Færsluflokkur: Dægurmál

BMW hits the rocks

BMW Stoltari bifreiðaeigendur í hópi vina minna þekki ég varla en þá sem eiga BMW-merkta glæsikerru. Þeir hreykja honum allir nær undantekningalaust mjög vel, eru stoltir af sínu merki út í eitt. Enda eflaust rétt að BMW sé með betri merkjum, traustur bíll sem gerir sitt fyrir eigendur sína - reynist vel hvort sem veðrið er gott eður ei.

Þeir hljóta að vera súrir með að sjá myndina af BMW sem fylgir þessari frétt, glæsikerruna í grjótinu. Ekki skemmtileg sjón. Það er óhætt að segja að þeir félagarnir sem keyrðu á bílnum á Húsavík geti prísað sig sæla með að hafa sloppið svona vel. Mildilega sloppið miðað við allar aðstæður.

Annars finnst mér oft merkilegt hvað menn hefjast upp við það eitt að tala um bíla, hversu uppveðraðir menn geta orðið. Á eftir að upplifa þann pakka.

mbl.is BMW í grjótinu
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

16 ára ræningjar í reykvískum söluturni

Það er frekar sláandi að heyra að ræningjarnir í reykvíska söluturninum hafi allir verið aðeins sextán ára gamlir, fæddir árið 1991, sem sagt nýbúnir að ljúka tíunda bekk í grunnskóla. Þeir voru vopnaðir exi og kylfu og voru með grímu yfir andlitinu - ræningjar að alþjóðlegri fyrirmynd. Það er mikið á sig lagt greinilega til að komast yfir peninga, eitthvað um eða yfir áttatíu þúsund, og einhvern slatta af sígarettum. Það var ránsfengurinn ef marka má fréttir.

Það er frekar nöpur staðreynd að sextán ára strákar séu farnir að stunda vopnuð rán, með bandarískri fyrirmynd kvikmynda og hinna ótalmörgu ribbaldasjónvarpsþátta, til þess eins að fá pening og tóbak. Veit ekki á hvaða leið við erum. Vandamálin í samfélaginu okkar eru mörg og skuggahliðarnar verða sífellt sýnilegri. Þegar að fylgst er með fréttum af vopnuðum ránum og hnífstungum á vinnustað er spurt á hvaða leið við séum.

Erum við kannski á góðri leið með að verða eins og þrjú hundruð þúsund manna samfélag í úthverfi bandarískrar stórborgar?


mbl.is Fjórir handteknir í tengslum við rannsókn á vopnuðu ráni
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Hvað er að gerast í samfélaginu?

Það er ekki nema von að fólk spyrji sig að því hvað sé eiginlega að gerast þegar að maður leggur til vinnufélaga síns með hnífi, vill ráða honum bana. Sannarlega árás með kuldalegum hætti. Það er eiginlega ekki undrunarefni að maður hugsi við að lesa svona fréttir á hvaða leið samfélagið okkar sé eiginlega. Er virðingarleysið orðið algjört? Því miður er ekki hægt annað en hugsa á þeim forsendum. Hvers vegna gerist svona nokkuð nema að eitthvað stórlega sé að. Þetta er grimmd og mannvonska af verstu sort. Það þarf svosem ekkert að rökstyðja það frekar.

Svona fréttir eru napur vitnisburður þess hvernig samfélagið er orðið að mörgu leyti. Það er vond þróun sem birtist í svona tíðindum allavega.

mbl.is Lagði til vinnufélaga síns með hnífi
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Dapurleg tíðindi

Það er alveg sorglegt að fylgjast með fréttum af brunanum í Stærra Árskógi, hér út með firði. Þar eru öll útihús brunnin, en nýlega var byggt við þau og allt tekið í gegn. Það er sannarlega bót í máli að eldurinn komst ekki í íbúðarhúsið, en skaði þeirra sem búa á bænum er mikill. Það er samt skelfilega kaldhæðnislegt að þessi eldsvoði komi upp á þessum degi, þar sem bálhvasst er og erfitt við að eiga. Það var aldrei neinn möguleiki á að bjarga þessum útihúsum í því veðri sem var í dag og það hlýtur að vera kuldalegra en veðrið fyrir ábúendur að sjá allt brenna.

Það er ungt og öflugt fólk sem býr á þessum bæ og hefur byggt upp af myndugleika síðustu árin. Það hefur verið tekið eftir því hversu dugleg þau hafa verið og þau hafa tekið búið nær alveg í gegn að undanförnu og verið að standa sig vel. Það er vonandi að þau nái að byggja sig upp úr þessari öskustó fljótt og vel. En áfallið er mikið, sérstaklega fyrir fólk sem missir með þessu bæði lifibrauð sitt og vinnustað í einu vetfangi.

mbl.is Fjölmargir nautgripir dauðir - tugmilljóna tjón á Stærra Árskógi
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Klipið í klof og brjóst á Kaffi Akureyri

Kaffi Akureyri Um fátt var rætt meira í vikunni en ákvörðun eiganda skemmtistaðarins Kaffi Akureyri að úthýsa hópi Pólverja fyrir að ónáða kvenkyns viðskiptavini. Skiptar skoðanir voru á málinu, meira að segja kom fulltrúi Alþjóðastofu hér á Akureyri með þann kostulega punkt að þetta væru óþarfa fordómar í garð innflytjenda. Eftir að ég skrifaði um þetta mál í vikunni fékk ég tölvupóst frá fullt af konum héðan frá Akureyri sem sögðu ýmsar lýsingar af því hvernig þessir Pólverjar komu fram.

Einkennist það helst af því að þeir klipu bæði í klof og brjóst sumra kvenna sem fóru á skemmtistaðinn og voru með kynferðislegt áreiti fyrir utan það. Í ljósi þess að þessi hópur hagar sér eins og hellisbúar sem aldrei hafa verið innan um fólk áður, eru óheflaðir ruddar þarf varla að teljast undrunarefni að gripið sé til þess ráðs að úthýsa þeim. Það er ekki gott fyrir ímynd þessa skemmtistaðar að svona stemmning sé uppi, en altalað hefur verið lengi að þessi hópur hafi gengið mjög langt gegn konum sem sækja staðinn.

Mér finnst þetta því eðlileg ákvörðun. Allt tal um að eigandinn sé með innflytjendafordóma er auðvitað bara út í hött. Hann er fyrst og fremst að hugsa um þá sem sækja staðinn. Ef fólk getur ekki hagað sér almennilega, þó undir áhrifum sé og haldist á siðsamlegu plani, verður þeim úthýst. Þetta eru skýr skilaboð og varla hægt að gera athugasemdir við það mat eigandans. Eins og vel hefur komið fram hefur íslenskum karlmönnum verið úthýst þarna svo að innflytjendastimpillinn heldur ekki vatni.

Held að Birgir Torfason og hans fólk á Kaffi Akureyri hafi klárað þetta mál með sóma og líka sett þann standard að geti menn ekki skemmt sér almennilega og látið vera að ráðast að konum með óviðeigandi hætti sé þeim úthýst.

Leikið sér með tilfinningar viðkvæms fólks

Það er mjög dapurlegt að heyra harmræna sögu Megan Meier og hvernig leikið var sér með tilfinningar hennar svo að endaði með að Megan svipti sig lífi. Held að þetta sé skólabókardæmi um það hvernig getur farið þegar að fólk spilar með viðkvæmt fólk, þegar að viðkvæmasti strengurinn brestur. Verð þó að viðurkenna að ég hafði ekki heyrt þessa sögu áður, eins sorgleg og hún er. Held að þetta sé dökkasta hliðin á myspace-menningunni sem þarna kemur fram.

Það er nú ljóst að sá sem skráði sig inn sem Josh og lék sér að aumingja stelpunni var nágrannadóttir í götunni sem Megan bjó, stelpa sem hafði orðið sundurorða við Megan einhverra hluta vegna. Tölvuheimurinn er því miður orðinn þannig að þegar að einstaklingur skráir sig á myspace getur það endað í tengslum við fólk sem það þekkir ekki og engin trygging er fyrir því að sá sem skrifar sé raunveruleikapersóna eða uppspuni út í gegn.

Í þeim nútíma sem við lifum í er afgerandi skuggahliðar á Netinu. Þetta mál er bara eitt þeirra mála þar sem netsamskipti hafa farið út í svo alvarlegar áttir að endar með sjálfsmorði. Held að þetta sé þó það allra sorglegasta. Það er ábyrgðarhluti að leika sér að tilfinningum annarra, við vitum heldur ekki hvort sá sem skrifar á öðrum endanum er viðkvæmur eður ei.

Það er ekki hægt annað en að hafa samúð með foreldrum hennar, sem verða að lifa með þeirri staðreynd að dóttir þeirra dó vegna þess að nágrannafólk þeirra ætlaði að hrekkja hana og hafa af því stundargaman. En viðkvæmasti strengurinn brást á örlagastundu. Þetta er sorgarsaga sem er skólabókardæmi um napran nútimaveruleika.

mbl.is Stúlka fyrirfór sér eftir að hafa verið göbbuð á netinu
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Er lögreglan að lýsa eftir nauðgara?

Eftirlýstur maður Það vekur athygli að lögreglan auglýsi með myndbirtingu sérstaklega eftir manni í tengslum við mál í rannsókn, án þess þó að upplýst hvert tilefnið sé. Kjaftasagan á götunni er þó sú að löggan sé að lýsa eftir nauðgara, það getur varla annað verið fyrst að farið er þessa leið.

Man varla eftir svona áður, reyndar var þó auglýst með mynd eftir strákum í ársbyrjun vegna mjög alvarlegrar líkamsárásar í Reykjavík á nýársnótt, en þeir voru grunaðir um að hafa ráðist á tvo menn í Garðastræti. Gáfu þeir sig sjálfir fram.

Það er gefið sterklega í skyn í yfirlýsingu lögreglu að hinn eftirlýsti sé erlendur að uppruna. Það vantar fjölda bita í þetta púsl en eðlilegt er að fólk spyrji sig spurninga um málið. En þetta er greinilega mjög alvarlegt mál í alla staði.

Þó myndin sé óskýr og erfitt að greina hver þetta er munu vonandi berast upplýsingar sem leiða lögregluna á sporið.

mbl.is Lögreglan lýsir eftir manni vegna máls í rannsókn
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Verðskuldaður heiður Sigurbjörns Einarssonar

Hr. Sigurbjörn Einarsson Það er mikill sómi af því að herra Sigurbirni Einarssyni, biskup, hafi verið veitt verðlaun Jónasar Hallgrímssonar. Það er sannarlega verðskuldaður heiður. Sigurbjörn hefur alla tíð talað kjarnyrta íslensku til þjóðarinnar úr predikunarstól og ritað bækur og íhuganir sem lifa með þjóðinni. Hann er einn áhrifamesti maðurinn í sögu íslensku þjóðkirkjunnar.

Segja má að Sigurbjörn Einarsson sé í senn ennfremur merkasti Íslendingur 20. aldarinnar og áhrifamesti predikari þjóðarinnar frá upphafi kristni á Íslandi. Áhrif hans innan kirkjunnar eru óumdeild; sem kennari við guðfræðideild Háskóla Íslands og biskup Íslands í tvo áratugi mótaði hann kynslóðir presta og varð andlegur leiðtogi í huga landsmanna allra.

Sigurbjörn er einn þeirra manna sem hafa þá náðargáfu að tala af visku og kærleika svo að fólk hlustar. Það er þjóðinni mikilvægt að eiga andlegan leiðtoga á borð við hann. Hann nálgast tírætt og ber aldurinn vel, er mjög vel ern. Sigurbjörn hefur markað sér þau áhrif sem mest má meta og hann mun njóta virðingar þjóðarinnar svo lengi sem menn minnast hans og trúarlegra starfa hans.

Það er að ég tel leitun að þeim mönnum sem merkari skref munu skilja eftir sig eftir sinn dag. Því er þessi heiður svo verðskuldaður. Ég óska Sigurbirni til hamingju með verðlaunin.

mbl.is Sigurbjörn Einarsson hlaut verðlaun Jónasar Hallgrímssonar
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Tapað - fundið

Ragnar Bragason Það er gott að Ragnar Bragason hefur fundið Edduverðlaunin sín. Það hefði verið frekar ömurlegt fyrir sigurvegara hátíðarinnar að enda jafntómhentur og var fyrir verðlaunaafhendinguna; tapa leikstjóraverðlaununum t.d. til einhvers manns úti í bæ. Annars gæti nú varla verið að einhver vilji skreyta híbýli sín með Edduverðlaunum annars fólks.

Það er reyndar ekki furða að gárungarnir grínist með að það sé ekkert sérstakt að vinna Edduverðlaun. Sumir eiga orðið svo margar að hillurnar heima eru sneisafullar af þeim. Ingvar E. Sigurðsson hefur t.d. unnið fimm Edduverðlaun á innan við áratug fyrir leik í aðalhlutverki og sumir eiga svipaðan fjölda. Það sem mér fannst þó verst við verðlaunin síðast var hvað þau voru einsleit. Ein mynd tók næstum öll verðlaunin og spennan var ekki mikil. Kannski er of stutt milli hátíða, hver veit.

Það er auðvitað staðreynd að við erum með kvikmyndaverðlaun í samfélagi þar sem í mesta fimm til sex kvikmyndir eru gerðar á ári, það er sjaldan sem meira af efni kemur fram allavega. Svo eru sjónvarpsþættir tilnefndir sem hafa verið stuttan tíma í útsendingu og sumt efni fer beint í tilnefningaferlið. Mér fannst sumir tilnefningaflokkarnir að þessu sinni stórundarlegir. Það hvernig litið var framhjá Astrópíu vakti mesta athygli, en svo var bara tilnefnt fyrir leikstjórn í henni. Leikstjórn fyrir hvað er eðlilegt að spyrja, fyrst myndin fær ekki fleiri tilnefningar en hana.

Eðlilegri tímasetning á verðlaunin væri á svipuðum tíma og Óskarsverðlaunin vestanhafs; í febrúar eða mars. Þá er verið að gera upp heilt ár og sjónvarpsefnið hefur verið lengur í umræðunni en örfáar vikur. En kannski er samfélagið svo lítið að við erum með eina stóra klíku. Það að Guðný Halldórsdóttir fékk engin verðlaun vakti t.d. athygli, ef undan eru skilin verðlaun Jörundar Ragnarssonar fyrir túlkun sína á Samma í Veðramótum.

Enn vandræðalegri bragur verður annars á hátíðinni ef verðlaunahafarnir gleyma verðlaunagripunum á djamminu og auglýsa svo opinberlega eftir þeim.

mbl.is Týndi tveimur Eddum
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Mengella dauð - hulunni svipt af upprunanum

Jæja, þá er hin umdeilda Mengella, sem vakið hefur mikla athygli í netheimum, dauð. Hefur verið áhugavert að fylgjast með dauðateygjum þessa karakters síðustu dagana, þar til kom að nafnbirtingunni. Hún kemur þó ekki sem stórfrétt, enda var Gísli Ásgeirsson búinn að nafngreina Mengellu í ágúst og hitti þar naglann á höfuðið. Það var mjög mikið rætt þá en síðan einhvern veginn lognaðist það út af, en kraumaði samt undir niðri. Nýlegar nafnbirtingar þeirra sem áttu að standa að vefnum voru umdeildar, en flestir þeirra höfðu ekkert með síðuna að gera.

Segja má að endalokin hjá Mengellu komi eftir að 24 stundir fór að grafast fyrir um uppruna karaktersins og hét því að fólk kæmi með upplýsingar. Í staðinn fyrir að hlaupa frá 24 stundum er gengið frá aumingja Mengellu. Segja má þó að þessi leikur hafi gengið ótrúlega lengi. Það er samt ekki hægt að segja að Mengella sé einstök, enda er fullt af nafnlausu bloggi í gangi og sumir ganga lengra en aðrir. Talað hefur verið um Mengellu sem rotþró bloggsamfélagsins. Eflaust er það rétt, enda getur fólk gengið svo miklu lengra undir nafnleynd en ella væri gert.

Þetta er reyndar í fyrsta skipti sem ég skrifa um Mengellu, merkilegt nokk. Nokkrum sinnum tók ég eftir því að viðkomandi penni vék orðum að mér á bloggsíðu sinni. Það var svosem algjörlega mér að meinalausu. Með bloggskrifum mínum er ég fyrst og fremst að sinna áhugamáli mínu og tjá mig um mál málanna. Er þó varla einstakur, enda er ég bara einn þúsunda sem blogga hérlendis. Þeir lesa bara sem vilja og þeir sem þola ekki skrifin geta gert eitthvað annað, vonandi eitthvað annað þó en nöldra sig gráhærða yfir bloggsíðunni. 

Mengella var smátíma einhver brandari en gamanið var farið að kárna. Mörgum var nóg boðið og greinilegt var að nafnleyndin var að mást af og þetta var hætt að vera fyndið í huga æ fleiri einstaklinga. Því fagna eflaust flestir því að þessi karakter hafi verið blásinn af - fengið náðarhöggið.

« Fyrri síða | Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband