Mun Magnús Geir fara í Borgarleikhúsið?

Magnús Geir Það eru vondar fregnir fyrir okkur leikhúsunnendur hér nyrðra að Magnús Geir Þórðarson, leikhússtjóri LA, hafi sótt um leikhússtjórastöðu Borgarleikhússins, enda er ég nærri því viss um að hann fái þá stöðu. Magnús Geir hefur byggt upp leikfélagið hér á Akureyri til vegs og virðingar að nýju, svo vel að eftir hefur verið tekið á landsvísu. Staða LA var skelfileg er Magnús Geir tók við stjórnartaumunum og hann færði því ný tækifæri og farsæla forystu.

Leiksýningar á leikhússtjóraferli Magnúsar Geirs hafa verið með þeim bestu í íslensku leikhúsi. Nægir þar að nefna Fullkomið brúðkaup, Óvita, Ökutíma, Svartan kött, Óliver og Litlu hryllingsbúðina. Öll hafa þessi verk verið metstykki og er svo komið reyndar hér að það stefnir í að leikfélagið muni leika á þrem stöðum í vetur, enda hafa Óvitar slegið öll met og þar hefur verið fullt á allar sýningar og bætt við aukasýningum í hverri viku. Hann hefur líka komið með spennandi vinkla á leikhúsmenninguna hér og hefur eflt menningarlífið mjög með verkum sínum.

Stefnir í að Fló á skinni, næsta sýning, verði sýnd í flugsafninu, þar sem auðvitað verði ekki hætt að sýna Óvita fyrir fullu húsi. Ég tel að við hér fyrir norðan þökkum öll Magnúsi Geir fyrir að hafa leitt þetta starf og staðið sig svo vel sem raun ber vitni. Það verður því sannarlega mikið áfall fyrir okkur ef við missum hann suður yfir heiðar. Ég held að það fari ekki framhjá neinum að Magnús Geir er spútnikk maður í íslensku leikhúsi og það mun enginn hafna kröftum hans. Tel því mjög líklegt að hann fái stöðuna í Borgarleikhúsinu.

Fyrir nokkrum árum var trendið með þeim hætti að bæjaryfirvöld hér spurðu forsvarsmenn leikfélagsins hvað það vantaði mikinn pening til að ná endum saman, væntanlega með ólundarsvip. Nú hefur dæmið snúist heldur betur við og Leikfélagið er spurt hvað það geti grætt mikið á hverju ári, hvað það geti fært okkur mikil tækifæri í menningarlífinu. Þetta starf hefur Magnús Geir leitt. Þannig að það eru engin undur að þeir í Borgarleikhúsinu sjái tækifæri í að fá hann til verka. Það þarf því varla nokkur maður að vera hissa á því að við viljum ekki að hann fari héðan.

mbl.is Magnús sækir um
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband