Færsluflokkur: Dægurmál
12.9.2007 | 15:43
Klúður hjá Símanum

Einhverjir myndu kannski afsaka þetta með því að þar sem Júdas sé vondi kallinn að þá hljóti hann að hringja frá Vodafone í Jesús sem er hjá Símanum í viðskiptum. Hef þó ekki heyrt þessa snilldarfléttu að neinu ráði, enda varla til að bæta mikið stöðu þeirra markaðsmanna Símans. Þeir hjá Vodafone hljóta að hoppa hæð sína af gleði með þetta sjálfsmark Símans.
![]() |
Merki Vodafone sást í Símaauglýsingunni |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Dægurmál | Slóð | Facebook | Athugasemdir (7)
12.9.2007 | 01:29
Vandræðaleg yfirsjón í auglýsingu Símans
Sanniði til, ég þurfti sannarlega stækkunargler til að sjá Vodafone-merkið í auglýsingu Símans. En ég sá loksins það sem varð til þess að auglýsingin margfræga var tekin úr umferð, eftir fína ábendingu er ég leit betur á málið eftir fund í kvöld. Hafði heyrt um þetta seinnipartinn og renndi hratt yfir auglýsinguna áður en ég bloggaði um málið og sá ekki neitt þar. Þegar að ég kom aftur heim beið mín tölvupóstur frá góðum vini þar sem voru fínar upplýsingar og bloggvinir bentu á þetta líka.
Þetta er óneitanlega ansi vandræðaleg yfirsjón hjá Símanum. Dýr og áberandi auglýsing og svo kemur í ljós að undir niðri er þetta dulin auglýsing fyrir Vodafone. Sjokkerandi uppgötvun allavega. Þeir hjá Vodafone hljóta að brosa lúmskt yfir þessu. Svo vekur athygli að hjá Júdasi sjálfum er víst árið 2007. Vandræðalegt.
Dægurmál | Breytt s.d. kl. 01:34 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (4)
11.9.2007 | 18:13
Símaauglýsingu kippt út - hefnd af himnum ofan?
En þetta er óneitanlega ansi fyndið; að auglýsingin sé kippt úr umferð. Væntanlega verður henni breytt eitthvað. Ég verð þó að viðurkenna að ég sé ekki þetta Vodafone-merki. Það er þá glettilega smávægilegt í auglýsingunni. Veit eiginlega ekki hvar það er. Þarf kannski að líta aftur á auglýsinguna til að sjá það, ef það þá sést nema með stækkunargleri.
Einhverjir myndu kalla þetta hefnd af himnum ofan. Þetta er allavega hlægilegt twist eftir allt sem á undan er gengið.
Dægurmál | Slóð | Facebook | Athugasemdir (6)
11.9.2007 | 13:29
Veikur grunnur - ýktar yfirlýsingar fjölmiðla

Eftir stendur að því er virðist frekar veikur grunnur á því hvað hefði getað gerst 3. maí sl. Það gæti líka verið hreinn uppspuni. Það veit enginn og því óvarlegt að segja of mikið. Það að blóðsýnin séu ekki afgerandi, eins og sagt var í gær, breytir miklu og vafinn verður meiri, svo mikill að ekki verður hægt að byggja mál á. Eflaust er þetta ástæðan fyrir því að McCann-hjónin gátu farið frá Portúgal og fengu leyfi lögregluyfirvalda til þess. Heilt yfir er aðeins um getgátur að ræða og ef blóðsýnin sýna ekki afgerandi tengsl er hætt við að málið falli hjá portúgölsku lögreglunni.
Mér finnst það, eins og áður hefur komið fram, of ótrúlegt til að vera satt að McCann-hjónin hafi getað beðið í heilan mánuð með að fela lík dóttur sinnar í júní, í miðju þess fjölmiðlakapphlaups sem þau voru í mánuði eftir hvarf Madeleine. Það er eiginlega of líkt atriði úr fjarstæðukenndri hasarmynd en því sem á sér stað í raunveruleikanum. Það að vafinn sé svo mikill hlýtur að hafa áhrif á stöðu málsins, enda er ekki hægt að fullyrða jafnvel að um sé að ræða blóðblett sem tengist öðrum fjölskyldumeðlimum. Ef ekki er hægt að tengja saman með afgerandi hætti er málið frekar veikbyggt.
Það er þó fyrst og fremst verulega slæmt að fjölmiðlar ýki grunn málsins og reyni að búa til fréttir áður en alvöru staðfesting kemur á því sem sett er fram. Það virðist hafa verið hugsað um uppslátt í fyrstu frétt mun frekar en það sem sannara reynist í þessu tilfelli. Fjölmiðlakapphlaupið í þessu máli er mikið. En það er mjög vont ef að hasarinn verður svo mikill að rangar upplýsingar verða forsíðuuppsláttur eins og virðist vera í þessu tilfelli. Öllu kappi á að fylgja forsjá, þetta ættu þrautreyndir breskir fréttamenn að vita.
![]() |
Lögregla segir ekki fullvíst að erfðaefni sé úr Madeleine |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Dægurmál | Slóð | Facebook | Athugasemdir (6)
11.9.2007 | 00:12
Sterk sönnunargögn - verða hjónin ákærð?

Þetta mál dekkar bresku fréttastöðvarnar nær algjörlega. Horfði á Sky áðan í rúman klukkutíma og nær ekkert annað var rætt, fókusinn er á stöðuna í Portúgal og framhaldið í kjölfar þess. Þegar virðist vera farið að tala um hvað verði um börn hjónanna hvort svo sem þau verði ákærð eður ei og hvort að barnavernaryfirvöld muni skipta sér af þeim áður en langt um líður. Eins og ég sagði hér fyrir nokkrum dögum er þetta dramatísk framvinda í málinu og eiginlega of ótrúleg til að vera sönn í margra augum.
Það er hreinn harmleikur ef það er svo eftir allt saman að foreldrarnir hafi verið völd að dauða stelpunnar, falið líkið vikum eftir hvarf hennar og hafi á meðan farið um álfuna til að leita stuðnings við baráttuna um að fá hana aftur til sín. Þessi fjölmiðlaathygli fór alla leið til Benedikts páfa í Róm og stjörnur tóku málstað þeirra. Enn veit enginn hvað varð um Madelein eftir um 140 daga en sönnunargögnin varpa nýju ljósi á það hvað hefði getað gerst og hvort að hún hafi jafnvel dáið af völdum foreldra sinna og þau ekki getað höndlað framhaldið og hafið eitt stórt sjónarspil til að beina athygli annað.
Það eru margar spurningar en verulega fá svör hinsvegar sem blasa við í þessu máli. DNA-rannsóknir eru orðnar nær algjörlega öruggar og svo sterkar líkur vekja því athygli. Portúgalska lögreglan sem klúðraði málinu á frumstigi er hætt að leita að lifandi stelpu en farið að leita hinsvegar að morðingjum hennar og telur sig komna í feitt. Ekki er það óeðlilegt miðað við þessar rannsóknir. Samt sem áður er þetta að mínu mati of ótrúlegt til að vera satt og undrast enn. En það þýðir varla að deila við DNA. Framhaldið er óráðið að öðru leyti en því að væntanlega styttist í ákærur og málið fari á annað stig.
Það er alltaf skelfilegt ef foreldrar eiga þátt í dauða barna sinna og dómur yfir þessum hjónum verður þungur ef sú verður raunin að þau verði ákærð eða dæmd í þessu máli. En það hefur gerst að foreldrar hafi verið dæmdir fyrir slíkan verknað án þess að eiga hlutdeild að máli. En samt sem áður hlýtur málið að fara á annan veg vegna þessara sönnunargagna og eiginlega fróðlegast að sjá hvað tekur við núna - mun samúð almennings í garð foreldranna, sem hefur verið mikil frá fyrsta degi, gufa upp eins og dögg fyrir sólu nú?
![]() |
Portúgalska lögreglan segir DNA-sýni afdráttarlaus |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Dægurmál | Slóð | Facebook | Athugasemdir (6)
10.9.2007 | 11:42
Ferill Britney Spears rennur í sandinn

Það er mjög vægt til orða tekið að fræg ímynd Britney Spears sem saklausrar blondínu með englablæ sé endanlega fokin út í veður og vind eftir fjölmiðlaáföll hennar undanfarið árið og fátt þar eftir sem minnir á forna frægð, ef marka má misheppnaða endurkomuna sem beðið hefur verið eftir í yfir þrjú ár. Nokkrir mánuðir eru síðan að stjarnan flippaði yfir um og rakaði af sér hárið og lét í ofanálag tattúvera sig. Það var stílbreyting sem fáum þótti líklegt að stílisti ráðleggði.
Það voru sjokkerandi myndir sem dókúmenteruðu hratt fall stjörnu. Hún gekk þó ekki alla leið til heljar og lét tattúvera skipperamerki á upphandlegginn eða djöflatákn á bakið heldur lét sér þá nægja að fá lítið brostákn á upphandlegg. Ég man þegar að Britney var að byrja að ótrúleg ímynd saklausrar stelpu, allt að því hreinnar meyjar með tæra englaásýnd, var búin til fyrir hana. Sú ímynd var kostulega hjúpuð. Hún var undir þeim merkjum mjög lengi. Á tveim til þrem árum er ferill hennar fokinn út í veður og vind og hún er orðin eins og útlifuð tuskudúkka sem heldur aðeins áfram að steypast í glötun.
Hún virðist vera að taka sess Önnu Nicole Smith sem gleðidívu sem fer sínar leiðir og hikar ekki við að hneyksla. Ekki langt síðan að hún var mynduð nærbuxnalaus og um skeið leit hún út eins og Ripley í Alien 3. Hrá týpa vægast sagt. Britney virðist ekki lifa neinu skemmtilífi lengur, þó það sé reynt. Það er ekki fjarstæðukennt að telja að henni vanti stórlega hjálp frá glötun. Hún er nefnilega á hraðri niðurleið og aðeins spurning hvenær að hún steypist endanlega í duftið. Vona að henni verði allavega forðað frá sömu örlögum og stjörnunnar Önnu Nicole Smith.
Skelfileg örlög það - og nöpur.... fyrir hvaða konu sem er; fræga eða óþekkta. Í rauninni er þetta kennslubókardæmi um hvernig frægðin getur leikið fólk. Hún getur verið dauðadómur í sjálfu sér sé hún ekki höndluð.
![]() |
Britney Spears vakti litla lukku á MTV-verðlaununum |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Dægurmál | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
10.9.2007 | 00:34
...að þora að storka örlögunum

Og nú hefur hann sýnt að ekkert hefur breyst. Enn eitt glæfraatriðið og ekki minna öflugt. Hamster hefur öðlast orðspor fyrir að vera djarfur og ákveðinn. Þessi þáttur er auðvitað bara adrenalínkikk út í eitt og hlýtur að þurfa járnkraft til að geta gert allt sem hugurinn girnist án þess svo mikið sem að óttast neitt. Það hlýtur að þurfa enn meiri kraft að þora að leggja í svona aftur eftir svo mikil meiðsl og eiginlega nokkra aðvörun sem fólst í því um að ekkert er öruggt.
Ég hef reyndar oft hugsað um hvernig það sé að storka örlögunum svona. Í og með er það aðallexían sem Hamster er að sýna sjálfum sér og öðrum. Honum er nokkuð sama og heldur áfram því sem hann gerði. Það er líka ansi öflugt að geta eftir slysið gert þátt um lífsreynsluna að taka höggið og lenda í svo kraftmiklu atriði og tala um það, eins og eiginlega ekkert hafi gerst. Hann gerir þetta eins og að drekka vatn að því er virðist.
Persónulega er svolítið aðdáunarvert að fylgjast með þeirri fífldirfsku, ef kalla má það annars svo, sem felst í þessu hjá Richard Hammond. Hann er allavega ekki hræddur. Hann er kannski með níu líf eins og kötturinn. Þetta kallast sennilega að vera karl í krapinu, þó öðrum finnist hann leika sér einum of harkalega að eigin örlögum með því að halda uppteknum hætti.
![]() |
Hammond samur við sig |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Dægurmál | Slóð | Facebook | Athugasemdir (1)
9.9.2007 | 14:15
Gerry og Kate McCann fara til Bretlands

Kjaftasögurnar sem fjölmiðlarnir segja að komi frá nánum aðstandendum McCann-hjónunum eru á þá leið að portúgalska lögreglan sé að leita að blórabögglum í málinu. Hún hafi, eins og svo margoft hefur verið bent á, klúðrað rannsókninni á hvarfi Madeleine McCann og vilji auðveldari leiðina út. Það má vel vera. En ekkert mál getur staðið fyrir dómi nema að sönnunargögnin séu frekar skotheld. Það þarf meira en bara veik sönnunargögn til að fara með málið þá leið til enda og til að gera sjálfa foreldrana að sakborningum. Hinsvegar hlýtur að verða kallað á að sá hluti verði opinberaður betur en nú hefur verið gert.
Ég verð að viðurkenna að mér finnst tilgáta portúgölsku lögreglunnar sem lak út í gær mjög langsótt. Foreldrarnir eigi að hafa valdið dauða stelpunnar (fyrir slysni væntanlega) og hafi svo beðið með að losa sig við líkið í um mánuð og þá notað bílaleigubílinn til að standa í því. Ég veit ekki betur en McCann-hjónin hafi verið í kastljósi fjölmiðla nær upp á hvern dag síðan að málið kom upp og fjölmiðlar hafa hundelt þau nær hvert einasta skref sem þau hafa stigið. Það hefði heldur betur þurft öflugt hliðarspor, framhjá fjölmiðlum, til að geta gert slíkt mánuði eftir hvarf stelpunnar.
Það kemur ekki eitthvað allavega þarna heim og saman. Heilt yfir er þetta mál jafnóskiljanlegt og áður. Spurningarnar eru margar og kallað er á raunhæf svör. Þau er þó ekki að fá. Hinsvegar finnst mér það svo fjarlægt að foreldrarnir hafi getað haldið þetta út svo lengi í baráttu sinni hafi þau valdið dauða stelpunnar sjálf. Það þarf sterk bein til að geta haldið handritið út svo lengi og spunnið það stig af stigi og samið jafnóðum. Ráðgátan í málinu virðist ekki enn nærri því að leysast.
Svo virðist vera sem að portúgalska lögreglan hafi gefist upp á að finna Madeleine McCann og þess í stað hafið leitina að morðingjum hennar. Þáttaskil felast sannarlega í því. Það sem vantar áþreifanlega í þá mynd er að leysa ráðgátuna um örlög Madeleine. Á meðan að ekkert lík finnst er málið haldlítið í raun og aðeins byggt á getgátum. Það er fátt afgerandi í þessu og unnið er eftir því sem mögulega hefði getað gerst.
Það sem verst er í málinu er að aldrei verði vitað með vissu hvað gerðist 3. maí 2007 í Praia de Luz í Algarve. Lykilatriði er að rekja slóðina. Stór hluti þess að það hefur ekki tekist er að portúgalska lögreglan klúðraði málinu á frumstigi. Það virðist vera að hún sé því að spinna málið eigin leið til að rekja málið frá eigin afglöpum. Það lítur allavega þannig út og ekki hjálpar veikburða tilgátur þeirra til.
![]() |
Foreldrar Madeleine McCann komnir heim til Bretlands |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Dægurmál | Slóð | Facebook | Athugasemdir (2)
8.9.2007 | 17:05
Luciano Pavarotti kvaddur í Modena
Meistari Luciano Pavarotti var jarðsunginn í dómkirkjunni í Modena í dag. Horfði ég á útför hans í beinni á CNN eftir hádegið. Þetta var mjög falleg athöfn - tónlist lék þar lykilhlutverk eins og við má búast þegar að einn fremsti söngvari tónlistarsögunnar og óperulistarinnar er kvaddur hinsta sinni. Þetta var umfram allt þjóðarútför, enda var Luciano Pavarotti einn af dáðustu sonum Ítalíu og hann var svo sannarlega kvaddur með virðingu af landsmönnum og íbúum heimabæjarins sérstaklega.
Falleg tónlist situr svo sannarlega eftir í minningunni eftir þessa athöfn. Andrea Bocelli söng hið undurljúfa Ave Verum Corpus með glæsibrag og leikin var þriggja áratuga gömul upptaka með söng feðganna Fernando og Luciano Pavarotti á hinu notalega lagi Panis Angelicus, sem kallaði á mikla gleði viðstaddra og var klappað mjög lengi í kjölfarið. Það var sennilega ein eftirminnilegasta stund athafnarinnar, rétt eins og þegar að hin búlgarska sópransöngkona Raina Kabaivanska, samstarfsmaður Pavarottis og vinkona hans um langt skeið, söng undurljúft við byrjun athafnarinnar (og með tárin í augunum) Ave Maria úr Óþelló eftir Giuseppe Verdi.
Undir lok athafnarinnar var eitt þekktasta lag Luciano Pavarotti, Nessun Dorma úr Turandot eftir Giacomo Puccini, sem verður um alla tíð talið helsta einkennislag hans á litríkum tónlistarferli, leikið í flutningi meistarans sjálfs, er kista hans var borin úr kirkju. Þegar að hann kom fram í síðasta skipti opinberlega, eftir 45 ára söngferil, við setningu vetrarólympíuleikanna í Tórínó fyrir einu og hálfu ári söng hann Nessun Dorma. Það var ótrúlega sterkur flutningur miðað við að heilsu hans væri tekið að halla og hann kallaði þá sem ávallt áður fram sterkar tilfinningar hlustenda. Persónulega finnst mér besta túlkun hans á Nessun Dorma vera á tónleikum tenóranna þriggja í Róm árið 1990 og í París árið 1998, þó sennilega standi fyrri túlkunin þar upp úr.
Það var táknrænt að sjá þegar að Luciano Pavarotti var hylltur við lok útfararinnar er ítalski flugherinn flaug yfir dómkirkjuna í Modena í virðingarskyni við söngvarann fallna, einn fremsta tónlistarmann í sögu Ítalíu, og fjölskyldu hans, og kallaði fram ítölsku fánalitina á himninum. Falleg sjón og myndræn hinsta kveðja frá ítölsku þjóðinni til söngvarans.
Það hefur sést á síðustu dögum hversu sterkan sess Luciano Pavarotti hafði, ekki bara á Ítalíu heldur um allan heim. Hann var alþjóðlegur söngvari sem hreif fólk með sér og hans er minnst sem eins hinna bestu sem hafa staðið á óperusviðinu og munu gera það á næstu áratugum og öldum.
Blessuð sé minning þessa mikla meistara.
Umfjöllun um Luciano Pavarotti - 060907
![]() |
Þúsundir syrgja Pavarotti í Modena |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Dægurmál | Breytt 9.5.2009 kl. 03:04 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (4)
8.9.2007 | 11:46
Dramatísk atburðarás - McCann-hjónin grunuð
Það er til marks um hversu sterk sönnunargögn portúgalska lögreglan hefur að Kate McCann hafi verið boðið að fá vægari dóm gegn því að játa á sig aðild að dauða dóttur sinnar. Nú eru bæði Gerry og Kate með réttarstöðu sakbornings í málinu og væntanlega ekki langt í að málið fari lengra og þau verði formlega ákærð, ef marka hina dramatísku atburðarás. Mörgum er verulega brugðið við að málið sé komið á þetta stig, enda er alvarlegt að orða það að foreldrar hafi banað barni sínu, hvað þá að lögreglan staðfesti þann grun með þessum hætti.
Það hafði verið talað um að McCann-hjónin ætluðu brátt að halda frá Portúgal og til Bretlands. Það er ekki beint líklegt að það gerist í bráð. Fari þau fyrir dómara mun verða tekið fyrir hversu mikið frelsi þeirra verði; hvort vegabréfin verði tekin af þeim, þau verði handtekin formlega og eða verði sett í stofufangelsi. Altént er augljóst miðað við hvernig málið er vaxið að enn stærri tíðinda sé að vænta. Portúgalska lögreglan hefur fengið á sig mikla gagnrýni vegna málsins fyrir að hafa verið sein að átta sig á lykilþáttum í upphafi og greinilega er hún nú að reyna að sýna að hún sé nær lausn málsins en nokkru sinni áður.
Atburðarás síðustu 48 klukkutíma er dramatískur viðsnúningur. Fyrir nokkrum vikum og mánuðum voru læknarnir Gerry og Kate McCann talin fórnarlömb skelfilegs glæps þar sem dóttir þeirra hafði horfið sviplega en nú eru þau með réttarstöðu líklegra sakborninga, talin hafa banað henni og losað sig við líkið jafnvel vikum eftir að hún hafði horfið. Þetta er vissulega mjög merkilegt mál. Það hefur verið í kastljósi fjölmiðla í allt sumar. Foreldrarnir hófu alheimsherferð til að reyna að finna Madeleine og hún varð ein þekktasta persóna sumarsins í fjölmiðlum, myndir af henni fóru um allan heim og foreldrarnir gerðu sér ferð til Rómar til að hitta Benedikt XVI páfa til að vekja athygli á hvarfi Madeleine.
Það er auðvitað mjög dramatískt að sjá þessa nýjustu fléttu birtast. Eins og ég sagði hér í gær finnst mér eiginlega með ólíkindum að foreldrarnir hafi getað gert þetta. Finnst það eiginlega of sorglegt til að geta verið satt, eftir allt sem á undan er gengið; alla baráttuna fyrir því að finna stelpuna og það fjölmiðlakapphlaup sem foreldrarnir hafa leitt, jafnvel með fulltyngi fjölmiðlastjarna og trúarleiðtoga. Hafi það verið raunin að foreldrarnir hafi átt hlut að máli verður dómur yfir þeim mjög þungur, ekki aðeins í áralöngu fangelsi heldur þungum persónulegum dómi sem almenningur og fjölmiðlar munu ósjálfrátt kveða upp.
Það eru sem betur fer fá dæmi um að foreldrar hafi myrt ung börn sín. Það hefur líka gerst að foreldrar hafi verið hafðir ranglega fyrir sök í þeim efnum. Ég minntist einnig í gær á mál Chamberlain-hjónanna, sem voru sökuð um að hafa myrt dóttur sína, Azariu, í Ástralíu í upphafi níunda áratugarins. Lindy Chamberlain var dæmd fyrir þann verknað er yfir lauk og sat í fangelsi í heil sex ár áður en sakleysi hennar var sannað er flík af Azariu fannst í fleti dingó-hunda. Móðirin hafði borið vitni um það alla tíð að dingó-hundur hefði hrifsað stelpuna með sér í myrkri en henni var ekki trúað er á hólminn kom.
Kvikmyndin A Cry in the Dark, sem sagði sögu hjónanna allt frá upphafi málsins, er Azaria hvarf sporlaust í sumarferð foreldranna, og þar til að Lindy var látin laus eftir áralanga fangavist, vann hug og hjarta kvikmyndaáhorfenda fyrir tveim áratugum og leikkonan stórfenglega Meryl Streep vann þar enn einn leiksigurinn í hlutverki Lindy og var mjög nærri því að fá óskarinn fyrir þá glæsilegu túlkun. Frábær mynd, ég ætla mér að rifja upp kynnin af henni í kvöld og horfa á, enda orðið of langt síðan síðast. Þessi mynd er að mínu mati með þeim bestu sem Meryl hefur leikið í. Mjög sönn túlkun.
En fólk um allan heim er undrandi yfir þeim þáttaskilum sem stefnir í nú í Portúgal í þessu fjölmiðlavæna barnshvarfsmáli. Það verður mjög áhugavert að sjá hvað tekur þar við. Það þarf mjög sterk sönnunargögn til að fara með málið í þessa átt. Það verður fróðlegt að sjá hversu sterkur almennur stuðningur við foreldrana verði þegar að málið fer endanlega í þessa átt sem það hefur tekið og jafnvel ef það fer fyrir dóm. Ég sá í gærkvöldi viðbrögð Gerry McCann í beinni á Sky og sá atburðarásina þar beint, enda var útsending frá staðnum í allt gærkvöld.
Það er merkilegt að fá þessar fréttir heim í stofu. Fyrst og fremst er þetta mjög sorglegt mál. Hafi foreldrarnir verið þar að verki fá þau þungan dóm, ekki aðeins mældan í árum, en það er samt mjög óraunverulegt að trúa því að þau hafi gert þetta. Það þarf ótrúlega sterkar persónur til að geta leikið sín hlutverk svo vel svo lengi hafi þetta verið raunveruleiki málsins. Það er bara mjög einfaldlega þannig.
![]() |
Móður Madeleine boðið að játa gegn vægum dómi |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Dægurmál | Breytt s.d. kl. 11:52 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (2)