Færsluflokkur: Dægurmál
20.8.2007 | 20:48
Frábært grillsumar

Í gær smakkaði ég grillað hreindýrakjöt. Hafði aldrei prófað það áður með þeim hætti. Það var algjörlega frábært og kom mjög vel út. Það er alltaf gott að prófa eitthvað nýtt. Hinsvegar hefur það verið fínt síðdegis að taka þann valkostinn að grilla hamborgara eða pylsur eða fá sér grillað lamba- eða svínakjöt. Þetta klikkar aldrei og er notaleg og góð eldamennska. Skemmtileg tilbreyting frá öðru.
Það kemur ekki að óvörum að á svo góðu sumri sé metsala á kjöti á grillið. Mér skilst að metsala hafi verið víða. Til dæmis heyrði ég fréttir af því um daginn að allt grillkjöt hefði selst upp hjá Norðlenska og gósentíð hefur væntanlega verið þar eins og annarsstaðar í sumar. Þetta er enda besti valkosturinn á fögru sumarkvöldi og eðlilegt að gott sumar þýði um leið gott grillsumar.
![]() |
Segja nýliðinn júlí besta grillmánuð Íslandssögunnar |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Dægurmál | Slóð | Facebook | Athugasemdir (3)
20.8.2007 | 15:01
Metnaðarfull innlend dagskrá í vetur
Í Morgunblaðinu í dag er farið yfir hvað sé framundan og greinilegt að þeir sem vilja njóta skammdegiskvölds við sjónvarpið verða ekki sviknir. Virðist einvalalið vera við stjórnvölinn á öllum póstum og þættirnir fjölbreyttir. Silfur Egils er auðvitað að fara yfir til Ríkissjónvarpsins frá og með þingbyrjun og Egill Helgason mun stýra nýjum bókmenntaþætti. Nýr lista- og menningarþáttur undir stjórn Þorsteins J. hefst bráðlega, spurningakeppni verður um allt land á milli sveitarfélaganna, veglegur laugardagsþáttur með Eurovision-brag og leiknar sjónvarpsþáttaseríur.
Það sem verður mest spennandi að sjá er hvort að endursýna eigi meira af gömlu efni. Það er öllum ljóst að Sjónvarpið á veglegt safn af úrvalsefni og væri ekki verra að fá að sjá eitthvað af því, t.d. gömul leikrit, viðtöl og skemmtiþætti. Það er öllum ljóst að lykilatriði þess að ríkið reki sjónvarp sé hvort að þar sé innlend dagskrárgerð og innlent efni af ýmsu tagi áberandi. Það virðist vera að með vetrardagskrá Sjónvarpsins sé ný stefna mörkuð og afgerandi meira af innlendu efni. Það er því verið virkilega að marka það mun frekar sem sjónvarp allra landsmanna með því.
Persónulega hlakkar mér mjög til að sjá bókmenntaþátt Egils Helgasonar. Það er þörf á svona þætti og mikilvægt að hlúa vel að bókmenntaumfjöllun og væntanlega verður þetta áhugaverður þáttur með góðum bókapælingum af ýmsu tagi. Það verður fróðlegt að sjá Silfur Egils á nýjum vettvangi og ekki síður nýjan lista- og menningarþátt. Ætla rétt að vona að þar fáum við vandaða kvikmyndaumfjöllun, en hún hefur verið af einum of skornum skammti undanfarin ár.
Fyrst og fremst virðist spennandi vetur framundan og áhugavert að sjá hversu vel einkareknu stöðvunum gangi að keppa við ríkisrekna risann sem virðist hafa nóg af peningum til að stokka upp sín mál og gera vandaða dagskrá.
![]() |
Innlend dagskrárgerð efld |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Dægurmál | Slóð | Facebook | Athugasemdir (2)
19.8.2007 | 01:30
Aron Pálmi losnar úr prísundinni

Sá fyrir nokkrum árum viðtalsþátt fyrir Aron Pálma. Það má sannarlega segja að hann hafi farið á mis við margt vegna þessa dóms sem hefur eyðilagt mörg bestu ár hans og hlýtur að hafa haft lamandi áhrif á persónu hans eiginlega. Það var greinilegt af viðtalinu að Aron Pálmi leið mjög illa sem eðlilegt má teljast í þessari stöðu og það var mjög lærdómsríkt að sjá þetta viðtal og kynnast persónunni á bakvið Aron Pálma, sem svo mikið hefur verið í fréttum hér árum saman, í skugga þessa athyglisverða máls.
Brátt er Aron Pálmi sannarlega á heimleið. Hann ætlar sér að byggja nýtt líf handa sjálfum sér hér á Íslandi. Hann talar ekki íslensku og ætlar sér að læra málið. Það er vonandi að honum gangi vel á framtíðarbrautinni og muni eiga gott líf hérna heima á Íslandi. Það er gott að refsivistinni sé lokið og hann geti horft fram á bjartari tíma er þessum dimma kafla lýkur loksins.
![]() |
Aron Pálmi frjáls maður |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Dægurmál | Slóð | Facebook | Athugasemdir (9)
18.8.2007 | 22:50
Frábærir tónleikar á Miklatúni
Ég hef verið að hlusta á tónleikana á Miklatúni á Rás 2 núna í kvöld. Þar er saman kominn mikill mannfjöldi og skemmtir sér vel. Virðist vera um að ræða fjölmennasta viðburð á Miklatúni til þessa, svæði sem hentar mjög vel til tónleika af þessu tagi, eins og sást á tónleikunum með Sigurrós fyrir ári sem voru stórtónlistarviðburður og vel úr garði gerðir.
Þetta er mikil tónlistarhelgi. Í gær voru góðir afmælistónleikar Kaupþings og tónleikar kvöldsins eru ekki mikið síðri, svo sannarlega. Það er langt síðan að tveir svo veglegir tónleikar eru á sömu helginni. Í þessum skrifuðu orðum er Mannakorn að fara á kostum við að flytja nokkur af sínum bestu lögum. Maggi Eiríks, Pálmi og Ellen virðast þar vera í sínu besta formi. Megas var alveg frábær áðan er hann tók sitt prógramm. Megas virðist sífellt verða betri með árunum en nýjasta platan hans, Frágangur, er algjörlega brilljant. Einfalt mál það.
Að auki voru Mínus, Ampop, Sprengjuhöllin, Eivör og Á móti sól í toppformi og aldrei klikkar heldur Pétur Ben, sem er með betri yngri tónlistarmönnunum í bransanum. Heilt yfir var þetta mögnuð tónlistarveisla og svo sannarlega frábært fyrir okkur sem erum ekki stödd í Reykjavík að geta þó fylgst með í gegnum útvarpið. Svo vonandi fáum við að sjá þessa tónlistarveislu í Sjónvarpinu fljótlega.
![]() |
Mannhaf á miðborgarsvæðinu |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Dægurmál | Slóð | Facebook | Athugasemdir (4)
18.8.2007 | 18:04
Menningarleg stemmning í Reykjavík

Við Akureyringar höfum tekið upp sama sið og höldum menningarhátíðina Akureyrarvöku helgina á eftir því að Reykvíkingar fagna menningarnótt. Það hefur lífgað vel upp á bæjarbraginn hér eins og fyrir sunnan, enda er alltaf þörf á að hafa gaman af lífinu og njóta góðrar menningar í víðtæku formi. Þetta er því sama bæjarhátíðin hér og fyrir sunnan. Þetta er pottþétt uppskrift að gleði sem Reykvíkingar hafa samið og hún hefur virkað vel hér fyrir norðan líka.
Vona að allir hafi gaman á menningarnótt fyrir sunnan og njóti vel lífsins með sannkölluðum menningarbrag.
![]() |
Gengur virkilega vel á Menningarnótt |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Dægurmál | Breytt s.d. kl. 18:08 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
18.8.2007 | 01:19
Þjóðsöngurinn hans Bubba klikkar aldrei
Það leikur enginn vafi á því að afmælistónleikar Kaupþings á Laugardalsvelli í kvöld voru skemmtilegustu tónleikar hérlendis á síðari árum. Þar small allt vel saman og mikill fjöldi var í Laugardalnum eða horfði á heima í stofu um land allt. Þetta voru sannkallaðir þjóðartónleikar. Flottur og veglegur pakki sem ber að þakka Kaupþingi fyrir að færa okkur öllum. Þetta var tær snilld.
Hápunktur kvöldsins var án nokkurs vafa þegar að Bubbi Morthens sté á svið. Hann var pólitískur, lifandi og hress, eins og hann á að sér að vera bara. Það er eftirminnilegt þegar að hann gladdist yfir endalokum stjórnmálaferils Halldórs Ásgrímssonar á afmælistónleikunum í Höllinni sem voru á sexy-asta degi seinni tíma, 06-06-06. Í kvöld lét hann skoðanir sínar á ferjumálum og klúðrunum tengdum þeim gossa á prime sjónvarpstíma. Gaman af því bara.
Þjóðsöngurinn hans Bubba klikkar aldrei. Hann var langbesta atriði kvöldsins. Stál og hnífur er fyrir löngu orðin sameign okkar allra. Frábært lag, eitt helsta einkennislag kóngsins og það naut sín best allra laga í kvöld. Bubbi söng líka Afgan, lag sem er algjör brilljans, og tók fleiri góð lög af ferlinum. Þetta var það allra besta í kvöld. Það var líka gaman af Stuðmönnum og Bo Hall að taka Tætum og tryllum. Krafturinn í þeim Stuðmönnum er sannarlega enn til staðar.
Hef áður í kvöld vikið að Garðari Thor. Hann er söngvari á heimsmælikvarða og notalegt að hlusta á hann syngja bæði Nella Fantasia (eftir meistara Morricone) og hið undurljúfa Nessun Dorma. Páll Óskar opnaði kvöldið með sínum frábæru sumarsmellum sem eru svo sannarlega orðin sameign þjóðarinnar nú þegar, enda var tekið undir af krafti. Páll Óskar var mjög góður kynnir kvöldsins, lifandi og hress eins og hans er von og vísa. Lúxor komu svo mjög á óvart, lofaði góðu að heyra í strákunum. Nylon voru ágætar og sungu þrjár í fyrsta skipti.
Heilt yfir var þetta frábær pakki - tónleikar sem lengi verða í minnum hafðir. Svona tónleika þarf að hafa oftar á þjóðarleikvangi okkar. Það sést vel af tónlistarveislu kvöldsins að fólk vill fá að njóta góðrar tónlistar og þetta er nákvæmlega staðurinn sem hentar vel.
![]() |
Umferð gengur vel úr Laugardalnum |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Dægurmál | Slóð | Facebook | Athugasemdir (5)
17.8.2007 | 22:16
Fólksfjöldamet slegið á Laugardalsvelli

Nú er Garðar Thor Cortes á sviðinu. Hann söng t.d. Nessun Dorma og það var algjörlega frábær flutningur. Lagið er með þeim bestu í tónlistarsögunni og það naut sín vel í kvöldrökkrinu á þjóðarleikvangnum. Nú eru Björgvin Halldórsson og Bubbi Morthens að fara að syngja og það verður ábyggilega algjört dúndur.
Af hverju eru svona frábærir tónleikar ekki haldnir oftar á þjóðarleikvangnum? Ekki hægt að spyrja öðruvísi. Þetta er of flott dæmi til að það verði einstakt, svona stóra tónleika á halda oftar í Laugardalnum.
![]() |
Aldrei fleiri á Laugardalsvelli |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Dægurmál | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
17.8.2007 | 21:23
Glæsilegir afmælistónleikar á Laugardalsvelli

Það var mikið talað um það fyrir tónleikana hvort að það væri rétt af Kaupþingi að halda upp á afmælið með tónleikum. Mér finnst þetta mjög vel til fundið hjá Kaupþingi. Landsmenn allir njóta þessara tónleika. Þeir sem ekki komast á Laugardalsvöll geta kveikt á Sjónvarpinu og notið. Þetta ætti að verða frábært kvöld fyrir alla sem meta tónlist mikils.
Skilst reyndar að fólksfjöldamet á Laugardalsvelli sé fallið og þar séu rúmlega 30.000 manns staddir. Glæsilegt það svo sannarlega!
![]() |
Undirbúningur Kaupþingstónleika í fullum gangi |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Dægurmál | Breytt s.d. kl. 21:34 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (2)
16.8.2007 | 14:28
Elvis Presley minnst

Alla tíð hef ég metið tónlist Presleys mikils. Hann er þó varla uppáhaldstónlistarmaðurinn minn í gegnum tíðina en engu síður hefur alltaf verið ofarlega á blaði, enda er sess hans í tónlistinni óumdeilanlegur. Það er virkilega notalegt að hlusta á lög hans. Presley hafði virkilega öfluga söngrödd sem lengi verður minnst en hann gat beitt henni gríðarlega vel. Hann var áhrifavaldur í tónlistinni á sjötta áratugnum og markaði skref í bransanum, hafði líka mikil áhrif á þá sem voru að feta sín fyrstu skref árin sem hann varð frægastur, fyrir 1965.
Þeir eru fáir tónlistarmennirnir sem hafa orðið áhrifameiri í seinni tíð út fyrir gröf og dauða en Elvis Presley. Lítið lát hefur orðið í raun á vinsældum hans. Tónlistarmenn hafa sungið dúetta með honum löngu eftir andlát hans og endurútgáfur á lögum hans með hinum ýmsu tónlistarmönnum seinni tíma eru orðnar óteljandi. Frægt varð þegar að Celine Dion tók eftirminnilegan dúett með Presley á laginu If I Can Dream, sem samið og flutt var árið 1968, árið sem Celine fæddist, í Idol-keppninni bandarísku á síðasta ári. Það þótti sláandi flott atriði þar sem tæknin naut sín til fulls.
Það hefur komið fram opinberlega að Lisa Marie, einkabarn Presleys, ætli sér að syngja dúett með föður sínum. Það er vel til fundið. Lisa Marie var ekki orðin tíu ára gömul þegar að faðir hennar dó og fékk því aldrei að syngja með honum á sviði. Það verður áhugavert að heyra þau syngja saman, vonandi eitthvað gott lag.
Lengi hefur verið deilt um það hvort Elvis Presley hafi dáið 16. ágúst 1977. Það leikur víst lítill vafi á að svo hafi verið þó að hörðustu aðdáendur kóngsins neiti því staðfastlega. En minning eins eftirminnilegasta söngvara tónlistarsögunnar lifir, rétt eins og sést vel nú þrem áratugum eftir dauða hans.
Það eru nokkur góð lög með Elvis Presley í tónlistarspilaranum hér á síðunni.
![]() |
Þrjátíu ár frá andláti Elvis Presley |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Dægurmál | Slóð | Facebook | Athugasemdir (2)
15.8.2007 | 23:58
Svæðisútvarp Norðurlands 25 ára
Í gær var aldarfjórðungur, 25 ár, liðinn frá því að Svæðisútvarp Norðurlands, RÚVAK, hóf útsendingar sínar. Tilkoma Svæðisútvarpsins hefur markað þáttaskil í fréttaflutningi héðan að norðan en beinar svæðistengdar útsendingar á fréttum hafa staðið mestan hluta þessa tíma. Framan af voru þó aðeins dagskrártengdir þættir framleiddir hjá RÚVAK. Jónas Jónasson, útvarpsmaður, leiddi starfið fyrstu skrefin og var allt í öllu á fyrstu árunum í starfinu. Jónas lýsti fyrstu skrefum svæðisútvarpsins í skemmtilegu viðtali á Morgunvaktinni á Rás 1 í gærmorgun.
Svæðisútvarp Norðurlands er okkur hér mikilvægt. Ég hlusta alla daga á fréttirnar þar, annaðhvort í gegnum útvarpið eða í dagslok á rúv.is, en nú eru fréttirnar orðnar aðgengilegar þar. Fyrir okkur sem fylgjumst með málum hérna heima er svæðisútvarpið mikilvægur punktur í dagsins önn og þar hefur gott starf verið unnið.
Ég óska Svæðisútvarpinu okkar innilega til hamingju með afmælið og farsællar framtíðar.
Dægurmál | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)