Færsluflokkur: Dægurmál

18 - 23

HSH Eitt helsta hitamál úr bæjarpólitíkinni hér undanfarnar vikur var ákvörðun bæjarstjórans á Akureyri að meina 18-23 ára fólki aðgang að tjaldsvæðum bæjarins um verslunarmannahelgina. Nú hefur einn efnilegasti ljósmyndarinn í bænum, Helgi Steinar Halldórsson, sett saman flotta ljósmyndasýningu með yfirheitinu 18-23 hjá Pedrómyndum hér í bæ.

Sýningin er táknræn enda eru þar myndir af 18-23 ára sjálfráða fólki sem hefur fetað sinn veg í lífinu; eru í lögreglunni, sjúkraflutningum, slökkviliðinu, í námi, á eigið fyrirtæki og fjöldamargt annað. Eru þar táknmyndir ábyrgs og öflugs fólks í samfélaginu. Segja myndirnar sína sögu mjög vel að mínu mati.

Mér líst vel á þessa sýningu Helga Steinars og styð svo sannarlega það sjónarmið sem hann er að kynna með henni. Þessi ákvörðun var röng, ég held að hún verði aldrei tekin aftur í sömu mynd. Hún einkenndist af klúðri og vandræðagangi umfram allt og var einfaldlega röng, enda var með því lokað á að hluti fólks sem er sjálfráða og ræður sér sjálft mætti tjalda hér.

Þetta er því góð ljósmyndasýning og vert að benda á hana hér, enda styð ég ekki þessa ákvörðun bæjaryfirvalda og vona að þeir hafi lært sína lexíu á þessu máli öllu. 

Er ráðgátan um hvarf Madeleine að leysast?

Madeleine McCann og foreldrar hennar Það er ekki hægt að segja annað en að það sé sláandi að heyra fréttir af því að móðir Madeleine McCann hafi nú stöðu grunaðrar í máli hennar. Flest virðist benda til að hún verði ákærð vegna hvarfs hennar síðar í dag, enda hafa blóðleifar úr Madeleine fundist í bifreið sem foreldrarnir höfðu til umráða eftir hvarf hennar. Þetta eru stórfréttir í málinu og leiða hugann að því auðvitað hvort foreldrarnir hafi verið valdir að dauða Madeleine.

Fjölmiðlar hafa talað mikið um það sérstaklega síðustu 50 dagana hvort að verið gæti að sakborningar í þessu máli séu sjálfir foreldrarnir, þau sem næst standa Madeleine. Atburðarás þessa máls hefur reyndar alla tíð verið undir smásjá slúðurblaða og deilt um hvern einasta þátt hennar, sérstaklega þann þátt foreldranna að hafa ákveðið að fara út að borða með börn sín ein síns liðs heima í íbúðinni sem þau dvöldu í. Strax vegna þess vaknaði viss vafi og margir hugleiddu það talsvert.

Held samt að margir hafi ekki viljað leggja þau undir grun, þó fátt hafi bent til annars en að augljósasta skýringin á örlögum Madeleine væri sú sem stæði næst. Það verður hinsvegar að segjast eins og er að grunurinn hefur sífellt færst meira í áttina að þeim eftir því sem liðið hefur frá hvarfi Madeleine. Einhverjar vísbendingar hafa borist um hvarf hennar, en þær hafa allar verið mjög haldlitlar og ekki beint til að byggja mikið á, þó slúðursögurnar hafi orðið mun fleiri. Foreldrarnir hafa verið í kastljósi fjölmiðla frá fyrsta degi og verið í fjölda viðtala og aðeins eru nokkrir dagar síðan að þau voru saman í löngu viðtali á Sky sem ég sá og þar komu þau fram af miklu öryggi.

Það er auðvitað til marks um verulega kaldrifjað hugarfar ef þau hjón bera ábyrgð á dauða dóttur sinnar og hafa á meðan getað leikið svo sannfærandi hlutverk hinna örvæntingarfullu foreldra. Get bara ekki sagt annað. Er satt best að segja að vona að verið sé að hafa þau fyrir rangri sök eins og Chamberlain-hjónin í Ástralíu fyrir um þrem áratugum, en þau voru sökuð um að hafa myrt kornabarn sitt, en síðar kom í ljós að dingó-hundar átu það. Það var frægt mál sem var fjallað um í kvikmyndinni A Cry in the Dark árið 1988 með Meryl Streep og Sam Neill í aðalhlutverkum.

En þessar vísbendingar eru mjög afgerandi og erfitt að verjast þeim. Það blasir við. En það er alveg ljóst að dómur almennings og fjölmiðla yfir McCann-hjónunum verður verulega þungur sé málið svona vaxið eins og sannanir gefa til kynna.

mbl.is Lögregla segir blóð úr Madeleine hafa fundist í fjölskyldubílnum
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Luciano Pavarotti látinn

Luciano PavarottiMesti tenórsöngvari tónlistarsögunnar, meistari Luciano Pavarotti, er látinn úr krabbameini, 71 árs að aldri. Það verður ekki um það deilt að Pavarotti var fremstur óperusöngvara af sinni kynslóð og án vafa gnæfði hann yfir þeim öllum sem hlutu heimsfrægð í sínum bransa á seinni hluta 20. aldarinnar. Aðeins Enrico Caruso kemst nærri honum að sess á 20. öld. Luciano Pavarotti vann ótalmarga sigra á litríkum söngferli sínum og hlaut virðingu fólks beggja megin Atlantshafsins.

Pavarotti var umfram allt alþjóðlegur söngvari og átti aðdáendur mjög víða. Hann var líka það virkur í sínum verkum að hann gleymdist aldrei og enginn gat fetað í fótspor hans meðan að hann var enn virkur í bransanum. Ég lærði fyrst að meta snilld Pavarottis á tónlistarsviðinu á æskuárum. Amma mín var einlægur aðdáandi tenórsöngvarans frá Modena og ég erfði sannarlega þann áhuga í gegnum það. Hann snerti streng í brjósti þeirra sem hlustuðu á tónlist - söng frá hjartanu og var einlægur í túlkun sinni.

Luciano Pavarotti var virkur í sínum verkum á tónlistarsviðinu nær allt til leiðarloka. Hann var á miðri kveðjuferð sinni um heiminn þegar að hann greindist með krabbamein og varð frá að hverfa - ferðin var aldrei kláruð. Er leið að lokum sagðist hann vilja deyja heima í Modena. Hann mat land sitt og uppruna mjög mikils - sérstaklega heimabæinn Modena. Á ég langan viðtalsþátt með honum þar sem Melvyn Bragg talar við söngvarann um upprunann og ræturnar - hversu mikils hann meti það sem hann hefur átt á löngum ferli og er nú sannarlega komið tilefni til að rifja upp kynnin af þeim þætti og horfa á hann og fleiri tónlistarþætti tengda Pavarotti sem eru í safninu.

Tenórarnir þrírMér fannst Pavarotti ná nýjum hæðum undir lok ferilsins þegar að hann fór að syngja með José Carreras og Placido Domingo. Í fyrsta skiptið varð það fyrir sautján árum þegar að heimsmeistarakeppnin í knattspyrnu var haldin á Ítalíu árið 1990. Þeir komu fram saman oftar en tíu sinnum og endurtóku leikinn með áberandi hætti tvisvar á HM; á Dodger leikvanginum í Los Angeles 1994 og í París, við Eiffel-turninn, árið 1998.

Seinni tónleikarnir voru sérstaklega rómaðir. Á ég Parísartónleikana á myndbandi og þeir eru mjög vinsæll valkostur þegar að ég vil hlusta á alvöru tónlist. Tenórarnir þrír slógu í gegn saman og nutu þess að syngja saman. Mér eru í fersku minni ennfremur jólatónleikarnir þeirra fyrir nokkrum árum sem slógu í gegn. Þeir tóku mjög fjölbreytt lagaval fyrir á tónleikum sínum. Allt frá fallegustu lögum óperulistarinnar; Nessun Dorma, O Sole Mio og La Donne e Mobile svo nokkur séu nefnd og tóku líka þekktar dægurlagaperlur tónlistarsögunnar fyrir.

Pavarotti varð að margra mati umdeildur fyrir að syngja jafnvel óperutónlist með dægurlagatónlistafólki, umdeilt varð þegar að hann söng með Spice Girls á tónleikum og hann bauð eitt sinn gestum til sín á fræga tónleika á Ítalíu fyrir rúmum áratug og nokkrum sinnum eftir það og tók þar dúetta með jafnvel dægurtónlistafólki annarra kynslóða, jafnvel Enrique Iglesias, Annie Lennox og svona mætti lengi telja. Þetta fór ekki vel í helstu menn óperubransans. Pavarotti var lifandi í sinni tónlistarsköpun og var virkur í að syngja af krafti og lét einu skipta hvort að það væri í nafni tenóranna þriggja eða þeirra sem komu úr öðrum áttum tónlistabransans en hann sjálfur.

Pavarotti og Díana prinsessa eftir tónleikana á Hyde Park 1991
Örlögin haga því svo til að hann deyr nákvæmlega áratug eftir að vinkona hans, Díana, prinsessa af Wales, var jarðsungin í London. Aðdáun Pavarottis á Díönu prinsessu var einlæg og hún dáði hann ennfremur. Frægt varð þegar að hún lét sig hafa það að hlusta á hann á tónleikunum sögufrægu í Hyde Park í London í týpískri breskri hellidembu árið 1991. Ógleymanlegir tónleikar sem ég hlusta reglulega á. Sælusvipur var á prinsessunni allan tímann sem lifði sig inn í tónlist Pavarottis. Þegar að Díana dó var söngvarinn niðurbrotinn. Hann sagðist fyrst ekki treysta sér að útför hennar en gerði það að lokum og var í kastljósi fjölmiðla daginn sem Díana var jörðuð. Honum var boðið að syngja við athöfnina en sagði að sorgin hefði áhrif á röddina.

Það var mikið rætt um það þegar að Pavarotti hóf kveðjutúr sinn, vildi hætta á sínum hátindi og með sínum hætti hvort hann gæti virkilega hætt. Margir drógu það í efa. Hann hafði verið það virkur í sínum bransa og hafði óumdeildan sess meðal Ítala og ekki síður heimsbúa allra í sinni tónlist. Leiðarlokin urðu önnur en tenórinn stefndi að. Og nú er hann allur, aðeins rétt rúmlega sjötugur. Endalokin koma mjög óvænt, þó allir hafi vitað sennilega að hverju stefndi undanfarnar vikur. Hann lætur eftir sig merkilegt ævistarf sem mun halda minningu hans á lofti um alla tíð.

Og nú er meistari tenóranna þagnaður. Litríkum ferli er lokið. Hans er minnst um allan heim á þessum degi. Blessuð sé minning hans.


mbl.is Luciano Pavarotti látinn
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Áratugur frá örlagadegi Englandsdrottningar

Elísabet II flytur ávarp sittÁ þessu síðdegi er áratugur liðinn frá því að Elísabet II Englandsdrottning flutti hið sögulega ávarp sitt til minningar um fyrrum tengdadóttur sína, Díönu, prinsessu af Wales. Hún stóð á krossgötum það síðdegi; hafði verið allt að því neydd til þess af Tony Blair að koma til London og sýna minningu prinsessunnar virðingu. Fram að því hafði hún og fjölskylda hennar verið í sumarleyfi í Balmoral-kastala á Skotlandi og kallað var á að þau yrðu sýnilegri á sorgarstund landsmanna.

Drottningin hafði fram til þess tíma aldrei mætt andstöðu landsmanna, fjölmiðla og stjórnvalda á þeim 45 árum sem hún hafði verið drottning. Þrátt fyrir að slúðurblöðin og almennir fjölmiðlar hefðu oft sýnt drottningu með umfjöllun um fjölskyldu hennar að tímarnir væru breyttir frá upphafi valdaferils hennar hafði aldrei orðið bein sýnileg andstaða við verk hennar og leiðsögn. Það gerðist svo sannarlega eftir lát Díönu, sem hafði verið yndi fjölmiðlanna og landsmanna allra. Sorgin yfirtók allt annað þessa septemberdaga. Drottningin hafði ekki viljað sýna sorg í verki en viljað að sorgin yrði sýnd úr fjarlægð. Að þeim vatnaskilum kom þessa daga að sorgin varð ekki stöðvuð og kallað var á viðbrögð þjóðhöfðingjans.

Drottningin hafði ekki einu sinni sent frá sér opinbert skriflegt ávarp eftir andlát Díönu eða orð til þjóðar í sorg - sat aðeins þögul á hefðarsetri og sá ólguna byggjast upp stig af stigi meðan að sífellt styttist í útför prinsessunnar. Drottningin og eiginmaður hennar höfðu þó tilkynnt opinberlega um andlát prinsessunnar nóttina sem hún dó, en ekki gert neitt meira í kjölfarið. Sorg landsmanna náði svo sannarlega sögulegum hæðum þessa daga og Díana var kvödd af almenningi sem þjóðhöfðingi væri. Deilt hafði verið um stöðu hennar eftir að hjónabandi hennar og Karls Bretaprins lauk og sitt sýndist hverjum. Öllum vafa var þó hressilega eytt eftir dauða hennar.

Er yfir lauk varð drottningin að snúa af leið sinni, þ.e.a.s. að sýna gamaldags sorgarviðbrögð úr fjarlægð og henni var allt að því skipað af forsætisráðherranum að halda til London og takast á við vandann. Þessa daga stefndi konungsfjölskyldan í sögulega glötun. Kannanir sýndu sögulega lágar mælingar við stuðning við drottningu og blöðin töluðu gegn henni með stríðsletri á forsíðum og gert var gys af drottningu. Er allt stefndi í glötun beygði hún af leið rúmum sólarhring áður en prinsessan var jörðuð. Mörgum fannst það mjög seint en það var samt ekki það seint að skaðinn væri óbætanlegur.

Ekki aðeins varð drottningin að ávarpa þjóðina frá höllu sinni, hún varð að mæta syrgjandi almenningi á götum Lundúna, varð að setja fánann á Buckingham-höll í hálfa stöng og binda enda á sumarleyfið fjarri skarkala fjölmiðlanna og sorg landsmanna, sem samt var orðin undir lokin æpandi í þögninni sem mætti drottningunni. Mikið hefur verið deilt um ávarp drottningarinnar þetta síðdegi, þ.e.a.s. hver hafi samið það. Kjaftasögur hafa árum saman verið á þá leið að hirðritari drottningar hafi samið uppkast sem hafi verið yfirfarið af spunameisturum Tony Blair í Downingstræti sem hafi snúið því við og umturnað.

Frægur kafli ávarpsins þar sem drottningin segist tala frá hjartanu og sem móðir og amma var sérstaklega áberandi og margir töldu óhugsandi að drottningin hefði átt frumkvæði af honum. Alla tíð hafa frægar sögur gengið af fjarlægð drottningar við börn sín og sérstaklega mikið verið talað um hversu mjög prinsinn af Wales og Anna prinsessa hafi verið meira og minna alin upp af fóstrum. Frægt er ennfremur að prinsinn af Wales hefur verið mjög fjarlægur foreldrum sínum en Mountbatten lávarður var helsta föðurímynd hans. Mörgum þótti óhugsandi að drottningin vildi tala með þessum hætti altént.

Ávarpið hafði sín áhrif. Drottningin endurheimti virðingu þorra landsmanna sem höfðu misst tiltrú á henni septemberdagana örlagaríku sem liðið höfðu áður. Henni tókst að koma standandi frá þessu hitamáli sem skók veldi hennar. Það er alveg ljóst að þegar að frá líður og valdaferli drottningar verða gerð skil í sögubókum eftir dauða hennar, reyndar nú þegar auðvitað með vissum hætti, mun þetta mál verða ofarlega á baugi. Þetta voru dimmustu dagar drottningarinnar á valdaferlinum og hún stóð tæpast þá. Annus horribilis, 1992, stóð sannarlega í skugga þessara örfáu daga eftir að Díana dó og þóttu sem hátíð í samanburði.

Enn er drottningin vissulega á krossgötum. Þessir dagar gleymast sannarlega ekki og þeirra er minnst reglulega. Þessu tímabili voru gerð eftirminnileg skil í kvikmyndinni The Queen á síðasta ári. Þar var sýnt frá því sem gerðist bakvið tjöldin og þótti myndin trúverðug og vönduð sýn á þessa dimmustu daga valdaferils hinnar margreyndu drottningar sem rann til á svellinu, mislas skilaboð almennings og átt erfitt með að horfast að lokum í augu við vandann sem hún var komin í. Dame Helen Mirren fékk óskarinn fyrir að túlka drottninguna. Sérstaklega þótti Mirren ná vel svipbrigðum drottningar í ávarpinu sögufræga.

Það er kaldhæðnislegt að ein eftirminnilega ræða drottningar hafi verið samin fyrir hana að stærstum hluta og fjarstýrt að stærstu leyti úr herbúðum stjórnmálanna; minnisvarði um konu sem skók veldi hennar með eftirminnilegum hætti af líkbörum sínum. Merkileg saga. Hljómar eins og hún sé ekki sönn en hún varð svo sannarlega átakanlega sönn fyrir konu sem hafði stýrt heimsveldi áratugum saman og mætti andstöðu fyrsta sinni og varð að beygja sig til að hljóta virðingu almenningsins aftur.

Þetta hljómar vissulega eins og handrit ættað frá Hollywood en varð áþreifanlega raunverulegt fyrir konu áhrifanna á ögurstundu valdaferils hennar.


Umdeild auglýsingaherferð Símans hittir í mark

Umdeild auglýsing Um fátt hefur meira verið rætt í dag en auglýsingu Símans þar sem þriðja kynslóð farsíma er auglýst með áberandi hætti með tilvísan í síðustu kvöldmáltíð Jesú Krists en sitt sýnist hverjum um framsetningu auglýsingarinnar. Ekki verður deilt um það að Símanum hefur tekist að hitta í mark með markaðssetningunni; bæði tekist að tryggja sér umræðu og fengið jafnvel ókeypis auglýsingu með svo umdeildri framsetningu sem raun ber vitni.

Það verður ekki af þeim skafið hjá Símanum að þeir hafa náð fram ótrúlegri kynningu á kerfinu og fyrirtækinu á aðeins um sólarhring. Þeir eru fáir sem ekki hafa séð auglýsinguna og umfang auglýsingarinnar hefur tryggt að fólki langar til að kynna sér auglýsinguna. Þeir hjá Símanum hafa jafnan verið með áberandi auglýsingar sem hafa hitt í mark með einum hætti eða öðrum og það hefur tekist núna, þó vissulega séu ekki allir á eitt sáttir með auglýsinguna og telji hana annaðhvort tæra snilld eða lúalega smekklausa útfærslu á síðustu kvöldmáltíðinni.

Sá í kvöld viðtalið við Halldór Reynisson og Jón Gnarr í Kastljósi. Áhugavert að heyra í þeim um þetta mál. Auðvitað er auglýsingin ekki þess eðlis að fólk vilji stöðva hana af svosem en það eru greinilega heitar skoðanir og þeim hjá biskupsstofu er ekki skemmt. Eflaust er þessi auglýsing sett fram til að stuða. Þannig má jú fá umfjöllun og það var eflaust það sem stefnt var að. Held þó ekki að stefnt hafi verið að því að gera lítið úr Jesú en einhverjir vilja þó túlka svo.

Svo mikið er víst að Símanum tókst ætlunarverkið að komast í umræðuna, ná athygli og það massívri. En það var held ég öllum ljóst að þessi framsetning myndi kalla á skiptar skoðanir og deilur. Þetta er einfaldlega þannig efni sem gert er út á. Er svosem ekki einn þeirra sem varð ofurhneykslaður, varð samt frekar hissa. Það voru eflaust viðbrögðin sem gert var út á.

Símanum tókst að ná sínu fram og fær sína umræðu, sem var vitað mál að yrði niðurstaða mála. Lífleg umræða hefur verið um þetta á blogginu í dag og sitt sýnist hverjum, sumir eru æfir, aðrir alsælir. Það er aldrei hægt að gera öllum til geðs en Síminn fær sitt break í kynningu. 

Umdeild auglýsing Símans

mbl.is Miklar umræður á meðal bloggara um nýja auglýsingu Símans
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Eru Íslendingar óstundvísir?

Ertu óstundvís? Svo virðist vera sem að óstundvísi tónlistargesta hafi sett stóran svip á tónleika söngkonunnar Noruh Jones um helgina. Hef heyrt þetta úr mörgum áttum allavega að margir hafi komið of seint, sem hlýtur að vera rosalega pirrandi fyrir þá sem hafa fyrir því að vera komnir snemma. Þetta hlýtur að vekja spurningar um það hvort að Íslendingar séu jafnan óstundvísir eður ei.

Persónulega finnst mér fátt meira pirrandi en að fólk komi of seint á leiksýningar eða á bíósýningu, þegar að ljósin hafa verið slökkt og jafnvel kemur slatti eftir byrjun og maður þarf kannski að standa upp fyrir öðrum sem eru að koma og vilja komast í sömu röðina eða eitthvað svoleiðis. Svo er reyndar eitt ömurlegasta pirrelsið að upplifa símhringingar í miðju leikriti eða bíómynd.

En hvað með það, óstundvísi á svona stundum er ekki spennandi og spillir ánægju þeirra sem snemma koma. Persónulega finnst mér við Íslendingar æði oft skiptast í tvo öndverða hópa; annaðhvort mætir fólk tiltölulega snemma og vill hafa svigrúm til að koma sér vel fyrir eða mætir svo seint að jafnvel er sýning eða atburður sem í gangi er hafinn fyrir einhverri stund og skyggir á það sem er að gerast. Þeir sem tilheyra fyrri hópnum verða óendanlega pirraðir yfir þeim seinni held ég.

Ætla svosem ekkert að fella þann dóm að Íslendingar séu yfir höfuð óstundvísir. Sumir eru bara þannig að koma frekar seint en snemma og núningur hópanna er því skiljanlegur. Það er ágætt að velta þessu samt fyrir sér hvort betra sé að vera snemma í mætingu eða of seinn. Get ekki ímyndað mér að þeir sem mættu snemma á rólega tónlist Noruh Jones hafi verið sælir yfir þeim sem mættu of seint.

mbl.is Óstundvísir Íslendingar spilltu tónleikum
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Umdeild auglýsing - Síminn stuðar kristna menn

Umdeild auglýsing Um leið og ég sá auglýsingu Símans um þriðju kynslóð farsíma þar sem sögusviðið var síðasta kvöldmáltíð Jesú Krists og hann er að hafa samskipti við Júdas í gegnum myndsímann sagði ég með sjálfum mér að þessi ætti eftir að verða hressilega umdeild. Það voru orð að sönnu. Þegar er farið að takast á um auglýsinguna og kristnir menn undir forystu biskups búnir að gera alvarlegar athugasemdir við framsetningu hennar.

Ég verð að segja alveg eins og er að mér fannst þessi auglýsing vera svona alveg á mörkunum hið minnsta. Fyrstu viðbrögð mín voru svolítil gapandi undrun. Átti ekki von á þessu svo sannarlega. Mjög nýstárleg framsetning. Ég taldi að þeir hjá Símanum myndu nú ekki leggja upp í að setja auglýsinguna svona upp. En væntanlega sjá þeir í þessari auglýsingu skondna framsetningu sem getur vakið hressilega athygli, sem virðist ætla að takast heldur betur, á meðan að kristnir menn telja þetta væntanlega guðlast eða altént mjög smekklaust. Biskupinn er allavega mjög afdráttarlaus í sínum skoðunum.

Það er áratugur að mig minnir liðinn frá því að Spaugstofan helgaði páskaþátt sinn íhugunum sínum um Jesú og sviðsettu atriði úr Biblíunni, þar á meðal síðustu kvöldmáltíðina. Fræg voru að auki atriði þar sem rónarnir Bogi og Örvar breyttu vatni í vín með töfrasprota, blindur maður fékk Sýn og Fjölvarpið í kaupbæti og svona mætti lengi telja. Háðfuglum var skemmt á meðan að Ólafi Skúlasyni, biskupi, og kristnum mönnum þjóðkirkjunnar var ekki beint hlátur í huga og voru frægir eftirmálar þess sem Spaugstofan gerði síðar upp í enn hlægilegri þætti þar sem Gullna hliðið eftir Davíð Stefánsson frá Fagraskógi var sett í grínbúning.

Enn og aftur er tekist á um framsetningu - nú er það eitt stærsta fyrirtæki landsins sem sviðsetur kvöldmáltíðina með lærisveinunum og Jesú vippar upp þriðju kynslóðar farsímanum og hringir í Júdas. Það verður áhugavert að sjá eftirmála þessara hressilegu átaka manna hins andlega og veraldlega auðs á næstunni.

mbl.is Biskup segir nýja auglýsingu Símans smekklausa
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Sóðaleg busavígsla

Busavígsla Það hefur þróast upp í hefð að nýnemar í framhaldsskólum séu busaðir fyrstu námsvikuna og teknir með því inn í skólasamfélagið. Í mörgum tilfellum er um að ræða athöfn sem hefur ígildi þess að vera græskulaust gaman og fólk geti jafnvel hlegið saman að athöfninni. Þess eru þó dæmi á seinni árum um að farið sé óeðlilega langt í að niðurlægja nemendur og gera lítið úr þeim með þessari athöfn.

Athygli vekur nú þessi busavígsla á Ísafirði. Mér finnst það komið út yfir öll eðlileg mörk þegar farið er að ausa rækjumjöli og flórsykri yfir nemendur og þau standa eftir skítug upp fyrir haus í for og ógeði. Það er eðlilegt kannski að gera eitthvað úr þessari athöfn en óþarfi er að láta krökkunum líða eins og þau séu niðurlægð fyrir framan aðra. Það að fá þessa yfirhalningu yfir sig hlýtur að vera í senn lexía og niðurlæging. Kannski er það tilgangurinn? Veit ekki satt best að segja hver tilgangurinn á að vera ef hrein niðurlæging fólks er tilgangurinn.

Busavígslurnar hafa á sér blæ þess að vera manndómsvígsla fyrir nýnema. Í því skyni finnst sumum allt í lagi að ganga mjög langt. Finnst að á þessu verði að vera eðlileg mörk, enda er jafnan stutt á milli þess að ganga of langt og vera með athöfn sem eigi að vera á mörkunum. Það er oft ekki gott að finna millistigið þegar að svona athöfn er skipulögð. Heilt yfir finnst mér busavígsla ekki þurfa að hljóma sem niðurlæging á nýnemum. Það er hægt að tóna alla hluti niður. En það er oft ekki þægilegt að finna mörkin sem þurfa að vera til staðar.

Það er ágætt að fá fram umræðu um þessar busavígslur. Kannski er þetta upphafið á því að fólk hugsi sig almennilega um. Jafnvel að það þurfi ekki að ausa nýnemum upp úr forarsvaði og eða rækjumjöl til að það verði hluti samfélagsins. Hvort að mildari og mannlegri leið sé ekki til staðar. Það er að mínu mati kominn tími til að þessar busavígslur verði stokkaðar upp með þeim hætti að nýnemar haldi virðingu sinni á eftir og þurfi ekki að ganga í gegnum ómannúðlega meðferð til að teljast verða einn af hópnum.

mbl.is Skólameistari MÍ segir busun hafa farið úr böndunum
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Krabbamein

Síðasti mánuður hefur verið fjölskyldu minni erfiður. Það eru nokkrar vikur liðnar síðan að móðir mín greindist með illkynja krabbamein. Við tók venjubundið ferli sem einkenndist af skurðaðgerð og að ná sér eftir það og ekki síður erfiður tími tekur brátt við sem einkennist af strangri lyfjameðferð. Það er ekki einstaklingsverkefni að taka þátt í slíku sjúkdómsferli. Slíkt er verkefni heillar fjölskyldu, enda eru veikindi af þessu tagi ekki eins að takast á við. Höfum við öll reynt að létta móður minni lífið síðustu vikurnar en þetta er erfiður pakki og það er ekki síður sálrænt áfall en annars eðlis að horfast í augu við.

Alla tíð hefur orðið krabbamein skelft mig. Það er eflaust með alla aðra, þetta er þungt og vont orð; sláandi og erfitt að horfast í augu við. Ég hef upplifað þann vonda vágest áður í minni fjölskyldu. Það er þungt og erfitt ferli, mjög sláandi ferli sem verður ekki mjög vel lýst með orðum, að takast á við og verður ekki undir neinn búið með alvöru nema að lenda beint í. Það verður bara að takast á við það, þó að höggið sem fylgi sjúkdómsgreiningu sé ávallt mikið. Það er óhjákvæmilegt. Um er að ræða sjúkdóm sem er erfiður við að eiga og engin orð geta undirbúið það sem við tekur við eftir slíkt.

Ég verð fúslega að viðurkenna að hugur minn hefur verið frekar fjarri þessari bloggsíðu síðustu vikurnar. Ég tók mér pásu fyrir um mánuði, fannst það réttast þá en hef síðan skrifað öðru hverju. Stundum eina færslu jafnvel hvern dag. Það er svosem misjafnlega mikið sem þarf að skrifa. Þetta er ágætis leið til að kúpla sig út úr öðru og að mörgu leyti hefur þessi vefsíða gefið mér mun meira en ég hef sennilega gefið henni. Þetta er fín leið til að tjá sig og finna skoðunum og hugsunum stað.

Ég vil þakka öllum þeim sem hafa sent mér eða okkur góðar kveðjur síðustu vikurnar. Þær met ég mjög mikils.

Vinnusamar köngulær - pödduhræðslan fræga

Köngulær Mér hefur alla tíð verið meinilla við köngulær og þær verða ekki lífseigar í návist minni, svo mikið er víst. Það eru ansi margir sem kippast við þegar að köngulær eru annars vegar og þola ekki skordýr mjög vel. Sama má svosem segja um mig, þoli ekki mjög vel að hafa skordýr í kringum mig og ræðst til atlögu gegn þeim frekar hratt þegar að ég verð var við þær, en ekki er ég svosem hræddur við þær. Þó er alltaf eitthvað við köngulær sem verður þess valdandi að maður kippist aðeins við.

Þrátt fyrir þessa hræðslu við köngulær vekja þær alltaf mikla athygli. Þetta eru auðvitað vinnusöm dýr og það sést sennilega best af þessari ótrúlegu uppgötvun í Texas þar sem hefur fundist 190 metra breiður köngulóarvefur, hvorki meira né minna. Þetta er nú með því ótrúlegra sem sést hefur og telst meiriháttar afrek og ekki furða að þeir sem horfist í augu við köngulóarvefinn velti því fyrir sér hvað hafi eiginlega gengið á þegar að hann var gerður.

Ég hef séð ótrúlega margar kvikmyndir þar sem köngulær hafa komið við sögu og ekkert kippt mér svosem upp við það. Þó er ein mynd þar sem könguló tókst að kippa mér aðeins til og ég varð svona aðeins nervös. Það var Lord of the Rings: The Return of the King, hin margverðlaunaða óskarsverðlaunamynd og lokapunktur trílógíunnar ógleymanlegu. Þar er risaköngulóin Shalob svo sannarlega í stóru hlutverki um miðja myndina og eltingarleikur hennar við Fróða er bæði spennandi og nett ógnvekjandi, enda er köngulóin miskunnarlaus og vel úthugsuð.

Aðrar myndir um skordýr sem vekja alltaf tilfinningar eru t.d. The Giant Spider Invasion, Arachnophobia, Mimic (skelfilega spennandi skordýramynd - risapöddurnar gleymast ekki svo glatt), Them (nett scary :), Mothra (skáldleg og merkilega falleg innst inni), Eight Legged Freaks (þessi gleymist ekki fyrstu næturnar), The Monster that Challenged the World (ekta skordýrakölt), Starship Troopers (sannarlega ekki gamanmynd), Tremors (gleymi henni aldrei hehe), The Deadly Mantis og The Wasp Women. Þær eru miklu fleiri en þessar koma fyrst upp í hugann. Slær þó enginn þeirra út Shalob í LOTR: ROTK held ég.

Skordýr eru hluti tilverunnar. Samt skelfa þær fólk, mismikið þó. Sumir leika sér að hræðslunni í nett pirrandi kvikmyndum, bækur hafa verið skrifaðar og heimildarþættir gerðir. Gleymi aldrei löngum þætt fyrir nokkrum árum þar sem Attenborough skannaði hugarheim köngulóanna. Ógleymanlegur þáttur. Sá maður er reyndar algjör snillingur en hann fór ansi nærri því að toppa sig í þeirri skordýraþáttaröð.

En sennilega fer aldrei hræðslan í huga fólks. Það er þó misjafnt hvernig fólk lifir með hræðslunni. Ráðlegg þeim sem eru verst haldnir fóbíunni að horfa alls ekki á fyrrnefndar myndir. Það gæti orðið svolítið nastý kvöldstund yfir þeim með popp og kók. Þá er nú betra að horfa frekar á góða pöddulausa spennumynd eða rómantískan sykursnúð.

mbl.is Risavefur í Texas
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Fyrri síða | Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband