Færsluflokkur: Dægurmál

Smáís skelfir fimmtán ára icetorrent strák

Snæbjörn Steingrímsson Þær eru áhugaverðar sögurnar sem ganga af samskiptum Smáís og aðstandenda síðanna sem komu í kjölfar torrent. Sú sem vekur mesta athygli er af fimmtán ára stráknum sem stóð að icetorrent.is og var beygður af Snæbirni og Smáís í dag er honum og foreldrunum var hótað málshöfðun yrði síðunni ekki lokað. Honum var enda tjáð að það væri sama lögbrotið að skiptast á erlendum skrám og þeim innlendu.

Það virðist vera að fimmtán ára strákurinn og foreldrarnir hafi ekki lagt í slaginn við Snæbjörn og Smáís og frekar valið að loka síðunni. Það fylgir reyndar sögunni að foreldrarnir hafi ekkert vitað af vef sonarins og væntanlega orðið eitthvað fjölskyldudrama, enda hefði málshöfðun af þessu tagi væntanlega orðið gegn foreldrunum líka. Þetta er ekki eina dæmið um það að fólk leggi ekki í átök við Smáís og reyni að fjarlægja sig nýju síðunum sem tóku við af torrent. Fannst þessi um fimmtán ára strákinn þó þeirra áhugaverðust.


Smáís ætlar greinilega að elta uppi allar síður sem til staðar eru og leggja þær að velli. Virðist vera til í allan slaginn. Þetta mun væntanlega leiða til þess að farið verður mun frekar í neðanjarðarhernað gegn Smáís en að fólk sé það heiðarlegt að láta nafn fylgja ábyrgð á vefunum. En væntanlega mun stríðið ekkert mildast við það. Smáís virðist til í allan bardagann og ætlar ekki að láta staðar numið við sigur í nokkrum orrustum. Þetta verður langur slagur og greinilegt að þessu er ekki lokið.

Hlakka reyndar mest til að sjá næstu skref í þessum átökum - hvað þeir sem vilja halda úti þessum síðum taki næst til bragðs. Í heildina er þetta erfið barátta fyrir Smáís en það virðist vera að fáir leggi í átök við þá. Það verður reyndar áhugaverðast að sjá hvernig málið gegn Svavari, eiganda torrent.is, fari í desember. Það mun skipta máli fyrir næstu skref átakanna.

mbl.is Hart barist um höfundarréttinn á torrent-síðum
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Er Dalvíkur-Dan bara gerfi-Íslandsvinur?

Dalvík Mér finnst það nú svolítið háðungslegt að það sé nú komið upp að Dalvíkurvinurinn Dan Bornstein hafi aldrei komið til Dalvíkur. Vissulega er ánægjulegt að hann hafi helgað Dalvík sess á Google eins og frægt er orðið, en hinsvegar mjög pínlegt að hann hafi aldrei komið á staðinn, eins og hann fullyrti reyndar sjálfur. Það rýrir fréttina nokkuð og söguna á bakvið snöggfengna frægð Dalvíkur á veraldarvefnum.

En á þessu er samt ofureinföld lausn í sjálfu sér. Svanfríður bæjarstjóri og Júlli Júll, auk fiskidagsteymisins sem þau eru svo vel tengd í, eiga nú bara að taka sig til og bjóða Dan í heimsókn á fiskidaginn mikla í ágúst 2008 og gera eitthvað skemmtilegt móment úr þessu.

Það verður varla vandamál fyrir þá sem halda utan um málin. Það er ekki hægt annað en að bjóða honum í hina rómuðu svarfdælsku fegurð.

mbl.is Dan hefur aldrei komið til Dalvíkur
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Síma- og myndavélafóbía Bjarkar

Björk Guðmundsdóttir Það er óhætt að segja að Björk Guðmundsdóttir hafi ekki farið troðnar slóðir í tónlist sinni. Hún hefur sennilega orðið heimsfræg á því að vera ekki eins og aðrir - fann upp sinn eigin stíl og eigin karakter. Enda hefur það ekki gefið sig vel fyrir íslenskar söngkonur að vera eftirmynd Britney Spears og annarra blondína í tónlistarbransanum, þær hafa bara fallið í skuggann. Björk var ferskur vindblær í íslenska tónlist á sínum tíma og ennfremur á alheimsvettvangi er hún gaf út Debut.

Þó að Björk hafi aldrei verið feimin við að stuða og segja hluti sem falla ekki í kramið hjá öllum fannst mér skemmtilega áhugavert að lesa umfjöllunina um síma- og myndavélafóbíu Bjarkar. Skil svosem alveg að hún sé ekkert sátt við að fólk hugsi frekar um að taka upp tónleikana hennar með síma eða kvikmyndatökuvél en hlusta á tónlistina en hinsvegar finnst mér skýring hennar fyrir fóbíuna þess þá áhugaverðari. Þar virðist hún tala gegn símum og myndavélum beint á þeim forsendum að henni finnist tónlistin sín falla í skuggann vegna þess.

Hélt að flestir tónlistarmenn væru ósáttir við notkun þessara græja vegna þess að þá myndi tónlist þeirra leka út á myndavefi eins og YouTube og aðra slíka. Þess vegna er skoðun Bjarkar, eins og svo oft áður, skemmtilega spes og þess þá áhugaverðari en hin standard-pælingin. Þetta er skemmtilegur tónn hjá Björk - kannski ekta Björk, hver veit.

mbl.is Björk vill fólk en ekki farsíma
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Skjálftahrina við Hveravelli

Hann var heldur betur öflugur skjálftinn sem reið yfir vestur af Hveravöllum í dag, fyrir rúmum klukkutíma - fannst enda mjög vel hér á Akureyri, varð vel var við hann sjálfur, og um meginhluta Norðurlands. Það er alltaf ónotalegt að finna jarðhræringar af þessu tagi og finna hvað landið er lifandi.

Þetta er fyrsti alvöru jarðskjálftakippurinn sem við finnum fyrir hér á Norðurlandi frá skjálftanum 1. nóvember 2006, en hann var líka um fimm á Richter-skala. Nú verður áhugavert að sjá hvað tekur við. Eflaust taka eftirskjálftar við núna - væntanlega misöflugir eins og gengur.

Fróðlegt er að vita hvort að þessi skjálfahrina tengist því sem gerðist á Suðurlandi fyrir viku, er jörð skalf í Árnessýslu og víða um Suðurland.


mbl.is Jörð skelfur við Hveravelli
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Opinská uppljóstrun

Sarah HardingÁ tímum kynlífsbyltingarinnar í nútímanum, þar sem næstum því allt er orðið selt með einhvers konar vísan í kynlíf, tanaða bera kroppa og krassandi lýsingar á unaðssemdum þess vekur sannarlega athygli að sjá hógværar lýsingar, þó allt að því opinskáa uppljóstrun Söruh Harding á gæðum ástalífsins.

Í dag heyrum við svo mikið af krassandi lýsingum að þessi tjáning hennar kemur sem ferskur vindblær, þar sem allt háfleyga blaðrið er tónað niður. Það vekur athygli að sjá konu á borð við Harding tala svo opinskátt einmitt um það að vera sátt við sitt og að hún geri sig ánægða með lífið sem hún á, er ekki að toppa alla aðra með svæsnari lýsingum.

Það er vonandi kominn tími til að stjörnurnar átti sig á því að það þarf ekki að nota svæsnustu lýsingarnar til að ná athygli, enda eru lýsingar á opinskáum álitaefnum orðnar svo krassandi að margir eru hættir að hlusta nema að draga þá smá frá öllu orðagjálfrinu. Þarna kemur kona sem er stolt með sitt og hikar ekki við að segja það. Ekki hægt annað en að bera virðingu fyrir svona þrusukonu.


mbl.is Sarah segir stærðina engu skipta
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Mun Magnús Geir fara í Borgarleikhúsið?

Magnús Geir Það eru vondar fregnir fyrir okkur leikhúsunnendur hér nyrðra að Magnús Geir Þórðarson, leikhússtjóri LA, hafi sótt um leikhússtjórastöðu Borgarleikhússins, enda er ég nærri því viss um að hann fái þá stöðu. Magnús Geir hefur byggt upp leikfélagið hér á Akureyri til vegs og virðingar að nýju, svo vel að eftir hefur verið tekið á landsvísu. Staða LA var skelfileg er Magnús Geir tók við stjórnartaumunum og hann færði því ný tækifæri og farsæla forystu.

Leiksýningar á leikhússtjóraferli Magnúsar Geirs hafa verið með þeim bestu í íslensku leikhúsi. Nægir þar að nefna Fullkomið brúðkaup, Óvita, Ökutíma, Svartan kött, Óliver og Litlu hryllingsbúðina. Öll hafa þessi verk verið metstykki og er svo komið reyndar hér að það stefnir í að leikfélagið muni leika á þrem stöðum í vetur, enda hafa Óvitar slegið öll met og þar hefur verið fullt á allar sýningar og bætt við aukasýningum í hverri viku. Hann hefur líka komið með spennandi vinkla á leikhúsmenninguna hér og hefur eflt menningarlífið mjög með verkum sínum.

Stefnir í að Fló á skinni, næsta sýning, verði sýnd í flugsafninu, þar sem auðvitað verði ekki hætt að sýna Óvita fyrir fullu húsi. Ég tel að við hér fyrir norðan þökkum öll Magnúsi Geir fyrir að hafa leitt þetta starf og staðið sig svo vel sem raun ber vitni. Það verður því sannarlega mikið áfall fyrir okkur ef við missum hann suður yfir heiðar. Ég held að það fari ekki framhjá neinum að Magnús Geir er spútnikk maður í íslensku leikhúsi og það mun enginn hafna kröftum hans. Tel því mjög líklegt að hann fái stöðuna í Borgarleikhúsinu.

Fyrir nokkrum árum var trendið með þeim hætti að bæjaryfirvöld hér spurðu forsvarsmenn leikfélagsins hvað það vantaði mikinn pening til að ná endum saman, væntanlega með ólundarsvip. Nú hefur dæmið snúist heldur betur við og Leikfélagið er spurt hvað það geti grætt mikið á hverju ári, hvað það geti fært okkur mikil tækifæri í menningarlífinu. Þetta starf hefur Magnús Geir leitt. Þannig að það eru engin undur að þeir í Borgarleikhúsinu sjái tækifæri í að fá hann til verka. Það þarf því varla nokkur maður að vera hissa á því að við viljum ekki að hann fari héðan.

mbl.is Magnús sækir um
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Skelfilegt slys

Slysið við Vík Það er sorglegt að heyra af slysinu við Vík í Mýrdal, en það er mildi hversu vel gekk að bjarga manninum sem var í bílnum miðað við allar aðstæður. Þarna sannast hvað við eigum góðar björgunarsveitir, vel æft fólk sem leggur á sig mikla vinnu við að bjarga fólki í háska. Aðstæður voru erfiðar í þessu tilfelli og sláandi alveg að sjá aðstæður á myndum í fréttum í kvöld.

Fyrir það fyrsta er erfitt að koma að svona slysi, enda geta mínútur ráðið úrslitum um hvort vel eða illa fari. Það er líka ekki hægt að leggja í svona björgun illa búinn og langbest að bíða eftir fagfólki. Vonandi mun manninum heilsast vel og ná góðri heilsu sem fyrst.

mbl.is Haldið sofandi í öndunarvél
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Það á ekki af aumingja Paul að ganga....

Paul McCartneyHeld að einn óheppnasti maður ársins hljóti að teljast Sir Paul McCartney, hinn fyrrum lánssami eðalBítill. Ekki aðeins er hann fastur í feni hjónabands með sannkölluðum kvendjöfli sem heimtar morðfjár af honum til að fá skilnaðinn í gegn heldur er hann í harðri forræðisdeilu við konuna. Nú eru skoðanir hans á refaveiðum heldur betur að elta hann uppi á viðkvæmum tíma.

Það eru eitthvað um 40 ár síðan að bítillinn Paul samdi og söng lagið When I´m 64. Lagið var um lífið er aldrinum væri náð og hugleiðingar um tilveruna. Fyrir skömmu náði hann sjálfur þessum merka áfanga að verða 64 ára. Það verður seint sagt að afmælisárið og misserin eftir það hafi verið markað af gleði og ánægju. Hans er helst minnst núna af harðvítugum skilnaðarátökum, forræðisdeilu, yfirráðum yfir peningum sínum og mannorðinu, sem konan ætlar að leggja í rúst.

Sérstaklega var sláandi að heyra að Heather kvendjöfull hefði tekið upp samtöl sín og bítilsins. Hún hefur hinsvegar verið að gera út af við sig með fáránlega absúrd fjölmiðlaframkomum. Hún kann varla að skammast sín einu sinni og líkir sér við dýrlinga og kvenhetjur og talar gegn þeim sem lifa fyrir peninga - á meðan berst hún fyrir allt að sex milljörðum úr búi bítilsins.

Jamm, aumingja Palli.


mbl.is Paul McCartney fékk ekki að lenda
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Gleymd hljómsveit og skjannahvít hörmung

Ég hélt satt best að segja að Take That væri búin að geispa golunni, hún er ein þeirra hljómsveita sem ég hef lítinn áhuga á. Þessir strákasöngflokkar eru orðnir ansi þreyttir, hverjir muna annars ekki eftir böndum á borð við Westlife (horror!) eða Boyzone og hvað þetta heitir annars allt. Skelfileg tónlist, segi ég og skrifa.

Er annars ekki sammála Howard Donald um kannabis-efni. Þau á ekki að lögleiða. Það eru fyndnustu rök Donalds annars að með því væri heimurinn betri, allir í vímu og hátt uppi. Rökin verða allavega ekki háfleygari.

mbl.is Take That í eiturlyfjum
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Viljum við að löggan hér taki upp taser-byssur?

Taser-byssa
Þrír hafa látist á undanförnum vikum í Kanada eftir að þeir voru stuðaðir með taser-byssu. Þetta er sama vopn og íslenska lögreglan vill taka upp hérlendis. Mér finnst þessar fréttir af láti fólks sem hefur verið stuðað mjög sláandi, enda er þetta einum of mikið af dauðsföllum í einu vegna sömu aðstæðna til að útilokað verði að rafstuðbyssan leiki ekki lykilþátt í dauða þeirra.

Taser er að mínu mati mjög kuldalegt vopn, sem mér finnst æ oftar vera talað um að sé notað á fólk. Það er vopn sem mér finnst mjög ómannúðlegt. Tilhugsunin um að íslenska lögreglan fari að beita því á fólk sama hversu stór tilefnið sé á vettvangi finnst mér ekki góð og fær mig til að hugsa um á hvaða leið við erum eiginlega. Mér finnst það mannleg grimmd að beita þessu vopni og við hljótum að hugsa okkar við að sjá fréttir erlendis frá af dauða fólks sem hefur verið stuðað.

Það þarf að hugleiða mjög alvarlega hvort að íslenska lögreglan eigi að fá þetta vopn í hendur. Finnst það ekki gleðileg tilhugsun, fjarri því. Hvað segið þið - viljið þið að íslenska löggan sé vopnuð taser?


« Fyrri síða | Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband