Færsluflokkur: Bækur
23.4.2009 | 14:52
Útgáfa á ævistarfi nóbelskáldsins tryggð
Ekki aðeins opinberu ævisögurnar heldur, og ekki síður, ævisögu Halldórs eftir Hannes Hólmstein Gissurarson, sem var vel gerð og unnin, einkum annað bindið sem er stórfenglegt. Þó fyrsta bindið sé umdeilt og mikil læti hafi verið vegna þess er heildarverkið mjög vel gert, sérstaklega annað bindið, sem er með betri ævisögum sem ritaðar hafa verið síðustu ár að mínu mati, þar sem umdeildum kafla á ævi Halldórs er lýst opinskátt.
Einn og hálfur áratugur er liðinn síðan að ég keypti allar bestu bækurnar hans Halldórs. Verk hans höfðuðu mjög til mín og ég las þær upp til agna. Var á þeim aldri að það mótaði mig talsvert og ég held að öllum unglingum sé hollt að lesa verkin hans Halldórs. Allavega gaf það mér mikið.
Ólafur heitinn Ragnarsson vann gott verk við að gefa út bækurnar aftur og gera þær vinsælar að nýju, kynna yngri kynslóðum þetta heildarsafn. Og fáir rituðu skemmtilegar og einlægar um Halldór en einmitt Ólafur.
Framtíð Laxness tryggð | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Bækur | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
17.5.2008 | 16:16
Hver mun kaupa útgáfuréttinn á Laxness?
Hef jafnan borið mikla virðingu fyrir bókum hans og þeirri ritsnilld sem einkennir þær. Halldór sjálfur var auðvitað um margt stórmerkilegur maður og áhugavert að lesa bækur um ævi hans og verk. Ekki aðeins opinberu ævisögurnar heldur, og ekki síður, ævisögu Halldórs eftir Hannes. Þó fyrsta bindið sé umdeilt og mikil læti hafi verið vegna þess er heildarverkið mjög vel gert, sérstaklega annað bindið, sem er með betri ævisögum sem ritaðar hafa verið síðustu ár að mínu mati, þar sem umdeildum kafla á ævi Halldórs er lýst opinskátt.
Einn og hálfur áratugur er liðinn síðan að ég keypti allar bestu bækurnar hans Halldórs. Verk hans höfðuðu mjög til mín og ég las þær upp til agna. Var á þeim aldri að það mótaði mig talsvert og ég held að öllum unglingum sé hollt að lesa verkin hans Halldórs. Allavega gaf það mér mikið. Ólafur heitinn Ragnarsson vann gott verk við að gefa út bækurnar aftur og gera þær vinsælar að nýju, kynna yngri kynslóðum þetta heildarsafn. Og fáir rituðu skemmtilegar og einlægar um Halldór en einmitt Ólafur.
Og nú er þetta ævistarf til sölu. Hver ætli að muni bjóða best í kjölfar þessarar litlu en merkilegu Moggaauglýsingu.
Allur lager verka Halldórs Laxness til sölu | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Bækur | Slóð | Facebook | Athugasemdir (5)
4.12.2007 | 16:19
Norðlensk bókaútgáfa
Blá birta er fyrsta skáldsaga Helga Jónssonar, bókaútgefanda hjá Tindi. Í henni er sagt frá eldri hjónum, Ásdísi og Jónmundi, sem standa á krossgötum og verða að bregða búi eftir áratugavist í sveitinni sem þau bæði unna - bærinn verður fúinn og jörðin rýrnar í takt við nútímastrauminn úr sveitabyggðunum. Það er í senn hugljúfur tónn í þessari en líka mjög hreinskilinn. Talað er hreint út um vandamál hjónanna og krossgöturnar sem þau eru á. Einnig kynnist lesandinn vel þeim nýja veruleika sem þau horfast í augu við.
Tónn minninganna er líka sterkur í þessari bók. Eins og hjá öllu venjulegu fólki einkennast þær í senn af ljúfum tímum en einnig sárum. Frásögnin einkennist af eftirsjá eftir hinum liðna tíma og blæ sveitalífsins fyrr á árum, tíma sem sannarlega er liðinn, bæði tíma mikillar vinnu og sárinda en lifir þó innst í hjartarótinni sem hugljúfur. Helgi segir sögu hjónanna með notalegum hætti, þarna er skrifað af tilfinningu og innlifun. Það var áhugavert að lesa fyrstu skáldsögu Helga og vonandi er stutt í þá næstu.
Helgi er þekktur fyrir Gæsahúðarbækur sínar, spennusögur skrifaðar fyrir krakka. Þær eru orðnar fleiri en tíu talsins og hafa vakið athygli á Helga sem rithöfundi en þær hafa notið vinsælda hjá börnum og unglingum. Í nýjustu bókinni í flokknum Villi Vampíra skrifar Helgi fyrir eldri krakka sérstaklega og fetar þar nýja slóð, bókin verður dekkri og beittari en þær hinar fyrri. Það er áhugavert að sjá hvernig Helgi staðsetur bókina hér á Akureyri og spinnur sögu sem virkar fjarstæðukennd vegna allra aðstæðna en verður samt svo öflug og sönn.
Helgi boðar framhald þessa bókaflokks. Það verður sannarlega spennandi að sjá í hvaða átt hann fetar með þennan nýja flokk spennusögu fyrir eldri krakka, sem er fjarri því sárasaklaust ævintýri heldur alvara hin mesta, saga sem snýst um líf og dauða. Helgi hefur verið bestur að mínu mati við að byggja þessar spennusögur fyrir krakka og hefur notið vinsælda fyrir þau skrif sín. Það er sniðugt hjá honum að feta lengra með þær frásagnir og taka nýtt skref í þeim skrifum, prófa hvernig þessi skrif passa við eldri krakka. Bókin var sannarlega spennandi og áhugaverð.
Júlíus Júlíusson, þúsundþjalasmiður á Dalvík, er landskunnur fyrir stjórn sína á fiskideginum mikla á Dalvík síðustu árin. Auk þess hefur hann orðið frægur fyrir að halda úti vinsælum jólavef, þar sem fjallað er um jólahátíðina með fjölbreyttum og litríkum hætti. Það kemur því ekki að óvörum að fyrsta bók Júlla sé notaleg jólasaga fyrir börnin - Blíð og bangsi litli.
Helstu kostir jólabarnsins í Júlla koma þar vel fram og bókin er sannarlega lifandi í frásögn og áhugaverð, einkum og sér í lagi fyrir glæsilegar myndir Sunnu Bjarkar Hreiðarsdóttur sem glæðir söguna lífi. Það voru einna helst myndir Sunnu sem vakti athygli mína og hún skapar myndrænan blæ utan um hugljúfa jólasögu.
Vil óska Helga góðs gengis í bókaútgáfu sinni. Það er alltaf gott þegar að fólk sinnir áhugamálum sínum og byggir upp fyrirtæki á heimavelli, byggir upp eitthvað nýtt og áhugavert.
Bækur | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
4.11.2007 | 14:09
Var markvisst unnið gegn Davíð Stefánssyni?
Davíð Stefánsson frá Fagraskógi var eitt allra besta ljóðskáld Íslendinga fyrr og síðar. Hann orti af tilfinningu og var sannur í yrkisefnum. Hann er eitt næmasta ljóðskáld sem hefur ritað á íslensku og hafði sterkt vald á ljóðforminu alla tíð. Það hefur mikið verið rætt um það hvers vegna hann hafði ekki sterkari stöðu út fyrir Ísland og var ekki kandidat um bókmenntaverðlaun Nóbels til dæmis. Það hefur lengi verið gefið í skyn að það hafi verið af pólitískum ástæðum sem svo fór og væntanlega er það svo. Það er þó sláandi að heyra þær lýsingar af því sem Friðrik kemur með og byggir á sterkum grunni.
Það er mikilvægt að segja þessa sögu og fara yfir þessi mál lið fyrir lið. Davíð var heilsteyptur í sínum skoðunum og lét ekki breyta lífshugsjónum sínum fyrir listina. Hann var maður skoðana í og með persónulegs styrkleika í verkum sínum. Hann var kannski einfari að mörgu leyti en það er að koma æ betur í ljós að hann gekk einn í list sinni, vegna þess að hann var ekki vinstrimaður og fylgdi ekki elítuboðum í verkum sínum. Það má vel vera að það hafi orðið honum dýrkeypt að einhverju marki, en ég held að hann hafi skilið við sáttur við sitt og verið ánægður með ævistarfið.
Davíð tjáði sig einlæglega um lífsins tilfinningar og heitustu grunnmál lífsins í verkum sínum og var heilsteyptur í því. Hann hefur alla tíð verið það skáld sem ég les þegar að mér líður illa, er glaður eða þarf að leita að einhverju til að kveikja í mér. Það er alltaf eitthvað í skrifum hans sem fær mig til að lesa aftur og aftur. Hann er alltaf ferskur og lifandi. Verk hans eru einfaldlega einstök.
Davíð hefur alltaf skipað stóran sess í huga mínum og verk hans fylgja mér alla tíð. Þau verða aldrei úrelt. Tök hans á íslenskunni og lifandi frásagnarmáti í verkunum halda minningu hans á lofti alla tíð. Fyrir tveim árum ritaði ég ítarlega grein um Davíð Stefánsson frá Fagraskógi fyrir bókmenntavefritið Skýjaborgir, sem þá var starfandi, og bendi á þau skrif hér með.
Í tónlistarspilaranum eru tvö lög við ljóð Davíðs Stefánssonar frá Fagraskógi; hið yndislega Bréfið hennar Stínu, við lag Heimis Sindrasonar, í ljúfum flutningi Herdísar Ármannsdóttur - og hið fallega Caprí Catarína, við lag Jóns frá Hvanná, í flutningi Björgvins Halldórssonar.
Bækur | Breytt s.d. kl. 14:16 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (4)
22.9.2007 | 19:20
Flett ofan af einræðisherra og sjúkum kommúnisma
Nú er bókin komin út í þýðingu Ólafs Teits Guðnasonar, blaðamanns. Ætla ég að kaupa mér bókina nú um helgina, enda ætla ég mér að upplifa hana aftur, en nú á íslensku, sem fyrst. Það er auðvitað ljóst að bókin er með þeim umdeildustu sem komið hafa út á undanförnum árum og skapað mikla umræðu um valdaferil Maó og varpað nýju ljósi á persónu hans og stjórnmálamanninn á bak við einræðisherrann.
Það er öllum hollt að lesa þessa bók, sérstaklega mæli ég með henni við vinstrimenn. Það hafa margir dýrkað Maó, eiga Rauða kverið og hafa slegið skjaldborg utan um minningu Maó til að hefja hann upp til skýjanna. Hef ég heyrt af mörgum sem hafa átt Rauða kverið en hent því eftir að hafa lesið þessa bók. Þetta er mikil upplifun og mikilvægt að sem flestir lesi bókina. Tækifærið er sannarlega komið nú með útgáfu hennar á íslensku.
Í vikunni voru Jung Chang og Jon Holliday í ítarlegu og góðu viðtali í bókaþætti Egils Helgasonar, Kiljunni. Var áhugavert að sjá viðtalið og heyra þau segja meira frá bókinni og sögunni á bakvið Maó. Egill er að standa sig vel með bókaþáttinn og hann er sannarlega ómissandi fyrir okkur bókaáhugafólkið.
Bækur | Breytt s.d. kl. 21:05 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (2)
16.1.2007 | 16:56
Svarfdælski forsetinn
Bók Gylfa um Kristján er gríðarlega vönduð í alla staði, eins og Gylfa er von og vísa. Hann var einn besti ævisagnaritari í sögu íslenskra bókmennta og afkastamikill á því sviði. Ævisaga Kristjáns var með hans betri verkum, en hann skrifaði ennfremur ævisögur forvera hans á forsetastóli; Sveins Björnssonar og Ásgeirs Ásgeirssonar. Kristján vann afgerandi kosningasigur í forsetakjörinu 1968. Hann var forseti fólksins, honum auðnaðist alla tíð að tryggja samstöðu landsmanna um verk sín og naut virðingar allra landsmanna.
Það má með sanni segja að Kristján hafi verið ólíkur því sem við kynntumst síðar í þessu táknræna þjóðhöfðingjaembætti. Hann fór í langa göngutúra á Álftanesi, ferðaðist lítið og þótti vera táknmynd alþýðleika hérlendis ásamt eiginkonu sinni, Halldóru Ingólfsdóttur Eldjárn. Deilt var meira að segja um það í kosningabaráttunni 1968 að Kristján væri litlaus og kona hans hefði sést í fatnaði frá Hagkaupsverslunum, svokölluðum Hagkaupssloppi. Lægra þótti háttsettum ekki hægt að komast en að sjást í slíkum alþýðufatnaði. En Kristjáni og Halldóru auðnaðist að tryggja samstöðu um embættið og eru metin með þeim hætti í sögubókunum, nú löngu eftir að hann lét af embætti.
Kristján var forseti á miklum umbrotatímum hérlendis, bæði í þjóðmálum og á vettvangi stjórnmála. Hann var mjög kraftmikill ræðumaður og rómaður fyrir innihaldsríkar og tilkomumiklar ræður sínar. Á ég ræðusafn hans í bókaformi. Tvær ræður hans, við embættistökuna 1968 og nýársávarp 1976, á ég í hljóðformi og þátt um ævi hans sem Gylfi Gröndal gerði árið 1996 á ég líka. Þeir þættir voru gerðir í aðdraganda forsetakjörs það ár er Ólafur Ragnar Grímsson var kjörinn forseti.
Bók Gylfa um Kristján er stórfengleg lýsing á þessum merka manni. Merkilegast af öllu við að kynna mér hann og verk hans í gegnum þessa bók var það að honum var alla tíð frekar illa við Bessastaði og var alltaf stressaður vegna ræðuskrifa sinna - var aldrei sáttur við neinar ræður sínar. Hann var hinsvegar talinn þá og enn í dag besti ræðumaður sinnar kynslóðar að væntanlega Gunnari Thoroddsen frátöldum.
Hvet ég alla til að lesa þessa góðu bók og reyndar aðrar ævisögur Gylfa um forsetana, fróðleg umfjöllun um ævi og forsetatíð forsetanna þriggja - sérstaklega mæli ég þó með bókinni um Kristján, sveitastrákinn að norðan sem varð forseti Íslands og öflugur þjóðhöfðingi landsins.
Bækur | Breytt s.d. kl. 17:37 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (2)
21.12.2006 | 10:41
Arnaldur og Ragna með vinsælustu bækurnar
Þetta er tíunda skáldsaga Arnaldar. Sagan gerist að mestu í Kaupmannahöfn árið 1955 og tengist leyndarmáli sem snertir helsta dýrgrip Íslands, Konungsbók Eddukvæða. Aðalsöguhetjan er ungur íslenskufræðingur, Valdemar að nafni. Valdemar heldur til náms í Danmörku, kynnist þar gömlum prófessor og um leið skelfilegu leyndarmáli sem leiðir þá félaga í mikla háskaför um Evrópu, inn í skjalasöfn, grafhýsi, fornbókasölur og á fleiri hættustaði. Þetta er mögnuð og spennandi saga, en með nýjum undirtón af hálfu Arnaldar. Ég las Konungsbók fyrir nokkrum vikum og varð mjög hrifinn af henni. Þetta er góð bók, ný hlið á Arnaldi, ef svo má segja og spennandi saga sem ég hafði gaman af.
Það er alveg ljóst svo að vinsælasta ævisagan þessi jólin verði Ljósið í djúpinu, ævisaga Rögnu Aðalsteinsdóttur frá Laugabóli. Ragna hefur merka sögu að segja, en hún hefur misst mikið gegnum árin og gengið í gegnum mörg lífsins áföll. Það er alveg ljóst að ég stefni að því að lesa ævisögu hennar og ég tel að allir sjái lífið öðrum augum eftir að hafa kynnt sér lífsreynslusögu Rögnu.
Bóksölulistinn: Arnaldur og Hagkaup á toppnum | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Bækur | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
11.12.2006 | 16:42
Magga Frímanns kveður með stæl
Saga stelpunnar frá Stokkseyri, skrásett af Þórunni Hrefnu Sigurjónsdóttur, er ekki þurr upptalning á pólitískum grobbsögum eða leiðinlegum innihaldslausum afrekum, eins og sumar ævisögur. Margrét færir okkur kjarnann í sinni pólitík til lesandans af krafti, við skynjum öll að þar fer hugsjónakona sem barðist af krafti fyrir kjósendur sína og þorði að vera kjaftfor og beitt. Það verður seint sagt um Margréti að hún hafi liðast áfram ljúft og liðugt, hún þorði og gerði. Það birtist vel í bókinni. Þar er líka skrifað að fullkominni hreinskilni og af krafti um það sem mætti Margréti á löngum stjórnmálaferli. Lýsingar hennar eru lifandi og einbeittar, þar er ekki töluð nein tæpitunga.
Stjórnmálasaga Margrétar er samofin sögu vinstriflokkanna síðustu tvo áratugina, bæði hvað varðar vonbrigði við langa stjórnarandstöðusetu og ennfremur merka sögu við að koma vinstriöflum, sundruðum sem standandi öflum, saman í eina sæng. Þarna er sameiningarsaga vinstriflokkanna á tíunda áratugnum rakin ítarlega, farið yfir formannsslaginn í Alþýðubandalaginu árið 1995 og baráttu lífsins fyrir Margréti, við illvígt mein. Það var hennar pólitíski hápunktur að sigra Steingrím. Sigurinn varð þó súrsætur fyrir hana og hún varð síðar að horfa upp á flokkinn brotna hægt og rólega og lauk væringum þeirra tveggja síðar með því að Steingrímur og armur hans í flokknum yfirgáfu hann með miklu þjósti árið 1998.
Það situr greinilega eftir í Margréti að ekki tókst að mynda vinstriblokk allra afla í aðdraganda kosninganna 1999. Greinilegt er að hún kennir Steingrími J. um að það tókst ekki og vandar honum ekki kveðjurnar í þeim efnum. Biturleikinn og vonbrigðin vegna þess sem mistókst birtist vel í lýsingum Margrétar í þessu öfluga uppgjöri við kommana í Alþýðubandalaginu sem yfirgáfu flokkinn og skildu eftir Ólafsarminn í Alþýðubandalaginu sem síðar sameinaðist öðrum vinstriöflum í Samfylkingunni. Í bókinni lýsir hún Steingrími með kuldalegum og einbeittum hætti. Eftir stóðu tveir flokkar og Samfylkingunni mistókst að stimpla sig inn af krafti í kosningunum 1999, tækifæri Margrétar til að landa sameinuðum flokki mistókust.
Margrét markaði sér þó spor. Án hennar framlags hefði Samfylkingin aldrei verið stofnuð. Hún var móðir Samfylkingarinnar, ekki aðeins ljósmóðir verkanna heldur sú sem tryggði tilveru þessarar fylkingar sem þó leiddi ekki saman alla vinstrimenn með afgerandi hætti. Sú sameining mistókst. En Samfylkingin varð til vegna framlags Margrétar og varð hún talsmaður kosningabandalagsins árið 1999. Það var merkileg saga sem átti sér stað í kosningunum 1999 og mér telst til að Margrét hafi verið fyrsta konan sem leiddi alvöruafl, stórt afl, í þingkosningum. Sú saga hefur ekki enn verið rituð og Margrét segir hana með þeim þunga sem hún telur rétt nú.
Ég hafði gaman af lestri þessarar bókar. Þeir sem meta stjórnmál mikils hafa gaman af að lesa hlið Margrétar á mörgum lykilátakamálum vinstriblokkarinnar síðustu árin. Sérstaklega stendur uppúr hversu mikið pólitískt einelti Margrét mátti þola innan Alþýðubandalagsins. Lýsingar hennar á því hvernig flokkurinn smátt og smátt molaðist niður er eftirminnileg og enginn stjórnmálaáhugamaður má sleppa því að lesa þessa sögu. Margrét var lykilpersóna í valdaátökum innan Alþýðubandalagsins og segir listilega frá hennar hlið á þeim valdaerjum sem gegnumsýrðu Alþýðubandalagið hægt og rólega, uns yfir lauk.
Margt má reyndar segja um Margréti, en hún er fyrst og fremst kjarnakona í stjórnmálum og hefur frá mörgu að segja, sérstaklega nú þegar að hún er að hætta í stjórnmálunum. Hún á að baki langan feril, sem mér fannst áhugavert að lesa um í frásögn hennar. Ég held að það sé ekki ofmælt að brotthvarf Margrétar veiki Samfylkinguna. Það sjá allir sem lesa. Athyglisverðast við bókina er hversu lítið er þar vikið að samstarfi hennar og Ingibjargar Sólrúnar Gísladóttur. Varla er það furða.
Hvernig er það annars, átti Ingibjörg Sólrún við Margréti Frímannsdóttur þegar að hún veittist að þingflokki sínum nýlega með eftirminnilegum hætti í Keflavík? Ef svo er, telst það óverðskuldað í huga þeirra sem lesa sögu kjarnakonunnar frá Stokkseyri.
Í gær ritaði Björn Bjarnason, dómsmálaráðherra, góðan pistil um bók Margrétar Frímannsdóttur og bendi ég á þau skrif hér með.
Bækur | Breytt s.d. kl. 20:32 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (3)
19.11.2006 | 15:48
Magga Frímanns kveður með stæl
Nú hefur stelpan frá Stokkseyri ritað ævisögu sína undir því nafni, það er pólitísk ævisaga, eins og gefur að skilja. Ekkert heiti er meira viðeigandi á bókina en þetta. Hún hefur verið virk í stjórnmálum síðan að hún var ung og hún hefur verið lengi áberandi í pólitískri baráttu. Í bloggfærslu minni hér þann 19. september, skömmu eftir að ég færði mig hingað á moggabloggið skrifaði ég um þessa væntanlegu ævisögu Möggu Frímanns og lét þess getið að ég myndi lesa bókina, enda hefur hún merkilega sögu að segja lesendum. Það er enda ljóst á öllu að þarna er ekki töluð nein tæpitunga, þetta er áhugaverð bók þar sem allt er látið flakka.
Nú er bókin komin út. Hún var varla orðin volg í prentsmiðjunni er hún hafði þegar vakið athygli væntanlegra lesenda og farið var að vitna í bókarskrifin. Um er að ræða pólitískt uppgjör Margrétar Frímannsdóttur að pólitískum leiðarlokum. Stjórnmálasaga Margrétar er samofin sögu vinstriflokkanna síðustu tvo áratugina, bæði hvað varðar vonbrigði við langa stjórnarandstöðusetu og ennfremur merka sögu við að koma vinstriöflum, sundruðum sem standandi öflum, saman í eina sæng. Þarna er sameiningarsaga vinstriflokkanna á tíunda áratugnum rakin ítarlega, farið yfir formannsslaginn í Alþýðubandalaginu árið 1995 og baráttu lífsins fyrir Margréti, við illvígt mein.
Margrét og Steingrímur J. háðu eftirminnilega baráttu um formannsstólinn í Alþýðubandalaginu, þegar að Ólafur Ragnar Grímsson neyddist til að hætta eftir átta ára formennsku. Sigur Margrétar var sögulegur, ekki aðeins varð Margrét með því fyrsta konan á formannsstóli gömlu fjórflokkanna heldur þótti merkilegt að hún gæti sigrað Steingrím J. í þessari baráttu aflanna innan flokksins. Það var hennar pólitíski hápunktur. Sigurinn varð þó súrsætur fyrir hana og hún varð síðar að horfa upp á flokkinn brotna hægt og rólega og lauk væringum þeirra tveggja síðar með því að Steingrímur og armur hans í flokknum yfirgáfu hann með miklu þjósti árið 1998.
Það situr greinilega eftir í Margréti að ekki tókst að mynda vinstriblokk allra afla í aðdraganda kosninganna 1999. Greinilegt er að hún kennir Steingrími J. um að það tókst ekki og vandar honum ekki kveðjurnar í þeim efnum. Biturleikinn og vonbrigðin vegna þess sem mistókst birtist vel í lýsingum Margrétar í þessu öfluga uppgjöri við kommana í Alþýðubandalaginu sem yfirgáfu flokkinn og skildu eftir Ólafsarminn í Alþýðubandalaginu sem síðar sameinaðist öðrum vinstriöflum í Samfylkingunni. Eftir stóðu tveir flokkar og Samfylkingunni mistókst að stimpla sig inn af krafti í kosningunum 1999, tækifæri Margrétar til að landa sameinuðum flokki mistókust.
Margrét markaði sér þó spor. Án hennar framlags hefði Samfylkingin aldrei verið stofnuð. Hún var móðir Samfylkingarinnar, ekki aðeins ljósmóðir verkanna heldur sú sem tryggði tilveru þessarar fylkingar sem þó leiddi ekki saman alla vinstrimenn með afgerandi hætti. Sú sameining mistókst. En Samfylkingin varð til vegna framlags Margrétar og varð hún talsmaður kosningabandalagsins árið 1999. Það var merkileg saga sem átti sér stað í kosningunum 1999 og mér telst til að Margrét hafi verið fyrsta konan sem leiddi alvöruafl, stórt afl, í þingkosningum. Sú saga hefur ekki enn verið rituð og væntanlega segir Margrét hana með þeim þunga sem hún telur rétt nú.
Fyrst og fremst verður áhugavert að lesa um formannskjörið 1995. Það var mikill átakapunktur á vinstrivængnum. Það var líka í fyrsta skipti sem póstkosning var meðal allra flokksmanna um forystu stjórnmálaflokks hér á Íslandi. Ólafur Ragnar barðist fyrir því að arfleifð hans myndi halda sér og beitti sér mjög fyrir Margréti, sem var alla tíð einn nánasti samherji hans í stjórnmálum. Sigur Margrétar varð um leið pólitískur sigur Ólafs Ragnars og hans afla innan Alþýðubandalagsins.
Margt má reyndar segja um Margréti, en hún er fyrst og fremst kjarnakona í stjórnmálum og hefur frá mörgu að segja, sérstaklega nú þegar að hún er að hætta í stjórnmálunum. Hún á að baki langan feril, sem verður áhugavert að lesa um í frásögn hennar. Ég ætla að fá mér þessa bók og lesa eftir helgina, það er mjög einfalt mál. Þetta er merkileg saga baráttukonu.
Brot úr ævisögu Margrétar
Bækur | Breytt s.d. kl. 16:03 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
19.11.2006 | 00:22
Farið yfir ævi Vilmundar
Bókin er vissulega mikill minnisvarði um Vilmund. Hann kom sem stormsveipur í íslenska pólitík á áttunda áratugnum. Hann var hinsvegar alinn upp í stjórnmálum. Faðir hans, Gylfi Þ. Gíslason, var lengi formaður Alþýðuflokksins og gegndi embætti menntamálaráðherra samfellt í 15 ár, fyrir viðreisnartímann og á meðan hann stóð og þótti einn svipmesti stjórnmálamaður 20. aldarinnar. Afi hans, Vilmundur Jónsson, landlæknir, var maður skoðana og stjórnmálabaráttu og sjálfur sagði Vilmundur oft að hann væri eins og hann hvað baráttuandann snerti. Pólitík var því í lífi Vilmundar alla tíð og hann fór ósjálfrátt í þá baráttu sem faðir hans hafði helgað sig áður.
Samhliða lestri bókarinnar rifjaði ég upp þáttinn Einu sinni var, sem var sýndur á Stöð 2 í febrúar 2005, en þar fór Eva María Jónsdóttir yfir skammlífa sögu Bandalags jafnaðarmanna. Flokkurinn var stofnaður af Vilmundi haustið 1982 og átti fjóra þingmenn á Alþingi kjörtímabilið 1983-1987. Tilkoma flokksins varð að veruleika eftir að Vilmundur sneri baki við Alþýðuflokknum, þar sem hann hafði verið eiginlega verið fæddur og uppalinn til stjórnmálaþátttöku í. Vilmundur var kjörinn á þing fyrir Alþýðuflokkinn í þingkosningunum 1978 (er A-flokkarnir unnu mjög sögulegan sigur) og sat sem dóms- kirkjumála- og menntamálaráðherra í skammlífri minnihlutastjórn Alþýðuflokksins 1979-1980.
Vilmundur hafði gefið kost á sér sem varaformaður flokksins á flokksþingi hans 1980 og 1982, en í bæði skiptin beðið lægri hlut fyrir Magnúsi H. Magnússyni. Ennfremur höfðu verið innbyrðis deilur um störf Vilmundar sem ritstjóra Alþýðublaðsins sumarið 1981. Flokknum var spáð góðu gengi í skoðanakönnunum og stefndi framan af í góðan sigur hans. Það breyttist þegar líða tók á árið 1983 og að kvöldi kjördags kom í ljós að flokkurinn hafði ekki unnið þann sigur sem að var stefnt. Niðurstaðan varð fjórir þingmenn. Vilmundur tók úrslitunum sem miklum ósigri fyrir sig og pólitískar hugsjónir sínar og ekki síður baráttumál. Hann svipti sig lífi í júnímánuði 1983.
Í þættinum er eiginlega mun frekar sögð saga Stefáns Benediktssonar, arkitekts og fyrrum alþingismanns BJ. Hann fer þar yfir sögu flokksins, vandræði hans og erfiðleika við lok sögu hans. Stefán tók mikinn þátt í uppbyggingu flokksins með Vilmundi og eiginkonu hans, Valgerði Bjarnadóttur (dóttur Bjarna Benediktssonar), og fleiri stuðningsmönnum. Stefán skipaði þriðja sætið á lista flokksins í Reykjavík. Flokkurinn hlaut eins og fyrr segir fjóra þingmenn kjörna: tvo í Reykjavík og einn á Reykjanesi og Norðurlandi eystra. Við andlát Vilmundar tók Stefán sæti á þingi sem varamaður hans.
Var áhugavert að heyra lýsingar hans á stöðu mála og því sem tók við eftir andlát Vilmundar. Flokkurinn, sem byggður hafði verið utan um persónu Vilmundar og stefnumál hans, varð forystulaus og allt logaði í deilum þegar kom að því að hluti flokksins sameinaðist á ný Alþýðuflokknum. Eitt það merkilegasta sem kom fram í þættinum var að sjóðir flokksins væru frystir í Landsbankanum og enginn gæti gert tilkall til þeirra. Það er reyndar merkilegt að sjóðirnir, sem byggjast af skattfé sem flokkurinn fékk vegna stöðu sinnar á þingi, gangi ekki aftur til ríkisins. Það væri eðlilegast að peningarnir færu þangað.
Með þessum þætti og mun frekar lestri bókarinnar kynntist ég betur Vilmundi Gylfasyni sem stjórnmálamanni. Ég hafði reyndar lesið bókina áður, en það er verulega langt síðan. Segja má að saga BJ sé átakasaga umfram allt, saga flokks sem stóð og féll með stofnanda sínum og dó í raun með honum. Ég hvet eiginlega alla stjórnmálaáhugamenn til að lesa pólitíska ævisögu Vilmundar, Löglegt en siðlaust. Það er nokkuð merkileg lesning og lýsir honum sem stjórnmálamanni langbest. Það má fullyrða að íslenskir kratar hafi misst mikið þegar að Vilmundur hvarf af sjónarsviðinu.
Bækur | Slóð | Facebook | Athugasemdir (2)