Færsluflokkur: Dægurmál
27.8.2007 | 19:29
Reynir og sme hefja samstarf á DV

Það vakti athygli í dag að sme virtist koma af fjöllum þegar að ráðning nýja ritstjórans, hans nýja vinnufélaga á ritstjórnarskrifstofunum, var borin undir hann. Þetta hljómaði svona eins og köld vatnsgusa yfir ritstjórann að fá þennan vinnufélaga. Var hann ekki með í ráðum? Fékk hann kannski fréttina bara eins og við öll hin í gegnum slúðurpressuna á netinu?
Það var mikil flugeldasýning í fjölmiðlaheimum þegar að sme var ráðinn yfir á DV og til að stýra risi þess úr duftinu. Eitthvað hefur minna gengið í því en eflaust var stefnt að . Það verður fróðlegt að sjá hvernig að þessir tveir menn fúnkera saman. Eru þetta skilaboð um hnignandi gengi sme að fá þennan vinnufélaga með sér?
![]() |
Nýr ritstjóri DV |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Dægurmál | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
26.8.2007 | 13:51
Aron Pálmi kemur til Íslands

Það hljóta að vera viss þáttaskil að halda áfram að lifa lífinu eftir svo langa refsivist eins og Aron Pálmi gekk í gegnum, á frekar viðkvæmu skeiði lífsins. Hann þarf að byggja sig upp frá grunni og fær vonandi viðeigandi aðstoð við það. Ég sá fyrir nokkrum árum viðtalsþátt fyrir Aron Pálma. Það má sannarlega segja að hann hafi farið á mis við margt vegna þessa dóms sem hefur eyðilagt mörg bestu ár hans og hlýtur að hafa haft lamandi áhrif á persónu hans eiginlega.
Það var greinilegt af viðtalinu að Aroni Pálma leið mjög illa sem eðlilegt má teljast í þessari stöðu og það var mjög lærdómsríkt að sjá þetta viðtal og kynnast persónunni á bakvið Aron Pálma, sem svo mikið hefur verið í fréttum hér árum saman, í skugga þessa athyglisverða máls. Vonandi mun honum ganga vel hér á Íslandi við að byggja upp nýtt líf.
![]() |
Aron Pálmi kominn til landsins |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Dægurmál | Slóð | Facebook | Athugasemdir (1)
25.8.2007 | 14:31
Nýtt líf á Miðnesheiði - fær ekki íbúð vegna aldurs
Ég fór sumarið 2006 á herstöðvarsvæðið. Þetta var nokkrum mánuðum áður en síðustu hermennirnir fóru. Var þetta í eina skiptið sem ég kom þangað. Fannst mér vissulega leitt að koma svo seint til að sjá svæðið, en þá minnti íbúðahverfið einna helst á draugabæ. Sárafáir voru á ferð þar um og húsin voru að mestu yfirgefin og mannlaus. Þetta var ógleymanleg sjón og skemmtileg heimsókn að mjög mörgu leyti. Það sem kom mér mest á óvart við að fara þarna var að sjá hversu umfangsmikið svæðið var í raun og veru. Þarna blöstu tækifærin við er kom að breyttum aðstæðum og þau tækifæri voru svo sannarlega nýtt.
Hef ég heyrt um fólk, og þekki suma þeirra líka, sem stundar nám í Reykjavík sem hefur ákveðið að búa á þessu svæði. Það hlýtur að vera sérstök tilfinning að búa þarna. Þetta er skemmtilegt tækifæri og eðlilegt að ungt fólk sækist eftir því að vera þarna. Þeir hjá Keili hafa byggt menntastofnun þar upp á skömmum tíma og tækifærin blómstra. Það kemur mjög að óvörum að heyra að sextán ára stelpa sem hafði talið sig hafa gengið frá leigusamningi á íbúð hjá Keili hafi ekki fengið hana á grundvelli þess að hún er sextán ára.
Skil ég ekki þessi aldursmörk sem nefnd eru, enda taldi ég að þarna væri fyrst og fremst spurt um hvort að fólk vildi stunda nám og vera duglegt í því. Annað myndi varla skipta máli, einkum í ljósi að gerður hafði verið samningur. Þetta vekur spurningar um þessi mörk og hvort þau séu rétt. Í þessu máli hljóta gerðir samningar að standa. Annað er óskiljanlegt.
Annars vona ég að þeir sem hafa nú flutt í samfélagið á Miðnesheiði líði vel þar og fagna því að þetta svæði hafi fengið nýtt hlutverk.
![]() |
Fær ekki stúdentaíbúð |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Dægurmál | Breytt s.d. kl. 14:35 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (3)
24.8.2007 | 22:12
Daryl Hannah verður Íslandsvinur

JFK yngri, sem kvaddi föður sinn eftirminnilega á þriðja ári hinsta sinni með hermannakveðju við útför hans í Washington, var mikill kvennamaður alla tíð. Hann erfði hið gríska útlit móður sinnar og Bouvier-fjölskyldunnar og þótti einn myndarlegasti piparsveinn sinnar kynslóðar. Hann átti fleiri sambönd en tölu var á komandi í raun og svar sig í Kennedy-ættina en fræg ástarsambönd föður hans fyrir forsetaferilinn og á meðan að honum stóð voru goðsagnakennd eftir dauða hans og sennilega var samband hans við leikkonuna Marilyn Monroe þar einna frægast, en kynbomban söng afmælissönginn fyrir Kennedy er hann varð 45 ára árið 1962, skömmu áður en hún lést með sviplegum hætti.
JFK yngri sótti í faðm leikkvenna eins og faðirinn forðum. Ást ævi hans varð leikkonan Daryl Hannah, sem var jafngömul honum, fædd árið 1960, árið sem John F. Kennedy var kjörinn forseti Bandaríkjanna í einum tvísýnustu forsetakosningum bandarískrar stjórnmálasögu, þó ekki slái það út baráttuna hatrömmu um Flórída á aldamótaárinu á milli Bush og Gore, sem margir efast enn um hvor hafi unnið. Jackie Onassis varð æfareið yfir ráðahag sonarins og Hannah og lagðist mjög gegn honum með ráðum og dáð. Hún hafði sitt fram og áður en hún lést úr krabbameini árið 1994 hafði sonurinn lofað henni að gleyma Daryl. Samband þeirra varði opinberlega séð í fimm ár.
Daryl Hannah syrgði John mjög þegar að hann lést ásamt eiginkonu sinni og mágkonu í flugslysi í Massachusetts sumarið 1999 en hefur ekki talað mikið opinberlega um sambandið eftir að hann dó. Leikferill Daryl hefur eins og fyrr segir verið brokkgengur. Hæst reis hann sennilega með kvikmyndinni Splash en hún varð endanlega heimsfræg fyrir að leika hafmeyjuna Madison ekki síður en Tom Hanks sló þar einna fyrst almennilega í gegn, þó vissulega hafi hún verið í lykilmyndinni Blade Runner skömmu áður. Myndin er enn í dag frábær og er helst tengd við Hannah.
Ekki síður var túlkun hennar á Roxanne í samnefndri mynd árið 1987 góð, en þar var sagan af Cyrano de Bergerac endursögð á nútímann með bravúr. Steve Martin átti snilldartakta þar á móti Hannah. Hún lék framakonuna Dorian í Wall Street sama ár, á móti Michael Douglas, sem hlaut óskarinn fyrir túlkun sína á hinum últra-gráðuga Gordon Gekko, og Charlie Sheen, átti flotta takta sem Chelsea á móti Robert Redford í Legal Eagles á svipuðum tíma og var í The Pope of Greenwich Village, gríðarlega vel leikinni mynd, sérstaklega blómstrar hin gamalreynda Geraldine Page þar.
Í seinni tíð hefur sigið á ógæfuhliðina. Áður en botninum var náð átti hún stjörnuleik í hlutverki hinnar feimnu hárgreiðslukonu Annelle í kvennamyndinni Steel Magnolias þar sem saman kemur leikkvennafans þess tíma. Ennfremur var Daryl í essinu sínu sem Melanie, dóttir Gustafsons (í túlkun meistara Lemmons) í Grumpy Old Men, en þar áttu snillingarnir Lemmon og Matthau besta leik sinn saman á seinni árum. Framhaldsmynd var gerð skömmu síðar vegna vinsælda myndarinnar. En Daryl datt út af vinsældakortinu á þessum tíma og átti vægast sagt mögur ár.
Hún komst aftur á kortið þegar að Quentin Tarantino valdi hana fyrir nokkrum árum til að leika vákvendið Elle Driver í Kill Bill-myndunum, sem var eins og flestir muna með lepp yfir öðru auganu. Ekki beint árennileg. Það var vægast sagt ekki margt sem minnti þar á hafmeyjuna Madison forðum daga í Splash. Daryl átti líka notalegt gestahlutverk í þáttunum Frasier á þessum tíma og virðist hafa náð að rétta eitthvað úr kútnum. Virðist allavega enn fá hlutverk til að moða úr.
Daryl hefur þegar veitt þrjá laxa, svo að þetta verður væntanlega velheppnaður veiðitúr. En já, hún er víst orðin Íslandsvinur, er það ekki bara?
![]() |
Hafmeyjan lokkaði til sín lax |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Dægurmál | Breytt s.d. kl. 22:55 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
24.8.2007 | 21:13
Alþjóðlegur fjárfestingabanki opnar á Akureyri

Það er sérstaklega ánægjulegt auðvitað að sjá gamla góða barnaskólann vakna til lífsins aftur, gamla skólann sem Hanna amma og hennar kynslóð nam sín gullnu fræði í og var lykilmenntastofnun hér um áraraðir. Þetta hús var því miður engan veginn jafn reisulegt hin seinni árin og það á að vera. Því hefur nú verið breytt og er nú miðstöð viðskipta og nýsköpunar. Yfir því gleðjumst við hinir sönnu Akureyringar.
Ég vil óska aðstandendum Saga Capital góðs gengis og vona að þeim muni ganga vel í sínum bransa, en forstjórinn, Þorvaldur Lúðvík Sigurjónsson, er gamall félagi úr ungliðapólitíkinni en hann var einn forvera minna sem formaður Varðar og var virkur í ungliðastarfinu hér fyrir rétt um tveim áratugum og í SUS, skömmu áður en ég gekk í flokkinn. Það er gott að hann komi aftur hingað og byggi svo metnaðarfullt fyrirtæki upp. Þetta er sannkallaður gleðidagur hér á Akureyri.
![]() |
Nýr fjárfestingabanki opnaður á Akureyri |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Dægurmál | Breytt s.d. kl. 22:00 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (9)
23.8.2007 | 14:37
Níðingsverk á Selfossi
Það er vissulega alltaf vert að hugleiða hversu langt á að ganga í svona tilfellum. Eins og lýsingar hafa verið af málinu á Selfossi finnst mér að óvenjulangt hafi verið gengið. Tek ég undir með formanni Læknafélagsins að lykilatriði er nú að setja verði starfsreglur í þessum efnum, til að taka á tilfellum af þessu tagi. Heilt yfir er þetta mjög harkalegt inngrip og ekki beint geðslegt að ímynda sér aðferðirnar sem notaðar hafa verið.
![]() |
Konan beitt ofbeldi |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Dægurmál | Slóð | Facebook | Athugasemdir (6)
23.8.2007 | 00:57
Gamanið kárnar hjá grínleikara í Svíaríki

Persónulega finnst mér besta kvikmyndahlutverk Murrays vera túlkun hans á Bob Harris í Lost in Translation. Held að þetta sé einmitt sá karakter í túlkun sem er næst honum sjálfum. Hann hefði sennilega nælt sér í óskarinn fyrir þetta hlutverk ef ekki hefði verið fyrir í hópi tilnefndra sjálfur Sean Penn, sem fór á kostum í Mystic River, en tapað verðlaununum svo mörgum sinnum að grátlegt þótti, t.d. sem dauðadæmdi fanginn í Dead Man Walking, einhverfi faðirinn í I am Sam og bóheminn í Sweet and Lowdown. Murray gat ekki leynt vonbrigðum sínum með að fá ekki verðlaunin á sínum tíma og setti upp skeifuna yfir þakkarræðu Penns. Báðir voru utangarðsmenn hjá akademíunni en aðeins annar gat fengið heiðurinn.
Sú mynd með Murray sem ég hef samt alltaf hlegið mest yfir er What About Bob sem var gerð fyrir um tveim áratugum. Er þar sem gjörsamlega óþolandi tilfelli sem eltir sálfræðinginn sinn í sólarfríið og hleypir heldur betur lífi í það og fokkar upp friðsælli tilveru hans í fríi sem skipulagt var sem notalegt en endar sem ígildi helvíti á jörðu. Gjörsamlega frábær mynd. Finnst hann líka alltaf góður sem Jeff, besti trúnaðarvinur leikarans Michaels (í túlkun Dustins Hoffmans) sem fær hvergi vinnu sem leikari og endar sem femínistakella í sápuóperu og slær eftirminnilega í gegn, í Tootsie og allir sem sjá hina frábæru Caddyshack gleyma ekki Murray í hlutverki Carls.
Bill Murray hefur verið lýst sem sérvitrum gamanleikara. Það er æði oft segin saga með helstu gamanleikara bransans að þeir eru fyndnastir út í frá en hundleiðinlegir inn á við, semsagt í prívatlífinu. Setja semsagt upp grímu gamansemi í bransanum. Besta tilfellið hvað þetta varðar er sennilega Peter Sellers sem aldrei fékkst til að ræða líf sitt án þess að fara í einhvern karakter og hlæja út og inn að öllu saman en þjáðist innan frá mjög og var eiginlega lokaður í skel gamanleikarans sem varð að brosa og hlæja að öllu. Svona er víst Steve Martin líka og fleiri mætir menn, sumir segja að Robin Williams sé með eina risastóra grímu yfir sér.
Bill er einn leikaranna sem minnst verður fyrir gamanleik undanfarna áratugi, einn þeirra bestu. Vonandi kemst hann heilu og höldnu frá veseninu í Svíaríki.
![]() |
Bill Murray gripinn drukkinn á golfbíl |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Dægurmál | Breytt s.d. kl. 00:59 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (1)
21.8.2007 | 20:13
Eru Stuðmenn búnir að vera?

Það er greinilegt að margir velta því fyrir sér hvort komið sé að endalokum á löngum og um margt farsælum ferli Stuðmanna, sem hefur verið starfandi með mannabreytingum allt frá árinu 1975 eða frá því að Sumar á Sýrlandi, sem var mikil tímamótaplata, kom út. Það leikur enginn vafi á því að brotthvarf Ragnhildar Gísladóttur úr Stuðmönnum árið 2005 breytti hljómsveitinni mikið og nú nýlega hefur Þórður Árnason, gítarleikari hljómsveitarinnar, yfirgefið skipið og horft í aðrar áttir. Það er því kominn losarabragur á Stuðmenn.
Það er óumdeilanlegt að lokaatriðið á tónleikunum sem áttu að vera hápunktur urðu það ekki. Hápunkturinn var atriði Bubba Morthens, þá var mesta stemmningin og allir tóku undir, og Todmobile, þar sem mikill kraftur var á sviðinu. Stuðmenn féllu í skuggann og komið var með nýjungar sem lofuðu hreinlega ekki góðu. Þeir voru að mínu mati sem skuggi hjá sjón þó vissulega sé Egill Ólafsson alltaf góður söngvari. Undirspilið var ekki til að hrópa húrra fyrir og atriðið féll að verulegu leyti. Auk þess var lagavalið engan veginn nógu gott og hefði sveitin átt að einblína frekar á þekktari lög sín einvörðungu.
Bæði voru Stuðmenn án söngkonu, en ég held að Birgitta Haukdal hafi verið með þeim sem söngkona um nokkuð skeið, og gítarleikara. Reyndar er orðið nokkuð langt síðan að ég hef farið á ball með þeim og brá svolítið við þetta atriði. Undirspilið féll og sumt annað klikkaði líka. Eftir stóð vissulega reynt band en það bar það eiginlega ekki með sér. Sem lokaatriði olli þetta sárlegum vonbrigðum og ég held að fleiri en ég séu hálffúlir vegna þess sem þarna var kynnt, nýjungar sem ég tel að feli eiginlega frekar í sér dauða sveitarinnar en margt annað.
Það er von að spurt sé: eru Stuðmenn búnir að vera? Var þetta svanasöngurinn? Framtíð Stuðmanna hlýtur að teljast stórt spurningamerki.
Þess má geta að til hliðar við Egil Ólafsson á myndinni með færslunni eru Ragnhildur og Þórður, sem bæði hafa nú hætt í Stuðmönnum.
Dægurmál | Breytt s.d. kl. 20:58 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (12)
21.8.2007 | 17:32
Sambandsþyngsli í kastljósi fjölmiðla í Hollywood

Held að það ástarsamband Hollywood sem hafi lifað einna lengst í gegnum ólgusjói fjölmiðlaathyglinnar sé samband leikaranna Paul Newman og Joanne Woodward. Þau kynntust fyrir hálfri öld við gerð kvikmyndarinnar The Long Hot Summer, sem er nú til dags helst minnst fyrir ástarblossann sem kviknaði milli aðalleikaranna frekar en frábærleika sinn. Þau giftust árið 1958, nokkrum vikum áður en Joanne hlaut óskarinn fyrir fræga og margflókna túlkun sína á Eve White í The Three Faces of Eve.
Paul Newman telst einn þekktasti leikari sinnar kynslóðar. Hann varð þó að bíða í þrjá áratugi lengur en eiginkona sín eftir óskarnum, en hann vann óskarinn seint og um síðir fyrir túlkun sína á Eddie Felson í framhaldsmynd The Hustler, The Color of Money, árið 1987, hafandi tapað sjö sinnum í röð áður. Á sömu hátíð fékk hann ennfremur heiðursóskarinn og fékk mannúðarverðlaun akademíunnar innan við áratug síðar, en verk hans á þeim vettvangi hafa verið fræg. Eins og flestum er væntanlega kunnugt hefur hann gefið stærsta hluta ágóðans fyrir matvæli í sínu nafni til mannúðarmála.
Það hefur jafnan verið sagt að Joanne Woodward hafi fórnað leikferli sínum fyrir sambúðina með Paul Newman. Hún var talin sterk leikkona á sínum tíma, hélt áfram leik en fórnaði mjög miklu fyrir heimili sitt og fjölskyldulíf. Hún lék í nokkrum stórmyndum eftir 1960 en hefur haldið sig til hlés síðustu árin. Hún lék á móti eiginmanni sínum í fjölda góðra mynda þó sennilega sé samleikur þeirra í Mr. and Mrs. Bridge fyrir tæpum tveim áratugum eftirminnilegastur að mínu mati. Fyrir þá mynd fékk Woodward óskarsverðlaunatilnefningu en tapaði fyrir Kathy Bates sem átti rafmagnaðan stórleik í Misery.
En það hafa ekki öll sambönd verið jafnfarsælt og það sem Newman og Woodward byggðu upp. Flestir muna eftir fjölmiðlavænu sambandi Tom Cruise og Nicole Kidman sem flestir töldu skothelt í gegn. Það sprakk í loft upp með hvössum fjölmiðlayfirlýsingum árið 2001, ári eftir að þau brostu í gegnum tárin saman þegar að Tom Cruise tapaði óskarnum enn eina ferðina, þá fyrir Sir Michael Caine. Síðan hefur Nicole Kidman orðið mun sterkari leikkona en Tom Cruise sem hefur sigið nokkuð, en Kidman tókst fyrir nokkrum árum að vinna óskarinn, sem var markmið Cruise með mjög áberandi hætti.
Svo er auðvitað samband Ethan Hawke og Umu Thurman sem getið er í meðfylgjandi frétt. Það hélst saman mjög lengi vegna þess að þau sinntu saman heimilinu og héldu saman hópinn, fóru saman á tökustaði og voru eitt. Það sprakk þó að lokum vegna ytri fjölmiðlaþunga og framavona beggja. Lítill vafi leikur þó á því að Uma Thurman var sterkari leikarinn í sambandinu og Hawke vildi ekki fórna sér fyrir þann feril. Sama gerðist hjá Reese Witherspoon og Ryan Phillippe fyrir nokkrum mánuðum, þó framhjáhald hafi vissulega spilað inn í. Eftir að Witherspoon fékk óskarinn féll Phillippe endanlega í skugga hennar.
Veröldin í þessum bransa athygli og stjörnuglampa er oft skondin. En það er þó sammerkt með mörgum þar að samböndin sem verða til vilja oft deyja í sama glampa. Það er kannski ekki undarlegt þegar að sambandið endar sem átakapóll um athygli og hvort fái stærri skerf af glampanum sem í spilinu er.
![]() |
Framinn varð hjónabandinu að falli |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Dægurmál | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
21.8.2007 | 11:47
Natascha og Stockholm syndrome
Að bankaráninu loknu snerust gíslarnir til varnar fyrir þá sem héldu þeim föngnum og höfðu gjörsamlega verið heilaþvegnir. Alla tíð síðan hefur nafngiftin yfir tilfelli af þessum toga verið kennd við ránið athyglisverða í Stokkhólmi. Það má svo sannarlega fullyrða að fyrst að hægt sé að heilaþvo fólk í gíslingu eftir fimm daga yfirráð sé staðan enn verri þegar að fimm ár eru liðin. Það sást vel fyrr á þessu ári er Shawn Hornbeck slapp úr áralangri prísund Michael Devlin.
Natascha Kampusch var svo þungt haldin af Stokkhólms-heilkenninu að hún syrgði manninn sem hélt henni í tæpan áratug sem gísl sínum er hún vissi að hann hefði fyrirfarið sér. Hún reyndar stakk hann af en hún hafði greinilega lifað sama lífi og Shawn Hornbeck í langan tíma. Hún var undir stjórn viðkomandi og heilaþvegin af drottnun hans. Þetta eru skelfileg örlög og sennilega eitt frægasta umhugsunarefni sálfræðinnar. Drottnun af þessu tagi er skelfileg og umhugsunarverð að öllu leyti.
Eitt frægasta fórnarlamb Stokkhólms heilkennisins er auðjöfraerfinginn Patty Hearst. Henni var rænt og haldið sem gísl í þónokkurn tíma. Hún varð svo heilaþvegin að hún gekk til liðs við þá sem rændu henni og var þátttakandi í ráni með þeim. Sorgleg örlög.
![]() |
Natascha Kampusch segist vorkenna þeim sem hélt henni fanginni |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Dægurmál | Slóð | Facebook | Athugasemdir (1)