Færsluflokkur: Dægurmál

Áratugur frá andláti Díönu, prinsessu af Wales

Díana prinsessa af Wales Áratugur er liðinn frá því að Díana, prinsessa af Wales, fórst í hörmulegu bílslysi í París. Mikið hefur verið rætt og ritað um ævi og örlög Díönu prinsessu, bæði fyrir og eftir sviplegt andlát hennar. Óhætt er að fullyrða að hún hafi verið ein mest áberandi og myndaða kona 20. aldarinnar og sett svip sinn á samtíð sína með mjög miklum hætti. Hún var sannkölluð fjölmiðlastjarna sem skreytti bresku konungsfjölskylduna og var áberandi bæði fyrir og eftir að hún varð hluti hennar.

Díana heillaði allan almenning um leið og hún var kynnt fyrst fyrir fjölmiðlum fyrir 26 árum og var athyglisvert mótvægi við Karl, Bretaprins, sem hún giftist hinn 29. júlí 1981. Sögulega séð verður hennar sennilega helst minnst fyrir að hafa gifst ríkiserfingjanum og að vera móðir væntanlegs konungs Bretlands, Vilhjálms, Bretaprins. Brúðkaup Díönu og Karls í St. Paul's dómkirkjunni í London í júlí 1981 var á þeim tíma kallað brúðkaup aldarinnar. Hjónaband þeirra virtist í upphafi ætla að styrkja konungdæmið í Bretlandi og verða hamingjusamt. Eignuðust þau synina William og Harry á fyrri hluta níunda áratugarins. Brestir komu þó fljótt í hjónabandið og þau skildu að borði og sæng í desember 1992, 11 árum eftir giftinguna.

Lögskilnaður þeirra varð svo að veruleika í ágúst 1996 og hélt Díana titli sínum sem prinsessan af Wales, en ekki sem hátign. Díana, prinsessa, gerði grein fyrir sinni hlið fallandi hjónabands síns í frægri bók árið 1992. Á þeim tíma var ekki gefið upp að hún væri heimildarmaður bókarinnar en Andrew Morton ljóstraði loks formlega upp um það eftir lát hennar. Þó varð öllum ljóst að Díana sjálf hefði veitt viðtöl vegna bókarinnar og hún hafði leyft nánustu vinum sínum að tjá sig um hjónaband hennar og árin ellefu í hjónabandinu við Karl. Í bókinni kom fyrst fram opinberlega að Díana hefði verið haldin átröskunarsjúkdómnum búlimíu og jafnvel reynt að svipta sig lífi vegna þunglyndis.

Fyrir nokkrum árum voru fyrst birtar opinberlega hljóðupptökur af samtölum Díönu við Andrew Morton, ævisöguhöfund hennar, en samtölin voru hljóðrituð árið 1991, ári fyrir útgáfu bókarinnar. Árið 1995 tjáði hún sig svo opinberlega í fyrsta skipti um hjónabandið í viðtali í þættinum Panorama og lét ekkert eftir liggja í frásögnum. Bæði bókin og sjónvarpsviðtalið sýndi ævintýraprinsessuna í nýju ljósi. Á bakvið brosin og gleðina sem á yfirborðinu voru sýnileg í fjölmiðlum var eymd og sársauki. Þetta kom vel fram seinustu æviár hennar. Í raun má segja að uppljóstrun þessara þátta hafi sýnt Díönu í öðru ljósi og haft áhrif á það hvernig sagan metur hana.

Allir sem upplifðu sunnudaginn 31. ágúst 1997 muna eftir því hversu mjög andlát hennar kom á óvart. Segja má að flesta hafi sett hljóða við fregnina um dauða hennar. Það gerði ég allavega. Þó að ég hafi farið að sofa þessa nótt vitandi um slysið taldi ég að hún myndi hafa það af. Hún var lifandi táknmynd ferskleikans, talin mest verndaða kona heims þrátt fyrir breytta stöðu sína. Ekkert átti að geta hent hana. En það er ekkert öruggt í þessari tilveru. Fráfall hennar snerti marga. Það er sennilega best að segja sem svo að andlát hennar hafi sett mark sitt á almenning allan.

Um London var blómahafið ótrúlegt þennan dag og þá sem á eftir fylgdu, fólk kom með blóm í miðborg London við heimili hennar í Kensington-höll og við Buckingham-höll til minningar um hana, og sorgin var ólýsanleg. Vikan sem leið frá sviplegu fráfalli hennar til jarðarfararinnar var ólýsanlegur tími sorgar og hluttekningar almennra borgara í garð konu sem fallið hafði frá - konu sem flest þeirra höfðu aldrei talað við en töldu sig þekkja af kynnum sínum af henni í fjölmiðlum og í fjarlægð meðan hún var eiginkona ríkisarfa Bretlands og móðir væntanlegs konungs Bretlands. Og hún skók heilt konungsveldi eftir dauða sinn. Staða hennar varð staðfest heldur betur.

Í kvöld sýndi Ríkissjónvarpið ítarlega leikna heimildarmynd um síðustu vikurnar á ævi prinsessunnar. Virkilega vel gerð mynd og áhugaverð. Lýsir því sem tók við þá tvo mánuði sem hún lifði eftir síðasta afmælisdag sinn. Þar kom enn eitthvað nýtt fram sem varpar ljósi á hin sorglegu endalok. Hélt ég að það væri varla hægt lengur. Hef ég sennilega lesið yfir tíu bækur um þennan atburð, séð heimildarmyndir og lesið á netinu margt um dauða prinsessunnar og þáttaskilin sem fylgdu því, þegar að konungsfjölskyldan var sökuð um að sýna ekki sorg með áberandi hætti og drottningin var beygð er yfir lauk - þurfti m.a. að minnast prinsessunnar í sögulegu ávarpi.

Þetta voru svo sannarlega sögulegir tímar. Í myndinni fór Genevieve O'Reilly vel með hlutverk prinsessunnar og var sérstaklega áhugavert að heyra viðtölin inn á milli leiknu hlutanna. Heilt yfir var þetta ágætis sjónarhorn á þessa atburði, sem enn er skrifað svo mikið um og spáð í frá öllum sjónarhornum. Prinsessunnar var minnst í dag með látlausum en virðulegum hætti. Sess hennar er enn afgerandi, þó tímarnir hafi vissulega breyst. Ég sá myndklippur frá minningarathöfn um hana á Sky í kvöld. Þar flutti Harry prins þá einlægustu og fallegustu ræðu sem ég hef heyrt um prinsessuna - sönn og hjartnæm ræða.

Það er enn velt fyrir sér því hvað gerðist í París laust eftir miðnætti sunnudagsins 31. ágúst 1997 þegar að prinsessan og Dodi voru hundelt um göturnar og þar til að áreksturinn átti sér stað. Enn eru samsæriskenningar og vangaveltur að koma til sögunnar, enn fleiri sjónarhorn. Það heiðarlegasta sem fjölmiðlar myndu nú gera væri að láta málinu lokið. Fjölmiðlaprinsessan er öll, það er langt síðan. Þessu tímabili er lokið. Hún á það skilið að fá að hvíla í friði, þó hennar verði ávallt minnst þegar að nafn hennar ber á góma eða mynd hennar sést. Hún var einfaldlega það einstök.

mbl.is Lát Díönu ólýsanlegt áfall segir Harry prins
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Umdeild uppsögn Þóru Kristínar á Stöð 2

Þóra Kristín Ásgeirsdóttir Ég verð að viðurkenna að ég varð mjög hissa á uppsögn Þóru Kristínar Ásgeirsdóttur af Stöð 2, sem opinberuð var fyrr í dag. Hún hlýtur að teljast mjög umdeild, enda um að ræða fréttamann sem verið hefur mjög áberandi í pólitískri umfjöllun stöðvarinnar. Það hefur mikið verið talað um að stöðin hafi veikst undanfarna mánuði með brotthvarfi öflugs fólks. Stutt er síðan að Brynhildur Ólafsdóttir ákvað t.d. að hætta og fór til Saga Capital og listinn er orðinn mjög langur.

Það virðist vera sem að persónulegar deilur hafi valdið þessari uppsögn, ekki það að fréttamaðurinn hafi brugðist. Ef marka má fréttina hefur Þóra Kristín ekki verið hlynnt því að upplýsingafulltrúi síðasta forsætisráðherra Framsóknarflokksins yrði fréttastjóri og er hún varla ein um þá skoðun. Heilt yfir tel ég Þóru Kristínu hafa verið öfluga í sínum störfum, þó vissulega sé hún dóttir fyrrum þingmanns Samfylkingarinnar og Alþýðubandalagsins. Það hefur aldrei litað hana í mínum augum og ég hef frekar metið reynslu hennar mikils en hitt.

Ég held að þessi uppsögn veiki enn frekar fréttastofu Stöðvar 2. Eins og Pétur Gunnarsson og fleiri menn með tengsl við nýja fréttastjórann hafa bent á hefur verið flótti af Stöð 2 og margir reyndir lykilfréttamenn þar horfið á braut. Nú er enn einn þeirra að hætta, hafandi verið vísað á dyr. Það vekur mikla athygli að vildarvinir fréttastjórans á Eyjunni hafa ekkert fjallað um uppsögn Þóru Kristínar Ásgeirsdóttur. Fréttastjórinn sem rak Þóru Kristínu var lengi vel einn öflugasti bloggari landsins en virðist hættur því. Þar er ekkert skúbb í dag.

Það hefur mikið verið talað um framtíð fréttastofu Stöðvar 2. Margir töldu hana feiga í sumar. Svo fór þó ekki. Sigmundi Erni var þó hnikað til í óljós verkefni og Steingrímur Sævarr settur í staðinn. Það hlýtur að verða umdeilt yfir ferli hans og margir spyrja sig að því hvert fréttastofan stefni á komandi árum í kjölfar t.d. þessarar uppsagnar sem virðist vera persónulegs eðlis frekar en faglegs.

mbl.is Þóru Kristínu sagt upp á Stöð 2
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Ellý læsir bloggsíðu sinni

Ég tók eftir því í gærkvöldi að Ellý Ármanns hefur lokað vefsíðu sinni - sett lás á hana og þarf nú að sækjast eftir lykilorði til að lesa vef Ellýjar. Þetta vekur athygli, enda hefur þetta verið ein vinsælasta vefsíðan á netinu undanfarna mánuði og hún náði metlesningu með vefinn hér í vor en síðan hefur þetta rokkað upp og niður. Rósrauðar sögur Ellýjar um ástina, klám, kynlíf og allt þar á milli hafa vakið athygli og sitt sýnist hverjum um þær. Sumum finnst gengið allt of langt á meðan að aðrir njóta þessara skrifa eflaust í botn.

Þessi vefsíða hefur aldrei stuðað mig eitthvað sérstaklega. Hef stundum litið þar inn. Sögurnar hennar Ellýjar hafa vissulega verið mjög misjafnar og vakið athygli fyrir að ganga ansi langt. Það var drjúgur lesendahópur sem sótti í þessi skrif og fannst gaman af þeim, meðan að öðrum fannst notalegt að pirra sig yfir þeim en gat þó ekki hætt að fylgjast með þeim, sem segir eflaust meira um aðdráttaraflið á síðuna frekar en margt annað í raun. Heilt yfir var þessi vefsíða nýtt og líflegt sjónarhorn á netið hérna heima.

Það er val fólks hvort að það les vefsíðu eður ei. Persónulega hef ég alltaf hætt að lesa síður sem mér finnst ekki varið í eða vil ekki lesa. Nógu langur er vefrúnturinn svosem fyrir og ekki vantar vefsíður sem vekja athygli á hverjum degi. Endalaust bætast við fleiri bloggarar. Þetta er misjafn hópur, hver skrifar með sínum hætti og hver kemur með nýja nálgun á umfjöllunarefnið sem skrifað er um. Sumir skrifa um lífið sitt, aðrir eru fræðilegir, sumir skrifa um fréttir og aðrir taka fyrir heitari mál; t.d. Ellý.

Það verður áhugavert að sjá hvort að Ellý ætlar að hafa lás á síðunni og hvort þetta sé hin nýja stefna. Þeir sem raunverulega vilji verði að sækja sér passa í rauðu veröldina. Má vera. Það sést þá sennilega best hverjir virkilega vilja lesa rósrauðar sögur með erótísku ívafi á borð við þær sem Ellý hefur orðið svo fræg fyrir.

Áratugur frá leiðarlokum prinsessu í París

Dodi al Fayed og Díana, prinsessa af Wales Í nótt verður liðinn áratugur frá því að Díana, prinsessa af Wales, og Dodi al-Fayed fórust í bílslysi í París. Réttu ári áður hafði prinsessan gengið frá lögskilnaði við Karl, erfðaprins bresku krúnunnar, og framundan blasti við nýtt líf. Hún var á heimleið úr sumarfríi við Miðjarðarhafið. Þangað höfðu ljósmyndarar elt Díönu og sögusagnir gengu um eðli sambands hennar við glaumgosann. Varla hafði myndavélablossinn slokknað við Miðjarðarhafið en leiðarlok litríkrar ævi prinsessunnar voru orðin staðreynd í sjálfri borg ástanna.

Þetta er að mörgu leyti ógleymanlegur tími. Leiðarlok prinsessunnar, ekki aðeins sjálfur ótímabær dauði hennar heldur og mun frekar eftirmálinn sjálfur, haustið 1997 var fréttaviðburður ársins og sennilega ef út í það er farið áratugarins að mjög mörgu leyti. Díana var mjög mikið í umfjöllun fjölmiðla og þeir áttu erfitt með að slíta þráðinn til hennar þó að hún væri ekki lengur væntanleg drottning Englands. Díana, prinsessa af Wales, lifði í kastljósi fjölmiðlanna í mjög langan tíma, allt til hinstu stundar á götum Parísar. Kaldhæðni örlaganna urðu að lokum þau að hún dó í myndavélablossa í París. Það var tragísk saga í meira lagi.

Mér finnst eiginlega með ólíkindum að það sé orðinn áratugur síðan að Díana dó. Hún er að mörgu leyti svo lifandi enn í myndunum sem teknar voru af henni. Hún varð aldrei gömul, verður alltaf minnst sem ungu myndarlegu prinsessunnar sem hafði svo sterk áhrif á breska konungsveldið, bæði á meðan að hún lifði og ekki síður eftir að hún dó. Sennilega má fullyrða, og það með sanni eflaust, að vikan sem tók við eftir leiðarlokin sorglegu í París hafi haft meiri áhrif á breskt samfélag og stöðu krúnunnar í Bretlandi en öll þau sextán ár sem áður höfðu liðið, eða frá því að prinsessan giftist Karli í London. Dauði hennar skók veldi tengdamóður hennar og varð hennar erfiðasti tími á valdaferlinum.

Dauði Díönu varð svo mikill fjölmiðlahasar í sjálfu sér að sorg í einrúmi, sem flestir telja sjálfsagðan og eðlilegan hlut eftir að nákominn ættingi deyr í skelfilegu slysi, varð ekki valkostur. Þeir sem báru hinar þyngstu byrðar voru synir hennar, sem voru mjög ungir þegar að áfallið reið yfir; Vilhjálmur var 15 ára og Harry að verða 13 ára. Þeir náðu þó að bera þessar þungu byrðar aðdáunarlega vel og sérstaklega var Vilhjálmur sterkur þetta sumar. Hann hefur þó þurft að lifa síðan í sama fjölmiðlahasarnum og mamma hans var partur af allt til hinstu stundar. Þeir hafa lifað í blossa sömu frægðar, sem getur verið lýjandi og erfið er á hólminn kemur. Það er ekki allra að bera þær byrðar.

Ég gleymi aldrei þessum sólarhringi þegar að Díana dó. Fyrst heyrði ég fréttina síðla nætur. Þá var slysið orðið fréttaefni um allan heim en örlög prinsessunnar mjög óljós. Dodi al-Fayed var þá látinn. Mig minnir þó að ég hafi farið að sofa hafandi heyrt fréttir um að líðan hennar væri stöðug. Meiðsl hennar voru mun meiri en órað var fyrir fyrstu stundirnar eftir slysið. Hún lést um fjögurleytið um nóttina að mig minnir. Fréttin um dauða hennar um morguninn var sláandi og margir vildu ekki trúa henni, enda myndir af prinsessunni í ferðalaginu eftirminnilega við Miðjarðarhafið ljóslifandi og minning hennar er vissulega enn björt, enda dó hún svo ung.

Sess prinsessunnar í bresku samfélagi hafði verið umdeildur alla tíð á sextán ára ferli hennar sem lykilpersónu í framlínu umfjöllunar. Henni hafði þó tekist að halda sess sínum sem prinsessa eftir skilnaðinn árið 1996 við Karl en var ekki lengur konungleg hátign. Hafi einhver vafi leikið á konunglegum sess hennar var þeim vafa eytt dagana eftir leiðarlok hennar í París. Elísabet II. Englandsdrottning og hefðarmenn hallarinnar vildu kyrrláta jarðarför án viðhafnar og sem minnst vita af stöðu mála. Að því kom að sorg landsmanna varð ekki beisluð. Drottningin gaf eftir og heimilaði viðhafnarútför í London. En það stöðvaði ekki skriðu almennings.

Andlát Díönu, prinsessu af Wales, og eftirmáli þess haustið 1997 markar erfiðasta tímann á 55 ára valdaferli drottningarinnar. Hún stóð varnarlaus eftir gegn landsmönnum sem misbauð hversu litla sorg drottningin sýndi opinberlega. Ákvörðun hennar um að fara ekki til London og ávarpa þjóð í sorg, en halda þess í stað kyrru fyrir í Balmoral-höll í Skotlandi ærði almenning. Hún var sökuð um að vanvirða minningu prinsessunnar og virða ekki óskir landsmanna. Pressan og landsmenn sýndu óánægju með verk og forystu drottningar í fyrsta skipti á valdaferlinum. Hún var komin í vonda aðstöðu, aðstöðu sem hún hafði aldrei áður kynnst. Hún var varnarlaus gegn fjöldanum.

Fyrr á þessu ári hlaut Helen Mirren óskarinn fyrir að túlka með sannkölluðum bravúr Elísabetu II á þessum krossgötum; myndin lýsir eftirmála dauða Díönu í París. Þjóðin fylgdi ekki leiðsögn drottningar þessa septemberdaga. Með leiðbeiningum Tony Blair, forsætisráðherra Bretlands, sem í raun leiddi baráttu almennings fyrir því að sess Díönu yrði staðfestur af konungsfjölskyldunni, um að drottningin færi til London, mætti almenningi á götum borgarinnar og flytti sjónvarpsávarp í beinni útsendingu, bjargaði drottningin því sem bjargað varð. Með naumindum tókst drottningu að ná tökum á stöðunni.

Drottningin varð að víkja af leið sinni og votta prinsessunni hinstu virðingu sína í sögulegu ávarpi til bresku þjóðarinnar frá Buckingham-höll tæpum sólarhring fyrir útför hennar. Þessir dagar voru áhrifaríkir fyrir drottninguna, sem mætti þá í fyrsta skipti alvöru mótspyrnu landsmanna, sem vildi að hún sýndi minningu Díönu virðingu. Þessa daga stefndi konungsfjölskyldan í sögulega glötun en náði að snúa atburðarásinni við með að mæta þjóð í sorg. Mirren túlkar sálarástand drottningarinnar sem lenti í atburðarás sem sífellt varð verri og verri í The Queen og fer inn í innsta kjarna persónunnar. Og hún fékk svo sannarlega lof fyrir verk sitt.

Allir sem minnast septemberdaganna 1997 þegar að Díana, fjölmiðlaprinsessan, mest myndaða kona heims, var á líkbörunum, telja þá eftirminnilega hver á sinn hátt. Þetta voru sögulegir tímar. En það hefur margt breyst vissulega síðan, aðrir tímar - annað sjónarhorn á tilveruna. Sess prinsessunnar breytist í takt við að tíminn líður og minning hennar virkar misjafnlega á fólk um alla tíð. Heilt yfir finnst mér fólk hafa tekið þá afstöðu að hún eigi að fá að hvíla í friði. En sess hennar verður um alla tíð óumdeildur. Hún markaði spor.

mbl.is Díana er enn umdeild
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Heimasíða ráðherra kóperuð frá a-ö

Björn & Björn Það hefur vakið talsverða athygli undanfarna daga að Björn Swift hefur kóperað frá a-ö heimasíðu Björns Bjarnasonar, dómsmálaráðherra, með athyglisverðum hætti. Ekki aðeins er allt útlit vefsíðunnar kóperað heldur er slóðin á vefinn björn.is (með ö-i) en ráðherrann hefur bjorn.is, gömlu versíónina semsagt. Það er öllum ljóst sem líta á björn.is að þar hefur allt verið gert til að stæla útlit vefsíðu ráðherrans og hvert smáatriði eins í útliti.

Mér finnst það svolítið undarlegt þegar að fólk opnar heimasíðu og getur ekki verið frumlegra en svo að stæla vefsíðu annars fólks frá a-ö með öllum lykilþáttum fyrirmyndarinnar. Eitt er að hafa eins lit eða blæbrigði svipuð en annað er að taka alla þætti og jafnvel hafa myndina af fyrirmyndinni eins. Björn Bjarnason hefur haft vefsíðu í tólf ár og þar af hefur vefsíðan verið opin með þessum brag frá árinu 2002, en var breytt örlítið á síðasta ári í borgarprófkjörinu fyrir alþingiskosningar.

Það er alltaf gleðiefni þegar að fólk opnar vefsíðu og vill koma einhverju á framfæri, annað hvort skoðunum sínum, daglegu lífi sínu eða hvað svo sem fólk vill skrifa um. En það að stæla algjörlega vefsíðu þekkts stjórnmálamanns með öllum lykilþáttum sem blasa við virkar svolítið kjánalegt, allavega að mínu mati. Það er langbest þegar að fólk opnar heimasíðu að opna nýjan vettvang með sínum hætti en ekki leita í smiðju annarra t.d. með nákvæmlega sama útlit.

Í þessu tilfelli er þetta enn undarlegra enda er Björn Bjarnason bloggari par excellance hérna heima, sannkallaður frumkvöðull í þessum efnum. Held að enginn hér heima hafi bloggað jafnlengi. Þeir eru þá allavega fáir, man ekki eftir neinum, allavega stjórnmálamanni, sem hefur sýnt aðra eins elju við skrifin og verið jafnvirkur við að tala máli Internetsins. Gleymum því enda ekki að mörgum fannst tæknin sem Björn Bjarnason byrjaði að nota árið 1995 óviðeigandi fyrir ráðherra. En það eru aðrir tímar.

Vilji fólk feta í hans fótspor eða annarra á netvettvangi á það að marka sér sinn eigin stíl og lúkk en ekki kópera frá a-ö. Einfalt mál í sjálfu sér.

mbl.is Ekki sama bjorn.is og björn.is
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Afmæli Akureyrarbæjar

AkureyriÍ dag eru 145 ár liðin frá því að Akureyrarbær öðlaðist kaupstaðarnafnbót, reyndar öðru sinni, en árið 1836 missti bærinn kaupstaðarnafnbótina en endurheimti hana að nýju á árinu 1862. Saga Akureyrar er stórbrotin - á þessum 145 árum hefur Akureyri breyst úr dönskuskotnum smábæ í menningarlegan bæ með heimsborgarbrag.

Eins og Jón Hjaltason segir í Sögu Akureyrar dregur Akureyrarbær nafn sitt af kornakri sem talið var að hafi verið í einu af giljum bæjarins. Ekki er það óeðlilegt, enda hefur Akureyri löngum verið þekkt áhuga bæjarbúa á garðyrkju og segja má að bærinn sé annálaður fyrir gróðursæld. Það voru danskir verslunarmenn sem innleiddu þennan mikla áhuga á garðrækt og er það til marks um hin miklu dönsku áhrif í öllu bæjarlífinu fyrr og nú.

Á seinustu árum hefur mikið átak verið unnið í að fegra bæinn og hefur það verk tekist með eindæmum vel. Öll umgjörð bæjarins er með því sem best verður á kosið. Gott dæmi í þeim efnum er Strandgatan sem hefur verið færð í glæsilegan búning, ástand miðbæjarins hefur tekið miklum framförum þótt betur megi ef duga skal, ennfremur hefur mikið verk verið unnið við að hreinsa og fegra umhverfið. Mér hefur alla tíð þótt virkilega vænt um Strandgötuna, þar byggði langafi sér hús í árdaga 20. aldarinnar og settist að með fjölskyldu sinni. Það er svo með föðurfólkið mitt að við erum nær öll hér, hér viljum við enda vera.

Akureyrarbær hefur í þessi tæplega 150 ár verið þekktur fyrir verslun, iðnað, sjávarútveg og síðast en ekki síst veðursæld. Bærinn er barna- og fjölskylduvænn og þar er nálægðin mikil við náttúruna og þar er góð íþrótta- og útivistaraðstaða. Á Akureyri er gott menningarlíf, þar eru afburðargóðir skólar og það er stutt frá heimili til vinnu og skóla. Þar eru öll lífsins gæði í boði. Ég sem Akureyringur frá fornu fari hef alltaf haft sterkar taugar til staðarins. Það er alltaf eitthvað sem togar mann aftur þangað, bærinn er í mínum huga einstakur í sinni röð.

Ég sem Akureyringur fagna því auðvitað deginum. Megi Akureyri vaxa og dafna um ókomin ár.


Lúðvík Gizurarson verður Hermannsson

Lúðvík Gizurarson (Hermannsson)Það er nú ljóst, eftir DNA-rannsókn, að Lúðvík Gizurarson, lögmaður, er sonur Hermanns Jónassonar, fyrrum forsætisráðherra og formanns Framsóknarflokksins, og því um leið hálfbróðir Steingríms Hermannssonar, eins og mörgum hafði grunað. Lúðvík hefur barist fyrir því árum saman að fá skorið úr faðerni sínu og haldið því fram að Hermann væri faðir sinn. Eins og flestum er ljóst er mjög sterkur svipur með þeim.

Barátta hans hefur þó tekist langan tíma og verið erfið. Þurfti úrskurð Hæstaréttar til að úr faðerninu væri skorið og liggur niðurstaðan nú fyrir. Með þessu er auðvitað ljóst að Steingrímur er ekki einkasonur Hermanns. Það er þó ekki við því að búast að systkinin þrjú; Lúðvík, Steingrímur og Pálína Hermannsdóttir, fallist í faðma vegna niðurstöðunnar en þau hafa tekist á mjög hatrammlega vegna málsins og t.d. ritaði Pálína langa moggagrein fyrr á árinu gegn Lúðvík og tilraun hans til að fá úr málinu skorið. Talaði hún mjög hvasst um málið í dag á einhverri fréttavefsíðunni.

Hermann JónassonÞað er orðið mjög langt síðan, eða rúmir þrír áratugir, síðan að Hermann Jónasson lést. Skiptum á dánarbúi hans er því löngu lokið og varla um að ræða að Lúðvík fái arf eftir föður sinn. Systkini Lúðvíks hafa þó lengi haldið því fram að hann vilji fá arf eftir föður sinn og hefur það verið eitt deiluefnanna. Eins og flestum er ljóst var Lúðvík skráður sonur Gizurar Bergsteinssonar, fyrrum forseta Hæstaréttar, en móðir Lúðvíks var lengi ritari Hermanns Jónassonar og með þeim var vinskapur. Má búast við að hann verði bráðlega skráður Hermannsson í ljósi niðurstöðunnar.

Mér finnst eðlilegt að Lúðvík hafi viljað fá skorið úr málinu, fá á það hæfilegan endi og skorið úr faðerninu í eitt skipti fyrir öll. Það var hinn eini raunhæfi endir þessa máls. Það er eðlilegt að hver og einn vilji vita hverjir séu foreldrar sínir og öllum vafamálum eytt. Mér hefur lengi fundist að Steingrímur og Pálína hafi fyrst og fremst viljað standa vörð um minningu föður síns, ekki viljað að hið sanna kæmist upp, sem hefur verið orðrómur árum saman.

Það er vissulega sjónarmið að standa vörð um minningu foreldra sinna og vilja ekki að nýr kafli opnist á ævi þeirra seint og um síðir. Þetta er alltaf viðkvæmt mál, sérstaklega þegar að svo langt er um liðið. En ég skil sjónarmið Lúðvíks og baráttu hans, sem er heiðarleg að því marki að það skiptir máli hvaðan fólk kemur. Þó málið sé gamalt er baráttan skiljanleg að svo mörgu leyti.

Það vakti athygli sumarið 2006 þegar að Lúðvík sendi út frá sér fréttatilkynningu um framboð til formennsku í Framsóknarflokknum. Það var greinilega fyrst og fremst grín af hálfu Lúðvíks að gefa upp þann möguleika og reyna með því að feta í fótspor feðganna Hermanns og Steingríms. Væntanlega var Steingrími ekki hlátur í huga yfir þessu öllu saman.

Það er vonandi að þessu fjölmiðlastríði barna Hermanns Jónassonar sé lokið og sátt geti orðið milli aðila. Það er þó vissulega fátt sem bendir til þess að málinu ljúki með því að öll börn forsætisráðherrans fyrrverandi geti sæst og horft fram á veginn, enda hafa mörg þung orð fallið í gegnum málaferlin.


Erfið leit hefst að nýju á Svínafellsjökli

Tjöld Þjóðverjanna Það var mjög dapurlegt að heyra fréttir af því um síðustu helgi að hætt hefði verið leit af Þjóðverjunum tveimur sem hafa verið týndir vikum saman og þeir taldir af. Það er því ánægjulegt að heyra að nýjar vísbendingar hafi fundist og menn geti vonandi leyst ráðgátuna á bakvið hvarfið og í það minnsta fundið lík þeirra og komið þeim til byggða, sér þeir þ.e.a.s. látnir sem flest bendir því miður til.

Leitarsvæðið er auðvitað mjög erfitt viðureignar og mikil hætta fyrir leitarmenn sem fylgir að vera staddir þar í þessari leit. Það er þó auðvitað sálrænt séð mjög erfitt að hætta leit við svo búið, enda verða aldrei raunveruleg endalok svona mála nema með því að fólkið sem leitað er að finnist, hver svo sem örlög þeirra kunna að hafa verið. Það er þó hægt að tryggja í það minnsta ættingjum að geta kvatt ástvini sína sem týnast við svona aðstæður það tækifæri að kveðja með þeim eina hætti sem fær er í raun.

Hálendi Íslands er ægifagurt og tignarlegt í senn. En hættur eru svo sannarlega þar til staðar, sem hefur sannast mjög oft þegar að veður verða válynd eða slys bera að höndum. Fjöldi Íslendinga sem og ferðamanna hafa lent í erfiðum aðstæðum á jökli og sumir þeirra hafa þar mætt skapara sínum, kvatt þetta líf á fögrum stað, sem getur verið óvæginn í sömu andrá þegar að válynd veður taka völdin. Það er fátt öruggt þar og fagur staður getur orðið vettvangur hörmulegra endaloka.

Öld er liðin frá því að tveir þýskir ferðamenn Rudloff og Knebel hurfu sporlaust í Öskju. Fyrr í sumar sá ég ítarlegan þátt Ómars Ragnarssonar, Fólk og firnindi, þar sem meðal annars er vikið að örlögum þeirra og einhvernveginn fannst þetta mál mjög spennandi. Þeir fundust aldrei. Það er óneitanlega sérkennileg tilviljun að nákvæmlega öld síðar hverfa tveir Þjóðverjar aftur og virðast hafa kvatt hið jarðneska líf í faðmi íslenskrar fegurðar eins og hún gerist best á hálendinu.

Vonandi mun björgunarmönnum takast að komast að því hvað varð um þýsku ferðamennina og leysa ráðgátuna um örlög þeirra, það sem aldrei tókst fyrir öld í tilfelli Rudloff og Knebel.

mbl.is Leitað á ný á Svínafellsjökli
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Ófögur heimkoma í Garðabæ

Flest höfum við eflaust haldið í okkar íslensku tilveru að það gerðist aðeins í erlendum veruleika eða í kvikmyndum að óboðnir gestir setjist að á heimilum annars fólks dögum saman og breyti friðsælu heimili í sukkbæli. Það er varla við öðru að búast en að fjölskyldunni í Garðabæ hafi brugðið mjög við heimkomuna. Það hlýtur að vera verulegt áfall hreinlega að sjá svona ljóta aðkomu og að stolið hafi verið úr innbúinu jafnvel ómetanlegum hlutum.

Það hefur vissulega oft gerst að innbrot hafi átt sér stað og einhverju hafi verið stolið. Það er samt svolítið nýr veruleiki að fólkið sem rænir búi í húsinu jafnvel dögum saman. Í friðsælu íbúðahverfi ætti fólk að verða vart við mannaferðir til og frá húsum en það virðist ekki hafa átt sér stað í þessu tilfelli. Ætla rétt að vona að þetta sé ekki það sem koma skal hérlendis, en við höfum ósjaldan séð svona uppákomu í bandarískum kvikmyndum.

Það hlýtur að vera erfitt að búa fyrstu dagana í sínu eigin húsi eftir svona ófögnuð og ömurlegheit. Veit ekki hvort að það sé vandamál fyrir fólkið þarna en þetta hlýtur að vera sláandi. Þetta mál vekur samt spurningar um hvort einhver hafi orðið var við að fólk væri í húsinu. Í rólegri íbúðagötu hlýtur að vera erfitt að hafast við dögum saman í húsi einhvers án þess að íbúi við götuna verði þess var.

mbl.is Ljót heimkoma fjölskyldu í Garðabæ
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Owen Wilson óskar eftir tilfinningalegu svigrúmi

Owen WilsonÞað er dapurlegt að heyra af því að leikarinn Owen Wilson hafi reynt að fremja sjálfsvíg. Það er oft stutt á milli hláturs og gráturs í sviðsljósi fjölmiðlanna og þeir eru ábyggilega ekki færri svörtu dagarnir en þeir björtu í þeim fjölmiðlaþunga sem fylgir frægðinni. Samband Owens og leikkonunnar Kate Hudson, dóttur Goldie Hawn og Bill Hudson, hefur verið mikið í kastljósi fjölmiðla undanfarna mánuði, en því lauk nú í sumar, en þau kynntust við gerð myndarinnar You, Me and Dupree.

Það er eðlilegt að maður á þessum krossgötum óski eftir tilfinningalegu svigrúmi til að vinna sig úr sínum málum. Það er mannlegt að misstíga sig en það er alveg ljóst að það þarf mikið að ganga á til að fólk taki þá ákvörðun að binda enda á það sem það á og getur verið langvinn ólga undir niðri. Úr slíkri krísu þarf að vinna og vonandi tekst Wilson það. Það er jafnan erfitt að vera gamanleikari í sálrænum erfiðleikum en margir leikarar gátu aldrei yfirstigið slíkt og lifðu í gegnum annan karakter árum saman til að yfirvinna vandamálin. Gott dæmi um það er Peter Sellers.

Owen Wilson hefur verið mjög áberandi í kvikmyndabransanum undanfarin ár og átt nokkrar góðar kvikmyndir á undanförnum árum. Fyrst man ég eftir honum úr kvikmyndinni Cable Guy og ýmsum öðrum á tíunda áratugnum, t.d. Armageddon, Anaconda og Breakfast of Champions. Fyrsta virkilega stórmyndin sem ég einhvernveginn kveiki á að muna eftir með honum í alvöru aðalhlutverki var sem Roy í Shanghai Noon. Svo var hann auðvitað í Meet the Parents, þar sem hann lék Kevin, fyrrum kærasta Pam, sem var augnaljómi tengdapabbans úrilla sem Robert De Niro túlkaði af miklum bravúr og gerði held ég ofverndaða pabba stelpna sem eru að fara að gifta sig góð skil.

Persónulega finnst mér besta hlutverk Owens vera rulla Hansel í Zoolander, en á þeirri mynd fæ ég gjörsamlega aldrei leið á. Klikkar ekki. Alveg sjúklega fyndin. Var líka fínn í hinni steiktu en skemmtilegu The Royal Tenenbaums, sem hann skrifaði handritið að, Starsky & Hutch, The Life Aquatic with Steve Zissou, Wedding Crashers og síðast en ekki síst You, Me and Dupree, þar sem hann var skemmtilega pirrandi í frábærri rullu. Þetta eru nákvæmlega þær myndir sem ég get hlegið af, allavega húmor af mínu tagi.

Það er oft sagt að það taki á að vera gamanleikari, sérstaklega ef persónuleg krísa ríður yfir. Það er vonandi að Owen Wilson snúi aftur í kvikmyndabransann og fái frið til að vinna úr sínum einkamálum á þessum erfiðu tímum í hans lífi.

mbl.is Owen Wilson óskar eftir að fá tíma til þess að ná bata í friði
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Fyrri síða | Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband