Færsluflokkur: Dægurmál
14.8.2007 | 17:23
Boli hent út af Moggablogginu?
Þetta bloggsvæði er í einkaeigu. Þar gilda reglur og þar er standard yfir. Rjúfi menn grunnskilmálana hér geta þeir átt von á að lenda í því að lokað sé á þá. Þetta er ekki bloggkerfi án reglna og skilmála. Eins og í flestum samfélögum eru þar viss grunnur og það er skýrt hvernig það allt er hér. Ég treysti þeim hér á Moggablogginu til að stjórna þessum vettvangi með heiðarlegum hætti og standa vörð um að hér sé viss standard á umgjörðinni.
Það er auðvitað svo með opin bloggkerfi að þar safnast saman ólíkt fólk, með ólíkar aðferðir til að tjá sig. Flestir hér eru mjög málefnalegir og hafa góðar bloggsíður. Skilaboðin sem hafa verið send héðan, t.d. eftir frægt mál Emils Ólafssonar, eru þau að þetta samfélag er ekki stjórnlaust og þar er tekið á vandamálum að mati stjórnenda.
Þegar á hólminn kemur skiptir það mestu máli; að þetta bloggsamfélag haldist öflugt. Hér eiga allir sín tækifæri til að skrifa. Það má vel vera að flestir bloggarar hér hafi ólíkar skoðanir og aðferðir við að tjá sig. Mestu skiptir að haldast málefnalegur og geta rætt hlutina með heiðarlegum hætti. Án þess er ekkert vit í hlutunum.
Dægurmál | Breytt s.d. kl. 17:36 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (24)
13.8.2007 | 22:11
Simon Cowell slekkur á stjörnuglampa ungstirnis
Allt frá því að ég sá fyrst American Idol fyrir eitthvað um fimm árum síðan hef ég átt erfitt með að þola Simon Cowell. Skapköst hans hafa verið umtöluð og annaðhvort dýrkar fólk karakterinn eða gjörsamlega hatar hann út af lífinu, held ég. Hef oft spáð í hvernig að meðdómurum hans, Paulu Abdul og Randy Jackson, gangi að umbera hann. Simon er talin ein helsta stjarna þáttanna og fær fúlgur fjár fyrir dómarastörfin þar og í öðrum útgáfum ýmissa söngkeppna.
Fyrir nokkrum vikum bræddi hin sex ára Connie Talbot hug og hjörtu sjónvarpsáhorfenda í Bretlandi og víðar um heim þegar að hún söng undurljúft hið gamalkunna úrvalslag Somewhere Over the Rainbow, sem Judy Garland gerði ódauðlegt í hinni einstöku The Wizard of Oz, fyrir um sjötíu árum og hlaut óskarinn sem besta kvikmyndalagið á óskarsverðlaunahátíðinni árið 1940. Lagið varð lykillag á litríkum ferli Judy og markaði feril hennar. Connie sló í gegn með laginu en tókst þó ekki að vinna Britain´s Got Talent og tapaði fyrir Paul Potts sem söng Nessun Dorma með bravúr.
Nú hefur Simon eftir því sem fréttir herma svikið ungstirnið um stjörnuframann sem hann hafði lofað henni. Þetta er frétt sem víða hefur farið um helgina og í dag. Þessi frétt getur varla talist til frægðarauka fyrir Bretann skapmikla. Þó svo að Connie hafi ekki tekist að vinna keppnina stóð hún að mörgu leyti upp sem sigurvegari, ekki síður en Paul Potts og heillaði fólk með frammistöðu sinni. Þessi frétt um að Simon hafi slökkt á glampanum sem hann lofaði stelpunni er með hreinum ólíkindum að flestra mati. Eins og fram kemur í fréttinni eiga foreldrar stelpunnar eftir að segja henni stöðu mála. Varla verður það auðvelt.
Það verður fróðlegt að sjá hversu lengi American Idol og þessir helstu þættir sem þeim fylgja munu halda áfram frægðargöngu sinni. Hér heima vorum við með Idol um skeið á Stöð 2 en í fyrra voru X-Factor þættirnir settir á í staðinn. Þeir verða ekki í vetur í því formi sem var á síðasta ári og mér skilst að ekki verði söngkeppni með sama brag hér heima lengur, þ.e.a.s. að farið verði um landið og nýjir talentar uppgötvaðir. Formúlan virðist ganga betur úti, enn sem komið er.
Vil annars minna á að Over the Rainbow, í flutningi Judy Garland, og Nessun Dorma, í flutningi tenóranna þriggja; Domingo, Carreras og Pavarotti, eru hér í tónlistarspilaranum.
![]() |
Simon Cowell sveik sex ára gamla stúlku |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Dægurmál | Breytt s.d. kl. 22:18 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (2)
13.8.2007 | 13:25
Jón Sigurðsson heldur til starfa í HR
Það eru þrír mánuðir liðnir frá því að Framsóknarflokkurinn varð fyrir sögulegu kosningaafhroði og Jón Sigurðsson sagði af sér formennsku í flokknum eftir að honum mistókst að ná kjöri á þing og hann lét af ráðherraembætti þegar að tólf ára líftíma ríkisstjórnar Sjálfstæðisflokks og Framsóknarflokks lauk. Mikið hefur verið hugleitt hvert leið hans myndi liggja síðan. Nú er biðlaunatíma Jóns að ljúka og hann að halda í nýjar áttir.
Samkvæmt fréttum mun leið hans liggja nú í Háskólann í Reykjavík þar sem hann mun sinna ýmsum verkefnum og sinna kennslu. Er það afturhvarf á gamlar slóðir, en eins og flestir vita var hann í áraraðir stjórnandi skólans á Bifröst og leiddi hann inn á háskólastigið. Jón fórnaði öruggri bankastjórastöðu við Seðlabankann fyrir rúmu ári fyrir að taka við Framsóknarflokknum og iðnaðar- og viðskiptaráðuneytinu við lok stjórnmálaferils Halldórs Ásgrímssonar. Áhættan varð dýrkeypt. Afhroði var ekki umflúið og hann komst ekki í kjörið embætti.
Það verður fróðlegt að sjá hvað hann muni nákvæmlega taka sér fyrir hendur í Háskólanum í Reykjavík og hver kennslufög hans muni verða. Þetta afturhvarf til kennslunnar og verkefna í menntageiranum koma eflaust mörgum að óvörum, enda kannski frekar einhverjir talið að Jón vildi sækjast eftir öðrum verkefnum.
Dægurmál | Breytt 23.9.2007 kl. 13:47 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (2)
12.8.2007 | 22:11
Skapmikil stjarna sem hefur gaman af að stuða

Jolie þýðir fögur, það er réttnefni á Angelinu sem þykir með fögrustu konum kvikmyndaheimsins. Hún hefur enda verið kyntákn alla tíð. Miðnafnið Jolie er því ekki ættarnafn, heldur er ættarnafn hennar Voight, enda er faðir Angelinu óskarsverðlaunaleikarinn Jon Voight sem var einn af þekktustu leikurum sinnar kynslóðar, og hlaut óskarinn fyrir eftirminnilega túlkun á lamaða hermanninum í Coming Home, manninum sem kemur heim lamaður frá Víetnam. Jolie og Voight hafa ekki talað saman í ein fimm ár vegna ágreinings.
Jolie hefur átt erfitt síðustu mánuði. Það eru nokkrir mánuðir síðan að móðir hennar, leikkonan Marcheline Bertrand, lést úr krabbameini og auk þess hefur stjarnan sokkið sér ofan í góðgerðarstarf um allan heim, einkum í Asíu, en hún er sem kunnugt er góðgjörðarsendiherra Sameinuðu þjóðanna þar. Hún hefur með því hlutverki fetað í fótspor margra þekktra leikara, t.d. Audrey Hepburn sem var mannréttindatalsmaður alla tíð samhliða leikferlinum og var í sama hlutverki og Jolie er eiginlega nú. Jolie hefur sinnt hlutverkinu vel og gott dæmi er að hún dvaldi um jólin 2005 á hörmungarsvæðunum í Asíu þar sem flóðbylgjurnar skullu á nokkru áður.
Áhyggjur eru víst uppi um það að vinnan sé að sliga leikkonuna. Hún bæði borði og sofi of lítið og heilsan sé ekki í forgrunni. Nýlegar myndir sýna að hún er grönn eins og spýtufjöl. Það verður fróðlegt að sjá hvað gerist. Þetta er skapmikil og ákveðin kona sem er ekki vön að láta karlana í kringum sig stjórna sér. Gott dæmi er um það hvernig að samskiptum hennar og föðurins lauk með hvelli fyrir nokkrum árum og hún lét Billy Bob Thornton gossa þegar að hann var farinn að skipta sér of mikið af hennar málum. Ekki er nú langt síðan að talað var um erfiðleika hjá Jolie og Brad Pitt.
Annars hefur jafnan verið sagt um stjörnurnar að þær séu skapmiklar. Ætli Angelina Jolie sé ekki gott dæmi um það.
![]() |
Angelina fórnaði ærslunum |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Dægurmál | Breytt s.d. kl. 22:56 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
12.8.2007 | 11:47
Glæsilegt hjá Dalvíkingum
Fiskidagurinn mikli á Dalvík var stórvel heppnaður að þessu sinni eins og áður. Vel á fjórða tug þúsunda einstaklinga voru á Dalvík í gær. Svo vel gekk að aðeins eitt atvik er í fréttum eftir helgina sem leiðinlegt telst að einhverju leyti. Að öðru leyti virðist allt hafa farið vel fram og gengið mjög vel. Það telst gott miðað við allan mannfjöldann sem var staddur á Dalvík.
Held að flestallir sem fóru á fiskidaginn hafi farið þaðan glaðir í hjarta og ánægðir með daginn. Þessi hátíð er mikil rós í hnappagat Dalvíkinga og þeim til mikils sóma. Þeir geta verið stoltir með helgina. Þetta er glæsilegt í einu orði sagt. Þarna tóku heilu fjölskyldurnar saman höndum og unnu alla helgina, buðu heim í mat og byggðu upp notalega stemmningu. Það er mikið mál að halda svona bæjarhátíð svo vel sé og allt verður saman að smella til þess. Það leikur enginn vafi á því að þetta er bæjarhátíð eins og þær gerast bestar.
Einn helsti aðall hátíðarinnar er að þar er allur matur ókeypis. Ég heyrði einhversstaðar að á annað hundrað þúsund matarskammta hafi verið grillaðir og yfir tíu tonn af sjávarfangi hafi verið borðað. Það segir allt sem segja þarf um umfang hátíðarinnar. Fiskidagurinn mikli er kominn til að vera. Það sanna vel viðtökur landsmanna við deginum og góð skipulagning heimamanna sem leggja sig alla í verkefnið. Ég þakka kærlega skipuleggjendum og aðstandendum hátíðarinnar fyrir að veita okkur góða og ánægjulega skemmtun.
![]() |
Fjölmenni á Fiskideginum mikla |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Dægurmál | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
11.8.2007 | 17:20
100 dagar liðnir - hvað varð um Madeleine?
200.jpg)
Það er merkilegt að nú eftir alla þessa daga og fáar sýnilegar vísbendingar um hvað gerðist að kvöldi fimmtudagsins 3. maí, kvöldið sem Madeleine hvarf að talið berst að hlut foreldranna. Að mörgu leyti er það í miklum dularhjúpi og margir hafa velt því fyrir sér hvernig foreldrarnir gátu skilið dóttur sína eftir á hótelherberginu og framganga þeirra síðan hefur verið eitt stórt spurningamerki. Ljóst er að portúgalska lögreglan vann málið allt of hægt í upphafi og klúðraði væntanlega rannsókninni á upphafsstigi. En hlutur foreldranna hefur ekki síður verið til umræðu en þeirra.
Það segir sig sjálft að eftir hundrað daga hvarf manneskju verður umræðan um hvort að hún sé látin mjög hávær. Þess eru þó dæmi að fólk finnist eftir svo langt hvarf, hafi það verið numið á brott, en þau eru grátlega fá í raun og veru. Svo virðist sem portúgalska lögreglan telji líklegast að Madeleine sé látin. Það er að mörgu leyti ekki óvarlegt mat miðað við stöðu málsins eftir allan þennan tíma. Klúður lögreglunnar er þó mikið og verður aldrei framhjá því litið. Fyrir nokkrum dögum fannst blóð í hótelherbergi McCann-hjónanna. Það er auðvitað kostulegt að það finnist svo seint, enda gæti verið um stórtíðindi í málinu að ræða.
Spurningarnar um framgöngu foreldranna verða æ meira áberandi. Það yrðu athyglisverð endalok ef þau yrðu kærð fyrir vítaverða vanrækslu, eins og fram kemur í fréttinni. Þetta er að mörgu leyti athyglisvert mál. Það er mikilvægt að á það fáist einhver endir. Það verður skelfilegt fari það svo að Madeleine finnist aldrei og aldrei verði ljóst hvað gerðist fyrir 100 dögum.
Fjölmiðlar fjalla enn um málið með sama hætti og var fyrstu vikuna. Hef fylgst talsvert með því íá bresku fréttastöðvunum. Auðvitað vilja þeir fylgja eftir því sem gerðist og reyna að fá svör. Það vilja allir sem fylgjast með. Eftir því sem hver dagur líður aukast þó líkurnar á því að Madeleine sé látin. Vonin minnkar sífellt.
Það er hin napra staðreynd allra mála af þessu tagi, líka þessu auðvitað.
![]() |
Lögreglan segir mögulegt að Madeleine McCann sé látin |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
11.8.2007 | 00:25
Fiskisúpustemmning í vinakeðju á Dalvík
Það var gaman að fara úteftir aðeins í kvöld þó að stutt hafi stoppið svosem verið. Það er virkilega notalegt að sjá hversu vel heimamönnum hefur tekist að byggja þennan dag upp með öllu því sem til þarf. Stemmningin er miklu meiri en fyrir ári og hátíðin heldur sífellt áfram að vaxa undir forystu Júlla Júll. Þar hefur verið unnið af krafti árum saman og öllum ljóst að hátíðin er rós í hnappagat bæjarbúa útfrá. Held að fáum sem störtuðu þessum hátíðarhöldum fyrir sex árum hafi í raun órað fyrir því að svo vel myndi ganga sem raun ber vitni.
Vináttukeðja var mynduð á Dalvík í kvöld og þar tók mikill fjöldi þátt. Frú Vigdís Finnbogadóttir, fyrurm forseti, og Karl Sigurbjörnsson, biskup Íslands, fluttu ræður í kirkjunni fyrir athöfnina við vinastundina úti. Það var ánægjulegt að sjá þennan merkilega atburð. Fyrr í dag var fyrsta skóflustungan tekin að menningarhúsi Dalvíkinga við Ráðhúsið. Eins og flestir vita ákvað Sparisjóður Svarfdæla að færa íbúum Dalvíkurbyggðar menningarhúsið að gjöf í febrúar. Við þá athöfn flutti Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir, menntamálaráðherra, ávarp. Missti ég af þeirri athöfn en það hefur væntanlega verið gleðileg stund.
Þetta var skemmtileg kvöldstund á Dalvík. Fiskidagurinn mikli hefur gert mikið fyrir Dalvík. Þetta er auðvitað öflug bæjarhátíð. Þar er allur matur og öll skemmtun að mestu ókeypis. Sannkölluð gleðistund. Það geta mörg sveitarfélög lært mikið af því sem Dalvíkingar hafa gert til góðs með þessari hátíð, sem er sannkallaður yndisauki í mannlífið hér í firðinum á hverju ári. Þar eru allir velkomnir og engin hlægileg aldurstakmörk. Þar gleðjast allar kynslóðir saman.
![]() |
Vináttukeðja og friðardúfur á Dalvík |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Dægurmál | Slóð | Facebook | Athugasemdir (4)
10.8.2007 | 19:21
Fjölmenni á Dalvík - glæsilegt framtak
Á morgun verður Fiskidagurinn mikli haldinn á Dalvík í sjöunda skiptið. Sú hefð hefur skapast að á öðrum laugardegi í ágústmánuði er haldin þessi glæsilega bæjarhátíð við höfnina á Dalvík. Fiskidagurinn hefur tekist með eindæmum vel þau sex ár sem hann hefur áður verið haldinn. Árið 2001 komu um 7.000 manns á hátíðarsvæðið, 2002 um 15.000, 2003 um 23.000, 2004 rúmlega 25.000, 2005 voru þeir 30.000 og í fyrra rúmlega 35.000 manns.
Mikið fjölmenni, yfir 10.000 manns, er þegar komið til Dalvíkur og stefnir í skemmtilega fiskidagshelgi nú rétt eins og hin fyrri árin. Enn ein hefðin hefur skapast í kringum fiskidaginn en það er súpukvöldið nú daginn fyrir fiskidaginn. Það er skemmtilegt upphaf að hátíðinni og góð hefð sem með því er komin til sögunnar. Í kvöld opna íbúar í rúmlega 40 íbúðarhúsum í Dalvíkurbyggð heimili sín fyrir gestum og gangandi. Þeim er boðið upp á súpu og virkilega notaleg stemmning skapast. Það var mjög ánægjulegt að fara í fyrra labbitúr um bæinn og kynna sér það sem var að gerast og verður gaman í kvöld. Allsstaðar er fólki tekið með höfðingsskap, því boðið upp á góðan mat og notalegt andrúmsloft.
Ég bjó í nokkur ár á Dalvík og á þar góða vini, bæði frá árunum í skólanum þar og svo fólk sem ég kynntist í gegnum lífið og tilveruna. Allt alveg yndislegt fólk og það er gott að maður á góðar tengingar þangað - það finn ég alltaf vel þessa helgi sem þessi bæjarhátíð er. Það er svo margt fólk sem vill að maður komi í heimsókn og vill ræða við mann og metur mann mikils. Það er ómetanlegt. Allsstaðar hitti ég fólk á hátíðinni sem maður þekkir og það er jafnan um margt að spjalla, suma hittir maður alltof sjaldan og aðrir eru traustir vinir sem maður er reglulega í sambandi við.
Fiskidagurinn mikli er kominn til að vera, það er engin spurning. Þetta er auðvitað glæsilegt framtak, enda mikil þörf á því að heiðra sjávarútveginn með þessum hætti og borða ljúffengar afurðir úr matarkistu hafsins. Helst er þó gaman að hitta góða félaga og eiga góða stund. Það hefur svo sannarlega tekist á Dalvík á þessum degi að byggja upp yndislega stemmningu og greinilegt á þeim fjölda sem þarna hefur komið saman seinustu árin að fólk skemmtir sér konunglega í góðu veðri og hefur gaman af.
Bendi lesendum að sjálfsögðu á heimasíðu Fiskidagsins mikla og kynna sér dagskrá og atburðina um helgina. Að lokum vil ég auðvitað hvetja alla, sem eiga tök á því, til að skella sér til Dalvíkur á morgun og njóta lífsins og yndislegrar stemmningar þar.
![]() |
„Ótrúlegt mannhaf “ á Dalvík |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Dægurmál | Breytt s.d. kl. 19:26 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (1)
9.8.2007 | 12:58
Kærar þakkir
Það var mjög athyglisvert að sjá skrif Fréttablaðsins um þessa vefsíðu fyrr í vikunni. Mér fannst þau skrif fyrir neðan allar hellur og eiginlega til skammar fyrir blað af þessari stærðargráðu. Þessi vefsíða fór ekki í neitt persónulegt sumarfrí til sólarhressingar, heldur vegna þess að alvarleg veikindi voru í fjölskyldu minni og ég hafði einfaldlega ekki styrk til að standa í miklum skrifum. Það er eitt skref að horfast í augu við alvarleg veikindi foreldris, annað að halda áfram á sama krafti og ég tók einn pakkann í einu í því öllu saman.
Það er mjög merkilegt að sjá hvernig að Fréttablaðið amast þar við því að ég skrifi bloggfærslur út frá fréttum Morgunblaðsins á mbl.is. Þetta væl er farið að fara vægast sagt verulega í taugarnar á mér. Morgunblaðið býður upp á það að bloggað sé út frá fréttum. Það er valkostur fyrir alla bloggara, ekki bara mig. Ef blaðamaður Fréttablaðsins ætlar að gefa í skyn að ég kóperi fréttir og segi aldrei skoðanir mínar eða eigin hugleiðingar á atburðum samfélagsins vil ég vísa því algjörlega á bug sem óhróðri.
Mér fannst þessi skrif ekki til sóma Fréttablaðinu og hugleiði hvað búi að baki þeim. Fréttablaðið vil ég ekki sjá eftir þessi skrif og hef gefið það vel til kynna. Blað af svo skítlegri breiddargráðu er ekki velkomið inn á mitt heimili.
2.8.2007 | 15:27
Bloggfrí
Ég hef ekki verið í miklu skriftarstuði síðustu dagana. Alvarleg veikindi í fjölskyldu minni hafa gert það að verkum að ég er ekki í miklu stuði. Ætla að taka mér smá bloggfrí á næstunni. Held að það sé ágætur leikur.
Dægurmál | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)