Luciano Pavarotti látinn

Luciano PavarottiMesti tenórsöngvari tónlistarsögunnar, meistari Luciano Pavarotti, er látinn úr krabbameini, 71 árs að aldri. Það verður ekki um það deilt að Pavarotti var fremstur óperusöngvara af sinni kynslóð og án vafa gnæfði hann yfir þeim öllum sem hlutu heimsfrægð í sínum bransa á seinni hluta 20. aldarinnar. Aðeins Enrico Caruso kemst nærri honum að sess á 20. öld. Luciano Pavarotti vann ótalmarga sigra á litríkum söngferli sínum og hlaut virðingu fólks beggja megin Atlantshafsins.

Pavarotti var umfram allt alþjóðlegur söngvari og átti aðdáendur mjög víða. Hann var líka það virkur í sínum verkum að hann gleymdist aldrei og enginn gat fetað í fótspor hans meðan að hann var enn virkur í bransanum. Ég lærði fyrst að meta snilld Pavarottis á tónlistarsviðinu á æskuárum. Amma mín var einlægur aðdáandi tenórsöngvarans frá Modena og ég erfði sannarlega þann áhuga í gegnum það. Hann snerti streng í brjósti þeirra sem hlustuðu á tónlist - söng frá hjartanu og var einlægur í túlkun sinni.

Luciano Pavarotti var virkur í sínum verkum á tónlistarsviðinu nær allt til leiðarloka. Hann var á miðri kveðjuferð sinni um heiminn þegar að hann greindist með krabbamein og varð frá að hverfa - ferðin var aldrei kláruð. Er leið að lokum sagðist hann vilja deyja heima í Modena. Hann mat land sitt og uppruna mjög mikils - sérstaklega heimabæinn Modena. Á ég langan viðtalsþátt með honum þar sem Melvyn Bragg talar við söngvarann um upprunann og ræturnar - hversu mikils hann meti það sem hann hefur átt á löngum ferli og er nú sannarlega komið tilefni til að rifja upp kynnin af þeim þætti og horfa á hann og fleiri tónlistarþætti tengda Pavarotti sem eru í safninu.

Tenórarnir þrírMér fannst Pavarotti ná nýjum hæðum undir lok ferilsins þegar að hann fór að syngja með José Carreras og Placido Domingo. Í fyrsta skiptið varð það fyrir sautján árum þegar að heimsmeistarakeppnin í knattspyrnu var haldin á Ítalíu árið 1990. Þeir komu fram saman oftar en tíu sinnum og endurtóku leikinn með áberandi hætti tvisvar á HM; á Dodger leikvanginum í Los Angeles 1994 og í París, við Eiffel-turninn, árið 1998.

Seinni tónleikarnir voru sérstaklega rómaðir. Á ég Parísartónleikana á myndbandi og þeir eru mjög vinsæll valkostur þegar að ég vil hlusta á alvöru tónlist. Tenórarnir þrír slógu í gegn saman og nutu þess að syngja saman. Mér eru í fersku minni ennfremur jólatónleikarnir þeirra fyrir nokkrum árum sem slógu í gegn. Þeir tóku mjög fjölbreytt lagaval fyrir á tónleikum sínum. Allt frá fallegustu lögum óperulistarinnar; Nessun Dorma, O Sole Mio og La Donne e Mobile svo nokkur séu nefnd og tóku líka þekktar dægurlagaperlur tónlistarsögunnar fyrir.

Pavarotti varð að margra mati umdeildur fyrir að syngja jafnvel óperutónlist með dægurlagatónlistafólki, umdeilt varð þegar að hann söng með Spice Girls á tónleikum og hann bauð eitt sinn gestum til sín á fræga tónleika á Ítalíu fyrir rúmum áratug og nokkrum sinnum eftir það og tók þar dúetta með jafnvel dægurtónlistafólki annarra kynslóða, jafnvel Enrique Iglesias, Annie Lennox og svona mætti lengi telja. Þetta fór ekki vel í helstu menn óperubransans. Pavarotti var lifandi í sinni tónlistarsköpun og var virkur í að syngja af krafti og lét einu skipta hvort að það væri í nafni tenóranna þriggja eða þeirra sem komu úr öðrum áttum tónlistabransans en hann sjálfur.

Pavarotti og Díana prinsessa eftir tónleikana á Hyde Park 1991
Örlögin haga því svo til að hann deyr nákvæmlega áratug eftir að vinkona hans, Díana, prinsessa af Wales, var jarðsungin í London. Aðdáun Pavarottis á Díönu prinsessu var einlæg og hún dáði hann ennfremur. Frægt varð þegar að hún lét sig hafa það að hlusta á hann á tónleikunum sögufrægu í Hyde Park í London í týpískri breskri hellidembu árið 1991. Ógleymanlegir tónleikar sem ég hlusta reglulega á. Sælusvipur var á prinsessunni allan tímann sem lifði sig inn í tónlist Pavarottis. Þegar að Díana dó var söngvarinn niðurbrotinn. Hann sagðist fyrst ekki treysta sér að útför hennar en gerði það að lokum og var í kastljósi fjölmiðla daginn sem Díana var jörðuð. Honum var boðið að syngja við athöfnina en sagði að sorgin hefði áhrif á röddina.

Það var mikið rætt um það þegar að Pavarotti hóf kveðjutúr sinn, vildi hætta á sínum hátindi og með sínum hætti hvort hann gæti virkilega hætt. Margir drógu það í efa. Hann hafði verið það virkur í sínum bransa og hafði óumdeildan sess meðal Ítala og ekki síður heimsbúa allra í sinni tónlist. Leiðarlokin urðu önnur en tenórinn stefndi að. Og nú er hann allur, aðeins rétt rúmlega sjötugur. Endalokin koma mjög óvænt, þó allir hafi vitað sennilega að hverju stefndi undanfarnar vikur. Hann lætur eftir sig merkilegt ævistarf sem mun halda minningu hans á lofti um alla tíð.

Og nú er meistari tenóranna þagnaður. Litríkum ferli er lokið. Hans er minnst um allan heim á þessum degi. Blessuð sé minning hans.


mbl.is Luciano Pavarotti látinn
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Gunnar Helgi Eysteinsson

Flottur pistill um frábæran man.
Takk fyrir þetta Stefán.

Gunnar Helgi Eysteinsson, 6.9.2007 kl. 18:46

2 Smámynd: Karl Tómasson

Takk fyrir stórfína grein Stefán.

Ég held að við þurfum að bíða lengi eftir slíkum meistara.

Bestu kveðjur frá Kalla Tomm úr Mosó

Karl Tómasson, 6.9.2007 kl. 21:05

3 Smámynd: Haraldur Haraldsson

Þetta er meiriháttar pistil um mesta söngvara okkar  allra ,kannski fyrr og siðar/blessuð sé minning hans/Halli gamli

Haraldur Haraldsson, 6.9.2007 kl. 22:08

4 Smámynd: Geir Agnar Guðsteinsson

mikill meistari farinn, sammála því, og þakkir fyrir góðan pistil. En það er erfitt að vera með samanburð. Hvað með Jussi Björling? Eða Caruso?

Geir Agnar Guðsteinsson, 6.9.2007 kl. 22:35

5 Smámynd: Stefán Friðrik Stefánsson

Kærar þakkir fyrir kommentin og góð orð um greinina.

Í mínum augum var Pavarotti sá besti undanfarna áratugi, hann var svo öflugur og tær, söng með tilfinningu, að ekkert kemst nærri því undanfarna áratugi, nema þá kannski Caruso. Hinsvegar voru Björling, Domingo, Di Stefano og fleiri virkilega góðir og allir skipa þeir sinn sess. En Pavarotti var svo alþjóðlegur söngvari, fór víða í sinni tónlist. Það sést best á því hversu vel hans er minnst við leiðarlok að fólk mat hann mikils og hann átti stað í hjarta fólks um allan heim. Hann markaði stór skref í tónlistarsöguna.

mbk.

Stefán Friðrik Stefánsson, 7.9.2007 kl. 15:52

6 Smámynd: Sigurjón Mýrdal

Góð grein, en það er hins vegar alltaf erfitt að segja til um hver er mestur og bestur. Caruso hefur í gegnum tíðina verið tilnefndur sem mestur allra tenóra. Þær hljóðritanir sem til eru með honum eru hins vegar frumstæðar og samanburður því óframkvæmanlegur.

Einn af arftökum Caruso á óperusviðinu, sænski söngvarinn Jussi Björling, hefur reyndar verið af mörgum talinn bera höfuð og herðar yfir alla tenóra tuttugustu aldarinnar, að Pavarotti meðtöldum. Þótt það sé liðin næstum hálf öld frá dauða hans er haldið úti aðdáendasíðum á netinu.

Síst vil ég draga úr aðdáun minni á Pavarotti og í mínum eyrum er hann mestur síðan Jussi var og hét. En hvernig ber maður saman slíka yfirburðamenn? Það er eins og að bera saman Fjallfoss og eldfjallið Heklu.

Ég vil bara leggja til að þú fáir þér hljóðritanir með Jussa, þú verður ekki svikinn af því!

Þú gætir byrjað með því að hlaða niður "Cielo E Mar" eftir Ponchielli, og þú vilt heyra meira!

En blessuð sé minning Pavarotti.

Sigurjón Mýrdal, 8.9.2007 kl. 10:00

7 Smámynd: Stefán Friðrik Stefánsson

Takk Sigurjón fyrir kommentið.

Ég hef verið óperuunnandi árum saman og var ekki hár í loftinu þegar að ég byrjaði að hlusta á slíka tónlist. Einlægur aðdáandi allra þeirra stærstu og hef hlustað á mjög ólíka tónlist þeirra. Það eru mjög margir stórir í mínum augum og allir sem þú nefndir voru stórfenglegir. Jussi var auðvitað algjörlega einstakur. Einfalt mál það. Hinsvegar var Pavarotti svo sannur í túlkun, einlægur og hjartnæmur í söng. Að mínu mati var hann sá besti sem ég upplifað. Allavega stendur hann efst í huga mér.

mbk.

Stefán Friðrik Stefánsson, 9.9.2007 kl. 01:27

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband