Magga Frímanns kveður með stæl

Margrét Frímannsdóttir Það var fræðandi og áhugavert að lesa bókina Stelpan frá Stokkseyri, pólitískar endurminningar Margrétar Frímannsdóttur. Það er við hæfi að hún kveðji stjórnmálin með stæl á þessum síðasta þingvetri sínum, sem markar lok litríks stjórnmálaferils hennar. Í tvo áratugi hefur Margrét verið í forystusveit stjórnmála; baráttukona sinna hugsjóna, alþýðukona úr litlu sunnlensku sjávarplássi sem braust fram til ábyrgðarstarfa.

Saga stelpunnar frá Stokkseyri, skrásett af Þórunni Hrefnu Sigurjónsdóttur, er ekki þurr upptalning á pólitískum grobbsögum eða leiðinlegum innihaldslausum afrekum, eins og sumar ævisögur. Margrét færir okkur kjarnann í sinni pólitík til lesandans af krafti, við skynjum öll að þar fer hugsjónakona sem barðist af krafti fyrir kjósendur sína og þorði að vera kjaftfor og beitt. Það verður seint sagt um Margréti að hún hafi liðast áfram ljúft og liðugt, hún þorði og gerði. Það birtist vel í bókinni. Þar er líka skrifað að fullkominni hreinskilni og af krafti um það sem mætti Margréti á löngum stjórnmálaferli. Lýsingar hennar eru lifandi og einbeittar, þar er ekki töluð nein tæpitunga.

Margrét markaði spor í stjórnmálasögu landsins. Hún var þingflokksformaður Alþýðubandalagsins 1988-1992, formaður Alþýðubandalagsins 1995-2000, varaformaður Samfylkingarinnar 2000-2003 og þingflokksformaður Samfylkingarinnar 2004-2006. Hún hefur leitt framboðslista í öllum kosningum frá árinu 1987 á Suðurlandi. Margrét var fyrsta konan sem leiddi einn af gömlu fjórflokkunum og sigur hennar yfir Steingrími J. Sigfússyni í hörðu formannskjöri í Alþýðubandalaginu er Ólafur Ragnar Grímsson lét af formennsku árið 1995 var nokkuð sögulegur. Án hennar hefði Alþýðubandalagið aldrei farið í sameiningarviðræður við kratana og Kvennalistakonur. Hún stýrði málinu og var óneitanlega ljósmóðir Samfylkingarinnar.

Stjórnmálasaga Margrétar er samofin sögu vinstriflokkanna síðustu tvo áratugina, bæði hvað varðar vonbrigði við langa stjórnarandstöðusetu og ennfremur merka sögu við að koma vinstriöflum, sundruðum sem standandi öflum, saman í eina sæng. Þarna er sameiningarsaga vinstriflokkanna á tíunda áratugnum rakin ítarlega, farið yfir formannsslaginn í Alþýðubandalaginu árið 1995 og baráttu lífsins fyrir Margréti, við illvígt mein. Það var hennar pólitíski hápunktur að sigra Steingrím. Sigurinn varð þó súrsætur fyrir hana og hún varð síðar að horfa upp á flokkinn brotna hægt og rólega og lauk væringum þeirra tveggja síðar með því að Steingrímur og armur hans í flokknum yfirgáfu hann með miklu þjósti árið 1998.

Það situr greinilega eftir í Margréti að ekki tókst að mynda vinstriblokk allra afla í aðdraganda kosninganna 1999. Greinilegt er að hún kennir Steingrími J. um að það tókst ekki og vandar honum ekki kveðjurnar í þeim efnum. Biturleikinn og vonbrigðin vegna þess sem mistókst birtist vel í lýsingum Margrétar í þessu öfluga uppgjöri við kommana í Alþýðubandalaginu sem yfirgáfu flokkinn og skildu eftir Ólafsarminn í Alþýðubandalaginu sem síðar sameinaðist öðrum vinstriöflum í Samfylkingunni. Í bókinni lýsir hún Steingrími með kuldalegum og einbeittum hætti. Eftir stóðu tveir flokkar og Samfylkingunni mistókst að stimpla sig inn af krafti í kosningunum 1999, tækifæri Margrétar til að landa sameinuðum flokki mistókust.

Margrét markaði sér þó spor. Án hennar framlags hefði Samfylkingin aldrei verið stofnuð. Hún var móðir Samfylkingarinnar, ekki aðeins ljósmóðir verkanna heldur sú sem tryggði tilveru þessarar fylkingar sem þó leiddi ekki saman alla vinstrimenn með afgerandi hætti. Sú sameining mistókst. En Samfylkingin varð til vegna framlags Margrétar og varð hún talsmaður kosningabandalagsins árið 1999. Það var merkileg saga sem átti sér stað í kosningunum 1999 og mér telst til að Margrét hafi verið fyrsta konan sem leiddi alvöruafl, stórt afl, í þingkosningum. Sú saga hefur ekki enn verið rituð og Margrét segir hana með þeim þunga sem hún telur rétt nú.

Ég hafði gaman af lestri þessarar bókar. Þeir sem meta stjórnmál mikils hafa gaman af að lesa hlið Margrétar á mörgum lykilátakamálum vinstriblokkarinnar síðustu árin. Sérstaklega stendur uppúr hversu mikið pólitískt einelti Margrét mátti þola innan Alþýðubandalagsins. Lýsingar hennar á því hvernig flokkurinn smátt og smátt molaðist niður er eftirminnileg og enginn stjórnmálaáhugamaður má sleppa því að lesa þessa sögu. Margrét var lykilpersóna í valdaátökum innan Alþýðubandalagsins og segir listilega frá hennar hlið á þeim valdaerjum sem gegnumsýrðu Alþýðubandalagið hægt og rólega, uns yfir lauk.

Margt má reyndar segja um Margréti, en hún er fyrst og fremst kjarnakona í stjórnmálum og hefur frá mörgu að segja, sérstaklega nú þegar að hún er að hætta í stjórnmálunum. Hún á að baki langan feril, sem mér fannst áhugavert að lesa um í frásögn hennar. Ég held að það sé ekki ofmælt að brotthvarf Margrétar
veiki Samfylkinguna. Það sjá allir sem lesa. Athyglisverðast við bókina er hversu lítið er þar vikið að samstarfi hennar og Ingibjargar Sólrúnar Gísladóttur. Varla er það furða.

Hvernig er það annars, átti Ingibjörg Sólrún við Margréti Frímannsdóttur þegar að hún veittist að þingflokki sínum nýlega með eftirminnilegum hætti í Keflavík? Ef svo er, telst það óverðskuldað í huga þeirra sem lesa sögu kjarnakonunnar frá Stokkseyri.

Í gær ritaði Björn Bjarnason, dómsmálaráðherra, góðan pistil um bók Margrétar Frímannsdóttur og bendi ég á þau skrif hér með.

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Heimir Lárusson Fjeldsted

Þakka góðan pistil.

Heimir Lárusson Fjeldsted, 11.12.2006 kl. 16:49

2 Smámynd: Sigurður Þór Guðjónsson

Þú hefðir nú alveg mátt nefna skrásetjarann, Þórunni Hrefnu Sigurjónsdóttur, sem á örugglega drjúgan þátt í því hve bókin er læsileg.   

Sigurður Þór Guðjónsson, 11.12.2006 kl. 17:33

3 Smámynd: Stefán Friðrik Stefánsson

Takk fyrir góð komment.

Þakka þér Sigurður Þór fyrir að minna mig á Þórunni Hrefnu. Það er alveg rétt að ég gleymdi henni, sem er leitt, enda hefði bókin varla komið út með jafnglæsilegum hætti án hennar, sem hélt utan um verkið með Margréti og kom þessu vel á prentfært form. Hún á auðvitað ekki síðri þátt í þessu verkefni og Margrét sjálf.

mbk.

Stefán Friðrik Stefánsson, 11.12.2006 kl. 17:52

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband