Færsluflokkur: Bækur
10.11.2006 | 13:34
Andlát Gylfa Gröndal
Gylfi Gröndal, rithöfundur, var jarðsunginn í gær, en hann lést þann 29. október sl. Með Gylfa er fallinn í valinn góður fræðimaður, maður sem ritaði fjölda áhugaverðra bóka sem eftir munu standa til vitnis um vönduð vinnubrögð hans og yfirburðarþekkingu. Gylfi ritaði fjöldann allan af ævisögum. Í huga mér standa þar fremst gríðarlega góðar og fágaðar ævisögur þriggja fyrstu forseta lýðveldisins. Þar var skrifað með hárfínum og nákvæmum hætti um ævi þjóðhöfðingjanna.
Önnur ævisaga Gylfa sem ég met mikils og hef oft lesið er ævisaga hans um Robert F. Kennedy, fyrrum dómsmálaráðherra Bandaríkjanna, stjórnmálamann sem ég hef alltaf metið mikils. Gylfi skrifaði um hann skömmu eftir morðið á honum fágaða og notalega ævisögu sem stendur eftir með lesandanum lengi eftir lesturinn. Einnig ritaði hann vandaða bók um Lincoln sem ég met mikils. Annað stórvirki má nefna eitt af hans síðustu verkum, ævisöguna um Stein Steinarr. Það var alveg einstaklega gott verk og vandað, skrifað af næmleika og þekkingu um Stein, sem var eitt af merkustu skáldum þjóðarinnar.
Einnig má nefna ævisöguna um alþýðuhetjuna Jóhönnu Egilsdóttur (ömmu Jóhönnu Sigurðardóttur), Sigurjónu Jakobsdóttur (ekkju Þorsteins M. Jónssonar), Tómasar Þorvaldssonar, Eiríks Kristóferssonar skipherra, Björns Pálssonar á Löngumýri, Valdimars Jóhannssonar, dr. Kristins Guðmundssonar, Þorvalds í Síld og Fisk, Huldu Jakobsdóttur í Kópavogi, Kristjáns Sveinssonar augnlæknis, Helgu M. Níelsdóttur og svo síðast en ekki síst Katrínu Hrefnu (dóttur Einars Ben).
Allt eru þetta stórfenglegar bækur, en Gylfi var einn af umfangsmestu höfundum ævisagna og afkastamikill höfundur. Hans ævistarf er mikið og hefur verið farsælt. Ég á megnið af þessum bókum, en ég erfði þær þegar að Lína amma dó, en hún var mikil bókakona og átti þessar bækur. Hún treysti mér fyrir þeim, sem ég mat alltaf mikils. Sennilega vegna þess að ég hef ábyggilega mest gaman af þeim.
En leiðarlok hafa nú orðið hjá Gylfa. Það var sorglegt að honum gáfust ekki fleiri ár til fræðistarfa. En ævistarf hans ber vitni vönduðu verklagi og næmu auga öflugs rithöfundar sem markaði skref í íslenska bókamenningu okkar tíma. Blessuð sé minning hans.
Bækur | Slóð | Facebook | Athugasemdir (2)
4.11.2006 | 14:01
Konungsbók Arnaldar komin út
Þetta er tíunda skáldsaga Arnaldar. Sagan gerist að mestu í Kaupmannahöfn árið 1955 og tengist leyndarmáli sem snertir helsta dýrgrip Íslands, Konungsbók Eddukvæða. Aðalsöguhetjan er ungur íslenskufræðingur, Valdemar að nafni. Valdemar heldur til náms í Danmörku, kynnist þar gömlum prófessor og um leið skelfilegu leyndarmáli sem leiðir þá félaga í mikla háskaför um Evrópu, inn í skjalasöfn, grafhýsi, fornbókasölur og á fleiri hættustaði. Þetta er mögnuð og spennandi saga, ef marka má fréttatilkynninguna og umsögn um bókina á kápu.
Það er ekki hægt að segja annað en að Arnaldur sé orðinn einn virtasti spennusagnahöfundur Norðurlanda og fer frægðarsól hans sífellt hækkandi. Nýlega var ein besta skáldsaga hans, Mýrin, kvikmynduð og er hún á góðri leið með að slá öll áhorfsmet. Er það eitthvað sem allir aðdáendur bóka hans áttu vel von á. Bækur hans hafa selt í um þremur milljónum eintaka í á þriðja tug landa og hefur enginn íslenskur rithöfundur náð slíkri útbreiðslu. Í dag er ítarlegt viðtal við Arnald í Fréttablaðinu, sem áhugavert er að lesa.
Það er því heldur betur tilhlökkunarefni að hefja lesturinn á Konungsbók nú á næstu dögum. Hlakka heldur betur til, get ekki annað sagt.
Bækur | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
31.10.2006 | 19:33
Stefnir í góð bókajól
Ég er mikill bókamaður - les mikið og hef virkilega gaman af því. Er einn af þeim sem er ástríðumaður á góðar bækur. Það eru góðir tímar framundan hjá okkur bókafólkinu þessar vikurnar sem framundan eru, enda er jólabókaflóðið að skella á okkur af miklum krafti. Þetta er gósentíð fyrir fólk eins og mig, enda margt vel þess virði að lesa og rýna í. Ég ætla mér svo sannarlega að lesa mikið á aðventunni og njóta góðra bókmennta.
Þegar að ég var formaður flokksfélags hér í bæ og í flokksstarfinu almennt af meiri þunga en nú er voru miklar annir í aðdraganda jólanna af ýmsu tagi. Það er sérlega gott að vera laus við þessar skyldur þessar vikurnar, alla kvöldfundina og tengd stúss, sérstaklega í aðdraganda prófkjörs og geta eytt meiri tíma frekar í blogg, bókalestur og kvikmyndagláp. Þetta eru ástríður í mínum augum, enda hef ég gaman af að skrifa, sjá góðar myndir og lesa áhugaverðar bækur.
Nú þessa dagana er ég að lesa að nýju Röddina eftir Arnald Indriðason, en ég hef ekki lesið hana í nokkur ár. Þetta er meistaralega rituð bók. Svo er ég að stefna að því að rifja upp í rólegheitum Kleifarvatn aftur, eina mest seldu bók Íslandssögunnar, annað meistaraverk Arnaldar. Svo fer maður að rýna í meira. Ég er fastagestur á bókasafninu, svo að alltaf er eitthvað skemmtilegt þar að finna til að lesa. Svo er eiginlega kominn tími á að lesa aftur nokkrar bækur fyrri ára, t.d. hef ég áhuga á að lesa aftur ævisögur Laxness eftir Hannes Hólmstein.
Það er alltaf nóg til að lesa - áhugaverðir tímar svo sannarlega framundan í jólabókaflóðinu.
Fleiri bækur í boði fyrir þessi jól en í fyrra | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Bækur | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
26.10.2006 | 14:41
Æviminningar Gerhards Schröder
Um þessar mundir er ár liðið frá því að Gerhard Schröder missti stöðu sína sem einn valdamesti stjórnmálamaður heims eftir tap í þýsku þingkosningunum, sem mörkuðu valdaskipti í þýskri pólitík. Schröder var í sjö ár einn valdamesti maður heims, lykilforystumaður í alþjóðastjórnmálum. Hann var kanslari Þýskalands árin 1998-2005 og stýrði þýskum jafnaðarmönnum af miklum krafti. Litlu munaði að honum tækist að snúa vörn í sókn fyrir vinstrimenn í þingkosningunum í Þýskalandi í september 2005 en svo fór að tap varð ekki umflúið og að endalokum valdaferilsins kom formlega þann 22. nóvember 2005 þegar að Angela Merkel, leiðtogi CDU, varð kanslari í hans stað.
Nú hefur Schröder gefið út æviminningar sínar og fer þar að mestu yfir stormasaman stjórnmálaferil sinn, sem héraðshöfðingi í Neðra-Saxlandi og sem kanslari Þýskalands. Einn af lykiltímum valdaferils hans í Berlín var aðdragandi og lykiltími Íraksstríðsins. Hann deildi af hörku við George W. Bush, forseta Bandaríkjanna, og samskipti stórveldanna riðuðu til falls. Svo fór að lokum að þeir töluðust vart við og Bush virti Schröder og ríkisstjórn hans vart viðlits. Sömdu þeir þó frið nokkrum mánuðum áður en Schröder missti kanslaraembættið á sögulegum fundi í Þýskalandsheimsókn George W. Bush árið 2005. Þrátt fyrir kuldaleg samskipti náðu þeir að milda tengslin.
Í æviminningum sínum fer Schröder yfir þessi mál vel. Gagnrýnir hann Bush forseta og stjórn hans harkalega fyrir fyrir endalausar vísanir í Guð í aðdraganda stríðsins og grimmd hans sem markaðist af ísköldum samskiptum þjóðanna nær allan valdaferil Bush, eftir að hann vogaði sér að gagnrýna forsetann og forystu hans opinberlega. Schröder fer með áberandi hætti yfir sjö ár valdaferilsins og sérstaka athygli vekur að hann talar af hörku og stingandi kulda um dr. Angelu Merkel, kanslara Þýskalands, sem nú ríkir í stóru samsteypu hægrimanna og krata. Kallar Schröder hana veikburða og litlausan leiðtoga í bókinni.
Merkel og Schröder tókust harkalega á í kosningaslagnum í fyrra, sem varð upphafið að endalokum stjórnmálaferils Schröders. Sjarmi kanslarans og persónutöfrar í samskiptum við almenning voru þar helsti kostur hans. Angela þótti hafa mun minni útgeislun - en hún talaði hreint út um málin, var með ákveðna stefnu og mikla pólitíska plotthæfileika. Það var þó ekki sýnilegt á sjónvarpsskjánum. Sjarmi Schröders var hans stærsti kostur í stjórnmálum og litlu munaði að hann ynni kosningarnar 2005 á þeim sjarma sínum. Markaðist það af því að hann vildi fleiri sjónvarpskappræður. Allir vita að Schröder þolir ekki Merkel og varla undur að hann ráðist að henni nú.
Gaman að lesa um þessa bók, það verður svo sannarlega áhugavert að fá sér hana og lesa. Þó að ég hafi jafnan ekki haft áhuga á Gerhard Schröder sem stjórnmálamanni var hann mikill áhrifamaður og hefur merka sögu að segja. Stefni ég að því að lesa þessa hlið hans á málum. Það væri hinsvegar gaman að heyra skoðun Angelu Merkel á þessum pólitísku æviminningum forverans á kanslarastólnum í Berlín.
Bækur | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
14.10.2006 | 02:31
Mýrin
Síðustu daga hef ég verið að rifja upp kynnin af spennusögunni Mýrinni eftir Arnald Indriðason. Að mínu mati er þetta ein allra besta bók Arnaldar, virkilega vel skrifuð og inniheldur flotta spennufléttu. Nú á næstu vikum mun sagan Mýrin birtast okkur ljóslifandi í kvikmyndahúsunum, en kvikmynd Baltasars Kormáks eftir sögu Arnaldar verður brátt frumsýnd. Nú á seinustu árum hef ég stúderað mikið í skáldsögum Arnaldar Indriðasonar, en ég er mikill unnandi spennusagna hans og á þær allar. Sérstaklega er notalegt hvernig Arnaldur yfirfærir spennusagnaformið á íslenskt samfélag og fléttar persónurnar saman við veruleika sem allir ættu að geta kannast við.
Mýrin er vel rituð saga og það verður mjög áhugavert að sjá kvikmyndina. Þar munum við sjá rannsóknarlögreglumennina Erlend, Elínborgu og Sigurð Óla ljóslifandi í fyrsta skipti. Öll höfum við sem lesið hafa bækurnar um þetta harðsnúna þríeyki í lögreglustörfunum séð þau fyrir okkur og gert okkur í hugarlund hvernig persónur þetta séu, utan við karakterlýsingarnar sem Arnaldur hefur fært okkur. Það verður merkilegt að sjá Ingvar E. Sigurðsson í hlutverk Erlendar Sveinssonar, Ólafíu Hrönn Jónsdóttur í hlutverki Elínborgar og Björn Hlyn Haraldsson sem Sigurð Óla. Hvort að þeim tekst að túlka persónur með þeim hætti sem ég ímynda mér þær verður spennandi að sjá.
Mér fannst valið á Ingvari E. í hlutverk Erlendar mjög merkilegt á sínum tíma, er Baltasar tilkynnti um leikaravalið. Í sannleika sagt hafði ég byggt mér upp tilhugsunina um Erlend sem annan karakter og nokkuð eldri en þetta. Ingvar er einn allra besti leikari landsins og hefur margoft sýnt okkur hvers hann er megnugur. Ég hef séð smá ljósmyndabrot úr kvikmyndinni og þar er Ingvar með skegg og gerður mun eldri en hann er. Væntanlega er óþarfi að efast um hvort honum gangi vel í hlutverkinu. En burðarhlutverk er þetta og það munu allir sem fara í bíó staldra við það hvernig Ingvar E. mun túlka Erlend, enda er hann með sess í huga okkar allra og mikils metinn sögupersóna.
Ég las Mýrina fyrst um jólin sem bókin kom út. Ég las hana algjörlega upp til agna þá þegar og las hana strax í gegn. Þetta er algjört meistaraverk, þó reyndar telji ég Grafarþögn og Kleifarvatn standa henni örlítið framar. En allar skapa þessar bækur magnaða heild og við munum vonandi sjá allar þessar bækur birtast okkur ljóslifandi á hvíta tjaldinu á næstu árum. Ég efast vart um að kvikmyndin Mýrin verður vel heppnuð og hlakka til að sjá hana.
Bækur | Slóð | Facebook | Athugasemdir (2)
28.9.2006 | 13:20
Farið yfir ævi Vilmundar
Síðustu dagana hef ég verið að lesa ævisögu Vilmundar Gylfasonar, fyrrum dómsmálaráðherra, sem ber heitið Löglegt en siðlaust og var skráð af vini hans, Jóni Ormi Halldórssyni. Þetta er mjög merkileg saga svo sannarlega en Vilmundur var einn af litríkustu stjórnmálaleiðtogum sinnar kynslóðar. Bókin var skráð tveim árum eftir andlát Vilmundar, en hann lést sumarið 1983. Það verður seint sagt að stjórnmálamaðurinn Vilmundur og ég höfum aðhyllst sömu hugsjónir í stjórnmálum. Hann var mjög harður krati og barðist fyrir jafnaðarstefnu sinni, stundum með mjög áberandi hætti, en hann var alla tíð stjórnmálamaður skoðana og þótti mjög beittur í sinni pólitík.
Bókin er vissulega mikill minnisvarði um Vilmund. Hann kom sem stormsveipur í íslenska pólitík á áttunda áratugnum. Hann var hinsvegar alinn upp í stjórnmálum. Faðir hans, Gylfi Þ. Gíslason, var lengi formaður Alþýðuflokksins og gegndi embætti menntamálaráðherra samfellt í 15 ár, fyrir viðreisnartímann og á meðan hann stóð og þótti einn svipmesti stjórnmálamaður 20. aldarinnar. Afi hans, Vilmundur Jónsson, landlæknir, var maður skoðana og stjórnmálabaráttu og sjálfur sagði Vilmundur oft að hann væri eins og hann hvað baráttuandann snerti. Pólitík var því í lífi Vilmundar alla tíð og hann fór ósjálfrátt í þá baráttu sem faðir hans hafði helgað sig áður.
Samhliða lestri bókarinnar rifjaði ég upp þáttinn Einu sinni var, sem var sýndur á Stöð 2 í febrúar 2005, en þar fór Eva María Jónsdóttir yfir skammlífa sögu Bandalags jafnaðarmanna. Flokkurinn var stofnaður af Vilmundi haustið 1982 og átti fjóra þingmenn á Alþingi kjörtímabilið 1983-1987. Tilkoma flokksins varð að veruleika eftir að Vilmundur sneri baki við Alþýðuflokknum, þar sem hann hafði verið eiginlega verið fæddur og uppalinn til stjórnmálaþátttöku í. Vilmundur var kjörinn á þing fyrir Alþýðuflokkinn í þingkosningunum 1978 (er A-flokkarnir unnu mjög sögulegan sigur) og sat sem dóms- kirkjumála- og menntamálaráðherra í skammlífri minnihlutastjórn Alþýðuflokksins 1979-1980.
Vilmundur hafði gefið kost á sér sem varaformaður flokksins á flokksþingi hans 1980 og 1982, en í bæði skiptin beðið lægri hlut fyrir Magnúsi H. Magnússyni. Ennfremur höfðu verið innbyrðis deilur um störf Vilmundar sem ritstjóra Alþýðublaðsins sumarið 1981. Flokknum var spáð góðu gengi í skoðanakönnunum og stefndi framan af í góðan sigur hans. Það breyttist þegar líða tók á árið 1983 og að kvöldi kjördags kom í ljós að flokkurinn hafði ekki unnið þann sigur sem að var stefnt. Niðurstaðan varð fjórir þingmenn. Vilmundur tók úrslitunum sem miklum ósigri fyrir sig og pólitískar hugsjónir sínar og ekki síður baráttumál. Hann svipti sig lífi í júnímánuði 1983.
Í þættinum er eiginlega mun frekar sögð saga Stefáns Benediktssonar, arkitekts og fyrrum alþingismanns BJ. Hann fer þar yfir sögu flokksins, vandræði hans og erfiðleika við lok sögu hans. Stefán tók mikinn þátt í uppbyggingu flokksins með Vilmundi og eiginkonu hans, Valgerði Bjarnadóttur (dóttur Bjarna Benediktssonar), og fleiri stuðningsmönnum. Stefán skipaði þriðja sætið á lista flokksins í Reykjavík. Flokkurinn hlaut eins og fyrr segir fjóra þingmenn kjörna: tvo í Reykjavík og einn á Reykjanesi og Norðurlandi eystra. Við andlát Vilmundar tók Stefán sæti á þingi sem varamaður hans.
Var áhugavert að heyra lýsingar hans á stöðu mála og því sem tók við eftir andlát Vilmundar. Flokkurinn, sem byggður hafði verið utan um persónu Vilmundar og stefnumál hans, varð forystulaus og allt logaði í deilum þegar kom að því að hluti flokksins sameinaðist á ný Alþýðuflokknum. Eitt það merkilegasta sem kom fram í þættinum var að sjóðir flokksins væru frystir í Landsbankanum og enginn gæti gert tilkall til þeirra. Það er reyndar merkilegt að sjóðirnir, sem byggjast af skattfé sem flokkurinn fékk vegna stöðu sinnar á þingi, gangi ekki aftur til ríkisins. Það væri eðlilegast að peningarnir færu þangað.
Með þessum þætti og mun frekar lestri bókarinnar kynntist ég betur Vilmundi Gylfasyni sem stjórnmálamanni. Ég hafði reyndar lesið bókina áður, en það er verulega langt síðan. Segja má að saga BJ sé átakasaga umfram allt, saga flokks sem stóð og féll með stofnanda sínum og dó í raun með honum. Ég hvet eiginlega alla stjórnmálaáhugamenn til að lesa pólitíska ævisögu Vilmundar, Löglegt en siðlaust. Það er nokkuð merkileg lesning og lýsir honum sem stjórnmálamanni langbest. Það má fullyrða að íslenskir kratar hafi misst mikið þegar að Vilmundur hvarf af sjónarsviðinu.
Bækur | Breytt s.d. kl. 13:23 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
20.9.2006 | 12:20
Dr. Hannibal Lecter snýr aftur
Það leikur ekki nokkur vafi á því að ein eftirminnilegasta sögupersóna kvikmynda og bókmennta á síðari hluta 20. aldarinnar er mannætan og geðlæknirinn Dr. Hannibal Lecter, sögupersóna Thomasar Harris. Hann varð ódauðlegur í túlkun Anthony Hopkins í kvikmyndinni The Silence of the Lambs árið 1991 og hlaut Hopkins óskarinn fyrir þann meistaralega leik. Hannibal er einhver óhugnanlegasta en um leið áhugaverðasta persóna spennubókmenntanna, þrátt fyrir sturlunina er hann enda fágaður fagurkeri. Nú er væntanleg ný skáldsaga eftir Harris vestanhafs, Hannibal Rising, sem á að gerast frá því að Hannibal er sex ára og enda er hann er um tvítugt. Í raun lýsir bókin þeim sálrænu breytingum sem urðu á honum sem mörkuðu ævi hans og örlög.
Ég á fyrri bækurnar um Hannibal, The Silence of the Lambs og Red Dragon. Báðar þessar bækur hafa verið kvikmyndaðar. Fá orð þarf að hafa um fyrrnefndu myndina. Hún sló eftirminnilega í gegn árið 1991 og hlaut óskarinn sem besta mynd ársins, fyrir leik Hopkins og Jodie Foster í hlutverki alríkiskonunnar Clarice Starling, leikstjórn og handrit. Hún er aðeins þriðja myndin í sögu Óskarsverðlaunanna sem hlaut öll fimm aðalverðlaunin. Stórfengleg kvikmynd sem fangar áhorfandann algjörlega. Samleikur Hopkins og Foster var dýnamískur og myndin er fyrir margt löngu orðin klassík. Stærsta afrek Hopkins sem leikara er að hafa tekist að færa okkur yngri Hannibal í myndinni Red Dragon árið 2002 (á að gerast mun fyrr) en þann sem hann túlkaði í Lömbunum.
Auk þessara tveggja mynda er kvikmyndin Hannibal, sem var gerð ári á undan Red Dragon. Þar er sagan sögð eftir Lömbin. Sterk mynd að mörgu leyti en stendur hinum að mörgu leyti að baki. Hún er samt gríðarlega fáguð og færir okkur aðra sýn á karakterinn. Hannibal er margflókinn karakter í lýsingu Thomas Harris, allt að því skelfilega brenglaður einstaklingur sem hefur á sér blæ fágaðs veraldarmanns. Fyndin blanda. Hopkins gerði honum alveg frábær skil í þessum myndum. Þetta er hlutverk leikferils Hopkins. Það voru merkileg örlög þessa gamalgróna Shakespeare-leikara að enda í hlutverki víðsjárverðrar mannætu. Ótrúlega sterkur karakter-leikari.
Hlakkar til að geta fengið mér þessa bók og lesa meira um ævi Hannibals. Allir sem lesið hafa bækurnar hafa séð hversu miklu meira brútal Hannibal er í bókunum en í myndunum. Ég eins og svo margir aðrir sá fyrst karakterinn í kvikmyndinni árið 1991 en las svo bókina. Það er gengið mun lengra þar og þær eru óvægnar lýsingar á sálarástandi Hannibals og hversu vægðarlaus hann var. Þessi bók mun sýna okkur betur úr hverju hann er gerður sálarlega, hverjar voru aðstæður hans í æsku og hvernig hann varð þessi sálarháski sem hann að lokum varð. Þetta er svona svipað og að reka það hvernig að Svarthöfði varð að skepnu.
...allavega það verður gaman að lesa. Fram að því er kannski ráð að rifja upp allan hryllinginn og setja Lömbin í DVD-spilarann?
Ný bók um Hannibal Lecter | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Bækur | Breytt s.d. kl. 12:25 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (2)
19.9.2006 | 12:57
Bókaskrif Möggu Frímanns
Ég sá á netinu í morgun að Margrét Frímannsdóttir, alþingismaður, er að fara að gefa út ævisögu sína. Ég held að það verði virkilega áhugaverð bók fyrir stjórnmálaáhugamenn. Stjórnmálasaga Margrétar er samofin sögu vinstriflokkanna síðustu tvo áratugina, bæði hvað varðar vonbrigði við langa stjórnarandstöðusetu og ennfremur merka sögu við að koma vinstriöflum, sundruðum sem standandi öflum, saman í eina sæng. Margrét, sem nú hefur tilkynnt að hún sé að hætta í pólitík, hefur enda nokkuð ítarlega og merka sögu að segja, sem ég allavega hef áhuga á að lesa og mun væntanlega fara yfir hana fyrir þessi jólin.
Sérstaklega verður áhugavert að lesa um formannskjörið í Alþýðubandalaginu árið 1995, þegar að Margrét var kjörin eftirmaður Ólafs Ragnars Grímssonar, síðar forseta Íslands, á formannsstóli Alþýðubandalagsins. Sigur hennar yfir Steingrími J. Sigfússyni, þáv. varaformanni flokksins, var mjög sögulegur. Ekki aðeins varð Margrét með því fyrsta konan á formannsstóli gömlu fjórflokkanna heldur þótti merkilegt að hún gæti sigrað Steingrím J. Sigurinn varð þó súrsætur fyrir hana og hún varð síðar að horfa upp á flokkinn brotna hægt og rólega og lauk væringum þeirra tveggja síðar með því að Steingrímur og armur hans í flokknum yfirgáfu hann.
Margrét Frímannsdóttir var talsmaður Samfylkingarinnar í alþingiskosningunum 1999, fyrstu kosningum Samfylkingarinnar. Þá reyndar var flokkurinn sem slíkur ekki til, enda var þetta bara kosningabandalag flokkanna, en VG hafði þá verið stofnuð undir forystu Steingríms J. Sigur vinstriaflanna varð ekki staðreynd í þessum kosningum. En það var merkileg saga sem átti sér stað í kosningunum 1999 og mér telst til að Margrét hafi verið fyrsta konan sem leiddi alvöruafl, stórt afl, í þingkosningum. Sú saga hefur ekki enn verið rituð og væntanlega mun Margrét segja hana með þeim þunga sem hún telur rétt.
Fyrst og fremst verður áhugavert að lesa um formannskjörið 1995. Það var mikill átakapunktur á vinstrivængnum. Það var líka í fyrsta skipti sem póstkosning var meðal allra flokksmanna um forystu stjórnmálaflokks hér á Íslandi. Ólafur Ragnar barðist fyrir því að arfleifð hans myndi halda sér og beitti sér mjög fyrir Margréti, sem var alla tíð einn nánasti samherji hans í stjórnmálum.
Margt má reyndar segja um Margréti, en hún er fyrst og fremst kjarnakona í stjórnmálum og hefur frá mörgu að segja, sérstaklega nú þegar að hún er að hætta í stjórnmálunum. Hún á að baki langan feril, sem verður áhugavert að lesa um í frásögn hennar.
Bækur | Breytt s.d. kl. 13:03 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)