana og þarna eru viðtöl við menn sem hafa verið miðpunktar í sögu Varnarliðsins í þessari 55 ára sögu. En nú er henni lokið og verður fróðlegt að sjá hvað tekur við um mánaðarmótin. Við sjáum kortlagningu þessara nýju tíma á þriðjudag á blaðamannafundinum þar sem samkomulag um tilhögun mála. Þegar að ég fór inn á þetta svæði í sumar var það eins og yfirgefinn bær í villta vestrinu. Dauðabragurinn á svæðinu kom vel fram í nýjustu myndunum sem sýndar voru í þættinum.
Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 21:03 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
24.9.2006 | 18:40
Blair vill ekki lýsa yfir stuðningi við Brown

Flokksþing Verkamannaflokksins verður sett í Manchester í dag. Þetta verður síðasta flokksþingið í leiðtogatíð Tony Blair, forsætisráðherra Bretlands. Hann mun flytja kveðjuræðu sína sem leiðtogi á flokksþinginu á þriðjudag. Þetta hefur verið mánuður átaka fyrir Verkamannaflokkinn. Þar var tekist á af krafti um forystuna og var Blair neyddur til að lýsa því yfir, eftir afsagnir undirráðherra og bréfaflóð þingmanna flokksins, að hann myndi hætta í stjórnmálum innan árs. Blasti við að honum yrði steypt af stóli með sama hætti og íhaldsmenn steyptu Margaret Thatcher árið 1990 ef hann myndi ekki nefna tímaramma endaloka stjórnmálaferilsins. Hann var beygður til uppgjafar.
Búast má við að Blair vilji í þessari síðustu ræðu sinni sem flokksleiðtogi á flokksþingi hvetja til samstöðu. Mátti þetta sjá vel í viðtali við Blair í dag. Þar talar hann um að næstu ár eigi að vera ár málefna og uppbyggingar inn í þingkosningarnar 2009 en ekki innra hjaðningavíg sem skaði flokkinn. Greinilegt er að Verkamannaflokkurinn hefur skaðast gríðarlega í átökunum sem urðu í mánuðinum. Þær urðu það harðskeyttar að einingar mynduðust og tekist var á með það beittum hætti að landsstjórnin sat hjá í innanflokksáflogum en misstu yfirsjónar á sínum pólitísku verkefnum við stjórnvölinn. Greinilegt er að Bretar hafa fengið nóg af þessari óeiningu, ef marka má kannanir.

Það vekur mikla athygli í fyrrnefndu viðtali að Blair vill með engu móti lýsa yfir jafnafdráttarlausum stuðningi við Gordon Brown sem eftirmann sinn á leiðtogastóli og hann virtist gera fyrir síðustu þingkosningar vorið 2005 og skömmu eftir þær þegar að hann í fyrsta sinn nefndi Brown sem leiðtogaefni eftir brotthvarf sitt úr leiðtogastóli. Gordon Brown hefur verið álitinn krónprins flokksins alla leiðtogatíð Blairs og hávær orðrómur hefur alla tíð verið um að þeir hafi samið um skiptingu valda eftir snögglegt lát John Smith, leiðtoga flokksins, árið 1994. Brown hafi þá hætt við leiðtogaframboð sitt að því gefnu að hann fengi þá að verða eftirmaður Blairs við forystu flokksins.
Blair var fljótur að snúa umræðunni annað þegar að hann var inntur nú eftir stuðningi við Gordon Brown. Það er alveg augljóst að þegar að sá tími kemur að Blair hættir að þá munu hörðustu stuðningsmenn hans ekki una Gordon Brown þess að verða leiðtogi. Mikið er enda rætt um leiðtogaframboð Alan Johnson og David Miliband. Mörgum að óvörum hefur John Reid aftekið að vilja verða leiðtogi nú nýlega. Skoðanakannanir sýna að traust Breta á Verkamannaflokknum og forystu hans er tekið að dvína mjög og í könnun í síðustu viku kom fram að 2/3 telja flokkinn ekki verðskulda lengri tíma við völd.
Merkilegast af öllu í stöðunni er að nú sýna kannanir að David Cameron er orðinn langvinsælasti stjórnmálamaður Bretlands og hann mælist mun vinsælli en Gordon Brown. Það merkasta við stöðuna þessar vikurnar er að Gordon Brown hefur veikst með forsætisráðherranum í þessu valdatafli og er að verða ólíklegra að hinn afgerandi krónprins muni er á hólminn kemur taka við af Blair. Greinilegt er að Tony Blair vill ekki gefa Brown neitt forskot á sæluna í leiðtogaslagnum. Það er líklegast að slagurinn verði enda harður um forystuna innan flokksins.
Fullyrða má að samstaðan innan Verkamannaflokksins sé tekin að dvína mjög og óánægja flokksmanna með Blair hefur náð hámarki. Bíða flestir forystumenn vinstrihluta flokksins nú eftir brotthvarfi hans, enda er hann mjög hataður þar, eins og vel sást á ársfundi TUC um daginn, þar sem Blair var púaður niður. Þessi verkalýðsarmur flokksins hefur þriðjungsvægi í leiðtogakjörinu. Verður fróðlegt að sjá hvernig flokksþingið verði, hvort að það verði heilög kveðjusamkunda Blairs eða vettvangur ólgu og átaka.
![]() |
Blair vildi ekki lýsa stuðningi við Brown sem arftaka sinn |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 18:44 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
24.9.2006 | 12:25
Samfylkingin blandar geði við almenning
Þeir sem fóru í verslunarmiðstöðvar á höfuðborgarsvæðinu í gær voru minntir vel á það að alþingiskosningar eru í nánd þegar að Ingibjörg Sólrún Gísladóttir og fleiri þingmenn Samfylkingarinnar blönduðu geði við almenning og kynntu þeim stefnu sína til lækkunar matarverðs. Það var svolítið merkilegt að sjá þingmenn þarna á stangli við að kynna sig og reyna að dreifa fjölblöðungum til fólksins. Það er svolítið merkilegt að sjá tillögur Samfylkingarinnar í þessum efnum og ánægjulegt að flokksforystan sé tilbúin til að lifa svo hættulega eftir hina algjörlega misheppnuðu umhverfisstefnu flokksins sem minnti á vandræðagang flokksins umfram allt annað.
Mesta athygli mína vakti að sjá drottningarfrétt Sjónvarpsins um þessi efni. Þar fór Ingibjörg Sólrún að versla í Hagkaup í Smáralind með Helga H. Jónssyni, eiginmanni bæjarstjórans í Fjarðabyggð og fyrrum fréttastjóra Sjónvarps með meiru. Er ekki Helga bæjarstjóri í Fjarðabyggð annars ein besta vinkona Ingibjargar Sólrúnar? Það væri kannski ágætt að rifja það upp hvernig að framsóknarkonan Helga og eiginkona "fréttamannsins" gekk inn og út úr Samfylkingunni til að kjósa ISG til formennsku í fyrra. Það hafa ekki allir stjórnmálaleiðtogar fengið svona mjúkt og innilegt viðtal lengi eins og þarna sást í Ríkissjónvarpinu út að versla. Kannski teljast þetta vart tíðindi þegar að Helgi H. er annars vegar.
Það var talsverður skaði að Jón Baldvin Hannibalsson, fyrrum fjármálaráðherra og formaður Alþýðuflokksins, skyldi ekki vera þarna staddur með þingmönnum Samfylkingarinnar að kynna þessa stefnu. Það var Jón Baldvin sem kom matarskattinum umfram allt á í ríkisstjórn, hinni sögufrægu þriggja flokka stjórn sem sprakk haustið 1988. Það er alltaf kostulegt að lesa skrif Össurar kratahöfðingja Skarphéðinssonar um þessi mál því að hann reynir alltaf fimlega að verjast þeirri staðreynd að það var einkum Jón Baldvin Hannibalsson sem kom matarskattinum á og barðist fyrir honum.
Eflaust eru það óþægilegar staðreyndir fyrir vinstrimenn. Jón Baldvin hefði fallið vel í kramið með þingmönnunum og hefði getað frætt fólk um það af hverju skatturinn var lagður á. Jón Baldvin var óvinsælasti stjórnmálamaður landsins meðan að atið um matarskattinn stóð sem hæst. Ríkisstjórn Þorsteins Pálssonar sprakk svo vegna þess að Sjálfstæðisflokkurinn vildi fella niður skattinn og vildi Jón Baldvin það skiljanlega ekki eftir að hafa vaðið eld og brennistein fyrir því að koma honum á. En já þetta er sagan, sem reyndar er oft svo gott að rifja upp.
En það er svosem gott að Samfylkingin hefur einhverja stefnu í þessu máli. Vonandi verður hún eitthvað staðfastari en umhverfisstefnan sem virkar frekar tómleg með fulltrúa Samfylkingarinnar um allt land vælandi yfir því að fá álver í sínar byggðir - allir vilja þar auðvitað undanskilja sig stefnunni því að þar sé að koma álver sem hafi verið marglofað. Þvílík vandræði og pína í einum flokki, hlýtur hver og einn að segja við að horfa á svona ráðleysi.
![]() |
Samfylkingin kynnir tillögur sínar um aðgerðir til að lækka matarverð |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 12:35 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (3)
23.9.2006 | 22:27
Stefnir í hörð átök milli Magnúsar og Kristins H.
Það stefnir í mjög spennandi uppgjör milli Magnúsar Stefánssonar, félagsmálaráðherra, og Kristins H. Gunnarssonar, alþingismanns, um leiðtogastól Framsóknarflokksins í Norðvesturkjördæmi í póstkosningu meðal allra flokksmanna í kjördæminu. Í dag var felld tillaga stjórnar kjördæmisráðs flokksins í kjördæminu um að velja frambjóðendur í efstu sæti listans að vori með tvöföldu kjördæmisþingi í nóvember. Hörð átök urðu á fundinum milli stuðningsmanna Magnúsar og Kristins og átakakosningu um tillögu stjórnarinnar lauk með sex atkvæða sigri andstæðinganna. Ofan á varð tillaga um póstkosninguna, sem augljóslega var úr herbúðum Kristins, en hún var borin upp af þingfulltrúum frá Dalasýslu og Bolungarvík, heimabæ hans.
Það er því ljóst að ekki verður valið á listann með sama hætti og á kjördæmisþinginu sögulega á Laugum í Sælingsdal um miðjan nóvember 2002. Á því kjördæmisþingi var útsláttarleiðtogakosning milli Páls Péturssonar, þáv. félagsmálaráðherra, Magnúsar og Kristins. Á þinginu lauk í reynd rúmlega þriggja áratuga stjórnmálaferli Páls er hann féll í leiðtogakjörinu og dró hann sig til baka í kjölfarið. Magnús sigraði Kristin H. í tveggja manna slag um leiðtogastöðuna og Kristinn H. varð í öðru sætinu. Herdís Sæmundardóttir á Sauðárkróki, var kjörin í þriðja sætið. Úrslitin voru mikið áfall fyrir Kristinn H. sem var þingflokksformaður Framsóknar fram yfir þingkosningarnar 2003.
Greinilegt er að Kristinn H. og hans stuðningsfólk vann merkilegan sigur á þessu kjördæmisþingi. Þeirra leið verður farin og við tekur póstkosning þar sem allir flokksmenn hafa jöfn áhrif. Með því verður ekki tryggður neinn fléttulisti vissra svæða og jafnt kynjahlutfall í efstu sæti eins og varð í aðdraganda þingkosninganna 2003. Engum hefur dulist samskiptaleysi þingmannanna tveggja í kjördæminu og milli þeirra hefur allt að því ríkt kalt stríð. Það hefur verið metið svo að Magnús Stefánsson hafi svo verið gerður að félagsmálaráðherra við brotthvarf Halldórs Ásgrímssonar úr stjórnmálum gagngert til að treysta stöðu hans í kjördæminu í pólitískum átökum við Kristinn.
Framundan er hörð barátta. Fyrir kjördæmisþingið hafði Herdís Sæmundardóttir tilkynnt um framboð sitt í 2. sæti, greinilega gagngert gegn Kristni H. og talað var um bandalag hennar og Magnúsar. Nú hefur hinsvegar Herdís ákveðið að gefa kost á sér í 1. - 2. sæti í kosningu. Stefnt er að því að kosningu verði lokið fyrir lok októbermánaðar og verður framboðsfrestur ákveðinn fljótlega og talið verði í byrjun nóvembermánaðar. Það stefnir því í hörð átök um forystuna í Norðvesturkjördæmi hjá Framsóknarflokknum, enn harðskeyttari og óvægnari átök milli félagsmálaráðherrans Magnúsar og þingmannsins baldna Kristins H. sem löngum hefur verið ráðandi öflum í flokknum óþægur ljár í þúfu.
Enginn vafi leikur á því að sá sem hagnast mest á þessari tilhögun mála er Kristinn H. Gunnarsson. En hvort að þetta form á kosningu tryggir það mjög stöðu Kristins að hann verði leiðtogi Framsóknarflokksins í Norðvesturkjördæmi í kosningunum að vori verður að ráðast. Altént má fullyrða að félagsmálaráðherrann verði að berjast fimlega og af krafti til að halda sínu. Þetta verður mjög beitt og hressileg prófkjörsbarátta sem þarna verður háð.
Fyrst og fremst vekur mikla athygli gríðarlega hörð, allt að því óvægin, barátta fylkinga framsóknarmanna í kjördæminu og greinilegt að samstaðan þar er lítil sem engin og kristallast mjög vel í að stjórn kjördæmisráðs verður algjörlega undir með sína afstöðu til þess hvernig velja skuli efstu frambjóðendur.
![]() |
Listi Framsóknarflokksins valinn með póstkosningu í Norðvesturkjördæmi |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 22:42 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
23.9.2006 | 12:51
Sögupistill - formannskjörið 1991
Í ítarlegum sögupistli á vef SUS í dag fjalla ég um formannskjörið örlagaríka á landsfundi Sjálfstæðisflokksins 1991 og aðdraganda þess. Davíð Oddsson, þáv. borgarstjóri í Reykjavík og varaformaður flokksins, gaf þá kost á sér til formennsku í Sjálfstæðisflokknum gegn Þorsteini Pálssyni, sitjandi formanni og fyrrum forsætisráðherra. Óhætt er að segja að útkoma formannskjörsins hafi orðið söguleg fyrir flokkinn.
Það er hinsvegar hiklaust þannig að það er eitt mesta lán Sjálfstæðisflokksins að þar hafa verið sterkir forystumenn. Jafnan hafa flokksmenn getað treyst því að forystumenn flokksins séu stjórnmálamenn sem þjóðin treysti til forystu. Aðeins hafa átta menn gegnt formennsku í Sjálfstæðisflokknum. Flokkurinn hefur verið í forystusveit ríkisstjórnar á Íslandi nú nær samfellt frá árinu 1991.
Það urðu táknræn þáttaskil innan Sjálfstæðisflokksins á þessum landsfundi í marsmánuði 1991 í aðdraganda þingkosninga það ár þegar að Davíð var kjörinn formaður og Þorsteini Pálssyni var hafnað sem formanni flokksins. Reyndar er það nú svo að þó að Þorsteinn hafi verið formaður í tæp átta ár leiddi hann flokkinn aðeins í einum kosningum, árið 1987, en þá var flokkurinn klofinn í fylkingar eftir að Albert Guðmundsson stofnaði Borgaraflokkinn.
Eftir viku mun ég fjalla um atburðarásina sem leiddi til stjórnarmyndunar dr. Gunnars Thoroddsens, þáv. varaformanns Sjálfstæðisflokksins, árið 1980. Aðdragandinn fólst í stjórnleysi eftir myndun vinstristjórnar árið 1978 og merkilegri atburðarás í tengslum við það. Merkileg saga sem ég skrifa um eftir viku á vef SUS.
Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 12:57 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
23.9.2006 | 09:11
Unnur Brá sækist eftir fimmta sætinu

Það er ánægjulegt að vakna nú í morgunsárið og sjá þá tilkynningu að góðvinkona mín úr ungliðastarfinu í SUS, Unnur Brá Konráðsdóttir, sveitarstjóri í Rangárþingi eystra, hafi ákveðið að gefa kost á sér í fimmta sætið í væntanlegu prófkjöri okkar sjálfstæðismanna í Suðurkjördæmi. Unnur Brá hefur alla tíð verið góður félagi, traust og öflug, og það er því mikið gleðiefni að hún sýni áhuga á þingframboði og taki stefnuna á sæti sem ætti í raun og sann að vera sannkallað baráttusæti okkar sjálfstæðismanna í Suðurkjördæmi, enda fara sjálfstæðismenn með nær öll völd á sveitarstjórnarstiginu í kjördæminu. Með hana í fimmta sætinu bjóðum við sterka og öfluga konu í baráttusæti í Suðrinu að vori. Það er engin spurning.
![]() |
Unnur Brá Konráðsdóttir sækist eftir 5. sæti |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 09:15 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)