Arnaldur og Ragna með vinsælustu bækurnar

Konungsbók Það stefnir flest í að Konungsbók, eftir Arnald Indriðason, verði metsölubókin í flokki skáldsagna þessi jólin. Kemur það svo sannarlega ekki að óvörum, enda hefur Arnaldur slegið öll met síðustu árin og á söluhæstu bækurnar síðustu ár; Kleifarvatn og Vetrarborgina. Var Konungsbók prentuð í 15.000 eintökum, en það er mesta upplag einnar íslenskrar skáldsögu til þessa í sögu íslenskra bókmennta í fyrsta holli prentunar. Þarna eru þó Erlendur, Elínborg og Sigurður Óli víðsfjarri, heldur er farið á önnur mið í spennunni.

Þetta er tíunda skáldsaga Arnaldar. Sagan gerist að mestu í Kaupmannahöfn árið 1955 og tengist leyndarmáli sem snertir helsta dýrgrip Íslands, Konungsbók Eddukvæða. Aðalsöguhetjan er ungur íslenskufræðingur, Valdemar að nafni. Valdemar heldur til náms í Danmörku, kynnist þar gömlum prófessor og um leið skelfilegu leyndarmáli sem leiðir þá félaga í mikla háskaför um Evrópu, inn í skjalasöfn, grafhýsi, fornbókasölur og á fleiri hættustaði. Þetta er mögnuð og spennandi saga, en með nýjum undirtón af hálfu Arnaldar. Ég las Konungsbók fyrir nokkrum vikum og varð mjög hrifinn af henni. Þetta er góð bók, ný hlið á Arnaldi, ef svo má segja og spennandi saga sem ég hafði gaman af.

Það er alveg ljóst svo að vinsælasta ævisagan þessi jólin verði Ljósið í djúpinu, ævisaga Rögnu Aðalsteinsdóttur frá Laugabóli. Ragna hefur merka sögu að segja, en hún hefur misst mikið gegnum árin og gengið í gegnum mörg lífsins áföll. Það er alveg ljóst að ég stefni að því að lesa ævisögu hennar og ég tel að allir sjái lífið öðrum augum eftir að hafa kynnt sér lífsreynslusögu Rögnu.

mbl.is Bóksölulistinn: Arnaldur og Hagkaup á toppnum
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband