Færsluflokkur: Stjórnmál og samfélag

Sólveig Pétursdóttir að hætta í stjórnmálum?

Sólveig Pétursdóttir

Sólveig Pétursdóttir, forseti Alþingis og fyrrum dómsmálaráðherra, mun í dag gefa út yfirlýsingu um framboðsmál sín. Skv. heimildum þykir líklegast að Sólveig muni ekki gefa kost á sér til endurkjörs að þessu sinni og sinna því öðru en stjórnmálum í kjölfar þessa kjörtímabils. Sólveig á að baki nokkuð merkan feril í íslenskum stjórnmálum. Hún hefur verið umdeild en verið kjarnakona í stjórnmálum. Hún var borgarfulltrúi í Reykjavík 1986-1990 og formaður í borgarnefndum það kjörtímabil. Hún tók sæti á Alþingi í ársbyrjun 1991 þegar að Birgir Ísleifur Gunnarsson, fyrrum borgarstjóri og menntamálaráðherra, varð seðlabankastjóri við fráfall Geirs Hallgrímssonar.

Sólveig var formaður allsherjarnefndar árin 1991-1999 og varð dómsmálaráðherra í maílok 1999 í ríkisstjórn Davíðs Oddssonar. Sólveig varð með því fyrsta konan á stóli dómsmálaráðherra. Ráðherratíð hennar varð stormasöm og nægir að nefna málefni Falun Gong sem eitt hið erfiðasta á hennar ferli í dómsmálaráðuneytinu. Í prófkjörinu 2002 varð Sólveig í fimmta sæti og féll um sæti, en hún sóttist eftir þriðja sætinu í slag við Björn Bjarnason og Pétur H. Blöndal. Sólveig missti ráðherrastól sinn í kjölfar kosninganna 2003 og varð 3. varaforseti Alþingis. Hún var kjörin forseti Alþingis í stað Halldórs Blöndals þann 1. október 2005.

Í dag verður fulltrúaráðsfundur sjálfstæðisfélaganna í Reykjavík haldinn í Valhöll. Þar mun tillaga um prófkjör dagana 27. og 28. október verða samþykkt væntanlega og þar munu línur skýrast verulega um hverjir gefi kost á sér til þingmennsku, utan þingmannanna, fyrir flokkinn í borgarkjördæmunum tveim.

Bókaskrif Möggu Frímanns

Margrét Frímannsdóttir

Ég sá á netinu í morgun að Margrét Frímannsdóttir, alþingismaður, er að fara að gefa út ævisögu sína. Ég held að það verði virkilega áhugaverð bók fyrir stjórnmálaáhugamenn. Stjórnmálasaga Margrétar er samofin sögu vinstriflokkanna síðustu tvo áratugina, bæði hvað varðar vonbrigði við langa stjórnarandstöðusetu og ennfremur merka sögu við að koma vinstriöflum, sundruðum sem standandi öflum, saman í eina sæng. Margrét, sem nú hefur tilkynnt að hún sé að hætta í pólitík, hefur enda nokkuð ítarlega og merka sögu að segja, sem ég allavega hef áhuga á að lesa og mun væntanlega fara yfir hana fyrir þessi jólin.

Sérstaklega verður áhugavert að lesa um formannskjörið í Alþýðubandalaginu árið 1995, þegar að Margrét var kjörin eftirmaður Ólafs Ragnars Grímssonar, síðar forseta Íslands, á formannsstóli Alþýðubandalagsins. Sigur hennar yfir Steingrími J. Sigfússyni, þáv. varaformanni flokksins, var mjög sögulegur. Ekki aðeins varð Margrét með því fyrsta konan á formannsstóli gömlu fjórflokkanna heldur þótti merkilegt að hún gæti sigrað Steingrím J. Sigurinn varð þó súrsætur fyrir hana og hún varð síðar að horfa upp á flokkinn brotna hægt og rólega og lauk væringum þeirra tveggja síðar með því að Steingrímur og armur hans í flokknum yfirgáfu hann.

Margrét Frímannsdóttir var talsmaður Samfylkingarinnar í alþingiskosningunum 1999, fyrstu kosningum Samfylkingarinnar. Þá reyndar var flokkurinn sem slíkur ekki til, enda var þetta bara kosningabandalag flokkanna, en VG hafði þá verið stofnuð undir forystu Steingríms J. Sigur vinstriaflanna varð ekki staðreynd í þessum kosningum. En það var merkileg saga sem átti sér stað í kosningunum 1999 og mér telst til að Margrét hafi verið fyrsta konan sem leiddi alvöruafl, stórt afl, í þingkosningum. Sú saga hefur ekki enn verið rituð og væntanlega mun Margrét segja hana með þeim þunga sem hún telur rétt.

Fyrst og fremst verður áhugavert að lesa um formannskjörið 1995. Það var mikill átakapunktur á vinstrivængnum. Það var líka í fyrsta skipti sem póstkosning var meðal allra flokksmanna um forystu stjórnmálaflokks hér á Íslandi. Ólafur Ragnar barðist fyrir því að arfleifð hans myndi halda sér og beitti sér mjög fyrir Margréti, sem var alla tíð einn nánasti samherji hans í stjórnmálum.

Margt má reyndar segja um Margréti, en hún er fyrst og fremst kjarnakona í stjórnmálum og hefur frá mörgu að segja, sérstaklega nú þegar að hún er að hætta í stjórnmálunum. Hún á að baki langan feril, sem verður áhugavert að lesa um í frásögn hennar.

Krýning eða leiðtogaslagur í kraganum?

Þorgerður Katrín GunnarsdóttirBjarni Benediktsson

Öllum varð ljóst við tilkynningu Árna M. Mathiesen um að gefa kost á sér til forystu framboðslista Sjálfstæðisflokksins í Suðurkjördæmi við næstu alþingiskosningar að Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir, menntamálaráðherra og varaformaður Sjálfstæðisflokksins, teldist langlíklegasti eftirmaður hans í Suðvesturkjördæmi. Það duldist engum að Þorgerði Katrínu var það lítt að skapi við kosningarnar 2002 að þurfa að taka áfram fjórða sætið, sem hún vann, reyndar verulega óvænt og taldist þá gríðarlegur pólitískur sigur, í prófkjörinu 1999 í það skiptið. Þorgerður Katrín vildi þá prófkjör en varð undir með þá afstöðu. Öllum var ljóst að prófkjör þá hefði styrkt stöðu hennar gríðarlega.

Nú hefur Þorgerður Katrín þegar lýst yfir leiðtogaframboði í kraganum og hefur mjög sterka stöðu til forystu af skiljanlegum ástæðum. Flestir telja þar um krýningu að ræða, enda sé hún varaformaður og leiði öflugt ráðuneyti. En þær raddir heyrast að Bjarni Benediktsson, alþingismaður, sé enn að hugsa sitt og hvort hann eigi að stefna á fyrsta sætið eða hið annað. Bjarni kemur af Engeyjarætt eins og fleiri mætir menn. Hann hefur komið mjög sterkur til leiks í stjórnmálum. Hann tók við formennsku í allsherjarnefnd árið 2003 og hefur staðið sig þar með miklum sóma. Hann var kom t.d. mjög vel fram í hinu umdeilda fjölmiðlamáli árið 2004.

Hefur Bjarni vakið mikla athygli fyrir glæsilega frammistöðu í fjölmiðlum og hefur æ oftar verið nefndur sem einn af helstu forystumönnum Sjálfstæðisflokksins síðar meir. Hvernig sem fer nú á næstu mánuðum í aðdraganda þessara kosninga deilir enginn um sterka stöðu hans og stjörnusjarma sem stjórnmálamanns. Hann hefur algjörlega slegið í gegn sem framtíðarmaður frá innkomu sinni á þing. Síðast var hann í fimmta sæti, allir vita að hann stefnir mun ofar nú. Valið er um að gefa kost á sér í fyrsta sætið eða annað. Hægt er að slá því algjörlega föstu að hann mun ná mun ofar að þessu sinni.

Það stefnir í mikla uppstokkun í kraganum í næstu þingkosningum. Tveir þingmenn flokksins, kjörnir árið 2003, eru hættir. Árni farinn í Suðrið og Gunnar Birgisson hefur helgað sig bæjarmálunum í Kópavogi. Það er mikið talað um hvort að sveitarstjórnarmenn flokksins í kjördæminu, Ragnheiður Ríkharðsdóttir, bæjarstjóri í Mosfellsbæ, og Ármann Kr. Ólafsson, forseti bæjarstjórnar í Kópavogi, fari fram. Svo er talað um framboð Sigurrósar Þorgrímsdóttur, sem tók sæti Gunnars á þingi í fyrra og varð fullgildur þingmaður eftir kosningarnar í vor og Jóns Gunnarssonar, en bæði koma þau úr Kópavogi eins og Ármann.

Spáð er og spekúlerað líka í stöðu Sigríðar Önnu Þórðardóttur, fyrrum umhverfisráðherra. Hægt er að slá því föstu að Ragnheiður fer ekki fram gegn Sigríði Önnu, enda gæti slíkt þýtt að Mosfellingar missi þingsæti. Margar pælingar eru á döfinni, sem væntanlega verða enn meira áberandi eftir kjördæmisþingið í kraganum. Stóra spurningin nú er: Verður krýning eða leiðtogaslagur í kraganum? Þessari spurningu getur aðeins Bjarni Benediktsson í Garðabæ svarað fyrir okkur.


Leiðtogakreppa sænskra krata



Göran Persson gekk á fund forseta sænska þingsins í dag og baðst lausnar fyrir sig og ráðuneyti sitt. Fredrik Reinfeldt, verðandi forsætisráðherra, er hafinn myndun nýrrar stjórnar og ætlað að hún muni taka við valdataumunum eigi síðar en 6. október nk. Vinstraskeiðinu er því lokið í sænskum stjórnmálum og væntanlega verða íslenskir jafnaðarmenn að leita annað en til Svíþjóðar núna til að segja frægðarsögur af vinstrisigrum. Staðan er reyndar sú að í norðurlöndunum fimm verða jafnaðarmenn aðeins við völd í Noregi (Jens Stoltenberg) þegar að Persson hefur látið af embætti. Annarsstaðar eru miðju- eða hægrimenn við völd að þessu loknu, sem er gleðiefni.

Ég sé að sænskir fréttaskýrendur eru þegar farnir að velta vöngum yfir því hver verði eftirmaður Görans Perssonar á leiðtogastóli jafnaðarmannaflokksins. Það er ekki beint um auðugan garð að gresja þar og eins og fyrr sagði í dag er enginn augljós eftirmaður, eins og var þegar að Anna Lindh var utanríkisráðherra og afgerandi forystukona innan flokksins. Enn eru kratarnir að jafna sig á dauða hennar, en þá dó krónprinsessa flokksins og augljós eftirmaður eftir valdadaga Perssons. Sænsku spekingarnir spá konu embættinu. Þeir telja Margot Wallström, kommissar hjá ESB, vænlegasta.

Tek ég undir þá spádóma. Það var reyndar talað um það snemma ársins 2005 að Persson ætti að víkja og láta Wallström sviðið eftir. Það fór ekki. Ekki undarlegt að hennar nafn sé þarna í pottinum. Enn og aftur heyrist nafn Monu Sahlin. Hún var talin líklegasti eftirmaður Ingvars Carlssons lengi vel, en hann var leiðtogi kratanna 1986-1996 og forsætisráðherra 1986-1991 og 1994-1996. Svo fór að vegna kreditkortahneykslis varð Sahlin að segja af sér árið 1995 og hnossið féll fjármálaráðherranum Persson í skaut. Sahlin hefur verið umdeild og skandalarnir hafa elt hana uppi lengi.

Margot Wallström Mona Sahlin

Einhverjir nefna Wönju Lundby-Wedin, verkalýðskrata í flokknum, en ég tel það langsótt val. Ætli það verði ekki Wallström sem verði að teljast líklegust. Annars eru pælingarnar bara rétt að byrja svosem. Finnst það reyndar kostulega dramatískt að nefna nafn Sahlin enn og aftur, en hún er orðin frekar slitin sem stjórnmálamaður eftir sína skandala.

Reyndar fannst mér það alveg kostulegt þegar að Sahlin var valin í bakgrunni allra auglýsinga Perssons í baráttunni og eiginlega til marks um hvað yfirgangur Perssons í flokknum hefur leitt til þess að leiðtogafátækt einkennir flokkinn nú þegar að hann hrökklast frá völdum. Þar eru fáir kostir eftir ef kratarnir þarna líta á Sahlin sem rétta aðilann sem eigi að leiða þá aftur til vegs og virðingar eftir þennan ósigur.


mbl.is Persson baðst lausnar og borgaraflokkarnir hefja stjórnarmyndun
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Óskiljanlegt framboð kynnt á erlendri grundu



Skv. því sem fréttir herma er Valgerður Sverrisdóttir, utanríkisráðherra og framsóknarvalkyrja með meiru, nú á leiðinni úr landi og alla leiðina til New York til að sitja allsherjarþing Sameinuðu þjóðanna í New York. Sýnist að aðaltilgangur hennar verði að reyna að sleikja upp sem flesta erlenda diplómata og utanríkisráðherra stórþjóðanna til að reyna að prómótera upp framboð Íslands í öryggisráð Sameinuðu þjóðanna, en við erum að reyna að fikra okkur inn í þann kostulega félagsskap og ætlum okkur að reyna að vera þar árin 2009-2010. Hvorki meira né minna.

Einhver myndi nú segja að bjartsýnin ætti sér engin takmörk að berjast fyrir þessu. Sjálfur hef ég alla tíð verið afskaplega andvígur þessari málafylgju að ætla að fara þarna inn og undrast satt best að segja þann kraft og kostnað sem á að dæla til þessa verkefnis. Veit ekki hvernig að utanríkisráðherranum Valgerði Sverrisdóttur muni ganga við þessa kynningu. Ég held að þetta muni verða okkur þungur róður, enda ekki við neina aukvisa að eiga. Sjálfur hef ég fyrst og fremst aldrei skilið þessa draumóra að halda út í þetta og hef alltaf viljað henda þessu fyrir róða.

Svo verður væntanlega ekki. Þetta er víst eitt af því sem að Halldór Ásgrímsson fann upp á í sinni utanríkisráðherratíð og var látið eftir honum. Davíð Oddsson átti að slátra þessari hugmynd þegar að hann var utanríkisráðherra og það var frekar dapurlegt að Sjálfstæðisflokkurinn tók ekki af skarið þegar að gerlegt var að bakka frá þessu á hentugum og diplómatískt kórréttum tíma. En svo fór sem fór. Hef svo oft farið yfir mínar skoðanir að flestir ættu að vita hvað ég er að fjalla um og hvaða skoðanir ég er að vísa til.

Þeim sem eru ekki vissir um þessi mál og afstöðu mína bendi ég á gamlan og góðan pistil frá því í febrúar 2005, þegar að við áttum að bakka frá þessari þvælu. En gangi Valgerði vel að prómótera sig úti í NY. Ég er hræddur um að þetta verði henni þungur róður og lítt áhugavert að vera í hennar sporum vafrandi á milli diplómata og utanríkispostula ýmissa misvitra þjóða.


mbl.is Utanríkisráðherra kynnir framboð Íslands í öryggisráð SÞ
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Össur kjörinn þingflokksformaður Samfylkingarinnar



Össur Skarphéðinsson, fyrrum formaður Samfylkingarinnar, var í dag kjörinn formaður þingflokks Samfylkingarinnar á fundi þingflokksins í Hvalfirði. Þær voru því réttar kjaftasögurnar sem ég heyrði í gærkvöldi að það yrði Össur sem yrði þingflokksformaður í stað Margrétar Frímannsdóttur, sem er að hætta í stjórnmálum eftir langt og farsælt starf fyrir Samfylkinguna. Það eru varla tíðindi að forysta Samfylkingarinnar kalli nú á Össur til verka fyrir flokkinn. Hann hefur verið gríðarlega duglegur að blogga og tjá sig um menn og málefni samtímans eftir að hann missti formannsstólinn í flokknum fyrir ári. Hann fær með þessu vissa uppreisn æru eftir að hafa misst hlutverk sitt í forystunni eftir tapið í slagnum fyrir svilkonu sinni.

Össur hefur verið líflegur í stjórnmálum og tekur nú á sig þingflokksformennskuna, væntanlega er það skýr merking þess að nota eigi krafta hans í þeirri kosningabaráttu sem brátt hefst. Hinsvegar er það væntanlega súrt í broti fyrir norðanhöfðingjann, Kristján L. Möller, að fá ekki formennskuna, en hann var varaformaður Möggu Frímanns og verður varaformaður áfram. Kristján á reyndar framundan harðvítugan slag við Benedikt Sigurðarson hér á Akureyri á næstu vikum og þarf væntanlega á öllu sínu að halda til að koma standandi frá þeirri glímu. Það yrði altént athyglisvert ef Kristjáni yrði sparkað og yrði þar með fjórði kjördæmaleiðtogi Samfylkingarinnar sem færi frá því verki fyrir kosningar.

En ég má til með að óska Össuri til hamingju með formennskuna og vona að hann verði jafnlíflegur og hress áfram í því að blogga og hann hefur verið. Það er til marks um styrk hans að Ingibjörg Sólrún endurvinni hann í forystuna með þessum hætti. Það hefur allt gengið í handaskolum hjá svilkonunni eftir að Össur missti flokksformennskuna og því varla undur að hann sé nú kallaður til verka við að leggja henni hjálparhönd á kosningavetri. Ekki veitir henni af.... nú eða flokknum, sjáiði til.


mbl.is Össur kjörinn formaður þingflokks Samfylkingarinnar
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Spennandi tímar í Svíþjóð



Samgleðst innilega með Svíum að hafa kosið rétt og skipt út krötunum fyrir nýja tíma undir forystu nafna míns Fredrik Reinfeldt. Svíar voru búnir að fá nóg af Göran Persson og stjórn hans og vildu stokka upp. Það var nokkuð glapræði hjá Persson að halda í enn einar kosningarnar og það fór sem fór hjá honum. Er sammála Guðmundi Árna Stefánssyni, sendiherra og fyrrum kratahöfðingja hér heima á Íslandi, um það að þessar breytingar voru fyrirsjáanlegar. En ég held að kratar í Svíþjóð hafi haldið í vonina gríðarlega lengi að sjá sveifluna sem myndi redda þeim. Hún kom aldrei - framundan er allsherjar uppstokkun þar núna þegar að Persson hverfur af sviðinu. Þar bíður allavega enginn af kalíber Önnu Lindh eftir að taka við. Þetta verður þeim erfitt.

Mér finnst Fredrik mjög spennandi stjórnmálamaður. Hann kemur með ferska vinda nýrra tíma inn í þetta. Fyrst og fremst held ég að fólk hafi verið að kalla á nýjar áherslur og ferska vinda inn í forystu sænskra stjórnmála. Reinfeldt hefur allavega með sér blæ velvilja þegar að hann tekur við. Munurinn varð reyndar ekki mikill milli valdablokkanna en nógu mikill samt til að stokka hlutina drastískt upp. Nú reynir á Reinfeldt úr hverju hann er í raun gerður. Fólk vill væntanlega að hann byrji af krafti og efni öll fögru fyrirheitin. Ég ætla að vona að hann standi við það sem hann lofaði. Það voru falleg kosningaloforð og ef þau standast öll munu vonandi hægrimenn standa saman aðrar kosningar í röð og verða valdablokk sem getur vænst annars sigurs á eftir þessum.

Fróðlegast verður að sjá hverjir koma inn með Fredrik til valda. Sérstaklega merkilegt verður að sjá hver verði utanríkisráðherra og taki við af Jan Eliasson. Á eftir að sakna Eliasson, enda var það fagmaður í utanríkismálum sem verðskuldaði þann sess að verða utanríkisráðherra Svíþjóðar. Hann var allavega betrungur þeirrar skessu sem Laila Freivalds var í utanríkismálum og í raun skandall Perssons að velja hana til að taka við af hinni gríðarsterku Önnu Lindh. Ég sé á vefum dagsins í Svíþjóð að kratar sakna Önnu. Skarð hennar er ófyllt og söknuður sænskra krata í hennar garð er ósvikinn. Ég hlakka til að sjá hver geti tekið við hlutverki Perssons við þessar aðstæður. Þar verður harður slagur.

Á meðan verða sænskir hægrimenn að taka við völdunum af krafti og standa sig vel. Það verður þolraun fyrir þá að taka við völdunum og standa undir væntingum. Ég hef fulla trú á því að sú verði raunin. En nú byrjar fjörið í Svíaríki fyrir fullt og fast, tel ég.


mbl.is Ný ríkisstjórn tekur væntanlega við í Svíþjóð 6. október
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Formælingar og bölsögur á Hrafnabjörgum

Það var svolítið undarlegt að horfa á þátt Sigríðar Arnardóttur, Örlagadagurinn, á NFS nú í kvöld. Þar hélt Jóhannes Jónsson, athafnamaður að Hrafnabjörgum, áfram formælingum sínum og bölsögum í garð opinberra embættismanna og fólks úti í bæ. Það er svolítið athyglisvert að horfa á fullorðið fólk verða sér eiginlega til skammar með svona hætti, halda að þeir megi segja hvað sem er í krafti þess að eiga nóg af peningum. Það var nákvæmlega sú hugsun sem hvarflaði að mér. Það er enda mjög kostulegt að fólk geti ekki haldið stillingu sinni og lágmarksreisn við að tala um líf sitt og falla ekki í þann forarpytt að uppnefna og ausa skít og ógeði yfir annað fólk.

Fram að þessum þætti taldi ég Jóhannes Jónsson eiginlega heiðursmann, sem þrátt fyrir vissar ógöngur ætti virðingu skilda og hefði þá reisn fyrir sig að bera að geta rakið af stillingu sögu sína og ógöngur. Það var greinilega mjög mikið ofmat á einum manni. Svona hatur og kom fram í þætti Sigríðar Arnardóttur er engum til framdráttar, allra síst þessum manni. Það er ekki hægt að kalla þetta neitt annað en eiginlega sorakjaft, svo slæmt var orðalagið. Kostulegast af öllu fannst mér þegar að hann gagnrýndi dómsmálaráðherra fyrir að uppnefna fjölmiðlaveldið sem hann á hlut í en gagnrýndi svo embættismann hjá embætti Ríkislögreglustjóra með uppnefningum fyrir það eitt að sinna sínu starfi. Að auki talaði hann um að snúa "vissa" einstaklinga úr hálsliðnum.

Þetta er sönn lágkúra og ekki neinum manni til sóma. Það er enda svo að þeir embættismenn sem Jóhannes er að níða með orðalagi sínu geta ekki komið í fjölmiðla sjálfir og varið sig starfs síns vegna. En mér fannst þetta þungt sjónvarpsefni og lágkúrulegt í alla staði - hafi mér fundist Jóhannes Jónsson fara illa að ráði sínu í fyrri þættinum skaut hann endanlega yfir markið í þeim seinni. Hér á mínu heimili sat fólk gapandi af undrun yfir orðalaginu og heiftinni sem sást. Og þetta er talið áhorfanlegt sjónvarpsefni rétt rúmlega 19:00 á sunnudagskvöldi. Þvílíkt og annað eins, segi ég bara.


Í minningu Regínu

 
Regína Thorarensen

 

Frænka mín, Regína Thorarensen, frá Stuðlum í Reyðarfirði, lést um helgina, 88 ára að aldri. Regína var að mínu mati einstök kjarnakona. Hún varð auðvitað landsþekkt fyrir frábær skrif sín í Morgunblaðið og DV til fjölda ára. Hún var fréttaritari Moggans í mörg herrans ár, fyrst er hún bjó á Ströndum á Vestfjörðum og síðar á Eskifirði. Regína ritaði síðar frábæra pistla í DV, er hún var fréttaritari blaðsins á Selfossi. Regína hafði næmt auga fyrir bæði góðum og eftirtektarverðum fréttum og sagði oft frá hinu smáa í hvunndeginum sem mörgum öðrum fannst ekki fréttnæmt. En ritstíll hennar og skoðanakraftur heillaði marga. Ég man að þegar að ég hitti Regínu fyrst fannst mér hún alveg ótrúlega mikil sagnakona. Hún sagði frá svo eftir var tekið og hún gat líka talað alla í kaf með mergjuðum athugasemdum sínum.

Regína var trú Sjálfstæðisflokknum alla tíð og studdi forystu flokksins með krafti. En hún þorði að láta í sér heyra og var alls ófeimin við að láta rödd sína heyrast væri hún á móti forystu flokksins. Frægir voru pistlar hennar um Þorstein Pálsson í DV er hún var fréttaritari á Selfossi og Þorsteinn fyrsti þingmaður kjördæmisins. Þau voru fjarri því alltaf sammála og Regína var alls ófeimin við að tjá sínar skoðanir á hinum unga leiðtoga flokksins. Ég hafði alltaf gaman af að lesa fréttapistla Regínu. Hún skrifaði í blöðin langt fram á efri ár og ég held að það sé rétt munað hjá mér að innan við fjögur ár séu frá þeim seinasta. Brot af þessum frábæru pistlum má lesa í ævisögu hennar sem kom út árið 1989. Þar nýtur sagnahæfileiki hennar sín.

Sigurlín Kristmundsdóttir, amma mín, og Regína voru miklar vinkonur alla tíð. Þær bjuggu á sömu slóðum á Eskifirði. Vinátta þeirra hélst alla ævi og þó að langt væri á milli þeirra seinustu árin vissu þær vel af hvor annarri. Er amma lést árið 2000 kom Regína að jarðarförinni á Eskifirði. Þá var Regína nýlega flutt aftur austur og komin á elliheimilið á staðnum. Þó að heilsu hennar væri mjög tekið að hraka þá og hún ætti erfitt með að komast um fór hún í jarðarför ömmu. Það mat ég allavega mjög mikils og var virkilega ánægjulegt að hitta hana þá. Síðasta skiptið sem ég sá hana var í fyrrasumar er ég leit á Hulduhlíð. Regína var þá orðin mjög heilsutæp en ótrúlega brött miðað við allt.

Sykurmolarnir slógu að mínu mati í gegn árið 1989 þegar að þau sömdu til hennar lagið Regína. Kom hljómsveitin heim til hennar á Selfossi og hún bauð þeim í mat. Boðið var að hætti Regínu upp á fulldekkað veisluborð - lifrarpylsu og grjónagraut með öllu tilheyrandi. Það eitt er víst að þeir sem komu í heimsókn til Regínu fóru ekki svangir þaðan og nutu sannkallaðrar veislu. Fannst mér það mikill sómi fyrir Björk og þau í hljómsveitinni að þau skyldu semja þetta lag og tileinka það henni.

Regína var kjarnyrt alþýðukona sem var ófeimin að láta til sín taka. Hún var trú sínu veganesti í lífinu og talaði fyrir sinni sjálfstæðisstefnu með sínum hætti. Enginn var þó trúrri flokknum er til kosninga og verkanna kom. Hún var sönn kjarnakona er á hólminn kom. Guð blessi minningu mætrar og stórbrotinnar konu.

 

Engin fyrirsögn

 
Ár frá innkomu Björns í borgarmálin
Í dag er liðið ár frá því að Björn Bjarnason ákvað að helga sig borgarmálunum og varð leiðtogi Sjálfstæðisflokksins í borgarstjórn Reykjavíkur. Hann lýsti yfir framboði sínu til borgarstjórnar í kraftmikilli ræðu á kjördæmisþingi flokksins á Hótel Sögu. Þó ekki hafi unnist sigur í kosningunum í fyrra er innra starf flokksins í góðum farvegi og Björn leiðir flokkinn farsællega í borgarstjórninni og byggir hann upp fyrir komandi átök við sundurtættan og leiðtogalausan R-listann sem óverðskuldað vann sigur í kosningunum fyrir ári. Réði persóna fráfarandi leiðtoga R-listans miklu um úrslitin, en nú eftir að henni var sparkað af eigin samherjum eftir að hafa gengið á bak orða sinna og svíkja gefin loforð fyrir kosningar er meirihlutinn pólitískt séð forystulaust rekald, þó Alfreð muni þar leika lausum hala sem formaður borgarráðs og formaður OR. Við brotthvarf Ingibjargar Sólrúnar um næstu mánaðarmót stendur R-listinn forystulaus gegn öflugum leiðtoga okkar sjálfstæðismanna. Það verður hlutskipti Björns að leiða flokkinn á þessu kjörtímabili og til sigurs í næstu borgarstjórnarkosningum.

Góður þáttur hjá Gísla Marteini
Athyglisvert var að fylgjast með spjallþætti Gísla Marteins í gærkvöldi, var mjög áhugaverður eins og alltaf. Aðalgestur Gísla var Kári Stefánsson forstjóri Íslenskrar erfðagreiningar. Var spjall þeirra skemmtilegt og töluðu þeir t.d. um nýjan ættfræðivef ÍE, Íslendingabók sem opnaður var fyrir rúmri viku og stöðu fyrirtækis hans. Það kom vel fram í spjallinu að Kári er skapmikill og greindur maður sem tekur áhættur og leggur allt undir vegna hugsjóna sinna og framtíðarsýnar. Ef svo er ekki er vonlaust að leggja út í rekstur á borð við þann sem hann stýrir. Þetta er fallvaltur bissness og Kári er rétti maðurinn til að leggja á öldudalinn. Ég hef alltaf haft mikla trú á honum og fyrirtækinu og vona að honum gangi vel í framtíðinni. Sérstaklega var gaman að heyra hnyttin tilsvör Kára við spurningum Gísla Marteins, sérstaklega þegar talið barst að því að hann býr í húsi Jónasar frá Hriflu, sem hann reisti á þriðja áratug síðustu aldar. Gísli sagðist hafa heyrt að Jónas gengi þar aftur og spurði hann Kára hvort hann hefði orðið var við Jónas. Kári sagðist ekki hafa orðið var við hann eða einhverja aðra vofu en sagðist varla geta greint á milli framsóknarmanns, lífs eða liðinn. Sálin fór að vanda á kostum og flutti tvö lög í þættinum, smellinn Þú fullkomnar mig og svo söng Arnbjörg lagið Ekki nema von með sveitinni. Semsagt; frábær þáttur í gær hjá Gísla.
 

« Fyrri síða

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband