Færsluflokkur: Dægurmál

Rússíbanalíf Erics Claptons

Eric Clapton Það verður ekki um það deilt að Eric Clapton er einn besti tónlistarmaður síðustu áratuga, goðsögn í lifanda lífi. Hann var hinsvegar ekki beint dýrlingur á æskuárum sínum. Sögusagnir af líferni hans hafa jafnan verið skrautlegar og almenningur haft á því mikinn áhuga. Hann hefur hinsvegar þroskast mikið í gegnum lífið og eiginlega varla hægt að trúa því að sami maður hafi sungið bæði Cocaine og Tears in Heaven. Andstæðurnar í tónlist hans verða varla meiri að mörgu leyti.

Clapton hefur verið goð sinnar kynslóðar og að svo mörgu leyti annarra. Auðvitað ekki vegna lífstílsins, heldur umfram allt tónlistarinnar. Annars held ég að saga allra rokkgoða á hans skeiði sé mörkuð óreglu og háleitu líferni, þar var lifað hátt og lifað lifandi. Öll munum við eftir Hendrix, Morrison, Joplin, Jagger og svona mætti lengi telja. Sögurnar af líferni Presleys og Bítlanna hafa líka þótt áhugaverðar. Þetta var bara standardinn á þessum tíma.

Aldrei hefur Clapton þó snortið mig og eflaust fleiri meira en þegar að hann samdi og söng hið undurljúfa lag sitt Tears in Heaven - þar braust rokkgoðið harða og ákveðna allt að því fram með tárin í augunum og samdi kveðjuóð til sonar síns, Connors, sem hafði látist með sorglegum hætti í New York. Þar fór lífsreyndi rokkarinn með tilfinningar, eins og við öll, en líka faðirinn með ábyrgðartilfinninguna sem hafði boðskap fram að færa - talaði hreint út, lét tilfinningarnar koma óhikað. Og lagið er einstakt.

Annars er erfitt að nefna bestu lög Claptons, en þau sem koma helst í huga mér eru lög á borð við; Layla, Tears in Heaven, Crossroads, Bellbottom Blues, Have You Ever Loved A Woman, Badge, Cocaine, I Shot the Sheriff, My Father´s Eyes, Change the World, Old Love og Wonderful Tonight. Allt perlur rokksögunnar að sínu leyti, minnisvarði um rokkgoð.

Clapton lifði í rússíbana árum saman, öll vitum við það. Það er ekkert nýtt að koma fram í þessari frétt. En hann er einn þeirra sem hefur samið hrátt og sterkt eftirminnileg lög, sem þekja allan skalann, eru eftirminnileg, ekkert síður en karakterinn á bakvið lögin.

mbl.is Áhrifaríkt kynlíf Claptons
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Eru tölvuleikir stórhættulegir?

Það var áhugavert að lesa frásögn Njáls Harðarsonar af tölvuleikjum og heiminum bakvið þá, í 24 stundum, sem geta leitt til erfiðrar fíknar. Það má deila um hvort sé verra í raun að ánetjast dópheiminum eða innilokuðum heimi tölvuleikjanna. Bæði er vont á sinn hátt. Finnst það gott hjá Njáli að koma fram og segja þessa sögu. Hún á sannarlega erindi við nútímann, enda held ég að það séu mjög margir sem eru háðir tölvuleikjunum.

Eflaust fylgir þessu engin aldursmörk, ef marka má Njál og son hans t.d. Heyrst hefur að krakkar sem eru háðir tölvuleikjum mæti illa í skóla og nái ekki að skila því af sér sem ætlast er til þeirra. Þetta er hættuspil enda getur þetta haft samverkandi þætti sem fara illa með fólk. Allavega er ljóst að Njáll er ekki að segja þessa sögu því honum finnst það skemmtilegt. Þetta er eitthvað sem hefur farið illa með marga og lokað þá hreinlega af frá samfélaginu.

Þegar að ég var unglingur voru tölvuleikirnir að koma, samt ekki af þeim þunga sem nú er. Missti því að mörgu leyti af þessu skeiði. Hef aldrei verið hrifinn af svona leikjum og sleppt því alveg að stúdera þá. En ég hef heyrt af mörgum sem hafa farið illa á þessum heimi. En flestir rata þeir til baka, enda fá þeir hreinlega leið á þessum heimi eftir vissan tíma. Eins gott kannski.

mbl.is Sonurinn flúði úr heimi fíkniefna í heim tölvuleikja
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Vopnuð ránstilraun á Dominos-stað í Spönginni

Vopnuð ránstilraun var gerð á pizzastað Dominos í Spönginni í kvöld, en hún fór út um þúfur. Talið er að unglingspiltar hafi verið að verki. Innan við vika er liðin frá því að sextán ára piltar rændu söluturn í Reykjavík til þess eins að eiga fyrir ljósakortum og ýmsu öðru. Um var að ræða íbúa í hverfinu, viðskiptavini söluturnsins. Komust piltarnir í Spönginni undan og er þeirra leitað núna. Þeir voru vopnaðir loftbyssu, ef marka má fréttir.

Þessi ránsalda vekur vissulega margar spurningar. Það er nokkuð sláandi staðreynd ef það er að verða trendið að unglingspiltar séu farnir að ræna t.d. söluturna og veitingastaði til að eiga fyrir nauðsynjum, að þeirra mati. Það er sérstaklega vont ef þeir eru vopnaðir að verki og reyna að stæla ræningja í kvikmyndum og þáttum, telja framtíð í slíkum afbrotum.

Það er kannski það besta við þetta að strákarnir sem ætluðu að ræna Dominos höfðu ekkert upp úr krafsinu.


Verður dagskráin betri á Skjá einum?

Sigríður Margrét Oddsdóttir Það er athyglisverð nálgun hjá Skjá einum að reka starfsmenn sem starfa við innlenda dagskrárgerð og ætla að kaupa hana frekar að utan úr bæ. Vonandi verður dagskráin þar betri við það. Mér hefur fundist dagskráin á Skjá einum dalað allverulega síðustu misserin og hef æ oftar stillt á hana. Fyrstu árin var mikið af fínum þáttum; t.d. er Sirrý var með þáttinn sinn, Fólk, og Egill Helgason með Silfrið þar, svo fátt eitt sé nú nefnt.

Fyrir nokkrum árum var Skjár einn mjög vinsæll valkostur hjá mér, enda þar bæði góðir innlendir þættir sem og ágætis erlendis framhaldsþættir. Oft ansi góð blanda af fínu efni. Innlend dagskrárgerð Skjás eins hefur ekki verið neitt spes síðustu misserin. Sumir þættir eru svosem ágætir, en engin stórmerkileg snilld svosem. Það vantar meiri dýnamík hjá stöðinni eigi hún einfaldlega að halda þeirri stöðu sem hún hefur haft árum saman, verða áfram áberandi í bransanum.

Annars hefði ég svosem ekki trúað því fyrir nokkrum árum er Sigríður Margrét Oddsdóttir vann hér fyrir norðan hjá Gallup og Ráðgarði að hún ætti eftir að enda sem yfirmaður á einni af lykilstöðvunum í íslensku sjónvarpi, verða eftirmaður hins litríka Magnúsar Ragnarssonar. En sú varð nú raunin. Hún virðist þó mun frekar sjá um reksturinn en látið öðrum dagskrárpakkann eftir, enda er hún varla mikill sérfræðingur í þeim efnum.

Skjár einn á sér vonandi gott líf framundan. Hún hefur öðlast sess sem ein af bestu einkareknu sjónvarpsstöðvunum, hefur sess í samfélaginu sem slík. Vonandi mun dagskráin þar batna með þessum hrókeringum og áherslubreytingum, en ekki verða einsleitari og lélegri en nú er.

mbl.is 13 starfsmönnum sagt upp á Skjánum
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Norðlensk fegurð klikkar ekki

Herrar Íslands Það er alltaf ánægjulegt þegar að norðlensk fegurð er verðlaunuð. Hún varð sannarlega sigursæl í keppninni Herra Ísland að þessu sinni. Ekki aðeins vann Ágúst Örn Guðmundsson, herra Norðurland, keppnina, heldur varð Dalvíkingurinn Matthías Örn Friðriksson í þriðja sætinu, en hann varð annar í keppninni hér fyrir norðan. Þetta er glæsilegur árangur hjá þeim félögum.

Það hefur lengi verið deilt um hvort keppa eigi í fegurð. Femínistar hafa verið mjög andvígir þessa keppnisforms og sagt það niðurlægjandi. Sérstaklega snýr sú gagnrýni að keppni í fegurð kvenna, en minna hefur farið fyrir gagnrýni á karlakeppnina. Finnst þetta bara allt í góðu lagi, enda er það ákvörðun hvers og eins er fer í þessar keppnir að gera það. Út úr þessu hafa komið mörg góð tækifæri fyrir viðkomandi, sem er ánægjulegt í alla staði.

Persónulega hef ég aldrei haft neitt á móti fegurðarsamkeppnum. Mér finnst að þetta sé val einstaklinganna sem taka þátt hvort þeir gera það eður ei. Þeir sem vilja keppa gegn öðrum með fegurð sinni eiga að hafa frelsi til þess. Í mínum huga er þetta einfalt mál.

Óska Ágústi og Matta til hamingju með góðan árangur í keppninni. Já, norðlenska fegurðin hún klikkar sko ekki.

mbl.is Herra Ísland stefnir á háloftin
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Óhugnaður í brasilísku fangelsi

Bakvið lás og slá Það er ekki hægt annað en fyllast óhug við að heyra af fimmtán ára stúlkunni sem komið var fyrir í fangaklefa í Brasilíu með tveim tugum karlmanna og það í rúman mánuð. Maður hefði haldið að óhugnanlegt mannréttindabrot af þessu tagi þekktist ekki í upphafi 21. aldarinnar og það í landi sem maður hefði getað talið eðlilegt samfélag, en ekki kúgað af einræði eða mannréttindabrotum. Þetta hlýtur að teljast mjög dökkur blettur á réttarkerfinu í Brasilíu.

Það eitt að stelpa sé lokuð inni í klefa með fjölda manns í einn dag er stóralvarlegt mál, en að það standi í yfir mánuð er svo lygilegt að óhugnanlegt telst. Það var varla við öðru að búast en að harðsvíraðir glæpamenn sem eru lokaðir af með fimmtán ára stelpu misnoti hana í bak og fyrir. Lýsingarnar á þessu máli eru allavega óhugnanlegar og getur varla farið öðruvísi en einhver verði dreginn til ábyrgðar í þessu dapurlega máli. Það á ekki að vera eðlilegt að fara svona með börn.

Það gildir einu hvort stelpan hafi brotið af sér en það þarf algjöran dómgreindarbrest til að dæma hana til vistar með karlmönnum í lokuðu rými allan þennan tíma. En þetta er óhugnaður af því tagi að öllu siðmenntuðu fólki gjörsamlega ofbýður. Það er til skammar að svona gerist á okkar dögum.

mbl.is 15 ára stúlka sett í fangaklefa með 20 mönnum
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Sálfræðilegar flækjur lífsins

Þær eru margar athyglisverðar smáu fréttirnar í litrófi mannlífsins um allan heim. Ein þeirra er af þessari bandarísku stelpu sem hafði um fimm kíló af hári í maganum. Það er alveg skelfilegt þegar að sálfræðilegar flækjur fólks koma fram með þeim hætti að það valdi sér skaða og eða geri eitthvað til að pína sig. Fyrir okkur sem lifum hinn venjulega hversdagslega dag er alltaf sláandi að lesa svona fréttir og heyra af erfiðleikum fólks koma fram með ólíkum hætti.

Þessi stelpa er eflaust ekkert einstakt tilfelli, en hún verður það þó fyrir okkur sem lesum þessa frétt. Það er það versta að margir sem þjást af sálfræðilegum erfiðleikum hafa ekki styrk og kraft til að leita aðstoðar við vanda sínum, þó fullorðið sé orðið. Það er gott að tekist hafi að hjálpa þessari stelpu.

mbl.is Með 4,5 kílóa hárvöndul í maganum
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Kemst Whitney af botninum og aftur á toppinn?

Whitney HoustonÞað verður ekki um það deilt að Whitney Houston er ein af bestu söngkonum bandarískrar tónlistarsögu síðustu áratugina, sennilega mesta efni sinnar kynslóðar; sönn stjarna sem hitti í mark. Whitney varð enda gríðarlega vinsæl, átti smelli sem hafa lifað og komst á tindinn. Frægðarstjarna hennar skein eflaust skærast á níunda áratugnum og framan af þeim tíunda. Hún náði að skáka heimsþekktum söngkonum af vinsældalistum og er heitasta tónlistarstjarna sinnar kynslóðar í Bandaríkjunum.

En öllu gamni fylgir nokkur alvara er yfir lýkur. Glampinn slokknaði allsnarlega er Whitney lenti í viðjum dópdjöfulsins sjálfs í kjölfar eiginmannsins Bobby Brown og barðist við fíknina auk þess sem sviðsljósið varð á samband hennar við eiginmanninn, sem margir hafa talið þann sem eyðilagði tónlistarferil hennar á sínum tíma. Persónulegir erfiðleikar Whitney hafa verið alþjóðlegt fjölmiðlaefni nú árum saman og eiginlega sorglegt að sjá hvernig fór fyrir henni. Sjálf tók hún líka rangar ákvarðanir og hafði ekki það sem þurfti til að byggja sig upp aftur. 

Það vakti t.d. mikla athygli þegar að Whitney slaufaði sig út úr kvikmyndasöngatriði Burt Bacharach á óskarsverðlaunahátíðinni á aldamótaárinu, þar sem margar vinsælustu söngstjörnur seinni ára komu saman og tóku lagið. Whitney átti upphaflega að verða eitt af stærstu númerum atriðsins og Burt hafði valið henni nokkur lög til að syngja, þar á meðal óskarsverðlaunalagið úr A Star is Born. Hún mætti illa og stundum alls ekki á æfingar. Burt rak hana úr atriðinu með eftirminnilegum hætti og skarð hennar var fyllt af Queen Latifah og frænku hennar, Dionne Warwick, sem kom fram eftir áralanga fjarveru og söng lagið úr Alfie.

Whitney hefur ekki bara verið söngkonan fræga. Hún reyndi líka fyrir sér í kvikmyndum með frekar tilþrifalitlum hætti. Flestir muna eftir kvikmyndinni Bodyguard, sem átti að vera stórt móment hennar sem leikkonu, þar sem Whitney lék á móti Kevin Costner, söngstjörnu í viðjum morðhótana frá aðdáenda sínum. Whitney söng þar, eftirminnilega, eitt þekktasta lag tónlistarferils country-stjörnunnar barmabústnu Dolly Parton, I Will Always Love You, í nýrri útsetningu og gaf því nýtt líf fyrir yngri kynslóðir. Auk þess lék hún í kvennamyndinni Waiting to Exhale og The Preacher´s Wife (við hlið Denzel Washington).

Það verður áhugavert að sjá hvort að Whitney geti aftur náð á toppinn. Það er ekki öllum gefið að snúa aftur eftir áralanga sambúð með Bakkusi og vandræðum dópfíkninnar. En á móti kemur að Whitney er goðsögn í bandarískri tónlistarsögu, ein vinsælasta söngkona tónlistarsögu Bandaríkjanna. Ef henni tekst ekki að snúa aftur þarf Britney Spears ekki einu sinni að reyna fyrir sér framar.


mbl.is Whitney Houston snýr aftur
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Ógeðslegt

Það er jafnan ógeðslegt að heyra fréttir af misnotkun fólks á dýrum. Held þó að þessi frétt af hundinum sem var nauðgað í Arizona í Bandaríkjunum slái öll met ógeðsins. Það er ótrúlegt að nokkur einstaklingur sé svo innilega ruglaður að misnota dýr til kynferðislegra athafna, en það virðist vera að sífellt reyni á óeðlið í manneskjunni. Sem betur fer heyrum við ekki af svona ógeði hérna heima, en þess þá frekar heyrist af því að dýr séu vannærð og illa um þau hugsað, sem er sérlega dapurlegt í sjálfu sér.

Hef satt best að segja ekki hugmynd um hvort að kynferðisleg misnotkun fólks á dýrum sé algeng. Ætla þó rétt að vona að svo sé ekki. Þessi frétt sýnir þó hvað er mikið sjúku fólki til, enda þarf verulega sjúkan huga til að koma svo ógeðslega fram við dýr.

mbl.is Grunaður um að hafa nauðgað hundi
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Stangarstökkskona vill verða karlmaður

Yvonne Buschbaum Ég held að það komi engum að óvörum að Yvonne Buschbaum skipti um kyn. Hún hefur alla tíð verið mjög karlmannleg og vakið mikla athygli á stórmótum fyrir framkomu sína. En það hlýtur að vera mjög stór ákvörðun að hætta keppni á vettvangi íþróttanna og halda þaðan beint í kynskiptiaðgerð sem breytir lífinu að eilífu. En það er ákvörðun hvers og eins að taka slíkt skref og getur enginn annar sett sig í dómarasæti með það.

Hef samt aldrei skilið hvernig fólk getur tekið þá ákvörðun að fara í aðgerð af þessu tagi. Þetta er mikið skref og þaðan verður ekki aftur snúið. Það er samt eflaust uppgötvun að átta sig á því að manneskja finni sig ekki í kynhlutverki sínu. Það hefur vakið mikla athygli hér heima þegar að fólk tekur slíka ákvörðun en sumir þeirra hafa ekki lagt í að fara alla leið og halda í aðgerðina sem breytir lífinu að eilífu.

Það er vonandi að Yvonne verði fyrst og fremst sátt við sjálfa sig og taki ákvörðun sem hún telur rétta. Það verður hver og einn að taka ákvörðun um líkama sinn og hvernig hann eigi að vera.

mbl.is Keppinautur Þóreyjar Eddu skiptir um kyn
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Fyrri síða | Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband