Var markvisst unnið gegn Davíð Stefánssyni?

Davíð Stefánsson Það er áhugavert að heyra lýsingar Friðriks Olgeirssonar, sagnfræðings, á því hvernig vinstrielítan vann markvisst gegn Davíð Stefánssyni frá Fagraskógi og möguleikum hans á erlendri grundu, einkum hvað varðar möguleika á bókmenntaverðlaunum Nóbels. Allt var það vegna þess að hann var ekki vinstrisinnaður, fylgdi ekki skoðunum vinstrielítunnar, heldur var afgerandi hægrimaður í skoðunum og tali alla tíð. Farið verður nánar yfir þessa þætti í væntanlegri ævisögu Davíðs eftir Friðrik.

Davíð Stefánsson frá Fagraskógi var eitt allra besta ljóðskáld Íslendinga fyrr og síðar. Hann orti af tilfinningu og var sannur í yrkisefnum. Hann er eitt næmasta ljóðskáld sem hefur ritað á íslensku og hafði sterkt vald á ljóðforminu alla tíð. Það hefur mikið verið rætt um það hvers vegna hann hafði ekki sterkari stöðu út fyrir Ísland og var ekki kandidat um bókmenntaverðlaun Nóbels til dæmis. Það hefur lengi verið gefið í skyn að það hafi verið af pólitískum ástæðum sem svo fór og væntanlega er það svo. Það er þó sláandi að heyra þær lýsingar af því sem Friðrik kemur með og byggir á sterkum grunni.

Það er mikilvægt að segja þessa sögu og fara yfir þessi mál lið fyrir lið. Davíð var heilsteyptur í sínum skoðunum og lét ekki breyta lífshugsjónum sínum fyrir listina. Hann var maður skoðana í og með persónulegs styrkleika í verkum sínum. Hann var kannski einfari að mörgu leyti en það er að koma æ betur í ljós að hann gekk einn í list sinni, vegna þess að hann var ekki vinstrimaður og fylgdi ekki elítuboðum í verkum sínum. Það má vel vera að það hafi orðið honum dýrkeypt að einhverju marki, en ég held að hann hafi skilið við sáttur við sitt og verið ánægður með ævistarfið.

Davíð tjáði sig einlæglega um lífsins tilfinningar og heitustu grunnmál lífsins í verkum sínum og var heilsteyptur í því. Hann hefur alla tíð verið það skáld sem ég les þegar að mér líður illa, er glaður eða þarf að leita að einhverju til að kveikja í mér. Það er alltaf eitthvað í skrifum hans sem fær mig til að lesa aftur og aftur. Hann er alltaf ferskur og lifandi. Verk hans eru einfaldlega einstök.

Davíð hefur alltaf skipað stóran sess í huga mínum og verk hans fylgja mér alla tíð. Þau verða aldrei úrelt. Tök hans á íslenskunni og lifandi frásagnarmáti í verkunum halda minningu hans á lofti alla tíð. Fyrir tveim árum ritaði ég ítarlega grein um Davíð Stefánsson frá Fagraskógi fyrir bókmenntavefritið Skýjaborgir, sem þá var starfandi, og bendi á þau skrif hér með.


Í tónlistarspilaranum eru tvö lög við ljóð Davíðs Stefánssonar frá Fagraskógi; hið yndislega Bréfið hennar Stínu, við lag Heimis Sindrasonar, í ljúfum flutningi Herdísar Ármannsdóttur - og hið fallega Caprí Catarína, við lag Jóns frá Hvanná, í flutningi Björgvins Halldórssonar.

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Blúshátíð í Reykjavík

Þetta sagði Davíð Stefánsson um jazz

"Í ritgerðinni Hismið og kjarninn, sem er ræða sem Davíð flutti í Fagraskógi sumarið 1958, segir:

“...margur hyggur annað þroskavænlegra íslenzkri æsku en villimannaöskur og tónatjasl frumstæðra blökkumanna og hvítra gervinegra, sem hafa knæpuna fyrir musteri og kynhvötina fyrir sinn guð, gegnsósa af wiskýblöndu og tóbaksreyk. Óhljóð þeirra eiga ekkert skylt við tónlist, en minna fremur á nágaul, breima ketti og urgið í hrossabrestinum sem notaður var í mínu ungdæmi til þess að fæla hesta úr túni og æsa daufgerða hunda.”

Blúshátíð í Reykjavík, 4.11.2007 kl. 15:15

2 Smámynd: Stefán Friðrik Stefánsson

Já, Davíð hafði afgerandi skoðanir og var jafnan ekkert að hika með þær.

Er reyndar ekki sammála honum með jazz. Það er virkilega notaleg tónlist. Hún er þó ekki fyrir alla, en við sem metum hana mikils njótum hennar alveg í botn.

mbk.

Stefán Friðrik Stefánsson, 4.11.2007 kl. 15:17

3 Smámynd: Ásdís Sigurðardóttir

Davíð var og verður einstakur snillingur að mínu mati.  Það truflar mig ekkert að hann varð ekki frægur út fyrir landsteinana, hann þurfti engan nóbel að mínu mati. Hann var og verður einn besti höfundur lands míns, að mínu mati.

Ásdís Sigurðardóttir, 4.11.2007 kl. 15:55

4 Smámynd: Stefán Friðrik Stefánsson

Já, Ásdís mín, hann var sannkallaður snillingur. Bæði mjög afgerandi í kveðskap og líka mjög næmur. Það hefur aldrei truflað mig að hann hafi ekki náð heimsfrægð. Hann þurfti í raun engar vegtyllur til að gera sitt verk vel og hans verður lengi minnst fyrir ljóðalist sína.

mbk.

Stefán Friðrik Stefánsson, 4.11.2007 kl. 16:15

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband