Færsluflokkur: Dægurmál

O.J. Simpson bak við lás og slá

O.J. SimpsonÞað er sérstök tilfinning að sjá O.J. Simpson bak við lás og slá, nú vegna afbrota í Las Vegas. Ég var alltaf þeirrar skoðunar að hann hefði myrt fyrrum eiginkonu sína og ástmann hennar fyrir þrettán árum og varð gáttaður á frægum dómi fyrir tólf árum sem sýknaði hann í þessu eina frægasta morðmáli síðustu áratuga í Bandaríkjunum. Réttarhöldin hlutu metáhorf í bandarísku sjónvarpi og allt málið varð eins og sakamálaþáttur með dómsívafi.

Fyrst man ég eftir O.J. í Naked Gun fyrir um tveim áratugum. Myndin var með bestu gamanmyndum þess tíma og O.J. vakti þar mikla athygli og var í öllum þrem myndunum sem skartaði Leslie Nielsen og Priscillu Presley í aðalhlutverkum. Hann hafði á sér ímynd fátæklingsins sem braust til metorða, ameríski draumurinn all over again. Morðmálið árið 1994 eyðilagði mannorð hans og þrátt fyrir dóminn fyrir rúmum áratug eru margir enn í vafa um hvort hann hafi verið saklaus. Flestir telja, sem mjög eðlilegt er, að hann hafi framið morðin.

Hann beit höfuðið af skömminni fyrir um ári þegar að hann ætlaði sér að gefa út bókina If I Did It, þar sem hann lýsti hvernig hann hefði farið að hefði hann drepið Nicole Brown Simpson og Ronald Goldman. Fjölskyldur hinna látnu, sem aldrei hafa sætt sig við sýknudóminn yfir Simpson gáfu bókarskrifunum undirheitið; Confessions of the Killer. Málið er enn í kastljósi fjölmiðla og dómurinn á sínum tíma skók Bandaríkin. Simpson hefur aldrei hlotið uppreist æru síðan, þrátt fyrir sýknudóminn og hefur lifað í skugga þessa máls síðan.

Það munu margir gleðjast yfir þessum örlögum hans nú í Las Vegas, svo mikið er víst.


mbl.is O.J. Simpson ákærður fyrir mannrán
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Andar liðins tíma fylgja Beckham til Bandaríkjanna

Rebecca Loos Það kemur ekki að óvörum að Rebecca Loos reyni að glampa í sama fjölmiðlageislanum sem hefur umlukið David og Victoriu Beckham í Bandaríkjunum undanfarna mánuði. Hún hefur fylgt þeim sem vofa í þrjú ár, eftir frægt hneykslismál, þar sem hún sagðist hafa verið hjákona fótboltastjörnunnar, og mun gera það mjög lengi enn, tel ég. Hún veit sem er að þar sem áhugi verður á Beckham getur hún nýtt sér hann ennfremur.

Það er reyndar með ólíkindum hversu mikið fjölmiðlafár fylgir Beckham-hjónunum enn og hefur gert eftir komuna til Bandaríkjanna. Þetta virðist vera engu síðri glampi athyglinnar en Beckham fékk er hann fór til Spánar fyrir fjórum árum frá Manchester United, eftir litríkan feril þar. Rebecca Loos varð heldur betur örlagavaldur þeirra á fyrri hluta Spánaráranna og litlu munaði eflaust að Beckham-hjónin skildu á árinu 2004. Því varð þó afstýrt og hafði þar eflaust mikið að segja fyrrnefndur fjölmiðlaglampinn, sem varð öllu yfirsterkari að lokum.

Það er skiljanlegt að Rebecca Loos vilji fylgja eftir glampanum. Það getur hún með réttri markaðssetningu. Það hefur hún gert enn og aftur nú. Hún kemur með rétta boðskapinn enn og aftur og hittir réttu nóturnar í sömu markaðssetningu og Beckham-hjónin ein ætluðu að fljúga á til Bandaríkjanna. Það er ekki nóg með að Beckham-hjónin fari í forsíðu- og aðaluppsláttarviðtöl við blöð og ljósvakamiðla, heldur hafa þau setið nærri nakin fyrir í þekktu bandarísku tímariti.

Allt átti semsagt að vera bundið þeim. Fjölmiðlaglansinn átti að vera þeirra í gegn. Þau gleymdu hinsvegar að gera ráð fyrir Rebeccu Loos. Já, það er oft erfitt að hafa anda liðinna tíma á eftir sér.

mbl.is Ástkonan elti Beckham til Bandaríkjanna
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Er málið gegn McCann-hjónunum að veikjast?

McCann-hjóninÞað er ekki beint hægt að segja að málið gegn McCann-hjónunum sé að minnka í umfjöllun fjölmiðla. Enn er það aðalfrétt um allan heim og stefnir varla í annað. Sýnist þó á nýjustu stöðu mála að málarekstur portúgölsku lögreglunnar gegn McCann-hjónunum sé að veikjast. Úrskurður dómara þess efnis að Kate McCann þurfi ekki til Portúgals í yfirheyrslu eins og lögreglan óskaði eftir gefa til kynna að málið standi veikum fótum.

Það er reyndar mjög merkilegt að dómarinn hafi óskað eftir því að tjá sig beint um málið. Nú hefur honum verið meinað það af réttarfarsnefnd í Portúgal. Framhaldið er óvíst en eitthvað virðist málið vera veikara að efnisatriðum en margir töldu í upphafi. Það eru ótrúlega margar sögusagnir í þessu máli. Það er jafnan svo að í máli af þessu tagi er margt sem gefið er í skyn og margt sem sagt er að það er erfitt að vita hverju skuli í raun trúa. Fréttaflutningur virðist það hraður að ekki er hægt að trúa öllu af honum eins og dæmin hafa sannað.

Heilt yfir virðist ekkert mál vera í höndunum fyrr en meira afgerandi sönnunargögn koma til sögunnar. Meðan að ekkert lík er í málinu finnst mér hæpið að fara algjörlega að meðhöndla málið sem morðmál og varpa gruni á foreldrana. Það virðist vera að þau hafi haldið sterkri stöðu sinni á opinberum vettvangi, það er mikill stuðningur við þau enn og ekki vilja allir trúa veikum sögugrunni lögreglunnar sem fjölmiðlar hafa hype-að upp. Enda er það einum of ótrúleg atburðarás til að hljóma sönn í gegn.

Heilt yfir er þetta mál ágætis sýnishorn á hversu mjög fjölmiðlarnir eru til í að fara með órökstuddar sögusagnir í forsíðuppslátt. Meira að segja virtar breskar fréttastöðvar hafa fallið í þá gryfju í þessu máli og ekki er hitinn í málinu að minnka þó enginn viti með vissu hvað varð um Madeleine McCann. Það er stóra spurning málsins og við henni hefur ekkert svar fengist. Það er lykilatriði sem skiptir máli á meðan að sögusagnir grassera.


mbl.is Dómara bannað að tjá sig um hvarf Madeleine
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Fimm ára bloggafmæli - ár á Moggablogginu

Það er ár í dag frá því að ég byrjaði að blogga hér á Moggablogginu og á morgun eru fimm ár frá því að ég byrjaði að blogga. Þetta hefur verið yndislegur tími hér síðasta árið; mjög gaman og það hefur verið notalegt að vera partur af þessu magnaða vefsamfélagi; því besta hérlendis. Áður hafði ég verið í fjögur ár á blogspot.com og því árin orðin fimm, merkilegt nokk. Verð að viðurkenna að ég hugsaði mig nokkuð um áður en ég ákvað að færa mig og sé ekki eftir því. Kom áður en mesti straumurinn kom hingað yfir og hef því séð samfélagið hér vaxa dag frá degi.

Ég er kominn með fjöldann allan af góðum bloggvinum. Meirihluti bloggvina minna hafa óskað eftir að tengjast mér. Hef kynnst miklum fjölda af mjög góðu fólki, fólki úr öllum flokkum og með ólíkar skoðanir á málunum, og svo hafa böndin við gamla og góða vini í bloggheimum, fólk sem ég hef þekkt lengi, styrkst sífellt með tengslum hér. Er kominn með góðan hóp bloggvina. Allt er þetta fólk sem ég met mikils og ég hef gaman af að kynnast nýju fólki. Fæ góð komment á skrifin og heyri skoðanir úr ólíkum áttum.

Fór yfir skoðanir mínar á moggablogginu í viðtali við Gest Einar Jónasson og Hrafnhildi Halldórsdóttur á Rás 2 fyrir nokkrum mánuðum. Sagði þar mínar skoðanir á því og fékk spurningar í staðinn um kerfið. Er mjög ánægður með allt hér og tel þetta vera eins og best verður á kosið. Er mjög sáttur við minn hlut. Vil þakka lesendum mínum fyrir að líta við og lesa skrifin og öllum þeim sem kommenta hér á skrifin og segja sína skoðun vil ég þakka fyrir að tjá sig hér.

Allar ábendingar eru góðar ábendingar hér og mjög notalegt að heyra í þeim sem hafa skoðanir á mínum skoðunum. Eina sem ég krefst er að fólk sé málefnalegt og tali á kurteisislegum nótum. Nafnleysi er ekki liðið hér. Geti fólk ekki skrifað heiðarlega og undir nafni er skoðunin dauð að mínu mati.

Eins og ég sagði í viðtalinu finnst mér gott að fá komment og fagna því ef aðrir hafa skoðun á því sem mér finnst, enda eru pælingarnar hér mínar og þær eru lifandi og ákveðnar.

Spaugstofan líkti Þórhalli við Osama Bin Laden

Þórhallur GunnarssonÞað var athyglisvert að sjá Randverslausa Spaugstofu í kvöld - margt fyndið og sumt ekkert spes, eins og gengur. Fyndnast af öllu fannst mér að sjá fjórmenningana líkja Þórhalli Gunnarssyni, dagskrárstjóra, við hryðjuverkamanninn Osama Bin Laden með verulega áberandi hætti. Inn á milli öskraði hann aðspurður um hver væri besti vondi kallinn að það væri Þórhallur og einnig var karakterinn í gervi hryðjuverkamannsins að kalla til Spaugstofumannanna; Þú ert rekinn!

Karakterinn í líki Osama fylgdi Erni, Pálma, Sigga og Kalla í gegnum allan þáttinn og nærvera hans var í senn athyglisverð og áberandi auðvitað, umhugsunarverð kannski umfram allt. Hann var svona ógnandi stóri pabbi yfir þeim og hótaði þeim öllu illu milli sketchanna. Þetta var ansi fyndið bara og það sem stóð helst eftir er þættinum lauk eiginlega fannst mér. Mjög nett skot hjá Spaugstofumönnum og þau vöktu sannarlega athygli þeirra sem sáu þáttinn.

Það var spes að horfa á þáttinn án Randvers Þorlákssonar í leikhópnum. Eftir svo mörg ár er brotthvarf eins úr hópnum áberandi. Mikið hefur verið talað um brottrekstur hans og sumir töldu það meira að segja vera grín. Eftir þáttinn í kvöld deyr sá orðrómur endanlega. Þetta er bara veruleiki málsins. Eftir stendur að furðulegt er að Spaugstofan fái ekki að vera eins og hún hefur verið bara. Þetta er þáttur sem hefur haft mikið áhorf og ekkert kallaði svosem á breytingar.

Ég hló mjög að sumum atriðum og þau voru mun færri atriðin sem mér fannst ekkert spes. Það var áhugavert að sjá gestaleikarana, sérstaklega fannst mér Edda Björk passa vel í hópinn og hún small vel inn í hlutverk Ingibjargar Sólrúnar. Auglýsingin með ISG og Geir var ansi smellin. Svo er Pálmi sífellt að verða betri í hlutverki Guðna framsóknarhöfðingja. Það verður spennandi að fylgjast með þættinum í vetur og hvort að Osama dagskrárstjóri fylgi þeim eftir.


Ásdís Halla hættir hjá BYKO

Ásdís Halla Bragadóttir Það vekur mikla athygli að Ásdís Halla Bragadóttir sé að hætta sem forstjóri BYKO eftir rúmlega tveggja ára starf þar. Allir spyrja sig um hvert hún sé að fara. Það hlýtur að vera spennandi nýtt verkefni sem kallar á vistaskipti af þessu tagi á þessum tímapunkti. Varla eru það pólitísk verkefni, enda eru engar kosningar á næstunni, nema þá um forsetaembættið í júní 2008. En hver vill leggja annars peningana sína undir á að hún ætli sér að taka við af Ólafi Ragnari?

Þessi tilkynning kemur merkilegt nokk jafnmikið á óvart og þegar að Ásdís Halla hætti sem bæjarstjóri í Garðabæ í maí 2005. Ég hef alla tíð dáðst af Ásdísi Höllu frá því að hún varð formaður SUS, fyrst kvenna, og viljað veg hennar sem mestan. Finnst hún einfaldlega mesta talent flokksmanna á þessum aldri úr röðum kvenna, ef Þorgerður Katrín varaformaður er kannski undanskilin. Hinsvegar hefur mér alltaf þótt Ásdís Halla svo leiftrandi öflug og mikil forystukona að það var leitt að missa hana úr stjórnmálum. Það voru enda margir sem söknuðu hennar þaðan.

Garðabær undir forystu Ásdísar Höllu í fimm ár var bær tækifæranna, sveitarfélag sem var í fararbroddi og hún var virt fyrir störf sín, þvert á stjórnmálalínur. Vissulega vona ég að Ásdís Halla sé að fara aftur í stjórnmál en efast þó stórlega um það. Nýtt og spennandi tækifæri virðist kalla á hana. Reyndar er þetta merki þess að Ásdís Halla vilji stöðugt vera í þróun og ekki daga uppi á neinum einum stað, sé alltaf að sækjast eftir nýjum tækifærum. Það er vissulega gott mál og vonandi fær hún verðugt verkefni til að taka við nú.

mbl.is Forstjóraskipti hjá BYKO
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Margir vilja Randver aftur í Spaugstofuna

Randver Það hefur verið mikil umræða um þá ákvörðun að reka Randver Þorláksson úr Spaugstofunni í netheimum og samfélaginu. Nú er hafin undirskriftasöfnun á netinu til stuðnings Randver og munu yfir 1300 undirskriftir hafa borist þar inn nú þegar. Það verður fróðlegt að sjá hvort að það hafi einhver áhrif, en allavega sannast með því að margir tala máli Randvers og harma það að honum hafi verið sparkað úr þættinum.

Þátturinn heldur áfram á morgun í Sjónvarpinu og verður áhugavert að sjá hvernig að þátturinn líti út án Randvers og hversu breyttur hann verði. Það er greinilegt að Þórhallur hefur tekið þá afstöðu að breyta þættinum og hefur talið nauðsynlegt að sparka Randveri. Mér finnst þetta röng nálgun. Ef þátturinn er staðnaður er það varla sök Randvers eins og þetta er mjög harkaleg aðgerð.

Spaugstofan hefur verið virt mjög lengi fyrir húmor sinn. Það eru ekki allir sáttir við hana svosem, en það er heldur aldrei hægt að gera grín svo allir hlæji að. Það er alltaf einhver ósáttur. En ég leit á Spaugstofuna sem heild fimm manna, ekki einstaklingsverktaka á launum. Þar væri lögmál skyttanna þriggja í hávegum hafðar. Orð þeirra sem eftir eru hafa því komið á óvart og undarlegt að þeir sætti sig við að vera höggnir svona til með valdboði að ofan.

En heilt yfir sýnir þetta mál að fólki er ekki sama um Spaugstofuna og vill hafa hana eins og hún hefur verið. Þetta er svona eins og að henda einum úr fjölskyldunni á dyr án þess að fjölskyldan hafi nokkuð um það að segja.

Leitað eftir ástinni á mjólkurfernu

Mjólk Mér fannst sagan um ástina sem var auglýst eftir á mjólkurfernunni ansi sæt og skemmtilega væmin. Flest kaupum við mjólkina aðeins innihaldsins vegna og spáum ekki mikið í innihaldinu. Það geri ég allavega. Það skiptir mig slétt litlu máli hvað stendur utan á fernunni og ég hef ekki varið löngum tíma ævinnar í að stúdera þá lesningu mikið. Tilraunir til að setja ljóð og ýmislegt annað smálegt á fernurnar, t.d. misgáfulegar myndir, hafa vakið frekar litla athygli hjá mér.

Oftast nær horfi ég ekki mikið á fernuna nema þá kannski í þann mund sem ég er að kaupa hana eða hella úr henni við eldhúsborðið. En kannski þarf að gera fernurnar meira krassandi og auka skemmtunina með auglýsingum á þeim. Það er allavega svolítil ný sýn fyrir okkur hérna heima á klakanum að hægt sé að auglýsa eftir hinni einu sönnu ást á mjólkurfernunni - hvað svo sem ást er nú eiginlega, segi ég eins og Karl Bretaprins sagði svo klaufalega forðum með Díönu við hliðina á sér með roða í kinnum.

Þetta er allavega sæt saga. Það væri gaman að sjá mynd af þessu og eiginlega vonbrigði að Mogginn sé ekki með haldbæra mynd af því en birtir þess í stað skelfilega mynd af einhverri ófrumlegri fernumynd sem var í notkun hérna heima alltof lengi fyrir nokkrum árum.

mbl.is Ástarsaga í kjölfar auglýsingar á mjólkurfernu
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Vinir Randvers sætta sig við brottreksturinn

Randver Það vekur mikla athygli að félagar Randvers Þorlákssonar í Spaugstofunni í tvo áratugi sætti sig við það að hann hafi verið rekinn. Þeim hlýtur þó að vera brugðið. Spaugstofan hefur verið heild fimm manna frá árinu 1989. Einn hlekkur er ávallt mikilvægur í keðjunni, er jafnan sagt. Þeim hlýtur að muna um Randver, þó sennilega telji mjög margir að hann hafi ekki verið besti gamanleikarinn í hópnum - en hann var einn þeirra sem áttu þátt í að Spaugstofan er einn vinsælasti grínþáttur sjónvarpssögu landsins.

Saga Spaugstofunnar verður aldrei skráð án þess að nafn Randvers verði nefnt. Í ljósi þess og hinnar löngu sögu þáttarins á dagskrá Sjónvarpsins, með hléum, frá árinu 1989 er frekar undarlegt að honum sé stjakað út úr þættinum með valdboði að ofan, eins og jafnan er sagt. Allt annað hefði verið ef Randver hefði ákveðið að eiga sín vistaskipti að eigin frumkvæði. Ég hélt að Spaugstofan væri fimm manna hópur. Þar gilti hið fornkveðna, allir fyrir einn - einn fyrir alla. Það virðist ekki vera. Þeir segjast vera hverjir aðrir verktakar hjá ríkisins miðlum og því sé nokkurn veginn í lagi að slá einn þeirra af með ákvörðunum þeirra sem valdið hafa.

Þetta er svolítið sviplegur endir á sögu fimmmenninganna í Spaugstofunni. Ég hef ekki alltaf verið sáttur við grínið þeirra, en þá bara skrifað um það. Hinsvegar hef ég alla tíð verið sannur aðdáandi Spaugstofunnar, fylgst með þeim frá byrjun og líka þáttunum sem þeir gerðu saman með Ladda fyrir árið 1989, en þar var Randver með líka. Þeir hafa markað spor í sögu grínefnis í sjónvarpi. Enginn gamanþáttur hérlendis hefur verið lífseigari og vinsældirnar haldið í gegnum þykkt og þunnt. Þó þeir hafi jafnan þorað að stuða, bæði yfirvöld stjórnmála og trúar, og tekið þjóðsönginn fyrir hefur þjóðin fylgt þeim.

Það má því segja í raun að endalok hópsins sem hefur starfað saman svo lengi er sviplegt. Og enn meiri athygli vekur að hópurinn líti ekki lengur á sig sem hóp heldur einstaklingsverktaka sem hugsi ekki um hópinn. En það verður vissulega fróðlegt að sjá framtíð Spaugstofunnar - nú sem kvartetts án Randvers Þorlákssonar.

mbl.is Randver hættir í Spaugstofunni
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Randver rekinn úr Spaugstofunni

Randver Spaugstofan byrjar aftur í Sjónvarpinu um helgina. Ég heyrði það í dag að búið væri að reka Randver Þorláksson úr Spaugstofunni, en hann hefur verið með þeim Pálma, Erni, Sigga og Karli Ágústi í þættinum (með hléum) frá árinu 1989 - hafa verið saman því í gegnum þykkt og þunnt. Munu Edda Björg Eyjólfsdóttir, Hilmir Snær Guðnason og Sigrún Edda Björnsdóttir koma í hópinn með fjórmenningunum nú.

Ég verð að segja alveg eins og er að ég á eftir að sakna Randvers úr Spaugstofunni. Hann hefur kannski ekki verið besti leikarinn í þættinum en hann hefur leikið sitt hlutverk og verið sterkur hluti hópsins. Það verður fróðlegt að sjá hvort að þetta þýði að rónarnir Bogi og Örvar sjáist ekki meira í Spaugstofunni eða hvort breytingarnar á þættinum verði mjög róttækar.

Þessi breyting gefur það sennilega í skyn auðvitað, en það verður skemmtilegt að sjá þáttinn um helgina. Um er að ræða einn lífseigasta skemmtiþátt landsins og hann hefur haft mikið áhorf í gegnum árin - þjóðin vill sjá húmor af þessu tagi og fróðlegt að sjá þáttinn með nýju sniði.
 

« Fyrri síða | Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband