Færsluflokkur: Dægurmál

Skelfilegt mál

Á vettvangi Satt best að segja var maður að vona að sá sem keyrði á fjögurra ára strákinn í Reykjanesbæ síðdegis í dag myndi gefa sig fram og hafa vit á því að taka afleiðingum gjörða sinna. Sú von virðist heldur betur vera að dofna, enda liðnir yfir fimm tímar frá þessu sorglega atviki. Lögreglan mun þó vonandi takast að ná honum er yfir lýkur með ábendingum sem henni hefur borist.

Ég trúi því ekki að þetta atvik hafi farið framhjá þeim sem keyrði á strákinn. Finnst það mjög óraunverulegt að þetta hafi farið framhjá ökumanninum. Það getur varla annað verið en að þetta hafi verið nokkuð sem viðkomandi tók vel eftir. Bíllinn hlýtur að hafa dældast við höggið, það fer ekki framhjá neinum.

Finnst það mjög dapurlegt að fólk stingi af eftir að keyra á smábarn og skilja það eftir í sárum sínum. Það er dómgreindarbrestur af verstu sort. Það er eðlilegt að reiði séu fyrstu viðbrögðin, enda myndi allt eðlilegt fólk taka afleiðingum gjörða sinna.

mbl.is Allar vísbendingar kannaðar
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Hverslags manneskja keyrir á barn og stingur af?

Af vettvangiÞað er dapurlegt að heyra að einhver hafi svo ógeðslegt hjartalag að stinga af eftir að keyra á fjögurra ára barn, en það gerðist þó síðdegis í dag í Reykjanesbæ. Finnst þetta mjög alvarlegt, enda á fólk að bera ábyrgð á gjörðum sínum og standa frammi fyrir því sem það gerir, en ekki sýna þann heigulshátt að láta sig hverfa og barnið liggja eftir stórslasað.

Slysin geta vissulega alltaf gerst, en mér finnst það svo innilega sorglegt að fyrsta hugsun fólks eftir slíkt slys sé að láta sig hverfa af vettvangi. Vonandi mun viðkomandi einstaklingur sjá að sér og taka ábyrgð á sínum verkum og gefa sig fram.

Ef marka má fréttir slasaðist strákurinn í Reykjanesbæ mjög alvarlega. Við færum honum og fjölskyldu öll innilegar batakveðjur.


mbl.is Ók á barn og stakk af
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Dapurleg örlög klámstjörnu

Emily Sander Það er ánægjuefni að lík háskólastelpunnar, sem átti sér litríka fortíð sem klámstjörnu á netinu í fullum blóma, hafi fundist. Mér finnst samt mikill leyndarhjúpur hvíla yfir þessu máli. Ekki virðist dánarorsök liggja fyrir en þó virðast grunurinn beinast að tilteknu fólki ef marka má frétt um málið á vef CNN. Miklar sögusagnir voru í upphafi um þetta mál, eftir að lögreglan ljóstraði upp um fortíð stelpunnar og talið að það tengdist hvarfi hennar.

Skrifaði ég aðeins um þetta í gærkvöldi, það er gott að þær tilgátur sem ég hugleiddi voru ekki ástæður morðsins. En það var ekki óeðlilegt að varpa þeim upp. Í Bandaríkjunum hafa verið framin morð sem tengjast klámi og t.d. hafa raðmorð verið framin á vændiskonum og klámstjörnum, svo að ekki var óvarlegt að íhuga þann möguleika. Virðist þetta fyrst og fremst vera harmleikur án tenginga í klámheiminn á netinu sem stelpan var í.

Lykilatriði í að leysa þetta mál var að finna líkið. Þrátt fyrir að sagt hafi verið að hið tvöfalda líf sé ekki lykilþáttur málsins eru margar spurningar enn til staðar. Vonandi fæst þeim svarað.

mbl.is Lík bandarískrar háskólastúdínu talið fundið
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Hamingjusama hóran hverfur

Hamingjusama hóran Það er áhugavert að lesa fréttir af hvarfi bandarísku háskólastelpunnar sem átti sér annað og dekkra líf en að lesa skólabækur og reikna stærðfræði á kvöldin, var klámstjarna í fullum blóma. Það er mikið fjallað um það vestanhafs hvað hafi orðið af henni, hvort að þessi stjörnubransi hafi jafnvel kostað hana lífið. Vont er ef satt er.

Víst er að mál hennar er varla einstakt. Það er samt sorglegt að heyra svona sögur, þó hún gerist vissulega í fjölmennu landi á borð við Bandaríkin. Hann er harður þessi bransi netklámsins og ekki komast allir lifandi í gegnum hann. Vonandi verður hægt að koma í veg fyrir að hún hafi hlotið ill örlög.

Þessi saga er kannski ekki einstök en vekur okkur öll vonandi til meðvitundar um hvað netklámsheimurinn er harður og ógnvekjandi.

mbl.is Háskólastúdína lifði tvöföldu lífi
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Pabbapössun í Hagkaup

Mér finnst það mjög sniðugt hjá Hagkaup að opna sælureit fyrir karlmenn sem þola ekki búðaferðir í nýjustu versluninni í Holtagörðum. Þetta er gert að erlendri fyrirmynd, hefur lukkast mjög vel þar og því varla undrunarefni að íslenskar verslanir byrji með þetta. Það eru ekki allir sem hafa farið í búð sér til skemmtunar, oft eru það karlmenn sem eiginlega verða að fylgihlut eiginkvenna sinna í slíkum ferðum og hafa ekki gaman af að versla. Þarna er væntanlega það vandamál leyst. Það verður reyndar áhugavert að sjá hvort að þetta verði í öllum verslunum Hagkaups fyrr en varir.

Þarna verður hægt að lesa dagblöðin, kíkja á boltann og annað efni. Það er eflaust réttast að kalla þetta pabbapössun, enda segir mér svo hugur að það verði helst heimilisfeður þessa lands sem verði fastagestir þarna. Margir þeirra eru eins og illa gerðir hlutir í verslunarleiðangri en losna nú við það að taka þátt í því, geta beðið verslunarferðina af sér. Þetta er mjög sniðug lausn á vanda þeirra sem fara í búð sem vandræðalegir fylgihlutir og hafa satt best að segja engan áhuga á því. Held að þetta verði nefnilega mikið notað.

Það er mjög langt síðan að svokölluð krakkahorn voru sett í verslanir þar sem börnin gátu beðið verslunarferðina af sér og samt haft gaman af því að fara, enda voru foreldrar argir yfir betlistandi barnanna og krakkarnir hundfúlir með það hversu lengi verslunarferðin stóð. Bæði foreldrar og börn sátt á eftir. Nú geta fylgihlutir verslunariðkenda farið í sælureit sinn og beðið ferðina af sér. Skynsamlegt og gott - þetta verður eflaust vinsæll reitur í verslunarferðinni fyrir fjölda fólks.

mbl.is Pabbar í pössun í Hagkaupum
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Dýrkeypt kvöldverðarfíaskó hjá Glitni

Lárus Welding Þeir hljóta að hafa verið einmana þeir hundrað sem mættu í glæsikvöldverðinn hjá Glitni um daginn. Það hefur þó verið bót í máli að ekki hafa þeir þurft að kvarta yfir að fá ekki nóg af mat. Hvað ætli þessi kvöldferðarmistök hafi annars kostað Glitni. Þarna var á boðstólum besti matur sem hægt er að fá og nóg af eðalborðvínum. Þetta varð meira og minna allt afgangs. Ætli að starfsfólkið í eldhúsinu hafi fengið eitthvað að borða eftir vaktina?

Þetta er nú eitt stærsta fíaskó sem maður hefur séð lengi. Það er nú eitt það pínlegasta að bjóða til veislu og gleyma að láta fólkið sem maður vill að mæti vita um veisluhöldin. Það er fátt ömurlegra en að sitja einn og yfirgefinn yfir veisluföngum, dýrum mat og veglegum drykkjum. Dýrkeypta hafa mistökin altént verið. Þetta hlýtur að vera altént ein dýrasta matarveisla ársins á hvern matargest.

Aumingja Lárus og co í Glitni. Þeir klikka varla á svona formsatriðum héðan í frá.

mbl.is 100 starfsmenn Glitnis í mat fyrir 500
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Bobby Fischer lagður inn á spítala

Bobby Fischer Bobby Fischer, fyrrum heimsmeistari í skák, hefur verið lagður inn á sjúkrahús í Reykjavík. Þjáist hann af nýrnaveiki en ennfremur af geðrænum vandamálum sem hafa sligað hann, ef marka má sögusagnir. Það hefur giska lítið farið fyrir Bobby þau tvö ár sem hann hefur verið íslenskur ríkisborgari og eftir að hann kom til Íslands úr japanskri fangavist.

Það hefur reyndar komið mér að óvörum hvað Bobby hefur verið lítið sýnilegur okkur landsmönnum þessi tvö ár. Þegar að hann kom hingað í kastljósi fjölmiðla og með umdeildum hætti með einkaþotu Baugs í beinni útsendingu Stöðvar 2 áttu flestir von á að hann yrði áberandi þátttakandi í samfélaginu og léti mikið á sér bera. Hvöss ummæli hans í garð bandarískra yfirvalda á leiðinni til Íslands og á blaðamannafundi eftir "heimferðina" gáfu allt tilefni til þess að fólk hér teldi að sú yrði raunin. Í stað þess hefur hann sest algjörlega í helgan stein.

Það er leitt að heyra ef Bobby á við erfiðleika að stríða, andleg og líkamleg veikindi. Hann hefur vissulega gengið í gegnum margt á sinni ævi, lifað hátt og aldrei hikað við að vera áberandi. Hann er kannski að upplifa enn einn kaflann á ævigöngunni, hver veit. Vonandi mun honum heilsast vel og hann fá bót sinna meina.

Skelfilegt slys - myndbirtingar

Suðurlandsvegur Það er sorglegt að heyra af enn einu umferðarslysinu á Suðurlandsvegi, þar sem vörubíll og fólksbíll rákust á. Það er öllum vel kunnugt að tvöfalda verður þessa miklu hraðbraut milli Reykjavíkur og Selfoss - vonandi verður af því mjög fljótlega. Um 60 manns hafa látið lífið í umferðinni á Suðurlandsvegi frá árinu 1972.

Það sem mér finnst jafnan einna sorglegast við fréttir af dapurlegum slysum í umferðinni er að sjá sjálfan vettvang slyssins í fjölmiðlum; myndir af bílflökum og aðrar þær sorglegu aðstæður sem þar jafnan birtast. Stingur mig að sjá enn einu sinni strax komna mynd af slysstað. Þetta gerist mjög oft t.d. hérna á fréttavef Morgunblaðsins.

Myndbirtingar af vettvangi umferðarslyss þjónar mjög litlum tilgangi, hef aldrei talið það skipta miklu máli að sýna bílflökin. Kannski er það ábending til annarra að svona geti farið í umferðinni, en fyrir þá sem tengjast hinum látnu er þetta særandi myndræn umgjörð um mikinn harmleik.

Veit ekki hvort það er einhver algild regla hjá fjölmiðlum í þessum efnum. Sumir fjölmiðlar eru þó meira áberandi í þessu en aðrir eflaust. Hef séð hjá þeim sumum að þeir birta aðeins staðsetningu slyssins á korti. Það er ágætis nálgun á það finnst mér.

Það er alltaf jafn stingandi að sjá aðstæður umferðarslysa, enda getur aðkoma að svona slysum verið virkilega sjokkerandi og vandséð hvaða erindi þær fréttamyndir eigi í fjölmiðla. Vona að fjölmiðlar fari að hætta slíkum myndbirtingum.

mbl.is Umferðarslys á Suðurlandsvegi
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Hver mun kaupa auglýsinguna í miðju skaupinu?

Páll Magnússon Tekin hefur verið sú nýstárlega ákvörðun að selja mínútu auglýsingapláss inni í miðju Áramótaskaupinu á gamlársdag. Yfirmenn Ríkisútvarpsins munu ekki taka boðum sem eru undir þrem milljónum króna. Aðeins mun verða um að ræða eina auglýsingu í þennan tíma og er hætt við að hörð barátta verði um þetta pláss á einum besta sjónvarpstíma ársins, en væntanlega horfa yfir 90% landsmanna á skaupið á hverju ári.

Þetta eru merkilegar fregnir. Kannski er þetta fyrst og fremst til marks um breytta tíma í Efstaleitinu í útvarpsstjóratíð Páls Magnússonar þar sem dagskrárliðir hafa verið brotnir upp með auglýsingahléum með mun meira áberandi hætti en dæmi hafa verið um. Gott dæmi eru skemmtiþættirnir Útsvar og Laugardagslögin þar sem eru gerð auglýsingahlé oftar en einu sinni í klukkustundarprógrammi. Þetta hefur verið vel þekkt hjá auglýsingastöðvum á borð við Skjá einn en hefur verið að aukast sífellt á Stöð 2 þar sem fólk kaupir sér áskrift dýrum dómum.

Persónulega leiðist mér alveg gríðarlega þegar að þættir eru brytjaðir niður með auglýsingahléi af þessu tagi. Finnst þetta allt í lagi með stöðvar sem maður þarf ekki að greiða fyrir en öllu verra, t.d. á Stöð 2 þar sem borga þarf áskrift dýrum dómum og eins eiginlega í Ríkissjónvarpinu, sem er fjarri því ókeypis stöð. Finnst þetta allavega mjög lítið spennandi. Verst er þetta þó í Næturvaktinni þar sem þátturinn er klipptur í tvennt, við litla hrifningu mína og eflaust fleiri, og plássið væntanlega selt dýrum dómum.

Það segir mér svo hugur að auglýsingaplássið í skaupinu fari á talsverðan pening. Það verður barist um þessar sextíu sekúndur með mikilli hörku. Hver ætli fái það? Veðja á að einhver bankinn fái það. Vona samt að við sjáum ekki smettið á John Cleese aftur á gamlárskvöldi núna. :)

Langar samt að spyrja þá sem lesa; hvernig líst þér á að klippa skaupið í tvennt fyrir auglýsingahlé? Það segir mér svo hugur að þetta verði ekki vinsælt - enda hafa allir vanist því að skaupið sé ein heild án auglýsinga.

Hvernig getur svona gerst?

Það er með ólíkindum að heyra af því að Tryggingastofnun ríkisins hafi greitt út allt að 200 milljónir króna samkvæmt fölsuðum reikningi frá tannlækni á Suðurnesjum. Hvernig getur svona gerst? Það er ekki hægt að spyrja öðruvísi. Ég hélt að það væri eitthvað innra eftirlit sem gæti tekið á svona fölsuðum reikningum og því að það sé ekki hægt að svindla á kerfinu með þessum hætti. Það sem vekur mesta athygli er að um er að tilfelli allt að þrjátíu ár aftur í tímann. Það væri ágætt að fá hið sanna út, þó um síðir sé, og taka á því með viðeigandi hætti.

Einn punktur fréttar Bjargar Evu vekur reyndar meiri athygli en annar, en það er að fjórtán ár séu liðin frá því að grunsemdir vöknuðu um athæfi mannsins. Það er einum of langur tími af vafa og þetta eru það stór mistök að það er ekki hægt að skilja hvernig svona sofandaháttur geti gengið endalaust. Þetta hlýtur því að vera áfellisdómur yfir innra kerfi mála af þessu tagi. Það er ekki hægt að krefjast annars en að tekið verði á vinnuferlum, svo mál af þessu tagi geti ekki komið né heldur gengið svona lengi.


mbl.is Grunur um 200 milljóna króna svik
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Fyrri síða | Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband